torsdag den 24. oktober 2013

Örn Ólafsson: Um rit Guðbergs Bergssonar Kaupmannahöfn 2012 Efnisyfirlit 0. Formáli 3 1. Fyrirrennarar 5 1.1. Skáldsögur 1.2. Elías Mar 7 1.3. Thor Vilhjálmsson 13 1.4. Steinar Sigurjónsson 2.Skáldrit Guðbergs 16 2.1. Helstu æviatriði Guðbergs 0.1. Æviskrá Guðbergs 5 2.2. Starfshættir Starfshættir 2.3. Mismunandi sögur Guðbergs 24 2.4. Líkamlegt 29 2.5. Sögusnið 2.6. Smásögur 2.7. Barnabækur 2.8. Skáldævisaga Guðbergs. 2.9. Ljóð Guðbergs 2.10. Málfar 3. Innri einkenni 33 37 3.1. Háð 37 3.2. Spekimál 39 3.3. Ótrúlegt 46 3.4. Persónugervingar hugtaka 48 3.5. Mótsagnir 50 3.6. Goðsögur 51 3.7. Staðarlýsingar 3.8. Sögupersónur 3.9. Sögumaður 3.10. Ást og kynlíf 52 3. 11. Andstæður 65 73 4. Viðtökur bóka Guðbergs 76 4.2. Þýðingar á bókum Guðbergs 5. Greinaskrif Guðbergs 92 6. Þýðingar Guðbergs 97 6.2. Aðferð við þýðingar 109 7. Samantekt 114 7.2. Summary in English 8. Skrár 117-135 8.1. Smásögur Guðbergs 117 8.2. Tilvitnuð skáldrit á íslensku 118 8.3. Skáldrit á erlendum málum 120 8.4. Bækur þýddar af Guðbergi 120 8.5. Þýðingar Guðbergs í tímaritum 121 8.6. Greinar Guðbergs 123 8.7. Umfjöllun 125 8.8. Viðtöl við Guðberg 127 8.9. Þýðingar á verkum Guðbergs 127 8.10. Tölvubréf til mín um þetta verk 128 Nafnaskrá ? Formáli Ég hóf þessa könnun í júlí 2010, tæpum tveimur árum eftir að bók mín um ljóðagerð 19. og 20. aldar, Seiðblátt hafið, var frágengin. Ætlunin var að lýsa nokkrum áberandi einkennum í ritum Guðbergs Bergssonar. Til að finna eitthvað nýtt um verk sem skrifuð voru fyrir almenning, og alkunn hafa verið áratugum saman? Varla. En ég vonast til að samanburður verkanna geti leitt ýmislegt í ljós sem ekki var áður augljóst, einnig þegar verk Guðbergs eru borin saman við verk annarra höfunda á sama tíma. Aðferðin sem ég notaði er einföld og ég vona að hún geti nýst öðrum. Fyrst var að gera lista um það sem ég bjóst við að helst kæmi til álita, t. d.: Hvernig er hlutverkaskipting sögumanns og sögupersóna? Er afstaða sögumanns breytileg? Hvar eru helst minnisverðar persónur? Hvaða einkenni hafa þær? Hvað er helst fáránlegt við persónur? Fáfræði? Pot? Öfund? Hvernig er umhverfinu lýst? Hvað má segja um sögusnið? Ég hafði lesið allflestar sögur Guðbergs skömmu eftir útkomu þeirra, en endurlas þær nú og tók upp á tölvutöflu ýmis atriði sem vöktu athygli; í miðdálk hafði ég þessa textabúta, í dálk til hægri skráði ég titil þeirra og blaðsíðutal. Ég vonast til að slíkt stefnulaust safn kyndugra eða sérkennilegra fyrirbæra bjargi kannanda frá helsta háska hans, það er að sjá það eitt sem fyrir býr í hugarkvíum hans. Nú ætti ýmislegt örðugt við flokkun að koma í skrána, en í dálk til vinstri flokkaði ég þetta safn eftir föngum, í háð, ádeilu, sögusnið, persónueinkenni og fleira þess háttar. Þegar komið var allmikið safn þessa var einfalt að láta tölvuforritið flokka það eftir fyrsta dálki. Og þá var kominn efniviður í kafla um t.d. háð, síðan var bara að raða eftir því að hverju var hæðst og hvernig. Þannig áfram um önnur atriði. Upphaflega listann um hugðarefni varð svo að endurskoða í ljósi dæmasafnsins, sleppa sumu en skipta öðru eða auka. Sömu aðferð beitti ég við skráningu einstakra atriða úr ljóðum Guðbergs, ritdómum og greinum um verk hans, svo og úr greinum hans sjálfs og viðtölum við hann. Í júní 2011 kannaði ég þannig helstu námsritgerðir á Þjóðarbókhlöðu Íslands um sögur Guðbergs. Vitaskuld verður útkoma slíks tilvitnanasafns næsta frumstæð. En þetta er líka bara jarðhæð þeirrar byggingar sem rísa skal, undirstaðan þarf að vera traust til að byggja á henni ályktanir og hugleiðingar, um tengsl við texta annarra höfunda, afstöðu til fyrri umfjöllunar og svo framvegis. Hér er fjallað um rúmlega þrjá tugi skáldsagna og smásagnasafna til að finna nýjungar sem eru meira eða minna sameiginlegar þeim, svo og önnur athyglisverð atriði. Ég tók einnig ”skáldævisögur” Guðbergs, Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar, 1997 og Eins og steinn sem hafið fágar, 1998. Vitaskuld má segja að minningar hans séu ekki bara skáldlegar, heldur litist einnig af raunverulegum persónum og atburðum. En gerir ekki allur skáldskapur það? Þessi rit eru altént gjöful til samanburðar við skáldskapinn. Ég notfæri mér nokkuð gamla ritdóma mína um sumar þessara bóka, enda þótt að því hafi verið fundið af ritdómara einum . Ekki hafði hann þó nein rök gegn því, og mér virðist sjálfsagt að hafi maður lagt sig fram við að lýsa einhverju skáldverki séu niðurstöður hans íhugunar virði, hvar sem þær birtust, í dagblaði eða annarsstaðar, ekki sé gefið að niðurstaðan yrði allt önnur þegar skrifað er um efnið í bók. Á það verður bara að reyna hverju sinni, hvað kann að breytast við endurlestur og í umfjöllun fleiri verka. Vitna ég því óhikað til ritdóma, bæði hans, mín og annarra. Raunar finnst mér ávinningur að því að koma þannig að viðfangsefninu á ýmsum tímum og frá mismunandi hliðum. Enda þurfti einnig að taka afstöðu til fyrri umfjöllunar annarra um efnið. Á tímaritaskrá Landsbókasafns, www.timarit.is leitaði ég að nafninu Guðbergur Bergsson Með því að takmarka leitina við einstök ár hafði ég mikið gagn af þessu gagnasafni, til að finna blaðagreinar og ritdóma. Verulegt gagn hafði ég einnig af Bókmenntaskrá Skírnis um bókmenntaskrif, hún nær þó aðeins til tímabilsins 1968-1993. Allmörg viðtöl hafa birst við Guðberg og hefur mér sjálfsagt sést yfir sum. Í þeim er fróðleikur um ævi hans og störf sem sjálfsagt er að tilfæra, þótt hann sé vissulega einn til frásagnar. Loks kannaði ég auðvitað helstu tímarit og las doktorsrit Birnu Bjarnadóttur um fagurfræði í verkum Guðbergs, Holdið hemur andann (2003) – tvívegis – bæði áður en ég samdi rit þetta og eftir. Ekki get ég þó tengt þetta rit umfjöllun hennar, sem mest er um hugmyndir sameiginlegar ýmsum höfundum, Guðbergi, Søren Kierkegaard, Tómasi frá Aquinas, og ýmsu öðru sundurleitu. Stundum bendir hún á andstæður Guðbergs við hina. Við Birna komum að umfjöllunarefninu hvort frá sinni hlið. Vissulega rúmast hættur í þessari aðferð minni, að tína saman dæmi þess sem markvert má þykja. Þær eru einkum að könnuður geti fundið nánast hvaða atriði sem hann vill í þessu mikla textamagni, en vandséð er hvernig niðurstöður hans verði sannreyndar, hvernig hugsast mætti að hrekja þær. Að þeim vanda verður komið síðar í umfjöllun þessari, en hún verður þá einhvers konar hugun, en svo kallaði Guðmundur Finnbogason essays. Ég vona að þessi könnun taki á atriðum í skáldskap sem mörgum þyki mikilsverð. Annars ætti hún að geta vakið einhverja til að fjalla um þau atriði sem þeim þættu hér vanrækt. Hér er ekki málflutningur á ferð, enda liggur mér ekkert á hjarta til að sannfæra fólk um. Auðvitað hef ég mínar skoðanir á efninu og hafði, þegar ég hóf þessa rannsókn, m.a. að mér þóttu ýmsar sögur Guðbergs merkilegri en margt annað í íslenskum bókmenntum. En hugmyndir mínar hef ég svo prófað á endurlestri á sögum hans og á því sem annað fólk hafði um þær skrifað. Ég vona að ég hafi ekki sniðgengið neina ásteytingarsteina, vissulega koma hér fram mismunandi sjónarmið, enda þótt umfjallendur megi þykja eiga margt sameiginlegt, enda samtímamenn og landar. Og þrátt fyrir mismunandi aldur og sundurleit viðhorf til stjórnmála og trúmála, t. d., hafa umfjallendur svipaðan bakgrunn í lífsreynslu og bókmenntum. Erfitt yrði að komast út yfir þær takmarkanir. Ég miða þetta rit við almenning, án sérstakrar þekkingar á bókmenntasögu eða á hugtökum bókmenntafræði. Því er hér stutt yfirlit um snið skáldsagna og smásagna, og einkenni sögupersóna sem bakgrunnur umfjöllunar um slíkt í sögum Guðbergs. En auðvitað er annarsstaðar að leita alhliða yfirlits um það efni, hér er bara um bakgrunn að ræða. Í skrám aftast í þessu riti er fleira talið en ég nota, það er til að auðvelda lesendum að finna efni sem tengist þessu. Ritið fjallar fyrst og fremst um skáldsögur Guðbergs og smásögur. Einnig er fjallað um ljóð hans og greinaskrif, og þá einkum þau greinaskrif sem fjalla um skáldskap. Sérstaklega er fjallað um þýðingar Guðbergs, sem einkum eru á skáldsögum. Þó er eilítið vikið að þýðingum hans á leikritum og ljóðum til að fylla myndina. Sérstaka rannsókn þyrfti til að fjalla um ljóðaþýðingar Guðbergs. Lengi hefur sú kenning verið á flugi að könnuður finni það eitt við rannsókn sína sem býr fyrir í huga hans. Hann skipti raunveruleika umhverfisins upp í fyrirbæri samkvæmt hugarkvíum sínum, en sú skipting sé alls ekki fyrir á raunveruleikanum. Dæmi þessa væri að á 17. öld sáu flestir áföll og sjúkdóma sem galdra illviljaðs fólks og verk djöfulsins, en nú tali menn um sýkla, veirur og afglöp. Ég kalla fyrrnefnda kenningu hálfsannleik, og þótt skáldið segði að hann væri oftast ”óhrekjandi lýgi”, sýnist mér hún ekki bara hrekjanleg, heldur löngu marghrakin. Dæmi þess er einmitt þessi trú á galdra og djöfulsverk, hún rakst á merkjanlegar staðreyndir, og þannig varð til skýringin með sýkla og veirur, margsannað er að þessi fyrirbæri eru til, og hvaða áhrif þau hafa. Sama gildir um t.d. stjörnuspádóma. Fyrir þúsundum ára las fólk myndir úr samstillingu skærra stjarna sem það taldi vera fastar á himinhvelfingu yfir flatri jörð. Síðan hefur afstaða stjarnanna séð frá jörðu breyst verulega, einnig er nú alkunna að himinninn er óravítt tóm með dreifðum sólum. Enn trúir þó margt fólk á stjörnuspádóma, og sýnir það ekki annað en trúarþörf – á villigötum. Þarna reyndist tiltekin túlkun á raunveruleikanum bæði hrekjanleg og hrakin. Spurningin er hvort kenning um menningu, svo sem bókmenntaþróun, sé einnig prófanleg. Á það reynir hér á eftir. En væru allar túlkanir verks jafngildar, þá væri t.d. túlkun á Hrafnkels sögu Freysgoða fullgild túlkun á Hamlet Shakespeares, en það er augljós fjarstæða, svo ég vitni í dæmi Stefáns Snævars („Sálin í Hrafnkötlu“, Ástarspekt, bls. 246). Og ég held að talsmenn þess að allar túlkanir séu jafngóðar segi það bara svo fremi það hafi engar afleiðingar fyrir þau. Annað hljóð kæmi í strokk þeirra ef t.d. læknir segði þeim að samkvæmt hefðbundinni, gamaldags læknisfræði væru þau með illkynjað æxli sem þyrfti tafarlaust meðferð, uppskurð, geislameðferð eða eitthvað því líkt, en bætti svo við: ”En mín túlkun er að þetta sé best að lækna með jákvæðri hugarorku”, eða eitthvað þvílíkt. Eða ef brotið hefði verið á þessum túlkendum, og lögreglumaður segðist ætla að hafa sína persónulegu túlkun á málsatvikum, en ekki kanna alla tiltæka möguleika. Vitaskuld ber fræðimanni ætíð að kanna tiltækar túlkanir og rökstyðja hver eigi best við hverju sinni. Nú er augljóst að það er persónuleg lífsreynsla að meðtaka gott listaverk. Það helgast af því að skáldverk eru margþætt. Skáldsögur eru þættar saman úr persónusköpun, byggingu verksins, stíl þess, og fleira mætti telja, í ljóðum orkar saman hljómur, stíll, myndmál, bygging, o. s.frv., auðvitað verða heildaráhrif þessara verka persónuleg, verða ekki smættuð í röklega lýsingu á þeim, einfalda endursögn t.d. Er þá skilningur verksins og túlkun ekki huglæg, verður það ekki túlkað að vild hvers og eins? Nei, svo dæmi sé tekið, ef einhver tæki upp á því að kalla Hamlet gamanleik, myndu flestir afgreiða þann túlkanda sem fífl og snúa sér að öðru. Prófsteinninn á góða túlkun er að hún geri grein fyrir helstu eiginleikum verksins, en mikilvæg einkenni þess stríði ekki gegn túlkuninni. Þannig má komast að niðurstöðu sem er sönn og rétt – amk. að sinni. Oft þróast skilningur fólks þó áfram í umræðum. Mér finnst vera áberandi tilhneiging hjá ýmsum bókmenntafræðingum nú að leggja sig fram um að koma með frumlegar túlkanir, að helga sér ákveðna aðferð sem aðrir hafi ekki sinnt, og skapa sér þar með sérstakt svið. Það virðist skipta þau mun meira máli en að túlkunin standist. Dagný Kristjánsdóttir spurði einu sinni í ritdeilu: “Hvað er oftúlkun?” Svarið hlýtur að vera: Það er túlkun sem stenst ekki athugun, samanburð við aðrar túlkanir sama verks. Og þar vil ég nefna sem dæmi freudískar túlkanir hennar sjálfrar á ljóðunum Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar og á Hvarfi séra Odds á Miklabæ eftir Einar Benediktsson. Ég hefi leitt rök að því að svo margt mæli gegn kynferðislegum túlkunum hennar á fyrirbærum í þessum kvæðum að þær standist ekki (í grein minni Skæðar kreddur, bls.144, og í bók minni Seiðblátt hafið, bls. 283 o.áfr). Dagný sér í Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar ákafa kvenhræðslu Fjölnismanna birtast í andstæðum traustra Tindafjalla og Eyjafjallajökuls annarsvegar (karlkyns nafnorð), en hættulegrar Heklu og Ránar hinsvegar (kvenkyns nafnorð, undarlegt að hún ekki nefnir kvenkynsorðið Þverá, sem brýtur lönd), en hugar ekki að almennum skilningi á kvæðinu, þjóðernislegum boðskap. Þessi kvenhræðsla er ekki dæmum studd að gagni, en á að stafa af því að Fjölnismenn hafi aðeins þekkt tvennskonar kvenfólk, ótilkvæmar bændadætur á Íslandi og hættulegar vændiskonur í Kaupmannahöfn. En þeir þekktu fyrst og fremst danskar alþýðukonur, þjónustustúlkur, griðkur og þvottakonur. Og þær voru allt annað en ótilkvæmar, svo sem sést af miklum fjölda barna fæddra utan hjónabands í alþýðustétt þá. Svo nefnt sé dæmi um síðarnefnda kvæðið, þá er séra Oddur einn á ferð á hesti í myrkri, mjög myrkhræddur eftir að ráðskona hans Solveig hafði skorið sig á háls vegna þess að hann brást fyrirheiti um að kvænast henni. ”gil og gljúfur opin gapa ...Eins og auga brostið/ yfir mannsins för/ stjarna stök í skýi/ starir fram úr rofi” Í þessu sér Dagný (bls. 21) refsandi auga föður – sem enginn er í kvæðinu! og kynfæri konu, sem barn túlki sem geldingu, afskorin kynfæri karla. Þetta virðist mér alveg út í hött, augljóslega er vísað til sársins á hálsi Solveigar og brostins auga hennar. Auðvitað er ekkert að því að túlkandi beiti lærdómi og hugkvæmni á viðfangsefni sitt. Þvert á móti, það er til fyrirmyndar. Og enn betra ef langt er seilst, farið fjarri fyrri túlkunum, langsótt túlkun getur opnað nýjan skilning. En síðan ber jafnan að kanna styrk þessarar túlkunar, hvort hún standist samanburð við aðrar túlkanir. Sé þess ekki gætt, er hætt við að útkoman verði fimbulfamb, að túlkandi yrki hugaróra sína inn í textann sem túlka skyldi. Slíkt færir ekki skilning, verður bara tískuþvaður. Til þess að tiltekin túlkun skáldverks sannfæri, þarf hún að standast samanburð við aðrar túlkanir sama verks. Og það fannst mér einmitt vanta í t.d. túlkun Þorsteins á Tímanum og vatninu 2011 (í TMM 1, bls. 6-37), auk þess sem túlkun hans sniðgengur einmitt megineinkenni ljóðabálksins, það sem einkum aðskilur hann frá öðrum. Þessi ljóðabálkur bragar allur af mótsögnum og myndrænum lýsingum sem eru óskiljanlegar röklega. En Þorsteinn túlkar þær sem tilvísun til skynjanlegs umhverfis . Hvers virði er slík túlkun, sem virðir megineinkenni verksins að vettugi? Ýmis fleiri dæmi hrakinna túlkana eru í bók minni Seiðblátt hafið. Og í þessu riti koma hér á eftir ýmis dæmi um mismunandi túlkanir, og þá einnig rök fyrir því að ein túlkun sé annarri betri, t.d. um það hvort aðalpersóna Svansins þroskist, hvort einhver jákvæða boðun sé í Hjartað býr enn í helli sínum, og margt fleira mætti telja. Ég vann þetta verk að mestu í Árnasafni í Kaupmannahöfn, þar sem ég hef í mörg ár notið góðrar aðstöðu, m.a. ríkulegs safns íslenskra nútímabókmennta. Konungsbókhlaða Dana kom til uppfyllingar þessa. Einnig vann ég nokkuð í Þjóðarbókhlöðu á Íslandi og þakka bókavörðum góða aðstoð. Lindu hjá Ríkisútvarpinu þakka ég ljósrit leikritaþýðinga Guðbergs. Sérstaklega verð ég þó að þakka rithöfundinum Þorsteini Antonssyni, sem sent hefur mér í tölvupósti úr handritasafni Landsbókasafns ýmsa texta eftir Elías Mar, Steinar Sigurjónsson og fleiri. Hef ég haft ómælt gagn af þeim, eins og sjá má í riti þessu. Syni mínum Agli þakkar ég þarfar ábendingar um framsetningu. Ennfremur þakka ég útgefanda ritsins, Jakobi Ásgeirssyni hvatningu til að auka ritið um fleiri greinar Guðbergs og minningar. 1. Inngangur 1.1.Skáldsögur Þær eru afar sundurleitt fyrirbæri, og skilgreiningar á þeim margvíslegar. Því hefur verið haldið fram að þær hafi orðið til á 18. öld, upp úr prentuðum bréfasöfnum sem ætluð voru sem fyrirmynd ólærðra við bréfaskrif (Ian Watt: The Rise of the Novel). En erfitt er að sjá nokkurn grundvallarmun á enskum skáldsögum 18. aldar og frönskum frá 17. öld, eða þá Don Kíkóta frá 1605-15, sem hefur verið kölluð fyrsta nútímaskáldsagan. Ennfremur eru sögur frá grísk-rómverskri fornöld, Dafnis og Klói eftir Longus og Gullni asninn eftir Apuleius, einnig íslenskar fornsögur frá 13. öld. Fjölbreytni skáldsagna er svo mikil að allt rúmaðist þetta í þeim flokki. Það mátti efa á meðan menn héldu Íslendingasögur vera ”sanna” frásögn, en naumast nú á tímum. Ýmsum þýðendum og útgefendum Njálssögu finnast langar ættartölur í upphafi hennar svo leiðinlegar og óþarfar, að þeir sleppa þeim. Mætti þetta þá sýna eðlismun við skáldsögur. En í rauninni er ekki svo, þetta er mjög dramatískt atriði þeim sem skilja hve átakavænlegt er að svo metnaðarfullir og voldugir menn sitji í nálægð hver annars. Skáldsögur fjalla jafnan um tilbúnar persónur, en stundum um sögulegar. En ólíkt sagnfræðiritum dvelja skáldsögur við tiltekið tímaskeið, eitt eða fleiri, gerast í núinu, ef svo mætti segja. Þarna eru gjarnan átök tiltekinna persóna sett á svið, í samtölum og lýsingum. Fornfrægt og sígilt efni er að miðaldra foreldrar vilji ráða makavali uppkominna barna sinna, en þau hafa yfirleitt betur, sögunni lýkur á því að elskendurnir ungu ná saman. Alþekkt dæmi eru fyrstu íslensku nútímaskáldsögur sem birtust á prenti, Piltur og stúlka, 1850 og Maður og kona, 1876, eftir Jón Thoroddsen. Sígilt efni er einnig þroskasaga eða uppvaxtar. Aðalpersónan rekst á ýmsar persónur, sem eru gjarnan fulltrúar ýmissa þjóðfélagsafla. Af þessum átökum þroskast hún og lærir á samfélagið fyrir hönd lesenda. Sögunni lýkur þá gjarnan á sigri söguhetjunnar, sem hefur á einhvern hátt komið sér fyrir í samfélaginu, áttað sig á aðstæðum. Nefna má nýlegt dæmi íslenskt, Regnbogi í póstkassanum 1996 eftir Gerði Kristnýju. Þessi saga víkur frá hefðinni þannig, að stúlka er í aðalhlutverkinu. En hún fylgir hefðinni með því að feta í fótspor foreldra sinna, átta sig á uppruna sínum og finna sér stað. Salka Valka Halldórs Laxness, 1932, er einnig af þessu tagi, en miklu víðtækari í mynd þjóðfélagsafla. Sama má segja um aðra þroskasögu sama höfundar, Heimsljós 1937-40. Flestar þessar skáldsögur hafa þrepasnið. Fyrst er kynning sögupersóna og aðstæðna, þar sem átakaefni birtast í hnotskurn. Síðan magnast átök stig af stigi, og ná hámarki í sigri annars aðilja. Eftir það lækkar spennan þrep af þrepi með einhverskonar sáttum. Þetta snið gildir einnig um Íslendingasögur og forngríska harmleiki, svo sem Ted Anderson hefur rakið (The Icelandic Family Saga). Vitaskuld þurfa þessi atriði ekki að vera í þessari röð, vinsælt hefur verið að láta skáldsögu hefjast í miðjum klíðum, gjarnan á dramatisku atriði. Þannig hefst Anna Karenina Tolstojs á upplausn og æsingi í yfirstéttarfjölskyldu, húsbóndinn hefur orðið uppvís að framhjáhaldi með kennslukonu heimilisins. Síðan kemur ýmisleg kynning aðstæðna og undanfarandi atburða, oft óbeint. Meginskil sjá margir verða í skáldsagnagerð um miðja nítjándu öld. Frægustu höfundar fyrri tíðar, svo sem Dickens og Balzac, höfðu alvitran sögumann, sem upplýsti lesendur ekki bara um orð, gerðir og hugsanir flestra persóna, heldur einnig hvað lesendum ætti að finnast um þær. Dæmi þessa eru enn nærtæk Íslendingum, ég nefni bara Sólon Islandus eftir Davíð Stefánsson, 1940. En vitna má til Gustave Flaubert um miðja öldina, sem sagði að höfundur skáldsagna eigi að vera í verki sínu eins og guð sé í náttúrunni, allsstaðar, en ósýnilegur. Skáldsögur hans og margra fylgjenda hans einkennast þá af sögumanni sem takmarkar sig verulega við að lýsa því sem skynja má, rekja orð persóna og látæði, en lesendur verða að lesa í málið. Oft er þó andrúmsloft skapað með lýsingum umhverfis, mannvirkja eða náttúru. Slíkar lýsingar einkenna fyrrnefndar skáldsögur Jóns Thoroddsen, einnig Jóns Trausta í upphafi 20. aldar, þótt þeir höfundar séu öldungis ófeimnir við að upplýsa um lundarfar persóna og hugsanir þeirra, svo sem einnig Einar Kvaran, en skáldsögur hans voru vinsælar á fyrra hluta 20. aldar, eins og hinna. Jón Thoroddsen var frægur fyrir að gera aukapersónur sérkennilegar í tali og háttum, þar sem aðalpersónur voru litlausari. Ég hefi fært dæmi þess (í Kóralforspili hafsins, bls. 174-77) að í skáldsögum Jóns Thoroddsen sýni umhverfislýsingar varanleg persónusérkenni eða andrúmsloft, en slíkar lýsingar sýni hverfult hugarástand í sögum aldamótamanna, sem kenna má við blæstefnu (impressjónisma). Skáldsögur Halldórs Laxness fylgja raunsæishefð skáldsagna að ofanskráðu leyti, þær lýsa aðstæðum sem lesendur geta fallist á að séu eðlilegar, framrás atburða er þá eðlileg afleiðing þessarra aðstæðna. Frávik frá þessari hefð eru einkum í tvennu. Annarsvegar eru flestar sögupersónur Halldórs ýktar, annað hvort sem skrípamyndir eða göfgaðar. Hinsvegar er sögumaður oft ágengur, ekki í gömlum stíl, að segja lesendum hvað þeim eigi að finnast, heldur með því að hrífa lesendur frá söguefninu, sýna það úr mikilli fjarlægð, sýna t.d. líf íslensks alþýðufólks frá sjónarmiði menntaðs heimsmanns, sýna líf íslenskrar alþýðu sem annarlegt, en ekki sem sjálfsagðan hlut. Þannig er hversdagsleiki lesenda dreginn í efa á róttækan hátt. Stundum hefur því verið haldið fram að skáldsögur Halldórs Laxness hafi vegna listfengi sinna varpað svo miklum skugga á umhverfið, að kæft hafi önnur sagnaskáld á Íslandi. Lítt er þessi yfirlýsing dæmum studd, og mér virðist hún alls ekki standast athugun. Verður hér vikið að fáeinum nýjungamönnum á þessu sviði um miðja 20. öld, þeim Elíasi Mar, Thor Vilhjálmssyni, og Steinari Sigurjónssyni sem inngangi þess að fjalla um sögur Guðbergs Bergssonar. Sögur þessarra höfunda víkja á margan hátt frá íslenskri sagnahefð, en eru einnig að ýmsu leyti ólíkar sögum helsta nýjungamanns á þessu sviði á 20. öld, Halldórs Laxness. Svo aðeins sé vikið að höfundum sem komu fram um líkt leyti og þeir sem hér ræðir, þá vakti Jökull Jakobsson athygli með sögum sínum, sem hann birti mjög ungur, 17 ára þá fyrstu, 1951, og 25 ára þá þriðju, 1958. Þar er vel að orði komist, en ekki sýnist mér mikil nýsköpun þar. Merkilegri eru skáldsögur Agnars Þórðarsonar, Haninn galar tvisvar, 1949, þegar hann hafði tvo um tvítugt, en einkum önnur skáldsaga hans, Ef sverð þitt er stutt, 1953, sem birtist þegar hann var aðeins 26 ára. Hann byggir söguþráð hennar á leikriti Shakespeares, Hamlet, en staðsetur hana í Reykjavík samtímans, og sýnir ýmis lög samfélagsins. Undarlegar líkingar mega sýna hugarstríð söguhetju við útför föður hans: ”glottu legsteinarnir við okkur eins og selir upp úr sjó með hvíta lágmynd af engli á enninu [...] Kistan gekk á sextán svörtum fótum upp malarstíginn, kynjastórt ljósfælið skordýr” (bls. 50). En þetta er framúrstefna Halldóranna – Laxness og Stefánssonar – um 1930 (sbr. bækur mínar Rauðu pennarnir, bls. 117 o.áfr. og Kóralforspil hafsins, bls. 209 o.áfr, 220-233), en ekki bókmenntanýjung, tveimur áratugum síðar, svo vel sem þessar sögur eru skrifaðar. Nú verður vikið að nánustu fyrirrennurum Guðbergs í sagnagerð á íslensku. 1.2. Elías Mar (1924-2007) Fyrsta skáldsaga Elíasar, Eftir örstuttan leik, birtist 1946 þegar hann var aðeins 22 ára. Þetta er vel samin saga og vel orðuð. Hún er ljóðræn í upphafi, að ekki sé sagt biblíuleg, og gerist sá kafli á einhverjum suðrænum slóðum. Þar er skógur, förumenn með mal, borgarmúrar, turnspírur, varðmenn við hallarport þeyta lúðra (bls. 16). Þetta er forleikur (að óperu Wagners Tannhäuser, sagði Elías, Nýr penni, 49), en í næsta kafla skiptir um stíl, sagan gerist í Reykjavík í rigningu, sögumaður er tvítugur piltur, sem talar um baráttu sína við eigin hvatir. Hann er iðjuleysingi, stundar hvorki nám né vinnu, en þeim mun meira kaffihús og drykkjur með vinum sínum. Meginhluti sögunnar er ástarsaga hans og ungrar stúlku, og gerist á fáeinum mánuðum. Stúlkunni er loks komið úr landi frá honum, vegna þess að móðir hennar kemst að því að pilturinn hafði eignast barn í lausaleik tveimur árum áður. Í lok sögunnar sér hann barnið fyrsta sinni, og þá eftir kröfu stúlkunnar. Helst virðist líf hans taka stefnu við að hann fer að skrifa þessa sögu sína í bókarlok. Jón Karl Helgason (bls. 115-16) kallar þetta því ”sjálfgetna sögu”, að hún segi frá tilurð sinni. Það gerir Lömuðu kennslukonurnar eftir Guðberg líka (sbr. bls. 54 í henni), enda sagði Guðbergur það stefnu sína (GBMetsölubók, bls.195): Annars hef ég litið á fluguna í höfði skáldsins sem vignette eins og það kallast á frönsku, og stendur fyrir létt flúr fremur en fullburða skáldsögu. Hún er framhald af þeirri stefnu að láta skáldsöguna nota sjálfa sig sem viðfangsefni, hún verður þannig frjáls innan eigin marka. Stíll þessarar fyrstu sögu Elíasar er persónulegur, mikið sagt frá breytilegu hugarástandi söguhetju. Fyrir koma langsóttar og sérkennilegar líkingar svo sem: ”Þegar birti og draugaleg skíman braust inn í stofuna eins og næsta óvelkominn gestur í stolnum fötum, gekk ég niður í bæ. [...] Draugaleg morgunskíman og snjórinn minntu á dauðann, líkklæðin, söknuðinn” (bls. 191). Sagan sýnir afstöðu þegar skopast er að tilgerðarlegum píanóleikara og snobbuðum í miðri sögunni (bls. 103 o. áfr.). ”Híhíhíhíhíhí! – Komið þér margblessaðir” segir hann síðar, þegar hann hittir söguhetju, sem hann reynist hafa afflutt við móður vinkonunnar. Næsta saga Elíasar, Man ég þig löngum, er samin þetta sama sumar, 1946, en birtist 1949. Hún er ólík þeirri fyrstu, mun lengri, nær 300 bls. í þéttu letri, og segir líka frá aðgerðalitlum unglingi. Hann kom að vestan til náms í Reykjavík, en stundar það illa, og gerir fátt annað en ráfa um og sitja yfir vini sínum, ”krypplingi” sem boðar speki upp úr gömlum frönskum vísindareyfara, Úraniu Flammarions, en hún birtist á íslensku 1896, endurútgefin 1947. Eftir að unglingurinn fellur á lokaprófi skólans, fer hann svolítið í vinnu um sumarið en tollir þar ekki, m.a. vegna grófs eineltis vinnufélaga. Hann hrífst af stúlku í skólanum, en getur ekkert haft sig í frammi við hana, þótt hann fái að vita að hrifningin sé gagnkvæm. Þessi tíðindalitla og staglsama saga hefði getað orðið lesandi, hefði hún verið skorin niður í þriðjung eða minna af því sem hún varð. En það er ekki nýtt að önnur bók höfundar sé lakari en sú fyrsta, eðlilegt að hann leiti fyrir sér á nýjum leiðum, og enn var höfundur aðeins tæplega hálfþrítugur. Raunar stóð lengi til að gera annað bindi þessarar sögu, og þar var ætlunin ”að pilturinn uppgötvaði að hann væri hommi.” (Nýr penni, 14). Vissulega er ein myndrænasta og aðdáunarfyllsta lýsing bókarinnar á ungum pilti, vini hans. Kannski er sagan svona langdregin vegna þess að höfundur var að reyna að koma sér að þessu efni, hægt og bítandi. Sjálfur sagði Elías (í bréfi til Ragnars í Smára, 2.5. 1950, Þorsteinn Antonsson: Elíasarmál, bls. 113): Man ég þig löngum mun einhvern tíma verða talin merkilegri bók en hún er talin nú. Fólk mun lesa hana frá öðrum sjónarmiðum en hingað til. Helsti galli hennar er sá, að hún er ívið langdregin. – Þó er hin tilbreytingalitla frásögn, hægi, natúralistiski stíll o.s.frv. í eðlilegu sambandi við hið tragíska í gerandi sögunnar, endaþótt ég hafi löngum verið andstæður natúralisma í bókmenntum, teoretiskt. Smásagnasafn Elíasar, Gamalt fólk og nýtt, 1950, geymdi tólf smásögur sem sumar höfðu birst í tímaritum á árunum 1941-48. Sumt er þokkalegt hér, en ekkert ýkjamerkilegt. En það verður að segja um aðra bók hans á þessu sama ári, jafnstutta (um 150 bls. í litlu broti), Vögguvísu. Hún gerist á fáeinum sólarhringum í Reykjavík og segir frá unglinginum Bjössa, sem kallaður er Bambínó eftir vinsælum slagara, sem oft er vitnað í. Hann hefur nýlega lent í félagsskap fyllirafta og framið innbrot með þeim. Ung stúlka dregur hann upp í til sín, og fyrir vikið lemur eljari hans hann í sögulok og afhjúpar sem innbrotsþjóf. Hér birtist sögupersóna sem síðar varð áberandi, bæði í skáldsögum (t.d. Náttvígum Thors Vilhjálmssonar, 1989) og í sögnum, það er heildsali sem drekkur með ungum róttæklingum og þylur ljóðabrot eftir Einar Benediktsson milli þess sem hann heldur ræður gegn kommúnisma og er allur hinn skoplegasti. Elías sagði um þessa sögu (í fyrrnefndu bréfi til Ragnars í Smára, 2. maí 1960, Elíasarmál, bls. 115): stærra spor en liggur milli fyrri skáldsagna minna og þessarar hefur enginn íslenskur ungur rithöfundur stigið undanfarna áratugi. Merkilegt þótti við þessa sögu að hún er mikið á slangri samtímans, enda sagðist höfundur hafa lagt sig sérstaklega eftir að skrifa sögu um æsku samtímans á hennar máli, og hafði safnað orðum af því tagi á billjarðstofum og víðar (Nýr penni, 73). Bandarískur slagari er stafsettur eftir framburði. Raunar bregður einnig fyrir öðrum stíl, jafnvel fornsagnastíl á frásögu af drykkjuferð austur fyrir fjall (bls. 48 o. áfr.). Merkilegra finnst mér þó að hvað eftir annað slær yfir í hugarflaum (t.d. bls. 28 o. áfr., 83 o. áfr. og bls. 128-9), en einkum þó í sögulok, þar er fimm blaðsíðna samfelldur hugarflaumur án greinarmerkja, þar sem söguhetja liggur sleginn niður og drukkinn í svaðinu á Austurvelli og rifjar upp atburði sögunnar og illar horfur sínar eftir væntanlega handtöku. Þetta er annað en impressjónískur stíll, svo sem ég lýsti honum í Kóralforspil hafsins (bls. 181 o. áfr.); setningaslitur sýna hraða, þar eru líkingar, stundum langsóttar, en það er tal sögumanns, ólíkt tali sögupersóna, þótt það stundum afhjúpi tilfinningar þeirra. Nú er hér hinsvegar nýjung, hugarflaumur sögupersónu, sem mér sýnist augljóst að rekja verði til erlendra rita sem þá voru mjög í sviðsljósi bókmenntafólks, einkum Ulysses eftir James Joyce. Elías sagðist hafa eignast þá bók, ”1945, á ensku að sjálfsögðu” (Nýr penni, 32). Í þessum lokahluta Vögguvísu er m.a.: maður gekk heim timbraður og vitlaus og varð hugsað til þess sem Baddi Pá sagði nóttina frægu að við þyrftum að vera klárir vegna þess að ævintýrið krefðist þess alltaf að maður stæði sig og hvílíkir aumingjar og óviðbjargandi ræflar við værum ef við létum komast upp um okkur eftir að hafa sloppið óséðir af lögreglunni sem allaf er á hælum manns hvort eð er fyrir eitthvað sem maður hefur aldrei gert [o.s.frv., bls. 145]. Sumt í þessu er þó hugsanir sögumanns, á upphöfnu ritmáli líkt og í dagblaðsgrein, frekar en að það komi eðlilega frá hugsunum unglingspiltsins, svo sem (bls 144-5): maður á Skálanum var að tala um það fyrir skömmu að ævi og kjör íslensku þjóðarinnar hefði frá upphafi verið hættulegt og tvísýnt ævintýri og væri það enn þann dag í dag þar sem íslenska ríkið lifði eingöngu á erlendri hjálp og happdrættisláni og vínsölu og von um einhver síldarköst sem aldrei kæmu frekar en annað sem þyrfti að koma og gerast til þess að allt færi ekki í hund og kött í veröldinni bæði hér á landi og annarsstaðar [o.s.frv.). Jón Óskar skrifaði 1947 smásöguna Sonata qusi una fantasia, og er það líka hugarflaumur, enda sagðist hann hafa fengið Ulysses tveimur árum áður, og rithöfundar hafi verið mjög uppteknir af þeirri bók (Gangstéttir í rigningu, bls. 106-7). Enn er að nefna smásögu Ástu Sigurðardóttur Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns, frá 1951. Þetta er að mínu mati eina velheppnaða saga Ástu, og hún er það vegna þess að hún er mikið í formi hugarflaums sem sýnir hugarástand drukkinnar konu. Eftir þetta birti Elías Sóleyjarsögu, og birtist fyrra bindið 1954, en hið seinna ekki fyrr en 1959. Þarna er bæði hugarflaumur (t. d. bls. 35-6) og stafsett eftir framburði (t.d. bls. 45). Hér er gefið yfirlit um þjóðfélagið, bæði beinlínis af sögumanni, og stokkið frá einni persónu til annarrar. Mest er fjallað um alþýðufólk, braggabúa auk annarra, og er auðvaldskelling látin afhjúpa sinn innra mann, heldur ófagran (bls. 111 og 117), hún segir gott að vinnukonur hafi ekki samtök um að krefjast hærra kaups. Sú frásögn mætti virðast vera lykilsaga, háð um tiltekið skáldkvendi, hvert sem það svo er (t.d. bls. 124 o. áfr.). Deilt er á trúhræsni og ofsatrúarsöfnuð, hæðst er að líkræðu sr. Bjarna um Sanna Vesturbæinga (bls. 13 o. áfr.) og að íhaldspakkinu (134 o. áfr.). Grín er hér um fyrrnefnda sögu Ástu Sigurðardóttur, Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns, en einkum er þar þó skopast að hneykslisviðbrögðum fólks við henni (bls. 144 o. áfr.), og að andúð fólks á ”atómskáldum”, eldri bróðir Sóleyjar fer í svaðið sem slíkur. Kynhvöt konu birtist (171 o. áfr.), og því er ranglega sagt af Hjálmari Sveinssyni: ”húsbóndinn nýtir sér aðstöðu sína í húsinu, gerir Sóleyju ólétta” (Nýr penni 116). Í sögunni segir að hún hafi verið vakin sem kona, enda var hún ekki síður fús til samfara við húsbóndann en hann við hana. Sóley leiðist síðan æ meira í ”ástandið” og þann drykkjuskap sem fylgir kynlífi með ókunnugum karlmönnum á vellinum, sjálf segist hún þá vera hóra (II, bls. 228). Nafnið Sóley virðist fengið frá Einari Benediktssyni, sem vildi nota það í stað nafnsins Ísland. Þessi aðalpersóna er því einskonar þjóðartákn, og sagan er þá neikvæð mynd af sambúð Íslendinga og bandaríska setuliðsins. En þegar grannkona Sóleyjar deyr frá þremur ungum börnum, tekur hún þau að sér, og öðlast við traust og ástúð fjölskyldunnar lífsfyllingu sem beinir henni frá könum. Á sama hátt hættir róninn faðir hennar að drekka, og gerist ábyrgur verkamaður. Semsagt, allir eiga sér viðreisnar von. Undir lok sögunnar heldur skáldið Erlendur Mikjáll langa ræðu, þar sem hann túlkar söguna alla á þessa lund, enginn sé verri þótt stundað hafi kynlíf með þessum eða hinum, eða drukkið áfengi á gleðistund. Elías benti síðar á að þessi persóna hefði sömu upphafsstafi og hann sjálfur, og boðaði enda svipuð viðhorf (Nýr penni, 157). Í stuttu máli sagt er þessi saga einskonar sósíalrealismi, samtímaskáldsaga með uppeldishlutverk. Síðan kom nær tveggja áratuga útgáfuhlé, fram að ljóðabókinni Speglun (1977). Það hlé hafa margir undrast, enda var þetta vinsæll og virtur höfundur, sem þótti óvenjuefnilegur allt frá upphafi. Raunar sagðist Elías vera með tvær skáldsögur í huga um 1960 (Nýr penni, 149-50). Getgátur hafa komið fram um hvað hafi valdið þessari þögnun, m. a. í fyrrnefndri viðtalsbók við Elías Nýr penni. Þar er ýjað að því að alkunn samkynhneigð Elíasar hafi orðið honum Þrándur í Götu sem rithöfundi. Þorsteinn Antonsson (Sú leynda ást, bls. 24) telur þöggun um samkynhneigð hafa hamlað Elíasi sem skáldi. Þegar kom að því að svala höfundarmetnaði virðist Elías hafa strítt við þá mótsögn, að hann treysti sér ekki til að fá útgefin rit sem vitnuðu um of um afbrigði hans frá meðallagsatferli landans. Meðan alvaran og stílfágunin sátu í fyrirrúmi eins og gerir í hinum útgefnu skáldsögum hans fjórum urðu samskiptamál kynjanna með daufasta móti í sögunum. Annars birtist saga Elíasar af bersöglismálum homma eftir vini hans Þórði Sigtryggssyni sérprentuð hjá Helgafelli 1960, Samanlagt spott og speki (endurprentuð í smásagnasafni hans Það var nú þá, 1985), og sagði Elías síðar að það hefði kostað hann skáldalaun, og þessi útgáfa hefði verið bjarnargreiði við hann (Nýr penni, 138). Einkum hefði Guðmundur Hagalín hamast gegn sér. Vissulega urðu samkynhneigðir karlmenn fyrir miklu aðkasti á þessum árum, en önnur skýring virðist líklegri. Elías kvartaði yfir aðgerðaleysi útgefanda síns, Ragnars í Smára, m.a. í bréfum (Þorsteinn Antonsson Um hughvörf, 2009, bls. 90, þetta bréf var að vísu ekki sent, en segir hug höfundar, um 1961): Ef þú nú ekkert lætur frá þér heyra, þá veit ég satt að segja ekki, hvað ég á að taka til bragðs. Ég get víst ekki mikið gert. Ragnar sagði við Elías 1950, að hann hefði gefið bækur hans út með tapi hingað til (Nýr penni 90). Hefði hann ekki haldið útgáfu bóka Elíasar áfram, ef hann hefði hagnast á henni? Vögguvísu gaf hann aðeins út í 400 eintökum, en með þeirri bók varð Elías þó frægur (Nýr penni, 90). Og fyrst sá helsti útgefandi íslenskra nútímabókmennta dró í fimm ár að fullgera útgáfu Sóleyjarsögu, hvert hefði Elías þá átt að leita með aðrar bækur? Mál og menning gaf ekki mikið út af skáldritum samtímahöfunda á þessum tíma, og aðrar útgáfur voru enn íhaldssamari og ólíklegar til að gefa út bækur eftir kunnan kommúnista eins og Elías, íslensk bókaútgáfa var mjög tvískipt pólitískt. Þar trónuðu Guðrún frá Lundi og ámóta höfundar, nema hvað Ísafoldarmenn gáfu lengi út bækur Thors Vilhjálmssonar, vegna náinnar frændsemi við hann, að því er talið var. Skiljanlegt er að Elías legði árar í bát á besta aldri, rúmlega hálffertugur, svo skaðlegt sem það verður að teljast fyrir íslenskar bókmenntir. Smásagnasafn hans löngu síðar, Það var nú þá (1985) birti loks fimmtán smásögur, flestar frá árunum 1949-61. Það þótti mér tilkomulítið (í ritdómi í DV 22. 10. 1986), táknsögukennt mestallt. Þorsteinn Antonsson skrifaði mér 13. desember 2010 og benti á enn eina skýringu þess að Elías hætti að birta skáldverk: Vandi Elíasar á öllum sínum höfundarferli var að hann gat ekki afborið ófullkomleika sinn og annmarka sem rithöfundur og setti í stansa. Sitthvað lá þó óbirt í skúffum Elíasar. Þar á meðal er smásagan Gestur um nótt, sem birtir bersöglismál homma, og verður vitnað til hér síðar. Elías var spurður að því hversvegna allar söguhetjur hans væru aðgerðalausir unglingar. Hann svaraði því til að hann hefði ”haft samúð með því. Mér hefur fundist áhugavert að lesendur kynntust svona persónum” (Nýr penni, 119). Nú er gamalkunnugt í skáldsögum að í sögumiðja sé sviplítil persóna, sem lesendur almennt geta þá lifað sig inn í. Áhrif umhverfisins verða þá aðalatriðið. En persónur Elíasar geta hvorki stundað vinnu né nám, hvað þá sjálfsmenntun, sem opinber bókasöfn gefa þó rækileg tækifæri til. Og ekki er félagslífið umtalsvert, og það er afdrifaríkt, því í umhverfinu þarf þá að gæta tíðinda, ella er best að sagan sé stutt, svo sem Vögguvísa og Eftir örstuttan leik. Það verður svolítið erfitt að halda áhuga á svo tilþrifalitlum persónum í löngum texta svo sem aðalpersónu Man ég þig löngum. Árni Bergmann birti ritdóm um Elíasarbók á árinu 2012 og segir m.a. (TMM 1, bls. 118): margir menn hafa, hátt og í hljóði, spurt að því, hvernig á því stóð að Elías Mar, sem fæddur var 1925, hafi frá tvítugu til þrjátíu og fimm ára aldurs verið atkvæðamikill rithöfundur sem samdi m.a. fjórar skáldsögur, en síðan lagt frá sér pennann um 1960 og fátt eitt skrifað síðan. Árni segir ennfremur (bl.s. 131): Elías lenti með skáldskap sinn milli steins og sleggju, milli kynslóða Halldórs og Guðbergs, milli raunsæishefðar og uppreisnar gegn þeirri hefð. Hann fann ekki þann tón, þann stíl, þá aðferð sem herti á ”aktúaliteti” metnaðarverks hans, Sóleyjarsögu. Árni tekur auk þess undir kenninguna um að það hafi hamlað Elíasi sem rithöfundi að geta ekki í skáldskap tekist á við stöðu sína sem hommi. Ennfremur rekur Árni að lærimeistari Elíasar og ástvinur, Þórður Sigtryggsson, hafi árum saman gert lítið úr honum sem rithöfundi, og það hafi útgefandi hans, Ragnar í Smára einnig gert, eins og ritdómari Þjóðviljans og skoðanabróðir í stjórnmálum, Bjarni frá Hofteigi. Þetta hafi veikt það sjálfsálit sem skáld þarf, en raunar dregur Árni fram að Elías hafi svarað þeim fullum hálsi. Enn nefnir Árni ofdrykkju, og virðast þá komnar ærnar skýringar á rofi skáldferils Elíasar. Allar eru þessar skýringar skynsamlegar, en samt álít ég að þær séu út í hött! Þetta rof í rithöfundarferli Elíasar er nefnilega síður en svo neitt einsdæmi, og heldur ekkert nýtt. Nefna mætti íslenska höfunda frá millistríðsárunum, en frá síðustu áratugum mætti nefna metnaðarfulla rithöfunda sem lögðu sig fram með skáldrit eftir skáldrit, en svo hættu bækur þeirra að birtast. Þar má nefna Árna Bergmann sjálfan, en auk þess eru t.d. Geir Kristjánsson, Þorvarður Helgason, Hafliði Vilhelmsson, Magnea Matthíasdóttir, Ása Sólveig, Guðlaugur Arason, Árni Larsson, Þorsteinn Antonsson, Kristján Jóhann Jónsson, Baldur Gunnarsson, Einar Örn Gunnarsson, og sjálfsagt mætti fleiri telja. Auðvitað eru þetta margvíslegir höfundar og varasamt að afgreiða þessa höfunda alveg, enn gæti birst skáldrit frá einhverju þeirra, og sum fást við þýðingar, en staðreyndin er samt að rof varð á skáldferli þeirra. Sumar af skáldsögum þessarra höfunda voru þó prýðilegar. Og auðvitað er þessi þögnun ekki bundin við Ísland. Minnast má endurminninga Stefan Zweig frá því fyrir rúmri öld, Veröld sem var, þar sem sagði frá merkishöfundum i Austurríki, sem duttu út úr bókmenntalífinu. Hér er um merkilegt vandamál að ræða, miklu stærra en örlög Elíasar Marar. Hvað veldur? Bókaútgefandi nokkur sagði vonsvikinn við mig fyrir rúmum þremur áratugum, að ekki virtist rúm fyrir aðra en Pétur Gunnarsson sem nýliða á bókamarkaðinum. Það getum við þýtt svo, að viðtökurnar séu miklu þrengri en framboðið á bókamarkaðinum. Að prýðishöfundar með góðar bækur nái bara ekki þeirri bóksölu sem þarf til að spjara sig, fá bækur sínar útgefnar. Auðvitað hafa ýmsir rithöfundar reynt að gefa bækur sínar út sjálfir, en fáir haft af slíku nægar tekjur, held ég. Skiljanlegt að menn gæfust upp á slíku ef bækurnar báru sig ekki fjárhagslega 1.3. Thor Vilhjálmsson (1925-2011) Thor var mikilvirkur höfundur, á sex áratugum sendi hann frá sér þrjá tugi frumsaminna bóka auk rúms tugs þýddra verka. Þriðj¬ung¬¬ur frum¬sam¬¬inna bóka hans er af tagi rit¬gerða og ferðaþátta. Það eru mjó mörkin frá því yfir í skáld¬skap¬inn, og einnig er mjög misjöfn lengd skáld¬verk¬anna, allt frá fᬬein¬¬um línum upp í þykka bók. Ég hef vikið að nokkrum fyrstu verkum Thors í bók minni Kóralforspil hafsins, 1992, og skal hér aðeins endurtekið um nokkur megineinkenni fyrstu þáttanna. Allt frá upp¬hafi er mód¬¬¬ernisminn áber¬andi í þessum verkum, og lengst¬¬¬¬um ríkj¬andi. Á árinu 1950 sendi Thor frá sér fyrstu bók sína, Maðurinn er alltaf einn (hér stytt: Maðurinn). Í henni eru 65 stuttir text¬ar á 115 bls., flestir ámóta stuttir, yfirleitt 1-2 bls. Auk þess eru 9 myndir eftir höf¬und, sem lík¬¬¬lega hef¬ur ann¬ast út¬gáfuna sjálfur, því ekki er útgef¬andi nefndur. Um rúmlega helming textanna er þess getið hvar þeir séu samdir og hve¬nær, þeir eru frá árunum 1947-9. Má þá ætla að ótíma¬settir textar (30) séu frá út¬¬gáfu¬¬¬árinu 1950. Ekki eru text¬arnir í tímaröð, og er vand¬séð hvað ráði röð þeirra. Sama gildir um næstu bók Thors, Dagar manns¬ins (hér stytt: Dag¬ar), sem birt¬¬ist 1954 hjá Heimskringlu. Þar eru 40 textar á 127 bls., auk 7 mynda Thors. Flestir textanna eru ámóta stuttir, ein blaðsíða eða hluti síðu. En fjórir eru mun lengri, 6-13 bls. Einnig hér eru textar tíma¬¬settir, frá 1948-1953, en sjö ótíma¬¬¬settir, og ekki sjáanlegt kerfi í röð text¬anna. Látum við það þá liggja milli hluta. Elstu textarnir eru frá 1947, níu talsins, allir í síðari hluta fyrstu bók¬¬ar¬¬¬¬inn¬¬¬ar. Tæpur þriðj¬ungur text¬¬a Manns¬ins (18) er ann¬að¬¬hvort settur upp í ljóð¬lín¬ur eða titl¬¬aður ljóð, nema hvorttveggja sé. Prósa¬¬ljóð bók¬¬arinn¬ar eru mynd¬¬¬¬ræn og á upp¬höfnu máli. En hvor¬ugt verður tal¬ið almennt ein¬kenni prósaljóða frem¬ur en ann¬arra ljóða. Hins¬vegar sýnist mér auð¬¬greint milli prósa¬ljóða Thors og ann¬ars prósa hans. Og mun¬urinn er ekki lengd, held¬ur hitt, að ljóðin hnit¬ast um eitt meginatriði, en önnur prósa¬¬verk fara meira á dreif, einnig þau sem módern eru. Jafnvel þótt segja megi að einn¬ig í þeim sé eitt kjarna¬atriði, svo sem í dæm¬un¬um hér á eftir, þá eru þar fleiri smáatriði sem rað¬¬ast um þennan kjarna. Prósa¬ljóðin (einkum í Mað¬¬urinn, bls. 80-88) virðast mér lítt eða ekki módern, og verður því ekki frek¬ar að þeim vikið hér. Módernisminn er þá fjarri því að vera einráður í fyrstu bók¬inni. Eink¬¬um fram¬¬¬anaf ber tölu¬vert á hugleiðingakenndum text¬¬um. Sumir þeirra snú¬ast eitt¬hvað um Jesú. Áleitið þema er að mað¬ur sé einn á gangi á eyði¬sandi eða á visn¬¬um lauf¬blöðum. Oft lýk¬ur þessu á dauða hans. Dæmi um annað algengt tema af hug¬leið¬ingatagi (Maðurinn, bls. 53): ...ást okkar er dáin. Við finnum að minningarnar í augum okkar eiga ekki heima í þeim gráa og kalda heimi sem um¬kringir okkur í dag, þetta haust. Við vitum að það sem er liðið kemur ekki aftur nema sem minn¬ingar sem við verðum að eiga aðskilin og megum ekki láta hvort annað sjá. Elstu textarnir ein¬¬¬¬kenn¬ast sumir af draum¬¬kenndu sam¬heng¬¬is¬leysi og lit¬ríkum lýs¬ing¬um þar sem um¬hverfið myndbreytist, t.d. í Ferðin, sem hefst í hvers¬dags¬leg¬um stræt¬¬¬¬¬¬isvagni í borg. Eftir að hann ekur af stað stirðna far¬¬þegar all¬ir, einnig mæl¬¬¬¬¬andi, skyndi¬¬lega er vagninn kom¬inn út í eyði¬mörk, síðan myrkvast allt og hverf¬¬¬ur. Annar texti, Fantaisie impromptu hefur síbreytilegt, óvenjulegt umhverfi, eini þrá𬬬¬¬urinn er persónan sem skynjar það, en um hana segir: "Og honum datt allt í einu í hug og hryllti við: hver er ég, hvaðan kom ég, hvar hef ég verið. Það var óbærilegt að vita ekki, en hann gat ekki, gat ekki vitað neitt." Frá 1947 er einnig textinn Maður og kona og mikið fljót (uþb. 1 bls. að lengd). Hann hefst á mótsögnum sem sýna tímann sem svip¬laus¬an: "Árin sem hafa týnt sumrum sínum og vetr¬um og mánuðir sem hafa týnt vikum sín¬um." Síð¬an er talað um konu og mann sem eru aðskilin af jök¬ulfljóti. "Hún hlær með fólkinu og veit ekki af draumi sínum um þig sem sefur í djúpi henn¬ar." En fyr¬ir¬¬varalaust er sviðið orðið frumskógur með týndu hofi, og aðal¬persón¬an "þú", sem átt að vekja gyðjuna, "sem veit ekki að hún er gyðja". Við næstu greina¬skil segir svo (bls. 105): Nei, hin ísgráa jökulflúð, fljótið mikla kalda, hið gráa fljót sem renn¬¬¬¬ur til eilífðar. Þú öðrumegin, þú sem átt að brjóta álög¬in. Þú öðru¬¬¬¬¬megin á bakka þínum og horfir yfir strauminn á gyðj¬una sem dreym¬¬¬ir um þig í djúpi sínu og veit ekki, sefur og hlær í hópn¬um hin¬um megin og sér þig ekki, grunar þig kannske en finnur fljótið mikla á milli. Þessi skyndilegu skipti á sögusviði, frá suðrænu til norræns, gefa til kynna til¬finn¬ingar, ýmist ástríðu¬¬¬hita eða fjarlægð. Sameiginlegt er samband eða sam¬bands¬leysi karls og konu. Textinn er sumstaðar mynd¬rænn, einkum er oft talað um konuna með dökku augun, og ís¬grátt fljótið. Ljóðræn er líka klif¬un á orðalagi, svo sem í klausunni hér að ofan og (bls. 104): "Og mað¬¬ur. Og kona. Maður og kona. Maður sem situr á bakka fljótsins". Áber¬andi er sí¬bylj¬an í stíln¬¬um og reglubundin hrynj¬andi. Auð¬vitað ekki svo að skilja að text¬inn skipt¬¬ist reglubundið í tvíliði og þríliði eins og hefðbundið ljóð, held¬ur hitt, að í bókinni er jafnan lögð rækt við hrynj¬¬andina. Módernisminn er þó takmarkaður í þessum fyrstu textum, og það sést t.d. á því að þessum texta lýkur á útskýringu: "þetta mikla volduga ósigr¬andi fljót, það er lífið." Auk þessara myndbreytinga birtist í þessum fyrstu textum annað var¬an¬legt einkenni á ritum Thors, og það tengist hug¬leið¬inga¬¬¬svipnum; persónur eru æv¬¬in¬lega nafn¬lausar, þ.e. þær eru kall¬aðar: Maðurinn, Konan, hann, hún, ég. Pers¬ónu¬leg sérkenni eru líka í lág¬¬marki, það eru bara myndræn útlits¬ein¬kenni svo sem svart hár. Tal er með ein¬¬¬¬fald¬asta móti. Með öðrum orðum, persón¬¬¬urn¬ar eru frum¬mynda¬kenndar, og það verður lengi ríkj¬¬andi einkenni hjá Thor. Hvað varðar sjálfan stílinn, þá hefst textinn Martröð á runu stuttra að¬al¬¬¬¬setn¬inga, hlutlausra fullyrðinga (líkt og Borgin, sem einnig er frá 1947), þetta ein¬kenni er einnig á expressjón¬ískum smásögum Halldórs Stefánssonar frá því fyrir 1935 (sbr. rit mitt Kóralforspil hafsins, bls. 232 o. áfr.). Þetta er hið sérkenni¬legasta við text¬ana frá 1948, eink¬um í Ferðin og Um¬ferðar¬slys. Í þeirri sögu eru 27 málsgreinar á 16 línum. Flestar eru því örstutt¬ar, og tilgreina bara hlut¬laust hvað gerst hafi. Endurtekn¬ing¬ar í breyttu formi bregða þó til¬finn¬ingu í textann, einnig hitt, að litir eru áberandi í lýsingum (Mað¬ur¬inn, bls. 34): Bíllinn hafði rekist á manninn á hjólinu. Hann lá hreyf¬¬ing¬arlaus. Það kom fólk til að horfa. Það kom fólk til að verða æst. Rautt blóð rann úr munni hans. Rautt blóð kom úr nösum hans og eyrum. Hann var dá¬inn. Fólkið tók hann upp og lét hann inn í bílinn. Maður í ljós¬grá¬um föt¬¬um sett¬ist undir höfuð honum. Það kom blóð á föt hans. Hend¬ur hans urðu rauðar af blóði. Maðurinn var dáinn. Fólkið vissi það ekki. Það var of æst til að athuga það. Síðar í textanum koma lengri málsgreinar, útskýrandi, hug¬lei𬬬inga¬¬¬kennd¬ar (auðkenndar hér). Sögumaður verður skyndilega ágengur, og vísar til vænt¬¬inga, venja. Þessi stílrof veikja heild¬ar¬áhrif¬in¬, mun sterkari eru stutt¬ar sta𬬬¬hæf¬ingar í lokin, sem draga fram að lífið gengur sinn vana¬gang, þrátt fyrir þennan drama¬tíska viðburð: Bílstjórinn stóð fyrir utan bílinn. Hann vissi ekki hvað hann átti að gera. Fólkið ýtti honum inn í bílinn. Hann var ennþá ekki búinn að átta sig á því hvað hafði gerst. Hann vissi ennþá ekki að hann átti að vera sorg¬mæddur af því að hann hafði drepið mann. Hann gat enn ekki full¬nægt kröfum venj¬unnar að vera sorgmæddur undir slíkum að¬stæ𬬬um. Hann var þögull. Hann ók burt. Fólkið stóð um stund á staðn¬¬¬um. Svo dreifð¬ist það og fór burt. Það fór heim að borða. Maðurinn var dáinn. Þegar í fyrstu bókunum birtist annað stílfyrirbæri sem verður æ síðan áber¬¬andi hjá Thor, og mætti kalla lang¬lokustíl. Sagan Martröð hefst á ör¬stutt¬¬¬um málsgreinum, eins og áður segir, en síðan lýsir mæl¬andi því að hann falli út um glugga. Sú lýsing er í einni mjög langri máls¬¬grein (8 línur), þannig ver𬬬ur fallið nánast skynj¬anlegt. Enn betra dæmi er þó Hugleiðing um mar¬tröð (frá 1949). Textinn er rúm¬lega ein bls. að lengd, en hann er að¬eins tvær máls¬¬greinar, sú síð¬ari 4 línur, en hin fyrri mestallur textinn. Hún hefst á aðal¬setn¬ingu með til¬vís¬un¬ar¬setningu, en af¬gang¬urinn af klausunni er all¬ur innan horn¬¬¬klofa, eins og til nánari skýringar. En þessar sýndar¬skýr¬ing¬ar hafa ekki ann¬að hlut¬verk en að flækja málin, því tryggt virðist, að fáir sem eng¬ir les¬end¬ur kom¬ist til botns í þessum keðjum af fyrirvörum, sem koma krækt¬¬ir hver aft¬an í annan, svo vart verða greind skil. Fyrst lýsa fyrir¬vararnir því hvern¬ig tíminn líður, síðan umbrot¬um manns¬ins, þá á hvern hátt hann þjáist, o.s.frv. (Maðurinn, bls. 55): Hann var að brjótast um í kviksyndi sem var tíminn með enga lausn [nema langt í burtu sem myndi ekki koma fyrr en eitthvað sem var nærri því alltaf var liðið, ekki þó alltaf en nærri því en einhvern tím¬ann væri það liðið en svo langt þangað til að það var ekki hægt að vita það og fyrst varð að sökkva í botnlausu kvik¬syndi, sökkva og sökkva og brjótast þó um af öll¬um mætti, án nokkurrar hvíldar, linnulaust, óleys¬¬an¬lega og ekkert áþreif¬¬an¬¬legt, ekki einu sinni efni í kviksyndinu, þjást af allri þeirri þján¬ingu sem maður gat numið, þjáningu sem ekki var einu sinni hægt að skil¬greina, milda með því að skil¬¬greina svo mað¬¬ur vissi hvernig maður þjáð¬ist, hvern¬i¬g maður ætti að þjást, nei ein¬¬¬hverri óskil¬¬greinanlegri efnis¬lausri þján¬ingu sem varð ekki tekið á, fyllti þó alla veru manns og ekki að¬eins það sem hafði verið mað¬ur held¬ur alla til¬¬¬veruna svo að maður gat ekki vitað lengur hvað maður var sjálfur nú og hvað ekki né hvort maður var leng¬ur nokkuð þess sem maður hafði verið, hvort maður var lengur nokk¬uð, var nú kannski einhver tómleiki sem var þó ekki tóm heldur til¬finn¬¬¬ingin um tóm endalausrar víddar og umfeðmis sem gat ekki splundrast í ákveð¬n¬ar takmarkaðar stærðir og fundið til til¬veru sem væru mörk sett [o.s.frv.] Hér birtist enn hugleiðingablærinn sem einkennir mörg fyrstu verk Thors, en hann er hafinn upp í æðra veldi, því hér eru hug¬¬leiðingarnar ekki til skýr¬¬ingar, hafa ekki það hlutverk að vísa til ein¬¬hvers í hlut¬veru¬¬leikanum, held¬¬ur eru þær þvert á móti til þess eins fallnar að flækja les¬¬¬endur í mót¬sögn¬um eða því sem næst, til að þeir skynji mar¬tröð¬ina, sem um er rætt, finni sig sitja fasta. Við það verð¬ur textinn mód¬ern. Athygli vekur, að þetta er að¬al¬ein¬¬kenni text¬ans, hann er t.d. ekkert mynd¬¬rænn, svo mjög sem það þó ein¬kenn¬ir oft rit Thors, einnig hin elstu. 1.4. Steinar Sigurjónsson (1928-1992) Fyrst birti Steinar smásögu í Birtingi 1953, en fyrsta bók hans, smásagnasafnið Hér erum við birtist 1955. Þar þykja mér auðséð áhrif frá fyrstu sögum Thors Vilhjálmssonar, persónur eru nafnlausar, kallaðar konan, maðurinn, og eiginlega gerist ekkert í þessum stuttu textum, þeir sýna frekar bara aðstæður, ástand, hugarástand. Mikið er um hugleiðingar og útskýringar, eins og í fyrstu textum Thors, þetta er sértækt (afstrakt). Runur stuttra aðalsetninga, fullyrðinga, eru áberandi. Sjá t.d. Hvíld (bls. 23): Maður og kona vöknuðu um morgun og litu í kringum sig. Maðurinn beið þess að konan gerði eitthvað, en hún gerði ekki neitt. Hann reyndi að muna hvernær hún kom og hugsaði um hvort hún myndi hafa strokið þvölum fingrum sínum um hár hans. Þá heyrði hann er hún skreið undan sængunum. Hann horfði á hana tína saman spjarir sínar af gólfinu og klæðast. Einnig slær út í myndrænar lýsingar á hugsunum persónu, svo sem í fyrstu sögunni, þegar ung hjón mæta ungri stúlku á þorpsgötu (bls. 12-13). Þar fléttast inn í hugleiðingar sögumanns í slitrutexta, runustíl, sem minnir á framangreind einkenni hjá Thor, en vísar til einhver frummannlegs villts tilverustigs er lifnar innra með konunni: Konan hlær gróflega þótt hún sé fíngerð og leggi sig inni í hlýjustu fylgsnum vetrarins ... og litlu taugaveikluðu blóðkornin hennar ýlfruðu: drekka, drekka ... konan sem sköpuð var á jörð sína saklaus en kjarnmikil sem rúg á ekru, saklaus að finna sér svör er hún flosnar en veit þó ekki af því og spyr einskis ... hungruð kona sem slítur kjöt af leggjum kynsystur sinnar sem henni er sama um eða hatar ... og kviðfull rymur í hlýju horni og varpar úr augum sér bliki ... konan er óþrotlegur heimur mansöngva hrárra nátta ... móðir mannkynsins sem hún hefur horft á flæða af lendum sér í grasið, í skóginn, með lúðra og spjót ... fædd til að berast með í strauminn og skiptast í kvíslir og í ósnum leysast sundur, syndlaus sem þrúga er kjarninn sprengir en græðir sig jafnan á ný ... kona með lindir á enni og horfir úr þeim undan svörtum veiðihárum sem hafa titrað frammi fyrir bráðinni. 1958 kom svo skáldsaga Steinars ástarsaga, og sýnir einn sólarhring eða svo í hópi sjómanna. Þeir tala til skiptis, eða hugsanaflaumur þeirra er sýndur til skiptis, inn á milli er svo stutt tal sögumanns. Það er á venjulegri stafsetningu, en hitt er stafsett meira eða minna eftir framburði, endurtekningar sýna hugsanir (bls. 20): til lítils að opna þetta útvarp; miiig? ef hún er þreytt; miiig? hveeer eiginlega? jæja þá það, þá það. ég skal nokk dúsa, ég skal nokk. fimm flöskur, allt í lagi .. bara líta um öxl. jæja, er það nú ekkert meira? og sjá mann? hver eiginlega? jæja, ég skal nokk dúsa. hér á ég víst heima. Þessir sjómenn eru ýmist drukknir eða timbraðir, sumir einhleypir og harma það, en Kiddi kokkur er kvæntur og á börn. Hann reynist sofa í vélarrúmi bátsins vegna ósamkomulags við Láru konu sína, sem hann hugðist hafa staðið að framhjáhaldi í fjósinu. Ekki gekk hann þó að henni þar, en barði hana skömmu síðar, eftir að hann hafði samfarir við hana og sakaði hana um framhjáhald við tiltekinn mann. Nú fær hann bréf frá henni, þar sem hún ber af sér sakir, sver honum ást sína, og rifjar upp “gamlar æskuástarstundir” (tilvitun í vinsælan slagara). Í bréfi hennar er stafsetning höfð mjög fjarri venjulegri réttritun, þetta eru alþýðlegar klisjur. Kiddi fer svo heim og lætur sannfærast, en sögunni lýkur á samtali Láru og eldri frænku hennar, þar sem Lára viðurkennir framhjáhaldið, en segist snúa sér aftur að Kidda frekar en að standa ein uppi með barnið og verða að fara aftur heim í sveitina. Einkum í þessum lokakafla minnir sagan mjög á Ulysses eftir James Joyce, einkum lokakafla þeirrar sögu, hugsanir Molly, en einnig í undanfarandi hugarflaumsköflum. Ulysses var sem áður segir mjög fræg þá, og sagði Steinar í viðtali m.a.: Ég lá árum saman í Joyce, og var þar með nokkuð vikið út af lenskunni. Mér fannst enginn annar höfundur vera með viti í veröldinni, þótt mér finnist annað í dag. Þetta er haft eftir Eiríki Guðmundssyni (bls. 41) en áður (bls. 40) sagði hann: Löngu síðar líkti Steinar ástarsögu við söguljóð, verk á mörkum ljóðs og sögu; líkingin er ekki út í hött því sagan einkennist af samþjöppun sem kenna má við ljóðlist um leið og viðfangsefni sögunnar er prósískt. Ekki er að efa að Ulysses er fyrirmynd þessarar sögu, ef til vill með Vögguvísu Elíasar Mars að millilið. ástarsaga var mikil nýjung, ekki bara í þessari framsetningu hugarflaums á alþýðlegu tali, heldur ekki síður í því að setja svo beint fram hugarheim alþýðu. Líf hennar er alveg ófegrað og því er lýst hlutlægt, en síður en svo afskræmt á nokkurn hátt, persónurnar eru ekki ógeðfelldar, enda þótt þær beri einkenni sem almennt nutu lítillar virðingar; þær eru drykkfelldar, hórgefnar, illa máli farnar, og með einfaldan, menntunarlausan hugarheim. Það má undrast að Steinar skyldi ekki umsvifalaust verða úthrópaður stórmeistari íslenskra bókmennta fyrir þessa sögu. Ég held að ríkjandi og útbreidd íhaldssemi sé helsta skýring þess að svo varð ekki. Í fyrsta lagi hefur mörgum bókmenntalesendum blöskrað að sjá svona talmálstexta “á vitlausri stafsetningu” og hneykslast á lífsvenjum sögupersóna, sem þeir töldu einkenna höfundinn. Því í öðru lagi kunna lífshættir Steinars að hafa veikt tiltrú fólks á honum. Hann var annálaður fyrir að inn á milli skáldskapartímabila komu miklar drykkjurispur með slagsmálum og rausi, og sagnir herma að hvað eftir annað hafi hann þá týnt nýsömdu handriti. Eiríkur Guðmundsson rekur (bls. 45) að þannig hafi handritið að Blandað í svartan dauðann – ástarsaga umsamin og aukin – týnst ”á botni Kaupmannahafnar”, en fundist aftur. Eyjólfur Einarsson rekur ítarlegar slíka sögu um handritstap (Ritsafn Steinars 18, bls. 28-9). Hafsteinn Austmann segir aðra slíka sögu (Ritsafn Steinars 18, bls. 34-5), en telur Steinar hafa endurritað söguna. En nú þegar allt þetta hefur fjarlægst, má auðsætt vera, að þarna fór mikið skáld. Raunar hlaut þessi saga eindregna viðurkenningu Sigurðar A. Magnússonar í Morgunblaðinu þegar 1959, ári eftir að hún birtist (Eiríkur Guðmundsson, bls. 44-45). Hamingjuskipti 1964 fjallar um líkt efni, hjónaerjur alþýðufólks á Akranesi. Hér hefur Andrés, annálaður svoli og slagsmálahundur verið laminn í rot og skilinn eftir þannig, fjarri byggð. Þetta er honum svo mikil auðmýking að hann hverfur frá konu sinni, og liggur fyrir úti í bæ mánuðum saman. Fólk samgleðst henni, fágaðri konu, að losna við ódáminn, sem birtist sem einskonar holdgervingur brælu og stækju fiskmjölsiðjunnar. Hún fer til fágaðrar frænku sinnar í Reykjavík, en snýr aftur, og er þó vansæl í þorpinu. En þegar Drési leitar til hennar, tekur hún honum, alls hugar fegin. Enn ríkir hér hugarheimur alþýðufólks, menntamenn eru sýndir í fjarlægð og hverfur sá helsti þeirra loks frá ljóðagerð til knattspyrnu, sem á hug þorpsbúa, enda bjó frægasti knattspyrnukappi landsins þar þá. Margskonar stíll er á sögunni, stundum stafsett eftir framburði, einkum þegar Drési talar með brotinn góm gervitanna. Mikið er um sérkennilegar athugasemdir sögumanns (t.d. bls. 64-9). Hlálega hátíðlegar eru þær stundum (bls. 88): Og þótt hann væri ljótari en nokkru sinni fyrr varð nú sýnt að það skipti sál hennar engu máli. Stunurnar og korrið í honum hlutu að hafa vakið í henni þann mátt og þann anda sem er konan sjálf, brjóst og hjörtu. Loksins, að því er virtist, kom að því að hún fengi að njóta sín, þrotlaus hjúkrandi mamman með brjóstin full af sól. Hún hlaut því að fagna. Því þetta, og þetta eitt, er að að vera sannur: að fórna. Hæðst er að hátíðlegum íþróttaþjálfara, líkt og Guðbergur Bergsson gerði sama ár í Leikföng leiðans. Í þessari sögu koma sömu umskipti afstöðu, allt tekið aftur jafnharðan, líkt og hjá Guðbergi síðar (Hamingjuskipti, bls. 38): nei, hann hefði sko aldrei kunnað að meta þann mann, ekki svo að skilja að hann hefði nema það besta um hann að segja sjálfur, persónulega. Ekki er ástæða til að rekja frekar skáldskap Steinars áður en Guðbergur fór að birta sín rit, vonandi birtist sérstök rannsókn á honum innan tíðar. Eiríkur Guðmundsson vitnar í orð Guðbergs (bls. 43-4): að ástarsaga hefði haft “gífurlega mikil áhrif á ungt fólk þegar hún kom út. [...] Ekki bara á rithöfunda, heldur einnig myndlistarmenn.” Og Guðbergur – sem líkt og Steinar gerði á sínum tíma hið “norræna þorp” að sögusviði sagna sinna – segir: Þarna var hinn upphafni hverdagsleiki, einlægur og beint frá hjartanu, sjaldgæfur í íslenskum bókmenntum. Í stuttri grein um Steinar lýsir Guðbergur sögum hans með orðum sem gætu verið stefnuskrá Guðbergs sjálfs um sagnaritun (bls. 31): Þegar ég las fyrsta verk Steinars Sigurjónssonar hafði ég ekki aðeins á tilfinningunni heldur þóttist ég geta greint í tungutakinu, stílnum og hinni flöktandi byggingu eyðileggingar og endurnýjunar, að frá fagurfræðilegu sjónarsviði ritlistarinnar væri komið fram í íslenskan hversdagsleika hið algera skáld. Það er að segja maður sem var ekki í hugsjónabaráttunni, ekki að halda ræðu um ranglæti heimsins eða rétta hegðun, var ekki að fást við neitt tengt eigin uppruna, studdi sig ekki við ætt sína, heimaslóðir eða stöðu í félagslegum skilningi heldur var þetta í hálfrökkrinu skáldsagnahöfundur, aðeins til í verki sínu, ritlistinni. Hann lifði í geri orðanna með því að þreifa sig áfram, ekki eins og gert er venjulega, með því að slá einhverju föstu og tryggja þannig stöðu sína með “skáldlegri frekju” sem eru svo algeng viðbrögð meðal listafólks. 2. Guðbergur Bergsson 2.1. Helstu æviatriði Guðbergs Bergssonar og útgefnar bækur, frumsamdar og þýddar. 1932 16.10. Fæddist í Grindavík. Foreldrar: Bergur Bjarnason sjómaður og Jóhanna Vilhjálmsdóttir. Bræður: Bjarni og Vilhjálmur listmálari. 1953 Fer á heimsmót æskunnar í Búkarest. Tengist Elíasi Mar næstu 3 ár. 1955 Kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands 1956 Flyst til Spánar, en er lengstum síðan ýmist á Spáni eða Íslandi (GBM, 214). Tengist Jaime Salinas. 1958 Próf í spænskum fræðum, bókmenntum og listasögu frá Universidad de Barcelona. 1959 Birti þýðingar sínar á ljóðum eftir Juan Ramón Jiménez í tímariti (TMM). 1960 Birti þýðingu sína á ljóðabálkinum Harmaður Ignacio Sanchez Mejias eftir Garcia Lorca í Eimreiðinni. 1961 Fyrstu bækur Guðbergs birtust, ljóðabókin Endurtekin orð og skáldsagan Músin sem læðist. 1964 Smásagnasafnið Leikföng leiðans. Flyst frá Spáni til Íslands. Vinnur sem næturvörður á hóteli, en var áður gæslumaður á Kleppi og skrifaði þar fyrstu skáldsögu sína. (GBM,104). 1965 Plateró og ég eftir spánverjann Juan Ramón Jiménez. Guðbergur lifir af ritstörfum eingöngu héðan af (Lesbók Mbl, 28.2.1987, bls.7), einkum þýðingum (GBM, bls. 125). 1966 Tómas Jónsson metsölubók birtist. 1967 Ástir samlyndra hjóna (smásögur). Fékk Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun blaðagagnrýnenda. 1969 Anna (skáldsaga) 1970 Hvað er eldi guðs (smásögur). 1972 Lazarus frá Tormes eftir ókunnan spænskan höfund á 16. öld. Guðbergur sagðist hafa unnið sex ár að þessari fyrstu skáldsöguþýðingu sinni (og þar með fundist hann vera kominn inn í spænska tungu. Þjv.23.7.87). En Plateró og ég birtist sjö árum fyrr! 1973 Það sefur í djúpinu (skáldsaga). Króksi og Skerðir eftir spánverjann Cervantes. 1974 Hermann og Dídí (skáldsaga) 1976 Það rís úr djúpinu(skáldsaga). Suðrið, smásögur eftir argentínumanninn Borges. 1978 Flateyjar-Freyr. Ljóðfórnir. Hundrað ára einsemd eftir kólumbíumanninn Garcia Marquez. “Eftir það fór að koma skriður á styrkina” (GBM, 125) 1979 Sagan af manni sem fékk flugu í höfuðið. 1980 Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans. Liðsforingjanum berst aldrei bréf eftir kólumbíumanninn Garcia Marquez. Guðbergur kaupir sér íbúð eftir að hafa leigt herbergi hingaðtil (Viðtal við JÁ, Mbl. 1980)) 1981 Ævintýri úr frumskóginum eftir úrúgvæmanninn Horacio Quiroga, Sérhefti TMM með úrvali suðuramerískra bókmennta. 1982 Hjartað býr enn í helli sínum (skáldsaga) Tóta og táin á pabba (skáldsaga). Frásögn um margboðað morð eftir kólumbíumanninn Garcia Marquez. 1983 Dóttir línudansaranna eftir brasilíumanninn Bojunga Nunes, Ríki af þessum heimi eftir kúbanann Alejo Carpentier, Fékk bókmenntaverðlaun DV 1984 Hinsegin sögur (smásögur). Don Kíkóti frá Mancha eftir spánverjann Cervantes. Sérhefti TMM með úrvali portúgalskra bókmennta. 1985 Froskmaðurinn (skáldsaga), Leitin að landinu fagra (skáldsaga), Pedro Paramo (Pétur heiði) eftir mexíkanann Juan Rúlfo, Göngin eftir argentínumanninn Ernesto Sabato. 1986 Ástin á tímum kólerunnar eftir kólumbíumanninn Garcia Marquez. 1987 Demantstorgið eftir katalónann Mercé Rodoreda. Saga af sæháki... eftir kólumbíumanninn Garcia Marquez. Svefninn langi eftir bandaríkjamanninn Raymond Chandler. 1988 Maðurinn er myndavél (smásögur 1972-87). Andrúmsloft glæps eftir spánverjann Juan Benet. Járngresið eftir bandaríkjamanninn William Kennedy, 1989 Heimili Vernhörðu Alba eftir spánverjann Garcia Lorca, Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu eftir kólumbíumanninn Garcia Marquez. 1990 Pétur prílari útvarpsleikrit eftir brasilíumanninn Antonio Callado, 1991 Svanurinn (skáldsaga), Undraborgin eftir spánverjann Eduardo Mendoza. 1992 Hið eilífa þroskar djúpin sín (úrval spænskra ljóða 1900-1992). Fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 1993 Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma (skáldsaga). 1994 Ævinlega (skáldsaga), Lýðurinn eftir mexíkanann Mariano Azuela, 1995 Jólasögur úr samtímanum (smásögur). Um ástina og annan fjára eftir kólumbíumanninn Garcia Marquez. 1997 Faðir og móðir ogdulmagn bernskunnar. Skáldævisaga. 1998 Eins og steinn sem hafið fágar. Skáldævisaga. Fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin aftur 2000 Vorhænan og aðrar sögur (smásögur). Allir með strætó (myndskreytt skáldsaga). 2001 Hundurinn sem þráði að verða frægur (myndskreytt skáldsaga). Gullspangagleraugun eftir ítalann Giorgio Bassani. Fékk heiðurslaun listamanna 2004 Lömuðu kennslukonurnar (skáldsaga). Ellefu mínútur eftir brasilíumanninn Paul Coelho. Fékk Norræn bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar (”Litlu Nóbelsverðlaunin”). 2005 Veronika ákveður að deyja eftir brasilíumanninn Paul Coelho. 2006 1 ½ bók, hryllileg saga (skáldsaga). 2008 Leitin að barninu í gjánni (myndskreytt skáldsaga). 2009 Öll dagsins glóð (úrval portúgalskra ljóða 1900-2008). 2010 Missir (skáldsaga). Fékk Riddarakross afreksorðu Spánarkonungs fyrir þýðingar sínar á spænskum bókmenntum. 2011 Sérhefti Stínu birtist, helgað úrvali þýskra bókmennta í þýðingu Guðbergs. Jaime Salinas deyr og arfleiðir Guðberg að auðæfum. Helsta heimild: GBM-Guðbergur Bergsson metsölubók – Viðtalsbók eftir Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur, 1992. 2.2. Starfshættir Guðbergur hefur ýmislegt sagt um líf sitt og starf í viðtölum, og skulu hér teknar upp fáeinar glefsur. Guðbergur er einn til frásagnar. Yfirleitt eru þær yfirlýsingar mjög samhljóða, þótt þær séu frá ýmsum tímum, teknar úr 25 viðtölum á fjórum áratugum, tímabilinu 1968-2006 (sbr. skrá 4.8). Umhverfi. Guðbergur gerði sýningu um alþýðumenningu í SÚM 1973, og 1998 gerði hann bók og sýningu um alþýðulistamanninn Sæmund Valdimarsson (DV 26.9. 1998). Af því tilefni sagði hann m.a.. Íslensk borgarastétt hefur aldrei átt neina hámenningu. Hún hefur ekki skapað neitt nema tilgerð og vissa væmni, og búið til ákveðnar dellur. Þar hefur ekki verið neitt annað til að drepa niður. Eina listin sem til hefur verið á Íslandi, er alþýðulist. Hins vegar er það með Skandinavana, að þar er fínkúltúrinn drepinn niður, en alþýðumenningin hafin upp [...] Mér finnst rangt að drepa niður menningu, hvort sem hún er alþýðumenning, borgaraleg eða hástéttarmenning, ef hún er góð. (Þjv.24.12.78). En svo held ég líka að þetta séu vissar erfðir sem hafa orðið innlyksa hjá vinstri mönnum. Þeir vilja fá leiðsögn og þeir vilja sjá útópíuna í gegnum bækur og allt sem þeir verða fyrir (Þjv. 20.10.85). Rauðsokkur, anarkismi, trotskyismi, marxismi. Allt er þetta í eðli sínu ekkert annað en svolítil óþekkt, barnaleg óþekkt við pabba og mömmu (Mbl. 9.11.80). Minnstu ljóðin eru þýdd, þau sem oftast eru ekki einu sinni dæmigerð fyrir skáldið, og gefa kannski alranga mynd af því. Ef við tókum Neruda sem dæmi, þá eru þýdd á íslensku þau ljóð hans, sem flokkast undir félagshyggju eða stjórnmál. Það gefur algjörlega ranga mynd af Neruda, sem orti fleira en þakkir til Kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna fyrir að hafa boðið sér til Sverdlovsk. Og þjóð, sem ekki á Don Quixote og Divina Commedia eftir Dante í þýðingum, hún getur ekki myndað með sér hámenningu, a.m.k. ekki í bókmenntum (Mbl. 9.11.80). Um bókmenntalegar fyrirmyndir sínar sagði Guðbergur: “Fyrst held ég, ég hafi orðið fyrir áhrifum frá Jóni úr Vör. Hinu íslenska sjávarþorpi kynntist ég ekki sem strákur alinn upp í sjávarþorpi, heldur gegnum listaverk. Það gaf mér fordæmi, skulum við segja. Það, að hægt var að búa til þorp í bók, og blíðka það eins og listin blíðkar yfirleitt umhverfið, hafði mikil áhrif á mig.[...] Svo höfðu náttúrulega Stendahl og Dostóévsky og sér í lagi Faulkner mikil áhrif (Mbl.9.11.80). Markmið skáldsins Um þau segir Guðbergur m.a.: Eg er ekki að leita að hinum eina og sanna tóni, það eru til margir tónar sem eru aðeins sannir eitt andartak, og saga hefur ekki aðeins eitt form heldur mörg, – svo framarlega sem hún er ekki skrifuð út frá einhverri formúlu. Þegar maður fer eftir einhverri formúlu, t.d. raunsæisstefnunni, hefur hann einhverja fasta viðmiðun. En þegar hann skrifar út frá sínum eigin veruleika, fer hann eftir einhverju sem er alltaf að breytast eða á hreyfingu. [...] Skáldsögur koma innan frá og fjalla um verur sem eru að flökta um höfuðið á manni (Þjv. 28.10.88). Ég er eiginlega alltaf að skrifa sömu skáldsöguna. Við getum sagt, að þetta verk fleygi bæði Tómas Jónsson metsölubók og Ástir samlyndra hjóna [Það mun vera skáldsagan Anna.] (Mbl. 1.10.68). Ég held að höfundar eigi ekki að leiða manninn inn í vímu. Ég held að höfundar eigi fremur að leiða mannim til fundar við sjálfan sig (Þjv.20.10.85). Þeir halda sumir það sé hægt að lækna raunveruleikann með raunsæi! En það er ímyndunaraflið eitt, sem er meðalið (Mbl. 9.11.80). Ég held að hið harmræna sé undirstaða okkar allra. Undirstaða tilverunnar. Höfundur nær best til lesandans með því að fara niður á svið hins harmræna. Ekki með gleðinni og ekki með sáttum (DV 26.9.98). Maður á ekkert að bera það út að maður sé rithöfundur. Ef maður gerir það þá dreifist maður – verður eins og gufuvél sem hleypir alltaf gufunni út þannig að það myndast aldrei þrýstingur, og hinn gufuknúni bátur eða lest fer aldrei af stað! (DV 26.9.98). Ég hugsa mikið um lífið yfir höfuð, og ellin og dauðinn eru þættir af lífinu. Ég vil ekki láta eins og dauðinn sé ekki til. Að þessu leyti er ég ákaflega klassískur; allir sígildir höfundar fjalla um líf og dauða. En með auðvaldinu og afskræmdum kommúnisma á maður að láta sem dauðinn sé ekki til, maður á að vera bjartsýnn [...] En hjá þeim sem falsa kommúnismann er slík lygi afleiðing af Stalínstímabilinu og sósíalrealismanum. Þú átt ekki að horfa í augun á raunveruleikanum, heldur áttu að fegra og ljúga að sjálfum þér. Af þessu leiðir gífurleg hnignun í kommúnískri hugsun. (Helgarpóstinum 16.11.79). Ég er ekki fljótur að skrifa, en ég er alltaf að, alla daga látlaust, geri ekkert annað, hugsa ekki um neitt annað (Lesbók Mbl. 28.2.87). Guðbergur segir það koma að góðu gagni að hafa reynslu af því að skipuleggja sögur í höfðinu. Eldri verk sín segist hann hafa unnið að stóru leyti í huganum áður en eiginleg skrif hófust (Frb.21.8.2002). Guðbergur samdi á alnetið söguna 1 ½ bók hryllilega saga, sem síðar var prentuð stytt, sagði hann að hann hugsi það ekki mikið fyrirfram hvað hann ætli að skrifa á hverjum degi þrátt fyrir að sagan og persónur séu byrjaðar að mótast í huga hans. Einnig banni hann sjálfum sér að lesa það sem búið er að skrifa dagana áður. “ Höfuðvandi minn er að forðast að falla í eigin gryfju. Að sagan fari að verða lík því sem ég hef gert áður (Frb.21.8.2002). Guðbergur sagðist ekki vita hve lengi sagan Ævinlega hefði verið í smíðum. Hann hefði þann hátt á að hafa margar bækur í smíðum í einu en legði þær til hliðar inn á milli. Svo endaði þetta með því að hann tæki einhverja eina sögu fyrir og ynni að henni stanslaust til loka í eitt til eitt og hálft ár. Hann sagðist vinna skipulega ákveðinn tíma á hverjum degi og hefði haft þann hátt á frá upphafi. (Alþýðublaðinu 26.10.94). Í þessu viðtali segir m.a.: – Geturðu lýst venjulegum vinnudegi? – Ég vakna hálfsex á morgnana og svo hugsa ég. Svo hlusta ég á fréttir klukkan sex og svo hugsa ég. Svo hlusta ég á veðurfréttir kortér fyrir sjö. Síðan fer ég að vinna. Áður vann ég allan liðlangan daginn og fram á nótt. En maður verður að hafa góða heilsu til þess; þetta er mikið líkamlegt álag. Þegar ég skrifaði Tómas Jónsson vann ég sem næturvörður á Hótel Borg frá miðnætti til átta á morgnana, svo skrifaði ég, fór að sofa og hélt áfram að skrifa þegar ég vaknaði. (Mbl. 10.12.2006). — Nú skrifar þú mikið um sömu persónurnar i bókum þínum. Ertu kannski alltaf að skrifa sömu bókina, með tilbrigðum þó? „Þetta er mín vinnuaðferð. Við þekkjum sömu aðferð úr íslendingasögunum. Fólk heldur að þetta sé frumlegt og komi frá útlöndum, en það ætti bara að lesa Íslendingasögurnar. Ég bý til minn heim, sem er eflaust þáttur í frelsisþörf minni, þörf einstaklingsins fyrir að vera sjálfstæður. Þetta er að lifa í fullu samræmi við mínar venjur, við mitt lífsform. — Hvað með að breyta? „Þá myndi ég líta á það sem pressu frá umhverfinu, pressu frá auðvaldinu, svo hægt verði að auglýsa nýja vörutegund, þó allt sé sama tannkremið. Þegar auðvaldið hélt innreið sína hér, voru rithöfundar svo lausir fyrir, að þeir voru auglýstir sem nýir með hverri bók. Þetta er lygi auðvaldsins. Maður yngist ekki með aldrinum [...] Bækur mínar fjalla um verkafólk og um visst tímabil í sögu okkar, tímabil velmegunarinnar. A þeim tíma vildum við Íslendingar vera allt annað en það sem við vorum. Fólk hneykslaðist á bókum mínum, vegna þess að það var smáborgaralega þenkjandi, ekki bara þeir sem fengu hátt kaup, líka alþýðan. Hún var að spillast á þessum árum, varð hræsnisfull og laug að sjálfri sér. [...] Ég veit ekki hvort ég get kallað mig pólitískan rithöfund, en ég fjalla um félagsmál í mínum bókum. Ég fjalla um verkafólk, sem ég þekki. Það er það eina sem ég þekki og kæri mig um að þekkja. Ég get ekki smjaðrað fyrir alþýðufólki, til þess þekki ég það of vel. Ég umgengst ekki menntamenn, ég kann það ekki. [...] Ég skrifa einvörðungu af innri þörf. Eg held að þörfin sé bara líffræðileg, lík kynhvötinni. [...] Ég vinn mikið visúalt. Orðin eiga að falla vel að efninu. Jafnvel hæð stafanna skiptir mig máli. Textinn á að vera vísúell og hreyfingar persóna í bókum mínum eru oft teknar úr málverkum.“ [Og hann segir frá því t.d. að klósettsena i bókinni Önnu sé tekin úr málverki Rembrandts, Júðsku brúðinni.] „Mínar persónur eru yfirleitt myndrænar. Ég punkta aldrei neitt niður, heldur teikna ég bækurnar upp, hreyfingar persónanna. [...] Ég reyki ekki og drekk ekki. Ég syndi og er líkamlega sterkur. Ég færi ekki úr skorðum, þótt ég fengi orðu.“ (Helgarpóstinum 16.11.79). Kommúnistar skrifa fyrir kommúnistamarkað, feministar fyrir femínistamarkað, en ég skrifa ekki fyrir neinn og hef aldrei gert það og krefst ekki stuðnings (DV 26.9.98). Ég hugsa aldrei um að ná til eða komast í tengsl í við lesendur (Mbl. 10.12.2006). Tilfinningin ríkir bara meðan ég vinn að þessu verki hvort ég get lokið því eða ekki. Ég er ekkert feginn að vera laus við bók, ég finn ekki fyrir tómleika eins og höfundar tala oft um. Þetta er bara verk sem ég hef unnið (DV 26.9.1998). Kjör hans Um þau segir Guðbergur m.a. : Milli þess sem ég var í skólanum, kom ég hingað heim og vann fyrir mér. Var lengi við vefnað á sumrin, en einnig var ég næturvörður í tvö ár. Síðan vann ég hjá bókaútgáfu í Barcelóna. Las skandinavískar bækur og mælti með til útgáfu. Þeir gáfu t.d. út Klakahöllina eftir Vesaas meðan ég var þar.” (Vísi 20.11. 1970). Ég lærði mikið af lífinu á Kleppi [þar var hann gæslumaður] – þar sér maður manninn í frumgerð sinni (Mbl. 10.12.2006). Hjá mér var aðalatriðið að fá tækifæri til að gefa mig að skriftum. Þegar ég var rúmlega þrítugur, hafði náð fullum þroska og vissum tökum á forminu, eins og málarar segja, og þá vill maður vera einvörðungu í verkum sínum (DV 26.9.1998). Eftir 1965 hef ég ekki unnið öðruvísi fyrir mér [en með ritstörfum]. Reyndar kenndi ég, en það var ekki vegna þess að ég þyrfti að gera það (Lesbók Mbl. 28.2.87). Ég er hér heima í þrjá mánuði og þrjá mánuði í útlöndum. Ég er búinn að skipuleggja líf mitt þannig. Ég hef átt heima erlendis í fjölda mörg ár og er farinn að ráða við aðra menningu en okkar. (Helgarpósturinn 19.11.82). [Við styrkveitingu:] Þegar höfundur er kominn eins vel af stað og ég, þá hefur slík styrkveiting ekki mikil áhrif [...þá], er hann búinn að skipuleggja sig og vinnu sína fram í tímann. Og alltaf má finna einhverja leið til úrlausnar. Nema ef um er að ræða andlegar ógöngur. Maður verður alltaf að koma sér sjálfur út úr ógöngum, treysta á mátt sinn og megin. Ég er mikill einstaklingshyggjumaður, hlaut þannig uppeldi (Mbl.3.1.79). — En hvað með styrkina alla? Þú ert þó með næstum jafnmikið og Thor? — Ja, þetta kemur svona í gusum, segir hann. Ég hafði skrifað flestar mínar bækur, þegar ég fór að fá styrki. En svo hirðir skatturinn þetta allt saman. Eg fékk núna 2,3 milljónir í skatt (Mbl.9.11.1980). Viðtökur verkanna — Þú stefnir ekki að því að skrifa metsölubók, en er þér ekki í mun að sem flestir lesi það sem þú skrifar? „Nei, mér er alveg sama þó að enginn lesi það." — Ertu þá ekki bara að skrifa fyrir sjálfan þig? „Það er höfundurinn alltaf að gera í raun og veru, hann er að ræða við sjálfan sig." — Af hverju þá að hafa fyrir því að gefa verkin út? „Það er á vissan hátt til að hreinsa blóðið. Því ef maður situr uppi með eitthvað, þá þvælist það of mikið inn í næsta verk. (Lesbók 28.2.87). Þá myndi það eitra líf mitt. Á sama hátt og ef maður gengur með sæði í sér allt sitt líf, þá myndi það eitra líkama hans og sýkja sálina.[...] Ég hugsa ekki um hvort bækurnar mínar seljist eða falli lesendum í geð. Ég hef aldrei spurt útgefanda minn að því. Ég býst við að þetta séu persónuleg einkenni. Þetta gæti verið eins konar hjátrú af minni hálfu. Ef ég geri eitthvað til að auglýsa sjálfan mig, til að fá góða dóma, þá muni ég glata gáfunni. Gáfunni að skapa list. Það er ekki mitt höfuðstarf að skrifa. Ég bý til myndverk, ég þýði og stundum kvikmynda ég. Að skrifa skáldsögur er lítill þáttur af mínu starfi (Helgarpóstinum 16.11.79). Ég las upp með listaskáldunum vondu. Við vorum mögnuð upp í fjölmiðlum og fylltum hús. En mér þótti ég hlægilegur, gerðist þreyttur á sjálfum mér eftir nokkur kvöld, og hætti. Ég fékk andúð á sjálfum mér, fannst þetta eins og mannæta skæri stykki úr holdi mínu og æti það (Mbl.9.11.80). Yfirleitt skilja íslenskir ritdómarar illa bókmenntaverk. Við eigum enga bókmenntafræðinga sem leysa upp verk. Þetta eru skólakennarar og þeir gefa einkunnir. [...] Eg veit ekki til þess að nokkur maður hafi fjallað um mínar bækur af nokkru viti, það væri þá helst Ólafur Jónsson sem hefur reynt að leysa þær upp. Þessar bækur mínar eru mjög framandi íslenskri menningu. Þegar þær hafa verið þýddar á erlendar tungur þá er aldrei minnst á klám. Þetta eru sagðar sagnabókmenntir, vegna þess að útlendingarnar vita hvað er epík: Þetta eru engin umdeild rit í þeirra augum. Afar ljóðrænar bækur eru þær líka kallaðar (Mbl.9.11.80). Hér ríkir alltaf sama stefnan hjá Guðbergi, að skálda úr eigin sálardjúpum, hvernig sem viðtökurnar verða, taka ekkert tillit til þeirra. Þetta er aðdáanleg stefna, eins þótt skáldinu hafi ekki alltaf tekist að lifa eftir henni, sbr. árásir hans á gagnrýnendur hér síðar í þessu riti. En raunar tók hann skelegga afstöðu til gagnrýnenda undir aldarlok í viðtali, kallaði þá gerlafræðinga: Ef listamenn rísa ekki upp gegn gerlafræðingum, svara fullum hálsi og fjalla sjálfir um listina, leysast þeir upp og fræðingarnir komast upp með að drepa listina í landinu. Listin verður verslunarvara og snoturt föndur fyrir félagasamtök og stuðningshópa. List getur ekki lifað góðu lífi undir smásjá þessa fólks (Alþýðublaðinu13.11.96). 2.2. Skáldskaparstefna Guðbergs Guðbergur hefur verið afkastamikill rithöfundur í hálfa öld, en hann var tæplega þrítugur þegar fyrstu bækur hans birtust, tvær á sama ári, 1961. Undanfarin þrjú ár hafði hann þó birt verk í tímaritum, jafnvel stórvirki svo sem ljóðabálkinn Harmaður Ignacio Sanchez Mejias eftir Garcia Lorca 1960 (sjá skrár hér). Á þessari hálfu öld hefur Guðbergur sent frá sér um 70 bækur, þar af yfir 20 skáldsögur, sjö smásagnasöfn og á fjórða tug þýddra verka, sem sum eru mjög viðamikil, svo sem Don Kíkóti eftir Cervantes. Þótt ekki væri annað en þessar þýðingar, sem mestmegnis eru úr spænsku, nægði það til að telja Guðberg með helstu íslenskum rithöfundum samtímans. En flestir leggja þó meira upp úr frumsömdum skáldsögum hans og smásögum. Engin leið er (þessum!) umfjallanda bókmennta að þenja sig yfir öll hans verk. Enda hefur fólk áhuga á mismunandi þáttum skáldsagna og annarra skáldverka og vitaskuld ræðst efnisval hér af smekk mínum. Hugað verður að áberandi sérkennum, m. a. verður hér gripið á nokkrum endurteknum atriðum eða varanlegum í skáldverkum Guðbergs. Það eru þó ekki endurtekin efnisatriði, svo sem að svanur slær kind og lamb út á vatn eða ruglingur á persónunum Önnu og Katrínu. Bæði atriðin eru í Tómas Jónsson metsölubók, það fyrrtalda verður seinna dramatískt lokaatriði í Svanurinn, en hið síðartalda er áberandi í Önnu. Í sjálfu sér er ekki mikilvægt að finna endurtekin atriði í skáldverkum, þau mætti skýra sem þráhyggju höfundar eða leti. En hér skal m.a. fjallað um endurtekin atriði eða varanleg, sem hafa listrænt gildi, eru mikilvægur þáttur í gerð sagnanna. Sjálfsagt mætti finna slík mikilvæg atriði sem væru einsdæmi. En þau ætti þá frekar að fjalla um í alhliða greiningu einstakrar sögu. Aðspurður um endurtekningar í bókum sínum sagði Guðbergur (GB Metsölubók, 116): Það er í samræmi við hugmyndir um hvað hæfur skáldsagnahöfundur reynir að halda sig á afmörkuðum velli, að ég leyfði mér að láta sömu nöfnin koma endurtekið fyrir innan verka minna á þessum tíma (upp úr 1966), en þau voru fléttuð saman á nöfnum og persónum innan afmarkaðs sögusviðs. Ég hef þá skoðun að í skáldskap sé ekki til ákveðin Jón og Gunna, heldur séu persónur, nöfn og kennileiti notuð til þess eins að auðvelda öðrum lestur verkanna og leyna því að allt er komið upp úr sama tilfinningagrafreit höfundarins. Skáldsögur Guðbergs eru allar staðsettar í íslenskum veruleika, sem lesendur kannast við og fallast á – að vissu marki. Mest er fjallað um alþýðufólk, og það var svo sem ekki nýjung, m. a. var Halldór Laxness frægur fyrir það. Sumt gerist erlendis í sögum Guðbergs, en er ekki ýkja framandlegt. Meira munar um hitt, að í mörgum sögunum gerist eitthvað mjög óraunverulegt, yfirnáttúrulegt, og setur það draumkenndan svip á framvindu verksins. Enda sagði Guðbergur: ”Eftir að skáldsagan Það sefur í djúpinu og fylgifiskar hennar komust á prent [1973-6] hvarf ég frá ytra raunsæi að hinu sem liggur hjartanu nær.” (GBMetsölubók, bls. 194). Það er þá hlálegt að hann skyldi láta endurprenta þessar þrjár sögur saman undir titlinum Sannar sögur, 1999. Mörg dæmi eru þess að atburðarás sagna hans, lýsingar þeirra og persónur séu draumkennd. Tvær kennslukonur lamast báðar og rísa upp aftur samtímis, fá máttinn við að heyra frásögur um samfarir homma (Lömuðu kennslukonurnar). Fólk sem verið hefur í Bláa lóninu er bláleitt í andliti (Ævinlega, bls. 95). Þetta er af því tagi sem kallað hefur verið töfraraunsæi, og oft er rakið til Suður-Ameríku, einkum til Gabriel Garcia Marquez, sem Guðbergur hefur þýtt margar sögur eftir. En bæði er þessi straumur víðar, og vil ég sérstaklega nefna samtímamann, prýðisrithöfund nígerskan, Ben Okri, og svo er þetta mun eldra. Ekki bara rússinn Mikael Búlgakov frá millistríðsárunum, einnig ýmis sagnaskáld rómantísku stefnunnar blönduðu saman lýsingu raunveruleika og ímyndun, Edgar A. Poe, E. T. A. Hoffmann, de la Motte Fouqué, og margt fleira mætti telja. Guðbergur þykir oft hafa skrifað gegn væntingum lesenda og smekk. En hvað sem því olli má minnast þess að þeir höfundar, sem helst fylgdu smekk lesenda samtímans, eru flestir löngu gleymdir. 2.3. Mismunandi sögur Guðbergs Fyrsta skáldsaga Guðbergs, Músin sem læðist, er vandað verk, með sama meginsvip og seinni verk hans. Í sögumiðju er drengur rétt innan við fermingu, einangraður og þrúgaður af móður sinni, í þorpi úti á landi, og hefur hugann mjög við gamlan mann sem er að deyja úr krabbameini í nálægu húsi. Þessi saga er næsta hefðbundin í framsetningu. Þegar í henni hefur Guðbergur tök á að láta hverja persónu tala með sínu móti, útkoman verður glögg heildarmynd af þessu litla samfélagi, mótuðu af hjátrú. Sú heildarmynd þróaðist áfram í öðrum persónum, í Önnu (1969) og svokölluðum Tangasögum (Sannar sögur, 1999): Það sefur í djúpinu, Hermann og Dídí og Það rís úr djúpinu, 1973-6. Með næstu bók vakti Guðbergur þó meiri athygli, það var smásagnasafnið Leikföng leiðans, 1964. Nú hrifust margir af kaldhæðnislegum lýsingum á persónum. Enn lengra gekk það í skáldsögunni Tómas Jónsson metsölubók, 1966. Bent hefur verið á uppsprettu þeirrar skáldsögu í textanum Samandregið spott og speki, sem Elías Mar vélritaði upp eftir vini sínum Þórði Sigtryggssyni organista (Þorsteinn Antonsson 2010, bls. 28) sú bók birtist í árslok 2011. Þar segir Þórður mjög opinskátt frá samförum sínum við karlmenn og úthúðar nafngreindu kunnu fólki úr bæjarlífi Reykjavíkur. Það hefur væntanlega ekki viljað heilsa alræmdum sódómista á götu. Þessi texti hefði getað orðið sérstæður og minnisverður ef Elías hefði ritstýrt honum, sleppt þrálátum endurtekningum og beint Þórði á víðara svið endurminninga og hugleiðinga. Kafli af því tagi birtist í Tímariti Máls og menningar (1973, bls. 144-152), en sem áður segir var stytt gerð ritsins sérprentuð 1960. En Guðbergur vann m.a. úr þessum efniviði sérkennilegt skáldverk, fullt af skopstælingum á ýmsu í íslensku þjóðlífi og menningu. Fræg varð þessi saga, Tómas Jónsson metsölubók (hér skammstafað TJM), fyrir rofið samhengi, formlega séð er hún safn stílabóka sem söguhetjan skrifaði í á ýmsum tímum, og eru hér gefnar út í belg og biðu, stokkið fram og aftur í tíma. Þessi sundraða framsetning vekur – eins og í riti Þórðar – tilfinningu fyrir tímaleysi, að engin framþróun verði, allt þetta margbreytilega efni íslensks veruleika sé nærtækt, ef svo mætti segja. Söguhetjan er tortrygginn, smámunasamur einfari, sem sér ranghverfuna á flestu. Hér ægir öllu saman í hugarflaumi Tómasar, og er oft stokkið fyrirvaralaust úr einu í annað. Slíkan hugarflaum höfum við séð hjá ýmsum fyrri höfundum íslenskum sem áður segir, og er sótt til Ulysses eftir James Joyce. Þessi bók, TJM, minnir hins vegar meira á kunningja Joyce og landa, Samuel Beckett. Sögumaður í einni skáldsögu hans, Molloy (1950), á margt sameiginlegt með persónunni Tómasi Jónssyni, hann er roskinn, einangraður og einmana, framúrskarandi nískur og smámunasamur, upptekinn af lágkúru og kjaftæði, karlægur að lokum. Svipuð eru líka hvörfin í lokin, en þessi svipur er þó aðeins i stórum dráttum, TJM er fullkomlega sjálfstæð sköpun. Á þessi tengsl við Molloy benti Sigfús Daðason þegar í ritdómi um TJM (í TMM 1966, bls. 423). Steinar Sigurjónsson skrifaði vini sínum Jóni Yngvari frá Írlandi (Glengarif 23. ágúst 1973, óbirt, sjá heimildaskrá): Ég er að lesa bókina At Swim-Two-Byrds eftir Flann O´Brian (Penguin), og hún minnir mjög á Tómas Jónsson, eða Tommi á hana. (Raunar ekki búinn að lesa nema 40 síður.). Eftir að hafa lesið alla bókina (sem upphaflega birtist árið 1939) verð ég að segja að afar fátt á hún sameiginlegt með TJM, helst að stokkið er milli persónuhópa og umhverfis. Mikið er hér um samtöl um hversdagslega hluti, einnig koma fyrir yfirnáttúruleg fyrirbæri, og spaugast er með írska þjóðtrú og þjóðsögur. Höfundur og sögupersónur takast á. En í stuttu máli sagt, þarna eru engin sérstök tengsl sjáanleg við TJM. Nærtækara er að minnast Þórbergs Þórðarsonar, svo sem Árni Óskarsson gerði, 1997 (bls. 61): Tómas er grótesk útgáfa af Þórbergi í smásmygli sinni sem beinist að fáfengilegustu hlutum [...] Tómas Jónsson var ný persóna í íslenskum bókmenntum, aldrei hafði jafnömurleg pappírsvera verið gerð að aðalpersónu í bók. Sæunn Ólafsdóttir benti (1997) á verulegan svip með TJM og DonKíkóta Cervantes, og taldi (bls. 16) áhrif þess síðarnefnda á TJM ótvíræð, þrátt fyrir mismunandi bakgrunn þjóðfélagslega. Í báðum sögum sé sífellt verið að rjúfa atburðarásina með frásögum sem einkum snúast um ástarraunir, enda sé hæðst að göfugum tilfinningum svo sem ást, konur nýta sér karlmenn (bls. 28-9). Í báðum þykist sögumaður bara vera að birta fundið handrit – en það er nú alþjóðleg klisja, t.d. hjá Sören Kirkegaard með Enten-eller. Hvorug aðalpersónan viðurkennir gildandi lög. Þeir setja öðrum nýjar reglur sem þeir þó ekki fylgja sjálfir. Báðir telja sig vera hetjur sem aðrir virða, og vilja vera aðrir en þeir eru. Ekki er vitanlegt hvort þeir segja sjálfir sögur sínar. Ýmsir sögumenn eru í báðum sögum. Báðar söguhetjur þurfa vinveittan félaga, aðdáanda, en Tómas hefur þar bara köttinn Títu. Réttlætiskennd beggja er sterk svo þeir sjá galla annarra en ekki eigin. Don Kíkóti telur sig þó vinna að almannaheill, en Tómas er eingöngu eigingjarn, því vekja athafnir hans viðbjóð og fyrirlitningu lesenda, en verk Don Kíkóta vekja vinsemd. Enda þótt gróteskan sé sögum þeirra einna mest sameiginleg (bls.14-15) er þó munur á, í Don Kíkóti vekur hún hlátur, samkennd, en í TJM er lesandinn bundinn við – fáránlegan – hugarheim einnar persónu, sem engum treystir. Það samræmist kenningum Kayser um grótesku 20. aldar (bls. 31-2), að hún skapi framandi heim sem þó byggist á raunveruleikanum og því sem honum tilheyrir. Andstætt barnasögum sem sýna alveg tilbúinn og fjarlægan heim, og eru því ekki ógnvekjandi, þá afmyndar gróteskan okkar heim. Allt sem lesandinn þekkir og viðurkennir sér hann nú limlest og haft að spotti. Því vekur nú sjálft lífið ótta í stað dauðans . Enn má nefna að Sigurður A. Magnússon taldi 1967 að sögur Argentínumannsins Jorge Luis Borges væru líklegasta fyrirmynd TJM, svo sem rakið verður hér síðar (í k. 2.12). Hér voru taldar upp helstu kenningar um fyrirmyndir TJM. En vitaskuld útiloka þær ekki hver aðra, Guðbergur þekkti Þórð Sigtryggsson í gegnum Elías Mar. Hann hefur auðvitað þekkt rit Þórbergs og DonKíkóta, sem hann síðar þýddi. Ímyndunarafl hans og skáldgáfa hefur sameinað áhrif úr ýmsum áttum í nýsköpun. Persónan Tómas rúmar miklar andstæður. Þessi karl montast af fallegri skrift sinni eins og hann væri á barnaskólastigi menntunar. En raunar hefur hann tekið stúdentspróf utanskóla, og er óvenjuvíðlesinn í heimsbókmenntunum. Hann fer þar eigin leiðir, vitnar ekki aðeins í skáld frá fyrri hluta 19. aldar, t.d. Goethe og Stendhal, og frá síðari hluta aldarinnar, þ. á m. Grím Thomsen, heldur líka í skáld endurreisnar á frummálinu, Dante, Petrarca, og einhvern fornan skáldskap á próvensölsku og fornportúgölsku, að hætti Ezra Pound i Cantos. Þetta stangast á við nísku karlsins og fáfengileg áhugamál, sem eru einkum hversdagslegar kjaftasögur. En í heild miðla þessar andstæður okkur mynd af manni af holdi og blóði (því er talað um úrgangsefni hans), og anda; sem mótast af samtíma sínum innanlands og utan og af fortíðinni, menningararfleifð Vesturlanda. Þessar miklu andstæður samtengjast þó á skoplegan hátt, vitni Tómas í Darwin, Freud eða Marx (t.d. bls. 30), þá er það til að varpa ljósi á þröngan hring eigin lífs. Margir hafa lýst þessari aðferð Guðbergs, að lýsa nákvæmlega umhverfi sem lesendur kannast við, jafnvel svo nákvæmlega að ankannalegt þyki, en bregða svo frá slíku raunsæi. Sverrir Hólmarsson sagði í ritdómi um TJM, 1967 (bls. 40): hér birtist höfuðeinkenni Guðbergs, hin ofurskarpa athyglisgáfa og hæfileiki til að festa myndir hluta og atburða í orð. Svið sögunnar, umhverfi hennar, verður þannig áþreifanlegt og hlutkennt og þetta vegur upp á móti huglægum frásagnarhættinum. Sú mynd sem dregin er upp af umhverfi okkar, af íslenskri þjóð, er að vísu afskræmd, satírisk. En hún er engu að síður nákvæm og sönn í smátriðum; það er aðeins úrvalið sem er gróteskt. Guðbergur hefur djöfullega næmt auga fyrir því í fari fólks sem gerir það lítilmótlegt og hlægilegt. Hann hefur sömuleiðis hárnæmt skyn á klissjur og notar það óspart. Marta Jerábková segir líka (1999, bls. 13) Alvitri sögumaðurinn er sérstaklega næmur á lykt, liti, vökva og áferðir og lýsir þeim með ástríðufullri nákvæmni. Á milli lýsinga hans og fyrstu persónu frásagnanna finnum við líka þriðju persónu frásögn þar sem persónur taka á sig hlutverk sögumanns og segja frá sjálfum sér. Á svipuðu róli er Sigurður Valgeirsson (1979, bls. 2): Eitt megineinkenni margra skáldverka Guðbergs er stór sveifla á milli mjög raunsæislegrar (eða sennilegrar) frásagnar og fáránleika (einhvers óraunverulegs). Þetta kemur fram í efni sagnanna. Þær fjalla iðulega um hversdaglega atburði á sennilegan hátt, t.d. venjulega máltíð. Þó þarf lesandinn að vera undir það búinn að persónur breytist eða skipti um þjóðerni fyrirvaralaust. Þessa sömu sveiflu er að finna í stíl sagnanna. Þær sýna úrfellingar og hugflæði, tilburði í átt til aukins raunsæis, en flóknar uppeldisfræðilegar ræður ómenntaðrar húsmóður hið gagnstæða. [...] Með þessum frávikum frá hefðbundinni veruleikalýsingu tekst höfundinum e.t.v. að koma því á framfæri við lesandann að hann er að lesa skáldverk eða veruleikasýn ákveðins höfundar [...] Persónum bókanna er ljóst að þær eru uppspuni og það er jafnvel gefið í skyn að þær skrifi sögurnar sjálfar. Þetta minnir á það sem ein sögupersóna Guðbergs orðaði síðar: ”Ef ég skrifaði bók um lífið hér, þá myndi víst enginn trúa henni. Hún yrði kölluð sóðaskapur og siðleysi. [...] En lífið er hvort tveggja, siðlaust og sóðalegt (Það sefur í djúpinu, 108). Guðbergur hefur æ síðan TJM birtist verið uppáhaldshöfundur margra, einkum þeirra sem þá voru ungir. Víða er vikið að skáldskap í sögum Guðbergs, má t.d. nefna athugasemdir sögumanns um söguna sjálfa (Anna, bls. 336 og 346). Rakið er neikvætt tal þar um rithöfundinn Svan, og gæti sýnt afstöðu margra til Guðbergs: Ég sé hann fyrir mér sitja yfir okkur eins og krás í herberginu á efri hæðinni og senda með bréfdúfum það sem hann kallar ”matseðla um menn og málefni”, lygar og róg sem hann skrifar undir dulnefni. Væri ég bréfdúfa með vott af sómatilfinningu stingi ég bréfunum í rassgatið á honum sjálfum í staðinn fyrir að dreifa þeim (Anna, 393). Á sama hátt birtist algengt viðhorf til bókmennta í sögunni Ævinlega (bls. 72), þar er alhæfing um íslenskar skáldkonur; og má þekkja þar Vigdísi Grímsdóttur og Steinunni Sigurðardóttur. Sögumaður býst við að frænka hans í Grindavík spyrji hversvegna þær skrifi ekki bjartsýnisbókmenntir í staðinn fyrir að vera að hripa niður sundurlausan þvætting um einhverjar konur sem leggja helst stund á að snuðra í öskutunnum eða skrifa eftirmæli á þann hátt sem engin kona úti á landi gæti skilið. Andstæða bjartsýnisbókmenntanna er viðhorf til bókmenntasköpunar sem á við um sögur Guðbergs sjálfs, þegar sögumaður segir m.a. (Anna bls.427) að leiðsla sé úrelt við að nálgast sköpunarbrunninn. Ef ég vildi vera með játningar um duldar hneigðir, þá reyndi ég að hanga eins og Klofý á klósettum og veiða kynsystur mínar, hugsanir þeirra og innstu hræringar fremur en að ráfa úti í haga og halda á fjóluvendi eins og skáldkonan Hulda. Fyrir slíkt hugarráp eignast skáldkonurnar í París kastala í sveit af því þær hafa opnað fyrir öðrum sannleika sem í huganum leynist. En hérna fá rithöfundar í mesta lagi þriggja herbergja íbúð fyrir að forðast hug sinn eins og heitan eldinn og fara höndum um efnið á sama hátt og köttur fer í kringum heitan graut. Innihaldinu er haldið leyndu með innfjálgum orðum um það að við höfum ekki í okkur aðra náttúru en þá sem felst í landslaginu.. Jákvæðari er lýsing sögumanns á sagnagerð sinni í Lömuðu kennslukonurnar (bls. 74): fór ég af eigin rammleik út á aðrar brautir og leitaði að ótroðnum slóðum. Ég var villtur en einmitt þess vegna á réttri leið. Enginn vissi hvert ég ætlaði, ekki einu sinni ég sjálfur. Mér var sama um allt, einnig það hvort systurnar hlustuðu eða sagan hefði áhrif til góðs eða ills. Siðferðiskennd frásögunnar var engin önnur en sú að reyna að finna nokkurn veginn hæfileg orð og láta efnið endast þangað til því lyki, það er að segja til þeirrar eilífðar sem er hvergi að finna nema í hugarburðinum. Þetta er í samræmi við aðrar yfirlýsingar Guðbergs gegn ”þjóðfélagslega virkum skáldskap” og gegn hverskyns boðskap um að skáldskapur eigi að þjóna markmiði, hafa hlutverk, svo sem rakið verður í kaflanum um greinaskrif hans. Hugarflaumur er eitt af því sem einkennir bókmenntir eftirstríðsáranna, sem áður segir, og birtist m.a. hjá Guðbergi í TJM, það er einnig á stafsetningu sem minnir meira á talmál en hefðbundin stafsetning. Einnig gætir slíks hugarflaums í bók Guðbergs Það sefur í djúpinu, 1973, bls. 138), og enn fremur þegar Hermann hugsar til karlmanns sem notfærir sér kynferðislega Dídí, þroskahefta systur Hermanns (Hermann, 65-6): standa bara tilbúinn með grjót við hornið þegar hann kemur út hugsaði hann og heyrði Dídí væla aumingjalega inni í skúrnum. Hönd hans herptist um steininn. Hann horfði í gegnum rifu og hagræddi steininum í lófanum. þeyt’onum í hausinn á ’onum svo’ann hætt’a koma lúmskur já sama veginn og beygj’og lít’ekk’í kringum sig neitt salla svalur en láta dídí elta einso honum kæmi ða ekkert við kaldur hverfa so yfir hólinn glennt hún bakatil við skúrinn við skorsteininn velgja sér á bakinu hnéð á rörin’o gang’einso ekkert vær’inn hann um bakdyrnar á netaskúrnum skilur hurðina eftir í hálfa gátt og kíkir inn þá vippar hann henni inn og tittar aftur maður ber árangurslaust og hann vippar henni út um hinar dyrnar o segir hvað viltu púðurvasi bungandi út allur skall fá grjót í skallann og borgað fyrir það að neðan Sigurður Hróarsson (1981, bls. 44) tilfærir dæmi úr Hvað er eldi guðs: Konan beið í myrkrinu og hugsaði. Svipuðu. batt á hjólbörur. Í æði. ók. æpandi. henni. hvernig hún æpti. á börunum. gegnum þorpið. og kom henni niður í hesthúsþróna. æpandi bundin á hjólbörurnar Um það segir svo Sigurður: Kaflar sem þessir koma einnig fyrir í sögunni Á mynd [...] ég er þó ekki frá því að þetta stílbragð, ásamt með hinum knappa stíl, sé fyrst og fremst til að undirstrika tilfinningakulda, firringu og skilnings- og sambandsleysi í mannlegum samskiptum. Það finnst mér fjarri lagi, þessi hugarflaumsatriði sýna að mínu mati fremur tilfinningalegt uppnám. 2.4. Líkamlegt Í Tómas Jónsson metsölubók er rækilega gerð grein fyrir útferð aðalpersónu af hrákum, saur, þvagi og sæði. Það er sem áður segir þáttur í að sýna heildarmynd mannsins, ekki bara andleg viðfangsefni hans. Margt fleira er af því tagi, svo sem þegar móðir Tómasar missir fóstur við fiskþvott, og verkstjórinn æpir: ”Látið ekki helvítis blóðvaðalinn úr kellingunni fara í fiskinn!” Allt þetta hefur yfirleitt þótt heldur ógeðslegt og vakti mikla andúð þegar bókin birtist. Vissulega má ekki taka allar athugasemdir skáldaðra persóna í sögum Guðbergs sem yfirlýsingar hans sjálfs. En athyglisvert er þar ýmislegt. Sögumaður dregur þannig fram meginþætti þessarra viðbragða í skáldsögunni Ævinlega, 1994 (bls. 102-4): Það hafði verið þannig með mig að ég leit á sagnagerðina sömu augum og gullsmíðina. Líkt og aðrir smiðir las ég talsvert af skáldskap í leit að huglægum formum. Mér var ljóst að það er rétt að í hverju formi eru tvenns konar form: huglæga og áþreifanlega formið. Gullsmiðir fást venjulega við það síðara, vegna þess að kaupandi leitar í skartgripnum að einhverju sem gleður augað og gefandann langar aðeins að vekja gleði og þægileg hughrif hjá þeim sem þiggur gjafir hans. Þess vegna hafði mér, á sama hátt og fleirum, aldrei geðjast, eða ég hafði öllu heldur andúð á skáldsögum Guðbergs Bergssonar. Persónulega séð er mér að sjálfsögðu ekkert illa við manninn sem slíkan, en í verkum hans liggur innri gerð þeirra og eðli manns um of í augum uppi. Fáum er vel við það að þeir séu minntir, jafnvel af læknum, á líkamsstarfsemi sína eða innri form og að hvaðeina í lífi okkar fari óhjákvæmilega eftir henni. Samkvæmt hlutarins eðli og í þeirri guðstrú sem við aðhyllumst er litið á manninn með sama hætti og venjulegur gullsmiður skoðar skartgrip, en hjá Guðbergi virðist hugsunin vera reist á þeirri skoðun að enginn sé æðri líkama sínum. Hann semur verk sín á grunni hugmynda efnishyggju sem heldur því eflaust fram að heimurinn, annað en hin ytri náttúra, vatnið og hafið, eldurinn og jörðin, sé mótaður af hverfulleika lífsins og þess vegna byggður á veikleika og óhjákvæmilegri hrörnun okkar. Persónurnar eru öðru fremur líkamsverur og samfélagið hefur verið sniðið af þeim og hlýtur því að lúta fæðingu, æsku, blómgun, hnignun og hverfulleika líkamans; hann og samfélagið haldast í hendur og heimurinn og mannkynið er í höndum sjúkra. Ég hafði verið hneigður fyrir glæsilegan stíl, frásögur sem gátu breitt með seiðmagni, hillingum eða orðlist yfir innri gerð sína. Mín vegna mátti hún vera í molum eða lítill fótur fyrir henni í hugsuninni. En í frásögunni mátti ekki vera vottur af þeim grun að óhjákvæmileg hrörnun sé helsta einkenni þess sem við teljum að sé varanlegt, lífsins og allra hluta, nema nauðsynlegt sé að vekja samúð með sjúkum og öðrum sem eiga bágt fyrir sakir fátæktar. Sögur máttu kannski segja þeim mun neyðarlegar frá hnignuninni í þjóðarlíkamanum, rotnun samfélagsins, en einkum falli auðmanna, einstaklinga og ætta. Það hlýtur að vekja áhuga flestra, ekki aðeins vegna meðfæddrar samkeppni og réttlætiskenndar öfundsýkinnar, heldur af því að allir eru af einhverri ætt eða fjölskyldu komnir. Þannig verk eru byggð á þeirri heilbrigðu, almennu skoðun að hnignunin sé hjá hinum, ekki manni sjálfum, og að heimurinn sé í höndum guðs og þess hæfileika að geta átt endalaust nýjar óskir þótt maður játist sömu trú. Hver vill ekki geta séð í huganum við lestur hreysti sína og ályktunargáfu, borna saman við hnignun annarra og blinda hegðun í glæsilegri frásögu, í staðinn fyrir að þurfa að lesa um það, að glötunin leynist óhjákvæmilega í görnum okkar allra, bæði ríkra og fátækra, eins og Guðbergur virðist reyna að troða inn í sína fáu lesendur? Það er engu líkara en hann standi í vonlausu andófi gegn hinum sígildu kristnu hugmyndum að helvíti sé fyrir utan okkur, en við getum lent í því vegna óhlýðni við aðra. Bullið í honum felst í þeirri skoðun, að helvíti sé öðru fremur maður sjálfur og við komumst aðeins stöku sinnum úr því með uppreisn gegn innihaldi og formum og óhlýðni við hvers kyns venjulega hlýðni. Einhverra hluta vegna hafði ég á tilfinningunni, þegar ég fór að festa þetta á blað, að ég gerði það til að sýna honum fram á hvernig hið fagra í lífinu er byggt á hugljómun frá getu okkar allra til að óska sér fagurt og guðlegt hlutfall varðandi framtíðina. Ég hafði meira að segja hringt til hans og sagt með breyttri röddu: Reyndu ekki, góði, að vera of gáfaður á prenti, varaðu þig á þeirri vitleysu í þér. Við erum himnaríki, séð með eigin augum, en helvíti og hnignunin eru hinir, hvort sem það eru aðrir menn eða viss öfl í samfélaginu! Ég hef þessa löngu tilvitnun því mér sýnist hún draga fram meginatriði bæði andstöðu og velvildar í garð sagna Guðbergs; áherslu á hið líkamlega, sem raunar var ekki frá upphafi, hvorki áberandi í Músin sem læðist (1961) né í Leikföng leiðans (1964), en þeim mun meira áberandi í Tómas Jónsson metsölubók (1966) og seinni bókum. En það kom sterklega fram átta árum áður hjá Steinari Sigurjónssyni, í ástarsögu, (1958) þar sem oft er talmál, og mikið skrifað eftir framburði, sem áður segir. Þarna birtist hugarheimur alþýðu beint og sterklega, í flaumi hugsana og tals – líkt og rakið var hér að framan hjá Guðbergi, um Dídí. Inn á milli slíkra hugarflaumstexta hjá Steinari er svo frásögn sögumanns, á venjulegri stafsetningu og framsetningu. Þetta er mjög líkamlegt tal (t.d. bls. 36 o. áfr.), en einkum sóðalegt og óhirt, en kynæsandi fyrir sögumann sem glápir á konu starfsbróður síns við eldavélina heima hjá henni, sjá einkum (ástarsaga bls. 42-3): annar sokkurinn niðrá ristinni á henni og ég þarna að glápa í velgjunni og kötturinn að mala. svo sönglaði eitthvað í flugnadraslinu. einhver dýrð? einhver sorg og svoleiðis, að sjá hana þarna? einhver tregi í manni og hitinn svona svakalegur? hvað hún var knáleg, sjá löppina á henni, óhrein, já nokkuð skítug og þykk. flatar iljarnar á henni, og hún steig í. í inniskóm, þunnum. svo grislingurinn á gólfinu þarna frammi á gólfinu hjá henni með fiskstykkið milli krumlanna, reyna að slafra í sig, allt kramið í lúkunum á honum. sjá hann! allt í klessu út um gólf. svo steig hún í flatar býfurnar, djöfull var hún nú knáleg, svo það klesstist undir henni, ýsan sem grislingurinn var með. klístr-klístr. skórnir kooolbíaðir. slitnuðu upp úr klístrinu. og svo komst kötturinn í það og glepsaði af króanum. (o. s. frv.) Hér er ótvírætt fyrirrennari þessa suddalega líkamlega hjá Guðbergi . Það ríkti áfram, og má vitna til Steinunnar Ingu Óttarsdóttur um skáldsöguna Önnu (TMM 1994/3, bls. 26-9): Líkaminn er áberandi, ýktur og skrumskældur í Önnu. Hann er sviptur þeirri þögn sem jafnan umlykur ýmsa starfsemi hans, hann er aftignaður og meðhöndlaður eins og hvert annað kjötflykki. Allir hans fúlu vessar, safar og loftgufur flæða óhindrað um blaðsíðurnar. Hið bannhelga og sauruga er dregið fram í dagsljósið, teygt og togað, ýkt og orðum aukið, og slíkt vekur mönnum yfirleitt andstyggð eða ótta. En hér er það hvorutveggja ofurliði borið af hlátrinum sem fylgir skrumskælingunni, því Anna er óborganlega fyndin. (bls. 28). Í sambandi við þetta má vitna í orð sögumanns í Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma (bls. 116-17), þau má lesa sem einskonar stefnuskrá: Almenningur eða venjulegt fólk sem maður veitir enga athygli á götu og heldur að sé hversdagslega grátt í sálinni og lifi viðburðasnauðri tilveru, lifir oft fjölbreyttara og fjörlegra lífi en hitt sem kann að vera fagurt, menntað og frægt. Margt af hinum sauðsvarta almúga breytir lífinu í sannkallað listaverk eða lifandi skáldskap til daglegs brúks með framhjáhaldi, fjöri í kringum fýsnirnar og hvers kyns dýrlegum og mannlegum prettum. Þetta er að vísu hversdagsskáldskapur, eitthvað á borð við eldhúsreyfara en það gerist að minnsta kosti eitthvað í honum með hraðri og auðsærri atburðarás þótt hún sé lítið annað en það að ná sér í hitt og þetta, brask með bíla, íbúðakaup og listin að pranga eða öfundsýki og meinlaus hneykslun yfir hinum og þessum sem geta leyft sér meira en aðrir. Svo er auðvitað til annað, einkum menntað fólk og siðað sem er stöðugt að velja það besta, en fær aldrei neitt eða gerir lífið að martröð með uppspunninni tryggð sem það kryddar með hugarfarssyndum. [...] Mér finnst ég hafa komist að því á skipinu að það er hið venjulega sem vekur ástina enda er það sem við köllum ást venjuleg tilfinning en hún er hafin upp í hverdagslegar dýrðarhæðir fyrir kraft hæfileika sem hver maður býr yfir svo hann geti blekkt sig (Sú kvalda ást, bls. 169). 2.5. Sögusnið Af framangreindu má ætla að í sögum Guðbergs sé stefnt að því að afhjúpa eitthvað dulið, sem er þó algengt. Snið sagnanna er með ýmsu móti. Fyrsta skáldsagan, Músin sem læðist, er með einskonar endahnút, eftir að við höfum kynnst þrúgun á söguhetju og flakki hans meðal nágranna virðist hann ná einhverri frelsun í lokin, þótt sársaukafull sé. Skipuleg er líka skáldsagan Hjartað býr enn í helli sínum sem birtist 1982. Titill sögunnar er fenginn frá hellislíkingu Platóns og sýnir fólk lokað inni í blekkingum. Sagan gerist á sólarhring í Reykjavík og aðalpersónan er sálfræðingur á miðjum aldri. Elín Bára Magnússdóttir segir um form sögunnar (1988, bls. 15-16): má segja að það sé hefðbundið að því leyti að það hefur að bera heillegan söguþráð. Auk þess má í sögunni greina afmarkað sögusvið og ytri tíma sem er Reykjavík nútímans og einnig innri tíma sem er einn sólarhringur en sagan gerist frá hádegi á föstudegi til hádegis næsta dags. Eins og tíðkast í sjónvarpssyrpum (t.d. bandarísku syrpunni Frasier) er enginn eins geðtruflaður og sálfræðingurinn, sem m. a. tryllist af litlu tilefni (bls. 87). Hann er fráskilinn og nýfluttur í enn eitt forstofuherbergið. Ekki hefur hann framtak til að ganga frá sinni fátæklegu búslóð, og liggur “draslið” í haug á gólfinu miðju. Allan þennan sólarhring er hann á eirðarlausu rápi. Þetta er nokkuð goðsagnakennt eins og Elín Bára Magnússdóttir rakti (bls. 35): Ferð mannsins felur í sér tilraun hans til að rjúfa einangrun sína frá umheiminum. Leið hans liggur inn í hús vina og kunningja og út á götu aftur og verður táknræn fyrir markmið hans: inni leitar hann að ást, öryggi og samveru, úti reynir hann að flýja einveruna og tómið. En markmið hans falla ekki að táknrænni leið hans og verða smám saman að engu. [... og bls. 26:] Án sambúðarinnar við Dóru tekst manninum ekki að marka sér stað í samfélaginu. Hann finnur löngunum sínum og þrám engan farveg og neyðist til að fara í felur: ”Allir staðirnir voru ömurlegir og kaldir”. Sífellt leitar maðurinn á fyrrverandi eiginkonu sína, sem er með dætur þeirra tvær í biðskálum strætisvagna í eilífu sælgætisáti, félagsráðgjafinn sjálf. Ekki er nóg með að söguhetjan sakni dætranna, heldur einnig fyrrverandi eiginkonu, og er þó vandséð hvers væri að sakna þar. Þessi brussa er ekkert nema tuggur, “bæði sem kona og manneskja”. Endurminningar söguhetju um hjónabandssæluna eru um hlaup þeirra í sjoppu á kvöldin, rétt fyrir lokun. Engu sambandi nær hann nú við hana, enda segir Elín Bára (bls. 31): Manninum gengur erfiðlega að tjá sig á máli samfélagsins og getur með engu móti aðlagast orðræðu þess. Í stað þess bælir hann langanir sínar og þrár í hugskoti sínu og þegir frekar en að reyna að tjá tilfinningar sínar og líðan [og bls. 45:] Hugsanaflæði mannsins tjáir innri veruleika hans sem brýst fyrirvaralaust fram þegar hann mætir andstöðu utan frá. Orðræða flæðisins einkennist af ringulreið og leitast er við að tjá óheftar hvatir mannsins og líðan. Þorvaldur Kristinsson sagði í ritdómi um bókina (1983, bls. 338-9): Draumar hans snúast ekki um að nálgast Dóru heldur sigra hana. Líf þeirra hefur hingað til snúist um að ljúka námi, koma upp íbúð, koma upp börnum. Draumarnir um dæturnar eru draumar eignamannsins. [...] Myndin af neysluþjóðfélaginu birtist sem skefjalaust sælgætisát [...] Hér er þó ekki aðeins verið að lýsa græðginni heldur er líka kveðið að skýringum á henni með kynferðislegum skírskotunum sem tákna hið eiginlega hungur að baki neyslunni – hungur tilfinninganna. [...] Frelsisleit Dóru er hér lýst sem skilgetnu afkvæmi þeirrar neyslu- og eignahyggju sem einkennt hefur samlíf hjónanna. Hér vísar Þorvaldur til lýsingar þess hvernig Dóra sleikir ísinn, líkt og hún sé að sjúga böll. Maðurinn drekkur sig nú fullan, til að geta nálgast þrenninguna, og kemur fram að hann hefur iðulega ofsótt fyrrverandi konu sína í þvílíku ástandi. Enda er hann nú tvívegis settur í steininn. Hann heimsækir líka aðra kunningja, Jóa tvo, gamla vinnufélaga sem bjóða upp á stjórnmálatuggur frá vinstri, og Ragga, sem stundar einskonar meðferð á fólki í persónuvanda, sú meðferð virðist helst vera bið, og síðan samfarir. Ekki eru tuggur hans björgulegri. Þorvaldur segir (bls. 339): Þótt Jóarnir séu af öðru sauðahúsi en maðurinn þá eiga þeir þó eitt sammerkt: Þeir hafa gefist upp á að taka ábyrgð á eigin lífi og reyna að skilja líf sitt heldur bíða þeir allir eftir betri tímum. Einnig heimsækir söguhetja móður sína, roskna konu sem er við drykkju með vini sínum um nótt. Ólíkt öðrum persónum sögunnar virðist hún snyrtileg. Hún talar mest um að hún hafi ævilangt viljað spyrja föður sinn hvort hann hafi í raun elskað móður hennar, en nær því aldrei. Þetta er enn eitt dæmi um blindgötu, finnst mér. Þorvaldur segir hinsvegar (bls. 339) að móðirin og Gunni eigi það sammerkt að vísa sjálfsvorkunn mannsins á bug, hæðast að þráhyggju hans og kalla hann til ábyrgðar. [...] Með dæmisögu sinni minnir hún á að við spurningu ástarinnar – elskarðu eða elskarðu ekki? – sé ekkert endanlegt og óyggjandi svar til [og bls. 340:] ég tel mikilvægast við sögu Guðbergs: ögrunina við vanahugsun og viðtekið gildismat. Sú ögrun sækir styrk sinn í frásagnaraðferðina enda fer höfundur þar oft á kostum. Ekki síst á þetta við um aðferð ýkju og öfga sem mér þykir hann beita enn markvissar en oftast fyrr til að afhjúpa fáránleika hvunndagslífsins. Allur þessi þvælingur og samtöl í sögunni eru tilgangslaus vandræðagangur, sem leiðir ekki til neins. Loks lendir söguhetja heim í nýja herbergið og upp á húsfreyju sína, það mistókst honum þó. Hún reynist vera biluðust af öllum, og drepur hann loks af einhverskonar vangá, þar sem hann sefur vímusvefni. Gunnlaugur Ástgeirsson sagði m.a. í ritdómi í Helgarpóstinum (19.11.1982): Persónurnar í þessari sögu eru bæði ýktar og afskræmdar, en hafa engu að síður í eðli sínu og hegðun ótrúlega marga dæmigerða eiginleika venjulegs fólks [...] Það er bæði mjög sérkennandi og um leið heillandi við frásagnarmáta og stíl Guðbergs að maður veit aldrei almennilega hvar maður hefur hann. Hann er meistari í að vega salt á milli fúlustu alvöru og hreinnar skopfærslu, þannig að lesandi er aldrei öruggur um hvert höfundur er að fara. Ósköp hversdagsleg lýsing á ósköp hversdagslegri athöfn, eins og til dæmis að sleikja ís, er áður en lesandinn veit af orðinn að skopfærðri og ýktri mynd af græðgi og sætindafíkn viðkomandi persónu. Á sama hátt verða hugrenningar, sem í fyrstu virðast rökrænar og eðlilegar, að eldfjörugri fantasíu, sem þegar best lætur leysist upp í tómri dellu á endanum. Lömuðu kennslukonurnar sýna líka lokahnút (undir sögulok!), þar sem sögumaður reisir konurnar frá lömun, kvænist hverri eftir aðra, en þær deyja. Sagan af Ara Fróðasyni má einnig heita framrás að endahnút, þar sem söguhetjur fara í veiðiferð, og henni lýkur með óförum. Dæmi kyrrstöðusögu, sem þó fær formlegan endahnút er svo Missir, nýjasta bók Guðbergs, þegar þetta er skrifað (2010). Þetta er stutt saga, 128 bls. í litlu kiljubroti. Þar talar gamalmenni, ekkill, mest um hnignun sína og daglegt líf. Lok sögunnar eru að maðurinn siglir til Færeyja með ösku af konunni og drekkur þessar síðustu leifar hennar blandaðar í kaffi. Skáldsagan Ævinlega birtist 1994 og hefur eins og svo margar aðrar sögur Guðbergs, einstæðan karlmann á miðjum aldri sem söguhetju. Raunar verður þegar að setja fyrirvara um einstæðni þessa, og það er eiginlega mergurinn málsins í þessari sögu, virðist mér. Þessi rúmlega fertugi gullsmiður býr á efri hæð í húsi, en á neðri hæðinni býr kaupkonan Olla, sem hann stundum borðar með og samsængar. Hann lætur sem hann eigi stundum í samböndum við aðrar konur, og hefur verið í sambúð með amk. þremur áður. Nú hrífst hann af ungri stúlku, sem tekur hann á löpp úti á Laugavegi og er hann með henni lungann af sögunni (bls. 17-91). Það gerist eftir að búðarkona, sem líkist “sambýliskonu” hans, er að þvo glugga frá gangstéttinni og rekur í hann prikið. Í sögulok segir hún þetta vera töfraprik, sem hafi umbreytt henni í þessa ungu stúlku, amk. í augum söguhetju. Hann fer með ungu stúlkunni í Bláa lónið og þaðan til Grindavíkur til að heimsækja roskna frænku sína. Sú fyllir sviðið, og virðist frásagan hálfmartraðarkennd, líkt og í sögum Kafka, ekkert gengur né rekur. Morguninn eftir vaknar söguhetjan einn í húsi frænkunnar, fer til Reykjavíkur og forðast lengi Laugaveginn, því hann vill ekki hitta stúlkuna fyrr en hann hafi smíðað henni verðugan skartgrip. Sambýliskonan Olla reynist svo bera skartgripinn og upplýsir söguhetju um samhengi mála. Þessi flétta eða framrás sagnanna (plot) sýnist mér í rauninni vera hreint aukaatriði í framantöldum sögum, þótt fléttan sé skipuleg í sumum. Mynd samfélagsins er jafnan aðalatriði, og má því segja að röð þessara mynda af mismunandi samfélagskimum sé nokkuð tilviljanakennd. Í öðrum sögum Guðbergs er mikið um glundroða svo sem í TJM, einnig má segja að glundroði einkenni Sannar sögur (1973-6) mestmegnis, ekki er skipuleg bygging á þeim, þótt þær veiti heildarmynd af efninu. Um það segir Marta Jerábková (bls. 14) Viðhorf söguhöfundar til efnis þessara sagna er andrómantískt og gagnrýnið. Sjálfur efniviður sagnanna er mjög hversdagslegur og ómerkilegur á yfirborðinu. Söguþráður er nánast enginn. En það sem gerir Guðberg svo framúrskarandi meðal íslenskra höfunda er meðal annars hæfileiki hans til að segja ótrúlega mikið með þessu fátæka efni. Áberandi er í Froskmanninum (1985) erindisleysa, flökt fram og aftur í tilgangsleysi, og leiðir ekki til neins (t.d. bls.73-5), samtölin fara út og suður og ná engu, einnig (bls.63) fer hann ýmist heim til sín eða til foreldra sinna í mat, eða þegar hann er á hótelinu í Reykjavík (bls.144-5): þá syfjar hann fyrst, en svo ekki, þegar hann leggst út af, og loks segir (bls.145-6): Allt í einu sneri froskmaðurinn aftur á hótelið, fór upp stigann og pissaði í vaskinn. Síðan gekk hann niður á ný og brosti við stúlkunni sem tók við lyklinum. Sú freisting greip hann að vera á sífelldum erli út og inn: biðja endalaust um lykilinn með brosi, fara upp, pissa í vaskinn, fara niður, skila lyklinum, ganga út, koma inn, biðja um lykilinn, fara upp, pissa í vaskinn. Þannig allan sólarhringinn. Þrátt fyrir þennan dæmigerða þvæling má sjá þróun til endahnúts í Froskmanninum. Eftir þvílíkt stefnulaust ráp í sögunni og óánægju, virðist söguhetjan hafa öðlast sálarró í sögulok, það sé ég sem afleiðingu af óbeinum samförum hans við unga manninn (sjá lok undirkaflans Náttúrulýsingar hér). Svipað má segja um Tómas Jónsson metsölubók, í lokin skiptir um tilfinningu, frá kulda og einsemd, í hlýleika og samruna tveggja karlmanna. Svanurinn er líka ek. þroskasaga með endahnút, eins og síðar verður rætt. Flökt fram og aftur líkt og í Froskmanninum er víða í sögum Guðbergs, t. d. 1½ bók. Hryllileg saga (2006). Hún gerist í Reykjavík á árunum milli stríða, og er einskonar eftirlíking (pastiche) af ýmsum bókmenntum þess tímaskeiðs. Þarna má merkja Tómas Guðmundsson, Stein Steinar og sögur Þórunnar Elfu Magnúsdóttur. Skopstæld er Saga af brauðinu dýra eftir Halldór Laxness (bls. 211), einnig er hæðst að þjóðlegum fróðleik (bls. 203) og að ýmsu í bæjarlífinu, svo sem fyrirmælum kennslubókar í mannasiðum um hvernig lyft skuli hatti til að heilsa (bls.222). Í sömu bók (bls.199) skiptir persónan Kristín um skoðun fram og til baka um hvort hún skuli fara með nálabréf á pósthúsið eða í Verkamannaskýlið. Í Lömuðu kennslukonunum (bls.62) er sögumaður ekki fyrr búinn að fara með lamaða skjólstæðinga sína í göngu, og koma þeim í rúmið eftir ferðina, en ”skipti ég um skoðun og ákvað að fara aftur með þær út og hvetja þær til að spinna upp sögur um fólk á gangi.” (svipað er á bls.82 og 175). Þetta tilgangslausa flökt er áberandi í sögum Guðbergs og sýnir persónur sem vita ekki hvað þær eigi að gera. Óraunveruleikablær birtist einnig í sögusniði. Fyrir kemur að spólað sé aftur á bak, líkt og kvikmynd væri (Hermann, bls.53-4): Sveinn velti sér á grúfu, lét handleggina lafa niður og lokaði augunum. Múrverkið hrundi af húsunum og bárujárnið kom í ljós undir því. Strípuðu húsin skruppu saman í ólögulega þyrpingu. Kerrrurnar runnu aftur á bak. Nýju húsin bráðnuðu og sukku í jörðina. Hlykkjóttur vegurinn dofnaði, hann gufaði upp, og undir honum kom í ljós örmjór stígur með sömu hlykkjum og vegurinn. Allt dofnaði og máðist, annað en himinninn, sem varð undarlega tær og blár, gegnumlýstur af brakandi þurrki og sól. Hafið varð svarblátt og vindgárað inni í vikinu, þar sem sokknu bátarnir líkt og risu upp frá dauðum og flutu léttir á léttu hafinu. Þeir skoluðu á svipstundu af sér leðju og götin greru, og þeir röðuðu sér á bryggjuna. Þetta er áberandi aðferð til að gefa sögulegt yfirlit. Samhengislaus er texti líka sumstaðar, t. d. draumur Sveins (Anna, bls. 369 o. áfr.). Einnig í fyrri bókum er dregið fram að þær sögur séu skáldskapur, þannig segir Anna við Lóu (Það sefur í djúpinu, bls.31): Ég þoli ekki þær persónur sem Svanur gerir of hátíðlegar. Úr hvaða verki ert þú? Um sögusnið talar einnig Sigurður Hróarsson (1981, bls.21): Guðbergur brýtur gjarna tímaröðina og uppstokkar hana. Sögusvið hans er aftur á móti meira í ætt við hefðbundnar sögur. Persónusköpun hans er ”týpukennd” og málfar persónanna er oft á tíðum sérkennilegt og óraunsætt. Sérstæðast og nýstárlegast við form bóka Guðbergs er þó einkum tvennt. Í fyrsta lagi slítur hann frásagnina mjög gjarna úr röklegu samhengi, þ.e. hann ruglar allri hefðbundinni frásagnaraðferð þannig að lesendur vita aldrei hver segir frá. Og í öðru lagi beitir hann skopstælingum, öðrum höfundum meir og áhrifaríkar. Jóhann Hjálmarsson var að hluta neikvæður um bækur Guðbergs, af íhaldssemi um skáldskap (t.d. 1971 um Hvað er eldi guðs), hann hrósaði raunar mjög smásögum Guðbergs, og sagðist hafa talið að: smásögur Guðbergs Bergssonar, sögurnar í sögunum, ef svo mætti komast að orði, séu það eftirminnilegasta, sem eftir hann liggur. Að mínu viti tekst honum ekki í skáldsögum sínum að skapa þá heildarmynd, sem ræður úrslitum um vel heppnað skáldverk. Þær eru að vísu markverðar tilraunir, en öðlast naumast varanlegt gildi fyrir tilraunina eina, vegna þess að þær skortir svo margt, sem listræn smíð getur ekki verið án. Guðbergur skrúfar frá krana og úr honum rennur bæði hreint vatn og alls kyns óhreinindi. Það getur verið fróðlegt að fylgjast með öllu þessu rennsli, en einhvern tíma hlýtur það að taka enda. Það þarf mikinn listamann til að vinna úr margbreytilegum hugmyndaflaumi; sá listamaður er Guðbergur Bergsson ekki orðinn enn. Hér virðist mér Jóhanni missjást verulega. Smásögurnar eru að sönnu oft áhrifaríkar, en þær eru það enn fremur sem hluti heildar, sundurleitt efni sem þó er samtengt í heild, er það sem mögnuðust áhrif hefur, í TJM, Ástum samlyndra hjóna og öðru sem birst hafði þegar Jóhann skrifaði þetta. 2.6. Smásögur Fræðimenn hafa lengi rætt hvernig skilgreina megi smásögur og aðgreina þær frá skáldsögum með eðliseinkennum, en ekki bara að lengd. Raunar hafa smásögur lengi verið til sem innskot í skáldsögur, eða það sem kallað er skáldsögur er stundum bara röð frásagna af atvikum sem henda sameiginlega söguhetju. Eru íslenskar fornaldarsögur frá hámiðöldum augljóst dæmi þessa, en eldri og fornfrægari er Þúsund og ein nótt. Oft má ræða um rammasögu, hvenær sem ný persóna birtist á sögusviði hennar, fer hún að segja sögu sína. Mikið ber á þessu í Don Kíkóta og mörgum fleiri sögum frá þeim tíma eða síðar, t.d. Handritinu sem fannst í Saragossa eftir Jan Potocki frá því um 1800. Mikið er um næsta sjálfstæða þætti sem skotið er inn í forníslenskar konungasögur hér og hvar, og er Morkinskinna frægast dæmi þess. Enn má nefna af þessu tagi elstu nútímaskáldsögur á íslensku, rit Eiríks Laxdals, Ólandssaga og Ólafs saga Þórhallasonar frá síðasta hluta 18. aldar. Þegar skilgreina skal smásögur skiptir lengdin augljóslega máli, eins og kemur fram í heitinu: smásögur (e: short story, þý. Kurzgeschichte). En vissulega eru mörkin óljós, suma texta munu flestir kalla smásögur enda þótt þær séu lengri en textar sem enn flestir myndu kalla skáldsögur. En þar sem smásögur eru almennt fremur stuttar, miðað við skáldsögur, þá eru helstu persónur smásagna jafnan mun færri en persónur skáldsagna. Oft er atburðarás smásagna einstrengja, þar sem í skáldsögum fléttast oft saman ýmiskonar atburðarás. Þetta er nothæft viðmið, þótt finna megi undantekningar. En fræðimenn benda á fleiri einkenni. Daninn Jørgen Dines Johansen fer í bók sinni Novelleteori efter 1945 í gegnum rit margra fræðimanna um smásögur allt frá Boccacio um 1350 til samtímans, og nefnir (bls.93) að sérlega algeng sé sú skilgreining smásagna að ólíkt skáldsögum hnitist þær um einn atburð. Dines Johansen sýnir þó fram á, að þetta sé síður en svo algilt, texti sem allir séu sammála um að kalla smásögu geti vel haft tvö eða fleiri slík kjarnatriði. Það væri líka undarlegt ef tugþúsundir höfunda hefðu öldum saman samið sögur eftir sama mynstri. Ætli ekki nægi að segja þetta vera algengt mynstur smásagna en ekki einrátt. Dines Johansen hefur (bls.145-6) eftir bók E.K. Bennett um þýskar smásögur lýsingu sem hann segir (bls.146) rúma allar helstu tilraunir til skilgreininga smásagna, frá Goethe til fræðimannsins Malmede, en bók þess síðarnefnda birtist 1966. Samkvæmt þessari lýsingu eru smásögur frásagnaform sem fáist við viðburði fremur en athafnir. Þær takmarkist við einn atburð eða aðstæður eða átök, og leggi áherslu á það, til að sýna áhrif þessa á einstakling eða hóp. Með þessari áherslu á einn atburð birtist hann gjarnan sem hending og á að afhjúpa það sem virðist tilviljun, einnig í augum mannsins sem hann varðar, en er í raun örlög. Þannig virðist hugarfar þessa einstaklings óröklegt. Atburðurinn á að vekja áhuga vegna þess hve einkennilegur hann er, fjarlægur hversdagsatburðum, en þó verði þetta að gerast í raunveruleikanum, ekki í ímyndun. Virkur verði atburðurinn vegna listræns forms og strangs. Dæmigerð fyrir byggingu sögunnar eru hvörf þar sem sögugangur tekur óvænta stefnu en þó rökrétta. Smásagan ætti að fást við ákveðið, sláandi efni, sem aðgreinir hana frá öðrum smásögum. Það sem er sláandi í viðfangsefninu tengist oft einhverju hlutlægu, sem í sumum smásögum öðlast táknrænt gildi. Áhrif atburðarins eru að afhjúpa eiginleika fólks sem voru duldir. Hlutlægni þessa bókmenntaforms geri skáldinu kleyft að sýna huglægt andrúmsloft og ljóðrænt, óbeint og táknrænt. Það varði lítinn hóp einstaklinga, þá sem beinlínis tengjast vandamálinu eða aðstæðum sem um ræðir. Umhverfi þess sé meðal menntafólks . Dines Johansen hefur (bls.125) eftir Rafael Koskimies (1959) að smásagnagerð sé þrennskonar: 1.Smásögur sem hnitast um miðlægan atburð, þetta sér hann einkum í Boccacio og franskri hefð sem fylgdi honum. 2.Hefð sem rekja má til Cervantes og einkenni Keller, Meyer og Stifter, þar skipti andrúmsloft og sálarlífslýsingar (”psykologisk fordybelse”) meira máli en form. 3.Hefð sem rekja megi frá Rússanum Tsjekoff um aldamótin 1900, í stað hvarfa magnast andrúmsloftið og atburðarás dreifist . Mér virðist þessi síðasta skilgreining eiga vel við t.d. smásögur Gyrðis Elíassonar, og sumar sögur Guðbergs. Smásögur Guðbergs teljast mér alls rúmir átta tugir í sjö söfnum á rúmum aldarþriðjungi (1964-2000). Vitaskuld verður aðeins fjallað um fáeinar þeirra hér, þær sem helst mættu sýna mismunandi einkenni, sem eru algeng eða áberandi í sögum Guðbergs. Sem fyrr segir tel ég Ástir samlyndra hjóna til smásagnasafna hans, andstætt ýmsum skrám um verk Guðbergs sem telja hana til skáldsagna, enda eru þessi Tólf tengd atriði – undirtitill bókarinnar – sundurleitari en sögur í sumum öðrum sagnasöfnum Guðbergs, t.d. því fyrsta, Leikföng leiðans. Reyndar sagði höfundur sjálfur í eftirmála endurútgáfu Ástanna (bls. 281, auðkennt af E. Ó.): sögurnar í Ástunum áttu að vera þar í ritheildinni sem mennirnir eða ”væntanleg” skáld í lok Tómasar eru komnir út á ólgusjó og hafa ofan af fyrir sér með því að segja hvor öðrum sögur í margvíslegum dularklæðum, sem fela bæði merkingu og innihald. Í fjórðungi smásagna Guðbergs má tala um einhverskonar fléttu, þar sem atburðarás fær endahnút í sögulok. Má þar nefna sem dæmi Kvöld hinstu sólar í Leikföng leiðans. Þar eru sláandi andstæður, annars vegar er fiskiðjufólk, tilvera þess virðist mest snúast um vinnu, en hinsvegar kemur svo sundkennari til að hefja fólkið upp á æðra stig menningar. Þessar andstæður birtast í lýsingum útlits og atferlis, sundkennarinn er eins og lokkandi auglýsingar, sólbrenndur í opinni skyrtu, og sífellt að gera líkamsæfingar en þorpsbúar eru ósmekklega klæddir og alltaf að vinna. Hvörfin verða þegar sundkennarinn syndir nakinn, en reynist svo ekki þola athyglina sem þetta vekur. Þegar þorpsbúar þyrpast niður að hafnarbakka til að sjá strípalinginn, sest hann út í sker og hylur sig neðanverðan í þara. Stelpur setja út bát til að ná honum, en strákar sækja að þeim á pramma, og átök hefjast, sem leiða til uppnáms og sundkennarinn notfærir sér athyglina sem þetta vekur til að laumast í land. Þar sem sundkennarinn ræður ekki við það hlutverk sem hann tók sér, leiða hreystilæti hans hann frá hetjuhlutverki til ósigurs og flótta, niðurlægja hann í augum þorpsbúa. Og þessi fyrri glæsimynd kynþokka, opin skyrta, sólbruni og líkamsæfingar er í raun harla náttúrulaus, það birtist í andstæðu við tryllta kynhvöt stúlkunnar sem girnist hann og glápir á glugga hans um nótt. Aðrar sögur í þessu fyrsta safni hafa ekki svo skýr hvörf, og má tengja það orðum Guðbergs að fyrir honum hafi vakað ”nýskáldsögustefnan” (le nouveau roman) með þessu smásagnasafni: Þessi „nýja skáldsaga" er nú eins og fljót sem rann út í haf: hún hefur síast út í önnur verk. Ég þekkti hana fyrst af orðspori og skrifaði „Leikföng leiðans" eftir því sem ég hélt að væri andi hennar (Þjóðviljinn,28.10.88). Ekki verður talað um hvörf í annarri sögu í því safni, Leik þú á þinn gítar, þjark kennara við tengdaföður sinn og að nokkru leyti við eiginkonu, kennarinn hefur svo augljóslega skoðun sem flestir aðhyllast, þróunarkenningu Darwins, en verður spaugilegur að geta ekki varið hana gegn Biblíutrú bóndans. Fremur mætti tala um að saga hnitist um meginatriði í Vitjað nafns. Sagan hefst á helgarleiðindum, fólk hefur ekið til þessa þorps, og veit ekki hvað það á af sér að gera. Eftir þessa sviðsetningu koma andstæður fegurðar máfa við haf annarsvegar og hinsvegar heimskulegrar grimmdar staðarmanna; máfur er veiddur á færi. Andstæða þess birtist svo í aðkomumanni, öldruðum kennara, sem vill telja um fyrir staðarmönnum, en hann verður spaugilegur, æstur og með fáránlegan valkost á sumpart hátíðlegu ritmáli og þjóðrembu (bls.73-4): Hérna þið þarna. Ykkur væri fjandans nær að læra ensku, dönsku, þýsku, frönsku og sænsku, heldur en gera slík ómannúðarverk á fuglum loftsins. Þið gætuð þá, held ég, að minnsta kosti gert ykkur skiljanlega ef einhver erlendur togari skyldi stranda hér fyrir opnu hafi á nestánni og mannbjörg yrði, eða þið sjálfir brytuð skip ykkar við Írlandsstrendur, eins og forfeður ykkar, víkingarnir. En látið sjófuglana í friði. Sleppið þið honum, ómennin ykkar, í nafni guðs og þjóðarinnar! – og rödd hans kafnaði. Náttúrumyndin er það eina jákvæða í þessarri sögu, allt fólk er sýnt neikvætt. Jólasögur úr samtímanum rúma hvörf, í upphafi er sýnd eigingirni fólks eða leti, en svo birtist Jesú fólkinu á jólunum og telur því hughvarf með góðu fordæmi í því sem það nennti ekki að gera. Hann skúrar stigaganginn, hirðir garðinn, o.fl.þ.h. Þetta dæmisöguform rofnar þó í tveimur síðustu sögunum; á Þingvöllum gera hjón snjókarlamynd af fæðingu Jesú, en lenda í blindhríð sem Jesú bjargar þeim úr, og í lokasögunni er manni bjargað frá drukknun, af Jesú sem er í stelpulíki. Mér virðist þetta setja jólasögurnar í heild í háðslegt ljós, því afskipti Jesú verða þá ekki til að leiða fólkið til betri vegar. Mynd mannsins í Ástum samlyndra hjóna segir tíðindalausa ævisögu. Einhvern tíma upp úr fyrri heimsstyrjöld erfir söguhetjan foreldra sína og fer þá með strandferðaskipi umhverfis landið. Hann forðast fólk þar, en útlendingur á skipinu tekur af honum ljósmynd. Seinna fær skólastjóri hans í KFUM senda þessa mynd, sem sé af hún af honum, og hann segir áletrun hennar vera leyndarmál. ”Hún viðkemur mínu innsta eðli, er einkamál stílað til mín og helgur dómur.” Söguhetjan ærist, en frænka hans kemur honum í vinnu og hjónaband. Hann eignast sex börn, en allt þetta finnst honum vera sér óviðkomandi, hann situr áratugum saman á kaffihúsi með félögunum, og er jafnan með hugann við myndina, og eltir loks mann sem líkist henni, erindisleysu inn í nýbyggingu þar sem hann svo dettur og rotast. En ekkert gerist, annað en að hann ”lauk tilskilinni elli”. Tíðindalaus saga, sem endar í tómi. Er einhver meining með henni? Það væri þá helst að eitthvað væri gefið í skyn, svo sem í tilvitnuninni hér að framan, og að á brúðkaupsnótt spurði konan manninn hvort hann leyndi hana einhverju, eitthvað er greinilega öðruvísi en hún vænti. Á strandferðaskipinu hafði maðurinn hrasað, en útlendingurinn gripið hann (bls.52-3): Líkfölur hvíldi maðurinn stundarkorn í faðmi útlendingsins, sem hnuðlaði honum og reyndi eftir megni að lyfta undir klofið og láta manninn styðjast að stigahandriðinu, en án árangurs. Útlendingnum varð dælt. Hann hló að algerum vanmætti í limum mannsins og beit hann ertnislega í eyrnasnepilinn. Háðslegt bitið hleypti aftur roða í kinnar mannsins og lífsþrótti í limina. Maðurinn gaf frá sér loðið, hjálparlaust vein, sleit sig lausan í ofboði og dróst stjarfur í koju. Það sem eftir var ferðarinnar faldi maðurinn hjartslátt sinn að baki dreginna kojutjalda. Hann áræddi hvorki á þilfarið af ótta við útlendinginn, né af ótta við fremur geðilla skipsþernuna... Þegar þessi ýktu viðbrögð við snertingu útlendingsins eru borin saman við önnur framangeind atriði og þrálátan orðróm um samkynhneigð aldraðs leiðtoga KFUM, verður ekki önnur skýring líklegri á ævilangri þráhyggju mannsins um ljósmyndina, en að hún sé einskonar hlutgerving bældrar samkynhneigðar hans sjálfs. Tíðindaleysi sögunnar – og svipleysi ævi mannsins – stafar af bælingu hans á eigin hvötum, þannig verður sagan átakanleg. Áberandi í sumum smásögunum, einkum síðasta safninu, Vorhænan, er einskonar lokleysa. Ekki verður talað um eðlileg lok sagnanna, hvað þá endahnút, þær eru bara allt í einu búnar. Konungur í Grindavík ók niður eina drottningu af fleirum sem þar búa (”bónusdrottningu”?), en hún reyndist svo ódrepin og hæðist að honum. Fæðingarlæknar nenna ekki að aðstoða konu í barnsnauð og ræða um að þau mættu með réttu drepa jafnmarga og þau hjálpa í heiminn. Svo fæðist barnið, grátur þess heyrist í sögulok. Aðrar sögur eru nánast botnlausar og sumar eru að mínu mati hreint rugl, svo sem Víðáttumikli maðurinn (bls.69-72): Einu sinni var ekki maður en maður var hann engu að síður þótt hann væri ekkert nema víðáttan. Víðáttan sem hann hafði verið skapaður úr var að mestu kafloðin og minnti á þá tegund af sléttu sem fer minnkandi en víkkar því oftar sem farið var um hana [...] Víðáttan kom þá til hans í nýrri mynd yfir sína eigin sléttu og sagði: Héðan í frá ætla ég að vera í þér á nákvæmlega sama hátt og þú hefur hingað til verið á mér. [...] En einu tók maðurinn eftir í fyrsta sinn, að undir sléttuna og hann voru komnir fætur sem hann kannaðist ekki við. [...] Svo þegar þau voru á gangi hvort á eftir öðru, maðurinn á sléttunni og sléttan í manninum (eða öfugt) þá var engu líkara en ferfætt slétta í mannslíki væri á gangi og framan á henni hefðu vaxið brjóst, höfuð, axlir og handleggir. Þetta er af því tagi sem við höfum oft séð í textum Guðbergs, með mótsögnum er vandlega girt fyrir allan röklegan skilning. En það þyrfti þá að ganga út frá einhverju kunnuglegu eða viðurkenndu til að orka sem skopstæling eða framandgerving. Hér virðist bara engu slíku vera fyrir að fara. Þrjár smásögur Guðbergs hef ég fundið í tímaritum fyrir birtingu smásagnasafna hans, en þær voru þó ekki teknar upp í þau. Tvær þeirra eru Betlarinn og Boðun í TMM 1970. Það skýrist nú af því að þær eru nær því að vera blaðagrein en sögur. Sú fyrri rekur hvar betlurum sé best að koma sér fyrir og hvernig þeir eigi að betla í Suður- eða Norður-Evrópu. Hin rekur hvernig engill fór úr einu málverki í annað. Ekki er sami blaðagreinarsvipur á Ég á bíl í TMM 1979, og veit ég ekki hví hún var ekki tekin upp í smásagnasafn, því ekki er hún verri en sumar sem þar lentu. Hún segir frá þroskaheftum dreng og ráðþrota foreldrum hans, frá sjónarmiði einhverskonar meðferðarfulltrúa. Karl og íslensk kvennahagfræði í Bjarti 1993 birtist heldur ekki í smásagnasafni. Hún er þjark um hlutverkaskiptingu kynjanna og annað tískutal, umræða frekar en saga. Smásögurnar eru fjölbreyttari en skáldsögurnar, því í sumum þeirra er atburðarás fáránleg og með öllu ótrúleg (líkt og lokahluti skáldsögunnar Það rís úr djúpinu). Þar má nefna skopstælingar á fræðimennsku í Ástum samlyndra hjóna (Kenndin kringlótt vömb og Ketabon), og öfgafulla ærslasögu um prestastefnu í sömu bók (Þegar hann steig í stólinn). Þetta fáránleikatal getur verið dæmisögukennt, svo sem í Hinsegin sögur, þar sem eru kynskipti (Undrið milli læranna), um homma sem eru tvítóla á brjóstinu (Hanaslagur hommanna) og Afríkudýr á Bankastræti (Þetta henti á föstudaginn var). Dæmisögukennt er einnig Ævintýrið í Maðurinn er myndavél og flestar sögurnar í Jólasögur úr samtímanum. Þar er eigingjörnu fólki kennd hjarðhugsun, sem áður segir. Hugarflaumur getur ríkt í heilli sögu, svo sem í Á skerminum og að nokkru leyti í Andrókles og ljónið, báðar í Hvað er eldi guðs? Í raun gildir þó sama um smásögur Guðbergs almennt og um skáldsögur hans, atburðir skipta ekki mestu máli, hvað þá atburðarás, heldur mynd samfélagsins, hópa fólks. Og þetta er sama myndin í báðum formum, mikið ber á erjum innan fjölskyldu, einkum hjónaerjum, hæðst er að hverskyns hjarðhugsun og að heimskulegum hugmyndum, hversdagslíf er sýnt sem nöturlegt, mótað af vonbrigðum. Svo margvísleg sem bygging smásagna Guðbergs er, hnitun um meginatriði eða stefnuleysi, þá er meginatriðið jafnan neikvæð mynd af samfélaginu. 2.7.Barnabækur Fjórar sagna Guðbergs mega teljast barnabækur og þær eru vissulega prýddar teikningum, ólíkt öðrum bókum hans, en annars er tekið fram á bakkápu að einnig hæfi þær fullorðnum. Einna barnalegust þessara sagna er Allir með strætó (2000), sem ber líka undirtitilinn: Barnasaga tileinkuð Strætisvögnum Reykjavíkur. Bókin hefst þar sem aðeins er einn strætisvagn eftir í Reykjavík og má aðeins aka fimm götur vegna aðhalds í opinberum rekstri. Áður voru strætisvagnarnir fullir af fólki, en nú eru þar aðeins gamalmenni, krakkar og öryrkjar svo sem fíklar, en fullgilt fólk notar einkabíla. Vagnstjórinn er örvæntingarfullur og grætur þetta á gúmmottu á gólfinu, alltaf á sama stað. Einn daginn situr strákur með grænan skó við hlið þess staðar, segir ekkert, en tré vex upp úr gólfmottunni á fyrrgreindum stað. Það vex þegar ekið er áfram, og því örar sem hraðar er ekið, en hjaðnar, sé ekið aftur á bak. Nú fyllist vagninn af fólki sem vill komast í fréttir með mynd af sér með trénu. Bókin er stutt, einar tólf textasíður, en þar eru sautján myndir stórar, og þar er sagt um þá tíma þegar flestir fóru með strætisvögnum: Svona var lífið í strætisvagninum. Menn lærðu að sýna öðrum tillitssemi. Enginn tróð þar öðrum um tær. Fólki fannst mest gaman þegar mikill troðningur var í vagninum. Ef einhver rakst harkalega á annan, þá sagði hann undir eins. Fyrirgefðu. Svona var þetta á öllum leiðum: Vagnarnir voru skóli þar sem menn lærðu háttvísi. Mér virðist annars af þessum bókum að Guðbergur fallist ekki á skiptingu skáldsagna í barnabækur og fullorðinsbækur. Tóta og táin á pabba (1982) er myndskreytt teikningum höfundar sjálfs. Hún segir frá lítilli stelpu sem dreymir að hún leiki sér að stórutá af pabba sínum, táin hefur höggvist af fæti hans þegar skellt var á hann hurð. Hún gengur nú laus og minnir á allan hátt á böll, hún er mjúk viðkomu, og sé hún strokin þrútnar hún og spýtir vökva, enda verður stelpan mjög æst við að handfjatla gripinn eða fá hann á magann. Aðrar konur eru líka óðar í þessa tá, ekki síst ”pipraðar kennslukonur”. Svo vaknar stelpan og breytist þá í strák, en tilfinningarnar eru samar. Fyrst bókin er ætluð börnum má af því álykta að höfundur telji kynhvöt eðlilegan þátt í tilfinningalífi þeirra. Einna beinust ádeila er í Hundurinn sem þráði að verða frægur, um 90 bls. saga frá 2001, búin þrem tugum teikninga af sögupersónum. Aftan á kápu segir að höfundur bjóði “hér börnum jafnt sem fullorðnum inn í ævintýralegan heim dýra og manna“. Og auðvitað er enginn fyrirfram útilokaður frá sögunni vegna aldurs. Hún höfðar þó varla til mjög ungra barna, gerist raunar meðal dýra, en hefur glögg uppeldissjónarmið, boðskap. Aðalpersónan er hundur á sveitabæ. Honum finnst hann vera vanræktur, fólk klappar honum ekki eins og áður, þegar hann var vel metinn smalahundur. Hann er afbrýðisamur gagnvart barnungri dóttur hjónanna á bænum og vill allt til vinna að hljóta hylli þeirra aftur, t.d. að dulbúa sig sem kind, en þær fá mikla athygli þegar sagan gerist, um sauðburðinn. Tal hjónanna og hugsanir sýna glögglega að þau eru ekki þess verð að hafa áhyggjur af viðhorfum þeirra, því þau eru svo ósjálfstæð að hafa varla nein viðhorf. En hér kemur ein skýring þess að sagan gerist meðal dýra, aðalpersónan er hundtryggur, ósjálfstæður samkvæmt skilgreiningu. Hann reynir að dulbúa sig með grímu sem kind, fyrst þær fá meiri athygli en hann, hestur er beðinn að prjóna á hann grímu, og annað hefðbundið orðalag er notað á svipaðan hátt. Loks bjargar hundurinn barninu frá drukknun, samkvæmt gamalli klissju, en hjónin kenna honum þá um að barnið datt í ána, og bóndinn skýtur hann eftir að hafa lokkað hann til sín með fölskum gælum, enn samkvæmt klissjum. Hundurinn var spurður hví hann vildi ekki vera hann sjálfur, og það eitrar einmitt líf hans og verður honum að bana, að vilja ekki vera eins og hann á að sér, heldur sækjast einlægt eftir viðurkenningu annarra. Væri sagan einfaldlega sviðsett meðal manna, þá væri varla unnt að hafa boðskapinn svona opinskáan. Leitin að barninu í gjánni (2008) hefur undirtitilinn: Barnasaga ekki ætluð börnum. Saga þessi er enn af sama tagi, 150 bls. myndskreytt skáldsaga sem snýst mest um börn og viðbrögð þeirra við ýmsu sem þeim finnst fráleitt í skólahaldi, og hvernig þau reyna að bjarga bágstöddum. Þrátt fyrir undirtitilinn mætti þessi saga þá flokkast sem barnabók, ekki síður en Tóta og táin á pabba og Hundurinn sem þráði að verða frægur. Söguhetjan er ekki einstaklingur, heldur hópur barna sem nýbyrjuð eru í grunnskóla, þau eru kölluð tossabekkur. Kennslukonan vill ekkert kenna þeim, en setur þau samt í skyndipróf, spurningarnar eiga þau sjálf að semja. Hún hefur kjörorðið ”Börn eiga að vera frjáls”, og pundar Guðbergur þar á tískustefnu í uppeldismálum, og raunar á ýmislegt tískublaður líka, af sama tagi og brátt skal rætt. Sé fróðleikur hafður yfir er hann augljóslega skopstæling ómerkilegs staðreyndatals: ”hvenær biskuparnir fæddust, hvernær stríðin voru háð og hve margir í mannskynssögunni féllu fyrir föðurland sitt” (bls. 142). Önnur kona ryðst inn og slæst við kennslukonuna, sú nýkomna er með skott sem breytist í hala, síðan í rófu, loks í yfirskegg. Þetta er nú nógu óskiljanlegt, en svo sjást draumar liðast út úr höfðinu á sofandi stúlku. Einn draumurinn tekur svo til máls og segir þessi óskiljanlegu orð (bls. 98): Ljótir draumar leynast fremur í fríðum en ófríðum enda eru þeir munaður fegurðarinnar. Þegar börn vaxa og verða stór fækkar draumunum, þeir smækka, draumar ellinnar verða hvorki eitt né neitt enda vonlausir um framtíð. Mundu að draumar vaxa af draumum á sama hátt og kartöflur undan kartöflum. Draumurinn hló hæðnishlátri. Ýmsilegt annað er mótsagnakennt, hurð er mölbrotin, en brátt er önnur heil komin í hennar stað, slitinn stóll talar um álag þúsund rassa (bls. 116-17). ”Börn ganga best fyrir orðum, dálítið eins og bílar fyrir bensíni. Á sinn hátt eru þau orðabílar” (bls. 123). Skólastjórinn upplýsir að í kjallaranum sé læst hurð sem liggi að gjá sem barn hafi fallið í, kannski fyrir milljónum ára. Skólabörnin komast inn og raða sér á gjárbarminn til að bjarga barninu. Skólastjórinn og konurnar brjóta skólann og sópa brotum hans í gjána, stökkva síðan í hana. Þá reynast börnin standa á sléttu og þau finna nýja skólabyggingu. Allar þessar óvæntu umbreytingar mega minna á barnasögu Lygia Nunes Bojunga: Gula taskan, en Guðbergur hefur þýtt leikritið Dóttir línudansaranna eftir þessa brasílísku jafnöldru sína. Helstu andstæður sögunnar virðast mér vera milli skynsamra barna annarsvegar og svo snarvitlausra fullorðinna hinsvegar, vitleysa þeirra felst einkum í fylgispekt við viðteknar hugmyndir, sýnist mér. Hér yfirgnæfir þessi boðskapur, því hvorki er sögugangur áhugaverður, né persónusköpun eða umhverfislýsingar. Því finnst mér þessi saga Guðbergs í slakara lagi, en e.t.v. birtist hér tillit til lesenda á barnsaldri. 2.8. Skáldævisaga Guðbergs. Þetta er eitt samfellt verk en birtist í tveimur bindum, 1997 og 1998 (endurútgefið í einu bindi, undir titlinum Bernska, 2008). Þar lýsir Guðbergur bernsku sinni, fram til 12 ára aldurs. Þetta er stærsta rit Guðbergs, rúmlega 700 bls. Rammi þess er í samtímanum, fullorðið skáldið kemur á æskuslóðir til að rifja upp fortíðina í húsi bernsku sinnar. Seinna bindi lýkur á hugleiðingum hans um nýja stóra kirkju staðarins, hún er tómleg, en litla gamla kirkjan var yfirfull af fólki. Annar kafli útskýrir árvisst jólakast móðurinnar með minningu hennar um að bjarga kindum úr flæðiskeri á jólum, en það gerði faðir sögumanns svo líka síðar. Fyrra bindið, Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar skiptist í þrjá meginkafla. Fyrsti kafli hefur föður sögumanns mest í sviðsljósinu, annar kafli móður hans og móður hennar, en þriðji kafli heitir Dulmagn bernskunnar og rúmar Fyrsta til sjötta dulmagnið. En II bindi heitir Eins og steinn sem hafið fágar, það voru orð föður Guðbergs um hann nýfæddan, það hefst á sjöunda dulmagni en endar á þrettánda. Hér er ekki venjuleg sögurás, heldur stokkið frá einu atviki til annars. Ekki er hér minnst á að sögumaður hafi nein verk að vinna, en í viðtalsbókinni Guðbergur Bergsson metsölubók sagði hann frá því að hann færði föður sínum matinn á fiskverkunarstað. Formáli verksins afmarkar heimildagildi þess (bls.7): Skáldskapur er ekki sannur vegna þess að efnið sem hann fjallar um hafi gerst í raun og veru og sé rétta lýsingin á því eða það falli að almennum hugmyndum um hvað það er að segja sannleikann, heldur er vottur af sannleika í honum ef verkið er hvort tveggja samið af löngun og getu höfundar til að bera vitni því sem hann telur vera satt, séð frá eigin sjónarhólí. Ævisögur eru ekki til, strangt á litið, því fátt glatast jafn algerlega og ævi manns, þannig að aðeins er hægt að færa í letur löngun hans til að varðveita andblæ hennar í orðum. [...] Þetta verk er sagnfræðilega rangt. Því er einungis ætlað það hlutverk að vera nokkurn veginn rétt, tilfinningalega séð, hvað höfundinn varðar. Þetta er því skáldævisaga. Með öðrum orðum, þessar endurminningar eru persónulegar, annar Grindvíkingur á sama aldri, jafnvel bróðir Guðbergs, gæti haft allt aðrar minningar. Þessar endurminningar eru samt afar hlutlægar, og ná þannig til lesenda sem hafa allt aðrar minningar um allt annað fólk og atburði. Meginkostur ritsins er tillitslaus hlutlægni. Hér er ekkert dregið undan, sögumaður gerir sig hlægilegan í bernskumetnaði og kunnáttuleysi, mígur á sig, er hýddur og barinn. Verulegur munur er á myndum hans af föður og móður. Faðirinn er strangur, nákvæmur, vandvirkur en ósjálfstæður gagnvart höfðingjum svo sem alþingismanni og hefur hinsvegar þá áráttu að gera lítið úr slíkum höfðingjum í samtali við annað alþýðufólk. Einnig er hann dálítið hlægilegur í dómum sínum, t.d. að fylgja nýfrjálshyggju samtímans í að vilja selja hús sitt á almennum markaði, frekar en að selja það uppkomnum syni sínum. Ímyndunarafl hans er hinsvegar mjög sterkt. Mynd móðurinnar er fráleitt eins skýr, helst í bernskuminningum hennar sjálfrar, en síður sem mynd sögumanns af móður hans fullorðinni. Þar eru bara einstök atriði, svo sem þegar hún er að svæfa syni sína með kvöldbænum, eða þegar kristinboðsbræðurnir þrúga hana kasólétta. Einna skörpust er minning hennar um að bera saumavél ásamt móður sinni frá Keflavík til Grindavíkur, en þegar loks er heim komið, vísar faðir hennar móður hennar burt, hrindir henni niður í kjallara og kastar saumvélinni á eftir henni. Upp úr þessu skilja þau hjónin vegna gruns föður hennar um að hann sé ekki faðir barnsins sem móðirin er langt gengin með. Sögumaður er meðvitaður um þessa takmörkun móðurmyndar sinnar og segir m.a. (I, bls. 48): Ummæli um mæður sýna, ef ekki felumynd, þá væmna og marklausa skrípamynd. Kannski á móðirin það skilið. Hún krefst næstum strax með umgengni sinni við afkvæmið að það komi fyrir í hugsun sinni ósamræmi á milli þess sem það hefur reynslu af og skynjar, annars vegar móður sinni sem venjulegri mannveru og hins vegar hvernig því er skylt að segja frá henni sem einhverju einstæðu og túlka hana í orðum sem hugsjón. Af þessu stafar ótti barns við móður sína og ótti hennar við það. Barnið heldur að það hegði sér ekki nægilega vel samkvæmt mótsögninni og móðirin heldur að hún hafi ekki komið felumyndinni af sér nógu rækilega inn hjá því. Móðirin er hin sanna uppspretta óttans. Mynd hans af föðurnum er hlýleg en jafnframt gagnrýnin.Faðirinn skiptir um skoðun fyrirvaralaust, að því er virðist einkum til að ríkja í samtölum. Einnig er þetta (fyrra bindi, bls.68): Þegar pabbi sá hvað við þóttumst verða miklir, reyndi hann eins og venjulega að draga úr okkur kjarkinn, slá á hvatningar sínar. Enn lengra ganga lýsingarnar á afa hans og ömmu í móðurætt. Ekki er ástæða til að taka mörg dæmi, því almennt má segja að fyrir utan móðurina séu flestar persónur ritsins skrípamyndir. T.d. (II, bls.166): Þegar afi kom í heimsókn og hafði vit á öllu eins og því hólki hættir til sem er farið að missa sjón, þá spurði hann mömmu með þjósti: Fer þessi krakkaræfill þinn aldrei út undir bert loft til þess að slást við aðra stráka í góða veðrinu? Ég get það ekki, ég er með eitthvað bogið í banakringlunni og sé oft stjörnur, svaraði ég, feginn því að hafa gilda afsökun fyrir að langa ekki að láta aðra lemja mig í klessu. Svona fífl eiga að fá á kjaftinn og mig langar að sjá það verða að veruleika áður en ég verð staurblindur og sé ekki einu sinni til við að smíða klemmur, svaraði afi. Frábært er hér að lesa um lestrarreynslu sögumanns. Hann rekur ítarlega lágkúrulegar kristilegar boðskaparbókmenntir sem hann las fyrst af öllu á fátæklegu bókasafni þorpsins, og meðmæli – kvenkyns – bókavarða með þessu. Þessar háðslegu lýsingar eru eiginlega upphaf Guðbergs sem rithöfundar. Í þessum bernskuminningum er margt kunnuglegt frá skáldsögum hans og smásögum. Er þar einkum að nefna háspekirugl og fráleitar alhæfingar, sem taldar eru hér í öðrum kafla (3??), þetta og áþekkt hefur hann eftir fullorðnum í bernsku sinni. Ekki er kennarinn undanskilinn, þvælan í honum er síst skárri en í öðrum (II, 46-7): Talið var óhollt fyrir börn að fara beint úr leik eftir mikil öskur í eitthvað jafn erfitt fyrir úfinn og barkann og það að þurfa að rembast við að lesa uphátt eða fylgjast með öðrum í hljóði. Slíkt var talið slæmt fyrir raddböndin. Maður gat fengið það sem var kallað úfsig, með því átti úfurinn að geta lokað kokinu og þá var köfnun vís. Líka var til í dæminu að við þetta streð hefði brotnað í barni málbeinið. Krakkar, lesið ekki hratt rétt á meðan þið eruð að iðka úfinn, var kennarinn vanur að segja. Samkvæmt þessu riti snerist skólalærdómurinn mest um að kunna biblíusögur, að geta þulið upp þverár Dónár, og muna tvö hæstu fjöll í hverri heimsálfu. Jafnvel ruglið um að “vera kominn af mestu prestaættum landsins” er hér haft eftir fólki. Mikið er um fáránlega hjátrú, einnig hafða eftir móður hans (II, bls. 122 o.áfr.). Það er áberandi í öllum þessum endurminningum, að sögumaður sér alltaf spaugilegu hliðina á fólki. Ekki er því trúandi að enginn hafi nokkurn tíma sagt orð af viti í Grindavík í bernsku hans. Ég ýki þetta svolítið, en áberandi er í senn hlutlægni lýsinga og fjarlægð sögumanns, sem sýnir flestar persónur sem afar takmarkaðar að þekkingu og viti. Andinn sem ríkti í þorpinu er sýndur mjög gagnrýnið. Um sameiginlegt málverk barnanna á vegg skólans, en það var kallað “Karlinn”, segir m.a.(II, bls. 95): Gerð verksins vakti grimmd við þá sem við gátum kúskað. Hún var aukin af áhrifunum frá utanbókarlærdómi um stöðug átök og stríð útvalinna við óæðri heiðna kynstofna í landinu helga. Það þótti kristileg skylda í Þorkötlustaðahverfinu að börn stæðu sem einn maður með útvöldum, þeim sterkasta, þeim manni eða þeirri þjóð sem kom sér best áfram, sigraði aðra í keppni, kyrrði vind og sjó, kom réttlátum styrjöldum af stað og samdi frið eftir sínu höfði, veiddi mest, sópaði upp auðæfum hafsins, tókst með dugnaði að kúska óæðri sem gáfu upp andann undir múrveggjum Jeríkóborga heimsins. Í samræmi við þetta er andinn milli barnanna, óskaplegt einelti, svo sem lýst er ofar á sömu bls.: Svo stundum brugðum við okkur frá, fórum í leik sem hét kýlingar, eða í feluleik, fallin spýtan eða skoppuðum gjörðum, og kannski var öll leikgleðin frá Karlinum komin, frá listþörfinni sem brýst oft fram í grimmd. Best þótti það ef einhverjum tókst það afreksverk að taka einhvern fantataki á meðan annar glennti á honum munninn en sá þriðji sprændi upp í hann. Einnig kvoðan sem streymdi út úr höfðinu (Hjartað býr enn í helli sínum) er hér, þegar frænka sögumanns sér ekki að hann hafi ræktað blómgarð, því (bls. 117): Það geta bara konur, ekki heilbrigðir strákar. og (II, bls. 118): Ég sagði ekkert en fann hvernig ég hafði slengst í gólfið og úr höfðinu lak dapurlega þykka kvoðan sem streymdi í sársaukanum út í víðáttuna handan við hafið þar sem frelsið átti heima, í útlegðinni, ekki átthögunum. Það var engu líkara en taumarnir hugsuðu þegar þeir streymdu fram: “Þú og ég, við eigum ekki heima hér, við eigum heima í engu.” Það er freistandi að bera þetta mikla verk saman við helstu skáldævisögu á íslensku, Fjallkirkjuna eftir Gunnar Gunnarsson. Og vissulega er margt líkt. Roskinn sögumaður hverfur til bernsku sinnar og rifjar hana upp. Þeir hlutar verksins sem fjalla um bernskuna eru ámóta langir, lýsingar á persónum og staðháttum eru ítarlegar og myndrænar. Sama má segja um Í leit að glataðri tíð (A la recherche du temps perdu) eftir Marcel Proust. Hann fæddist 1871, var því tæpum tveimur áratugum eldri en Gunnar sem fæddist 1889. Proust dó ári áður en Fjallkirkjan fór að birtast á dönsku, en hún birtist á árunum 1923-8. En fyrstu sex bindi Leitarinnar – af níu – birtust á árunum 1913-1923 og hlutu þegar mikla frægð. Nú er vissulega verulegur munur á Leitinni og Fjallkirkjunni – sú fyrri gerist meðal fína fólksins í París, en Fjallkirkjan meðal alþýðu, bændafólks á Fljótsdalshéraði. Annar munur skiptir þó miklu meira máli að mínu mati, meginatriði Leitarinnar er að skipa saman tvenns konar reynslu, minningum, sem eru mjög sundurleitar á yfirborðinu, en eiga þó eitthvað mikilvægt sameiginlegt, og í þeim samanburði er uppsprettu skáldskapar að finna. Skáldævisaga Guðbergs gerist fjórum áratugum eftir að bernskuminningar Fjallkirkjunnar eiga sér stað. Báðar segja frá alþýðufólki, fremur fátæku. Þó virðast allir hafa nógan mat og klæði, en vissulega er húsakostur slæmur á báðum stöðum, mikill gólfkuldi hjá fjölskyldu sögumanns Guðbergs, og fólk fær kuldapolla á fætur. Ekki hefur hagur fólks á Fljótsdalshéraði verið betri hálfri öld áður. Báðum sögumönnum er strítt og þeir hræddir í bernsku, báðir lýsa spaugilegum persónum, báðir unna móður sinni langt umfram annað fólk. En sem áður segir er hún nánast mállaus sem fullorðin kona í sögu Guðbergs. Aðrar persónur þar eru skrípamyndir, en í Fjallkirkjunni eru einnig virðulegar persónur, einkum föðurfólk sögumanns. Helsti munurinn er annars sá að “stelpulegur strákurinn” í sögu Guðbergs virðist verða fyrir skelfilegu einelti og misþyrmingum í þorpinu þar sem hann vex upp, en sögumaður Fjallkirkjunnar býr í sveit og sleppur við einelti. Enda er saga Guðbergs einhliða neikvæð, þar sem Fjallkirkjan sýnir bernskuheiminn sem hugljúfa paradís, glataða eftir dauða móður sögumanns. 2.9. Ljóð Guðbergs Frumsamdar ljóðabækur Guðbergs eru litlar að vöxtum, alls þrjár á 40 árum. Sú fyrsta birtist 1961, en sú síðasta fjörutíu árum síðar. Engar þýðingar eru í þeim bókum. Endurtekin orð var önnur tveggja fyrstu bóka Guðbergs. Hún er 60 bls. kver sem skiptist í þrjá hluta með rómverskum tölum, en á undan þeim fyrsta fer titillaust ljóð. Miðhlutinn heitir Og margar krosslagðar götur, og geymir 24 ljóð stutt, 1-7 línur hvert. Hin ljóðin eru mun lengri. Fyrsti hluti, Dimmur himinn, er 12 ljóð, en sá síðasti 20. Flateyjar-Freyr birtist 1978 og er tæplega 40 síður. Hún er ort til líkneskis Freys sem myndhöggvarinn Jón Gunnarsson setti upp í Flatey á Breiðafirði, en eyjan var upp úr 1970 vinsæll sumardvalarstaður ýmissa listamanna eftir að tónskáldið Atli Heimir Sveinsson tók við símstöðvarstjórn þar af ömmu sinni. Guðbergur sagðist hafa fært líkneskjunni ljóðin í krukku sem daglegar fórnir. Ekki er efnisyfirlit en ljóðin mega teljast vera 34, sé miðað við að hvert þeirra hefjist á ávarpinu Freyr. Þau eru mislöng, allt frá einni línu yfir í rúma blaðsíðu, en flest rúmast á einni síðu. Stígar heitir svo þriðja ljóðabók Guðbergs og birtist 2001. Hún er stærst, 74 bls., 56 ljóð, þéttprentuð. Hún virðist líka rúma ljóð frá löngum tíma, í þremur þeirra segist ljóðmælandi vera fimmtugur (Samanburður, bls. 16, Hugljómun, bls. 23 og September, bls. 68), en það varð Guðbergur á árinu 1982, skömmu eftir útkomu Flateyjar-Freys og næstum tveimur áratugum áður en þessi síðasta ljóðabók birtist. Form bókarinnar er óvenjulegt, hún er 24 sm. á breidd, en tæpir 13 sm. á hæð. Það þótti ritdómurum hæfa löngum ljóðlínum bókarinnar, en vegna þess hve lágskorin bókin er ná ljóð iðulega yfir á næstu opnu, og er það óþægilegt form. Ljóð Guðbergs eru öll án stuðla og ríms, svo sem tíðkaðist á útkomutíma þeirra. Hins vegar er reglubundin hrynjandi áberandi í mörgum ljóðum, einkum í fyrstu bókinni. Um byggingu er það helst að segja að lok kvæðis eru stundum einskonar endurtekning upphafs þess. Kvæðið Miðdegiskyrrð (Endurtekin orð bls.14) hefst á línunni: ”Skuggar þjóta um fjöll”, en í lokaerindi stendur : ”þýtur í skuggum fjalla/ að hafi. Að hafi”. Svipað er með Festingin (Endurtekin orð bls.9) og Mig dreymdi (Endurtekin orð bls.12), einnig Leikir (Endurtekin orð bls.15). Þar er lokaerindi uppfylling 1.erindis, kona bíður manns og rauðar varir hennar hafa þítt gat í frostið á gluggarúðunni, en í lokin leggur hann varir að þíðu gluggans, horfir í munn hennar, en hún í augu hans. Í kvæðinu Á þeim aldri (Endurtekin orð bls.13) ræðst byggingin af hreyfingu: fyrra erindi sækir frá rigningu inn að lykt í lokuðu herbergi. Seinna erindi sækir einnig inn frá mynd húsa um lykt og hljóð að lokum kvæðisins: kennarinn gengur að púlti. Stundum mótast bygging ljóðs af sterkum andstæðum, t. d. í Klukkan fimm að kvöldi (Córdoba). Í upphafi er talað um skýin sem ”haf af eldi/ Haf af storknu blóði” (Endurtekin orð bls.43). En í næsta erindi bera sígaunar nýfædd börn á örmum sér. Í fjórða erindi er blámóðan móðurleg, umvefur fjöllin og dökk ólivutrén, og býr þau þannig undir nóttina. En lokaerindið segir frá morði. Persónugervingar töldust mér um 50 í ljóðabókum Guðbergs, og þær eru nær eingöngu í Endurtekin orð (31) og í Stígum (17). Oftast (nær helmingur) eru fyrirbæri himins persónugerð, sól, þoka, kvöld og nótt (3 hvert), vindur, haust og dagur (2 hvert), auk þess stjarna og tungl. Þetta er mjög líkt því sem nýrómantísk skáld tíðkuðu um aldamótin 1900, þar var slíkt tveir fimmtu persónugervinga, en slík fyrirbæri voru að meðaltali fjórðungur persónugervinga á 19. öld. Athæfi persónugervinga var mjög ólíkt því sem kom út úr könnun minni á ljóðum rómantískra skálda og nýrómantískra á tímabilinu 1800-1933. Þar var meira en helmingur tilvika blíðlegt athæfi eða jákvætt á einhvern hátt, oft móðurlegt, en neikvætt og hlutlaust var álíka títt, fjórðungur hvort (sjá um allt þetta bók mína Seiðblátt hafið, bls.183-4). En hér er hlutlaust athæfi rúmur helmingur tilvika (31 af 50), en jákvætt (t.d. elskar, dreymir, umvefur) er ámóta títt og neikvætt (harmar, hefnir, dáinn, stynur), um fimmtungur hvort. Ég hefi ekki tölur um tíðni þessa í íslenskum ljóðum eftir 1933. En mér finnst þetta samt segja mikið um skáldverk Guðbergs. Rómantísk skáld, og einkum þó nýrómantísk skáld sýndu náttúrufyrirbæri í mannslíki til að gera þau nákomin og kær lesendum. En Guðbergur hefur alveg andstæða stefnu, að sýna umheiminn sem óviðkomandi fólki, kaldan og hlutlausan. Líkingar töldust rúmlega 80, og enn flestar í Endurtekin orð (45), þær eru mun færri í Stígum (30) og sárafáar í Flateyjar-Frey (7). Þar er hinsvegar mun meira um mótsagnir (14) og enn er töluvert um þær í Stígum (10) en mun minna í Endurtekin orð (6). Líkingar eru einkum hafðar um fólk (tæpur þriðjungur), um afurðir fólks, svo sem orð, bækur (fjórðungur) og um fyrirbæri himins (tæplega fjórðungur, himinn, ský, vindur o.s.frv.). Um sértök (afstraksjónir) er tíundi hluti líkinga. Oftast er líkt við hluti sem fólk hefur búið til, það er tæpur þriðjungur dæma. Rúmlega fimmtungur dæma er líkingar við fyrirbæri himins, ljós, myrkur, eld, lykt, en tæpur fimmtungur er líkingar við lífverur almennt, en sérstaklega við fugla og fiska. Tíundi hluti er svo líkingar við fólk og líkamshluta þess. Hitt er fátíðara, innan við tíunda hluta er líkingar við vatn, haf og á. Hér gengur Guðbergur lengra á þeirri braut sem blæleitin skáld eða nýrómantísk mörkuðu frá rómantískum. Þjóðskáld 19. aldar höfðu líkingar einkum um sértök og himin, en blæleitin skáld um 1900 og á öndverðri 20. öld höfðu líkingar fremur um fólk, svo sem Guðbergur gerir. Allt frá 19. öld er svo einkum líkt við hluti í nánasta umhverfi fólks, verkfæri, húsmuni og því um líkt. Því fylgir Guðbergur. Ljóðmyndir eru sjaldan áberandi í ljóðum Guðbergs, og þær sýna yfirleitt umhverfi sem er kunnuglegt íslenskum lesendum. Oftast er maður í miðju þar (14 sinnum), einnig er skuggi (2), haf (4), ey (2), strönd, sigling, himinn (3), kvöld, rökkur, nótt og sól. Ennfremur gata (3), garður, blóm. Það sem helst er dregið fram í þessum myndum eru litir og andstæður þeirra (16 sinnum), hreyfing (14 sinnum), hljóð (6), andstæður ljóss og myrkurs (4), andstæður hita og kulda (1). Fyrstu bækur Guðbergs, skáldsagan Músin sem læðist og fyrsta ljóðabók hans, Endurtekin orð, birtust þegar þessi Grindvíkingur var 29 ára og hafði búið fimm ár á Spáni. Þeirrar Spánardvalar ber einkum þriðji hluti þessarar fyrstu ljóðabókar merki. Þar er ljóð – Klukkan fimm að kvöldi (Cordoba) bls. 43 – sem án þess að nefna það skáld, fjallar greinilega um aftöku Federico Garcia Lorca, en Guðbergur hafði þýtt mikinn ljóðabálk hans, Harmaður Ignacio Sanchez Mejias, sem birtist í Eimreiðinni árið áður. Viðkvæði þess bálks er einmitt: ”Klukkan fimm að kvöldi”. Fyrstu ljóð III. hluta, Tvær tilraunir, bera einnig svip af ljóðum Garcia Lorca. Þann svip sé ég í runum stuttra aðalsetninga sem lýsa skini og myrkri; ennfremur manngera þær mannlausa náttúrumynd með endurtekningum: Dauðinn kom óséður yfir auðnina, óséður í hári álfkonunnar. Ekkert blóð í hófförum. Ekkert blóð á hjarni. Aðeins óp í kyrrðinni. Fleiri ljóð hér tengjast Spáni, og taka afstöðu til stjórnmála, svo sem Spænskt haustljóð (bls. 42), sem hefst svo: Einhvern tíma mun lýðurinn vekja upp storminn, koma eins og köld hönd inn á nakinn líkama ykkar. Og þið munuð vakna. Áberandi í fyrstu bókinni eru andstæður kyrrðar og látlauss mannlífs annarsvegar, en stríðs og drottnunar hinsvegar. Önnur ljóð eru kaldhæðnisleg, svo sem Stolt þjóðanna, sem líkt og fleiri segir frá Kötlugosi og frostavetrinum mikla 1918, þau eru ort í orðastað móður skáldsins, en hún var þá 18 ára. Þessu ljóði lýkur á línum um öskufallið mikla, en þær eru löngu orðnar landsfleygar: Um mig fóru leynd hrif stolts er ég las: Íslands Var Getið Erlendis... Það ár hafði stjórnin mörg boð inni. ... Ég minnist þessara viðburða nú, þegar ég horfi á strók í blöðunum, sem nefndur er Blómkálshöfuðið: amerískt, rússneskt, breskt, franskt, og orð skrifuð af þjóðarstolti. Á eyðimörk vex ekkert tré. Þeir finna sjálfsagt hrif stolts: Ryk Hefur Fallið Á Snjó Í Reykjavík... Enn fleygara er smáljóðið II úr II. hluta, og það er raunar sérprentað aftan á bókarkápuna: Milli steinsins og sleggjunnar er líf okkar barn, fætt milli tveggja stríða. Þegar í þessari fyrstu bók sýndi Guðbergur listamannstök á ljóðagerð, en bókin vakti ekki mikla athygli. Mun meiri eftirtekt vakti Flateyjar-Freyr hálfum öðrum áratug síðar. Sú bók er einn samfelldur bálkur mislangra eininga (oftast ein bls., stundum tvær), sem aðgreinast þó sem áður segir með því að hefjast jafnan á ávarpinu Freyr. Stundum er blaðsíða þéttprentuð, stundum er aðeins ein lína á henni, fyrir kemur (fjórvegis) eftirfarandi stef, “leikmynd stafanna” (bls. 28): Njörður örð jörð er faðir Freys ey og Laufey en Freyr Loki er minn guð. Ekki er verkið þó trúrækið ákall til guðs í venjulegri merkingu, nálægt upphafi þess segir (bls.12): Freyr ég þarf ekki á öðru andlegu frjómagni að halda en því sem í sjálfum mér býr. ... Freyr ég er minn eigin guð þess vegna er ég guðleysingi. Þú ert einungis hjálparhella annað ég og eintal mitt. Af myndmáli ljóðanna eru einna sérkennilegastar myndir gamalmennis á Flatey, þar ber mest á rusli og hnignun, en gamalmennið einkennist af vanmætti og geðvonsku. Þar er m.a. þetta: Karlinn er alltaf í óðu skapi og argur þótt fjör hans sé gamalt. Hann kreppir hnefa úr eilífri þögn eyrnanna móti hljóðheiminum. En hann veit ekki að hann er dauðadæmdur innan um fallnar girðingar horfinn bústofn og brennda plasthauga sumargestanna innan um forn hús komin að falli. (bls. 26) Á haustin þegar gamalmennið sefur á votu fjörugrjótinu/ fellur höfuð þess niður í brúnan vöxt þangsins/ fullt af draumi [Flateyjar-Freyr bls.31] Í örskotsbirtu hrjáðs vetrardagsins heyrist látlaust kvein gamalmennisins. Og þegar er orðið aldimmt á ný eftir hádegið, Freyr, sést það hringsóla gólandi milli tómra húsa í huga mér í birtu næturinnar [...bls.34] Þegar hrjáð gamalmennið æðir í ofurmennsku/ um mýrlendi og keldur eyjarinnar/ fellur það í fen þessarar eyju [...] Þá verður gamalmennið svo æst í huga að það sér eigi heldur augum/ en hnakka/ heldur fer hring í huganum/ snýst í kringum sjálft sig með orðum og fornum sögum/ og reynir að beina stefnu að bryggjunni/ svo það geti fagnað komu hafskipanna. / [...] kannski sigla þar hafskip í kafi elli og óráðs./ kannski sigla hafskip um tár./ Freyr/ en að síðustu starir gamalmennið tómlátt á dautt hafið/ og tárin fljóta ein um klappir og troðning þagnarinnar. [bls.35] Myndmálið er mestallt frá þessari íslensku eyju í stórum firði, en fyrir kemur andstæða þess, svo sem um krossferðariddara (bls.23-4) og (bls.39-40): löngun okkar leitar ekki til þéttbýlla svæða þar sem menning er á menningu ofan þykkt lag stöðugra morða sektargjalda og kennda fornminjar og mótþrói en hugsunin sleikir sér leið til valda með langri eiturtungu. Freyr þetta hefur þú heyrt. Og þetta hef ég séð. Þannig lönd eru okkur gamalkunn útlönd fjölda og forræðis þar sem hinn einfaldi spyr: Hvers vegna leitar vit mannsins jafnan inn á eyðisvæði og skáldskapurinn að einhverju óskiljanlegu og grýttu? Freyr, það vitum við báðir, bæði þú og ég, að hvort tveggja hefur fæðst af mállausri þögn, innsta þætti gleðinnar, í heimkynnum nýrra heima – endalaust í sköpun. Áfram er þessi þráður rakinn, stöðnun er “staffest vit úr gömlum bókum” (bls. 35). Í þessu verki ríkja andstæður staðnaðra kredda annarsvegar, en frjósemi í víxlverkan niðurrifs og sköpunar hinsvegar. T.d. (bls.22): Þeir sem stóðu forðum lausum fótum í frjórri óvissunni standa nú föstum fótum í trénaðri trú og hampa dúsu kenninganna. Þú stjórnar þessu ekki lengur. Freyr. Stígar, þriðja ljóðabók Guðbergs, er einna yfirlýsingasömust. Oft mega textarnir þykja hugleiðingar, fremur en ljóð, einkum um miðbik bókarinnar. Enda segir í bókinni (bls.38): Þetta er ekki ljóð, kunna þeir að segja eða hugsa sem lesa orð mín. Kannski er það rétt. Þá neyðist ég til að verja mig með því að vitna í Dante: Líti maður af skynsemi á ljóðlistina gefur auga leið að hún er frásögn færð í tónlist orða. En vissulega eru hér líka mörg ljóð sem ekki verða skilin röklega. t.d. Loftskjöldurinn, sem lýkur á þessum línum: Nóttin kemur. Ég lít upp. Loftskjöldurinn ver mann ekki gegn duldum heimum. Í okkur skín ógn án sólar. Eins órætt er þetta (Stígar, bls.29): Hughrif og þanki fara þokuleiðir sem greiðast í lokin sundur þótt ég viti aldrei eftir hvaða lögmálum. Úr ljósleysi sjávar kemur fiskur./ Hann hrífur okkur með sér í sund sem er einungis það að vera á sundi. Þetta stef er endurtekið breytt (á bls.73): Hughrif velja leiðir sem ég veit að greiðast sundur þótt ég viti ekki eftir hvaða lögmálum Úr ljósleysi sjávar kemur fiskur. Hann hrífur okkur með sér í sund sem er lítið annað en svaml. Og jafnvel ljóð sem eru hvað beinastar yfirlýsingar, svo sem Ég hef aldrei elskað jökla, skerpast við andstæður, svo sem: Ég hef aldrei elskað jökla en mér er hlýtt til kulda og frosts. Hér eru einnig ”spakmæli” af því tagi sem sáust í umfjöllun sagnanna, hreint rugl: ”Blóm veit á snjó” (bls. 8), ”Íslensk náttúra hefnir sín á fegurð sinni” (bls. 19). Mótsagnir eru af sama tagi og áður var rakið úr sögum Guðbergs. En í ljóðunum eru þær oft útskýrðar, stefnuskrárlegar. Það felur í sér að tilvera fólks byggist ekki fyrst og fremst á röklegri hugsun, að sköpun hljóti að tjá eitthvað óröklegt. Í fyrstu bókinni ber ekki mikið á þessu, fremur á andstæðum. En nefna má (Og margar krosslagðar götur, xxiv, bls. 30): Nálægð hefur öðlast eiginleika fjarlægðar. Og hér sit ég og hugsa um kyrra hluti herbergisins. Hreyfing þeirra vex á öllum stöðum. Enn mætti telja: “Það er einna líkast og allt hafi verið þegar gert en eins og allt sé þó/ ógert um leið” (Flateyjar-Freyr bls.19), “Sá raunveruleiki er mestur/ sem óraunverulegastur er” (Flateyjar-Freyr bls.15), “Rökleysan er undirstaða allra raunvísinda” (Flateyjar-Freyr bls.28), “Ég þrái ekki dauðann, en þrái hann samt” (Stígar bls.56), “Látum lygina leiða okkur/ í allan sannleikann að lokum” (Stígar bls.65), og það sem er óræðast, nánast óskiljanlegt, finnst mér: “Með þrá eftir frelsi í efnisleysi sem leynist í efninu og er efnið tómt” (Stígar bls.31). Raunar eru líkingar óskiljanlegar röklega allt frá upphafi ljóðagerðar Guðbergs. Nokkur dæmi: ”Guja, gálgi vinda” (Endurtekin orð, bls.19), “Maðurinn er vatn + óttinn” (Endurtekin orð bls.29), “Hið rammíslenska drep er komið í sérhvert sár og glufu” (Flateyjar-Freyr bls.27), “Næturgolan ¬- andvarp dauðra stjarna” (Stígar bls.14), “Tíminn er ilmur af fjölærri jurt” (Stígar bls.40) “Sólin er sól sem logar í sjálfri sér/ eldtunga í brunni sínum/ líkt og andi skálds í eigin víðáttu” (Stígar bls.51) “Ástin er myrkrið á ferð með hold sem þráir að bráðna” (Stígar bls.60), ”Í umslagi holdsins eru laun sem annar hirðir” (Stígar bls.43). Þetta er auðvitað í samræmi við yfirlýsingar ljóðanna um að rökleg hugsun nægi ekki, lesendur verða þá að láta ljóðin orka á ímyndunarafl sitt, frekar en vænta þess að allt gangi upp röklega. Þegar lýst er spænskri sólarströnd þar sem skáld var myrt af stjórnmálaástæðum árið 1937, er jafnframt hæðst að heimóttarskap landa skáldsins (Stígar, bls.16): Þeir létu hann í poka og köstuðu í sjóinn þar sem landar mínir baða sig núna í sólskini um jólin og borða hangikjöt og sviðakjamma og minnast eyjunnar í norðri. Víðar er slíkt háð í Stígum, t.d. Hugljómun (bls.23-4) og Eflaust er þetta prýðilegt (bls.50): Eflaust er prýðilegt að vera náttúruvænn í hugsun, stunda símenntun, fara reglulega í fótasnyrtingu, láta lækna fylgjast með ristlinum, vera alltaf á einhverjum biðlista, kjósa flokkinn sem býður mest, horfa á sjónvarp í hófi, taka undir með öðrum og vera mátulega gáttaður yfir hinu og þessu í veislum. Sjá má hugmyndalegt rím eða bergmál við línur í Á þeim aldri (Endurtekin orð, bls.13): Það var rotin lykt úr munnum eftir svefninn, af svita og þæfðri ull og enn verri lykt af stelpum. í Stígar (bls.63): Er ást í góðu veðri á vorin innan um tré og blóm á bakka fegurst alls? Eflaust er hún það. En sú fordæmda og harða er blíðust þótt hún leiði til dauða vors og blóms. Hún er afdráttarlaus og alger. Hún stæðist annars ekki þrautir. En hér er ekki bara vörn fyrir ást sem er fordæmd af múghyggju samfélagsins, heldur er stefnt frá hvers kyns múghyggju í bókinni, sem annars staðar í verkum Guðbergs. 2.10. Málfar Stíll sagna Guðbergs er í grundvallaratriðum hversdagslegur og ekki mjög sundurleitur, hvorki milli sagna né innan þeirra. Frá þessu bregður þó í ýmsu sem hér skal talið, einkum í skopstælingum og mótsögnum. Og það er í samræmi við megineinkenni þessarra sagna, sem Guðbergur sjálfur hefur dregið fram, að ”allt er komið upp úr sama tilfinningagrafreit höfundarins.” Eiríkur Guðmundsson segir um þetta í grein sinni um Maðurinn er myndavél (1991, bls. 22-3): Mýmörg dæmi um það hvernig leikið er með klissjur hversdagsins er að finna í smásagnasafninu. Stundum virðist sem einn helsti tilgangur Guðbergs með skrifum sínum sé að vekja lesendur til meðvitundar um sjálft tungumálið; hann stundar einhvers konar framandgervingu tungumálsins. Þannig er engu líkara en að heilu sögurnar séu sprottnar upp úr algengum orðatiltækjum sem mynda þá grunnhugmynd í hverri sögu fyrir sig og gengið er út frá. [...] Slíkir orðaleikir eru alls ekki nýir af nálinni í verkum Guðbergs, en engu að síður er athyglisvert hvernig hann vinnur markvisst á þennan hátt með tungumálið, og gefur því bókstaflegri merkingu. Þetta er einnig hluti af þeirri viðleitni höfundar að ”rugla lesendur í ríminu” Stíllinn á TJM er margvíslegur, enda er þar mikið um skopstælingar á ýmsum textum. Athyglisvert er sem áður segir, að frá og með 17. bók hennar (síðustu 45 bls.) verður stíllinn tilfinningalegri, einsemd Tómasar og annarra verður þar með tilfinnanlegri.Þetta er einskonar ályktun af því sem á undan fer, magnar það og undirbýr lokin sem áður var talað um. Annars ber stíllinn jafnan mikinn svip af talmáli, og sýnir mismunandi blæbrigði þess, einkum í “þjóðsögum Tómasar Jónssonar”. Einnig eru stælingar á allskonar ritmáli, Gesti Pálssyni, Hómer, og stíllinn lagar sig að kennslubókinni Gagn og gaman til að sýna tómleika fjölskyldulífsins (bls. 317): „Hvað er að frétta, segir Snorri. Ert þú ekki með fréttirnar, segir Sigga. Hvar er dagblaðið, segir Snorri. Dagblaðið er á borðinu, svarar Sigga. Förum þá að hátta, segir Snorri. Ég er þreytt, segir Sigga. Snorri opnar útvarp." O.s.frv. Miklar skopstælingar eru á hverskyns íslenskum bókmenntum, sveitasögum, þroskasögum, þjóðlegum fróðleik, ævisögum, o. s. frv. Það er í þessu öllu sem sagan TJM verður altæk, ef svo mætti segja. Hún nær yfir mikilvæga þætti þjóðlífsins, daglegt líf í sveit og borg, ekki í teprulegri hreinsaðri mynd, heldur dökkri heildarmynd með svita, skít og kjaftæði. Og við sjáum veruleik fólksins ekki í hlutlægri lýsingu, heldur speglast hann í huga þess, í goðsögum sem reyna að koma andstæðufullu og tilgangslausu bjástri þess í samhengi með meiningu, ýmiskonar lífsskoðun. Því er bókin andrík, hversu mikið andleysi og heimsku sem hún sýnir, og því er hún mögnuð mynd af íslenskum veruleik. Lágstíll kemur oft fyrir, einkum þegar talað er um prinsessu (Leitin, bls. 209-210): Það er svo afskaplega rólegt hérna í draumalandinu. Hryggð hefur ekki þrifist í aumum líkama mínum eftir að svefngleðin sótti hann heim. Ég er svo óralangt frá ysi hirðlífsins. Málvillur hafa verið nefndar í gagnrýni á sögur Guðbergs. Er það liður í gagnrýni á ”alþýðlega” skáldskaparstefnu hans. Í framangreindri tilvitnun um viðhorf til skáldskapar í Ævinlega birtist ein þeirra málvillna sem stundum hefur verið fundið að í sögum Guðbergs, sagnorðið “óska” er látið stýra þolfalli, en ekki eignarfalli, eins og málvenja er. Svipað er ”Tók hann honum eins og gefinn hlut” [f. gefnum hlut] (Ástir, bls. 139). ”Ég keyri öllum” (í stað: ek öllum eða keyri alla. Anna, bls. 309), ”Druslur af manni höfðu rekið” (Hermann, bls. 7) í stað hins ópersónulega ”hafði rekið”, svipað er: ”Nema hún bæri á góma í fréttum” [f. hana bæri á góma] (Ástir, bls. 61), og ”Um það fara engar sögur” í stað: fer engum sögum (Saga...flugu, bls. 131). Ekki verða þetta talin veruleg málspjöll. Sama verður að segja um kyn nafnorða, það er stundum breytilegt eftir landshlutum. Hér er orðið “ímugust” haft í kvenkyni í stað karlkyns (Ævinlega, bls. 105), regnskúr virðist haft í karlkyni í stað kvenkyns (Sagan af Ara, bls. 101), en lamasess í hvorugkyni í stað karlkyns (Sagan af Ara, bls. 73). Nafnorð sem lúta sjaldgæfri beygingu eru flutt til algengari beygingar, og er það víða alþýðumál; ” Þessari fölsku brúður” (Ástir, bls. 137), ”Þeir bítast um brúður” í stað ”brúði” (Leitin, bls. 80). ”Þannig búin [...] minnti hún [...] á dansmær” í stað ”á dansmey” (Lömuðu kennslukonurnar, bls. 210). Enn mætti nefna að kona “getur börn”, en það sagnorð er annars aðeins haft um karla (Anna, bls. 88). Loks eru dæmi um ranga mynd sagna, enn er það alþýðumál: “frosnaði” í stað “fraus” og stekkur í stað stökkvir (s. r. bls. 52), “dyfið sér” í stað dýft (Sú kvalda ást, bls. 146, Dönskuskotið er ”Verðið þið aldrei vaxnir” – da. voksne, þ.e. fullorðnir (Hermann, bls. 135). Allt er þetta fyrirferðarlítið miðað við heildina. Um þessa ádeilu á málfar verka hans sagði Guðbergur í viðtali (Vísi, 20.11.1970): Hér er ríkjandi sú stefna, að til sé rétt mál eða rangt. Það er eiginlega fáránlegt. Ég hef gert tilraunir með málið og ég rýf oft setningarfræði í mínum texta. Ég skrifa talað mál, ritað mál og hugsað. Maður hugsar ekki setningarfræðilega rétt. Þegar mál er komið á sitt endastig, þá segja menn: rétt eða rangt, og setja stafsetningarlög — sem eru jú góð til síns brúks. Umdeilt hefur verið hvort þessi fáu tilvik fráhvarfs frá málvenjum séu vegna málvenju í Grindavík (það sagði höfundur sjálfur í svari við ritdómi mínum um þýðingu hans, DV 12/12 1991,bls.15), dæmi um lélega málvitund hans, eins og sumir gagnrýnendur hans hafa haldið fram; eða til að setja svipmót á einstakar skáldsagnapersónur. Hér virðist mér síðasta skýringin eðlilegust, þessi fáu dæmi eru alþýðumál, og setur það svip á skáldsögupersónur. Óeðlilegt væri að þær töluðu hátíðlegt ritmál. Um þetta sagði Guðbergur í viðtali (Helgarpóstinum 16.11.1979): Hér býr fólk við vinnukúgun. Klám er dæmigert málfar fólks, sem býr við einhverskonar kúgun, oft kynferðislega. Það er ekki þar með sagt að slíkt fólk hafi ekki margbreytilegt og fínt sálarlíf, eflaust fínna en þeir sem aldrei nota ljótt orðfæri. Það að bölva er sálræn nauðsyn, bölv slakar á spennunni. Maður heldur oft að þetta fólk sé ruddar, en öðru nær. Ruddar og kúgarar nota fínt og smurt orðfæri. Enn er þess að gæta að óvandað málfar getur verið liður í persónusköpun. Þannig takmarkar ýmislegt í fari sögumanns Ævinlega virðingu lesenda fyrir honum, og þá einnig uppskrúfað málfar hans. Um þetta atriði sagði Guðbergur 1992 m.a. um margvíslegt málfar Bandaríkjamanna sem hann vann með ungur (GBMetsölubók, bls.53): Ósamræmið gerði tungumálið litríkt og laust við samræmdu grámóskuna sem hér ætlar tunguna að drepa. Það auðgaði málið fremur en það yrði fátæklegt, og um leið varð hugsunin kitlandi. Rétt tungumál eru aðeins réttar reglur á sama hátt og guð er aðeins einn og sannur innan trúarsamfélags sem hefur ákveðið að fylgja trú og reglum þar að lútandi. Það eru aðeins yfirstéttir hinna ýmsu landa sem hafa ákveðið á valdatíma sínum að tungutak og framburður þeirra sé hið rétta og öðru æðra. Þær hafa síðan stofnað akademíur til þess að varðveita að minnsta kosti stöðu sína á sviði móðurmálsins, þótt vald þeirra líði undir lok á öðrum sviðum. Í málakademíurnar er síðan skipað gömlum rithöfundum sem renna út í viðurkenningum og látlausum heiðursafmælum eins og ræpa væri. Þetta er í samræmi við aðra yfirlýsingu Guðbergs í grein 1991, þar sem hann hyllir fjölbreytileikann (Er skáldskapurinn leið til hjálpræðis , bls. 442): Ástæðan fyrir því að vitundin eða, að mínu viti, hin innantómu orð um snillinginn heyrast enn á meðal okkar er sú að margir halda, að listin sé leið til hjálpræðis og listamaðurinn því með einhverjum hætti sá Messías tungunnar sem bjargar frá kvöl hjálpræðisþurfum sem á hann hlusta, að minnsta kosti um stund, á meðan menn njóta innihalds sem streymir frá messíasarkrafti málsins til að mynda í líki ljóða eða skáldsagna. Af umgengni sumra manna við móðurmál sitt, íslenskuna, væri stundum hægt að draga þá ályktun, að hún hljóti að vera útvalin tunga sem enginn óhreinn (eða sá sem er með ”svartan blett” á henni) ætti að snerta með penna eða tala hana með hversdagslegum hætti. Enn halda þeir að það beri að nota heiti og kenningar í helgidómi ljóðsins, og líka um aðra: hafið, skipin og konurnar; en ekki má nota orð yfir óæðri þætti mannlífsins eða líkamsþarfa okkar; þar má sletta útlensku og helst latínu. Allt hefur þetta eflaust haft gildi á sínum tíma – meðan leiðtogar þjóðarinnar börðust fyrir sjálfstæði hennar – en núna stendur messíasarstefnan íslenskum skáldskap og hugsun fyrir þrifum... Einnig víkur Guðbergur að þessu efni í eftirmála að Ástum samlyndra hjóna, 1989 (bls. 277): Allt sem er nýtt er að sjálfsögðu rangt, séð frá bæjardyrum þess sem fyrir er. Þannig er hið ranga tíðum hreyfiafl þess sem verður rétt í framtíðinni, ef hið ranga hefur í sér fólgið og öðlast að lokum það afl sem með þarf til þess að það verði rétt með tímanum. En höfundur hugsar ekki um rétt eða rangt mál á bókum sínum með hliðsjón af málfræði og setningafræði [...og bls. 279:] Talmálið er lágstétt eða verkalýður tungumálsins, og þess vegna eru öll stig þess frá því runnin eða komin. [...] Ég var þess vegna ekki í neinum vafa um, að ég yrði að leita á náðir einhvers afbrigðis af talmáli, eða búa sjálfur til mál sem gæti sýnst vera eða verið talmál eða ýmsar tegundir þess en væri jafnframt ólíkt því. Lausn á slíku finnur rithöfundurinn oft með því að ”afbaka” ritmálið, stílfæra það, húðfletta þannig að það skíni í rifjahylki þess. Með þessu móti er ritmálið gert ”ókennilegt” eða lævíst. Í viðtali er ennfremur vikið að gagnrýni á málfar í bókum Guðbergs: — Nú hafa fyrri bækur þínar vakið umtal, og helst fyrir klám, sóðaskap og kannski ógeðslegheit? — Það er eðlilegt, held ég. Þegar ég skrifa mínar bækur, þá erum við að gleyma fortíð okkar: Við viljum gleyma fortíð okkar. Við viljum lifa í velmeguninni, vera sléttir og felldir. Það, að höfundur minni þjóðina á uppruna sinn, það fer í taugarnar á þjóðinni. Þess vegna er það eiginlega spaugilegt, að þegar velmeguninni lýkur, henni er að ljúka á margan hátt núna, þá verða þessar bækur undireins sígildar bækur. Þetta eru einu bækurnar, sem lýsa því tímabili, tímabili velmegunar. [...] Nei, sóðaskapur er ekki í blóðinu á mér. Það er yfirleitt þannig, að þeir sem eru hæverskir í tali, þeir eru það ekki í listaverkum sínum. Maður skapar sína andstæðu. (Mbl.9.11.80). Og 1993 sagði hann (TMM I bls.54): að höfundurinn ”hafi ekki vald á málinu”... er með þessu aðeins átt við að höfundurinn hafi ekki tileinkað sér í öllu hið opinbera og viðurkennda, lærða tungumál yfirstéttanna, vegna þess að hann sem persónulegur málheimur reyndi að finna hæf orð í ætt við eigin tilfinningar og er þess vegna ef til vill í uppreisn gegn því. Flest skáld vilja vera sín eigin móðir á sviði tungumálsins. Enn sagði Guðbergur um þetta í Þjóðviljanum 1978 (11.6.) Dæmi um hnignun og andlega frúarleikfimi stjórnmálamannsins eru hinar ófrjóu umræður hans um tunguna. Hann fjallar einungis um form, stafsetninguna, en aldrei um hvað er hugsað á tungu landsins. Ekki er að orðlengja um þessar málvilluásakanir í garð Guðbergs, þær eru fáránlegar og hefur höfundurinn margsýnt mögnuð tök sín á íslensku máli, mikinn orðaforða sem hann beitir af kunnáttu og smekkvísi. Eitt mest áberandi einkenni rita hans er eftirhermulistin, áhrifamiklar skopstælingar. Tök Guðbergs á málinu ræddi Sveinn Skorri Höskuldsson í ávarpi sem hann flutti þegar Guðbergur fékk verðlaun Ríkisútvarpsins í árslok 1978 (Mbl. 3.1.1979): Ekki verður svo minnst á Guðberg Bergsson að láta þess ógetið að hann ræður yfir máttugra og blæbrigðaríkara máli íslensku en flestir samtíma höfundar okkar. Á þessu máli flytur hann okkur ekki aðeins margþættan skáldskap sjálfs sín, stuttar sögur og langar, ljóð og ritgerðir, en gefur okkur einnig þýðingar sínar á nokkrum merkustu skáldverkum heimsbókmenntanna. 3. Innri einkenni 3.1. Háðsk þjóðlífsmynd Ólafur Jónsson kallaði skáldskaparaðferð Guðbergs ofurraunsæi, og skilgreindi það svo – líkt og haft var hér eftir Sverri Hólmarssyni 1967 – í umsögn sinni um Önnu (1969, endurprentað í Líkalíf, bls. 110). Almennt má um þetta efni hafa orð Víkings Kristjánssonar (1996, bls. 37): Guðbergur skrumskælir samtíð sína og gengur jafnvel svo langt á köflum að um hreina afskræmingu er að ræða. Í þessari meðferð á samtímanum felst ákveðin framandgerving sem birtir lesandanum annan og nýjan heim, heim sem er hans en þó ekki. Óraunveruleiki og fantasía ráðast inn í hlutlæga raunsæisfrásögn og slík blöndun vekur óöryggi og usla. Í nokkrum atriðanna er ekki um framandgervingu að ræða heldur samblöndu fantasíu og raunsæis, óraunverulegir og fantastískir hlutir ráðast inn í hlutlæga frásögn af raunveruleikanum og valda með því óöryggi og usla. Á þessum meginatriðum er ádeiluaðferð hans byggð. Marta Jerábková segir réttilega (1999, bls. 12): ”Almennt er lögð áhersla á að lýsa ekki raunveruleikanum, heldur hugmyndum sem persónur hafa hverjar um aðra og sjálfa sig”. Ekki er hér unnt að færa neina tæmandi upptalningu ádeilu, svo margt deilir Guðbergur á í sögum sínum. Og ádeila sagna hans er aldrei bein, heldur jafnan óbein, í háði. Því getur verið matsatriði hvort um er að ræða ádeilu eða bara ófegraða lýsingu. Í sögunum frá 1973-6 (Sannar sögur, m. a.) birtist ófegruð mynd af háttum alþýðufólks og tali í fiskibænum, það einkennist af klámi, sóðaskap og hugleysi. Þroskahefta stúlkan Dídí er einskonar persónugervingur óhamins lífsþróttar, kámug og glaðlynd, hleypur eins og fugl fljúgi, og fær kynhvöt sinni óhefta útrás hjá ýmsum karlmönnum. Andstæðan er svo bróðir hennar Hermann, sem má skoðast sem fulltrúi samfélagsins, þegar hann verkar þornaðar horklessurnar af andliti hennar, þvær henni þrátt fyrir mótmælaöskur hennar, og reynir að stöðva lauslæti hennar. Ófegraðar myndir sagna Guðbergs af íslenskri alþýðu eru ekki ádeila, því líkt og framangreindar lýsingar Steinars Sigurjónssonar á alþýðufólki, bera þær ekki í sér neina kröfu um að þetta fólk ætti að vera öðruvísi. Lýsing hans á lífsglöðu fiskvinnufólki er ekki frekar neikvæð en málverk Brueghel á 16. öld af alþýðufólki (sbr. t.d. Hermann, 37–8): Hann rétti upp höndina í kveðjuskyni og þeir rumdu á móti, hásir og þaktir kýlum á hálsinum. Lifi Ísland! sögðu þeir. Lifi vinnan og peningarnir og pussan! Þegar konurnar heyrðu þessi fagnaðaróp, stungu þær höfðinu út um lúkuop á hólfinu, tóku undir þau og hrópuðu: Lifi hún, sé hún loðin! Lifi karlmenn loðnir um lófana! Lifi Ísland! [...] Unglingarnir kölluðu til hans í gegnum þokuna: Ætlarð’ekki að líta inn í kvennabúrið og sjá djásnin og dilla? Ekki veitir af, svaraði hann. Enda eruð þið áreiðanlega orðnir náttúrulausir með öllu af að standa hérna í ammoníakgufunni upp í klof. Unglingarnir görguðu nokkrum sinnum með háum breimhljóðum og rótuðu upp þokunni, sem hafði lagst yfir gólfið við fætur þeirra. Þeir stóðu up úr hvítum flóka eins og englar í skýjum og gauluðu klámvísur. Varaðu þig á gaddaskötunni, gra, bla, bla! Upp á hvaða Siggu? Ríða og gorr! Sóttir dóttur Jóns. Og sama hvaðan gott kemur. Lengi lifi næturvinnan! Um þetta segir Sigurður Valgeirsson (1979, bls.11): Í þessum viðlíkingum er piltunum líkt við engla og brælunni við ljósbláa sæng. Hvort tveggja er andstæða veruleikans. Strákarnir eru bólugrafnir og blautir, brælan er að drepa alla í þorpinu. E.t.v. er eftirfarandi á mörkum ófegraðrar lýsingar og ádeilu (Það sefur, bls.79): Karlmenn þvo sér ekki. sagði hann. Bara krakkar, kvenfólk og viðrini. [...] Ef karlmenn baða sig, sagði Magnús, þá baða þeir sig í klofinu á konum. Hér má tilfæra ummæli Steinunnar Haraldsdóttur um Önnu (1994, bls.2): Í þessum bókum sé deilt á lifnaðarhætti þjóðarinnar, tvöfalt siðgæði hennar, smásálarháttinn og íhaldsemina. Söguhetjur eru íslenskt alþýðufólk fjötrað af vinnu, fjölskylduböndum og þröngum sjóndeildarhring. Tilfinningalífið er hálfbæklað, en ytri lífsgæði og frumhvatir eru í öndvegi. Lífssýnin í þessum bókum er mjög neikvæð, en ýkjur og gróteskt skop einkenna stílinn og gera lesturinn léttbærari. Um leið og Guðbergur dregur fram fáránleika hvunndagslífsins deilir hann á vanahugsun og viðtekið gildismat. Þessu tengist að formið er sundrað og tætt og lesandi getur ekki stuðst við eiginlegan söguþráð eða fastmótaðar persónur. [... og bls. 20-21:] Í Önnu eru gróteska og aftignun mjög áberandi. [...] Bókin morar af lýsingum á hægðalosun og þvagláti og einnig koma við sögu slef, hor og æla og þá er prumpi og ropum víða gerð góð skil. [...] Allt sem nöfnum tjáir að nefna er aftignað í Önnu; ellin, æskan, ástin, kynlífið, dauðinn, biblían, Bandaríkin, ritstörfin o.s.frv. Ljóðlistin fær einnig sinn skammt. [og bls.5]: Stöðnun er enda eitt meginþema Önnu. Sagan er að mestu byggð upp af mis-skiljanlegum samtölum, en er fleyguð af alls konar innskotum, svo sem draumum, framtíðarsýnum, mjög undarlegum grænlenskum þjóðsögum og hugsanamáli persóna sem dæmi hefur verið gefið um. Samhengið í sögunni er á stundum myrkt. Aftignun er eitt, en annað er ótvírætt ádeila, svo sem þessi frásögn af dýraníðingum (Það sefur, bls.43): Þegar fólk ók drukkið heim af dansleikjum, ók það á hestana sér til ánægju, og þeir lágu þá limlestir og með iðrin úti, drógu þau hrínandi á eftir sér, uns þeir steyptust í einhverja gjótu og drápust. Um lýsingar Guðbergs á þorpsbúum segir Marta Jerábková (bls.20): Lýsingar á daglegu lífi þeirra eru það skelfilegasta í þessum bókum. Börnin á Tanga eru grimmustu verur sem maður getur hugsað sér, ofbeldi og hrekkir eru helsta skemmtun þeirra. Eigingirni og tillitsleysi þeirra eru magnaðri en hjá nokkurri fullorðinni persónu. Börnin bera ekki virðingu fyrr neinu, hvorki foreldrum né kennara. Þau hrekkja og meiða alla – dýr, hvert annað, jafnvel fullorðna fólkið. Mýþan um sakleysi bernskunnar er gjörsamlega rifin í tætlur. Guðbergur er alveg sérstaklega miskunnarlaus í lýsingu á einu áhugamáli barnanna, því að eiga og að hafa vald. þau gera bókstaflega hvað sem er til þess að ná því. Auðvitað eru þessar þrár bara spegilmynd af markmiði foreldra þeirra í hnotskurn. Og það er vissulega hlutverk skálda að opna augu okkar fyrir öllu því illa sem í okkur býr. En þessi algjöri skortur á hæfileika til að hafa samúð með annarri lifandi veru, að geta deilt tilfinningum einhvers annars, gefa bókunum sérstaklega svartsýnan blæ. [...] Það er athyglisvert, að engin persónanna lítur ofbeldi neikvæðum augum, fólk túlkar það og afsakar þannig óbeint, sem eitthvað annað, t.d. girnd, leik, stríðni. (bls.23) Steinunn Haraldsdóttir segir (bls.2) um Guðberg: Að sumu leyti skrifar hann þó í anda raunsæis, hann athugar persónur sínar í ljósi tíma og umhverfis og þær eru fórnarlömb ríkjandi hefða og gildismats. Sýn hans á manninn er félagsleg, maðurinn er ávöxtur aðstæðna og áhrifa frá umhverfi sínu. En á heildina litið er í sögum Guðbergs sannarlega ekki einhvers konar “raunsæi” í heiðri haft, í merkingunni hefðbundin framsetning. Þvert á móti einkennast sögur hans nokkuð af ýktum skrípamyndum, líkt og sögur Halldórs Laxness, sem Guðbergur þó oft hefur gagnrýnt (sjá lok kaflans um greinaskrif Guðbergs). Marta Jerábková segir 1999 um afhjúpun Guðbergs á goðsögum í TJM, Ástir samlyndra hjóna og Önnu (bls.14): Þótt sögusvið bókanna þriggja sé ekki sveit heldur sjávarþorp, er Guðbergur Bergsson fyrsti rithöfundurinn sem endurskoðar slíkar mýþur og rífur þær niður eða dregur í efa. Einmitt í þessu, en ekki neinni sögulega trúverðugri mynd af íslensku samfélagi, felst raunsæi. [... og bls. 44:] Guðbergur rífur niður margar mýþur eins og sakleysi bernskunnar eða trú á framfarir í íslensku þjóðfélagi. En það er engin bein ádeila á þjóðfélagið í þessum texta. Niðurrif mýþna er óaðskiljanlega samfléttað þeim furðuheimi sem ímyndunarafl Guðbergs fæðir. Má hér til nefna Sagan af manni sem fékk flugu í höfuðið, 1979. Aðalpersónan þar er rithöfundur sem hefur ýmis gæludýr, hvert eftir annað, til að öðlast skáldlegan innblástur. Söguþráðurinn byggist á kunnri þulu á ensku, sem ég veit ekki til að hafi verið þýdd á íslensku. Hún segir frá kerlingu sem gleypti fyrst flugu í ógáti, svo fugl til að ná flugunni, síðan kött til að ná fuglinum, og þannig áfram, hund, kú, og hest . Þetta er mín túlkun, en Guðbergur sagði að hann hefði aldrei notað fyrirmyndir (GBmetsölubók, bls. 197). Guðbergur sagði reyndar síðar að þessi saga hefði verið uppkast sem gefið var út vegna misskilnings (GBmetsölubók, 194). Sólveig Jónasdóttir segir um söguna (1993, bls. 5): Með skáldskap sínum snýr Guðbergur ”hversdagleikanum” á hvolf og neyðir lesandann til að skoða málin frá nýrri hlið. Gróteska er í senn lífssýn hans og aðferð sem hann beitir, í henni felst jákvæð gagnrýni; mátuleg blanda af uppbyggingu og niðurrifi. [... og bls. 22:] Tungumál sögunnar er margrætt og fullt af líkingum. Mikið er af orðaleikjum og orðatiltæki eru notuð bókstaflega. Þetta gefur sögunni ævintýralegan og oft fáránlegan blæ: konan skellihlær eins og skellinaðra [... og á bls. 19:] Grótesk mynd er dregin upp af skáldskapnum. Allar háleitar hugmyndir um hann eru afkrýndar. Skáldskapurinn er skordýr með vanskapaða vængi. Áþekk dýraruna kom fyrir í breyttri mynd í Hundurinn sem þráði að verða frægur, 2001 og einnig í Leitin að barninu í gjánni, 2008 (bls. 103 o. áfr.). Ári síðar en Sagan af manni sem fékk flugu í höfuðið, kom Sagan af Ara Fróðasyni 1980 þar sem segir frá tvennum hjónum og sonum þeirra á barnsaldri. Þar er skopast að tilgerð ýmissa unglingahljómsveita, en eins og í Hjartað býr enn í helli sínum er þó einkum hæðst að neyslugræðgi – í ruslfæði svo sem pylsur og franskar kartöflur, í áfengi, hæðst að tilgangslausum kappakstri á þjóðvegum og jafntilgangslausri eftirsókn eftir ”þeim stóra” í laxveiðum, svo og að sósíalistaflokkinum Alþýðubandalaginu, sem áður var andsnúinn því að erlendir auðhringar reistu verksmiðjur á Íslandi, en nú er sá flokkur kominn í ráðherrastóla og opnar slíka verksmiðju. En söguhetjan bölvar vinstri ríkisstjórn fyrir að hann veiði enga laxa lengur, það tókst honum hinsvegar þegar hans flokkur var við stjórnvölinn! Aðrar myndir Guðbergs af alþýðufólki en framangreind eru neikvæðari, einkum sé fólkið að reyna að vera samkvæmt einhverjum fyrirmyndum eða væntingum. Þar má nefna gesti í erfidrykkju (Hermann, bls. 85): Gestir þessir voru eins konar óæðra fólk með sultardropasvip á andlitinu, augun voru einkennilega uppþornuð, dauð, vatnsblá og tóm. Þeir sátu stífir í baki á stólunum, lystarlausir, en hungraðir, með höfuðið reigt aftur, eins og þeir hlustuðu á einhvern són þar inni. Konurnar reyktu í gríð og ergi, sötruðu loftið með vörunum, gráar í framan af reykingum, en á mönnum þeirra sat einhver upphafinn meydómssvipur, þegar þeir skáskutu upp augunum, því að þeir forðuðust að líta framan í nokkurn mann, feimnir og þústaðir, og það datt hvorki af þeim né draup, eins konar útslitnar karlnunnur. Konur þeirra líktust einhverju, sem skaparinn hafði gefist upp við að gæða ákveðnu kyni, heldur viðamiklum vexti og kasta fúlsandi frá sér. Allar voru þær klæddar heimasaumuðum frúarkjólum í skærum litum, og það angaði af þeim ódýr ilmvatnsstækja, einnig af karlmönnunum, sem drógu stöku sinnum upp vasaspegil og greiðu og kembdu sér vandlega á meðan þeir drukku kaffið, stungu síðan greiðunni í rassvasann og laumuðust þá til að leysa vind. Dauðaþögn ríkti í stofunni langa hríð, en inn um opinn gluggann barst ómur af umræðum mannanna úti á túninu. Þögnin þrengdi að gestunum, líkt og hún ætlaði að kæfa þá, uns kona rauf hana og sagði: Nú er farið að fást rækjusalat í kaupfélaginu. En mér finnst þar mætti fást ýmislegt annað þarfara. Við þessa athugasemd fengu allar konurnar málið samstundis, og það svo óskaplegt og ærandi, að eiginmenn þeirra hættu að leika höfuðsnyrtingu, heldur blésu óhindrað úr bumbunni. [...] Á augabragði urðu þær andleg og líkamleg klaustur, sem ekkert keyptu nema það nauðsynlegasta til heimilishalds og á börnin, enda voru þær fyrst og fremst mæður og konur, en í aðra röndina heilagar verur, sem alltaf stóðu í þvottum, tandurhreinar og sparsamar. Um aðra bók segir Sigurður Hróarsson svipað (1981, bls.34): Persónur sagnanna í Hvað er eldi guðs? eru flestar hverjar gott dæmi um ”hinn líkamlega þreytta, fylgispaka, ósjálfstæða og andlega lata alþýðumann“. En á hvað er hér deilt? Dagný Kristjánsdóttir sagði (1974, bls.42): Þorpið sjálft, peningalyktin, siðleysið og ljótleikinn eiga rætur sínar fyrst og fremst að rekja til stríðsins og hersetunnar. Okkur er þannig sýnd ófegruð sú uppskera, sem sáð var til, þegar fyrstu hermennirnir settust hér að og ”fólkið fór að bíða eftir gjöfum.” Það sefur í djúpinu er því þörf og ákaflega tímabær ádeila á dvöl amerísks hers í landinu – fyrr og síðar. Slíkri túlkun andmælti nemandi hennar, Marta Jerábková aldarfjórðungi síðar (1999, bls.25): Á Tanga var ekki hægt að tala um siðferðislegt fall því siðferðiskennd fólks var löngu brostin fyrir komu hersins. [... og bls.28:] Fyrir komu hersins þekktist þjófnaður ekki, en ástæðan fyrir því var ekki siðferðisvitund fólks, heldur sú einfalda staðreynd að það var ekki hægt að stela neinu, í litlu samfélagi þar sem allir þekktust var slíkt ómögulegt auk þess að sennilega var ekki mikið til að stela. [...] Þessum sögum stefnir gegn allri íslenskri sveitarómantík og hlýtur þetta að virka hneykslanlegt jafnvel á harðari lesendur. Umhverfið er þó ekki mest sláandi, heldur íbúar þess. Það er ekki hægt að kenna þjóðfélagsskipan, efnahagslegum aðstæðum, harðri náttúru eða ríkisstjórninni í höfuðborginni um, hvernig nánasta umhverfi þeirra lítur út. Það er engum öðrum en þorpsbúum sjálfum að kenna. En þeir eru ekki ósáttir við heimaslóðir sínar, þeim líður nefnilega vel þar. (bls.16) Ég verð að fallast á þennan dóm hennar, neikvæð mannlífsmynd Guðbergs er almenn og varanleg, en ekki bundin neinum tilfallandi viðburðum, né er hún kennd setu erlends hers. Hinsvegar notfærir fólkið sér auðvitað hvað sem býðst og gott betur. ”Hann hvetur mig, segir mér að borða, svo ég rifni út og komist í gott kanadjobb”, o.m.fl.þ.h. (Ástir samlyndra, bls.95). Hitt er líka til, að foreldrar harðbanni barni að koma nálægt hermönnum, einkum að þiggja fé af þeim, og refsa slíkt (Ástir samlyndra hjóna, bls.111). Sæunn Ólafsdóttir segir (1997, bls.31) að höfundur láti okkur sjá að lífsskynjun okkar sé einstaklingsbundin og þessvegna vantreystum við öllu öðru fólki. Víkingur Kristjánsson (1996, bls.37) og Sigurður Valgeirsson eru á sömu skoðun og Marta Jerábková, Sigurður segir ennfremur (1979, bls.39): Fólkið, sem byggir þetta samfélag, er sljótt og lifir í lokuðum heimi sjálfsblekkinga og lyga og sér ekki eiginlega stöðu sína – það er ánægt. [...] Hið almennasta í boðun þessara verka finnst mér vera það að skoða veruleikann í kringum sig eins og hann er; oft ljótur og jafnframt vonlaus. Mér finnst höfundurinn hvetja til almennrar vitsmunastarfsemi og sjálfsgagnrýni. Í Hjartað býr enn í helli sínum er hæðst að mörgu í íslensku þjóðlífi. Svo sem að framan greinir, ekki síst að fánýtri eftirsókn eftir lífsgleði, eftirsóknin birtist í að taka við einhverju utan að komandi, í bið eftir slíku með því að húka á fjölförnum stöðum, í biðskálum, í sælgætisáti, í drykkjuskap og einæði (söguhetju eftir fyrrverandi eiginkonu). Víða er skopast að tilgangslausri græðgi. Kona sem vann þvottavél í bingó stefndi að því að vinna þrjár þvottavélar (Froskmaðurinn, bls.92). Pólitískt rugl nær hámarki á þeim síðum og annað rugl, dæmigert fyrir fjölmiðlaumræðu, ekki síst opinber fundur (bls.87 o.áfr.). Ósjálfstæðið birtist einnig þegar froskmaðurinn kemur í heimsókn til formanns froskmannafélagsins: Meðal annars hékk stóll á vegnum og honum datt í hug að óvitlaust væri að kaupa veggstól (Froskmaðurinn, bls.137). Í Tómas Jónsson metsölubók eru m.a. skopstælingar á bólgnum lýsingum skáldrita (bls.85-90), sem og í smásögu frá 1972 (Maðurinn er myndavél bls.11). Skopast er að bókmenntaviðhorfi sums menntafólks (s.r. bls.79): Nú er hann sjálfum sér líkur. Nú kannast ég við hann. Kennarinn hafði afar almennt viðhorf til bókmennta: lesandinn átti að kannast við allt sem höfundur fjallar um. Ef lesandinn kannaðist ekki við eitthvað hlaut það að vera della. Bækur áttu að vera hrein ádeiluverk og rithöfundinum að takast upp og vera sjálfum sér líkur. Einnig er hæðst að dæmigerðu, yfirborðslegu sölutali um bókmenntir (Lömuðu kennslukonurnar, bls.96-7): sagðist hún mæla með útgáfu, stíllinn sé hvorki of hraður né laus heldur á mátulegu róli, svo tilfinningunum gefist kostur á að fara sjálfkrafa af stað en ekki vegna þess að leikið sé á þær, þeim att fram með hjartnæmum lýsingum. Með þannig móti gefst lesandanum kostur á að lesa sig inn í eigið hugarfar um leið og hann les verk annars manns. [...] tel ég nokkurn veginn víst, sem útgefandi með auga, eins og þar stendur, að þú hljótir að hafa fengið góða menntun, búir yfir snilld og verkið hafi til að bera sölumöguleika, enda eru lamaðar persónur, svo ekki sé talað um tvíburasystur, að verða tíska í bókum og reyndar hafa þær alltaf þótt forvitnilegar. Hæðst er að hverskyns tískufylgni, einnig meðal menntamanna í smásögu frá 1972 (Maðurinn er myndavél bls.12) og að klisjum þegar eiginkona sögumanns fer að stunda bókmenntagagnrýni (Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma, bls.214): Hún komst upp á lag með að ræða um bækur af kvenlegri innlifun og verða mátulega æst en algerlega sannfærð, reka augun í hroðalegar prentvillur, finna stirðar setningar og segja: Ég hefði ekki látið jafn hálfkaraða texta frá mér fara en maður sér fremur gallana hjá öðrum en sjálfum sér. Það hattar hvarvetna fyrir í textanum, þar eru endurtekningar, tengingarnar ekki nógu liprar í samtölunum og sömu orð standa of nálægt hvert öðru í nástöðu. Og hvað með það? spurði ég og ætlaði að slá hana út af laginu. Þetta er klifun en ekki stílbragð hjá höfundi en hann kemst upp með svona subbuskap hjá gagnrýnendum úr því hann er orðinn þekktur. Honum er samt enginn greiði gerður með útgáfunnni. Söm er skopstælingin þegar eiginkona söguhetju fer út í gagnrýni á leiklist (Sú kvalda ást, bls.213): Eftir að hún byrjaði að hlusta á umsagnir um listaviðburði dagsins í útvarpinu þjálfaðist hún í að hafa óljósar skoðanir, segja að textinn væri lipurlega skrifaður en sér þætti vanta herslumun á mikilvægum stöðum og í honum væri fullt af lausum endum. Framan af Það rís úr djúpinu er mikil skopstæling á tali og viðhorfum sveitakonu á öndverðri 20. öld, m.a. alþýðlegt mat hennar á leiksýningu (bls.53): Á sviðinu var heilmikið fjör, ekki er hægt að neita því. Leikritið var mikið stykki, og leikararnir fóru hver með sitt hlutverk af miklum hamagangi. Hæðst er að íhaldssemi í málvöndun, ekkert þykir vera gott mál nema það sem tíðkaðist í sveitinni ”í gamla daga” (Sagan af Ara, bls.40). Einnig er hæðst að klissjum í þjóðrembutali um íslenska listamenn, Kjarval, Kiljan, Stein Steinar og Jóhannes úr Kötlum, Hagalín og Þórberg, ekki vantar víðsýnið eða hefðbundna tvískiptingu rithöfunda stjórnmálalega. Og í leiðinni er hæðst að hugmyndum um íslensk sérkenni listamanna sem tengist landslagi: ”Það er einhver jöklatign í þeim báðum” (Hermann, bls.100 o. áfr.). Hæðst er að klisjukenndu hrósi um andlaus ungmenni (Hermann, bls.39, eftir fyrrgreinda tilvitnun um gól þeirra í frystihúsinu): Það eru töggur í þessum strákum. Já, þeir eru ágætir og vinna eins og þrælar. Sú þjóð er sko ekki á flæðiskeri stödd sem á svona hrausta unglinga. Gorr, rorr og ríða í moll! Enga potthlemmatónlist hérna megin á hnettinum. Í Lömuðu kennslukonurnar er m.a. háð um kynlífsfræði (bls.63): Nýjustu ”rannsóknir í kynlífsfræðum [...] Með þeim hefur verið komist að raun um með óyggjandi hætti að um níutíu prósent karlmanna láti sig dreyma um mök við lamaðar konur, einkum ef lömunin er fyrir neðan mitti, vegna þess að þá geta þeir bara hugsað um sig með góðri samvisku, enda til einskis að mögla, þær lömuðu finna eðlilega ekki fyrir neinu.” Af sama tagi er: Fleiri karlmenn þjást af því að geta ekki orðið óléttir en almennt er haldið. Af því misrétti lífsins stafar baráttan milli kynjanna, (Leitin að landinu fagra, bls.129). Einnig er hér mikið háð um jafnréttisbaráttu og kvenhyggju. Ekki svo að skilja að sagan ráðist gegn þeirri stefnu, öðru nær. Hér er bara hæðst að hverskyns hugsunarlausri fylgni við tísku, á þessu sviði sem öðrum. Sama er í þessu (Leitin að landinu fagra, bls.202): Ég vil hvorki sjá ráðsmanninn né brytann, hvorki herbergisþjón, geldinga né nokkurn karlmann sem ég hef fengið andstyggð á og ætla héðan í frá að búa í hinum frjálsa og víðáttumikla og auðuga reynsluheimi konunnar hérna í gróðurhúsinu og horfast í augu við sjálfa mig sem sígildan kvenmann. Víðar á sama stað er hæðst að tískublaðri ábyrgðarleysis. Það er hvorugu okkar að kenna, Inga, heldur tíðarandanum og þjóðfélaginu í heild, sagði Ari Fróðason. Auðvitað, samsinnti Inga (Sagan af Ara, bls.64). Dæmigerður er einnig maður sem hafði lært kvikmyndagerð, en framkvæmir aldrei neitt (Ævinlega, 111 o. áfr.), hann er fyrst og fremst beiskur og öfundsjúkur í garð þeirra sem gera kvikmyndir. Jafnvel telur hann menn hafa stolið hugmyndum hans áður en hann fæddist, eða því sem næst, hann hefði gert kvikmyndina Engill dauðans, hefði Bunuel ekki gert hana löngu áður. Þetta er auðvitað grín um attaníoss, sem ekkert getur nema fylgt (bls.112): Þannig hélt hann áfram á Laugaveginum frægðargöngu sinni sem maður með mikið talent en hefði aldrei fengið tækifæri til að gera snilldarverk vegna tilgerðarlegrar kerlingar sem réð öllu í Kvikmyndasjóði ríkisins [Bryndís Schram]. Skopstæling er á byltingartali, þar sem sígíldu tali um byltingu öreiganna er snúið upp á tölvur, útkoman verður rugl (Hjartað, bls.73): Bíðið hæg, má ég tala, bað Jói stóri óþolinmóður. Nú fer mannkynið að sjá hlutina í réttu ljósi, loksins, og þess vegna bíður það í góðri trú eftir örtölvubyltingunni og engri byltingu annarri. Hitt eru falsbyltingar. Örtölvubyltingin á eftir að leysa verkafólkið úr viðjum þrældóms og kúgunar og fáfræði og hún mun gera mannkynið frjálst. Og það snjallasta er að með uppfinningu örtölvunnar hefur auðvaldið grafið sér gröf sjálft. Og við verkamenn látum vélmennin jarða það, og auðvaldið skal fá fullkomna tölvustýrða jarðarför. Einnig er hæðst að alþýðlegri speki um sósíalisma: stefnan er góð, en framkvæmd hennar vond (Það rís úr djúpinu, bls.145). Í sambandi við öfgafullar skopstælingar á Sovétskrumi er skopstæling á stíl HKL (Leitin, bls.34) og tali um að finna hinn eina sanna tón og annað háð um HKL (Saga...flugu, bls.45 o. áfr., bls.70). Skopstælt er hátíðlegt blaður um bókmenntir, hjónaband og ástvinamissi (Lömuðu kennslukonurnar bls.96-7). Hér er og pundað á ”meðferðarþjóðfélagið”, ekki sé ætlast til að fólk geti staðið á eigin fótum. T.d (Hjartað, bls.71): Konan hló og hristi höfuðið og reyndi að lyfta fótleggjunum og rétta úr stirðum hnjánum og hjóla framan í manninn með tálguðum fótleggjum. Auðsæilega hafði einhver sjúkraþjálfari kennt henni að hjóla svona svo hún stirðnaði ekki. Maðurinn hengdi haus þegar hann hugsaði um að fólk væri í stöðugu uppeldi hjá sérfræðingum til dauðadags, sífellt að læra að éta trefjaríkan mat hjá matvælasérfræðingum, hjóla hjá sjúkraþjálfurum, hreyfa sig hjá hreyfitæknum, hegða sér samkvæmt ráðleggingum félagsráðgjafa. Um leið datt honum í hug hin hræðilega hrörnun hjá manninum yfir höfuð. Af sama tagi er: ”Ríkið gerir aldrei neitt fyrir okkur hríðhoraða fólkið! Maður má sálast úr hor” (Leitin, bls.121). Meðal kvilla sem talað er um í Lömuðu kennslukonurnar er hlustendagigt (bls. 60) og mikið er þar grínast með öfga félagslegrar þjónustu, lamaðir eiga rétt á ókeypis örorkusíma (bls.196), rétt til þjónustu spákonu (bls.194), og á sérsmíðuðu altari með hreyfanlegum grátum (bls.207-8). Einna lengst gengur hverskyns ádeila með skopstælingum í skáldsögunni Leitin að landinu fagra. 1985. Meginbálkur sögunnar er ferðasaga nokkurra Íslendinga sem sigla suður í leit að sælulandinu þar sem kartöflur vaxa í snjónum og annað er eftir því. Fólkið leitar svo og fer í land á ýmsum eyjum. Allt er þetta táknrænt með augljósum hætti og virðast eyjarnar spanna mestallan heim nútímans. Mest fer fyrir 19. k., „Heimseyjan", en þar eru borin saman Sovétríkin og Vesturlönd. Á einni eynni keppast menn um að éta sem mest, þar er ekkert eftir nema fjögur spikhlöss, sem reyna að ryðja hvert öðru burt. Þar er deilt á neyslugræðgi, á stórveldin tvö og fylgni við annað hvort þeirra, svo og á hverskyns ósjálfstæði. Á annarri sitja gáfumenni við þrotlausan lestur, einangraðir hver í sinni glerbjöllu. Þetta er dæmigert fyrir táknsögur bókarinnar – og hún er lítið annað en táknsögur: allt er útskýrt fyrir lesendum. Þetta er að mínu viti ritgerðaeinkenni þar sem skáldskapur höfðar frekar til ímyndunarafls lesenda. Annað megineinkenni textans af sama tagi er að hann er nær allur frásögn. Persónur eru ekki annað en nöfnin tóm, allar eins, hafa ekki annað hlutverk en að bera fram spurningar og svör en þar vellur fram heimsádeilan eins og áður segir. Allt er í hástigi, og getur það orkað vel sem skopstælingar, en ekki margendurtekið. Þrotlausar endurtekningar einkenna bókina. Ótal sinnum „kom skáldið [Halldór Laxness] út af fyrsta á Fossinum“. Þar er mikið skopast að Halldóri Laxness, einkum að Sovétskrumi hans. Sú gagnrýni beindist raunar ekki gegn sögum Halldórs á nokkurn hátt, heldur að því hlutverki sem Halldór lék í samfélaginu. Og þar er einkum skopast að hugmyndinni um “skáldið eina”, einstaklingsdýrkun sem kunn er af stalínismanum, en einnig af barnaskólakennslu um t.d. Jónas Hallgrímsson og Jón Sigurðsson. Sérlega eru þrálátar upplýsingar um að þessi eða hinn (jafnvel andskotinn sjálfur, bls. 20) sé „kominn af mestu prestaættum landsins“. Í skáldævisögu Guðbergs kemur fram að þetta var klifað í Grindavík í bernsku hans. En jafnvel þótt þetta hefði verið smellið háð verður það þreytandi, endurtekið þrjátíu sinnum. Önnur klifun er ”Það er vísindalega sannað” (t.d. Leitin 56). Það er víðar háðslega sagt, t. d.: ”Það er vísindalega sannað að gömul skip vekja greddu” (Hinsegin 68). 3.2. Spekimál Mikið spekital er lagt í munn ýmsum hversdagslegum persónum, og gerir það þær ósannfærandi. Gætir þessa þegar í TJM (t.d. 6. skrifbók). Útilokað er að sjá allt það tal sem hugsanir Tómasar, enda er það sumt í andstöðu við hans smásálarlega hugsunarhátt, t.d. gagnrýni á smáborgaraskap mötunauta hans. Þótt stundum séu augljóslega aðrir sögumenn en hann rénar ekki ruglingurinn við það. Þetta heimspekilega tal er oft í formi mótsagna. En það er lagt í munn persónum sem ólíklegar þættu til slíks, t.d. ræða tvær sjoppugriðkur heimspekilega með tilvísunum í sögu fyrri alda (Anna, bls.306, það gera einnig strákarbls.311, 319). Stundum má þetta tal þykja skynsamlegt, t.d. að það sem mest ergi fólk í fari annarra sé eitthvað sem það vilji ekki kannast við hjá sjálfu sér. Ennfremur: ”Af illu læra börn að bjarga sér en koðna niður við kjass.” (Anna, bls.292). Annað er hálfórætt, t.d. (Anna, bls.432): Svefninn er ímyndað ástand, maður sefur aldrei í raun og veru, svaraði Katrín. Svefninn er annars konar veruleiki en vakan. Maður gæti notað svefnlífið meira en við gerum. Við erum svotil óþekkt á sviði svefnsins. Maður glatar til einskis helmingum af ævinni í svefni sem er annar gír í tilverunni. Einnig mætti eftirfarandi þykja tækt framanaf: Náttúran heldur öllu í jafnvægi. Sumir fara upp, aðrir niður á við, og mætast á miðri leið. Annars færi allt úr skorðum. En hvað er þá maðurinn? Því getur enginn svarað, sagði Svanur ruglaður. Hann er dýr. Nei, hann er vinna. Hann er ekkert annað en sú vinna, sem hann leysir af hendi á lífsleiðinni. Eins og ljósavélin, sagði Sveinn. Hvað er ljósavél? Hún er það rafmagn sem hún framleiðir. Við erum bara vélar í náttúrunni, sem róta henni upp og lögum hana eftir okkar, en ekki hennar munstri, sagði Páll. En hvað ert þú? Það sama. Nema vélin í þér lagar þig eftir sínu höfði. Þú ert menntamaður (Hermann, bls.76). Trauðla er þetta að skilja, en meira ber þó á hinu, að þetta spekital sé óskiljanlegt rugl eða beinlínis vitlaust. Dæmi um heimskuleg vísdómsorð eru hvarvetna, t. d. Froskmaðurinn (bls.80): “Þeir eru þarna, það er víst, þótt ég viti það ekki, sagði það.” Einnig: þá var sagt að ég væri hvorki orðinn það feitur né sköllóttur að ég ætti ekki von með að ná í konu, ef ég tæki inn reglulega tvær teskeiðar á dag af matarlími sem yki hárvöxt og lagaði neglur (Ævinlega, bls.33). Tölvur eru taldar veita aðgang að upplýsingum um fjárhag allra og heilsufar. Svona hjátrú gerir söguna (Ævinlega) draumkennda eins og fleiri sögur Guðbergs. Einnig er ófrjósemi talin ættgeng, og sagt (Ævinlega., bls.57): Ég þekki það úr Sögu Rómverja og mínu byggðarlagi að fólk hefur helst piprað þegar hafa verið miklir jarðskjálftar í heiminum. Það er til bilað og ófrjótt fólk í öllum ættum. Víða eru óskiljanlegar eða lítt skiljanlegar alhæfingar, sem fólki getur þó fundist það skilja óljóst, t.d. í Froskmaðurinn: Sá sem elskar hættir að vera hann sjálfur.[...] Á vissum aldri finna allir karlmenn hafmeyjuna í sér (bls.105). Á sjónum var [...] hafmeyjarslóð. Ef einhver lendir í henni losnar hann úr álögum. Í þeim eru allir menn (bls.125). Kannski var Adam sjómaður, sagði ungi maðurinn. Já, sagði froskmaðurinn. Og aldingarðurinn var hafið. (bls.132). Fegurðin er sú andrá þegar eitthvað leysist upp eins og vegurinn við hraðann. (bls.136). Einnig er þetta í Hjartað (bls.24), þar er dæmigert hvernig hugleysi brýst út í alhæfingum og fyrirvörum: hélt konan stutta ræðu um að til væru í heiminum tvær manntegundir að hennar áliti, sem gæti auðvitað verið rangt. Önnur manntegundin þolir hvergi blóm nálægt sér, sagði konan. Það er sú tegundin sem er með sífelldan herping í sálinni. Hin manntegundin er öll í blómum, og henni hættir til að vera haldin svolítilli sálarvelgju. Já, það er erfitt að þræða meðalveginn í þessu sem öðru. Eflaust, sagði maðurinn. Mér finnst það sjálfri, sagði konan. Ég veit að nýlendubúar og fólk meðal ófrjálsra þjóða er ekkert gefið fyrir skrautjurtir. Ófrelsið ber víst ekkert skynbragð á blóm. Blómarækt er hinsvegar tákn vestrænnar siðmenningar. Þó er mér sagt að í einræðisríkjum sé almenningsgörðum haldið ótrúlega hreinum og fáguðum, en trjágróðurinn þar er víst allur þrælklipptur eftir höfði garðaskipulags borganna. Allur almenningur ber auðvitað ekkert skynbragð á slíka hugulsemi. Ennfremur er annað spekimál, jafnóskiljanlegt að mínu mati: Enginn er gæddur sál sinni heldur sál annarra. Og þessi sál er í senn í manni sjálfum og öðrum og alheiminum, og það er undur lífsins og vandi og örvænting allra manna (sama rit, bls.84). Seint yrði fundin vitglóra í þessu tali, en svona alhæfingar virðast bera vott um þekkingu, jafnvel djúpan skilning, lesendum kann að finnast að hér sé svo djúpsótt speki að þeim sé nánast ofviða að skilja. Á undan var auk þess enn eitt dæmi þess að persóna hefur ekki fyrr fullyrt eitthvað en hún tekur það aftur. Fyrir koma spakmæli sem eru forn viska, þ.e. nutu viðurkenningar áður fyrr, en nú hlær allt menntað fólk að þeim. Í sögunni Farfuglinn (í Vorhænan, bls.57) segir t.d.: Þótt hugur norrænna manna kunni að vera dimmur og kannski drungalegur og stundum líkur hagléli, stormi og rigningu, leynist í honum bjartari birta en sólskinið í huga hinna alvarlega þunglyndu og þess vegna söngvinnu Suðurlandabúa. Þeir þurfa stöðugt að vera að bægja skuggum sólarinnar frá sér með söngvum. Birtan í huga norrænna manna er aftur á móti glampi hjarnsins sem kastar ekki frá sér skugga. Eðli sólarinnar og þess lífs sem af henni leiðir er það að varpa skörpum skuggum en birtan frá snjónum er sefandi og mild. Það var útbreiddur hugsunarháttur á tímum rómantísku stefnunnar á 19. öld, að skapgerð fólks færi eftir landslaginu sem það bjó við, en færri verða til þess nú orðið. Vissulega er þetta í andstöðu við ýmislegt sem Guðbergur hefur sagt, en satt að segja held ég að framantaldar vitleysur hafi ekkert gildi í sjálfum sér, engum sé ætlað að trúa þeim, heldur hafi þær fyrst og fremst það hlutverk að leiða lesendur frá rökhugsun, út í einhverskonar óvissugrun, fólk skynji sögur Guðbergs fremur en að skilja þær. 3.3. Ótrúlegt Víða má finna fáránlegar skrípamyndir í sögum Guðbergs, t. d. í Lömuðu kennslukonurnar, en þar segir að ”götusálfræði” sé viðurkennd fræðigrein í Bandaríkjunum (bls.57). Það hélt ég vera tilbúning Guðbergs, en heyrði svo talað um ”street psychology” í bandarískri kvikmynd. Mér virðist það vera tilbrigði við orðalagið ”street-wise”, sem merkir að átta sig á umhverfinu. Í sömu sögu hefur drengur fengið bronsuðu silfurreglustikuna í verðlaun í skóla (bls.14). Einnig er grínast með að taka orð bókstaflega. Þúsundþjalasmiður í smásögu frá 1976 (Maðurinn er myndavél bls.23 o. áfr.) trúir því að bætiefni dygðu til að bæta þorskanet og að prjóna mætti nærföt úr fjörefnum. Það ætti að fjörga lýðinn, veita ”ljúfan ástarfiðring.” Í skáldsögunni Ævinlega eru sem áður segir töfrabrögð. Fæstir lesendur geta tekið alvarlega að miðaldra kaupkona breyti sér í unga stúlku í augum ástmanns síns, og margt fleira í sögunni er af sama tagi. Hvað eftir annað les unga stúlkan hugsanir söguhetju (t.d. bls.49 og 73), þau borða ís með ýmiskonar fiskbragði, m.a. skötubragði! (bls.50), söguhetjan er þjakaður af afskiptasemi frænkna sinna og hefur á Ítalíu sótt þing “Alþjóðasambands karlmanna sem eiga frænkur”! (bls.34). Menn sem eiga frænkur í Grindavík eru ”örlítið útskeifir á hægra fæti” (bls.44), gerviblóm fylla garð frænku sögumanns í Grindavík (bls.86). Ennfremur tekur sögumaður upp á því að vilja kaupa ungu stúlkunni föt, og fer í fjölmargar verslunarferðir til útlanda þar sem hann fyllir margar ferðatöskur af fötum og smyglar þeim til Íslands. En kaupkonan Olla reynist svo hafa þessar sömu flíkur til sölu í búð sinni, og þakkar honum innkaupin og smyglið (bls.119 o. áfr.). Talað er um 2000 ára búsetu á Íslandi (bls.53), og veit hvert mannsbarn að það stenst ekki. Töluvert er um svo óraunveruleg atriði í Sögunni af Ara Fróðasyni (t.d. bls.5. o.v.), eyrun detta bókstaflega af fólki, gítarar flugu og spúðu stjörnuglitri yfir hverfið (sama rit, bls.71). Bardagi er háður milli ýmiskonar bílskúrahljómsveita (sama rit, bls.73), allir í hverfinu fara að dansa (sama rit, bls.76). Og meðan hún sneri baki að Óla greip hann tækifærið og rak tunguna út úr sér að rassinum á henni, sem leysti vind líkt og hann sæi tunguna og svaraði á sinn hátt. Auðvitað gat rassinn ekki rekið út úr sér neina tungu, þótt hann sárlangaði auðsæilega að geta rekið út úr sér stóra eiturslöngu að Óla. (Sagan af Ara, bls.41). Í Það sefur í djúpinu segir m.a (bls.138-9): Kýrin var þeim hæfileikum gædd, að hún kunni að telja á fingrum sér og leysti ýmiss konar vanda. Hún baulaði alltaf upp að tíu, þegar aðrar kýr ætluðu að læðast í kálgarðana, sjálf stal hún hvorki káli né rófum [...] Úr hennar eina mjólkandi spena streymdi hálfpottur af sætmjólk að morgni, pottur af nýmjólk á hádegi, hálfur annar pottur af undanrennu á kvöldin, en eftir miðnætti fékkst úr henni súrmjólk. Sætmjólk er danska orðið yfir nýmjólk (sødmælk), og er enginn munur þar á. Fleira er þar af svipuðu tagi: ”Blómin lokuðust í gluggunum. Hvað gátu þau annað? Vindurinn ýfðist. Flugurnar misstu vitið” (Það rís úr djúpinu, bls.165). Horslettur í andliti Dídí eiga rætur að rekja til sálarinnar í henni (Það rís, bls.194). Þetta minnir á annað fráleitt atriði (Anna, bls.118): hún fór yfir þröskuldinn til Katrínar, strauk henni um ennið, sleikti fingurgómana, smjattaði og bætti við: Allt er þetta frá taugunum. Hvernig veistu það? Svitinn er þannig saltur að seltan er óróleg á bragðið. Í 1½ bók. Hryllileg saga (bls.183 o. áfr.) er íslensk skólastúlka vinkona bresku skáldkonunnar Virginíu Woolf, sem segir henni ýmislegt í trúnaði. Taldir eru upp titlar verka Woolf (bls.240), og stenst þar ekkert. Í þeirri bók sjást ”dömuhjólbörur”, hvað sem það svo á að vera (bls.199). Í annarri sögu krefst hafmær ásta af froskmanni, og lamar íslenska fiskveiðiflotann þegar hann lætur ekki undan. Raunar er gefið í skyn að hafmærin sé eingöngu hugarburður hans (Froskmaðurinn, bls.76). Í þeirri sögu er ekki bara að sjómaður hugleiði að liggja uppi á konum með aleiguna í plastpoka, gangi sjómennskan illa, vera þar með svokallaður ”plastpokamaður”, heldur ”tala ég bara við Plastpokamannaþjónustuna og fer að gera út á velstæðri ekkju” (Froskmaðurinn, bls.149). Fáránlegar hugmyndir eru víða raktar, t.d. (1½ bók. Hryllileg saga, bls.69): Konur kváðust samt hvorki hafa viljað giftast Magnúsi né búa með honum af ólíkum ástæðum. Til dæmis hafði hann stóran galla, þegar hann kom of nálægt konum með silfurref um hálsinn, það var mikið í tísku, fékk hann snöggan hnerra sem hristi hann svo óskaplega að minnti á flogaveikan mann í verstu hviðunum. Bara vegna þessa galla þótti víst að engin nema Sophie Knorr hefði viljað búa með honum. Hnerrinn þótti benda til lítils krafts. Af sama tagi er þjóðsaga (Anna, bls.200): Sveitastúlkurnar hrundu dauðar niður stigaþrepin. Svona var sæðið baneitrað úr anskotans ekkisens dönsku kaupmönnunum. Þessi og þvílík atriði öll marka þessar sögur sterklega, eins og margar aðrar eftir Guðberg, og má kalla þetta draumkennt, alla vega sviðsetur það sögurnar fremur í sálarlífi persónanna en úti á meðal manna. Fram kemur í kaflanum um Skáldævisögu Guðbergs að þar er svona tal ævinlega haft eftir alþýðufólki í Grindavík í bernsku hans. Að lokum má nefna skondna óbeina tilvitnun. Rithöfundurinn sem sífellt fær ný gæludýr, fyrst flugu, svo fugl, svo kött, segir (Saga af manni sem fékk flugu í höfuðið, bls. 71): Læðan, það er ég! Enginn skildi þá yfirlýsingu, en einhver ómur frá líkum orðum fyllti sálina dulrænum fögnuði. Þessi ”dulræni fögnuður” er sú þokukennda hugsun sem hér hefur verið rætt um. En þessi líku orð voru fræg ummæli Gustave Flaubert um miðja 19. öld, þegar hann var spurður um hvernig hann hefði fundið upp á því að skrifa skáldsögu með venjulega konu sem aðalpersónu “Madame Bovary, c’est moi!” – Frú Bovary, það er ég! Þessi yfirlýsing hefur verið túlkuð á ýmsa vegu, segir Jean Luc. Ef til vill hefur Flaubert þannig viljað hindra menn í að grafast eftir heimildum hans, með því að leggja áherslu á sköpun höfundarins. En vissulega átti hann ýmislegt sameiginlegt þessari skálduðu persónu sinni, m.a. bókhneigð (sjá: Jean-Luc Madame Bovary : une œuvre réaliste ou romantique ? Google) Ekki verður séð að þessi dulda tilvitnun hafi neitt hlutverk í framrás sögunnar, það væri þá í mesta lagi háð um höfund sem heldur sig vera a.m.k. jafnoka Flaubert. 3.4. Persónugervingar hugtaka Í sögum Guðbergs er nokkuð um fráleitar persónugervingar, einkum á hugtökum. Slíkt er raunar einnig hjá Steinari Sigurjónssyni, t.d. persónugerving heimsku í Sáðmönnum (frá 1989, Eiríkur Guðmundsson, bls.140). Minningin er bæði persónugerð og líkt við tæki, og er það dæmigert fyrir margt óskiljanlegt spekimál hjá Guðbergi (Sú kvalda, bls.210): Minningin í brjósti manns er vesæl og ég mundi vorkenna henni ef hægt væri að sýna einni tilfinningu samúð með annarri sem er betri og miskunnsamari á sama hátt og góðhjartaðir menn gera við þá sem fara illa út úr lífinu. Minning okkar er ekki traust hækja til að haltra á úr samtíma aftur í fortíð ef einhvern langar að leita að því sem gerðist á liðnum dögum. Í flónsku sinni hættir henni til að halda að hún sé ekki bara hún sjálf heldur veruleiki liðinnar tíðar og sannleikurinn á bak við hana. Þessi einfeldni og ofmatið stafa af því að hún heldur að vitið hafi fundið hið sanna og rétta einhvers staðar á sviðinu milli þess sem atburðurinn gerðist og þangað til hann er rifjaður upp. Þetta hefur oft verið sagt á einfaldari hátt; minning er ekki vissa um liðna tíð. En Guðbergur persónugerir þetta svo minningin verður eins og aumkunarverð persóna. Vitleysan er einnig persónugerð, í hugsunum drukkinnar söguhetju í fangelsi lögreglu (Hjartað, bls.84): Eftir að hætt var að breyta klukkunni eftir sumar- og vetrartíma birtir ekki fyrr en um hádegi í skammdeginu. Hinn ógurlegi ruglingur á öllum sviðum rekur fólk ráðlaust og látlaust í hrönnum inn á hælin, þar sem læknar stilla huga þess inn á nokkurn veginn réttan tíma og lífshætti; annars gengi líf þess eins og rammvitlaus klukka sem seinkar eða flýtir sér á víxl og lýtur engri reglu, heldur ýmist stöðvast, hringsnýst sem brjáluð væri eða hringir ærandi í tíma og ótíma svo engum er vært í návist hennar. Við erum öll vekjaraklukka vitleysunnar, tautaði maðurinn og hugsaði: ”Hvernig ættum við að vera öðruvísi í þessari hringavitlausu veðráttu.” Maðurinn gat hugsað og honum leið þess vegna bærilega. Hann spann hugsanir um hvað hann væri sjálfur og hver hún væri þessi þjóð; og hann komst ekki að skynsamlegri niðurstöðu eða dýpri en að bæði hann og hún væru kolvitlaus klukka sem vekur vitleysuna í tíma og ótíma með ærandi hringingum og rekur hana á fætur og hún þrælar myrkranna á milli, vegna þess að vitleysan er einnig dugleg eins og þjóðin. Þessi persónugerving vitleysunnar og að gera þjóðina að vekjaraklukku hennar, leiðir ekki til neinnar vitrænnar niðurstöðu. En þetta tal er kunnuglegt, og því kann fólki að finnast það skilja þetta. Sama gildir um aðra persónugervingu, náttúrunnar, hún er óskiljanleg en gefur til kynna að samkynhneigð sé eðlileg – skilji ég þetta rétt! Náttúran hlustar hvorki á manninn né sín eigin öfl. Vegna þess að samlíf og æxlun er hvergi að finna í hinu stéttaskipta efni nema innan samkynja tegunda þess. Allt er þannig í pottinn búið þrátt fyrir samlag. En þráum við mennirnir ekki heitast samlag hugarins og hins fráhrindandi efnis, samlag járns og moldar, vatns og málma?” (Anna, bls.337 o. áfr. um Lollý, allt óskiljanlegt!) Ennfremur má nefna spekimál í nafni Önnu (Anna, bls.385 o. áfr., 388: Núna á vorum fullu, feitu dögum, skríður sóminn skömminni til fóta og það er óþolandi! Dögum er líkt við dýr eða menn, en meiru skiptir að síðan er sértæku líkt við sértækt, öfugt við þann sið að líkja sértæku við eitthvað hlutlægt, til að það verði eins og skynjanlegt. Með þessu móti tryggir Guðbergur að útkoman verði óskiljanleg. Svona tal gefur tilfinningu fyrir djúpri speki, allsendis ómaklega að mínum dómi! Þetta er eins og á mörkum hins skiljanlega, og veitir því þessa spekitilfinningu. Annað dæmi er mótsögn (Svanurinn, bls.27): Á þessum árstíma var nóttin áþekk endalausri hugsun um alls ekkert. [...] Og nóttin hugsaði galtóma gagnsæja hugsun um sjálfa sig fram undir morgun, þegar sólin reis upp úr votlendinu í austri og lyfti smám saman vötnum frá fastri jörð og gerði þau ójarðbundin. Athyglisvert er að þessi vitlausu spekimál koma ekki bara frá sögupersónum Guðbergs, heldur lætur hann þau einnig falla í viðtalsbók hans og Þóru Ásgeirsdóttur. Þar má nefna gamalkunnar kjaftasögur um ástir barna ráðherranna Bjarna Benediktssonar og Gylfa Þ. Gíslasonar, þeirra Valgerðar Bjarnadóttur og Vilmundar Gylfasonar, þau eru hér gerð að hópum (GBMetsölubók, bls.109-110). Það er dæmigert fyrir Guðberg að gera almenna reglu úr einstöku tilviki. Þannig verður texti hans andstæður rökhyggju: Vegna þess séríslenska fyrirbrigðis, að andstæðar skoðanir leiðtoga til hægri og vinstri á tímum kaldastríðsins virtust hafa kynt undir kynhvatir barna þeirra í menntaskólunum, lögðu þau hugi saman svo barátta kynjanna í bólinu fæddi af sér börn með volga hugsun og hneigð til lista. Afkvæmi þeirra hafa þrammað látlaust út á listabrautina. Ríkið varð þá að styrkja listir í landinu, í sama mund og þær hurfu frá almenningi og öfuguggum hans sem nenntu ekki að veiða fisk úr sjó eða reka rollu af fjalli. 3.5. Mótsagnir Í framhaldi af ósennilegum atriðum má nefna hve áberandi tíðar mótsagnir eru í bókum Guðbergs, svo sem hér að framan hugsun (nætur) um ekkert. Helstu mótsagnir eru auðkenndar hér, t.d.: „Ég er eins og hið sanna skáld sem langar að allir en jafnframt enginn skilji verk þess, ekki einu sinni það sjálft, en óttinn og vonin eru ástæðulaus, enginn skilur það sem skiptir höfuðmáli heldur aukaatriðin, hinn hversdagslegasta hluta lífsins.” (Anna, bls.383). ”Maður getur aldrei sagt öðrum það sem maður vill ekki segja en segir samt [...] Þú ert þannig að ég veit að allt sem þú segir er engu að síður ósagt.” (Anna, bls.238). Góðir menn eru verstu mennirnir og grimmastir (Ástir, bls.112). ”Ónothæfur vindhjallur. En samt sem áður nothæf” (Ástir, bls.142) ”Ég finn það þótt ég viti það ekki” (Það sefur, bls.122). ”O, hann er hrein stærðfræði! Og alveg óútreiknanlegur” (Hermann, bls.29). ”Mikil heimska er oft hrein skynsemi” (Hermann, bls.34). ”Auðvitað erum við óskyldar systur. Skyldleiki okkar er skyldleiki óskyldleikans.” (Það rís, bls.100). ”Þú áttir herbergið með mörgu herbergjunum og hreyfanlegu veggjunum” (Það rís úr djúpinu, bls.102). “Þú finnur þig við það að týna sjálfum þér.” (Froskmaðurinn, bls.103). Ennfremur: ”mér datt ýmislegt en um leið ekkert sérstakt í hug sem ég tel vera þjóðareinkenni okkar” (Lömuðu kennslukonurnar bls.83). Lykt vekur heillandi viðbjóð (s.r., bls.118). ”Í vorum heimi er afturhaldið hið eina sanna byltingarafl” (Saga...flugu, bls.46 o. áfr.). ”Hún óð elginn á þann hátt að allir skildu en enginn skildi þó neitt í neinu”. ”Ritverk eiga að vera eins og dísætur ís, sem svalar og vekur þorsta í senn.” (Saga...flugu, bls.97-98). ”Góðvildin gerir það gagn sem er ógagn” (Sagan af Ara, bls.101). „Hinir framsæknu og róttæku eru eina íhaldið“ (Sagan af Ara, bls.78). „Lögreglunni tókst að hrekja lýð burt – af því hann vildi ekki sóða út lögguna!“ (Sagan af Ara, bls.99). ”Leyndin lá í augum uppi” (Leitin, bls.38). ”Sannleikurinn leynir sannleikanum og eflist við afneitun hans” (Hinsegin sögur, bls.15), ”Blandaðir einkennilegri sorg sem samt er gleði” (Hinsegin sögur, bls.25). Talað er um að ”ákæra og verja sem er í rauninni það sama.” (Hinsegin sögur, bls.46), ”Kaldir ranar væru hvað heitastir” (Hinsegin sögur, bls.62). ”Mestu karlmennirnir eru það alls ekki” (Hinsegin sögur, bls.64). ”Er jafnan ógn og skelfing samfara fegurðinni ef hún er ægifögur.” (Hinsegin sögur, bls.75). ”öll sönn fegurð ógnvekjandi og ógeðsleg en venjuleg fegurð mild og lítilmótleg og ljót” (Það rís úr djúpinu, bls.181). ”Ljót en ógnfögur” (Leitin, bls.64). Maður vill að börnin læri, þótt honum finnist komið meira en nóg sé af menntafólki (Maðurinn er myndavél, bls.43 o. áfr.). ”Það að hann var frjáls í fyrsta sinn, naut óhefts innra frelsis í fangelsi, var einnig kynleg fjarstæða, af því að hann var þar ófrjáls. Samt var mótsögnin staðreynd og staðreyndir skipta höfuðmáli” (Maðurinn er myndavél, bls.46). ”Einu sinni var eitthvað sem var alls ekki til, en engu að síður...” (Maðurinn er myndavél, bls.53). ”Sálin í þeim er víravirkishöll, fullgerð en ósmíðuð smíð með efniviði úr ósýnilegu silfri” (Sú kvalda, bls.99). ”Hún var með óþægilega en ljúfa verki í líkamanum.” (Svanurinn, bls.23). Allt hefur þetta ótvírætt það hlutverk að rugla lesendur í ríminu, leiða þá frá röklegum skilningi. Mótsagnir koma einnig fyrir í tali Guðbergs sjálfs, bæði í blaðagreinum og t.d. í viðtalsbókinni (GBMetsölubók, bls.214): Þar sem ég er léttklæddur hefur forni svalinn greiðan aðgang að holdinu og hann vekur sterkan unað á borð við þurran grát sem enginn sér. Ég auðkenni það sem hlýtur að teljast óskiljanleg mótsögn. En það vekur tilfinningu fyrir að þetta sé skiljanlegt á óbeinan hátt, með því að hafa það á tilfinningunni eða eitthvað þvílíkt. Guðbergur er löngu frægur fyrir svona vitlausar alhæfingar í greinum og ræðum, og hefur oft verið umdeilt hvort honum var alvara með þessum skrítnu yfirlýsingum, sem vissulega vöktu á honum athygli. Í rauninni er sú spurning út í hött, a.m.k. fyrir aðra en hans nánustu, þetta er sá Guðbergur sem birtist lesendum. Það er dæmigert að hann skýrir breytingar á borgum með breyttu hugarfari íbúanna, en ekki með aukinni útbreiðslu bíla, sem mér virðist þó augljós ástæða (GBMetsölubók, bls.208). 3.6. Goðsögur Smásagnasafnið Ástir samlyndra hjóna (1967) rúmar hámarkið í skopstælingum Guðbergs á fræðimennsku. Stíllinn er víða alveg í hlutlausu formi vísindalegrar framsetningar, en svo koma æ fráleitari staðhæfingar (Kenndin kringlótt vömb, Ketabon). Þetta minnir á Tómas Jónsson metsölubók, sem og er vitnað til þar. Þetta einkennilega hugtak stóð í mörgum. En Jóhanna Sveinsdóttir bendir á í grein 1978 (bls.285) að það var skýrt í undanfarandi sögu, Önnu, þar sem sögupersónan Anna-Katrín segir við mann sinn (bls.229): Ég hata öryggi endurtekningarinnar. Þetta hús. Þetta guðsríki. Vegna þess að heimurinn er engin kringlótt vömb þar sem maðurinn liggur í bosi sínu og honum séð fyrir öllum þörfum. [...] Sérhver maður lifir á ótal sviðum, talar ótal tungum og fallbeygist eftir aðstæðum, en stígur endalausan dans innan sinna takmarka. Þannig finnst ekkert ómannlegt í fari mannsins. Þessi tilvitnun getur orðið til að varpa skýrara ljósi á kaflann Kenndin kringlótt vömb, sérstaklega þriðja og síðasta hlutann sem lýsir frummönnum höldnum þessari kennd. Þar birtist hún í stöðugri endurtekningu gerða þeirra og heimskulegu góli. [...] hefur þessi lýsing beina skírskotun til umhverfisins við Tanga, þorpsins sem fjölskyldur þær sem Guðbergur lýsir í Ástum samlyndra hjóna (og öðrum verkum) búa í. Jóhanna segir ennfremur (bls.292): Borgaraleg vísindi eru yfirbreiðsla á raunverulegum afstæðum manna. Undir vísindalegu yfirskini er talað um allt annað en það sem máli skiptir. Þessi kúgunarþáttur málsins er eitt helsta þema verka Guðbergs. Í framhaldi segir Jóhanna (bls.294) að ummæli Eysteins Sigurðssonar í grein hans 1969 sýni að ”ádeila Guðbergs um yfirbreiðsluhæfileika málsins hitti í mark”, því Eysteinn segi um kaflann Kenndin kringlótt vömb: ”Er frásögnin í þessum köflum algjörlega slitin úr tengslum við raunveruleikann og höfðar eingöngu til ímyndunarafls lesandans.” Jóhanna rekur skipulega að í Ástir samlyndra hjóna séu afhjúpaðar goðsögur um sjálfstæði einkalífs [því] rótleysi þjóðfélagsins gegnsýri heimilislífið, [...] innbyrðis samskipti þessarar fjölskyldu einkennast af hatri, óánægju og þröngsýni (bls.287). [...] Systurnar, mágarnir og barnabörnin einkennast af ruglingi, hraða og stefnuleysi. Ræturnar að þessu öllu má rekja til hernáms, stríðsgróða og þeirrar fjárgræðgi sem hann hafði í för með sér (bls.288). [...líkt og Dagný Kristjánsdóttir] [E]r það gróðasjónarmiðið sem mótar afstöðu afkomendanna til gömlu hjónanna. En andstæða þessa spillta bæjarfólks er ekki heilbrigð, upprunaleg sveitamenning. Afa gamla er lýst sem klúrum, elliærum aumingja, amma er hálf úr heimi höll (bls.289). [...] Íslensk tunga og menning er víða á undanhaldi í heimi sagnanna. Það sem kemur í staðinn er erlend fjöldamenning, vitundariðnaður, afþreyingarefni mestmegnis, sem hingað berst gegnum sjónvarp, kvikmyndir, bækur og blöð (bls.292). [...] Ketabon er gervivísindaleg skýrsla [...] þar sem rakinn er uppruni, eðli og þróun þras- og þráhyggjusjúkdómsins meðal Íslendinga. Skýrsluna má annarsvegar líta á sem paródíu á gervivísindamennsku ýmissa félags- og sálfræðinga, hinsvegar sem ádeilu á tvöfeldni íslenskra fræðimanna, sem undir yfirskini þjóðrækni predika hugmyndafræði ríkjandi stétta, þ. á m. undirlægjuhátt gagnvart því sem amerískt er (bls.293). [...] Hér beinir Guðbergur spjótum sínum að ómannúðlegri meðferð á geðveikum: hvernig menn eins og Svingsi lenda á hæli fyrir tilviljun, og hvernig vörðum og læknum er keyptur friður með því að gefa honum hormónasprautur (bls.295). [...] [...] af nokkuð öðrum toga er hlutgerving kvenna á ”markaðnum”. Karlrembar líta á konur sem hluti sem séu góðir til síns brúks. Þetta viðhorf yfirfærist til konunnar, henni er kennt m.a. í gegnum auglýsingar að líta á líkama sinn sem hlut. [...] Alþýðustúlkurnar í Ellefta atriði sem stunda vændi í aukavinnu reyna að gæða sig þeim eiginleikum sem vinsælastir eru á persónumarkaðnum þá stundina: svampbrjóstum til að auka barminn, himinháum hárgreiðslum styrktum með hárlakki, stríðsmálningu, tyggigúmmíblæstri, ensku babli og upphrópunum. Von þeirra og æðsta takmark er að með þessum eiginleikum takist þeim að losna úr ”fúlum” framleiðslustörfum yfir í amerískt hjónaband (bls.296). [...] Lífið hefur kennt honum [guðfræðistúdent], að prestsembættisverkin hafa tekið á sig mynd hverrar annarrar neytendaþjónustu [...] Þannig sýnir þessi saga hvernig neysluþjóðfélagið hefur skrumskælt flest svið mannlífsins. Samband fólksins byggist ekki á tilfinningaböndum og skoðanaskiptum, heldur kaupum og sölum með gróðavon í huga (bls.297). [...] Þrátt fyrir þetta svarta útlit finnst mér röklegt að kalla söguna af Nonna vísi að andófi, því bersýnilegt er að hann hefur gert sér grein fyrir (í gegnum bækur) að heimurinn er annað og meira en sú ”kringlótta vömb” sem foreldrar hans lifa í (bls.298). [...] Þannig sýnir Guðbergur fram á að þessar höfuðandstæður í vitund persónanna eru í rauninni gerviandstæður, eða öllu heldur endurspeglun á metorðastigakenningu kapítalískrar hugmyndafræði í íslenskri vitund. Frá sjónarhóli höfundar má e.t.v. segja að höfuðandstæðurnar séu að vera manneskja eða afskræmi manneskju, hverrar eiginleikar eru óheiðarleiki, siðleysi og andlegur ræfildómur í ýmsum myndum. En orsakir þessara eiginleika liggja einmitt í framangreindum gildum sögupersónanna: einstaklingsframtaki (gjarnan í skjóli Kanans) og poti og braski ýmiss konar, með öðrum orðum í ”draugum draums” (bls.299). Ég tilfæri þessa löngu tilvitnun í grein Jóhönnu vegna þess að ég er sammála sérhverju atriði í henni, hún sýnir fram á hve mikilvægar goðsögur eru í verkum Guðbergs, að hann einmitt jafnan er að afhjúpa goðsögur þær sem ríkja í samtíma hans. Í TJM eru sagnir Tómasar Jónssonar, innlendar og erlendar, yfirlit um bull og kjaftæði á Íslandi áratugum saman, eða með öðrum orðum, þær sýna goðsögur fólksins, hugsunarhátt þess á fyrri tíð. Þar kennir margra grasa, og má t. d. nefna tal um frægð íslensks söngvara erlendis á árunum milli stríða, en hér kemur skáldsögupersónan Katrín í stað Stefáns Íslandi eða Eggerts Stefánssonar. Hugmyndir Íslendinga um útlönd koma annars einkum fram i hroðalegum sögnum frá Sovétríkjanum og Póllandi. Hér er tekið upp rugl úr almannarómi, svo bráðskemmtilegt getur verið. Mér datt í hug að þetta væri úr Tímanum á stríðsárunum, en samskonar rugl hefur Guðbergur eftir sveitungum sínum á bernskuárum sínum (sbr. Eins og steinn sem hafið fágar, bls. 196 o.áfr). Í TJM segir m.a. (bls.18, textinn er að sjálfsögðu tilfærður stafréttur, með öllum villum sínum): Hér birtist stutt skrá yfir helstu hættur sem steðjað hafa að hinni fámennu íslensku þjóð allt frá 1939 til Marshallhjálparinnar: [...] sérhver ný vörutegund í búðum vissi á heimsendi, plokkun og útrýmingu íslenska kynstofnsins. Kaupmenn og prangarar íhaldsins stefndu að þvi I)Með brillantini, að gera alla Islendinga sköllótta eins og útlendinga; II)að brenna innan magann i fólki með sinnepi og tómatsósu; III)Að auka ropa og vindspenning í fólki með grænmeti; IV)Að drepa ferðafólk í tjöldum með dósaeitri i dósamat; V)Skafa að innan hausinn á fólki með útvarpinu; VI)Flytja inn kynsjúkdóma og lauslæti með erlendum gopanærfötum [....] Auka botnlangaköst með innflutningi á rándýrum rúsínum með steinum; Eyðileggja heilann í íslenskum konum með innflutningi á háhæluðum skóm (200.0000 högg skullu daglega á mænuna og litla heilann), sem gerir konuna sinnulausa fyrir húsverkum og barnauppeldi Áður er rakið það fráhvarf sagnanna frá því að vera eftirmyndir umhverfisins, sem Guðbergur sagði um ”Það sefur í djúpinu og fylgifiska hennar”. Sú skáldsaga birtist 1973, en ári síðar Hermann og Dídí, sem hefur undirtitilinn Það sefur í djúpinu annar hluti. Í henni (bls.24 o. áfr.) er vitnað í TJM, og í lokasögunni Það rís úr djúpinu, 1976 (bls.51), birtist m.a. leigubílstjóri sem greinilega er kunnur rithöfundur í samtímanum, Indriði G. Þorsteinsson. Þessi þriðja skáldsaga er laustengdari hinum, sameiginlegt er helst sögusvið með örnefnum og persónunöfnum. En fyrsti hluti hennar er einskonar dagbókarfærslur sögupersónu í fyrri bókunum, Katrínar, ungrar í Reykjavík. Þar er skopast að heimóttarskap sveitakonu ”í sollinum”, þ.e. í Reykjavík, nánar tiltekið í Ingólfskaffi, og að heimþrá hennar í sveitina. Þegar í fyrstu sögunni eru goðsöguleg atriði, sem sýna hugarheim fólksins, m.a. óra kvenna sem orðnar eru einstæðar; kynóra um hesta, væntanlega vegna reðurslegs reists háls þeirra; svo sem (Það sefur, bls.42): Með því að engin þörf var lengur fyrir hestana, hlutu þeir enga umönnun, heldur gengu sjálfala úti árið um kring. Þeir juku kyn sitt án afláts og eigruðu stefnulaust og villtir um graslitla hagana eða fjörurnar, loðnir á veturna og hrímgaðir og stundum með frostskán utan á sér í fjörunum, svo að þeir líktust í myrkrinu einhverjum furðudýrum og vöktu skelfingu. Menn heyrðu þá tala við hnísurnar og hvalina á sundinu. Dauðir menn riðu þeim um hraunið. Stundum sáust þeir fljúga í loftinu. Einstaka maður hafði séð þá á sundi úti á opnu hafi. Konur mættu þeim hauslausum í húsasundum. Ekki voru allar ekkjur óhultar fyrir þeim. Af sama tagi eru vitranir konu um að drukknaður sonur hennar muni vakna aftur til lífsins sem fiskur (Hermann bls.8 o. áfr.). Seinni hluti sögunnar Það rís úr djúpinu er ívið lengri hinum, og hér blandast persónur saman og sundrast, atburðir eru mjög lygilegir, t.d. kafnar hross í dyragætt og er mikið stand að koma hræinu frá, gömul kona hefur tvo hrafna, ýmist í tjóðri, á húsmæninum, eða á öxlunum eins og Óðinn forðum. Erfitt má þykja að átta sig á þessum hluta, sem svo sannarlega hæfir fyrr tilvitnuðum orðum Guðbergs: ”hvarf ég frá ytra raunsæi að hinu sem liggur hjartanu nær”. Dæmi þess er ekki síst lokasagan í Hinsegin sögur, Þetta henti á föstudaginn var, þar sem gíraffar, hýenur og skáldkonur takast á á Laugavegi. Við sjáum af undanfarandi smáköflum að Guðbergur leggur sig fram um að gera þjóðlífsmyndina á ýmsan hátt óröklega og goðsagnakennda. 3.7. Staðarlýsingar Þær eru mikilvægar í sögum Guðbergs, og margir umfjallendur leggja áherslu á hve ”raunsæilegar” og nákvæmar þær séu, sem grundvöllur sem síðan er vikið frá. Þannig segir t.d. Arnór G. Ólafsson (1991, bls.38-9): Í Hjartanu er þrátt fyrir allt dregin upp allskýr mynd af samfélagi okkar tíma og verkið er greinilega öðrum þræði ádeila á þetta samfélag eða kannski öllu heldur þann lífsmáta sem er skilgetið afkvæmi þess. [...] Birtir Hjartað okkur hlutlægan og þekkjanlegan veruleika en grefur jafnframt svo rækilega undan honum að hann virðist hanga í lausu lofti. [og bls. 30:] og það er líklega einmitt einn af aðalkostum bókarinnar hvernig þessum veruleikum er teflt saman. Sigurður Valgeirsson segir (1979, bls.7-8): Rauði þráðurinn í náttúrulýsingum þessara verka er útmálun á því hvernig gróðurinn veslast upp vegna rofafla náttúrunnar og að öll viðleitni mannsins til að græða upp umhverfi sitt misheppnast [nema í Músin sem læðist]. Lýsingar umhverfis eru vitaskuld einkum til að skapa andrúmsloft í sögum Guðbergs, eins og annarra höfunda. Þær eru gjarnan ógeðslegar í sögum hans, og birtist þannig óbeint afstaða sögumanns til persóna, hún er allt annað en hlutlaus, t.d. í eftirfarandi texta, auðkennt hér (Það sefur, bls.23): Langar og flæktar rætur grassins flöxuðust naktar utan á vindsorfnum börðunum, sem einhverntíma höfðu myndað samfellt valllendi. Ræturnar líktust dauðum hárflóka á veðruðum hauskúpum [og bls.29]: Magnús tók rottuna upp á halanum og slengdi henni í gegnum blátt og fýlumengað loftið á eftir strákunum sem hlupu á harðri rás að sandfitjunum. Hálfmorkin rottan lenti á einum þeirra og sprakk á herðum hans og ýldan breiddist yfir höfuð hans og rann í taumum niður bakið. Himinninn grúfði yfir með eymdarlegri birtu sem leysti upp kalda, hráslagalega rökkrið. Það vottaði fyrir degi sem virtist drjúpa úr lofti í glærri slefu. Á jörðinni var óhreinn klakinn að svitna [...] Ef svona hráki tollir í nokkra daga næ ég bílnum úr fönninni, sagði maðurinn (Anna bls.458). 1 ½ bók, hryllileg saga (bls.50-52) segir m.a. frá danskri bakarafjölskyldu sem flyst frá Íslandi, en brennir áður hús sitt við Fjólugötu í Reykjavík, makar veggi rústanna í sykri, hveiti, jarðarberjasafti og rjóma, og hvatti innfædda til að sleikja ”sykurdrullið” í sig, sem þeir svo gerðu. Þetta er auðvitað í stíl við neikvæðar lýsingar á manngerðu umhverfi sem víða eru áberandi í sögum Guðbergs, t.d. (Hermann, bls.49): Hann settist á borðstokk skips, sem dregið hafði verið á land og rotnaði þar. [...] Ónýt skipin lágu á dreif í kringum þá í vikinu. Hræin höfðu verið dregin upp fyrir flóðlínu og lágu á hliðinni með brotinn byrðing, þar sem óeðlilega hvanngrænt gras óx upp úr fúnum viðnum. Um þetta segir Marta Jerábková (bls.31): Í fjörunni liggja rotnandi skip eins og tákn sálarástands þeirra ”nútímaíslendinga” sem eru að fæðast hér. Og umhverfis þorpið ganga sjálfala hestar, sem enginn þarf lengur að nota og sem eru jafnvel drepnir af fólki með grimmilegum hætti því til skemmtunar. Þessa hesta má vel lesa sem tákn fyrir náttúru sem er varanlegri en mannkynið, hins eilífa tíma sem í lokin vinnur óhjákvæmilegan sigur yfir mannnum. Síðasta málsgreinin hér virðist mér alveg tilefnislaus, ekki kannast ég við slíka framtíðarsýn neinsstaðar í bókum Guðbergs. Andstæða þessara neikvæðu umhverfislýsinga kemur einnig fyrir í sögum Guðbergs, náttúrulýsingar í öðrum sögum hans eru sumar fremur aðlaðandi, jafnvel fagrar, svo sem í Svanurinn, en þar segir frá stelpu sem er send út í sveit vegna þess sem hún hefur gert af sér. Seinna (bls.27 og 39) kemur fram að það var búðaþjófnaður. Einna sérkennilegust er þar náttúrulýsing þegar drukkinn maður dettur af hestbaki í keldu (Svanurinn, bls.125): Yfirborð vatnsins hrökk sundur í ótal svarta spegla. það slettist móti himninum í oddhvössum örvum og ýfðist til hliðar í kröppum bylgjum ljóss og sorta. Andstæða neikvæðra lýsinga sést einnig í Froskmanninum, svo sem þessi náttúrulýsing neðansjávar (bls.49-50): Sólin skein á hann, föl sól með dimmum geislum . Úti var logn, kyrrðin alger, furðuflugur á sveimi, flugur með sporð og hann langaði að leggjast til hvíldar í myrkrið og sofna í hinni svörtu vermandi sól, undir grænu áþreifanlegu skýi. En brjóst hans fylltist af ótrúlegum fögnuði, líkt og hann andaði lífsandanum djúpt að sér, því hann vissi að eftir þetta gat hann synt óhindrað úr veruleikanum inn í drauminn. Vegna lokaorða tilvitnaðrar klausu, m.a., virðist nærtækt að sjá þetta sem andstæðu hversdagsleikans í þorpinu, sem mótast af ósjálfstæði fólks. Í lok sögunnar virðist froskmaðurinn kominn í einhverskonar sátt við sjálfan sig og birtist það í náttúrulýsingu í upphafi lokakaflans. Hún manngerist æ meir í lýsingu fjallanna og sólar, sem eru persónugerð (bls.155, auðkennt hér): Loftið, himinninn, hafið og jörðin voru í brothættum kvöldljóma. Froskmaðurinn ók hratt þangað til honum fór að líða prýðilega innra með sér. Hann var í samræmi við kvöldljómann yfir landinu og hafinu þegar hann var kominn út fyrir bæinn. Hafið var á hægri hönd og flóinn opnaðist móti víðáttunni. Fjöllin virtust hafa öslað örlítið út í hafið til að lauga sig ekki aðeins um ræturnar heldur baða sig upp um miðjar hlíðar og spegla hnjúkana í haffletinum. Þau blánuðu óvenjumikið um ennið og skáru sig þannig frá himninum. Hann [...] skyggndist um með þrýsting í æðunum eftir unga manninum á trillunni sem var runnin saman við sólarglitið á hafinu í vestri. Því að sólin fálmaði um hafið og beygði sig undir vald kvöldsins en hneig gegn vilja sínum nær sjávarrönd [...] Já, sagði hann með sjálfum sér, fegurðin er mest þegar sá er horfinn sem vekur hana. Þetta orðalag styður að mínu mati ótvírætt að hann hefur óbeint notið einskonar samfara við unga manninn. Margrét Eggertsdóttir tilfærir upphaf þessarar klausu í ritdómi um bókina (TMM 1987, bls. 122). Einna minnisverðust þykir mér lýsing á polli sem maður stekkur yfir (Hermann, bls.35-6): án þess að atast mjög fagurgrænni ýldu pollsins, sem skein eins og slípaður smaragður í sólinni og sendi eitraðan glampa á ryðskreyttan vegginn, aðeins jarkar skónna fengu á sig hinn einkennilega rauða sveppagróður, sem óx í furðulegum myndum og síbreytilegum upp úr eitilgrænni ýldunni, líkt og dýrustu gimsteinar og ofhlæði fagurlegs skrauts, því að hér er ekkert fagurt nema rotnunin og litir ýldunnar í öllum regnbogans litum sem hver skartgripasmiður mætti öfundast yfir og allt skartgripasafn og gimsteinar englandsdrottningar kemst ekki í hálfkvisti við fegurð eins ýldupolls hér, hvað þá þetta glerperluhálskraut ykkar kvennanna hérna, þið ættuð að fara á böllin skreyttar einum polli, þá munuð þið ljóma dýrlega, en umfram allt eðlilega og í samræmi við umhverfi ykkar, eðli og innræti. Lok klausunnar er stunga til persónanna, að þær séu innilega rotnar, hvað sem útliti líður. En hér finnst mér skáldskapur Guðbergs birtast í hnotskurn, það er skapandi ímyndunarafl, á grundvelli skarprar athugunar og hlutlægrar á umhverfinu, sem er túlkað í andstöðu við ríkjandi viðhorf. Þetta kemur í staðinn fyrir t.d. lýsingu litríkra sólarlaga. Í framhaldi kemur líka framangreind lýsing á lífsglöðu fiskiðjufólki sem tjáir sig í öskrum og góli, líkt dýrum. Af undanfarandi smáköflum má ótvírætt draga þá ályktun að Guðbergur leggi sig fram um að firrast venjulegt raunsæi í lýsingum umhverfis, en þess í stað skapa sögum sínum draumkennt, óraunhæft andrúmsloft, sem lýsir persónunum með óbeinum hætti. 3.8. Sögupersónur Fræg er skipting E. M. Forster á sögupersónum í flatar persónur og breytilegar (”flat and round persons”). Síðarnefndar sögupersónur geta þróast og komið lesendum á óvart. Stundum hafa skáldsagnahöfundar lýst því yfir, að sögupersónur hafi tekið völdin af þeim, þróast til einhvers sem alls ekki stóð til af þeirra hálfu. Slíkar marghliða persónur hafa lengi þótt vera aðalsmerki bókmennta, þar sem flatar persónur væru alltaf eins, og títt eins og peð söguhöfundar, til þess eins að bera fram viðhorf eða vera fulltrúar einhvers, hneigða eða þjóðfélagshópa. Þetta er þó ekki svo einfalt. Dýpt má skapa í skáldsögu á annan hátt en með breytilegum, djúpum sögupersónum, það vona ég að komi í ljós í þessari könnun á sögum Guðbergs. Um sögupersónur Guðbergs virðist mér almennt mega segja að þær séu einhliða. Ekki bara það, þær eru yfirleitt skrípamyndir. Þar er nú ekki leiðum að líkjast, þetta einkennir einnig stórmeistara íslenskra bókmennta, Halldór Laxness. Séu sögupersónur hans ekki skopmyndir, þá eru þær ýktar á hinn veginn, göfgaðar svo að þær fá goðsögulega dýpt. Þar má nefna Snæfríði Íslandssól, Jón Hreggviðsson og Arnas Arnæus í Íslandsklukkunni, Ólaf Kárason og Hólmfríði á Loftinu í Heimsljósi, Sölku Völku í samnefndri sögu, og Bjart í Sjálfstæðu fólki, þar sem flestar persónur þessarra sagna eru einhliða skopmyndir. Í fyrstu skáldsögu Guðbergs, Músin sem læðist, er sálarlíf aðalpersónu í sviðsljósi, það birtist einkum í viðbrögðum hans við einhliða aukapersónum svo sem móður hans, sem hafa mikil áhrif á líf hans. Þannig verður persónan marghliða, ef orða má það þannig. Svipað má segja um aðrar persónur í sögumiðju, svo sem eru stelpan í Svaninum og sálfræðingurinn í Hjartað býr enn í helli sínum, þau sýna aðallega viðbrögð við umhverfinu. Meiri umhugsun einkennir aðalpersónur í Sú kvalda ást og Lömuðu kennslukonurnar. Ekki verður þó sagt að þær þróist á nokkurn hátt. Það gerir froskmaðurinn ekki heldur, þótt ýmsar hugsanir hans birtist í samnefndri sögunni. Og ekki þróast Tómas Jónsson, né er hann marghliða, hann er fremur röð einhliða, ýktra skopmynda. Þannig mætti áfram telja, en ég man ekki neina sögupersónu Guðbergs sem kalla mætti alhliða, þótt mótsagnir einkenni hugsanir þeirra margra hverra. Guðbergur sagði sjálfur um sögupersónur sínar í viðtali (Þjóðviljanum 20.10.85): Sjálfur lít ég svo á að það séu talsvert margar hliðar á mínu fólki þannig að það sé ekki hægt að segja að þar séu einvörðungu neikvæðar hliðar, en það má kannski segja að þær séu of frumstæðar. Að það sé lögð of mikil áhersla á hina frumstæðu hlið mannlífsins. Það er eins og hver önnur aðferð sem höfundurinn notar. Hann sýnir frumstæðu hliðina og sýnir hvað hin frumstæða hlið er margbrotin. Hið svonefnda frumstæða fólk er alls ekki eins frumstætt og fólk heldur. Hinn menntaði maður er miklu fábrotnari en hinn frumstæði maður. Marta Jerábková segir um persónur Guðbergs í Sannar sögur að þar ekki sé um að ræða hefðbundinn fastan persónuleika, þær séu oft sjálfum sér ósamkvæmar og komi okkur sífellt á óvart, en tvær persónur skeri sig úr (bls. 13): Anna tengir allar bókapersónurnar á huglægan hátt (með því að hafa hlutverk sjónarmiðjunnar sem miðlar lesandanum sýn á hinar persónurnar og virkar sem viðmið allra hinna) og líka á hlutlægan hátt (allir safnast saman hjá henni í Valhöll í erfisdrykkju, bls. 33). Magnús er mest athyglisverður fulltrúi þessarar kynslóðar. Ólíkt hinum getur hann stundum séð umhverfi sitt úr vissri fjarlægð. Breyttar aðstæður sem urðu til eftir komu hersins fylla hann óöryggi. Hann finnur að gamli heimurinn sé óafturkallanlegur, að hann sé fastur milli tveggja tímabila. Hann getur ómögulega túlkað stöðu sína í heiminum og hlutverk sitt. Magnús er dæmigerður fyrir efasemi nútímans. Hann er í djúpri sálrænni kreppu (bls. 38). Um þetta segir Sigurður Valgeirsson (bls. 33): Í persónunni Svani, einkum í Hermanni og Dídí, finnst mér koma fram eina framsækna persónan í verkunum því hann hverfur frá gildum þorpsbúa og reynir að bregðast við umhverfi sínu. [...] Óánægjan er fyrsta sporið í þá átt, að maðurinn geti gengið andlega uppréttur, segir hann. [...] Þrátt fyrir að mér finnist Svanur jákvæðari en aðrar persónur í þessum verkum fer því fjarri að hann sé gerður að draumapersónu. Í Hermanni og Dídí, þar sem hann kemur fram á sjónarsviðið, er hann t.d. gerður dálítið hlægilegur. Í þessu finnst mér eitt gildi verkanna falið. Þau færa lesandanum enga endanlega lausn eða fullkomna fyrirmynd. Lilja Dögg Jónsdóttir talar um þroska aðalpersónu Svansins (2003, bls. 11): Þegar hún gengur upp á fjallið er það tákn um leið hennar til þroska. Hún var í sveitinni til að þroskast og dafna og bæta fyrir brot sitt. Þegar hún svífur fram af fjallsbrúninni á eftir svaninum er hún laus úr viðjum vanlíðunar og óþroska barnsins og er að stíga í átt til þroskaðrar vitsmunaveru. Því telpan veit með sjálfri sér að raunveruleikinn er óræður og getur á stundum verið nokkuð ógnvekjandi. Í flestum sögunum er í sögumiðju persóna sem virðist um fram allt venjuleg. Hugsanir hennar koma oft fram, en þær eru mótsagnakenndar og oft heimskulegar, í fari þeirra er sjaldnast neitt sem vekti aðdáun. Mér virðast þessar persónur sérkenni Guðbergs sem sagnaskálds, en langar og ítarlegar frásagnir af látbragði þeirra og tali geta stundum reynt nokkuð á þolinmæði lesenda. Sama má segja um ítarlegar lýsingar á hversdagslegum athöfnum og hugsunum persóna, svo sem í skáldsögunni Anna (1969, hún er mjög aukin og endursamin í nýjustu útgáfu, 2001). Þar segir frá sunnudagsborðhaldi timbraðrar fjölskyldu með smjatti, prumpi, standpínu, sjálfsfróun og öðru sem ekki þótti við hæfi í bókmenntum þá. Í stíl við það er strigakjaftur milli nánustu ættingja, sem flestum lesendum hefði væntanlega blöskrað (t.d. bls.16): “Ég skal roðfletta rassgatið á þér sofandi! kallaði hann fólskulega. Mér er sama þótt þú sért mamma mín.” Einnig er gamalli konu misþyrmt af nánustu ættingjum (Anna, bls.236-7). Á öðrum stað er t.d.: “Menn geta étið eða nærst á menningu eða öðru á margan hátt en það sannast á þér að kúkurinn er eins hvað sem menn borða, sagði Katrín.” (bls.191). Svona lýsingar eru alger andstæða afþreyingarbóka. Um þetta segir Steinunn Haraldsdóttir m.a. (bls.4-5): Anna er ekki auðveld aflestrar. Allar hefðbundnar reglur um einingu frásagnar eru þverbrotnar í henni. Sagan hefst í miðju samtali/rifrildi um mat og drykk og engin deili eru sögð á sögupersónum. Umhverfi þeirra og baksvið koma smátt og smátt í ljós við lesturinn en verða reyndar aldrei mjög skýr. Engin tilraun er gerð til að klæða persónur í heilsteyptan og sannfærandi búning í anda sálfræðilegs raunsæis þar sem upplýsingar eru gefnar um útlit, baksvið persóna, hegðun o.s.frv. Útlínur persóna eru mjög á reiki og erfitt er að festa hendur á þeim, þar sem þær skipta ótt og títt um nöfn og oft er óvíst hver talar og við hvern og um hvað! Stundum fær lesandinn aðgang að hugsanaflæði persóna. Sögupersónur í Önnu vita af því að þær eru aðeins persónur í sögu og eru leiksoppar einhvers gerræðisfulls höfundar sem ráðskast með þær. Þær eru álíka óvissar um stöðu sína í sögunni og lesandinn. Stundum eru þær ósáttar við hvernig farið er með þær (bls.6). Persónur Önnu eru settar í sömu spor og ráðþrota lesendurnir, þeim er stjórnað af einhverjum fjarlægum og óskiljanlegum Skipuleggjara sem virðist taka hamskiptum oftar en einu sinni í gegnum söguna. Jafnvel Anna/Katrín/konan sem allar eiga hönd í bagga með skrifunum eru litlu nær um hver sé raunverulegur höfundur sögunnar þótt böndin berist að Svani (bls.9). Mál persónanna í Önnu er skrítin blanda af hversdagslegasta talmáli og uppskrúfaðri speki. Þær ræða þindarlaust um allt milli himins og jarðar og ekki endilega í neinu rökréttu samhengi. Hrært er saman innantómum malanda neysluþjóðfélagsins, hugmyndafræði úr ýmsum áttum og svo groddalegum athugasemdum. Orðræður úr öllum áttum heyrast, hið sérstaka mál fjölmiðla, þingmanna, þjóðernissinna, sálfræðinga, hagfræðinga o.s.frv. Á hverri blaðsíðu má finna dæmi um þennan undarlega hrærigraut (bls.11). Þótt þær séu ekkert tiltakanlega heimskar þá taka þær aðeins á móti hugmyndum en hugsa þær ekki í gegn sjálfar, talið er allt á yfirborðinu. Þær eru fastar í hlutum og hugmyndum sem koma hinu innra lífi þeirra ekkert við. Það er eins og þær séu lokaðar frá sínu eigin tilfinningalífi, slitnar úr tengslum við langanir sínar og þrár. [...En o]ft á tíðum eru persónurnar svo frumlegar og óvenjulegar í tali að ekki er hægt að afgreiða þær sem hálfgildings vélmenni sem endurtaka aðeins hugsanir annarra. [...Þ]ær hefja sig stundum upp yfir hlutverk sín sem leiksoppar umhverfis og aðstæðna, og taka að skoða líf sitt og gagnrýna það. Þær lifa tvöföldu lífi í textanum – oftast endurspeglar tal þeirra hversu hvunndagslegu lífi þær lifa (svo hversdaglegu að það er orðið fáránlegt) en stundum snúa þær sér að því að gagnrýna þetta líf. (bls.11-12) [...] Samræður persónanna í sögunni eru í rauninni einræður, þær tala um sjálfar sig og hlusta á sjálfar sig, einn þáttur persónuleikans veltir öðrum fyrir sér. Þetta er í fullkomnu samræmi við margklofið eðli þeirra. Einræður persóna Önnu eru því margradda í eðli sínu (bls.13) Lítið rúm er fyrir tilfinningar, óraunsæi, draumóra, fíflaskap eða eitthvað þessháttar í heimi raunhyggjunnar og líf fjölskyldunnar í Valhöll er þessu marki brennt. Líf þeirra er bundið af vana, hefur koðnað niður í deyfð og framtaksleysi vegna dáleiðandi áhrifa rútínunnar. Þau hafa einangrast hvert í sínu horni og finna enga tilfinningalega fullnægju hvert í öðru. Lífið snýst um vinnu, mat, hluti (bls.23). Í samræmi við þennan rugling á persónum er mjög breytilegt hverjar þeirra búa í hvoru gamla býlinu, Valhöll eða Ásgarði. Það rekur Sigurður Hróarsson (bls.29-30). Oft er það að persóna gerir sér tal annarra í hugarlund, og það í ítarlegu máli (t.d. Hjartað bls.33, 154 o.v.). Það gerir sögupersónur ósannfærandi sem áður segir, einnig atriði eins og að kaninn Cowley breytist í Kýrleif sem talar vel íslensku (Anna, bls.314 o. áfr), en er síðar ekki sami maðurinn (bls.342, 344). Persóna segist vera í skáldsögu (Það rís úr djúpinu, bls.100) og síðar: ”En heiti ég þá Bogga, spurði hún og svaraði í sömu andrá: Bogga frá mitti til ilja, Anna að ofan frá hvirfli, en Katrín í mittið” (Það rís úr djúpinu, bls.125). Þetta ræddi Sigurður Valgeirsson og sagði m.a. (bls.3): Þá geta persónur brugðist við atburðum sem gerast í hugskoti annarra persóna eins og þeir hafi gerst í raunveruleikanum. [...] Höfundurinn er að tjá sína mynd af veruleikanum og persónurnar eru einungis tæki hans. Enda þótt nokkur munur sé á því hvað fólkið segir, þá verður ekki sagt að neitt sérkennandi sé í hegðun þeirra. Því hjá öllum ber mest á einhverju sammannlegu. Boggi (í Önnu), nafn hans er lesið aftur á bak, Iggob, æpir hvað eftir annað: ”Ég er steinn”, en ekki verður það kallað merkileg persónusköpun. Færeyskur gestur sem segist vera Grænlendingur þylur í sömu sögu frásagnir um eðli Grænlendinga og hegðun, og eru það gamalkunnar kjaftasögur og fordómar um lauslæti, kvennakúgun og heimsku. Mest ber hér á kyrrstöðu eða tilgangslausu rápi fram og aftur, sem áður var vikið að. Athyglisvert er að bernskuminningar Tómasar í TJM eru ömurleikinn einn. Móðir hans vanfær af 12. barni, missir fóstrið, og ásakar drenginn um að þræla henni út. Hann neitar seinna að teka þátt í að annast jarðarför föður síns. Líkamlegt ofheldi, kúgun og sóðaskapur er meginþáttur í reynslu hans á barnsaldri. Hann er látinn sofa í rúmi með bændahjónunum á bænum þar sem hann býr, bóndinn getur ekki sofnað nema hafa nefið yfir koppinum, bóndakonan fróar drengnum nauðugum. Útliti persóna er lítt lýst í skáldsögum Guðbergs. Ekki skal getum að því leitt hvað Guðbergur hafi verið að hugsa þegar hann skrifaði sögur sínar. En svipleysi sögupersóna hans mætti verða til þess að lesendur lifi sig inn í persónurnar, hver og einn geti séð sig og aðra í þeim, frekar en ef vandlega væri lýst sérkennilegu útliti persónu. Það er mjög algengt, og um það má vitna í hugsanir skáldaðrar persónu í skáldsögu André Gide Myntfalsararnir: Lýsi skáldsagnahöfundar sögupersónum sínum of nákvæmlega hindra þeir ímyndunaraflið frekar en að þjóna því og þeir ættu að eftirláta hverjum lesanda að ímynda sér hverja sögupersónu eins og þeim sýnist . Í flestum bókum Guðbergs eru áberandi persónur næsta sviplausar, sem áður segir. Hann getur þó vel lýst persónum. Það sést t.d. á útlitslýsingum í Sú kvalda ást, t.d. á vininum sem fyrir sjálfsmorð sitt arfleiddi sögumann að ástmanni sínum (bls.156): í þokkabót var hann sérkennilega fríður en á þann hátt að andlitið var með talsvert óreglulega en skarpa drætti svo hann var ekki það sem er kallað er sætur heldur fagur drengur með kyrrlátan og einbeittan svip. Harkan sem skein úr andlitsdráttunum [...] fríðleiki hans hafði orðið framandi, aðlaðandi og fráhrindandi í senn svo maður áttaði sig ekki beinlínis á honum. Af sama tagi er t.d. lýsing sundkennarans (í Leikföng leiðans, bls.142): sólbrenndur, dökkhærður, hrokkinkollur í hvítri skyrtu og ljósum sumarfötum. Annað dæmi hlutlausrar útlitslýsingar, nánast hefðbundinnar, er (Svanurinn bls.137): Á móti þeim tók eldri maður. Hann var fremur þrekinn, ekki stór, með yfirskegg og afar stór og brún augu. Röddin var nokkuð há en ekki mjó. Af sama tagi er önnur persónulýsing (1½ bók. Hryllileg saga, bls.60-61): Sannfæringartónninn vakti traust vegna þess að honum fylgdi þung brún og neðrivörin teygðist fram í grettu en sú efri leitaði inn og munnurinn virtist eiga erfitt með að jafna sig. Á líkan hátt gerir nákvæm lýsing á látbragði fólks tal þess hlægilegt (Hermann, bls.106-7): Láfi kenn horfir í grasið og bregður fingri inn í munnvikið og skoðar eitthvað á nöglinni og dregur fram rauðan vasaklút sem þenst út í vindinum en Láfi kreistir hann í hnefanum og þurrkar fyrst af nöglinni síðan dustar hann sig í framan með klútnum og Palli rekur hnefann í jörðina og beinir munninum að klútnum eins og hann ætli að tyggja hann. [...] Og Palli heldur munninum lengi opnum og gapir og gónir á Láfa, skekur hausinn og lítur upp í himininn eftir hjálp [...] Hvað Hitler gerði mikið fyrir þýsku þjóðina meðan hann var og hét. Af öðru tagi er önnur útlitslýsing, og ekki sérkennandi. Þessi lýsing er raunar ópersónuleg, hún sýnir bara tilfinningabálið sem brátt brýst út (Froskmaðurinn, bls.146-7): Ungi maðurinn hlustaði á hann dálítið þrútinn í framan með votan andlitssvip hins óharðnaða ungmennis [...] Andlitið var sem eldhaf upp af dökku jakkafötunum sem höfðu auðsæilega legið lengi í sjópoka. Andlitið var eldur eða kyndill sem logaði upp úr líkamanum. Enn má nefna útlitslýsingu í 1½ bók. Hryllileg saga. Þar er Jón Hansson kynntur án útlits, bara sagt að hann sé votur um hvarmana vegna sírennslis (bls.14). Sjá ennfremur þessa skrípamynd (Sú kvalda bls. 164): Dóttirin blómgaðist. Hún var eitthvað eldri en arabinn eða svo virtist vera, þangað til honum fór skyndilega að hnigna, hann varð lendamikill og herðarnar urðu kýttar, hann missti að mestu hárið og varð óþægilega mjúkur í umgengni, sívotur um varirnar og smurður í tali. Útliti persóna er helst lýst í skrípamyndakenndum aukapersónum, svo sem þegar í Leikföng leiðans (bls.7): belgingslegur maður, kúluvembdur og rauðbirkinn í andliti með blátt æðaslitið nef og hvítan hnúð neðan á annarri framtönninni, sem gerði hann einna líkastan snjáldurmús. Annarri konu er svo lýst líkt og annarlegu dýri í Hjartað býr enn í helli sínum (bls.117): Maðurinn fylgdist með hverri hreyfingu móður sinnar, hvernig hún tróð tyggigúminu upp í sig. Munnurinn á henni sat í hrukkóttum gúlp á andlitinu því hún var fremur frammynnt og varirnar fyrirferðarmiklar og iðandi, en í rauninni var munnurinn aðeins lítið op. Hún tuggði tyggigúmið hægt og virðulega, og það kom manninum einkennilega fyrir sjónir að sjá aldraða konu tyggja tyggigúmí. Verra er þó þegar fólki er lýst með líkingum við hluti: Þar má nefna skrípamynd þar sem niðrandi er að líkja augum við lítið vasaljós, en hári við bólstrað húsgagn, og lýsingin er skerpt með andstæðunum hörð/mjúk. Brjóstin eru ólöguleg, “einhverjir hnyklar” (Hjartað, bls.20): Konan var ótrúlega rangeygð með ljóst litað hár sem var rautt í rótina og stóð í ógurlegum strók upp af hnakkanum líkast bólstruðu sætisbaki. Augun í höfðinu voru blágræn og útstæð, áþekk stækkunargleri á litlu vasaljósi, en framkoma konunnar var þýðleg, næstum auðmjúk, þrátt fyrir það að hún væri mjóróma en auðsæilega hörð í horn að taka. Núna var hún auðsæilega mjúk af víni og einhverjir hnyklar þöktu líkama hennar undir þunnri peysu. Af sama tagi er önnur skrípamynd (1½ bók. Hryllileg saga, bls.59): Sophie Knorr... var fremur stórskorin en brjóstin rýr og í litlu samræmi við aðra líkamsparta eða athafnasemina. Fólki fannst dapurlegt að sjá þau í felum framan á annars þöndum kassa sem mjókkaði niður að fínlegu mitti en varð að mjaðmalausu engu sem tveir þráðbeinir fótleggir héldu uppi og minntu á spýtur. Einnig auðkennist persóna af klæðnaði sínum (Það sefur, bls.48); “hálsfesti með mislitum glerperlum undan grænni blússu, sem virtist vera saumuð úr storknuðum hráka”. Ekki er sjálf persónan sem ber þetta meira aðlaðandi (Það sefur, bls.48-9): Kápulaus sást hvað flíkur hennar voru velktar og gamlar og hvað hún sjálf var öll rýr. Axlir hennar hófust upp og beygðust eins og krókar fram yfir slétt brjóstið. Mjaðmirnar voru ferhyrndar, liðamótalausar og eins og kassi. Þegar hún hreyfði sig brakaði í öllum líkamanum. Enn ógeðslegri skrípamynd er af annarri konu í sömu sögu (Það sefur, bls. 73-4): Slitnar druslur hengu á gömlu innföllnu brjósti hennar. Hún hafði ullarflókann á bringunni grindhoruð svo markaði fyrir rifbeinunum því að hún var brjóstveik og hafði gert gat á skorpið skinnið og þrætt í götin ullarviska til þess að þeir söfnuðu í sig grænni vilsu úr lungunum og eitri úr blóðinu. Hér er sem oft endranær áberandi hlutdræg lýsing sögumanns. Skapgerð sögupersóna er annars oft sýnd í neikvæðu ljósi. Í sambandi við svipleysi persóna er áberandi hve oft Guðbergur afgreiðir sögupersónur sínar í hópum. Í Lömuðu kennslukonurnar segir t. d. (bls.57): Óhætt er að segja að engar systur sem ég þekki eru sérlega frumlegar þegar þær hittast eða eru skríkjandi í sínum hópi og finnst ástæða til að segja hver annarri undir rós frá leyndu og fábrotnu lífi sínu. Frumleiki systra er sístur í gerð tungumála, talið snýst venjulega um stráka eða karlmenn. Ennfremur eru lýsingar á frænkum söguhetju (í Ævinlega, bls.31, 74, 108 o. áfr.), þær eru afskiptasamar og uppáþrengjandi. Svo er um fleiri hópa, veislugesti (bls.113 o. áfr.), viðskiptavini og afgreiðslufólk í matvörubúð (bls.126 o. áfr.). Þessi ágengni einkennir öðrum fremur vinnufélagann Jóa (Ævinlega, t.d. bls.122), sem kemur aftan að sögumanni sitjandi, borar olnbogum í herðar hans, blæs í hár honum og heimtar skýringar á því hvað hann sé að gera. Þannig flæmdi hann annan góðan gullsmið af verkstæðinu. Mest einkennir sögupersónur tvennt, hugleysi og heimska. Dæmi um það fyrra er, að fólk hefur ekki fyrr sett fram einhverja skoðun en það tekur hana aftur (t.d. Ævinlega, bls.83). Eftir að sögumaður hefur útmálað blaðsíðum saman hve óþolandi vinnufélaginn Jói sé, segir hann (Ævinlega bls.131): “Jói er annars góður strákur.” Samanber það sem sögumaður sagði um Guðberg í langri tilvitnun hér að framan, og (Ævinlega, bls.112): Ég stóð mig oft að því að vera leiðinlega íslenskur í sambandi við hann, því eftir að hafa formælt honum rækilega og fengið útrás fyrir skítinn í mér, sneri ég undireins við blaðinu og sagði í huganum: ”Annars er þetta ágætis náungi og ekkert verri en aðrir” (svipað er t.d. á bls.114). Fleiri dæmi má víða finna, kvartað er undan barsmíð ”frá annars ágætri manneskju” (Sagan af Ara, bls.29). ”Annars held ég ekki fram neinni sérstakri skoðun” (Maðurinn er myndavél, bls. 8). Ámóta hugleysi birtist einnig í því að það einkennir margar persónur að setja fram viðhorf sín á ópersónulegan hátt, t.d. (Froskmaðurinn, bls.80), þegar forstjórar fiskvera tala um veitingu verðlauna til froskmannsins (bls.133-4): Svona ósamræmi á ekki við, sögðu margir og kváðust ekki geta litið orðunefndina réttu auga eftir þetta. [...] En það er sama, var sagt. Verið er að hossa honum. [...] Verið var að gera froskmanninum of hátt undir höfði á kostnað aldraðra sjómanna. Það var ekkert réttlæti í því. Áþekkur úrdráttur er í Froskmanninum (bls.124), kokkur segir: Það er munur að vera froskmaður og gæddur furðuhæfileikum. Ja, maður segir svona. Einna fráleitast er ópersónulegt tal og almennt – í fleirtölu! – um persónulega reynslu, þegar kona talar um sjálfsmorð föður síns (Sú kvalda, bls.227): Maður álpast í gegnum lífið eins og asni, sagði hún harmi þrungin. Feður manns mála rauða krossa á stein, maður heldur að það sé grín en það er gert með sjálfsmorð í huga og maður veit ekkert! Þegar froskmaðurinn fer upp á vændiskonu þrátt fyrir að hún bæði hann að bíða þess að hún þvægi sér eftir fyrri viðskiptavin, eru viðbrögð hennar einnig ópersónuleg: ”Það er naumast, urraði hún” (Froskmaðurinn, bls.253). Látbragð. Áberandi mikið er um lýsingar á því hvernig fólk fitlar við andlit sér (t.d. Ævinlega, bls. 86, Anna, bls.234) og strýkur sér yfir magann (t.d. Hermann, bls.137 og Froskmaðurinn, bls.138), en þessar lýsingar gegna ekki hlutverki í framrás sögu né persónusköpun, leiða ekki til neins. Dæmi: Það hefur ekki enn verið komið á kvótakerfi hvað varðar sölu á kjólum í verslunum á Laugaveginum, sagði hún með vísifingur í krók um rúnaða hökuna og þumalfingur undir henni, líkt og hún kitlaði sig og skildi hvað ég átti við (Ævinlega, bls.99). Lögreglustjórinn rak tunguna út í hægri kinnina svo munnurinn skældist líkt og á þroskaheftum (Froskmaðurinn bls.117). Svipað er með tilefnislaus tilfinningahvörf svo sem í Sú kvalda ást (bls.130), Froskmaðurinn (bls.136) og Ævinlega (bls.86). Frænkan í síðasttöldu sögunni sýnir unga parinu herbergi sem þau eiga að hafa um nóttina, en þar hafði hún notið ásta með nú látnum manni sínum. Eftir stutta stund beygði hún af og byrjaði að hágráta á þann hátt að ég blygðaðist mín fyrir vatnsganginn úr augunum og nefinu á henni. Svona sjálfsaumkun er víðar, t. d. í föður froskmannsins, rísi einhver gegn frekju hans. (Froskmaðurinn, bls.71 og 95). Hann er sífellt með dylgjur, ekki síst um son sinn (t. d. bls.97). Öfund birtist iðulega, t. d. að formaður froskmannafélagsins reynir að gera lítið úr söguhetju (bls.141). Víða koma undarleg viðbrögð og óútskýrð, svo sem: ”sagði gamla konan og leit flóttalega á hana.” (Anna, bls.223). Engin ástæða er sjáanleg til þessa ”flóttalega”. En sem áður segir stafar þetta brengl á persónusköpun ekki af vankunnáttu höfundar, hann sýndi allt frá upphafi góð tök á að sérkenna persónur með tali og háttum. En við mótsagnirnar vinnst að persónur koma á óvart, lesendum birtist sundurlaus fólksfjöldi og mótsagnakenndur. 3.9. Sögumaður Af framansögðu leiðir, að ekki er verulegur munur á sögumanni og mest áberandi sögupersónum. Þau hafa svipuð viðhorf og talshátt. Elín Bára Magnússdóttir segir þó (bls.11-12): Það sem hefur þó þótt hvað nýstárlegast við bækur Guðbergs er einkum tvennt. Í fyrsta lagi – og það atriði tengist frásagnaraðferðinni, er hvernig stöðu mælendanna innan textans er raskað. [...] það sem skilur höfund, sögumann og persónur að er mismunandi vitneskja. Höfundurinn býr yfir mestri vitneskju þar sem hann setur sögumanninn á svið og sögumaðurinn býr yfir meiri vitneskju en persónan þar sem hann setur söguna á svið og stjórnar persónunni með vitneskju sinni. Í sögum Guðbergs er staða mælendanna hins vegar ekki svona einföld því oft er látið að því liggja að hinar ýmsu persónur búi yfir vitneskju bæði söguhöfundar og sögumanns sem leiðir til þess að lesandinn ruglast gjarnan í ríminu og veit varla hver sé hvað né hver sé að segja frá. Þessi frásagnatækni tengist einnig persónusköpun höfundarins því í verkum hans er að finna persónur sem eru æði tvöfaldar í roðinu hvað stöðu þeirra varðar innan textans og nægir að nefna í því sambandi tvíeykin Hermann/Svan og Önnu/katrínu. Raunar er sögumaður oft ágengur og áberandi, t.d. í líkingum umhverfislýsinga svo sem áður var rakið um náttúrulýsingar, þannig er orðum líkt við vopn sem skera og höggva (Hermann, bls.87): Hann var í miðri alvarlegri ræðu um fjárþröng fyrirtækja, þegar skræk og hvöss orðahríðin inni í stofunni braust út um gluggaboruna, klauf settlega ræðuna og skar í sundur orð hans, tvístraði þeim og braut, svo að hann leit niður fyrir sig, eins og hann byggist við að sjá orð sín liggja þar líkt og glerbrot, en því næst snaraði hann sér að glugganum og skellti honum aftur. Einnig er sögumaður áberandi í athugasemdum sínum um sögupersónur, t.d. (Það sefur, bls.21, auðkennt af E. Ó.): Framkoma hans og látbragð voru í senn klaufaleg og föðurleg á þann hátt, sem óbreytt fólk lætur í ljós tilfinninningar sínar. Vegna þess að hrjúft umhverfi og lifnaðarhættir þess gefa sjaldan tilefni til eðlilegrar samkenndar eða einlægni, líkjast auðsýnd vinahót helst skoplegum og óburðugum kjánalátum, grimmd, stríðni, ólíkindalátum eða fyndni, sem hvergi hittir í mark. Hvernig er eiginlega farið með kúnnana hérna? spurði Ari Fróðason á sama hátt og hann væri ekki beinlínis viðriðinn málið, heldur hafði verið vitni að einhverri illri óhæfu í garð gamallar konu (Sagan af Ara, bls.29). Nú kom flatt upp á flokksforystuna að Ari Fróðason skyldi búa yfir þessum fróðleiksmolum í hagfræði; varð hún þess vegna klumsa, óvön að mæta jafningja sínum í þeirri list að vitna í speki annarra og ritningargreinar. Meðan róttækur prestur í bílnum leitaði ólmur að tilvitnunum í kenningar Krists og fann aðeins fiskframleiðslu hans og fjölgun brauða, óx Ara Fróðasyni fiskur um hrygg og hann sagði (Sagan af Ara, bls.114). Umræðum þessum bætti Ari Fróðason auðvitað við orð mannanna, enda er sjálfsagt að breyta orðum annarra og færa þau örlítið úr lagi, manni sjálfum í vil ef hægt er. Fólkið sat í friði og ró um stund, fjarri hinu sífellda roki, laust við eilífa óánægju, en annars ósjálfstætt í hugsun og sífellt á hlaupum, gjörsneytt innra frelsi og stóð þess vegna ævinlega á skjön en söng þó í kór (Sagan af Ara, bls.125). Sögumaður er sérstaklega áberandi í Hinsegin sögum, þegar hann skopstælir fordóma um samkynhneigða (t.d. bls.44): homminn er sér á báti, eðli hans er að leyna eða vera tvíræður [...] Homminn lýgur samt ekki, hann notar bara frásögn sem vekur flækjur fremur en hún greiði úr þeim. Þess vegna er hann leyndin sjálf, og í sínum hópi, hinum lokaða heimi hommanna sem enginn kemst inn í og er fullur af ósögðum hlutum, þar er jafnan verið að látast. Og það hefur sagt mér frægur sálfræðingur að þótt ótal rannsóknir hafi farið fram og hommar hafi verið teknir í einkaviðtöl og þeir látnir sverja við Biblíuna að segja sannleikann og ekkert nema sannleikann, þá séu vísindin engu nær um það hvað homminn sé, að öll sálfræðirit um homma séu að mestu tilgátur, vegna þess að homminn er í eðli sínu einslags hilling og sjónhverfing, efni sem eyðir sér. Niðurstaða þessa er auðvitað sú, að hommar séu jafnmargvíslegir og annað fólk, engin ástæða sé til að flokka fólk eftir kynhneigð þess. En Guðbergur segir slíkt aldrei beinlínis, það kemur aðeins fram í háði eins og hér. Sögumaður á það til að ávarpa lesendur og skamma þá (Hinsegin sögur, bls.67): Og ástæðan er auðvitað sú, skilningslausu asnarnir ykkar, að annar var hjólbeinóttur og læravisinn en hinn hnellinn sem hjartveik kaffikerling. Um Hjartað býr enn í helli sínum fjallar Arnór Ólafsson og bendir m. a. á sérlega ágengar lýsingar sögumanns (1991, bls.31): umgjörð verksins sem bersýnilega er raunsæileg að því marki að mjög víða er veruleikanum lýst á hlutlægan hátt. En [...] Í Hjartanu kemst lesandinn ekki í vanabundið sefjunarástand heldur er stöðugt verið að hnippa í hann og vekja hann til meðvitundar og því væri nær sanni að tala um andsefjun í verkinu. Milli höfundar og lesenda er ekki í gildi samningur líkt og í raunsæisverkum heldur eiga sér stað stöðug samningsrof bókina út í gegn. [...og bls.34:] Maðurinn í Hjartanu hefur með öllu glatað sambandinu við umheiminn, tímann og sömuleiðis sjálfan sig. Allt verður óreiðu og óskapnaði að bráð enda þótt hann reyni hvað eftir annað að koma böndum á óreiðuna með röklegri hugsun. Hin röklega hugsun verður að lúta í lægra haldi fyrir veruleika sem er óröklegur og fáránlegur. Þetta ástand er tjáð með sterkum myndhverfingum [...og bls.35:] ”Mér finnst gott að hún rakki mig niður með óhrekjandi rökum” hugsaði maðurinn og um þá eyðimörk eða mel sem opnaðist að baki hans í lok hvers fundar. Á eyðimörkinni óx ekkert nema langdregið óp, mjótt og líkt þræði, og ópið barst úr hnakka mannsins og hnakkinn teygðist út í óendanleikann. [...] Maðurinn lokaði augunum sem snöggvast og endurheimti sjálfan sig. Ópið dróst aftur inn í höfuðið og hringsólaði um auðnina og hnakkinn skrapp aftur að höfðinu (bls.103). Þá fann hann hvernig honum létti við stununa og hugurinn og hluti af sálinni fóru aftur að leka í líki þykkrar marglitrar froðu sem hneig út um hægra gagnaugað og safnaðist um stund í skínandi klessu á aðra öxlina uns klessan skreið hægt niður handarkrikann og bungaði þar út eins og stærðar konubrjóst. Áþekkt atriði er í skáldævisögu Guðbergs (Eins og steinn, bls.118) Sannfærandi virðist mér hjá Arnóri að þessar langsóttu líkingar sýni fyrst og fremst hugarangur söguhetju. Umhverfislýsingar sögunnar eru einnig ágengar, en á hversdagslegri hátt, allt er kalt og myrkt á sögusviði. 3.10. Ást og kynlíf Afar lítið er talað um ást í sögum Guðbergs, enda yfirgnæfa þar neikvæðar mannlýsingar. Miklar pælingar eru um kynþroska aðalpersónu fyrstu skáldsögu Guðbergs, Músin sem læðist. Gylfi Gunnlaugsson er býsna freudískur í umfjöllun sinni og segir m. a. (1978, bls.20) að ótti drengsins við kynhvöt sína og dauðann sé samtvinnaður. Ennfremur (bls.30): Þykir mér nánast óhjákvæmilegt að telja tilraunir hans til bælingar kynhvatannna eiga stærsta þáttinn í ímynduðum veikindum hans. [... og bls. 46:] Á miðilsfundinum endurheimtir drengurinn í einu vetfangi sáttina við kynþroska sinn, og það sem eftir er dagsins lætur hann ekkert setja sig út af laginu. Geðofsi mömmu er samur. En mér þykir fara í verra þegar Gylfi fer að túlka táknmál drauma í anda Freuds, þetta er alls ekki ótvírætt, þótt vel gæti staðist. Drenginn gæti bara verið að dreyma um að lækna móður sína af þeim móðurlífskrabba sem hún óttast og sífellt talar um (s.r., bls.18-19): Freud taldi sig hafa komist að því við rannsóknir sínar að hnífur í draumi væri ævinlega tákn fyrir kynfæri karlmannsins, í drauminum beinist skurðaðgerðin að kynfærum mömmu; blóð í draumi tengist kynlífi konunnar augljóslega. Með hliðsjón af þessu og viðbrögðum drengsins við draumnum er nánast óhjákvæmilegt að túlka hann þannig, að hann sé ómeðvitað að láta sig dreyma um samfarir við móður sína [enda er hann einangraður hjá henni]. Þórdís Björnsdóttir sér hinsvegar samband móður og sonar í Músin sem læðist eingöngu sem valdabaráttu, sadó-masókisma, þannig lítur hún einnig á ástasambandið milli karlmannanna í Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma. En munur er þar á (bls.43): Strákurinn í Músinni sem læðist er er í masókistahlutverki gagnvart mömmu sinni án þess að vera meðvitaður um það, en þessu er ólíkt farið í Kvöldu ástinni. Sögumaðurinn þar nýtur þess að kveljast og er meðvitaður um þá nautn. [...] Hann vill halda félaga sínum í fjarlægð og nýtur þess oft meira að vera án hans en með honum. [...bls.44:] Hann óttast dauða ástarinnar og vill þess vegna halda ástmanni sínum í fjarlægð eins og íkonmynd uppi á vegg. Hann gerir það til að viðhalda söknuðinum í fjarveru hans, enda veit hann að það er einkum sjálf þráin sem veitir honum fyllingu. [og bls.45]: Það má líka segja að ákveðin nekrófília felist í skrifum sögumanns um ástina; hann er í miklu meiri tengslum við skriftirnar heldur en félagann sjálfan, og kýs í raun dagbókina (sem er dauður hlutur) umfram ástmanninn. Hvað varðar annað tal um kynlíf, þá er persónan Lóa tvítóla (Það rís, bls.87). Einnig sýnir kona af sér samkynhneigð, raunar mest gagnvart systur sinni (Það rís úr djúpinu, bls.27, 40 og 70). Sagt er frá sjálfsfróun – konu, raunar er það þroskahefta stúlkan Dídi (Hermann, bls. 56-7). Fermdir strákar biðja hana að koma ”í læknaleik”. En síðar tekur hún sjálf frumkvæðið og segir við þá ”É’r veik”. Svarið er þá jafnan: ”Þú þarft að fá góða sprautu” (Það sefur, 149-50): Maðurinn sagði, án þess að líta til hennar: Farðu upp í kofann þinn, svo kem ég og lækna þig. Hann leit síðan í kringum sig, tók á sig langan krók. En þegar hann kom í kofann heyrði drengurinn að hann spurði: Hvar ertu veik? Má ég sjá litlu flyðruna, hvort ekki sé fleiður á henni. Hann dró upp um hana kjólinn og svipti honum vel upp á magann. Þú ert bara með heljarmikið sár, sagði hann. Leggstu hérna. Þú þarft’a fá áburð svo sárið grói saman. Ætl’a ekki skáni. Liggðu nú bara róleg og kyrr og nú kemur sprautan. Hann skimaði í kringum sig í kofanum, hnykkti sér snöggt nokkrum sinnum, eins og hundur, reis á fætur og spurði lágt: Var ekki gott’a láta lækna sig svona. Lækna svona, endurtók hún og augun urðu að mjórri rák. Svo drep ég þig, haldirðu ekki kjafti, hvæsti hann. Síðan gekk hann raulandi út úr kofanum og fór að þefa af skreiðinni. Þetta er ein helsta samfaralýsingin í sögum Guðbergs, og sést af því hve fráleitt væri að tala um klám í þeim. Hér er ekki lostanum fyrir að fara í lýsingum, og ekki í Froskmaðurinn, þar sem talað eru um ”svefnlyf hinna líkamlegu ásta” hjóna (t.d. bls.18). Ámóta hratt er farið yfir sögu í Maðurinn er myndavél (bls.41-2) og (í annarri sögu frá 1987, í sömu bók, bls.112): Og hann leiddi hana inn í skúrinn og þau settust á poka og hann tók um hné hennar og dró þau sundur, meðan hann sagði henni frá leyndardómum myndavélarinnar. Hún lá uppi við fulla poka og hann brá sér snöggvast yfir hana og hún fann örlítinn sársauka meðan hann talaði, en hann hvarf þegar hann fór ofan af henni. Enn er hér ekki um losta að ræða, hvað þá nautn. Athyglisvert er hve neikvæð samfaralýsing er í t.d. Það rís úr djúpinu, fólkinu er lýst sem aurugum hundum (bls.124): Þá nótt urðu þau fimm sinnum örmagna og andinn ætlaði að kafna í hálsinum á þeim. Þau verkjaði í alla limi, líkt og þau væru með harðsperrur, ötuðust leðju og lágu síðan nær dauða en lífi með lafandi tungu, sleiktu hvort annað um nefið, en augun hverfðust í galtómu höfðinu. Svo sæl voru þau. Það er von að Guðbergur segði 1989(Skírni, bls.46): Varla er hægt að fjalla um ásthneigð í íslenskum bókmenntum af mikilli alvöru. Í þeim virðist fólk ekki stunda ástir heldur eðlar það sig vegna frumhvata eða verkja neðst í kviðnum, og það athafnar sig snöggt og undirbúningslítið (kannski til að slíta ekki söguþáðinn og þreyta ekki lesandann með langdregnum lýsingum . Ein þeirra nýjunga sem Guðbergur færði íslenskum bókmenntum var – meira eða minna opinskátt – tal um kynlíf milli karlmanna. Fyrsta dæmið sem ég hefi séð er í Tómas Jónsson metsölubók sem birtist 1966. Lok sögunnar stinga sem áður segir gersamlega í stúf við alla bókina í því að þar verða samskipti fólks með hlýju, þar sem tveir karlmenn veltast um gólf í skipi í faðmlögum og tungukossum, heita báðir Tómas, og skiptir þá um tilfinningablæ í sögunni, nú verður loks blíða og innileiki yfir öllu (bls.355): Þeir veltust um á gólfinu, fundu andlit, héldu hver öðrum föstum og spörkuðu með fótunum. Að lokum gafst hann upp, höfuð hans féll máttvana út á hlið. Hann grét magnlaus og fann andlitið koma upp að sér og reka oddmjóa tunguna milli vara sinna. Hættu, æpti hann, hættu. Hann lá yfir kvið hans og endurtók í sífellu: Hættu, drengur, hættu. Eins og segir í seinni sögu: ”sumir ríma aðeins við sitt eigið kyn” (Það rís, bls.200). Í smásögu (Maðurinn er myndavél, 1980, bls.40) segir frá afbrýðisömum eiginmanni, sem snuðrar í dóti konu sinnar, og tekur upp á því að mála á sér varirnar. Eftir þetta fátkennda uppátæki hafði hann á tilfinningunni að hann væri óhreinn og útskúfaður, því að hann hafði auðsæilega brotið ævaforn lögmál, en fann hvorki til fagnaðar né frelsiskenndar, heldur langaði hann skyndilega að berja konuna til óbóta, líkt og með því móti gæti hann hreinsað sig af hinni viðurstyggilegu mynd af sjálfum sér í speglinum og endurheimt karlmennsku sína. Í annarri smásögu í sama safni er strákum illa við pokabuxur (Maðurinn er myndavél, bls.69): sem voru sambland af poka og pilsi. Í þannig flíkur vildum við ekki fara, af ótta við að hinir eldri og reyndu færu að efast um kynferðið og kvelja okkur. Í enn annarri sögu bókarinnar segir drengur frá því að hann gekk með brúðuandlit í vasanum (1975, bls.129), en ”þá sjá tvær konur mig koma og ákveða á stundinni að gera mig heilbrigðan og ráðast á mig og ætla að svipta mig andlitinu.” Einnig er goðsagnakennd lýsing ballar sem mikilfenglegs og heillandi. Lýsingin minnir nokkuð á lýsingu trésins asks Yggdrasils í Snorra- Eddu (Það rís úr djúpinu, bls.176 o. áfr.): Már var drukknastur. Hann teymdi hestinn sem veifaði sköndlinum á göngunni. Þá gerðist það, að Tobba sá himinsýn. Hún sá svo gildan sköndul að trjábol líktist og átti rætur um allan heim. Böllur þessi reis beint upp af jarðarkringlunni. Drösull þessi einblíndi á sólina, svo að svita sló um hann allan, og spýtti frá sér með talsverðum krafti gráleitu frjómagni, sem hann dró til sín græðgislega úr iðrum jarðar. Á drösulinn virtist hvorki bíta eldur, járn né bænir skepna jarðarinnar, þótt hann væri forn og fúinn og rætur hans feysknar. Tobba heyrði fagran ljóðaþyt í lofti. Þá skalf jörðin og kastaði allri hersingunni út í móa, einnig hrossinu og kerrunni og öll lágu þau á víð og dreif innan um brotna búslóðina og grjótið. Meira er úr slíku efni gert í Það sefur í djúpinu, 1973 (bls.77-88). Þar er gefið berlega í skyn, en ekki lýst, að Magnús fari upp á drenginn Hermann, en Magnús er bróðir stjúpföður hans. Magnús ekur rútu og hefur drenginn einan með sér, lætur hann sitja í fangi sér og þrýstir honum að sér og er þá andstuttur og sveittur. Svo rífast þeir vegna þess að Hermann segir Magnús vera andfúlan og ólykt af honum; ”Maggi merargat, ríddu hænunni” (bls. 86). Viðurnefnið merargat um karlmann gefur til kynna orðróm um samkynhneigð, og orð drengsins gefa einnig í skyn að hann búist við afbrigðilegu kynlífi af Magnúsi. Sá leysir niður um drenginn og flengir hann, en þarf að girða sjálfan sig á eftir, og biður drenginn (bls.88): að segja engum neitt. Svo erum við vinir. Þú þarft ekki að biðja mig að þegja, svaraði drengurinn og reis á fætur. Seinna (Hermann og Dídí, bls.129-30) fer Magnús með drenginn í autt hús, læsir hann inni í herbergi, ”Og mundu það að við erum vinir, og síðan kem ég. Drengurinn varð stjarfur af skelfingu.” Það fer varla milli mála að Magnús ríður stráknum nauðugum. Hinsegin sögur (1984) eru 13 að tölu og allar stuttar. Sögurnar rísa upp af sams konar andstæðum, þar sem er raunveruleg náttúra söguhetju gegn því sem samfélag hennar telur æskilegt eða leyfilegt. Oft eru þetta hommar, en fleira kemur til, því bókin stendur fyllilega við fyrirheit kápunnar um fjölbreytni: „Sögurnar eru tileinkaðar ástarlífi Íslendinga á öllum sviðum." Ein sagan virðist fjalla um barnaflagara — vonandi elliæran — og snúast svo upp i animalisma. En betur að gáð segir hún líklega mest um hvernig kynhvöt barns birtist og leitar sér útrásar eftir tiltækum leiðum. Þetta er kannski nokkur lykill að sögunum almennt. Sögumaður er sífellt að bera fram fordóma umhverfisins gegn ýmiskonar kynlífi, talað er um lækningu homma (bls.45 og 69), „hinar hroðalegu fýsnir sem búa innra með kynvilltu fólki, einkum karlmönnum" (bls.12), „hommar stríða gegn öllu með eðli sínu: lögmálum guðs, náttúrunnar, velsæmisins og jafnvel útvarpslögunum nýju“ (bls.13). Það síðasta gefur í skyn að samkynhneigðu fólki sé bægt frá útvarpinu, en annars er hér augljóslega hæðst að því viðhorfi sem látið er í veðri vaka, en enginn er óhultur fyrir háði Guðbergs: Hommi á balli (bls. 20): fer undir eins að sjá ofsjónir og ekkert nema eintóma homma. Hann sér ekki betur en hver maður sé tilbúinn að mera sig, og þá fer rassinn auðvitað að iða á stólsetunni og hann að púa ótt eins og hommar gera þegar þeir hverfa andlega séð inn í kvikmynd og verða að frægum leikkonum. Hommana í fyrstu sögunni ber t.d. af öðru fólki að hreysti og heilbrigði. Þeir eru raunar tvítóla báðir, með tólin á brjóstinu. Spyrja mætti: „Hversvegna er tvítóla fólk kallað hommar?" Svarið verður: til þess að þessi spurning sé borin upp, svo sjáist hve fáránleg hún er, hversvegna ætti að flokka fólk eftir kynhneigð þess? Í sömu átt hnígur ótalmargt fleira í þessum sögum. T.d. afhjúpar sögumaður sárasaklausa hluti með þessum orðum: „Því er alls ekki að leyna“ (að einhverju sinni voru tveir karlmenn á balli, bls.16), „Nú er ekki hægt að leyna því lengur“ o.s.frv. Skáldsagan Froskmaðurinn (1985) gefur ýmislegt í skyn, frekar en talað sé berum orðum. Það sé ég m. a. í því þegar froskmaðurinn er einn á ferð, sloppinn frá slævandi rausinu í grönnum sínum og frá tilætlunarsemi konu sinnar, þá breytir um blæ. Þá ríkir í sögunni kyrrð, sem blómstrar í fögrum myndum umhverfisins, einkum neðansjávarlýsing (sjá náttúrulýsingar hér að framan). Í sögulok leita froskmaðurinn og vinur hans til vændiskonu. Vændiskonan sjálf er skopfígúra eins og þorpsbúar í fyrra hluta sögunnar, með útjaskaðan hátíðlegan talsmáta, en andstæða hennar er sjómaðurinn ungi, fámáll vinur froskmannsins. Og raunar er vændiskonan einungis leið til kynferðislegs sambands þessara tveggja karlmanna sín á milli, eins og kemur fram í eftirfarandi lýsingu (bls.152-3). Það er ungi sjómaðurinn sem fyllir froskmanninn af taumlausri ástríðu, og andlag þeirrar ástríðu er harður bolur, augljóst karlmennskutákn. Svo mikið er víst að aldrei hef ég séð konu lýst þannig: Ungi maðurinn kom ekki aftur og það leið góð stund. Hann læddist þá fram á ganginn og fór að gá. Hljóðlátt snökt og formælingar bárust innan úr herbergi og hann gekk á hljóðið. Í sömu svifum kom konan hálfnakin fram með lófann fyrir náranum og ætlaði inn á baðherbergið. Froskmaðurinn brá sér í veg fyrir hana. Augnablik, bað hún. Ég ætla að skola mig áður. Hugsunin um að hún hefði ekki skolað sig enn og að ungi maðurinn hefði verið inni í henni ærði froskmanninn með taumlausri ástríðu. Hann greip um handlegg hennar. Hún æpti lágt en hann leiddi hana inn og sá í rökkvuðu herberginu að ungi maðurinn stóð úti í horni og var að paufast við að fara grátandi í síðar nærbuxur. Hin óljósa sýn æsti froskmanninn enn meir: rautt barnslegt og tárvott andlitið og nærbuxurnar sem hólkuðust niður um hann og linur limurinn kom út um klaufina. Þá ýtti froskmaðurinn konunni niður á rúmstokkinn og lét hana taka á móti sér í skyndi. Það er naumast, urraði hún. Við urrið fann froskmaðurinn hvernig hann blés upp og varð að gríðarlegum gaur. Hann opnaði munninn og emjaði svo ungi maðurinn leit við og góndi – Þá var eins og augnaráð hans ræki froskmanninn inn í harðan trjábol með heljarafli svo hann lamdist gegnum börkinn og sökk í alla árhringina sem sugu hann til sín og hertu að. Trjábolurinn var fullur af mjúkum safa sem ólgaði eins og ljúft haf og árhringir hans frá fyrstu tíð herptu að lífi hans svo hann náði varla andanum á hinu hraða sundi. Þetta atriði virðist mér vera hápunktur sögunnar, sem áður segir, sund í æðra veldi og sagan er þá ekki síst bersöglismál eða ástarsaga homma. Hún er það miklu fremur en Hinsegin sögur, sem Guðbergur sendi frá sér ári áður, þar var einkum dvalist við umtal annarra um homma, en ekki við tilfinningar leirra. Er það ekki þetta sem gefur tilvitnaðri náttúrulýsingu neðansjávar (Froskmaðurinn, bls.49-50) lit og glóð, að fegurðin sé öðruvísi, hinsegin, ef svo mætti segja. Þannig skildi ég altént fyrstu lýsingu bókarinnar af því tagi, um þönglana (bls.3): Þar sat hann stundum á steini innan um þangið og naut þess að sjá hvernig langir, brúnir og iðandi þönglar luktust um hann. Við það ímyndaði hann sér að þangið væri hár en einkum hendur sem gældu við líkama hans. Að sjálfsögðu fann hann enga snertingu vegna þess að hann var í búningi. Þrátt fyrir hættuna brá hann sér samt stundum æstur úr búningnum og leyfði þangi og þönglum að strjúka sig. Þangið virtist æsast einhvern veginn við nekt hans, þá lokaði hann augunum og naut þeirrar tilfinningar að vera í tengslum við alheiminn, hafið og gróður djúpanna. Rétt er að nefna að ég hefi borið þessa lýsingu — þar sem ég skil þönglana sem reðurtákn — undir fáein þeirra sem hún gæti þá helst höfðað til, konur og homma, og fannst hvorugum hún vera neitt sérstakt. Hún er það þá kannski ekki ein sér, heldur sem hluti af heild, að vera liður í kerfi, sem liggur undir yfirborði bókarinnar, og gefur henni aukna merkingu. Í Sú kvalda ást... og Lömuðu kennslukonurnar ber mikið á kynlífssambandi samkynhneigðra karla. Í þeirri fyrrtöldu virðast karlmennirnir ekki fyllilega viðurkenna samkynhneigð sína. Sögumaður tók við ástmanninum sem arfi ásamt peningum, og sá segist ”vera að þessu til að hvíla konuna.” Þó er söguhetjan á valdi óviðráðanlegs losta í garð ástmanns síns, og elskar hann þar að auki. Það birtist í ljóðrænum lýsingum hans á tilfinningum sínum (t.d. Sú kvalda ást, bls.102): Í fyrsta sinn í kunningsskap okkar kyssti hann mig áður en hann fór. Hann tók mig skringilega og klaufalega í faðminn þannig að um mig vafðist hvíld sem ég kannaðist ekki við og ég varð klökkur. Ég heyrði innra með mér regnið og fylltist af þakklæti yfir að einhver guð hefði sannað áþreifanlega tilveru sína fyrir hinum vantrúaða og bænheyrt hann með óumræðilegri snertingu sem er undirrót sköpunarverksins. Á sama andartaki hefur þessi óbreytti maður eflaust fundið fyrir því sem var að gerast í tilfinningalífi mínu, hann þrýsti mér aftur að sér og ræskti sig. Ekki segja neitt, hvíslaði hann lágt og fór síðan. Ég vissi þá að við mundum aldrei losna hvor við annan og að honum þótti jafnvel vænna um mig en ég elskaði hann, af því að hann tjáði aldrei ást sína og eyddi henni ekki með orðum heldur jók hana með nærveru og núna með faðmlagi. Mikið er og um hugleiðingar sögumanns um þetta efni, svo sem (Sú kvalda ást, bls.90): Karlmenn geta aðeins fengið fullkomnun á víðu sviði unaðar með sínu eigin kyni enda býr ósvikinn ofsi og hinn frumstæði kraftur í engu nema því. Ofsi og kraftur konunnar er of dreifður til þess að hann hitti í mark nautnanna þegar hann brýst loksins út, oftast í orðum. Það er engu líkara en það fari fyrir henni á sama hátt og góðu mannviti, hún efast mitt í ofsanum og efinn smitar frá sér svo æðið dofnar og endar í andstæðu sinni, í volæði og tilraun til þess að hugga. Þetta hefði mátt hafa í kaflanum um vitlaus spekimál, því þetta er alhæfing um milljarða kvenna, sem engir geta dæmt um, en margir gætu sagt að ekki samræmist þetta þeirra reynslu af konum. Samband karlmannanna í Sú kvalda ást er dauðanum vígt í eyðni, eins og Geir Svansson benti á (bls.510). Hann dró einnig fram táknrænt gildi þess að þetta samband er bundið við kjallara, þ.e. hulið yfirborðinu. Geir rekur ennfremur (bls.513 o. áfr.) að sagan sé tileinkuð guði, en ýmislegt guðlast er í henni, t.d. að líkja samförum hommanna við krossfestingu Krists. Þetta túlkar hann svo að sagan taki á yfirborðinu undir fordóma gegn samkynhneigðu fólki, að samband þess sé óguðlegt. En auðvitað er það í háði. Losta er naumast lýst í þessarri sögu, hvað þá unaði af kynlífi. Lengst gengur það sem Geir Svansson tekur upp og segir (bls.511-12): Þrátt fyrir sterkar skáldskaparlíkingar eru sennilega ekki til raunsærri lýsingar á ástförum í íslenskum bókmenntum. Þegar kennarinn grúfir höfuð sitt ”hægt að hálsinum” á sjóaranum finnur hann ”hlýju og ilminn af unaðinum sem verður til við það að elska, ljúfa angan af ástinni sjálfri. Og kennarinn skynjar ”hvernig líkamar okkar runnu hægt saman á svipaðan hátt og og ánamaðkur skríður inn í raka mold, [og] hvernig hold óx inn í annað hold og við límdumst saman með eina líminu sem getur límt allt og var núna utan á líkömum okkar en hafði áður verið þar inni” (bls.35). Tali ástmannsins og skapgerð er lýst í Sú kvalda ást, hann er einfaldur, auðhrifinn og uppstökkur. En um útlit hans er helst þetta (bls.181) ”Úr dökkbláum augunum skein örlæti og fórnarlund karlmanns”. Í Lömuðu kennslukonurnar má helst nefna, er sögumaður fellur í fang viðmælanda síns, næturvarðar sem hann var að kynnast (bls.122): Maðurinn virtist líta á yfirlið mitt sem eðlilegan hlut og kurraði í yfirvaraskeggið sem var svart og mikið en gulnað undir nösunum af reykingum. Það að hafa tekist að lita á sér yfirskeggið brúngult með reykjarstrókum úr nösunum þykir vera karlmannlegt á Ítalíu. Ekki verður framhaldið lostugra, nefna má (bls.123): Er þetta gott? spurði ég, dró höndina undan fráhnepptri skyrtunni og færði mig í bókstaflegri merkingu niður á skaftið. Frá því sem var á gljáandi kylfunni og milli fóta hans. [...og bls.124-5:] Ég reif upp klemmdan munninn með tungunni sem hann lét afskiptalaust, þótt ég færi það langt að ég fann að hann var með gervigóm. Meðan á þessu stóð stundi hann þrisvar einskonar vélindastunu en ýtti mér ekki frá sér. Á sama hátt er stuttlega tilkynnt (bls.186) að sonur ástmannsins og eiginkona hafi einnig haft samfarir við sögumann, en því er á engan hátt lýst, né dvalið við það. Og í þessum sögum er nánast engin útlitslýsing ástmannsins! Því getur verið erfitt að taka þessar yfirlýsingar um tilfinningar, losta og ást, alvarlega. En vissulega er rétt hjá Geir Svanssyni, að afar lítið er um lýsingar losta eða unaðar af kynlífi í íslenskum bókmenntum. Til samanburðar skal hér vitnað í smásögu eftir Elías Mar, Gestur á nýjársnótt. Ekki er mér kunnugt um ritunartíma hennar, og Elías gaf ekki söguna út um ævidaga sína. En ég veit ekki hvort fólk sem hneykslast á samkynhneigð yrði hneykslaðra á þessari sögu en á framangreindum lýsingum í Lömuðu kennslukonurnar. Fyrst er útlitslýsing hins eftirsótta, skörp og jákvæð, en mótsagnir í lokin mega sýna tilfinningaofsa sögumanns: fegurri prófíl minnist ég ekki að hafa séð. Hárið var hrafnsvart, liðað vel, allt að því hrokkið, gljáandi og myndaði brúsk fram á ennið; mikið og þó vel greitt hár, en allt um það listamannslegt. Andlitið var ólýsanlega fagurt, og þó fjarri því að vera sykursætt: dökkar, þykkar augnabrúnir, stutt en nokkuð þykkt nef, þykkar og ástríðumiklar varir, hvítt hörundið af því tagi, að það þarfnaðist ekki viðkomu til þess maður sannfærðist um, að það væri mýkra öllu silki. Ég sá ekki augu hans fyrst í stað, því hann leit ekki í átt til mín, en virti fyrir sér bækurnar í glugganum. Hann var með óvenju löng og dökk augnhár. […] Ég leit á hann, og hann brosti, kumpánlega. Bros hans var með fádæmum heillandi. Heillandi er ekki orð, sem nær til fulls að lýsa því. Það var jafnframt ögrandi, saklaust, óspillt, gjörspillt. […] Þá kemur lýsing lostans; Enn einu sinni fann ég fyrir því unaðslega magnleysi, sem eitt getur gert mann nógu sterkan til að hefjast handa, – til að láta stjórnast af þeirri nauðsyn sem stundin krefst: því eina rétta, sem gera skal. Fyrir eyrum mér dunaði mitt eigið blóð. Í barmi mér bærðist, nei, bærðist ekki – heldur skalf, hjartað, sem aldrei fyrri á ævi minni. Það var engin stund, sem leið, en þó var það kannski sú eilífð, sem vér eina lifum, hvort heldur er þessa heims eða annars. Gestur ... Ég hvíslaði nafn hans, steig feti nær, haldinn af þeim dökku augum, sem horfðu á mig í myrkrinu, senn í storkun og spurn. Ég lukti hann í faðmi mér, ekkert var eðlilegri né sjálfsagðari hlutur. Handleggir hans féllu um herðar mér. Ég þrýsti kossi á þær varir, sem ekki geta unaðslegri hugsast á þessari jörð. Þær opnuðust. Þær voru heitar, já, svo sannarlega heitar. Allur þessi ungi, grannvaxni, undurfagri líkami var upptendraður af þeim hita, sem æskan og lífshreystin ein á; sem óbæld og þyrst lífsnautn krefst, að fái útrás. Í þessum kossi bjó fyrirheitið um allt, er síðar varð, og bauð mér þó ekki í grun að það yrði slíkur unaður sem raunin varð; slík uppfylling himnesks draums í jarðneskri veru. Samfaralýsingin með aðdraganda er í senn nákvæm og jákvæð, en jafnframt andleg, þrungin hugsunum og tilfinningum: Það skorti ekkert á fullkomnun þessarar fyrstu snertingar okkar. Líkamir okkar snertust, án hiks, án ótta, án nokkurs bakþanka. Nú var ekki um neina spurn að ræða lengur. Öllum spurningum, sem máli skiptu, hafði þegar verið svarað. Héðan í frá þurfti einskis að spyrja, aðeins lifa. Lifa og njótast. Kannski undrast, já einmitt undrast, það hlutum við að gera. Enn var skammt liðið nætur. Enn var aðeins nýbyrjað ár, nýbyrjaður tími. Undarleg hugtök: ár, tími, eilífð. Þau renna saman í fyrsta kossinum, þeim kossi sem er eins fullkomin snerting og verða má, svo lengi sem ekki er um að ræða algjöra nekt. Nekt ... Hversu undursamleg tilhugsun ... Líkamir, sem þrá að vera þeir sjálfir, lifa sjálfum sér í gagnkvæmum unaði, þeir finna það og skilja hvílík prísund föt geta verið. Það er í senn andleg og líkamleg þjáning tveim karlmönnum, sem hafa fundið hvor annan, að dveljast stundinni lengur í fjötrum borgaralegra klæða. – Líkamir okkar brunnu; þeir þrútnuðu; þeim var bráð nauðsyn – að skiljast við öll föt, frelsast undan því sem aðskildi þá síðast alls, og síðan ... síðan njóta þess að snertast án takmörkunar, án hindrunar, án alls nema þess að vera til. Eftir kossinn var andardráttur okkar beggja ör og næstum hás. Við slitum kossi og faðmlagi mjög snögglega, án þess að mæla orð. Pilturinn gekk að hægindastólnum og sneri baki við mér á meðan hann, að því er mér fannst titrandi höndum í myrkrinu, svipti sig hverri spjör. Það voru með fádæmum snögg handtök. Þverslaufan, vestið og skyrtan lágu ofan á frakkanum hans fyrr en mig varði; síðan hlýrabolurinn svo að fagrar og breiðar herðar hans lýstu upp hálfrökkrið. Hann smeygði sér úr skóm og sokkum og lét hina síðarnefndu liggja á gólfinu hjá skónum. Því næst fletti hann buxunum með snöggu taki niður um grannar mjaðmir sér, og þá voru eftir nærbuxurnar einar, ofur stuttar og þröngar, sem aftan frá huldu varla hina fagurmynduðu, litlu og sterklegu þjóhnappa. En samstundis því, að ég losaði mig við hinstu spjörina og stóð kviknakinn með stinnt hold reiðubúið, þá hafði pilturinn einnig gjört hið sama. Og er nú ekki að orðlengja það, að eldingsnöggt tók hann tilhlaup og henti sér á grúfu upp í legubekkinn, og að eyrum mér barst eitthvað sem líktist stunu; andardráttur hans ör og heitur. Þú mátt gera hvað sem þú vilt, hvíslaði hann í heitri ákefð. Í hita og losta augnabliksins skynjaði ég, þrátt fyrir allt, að hann bjóst við því að þurfa að verða passív, að minnsta kosti í fyrsta þætti ástarleiks okkar; ég myndi snerta hann og sameinast honum í þeim stellingum sem hann lá, á grúfu, með fætur vel sundur, og ennið hvílandi á handarbökum sér. En smekkur minn og löngun í kynferðisaathöfnum er ekki af því tagi; ég get jafnvel ekki hugsað mér þannig samfarir, hvorki við karlmann né kvenmann. En hann hafði sagt, að ég mætti gera hvað ég vildi; að ég mætti ráða, hvers konar ástarleik við tækjum upp. Og ég ætla mér líka frá upphafi að ráða því. Enginn skyldi halda, að ég hafi hikað. Fyrir framan mig lá goðmynd í veru lifandi unglings. Ég átti þessa fögru mynd, að minnsta kosti þessa stund og jafnvel alla þessa nótt. Hvílík dásemd, sameinuð í dauðlegu holdi! – Enn hafði ég ekki séð hann að framanverðu, eftir að hann varð kviknakinn, því með svo snöggum hætti hafði hann varpað sér upp á legubekkinn, að augu mín höfðu ekki greint annað en heildarform hins grannvaxna, hvíta líkama í myrkrinu, sem varpað hafði sér með mikilli skyndingu á grúfu í ljósglampa hvílunnar ... Ég varpaði mér, stinnu holdi, áfjáðum höndum, þyrstum vörum, ofan á hann þar sem hann lá; greip um axlir hans, líkamir okkar snertust, að endilöngu, andartaksstund, á meðan ég sagði: Snúðu þér á vinstri hlið, vinur ... Andardráttur minn var heitur og ör. Ég þekkti varla hása og bráða rödd mína á þessari stundu. Hann lagðist á vinstri hlið óðara og ég lagðist á hægri hlið fyrir ofan hann. Í augnabliks sjónhendingu, sem engan tíma þarf til að skynja allt, sjá allt, litum við hvor annan í fyrsta skipti án þess nokkuð það væri á milli okkar, sem dulið gæti hinn minnsta blett á líkömum okkar. Og á þessari stuttu stund, þessu broti úr andartaki, fannst mér skynjun mín ætla að bera allar hömlur líkama míns ofurliði. Mér fannst, andartak, sem úrlausn og fróun allrar spennu og þrár líkama míns ætlaði að eiga sér stað áður en nokkur snerting kæmi – svo görsamlega ölvaður, áfergur, já, brálaður, varð ég af þeirri sýn sem ég svo örsnöggt skynjaði áður en við runnum saman og urðum eitt. Hvað var það svo, sem við mér blasti í því broti eilífðar sem leið áður en við snertumst? Sá fegursti og þroskaðasti líkami unglings, sem ég hefi nokkru sinni augum litið fyrr og síðar: Grannvaxinn, bjartur, allt að því gljáandi í skímu næturinnar; slétt, hvítt og hárlaust brjóst; rauðar, votar og nautnaþyrstar varir; hálflykt augu undir löngum bráhárum; viðkvæmir nasavængir sem þöndust við öran andardráttinn; grannt mitti og smáar unglingsmjaðmir, eilítið innstrengdur kviður; löng, hárlaus, sterkleg en þó grannvaxin læri og fótleggir. Og það sem á milli þeirra var: þau hin fegurstu og þroskuðustu kynfæri, sem ég hafði fram til þessa augum litið á manni af hvítum kynþætti. Kviðarhárin náðu yfir lítið svæði, en voru samt óvenju þétt og dökk. Eistu og pungur sömuleiðis dökk, og þroski þeirra slíkur, að svo virtist sem hvort eista um sig gæfi ekki eftir miðlungs eggi að stærð. En það sem var þó kóróna alls þessa var sjálfur limur piltsins, sem nú var í fullri spennu, tinandi í takt við hartslátt hans, og beið snertingar minnar – á hvern þann hátt sem mér helst þóknaðist: Óvenjulega dökkur, allt að því svartur í hálfrökkrinu; forhúðin uppbrett og reðurhöfuðið gljáandi af frygð; þykkt hans í fögru samræmi við lengdina – hann náði vænan spöl uppfyrir nafla. Við slíka sjón varð manni skiljanlegt, hvers vegna de Sade og ýmsir aðrir rithöfundar hafa notað um þennan hlut það orð, sem eitt getur við hann átt – orðið engine . Hægri hendur okkar gripu um limi hvors annars, vinstri hönd mín yfir um grannvaxið mitti hans; vinstra lær hans kom á milli læra minna og veitti mér aukna nautn í þeim hluta reðurins sem efst liggur og í líkamanum innanverðum. Nálgun hans var í senn áköf, innileg og þó svo ólýsanlega fim og mjúk; sérhver hreyfing, hvert minnsta viðvik í nautnmettaðri leit hans að samræmingu líkama okkar – en sú leit var gagnkvæm og tók enga stund – þetta var allt af þætti upprunans, ástarinnar og þess sem einstaklingnum getur annaðhvort verið eðlilegast alls, – eða að öðrum kosti takmarkalaus viðbjóður. Þessum pilti var þetta jafn eðlilegt, jafn nauðsynlegt, og að teyga að sér loftið. Hvert minnsta atriði hreyfinga hans og snertingar var af sömu rót runnið og hans eigin hjartsláttur: gjörsamlega ósjálfrátt lifði hann, í senn án hugsunar og með fullri hugsun, tillitssemi, ástúð, allt að því fórn. Því hvað var ég – að mega njóta þessa? – – – Unaður okkar var gagnkvæmur í þessu fyrsta atriði samfaranna. Aldrei fyrr hafði það gerst um mína daga, að við allra fyrstu snertingu ókunnugs pilts fengi bæði ég og hann notið hámarks sælunnar algjörlega samstundis. Svo fullkomin var sameining okkar, svo áreynslulaus, og svo samhæfð í einingu sinni, að engu var líkara en við hefðum fjölmörgum sinnum veitt hvor öðrum gagnkvæman unað og þekktum og skynjuðum líkami hvor annars af áralangri reynslu. Urðum við þá ekkert annað en líkamleg frygð á þessari stundu? Kannski ekki. Ég get einfaldlega ekki svaraði því. – Varir okkar lukust upp í gagnkvæmum kossi; tungur okkar sulgu hvor aðra; líkamir okkar beggja þrýstust saman svo sem mest má verða, á þeirri stundu sem fullnæging okkar skeði. Og fullnægingin sjálf, áköf og óumræðilega sæl, varð í senn langvinn, já langvinnari en aðdragandi hennar, og með öllu ólýsanleg í krafti sínum, dásemd og algleymi. Þessi tilvitnun er býsna löng, og ekki af því að þetta sé svo frábært bókmenntaverk, þessi saga er raunar ansi háspennt og á hátíðlegu ritmáli. Mér sýnist augljóslega vera um kynóra að ræða en ekki endurminningu atburðar, því allt er svo einhliða jákvætt, en ekki sérkennilegt. En þetta er nýmæli í íslenskum bókmenntum, og þessi bersöglismál eru í mikilli andstöðu við kynlífslýsingar Guðbergs, yfirborðslegar og þurrar. Ekki svo að skilja að ég átelji Guðberg fyrir hvernig hann skrifaði eða segi að hann hefði átt að skrifa öðru vísi. Skáldgáfa er svo djúprætt í tilfinningalífinu að hver höfundur verður að skrifa samkvæmt lund sinni, svo sem Guðmundur Hagalín rakti 1943 (bls.10 o. áfr.). Einum lætur bjartsýni, öðrum er svartsýni eiginleg, einn er haldinn eftirsjá, annar forvitni, og svo mætti lengi telja. Auðvitað getur fólk skrifað á annan hátt en því er eðlilegast, en varla innblásið né vel, ”þjóni það ekki lund sinni”. 3. 11. Andstæður Hér hefur víða verið vikið að andstæðum í sögum Guðbergs, en enn má telja að í Lömuðu kennslukonurnar er sláandi andstæða milli tvíburasystranna sem báðar eru lamaðar að neðan, og þess fjöruga kynlífs sem sögumaður segir þeim frá, og hefur mest stundað með öðrum karlmönnum, að eigin sögn. Einnig eru áberandi andstæður milli einfalds lífs þess ítalska alþýðufólks sem hann segir frá og svo daglegs lífs menntaðra Íslendinga, einkum hans sjálfs. Svipaðar andstæður eru í Sú kvalda ást, milli sögumanns og ástmanns hans. Þær andstæður mega kallast burðarás sögunnar, því sögumaður er menntamaður, sífellt að pæla í aðstæðum sínum og tilfinningum, þar sem hinsvegar ástmaðurinn birtist sem blátt áfram, ef ekki einfaldur. Hann er þá fulltrúi samkynhneigðar sem eðlilegrar tilfinningar. Í Hjartað býr enn í helli sínum er áberandi andstæða milli annarsvegar söguhetju sem sýnir tilfinningaleg viðbrögð og hinsvegar annarra persóna, sem virðast staðnaðar leikbrúður. Leikkona sýnir ástríður með því að hafa hugann við blauta notaða smokka sem henni finnst fráhrindandi (Hinsegin sögur, bls.81 o. áfr.). Í Sannar sögur eru áberandi andstæður milli óhefts lífsþróttar sem birtist í þroskaheftu stúlkunni Dídí – og villimanna í fiskvinnslu annars vegar, og svo hinsvegar heftandi samfélagsafla sem birtast í tilraunum móður Dídí og bróður að hafa hemil á henni. Í Froskmanninum eru áberandi andstæður milli leitar froskmannsins að frelsi í einveru neðansjávar annarsvegar, en hinsvegar þrúgandi samfélagsins með rugl og samsömun, hjarðhugsun, sem birtist öðrum fremur í föður froskmannsins. Og þessar meginandstæður móta flestar sögur Guðbergs, andstæður milli þrár eftir frelsi til að lifa eftir eigin tilhneigingum og svo þrúgandi samfélags. Margir hafa talað um neikvæðar lýsingar hans og fráhrindandi sögupersónur, en allt eins mætti segja að það sé til að benda á andstæðuna, hið æskilega. Raunar er flestum skáldsagnahöfundum núorðið fjarri skapi að sýna jákvæðar fyrirmyndarpersónur, það gafst ekki vel. 4. Viðtökur bóka Guðbergs Eins og vænta mátti hefur ýmislegt breyst í skáldverkum Guðbergs á hálfrar aldar ferli. Hér að framan hefur hinsvegar verið gripið niður hér og hvar í bókum hans frá ýmsum tímum. Ekki eru tök á að rekja sérkenni hvers rits hans, aðeins breytingar í stórum dráttum. Nefna verður að á síðustu áratugum hefur Guðbergur endursamið sumar fyrri bóka sinna, jafnvel breytt þeim mjög mikið, einkum Önnu. Um þetta verk hefur hann hinsvegar haft mótsagnakennd ummæli. Í viðtali við Jakob Ásgeirsson (Mbl. 9.11.1980) sagði hann m.a.: Það slæma við bókaútgáfu hérlendis er það, að maður getur ekki endurritað bækur, leiðrétt þær. Bækur Balzacs komu í ótal útgáfum að honum lifandi og alltaf leiðrétti karl. Hér á landi hefur aðeins einn maður tækifæri til að leiðrétta bækur sínar, Halldór Laxness. Í viðtali við Einar Má Jónsson átta árum síðar (Þjv. 28.10.1988) var hann á annarri skoðun: - Einar: Svo hefur frést að Ástir samlyndra hjóna séu að koma út í nýrri og endurskoðaðri útgáfu. Hvað veldur þeirri endurskoðun? - Guðbergur: Þessi nýja útgáfa er talsvert endurskoðuð, eins og ég geri grein fyrir í eftirmála hennar. Þetta stendur í sambandi við vandamálið um veruleika sögunnar, þ.e.a.s. þann veruleika manns sjálfs sem í henni birtist. Þegar maður gefur út sögu er hún viss veruleiki, en þegar hann les hana aftur eftir mörg ár er hún orðin annar veruleiki. En sannleikur bókar er margþættur: hann er stíll hennar, innihald og þvíumlíkt. Ég ætlaði aldrei að gefa Tómas Jónsson út aftur né neina aðra af mínum bókum. Ég áleit, að bók ætti ekki að vera gefin út nema einu sinni, því það væri ekki hlutverk skálds að endurútgefa sínar eigin bækur. Ég hafði því alltaf færst undan. En svo bað Jóhann Páll mig um að leyfa nýja útgáfu af Tómasi Jónssyni, og stóð þá þannig á að ég svaraði játandi. Ef ég hefði þá lesið söguna yfir, er Iíklegt að ég hefði breytt henni. ... Það er ekki svo að ég hafi nú annað viðhorf til sagnanna eða efnisins, og ég veit ekki hvort ég breytti þessum sögum raunverulega: ég felldi niður án þess að bygging eða innihald raskaðist, kannski til að sýna að hægt er að skrifa sögu á marga vegu. Og áratug síðar, 1998 sagði Guðbergur (DV.26.9.): [...] rithöfundar ættu að endurskoða verk sín á tíu ára fresti. Rithöfundur ræður yfir 30-40 þroskaárum og á tíu ára fresti ætti hann að fara yfir bækur sínar og færa þær inn í nýjan tíma. Því ef bók er aðeins hluti af ákveðnum tíma þá endist hún ekki í framtíðinni. En ef maður fer yfir verk meðan hann er ennþá óskemmdur af drykkju, oflæti, mikilmennsku og hégómlyndi þá getur hann bætt inn nýjum tímum í verkið og þá verður bókin að vissu leyti sígild áður en höfundurinn deyr. Ef til vill má skoða þessi skoðanaskipti sem þroskaferli við umhugsun. En svona sláandi mótsagnir minna á annað mikið sagnaskáld, Halldór Laxness, sem ekki var ætið mjög samkvæmur sjálfum sér. Enda er fánýtt að ætlast til samkvæmni skoðana af skáldum, þau eiga miklu meira sameiginlegt með leikurum en prédikurum, leika ýmis hlutverk og lifa sig inn í þau. Hér skal vikið að ritdómum til að sýna viðtökur bóka Guðbergs. Áður var nefnt að honum þótti eðlilegt að þær viðtökur yrðu stundum neikvæðar, því bækur hans sýndu það sem fólk vildi gleyma. Afar margir ritdómar birtust lengi um bækur Guðbergs, auk yfirlitsgreina. Enda voru lengstum á starfsferli hans fimm dagblöð á Íslandi, auk menningartímarita. Allir þessir miðlar kappkostuðu að fylgjast vel með bókaútgáfu, og höfðu vel menntaða ritdómara. Ég nefni bara framan af þeim tíma þá Erlend Jónsson, Ólaf Jónsson, Árna Bergmann og Jóhann Hjálmarsson. Þessi gullöld má þykja lygileg í fásinninu nú á 21. öld, þegar einungis þrjú dagblöð eru eftir og birta mun minna af ritdómum en áður. Og fátt finn ég um bækur Guðbergs á þessari 21. öld. Lengi framan af mætti Guðbergur miklum ákúrum, einkum fyrir öfgar og ýkjur, neikvæðar persónulýsingar og klúrt orðbragð, ófegraðar lýsingar á íslenskri alþýðu. Það vekur athygli að í öllu þessu varð Steinar Sigurjónsson fyrri til, en hlaut litla frægð og engin verðlaun, átti erfitt með að fá bækur sínar útgefnar, þar sem Guðbergur hlaut Silfurhestinn, verðlaun gagnrýnenda, þegar á árinu 1967, sex árum eftir að fyrstu bækur hans birtust. Sannast á Steinari vísuorð Davíðs Stefánssonar: “Fáir njóta eldanna sem fyrstir kveiktu þá.” Vissulega naut Steinar alla tíð viðurkenningar fámenns hóps skálda og annars bókmenntafólks, en drykkjurispur hans hafa mjög spillt fyrir bókum hans. Um þetta sagði Guðbergur (í tímaritinu Eintaki, 1993, bls. 107&112): Steinar var utangarðsmaður í samfélaginu, en langt í frá utangarðsmaður í listrænu tilliti [...] Bókmenntafólk leyfði sér að krækja hjá Steinari því hann var yfirleitt fullur og bækur hans týndust í umræðunni; fólk fjallaði í mesta lagi um hann af vorkunn, og hann var óheppinn með stuðningsmenn því þeir vildu öðru fremur gera úr honum utangarðsskáld. Þjóðin gerir ekki greinarmun á skáldskap og raunveruleik og það er leiðinlegur þáttur í þjóðlífinu. Steinar sjálfur átti líka erfítt með að skilja milli bókmennta og veruleika og gat því orðið líkur því fólki sem hafði ímugust á honum. En það er skortur á æðri menningu að hafa ekki getað séð kostina í bókum Steinars og verk hans verða sjálfsagt aldrei lifandi innan íslenskra bókmennta af þeim sökum. Það eru aðeins vandlátir fagurkerar sem leita til hans. En núna eftir dauða hans er von til þess að fólk fari að meta verk hans út frá ótvíræðu gildi þeirra, en ekki því hvort höfundurinn hafi verið fátæk fyllibytta. Þetta er raunar ofmælt um drykkju Steinars.Fram kemur í umsögnum vina Steinars og kunningja í 20. bindi ritsafns að hann var gjarnan fullur þegar hann var innanum fólk. En á milli komu langar vinnurispur þar sem hann lokaði sig inni, algáður yfir handritum sínum og tónlist. En þegar skáldrit var fullgert, þurfti að halda upp á það, í vímunni týndist svo stundum handritið, svo sem áður var að vikið. Fyrsta skáldsaga Guðbergs, Músin sem læðist 1961, fær jafnan þann dóm að þar sé hefðbundin skáldsaga, sálfræðilegt raunsæi. Henni var vel tekið, fékk mikið hrós frá Guðmundi Hagalín, og einkum frá Sigurði A. Magnússyni, en Jón frá Pálmholti vildi stytta söguna um þriðjung, þótt dómur hans væri annars jákvæður. Hér má nefna sem dæmi viðbrögð Þórðar Einarssonar í Félagsbréfum AB (Nr.25, bls. 63): Lýsingar Guðbergs eru oft á tíðum snjallar og kannast maður við ýmsan smáborgaraháttinn sem þar kemur fram, og hefur gaman af. Einkum er þó skilgreining hans á sálarlífi og hugsunum drengsins gerð af skilningi og samúð, og er þó ekki auðvelt að lýsa sálarástandi hins viðkvæma og ómótaða unglings svo vel fari úr hendi. Yfir stíl bókarinnar hvílir hugnæmur blær, einfaldur í sniðum og hógvær. – Persónur í bókinni eru fáar og flestar skýrar. Það sem helst mætti að verkinu finna er, að höfundur teygir stundum lopann um of. Þorgeir Þorgeirsson skrifaði 1962 ritdóm um tvær fyrstu bækur Guðbergs, ljóðabókina Endurtekin orð og Músin sem læðist, sem birtust árið áður, og bendir í fyrstu setningunni á meginatriði í skáldskap Guðbergs, þegar hann segir um síðarnefndu bókina (bls. 420): Hvergi er slakað til fyrir vanahugsun né óskhyggju og sagan þokast fram hægt og þjakandi, persónurnar verða allar sem ein lifandi og nákomnar manni. Menn hrifust af þessari fyrstu skáldsögu Guðbergs, enda var hún bæði vönduð og tiltölulega hefðbundin miðað við það sem síðar varð. Leikföng leiðans þykir fjarlægjast þá raunsæishefð nokkuð, en fékk jákvæða dóma – fyrir að fylgja hefðinni – t.d. í umsögn Jóns frá Pálmholti í Birtingi 1964 (bls. 64): Þetta eru ”sannar” sögur af lifandi fólki, sagðar blátt áfram og trúverðuglega, gæddar lúmskum yljandi húmor, þekkingu og skilningi. Snilligáfa Guðbergs birtist einmitt í því að ”hvílast ekki á þeim lárviðarlaufsveig” sem hann fékk, viðurkenningu fyrir kunnáttu í hefðbundinni sagnagerð, heldur taka stökk á allt aðrar slóðir. En það gekk fram af mörgum. Má þar nefna ritdóm Gunnars Sveinssonar í Skírni 1964 um Leikföng leiðans: ”Það er sem höfundur gæli við það, sem vekur venjulegu fólki ógeð eða jafnvel viðbjóð”. Hér birtist sama viðhorf og í dómi Benjamíns Kristjánssonar 1933 um Fótatak manna eftir Halldór Laxness, þegar hann var á svipuðum aldri og Guðbergur nú var: ”Gerir höfundurinn sér ferð út að sorphaugunum af þeirri einu svínsnáttúru að hann hefur ánægju af að róta í þeim, eða vakir hér á bak við einhver markviss tilgangur?” (fundið eftir svargrein Halldórs Laxness Bókmenntir og skóbætur, Iðunni 1934, bls. 121). Ólafur Jónsson fordæmdi líka Leikföng leiðans sem misheppnaða bók í Alþýðublaðinu (24.3.1964): sögurnar eru tilbrigði einnar og sömu lífssýnar, en hún öðlast ekki staðfestu í umtalsverðri persónusköpun; höfundur megnar ekki einu sinni, eða hirðir kannski ekki um, að gera sögum sínum heillega atburðarás. Ógleymanleg verða öfugmæli Ólafs þar: ”Guðbergur Bergsson virðist alls engri skopgáfu gæddur”. Enda tók hann þetta aftur í næsta ritdómi, um Ástir samlyndra hjóna (Alþýðublaðinu 26.11. 1967): miklu er það ólíklegra að menn hafi kunnað að meta þá nýjung sem var að næstu bók Guðbergs, Leikföngum leiðans, 1964; — minnsta kosti gætti þess ekki í ritdómum, og ekki gerði undirritaður sér rétta grein fyrir verðleikum þeirrar bókar. Athyglisverð er sú skýring sem höfundur gaf á þessari breyttu stefnu sinni í viðtali löngu síðar, að þar hefði hann fylgt aðferð frönsku ”nýju skáldsögurnar” um 1960, sem áður var að vikið. (”le nouveau roman” Þjv.28.10.88). Þessi breyting, sem birtist í Leikföng leiðans, hlaut hinsvegar jákvæðar viðtökur þegar á árinu 1964 hjá Árna Bergmann í Þjóðviljanum, Vésteini Ólasyni í Frjálsri þjóð og dþ [Degi Þorleifssyni] í Samvinnunni – hann sagði að þar væri ”óvenju hnittin lýsing á ömurleik hvunndagsins”. Mesta athygli vakti þriðja bók Guðbergs, Tómas Jónsson metsölubók 1966. Hún er svo gjarnan spyrt saman við smásagnasafnið Ástir samlyndra hjóna 1967 og skáldsöguna Anna, 1969. Sameiginleg eru mörg nöfn persóna, og sögusvið oft, lítið fiskiþorp í grennd við bandarísku herstöðina. Þar verður þó að nefna neikvæða umsögn í grein Jóhanns Hjálmarssonar Hvert stefnir skáldsagan?, 1969 (Mbl. 23.10.) Guðbergur Bergsson, sem vakti fyrst athygli á hæfileikum sínum með hefðbundinni þorpslýsingu: Músinni sem læðist, hefur aftur á móti sokkið í botnlausan absúrdisma í Tómasi Jónssyni, metsölubók, Ástum samlyndra hjóna og Önnu. Það hvarflar að lesandanum, að Guðbergur hafi hlaupið yfir merkilegt tímabil í skáldsagnagerð sinni, sem hófst með Músinni, sam læðist [...] í ofurkappi sínu, að sleppa fram af sér beisli hins hefðbundna, snúa við hugmyndum manna um skáldsöguna og byggingu hennar, hefur eitthvað farið forgörðum hjá Guðbergi, sem gerði hann trúverðugan höfund áður en Tómas Jónsson tók af honum völdin. Guðbergur mætti auk þessa mest andstöðu tveggja presta, auk Þuríðar Kvaran sem í tímaritinu Samvinnunni (1969) taldi bókum Guðbergs – og Halldórs Laxness, núorðið, þ.e. Kristnihaldi undir jökli – til foráttu skort á ”innfinningu” – empati. Það er víst það sama og hingað til hefur verið kallað samúð, hér er hún á sömu skoðun og sr. Benjamín Kristjánsson í framangreindum ritdómi um Fótatak manna, 1933. En þetta verð ég að kalla grunnfærni, því samúð og andúð eru augljós í þessum sögum, þótt höfundar lýsi því ekki yfir í eigin nafni. Séra Pétur Magnússon (Mbl. 16. 11. 1968) býsnaðist yfir útvarpsmanni sem efaðist um að ”ljótleiki” væri til, og taldi það dæmigert um listdómara sem rugluðu fólk í ríminu. Er vart að efa að þar var vikið að lofi um verk Guðbergs. Uppgjafapresturinn Gunnar Benediktsson var skorinorðari, og rakti þessi meginatriði um Ástir samlyndra hjóna í TMM 1968 (bls.91): Form þáttanna í Ástum samlyndra hjóna, stíll og málfar er allt með svo óvenjulegum hætti, að það er greinilegt, að höfundur leggur á það aðalþungann. Þetta tel ég orsök að meginljóði ritmennsku hans. Atburðarás verður ruglingsleg og ekki sannfærandi, frásögn vefst þokuhjúp, en bregður ekki ljósi yfir viðfangsefnið. Hann færist hvað eftir annað allt of mikið í fang með táknum og stórmerkjum, svo að úr verður botnlaus endileysa. Þessi gagnrýni lýsir einfaldlega módernismanum í sagnagerð. Auk þess átelur Gunnar klám og málvillur, og segir m.a.: Svo sem fram hefur komið, hefur höfundur sérstakar mætur á nafnorðinu pungur og sögninni að míga. Það lítur ekki út fyrir að hann hafi tekið mark á máli íslenskufræðinganna, sem eru í útvarpinu að vara menn við ofnotkun einstakra orða. Í einni sögunni er fjórum sinnum sagt frá því um einn og sama manninn, að hann hafi lyft undir punginn, þar sem hann sat á stóli. Fyrst manninum þykir athöfnin svona skáldleg, hví í ósköpunum getur hann þá ekki til tilbreytni talað um að hagræða koðranum eða fitla við tillann? Hér leggur Gunnar bókmenntalega tilraun fyrir lesendur bókarinnar. Og lausn hennar blasir við, með tilbreytni í orðalagi hefði glatast dónaskapurinn (vúlgaritetið), sem verður þá að teljast eitt meginatriði textans, hér sem víðar. Gunnar sagði ennfremur um bókina (Þjóðviljanum 6.10.1968): ég finn þar lítið annað en ósmekklegar lýsingar óhrjálegra atburða, meiningarlausa þvælu með háspekilegu yfirbragði, form utangátta við öll venjuleg listform ritaðs máls og stórgallað málfar. En meginljóður klúryrða Guðbergs í Ástunumn er sá, að þau eru gersamlega innihaldslaus. Þau eru ekki valin af því að frásögn krefjist þeirra, því að bókin í heild er harla náttúrulaus. Í bókinni er til þeirra gripið fyrir þær einar sakir, að þau eru klúr. Hvergi verður þess vart, að nokkur persóna lifi og hrærist í vitund dáenda. Gunnar nefnir svo ýmsar bókmenntir sem einkennist af skopi eða neikvæðum lýsingum án þess þó að beita ruddalegu orðfæri, Benedikt Gröndal, Gest Pálsson, Þórberg Þórðarson og Píningar-söguna. Hann segir rangt að bera þessa nýbreytnisögu Guðbergs saman við Vefarann mikla frá Kasmír eftir Halldór Laxness, því helstu persónur þeirrar bókar hafi orðið lesendum hugstæðar. Er hér svipað viðhorf og haft var eftir Þuríði Kvaran. Þorgeir Þorgeirsson svaraði Gunnari eftirminnilega 1967 (11.7. í Frjálsri þjóð), benti á klausu í Biblíunni sem væri ekki síður klúr en bók Guðbergs: „Og hún brann af girnd til friðla þeirra, sem voru eins hreðurmiklir og asnar og gusan úr þeim sem úr stóðhestum." Einnig sagði Þorgeir að Gunnar fylgdi hér stefnu útgáfufyrirtækisins M&M og Heimskringlu gagnvart nútímabókmenntum okkar og útgáfu þeirra mörg undanfarin ár. Þessi stefna er fólgin í því að gefa ekki út annað af nútímaritverkum íslenskum en það sem er ritað í stranglega forskrifuðum rómantískum fífilbrekkustíl þar sem gamlar og stagneraðar dægurpólitískar kennisetningar eru varðar [vafðar?] í „hugljúfar líkingar" ellegar „ljúfan ævintýrablæ". Bókmenntir þessar mega helst enga merkingu hafa fyrir fólk, sem er undir fertugu, nema það sé hundþjálfað í lestri dönsku heimilisritanna. Hér gætir þess væntanlega að alkunna var að Mál og menning/ Heimskringla hafði hafnað því að gefa út Tómas Jónsson metsölubók. Og vitaskuld er þetta allt í samræmi við þá íhaldssömu þjóðernisstefnu sem stalínistar fylgdu, einkum í menningarmálum eftir miðjan fjórða áratug 20. aldar (sjá bók mína Rauðu pennarnir, 6. hluta). Þarna birtust snemma tveir meginstraumar viðbragða við bókum Guðbergs, og rúmuðust báðir í þeim stjórnmálaflokki sem taldist yst til vinstri, sósíalistaflokkinum. Gunnar mótmælti því í svari til Ólafs Jónssonar (í Þjv. 6.10.1968) að það legði honum skyldur á herðar um afstöðu til bókmennta, að honum bæri að fagna nýstárlegu. Hann sagðist fylgja þjóðlegri hefð. Mín skoðun er sú, að allar róttækar breytingar, sem að gagni mega verða, hljóti að eiga rætur sínar í því, sem fyrir er, að öðrum kosti svífa þær í lausu lofti. Róttækni er hreint ekki það sama og rótleysi. Ennfremur verður hér að nefna neikvæð ummæli Njarðar Njarðvík um Ástir samlyndra hjóna í grein í Alþýðublaðinu 7.2.1978, sem tilraun til fyndni í lokin dregur ekki úr. Njörður taldi Guðberg fá verðlaun gagnrýnenda – Silfurhestinn – fremur fyrir Tómas Jónsson metsölubók en nýjustu bók sína, Ástir samlyndra hjóna, og telur þær tvær bækur ”helst til keimlíkar”: ekki hefði ég verið lengi að velja milli Indriða og Guðbergs. Ég álít Indriða betur að silfurhestinum kominn, fyrir utan hvað hann er áreiðanlega miklu meiri hestamaður en Guðbergur. Slíkt mat var ekki einsdæmi hjá þessum bókmenntafræðingi. Þegar Thor Vilhjálmsson vann stórsigur með sögu sinni Grámosinn glóir, 1986, taldi Njörður skáldsögu Fríðu Sigurðardóttur, Eins og hafið, miklu fremri (18.1.1987). Ekki hafði hann sannfærandi rök, þá frekar en í þetta skipti . Báðar þessar andstæðu fylkingar eru þó öldungis sammála um helstu einkenni bóka Guðbergs. Þær greinir aðeins á um hvort þeim beri að fagna eða hafna. Þessi megineinkenni má taka eftir orðum Sverris Hólmarssonar í ritdómi um Ástir samlyndra hjóna, Skírni 1968 (bls. 194): Annars eru flestar persónurnar næstum fullkomlega andstyggilegar, birta lesandanum með einhverju móti ýmsar hliðar mannlegrar örbirgðar, sálardauða, illsku. Siðleysi í einhverri mynd gengur eins og rauður þráður gegnum bókina. [...] Allar sýna sögurnar þjóðlíf í upplausn, séð frá ýmsum hliðum, og loks opinberast innihaldsleysi þjóðernisáróðurs og þjóðlegra stofnana í síðasta kaflanum, Þjóðhátíð, þar sem ferð fjölskyldu Svans á þjóðhátíð í Reykjavík verður grátbrosleg píslarganga gegnum pylsur, blöðrur, kúrekahatta, grímur og endalausa rigningu, þar sem fánýti og meiningarleysi þjóðhátíðarinnar opinberast í öllum sínum ömurleik. Um það sagði Árni Bergmann (Við afhendingu Silfurhestsins. Þjv. 25.1. 1968): ”neikvæðið er Guðbergi allmikill styrkur, það leyfir honum að fara með samtíðina af fullkomnu miskunnarleysi, með þessu móti verða þau áhrif, sem stefnt er að, sterkust, truflast ekki af huggunarstöfum ljósari lita.” Þarna sýnir Árni skilning á að listsköpun krefjist samþjöppunar, hnitmiðunar, og lúti því allt öðrum sjónarmiðum en ”sanngjörn” þjóðfélagsmynd. Um viðtökur bóka Guðbergs sagði Árni Bergmann m.a. við endurútgáfu Tómasar Jónssonar metsölubókar, 1987 (Þjv.20.5.): Það kom líka fram að mönnum þótti „neikvæði“ bókarinnar yfirþyrmandi. Hún var ljót, andstyggileg, niðurlægjandi og þar fram eftir götum. Það skrýtna var þó, að þessi viðbrögð komu ekki svo mjög fram á prenti og að því mig minnir alls ekki í gagnrýninni. En við sáum að Jóhann Hjálmarsson var ansi neikvæður í Morgunblaðinu svo seint sem 1969. Vissulega hlaut Tómas Jónsson metsölubók líka jákvæðar viðtökur, og má t.d. nefna ritdóm Sigfúss Daðasonar í TMM 1966: þar sem hann er á sama máli og haft var hér eftir Þorgeiri Þorgeirssyni fjórum áður fyrr. Sigfús segir að TJM hafi endurreist realismann í íslenskum bókmenntum, eða öllu heldur: skapað nýjan realisma, sem er þáttur í einni djúpstæðustu tilhneigingu bókmennta og heimspeki þessara tíma: þeirrar tilhneigingar að meta mest alls andlega ráðvendni. Í Morgunblaðinu (28.9. 1966) var Erlendur Jónsson ekki síður jákvæður: höfundurinn er listamaður. Vald hans á máli og stíl að viðbættri skarpri hugsun og skáldlegri tilfyndni orkar svo á lesandann, að honum þykir sem hann megi af engu orði missa. [...] í „Metsölubókinni" er að minnsta kosti eina slíka lýsingu að finna. Hún endar á þessari lausn: „Kartöflugrasið féll um nóttina". Og verður að segjast eins og er, að með þeirri lausn hefur höfundur „Metsölubókarinnar" komið í veg fyrir, að alvarlegum höfundum sé framar fært að notast við þá mjög svo tiltækilegu aðferð til ástarfarslýsinga: Þeir verða nauðugir viljugir, að brjóta upp á einhverju nýju í þeim efnum [...] Löngum voru persónur í skáldsögum settar saman eftir félagslegum formúlum. Nú stendur hin dæmigerða skáldsögupersóna í flæðarskeri einmanaleikans, umleikin því úthafi sem aðskilur alla menn á öllum tímum: maðurinn er alltaf einn. Erlendur herti enn á lofinu í ritdómi um Ástir samlyndra hjóna (Mbl.16.11.67), talaði um þrjú undanfarandi ris í íslenskum skáldsögum, Jón Thoroddsen, Jón Trausta og Halldór Laxness. ”Fjórða og síðasta risið hefst svo með Guðbergi Bergssyni, eða nánar til tekið með skáldsögu hans, Tómas Jónsson metsölubók [...] Sögur Guðbergs Bergssonar eru hvorki samfelldar né heilsteyptar, heldur eru þær eins og þverskurður af mannlífi nútímans í öllum þess margvíslegu og tættu myndum [...] hlutgengar heimsbókmenntir”. Sigurður A. Magnússon var einnig mjög jákvæður um bækur Guðbergs sama ár (Lesbók Mbl. 9.4.1967) og sagði m.a.: Ég fæ að minnsta kosti ekki betur séð en Guðbergur Bergsson sé að leitast við að túlka þau nútímalegu alheimssannindi, að allt sé á hverfanda hveli, allar staðreyndir afstæðar, öll hugtök fljótandi, allt mannlíf kös af meira og minna merkilegum smámunum og tilviljunum. [...] Auðvelt er að benda á erlendar hliðstæður og kannski fyrirmyndir Guðbergs Bergssonar í þessu skáldverki. Forkólfar „nýju bylgjunnar“ svonefndu í franskri skáldsagnagerð, einkanlega Alain Robbe-Grillet, koma í hugann ásamt Günter Grass hinum þýska. Þessir höfundar fást mjög við að leysa upp tímann og persónuleikann, og á skopskyn Guðbergs talsvert skylt við Grass. Samuel Beckett mætti líka nefna, bæði í sambandi við upplausn persónuleikans, einsemdina og þó einkum áhugann á neðanþindarstörfum líkamans, sem er mjög áberandi. Þó er ég ekki frá því að Guðbergur hafi lært hvað mest af argentínska stórskáldinu Jorge Luis Borges sem fabúlerar allra skálda skemmtilegast, og hef ég þá einkum í huga svonefndar „þjóðsögur“ Guðbergs [...] Borges hefur þann hátt að skrifa einskonar neðanmálsgreinar í fabúlu-stíl við sögulega viðburði, og nákvæmlega sömu aðferð beitir Guðbergur víða í „þjóðsögum“ sínum, til dæmis þeirri um ástarævintýri íslenzku óperusöngkonunnar og Adolfs Hitlers [en samt] saga hans er eins íslensk og verða má, túlkar íslenskar aðstæður, hugsunarhátt og samtíma á furðulega nærgöngulan hátt, þó hann sé einungis að lýsa slitróttum hugrenningum karlægs gamalmennis í kjallaraíbúð uppi í Hlíðum. Þessum áhrifum nær hann meðal annars með smásmugulegum lýsingum á hlutum og umhverfi, látæði fólks og samræðum. [...] Eitt megineinkenni þessarar skáldsögu er tímaleysi hennar. Tíminn eins og við höfum vanist að hugsa okkur hann hefur verið þurrkaður út, þannig að allir hlutir virðast gerast samtímis [...] Samfara upplausn tímans er upplausn persónuleikans: Tómas Jónsson tekur sífelldum myndbreytingum uns hann hverfur með öllu eða leysist upp í þrjá einstaklinga sem lenda í hafvillu. Hann er ekki annað en það sem hann hugsar í hverri andrá frásagnarinnar. Í ljósi þessara jákvæðu ritdóma er undarlegt að sjá mat Guðbergs á viðtökum TJM í viðtali í aldarlok (DV, 26.9.1998): Það sem ég fékk á mig þegar sú bók kom út – að ég væri einskis virði – fór að einhverju leyti inn í mitt sálarlíf. Þetta er bók sem er aldrei talað um. – En nú voru og eru margir afar hrifnir af Tómasi. .. – Það hefur aldrei komið fram. Ef til vill má skýra þessi fáránlegu lokaorð með því sem Guðbergur hefur oft bent á, að hann bjó erlendis þegar bókin kom út, og sá ekki viðbrögðin. Í lok þessara jákvæðu ritdóma um bækur Guðbergs fyrstu tvo áratugina tæpa, 1961-79, kemur þó oft nokkur óþreyjutónn, jafnframt jákvæðum umsögnum. Það gildir jafnt um Ólaf Jónsson, Erlend Jónsson og Árna Bergmann, að þeir segja: er maðurinn nú ekki búinn að skrifa nóg um þetta fólk á þessu svæði, smáþorpinu Tanganum? Eins og Árni Bergmann orðaði það 1971 (um Það sefur í djúpinu): þeir sem mikið lesa Guðberg geta varla varist þeirri hugsun, að hann hafi meir en þaulræktað, ofræktað viss svið, að hin snjalla afneitun hans se orðin of einhæf. Litróf hans of fáskrúðugt. Fleiri segja að vissulega afhjúpi Guðbergur jafnan nýja eiginleika á þessu Tangaefni sínu, en samt sé nú nóg komið. Erlendur Jónsson (Mbl. 8.11.1974) sá þessa þreytu lesenda birtast í hneigð til að rekja ættir skáldsagnapersónanna – og skopast þar að Ólafi Jónssyni (um Hvað er eldi guðs, 3.3.1975) m.a., held ég. Það var haft eftir Guðbergi að útgefandi hans, Ragnar í Smára, hafi verið sama sinnis, og nánast þröngvað honum til að taka annað efni fyrir. En Guðbergur sagði að höfundur ætti að halda sig við sínar persónur. Um þetta sagði hann m.a. (GBmetsölubók, bls. 226): Þegar ég var hrakinn af almáttugum guðföður skáldsins, útgefandanum, úr minni paradís fyrir þá dauðasynd að bíta með endurtekningum í sama eplið með það í huga að með þeim hætti gæti ég eygt von um að komast að kjarnanum, nektinni, innsta hring skáldskaparins, þá fór ég að skrifa stakar skáldsögur af margvíslegri gerð. Hvað sem þessu líður sýnist mér að Guðbergi hafi hrakað með næstu bókum, um 1980, þegar hann einmitt tók annað efni fyrir. Sagan af manni sem fékk flugu í höfuðið 1979, Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans 1980, og einkum Leitin að landinu fagra 1985, eru að mínu mati mun síðri verk en bækurnar frá 7. og 8. áratugnum, þær bera mikinn keim af blaðagreinum Guðbergs, eru mikil ádeila á hvaðeina sem honum mislíkar í þjóðfélaginu, en stunda minna á að segja sögu, hvað þá á persónusköpun. Sama sinnis var Árni Sigurjónsson í ritdómi um síðasttalda bók (Þjv. 27.11.1985): ”Að mínum dómi gildir um margar af sögum Guðbergs að boðskapur verður heldur plássfrekur í þeim.” Guðmundur Andri Thorsson var samdóma um Leitin að landinu fagra (TMM 1985, bls. 119): Þrástagast er á hugdettum og undir hælinn lagt hvort þær standi undir slíku. Þetta er helsti galli bókarinnar […] Bestur finnst mér Guðbergur þegar hann togar og teygir alþekkt fyrirbrigði heimspólitíkur, verðbólguvandræða og annarra þekkjanlegra hluta úr veruleikanum í kringum okkur og leiðir þetta út í sínar röklegu öfgar. Og Sigurjón Björnsson sagði um sömu sögu (Mbl. 22.11.1985): ”Skáldsaga þessi ber vott um einstaklega frjótt og gróskumikið hugmyndaflug höfundar. Þessi bók er full losaraleg í sniðum. Hana skortir markfestu og þjöppun.” En þar var Eysteinn Sigurðsson á öðru máli (NT 14.11. 1985): Það ánægjulega við þróun Guðbergs Bergssonar sem rithöfundar er hvað hann er orðinn skemmtilegri í seinni tíð en var hér áður. Hins vegar gildir áfram það að engum geta dulist snilldartök hans á máli og framsetningu, og hann heldur sig enn við þá gjörsamlega óraunsæju frásagnaraðferð sem hann hefur gerst brautryðjandi fyrir. Þrátt fyrir lokaorðin kemur fram að Eysteinn var umfram allt ánægður með að sögur Guðbergs urðu hefðbundnari, með samfelldari söguþráð: Þegar hann var að brjóta antirómaninum, eða andskáldsögunni, leið inn í íslenskar bókmenntir fyrir nærri tuttugu árum, með Tómasi Jónssyni metsölubók, og verkunum sem þar fylgdu á eftir, þá háði það honum óneitanega dálítið hvað bækurnar voru þungar aflestrar. Þess má geta að á þessu ári 1985 sendi Guðbergur frá sér fjórar bækur, enda var hann á þeim tíma að kaupa sér íbúð eftir margra ára vist í leiguherbergjum (Þóra Kristín: Guðbergur Bergsson metsölubók, bls. 188). Á móti aðfinnslum mín og fleiri kemur að Froskmaðurinn 1985 er með betri bókum höfundar, margt er ágætt í Hinsegin sögum 1984, og einkum þykir mér Hjartað býr enn í helli sínum 1982 vel heppnuð. Hún er líka gagnrýni á allt mögulegt sem fer í taugarnar á höfundi, en í óvenjuskipulegri byggingu. Kristján Jóhann Jónsson var hinsvegar á öðru máli í ritdómi (Þjóðviljanum 2.12. 1982). Hann segir raunar að sagan grípi lesanda svo að hann verði lengi að jafna sig, og skýrir það með því að í bókinni sé óvenju markviss notkun á myndlíkingum. Ekkert fer hann þó út í það mál, svo merkilegt sem það hefði verið (sjá um það athugasemdir Arnórs Ólafssonar um ágengar myndlíkingar í kafla um sögumann, 3.9). En annars mislíka Kristjáni einkum kvenlýsingar sögunnar, [..] obbinn af þeim konum sem Guðbergur Bergsson lýsir í þessari bók, eru miðaldra, taugabrjálaðar, feitar, árásargjarnar, heimskar og ljótar. [..] Mér finnst sami þverbresturinn í lýsingum Dóru og ég taldi áður í lýsingu sálfræðingsins. [..] Til þess að sköpun einhverrar persónu geti kallast írónísk þá verður að vera í henni írónísk vídd þannig að lesandanum gefist raunverulega kostur á að skilja megindrætti persónunnar á tvo vegu. Það er hins vegar vandlega gengið frá því að þessi maður sé asni og tilfinningalíf hans hlálegt [..] Þetta er vafalaust fyndið fyrir fólk sem hatar rauðsokka og óttast málflutning þeirra. Allt það fólk getur efalaust lesið þessar lýsingar sér til góðrar skemmtunar og staðfest með því heimsmynd sína. Mér finnst þetta hins vegar metnaðarlaust íhaldsraus þess manns sem ekki þekkir sitt viðfangsefni [..] Ef rithöfundur ætlar að deila á samborgara sína með beittu háði þá dugir skammt að hæðast að því sem allir geta sameinast um að sé afkáralegt, en enginn tekur til sín [..] Þennan gamalkunna flokk hneykslunarhellna fyllir sálfræðingur Guðbergs og raunar félagsfræðingurinn kona hans líka. Mér finnst þetta satt að segja ósköp metnaðarsnautt. Guðbergur lýsti þessari sögu sinni sjálfur í viðtali (Helgarpóstinum, 19.11.1982): Eins og í harmleikjum, frönskum og grískum, þá er tengdur tíminn og persónumar og atburðirnir. [..] á vissan hátt er þessi bók skopstæling á kvennabókmenntum. En eins og oft er með skopstælingar þá rís höfundur uppfyrir skopið og býr til verk sem er andstæða skopstælingarinnar. [..] Og í lokin þegar þetta fólk hefur glatað öllum tengslum við sitt frumstæða eðli koma örlögin til skjalanna. Örlögin ráða í lokin. Þó maður spillist þá heldur hjarta hans áfram að vera frumstætt, ást mannsins og tilfinningaleg viðbrögð verða þau sömu. Hér gætir þess að Guðbergur rak oft hnýflana í kvennahreyfinguna á uppgangstíma hennar, og er ógleymanleg grein hans (í Skírni 1990) Í þessu herbergi hefur búið doktor: minningar um Málfríði Einarsdóttur frá Munaðarnesi. Ennfremur má minnast gagnrýni Guðbergs á ”kvennabókmenntir” í viðtali (Mbl.9.11.1980): Þessar bókmenntir eru stílaðar á markaðinn: Ég velti mér uppúr því hvað karlmenn hafa verið vondir við konur, og þegar ég stíg uppúr þessu, þá er ég hreinn. Þetta er eins konar hreinsun. Það er svo einkennilegt, að þegar ég var ungur, þá kölluðust þessar bókmenntir „True Confessions" og þóttu afskaplega lélegar bókmenntir. Þetta var birt í amrískum blöðum og enginn leit við þessu. Nú allt í einu eru þetta miklar bókmenntir, snilldarverk. Þá sér maður hvað smekkurinn er kominn langt niður. Og það er líka skrítið að þessar „True Confessions" voru dæmigerðar fyrir amríkana, en nú koma vinstri menn hér, menn sem þykjast á móti amríkananum og kapítalískri menningu, þeir koma með þetta og þá er þetta dubbað upp sem miklar bókmenntir, mikil list. Útaf fyrir sig geta slíkar játningar verið merkilegar, en þær eru ekki bókmenntir, því það er ekki mannvit sem býr þær til. Þetta er búið til fyrir markaðinn, og er á svo lágu tilfinningastigi, að það nær ekki vitsmunum, nær ekki sköpum. Ég er ekki sammála framangreindum dómi Kristjáns, hér sem fyrr gagnrýnir Guðbergur fyrst og fremst ósjálfstæði á öllum sviðum, einnig í boðun kvenfrelsis. Það að hann er einhliða neikvæður, er listræn nauðsyn í þessari sögu, eins og hve umhverfið allt er myrkt, kalt og fráhrindandi, þannig verður sagan samþætt heild. Ég minni á orð Ólafs Jónssonar um Hvað er eldi guðs, 1971, en þau ummæli gilda um skáldverk Guðbergs almennt: þessar sögur [eiga] ritháttinn sameiginlegan, hinn búrleska sögustíl Guðbergs Bergssonar sem að sínu leyti einkum byggist á ofurnæmri sjón og skynjun verulegra efna, ýkjum og afbökun þeirra, skrumskæling sem oft og einatt virðist helgast af hrolli eða viðbjóði og leiðist, kannski þess vegna, út í afkáralega fyndni, klúrar öfgar, hreinan og beinan ruddaskap. Og samfara þessu sjónnæmi sagnanna er heyrn þeirra á raunverulegt málfar, hreim og hljómfall þess. 1982 birtist bók Guðbergs Tóta og táin á pabba – hjá barnabókaforlaginu Bjallan. Oft hefur þessi bók verið kölluð barnabók, enda er söguhetjan stelpa á barnsaldri. Sagan er þó miklum mun lostafengnari en vant er um barnabækur. Ritdómar birtust í Þjóðviljanum (22.12.) eftir Bergþóru Gísladóttur og í Helgarpóstinum (17.12.) eftir Gunnlaug Ástgeirsson. Þau fjalla þó ekki beinlínis um lostann né um afstöðu þessarar bókar til barnabóka almennt. Ennfremur komu ritdómar í Tímariti Máls og menningar 1984 (eftir Hildi Hermóðsdóttur og svo aftur í sama tímariti 1986 eftir Ólöfu Pétursdóttur. Það er einsdæmi, en skýrist af því að í seinna skiptið var sérstakt barnabókahefti TMM, og Ólöf mótmælti lokaorðum Hildar, en allar eru þessar umsagnir jákvæðar. Hildur Hermóðsdóttir sagði m.a. (bls. 113): [..] árið 1982 kom út hjá Bjöllunni barnabók sem vakti töluverða athygli og umtal manna á milli en var í rauninni þöguð í hel opinberlega [...Guðbergur er] meistari tvíræðninnar, en ekki síður er hann mikill stílmeistari. Stíllinn á tánni er hreint afbragð. Höfundi tekst að feta einstigið milli draums og veruleika listilega og nær fram einkennilegum blæ fáránleika sem þó blómstrar í raunveruleikanum. Málið leikur Guðbergi á tungu, hann leikur sér með orð, hugtök og endurtekningar og með óræðni og skírskotunum í ýmsar áttir vekur hann lesandann til stöðugrar umhugsunar. [...en áður:] hann lætur of mikið flakka, með öðrum orðum hann skýtur yfir markið í tvíræðni. Orðaval er slíkt að ekki fer milli mála þegar skírskotað er til kynlífssviðsins, en því verður hins vegar ekki á móti mælt að Guðbergur er meistari tvíræðninnar og framan af sögunni heldur hann sér vel á mottunni. Þegar líður á verður tvíræðnin of groddaleg og þá á kostnað hins gamansama ævintýris um tána sem eignast eigið líf og leikur lausum hala út um borg og bý með telpunni Tótu. Með ofurlítið mildara orðalagi hefði það ævintýri notið sín betur og viðkvæmar sálir sloppið við hrollinn. [...Þetta er] sérkennilega margslungið ævintýri sem á betra skilið en að rykfalla í glatkistunni. Vissir annmarkar koma þó líklega í veg fyrir að Táin verði á næstunni viðurkennd af fullorðnum sem æskileg barnalesning, og á ég þá við þá skoðun að í sögunni sé Guðbergur of tvíræður. Að segja að bókin hafi verið ”þöguð í hel opinberlega” getur vart réttlæst af öðru en að ekki komu ritdómar um bókina í Morgunblaðinu né DV, svo ég fái séð. Það skýrist sjálfsagt af síðustu málsgreininni í klausinni. En Ólöf Pétursdóttir mótmælti þessu tveimur árum síðar og sagði (bls. 331-2) að henni fyndist aukinn groddaskapurinn alls ekki stílbrot, og Hildur krefðist þess hér að Guðbergur skyldi vera allt öðru vísi en Guðbergur er. Draumar eiga það til að magnast og afskræmast þegar á líður. [...] Guðbergur veit best sjálfur hvar hann á að stíga niður fæti. Hann kann báðum löppum sínum forráð. [...] Tóta og táin á pabba er eins og kartöflugras sem sprettur upp úr skítugum skriðjökli íslenskra barnabókmennta. Um Hinsegin sögur 1984 sagði Kristján Árnason m.a. (Skírni 1985, bls. 299-300): Þótt Guðbergur fari oft á kostum með leikni sinni í að draga upp í hæsta máta kynlegar og “grótesk”myndir og með meinfyndnum innskotum sögumanns, þá hljóta menn oft að sakna einhverrar kjarngóðrar undirstöðu. [...] Írónía eða launhæðni [...] hefur G. oft beitt með góðum árangri, en í þessari bók er fremur uppi á teningnum það sem við köllum á íslensku hálfkæring og má að vísu teljast í ætt við ofangreinda hæðni en er sýnu kuldalegri og hryssingslegri og sýnir frekar ólund en umburðarlyndi, og hefur af þeim sökum önnur áhrif og varla eins djúp. Froskmaðurinn 1985 fór aftur á fornar slóðir Suðurnesja. Ég leyfi mér þá tilgátu að hún öðlist líf af því að bera fram tilfinningu sem lengstum var mikils til dulin, þ.e. samkynhneigð. Sama gildir enn frekar um skáldsögur Guðbergs síðar, Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma 1993 og Lömuðu kennslukonurnar 2004. Áður kom Svanurinn 1991, einhver vinsælasta og mest metna skáldsaga Guðbergs, hvað sem veldur. Ég held það sé einkum vegna þess að hún greinist frá öðrum sögum hans með jákvæðum náttúrulýsingum, en þeirra gætti einnig í Froskmanninum, sem áður segir. Síðan koma jafnvel jákvæðar persónulýsingar í bland við hitt, þar má einkum til nefna aðalpersónu 1 ½ bók, hryllileg saga 2006. Ótvírætt hefur Guðbergur endurnýjast í sögum sínum, enda þótt margir aðdáendur þeirra meti jafnan mest Tómas Jónsson metsölubók. Þar skiptir satt að segja máli að hún er svo löng og fjölskrúðug. Um Svaninn sagði Guðbergur – líkt og áður var hér haft eftir Gustave Flaubert ”Frú Bovary, það er ég” – í viðtali í spænsku blaði (tilfært í Mbl. 29.6.97): Þessi stúlka er ég.[...] Ég hafði meiri áhuga á sjónarhorni ungrar stúlku vegna þess að skáldleg upplifun hennar er frábrugðin þeirri sem einkennir ungan dreng. Rithöfundurinn er svo heppinn að geta breytt sér í hvern þann sem hann kýs en það er ekki þar með sagt að bókin sé að öllu leyti sjálfsævisaga mín. Hér má annars m.a. tilfæra orð Gísla Sigurðssonar (DV 16.12.1991): Stúlkan sem þroskast í sögunni er þó ekki aðalpersóna í þeim skilningi að allir atburðir hverfist um hana. Hún er miklu fremur áhorfandi að mannlífinu og sér hvað gerist án þess kannski að skilja hvað er á seyði hverju sinni. En það gerum við […] í sögunni er leikið með andstæður í hlutskipti og þroska manna þar sem ekkert er blátt áfram, hvorki gott né vont. Ekkert er einsleitt eða hneykslanlegt, ekki einu sinni kynferðisleg misnotkun á barni […] sem er hér fléttuð inn í önnur undur mannlífsins og verður hluti af þeirri reynslu sem dýpkar skilning stúlkunnar. [...] Lesandinn fær þannig hvorki að finna til samstöðu né andúðar á listarleysi alþýðunnar en les háð um fordóma hennar um leið og hann fær skilning á eðlilegri afstöðu náttúrubarnsins. Kristján J. Jónsson er á svipuðu reiki (Þjv.22.11.1991): Guðbergur er hins vegar trúr sjálfum sér að því leyti að þótt hann teikni skýrum dráttum mynd af lítilli stúlku sem er öflugur og fagur, hvítur fugl hið innra, þótt ytra byrðið sé ekki upp á marga fiska, verður textinn aldrei einfaldandi eða tilfinningasamur heldur sveiflar sér í einu vetfangi yfir í gróteskar lýsingar sem eru í fullu samræmi við þann leik sem hér er leikinn með andstæður. [...] hún á sér innra líf sem er fagurt vegna þess að það þekkir ljótleikann. Það er fagurt vegna þess að það er leitandi en ekki hafnandi. [...] Náttúran heillar því ekki og þroskar vegna samræmis síns heldur vegna þeirra ótrúlegu andstæðna sem hún býr yfir. Ástráður Eysteinsson sér aftur á móti róttæka afstöðubreytingu Guðbergs í náttúrulýsingum sögunnar (Skírni 1992, bls. 216): Náttúrulýrik verksins kallast óhjákvæmilega á við þá rómantísku hefð sem Jónas Hallgrímsson hóf til vegs. Samkvæmt henni er náttúra jafnt sveita sem óbyggða meginþáttur í íslenskri þjóðernis- og menningarvitund. Þetta verð ég að taka undir, og tel vafalítið að þetta hafi átt verulegan þátt í alþjóðlegri sigurgöngu sögunnar. Helmingur þýðinga á bókum Guðbergs er á þessari sögu, hún var þýdd á 14 tungumál á árunum 1993-2005, og er íslensk náttúrufegurð jafnan aðlaðandi fyrir erlenda lesendur og ferðamenn. Hallgrímur Helgason dregur fram hve litlu máli röð atburða sögunnar skiptir (TMM 1991;1, bls. 101): Söguþráðurinn er hógvær og alltaf í bakgrunni, hann gefur stemningunum eftir forgrunninn og jafnvel allan flötinn eins og þegar í miðri bók er gert hlé á sögunni með rigningardegi. Hallgrímur gagnrýnir hinsvegar sögulokin, bls. 104: Veikasti hlekkur bókarinnar er að mínu mati endir hennar með sjálfum svaninum. Svanurinn virðist eiga að vera telpunni einhverskonar tákn um frelsun frá hinni “óljósu vanlíðan” og allan tímann stefnir hún að því að ganga á fjallið. ,,Endirinn verður full loðinn þó fiðraður sé og skilur lesandann eftir í lausu lofti. Þarna kemur Hallgrímur að efni sem víða er rætt hér að framan, hvort skáldsögur Guðbergs lúti fléttu, eða séu fyrst og fremst til að birta þjóðlífsmynd, þar sem röð atriða skiptir litlu máli. Áður var rakið að Lilja Dögg Jónsdóttir færir rök fyrir því (bls. 11) að lok sögunnar séu glæsilegur endahnútur þroskasögu: ”Þegar hún svífur fram af fjallsbrúninni á eftir svaninum er hún laus úr viðjum vanlíðunar og óþroska barnsins og er að stíga í átt til þroskaðrar vitsmunaveru”. Mér sýnist það augljóslega rétt athugað hjá Lilju, að þessu stefndi sagan. Ingi Bogi Bogason hefur sérstöðu rtidómara með því að benda á sérkenni stílsins (Mbl. 4. 12. 1991), hann sé einfaldur og léttur, eins konar aðalsetningastíll. [...] En einfaldleikinn nær ekki til inntaksins því textinn hefur margátta tilvísun. [...] Stundum dregur Guðbergur upp líkingamál sem sáldrast niður þegar hugurinn staldrar við. Á einum stað er „nóttin áþekkust endalausri hugsun um ekkert", annars staðar „vaknar eilífðin á kvöldin í formi saknaðar". Óvenjulegt við myndmálið hér er að báðir liðir þess vísa til einhvers óhlutstæðs og þess vegna orkar það skemmtilega truflandi á lesandann. Þetta einkenni líkinga var hér rakið áður (í kaflanum 3.4. Persónugervingar hugtaka). Gísli Sigurðsson sagði réttilega um Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma (DV 24.11.1993), hve takmarkaðar ástalífslýsingarnar eru, það gerir erfitt að trúa á tilfinningar sögumanns: Kynlífslýsingar hans eru blátt áfram en nokkuð teprulegar þannig að þær verða hvorki erótískar né grófar [...] Gallinn er sá að sjálfsskoðun okkar kynóða sögumanns verður máttlítil af því að hana skortir veruleg átök við það tilfinningalíf sem hefst þegar fýsnunum sleppir og ástin tekur við. Um skáldævisögu Guðbergs, 1997-8, birtust jákvæðir ritdómar. Jóhann Hjálmarsson sagði um fyrra bindið m.a. (Mbl.25.11.1997): er Guðbergur oftast á slóðum einlægninnar og forðast mótsagnir nema þegar við á, til dæmis í eintali skáldsins við sjálft sig. Hann er jafnvel eilítið hefðbundinn á köflum í frásögn sinni. Sumir kaflarnir sýnast mér alltof langir. Höfundurinn veltir sér upp úr því sem flestir myndu kalla smáræði. Frásögnin verður þá ekki nógu læsileg, ekkert óvænt að finna. Kannski er þettta meðvitað til að spegla tilbreytingarleysi hversdagsins? Stíllinn lyftist sérstaklega og verður afar fallegur og skáldlegur þegar drengurinn hrífst eða rithöfundurinn minnist fegurðar hins einfalda lífs í þorpinu. Ingi Bogi Bogason skrifar um seinna bindið (Mbl. 4.11.1998) og tekur undir að sagan sé of löng, en segir auk þess: Persónur eru ýktar, spaugilegar og vekja margar litla samúð og ekki alltaf áhuga lesandans Raunar eru flestar persónurnar, utan sögumanns, grunnar og mótsagnalitlar. Þær standa fyrir tiltekna eiginleika sem eru handan kosta og galla. Jafnvel foreldra sögumanns virðist skorta dýpt. Þeim er að vísu lýst, bæði beint og gegnum athafnir sínar, en sú lýsing staðfestir einna helst hve fjarri þau standa barninu. Um leið fær persónulýsingin yfir sig blæ hlutlægni, fólk er eins og önnur fyrirbrigði, himinn, jörð eða haf. Höfundurinn nýtur þess frelsis að skoða persónur án þess að lýsingin skrúfist niður í tilfinningalega nærsýni Ritdómar birtust ennfremur um bæði bindin eftir Ármann Jakobsson (DV 12.12.1997 og 3.11.1998). Það er hástemmt lof, en segir kannski ekki mikið um verkið, helst þetta í seinni ritdóminum: Nálgun Guðbergs er jafnan írónísk og hann afhjúpar sjálfan sig yfirleitt um leið og aðra. [...] Sá harmur sem fylgir jafnan glettinninni og notalegri frásögnini felst ef til vill í því hve vel Guðbergur skynjar veilurnar í mannlegum samskiptum. [...] Í skáldævisögunni, báðum bindum, eru ekki margar persónur en fáum skáldum hefur tekist að búa til jafn eftirminnilegar og þrívíðar persónur úr foreldrum sínum eins og Guðbergi. Þetta virðist mér alrangt, eins og að framan var greint. Vissulega eru lýsingar hlutlægar og eftirminnileg afrek móður Guðbergs á barnsaldri eða unglings, þegar hún snerist til varnar móður sinni eða bjaraði sauðfé af flæðiskeri. En hún er nánast mállaus í uppvexti sögumanns, og ég er sammála Inga Boga um það að allar persónur verksins eru flatar. Vorhænan og aðrar sögur er frá 2000, sjöunda smásagnasafn Guðbergs. Það geymir 18 sögur, sumar mjög stuttar. Fáeinar þeirra eru bernskuminningar frá Grindavík, og þær eru bestar, skarpar í lýsingum á útliti fólks og fasi. Einna merkust er hinsvegar Verðandi rithöfundur sem rekur fáránlegar væntingar til rithöfunda á Íslandi. Ég fann aðeins þrjá ritdóma um þessa bók. Jón Yngvi Jóhannsson sagði í DV (14.11. 2000) að sögurnar væru sundurleitur samtíningur, sumar í ”nöldrandi kjallaragreinastíl”, en betri væru” óræðari sögur þar sem ekki er jafn einhlít afstaða eða boðskapur.” Þröstur Helgason hefur sömu afstöðu (Mbl. 13.12.2000), að bókin sé Óþarflega sundurleit og misjöfn […] en gott að margar sögurnar í bókinni lýsa sömu tilfinningunni eða sömu afstöðunni, sem er ógnarlega hryssingslegt og kaldhæðið óþol gagnvart samtímanum. Þröstur taldi bókina bera þess merki að Guðbergur hefði skrifað einhver ósköp af smásögum, og nú bara gripið í sjóðinn. Þetta hafði Guðbergur raunar sjálfur sagt í viðtali í sama blaði hálfum öðrum mánuði fyrr (Mbl.31.10.2000): Þetta eru gamlar sögur sem ég hef átt á lager. Ég á sæg af smásögum á lager. Þetta er svona þriðjungur eða fjórðungurinn af lagernum. Ég ákvað að hreinsa út og setja þær saman í bók. Ætli ég eigi ekki smásögur í tvær eða þrjár bækur. Hér á ég við óbirtar smásögur. Katrín Jakobsdóttir skrifaði í Stúdentablaðinu (20.12.2000) m. a.: Allar sögurnar hafa þó einhvern boðskap, misvel falinn […] Bestu sögurnar að mínum dómi eru hinar bernsku sögur, Að eiga fullan pabba í rútunni og Eitrun í blóðinu. Guðbergur virðist nefnilega ekki aðeins geta skrifað jafnt inn í smáheiminn í Grindavík og alheiminn, hann virðist líka geta skrifað jafnt út frá sjónarhóli barna og fullorðinna. Frásögnin nær mikilli dýpt í þessum sögum um börn sem lenda í skrítnum aðstæðum sem lesendur ættu sjálfir að þekkja vel. Allir með strætó birtist á árinu 2000. Ég hef aðeins fundið einn ritdóm um bókina, hann var í Mbl.(29. 11.), eftir Sigrúnu Klöru Hannessdóttur. Hún endursegir söguna og segir svo, m.a.: Höfundur gerir grín að viðhorfum fólks, áhuga þess að fá mynd af sér í Séð og heyrt og víðar í íslenskum fjölmiðlum og fáránleika þess sem viðgengst í okkar stéttlausa samfélagi. [...] Sögusviðið er mjög dökkt. Hundurinn sem þráði að verða frægur er miklu lengri bók, um 90 bls. Hún birtist árið 2001 og fann ég tvo ritdóma um hana. Katrín Jakobsdóttir lofaði bókina mjög í DV og sagði m.a. : Hundurinn vill gjarnan trúa því að hann sé í raun lamb eða eins og hann segir sjálfur: ”Mig grunar að ég hafi alltaf verið lamb í líkama hunds og í fæðingunni fengið skott fyrir dindil, sagði hundurinn. Satt að segja hef ég aldrei kunnað við mig í hundslíkamanum eða þolað að þurfa að gelta en fá ekki að jarma”(74). Þannig snýst sagan um hver við erum og hvernig hægt er að sætta sig við tilvistina og boðskapurinn er kannski sá að grímur og dulargervi séu ekki lifandi því að þau hafa enga sál. Það sem þau fela er það sem skiptir máli. Gervimennskan, hversu vel gerð sem hún er, er þegar á botninn er hvolft ekkert annað en gervi. [...] Þessi bók Guðbergs er margslungin saga um mannlegt og dýrslegt eðli þar sem hugsanirnar spretta fram og vekja ótal spurningar um mennskuna og margt sem fylgir henni, t.d. um tungumálið. Nærtækt virðist að hugsa til þeirra sem harma að hafa ”konusál í karlmannslíkama” – eða öfugt, en auðvitað er sagan víðtækari en svo að hún vísi einvörðungu til slíks. Í Mbl.(22.12.2001) skrifar Hildur Loftsdóttir og segir m. a.: Dýrin eru engan veginn einhliða persónur, heldur fulltrúar karaktera sem við þekkjum vel úr mannlegu samfélagi. Hversu ótrúlega margir þrá ekki að verða frægir og reyna næstum hvað sem er, og leggjast jafnvel lágt, til að ná því takmarki? Alltof fáir sætta sig við að vera ”bara þeir sjálfir” og lifa sig frekar inn í hlutverk sem þeir hafa búið sér til. Fólk setur upp grímur í stað þess að kunna að meta að vera einstakt. Skáldsaga Guðbergs Lömuðu kennslukonurnar birtist 2004, og hef ég aðeins fundið einn ritdóm um hana, í Fréttablaðinu (11.12.2004) eftir Melkorku Óskarsdóttur. Hann er býsna tvíbentur, en réttmætur að mínum dómi: Guðbergur hins vegar virðist ekki beinlínis reyna að þóknast sínum lesendum. Bæði stíll og uppbygging frásagnarinnar espar og ögrar. Hugrenningaflóð, endurtekningar, lausir endar, hrokafullur sögumaður – ekkert af þessu auðveldar lesturinn. 1½ bók. Hryllileg saga er frá 2006 og gerist í Reykjavík á millistríðsárunum. Um hana segir Jakob Bj. Grétarsson m.a. (Fréttablaðið 14.12.2006): Myndin í speglinum sem Guðbergur bregður upp með þessari greiningu sinni á okkur og íslenskri menningu er nöturleg. Persónurnar eru lítið annað en skopmyndir [...] Með nöpru háði varpar Guðbergur ljósi á hnýsni þeirra, smáborgarahátt, heimsku og búksorgir. [...] Fyrst og fremst er það vel heppnaður absúrd húmorinn sem skilur á milli snilldarinnar og þess sem annars gæti flokkast sem sérkennilegur beturvitaháttur önugs álitsgjafa. Kári P. Óskarsson bætir við (TMM 2006 1, 117): Tilvera Reykvíkinganna í bókinni er innantóm og þeir hafa um fátt að tala annað en slúður. [...] Persónugallerí bókarinnar er litskrúðugt; í flæði textans er horft á ólíkar persónur, flakkað á milli þeirra og þeim fylgt um mislangt skeið til að sýna ólíka fleti samélagsins. Bókin var samin á alnetið í lengri gerð. Mér finnst þessir ritdómarar of einhliða neikvæðir um samfélagsmynd sögunnar, sem áður segir er hér jákvæð persóna í sviðsljósinu, aldrei þessu vant. Leitin að barninu í gjánni er frá 2008. Fríða Björk Ingvarsdóttir sagði (í Mbl. 1.11.2008): Nýja barnasagan hans Guðbergs Bergssonar (sem að sjálfsögðu er ekki ætluð börnum) er allt í senn, einstaklega fyndin, áleitin og óþægileg. Í Leitinni að barninu í gjánni, teflir hann fram systkinunum Dóra og Rósu, sem um sumt minna á sakleysingjann Birting, í allegórískri frásögn þar sem „raunveruleikanum“ er snúið á haus. Eins og svo oft áður tekst Guðbergi að höggva stór skörð í brynju okkar (smá)borgaralegu gilda og afstöðu til heimsins. Eftir stendur þjóðarsálin berskjölduð með öllum sínum þversögnum; þar sem stofnunum og stöðluðum hugmyndum er bjargað en barninu – fræi framtíðarinnar – gleymt. Spurningum um upprunann og æðri gildi skapandi hugsunar er velt fram og aftur í ævintýralegu ferðalagi „Tossabekks“ Dóra og Rósu. Að loknum lestrinum situr lesandinn upp með þá spurningu hvort hans eigin „Tossabekkur“ muni rata „Tossabrautina“ heim. Kristján Hrafn Guðmundsson segir m.a. (DV 14.11.2008): Persónur bókarinnar eru skemmtilega samansettar. Börn í tossabekk tala til dæmis eins og fullorðnir, jafnvel þótt þau eigi að vera á meðal mestu tossa allra tossa heimsins, og sumar persónurnar undarlega meðvitaðar um að þær eru persónur í bók en ekki af holdi og blóði. Samfélagsgagnrýnin, skotin á skólakerfið og nútímahugtök og -frasa eins og „heimsvæðing“ og „jákvæð viðleitni“ eru ekki síður skemmtileg. En allegoría sagði maðurinn, allegoría þá um hvað? Þar sem höfundurinn er á harðahlaupum undan túlkun á sögu og persónum, setur jafnvel upp hæðnisblandaða forarpytti til að hindra lesendur í því takmarki sínu og segir óbeint að slíkar tilraunir séu eins og asnaleg skyndipróf í líkingu við þau sem til umræðu eru í bókinni, ætla ég ekki að setja hér upp kámug túlkunargleraugun. Það er líka bara ánægjulegra fyrir lesendur að koma hreinir að þeim buslugangi. Táknsaga (allegóría) einkennist af kerfi þar sem einstök tákn vísa hvert um sig til annars fyrirbæris í skynjanlegum umheiminum. Dæmi þess er eins og að framan segir, Leitin að landinu fagra. Ég sé ekkert slíkt í þessari sögu, og ekki sýndi Fríða fram á neitt þvílíkt, eins og Kristján líka benti á, og virðist þá út í hött að nota þetta orð. Missir, nýjasta bók Guðbergs, þegar þetta er skrifað, birtist á árinu 2010. Í sögumiðju er gamalmenni, ekkill, sem talar hér mest um hnignun sína og daglegt líf. Hann mókir, hlustar á hraðsuðuketilinn (það er einskonar stef sögunnar, oft endurtekið), en sofnar frá honum aftur. Þetta er fábrotið líf, gláp á grannana, fyrst á gamla konu í húsinu andspænis, síðan á unga konu sem flutti inn í stað hinnar. Sú unga henti hundi sínum í ruslið, annar gamall maður tók hundinn til sín en dó. Inn á milli koma minningar öldungsins, og er þar fátt eða ekkert jákvætt. Til dæmis virðist hjónaband hans og framhjáhald hafa verið vandræðagangur sem aðrir skipulögðu fyrir hann. Hvað eftir annað koma endurminningar um ellihnignun eiginkonunnar, sem var sígráðug, reykjandi offitusjúklingur í afneitun. Þetta er kunnuglegt í verkum Guðbergs, neyslugræðgin gerir fólk nánast ómennskt, konan er hér mállaus skrokkur. Eiginmaðurinn sameinast henni látinni í lokin með því að drekka kaffi blandað ösku hennar. Kristján Hrafn Guðmundsson segir m.a. í DV (29.5.2010) Missir er vissulega saga um missi. Þetta er saga um það sem gufar smám saman upp þegar manneskja verður gömul, um ellina sem lætur mann missa mestalla getu til alls, mestallan þrótt, mestallan lífsneista. Og ef ellin er blíð við mann framan af getur maður misst af fyrirhugaðri nautn við að dunda sér við áhugamál sín þegar á eftirlaun er komið vegna elli makans. En þetta er líka saga um það sem hægt er að gera þrátt fyrir að endastöðin sé handan hornsins, um það að aldrei er of seint að láta drauma rætast og enginn ótti er óyfirstíganlegur. Ekki einu sinni óttinn við „dauðafingurinn“. [...] Eitt það eftirminnilegasta við Missi er frásagnarhátturinn. Mestmegnis er sagan þriðju persónu frásögn alviturs sögumanns en við og við er frásögnin brotin upp með hugsunum söguhetjunnar í skáletruðum texta. Einstaka sinnum fær maðurinn svo að segja frá sjálfur sem, þegar mest lætur, þekur nokkrar blaðsíður. Einar Falur Ingólfsson segir m.a. (í Mbl. 9.5.2010): Athyglisvert er að bera lýsingar á gömlu fólki í eldri bókum Guðbergs, eins og Önnu og Tómasi Jónssyni – metsölubók, saman við myndina af gamla manninum í Missi. Umfjöllunarefnið er í grunninn náskylt, gamli maðurinn hér, gamla konan í Önnu og Tómas sjálfur. Í eldri bókunum er sjónarhornið iðulega afar gróteskt og frásögnin er toguð og teygð af óhaminni frásagnargleði. Vissulega má sjá gróteskar lýsingar í Missi, eins og þegar fitan tekur mesta höggið af sjúkri eiginkonu sögumanns þegar hún fellur í gólfið. Þá eru hinar sérstöku og nákvæmu lýsingar á smáatriðum og viðbrögðum fólks, sem má sjá um allt höfundarverk Guðbergs, hér til staðar: þegar maðurinn vaknaði einn morgun með konuna látna í rúminu við hliðina á sér hafði hann „snert annað brjóstið á henni og klipið í geirvörtuna“. Nálgunin er hinsvegar öll hófstilltari hér en í eldri verkunum, stíllinn meitlaðri, og skilningurinn á persónum og því sem þær glíma við allt annar; hér má finna ákveðna samkennd og skilning á örlögum gamalmennis. Vitaskuld hefur stíllegur og frásagnarlegur þroski höfundar mikið að segja; Guðbergur hefur hér meistaraleg tök á efninu og frásögninni allri. Missir er tvímælalaust eitt af hans áhrifameiri verkum, knappt og meitlað og vekur lesendann til umhugsunar. Svipað viðhorf er í ritdómi Guðbjörns Sigmundssonar. Þar segir um Guðberg m.a. (í TMM 2011/1, bls.142-3): Hið líkamlega er ávallt til staðar í verkum hans og hinn frjói leikur með tungumálið og andstæðurnar, tvöfalt eðli allra hluta er stöðugt afhjúpað í verkum hans. [...] Höfundarverk Guðbergs einkennist ekki síst af einhvers konar leit að kjarna mannlegrar tilveru og hefur hann gert margvíslegar tilraunir með skáldsagnaformið í verkum sínum. [...] Styrkur sögunnar Missis er fólginn í sálfræðilegu innsæi höfundar sem fjallar um viðkvæmt og vandmeðfarið efni á meistaralegan hátt. Missir er saga sem snertir okkur, vekur okkur til umhugsunar um rök mannlegrar tilveru, um ellina, hrörnunina og dauðann. Hér hefur að sjálfsögðu verið valið úr fjölmörgum dómum, og má vera að mér hafi sést yfir sitthvað markvert. Þó vona ég að þetta veiti nokkra heildarsýn á helstu einkenni sagna Guðbergs og hvernig þær hafa þróast, sömuleiðis á viðbrögð manna við þeim. Allt frá upphafi eru margir uppvægir yfir því að sögurnar víkja róttækt frá sagnahefðinni og eru einhliða neikvæðar, með áherslu á ljótt og andstyggilegt í mannlífi og umhverfi þess. Aðrir fagna þessum róttæku nýjungum, og sá fögnuður er ríkjandi í ritdómum allt frá fyrstu tíð, viðbrögðin voru yfirgnæfandi jákvæð. Ritdómarar virðast sammála um að enda þótt sögur Guðbergs haldi megineinkennum sínum alla tíð, hafi mannlífsmynd þeirra mildast á síðustu árum. Um ljóð Guðbergs var lítið skrifað. Ég hefi aðeins fundið eina umsögn um hverja fyrstu tveggja ljóðabókanna, en tvær um þá nýjustu, Stíga. Endurtekin orð voru til umfjöllunar í upphafi ritdóms Þorgeirs Þorgeirssonar í TMM 1962 sem sagði á henni kost og löst; að þar kæmi fyrir að ”sulla saman óljósum orðavaðli um hugmyndir sem eru honum ekki sannfæring, jafnvel reynir hann að endurvekja rómantíska dauðahrollsuppgerð í einu ljóði”. Þetta væri þó undantekning, ”Hljóðlát og aðgerðarlaus athugun virðist einmitt vera afstaða Guðbergs til verkefnisins og mótorinn í stíl hans. Bestu sprettir hans eru hlutlægar lýsingar.” Flateyjar-Freyr hlaut umsögn Gunnars Stefánssonar í Dagblaðinu 1978, að þetta væri sérkennilegasta og að líkindum ferskasta ljóðabók ársins... Augljósasta einkenni í ljóðum Guðbergs er leikur hans að málinu sjálfu. Hann getur virst alvörulítill, en svo er ekki: Einmitt í meðferð höfundar á því tæki sem mál hans er birtist frumleiki hans og máttur, lífsmark hans. Í þessu er annar höfundur yngri, Pétur Gunnarsson, dálítið áþekkur Guðbergi. Stígar fengu umfjöllun Guðbjörns Sigmundssonar (Mbl. 28.11.2001), sem sagði m.a. að fyrsta ljóðabók Guðbergs sýndi að hann býr yfir miklum ljóðrænum hæfileikum. Mörg ljóðanna eru hreinar perlur”. Flateyjar-Freyr ”var af allt öðrum toga og bar merki hins svokallaða nýraunsæis, þar sem þjóðfélagsádeila fær aukið vægi. Ljóðstíllinn er opinn og mælskur og drepið á ýmis dægurmál. En í Flateyjar-Frey eru einnig vangaveltur um listina og mátt orðsins, forna frægð og fleira [...] eilífðarmálin vega þyngra í Stígum en dægurmálin. Skáldið forðast allar einfaldanir. [...] stórbrotin, falleg og áhrifamikil ljóðabók. Margt spaklegt er þar að finna um lífið og listina og lesandinn fær innsýn í þá spennu sem togstreita andstæðnanna skapar. Það er einmitt þessi spenna sem gerir lestur bókarinnar að sjaldgæfri listrænni nautn. Geirlaugur Magnússon fjallaði um sömu bók í DV (19.11. 2001) og sagði eins og Guðbjörn að form bókarinnar – breitt og lágt – hentaði löngum ljóðlínum Guðbergs vel. En erfitt væri að tala um þessa bók sem ljóðabók, því ”textar Guðbergs hafa auk þess fæst þau einkenni sem að öðru jöfnu einkenna ljóð. Þannig bregður vart fyrir líkingum eða myndhvörfum né því sem meira máli skiptir: þeirri samþjöppun máls sem fremur öðru einkennir ljóðið.” Því líka Geirlaugi best þeir textar sem nálgast mest frásögnina, en síður hugleiðingar. ”Margt er þar athyglisvert, en sjaldnast orðað það hnitmiðað að verði eftirminnilegt. Þá er líkt og tónlistin sé fjarri. Stígar eru eftirtektarverður útúrdúr í höfundarverki Guðbergs Bergssonar – en vart nema útúrdúr.” Þetta finnst mér rétt svo langt sem það nær, en samt ofmælt, eins og sjá má í umfjöllun minni hér að framan, óræð ljóð setja ekki síður svip sinn á Stíga en hugleiðingar. 2.15. Þýðingar á verkum Guðbergs Fyrstu þýðingar á bókum Guðbergs voru á dönsku. Það voru svokallaðar “Tangasögur” (síðar sameinaðar undir titlinum Sannar sögur), Það sefur í djúpinu 1973, Hermann og Dídí 1974 og Það rís úr djúpinu 1976. Dönsku þýðingarnar birtust , 1976-9. Síðar kom Froskmaðurinn, 1987, aðeins tveimur árum eftir að hún birtist á íslensku, en eftir það aðeins Svanurinn á dönsku, 1993, einnig tveimur árum eftir að hún birtist á frummálinu. Þýðingar á sænsku komu í kjölfarið, fyrst smásaga úr Ástum samlyndra hjóna, 1976, en síðan Svanurinn, 1993. Á spænsku kom fyrst Tómas Jónsson metsölubók, 1990, og hún hefur aðeins verið þýdd á það mál, en síðan kom hrina, fimm bækur Guðbergs á spænsku á árunum 1997-2008. Þar hefur hann auðvitað notið kunningsskapar meðal spænskra rithöfunda og útgefenda eftir langvarandi dvöl í landinu. Á Norðurlöndum skipti miklu máli að bækur sem lagðar voru fram til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs voru áður þýddar á eitthvert norðurlandamál, og var þá auðveldari eftirleikurinn að gefa þær út á því máli. Bækur Guðbergs hafa fjórum sinnum verið lagðar fram af Íslands hálfu til þeirra verðlauna, 1975 Það sefur í djúpinu og Hermann og Dídí; 1982 Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans; 1993 Svanurinn; og 2000 Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar og Eins og steinn sem hafið fágar. Enginn höfundur hefur verið tilnefndur oftar af Íslands hálfu, en fjórir höfundar aðrir hafa verið svo oft tilnefndir. Það eru Thor Vilhjálmsson, Svava Jakobsdóttir, Þorsteinn frá Hamri og Einar Kárason. Verðlaunin hafa fengið þau Ólafur Jóhann Sigurðsson (1976), Snorri Hjartarson (1981), Thor Vilhjálmsson (1988), Fríða Sigurðardóttir (1992), Einar Már Guðmundsson (1995), Sjón (2005) og Gyrðir Elíasson (2011) Þýðingar á bókum Guðbergs eru 31. Þar af er nær helmingurinn (14) á Svaninum, sem þýddur var á svo mörg tungumál á sjö árum, 1993-2005. Fyrsta árið, 1993 birtist hann á dönsku, sænsku og tékknesku, 1996 á frönsku, en 1997 á ensku og spænsku, árið eftir á þýsku. Árið 2000 birtist sagan á búlgörsku og portúgölsku (í Brasílíu). Árið 2001 birtist Svanurinn á ítölsku, finnsku og litáísku, á eistnesku 2005 og á hollensku 2007. Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma birtist á sænsku 1997, á spænsku 1998 en á ensku og þýsku á árinu 2000. Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar kom út á þremur málum, á sænsku 1997, spænsku 2004 og á þýsku 2005, en framhaldið, Eins og steinn sem hafið fágar, birtist aðeins á sænsku, 1998, Forlagið (útgefandi Guðbergs) í Reykjavík gaf út sænsku þýðingarnar og hefur vafalaust ýtt undir þýðingar á öðrum bókum hans víða um heim, einkum Svaninn, held ég. 5. Greinaskrif Guðbergs Guðbergur hefur verið höfunda ritvirkastur og yfirlýsingafúsastur. Fjöldi greina birtist eftir hann í tímaritum og blöðum. En torfundið er sumt það efni, og er hér ekki allt tekið til athugunar. Enda væri efni í sérstaka rannsókn, ef gera ætti öllu því efni skil, í tímaröð og eftir viðfangsefnum. Þó er hér hugað að einum sex tugum greina hans frá hálfrar aldar skeiði. Það mikla magn er eitt sér ærin ástæða til að líta að mestu hjá yfirlýsingum í þeim fjölmörgu viðtölum við Guðberg sem birst hafa í ýmsum blöðum og tímaritum. Fróðleiksatriði tek ég þaðan, þótt ekki hafi ég aðrar heimildir um þau. Sjálfsagt hefur Guðbergur sömu viðhorf við hvern sem hann talar, en það er sitt hvað að orða þau í riti eða láta ýmislegt flakka í stuttu samtali. Eða eins og hann sjálfur sagði, 1987 (Skáldinu lætur að látast, Þjv. 8.3., eftir að í Mbl. hafði verið hlakkað yfir að hann sagðist ekki kjósa Alþýðubandalagið, í viðtali 28.2.1987): Ef listamenn eru ekki að agnúast, þá deyr andi bókmenntanna og listanna, og reyndar andi þjóðlífsins líka. Í þessari trú og gamni var viðtalið tekið og nokkurn veginn fallist á niðurstöðuna: þá að ég mundi svara væntanlegu viðtali ef mér þætti ástæða til þess, en ég mundi ekki „samþykkja“ það eða „breyta“ því sem kæmi frá hendi Rúnars [viðmælandans]. Sú væga ritskoðun tíðkast hér, að sá sem fer í viðtal verður að fá að sjá það, áður en það fer á prent, til þess að viðmælandinn komi „rétt út“. Slíkt finnst mér vera fáránlegt og beinlínis ólýðræðislegt. Ef einhver samþykkir það að fara í viðtal, lendir hann beinlínis í klónum, þ.e. „skoðunum eða viðhorfum“ þess sem skrifar viðtalið. Af þessum ástæðum og hugmyndum mínum um rétt blaðamannsins hef ég aldrei litið yfir viðtöl við mig, nema einu sinni, þegar blaðamaðurinn bað mig beinlínis um það. Hér er viðtalsbók Þóru Kristínar Guðbergur Bergsson metsölubók sérstakrar athygli verð, því hún er ítarlegt langtímaverk, yfirlit um ævi Guðbergs og störf á sextugsafmæli hans. Einna merkastir greinaflokka Guðbergs voru þeir sem hann samdi um spænsk efni. Hann birti myndsyrpu Goya Kenjarnar (Los Caprichos) 1973-4 í Þjóðviljanum, og fylgdi umföllun hans hverri mynd (endurútgefið sem bók 1998). Einnig vöktu greinaflokkar hans um dauða Francos 1975 og um byltinguna í Portúgal í sama blaði þá verulega athygli. Hann skrifaði og greinar um bókmenntir á portúgölsku og spænsku, og skal sérstaklega nefna formála hans með sérheftum TMM um bókmenntir Suður-Ameríku og portúgalskar bókmenntir í þýðingu hans sjálfs, svo og formála bóka hans með þýðingum portúgalskra og spænskra ljóða. Flestar bókmenntagreina hans birtust í Tímariti Máls og menningar (nær þrír tugir alls), en þrjár í Skírni á stuttu tímabili, 1989-91, og 12 í tímaritinu Stínu þessi síðustu ár sem hún hefur birst (frá 2006), enda er Guðbergur í ritstjórn þess. Rúmur helmingur þessara greina Guðbergs (36) er um bókmenntir, auk þess þrjár um fagurfræði almennt og rúmur tugur um myndlist, en mjó eru mörkin yfir í stjórnmál, amk. hálfur tugur fjallar fyrst og fremst um þau. Sjá nánar skrá greina hans hér aftan við. Hér skal ekki fjallað um myndlistargreinar Guðbergs, aðeins nefnt að í útgáfu sinni á Kenjunum eftir Goya hefur hann blaðsíðu túlkunar andspænis hverri myndsíðu, en þær eru 80. Þar byggir hann á þremur fyrri ritum ýmissa höfunda, sem fjalla um þessar koparstungur, hann sýnir þekkingu á menningarlegum og þjóðfélagslegum bakgrunni þessara hálfóræðu mynda, og hann ber glöggt skynbragð á myndbyggingu. Oft víkur hann að íslenskum samtíma í lok hverrar klausu, og verður þá hálfóræður sjálfur. En vissulega var hann oft skorinorður, og verður hér fyrst vikið að greinum hans um stjórnmál. Þar er rétt að grípa niður í greinaflokka hans frá miðjum 8.áratug 20. aldar, um Íberíuskaga. Greinar hans um dauða Francisco Franco eru mest staðreyndatal um atburði, sama gildir um greinaflokk hans um byltinguna í Portúgal framan af. Þar er þó einnig tekin afstaða (Þjóðviljanum 4.5.1975, bls.11): Á námsskrá öreigaháskólans er, auk pólitiskra og félagslegra fræða, bæði kennsla í valdbeitingu og skæruhernaði í borgum, bókmenntir, leiklist og myndlist. Stjórnendur hans virðast gera sér grein fyrir listþörf mannsins og þætti hennar í félagslegum byltingum, að án hennar er barátta verkalýðsins eingöngu kjarabarátta og kapphlaup um innantóm völd og auðmagnið: Kommúnisminn glatar eðli sínu jafn skjótt og hann kemst til valda. Kommúnisminn er andófshreyfing, og völd eru framandi eðli hans. Alþýðan notfærir sér ekki byltinguna til þess að geta breytt sér í skrípamynd af fjárgróðamanni. [og 29.7.1975, bls.4:] Þegar í upphafi byltingarinnar, en einkum þá er leið að kosningum, var auðsætt að stjórnmál og valdabaráttan í Portúgal var þrennslags eðlis og fór í þrjár áttir. Þetta voru stefna sósialistaflokksins, kommúnistaflokksins og hinna kommúnisku-maoísku flokka. Allir áttu það sameiginlegt að vinna að sósíalisma, en fóru eftir ólíkum leiðum. Sósialistaflokkurinn stefndi að því að vinna fylgi kjósenda. Stefna kommúnistaflokksins var sú, að tryggja sér vald í stjórn verkalýðsfélaganna og stjórn bæja- og sveitafélaga (enn hefur ekki verið kosið, hvorki í verkalýðsfélögum né bæjar- og sveitafélögum). En stefna marxisku-leninisku-maoflokkanna var sú, að koma á einskonar kommúnuvaldi með því að alþýðan stofnaði hverfafélög og tæki sjálf að sér stjórn atvinnufyrirtækjanna. Hér sýnist mér tekin afstaða með byltingarsinnum, og gegn íhaldssemi kommúnistaflokksins og aðlögun sósíaldemókrata að auðvaldsþjóðfélaginu. En það kom skýrar fram í tveimur greinum í Þjóðviljanum, 1978 og 1979. Í síðartöldu greininni segir m.a. um sveiflur auðvaldshagkerfisins: Hinn vestræni heimur, heimur hinnar þægilegu og fóðruðu spennitreyju, er hvorki andmæltur gagnrýni né sköpun. En hann setur báðum öflunum sérstök takmörk: þau verða að skila arði, hafa beint notagildi; og þau verða að einskorða sig við samtímann eða i hæsta lagi við nánustu framtíð. [...] Treyjan er hvarvetna nálæg. Á krepputímum er fóðrið tekið úr henni, en þegar efnahagur þjóða er góður verður hún bæði frjálslynd og fóðruð. Þá eru þegnarnir látnir bera hæfiIega skatta, tryggingakerfið leyfir öldruðum og sjúkum að tóra, og börn leika sér á eins barnaheimilum á meðan foreldrarnir eru hæfilega bundnir viö vinnu. Allt er hæfilega bundið. Ekki er hann vinsamlegri í garð krata í þessari grein: Í hugsun manna, bæði valdamanna og alþýðunnar, eru mótsagnirnar orðnar svo miklar, djúpið orðið svo djúpt á milli orðs og æðis, að sama mann getur hryllt við orðinu krati og vegsamað um leið hin sannkratisku samfélög í Skandinaviu. Um kommúnista ræðir hann hinsvegar sem félagi: stór hluti heimsins er undir kommúniskri sjórn, en það er engu líkara en við leiðum þá staðreynd hjá okkur, eða gerum minni kröfur til hins kommúniska heims, þegar það ætti að vera hið gagnstæða. En í rauninni er hann mjög gagnrýninn á svokallaðan ”raungerðan sósíalisma”: Um kommúniskt frelsi og pólitiska og félagslega þróun í alþýðulýðveldunum hefur enginn rætt af heilum hug eftir innrásina í Tékkóslóvakíu. Þar hófst fyrir allra augum hnignunarsaga kommúnismans sem ríkisvalds. Alþjóðahyggja hans hvarf og borgaraleg viðhorf urðu ráðandi. [...] Bæði öflin verða að beinast að viðhaldi þess sem er ríkjandi, en ef gagnrýnin og sköpunin boða breytingar, þá verða þær að vera hinum ríkjandi öflum í hag, til dæmis með því að auka lífdaga þeirra. Svipaðra viðhorfa virðist gæta i hinum kommúniska heimi, krafan um að heimurinn verði að viðgerðarverkstæði úreltra hugmynda. Í viðtali árið 1997 (í blaðinu Degi) segist Guðbergur vera marxisti, en að vísu er þar undarlegur endahnútur á: Í viðtali 3.des. 1997 segir hann m.a. í tilefni af skáldævisögu sinni: ”Þegar skrifað er um alþýðumanninn sýna höfundar honum venjulega samúð eða vorkunnsemi. Það er ótækt í listum. Hér á landi er það afar mikill galli í list og stjórnmálaumræðu að hafa samúð með lítilmagnanum. Það getur marxisti ekki gert. Hann hvetur lítilmagnann til uppreisnar. Vorkunnsemin er eins og smjaðrið. Hún deyðir manninn.” Guðbergur segist að ýmsu leyti vera marxisti í skrifum sínum. ”Ég hef lesið mikið um marxisma og fylgi að miklu leyti hugmyndum marxisma og stjórnleysingjastefnunnar. En um leið get ég einungis fylgt þeim hluta í þessum stefnum sem eru í samræmi við það lútherska alþýðuuppeldi sem ég hlaut í bernsku og þá hugmyndafræði sem foreldrar mínir innprentuðu mér. Ég er fyrst og remst skáldsagnahöfundur sem hugsar mikið um formið og það að ganga ekki að því á venjulegan hátt. En meinið er að hér á landi eru menn ekki á höttunum eftir því sem er óvenjulegt eða frumlegt enda rugla þeir því óvenjulega og frumlega iðulega saman við fíflalæti.” Eins og við sáum í umfjöllun skáldævisögu Guðbergs var þetta lúterska alþýðuuppeldi og hugarheimur sem honum var innrætt í bernsku virðing fyrir hverskyns yfirvöldum og viðteknum hugmyndum. Ekkert er Guðbergi fjarlægara, og er því ekkert að marka þetta. Enda er Guðbergur gagnrýninn á hverskyns hjarðhugsun í samtíma umhverfi sínu: Alþingismaðurinn er hrædd, litlaus vera, sem dirfist ekki að brjóta neitt til mergjar i máli eða hugsun, vegna ríks ótta við að falla ekki kjósendum i geð. [...] Tvískinnungurinn er því ekki bara hjá borgaranum, eða þversagnir og brestir innan auðvaldsins, heldur er hann jafn ríkur og hættulegri hjá sósíalistum, kommúnistum, róttækum eða stuðningsmönnum hinnar óljósu vinstristefnu. Og hann er ekki bundinn við eitt land, heldur heiminn allan, þessa öld. [...] Þetta þrennt er allt jafn fáránlegt: heimskirkjan, alþjóðlegur sósialismi í einu landi og túnfótarstefnan, og ber vott um ógagnrýnið hugarfar og þörf höfðingjasleikjunnar fyrir að hlaupa ævinlega undir væng valdsins, og annað hvort týnast þar eða láta berast á væng hins opinbera söngs. Menning okkar hefur getið af sér ótal slíka menn, tækifærissinnana, og þeir hafa mótað seinni helming þessarar aldar það tímabil þegar enginn þorði að hugsa sjálfstætt og allir notuðu fóðraða spennitreyju fyrir skjólflík. Hann er að sama skapi gagnrýninn á menningarfrömuði samtímans á Íslandi: Við endurreisn andlegs lífs í landinu, kemur að sjálfsögðu til kasta menntamanna, andlegra leiðtoga hverrar þjóðar, en íslenskir menntamenn gefa ekki einu sinni út tímarit, til að koma á framfæri hugmyndum sínum um landsmál, menntir eða þjóðfélagsmál. Og listir eru flestum lokuð bók. [...] Ég held meira að segja að íslenska menningarliðið hafi próf upp á bindindi í frumlegri hugsun og strengi þess heit að hugsa hvorki hátt – þá gæti því verið einhvern tíma hent af stalli – né bera fram „kolbrjálaða“ gagnrýni eða sýna berserkslega getu. Við sáum hér að framan að háð og ádeila er mjög áberandi í mörgum skáldsögum Guðbergs, og ræðst hann þar einkum á hverskyns ósjálfstæði, sem birtist m.a. í bið eftir utanaðkomandi áhrifum og í neyslugræðgi. Einnig sáum við ýmis dæmi um fráleitar alhæfingar, sem ég tel vera til þess eins fallnar að leiða lesendur frá rökhugsun til þess að þeir hafi efnið eins og á tilfinningunni. Reyndar hefi ég alltaf litið á það sem stríðni Guðbergs við lesendur, þegar hann setur fram slíkar skoðanir, og er ástæðulaust að endurtaka það sem við höfum séð hér að framan. En hver veit, kannski hann hafi svona einkennileg viðhorf um söguþróun sem birtast í Formála úrvals þýðinga hans á spænskum ljóðum 1992 Hið eilífa þroskar djúpin sín (bls. 16): Um og eftir aldamótin kom hið vaknandi sjálf auðvitað ekki aðeins fram í skáldskapnum, heldur gætti þess líka á vettvangi stjórnmála og í þjóðlífinu. Það leiddi til þess að Miguel Primo de Rivera hershöfðingi tók sér alræðisvald árið 1923. Alkunna mætti vera að valdarán herforingja er jafnan til að banna verkalýðsfélög og verkföll, koma á ritskoðun og bæla niður alla gagnrýni á yfirvöldin, í stuttu máli sagt til að tryggja arðrán ríkra á fátækum og troða alþýðu niður í svaðið, andstætt því að vekja sjálfið, hefja persónuleikann til vegs og virðingar. Einnig mætti nefna greinar Guðbergs þar sem fram kemur trú á þjóðareðli. Slíkt hefur einkennt afturhaldsmenn, og þætti mér nær að tala um mismunandi hefðir en um kynstofna, en svona orðar Guðbergur það (Latneskur andi, TMM 1982, bls. 421): Hver kynstofn hefur sitt sérstaka viðhorf til náttúrunnar. Japanir hefja náttúruna í æðra veldi. [...] Í breskum görðum fær náttúran að njóta sín að mestu villt og ósnortin. Og hálfum öðrum áratug síðar kemur svipað órökstutt afturhaldstal um þjóðareðli á sama vettvangi (Maðurinn í náttúrunni, TMM 1997, bls. 86): Viljum við lifa sem þjóð í umhverfi sem er hvarvetna skipulagt, þurfum við að taka innra umhverfi okkar, Íslendingseðlið, til rækilegrar athugunar. Okkur er skylt að færa það í mannsæmandi horf, taka hugsunina í gegn og henda reiður á henni, skilgreina hana, ekki með hrópum heldur lítillæti. Við verðum að athuga atvinnumöguleika þjóðarinnar, ekki í æsifregnastíl, ekki bara með því að þykjast finna stöðugt upp ný undraefni [...] Athyglisvert er að sjá afmörkun þessa eða leiðréttingu í grein eftir Guðberg 2004 (Drottinn blessi heimilið, bls. 49): Einhverra hluta vegna verður ”göfugur málstaður” – eins og hvatning til frelsis – að nota vissa lygi sér til framdráttar, að minnsta kosti í byrjun. Göfugur málstaður þarf jafnvel meira á henni að halda en slæmur. Lygin er lífleg og gengur þess vegna vel í fólk og stundum kölluð ”skreytni” og tengd nytsemi. Að fengnum sigri fær góði málstaðurinn um stund samviskubit, fyrst hann beitti lygum, og reynir að hreinsa sig af þeim og verða heilsteyptur og sannur. En hið heilsteypta gengur svo illa í margbeygt fólk, sem trúir síst iðrandi syndurum þótt einlægir séu, að málstaðurinn gefst brátt upp við það að hreinsa sig og grípur meðvitað til þess eina ráðs að trúa eigin lygum. Með tíð og tíma lítur hann á skreytni sína sem hreinan sannleika. Þannig kúvending verður oftast á því andartaki þegar þeir sem logið var í upphafi ljúka upp augum og sjá í gegnum lygina. En þá er orðið of seint og þeir leiðast inn í hana að fullu eins og farið sé inn í þægilega móðu. Enn eru hér hugtök persónugerð, eins og við sáum í kaflanum Persónugervingar. Hitt er þó mikilsverðara hvaða viðhorf Guðbergur hér lætur í ljós til sannleika, hann er ekki hlutlægur, heldur huglægur, þ.e. hugarfar fólks birtist í goðsögum, sem eru þá ekki síður mikilsverðar en hlutlægt umhverfi fólks. Þetta höfum við séð móta sögur hans. Hér skal nú vikið að greinaskrifum Guðbergs í sambandi við sagnagerð hans, enda þykja mér athyglisverðastar greinar hans um bókmenntir og listir og stöðu þeirra í samfélaginu. Þar má sérstaklega nefna greinar hans í Skírni 1989-91. Guðbergur leggur áherslu á að list sé sköpun einstaklings, ekki hóps. Enda þótt listamaður sé ævinlega hluti samfélags og mótaður af sínum samfélagshóp, þá skapar hann sem einstaklingur, og ekki eftir forskrift, sé hann raunverulegur listamaður. Meginatriðið virðist mér vera að Guðbergur ræðst gegn þeirri kreddu krata og stalínista að alþýðlegur smekkur sé í sjálfu sér góður, hann sé vísbending um komandi þjóðfélag og menningu jafnréttis. Áþekkt er það viðhorf nasista, að alþýðusmekkur sýni hina djúprættu þjóðarsál sem hefja bæri til viðurkenningar. Karl Marx rakti aftur á móti, að í stéttarsamfélagi drottni hugmyndir ríkjandi stéttar, þ. e. hugmyndir sem réttlæta drottnun hennar. Slíkar hugmyndir drottna þá einnig með alþýðunni, þangað til hún heyr sigursæla byltingu og því felst í því að upphefja alþýðlegan smekk í auðvaldsþjóðfélagi, í raun það að undiroka alþýðuna og binda hana á bás auðvaldsins. Guðbergur orðar sköpunina nánar (Skírni 1989, bls. 42); Bókmenntirnar eru sprottnar af og vinsaðar úr því kynlega og látlausa, kveljandi innra muldri, moði eða þeim þögula malanda sem kraumar látlaust í sál og huga manna og kvenna sem við köllum t.d. rithöfunda og ljóðskáld. Listsköpun byggir því á óröklegu viðhorfi, eins og hann rekur 1993 (TMM 116): Ef um listamann er að ræða, kann ósamkvæmni hans í fagurfræðilegu viðhorfi eða verkum að stafa af því sem ég hef kallað skapandi ósamkvæmni. Hún er andstæð hinni letjandi. Letjandi ósamkvænmi er það þegar maður hörfar ringlaður og hefur ekkert taumhald á hugsun sinni af sálrænum ástæðum. Listamaður haldinn letjandi ósamkvæmni á ekki í sér óskapnaðinn sem þarf til þess að geta haldið á lofti silfurstjörnunni sem Nietzsche talaði um. Þetta rekur hann áfram (í Skírni 1991, bls. 442): Í stað þess að gera listina að því handverki sem hentar hverfulleikanum hverju sinni, þrungið óvæginni óáþreifanlegri undirvitund mannlegra tilfinninga og samfélags, hefur íslensk list orðið að bráð dútli sem auðveldlega má læra í skólum eða við léttan lestur. Hún er því orðin að léttvægi með handhægu gildi. [...bls. 445:] Það er hvorki hægt að færa daglegt líf inn í skáldskap né skáldverk inn í lífið. Andi listaverks og andi mannlegs lífs eru ólíkir andar en skyldir að því leyti sem enginn hefur getað skilgreint þannig að trúverðugt yrði um langan aldur. Sannleikurinn í þessum efnum er jafnhverfull og annar sannleikur: hann er óbrigðull á meðan jábræður eða ofstækismenn innan stefnu hans eru allsráðandi á útbreiðslustöðum hennar, oft í menningarímaritum sem eiga stutta lífdaga eða á kaffíhúsum. Og eftirfarandi lýsing á skáldi á augljóslega við hann sjálfan (Skírni 1991, bls. 447): Í öllum rithöfundum eru ótal og sundurgerðarlegar sálir, sálnakraðak sem aðeins höfundurinn kemst í gegnum og getur komið haganlega fyrir undir ýmsum nöfnum í skáldverki, ef hann hefur meðfædda stílgáfu. Eða öllu heldur virkjar hann þráhyggju sína og beitir klifun sinni með listrænum hætti. [...] Þannig kemur fyrri tegundin af rithöfundi alls ekki til móts við ”lesendur” sína. Hann reynir ekki einu sinni að verða sér úti um lesendur. Hann lifir einn í rafknúinni harmsögu orðanna, ef svo mætti segja, og það hvarflar ekki að honum hvort framtíðin kunni að meta eða ”skilja” hann. Samt er svo kynlegt að þegar til lengdar lætur læra lesendur og rithöfundar og jafnvel þjóðir oft meira af þannig höfundum en hinum sem voru umvafðir halelúja síns tíma. Andstæður slíks rithöfundar eru áberandi, sem áður var rakið, að menn ímynduðu sér að skáld væri einhverskonar frelsari, og mál hans því hálfheilagt (Skírni 1991, bls. 442). Og þar kemur til ábyrgð þeirra rithöfunda sem stunduðu ”virkar” bókmenntir (s. r. bls. 444): Vegna þjónkunar hafa ”miklu rithöfundarnir” gengið af æðri skáldskap hálfdauðum, að minnsta kosti um stundarsakir. Þeir ánetjuðust kröfu um að þeir yrðu hlutgengir, fyndu til í stormi síns tíma með hópum sem ætluðu að breyta heiminum, í stað þess að vera alltaf blaktandi strá á harmsögulegri einstaklingsey sinni með sína eigin bók með efni sem lætur hvorki undan þrýstingi veðra og illfygla í lofti né ólgu sjávar og ókinda hans þótt það ætti að drepa eða taka þá í guðatölu. [...] Ein mikilvæg ástæða fyrir áhugaleysi samtímans á listum, einkum skáldskap og þá skáldsögunni öðru fremur, er að einhverju leyti sú að ”gylltu” rithöfundarnir [...] brugðust hrapallega stöðugri leit mannsins að takmarki sínu með því að hefja boðun þess í þekktri mynd, í ákveðnu þjóðfélags- og listrænu formi. Afleiðingin hefur orðið sú að venjulegir menn eða lesendur vantreysta ”alvörurithöfundum” og flýja á náðir hinna sem bjóða upp á afþreyingu sem vitað er fyrirfram að eru hillingar, skrök og þykjusta. Hér deilir hann þá á það að leggja skáldskap undir þjónustu við afstrakt hugmyndir, svo sem raktar verða í blaðagrein. Enn rekur hann um tískuskáld (s. r. bls. 447): Í hinum flokknum er sá sem leitar síður inn í vítahring sálna sinna til þess að brjóta þær með fagurfræði viljans í einingar sem hann dreifir síðan. Þess í stað grípur hann til þekktra manna úr eigin umhverfi eða sögunni og umbreytir eða lagar til, oft í þeim tilgangi að ”koma til móts” við lesendur eða ”þarfir” samfélagsins [...] þetta er hinn ”hagnýti” rithöfundur Ennfremur (Gagnrýni á gagnrýnina, TMM 1982, bls. 558): Skráargataskáld með gægjugatasögur eru um þessar mundir alráðandi í íslenskum bókmenntum og hægt er að segja um sumar bókaútgáfur það sem sagt er um sumt fataefni: að þær séu skítsælar. [...] Þessi miðstéttarlegi ákafi, sem einkennir listirnar og gagnrýnina, hefur sameinast í því síðasta áratuginn að flytja þann gleðiboðskap að allt sé fábjánum fært á sviði listanna. ”Fólkið vill þetta!” Líkt og alþýðunni sé aðeins boðlegur bjánaháttur. Og 1990 segir hann (Skírni 408): Afburðamaður gerir oft ”hræðilegar skyssur sem enginn skilur hvernig geta hafa hent hann”, en eftirhermurnar skrifa hnökralust og fá góða dóma hjá gagnrýnendum”. Um viðtökur bókmennta á Íslandi, eða bókmenntaandrúmsloft fjallar Guðbergur einkum í minningargrein sinni um Málfríði Einarsdóttur (Skírni 1990, bls. 420-21) Hún gleymdi gersamlega að fagurgalinn hér á landi gat ekki enst lengi vegna þess rysjótta veðurfars og andlegu dynta sem ríkja á íslenska menningarsviðinu: í gegnum upphafið kjaftæðið grisjar strax í galtómið; vitið heldur ekki vatni og byrjar að væta lökin þegar minnst varir og dómgreindin liggur í lamasessi....En þegar hún hafði gefið út fleiri en tvær bækur varð hún að lúta landlægu reglunni: höfundur er næstum gleyptur með húð og hári við útkomu fyrstu bókar, ef hann birtir aðra leggja menn kollhúfur spaklega, en við þá þriðju, þegar hann byrjar að ná þroska og verða sjálfstæður, kveður við annan tón í söngglaða bókmenntakórnum: ”Æ, þetta er allt sama tuggan! Hann er bara að endurtaka sig.” Þarna vísar Guðbergur væntanlega líka til viðbragða manna við sögum hans á 8. áratugnum, svo sem rakið var hér að framan. Og þetta skýrist af algengu viðhorfi til bókmennta, sem hann átelur í grein (Sæmundur fróði, TMM 1993, bls. 93): Sú skoðun er elst og hefur verið lífseigust, að bókmenntir hafi ekki annað gildi en það sem felst í notagildinu sjálfu. Sögur eru fallegar sem lýsa samúð með lítilmagnanum, ef hann hefur aðeins þær líkamlegu þarfir að tárast og langa í mat og peninga, og þær eru góðar ef þær gefa í lokin lesendum ”sem sjá sig í persónunum” von um vasaklútasett, tvo kartöflupoka og mikla peninga. Sú skoðun er yngri, þegar talið var að skáldsögur ættu að vera mönnum öðru fremur upplyfting. Af þessu viðhorfi, að bókmenntir eigi að gegna samfélagslegu hlutverki, leiðir að þær eru smækkaðar, frá því að varða hvern sem er, í það að þjóna tilteknum hópi. Því segir í grein hans Hafa kvennabókmenntir sérstöðu? (TMM 1981, bls. 330): Er minni ástæða til að semja kvennasinfóníu en kvennaskáldsögu? Svarið við þessu er það, að á síðustu áratugum hefur skáldsagan verið gerð fremur að markaðsvöru en tæki til að breiða út menningu mannsins. [...og bls. 335:] En listin fyrir fólkið og svo nefndar kvennabókmenntir eru í engum andlegum tengslum við frelsisþrá og frelsisbaráttu mannsins [... ] Engar bókmenntir hafa sérstöðu, öllum bókmenntum er það sameiginlegt að þær fjalla um eilíf vandamál mannsins, hvort sem þau eru smá eða stór, auvirðileg eða yfirborðskennd eða þau liggja á miklu dýpi. Því gildir sama um þá tísku að semja sérstaklega fyrir minnihlutahópa svo sem homma. Það vill hreinlega snúast í andstæðu þess sem til stóð, og verða þrúgandi (Skírni 1989, bls. 46): Höfuðeinkenni á bókmenntum sem fjalla um samkynhneigt fólk eru þau að þótt þær kunni að vera skrifaðar af slíku fólki, og jafnvel einkum ef svo er, hafa persónurnar í þeim engan rétt til að njóta unaðar nema hann sé blandinn kvöl, eða kvölin ein fylgir samkynhneigðinni. [...] Af þessum sökum hafa biblíuleg viðhorf verið miklu langlífari í þannig bókmenntum en öðrum [...] Þar af leiðandi eru þær venjulega afturhaldsbókmenntir, sem ganga sjálfviljugar en með stöku kveini undir ok viðtekinna skoðana. Sérkennilegt var að sjá í Þjóðviljanum 1980 (22.11.) heilsíðu þakta tveimur andstæðum greinum um samband skálda og lesenda. Sú lengri var eftir Guðberg: Nú stefni mörlandinn á miðjuna, en hin eftir Árna Bergmann, Bækur eru stórmál. Árni hafði áhyggjur af því að framúrstefnuskáld fjarlægðust smekk almennings svo mjög, að fólk hætti að lesa bækur þeirra, og sagði m.a. Bækur hafa vegið þungt í íslensku menningarlífi. Og menning er ekki sterk nema hún nálgist það að vera sameign þjóðar, samnefnari, sameiginleg viðmiðun. Þetta á ekki síst við um smátt þjóðfélag, sem hefur allra síst efni á þvi, að menning klofni í hámenningu fyrir fáa útvalda og lágmenningu (sem er NB allt annað en alþýðumenning). En Guðbergur skrifaði m.a.: Líklega heldur ritdómarinn að kallfærið sé styst og best á miðjunni — í bókum fyrir alla — því ef menn standa í miðjunni þá verður engum sendur tónninn. Slíkur boðskapur veður nú uppi undir fölskum merkjum friðarins. Því ef andstæður ríkja þá segja miðjumenn, ,,að allt of fáir geti eða hafi forvitni til að fylgja eftir". Hvers vegna verða fáir til að fylgja eftir? Vegna þess að einhver skelfileg andleg leti og fita hefur hlaðist á huga og hugsun nútíma-Íslendingsins. [...] Hin kringlótta tvíhliða vömb vinstra og hægra afturhaldsins hefur kæft viljann. Og vömbin kæfir allt ef fólk gerir sér ekki grein fyrir að hérlendis er til tvennskonar afturhald: það hægra og vinstra. Það hefur hver heilvita maður vitað hingað til, að ef menn eru gæddir vilja og hafa sterkan róm, þá komast þeir í kallfæri hvernig sem vindur blæs, jafnvel þótt bilið milli þeirra sé mikið og skoðanir ólíkar. Kall og rómur sumra hefur heyrst um heim allan. Með vinstra afturhaldi á Guðbergur sjálfsagt við fyrrnefnt viðhorf krata og stalínista, að alþýðusmekkur í auðvaldssamfélagi sé heilbrigður og hann sé vaxtarbroddur stéttlauss samfélags framtíðarinnar. Skondið er að sjá Guðberg hér beita texta sínum Kenndin kringlótt vömb úr Ástir samlyndra hjóna sem dæmi, sú saga hlýtur þannig ritskýringu höfundar. Ég blandaði mér í þessi skoðanaskipti og hélt því fram með dæmum að framúrstefna – svo sem bækur Halldórs Laxness – væri vaxtarbroddur bókmenntanna, og næði fyrr eða síðar til almennings. Varð það upphaf að ritdeilu milli mín og Árna Bergmann sem stóð með hléum í heilan áratug. Sjá m.a. vefslóð mína: http://oernolafs.blogspot.com/íslenskt. Guðbergur skrifaði langa grein um Jorge Luis Borges þegar hann kom til Íslands 1971. Þar lýsir hann skáldskap Borges m.a. svo (Mbl.14.4.): Eins og fyrir daga kristninnar, áður en hugtökin gott og illt komu til skjalanna, eru persónur verka hans hvorki illmenni né englar — það er næstum því hægt að segja, að þær hafi ekkert meðvitað eðli: örlögin stýra þeim — og því síður er skapgerð þeirra ofsaleg eða af illum eða góðum toga spunnin (þær eru gerendur)... fremst af öllu er hann skáld, þar af leiðandi hverfa persónur og atburðarás verka hans þegar minnst varir frá raunveruleika efnisheimsins, hlutirnir hverfa úr réttu sögusamhengi og hljóta vídd ímyndunaraflsins og gæðast tíma mannsins, þetta sem grískir kölluðu epos og Hegel sagði að samsvaraði orðinu saga, en nútimaíslendingar nefna epík. Þrátt fyrir söguna í verkunum bera þau líka blæ ljóðsins, spakmælisins, og höfuðeinkenni þessa tvenns, brotsins; þótt Borges rækti ekki brotið sem sérstaka listgrein að hætti Nowalis. Rétt er að segja, að hinir stuttu þættir hans geymi söguvídd brotsins. Þetta er í andstöðu við ”virkar bókmenntir”: almennt vilja menn þekkja sig í bókum, rétt eins og þær væru spegillinn í ganginum heima hjá þeim [...] eins og skáldskaparpersónur urðu eftir komu rómantísku stefnunnar, en þó sér í lagi við úrkynjun hennar, þegar skáldin reyndu í verkum sínum að hræra lesandann til andúðar eða samúðar með fávíslegri einföldun manneðlisins. Með því að stefna saman andstæðum öflum, svo að hægt yrði að skapa spennu, tókst skáldunum frábærlega að græta kaupmenn og þvottakonur þeirra, sem stundum var eini tilgangur verkanna: úthelling tára. Eftir því sem kunnáttan jókst í að skapa spennu, tókst skáldinu betur og betur að taka alla hugsun frá lesandanum og eftir að hafa rækilega svipt hann vitinu, hellti skáldið í gapið úr pottum heitra og kaldra tilfinninga, svo að lesandinn var ýmist bólginn af gráti eða reiði, en vitsmunirnir skruppu saman eins og skjóða. Guðbergur hefur einnig lýst beinlínis eigin vinnubrögðum, t.d. þegar hann samdi skáldsöguna 1 ½ bók, hryllileg saga beint á alnetið: Ég tek það fram að sagan hefur ekki verið hugsuð fyrir fram. Þar af leiðandi getur hún tekið óvæntar stefnur og jafnvel tekið aftur, eins og ræfill, bjáni og íslenskur aumingi, það sem hún sagði áður og þóttist vera viss um, til þess að hægt sé að bæta hana og breyta henni eða færa vitleysuna til betri vegar. [...] ég er haldinn þeirri áráttu þegar ný tækni kemur fram að þá vil ég nota hana. Ég notaði segulbandið lengi og samdi smásögur, skáldsögur og ljóð með því. Það er því ekkert nýtt að ég notfæri mér tæknina. Að skrifa fyrir Netið gefur mér ýmsa möguleika. Lesandinn getur ekki flett upp í sögunni og þess vegna get ég leyft mér að fara í ýmsa útúrdúra líkt og skáld gerðu á miðöldum og frásagnarmátinn verður að ýmsu leyti miðaldalegri frekar en nútímalegri.... í raun er það eðli netsögunnar að verða gamaldags. Ég get nefnt dæmi um tungumálið sem ég nota. Ég er ekki að skrifa hefðbundið ritmál. Þetta er einhvers konar samblanda af ritmáli og talmáli líkt og gert var á miðöldum. Að því leyti er sagan kannski íslenskari fyrir vikið. Áður sagði hann um endurskoðun sína á eldri verkum við endurprentun (TMM1993): Ég skar textann niður til þess að lyfta persónunum frá honum, hefja þær upp úr flæðinu svo þær fengju breiðari útlínur í teikningunni og yrðu fyrir bragðið ljósari við lestur svo ekki þyrfti að leita að þeim eins vandlega í bakgrunninum og áður hafði verið. Það er að segja: undirvitund verksins minnkaði, yfirborðið varð meira við svonefnda meitlun setninganna. Teikningin varð ákveðnari, litameðferðin minni. Hér verður að nefna dóm Guðbergs um tvö fræg íslensk sagnaskáld, fyrirrennara hans, Halldór Laxness og Kristmann Guðmundsson. Guðbergur sagði (í viðtali við Tómas Einarsson, Þjóðviljanum 20.10.1985) m.a.: Maður tekur eftir samruna skáldskapar og hins þjóðfélagslega hjá mörgum eldri rithöfundum, t.d. í Nátttröllið glottir eftir Kristmann Guðmundsson sem er afskaplega marxísk saga og Kristmann Guðmundsson var einhver angi af marxískum höfundi. Á margan hátt miklu marxískari höfundur en Halldór Laxness. Ég get nú eiginlega ekki séð marxismann í hans ritum, hann er of mikill sögumaður til að verklag hans verði fyrir áhrifum frá einhverri fræðikenningu. Hjá Kristmanni kemur marxisminn miklu glöggar í ljós. En lesendur taka ekki eftir því vegna þess að þeir eru ekki frjálsir í hugsun. Það er búið að flokka fyrir þá og þeir fylgja þeirri flokkun. Þeir gera sér ekki grein fyrir því að þegar Nátttröllið er sprengt upp þá er fortíðin sprengd upp. Það er meiri byltingarandi í þeirri bók en í bókum eftir hina svokölluðu marxísku höfunda sem voru oft ekkert marxískir í verkum sínum. Þeir voru dálítið eins og kristnir menn, fylgdu einhverri stefnu en höfðu aldrei lesið biblíuna. Mikið er til í þessu, ef við látum marxismann liggja milli hluta, en tölum um sósíalrealisma, eða boðskap um sósíalisma í skáldsögum. Þessi skáldsaga Kristmanns birtist 1943. Eins og í sumum öðrum skáldsögum hans segir hér frá karlmanni sem snýr heim á fornar slóðir á Íslandi eftir langvarandi utanlandsvist. Konur hrífast af honum, en karlmenn líta hann flestir tortryggnisaugum, fáir sem engir bera kennsl á hann. Hann ræðst sauðamaður hjá ríkasta bónda héraðsins, hreppstjóra, og hefur sá verið harðdrægur svíðingur, en tekur nú breytingum hugarfars eftir fortölur aðkomumannsins, fer að veita fátækum aðstoð, og hugsanir hans birta boðskap eða lærdóm um samstöðu. Það má virðast vel til fundið að staðsetja söguna í umhverfi sem flestum lesendum var kunnuglegt, á sveitaheimili fyrri tíðar. Flestir karlmenn sögunnar eru andlega bæklaðir, ef svo mætti segja, og kemur skýrt fram að það stafar af örbirgð og kúgun. En raunar er hreppstjórinn ríki síst betur á sig kominn, enda segir hann undir lokin, t.d. (bls. 184): Nú sá hann og skildi, hversu illt hlutskipti það er að berjast einn fyrir velgengni á kostnað annarra, því að lífið er stutt og stopult og mennirnir bræður í þjáningu sinni og þrá. Það er sælt, að eiga samúð þeirra og vináttu og vita, að það, sem maður vinnur, er öllum til heilla og þarfa. Hann starði undan loðnum brúnum sínum inn í hið fjarlæga, en fyrirheitna land, þar sem allir lyfta byrði tilverunnar í sameiningu, rangindunum er útrýmt og úlfinum leyfist ekki framar að granda lambinu. Guðbergur hafði lög að mæla, þetta er bullandi sósíalrealismi! Boðskapur um kommúnisma, og hann kemur ekki frá einhverjum öfundsjúkum fátæklingi, heldur helsta auðmanni héraðsins, sem svo deilir út af auðæfum sínum til hinna fátæku. Það er svo auðvitað eins andstætt marxisma og verið getur, um það gilda ljóðlínur Þorsteins E: “lýður, bíð ei lausnarans/ leys þig sjálfur!” Því marxisminn stefnir að því að alþýðan sjálf taki stjórn á lífi sínu, en ekki að hún eigi afkomu sína undir ölmusum auðmanna. Við sáum að Guðbergur sýndi skilning á þessu í viðtali í Degi 1997. Samkvæmt skrám tímarita birtust ekki ritdómar um þessa skáldsögu Kristmanns í Skírni, Eimreiðinni né Tímariti Máls og menningar. Kannski Kristmann hafi verið talinn róttæklingur, þessi helstu menningarttímarit Íslands (Eimreiðin og Skírnir) sniðgengu bækur þeirra. En í TMM kom heldur ekkert. Það er glæpska, hafi rótttæklingum þótt þessi alþýðuvinátta sögunnar andmarxísk, bar þeim að útskýra það. Annars hefði mátt ætla að í síðasttalda tímaritinu yrði fagnað skáldsögu með svo ótvíræðan boðskap um sameignarstefnuna. Hún líkist að þessu leyti – og sögusviði – einhverri margrægðustu skáldsögu 20. aldar, Sturlu í Vogum frá 1938 eftir Guðmund Hagalín, svo sem ég hefi rakið í Rauðu pennunum (bls. 112-115). Er erfitt að verjast grun um að hér hafi ráðið ”herbúðahugsunarháttur”, bækur hafi verið metnar eftir því hvort ”okkar maður” samdi eða ekki. Enn einu sinni sýnir Guðbergur þá sjálfstæða dómgreind í mati sínu á þessari skáldsögu, sem raunar fellur þó alveg undir það sem hér að framan var haft eftir honum um að ánetjast kröfu um að finna ”til í stormi síns tíma með hópum sem ætluðu að breyta heiminum”. Í tímaritinu Helgafelli (1944, bls. 124-7) birtist þriggja blaðsíðna umsögn Magnúss Ásgeirssonar, fremur jákvæð. Undarleg er þar ítrekuð grunsemd um að þessi skáldsaga sé upphaf sagnabálks, og verði ekki dæmd fyrr en að honum fullbirtum. Ekkert sé ég benda til þess, og ekkert kom framhaldið. Helst fann Magnús hér að því að höfundur hefði farið offari í að heyja sér íslenskan orðaforða – úr orðabók Sigfúss Blöndals – í þessari fyrstu skáldsögu sem hann frumsamdi á íslensku, nýfluttur til Íslands, einnig væru sum atriðin helsti ótrúleg. Taka má undir það, einnig er bókin nokkuð kynósa og töluvert ber á klissjum, finnst mér. En raunar held ég að höfundur flíki bara því sem gengið hafði vel í lesendur hans undanfarin fimmtán ár, svo sem einnig Magnús Ásgeirsson gefur í skyn í lok umsagnar sinnar: ”Kostir bókarinnar, og sumir gallarnir líka, eru þess eðlis, að hún virðist mjög líkleg til vinsælda, og mun það þegar hafa ásannast”. Réttmætar þykja mér aðfinnslur Magnúsar, að sveitalífsmyndin sé helsti einhliða, og aðkomumaðurinn, talsmaður höfundar, sé það einnig. Skáldsaga Kristmanns, Morgunn lífsins frá 1929, er miklu fjölskrúðugri með sannfærandi sálarlífslýsingum persóna og myndrænum náttúrulýsingum, t.d. svaðilfara á sjó og landi, og aðalpersóna hennar er breyskur maður og takmarkaður, og ætti þá fremur að höfða til lesenda með raunhæfa sjálfsmynd. Hvað varðar umsögn Guðbergs um að ekki sé sósíalismi í sögum Halldórs Laxness, þá eru þau efnislega samhljóða orðum Sigurðar Einarssonar 1933 (tekið eftir bók minni Rauðu pennunum, bls. 103-4): Bók Halldórs skilur við öll málefni á Óseyri við Axlarfjörð í því ástandi, sem yfirstéttinni mætti ákjósanlegast þykja, í ringluðu fáti eftir hina fyrstu misheppnuðu umbóta-atrennu. Hvernig stendur þá á því, að oss þykir bók Halldórs með afbrigðum góð, en nesjamennskunni með afbrigðum skaðleg? Bókin bregður upp breiðri, litríkri mynd af lífi óupplýstrar alþýðum, fátækrar, hjátrúarfullrar, frumstæðrar og algerlega á valdi ómenntaðra, gráðugra og ruddafenginna drottnara. [...] Snilld Halldórs liggur í því, að hann er alveg æðrulaus og allsgáður, veit að aðstæður þessa fólks og innri mein munu valda því fyrst um sinn, að allt fari í handaskolum [...] Hann er of skyggn og trúr til þess að honum komi til hugar að blekkja alþýðu á dísætum tálvonum um skyndilegar úrlausnir, Paradís og þúsundáraríki. [...] Af hverju æpir nesjamennskan öðru fremur á þessa bók? Af því að hún skýrir [...] grímulausa viðurstyggð öreigalífsins, áður en fólkið er farið að finna mátt sinn og markmið. [...] Sá viðnámsvilji sem slíkar bækur geta vakið, sá skilningur, sú mannlund, sem í ferskum hryllingi ræðst á viðbjóðinn, er eitur í öllum hennar beinum. Framtíðardraumar Arnalds (í lok 20. k. Sölku Völku, bls. 402-3) um ”sameignarstórvirki sem í vændum voru í plássinu, síldarbræðslu, [...] skóla, verkamannabústaði, - borðsalur verkafólksins var fjórar mannhæðir undir loft og skrautblóm spruttu í stórum kerum í fordyrinu, í eldhúsinu matreiddu útlærðir matreiðslumenn hetjulegar steikur og fræga búðinga” o.s.frv., hafa fyrir löngu ræst, bara í formi einkaeignar, ekki sameignar. Um seinni skáldsögur Halldórs gildir þessi umsögn einnig, fremur en að þær vísi veginn til sósíalismans. Og vissulega eiga orðin um að sýna ”grímulausa viðurstyggð öreigalífsins” einnig við um Nátttröllið glottir”. En þar er einmitt boðið upp á ”að blekkja alþýðu á dísætum tálvonum um skyndilegar úrlausnir, Paradís og þúsundáraríki”. Hér verður loks að nefna grein Guðbergs í tímaritinu Þjóðmálum 2006 um þá nýbirtar ævisögur Halldórs Laxness eftir annarsvegar Halldór Guðmundsson en hinsvegar Hannes Hólmstein Gissurarson. Þar tekur Guðbergur upp gamla kenningu Jóns á Ystafelli (í Iðunni 1928) og Jónasar frá Hriflu 1943 (sbr. Rauðu pennarnir, bls 200). Guðbergur segir (bls. 41): Halldór þurfti aldrei að þræla eins og flestir samtímamenn hans. [...] Fyrir bragðið byggðist formskyn og söguefni hans síðar á ævinni aldrei á harðri lífreynslu, þeirri margbrotnu þekkingu sem fæst ef saman fer líkamlegt og andlegt erfiði. Þetta er einhver fráleitasta kenning sem ég hefi séð. Eða hvar eru þau meistaraverk, mun fremri ritum Halldórs Laxness, sem íslenskir erfiðismenn sömdu á sama tíma? Fleira er af sama toga í þessari grein Guðbergs: Hann hafi aldrei staðið í báða fætur af eigin rammleik, óstuddur, hvorki í lífi né list. Formskyn hans hefur verið veikt.Vitsmunalega séð er hann fljótur að grípa, heldur dauðahaldi í fenginn um stund en snýr síðan við blaðinu og sleppir fyrirhafnarlaust. Síðan hefst fylgispekt á ný. Þessi veikleiki í skapgerðinni verður til þess að hann þráir miðstjórnarvald og finnur það fyrst í kaþólskunni en svo í miðstýrðum kommúnisma frá Moskvu, en miðstýringu við gerð verka sinna fær hann hjá öðrum. Úr dagbókum, frásögum vina, ábendingum annarra eða eftirlíkingum: Gerplu. Listrænt séð skipuleggur hann lítið sjálfur nema Atómstöðina en missir stjórn og þráðinn út úr höndunum ... Ævi hans í samfelldri sagnagerð er stutt, tuttugu ár. Salka Valka kemur út 1932 og Gerpla 1952. Voru þá Brekkukotsannáll (1956 og Kristnihald undir jökli (1968) einskis verð? Vissulega byggði Halldór Laxness rit sín á innblæstri frá öðrum, síðastnefnda ritið á Ævisögu Árna prófasts eftir Þórberg, Sjálfstætt fólk á Halla og heiðarbýlið eftir Jón Trausta, Heimsljós á dagbókum Magnúsar Hjaltasonar, Íslandsklukkuna á Skálholti Guðmundar Kambans, Paradísarheimt á sögu Eiríks á Brúnum, og enn mætti fleira telja. En hver maður hlýtur að sjá, að sögur Halldórs eru miklu betri en fyrirmyndirnar. Ekki skal hér borið blak af skrifum Halldórs um t.d. Moskvuréttarhöldin 1938 né annarri lofgerð hans um ógnarstjórn Stalíns. En ævistarf hans var þó fyrst og fremst skáldsagnagerð. Enda þótt Vefaranum mikla ljúki á því að söguhetjan tekur kirkjuna fram yfir konuna, munu flestir lesendur sjá það sem ómennsku kaþólskrar ofsatrúar. Og því síður verða félagslegar skáldsögur Halldórs, frá Sölku Völku til Gerplu, heimfærðar undir fylgispekt við Moskvuvaldið. Þær eru fjarri sósíalrealisma, sem boðaður var af sovéskum stjórnvöldum og af Íslandsdeild Alþjóðasambands byltingarsinnaðra rithöfunda, að söguhetja ætti að vera til fyrirmyndar í stéttarbaráttunni. Þetta var rakið hér að framan eftir Sigurði Einarssyni. Enda flokkaði György Lúkacs skáldsögur Halldórs undir gagnrýnið raunsæi (Rauðu pennarnir, bls. 22-3). Sannast hér enn, að skáld eru ekki bestu dómararnir um verk annarra skálda. Raunar er þessi dómur Guðbergs ekki í samræmi við annað sem hann hefur sagt um listir, frekar þvert á móti. Hinsvegar er þetta alveg eftir ævarandi viðleitni hans að hrinda um koll helgimyndum, rísa gegn almennri dýrkun á fyrirmyndum. En dómurinn er of laustengdur viðfangsefninu til að hitta í mark. 2.17. Þýðingar Guðbergs Þær birtast frá upphafi rithöfundarferils hans, Guðbergur birti frumsamin ljóð í TMM 1958, en ári síðar, 1959, birti hann smágrein um spænska skáldið Juan Ramón Jiménez ásamt tveimur ljóðum hans (í TMM), og árið þar á eftir birti hann þýðingu sína á miklum ljóðabálki annars spánverja, Federico Garcia Lorca, Harmaður Ignacio Sanchez Mejias (í Eimreiðinni). En fyrsta bókin sem Guðbergur þýddi birtist 1965, og hún var einmitt eftir Jiménez, Platero og ég, og birtist fjórum árum eftir fyrstu frumsömdu bækur Guðbergs. Þýðingar eru í raun stærsti hluti rita hans, um þrír tugir bóka á 35 árum, skáldsagna og smásagnasafna, auk fimm safnrita og fjögurra leikrita, þegar þetta er ritað, í ársbyrjun 2012, nær 40 bækur alls. Og hann er afar mikilvirkur á þessu sviði, tvær þýðingar birtust 1983, og tvívegis birtust þrjár þýðingar sama árið, 1985 og 1987, en tvær árið eftir, 1988, og enn tvær 1989. Á árinu 1985 birti hann auk tveggja þýðinga tvær frumsamdar bækur, Froskmanninn og Leitina að landinu fagra. Guðbergur sagðist 1992 (bls. 125) hafa einkum lifað af þýðingum. En ljóst er að hann hefur átt erfitt með að fá þær útgefnar, amk. þær mestu. Árið 1980, í viðtali við Jakob Ásgeirsson (Mbl. 9.11.80), sagðist hann hafa verið áratug að þýða Don Quixote, og gengið með þýðinguna milli fjögurra útgefenda. Enda sagðist hann í viðtali 1970 (Vísi 20.11.) vera að vinna að þýðingu á þessari bók. Þú getur rétt ímyndað þér Don Kíkóta, ég þýddi söguna og handskrifaði, síðan vélritaði ég allt, þýddi á ný og leiðrétti, og vélritaði aftur. Þetta var gífurlega mikil líkamleg vinna. (Viðtal í Mbl. 10.12.2006). Don Quixote. Ætli það séu ekki tíu ár síðan ég byrjaði að þýða þá bók. Skömmu síðar færði ég það í tal við Kristin E. Andrésson að hann gæfi verkið út. Af hverju þýðirðu ekkert ferskara, spurði hann þá, eftir nútíma höfund? Staðreyndin er sú, að þjóðin ræður ekki andlega við þýðingar sem Don Quixote. En ég var ákveðinn í að koma Don Quixote út á íslensku, í þeirri von að framtíðin réði við slíkt verk. Ég gekk á milli útgefenda og þeir sögðu mér, að það væri mikið afrek gæfu þeir þetta út! Barátta einstaklingsins er mjög erfið, yfirleitt eru honum allar dyr lokaðar. Ég hef ævinlega verið einstaklingshyggjumaður. Ég fór hvað eftir annað með handritið til Menningarsjóðs, en það er alltaf verið að skipta um fólk þar, og aldrei tekin nein ákvörðun í þeim húsum. Mér fannst sjálfsagt, að Menningarsjóður gæfi verkið út, þetta er ríkisútgáfa, og þeir hafa áður gefið út t.d. Kviður Hómars. Svo tók nú Ragnar í Smára við þessu, ákveðinn í að gefa þetta út; en sá síðan, að hann hefði ekki til þess bolmagn. Þá fór ég til Almenna bókafélagsins. Eins og þú veist, þá er maður alltaf að leiðrétta, pota í þetta, og það er ekki fyrr en maður fær vilyrði fyrir útgáfu sem þýðingu raunverulega lýkur. Þá fær maður yfirlit yfir allt yerkið og getur gengið frá því (Mbl. 9.11.80). Í sama viðtali segir að svipuð voru vandræði hans með að fá út gefna sögu Gabriel Marquez Liðsforingjanum berst aldrei bréf, hún beið útgáfu í átta ár. Um þýðingar sagði Guðbergur m.a. í erindi, sem birtist 1983 (í TMM), að þær væru samofnar því að frumsemja (bls. 500-501): Það að vera samstígur samtíð sinni er þungur vandi og oft ekki æskilegt að tölta á sama hraða og samtíðin [...] Viljinn og ímyndunaraflið, og kannski beiskjan og grimmdin, ýta manninum samt fram á við, hann þyrstir í að geta þýtt bæði það sem bjó í fortíðinni og býr í framtíðinni, langar til að bræða saman. Sú löngun er ætíð fyrir hendi hjá þeim sem gerir hvort tveggja, þýðir og semur skáldverk jöfnum höndum. Ég hef aldrei þýtt neitt af hreinni tilviljun, heldur af stefnumarkandi vilja. Vegna stefnu minnar hóf ég fyrst þýðingar með Lazarusi frá Tormes. Sú bók leysti bókmenntir Evrópu úr viðjum miðalda, með sínu napra háði. [...] Stefnan er sú að þýða aldrei aðrar bækur en þær sem hafa haft margháttað gildi fyrir þjóðina sem ól þær af sér. Þjóðir fæða ritverk, höfundar ritverka eru aðeins milligöngumenn eða ljósmæður. En auðvitað eru til ritverk sem fæðast í trássi við vilja þjóðanna. Oft hef ég á tilfinningunni að ég þýði ekki fyrir hinn almenna lesanda heldur miklu fremur í von um að hin þýddu verk geti haft eitthvert gildi fyrir þá sem stunda skáldsagnagerð, en hinn almenni lesandi nýtur auðvitað góðs af, ef hann kærir sig um það. Einmitt þessar síðustu óskir virðist mér hafa uppfyllst, ótvírætt voru þessar bækur mikið lesnar, og t.d. Garcia Marquez varð gegnum þýðingar Guðbergs heimilisvinur Íslendinga og hefur haft áhrif á skáldsagnahöfunda svo sem Einar Má Guðmundsson og Einar Kárason. Vissulega lesa upprennandi skáld einnig bækur á öðrum tungum en móðurmáli sínu. En hitt er ótvírætt að Guðbergur færði þjóð sinni mikil menningarverðmæti, sem áhugafólk um bókmenntir hefur gleypt í sig. Að sönnu höfðu áður birst þýðingar á góðum verkum frá Spáni og Suður-Ameríku, leikritið Blóðbrullaup eftir Garcia Lorca (flutt í leikhúsi og birtist að hluta í TMM 1959), og hjá Máli og menningu birtist Ástin og dauðinn við hafið eftir brasilíska höfundinn Jorge Amado (1957) og Forseti lýðveldisins eftir Miguel Angel Asturias frá Gvatemala (1964), allt í þýðingu Hannesar Sigfússonar. En nú varð þetta miklu meira átak og samstillt, fjölskrúðugar gæðabókmenntir frá þessu málssvæði. Guðbergur var því ekki frumkvöðull þessa, en samt brautryðjandi, og fylgdu ýmsar merkar þýðingar annarra í kjölfarið, Jón Hallur Stefánsson þýddi Skáldið í New York eftir Garcia Lorca og Sigfús Bjartmarsson og Jón Thoroddsen þýddu smásagnasafnið Allra átta eftir mexíkanann Octavio Paz, svo eitthvað sé nefnt. Hér er ekki unnt að fara í gegnum allar þýðingar Guðbergs, en vikið skal að nokkrum dæmum. Ég hef auðvitað ekki getað borið þýðingarnar saman við frumtexta setningu fyrir setningu, heldur gripið niður hér og þar, ennfremur er ég ekki læs á portúgölsku né katalónsku. Guðbergur segist hafa byrjað þýðingarstarf sitt á Lazarillo de Tormes, sem birtist á frummálinu 1558, höfundur er ókunnur. Hún birtist svo á íslensku 1972, sjö árum eftir fyrstu bók sem Guðbergur þýddi. Þetta er stutt saga um alþýðudreng sem er vikapiltur, fyrst blindingja, síðan prests. Hann er barinn og sveltur af húsbændum sínum, en leikur á þá. Þriðji húsbóndi hans berst á sem fínn maður með sverð, en á ekki málungi matar og verður að lifa á því sem þjónninn betlar þeim. Versti svikahrappurinn er svo prestur sem selur páfabréf hjátrúarfullum almúga. Í lokin er sögumaður kominn í fasta stöðu sem auglýsingakallari og unir sínu, kvæntur konu sem talin er vera hjákona prófasts. Þetta er einskonar tilbrigði við þroskasögu, frá örbirgð til meðalmennsku. Það er fornfrægt efni að snjallt þjónustufólk leikur á heimska húsbændur, algengt í grísk-rómverskum leikritum fornaldar. En þessi stutta og skemmtilega saga varð þó upphaf nýrrar bókmenntagreinar, skálkasagna (píkareskur). Af sama tagi er Króksi og Skerðir úr safni stuttra sagna Cervantes sem birtust fyrst árið 1613, milli bindanna tveggja af Don Kíkóti hans, í safninu Dæmisögur (Novelas ejemplares). Þýðing Guðbergs á þessari sögu birtist 1973. Hún segir frá tveimur þjófum á unglingsaldri, sem komast í þjófagengi í Sevilla. Það er rekið eins og verktakafyrirtæki, með verkaskiptingu og sameiginlegu bókhaldi. Hér segir nær eingöngu frá þjófum og mellum, þau birtast í myndrænum lýsingum og orðum þeirra. Engin er fordæmingin, en í lokin upplýsir höfundur að þetta sé mesti rumpulýður, og lofar framhaldi af sögu þeirra. En spænski útgefandinn segir það fyrirheit bara vera bókmenntahefð tímans, og aldrei kom framhaldið. Mesta stórvirki Guðbergs á sviði þýðinga er hinsvegar Don Kíkóti Cervantes, sem birtist á frummálinu í tveimur hlutum, 1605 og 1615. Þýðing Guðbergs birtist fyrst á íslensku á árunum 1981-4, en endurunnin þýðing hans kom svo út tveimur áratugum síðar, á árunum 2002-3, 1000 bls. kilja. Þetta er ein útbreiddasta skáldsaga veraldar, og segir frá manni sem las yfir sig – riddarasögur – og fór að túlka allt umhverfið svo sem hann væri staddur í þeim sögum. Hann fer því hvað eftir annað í átök við umhverfið, og gengur gott eitt til, hann vill vernda smælingja samkvæmt hugsjón riddarasagna. Þannig ræðst hann t.d. á vindmyllur í þeirri trú að þær séu illir risar, og er það síðan orðtak víða um heim að berjast við vindmyllur, í merkingunni að berjast við ímyndaða óvini. Þessi þvælingur riddarans um Spán og margvísleg átök við fólk sem hann rekst á, veitir alhliða, lifandi mynd af spænsku samfélagi samtímans, ófáguð mynd þess skerpist sem andstæða hástemmdra, göfgaðra öfga riddarasagnanna, sem Don Kíkóti oft vitnar til. Hinar bækurnar eru allar frá 20. öld, og voru margar nýlegar þegar Guðbergur þýddi þær. Auk þeirra bóka eru þá verk sem birtust í tímaritum, sum stór, sem áður segir, þar af tvö sérhefti af TMM. Hið fyrra kom út árið 1981 (170 bls.), helgað samhengi í bókmenntum Suður-Ameríku, en þar eru einnig bókmenntaverk frá því fyrir innrás Spánverja um 1500. Annað sérhefti var kynning á portúgölskum bókmenntum í greinum Guðbergs og þýðingum, 1984 (128 bls.). Sumt af ljóðaefninu tók hann upp stóraukið í bók sinni með þýðingum á portúgölskum ljóðum, Öll dagsins glóð 2009. Áður birti hann syrpu um bókmenntir í nýlendum Portúgala í Afríku í TMM 1980, en í sama riti birtust 1977 í þýðingu Guðbergs fjögur ljóð Augstino Neto, sem varð forseti Angóla eftir að það hlaut sjálfstæði. Þetta eru söfn fjölbreyttra bókmennta, og sumt er rómantískt eða þjóðerniskennt, margt mjög ólíkt því sem Guðbergur sjálfur frumsamdi. Enn birti Guðbergur safn þýðinga í sérhefti Stínu vor 2011, 169 bls., nær 40 stutt verk eftir þýskumælandi höfunda, frá undanfarandi öld. Þarna ber töluvert á expressjónistum á fyrstu áratugum 20. aldar, Trakl, Ball, Stadler, Lasker-Schuler, en flest skáldin komu fram eftir seinni heimsstyrjöld. Þarna hefði verið ávinningur að því að vísa til nýlegra safna íslenskra þýðinga úr þýsku, t.d. Þýsk ljóð í þýðingu Frans A. Gíslasonar, ljóðabókar Else Lasker-Schüler í þýðingu Hannesar Péturssonar og ljóða Bertold Brecht í þýðingu Þorsteins Þorsteinssonar, auk sérheftis tímaritsins Bjartur og frú Emilía 1993, en það var helgað þýðingum úr þýsku. Ennfremur birti Guðbergur ljóðaúrval úr spænsku, Hið eilífa þroskar djúpin sín (1992). Svo eru a.m.k. fjögur útvarpsleikrit, þar á meðal Heimili Vernhörðu Alba eftir Garcia Lorca, sem flutt var í Þjóðleikhúsinu. Það er eitt frægasta verk spænskra bókmennta á 20. öld og sýnir andstæður lífslöngunar og þrúgandi hefða. Dætur Vernhörðu eru fimm, og sú yngsta er ástfangin af manni sem hefur beðið systur hennar tæplega fertugrar, því sú á peninga. Móðirin Vernharða ríkir með harðri hendi og heldur uppi ríkjandi siðgæði, ekkert sést nema þessar konur, lokaðar inni á heimilinu. Kúgunin er átakanleg í myndrænum og lifandi texta. Andstæða hennar er girnd kvennanna í karlmenn, sem birtir lífslöngun, og lausnin er dramatísk, sjálfsmorð. Garcia Lorca lauk þessu verki skömmu áður en hann var myrtur af Francoliðum, 1936, en Guðbergur þýddi það 1989. Mun styttra verk, og að mínu mati léttvægara, er annað leikrit Garcia Lorca sem Guðbergur einnig þýddi, Ást don Perlimpín á Belísu í garði hans, flutt 1975. Það lýsir afbrýðisemi og sjálfsfórn, einnig í myndrænu formi. Auk þess þýddi Guðbergur útvarpsleikrit eftir brasilíska höfunda; Pétur prílari eftir Antonio Callado og Dóttir línudansaranna eftir Lygia Nunes Bojunga. Það fyrra sýnir ráðagóðan glæpamann snúa á lögguna í fátækrahverfi í Ríó, en það síðarnefnda byggir á andstæðum auðlegðar og fátæktar, listar og kúgunar, snauðir listamenn hafa betur en ráðríkir auðmenn. Ekki stórmerkileg verk. Önnur verk spænskra höfunda eru Göngin eftir Ernesto Sabato (1985), Undraborgin eftir Eduardo Mendoza (1991) og Andrúmsloft glæps eftir Juan Benet (1988). Sú saga birtist aðeins átta árum áður á frummálinu, en gerist á 6. áratugnum, 15-20 árum eftir borgarastríðið á Spáni. Það stríð setur enn mark sitt á sögupersónur, enda gerist sagan að nokkru leyti í virki, herforingjar eru áberandi persónur, auk drykkfellds læknis, bænda og klerks, sem er kúgunin holdi klædd. Bókin hefst á dularfullu morði, en svo er farið fram og aftur í tíma og stað, herforingi leitar sloppinna fanga á þessu strjálbyggða svæði, morð upplýsast fyrst undir lok bókarinnar, enda eru þau aukaatriði í þessarri mynd af andstæðum lífslöngunar og kúgunar, sem birtast skýrast í hinni fögru Chiqui sem er meðhöndluð eins og dýr. Þriðjungur titlanna, 10 bækur, eru eftir spænska höfunda, en næst koma sjö kólúmbískar sögur, raunar allar eftir Gabriel Garcia Marquez, sem Guðbergur hafði kynnst í æsku, áður en Marquez varð frægur. Hann fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum 1982. Þetta eru allar helstu skáldsögur Garcia Marquez; Hundrað ára einsemd (1967), Liðsforingjanum berst aldrei bréf (1980), Frásögn um margboðað morð (1982), Ástin á tímum kólerunnar (1986), Saga af sæháki (1987), Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu (1989), Um ástina og annan fjára (1995). Auk þess eru tvær skáldsögur eftir mexíkóska höfunda, Pedro Paramo (Pétur heiði, 1985) eftir Juan Rúlfo og Lýðurinn eftir Mariano Azuela (1994), auk stakra verka; Ríki af þessum heimi eftir Alejo Carpentier frá Kúbu (1983); Ævintýri úr frumskóginum eftir Horacio Quiroga frá Úrúgvæ (1981); og tvær bækur voru þýddar úr portúgölsku, frá Brasilíu þó, Ellefu mínútur (2004) og Veronika ákveður að deyja (2005) hvor tveggja eftir Paul Coelho. Ein saga er þýdd úr katalónsku, Demantstorgið eftir Rodoreda (1987), ennfremur er smásagnasafnið Suðrið eftir Argentínumanninn Jorge Luis Borges (1976). Loks eru tvær sögur eftir bandaríska höfunda. Svefninn langi eftir Raymond Chandler og Járngresið eftir William Kennedy, merkilegar skáldsögur. Hér verður gripið niður í fyrri ritdóma mína um fáeinar þýðinganna, en víkjum fyrst lítillega að nokkrum helstu. Á árinu 1965 birtist sem áður segir fyrsta bók með þýðingu Guðbergs, Platero og ég eftir Juan Ramón Jiménez (1881-1958) Nóbelsskáld 1956, hún er frá 1907-16. Þetta eru 136 stuttir textar (um 1 bls. hver) sem lýsa daglegu lífi í heimasveit höfundar og þorpi í Andalúsíu. Þetta líf er framandlegt Íslendingum nú, og er það væntanlega flestum, einnig Spánverjum nútímans. En nákvæmar myndrænar lýsingar gera efnið nákomið lesendum. Platero er nafn asna höfundar, sem hann oft talar til, þolinmótt dýr og blíðlynt. Myndir manna, dýra og náttúru birta margslungið tilfinningalíf sögumanns. Þetta er eitt frægasta verk spænskra bókmennta, myndrænt og hefur verið kallað prósaljóð. Horacio Quiroga frá Úrúgvæ (1878-1937) hefur verið kallaður upphafsmaður töfraraunsæis í suðuramerískum bókmenntum. En verk hans Ævintýri úr frumskóginum (Cuentos de la selva, 1918, en á íslensku 1981) eru níu stuttar sögur af dýrum sem eiga samskipti við fólk, yfirleitt vinsamleg. Dýrin tala, sögurnar eru á frekar einföldu máli, boðskapur um dugnað, samhjálp og hlýðni er áberandi, og því eru sögur þessar réttnefndar barnasögur. Þær eru næsta lausar við væmni, en minna meira á ævintýri H.C. Andersen en á töfraraunsæi síðari tíma. Til töfraraunsæis má öllu heldur telja skáldsöguna Ríki af þessum heimi (El reino de este mundo) frá 1949 eftir kúbumanninn Alejo Carpentier (1904-1980). Sagan birtist á íslensku árið 1983 og segir frá byltingunni í Haíti um aldamótin 1800. Fyrst birtist þrælahald Frakka í þessu eyríki, sem er þriðjungur Íslands að stærð, og margfalt fjölmennara. Síðan er stokkið milli ýmissa sögumanna á mismunandi tímum, frelsingi lýsir fyrsta konungsríki svartra í Haíti, þar sem negrar eru kúgaðir engu minna en af frönsku nýlenduherrunum áður. Falli konungs og dauða er lýst, en svo sjást ekkja hans og dætur í Róm. Frásögnin er hlutlaus og myndræn. Fyrir koma myndbreytingar manna í dýr, en e.t.v. er það bara draumur valdalauss almennings. Suðrið er úrval 16 smásagna Argentínumannsins Jorge Luis Borges (1899-1986), einhvers frægasta rithöfundar Suður-Ameríku. Hún birtist á íslensku árið 1976. Verk hans eru einkum smásögur, stuttar frásagnir og ritgerðir, sem sumar fjalla um Íslendingasögur og Eddukvæði. Hann hefur í samvinnu við aðra nafngreinda höfunda gert frábæra stutta reyfara, sem birtust í smásagnasöfnum. Þeir höfundar held ég hafi þá fyrst og fremst verið ritarar þessa blinda skálds, Borges, því svipaðar eru sögurnar þótt mismunandi samverkamenn væru tilgreindir. Sögurnar í Suðri eru myndrænar, á hlutlausum stíl, og staðsetja hversdagslegan sögumann í venjulegu umhverfi. En svo rofnar þetta allt smám saman og verður með öllu ótrúlegt, þannig leysir höfundur heimsmynd lesenda á vissan hátt upp. Tvær skáldsögur þýddi Guðbergur úr portúgölsku, báðar eftir Brasilíumanninn Paulo Coelho (f.1947), en sögur hans hafa farið sigurför um allan heim. Veróníka ákveður að deyja, 1998, segir frá 24 ára gamalli stúlku í Slóveníu sem reynir að fremja sjálfsmorð. Ekki af því að neitt sé að, hún sér bara fram á að líf hennar haldi áfram í sama farvegi áratugum saman og nennir því ekki. En henni er bjargað, hún vaknar upp á illræmdu geðveikrahæli, einkavæddu, og er nú séð inn í huga ýmissa sjúklinga þar, sem hún kynnist. Sameigilegt er þeim að ”sturlast” til að hætta að lifa eftir hugmyndum annarra, konformisma. Læknirinn telur henni trú um að hún sé bráðfeig eftir lyfin sem hún tók inn, en það reynist svo rangt, hún er alheilbrigð. Bókin er þrungin boðskap um að fara eigin leiðir, finna þær sjálfur. Þessi boðskapur yfirgnæfir alla persónusköpun og staðarlýsingar, hvað þá að segja sögu. Þetta er þó lipurlega skrifað. Eftirmáli höfundar leiðir í ljós að bókin byggir á eigin reynslu hans sem vistmaður á geðveikrahælum, og enn frekar á fyrirlestrarferðum hans um þetta efni árum saman. Niðurstaðan er að geðveiki sé flótti frá klípu milli þess að lifa eftir eigin höfði eða annarra. Saga Coelhos Ellefu mínútur, 2003, vísar til meðaltímalengdar samfara. Aðalpersónan má trútt um það tala, það er ung brasilísk stúlka sem fer til Genfar til að verða tískusýningarstúlka, en leiðist út í vændi, sem hún stundar þar í eitt ár á fínum stað. Hún iðrast þess í lokin, telur sig bíða sálrænt tjón af. Og sagan lagar sig einnig að viðteknum hugmyndum að öðru leyti, hún finnur þann eina rétta, mikils metinn og ríkan listmálara á ungum aldri, sem hafði þreyst á samförum. Hann þarfnast hennar því ekki síður en hún hans, allt fellur í ljúfa löð. Þessar tvær skáldsögur eru ekkert óþægilegar í lestri, en langt fyrir neðan bókmenntagildi sagna Guðbergs sjálfs, og Thors Vilhjálmssonar, sem þýddi enn aðra sögu Coelhos. Má þá væntanlega sjá þær sem dæmi þess sem Guðbergur sagði, að hann hefði lifað af þýðingum, fyrst og fremst. Járngresið eftir William Kennedy (f.1928) er fræg bandarísk skáldsaga sem gerist á kreppuárunum. Hún var aðeins fimm ára gömul þegar þýðing Guðbergs birtist, 1988, og var kvikmynduð ári áður en hún birtist á íslensku. Þetta er heillandi skáldsaga sem gerist meðal róna í bandarísku borginni Albany árið 1938. Við sjáum þá bæði utan frá með venjulegri fyrirlitningu samfélagsins og innan frá, með þeirra eigin augum. Rónarnir líta yfir undanfarna fjóra áratugi, einkum aðalpersónan sem hafði verið knár hafnaboltamaður. Þar birtist litrík mynd alþýðufólks í Bandaríkjunum framan af 20. öld. Dauðir birtast og líf þeirra í einhverju afgerandi atriði, líkt og í ljóðabálki Edgar Lee Masters; Kirkjugarðurinn í Skeiðarárþorpi (Spoon river Anthology), sem Magnús Ásgeirsson þýddi, og Guðmundur Böðvarsson fylgdi í ljóðabálki sínum, Saltkorn í mold. Fylgikona söguhetju þessarar skáldsögu var af æðri stétt, efnilegur píanóleikari, þegar fjölskyldan brást henni. Dauðir birtast honum og tala við hann. Í eftirsjá eftir því sem var eða hefði getað orðið, getur sagan höfðað til flests fólks, hver þekkir ekki þvílíkar tilfinningar. Stíllinn er blæbrigðaríkur og ljúfsár. Sjálfsfyrirlitning er auðvitað áberandi hjá þessu fólki, en einnig venjulegar tilfinningar, ofbeldi, ást, fórnarlund og hetjuskapur. Svefninn langi 1987 (The big Sleep, 1939) eftir Raymond Chandler (1888-1959) er einhver frægasti reyfari heimsbókmenntanna, sígildur í dulúð og spennu. Aðalpersónan er einkaleynilögreglumaður, Philip Marlowe, eins og jafnan í sögum Chandlers. Hann hefur verið kallaður riddari á hvítum hesti, því þótt hann sé drykkfelldur og kaldhæðinn, reynist hann vera óeigingjarn, ekki síst í samskiptum sínum við konur. Hann er líka heiðarlegur og sjálfstæður, stenst allar mútutilraunir, hvort sem það er tilboð um fé eða kynlíf með fögrum konum. Myndrænar lýsingar staða og persóna eru meðal kosta verka Chandlers, og staðsetja þau kyrfilega í því sem lesendur kannast við. En dulúðin gerir þennan hversdagsleika spennandi. Fléttan er flókin, því margvíslegar persónur sækjast eftir hver sínu takmarki. En aðalpersónan sér í gegnum þessa flækju með hlutlægri athygli og sjálfstæðri hugsun. Ég hefi aldrei séð bók sem var eins hraklega illa útgefin. Amk. fjórum sinnum eru langir kaflar (8-12 línur) endurteknir (bls. 200, 208, 216, 224), hinsvegar vantar í textann (bls. 194, 201, 210, 218). Ég leitaði ritdóma um bókina sem bentu á þetta, en fann enga. Frá Forlaginu (Ingibjörgu Helgadóttur, í tölvupósti 11.2.2012) fékk ég svar við fyrirspurn um hvort einhver hefði bent á þessa galla og úr þeim hefði verið bætt: “Nei, mér vitanlega hefur þessi bók ekki verið prentuð eftir 1987. Og því miður er mér ekki kunnugt um ritdóma um hana.” Líklegasta skýringin virtist mér að þetta var áður en höfundar og þýðendur fóru að skila texta sínum tölvusettum til útgefenda. Einar Kárason sagði í mín eyru ári áður að hann semdi allar sínar sögur með blýanti á pappír, og skilaði þannig til útgefanda, því of mikil vinna væri að vélrita eftir á eða tölvusetja, og sú vinna væri ekki borguð. Undir formennsku Einars krafðist Rithöfundasambandið svo skömmu síðar sérstakrar greiðslu útgefenda ef höfundar skiluðu efni sínu tölvusettu. Hvort sem Guðbergur svo hefur skilað handriti eða vélriti, þá giskaði ég á að hann hefði verið erlendis þegar bókin var sett. Setjarinn hefði flýtt sér – um of – og útgefandinn, Mál og menning, sparað sér prófarkalestur. En svo spurði ég Guðberg, og fékk þetta svar (í tölvupósti 13.2.2012): um Chandler er það að segja að ég sendi inn lauslega þýðingu í von um að MM hefði áhuga á útgáfu, en fékk ekkert svar. Þegar ég leitaði eftir því sögði þeir, tveir þekktir menn hjá MM, að bókin væri komin í prentun, yfirfarin af sérfræðingum. Mig langaði að sjá einhvers konar próförk og þá sá ég að þetta var öfugsnúið. Þeir sögðu að það gæti ekki verið vegna þess að sérfræðingar hefðu farið vandlega yfir þetta allt með orðabók yfir slang. Bókin var prentuð. Ég fékk ekki að breyta neinu. Bókin fór á markað, ég bað ekki um eintök og hef aldrei séð hana. Útkoman varð þetta eftirminnilega hneyksli. Gullspangargleraugun (Gli occhiali d’oro) er að því er ég best veit eina verkið sem Guðbergur hefur þýtt úr ítölsku, og birtist árið 2001. Þessi skáldsaga Giorgio Bassani (1916-2000) er frá 1958 en var kvikmynduð 1987. Hún segir frá efnuðum miðaldra lækni í Ferrara. Fólk undrast að þessi myndarlegi maður skuli enn vera ókvæntur, en svo kemur upp kvittur um að hann sé ”einn af þessum”, þ. e. hommi. Og þá birtist sögumaður, ungur gyðingur, sem tekur reglulega lestina frá Ferrara til Bologna til náms þar, ásamt samstúdentum sínum. Læknirinn situr jafnan í sömu lest og sækist eftir félagsskap þeirra, en mætir æ meiri lítilsvirðingu þeirra, þegar kvitturinn breiðist út. Lengst gengur fagur íþróttamaður, en glampi sést í augum læknisins við verstu móðganirnar. Það er eini forboði þess að skyndilega eru þeir tveir orðnir par, ferðast á milli strandhótela í glæsivagni, Alfa romeo. Fjölskylda sögumanns er fasistar frá fyrstu tíð, og sama gildir um borgara á ströndinni, þeir eru ákafir fylgismenn stjórnvalda og almenningsálitsins, og sýna lækninum fjandskap í samræmi við það. Ástmaðurinn ungi vanrækir hann æ meir, og fer loks til Parísar, til sambúðar við ríkari karlmann og frægari. Athyglisverð eru samtöl lækninsins við kunningja á þessari strönd, þau eru ómerkileg, snúast um veður og landslag, en aldrei það sem máli skiptir, tilfinningar aðalpersónu. Þar með hefst lokahluti sögunnar, lög eru sett til að skerða hlut gyðinga, læknirinn missir sjúklinga sína og afkomu. Þessi skáldsaga er öll á lágu nótunum, hlutlæg, þótt augljós sé samúðin með þeim sem fasistar ofsóttu, með hommum og gyðingum. Lýðurinn, 1994, (Los de abajo, 1915) eftir mexíkanska höfundinn Mariano Azuela (1873-1952) gerist í mexíkönsku byltingunni. Þýðing Guðbergs birtist árið 1994. Sagan rekur í nokkrum aðskildum köflum byltingarbaráttuna í Mexíkó sem hófst árið 1910, en deilt er um hvenær henni lauk, 1917, 1924 eða 1940. Þetta er síður en svo nokkur hetjusaga, í henni ber mest á agaleysi og tilgangslitlum grimmdarverkum af beggja hálfu, stjórnarhersins og uppreisnarmanna; nauðgunum, skemmdarverkum, íkveikjum og morðum. Ekkert virðist hafa lagast í bókarlok. Sögumaður er hlutlaus og hlutlægur, myndrænar lýsingar eru á landslagi, húsbúnaði og persónum. Guðbergur vingaðist við Gabríel García Márquez (f.1927) í Barcelona á unga aldri. Hann þýddi einar sjö sögur eftir þennan kólumbíska rithöfund. Allar gerast þær áratugum áður en þær birtust, í sveitaþorpum í Suður-Ameríku mestmegnis. Þær fléttast saman, ekki bara að sögusviði, oftast þorpinu Makondó, skálduðu af Marquez, heldur einnig þannig að Liðsforingjanum berst aldrei bréf tekur einn söguþráð upp úr Hundrað ára einsemd, það gerir einnig smásagnasafnið Jarðarför landsmóðurinnar gömlu 1985 (sem Þorgeir Þorgeirsson þýddi eftir Los funerales de la mamá grande, 1962). Frásögn um margboðað morð, 1982 (Cronica de una muerte anunciada, 1981), segir frá þorpi við fljót, þar sem haldin er mikil brúðkaupsveisla. En brúðguminn skilaði brúðinni aftur til föðurhúsa fáeinum tímum síðar, því hún reyndist ekki vera jómfrú. Bræður hennar þvinga hana til að nefna elskhugann, og þykir öllum það ótrúleg saga, það er framámaður af arabískum uppruna, sem ekkert hefur haft af stúlkunni að segja, svo vitað sé. Bræðurnir hóta þá að drepa þennan mann, og gera það fáeinum tímum síðar, vel drukknir. Allir vissu af hótuninni nema fórnarlambið. Þeir eru fangelsaðir í nokkur ár, en fimmtán árum eftir þetta snýr brúðguminn aftur til brúðar sinnar. Þessi langi tímarammi finnst mér einkenna sögur Gabríel García Márquez, einnig myndrænar lýsingar á fólki og umhverfi þess, sem gerir sögurnar nákomnar lesendum, hversu framandlegt sem þetta umhverfi kann að vera, ennfremur eru verulegar ýkjur í atburðarás. Allt gildir sama í Um ástina og annan fjára, 1995 (Del amor y otros demonios, 1994), einnig járnhörð kúgun og óviðráðanlegar ástríður, sem verða fólki að bana, sé þeim ekki fullnægt. Þessar sögur eru fremur stuttar, en miklu lengri er Hundrað ára einsemd 1978 (Cien años de soledad, 1967) sem, eins og titillinn bendir til, spannar yfir nokkrar kynslóðir sömu fjölskyldu, sem er í sviðsljósi sögunnar. Þannig verður sagan einskonar yfirlitsmynd um litríka sögu þjóðarinnar. Þessi fjölskylda stofnar þorp sem síðar vex til að verða borg. Hér segir frá borgarastyrjöld og ýmsum furðum, draugar birtast, fólk svífur upp, einnig sést fljúgandi teppi. andvökupest smitar alla þorpsbúa. Þetta er töfraraunsæi, við sjáum inn í huga fólks, ekki síður en ytri atburði og tal þess, hjátrú er áberandi, m.a. á gullgerðarlist. Þessi saga hefur öðrum fremur tryggt höfundi Nóbelsverðlaun í bókmenntum, á bakkápu nýlegrar útgáfu segir að ekki sé til það bókmenntamál í heiminum sem sagan ekki hafi verið þýdd á (Cien anos de soledad (Catedra, Madrid 2007). Liðsforingjanum berst aldrei bréf (El colonel no tiene quien le escriba, 1961) birtist í íslenskri þýðingu Guðbergs 1980. Aldraður fyrrverandi liðsforingi bíður bréfs með umsömdum eftirlaunum, og hefur beðið árangurslaust í fimmtán ár í eyðilegum smábæ. Kona hans er sjúk af asma, sonur þeirra var nýlega drepinn í átökum um hanaat. Þau eru örsnauð og selja allt frá sér nema víghana sem kynni að vinna eftir hálfan annan mánuð. Liðsforinginn þrjóskast því við að selja hanann, en fékk greiðslu út á hann – 60 pesóa af 900 sem hann setti upp – undir sögulok, og öðlast hjónin þá tímabundna velgengni. Það rof í stöðugri hningun og eymd leggur þeim mun meiri áherslu á lokin, þegar liðsforinginn herðist í þrjósku sinni og andspyrnu, sem kostar þau allt. Nokkuð ber á leynilegri stjórnarandstöðu, leynilegum fréttablöðum frá lækninum og á kúgun – útgöngubanni um kvöld, og ritskoðun blaða. Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu (El general en su laberinto) birtist í þýðingu Guðbergs sama árið og hún kom út á frummálinu, 1989. Hér segir frá síðasta æviskeiði Simon Bolivar (1783-1830), sem er þjóðhetja Suður-Ameríku en hann leiddi í byrjun 19. aldar baráttuna gegn nýlenduveldi Spánverja yfir álfunni, sem hann reyndi að sameina í eitt ríki. Hér blandast endurminningar hans um sigra og ósigra á liðnum áratugum við lýsingar á líkamsástandi hans, en þar ríkir stöðug hnignun og hitasótt, eftir að hann var sviptur forsetatign. Þessi saga er öðrum þræði sagnfræðirit, eins og fram kemur í eftirmála höfundar. Og það háir henni nokkuð sem skáldskap, hér er óþörf nákvæmni um ferðir Bolivars og gerðir. En vissulega aðskilur hún sig frá hefðbundnum ævisögum stórmenna við að halda sig við síðustu ævidaga – með nokkrum minningaleiftrum – og einkum með stöðugri áherslu á líkamlega vesæld söguhetjunnar, jafnframt lýsingu á atgervi hans á ýmsum sviðum. Þannig fæst merk mynd af möguleikum og takmörkunum mannvera almennt. Astin á tímum kólerunnar eftir Gabríel García Márquez birtist á íslensku 1986, en á frummálinu árið áður (El amor en tiempos de cólera, 1985). Þessi mikla skáldsaga gerist á löngum tíma, rúmlega hálfri öld, frá því um 1875, á að giska. Raunar hefst hún á þriðja áratug tuttugustu aldar og lýkur fáeinum árum síðar, en langir kaflar endurminninga koma inn á milli. Sagan gerist mestöll í hafnarborg við ósa Magdalena-fljóts í Norður-Kólumbíu. Fyrirmyndin er talin vera Barranquilla, sem er stórborgin í fæðingarhéraði Garcia Márques. Hér er litskrúðugt persónusafn og þjóðlífsmynd, en sterkir burðarásar halda sögunni í skipulegri heild. Það er ástarþríhyrningur; virtur og vinsæll læknir, kona hans og vonbiðill hennar í hálfa öld, sem getur þó ekki svo mikið sem yrt á hana allan þann tíma. Þessi þríhyrningur rúmar áhrifamiklar andstæður. Þar er annars vegar rómantisk ást Florentínos á Fermínu, hins vegar heldur hversdagslegt hjónaband hennar og Úrbíno, en eftir stórglæsilegt brúðkaup og nærfærnislega lýsingu á upphafi ástalífs þeirra er mest áhersla lögð á missætti ungu konunnar við tengdamóður sína, hjónakrit út af hversdagslegustu smáatriðum og loks framhjáhald. En Florentino skrifar henni einungis upphafin bréf og kallar hana gyðjuna krýndu. Hér ríkja andstæður rómantískrar ástar og hversdagsleikans, í hreinræktuðum stíl 19. aldar. Þegar Florentíno loks ávarpar hana beint, eftir nokkurra ára bréflegt tilhugalíf, rýfur hún umsvifalaust sambandið við hann, það gat aðeins staðist „á andlegu sviði". Síðan kemur andstæðan milli þessarar rómantísku ástar og holdlegrar, þar sem er raunverulegt ástalíf Florentínos, en hann verður ótrúlega fjöllyndur. Með þessum meginandstæðum, sem spanna ástalífið í öllum helstu myndum þess, og birtast í aðeins þremur persónum um mjög langan tíma, nær sagan að sameina í eina samstillta heild afar fjölbreytta mannlífsmynd. Það eykur á samþjöppunina hve margbrotnar aðalpersónurnar eru. Þannig er Úrbino læknir í senn glæstasti fulltrúi kerfisins og menningarinnar, samfélagsleg upphefð holdi klædd – og jafnframt er hann spaugilegur sem smámunasamur eiginmaður og í hræðslu sinni sem leynilegur elskhugi. Miðpunkur sögunnar er hafnarborgin, með miklar andstæður milli yfirstéttarhverfis Úrbínos læknis, þar sem allt er í föstum skorðum, og hafnarhverfisins, þar sem leynilegar ástir blómstra í sundurleitum manngrúa. Sömu andstæður birtast í ferðalögum. Læknishjónin ferðast til Parísar og um Vestur-Evrópu. Um það er fátt að segja, þau eru viðtakendur þess sem lýst er; merkilegast er þegar fyrir ber frægðarpersónu svo sem Oscar Wilde. Hins vegar eru ferðalög inn í landið, einkum siglingar upp fljótið. Þar geisar kólera, borgarastyrjöld, háskaleg náttúra og þrúgandi hiti, lífshætta hvarvetna. Þetta eru sömu andstæður og milli aðalpersónanna, þ.e. lifandi manneðli andspænis samfélagslegri þvingun. Garcia Márques er frægur fyrir lygnan, rólegan frásögustraum eins og hér er, þar sem sagt er frá furðum og órum eins og hversdagslegustu staðreyndir væru. Þetta er ekki svo að skilja að atburðir sögunnar gætu ekki hafa gerst, heldur er um hitt að ræða, að hverju áhugi sögumanns beinist. Ein mesta kreppa hjónabands Ferminu og Urbínos er þannig deila um það hvort hún hafi gleymt að setja sápu á baðið eða ekki. Í fjölbreytilegum mannlífsmyndum munar mest um ástkonur Florentínos. Hann sver Ferminu eilífa tryggð og hyggst ekki líta á neina aðra konu, en er þá nánast nauðgað af einni konu, síðar flekaður af annarri. Þar með hefst ferill hans sem satýr, hann er sífellt á kvennaveiðum og verður vel ágengt. Ástkonur hans eru ekki bara margar, heldur mjög margvíslegar, ein roskin, feit og móðurleg, önnur eftirsótt vændiskona, þriðja skólastelpa sem hann tælir fjórtán ára gamla, og hún fyrirfer sér þegar kallinn vill ekki lengur leggjast með henni – af því að hann er gagntekinn af konu á áttræðisaldri. Þessi fjölbreytni virðist því tákna það ástalíf sem allar konur ættu að eiga kost á. Því er áherslan lögð á losta kvennanna í þessum samböndum frekar en á viðbrögð Florentínos. Og Florentíno þessi er heldur óljós persóna, vegna þess að hann er ekki aðeins feitlaginn, sköllóttur kall og smekklaust skáld, heldur er hann jafnframt goðsögulegur, ástarguðinn sjálfur. Af því stafar órofa tryggð hans við æskuást sína sem hann fær svo loks að sameinast þegar þau eru orðin gömul. Það er ekki fyrr en eftir langa, hversdagslega og skyldubundna ævi sem tími rómantískrar ástar og frelsis rennur upp í ellinni. Ljóðrænar öfgar sögunnar, sem sigrast á vanahugsun, birtast vel í lýsingu hóruhúss þar sem Florentino heldur til – á tímum skírlífis síns (! bls. 60): Andstætt því sem hægt hefði verið að halda sökum fitu Lotar Thungut var hann með spjót samboðið stríðsengli og líktist rósaknúpp, en afbökunin hlaut að vera honum til happs því að kvenfuglarnir sem voru mest sláandi rifust um heppni, þ.e. að fá að sofa hjá honum og lætin í þeim eins og þær væru hálshöggnar, hristu höllina og létu hallardraugana skjálfa af hræðslu. Sagt var að hann notaði áburð með nöðrueitri sem lét kússuna á konunum brenna, en hann sór að hann notaði engar aðrar aðferðir en þær sem guð hafði kennt honum. Hann sagði hálfdauður úr hlátri: „Þetta er hrein ást“. Fjölmörg ár liðu áður en Florentino Ariza gat skilið að kannski var þetta rétt. Bygging sögunnar einkennist af endurtekningum með breytingum. Hún gerir auðlegð hennar og fjölbreytni samvirka. Sagan hefst á sjálfsmorði furðufugls í lágstéttarhverft, síðan sjáum við læknishjónin í allri sinni dýrð í yfirstéttarveislu, en þá kemur að dauða Úrbinos, sem í fáránleika sínum endurspeglar á vissan hátt upphafsatriðið. Annar kafli rekur tilhugalíf Fermínu og Florentinos en þriðji kafli tilhugalíf hennar við Úrbínó. Mörg smáatriði eru þar áþekk, en nú er stofnað til hjónabands af félagslegum skynsemdarástæðum en ekki af ást, enda er hún treg til. Brúðkaupsferð hennar er yfir Atlantshafið, en á sama tíma siglir Florentíno upp Magdalenafljót, og upphaf kynlífs beggja er þá sýnt á svipaðan hátt, hönd konu seilist eftir karlmanni. 2.-5. kafli sögunnar er upprifjun liðins tíma, en lokakaflinn hefst þar sem fyrsta kafla lauk og endurtekur 2. kafla í breyttu formi, því hann lýsir langdregnum samdrætti Florentínos og Fermínu, eins og hálfri öld áður. Og aftur kemur hér ferðalag inn í landið. Í 2. kafla sendi faðir Fermínu hana frá Florentíno, í þeirri ferð bar mest á villtum gróðri og háska, með öðrum orðum á æskuþrótti. Í lokakaflanum sigla þau saman upp fljótið, eins og á ferð aftur í tímann. En nú hefur skógi og öðrum gróðri verið gereytt, sækúnum nánast útrýmt, kóleran bannar þeim landgöngu, þar sem fljótið breiðist yfir leirauðnir. Þessi lýsing táknar ellina, þannig eru náttúrulýsíngar Garcia Marquez þrungnar merkingu eins og öll bókin er þrungin af skáldskap. Pedro paramo (Pétur heiði, 129 bls.) birtist 1955 á frummálinu, eina skáldsaga Juan Rulfo, en 1985 í íslenskri þýðingu. Höfundur þessa verks er Mexíkani og gerist sagan i mexíkóskri sveit skömmu eftir byltinguna á öðrum áratug tuttugustu aldar. Það væri þó nær að segja að hún hafi gerst löngu áður en sögumaður hefur frásögn sína. Og hvað kemur fyrir hann? Það eitt að hann hittir vofur í löngu eyddri sveit í auðu þorpi hjá yfirgefnu stórbýli. Vofurnar tala, hver segir sína sögu, um ást, ofbeldi, svik og morð. Þetta eru sögubrot sem stundum er erfitt að fá botn í. Það er síbreytilegt hver er í sviðsljósinu því það færist fram og aftur í tímanum. Í öllum þessum sjálfstæðu sögubrotum birtast þó smám saman meginlínur í mynd þessa horfna – en sígilda – samfélags: stórjarðeigandi svífst einskis til að tryggja vald sitt og efla. Átökunum, sem af því hljótast, kynnumst við frá ýmsum hliðum. Minnisstæðastur verður kannski presturinn í hlutverki þess sem átti að gæta hjarðar sinnar, hagsmuna smælingjanna, en beygði sig fyrir valdinu og er síðan bugaður yfir svikum sínum. Vegna þeirra, meðal annars, var ekki hægt að skrifta fólk fyrir andlátið og því er bærinn fullur af friðlausum vofum. - Það er að minnsta kosti gott yfirvarp til að láta allt þetta fólk segja sögu sína. Guðbergur hefur skrifað stuttan eftirmála en greinargóðan og tek ég hér smáglefsu úr honum til glöggvunar á efninu: Maður að nafni Juan Precíado fer að ósk móður sinnar að leita að föður sínum, til að hefna sín á honum fyrir vanrækslu hvað varðar umsjón og uppeldi. Á leiðinni yfir heiði hittir hann mann sem heitir Abúndio. Og það er ekki fyrr en í sögunnar rás að lesandinn kemst að því að Abúndío þessi er líka sonur Pedro Paramo og því hálfbróðir hins sem leitar. En í sögulok er augljóst að sá hinn sami hefur drepið föður sinn. Það er þess vegna hálfbróðirinn sem leiðir Juan Precíado á vit sögunnar, svo hann komist í allan sannleikann um föðurinn, og ekki bara um hann heldur líka í sannleikann um sögu mexíkanskra sveita og þjóðfélags, þar sem stórbóndinn ræður öllu, líka ástarmálum manna. Fólkið hrífur þegar það talar beint til lesenda um sín hjartans mál, einfalt og umkomulaust gagnvart undirstöðuatriðum lífs síns. Jafnvel harðstjórinn Pedro höfðar til lesenda í vonlausri ást sinni á konunni, sem sér hann ekki vegna geðveiki sinnar, en það orð er kannski bara annað nafn á ást hennar á fyrra manni. Sagan þéttist æ meir um þennan kjarna, Pedro-Súsana, þegar að lokum hennar líður. Með öðrum orðum: hún afhjúpar að fólk er umkomulaust í grundvallaratriðum. Einstakir atburðir skipta minna máli en ella myndi vegna þess að allt er löngu liðið. Fólkið er hvað öðru líkt vegna þess að það talar aðeins um það mikilvægasta í lífi sínu, lífsþrána, ástina, dauðann. Þetta minnir því einnig töluvert á ljóðabálkinn Kirkjugarðurinn í Skeiðarárþorpi. Og raunar minnir þessi bók miklu fremur á ljóð en sögu vegna þessa brotakennda forms, þar sem söguþráður er fjarlægur eða lítilvægur og persónur birtast fyrst og fremst í augnabliksmynd. Þessum einföldu sögum hæfir vel tær, einfaldur stíllinn, sem er nokkuð upphafinn. Ekki hefi ég getað borið þýðingu saman við frumtexta en hún er á fallegu máli og eðlilegu. Gaman er að sjá t.d. indjána (á bls. 86) sem tala líkt og íslenskir sveitamenn – svo sem vera ber, til að skila sögunum til Íslendinga sem líkastri því sem hún birtist mexíkönum: Enginn kemur: Þorpið er eins og mannautt. Indiánakonurnar báðu menn sína að kaupa dálítið af stoppigarni og sykurlús og kannski síu, ef hún fengist, svo hægt yrði að sía maísdrykkinn. Hálmkápurnar eru orðnar níðþungar af vætu þegar líður að hádegi. Þeir spjalla saman, segja skrítlur og skellihlæja. Kamillu-blómin skína döggvot. Og þeir hugsa: „Ja, hefðum við haft með okkur dálítinn púlquedrykk þá væri allt í lagi; en sverðkaktusa-hæðin syndir í vatni. Hvað er þá hægt að gera!“ Undraborgin eftir Euardo Mendoza birtist á spænsku 1986, en á íslensku 1991. Sagan gerist í Barcelona á árunum 1888-1929. Tímasetningin helgast af því að bæði þessi ár voru heimssýningar haldnar í borginni og þær setja mjög mark sitt á söguna. Saga þessi var aðeins fimm ára gömul þegar hún birtist á íslensku. Hún minnir töluvert á verk Bandaríkjamannsins Doctorow, en a.m.k. ein sagna hans, Ragtime, hefur verið þýdd á íslensku. Sameiginleg er aðferðin, að segja sögu stórborgar og þar með samfélags á mótunarskeiði. Stokkið er fyrirvaralaust frá einu atriði til annars. Aðalpersónur eru þá skáldaðar en frásögnin tengist ýmsu frægu fólki og kunnum atburðum. Sagan birtir umfram allt litríka mynd af þróun Spánar í alþjóðlegu samhengi á miklum umbrotatímum. Glæpamenn blandast nýríkri borgarastétt, sem aftur tengist háaðli við að auðgast á uppbyggingu stórborgar og iðnaðar. Hér birtist alhliða mynd af samfélaginu, einnig sést verkalýður í striti og eymd, daglegt líf sveitafólks o.s.frv. Þetta er spennandi reyfari, hér er mikið um dularfulla atburði og sérkennilegt fólk. Höfundur sparar hvorki krassandi efni, svo sem samsæri, feluleik, morð né ævintýralegar tilviljanir og ótrúlegar fléttur atburða. Oft minnir furðuleg atburðarásin á öfgar þöglu kvikmyndanna og stökkkennda atburðarás þeirra. Sögumaður Undraborgarinnar er alvitur. Hann stekkur á milli þjóðfélagshópa eins og ekkert sé, segir okkur ýmist hugsanir konungs, einræðisherra, þjófa eða morðingja, allt eftir hentugleikum. Klikkaður borgarstjóri fremur sjálfsmorð, fer til helvítis og við lesum orð Satans til hans. Megináherslan er lögð á þjóðlífsmyndina, við sjáum sveit og borg í breytingu og kyrrstöðu, fáum skilmerkilegar upplýsingar um hvaða öfl orki í hvaða átt. Lýsingar eru myndrænar og sérkennilegar, og það gerir söguna einkar lifandi og skemmtilega hve mikil rækt er hér lögð við að lýsa sérkennum hvers tíma og staðar, bæði í klæðaburði, innanstokksmunum og hugsunarhætti. Söguhetjan er í byrjun öreiga nafnleysingi, en kemst smámsaman til mikilla valda. Og þá kemur í ljós að hógværð, náungakærleikur og heiðarleiki eru ekki þeir eðliskostir sem koma manni til auðs og áhrifa. Þvert á móti, til þess þarf nánast að vera eins og blóðþyrst rándýr gagnvart samborgurum sínum, einnig hinum nánustu. Í þessari frásögn er mikil þjóðfélagsádeila fólgin, en hana er ekki hægt að kalla sósíalíska og því síður trúarlega, því enginn valkostur birtist. Það er spaugilegt uppátæki að láta mann hefja sigurgöngu sína í gegnum auðvaldsþjóðfélagið þannig að hann er fyrst launavinnumaður hjá stjórnleysingjum við að dreifa bönnuðum áróðri, sem hann botnar ekkert í sjálfur framan af. Persónusköpun er í lágmarki. Til samanburðar má minnast þess að fyrir öld var alsiða að skáldsögur væru þrungnar af sálarlífi sögupersóna, ekki bara með lýsingum á tali þeirra og hugsunum beinlínis, eða þá óbeinlínis með því að lýsa svipbrigðum þeirra og hreyfingum, heldur einnig með því að lýsa veðri, náttúru, húsmunum o.fl. af því tagi, sem birti hugarástand persóna óbeint. En hér lætur sögumaður nægja að flytja stutta fyrirlestra um hugsanir og tilfinningar persóna, þegar þarf til að skýra viðbrögð þeirra. Fyrir bragðið verða allar persónur yfirborðslegar eins og fólk sem ber fyrir á götu, og þar af leiðandi verður persónuleiki sjálfrar aðalpersónunnar ekkert sérlega skýrt mótaður. Enda hefðu fíngerðar sálarlífslýsingar naumast fallið vel að þessari sögu af umsvifum stórbraskara og glæpamanna, því þar er ekkert tillit tekið til sálarlífs. Sagan er viðburðarík og spennandi, en megineinkennið á byggingu hennar er útúrdúrar. Við umhugsun munu lesendur væntanlega kannast við að það er einkennandi fyrir spennusögur að fara út í aðra sálma, víkja að öðrum persónuhópi, einmitt þegar hæst fer. Hér fer þetta út í skemmtilegar öfgar, t.d. þegar mikilvæg kvenpersóna afklæðir sig frammi fyrir hinum langþráða, þá kemur 15 bls. útúrdúr áður en segir frá viðbrögðum hans. En þessir útúrdúrar undirbúa yfirleitt komandi atburði, svo sagan verður fyrir bragðið víðfeðm og litrík, fremur en sundurlaus. Aðrir útúrdúrar eru eingöngu til að skapa sögunni andblæ tímans með því að tengja hana við frægt fólk svo sem arkitektinn Gaudí, njósnarann Mata Hari og Raspútín, enda þótt þau komi lítið sem ekkert við sjálfa atburðarásina. Guðbergur gerði athugasemd við tengingu mína á þessum sögum og sagði: Um upprunafræðina sem Örn stundar er það að segja að óþarfi er að telja Undraborgina vera sprottna úr öðrum jarðvegi en spænsku píkaresku skáldsögunnar; annað er að „þykjast vera víðlesinn". Höfuðpersónan í Undraborginni er dæmigerður skálkur úr spænskri bókmenntahefð sem við þekkjum af Lasarusi frá Tormes og ég hef þýtt. Vissulega er aðalpersónan fátækur alþýðupiltur sem auðgast af klækjum og prettum. En ólík skálkasögunum sem rætt var um hér að framan virðist mér þessi langa sögulega skáldsaga. Ég stend við það að Undraborgin minnir mjög á Ragtime Doctorows, enda hefði einkennilegt verið, ef upprennandi rithöfundur, sem bjó í New York 1973-82, hefði ekki lesið svo fræga bók sem gerist þar í borg 1900-1017, og birtist 1975, þegar hann var rúmlega þrítugur. Reyndar finnst mér Undraborgin betri en Ragtime. Göngin eftir Ernesto Sabato birtist á íslensku árið 1985. Höfundur þessarar skáldsögu er argentínskur. Hún birtist fyrst 1948, og er látin gerast um það leyti í Buenos Aires og í grennd, á fáeinum vikum. Persónur eru mjög fáar, lítið er farið út fyrir hugarheim sögumanns. Þó heyrum við einstaka sinnum í ástkonu hans, manni hennar, frænda og frænku, jafnvel í öðrum aukapersónum, sem enga þýðingu hafa fyrir framrás sögunnar. Sögumaður er að reyna að útskýra fyrir lesendum hvers vegna hann hafi myrt ástkonu sína. Annað skiptir hann ekki máli og því er sagan svo fáliðuð. Sögumaður er virtur listmálari og sagan hefst á málverkasýningu hans. Þar er ein mynd sem sker sig úr því sem hann ella gerir, því í bakgrunni hennar er atriði sem hann gerði ósjálfrátt; eins og hann segir (bls. 11): efst til vinstri sást út um glugga lítið og fjarlægt atriði: einmanaleg strönd og kona sem horfði út á hafið. Konan horfði eins og hún væri að bíða eftir einhverju, kannski fjarlægu daufu kalli. Að mínu viti lýsti atriðið langþráðri og algerri einsemd. Enginn tekur eftir þessu atriði nema ein ókunnug stúlka. Og við það verður málarinn altekinn af henni, getur ekki um annað hugsað, þrælfeiminn við hana, en sigrast loks á því og hún reynist þá jafnákaft þrá samband við hann. Það kemur skýrt fram að hér er ekki um venjulega ásthrifni að ræða heldur þrá listamannsins að ná til fólks í gegnum list sína. Því þegar hann loks hefur haft upp á stúlkunni og dirfst að ávarpa hana „varðandi gluggakrílið“ þykist hún ekkert kannast við það. Þá er honum öllum lokið, hann hleypur burt frá henni, áhugalaus um hana og niðurbrotinn, fannst að (bls. 22): allt sem ég hafði hugleitt og gert síðustu mánuði (og þessi atburður meðtalinn) væri hástig óskapa og fíflskaparins, bara einn af hinum dæmigerðu hugarburðum mínum og jafn mikið uppátæki og það að ætla sér að endurbyggja risaeðlu út frá einum brotnum hryggjarliði. En hún sagði fyrir sitt leyti síðar (bls.80): „Þegar ég sá einmana konuna í glugganum fann ég að þú varst eins og ég, þú leitaðir líka í blindni að einhverjum, einskonar þögulum viðmælanda.“ Þessi leit sögumanns er fullkomið einæði. Hann hugsar ekki um annað en stúlkuna og þolir vítiskvalir við tilhugsunina um að hún gæti hugsanlega átt einhver önnur hugðarefni en hann sjálfan. Ef við líkjum sögumanni við hús, má segja að á jarðhæðinni sé hann feiminn og einkum hræddur við konur (bls. 19-21). Oft kemur fram mannhatur hins einmana sem alltaf er í varnarstöðu: ég játa einn höfuðókost minn: ég hef ævinlega litið illúðlega og jafnvel með andstyggð á fólk, einkum á fólk í hóp; ég hef aldrei þolað baðstrendur á sumrin. Einstaka karl og kona hafa verið mér afar kær, [...] Mér hefur ætíð verið hlýtt til drengja og sýnt þeim samúð. Ætla mætti að hér kæmi fram bæld samkynhneigð, en svo er ekkert meira í þeim dúr. Hinsvegar er oft dregið fram að sögumaður er barnalegur í tilfinningalífinu. Hann missir jafnan stjórn á sér af minnsta tilefni og segir t.d. (bls. 85): Ég varð að bíða í marga klukkutíma á stöðinni. Stundum hélt ég að María kæmi, ég beið möguleikans í þeirri beisku ánægju sem maður finnur þegar hann er barn og hefur lokað sig einhvers staðar inni og finnst hann hafa verið beittur ranglæti og bíður komu fullorðinna sem leita og játa mistök sín. Á þessum grunni rís svo sjúkleg afbrýðisemi sögumanns, endalausir hugarórar um grunsamleg orð, augnatillit eða þagnir stúlkunnar. Endurteknir draumar hans um hús sýna vaxandi öryggisleysi, eins og æ tíðari bræðisköst. Þetta er sviðsett fyrir lesendur en annars kynnast þeir hugarástandi hans einkum í gegnum endurtekningasama frásögn. Ég held að hún reyni mjög á þolinmæði lesenda, því hver kýs sér félagsskap við þráhyggjusjúkling til að hlusta á ofsóknaróra hans? Annað mál er hvort ekki megi eitthvað af þeim læra, eða eins og sögumaður segir í öðru samhengi (bls. 80): „Finnst öllum það sama eða er þetta enn einn gallinn á hinu gæfulausa hlutskipti mínu?“ En þá þurfum við að skoða einæði sögunnar „á efri hæð sögunnar“. Söguhetjan er, eins og dægurlögin, gagntekinn af hugsjóninni um hina einu sönnu ást, og það er hann vegna þess að hann dreymir um hið algera eins og Marx sagði um rússneska stjórnleysingja. Ef til vill tengist þetta fullkomnunarviðleitni hans í listsköpun en þetta er þó algeng afstaða. Þetta er lesendum sýnt í fari hans þegar á bls. 13, og óbeint, þannig verður mynd þessa marghliða, dýpri en ella: Mig hefur hent það að verða ástfanginn af konu (í laumi að sjálfsögðu) en ég flýði skelfingu lostinn við hugsunina um að ég kynni að kynnast systrum hennar. [Þegar það gerðist áður] varð ég lengi þunglyndur og skömmustulegur: sömu drættirnir sem mér þóttu aðdáunarverðir í andliti hinnar virtust mér vera ýktir og afskræmdir hjá systurinni, dálítið skrípalegir. Og hin eins og eilítið afskræmda mynd konunnar í systur hennar vakti auk þess smánartilfinningu, líkt og ég ætti einhverja sök á dálítið hlægilega andblænum sem systirin varpaði yfir konuna sem ég hafði dáð innilega. En af þessari afstöðu (eftirsókn eftir frummyndum, sem raunveruleikinn væri ófullkomin eftirmynd af, sbr. hér um Hjartað býr enn í helli sínum) leiðir að hann þarf ekki að kynnast Maríu, getur ekki lært að skilja hana því samkvæmt skilgreiningu hljóta þau að vera nákomin frá upphafi. Við fyrstu kynni segir hann: „Ég veit hvorki hvað þér haldið né hvað ég held sjálfur [um málverkið], en ég veit þér hugsið eins og ég“ (bls. 31). Auðvitað rekst hann hvað eftir annað á að svo er ekki og það þolir hann ekki, það lítur hann á sem svik hennar, jafnvel það eitt að persónuleiki konunnar birtist sem skýrast í ást á honum því þá kemur þó á daginn að hún er önnur en órar hans: þegar við gengum gegnum garðinn í átt að ströndinni var hún innilega hrifin. Hún var gerólík konunni sem ég hafði þekkt fram að þessu í drunga borgarinnar: fjörlegri, líflegri. Mér virtist líka koma fram í henni munúð sem ég þekkti ekki, munúð lita og lyktar. Hún hreifst á undarlegan hátt (kynlegan fyrir mig sem er gæddur innsærri munúð sem er næstum hrein ímyndun) af lit á trjábol, þurru laufi, sérhverju skordýri, ilminum af júkaliptus-trjánum sem blandaðist lykt af hafi. Fjarri var að þetta vekti mér gleði, heldur hryggð og örvæntingu, enda skildist mér að þessi hlið á Maríu væri mér næstum algerlega framandi og að einhvem veginn hlyti hún í staðinn að tilheyra Hunter eða einhverjum öðrum (bls. 80). Þessi kafli er að mínu viti hápunktur sögunnar og hann prýða náttúrulýsingar sem eru annarlega fagrar því það er mergurinn málsins og ógæfa sögumanns að vilja ekki skilja að fegurðin er annarleg. Mér nægðu fullkomlega þessar 3-4 síður, en ef til vill hrífa þær þeim mun meir vegna þess að þær eru andstæða þyrrkingslegra óranna sem sögumaður er inniluktur í. Svipað má líklega segja um önnur atriði sem stinga í stúf við meginfrásögnina svo sem fáránlegt samtal Mímí og Hunter um bókmenntir þegar sögumaður bíður eftir að hitta Maríu, þetta er spaugilegur milliþáttur, léttir á spennunni um stund en magnar hana undir niðri með andstæðunni. Demantstorgið eftir Mercé Rodoreda birtist á frummálinu 1960, en á íslensku 1987 (153 bls.). Hún er þýdd úr katalónsku og get ég ekki dæmt um það verk, nema hvað stíllinn á sögunni er margbreytilegur eftir efni, mestanpart á eðlilegri íslensku, en svolítið framandlegur stundum, svo sem þýðandinn hefur talið æskilegt. Hann skrifar eftirmála, sem er fróðlegt yfirlit um katalónskar bókmenntir á valdatíma Francos, einnig túlkar hann söguna sem frelsun sögukonu frá aðstæðum sínum. Það er sannfærandi kenning, en hitt ekki, að þessi aðferð sögu í fyrstu persónu „leyfi í rauninni hvað sem er, bæði hvað varðar málfar og stíl” (bls. 151). En vissulega er stílnum beitt af list, ég nefni sem dæmi andstuttar endurtekningar þegar konan segir frá fyrsta fundi sín og Químet, þetta sýnir hrifninguna, sem verður þannig nákomnari en ef sagt væri frá. Þessi skáldsaga er öll sögð af konu í Barcelona, þetta er ævisaga hennar frá því að tilhugalíf hennar hefst þangað til dóttir hennar giftist. Það kemur óbeint fram að sagan gerist frá því snemma á 4. áratugnum og fram á 6. áratug aldarinnar. Það voru viðburðarík ár í sögu Spánar, eins og alkunna er, bylting, síðan mjög blóðugt borgarastríð, eftir það eru hefndir sigurvegaranna undir stjórn Francos, síðan kom síðari heimsstyrjöld, sem Spánn tók reyndar ekki þátt í. En þessir atburðir sjást ekki í sögunni, því konan er ekki vitni að þeim. Og ekki held ég að það hefði bætt bókina að setja í hana einhverjar staðlaðar frásagnir af þessum atburðum. Við sjáum einungis líf alþýðukonu og hvernig það markast af aðstæðum þessum og tíðindum, það er áhrifamikil saga. Þjóðlífsmyndin fer varla að birtast fyrr en konan hefur átt tvö börn og maðurinn verður atvinnulaus. Þá sjáum við út fyrir fjölskyldu konunnar því þá fer hún út fyrir heimilið, að vinna hjá fjölskyldu sem á mörg hús og leigir út, enginn gerir þar handtak og kaup hennar er prúttað niður. En þetta fólk býr alls ekki við ríkidæmi, sjálf býr hún mun betur síðar. Um borgarastyrjöldina segir bara: „Þá byrjaði ballið“, „þegar lætin voru“. Hins vegar kemur það alveg eins og sjálfsagður hlutur að maður hennar og vinir hans fara að berjast í röðum lýðveldissinna. Fram að því sjáum við manninn aðallega sem óhóflega drottnunargjarnan og sérgóðan, hálfmóðursjúkan heimilisföður. Hann tapar sér í draumórum um væntanlegt ríkidæmi og leggur heimilið undir dúfnarækt sem bitnar mest á konunni. Vinir hans, sem einnig eru húsgagnasmiðir, virðast skárri að þessu leyti en ekkert upplýstari pólitískt. Andúð þeirra á kónginum birtist bara í sögum af hjákvennahaldi hans. Hvernig stendur nú á þeim umskiptum, að slíkir menn hætta að hugsa um bifhjól og ríkidæmi en kosta öllu til í skotgröfum að verja lýðveldið? Það er engin tilraun gerð til að skýra það, það verðum við bara að skilja út frá lýsingu andstæðra stétta í sögunni. Í þessari baráttu hjálpa þeir prestinum til að flýja lýðveldissinna, því hann er góðkunningi þeirra. Þetta sýnir enn hvernig lesendum er haldið innan ramma hugmyndaheims sögukonu og einmitt þannig skilst líklega best þetta spænska alþýðufólk og barátta þess. Konan lýsir nær aldrei tilfinningum sínum, hugsar varla um slíkt heldur. Hún talar bara um umhverfi sitt, manninn, börnin, vini, ættingja, vinnustað. Útliti eiginmannsins er fyrst lýst rækilega á brúðkaupsnóttinni, þannig er lesandinn látinn skynja sálarlíf konunnar í gegnum lýsingar hennar. Því birtist það best í lýsingu á börnum hennar, þegar alþýðan fer halloka. Vegna matarleysis neyðist hún til að setja drenginn í búðir fyrir flóttabörn og þegar hann kemur heim segir (bls. 99): Hann var orðinn annað barn. Alveg gerbreyttur. Hann var uppblásinn, vembdur, hnöttóttur í kinnum, með bein í staðinn fyrir fótleggi, sólbrenndur, krúnurakaður, allur í hrúðri og kirtlaveikur í hálsi. Hann leit ekki einu sinni við mér. Þetta, hvernig hugsanir konunnar birtast í því sem hún sér í umhverfinu og lýsir, kemur einkar skýrt fram eftir ósigurinn í borgarastríðinu. Þegar hún hefur farið bónleið í atvinnuleit til fyrri húsbænda, fer hún að lýsa nákvæmlega leikfangabangsa í búðarglugga, sem hún heillast af. Það skil ég svo að hún sé að hugsa um bömin sín, þarna birtist tilfinningar hennar til þeirra. Þegar svo konan örvæntir í hungrinu og ætlar að sálga bömunum og sjálfri sér, segir frá því að hún fer alveg hugstola að elta einhverja ókunna konu, að því er virðist vegna þess að konan er feit, hefur sem sagt meira en nóg að borða. Hún eltir hana inn í kirkju og þar sér hún sýn; á altarinu eru kúlur sem lýst er mjög ítarlega, enda eru þær tákn sálna hermannanna sem dóu í stríðinu, reiðir englar sem skömmuðu fólkið. Þetta er áhrifamikil lýsing og mikilvægur staður í sögunni því hér er sýnd örvæntingin vegna ósigurs alþýðunnar. Í næsta kafla, þegar konan er á leið til að kaupa vítissóda til að drepa bömin sín, birtist hugarangur hennar í nákvæmum lýsingum á hversdagslegustu hlutum sem verða á leið hennar; stiganum heima hjá henni, ég hugsaði um varninginn til að dreifa huganum, til að hugsa ekki um flöskuna í körfunni, skínandi og græna (bls.109). Sagan er svo þéttriðin, eins og áður segir, að lýsingar persóna eiga fyrst og fremst að falla inn í heildina á hverjum stað og sýna hugarheim sögukonu. Þannig er vinkonu hennar Gríseldu fyrst lýst svo (bls. 50): Hún var fölleit með nokkrar freknur efst á kinnunum. Og augun róleg, á litinn eins og mynta. Mjó í mittið. Öll silkiklædd. Á sumrin gekk hún í kirsuberjarauðum kjól. Brúða. Hún talaði lítið. En síðar, þegar stríðið er tapað og söguhetjan líður skort, sést eymd hennar á því að þá verður Gríselda, sem er orðin efnuð, helmingi fegurri í augum hennar (bls.99): Skórnir hennar voru úr slönguskinni, veskið eins, og hún var í röndóttum kjól. Hún var fallegri en nokkurn tíma áður: fínlegri, hvítari á hörund, með meira af grænu vatni í augunum, miklu rólegri, miklu líkari blómunum sem lokast á nóttunni undir svefninn. Þetta hlutverk lýsinganna er ekki svo að skilja að persónurnar séu yfirborðslegar eða einhliða. Framan af sögunni er t.d. áberandi hve hrifin Natalia er af manni sínum og hann af henni. Samt kemur skýrt fram hve tillitslaus hann er við hana, í rauninni eins og kenjóttur krakki, sem þarf stöðugt að beina athyglinni að sér. Þetta er blæbrigðarík mynd. Alla ævi lifir konan öðrum, dáist bara að sínum freka eiginmanni, þangað til dúfnahaldið er að verða henni um megn, þá skemmir hún eggin, þ.e. gerir uppreisn á laun. Það er eins og hún viti ekki af sér framan af. En þegar börnin eru uppkomin, dóttirin gift, þá kemur áhrifamikill kafli. Konan getur ekki sofið, fer út og leitar uppi hverfið þar sem hún bjó ung. Lýsingar þess eru spurn hennar. Hún er að leita að skýringu á lífi sínu. En hver finnur slíkt? Þarna rís sagan upp í klassíska hæð, fjallar um líf lesenda, hvers og eins. Uppnám konunnar birtist vel í hugarflaumsstílnum, í löngum málsgreinum sem flestar hefjast á Og, einnig í öskri, sem hefur eflaust hreiðrað um sig innra með mér árum saman og með ópinu. sem var svo breitt að það átti bágt með að komast upp um hálsinn á mér, fór út um munninn örlítið brot af ekki-neinu sem var eins og jámsmiður úr munnvatni. . . Og þetta örlitla brot af ekki-neinu, sem hafði búið óratíma lokað inni, var æska mín sem flúði með ópinu sem var erfitt að vita hvað var... kannski hirðuleysi? Hér í lokin skal vikið lítillega að tveimur ljóðasöfnum sem Guðbergur hefur þýtt, til samanburðar við aðrar þýðingar hans. Hið eilífa þroskar djúpin sín Með þessari bók hefur Guðbergur Bergsson enn einu sinni unnið mikið verk í menningarmiðlun. Hann þýddi stórt ljóðasafn úr spænsku, það nær allt frá upphafi 20. aldar og fram á síðustu ár. Hálft hundrað ljóðskálda er kynnt með formála Guðbergs og fáeinum ljóðum eftir hvert þeirra. Það auðveldar yfirsýn um efnið að Guðbergur skiptir því í fjögur skeið og hefur sérstakan formála um þjóðfélagsöfl og aldaranda hvers þeirra áður en kemur að einstökum skáldum. Fyrsti hópurinn er kenndur við árið 1898, annar við 1927, þriðji við upphaf borgarastríðsins, 1936, loks eru samtímaskáld. Þessi skipting er auðvitað hefðbundin og mikið af þessu efni er væntanlega tekið úr handbókum. Yfirleitt er frásögnin ljós og fróðleg en hér bregður þó fyrir „Guðbergsku" sem mér finnst betur eiga heima í skáldritum höfundar en í kynningu á framandi menningu. En þetta er undantekning. Í aðalatriðum eru formálarnir látlaus fróðleikur. Ekki get ég dæmt um val Guðbergs. Það er auðvitað ánægjulegt að fá nasasjón af svona mörgum skáldum en oft hefði ég kosið meira eftir einstök skáld. Það er til marks um hve gott úrvalið er, því ekkert ljóð er svo lélegt að ég hefði viljað sleppa því. Það er einmitt einn mesti kostur safnsins hve fjölbreytt það er. Mér finnst sérstaklega lofsvert að mest er hér tekið eftir miðja öldina. Það er það skeið sem erfiðast er að kynnast fyrir allan almenning en stórum algengari eru ljóðaúrvöl skáldanna frægu sem kennd eru við ártalið 1927, García Lorca, Rafael Alberti, o. s. frv. Á heildina litið eru ljóðin ekki bara góð heldur einnig býsna ólík því sem ort hefur verið hér á Íslandi. Það sýnir best hvílíkur fengur er að þeim. Jafnan virðast ljóðin vel orðuð á íslensku, ekkert þýðingarbragð að þeim, enda þótt Guðbergur hafi einu sinni sagt að það mætti gjarnan vera. Þá sjaldan ég gat borið saman þýðingu og frumtexta reyndist oft nákvæmlega þýtt, t.d. ljóð García Lorca. Þó er kafli tekinn innan úr II. hluta Gráts yfir Ignacio Sanchez Mejias og sett aftan við móði þrungið ris þess hluta í lokin (samkvæmt mér tilkvæmum útgáfum á ljóðum skáldsins) og fer ekki vel á því. Þetta er eins og í Eimreiðinni 1960 þar sem þetta ljóð birtist fyrst í þýðingu Guðbergs. Ýmsar smábreytingar hefur hann gert nú svo að kvæðið er þjálla á íslensku en ekki alltaf eins nálægt frumtexta. En einkennilega mikilli ónákvæmni brá einnig fyrir, t.d. í ljóði eftir Machado (bls. 26). Þetta er fríljóð, svo ekki þvingar hrynjandi eða rím þýðanda til að breyta myndmáli. Ég set hér nákvæmari þýðingu í svigum eftir viðeigandi stað í ljóðinu en ekki er þar með sagt að það orðalag færi betur, heldur er þetta sett til að sýna hvað um er að ræða. Nakin jörð Jörðin er klæðlaus og kvalin sál emjar móti dimmum fjarska (og sálin ýlfrar að fölum fjarska) líkt og soltin úlfynja Að hverju leitar þú, ljóðskáld í sólsetrinu? Gangan er erfið, enda er vegurinn angur hjartans. Vindurinn þýtur (Nístandi vindurinn), nótt flýgur að og fjarlægðin (nóttin nálgast og beiskja) glottir fláráð... Á veginum (fjarlægðarinnar! Á hvítum veginum) kvöldar um keikan við. Gull og blóð sölna á köldum fjöllum úti í buska... Sólin dó... Að hverju leitar þú, ljóðskáld, í sólsetrinu? Línuskiptingu er einnig breytt í þessari lokalínu, í bæði skiptin var fyrri hlutinn framhald af næstu línu á undan, fram að „ljóðskáld". Það er gremjulegt að sjá svona ónákvæmni í myndmáli því það ætti að hafa forgang nema hrynjandi, hljómur eða annað af því tagi skipti sérstöku máli. En allt um það virðist mér mikill fengur að þessu ljóðasafni þegar á heildina er litið. Öll dagsins glóð er úrval portúgalskra ljóða frá tímabilinu 1900-2008 með inngangi þýðandans. Þetta er 262 bls. bók og því afar mikil aukning frá 30 bls. safni portúgalskra ljóða og umfjöllunar þeirra í TMM 1984. Guðbergur skrifar inngang um portúgalska ljóðlist á þessari rúmu öld og auk þess kynningu á hverju skáldi sem þýtt er eftir. Fjarlægja hefði mátt endurtekningar, en þetta er mjög fróðlegt íslenskum lesendum, og mörg ljóðanna góð. Áhersla er lögð á áhrif surrealisma á portúgalska ljóðagerð, en þau áhrif birtast nú ekki í þessu úrvali fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld. Framan af eru ljóðin einkar einföld og aðgengileg. Ekkert fannst mér lélegt, en margt ólíkt ljóðum sem Íslendingar eiga að venjast, og er þeim mun meiri ávinningur að þessu ljóðasafni. Skondnast fannst mér að sjá lostafullt kvæði ort til geitar. Annars er portúgölsk ljóðagerð tengd evrópskri víða að, svo sem Guðbergur rekur. Dæmi þess er það sem hann tekur eftir Mário de Sá-Carneiro (1890-1916): Ég er ekki ég og ekki heldur annað ég. Ég er eitthvað, hlutur þar á milli: Stöpullinn undir deyfðarbrúnni sem tengir mig og annan mig. En þetta minnir mikið á franska skáldið Artur Rimbaud, sem orti á unglingsárum upp úr 1870: ”Je est un autre” – Ég er annar, þar sem est er þó eingöngu notað um 3. persónu eintölu, ekki 1. persónu eins og í íslensku. Þetta hefur verið tekið sem boðskapur um ópersónulegan kveðskap módernismans, og Rimbaud var reyndar frumkvöðull hans, í andstöðu við huglægan kveðskap rómantíkur. Guðbergur skrifar fróðlega smágrein um stuðlasetningu og afbrigði hennar, endurtekin orð, og birtir í því sambandi fáein myndljóð, þar sem orð eru gerð að mynd. 2.17.2. Aðferð við þýðingar Guðbergur sagði um það efni m.a. í fyrrnefndri grein um þýðingar (TMM 1983, bls. 497): Sérhver góður þýðandi finnur til vanmáttar síns. Hann veit að ef honum mistekst er sökin ekki aðeins hjá honum, hirðuleysi hans, heldur hjá tungu þjóðar hans, menningarástandi hennar og andlegum þroska. Ef hliðstæður eru ekki fyrir hendi á hinum ólíku menningarsvæðum og þýðandinn vinnur nákvæmnisverk, þá er viðbúið að lesandinn kannist ekki við jarðveg þann sem verkið óx úr og hann afneitar þýðingunni, segir að hún sé honum framandi, að þýðingarbragur sé á henni. Sú þekking sem við búum yfir og skilningurinn sem við leggjum sjálf í hluti og hugtök er helsta viðmiðun okkar. Þess vegna teljum við ókost ef ”þýðingarbragur” er á þýðingu. En sá sem finnur þýðingu til foráttu að þýðingarbragur sé á henni ætlast til þess að eitthvað sé andstætt eðli sínu; þýðing á að vera annað en þýðing. Við slíkar skoðanir lendir allt í mótsögnum, vegna þess að þýðing getur aldrei orðið annað en þýðing. Hún er verk sem hefur skipt um málbúning en ekki um kyn eða eðli. Annar valinkunnur þýðandi, Þorgeir Þorgeirsson, skrifaði um þetta efni í sama tímarit árið eftir. Þar leggur hann áherslu á að þýðandi verði að umskapa textann svo hann verði á eðlilegri íslensku. En þetta kosti margfalda yfirferð. Fyrst þurfi þýðandi með vandaðri orðabók að átta sig á blæbrigðum orða í frumtexta, síðan þurfi hann að finna samsvarandi íslenskt orðalag, sem oft verði þó öðruvísi, t.d. geti djúpur komið í stað hár. Svo komi yfirlestur, aftur og aftur. krefjumst bara tímavinnu fyrir þennan marghrjáða blóðvöll sem þýðandinn er. Einnig það er há upphæð. Helmingi hærri en nokkur útgefandi hefur efni á að greiða. Rétt mun að hafa þetta í huga þegar rætt er um þýðingar Guðbergs, m.a. Taka má saman að Guðbergur telji eðlilegt að þýðing sé að vissu marki framandleg, þar sem Þorgeir telur að hún eigi að vera eins og ritið sé frumsamið á íslensku. Mér sýnast bæði viðhorfin ásættanleg í senn! Þess ber þá að gæta að Þorgeir er kunnastur fyrir þýðingar á skáldsögum færeyingsins William Heinesen, sem Íslendingum var mun nákomnari og kunnuglegri en spænsku og suður-amerísku höfundarnir sem Guðbergur þýddi. En sannleikurinn er raunar sá að Guðbergur þýðir þannig að hann aðlagar erlenda textann íslensku máli og bókmenntahefðum. Fornar suður-amerískar bókmenntir þýðir hann með því að nota iðulega málfar eddukvæða, og það er dæmigert fyrir aðferðir hans. Fyrsta bókin sem birtist í þýðingu Guðbergs var Platero og ég. Hún hefði mátt heita Silfri og ég, því asninn er kenndur við silfurlit sinn (plata=silfur). En auðvitað er skiljanlegt að Guðbergur héldi heimsfrægum titli bókarinnar. Hún hefur sem áður segir verið kölluð safn prósaljóða, enda er orðalag ljóðrænt, lýsingar myndrænar og málsgreinar oft langar og margbrotnar. Þýðing Guðbergs heldur þeim einkennum öllum, en vissulega breytir hann iðulega orðaröð svo textinn verður eðlilegur á íslensku. Lofsvert er það, og yfirleitt virðist þýðingin nákvæm og góð, á litríku íslensku orðalagi. Þýðingin skilar vel framandlegu umhverfinu, en Guðbergur staðfærir ágætlega þegar þess þarf til að forðast málalengingar sem myndu rjúfa samhengið. Í texta 116 t. d. segir frá fátækum börnum húsvarðar sem á jólunum eiga ekkert ”Nacimiento”, fæðingu. Það mun merkja þá uppsetningu smárra líkana austrænna vitringa um Jesú nýfæddan í jötunni, sem tíðkast við jólahald í Suður-Evrópu. En Guðbergur þýðir með norrænni samsvörun: ”sem eiga ekkert jólatré”, og skilar þannig meginatriðum án málalenginga. Fáeina anmarka vil ég þó benda á. Það fyrsta finnst mér einkennilega andstætt venjulegum vinnubrögðum Guðbergs, því hann setur þar klisju í stað sérkennilegs orðalags; ”Jarðarhvelið snýst, milt og rótt” (bls.91), í stað ”sveitt og rótt”, sem væri samkvæmt frumtexta, og gefur til kynna undanfarandi erfiði jarðarhvelsins. Skömmu síðar er talað um að fara ”niður fljót dauðans” (bls. 99), en ætti að vera: niður fljót til dauðans. Um menn uppi á flötum þökum í sólmyrkva segir: ”Þeir sem voru uppi á þeim kölluðu til okkar í misjafnlega léttu gamni, litlir og dimmir í einkennilegri þögn sólmyrkvans. (bls. 10) – ætti að vera. ”Við sem vorum uppi á þeim kölluðum hver til annars”, o.s.frv. ”Trjágreinar fallnar á jörðu” verða: ”Hvernig trjágreinarnar fjúka um jörðina” (bls. 193). Sögumaður sér sig liggja á hæð, og í þýðingunni segir: ”sem er í senn sígild og rómantísk”. (bls. 102). En það er sögumaður sem sér sig hvíla á hæðinni í senn sígildur og rómantískur – ætti eiginlega að vera: í senn klassískur og rómantískur, þ.e. líkist alkunnri mynd af Goethe í Ítalíu, og öðrum ámóta skáldjöfrum sem sóttu til Ítalíu á áratugunum um aldamótin 1800. Síðar í textanum er þetta réttilega sagt um hæðina, það hefur smitað upp í textann. ”Uppspretta skugga og skins” (bls. 145) finnst mér vera of frjálsleg þýðing á: uppspretta hryggrar gleði. Skondið er að sjá menn skjóta hreindýr á Spáni (xx. texti), á auðvitað að vera hjartardýr. En þetta hefur Guðbergur viljandi gert, því einnig í þýðingu hans á smásögu Juan Rúlfo: Sléttan logar (TMM 1981, bls. 459) veiða menn hreindýr í Mexíkó. Og í skáldævisögu hans Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar (bls. 19) kemur fyrir hreindýr í þýskum skógi á veggteppi. Fleira mætti telja, en þetta ætti að nægja til að sýna að þýðingin er ekki eins vönduð og vera ætti, enda þótt heildarútkoman sé heillandi. Útgefanda en ekki þýðanda verður að kenna um það að hálfan 16. textann vantar. Lýðurinn eftir Azuela er yfirleitt á eðlilegri íslensku og skilar frumtextanum vel. Fáeinir hnökrar mega teljast fljótfærnisvillur. Þannig verða fjörutíu þúsund pesoar að fjörutíu pesoum (bls. 126), bylingarherinn er kallaður byltingarsinnar, en stjórnarherinn er kallaður sambandssinnar af því hann heitir federales í frumtexta, en Mexíkó er sambandsríki líkt og Bandaríkin. Úthverfi borgarinnar (los suburbios de la ciudad) eru kölluð borgarhverfi (bls. 03). Um Suðrið, smásögur Borges, skrifaði Ólafur Jónsson m. a. (Dbl. 8.12.1975): Þýðing Guðbergs Bergssonar kemur spánskt fyrir sjónir, víða stirðleg og beinlínis ankannaleg. Til marks um stirðleikann eru fjölmargar þunglamalegar eignarfallssam-setningar: „vegur hæðarinnar", „skúffa hins háa púlts", „alvörugefni míns níu eða tíu ára aldurs", svo að einhver dæmi séu nefnd, en þetta er altíður stílkækur i bókinni. Víða hafa heilar og hálfar blaðsíður viðlíka ankannabrag, allt að því óskiljanlegan. Dæmi af handahófi úr sögunni Zahirnum, þar sem hin óíslenskulega notkun málfræðilegrar „framtíðar" leiðir út í alveg óskiljanlegt hröngl: ,,Áður en árið 1948 gengur í garð mun ég hafa hlotið sömu örlög og Júlía. Mig mun þurfa að mata og klæða. Mér mun verða ómögulegt að vita hvort það er morgunn eða kvöld, og ég mun enga grein gera mér fyrir því hver hann var þessi Borges. Það að flokka þannig framtíð undir ógn væri alrangt, úr því að ekkert atriði hennar mun verða mér viðkomandi. Það væri eins hægt að halda því, að þeim manni, sem höggvið er upp höfuðið, sé sársauki deyfingarinnar ægilegur. Að svo komnu máli verð ég hættur að skynja heiminn, ég mun skynja Zahirinn...." Sögur Borgesar kunna að vera „þungar", stíll hans „flókinn", en báglega trúi ég því að sjálft málfar hans sé svo klúðrað og stíllaust, enda koma sögur hans ekki svo fyrir í þýðingum á önnur mál. Allt stendur þetta óbreytt í nýrri útgáfu Suðurs, og furðar mig að Guðbergur skyldi ekki sinna þessum aðfinnslum . Hjálparsögnin munu lætur aðeins í ljós eitt horf framtíðar, hvað sem málfræðibækur segja, nefnilega væntingu, og á illa við fyrstu persónu, að fólk búist við einhverju af sér sjálfu. Auk þess hefur sögnin verða framtíðarmerkingu, svo hér færi betur á að segja: Mér verður ómögulegt, ekkert atriði hennar verður mér viðkomandi. Óljóst finnst mér orðalagið ”höggvið er upp höfuðið” fyrir ”le abren el craneo”, skýrara væri: ”sem hauskúpan er opnuð á”. Sömuleiðis væri eðlilegra málfar íslenskt að segja: skúffa púltsins háa. Ég verð að bæta við aðfinnslur Ólafs að þegar í þýðingunni segir: ”til fundar við þekkta ljóðskaldið, DE”, þá færi betur á að segja: til fundar við ljóðskáldið kunna DE (bls. 115). Þegar stúlka fer nakin upp í rúm sögumanns segir: ”Hún hafði aldrei áður þekkt karlmann” (bls. 129). En þetta er villandi orðalag, hér færi betur á venjulegu biblíuorðalagi: hafði aldrei áður kennt karlmanns. Í annarri sögu segir nasisti sem hafði stjórnað fangabúðum og bíður aftöku í stríðslok (bls. 120): ”Hvaða máli skiptir hvort England sé hamarinn, en við séum okið?” Síðasta orðið er þýðing á yunque, sem að sjálfsögðu merkir steðji, en hér virðist þýðandi hafa látið stjórnast af hljóðlíkingu eða orðsifjum við latneska orðið jugum. Um Don Kíkóta birtist umsögn kunnáttumanns í spænskri tungu og bókmenntum, skömmu eftir útkomu þýðingarinnar. Ég vísa til hennar sem ítarlegrar úttektar á þýðingunni, og meiri en hér er kostur á. Sigrún Eiríksdóttir segir í Skírni 1985 m.a. að geysimargar þýðingar hafi birst á Don Kíkóta, einkum á ensku. Þær nákvæmustu, sem eru þýddar frá orði til orðs, séu ekki þær bestu, heldur þær sem haldi sama lífi og frumtextinn. En það sé einmitt meginkostur þýðingar Guðbergs (bls. 288): ”hinn sanni don Kíkóti” lifir enn og talar nú reiprennandi íslensku til viðbótar þeim fjölmörgu tungumálum öðrum sem hann hefur numið (misvel) í aldanna rás [...og bls. 278:] Ljóst virðist að stíll Guðbergs er einungis uppskrúfaður og ofhlaðinn þar sem frumtextinn er slíkur. Hann virðist ekki reyna að setja í íslenska textann nein einkenni sem ekki eru til staðar í þeim spánska. Ekki virðist hann heldur keppa að því að hafa þýðingu sína ”guðbergska”, en það hendir stundum í þýðingum mikilsmetinna rithöfunda að þeirra eigin persónulegi stíll er alls ráðandi og í slíkum þýðingum hljóta ”blæbrigði frummálsins” að fara fyrir ofan garð og neðan, enda ekki laust við að þess háttar þýðendur séu að reisa sjálfum sér stall fremur en höfundunum sem þeir þýða verkin eftir. Hitt er svo annað að mönnum gengur misvel að ná stíl eins eða annars rithöfundar. Guðbergur virðist vera næmur fyrir Cervantes, aftur á móti virðist hann fara halloka í glímunni við Borges, en það er önnur saga [...og bls. 282:] Þýðandinn þarf að eiga í stöðugri glímu við ýmiss konar leik að orðum í frumtextanum, og þessum leik kemur hann til skila af eins mikilli trúmennsku og honum er unnt. Reyndar er ekki ósennilegt að erfiðara sé að þýða bókmenntatexta sem fullur er af glensi og skrípalátum en háalvarlegan texta eða hetjulýsingar. Það er áreiðanlega ekki á allra færi að þýða hinn spaugsama anda sem svífur yfir þessu verki Cervantesar, en það er einmitt aðalkosturinn á þýðingu Guðbergs hve vel honum tekst að koma þessum 17. aldar anda til skila. Sigrún segir ennfremur (bls. 282): ”Einstakar ”smávillur” rakst ég á, enga þannig að skipti sköpum fyrir heildarmerkingu eða uppbyggingu verksins.” Þegar ég kannaði þessar aðfinnslur Sigrúnar kom í ljós að í seinni útgáfu Don Kíkóta í kilju hefur Guðbergur lagfært átalda villu í nafni Cide Hamete Benjagréli (bls. 527), einnig er nú lagfæring til að ”víkja af vegi sannleikans, fyrst sagan er móðir hans og keppinautur tímans” (bls. 100), í stað þess sem stóð í fyrri útgáfu: ”Sagnfræðin, móðir sannleikans.” Hinsvegar hefur Guðbergur ekki útrýmt þeim misskilningi fyrstu þýðingar sem Sigrún átaldi, þar á að skrifa bréf frá Valensíu til að ná dóttur og konu frá Algeirsborg; enn stendur í þýðingunni að dóttirin sé fangi í Valensíu (bls. 881). Sigrún nefndi ekki að Guðbergur sleppti ljóðmælum í lok fyrra hluta, en segir um vanda þýðingarinnar m.a. (bls. 276): Við þetta mætti svo bæta hinum fjölmörgu kvæðum sem eflaust eru erfið viðureignar, sérstaklega vegna þess að það er mál manna að flest séu þau hreinasti leirburður. Ekki mun hér farið út í samanburð á einstökum kvæðum frá hendi Cervantesar og Guðbergs, enda er vart rúm til slíks, nægir að segja í þessu sambandi að Guðbergur kemur hnoðinu til skila og vel það. Vissulega eru kvæðin í lok fyrri hluta leirburður, hátíðlegt skvaldur. En það er nú einmitt málið, þannig verða þessi ljóðmæli skopstæling á fyrra hluta sögunnar. Því er missir að þeim og gott væri ef Guðbergur bætti þeim inn í næstu útgáfu. Af sama tagi eru ljóðmæli síðar í sögunni sem hann fer létt með að þýða, t.d. í 18. kafla seinni hluta (bls. 628), þar setur hann reglubundna íslenska stuðlun í stað endaríms spænska ljóðsins, og er í þessu fornskáldalegur að íslenskum hætti. En önnur ljóðmæli (t.d. í 20. k. seinni hluta, bls. 644 o. áfr.) þýðir hann bæði með stuðlun og rími. Hvað varðar nákvæmni þýðingarinnar á þessum ljóðum skal sagt að hún skilar vel meiningunni og enn betur stílnum, hátíðlegum og fornlegum, eins og hæfir þessu orðagjálfri. Guðbergur notfærir sér íslenskt orðalag hvaðanæva úr bókmenntaarfinum. Hann hefur úr Njálssögu að höggva aftur í sama knérunn (bls. 306), talar um riddara sveipanda sverðs (bls. 164) og er auðþekkt fyrirmyndin í 200 ára gömlu kvæði Bjarna Thorarensen: Ísland, ”Bægi sem kerúb með sveipanda sverði, silfurblár ægir þér kveifarskap frá”. Á sama stað m.a. segir ”skjaldsveinninn fari í fúlan pytt fullan af draugum” og er þar vitnað í ”barnaþulu” í Sölku Völku Halldórs Laxness (bls. 232). Á þeirri sömu blaðsíðu slettir Guðbergur dönsku orðalagi, sem algengt er í íslensku talmáli: ”hætta að fara hist og her”. Ekki er eyðandi rými í fleiri dæmi, þetta sýnir aðferð Guðbergs við að íslenska framandi rit. Hvar sem ég hefi borið þýðingu Guðbergs saman við frumtextann reyndist hún bæði nákvæm og þó vel orðuð á íslensku. Vil ég því ekki hafa fleiri orð um hana, heldur víkja að fáeinum atriðum úr þeim ritdómum sem ég samdi um aðrar þýðingar Guðbergs. Þýðingin á Ástin á tímum kólerunnar hefur verið mikið verk. Yfirleitt virðist textinn skila sér vel á íslensku, en hér er hvorki rúm né kunnátta til að fara í saumana á þýðingunni. Ég verð þó að nefna fáeina hnökra sem ég rakst á. Sjálfsagt eru það pennaglöp þegar sagt er: „Til veislunnar kom hann búinn fötum skosku Mac Tavishklíkunnar", - ætti að verða: MacTavishklansins eða MacTavish-ættarinnar (bls. 127). Slæmt orðalag finnst mér (bls. 133): „Hún fór að skipta líkama sínum milli hvers sem bað um hann ; "ætti að vera: hún fór að veita líkama sinn hverjum, o.s.frv. Einnig (á bls. 139) er nýgift kona feimin og segir: „Hvað viltu, læknir. Þetta er í fyrsta sinn sem ég sef hjá ókunnugum." En „Hvað viltu" er hér slæm þýðing á „Qué quieres”, þar ætti að standa: „Svona er það“, „Ekki get ég að mér gert“ eða eitthvað í þeim dúr. Verst finnst mér þó þýtt á fyrrnefndum stað (bls. 93), þegar rennur upp fyrir Fermínu að unnustinn Florentíno er hræddur við hana, og hún segir skilið við hann. Þá segir í íslenska textanum: „Á augabragði varð henni ljós blekking sín, og hún spurði sig hrædd hvernig hún hefði getað alið í hjarta sér svona lengi ljótleika slíkrar ófreskju. Undirstrikuðu orðin eru hrein viðbót þýðandans, og það munar um minna í einu þýðingarmesta atriði sögunnar! Spænski textinn hljóðar ekki upp á meira en þetta: „Á augabragði varð henni ljóst hve mikil sjálfsblekking hennar var, og hún spurði sig yfirkomin, hvernig hún hefði getað borið svo lengi og staðfastlega annað eins hugarfóstur í hjarta sér." Fleiri hnökra mætti telja, en ég held þó að á heildina litið verði að þakka fyrir þýðinguna, því þetta er heillandi lesning. Stíll Undraborgarinnar er mjög fjölskrúðugur svo sem hæfir þessari bók, t.d. er ánægjulegt að sjá persónur tala eðlilegt íslenskt talmál. Þó er textinn víða ankannalegur. Það er eins og vant er hjá Guðbergi, hann er t.d. líkur Halldóri Laxness í því að forðast iðulega það orðalag sem beinast lægi við. En fyrir bragðið vekur orðalagið athygli og væntanlega umhugsun lesenda. Með öðrum orðum, þessu ætti helst að beita í ákveðnum tilgangi, á vel völdum stöðum í textanum. Það hefur Guðbergur oft gert og tekist að skapa eftirminnilegar persónur og ris í sögum sínum með þessu móti. En hér kemur fyrir ankannalegt orðalag sem ég sé ekki að eigi sér neina slíka réttlætingu. Fáein dæmi: „Í skápnum voru svört föt í haug, ýmiss konar hlutir og nokkrir kassar sem í var sakramentisbrauð og bundið um þá silkilindum. Á nefndri hillu sá hann gamla bænabók, talnaband" (bls. 74). Ég undraðist þetta orð ”sakramentisbrauð”, og hélt það vera fljótfærnisvillu fyrir oblátu. En í frumtextanum stendur bara: nokkrir kassar úr hríspappír og bundið um þá silkilindum (”unas cajas de papel de arroz liadas con cintas de seda”, bls. 101). Sakramentið hefur Guðbergur úr eftirfarandi orðum um bænabók og talnaband. En Guðbergur svaraði þessum aðfinnslum mínum, 1991, og sagði: Það að sakramentisbrauð sé obláta er rangt hjá fræðimanninum, efnið í því líktist oblátu og var kallað sakramentisbrauð „í gamni" af því að „menn gátu tekið sig sjálfir til altaris" með því að éta það. Einnig fann ég að orðalaginu „hnakkabraut sig" f. hálsbraut sig (bls. 103). Enn svaraði Guðbergur: ”Mig grunar að þegar Örn segir að það að hnakkabrotna sé „á íslensku" að hálsbrjóta sig bendi til þess að hann fái ekki nóbelsverðlaun í læknisfræði á næstunni.” Einu má það gilda, en í frumtextanum segir (bls. 139): Var svo óheppinn að skrika fótur og ganga úr hálsliðnum - ”tuvo la mala fortuna de resbalar y desnucarse.” Síðasta orðið er sagnorð, dregið af nuca, sem vissulega þýðir hnakki, sem sé: hnakkinn gekk úr (háls)liði. En það heitir nú bara að hálsbrotna á íslensku, og ekki sé ég ávinning að orðalagi Guðbergs hér. Enn mætti nefna að ekki er hægt að segja frá „settri drottningu" (bls. 85), orðið „settur" á við starfsmann sem hefur fengið stöðu til tiltekins skamms tíma, eins árs eða svo. Enda er skömmu síðar talað um „ríkjandi drottningu", sem er venjulegt íslenskt orðalag fyrir það sem í frumtextanum stendur : ”reina reinante”. Skýringin er sú að drottningin var ekkja, en tveggja ára sonur hennar var konungur, svo hún fór með hlutverk þjóðhöfðingja. Ofrausn virðist að kalla guðsótta „heilagan" (49) og segja: „þú hefur bjargað mörgum morðingjanum frá því að eiga fangelsi skilið" (90), í stað einfaldlega: bjargað mörgum morðingjanum frá fangelsi. Ekki skal fleiri orð um þetta hafa, en álykta mætti að forlag ætti helst að fá kunnáttumann til að lesa þýðingu yfir fyrir útgáfu, jafnvel þótt þýðandinn sé valinkunnur rithöfundur. Stundum tala sögupersónur frönsku, og þau tilsvör eru hér ekki bara til skrauts, heldur skipta máli. Því finnst mér að þá ættu þýðingar að fylgja aftan við textann. Þær eru neðanmáls í Platero og ég þegar þannig stendur á, og er það til fyrirmyndar. Af svörum Guðbergs vil ég ennfremur álykta að hann hafi fremur viljað bíta frá sér en viðurkenna mistök sín. Mér finnst rétt að draga það fram, því við unnum Guðbergi eins og hann er, en þurfum ekki neina fegraða mynd af honum, ekki frekar en af sögupersónum hans. Nú kynni einhver að spyrja, hvort þetta sé ekki óþörf smámunasemi í aðfinnslum við þýðingarstarf sem bæði að efni, magni og vandvirkni við íslenskun er mikilfenglegt. En ég held rétt að reyna að gera sem hlutlægasta heildarmynd. Það væri tilefnislaus móðgun við Guðberg að fara að hlífa honum við gagnrýni. Þess þarf hann síst af öllu, framlag hans er svo mikið og gott að það yfirskyggir að einnig hann býr stundum við venjulegar takmarkanir fólks. 3. Samantekt Oft heyrist sú skoðun að velgengi Halldórs Laxness í skáldsagnagerð (einkum á árunum 1931-1968) hafi lamað aðra íslenska skáldsagnahöfunda. Þótt þess kunni að mega finna dæmi, eru undantekningar auðsénar. Thor Vilhjálmsson hefur greinilega mikil áhrif á fyrstu sögur Steinars Sigurjónssonar, í frummyndakenndri framsetningu, en næstu sögur Steinars höfðu aftur mikil áhrif á sögur Guðbergs Bergssonar, ekki síst í áherslu á hið líkamlega, sem raunar var ekki frá upphafi hjá Guðbergi, hvorki í Músin sem læðist né í Leikföng leiðans en þeim mun meira áberandi í Tómas Jónsson metsölubók og seinni bókum. En það kom sterklega fram átta árum áður hjá Steinari Sigurjónssyni, í ástarsögu, 1958; oft er þar talmál, og mikið skrifað eftir framburði. Þarna birtist hugarheimur alþýðu beint og sterklega, í hugarflaumi og talflaumi. Þetta er mjög líkamlegt tal, sóðalegt og óhirt. Ekki virðist þetta vera ádeila, öllu heldur viðleitni beggja höfunda til að gefa raunsanna, ófegraða mynd af íslenskri alþýðu. Það gerðu líka sögur Elíasar Marar um miðja öldina, einnig í málfari og hugarflaumi. Í samræmi við þetta leggur Guðbergur áherslu á alþýðlegt umhverfi og viðhorf, goðsögur og spekimál sögupersóna, en það er oftast fáránlegt bull. En slíkar alhæfingar virðast bera vott um þekkingu, lesendum kann að finnast að hér sé svo djúp speki að þeim sé nánast ofviða að skilja. Af sama tagi eru fráleitar persónugervingar, einkum hugtaka, talað er um minningar sem persónu, einnig eru persónugerðar: vitleysa, sómi, skömm, nótt og náttúran. Í sögum Guðbergs er mikið um mótsagnir sem engin leið er að skilja röklega, en geta veitt lesendum tilfinningu fyrir að þar sé djúp viska á ferð. Hugarflaumur er hjá Jóni Óskari 1947, Elíasi Mar 1950, Ástu Sigurðardóttur 1951, Steinari Sigurjónssyni 1958, og Guðbergi 1966. Ekki er ástæða til að ætla þetta línuleg áhrif íslenskra rithöfunda hver á annan, margir vitna þeir beint til Ulysses James Joyce, sem hafi haft mikil áhrif á íslenska rithöfunda upp úr seinni heimsstyrjöld. Ásakanir um málvillur hjá Guðbergi byggjast oftast á því að sögupersónur hans tala eðlilegt alþýðumál, þessar ásakanir eru raunar jafnfráleitar og að tala um klám í bókum hans. Við sáum á framangreindu að Guðbergur fór inn á brautir sem aðrir höfðu rutt. Hann fylgdi Steinari Sigurjónssyni í sagnagerð með ófegraðar myndir af íslensku alþýðufólki í sjávarþorpi í samtímanum. Þar kemur hugarflaumur blandaður talmáli, stundum er stafsett eftir framburði. Guðbergur fylgir ennfremur Hannesi Sigfússyni í að þýða merkar bókmenntir frá Spáni og Suður-Ameríku. En á báðum sviðum varð Guðbergur mun mikilvirkari en fyrirrennararnir. Og þriðja bók hans, skáldsagan Tómas Jónsson metsölubók á ekki sinn líka í íslenskum bókmenntum í sundraðri framsetningu magnaðrar samfélagsmyndar. Framhaldið var í samræmi við það. Það einkennir bækur Guðbergs alla tíð að þær eru skrifaðar gegn ríkjandi smekk lesenda, enda hefur hann gagnrýnt þann smekk beinlínis, fyrir fylgni við tísku og nýjabrum, fyrir að fólk fagni fyrstu bók höfundar, en afskrifi hann við þriðju bók, þegar hann sé þó að ná sér á strik. Sögur Guðbergs eru sumar í skipulegri framrás að endahnúti, en aðrar eru meira eða minna stefnulaust flakk frá einu til annars. En í rauninni skiptir þessi munur litlu máli. Því sögurnar eiga það sameiginlegt að gefa fyrst og fremst mynd af samfélaginu. Það er nákvæm mynd og sannfærandi, sem lesendur geta kannast við. Röð einstakra atriða í þessu myndasafni er því nánast tilviljanakennd. Þessi mynd af samfélaginu er alls ekki samkvæmt neinni raunsæishefð, öðru nær rúmar hún oft atriði sem allir lesendur mega vita að er fjarstæða, framrás sögunnar er einnig oft fjarstæðukennd. Persónur eru jafnan einhliða og yfirborðslegar, en nokkuð er um flökt, að ein persóna breytist í aðra. Mjög oft er dregið fram líkamlegt. Allt þetta má skapa sögunum draumkenndan blæ, staðsetja þær í hugarheimi, frekar en sem eftirlíkingu umhverfis lesenda. Persónur koma á óvart, lesendum birtist sundurlaus fólksmassi og mótsagnakenndur. En þetta slævir síður en svo ádeilu sagnanna eða háð, skerpir það öllu fremur með ýkjum. Stíllinn er fjölbreytilegastur í skopstælingum bókanna. Annars verður ekki séður verulegur munur á sögumanni eða frásögu í 1. persónu, hjá báðum er mikið um vangaveltur og skýringar á atburðum og háttalagi sögupersóna, oft eru þær því í verulegri fjarlægð frá þeim sögupersónum. Sögupersónur eru iðulega afgreiddar í hópum, með alhæfingum. Í flestum sögunum er í sögumiðju persóna sem virðist umfram allt venjuleg. Hugarheimur hennar er hversdagslegur, gjarna mótsagnakenndur. Um aðrar sögupersónur virðist óhætt að alhæfa að þær eru flestar fráhrindandi, ljótar, sóðalegar, heimskar og smekklausar. Ósjálfstæði, undirferli og sjálfsaumkun er oft áberandi. Vart geta þær látið skoðun í ljós nema taka hana samstundis aftur að mestu, og undirstrika að þeim sé ekki illa við neinn persónulega. Og setji þær fram skoðun er það á ópersónulegan hátt, sem samsamar þær einhverju meðaltali (”Verið er að hossa honum”). Mikið er um að sögupersóna geri sér tal annarrar í hug, jafnvel í smáatriðum. Háspekilegt tal er lagt í munn ólíklegustu persóna og gerir það þær ósannfærandi. Undantekning frá neikvæðum lýsingum eru helst eiginkonur söguhetja (í Froskmaðurinn og Sú kvalda) og ein helsta persónan í 1½ bók. Hryllileg saga. Áberandi oft er talað um tilgangslaust fitl persóna við andlit sitt og kvið, en þetta fitl gegnir engu hlutverki í framrás sögu eða persónusköpun. Ennfremur er áberandi lítið um útlitslýsingar persóna í sögum Guðbergs. Þær skörpustu eru fáránlegar skrípamyndir. Lýsingar umhverfis, náttúru eða bæja eru á sama hátt oft ógeðslegar, en fyrir kemur að fegurð birtist í því sem venjulega telst ógeðslegt, ýldupollum og þvílíku. Enn birtist hér að Guðbergur skrifar gegn ríkjandi smekk, skapar nýtt með skörpum myndrænum lýsingum. Kynlífslýsingar eru fáar lengstum og dauflegar, ef ekki beinlínis neikvæðar, oft virðast þær ömurlegar. Gefið er í skyn kynlíf milli karlmanna allt frá TJM að telja, en ekki er því lýst. Þetta verður þó mun meira áberandi um miðjan níunda áratuginn með Hinsegin sögum 1984, Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma 1993 og Lömuðu kennslukonurnar 2004. En þar eru sviplausar persónur, og næsta fátt lostafengið né dvalið við lýsingar, ólíkt t.d. smásögu Elíasar Marar, sem hér er vitnað til. Ádeila er mjög áberandi í bókum Guðbergs, en yfirleitt birtist hún óbeint, í skopstælingum viðtekinna viðhorfa, hátta og tals birtist hve heimskulegt og ósmekklegt það er. Einkum virðist mér ádeilan beinast gegn ósjálfstæði, neyslugræðgi, gegn óvirkri viðtöku einhvers utan í frá, í stað þess að skapa. Skáldævisaga Guðbergs frá 1997-8 einkennist af hlutlægum lýsingum og óvægnum. Hér birtist öll sú heimska og hjátrú sem einkennir skáldsögurnar, persónur eru einhliða, yfirborðslegar og skoplegar. Sama er auðvitað uppi í greinum Guðbergs, en sérstaklega er þar ráðist gegn alþýðudekri, þeirri trú að í stéttasamfélagi séu smekkur alþýðu og viðhorf vaxtarsproti komandi stéttlauss samfélags, og því beri að virða t. d. bókmenntir sem mótist af alþýðlegum viðhorfum. Mynd Guðbergs af íslenskri alþýðu er algerlega andstæð þessu viðhorfi. Hér er litið á eina sex tugi greina Guðbergs á hálfri öld. Guðbergur skrifar mest um bókmenntir, en einnig þó nokkuð um myndlist og fáeinar greinar eru um þjóðfélagsmál og stjórnmál almennt. Hann tekur þar byltingarsinnaða afstöðu og deilir á hvaðeina sem honum þykir einkennast af vanahugsun. Nokkuð ber á trú á þjóðareðli, og kann það að vera enn eitt dæmi um stríðni Guðbergs við lesendur, hann sýnir annars ekki trú á neina örlagahyggju. Þvert á móti, í greinum hans um bókmenntir leggur hann áherslu á sköpun einstaklings og að bókmenntir eigi ekki að fylgja fyrirmyndum, og gegni ekki neinum hagnýtum tilgangi. Þær eiga að vera sköpun úr sálardjúpum skáldsins, þar talar Guðbergur út frá eigin skáldskap. Bókmenntir og aðrar listir eiga að vera altækar, höfða til fólks almennt. Bókmenntir ætlaðar minnihlutahópum sérstaklega séu andvana fæddar, og orki jafnvel gegn yfirlýstum tilgangi sínum, að vekja þessa hópa til baráttu. Guðbergur sendi aðeins þrjár litlar ljóðabækur frá sér (1961, 1978 og 2001). Þar er mikið um samskonar ádeilu og í sögunum, ádeilu á ósjálfstæði og yfirborðsmennsku. Áhersla er þar lögð á að mannlífið fari ekki að rökhugsun eingöngu, fullt eins mikið að óröklegu. Í samræmi við það eru mörg ljóðanna myndræn og sum óræð. Þýðingar Guðbergs eru eitt mesta framlag slíkt í íslenskri bókmenntasögu. Þær eru svo margar og vandaðar og hnitast um að sýna framandi menningarheim Spánar og Suður-Ameríku. Að magni, bæði fjölda bóka og stærð, eru þýðingar stærsti hluti höfundarstarfs Guðbergs Bergssonar, um fjórir tugir binda. Þær eru einkum úr spænsku, en nokkuð úr portúgölsku, bæði frá Íberíuskaga og þó enn meir frá Suður-Ameríku. Þess gætti fyrir í íslenskum bókmenntum, en verður í höndum Guðbergs í slíku magni að það setur nýjan svip á íslenskar bókmenntir. Hann stundar þær allt frá upphafi, og þýðir bæði fornfrægar bókmenntir svo sem Don Kíkóta Cervantes og stuttar sögur frá því um miðja 16. öld og1600, sem og nýjar bókmenntir og nýstárlegar, eftir t. d. Juan Ramón Jiménez, Federico Garcia Lorca, Eduardo Mendoza og Gabriel Garcia Marquez. Þetta er stórvirki. Það vekur athygli að einnig fornfrægu sögurnar eru skálkasögur, á ýmsa vegu andstæðar ríkjandi viðhorfum. Sama má segja um bókmenntir 20. aldar sem Guðbergur þýðir. Ekki svo að skilja að þær séu flokkspólitískar, en mér sýnast þær allar bornar uppi af hugsjón um frelsi einstaklings til að fara eigin leiðir. Þetta gildir þó ekki um safnrit þýðinga Guðbergs, portúgalskra bókmennta og suður-amerískra, þar leggur hann áherslu á að birta það sem útbreitt er og alkunna, oft mjög ólíkt hans eigin skáldsögum, jafnvel rómantískt og þjóðernissinnað. Í heildina má segja um þýðingar Guðbergs að þær birti daglegt líf fjarlægs fólks í skarpri mynd, geri það nærtækt Íslendingum. Guðbergur réttlætti það að þýðingarbragur væri á framandi bókmenntum þýddum á íslensku, öðruvísi gæti það ekki verið. En sannleikurinn er sá, að hann íslenskar þær afar vel, með venjulegu íslensku orðalagi og orðalagi úr íslenskum bókmenntum, en heldur þó vel stílblæ frumrita. Auðvitað má finna að einstökum atriðum, Guðbergur er ekki hafinn yfir takmarkanir dauðlegra manna, en á heildina litið eru þýðingar hans mjög vandaðar, og mikið afrek. Guðbergur mætti mikilli andúð margra vegna óvæginna lýsinga í skáldsögum sínum. Jákvæðar viðtökur voru þó yfirgnæfandi frá fyrstu tíð, hann hlaut verðlaun gagnrýnenda þegar sex árum eftir fyrstu bækur sínar, og hefur verið atvinnurithöfundur frá því skömmu áður. Bókmenntaverðlaun sænsku akademíunnar hlaut hann 2004, annar íslenskra rithöfunda, tólf árum eftir að Thor Vilhálmsson hlaut þau. Summary in English Guðbergur Bergsson is among the foremost of Icelandic contemporary writers. He was born in Grindavik, a fishing village in the South-western peninsula of Iceland in 1932. He graduated from Teacher’s college in 1955 and then moved to Spain where he graduated from the University of Barcelona in 1958, specializing in Spanish literature and art. Since then he has divided his time between Spain and Iceland. In his youth he had different jobs, as a weaver, night-watchman and editor, but since 1965 he has been exclusively a professional writer. His debut was in 1961 with a novel and a book of poems and during the last half a century he has published over 20 novels, seven books of short stories, three collections of poems and countless articles and interviews in newspapers and magazines. He has been even more prolific as a translator, of an estimated 40 volumes. It has often been said that the great literary success of Nobelprizewinner Halldór Laxness, from the beginning of the 1930s until late in the 1960s, cast a shadow over other Icelandic prose-writers, leaving them more or less paralyzed. Possibly, there may be found examples to corroborate this view, but evidence to the contrary is clear and abundant, of Icelandic authors going their own ways. This is especially evident after the Second World War, when new cultural currents came to Iceland, and writers discovered T.S. Eliot and James Joyce, for example. The last-named’s “stream of conciousness” showed up in the work of different writers of the period; Elías Mar (1924-2007, debut in 1946), Thor Vilhjálmsson (1925-2011, debut in 1950), Steinar Sigurjónsson (1928-1992, debut in 1955) and Gudbergur Bergsson (debut in 1962). Elias mostly disappeared from the literary scene after a period of 12 years, Steinar never found public success in spite of great acclaim from critics and writers, but Thor and Gudbergur both were very prolific writers, and were translated abroad, where they also won a number of important literary prizes. Along with the “stream of conciousness” some of these writers (Elías, Steinar and Gudbergur) also have in common to give an unvarnished portrayal of Icelandic common people, whose speech is shown in the uncommon orthography of pronounciation. Gudbergur has sometimes been accused of writing in “bad language”, but this is simply because his characters speak in the language of the common people. Gudbergur’s work has of course changed somewhat in the course of time, even becoming more mellow, occasionally showing beautiful nature and sympathetic characters (notably The Swan). His great classic, however, remains Tomas Jonsson Bestseller, from 1966. This novel discards chronological continuity, formally it is a collection of autobiographical notes, left behind by an old man, who is petty, suspicious and isolated, preoccupied by physical things of his own and his neighbours, often quite intimate. He also recounts the most absurd contemporary myths about Iceland and other countries. But to add to the confusion, he also cites medieval poetry from Provence in the original. The novel’s chilly tone of desolation changes at the end when two men find tenderness in an embrace. Unfortunately, this novel has only been translated into Spanish. Gudbergur’s most popular novel, The Swan appeared in English in 1997, and has been published in 14 different languages. It recounts a small girl’s stay at a farm during a summer, where she was sent from Reykjavik for rehabilitation, having been caught in shoplifting. The girl experiences the country-people’s trouble with love and their work with the animals, the cycle of life and death. This novel differs from Gudbergur’s other work by scenes of beautiful nature, which may have contributed to its success. Another novel of Gudbergur has been translated into English in the year 2000, Tormented love... It portreys the clandestine love-affair between two married men. The affair is doomed, both men having AIDS. They are very different, the narrator being sophisticated, reflecting over the affair and their environment, whereas his lover is more simple, thereby expressing homosexuality as a natural phenomenon. Gudbergur is by and large the first Icelandic novelist to portray male homosexuality. These descriptions, however, are neither detailed nor lustful. Some of Gudbergur’s novels follow a logical progression to a natural solution, whereas others are more chaotic, whithout any natural ending. But this difference seems to be unimportant, as the novels generally aim at a portrayal of society, their order of events being haphazard and unimportant. This picture is detailed and convincing, although it contains elements everybody knows to be absurd. The characters’ appearance is seldom described, but when it is, they are the most absurd of caricatures, just as their surroundings, man-made and natural, usually are quite disgusting. Often the characters appear in groups, and their physical side is pronounced. Gudbergur abandons traditional realism by showing people’s every-day life as being determined by the myths they believe in, as well as by their actual surroundings. The most unlikely people show abstruse knowledge and utter words of wisdom, which more often than not are pure nonsense or generalizations that are difficult, not to say impossible to fathom. The characters also sometimes blend into one another, know other people’s thoughts in detail, and sometimes are conscious of the fact that they themselves are fiction. All this goes against traditional realism. The main person usually is above all an average person. His or her thoughts are commonplace, often contradictory. Other characters may safely be described as being for the most part stupid, ugly, tasteless and dirty. Their natural habitat is stinking fish-factories and garbage. Quite commonly they are afraid of appearing as individuals, hiding behind unpersonal expressions (“One feels that…”). Others of their common caracteristics are back-stabbing and self-pity. Altogether, these things can create a dream-like atmosphere, placing the story in people’s mind, rather than in their surroundings. But this in no way diminishes the novels’ criticism and mockery of people’s culture, it rather underlines it by exaggeration. This criticism is neither political nor religious, being a negative picture of human nature. What especially is criticized, also in Gudbergur’s articles and interviews, are tendencies to be dependent, to await something from the outside, often manifested as greed, instead of being creative, finding richness in oneself. Guðbergur’s childhood memoirs (1997-8) portray the same kind of people, superstitious, stupid and cruel. His three small volumes of poems (1961, 1978 and 2001) are of the same kind, but there the call for independence is more pronounced and explained, that human life is governed by irrational thought, no less than by rationality. The poems accordingly are often governed by imagery and rhythm, and sometimes are not to be comprehended rationally. The style of the novels is mostly commonplace, aside from the many caricatures of high-sounding pronouncements. A great many readers were bound to feel sympathetic to all this criticism and parody, the negative picture of people could be seen as a call for independence and development. So, although Gudbergur at an early stage received hefty criticism for negatively picturing people and society, he more often received great acclaim for the same, especially by critics and other molders of literary taste. He received the critics’ literary prize as early as 1967, which was followed by a number of prizes and stipends in the following decades, and in 2004 by the prize of the Swedish Academy (often called “the smaller Nobel-prize”). His works have been translated into 14 different languages. Six have appeared in Spanish, five in German, four in Danish, four in Swedish, two in English, but one in each of the other languages, The Swan leading. In his original way Gudbergur as a prose-writer thus followed in the footsteps of Steinar Sigurjónsson, and in his other field of activity, Gudbergur followed another writer, but with far greater productivity. The poet Hannes Sigfússon translated both plays and novels from Spanish (Garcia Lorca, Miguel Angel Asturias, Jorge Amado). But Gudbergur translated some 30 novels and plays, as well as some 120 short stories and poems, mostly from Spain and South-America. Among them are great and voluminous works like Don Quixote, seven novels by Gabriel Garcia Marquez, but also works by classics like Garcia Lorca and Juan Ramón Jiménez, as well as anthologies of South-American, Portuguese and German literature, and Spanish poems of the 20th century. Gudbergur’s translations are generally quite faithful to the original, also in style, as well as being beautifully expressed in Icelandic. Skrár: Smásögur Guðbergs: bygging Titill Skipan aðalatriði Tímasetning Leikföng leiðans 1964 8 sögur Framboð Ekki flétta Snobb 1. Nöldur Ekki flétta Hjónaerjur 2. Píslarvættismissir Ekki flétta Þrár öldungur 3. Vitjað nafns flétta Fegurð gegn lágkúru&dýramisþyrmingum 4. Leik þú á þinn gítar Ekki flétta Erjur kennara og bónda um vísindi 5. Kaffihlé Flétta Þvarg um verkfall 6. Kvöld hinstu sólar Flétta Sundkennari gegn fiskþorpi 7. Stimplað flétta Öldungur gegn ungmennum í fiskiðju 8. Ástir samlyndra hjóna 1967 13 sögur Kenndin kringlótt vömb ekki flétta Baðhús Rvíkur og hjávísindi 9. Ketabon Flétta Þrjár kynslóðir óvita og hjávísindi 10. Næturhreingerning Ekki flétta Hjónaerjur 11. Mynd mannsins Ekki flétta Ævilöng leit að engu 12. Bakstur Ekki flétta Fjölskylduheimsókn í sveit 13. Farísearnir Ekki flétta Smástrákur og hermenn 14. Hin útvalda Flétta Hjónaerjur 15. Saga um sökkullista Ekki flétta Kaffihlé byggingarverkamanna 16. Þegar hann steig í stólinn Flétta Háð um prestastefnu 17. Glæpurinn gegn mannlegu Ekki flétta Sjúklingar á Kleppi 18. Dauði brjálaða mannsins Ekki flétta Sjúklingar á Kleppi, andlát 19. Ellefta atriði Ekki flétta Mellur, ein afmeyjuð af þingmanni 20. Þær Ekki flétta 17.júní, ömurlegur 21. Hvað er eldi guðs? 1970 6 sögur Hvað er eldi guðs? Flétta Illindi milli aldraðra hjóna 22. Í leik Flétta Geðveik kona gestur, tekin af löggu 23. Í skugganum Ekki flétta Samskipti geðsjúklinga 24. Á mynd Ekki flétta Átök illgjarnrar fjölskyldu 25. Á skerminum Ekki flétta Hugarflaumur konu, 1p/3p. 26. Andrókles og ljónið Ekki flétta Hugarflug um ósjálfstæði 27. Hinsegin sögur 1984 13 sögur Hanaslagur hommanna Ekki flétta Tal um tvo tvítóla homma í hanaslag 28. Skáldkonan og skáldin tvö Flétta Ball, kona nauðgar hommum 29. Lífsgaldurinn Ek. flétta Þunglyndissjúklingur barnar allar konur 30. Litla sponsið Ek. flétta Stelpa og mamma hennar láta hunda ríða sér 31. Alveg hinsegin saga Ekki flétta Kona syrgir hommaskap manns síns 32. Undrið milli læranna Ek. flétta Kona breytist í karlmann 33. Fíllinn Ekki flétta Fíll rekur ranann í alla 34. Deilt um kvenfólk Ekki flétta Tveir hommar deila um það 35. Karlmaður með kvenaugu Ekki flétta Sonur reynist hommi, hjón deila 36. Varúð frú Önnu Ekki flétta Smokkastand og barnauppeldi 37. Sæta ánamaðkastúlkan Ekki flétta Étin af fuglum 38. Náttúrulausi karlinn Ek. flétta Fékk náttúru af að þvo upp 39. Þetta henti á föstudaginn var Ekki flétta Undur á Bankastræti 40. Maðurinn er myndavél 1988 13 sögur Mannsmynd úr biblíunni Ekki flétta Drykkjufélagar af Naustinu heim 1972 41. Þarna flýgur hún Ella Ekki flétta Uppfinningamaður sér flugvél sem konu sína 1976 42. Maður dottar í matartímanum Ekki flétta Draumur um útlönd 1979 43. Maður sem varð fyrir óláni Ekki flétta Lemur konur, lendir í fangelsi 1980 44. Ævintýrið Ekki flétta Samband við suðræna konu á Íslandi 1981 45. Karl Jón og konan Ekki flétta Einstæð kona ímyndar sér sambúð við karlmann 1981 46. Dæmisaga um hanska Ekki flétta Drengir þvælast hjá könum, fá gjafir 1981 47. Bréfasambandið Ekki flétta Þvælt í tveimur sögum af systkinum 1986 48. Gott er að eiga unnustu... Ekki flétta Ástaslitasaga 1986 49. Bitakassakonan Ekki flétta Kona lifir lífi annarra, granna 1987 50. Hálfsögð saga Ekki flétta Tvífarar saman 1987 51. Maðurinn er myndavél Ekki flétta Kona missir mann sinn, maður fer á stúlku 1987 52. Brúðan Ekki flétta Drengur með brúðu 1975 53. Jólasögur úr samtímanum 1995 6 sögur Jesús kennir ...stiganum Flétta Jesús fórnar sér við stigaþvott í blokk, fordæmi 54. Jesús kennir...slá lóðina Flétta Jesús fórnar sér við að slá óræktarlóð, fordæmi 55. Jesús lætur ungan mann... Flétta Jesús fær ungan mann til að hætta að stela 56. Jesús kennir kommúnista Flétta Jesús fær hórkarl til að hætta framhjáhaldi 57. Jesú kemur á fjallajeppa Flétta Jesús bjargar trúræknum borgurum úr hríð 58. Telpan Jesú bjargar Flétta Kvenhyggjuraus skopstælt 59. Vorhænan og aðrar sögur 2000 18 sögur Vandamál séra Þórðar Ekki flétta Feðraerjur um hvort líkjast beri Jesú 60. Draugurinn Ekki flétta Erjur skilinna hjóna um barn 61. Stúlkan sem vildi verða nunna Ekki flétta -verður samt ólétt í sólarlandaferð 62. Maður mætir sjálfum sér Ekki flétta Endileysa um bernskuminningar 63. Flengingin Ekki flétta Órar í bernsku um sokkin skip o. fl. 64. Vorhænan Ekki flétta Hæna drepst í höndum tollvarða í lest, lifnar við 65. Verðandi rithöfundur Ekki flétta Hugleiðingar að ómögulegt sé að skrifa sögu á Íslansi. 66. Farfuglinn Ekki flétta Hugleiðingar 67. Allrameinabótin Ekki flétta Samtal skeytinarlausra fæðingarlækna 68. Víðáttumikli maðurinn Ekki flétta Fáránlegir órar 69. Sigga og Nonni og hugsjónapoki Ekki flétta Hæðst að tískuhugmyndum 70. Það er svo mikill munur Ekki flétta Fáránlegir órar 71. Tveir karlar og ein greiða Ekki flétta Fáránlegir órar 72. Velgerðarmaðurinn Flétta Alþýðuvinur étur allt frá alþýðunni 73. Hafmeyjan Ekki flétta Bernskuminning um stúlku að fá brjóst 74. Litað sykurvatn með ávaxtabragð Ekki flétta Bernskuminning um foreldrana 75. Eitrun í blóðinu Ekki flétta Bernskuminning um ömmu hans 76. Að eiga fullan pabba í rútunni Ekki flétta Bernskuminning um Sigvalda Kaldalóns o.fl. 77. Í Bjarti 1993 (2.h.4-7) ekki í bók Ekki flétta Karl og íslensk kvennahagfræði 78. Í TMM, ekki tekið í bók Betlarinn Ekki flétta TMM 31. árg., bls. 270-271 1970 79. Boðun Ekki flétta TMM 31. árg., bls. 271-273 1970 80. Ég á bíl Ekki flétta TMM 40. árg., bls. 172-177. 1979 81. Í Stínu 5 sögur Jón Óskar 1953 Ekki flétta Bernskuminning um bókarkaup 2008 82. Stéttaskiptingin Ekki flétta Órar um stjórnmálamenn 2009 83. Hvarfið Ekki flétta Órar um mannshvarf og byggðar 2009 84. Guðrún lofthæna Ekki flétta Bernskuminning um sérkennilegt fólk 2010 85. Nokkur fyrirtaks...leikrit Ekki flétta Sundurlaus þjóðfélagsádeila 2010 86. Amk 63 sögur af 85 (3/4) hafa ekki fléttu, og atburðir skipta ekki máli, heldur mynd fólks. 4.2. Tilvitnuð skáldrit á íslensku: Agnar Þórðarson Haninn galar tvisvar 1949 1. Agnar Þórðarson Ef sverð þitt er stutt 1953 2. Jorge Amado Ástin og dauðinn við hafið 1857 3. Apuleius Gullinasni 2001 4. Miguel Angel Asturias Forseti lýðveldisins 1964 5. Davíð Stefánsson Sólon Islandus 1940 6. Eiríkur Laxdal Ólafs saga Þórhallasonar 1987 7. Eiríkur Laxdal Ólandssaga 2006 8. Elías Mar Eftir örstuttan leik skáldsaga 1946 9. Elías Mar Man eg þig löngum : saga 1949 10. Elías Mar Vögguvísa : brot úr ævintýri 1950 11. Elías Mar Ljóð á trylltri öld 1951 12. Elías Mar Saman lagt spott og speki 1960 13. Elías Mar Speglun : ljóð 1977 14. Elías Mar Það var nú þá : (smásögur) 1985 15. Elías Mar Hinumegin við sólskinið : ljóð 1990 16. Elías Mar Mararbárur: úrval ljóða 1946-1998 1999 17. Elías Mar Gestur á nýjársnótt (smásaga í Elíasarsögur) ? 18. Elías Mar Elíasarsögur. Þorsteinn Antonsson annast útgáfu (ópr.) 2011 19. Elías Mar Elíasarljóð. Þorsteinn Antonsson annast útgáfu (ópr.) 2011 20. Elías Mar Sóleyjarsaga 1954-9 21. Elías Mar Elíasarbókl. 2011 22. Federico Garcia Lorca Blóðbrullaup 1959 23. Federico Garcia Lorca Skáldið í New york 1991 24. Guðbergur Bergsson Endurtekin orð (ljóðabók) 1961 25. Guðbergur Bergsson Músin sem læðist 1961 26. Guðbergur Bergsson Leikföng leiðans (smásögur) 1964 27. Guðbergur Bergsson Tómas Jónsson metsölubók 1966 28. Guðbergur Bergsson Ástir samlyndra hjóna (smásögur) 1967 29. Guðbergur Bergsson Anna (endurgerð 2001) 1969 30. Guðbergur Bergsson Hvað er eldi guðs (smásögur) 1970 31. Guðbergur Bergsson Það sefur í djúpinu 1973 32. Guðbergur Bergsson Hermann og Dídí 1974 33. Guðbergur Bergsson Það rís úr djúpinu 1976 34. Guðbergur Bergsson Flateyjar-Freyr. Ljóðfórnir 1978 35. Guðbergur Bergsson Sagan af manni sem fékk flugu í höfuðið 1979 36. Guðbergur Bergsson Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans 1980 37. Guðbergur Bergsson Hjartað býr enn í helli sínum 1982 38. Guðbergur Bergsson Tóta og táin á pabba 1982 39. Guðbergur Bergsson Hinsegin sögur (smásögur) 1984 40. Guðbergur Bergsson Froskmaðurinn 1985 41. Guðbergur Bergsson Leitin að landinu fagra 1985 42. Guðbergur Bergsson Maðurinn er myndavél (smásögur 1972-87) 1988 43. Guðbergur Bergsson Svanurinn 1991 44. Guðbergur Bergsson Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma 1993 45. Guðbergur Bergsson Ævinlega 1994 46. Guðbergur Bergsson Jólasögur úr samtímanum (smásögur) 1995 47. Guðbergur Bergsson Sannar sögur (Það sefur, það rís, Hermann og Dídí) 1999 48. Guðbergur Bergsson Faðir og móðir ogdulmagn bernskunnar 1997 49. Guðbergur Bergsson Eins og steinn sem hafið fágar 1998 50. Guðbergur Bergsson Allir með strætó 2000 51. Guðbergur Bergsson Vorhænan og aðrar sögur (smásögur) 2000 52. Guðbergur Bergsson Stígar. (ljóðabók) 2001 53. Guðbergur Bergsson Hundurinn sem þráði að verða frægur 2004 54. Guðbergur Bergsson Lömuðu kennslukonurnar 2004 55. Guðbergur Bergsson 1 ½ bók, hryllileg saga 2006 56. Guðbergur Bergsson Leitin að barninu í gjánni 2008 57. Guðbergur Bergsson Missir 2010 58. Halldór Laxness Heimsljós 1937-40 59. Halldór Laxness Salka Valka. 3. útgáfa 1959 60. Jón Óskar Sonata quasi una fantasia 1947 61. Jón Óskar Gangstéttir í rigningu 1971 62. Jón Thoroddsen Piltur og stúlka 1850 63. Jón Thoroddsen Maður og kona 1876 64. Jökull Jakobsson Tæmdur bikar 1951 65. Jökull Jakobsson Ormar 1956 66. Jökull Jakobsson Fjallið 1958 67. Kristmann Guðmundsson Morgunn lífsins. Skáldverk II (1978) 1929 68. Kristmann Guðmundsson Nátttröllið glottir. Skáldverk V(1978) 1943 69. Longus Dafnis og Klói 1966 70. Morkinskinna Safn konungasagna frá Ólafi Haraldssyni til Sverris 2011 71. Octavio Paz Allra átta 1993 72. Steinar Sigurjónsson Hér erum við (smásögur) 1955 73. Steinar Sigurjónsson Ástarsaga 1958 74. Steinar Sigurjónsson Hamingjuskipti 1964 75. Steinar Sigurjónsson Skipin sigla 1966 76. Steinar Sigurjónsson Blandað í svartan dauðann 1967 77. Steinar Sigurjónsson Ritsafn 1-20 (hér: Ritsafn StS) 2008 78. Steinar Sigurjónsson o.fl Einn plús einn. Bréfaskipti Steinars og Jóns Yngva (óprentað) 2011 79. Thor Vilhjálmsson Maðurinn er alltaf einn (smásögur) 1950 80. Thor Vilhjálmsson Dagar mannsins (smásögur) 1954 81. Thor Vilhjálmsson Andlit í spegli dropans (smásögur) 1957 82. Þórður Sigtryggsson Saman lagt spott og speki (vélrit Elíasar Mar í Lbs.) 1961 83. Þórður Sigtryggsson Mennt er máttur. TMM 144-152 1973 84. Þórður Sigtryggsson Saman lagt spott og speki í Það var nú þá e. Elías Mar. 1961 85. 4.3. Skáldrit á erlendum málum sem vitnað er til Beckett, Samuel Molloy Paris 1961 1. Benet, Juan El aire de un crimen Barcelona 1980 2. Bojunga, Lygia A Bolsa Amarela (Gula taskan) 1976 3. Borges, Jorge Luis Prosa completa 1-2 Barcelona 1980 4. Cervantes, Miguel Don Quijote de la Mancha Madrid 1967 5. Cervantes, Miguel Novelas ejemplares Madrid 1982 6. E. Doctorov Ragtime 1975 7. Garcia Marquez, Gabriel Cien anos de soledad (Catedra) Madrid 2007 8. Gide, André Les Faux-monnayeurs Paris 1965 9. Jiménez, Juan Ramón Platero y yo Madrid 1981 10. Joyce, James Ulysses Paris 1922 11. Mendoza, Euardo La ciudad de los prodigios Barcelona 1986 12. O´Brian, Flann At Swim-Two-Byrds Dublin 1939 13. Potocki La duchesse d’Avila Paris 1958 14. Sabato, Ernesto El túnel Madrid 1980 15. 4.4. Bækur þýddar af Guðbergi: Jimenez Plateró og ég 1965 Spánn 1. Ókunnur Lazarus frá Tormes 1972 Spánn 2. Cervantes Króksi og Skerðir 1973 Spánn 3. Borges Suðrið (aftur 1999) 1976 Argentína 4. Garcia Marquez Hundrað ára einsemd (4 sinnum) 1978 Kólumbía 5. Garcia Marquez Liðsforingjanum berst aldrei bréf 1980 Kólumbía 6. Quiroga, Horacio Ævintýri úr frumskóginum 1981 Úrúgvæ 7. Garcia Marquez Frásögn um margboðað morð 1982 Kólumbía 8. Bojunga Nunes Dóttir línudansaranna 1983 Brasílía 9. Carpentier, Alejo Ríki af þessum heimi 1983 Kúba 10. Cervantes Don Kíkóti frá Mancha 1984 Spánn 11. Rulfo, Juan Pedro Paramo (Pétur heiði) 1985 Mexíkó 12. Sabato Göngin 1985 Spánn 13. Garcia Marquez Ástin á tímum kólerunnar 1986 Kólumbía 14. Rodoreda Demantstorgið 1987 Katalónía 15. Garcia Marquez Saga af sæháki... 1987 Kólumbía 16. Chandler, Raymond Svefninn langi 1987 USA 17. Benet, Juan Andrúmsloft glæps 1988 Spánn 18. Kennedy, William Járngresið 1988 USA 19. Garcia Marquez Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu 1989 Kólumbía 20. Garcia Lorca Heimili Vernhörðu Alba 1989 Spánn 21. Callado, Antonio Pétur prílari útvarpsleikrit 1990 Brasílía 22. Mendoza, E. Undraborgin 1991 Spánn 23. Spænsk ljóð 1900-92 Hið eilífa þroskar djúpin sín. Úrval 1992 Spánn 24. Azuela, Mariano Lýðurinn 1994 Mexíkó 25. Garcia Marquez Um ástina og annan fjára 1995 Kólumbía 26. Bassani, Giorgio Gullspangagleraugun 2001 Ítalía 27. Coelho, Paul Ellefu mínútur 2004 Brasilía 28. Coelho, Paul Veronika ákveður að deyja 2005 Brasilía 29. Portúgölsk ljóð Öll dagsins glóð 2009 Portúgal 30. Heimild: www.bokmenntir.is Þar er Guðbergi eignuð þýðing á útvarpsleikriti Marquez; Konan sem kom klukkan sex, en hann flutti formála sinn um höfund, María Kristjánsdóttir þýddi leikritið úr þýsku. 4.5. Helstu þýðingar Guðbergs í tímaritum TMM 20 Juan Ramón Jimenez Þögn (bls. 73) 1959 1. Juan Ramón Jimenez Gult vor (bls.. 74) 1959 2. Eimreiðin 66. árg. Federico Garcia Lorca Harmaður Ignacio Samchez Mejias 1960 3. TMM 24 Jaime Jil de Biedma Einmanalegt októberkvöld 1959 (bls. 46-7) 1963 4. Jaime Jil de Biedma Varnaðarorð og bæn (bls. 47-8) 5. TMM 25 Miguel Ange Asturias Þjóðsagan um Tatóönnu (bls. 57-61) 1964 6. TMM 38 Agostinho Neto Vestræn menning 1977 7. Agostinho Neto Grið 1977 8. Agostinho Neto Barátta 1977 9. Agostinho Neto Mússúnda vinur 1977 10. TMM 41 Ljóð frá afrískum nýlendum Portúgals 1980 Reinaldo Ferreira Hetjuuppskrift Bls.28 11. Agostinho Neto Vestræn menning - 29 12. Agostinho Neto Santo séffi - 31 13. Daimao Cosme Skæruliðinn - 33 14. José Gomes Ferreira Herforinginn hélt inn í borgina - 34 15. José Gomes Ferreira Einnig er bölvað að vera alltaf á lífi - 36 16. TMM 42 Bókmenntir Suður-Ameríku 1981 Popol Vúh 364 17. Úr Chilam Balam 368 18. Nahúatl 371 19. Ljóð úr goðsögum Mexíkó 372 20. Leikræn ljóð 377 21. Sagnakvæði trúarleg 383 22. Guaraní bókmenntir 387 23. Guaranísögur barna 395 24. Fyrstu rit eftir sigur spánverja 405 25. Skipsbók Kólumbusar 405 26. Sigurinn yfir Mexíkó 407 27. Fall Ínkaríkisins 411 28. Þjóðsaga um fjársjóð 419 29. Nýi heimurinn ekki nýr 426 30. Módernisminn 427 31. Ricardo Freire Indjánaréttlæti 428 32. Alfonso Reyes Kvöldmáltíðin 433 33. Manúel Rojas Maður rósarinnar 440 34. Cesar Vallejo Tvö ljóð 451 35. Juan Rúlfo Sléttan logar 454 36. Octavio Paz Fimm ljóð 468 37. José Arguedas Dauðastríð dansarans Rasú Niti 471 38. Juan Carlos Onetti Esbjerg er við ströndina 483 39. Julio Cortazar Tekna húsið 491 40. Guðbergur Bókmenntir Brasiliu 496 41. Clarice Lispector Hin dulda ánægja 497 42. Guimaraes Rosa Á mörkum gleðinnar 501 43. Múrilo Rúíao Glerblómið 507 44. Rúben Fonseca Gleðilegt nýtt ár 511 45. Guðbergur Þjóðfélagsjarðvegur skáldskaparins 519 46. Augusto Roa Bastos Göngin 521 47. TMM 45 Portúgalskar bókmenntir 1984 Fernando Pessoa Tagusfljótið er fríðara 473 48. Fernando Pessoa Ljóð Alberto Caeiro 487 49. Almada Negreiros Blómið 490 50. José Regio Dimmur söngur 491 51. Gomes Ferreira Einnig er bölvað að vera alltaf á lífi 494 52. Miguel Torga Tvöð ljóð 496 53. Adolfo C. Monteiro Kerti 497 54. Mello/Andresen Tvö ljóð 499 55. Joao Cachofel Rósin 500 56. Herberto Helder Konur hlaupa, stökkva í nóttinni 502 57. Raul Brandau Leyndardómur trésins 517 58. Carlos Malheiro Dias Hin sigraða kona 522 59. Manuel da Fonseca Meistari Finezas 533 60. Miguel Torga Herrann 538 61. Ferreira de Castro Casas viejas 546 62. Fernando Namora Drengurinn og trumban 563 63. José Cardoso Pires Þjóðvegur númer 43 573 64. Augustina Bessa Luis Unnustinn 584 65. Stína 2007-10 Saramago, José Endurheimt 2007 66. Portúgal Torga, Miguel Litla fiðlan 2006 67. Portúgal Redol, Alves Strákurinn sem var ekki stoltur... 2007 68. Portúgal Malerba, Luigi Að uppgötva stafrófið 2006 69. Ítalía Weerth, Georg Hádegisverðarhlé í verksmiðjunni 2008 70. Þýskaland Hess, Moses Hvaða dapurlega hlutverki 2008 71. Þýskaland Seghers, Anna Samkvæmt skeiðklukkunni 2008 72. Þýskaland Verga, Giovanni Cavalleria rusticana 2008 73. Ítalía Machado, David Þagnarheimur Díamontínusar 2009 74. Portúgal Ítölsk ljóð Örlítið um tunglið og endaleysið… 2009 75. Ítalía Costa Gomes, Luisa Von 2009 76. Portúgal Marquis de Sade Lánsama uppgerðin 2010 77. Frakkland Kehlmann, Daniel Upplausn 2010 78. Þýskaland Gelman, Juan Fáein ljóð 2010 79. Argentína Muller, Herta Dillandi tangó 2010 Þýskaland Stína 2011 Krolow, Karl Sungið við dyrnar 2011 80. Ball, Hugo Skýin 2011 81. Grass, Gunther Tvö ljóð 2011 82. Thoor, Jesse Sæll er 2011 83. Mon, Franz Ljóð 2011 84. Brecht, Bertold Nokkur ljóð og örsaga 2011 85. Kacschnitz, M.L. Að lokum 2011 86. Astel, Arnfrid Tvö ljóð 2011 87. Reinig, Christa Fyrir brottför 2011 88. Becker, Jurgen Tveir gluggar 2011 89. Lasker-Schuler, E. Ljóð 2011 90. Domin, Hilde Fjögur ljóð 2011 91. Holz, Arno Tunglskinskvöld 2011 92. Gomringer, Eugen Þyrpingar 2011 93. Meister, Ernst Fjögur ljóð 2011 94. Heissenbuttel, Helmut Fjögur ljóð 2011 95. Stadler, E.M.R. Næturferð yfir Rínarbrúna við Köln 2011 96. Jandl, Ernst Þrjú ljóð 2011 97. Kunze, Reiner Fjögur ljóð 2011 98. Novak, Helga Eftirlit, prósaljóð 2011 99. Sachs, Nelly Þrjú ljóð 2011 101 Pastior, Oskar Ljóð og prósar 2011 102 Muller, Heiner Járnkrossinn, smásaga 2011 103 Eich, Gunther Þrjú ljóð 2011 104 Kacschnitz, M.L Ferðin til Jerúsalem, smásaga 2011 105 Hesse, Hermann Ævintýrið um körfustólinn smásaga 2011 106 Aichinger, Ilse Einkakennarirnn, smásaga 2011 107 Borchert, Wolfgang Rotturnar sofa víst vel 2011 108 Enzensberger, H.M. Nokkur ljóð 2011 109 Canetti, Elías Freddie Uhlmann 2011 110 Celan, Paul Nokkur ljóð 2011 111 Bachmann, Ingerborg Nokkur ljóð 2011 112 Fried, Erich Nokkur ljóð og prósar 2011 113 Andersch, Alfred Þeir síðustu í Svarta manninum 2011 114 Kusenberg, Kurt Hver er maður? 2011 115 Böll, Heinrich Eitthvað hlýtur að gerast 2011 116 Rinser, Luise Rauði kötturinn 2011 117 Trakl, Georg Smásaga, ljóð og prósar 2011 118 Alls 80 verk amk. 4.6. Greinar Guðbergs (ófullkominn listi) b-um bókmenntir. m- um myndlist, stj-um stjórnmál, þjóð- um þjóðareðli. b Juan Ramón Jímenez 20, bls. 72-3. TMM 1959 1. Frásögn Svipmót Spánar TMM 24. árg., bls. 36-44. TMM 1963 2. b Kringum Borges. 14.4. Mbl 1971 3. m Kenjar Goya. Endurprentað í bók 1998 (80 myndir, 176 bls.). Þjv 1973-4 4. Stj Byltingin í Portúgal. Þjv.17.12.’74, 16.3.;4.5., 29.7.’75 Þjv 1974-5 5. stj Dauði Francos Þjv. 2.11.& 14.12. Þjv 1975 6. b Manúel Rojas, Chíle. 37. árg., bls. 166-168. TMM 1976 7. Stj. Kosningar á Spáni Þjv 1977 8. stj Hugleitt milli kosninga. Þjv. 11.6. Þjv 1978 9. Frásögn Jólasaga um íslendinga, eskimóa og dani. 40. árg., bls. 442-456. TMM 1979 10. B Um Borges. Sjómbl.,1.1. Víkingur 1979 11. Stj Mörg er treyjan. 11.2., bls. 14 Þjv. 1979 12. B Nú stefni mörlandinn á miðjuna. 22.11. Þjv 1980 13. B Með ljóði skal leita frelsis 41. árg., bls. (ljóð í Angólastríði). TMM 1980 14. M Jón Gunnar Árnason : ómurinn, ofsinn og mildin. Íslensk list, bls. 130-139. Ísl list 1981 15. B Hafa kvennabókmenntir sérstöðu? 42. árg., bls. 325-335. TMM 1981 16. B Myndgerð ljóðsins. 42. árg., bls. 64-73. TMM 1981 17. B Um samhengi í bókmenntum og menningu þjóða S-Ameríku. 42. ár bls. 361-528. TMM 1981 18. B Gagnrýni á gagnrýnina. 43. árg., bls. 556-561. TMM 1982 19. þjóð Latneskur andi. 43. árg., bls. 419-429. TMM 1982 20. B GB þakkar veittan heiður. 4.3. DV 1983 21. M Um þjóðareinkenni í myndlist. 44. árg., bls. 310-3. TMM 1983 22. B Um þýðingar, 44 árg, bls. 492-502. TMM 1983 23. B Farið fljótt yfir portúgalskan nútímaskáldskap í lausu máli. 45. árg, bls. 504-516. TMM 1984 24. B Yfirlit yfir framgang portúgalskrar nútímaljóðagerðar. 45. árg., bls. 477-486. TMM 1984 25. B "Formáli" [að hefti um portúgalskar bókmenntir] 45. árg., 5, bls.. 475-476. TMM 1984 26. b Hraði hins hæga 46. árg., bls. 393-395. TMM 1985 27. Frásögn Brúðan : brot úr dögum byltingarinnar í Portúgal árið 1975, bls. 184-202. TMM 1985 28. stj Sæta liðið sýnir stjórnmálaandlit sitt. 47. árg., bls. 267-272. TMM 1986 29. stj Skáldinu lætur að látast. 8. 3. Þjv 1987 30. B Menningarpólitík og menningarlíf, 3. árg., bls. 43-44. Þjóðlíf 1987 31. b Formáli við endurprentun TJM. TJM 1987 32. fagfr Listin og lífið. 24.10. Abl 1989 33. m Húsið er gluggi. Arkitektúr og skipulag, 10. árg., 4. tbl., bls. 37. Ark.skip 1989 34. b Um ásthneigð í bókmenntum og lífinu, 163. árg., vor, bls. 41-53. Skírnir 1989 35. b Fyrstu kynni mín af verkum Borges. 7. tbl., bls. 3-5. Teningur 1989 36. B Tíminn í listaverkinu. 50. árg., bls. 160-168. TMM 1989 37. b Eftirmáli við Ástir samlyndra hjóna, endurprentun. Ástir 1989 38. b Í þessu herbergi hefur búið doktor... um Málfríði Einarsdóttur, bls. 405-423. Skírni 1990 39. B Orð um bókmenntagagnrýni. 12/12. DV 1991 40. B Er skáldskapurinn á leið til hjálpræðis?, 165. árg., haust, s. 438-449. Skírnir 1991 41. m Að eiga málverk í stofu... verk eftir Daða Guðbjörnsson 1992, 2. hefti, bls. 61-9. TMM 1992 42. B Formáli Hið eilífa þroskar djúpin sín. bók 1992 43. B Um Steinar Sigurjónsson, bls. 107&112. Eintak,2 1993 44. b Menningarsnilldin hér og nú. 13. 4. DV 1993 45. Hvað á að kenna á sviði tungumála, 9. árg., bls. 7-8. Málfríður 1993 46. b Skáldsagnahöfundurinn og textinn : "óttinn" við textann. 1. hefti, bls. 51-61. TMM 1993 47. b Sæmundur fróði hinn nýi reiðir selinn... 4. hefti, bls. 91-102. TMM 1993 48. Fagurf. Hugmyndir um fegurð. 57. árg., bls. 111-121. TMM 1996 49. fagfr Maðurinn í náttúrunni. 58. árg. bls. 73-87. TMM 1997 50. Smás Við fagurt útsýni. 53. árg., bls. 97-99. TMM 1997 51. Smás Dæmisaga af spænskum ættum. 58. árg., bls. 72-74. TMM 1997 52. örs Þjóðsögur frá eigin brjósti. 59. árg., bls. 91-93. TMM 1998 53. Island i sin egen tåke, 54. årg. (nr. 1), bls.56-58. Vinduet 2000 54. b The Art of always being In-between. Snorri Stu 2004 55. m Drottinn blessi heimilið... Ímynd og ímyndun. Af okkur, bls. 47-53. Afbók 2 2004 56. Þjóð Málfrelsið. Íslam með afslætti, bls. 79-85. Afbók 4 2005 57. Annar staður Sjómannadagsblaði Grindavíkur, ; 17: bls. 24-25. Sjómbl 2005 58. b Kínamúr 66. árg., 4. tbl., bls. 103-105. TMM 2005 59. b Sigfús Daðason: Provence í endursýn. I, bls. 25-27. Stína 2006 60. m Áratugur í íslenskri myndlist Grein í sýningarskránni 11 ár = 11 years. Sýnskrá 2006 61. b Ævisögur Laxness 1.tbl., bls. 40-42. Þjóðmál 2006 62. m Gunnlaugur Scheving og Grindavík. Stínu, 2/2, bls. 20-31. Stína 2007 63. b Króníka frá Berlín og Lissabon Stínu, 2/1, bls. 68-76. Stína 2007 64. b Umsagnir um bækur Stína 2 (1): bls. 155-157. Stína 2007 65. stj Sigurlaugur Elíasson : frá upptalningu til talhluta Stínu 2/2, bls. 171-172. Stína 2007 66. b Inngangsorð um höf, í Samastaður í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur. Formáli 2008 67. b Grein í Minningabrot um Steinar Sigurjónsson STSig 20. RitsSS 2008 68. m Myndlistarborgin Madrid og Modigliani Stínu, 3 (1): bls. 53-57. Stína 2008 69. b Marxískar bókmenntir Stínu; 3 (1): bls. 87-92. Stína 2008 70. m Grein í sýningarskránni „Ég vel aðeins það besta“ : einkasafn E Þ& S.K. Sýnskrá 2008 71. m Grein í sýningarskránni Brynhildur: 2005-1955. Sýnskrá 2008 72. b Hið algera skáld (grein), 18, bls. 31-2. Ritsafn StS 2008 73. m Listin í Lissabon og David Machado. Stína 2009 74. b Örlítið um tunglið og endaleysið í ítalskri ljóðlist. 4/2, bls. 9-21. Stína 2009 75. m Bókin um Elías B. Halldórsson. Stína 2009 76. m Vindurinn á Balmes. 5/1., bls. 153-7. Stína 2010 77. b Það verður eflaust engin stjarna í Frankfurt. 5/2, bls. 60-64. Stína 2010 78. B Um þýska ljóðlist og smásagnagerð. 6/1, 1-169. Stína 2011 79. 4.7. Umfjöllun Theodore M.Anderson The Icelandic Family Saga. 1967 1. Ármann Jakobsson Um Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar. DV 12.12. 1997 2. Ármann Jakobsson Um Eins og steinn sem hafið fágar. DV 3.11. 1998 3. Árni Bergmann um Leikföng leiðans Þjv. 26.3. 1964 4. Árni Bergmann Við afhendingu silfurhestsins. Þjv. 25.1 1968 5. Árni Bergmann um TJM. Þjv. 25.1. 1968 6. Árni Bergmann Um Það sefur í djúpinu. Þjv. 20. 12. 1971 7. Árni Bergmann Bækur eru stórmál. Þjv. 22. 11. 1980 8. Árni Bergmann Um TJM. Þjv. 20. 5. 1987 9. Árni Bergmann Þrjár skáldasögur. Skírni, bls. 531-549. 1993 10. Árni Bergmann Hinsegin bækur og menn. TMM 1, bls. 117-132 2012 11. Árni Óskarsson Sannleikur hugaróra og ótrúlegrar lygi (umTJM) Fjölni, I, 2; 60-62. 1997 12. Árni Sigurjónsson Um Leitin að landinu fagra. Þjv. 27.11. 1985 13. Arnór G. Ólafsson Sambýli. um raunsæi og módernisma í Hjartað býr enn... ópr. 1991 14. Ástráður Eysteinsson Í svartholi eða svanslíki. Skírni, bls. 211-225. 1992 15. Benjamín Kristjánsson Um Fótatak manna eftir HKL. Lesbók Mbl. 3. 12. 1933 16. Bergþóra Gísladóttir Um Tóta og táin á pabba. Þjv. 22.12. 1982 17. Birna Bjarnadóttir Holdið temur andann. 2003 18. Dagný Kristjánsdóttir Um Það sefur í djúpinu. Mími 21, bls. 40-42. 1974 19. Dagný Kristjánsdóttir Skáldið eina. (Undirstraumar 1999), bls. 15-29., áður í TMM 1090 20. Dagný Kristjánsdóttir Sár Solveigar. (Undirstraumar 1999), bls. 77-85. áður í TMM 1991 21. DÞ (Dagur Þorleifsson um Leikföng leiðans. Samvinnunni 1.9. 1964 22. Einar Falur Ingólfsson Um Missi. Mbl.9.5. 2010 23. Eiríkur Guðmundsson um Maðurinn er myndavél. Ársrit Torfhildar 5, bls. 15-25. 1991 24. Eiríkur Guðmundsson Nóttin samin í svefni og vöku. Um skáldsögur St. Si. Ritsafn StS 20. 2008 25. Elín Bára Magnússdóttir Menn eru á flökti...um Hjartað býr enn... ópr. 1988 26. Erlendur Jónsson Um TJM. Mbl. 28.9. 1966 27. Erlendur Jónsson Um Ástir samlyndra hjóna. Mbl. 16.11. 1967 28. Erlendur Jónsson Um Hermann og Dídí. Mbl. 8.11. 1974 29. Eyjólfur Einarsson Týnda handritið. Ritsafn Steinars Sigurjónssonar 18, bls. 27-30. 2008 30. Eysteinn Sigurðsson Um Leitin að landinu fagra. NT, 14.11. 1985 31. Fríða Björk Ingvarsdóttir Tossabekkur á tossabraut. Mbl. 1.11. 2008 32. Geir Svansson Ósegjanleg ást. Skírni bls. 476-527. 1998 33. Geirlaugur Magnússon Um Stígar. DV 19.11. 2001 34. Gísli Sigurðsson Um Svaninn. DV, 16.12. 1991 35. Gísli Sigurðsson Um Sú kvalda ást... DV, 24.11. 1993 36. Guðbjörn Sigmundsson Um Stígar Mbl. 28.11. 2001 37. Guðbjörn Sigmundsson um Missi. TMM,1. hefti, 141-3. 2011 38. Guðmundur Hagalín Um Músin sem læðist. Alþýðublaðinu 16.2. 1962 39. Guðmundur A. Thorsson Um Leitin að landinu fagra. TMM, bls.119. 1985 40. Guðmundur A. Thorsson ”Ó, hann felur djúp sín”TMM, bls. 114-119. 1987 41. Guðmundur Hagalín Gróður og sandfok. Rvík 1943. 1943 42. Guðmundur Hagalín Um Músin sem læðist. Alþýðublaðinu 16.2. 1962 43. Gunnar Benediktsson Þrjú ung sagnaskáld. TMM 29, bls. 89-94. 1968 44. Gunnar Benediktsson Um róttækni og rótleysi. Þjv. 6.10. 1968 45. Gunnar Benediktsson Þegar blindur leiðir... TMM 30, bls. 383-391. 1969 46. Gunnar Benediktsson Með táknum og stórmerkjum... TMM 31, bls. 77-90. 1970 47. Gunnar Stefánsson Um Flateyjar-Frey. Dagblaðið 16.12. 1978 48. Gunnar Sveinsson um Músin sem læðist. Skírni, 65. 1961 49. Gunnar Sveinsson um Leikföng leiðans. Skírni, 68. 1964 50. Gunnlaugur Ástgeirsson Um Hjartað býr enn í helli sínum. Helgarpósturinn 19.11. 1982 51. Gunnlaugur Ástgeirsson Um Tóta og táin á pabba. Helgarpósturinn, 17.12. 1982 52. Gylfi Gunnlaugsson Syndafallið: um hugmyndafræði í Músin sem læðist. ópr. 1978 53. Hafsteinn Austmann Úti í Eyjum og uppi á landi. Ritsafn StS 18, bls. 33-35. 2008 54. Halldór Laxness Bókmenntir og skóbætur. Iðunni XVIII, bls. 118-122. 1934 55. Hallgrímur Helgason Hin hversdagslega eilífð. TMM 1, bls. 99-104. 1992 56. Helena Kadecková Upphaf íslenskra nútímabókmennta. TMM, bls. 109-120. 1971 57. Hildur tHermóðsdótir um Tóta og táin á pabba. TMM, bls. 113-116. 1984 58. Hildur Loftsdóttir Um Hundurinn sem þráði að verða frægur. Mbl. 22. 12. 2001 59. Hjálmar Sveinsson Nýr penni í nýju lýðveldi. Elías Mar. 2007 60. Ian Watts The Rise of the Novel. 1968 61. Ingi Bogi Bogason Um Svaninn Mbl 4. 12. 1991 62. Ingi Bogi Bogason Um módernisma í íslenskum bókmenntum. Mbl 30. 4. 1993 63. Ingi Bogi Bogason Um Eins og steinn sem hafið fágar. Mbl. 4.11. 1998 64. Jakob Bj. Grétarsson Um 1 ½ bók. Fréttablaðið,14. 12. 2006 65. Jóhann Hjálmarsson Hvert stefnir skáldsagan ? Mbl. 23.10, bls. 15. 1969 66. Jóhann Hjálmarsson Um Hvað er eldi guðs. Lesbók Mbl. 28.2. 1971 67. Jóhann Hjálmarsson Um Faðir og móðir og dulmagn bernskunnar. Mbl.25.11. 1997 68. Jóhanna Sveinsdóttir Guðbergsk siðbót. TMM, 281-300. 1978 69. Jón frá Pálmholti Um Músin sem læðist. Þjv. 21.1. 1962 70. Jón frá Pálmholti Um Leikföng leiðans. Birtingi, bls.149-151. 1964 71. Jón Yngvi Jóhannsson Um Vorhænan DV 14.11. 2000 72. Jón Karl Helgason Deiligaldur Elíasar. Ritið 3/2006, 101-130. 2006 73. Jørgen Dines Johansen Novelleteori efter 1945. 1970 74. Kári P. Óskarsson Um1/2 bók. Hryllileg saga. TMM,1. hefti, 115-118. 2008 75. Katrín Jakobsdóttir Um Vorhænan Stúdentablaðinu 20.12 2000 76. Katrín Jakobsdóttir Um Hundurinn sem þráði að verða frægur. DV. 21. 11. 2001 77. Kristján Árnason Um Hinsegin sögur. Skírni, bls. 297-300. 1985 78. Kristján H. Guðmundsson Um Leitin að barninu í gjánni. DV 14.11. 2008 79. Kristján H. Guðmundsson Um Missi. DV 29.5. 2010 80. Kristján J. Jónsson Um Hjartað býr enn í helli sínum. Þjv. 2.12. 1982 81. Kristján J. Jónsson Um Svaninn. Þjv.22.11. 1991 82. Lilja Dögg Jónsdóttir Sumar í sveit: þroskasaga og sveitasæla í Svaninum. ópr. 2003 83. Jean-Luc Madame Bovary : une œuvre réaliste ou romantique ? Google) 84. Magnús Ásgeirsson Um Nátttröllið glottir e. Kristmann. Helgafell, bls. 124-7 1944 85. Margrét Eggertsdóttir um Froskmanninn. TMM, bls. 122. 1987 86. Marta Jerábková Fólk og mannlíf í þremur skáldsögum Guðbergs... ópr. 1999 87. Melkorka Óskarsdóttir Um Lömuðu kennslukonurnar. Fréttablaðið 11.12. 2004 88. Njörður Njarðvík Kunningjabréf. Alþýðublaðinu7. 2. 1978 89. Njörður Njarðvík Kynning bóka – og örlög. Þjv. 18.1. 1987 90. Ólafur Jónsson um Leikföng leiðans. Alþýðublaðinu 24. 3. 1964 91. Ólafur Jónsson Um Ástir samlyndra hjóna. Alþýðublaðinu 26.11. 1967 92. Ólafur Jónsson Um Hvað er eldi guðs. 3. 3. 1971 93. Ólafur Jónsson um Suðrið eftir Borges. Dbl. 8.12. 1975 94. Ólafur Jónsson Líka líf 1979 95. Ólöf Pétursdóttir Tóta og táin sem týndist .TMM, bls. 329-332. 1986 96. Pétur Magnússon Herferðin gegn fegurðinni. Mbl. 16.11. 1968 97. Platon Ríkið, síðara bindi. Þýð. Eyjólfur Kjalar Emilsson. 1991 98. Ritþing 1 um Guðberg Viðtöl við Guðberg, Jón Yngvi Jóhannsson ritstýrði. 1999 99. Sigfús Daðason um TJM í TMM, 423-6. 1966 100. Sigríður Albertsdóttir Um Jólasögur. DV 11.12. 1995 101. Sigrún A. Eiríksdóttir um Don Kíkóti Skírni, 274-286. 1985 102. SigrúnKlara Hannessdóttir Um Allir með strætó. Mbl. 29. 11. 2000 103. Sigurður Hróarsson Hvað er eldi guðs? eftir Guðberg Bergsson... ópr. 1981 104. Sigurður A. Magnússon Um Músin sem læðist. Mbl. 1.2. 1962 105. Sigurður A. Magnússon Absúrd bókmenntir og TJM. Lesbók Mbl. 9.4. 1967 106. Sigurður G. Valgeirsson Þorpsmyndin í skáldsögm Guðbergs Bergssonar. ópr. 1979 107. Sigurjón Björnsson Um Leitin að landinu fagra. Mbl. 22.11. 1985 108. Sólveig S. Jónasdóttir Sögur af skítasálum: gróteska í verkum Guðbergs... ópr. 1993 109. Stefán Snævarr Ástarspekt. Rvík 2004 110. Steinar Sigurjónsson Bréf til Jóns Yngva 23.8.1973 í Einn plús einn. vélrit. 1973 111. Steinunn Haraldsdóttir Endurtekin orð. Skáldsagan Anna...frásagnarháttur.... ópr. 1994 112. Steinunn Inga Óttarsdóttir Maðurinn er ekki einn. Gróteska í Önnu... TMM 3. hefti, bls. 26-9. 1994 113. SveinnSkorri Höskuldsson Ræða við verðlaunaveitingu í árslok 1978. 1979 114. Sverrir Hólmarsson um TJM, Mími 10, bls. 39-41. 1967 115. Sverrir Hólmarsson Um Ástir samlyndra hjóna. Skírni, bls. 191-194. 1968 116. Sæunn Ólafsdóttir La risa y la repugnancia: lo grotesco en Don Quijote y TJM...ópr. 1997 117. Vésteinn Ólason um Leikföng leiðans. Frjáls þjóð 3.4. 1964 118. Víkingur Kristjánssson Gróteska af ýmsum bergum brotin... í Bréfi til Láru og Ástum... ópr. 1996 119. Þóra K. Ásgeirsdóttir Guðbergur Bergsson metsölubók. 1992 120. Þóra Kristín ritstýrði Um Steinar Sigurjónsson. Eintak, 2. tbl., 104-112. 1993 121. Þórdís Björnsdóttir Í nærveru dauðans... í tveimur verkum Guðbergs... ópr. 2005 122. Þórður Einarsson Um Músin sem læðist. Félagsbréf AB 25, bls. 61-3. 1962 123. Þorgeir Þorgeirsson Umsagnir um bækur. TMM 23, bls. 418-420. 1962 124. Þorgeir Þorgeirsson Tussan á klettinum. Frjáls þjóð, 11.7. 1968 125. Þorgeir Þorgeirsson Um þýðingarleysi. TMM 45, bls. 79-84. 1984 126. Þorsteinn Antonsson Um hughvörf á höfundarferli. TMM 4. hefti, bls. 81-91. 2009 127. Þorsteinn Antonsson Sú leynda ást. TMM 1. hefti, bls. 19-31. 2010 128. Þorsteinn Antonsson Elíasarmál (pistlar innanum ýmis rit Elíasar Marar, ópr.) 2011 129. Þorsteinn frá Hamri Um Leikföng leiðans. TMM, bls. 403. 1964 130. Þorsteinn Þorsteinsson Að lesa Tímann og vatnið. TMM 1.hefti, bls. 6-37 2011 131. Þorsteinn Þorsteinsson Að gefnu tilefni. TMM 4.hefti, bls. 108-109. 2011 132. Þorvaldur Kristinsson ”Þetta eru vorir tímar” um Hjartað... TMM, bls. 337-340. 1983 133. Þröstur Helgason Um Vorhænan. Mbl. 13.12. E 3 2000 134. Þuríður Kvaran Nokkrar athugasemdir um líið og listina. Samvinnan 4, bls. 42-3 1969 135. Örn Ólafsson um Hinsegin sögur eftir Guðberg. DV, 13.12. 1984 136. Örn Ólafsson um Göngin eftir Ernesto Sabato. DV, 2.12. 1985 137. Örn Ólafsson um Leitin að landinu fagra eftir Guðberg. DV, 9.12. 1985 138. Örn Ólafsson um Pedro paramo e. Juan Rúlfo. DV, 16.12 1985 139. Örn Ólafsson um Froskmaðurinn eftir Guðberg Bergsson. Skírni,335-40. 1986 140. Örn Ólafsson um Það var nú þá eftir Elías Mar. DV, 22.10. 1986 141. Örn Ólafsson um Astin á tímum... e. Garcia Marquez. DV, 24.9. 1986 142. Örn Ólafsson Um Grámosinn glóir eftir Thor Vilhjálmsson DV 18.11. 1986 143. Örn Ólafsson Um Eins og hafið eftir Fríðu Sigurðardóttur DV 26.12. 1986 144. Örn Ólafsson Um Tímaþjófurinn e. Steinunni Sigurðardóttur Skírni 190-196 1987 145. Örn Ólafsson um Tómas Jónsson metsölubók. DV, 7.7. 1987 146. Örn Ólafsson um Demantstorgið eftir Mercé Rodoreda. DV, 10.11. 1987 147. Örn Ólafsson Rauðu pennarnir. 1990 148. Örn Ólafsson um Undraborgin eftir Euardo Mendoza. DV, 23.11 1991 149. Örn Ólafsson Kóralforspil hafsins. 1992 150. Örn Ólafsson um Hið eilífa þroskar djúpin sín. DV, 9.1. 1993 151. Örn Ólafsson Seiðblátt hafið. 2008 152. Örn Ólafsson Skæðar kreddur. Stína 2. hefti 2. árgangs, bls. 141-150 2009 153. Örn Ólafsson Enn um Tímann og vatnið. TMM 3.hefti, bls. 131-135 2011 154. 4.8. Viðtöl við Guðberg ?? Morgunblaðinu 1.10. 1968 1. G[unnar] G[unnarsson] Vísi 20.11.1970 2. Árni Bergmann Þjóðviljanum 17.2.1973 3. ?? Þjóðviljanum 14.3.1974 4. Ingólfur Margeirsson Þjóðviljanum 24.12.1978 5. Elín Pálmadóttir Morgunblaðinu 3.1.1979 6. Guðlaugur Bergmundsson Helgarpóstinum 16.11.1979 7. Jakob Ásgeirsson Morgunblaðinu 9.11.1980 8. Gunnlaugur Ástgeirsson Helgarpóstinum 19.11.1982 9. Tómas Á Einarsson Þjóðviljanum 20.10.1985 10. Rúnar Helgi Vignisson Lesbók Morgunblaðsins 28.2.1987 11. Ing Þjóðviljanum 23.7.1987 12. Einar Már Jónsson Þjóðviljanum 28.10.1988 13. ?? DV 14.4.1994 14. ?? Alþýðublaðinu 26.10.1994 15. ?? Alþýðublaðinu 13.11.1996 16. ?? Morgunblaðinu 29.6.1997 17. KB Degi 3.12.1997 18. ?? DV 26.9.1998 19. ?? Morgunblaðinu 31.10. 2000 20. PÁÁ DV 17.11.2001 21. Halldór Guðjónsson Fréttablaðið 21.8.2002 22. JKÁ DV bls. 27 7.9.2002 23. GVA Fréttablaðið 7.12.2006 24. Pétur Blöndal Morgunblaðinu. 10.12.2006 25. 4.9. Þýðingar á verkum Guðbergs. Erlendur titill Íslenskur titill Tungumál Ár 1) En sten som havet slipar i Eins og steinn sem Sænska 2006 2) La magia de la nines (…) Faðir og móðir Spænska 2004 3) Far och mor och barndomens magi : roman Faðir og móðir Sænska 1997 4) Vater, Mutter und der Zauber der Kindheit Faðir og móðir Þýska 2005 5) Frömanden Froskmaðurinn danska 1987 6) Das Herz lebt noch in seiner Höhle Hjartað býr enn í helli Þýska 1990 7) Weihnachtsgeschihcten aus der Jeztzeit jólasögur Þýska 2001 8) Las maestras paraliticas Lömuðu kennslukonurnar spænska 2008 9) Historien om Ari Frodason og Hugborg, kona hans Sagan af Ara Norska 1981 10) Tormented love Sú kvalda ást enska 2000 11) Amor Duro (…) Sú kvalda ást Spænska 1998 12) Den plågade kärlek som själens skrymslen gömmer Sú kvalda ást Sænska 1997 13) Liebe im Versteck de Seele Sú kvalda ást Þýska 2000 14) Svanen Svanurinn danska 1993 15) Luik Svanurinn eistneska 2005 16) The Swan Svanurinn Enska 1997 17) Joutsen (Svanurinn (1991) Svanurinn Finnsk 2001 18) L´aile du cygne Svanurinn franska 1996 19) De Zwaan Svanurinn hollensk 2007 20) Il cigno Svanurinn Ítölsk 2001 21) Gulbe Svanurinn litháísk 2001 22) O Cisne Svanurinn Port (bras) 2000 23) El Cisne Svanurinn spænska 1997 24) Svanen Svanurinn sænska 1993 25) Labut (Svanurinn) Svanurinn Tékkneska 1993 26) Der Schwan Svanurinn Þýska 1998 27) Lebedt Svanurinn búlgarska 2000 28) Det stiger af dybet Það rís úr djúpinu danska 1979 29) Det sover i dybet ; Hermann og Dídí Það sefur, Hermann og Dídí danska 1976 30) Tomas Jonsson : bestseller Tómas Jónsson spænska 1990 31) Tota y el dedo de papá Tóta og táin spænska 1998 32) Smásögur Den utkorade úr Ástum sænska 1976 Fabeln om handsken (smásaga í safni Saga um hanska Sænska 1990 La videbla en la nevidebla (smásaga) Esperanto 2004 (Heimild: www.bokmenntir.is) 4.10 Tölvubréf til mín um þetta rit: 13.2.2012 Guðbergur Bergsson 11.2.2012 Ingibjörg Helgadóttir, Forlaginu 12. 8. 2011 Ragnheiður hjá Rithöfundasambandi Íslands 18. 3. 2011 Guðbergur Bergsson 13. 12. 2010 Þorsteinn Antonsson Nafnaskrá Sleppt er nafni Guðbergs Bergssonar sem er hvarvetna, sömuleiðis nöfnum skáldaðra persóna. Einnig er sleppt titlum miðla svo sem Mbl., TMM, Þjv., ennfremur titlum smásagna og ljóða sem Guðbergur þýddi, og öðru sem aðeins er í heimildaskrá. Það má sjá þar. Af greinum Guðbergs eru aðeins taldar þær sem sérstaklega eru ræddar. 1 ½ bók, hryllileg saga 51,83-4,104,106,148,152,198 Á skerminum 59 Agnar Þórðarson 10 Allir með strætó 61,151 Allra átta e. Octavio Paz 166 Alþýðubandalagið 69 Amado, Jorge 166 Anderson, Theodore M 9 Andrókles og ljónið 59 Andrúmsloft glæps 168 Angóla 168 Anna e. Guðberg 32,39-40,45,51, 60,66-8,78, 83-4,86,87,89-92,94,99, 101-3,108-110,131-2,136,138-9,154, Anna Karenina 9 Apuleius 8 Árnasafn í Kaupmannahöfn 7 Árni Bergmann 135,138,141,143,163-4 Árni Óskarsson 33 Árni Sigurjónsson 144 Arnór G. Ólafsson 94,113,145, Ása Sólveig 18 Ást don Perlimpín... 168 Ásta Sigurðardóttir 15-16,33,196 Ástarsaga e Steinar Sigurjónsson 26-7,44, Ástin á tímum kólerunnar 30 nm,170-73,193 Ástin og dauðinn við hafið 169, Ástir samlyndra hjóna 30 nm, 37,53,55,57, 59,68,72,87,89,1312,136,138,140-42,164 Ástráður Eysteinsson 149 Asturias, Miguel Angel 166 At Swim-Two-Byrds 33 Azuela, Mariano 169 Baldur Gunnarsson 19 Ball, Hugo 168 Balzac 9 Beckett, Samuel 33,142 Benedikt Gröndal 140 Benet, Juan 168 Bennett, E.K. 54 Benjamín Kristjánsson 137,139 Bergur Bjarnason, faðir Guðbergs Bergþóra Gísladóttir 146 Betlarinn 59 Biblían 140 Birna Bjarnadóttir 6 Bjallan, bókaútgáfa 146 Bjarni Benediktsson 86 Bjarni Thorarensen 192 Blandað í svartan dauðann e Steinar Sig 27, Blóðbrullaup e Garcia Lorca 166 Boðun 59, Bókmentaskrá Skírnis 6 Boccaccio 53,55, Borges, Jorge Luis 35,143,169-70,189-90 Brecht, Bertold 168 Bréf til Láru e. Þórberg Þórðarson 45nm Brueghel 65 Búlgakov 31 Cantos e. E. Pound 35, Carpentier, Alejo 169 Cervantes, Miguel 55,167,190-193 Chandler, Raymond 169 Coelho, Paul 169 Dafnis og Klói 8 Dagar mannsins e. Thor 20-24, Dagný Kristjánsdóttir 71, Dagur Þorleifsson 138 Dante 35 Darwin 35 Davíð Stefánsson 9,136, Demantstorgið e. Rodoreda 169,181-4 Det kongelige bibliotek i Kaupmannahöfn 7 Dickens 9 Doctorov, E 175, Don Quijote de la Mancha (Don Kíkóti) 8,30,33-5,53,167, 190-193,199 Drottinn blessi heimilið 158 Ef sverð þitt er stutt e. Agnar Þórðarson 10 Eftir örstuttan leik e. Elías Mar 12 Eftirmáli við Ástir samlyndra hjóna (endurprentun) 133-4 Ég á bíl 59, Eggert Stefánsson 92 Einar Benediktsson 14,16 Einar Már Guðmundsson 166 Einar Már Jónsson Einar Falur Ingólfsson 154 Einar Kárason 166 Einar Kvaran 9 Eins og hafið e. Fríðu Sigurðard. 139 Eins og steinn sem hafið fágar 5 Eiríkur Guðmundsson 26-8,84,130, Eiríkur Laxdal 53, Elías Mar 7,10,12-19,32,33,35,124,129,196,198 Elíasarmál 13,14 Elín Bára Magnússdóttir 46-7,110, Ellefu mínútur e. Coelho 169 Endurtekin orð e. Guðberg 37, Er skáldskapurinn á leið til hjálpræðis?, 133 Erlendur Jónsson 135,141-3, Eyjólfur Einarsson 27, Eysteinn Sigurðsson 90,144-5, Faðir og móðir ogdulmagn bernskunnar 5,189 Farfuglinn 81 Faux-monnayeurs, Les, e. Gide 107 Flammarion 13 Flaubert, Gustave 9,84, Formáli Hið eilífa þroskar djúpin sín. 158, Forseti lýðveldisins e. Asturias 166 Forster, E. M. 98 Fótatak manna e. Halldór Laxness 139 Frans A. Gíslason 168 Frásögn um margboðað morð 169 Freud, Sigmund 35 Fríða Björk Ingvarsdóttir 152-3 Fríða Sigurðardóttir 139 Froskmaðurinn 50,72,79-80,83,87,96-7,99, 104-5,108,116,120-122,134-5,145,148,165,198 Gagn og gaman 130 Gagnrýni á gagnrýnina 162 Gamalt fólk og nýtt 13 Gangstéttir í rigningu 15 Garcia Lorca, Federico 30,165,166,168,199 Garcia Marquez, Gabriel 30nm,31,166,169-73,193,199 Gaudí 177 Geir Svansson 123 Geirlaugur Magnússon Gerður Kristný 8 Gestur á nýjársnótt e. .Elías Mar 18,124-9 Gestur Pálsson 130,140 Gide, André 107 Gísli Sigurðsson 148,150 Goethe, Johann Wolfgang 35,54,189 Goya, Francisco 157 Grámosinn glóir e. Thor 139 Grass, Gunther 142 Grímur Thomsen 35, Guðbergur Bergsson metsölubók 12,30-31,78,86,88-9,132-3,145,156, Guðbjörn Sigmundsson 155 Guðmundur Andri Thorsson 144 Guðmundur Böðvarsson 170 Guðmundur Finnbogason 6 Guðmundur Hagalín 17,74,129, Guðrún frá Lundi 18 Gullinasni 8 Gunnar Benediktsson 37-8,139-40 Gunnar Stefánsson Gunnar Sveinsson 137 Gunnlaugur Ástgeirsson 146 Gylfi Þ. Gíslason 87 Gylfi Gunnlaugsson 114-15 Gyrðir Elíasson 55 Göngin (El túnel) e. Sabato 96nm,168,178-181 Hafa kvennabókmenntir sérstöðu? 163 Hafliði Vilhelmsson 18 Hafsteinn Austmann 27, Halldór Laxness 8,10,31,51,68,74,76-8,98,137,142,152,164,192,193 Halldór Stefánsson 10,22 Hallgrímur Helgason 149 Hamingjuskipti e Steinar Sigurjónsson 27-8 Hamlet 4,10 Hanaslagur hommanna 59 Haninn galar tvisvar e. Agnar Þórðarson 10, Hannes Pétursson 168 Hannes Sigfússon 166,197 Harmaður Ignacio... e.Garcia Lorca 30,165 Heimili Vernhörðu Alba 168 Heimskringla, útgáfa 38-9, Heimsljós 9,98, Helgafell, bókaútgáfa 17 Hér erum við e Steinar Sigurjónsson 25, Hermann og Dídí 32, 40-41,51,65,70, 74,79, 87, 93,95,97,99-100,104, 108-9,111,115-16,119,131-2, Hershöfðinginn í völundarhúsi sínu 169 Hertogaynjan af Avila (La duchesse...) 53 Hið eilífa þroskar djúpin sín. Úrval 168,184-6 Hildur Loftsdóttir 151 Hildur Hermóðsdótir 62,147 Hinsegin sögur 59,78,88,94,112-13,119-20,134,145,148,198 Hjálmar Sveinsson 16 Hjartað býr enn í helli sínum 46,69,72,76-7,80,85,94, 99,105-6,113-14,134,145 Hoffmann, E.T.A. 31 Holdið hemur andann 6 Hómer 130 Hrafnkels saga Freysgoða 4 Hugun 6 Hulda, skáld 40, Hundrað ára einsemd 169 Hundurinn sem þráði að verða frægur 62-3,69,151, Hvað er eldi guðs 41,52,59,71,146, Í þessu herbergi hefur búið doktor 146,162 Icelandic Family Saga, The 9 Indriði G. Þorsteinsson 93,139 Ingi Bogi Bogason 6,150 Ingólfskaffi 93 Ísafold, bókaútgáfa 18 Íslandsklukkan e. Halldór Laxness 98 Jakob Bj. Grétarsson 152 Járngresið e. William Kennedy 169-70 Jerábková, Marta 36,50,61,67,68,71,95,98,99 Jiménez, Juan Ramón 165,169,188-9,199 Jóhann Hjálmarsson 52,135,138,141 Jóhanna Sveinsdóttir 89--92 Jóhanna Vilhjálmsdóttir, móðir Guðbergs Jóhannes úr Kötlum 74 Johansen, Jørgen Dines 53-5, Jólasögur úr samtímanum 57,59 Jón frá Pálmholti 137 Jón Karl Helgason 12 Jón Óskar 15,33,196 Jón Sigurðsson 68 Jón Hallur Stefánsson 166 Jón Thoroddsen sagnaskáld 8,9,142, Jón Thoroddsen þýðandi 166 Jón Trausti 9,142 Jón Yngvi 33 Jónas Hallgrímsson 68,149, Joyce, James 15,26,33,196 Jökull Jakobsson 10, Kadecková, Helena 45nm, Kári P. Óskarsson 152 Karl og íslensk kvennahagfræði 59 Katrín Jakobsdóttir 151 Kayser 34 Keller, Gottfried 55 Kenjar Goya 157 Kenndin kringlótt vömb 59,89-90,164 Kennedy, William 170 Ketabon 59,89 Kierkegaard, Søren 4,34, Kirkjugarðurinn í Skeiðarárþorpi e. Masters 170,175 Kjarval, Jóhannes 74 Konan sem kom kl. sex 169 Kóralforspil hafsins 9,11,14,20,22 Koskimies, Rafael 55, Kristján Árnason 147-8 Kristján H. Guðmundsson 153,154 Kristján J. Jónsson 19,145,148-9, Króksi og Skerðir 167 Kvöld hinstu sólar 55-6 ciudad de los prodigios, La (Undraborgin) duchesse d’Avila, La e. .Potocki 53, Landsbókasafn Íslands 6 Lasker-Schuler, Else 168 Latneskur andi. 158, Lazarus frá Tormes 165-6,177 Leik þú á þinn gítar 56 Leikföng leiðans 28,32,44,55,104-5,136-8,196 Leitin að barninu í gjánni 63-4,69,152-3 Leitin að landinu fagra 74,76-8,88,131-2,144,153,165 Liðsforingjanum berst aldrei bréf 169 Líkalíf 60 Lilja Dögg Jónsdóttir 100,150, Longus 8 Lýðurinn e. Azuela 169 Lömuðu kennslukonurnar 49,51,73,75-7,81,87,99-100,122-4,132,134,148,198 Maður og kona 8 Maðurinn er alltaf einn e. Thor 20-24, Maðurinn er myndavél 59,72,73,81-2,88,107,116-18,130, Maðurinn í náttúrunni 158 Magnea Matthíasdóttir 18 Magnús Ásgeirsson 170 Mál og menning 17,38-9,140,166 Málfríður Einarsdóttir 162 Malmede 54 Man eg þig löngum 13,18 Margrét Eggertsdóttir 97, Marx, Karl 35,159 Masters, Edgar Lee 170 Mata Hari 175 Melkorka Óskarsdóttir Mendoza, Euardo 168,175 Meyer 55 Missir 49,153-5 Molloy e. Beckett 33, Morkinskinna 53, Motte-Fouqué, de la 31 Músin sem læðist 32,37,44,46,94,98-9,114-15,135-6,138.196 Mynd mannsins 57-8 Náttvíg e. Thor 14 Neto, Agostinho 168 Njálssaga 8,192 Njörður Njarðvík 138-9 Novelas ejemplares (Dæmisögur) 167 Nú stefni mörlandinn á miðjuna 163 Nýr penni 12-18 O´Brian, Flann 33 Óðinn 93 Okri, Ben 31 Ólafs saga Þórhallasonar 53, Ólafur Jónsson 60,135,137-8,143,146,189 Ólandssaga 53 Ólöf Pétursdóttir 62,147 Orð um bókmenntagagnrýni 132 Paz, Octavio 166 Pedro Paramo (Pétur heiði) 169,173-5 Petrarca 35, Pétur Magnússon 139 Piltur og stúlka 8 Píningarsagan 140 Platon 46 Platero y yo (Patero og ég) e. Jiménez 165,169-70,188-9,195 Poe, e. A. 31 Potocki 53 Pound, Ezra 35 Primo de Rivera, Miguel 158 Quiroga, Horacio 169 Ragnar Jónsson í Smara 13,14,17,144 Ragtime e. Doctorov 175,177 Raspútín 177 Rauðu pennarnir 11,39, Regnbogi í póstkassanum 8 Ríki af þessum heimi e. Carpentier 169 Rise of the Novel, the 8 Ritsafn e Steinar Sigurjónsson 27,137 Ritþing 1 156 Robbe-Grillet, Alain 142 Rodoreda, Mercé 169,181-4 Rulfo, Juan 169,173-5,189 Sabato, Ernesto 168, 178-181 Sáðmenn e. Steinar Sigurjónsson 84 Saga af sæháki... 169 Sagan af Ara Fróðasyni og Hugborgu konu hans 49,69,74,75,82,88,107,110-12,132,144 Sagan af brauðinu dýra e Halldór Laxness 51,152, Sagan af manni sem fékk flugu í höfuðið 68-9,76,84,87-8,131,144, Salka Valka 8,192 Saltkorn í mold e. Guðmund Böðvarsson 170 Saman lagt spott og speki e. Þórð Sigtryggsson 17,32, Sannar sögur 31,32,50,64,134 Shakespeare, William 4 Sigfús Bjartmarsson 166 Sigfús Daðason 141 Sigríður Albertsdóttir Sigrún A. Eiríksdóttir 190-193 Sigrún Klara Hannessdóttir 151 Sigurður A. Magnússon 27,35,142, Sigurður G. Valgeirsson 36,66,72,94,99,110, Sigurður Hróarsson 41,52,70,103, Sigurjón Björnsson 144 Silfurhesturinn 136-9 Skáldið í New york e. Garcia Lorca 166 Skáldinu lætur að látast. 156 Sléttan logar e. Rulfo 189 Sóleyjarsaga 15-17 Sólon Islandus 9 Sólveig S. Jónasdóttir 69 Sonata quasi una fantasia 15 Speglun : ljóð 16 Stadler 168 Stefán Íslandi 92, Stefán Snævarr 4 Steinar Sigurjónsson 7,10,25-29,33,44,65,84,136-7,196 Steinn Steinarr 51,74,152, Steinunn Haraldsdóttir 66-8,101-3, Steinunn Inga Óttarsdóttir 45, Steinunn Sigurðardóttir 39 Stendhal 35 Stifter 55 Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns 15 Sú kvalda ást sem hugarfylgsnin geyma 45-6,73-4,84-5,99,103,105,108,122-3,132,134,148,150,198 Suðrið e. Borges 169-70, 189-90 Svanurinn 86,88,96,99-100,104,148, Svefninn langi e. Chandler 169 Sveinn Skorri Höskuldsson Sverrir Hólmarsson 36,60,140-141 Sæmundur fróði hinn nýi reiðir selinn... 162 Sæunn Ólafsdóttir 33-5,72 Tannhauser e. Wagner 12 Thor Vilhjálmsson 6,10,18, 20-25,139,196 Tímaþjófurinn e. Steinunni Sigurðar 139nm Tómas af Aquinas 6 Tómas Guðmundsson 51,152, Tolstoj, Leo 5 Tómas Jónsson metsölubók 30,32-6,39-44,50-53,68,72,78,89,92,99,103,117,130-31,136,138-9,141-3,148,154,196-7 Tóta og táin á pabba 61-3,146-7, Trakl 168 Tsjekoff 55 Ulysses (Ódysseifur) e. Joyce 14,15,26-7,33,196 Um ástina og annan fjára 169 Um þýðingar 165,187 Undraborgin 168,175-7,193-5 Undrið milli læranna 59 Úranía e. Flammarion 13 Valgerður Bjarnadóttir 87 Vefarinn mikli frá Kasmír e. HKL 140 Verðandi rithöfundur 150 Veronika ákveður að deyja e. Coelho 169 Vésteinn Ólason 138 Víðáttumikli maðurinn 58-9 Vigdís Grímsdóttir 39, Víkingur Kristjánssson 60,72, Vilmundur Gylfason 87 Vitjað nafns 56 Vorhænan og aðrar sögur 30nm,58,81,150 Vögguvísa : brot úr ævintýri 14,15,17-18,27 Wagner, Richard 12 Watt, Ian 8 Wolf, Virginia 83 Það rís úr djúpinu 32,59,74,76,83,87-8,93,109-110,115-18, Það sefur í djúpinu 31,32,40,51-2,67,71, 82-3,87, 93-4,106-7,111,118-19,143 Það var nú þá e. Elías Mar 17,18 Þarna flýgur hún Ella Þegar hann steig í stólinn 59 Þetta henti á föstudaginn var 59,94 Þjóðarbókhlaða Íslands 5,7 Þóra K. Ásgeirsdóttir 86 Þórbergur Þórðarson 33,45nm,74,140 Þórdís Björnsdóttir 114-15, Þórður Einarsson 135-6 Þórður Sigtryggsson 17,32,35 Þorgeir Þorgeirsson 37-9,140,141,187-8 Þorsteinn Antonsson 7,13,17,19,32, Þorsteinn Þorsteinson 168 Þorvaldur Kristinsson 47-8, Þórunn Elfa Magnússdóttir, skáld 51,152 Þröstur Helgason Þuríður Kvaran 139-40 Þúsund og ein nótt 53, Ævinlega e. Guðberg 31,39,42 o.áfr,,49,75-6,79,82,100,107-9,131-2, Ævintýrið 59 Ævintýri úr frumskóginum e. Quiroga 169 Öll dagsins glóð 168 Örn Ólafsson 5,164