mandag den 13. juni 2011

Kóralforspil 3. hluti



11. Prósi



Sem módern prósi koma einkum til álita tvö verk frá 3. áratugnum, og fá­ein­ar smásögur frá þeim fjórða. Síðan verður rætt um verk frá því um 1950, og það sem síðar kemur. En fyrst verður vikið að innlendri skáldritahefð og að helstu er­lend­um straumum mód­­­ern­­isma sem til álita koma sem fyrirmyndir eða hlið­stæður þessara ís­lensku verka.



11.1.Skáldsagnahefð


Um upphaf íslenskrar skáldsagnaritunar fjallar Steingrímur J. Þor­steins­son í doktors­riti sínu, 1943. Það fjallar mest um skáld­sögur Jóns Thor­­­odd­sen, en auk þess eru önnur íslensk prósa­rit 19. aldar sett í sam­band við þau, sagt frá erlend­um fyrir­­myndum þeirra og því efni þeirra sem rekja má til lífs­reynslu Jóns. Þarna er þá út­tekt á verkum frá því um miðja 19. öld, og næstu tvo ára­tugi. Jafn­stórt rit, og á margan hátt áþekkt, skrifaði Sveinn Skorri Hösk­­ulds­­son um smá­sögur Gests Pálssonar frá 9. áratug 19. aldar, og loks er að nefna lýs­ingu Þórðar Helgasonar á verk­um Þor­gils gjall­anda frá ára­tug­un­um báðum meg­in við aldamót­. Á grund­velli þess­ara rita, og ýmis­­legs ann­ars sem til fell­ur, skal hér reynt að gera nokk­urt yfirlit um helstu ein­kenni íslensks prósa­skáld­­skapar framá tutt­ug­ustu öld.


Mörgum hefur orðið starsýnt á það, að stærsti kaflinn í riti Stein­gríms fjall­­ar um sögupersónur Jóns, og þó einkum um fyrir­myndir þeirra meðal kunn­­ingja Jóns. Enda fylgir Steingrímur þeirri stefnu sem þá ríkti, að leita skýr­inga á sér­kenn­um skáld­verka í ævisögu höfundar, svo sem hann sjálfur ger­ir grein fyrir (bls. 1-11). En einnig er þess að gæta, að með skáld­sagna­­gerð var erlend bók­­mennta­grein tekin upp á Íslandi, og því gat mörg­um þótt meg­­in­atriði að sýna að efni­­­­­við­urinn a.m.k. væri alíslenskur.


Steingrímur leggur áherslu á samfelluna í prósaskáldskap 19. aldar:



Jón Thoroddsen er því brautryðjandi í íslenskum bók­mennt­um, bæði að skáldskapar­tegund og bókmennta­­stefnu. Hann er frum­kvöð­ull íslenskr­ar skáldsagnagerðar í nútíð og fyrsta raun­sæisskáldið á Íslandi, 32 árum fyrir daga Verðandimanna.



Hinsvegar segir Sveinn Skorri (Hugtök og heiti, bls.212):



Í íslensk­um bókmenntum markast upphaf raun­sæis­stefnunnar af út­komu tímaritsins Verðandi (1882). Að henni stóðu Bertel Þor­­leifs­son, Einar H. Kvaran, Gestur Pálsson og Hannes Hafstein."



Aftur á móti sagði Gestur Pálsson sjálfur (1889, bls. 73):



á Íslandi eru bæði idealismi og realismi meira og minna sam­vaxnir hjá flestum skáldum á þessari öld. [...] Öfgar í realistisku stefn­una eru mest­ar hjá skáldi, sem líka er viður­kendur af öllum; ég meina Jón Thór­­oddsen og suma kafla í skáld­sög­­unni Maður og kona [sbr. Stein­­grím, bls. 673.]



Þetta kann að þykja undarlegt þegar þess er gáð, að Jón skrifar sögur sínar á blómaskeiði róm­antísku stefnunnar á Íslandi, og var sjálfur með róm­­an­tískustu ljóðskáldum. En þá vaknar spurn­ingin um muninn á róm­antík og raun­sæis­stefnu í prósa­skáld­skap. Um það efni hafa margir fjallað, og nýlega gerði um það gagnrýna samantekt norski fræði­mað­ur­inn Asbjørn Aarseth. Hann bendir á að skil­greining raun­sæisstefnunnar sé nokkuð fljót­andi, eink­um þó það meginatriði að skáldverk eigi að vera "trú­verðug lýsing raun­veru­­leik­ans" (Hugtök og heiti, tv. grein, bls. 211). Und­ir þá gagnrýni skal hér tek­ið, þetta virð­ist mér fráleitur mæli­kvarði á skáldverk, bæði á ein­kenni þeirra og gæði, líklegt er, að með þessu sé bara átt við að verkið grípi le­s­­endur, sann­færi þá. En það ræðst að minni hyggju ekki af eftiröpun, heldur eink­­um af því hversu vel fléttast saman mis­mun­andi meginþræðir verks­ins. Sven Møller Krist­ensen bendir á það í riti sínu um dönsk sagnaskáld á síðasta þriðj­ungi 19. aldar (Impression­ism­en i dansk prosa 1870-1900, bls. 44-6), að þau hafi sýnt tal persóna mjög mikið í óbeinni ræðu. Auðvitað er það ekki eins "trúverðug eftirmynd" raunveruleikans og bein ræða er, en gef­ur meira svig­­rúm listrænt, svo sem Kristensen rekur.


Auk þessa bendir Aarseth á, að mjög sé breyti­­legt í tím­ans rás hvað telji­­st trú­verðug mynd raun­­­veru­leikans, það mótist af hefðum hverju sinni, þannig að oft merki þetta ein­fald­lega: sú fram­setning sem menn eiga að venjast í skáld­­­rit­um. Verk spor­gengla þykja sjaldan óraunsæ, en sú ásökun dynur oft á verk­­um sem eru nýstárleg að formi og fram­setn­ingu. En af þessari fljót­andi við­­miðun ætla ég að hljót­ist enda­lausir und­ir­­flokkar, svo sem "ljóðrænt raun­sæi", "rosa­raun­sæi", o.fl., svo ekki sé minnst á þegar flokkað er eftir lífs­skoð­­un eða stjórn­­mála­sjón­ar­miðum; í sós­íal­ískt raun­sæi, borgaralegan real­isma, o.fl.þ.h. Aarseth heldur því fram (1985, bls. 246), að í skáld­sagna­­gerð sé sam­felld hefð miklu meira áber­andi en breyt­ingar, allt frá upphafi 19. aldar til fyrri heims­styrj­aldar. Hann nefnir sem dæmi (bls.248) þrjár norskar skáld­sög­­ur, frá árunum 1822, 1855 og 1886. Þær fjalli allar á svip­aðan hátt um ásta­­­mál ungs fólks gagnvart þrýst­ingi for­­eldra og um hug­mynda­heim þjóð­fé­lags­­­hópa. Enn­­fremur fer Aarseth í saumana á nokkrum skáld­verkum sem talin hafa ver­ið dæmi­­gerð rómantísk eða raunsæileg, og sýnir fram á að sú sund­ur­­grein­­ing byggist ekki á megineinkennum verkanna. Þessi sam­fella í skáld­­­­­sagna­gerð 19. aldar virðist Aarseth eðlileg í ljósi tækni- og þjóð­fé­lags­­­­þró­un­ar. Papp­írs­­gerð varð veru­lega ódýr um 1800, þá varð æ meir um ódýrt les­mál, eink­um blöð og skáld­sög­ur, og lestrar­kunn­átta breidd­­ist sífellt meira út. Aðr­ir fjöl­miðlar (kvik­­myndir og út­varp) komu ekki til fyrr en nokkuð var lið­ið á 20. öld. Borg­ara­leg viðhorf hafi ríkt alla nítjándu öld, enda hafi engar bylt­­ing­ar þá orðið, þrátt fyrir nokkra óró um miðja öldina (bls. 249- 50).


Þessu kynnu einhverjir að mótmæla vegna þess, að lestr­ar­kunn­átta hafi náð æ meir til verka­lýðsstéttarinnar á síðari hluta 19. aldar, hún hafi þá skipu­lagst í hags­munafélög og flokka, sem hafi gefið út blöð, tímarit og bækur, auk þess sem fram hafi komið rit­höf­undar, sem skrifað hafi með hags­­­muni verk­a­­lýðs í huga, í and­­stöðu við ríkjandi viðhorf, enn­frem­ur kven­frelsis­­hreyf­­ing með sam­bærileg umsvif. Það eru augljós sann­indi, en hæpnara miklu er, að við­horfsbreyting hafi orðið hjá almenningi, þótt hann fari af meira þrótti að seil­ast eftir lífsgæðum. Og ekki verður séð að þessar breyt­ing­ar hafi leitt til bók­­­mennta­­legra nýj­unga (sbr. t.d. rit mitt 1990, 1., 2. og 4.k.).


Aarseth segir ennfremur, að mörgum fræðimönnum hafi sést yfir þessa sam­­­fellu í skáld­sagna­gerð 19. aldar, vegna þess að þeir hafi svo mikið byggt á stefnu­skrám ýmissa skáldahópa, en slíkar stefnuskrár leggi einatt ofur­áherslu á nýj­ungar (gjarnan til að af­skrifa ríkjandi skáld). Sjálfs­mynd bók­­mennta­hreyf­­ingar sé hluti af hugmynda­kerfi henn­ar, og því megi fræðimenn ekki taka hana gagn­rýn­is­laust upp (1985, bls. 22).


"Trúverðug eftirmynd raunveruleikans" er því ekki nothæfur mæli­­kvarði á bók­­­mennta­­stefnu, en annað mál er að ákvarða stefn­una með bók­menntalegum sér­­­kenn­um, svo sem hlutlægni, sem Sveinn Skorri rekur til Flaubert (Hug­tök og heiti, bls. 209-10):



Raunveruleikanum skyldi lýst svo sem höfundurinn sá hann og jafn­­framt skyldi höfund­ur­inn forðast að láta eigin skoð­anir eða viðhorf lita frásögn­ina. Þannig skyldi höf­­und­inum ýtt út úr verk­inu og hann aðeins skrá hið séða og heyrða.



Þetta er nákvæmari orðun á því sem Zola boðar með skil­grein­ingu sinni, sem Sveinn tilfærir: "Une oeuvre d'art est un coin de la nature vu a travers un tempérament". Það þykir mér réttast þýtt: >listaverk er hluti nátt­­ú­r­unnar eins og hann birtist í geði manns (eða:) hluti umhverfisins túlkaður af til­teknum persónu­­­­leika< (en ekki: "Listaverk er brot af nátt­­ú­r­unni séð með skaphita" eins og Sveinn þýðir, tv. rit, bls. 211). Og þetta er enn það sem Gestur Páls­son boð­­aði; 1889 (bls. 75):



hreinar og beinar „fótografíur“ af hversdagsatriðum í lífi hvers­dags­­manna eru enginn skáldskapur. Til þess að slíkt verði skáld­skap­ur, verður listin að leggja yfir það sína blæju, skerpa suma drættina í fyrir­­myndinni og draga aðra út, og á bak við allt sam­an verður skálds­ins eigin skoð­un, eigin hugmynd að skína [...] en það má ekki koma fram á leik­­sviðið sjálft, því þá verður skáld­­skap­ur­­inn prédikun en ekki lista­­­­­verk.



Þetta sjónarmið virðist almennt ríkja á árunum milli stríða (sjá nánar tv. rit mitt 1990, k.4.2.1). En vissulega er skilgreiningin svo rúm, að hún gæti náð til mjög ólíkra skáldverka. Til að átta okkur á þessu er þá næst að bera sam­an nokkur mikilvæg ein­kenni á skáldskap fyrrnefndra íslenskra höf­unda.



11.2.Persónusköpun


Bygging sagnanna er vart sambærileg, vegna þess hve fá dæmi og sund­­ur­­leit eru hér til um­ræðu á 19. öld; tvær skáldsögur andspænis fáein­um smá­sög­­um. Steingrímur talar um að Jón leggi litla rækt við bygg­­ingu sagna sinna, sem nánast detti sundur í smá­frásagnir innan ramma ástarsögunnar. En ekki er það vegna þess að sú meginsaga sé sér­kennileg fyrir miðhluta 19. aldar, þessi for­múla er enn í fullu gildi í kvik­myndaverum og hjá höf­­und­um af­þrey­ing­ar­rita, og einhver kvik­mynda­mógúll orðaði hana svo: "1) Stráksi hittir stelpu, 2) þeim er stíað sundur, 3) þau ná saman aftur." Það þætti lík­lega gróf einföldun að segja að Gestur noti þessa formúlu með því að sleppa 3. lið. En smá­sög­ur hans og félaga hans Einars Kvaran frá sama tíma snúast þó mik­ið um að sýna hvern­ig fegurstu vonir persónu vakna og bregðast. Að því lúta titlar sagna þeirra, ss. "Vordraumur, Tilhugalíf, Vonir". Vitaskuld hafa smá­­­­sögur ólíkt fast­njörvaðri uppbygg­ingu en skáld­­sögur Jóns, og skal hér ekki farið út í það[1]. Hér verður heldur ekki fjallað um efnisatriði sagn­­anna eða meg­in­bygg­ingu, en um þau atriði fjallar Matthías V. Sæ­munds­son í bók sinni Ást og út­legð, 1984. Þar segir frá helstu verkum frum­­herja í sagna­gerð, Jóns Thor­odd­sen, Jóns Mýrdal, Páls Sig­urðs­son­ar og Torfhildar Hólm, og að þar beri mest á því mynstri, að ung­um elsk­endum sé stíað í sund­ur, en þau nái saman um leið og þau vinna sér sess í þjóðfélaginu. Með "raun­sæis­skáld­unum", Jóni Ól­afs­­­syni, Gesti Páls­syni og Þorgils gjallanda, verði ástin upp­reisn gegn þjóð­fé­lag­­inu. Og kúgunin sjáist best á því, að þetta er mis­heppn­uð upp­reisn. Það hald­ist hjá helstu skáldum næsta skeiðs, Jónasi frá Hrafna­­gili, Jóni Trausta, Ein­­ari H. Kvaran og Guðmundi Friðjóns­­syni. En nú sætti sögu­hetjur sig við þetta, svo gjör­sam­lega hafi afstaða helstu sagna­höf­­unda til þjóðfélagsins breyst. Nú heiti það að persónur "sýni mikla sál­ar­göfgi með því að sigrast á dýrs­legum hvötum sínum", og þær eru á all­an hátt einlægt að hjálpa öðrum, fórna sér. Loks komi fram skáld í upphafi 20. ald­­ar sem líti ekki á þetta sem þjóð­félagslegt drama, heldur ein­stak­l­ings­­bund­ið, útlegðin sé mönnum eigin­leg, ástin til­raun til að sigr­­ast á henni, en dæmd til að misheppnast, "maðurinn er alltaf einn". Hér rekur Matthías sögur eftir Jónas Guðlaugsson, Einar Bene­dikts­son og Jóhann Gunnar Sigurðs­son. Hér er ekki vettvangur til að víkja nán­­ar að þessu, en þetta eru yfirleitt ófrumleg verk, höfundarnir apa margt ann­að en framangreind efnisatriði hver eftir öðrum.


Það fylgir yfirleitt framangreindri formúlu ástarsagna og -kvik­mynda, að að­­alpersón­urnar eru dauflegar glansmyndir. Virðist því ástæðu­laust að skýra það ein­kenni sagna Jóns með líf­sreynslu hans sjálfs, eins og Steingrímur ger­ir (bls. 322-4; að Jón hafi viljað rekja ástarsorg sína undir rós), hún getur í mesta lagi skýrt hversvegna hann fór út í þessa stöðl­­uðu sagna­gerð. Enda bend­ir Stein­grímur rétt áður á hlið­stæð­ur þessa í sögum Walter Scott. Mér virð­­ist eðlilegast að sjá þessa svip­litlu elsk­endur sem óskamynd lesenda, því þarf hún bæði að vera göfg­uð og ósér­kenni­leg, svo að mörgum hæfi. Ann­ars seg­ir Stein­grímur (bls.293), að persónu­sköp­un sé það sem grein­i list­­rænar sög­ur frá reyf­­urum. Í þeim síðartöldu skipti atburða­flækjan megin­máli, en persón­­ur­n­ar séu bara tæki til að fram­kvæma þessa viðburði, og skipt­­­ist oftast í engla og djöfla. Hins­veg­ar séu persón­urnar að­al­­atriði í list­­­­rænum sög­um, "en sögu­gang­­urinn rís svo upp af eðli þeirra sem rökrétt af­leið­­ing hvata þeirra og skap­gerð­ar." Stein­grím­ur telur að skáldsögur Jóns hafi riðl­ast nokkuð vegna þess hve mjög sögu­persónurnar lifðu eigin lífi (og þá einkum auka­­­persón­ur). En þó séu persónurnar allar einhliða, og yfir­leitt sé þeim lýst beint af sögu­manni:



Um leið og persónur eru kynntar lesendum, fer höf­­undur oft­ast um þær nokkr­um almenn­­um orðum til að segja á þeim ein­hver deili, lýsa útliti þeirra eða skapgerð eða hvoru­­tveggja (bls. 294). Stundum kem­ur höf­und­ur hin­um beinu persónulýsingum höndu­­­­legar fyrir með því að leggja þær í munn öðrum, svo sem í við­ræðum manna um persón­una [...] í samræðum við hana [...] eða komið er fyrir sjálfslýsingu í samtali (bls. 295).


Sögu­persónur Jóns eru heldur ekki flóknar sam­steypur ósam­­stæðra eðl­is­þátta, er skapi tví­ræðar, torráðnar mann­­teg­­und­ir ("próblem­at­íska kar­akt­era"), heldur eru þær mjög séðar frá einni hlið, eins og húm­or­­­ist­um er títt. - Það er ekki einu sinni sýnd skap­gerð­ar­þróun persón­­­­­­anna [...], jafnvel ekki þar sem rak­inn er ævi­ferill þeirra frá bernsku til full­­orðinsára (Sig­ríð­ur, Indriði, Sigrún). Persónurnar koma full­steypt­ar fram á sögu­­svið­ið, líkt og á leiksviði, en þeim skeikar ekki held­ur frá þeim bási, sem þeim er mark­­aður, þær eru sjálfum sér sam­kvæm­ar allt frá upphafi og til söguloka (bls. 296-7).



Sveinn Skorri rekur með dæmum í riti sínu um Gest Pálsson, að sögu­­­­persón­ur hans séu næsta fábreyttar að útliti og innri gerð. Þó leggi Gestur nokkra rækt við útlitslýsingar, að hætti raun­sæis­manna og í sam­ræmi við íslenska sagna­hefð. "Hjá honum hljóta karl­menn svipað útlit eftir lyndis­eink­­­un­n­um og örlögum, en konur með ólíku geðslagi og leik­sopp­ar ólíkra forlaga öðl­­­ast sama svip og útlit, ef þær eru ástleitn­ar, gædd­ar þokka." (bls. 591). Út­liti sé yfirleitt lýst beint, en skapferli óbeint, þ.e. lýst af öðr­um persónum, eða það birtist í orðum persón­unn­ar, hugs­­unum henn­ar eða gerð­um. Sög­ur­nar þró­ist æ meir til óbeinnar skap­ferl­is­lýs­ing­ar, sem sé ein­­ráð í síðustu sög­­unni, "Vor­draumi". Mikið rúm og æ meira fari í að rekja hugs­­­anir persóna, en best heppn­ist þær sem án þess séu. Framan af sjái höf­­­undur inn í hug ýmissa persóna, en sög­urnar verði æ meir á þá lund að í þeim ríki eitt sam­ræmt sjón­ar­horn, allar persónur sjáist utanfrá. Allar persón­­urnar séu einlyndar nema ein, og það sé megingalli sagnanna, því þær eigi yfirleitt að vera harm­rænar, en til þess dugi ekki ein­lynd­ar persónur[2].


Af þessu má þegar ráða, að það sé ekki neinn grundvallar­munur á að­ferð við persónusköpun hjá Jóni og Gesti. Hins vegar eru flestar persónur Jóns öllu meiri skrípamyndir. Þórður Helga­son segir það (bls.49) "eitt ein­kenni raun­­sæisstefn­unnar í Evrópu að pers­ónum í skáld­verk­um er lýst með ólíku mál­fari þeirra." Hann virðist hér hafa í huga höf­­unda sem mótuðust eftir að Brandes flutti sína frægu fyrir­lestra, 1871, en auðvitað er þetta miklu eldra, og Jón Thor­oddsen fræg­astur allra íslenskra höfunda fyrir það. Gestur nær þessu og nokkuð vel, og betur en t.d. Einar H. Kvaran, segir Sveinn Skorri (tv. rit, bls. 631). Hér skal ekki um það dæmt, en a.m.k. framanaf leggur Einar jafnan stund á þetta.


Þórður tekur dæmi (bls.47) af persónu í sögu eftir Þorgils gjallanda, að hún orði



megin­hug­mynd natúralismans um menn og mannlíf. Enginn maður er persónu­­gervingur ákveð­inna eiginleika. Allir hafa á sér fleiri en eina hlið. Höfundarnir gera sér því far um að forðast slíkar týpur en leit­ast þess í stað við að sýna hið samsetta í mönn­um og láta þá þrosk­­­ast og breyt­­ast. [...] Þorgils [...] sýnir eig­in­leika sögufólks síns smám sam­an, að mestu leyti á óbeinan hátt; í samtölum, hugs­­un­um og atferli og gerir sér far um að forð­ast túlkanir.



Fyrra atriðið væri afgerandi breyting frá sögum Jóns Thoroddsen, en stang­­­ast mjög á við það sem Þórður segir á sömu bls.:



Það er algengt einkenni á persónusköpun Þorgils, eink­um fram­an af, að hann lætur persón­­um sínum í té útlit sem er tákn­rænt fyrir lynd­­­­is­einkunn.



Þetta er svo áberandi hjá Jóni Thoroddsen að varla tekur því að nefna dæmi (sr. Sigvaldi, Sigrún, Þórarinn). Dæmin sem Þórður nefnir eru mjög í stíl við þau sem Skorri telur hjá Gesti, slétt og fellt yfirborð karl­manna er til marks um lítil­mennsku. En Þórð­ur telur (bls. 48) að Þorgils hafi látið af slík­um tákn­rænum út­lits­lýsingum vegna fyrr­greindr­ar afstöðu sinnar, að vilja ekki hafa "týpur". Þær virðast mér áber­andi í smásögunum sem Þórð­­ur valdi í úr­vals­rit Þorgils, en alhliða eru persónur í skáld­sögu hans Upp við fossa, þarna verður því þróun, eins og Þórður segir. Fyrsta skáldsaga Ein­ars Kvar­an, Ofurefli, frá 1908, er reyf­ari alveg sam­kvæmt skil­grein­ingu Stein­­gríms, því einhliða persónum henn­ar skiptir svo í tvö horn. En því veld­ur að sagan er und­irlögð af mál­flutn­ingi, helstu persónur eru einfald­lega full­trúar góðs og ills.



11.3. Umhverfislýsingar


Jóns Thoroddsen telur Steingrímur upp, en lítur á þær sem fróð­­leiks­­­atriði fyrst og fremst. Raunar sé þetta stundum um­fram nauð­­þurftir sögu­­gangs eða skýr­­inga á aðstæðum, en að öllu sam­kvæmt anda raun­­sæ­is­­­stefnunnar. Þetta auki persónum líf og skapi sög­­unni raun­veru­­­­leika­blæ. Það eru orð að sönnu, og sýnist mér ekki þurfa að taka það upp hér, að þessar lýsingar standa að því leyti ekki að baki því sem fram kom í aldarlok. En slíkar lýs­ingar eru oft til að sýna óbeint sálar­ástand sögu­­­­­­persóna, hvort sem það svo eru skap­gerð­ar­ein­kenni eða tímabundið hugarástand. Og þess má finna dæmi hjá Jóni, þótt Stein­grímur víki ekki að þessu. Einkum sýn­ist mér lýsing Manns og konu á hús­­búnaði þeirra Bjarna á Leiti og séra Sig­valda vera af þessu tagi. Bjarni er með krafta­dellu og gengst sér­stak­­lega upp við afreks­sögur Íslend­inga­­sagna. Klæða­­­burði Bjarna er lýst (í 13. k.) og get ég ekki dæmt um hvort hann sé forn­legri en annarra sögu­persóna, en í sam­ræmi við áhuga­mál hans er lýs­ing á grjót­garði mikl­um og ram­byggðum um­hverfis bæ hans, axlar­hám og stór­­björg í, forn­mannaverk, sem Bjarni hef­ur gert upp. Auk þess er, að inni var allt "þrifa­legt um­horfs og bús­hlut­ir sterkir og eigulegir, en síður sniðnir til feg­­­urð­ar." (Maður og kona, 17.k., bls.169). Því­líkar lýs­ingar sýna les­end­um persón­una sem um er fjallað, og gæða hana lífi. Því má virðast und­­ar­leg mót­sögn í sam­svar­andi lýsingu (5.k.) á heimili séra Sigvalda, sem er þó flátt­­­skap­ur­inn ein­ber, að þar er allt fornt og vand­að! En það skil ég sem mynd­­­ræna lýs­ingu á þjóðfélagsstöðu prests, auk þess sem honum er mest um­hugað um þessa heims gæði. Til mótvægis er sýnd and­stæða þessa, "sál­ar­forði sóknar­barna" hans (12.k.), það eru sundurleit og óvönd­uð bindini gamalla prédik­ana, sem hann hefur fengið frá öðrum prest­­um (bls. 115).


Líkt og Jón skapa margir höfundar sögum sínum oft and­­rúms­loft eða for­­boða með nátt­­úru­­lýsingum, einkum með veð­ur­lýs­ingum. Má nefna sem dæmi veð­urlýs­ingar í upphafi einstakra kafla í smásögu Einars Kvaran, "Vista­skipti" (frá 1909), þær eru for­boði um hvernig muni ganga fyrir smæl­ingj­anum sögu­hetj­unni í þeim kafla. Í upp­­hafi skáld­sögu Einars Ofurefli, þarf aðal­­persón­an, sem er prestur, ný­kom­­­­inn til Reykja­víkur, að vaða for í myrkri, og er það for­boði um hug­arfar sumra atkvæða­mikilla sókn­­ar­barna hans, og um af­drifa­ríka rógs­her­­ferð gegn honum. En í smá­sögum Gests virð­ist mér slík­um um­hverf­­is­­­lýs­ing­um beitt af meira list­fengi en hjá Jóni Thor­odd­sen, því þær sýna tíma­­bundið hug­ar­­­ástand. Best finnst mér Gestur gera þetta í sögunni "Vor­draum­­ur". Veð­ur­­lýs­ingin í upphafi sögunnar er forboði um gang henn­­ar, því hún sýnir fyrst hlý­indi, en síðan kemur hret, sem gerir vor­­boðann að blekk­ingu. Eins verður um ástina síðar í sögunni. En þegar kem­ur að því að ástir tak­ist með Bjarna og Önnu, kemur blíð­ur léttleiki í nátt­­úru­lýsingar, þær sýna óbeint í hugi þess­ara persóna; ástaratlotin sem þau lang­ar til að sýna hvert öðru. Til þess eru persónu­­­gerv­­ingar náttúru­fyrirbæra (bls. 214, auðkennt af E. Ó.):



næturgolan þaut um andlit honum, vorhlý og hress­­andi, og fyrir neð­an túnið, rennislétt og skrúðgrænt, tók sjór­inn við. Þar léku smá­bár­ur efst á mararfletinum, bull­uðu og hossuðu sér á allar lundir, og skvettu sér svo í ein­hverj­um æskugáska upp í fjöruna. Það var nærri því eins og þær hugsuðu sér að kitla smáhnullungana þar, langaði til að spreka þeim til og láta þá finna lífið og vorið; en svo hoppuðu þær aft­ur, eins og þær yrðu hræddar við, hvað landið væri kalt og tilfinn­ing­­­­­ar­laust að taka á.



Þegar ástir takast með þeim Bjarna og Önnu, ber náttúru­­lýsingin keim af ástafars­lýs­ingu í kyrrð og unaði (bls. 217):



Og sumarnóttin breiddi sig ástrík og mild yfir héraðið, þrýsti dagg­­ar­­­­drop­unum, him­in­skærum og frjóvg­un­ar­full­um, á hvert ein­asta strá, sem rétti höfuðið upp úr moldinni til að ná í vætuna, svo það gæti lif­að, dró líknandi kyrrð­ar­blæju yfir land og sjó, til þess að allt líf gæti hvílst og búið sig undir að njóta ljóssins næsta dag.


Og allar ár og lækir runnu með töfraværð í nætur­kyrrð­inni, svo nið­­ur­­inn suðaði um allt hér­aðið eins og draum­hlýr ánægju­boði.



En Bjarni segir Önnu upp í bréfi, og viðbrögð hennar birtast fyrst og fremst í myndrænni lýsingu fossins, sem sýnir að mínum dómi sjálfs­morðs­hugs­anir henn­­ar, en þær eru ekki orðaðar bein­línis. Hún kastar vettling sínum í hringiðuna - og einmitt mynd­­ræn lýsingin á feg­urð foss­ins sýnir freist­ing­una (bls.229):



Hann var bæði hár og breiður og veltist í silfurskæru perlulöðri fram af bjarginu niður í hringiðuna hyldjúpa og kol­græna, og hring­iðan greip alla löðurstraumana, sogaði þá í sig, fleygði þeim svo upp aft­ur, velti þeim fyrir sér og togaði þá á allar lundir, eins og til að vita, hvort nokkurt lið væri í þeim, og slengdi þeim svo frá sér, og perl­­­ur­nar þutu dálítinn spöl niður eftir ánni, brustu svo og urðu að engu.



Úr þessum orðum má einnig lesa hugsanir um ástmanninn sem ekk­ert lið reynd­­ist vera í, og ást sem varð að engu. En Anna hverfur frá þess­um sjálfs­­­morðs­­hugsunum, og það sýnir Gestur með því einu að end­ur­taka lýs­ingu hring­­iðunnar (fjær fossinum) í breyttu formi í hugs­un­um hennar, svo að hún verð­ur smærri og áhrifaminni, auk þess sem persónan er látin taka eftir nýrri feg­­urð um­hverfis sig (bls. 229-30):



Hvað henni fannst mikil yndisfegurð í hverri einustu bugðu í ánni, og hvað hann var skrýtinn þessi leikur í straumiðunni kring­um stein­ana, sem stóðu upp úr, til að toga þá með. Og upp um hlíðarnar sá hún eitt­hvað nýtt við hvern hól, hverja brekku og hverja laut, ein­hverja nýja fegurð, sem hún hafði aldrei tekið eftir áður.



Hér sýnast mér birtast þau innri átök persónunnar, sem Sveinn Skorri sakn­­ar (bls. 595). En af þessum dæmum sést, að náttúrulýsingar Gests gegna ým­is­konar hlutverki, einkum að sýna hugarástand sögu­persóna, en jafn­an því að magna örlagaríkt atriði sögunnar. En hvort­tveggja hafði lengi verið alsiða í skáld­­skap erlendis. Þórður víkur að þessu atriði í sögum Þor­gils gjall­anda, en dæmi hans (bls. 64) virðast fremur af tagi Jóns Thor­­odds­­­ens en Gests, sýna var­an­­leg einkenni fremur en stundleg. Hins­veg­ar eru þess háttar nátt­­úru­­lýs­ing­ar, sem í raun sýna hugarástand persóna, í skáld­sögu Þorgils, Upp við fossa, t.d. ást­fangnar persónu­­­­­­­­­gerv­­­­ingar nátt­úr­unnar þegar ástir tak­ast með Geir­mundi og Gróu (bls. 170); og Geir­mundi og Þuríði (bls. 218):



Þokan [...] hvikaði til fyrir sunnan andvaranum, sem [...] strauk hana af ein­um hamr­in­um á annan[...] fylgdi henni blakt­andi og bros­hreinn, heið­­bjart­ur og hressandi. Sólin [...] vermdi og skein á dögg­vot­an dalinn og all­­ur dal­urinn horfði upp til henn­ar, horfði mun­að­ar­blíð­um ást­ar­­­­augum, sem tárin titruðu í, en blómin og víðihríslur skulfu af eftir­vænt­­­­­­ing og stund­­ar­sælu.[...]



Þvílíkar náttúrulýsingar, sem eru óbeinar sálarlífslýsingar, eru mjög áhrifa­­ríkar í að þétta sögu og gera persónur nákomnar lesendum.



11.4. Líkingar


notar Jón Thoroddsen "fremur sjaldan í sögum sínum" að sögn Stein­gríms (bls. 600), og þær sem hann telur, eru flestar slitn­ar af notk­un eða að öðru leyti lítt áberandi. Sérstæðar líkingar eru hrein und­an­tekn­­ing; "gras­topp­ar grænir sem smaragð" (bls. 602), "allavega litar jurtir og blóm tindruðu þar í skini sólarinnar eins og fjörugir gimsteinar, er blika við skæru ljósi í dýrð­leg­um brjóstnistum ríkiskvenna"(bls. 604). Svipaða sögu hefur Sveinn Skorri að segja (bls. 641-2) af líkingum Gests, engin dæma hans eru sér­kenni­leg, og miklu meira finnst Sveini til um sýnd­ar­lík­ingar (sem síðar verður að vikið). Sömu sögu segir Þórður um Þorgils gjall­anda (bls. 63). En við kom­um síðar að sér­kenni­­legri líkingum, hjá Hall­dóri Stef­áns­syni.


Framangreind dæmi, einkum úr "Vordraumi" Gests, sýna jafnframt mynd­­­­­­­­ræna lýs­ingu, sem byggist á sérkenni­legum smá­atriðum lits, lög­un­ar eða hreyf­ingar. Eins og Sveinn Skorri rekur (bls. 640), þá "er hreint ekki af litlu að taka" hjá Gesti á sviði mynda. Þó segir Sveinn:



Meðferð Gests á myndum er ekki heldur sérstaklega athygl­­is­verð eða ný­stár­leg. Megin­hluti þeirra mynda, er hann beitir í stíl sín­um, er gam­all, orð­inn að stirðnuðum orða­­til­tækjum, sem hafa misst það aðal mynd­­arinn­ar að vekja óvænt hugmyndatengsl. Hann er ekki mikill ný­skap­ari mynda. Stund­um tekst hon­um þó vel að láta mynd og lík­ing grípa hvora inn í aðra. Dæmi þess er í niðurlagi Tilhugalífs:


"En allt himinhvolfið var orðið að einum snjóbólstri, sem þandi út ískalda mjall­ar­vængi, grúfði ægilegur eins og voða-hræ­fugl yfir öllu lífi fyrir neð­an sig og stráði svo í kyrrð og ró ótelj­andi grúa af snjó-flók­um niður, og flók­arnir sveifluðust til og frá, stigu dans í loftinu og duttu svo niður mjúk­ir, skærir og - hel­kaldir.


Flókarnir breiddu sig yfir allt og huldu allt undir himin­ofinni glit­­ábreiðu.-"


Hér kemur fyrst myndin. Snjóbólsturinn þenur út mjallarvængi, síðan lík­ing við fugl Þá fylgir önnur mynd um dans snjóflókanna. Flestar mynda Gests, sem ferskan blæ hafa, höfða til nátt­úru­fyr­ir­bæra.



Svo satt sem þetta er, finnst mér mestu varða hlutverk þessarar klausu, hún er eins­konar myndræn samantekt sög­unn­ar í lokin. Þar sofnar sögu­hetjan drukk­­inn úti á víðavangi, og dreymir í snjókomunni, þegar hann er að verða úti, að unn­ustan sem hafði sagt honum upp, sé að breiða sæng ofan á hann. Í and­­stæðum þessarar myndar birtist kjarni sögunnar, vonir and­spænis raun­veru­­leik­­anum. Undir fölsku yfir­borði kvenlegrar hlýju er nístandi kuldi. Ann­ars­­vegar er mjúkur dans í skærum lit­um, glit­ábreiða, hins­­vegar helkuldi og ægi­­legur hræfugl sem grúfir yfir öllu lífi.


Matthías V. Sæmundsson segir í grein sinni 1988 (bls. 343) um mynd­ræn­­ar lýsingar:



Séu sögur Gests Pálssonar, "Tilhugalíf" og "Vor­draum­ur", born­ar sam­­an kem­ur mikil­væg­ur munur í ljós. Í "Tilhugalífi" rofn­ar hin rök­bundna frá­sögn undir lokin þegar lýst er dauða sögu­hetjunnar; þá um­mynd­ast textinn í skáld­lega mynd af misk­unn­arleysi lífsins og náttúr­unn­­ar. Í "Vor­draumi" er slík mynd­færsla samslungin frásögninni allri. Nátt­­úran er aflvaki fjölda mynda sem umlykja og tákn­gera hina sögu­legu framvindu án afláts. Persón­urnar eru líkt og í "Tilhugalífi" ímynd­ir ópersónu­legra afla en and­stæðu­­kerfi þeirra er undirgefið mynd­málinu, sam­spili þess og lýsingar mann­lífs. Myndmálið er með öðr­um orð­um ekki einangraður textaþáttur, mál­skrúð eða til áherslu­auka, heldur for­senda merkingar og hluti af form­gerð. Samband sagn­anna lýsir þannig hreyfingu til hins mynd­ræna; frá­sagn­­ar­svið­ið er að þoka úr forsæti, breyting að verða á fyrrnefndu stig­­veldi.


Dæmið sýnir feril Gests Pálssonar sem rithöfundar og um leið al­menna þró­un frá sögulegri formgerð til mynd­hverfrar formgerðar.



Þetta álítur Matthías síðan einkenna íslenskan prósa æ meir und­an­farna öld, og komum við síðar að því. En snögglega hefði þessi þróun orð­ið hjá Gesti, ef réttilega væri greind. Í riti Sveins Skorra um Gest eru til­færð­ar tíma­setn­­ingar Gests sjálfs á þessum sögum (bls. 159): "Tilhuga­líf hefur Gestur dagsett "mars-apríl 1888", en Vordraum "maí-júní 1888"." Hér hefði þurft að huga að fleiri sögum Gests. T. d. hefst "Sveita­sæla" frá 1885 á langri mynd­rænni lýsingu ill­­viðra­­hnjúks, og vænt­an­lega á hún að vera forboði sögugangs (text­inn er ekki nema fyrsti kafli sögu). Auk þess verð ég að andmæla þeirri túlk­un Matthíasar að persónur "Vordraums" séu und­ir­gefnar mynd­mál­inu. Í Skírn­isgrein minni 1989 (sem beið prentunar þegar framangreind grein Matthí­as­ar birt­ist) hefi ég rakið, eins og hér að framan, að myndmál sög­unn­ar er til að sýna sál­ar­líf persón­anna á örlaga­stundum.



11.5. Hugsað tal


Sveinn Skorri tilfærir reyndar síðasttalið dæmi úr "Vordraumi" Gests, þar sem Anna er við fossinn, og segir að þannig sýni hann hugsanir persónu með nýjum hætti, að fyrirmynd nor­­rænna sam­tíma­­höfunda. Sven Møller Krist­en­sen hefur fjallað um þetta fyr­irbæri m.a. í fyrr­nefndu riti sínu (bls.38 o.áfr.). Sveinn Skorri rekur (bls. 636-9) eftir þessum danska nafna sínum, að áður hafi höfundar aðeins sýnt hugsanir á sama hátt og sýnt var tal í beinni ræðu, eða greint frá því í þátíð. Þannig eru og þau dæmi sem Stein­­­grímur telur upp (bls.248) um að Jón Thoroddsen segi frá hugs­­un­um persóna. En nú verður mik­ið um að sýna hugsanir í óbeinni ræðu. Þórður Helga­son kallar þetta "hugs­að tal" (bls. 52-3), sem sé:



aðferð til að sýna í stað þess að segja frá og mjög gjarna haldið hinu óröklega og sam­heng­islausa sem í hug­ann kemur og án inn­gangs­­orða (hugsaði). Hugsaða talið er því nátengt dulinni [þ.e. óbeinni] ræðu [...en bls. 51:] Hún eykur fjölbreytni í frá­sögn, tengist átaka­­laust öðrum þátt­um hennar og sýnir persón­ur­nar fremur en segir frá þeim. Og segja má að dulin ræða hafi einn kost fram fyrir beinu ræð­­una; hún getur dregið ein­stak­­lings­ein­kennin enn skýr­ar fram en hin beina þar sem hún byggir á úr­vali eða vins­un þeirra einkenna sem ljós­­ast sýna við­komandi persónu. Með notkun beinu ræðunnar gæti slíkt farið for­görð­um.



Skáldsaga Þorgils, Upp við fossa, er svo miklu viðameiri en smá­sög­ur Gests, að það tor­veldar allan saman­burð. En ólíkt er til­­komu­meira, hvernig and­­­stæðuþrungnar, reikandi hugs­anir persón­u birt­ast í skáld­sög­unni, í bland við lýs­ingu á háttalagi persón­unn­ar. Oft birtist sjálfs­blekk­ing í þessum hugs­un­­um, þann­ig að les­end­ur skilja persónurnar betur en þær sjálfar gera (t.d. bls. 179-81). Einar Kvaran beitir þessu listi­lega, t.d. þegar í smásög­­­­­unni "Von­ir" (frá 1888), einn­ig nokkuð í Ofurefli (t.d. bls. 73), en í þeirri sögu vilja hugsanir fyr­ir­myndar­­persón­unnar prestsins verða ærið ritmáls­­­­­­kenndar. Og hugsaðs tals gætir mikið hjá m.a. hinu sívinsæla sagna­­­­skáldi Jóni Trausta, t.d. í skáld­sögu hans Leys­ing, frá 1907. Þar er þetta til­brigða­ríkt, stundum eru hugs­an­ir persónu raktar í e.k. yfirliti í þátíð, t.d. Einars á flótta (bls. 226-34). En oft­ar er þetta af sama dramatíska tagi og er hjá Þorgils gjall­anda, eink­um hugs­­anir Þorgeirs og Einars (bls. 110 o.áfr., 120 o.áfr., 250 o.áfr.). Þetta atriði sýnist mér verða áhrifaríkast til að skapa lif­andi, marghliða persón­ur í um­­ræddum skáld­sögum Þorgils gjall­andi og Jóns Trausta. Það dugir ekki Of­urefli til lífs, en það er vegna þess að persónurnar eru reyrðar undir undir klafa góðs og ills málsstaðar.



11.6. Stíll


Inngangsorð beinnar ræðu fjallar Sveinn um (bls. 632-6) og vitnar til rann­sóknar Runólfs Þórarinssonar. Í ljós kemur að þetta er miklu fjöl­­­­­breytt­­­ara hjá Gesti en hjá skáldunum Jóni Thor­oddsen, Þorgils gjallanda (sbr. Þórð, bls. 51), Guð­­mundi Hagalín og Halldóri Laxness, a.m.k. í þeim verk­um sem könn­uð voru. Sveinn telur líklegt að þetta sýni er­lend áhrif á Gest, en einn­ig er þetta dæmi um im­pressjónískan stíl (bls. 635-6):



Varðandi þetta ber enn að hafa í huga það megintakmark raun­sæis­manna að gefa sem sann­­asta mynd hins raun­­verulega lífs. Í því skyni nálg­aðist tækni þeirra í lýs­ingu sam­tala æ meira hið leikræna form. Þátt­ur í þeirri við­leitni var að taka sem inn­gang­s­orð beinn­ar ræðu orð, sem merktu aðra athöfn en tala. Með þeim hætti var í senn lýst því, sem persónan hafðist að, og því sem hún sagði, og oft, á hvern hátt hún talaði. [...] Stílþró­un­in geng­ur í þá átt að færa at­burð­ina nær les­anda. Höfundur freistar þess að láta samtalið í senn sjást og heyrast. [...] Þá er og glögg sú þróun, að bein ræða án inngangsorða skipar miklu hærri sess í síðustu sög­­­­unum.



Stíl Jóns Thoroddsen fjallar Steingrímur um í löngu máli, og bendir á marg­­víslegar fyr­ir­myndir en segir (bls.615): "Íslend­inga­sögur eru aðal­fyr­ir­­­­mynd að orðskipun Jóns og öllum stíl." Stein­grím­ur rekur og, að þetta sé ekki bara í skopstæl­ingum, enda þykir mér líklegt að þetta hafi virst eðli­legur sagna­­­stíll við upp­haf nútíma­sagnagerðar, eins vinsælar og Íslendinga­sög­­­urnar þá hafa verið. En einnig ber mikið á lifandi talmáli, enda er mik­ið um samtöl í sög­um Jóns. En þrátt fyrir margvíslegan uppruna er "frá­sagnarstíll Jóns sjálfs [...] sam­­ræmur mjög og persónu­­­legur" segir Stein­grímur að lokum (bls. 654).


Í rannsókn Sveins Skorra kemur fram að Gestur notar mjög lítið sjald­gæf orð, stíll hans ber sterkan keim af hversdagslegu tal­máli. Hann forðast æ meir lýs­ingarorð sem sýna persónu­legt mat, málar í svart-hvítu, en gerir sér far um að virkja ímyndunarafl les­enda með óljósum ákvörð­un­ar­liðum svo sem "und­ur­-blíðlega" og sýnd­arlíkingum: "var eins og dálítið fát á Ingv­ari." Þannig reyni höf­­undur að hverfa í skugga sögu sinnar[3].


Þórður Helgason fjallar ítarlega um stíl Þorgils gjallanda í fram­haldi af því sem hann sagði um "hugsað tal". En því fylgir:



Eitt megineinkenni hins nýja stíls er viðleitnin til að rjúfa hefð­bundna, rök­lega setn­inga­skipan og láta málið höfða meira til skynj­­­­­ana og til­finninga. Þetta er eitt megin­ein­­kennið í stíl Þorgils og beitir hann í því augna­­miði flest­um þeim aðferðum sem höfundar á Norð­­­ur­­­lönd­um réðu yfir (bls. 54). [...] meginástæða þess hversu mörg­um rit­dóm­­urum er tíðrætt um hraðann í stíl Þorgils sé sú að hann ein­­kennist mjög af hliðskipun og mik­illi notkun ótengdra setninga (bls. 56). [...] Þor­gilsi voru tiltækar ýmsar fleiri að­ferð­ir til að skynjun og tilfinning spegl­aðist í málinu. Oft breytir hann orða­röð í því augnamiði og skilur að setn­inga­liði, oft með band­strik­um, komm­um eða punktum, sem skv. hefð máls­ins ættu að standa saman. (bls. 57). [...Einn­ig kemur til] stór­auk­in notkun ófull­­kom­inna setn­­inga án sagna. Slík­ar setningar eru eink­ar vel til þess falln­ar að birta fyrstu áhrif án þess að um nákvæma sund­ur­grein­ingu sé að ræða (bls. 58). [...] í stað þess að nota hefð­bundn­ar sagnir um hreyf­­ingu eru notaðar sagnir sem sýna áhrif hreyf­­ing­­ar­­­innar á skynj­un­­ina [...] "hestarnir brustu á stað [...] svo kippti Frosti sér fram úr" (bls. 60).



Þessi slitrustíll, sem tjáir svo vel tilfinningar, virðist vera nýj­ung í ís­lensk­­­um bók­mennt­um, en að sjálf­­sögðu hefur Þorgils lært hana af nor­ræn­um sam­tíma­höf­und­um (Sven Møller Kristensen fjallar ítarlega um þetta, bls. 92 o.áfr.). Ég get ekki séð mörg dæmi þess að aðrir höfundar hafi tekið þetta upp á næstu ára­tug­um, þó bregður því fyrir, t.d. í tali kven­hetj­­unnar í Of­ur­efli (bls. 3):



- Fyrir norðan. Uppi í dölum. Er það ekki eitthvað annað? Þar kem­ur vöxtur í hverja sprænu. [..] Hér kem­ur ekki vöxtur í annað en for­ina. Og skólp­ið í götu­renn­unum. Og á þeim er ekki einu sinni neinn halli hérna í mið­bænum. Alt er graf­kyrt. Nema þeg­ar leðjan spýt­ist upp á mann.



Hér er þetta til að setja talmálsblæ á tilsvar persónu. Víða í sögunni er beitt run­um hlið­stæðra aðalsetninga, ekki til að skapa hraða, heldur til að hamra inn að allt sé á sömu bókina lært (t.d. bls. 62, 213, 240 og 334). Áhrifa­­meiri virð­ast mér upptaln­inga­­runur í fyrrnefndri smá­sögu Einars, "Vonir" (t.d. í upphafi sög­­unnar og lýsing á komu Íslendinganna til Winni­peg, sjá dæmi hér á eftir), þær virðast sannkallaður "im­pressjón­ismi", runa skyn­­hrifa. En þeir sem víkja að stíl sagna á árun­um milli stríða eru yfir­leitt á einu máli um að stíllinn eigi að vera gegn­sær, þ.e. sviplaus. Þetta er sam­kvæmt fyrr­greindu við­horfi að skoð­anir höfundar megi aðeins birtast í at­burð­um sögu og lifandi persón­um hennar, stíll­inn á að lúta efninu, samtíma­saga á að vera á sam­tíma­máli. Út­breidd virðist trú á eðlilegan, sjálfsagðan stíl[4].



11.7. Hlutlægni-huglægni


Hlutlægni var hér að framan talið keppikefli raunsæis­manna. Stein­grímur rek­ur að í sögum Jóns sé alvitur sögumaður (bls.248), sem tali stund­um beint til les­enda, svo sem þá tíðk­aðist víða, t.d. í sögum Walter Scott (bls.258). En hitt skiptir þó mestu, tekur Steingrímur eftir Sigurði Guð­­­­­munds­syni (bls. 674), að Jón Thoroddsen dylst



undir viðburðum og viðræðum, en litkar þó allt, er hann segir frá, persón­ur, háttu, atburði og jafnvel hýbýli manna, í skopi sínu. [...] Skáld­­­­­­­­skapur hans er hlutlægur. Það er að­dá­un­ar­vert, hve persónur hans eru frálausar honum, ólíkar honum, hve vel hann gætir þess, að aldrei slæðist neitt í hug­skot sögufólks hans það, sem hann skildi og hugsaði öðru­vísi en það.



Hér fer ekki hjá því að hugsað verði til hlutlægni Íslend­inga­sagna, en þær settu svip sinn á sögur Jóns, eins og fyrr var nefnt. Torf­hildur Hólm lag­ar stíl sinn mjög eftir þeim (t.d. í Högni og Ingi­björg, 1889), en sögu­mað­ur er býsna ágengur í því sem ég hefi lesið eftir hana, eink­um í Brynj­ólf­ur Sveinsson biskup (frá 1882). Bæði er sögu­mað­ur alvitur, og ber fram viðhorf sín á hví­eina, t.d (bls. 16-17):



Hver er, sem ekki finnist til um náttúrufegurðina á fögru sumar­kveldi á Íslandi. Þá er sem allt keppist um að skreyta nátt­úruna sem mest; það er sem ekkert vilji láta sitt eftir liggja til að töfra augað; jafn­vel það, sem í sjálfu sjer virðist ekki hafa neina sjerlega fegurð til að bera, verður í sam­ein­ingu blómlegra hlíða, him­inhárra fjalla, jökla og silf­­ur­tærra vatna að svo tignarlegri fagurbreytni, að það hlýtur að hrífa hvern þann anda, sem nokk­ur fegurð á annað borð getur fengið á.



Þessi klausa virðist gott dæmi um það sem yfirlýstir raun­sæ­is­stefnu­menn gagn­­­rýndu rómantísk skáld fyrir, að þau hefðu "hrósað í stað þess að mála". Það er gerólík aðferð í nátt­úru­lýs­ing­um Gests Pálssonar frá sama tíma, svo sem rakið var hér að framan. Sveinn Skorri telur það aug­ljós­ast stíl­­­­ein­­kenni Gests (bls.644-5),



að hann reynir að leynast bak við stílinn og efnið, að troða ekki fram sem al­­vitur prédik­ari. Vissulega tekst honum að nokkru leyti að fylgja því list­ræna boð­orði raun­sæisstefnunnar. Þó heyr­ist raust hans sjálfs full­­­ljóst í öll­­um sög­unum. Boðskapur Brandesar um tilgang bók­mennta lá þessari höf­undakynslóð á Norðurlöndum þyngra á hjarta en svo, að nokkurn tíma væru líkur til, að þeir hlýddu til fulls ráðleggingum Flauberts um að leyn­ast bak við verkin.



Hér verður enn að nefna "Vonir" Einars Kvaran, því þar er sögu­maður ágeng­ur, og það einmitt í lýsingum, sem bera hlutlægnissvip með því að vera sér­lega myndrænar, t.d.(Vestan hafs og austan, bls. 15-17, aukennt af E.Ó.):



Winnipeg stóð og stiknaði í sólinni. Gulhvítu, grá­hvítu, skítgráu, svörtu og svartröndóttu kofarnir fyrir sunn­­an innn­flytj­enda-húsið - að lík­ind­um það and­styggi­leg­­asta kofasafn, sem til er í Canada - stóðu gal­­opnir í báða enda, gapandi eftir gusti, sem ekki var fáan­­­­legur, ekki var til í bænum. (bls. 15) [...]


En allar hafa þær hengt á mjaðm­irnar þessi svörtu, voðfeldu, víðu og þungu pils, sem einkum og sér­staklega gefa íslenska bún­ingum þenn­­an þung­lamalega og klunna­­­­­lega svip, sem hann hefir, og öld fram af öld hafa ver­ið að streitast við að toga mjaðm­irnar á íslensku kven­fólki niður á við - sem þeim lík­leg­ast tekst á endanum. (bls. 17).



Þessi ágengni sögumanns virðist raunar eðlilegt framhald af impressjón­­­­­­ísk­­um lýsingum, sem hljóta að vera hug­lægar. Í Ofurefli er sögu­maður ekki bara alvit­ur, heldur iðulega ágengur og mærðarfullur, ekki síður en hjá Torf­hildi, t.d. (bls.136-7):



Og blaðið fór inn í hvert hús og vakti ljótar hugsanir í hugum mann­­­­­­­­anna, tor­trygni, grun­semdir, reiði, rógsyndi. Og híbýlin urðu full af ljót­um orð­um, fíflslegu hjali, klám­fengnum hvísl­ing­um, sið­leys­is-hlátrum og ým­is konar óþverra.



Þórður Helgason segir (bls. 45) að Þorgils gjallandi hafi alla tíð verið all-ágeng­ur höfundur þótt hann láti af sleggjudómum í eigin nafni eftir fyrstu sög­­ur­nar. Í þeim smásögum sem Þórður tekur í úrval rita Þorgils, er sögu­mað­­ur jafnan ágengur, með til­finningasemi í orða­lagi. Nægir að taka dæmi úr "Heim­þrá" (bls.136-7):



Aumingja fölrauða hryssan; einstæðingurinn í Hvanna­lind­um var hold­grönn um haustið. [...] Dauðinn var á ferð­inni; það var hann sem hjálp­­­­­­aði Stjörnu heim. Þá, líkt og svo oft fyrri, varð hann líknarengill þjáðra jarð­ar­búa.



Miklu minna ber á slíku í skáldsögu Þorgils, þótt þar sé alvit­ur sögu­­­mað­ur, en áfram var mikið um sögur sem ekki höfðu hlut­lægn­isblæ á sér. Taka má af handahófi dæmi úr sögu frá 1927, Gestir eftir Kristínu Sig­­fúss­­­dóttur (bls. 269). Atriðið er sambæri­legt við það fyrsta sem tekið var hjá Gesti, en hér kemur af­staða sögu­manns beinlínis fram í orða­lag­inu (líkt og hjá Torf­hildi og í Ofurefli):



Kvöldið er kyrt og rótt. Eitt af þessum ógleymanlegu vor­­kvöld­um, þeg­ar "móðir jörð" stendur á öndinni og hlustar eftir hjarta­slögum barna sinna, smárra og stórra. Þegar hávaði dags­ins hljóðnar og þras­ið og deil­urnar þagna, af ósjálfráðri til­finn­ingu fyrir því að það væri grið­­rof, að varpa ófriðarorðum inn í ginn­helga þögnina.



Þótt hér sé bent á andstæð dæmi um huglægni og hlutlægni, skal ekki reynt að rekja þessa strauma til neinna uppsprettna, því þær eru vita­skuld er­lend­is. Tilfinninga­þrungin­ frásögn var algeng t.d. í skemmti­sög­um 18. aldar.



11.8. Samantekt


Af þessu stutta yfirliti þykir mér þegar áberandi samfellan í íslenskri sagna­­­­­gerð allt frá Jóni Thoroddsen. Augljóslega á við sög­ur hans venjuleg skil­­greining á "raun­sæis­­­­­hefð", að höfundur dylji sig og skoð­anir sínar, að sög­urnar fjalli um venju­­­­legt fólk við trú­verð­ugar að­stæð­­ur, at­burðarás sé í meg­inatriðum trúan­­­­leg, miðað við skapgerð persón­­anna, og sög­ur­nar skrif­að­ar á máli síns tíma. Síðari tíma höf­undar fóru vissulega nær daglegu máli, en Íslend­­inga­sagna­svipur á stíl Jóns hlýtur að teljast nokkuð eðli­­legur á upphafi nú­­tíma­­­­­sagna­­ritunar. Þótt sögu­­persónur Jóns séu týpur, þá gildir það og um marga síðari höf­unda, persónur Jóns eru a.m.k. óvenju­­­lifandi með hver sitt tungutak.


En vissulega verður breyting á sagnagerðinni, einkum með Gesti Páls­syni og Þorgils gjallanda. Villandi væri að kenna þetta við raunsæi. Miklu heppi­legra virðist orðið impressjónismi, því mest ber á skynhrifum. M.a. eru not­að­ar persónu­­­gerðar nátt­­úru­lýs­ingar til að sýna inn í sál sögu­persóna auk þess sem hugs­an­ir þeirra eru raktar í óbeinni ræðu. Enn­fremur eru sýndar­lík­ing­ar, og einkum þó runur hliðstæðra aðal­setn­inga og slitrustíll, ófull­­komn­ar setn­­­­ing­ar. Það er athyglisvert, að þessi stíl­svipur sem verður svo áberandi á síð­­asta þriðj­ungi 19. aldar á Norð­ur­löndum, en birtist í lok 19. aldar á Ís­landi, er í mót­sögn við þá stíl­fyr­ir­mynd sem svo oft er eignuð raun­­­sæis­­stefn­unni, þ.e. að nota gagnsæjan stíl, hlutlaust hversdags­mál, sem ekki megi vekja athygli í sjálfu sér. En slík lýsing á ekki einu sinni við stíl Gests Páls­son­­ar, því í sögum hans eru mjög mik­il­­vægar mynd­rænar, persónu­­gerðar nátt­­úru­­­lýs­ingar, sem minna mest á ljóð. Sama má segja um Einar Kvaran.


Sven Møller Kristensen rekur í lok fyrrgreinds rits síns (einkum bls.189 o.áfr.), að uppúr aldamótum beri mest á höf­und­um sem einfaldi impressjón­ísk­an stíl, boði hlutlausan stíl og skrifi þannig. Nú er erfitt að alhæfa um stíl þeirra höf­unda sem komu fram á Íslandi næstu áratugi eftir alda­­mót, því rann­sókn­ir skortir. En mér sýnist sem slitru­stíll­­inn megi telj­ast til und­an­tekn­inga hjá þeim, þótt hins gæti oft, hugs­aðs tals, mynd­­­­rænna lýs­inga sem birta persónu­gervingar, o.s.frv.


Ef litið er á verk vinsælla höfunda millistríðsáranna, t.d. Guðmundar Haga­­lín, þá er aug­ljós­t að þær fylgja þeirri sagnahefð sem lýst hefur verið hér að fram­an. Staðarlýsingar og veðurs skapa sög­unum hugblæ á hverjum stað, en að öðru leyti er frá­­sögu­stíll fremur hlutlaus. Sögumaður er ekki ágeng­ur, en út­lits­­­lýsingar persóna ein­kenna þær ásamt sérkennandi mál­fari. Merki­­legt er að sjá að í eftir­mála sagna­safns frá árinu 1921 (Sólhvörf, bls. 190) hafnar Guð­mund­ur Frið­jóns­son þessu, og finnst Ís­l­end­inga­sögurnar fremur til fyrir­mynd­ar, þar sem lítill munur sé á mál­fari persóna. "Með þessu móti er unt að sneiða hjá rugli og vaðli og mál­spjöll­um." Sögur Guðmundar Frið­­jóns­sonar eru ekki at­­hygl­­is­verð­ar í sam­bandi við im­pressjón­isma, þær sem ég hefi lesið, því þær eru fyrst og fremst helg­að­ar málflutningi, svo lítið fer fyrir sál­ar­lífi persóna. En fram­­an­greind að­ferð í sagna­gerð, allt frá Gesti Páls­syni, virðist mér rétt­nefnd sál­­ræn skáld­sagna­hefð (fremur en "raun­sæi­leg"). Ekki "sál­fræði­­leg", eins og oft sést, því það orð gefur í skyn fræðileg vinnu­brögð eða Freud­isma.























12. Framúrstefna



12.1. Expressjónismi í sögum.


Þegar hugað er að breytingum á framangreindri hefð, getur mönnum orðið star­sýnt á einstök verk sem eru forboði mikils straums. Þannig er skáld­saga Edouard Dujardin: Les lauriers sont coupés frá 1887 fyrsta hug­ar­flaums­sagan, og í rauninni er það bara frekari útfærsla á sálrænni skáld­sagna­­hefð með hugsuðu tali o.fl. af því tagi. En ef við höldum okkur við breyt­­ing­ar sem veru­­lega kveð­­ur að, þá verður fyrst fyrir ex­pressjón­­ism­inn. Þetta varð mik­il tísku­­bylgja, eins og fyrr segir, einkum í þýsku­­mæl­­andi lönd­um, á ein­um áratug, 1909-20 uþb., kom fram eitthvað á ann­að hundrað höf­­unda sem kall­ast ex­­pressjón­istar. Skilj­an­lega er erfitt, ef ekki óger­legt, að finna mikil­væg ein­kenni sem aðgreini allan þann fjölda frá öðrum skáld­um. Mest bar á ljóð­­um, sem við höfum áður rætt hér, einnig á leik­rit­um, en auk þess sömdu ex­pressjónistar töluvert af prósa. Tveir höfundar í hópi þeirra lögðu sig fram um að skilgreina ex­pressjón­­ískan prósa, Alfred Döblin og Carl Einstein[5]. Og á grund­­velli þeirra skil­greininga hefur banda­ríski fræði­mað­ur­­­­­inn Walter H. Sokel talað um tvær meginlínur í ex­pressjón­ískum sögum. Hér er í megin­atrið­­u­m fylgt fram­setn­ingu hans[6]. Sam­eig­inleg báðum straum­um ex­pressjón­­­­­­ískra sagna er andúð á sál­fræði­­legum skýr­ingum á athöfn­um persóna, og á öðrum or­saka­­­keðj­um, sem tíðkast höfðu í skáldsögum. Döblin taldi að með slíkum skýr­ingum, eigin athugasemdum, væri sögu­höf­undur að skerða sjálfstæði verks­ins, en Einstein taldi sál­fræðilegar skýr­ingar vera svik við form lista­­­­verks­ins til að líkja eftir raun­­veru­leik­­an­um. Báðir leggja lítið upp úr atburðarás og spenn­­andi fléttu. En það er af ólíkum ástæðum. Döblin sagði að spenn­andi flétta og orsaka­­sam­hengi ætti heima í leikritum en ekki í sögum, þar ætti bara að sýna hluti og at­burði, athugasemdalaust, lifandi og svið­sett. Döblin og sá stóri hópur ex­pressjónista sem skrifa að hans hætti, virðast því alls­kyldir im­pressjón­ismanum og víðtækari straumi sem liggur frá Flaubert og Henry James, um natúralisma, fútúr­isma og Kafka til "ný–skáld­sagna", sem komu fram í Frakklandi á 6. áratug 20. aldar; stefnt er að hlutlægni, sögu­höf­und­ur á að dyljast á bak við verkið.


Carl Einstein og fylgismenn hans voru á gagnstæðri skoðun um þetta. Þeir töldu að sviðsetning eða myndræn atriði (Die Gebärde) ætti heima í leik­rit­um, en skáld­sögur ættu að byggj­ast á fram­setningu hug­mynda, svo sem hjá André Gide. Hugmynd­ir­nar lætur Einstein koma fram í athugasemd­um sögu­manns eða ein­hverrar persónu í sögunni, stundum koma hugsanir hennar í stað lýs­inga, og raunar vildu þeir Otto Flake hafa hugmyndir í stað mynd­­rænna lýs­inga, sem ríktu aftur á móti hjá Döblin, Heym, Kafka, Edschmid o.fl. Enn lengra gekk t.d. Leonhard Frank með sósíalískum út­­legg­­­­ingum að hætti sið­ferð­is­préd­ik­ana fyrri tíðar sem nú þóttu vera ólist­rænar sértekningar og gam­al­dags, m.a. að dómi Döblins. En ágengur sögumaður er í stórum flokki frá­sagna af þessu tagi, þær eru dæmi­sagna­kenndar, og bein­ast að því að sann­færa les­endur um mál­stað eða láta hug­myndir takast á. Hér telur Sokel upp verk eftir Else Lasker-Schüler (frá 1906), Carl Einstein (1912), Flake (1919) og svo stór­virki Musils: Der Mann ohne Eigen­schaften (Eig­in­leika­­lausi mað­ur­inn, 1930). Sögur þessara þriggja síð­ast­töldu höfunda eru mest­megnis sam­töl, en þar sem samtölin hafa ekki þann tilgang að skapa persónur, heldur setja fram hug­mynd­­ir, koma oft langar einræður. Gjarnan eru furðulegir at­burð­­ir með­höndlaðir eins og sjálf­­­­sagðir væru, framliðnir ganga um meðal lif­andi, o.fl.þ.h. Stefnu Einstein má kalla hug­lægan ex­pressjón­isma, en hitt hlut­­­lægan, sem Döblin boðaði. Hjá tákn­sögu­mönnum eins og Kubin, Meyrink og Kafka sameinast þessir tveir megin­straumar ex­pressjónismans þannig, að þessi hug­­mynda­­­­­­­fram­setning er í formi umhverfis­­­lýsinga, sem greini­lega hafa tákn­rænt gildi. En hjá Kafka eru táknin marg­ræð, hug­mynd­­ir­nar ekki beraðar, alvitr­um sögu­manni byggt út með því að sýna at­burða­rás­ina mjög hlutlægt, sögu­­maður gerir engar athugasemdir við hana.


Báðum straumum er sameiginlegt að rísa gegn natúralism­­anum, sem þótti hafa haugað upp ómerkilegum smáatriðum ytri veru­leika. Í stað­inn átti nú að koma sönn mynd heimsins, en hún gat þá aðeins risið í sál höfundar. Því hlaut hún að verða ein­stakl­ings­bundin, hvort sem svo fram­­setningin var hug­læg eða hlut­læg; og að byggjast á samþjöppun, í stað þess að sanka sam­an fyr­ir­bær­um sem áttu að gefa heildarmynd[7]. En af þessu leiðir megin­ein­kenni expressjón­ísks sögu­stíls, að hneigjast til styttra setn­­inga, sem eru þrungn­ar merk­ingu. Einn­ig er orðalag stund­um brenglað, og það byggist á því viðhorfi, að heim­ur­inn sé í rauninni brengl­aður. Í stað rök­­­­legrar orða­­­skip­unar, sem sýn­ir umhverfi í röklegu sam­hengi, kemur straumur hlið­stæðra setn­­­inga sem sýna hug­­renn­­inga­­tengsl og tilfinn­ingu fyrir samheng­is­­­leysi í tíma. Þetta er slitru­­stíll­inn sem rætt var um hér að framan að gætti hjá im­pressjón­­istum. Þessi stíl­ein­kenni eru raunar ekki á sögum Kafka, Musil, Meyrink og Kubin, svo dæmi séu nefnd, en þær eru þá þeim mun ex­pressjón­­­­ískari hvað varðar sjón­­arhorn, bygg­­ingu og frásagn­arform. Einstein taldi að fal­legan stíl bæri að forð­ast, því hann fegraði raunveru­­­leikann og veitti honum þann­ig við­ur­­kenn­­ingu í stað þess að rísa gegn honum. Í hans hug­læga ex­pressjón­­isma er stytt­ingastíllinn af tagi kjarn­­yrða (afórisma), þ.e. al­­menn­­­­ar hug­leið­ingar drottna yfir at­burða­rás­inni. En í hlut­lægum ex­pressjón­­­isma birtist þetta fremur í runum hliðstæðra að­al­­setn­inga, þar sem sleppt er óþörf­­ustu orðum (svosem greini og sagn­orð­inu að vera). Hjá Döblin leiðir þetta stíleinkenni af þeirri stefnu að láta sem minnst fara fyrir sögu­­manni. Því eru ekki auka­setn­ingar með útskýringum og or­sök­um, en "fegrandi lík­ing­ar", sem t.d. Georg Heym notaði mikið, vildi Döblin láta hverfa, því þær drægju fram ákveðið sjón­armið gagnvart sögu­efn­inu. Samt sýnir Döblin hugsanir persóna, og virðist ekki hafa séð neina mót­sögn í því. Hugarflaumur (þekkt­ast undir enska heitinu "stream of concious­ness") varð eitt mest áber­andi stíl­ein­kenni ex­pressjón­isma[8], og það tel­ur Sokel (bls. 169) eðlilega afleið­ingu þess að báðir straumar ex­pressjón­­ism­ans hafna því að greina milli sjálfs sögu­­manns og umhverfis hans. Því renni t.d. lýsingar á um­hverfi yfir í frá­sögn af hugsun­um ein­hverrar persónu, án þess að á milli komi gæsalappir, at­hugasemdir svo sem "hugsaði hann" eða eitthvað því um líkt. Jafnvel færist sag­an ómerkj­­an­lega frá því að rekja hugsanir einnar persónu til annarrar, sjón­ar­­hornið verð­ur á reiki, enginn fastur punktur í sögunni. Það tengist þá enn einu einkenni expressjónísks stíls, því að hvarfla milli stíl­teg­unda.


Mér virðist örðugt að greina það sem hér hefur verið kallað "hlut­­lægur ex­pressjón­ismi" frá impressjónisma, sem einnig bein­ist mjög að því að sýna, frem­ur en skýra. Það væri þá helst að expressjónistar gengju lengra í því, og í að virða að vettugi rök­legt samhengi atburða, og því eru frægustu skáld­sög­ur ex­pressjón­ista, svo sem Berlin Alexanderplatz eftir Döblin, og skáld­sögur Kafka martraðarkenndar fremur en í röklegri fram­rás. En einnig skiptir hitt meginmáli, að sjálf sögu­manns verður ógrein­anlegt eða sundrað, það er eitt helsta einkenni mód­ernra texta.


Matthías V. Sæmundsson hefur (í Ást og útlegð, bls. 269) sagt að Sæl­ir eru einfaldir eftir Gunnar Gunnarsson sé "ein ör­fárra expressjón­ískra skáld­sagna í íslenskum bókmenntum." Rök hans eru þau, að



lýsing sálarlífs og náttúru er ein samofin heild, hið ytra speglar hið innra og öfugt. [...] Hin raunrétta atburðarás hennar er öðru fremur hlut­­læg spegl­un á ferðalagi inn í dimma nótt sál­ar­innar. Ramminn er snið­inn eftir sköp­­un­ar­sögu Biblíunnar en henni snúið við og sagt frá sjö daga sál­ar­stríði manns, sem að lok­um kiknar og gefst "djöfl­um" sín­um á vald. Viku­ferð­in liggur m.ö.o. ofan í sál­ar­djúp­ið eins og flótti og út­legð Höllu í leik­riti Jóhanns [Fjalla-Eyvindur]. Öll er sagan full af hnitmiðuðum, dem­ónsk­­­um myndum: kirkjugarður og líkaböng, sótt­­smituð húsa­­kynni og eld­ur við sjón­deild­ar­hring, myrkur, dauða­fár og djöfull í mannsmynd.



Ég sé ekki að þetta verði talin einkenni expressjónisma, því það ein­kenn­ir sálræna skáld­sagna­hefð sem lýst var hér að framan, að nátt­úru­­lýsingar eru jafn­­an til að sýna inn í sálir sögu­persóna, eða skapa sögu andrúmsloft. Nægir að nefna Balzac sem dæmi frá fyrri hluta 19. aldar (t.d. upphaf skáld­sög­unnar Le père Goriot). En auðvitað gætir þessa áfram í ex­pressjón­­isma. Það má vera að kirkju­garðar og sótt­smituð húsa­­kynni séu kunn­­ugleg leik­­­tjöld í expressjónískum verkum, a.m.k. kemur kvik­myndin Nosferatu í hug­­­ann. Í ljóð­um expressjónista ber þó miklu meira á hversdagslegum atrið­um; rykugum stræt­um og svip­lausum leigu­­­hjöll­um stór­borg­­anna, lík­hús­um og járnbrautar­lest­­um. Sama verð ég að segja um sögur expressjónista, þær sem ég hefi lesið, þann­ig ná þær til daglegs umhverfis lesenda. Fram­and­legri um­hverfislýsingar, svo sem staðlaðar sviðsetningar hryllingssagna hljóta að telj­­ast til­fall­andi, yf­ir­borðs­­leg leik­tjöld, þótt vissulega skapi þau verk­­inu and­rúms­­loft. En fylgi skáld tísku í að velja slík ein­stök tiltekin atriði, þá verða þau skjótt að áhrifa­laus­um klisjum. Og frá­leitt virðist mér að telja þessa skáldsögu Gunnars expressjón­­íska. Eins og önnur verk Gunnars frá þess­um tíma stendur hún miklu nær sálrænni skáld­sagnahefð. Matthías skipti raun­ar um skoðun á sög­unni síðar (sjá k.13.2. hér á eftir).



12.2. Surrealistar - Bréf til Láru


Fyrstu surrealistar, franski hópurinn, sömdu aðallega ljóð, svo sem áður var rætt, en auk þess eru fræg ýmis greinaskrif þeirra, einkum eftir helsta leið­toga þeirra, André Breton. Það eru greinar með klassísku sniði, einkum deilu­rit um bókmenntir, stjórn­mál, og önnur þjóð­fé­lags­mál. En þar að auki eru fáein skáldrit í lausu máli. Hér má nefna eftir Louis Aragon: Anicet (1920) og Bóndinn í París (Le paysan de Paris, 1925), eftir Breton: Nadja (1928), auk Surrealískrar stefnu­skrár (1924 og önnur birtist á ár­inu 1930, báðar líkari skáldritum en framantöldum greinaskrifum). Enn­frem­ur er Aurora (1927-8) eftir Michel Leiris, og Le grand ordinaire eftir André Thirion (í frumgerð frá lokum 3. áratugsins, tvö síð­ast­­talin verk voru ekki gefin út fyrr en í seinni heim­styrjöld).


Þessi prósaskáldrit eru auðvitað fyrirferðarlítil hjá ljóðunum, og erfitt að al­­­hæfa út frá svo takmörkuðum efniviði. En með þeim fyrirvara er þó sláandi margt sam­eigin­legt þessum verkum. Þau mót­ast af marg­­yfir­­­­lýstri andúð surreal­­­ista á skáld­sögum eins og þá tíðkuðust, en hún beind­ist bæði gegn stöðn­­­uðum hefðum og gegn and­lausum upp­taln­ing­um og lýsingum. En auk þess var þeim uppsigað við sálræna skáld­sagna­­hefð[9] vegna þess að þar væri leitast við að skýra hvaðeina í fari manna með orsaka­­sam­­hengi, þ.e. ein­skorða eðli manna við rökhyggju. Það þótti þeim of fátæklegt. Þessi ádeila er eins og hjá expressjónistum, en í sam­ræmi við þetta fara þessi surreal­­ísku rit öll "yfir mörk­in", þ.e.a.s. yfir mörk milli bók­­mennta­greina. Í sérhverju þeirra bland­ast sam­an frá­sagn­ir og hugleiðingar, greinaskrif og skáld­­­skapur. Þar er hins­veg­ar ekki fyrrnefnt einkenni surrealískra ljóða, mót­sagnir innan setn­ingar, nema helst í Aurora. Bæði í henni og í Le grand ordinaire er mik­ið um mynd­breyt­­ingar, kona breytist í þrumu­­veður, veiði­menn hlaupa út úr spegl­um hótels á eftir dá­dýr­um sem flykkjast um ganga þess, o. fl. þ. h. Auk þess er fyrir­vara­­­­lítið stokkið frá einni frásögn til ann­­arr­­ar, og á heild­­ina litið eru þessi rit öll svo sundur­laus, að helsta sam­teng­­­ing­arafl hvers rits­ er mynd þess af sögu­manni. Ritin eru öll mjög huglæg, í þeim flest­um talar höf­­­undur í eigin nafni um atvik sem hefur borið fyrir hann og nafn­­greinda vini hans, og hann er oft mjög opinskár. Hér koma skýrt fram við­horf surreal­­ista; andúð á kirkju, her, rík­is­­valdi og á hvers­­kyns kúgun og hvers­dags­­­hugsun, en boðað er frelsi, ekki síst í ástum. Hér ríkir persónu­­legur og oft óvenju­legur mæli­­kvarði á það, hvað sé í frásögur fær­andi, t.d. þykja draumar ekki síður frá­sagn­ar­verð lífs­reynsla en raun­veru­leg atvik, því sál­ar­­­lífið skipti meira máli en til­vilj­un­ar­kennd­ir at­burðir. Gegn sál­rænni sagna­­­hefð og rökhyggju kemur dul­hyggja, und­­ar­legar til­viljanir, vitr­­­an­­ir og forboðar. Frægustu ritin, Nadja og Bónd­inn í París eru svo skipu­lega upp byggð þegar á heildina er litið, að það eitt nægði til að hrekja land­læga fordóma um að surrealismi sé "ósjálfráð skrift". Slík skrif voru hrá­efni, eins og áður var rakið, en síðan lögðu surreal­ist­ar með­­vit­aða vinnu í list­­sköp­un sína, ekki síður en aðrir listamenn. Bæði þessi rit hefj­­­ast á eins­konar inn­­gangi, sem lýsir næmri, sérstæðri skynj­un sögu­manns, síðan kemur kafli sem sýnir hvers­­dagslegt borg­­ar­­umhverfi sem ann­ar­­legt og skáldlegt, einkum er þetta eft­ir­­minni­legt í Bóndinn í París. Þá seg­ir frá ferðum sögu­manns um borgina. Þar er stokkið úr einu í annað, en í Nadja liggur aðaláherslan þar á að lýsa sam­­nefndri persónu, dul­arfullum föru­naut sögu­manns. Báðum rit­un­­um lýkur loks á ákalli til þess sem sögu­maður elskar og tignar um­fram allt annað, en ekki er ljóst hver það er.


Nú mega margir kannast við, að meginatriðin í framansögðu eru eins og lýs­ing á Bréfi til Láru eftir Þórberg Þórðarson[10], en það birtist í árslok 1924. Það er alhliða mynd af höf­undi og um­hverfi hans, og alveg óvenjulega op­­in­ská um lífs­reynslu hans, einka­­líf og hugsanir. Stokkið er holt og bolt milli end­­ur­minninga hans, hug­ar­­óra, þjóð­sagna, bók­mennta­­­stæl­inga, og mál­­efna­legra ritgerða, sem hvert hef­­ur sinn stíl. En betur að gáð er efnis­­röð rits­ins ekki skipu­lags­laus. Fyrstu fimm kaflarnir eru fyrst og fremst lýs­­ing á and­­ríki höf­und­ar, ólíkt sljó­leika um­­­hverfis hans. Síðan koma kaflar af marg­vís­legu bók­mennta­­tagi, sum­ir bein skop­­­stæling. Hér virð­ist mér að Bréfið stefni frá hefð­­­bundnum bók­mennt­um af ýmsu tagi. Næst koma rök­ræð­ur um þjóð–félagið, og þó einkum um trú­mál, þar sem rakið er, hve fá­nýtt trúarlíf sé í menn­ingarþroska ein­stakl­­ings. Þá segir frá ímynd­­­unum höf­undar (hrökkáll bít­ur í besefann á honum, morð­brugg gegn honum, ólétta hans), síðan er hefð­bund­inni íslenskri bænda­menn­ingu stillt upp gagn­­­vart auðvaldsskipulagi nú­tím­ans, og fær hvort­tveggja nei­kvæða mynd, enda er því næst fjallað um ýmsa mögu­leika sós­íal­­ískrar bylt­ing­ar á Íslandi. Loks víkur aftur að andríki höf­­­­­undar og rit­snilld. Rauður þráð­ur í gegn­um allt þetta er að boða -og sýna- einstakl­ings­þroska og sýna hvaða hindr­­­­anir þurfi að yfirvinna til þess að hann náist.


Þessi fjölbreytileiki verksins er í samræmi við fyrirheit í upp­hafi þess um að þar birtist:



andríkt sendibréf, ritlist snillingsins, skemmtun fræði­manns­­ins, hug­­­­ar­­­­­flug skálds­ins, viska vitringsins, dul­speki draum­hug­ans, hrollur hins hug­sjúka, víðsýni veg­far­­andans, mælska hins mál­­snjalla manns, hlát­ur húm­or­­­ist­ans, bituryrði háðfuglsins, hittni hermi­krákunnar, sýn­ir hug­­sjóna­­mannsins...



Þorgeir Þorgeirsson skrifaði smágrein (í Mbl.4.3.1989) þar sem hann m.a. átaldi Halldór Guðmundsson og Árna Sigur­jóns­son fyrir að tala um Þór­berg (í út­varpsþætti 5.2. sama ár) eins og hann "hefði stokkið inní bókmenta­sögu landsins án neinna tengsla við fortíð sína (rétt einsog þeir Bene­dikt Grön­dal, Jón Indía­fari og Jón þumall hefðu aldrei verið til". Nokkru síðar sagði svo Halldór Guðmundsson (1989, bls. 199) um BTL:



stundum held ég að okkur hætti til að eigna því of mörg einkenni mód­­ern­ískra skáldsagna. Það frjálsa ævisögu­form sem erlend­is er kall­­að "confession" og Benedikt Gröndal notar í Dægra­dvöl á sér langa hefð. Þar getur höfundur blandað saman ritgerðum, huglægum frá­­sögnum af raunveru­­legum atburð­um, játn­ingum og hvers kyns hug­­­leið­ingum, svo úr verð­ur magnaður drykkur. Líklegra finnst mér að Þór­bergur hafi þekkt slík verk en erlendan módernisma, þótt hann fari djarflega með formið.



Það er verst að Halldór skuli þá ekki benda á einstök verk sem standi BTL nærri í þessu. Dægradvöl gerir það alls ekki, né aðrar sjálfsævisögur sem ég þekki, þær eru frásögn af lífi höf­und­ar og af fólki sem hann hefur kynnst, nokkurnveginn í réttri tíma­röð. Þar eru Íslenskur aðall og Ofvit­inn miklu nærtækari til samanburðar. Sam­eig­inleg er helst hisp­urs­­­laus hrein­skilni í dóm­um um sjálfan sig og aðra. Þar sem Dægra­dvöl birt­ist á árinu 1923, einmitt þegar Þórbergur var að semja BTL, er ekki ósenni­­legt að það hafi örvað hann til að birta slík skrif. En þá einkum vegna þess að slíka hrein­skilni hafði hann tamið sér árum saman í dagbókarskrifum, svo sem sjá má af birtu úrvali þeirra, Ljóri sálar minnar og Mitt rómantíska æði (sbr. tv. grein minni í Lesbók Mbl.), einnig í palladómum um félaga sína í Skin­faxa, skrifuðu blaði ung­mennafélagsins (síðar var þessum pistlum Þórbergs safnað saman í bókina Ólíkar persón­ur). Ævi­sögur Jónanna frá 17. öld birtust 10-15 árum áður. Oft hefur sú skoð­un kom­ið fram að Bréf til Láru sé nákvæmlega það sem það heitir, kunn­­ingja­­­bréf, þar sem eðli­lega sé víða við komið, fjallað á víxl um málefni og einka­­hagi, skipu­lagslítið. Þór­bergur hafi bara tekið upp á því að hafa bréfið uþb. hundr­að sinn­um lengra en vant er. Þetta byggist reyndar á orðum Þór­bergs sjálfs í viðtalsbók (við Matthías Johann­­­essen, bls.13):



Þegar ég byrjaði að skrifa bréfið, datt mér aldrei í hug að birta það. Mig langaði bara að skrifa Láru Ólafsdóttur skemmtilegt bréf. [..áður:] Svo var ég að dunda við þetta fram undir áramót 1923. Þá lét ég ýmsa kunn­ingja mína heyra það og þeir hvöttu mig til að birta bréfið. Ég lét till­eiðast, en fannst ég þurfa að hafa það lengra, ef ég gæfi það út í bók. Svo lauk ég við það í ágúst um sumarið.



Þvílíkar skýringar skýra fátt, t.d. ekki meginspurninguna, hvers­vegna gerði Þórbergur heila bók með þessu nýstárlega móti. En svar fæst ekki við henni nema með því að skoða ritið sjálft.


Langlengstu kaflarnir í Bréfi til Láru eru af málefnalegu tagi, um kirkj­­­una, íslenska menningu, og sósíal­isma. Það er lær­dóms­ríkt að bera saman við t.d. Alþýðu­bókina, þar sem fram koma að verulegu leyti sömu við­horf og einn­ig í persónu­legri fram­­setningu. En í BTL eru þar að auki þjóð­sögur, skop­­­­­­­­­stæl­ing á skálduðu ­æv­intýri og ýkjusögur af höfundi sjálfum, m.a.


Það sem hér virðist mest sjálfslof ber í rauninni nokkurn keim af sjálfs­­háði. En um meginstefnu Bréfs til Láru finnst mér eftirfarandi klaus­ur góð vís­­­bend­ing:



Oss vantar ekki menn, sem hugsa og breyta eins og all­ir aðrir. Og oss vant­ar ekki heldur reynslu, sem er ná­kvæm­lega eins og reynsla allra ann­­­arra....Oss vantar frum­­leik, hugrekki og hrein­­skilni. En sér­stak­­­lega vantar oss frumlega hrein­skilni (bls.94).


Að öðlast sannan skilning á einhverju er að ná sam­vit­und við það, finna til þess sem hluta af sjálf­um sér, verða eitt með því. Þessi hæfi­leiki er sjald­gæf­ur. En samt er hann undirstaða trúar, lista og vísinda. Sá sem get­ur ekki "skipt um ham" í einu and­ar­taki, fundið jafnvel fjar­stæð­­­­­ustu firr­ur hluta af sjálf­um sér, - hann er ekki fær um að skapa listir, vís­indi né trú­ar­brögð (bls.93).


Heimskan er heimsböl. Megnið af volæði veraldar­innar staf­ar af skorti á ímynd­unarafli. Fólk kennir í brjósti um sjálft sig. Það finn­ur sárt til sinn­ar eig­in eymdar. En það skort­ir ímyndunarafl til að "lifa upp" eymd ann­­arra. Hún verð­ur því óviðkomandi (bls.37)


Næm­leiki er andlegur og líkamlegur þroski. Að vera "næmur fyrir" er að skynja fleiri sveiflur í tilverunni en allur almenningur. Vér getum jafn­vel sagt, að takmark mannkynsins á þess­ari jörð sé að færa út skyn­kvíarnar, ná meira og meira af tilverunni undir skyn­svið sitt (bls.84).



Þessar yfirlýsingar skýra fáránlegar sögur söguhöfundar af því, þegar hann varð óléttur og síðar myrtur. Þær skýra einnig, að slíkum sögum skuli bland­­að saman við mál­efnalega umfjöllun um þjóð­fél­ags­mál. Einmitt það, hve sund­­urlaust Bréfið er og marg­­­­breytilegt í stíl, miðar að því að gera það al­tækt um heim höf­undar. Og í ljósi þessarar yfir­lýs­ingar um að skiln­ingur hljóti að vera hug­lægur, skilst betur, að þótt Bréfið beri á köflum fræði­­legt yf­­irbragð, með löngum til­vitn­unum, m.a., þá er það ekki unnið af fræði­mann­­legu hug­ar­fari, eins og Halldór Laxness sýndi fram á fáeinum mánuðum síðar, í svari sínu við því, Kaþólsk viðhorf. Þær athugasemdir hefur Þór­berg­­ur feng­­­ið tölu­­­vert fyrir útkomu Bréfsins, því dagbók hans sýnir að þeir Hall­­dór voru farnir að deila um trúmál ekki síðar en um miðjan okt­óber 1924, og hirti Þór­berg­ur þó ekki um að rök­styðja betur í riti sínu. Reyndar telur Hall­­berg (Vef­ar­inn II, bls. 161) að Bréfið sé sprottið upp úr slíkum deil­um. En rök­ræður hefðu vænt­anlega rofið ramma ritsins, kappræðuform þessa hluta þess er persónu­­­legra. Og um ritið allt hlýtur að gilda það sem mæl­andi seg­ir til bænda (í lok XXVIII. k.): "Ég hefi í raun og veru ekki get­­að frætt ykk­ur um jafn­að­ar­stefn­una í þessari stuttu viðræðu. Ég hefi aðeins reynt að vekja ykkur til að vilja fræðast um hana." Því skáldlegt, hug­lægt viðhorf ræð­ur Bréfi til Láru.


Stíll ritsins væri sérstakrar rannsóknar verður. Hér verður sú rann­­sókn ekki gerð, enda er stíllinn ekki módern í sjálfum sér. Segja má, að grunn­­­tónn orða­­­vals Bréfsins sé alþýðlegt talmál, en stíllinn er aug­ljós­lega hnit­­mið­að­ur og fjöl­breyttur eftir efni, þannig verður ritið mun sund­ur­­leit­ara og altækara en ella myndi. Orðaval sveiflast frá hlutlægnistón rök­­ræðna til mjög til­finn­­­­­inga­­­þrungins orðalags, sem snýst svo skyndi­lega til lágkúru­­legr­ar and­­­stæðu, t.d. lýkur ljóðrænni náttúrulýsingu á hinni frægu máls­grein: "Ég sett­ist nið­­­ur í skóg­ar­runn­a og skeit." (í viii.k., bls. 23). Mik­ið ber á runum ör­stuttra að­­­al­­setn­inga, eins og til að slá föst­um stað­­­reynd­um, einkum í upphafi kafla, en svo koma til­brigð­i, atviks­­liður settur fremst í setningu við og við, eða þá að máls­­­­­greinar ger­ast lengri og marg­brotnari, einkum í hinum mál­­efna­­legri köflum (t.d. xviii). Hátíðlegt upphaf BTL mark­ast af því að hranna upp upp­­taln­ing­um í fyrsta dæminu hér að framan, það er ofgert, svo það verður skop­­­legt. Sama gild­ir um fáránlegar við­­lík­ingar, þar sem guðfræðileg atriði flétt­­­­ast saman við hvers­­dags­­leg­­ustu matvæli: "Gegn­um­sýrður af heil­ög­um inn­­blæstri sem blóð­­mörs­­­keppur í blá­­steinslegi", "þú ljómar og for­klár­ast eins og sól­­bak­aður salt­fisk­ur fyrir lambsins stól". Þetta er í stíl við hina frægu "bylt­ingu í ríki út­valdra" undir lok ritsins.


Kristján Eiríksson ritaði kandídatsritgerð sem fjallaði einkum um stíl Ofvitans eftir Þórberg. Þar segir m.a. (bls. 76-7):



Myndmálið í Bréfi til Láru einkennist mjög af ýkj­um. Og ýktar við­­­lík­ing­ar virðast manni jafnvel enn þá aug­­ljósara stíl­bragð þar en í Ís­lensk­um aðli og Ofvitanum. Má nefna hér nokkur dæmi til gam­ans:


Að reyna að hafa áhrif á það [þ.e. fólk] - það er eins og að ætla sér að draga Titanic upp með tveim höndum af þús­­und faðma dýpi. (bls.13)


Þórbergur líkir sálarkvölum sínum, er hann fann að hann var orð­inn ólétt­ur, við


...þjáningar útskúfaðrar sálar, sem forsjónin hefir dæmt til að standa á höfði í vellandi brennisteinshver frá eilífð til eilífðar. Og þó er þessi sam­líking allt of prestleg til þess að þú getir rennt grun í, hvern­­ig mér var inn­an­­brjósts. (bls.85)


Og um heimskuna segir hann:


Heimskan er eins og eilífðin. Hún takmarkast hvorki af tíma né rúmi [bls.60, ég færi stafsetningu og blaðsíðutal til sam­ræm­is við mín­ar til­vísanir í rit Þórbergs. Ö.Ó.]



Þessi dæmi eru í raun ekki sérlega langsótt frá menning­­­ar­­um­hverfi höf­­und­ar, þótt ýkjur einkenni þau. Fyrsta dæmi Kristjáns er af því tagi sem hann útskýrir skömmu síðar (bls.77), að Þór­bergur taki slitnar líkingar



en víkur við orð­um svo þær verða ferskar á ný og kemur lesendum þann­ig á óvart:


Og það var eins og heilum Öræfajökli væri létt af sálu minni jafn­­­­skjótt og vera mín á Hólum var orðin að end­ur­minn­ingu (Íslenskur aðall, bls.193).


"Öræfajökullinn" er settur hér í staðinn fyrir "þungt farg" eða "þung­­an stein" sem er það venjulega í þessari líkingu. Af því verður mynd­­in aftur lifandi og nýstárleg fyrir mönnum.



Auðvitað er hvert framangreindra rita með sínum svip, en meg­inein­kenn­in virð­ast mér sam­eigin­leg Bréfi til Láru og ritum frönsku surreal­­­ist­anna. Sá svip­ur verður hvorki skýrður með rit­tengslum né öðrum beinum tengsl­um. Bréf­ið er eldra en flest frönsku ritin, og þótt Þórbergur hafi verið í París 1921, á esp­er­antó­þingi, og þá þegar haft áhuga á dulræn­um efnum, svo sem frönsku surrealist­arnir, þá verða ekki sénar neinar líkur á beinu sam­bandi hans við þá. Hópur þeirra fór að starfa sjálf­stætt 1922, og ekki bar verulega á þeim fyrr en um miðjan ára­tug­inn. Halldór Laxness hafði þó spurnir af þeim og bæk­ur, á árinu 1923, svosem fyrr var rakið, og mjög virðist lík­legt að hann hafi sagt Þór­­bergi ítarlega frá þeim vorið 1924, því þá voru þeir sífellt að bera sam­­an bækur sínar, eins og áður segir. Þór­bergur hóf að skrifa Bréf­ið haustið 1923, og frá­sagnir Halldórs af surreal­istum gætu hafa orðið hon­um uppörvun til að fara sínar eigin brautir. Um­fram allt held ég þó, að Þór­berg­ur skrifi líkt og frönsku surr­eal­­ist­arnir, vegna þess að hann hafði far­ið sömu leið og þeir til skáld­­skapar, þjálfað sig stöðugt í að horfa inn í eig­in hug­­ar­heim, frekar en á ríkj­andi bók­mennta­­legar fyrir­mynd­ir. Þess­­­vegna er þetta allt svo huglægt og persónulegt. Nú hafði Þór­bergur ekki hóp­­starf sér til styrkt­ar, sem var frönsk­um surreal­­istum svo mik­il­vægt, bæði sem uppörvun og við tilraunir í að opna sem best sál­ar­djúpin, með ósjálf­ráðri skrift, tali í leiðslu, skráningu drauma, o.fl. þ.h. En þess í stað komu þá að nokkru dag­bæk­ur Þórbergs, þar sem hann tamdi sér að rifja upp drauma sína og á annan hátt að horfa í eigin sálar­­kima. Slík dag­bóka­skrif hafði hann stund­að síðan 1912, og í þeim verður sjálfs­­­könn­unin æ hlífð­ar­­­lausari, jafn­­framt því sem stíllinn verður æ frumlegri og sér­­kennilegri.


Það sem hér skiptir mestu máli, er þó ekki hugleiðingar um hvaða tengsl séu hugsanleg milli íslenskra bók­mennta og franskra á 3. áratug ald­­ar­­­innar, held­ur hitt, að Bréf til Láru er af sama tagi og hinn rót­tæk­asti mód­ern­ismi á þess rit­unartíma. En hvað þá um önnur rit Þórbergs? Næsta hálfan annan ára­tug ber mest á greinaskrifum, auk kennslubóka og ævisagna, og að sjálf­sögðu kemur ekkert af þessu til álita í sambandi við módernisma. Íslenskur að­all (1938) og Ofvitinn (1939-40) gera það ekki heldur að mínu viti, þótt margt sé í þeim ritum líkt og í BTL, ber­orðar frásagnir af sögumanni og nafn­­­greind­um vinum hans, hnit­mið­aður, blæbrigðaríkur stíll, með skyndi­leg­um hvörfum frá háfleygu til rudda­leg­ustu lágkúru. Ennfremur heldur frásögn t.d. Íslensks að­als sig ekki eingöngu við sögumann í réttri tímaröð, þar eru út­úrdúrar í öðr­um stíl, t.d. skop­stæling á bókmennta­um­fjöllun þegar segir frá Sól­oni í Slunka­ríki. Hvenær sem ný merk­is­persóna kemur til sögu, er sagt frá henni í sam­fellu fram og aft­ur í tíma. Auk þess eru hugleiðinga­­kennd­ir kafl­ar, svo sem um reykingar. Allt minnir þetta á BTL, og hvert ritið um sig er altæk mynd af sögu­manni og umhverfi hans. Útúrdúrar Íslensks aðals um ein­staka menn er ekki aðeins til að gera ríkulegri mynd af umhverfi sögu­manns, heldur sýna þeir jafn­framt fyrirmyndir ungs manns á þroskabraut, nei­kvæðar sem já­kvæð­­­ar. En afger­andi mun­ur ritanna er þó sá, að bæði Ís­lensk­ur aðall og Of­vit­inn eru saga eingöngu, þar sem haldið er sögu­þræði frá upp­­hafi til enda, þrátt fyrir alla útúrdúra. En módernismi BTL felst einmitt í því hve sundur­leitt það er að efni og stíl, þar er ekkert rök­legt heild­ar­sam­hengi. Reyndar standa þá fyrrnefnd rit þeirra Aragon og Breton að þessu leyti nær Íslenskum aðli en BTL.





13. Vefarann mikli frá Kasmír


Hér verður aðeins fjallað um þriðju skáldsögu Halldórs (hér skst. VMK), þó með nokkrum samanburði við næstu skáldsögur hans. Jafnan er vitnað til fyrstu gerðar VMK nema annað sé tekið fram. Kaflanúmer fylgir þó einnig, svo lesendur geti flett upp í seinni gerðum sögunnar.



13.1. Yfirlit


Sögu þessa samdi Halldór Laxness "að mestu sumarið 1925", en fékk ekki útgefendur að henni, svo hann gaf hana út sjálf­ur vorið 1927. Ein fyrsta úttekt á sög­unni er eftir höfund sjálf­an, í eftirmála 2. útgáfu, 1946. Þar segir m.a. (bls. 381-3):



Mig láng­aði til að reyna hvað ég gæti á sem flest­um sviðum fag­­urra bók­­­menta, sem svo eru nefndar, og er Vefarinn þannig tilraun margs­­­konar forms. Hér er leitast við að gera skáld­sögu nokk­urn­­veg­­inn eftir raun­­sæis­að­ferð ofanverðrar nítj­ándu aldar, en innámilli er á nokkr­um stöð­um skotið surr­eal­­isma mjög í líkingu við þann sem var að hefjast í frönsk­um bók­ment­um einmitt þau misseri, og hafði ég heill­ast af kenn­íng­um André Breton í Manifeste du surrealisme (1923), svo og ljóð­mæl­unum eftir Guillaume Appollinaire. Finna má í bók­inni rit­gerð­ir sem nálg­ast heim­speki, enn­­­fremur fjórar smá­sögur, skaft­­­fell­ínga­­­­­sög­ur­nar þrjár og söguna um Ljónharð Pípin, nokkrar barna­­­­­­sög­ur, ljóð­­mæli, þýð­íngartilraunir á bundnu og óbundnu máli, kristi­­lega dul­­speki í bæna­­bókarstíl lög­uðum eft­ir Imita­sjóninni, drög í hóm­­­­ilíu­stíl og heil­agra manna sögu, auk nokk­urra fleiri bókmenta­­­­legra æf­­ínga. [...]


Höf­uðgalli hennar [bók­ar­inn­ar] var sá, að hún hafði aldrei verið hrein­­rituð. Hún var meira að segja aldrei fullsamin, það eru í henni ófull­gerðir kafl­ar og eyður fyrir kafla sem aldrei voru samdir, víða glopp­ur í stíl, ójöfn­ur og los.



Hér koma fram meginatriðin um söguna[11], einkum að fylgt er skáld­sagna­­­hefð í mik­il­vægustu atriðum. Hinsvegar eru loka­orð­­ klausunnar ekki alls­kostar sann­færandi, því upp­bygg­­ing sög­unnar virðist þaulskipulögð. Það sést m.a. á því, að hún skipt­ist í ná­kvæmlega 100 kafla og átta bækur (á bilinu 41-90 bls.), þar sem kerfisbundið er skipt um svið með hverri bók. Í 1. bók eru kynnt­­­ar helstu persónur, ein­angr­aðar í sum­ar­bú­stað, eink­­­um er í lokin dvalist við tvær þær mikil­væg­­ustu, Stein og Diljá. 2. bók ger­­ist í Reykja­­­vík og kynn­ir eink­um Diljá, sýnir m.a. framtíð hennar með sögu Jó­fríð­ar. 3. bók sýn­ir Stein er­lend­is, að leita að til­gangi í lífinu. 4. bók ger­ist aftur í Reykja­vík, og sýnir sam­­drátt Örnólfs og Diljár, m.ö.o. leit hennar að lífs­­til­gangi í ást­inni. 5. bók ger­ist erlendis og sýnir viðbrögð Steins við dauða móð­ur sinnar, engin fyrst, en loks bugast hann. Í 6. bók gengur hann kirkj­­­­unni á hönd í Belgíu, en 7. bók sýnir samdrátt hans og Diljár, fyrst í Reykja­­­­vík, en loks á Þing­völl­um, þar sem lok 1. bók­ar gerðust. 8. bók sýnir svo hvern­ig Steinn leitar æ meir aftur til kirkj­unnar, þrátt fyrir ásókn Diljár. Sú stig­mögnun birtist jafn­framt landfræði­lega, færist milli klaustra, frá Belg­íu, um Sviss til Rómar.


Þegar af þessu sést, að VMK er ekki eingöngu saga Steins. Þáttur Diljár er mjög mikill líka (að vísu hugsar hún þá mikið um Stein!). Allur gang­ur sög­­­u­­­­­nnar er rökleg afleið­ing af togstreitu andstæðra afla, það er sam­kvæmt skáld­­­­­­­­­­sagna­­­­hefð, einsog margt fleira, t.d. ljóðrænar náttúru­lýs­ingar, sem lýsa í raun hug­­­arástandi persóna, innbúslýsingar sem sýna pers­ónu­leika þeirra, þjóð­­­fé­lags­­­stöðu eða metnað, einnig það, að helstu persónur hafa hver sitt mál­far.


Halldór Guðmundsson hefur skrifað bók, Loksins, loksins, um Vef­­ar­­­ann mikla og Bréf til Láru. Hann bendir þar m.a. á (1987, bls. 195), að forms­­atriðum sé beitt á mark­viss­an hátt í VMK, og tekur dæmi af sjón­­­ar­horni, "þar sem hið upp­hafna og of­ur­mann­lega nætir því sem mannlegt er og ófull­­­­komið, er sjón­­ar­­­hornið jafnan hjá hinu síðarnefnda", t.d. þegar Steinn hitt­ir Alban í 93. k., Diljá Stein í 99.k. Þetta virðist mér alveg samkvæmt skáld­­­­­­sagna­­­hefð, sjón­arhornið er þar jafnan hjá venjulegri persónu, sem líkist ein­­­­­hvers­­kon­­ar með­allesanda. Það var heldur engin nýjung að skifta um sjón­arhorn í skáld­­­­sögu, og síst verður VMK miður heil­steypt verk þessvegna, eins og Hall­dór G. virðist telja 1989 (bls. 200).


Það sem Halldór Laxness kallar surrealísk innskot rýfur vart heldur skáld­­­­­­sagnahefðina. Því þar á hann sjálfsagt við drauma­lýs­ing­­­arn­ar eftir sjálfs­­­­­­morðs­til­raun Steins (59.-61.k), svo og þær sem sýna upp­nám Diljár í Róm (96.-97.k). Þetta eru fyrirferðarlítil atriði, og reyndar er gam­al­­kunnugt úr skáld­sög­um, að afhjúpa í draum­um sögupersóna leyndar hugsanir þeirra. Diljá virð­ist í draumi sínum sjá Örnólf sem djákn­­­­ann á Myrká, það sýnir hug­ar­­­kvöl hennar, þótt hana síðan dreymi að hún sæki Stein í greipar kirkjunnar með skop­­lega auð­­­veld­um hætti. Í 59. k. sér Steinn sig í gervi Ljón­harðs Pípins, sem afplán­ar synd­ir sínar ánægður, lægst­ur allra í sam­félaginu. 60. k. sýnir svall­­­veislu mikla, sem lýkur á því að menn snúa sér til drottins. Þetta sýnir í hnotskurn feril Steins. Síðastur þess­­ara drauma ein­kenn­ist mest af stíl­rof­um, allra kafla bók­­­ar­inn­ar. En það er af því, að þar bland­ast saman í and­stæð­­um tveir meg­in­þætt­­ir í fari Steins fyrr og síðar. Þarna birtist heims­mað­ur, klædd­ur skv. nýj­ustu tísku og slétt­­­­­rak­aður. En hann er kross­fest­ur, and­lit­ið "sveitt og afmynd­að, augun blóð­­­hlaup­in". Stíl­rofin sýna hve ósam­rýn­an­legt þetta tvennt er, og þetta er vís­­bending um persónuleika Steins, sem hafði ver­ið heimsmaður, en kom­­­ist í þrot, og leitar nú til kirkj­­unnar í næsta kafla. Í stuttu máli sagt, þessi draum­­­sæ­is­innskot gegna sínu hlut­verki í röklegri fram­rás sög­­unnar, á þessum nið­­ur­­­njörv­­aða stað í henni, auk þess sem þetta eru spaugi­­leg atriði. Hallberg (Vefarinn II, bls. 147 o. áfr.) leggur auk þessa hlut­­verks áherslu á kyn­lífs­blæ þessara atriða. En þau minna ekki mikið á rit surrealista (sbr. hér k. 12.2. fram­­anverðan).



13.3.Persónusköpun


Þessi skáldsaga fylgir tísku á 3. áratugn­um, með því að gerast í hástétt. Þetta er á Íslandi í sög­um Einars Kvaran, og a.n.l. hjá Jóni Trausta (1918), Guð­­­mundi Haga­lín og Gunnari Bene­dikts­syni. En það er auðfundið hve fjar­læg þessi stétt er söguhöfundi VMK, og því verða lýs­ingar á henni ansi glans­­­­­­­mynda­­kenndar og yfir­borðs­legar, að ekki sé sagt klisju­bornar. Þetta á ekki síst við um öfg­arnar í lýsingu Örnólfs og þó einkum Steins. Spyrja mætti hvort þvílíkar glæsimyndir hafi þurft til að sýna þá and­stæðu kosti sem bjóð­ast nútíma­manni, það að hafna þessa heims gæðum verði þá fyrst mark­vert þegar þau séu sýnd í hámarki. Sú er skoð­­un Hall­dórs Guðmundssonar (1987, bls. 174-5), hann kallar þetta bók­­mennta­­­­­lega nauðsyn, og á þá jafn­framt við bók­­menntahefð. En ég efa þá nauðsyn, mér virðist þessi mynd fölsk. Mæli­kvarð­­­­­inn á það er lýsing Steins þegar hann leitar í klaustr­ið, for­ug­ur, rif­inn, solt­­­­­inn, alls­­laus, ein­mana og ör­vænt­­ing­arfullur. Andstæða þess er síðan ljóm­­­­inn af klausturlíf­inu, sem er þrungið sam­­­stöðu. Hvortveggja lýs­ingin er sann­­fær­­andi og af inn­­­lifun gerð, ólíkt meiri en lýsingar á lífi fína fólks­ins.


Í þessari löngu skáldsögu eru ekki margar persónur áberandi. Persónu­­­­­­­­­sköp­­­­un er tvennskonar, annarsvegar er sagt frá hugs­un­um helstu persóna, Steins og Diljár. Enda þótt sögumaður sé alvitur, dvelst hann ekki að ráði við hugs­­­­­­­anir annarra persóna; en tvær að auki úthella hjarta sínu, Örnólfur og þó eink­­­­­­um Jófríður. Ylf­ingamóðirin Valgerður hefur svolítið breyti­­­leg viðbrögð, en ekki faðir Alban, hann er einfaldlega persónu­­­­gerving sálu­­­sorg­ara­hlut­­verks­ins í göfg­ustu mynd. Á sviðaðan hátt er Bambara Salvatore staðlaður heims­­­­mað­­­ur, sem verður ekki upp­næm­ur fyrir neinu. Grím­úlfur, hús­vörður hans, Sigga Pé vinkona Diljár, munkar og aðrar auka­­­­­persónur eru þeim mun yf­­ir­borðs­­­legri.


Persónan Steinn á það mikið sameiginlegt við bókarhöfund, Halldór Lax­ness (ritstörf og klausturvist einkanlega), að lesendur hafa löng­um hneigst til að taka hana sem sjálfs­mynd. Slíkar sjálfsmyndir eru oft­ast mót­­aðar af dag­draum­­­um höf­undar, og vissu­­lega gæti eitthvað slíkt verið í þessu glæsimenni Steini, sem verður heimsfrægt skáld fyrir­hafn­ar­lítið, nánast gegn vilja sínum. Hitt er þó ekki síður áber­andi, að Steini er iðu­lega lýst af andúð, einkum þó þeg­ar lesendur kynnast honum fyrst, þegar hann þylur yfir Diljá (5.-10.k.), þá er hann sýndur sem óþol­andi merkikerti, sem sér ekkert áhuga­vert nema sjálf­­an sig.


Í rauninni verður þessi aðalpersóna sögunnar ekki sér­kenni­leg, en það er eink­um vegna þess að lýsingar á honum eru allar í hástigi. Það á sér­staklega við um 1. og 3. bók. Viðbrögð Steins við dauða móður sinn­ar sýna firringu og til­­finningakulda í fyrstu, en loks brestur þykk skelin í sorg og upplausn, sem birt­ist í drauma­köflunum og leiðir hann til kirkj­­­­unn­ar, svo sem áður seg­ir. Gikks­háttur hans og sérviska þegar til Íslands kemur (í 7. bók) er að mati Hall­­dórs Guðmundssonar (bls. 184) afleið­ing þess að þessi stórbokki geti að­eins beygt sig fyrir guði, fyrirlíti allt annað. Það telur Halldór G. (bls. 179) enn birt­­ast í því að lýð­ur­inn er tómar hórur í augum Steins í atriðinu á Leicester square (61.k.), en því er til að svara, að Steinn sér einnig sjálfan sig sem hóru þar. Þvílíkur hroki er líka fjarri öðrum guðs­­mönnum í sögunni, munk­un­um, og í raun­inni er þetta ekki einu sinni pers­ónu­sérkenni fyrst og fremst, að mín­um dómi, held­ur bygg­ingar­­­ein­ing í sög­unni, tálmi samdráttar þeirra Diljár, og magn­­ar spennuna, líkt og þegar Diljá hnjóðar í kaþólskuna (79.k.). Jafn­framt er þessi um­skipt­ings­háttur Steins til skemmt­­­unar ("Ég vona að við sé­um ekki að éta úldinn hund", segir hann þegar þögn verður í fínu borð­haldi).


Eitt meginatriði í túlkun Halldórs Guð­­munds­sonar á VMK er um and­stæð­­­­­­­­­urnar milli Steins Elliða og Diljár. Halldór telur (bls. 188) að Diljá sé mót­­­­­vægi við einæði Steins og "Það mót­vægi mynd­ar hún ekki með rökfimi held­­­­ur með því að vera eins og hún er, saklaus og hrein, og spyrja saklausra og hreinna spurn­inga". En Ástráður Eysteinsson andmælir þessu 1988 (bls. 293-5), með þeim rökum að Diljá sé öfgafull, ekki síður en Steinn Elliði; "Öll þrá Dilj­ár bein­ist að Steini og verður að rótgróinni og brenn­andi þrá­hyggj­u", og þetta einæði gildi raun­­ar um allar helstu persónur bók­­ar­inn­­­ar, hvort sem það birt­ist í ást­artrú Jó­fríð­­ar, eða kapít­al­­isma­­­­mein­læti Örnólfs. Ég verð að taka und­ir þetta, ekki hvað síst um Diljá. Vissu­lega er mynd hennar og fram­koma til þess að skjóta nið­­ur skírlífis- og ofurmennisóra Steins, en í grund­­vall­­ar­atrið­um er hún stöðl­­uð persóna, "konan sem fórnar öllu fyrir ástina". Diljá - og enn frek­ar Jó­­­fríð­ur (og a.n.l. Örnólfur) eru ást­­­­ar­þráin einber, þær minna jafnvel á prósa­­­­ljóð Tagore. Örnólfur er þó fyrst og fremst persónu­­­­­gerv­­ing auð­­valds­ins í sið­­fág­­­­uðustu mynd.


Ályktunin af þessu verður, að persónur séu hér mjög af sama tagi og lengst­­um hjá Halldóri Laxness, persónugervingar (týpur) frem­ur en sann­­fær­­andi persón­­­ur að skáldsagnahefð. Peter Hallberg rekur í riti sínu (Hús skálds­­­ins II, bls. 48-58) hvern­ig þetta færist í aukana hjá Halldóri á 4. ára­tugnum. Persón­­­ur Sölku Völku eru vissulega stílfærð­ar, en í Heims­ljósi eru komn­­­­­ar yfirgengi­legar skrípa­myndir. Dæmi Hall­bergs eru sann­fær­­­andi, þegar hann ber Pétur þríhross saman við Bogesen, Jasínu Gott­freð­línu saman við Sölku Völku and­spænis kenn­ara, o.s.frv.



13.2.Sögumaður


Eftir útkomu VMK urðu nokkur blaðaskrif um meint klám í bók­inni (þar þótti vera talað með velþóknun um "sódó­miska skrautdansa"). Af því til­efni birti Halldór yfirlýsingu, þar sem sagði m.a. að það væri í meira lagi hlá­leg bókmenntagagnrýni,



að vilja gera höfund persónulega ábyrgan fyrir öllu því sem hann læt­­ur persónur gera eða halda fram í bókum sínum. Af öll­um þeim ara­­grúa lífs­skoðana sem fram eru settar í bók minni, að­hyllist ég persónu­lega aðeins eina, nefni­lega hina kaþólsku. (Hallberg, Vef­ar­inn, II, bls. 16-17 og 208).



Í samræmi við þetta er lýsing ýmissa fræðimanna, t.d. álykt­ar Ást­ráður Eysteinsson um söguna (1988, bls.296-7):



Þannig teflir sagna saman öfgum sem beinast gegn borgaralegu sjálfi og ógna jafnframt borgaralegu jafnvægi og tilvist einstaklingsins sem sam­fé­lags­veru, öfgum sem hrífa hann úr öryggi ríkjandi merk­ing­ar­heims og kall­ast á við dauðann. Söguhöfundur ljær okkur engan ein­hlít­an mæli­kvarða á þess­ar orð­ræð­ur öfganna heldur lætur þær tak­ast á og rásar með okk­­ur á milli þeirra. Eins og ég vék að fyrr, er "hið mann­lega" kannski helst fólgið í glund­roða þeirra við­­horfa sem marg­rödd­uð frá­­sögn­in heldur til skila. Með marg­­­röddun­inni er jafnan graf­ið und­an merk­ingu þeirra sjón­­ar­­miða sem fram koma hjá ein­stök­um persónum. Jafnvel í ein­ræðum Steins fer fram pólífónískur leikur við­horfa sem gjarn­an eru í hróp­andi mót­sögn innbyrðis. [...] En einmitt með slíkri marg­röddun er írónía byggð inn í formgerð verskins, og þann­ig fer stöð­ugt fram niðurrif hinn­­ar upp­höfnu og fram­úr­skarandi hetju."



Enda þótt Ástráður leggi hér megináherslu á andstæður viðhorfa, gagn­rýnir hann Matthías V. Sæmundsson fyrir að leggja of­ur­­áherslu á að greina hug­­­myndir og afstöðu í skáldverkum (í ritinu Mynd nú­tímamannsins 1982), svo að mód­ern­ismi virðist fel­ast í yfirlýsingum um að maður finni sig standa einan í veröld án tak­marks og til­gangs. Ástráður skilgreinir mód­ern­ism­ann sjálfur út frá því, en gengur lengra og segir, að af ein­semd manna spretti efa­­semd­ir um öll boðskipti (bls. 289-91), þar af leiði sam­heng­islaus verk og órök­­leg. Þetta var hér áður rætt, raunar sagði Matthías nokkuð svipað í lok grein­­­ar sinnar 1981. Matthías svar­aði Ástráði óbeint 1990 með því að birta er­indi sitt (frá Lax­ness­­­þingi 1987, og nefna að þar hafi Ástráður verið fund­­ar­­stjóri, en af því má álykta að hann hefði þá átt að þekkja þetta!). Í þessu erindi hefur Matthías breytt um skoð­un frá bók sinni 1982, sem vitnað var til hér áður (í k.12.1). Hann ber hér Vefarann mikla saman við Sælir eru ein­­­fald­ir eft­ir Gunn­ar Gunnarsson og segir (bls. 33):



Báðar sögurnar fjalla um dýpstu rök mannlegrar viðleitni og jað­ar­reynslu, vit­firringu og dauða. Báðar glíma við þversagnir tím­ans: trú og afneitun, upp­reisn og uppgjöf. Báðum lýkur með ósigri hins mann­­­­­­­lega. Aðferð þeirra er hinsvegar mjög ólík. Saga Gunnars er sam­­­­ræmd heild þótt hún lýsi djöful­legri upplausn, öng­þveitið er inn­lim­­að í hring­­­­­laga og stranga form­gerð, fram­vind­an skipuleg og rök­föst. Frá­sögn­­­­inni er miðlað gegn­um sögu­­mann sem er til­finn­ingalega flækt­­ur í atburða­rás­ina, við­brögð­um les­enda stýrt með hefð­bundnum hætti, mörk­­­in eru skýr milli hetju og óþokka. Með öðrum orðum; text­­­­­­inn all­ur er gegn­­sýrður af sið­ferð­is­hug­mynd­um söguhöfundar, vissu hans um hvað sé gott og hvað illt. Sann­leik­ur hans beitir efni­við­­inn of­beldi. Staða sögu­­­­höf­undar er allt önn­­ur í Vef­aranum. Þar er eins og hann sé á valdi text­ans, sund­­ur­­tættur og stadd­ur á hengi­flugi, án jafnvægis eða nið­­­­ur­­­stöðu.



Menn hafa jafnan verið samdóma um að VMK sé tvíbent, einsog milli vita. Vel fer á því að nota orðið "söguhöfundur" um meginstefnu hverrar sögu (sjá næsta kafla), en um sögumann yrði ekki sagt að hann sé afstöðulaus eða að hann sveiflist á milli andstæðra viðhorfa. Vissulega koma persónur Vef­ar­­ans oft­ast nær fram án athuga­semda sögu­manns, og ekki tekur sögu­maður af­stöðu til meg­­in­­tog­streitu Steins milli konu og kirkju. En þetta hlut­­­leysi er ekki mód­­ern­­­ismi, heldur samkvæmt skáld­sagnahefð, eins og sást hér að fram­an. Og reyndar kemur af­staða sögu­­manns stund­um fram beinlínis. T.d.þegar Steinn hittir Alban þriðja sinni (í 93. k., bls.474 og 477):



En allar hugsanir hríngsnerust stjórnlaust til og frá í höfði Steins, eins og kulnaðar sólir í dauðu sólkerfi. [...] Hon­um lá ekki nokkur lif­andi baun á hjarta! Samt fann hann að ekki tjáði að verða að gjalti, tók að hjala og lét kylfu ráða kasti hvað ylti upp úr sér. [...] Faðir Alban [...] sá strax, að skjól­stæð­íngur hans hefði ein­­hvers staðar hlotið að gánga á mála, því hvert orð sem hann talaði bar þess vott, að ryð væri fallið á það sem hrein­ast skyldi í vit­undar­­lífi hans, sál hans blettuð af fíngra­­förum freist­­arans. [...]



Nú er eðlilegast að túlka þetta svo að alvitur sögumaður sýni hugsanir persóna og þá á þeirra málfari. En það væri villandi að kalla hlutlægni. Auk þessa mætti telja háðskar myndir af drottni, Maríu og Jesú, ein­­mitt þegar Steinn er á leið inn í kirkjuna aftur (í 92-93.k.). Væntanlega eiga þessar skrípa­­­myndir þá að sýna efasemdir hans, t.d. þetta (bls.470):



Og utan við veginn stendur lítil brautarkapella með klúrum róðu­­krossi yf­ir dyrum. Steinn staðnæmist og skoðar. Lík­am­inn er jafn­bola eins og út­­troðinn sekkur, blá­gulur á lit­inn og herfilegt svöðu­sár á brjóst­inu þar sem blóðið vætlar út, eins og dumb­rautt lakk. Fót­legg­irnir eru altof stuttir og altof digr­ir; þvílíkar júfertur! Andlitið er breytt [í 2.gerð: "breitt"!) og ólögulegt líkt og á skrípa­mynd af ræfli, kliptri úr Punch eða Strix. Sá sem vill fylgja mér yf­ir­gefi alt og fylgi mér. ... Steinn Elliði tók of­an hatt­inn og gerði bæn sína. Kristur, Krist­ur, - ef þig aðeins gæti grun­að alt, sem þú hefur á sam­visk­unni.



Af sama tagi er það sem Halldór Guðmundsson bendir á (1987, bls. 197), stílrof í dóms­dags­lýs­ingu í lok 61.k.(bls.289):



Dagur skelfíngarinnar var risinn. Sólin myrkvaðist og björgin klofn­­­uðu, en út úr þeim hlupu dauðir menn á nær­buxunum og vissu ekki sitt rjúkandi ráð. Og Steini þótti musterisfortjaldið rifna ofan frá og nið­ur úr.



Nærbuxna-stílrofin tengir Halldór G. við draum Diljár í lok 97.k.; aug­­lýs­­ingu um dómsdag í stíl við kvik­myndasýningu eða ámóta almenn­ings­­skemmt­­un. Og þetta kallar hann "karnevalskt" einkenni, líkt og í Bréfi til Láru, að tengja háleitt við lág­kúru.


Enda þótt framangreindar klausur megi sýna hugsanir sögupersóna, þá koma skoðanir sögumanns sjálfs einnig beinlínis fram, t.d. í nætursamtali Diljár og Steins (í 86.k., bls.434):



Taktu af þér grímuna, Steinn, bað hún, því hún var ófresk á þess­ari stund og sá hann nakinn bak við kenn­­íngar hans.



Auk þessa er sögumaður sumstaðar ágengur, vekur athygli á sér með stíl­­­­rofum í sögunni, t.d. þar segir frá því að skip Steins kem­ur í höfn (í upp­hafi 75. k., bls.363). Forn­sagna­stíll færist yfir þá frásögn, en skyndilega kem­ur vísa sem er út í hött og tengir Njálssögu við Ástralíu:



Nú njóta menn drauma sinna hvað værast, uns frammi­­stöðu­mönn­um verður skipað að vekja þíngheim með þeim tíðindum, að skipið sé í höfn. Þá rjúka menn upp með and­­fælum og hefja daginn með því að reikna út í hug­anum, á hverju jarð­hveli þeir séu staddir, samanber:


Mörður gígja maður hét


mikill skýjaglópur.


Í Ástralíu einatt hann lét


eins og kríuhópur.



Hér er komið að mikilvægu atriði í sögum Halldórs, þar sem er sér­kenni­legt tal sögu­­manns, nánar tiltekið langsóttar við­lík­ing­ar. Þessa ein­kennis gætir raun­­ar fyrr hjá Hall­dóri, í smá­sögum. Önnur þeirra er frá 1926 ("Saga úr síld­inni", hin er ekki eldri en frá 1928 "Og lótus­blómið angar", sbr. for­mála Hall­dórs í Þættir, bls. 91-2). En þær voru ekki prentaðar fyrr en síðar, báðar á ár­inu 1930 (í Eimreiðinni) og svo aftur í bókinni Fótatak manna, 1933. Sögu­­mað­­ur hefur þar sér­kenni­legt orðalag og skoð­anir, mjög ólíkt því talmáli sem sögu­­­persónur hafa, enda er hann stund­um mjög fjar­lægur efn­inu, líkt og vís­inda­­maður sé að lýsa maura­þúfu (t.d. upphaf 2. k. í "Saga úr síldinni", auð­kennt af E.Ó.):



Niðrá bryggjunum morar af kvenfólki á öllum hugs­an­leg­um aldri og í öllum hugsan­legum sniðum. Þær eru klæddar í úlpur og burur af ótrú­­leg­ustu gerðum, og hver flík er tilorðin í stíl hinnar ólist­rænu feg­urðar, sem nauðsyn hversdagsleikans ein er fær um að skapa.



Halldór Guðmundsson hefur (1987, bls. 198 o.v.) fjallað um ann­ar­legar lík­­­­­ing­­­­ar í VMK, sem mikla nýjung í íslenskum nútímabókmenntum. Einnig bend­ir hann á að þeim bregði fyrr fyrir hjá Halldóri Laxness, t.d. seg­ir í Und­­ir Helga­hnjúk, sem var samin 1923, að dagarnir "komu eins og út­lend­­ir drykkju­­menn sem nema staðar fyrir utan tún­garð og veifa hött­unum og syngja; eða stara þegjandi heim að bænum; eða þá heingja höfuðin niður í bríng­una í vím­unni." Hallberg rekur fleiri dæmi svipuð (í Vefarinn II, bls. 183-190) úr VMK, en þar (í upp­hafi 8.k.) segir: "Fyrsti spóinn vall í suð­austri eins og úngur drykkju­­maður, sem getur ekki sofið." Í framhaldi er sauð­­­kind­um líkt við hús­mæður og "Kjarr­vax­ið hraun­brjóstið ilmar eins og barm­ur út­lendr­ar hispurs­­meyj­ar". En þótt fjar­lægð sé hér milli þess sem um er talað og hins sem við er líkt, þá var hvort­tveggja kunn­uglegt í íslensku um­hverfi. Og þótt tína mætti til fleiri dæmi, þá eru þau ekki sér­lega áberandi né mik­ilvæg í sögunni sem heild:



Hér nam hann staðar í bili líkt og vildi hann renna gulli þagnarinnar yfir silfur orða sinna. (upph. 7.k.,bls.35) [...] Í rauninni var það ekki líkt neinni sól, sem upp kom; hitt var miklu trúlegra að einhvers konar loga­gylt blóð gysi þar upp um slysagat á fjall­inu. Það þeyttist í allar áttir. Og lángur maður hefði sem hægast getað stúngið fíngr­unum á kaf í það og látið það freyða einsog sápu útum greipar sér. Í þessu blóði hlaut að vera holt fyrir synd­­­ugan mann að þvo sér (bls. 52)[...]


Stúlkan fetar á fín­gerðum skónum eftir sól­hvítum veg­inum, og hver kemur á móti henni nema blærinn og þrýstir sér upp að henni eins og hann eigi hana og lætur kjólinn hennar fara að blakta um hnén og ger­ir hitt og annað sem hann má ekki? (bls.122).



Þetta kemur líka fyrir í tali einstakra persóna, einkum Steins, t.d. í lof­­gerð hans um sundurleita mynd nútím­ans (bls.54-5), dýrðina á ásýnd hlut­­­anna, og (bls. 30):



Í nótt er ég hamingjusamur eins og amerískur boxari, sagði hann, eins og Douglas Fairbanks, sem hoppar yfir girðingar af sælu og glott­­ir líkt og hross; eða ef þú vildir lyfta mér upp á stall í aust­ur­lensku hofi, skyldi ég brosa sætt og dularfullt eins og líkn­eski af kín­versk­­um Búddha, sem styð­ur báðum lófunum undir ístruna...



Það sem ég hefi auðkennt sýnir, að í 2. útgáfu, um miðja öldina, skar Hall­­dór nokkuð nið­ur huglægt tal sögumanns, og langsóttar líkingar einnig ann­­arsstaðar en í því, það sem mest stakk í stúf við hlut­lægni skáld­sagna­hefð­ar­­­inn­ar. En auk fram­­an­greindra atriða er atriði sem orkað hefur fram­andlega á les­­­endur, ekki síð­ur en sam­klipp­ingsblær verksins, það eru allar þær klausur á fram­­­andi mál­um, latínu, ítölsku, þýsku, frönsku og (stöku sinnum) ensku, sem hér eru yfir­leitt birtar án þýðingar, rétt eins og við sáum í "Rhodymenia palm­ata" frá sama tíma. Þessa gætir ekki í síðari skáld­sög­um Halldórs, en þá koma ann­ar­leg, sjaldgæf íslensk orð[12]. Eins og til­vís­anir til lista­­­verka ("með böckl­­ínsk­um hátíðasvip" í 56.k., "eins og dýrl­­ings­­mynd frá Beuron" í 68. k., fleiri dæmi eru hjá Hallberg; Vef­ar­inn II, bls. 185-6 - þetta er líkt og hjá Thor Vil­hjálms­syni síðar) þá yf­ir­stíga þessar útlendu klausur þekkingu flestra les­enda. Þessa gæt­ir mjög hjá t.d. Ezra Pound og T.S. Eliot, og mér virðist þetta vera skv. því meg­in­atriði módern­ismans að sýna heim sem er yf­ir­­­grips­meiri en svo, að les­­endur geti gripið hann. En það er andstætt skáld­­sagna­hefð­inni, sem ræðst af rök­legri fram­vindu sögu frá að­stæð­um kunn­ug­legum les­­­­end­um. En sé spurt hvort hér sé um kjarnatriði að ræða, þá verður svarið ótvírætt nei, þetta er nær því að vera skraut, kærkomin tilbreyting í langri sögu.


Í næstu skáldsögum Halldórs Laxness er e.t.v. ekki eins áber­andi, að skeytt sé saman sundur­leitu efni, eins og að framan var rakið um VMK. En það er þá vegna þess að í VMK eru ein­stak­ar "bækur" sér um stíl. And­stæð­ur stíls eru síst minni í m.a. Sölku Völku, t.d. þar sem segir frá "Sig­ur­vögn­­­um Drottins" (2. k. síðari hluta sögunnar) og fárán­legar goð­sög­ur um Kristófer Torf­dal (4. k. s.hl.), svo tvö dæmi séu nefnd af mörg­um. En í skáld­­sög­um Halldórs eftir VMK kemur til miklu meiri munur sögu­­manns og persóna, en var jafn­­vel í fyrstu gerð Vefarans mikla. Persónur Sölku Völku eru mjög lif­andi, hver með sitt einkennandi mál­far, nægir að nefna lækn­inn, prófastinn og Guð­­mund kadett sem dæmi. Það getur verið fárán­legt, svo sem smekk­laus­ar lík­­ingar og guðs­­­orða­glamur for­ingja Hjálp­ræðis­hers­ins. En sögumaður er ekki síð­­ur áber­­­andi, með sjón­armið og málfar heims­­­manns, sem er gerólíkt því sem nokk­­­­ur þorps­búi hefur, t.d. þegar lýst er inn­göngu Sigurlínu og Sölku í þorp­­ið (bls.12): "Fann­fergi var mikil, snjórinn illa troðinn, vond færð. Skaf­byl­ur­inn stóð beint í andlitið á þeim eins og æfinlega er um svona fólk." Og einn­­ig koma lang­sótt­ar líkingar fyrir í tali sögu­manns. Todda trunta byrjar að vitna "með hendurnar kross­lagðar á kviðnum, í sjöunda himni, eins og ölv­að­ur erki­­bisk­up, sem er látinn í haf á konúnglegri freygátu." (bls. 21). Enn­frem­ur birtist sér­­kennileg afstaða sögu­manns í t.d. þessu (bls.111):



Um þetta er rætt afturábak og áfram í hálfan mánuð, bæði yfir hrá­um fiski og soðnum, yfir fiskbölunum, á fisk­­­reitunum eða í hin­ni eilífu soðn­ing­arlykt eld­húsanna; mannlífið er hér alt í fiski og úr fiski og mann­­­­­eskj­ur­nar eru nokk­urs­konar til­brigði, sem drottinn ger­ir úr soðn­íngu og kannske svo­litlu af slæm­­um kartöflum og hafra­méls­­glyrnu, hjóna­bands­börn­in eru afbrigði af soðningu, lausa­leiks­­krakk­­arnir líka.



Að hætti expressjónista rennur tal sögumanns Sölku Völku stundum ómerkj­an­lega yfir í óbeina ræðu með hugsunum sögu­persónu, jafn­vel aftur til baka í tal sögu­manns, t.d. þegar Sigurlína er að frels­ast (bls. 25). En fram­an­greind­­­ar and­stæð­­ur ágengs sögu­manns við sögupersónur sýnist mér vera helsta móderna ein­­kenn­ið á sögum Halldórs Laxness. Þetta er allt annað fyr­ir­bæri en sá ágengi sögumaður sem við sáum í skáldsögum Torfhildar Hólm, Ein­ars Kvaran og Kristínar Sigfússdóttur. Þar tíðkast sögumaður sem kalla mætti "rödd lýðsins - rödd guðs", því hann er ópersónulegur fulltrúi al­menn­ings­­álitsins. Höfundur gerir sögumann sviplausan, einnig í stíl, einmitt til að hann geti hugsað fyrir lesendur, dregið ályktanir af sögunni. Hlutlægn­is­stefna im­pressjónista er í rauninni bara nánari útfærsla á þessu svipleysi sögumanns, auk þess sem lesendum er ætlað að geta ályktað sjálfir af þeim efniviði sem höf­­undur kýs að leggja fram - og oft er mikilvægara að sýna en álykta. En sögu­maður Halldórs Laxness er einmitt gerður sýnilegur með sérkennilegu mál­fari og afstöðu sem stingur í stúf við annað í sögunni. Vissulega miðlar hann iðulega afstöðu söguhöfundar til mikilvægra atriða, en með háði, ekki já­kvætt.


Fyrirmyndir þessa sögumanns Halldórs eru ekki auðséðar. Á 18. öld og fram­­­eftir þeirri 19. tíðkaðist í skáldsögum áberandi sögumaður og gam­an­sam­ur, sem lætur oft koma fram að hann sé að búa til söguna. Alþjóðlega kunn dæmi eru m.a. ensku skáldsögurnar Tom Jones eftir Fielding og The Vicar of Wakefield eftir Gold­smith; í íslenskum bókmenntum eru skáldsögur Jóns Thor­oddsen sláandi dæmi. En einnig þessir sögumenn eru fulltrúar almenn­ings­­álitsins, í rauninni allt annað en sérkennilegir. Aftur á móti er sögumaður Bréfs til Láru eins og áður segir sérkennilegur í því sem hann segir af viðhorfum sínum og lífs­reynslu, en einkum í því hve óvenju opinskár hann er. En hann er fjarri því eins sérkennilegur í stíl og sögumaður Halldórs er, sem aftur er "sviplaus" í þeim skiln­­ingi, að hann birtist ekki í frásögnum af sjálfum sér, heldur eingöngu í viðhorf­um, auk stíls. Hvað varðar erlendar fyrirmyndir, þá standa surrealísku ritin sem rætt var um að framan, hér með BTL en ekki Halldóri Laxness. Sjálfur hefur hann gefið skýringu á þessu 1963 (bls. 59-60), og segir, að frá og með Sölku Völku hafi hann farið að fordæmi Sinclair Lewis í því að hafa sögumann ekki persónu í frásögninni, "en líkja í staðinn eftir hugsunarhætti og málfari þess umhverfis þar sem sagan er látin gerast: láta margslungið umhverfið tala sjálft gegnum þann samnefnara stílsins sem höfundur telur hlutverk sitt að finna." Eins og ég hefi áður rakið (1990, bls. 117-18), þá nær þessi skýring engri átt. Þessi lýsing ætti mjög vel við meginskáldverk expressjónista svo sem Berlin Alexanderplatz eftir Alfred Döbl­in, en eins og rakið var hér að framan, alls ekki við andstæðuþrungnar sög­ur Halldórs. Með þess­um sér­kenni­lega sögu­manni verð­ur stórt stökk frá skáld­­sagna­hefð­inni, einnig miðað við fyrri skáld­sög­ur Halldórs, og jafnvel mið­að við Vefar­­an­n mikla frá Kasmír. Mér sýn­ist lík­legust skýr­ing á því, að enda þótt það væri aðeins um skamma hríð á ár­inu 1927 sem Halldór orti surr­eal­­ísk ljóð, og þau yrðu ekki mörg, þá verði með þeim vatna­skil í ferli hans, því þá hverfur hann frá klisju­­born­um fyr­irmyndum, sem enn gætti í VMK, að því að pæla í hverju orði, og hvern­ig það standi af sér gagn­­vart um­hverf­inu. Við sáum stílrof einkenna expressjónísk ljóð Halldórs um mun lengri tíma, og það sýnist mér augljós fyrirmynd þess í skáldsögum hans, hvernig við­horf og málfar sögumanns stangast á við sögupersónur. En það einkennir skáld­sögur hans alla tíð síðan. Nánar má um þessi stíl­sér­kenni lesa í lokakafla hins mikla rits Peter Hallberg um verk Hall­dórs (Hús skálds­ins II, bls.194-201). Hann telur að æ minna beri á þeim eftir Sölku Völku, en hvað sem því líður, þá gætir þeirra alla tíð í sögum Halldórs.





13.4.Módernismi?


Tölu­verð­­an svip setur á Vefarann sam­klipp­­ings­blær­inn, sem Halldór Lax­ness benti á í klausunni í upp­hafi þessa kafla, að sund­­ur­­leitum rit­um er skeytt sam­an (collage). Óráðskennt ást­ar­­­ákall í bréfi Jófríð­ar (20-27.k.) og síðar Dilj­ár (94.k.) er í mót­sögn við guð­fræði­­rit­gerð (70-71.k.) og einræður Steins (3. bók), sem eru eins og huglæg grein um nýjustu menning­ar­strauma, t.d. grein eftir Halldór Laxness á þess­um tíma. Auk þess eru svo þarna eins og hann sagði, m.a. barna­sög­ur (19. k.) og frásagnir í stíl við þjóð­­legan fróð­­leik (83.k.), og hann hefur haft lag á að inn­lima í sög­una helstu kvæði sem hann þá hafði ort. Öll þessi sund­ur­leitni minnir á Bréf til Láru og hefur vænt­­an­lega ork­að býsna fram­and­lega á lesendur.


Bók Halldórs Guð­munds­­sonar finnst mér gera fyrir­mynd­­um VMK svo­sem Strindberg og Papini nokkuð góð skil, en hún fjallar síður um hitt, sem á að vera nýstár­legt. Halldór G. nefnir surreal­isma o.fl. en rekur ekki hvað VMK eigi sameigin­legt slíkum mód­ernisma, né hversu þýðingar­­mikið það sé. Þó ber að nefna loka­­ályktun hans (bls. 206):



Með Bréfi til Láru og Vefaranum mikla var loks lagður grunn­­­ur að íslensk­um nútímabókmenntum. Miklu skipti þar sú aðferð beggja verk­anna sem hér hefur verið kennd við karn­í­val­isma; að líta á skáld­­­söguna sem op­ið bók­­­menntaform sem ávallt skyldi leggja undir sig ný svið veru­leik­­­ans, að snúa á hvolf viðteknum skilningi á valdi og vald­leysi, að sjá hið andlega í hinu líkam­lega og öfugt og tala í senn há­tíð­lega og al­vöru­laust. Andstaðan við hug­myndafræði ís­lenskra mennta­manna er einn­ig sam­­­eiginleg lífssýn þess­ara verka og eitt mikilvægasta stef þeirra. Síðast en ekki síst höfðu verkin húm­or­inn umfram svo mörg önn­ur verk frá þessum tíma.



Miðað við Bréf til Láru er hverfandi lítið um stílrof í Vef­ar­anum, en ann­að sem hér er kallað "karnivalismi" er almennara eðlis en svo, að kallað verði bók­mennta­nýjung. Skáldsögur hafa verið opið bók­menntaform frá því á 18. öld a.m.k., í þeim skilningi að rúma texta af ýmsu tagi. Margar hinar fræg­­ustu "snúa á hvolf við­tekn­um skiln­ingi á valdi og valdleysi", a.m.k. skáld­­sög­ur Stendhal; Stríð og friður Tolstoi, og svo mætti lengi telja. Þetta orða­­­lag er óljóst, en jafnvel í íslenskum sög­um var andúð á valdhöf­um eng­in nýj­­ung, sbr. Gest Pálsson og Einar Kvaran. Andstaða gegn aft­­ur­­haldssamri stétta­­­­­samvinnu­stefnu hlýtur að teljast tilfallandi ein­kenni, og ekki var kímni nein bókmennta­nýj­ung. Áhersla á þessi til­viljunarkenndu samkenni ritanna kann að hafa leitt menn til að leggja þau svo mjög að jöfnu, auk þess sem nýjabragð þótti að báðum með þriggja ára millibili. En það er sitthvað, módernismi eða bók­­­­mennta­­­­nýjung á Íslandi um miðjan 3. áratug 20. aldar.


Af sund­ur­leitninni ályktar Matthías V. Sæmundsson í grein sinni 1990 (bls. 32-3) að sagan feli í sér "róttækt upp­gjör við hefð­ina" og sé marg­­­­­radda verk (það kallar Halldór Guðmundsson "opið"), svo sem Bakhtin hafði sýnt um skáld­­sögur Dostojefskí, með rann­sókn sinni. Og Matthías virð­ist telja Vef­­ar­­ann mikla vera af sama tagi, þ.e. álíka mód­­ernan og þessar skáld­­­sögur frá miðri 19. öld. En Ástráður er því rétti­lega ósam­mála að telja Dostojevskí mód­ern­ista (bls.297-8):



Marg­radda formgerð skáldsagna Dostójevskís er einn helsti und­an­fari mód­­ern­isma í skáldsagnagerð. En í þeim gilda samt enn ýmsar raun­­­­sæis­regl­ur, einkum hvað snertir sögu­­fléttu og at­burða­rás, og þann­­ig hefur heild­ar-form­­gerð verksins þrátt fyrir allt taumhald á um­svif­um persón­­anna. Verkið kemur til móts við les­and­ann sem heilleg skáld­­­saga. Við get­um reiknað með að á móti marg­röddun text­ans vegi skyn­­heild (e.k. "Gestalt") verks­ins, þ.e. útlín­ur sem "varð­veita" hið hefð­­­­bund­na skáld­sögu­­form.



Engu að síður hefur Ástráður (bls. 300-301) sömu skoðun og Matthías um mód­ernisma Vefarans mikla, hann felist í sund­urleitni text­­ans. Því finnst mér vanta greinargerð fyrir því, hvað hann þá hafi um­fram skáld­sögur Dostojevskís. Einnig í þeim eru svo sannarlega skyndi­leg stökk í atburða­rás­inni, bréfum skotið inn, o.fl. Enn meira er um ritgerðarkennd innskot í Stríð og friður eftir Tolstoj (frá 7. tug 19. aldar), svo sem alkunna er, og reynd­ar telur Bakhtin það ein­kenna sjálft skáld­­­­­sagna­­formið að vera opið, skeyta saman sund­­­ur­leitt efni. Verður það því ekki talið módernt ein­kenni á Vefaranum.


Báðir leggja þeir Ástráður og Matthías áherslu á að að­al­persón­an Steinn sé sjálf­­ur margradda -líkt og sögu­maður Bréfs til Láru, segir Ástráður. En það virð­ist mér hann alls ekki vera, nema að því leyti sem hann þroskast, og ekki var það nein nýjung í skáldsögum. Ástráður nefnir (bls. 297) sem dæmi and­stæð viðhorf Steins - í einu og sama bréfinu - til ofurmenniskenninga Nietzsches. En það er bara eitt með öðru sem sýnir innri togstreitu Steins, og hún var sannarlega engin bók­mennta­nýjung, heldur algeng hjá aðalpersónum skáld­sagna. Ástráður telur enn­frem­­ur að Vefarinn mikli sæki til Bréfs til Láru, mikið sé um bréfaskrif í Vefaranum. En það er allt of al­mennt atriði til að sanna skyld­­leika, bréf eru óskap­­­lega algeng í skáld­sögum, t.d. í sérhverri skáld­­­sögunefnu íslenskri frá 19. öld (sbr. Steingrím J. Þorsteinsson, bls.272 o. áfr.).


Auk þessa má nefna að andúð módernista á sál­­rænni rök­hyggju í skáld­sög­­um varð æ meira áberandi í skáld­sög­um Hall­­dórs á 4. áratugnum, svo sem rak­ið var um persónusköpun. Nið­­ur­staða mín af þessu öllu er sú, að á 4. ára­tugn­um hafi módernismi Hall­dórs færst í auk­ana, en ekki minnkað frá Vef­­­ar­an­­um mikla. Hér er ég í andstöðu við t.d. Halldór Guðmundsson (1989, bls. 200) og Ástráð, enn 1989 (bls.272-3).


Ástráður gagnrýnir hugtak Halldórs Guðmundssonar; "alda­móta­­mód­­­ern­­ismi", sem Vefarinn mikli eigi að vera andsvar gegn. Hug­takið telur Ást­­ráð­ur vera illa skil­greint, og dæmi Hall­dórs Guðmunds­sonar um það fá. "Alda­­móta­­módern­ismi" ein­kenn­ist skv. Halldóri Guðmundssyni af taum­­lausri sjálfs­dýrk­un, en Ástráður telur að sú ein­fara­rómantík fylgi róm­antísku stefn­unni. Rétt er það, og við sáum að viss huglægni ein­kenndi impressjón­ískan stíl á síð­asta þriðj­ungi 19. aldar. Og hvað sem þessu líður, næg­ir hug­lægni ekki til að tal­að verði um módernisma.


Ástráður segir ennfremur, að hæpið sé af Halldóri að gera ráð fyrir að ein vit­und drottni í fyrrnefndum verkum frá alda­mót­um, Ástráður nefnir sér­stak­lega A portrait of the artist as a young man eftir Joyce. Af öllu þessu ályktar Ástráður að það sé



rangt að lesa Vef­arann mikla og Bréf til Láru sem upp­gjör við "sjálf­hverf­an mód­ernisma", eins og Halldór gerir (195). Þetta eru verk sem bregð­ast með formbyltingu við kreppu hins borgaralega sjálfs, kreppu sem birt­ist á margvíslegan hátt ekki bara í rómantískum skáld­skap heldur einnig hjá ýmsum sagnaskáldum á síðara hluta 19. aldar, svo sem Flaubert og Dostójevskí. En höf­­undar fara ekki að brjóta form­hefð­ir í skáldskap í rót­tæk­­um mæli til að tjá þessa kreppu fyrr en um alda­mót. Og þá er það ekki gert í andófi gegn sjálfhverfum bók­mennt­um. (bls.281). Stöðug áhersla HG á "þemu" módernismans er því á sinn hátt jafn afvegaleiðandi og sú sam­söm­un módernisma og böl­sýnna til­vist­ar­við­horfa sem Matthías Viðar stund­­ar." (bls. 289-90).



Halldór herðir hinsvegar enn á í svargrein sinni til Ástráðs, 1989 (bls194-5), og seg­­ir að "þema­grein­­ing sé algert skilyrði þess að um raunverulega bók­­­­mennta­sögulega um­fjöllun sé að ræða: Um hvað voru skáldin að skrifa, hvaða gildi mót­uðu hugmynda­heim þeirra, hvaða and­stæður notuðu þau til að koma skip­an á hugsun sína?"


Það er að vísu rétt, að svona frumstæð hefur bókmenntasaga oft verið, en þetta eru ekki bókmenntaleg sérkenni. Að slíkum sérkennum hefur hins­veg­ar áhugi bók­­mennta­fræðinga þó beinst æ meir undanfarna áratugi. Þessi of­­ur­áhersla Halldórs á hug­mynda­greiningu í bók­menntum leiðir hann jafnvel til að mis­­skilja orð Ástráðs um "efann um tungu­málið" svo, að halda (1989, bls. 194-5) að efasemdir Plat­ons og fleiri klassískra höfunda "um orð­in og mögu­­leika þeirra til að tjá hinn sanna veruleika", sé af því tagi, einnig rök­ræð­ur Rabelais um tungumálið, á 16. öld. Vissulega var Ást­ráð­ur ekki skýr­mælt­ur um þetta, en hér þarf ekki frekar að ræða, að í mód­ernisma er um órök­lega fram­setningu að ræða. Bók Halldórs fjall­ar ekki fyrst og fremst um ein­kenni mód­ernismans, heldur aðal­lega um félagsleg­ar og hug­mynda­­­­­­legar for­send­ur hans. Það efni er ekki til umræðu hér.


Halldór segir ennfremur um Vefarann og BTL (bls199-201): "Eftir þau varð svo margt sem skrifað hafði verið árin á und­an ein­fald­lega hallærislegt". En Ástráður svarar með því að spyrja hverju þessi tvö rit hafi breytt, og telja í því sambandi upp sögur kunnra höf­­unda fyrr og síðar, m.a. skáldsögur Þor­gils gjallanda, Jóns Trausta, Einars Kvaran, Kristínar Sigfússdóttur, Guð­mund­­ar Kamban, Guðmundar Hagalín, Guðmundar Daní­elssonar, Huldu og Ól­afs Jóhanns Sigurðssonar. Um þau segir hann (1989, bls. 272):



ég held þó að verkin rúmist innan tiltölulega samfelldrar raun­sæis­hefð­­ar, með mismiklu nýrómantísku ívafi; og ég held að þessi hefð­­ar­þró­­un sé alls­endis ótrufluð af "straumhvörfum" af völdum Bréfs til Láru og Vef­­ar­ans mikla. Á fjórða áratugnum fer raunar að kveða meira að fé­lags­legri raun­sæisádeilu í íslenskum bókmenntum, einkum á veg­um Rauðra penna, en það gerist síður en svo í framhaldi af um­rædd­um tveim verk­um.



Og það er rétt, að skáldsagnahefðin ríkti áfram hjá flestum höfund­um. Mér sýnist raunar (sjá rit mitt 1990, bls. 207), að í seinni heims­styrj­öld­inni hafi orðið afturhvarf í skáld­sög­um og ljóðum til að fjalla um samfélag fyrri tíðar í sveitinni, til nátt­úru­lýrikkur o.s.frv. Það er þó eftir sögurnar sem Ástráður telur upp, fyrir ut­an þá síðustu, Fjallið og draumurinn eftir Ólaf Jóhann.


Það má draga saman af umræðunni hér að framan um kenningar fræði­manna, að þeir ganga út frá þeirri niðurstöðu að Vefarinn mikli frá Kasm­ír sé módernt verk, og reyna síð­an að finna forsendur hennar, hver á sínu sviði. En þau einkenni sem þeir telja, reynast flest vera algeng í skáld­sög­um 19. aldar. Það væri þó synd að segja að starf þeirra sé unnið fyrir gíg, þvert á móti hafa þeir með þessu nán­ast sýnt fram á að sagan sé ekki mód­ern. Sam­eig­­inlegt Vefaranum og Bréfi til Láru virðist mér helst það, að skeyta sam­an köflum af mis­mun­andi stíl, einsog áður segir, en í raun­inni er sá eðl­is­mun­ur á þeim, að Vefarinn er í meg­in­atrið­um hefð­bundin skáld­saga, eins og hér hefur verið rakið, en Bréf til Láru hefur ekki neitt röklegt heild­ar­sam­hengi. Með öðrum orð­um, Bréf til Láru er módernt, en Vefarinn mikli frá Kasmír ekki.


Ástráður ræðir nokkuð um texta og verk, þ.e. hvort módern verk séu hnit­miðuð heild (bls.297 o.áfr.). Niðurstaða hans er sú, að það séu hvorki Vef­arinn mikliBréf til Láru. Mér sýn­ist það illa rök­stutt og raunar frá­­leitt um VMK, svo sem sést af lýs­ingu minni í upp­hafi þessa kafla, og því ekki hægt að álykta af þessu, eins og Ástráður gerir, að Bréf til Láru sé skáld­saga, enda er það lítt rök­stutt, og sjálf­ur segir Ást­ráð­ur um Bréf til Láru (bls.302): "Ef til vill heldur ekkert Verkinu saman ann­að en titill þess og und­ir­skrift­­in sem "lok­ar text­anum á síðustu síðu." Það virð­ist mér reyndar fjarri sanni, það sem heldur ritinu saman er sú marghliða heild­armynd sem það skap­­ar af sögu­manni sínum.


Meginniðurstaða greinar Ástráðs virðist mér vera, að fyrsta nú­tíma­­skáld­­sag­­an íslenska sé í rauninni "ekki til sem einstök bók eða af­mark­að verk. Hún er hins­vegar til sem söguleg túlkun." (bls. 274). Mein­ing­in er væntanlega sú, að með Vef­arinn mikli frá Kasmír og Bréfi til Láru verði mód­ernar skáld­­­sög­ur til á íslensku sem möguleiki, en það verði ekki fram­kvæmdur raun­­veru­leiki fyrr en fjörutíu árum síðar, um miðjan 7. áratuginn, með Tómas Jóns­­son met­sölubók, skáld­sögum Thors Vilhjálms­sonar, Svövu Jakobs­dótt­ur og Þorsteins frá Hamri. Skáldsögur þess síðasttalda finnst mér að vísu ekki um­­tals­verðar, en þótt módernismi sé heldur yfirborðslegt einkenni á Vef­ar­­anum mikla, þá er Bréfið ótvírætt módernt skáldverk, eins þótt mód­ern­ismi hafi ekki verið samfellt stundaður í prósa fyrr en eftir seinni heims­styrjöld.







14. Expresssjónískar smásögur



1927 kynnti tímaritið Iðunn expressjónismann með smá­sögu Henri All­ari: "Mannsbarn" Þar er um að ræða ex­pressjón­isma af huglægu tagi, í inn­­gangs­­­­orð­um er m.a. talað um að sagan sýni "sálfræði byltinganna" og þar seg­­ir, að sag­­an sé merki­leg m.a. "fyrir sinn ein­kenni­lega, "ex­pression­­­­ist­iska" stíl, sem mörg­­um hér á landi mun þykja nokkuð ný­stár­­legur". Hann ein­kenn­­ist af hljóð­gerv­ingum, upphrópunum og ör­stutt­­um máls­grein­um, þar sem sleppt er hverju orði sem þykja má óþarft, einkum frumlagi og umsögn, svo sem:



Mannsbarn fellur í nýtekna gröf.


Hermenn sandfylla gryfjuna.


Mannsbarn er kyrt í.


Skammir herforingja daufdumba meðaumkun.


Uppi tindra stjörnur.


Augu Dísu?



Ko-ngæ! Ko-ngæ! Bim-bam! Tílí-lílí-bom!



14.1. Fyrstu sögur Halldórs Stefánssonar


Af innlendum sögum expressjónískum er einkum að nefna smá­­sög­ur Hall­dórs Stef­áns­sonar (1892-1975), sem hóf sagnagerð sína á 3. ára­tugnum. Fyrstu sögurnar í fyrstu bók sinni mun Hall­dór hafa samið að mestu leyti áð­ur en hann fór til Þýskalands[13] 1930, en þar birtist þá bókin; Í fáum drátt­um. Í elstu sögunum drottnar fram­setning hug­mynda, en ekki persónu­­sköp­un eða flétta, og stíll þeirra sagna er mjög af sama tagi og við sá­um hjá t.d. Torf­hildi Hólm og Kristínu Sigfússdóttur, mót­ast af persónu­­legu mati sögu­manns. Sjá t.d. fyrstu söguna "Stúlkan í dalnum" (bls. 9):



Þegar veðrið var gott og morgunsólin steypti loga­­gylltri skikkju yf­ir mjall­hvítan náttkjól jarðarinnar, þá hoppaði Sigga litla glöð út um hjarn­­­­ið, eða hljóp með skíði sín upp á brún og sveif þaðan með flug­hraða niður í dalinn aftur, yfir tárhreina snjóinn, sem hvergi var at­að­ur af reyk eða manna­förum.



Í framhaldi af þessu (bls. 10) er lýsing foss, sem má bera saman við foss­lýs­ingu Gests Pálssonar (í k.11.3.hér að framan):



Þarna sat hún og horfði á skrautlegan vetrarbúnað foss­ins og hlust­aði á söng­inn hans. Hann var nú lágróma af hálsbólgu, en samt var það svo und­urþýtt og hressandi sem hann söng og álfarnir í hólunum tóku undir með honum, langt niðri í dalnum sló áin nokkra snögga sam­­­­hljóma og litla lind­in við fætur hennar suðaði ljúfa milli­­rödd, en mán­­­­inn skaust undan ský­barðinu og hellti daufri töfrabirtu yfir þessa nátt­­­­­úru­­gerðu hljómsveit.



Líking náttúrunnar við kór og hljómsveit er kannski í frum­­legra lagi, og á ég þá einkum við hálsbólgu fossins. Annars eru persónu­­gerv­ing­ar líkt og hjá Gesti, en auk þess er tilfinn­inga­þrung­ið, hefðbundið orða­lag. Þessa gætir enn í orðavali sögu Hall­dórs "Dauðinn á 3. hæð" frá 1935, hún er þrungin orð­­­um með neikvæðum blæ, t.d. í lýs­ingu borg­ar­innar í upphafi (bls. 95):



Það glittir aðeins í götuljósin gegn um þokusúldina, sem þrýst­ir dap­­ur­leik sín­um á svip húsanna, afskræmir and­lit manna með hrá­blautri grímu, læsir sig inn í hvern þráð í föt­um þeirra og gerir þau þung og and­styggi­leg. Göt­­­urnar eru slepjaðar eins og ógeðslegt orð­bragð, og yfir þeim grúf­ir öm­urleg þögn, sem aðeins er rofin af bíl­um, sem skjótast með snöggu veini fyrir hús­horn, þung­lynd­is­legu þrammi svart­­­klæddra lög­reglu­þjóna og drattandi fóta­taki manna sem eru svo óláns­samir að eiga ekki fyrir fari með strætisvögnunum.



Þetta tilfinningaþrungna orðalag sagna frá 1930 og 1935 víkur á ár­un­um þar á milli fyrir öðru. Þótt orðalag sé áfram ágengt, þá er það á ann­an hátt, með nýstárlegum líkingum, jafn­vel nýtískum. Auk þess verð­ur háð áberandi (t.d. í "Sporin í mjöll­inni" frá 1930).


Það er áberandi breytilegt í smásögum Halldórs frá fyrra hluta 4. ára­­tugs­ins hversu vítt sjón­arsviðið er. Nú var alsiða að byrja sögur á yfir­­­lits­­mynd, t.d. heils héraðs og þrengja síðan sjón­­­arhornið til að víkja að ein­­stök­um persón­um. Aft­ur víkkaði svo sviðið í sögulok, og gjarnan inn á milli, til að sýna veður­far í sveit­­inni, héraðsbúa á samkomu o.s.frv. En í sögum Hall­dórs kem­ur þetta á ann­­an hátt, það eru svo­kall­að­ar "kuldalegar yfir­­­lits­mynd­ir", eins og upp­­haf sög­unnar "Réttur", eða þá rammagreinar í "Liðsauki" (1931) og "Rétt­vísin gegn" (1935), sem lýsa at­vinnu­lausum öreigum, sú fyrri í Berlín, hin í Reykja­vík. Ramma­­grein­­arnar fjalla um at­vinnu­leysi og hag­kerfi auð­­­valdsins al­mennt, sýna þau öfl sem ráða gangi mála, en síðan rekur sagan hvern­­­ig þau koma við tiltekna einstaklinga. Það er á venju­legum frá­­sögu­­­stíl, en ramma­grein­­ar­nar ein­kenn­ast af kald­rana­legu orða­lagi sögu­manns og fjar­lægð frá efn­inu á yfir­borð­inu, sem sýnir þó greini­lega af­stöðu, svo sem þeg­ar segir (bls. 122-23):



Vitið þið, hvað hjágata er? Það er gata, sem liggur að baki götum þeim, sem mönnum er ætlað að ganga, og ekki er til sýnis fyrir útlenda ferða­menn. Í staðinn fyrir mannahús standa háir, gráir klettar beggja megin göt­unn­­ar, og í staðinn fyrir græn tré, gnæfa sótugir verk­smiðjureykháfar upp yf­ir rammbyggilega steinmúra. [...] Á kvöld­in fara klettaeigendurnir, kon­­ur þeirra og börn í leikhúsin og á skemmti­­­­staðina og eyða sem svarar nokkr­­­um tonnum af hjá­gatnagrjóti og drekka nið­ursoðið sólskin fyrir nokkra lítra af blóði kletta­­­búanna.



Frá­sagnarháttur þess­­ara klausna einkennist af svona skáldlegu líkinga–máli, en er þó skipulegt yfirlit efnis, svo að það minnir mest á blaða­­grein. Halldóri tekst vel að skipta á milli framangreindra tveggja hátta í sögu, svo að persón­­­ur­nar sjást annarsvegar í nær­mynd, en hinsvegar sjást þær jafn­framt berj­­ast um, fastar í neti ópersónu­legra afla. En sam­eiginlegt öllu þessu er breyti­­­legur frá­sagn­ar­háttur sögu­manns, það er eins og hann skipti um gír. Þetta er greinilega af sama tagi og tví­bentur frá­sagn­­­ar­háttur Halldórs Laxness, og hefi ég því gert of mikið úr þessu sem nýj­­ungu í Skírnis­grein minni 1989.



14.2. Annarlegar líkingar -persónur


Þegar í síðustu smásögum fyrstu bókar Hall­dórs Stefánssonar er nokk­uð um að líkingar séu valdar af kostgæfni. Sag­an "Dul­mögn" hefst á því að talað er um vetrarþokuna sem upp­sprettu undra, og viðlíkingar eru þá til að gera hana ann­ar­lega: "Þessi mjall­hvíta þögn. Hún er eins og draum­ur dauðs manns" (bls.68). "Vetr­arþokan sté upp úr hafinu á hverj­um degi, þögul og dul­­ar­full, eins og vofa upp úr kirkju­garði." (bls. 69). Venjulegri við­lík­ing sést einn­ig (s.st.), að nátt­­­úrulegum fyr­ir­bær­um sé líkt við eitt­hvað nei­kvætt í mann­heim­um, til að skapa hugblæ: "Snjór­inn lá þykkur og þungur á landinu eins og áhyggjur á manns­sál.[...] Leið­indi fá­­breytn­inn­ar laumuðust um bæinn eins og róg­ur." Eins og hjá t.d. Gesti Pálssyni geta lík­ingar í umhverfislýsing­um verið það eina sem sýn­­ir hugs­anir persóna, sem ekki er á annan hátt sagt frá. Sagan "Björg­unar­laun" frá 1932 hefst á lýsingu sjávar–þorps með við­­­lík­­­ing­um sem allar eru af því sviði ("líkt og þorskhaus"). Seinna verður sveita­­­maður hrædd­ur úti á sjó, og þá er það sýnt með við­lík­ingum úr því um­hverfi sem hann þekkir best: "Öld­­­ur­nar komu þjótandi eins og fælnir hestar, og vindur­inn öskraði eins og mann­­ýgur griðungur." (bls. 150). Í "Hrein­­ar­n­ir" er ung kona að hverfa með ung­­um elskhuga frá öldruðum manni sín­um. Hann er þá fyrst sýndur svo: "Grátt hárið flaksar í vind­­inum eins og neit­un." (bls. 75), en þegar konan kveð­ur hann, er sagt að hann "horfir á boga­­dregnar augna­brýr­nar [svo] og var­­ir­n­ar, sem þrýstast fast saman eins og unn­­end­ur í faðmlögum" (bls. 76). Og þegar elskendurnir sigla frá landi segir: "Him­inninn yfir höf­ð­um þeirra með gráum skýja­flók­um eins og hugsanir gam­al­menn­­is" (bls. 77). Þess­ar við­lík­ingar spretta upp af efninu, þétta söguna, svo sem fyrr var rætt. En aðrar eru lang­sótt­ari, án þess að séð verði bein ástæða: "Snögg­­klæddur maður, gleiður eins og illa skrifað X, slær á einu tún­inu" segir í II. k. sömu sögu (bls. 76). Annarleiki líkingar­­innar má þá sýna hug­ar­stríð prests­­ins fyrir við­skiln­aðinn við konu hans, en þetta er fyrst og fremst sér­kenni­lega myndrænt. Í síðustu sögu fyrstu bókarinnar, "Ný­mál­að", eru ámóta sérkenni­leg viðlíking, þegar sögu­hetjan kemur til Reykja­víkur, og finnst greini­lega mikið til koma: "Skipið blés, svo svefn­inn og sjóveikin hrundu utan af Páli Jóns­syni eins og morg­un­kjóll utan af vinnu­konu sem er að flýta sér á dans­­leik" bls.82). Smásagan "Réttur" frá 1931 hefst á svið­setn­­­ingu; dæmi–gerðu þorpi er lýst í formi mat­ar­upp­skriftar. Þessi lang­sótta líking - í samræmi við tví­ræðni titils­­ins - hefur á sér hlut­lægn­is­­­­yfir­bragð náttúrufræði. En þegar ein­­stak­ir liðir hennar eru skoðaðir, kemur í ljós ein­dregin stjórnmálaaf­staða. Undirstöðu­efnið er mold, síðan koma til öreigar (það orð notuðu þá komm­ún­­istar ein­ir). Kryddið er tár, kaup­maður er til skrauts (en engin nauð­syn), hins­veg­­ar er prestur talinn nauð­syn­legri en lækn­ir. Það er í sam­­ræmi við hlut­­læg­an raun­­­veruleikann að því leyti, að miklu meira var um presta en lækna, en auð­vit­­að er verið að hæð­ast að þeirri skipan mála. Lok þessarar lýsingar sýna fram á að mann­lífið í þessu dæmi­gerða íslenska þorpi búi við sama böl og það sem ríkir í erlendum stórborgum (bls.160):



Þetta er ódýr réttur og fullur af bætiefnum, svo sem þræl­­dómi, fyll­­ir­íi, barn­eign­um, guðsorði, gleði og sorg­um, og yf­ir­leitt öllu því sem er í öðrum réttum, þó þeir séu fínni, og heiti eitt­hvað merkilegra, til dæm­is stór­borg eða konungsríki.



Í upphafi sögunnar "Hinn mikli seg­ull" frá 1934 ríkir svipuð fjar­lægð gagn­­vart viðfangsefninu. Sag­an hefst með annar­legri líkingu sem setur mann­legt atferli fram - ekki sem sjálf­ráðar athafnir, heldur sem ósjálf­ráð viðbrögð, eins­­og á sviði eðlis­fræði. Höf­uð­borgin er segull, fólk úr sveitum og þorp­um einsog járn­svarf. Þriðji liður í þessari líkingu er aðdráttarafl seg­uls­ins, en það er mann­­fjöldi borg­­­ar­innar og húsaþyrpingar. Til sam­an­burð­ar eru sveita­bæ­ir, en um þá er höfð kunn­uglegri viðlíking, "eins og stak­steinar á víða­vangi" (bls. 366). Í smásögunni "Dauðinn á 3. hæð" (frá 1935) má sjá tvenns­kon­ar lang­­­sótt­ar við­­lík­­ing­ar. Ann­arsvegar er einhverju úr mannheimum líkt við nátt­­úr­una, t.d. er hljóm­­­list líkt við fljót í leys­ingum (bls. 102): "kol­mórauður jass­inn fyllir stof­una". Um kaupmanninn segir (s.st.): "Þá kom allt í einu líf í hið svip­­lausa andlit hans með fitufellingunum, það sprakk eins og gróð­ur­mold­­in á vorin [...] og hristi vinstri fótinn, eins og þegar kýr slett­ir úr klauf".


Meira ber þó á viðlíkingum sem eru andstæðar þessum þann­ig, að nátt­­úru­­­­­­legum fyrirbærum er líkt við eitthvað í mannlífinu. Sagan hefst á máls­­grein­­inni: "Myrkrið hvolfist yfir borg­ina eins og blek yfir handrit" (bls. 95), þ.e. eins og eyðilegging. Síðar kemur: "Regn­ið small á rúðunum eins og ókurt­­eis stór­yrði, storm­urinn þröngv­aði því inn með glugga­póst­un­um, svo það rann dóna­lega ofan á gólfið, ef ekki var við gert í tíma." (bls. 101). Og í upp­hafi sög­­unnar: "Hann rennur til í svaðinu, sem er viðnámslítið og leitar undan fót­um hans eins og óábyggilegt lof­orð [um atvinnu?]. Það gúlpar ofurlítið í sjón­um við stein­­bryggj­una eins og loka­­­­snökt í krakka eftir af­staðnar skælur" (bls. 95). Ná­læg þessu er við­lík­ing (á bls. 118): "Ég er farinn, sagði atvinnu­leys­­­ing­inn. Hann seig hljóðlega út um dyrnar án þess að bjóða góða nótt. Það var eins og vond lykt væri að rjúka út um gætt­ina." Og um kynd­ar­ann segir: "Lang­ur, afkáralegur skuggi hans seildist eins og ljót­ur sjúk­­dómur upp eftir mann­­inum, sem sat á rúm­flet­inu" (bls. 100). Einna ankannalegast er að kaup­mann­inum er líkt við fer­­líkið í hjól­barða­aug­lýs­ingu Michelin (bls. 101).


Sumt af þessu er huglægt, líkt og sást í sögunni "Dulmögn", en allt gerir þetta efnið nærgöngulla en ella, þ.e. sýnir óbeint sál­ar­ástand atvinnu­leys­ingj­ans. Mest ber á því að efnislegum fyr­ir­bærum, náttúr­leg­um eða mann­­gerð­um, sé líkt við eitthvað neikvætt í hegðun fólks. Já­kvæð­­ari (samkvæmt hneigð sög­­unn­ar) er við­lík­ing af sama tagi í sögu­lok: "Úti hamast regnið eins og bylt­ing." Af sama toga er einnig loka­setn­ingin: "Nóttin er svört." - því það verð­ur að telja óþarfar upp­lýs­ing­ar (eins og að lög­­regluþjónar séu svart­­klæddir í borg­ar­lýs­ingunni í upphafi), svo að orð­in segja þá annað en virðist í fljótu bragði, þau skapa andrúms­loft, böl­sýni á núverandi ástand.


Ef finna má eitthvað sameiginlegt þessum líkingum og hinum fyrr­töldu, þá er það einmitt fjarlægðin milli þess sem talað er um og hins sem því er líkt við. Jafnframt verður persónulegt sjón­ar­mið sögumanns áberandi í stíl­n­­um, ­svo sem við sáum hjá expressjónistum, and­­­stætt hlut­lægn­ishefðinni. Þessar við­­­­lík­ingar eru í þremur síð­ustu sögum fyrstu bók­ar­inn­ar og auk þess í fjór­um öðr­um frá árunum 1930-35. Oftast nær er aðeins ein eða tvær í hverri sögu (þó mun fleiri í "Dauð­inn á 3. hæð"), og þeirra gæt­­ir eink­um í svið­setn­ing­um. Að öðru leyti eru þessar sög­ur í sam­ræmi við sagna­­­hefð.


Persónur þessara sagna Halldórs Stefánssonar eru allar ein­lynd­ar. Út­­lits­­­­­­lýs­­­ingar sem sýna eingöngu persónuleg sérkenni eru með minnsta móti, en mest ber á því að útlit lýsi innra manni, enda er skapferli iðu­lega lýst beint, en stund­­um kemur það fram í orð­um persóna og gerðum. Sagt er frá hugs­un­um flestra persóna. Út­liti er hér jafnan lýst beint, stund­um að ein­hverju leyti óbeint (kaup­­mannsfrúnni í gegnum hugsanir manns hennar í "Dauð­inn á 3. hæð", bls.102-3). Það er aftur í samræmi við sagna­hefð í persónu­­­­­lýsingum að skapgerðarlýsingar eru stundum óbein­ar, t.d. er les­­end­um ekki sagt að Geir­­mund­­ur í "Rétti" sé stoltur öreigi. Það kemur aðeins fram í því að gagn­vart kaup­­manni "dregur hann augað í pung" og svarar frekjulegri mála­leit­an hans með út­úr­snúningum og glensi (bls. 163). Í "Hinn mikli segull" er aldrei lýst skap­gerð persóna, hún birtist jafnan í samtölum þeirra eða hugs­unum. Svo er og yfir­leitt í "Dauð­inn á 3. hæð", og mál­far er þá sér­kenni­legt fyrir hverja persónu, einn­ig í því sem rakið er af hugsunum þeirra. Þetta á við um kynd­ar­ann, kaup­­­mann og konu hans, stúd. júr, verk­smiðju­­eiganda og verka­mann. Hins­­veg­­ar er þetta ekki alltaf sann­fær­andi, svo sem þegar at­vinnu­leys­ing­inn notar á stéttbróður sinn ávarpið "verka­maður", eða málarinn end­ar ræðu sína með an­kannalegri spurningunni "Segi ég satt?"


Lýsing t.d. kaupmannsins í "Réttur" ræðst augljóslega af hlutverki hans (bls. 161):



Hann var maður stórvaxinn og útlimaþungur. Andlitið var eins og það hefði aldrei verið fullgert, heldur bar keim af óskapn­aði hins upp­­­runa­­lega. Augun lágu utarlega og gerðu svip­inn fram­hleypinn.



Öll hans framganga er svo samkvæmt þessu, stjórnlaus fram­kvæmda­­­semi og frekja gagnvart öreiganum Geirmundi,



sem var lítill og væskilslegur, boginn og kræklóttur af salt­burði og kola­­­­burði, svo það gat verið óárennilegt, ef kaupmaður legð­ist ofan á hann. Hann mundi merja hann eins auðveldlega og Geir­mundur lús með nögl­­inni (bls.164).



Útlit aðalpersónunnar í "Dauðinn á 3. hæð" mótast á sama hátt af þjóð­fé­lags­­stöðu hans: "maður, álútur og slyttulegur í spori [...] lág­vax­inn með kúpt­­ar herðar, sem lýsa sliti en ekki þjálfun" (bls.95). Síðan er veik­­byggðum hálsi hans lýst sérstaklega, en það er forboði þess að hann hengi sig. Verk­smiðju­­eig­andinn í sömu sögu hefur einkum áhyggjur af dauð­veikri konu sinni. En útlits­lýsing hans mótast alveg af hlutverki hans sem kapít­al­isti, arð­ræn­ingi: "há­vaxinn maður með hörkulegan svip og langa fing­ur. Útlit hans var enn óbreytt, nema hvað hrafnsvart hár hans var orðið hæruskotið í vöng­unum" (bls.111). Svipað er með verð­andi lögfræðing, hann er sýndur sem þjónn yf­ir­stétt­arinnar, og útlitið minn­ir í senn á ránfugl og hákarl:



lítill maður, ljóshærður með rjóðar kinnar, [...] ákaf­lega grann­ur og lotinn í herðum, náeygður, með odd­­hvasst nef, sem rís upp að fram­­an og gerir andlitssvipinn kesk­inn. Fram­stand­andi munnurinn, þétt­­settur örsmáum tönnum, lýsir grimmd­ar­legu hugarfari. (bls. 107).



Faglærður verkamaður, málari, sem stendur ekki með sinni stétt, heldur á sér­­­hags­munum innan hennar, fær táknræna - og útskýrða - út­­lits­­­lýsingu:



Aldrei of marga menn í eina iðngrein, þá helst atvinnan og kaup­ið lækk­­ar ekki [...] í hinu breiða andliti með langa, flata nef­inu, sem byrj­­ar uppi und­ir hársrótum og nær niður að munni, án nokk­urs liðs eða hnúts, mátti lesa, að engin rök ynnu á sauðþráa hans. (bls.108).



Þessar lýsingar eru virkar, þ.e. takmarkast að mestu við hlut­verk persón­anna í sögunni. Algengt var auðvitað að útlit sögu­­persóna lýsti innra manni, svo sem við sáum m.a. hjá Gesti Páls­syni og Þorgils gjall­anda. Auk þess eru hér stundum drættir sem virð­ast einungis vera persónu­­leg sérkenni, ætluð til að gæða persón­­urnar lífi, svo sem að fram­­tenn­urnar vantar í mál­ar­ann, og að laga­stúd­entinn er ljóshærður með rjóðar kinnar. Nú má vera að þetta sé til að gera mál­arann frá­hrindandi, en laga­­stúd­entinn barna­legan. Annars voru hlut­laus­­­ar, sér­kennandi lýs­ing­ar auð­vitað algengar, og venju­­­lega meiri en hér. En stund­­um virðast drættir vera umfram þetta, svo sem lýs­ing hús­varðarins í "Dauð­­inn":



gamall maður á fleti sínu, rauðeygður með strjálar tennur, gular af tób­aks­brúk­un. Úlfgrár hárlubbinn vex í þykkum þófa niður undir augu. Fæt­ur hans eru svo stórir og klofið stutt, að lík­ast er sem hann gangi á kálf­­­unum. [bls. 98...] Hann strunsaði um gólfið á sínum ægi­legu fótum sem virtust skapaðir til að troða allt niður í skítinn. (bls. 99).



Þessi lýsing karlsins má mótast af því hlutverki hans að segja at­vinnu­­leys­­ingjanum að fyrirfara sér, og það skýrir fyrr­nefnda viðlíkingu í lýsingu hans:



Dreptu þig þá, hengdu þig, grenjaði karlinn og stökk fram á gólf­ið, gló­andi af bræði. Langur, afkáralegur skuggi hans seild­ist eins og ljót­­ur sjúk­­dóm­ur upp eftir manninum, sem sat á rúm­flet­inu. (bls. 100)



Þó er lýsingin áberandi myndræn og sérkennileg umfram nauð­þurft­ir. Eins er með fulla sjómanninn:



Búkur hans reis eins og risavaxinn trjábolur, upp úr stóln­um, og end­­­aði í stóru, hvítu andliti, sem var af­skræmt af öri eftir illa saum­að sár, sem náði frá gagnauga niður á kjálkabarð. Augun gljáðu eins og í postu­­­líns­­hundi og störðu langt út í heim svað­il­fara í fjarlægum hafnar­bæj­­um. Á borðinu fyrir framan hann stóð brenni­­víns­flaska; um hana hélt hann annari hendinni, sem líktist blá­stimpluðu sauðar­krofi. (bls. 108).



E.t.v. á annarleg lýsing hans meðfram að sýna að hann sé fjar­ver­andi í anda. Mest munar þó um afkáralega mynd feita kaup­­mannsins í sömu sögu:



enda var kaupmaðurinn ekki kulvís, því spik hans mundi hafa nægt til að gera sex horaða menn sæmilega feita, ef það hefði verið þjóð­nýtt. Þar sem hann sat, var hann áþekkastur gúmmí­­karlinum á aug­lýs­­ingum um Michelin­-bílagúmmí, allur með þykkum fellingum hring­­inn í kring, allt frá nökt­um, gljá­andi kollinum niður á tær. Maður gat hugs­að sér, að ef stung­ið væri prjóni í þetta fer­líki, mundi fara úr því vind­ur og það síga sam­­an, uns það lægi eins og hringur á gólfinu. (bls. 101)



Með svona ágengum lýsingum skapast á ýmsan hátt það sem kallað var kuldi eða kaldhæðni[14], einnig getur þessi fjarlægð frá viðfangs­efn­inu orkað sem mjög hlut­læg frásögn af dæmigerðum fyrirbærum, líkt og upp­haf sög­unn­ar "Réttar" - enda þótt hér sé í raun­inni látin í ljós mikil and­úð á um­­rædd­um manni, og ýjað að því að vel mætti hugsa sér þjóð­nýt­ingu á honum. En mesta athygli vekur að þetta eru myndrænar lýs­ingar og sér­kenni­­legar vegna lang­sóttra viðlíkinga, eins og í fyrrnefndum um­hverf­is­lýs­ing­um sem skapa fjar­lægð.


Ekki er nóg með að allar persónur þessarar sögu séu einlyndar, flestar þeirra eru skrípamyndir. Undantekningar eru atvinnu­leys­ing­inn og kona hans, það lítið sem til hennar sést, vinnukona og verka­maður, og svo verk­­smiðju­­­­eig­and­inn. Þetta eru fulltrúar verka­lýðsstéttar og höfuð­and­stæð­­ings henn­­ar, en mið­stéttarfólkið er allt skoplegt á sama hátt, það reynir að sýnast fínna en það er. Af því tagi er grínið um alræmdan áhuga borg­­ara­legs kven­fólks á dulræn–um efnum, og að yngsta persónan, kaup­manns­­dóttir, þykist um­fram allt vera ver­aldar­vön. Undantekning frá þessu stétt­ar­­­mynstri er að kynd­arinn er líka skrípamynd. Á því gætu verið ýmsar skýringar; hann er ekki stéttvís, heldur of­urseldur áfengi og snýst gegn atvinnuleysingjanum. Einn­ig kemur bók–mennta­­­hefð til álita, gamall kall viðloðandi hús er oft skrípa­­­mynd. En líklegasta skýr­ingin finnst mér vera, að þessi annar­­lega og af­­skræm­islega mynd kynd–arans sé óhugn­anlegur forboði. Hann er fyrsti mað­urinn sem atvinnu­leys­ing­inn hittir á leið sinni í gegn­um húsið til dauðans.



14.3. Breytilegt sjónarhorn og sögumaður


Þegar á líður söguna "Dauðinn á 3. hæð" verður lítið sem ekkert um fyrr­greind­ar langsóttar líkingar, en þeim mun meira um að beinlínis komi fram mat sögumanns eins og í huglægum umhverfis­­lýsingum í upphafi, svo sem rak­ið var. Þetta mat er einkum í undan­tekningum frá óbeinum skap­ferlis­lýs­ing­um, svosem þegar lýst er atvinnuleysingjanum í sögu­miðju og svo kaup­manni og blaðamanni, sem báðum er lýst af miklum fjand­skap. Ekki nóg með að talað sé um "barnalegar" nautnir blaða­mannsins, þ.e. súkku­laðiát í laumi og hann skuli lesa af aðdáun eigin óbirt rit, held­ur talar sögu­mað­ur beinlínis niðr­­andi um þessar tvær persónur. "Blaða­mað­­­ur­inn [...] átti enga heitari ósk en að fá að vera einn með draum­óra sína og leikaraskap. [...] hæði­legt bros lék um táplítinn munn­inn" (bls. 113). "Menn­irnir sátu enn nokkra stund og skiptust á inn­­antómum orðum um lífið og dauð­ann."(bls. 115). Um kaup­mann­­inn segir: "Með þrautseigju hins sljó­v­itra manns [...] hefnd [...] fyrir allar þær lítilsvirðingar sem hann hafði orðið að þola, fyrir fá­kunnáttu sína og heimsku [...] prentar fitu­­­­klepp­urinn í stólnum" (bls. 101-2). Þessi skoðun á hon­um stað­fest­ist svo rétt á eftir af því, að kona hans er látin bera hana fram í rifr­ildi. Af sama tagi eru andstæðar klisjur um kommúnistann: "Sterklegar hend­­­ur hans eru greypt­ar saman á brjóstinu, sem liggur fram á borð­röndina. Í veð­­ur­börðu and­liti hans lýsir sér órækur vilji til að brjóta til mergjar þá hugs­­­un, sem liggur bak við hin smáu tákn í bók­inni" (bls. 116).


Einhversstaðar hefi ég rekist á þá túlkun, að mynd þessa kommúnista sé nei­­­kvæð, með því að sagan sýni hann niðursokkinn í bækur sem sund­ur­greini auð­valdsþjóðfélagið, en ófæran um að hjálpa fórnarlambi þess. En til að fallist yrði á þann skilning, þyrfti sagan að sýna beinlínis einhverja van­rækslu hans gagn­­­vart atvinnuleysingjanum. Í staðinn sýnir hún árekstur hugsunarháttar þeirra tveggja. Eðlilegra virðist mér því að sjá mynd þessa komm­­únista sem jákvæðan valkost, þann síðasta sem atvinnuleysinginn rekst á. Úr því að hann gengst ekki inn á sjónarmið kommúnistans, bíði hans ekk­­ert nema tortíming[15].


Ekki er auðséð hví sögumaður er svo neikvæður í garð kaup­manns og blaða­­­­manns. Ekkert í gangi sögunnar krefst þess, og naum­ast heldur pólit­ísk hneigð hennar. Vissulega er kaup­mað­ur­inn af eignastétt, en sjálfur kapítal­ist­inn, verksmiðjueigandinn, fær miklu mannlegra yf­ir­bragð. Stúd. júr. er að sönnu gerður frá­hrind­andi í útlits­lýsingu og talar háðs­lega um hinar vinn­­andi stétt­­­ir, málflutn­­ingur hans í þágu yfirstétt­arinnar er gerður tor­tryggi­­­legur með því að hann er drukkinn, og hann er gerður spaugi­leg­ur með því að vera skræk­­róma en rembast við að vera dimm­raddaður, sletta latínu, en vitlaust (nafí­kare í stað navigare). Ekki dynja þó á honum skammir sögumanns. Og hvað hefur blaðamaður til saka unnið? Það helst að lifa í draum­um um eigið ágæti, sem aðrir vilja ekki fallast á, virðu­legt fas hans er svo í stíl við draum­óra hans. Það hvarflar að lesanda að þetta sé lykil­saga, þegar andúðin er án sjá­­an­legs tilefnis. En vissu­­lega má sjá þennan frá­sagn­ar­hátt sem tilbrigði við skrípa­­­­­­­mynd­irnar, og til­breytingu þarf í þessa löngu sögu, sem er fyrst og fremst ganga at­vinnuleysingj­ans milli fulltrúa helstu þjóð­fé­lags­hópa, enginn get­­ur gert - eða vill gera - neitt fyrir hann, svo hann endar í snörunni. Þetta er enn­­­­fremur í sam­ræmi við það hve hug­­lægur stíllinn einatt er, og sögumaður ber oftar fram skoð­anir sínar á mál­efnum og mönnum, t.d. í frásögn af hugs­un­um vinnu­konu, á orðalagi sem er ekki þesslegt að hún noti það sjálf, ómennt­­uð al­þýðu­­stúlka uppúr 1930 (m.a.bls. 106: "Karldýrið hafði yfirgefið hana og hún sat eftir með þungann og ábyrgðina gagn­vart þjóðfélaginu"). Þetta þró­ast út í fyrirlestur um kynlíf ógiftra kvenna og hvernig sjáist af þeim mál­­­um að þjóð­félagið sé inn­­réttað fyrir eignafólk. Á svipaðan hátt talar sögu­mað­­ur um at­vinnu­­leysingjann (bls.101):



Og þó hafði hann alla sína slitsömu æfi orðið að skríða í auð­mýkt fyr­ir óþokkum sem yfir hann voru settir og níddust á hon­um; jafnvel af félögum sínum hafði hann verið hæddur og hund­beittur.



En Halldór á það líka til að hafa sjónarhorn -og afstöðu sögumanns - breyti­­­­lega innan einnar og sömu sögu. Það er t.d. í smásögunni "Hinn mikli seg­ull" frá 1934, eins og ég hefi annarsstaðar rakið (1990, bls. 139-143). Stíll­­ henn­­­ar breytist með afstöðu sögumanns til efnisins svo sem við sáum einnig í "Dauð­inn á 3. hæð". En vita­skuld er þessi breyti­­leiki sam­stilltur til að sagan verði þeim mun áhrifa­rík­ari í ákveðna átt. Því verðum við að segja að einnig í þriðju persónu sögu sé sögumaður, að­greind­­ur frá sögu­höf­­undi. Þótt sögu­mað­­ur tali þar stundum með komm­ún­ist­um, en stundum gegn þeim, þá er sögu­­­­­höf­und­ur jafnan að tala máli þeirra.


Sundurleit á yfirborðinu, en samstillt undir niðri er einnig sagan "Ný­mál­að" í fyrstu bók Halldórs. Þar ber nokkuð á sund­­urleitum stíl, t.d. í dæmi­sögu í upp­hafi, en þar talar Eva í forn­sagna­stíl, líkum orðum og Karli í Land­­námu, en Adam svarar á hvers­dags­legu talmáli. Þetta má láta les­end­um hnykkja við og fá þá til að skoða syndafalls­söguna í nýju ljósi, enda er bann drottins þar skop­­­­lega sett fram sem skilti með áletruninni "Nýmálað". Og til þess mun stíl­­mun­urinn gerður, að les­­­endur taki afstöðu með Evu, en þyki Adam vera hey­brók. Árni Hall­gríms­son sagði í ritdómi um fyrstu bók Halldórs, 1930, að þessi saga væri stefnu­laus, eins og fleiri sagn­anna, lengi vel haldi les­end­ur að þetta sé ádeilusaga um stétta­átök. "En svo slær alt í einu út í fyrir hon­um og sag­an renn­ur út í sand óráðsdrauma - um engla himna­­ríkis og sankti Pétur - og stað­­lausra vökuóra um æskuhreysti og "sports"­bræðralag." Einar Ol­geirs­son sagði í grein tveimur árum síðar (bls. 104-5) að sagan væri mjög göll­uð af svip­­­uðum ástæðum, Reykja­vík­ur­lýs­ing hefði átt að koma í stað tals um Adam og Evu. Mér sýnist þessi gagnrýni stafa af misskilningi á því, að verk­ið er óvenju­­legt, ósamstætt á yfi­r­­borðinu, en í rauninni sam­stillt undir niðri. Eft­ir dæmi­­sög­una af Adam og Evu í upp­­hafi kemur hugleiðing um fram­­setn­ingu boða og banna. Þá segir II k. frá ung­um manni sem kemur til Reykja­vík­ur, tal­að er um hana og fjöllin í kring í persónu­­gerving­um. And­stæðu­rík lýs­ing henn­ar, tísku­klæddr­ar en "með göt á sokk­unum" er í and­stöðu við Al­þing­is­há­tíð­­ar­róm­an­tík ársins. Hér verða skyndi­leg umskipti í stíl, eftir hug­leið­ingu um íhalds­­­­semi kemur allt í einu: "Brr, - brr, þrymja bíla­horn­in. Tog­ar­arnir orga" bls. 82). Tog­ara­verkfall er rætt hjá köllunum um borð og í veislu hjá fína fólk­inu, rætt af mis­munandi viðhorfum og óvæntu orða­lagi (hvers­­dags­legt orða­lag hjá fína fólk­inu, en að verulegu leyti upp­hafið hjá tog­ara­­köll­un­um!). Svo kem­ur sögu­mað­ur einnig beint fram með skoðanir sínar - á hátíðaræðustíl, svo sem að tog­ara­sjó­menn fari nauðbeygðir í verkfall vegna lé­legra kjara. Sjálf lýs­­ing­in á átökum verk­falls­manna og lögreglu tekur 3-4 síð­ur af 20. Hún er í hröð­um frá­­sagnarstíl, þar sem mest ber á stuttum aðal­setn­­ing­um. Auk upp­hafs­ins eru í sög­unni tvær aðrar árásir á kirkjuna, préd­ik­un er skopstæld í óbeinni ræðu, og sögu­­hetju dreymir að hann sé kominn til himna­ríkis, en það reyn­ist þá stjórn­­ast af hags­munum atvinnu­rekenda. Sög­unni lýkur með því að eðli­leg hegðun æsku­­­fólks, þ.e. sam­staða, er sett fram gegn ógn­­un­um lög­reg­l­­unnar. Mark­mið­ið sem tengir öll þessi sundurleitu atriði er ekki bara að sýna stéttaátök í verk­­falli, heldur stéttarhags­muni hvarvetna í þjóð­fé­lag­inu, þar á meðal hvern­ig ríkj­andi viðhorf, m.a. í trúmálum, verji hags­muni ríkj­andi stétt­ar. Með því að taka fyrir svo margvísleg svið í lífi fólks, öll mikil­væg, koma á óvart með stíln­um og sýna á annan hátt and­stæð­ur á yfir­borð­inu, sem síðan tengjast í heild, skap­ar sagan sláandi heildarmynd af lífs­­skil­yrð­um venjulegs alþýðu­manns í sam­tímanum.



14.4. Stíll


Að lokum þessarar umfjöllunar skal vikið að setn­inga­skip­­an. Hún er ekki sér­kennileg í þessum sögum Halldórs, nema hvað styttar, ófull­komnar setn­­ing­ar eru áberandi í þremur síðustu sögum fyrstu bók­ar­inn­ar, Í fáum drátt­um. Í smásög­­unni "Dulmögn" segir frá einangruðu sveita­heimili þar sem ríkir "eld­súr þögn", leiði, tortryggni og bældar hvatir (bls.70). Lýsing þessa er á hefð­­­bundnum stíl, nema lýsing hugar­ástands­ins fer út í romsu setn­inga­slitra. En einkum er það þegar dregur til tíð­inda á tákn­rænan hátt, höml­urnar bresta og stíll­inn umturnast með, þegar aðal­persónan ummyndast úr íslenskum sveita­­­­manni í "frum­mann" (bls. 72):



- Aftur lítur maðurinn upp. Stendur hálfboginn. Mælir fjar­lægðina með aug­­unum. Athugar að klöppin er hál. Þarna er urð, sem hægt er að fóta sig í. Hann dregur sig í hnút, heldur á hnífnum í hægri hend­inni. Stekkur. - Sel­ur­inn hrekkur upp. Hvæsir. Snýst undan að sjón­um, reisir sig upp og kas­t­ar sér áfram. Hnífurinn blikar. Blóðbuna. Sel­urinn rekur upp dimmt ösk­­­ur, reynir að bíta. Maðurinn leggst ofan á hann, þrengir fingr­unum inn í augun á honum. Stingur aftur með hnífn­um. - Dauðateygjur.



Stíl af þessu tagi má sannarlega kenna við eimlestarhraða, svo sem Einar Ol­geirsson gerði (tv.rit, bls. 102). Hann miðlar vel hugaræsingu eða ann­ar­legu á­standi, og getur því gefið drama­tísk­an þrótt þar sem við á í sögu. Í ann­arri smásögu þessarar bókar, "Hrein­arnir", er hann mest áber­­andi í svið­setn­ingu fyrst, þegar aðal­persónan ákveður að yfirgefa aldr­aðan mann sinn og barn vegna ástar á öðrum manni. Þar eru ennfremur ann­ar­leg­ar viðlík­ingar, svo sem áð­­ur var rakið, og hljóðlíkingar: "Heima við prestshúsið hengir gömul kona upp mis­litan þvott, það lekur úr honum ofan á steinana með aula­legu hljóði - kliss - kliss." (bls. 76). Þessi stytt­­inga­stíll kemur svo aftur í hug­ar­stríði aðal­persónu í sögulok (bls. 79), þegar hún sér mann sinn og barn aft­ur, eftir að ást­­­­ar­­­ævintýrið misheppn­­­aðist. Þannig miðlar stíllinn tilfinningum kon­­unn­ar, hug­­­aræsingu og því, að kunnuglegt umhverfi hennar verður henni fram­­and­legt þeg­­ar hún er að hverfa frá því. Í "Hinn mikli segull" breytist stíll­inn í upp­taln­ingu hliðstæðna og dregur þannig fram þátta­skil­in þegar sveita­mað­ur­inn renn­ur inn í mannlíf höf­uð­borg­arinnar í (bls.366), þá kem­ur runa sjö stuttra að­alsetninga, full­­yrðinga:



Nú er bíllinn kominn til borgarinnar, hann steypist inn í götu­gjána, stein­­­­veggja­lengjurnar lykjast um farþegann, fólks­­straum­ur­inn um­kring­­­ir hann, hann lítur um öxl, leiðin til baka er lokuð, hann er á valdi höfuð­borg­ar­inn­ar.



Þótt Halldór taki þennan setningabrotastíl ekki upp fyrr en eftir að hann fór til Berlínar, þá er mjög líklegt að hann hafi þekkt hann fyrir á íslensku, því þetta er eitt megineinkenni stíls Þorgils gjallanda, svo sem fyrr var rakið. Athygl­isvert er að lítið ber á þessu stíleinkenni hjá Hall­dóri eftir fyrstu bók­ina.



14.5. Samantekt


Í smá­sög­um Halldórs Stefánssonar birtast framanaf ýmiskonar frá­vik frá ríkj­­andi frásagn­ar­­hefð. Þar má einkum telja, að sviðsetningar ein­kenn­­ast stund­­um af mikilli fjarlægð frá sögupersón­um, og af sama tagi er sér­kenni­legt lík­­inga­­­mál, og lýsingar eru stundum óvenju myndrænar. Sögumaður (í 3. persónu) er oft ágengur, tek­­ur stundum bein­­línis afstöðu til sögu­persóna og at­­burða. Sú afstaða getur verið breytileg innan sögu, eins og sjónarhorn, og loks er stíll sögu stundum sund­­ur­leitur.


Það, hve mjög sögu­maður kemur sínum sjónar­miðum að, tengist því, að fram­­­­setning hugmynda ræður ferðinni í þessum smásögum, en ekki það mark­­­­mið að skapa persónur eða fléttu, svo sem algengast var. Ekki eru sál­fræði­­­­legar skýringar á gerðum persóna (þó á sjálfs­morði atvinnu­leys­ingj­­ans í "Dauð­­­inn á 3. hæð"), og persón­­­urnar verða týpur. Í þeim sögum sem hér hef­­ur einkum verið fjallað um, er aðalpersónan dæmi­gerð­­ur alþýðumaður. Þetta svip­leysi, að ekki eru persónuleg sérkenni, kann að minna á sundr­að sjálf þeirr­ar persónu sem iðulega er í sögumiðju í mód­ern­um textum, en þetta er þó ann­að, þessi áhersla á dæmigerðan alþýðumann er liður í pólitísku hlut­verki sagn­­anna. Reyndar má það virðast helsti galli sög­unnar "Dauð­inn á 3. hæð", að framsetning hugmynda ræður svo mjög ferð­­inni, að atburðarás og aðstæður verða þvingaðar og persónur strengja­brúð­­ur. Í "Hinn mikli segull" ræðst sögu­þráð­ur vissu­­lega líka af form­úlu­kenndri framsetn­­ingu á þjóð­fé­lags­­­átökum. En þar ríkir snerpa vegna þess hve stutt sagan er, og á yfir­borð­inu er margt sem kem­ur á óvart, því sjón­ar­horn­ið hvarflar, og yfirlýst afstaða sögu­­­manns er sífellt að breyt­ast, auk stíls­ins. Þar kemur þá sá villi­gróður sem er aðal skáld­skapar. En vissulega er hver saga samræmd heild og í röklegri fram­rás. Nú væri nær lagi að tala um tvö skaut ex­pressjón­ism­ans en tvo aðskilda flokka, og sér­kenni­legar, mynd­­­­­rænar lýsingar í sögum Halldórs, eink­um í "Dauð­inn á 3. hæð", minna meira á það sem hér sagði um hlut­lægan ex­pressjón­­isma en hug­­lægan. Sama gild­ir um runur hliðstæðra aðal­setn­­­inga, sem að vísu eru ekki í mörg­um sög­um Halldórs, og voru áður kunnar á Íslandi, eins og fyrr seg­ir. Raunar virð­ast ankanna­legar lík­ing­ar ekki taldar sérstakt ein­kenni ex­pressjón­isma, en sér­kennilegt mynd­­mál ein­­kenn­ir mód­ern­ism­ann al­mennt, sem áður segir. Fram­andlegar svið­setn­ing­ar, tví­bent­ur sögu­­mað­ur og á sama hátt breytilegur stíll, eru einkenni sem fyrr komu fram í sög­­um Halldórs Lax­ness. Vissulega eru þessi frávik frá sagna­hefð ekki um­fangs­mikil ef litið er á texta­magn­ið í þess­­um sögum Halldórs Stefánssonar, en þau setja áberandi svip á þær, eink­um í svið­setn­­ingu fyrst í sö­gunum. Óvenju­­­­­mikið er þó um þessi einkenni í "Nýmálað" (frá 1930), "Hinn mikli seg­­­ull" (frá 1934) og "Dauð­­inn á 3. hæð" (frá 1935). En ex­pressjónísk ein­kenni, sem hér hefur ver­ið talað um, eru aðeins á hálf­um öðr­um tug sagna Halldórs Stefánssonar, í sex ár samtals, á fyrri hluta 4. ára­­tugs­ins. Halldór hverfur að mestu frá því að nota setn­ingaslitur eftir fyrstu bók­ina 1930, hin sér­kennin sem hér hafa verið rædd, hverfa að mestu 1936. Við víkjum síðar að þeim hvörfum. Ég veit ekki til að aðrir íslenskir höf­undar sýni ex­pressjónísk einkenni næstu áratugi. En vissu­­­lega er seint hægt að leita af sér allan grun um slíkt.










[1]Yfirlitsgrein er eftir Njör› Njar›vík í smásagnaúrvali sem hann hefur gert, og gaf flví mi›ur titil sem flegar haf›i veri› nota›ur, á fyrsta smásagnasafni Halldórs Stefánssonar; Í fáum dráttum.



[2]Teki› saman eftir tilvitnu›u riti Sveins 1965, II, bls. 582-600.



[3]Sveinn Skorri: tv. rit, II, bls. 607, 614, 618, 621, 642. Mér flykir or›i› "s‡ndarlíking" heppi­legra en or›alag Sveins: "óeiginleg líking". Wayne C. Booth segir ítarlega frá fless­ari hef›, a› höfundur hverfi í skuggann, í riti sínu: The rhetoric of fiction, Chicago 1961.



[4]Sjá rit mitt 1990, k. 4.2.



[5]fiessi kafli er tekinn úr grein minni 1989 (B).



[6]Walter H. Sokel: "Die Prosa des Expressionismus." Í: Expression­ismus als Litera­tur. Bern 1969, bls. 153-170.



[7]Fritz Martini: Einleitung, bls. 5 o. áfr. Í: Prosa des Expression­­ismus.



[8]fietta er fló mun eldra, kemur fyrir í Strí› og fri›ur Tolstois frá 1869, auk fless sem hér a› framan var raki› um hugsa› tal. Á›ur var nefnd skáldsagan Les lauriers sont coupés frá 1887, en hún er hugsanaflaumur frá upphafi til enda.



[9]Halldór Laxness tók sömu afstö›u í september 1923 (sjá Hallberg: Vefarinn II, bls. 59), sjálfsagt fyrir áhrif surr­eal­ista, sem hann var flá sífellt a› lesa a› eigin sögn sí›ar.



[10]hér skammstafa› BTL. Sumt af flessari athugun minni birt­ist á›ur í lengra máli í Lesbók Mbl. 8.6.1985.



[11]Hér skeikar raunar einu ári um Stefnuskrá surrealismans, hún birtist 1924, en a› vísu birti Breton langa grein svipa›s efnis tveimur árum á›ur (pr. í greinasafni hans Les pas perdus).



[12]fiórbergur kalla›i fla› "hriflingabjargastíl" sí›ar, sjá rit mitt 1990, bls.118-19.



[13]Bruno Kress hefur eftir honum (í eftirmála úrvals smá­sagna Halldórs á fl‡sku (An Islands Küsten, Berlin 1975, bls.194.) fl‡›ing mín): "Ég fékk langt leyfi í bankanum, allt a› ári. Ég fór semsagt til Berlínar og tók fáeinar ófullger›ar sögur me›, sem ég ætla›i a› ljúka flar og bæta nokkrum vi› - helst til a› fylla bók. fia› tókst, en ég haf›i engan út­gef­anda og vissi ekki hvernig fla› myndi ganga flegar heim kæmi. Ég ákva› flá a› gefa bók­ina út á eigin kostna› í Berlín. Mér tókst a› fá lán til fless á Íslandi." Halldór kynnt­ist flarna fl‡skri konu sem a› vísu kunni ekki íslensku en rita›i smásögurnar á fl‡sku eftir gróffl‡›ingu Halldórs sjálfs. fiær birtust svo í fl‡sk­um blö›um, líti› eitt breytt­ar, og deildu flau ritlaun­un­um.



[14]Margir höf›u or› á flví hve kuldalegur stíll Halldórs Stef­áns­sonar væri, allt frá ritdómi Árna Hallgrímsonar um Í fáum dráttum í I›unni 1930. Gu›mundur Hagalín tala›i um hundingjahátt í bók sinni Gró›ur og sandfok (1942), Kristinn E. Andrésson (1936, sjá Um íslenskar bók­mennt­ir I, 151) um samú› undir kaldranalegu yfir­bor›i, "eins og tákn fleirrar baráttu, sem verkal‡›urinn heyr, me› hör›um a›fer›um, í fljón­ustu d‡pstu mann-ú›ar."



[15]fiannig túlkar Kristinn E. Andrésson söguna í grein 1936, bls. 152.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar