tirsdag den 14. juni 2011

Seiðblátt hafið 6



6. 13. Jóhann Sigurjónsson (1880-1919)



Hann var þekktastur sem leikskáld, svo sem al­kunna er. Hann orti ekki mörg ljóð. Í fyrsta ritsafni hans, 1940, birtust einir sex tugir alls, jöfnu báðu á dönsku og íslensku, í nýjasta safni ljóða hans eru 39 ljóð íslensk. Hér koma þau ein til álita. Þau eru mjög misjöfn að gæðum, og virð­ist á­stæðu­laust að fjalla um hin elstu. Í bók minni Kór­al­for­spil hafs­ins (1992) fjallaði ég um kvæði hans Sorg. Hér verður lítillega vikið að því í sambandi við hin, en aðallega skal fjallað um átta önnur kvæði Jóhanns, sem mér þykja meðal hans bestu.



Ámóta áberandi eru haust og vor, í sjöttungi ljóða hvort, vetur í tíunda hluta. Nótt er í fimmtungi ljóða, kvöld í áttunda, annað ekki teljandi. Hnignun og dauði eru í nær helmingi, þjáning í þriðjungi, en sæla í fimmtungi. Einfari er hálfu algengari en samstaða, indælt umhverfi þó aðeins algengara en hrikalegt (sem er í fjórðungi. Annað er vart teljandi, dæmin eru svo fá.



Tæpur þriðjungur líkinga kvæðanna er um him­in, dagsljós, sól, nótt, eins og rúmur þriðjungur persónu­gervinga. Fjórð­ung­ur líkinga hans er svo um drauma, lífið, eilífð­ina o. þ. h. sértekningar, ámóta marg­ar eru um fólk og hluta þess, augu, hönd. Hvorugt er áberandi í persónu­gerv­­ing­um, en þar birtast blóm og jurtir, þang, tré; enn­frem­ur fljót, haf og alda; fjall, klettar, jökull. Í athæfi persónu­gerv­inga ber mest á atlotum (flest móðurleg), auk þess er dans, bros, hlátur og hryggð. Í myndliðum líkinga ber mest á fyrirbærum himins, nótt og sól, vindi og hríð, það er þriðjungur. Fimmtungur líkinga er við blóm og jurtir, en sjöttungur hvort við lagarfyrirbæri og jarðar, fljót, haf, öldur, fjall, hók, kletta. En allt eru þetta fá dæmi af samtals 32 líkingum!





Jónas Hallgrímsson



Þetta er eitt þéttasta ljóð Jóhanns. Að með­töld­um titli er það aðeins tuttugu og eitt orð í átta línum. Það er ein ljóðmynd í fyrri hluta og út­legging á henni í loka­línunum fjórum. Sam­þjöpp­unin er mik­il, einn­ig vegna þess hve mikið er látið ósagt, eftir­látið ímynd­unarafli les­enda. And­stæður eru hér mik­il­vægar. “Óska­barn” er jákvætt orð, tákn­ar yndi og eftirlæti for­eldr­anna, en í þeirra stað kem­ur hér “ógæf­an”. Á sama hátt er orðið „dauða­rósir“ samsett úr feg­urð og feigð, tákn­ar fegurð hnign­un­ar­innar, rétt einsog „haust­skógur“. Þessi mynd hef­ur þótt ein­kennandi fyrir tíma­skeið þetta, “úr­kynj­un­ar­dýrkun” alda­mótanna. Jón Viðar (bls. 98) telur hana e.t.v. vísa til sárasóttar, sem á að hafa hrjáð Jóhann frá því hann kom til Kaupmannahafnar. En ekkert bendir sérstaklega til þess í ljóðinu. Lík­legt er að skáldið hafi búið til þessi sam­þjöpp­uðu orð: “lit­mjúkar”, “dauða­rósir”, “hrun­gjörn”, en orðið “haust­skóg­ur” er eldra[1]. Það er von að ljóðið sé orð­knappt, þegar ort er í ein­stökum orð­um. Mest mun­ar þó um mark­vissa stíg­and­ina lið fyrir lið í lýsingu á fall­velti feg­urð­ar­innar. Ekki veit hverf­ulli feg­urð en haust­skóg, sem breytist dag frá degi. Sem augna­bliks­­mynd af því eru lauf hans, sem tekið er fram að séu að falli komin, og nær­mynd hverf­leikans eru þær rósfögru myndir sem á þau eru dregnar. Þetta eru mjög sér­kennileg eftirmæli um skáldið skammlífa. Bragarháttur er forn­yrð­is­lag, enda notaði Jónas Hall­gríms­son það mikið. En sá háttur er hér síður en svo forn­legur, aldrei þessu vant. Það held ég stafi af því, að hvers­kyns fornyrði eru snið­gengin, ljóð­ið er á hvers­dags­máli, þótt upp­hafið sé, sam­þjappað og með ný­yrð­um, m.a. er orðaröð eðli­leg eins og í talmáli.





Bikarinn



er þrjú fjögurra lína erindi, en ekki með algengum hætti. Hver lína hefst á þrílið, síðan eru tveir tvíliðir, aðeins 2.og 4. lína rímaðar saman. Þetta er einnig mjög mið­leit­ið ljóð, því það bygg­ist allt á einni mynd. Kjarni þess er mynd vínglass, einsog tit­ill­inn sýnir. Fram­vinda ljóðs­ins er áhrifarík. Það hefst á dökkri mynd og ein­mana­legri; kvöld um vet­ur, mælandi situr einn að drykkju. En í síðari hluta er­ind­is­ins kom­umst við inn úr þess­ari skel, þegar ang­an gamalla blóma lifn­ar aft­ur í ilmi víns­ins. Og í 2. er­indi end­ur­lifn­ar jafn­framt henni lífs­fyll­ing og til­finningar, and­stæðu­þrungn­ar, en heitar. En þar kveða við orð, “gleymd og grafin”, sem eru forboði loka­erind­is­ins. Þar birtist önn­ur persóna bak við mæl­anda, einnig með glas í hendi. Tekið er fram að það sé í “styrkri” hendi, og sýnir það ósveigj­anleika, enda er þetta dauð­inn. Þann­ig birtist fram­tíðin sem svar við nú­tíð í fyrsta erindi og við fortíð í öðru. Þarna ríkja and­stæður for­tíðar og lífs­un­að­ar ann­ars­veg­ar, en hins­veg­ar er fram­tíð og dauði.



Það er mjög óvenjulegt að líkja nætur­himninum við bik­ar, og segja hann helltan full­an af myrkri. Með því orða­lagi birtast í senn kol­svart­ar fram­tíðarhorfur ljóð­mæl­anda og víðari sýn yfir mannlífið al­mennt, þar birt­ist óend­an­leik­inn.



Jón Viðar túlkar þetta ljóð (bls. 132-4) sem örvæntingu drykkjusjúklings og klykkir út:





Bölhyggja persónunnar sem sér ekkert framundan annað en svartnætti tortímingarinnar, er samkvæmt þessum skilningi of bundin fíkninni til að unnt sé að skilja hana sem almenna lífsspeki í hnotskurn. Hún er einfaldlega sjúk.





Þessu er ég algerlega ósammála. Ljóðið byggist á andstæðum lífsnautnar og fegurðar annarsvegar, blómangan, vín, heitar tilfinningar. En þetta er umliðið, nú bíður bara dauðinn. Augljóslega á þetta við um fólk almennt, amk. við ævilok, en gildir ekki bara um áfengisfíkla.





Heimþrá



er einnig þrjú fjögurra lína erindi, og enn er hátturinn Heines, svo sem í Annes og eyjar Jónasar Hallgrímssonar. Atli Rafn segir (1978, bls. 59):





Hafið, sem reyndar hér ásamt and­stæðu sinni himn­in­um (himin­bláminn), er hin mikla og víð­feðma mynd sem les­andinn sér fyrir sér og er end­ur­tek­in og skýrð með minni andstæðum: velktu þanginu og fuglunum sem fljúga með fögnuði og vængja­gný.





Ljóðið lýsir tvenns­konar hreyfingu. Í fyrsta erindi seg­ir frá þanginu, sem berst stefnu­laust um hafið, eftir því sem straumar og vindar hrekja það. En ann­að erindi segir frá fuglunum yfir því sem fljúga í ákveðna átt.



Orðalagið um þang á vel við þetta náttúrufyrirbæri, en er líka notað um fólk, og þá er það nei­kvætt: “reikult, rótlaust, rekst”. Og “velkja” gefur til kynna að hlut­urinn verði slit­inn, illa farinn. Eng­in slík neikvæð orð eru í lýsingu fugl­anna, en þar kemur á móti góð­viðr­is­mynd, sem sam­kvæmt hefð er jákvæð: “í him­in­blám­ann/ hratt einsog vindlétt ský”. Hlið­stæður í lýs­ing­un­um draga fram and­stæð­urnar. Í fyrsta lagi er ámóta vítt svið hreyf­ing­ar­inn­ar: annarsvegar “um víðan sjá”, hinsvegar “út í him­in­blám­ann”. Hæg hreyf­ing þangsins gegn hraðri hreyf­ingu fugl­anna. Og um þessi náttúrufyrir­bæri eru loks höfð orð, sem venjulega eru notuð um til­finn­ingar manna. Ann­ars­veg­ar fljúga fuglarnir með fögnuði, en þang­ið sem horfir á þá verður hnípið við. Og í ljósi þess verð­ur að skilja loka­mynd ljóðsins, að hún gefi í skyn blæð­andi sár manns; enda þótt hún gæti stað­ist nátt­úru­fræði­lega, sólar­lag­ið lit­ar um­hverfið rautt.



Þessi lokamynd herðir mjög á tilfinn­inga­legu orða­lag­inu, greini­lega er hér í kastljósi rót­laus maður sem hrekst undan öfl­um um­hverf­is­ins, og finn­ur sárt til þess, þegar hann horfir á mark­vissa, fagnandi för ann­arra, sem ráða ferðum sínum. –Jón Viðar (bls. 136 o.áfr.) tengir þetta við persónulegar aðstæður höfundar, sem horfði á eftir vinum sínum fara heim til embætta á Íslandi, meðan hann sjálfur sat eftir, ekki búinn að ná neinni viðurkenningu. – Það er óþarflega þröngur skilningur, skáld lifa sig inn í aðstæður allskyns fólks, fjalla ekki bara um sjálf sig. Enn tilefnislausari er sú túlkun Jóns að fuglarnir sýni þá sem hólpnir eru í guðstrú. Ekkert í ljóðinu bendir í þá átt. Sama verð ég að segja um þá túlkun Matthíasar Sæmundssonar (bls. 331-2) að fuglarnir séu “tákn fyrir hugsjónirnar [...] skammvinn sæla. Í ljóðinu virðist skáldið vera að túlka ófæru þeirrar leiðar sem ný-rómantíkerarnir reyndu að fara til lífshamingjunnar.” Hér birtist bara yfirlýst hneigð Matthíasar til að lesa ljóð sem táknsögu (allegóríu), og að telja viðhorf vera einkenni bókmenntastefnu. Hann segir m.a. (bls. 336-7):





Greina má þrjú stig í hugmyndaþróun Jóhanns Sigurjónssonar. Stig nýrómantískrar hughyggju, stig efahyggju og millibilsástands og stig móderniskrar tómhyggju.



1. Í upphafi er skáldið sátt við tilveruna vegna trúar sinnar á möguleika mannlegs máttar. Heimurinn hefur í þess augum tilgangseðli. Hann er merkingarauðugur leikvöllur fyrir óskir og drauma mannsins. Flest æskukvæða skáldsins einkennast af þessari samræmiskennd.



2. Í Gröf mín og vagga er farið að bresta í máttarstoðum þessarar trúar. [...] Hin mannhverfa heimssýn er nú dregin í efa. Að skáldinu læðist grunur um að heimurinn sé sjálfstæður, óskiljanlegur veruleiki sem maðurinn sé utanveltu við. En skáldið er samt enn óvisst og ljóðinu lýkur í spurn.



3. Í Sorg, Heimþrá, Bikarnum og fleiri kvæðum er ekkert hik eða efi. Þar hefur hinni bjartsýnu lífsspeki verið hafnað. Trúin á marmarahöllina er endanlega hrunin. Eftir er einungis vissa um merkingarleysi og tilgangsleysi alls.





Þetta er í lokaályktun greinarinnar, en í upphafi (bls. 323) segir: “Rangt væri að segja að einangrun og vonleysi hafi einkennt ný-rómantísku skáldin. Það á a.m.k. ekki við Jóhann Sigurjónsson.” Þetta hefur þó löngum verið sagt um nýrómantísk skáld, enda er það áberandi hjá mörgum þeirra, nægir að nefna norðmanninn Sigbjørn Obstfelder, danina Viggo Stuckenberg, Helge Rode og Sophus Claussen, fyrir nú utan Islendingana Jóhann Gunnar Sigurðsson og Jónas Guðlaugsson. Þeir dóu líka ungir, en þessa gætir einnig hjá t.d. Sigurjóni og Huldu, þótt kæmust yfir sextugt. Ennfremur má nefna Stefán frá Hvítadal, Jakob Smára og Davíð. Hvaða nýrómantísk skáld sýna þá ekki vonleysi af og til? Og auðvitað gætir allskyns hugarfars og afstöðu á ýmsum skeiðum bókmenntasögunnar. Forsenda Matthíasar stenst ekki, og framhaldið ekki heldur, það er tilefnislaust að lesa neikvæða afstöðu til nýrómantíkur úr svartsýnisljóðum.



Það er sérlega heill­andi við Heimþrá, að til­finn­ing­ar manna eru nær ein­göngu sýndar með nátt­úru­mynd­um, ímyndunar­afl lesenda þarf til að tengja þetta tvennt. Líkt er farið um annað ljóð með sama brag­ar­hætti, sem fylgdi því í frum­prent­un í Skírni 1910.





Odyss­eifur hinn nýi



Titill ljóðsins vísar til ramma­sagnar Odyss­eifs­kviðu, að kapp­inn Ódyss­eif­ur var ár­um sam­an að reyna að sigla heim til sín, þar sem Penelópe kona hans beið eft­ir hon­um. Þar tókst honum það, en hér er al­kunnri sögn breytt, líkt og í Aladín Jón­asar Guð­laugs­son­ar, þannig að við­leitn­in mis­tekst, endar með full­komnum ósigri. Einnig hér eru persónu­­gerv­ingar fyrir­ferð­arlitlar en áhrifa­rík­ar: Haf­ið er seiðblátt en svikult, og mæl­andi sá hallar­glugg­ana mæna einsog andvaka augu út á sjóinn. Það vísar auð­vit­að til Pene­lope, konu Ódysseifs. Þrá hennar hlut­gerist í höll­inni, en útþrá Ódyss­eifs í seiðandi bláu hafinu. Í þessu knappa kvæði eru óvenju­leg, mynd­ræn lýs­ingarorð áhrifarík. Fyr­ir utan orðið „seið­blátt“ er: „húm­dökku“ gluggana og „dimm­mjúka“ sjá. Atli Rafn segir um tengsl þessara tveggja ljóða (1978, bls. 59):





Það er ekki aðeins að bragarhátturinn er sá sami: þrjú fer­hend erindi, heldur samsvarar fyrsta erindi “Heim­þrár” sama erindi hins ljóðsins o.s.frv. Röðun erind­anna varð­andi inntak er sú sama. Þetta er e.t.v. ógleggst í mið­er­ind­un­um...





Þetta verður að taka undir. Það eru mikil og óvænt stökk milli sjón­ar­horna og tíma frá einu erindi til annars. Í fyrsta erindi er talað um Ódysseif í 3. persónu, og hann er enn á valdi óminn­is­gyðj­unnar. En í öðru erindi getur það varla ver­ið ann­ar en hann sem talar í fyrstu persónu um marmara­höll­ina heima, og segir: Ég sá húm­dökku gluggana. Í þessu er­indi verð­ur þá hugar­ástand Ódyss­eifs og Pene­lópe nær­tækt les­end­um, nán­ast skynjanlegt. En í 3. er­indi: er svo aft­ur stokk­ið til 3. persónu frá­sagn­ar, enda er um leið mik­ið stökk tekið í tíma, saga Ódysseifs er þá löngu liðin. Ljóðinu lýkur þannig, að ekki er nóg með að hann kom­ist ekki heim, heldur er hann dauður og gleymdur, og höllin horfin. Þessi eyðingarmynd vísar þar­með víðar, til ör­laga manna almennt, m.a. til framtíðar les­enda. Jón Viðar Jónsson fjallar um þetta kvæði (bls.128-131), aðallega til að tengja það meintri lífreynslu skáldsins (af hóruhúsum). Virðist það í meira lagi út í hött.





Sólarlag



fylgdi þessum ljóðum í Skírni 1910, fjögur ferkvæð er­indi. Það hefur sér­kenni­legri brag­arhátt. 1., 2. og 4. l. hafa 3 ris hver, þrí­lið í miðju. En þriðja lína hefur 4 ris, tvo þríliði og stúf. Enn eru aðeins 2. og 4. lína rímaðar saman. Hér birtast tvær andstæðar persónu­gerv­ingar, sól­in og nótt­­in eru báð­ar sýndar sem kon­ur, um hvora þeirra er fjall­að í tveim­ur erind­um. Í fyrsta er­indi birtist sólin sem ást­rík kona, hún “ilmar (af eldi), faðmar að sér hvert ein­asta blóm, andar (logni yfir sæinn).” Hér er það sett í sviga sem heyr­ir sólinni til, en ekki svo blíð­legri konu. En í 2. er­indi fer hún í glæstri mynd sólar­lagsins að minna á grimmileg­ar kven­hetjur svo sem Guð­rúnu Gjúka­dótt­­ur og Bryn­hildi í Eddu­kvæðum, þegar hún kast­ar eldi­brandi á fortjöld - hér ekki sal­ar­, heldur blá­lofts­ins - og hnígur blóð­ug í logana. Þannig ræt­ist fyr­ir­heit­ið um eld (sem var í svig­an­um), enda eru þetta við­brögð við kulda úr hafinu. Í síð­ari tveim­ur er­ind­un­um birtist svo nótt­in sem um­hyggju­söm kona, föl og grátin yfir örlögum hinnar, enda elsk­aði hún hana öll­um meir. Við­brögð henn­ar eru tvenns­kon­ar. Ann­ars­veg­ar er fram­hald af sólar­lags­mynd­inni: Einsog kona ausi vatni á eld­brunn­in fortjöldin, þannig eys nóttin myrkri á sól­arlag­ið. En hinsveg­ar leit­ar hún “geislanna í blóm­un­um”, þ.e. leitar minnstu leifa sinnar elskuðu vinu. Það fellur vel inn í þessa pers­ónu­gervingu, þótt erf­ið­ara væri að finna því stað nátt­úru­fræði­lega. En það er sann­ar­lega sér­kenni­legt að sjá þess­ar kven­verur ríkja sól­ar­hring­inn í gegn. Munur þeirra er líka áber­andi. Það væri of­mælt að segja losta ríkja í mynd sólar­innar og móð­ur­hlut­verkið í mynd nætur. En segjum þá að sólin birtist ýmist sem ást­rík eða eyðandi að eigin frumkvæði, þar sem hin kven­mynd­in er alveg helguð öðr­um, hér birtist “fórnandi kona”. Bygging kvæðisins samsvarar því, að það ligg­ur nærri að sjá þetta seinna hlutverk fylgja á eftir hinu í lífi margra kvenna, þótt ekki segi það bein­línis í kvæð­inu.





Vetrar­nótt



Sérkennilegt er að sjá allt aðrar myndir nætur í þessu ljóð­i. Þar virðist nóttin raunar fyrst vera móð­ur­leg, en síðar eins­konar fugl, stór og voldug. Atli Rafn Kristinsson hefur bent á (1978, bls. 53-4) að upp­haf ljóðsins sé kunnuglegt:





Bregður skáldið ekki upp svipaðri mynd af sjálfu sér og þang­inu í Heim­þrá sem velkist í öldunum?



Að vísu er hér ekki öllu saman að jafna. Gagnstætt því sem er í Heim­þrá máttlaust þang­ið háð hreyfingum hafsins, virðist sem skáld­ið geri hér uppreisn gegn þessu máttarvaldi, a.m.k. í hug­leið­ing­um sínum um það í fyrri hluta ljóðsins.





Fyrst segir að nóttin sé friðsæl og umljúki mælanda, hún er einsog móð­ir sem kann­ar hvort barn hennar sé með hita, hossar því og rugg­ar. En í næstu línu heitir hún “Ískalda, volduga vetr­ar­nótt!” Í stíl við það er fugls­mynd hennar síðar. Enn vakir hún yfir ljóð­mæl­anda, en sýnir nú enga um­hyggju svo sem í 1. er­indi, heldur horfir í eilífð­ar­myrkr­ið, með þönd­um vængj­um, “voldugu og styrku”. Atli Rafn segir (1978, bls. 54):





Minna má á næturmyndina í Bik­arn­um, næt­urhim­in­inn hyl­djúpa, en sú mynd tengist dauðanum og í Nótt er um svipuð tengsl að ræða, í það minnsta einhvers konar dulúð, ógn og eilífðar­svefn.





Sem andstæða þessarar voldugu, miklu myndar er svo mann­lífið sýnt. Það er börn nætur, vegna þess að hún leyf­ir hvötum þeirra að brjót­ast út. Og mynd manna er óvenju­leg; hópmynd séð úr slíkum fjarska, að hvert líf er sem andartaksblossi, líkt við sindur við járnsmíðar. Löngun losnar úr fjötrum ljóssins og blossar í nautn, í stíl við það eru kossar loga við járn. Til­brigði við þessa mynd birtist í þeirri næstu. Enn eru mannslífin séð úr fjar­lægð sem örskotsblossar, en nú sem hrævar­eldar á úthafinu. En yfir þeim eru aðrir logar og var­an­legri, sem stjörnur. En það eru “andvöku hugs­anir ein­staka manns”. Hér er auð­þekkt sú dýrkun á ein­stakl­ing­um, snillingum, sem þá var í tísku, kunnust af Nietzsche er­lendis, en af Einari Bene­dikts­syni meðal Íslendinga.



Gegn þessum myndum af mannlífinu sem hvikulum, og þá vænt­an­lega þýð­ingarlausum eldblossum, kemur svo fyrr­greind fugls­mynd næt­ur, og mæl­andi spyr hvað hún vilji honum. Enda þótt þetta sé í formi spurninga virðist þó aðeins eitt koma til greina, hann á að hverfa inn í drauma sína, svo sem hún starir óhvik­ul inn í myrkrið:



Þetta er í samræmi við það sem áður sagði um ein­stakl­ings­hyggju og snillings­dýrkun; í sál ljóðmælanda er það sem máli skiptir, það sem honum ber að leggja rækt við.



Hrynjandi er mjög breytileg. Oftast fjögur eða fimm ris í línu, mikið um forliði, þríliðir framanaf línu, en tvíliðir og stund­um stúfar í lok­in. Rím er margslungið, og stuðlun óvenju­leg, í 1. erindi eru t.d. 2. og 3. l. stuðl­aðar saman, en 1. og 4. er hvor sér um stuðlun. Eins er með upp­­haf 2. og 4. erind­is. Erindalengd er enn breyti­legri. 1. erindi er fjór­ar lín­ur, einnig þriðja erindi, 2. erindi er tíu línur, og loka­erindið er fjórtán línur! Þessi breyti­legi brag­ur fer vel við vítt sviðið, og að hug­leiðingar þess­ar birt­ast í óvenjulegum myndum, eink­um í 2. erindi. Þessi breytileiki brags vísar fram til fríljóðsins Sorgar.



Atli Rafn segir að ýmsu í ljóðum Jóhanns svipi til ljóða þýska skáldsins Hebbel. Það er sérstaklega áber­andi svipur með framan­greindu ljóði og erindi sem Atli til­færir (1978, bls. 121) úr Nachtlied Hebbels:





Quellende, schwellende Nacht.



Voll von Lichtern und Sternen:



In den evigen Fernen.



Sage, was ist da erwacht!





Sonn­etta



Þetta ljóð­, hefur ekki fyr­ir­ferðarmikið myndmál, en það er af tvennu tagi. Annars­veg­ar er hálfvisinn gróð­ur; fram­tíðin er gráir sinu­hagar, og í sam­ræmi við það líkist mæl­andi skugga­blómi, sem á veik­um legg leitar ljóssins. Hinsvegar er eyðileg og drunga­leg strönd, en sjór­inn við hana er illa lýstur af dauf­um vit­um. Þetta er samræmd ömurleg mynd, en áber­andi í þessu ljóði er sam­heng­is­leysi í um­ræðuefni og við­horfi til þess. Í fyrsta erindi segir að vor hafi vikið fyrir “þungum sterk­um sum­arhita”. Ætla mætti að það væri já­kvætt, en þegar í síðara hluta er­ind­isins kemur hvert nei­kvætt atriðið eftir ann­að, einskis góðs er að vænta af þessum hita, aðeins visnunar gróðursins.



Ekki er ljóst í nafni hvers er talað í fyrsta erindi, þó virðist það vera almenn­ara en svo að það vísi bara til mælanda, það virðist vera einhver hóp­ur umhverfis hann. En í næsta erindi verður það mun víð­tæk­ara. Mynd fæð­ingarstaðarins ætti vel við t.d. ís­lenskt annes, en sjór­inn sem það stend­ur við er hvorki meira né minna en eilífðin, og lít­il­feng­leg eftir­tekjan af striti við þá strönd er saga alls mann­kyns­ins.



Enn verða skyndileg umskipti eftir þessar tvær fyrstu fer­hendur, í stað almenns tals birtist nú skyndilega ég, og sýnir óvænt viðbrögð, í stað von­leys­isins sem hing­aðtil ríkti, kemur nú áköf ást á augna­blik­inu, þ. e. að finna fyrir tilverunni á líðandi stund. Slík viðbrögð gátu ekki orðið sann­fær­andi nema sem tjáning einstaklings, sem dýrkar lífið í þess ein­föld­ustu mynd.



Línuhlaupið[2] milli erinda (3. og 4.) veldur því að óvenju­leg mynd þess síðasta er einsog eðlilegt framhald af fremur rök­legu tali fyrri þrí­hend­unnar. Í báðum er miðlínan sett upp sem inn­skot með band­strik­um, en mun­ur­inn er sá, að í þeirri fyrri er talað um allt annað en í lín­unum á und­an og eftir, en svo er ekki í lokaerindi, þar er myndin bara út­færð. En fyrra inn­skot­ið víkkar aftur út rammann. Það er ekki aðeins mælandi sem til­biður, held­ur einnig barn, þannig birtist þetta sem eðlislæg við­brögð. Og með orðinu “eilífð” tengist þetta 2. erindi, óvænt við­brögð við þeirri drunga­legu vonleys­is­­mynd. Andstæð­ur­nar tengj­ast í lokaerindinu, þar sem birt­ist veik­leiki mæl­anda - sem full­trúa hins viðkvæma lífs, sést af blómmynd­inni. Og and­stæð­ur­nar sam­­ein­ast í mót­sögn lokalín­unn­ar, þar sem maðurinn reynir að höndla ljós­ið. Það eru magn­aðar andstæður ljóss og myrk­urs í þessu ljóði, milli til­gangs­leys­is annarsvegar, en skilyrð­is­lausrar lífsnautnar hinsvegar. En það er sláandi í þessu tali um eilífð, tilgang í lífinu og til­beiðslu, að hér er ekkert trú­ar­legt, heldur ein­ungis talað um lífið hér og nú.





Fyrir utan glugga vinar míns



Einnig þetta ljóð er sónhenda, fimm ris í hverri línu, og einsog oft endra­nær hjá Jóhanni (m.a.), hefj­ast línur­nar á þrílið, síð­an koma tvíliðir, bragarhátturinn er eins og á Sonn­ettu. Ljóð­ið ein­kennist af svipuðum persónu­gerv­ingum og hin ljóðin sem hér er um fjallað. Nóttinni er líkt við skartkonu sem hefur rakið (draum)­silki upp úr silf­ur­skrín­um, en snjór sefur við vota steina -og er þannig eft­irmynd vinarins fyrir innan gluggann, eins og Njörður Njarðvík hefur bent á[3]. Einsog snjórinn er spurn­ing einnig persónu­gerð þannig, að hún kemur seinna og krefur kyrrðina um svar. Sér­stæð litar­orð gera ljóðið fínlega mynd­rænt; snjór­inn er blá­hvítur, það er í and­stöðu við “dimma nóttin”. Einna sér­kennileg­ast er (2. er. 2.-3. l.): “órói dagsins bleika spurn­ing gref­ur/ djúpt í mitt hjarta”. Venjuleg hug­renn­inga­tengsl við bleik­an lit eru um feigð, og þótt hvergi komi bein­línis fram um hvað er spurt, þá á feigð vel við hér, enda liggur nærri að skilja ljóðið sem tal um markmið í lífinu, hvernig því sé lifað (“eyðisandar lífs­ins”, “órói dagsins”). En hvað sem því líður, þá er fjarlægðin milli venjulegrar merkingar orðanna bleikur og spurn­ing svo mikil að orðasambandið verður nánast órætt, módernt, eins og áður var að vikið (lok 4.1.3).



Yfirleitt er hver lína sjálfstæð eining, ým­ist er hún heil setn­ing eða setn­ing­ar­hluti. Undantekning er 2. erindi, þar sem línuhlaup er frá 2. til 3. línu og frá 3. til 4. línu. Áhrif­in fara eftir að­stæðum hverju sinni, en hér virðast mér þau verða til að sýna óró­ann sem talað er um í erindinu.



Sérkennilegar myndir eru í fyrstu línu þessa erindis, og ekki síður þegar mælandi lýsir svefni vinar síns svo, að “í svefnsins gylltu festi” sígi hann “í æskunnar brunn”. Þessi myndlíking er nánar útfærð í loka­er­indi són­hend­unnar, mælandi kemur utan frá eyðihvítum söndum -lífs­ins- og þá er vin­ur­inn honum sem skugg­sæll pálmi. Það fylgir vel þeirri líkingu að líf­ið sé einsog eyði­mörk, þar sem vinurinn einn er skjól. Með þessari lík­ingu erum við komin landfræðilega langt frá mynd borgarinnar í upphafs­er­indi, þar sem er snjór. En þessi mynd­breyt­ing er einsog til að sýna hreyf­ingu ljóðsins frá óróa dagsins, um vax­andi kyrrð kvöldrökk­ursins til svefns og drauma um fjar­lægar slóðir. Einangrun, kyrrð og þögn á vel við þær svefn­lendur.



Atli Rafn hefur greint byggingu ljóðsins svo (1978, bls. 82 o.áfr.):





1A Nútíð, það sem er, nótt: bláhvítur snjór (lit­urinn á snjón­um í nóttinni), sefur, votir steinar.



2A Draumsilki rakið upp úr silfur­skrín­um.



3A Skáldið sem vakir.



4A Órói, spurning, grefur.



Dýpstu tilfinningar skáldsins.



4B Kyrrð, svar, lausn.



3B Vinurinn sem sefur.



2B Sigið í brunn æskunnar.



1B Þátíð, minning, dagur: pálmaskuggi, eyðihvít­ur (allt skrælnað) sandur.





Andstæðurnar eru svo markaðar smærri ein­kennum. And­spænis nútíð­inni, því sem er, blá­hvítum snjónum í nótt­inni í 1A er þátíðin, minn­ingin, bjart­ur dagurinn (pálmaskugginn) í 1B. Auk þess er í fyrri myndinni borgar­um­hverfi en auðn í þeirri síðari. Kyrrðin er þó þess­um myndum sam­eiginleg og er hún reyndar eitt að­al­einkenni ljóðs­ins, vök­unnar logi og óróinn í 3A og 4A ger­ir hana aðeins dýpri. Ennfremur er varp­að á báð­ar mynd­irnar einföldum blæ, blá­hvítum og eyði­hvít­um, þótt hinn fyrri sé litur næturinnar, en sá síð­ar­nefndi hins skjanna­bjarta dags. Í báð­um mynd­unum (1A og 1B) er víð­átta, sem er hluti hinnar miklu kyrrðar, og í fyrra til­vik­inu er lögð áhersla á með orðinu “breiðum”, í því síð­ara með “utan frá...” Þannig þrengir skáldið merk­ingu ljóðsins og myndir úr báðum átt­um og vísar för inn að miðju þess, þar sem þyngdarpunkturinn er, öxullinn sem ljóðið snýst um: hjarta skáldsins, þar sem allar and­stæð­urnar mætast.



Áður segir Atli (1978, bls. 81):



Ljóðið minnir vissulega mjög á Sorg, sérstak­lega upp­haf ljóðs­ins. Í báð­um ljóðunum er talað um borg. Í Sorg er það fallin borg og skáldið spyr: Hvar eru þín stræti?, en í hinu ljóðinu eru hljóðn­uð breið stræti borg­ar­innar. Raunar er myndmál þessara tveggja ljóða mjög líkt, þó í Sorg sé það mun nýstárlegra væntan­lega vegna sterkra áhrifa Biblíunnar. E.t.v. gæti þetta bent til þess að Fyrir utan glugga vinar míns sé ort síðar en Sorg enda er í báð­um ljóðunum ort um það sama: eft­ir­sjá eða sorg við fráfall vinar eða í ein­hverjum skilningi glat­aðan vin, en á öllu stillilegri og form­fastari máta í Fyrir utan glugga vinar míns. Er hér e.t.v. komin skýr­ingin á því af hverju Jóhann lét ekki prenta Sorg? Orti hann sonnettuna upp úr og um sama efni og um er fjall­að í Sorg og að sjálfsögðu áður en hann birti ljóð sín í Skírni 1910.





Myndmál Fyrir utan glugga vinar míns skiptist á ólíka staði, einsog áður var rakið. Fyrst er norræn mynd, bláhvítur snjór við vota steina. Þetta er persónu­gert með sagnorðinu “sefur”, rétt einsog órói dags­ins, sem “gref­ur” í hjarta mælanda (bleika spurningu). Næst er nóttin persónugerð sem skart­kona, er “rekur silki upp úr silf­ur­skrínum”, og þar koma helst tengsl við myndmál Sorgar, þar sem borginni er líkt við sylgju “úr drifnu silfri, er hvíldi á brjóst­um jarðar­innar”. Aðrar myndir ljóðsins Fyrir utan glugga vinar míns eru enn framandlegri, einkum hár pálma­skuggi sem skýl­ir gesti þegar hann kem­ur þreyttur frá hvítum eyði­sönd­um (lífsins), þann­ig tók vinurinn við ljóðmælanda. Mig minnir að hitt atriðið komi líka úr Þús­und og einni nótt, að síga í gylltri festi í brunn, því það er ekki vatn sem vinur­inn “safnar fullum höndum” þar, held­ur hljóta það að vera ein­hverj­ar ger­sim­ar. En við þetta er svefni hans líkt, að þar sæki hann sér end­ur­nýj­aðan æskuþrótt. Yfir þessu hvílir ró og friður, sem er gerólíkt æðis­legum hest­lík­ingum Sorgar, sérstaklega í tryllt­um harmatölum 3. og 5. erindis þess ljóðs. Tengsl­in eru helst í “sögusviði” mynd­máls­ins, við botn Mið­jarðar­hafs, þar sem Sorg sækir sitt til Biblíunnar. En ekki er að sjá neina sorg eða eftirsjá í són­hendunni, bara ástúð. Auk þess hefur vin­ur­inn alls ekki farist, þvert á móti er hann að endur­nær­ast af svefni sínum. Virðist því ekkert styðja kenningu Atla um að þessi sónhenda sé einskonar nýtt birtingarform Sorgar.





Sorg



Einsog vikið var að, stekkur Sonnetta fyrirvara­lítið milli mik­illa and­stæðna. En þær eru tengdar skipu­lega. Í því liggur af­ger­andi munur við Sorg, sem ein­kennist af glund­roða mynd­rænna and­stæðna. Sonn­etta verður því ekki talið til mód­ern­ism­ans, en Sorg tel ég vera fyrsta mód­erna kvæð­ið á íslensku, svo sem ég hefi rakið í bók minni Kór­al­for­spil hafs­ins. Þegar ég samdi hana þekkti ég ekki útgáfu Atla Rafns Kristins­son­ar á Ritsafni Jó­hanns[4]. En í formála þess fjallar Atli um ýmsar gerðir Sorg­ar í eigin­hand­rit­um skálds­ins, sem fundist höfðu í dánarbúi Sig­urð­ar Nordals. Hann kemst að þeirri merku niðurstöðu (bls. 28-33)[5] að upp­haf­lega sé kvæð­ið sam­líking, ort til vinar sem skyndi­lega varð geð­veikur; hann er einsog hin fallna borg, og ljóðinu lauk á bæn til lífs­andans um að lækna hann. En síðar var þeirri bæn sleppt og saman­burðar­liðnum, en þar með varð ljóðið óröklegt, glundroði stórfenglegra sýna. En þessi aðferð er einmitt sam­kvæmt því megineinkenni táknsæisstefnunnar, sem nefnt var hér í upphafi (1.1), einskonar hálfar líkingar.



Jón Viðar fjallar mikið um vininn geðveika og Sorg í bók sinni, nafngreinir vininn sem Guðmund Benediktsson, og leiðir rök að því að frumprentun Sorgar í Vöku, 1927 sé ekki endanleg gerð frá hendi Jóhanns, heldur hafi Sigurður Nordal þar fylgt eldri gerð. Til eru fimm eiginhandrit Jóhanns að Sorg, þaraf þrjú heil á íslensku og dönsk þýðing. Öll handritin eru ótímasett, en eitt þeirra fylgdi bréfi til Guðmundar, frá 1908 (það handrit er birt í bók minni Kóralforspil hafsins, bls. 18). Bæði það, blýantshandrit og danska þýðingin eru nokkurnveginn samhljóða um þann texta sem Jón telur endanlega gerð frá hendi Jóhanns, en handrit þeirrar gerðar sem birtist í Vöku, 1927 hefur frávik (sem ekki birtust þar), upphafið er:





Vei, vei, yfir hinni föllnu borg,



Hvar eru þínir himingnæfu turnar



þín lífmiklu stræti



í djúpum sjó



[... en í lokin:]



Vakna þú lífsandi og hlusta



sonur jarðarinnar kallar á þig í gegnum myrkrið



Lækna þú þessa sál. Komdu



komdu í töfraskikkju vatnsins með ljóshjálm á höfðinu



og með ilmsmyrsl svefnsins í höndunum og lækna þessa



sál.





Nánari greinargerð fyrir texta þessarar gerðar, sem einnig geymir ólæsilegt krot, er hjá Jóni Viðari (bls. 370-371). Hún er það frábrugðin öðrum gerðum, og jafnframt einnig frumprentun, að kenning Jóns Viðars virðist sennileg, þetta sé ek. frumgerð, sem höfundur hafi fallið frá. En þótt hér eftir verði prentuð sú gerð sem Jón leiðir rök að, finnst mér allt í lagi að láta ofangreinda gerð fylgja með sem textamun neðanmáls, rauði drekinn hefur fyrir löngu áunnið sér þegnrétt í íslenskum bókmenntum. Og enn verð ég að segja, að mér finnst sá texti ljóðrænni en sértakið “lífið”, sem vakir og grætur. Það virðist ótvírætt að Jóhann hafi ekki talið kvæðið fullort, fyrst hann kom því aldrei á prent þann rúma áratug sem hann lifði eftir að hann orti það. Því set ég hér báðar þessar megingerðir, og læt lesendum eftir að una við drög Jóhanns.



Jón Viðar hefur því kvæðislokin svo (bls. 138, ég auðkenni frávik frá frumprentun):





Í svartnætti eilífðarinnar vakir lífið og grætur,



Sól eftir sól hrynja í dropatali og fæða nýtt líf og nýja sorg.





Jón tengir þetta svo, að sólirnar séu tár lífsins (bls. 143) og virðist fara vel á því. En svo fer í verra, þegar hann tengir þetta við orð Jesú, “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið” og segir (bls.144):





Handan hins sýnilega er Skapari, persónulegur Guð; hann einn er hið sanna líf og æviár okkar á jörðinni ætluð sem undirbúningur undir þá sameiningu við það sem á að vera æðsta takmark okkar. Vant er að sjá hvernig ætti að skilja persónugervingu.“lífsins” í lokamynd ljóðsins á annan veg en þann að hún standi fyrir þennan guðdóm.





Nei, “lífið” er ekki skaparinn, heldur skepnan, hið skapaða, ef við höldum okkur við guðfræðilegt orðalag, sem mér virðist raunar enn alveg tilefnislaust í ljóðinu, þrátt fyrir biblíulegan uppruna myndmálsins. Reyndar er þessi túlkun Jóns (lífið=guð) í mótsögn við lokaorð þessa kafla hans, þar sem segir að “lífið” leiti guðs (bls. 147).





Hvað þá með þangið sem horfir á hópinn – eða lífið sem situr í svartnætti eilífðarinnar og grætur? Á sorg þess sér nokkar aðra skýringu en þá að það finnur ekki leiðina heim? Heim til Íþöku, heim til landsins með fjöllin hvítu, heim í þá borg borga sem aldrei hrynur af því að hún stendur á þeim kletti sem hvorki brotsjóir lífsins né árar helvítis – menn í aktýgjum, vitstola konur í gylltum kerrum – fá steypt?





Bók Jóns Viðars er ítarleg og fróðleg um feril Jóhanns, en túlkanir hans eru stjórnlausar, þar vantar þá grundvallaraðferð að huga að öðrum mögulegum túlkunum og rökræða hver eigi best við.





6. 14. Jakob Jóhannesson Smári (1889-1972)



var mjög fyrirferðarmikill í íslenskum tíma­ritum á áratugunum milli stríða. Elstu ljóð sem ég hefi séð eftir hann eru frá 1909, en allt frá 1914 birti hann mjög mikið af ljóð­um í Eimreiðinni og Óðni. Þeim var svo safnað í stóra ljóðabók árið 1920, Kalda­vermsl.



Smári reynir þar ýmislegt fyrir sér, bæði í brag­arháttum og öðru. Hér eru ætt­jarð­ar­kvæði, ástaljóð, forngrískar goð­sög­ur, sós­ía­lísk ádeilukvæði, en mun meira ber þó á ým­issi dul­speki, einkum guðspeki. Langt kvæði frá 1911, Sá síðasti (bls.80-83) hefur sérstöðu. Það minnir nokk­uð á löng kvæði Einars Bene­dikts­sonar, einkum Kvöld í Róm. Því einn­ig hér er horft yfir svið sög­unnar, ris og fall menning­arríkja, og sömu spurn­ing­ar spurt; var þetta allt til einskis? Kvæði Ein­ars svaraði því af hughyggju: “Mást skal lína og lit­ur, steinn skal eyð­ast”, en “mynda­smíð­ar and­ans skulu standa”. Þá kemur til álita tvenns­konar hughyggja, annarsvegar forn hug­hyggja Platóns, um ævarandi kyrrstöðu, þar sem fyrirbæri efnisheimsins eru ófullkomnar eftir­myndir eilífra frummynda á sviði andans. Hinsvegar er hughyggja að hætti Hegels frá því um 1800; að mannsandinn þróist til æ meiri full­komnunar í gegnum ris og hnig ýmissa menning­arríkja, sem er eins og öldu­gang­ur, eða hringrás árstíðanna. Mér sýnist kvæði Ein­ars vera á Hegel­lín­unni, því þarna er hreyfing upp á við: „Perlan ódauðlega í hugans hafi/ hefjast skal af rústum þjóða og landa“. Og ótvírætt lyktar kvæði Smára á þvílíkri þró­un­ar­kenningu:





Það er bjarmi yfir mannkynsins braut,



sem blikar, þótt aldir í milljónum líði.



Hver þess þrekraun og þraut



var þumlungur áfram í alheimsins stríði.





Orðalag er mun einfaldara í kvæði Smára en Einars. Það er fjórtán erindi, mjög mislöng, og skiptist í sex hluta - að mestu eftir því hvernig bragarháttur breytist. Þetta kvæði á þó ekki heima hér, því þar ríkir frásögn og málflutningur, án þeirra ljóð­rænu mynda sem bera uppi kvæði Einars.



Í ljóðum Smára er vor meira en helmingi algengara en haust, sumar og vor samanlagt næstum helmingi algengara (nær þriðjungur) en haust og vetur samanlagt. Aftur á móti er kvöld (og nótt) í næstum tveimur fimmtu ljóða, en morgunn í fjórðungi. Einhverskonar vellíðan er ámóta algeng, en þjáning í innanvið fimmtungi ljóða. Yndisleg náttúra er í meira en þriðjungi ljóða, mun algengari en hrikaleg (sem má greina í tíunda hverju ljóði). Loks er guð óvenjuáberandi, í sjötta hverju ljóði, en þar að auki eru ýmis ljóð mótuð af ek. alhyggð, samkennd sjálfsins með heiminum.



Jakob Smári gengur næst Jónasi Guðlaugssyni í fjölda myndhvarfa, persónu­gerv­ingar eru ívið fleiri en aðrar líkingar. Í báðum flokkum er yfir þriðjungur um him­in, ljós, sólskin, stjörnur, tunglskin, myrkur og nótt. Hitt er dreifðara, um sjöttungur er um haf, brim, fljót, en hugmyndir og þess háttar er sjöttungur líkinga og tuttugasta hver persónugerving; hugur, lífið, löngun, skylda, sorg. Oftast er líkt við athæfi fólks og afurðir; klæði, hljóðfæri, höll, fortjöld, kirkja, rúm, skart, hlekkir. Fjórð­ung­ur er við fljót, haf, öldur, brim. Áttunda hver líking er loks við dýraríkið; einkum fugla og hesta. Í persónugervingum ber mest á gráti og kveinan, en síð­ur á brosum og hlátri, atlotum (helmingur þess er móðurleg), svefni, söng.





Hill­ingar



Bókin Kaldavermsl hefst á þessu kvæði, sem áður birt­ist árið 1916. Þetta flagg­skip kvæðaflotans ber líka í sér nokk­urs konar stefnu­skrá. Það er fimm erindi, hvert þeirra átta langar línur, fjögur ris í línu nema þrjú í þeirri síðustu sem er stef með (örlitlum) tilbrigðum: “eyj­arnar[6] Waak-al-waak”. Á það kemur sérstök áhersla vegna rím­skip­un­ar (aaacbbbc). Þetta örnefni er svo fram­and­legt vegna þess að það er tákn draum­sýnar, sem lokkar ögrandi “við ystu ský”, með “ódáins­blæ”. And­stæða þeirra er aðstæður mæl­anda: “Eg veit að við fót minn er bundið blý/ og brennheita þrá fjötrar stálíssins kví”. Þessar andstæður eru svip­að­ar og við sáum í ljóðum Jóhanns Sigur­jónssonar og í þulu Huldu Ljáðu mér vængi. Sólin birtist sem djásn, væntanlega vegna þess að hún er tákn þess fjarlæga sem aldrei næst, eins og hin „eldrauðu ský“, enda hverfur í sólar­lagið „svananna hinsta kvak“, sem tengist því að „kvöldbornar dul­þrár syngja í sál“. Allt sem tengist þessum draumheimum er létt, stillt, ilm­andi og litfagurt, aðal­lega sólarlag (1, 2. og 5. erindi). En andstæðan, aðstæður mæl­anda, ein­kennast ekki aðeins af blýfjötrum og „brennandi sorg“, held­ur einnig af þungum veðrahvin (1. erindi), stormi (3. erindi), „storm­hvið­um lífsins“, grösin gráta og fugl grúfir sig niður (4. erindi), jafnvel sál mæl­anda er lokuð inni í ískví, sem er eins órjúfanleg og stál (5. erindi). Draum­heimarnir eru mest áberandi í upphafi ljóðsins (1.-2. er.), síðan ber mest á fjötrum mælanda (2.-4. er.), en þessum andstæðum er loks stefnt sam­an í lokaerindi. Þær magnast við fyrirbæri sem gerir mynd hins þráða fjar­læga hversdagsleikanum, þ. e. í senn yfirgengilegri og óná­an­legri, en það er samskynjun, tvö skynsvið blandast saman: „Hverfur í síg­andi sólar bál/ svananna hinzta kvak“.(2. er.). Hér er þó nokkurnveginn að­greind sjón og heyrn, en skynsviðin renna saman í tveimur öðrum dæm­um sem ég fann, einnig hjá Smára: „Litglaumur dagsins þagnar“ (Sólin er 2) og „sál mín finnur djúpan litadyn“ (Góudagur 1). Ekki þekki ég samskynjun fyrr í íslenskri ljóðagerð, en ýmis glæsileg dæmi komu síðar (sjá og lok þessa kafla).



Sónhendur lagði Smári mikið fyrir sig, og mun­ar þar mest um Sonn­ettu­sveig til Ís­lands”.Kvæð­in eru fimmt­án, hver sónhenda hefst á loka­línu þeirrar undanfarandi, en sú fimmtánda er ein­fald­lega upp­hafslínur allra hinna. Þessi mikla brag­þraut er samt prýð­is­skáld­skapur! En hér skal hugað að annarri són­hend­u, sem birtist fyrst 1916.





Sjá­land



Sónhendan er með ítölsk­um brag, skipt­ist í tvö fjög­urra lína erindi og tvö þriggja. Fyrstu þrjú er­indin lýsa hraðri hreyf­ingu á ýmsum náttúrufyrir­bær­um, en loka­er­ind­ið dreg­ur ek. ályktun. Nátt­úru­myndir ljóðs­ins hvarfla milli stórs og smás, en það hæfir vel ókyrrð­inni sem lýst er, frá einu sviði til annars, ljóðið í gegn. Fyrst sést hvernig vindurinn sveigir eplatré í öld­um (1-2. lína), þá er óró­leg hreyfing á skýjum (3.-4. lína), skuggar af skýj­um þjóta yfir akra (5. lína), og hæðabungur virðast renna út og suður (6-7. lína). Þá beinist at­hygl­in að blómum við brekku­rætur (7.-8. lína), en loks að sjávar­sund­um með öldu­gang og geislablik (9-11.lína).



Myndmál ljóðsins er sérkennilegt og hæfir þessari ókyrrð. And­stæð­ur birt­ast í því, að krónum trjánna er líkt við sjáv­ar­öldur, en blómum við brenn­andi kerti. Litir eru áber­andi í þessari hreyfingu allri; grænar trjá­krón­ur, blá­flekk­ótt ský, gulir akrar, og svo leiftur­glampar. Loka­lín­an er eðli­leg ályktun af þessu: “glitr­andi óró er þín prýði og kraftur.” En þar á und­an er önnur, sem rúm­ar and­stæð­ur og óvænta dýpt; öll þessi hreyfing sýn­ir gáska­svip á landinu, en jafnframt leikur það “bana og háska”.





Bið



Önnur sónhenda með sama hætti lýsir líka landi og sjáv­ar­sundum í roki og ljós­glömp­um. En hér tengist þetta tilfinn­ingum ljóð­mælanda í lokaerind­unum. Þar takast á þrá hans eftir henni og kvíði, jafn­vel segir hann áður að þótt hann bíði henn­ar, verði hún aldrei hans.



Fyrsta erindi lýsir landi, en 2. erindi sjó. Myndir ljóðs­ins eru nötur­leg­ar, tvívegis hvín vindurinn í visnum gróðri (4. og 12. lína). Persónu­gerv­ing­ar magna þennan hugblæ, beinar og óbeinar. Til þeirra síðari tel ég að sæv­arbrimið er flátt (7. lína), en augljósari persónu­gerv­ing er að “ýlustrá kveina í svefni” (4. lína), “Sogandi djúpin þungum harmi leyna” (8. lína), og æstar tilfinningar birtast líka í persónugervingu hafsins: “leift­ur vogs­ins blökku bráa” (5. lína). Ljós og litir magna andstæður. Á landi verður grátt dekkra (2. lína), en gegn því koma snögg leiftur frá sjón­um, einsog augna­til­lit. Hvorttveggja virðist neikvætt, en gegn því kemur jákvæð mynd him­ins­ins, sem er fyrst líkt við blómabreiðu (3. lína), en síðan við kirkju (11. lína), hið efra er fegurð, helgi og friðsæld.



Lokalínur sónhenda rúma gjarnan ályktun eða draga saman kjarna ljóðs­ins. En hér beinist allt í lokalínunni að því að setja á oddinn hve óráð­ið ástandið sé. Mælandi brosir hálfu brosi, stendur upp, væntanlega til að gera eitthvað - en við fáum ekki að vita hvað svo gerist, lokalínan endar meira að segja á punktalínu.





Neistar



Þessi sónhenda lýsir fundi elskenda - sitjandi við borð, einsog Ásta Sigurjóns Friðjónssonar, sem vikið var að hér áður. Einn­ig hér eru til­finn­ingar persón­anna sýndar með náttúru­mynd­um, en á allt annan hátt. Í 1. erindi er ljósi og myrkri líkt við sjávar­gang, og er lík­legt að Smári hafi haft veður af nýlegum kenn­ing­um um að ljósið sé bylgj­ur; hér fer það í bleikum öldum um loftið “að myrkurhafsins djúpi”. Og þetta tengist stefi sem með tilbrigðum segir frá brimi í draumi: “Í drauma­fjarska sæ við kletta braut.” (4. lína), “þótt bylgjan félli hljóð í marar­skaut” (8. lína), “Í fjarrum draumi sæ við kletta braut.” (14. lína). Auk þess er stúlkunni lýst með tilsvarandi náttúrumyndum; “storms­ins óró bjó í ung­um barmi” (7. lína), en eink­um er lýst augum hennar, svo sem venja er í ljóð­myndum af fólki. Fyrst sjást svartar brár gegnt hvítum hvarmi, og vekja óvenjulega samlíkingu: “sem hrafnsins vængir yfir fenntri laut” (5.-6.lína). Síðan horfir mælandi inn í augu hennar, sem hann líkir þá við blá­ar stjörnur, en gegn þeirri fylgd við hefð kemur að hann sá “hundrað loga­himna opnast” í þeim.” Fyrrnefnt brim­hljóð í fjar­læg­um draumi er eins og mynd af “brimi blóðs­ins”, eðlileg afleiðing af að tengja saman par­ið, um­hverfi þeirra og nátt­úr­una.





Snær



Einsog síðasttalið ljóð virðist þetta fyrst hafa birst í bók­inni 1920. Það er þrjú sex lína erindi, og tvær síðustu línurnar jafnan eins: “Um auðan veg/ Einn er ég”, en í lokaerindi: “Á auðum veg/ Einn er ég.” Lín­urnar eru stuttar, 3-5 atkvæði og tvö ris í hverri. Stundum mætti þó lesa svo að tvö ris komi saman í upphafi línu, síðan áherslulétt, loks komi þriðja ris; “Hvít­gráum hring”, “Dimmbárótt haf”. Þessi tvö orða­sam­bönd eru helstu mynd­rænar lýs­ing­ar ljóðsins auk þess sem snjó­koman virðist sem “sandgrá möl”, allt bygg­ist þetta á sérkennilegum lit öðru fremur. Ljóðið er afar kyrrlátt, einkum framanaf. Það ræðst af orðavali: “drífa, svífa, hæg, hljóð”. Hljómur orðanna samsvarar umræddri kyrrð. Enda gerist ekkert annað en að snjór fellur um auð­an veg og lokar sjón­deild­ar­hringnum, þannig hlutgerist einvera mæl­anda sem hann talar um. Í loka­erindinu breytist orða­val, og fær meiri spennu, hafið “dynur og kallar”. En það verður bara til að undirstrika hvern­ig snjókoman kæfir allt, því einnig það “sekkur í kaf/ sígandi mjall­ar”.





Tungl­skin



Á einum stað notar Smári þuluformið, en mjög um­breytt. Hér eru 21 lína í síbylju, mis­lang­ar, og hrynj­andi því óreglu­leg, einsog rímið. Ým­ist er lína sér um tvo stuðla eða stuðlaðar eru sam­an tvær og tvær, 6. lína er óstuðluð. Hér er ekki endur­tekin lína með við­bót einsog við sáum hjá Huldu. Í stað þess að svipast um sjón­deild­ar­hring­inn er ljóð­mælandi á ferð, hann berst með á til hafs. Vissu­lega ber þá ým­is­legt fyrir augu, stórt og smátt; skóg­artjöld, og strá á bakkanum, fyrir ut­an öldur og ós. En mér virð­ist þetta kvæði greinast frá hefð­bundn­um þul­um eink­um við það hve markvisst það er og hvernig sjáv­ar­djúp spegla sál­ardjúp. Mæl­andi hnígur í blá sálar­djúp sem leiða um ljósan ós út í sjá. Síð­ast auðkennd orð sýna andstæður lita, sem einnig koma fyrir fyrr. Lýs­ing­ar eru mynd­rænar á sérkenni­leg­an hátt. Heyrn­myndir fléttast sam­an við sjón­myndir: “Mána­skinsins [...] friður hvíslar [...] sem fjar­lægt vatna­dyn”, og saman við aðra skynjun: “kliður kular gegn­um bakk­ans lotnu strá [...] mánablá”. Þetta er samskynjun af því tagi sem rædd var hér í upphafi þessa kafla, og sýnir það sem sagt er, að sálarlíf mælanda tvinn­ast saman við nátt­úr­una.



Orðaforðinn er samvalinn til að skapa blæ kyrrðar; “friður hvíslar lágt”, “ber mig [...] til hafs”. Rödduð hljóð svo sem l og ð styrkja þennan blæ, ýmist í stuðlun, rím­orð­um eða hljómi orða að öðru leyti: “Logns­ins ljúfi niður laugar”, “ljósan, lygnan ós leiða”; “dvala-sala”, “friður-niður-kliður”, “mæna mána­blá, kular-dular”. Enn kemur ómrænan hér fram. Öll þessi kyrrð samsvarar því að sál mælanda rennur saman við ek. al­heims­sál, sem birtist í mynd hafsins. Þannig birtir þetta ljóð hið mikla hugð­arefni Smára, „alhygð“, sem einna sterkastan svip setti á ljóð hans.





6. 15. Stefán Sigurðsson frá Hvítadal (1887-1933)



Í fyrstu bók Stefáns frá Hvítadal eru 29 ljóð, í annarri 25. Hér er um svo fá ljóð að ræða, að tölur hljóta að verða nokkuð tilviljanakenndar, miðað við stór ljóðasöfn, svo sem Huldu og Smára.



Í Söngvum förumannsins ber mest á þjáningu, í sex tíundu ljóða. Vellíðan er lýst yfir í hinum, og það segir mikið um ljóðin, að ævinlega eru tilfinningar ljóðmælanda í fyrirrúmi. Hnignun birtist í 4/10, hálfu algengari en þróun. Kvöld og nótt eru í nær helmingi ljóða, en morgunn eða dagur í þriðjungi. Hinsvegar ber nánast jafnmikið á vetri og hausti annarsvegar, og vori og sumri hinsvegar, hvort í þriðjungi ljóða. Ástarunaður birtist í rúmum fjórðungi, en ástarsorg sést naumast. Guð er ákallaður í fjórðungi ljóðanna. Útþrá kemur fram í sjöttungi ljóða og jafnoft er umhverfi á einhvern hátt nöturlegt eða fráhrindandi, en aðlaðandi er það í tíunda hluta. Þó verður umfram allt að leggja áherslu á, að umhverfi birtist ekki myndrænt í þessum ljóðum, þar er fremur um yfirlýsingar að ræða. En merkileg nýjung í þessari bók er ”frelsun lostans”, eins og Ivar Orgland orðaði það (sbr. lok k.3.4).



Í Óði einyrkjans hafa þjáning og vellíðan jafnast, í um fjórðungi ljóða hvort. Tilfinningahitinn er minni. Hnignun, sjúkdómur og dauði er hinsvegar mun meira áberandi í Óði einyrkjans, í tveimur þriðju hluta ljóða. En þar munar um þrjú erfiljóð. Hér er nú miklu meira um kvöld, það er í meira en tveimur þriðju ljóðanna, dagur aðeins í tveimur ljóðum. Haust og vetur er enn í þriðjungi ljóða, en vor og sumar aðeins í fimmtungi þeirra samtals. Drottinn er enn ákallaður í fjórða hverju. Ekki er orð gerandi á öðru.



Stefán hefur myndhvörf í meðallagi mörg, en þrefalt fleiri líkingar en persónugervingar. Eins og áður segir eru næstum þrír fjórðu hlutar líkinga hans um hugtök, og rúmlega helmingur persónu­gerv­inga. Hér er mest um tilfinningar, vonir, drauma, lífið, dauðann, hugmyndir, tímann. Þá er tíundi hluti um athæfi manna og afurðir, þar af 12 dæmi um kvæði (fjórðungur þeirra eru persónu­gerv­ingar), auk þess orð og söngur. Loks er þriðjungur persónu­gerv­inga og tíundi hluta lík­inga um húm, ljós, sólskin, vor. Oft­ast er líkt við athæfi fólks og afurðir (tæp­ur þriðjungur líkinga); helstu myndliðir eru bær, hús, höll, klæði, drykkur, ferðir, vopn. Þá er líkt við vatnsgang (tæpur fimmtungur): haf, fljót, lind, vatn, öldur. Loks er líkt við himin, sól, dag, kvöld, myrkur, eld. Í athæfi persónugervinga ber mest á brosi, en óvenju­lítið er um atlot, annað dæmið er móð­ur­legt, auk þess er leiðst að barna­sið, leikur og gleði er líka barnsleg. Í stuttu máli sagt, dökkt útlit yfirgnæfir.



Fyrsta bók Stefáns birtist 1918, og um hana sagði Kristinn E. Andrés­son þrjátíu árum síðar m.a. (bls. 54):





Söngvar förumannsins láta ekki mikið yfir sér. Uppskera hinna auð­ugu ára eru tuttugu og níu smákvæði, 92 blaðsíðna kver. Efni kvæð­anna er ákaflega fá­skrúðugt og einhæft, einsog fyrirsagn­ir benda til, að­eins tveir strengir, ann­ar: Vorsól, Sóldagur, Vorvegir; hinn: Þróttleysi, Klökkvi, Örbirgð, Skugga­björg. Það er vant að sjá, að hér sé á ferðinni boðberi nýrra tíma, eða hann lætur þá a.m.k. lít­ið yfir sér. En sannar­lega eru þessi kvæði mjög frábrugðin skáld­skap fyr­ir­rennara hans, Matthí­asar, Þorsteins og Einars. Hér er ekki verið að kveða af kynngi né háfleygi, ekki verið að yrkja um örlög guð­anna, framtíðarbraut mann­kynsins né verið að halda dóms­dag yfir drottn­unaröflum heimsins. Hér er ekki heldur verið að kveðja þjóð til vopna, ekki verið að glíma við ráðningu á vanda­málum til­ver­unn­ar. Öðru nær. Það er ekki að sjá, að í þessum ljóðum sé skír­skotað til neins né verið að brjóta nokkurn hlut til mergjar. Þau eru aðeins söng­ur eins brjósts, sem ekki er ætlast til að komi neinum við, eigi við nokkurn mann erindi, hvað þá heila þjóð eða heiminn. Þau virð­ast hvorki litbjartur né glæsi­legur fáni handa nýrri kynslóð að sigla undir, og það kynslóð, sem hafði ætlað sér jafn stór­fenglega sigl­ingu. En þó verða þessi ljóð sjálf lífs­tjáning kyn­slóð­arinnar.





Þessi lýsing á við um bók­mennta­strauminn í heild, einsog við höfum séð á ljóðunum sem fjallað var um hér að framan. Sá dómur, að ljóðin eigi ekki að koma neinum við er aðeins skiljanlegur þannig, að þar sé ekki í fyrirrúmi boð­skap­ur um aðgerðir. Kristján Karlsson tekur undir annað meg­in­atriðið í formála sínum að Ljóðasafni Stefáns (bls. viii): “Söngvar föru­mannsins er ákaflega samfelld bók, tvö skaut án nokkurs verulegs milli­sviðs.” Og síst þykir mér ofmælt um ein­hæfni ljóða Stefáns. Flest ljóð­anna eru bara rím­að­ar yfirlýsingar um gleði eða sorg, lítill skáld­skapur í því. En á það legg­ur Kristján Karlsson jákvæð­ara mat (bls. xvi):





Enginn vafi er á því, að nýjung þessara ljóða var að verulegu leyti fólgin í því, hve bókin er samfelld og afmörkuð á sviði persónu­legr­ar tilfinningar. Hér er skáld, sem virtist hafa numið burt svo mikið af ýmiss konar húsgögnum úr íslenskum skáld­skap, að stof­an stæði eftir hreinni og bjartari en áður. [...] Til þess að átta sig á því, hver Stefán er á þessum tíma, held ég, að það sé óhjá­kvæmi­legt að minn­ast þess sérstaklega, hve sagan var sterkt afl í íslenskum skáld­skap á 19. öld og hve gjörsneyddir Söngvar förumannsins eru að sögu­legum minjum.



Í sama mund og það er að verða ljóst, að hefð 19. aldar er að fjara út og óvissa ríkir um verulegar, lífvæn­legar nýj­ung­ar í íslenskri ljóða­gerð, þá bendir Stefán svo óskeikult á kviku skáld­skapar í ein­stakl­ingnum, að ekkert annað kemst að. Hann ein­angrar í Söngv­un­um tvö persónu­legustu og upprunalegustu ræðu­­form skáldskapar: játn­ingar og ákall.





Það tengir Kristján svo við trúarleg ljóð Stefáns sem síðar komu til. Hann segir enn­fremur, að Stefán hafi ver­ið einstaklega næmur á gildi sér­hljóða í ljóðum og nefnir sem dæmi 1. erindi í Hún kyssti mig (bls. xiii-xiv):





ef vér lítum á síðustu ljóðlínurnar einsog mynd í stað þess að hlusta á þær, þá verður “dýrlingabros” einkenni­lega ógeð­fellt orð, einsog það kemur fyrir hér. Ef vér skynj­um hins vegar þessar tvær lín­ur sem brot úr tónstiga, þá er “ý” í síð­asta orðinu að minnsta kosti einni nótu hærra en tvíhljóðinn “ey” í “deyjandi” og “sveipa”. Vísan end­ar á fagnaðartón einsog vera ber í samræmi við erindið og allt kvæð­ið. [...] það fer ekki milli mála, að tungu­tak Stefáns hneigist mik­ið til abstraksjónar. Þetta er þeim mun eftir­tekt­arverðara, að Stef­áni eru myndræn við­brögð eðlileg. En sökum þess, hve til­finn­ing kvæð­anna er einatt óhlutbundin: óháð ákveðnum atburði, stund eða stað, eru myndir hans einatt fjarlægar upp­runa sínum, þær nálg­ast orðatiltæki, til­brigði máls, fremur en þær veiti sýn á ákveðinn hlut.





Kristján segir siðan að þessar almennu lýsingar í stað mynda séu “í sam­ræmi við þá ástundun Stefáns að varast margræðan og torræðan skáld­skap­arstíl.”



Vegna framangreindra takmarkana eða hrein­ræktunar í ljóðstíl, þykir mér Stefán lítt standast samjöfnuð við önnur skáld sem hér er um fjallað. Helsti kosturinn er þessi innileiki sem fylgir játningum á einföldu máli. Það eru helst ljóðin Erla, Vorsól og Hún kyssti mig sem verður jafn­að til annarra ljóða í þessari athug­un. Sum lengri ljóðanna í Óði ein­yrkj­ans (1921) byrja vel, með góðum ljóð­mynd­um, en lognast svo útaf í ná­granna­krit eða önnur dægurmál inn­an­sveitar (t.d. Feigs­hólma­feðgar og Bónd­inn í Skarfa­skerjum).



Persónugervingar setja nokkurn svip á fyrrnefnd þrjú kvæði. Einkum er hugtökum líkt við konur, sem eru virkar gagnvart ljóð­mæl­anda, hvort sem þetta er nú móð­ur­mynd eða annað. Tví­vegis talar hann sem barn í Hún kyssti mig og einnig í upphafi ljóðsins Vor­sól, þar á löng­un á að leiða ljóð­mæl­anda,við hönd sér, en vorsól bar ótal drauma inn til hans, æsku­von á að setjast til valda, óði hans er létt um spor. Síð­ast­tal­in persónu­gerv­ing teng­ist frekar ljóðmælanda sjálf­um, hvað sem æsku­von líður, og í Hún kyssti mig er dagurinn sem áður segir, per­sónu­gerð­ur sem deyj­andi dýrlingur. Óljósari er persónu­gerv­ingin næst á und­an: “Rauðu skarlati skrýðst hefur skógar­ins flos”. Í hug­ar­heimi íslensks almennings í upp­hafi 20. aldar tengj­ast slík tign­ar­klæði helst kónga­fólki ævintýra. Og vísun til æv­in­týra er ein­mitt rauði þráðurinn í þessu ljóði. þannig stefnir að barnslegum innileika. Annars­vegar er “for­ynj­an Feigð [...] með sinn ferlega her”, og mælandi var sem í álögum, “fölur og fár [...] sjúkur og sár [...] sá aðeins gröf”, en svo kom kóngs­dóttir inn í skóginn og kyssti hann, en þannig leys­ast menn einmitt úr álögum í ævintýrum. Ljóð­inu lýkur á bæn til stúlk­unn­ar um að hún skuli ein spinna hans ör­laga­garn - í stað norn­ar sem gerir það í æv­in­týr­um. Þessi vísun ljóðsins hæfir vel yfir­lýs­ingum ljóð­mælanda um barnslegt hug­arfar. En sem áður segir, var það í mikl­um hávegum haft á önd­verðri 20. öld.





Vorsól



hefst á hefðbundinni rómantískri mynd fugla, sem sýnir út­þrá: “Svanir fljúga hratt til heiða” - og seiða hug ljóð­mæl­anda með sér til fjalla. En í lokaerindi vill hann halda aust­ur­leiðir yfir hafið. Útþráin virð­ist sterkari af því að vera svona óljós, nú skal bara farið burt, hvert sem er. En fleira er óljóst hér. Í 4. er­indi er það liður í upp­talningu sem sýnir bætt­an hag ljóð­mæl­anda, að “Ang­ar lífsins Berurjóður”. Síðasttalið staðar­nafn er úr Örvar-Oddssögu, og táknar fæðingarstað Örvar-Odds, sem lifði í 300 ár. Því á stað­arnafnið líklega að tákna end­ur­nýj­ungu líf­daganna. En reynd­ar forðaðist Oddur staðinn alla ævi, eftir að honum var spáð að þar myndi hann láta lífið, sem og varð. Það vita þeir lesendur sem kannast við orðið, og því finnst mér þessi vísan kvæðisins held­ur van­hugsuð, geigandi.



Í samræmi við titilinn verður sólin að­al­atriði, smám sam­an. Í 1. er. er nefnt í 4. l. að hún glói hvarvetna. Í 2. erindi nær lýsing henn­ar yfir 3. -6. l. og eftirfarandi erind­um lýkur öllum á þakk­læt­isorðum fyrir sól­skin­ið. Meg­in­and­stæða hennar er svo: nótt­in svarta, vet­ur [...] svart er yfir þessu ranni, döprum manni (2.-3. er.). Þessu sam­svar­ar hugarfar ljóð­mæl­anda. Í 1. erindi er 3. lína al­mennt ávarp og sýnir þá opinn hug og tiltrú: “Vill mér nokkur götu greiða?” Þannig lýkur líka ljóðinu: “Ég á öll­um gott að gjalda/ gleði mín er djúp og rík.”



Orðalag er yfirleitt einfalt. Það er upp­hafnara en venju­leg­asta hvers­dags­mál; “rann, vorsins heiði, gleði­bros í banni, hillir uppi öldu­falda”. Og í “Hún kyssti mig”: “hið draumfagra kveld, hafa skrýðst, mig bar gegnum skín­andi skrúð, ég tæmi fagn­að­ar­full”. Í Erla: “þeysa [...] slóð, kveld­sett er, mjöllin sveip­ast myrkri.” En þetta er þó mun venju­legra mál en hefð­bund­inn orðaforði ljóða Matthí­as­ar, Ein­ars Benediktssonar og fl., og margt er enn hvers­dagslegra. Í Vorsól lýkur t.d. 2. erindi á alveg flatri tuggu: “Það er engin þörf að kvarta/ þegar bless­uð sólin skín.” Af sama ein­fald­asta tagi er “Innra með mér æsku­gróð­ur” og “gleði mín er djúp og rík”. Það var óvenjulegt á þessum tíma að ganga svo langt í hvers­dags­tali í ljóðum, og ein­mitt það hefur væntanlega hrifið fólk, sem djörf­ung og nýstár­leiki; þegar það líka birt­ist í syngjandi hrynjandi og rími. Hér eru 4 ris í hverri línu, en 1-3. og 5. l. ríma saman, 4. og 6. l. eru stýfðar og sér um rím, marka vel endi hvers erindis, sem einnig birtist efn­is­lega, sem áður segir. Í sam­ræmi við þetta einkennast erindin af upp­talningu fram­an af, yfirleitt er 1.-3. lína sér um mál, sjálf­stæð setn­ing. Um það fjallar. Orgland (II, bls. 197 o.áfr.).





Erla



Einsog Hún kyssti mig ber keim af æv­intýrum, þann­ig er Erla með annarlegum svip þjóðsagna, nánar til­tek­ið álfa­sagna. Það hæfir því vel að þetta er vöggu­söngur við barn. Þessi sviðsetning er í 2. er.: tunglið skín á bæinn, og álfar þeysa úti. Ekkert kemur nánar fram um þá, en þetta sýnir þá þrótt og annríki yfirnáttúrlegra vera, and­stætt því að barnið er að sofna.



Hér eru litir notaðir til að skapa and­stæð­ur í sviðsetn­ingu; gult, hvítt og rautt gegn svörtu. Í 2. erindi slær hið bleika tungl­skins­flóð bjarma á bæinn, en í 4. er. syrtir: “Myrkri sveipast mjöllin/ og mánaljósið dvín./ Sorti leggst á sessinn”. Í 5. er. seg­ir. “Liðast rauðir lækir/ um lífs­ins eyði­hjarn” - þegar ljóð­mæl­andi rekur raunir sínar. Meira fáum við ekki að vita um hugar­ástand hans, en þetta vekur hugrenningar um að honum sé að blæða út á ísnum, sem táknar kuldalegar lífsaðstæður hans. Það tengist háska utanhúss sem and­stæða við öryggi barnsins í rúm­inu: “Svipir eru á sveimi/ þú sefur elsku barn.” Þannig er talað til barnsins í upphafi 1. er. og síðan í lok hvers er­ind­is, 2.-6., en 7. erindi er sér.



Þessi markvissa uppbygging kvæðisins og myndrænu and­stæður tengj­ast hæglátum tóni. Eina hraða hreyfing­in er á álfum (þeysa) ann­ars er orða­lagið allt í samræmi við það að svæfa barnið, mjög hægar, mjúk­ar hreyf­ingar: “Svíf þú inn í svefninn... Þú andar létt og rótt... sveip­­ast... dvín... leggst... rek garn...liðast... eru á sveimi”. Þetta er allt sam­stillt, og sama má reyndar líka segja um orðalag sem sýnir hug­ar­ástand mælanda: “Erla, hjartans Erla/ nú ertu þæg og góð!// Æskan geymir elda/ og ævintýraþrótt. ///Hart er mannsins hjarta að hugsa mest um sig.” En erfitt er annað en kalla þetta væmið, og í því felst einmitt ris kvæðisins, klisjur loka­erindisins:





Hugann grípur helgi



og hjartað þráir jól.



Klökkur vil ég krjúpa



í kveld við drottins stól.





6. 16. Davíð Stefánsson (1895-1964)



Þetta skáld hefur yfirgnæft flest önnur af þess­um toga, og hlaut mikl­ar vin­sældir þegar er fyrstu ljóð hans birtust, en það var 1916, í Eim­reið­inni ljóðin Komdu, Brúð­ar­skórnir, Allar vildu meyj­­ar­nar, Léttúðin og Hrafna­móð­irin; en í Iðunni 1916-17: Mamma ætlar að sofna, Skugginn, Svefnljóð, Myndhöggvarinn, Á Dökku­mið­um, en í sama riti 1918-19: Krummi, Er árin færast yfir, Abba-labba-lá. Þessi ljóð eru með­al hinna kunnustu eftir Davíð, sem og önn­ur áþekk ljóð, stutt og einföld í sniðum. Þau voru svo end­urprentuð í fyrsta ljóða­safni hans, Svörtum fjöðrum, 1919. Breyt­ing­ar voru sáralitlar, og verð­ur ekki rætt um þær hér, en fylgt loka­gerð.



Hjá Davíð ber mest á hnignun, sjúkdómi og dauða, í öðruhverju ljóði. Andstæðan er í innan við tíunda hluta, og jafnsjaldgæf er dagsbirta, en rökkur eða nótt er í næstum helmingi ljóða. Jafnmikið ber á þjáningu, en sæla er aðeins í tíunda hluta ljóða. Við það bætist þó ást, í rúmlega fimmtungi ljóða, en ástarsorg er ívið sjaldgæfari. Jafnmikið ber á útþrá og aðeins meira ber á hrikalegu eða ömurlegu umhverfi, en aðlaðandi umhverfi er hálfu sjaldgæfara (tíundi hluti). Einfari er í sjöttungi ljóða, sömuleiðis þjóðtrúarefni (auk 4 þulna), yfirlýst guðstrú er jafnáberandi, en tilveru guðs er afneitað í 1ljóði, og hann skoraður á hólm í öðru. Haust og vetur eru líka í sjöttungi ljóða, nær þrefalt oftar en vor (sem er í 4 ljóðum). Enn er heldur dimmt yfir.



Davíð Stefánsson hefur í meðallagi margar líkingar meðal þessara kvæðasafna, en persónu­gervingar eru færri en í meðallagi (það var helmingur, en er fjórðungur hjá Davíð). Hér ber einnig mest á hug­tök­um í kenni­liðum, í tveimur þriðju líkinga og rúmum þriðjungi persónu­gerv­inga; andinn dauðinn, frægð, hug­mynd, lífið, sál, sam­viska, sorg, synd, tilfinningar, tíminn, von, ver­öldin. Þá er tíundi hluti líkinga og fimmtungur persónugervinga um húm, myrk­ur, nótt, sólskin og stjörnu (óvenjulítið!). Loks má telja lík­ing­ar um: hljómlist, auk þess sem harpa er þrívegis persónu­gerð, ennfremur eru ilmur og koss kenniliðir. Einnig hér er oftast líkt við athæfi og afurðir fólks, það er þriðj­ungur líkinga. Helstu myndliðir eru: drykkur, hjúpur, hljóð­færi, málm­hlutir o. fl. þ. h. Líkt er við ótilteknar lífverur, fugla, slöngur; við eld, fljót, ís, vind. Í persónu­gerv­ing­um er einnig hér sérlega lítið um atlot (3, þar af er 1 móð­urlegt). Mest er um grát og kvein, en hlátur er einsdæmi. Enn­fremur má telja söng, tal, hvísl og svefn.





Margbrotið



Þótt Davíð sé kunnastur fyrir einföld ljóð, þá skal hér fyrst vikið að annarskonar ljóðum, sem einnig eru í Svörtum fjöðrum, löng, mynd­ræn og margbrotin.





Húmhljóð



Þetta kvæði er þrettán löng er­indi undir breyti­leg­um brag­arháttum. Sigurður Nordal hefur bent á (Minningarorð, bls. 137) að það sé greinilega mótað af Drömmar i Hades eftir Fröding, „bæði að háttum og hugblæ“. Húmhljóð skiptist í I. og II. hluta með tölu­setn­ingu, en í raun skipt­ist það í 4 eða 5 hluta, þar sem brag­ar­hættir breytast eftir umræðuefni og hugblæ. Þetta minn­ir nokk­uð á Hrefnuhróður Sigurðar Sigurðssonar, en eink­um á Geð­brigði Huldu, sem fyrr var hér að vikið, enda ríkir hér svipuð beiskja, og raunar engin sátt í lokin, sem hinsvegar er í ljóði Huldu. Enn er það líkt, að end­ur­taka heilt er­indi með til­brigðum. En Geð­brigði Huldu birt­ist sem áður segir ári síðar en þetta ljóð Davíðs kom í Svörtum fjöðrum.



Dagur og nótt eru hér persónugerð, einnig rós (í 1.erindi) og “blóm­ið” (í 7. erindi). Hér koma fram drama­­tísk­ar andstæður. Í persónu­gerv­ingu rósar­innar birtist frið­sæl mynd af barni í ör­yggi:





Og rósin sofnar frá bæn, sem hún biður,



og brosir í gegnum tár.





Hinsvegar er dagurinn í andarslitrunum, “drúpir höfði með luktar brár”, kliður hans er “sem dauða­stuna”, myrkr­­ið er blóð hans. En nóttin minnir á goðveruna Hel, einsog henni er lýst í Snorra-Eddu:





Nú situr heldimm nóttin að völdum,



og næðingnum blæs hún úr vitum sér.





Hér er mest dvalist við lýsingu myrk­ursins í glæstri ljóð­mynd sem birtist ítar­legast í fyrstu þremur erindum, en nær meira og minna í gegn­um ljóðið: myrkrið flæðir sem vatn, stall af stalli niður fjalls­hlíð­arnar og fyllir loks “mannheima alla”. Um þetta myrk­ur eru höfð orð þrung­in gild­is­mati, lengstum neikvæðu. Það kviksetur “sof­andi þjóð”, og niðurinn af bylgju­földum þess er sem náhljóð. En sérlega athygl­is­vert þykir mér, að skuggarnir falla um jörð­ina “einsog syndaflóð”. Það orðalag á vel við til að sýna að þeir feli allt. En það er jafnframt forboði tals um syndir síð­ar í kvæð­inu (6. og 11. erindi).



Þessi þrjú fyrstu erindi eru hvert átta langar línur (4 ris). Eftir að þau hafa dreg­ið upp þessa “kolsvörtu” mynd, kemur II. hluti; næstu þrjú erindi eru einnig átta línur hvert, en aðeins tvö ris í línu (einsog í þremur síðustu er­indum kvæð­is­ins). Hér er líka dramatísk stígandi sem hefst með létt­ari hreyfingu, sál ljóðmælanda berst fyrir straumi sem vaggar henni, en að vísu sekkur hún þá æ dýpra í bylgjur myrkursins, einsog jörðin (3. er.). Jafnframt því drukknar þögnin í “þungum dunum”, sem rísa af tón­um “sem húms­ins guð/ slái hörpu sína.” Og í næsta er­indi (6.) verður þetta hljóð hel­vítis, “að gráti/ og gnístr­an tanna/ og svo að hjart­slætti/ synd­ar­anna -:” Aftur skipt­­ir um bragarhátt og jafn­framt hefst persónu­leg ást­ar­saga ljóð­mælanda. Hún nær yfir 7.-10. erindi, fyrsta og síð­asta eru 10 línur hvert, en miðerindin tvö eru 6 línur hvort, öll hafa 4 ris í línu. Þessum breytingum bragarháttar fylgir það, að mið­er­ind­in styttri lýsa ástarunaði, en rammaerindin lengri segja sögu. Og þótt blómið gráti “sólskin dagsins”, þá færði nóttin nú mæl­anda upp­fyllingu drauma hans. Enda birtist hún í geð­þekk­ara líki, ólíkt hel­dimmri nótt áður (2. er.), heitir hún nú: “nóttin dimma, dökka”. Andstæða við þann lit birtist í því að talað er um: “lundinn græna”.



Þegar lýst er samruna elskendanna er rími beitt svo óvenju­mik­ið, að hljóðgerving skap­ar kvæðinu ris: ”gistir, kvistir /og þú kysstir, og þú kysstir/ á mér þyrstar varirnar.”



Lokaerindi þessa hluta rekur þá að hún hvarf honum. Það er sýnt með fjórum sam­lík­ingum, æ ítarlegri og til­finn­ingaþrungnari. Sú fyrsta; “þú hvarfst mér einsog draum­ur” er lítið meira en algengt orðalag. Önn­ur; “einsog sól í djúpin blá” er myndrænni, enn frekar þó sú þriðja: “eins­og blóm, sem bylgja og straumur/ bera nauð­ugt landi frá.” Hún er sér­kenni­legri en síðasta líking­in, sem er kunnug­leg róm­antísk mynd, en ítarleg og til­komumikil, ekki síst vegna eink­unnar­inn­ar með svanur: “Einsog svan­­ur sólarfjalla,/ er særð­ur inn á heiðar fer,/ með sumar mitt og sælu alla/ sveifstu burt frá augum mér.” Og í þess­um tveimur síðustu samlík­ingum kemur það óbeint fram að hún hafi yfirgefið hann nauðug. Loka­línur þessa er­ind­is: “Úr húminu ég hrópa og kalla/ í him­ininn - á eftir þér” - mega minna á alþekktar ljóð­línur í Þjóðhátíðarkvæði Bólu-Hjálm­ars (I, bls. 6): “mitt skal hróp af heitum dreyra/ himininn rjúfa kringum þig.” En það skiptir minnstu máli hjá hinu, hve glæsileg er þessi lokamynd ör­vænt­ingarinnar, enda með miklum and­stæðum: hann í húm­inu, hún á himni. Loks koma þrjú er­indi með stutt­um braglín­um með hægu yf­ir­bragði, enda er ekki hreyf­ingu lýst þar nema í lokaerind­inu, sem er tilbrigði við 4. er­indi, með sára­litlum breyt­ingum. Annars lýsa þessi er­indi hugar­ástandi mæl­anda. Honum finnst loftið fullt af svikum, sorgum, synd­um og svikn­um eiðum; og allt er þetta gam­alt, “frá liðn­um öldum” (11. er.). Því finnst hon­um loftið fullt af draug­um (12. er.). Og sál hans sekkur að lokum dýpra og dýpra í djúp­ið.



Þetta eru magnaðar myndir af kulda og myrkri, þar sem lífi án ástar er lýst sem helvíti. Davíð lét greinilega ekki síður vel að gera svo mynd­ræn og margbrotin ljóð, en þeim skáldum sem hér hefur verið fjallað um. Þar mætti enn nefna Gamla höllin og þó einkum Með lestinni í 2. bók hans, 1922. En fræg­astur er hann þó fyrir ein­föld stutt ljóð, sem lýst skal nú.





Einfaldleiki



Í bókmenntasögu sinni 1949, sagði Kristinn E. Andr­éss­on m. a. um ljóð Davíðs í saman­burði við Stefán frá Hvítadal (bls. 63):





Davíð ber fleiri sérkenni tíma­mót­anna og nær yfir stærra svið. Það er einsog sjálft form persónu­leika hans sé tilfinn­ing­ar, gagn­stætt t.d. Einari Benediktssyni og flest­um skáld­un­um á undan, er sveigja tilfinn­ingalífið und­ir vald hugsunar og vits, og verður þó munurinn enn­þá meiri, ef borið er saman við íslenska fornöld. Í ljóðum Davíðs Stefáns­sonar spretta til­finning­arnar fram frjálsar og djarf­ar, eðli­leg­ar og ríkar, einsog þær eigi allt vald him­ins og jarðar. Þær glitra þar í margs konar lit­brigðum, gleði og sorg, ást, sökn­uður, ein­mana­kennd, ærsl og æsku­funi. Þær glitra á yfir­borð­inu, ekki langt að komnar úr djúpi aldanna eða djúpi skáldsins sjálfs, held­ur nývaktar stemningar í lífi þjóðarinnar og lífi skálds­ins, koma og fara, blika rétt sem snöggvast, verða ljóð og hverfa.





Ef hugað er að sumum þeim kvæðum sem fyrst birtust, þá sjást mikil­væg samkenni á t.d. Brúðar­skórnir, Allar vildu meyjarnar og Hátíð. Öll þessi ljóð eru þrjú fjög­urra lína er­indi. Þau hnitast um einar kjarn­and­stæður, og nota mikið endur­tekningar með til­brigðum. Í Allar vildu meyjarnar eru 1.-2. lína endur­teknar sem 11.-12. lína og 9.-10. lína er sama hugsun og í 3.-4. línu, þótt öðruvísi sé orðuð; allar meyjar vildu hann, en eng­in fullnægði hon­um. Mið­er­ind­ið lýsir þá tilraun­um hans og leit með stígandi; 6. lína er end­ur­tekn­ing á 5. línu, þar sem einungis síð­asta (tölu)­orðið hækkar. Og 3. lína þess erindis er tilbrigði við hin­ar, loka­línan lýsir uppgjöf hans. Sams­konar bygg­ing er á t.d. Eldur í öskunni leyn­ist og Álfahóll.





Brúðarskórnir



Þetta kvæði hefur ámóta hnitaða byggingu. Í hverju er­indi lýsir fyrsta lína aðstæðum konunn­ar sem um er fjallað, önnur lína hugs­unum henn­ar um að vera hús­freyja á Melum, þriðja lína því sem hún gerir við skóna, og fjórða lína er alltaf eins, viðlag sem er hálf alhæfing: “Sumir gera allt í felum”. Einsog titill­inn bendir til eru brúðarskórnir kjarninn sem kvæð­ið snýst um. Það stikl­ar á þrem­ur atriðum: 1.erindi: stúlkan gerir skóna, 2. erindi: hún geym­ir þá, 3. erindi: hún brennir þá. Þessu sam­svara upplýs­ingar um hugarástand henn­ar: hún er með hugann ann­ars­staðar (1. er.), hún er þrungin ást og friði (2. er.), grætur (3. er.). Í ljóð­inu ríkja and­­stæður draums og veru­leika. Í hverju erindi er hún með hug­ann við það að verða hús­freyja á Melum, en and­stætt því er hún stödd við öskustóna, það minnir á Öskubusku og Kol­bít, tákn­mynd úr ævintýrum um þau sem minnst eru metin. Setn­ing­in “Alein hún sat/ grét við öskustóna” og viðlagið: “Sumir gera allt í felum”, sýnir leynt hugarstríð lítil­magna, en það munu flestir les­endur kannast við.





Mamma ætlar að sofna



er svipað að allri gerð, þar spegl­ast upp­haf ljóðsins í lokum þess. Þar eru end­ur­tekn­ingar frá er­indi til er­indis, og loks dreg­ur 4. erindi allt sam­an með end­ur­tekn­ing­um. Fyrstu tvær línur þess eru end­urtekningar á 3.-4. línu, þá kem­ur aftur 9. lína, loks 2. lína. Enn mætti nefna ljóð af sama tagi; Nunnan og á viss­an hátt eftirfaramdi ljóð.





Urð­ar­kött­urinn.



Þar er fyrsta erindi endur­tek­ið í lokin sem 7. erindi, inndregið í prent­un. Á sama hátt er fyrsta lína hvers hinna er­ind­anna end­ur­tek­in sem inndregin lokalína þess. En við það tekur hún eðlisbreytingu, því 2. lína er jafnan framhald af 1. línu, því verður loka­línan spakmæla­kennd þegar hún er án framhalds. “Það ætti enginn að fæð­ast/ sem ekki kann að læðast” verður: “Það ætti enginn að fæðast.” Og 2. erindi sýnir myndrænt fortíð kattarins sem andstæðu við kaldsama nútíðina, þá malaði hann og dreymdi í mjúkri kjöltu ungmeyjar.



Ljóðmyndir eru fáar hér, helst: “Þessir vafrandi veiði­kettir/ sem vill­ast, hvæsandi og grettir“. Annars eru nán­ast engar mynd­ir í þessum ljóð­um, og orðalag allt er einkar venjulegt, stundum bein­línis talmál: “ástina sína/ þá sem hann gat elskað/ hann aldrei fann” og “þessir hel­vítis heimsku kettir” sem og aðrar tilvitnanir í Urðar­kött­ur hér að ofan. Svona orðalag fannst Gunnari Stefánssyni (bls. 38) ósmekk­legt í ljóði. En ég er því alveg ósammála, það hæfir fyllilega aðstæðum kattar­ins, og er í samræmi við stílstefnu Davíðs, að viðhafa daglegt alþýðumál. Um þetta segir Sveinn Skorri (í grein um verk Davíðs á aldarafmæli hans, 1995, bls. 49):





Davíð iðkar það nokkuð, einkum framan af höf­und­arferli sínum, að bregða fyrir sig grófyrð­um, stund­um blótsyrðum, í kvæðum sínum. Ætli það sé ekki stílleg birtingarmynd dýrkunar hins hrjúfa og upp­runa­lega?





Þetta tengir Skorri (bls. 38) við greinarmun Nietzsches á Díonís­isk­um skáldskap og Appollonskum, sem er hinn fágaði, en





Díonýsos var á hinn bóginn guð hinnar óheftu lífs­nautnar, guð víns og söngs og dans, hömlulaus og sterkur. Í dýrkun hans sá Nietzsche lífsþrótt og kraft upp­runa­leikans.



Með Davíð Stefánssyni og Svörtum fjöðrum hans eignaðist Díonýsos sterkasta forsöngvara sinn meðal íslenskra skálda.





Þetta fær einungis staðist efnislega, að skáldið hylli lífsnautn. Svo sem hér ætti að koma fram, eru kvæði Davíðs afar fáguð, einkum þau sem ein­földust virðast. Þar er uppbyggingin hvað hnitmiðuðust og orðalag líka. Hve hversdagslegt það er oft og tíðum, og jafnvel skrýtt grófyrðum sem hér, það er einungis liður í meðvituðum alþýðleika ljóðanna, rétt einsog Í dag eftir Sigurð Sigurðsson.





Utan frá sjó



Í þessu ljóði er orða­lag allt eink­ar venju­legt, og ljóðið er lítt mynd­rænt, nema helst í kven­lýs­ingu, sem er þó næsta almenns eðlis: “eins björt og sól­in, eins ilm­andi og vín.” Rauður þráður í kvæð­inu er tal um haf og sigl­ingu, en það er augljóslega líking um mann­lífið. Enn er hér mark­viss upp­bygging fram að lokaerindi, þar sem meg­­in­til­finn­ing ljóðs­ins kem­ur skærast fram: 1. erindi: Hann sigl­ir gegn straumi, en veðrið hrekur hann af leið. 2.er. sýnir hrakn­inga hans um framandi höf; ill norn skað­aði sál hans. 3. er. Hann er út­brunn­inn, vegalaus. 4. er.: Hún bíð­ur hans og hann þráir hana, en kemst ekkert.



Hvert erindi er hér fimm línur, síðasta lína hvers er­ind­is er ek. við­lag. En þar verður merkileg stig­mögn­un. Í fyrstu tveim­ur er­ind­un­um er viðlagið almenns eðlis, í formi spak­­mælis, líkt og í Urðarkötturinn og Brúð­ar­skórnir: “Sum­ir...en þó”. En svo verður þetta persónulegra, sýnir ást ljóð­mæl­anda í 3. erindi, og vonlausar aðstæður hans í 4. erindi. Sú lokalína (“—en ég er bundinn í báða skó”) rýfur sigling­ar­lík­ing­una og vísar til þess að hann sé bund­inn fé­lags­lega, svo sem af hjóna­bandi, fjöl­skyldu. Þannig teng­ist sú lína upp­haf­inu; “Ég ætl­aði að halda öll mín heit”.



Gunnar Stefánsson sagði (bls. 34): „hefði farið langbest á að sleppa fjórða og síðasta erindi kvæðisins „Utan frá sjó“ - lok kvæðisins eru eðlileg í 3. erindi.“ Ekki er þetta rökstutt neitt frekar, og ég verð enn að lýsa mig ósammála. Lokaerindið er hámark ljóðsins, því þar birtist örvæntingin mögn­uðust. Annarsvegar er skynjun ljóðmælanda á hinni heittelskuðu yfir­gengileg þar sem hún er í senn skynjuð á þrennskonar hátt, jafnvel hjartaslög hennar skynjar hann í bylgjunum sem umlykja hann, hjartaslög hennar sem beið hans og bíður enn. Þessi tilfinning er meginatriði ljóðs­ins, en ekki undanfarandi sagan.



Lokalína er endurtekin frá erindi til erindis hverju sinni með til­brigð­um. Þetta er líka í öðru kvæði Svartra fjaðra “Í síðasta sinni”, en áður notaði Sveinn Jónsson (Framtíðarskáld) þessa aðferð, svo sem Ivar Orgland hefur bent á (I, bls. 213), og má vera að hann hafi orðið Davíð fyrirmynd í þessu, en þetta er þó gamalt í þjóðkvæðum, sem komust í tísku um aldamótin, einkum var þetta í fornum sagnadönsum..



Hér var vonlaus ást manns til konu sýnd, einsog í fyrst­talda ljóðinu. En ekki ber minna á hinu, að kona sé sýnd al­gerlega und­ir­gefin karli, sem lítið leggur á móti tilfinn­inga­lega.





Komdu



Þetta ljóð er þrettán erindi, hvert er fjórar stuttar línur (tvö ris í línu, breyti­leg hrynjandi, mikið um forliði, þríliðir skipt­ast óreglu­lega á við tvíliði, rím er aðeins í 2. og 4. l.). Kvæðinu er skipt með - - svo að fyrst kemur eitt er­indi sér, en síðan þrír hlutar, sem hver er fjögur er­indi. Í fyrsta hluta hefjast öll erindin fjögur á “Komdu, ég skal...”, en í öðrum á “Ég skal...” (nema 7.er., þar kem­ur þetta í 3.línu). Þriðji hluti hefur ým­is­konar upphaf (m.a. fyrstnefnt í 11.er.). Hver fjögurra erinda hluti teng­ist þannig hinum með endur­tekn­ing­um með tilbrigðum. Í fyrsta hluta koma mismunandi sagnorð á eftir “Komdu, ég skal”, og taka öll með sér and­lag, en það er óvenju­legt með sögnunum “brosa” (2.er.), “kyssa” (3.er.) og “gráta” í þig (4. er.). Hér ætlar mælandi með þessu mjög breytgilega við­móti að veita mann­in­um gleði, karlmennsku, göfgi og trú, vekja guðs­eðli hans (5.er.), svo líf hennar verði honum að leikfangi. Í þess­ari upp­röðun er skörp stíg­andi frá því að við­mæl­andi er einsog barn, um karlmennsku, til þess að hann verð­ur guði líkastur.



Annar hluti er þá framhald af síðasta atriðinu, konan er karl­mann­inum hér alveg undirgefin, lifir á aumustu leif­um hans og fórnar sínu fegursta í skarnið frá honum. Þannig fórn­ar hún honum hárinu og líni, sem er tákn­mynd sælu henn­ar og sakleysis í æsku. Hún kemur þá fram við hann einsog hann væri til­lits­laust villidýr, enda lýkur þessum hluta á því að hún kallar hann nú dýr, en segist ætla að verja hann gegn illum draumum. Þeir stafa þá ann­að hvort af slæmri samvisku eða ótta, sýna tak­mark­anir venjulegrar mannveru, fjarri guðseðlinu sem hann átti að hafa.



Aftur rís næsti hluti, sá síðasti, af lokaatriði und­an­far­ins. Með um­hyggju sinni ætlar nú konan að breyta rán­dýr­inu, horfi það í hjarta hennar, bráðnar ís­gervið af því. Þetta er líkt lausn úr álögum í ævin­týr­um. Kvæðið snýst eingöngu um samband þess­arra tveggja persóna. Í því verður stígandi til æ nánari tengsla. Í fyrsta hluta er talað um brú í him­in­inn, ann­ar hluti gerist í húsi hans og endar í rekkjunni, þar sem sá þriðji fer fram.



Við fyrstu sýn virðist ljóðið sýna konu sem er alger­lega undirgefin karlmanni. En betur að gáð mótar hún hann gjör­samlega með ást sinni. Þetta er því enn einn lof­söng­ur Davíðs til ástarinnar, og boðar ekki hefð­bund­in kyn­­hlut­verk, þótt það gangi út frá þeim. Öll þessi takmarkalausa fórn konunnar er í æpandi mót­sögn við upphafserindið, því þar ríkir upp­reisn, ásökun. Þessi andstæða þykir mér verða til að magna til­finn­ing­­arnar.



Sigríður Albertsdóttir birti grein um ástaljóð Davíðs haustið 1996, og hefur þar nokkuð aðra túlkun á þessu kvæði (Ég verð..., bls. 313):





Konan er ljóslega viti sínu fjær af sársauka, tilbúin að fórna sér á alt­ari ástarinnar. Hún hugsar ekki um afleiðingar slíkrar fórnfýsi, hún vill elskuna sína aftur hvað sem það kann að kosta. Líkt og hin svikna persóna í lýsingu Barthes, ásakar hún sjálfa sig vegna brott­far­ar unnustans, hún hefur ekki elskað nóg, ekki trúað, vonað og um­borið og því á hún skilið að vera yfirgefin. Hún kallar á mann­inn í auðmýkt sinni og biður hann fyrir alla muni að fyrirgefa sér [...] Und­ir lok kvæðisins verður lesanda ljóst að hinn elskaði hefur ör­lög stúlkunnar í hendi sér, því lengri sem biðtíminn verður því óráðs­kenndara verður ástand hennar. Hún er, með öðrum orðum, læst inni í biðsal ástarinnar, inni í búri sínna eigin masókísku kennda og eng­inn kemur til að hleypa henni úr.



Þessi tilfinningalega bæling konunnar sem lætur allt yfir sig ganga er viðfangsefni fleiri kvæða Davíðs en kemur kannski hvergi betur fram en í Brúðarskónum.





Ég sé ekki að gripið verði á hlutlægum atriðum til að gera upp á milli túlkana mín og Sigríðar. Hún andmælir í greininni of ein­hliða túlkun á ljóðum Davíðs, þar sem hann er gerður (bls. 304):





ósnertanlegur boðberi hugljúfra ásta og rómatískra kennda [...] Ljóð Davíðs Stefánssonar eru ekki alltaf ljúf og auðskiljanleg. Stund­um eru þau afar sár og uppfull af flóknum ástríðum, þrungin óhugn­aði og djúpri kvöl sem endurspeglar flókið sálarlíf og bitra reynslu í ástarmálum; reynslu sem getur breytt ljúfmenni í villidýr.





Sjálfsagt er að taka undir þau varnaðarorð Sigríðar, með tilvísun til undan­farandi umfjöllunar hér. Hinsvegar ýkir hún hve einhliða þessi mynd hafi verið, t.d. segir Ólafur Briem í formála sínum (bls. 24 o.áfr.) frá þessum andstæðum, og vitnar einnig til Sigurðar Nordals um þær. Einnig virð­ist mér Sigríður ganga of langt í endurskoðun sinni, t.d. með því að taka ærslafullt grínkvæðið Namm namm hátíðlega (bls. 320 o.áfr.), og einkum verð ég að andmæla túlkun hennar á ljóðinu Á Svarta­sandi, því þar er um grundvallaratriði að ræða. Sigríður segir (bls. 311): „Þó ekki sé sagt berum orðum að maðurinn hafi svikið konuna svífur sekt­in yfir vötnunum“. En þetta er alveg tilhæfulaus oftúlkun, hún sveigir þetta kvæði undir hin, en í því birtist aðeins sorg eftir látna ástkonu, við vit­um ekkert um tilefni eða bakgrunn, og þurfum ekki að vita neitt um það til að grípa kvæðið. Það er ekki dæmisaga né siðaboðskapur, heldur ein­ungis mynd til­finn­ingar. Ljóðmælandi ýjar að því að maðurinn hafi sjálfur gengið í sjóinn á eftir líkinu sem hann fann.



Ragnhildur Richter birti greinina Kvenmynd Svartra fjaðra 1983, og komst að þessari niðurstöðu:





Kúgaðar konur raunveruleikans hljóta að eiga auðvelt með að sam­sama sig kúguðum konum Svartra fjaðra og geti þær trúað því að eðli kúgunarinnar sé það sem fram kemur í bókinni hlýtur það að auð­velda þeim að sætta sig við hlutskipti sitt. Það sem konur hafa að sækja til Svartra fjaðra er því fyrst og fremst huggun, bókin getur gert þeim auðveldara að sætta sig við kúgun sína miklu frekar en að hún veiti þeim svör við spurningum sínum um ástina eða nokk­uð annað en hugmyndir karlveldisins um þær.





Þessi meginniðurstaða virðist mér nokkuð sannfærandi rökum studd í grein Ragnheiðar. En hún smættar ljóðin niður í tiltekna afstöðu. Ætla verður að konur geti einnig haft unað af hljómi, byggingu, hrynjandi, o.fl. Auk þess einfaldar hún um of þessa kvenmynd ljóðabók­ar­inn­ar. Ljóðið Abbalabba-lá stríðir augljóslega gegn henni, það bygg­ist á goðsögunni um villt­an lífs­þrótt og dýrseðli hörundsdökks fólks, auk hug­myndar­innar sem þá var svo mjög á flugi, um fagra konu sem verður mönnum að falli án þess að hirða um þá, tálkvendi (“femme fatale”). Þessi villta kona neytir karlmanna hispurslaust, og fleygir síðan hratinu frá sér, síst tillitssamari en karlarnir í sumum kvæðum Davíðs. Ragnhild­ur glímir lítt við þetta, en leiðist til að gera Abbalabba-lá að einskonar persónu­gervingu náttúrunnar, sem að vísu geti banað karlmanni, sem reyni að und­ir­oka hana, en geti þó ekki þaggað niður í honum sem ljóð­mæl­anda! Sig­ríð­ur Albertsdóttir hrekur þetta (Náttúran..., bls. 71-2) og bendir á að karlmenn séu ekki síður ofurseldir ástinni - og hinni elskuðu - en konur eru í ljóðum Davíðs. Það sást líka í Utan frá sjó.



Vonlaus þrá er ein sterkasta tilfinning kvæða Davíðs, eins og margir hafa bent á. Hún er enn á ferðinni í einu fræg­asta ljóði Svartra fjaðra.





Krummi



Um það sagði Krist­inn E. Andrésson (1949, bls. 66):





Stíllinn er þjóðlegur, líking af hrafni og svani, háttur og tónn af þjóðkvæða toga, og inn í þennan stíl fellur sár, klökk en seiðljúf tilfinn­ing, sem er kynslóð Davíðs svo eig­inleg. Mynd­in, sem kvæðið dregur upp, gæti varla hugs­ast í betra sam­ræmi við lífstón hennar. Hjarta kvalið af þrá eftir því, sem aldrei getur orðið, og með ljúf­sárri nautn af að þjást og vera í harm­söguleg­um álögum.





Það eru orð að sönnu, að meginandstæður ljóðsins er goð­sagan um svanasöng, and­spænis hásu gargi hrafna - þótt í raun séu hljóð svana síst ljúf­ari! Þessi andstæða er færð yfir á hrafninn sjálfan með því að tala um „sólelsk hjörtu í svörtum kufli“. Þessi and­stæða er augljóst tákn fyrir eilífa viðleitni fólks til að rísa úr duftinu til and­ans hæða, óhjá­kvæmilegt er að hugsa til skálda og ann­arra lista­manna, sem eiga fegurðarþrá og metnað langt um­fram aðra hæfi­leika, svo þeir ná aldrei þeim árangri sem þá dreymdi um. Því eins og í fleiri ljóðum Davíðs (sbr. t.d. um ljóðið Brúð­arskórnir hér að fram­an) eru þessar aðstæður gerð­ar almennar í 2. erindi með orð­inu “sumir”, “Sumum hvíla þau örlög á/ aldrei fögr­um tóni að ná”. Hér eru þess­ar and­stæður færðar í dramatískt ris í loka­er­indi, “krumma­hjartað brestur” af þessari ófull­nægðu löng­un.



Þjóðkvæðasvipurinn stafar í fyrsta lagi af því að eins­kon­ar viðlag í forn­um stíl er prentað inndregið á undan ljóð­inu og eftir, fjórar lín­ur með sömu mótsögn, líkt og í Urðarkötturinn. Auk þess er viðlag í upphafi hvers er­ind­is, “Krunk, krunk, krá.” og fjórða lína eftir það er endurtek­in í lengdri mynd í síðustu línu, líkt og við sáum í þjóð­kvæðum og hjá Huldu.



Tvö önnur ljóð bókarinnar tengjast bein­línis titli henn­ar, Svart­ar fjaðrir. Það eru Hrafna­móðirin og Vetr­ar­­nóttin - e.t.v. mætti telja með Abba-labba-lá, því hún er svört. Hrafna­móðirin er í sama dúr og Krummi, hér einkennir svart litaraft útskúfaðan lítil­magna, sem flest­um finnst fráhrindandi, en á samúð ljóðsins. Hún hugði sig eiga kirkjugrið með ungum sínum, en prestur lætur bæði skjóta hana og steypa hreiðrinu, og er hér hneykslast á slíkri hegðun atvinnutalsmanns misk­unnar. En í Vetr­ar­nóttin er ljóðmælandi sjálfur særð­ur smæl­ingi, sem leitar til vetrar­næt­ur sem til móður:





Úr blóði mínu skrifaði ég



mín bestu ástarljóð



á vængina þína svörtu,



vetrarnóttin hljóð



...





Skjól eiga undir vængjum þínum



skuggablómin mín,



sem brenna, ef sumarið



og sólin á þau skín.





Það má álykta af framansögðu, að sérkenni ljóða Davíðs sé fyrst og fremst að hann geng­ur lengra en fyrr­talin skáld í að yrkja á einföldu hversdagsmáli. Ljóð­mynd­ir eru al­veg í lágmarki, oft eng­ar. Ljóðin segja ein­falda sögu í dramatískum meginatriðum, sögu um dæmi­gerð frum­atriði mannlífsins. Markvisst notar höf­und­ur atriði úr ævin­týr­um, m.a. þrítekn­ingu með stígandi, og úr að­stæð­um barna. Þetta samsvarar fyrr­nefnd­um ein­fald­leika, ljóðin höfða til reynslu sem lesendum er almennt sam­eiginleg frá blautu barns­beini. Meg­instyrkur ljóðanna ligg­ur í hnit­mið­aðri upp­byggingu þeirra, þar sem mikið eru notaðar endurtekningar, oft með til­brigð­um. Öll þessi ein­kenni valda því, að oft læra lesendur ljóð­in utan að ósjálf­rátt.



Sveinn Skorri sagði (1995, bls.43) að “ásamt eró­tísku ljóðunum má telja aðals­merki hans sem höfund­ar: Hann er eitthvert mesta ádeiluskáld sem við höfum átt.” Og Sveinn hnykk­ir enn á undir lok greinarinnar (bls. 50): “Hann notaði ljóðlist sína öðru fremur til að flytja okkur skoðanir sínar, færa okkur boðskap.”



Þetta verð ég að kalla fullkomin öfugmæli. Þar kemur í fyrsta lagi til það sem Skorri sjálfur rekur í greininni (bls. 43-6), að illa myndi svo rök­legur mál­flutn­ing­ur samræmast þeirri “díonísisku afstöðu” sem Skorri sagði einkenna Davíð. Enn er það, að öll þessi ádeila Davíðs er í sam­ræmi við al­genga afstöðu fyrirrennara hans, raun­sæis­skálda sem fylgdu Georg Brandes. Svona ádeilu kalla Frakkar að brjóta upp galopnar dyr (“enfoncer des portes ouvertes”), þetta er sú sýnd­ar­rót­tækni að hefja harð­vítuga bar­áttu fyrir viðhorfum sem löngu eru búin að sigra. Á það bentu tveir rót­tæklingar þegar á önd­verð­um 4. áratug 20. aldar. Annar var Sigurður Ein­ars­son (1932, bls. 94-5):





Davíð Stefánsson [...] er hvorki umbótamaður né spámaður. En hann er dillandi ljóðrænn í hugsun og umburðarlyndur lýðsinni. Borg­urunum stendur enginn stuggur af kvæðum hans: götumynd­un­um, samúðinni með betlaranum, flækingnum, einyrkjanum, land­nem­anum. Og það væri líka alveg ástæðulaust. Davíð Stefánsson er ekki að fylkja þessu allslausa liði saman með básúnuhljómi til geig­væn­legrar baráttu. Hann klappar því bara á kollinn og segir því, að það sé eins vel innrætt einsog þeir, sem fínni beri flíkurnar. [...] Sjálf­rátt eða ósjálfrátt hefur Davíð komist upp á lag með það að gera barna­gælur við áleitnustu sjálfsblekkingu lífsmettra hóg­lífis­manna. Hún lýsir sér í rómantískri tæpi­tungu við dala­kofalíf og hörpu­diska búskap [...] Á þess­um rökum byggj­ast vinsældir Davíðs að veru­legu leyti...





Og Kristinn E. Andrésson vitnaði á árinu 1933 (bls. 204-5):





Það verður beinlínis tíska að níða auð­vald­ið í einhverri mynd, svip rót­tækis og samúðar með verka­lýðnum verður allur skáldskap­ur­inn að bera. (og á bls. 204): Davíð var uppfullur af brjóstgæðum við fá­tækl­ing­ana og fjandskap út í eina stoð auðvaldsins a.m.k., kirkjuna.





Þessi skoðanaboðun Davíðs er að mínu áliti bara þáttur í alþýð­leika hans, að taka undir almenn viðhorf alþýðu.



Það eru margir vitnisburðir samtímamanna Davíðs um að þegar kvæði hans birtust hafi fólk umsvifalaust heill­ast, því “þarna hafi kveðið við alveg nýjan tón”. En þetta eru ekki samtíma­vitnisburðir, heldur æsku­minn­ingar rosk­ins fólks og aldraðs (sbr. m.a. Svein Skorra, tv.r., bls. 39). Reyndar var þetta sama viðkvæði haft um Söngva Förumannsins eftir Stefán frá Hvítadal þegar við útkomu, 1918, svo sem Ivar Orgland hefur rakið (II, bls. 103-107). Og við sáum (í k.2.5.) að í ritdómum var hvergi talað um „nýjan tón“ hjá Davíð, það var þvert á móti frekar kvartað um ófrumleika.



Í þessu sambandi er vert að rifja upp minningarorð Sigurðar Nordal um Davíð (bls. 131):





Þá um vorið [1916] fékk ég samþykki Davíðs til þess að koma fáeinum kvæðum hans frá vetrinum á framfæri og lét alls sjö þeirra í hendur ritstjórum tveggja tímarita. Meðal þeirra voru Mamma ætlar að sofna, Brúðarskórnir og Allar vildu meyjarnar. Báðir ritstjór­ar­nir tóku að vísu kvæðin, en með semingi og ónotum. Annar þeirra sagð­ist ekki finna að þetta væri neinn skáldskapur, hinn sagði, að þau „mættu vera betur ort“. Mér þykir gaman að rifja þetta upp, því að það sýnir, að þarna var eitthvað á ferð, sem kom sumu fólki meir á óvart en við eigum nú auðvelt með að gera okkur í í hugarlund.



Og tveimur árum síðar, veturinn 1918-1919, þegar Davíð var í sjötta bekk Menntaskólans, var komið annað hljóð í strokkinn hjá rit­stjóranum, sem fannst Mamma ætlar að sofna, mega vera betur ort. Sum af kvæðunum frá 1916 höfðu þá þegar vakið almenna athygli, og Abba-labba-lá, sem birtist rétt fyrir jólin 1918, varð landfræg í einni svipan.





Nú er engin leið að vita hvað þessum ritstjórum bjó í hug árið 1916. En ég leyfi mér þó að giska á að þeim hafi þótt kvæðin of einföld, m.a. á of hversdagslegu máli, miðað við það sem þeir áttu að venjast í ljóðum.



Við höfum séð að flest það sem einkennir kvæði Davíðs er samkenni blæleitinna skálda. Davíð gengur bara lengra en þau flest í daglegu orðalagi, að vera opinskár um ástamál og lifa sig inn í persónur. Sjálfsagt þekktu ekki allir lesendur Davíðs allt það sem fyrri blæleitin skáld höfðu ort, en er ekki senni­leg niðurstaða af þessu, að það þurfi lang­varandi und­irbúning skáldskapar af tilteknu tagi, til að nýtt skáld af því tagi grípi les­endur umsvifalaust? Að það gerist einmitt vegna þess að þarna kveður ekki við nýjan tón, heldur heyrist hann bara hærra og skýrar en áður. Hitt er vottfast, að ljóð Davíðs fengu óvenjuskjótar og miklar vin­sældir. Líkleg virðist mér fyrr­greind skýring Kristins E. Andréssonar á því, að þau hafi fundið samhljóm í hugarfari sem varð útbreitt á Íslandi í lok fyrri heims­styrjaldar, bjartsýni og lífsnautnaboðskap. En þótt þetta geti skýrt vin­sæld­ir ljóðanna, þá ekki tilurð þeirra, því slík ljóð voru alkunn áður.

















[1]Það kemur fyrir í kvæði Einars Kvaran: Endurminningar (Gestur Pálsson), sem birtist fyrst í ljóðabók hans 1893. Orðin „dimmmjúkur“ og „húmdökkur“ (í „Odysseifi hinum nýja“) eru líka eldri, en fundvís var Jóhann engu að síður. Hann virðist hafa gert orðið "seiðblár", önnur dæmi OHÍ eru yngri (Tómas Guð­munds­son og Magnús Ásgeirsson.





[2]Svo hefur Helgi Hálf­dan­ar­son kallað "enjambement"(setningu er skipt milli lína, stundum jafnvel orði) í samtali við mig í janúar 1993.





[3] í ljóðrýni í Lesbók Mbl, 24.5.1997.





[4] Ég bjó erlendis þegar það birtist, og það var horfið af markaðinum þegar ég vann að þeirri bók.





[5] Þetta orðaði hann skýrar í símtali við mig í janúar 1993.





[6] Jakob hefur sagt frá tildrögum þessa kvæðis, og að hann sótti þetta nafn í sögu í Þúsund og ein nótt. En ekki varpar sú frásögn ljósi á ljóðið að öðru leyti (Hvernig ferðu að yrkja, Eimreiðinni 1924, endurpr. í Ofar dagsins önn, 1958.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar