tirsdag den 14. juni 2011

Rauðu pennarnir3


6. kafli


Seinna skeið bókmenntahreyfingarinnar


Hér segir frá stefnubreytingu hreyfingarinnar á árinu 1936, og starfi hennar síðan.


6.1. Samfylking


Kommúnistar boðuðu oft samfylkingu, þegar á fyrstu árum íslenska flokksins. En þá var sú stefna túlkuð þannig, að kommúnistar ættu að reyna að fá sósíal­demó­kratíska verkamenn til samstarfs um einstök sameiginleg baráttumál, gegn leiðtogum sósíaldemókrata. Hitt var brottrekstrarsök að boða samstarf við þessa leiðtoga, eins og við höfum rakið (í k.3.1.), og harðnaði sú afstaða stöðugt fyrri hluta árs 1934. Tugir manna voru þá reknir úr Kommúnistaflokki Íslands, og allt virtist stefna að því að Einar Olgeirsson yrði hrakinn úr flokkinum ásamt nánustu fylgismönnum sínum.


En þá gerðist óvæntur leikur í tafli. Sjálf alþýða Parísarborgar þusti út á göturnar, hundruðum þúsunda saman, Einari til bjargar, og bjargaði um leið Kommúnista­flokki Íslands frá því að verða einangraður smáhópur. Að sjálfsögðu hafði hún önnur markmið í huga. Þetta var 12. febrúar 1934, og var svar hennar við árásum franskra fasista á stjórnstöðvar í París, einkum þinghúsið, 6.febrúar[1]. Í sjálf­sprottnum aðgerðum alþýðu, æ fjölmennari, var krafist samvinnu kommúnista og krata gegn fasistum. Forysta franska kommúnistaflokksins þumbaðist við, og hélt áfram að ráðast á „höfuðandstæðinginn“ — sósíaldemókrata. En Stalín sneri við blaðinu, enda höfðu þýskir nasistar reynst miklu öflugri en kommúnistar höfðu talið. Og nú kom stefnubreytingin mikla til samstarfs við krata, leiðtogar kommúnista­flokka voru kvaddir til Moskvu vorið 1934 til að meðtaka hana, og í júní krafðist t.d.Thorez, leiðtogi franskra kommúnista „einingar með sósíalistum, hvað sem hún kostar!“ (Robrieux, 409). Einangrunarstefnan var enn boðuð í Verklýðsblaðinu 11. júní 1934, en 16. júní kom í Verkamanninum á Akureyri yfirlýsing flokksstjórnar sem tók afstöðu með Einari Olgeirssyni, en gegn gagnrýnendum hans, og 23. júlí kom stefnubreytingin endanlega fram í Verklýðsblaðinu í greininni: „Fram til fjölda­starfsins“ — sem er frá flokksstjórn. Það er ekki mjög fróðlegt plagg, miðað við aðstæður. Engin pólitísk greining er þar á því, hvað hafi verið rangt við fyrri stefnu, né hversvegna — enda hefði slík úttekt væntanlega þýtt endalok Íslandsdeildar Komintern. Raunar er fullyrt að stefna flokksins sé rétt, og hafi alltaf verið, en hafi verið framfylgt með „röngum og þjösnalegum aðferðum“ (Ingólfur Jóhannesson, bls. 55–57).


Hér hefur verið rakinn nokkuð pólitískur klofningur verkalýðsfélaganna. Á mik­ilvægum vinnustöðum voru iðulega tvö verkalýðsfélög, annað undir stjórn krata, en hitt kommúnista, en meirihluti verkafólks var ófélagsbundinn. Eftir að samfylk­ingarstefnan kom til sögu, tókst oft að skipuleggja sameiginlega baráttu alls þessa fólks fyrir kjarabótum. Og samfylkingin náði til 1. maí aðgerða í Reykjavík 1935, auk þess sem samningur var gerður milli kommúnista og Alþýðuflokks í Vest­manna­eyjum um samstarf í verkalýðsmálum og bæjarmálum, haustið 1935 (Jón Rafnsson 1957, bls. 217, 224–5).


Kommúnistar efldust verulega í þessari samfylkingarbaráttu, svo sem sjá má af kosningafylgi (8.tafla.). Kjörfylgi þeirra hafði dalað hlutfallslega í júníkosningunum 1934, þegar einangrunarstefnan stóð sem hæst. En nefna verður, að Gunnar Bene­dikts­son skýrði það a.m.k. að nokkru leyti með mjög róttækri stefnuskrá Al­þýðu­flokksins, sem þá hafði verið tvö ár utan stjórnar, og jók nú fylgi sitt (úr 19% í tæp 22%. sjá Ingólf Jóhannesson, bls. 59). Næst voru kosningar 1937, og kosn­inga­barátta kommúnistaflokksins mótaðist af samfylkingarstefnunni, flokkurinn lagði áherslu á að bjóða ekki fram þar sem Framsókn eða Alþýðuflokkur stæði tæpt, því hinum megin var „Breiðfylking“ Sjálfstæðisflokks og Bændaflokks (skírð eftir Falange Francos, sögðu andstæðingar hennar). Varð Breiðfylkingin undir, og þakk­aði Einar Olgeirsson það þessari stefnu Kommúnistaflokksins, 1980 (A,bls. 77). Og þá vann Kommúnistaflokkurinn verulegan sigur, fór úr 6% í 8.5% og komst loks á þing, fékk þrjá þingmenn.


6.2. Til varnar menningunni


Samfylkingarstefnan var bandalag um einstök málefni, og því eðlilegt, að hún yrði ekki samtímis á öllum sviðum. Alþjóðasamband kommúnista hélt 7. og síðasta þing sitt í ágúst 1935, og gerði formlega þá breytingu á stefnu sinni sem orðið hafði í raun rúmu ári fyrr. Skyldu kommúnistar nú hvarvetna reyna að samfylkja með kröt­um — og öðrum tiltækum öflum gegn fasismanum. Í samræmi við þessa stefnu var haldið alþjóðlegt þing rithöfunda til varnar menningunni, í París, 21.–25. júní 1935. Þar var stofnað „Alþjóðasamband rithöfunda til varnar menningunni“ (hér skammstafað: ARTVM). Í því voru auk kommúnista og annarra vinstrimanna margir kunnir borgaralegir rithöfundar, svo sem stefnan hljóðaði upp á. En þá brá svo við, að ekki taldist lengur þörf fyrir byltingarlist, sem Alþjóðasamband byltingarsinnaðra rit­höf­unda átti að efla, og um það var stjórn þess ekki að spyrja aðildarfélög, hvað þá að kalla saman þing sambandsins. 19. des.1935 gaf stjórnin út tilkynningu um að að Alþjóðasambandið væri lagt niður, og skoraði á aðildarfélög þess að ganga undan­tekningarlaust í nýja sambandið (Kristinn E. Andrésson 1971, bls. 138–9). Á sama hátt var svo 3. Alþjóðasamband kommúnista lagt niður af forystu sinni, nokkrum árum síðar. Í stefnuskrá ARTVM er samnefnarinn „að verja og varðveita“, en ekki að bylta eða skapa nýtt. Þar segir m.a.:


Markmið þessa félagsskapar er:


a) að verja menninguna,


b) að koma á fót viðkynningu og sambandi, þjóðlegu og alþjóðlegu, meðal rit­höfunda,


c) útbreiðsla bókmennta sem listgildi hafa.


Félag byltingarsinnaðra rithöfunda fékk þetta bréf rétt eftir að það gaf út Rauða penna fyrsta sinni. Kristinn svaraði 5.feb. 1936 og sagði að félagsmenn Fbr. hefðu rætt málið, en ekki tekið endanlega ákvörðun. „Fyrst viljum við ná tengslum við hið nýja samband og kynnast markmiðum þess, og síðan munum við óðar víkka hóp okkar eða mynda nýtt félag.“ segir í þýðingu hans 1971 (bls. 138). Í þessu bréfi segist Kristinn hafa skrifað ARTVM og senda afrit þess bréfs með þessu (það hefi ég ekki séð). Hann biður Alþjóðasamband byltingarsinnaðra rithöfunda um milli­göngu við ARTVM. Hvort sem hún hefur valdið, eða bréf Kristins sjálfs til ARTVM, þá fékk hann nú boð um að fara á þing þess í London, 19.–23. júní 1936 og fór. Frá því segir hann í viðtali í Verklýðsblaðinu 15.júlí 1936 (og 1971, bls. 141–9). Á þinginu var rætt og ályktað um nauðsyn þess að mynda sem víðtækasta samfylkingu gegn fasismanum, einkum á menningarsviðinu. ARTVM skyldi gefa út 12 bækur árlega frá ýmsum löndum, og á 3–4 tungumálum (auk þýðingaútgáfu ein­stakra landssambanda). En aðalverkefnið skyldi verða útgáfa nýs alfræðirits, því:


Menningararfur fortíðarinnar er fallinn sundur í mörg ósamstæð brot. Við eigum ekki lengur neinn fastan sameiginlegan menningargrundvöll, eins og t. d. átti sér stað á 18. öld. Þetta felur í sér hina stórkostlegustu hættu. Af þessum ástæðum villast menn yfir til fasisma, sem aðeins tengir við eitt brot fortíðararfsins og færir það út í öfgar og fásinnu. Hin mikla nauðsyn nútímans er sú, að við eignumst sam­eiginlegan þekkingargrundvöll, og getum vitað með fullkominni öruggri vissu, reistri á vísindum og reynslu kynslóðanna, hvar við stöndum þekkingar­lega í dag. (Kristinn1936 C)


Hér má virðast sem aftur hafi verið snúið til stefnu Leníns og Trotskís, sem ríkti í Sovétríkjunum fram eftir 3. áratugnum. En munurinn er í fyrsta lagi andmarxísk trú á endanlega þekkingu, í öðru lagi virðist nú lítt eða ekki fylgja gagnrýni á stéttarleg viðhorf í menningararfinum, né viðleitni til að láta andstæður takast á, áherslan er öll á samnefnarann, andstætt nýsköpun. Hana boðaði þó André Malraux á Lundúna­þinginu, og að sífelld gagnrýni ætti að ráða alfræðiritinu. Malraux var kjörinn forseti ARTVM og átti sá frami rætur að rekja til skáldsögu hans Hlutskipti manns (sem birtist 1933).


Kristinn skrifar nú ARTVM 21. júlí 1936, rétt fyrir brottför sína frá London. Hann segir stuttlega frá Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda og biður um tafarlaus svör við því,


1. hvort hann geti komið fram á Íslandi sem félagi í alþjóðanefnd ARTVM – þannig túlki hann fundarboðið.


2. hvort ARTVM samþykki tillögu hans um stjórn Íslandsdeildar, að hana skuli skipa Halldór Laxness, sem sé óumdeilt mesti rithöfundur Íslands nú, Jóhann­es úr Kötlum, mesta öreigaljóðskáld Íslands, og Halldór Stefánsson, besti smásagnahöfundur öreigahreyfingarinnar á Íslandi.


3. hvort það samþykki að Kristinn skipi ritstjórn alfræðiritsins fyrir Íslands hönd.


4. Þér verðið að gefa mér nákvæmar leiðbeiningar um hvernig ég á að starfa þegar ég kem heim.


Upp frá þessu lítur Fbr á sig sem deild í ARTVM, það sést enn á grein Björns Franssonar: „Spánarför“ í Rauðum pennum III(bls.14), þar sem hann segir að


félag hinna róttæku rithöfunda í Reykjavík [...] hefur sömu stefnuskrá og hið spánska félag: Verndun menningarinnar frá fasistískri villimennsku, sameiningu alþýðunnar til varnar frelsi og sjálfstæði.


— Þetta er allt annað en sú stefnuskrá Fbr sem við kynntumst í þriðja kafla, en ekki fer neinum sögum af því að stefnuskrá félagsins hafi nokkurn tíma verið breytt, t.d. nefnir Kristinn það ekki 1971[2].


4. atriðið í bréfi Kristins hér að ofan má þykja undarlegt. En það sýnir vitund hans um róttæka stefnubreytingu frá því sem hann og félagar hans höfðu verið að gera á Íslandi. Það sést líka glöggt ef borin er saman grein sem hann skrifaði uppúr Lundúnaþinginu, 1936 (E) við stefnumarkandi grein hans í I. bindi Rauðra penna, árið áður, „Ný bókmenntastefna.“ Þar sagði hann (bls. 40), að borgaraleg skáld verði að ganga alla leið, annars eigi þau „á hættu að fyrirgera þeim þroska, sem náin tengsl við verklýðshreyfinguna og marxismann geta ein veitt.“ En 1936 (E, bls. 205) segir hann: „Er það verkefni þessarar ritgerðar að gera nokkra grein fyrir menningar­aðstæðunum, eins og þær eru nú, og sérstaklega þeim breytingum, sem orðið hafa síðan „Rauðir pennar“ komu út í fyrra“. Í framhaldi af því rekur Kristinn ítarlega sigurvinninga fasismans og árásir hans á kommúnista, sósíaldemókrata og frjáls­lynd, borgaraleg öfl. Niðurstaðan er sú, að þessum aðiljum sé lífsnauðsyn að snúa bökum saman.


Og hvar sem samvinnan var hafin, kom það í ljós, að skoðanamunurinn var ekki til fyrirstöðu. Hinir byltingarsinnuðu og borgaralegu menntamenn gátu fyllilega unnið saman, án minnsta sundurþykkis, að hinu sameiginlega þýðingarmesta hlutverki: verndun allrar menningar fyrir ofbeldi fasismans og gereyðingu kom­andi stríðs. (bls.228)


1971 segir Kristinn um þetta (bls. 139):


byltingarsjónarmiðið lýtur í lægra haldi eða leitar í djúpin, stéttarsjónarmiðin verða ekki eins skörp og áður, heldur víkja fyrir samfylkingarstefnu, samvinnu um skeið milli verklýðshreyfingarinnar og hinna frjálslyndu afla borgarastéttar­innar. Þetta skýrir einnig, hversvegna samheldni hins byltingarsinnaða hóps frá árunum 1932–1935 hélst lengur en annars staðar.


Í þeirri bók, Enginn er eyland, talar Kristinn um samfylkinguna sem tíma­bundið neyðarúrræði, menn verði oft að stíga eitt skref aftur á bak til að geta síðar stigið tvö skref fram (bls. 135). En síðar hafi bara láðst að taka skrefin fram á við (bls.154). 1936 rakti hann hinsvegar hvernig samfylkingarbaráttan auðgi listina (bls. 234–5) og lýsir því á mjög svipaðan hátt og auðgun listarinnar af byltingar­baráttu árið áður. En hvað sem því líður, og þótt allt eigi áfram að standa í fullu gildi sem hann sagði þá um hnignun borgaralegrar menningar, segir hann 1936 (bls. 226):


Í samanburði við villimennsku fasismans er hin borgaralega menning, jafnvel í hrörnun sinni, verðmæt eign, sem menn ekki vilja glata, hvað þá ef litið er á hinn sögulega arf hennar, sem býr yfir dýrum verðmætum í sjálfum sér.


Þessi nýja stefna kommúnista, verndun hefðbundinnar menningar, náði vel til alþýðumanna, sem stundað höfðu sjálfsmenntun með erfiðismunum — og ólíkt bet­ur en fyrri stefna, að hafna núverandi menningu og skapa nýja. Þetta rekur Bernard (bls. 192) um Frakkland, og það sýndi sig líka við stofnun Máls og menningar.


Stefnubreytingin birtist vel í Rauðum pennum frá og með II. bindi, 1936, þar er samfylkingarstefnan boðuð kerfisbundið á ýmsum sviðum, svo sem sést á titlum greina: „Hinir hlutlausu menntamenn“ eftir Gísla Ásmundsson, „Róttækir stúdentar“ eftir Helga Laxdal, „Til þeirra sem ungir eru“ eftir Eirík Magnússon, og Björn Fransson skrifar „Hörmulegar fregnir? eða hræðslan við samfylkinguna“, en sú grein réttlætir Moskvuréttarhöldin og deilir á leiðtoga krata fyrir að vilja ekki sam­fylkja með kommúnistum. Kristinn skrifar langa grein, sem vitnað var til hér áðan: „Er menningin í hættu“ og stutta grein um ármann þjóðlegra mennta: „Sigurður Nordal“. Á sömu lund eru greinar Kristins í IV. bindi: „Eldraunir nútímans“ og „Gefið lífsanda loft“. Enn er í þeim anda í III. bindi grein Sigurðar Einarssonar: „Á líðandi stund“. Skúli Guðjónsson andmælir henni í IV. bindi og vil halda fyrri stefnu. Í III. bindi er og ferðasaga Björns Franssonar frá Spáni á tímum borgara­­stríðsins, en hann var fulltrúi Fbr. á þingi ARTVM þar. M. A. Nexö minnist stjórn­leysingja sem nasistar kvöldu til dauða. Þorvaldur Þórarinsson skrifar afmælisgrein um Sovétríkin í III. bindi, en það er dæmigert að hún heitir: „Tuttugu ár í þágu frels­is og menningar“ (en ekki: byltingar). Allt er þetta fyrst og fremst undir merkjum samfylkingarinnar, en einnig ber nokkuð á almennum greinum um menningarmál, sem hefðu getað birst næstum hvar sem var: grein Sigurðar Thorlacius: „Uppeldis­mála­þing í París 1937“ (í III.bindi), ágæt grein Sveins Bergsveinssonar um van­meta­kennd Íslendinga erlendis; Jóns Þorleifssonar: „Picassó“ og Stefáns Einarssonar: „Einar Hjörleifsson Kvaran“. Þessar greinar eru allar í IV. bindi, og er ljóst hvert þróunin stefnir, frá pólitískri sérstöðu, til að nálgast hin menningartíma­ritin.


„Hin nýja bókmenntastefna“ er samt boðuð áfram, þótt áherslan minnki. Gunnar Benediktsson skrifar í hvert bindi um hnignun borgaralegrar menningar íslenskrar frá frjálslyndinu á 19. öld. Aðalbjörg Sigurðardóttir var víst Framsóknarkona, en hún skrifar ferðasögu í II. bindi, þar sem innihaldið er helst það, að stéttarleg sam­staða reynist betur en þjóðernisleg. Helge Krog útlistar manna best þjóðfélagslegt hlutverk bókmennta og viðtökur þeirra (í IV. bindi), svo sem áður var rakið (lok k.4.1.5.). Enn má hér telja greinar Halldórs Stefánssonar um Maxím Gorkí (II), Jóns Magnússonar um sænsk öreigaskáld (III, sem er raunar takmörkuð við ævi­atriði þeirra og efnivið verka þeirra). Og í grein Kristins E. Andréssonar um Heims­ljós (IV) kemur eins og við sáum (k.4.2.2.) enn fram ósk um fyrirmyndarhetjur í stéttabaráttunni. Öldurnar rísa og falla, en í stöðugu útfiri róttækninnar.


Sama þróun birtist skýrt þegar litið er á skáldverk Rauðra penna. Við sáum (í k.3.4.), að fyrsta bindið einkenndist af baráttubókmenntum, en lítið framhald varð á þeim. Það er helst „Delescluze á götuvíginu“, sem Nordahl Grieg sendi Rauðum pennum II úr þá óbirtu leikriti sínu um Parísarkommúnuna. „Bitur kvöl“ eftir Maxim Gorkí er lýsing á eymd tötraöreiga, „Leiðarlok“ Zweig sýnir dauðastríð rót­slitins rússnesks bónda, sem hermennskan hafði þvælt óravegu frá átthögum hans, „Þegar ég skaut fílinn“ eftir George Orwell er afhjúpun á nýlendustefnunni. Allt er þetta í III. bindi, 1937.


Auk fyrrtalins er ekki hægt að kalla annað baráttuverk en fáein ljóð Jóhannesar úr Kötlum, og „Þjóðvísu“ Steins (sjá 17. töflu). Ekki get ég séð neinn sameiginlegan þráð í hinum ópólitísku skáldverkum, nema í ljóðaþýðingum, að þær eru nær allar gerðar af Magnúsi Ásgeirssyni og yfirleitt góð verk. Átján þýdd ljóð taka jafnmikið rúm og 33 frumsamin (63/64 bls.).


Næstum allt bókmenntaefni I. bindis má telja þjóðfélagslega róttækt, en hlutur þess minnkar stöðugt, ár frá ári, niður í rúman helming, og er frekar þjóðfélagsádeila en baráttuverk, sem voru eingöngu ljóð og þýddar smásögur (sjá töflu 17 b.). Því er það að Rauðir pennar birta æ meir verk eftir nýliða, sem ekki hafa neitt róttækt fram að færa, það er ólíkt stefnu Félags byltingarsinnaðra rithöfunda framanaf. Ólafur Jóhann sagði 1981 að Kristinn hefði raunar viljað fá samfylkingarstefnuna fram í skáldverkum Rauðra penna, eins og byltingarstefnuna áður. En skáldin hefðu ekki getað skrifað þannig, og þá hefði Kristinn tekið því vel. Samfylkingar­stefnan birtist þá þannig í tímaritum róttæklinga, að ópólitísk verk birtast í bland við þjóðfélagsádeilu, en áfram er ráðist á kunnustu „borgaraleg skáld“ svo sem Davíð Stefánsson og Guðmund Hagalín.


Með stækkun Réttar 1937 breytist bókmenntaval hans verulega. Áður var nefndur breyttur boðskapur í kvæðum, þjóðernisstefna kemur fram 1936, en einnig fjölgar íslenskum smásögum, jafnframt því sem minna ber þar á pólitískum boð­skap. Halldór Stefánsson á eina smásögu í hverju hinna níu hefta árgangsins 1937, Halldór Laxness á eina sögu í árganginum og tvær greinar. Þannig næst jafn­vægi á næsta ári, þá höfðu birst 24 frumsamdar smásögur gegn 26 þýddum frá 1926. Flestar eru á einhvern hátt þjóðfélagsgagnrýni, fáeinar hafa þar að auki bylt­ingar­boðskap (sjá k.4.2. persónur). Einnig koma fyrir ópólitískar sögur; eftir Halldór Stefánsson „Fyrsta ástin“ (1933), „Siðaskipti“ og „Sættir“1937; sama ár „Fundin Indíalönd“ eftir Halldór Laxness.


6.3. Þjóðernisstefna sósíalista


Hver gat verið grundvöllur sem víðtækastrar samfylkingar gegn fasismanum? Á menningarsviðinu varð svarið: alþýðumenntun, svo sem brátt verður að vikið.


En þjóðernisstefna varð líka áberandi — í samfylkingu gegn fasistum, sem öllum voru þó þjóðernissinnaðri. Alþjóðasamband kommúnista ályktaði á þingi sínu 1935, að kommúnistar hefðu vanrækt þjóðernistilfinningar alþýðu og eftirlátið fasistum þetta svið, með hörmulegum afleiðingum (sjá Ályktun þess 1935, bls. 198–9). Og þann lærdóm drógu íslenskir kommúnistar af þinginu, segir Kristinn 1971 (bls. 153–4). Allt frá 1936 óx þjóðernisstefna í Sovétríkjunum (sjá t.d. Bernard, bls. 126–8).


Önnur skýring á þessari stefnubreytingu kom fram hjá Trotskí[3], að við vaxandi einræði í Sovétríkjunum hafi ráðamenn þar talið valdi sínu ógnað af alþjóðasambandi byltingarflokka, en á árunum 1924–39 hafi þeir beygt það, fyrst til einangrunar­stefnu, síðan til stéttasamvinnustefnu, þegar stríðshættan jókst, loks til friðsamlegrar sambúðar við nasista. Jafnframt hafi gyðingahatur aukist með veldi þeirra, frá því um miðjan 3. áratuginn, vegna þess, að hæfa stjórnsýslumenn víðsvegar um Sovét­ríkin hafi helst verið að finna meðal menntaðra borgarbúa, en þar var hlutfall gyðinga hátt, fulltrúar stjórnvalda gagnvart almenningi voru því einkum gyðingar. Sovéskir valdhafar hafi beint reiði almennings gegn þessum minnihlutahóp, með því að taka upp rússneska þjóðernisstefnu, einkum þegar þeir hafi talið forréttindum sínum alvarlega ógnað af stríðshættunni, sem þeir hafi brugðist við með ógnaröld­inni miklu, 1936–8.


Hér hafa verið nefndar mismunandi skýringar, en vitaskuld skal hér ekki leitast við að skera úr um orsakir þjóðernisstefnu kommúnista, hitt skiptir meiru, að hún kom fram víða um lönd á seinni hluta 4. áratugsins. T.d. fór franski kommúnista­flokkurinn að leggja áherslu á þjóðernisstefnu á þingi sínu í janúar 1936, og á stétta­samvinnu; skoraði á franskan verkalýð að vinna betur, framleiða meira. Þetta var þó áður en ríkisstjórn alþýðufylkingarinnar kom til valda. Og þessa gætti þegar á Parísar­þingi rithöfunda til varnar menningunni, í júlí 1935. Þar hélt Paul Eluard ræðu fyrir hönd surrealista[4]. Þeir hneyksluðust þar á því, að kommúnistaflokkur Frakklands skyldi farinn að tala um þjóðlegan menningararf, vísuðu til orða Marx um að öreigarnir ættu ekkert föðurland, og sögðust sækja til almenns menningararfs, t.d. til þýsks, ekki síður en til fransks (Bernard, bls.105–6)[5].


Þjóðernisstefna var hvarvetna í mikilli framsókn á þessum síðustu og verstu tím­um, sagði Sigurður Einarsson í Rauðum pennum III, 1937 (B). Hann kenndi því um, að á þessum krepputímum leiti menn aftur í tímann eftir öryggi frá vandamálum sem þeir skilji ekki og ráði ekki við, því blossi upp dulhyggja og þjóðernisstefna. Sigurður taldi að vinstri menn yrðu nauðugir viljugir að fylgja þessari afturvirku sveiflu, sýsla við þjóðleg fræði, þau gætu glætt sjálfsskilning manna, meðan þeir þraukuðu af þennan andlega vetur.


Skúli Guðjónsson svaraði því til, 1938, að afturhvarfið nái aðeins til mið­stétt­anna, því alþýðan hafi ekkert haft að missa, og hafi því einskis að sakna. Því verði að berjast gegn þessum stéttarframandi boðskap Sigurðar um að hopa.


En reyndar mun fleira hafa valdið stefnubreytingu kommúnista á Íslandi. 1938 (I) birtir Kristinn greinina „Eldraunir nútímans“ í Rauðum pennum. Þar kemur skýrt fram, að hann óttast innrás Þjóðverja í Ísland, studda af íslensku afturhaldi. Rök hans eru þau, að Þjóðverjar eigi eftir miklu að slægjast á Íslandi: „góðri aðstöðu í heimsstyrjöld“ — það sannaðist áþreifanlega síðar, því þótt örðugt hefði orðið fyrir Þjóðverja að halda landinu, þá hefðu þeir með hernumdu Íslandi haft miklu betri aðstöðu í orrustunni um Atlantshafið en varð. Þetta var og sú ástæða sem bresk stjórnvöld gáfu fyrir henámi Íslands. Auk þess telur Kristinn að Þjóðverja langi í hin auðugu fiskimið og ofgnótt landrýmis. Af atburðum undangenginna ára ályktar hann, að verjast verði þessari hættu á moldvörpustarfsemi Þjóðverja með þjóðar­samstöðu gegn nasisma, fyrir verndun sjálfstæðis Íslands og lýðréttinda, en einkum hagsmunasamtaka alþýðu. Árás á þau sé alltaf fyrsti liður í undirbúningi fasísks alræðis (bls. 234–6). Einar Olgeirsson hefur haft sömu skoðun á innrásar­hættunni (sbr. rit hans 1980 A, bls. 82).


Þegar þess er gætt, hve rík þjóðerniskennd Íslendinga var, allt frá 19. öld, þá verður að ætla, að þarna hafi verið góður grundvöllur fyrir víðtækt bandalag róttækl­inga við önnur öfl. Auðvitað voru róttæklingar sjálfir mótaðir af þessari ríkjandi þjóðernisstefnu frá blautu barnsbeini. En þeir höfðu risið gegn henni, fyrst í nafni menningarnýjunga, síðan í nafni alþjóðahyggju sósíalismans. „Minningarhefti Réttar um þúsundáraríki yfirstjetta á Íslandi“ (k.4.1.) sýnir best hug þeirra gagnvart þjóð­ernis­stefnu 1930, einnig t.d. þessi orð Kristins, 1933 (A, bls. 37): alþýðan


hafði verið tæld út í stríðið til að þjást og deyja fyrir innihaldslaust hugtak: föður­landið.[...] Heimurinn greinist skýrar og skýrar í tvær þjóðir, ekki eftir kynstofnum eða tungum, heldur stéttum.


Andstæð þessu voru sjónarmið t.d. Þórbergs Þórðarsonar, sem 1935 (B, bls. 188–197) gerði þjóðirnar, þýsku og rússnesku ábyrgar fyrir stjórnmálaþróun hjá þeim eftir fyrri heimsstyrjöld.


Kristinn heldur því fram 1971 (bls.153) að jafnframt byltingarstefnu sé þjóð­ernis­stefna þegar í Rauðum pennum 1935, enda sé hún þá að rísa að nýju. Þar nefnir hann sem dæmi greinar Halldórs Laxness: „Kjarval“ og „Um þjóðlega tónlist“ og greinar sjálfs sín (1935, I og A). Í þeim síðarnefndu séu þetta leifar gam­allar afstöðu, en hjá Halldóri upphaf nýrrar. Vissulega er þessi afstaða þarna, en það er undantekning hjá vinstrimönnum fram yfir miðjan 4. áratuginn. Það er því breytt­ur tónn þegar Kristinn segir 1937 (A, bls. 178–9), að hin róttæku skáld líti á það sem „sitt mikla hlutverk, að skapa íslensku alþýðunni, íslensku þjóðinni, menntun og frelsi“.


Þegar róttæklingar nú hverfa aftur að þessum viðhorfum sem þeir höfðu lengi reynt að losa sig við, liggur næst að leita menningarverðmætanna aftur í aldir, í menningararfi þjóðarinnar. Þannig talar Jóhannes úr Kötlum í viðtali við Einar Ol­geirsson um nýútkomna ljóðabók sína, Hrímhvíta móðir, og segir þar á meðal: „Alþjóðlegur sósíalismi sem blæs nýju og dýpra lífi í öll hin þjóðlegu verðmæti — það er mín skoðun“, því fylgi hann hefðbundnu formi. En vissulega vill hann að einnig þessi bók eggi alþýðu til baráttu. Einar talar á líka lund í formála að viðtalinu (sbr. og Kristin1936 E, bls. 219–20). Þremur dögum áður skrifaði Einar í Þjóðviljann (1937, B):


Rauðir pennar eru nú komnir út — í þriðja sinn. Og svo ör er þróunin hér heima nú, að hver útkoma táknar nýtt þroskastig þess málefnis er þeir eru helgaðir.


1935 boðuðu fyrstu „Rauðu pennarnir“ sósíalismann, en útlendu áhrifin í þeirri boðun voru sérstaklega áberandi [...] 1936 voru „Rauðir pennar“ orðnir áþreifanlega íslenskir — og nú 1937 tákna þeir sterka andlega hreyfingu í landinu, sem þegar er skipulögð í bókmenntafélaginu „Mál og menning“. Rauðir pennar eru orðnir málgagn þessarar hreyfingar, sem setur sér það mark að vernda með öllum krafti og kyngi máls vors þá menningu sem fortíðin hefur besta gefið og nútíminn best varðveitt og bætt — þá menningu sem fasisminn, — Níðhögg­urinn[...] ætlar sér að tortíma.


Einar talar síðan um Fjölnismenn og Verðandimenn sem samherja aðstandenda Rauðra penna.


Enn hástemmdari er tónninn þegar stjórn MM er að boða útgáfu ritsafnsins Arfur Íslendinga, 1939 (bls. 49):


hér er verið að vinna menningarstórvirki, hér er verið að vernda minjar þjóðar­innar, glæða þjóðartilfinninguna, leggja grundvöll að dýpri skilningi á landi og þjóð.[auðkennt af E.Ó]


Héðan af tala róttæklingar æ oftar um íslensku þjóðina sem eina heild, með tiltek­in viðbrögð og viðhorf. Auðvitað var hún það líka, að verulegu leyti, eins og aðrar þjóðir. En hver byltingarmaður taldi sér skylt að berjast gegn þessari þjóðareiningu, sem hlaut að byggjast á sérhagsmunum ríkjandi stéttar, samkvæmt marxismanum. Nú verða æ fleiri borgaraleg sjónarmið ofan á hjá róttæklingum. Í grein um Matthías Jochumsson rekur Kristinn (1938, bls.157–8) hæfileika hans til þess, að hann hafi verið kominn af valdsmönnum sem uppi voru á 15. og 16. öld! Jóhannes úr Kötlum skrifar um öræfi Íslands, 1938 (B, bls.18): „enn vilja Íslendingar kunna skil á þeim öflum, sem hafa mótað þá mest, og því, þrátt fyrir allt, standa hjarta þeirra næst“.


Einhverntíma hefðu það þótt tíðindi, að róttæklingar teldu grjót og jökla móta Íslendinga í ríkara mæli en stéttaþjóðfélagið. Þessu sjónarmiði mótmælir Kristinn E. Andrésson í ritdómi um Guðmund Daníelsson 1941 (C, bls. 205), en t.d. Gunnar Benediktsson gengur út frá því 1954 (tekið eftir Eysteini Þorvaldssyni, bls. 175).


6.4. Bókaútgáfa hreyfingarinnar


Kommúnistar fóru snemma að gefa út sérstaklega bækur og bæklinga. Áður en þeir greindust frá öðrum Alþýðuflokksmönnum má nefna: Byltingin í Rússlandi eftir Stefán Pétursson, 1921, útgefandi „Nokkrir menn í Reykjavík“. Eins er um Komm­ún­ista­ávarpið, 1924, en það kom út á Akureyri, hjá Jafnaðar­manna­félag­inu, þar var þá helsta bækistöð kommúnista á Íslandi, og lengi síðan. Eftir að komm­ún­istar tóku við útgáfu Réttar, varð bæklingaútgáfan á hans vegum, enda oftast sérprentanir úr honum (sjá 19.töflu).


Framanaf voru þessi rit afgreidd hjá umboðsmanni Réttar, Jóni Guðmann kaup­manni á Akureyri. Eftir stofnun Kommúnistaflokksins fluttist Réttur til Reykja­víkur, þó ekki fyrr en 1932. En 1931 auglýsti „Bókaverslun alþýðu h.f.“ í Reykja­vík þessa pésa og ýmis önnur rit. Hún hefur þá sama heimilisfang og síma og af­greiðsla Verklýðsblaðsins, er semsé bara annað nafn á henni, enda er stundum sleppt þessu heiti, og auglýst einfaldlega að bækur þessar fáist á afgreiðslu Verk­lýðs­blaðsins.


Bókaverslunin Heimskringla kom svo í stað þessa, með sömu íslensku bækl­inga. En ný sending hefur borist af erlendum skáldverkum, því nú eru þau mest á dönsku og svolítið á ensku, en voru á þýsku áður, fáum aðgengileg á Íslandi. Versl­unin er nú ekki á sama stað og afgreiðsla Verklýðsblaðsins, hún var fyrst í sama húsnæði og Alþjóðasamhjálp verkalýðsins (ASV) og Sovétvinafélagið, en hefur verið sjálfstæð bókaverslun síðan 1935, og heitir Bókabúð MM síðan 1942.


6.4.1. Heimskringla


Kristinn E. Andrésson bendir á það1971 (bls.100):


að í Verklýðsblaðinu 12. mars 1934 er birt auglýsing um erlendar bækur og undir henni stendur Bókaútgáfa Heimskringlu, Egilsg.22, Rvík. Það sem því í rauninni gerist á [stofn]fundinum 5. sept. það ár er að Heimskringlu er breytt í hlutafélag og hún þar með formlega stofnuð sem bókaútgáfa og verslun. Enginn vafi leikur á því að Einar Olgeirsson hefur átt bæði frumkvæði og framkvæmd að stofnun Heims­kringlu, en á undan henni starfaði „Bókmenntafélag jafnaðarmanna“ [nmgr.: áður var Jafnaðarmannafélag Íslands frægt af útgáfu Alþýðu­bókar­innar eftir H.K.Laxness.] sem gaf út bæði Brotið land eftir Maurice Hindus, og Ævintýrið um áætlunina miklu eftir Ilin, en Vilmundur Jónsson, síðar landlæknir, þýddi þær báðar. Og eins og sjá má innan á kápu hinnar síðarnefndu, sem kom út 1932, eru þá í stjórn þessa bókmenntafélags: Ingimar Jónsson, Guðbrandur Jónsson, Eggert P. Briem, Hallbjörn Halldórsson og Þórbergur Þórðar­son.


Líklegt er að framan af hafi verið einhver samvinna með þessu bókmenntafélagi og Heimskringlu.


Fyrir þessu síðasta færir Kristinn engin rök né dæmi, og fráleitt væri að líta á Heimskringlu sem eitthvert framhald af Bókmenntafélagi Jafnaðarmanna, sem greinilega er á vegum Alþýðuflokksins (a.m.k. tveir fyrsttaldir stjórnarmenn voru virkir í þeim flokki auk þýðandans), og bókaval þess af öðru tagi; auk fyrrtalinna Sovétbóka gaf það út skáldsöguna Jimmie Higgins eftir Upton Sinclair og Alm­anak alþýðu.


Framangreindur stofnfundur Heimskringlu var haldinn á skrifstofu Einars Ol­geirssonar[6]. Kristinn E. Andrésson var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins, en Ragnar Jónsson (í Smára) varð stjórnarformaður eitthvað síðar (eftir mitt ár 1935, telur Kristinn, s.r. bls. 101–2).


Einar Olgeirsson sagði 1983 (A), að þessir stofnendur hefðu flestir verið í Kommúnistaflokki Íslands, eða nátengdir honum, aðeins betur staddir en almennt gerðist hjá flokksmönnum (t. d. var einn þeirra tollvörður, þ.e. í fastri vinnu, og þar að auki einhleypur!). Stofnhlutafé var ekki nema 1600 kr., það nam útsöluverði einnar bókar í litlu upplagi (rúmlega 300 eintök) á algengu verði (5 kr.). En á fundi félagsins 15. júlí 1935 rakti Kristinn að ef tækist að auka hlutaféð upp í ca. 5000 kr., þar af 3000 kr. til umráða um haustið, myndi útgáfuvelta þessara bóka nema um 10 þús. kr. og væru auðfengin nauðsynleg prentsmiðjulán til að standast kostnað af út­gáfu áætlaðra bóka; Rauðra penna, Samt mun eg vaka og Dauðinn á 3. hæð.


Heimskringla gaf fyrst út bæklinga, svo sem áður höfðu birst hjá kommúnist­um, en einnig fræðslurit um kynferðismál svo sem Katrín Thoroddsen, síðar þing­maður Sósíalistaflokksins, hafði gefið út á vegum Íslandsdeildar Alþjóðasamhjálpar verkalýðsins.


En vissulega urðu þáttaskil í bókaútgáfu kommúnista við stofnun Heims­kringlu (sjá 19. töflu). Á þessum tæpu fjórum mánuðum sem eftir voru af árinu 1934 gaf hún út fjórar bækur; auk framantalinna bæklinga leikritið Straumrof eftir Halldór Laxness. Engin er þar verkalýðsbarátta, fyrirmyndarhetjur, né framtíðarsýn. Leikritið er á mörkum harmleiks og farsa. En vissulega er það fín afhjúpun á því, hvernig borgaralegt samfélag afskræmir fólk, afhjúpun í stíl Ibsens, aðalpersónan minnir verulega á Heddu Gabler, án þess að vera á nokkurn hátt stæling.


Hvað sem þessu líður var Halldór Laxness fremstur í flokki byltingarsinnaðra rithöfunda. Og það eru fyrst og fremst bækur þeirra sem Heimskringla gefur út. Þar má telja allar bækur Halldórs út áratuginn (eftir Sjálfstætt fólk, 1934–5), Jóhannesar úr Kötlum, Steins Steinars, Guðmundar Böðvarssonar, Halldórs Stef­ánssonar, og Gunnars Benediktssonar. Í sama dúr er Líðandi stund eftir Sigurð Einarsson 1938, þótt hann væri krati og líklega ekki í Félagi byltingarsinnaðra rit­höfunda. Ennfremur eru bækur Þórbergs Þórðarsonar, bók Stefáns Einarssonar um Þór­berg fimmtugan, og Rauðir pennar fyrstu tvö árin. Það er áberandi að Heims­kringla er að mjög verulegu leyti útvíkkun á Rauðum pennum, enda sami útgáfustjóri. Af 48 útgáfubókum hennar á árunum 1934–41 eru 26 eftir höfunda Rauðra penna — auk þess rits. Þar að auki eru 5 kommúnískir bæklingar og tvö nýleg sovésk verk. Þessi hluti bókanna er auðvitað ekki allur róttækari en hinn, en þetta eru 3/4 allra útgáfubóka. Auk þessa eru þá fjögur fræðslurit, fjórar barnabæk­ur, og fjórar ljóðabækur.


Þýðingar eru ekki margar. Tvær úr rússnesku eftir skáld sem mikillar hylli nutu í Sovétríkjunum: A. Blok: Hinir tólf 1936 og Leonid Andreev: Sjö menn hengdir 1937. Fyrrtalda ritið er framúrstefnuljóð um sovésku byltinguna, hitt finnst mér ekki á nokkurn hátt róttækt, þótt það fjalli um uppreisnarmenn gegn keisarastjórninni, en Ævintýrið um Hróa hött eftir Geoffrey Trease er þrungið boðskap um alþýðu­uppreisn. Aðrar þýddar bækur eru á engan hátt róttækar.


Útgáfa Heimskringlu fer út fyrir hóp byltingarsinnaðra rithöfunda og útfyrir róttækni þegar árið 1936 með Sigurði Haralz, og 1937 með Sigurjóni Friðjónssyni, sem að vísu birtust báðir einnig í Rauðum pennum. Einnig eru tvær barnabækur Ármanns Kr. Einarssonar. Það var auðvitað nærtækt fyrir Heimskringlu að gefa út lokabindi Andvaka sósíalistans Stephans G. 1938, en þá er útgáfusviðið farið að víkka verulega með alþýðlegum fræðsluritum eftir Hjálmar R. Bárðarson, Arnór Sigurjónsson og Helga Hálfdanarson og skáldverkum eftir Theódóru Thoroddsen, Jón Helgason og Aðventu Gunnars Gunnarssonar. Það hefur verið sölulegasta bókin, ásamt bókum Halldórs Laxness og e.t.v. Jóns Helgasonar[7], svo ekki hafa róttæklingar teygt höfundaval út fyrir eigin hóp til að efla fjárhaginn, heldur væntan­lega til að skapa samfylkingu.


Það virðist nokkuð augljóst að Heimskringla hafi verið stofnuð til að auðvelda fyrrnefndum róttæku höfundum útkomu. Við minnumst þess að á þessum árum þurftu skáld mjög oft að gefa sjálf út bækur sínar, nú stóðu þó skoðanabræður í hópi þeirra saman um það. Og þá er merkilegt að huga að tímasetningum, fyrirtækið fer af stað vorið 1934, með erlendar bækur, aðgengilegri en áður fengust, en sjálf bóka­útgáfan hefst um haustið, fáeinum mánuðum eftir að forystumaður hennar, Einar Ol­geirsson verður yfirsterkari einangrunarsinnum í Kommúnistaflokkinum. En starf­semi Heimskringlu er frá upphafi nokkurskonar brú frá flokkinum til almennings­smekks. Halldór Stefánsson sagði um þetta 1977 (bls. 121):


Stofnun Heimskringlu var auðvitað ákaflega brýn, bæði til að koma út Rauðum pennum og ýmsum skáldverkum sem áttu ekki greiða leið á markaðinn. Að vísu ráku menn sig fljótlega á það að þrátt fyrir feykilegan áhuga var efnahag fólksins þannig farið að margir hverjir höfðu blátt áfram ekki ráð á að kaupa þessar bækur. Ekki fyrr en Mál og menning kom til skjalanna.


Þenslan varð sífellt meiri, sjö bækur hvort árið 1936 og 1937, tíu 1938 og a.m.k. 13 1939. Þessi þensla hefði betur beðið eitt eða tvö ár enn, þegar að því kom, að almenningur hafði loksins fé til bókakaupa svo miklu munaði, Kristinn gefur til kynna 1971 (bls. 102) að þeir hafi kollsiglt sig á þessu, „enda krepputímar miklir og bókaverð okkar lágt“. Líklegri skýring þykir mér vera stjórnmálaátök í lok 4. áratugsins (sbr. k.6.6.).


Stjórnarformaður Heimskringlu yfirtekur svo fyrirtækið, það merkir væntan­lega að hann hafi tekið að sér birgðir og skuldir á sléttu, ekki er annars getið. Þar með hefst hin mikla bókaútgáfa Ragnars í Smára undir ýmsum nöfnum; Helgafell, Unuhús, Víkingsprent o.fl. Hann hafði eitthvað gefið út áður sjálfur, 1936 Kyssti mig sól eftir Guðmund Böðvarsson og Skuggarnir af bænum eftir Ólaf Jóhann; en 1940 Liggur vegurinn þangað? eftir sama. Hann seldi svo Heims­kringlu aftur til Máls og menningar 1945 — feginn að losna við hana, sagði Halldór Stefánsson 1977 (bls.122), en hélt helstu höfundunum, Halldóri Laxness, Þórbergi Þórðarsyni, Gunnari Gunnarssyni, m.a. Væntanlega hefur hann þá getað boðið þeim betri kjör en Mál og menning gat. En þessi ár gilti sama um útgáfu­bækur Ragnars og Heimskringlu, félagsmenn Máls og menningar fengu þær með 15% afslætti (svo sem sjá má á auglýsingum í TMM). Þessi fyrirtæki voru þá kerfuð saman, en ekki í samkeppni sín á milli.


6.4.2. Mál og menning


Áður var hér rakið (í 2. k.) hve örðug bókaútgáfa var á árunum milli stríða. Fáir keyptu bækur, því var verð þeirra tiltölulega hátt, ofar kaupgetu flestra, o.s.frv. Heimskringla gat ekki bætt úr þessu, en til þess stofnuðu þá Heimskringla og Félag byltingarsinnaðra rithöfunda bókaklúbb á árinu 1937 (með ofangreindu ein­kennilega nafni, sem ég hefi hvergi séð skýringar á, en það vísar auðvitað til þess sem nú skyldi vernda og efla, hér er nafnið skst. MM).


Stjórn MM sendi út boðsbréf 17. júní (dagsetningin er stefnuyfirlýsing um að þetta sé framlag til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar) og eru þar tíunduð þau rök sem hér á eftir eru rakin eftir ræðu Halldórs Laxness, sem hann hélt rúmum mánuði síðar, á móti Ungmennafélaganna, 25.júlí 1937 (C. Sbr. Kristin 1971, bls. 331–2). Enn mætti telja ýmsar greinar, t.d. eftir Sigurð Einarsson í Rauðum pennum 1937 (A, bls. 73–4). Hann leggur þar út af fasismahættunni. Gegn henni stoði ekki að sanna menningarfjandskap og glæpi á fasista, heldur það eitt að efla sjálfsvirðingu alþýðu, og þá verði hún að skapa sér „sín eigin menningartæki, sína eigin skóla, sín eigin blöð, sínar eigin bókmenntir“ (bls. 72). Því það sé óbrúanlegt djúp milli hennar og borgarastéttarinnar, því sé höfuðnauðsyn að efla bókasöfn og bókmenntafélög alþýðu, og þá Mál og menningu .


Það er sérkennilegt að Sigurður skuli taka upp sinn gamla málflutning um ör­eigamenningu (frá 1930) til að rökstyðja þetta nýja framtak, sem að inntaki greindist alls ekki frá borgaralegri menningu, heldur vildi veita alþýðu hana. Í þá veru talaði Sigurður líka í annari grein sinni frá þessu ári, „Næturróður“. Á sömu lund hafði Halldór Laxness sagt í tv. ræðu, 1937 (bls.207–8), að fátæktin væri múr á milli alþýðu og menningarinnar, og legði alþýðu undir sjónarmið óvina hennar, enda ynnu þeir dyggilega að því.


Hve oft höfum við [rithöfundar] ekki orðið fyrir þeirri sáru reynslu, að rödd okkar náði aldrei til þeirra, sem við kusum helst að ná tali, þeirra, sem við töluðum til alveg sérstaklega í bókum okkar, þeirra, sem bækur okkar oft og einatt voru skrifaðar fyrir. Aftur á móti komust bækur okkar æfinlega fyrst í hendur þeirra, sem töldu sér mesta hagsmuni í því að bakbíta okkur og níða, en einmitt þessir herrar réðu alla jafna yfir þeim möguleikum, sem okkur skorti, möguleikunum til að láta mál sitt berast sem víðast meðal almennings.


Víðar kemur fram, að Mál og menning átti að rjúfa einangrun róttækra rithöf­unda frá almenningi, en þeir töldu borgaraleg öfl leggja kapp á að viðhalda þeirri einangrun. Þannig segir Kristinn þetta sama ár, 1937 (A, bls. 176), að með Máli og menningu megi sigrast á útilokun róttækra menntamanna og alþýðu frá útvarpi og skólum. Gunnar Benediktsson rekur 1938 (A, bls. 159–163), að bók­mennta­þáttur útvarpsins (undir stjórn Vilhjálms Þ. Gíslasonar) „forðar sér frá því að tala um nokkra bók, sem kemur inná svið þjóðfélagsmála nútímans, beint eða óbeint.“ Stefán Ögmundsson skrifar það ár (bls. 28–30) um Hrímhvítu móður Jóhannesar úr Kötlum, að borgaralegir skriffinnar hafi séð að ofsóknir dugðu ekki, því beiti þeir nú þögninni „gegn öllum hinum róttækari höfundum“.


Það kemur ekki fram hvað Stefán á við með orðinu ofsóknir. Raunar hækkuðu rithöfundalaun Halldórs Laxness mjög[8] 1935, og 1936 komst Jóhannes úr Kötlum inn á fjárlög, ásamt Tómasi Guðmundssyni, fengu 1000 kr. hvor, en 1938 var Halldór Stefánsson tekinn inn með helmingi lægri upphæð (sjá Ríkisreikning þessi ár, 15. og18.gr.).


Hinsvegar virðist mér réttmætt að tala um skipulagða þögn um bækur róttækra höfunda, einkum þó eftir miðjan 4. áratuginn. Eimreiðin birti mjög mikið af rit­dómum, um meira en 60% birtra bókmenntaverka að meðaltali á árunum 1918–44, og er þá hvert smáskáld meðtalið. Hún minnist samt ekki á margar helstu bækur vinstrimanna, svo sem Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar, Jóhannesar úr Kötlum, Halldórs Stefánssonar, Steins Steinars, Sigurðar Einarssonar eða Gunnars Benediktssonar, þótt allt sé tekið fyrir sem kemur frá t.d. Jakobi Thorarensen og Jakobi Smára. Sama gildir um Skírni (sjá 14. töflu).


Nú var höggvið á hnútinn, vítahringurinn rofinn. Áskriftaherferð Máls og menn­ingar tókst með áhlaupi síðari hluta árs 1937.


Það byggðist á þremur atriðum: 1. neti umboðsmanna um allt land, sem kynntu bóka­tilboðið og náðu saman: 2. fjölmennum hópi áskrifenda, þ.e. tryggðri, fyrir­fram tiltekinni sölu á hverri útgáfubók; 3. hópi valinna rithöfunda. Síðasttalda skil­yrð­ið var upfyllt með Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda og Heims­kringlu, þaðan komu einnig sambönd og verkkunnátta í bókaútgáfu. Um­boðs­mannakerfið hefur áreiðanlega fengist í baráttumönnum og stuðningsmönnum verk­lýðsfélaga og annarrar starfsemi á vegum Kommúnista­flokksins undanfarin ár. Þann grun minn staðfesti Einar Olgeirsson 1983 (A): „Flokkurinn setti allt sitt fólk í þetta verkefni“. En eftir því sem félagsmönnum fjölgar hafa svo komið nýir menn til liðs við MM, svo sem sjá má af pistlum um starfsemina í fréttabréfi þess. Í des. 1937 voru þeir ekki „nema á nokkrum stöðum“, en 1. mars 1938 á 24 stöðum (Kristinn 1938 A, bls. 6) og í des. það ár á 49 stöðum um allt land (Kristinn 1938,E, bls. 31–2). Víða kemur fram í „litla TMM“, að þessir umboðsmenn hafa verið áhrifamiklir að sýna vinum og kunningjum bækur MM, kynna þeim kjörin og fá þá í félagið, enda gefur það augaleið.


Útgáfustarf Máls og menningar var mjög mikil nýjung eins og sést best á því, að Rauðir pennar höfðu kostað 10 krónur bindið, en nú skyldu félagsmenn MM fá sex bækur fyrir þetta sama verð. Að vísu minni, en þó 60 arkir prentmáls í stað 15, þ.e. fjórfalt meira. Skilyrði þess var að 3000 áskrifendur fengjust. En það er ekki bara örugg, tiltekin sala, sem MM hafði framyfir Heimskringlu. Félagsmenn MM áttu að greiða árgjald sitt fyrirfram, 1. mars hvert ár. Þá gat MM fengið betri kjör en ella í prentsmiðjum, gegn staðgreiðslu (Kristinn 1937, B, bls. 2).


Eins og alkunna er, tókst þetta vonum framar. Eftir hálfs annars árs viðleitni gat Kristinn sagt, í árslok 1938 (E, bls.1), að þá hefðu félagsmenn fengið 5 bækur, samtals 60 arkir, og að auki 4 hefti af „litla“ TMM, alls 6 arkir, telur hann það vera þriðjungi meira en lofað var. Jafnan fengu menn sinn arkafjölda með skilum fyrstu árin, þótt einhver tilfærsla yrði milli ára (sjá t.d. Kristin 1939 B, bls. 59–60).


Fólk streymdi inn í félagið. Takmarkið var að ná 1000 félagsmönnum fyrir árslok 1937, en þeir urðu 2000. Þá var stefnt að 4000 fyrir 1. des. 1938, en það hafði náðst 1. maí það ár, og í sept. var stefnt að 5000 fyrir árslok. En þá tók að hægja á vextinum, þetta takmark náðist ekki fyrr en 1940.


Flest eintök hafa lent hjá fjölskyldufólki, og bækurnar þar að auki verið lánaðar á milli ættingja, kunningja og vina, líklega miklu meir á þessum fátæktartímum en nú tíðkast, ennfremur hafa þær væntanlega víða verið keyptar af lestrarfélögum og öðrum bókasöfnum. Ekki er gott að segja með hvaða tölu margfalda skal upplagið til að fá út lesendafjöldann, vægt þykir mér það áætlað 4–5. Þá yrði lesendafjöldinn nálægt 30 þúsundum, eða nær fjórðungur þjóðarinnar. Það væri einstæð útbreiðsla, enda þótt mörg heimili forðuðust þessar bækur.


Skipulag Máls og menningar


Á fundi Félags byltingarsinnaðra rithöfunda, 15. júní[9] 1937 var sam­þykkt tillaga Kristins um að stofna Mál og menning í félagi við Heims­kringlu. Félagið kaus Halldór Laxness, Halldór Stefánsson og Eirík Magnússon í stjórn, en Heimskringla tilnefndi þá Kristin og Sigurð Thorlacius (Kristinn 1971, bls. 329–30). Kristinn var svo ráðinn forstjóri Máls og menningar, eins og Heims­kringlu áður.


Skipulagi Máls og menningar var breytt til að gera það sjálfstætt 1940, þegar Kristinn var erlendis. Heim kominn skýrir Kristinn þetta (1940 D, bls. 182):


Vegna hins fjandsamlega áróðurs sem rekinn hefur verið gegn Máli og menn­ingu, hefur stofnendum og stjórnendum félagsins þótt nauðsynlegt að hlaða um félagið sterkari varnargarð mikilsmetinna áhugamanna í Reykjavík [...] Heims­kringla h/f og Félag róttækra rithöfunda hafa afsalað sér rétti til að kjósa stjórn Máls og menningar, en hafa í þess stað tilnefnt 25 manna ráð, er semji ný lög fyrir félagið og kjósi stjórn þess til bráðabirgða, því að annað fyrirkomulag kann að þykja heppilegra síðar.


Lög MM voru birt í TMM síðar sama ár (bls. 262–4) og þykir ekki ástæða til að rekja þau hér, nema að félagsráð skyldi skipað 25–36 manns, kosnum til fimm ára í senn, má endurkjósa. Það skyldi koma saman tvisvar á ári, kjósa fimm manna stjórn, o.s.frv., og endurnýja sig sjálft. Tvo þriðju atkvæða þess þarf til að breyta þessum „bráðabirgðareglum“ og hefur það aldrei verið gert.


Þessi ummæli um varnargarð mikilsmetinna manna geta verið villandi. Stofnend­um var mætavel ljóst, að þeir voru að ráðstafa endanlegu úrskurðarvaldi um Mál og menningu. Það sést á því, að þeir skipuðu sjálfa sig í meirihluta félagsráðs[10]. Hinsvegar var pólitískt litróf félagsráðsins breitt, en það er í samræmi við útgáfu­stefnu MM; almenningsmenntun.


Til samanburðar við skipulag Máls og menningar kemur Hið íslenska bókmenntafélag, stofnað 1816. Það var óumdeilanlega í stöðnun á þessum árum, en sinnti helst sögu Íslands og íslenskra bókmennta. En alla tíð hafa félagsmenn þess kosið stjórn í almennum, bréflegum kosningum. Hví mátti þá ekki viðhafa slíkt lýðræði í bókaklúbbi alþýðu? Svarið er augljóst, stjórn hans treysti ekki félags­mönnum. Einhverjir myndu vilja skýra það með stalínskum viðhorfum sósíalista­flokksmanna, en á hitt er að líta, að þeir voru í miklum minnihluta meðal þjóðar­innar, gætu þeir ekki hæglega orðið það líka meðal 6000 áskrifenda bóka­klúbbs? Einar Andrésson, starfsmaður MM, skýrði skipulagið svo fyrir mér um 1965, að ekki væri að treysta á stéttarvitund félagsmanna, því þar væru margir skrif­stofumenn og álíka miðhópar, jafnvel íhaldskallar. Í svo stórum hópi og dreifðum er jafnan lítil þátttaka í kosningum. Fámennur, skipulagður hópur getur því unnið þær með áhlaupi, og eru slíks mörg dæmi í sögu slíkra félaga, einnig Hins íslenska bókmenntafélags. Sjálfskipuð fámennisstjórn hefur því jafnan verið á Mál og menningu, og meðan Kristinn lifði, er líklegt að hann hafi verið mjög at­kvæða­mikill. Hann var sérfræðingurinn á þessu sviði, jafnan var viðkvæðið að hann væri sú eldsál, er allt drifi áfram, o.s.frv. En hann leitaði mjög eftir áliti félagsmanna, a.m.k. framanaf. Í því skyni, m.a. er félagsbréfið, „litla TMM“ gefið út, 1937–9. Þar reifar Kristinn áætlanir MM, heitir á félagsmenn að láta til sín heyra, segir frá því sem frá þeim berst, og birtir nokkur bréf félagsmanna. Samkvæmt þessum við­brögð­um var t.d. ákveðið að láta mannkynssögu ganga fyrir alfræðiriti og bók­mennta­sögu, annars hafði staðið til að hafa atkvæðagreiðslu um þetta. Samkvæmt um­boðsmönnum var almenn ánægja félagsmanna með útgáfuáætlun. Myndir Kjarv­als fékk heldur slæmar undirtektir, og var þá fallið frá áætluðu framhaldi slíkrar útgáfu, enda þótt Kristinn áteldi þessi viðbrögð félagsmanna (1938, A, bls. 2). „Ekkert er æskilegra en það, að félagsmenn gætu náð sem best með áhrif sín, tillögur og óskir til útgáfustjórnarinnar“ sagði Kristinn 1938 (C, bls. 10), og boðar í því sam­bandi að félagsmenn myndi leshópa, sem fremur en einstaklingar myndu beita sér við stjórn MM. „Það á ekki að vera þögn um bækur, er menn lesa. Það á að standa stríð um bækur.“ Þetta ítrekar hann í 4. hefti TMM sama ár (E), en ekki sjást nein merki um starfsemi lesendahópa. Eins og orð Kristins benda til, væru slíkir hópar tilvaldir til að efla sjálfstæði lesenda gagnvart bókum (svo sem hér verið rætt sem byltingarsinnaðar viðtökur, í k.1.3). En hann nefnir einkum að þetta væri góð leið til að skilja bækur á borð við Efnisheiminn.


Útgáfuáætlun


Eins og Kristinn segir 1938 (E, bls. 1) var MM auðvitað ekki stofnað til að veita fólki sérlega ódýrar bækur, heldur til að gera almenningi kleyft að eignast góðar bækur. Hvað merkti það?


Fyrsta starfsárið, 1937 voru félagsbækur tvær: Rauðir pennar III, sem MM tók nú við af Heimskringlu, og bókin Vatnajökull eftir Niels Nielsen. Það var ráðgert að bækur næsta árs yrðu Rauðir pennar IV, Móðirin eftir Maxim Gorki, bók eftir nýjasta Nóbelsverðlaunahöfundinn, Roger Martin du Gard, líklega Sum­ar­ið 1914, úr skáldsagnabálkinum Thibaut-ættin, og loks bók um heimsmynd vísi­ndanna eftir Björn Fransson. Þetta stóðst, nema hvað Thibaut-ættin reyndist of viðamikil, í staðinn komu Tvær sögur eftir Galsworthy, sem fengið hafði Nóbels­verðlaunin 1932, og loks birtist Myndir Jóhannesar Kjarval.


Í 2. hefti TMM það ár skrifar Kristinn greinina „Framtíðarstarfsemi Máls og menningar“ og reifar þar ýmsar hugmyndir. Ársrit MM, Rauðir pennar, þarf að verða almennara, segir hann, og taka fyrir allt sem efst er á baugi í menningarmálum. Auk þess þurfi tvö rit árlega á sviði skáldskapar, annað eftir Nóbels­verð­launa­höfund, en meðfram þarf „þýdd ljóð, íslenskan skáldskap, bækur um list­ir, o.fl.“ Bæði er þetta „hið aðgengilegasta og vinsælasta efni sem hægt verður að bjóða Ís­lend­ingum“ og eykur víðsýni og skilning að fylgjast með og læra að meta það besta sem til er í bókmenntunum á hverjum tíma (1938, C, bls. 6). En sænska Nóbels­nefndin átti semsagt að annast bókmenntaval að miklu leyti.


Helmingur árlegra útgáfubóka átti þá að verða alþýðleg fræðirit. Ein skyldi vera um íslenska sögu, tungu og bókmenntir. 5. bók yrði framhald af Efnisheiminum, sérstaklega í líffræði, en annars kæmu til alþýðleg fræðslurit um náttúrufræði, heim­speki, uppeldisfræði, o.fl. Einnig þyrfti alfræðirit, a.m.k. sex bindi, 400–600 bls. hvert. En mikið þyrfti MM að vaxa til að slíkt bindi gæti orðið ein sex árbóka án aukagjalds. Hinsvegar væri nú fært að gefa út mannkynssögu. Vel skrifuð veki hún heildarskilning á lífinu.


Ég á ekki við gamaldags mannkynssögu með upptalningu á kóngum og styrjöld­um og ártölum, heldur sögu, er lýsir framvindu tækninnar og menningarinnar með hverri þjóð og öld, varpar ljósi yfir baráttu og framþróun mannlífsins á jörðinni. [...] Hliðstætt við þetta verk væri bókmenntasaga þjóðanna, n.k. yfirlit um ákveðið tímabil. Hlutverk hennar væri að sýna, hvernig bókmenntastefnur koma upp og þróast, skýra einstök skáld og snilldarverk í ljósi þessarar heild­arþróunar, svo að menn sjái hvernig allt þetta vex og blómgast, hrörnar á einum stað, sprettur að nýju annarsstaðar, en rís einlægt hærra í nýjum og nýjum mynd­um (bls. 8).


Kristinn bendir á (bls. 6), að þrátt fyrir mikla útgáfu alþýðlegra fræðslurita á undanförnum árum, þá vanti þar tilfinnanlega hentugar bækur fyrir almenning.


Þarna var því verk að vinna — og gott tækifæri, því greinilega áttu þessi fræðslu­rit að grundvalla „hina efnislegu söguskoðun“. Þau gerðu það líka vel, það sem birtist. Vissulega var ekkert vinstrisinnað, hvað þá marxískt, í þessu beinlínis, en almenningsmenntun átti að gera fólki kleyft að losna undan ríkjandi hugmyndum, ekki síst í trúmálum.


Samt finnst mér verða mikil stefnubreyting hjá MM ári síðar. Raunar má segja, að það sé nánari útfærsla á hugmyndum þessum um 4. og a.n.l. 5. ársrit félagsins. En þar er hreint enginn sósíalismi á ferðinni, heldur þjóðernisstefnan. Júlíhefti TMM (16 bls.) er


eingöngu helgað nýrri útgáfuhugmynd, sem við ætlumst til að Mál og menning komi í framkvæmd eftir nokkur ár“, segir stjórn MM (bls. 41). Það á að heita Arfur Íslendinga, fimm binda ritsafn í sama stóra broti og Vatnajökull, en þykkri, alls 1600 bls. I. bindi yrði: „Náttúra Íslands, sambúð lands og þjóðar, fegurð landsins.[...] II.–III. bindi. Íslensk listaverk, helstu bókmenntaafrek þjóðarinnar og önnur listaverk, t.d. í málaralist, silfursmíði o.s.frv.[...] IV.–V.bindi. Íslensk menning, líf og saga þjóðarinnar, viðhorf hennar á ýmsum tímum, siða- og trúarskoðanir, alþýðumenning o.s.frv.[...] Allt ritið verður skreytt af listamönn­um, með sýnishornum af litprentuðum málverkum og höggmyndum, ýmsum verklegum gersemum o.s.frv. (bls. 47).


Sigurði Nordal var falin ritstjórn verksins og samning IV–V. bindis, Íslenskrar menningar, og tekið fram að hún sé „nú að miklu leyti samin, eins og hann hyggst best að geta gengið frá henni“ eftir margra ára starf (bls. 48). Áætlun þessi var ítrekuð af Kristni í árslok 1940 (E, bls. 260), en endurskoðuð haustið 1941: Ísland yrði tvö bindi í stað eins, en Íslensk menning þrjú í stað tveggja. Ný ritröð í minna broti yrði á sviðinu „Íslenskar minjar“.


Upphaflega átti allt ritsafnið að verða árbækur MM 1943. Það hefði auðvitað orðið miklu meira útgáfumagn og dýrara en önnur ár. Bilið átti að brúa með 25 króna aukagjaldi á hvern félagsmann (ofan á 10 kr. árgjald), sem þeir gátu greitt á fimm árum. Óskað var eftir því, að hinir efnameiri greiddu aukagjaldið strax allt, eða hálft, jafnvel eitthvað að auki. En 1942 var horfið frá þessu, því ófært þótti að fella niður venjulegar útgáfubækur, sérstaklega tímaritið. Arfurinn skyldi því verða til hliðar við þær (Kristinn 1942, C, bls. 290).


Ástæður þessa framtaks eru tilgreindar þær, að


Árið 1943 er óvenjulegt merkisár í sögu Íslands. Þá eru 100 ár liðin frá endur­reisn alþingis og 25 ár frá því, að Ísland varð fullvalda ríki [...og það] er úr­skurðarár um örlög þjóðarinnar í framtíðinni [þ.e. um að halda sambandinu við Danmörku eða slíta. Því þurfi] að gera upp þjóðarbúið [...] draga fram meg­inþættina í fyrri tíma sögu okkar, á þann hátt, að þeir verði til vaxandi skilnings á þjóðinni, eins og hún er nú.(bls.43)


Ennfremur er gefin sú ástæða, að vaxandi fjöldi félagsmanna MM hljóti „að gera nýjar og stærri kröfur til félagsins“ (MM, stjórn, 1939, bls. 43–4). En þegar þetta var ritað, hafði einmitt hægt verulega á vexti félagsins, eins og áður segir. Því má vera að þessi áætlun, sett fram í júlí 1939, hafi meðfram verið til að örva vöxt MM að nýju, því nú er róið á önnur mið en áður, með óvenjuglæsilegu ritsafni, sem höfðaði til landlægrar þjóðerniskenndar og virðingar fyrir hefðbundnum íslenskum fræðum, sem líkamnast í Sigurði Nordal. En eins og við sáum voru kommúnistar einmitt nýlega búnir að taka upp þessa þjóðernisstefnu.


Sigurður Nordal skrifaði 1942 (bls. 287), þegar I. bindi Íslenskrar menning­ar birtist, að II. bindi gæti e.t.v. komið 1943, og III. bindi 1944. Íslandslýsingin væri teppt á meðan Sigurður Þórarinsson væri innlyksa í Svíþjóð. 1944 (B, bls. 92) boðaði Kristinn að Sigurður Nordal væri að ljúka II. bindi Íslenskrar menning­ar, og „verður það prentað í sumar“. En eins og alkunna er, birtist það aldrei, og aldrei nema þetta eina bindi af Arfi Íslendinga, þótt MM/Hkr. birti síðar ýmsar minni bækur á sviði Íslenskra minja.


Ekki hafa komið fram neinar skýringar frá þessum mönnum, mér vitanlega. En þess ber að gæta, að Íslensk menning I fjallaði um það skeið íslenskrar sögu sem einna best var kannað, fram að 1262, en II. bindi hefði átt að taka yfir skeiðið sem minnst var um vitað. Raunar hafa a.m.k. fimm tilraunir til að gefa yfirlit um Íslands­sögu strandað á þessu tímabili síðmiðalda. Líklegt þykir mér að Sigurði hafi fallist hendur gagnvart þessum erfiðleikum, hann hafi ekki getað haldið sama gæða­stigi og á umfjöllun um vel forunnið efni. Í annan stað kemur hér til álita samkeppni Bóka­útgáfu Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.


Andspyrna gegn MM


Skjótlega hófst samkeppni við MM, fyrst af Menningar- og fræðslu­sam­bandi alþýðu (MFA), fræðsludeild Alþýðusambands Íslands, sem á þessum tíma var samvaxið Alþýðuflokkinum. Vissulega var MFA ekki sett af stað með yfir­lýsing­um um samkeppni við MM, heldur sem hliðstæða við t.d. AOF í Danmörku (Ar­bejder­nes Oplysningsforbund). En tímasetningin bendir ótvírætt til að þetta hafi verið við­brögð við MM, enda staðfesti m.a. Gylfi Þ. Gíslason það (í sím­tali við mig 1984). Kristinn kallar samkeppni MFA heiðarlega og drengilega 1939 (B, bls. 63), enda hefur hún varla verið skæð. MFA var stofnað á þingi ASÍ í nóv. 1937, og skyldi leggja til þess 30 aura frá hverjum karli, en 20 aura frá hverri konu í ASÍ. Útkoman úr því er ekki nema rúmar fjögur þúsund krónur[11]. Auk þess veitti Al­þingi MFA 5000 kr. styrk, og mætti túlka það sem andkommúnískt þingbandalag gegn MM, sem ekkert fékk. 1938 var sterkum almannasamtökum boðin aðild að MFA: Sam­bandi íslenskra samvinnufélaga, Góðtemplarahreyfingunni og Ung­mennafélagi Ís­lands. Öll neituðu, sjálfsagt af ótta við ásakanir um pólitíska hlut­drægni. Auk þessa var stofnað styrktarfélag MFA af átta leiðtogum Alþýðuflokksins (13. maí 1938), og það hélt áfram starfsemi MFA eftir að ASÍ var skilið frá Al­þýðu­flokkinum, 1942[12].


Hin mikla velgengi bókmenntafélags undir forystu kommúnista hefur vakið ýmsum andstæðingum þeirra ugg. En athyglisvert er, að þeir láta fyrst verulega til skarar skríða gegn MM þegar það teygir sig lengst til hægri. Væntanlega hafa þeir óttast að kommúnistar næðu víðtækum samböndum, að almenningur færi að líta á starf þeirra sem sjálfsagðan, mikilvægan þátt í þjóðlífinu. Svo skrifar Kristinn 1939 (B, bls. 64):


Aldrei hefur neinum tíðindum frá Máli og menningu verið tekið af jafnmiklum fögnuði og útgáfuhugmyndinni að Arfi Íslendinga. Hún greip strax alla félags­menn og barst í einum svip til allrar þjóðarinnar. Að undanteknum örfáum stjórnmálaskúmum fékk hún viðurkenningu allra. [...] Mál og menning hafði starfað í hálft þriðja ár, án þess að formaður hins háa Menntamálaráðs, með Menningarsjóð í höndunum, hefði rumskað eða sýnt neitt framtak, hvorki til þess að ráðast á Mál og menningu né feta í fótspor þess[...] En um leið og Mál og menning gaf út tilkynningu sína um Arf Íslendinga, þá vaknaði formaður Menntamálaráðs við vondan draum (bls. 62–3).


Tveimur dögum fyrr en umrædd grein Jónasar Jónssonar birtist í Tímanum, kom forystugrein um Arf Íslendinga í Morgunblaðinu (20/7 1939). Þar segir, að nafn kommúnista


nægir til þess, að þjóðin frábiður sig allri hlutdeild í einu og öllu því, sem þaðan kemur. [...] Það getur engu breytt, þótt kommúnistar skreyti sína útgáfustarfsemi með nafni eins eða fleiri mætra manna. [tv. eftir svari Sigurðar Nordal]


Sigurður Nordal svarar þessu 1939 (bls.68–70) í 4. hefti TMM (áður í Mbl. 30.9.), kveðst einráður um Arf Íslendinga, og augljóst að í MM séu menn af öllum stjórnmálaflokkum og að félagsstjórnin hafi „aldrei skýrara en með áætluninni um Arf Íslendinga sýnt það, að hún stefnir að öðru og meiru en pólitískum áróðri.“


Ekki hreif þetta, og auðvitað létu menn ekki sitja við orðin tóm. Halldór Stefáns­son segir 1977 (bls. 124), að Máli og menningu hafi verið gert erfitt fyrir á ýmsa lund, t.d. í prentsmiðjum, svo hún neyddist til að stofna sína eigin 1942, Hólaprent.


1940 kom svo annar bókaklúbbur fram á sviðið, Bókaútgáfa Menningar­sjóðs og Þjóðvinafélagsins (hér skst. BMÞ), steypt saman úr tveimur at­kvæða­litlum ríkisútgáfum (vikið var að annari í 2.k. hér). Vinstrimenn litu svo á að BMÞ væri eingöngu stofnað til höfuðs MM og vitna um það til greina Jónasar Jónssonar í Tím­anum. Jónas kannast ekki við það beinlínis, heldur talar um BMÞ sem endur­vakningu á Bókaútgáfu Menningarsjóðs frá 1928, og að þessi nýja útgáfa hafi verið undirbúin í þrjú ár áður en hún hófst 1940. Þó sýnist mér að hann fallist óbeint á þessar ásakanir 1943 (bls. 86) þegar hann segir:


Þegar Þjóðvinafélagið og menntamálaráð hófu skipulega bókaútgáfu með lágu árgjaldi, voru þúsundir heimila bókalaus að kalla mátti. En inn á þessi heimili ætluðu kommúnistar að koma áróðursbókum sínum í skjóli við einstaka hlut­lausar bækur.


Stofnsetning BMÞ er þá væntanlega viðbrögð við svo skaðlegri iðju, en af orðalagi Jónasar mætti ætla að það hefði orðið fyrra til, og þykir mér sá feluleikur styðja túlkun talsmanna MM. Jónas lagði mikla áherslu á samvinnu „lýðræðis­flokk­anna þriggja“ um mikla fjárveitingu ríkisins til BMÞ, til að skapa heimilisbókasöfn sem víðast. Þegar fólk væri þannig komið á bragðið, keypti það frekar bækur ann­arra bóksala, en ekki síður, eins og þeir hafi óttast við þetta mikla undirboð. 1946 (bls. 274–5) taldi Jónas að þessi hefði orðið raunin, m.a. vegna aukins kaupmáttar í stríðinu. „Þrír menn, einn úr hverjum lýðræðisflokkanna í land­inu, unnu saman með mikilli eindrægni að söfnun áskrifenda“ — í fullu starfi — segir Jónas 1940 (C, bls. 46).


Tilgangur BMÞ átti uphaflega að vera að gefa út þýðingar heimsbókmennta, eins og Bókadeildar Menningarsjóðs 1928 (samkvæmt frægri tillögu Sigurðar Nor­dal frá 1919). En þessi geysimikli fjöldi áskrifenda sem fékkst — rúm 13.000 — úti­lokaði þann grundvöll að sögn Jónasar (1946, bls. 274), þá kom aðeins til greina „að leggja megináherslu á þjóðleg fræði“. Það er svipuð niðurstaða og hjá MM.


Það er utan við svið þessa rits að fara í saumana á þessum upplýsingum, þótt vert væri. Líklegt þykir mér að Jónas ýki áskrifendatölu BMÞ í áróðursskyni, hún hafi verið svipuð og hjá MM, en MFA hafði tvo þriðju þessa[13].


Mál og menning byrjaði glæsilega, og hafði enn glæstari áætlanir. En síðan varð verulegur samdráttur í útgáfu hennar um margra ára skeið. Útgáfukostnaður stórhækkaði með stríðinu, sérstaklega kvartar Kristinn E. Andrésson oft yfir papp­írsverði og -skorti. 1943 (C, bls. 250) segir hann að 1941 hafi útgáfukostnaður á 16 bls. örk verið 1100 kr., en verið kominn upp í 3000 kr. 1942. Í verðbólgunni hefndi sín, að félagsmenn greiddu árgjöld fyrirfram, „við höfum ekki í neinn sjóð að hlaupa“, sagði hann 1940 (D, bls. 182). Nú hækkaði kaupgjald líka — og miklu meira en nauðsynjavörur, eftir verkfallið 1942. Sósíalistar hafa löngum talað um lífskjarabyltingu með því ári. En hún hefur að vísu komið ójafnt niður, og stjórn MM var treg til að hækka árgjaldið. Hún gerði það 1940, úr 10 kr. í 15, og sagði Kristinn þá (E, bls. 254) að það nægði ekki til að halda í við hækkun útgáfukostn­aðar frá 1937, en kæmi líklega svipað við félagsmenn. Í staðinn var útgáfubókum fækkað um helming. En einmitt það ár hefur BMÞ starfsemi sína með því að bjóða sjö bækur fyrir 10 kr., gegn 3 bókum MM fyrir 15 kr.! MFA hafði boðið jafnmarg­ar bækur og MM 1938–9, en fyrir 20% lægra verð, 8 kr. gegn 10 kr. MM. Þessi samkeppni heldur MM í skrúfstykki næsta áratug, hún kom aðeins út 3–4 bókum árlega (sjá 20.töflu). Fækkun félagsmanna MM var e.t.v. vegna þessarar sam­keppni, fremur en vegna bætts efnahags þeirra.


Þegar fólk eignast peninga 1942, fer það að kaupa bækur í stórum stíl — en má ekki þakka það samkeppni bókaklúbbanna undanfarin ár, að hún hafi kennt því það? Sú er skýring Jónasar frá Hriflu eins og áður segir, en einnig benti hann á vöruskort í stríðinu, bækur urðu því helsta gjafavaran.


Samanburður útgáfubóka


Hvað þýddar bókmenntir varðar, þá er greinilegt að magnið er svipað hjá klúbb­unum þremur, ef saman eru borin þau ár sem allir eru að (sjá 21. töflu). BMÞ er mest í klassíkinni, með Hómer og Tolstoi, MM í samtímabókmenntum, með t.d. Thomas Mann, Gorkí og Hemingway, en annars er mjög erfitt að gera upp á milli bóka­framboðs þessara klúbba hvað bókmenntagildi varðar. Þjóðfélagsádeila er ekk­ert síður í bókum MFA (Strindberg, Steinbeck) en MM. Auk þess örlar á bar­áttubókmenntum hjá MM, það er helst Móðirin eftir Gorkí.


Fræðslurit bókaklúbbanna eru allsundurleit. Framboðið er mest hjá MFA ef litið er á þau ár sem það starfaði fyrst (12 bækur á 8 árum). Bókavalið er pólitískast hjá þessu félagi, þar eru bækur um hagræna landafræði (Horrabin), sögu verka­lýðs­hreyfingarinnar, almannatryggingar (Beveridge og á vissan hátt Baarslag), en þó einkum um samtímastjórnmál (5 bækur, Valtin er um stjórnarfar Ráð­stjórnar­ríkjanna). Hjá MM er áberandi hneigð til „hlutlausra“ bóka á sviði raun­vísinda, að­eins Undir ráðstjórn og Réttlæti en ekki hefnd (um stríðsuppgjörið) eru bein­línis pólitískar. Gagnvart fornaldarsögu MM kemur sam­tímasaga BMÞ, því bækur Skúla Þórðarsonar og Ólafs Hanssonar eru beinlínis um stjórnmálasögu sam­tím­ans, 1918–45, en auk þess eru þar bækurnar: Um mann­félagsfræði og Mark­mið og leiðir (eftir Rumney og Huxley) á því sviði. Saga Íslendinga BMÞ hlaut að höfða til sama fólks og Arfur Íslendinga hjá MM og á sömu for­sendum, áhuga á menningararfi þjóðarinnar í umfjöllun helstu sér­fræðinga. Þar bauð BMÞ meira af bókum fyrir lægra verð. Hér er ekki hægt að fara út í samanburð á einstökum bók­um, en þó virðist mér sagnfræði MM ótvírætt nú­tímalegri en BMÞ, í samræmi við fyrrnefnda stefnuyfirlýsingu Kristins 1938, enda lagði forystumaður BMÞ, Jónas Jóns­son, áherslu á það í því bindi sem hann samdi af Sögu Íslendinga, 1955 (bls.xii o.áfr.) að þjóðarsaga ætti ekki síst að vera persónusaga leiðtoganna.


Yfirburðir MM eru helstir í tímaritinu, sem hér var borið saman við Andvara BMÞ (í k.3.3). MFA gaf aðeins út tvö hefti tímarits síns Menn og menntir, 1951–2. Jónas Jónsson sagði 1946 (bls. 276) að rætt væri um að stækka Andvara, svo að hann birtist 3–4 sinnum á ári. En af því varð ekki fyrr en á árunum 1959–67. Á þeim árum sem hér um ræðir var Andvari aðeins eitt lítið hefti árlega. Hefði hann verið stækkaður upp í að geta keppt við TMM, þá hefði hann enn frekar höfðað til lesenda Eimreiðarinnar, og væntanlega skapað henni örðugleika, fremur en TMM.


Hvað íslensk skáldrit varðar, þá er bókaval BMÞ í samræmi við margendur­teknar yfirlýsingar Jónasar Jónssonar um að síðara blómaskeið íslenskra bókmennta hefði staðið frá því á 19. öld fram í fyrri heimsstyrjöld, en síðan hefði þeim hnignað. BMÞ gaf út úrval ljóðmæla rómantísku skáldanna í litlum kverum. Það litla sem MFA gefur út af íslenskum skáldritum (Gunnar Gunnarson og Örn Arnarson) er þó allt samtímabókmenntir, og er það í samræmi við annað bókaval þess. En MM, sem var stofnað beinlínis „til að brjóta niður múrinn milli alþýðu og skálda“, vanrækir íslenskar samtímabókmenntir nær algjörlega, og hallast í átt að BMÞ. Annað skáldið sem MM gefur út á þessum árum dó 1919, hitt 1927 (Jóhann Sigurjónsson og Stephan G.). Síðan birtist safn miðaldakvæða, og frekar en að prenta ný skáldrit í þessum minnsta bókaflokki MM, dugir því ekki minnna en þrjú bindi endurminn­inga Eyjólfs Guðmundssonar um sveitalíf forðum — í fullkomlega hefðbundnu formi. Kristinn sagði 1941 (E, bls. 98) að þessa þyrfti, því þessi heimur væri að verða Íslendingum svo ókunnur. Það var þá mikilvægara að rifja það upp en að örva skáldritun samtímans! En raunar nær þessi staðhæfing hans engri átt, þetta efni drottnaði í íslenskum bókmenntum. Aðeins eitt skáldrit kom út eftir íslenskan sam­tímahöfund, það var frumraun Halldórs Stefánssonar í skáldsagnagerð, og ein af hans sístu bókum að minni hyggju, Innan sviga.


Nú kynni einhver að benda á, að frá 1942 hafi verið mikil aukning í bókaútgáfu, og þá hafi ekki þurft þessa bókaklúbba til að koma út íslenskum skáldritum. Mikið er til í því (sjá 22. töflu), en þó er það ekki einhlítt. Einmitt á 5. áratug aldarinnar komu aftur fram skáld sem umbyltu ljóðagerð. Þeim hefur löngum verið legið á hálsi fyrir að stíga of stórt skref í einu, fyrir bragðið hafi almenningur orðið afhuga ljóðagerð. Í k.4.3. leiddi ég rök að því, að þessar nýjugnar hafi allar komið fram fyrr, og þessi andstaða gegn atómskáldunum hafi því lýst meiri íhaldsemi í bókmenntasmekk en var upp úr fyrri heimsstyrjöld, vegna þess að alið hafi verið á henni, ekki síst af bókmenntahreyfingu Rauðra penna. Enda virðist sanngjarnara að snúa dæminu við og spyrja hvað hafi verið gert til að kynna almenningi þessa ljóðagerð. Svolítið gerði TMM eins og áður vinstri tímaritin, Iðunn, Réttur og Rauðir pennar. En þessir bókaklúbbar með stórupplög gefa bækur þessara skálda ekki út, og sam­keppn­in frá bókaklúbbunum hefur varla örvað hin hefðbundnu forlög með minni upplög til tilraunastarfsemi. Í þessari miklu þenslu bókaútgáfu urðu atómskáldin, ein skálda, yfirleitt sjálf að kosta útgáfu bóka sinna og annast að öðru leyti[14].


Þetta aðgerðaleysi MM við íslenskan skáldskap verður að skoða í samhengi við það sem Kristinn E. Andrésson segir enn 1940 (D, bls. 179):


Íslensk menning og íslensk tunga er í hættu. Öll íslensk alþýða þyrfti nú að eiga auðveldan aðgang að verkum bestu rithöfundanna, öllu því sem vandaðast og best er skrifað á íslenska tungu. Á þessum tímum verða íslensk efni að ganga fyrir öllu sem alþýðan les.


Áköf þjóðernisstefnan sem birtist í þessum orðum hlaut vissulega að vísa til hefðbundinna bókmennta — þá leið sem MM og BMÞ fóru. Hinsvegar mætti ætla, að Kristinn ætti við samtímaskáld. Og á stríðsárunum hafði hann ekki lengur Heims­kringlu til að bjóða félagsmönnum MM samtímahöfunda á vildarkjörum (það kom aftur til síðar). Skýringin er sennilegast þær þröngu skorður sem MM hafði sett sér, og þrengdust enn við framangreinda samkeppni: allar úgáfubækur áttu að höfða almennt til félagsmanna. Þarmeð mega lifandi samtímabókmenntir heita útilokaðar, því um þær eru yfirleitt skiptar skoðanir. Þetta sýnir, að Mál og menn­ing aðlagaðist að verulegu leyti bókamarkaðinum, ríkjandi smekk í auðvalds­þjóð­félagi. 1943 töldu Jónas Jónsson (bls.86) og Guðmundur Hagalín (bls.102–4) þetta vera veiðibrellu kommúnista til að lauma áróðursritum með til al­mennings, og það er merkilegt að sjá, að 1963 (bls. 119) tekur Kristinn á vissan hátt undir þetta, segir að MM hafi ekki verið stofnað til að gera bækur sem ódýrastar, heldur:


til að vekja [almenning] af svefni, flytja honum nýjar skoðanir, nýjan skáldskap, kveikja hugsjónir í brjósti hans. Við ætluðum að gerbreyta þjóðfélaginu, ryðja braut nýjum hugmyndum, nýjum þjóðfélagsháttum og nýrri bókmenntastefnu, skapa víðari sjóndeildarhring, glæða frelsisþrá alþýðu, gera þjóðina frjálsa. Og við trúðum á mátt skáldskaparins og á mátt hugsjónarinnar, sem er hjartsláttur hans.


Þetta finnst Kristni greinilega hafa tekist bærilega, miðað við aðstæður. En hvar eru þessi róttæku rit? Bækur eins og Efnisheimurinn og Mannkynssagan voru vissulega framlag til „hinnar efnislegu söguskoðunar“, Undur veraldar á vissan hátt líka. En MFA var þó miklu djarfara í útgáfu pólitískra fræðslurita. Sumar þýddra skáldsagna MM eru harkaleg afhjúpun á auðvaldsþjóðfélaginu; Þrúgur reið­innar, Salamöndrustríðið, Svertingjadrengur. En einungis Móðirin verður talin til sósíalrealisma, og það er ekki fyrr en á 6. áratuginum sem framhald verður á honum. Kristinn velur Dittu mannsbarn eftir M.A. Nexö til útgáfu hjá Heimskringlu, og Endurminningar hans hjá MM, en ekki Pelle erobreren,


sem að mínum dómi er þeirra stórbrotnust, þó að hin teljist listrænni, því að sú skáldsaga ber í sér mestar víddir og ferskleika frá æskuskeiði verk­lýðs­hreyfing­arinnar í Danmörku.


Þetta segir hann 1971 (bls. 210) og tekur þessa bók sérstaklega sem dæmi um verkalýðsbókmenntir. Greinilega hefur hann varast að ganga of langt á bóka­mark­að­inum, og hann gerir alltof mikið úr róttækni MM 1963. Gísli Ásmundsson finnst mér nær sanni, þegar hann sagði 1977 (bls. 126): bækur MM voru algerlega ópólitískar, fyrir utan Rauða penna. Við má bæta arftaka þeirra, Tímariti MM, enda höfðu þeir Hagalín og Jónas einkum það í huga.


Niðurstaða þessa samanburðar held ég að geti naumast orðið neinu einu fyrirtæki í vil. Raunar róa þau að mestu leyti á sömu mið, og fylla hvert annað upp í útgáfu, fremur en að beinlínis takist á mismunandi útgáfustefna. Útkoman varð ótvíræður menningarauki, mikil útbreiðsla á góðum bókakosti á mjög lágu verði, sérstaklega á sviði erlendra skáldrita, íslenskra fornrita og sígildra skálda seinni tíma, og einkum fræðslurita fyrir almenning.


6.5. Tímarit Máls og menningar


Þegar Mál og menning fór af stað, haustið 1937, voru félagsbækur aðeins tvær, og önnur var ársritið Rauðir pennar, sem hún tók við af Heimskringlu. En þá bættist við fréttabréf ársfjórðungslega, Tímarit Máls og menningar, nú kallað „litla Tímarit Máls og menningar“. 1937 birtist boðsbréf MM í júní, en í desember kom fjór­blöð­ungur undir þessu nafni. En 1938 birtust fjögur hefti í A-5 broti, 16–32 bls., í mars, september, nóvember og desember (104 bls. alls). 1939 komu líka fjögur hefti, en dreifðara, í mars, apríl, júlí og nóvember (88 bls. alls). Í fyrsta hefti gaf Kristinn stefnuyfirlýsingu (1938 A, bls. 2):


Þessu litla riti ætlum við það hlutverk, að standa á verði um menningu þjóð­ar­inn­ar, krefjast framfara og vekja áhuga fyrir nýjum verkefnum, taka undir hvert það menningarmál, sem við álítum til gagns fyrir þjóðina, án tillits til þess hverjir bera það fram, glæða skilning á bókmenntum og listum, og kynna félagsmönnum það sem efst er á baugi í menningarmálum.


Þetta ítrekar hann síðar á árinu (C, bls.9), en setur þá á oddinn að tímaritið eigi að vera vettvangur til að ræða öll verkefni félagsins, í það eigi félagsmenn að skrifa, og þar eigi að koma ritdómar. Í samræmi við þetta er helmingur rýmis tímaritsins um starfsemi Máls og menningar. Eru 15 pistlar frá stjórn félagsins (alls 70 bls.) og 14 frá félagsmönnum (samtals um 16 bls.).


Ritdómar voru engir í Rauðum pennum, en eru hér í flestum heftum, alls 27 á 40 bls., þ.e. taka fimmtung rýmisins. Þrjátíu smágreinar og sjö viðtöl um ýmis efni taka því um þriðjung rýmis. Mest ber þar á Halldóri Laxness, sem á tug smágreina (allar endurprentaðar í Vettvangi dagsins), m.a. „Svör við fyrirspurnum“ — út af Gerska ævintýrinu, um dagblöðin, málhreinsun, endurreisn Þingvalla, auk rit­dóma. Gunnar M. Magnúss boðar þá að taka Viðey undir menntasetur, Halldór Stef­ánsson að hraða byggingu Þjóðleikhússins, Kristinn E. Andrésson að stofna Lista­safn ríkisins, Ragnar Jónsson segir frá starfi Tónlistarfélagsins, Jóhannes úr Kötlum gagnrýnir að útvarpshlustendur skuli ekki lengur fá að kjósa til útvarpsráðs.


Þessi hugðarefni eru í samræmi við fyrrgreinda stefnuyfirlýsingu Kristins, sem væri réttnefnd „hófsamleg umbótastefna, þjóðleg íhaldsstefna“ eða eitthvað í þeim dúr; í tímariti þessu örlar hvergi á þjóðfélagsróttækni af neinu tagi, nema þá óbeint í viðtali við Þórberg Þórðarson og í fáeinum ritdómum[15].


Hér virðist því ríkja sú útgáfa samfylkingarstefnunnar, að einungis megi birtast samnefnari mismunandi afla, enginn megi ganga lengra en sá sem skemmst vill fara. Þetta var víða reglan hjá kommúnistum á þeim tíma, en ekki í Rauðum pennum, þar er frekar fjölbreytnin, eins og áður segir.


1938 gaf Mál og menning því út tvö tímarit. Í september það ár talar Kristinn um hlutverkaskiptingu þeirra (C, bls. 5–6):


Mál og menning kemst ekki af án rits, er fylgist árlega eitthvað með því helsta, sem gerist í bókmenntum og menningarmálum samtímans, innlendis og erlendis. Þetta á að vera hlutverk Rauðra penna. Við fórum af stað með þá sem bók­menta­rit eingöngu, er gæfi sýnishorn af sögum og ljóðum og vekti athygli á góðum skáldskap. En þetta verður of þröngt starfssvið fyrir þá nú, þegar þeir eru orðnir ársrit Máls og menningar. Við hljótum að breyta Rauðum pennum meira í þá átt, að þeir verði almennara rit, er tekur fyrir öll menningarmál, jafnt í listum, félagsmálum og bókmenntum, allt sem efst er á baugi árlega eða merkilegast þykir að vekja máls á.[...bls. 9–10:] Heftið sem nú fylgir ókeypis með bókum félagsins, lítum við á sem drög að stærra tímariti, er komi út reglulega annan hvern mánuð, þegar fast skipulag er komið á starfsemi Máls og menningar.[...] Þetta yrði langsamlega fjöllesnasta tímaritið á landinu, gæti notið aðstoðar hinna ritfærustu manna, sem til eru í hverri grein, og haft sterk áhrif á framgang þeirra mála, er það tæki að sér að berjast fyrir.


Það er nú auðséð, a.m.k. eftirá, að helsta tálmun þessa vaxtar TMM var hitt tímarit félagsins, sem átti að hafa mjög svipað hlutverk, þó síður bundið við líðandi stund — auk pólitísks munar, sem var að minnka, enda er hér villandi talað um upp­haflegan tilgang Rauðra penna, sem var pólitískur. Eðlilega varð sú lausn ofaná að steypa ritunum saman, í ársbyrjun 1940. Þar hafa komið til fyrrgreind fjárhags­vand­ræði hreyfingarinnar, einnig mikil verðhækkun á pappír, og skortur á honum vegna styrjaldarinnar. Því varð að fresta útkomu Rauðra penna fram á næsta ár, en V. bindi þeirra var í undirbúningi í júlí 1939, sagði Kristinn þá (B, bls. 42). Í ljósi þess að IV. bindi birtist 1938, en 1. árgangur hins nýja TMM kom 1940, mætti virðast svo sem útgáfan hefði fallið niður eitt ár. En svo var ekki, því Rauðir pennar komu jafnan út í árslok. V. bindi frestaðist aðeins fáeina mánuði, framyfir áramót, og birtist svo undir nafni félagsbréfsins. Það er ekki að undra, nafnið Rauðir penn­ar átti ekki lengur við um þetta tímarit, og samrýmdist ekki sam­fylkingarstefnu Máls og menningar. Raunar var samþykkt á fundi Félags bylt­ingarsinnaðra rit­höfunda veturinn 1941 tillaga Halldórs Laxness um að endurvekja Rauða penna, en af því varð ekki (Kristinn E.1971, bls. 339), væntanlega vegna þess að þeir hefðu ekki rúmast við hlið TMM.


Tímarit Máls og menningar hefur verið helsta menningartímarit Íslands í hálfa öld, og væri efni í aðra bók að rekja sögu þess og MM. Hér verður því einung­is litið á fyrstu fimm árgangana, með nokkurri hliðsjón af Efnisskrá TMM 1940–1976 eftir Kristínu Björgvinsdóttur.


Á árunum 1940–44 birtist TMM í þremur heftum árlega (tvö hefti árið 1943). Hvert hefti er 80–144 bls., árgangurinn er því 256–312 bls., ámóta mikið og Rauðir pennar. Í lok 5. áratugsins stækkaði TMM.


Um starfsemi MM eru smádálkar í hverju hefti, 1–9 bls., að meðaltali 5% ár­gangsbindis. Hvert hefti hefst á ritstjórnargrein eða á smágreinum um menningarmál og stjórnmál líðandi stundar (að jafnaði 7% rýmisins þessi árin). Þær eru einkum eftir Kristin E. Andrésson og Halldór Laxness, hér heyja þeir sitt mikla menningar­stríð gegn Jónasi frá Hriflu. Þetta má skoða sem framhald smágreina „litla TMM“, en einnig hafði Eimreiðin haft slíka dálka síðan 1926. Þetta voru snarpar greinar í TMM og með þeim haslaði það sér vel völl í dægurbaráttunni.


Ritdómar eru þriðja atriðið þar sem TMM er framhald af „litla TMM“. Þeir birtast í flestum heftum, 8–25 bls. hverju sinni, að meðaltali 12% árgangsbindis. Af 82 rit­dómum þessi fimm ár eru 46 um bókmenntaverk, þ.e. rúmur helmingur, að meðal­tali 9 árlega. Hlutfallið er lægra þegar litið er á tímabilið 1940–76 í heild. Þá birtast að meðaltali 18 ritdómar árlega, þar af 8 um bókmenntaverk (300 af 668). Framanaf er það einkum Kristinn E. Andrésson sem skrifar um bókmenntir. Hann gerir þar í raun sama greinarmun sagna og ljóða og um miðjan 4. áratuginn (sjá k.4.1.2. hér) og réði vali skáldverka í Rauða penna og TMM. Ljóðskáld geti látið sér nægja að höndla andartak, en sögurnar eigi að sýna líf persónanna í þjóðfélagslegu samhengi, fylgja sósíalrealisma[16]. Auk þessa eru ítarlegir ritdómar í TMM eftir m.a Ólaf Jóhann, Halldór Laxness (um Fjallið og draumurinn eftir Ólaf Jóhann), en eink­um fjallar Þórbergur Þórðarson merkilega um ritstörf og stíl í ritdómi um Í verum eftir Theodór Friðriksson, 1942 (og gerði enn betur í tímaritinu Helgafelli tveimur árum síðar, í sígildri umfjöllun sinni um Hornstrendinga­bók, „Einum kennt, öðrum bent“).


Skáldskapur er litlu fyrirferðarmeiri í TMM en ritdómar, kvæði eru 6% efnis, smásögur 10%. Þetta dreifist nokkuð jafnt, yfirleitt er smásaga í hverju hefti, alltaf kvæði.


Smásögur eru 18 í þessum fimm árgöngum, aðeins fleiri frumsamdar en þýddar. Halldór Stefánsson frumsemur þrjár og þýðir tvær, Jón Dan á tvær frumsamdar, aðrir höfundar eiga eina hver. Þjóðfélagsróttækni gætir í 3/4 sagnanna, og meira í þýdd­um sögum (7 af 8) en frumsömdum (6 af 10).


Tvær sagnanna sýna haglega hvernig byltingarhugur sprettur upp af venjulegum íslenskum aðstæðum: „Vér mótmælum allir“ eftir Halldór Stefánsson (1940) og „Sökin er mín“ eftir Guðmund Daníelsson (1943). Í seinni sögunni er þetta raunar mjög fyrirferðarlítið, hún snýst mest um afleiðingar þess að virða ekki vilja barna og unglinga, misbjóða þeim. Það er mikið efni í smásögum TMM þessi árin[17].


Hér sækir nokkuð í gamla Réttarfarið, eins og við er að búast, þegar róttækni er talin helsti kostur texta, og hún talin markast af viðfangsefni hans og opinskárri af­stöðu. „Hundur“ og „Blátt áfram maður“ finnst mér standa blaðagreinum nær en skáldskap, sambærilegt við „Elskendur í Slóvakíu“ eftir Louis Adamic (1944) en hún er kölluð „frásaga“. Þar segir frá verðandi skæruliðum í Júgóslavíu — af því­líkri dýrkun á æsku, hreysti, útilífi, þjóðerniskennd og leiðtogum, að hver sannur fasisti hlyti að taka heilshugar undir.


Á þessu sviði sagnavals finnst mér TMM í augljósu framhaldi af Rauðum pennum, þessi fyrstu ár. Ég hefi grun um að róttæknin hafi minnkað síðar, en það er ókannað.


Kveðskapur er hálfu fyrirferðarminni þessi ár en var í Rauðum pennum (6% efnis á móti 12%). Kvæði Rauðra penna voru sum mun lengri, en aðeins færri (51), því hér eru 73 kvæði, þ.e. að meðaltali 15 árlega, en 1940–76 var meðaltalið 20 árlega. Það er svipuð aukning og á smásögunum, og á sér vísast sömu skýringu, stækkun tímaritsins á seinni hluta 5. áratugsins.


Það er athyglisvert, að helstu skáld róttæklinga eru alla tíð mest áberandi í TMM[18]. Athyglisvert er ennfremur, að í þessum 73 kvæðum fyrstu fimm ára örlar varla á þjóðfélagsróttækni. Helst væri að nefna „Velferð konungsins“ eftir Guðfinnu Jónsdóttur (1940) og „Í vor“ eftir Guðmund Böðvarsson (1942). Þeim mun meira ber á hefðbundnum straumum; náttúrulýrik (Kristinn Reyr, Gestur Guðfinnsson, Snorri Hjartarson, Guðmundur Daníelsson) og þjóðernisrómantík (Jón Helgason, Jóhannes úr Kötlum, Jón Óskar). Hér fara Guðmundur Böðvarsson („Stökur um haust“,1941) og Jón Óskar („Gömul heimspeki“ sama ár) með spekimál í anda Steins Steinars. En þá er raunar komið til það efni, sem mest ber á í kveðskapnum og ofantalin efni tengjast, en það er stríðið. Um það fjallar fimmtungur kvæðanna (þriðjungur að fyrirferð, 28 bls.). Þau eru auðvitað mjög fjölbreytileg. Jóhannes úr Kötlum lofsyngur alþýðuhetjuna, sem leiðir baráttuna gegn nasismanum í „Dagskipun Stalíns“ 1943, Guðmundur Böðvarsson sýnir sigurstoltan kúgara, dauðanum vígðan í „Hinn síðasti morgunn“ 1941, hæðist að stríðsyfirlýsingu Íslendinga í „Liðsinni vort“ 1943 og talar um það verk sem skáldið eigi að vinna gegn eyðingaröflunum í „1943“(1944). Jafnvel fagurkerinn Tómas Guðmundsson tekur í sama streng um baráttuhlutverk skáldskapar og viðhefur af því tilefni óvægna sjálfsgagnrýni í „Heimsókn“ 1942 (endurprentað úr ritinu Norræn jól). Sama stefna birtist hjá Steini Steinari í „Hugsað til Noregs“ 1942. Hér verður að telja „Verdun 1939“ og „Vopnaður friður“ eftir Jón úr Vör, 1942, og tvímælalaust „Í Úlfdölum“ eftir Snorra Hjartarson, 1944. Þar er vissulega ekkert vikið beinlínis að samtímanum, hvað þá stríðinu, kvæðið er í goðsögufortíð Völundarkviðu. En sú von sem það lætur í ljós um endurreisn eftir áþján og eyðingu hlaut að skiljast út frá aðstæðum í heimsmálum í árslok 1944.


Ljóð TMM eru því að verulegu leyti tengd líðandi stund, en þau eru alls ekki sósíalísk. Með samfylkingarstefnunni hafa þau aðlagast hefðinni í náttúrulýrik og þjóð­ernisrómantík (þess gætti þegar í Rétti og Rauðum pennum), en í smá­sög­um var löng hefð fyrir þjóðfélagsádeilu eða a.m.k. ádeilu á misfellur mannlífsins.


Hvað greinar TMM varðar, þá var efni þeirra flokkað í tengslum við önnur tíma­rit (k.3.4. og 11. tafla). Af því virðist mér auðsætt, að TMM er nánast framhald af Iðunni í vali viðfangsefna. Í TMM eru þó ekki hinar löngu, ítarlegu greiningar sem prýddu Iðunni. Eftir stríð snýst TMM til meiri áhuga á utanlandsmálum og sögu. Síðastalinn liður stækkar líka vegna æ fleiri minningargreina, eftir því sem hreyfing­in eldist. Ef litið er á tímabilið 1940–76 í heild slagar TMM hátt upp í Andvara og Iðunni (á fyrra skeiði,1915–26), í áherslu á sögu, en sýnir mun minni áhuga á vísindum og hugleiðingum. Hitt er nokkuð villandi, sem ritstjóri þess, Kristinn E. Andrésson sagði, 1955 (A, 66): „Það hefur aðallega verið helgað bókmenntum“. Þjóðmál eru þar fjórðungi fyrirferðarmeiri en bókmenntaumfjöllun í greinum. Að viðbættum helmingi ritdóma og bókmenntaverkunum sjálfum, var samanlagt helm­ing­ur rúms TMM helgaður bókmenntum. En á þessum tíma ver Eimreiðin fjórð­ungi meira rými í bókmenntir en TMM, en hálfu minna í stjórnmál og þjóðmál (sjá 11.töflu). TMM hefur þó alltaf getað dregið að sér nýja höfunda, og er eina stóra menningartímaritið sem lifað hefur síðan á stríðsárunum. Eimreiðin lagðist af 1975. Andvari hlaut mikla útbreiðslu með BMÞ, en hefur aldrei vakið verulega athygli, held ég. E.t.v. vegna yfirlýstrar íhaldsemi í upphafi, meðan mestur völlur var á BMÞ. Til að vekja umræður og athygli þarf væntanlega meira nýjabrum. Félags­bréf AB var kannski undir sömu sök selt, altént komst það aldrei í hálfkvisti við TMM að stærð og áhrifum, þann rúma áratug sem það birtist (frá 1955). †mis góð tímarit hafa risið upp við hlið TMM, en flest orðið skammlíf. Nefna má sérstaklega Helgafell, 1942–5 og 1953–5, og Birting,1956–68, mál­gagn módernismans, óvenjufallegt og vandað tímarit, sem haft hefur mjög mikil áhrif, þrátt fyrir afar litla útbreiðslu. Skýringa á velgengni TMM virðist einkum að leita í fjölbreytni þess og verulegum áhuga á málefnum samtímans, ekki síst utan­lands. Ennfremur skrifuðu virtustu rithöfundar landsins í það, og útgefandinn var ekki hópur félítilla rithöfunda, eins og Birtings, og í stærra stíl, Eimreiðarinnar eftir 1955 (þá tók Félag íslenskra rithöfunda við því), heldur fjölmennur bókaklúbb­ur, sem jafnan lét afkomu tímaritsins ganga fyrir öðru. Það hefur verið kallað vinstrisinnað, jafnvel byltingarsinnað. En mér sýnist sanni nær, að í því hafi jafnan ríkt afstaða sem mjög er útbreidd með þjóðinni: þjóðernisstefna, vísindatrú og fram­farabjartsýni. Í sama mæli hefur það verið fjarri byltingarsinnaðri afstöðu, þótt sýnt hafi það samúð með undirokuðum. Síðan kemur sérstæðari afstaða til einstakra mála, svo sem Friðarhreyfingarinnar og Sovétríkjanna, segja má að tímaritið hafi lengi verið menningarhlið Sósíalistaflokksins.


Að lokum þessa mætti spyrja hve mikið skyldi vera um skáldverk með sósíalískri afstöðu í vinstrisinnuðum tímaritum (sjá 18. töflu). Stundum er þetta tilviljun undir­orpið, einkum í Rétti, þegar ekki er nema um eina smásögu að ræða og kannski tvö ljóð (1927, 1933 og frá 1939 að telja). Þó virðist mega greina vaxandi tilhneigingu tímaritanna til sósíalískrar afstöðu á fyrra hluta 4. áratugsins, en það dalar 1936, nær svo vissum stöðugleika á árunum 1938–44, að helmingur skáld­verka tímaritanna sé af því tagi, þó meira í Rétti. Sérkennilegt er, að þetta lækkar niður í þriðjung 1941, og sé ég ekki aðra skýringu á því en þá, að þrír ritstjórar Þjóðviljans — þar á meðal ritstjóri Réttar, helsti leiðtogi sósíalista — höfðu verið fluttir í fangelsi í Englandi fyrir verkfallsáróður.


6.6. Rússagull?


Þessi mikla útgáfustarfsemi MM og Heimskringlu vakti furðu þeirra sem litu svo á, að hún væri borin uppi af Kommúnistaflokki Íslands, en hann fékk mest tæp fimm þúsund atkvæði, 1937 — þeirra sem síst áttu fjármagn. Andstæðingar flokks­ins voru ekki tregir að finna skýringuna: að þessi útgáfustarfsemi væri fjár­mögnuð erlendis frá, nánar tiltekið af ráðamönnum Sovétríkjanna. Fyrst hefi ég rek­ist á þessa ásökun í grein eftir Jónas Jónsson frá Hriflu, í Tímanum, 22.júlí 1939. Hann ítrekar hana 1940 (C, bls. 48), og segir að í þingræðu um veturinn hafi verið sannað að sósíalistaflokkurinn hafi fengið 160.000 kr. styrk til að gefa út blað sitt og finnst líklegt að annað útgáfustarf sósíalista hafi þá hlotið viðlíka stuðning. Oft ítrekar hann þetta í blaðagreinum þessi árin. En við nánari athugun hjaðnar þessi „sönnun“ niður. Þessar 160.000 kr. reynast vera mat hans á verðmæti skeyta frá Sovétríkjunum frá ársbyrjun 1938 til okt. 1939 (10% erlendra skeyta, en ekki helmingur, eins og Alþýðublaðið sló upp fyrst, 15/11 1939) — fréttaskeyta sem öðrum blöðum voru jafn­heimil og Þjóðviljanum, vildu þau birta þau (sbr. Þjv. 21/11 1939).


23. mars 1939 kom það fram í umræðum í neðri deild Alþingis, að sænski komm­únistaflokkurinn hefði gefið Sósíalistaflokkinum setjaravél, og gaf Einar Ol­geirsson þá skýringu (í Alþingistíðindum, dálki 1306), að þessa leið hefði Sósíalistaflokkurinn orðið að fara, þar sem hann hefði ekki fengið innflutningsleyfi til að kaupa vélina. Ekki finn ég að skýringar hans hafi verið hraktar, og lítið er þetta hjá t.d.fjárstuðningnum sem Alþýðuflokkurinn hlaut (sjá k.2.2.). Þessar ásakanir Jónasar hafa öfug áhrif við það sem til stóð. Þær sýna að hann hafði mikinn vilja til að sanna erlendan fjárstuðning á kommúnista/sósíalista, en finnur ekkert bitastætt, þótt hann hafi væntanlega haft aðgang að öllu ríkiskerfinu íslenska, eftirlitsleiðum banka, síma, pósts, tollvarða og lögreglu, allt það tímabil sem hér er til umræðu. Fyrst þessi óvenju valdamikli maður fann ekkert, þá bendir það sterklega til að ekkert hafi verið að finna. Altént er utan sviðs þessa rits að fara í gegnum reikninga fyrirtækja sósíalista, ef finnast skyldu. Hér verður því aðeins rætt um almennar vís­bendingar.


Þess er þá fyrst að gæta, að sósíalistar voru yfirlýstir alþjóðasinnar, bæði kratar og kommúnistar. Þeim var skylt að aðstoða erlenda félaga eftir getu. Rétt eins og Alþýðuflokkurinn fékk verulegan stuðning erlendis frá á árunum 1919–1928, þannig varð það eitt fyrsta verk bolsévíka eftir byltinguna í Rússlandi að veita tvær milljónir rúblna til þarfa alþjóðlegrar byltingarhreyfingar, segir Trotskí (1940 B, bls. 288). Og þessi stuðningur hélst áfram og jókst, fram yfir það tímabil sem hér er til um­ræðu. En frá og með 1926 verður hann æ leynilegri. Robrieux lýsir þessu í sam­bandi við franska kommúnistaflokkinn (t.d. bls. 276–80 og 397–8); og Trotskí, sem þekkti mjög vel til í Sovétríkjunum og víðar, dregur upp heildarmynd eftir vitnis­burði „fjárveitustjóra“ Sovétstjórnarinnar erlendis, sem gerst höfðu liðhlaupar og leitað hælis á vesturlöndum (sjá t.d. rit hans 1937 B og1940 B). Sú heildarmynd virðist vel studd heimildum og sannfærandi. Jafnvel í opinberum reikningum Kom­intern sést, að stuðningur við útgáfustarfsemi kommúnistaflokka í auðvaldslöndum jókst verulega á árunum 1929–31 (eftir það voru reikningarnir ekki birtir!). En nú varð stuðningurinn æ meir í formi leynilegra greiðslna til einstaklinga skv. Trotskí (1937 B, bls. 249 og 1940 B, bls. 304), til að gera þá persónulega háða ráða­mönn­um í Sovétríkjunum. Sérstaklega var sótt á kunna rithöfunda, sem ekki voru komm­ún­istar.


Hvað Ísland varðar, minnir þetta á orð Halldórs Laxness í Skáldatíma (bls. 219–223), um að á fjórða áratugnum hafi honum verið greitt fyrir rússneskar þýðingar á sögum hans, en auðvitað hafi engum manni dottið í hug að gefa þær út meðan Stalín ríkti. Raunar fylgir sögu hans að hann fékk ekki að flytja féð út, nema í formi loðkápunnar frægu, sem hann síðar endursendi. Í annan stað er athyglisvert, að Kristinn E. Andrésson virðist hafa getað gefið sig óskiptan að starfi fyrir hreyf­inguna (Sovétvinafélagið, Félag byltingarsinnaðra rithöfunda, Heims­kringla). Er þó útilokað að þessi félög hafi getað kostað lífvænleg laun fram­kvæmdastjóra, ekki heldur starfsemi Heimskringlu 1934–7 (3–7 bækur árlega). En þetta sannar auðvitað ekkert um utanaðkomandi fjárstuðning, því landlægt at­vinnuleysið bitnaði öðrum fremur á kunnum kommúnistum, og heimildir eru fyrir því, að leiðtogar flokksins lifðu við þröngan kost, sem flokkurinn fjármagnaði (sjá Þór Whitehead, bls. 40–41). Kona Kristins vann í bókabúð Heimskringlu, sjálfur tók hann að sér þau viðvik sem buðust, svo sem einkakennslu (sjá minningar hans 1971, bls. 101 og Halldór Stefánsson 1977, bls.120–21). Kristinn hefur látið eftir sig mikið skjalasafn, og virðist þar hverju snifsi haldið til haga, — nema fyrstu funda­gerðabókum og reikningum Máls og menningar og Félags byltingar­sinnaðra rithöfunda, en í þessi gögn vitnar hann 1971. Það má þykja einkenni­legt að þessi gögn skuli vanta, en á því geta verið ýmsar aðrar skýringar en viðleitni til að fela heimildir. Þótt ég hafi aðeins kannað hluta af skjalasafni hans, sýnist mér af því fráleitt að Kristinn hafi viljað fela neitt slíkt, menn skoði bara skjölin hér í 9.k.


En hvað má þá álykta um þetta af sjálfri útgáfunni?


Fyrst er að líta á Verklýðsblaðið, sjálft aðalmálgagn Kommúnistaflokksins. Þegar á árinu 1934 fer það að efna til fjársöfnunar til að verða dagblað en því þarf að fresta, hvað eftir annað, stöðugt er það mál tekið upp aftur og aftur næstu árin. Blaðið var vikublað frá stofnun 1930, það fer að birtast tvisvar í viku haustið 1934, en dagblað (undir nafninu Þjóðviljinn) varð það ekki fyrr en tveimur árum síðar. Þarna hefur fyrst og fremst vantað peninga.


Hvað Rétti viðvíkur, þá stækkar hann og eflist í höndum Einars Olgeirssonar, 1926–30, í hlutfalli við vöxt auglýsinga (sjá línurit töflu 15). Eftir stofnun Kommúnistaflokks Íslands stórfækkar auglýsingum Réttar, en þá dregst hann líka saman. Hvað eftir annað er reynt að stækka hann aftur, einkum frá 1934 að telja, en það tekst aðeins 1935, 1937 og að nokkru leyti 1938. Svo skyndilegur vöxtur leiðir hugann að þeim orðum Trotskís (1940 B, bls. 298–9) að Sovétstjórn Stalíns hafi viljað veita myndarlegan stuðning í eitt skipti fyrir öll, frekar en að bera stöðugan halla af starfsemi erlendis. Hrun Réttar 1939 bendir þó frekar til að þessi skyndilegi vöxtur hafi byggst á lántökum og fyrirgreiðslu innanlands (sjá k.6.7), það ár komu aðeins út tvö hefti, og hið fyrra komst ekki út fyrr en um haustið, það er skýrt með prentsmiðjuskuldum.


Iðunn veslast upp 1935–7, ekki hefur hún notið fjárstuðnings í samkeppninni við Eimreiðina, sem var með mikið af auglýsingum, en Iðunn engar.


Þegar fámennur hópur fátækra rithöfunda gefur út svo myndarlegt rit sem Rauða penna, mætti þá ekki álykta, að þar hafi komið til stuðningur utan að? Fyrst er þess að gæta, að ritið var gefið út af Heimskringlu, sem hafði þann fjárhagsgrundvöll sem til þurfti. Og til lítils kæmi fjárstuðningur við útgáfu, ef hann birtist ekki í lágu verði, eða þá að út væri gefið efni sem höfðaði til mjög fárra. En í Rauðum penn­um voru verk eftir vinsæl skáld, og ritið var tiltölulega dýrt, eins og hér hefur verið rakið.


Fráleitt virðist að gera ráð fyrir fjárstuðningi til Máls og menningar. Keppni­nautar hennar fengu opinberan stuðning, og notuðu til að undirbjóða hana, svo hún varð að draga seglin saman.


Heimskringla býður ekki bækur á lægra verði en aðrir bókaútgefendur[19]. Starf­semi hennar verður ekki veruleg fyrr en 1938–9. Sú aukning skýrist eðlilega af tilkomu Máls og menningar, því félagsmenn MM fengu 15% afslátt af bókum Heimskringlu, sem komst þannig inn á stóran markað — það kann altént að hafa verið mat forráðamanna. Og ekki hefur Heimskringla haft neina varasjóði 1939, þegar hún leggur upp laupana af fjárskorti.


Greinilega eflist útgáfustarfsemi róttæklinga jafnframt stjórnmálahreyfingu þeirra og ítökum í verkalýðshreyfingunni, með samfylkingarstefnunni. Allt ber þetta að sama brunni; útgáfustarf þetta var kostað af lesendum, íslenskum almenningi. Fé annarsstaðar frá kemst naumast fyrir í dæminu, nema ef vera skyldi einhver laun til starfsmanna (Kristins?) og e.t.v. stöku sinnum, til að komast yfir einstaka örðug­leika. En jafnvel um það eru engar vísbendingar.


6.7. Einangrun sósíalista — og sigrar


Eftir kosningasigur kommúnista 1937 hefjast viðræður um samstarf milli þeirra og Alþýðuflokks, í ágúst það ár. Þær viðræður stóðu í heilt ár, en leiddu svo til stofn­unar nýs flokks. Þó var andstaða við slíka flokksstofnun bæði í Kommúnista­flokkinum — því samkvæmt þjóðfylkingarstefnunni átti flokkurinn að halda sjálf­stæði sínu í samfylkingu alþýðu, — og einnig voru margir leiðtogar Alþýðu­flokks­ins mótfallnir samstarfi við kommúnista. „Héðinn stóð einn“ fyrir tafarlausri sam­einingu, og knúði hana fram. Hann var þá formaður Dagsbrúnar, stærsta verka­lýðs­félagsins, og hafa margir Alþýðuflokksmenn fylgt honum, þegar hann var rekinn úr Alþýðuflokkinum í febrúar 1938 fyrir „klofningsstarfsemi“ (Stefán Hjálmarsson 1978, bls. 38). Margskonar átök stóðu milli þessara afla, uns kommúnistar og Héðinsliðar stofnuðu Sameiningarflokk alþýðu — sósíalistaflokkinn í lok október 1938. Hann var svo skipulagður um land allt, þeir Héðinn og Einar Ol­geirsson fóru um, héldu fundi og stofnuðu flokksfélög. Einar sagði mér 1981 að það hefði tekið krafta hans, svo hann hefði ekki getað gefið sig að Rétti. Hann sagði ennfremur að samkomulag hafi verið gott innan flokksins um innanlandsmál, en vorið 1939 kom upp ágreiningur um utanríkismál, og leiddi til klofnings um haustið. Deilurnar urðu fyrst miklar þegar Sovétríkin gerðu griðasáttmála við Þýskaland í ágúst 1939. Ágrein­ingurinn snerist einkum um það, hvort flokksmenn mættu í Þjóðviljanum halda fram öðrum sjónarmiðum en Sovétstjórnin gerði. Svo keyrði um þverbak þegar sovéski herinn réðst inn í Finnland, 30. nóv. 1939. Miðstjórn Sósíal­ista­flokksins samþykkti þá tillögu Héðins um að lýsa


samúð flokksins með finnsku þjóðinni og baráttu hennar fyrir sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti gegn árás þeirri, er gerð hefur verið á hana af núverandi stjórnendum Sovétlýðveldanna og herafla þeirra og telur árás þess[a] um leið vera árás á finnsku verklýðshreyfinguna og brot á grundvallaratriðum sósíalistiskra baráttuaðferða. (tekið eftir Stefáni Hjálmarssyni 1980, bls. 17).


Þessu var vísað til flokksstjórnar, meirihluti hennar felldi þetta[20], og þá sagði mið­stjórnarmeirihlutinn undir forystu Héðins sig úr flokkinum, 7. des. 1939.


Nú hefst nýtt einangrunarskeið hjá þeim sem eftir sátu. Raunar mega þeir teljast ábyrgir fyrir því sjálfir, því að alþjóðlegri fyrirmynd kommúnista breyttu þeir nú aft­ur um stefnu frá samfylkingu gegn fasisma, og lögðu stríðsaðilja að jöfnu. Þeir tala um heimsvaldastríð þeirra, þar sem litlu skipti hvor vinni. Það er árið 1940 og fyrra hluta ársins 1941, þ.e. þangað til nasistar réðust inn í Sovétríkin. En þá gjörbreyttist stefna kommúnista aftur. Á þessu skeiði, frá griðasáttmála Hitlers og Stalíns í ágúst 1939, fram að griðrofum í júlí 1941, einangrast málsvarar Sovétríkjanna alþjóðlega. Meðal annars hvarf Alþjóðasamband rithöfunda til varnar menningunni, þegjandi og hljóðalaust, að því er virðist. Á Íslandi voru sósíalistar sem studdu Sovétríkin ein­angraðir eins og annars staðar. Til dæmis má nefna, að tækju þingmenn þeirra til máls á Alþingi, þá gengu aðrir þingmenn út. Hér verður þetta ekki rakið frekar, enda hefur það verið gert af t.d. Stefáni Hjálmarssyni 1980 (bls. 76–87). En líklegt virðist, að í þessum atburðum liggi skýringin á gjaldþroti Heimskringlu. Það segja leiðtogar andstæðra fylkinga: þeir Jónas Jónsson, 1940 (A) og Einar Olgeirsson 1983 (A): því hafi valdið skipulögð andstaða við allt sem tengdist Sósíalistaflokkin­um eftir Finnlandsstríðið. Einar sagði að m.a. hafi áskriftir og auglýsingar Þjóð­vilj­ans hrunið niður. Sigfús Daðason hefur (í samtali við mig) giskað á að m.a. hafi bankar hætt allri fyrirgreiðslu. Á sama hátt skýri ég það að Réttur koðnar niður 1939, enda var það þá skýrt (á kápusíðu) með fjárkröggum hans — þótt fleira komi til fyrr á árinu, annríki ritstjóra við stofnun flokksdeilda víða um land, svo sem áður segir.


6.7.1. Menningarátök


Tilraunir andstæðinga sósíalista til að einangra þá höfðu einnig áhrif á bók­mennta­hreyfingu þeirra, það er á samtök rithöfunda og listamanna.


Árið 1940 varð sú breyting á listamannalaunum, að Alþingi hætti að úthluta þeim, en fékk Menntamálaráði veitingavaldið. Þetta gagnrýndu sósíalistar meðal annarra, ekki síst það, að nú lækkaði fjárveiting til listamanna, sem verið höfðu á 18. grein fjárlaga, en þeir töldu að hefð væri fyrir því að snerta ekki við henni. Fjárveitingin til Halldórs Laxness var lækkuð úr 5000 kr. í 1800 kr., fjárveiting til Þórbergs Þórðar­sonar úr 2500 kr. í 1800 kr., og réttlætti formaður Menntamálaráðs, Jónas frá Hriflu þetta í Tímanum (1940 A) með því að þessi skáld stunduðu áróður og níddu — einn skólabræður sína, annar pólitíska andstæðinga, en þriðji[21] föður sinn! Þessu var þegar mótmælt opinberlega, meðal annarra af Sigurði Nordal, og 14 myndlistarmenn gagnrýndu opinberlega stefnu ráðsins í málverkakaupum. Jónas svaraði fullum hálsi í ýmsum blaðagreinum í Tímanum — titill einnar; „Hvíldartími í íslenskum bók­menntum og listum“ sýnir meginsjónarmið hans, að íslenskt menn­ingarlíf væri í lægð vegna erlendra menningaráhrifa, einkum frá kommúnistum. Hann stóð fyrir opin­berri sýningu á myndlistarverkum sem hann taldi sýna þessa lægð. And­stæð­ingar hans töldu þá sýningu gerða að fyrirmynd Hitlers, og loks undirrituðu 66 listamenn úr mismunandi stjórnmálaflokkum yfirlýsingu Bandalags íslenskra lista­manna 29. mars 1942 um gagnrýni á Menntamálaráð fyrir einsýni í störfum, m.a. pólitíska. Bandalagið hafði verið stofnað á árinu 1928, en lítið á því borið fram að þessu. Upp úr þessu andófi listamanna gegn Menntamálaráði hélt Bandalagið nú listamannaþing í nóvember 1942 (frá því m.a. segir Kristinn í TMM það ár, D), og er farið að endurskipuleggja það í deildir einstakra listgreina frá 1941. Og því er þetta rifjað hér upp í stórum dráttum, að 1943 er þannig stofnað Rithöf­undafélag Íslands, og þá hættir Félag byltingarsinnaðra rithöfunda starfsemi. Hún hafði víst ekki verið mikil undanfarið[22]. Líklegt má þó þykja að félagsmenn Fbr, sem starfað höfðu saman í áratug, hafi verið atkvæðamiklir innan nýja félagsins, meðal manna sem áður voru óskipulagðir. Enda voru höfundar úr Félagi byltingar­sinnaðra rithöfunda nokkuð fjölmennir innan hins, 15 teljast mér af 40–50 manns sem voru í nýja félaginu skv. frétt Þjóðviljans (20.mars 1945), en 25 sátu þá aðalfund.


Jónas Jónsson sagði að þetta væri dæmigert fyrir kommúnista að stofna félög listamanna til að heimta fé af ríkinu. Hann sagði að listamaður ynni sín störf best einn og félagslaus, og reyndar best þegar hann tæki þátt í daglegum störfum þjóðarinnar, atvinnurithöfundur yrði rótlaus. Þarna reynir hann eins og oftar að halda í menningarástand fyrri tíðar (sbr.9.töflu), Jón Sigurðsson frá Ysta-Felli setti sömu skoðun fram 1928 (bls.62 o.áfr.). Jónas var nú að missa meirihluta sínn í Menntamálaráði, og lagði þá til á Alþingi, að félög listamanna fengju sjálf úrslitaáhrif um úthlutun fjárins. Skýring hans er sú, að hann hafi vitað, að Halldór Laxness myndi heimta að fá meira fé en aðrir höfundar, og þá myndu kommúnistar neyðast til að sýna borgaralegum bandamönnum sínum hversu mikils þeir mætu þá. Jónas hælist um, 1943 (bls. 181–3), að þarna hafi hann fylgt hugmynd Egils Skallagríms­sonar, að dreifa silfrinu yfir þingheim, og séð fyrir sem Egill, að menn yrðu trauðla á eitt sáttir um það hvernig skipta skyldi, sbr. 88. k. Egils sögu: „ætla eg að þar myndi vera þá hrundningar eða pústrar, eða bærist að um síðir, að allur þingheimurinn berðist“. Þótt Agli tækist ekki þetta ætlunarverk sitt, þá gekk þetta eftir hjá Jónasi, því Rithöfundafélagið klofnaði á aðalfundi sínum í mars 1945. Og í því sem hinar stríðandi fylkingar létu frá sér fara um klofninginn, verður ekki gripið á öðru en ágreiningi um úthlutun fjárins. Klofningurinn gerðist þannig, að fráfarandi formaður félagsins, Friðrik Á. Brekkan, stakk upp á Guðmundi Hagalín í sinn stað, og hlaut hann tíu atkvæði, en Halldór Stefánsson fimmtán. Hagalínsliðar tóku þá ekki frekar þátt í kjöri stjórnar og trúnaðarmanna, en að því loknu las Guðmundur upp yfirlýsingu 12 félagsmanna (þar af tveggja fjarstaddra, þetta var undirbúið fyrirfram) þess efnis, „að kosning í stjórn félagsins lýsti svo miklum stefnumun í aðalmálum félagsins, að eftirtaldir 12 rithöfundar teldu sig ekki geta starfað þar framar“ (frétt Alþýðublaðsins 20/3 1945). Þeir mynduðu svo Félag íslenskra rithöf­unda undir forystu Guðmundar. Það lýsti því yfir (í Alþýðublaðinu 29. mars 1945) að einhliða stjórnarkjör og smölun nýliða með vafasöm réttindi til að vera í félagi sem ætti að úthluta skáldalaunum, sýndi að ekki þýddi að reyna frekar að starfa með þeim mönnum sem bæru ábyrgð á þessu.


Stjórn Rithöfundafélags Íslands svaraði (í Alþýðublaðinu 14. apríl) því til, að inntökubeiðnunum 11 hefði verið vísað frá vegna formgalla, og raunar hefði minni­hluti haft atkvæðaafl til að fella þær, því 3/4 atkvæða hefði þurft til samþykktar. Og ef minnihlutinn hefði leitað eftir samkomulagi um að Guðmundur Hagalín yrði for­maður, þá hefði það sjálfsagt náðst. Enginn marktækur ágreiningur hefði komið fram um störf félagsins, nema um grein sem Friðrik Brekkan skrifaði um úthlutun­ina. Og þó hefði sama úthlutunarnefnd alltaf verið kjörin einróma fram að þessu.


Guðmundur Hagalín svarar í Alþýðublaðinu í júní 1945 með greininni: „Auga­steinar og amakefli“. Hann ræðir þar einkum úthlutun skáldalauna á vegum Rit­höfundafélagsins 1943–5, og þykir mjög misskipt pólitískt. Birtir hann því til stað­festingar þessa töflu um úthlutun skáldalauna á árunum 1943–5:


Davíð Stefánsson 11800 Halldór K. Laxness 17500


Hulda 4600 Jóhannes úr Kötlum 10200


Jakob Thorarensen 7200 Magnús Ásgeirsson 10200


Þórir Bergsson 4300 Steinn Steinarr 8400


Guðmundur Daníelsson 6600 Ólafur Jóhann 7200


Sigurður frá Arnarvatni 2900 Theodór Friðriksson 5700


Elínborg Lárussdóttir 4000 Halldór Stefánsson 4300


Óskar Aðalsteinn Guðjónsson 2000 Gunnar Benediktsson 4000


Guðmundur Ingi Kristjánsson 1000 Jón úr Vör 1700


Níu höf. samtals 44.400 Aðrir níu samtals 69.200


Síðan rökræðir Guðmundur skiptinguna í löngu máli, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér, enda mega sum sjónarmið hans þykja undarleg íhaldssemi fjörutíu árum síðar, svo sem að hneykslast á því að hefja Stein Steinar uppfyrir Jakob Thoraren­sen. En á grundvelli þessa lista er klofningurinn, og auðsénir eru stjórnmálapólar í skiptingunni. Með Hagalín fara, auk Friðriks Brekkan, m.a. Davíð Stefánsson, Krist­mann Guðmundsson, Jakob Thorarensen, Elínborg Lárussdóttir, Ármann Kr. Einarsson. En stjórnmálaleg skipting er ekki einhlít, því með Hagalín fara líka rót­tæklingarnir Gunnar M. Magnúss og Sigurður Helgason. Og ekki voru það tómir rauðliðar sem eftir sátu í gamla félaginu, þar má telja m.a. Tómas Guðmundsson og Barða Guðmundsson. Gunnar M. Magnúss sneri skjótt aftur, en nefndi ekki þetta hliðarspor í viðtali við mig, 1981. Aðspurður sagði hann að Sigurður Helgason hefði farið vegna ágreinings um úthlutun (bls. 13), og þykir mér líklegt, að eins hafi verið um Gunnar. Annars gæti þessi ágreiningur verið eldri, báðir áttu þeir mjög lítið efni í tímaritum róttæklinga, og ekki eftir 1938–9 (sjá 13.töflu).


Að lokum greinar sinnar ber Guðmundur fram ólíkt sjónarmið, að allir þeir höf­undar, sem njóti víðtækrar viðurkenningar og „vilja helga skáldskapariðkun krafta sína sem allra mest“, eigi að hafa föst laun sem þeir geti lifað af, hafi þeir að auki nokkrar tekjur af ritum sínum. Allir eigi að fá jafnhá laun, enda hafi þeir sömu þarfir. „Auk þess mun alltaf verða vandmetið, hvað er verðmætast í bókmenntum dagsins, hvað hefur mest gildi fyrir líðandi stund og hvað fyrir framtíðina.“ Að auki vildi Guðmundur hafa margbrotið kerfi styrkja fyrir menn sem væru að vinna sig upp í þennan hóp atvinnuhöfunda. Því miður kom þessi viturlega tillaga ekki fram fyrr en eftir klofninginn, að því er Guðmundur sagði mér (1982). Og þessari hugmynd hefur verið lítill gaumur gefinn. Eins langt aftur og ég man, hefur verið þjarkað um úthlutun listamannalauna frá því sjónarmiði, að listgildi verði metið í peningaupp­hæðum: „Af hverju fær þessi jafnmikið og hinn“, o.s.frv.


Klofningur Rithöfundafélagsins varð til þess, að Alþingi tók úthlutun listamanna­launa aftur í sínar hendur, og skerti þá enn hlut Halldórs Laxness og fleiri vinstri­manna. Eins og alkunna er, varð þessi klofningur rithöfunda mjög langær, og er varla úr sögunni enn, þrátt fyrir sameiningu félaganna í Rithöfundasamband Íslands á árinu 1974. Hann virðist ekki hafa byggst á ágreiningi um bókmenntastefnu, svo sem oft hafði gerst með skáldum, og raunar ekki heldur á ágreiningi um samfélags­mynd bókmennta, ýmsir höfundar í röðum vinstrimanna túlkuðu ekki síst eftirsjá liðinna þjóðfélagshátta[23]. Raunar hafa oft komið upp grunsemdir um að höfundar kysu sér fylkingu, ekki af pólitískri sannfæringu, hvað þá bókmenntalegri, heldur af tilliti til fjár og frama. Má ætla að það hafi orðið bókmennta- og menningarlífi þjóðarinnar mjög til ills, að höfundar skiptust í fylkingar á stjórnmálalegum forsend­um, — og raunar flokkspólitískum — það varð lenska að fjalla um bókmenntir út frá slíkum sjónarmiðum fremur en bókmenntalegum, enn meir en áður hafði verið. Klofningurinn virðist einkum hafa snúist um afstöðu til utanríkismála, annað félagið verið andkommúnískt og hlynnt Atlantshafsbandalaginu, en hitt hafa gert ályktanir gegn þessu hernaðarbandalagi og heimsvaldastefnu. Og virðast kvótasjónarmið gagn­vart þessum tveimur félögum löngum hafa verið áberandi í úthlutun skálda­­launa. Hér verður sú saga ekki rakin frekar.


6.7.2. Þáttaskil


Ætla má, að lengi hafi mátt vera óljóst hver styrkur Sósíalistaflokksins raunveru­­lega var, í einangrun hans eftir klofninginn í desember 1939. Þótt samstarf flokks­forystunnar við Héðinsmenn héldist í stjórnarkjöri Dagsbrúnar í janúar 1940, töpuðu þeir fyrir sameiginlegum lista sjálfstæðismanna og Alþýðuflokks. Ekki fór betur í janúar 1941, þegar listi sósíalista fékk þar tæpan þriðjung atkvæða (Stefán Hjálmars­son 1980, bls. 41 og 65). Og 27. apríl 1941 var Þjóðviljinn bannaður af yfirstjórn breska setuliðsins, og þrír ritstjórar hans fluttir í fangelsi í Bretlandi. Þeim var svo aftur sleppt 16. júlí það ár (eftir innrás nasista í Sovétríkin), og Þjóðviljinn fór að birtast að nýju 13. maí 1942, en Nýtt dagblað hafði komið hans í stað frá 1. júlí 1941.


Í ársbyrjun 1942 ná sósíalistar hinsvegar stjórn Dagsbrúnar í samvinnu við Alþýðuflokksmenn (sama rit, bls. 93–7, 113). Kaup hafði dregist verulega aftur úr verðbólgunni á stríðsárunum, og nú tóku sósíalistar forystu í mjög hörðum, bönn­uð­um verkföllum fyrri hluta árs 1942, en þau brutu á bak aftur kaup­stöðvunarstefnu ríkisstjórnarinnar. Átta stunda vinnudagur komst á, og 40% kauphækkun hjá Dags­brúnar­mönnum, en annars varð hækkunin 25–60%.


Þessi sigursæla kjarabarátta er eðlilegasta skýringin á því að Sósíalistaflokkurinn vann hvern kosningasigurinn eftir annan í júlí og október 1942, og náði nær fimmt­ungi atkvæða, og var æ síðan stærri Alþýðuflokknum.


Líkleg er skýring Stefáns Hjálmarssonar (1980, bls. 113), að það hafi styrkt Sósíalistaflokkinn, að hann var eini stjórnarandstöðuflokkurinn, einkum þegar hann var það á svo áberandi hátt. Í þessum sviptingum náði flokkurinn afgerandi forystu í íslenskri verkalýðshreyfingu. Mér sýnist augljóst að það hafi skipt miklu meira máli um eflingu hans í kosningum, en hitt, sem Stefán nefnir (s. st.), að Mál og menning var útbreidd, og að margir virtustu rithöfundar landsins voru í Sósíalistaflokkinum. Auðvitað hefur það laðað fólk að flokkinum, en eitt sér hefði það aldrei getað ráðið þeim sigri, sem forysta flokksins í þessari árangursríku kjarabaráttu færði honum.


En starfsaðferðir flokksins breyttust verulega á skömmum tíma. Einangrun hans var nú úr sögunni, og þetta sama vor 1942 taka sósíalistar sæti í þingnefnd til að undirbúa lýðveldisstofnun. Nú tekst gott samstarf milli leiðtoga sósíalista, Sjálf­stæðisflokks og Framsóknarflokks, svo sem Einar Olgeirsson rekur 1980 (A, bls. 136–147). Árum saman venjast sósíalistar við að ráða miklum málum til lykta á fundum fárra manna. Og nú fékk Einar hugmynd um stórvirki í sama stíl: að end­ur­nýja atvinnulíf landsmanna skipulega á einu bretti. Það skyldi gert með þeim miklu fjármunum sem Íslendingum höfðu safnast erlendis (90 milljónir dollara) — vegna kauphækkunarinnar 1942, segir Einar (1980, A, bls. 161). Einar leit á þetta sem framhald af skæruverkföllunum 1942, traust atvinnulíf þyrfti sem undirstöðu bættra lífskjara, annars myndi allt sækja aftur í sömu kreppueymdina og var fyrir stríð. Og til að tryggja framgang þessarar stefnu tók sósíalistaflokkurinn þátt í ríkisstjórn með Alþýðuflokki og Sjálfstæðisflokki, 21. okt. 1944, en hún sat í tvö ár. Fram að því höfðu kommúnistar talið það eitt dæmið um endurskoðunarstefnu sósíaldemókrata og svik við verkalýðinn, að þeir skyldu taka þátt í stjórn auðvaldsþjóðfélagsins. En í stríðslok stefna kommúnistar að stjórnarþátttöku víða um heim, það er framhald af þjóðfylkingarstefnunni. Auk Íslands má nefna Danmörku, Noreg, Frakkland og Ítalíu. Nýsköpunarstjórnin íslenska var sannkölluð stéttasamvinnustjórn eins og annarstaðar, því grundvöllur hennar var samkomulag ASÍ og VSÍ um að kaup skyldi hvorki hækka né lækka, en kauplækkunar kröfðust Framsóknarflokkur og dagblaðið Vísir. †msir áhrifamenn töldu nýsköpunaráætlun Einars Olgeirssonar hættulega draumóra og gjaldeyrissóun, að því er hann segir 1980 (A, bls. 164–180). En Jens B. Baldursson leiðir að því rök í riti sínu: Nýsköpunarstjórnin [...] (bls. 51–4) að stríðsgróðinn hafi verið svo mikill að vöxtum, að talsverðum hluta hans að minnsta kosti hefði verið varið til endurnýjunar og kaupa á framleiðslutækjum, hvaða ríkisstjórn sem hefði setið að völdum.


Í Sósíalistaflokkinum var engin andstaða við stjórnarþátttöku hans skv. Jens (bls. 56–7) og Einari Olgeirssyni (tv. rit, bls. 162). Einar telur henni enn til tekna, að hún hafi hindrað að Bandaríkjamenn fengju að reisa mjög miklar herstöðvar til 99 ára dvalar á Íslandi 1945 (tv. rit, bls. 234–5), og einnig að hún hafi komið á mjög hagstæðum viðskiptasamböndum við Sovétríkin, og þar með gert íslenska ríkið sjálfstæðara efnahagslega við það að viðskiptasamböndin dreifðust.


Hér er ekki ástæða til að taka afstöðu til þessa mats Einars. Þetta er rifjað upp til að sýna, að þeir sem róttækastir þóttu á Íslandi, snúa sér nú alfarið að þingsalabaráttu og ríkisstjórnarþátttöku í stað fjöldabaráttu. Þó bjó verka­lýðs­hreyf­ingin yfir feiknamiklum styrk, eftir sameiningu hennar 1940, eins og hún sýndi t.d. enn í 6 vikna allsherjarverkfalli 1955. En t.a.m. baráttuna gegn her­stöðvunum háði Sósíalistaflokkurinn á grundvelli þjóðernisstefnu — stéttasamvinnu í stað stétta­bar­áttu. Og einnig því baráttumáli fórnaði hann hvað eftir annað fyrir aðgerðir ríkis­valds­ins til að tryggja atvinnuöryggi, skv. Einari sjálfum, 1980 (A, bls. 340–341). Samkvæmt fyrri mælikvarða kommúnista sjálfra, er flokkur þeirra því al­farið orðinn endurskoðunarsinnaður í stríðslok, vinnur ekki að byltingu. Og þá var engin hreyfing sem starfaði í þá veru á Íslandi.


6.8. Endalok bókmenntahreyfingarinnar


Leiðtogum róttæklinga ber saman um að bókmenntahreyfing þeirra hafi liðið undir lok. En þá greinir á um hvenær það hafi gerst og hversvegna.


Kristinn E. Andrésson telur að það hafi gerst í stríðinu, bættur efnahagur hafi snúið hug alþýðu og skálda frá stéttarbaráttu að einkapoti, og sú þróun hafi síðan haldið áfram. Þetta segir hann þegar árið 1949 (A, bls. 27, 149 o. v.). Bjarni frá Hofteigi tekur sömu afstöðu 1952 (bls. 94–8). Kristinn útlistar þetta nánar 1949 (A, bls. 37):


Í fyrsta skipti í sögu Íslands fá skáldin svo ríkulega greiðslu fyrir verk sín, að þau geta lifað af starfi sínu. [og bls. 393:] Bækur urðu um tíma dýrindis versl­­unarvara, og grónir sem nýir miljónungar lögðu fjármagn í útgáfu. Fyrir gróðahyggju og verslunaranda var ekki lengur neinn reitur helgur, ekki heldur listir og skáldskapur. Við slíkar aðstæður dafnaði ört sú skoðun, að listin væri sjálfstæð höfuðskepna [háðsk tilvitnun til greinar Halldórs Laxness 1934 B], er ætti hvorki skylt við hugsjón, siðgæði né persónuleik, hvað þá þjóðfélagslega baráttu. Í stuttu máli: einstaklingshyggja blossaði upp, og sem afsökun henni hið gamla kjörorð um frjálsa list, en ávöxtur í skáldskapnum varð ekki sýnilegur.


Þessu tengjast árásir m.a. Kristins á atómskáldin síðar, sem við ræddum (í k. 4.3.). Jóhannes úr Kötlum er með svipaðar skýringar, 1955 (A, bls.72) segir hann: „vaðið á rosabullum inn í helgidóm [list]gyðjunnar, eins og vér kreppukarlar leyfðum oss að gera forðum daga [en 1961,bls. 212:] ríkidæmi stríðsins náðar hafi síðan snjóað yfir vorar göfugu hugsjónir.“ En líkt og Halldór Laxness virðist Jóhannes sáttur við þetta sem hverja aðra sérhæfingu. Einar Olgeirsson sagði aftur á móti 1981 (bls. 1), að hreyfingin hafi farið að dofna 1955–6, þegar Halldór Laxness fékk Nóbelsverðlaun. Þau orð verða varla skilin á aðra lund en þá, að Halldór hafi látið heimsfrægðina kippa sér úr sambandi við alþýðuhreyfinguna og að það for­dæmi hans hafi spillt öðrum skáldum. Raunar hefur sú skoðun oft komið fram hjá sósíalistum, a.m.k. í umræðum.


Halldór Laxness gaf hinsvegar sína skýringu 1963 (bls. 57):


Orsök þess að þjóðfélagslega skáldsagan dofnaði sem stefna um sinn er vitaskuld aungvanveginn sú að meingölluð þjóðfélög séu hætt að vera til, heldur er þjóð­félagsgagnrýnin ekki lengur hlutverk bókmentalegra framvarðarsveita, en hefur gagnsýrt alment lýðræði og er orðin túngutöm hverjum leiðarahöfundi dag­blað­anna, svo og máltólum höfuðflokka, skrípamyndateiknurum, hverjum al­vana­leg­um ræðumanni sem stendur upp á félagsfundi.


Það er athyglisvert, að Halldór gerir hér ekki greinarmun á þvílíkri þjóð­fél­ags­gagn­rýni, sem er sameiginleg öllum þessum fyrirbærum, og byltingarlegri gagnrýni, sem skýrir helstu þjóðfélagsböl sem afleiðingu af þjóðfélagskerfinu, og því verði að berjast gegn þeirri heild. En einnig á árunum milli stríða virðist mér hvortveggja gagnrýnin njóta sín betur í fjölmiðlum en í skáldverkum.


Gísli Ásmundsson sagði 1981 (bls.2) að viðfangsefni skáldanna hafi breyst,


einkum þegar kom fram yfir stríðið. Það dró úr stéttabaráttunni, og þjóð­varnar­sjónar­mið færðust í forgrunninn með tilkomu amerísku hættunnar og NATÓ. Atómstöðin er sprottin upp úr þeim jarðvegi og mikið af ættjarðarljóðum.


Hér hefur verið sýnt að þessi þróun hefst þegar 1936 með róttæklingum. Sjálf­sagt hefur þetta færst í aukana eftir stríð, en þá einkum vegna þess, hve þjóð­ernis­sinnuð sjálf hreyfingin var orðin.



Ef litið er yfir bókmenntaverk sem teljast mega sósíalísk, þá virðast þeir Einar og Kristinn báðir hafa nokkuð til síns máls um að ársetja endalok hreyfingarinnar, annar í stríðinu, en hinn um 1955. Hér er þá beitt bókmenntamælikvarða hreyfingarinnar sjálfrar, og talin verk sem sýna auðvaldskerfið sem uppsprettu mannlegra mein­semda, og sem viðráðanlegt böl, en ekki örlög. Kvæðasöfn og smásagna eru hér tal­in, sé umtalsverður hluti verkanna af því tagi, a.m.k. tíundi hluti. Hér falla því brott flest­ir höfundarnir sem taldir voru í rannsókn Guðrúnar, Sigríðar og Vigdísar (í k. 4.3.), enda afhjúpa þeir þjóðfélagslegt misrétti oft til þess eins að heita á guð eða auðmenn að bæta úr því. Kvæðasöfn og smásagna geyma oft verk samin löngu fyrir útgáfuár. Vikið hefur verið að helstu verkum á ýmsum stöðum í ritinu (sjá k.5, 4.2.2., 4.3.2.og lok 4.4. og 3.3.).


Hér er að sjálfsögðu ekki fengist um listgildi verkanna, né áhrif þeirra, eitt ljóð eftir Davíð hafði oft meiri áhrif en heilar bækur eftir aðra. Og hér eru ekki talin verk sem lýsa lífi alþýðu, án þess að setja fram valkosti við veruleika auðvaldsins, en það á einkum við um Jón úr Vör. Ekki tel ég heldur rit þar sem mest ber á greinum, svo sem Bréf til Láru og Alþýðubókina. Sjálfsagt hefur sitthvað skotist fram hjá mér, en varla í þeim mæli að breyti heildarmyndinni.




(sjá 23. töflu)



Það kemur þá í ljós:


1. að þessar sósíalísku bókmenntir koma aðallega fram á árunum 1930–43, og eru þá um 12% skáldrita, en ná hæst hlutfallinu 38% 1932 og19% 1933, kúfurinn er á fyrra hluta 4. áratugsins. En hátt hlutfall þessi tvö ár segir ekki mikið, því á þessum árum voru töluverðar sveiflur á fjölda útgefinna skáldverka frá einu ári til annars, og þau fá.


2. Þeir höfundar sem hér eiga hlut að máli, eiga það yfirleitt um skamma hríð, í mesta lagi 3–5 ár. Oftast er aðeins um eina bók að ræða, byrjandaverk, oft van­burðugt.


3. Eftir 1942–3 snúa flestir þessir höfundar sér að öðru — ekki að módernisma, eins og ætla mætti af orðum Kristins hér að ofan, nema Steinn Steinarr og atóm­skáldin, sem nú fara af stað. Þvert á móti er hér um afturhvarf að ræða, sósíalískir höfundar fara að fjalla um sveitalíf fyrrum, svo sem enn var láð Guðmundi Daníels­syni 1940 (k.4.2.hér). Þetta er einkum áberandi hjá Ólafi Jóhanni Sigurðssyni, Ragn­heiði Jónsdóttur og Sigurði Helgasyni. En þetta er einmitt í sam­ræmi við þjóðernisstefnu sósíalista, útgáfustefnu Máls og menningar (t.d.á endur­minningum Eyjólfs Guðmundsonar frá 1941, og Íslenskri menningu 1942) og val ljóða í TMM (sbr.k.6.4.). Og 1943 sameinast byltingarsinnaðir rithöfundar öðrum höf­undum í Rithöfundafélagi Íslands. Það er ekki að undra að sumir þeir höf­undar sem óreyndastir voru, hætti að aðgreina sig bókmenntalega frá öðrum höfund­um, en í þeirra hópi voru yfirlýstir sósíalistar svo sem Þórbergur Þórðarson, Guðmundur Böðvars­son og Jón úr Vör, verk þeirra verða ekki talin sósíalísk samkvæmt fyrr­greind­um mælikvarða. Vissulega heldur forysta hreyfingarinnar áfram að boða sós­íal­ísk baráttuverk, en í æ minna mæli, það er helst Kristinn, og jafnvel hann er í vörn en ekki sókn.


4. Það er sláandi í öllu þessu útfiri, að a.m.k. þrír rithöfundar halda sínu sósíal­íska striki rúman áratug enn. Halldór Stefánsson sendir frá sér margvísleg verk, en einkum er hér um að ræða mestu listamennina, sem skýrast og dýpst höfðu mótað sína stefnu, Halldór Laxness og Jóhannes úr Kötlum. Vissulega gætir þjóðernislegra sjónarmiða í vaxandi mæli í verkum þeirra á þeim tíma, en eftir miðjan 6. áratuginn er greinileg stefnubreyting frá stjórnmálaáhuga í verkum beggja. Það kemur heim og saman við tímasetningu Einars Olgeirssonar, en mér þykir líklegt að breytt and­rúms­loft alþjóðlega hafi valdið því, „slökun“ eftir kalda stríðið, m.a.



Ekki minnkaði útgáfustarf hreyfingarinnar; Tímarit Máls og menningar, MM, Heimskringla, heldur færðist frekar í aukana. Róttækni þessa útgáfustarfs var raunar takmörkuð alla tíð, svo sem hér hefur verið rakið, en ekki sé ég að hún hafi stórminnkað, og ekki getur Kristinn þess, enda væri það þá að einhverju leyti á hans ábyrgð.


Það má loks vera augljóst, að byltingarsinnaðar bókmenntir blómstra helst við byltingarbaráttu, svo sem Einar Olgeirsson rakti 1932 (k.3.2). Hvað sem um Komm­únistaflokk Íslands má segja, þá leiddi hann jafnvel kjarabaráttu verkafólks undir því merki, að verkalýðurinn gæti ekki búist við neinum varanlegum sigrum fyrr en hann hefði kollvarpað auðvaldskerfinu. En Sósíalistaflokkurinn boðaði verka­lýðnum að vænta umbóta að ofan, frá ríkisstjórn borgaralegra afla, sem flokk­urinn tók þátt í (aftur 1956–9). Og í stað stéttarbaráttu kom barátta gegn hernum og NATÓ, yfirleitt háð á grundvelli þjóðernisstefnu, sem boðaði afturhvarf til fyrri tíðar. Og einnig því baráttumáli fórnaði hann hvað eftir annað fyrir aðgerðir ríkis­valds­ins til að tryggja atvinnuöryggi, svo sem áður var rakið. Menn sjá í hendi sér hví­líka byltingarglóð allt þetta hefur tendrað í verkalýðnum og í almennum flokks­mönn­um. Við bættust svo vonbrigðin með Sovétríkin eftir afhjúpun Stalíns. At­hyglis­vert er, að Einar Olgeirsson telur hreyfinguna falla niður einmitt þá, um miðjan 6. áratuginn, þótt hann gefi aðrar ástæður.


Það er þá ekki að undra að stríðsgróðahugarfar og einkapot yrði svo almennt sem Kristinn kvartaði yfir. Á Íslandi var ekkert samfélagsafl lengur sem gæfi verulegan valkost við það. Því er merkilegt að sjá Einar Olgeirsson býsnast yfir því að „Tímabil hinna tómu penna“ hafi komið í stað „Tímabils hinna rauðu penna“ í Rétti 1965, og Kristin taka þetta upp eftir honum, 1966 (bls. 194). Einmitt þessir menn höfðu leitt hreyfingu rauðra penna þangað sem blekið þornaði.


6.9. Samantekt


Um miðjan 4. áratuginn er bókmenntahreyfing Rauðra penna búin að koma sér vel fyrir, með rithöfundafélagi sem átti viðurkenndum höfundum á að skipa, og fer að starfa út á við með myndarlegu ársriti. Auk þess magnast útgáfustarfsemin ár frá ári seinnihluta áratugsins með sérstöku forlagi þessara höfunda. Á árunum 1930–43 birtist hálfur fimmti tugur bókmenntaverka sem einkennast meira eða minna af sós­íal­ískri þjóðfélagsádeilu og byltingarboðun. Það er áttundi hluti útgefinna skáldrita á þeim tíma, mest á fyrra hluta 4. áratugsins. Um miðjan 4. áratuginn telur hreyfingin líka að stefna hennar hafi orðið ofan á í íslenskum bókmenntum, og vissulega styrkist hreyfingin æ meira upp úr því. En mér sýnist að í rauninni fylgi þessi ytri vöxtur vaxandi aðlögun hreyfingarinnar að umhverfi sínu. Fyrst er sam­fylk­ingar­stefnan um miðjan áratuginn, byltingarsinnar áttu að hætta að aðgreina sig frá öðrum andfasistum. Ekki hverfur sérstaða þeirra alveg, en þjóðernisstefna magn­ast æ meir í röðum þeirra. Og hún ræður bókaútgáfu þeirra og tímaritum auk áherslu á al­menn­ings­fræðslu, einkum í vísindum. Æ minna ber á byltingarstefnu, helst í ein­stökum smá­sögum og ritdómum. Viðbrögð andkommúnista við þessu öllu verða þau, að reyna að einangra róttækra höfunda, þeir birtast æ minna í stóru menningar­tíma­ritunum, og þau birta æ minna af ritdómum um verk þeirra. Á þessari einangrun sigrast þeir glæsilega á árinu 1937, með stofnun bókaklúbbs með fjöldaútbreiðslu, Máli og menningu. Og það gerir hreyfingin af eigin afli, með því að einbeita þeim liðsstyrk sem kommúnistar höfðu öðlast, í starfi flokks, verkalýðshreyfingar og menningarhreyfingar, auk þeirra sterku bandamanna sem hún öðlast í þessu starfi að almenningsmenntun. Í seinni heimsstyrjöld öndverðri einangrast sósíalistar aftur og sæta töluverðum skakkaföllum, þá þrengir og að bókmenntahreyfingunni, einkum að Mál og menningu, í harðri samkeppni frá öðrum bókaklúbbum, auk þess sem Heims­kringla og Réttur hverfa af bókmenntasviðinu. En þetta breytist á árinu 1942, sósíalistaflokkurinn nær þá mikilli fylgisaukningu og undirtökunum í verka­lýðs­hreyfingunni. Í stað einangrunar kemur síðan samstarf við aðra stjórn­málaflokka um stjórn landsins í stríðslok. Samkvæmt fyrri skilgreiningum flokksins er hann þá horfinn frá byltingarstefnu. Jafnframt því hættir bókmenntahreyfing Rauðra penna að aðgreina sig frá umhverfi sínu að neinu marki í bókmenntasköpun. Hún gerir það að nokkru leyti í bókaútgáfu og í bókmenntalegum mælikvarða í rit­dómum, að ætlast til gagnrýni á auðvaldsamfélagið í skáldsögum. En allt er þetta á undanhaldi.



7. kafli


Yfirlit


Söguleg efnishyggja kennir, að öll svið mannlífsins tengist í eina heild, þar sem ólík svið orki hvert á annað, en endanlega ráði skipan efnahagsmála ferðinni. Miklar andstæður hafa verið með fylgismönnum þessarar kenningar. Annars vegar er marxisminn, sem leggur áherslu á að einstök svið séu tiltölulega sjálfstæð hvert um sig, og að rannsaka þurfi hvert tilvik samspils þeirra, til að það skiljist. Hann lítur á verkalýðsstéttina sem skapendur framtíðarinnar, og því þurfi hún sjálf að öðlast glöggan skilning á flóknum, díalektískum samböndum tilveru sinnar. Þá fyrst, þegar hún hafi gert byltingu, og skapað nýjan heim sósíalismans, geti risið í honum ný menning. Þetta boðuðu frumkvöðlar marxismans, og helstu byltingarleiðtogar; m.a Marx, Engels, Lenín, Trotskí, Castro og Guevara. Þessu viðhorfi fylgir áhersla á að alþýða manna þurfi að tileinka sér menningararfinn, enda þótt hann sé þrunginn viðhorfum sem séu andstæð stéttarhagsmunum hennar. Hann gefi þá einmitt einstakt tækifæri á að átta sig á þessum viðhorfum, sem gegnsýri allt í þjóðfélaginu, og auk þess sé, að sú lífsfylling sem góð listaverk veiti, sýni fólki takmarkanirnar sem stéttaþjóðfélag setur því jafnan. Þetta kallast byltingarsinnaðar viðtökur listar.


Hins vegar eru ýmsar útgáfur vélgengrar efnishyggju. Boðberar hennar álíta, að efnahagslífið móti félagslífið beinlínis, en menningarlífið, m.a. bókmenntir, mótist aftur beint af því, þ.e. af hugsunarhætti hverrar stéttar um sig. Því höfnuðu þeir samtímalist í einu lagi, þar sem hún væri borgaraleg að eðli. Í stað hennar boðuðu þeir nýja menningu á grundvelli hugsunarháttar öreigastéttarinnar. Þessi síðarnefnda stefna þróast einkanlega um aldamótin 1900, í 2. alþjóðasambandi sósíalista, og er þáttur í endurskoðunarstefnu þess, þ.e. að hverfa frá byltingarstefnu, en stefna í staðinn að stöðugri þróun innan ramma ríkjandi þjóðskipulags. Þá er gert ráð fyrir því, að þegar öreigastéttin eflist og samtök hennar, muni hún geta skapað sjálfstæða menningu innan ríkjandi kerfis. Þess þá heldur eftir sósíalíska byltingu, sögðu ráðamenn í Sovétríkjunum eftir 1928, enda væri þá verið að koma á sósíalisma í einu ríki, og jafnframt kæmi fram ný manngerð.


Þegar skilgreint er, hvernig þessi nýja öreigalist átti að vera, þá er jafnan mest áhersla lögð á það, að hún sé aðgengileg alþýðu, sýni hvernig auðvaldsheimurinn sé, og hvernig megi breyta honum, jafnvel reyni hún að sýna nokkuð það ríki sem koma skal, sósíalismann.Oft er lögð áhersla á röklega framsetningu. Sérstaklega á þetta við um kenningar sósíalista um byltingarlist og baráttulist, öðru nafni sósíal­real­ismi. Þær eru svipaðar hjá sósíaldemókrötum og stalínistum, munurinn er í póli­tískri stefnu, en ekki hugmyndum um hvernig bókmenntir og listir eigi að þjóna henni. En af þessu sprettur þá eðlilega íhaldssemi gagnvart formi í bókmenntum og listum, það þurfti að vera aðgengilegt alþýðu. Og oft liggur í þessu forræðishyggja, skáld og listamenn eiga að vísa verkalýðnum veginn, en þá þarf aftur sósíalískan bókmennta­hugsuð til að vísa skáldum og listamönnum veginn. Lengst gekk þetta í Sovétríkjunum, en mildari útgáfur eru hvarvetna, einnig í þeirri íslensku hreyfingu sem hér er fjallað um.


Íslensk verkalýðsstétt vex hratt í upphafi 20. aldar, og skipulagning hennar í verkalýðsfélög, svo og kosningatölur, benda til að verulegur hluti hennar hafi aðhyllst verkalýðsbaráttu, jafnvel sósíalisma, þegar í lok fyrri heimsstyrjaldar, en síðan æ meir á millistríðsárunum. Hinsvegar virðist ágreiningur kommúnista og krata ekki hafa náð til margra á þessum tíma.


Upphaf bókmenntahreyfingar vinstrimanna á Íslandi hafa leiðtogar hennar, Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson talið verða á árinu1924 við útkomu Bréfs til Láru. Það virðist mér of mikil hógværð af þeirra hálfu. Vissulega er það rit bein ádeila á auðvaldskerfið og áróður fyrir sósíalisma. En sá þáttur þess er af tagi tíma­ritsgreina, og í held er það svo gerólíkt því sem hreyfingin boðaði og þeim skáld­verkum sem frá henni komu, að bréfið getur ekki talist upphaf hennar.


Hér er ekki um að ræða sjálfsprottna hreyfingu í bókmenntasköpun, heldur samhæfða hreyfingu ritstjóra og þvílíkra menningarfrömuða, og kemur fram í stefnumarkandi greinaskrifum, bókmenntagagnrýni og skipulagningu rithöfunda um að skrifa bókmenntaverk þrungin þjóðfélagsgagnrýni og baráttuboðskap; og loks í útgáfu tímarita og bóka í þessum anda. Sömu menn bera lengstum uppi þessa hreyfingu, en stefnan er nokkuð breytileg, í því fylgir íslenska hreyfingin alþjóðlegri hreyfingu kommúnista. Kommúnískan áróður höfðu íslenskir kommúnistar rekið skipulega frá 1924, en sjálfstætt starf hefja þeir í verkalýðsmálum og menningar­málum 1926 — í félagi við einstaka vinstrisósíalista. Það ár skipuleggja þeir sig sérstaklega innan Alþýðuflokksins, og þá hefst bókmenntahreyfingin með því að þeir yfirtaka allstórt menningartímarit, Iðunni, og lítið stjórnmálatímarit, Rétt. Þessi tímarit eru helsti vettvangur hreyfingarinnar næsta áratug, enda voru tímarit þá helsta útbreiðsluleið rithöfunda. Hæpið virðist þó að þau hafi náð til alþýðu í miklum mæli.


Hreyfingin fer hægt af stað, á 3. áratuginum greinist hún varla frá nýjunga­sinnum sem stóðu í stríði við íhaldsmenn í menningarmálum. Þá eru róttækl­ingar mjög opnir fyrir hverskyns bókmenntum — og nýjungum — bæði í ritdómum sem þeir skrifa og í bókmenntavali í tímarit sín. Ríkjandi fyrirmynd í ljóðagerð er þá nýrómantíkin, en raunsæisstefnan í sagnagerð. Og henni halda einnig róttæklingar jafnan mjög á lofti: að verkin eigi að fjalla um samtímann, höfundur eigi ekki að blanda viðhorfum sínum beinlínis inn í verkið, þar eigi sannfærandi persónur að glíma við vandamál sem séu raunveruleg, miðað við almenna lífsreynslu lesenda. Sögugangur eigi að fara rökrétt eftir þessum forsendum, ritdómarar deila almennt á óeðlilegar lausnir (Einars Kvarans o.fl.) og boða að skrifa eigi „eðlilegan“ stíl, þ.e.a.s. á venjulegu nútímamáli og samstæðan. Um þetta er almenn samstaða á Íslandi, en innan þessara marka kemur fram sú stefna sem Einar Olgeirsson setti fyrst fram 1926; að raunsæisbókmenntir eigi að sýna stéttarbaráttu verkalýðsins, verkalýðslesendum til fyrirmyndar. Þetta var síðar kallað sósíalísk raunsæisstefna eða sósíalrealismi. Lítið ber á henni á Íslandi á 3. áratugnum, kommúnistar leggja þá meiri áherslu á ádeilubókmenntir og höfundaval Réttar greinist varla frá öðrum menningartímaritum. Við sáum að alþjóðlega var sósíalrealismi áberandi hjá krötum sem kommúnistum. En skipuleg samtök um þá stefnu eru hérlendis einungis undir forystu kommúnista. Enda er afstaða krata margvísleg, þótt sumir fylgi þessu, hún nær allt frá boðskap Sigurðar Einarssonar um öreigamenningu (um 1930) til dul­hyggju og frumspeki Jakobs Smára. Stundum birtist sósíalrealisminn í því að hópur er söguhetja, fulltrúi alþýðufjöldans, en oft fer stefnan út í að óska eftir einstaklings­hetjum í verklýðsbaráttu —sérstaklega eftir 1938. Þar með nálgast hún enn meir hefðbundnar bókmenntir.


Í ritum íslenskra róttæklinga um bókmenntir verður vart verulegra mótsagna. Þær eru ekki fyrst og fremst milli einstakra manna, heldur oft hjá einum og sama mann­inum. Þar kemur og til ákveðin þróunarstefna í viðhorfum róttæklinga, þar sem hreyfingin fylgir stefnusveiflum Alþjóðasambands kommúnista. Fyrst er hún opin gagnvart margskonar bókmenntum, síðan, eftir 1930 fer hún að afmarka róttækar bókmenntir skarpt frá öðrum, loks þvert á móti eftir miðjan fjórða áratuginn.


Þess verður að minnast, að róttæklingar voru ungir menn, flestir nýbúnir að kynnast marxisma. Þeir höfðu lesið ýmis rit eftir Marx, Engels og Lenín, en einnig nýjustu rit talsmanna kommúnistaflokka vesturlanda og Sovétríkjanna, sem voru æ meir að snúa við blaðinu, einkum eftir 1928, að boða vélræna efnishyggju og forsjá leiðtoga Sovétríkjanna í stað byltingarstefnu. Það virðist mjög líklegt, að þessi harðnandi aðgreiningarstefna bókmenntahreyfingarinnar hljótist af stofnun Komm­únistaflokks Íslands í lok ársins 1930, enda fylgdi hann einangrunarstefnu Alþjóðasambands kommúnista á árunum 1932–4 (og snerist síðar með því til and­stæðrar stefnu). Vinstritímaritin spegla þessa breytingu þegar á árinu 1931, en á mismunandi hátt, enda ætluð ólíkum hópum. Iðunni virðist vera beint til jaðars hreyfingarinnar, menntafólks. Hún sveiflast einkum til vinstri í greinum. Meira verður um sósíalísk bókmenntaverk (aðallega þjóðfélagsádeilu), en þau eru þó alltaf í minnihluta. Réttur náði einkum til kommúnista, og ber þess merki, einkum er ís­lenskur kveðskapur og þýddar smásögur greinilega valið með tilliti til pólitísks upp­eldisgildis, þar ríkir sósíalrealisminn, en minna er lagt upp úr bókmenntagildi. Í upphafi þessa skeiðs, 1931, boðaði Einar Olgeirsson enn þá stefnu sem marxistar höfðu almennt fylgt, að verkalýðurinn skyldi tileinka sér á gagnrýninn hátt hið besta úr borgaralegri menningu. En á þessum árum er henni algerlega hafnað sem úrættri, af helstu leiðtogum þessarar bókmenntahreyfingar, í staðinn skyldi nú koma öreiga­menning. Hreyfingin eflist með stofnun Félags byltingarsinnaðra rithöfunda, haustið 1933, en fram á árið 1935 er helsta starf þess að mennta og þjálfa sína 12–15 félagsmenn, þ.á m. er gagnrýni þeirra á verk hver annars á grundvelli sósíalrealism­ans. Ekki verður séð að félagið hafi komið skáldum á legg í neinum mæli, né þroskað þau, bókmenntaskilningur þeirra verður æ meira í anda sósíalrealismans. 1935 snýr félagið sér út á við með ársritinu Rauðum pennum; þar birtist stefnan best og ítarlegast, reynt er að sameina bókmenntagildi og áróðursgildi í því.


Framhaldið kom á óvart, einkum liðsmönnum hreyfingarinnar. Ekki höfðu þeir fyrr gefið út Rauða penna fyrsta sinni, en þeir fengu tilkynningu frá stjórn Alþjóðasambands byltingarsinnaðra rithöfunda um að það væri lagt niður, og nú skyldu þeir taka þátt í breiðri samfylkingu rithöfunda til varnar menningunni gegn fasismanum. Raunar hélst íslenska félagið við lýði til 1943, en stefnubreytingin birtist þegar í tímaritum hreyfingarinnar, Rétti og Rauðum pennum, svo og bókaútgáfunni Heimskringlu, sem róttæklingar höfðu komið upp til að gefa út skáld sín. Nú boða þeir að varðstaða um borgaralega menningu, gegn fasisma, verði skáldskapnum þvílík endurnýjun, sem byltingarstefnan átti að verða fram að þessu. Úr því fara róttæklingar að birta ópólitísk verk í bland við hin. Þessi stefnubreyting var hreyfingunni þeim mun auðveldari, sem hún var afturhvarf til einfaldrar alþýðuvináttu og landlægrar þjóðernisstefnu í stað stéttarbaráttu verkalýðsins, sem flestum höfundum var erfitt að sýna á skáldlegan hátt. En einmitt þegar róttæklingar ganga til mót við borgaraleg viðhorf, magnast mest skipuleg andstaða gegn starfsemi róttæklinga, andstæðingar þeirra hafa óttast að nú væru þeir að ná til almennings. Enda kom það á daginn, á þessum nýja grundvelli skapar hreyfingin fyrsta íslenska bókaklúbbinn með stórútbreiðslu, Mál og menning, haustið 1937. Það varð mikill sigur hreyfingarinnar, þrátt fyrir að sameinuðum andstæðingum hennar tækist að þrengja stakk MM í áratug, svo bókaútgáfan varð aðeins helmingur þess sem til stóð. Alþýðuflokkurinn kom upp bókaklúbbinum MFA sem starfaði út stríðsárin, en á vegum ríkisins kom Bókaútgáfa Mennningarsjóðs og Þjóð­vina­félags­ins og undirbauð Mál og menningu enn meira en MFA. Af þessari samkeppni hlaust mikil útgáfa og útbreiðsla góðra bóka, einkum á sviði alþýðufræðslu og viður­kenndra bókmennta. En bókaval þessara þriggja klúbba er svipað, hörð samkeppnin sameinaði andstæðingana um þjóðernisstefnu og íhaldssemi í menningarmálum. Bókmenntalíf landsins var klofið í tvær andstæðar fylkingar — en á pólitískum forsendum, ekki bókmenntalegum. Þetta ástand virðist mér hafa spillt andrúmslofti bókmenntalífs verulega, lagt stein í götu bókmennta­sköpunar.


Vissulega heldur hreyfingin sósíalrealisma áfram á lofti, meðfram alþýðumenntun og þjóðernisstefnu. En æ minna fer fyrir þeim boðskap. Annað leiðir og af þessum „nýja“ grundvelli hreyfingarinnar; hún snýst til andstöðu við menningarnýjungar, einkum við módernisma í bókmenntum, eftir miðjan 4. áratuginn, en hafði verið í framvarðarsveit þeirra á 3. áratug aldarinnar. Bókmenntanýjungar áttu þá aðeins fáa og einangraða talsmenn á Íslandi um langt skeið, því varð andstaðan gegn þeim harðari eftir seinni heimsstyrjöld en þá fyrri.


Hvað varðar áhrif hreyfingarinnar á bókmenntasköpun, þá hefur mér talist svo til að sósíalísk afstaða verði áberandi í skáldverkum á tímaskeiðinu 1930–43, á um fimmta tug skáldverka, þ. e.um áttundi hluti þess sem út kom á þeim tíma, einkum framanaf, uppundir fimmtungur útgefinna skáldrita á fyrra hluta 4. áratugsins. Minnst af þessu er beinlínis hægt að kalla sósíalrealisma, frekar þjóðfélagsádeilu á sósíalískum forsendum. Fáein fremstu skáld hreyfingarinnar sömdu prýðisverk í anda stefnunnar, en þau eru ekki mörg. Fyrir utan þau er hér oftast um að ræða byrj­endaverk skálda, sem síðar snúa sér að öðru, og fæst þessara verka eru mikilsmetin af gagnrýnendum hreyfingarinnar, hvað þá öðrum, ýmist þykir verkunum áfátt listrænt eða þá pólitískt, að þau sýni ekki byltingarbaráttu. Þjóðfélagsádeiluverk af ýmsu tagi eru yfirleitt betri, oft sannkölluð byltingarverk; einkum eftir Halldór Lax­ness og Stein Steinarr; að nokkru leyti verk Halldórs Stefánssonar, Sigurðar Helga­sonar og Jóhannesar úr Kötlum. Þessar bókmenntir eiga ýmsar rætur erlendis; Halldór Laxness hjá bandarískum líðsinnum og expressjónisma, Halldór Stefánsson í expressjónisma, og fleira mætti telja. Vissulega hefur þessi bókmenntablómi örvast af vinstribaráttu á Íslandi, en erfitt yrði að greina þar áhrif sjálfrar bókmenntahreyf­ingarinnar, enda finnst henni þetta ónóg, gagnrýnir stöðugt að hetjulega verka­lýðsbaráttu vanti. Jafnframt lýsa leiðtogar hennar því þó yfir, að „hin nýja stefna“, sósíalrealisminn, marki alger straumhvörf í íslenskum bókmenntum um miðjan 4. ára­tuginn. Sú kenning stenst ekki athugun. Flestir höfundar, sem skrifað höfðu ein­hvers konar sósíalískar bókmenntir, snúa sér að öðru eftir 1942–3, yfirleitt að mannlífi fyrri tíðar og þjóðernisrómantík. Síðan eru það aðeins þrjú helstu skáldin sem halda sínu striki fram á 6. áratuginn, og einnig hjá þeim gætir æ meir áhuga á fortíðinni, þjóðernisstefnu o.þ.h. Virðist mér þetta fylgja stjórnmálalegum straum­hvörfum hjá Sósíalistaflokkinum.


Bókmenntatúlkun hreyfingarinnar var oft miklu ítarlegri og ríkulegri en almennt gerðist á Íslandi, einkum á það við um Kristin E. Andrésson. Hann rekur öðrum fremur hvernig ýmsir þættir listaverks tengist í eina heild, því ráðist það ekki af rök­legri framsetningu. Af þessum ástæðum var hann flestum róttæklingum frjálslyndari gagnvart efnisvali skálda og formi. Raunar taldi hann að efniviður skálda væri goð­sögur almennings, en áleit að hitt skipti sköpum um dýpt skáldskaparins, að efnið væri þar túlkað af (marxískum) skilningi á sögulegri þróun. Til þess hentaði einkum vel samþætt heild dæmigerðra persóna í skáldsögum. Af framangreindum viðhorfum rís eitt merkasta fyrirbæri hreyfingarinnar: marxísk bókmenntarýni að nútímahætti, sem hófst hjá Halldóri Laxness 1932, en kemur einkum fram hjá Kristni, 1934–5. Framhald varð ekki á henni, þvert á móti virðist bókmenntaskiln­ingi leiðtoga hreyfingarinnar hnigna, vegna þess að yfirleitt ber túlkun hreyfingar­innar merki ein­földunar á bókmenntum; einkum þeirrar trúar, að bókmenntaverk hljóti að miðla hug­myndaheimi höfundar beint til lesenda, og móta þá beinlínis — í sátt við borgara­legt þjóðfélag, eða til andstöðu við það. Sigurður Einarsson ber helst af þessu, eftir 1930, Halldór Laxness sveiflast á milli þeirrar skoðunar að listgildi bókmennta sé háð alþýðuvináttu þeirra, og hinnar, að bókmenntir hafi sjálfstætt gildi, en það viðhorf kemur skýrast fram í Heimsljósi.


Mikið frægðarorð hefur löngum farið af „tímabili hinna rauðu penna“. En þá er ólíkum hlutum blandað saman; ljóminn af útgáfuafrekum hreyfingarinnar og af gagnrýnum skáldverkum gerir mönnum þá glýju í augu, að þeim sést yfir hve and­stæð þessu meginkenning hreyfingarinnar er, og það starf sem var samkvæmt henni, íhaldssemi sem í senn var andstæð sjálfstæðri bókmenntasköpun og marxisma. Það er hrein goðsaga að líta á „tímabil hinna rauðu penna“ sem eina glæsta heild.



8. kafli


Töflur



(Tölfræðihandbók,bls.21)


(Magnús S. Magnússon, bls. 100 og 105).







Töflur 6. og 7. eru gerðar eftir frumgögnum sem Magnús S. Magnússon sendi mér við myndir hans, 7.4. og 7.7. Tölur vantar um fyrri stríðsárin.



(Einar Laxness, I, bls.22–3: Alþingiskosningar)



9. Tafla: Um störf rithöfunda


Talið er eftir skáldatali, miðað við útgáfuár fyrstu bókar og hvaða starf höfundur þá hafði. Alls töldust mér 43 skáld koma fram á tímabilinu 1867–1900, 99 tímabilið 1901–33, en 136 á tímabilinu 1934–66. Tölur í svigum sýna fjölda, tímabilin eru aðgreind með skástriki.


A. Menntamenn (24/63/90): hátt settir embættismenn (3/2/2), læknar,lyfsalar (0/3/2), prestar (7/7/3), atvinnurithöfundar (1/6/9), stúdentar (1/5/5), kennarar (6/22/33), blaðamenn (6/8/19), málflutningsmenn (0/1/0), bókaverðir (0/2/4),leikarar (0/0/1), hljóðfæraleikarar (0/0/1), húsmæður (0/3/5), „ýmis störf“ (0/2/7).


B. Starfsmenn (2/14/19): skrifstofumenn (0/10/12), verslunarmenn (1/2/6), húsverðir (0/0/2), ljósmæður og hjúkrunarkonur (1/1/0)


C. Verkafólk (4/11/12): sjómenn (0/0/3), smiðir (2/3/1), málarar (0/2/2), prentarar og bókbindarar (2/2/3), verkamenn (0/2/4), þjónn (0/1/0).


D. Bændur, bændakonur, vinnufólk (13/11/15).


Margt mun hér þykja hæpið. Húsmæður vil ég flokka með atvinnurithöfundum, einkum ef ég veit ekki starfsstöðu manna þeirra, því flestir karlkyns atvinnurit­höfundar hafa átt útivinnandi konu! Annars verður að telja prestsfrú og atvinnu­stjórnmálamann svo sem Guðrúnu Lárussdóttur til menntamanna, og auðvitað hlýtur Elínborg Lárussdóttir að teljast til sömu stéttar og maður hennar skólastjórinn. Undir „ýmis störf“ felllur fólk eins og Sigríður Einars, Sigurður Z, , Steinn Steinarr, Vil­hjálmur frá Skáholti, Jón úr Vör, Unnur Eiríksdóttir, Jón Óskar.


Það skal fúslega játað, að óvissa er svo mikil víða, og sjálf heimildin ónákvæm um þessi atriði, að mynd mín er í besta lagi vísbending. Með mikilli vinnu mætti fá nákvæmari mynd, líklega þyrfti að byggja hana á skattframtölum og ýmiskonar íbúaskrám, þá mætti líka draga fram merkilegar upplýsingar um stéttaruppruna skálda, skólagöngu þeirra o.fl.





10. tafla. Efni tímarita, talið að fyrirferð. Fyrst er meðaltal, en innan sviga eru sveiflur:


Tímarit Ljóð smásögur ritdómar greinar


Eimreiðin1918–43 5.5 (2–10%) 21.3 (7–46%) 8 (5–10%) 65 (42–74%)


Iðunn 1915–26 9.5 (6–17.5%) 16.5 (3–26%) 7 (3.5–9%) 67.5 (51–84%)


– – – – 1927–37 4 (3–6.5%) 20 (10–30%) 8.5 (4–24%) 67 (50–83.5%)


Rauðir pennar 1935–8 12 (10–15%) 26 (16–35%) 0 50 (39–63%)


TMM 1940–1976 6 (4–8.5%) 10 (4–16%) 12 (9–17%) 72 (39–63%)




fjöldi verka að meðaltali í árgangi (og í heild)



Tímarit Ljóð smásögur ritdómar greinar


Eimreiðin1918–44 17,0 (450) 7,0 (188) 36,0 (971) 29,0 (786)


– – – – – 1945–69 22,5 (557) 8,0 (203) 18,0 (458) 16,5 (417)


Iðunn 1915–26 12,0 (125) 4,5 (46) 19,0 (189) 16,0 (163)


– – – –1927–37 9,0 (92) 6,0 (59) 19,5 (195) 20,0 (201)


Rauðir pennar 1935–8 13,0 (51) 6,5 (26) 0,0 10,0 (39)


TMM 1940–1976 20,0 (750) 5,0 (184) 18,0 (668) 17,0 (627)



11. tafla: Flokkun greina í tímaritum:







Þess var því miður enginn kostur að flokka greinar Eimreiðarinnar fyrir 1945, en flokkaðar skrár annarra tímarita gáfu færi á því. Þar eru flokkarnir stundum yfir 100, og virtist mér heppilegt til að fá yfirlitsmynd af stefnu tímaritanna, að draga þá saman í þessa 6: A.íslensk þjóðmál, B. erlend þjóðmál, C. saga, D. vísindi, E. hugleiðingar, F. bókmenntir og listir (sjá 11. töflu). Það verður að játa, að sjálfsagt orkar flokkunin iðulega tvímælis; en varla svo að hlutföllum breyti að mun í þessum mikla fjölda greina. Síst mun vantalið í F, (um bókmenntir), því ýmislegt þar mætti vissulega flokka í A (um innanlandsmál). En hér varðar mestu hlutfall bókmennta­flokksins, því er rétt að nefna hve mikill hluti ritdóma er um bókmenntir. Það eru meira en tveir þriðju í Iðunni undir stjórn Árna og í litla Tímariti Máls og menn­ingar (1938–9), rúmur helmingur ritdóma í Eimreiðinni milli stríða, en tæpur helmingur í öðrum tímaritum.


Flokkunin byggist á Efnisskrá Tímarits Máls og menningar:


A. íslensk þjóðmál: Almannavarnir, Alþingi, Atlantshafsbandalagið, atvinna, han­drita­málið, háskóli, hernámsandstaða, jafnrétti, kirkja, landbúnaður, land­helgismál, MÍR, náttúruvernd, siðvæðing, skógrækt, spíritismi, stjórnmál, stóriðja, útvarp, verklýðsbarátta, þjóðernismál, æskulýðsmál.


B. Greinar undir heitum einstakra landa, auk þess: friðarhreyfingar, stúdenta­óeirðir.


C. saga: byggðasaga, ferðasögur, fornminjar, galdrar, Íslandssaga, manna­nöfn, saga almenn, skjalasöfn, ævisögur (þær eru oft af skáldum og listamönnum, en ég verð að hlíta orðum skrárhöfundar á bls. 8: „Greinar um ævi höfunda, verk þeirra og samspil þessara þátta flokkast með Ævisögum, ef aðaláhersla er lögð á æviþáttinn, en í Bókmenntasögu íslenska ef verk höfunda eru aðalefni greinarinnar“).


D. Vísindi og fræði sem fjarlægari eru almenningi: eðlisfræði, fiski­fræði, grasafræði, guðfræði, hagfræði, handritarannsóknir, heimspeki, jarðfræði, líffræði, mannfræði, má­lvísindi, raunvísindi, rímfræði (þ.e. tíma­tal), sálfræði, stjörnufræði, trúarbrögð, viðskipti, þjóðfræði.


E. hugleiðingar; auk þess: uppeldi, íslensk tunga, orðtök, esperanto. Í Efnis­skrá Eim­reiðar­innar eru auk þess: draumar, dægradvöl, frímerki, rithandar­fræði, smælki.


F. listir og bókmenntir: ballett, bókaútgáfa, bókfræði, bókmenntasaga al­menn, bók­mennta­saga íslensk, bragfræði, helgimyndir, Íslendingasögur, kvikmyndir, leiklist, listamannalaun, listir, myndlist, stílfræði, tónlist, þjóðsögur, pistlar um starfsemi útgefandans.


Hér er þá litið á Rétt, Rauða penna, „litla TMM“, sem birtist 1937–9, og framhald þess, Tímarit MM, sem fór að birtast 1940. Til samanburðar tek ég Eimreiðina 1945–69, því um hana er til flokkuð efnisskrá, eins og um TMM 1940–76, og Andvara, 1875–1974. Skrá er til um efni Eimreiðarinnar 1895–1945, en þar eru greinar ekki flokkaðar eftir efni, eins og er í hinum skránum. Efni Réttar, Rauðra penna og „litla TMM“ flokkaði ég sjálfur. Enda þótt ýmislegt hljóti að orka tvímælis í slíkri flokkun, er það tæpast í þeim mæli, að máli skipti um meginhlutföll. Það má virðast fráleitt að bera langært stórt menningartímarit saman við átta kver sem bókaklúbbur sendi félagsmönnum sínum á tveggja ára tímabili. En sé sá munur hafður í huga sem er á fyrirferð þessara tímarita og sviði þeirra, ætti samanburðurinn einmitt að leiða í ljós hvernig þau aðgreinast. Lægstu tölur Rauðra penna og „litla TMM“ eru ekki marktækar, því þar er um eina eða tvær greinar að ræða, semsagt tilviljun.


Frá árslokum 1915 til jafnlengdar 1937 birtust 20 bindi af Iðunni, en 22 af Eim­reiðinni. Þau síðarnefndu voru þykkari, og hver síða í Iðunni samsvaraði 4/5 af Eimreiðarsíðu að textamagni. Iðunn á því um 2/3 af rými Eimreiðarinnar þessi ár, en ef taldar eru blaðsíður sem fara undir ljóð og sögur (á árunum 1918–37, eftir að Eimreiðin kom heim, eru þær 2002 í Eimreiðinni, en 1426 í Iðunni; þegar sú tala er margfölduð með 4/5, nær Iðunn hér sem svarar1141 Eimreiðarsíðu), þá er það rými sem Iðunn ver í bókmenntaverk aðeins 57% af því rými Eim­reiðarinnar (en 85% miðað við stærð).




12.tafla: þýddir höfundar tímarita



Eimreiðin Iðunn1 Iðunn 2 Réttur Rauði fáninn


M.A-Nexö I.Aasen J.Aakjær J.Aakjær


A.Austlid Alarcón H.Allari M.A-Nexö M.A-Nexö


d'Annunzio Alvin Björnson A. Baillon H. Barbusse


Arrieta Anrud Chesterton H. Barbusse J. Becher


Baudelaire Björnson A.France Brecht Biet


Beltranelli Bojer Fröding Denikian Curella


v.d.Bergh Burns Galsworthy A. France Glaeser


Berni Drachmann Goethe M. Georg Hauptmann


Bojer Fröding Hallström M. Gold B. Illés


Bordeaux Goethe Hamsun Gorkí W.Kristiansen


Bunin Heine Harland O.Graf K. Miahaelis


Carlyle Hovden Heine Huppert Semjonow


Chesterton O.Khayam Hemingway Hörmendi A. Smedley


Conrad Kipling J.V.Jensen B. Illés Werekopf


de Contreras Krogh A.Karlfeldt V. Imber Zalka


Dario J.Lie Th.Krag E.Kisch


Engström Longfellow P.Molin A. Maltz


Euripides Maupassant Mühlhausen A. Negri


Fröding Merrick Rosegger R. Nielsen


Gers Molin O.Rung Nikulin


Hallström H.Rode Sandemose Panteleimon


Hartmann Rydberg Shelley Roda Roda


Hawthorne Schiller Snoilsky H. Schatte


Heidenstam B.Shaw Th.Storm A. Smedley


Hugo P.Sivle Strindberg I. Silone


Huxley C. Snoilsky Söderberg E. Toller


Jacobs Spitteler Tagore Tsékov


Jokai Strindberg Tennyson


Karlfeldt H. Suderman Kr. Uppdal


Keller Tolstoy v.d.Vogelweide


King Topelius Wedekind


Kleinmichel Troels Lund O.Wilde


Lacretelle Wildenwey


Lagerlöf A. Överland


Lawrence


Levertin


Lidforss


Luihn


MacGill


Malmberg


Michaëlis


Mikszath


Munthe


Myers


Negri



Eimreiðin


J.Neruda


Panzacchi


Péres


de la Ramée


Rydberg


Salverson


Seedorff


Slotte


Stjernstedt


Stuckenberg


Suderman


Söderberg


Tagore


Tegni


Tennyson


L.Tolstoy


Trollope


Uhland


Verlaine


Waltari


Wells


Werfel


Wilde


Woodbridge


Vasques Yepes


Yriarte


Ziska


Zweig


Österling




13. tafla. Íslenskir höfundar tímarita:


Tölurnar eru í þessari röð: Eimreiðin1(1918–44), Eimreiðin2 (1945–69), Iðunn1(1915–26), Iðunn2 (1927–37), Réttur, Rauðir pennar,litla Tmm,TMM (1940–76)


E1 E2 I1 I2 Rp Tmm TMM


Björn Franzsson 2 3


Böðvar frá Hnífsdal 8 1 2 5


Davíð Stefánsson 6 1 8 2


Davíð Þorvaldsson 3 6


Gísli Erlendsson 14


Grétar Fells 5 5 1


Guðbrandur Jónsson 8 1


Guðmundur Böðvarsson 18 1 4 38


Guðmundur Dan. 3 5 1 1 4


GuðmundurFriðjónsson 62 2 7


Guðmundur Hagalín 9 61 2 2


Guðmundur Kamban 5 1 8


Gunnar Ben. 4 9 4 1 41


Gunnar Gunnarsson 21 4 1 1 2


Gunnar M. Magnúss 3 1 3 1 1


Halldór Helgason 7 1 1 5


Halldór Laxness 7 12 11 6 9 100


Halldór Stefánsson 3 11 4 1 55


Helgi Valtýsson 14 20


Hjörtur Kristmundsson 6 3


Jakob Smári 106 10 4


Jakob Thorarensen 15 3 13 9


Jóhann M.Bjarnason 13 1 1


Jóhann Sveinsson 10 5 6 2


Jóhannes úr Kötlum 7 2 9 6 8 1 49


Jón Magnússon 14 1 4


Jón úr Vör 2 5 15


Kári Tryggvason 5 11 1


Kristín Geirsd. 2 1


Kristín Sigfússd. 2


Kristinn E. Andrésson 2 7 12 11 15 ótal


Kristmann Guðmundsson 6 6


Magnús Ásg. 7 4 5 1 15 2


Oddný Guðmundsd. 1 1


ÓLafur Jóh.Sig. 8 1 2 11 40


Ragnar Kvaran 9 5 1


Ragnheiður Jónsd. 3 1 1


Richard Beck 32 37 2


Sigurður Einarsson 1(?) 10 18 1 1 3


Sigurður Helgason 3 4 1 1 1


Sigurjón Friðjónsson 20 17 1


Skúli Guðjónsson 1 2 2 4


Snorri Hjartarson 3 2 21


Stefán Einarsson 9 17 11


Stefán frá Hvít 2 4 3


Stefán Jónsson 3 5 1 1 1


Steinn Steinarr 2 8 10 37


Theodór Fr. 1 1


Unnur BB (Hulda) 14 1 1 3


Þórbergur Þórðarson 1 6 1 3 1 26


Þóroddur Guðm. 10 41 1 1 9


Þórir Bergsson 30 1 1 2



14. tafla. Eimreiðin


Þórbergur Þórðarson átti þarna aðeins eina grein, 1919, svo mikilvirkur rit­höfundur sem Gunnar Benediktsson átti þar aldrei neitt. Jóhannes úr Kötlum og Kristinn E. Andrésson birta þar nánast ekkert eftir 1931, Halldór Laxness ekkert eftir 1934, Magnús Ásgeirsson ekkert eftir 1938, Ólafur Jóhann hættir þar 1939, Stefán Jónsson 1940, en Guðmundur Böðvarsson kom þar fyrst fram 1930, hættir 1944. Vitanlega er lítið að marka einstök ártöl, þeim getur tilviljun ráðið. En hneigðin virðist ótvíræð. Sumir róttæklingar sem hefja skriftir á 4. áratuginum birta ekkert í Eimreiðinni: Halldór Stefánsson, Steinn Steinarr. Aðrir snúa þangað eftir að þeir hætta að vera róttækir: Guðmundur Daníelsson, Sigurður Einarsson. Enn aðrir fara að birta þar efni þegar linast aðgreiningin, eða af því að þeir voru ekki áberandi róttæklingar (Ragnheiður Jónsdóttir, t.d.) ellegar eftir lok kalda stríðsins.


Eimreiðin talar ekki um: Rauða penna II– IV, Fótatak manna, Dagleið á fjöllum, Gerska ævintýrið og Heimsljós II–IV eftir Halldór Laxness, ekki um Dauðinn á 3. hæð eftir Halldór Stefánsson, ekki um þrjár bækur Jóhannesar 1937–43, þó um Hart er í heimi, 1939. Ekki um Ljóð Steins Steinars 1937, ekki um Hamar og sigð Sigurðar Einarssonar 1930, né Líðandi stund 1938, aðeins um eina bók Gunnars Benediktssonar, Skilningstré góðs og ills 1939, eftir Þórberg aðeins Alþjóðamál og málleysur 1933 og Íslenskan aðal 1938. Skírnir þegir við Rauðum pennum, öllum bókum Halldórs Laxness eftir Sjálf­stætt fólk, fram til 1950, það ár kom fyrst ritdómur um bók eftir Halldór Stefáns­son. Eftir Jóhannes úr Kötlum voru ritdæmdar Og björgin klofnuðu, 1934 og Hrímhvíta móðir 1937, en annars ekkert fyrr en 1962. Ekkert nefnt eftir Stein Steinarr. Af bókum Þórbergs er aðeins ritdæmd Alþjóðamál og málleysur 1933, fram að Sálminum um blómið,1954.Sigurður Einarsson fær fyrst ritdóm 1952, Gunnar Benediktsson 1957. –Vissulega birti Skírnir á þessum árum ekki nándar nærri eins mikið af ritdómum um skáldverk og Eimreiðin, en þó um t.d. Axel Thorsteinsson, Björgvin Halldórsson, Elínborgu Lárussdóttur, að ekki sé minnst á Guðmund Hagalín, Jakob Smára, Jakob Thorarensen, Kristmann og Huldu.





Réttur




Tafla 17



Greinar Rauðra penna eru 55% af I. og II. bindi, 40% í III. og 63% í IV. Kristinn E. Andrésson er afkastamestur, með átta greinar um bókmenntir og menn­ingarmál, sumar langar. Halldór Laxness á fjórar greinar á sama sviði, þrjár þeirra stuttar, allar eru í I. bindi. Gunnar Benedikts­son skrifar eina grein í hvert bindi, Björn Fransson eina í hvert þriggja fyrstu, Þórbergur Þórðarson á tvær greinar, auk upphafs Íslensks aðals, Skúli Guðjónsson tvær. Tólf aðrir menn eiga eina eina grein hver.




a. Bókmenntaverk Rauðra penna.


(fyrst eru talin ljóð, síðan sögur, loks leikþættir)



Baráttuverk: A. Ljungdal: „Ávarp vegna vorsins“(I), Steinn Steinarr: „Þjóðvísa(I), Jóhannes úr Kötlum: „Frelsi“(I), „Tröllið á glugganum“ og „Maxim Gorky“(II), Þegar landið fær mál“(III), „Hvað nú, ungi maður“(IV).


Fadejev: Hinir nítján“ og A.Seghers: „Febrúargangan“(I).


E. Toller: „Hetjur heimsbyltingarinnar“og Wolf: „Prófessor Mamlock“(I).





Þjóðfélagsgagnrýni:


Þýdd ljóð: A. Blok: „Hinir tólf“(III), B. Brecht: „Húsamálarinn Hitler“(I), Hj. Gullberg: „Golgatha“, S.Lindström: „Marmaranáman“(I), A. Ljungdal: „Proletär vaggsång“ (á sænsku, með lausamálsþýðingu,III), A. Lundkvist: „úr svörtu borginni“(I), C.Sandburg: Ashurnatsirpal III“(I), E.Wupperman: Í kvöld er allt svo hreint og hátt“(III), A. Överland: Biblíusaga með tilbrigðum“(III).


Frumsamin ljóð: Guðmundur Böðvarsson: „Boltaleikur(III), „Vísurnar við hverfisteininn 1936“(II), Jóhannes úr Kötlum: „Kvæðið um okkur Kötu“(III), „Sagan af Signor Mussolini“, Jón úr Vör: „Amstur“,“Vor“ og „Gunnsa gamla“(II), „Sumardagur í þorpinu við sjóinn“(I), „Sólskin“(III), Oddný Guðmundsdóttir: „Ferðaminning“(III), Örn Arnarson: „Stökur“ og „Réttvísi“(I).


Þýdddar smásögur: Gorkí: „Bitur kvöl“, Zweig: „Leiðarlok“ og Orwell: „Þegar ég skaut fílinn“, allar í III.


Frumsamdar smásögur: Halldór Laxness: „Ósigur ítalska loftflotans“ (III), „Kafli um tvö skáld“(úr Heimsljósi). Guðmundur Daníelsson: „Félagshugsjónir“ (II), Ragnheiður Jónsdóttir: „Brennukvöld“(III), Gunnar M. Magnúss: „Myndin af kónginum“(I). Halldór Stefánsson: „Valdstjórnin gegn“ (I), Kristín Geirsdóttir: „Uppboðsdagur“(II), Ólafur Jóhann: „Kuldi“(II), „Saga frá 7. október 1935“(I), Sigurður Harals: „Systir mín í syndinni“ (II), Sigurður Helgason: „Maður moldu samur“(IV), Stefán Jónsson: „Eins og maðurinn sáir“(IV), Theodór Friðriksson: „Vetrardvöl“(II).



Ópólitísk:


Þýdd ljóð: Dan Anderson: „Jarðarför Fiðlu–Óla“ (III), O. Ankrust: „Skáldaþankar“(II), W.H. Auden:“Ferð til Íslands“(II), K.Boye:“Já, víst er sárt“(III), N.Grieg: „Sikill“(I), B. Malmberg: „Heima“(III), St.Selander:“Hið visna tréð“(II), O:Wilde: „“Kvæðið um fangann“(IV).


Frumsamin ljóð: Guðmundur Böðvarsson: „Flakkarinn á hestum“(IV), „Rauði steinninn“(III), Halldór Helgason: „Auður“(IV), Jóhannes úr Kötlum: „Þá var ég svo ungur“ (III), Kári Tryggvason: „Á kóralströnd“ (IV), Sigurjón Friðjónsson: „Sýn Esaíasar(III), Steinn Steinarr: 10 ljóð.


Halldór Stefánsson: „Hernaðarsaga blinda mannsins“(II), Þóroddur Guðmundsson: „Húsi“(IV), Þórbergur Þórðarson: upphaf Íslensks aðals (III)


Gísli Ásmundsson: „Gissur jarl“(III)






Tafla 19: Kommúnískir bæklingar og Heimskringla


Ártal Komm./fræði HKL Aðrir í Fbr. Ekki rauðir Þýtt


1921 Stefán Pétursson:


Byltingin í Rússlandi


1924 Marx og Engels:


Kommúnistaávarpið


1928 Engels:


Þróun Jafnaðarstefnunnar


1928 Marx::


Athugasemdir við


Gothastefnuskrána


1930 Stalín:


Lenínisminn


1932 Katrín Thoroddsen:


Frjálsar ástir


1934 Stalín:


Sigur sósíalismans;


Enst Thalmann


1934 K. Evang: Straumrof


Heilbrigði kynferðislífsins


1935 Rauðir pennar I;


Júk: Samt mun eg ...


Halld.St: Dauðinn


1936 RauðirPennarII; Sig. Har: Blok: Hinir tólf


Söngvasafn alþýðu Emigrantar


GBen: Sýn mér


1937 Stjórnarskrá Sov.; HeimsljósI, RauðirPennarIII, J Sigurj.Fr. Andreev: Sjö


ÁBlM:Marxismin Dagleið á fjöllum úK:Hrímhvíta móðir Þar sem grasið menn hengdir


grær,


Árm.Kr.;Margt býr


1938 Lenin: Ríki og bylting Sig.En: líðandi Theodóra TH:


stund; ÞÞ: Íslenskur Þulur


aðall


1938 Stefán Ein: Þórbergur Heimsljós II, Rauðir pennar IV, Ármann Kr.: hóllinn


Gerska ævint. Steinn St: Ljóð; Stephan G.:


JÚK: Fuglinn segir Andvökur VI


1939 Hjálmar Bárðars: Gunnar Ben: M. Niemöller:


Flugmál Skilningstré; Kafbátsforingi


og kennimaður


1939 Arnór Sig.: Heimsljós III JÚk: Hart er í heimi; Jón Helgason: Úr G.Trease: Hrói


Skipulag; Helgi Guðm.Bö: Hin hvítu; landsuðri; Gunnar höttur


H.: Ferðalangar ÞÞ: Refskák aauðv. G.: Aðventa


1940 Heimsljós IV ÞÞ: Ofvitinn ) Bhagavad- Gitar


1941 ÞÞ: Ofvitinn II, Edda



20. tafla: Framboð bókaklúbba


MM MFA BMÞ


1938 10 kr. 6 bækur 8 kr. 6 bækur


1939 10 kr. 6 bækur 8 kr. 6 bækur


1940 15 kr. 3 bækur 4 bækur 10 kr.7 bækur


1941 15 kr. 4 bækur 3 bækur 10 kr.7 bækur


1942 15 kr. 3 bækur 3 bækur 10 kr.5 bækur


1943 15 kr. 3 bækur 3 bækur 10 kr.4 bækur


1944 15 kr. 3 bækur 2 bækur 20 kr.5 bækur


1945 30 kr. 3 bækur 2 bækur 20 kr.5 bækur


1946 50 kr. 3 bækur 1 bók (stór) 30 kr.5 bækur


1947 50 kr. 4 bækur 30 kr.5 bækur


1948 4 bækur 30 kr.5 bækur


1949 4 bækur 30 kr.5 bækur



21. tafla: Útgáfubækur bókaklúbba


Bækur bókaklúbbanna 1938–49. * merkir bók utan árgjalds, en á sérkjörum fyrir félagsmenn.


A.Þýdd skáldverk


MM MFA BMÞ


1938 Gorkí: Móðirin I Strindberg:Sælueyjan


Galsworthy:Tvær sögur


1939 Buck:Austanvindar Cronin:Borgarvirki I


Gorkí: Móðirin II Zweig:Undir örlagsstjörnum


1940 Sillanpää:Skapadægur Cronin:Borgarvirki II Hamsun:Sultur


Lawrence:Uppreisnin I


1941 Hemingway:Vopnin Lawrence:Uppreisnin II


Tolstoi:Anna Karenina I


1942 Mann:T.Kröger Tolstoi:Anna Karenina II


1943 Steinbeck:Þrúgur I Lewis:Babbit I–II Tolstoi:Anna Karenina III


1944 - - - - - - - - II Maugham:Meinleg örlög Tolstoi:Anna Karenina IV


1945 Steinbeck:Gullbikarinn Hémon:Dóttir landnemans


1946 Capek:Salamöndrustr.


Ljóð frá ýmsum löndum


1947 Stone: Lífsþorsti I Maugham:Tunglið


1948 Wright:Svertingjadrengur *Hómer:Odysseifskviða


Nexö:Endurminningar I Sögur frá Noregi


1949 - - - - - - - - - - II *Hómer :Ilionskviða


Stone:Lífsþorsti II Sögur frá Bretlandi


B. Fræðslurit:


MM MFA BMÞ


1937 Nielsen:Vatnajökull


1938 Björn Fr:Efnisheimurinn Moe:Verkalýðshreyfing


J.F.Horrabin;Lönd og ríki


1939 Húsakostur og hýbýlaprýði Schieldrop:Fluglistin


Baarslag:Í sjávarháska


Reed:Hrunadans heimsveld.


1940 Rolland:Ævisaga Beethovens Strachey: Viktoría dr.


Rausching:Hitler talar Jóhann Sæm:Mannslíkaminn


Huxley:Markmið


1941 Hambro:Árásin á Noreg Rumney: Um mannfélags­fræði


Valtin:Úr álögum Skúli Þ:Stjórnmálasaga I


1942 *Sig.Nordal:Íslensk menning Skúli Þ:Stjórnmálasaga II


Hewlett Johnson:Undir ráðstjórn *Saga Íslendinga 5.


*Stephan G.:Bréf II


1943 ÁsgeirHj:Mannkynssaga I Beveridge:Traustir hornst. *Saga Íslendinga 6


*Sig.Thorl:Charcot


1944 Langt (úrval ferðasagna) *Saga Íslendinga 4


1945 Áskell Löve:Íslenskar jurtir Baldur Bj.:Í Grínifangelsi. Ólafur H:Heimsstyrj.'39–'45 I


*Undur veraldar *Ólafur Briem:Heiðinn siður


1946 Lauterbach:Réttlæti Ólafur H:Heimsstyrj.'39–'45 II


1947 Dietz: Kjarnorka


ÁsgeirHj:Mannkynssaga II


1948


1949 Kristinn E.:Ísl nútímabókm. Lönd og lýðir:Noregur


Eina félagsbókin sem ekki hefur rúmast í þessum skrám, er Kjarval: Myndir, sem MM gaf út 1938. Má hún þó tengjast Húsakostur og hýbýlaprýði hjá sama forlagi 1939.



C. Íslensk skáldrit


MM MFA BMÞ


1938 Gunnar Gunnarsson:Svartfugl


1939 Stephan G:Andvökur,úrval


1940 Jóhann Sigurjóns:Rit I Gunnar Gunnarsson: Heiðaharmur


1941 Jóhann Sigurjóns:Rit II Örn Arnarson:Illgresi Jónas Hallgr.:Ljóð og sögur


Eyjólfur Guðm:Afi og amma


1942 Bólu-Hjálmar: Ljóðmæli


1943 *Fagrar heyrði eg raddirnar Njáls saga


1944 Eyjólfur Guðm:Pabbi og mamma Egils saga


Hannes Hafstein:Ljóðmæli


1945 Halldór Stefánsson:Innan sviga Matthías Jochumsson: Ljóðmæli


1946 Grímur Thom­sen:Ljóðmæli


Heimskringla I


1947 Guðmundur Friðjónsson: Ljóðmæli


Heimskringla II


1948 Eyjólfur Guðm:Lengi man til lítilla funda Stefán Ólafsson:Ljóðmæli


Heimskringla III


1949 Kristján Jónsson:Ljóðmæli







23. tafla: Sósíalísk bókmenntaverk:


höfundar: fyrir sósíalisma: sósíalískt: eftir sósíalisma:


Aðalsteinn Halldórsson Vorgróður 1931 L


Aðalsteinn Halldórsson Rauðar rósir 1942 L


Ágúst Jónsson Þyrnar og rósir 1930 L


Árni H. Halldórsson Bros og tár 1933 L


Bjarni M. Gíslason Jeg ýti úr vör 1933 L


Davíð Stefánsson Svartar fjaðrir 1919 L Í byggðum 1933 L Að norðan 1936 L


Davíð Stefánsson Ný kvæði 1929 L Ný kvæðabók 1947 L


Friðjón Stefánsson Maður kemur og fer 1946 Sm


Gunnar Benediktsson Niður hjarnið 1925 Sk Við þjóðveginn 1926 Sk


Gunnar Benediktsson Anna Sighvatsd.1928 Sk


Gunnar Benediktsson Það brýtur á boðum 1941 Sk. Ísland h. j.1954


Gunnar M. Magnúss Við sk. h. á sk 1934 Sk. Brennandi skip 1935 Sk


Gunnar M. Magnúss Suður heiðar 1937 Sk Hvítra manna land 1943 Sm


Guðmundur Daníelsson Ég heilsa þér 1933 L


Guðmundur Geirdal Milli þátta 1934 L Skriðuföll 1939 L Lindir niða 1951 L


Guðmundur Hagalín Einn af postulunum 1934 Sm


Guðmundur Hagalín Brennumenn 1927 Sk Sturla í Vogum 1938 Sk


Halldór Laxness Undir Helgahn. 1925 Sk Straumrof 1934 Lei


Halldór Laxness Vefarinn mikli 1927 Sk Íslandsklukkan 1943–6 Sk


Halldór Laxness Gerpla 1952 Sk


Halldór Laxness Silfurtunglið 1954 Leikrit


Halldór Laxness Atómstöðin 1948 Sk


Halldór Laxness Salka Valka 1931–2 Sk Brekkukotsannáll 1957


Halldór Laxness Sjálfstætt fólk 1934–5 Sk Paradísarheimt 1960 Sk


Halldór Laxness Fótatak manna 1933 Sm


Halldór Laxness Heimsljós 1937–40 Sk


Halldór Stefánsson Einn er geymdur 1942 Sm


Halldór Stefánsson Innan sviga 1945 Sk


Halldór Stefánsson Sögur og smáleikrit 1952 Sm


Halldór Stefánsson Í fáum dráttum 1930 Sm


Halldór Stefánsson Dauðinn á 3. hæð 1935 Sm


Hannes Sigfússon Imbrudagar 1951 L


Hannes Sigfússon Strandið 1955 Sk Dymbilvaka 1949 L


Heiðrekur Guðmundsson Arfur öreigans 1947 L


Ingibjörg Benediktsdóttir Frá afdal til Aðalstrætis 1938 L


Jóhannes úr Kötlum Bíbí og blaka 1926 L Hrímhvíta móðir 1937 L


Jóhannes úr Kötlum Álftirnar kvaka 1929 L Verndarenglarnir 1943 Sk


Jóhannes úr Kötlum Sól tér sortna 1945 L


Jóhannes úr Kötlum Dauðsmannsey 1949–51 Sk


Jóhannes úr Kötlum Sóleyjarkvæði 1952 L


Jóhannes úr Kötlum Sjödægra 1955 L


Jóhannes úr Kötlum Hart er í heimi 1939 L


Jóhannes úr Kötlum Og björgin klofnuðu 1934 Sk Tregasl. 1960 L


Jóhannes úr Kötlum Samt mun ég vaka 1935 L


Jóhannes úr Kötlum Ég læt sem ég s. 1932 L Eilífðar smábl 1940 L


Jónas Thoroddsen Vinjar 1932 L


Magnús Ásgeirsson Þýdd ljóð II 1931


Magnús Ásgeirsson Þýdd ljóð I 1928 Þýdd ljóð III 1932 Þýdd ljóð IV 1935


Ólafur J. Sigurðsson Kvistir 1942 Sm


Ólafur J. Sigurðsson Liggur vegurinn þangað 1940 Sk Litbrigði jarðar 1947 Sm


Ólafur J. Sigurðsson Skuggarnir af bænum 1936 Sk Fjallið og dr 1944 Sk


Ragnheiður Jónsdóttir Arfur 1941 Sk Í skugga Glæsib. 1945 Sk


Sigurður Einarsson Hamar og sigð 1930 L Yndi unaðsstunda 1952 L


Sigurður Gröndal Opnir gluggar 1935 sm


Sigurður Gröndal Glettur 1929 L Bárujárn 1932 Sm Svart vesti 1945 Sm


Sigurður Heiðdal Svartir dagar 1942 Sk


Sigurður Helgason Og árin líða 1938 Sm


Sigurður Helgason Svipir 1932 Sm Ber er hver 1936 Sk Við hin gullnu 1941 Sk


Stefán Jónsson Raddir úr hópn 1945 Sm


Stefán Jónsson Vegurinn að brúnni 1962 Sk


Stefán Jónsson Konan á kletti 1936 SmÁ förnum vegi 1941 Sm


Steinn Steinarr Rauður loginn brann 1934 L Spor í sand 1940


Steinn Steinarr Ljóð 1937 Ferð án fyrirh. 1942 L


Steinn Steinarr Tíminn og vatnið 1948 L


Vigfús Einarsson Þræðir 1932 L


Vilhjálmur frá Skáholti Næturljóð 1931 L Vort daglega brauð 1935 L Sól og m.1948 L


Vilhjálmur frá Skáholti Blóð og vín 1957 L




Nafnaskrá


Auk nafna eru taldir titlar þeirra bóka sem helst er um fjallað. Hér er valið úr, sleppt er nöfnum skáldsagnapersóna og nöfnum sem koma aðeins fyrir í upptalningum. Að sjálfsögðu hlýtur þá að gæta nokkurs ósamræmis.



Adorno, Theodor 11


Aðalbjörg Sigurðardóttir 170


Aðalbjörn Pétursson 103-6, 116


Aðalsteinn Halldórsson 123


Alexander Jóhannesson 120


Allari, H. 73-4


Alþjóðasamband kommúnista, Komintern 33, 35-7, 46, 49-51, 83, 129, 150, 165-7, 171, 196, 213


Alþjóðasamband sósíalista 34-5


Alþjóðasamband byltingarsinnaðra rithöfunda 19, 23, 55, 57-9, 62-4, 78, 80-81, 87, 167, 213-14.


Alþjóðasamband rithöfunda til varnar menningunni (ARTVM) 62, 166-7, 172, 199


Alþýðublaðið 59, 95, 201


Alþýðuflokkurinn 30, 32-7, 50, 166, 175, 184, 196, 198, 203


Alþýðusamband Íslands 32-7, 50, 184, 204


Andersen-Nexö, Martin 47, 75, 90, 109, 130-31, 170, 189-90


Andvari 72, 82, 188, 194


Arfur Íslendinga 183-5


Ágúst H. Bjarnason 43, 110, 147


Ágúst Jónsson 123


Ármann Kr. Einarsson 176, 202


Árni Bergmann 105


Árni Halldórsson 123


Árni Hallgrímsson 40-43, 49, 70, 72, 74-5, 99, 102, 104-6, 109-10, 115-16, 191


Árni Sigurjónsson 29, 65, 99, 111


Ársæll Árnason 42-3, 72


Ársæll Sigurðsson 33


Ásgeir Jónsson 57, 59-61, 65, 67-9


Bakhtine,Mikhaïl 94


Balzac 5, 9, 11-12, 21, 23, 55


Bandalag íslenskra listamanna 200


Barbusse, Henri 53, 78, 131


Baudelaire 119


Bärbel 19


Becher, Johannes 17, 24


Benjamin, Walter 8, 101


Benjamín Kristjánsson 75, 98, 107


Bernard, J-P.A. 21, 23, 25, 49, 53, 88, 92, 99, 111, 133, 169, 171-2


Birtingur 195


Bjarni Benediktsson frá Hofteigi 162, 204


Bjarni M. Gíslason 123


Björn Franzsson 46, 58-60, 65, 78, 81, 92-3, 99, 106, 122, 126, 168-9, 181-2


Björn Sigfússon 86


Bloch, Ernst 11, 25


Bogdanov,A. 5, 7, 13-15, 26, 88


Bomholt ,Julius 22


Bondebjerg, Ib 22, 30


Bókadeild Menningarsjóðs 42


Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins (skst. BMÞ) 153, 184-90, 194, 214


Brandes, Georg 38,130


Brecht, Bertold 8, 11, 25, 79, 88, 117, 119, 131


Breton, André 172


Brik, O.M.17


Bronner, Stephen E. 26


Brown,E.J. 5


Brynjólfur Bjarnason 35-6, 46-7, 51, 78


Bund proletarisch-revolutionärer Schriftsteller 58


Böðvar frá Hnífsdal 59-60


Carr, E.H. 8,17, 24


Castro, Fidel 8, 211


Chai Pien12


Cohen, L.81


Davíð Stefánsson 39, 44, 47-8, 59, 73, 75, 90-92, 94-5, 105-7, 119, 122-4, 133, 136, 171, 201-2, 206


Davíð Þorvaldsson 47, 79, 122


Dimitroff 79, 130


Dos Passos 11, 21


Dreiser, Theodore 99


Döblin 11, 12


Eagleton, Terry 2


Eimermacher,K 18-21


Eimreiðin 42-3, 66, 71-3, 79, 119-121, 179, 188, 192, 194-5, 197-8


Einar Benediktsson 73, 87-8, 91, 95, 100, 119, 122, 147, 179


Einar Bragi 189, 193


Einar Frímann 79


Einar H. Kvaran 39, 44, 73, 101, 105, 109-10, 116, 179, 212


Einar Laxness 30-32, 61


Einar Olgeirsson 29, 31, 33-7, 40, 45-55, 64-5, 78, 85, 90, 99, 102, 105-6, 109, 115, 117, 124-6, 131-5, 165-6, 172-4, 179, 181, 196, 198-9, 203-5, 207-8, 212-13


Einar Ól.Sveinsson 41, 53, 105, 116


Eiríkur Sigurðsson 75


Eliot, T.S. 88, 128


Elínborg Lárusdóttir 81, 201-2


Eluard, Paul 172


Emil Petersen 47


Engels,Fr.1-6, 13, 14, 20, 23, 26, 55, 172, 211, 213


Erenbúrg, Ilja 21-2, 172


Ermolaev 19


Eyjólfur Guðmundsson 188, 207


Eysteinn Þorvaldsson 121, 127-9, 174


Fadejev 18, 82


Fallada, Hans 103


Fanon,Frantz 15


Farrel, James 25


Félag byltingarsinnaðra rithöfunda 56-71, 80, 83, 115, 126, 167-8, 170, 178-9, 197, 200, 213-14


Félag íslenskra rithöfunda 201-2


Félagsbréf AB 194


Fjölnir 80, 173


Flaubert 9


Framsóknarflokkurinn 32-3, 129, 203-4


France, Anatole 47, 49


Frank,Waldo 25


Friðjón Stefánsson 114


Friðrik Á. Brekkan 48, 75, 106, 193, 201-2


Galsworthy 74, 182, 193


Gastev 14


Gautier, Th. 20


Geir Jónasson 38


Georgisminn 45


Gestur Pálsson 38-9, 48-9, 53, 75, 94, 96, 104, 115, 119-20, 136-7


Gide, André 131


Gísli Ásmundsson 19, 59-60, 65, 78, 81, 169, 190, 200, 205


Gísli Kristjánsson 114


Goldmann, Lucien 4


Gorki, Maxím 11, 18-19, 47, 80, 106, 109-10, 170, 182, 187


Grétar Fells 20, 76, 88-9


Grieg, Nordahl 131, 170


Guðbrandur Jónsson 88, 175


Guðbrandur Þorláksson 38


Guðmundur Böðvarsson 107, 176-7, 193-4, 207


Guðmundur Daníelsson 58, 60, 66-71, 74, 96, 123, 125, 174, 191, 193-4, 201, 207


Á bökkum Bolafljóts 96,102


Gegnum lystigarðinn 96


Guðmundur Einarsson frá Miðdal 75


Guðmundur Finnbogason 40, 65, 95, 136


Guðmundur Friðjónsson 73, 75, 102-3, 115


Guðmundur Geirdal 73-4, 123


Guðmundur Guðmundsson 71


Guðmundur Hagalín 39-40, 72, 75, 91, 94, 96, 103, 112-13, 120, 130-31, 136, 171, 189-90, 201-2


Brennumenn 105,113


Gróður og sandfok 96


Sturla í Vogum 112-13, 115, 191


Guðmundur Kamban 73, 110


Guðmundur Sigurðsson 67


Guðrún Bjartmarsdóttir 120


Guðrún P.Héðinsdóttir 39, 74, 123, 206


Guevara, Che 6, 211


Gunnar Benediktsson 41, 46-9, 51-5, 58-60, 65-71, 75, 78, 81, 85, 90, 99, 104, 106, 110-111, 113, 115, 129, 166, 170, 174, 176, 178-9, 200-201


Anna Sighvatsdóttir 53-4,103,106,116


Við þjóðveginn 106


Það brýtur á boðum 114


Gunnar Gunnarsson 177, 181, 188


Gunnar M.Magnúss 59-60, 65, 68-71, 104, 107, 181, 191, 202


Hallberg, Peter 118, 151, 153, 155-6


Hallbjörn Halldórsson 74, 175


Halldór Guðmundsson 29, 42


Halldór Helgason79


Halldór Laxness -víðast hvar


AlÞýðubókin 40, 97, 104, 116, 118, 131, 206


Atómstöðin 112, 114, 156-63


Fótatak manna 104


Gerska ævintýrið 109, 156


Heimsljós 102-3, 110, 112, 135, 151-6, 162, 170, 200, 215


Kvæðakver 121


Salka Valka 102, 104-6, 110, 112, 117-18, 132-4,


Sjálfstætt fólk 102-3, 106, 110-111, 114, 117, 132-5, 176


Skáldatími 117-18, 196


Undir Helgahnúk 116


Vefarinn mikli frá Kasmír 40, 105, 121


Halldór Stefánsson 53, 58, 60, 64-71, 74, 78-80, 104, 106, 109, 114, 116-18, 129, 133, 136, 168, 170-71, 176-81, 185, 191-3, 197, 201, 207, 215


Dauðinn á 3. hæð 104,106,111,114,132-3,176


„Hinn mikli segull“ 65, 139-143


Halldóra B. Björnsson 59-60, 63, 70


Hannes Pétursson 128, 193


Hannes Sigfússon 189, 193


Haraldur Björnsson 46


Haraldur Guðmundsson 46, 59


Hasek, J. 82


Haukur Björnsson 46, 51, 175


Haukur Böðvarsson 134


Hauser, Arnold 4


Hegel 4


Heimir Pálsson 38


Heimir Þorleifsson 30


Heimskringla, bókaútgáfa 174-81, 189-90, 195, 197-9, 207-8, 214


Heintz, Günther 18, 23, 130


Helgafell 195


Hemingway, E. 75, 187


Helgi Hálfdanarson 120, 177


Helgi Laxdal 169


Helgi Pjeturss 75, 179


Helgi Sæmundsson 79


Hendrik Ottósson 34, 51, 129


Hermann Pálsson 159-60


Héðinn Valdimarsson54, 148, 198-9, 203


Hið íslenska bókmenntafélag 42, 181


Horvàth,Márton 23


Hulda, Unnur Benediktsdóttir 120, 201


l'Humanité, blað franskra kommúnista 165


Ibsen 39, 101, 130


Iðunn 42-4, 49, 71-6, 82-3, 122, 188, 194, 197, 212-13


Illès, Béla 64, 130


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir 30, 33-7, 50


Ingólfur Jóhannesson 51, 166


Jakob J.Smári 73, 94, 99, 102, 105, 117, 120, 134, 179, 213


Jakob Thorarensen 40, 73-4, 85, 102, 179, 201-2


Jakobson, Roman119


Jens B. Baldursson 204


Joyce, James 11-12, 21, 25


Jóhann Páll Árnason 35


Jóhann Jónsson 127


Jóhann Gunnar Sigurðsson 119


Jóhann Sigurjónsson 39, 120, 188


Jóhann Sveinsson 91, 102, 115


Jóhannes Kjarval 82, 181-2


Jóhannes úr Kötlum 55, 58, 60, 64-71, 74-5, 78-9, 90-91, 98, 104, 106-7, 116, 122-6, 131-5, 170, 173-4, 176, 178-9, 181, 191, 193-4, 200-201, 205, 207, 215


Dauðsmannsey, Siglingin mikla, Frelsisálfan, 114-15


Ég læt sem ég sofi 123, 132


Hrímhvíta móðir 126, 173, 178


"Hvað nú, ungi maður?" 143-6


Og björgin klofnuðu 95, 104, 111, 114


Samt mun ég vaka 123-4, 132, 176


Sjödægra 125, 128


„Tröllið á glugganum“ 126, 146-7


Verndarenglarnir 105, 114, 116, 148-150, 154, 163


Jón Aðils 61


Jón Baldvinsson 33, 54


Jón Björnsson 105


Jón Dan 192-3


Jón Guðmann 45, 174


Jón Helgason 177, 194


Jón Magnússon 105, 170


Jón Óskar 60, 69, 71, 189, 193-4


Jón Pálsson 123


Jón Rafnsson 50, 125-6, 166


Jón Sigurðsson frá Ystafelli 41-2, 200


Jón Thoroddsen 120


Jón Trausti 39, 105


Jón úr Vör 60, 71, 79, 125, 168, 193-4, 201, 206-7


Jón Þorleifsson 170


Jónas J.frá Efstabæ (Sigurður Einarsson)


Jónas Hallgrímsson 49, 87, 90, 94, 156, 160


Jónas Jónsson frá Hriflu 32, 37, 42, 45, 104-5, 129, 136, 185-90, 192, 195, 199-201


Jónas Thoroddsen 123


Kafka, Franz 11


Katrín Pálsdóttir 58, 60, 65


Kerzencev 15


Kommúnistaflokkur Íslands 37, 49-55, 76, 82-4, 129, 165-6, 195, 197-8, 207, 213


Kristinn E. Andrésson - víðast hvar


Kristín Geirsdóttir 79


Kristín Sigfússdóttir 39, 47-8, 53, 79, 110


Kristján Albertsson 40, 42, 162


Kristmann Guðmundsson 75, 105, 202


Krog, Helge 100, 170


Lafargue, P.8,9


Lassalle,Ferdinand 4


Lecourt, D. 13


LEF 17


Lenín 6, 14, 16-18, 23, 35, 46, 79, 88, 99, 130, 167, 211, 213


Lewis, Sinclair 99, 117


Lorenz, R. 16


Lukàcs, G. 4-5, 8, 11, 20, 22-3, 25, 88, 103, 115


Luxemburg, R. 6-7, 23, 86


Lúnatsjarskí 15, 99, 109


Magnús Á. Árnason 119, 122


Magnús Ásgeirsson 70, 79, 122-4, 170, 201


Magnús Jónsson 43, 86, 116


Magnús S. Magnússon 29-32


Majakoffskí 17


Malinovskí (Bogdanov)


Malraux, André 12, 25, 81, 111, 131, 168


Mann, Thomas 12, 187


Mao Ze dong 12, 15, 26


Marx, Karl 1-6, 8, 13-14, 19, 23, 26, 46, 55, 92, 130, 172, 211, 213


Masters, E.L. 124


Matthías Jochumsson 147, 174


Mál og menning 127, 169, 173, 177-98, 203, 207-8, 214


Mehring, F. 2, 6, 8-10


Menn og menntir 188


Menningar og fræðslusamband alÞýðu (MFA) 184-190, 214


Menntamálaráð 185, 199-200


Michaëlis, Karin 79, 131


Mittenzwei,W. 12


Morgunblaðið 113, 120, 185


Negri, Ada 73, 79, 122


Nielsen, Rudolf 79


Nikulin, L. 79


Njörður Njarðvík 159


Obstfelder, Sigbjörn 120


Oddný Guðmundsdóttir 74


Orwell, George 170


Ottwald 11


Ólafur R. Einarsson 34


Ólafur Friðriksson 33-5, 46


Ólafur Jóh. Sigurðsson 60, 65-6, 69, 71, 74, 114, 170, 177, 192-3, 201, 207


Liggur vegurinn þangað? 96


Ólafur Thors 113


Óskar Aðalsteinn 114, 201


Passíusálmar Hallgríms Péturssonar 86, 98


Páll Ísólfsson 94, 181


Parker, R.A.C.165


Pálmi Hannesson 46


Pereval 17


Pétur Georg 79


Plekhanov, G.3, 5-6, 8-10, 14, 20, 88, 91-2, 96


Proletkult (Öreigamenning) 5, 7, 16, 26, 130


Proust 12, 21, 25


Ragnar Jónsson 175, 177, 181, 185, 191


Ragnar Kvaran 40-41, 46, 75, 87, 110, 132


Ragnheiður Jónsdóttir 207


Arfur 114


Í skugga Glæsibæjar 115


Rauði fáninn 78-9, 83, 112, 143


Rauðir pennar 59, 62, 71-4, 80-83, 92, 124-5, 132-4, 143, 146-7, 168-73, 176, 178-9, 182, 188, 190-93, 197, 214


Réttur 36, 43, 45-50, 53, 65-6, 73-4, 76-80, 82-3, 85-6, 112, 114, 122, 124-5, 143, 156, 171, 174, 188, 193, 195, 197-9, 208, 212-14


Richards, I. A. 88


Rithöfundafélag Íslands 200-202, 207


Robrieux, P. 24, 37, 51, 166, 196


Rydberg, V. 124


S.H.M. (Skúli Magnússon?) 105


Sartre, J.P. 9, 16, 25, 96


Schiller10, 49, 86, 130


Seghers, Anna 81-2


Serge,V 23-4


Shirer, William 165


Sigfús Daðason 193, 199


Sigríður Einars frá Munaðarnesi 59-60


Sigríður Stefánsdóttir 39, 74, 123, 206


Sigurður Einarsson 40-41, 54, 59-60, 75, 88, 91, 99, 103, 105-6, 110, 112-13, 116, 118, 122-5, 169, 172, 176, 178-9, 191, 213, 215


Sigurður Grímsson 90-91


Sigurður Gröndal 54, 59, 123


Sigurður Guðmundsson 102, 109


Sigurður Haralz 176


Sigurður Heiðdal 114


Sigurður Helgason 60, 70-71, 150, 202, 207, 215


Ber er hver að baki 70


Sigurður Ívarsson 123


Sigurður Nordal 40, 86, 94, 110, 119, 181, 183-5, 200


Sigurður Thorlacius170, 181


Sigurjón Friðjónsson 73, 176


Sigurjón Jónsson 41, 115, 131


Sinclair, Upton 75, 175


Sjálfstæðisflokkurinn 33, 129, 166, 203


Sjdanov 7, 19


Sjólokoff 18, 193


Skírnir 42, 72-3, 81-2, 113, 132, 179


Skúli Guðjónsson 40, 75, 81, 91, 169, 172


Snorri Hjartarson 128, 193-4


Sovétvinafélagið 57, 196


Sósíalistaflokkurinn 150, 158, 196, 198-9, 203-4, 207-8, 215


Stalín 7, 17, 150, 165, 196, 199


Stefán Einarsson 81, 111, 113, 118, 131, 170, 176


Stefán H. Grímsson 189, 193


Stefán Hjálmarsson 198-9, 203


Stefán frá Hvítadal 39, 75, 94, 102


Stefán Jónsson 59-61, 66-71, 114


Stefán Pétursson 46, 51, 78, 174


Stefán J. Stefánsson 46


Stefán Ögmundsson 175, 178


Steinbeck187


Steindór Sigurðsson 120


Steingrímur Thorsteinsson 119


Steinn Sigurðsson 105


Steinn Steinarr 51, 57, 60-61, 64-71, 78-9, 122-6, 128, 134, 170, 176, 179, 193-4, 201, 207, 215


Ferð án fyrirheits 128


Ljóð 125-6, 177, 191


Stephan G. Stephansson 39, 49, 75, 85, 123, 131, 176, 188


Strindberg 101, 187


Struve, G. 19-21


Sue, Eugène 4


Svanur Kristjánsson 30, 35-6


Sveinbjörn Sigurjónsson 104, 116


Sveinn Bergsveinsson 75, 170


Sveinn Skorri Höskuldsson 66, 120-21


Sveinn Sigurðsson 43, 99, 103


Sverrir Kristjánsson 150


Sævar Tjörvason 32


Sønderholm, Erik 151-2, 155-6


Tagore, Rabindranath 119


Theodór Friðriksson 48, 53, 105-6, 192, 201


Tímarit MM 71-2, 126, 178-97, 207


Tíminn 185-6, 195, 199-200


Tolstoi 6, 18-19, 23, 88, 99, 130, 187


Tómas Guðmundsson 41, 65, 94, 97, 107, 179, 194, 202


Trotsky,L 5, 7, 10-11, 14, 16-17, 96, 167, 171, 196-7, 211


Tryggvi Emilsson 30


Tsjekov 47


Túrgenjeff 119-20


Ungmennafélag Íslands 38, 185


Vaka 42-3, 73, 120


Valdimar U.Valdimarsson 33


VAPP, félag öreigaskálda í Sovétríkjunum 17-19, 54, 90


Verklýðsblaðið 50, 89, 106, 132, 166-7, 174, 197


Vésteinn Ólason 134


Vigdís Grímsdóttir 39, 74, 123, 206


Vigfús Einarsson 59, 78, 123


Vilborg Dagbjartsdóttir 120


Vilhjálmur Þ.Gíslason 42, 178


Vilhjálmur Guðmundsson frá Skáholti 58, 60, 71, 78, 124


Vilmundur Jónsson 59, 114, 175


Wilde, Oscar 71, 82


Wolf 82


Das Wort 25


Zetkin, Clara 6, 8-10, 53


Zola, Emile 9, 130


Þorgils gjallandi 75


Þjóðviljinn 50, 113, 126, 195, 197, 203


Þorgeir Þorgeirsson 120


Þorsteinn Erlingsson 39, 48-9, 53, 85, 90, 123, 131-2


Þorsteinn M. Jónsson 41


Þorvaldur Þórarinsson 170


Þór Whitehead 34-6, 50-51, 57, 197


Þórbergur Þórðarson 33, 46, 59-60, 64, 74, 81, 116-17, 120, 122-3, 129, 173, 175-7, 179, 181, 191-2, 207


Bréf til Láru 33, 40, 44, 49, 61, 121, 131, 133, 206, 212


Íslenskur aðall 111, 133


Ofvitinn 111, 133


Rauða hættan 59, 111, 132-3


Þórir Óskarsson 119


Þórólfur Sigurðsson 45


Örn Arnarson 85-6, 188


Överland, Arnulf 74











[1]Enn er mjög umdeilt me›al sagnfræ›inga, hvort fletta var samstillt tilraun hægrimanna til valdráns, e›a bara lítt skipuleg mótmæli gegn spillingu ríkisstjórnarinnar. fiátttakendur voru á anna› hundra› flúsunda, úr helstu samtökum hægrimanna, m.a. Action française, la Croix du feu, les Camelots du roi, en einnig úr samtökum skattborgara og fyrrverandi hermanna, fl.á m. kommúnista. Sjá Fischer Weltgeschichte 34. bindi, bls. 177–9. Bla› kommúnista, L'Humanité, hvatti fólk til a› taka flátt í flessum a›ger›um 6. febrúar skv. Shirer (bls. 224), sem minnist sams konar a›ger›a fleirra í fi‡skalandi fyrir valdatöku nasista. Enda var fla› samkvæmt fleirri stefnu fleirra a› sósíaldemókratar væru hættulegasti andstæ›ingur byltingaraflanna.



[2]Hjá Halldóri Stefánssyni kemur fram 1977 (bls. 120), a› nafni Félags byltingarsinna›ra rithöfunda var aldrei breytt, og er flá athyglisvert hvernig me› fla› er fari› hér, og raunar einnig 1940 í yfirl‡singu MM. Jón úr Vör sag›i mér (17. okt. 1986) a› í daglegu tali hef›i nafni›: Félag róttækra rithöfunda veri› meira nota› — af ö›rum en Kristni. En Jón gekk raunar ekki inn í félagi› fyrr en 1936, eftir stefnubreytinguna fla› ár. Skyldi hún sk‡ra fletta? Halldór Stefánsson sag›i 1977 (bls.120) a› bæ›i nöfnin hafi veri› notu› á víxl, eftir flví hve miki› menn vildu hafa vi›.



[3]Sjá nánar t.d. rit hans 1937 (A, bls.140–150), 1938 (B, bls.186); 1939 (bls.247–50) og1940 (A, bls.269–73).



[4] Ræ›an var eftir André Breton, sem var meina› a› tala, af ví a› hann haf›i úti á götu lö›runga› Ilja Erenbúrg (fyrir a› segja a› surrealistar væru allir samkynhneig›ir).



[5]Reyndar sög›u eir Marx og Engels egar í Kommúnistaávarpinu, 1848 (bls. 41–2), a› jó›­legum grundvelli sé kippt undan i›na›inum, jó›irnar ver›i alhli›a há›ar hver annarri. A› sjálfsög›u var fla› gamalt um andlega framlei›slu.



[6]Einar lag›i fram 500 kr, en a›rir fundarmenn 100 kr. hver, nema einn 400 (Sveinbjörn Arinbjarnar). Einar var og kosinn í stjórn ásamt Kristni E. og Eiríki Baldvinssyni. „Varamenn voru kosnir: Benedikt Stefánsson og Sverrir Thoroddsen. Endursko›endur Haukur Björnsson og Ingólfur Jónsson.“ A›rir stofnendur voru Magnús Sveinsson, Stefán Ögmundsson og Sveinn Valfells, sem sí›ar var› einn helsti i›nrekandi á Íslandi, hann lag›i fram stofnfé f.h. Jóns A›alsteins Sveinssonar. Næsta ári› fengust svo smám saman fleiri í hlutafélagi› eins og Kristinn rekur 1971 (bls.98–101, hann birtir flar fyrstu fundarger›ir Heimskringlu eftir ger›abók, sem ég hefi ekki geta› fundi›).



[7]Í sept. 1938 höf›u bækur Halldórs Laxness frá árinu á›ur selst upp, einnig Ljó› Steins Steinars, sem höf›u reyndar a›eins birst í 150 eintökum. Ekki veit ég eintakafjölda bóka Halldórs. Sjá Kristin, 1938 (D, bls. 28).



[8]fi.e. úr 2000 kr. í 5000 kr., en fla› var jafnmiki› og hæstu rithöfundalaun, sem flá fengu Einar Benediktsson, Einar H. Kvaran og Helgi Pjeturs. fietta var á vi› árslaun prófessors, rúmlega hálf önnur árslaun verkamanns í fullu starfi. Sjá nánar grein mína 1985 A, bls. 85.



[9]A›eins tveimur dögum á›ur en sent er út bo›sbréf stjórnar sem enn var eftir a› velja! Óneitan­lega vir›ist veri› a› fullnægja formsatri›um um mál sem búi› var a› rá›a til lykta.



[10]Úr Félagi byltingarsinna›ra rithöfunda voru flessir sex: Gunnar M. Magnúss, Halldór Stefánsson, Halldór Laxness, Jóhannes úr Kötlum, Kristinn E. Andrésson, fiórbergur fiór›arson. Frá Heimskringlu eru væntanlega flessir sjö, a.m.k. voru fleir kunnir kommúnistar: Björn Fransson fréttaritari, Eiríkur Magnússon kennari, Haukur fiorleifsson a›albókari, Jens Figved framkvæmdastjóri, Lárus H. Blöndal starfsma›ur Alflingis, Ragnar Jónsson fulltrúi, Ragnar Ólafsson lögfræ›ingur, E. Ragnar Jónsson forstjóri. E.t.v. fiórhallur Bjarnarson prentari. En kunnustu kommúnistar í Heimskringlu, svo sem Einar Olgeirsson, eru ekki me›. Ef til vill eru hér einhverjir vantaldir og a›rir oftaldir, en altént var meirihlutinn traustur. Me› honum eru svo kunnir menningarfrömu›ir, sem óvinir Máls og menningar gátu ekki kalla› kommúnista: Gunnar Gunnarsson, Páll Ísólfsson og Sigur›ur Nordal, einnig A›alsteinn Sigmundsson kennari, Árni Fri›riksson fiskifræ›ingur, Erlendur [í Unuhúsi] Gu›mundsson skrifstofustjóri, Gu›mundur Thoroddsen prófessor, Ólafur H. Sveinsson forstjóri, Sigur›ur Thorlacius skólastjóri (TMM 1, bls. 256).



[11] 1940 voru 10.792 karlar og 4.717 konur í ASÍ, og hefur fla› lítt breyst frá 1938, en um félagsmenn fless árs hefi ég a›eins heildartöluna: 15.384 (ASÍ, fiingtí›indi 1938, bls. 42; og 1940, bls. 42).



[12] Eftir fla› komu tekjur MFA nær eingöngu af sölu bókanna. Framlag ríkisins haf›i borga› kaup framkvæmdastjórans (1.67 x kaup verkamanns 1938), en ver›bólga strí›sáranna r‡r›i fla› svo, a› enginn gat gegnt fullu starfi fyrir MFA. fiví hló›ust upp bókabirg›ir, og húsnæ›i skorti líka. 1945 gekk fletta enn skv. gjaldkera, flá voru 3900 áskrifendur, en 1946 hætti MFA starfsemi, uns Ragnar í Smára tók fla› a› sér um 1950, eins og Heimskringlu á›ur (MFA, bls. 18–22).



[13]Fa›ir minn, Ólafur Jónsson var› starfsma›ur BMfi á 6. áratugnum, og sá ég flar flá afar miklar birg›ir elstu bóka. Eftirma›ur hans, Elísabet Elíasdóttir segir í bréfi til mín 10/3 1982:


Félagsmannakerfi bókaútgáfunnar er enn starfandi, en félagsmönnum fer fækkandi me› hverju ári er lí›ur. Í dag eru fleir u.fl.b. 1500, en hva› fleir voru flestir er ekki vissa fyrir, en flá má gera rá› fyrir a› fleir hafi um tíma veri› u.fl.b. 6000.


– fla› er minna en helmingur fless sem Jónas gaf upp.



[14]Stefán H. Grímsson gaf sjálfur út fyrstu bækur sínar: Glugginn sn‡r í nor›ur 1946 og Svartálfadans 1951; Hannes Sigfússon Dymbilvöku 1949; Einar Bragi Eitt kvöld í júní 1950 og Svanur á báru 1952 (bá›ar í Stokkhólmi). Jón Óskar bei› árum saman eftir flví a› Heimskringla gæfi út bækur hans, segir hann í minningum sínum (IV,bls. 157).



[15]Vi›tali› er í 1. h. 1938, ritdómarnir eru eftir Árna Hallgrímsson um Rau›a penna IV (4. h.1938), Gu›mund Daníelson um Ljó› Steins Steinars (s.st.) og Sigur› Einarsson um Sturlu í Vogum (2.h.1938)



[16] Sjá t.d.1941 (C, bls. 205; D, bls.299; B, bls.195 og A, bls.191).



[17] Auk fyrrtaldra sagna má nefna: „Seinna“ eftir M. Forster (1941), „Grimmd“ eftir Halldór Stefánsson, „Gy›ingurinn í Hraunhöfn“ eftir Fri›rik Brekkan og „Ánama›kar“ eftir Jón Dan (1942). Sú saga má og flokkast undir afhjúpun á fljó›félagsmisrétti, einnig „Stjörnurnar í Konstantínópel“ eftir Ólaf Jóhann (1942) og „England expects every man to do his duty“ eftir Halldór Stefánsson (1943). Andleysi smáborgara er afhjúpa› í „Harri“ eftir Saroyan (1940, fl‡›ing HKL), „Blátt áfram ma›ur“ eftir Galsworthy (1941) og „Strange fruit“ (fla› er skáldsögukafli, 1944). N‡lendukúgun er dregin fram í „Hundur“ eftir Pa Chin (1940), örbirg› og kvennakúgun í „Konu rei›i“ eftir Isak Löb Peretz (1943). Saga Sjólokoffs: „fiegar Nastaja lag›ist í reyfaralestur“ (1944) s‡nir fyrirmyndar Sovétflegn.



[18]Steinn Steinarr á 20 kvæ›i (12 bls.) fyrstu fimm árin, en alls 37 í 1–27.árg., Jóhannes úr Kötlum 32 ljó› í 1.–29.árg., Gu›mundur Bö›varsson 27 ljó› í 1.–32.árg., Jón úr Vör 15 í 3.–12.árg., Jón Óskar 15 í 2.–25.árg., Ólafur Jóhann 14 í 5.–37.árg. Auk fleirra Steins og Jón Óskars má nefna módernistana Hannes Sigfússon me› 16 ljó› í 8.–29. árg., Sigfús Da›ason me› 11 í 6.–20.árg., en eftir fla› var› hann ritstjóri TMM. Stefán H. Grímsson á 10 ljó› í 10–36.árg., Einar Bragi aldrei neitt (vegna ágreinings vi› Kristin um afstö›u til bókmennta, sag›i hann mér 1984). Ennfremur eru áberandi Snorri Hjartarson me› 16 í 4.–37. árg. og Hannes Pétursson me› 9 í 12–37.árg.



[19]sbr. augl‡singar Heimskringlu í litlaTMM og frá Bókastö› Eimrei›arinnar á v. bls. 4. heftis Eimrei›arinnar1936, flar er algengt ver› á 200–400 bls. bók 10 kr.



[20]Landsfundur flokksins var æ›sta ákvör›unarvald hans, og kaus flokkstjórn, en sá hluti henn­ar sem búsettur var á höfu›borgarsvæ›inu, mynda›i mi›stjórn. Hún kaus fámenna fram­kvæmdanefnd til a› annast daglegan rekstur.



[21]fiar á hann greinilega vi› Heimsljós Halldórs Laxness, sem m.a. hjó nærri Jónasi sjálfum, og vi› kvæ›i Jóhannesar úr Kötlum: „Hann pabbi“, en „skólabræ›raní›i›“ er grein Gunnars Benediktssonar í Rau›um pennum IV, flar sem hann talar um hve miki› borgaralegum mennta­mönnum hafi fari› aftur a› frjálslyndi sí›an 1918.



[22] Kristinn E. Andrésson segir 1971 (bls.329) a› eftir langa ey›u í fundabók félagsins (rúml. 3 ára, sbr. bls.39) komi fundager› 15.júní 1937, flar sem lagt sé á rá›in um stofnun Máls og menningar. Gísli Ásmundsson sag›i 1981 (bls.2) a› eftir fletta hafi einkum veri› rætt um starf­semi MM á fundum félagsins. Kristinn segir (bls.339) frá tveimur ódagsettum fundum 1941 og 1942, og vitnar (bls. 41) í félagatal fundager›arbókar félagsins 1942–3, og mega svo óljósar tímasetningar vera vísbending um litla starfsemi.



[23]Sjá grein Halldórs Gu›mundssonar um sögur Ólafs Jóhanns.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar