onsdag den 15. juni 2011

Seiðblátt hafið 2


3. Efniviður



3.1. Ljóðasöfn 19. aldar.



Hér verður hugað að ljóðum þessara höfuðskálda 19. aldar: Bjarni Thorarensen (1786-1841), Jónas Hallgrímsson (1807-41), Grímur Thomsen (1820-1896), Benedikt Gröndal (1826-1907), Steingrímur Thorsteinsson (1831-1913), Matthías Jochumsson (1835-1920), auk rækilegs úrvals lítilvirkari skálda tímabilsins.


Seinni tímamörkin eru þá dánarár skáldanna, nema hvað Matthías varðar, fimm binda útgáfa ljóða hans 1902-6. Fáein ljóð Hannesar Hafstein og Stephans G. í úrvalinu kunna að vera yngri en 1913, en svo lítið skiptir naumast máli í þessu magni.


Ljóðagerð helstu skálda spannar afar langt tímabil, og því var eftir föngum reynt að skipta ljóðasöfnum þeirra í tímabil. Þannig setti ég skil í ljóðasafn Bjarna Thorarensen við árið 1820. Bæði var það þægilegt ártal, og svo komu flest erfiljóðin til eftir það, fyrst er kvæðið um Sæmund Hólm. Fyrri hlutinn nær þá yfir tímabilið 1808-20 (6.690 orð eða 43% heildar), en seinni hutinn nær yfir tvo áratugi (8.891 orð). Kvæðasafni Jónasar virtist eðlilegast að skipta við heimkomu hans til Íslands 1839. Fyrri hlutinn nær þá yfir tímabilið 1826-39 (7000 orð), en seinni hlutinn 1839-45 (12.000 orð). Fyrri hlutinn er þá rúmur þriðjungur. Þetta eru hinsvegar svo lágar heildartölur að öllum hlutfallstölum verður að taka með sérstakri varúð, og sumar verða alls ekki marktækar. Tímasetningar einstakra kvæða koma hinsvegar stundum að gagni, t.d. við yfirlit um ljóðræn nýyrði (k. 3.1). Einnig var ljóða­safn Steingríms Thorsteinssonar frá 1881 tekið í einn sarp, en ljóð hans eftir það í annan. Fyrirferðin var sambærileg (24 þúsund orð á fyrra skeiði, en 27 þúsund á því seinna). Á sama hátt var tekið sérstaklega ljóðasafn Bene­dikts Gröndal frá upphafi til ársloka 1860, þar sem útgáfa Gils Guðmunds­sonar gerði þá afmörkun kleyfa, og varð það þó með umfangs­mestu ljóðasöfnum (nær 37 þúsund orð). Seinni kvæði hans voru tekin í annan sarp, þau reyndust vera um 27 þúsund orð. Ljóðasafn Matthíasar Joch­ums­sonar frá 1884 var og tekið sérstaklega. En í annan sarp voru tekin þau ljóð útgáfunnar frá byrjun 20. aldar, sem komu til eftir 1884. Í fyrsta bindi þeirrar útgáfu er bálkur sem heitir “Frá yngri arum 1850-1865”, þar eru ljóð sem ekki birtust í útgáfunni 1884. En undir einu þeirra stendur “Vikið við og breytt”, undir öðru “Sumpart þýtt”, því virtist mér óráð að bæta þeim við fyrra ljóðasafnið. Þetta eru óumdeilt sex höfuðskáld 19. aldar. En til uppfyllingar heildarmyndar tók ég þau ljóð sem eftir stóðu af safnritinu Þjóð­skáld­in, eftir að kvæðum framan­greindra skálda hafði verið sleppt úr því. Til greina kom að sleppa einnig þeim fáu ljóðum sem þar voru eftir Sveinbjörn Egilsson og Skáld-Rósu. Þau eiga vissulega heima í ljóðaúrvali 19. aldar, en teljast ekki til rómantíkur. Hinsvegar virtust þar stödd ljóð Bólu-Hjálmars og Sigurðar Breiðfjörð vera af sama tagi og ljóð ”þjóðskáldanna”. En einnig í ljóða­söfnum þeirra er ýmislegt sem ekki fellur undir rómantík. Og varasamt virtist að sníða efniviðinn eftir hugmyndum um það sem finna skyldi, það gæti orðið vítahringur. Þetta safn var því ekki skert meira, og varð þó viða­minnsta ljóða­safn 19. aldar, 18 þúsund orð í kvæðum 13 skálda. Til uppbótar bætti ég við ljóðum frá þessu tímabili í safnritunum Íslands þúsund ár og Íslenskt ljóðasafn. Þó sleppti ég málefnalegustu kvæðum Stephans G. Stephanssonar, þar sem þau væru annarskonar en viðfangsefni þessarar rannsóknar, þ.e rómantísk ljóð. Ég jók þetta safn ennfremur völdum ljóðum Magnúsar Grímssonar og þriggja kvenna, Guðnýjar Jónsdóttur frá Klömbr­um, Júlíönu Jónsdóttur og Ólafar frá Hlöðum. Oft hefur verið fundið að því að konur hafi um of verið sniðgengnar í yfirlitsritum. Nú skal ég ekki finna að þessum safnritum þessvegna, mörg sjónarmið þarf að sætta, og rými takmarkað. En mér sýndust ljóð þessara kvenna gjarnan mega vera fyrirferðarmeiri í mínu rannsóknarefni en í fyrrgreindum safnritum, enda eru þær oft með frumlegar líkingar. Ég studdist við safnrit Helgu Kress, Stúlka, en tók að nokkru önnur (og fleiri) ljóð þessara kvenna. Hinsvegar sleppi ég þar skáldkonunum Guðbjörgu Árnadóttur og Ágústínu Eyjólfsdóttur, því þær eru hagyrðingar í hefðbundum stíl, en ekki rómantísk skáld. Útkoman varð kvæðasafn sem ekki er með þeim stærstu (21 þúsund orð). En það rúmar ljóð sextán skálda frá heilli öld, og því þótti rétt að tvískipta því. Fyrrihlutinn nær frá Sveinbirni Egilssyni í upphafi aldarinnar, til dánarárs Kristjáns Jónssonar, 1869, en þar þótti mér helst unnt að setja skil, enda liggur það ártal einna næst skilunum í kvæðasöfnum Bendedikts Gröndal (1860), Steingríms (1881) og Matthíasar (1884). Skáldunum er raðað eftir fæðingarári, en ljóðabók Júlíönu Jónsdóttur birtist 1873, eftir fyrrnefnt dánarár Kristjáns, og verður að fara eftir því, fyrst ekki eru upplýsingar um aldur kvæða; svo hennar ljóð eru tekin með í seinni hluta. Fyrri hlutinn er þá tveir fimmtu heildarinnar (8.604 orð), en seinni hlutinn þrír fimmtu (12.371 orð). Það eru svipuð hlutföll og í skeiðum Bjarna Thorarensen og Jónasar Hallgrímssonar (hjá honum er þó fyrri hlutinn minni, rúmlega þriðjungur).


Fyrir þessa rannsókn á orðavali sleppti ég þýddum kvæðum ljóða­safn­anna. Það kost­aði að vísu að líta varð hjá sumum kunnustu kvæðum í ljóða­safni Jónasar Hall­gríms­sonar t.d., en ljóðasöfnin verða sambærilegri við þetta. Vissulega völdu skáldin sér ljóð til að þýða, og vissulega völdu þau úr íslenskum orðum til að þýða hin erlendu. Samt er orðaval þýð­anda ekki eins frjálst og þegar frumort er. Ég hafði það líka fyrir augum að gera efniviðinn viðráðanlegan, þýðingar þessara skálda eru mjög mismiklar að vöxtum, Matthíasar jafnmiklar frumortum ljóðum hans, sem er þó með stærstu söfnum. Með tilliti til fjölbreytni, þar sem fyrirmyndin gat mótað orðalag, var ennfremur sleppt stórum ljóð­sögum svo sem Grettis­ljóðum Matthíasar Jochumssonar, Búarímum Gríms, Örvar-Odds sögu og Ragna­rökkri Benedikts Gröndals, og þá var til samræmis einnig sleppt ljóðum úr leik­rit­um Matthíasar, út frá því sjónarmiði, að þau mótist af þeirri heild. Það má e. t. v. virðast óþörf smá­smygli að sleppa kvæð­un­um úr Skugga-Sveini í útgáf­unni 1884, en ég held að samræmið verði síst of mikið, þótt reynt sé að hafa efni­viðinn sem sambærilegastan. Enda reynd­ist hlutfall fornyrða í ljóða­safninu hækka verulega við þetta. Hinsvegar hélt ég löngum kvæðum Benedikts Gröndal; Tólf álna langt og tírætt kvæði, Gaman og alvara, Hugfró og Þingvallaferð. Ástæðan er sú, að þetta eru sum merkustu kvæði Gröndals, og svo fjölbreytt, að kalla mætti kvæða­bálka, altént eru þau eðlisólik fyrrtöldum ljóðsögum.


Útgefandi Rit­safns Benedikts Gröndals sleppti erfi­ljóð­un­um, sem Benedikt orti í stórum stíl fyrir borgun. Þá þótti mér eðli­legt að sleppa líka löngum erfiljóðasyrpum í 4. og 5. bindi Ljóða­safns Matthí­as­ar frá byrjun 20. aldar, enda orti hann mikið að beiðni ann­arra (skv. bréfi 1871, Bréf, bls. 86). Töluvert kom með af erfiljóðum samt, en þá frekar um fólk sem var nákomið skáld­inu. . Hinsvegar lagði ég ekki í að velja úr erfi­ljóð­um fyrstu útgáfu ljóða hans, enda þótt þau séu fjórir tugir, og taki yfir meira en fimmtung blaðsíðu­fjöldans. Og auðvitað kom ekki til greina að sleppa erfiljóðum Bjarna og Jónasar, það eru sum þeirra bestu ljóða.


Það er vissulega ósamræmi í því að taka í seinni sarp Steingríms öll kvæði hans frá 1881-1913, en velja úr ljóðasafni Matthíasar frá 1906, sleppa fyrrgreindum erfiljóðabálkum og kvæðum ortum eftir 1900. Bæði eru sum þessara erfiljóða væntanlega ort fyrir 1900, skv. dánarári yrkisefnis, mörg þeirra eru prýðiskvæði, fjöldi þeirra ekki óeðlilegur (36%, á móti 31% að tiltölu í fyrra safni), og sum bestu ljóða Matthíasar önnur falla út skv. þessum tímamörkum, sem þó ekki gilda um Steingrím! Ennfremur hefði seinni bálkur kvæða Matthíasar vel mátt stækka til samræmis við fyrra bálk. En þegar ég skannaði inn á tölvu öll þau kvæði Matthíasar, sem ég hafði sleppt, reyndist sá bálkur rúma 47.000 orð, seinni bálkurinn hefði þrefaldast að fyrirferð, ef þau hefðu öll verið tekin með, það hefði riðið öllum hlutföllum á slig. Og ekki virtist betri kostur að velja úr þeim eftir á, það hefði skapað hættu á fyrrgreindum vítahring, að velja umfjöllunarefni eftir hugmyndum um hvað fundið skyldi. Enda sýnist mér, að svo mikið hafi verið tekið hér eftir Matthías, að gefa ætti allgóða mynd af ljóðagerð hans.




3. 2. Táknsæ káld íslensk


Á framangreindum grundvelli lýsingar á táknsæisstefnu eru íslensk ljóð valin til athugunar hér. Fyrstu ljóð af þessu tagi tel ég vera frá því upp úr 1890, eftir Einar Bene­diktsson (1864-1940). En hann orti einnig annarskonar ljóð, svo sem fleiri af okkar skáld­um. Undir lok ára­tugsins kom til Sigurjón Friðjónsson (1867-1950). Hin skáldin voru yngri, en einnig þau fóru að birta ljóð sín um aldamótin 1900 eða skömmu síðar. Það eru fyrst og fremst Sig­urð­ur Sig­urðs­son frá Arnarholti (1879-1939), Jóhann Sig­ur­jóns­son (1880-1919), Hulda (1881­-1946), Jóhann Gunn­ar Sig­urðs­son (1882-1906), og Jónas Guð­laugs­son (1887-1916). Mér vit­anlega er Hulda eina konan sem fylgir þess­um nýja straumi ljóðagerðar, aðrar kunn­ar skáld­konur þessa tíma fylgdu mest­megnis fyrri hefð, ortu allskyns tæki­fær­is­kvæð­i. Jakob Smári (1889-1972) kom aðallega fram á öðrum áratug aldarinnar, og sama gildir um fræg­ustu skáld nýróm­antíkur, þau fóru að birta ljóð í fyrri heimsstyrjöld eða skömmu síðar; Davíð Stef­ánsson (1895-1964), Stefán frá Hvítadal (1887-1933) og Tómas Guð­munds­son (1901-1983).


Þessi rannsókn kemur í humátt á eftir ljóðaúrvali Hann­esar Pét­urs­sonar Fjögur ljóð­skáld, sem birtist 1957. Þau skáld eru Jóhann Sigur­jóns­son, Jóhann Gunn­ar Sig­urðsson, Jónas Guð­laugs­son og Sigurður Sig­urð­son. Nú var það val ekki svo að skilja, að þar með teld­ist þess­ari stefnu gerð skil. Einnig réðu hag­kvæmn­is­sjón­armið, um hvað færi vel saman í lít­ið kver ljóða­úr­vals.


Það er alls ekki almennt samkomulag um hvaða skáld eigi að telja til þessarar stefnu. Guðmundur Hagalín fjallaði (1952, bls. 98) m.a. um upp­haf þessa bókmenntastraums á íslensku, en það sér hann í ljóðum Einars Kvaran:



Ljóð Einars bera í rauninni ekki mikinn svip raunsæis­stefn­unnar, en aftur á móti sýna þau hér á landi fyrstu áhrif sýmból­ism­ans, [...] Þau eru flest stutt, en fáguð að orðalagi og heild­ar­gerð - og sá veruleiki, sem liggur á bak við þá sögu, sem sögð er, eða þá mynd, sem upp er dregin, verður oft lesandanum hug­stæður.



Hér er um fáein ljóð að ræða (einkum Sigling lífsins, Sjötta ferð Sind­baðs, Konungurinn á svörtu eyjunum) og þau eru táknræn sem dæmi­sögur, það er augljóst og ótvírætt til hvers þau eiga að vísa í samtíma höf­undar, svo sem sjá má á eftirfarandi kvæði, sem sýnir áhuga höfundar á rannsóknum á framhaldslífi eftir dauðann. En slíkar táknsögur eru gamalt og alkunnugt fyrirbæri, og geta ekki talist einkenna nýja bók­menntastefnu, sem áður segir.



Sjötta ferð Sindbaðs



Ygldan skolaðist Sindbað um sjá,


uns síðasta skipbrotið leið hann.


Hann molaði fleyið sitt Feigsbjargi á,


og fádæma hörmungar beið hann.



Svo lagði hann inn í ægileg göng,


er af tók að draga þróttinn;


þar drúptu gljúfrin svo dauðans-þröng


og dimm einsog svartasta nóttin.



Þá förlaðist kraftur og féll á hann dá


í ferlegum dauðans helli.


En hinumegin var himin að sjá


og hlæjandi blómskrýdda velli.



Svo brýt eg og sjálfur bátinn minn


og berst inn í gljúfra-veginn. -


Við förum þar loksins allir inn. -


En er nokkuð hinumegin?



Í táknsæisstefnu er um annað að ræða en svo auðráðnar dæmi­sög­ur, einsog rakið var hér að framan. Guðmundur Hagalín telur hins­vegar ekki Einar Benediktsson til þessa straums:



Einari Benediktssyni verður ekki skipað í neinn hóp nokkurra þeirra skálda, er fylgt hafa straumum eða stefnum í bók­mennt­um heimsins. Það væri jafn­fárán­legt að skipa honum í hóp real­ista vegna þess fram­fara­áhuga, sem kom fram í ýmsum kvæðum hans - eða sakir þess, að hann sá flestum betur þau ónotuðu gæði, sem Ísland hafði upp á að bjóða og álasaði þjóð sinni fyrir deyfð og drunga - einsog að telja hann symbólista eða mann nýrómantíkur fyrir það dulræna og tákn­ræna, er hjá honum gætir. Hann er einn og sérstakur.



Þetta sýnist mér ótæk ályktun af því að Einar var beggja blands, og eru slíks vissu­lega mörg dæmi um skáld. Í umfjölluninni um ljóð Einars hér á eftir ættu að koma rök fyrir því að telja sum ljóða hans til táknsæis. Guðmundur Hagalín sagði enn (tv. r., bls. 111) um kvæða­kver Þorsteins Gísla­sonar frá 1904, að þar komi hann “fram sem þroskað skáld. Þar voru meðal annars listrænt formuð nýrómantísk kvæði í þjóðkvæðastíl, sem áreið­an­lega hafa haft áhrif á yngri menn.” Þetta er vissulega rétt, og þótt þessi kvæði væru ekki mörg, urðu þau fleiri í Ljóðmælum Þorsteins 1920, ásamt tæki­færis­kvæðum, þýðing­um og prýðilegum gaman­kvæðum. En um þessi kvæði[1] gildir almennt hið sama og um ljóð Einars Kvarans, að þau eru dæmi­sagna­kennd, og á heildina litið virðist mér þetta framlag Þorsteins ekki standast samjöfnuð við þau ljóðasöfn sem hér eru til athug­un­ar, og leiði það því hjá mér.


Guðmundur Hagalín hampar ennfremur mjög Guðmundi Guð­munds­syni skóla­skáldi (tv. r., bls. 112):



Hann gaf út margt ljóðabóka allt frá árinu 1900 til 1917 [...] las mjög mikið erlend ljóð, las sjálfa höfuðpresta sýmbólismans á frönsku, þá Baudelaire og Verlaine, en hafði og miklar mætur á danska sýmbólist­anum Johannesi Jørgensen og nýrómantísku skáld­unum Vilhelm Krag og Oscari Levertin. Allur þorrinn af kvæðum Guðmundar ber og mót þeirrar stefnu, er þessir menn dáðu, og þó eink­um nýróm­ant­íkurinnar. Hann var og bragsnill­ingur með afbrigðum, og eru sum ljóð hans bein­línis “strengja­galdur”.



Allt um það finnst mér ljóð Guðmundar Guð­munds­sonar ekki eiga heima í þessari um­fjöllun. Í kvæðasöfnum hans ber langmest á tæki­fær­is­kvæðum og frá­sagnar. Vissulega var Guðmundur mjög hag­mælt­ur og ljóð hans yfirleitt á daglegu máli, frekar en upp­höfnu. Orðalag er þó allt hefð­bund­ið í ljóðum hans, að ekki sé sagt klisju­kennt. Meira er lagt upp úr rími og hljómi orðanna en stílblæ þeirra. Til­finn­ingaþrungið orðalag yfir­gnæf­ir ljóð­mynd­ir hans; og fremur en að skapa fegurð fullvissar hann lesend­ur um að hún sé þarna, og er lítill skáld­skapur í þessu að mínu mati. Best­ur er hann þegar hann tekur sig ekkert há­tíðlega, heldur deilir á menn og mál­efni af glettinni hag­mælsku. En það er því miður sjaldan. Tímans vegna hefðu Flugur Jóns Thor­odds­ens fallið undir þessa rann­sókn, því þær eru frá árinu 1916. En þau prósaljóð að­grein­ast svo mjög frá þeim ljóðum sem hér eru athuguð, að mér þótti at­hugun á þeim ekki eiga heima hér. Þau eru lítt myndræn, en mót­sagnir setja mikinn svip á þau. Ég hef því fjallað um þau í bók minni um íslensk­an módernisma, Kóral­for­spil hafsins, 1992. Prósaljóð Huldu, Myndir, munu vera ort 1918-19, þ.e. á milli þeirra tveggja ljóðabóka hennar sem hér er fjallað um. En einnig þau skáldverk fannst mér greinast of mjög frá öðru athug­unarefni þessarar bók­ar til að taka með. Þau eru oft dæmisagna­kennd, og líkjast þá þeim “ævin­týr­um”, sem ýmis skáld sömdu á þeim tíma.


Ivar Orgland (I, 227 o. áfr.) telur hér til þau Theodóru Thor­odds­en og Svein Jóns­son Framtíðarskáld, auk Guðmundar Guðmundssonar og Þor­steins Gíslasonar. Hann leiðir rök að því að Davíð Stefánsson hafi tekið ým­is­legt eftir Sveini (bls. 213 o.áfr.), og að Guðmundur hafi sýnt tilþrif í óm­ræn­um kveðskap, og því hafi verið samin sönglög við svo mörg ljóða hans (bls. 226). Vissulega má vel vera að þessi skáld - og önnur - hafi verið milliliðir, miðlað áhrifum t.d. erlendis frá til sumra þeirra skálda sem hér er um fjallað, og þau geta líka hafa fundið upp á ýmsu sem okkar skáld svo notuðu. En hér er ekki stefnt að því að skrifa “bók­mennta­sögu áhrifa”. Ljóðagerð af þessu tagi var svo út­breidd á tungu­málum sem skáld okkar lásu, að mér virðist að slík áhrifa­leit yrði endalaus. Virðist nær­tæk­ara að reyna að gefa einhverja yfirlits­mynd fyr­ir­bærisins. Eftir Theodóru Thoroddsen (1863-1954) birtist Ritsafn, 1960. Þar eru tólf þulur (1-2 bls. hver) og fimm kvæði sem a.n.l. eru þjóðkvæðakennd, en auk þess nokkuð um lausavísur, tæki­færis­kveðskap. Sigurður Nordal segir í formála Ritsafnsins (bls. 31) að Theodóra hafi vafa­laust ort þulur sínar ”síðar en fyrstu þulur Huldu birtust (í Sumargjöf 1905)”. Þulur Theodóru eru þokkalegur skáldskapur, en rísa ekki upp úr þeim skáldskap sem hér er athugaður, þær eru hinsvegar svo mjög mótaðar af tilvitnunum í fornar þulur, að tilgangs­laust virðist að bera þær saman við hin ljóðasöfnin. Svo lítið og mis­gott liggur eftir Svein Fram­tíð­ar­skáld að hjá honum er sneitt hér. Ein­hverjum mætti þykja ljóðabók Gests Undir ljúf­um lögum (1918) nær­tækari, “ómræn” er hún, og mörg hafa sönglög verið samin við ljóðin. En mér sýnast þau flest meira í ætt við brag­þraut­ir, en þá ljóðagerð sem hér er við fengist, og þessi bók illa standast sam­jöfnuð við hana. Með því að enda þessa könnun á fyrstu tveimur ljóða­bók­um Tómasar Guðmundssonar virðist mér að þau skáld sem hér eru tekin, gefi all­góða mynd af stefn­unni, og sú mynd hafði aðeins orðið óskýrari með því að taka með hóp skálda sem ekki náðu eins góðum tökum á skáld­­skapnum og þau sem hér er lit­ið á.


Rann­sókn blæleit­inna takmarkast þá við rúman tug skálda sem komu fram á rúmum fjórum áratugum, 1891-1933. Það hefði orðið allt of viðamikið að taka fyrir allar ljóða­bæk­ur þessara skálda, sem komu út á þeim tíma, það hefðu orðið öll ljóð Ein­ars Benediktssonar og mikil aukning hjá Sigurjóni, Huldu og Davíð. Enda tel ég að fyrstu ljóðabækur afkastamestu skáldanna gefi frambærilega mynd af ljóðagerð þeirra af þessu tagi, fjölskrúðuga yfirlits­mynd, þótt ekki verði hún tæmandi. Ekki fannst mér ástæða til að fara lengra í tíma. Vissu­lega hafði þessháttar ljóðagerð framvegis mikil áhrif á skáld svo sem Jóhannes úr Kötlum, Guðmund Böðvarsson, Stein Steinar og ýmsa sem síðar komu fram. En ljóðagerð þeirra markast líka af nýjum straumum, og þarf sér­staka rannsókn á samspili þeirra þátta.


Sjálfsagt virðist að fjalla um ljóð hvers skálds sér í 5. hluta, en röð þeirra er ekki sjálfgefin, þar sem þau voru mörg nokkurnveg­inn jafn­aldra og ortu á sama tíma. En skáld­unum er í stór­um drátt­um raðað eftir elstu ljóðum þeirra sem hér er um fjallað.


Þessi straumur ljóðagerðar fór hægt af stað á Íslandi. Fyrsta áratug­inn birtust aðeins fimm slík ljóð eftir Einar Benediktsson; 1891 Hvarf sr. Odds frá Miklabæ, 1894 Sigling (undir stjörnum), 1896 Norður­ljós, 1899 Stjarn­an, og 1900 Haugaeldur. Eftir Sigurjón Friðjónsson hefi ég aðeins fundið Sólin birtist hlíðum hárra fjalla, 1898, en síðan ellefu ljóð sem birtust á árinu 1900. En líta má á það sem einskonar birtingu að sum þessara skálda settu ljóð sín í skrifuð skólablöð Lærða skólans í Reykja­vík, þau voru lesin upp á fundum þar, og skrifaðir um þau (og önnur verk, sögur og ritgerð­ir) ritdómar í sérstakar gerða­bækur skólafélagsins Fram­tíðarinnar. Hér er helst að telja Hrefnu Sigurðar Sigurðssonar, 1898. En ekki verður þessi saga fyrstu ljóða­gerðar rak­in án sér­stakrar rann­sóknar, og útgáfur á ljóð­um skáld­anna gefa heldur ófull­komna hug­mynd um þessi frum­verk. Jóhann Sigur­jóns­son átti ljóð í skrif­aðri ljóða­bók skáldahóps í Mennta­skól­a, Stella nova (Lbs. 33614o), veturinn 1897-8, og svo er einnig tvo næstu vetur, 4-5 ljóð hverju sinni. Þetta eru mestmegnis löng og mærðarfull frá­sögu­ljóð. Fjögur þeirra birtust í blaði Einars Benediktssonar Dag­skrá 1898-9, en aðeins eitt þeirra hefur verið tekið upp í ljóðasafn Jóhanns (Hjá Benedikt Gröndal). Jóhann Gunnar Sig­urðs­son átti eitt ljóð í Stella nova veturinn 1898-9, en sjö vet­ur­inn eftir, ágæt­isljóð og birtust flest síðar í kvæðasafni hans[2]. Hulda birti fyrstu ljóð sín á prenti 1901 (skv. töflu í Ljóð og laust mál, bls. 314-18). Fyrsta bókin sem sýnir einhver merki stefnunnar er þá Sögur og kvæði Einars Bene­dikts­sonar, 1897, næsta bók var eftir Jónas Guð­laugs­son, Vor­blóm, 1905, en árið eftir birtist Tví­stirn­ið með ljóð­um hans og Sig­urð­ar Sig­urðs­sonar. Jónas birti tölu­vert af ljóðum í blöðum allt frá því ári, 1906, en það ár birtist líka Hafblik Einars Bene­dikts­sonar, þar sem verulega kveður að þessari stefnu. Árið 1909 birtist Kvæði Huldu, þykk bók, einnig Dagsbrún, síðasta íslenska ljóðabók Jónasar Guðlaugssonar, og enn þetta sama ár Kvæði og sögur Jóhanns Gunnars, sem þá var látinn fyrir þrem­ur árum. Fyrsta sjálf­stæða bók Sigurðar Sigurðs­son­ar, Ljóð, birtist 1912. Jakob Smári birti mikið af ljóðum sínum í tíma­ritum allan 2. áratug aldarinnar, en fyrsta bók hans, Kalda­vermsl, birtist 1920. Davíð Stef­áns­son vakti at­hygli 1916 er hann birti fyrstu ljóð sín, fimm í Eim­reið­inni og önnur fimm í Iðunni, en birti fyrstu bók sína, Svartar fjaðrir á árinu 1919. Ári áður komu Söngv­ar föru­manns­ins eftir Stefán frá Hvítadal. Það er því hæg stígandi í úrbreiðslu þessarar skáld­stefnu fyrsta hálfan annan áratuginn frá 1891, en eftir það kemur hún æ sterkar fram. Síðar komu bækur Tómasar Guðmundssonar, Við sundin blá (1925) og Fagra veröld (1933).


Hér verð­ur ekki vikið að fyrr­nefndum elstu ljóð­um þessara skálda, sem ort voru á unglingsárum þeirra, enda stand­ast þau ekki sam­an­burð við þau ljóð sem hér verða tekin fyrir. En við þau verður hverju sinni ártal fyrstu prent­un­ar, eftir því sem ég hefi næst komist.


Tekin voru öll ljóð Jóhanns Gunnars og Jóhanns Sigur­jóns­sonar, og allt eftir Sig­urð Sigurðsson sem birtist að honum lifandi (í efnis­at­hug­un þó ein­ung­is fyrstu 50 kvæðin, því síðan yfirgnæfa tæki­fær­isljóð). Auk þriggja íslenskra ljóða­safna Jónasar Guð­laugs­sonar voru tekin íslensk ljóð hans sem birtust síðar í blöðum og tímaritum. Minna var tekið eftir afkasta­meiri ljóð­skáld; fyrstu tvö ljóðasöfn Ein­ars Bene­diktssonar, Huldu, Stefáns, Davíðs og Tómasar, fyrsta safn Jakobs Smára og fyrstu 150 ljóð Sig­ur­jóns Frið­jóns­son­ar, þau sem birtust í tíma­rit­um fyrstu tvo áratugina. Þetta val var til þess ætlað að gera ljóðasöfn skáld­anna sem sam­bæri­leg­ust. Nú er ljóða­safn Jóhanns Sigur­jóns­sonar -á íslensku - ekki nema tæp 40 ljóð, rúmlega 5 þúsund orð. Fyrstu tvær bæk­ur Stefáns frá Hvítadal rúma 54 ljóð og nema rúmlega 10 þús­und orðum, en aðeins þær eru sam­bæri­leg­ar við aðrar ljóðabækur sem hér um ræðir, bálk­ur­inn Heilög kirkja er annars eðlis. Svipaður er orðafjöldinn í fyrstu tveimur bókum Tómasar, sem geyma og 56 ljóð. Enda þótt allt sé tekið eftir Jóhann Gunnar Sigurðsson, verða það ekki nema rúmlega 100 ljóð, rúmlega 14 þúsund orð. Næstur er þá Sigurður Sigurðs­son (142 ljóð) með rúmlega 17 þúsund orð, síðan Sig­ur­jón Frið­jónsson (154 ljóð), Jónas Guðlaugsson (138 ljóð) og Davíð Stef­ánsson (109 ljóð) með um 20 þús­und orð hver, þá Einar Bene­diktsson (77 ljóð) og Jakob Smári (240 ljóð) með rúmlega 25 þús­und orð hvor - þótt þessi ljóð Smára séu sem sagt þrefalt fleiri en Einars. Orða­fjöld­ans vegna hefði fyrsta bók Huldu nægt, en sanngjarnt þótti að taka aðra bók hennar líka, til að fá fjölskrúðugri mynd af ljóðagerð hennar. Þessi tvö ljóða­söfn hennar innihalda tæp­lega 200 ljóð og nema 30 þúsund orðum samtals.


Framangreint er efniviður athugunar á allskyns orðavali, lykilorðum, fornyrðum, nýyrðum og litorðum. En þessi skáld ortu margs konar ljóð, sem ekki öll greinast frá annarri ljóðagerð, svo velja verður úr til athugunar á líkingum og ljóðrýni. Megin­regl­an er að takmarka þá athugun við eina ljóðabók hvers skálds, til að miðla þeim heildarsvip sem myndmál hverrar þeirra hefur. En til að grípa sér­kenni bókmenntastraumsins virðist rétt að beina sjónum að hinu sér­kenni­leg­asta innan þeirra marka sem sett voru í upphafi þessa rits. Því er við þá athugun sleppt öllum málefnalegum ljóðum, ætt­jarð­ar­ljóð­um, tæki­færiskvæðum og hefð­bundn­um erfiljóðum, en persónulegri eru tekin með. Einn­ig er þýð­ing­um sleppt. Vissu­lega er hér um mats­atriði að ræða, og sum ljóð t.d. Einars Bene­dikts­sonar, eru á mörk­um þessa tvenns­konar kveðskapar, blæleitins og málefnalegs, svosem Sumar­morg­unn í Ásbyrgi. En í fyrstu bók hans koma þá aðeins þrjú kvæði til álita, þau sem fjallað er um fyrst í kaflanum um Einar hér á eftir (5.1.). Því varð að taka hér með næstu bók Einars, en í henni þóttu álitlegust 30 kvæði af 52. Fyrsta bók Tómasar Guðmunds­son­ar rúmar 20 ljóð, en önn­ur, Fagra veröld, 36, og var hún þá tekin, enda mun þroskaðra verk. Sigurður Sigurðarson gaf út sína fyrstu bók, Ljóð, í þremur útgáf­um, og það er sú bók sem hér er tekin - í fyllstu útgáfu, auk ljóða í Tví­stirni, sem þar voru ekki. Enda koma þá af svip­uð­um ástæð­­um og fram­an­greind­um aðeins 28 ljóð til álita, því einnig er sleppt ljóðum hans til skálda, svo sem Einars Benediktssonar, Hannesar Hafstein og Matthí­as­ar Jochums­son­ar, þarsem þau bera svip af yrkisefninu, ljóð­máli við­kom­andi skálda. Hér er þess enn að gæta, að sérkennilegustu ljóð Jóhanns Gunn­ars Sig­urðs­sonar eru loka­þriðj­ungur hans einu bókar, rúm­lega 30 ljóð, og voru þau látin nægja. Svipað sjónarmið gildir gagnvart íslenskum ljóðum Jón­asar Guð­laugs­sonar, þótt þar komi fleiri ljóð til álita. En þá eru eingöngu tekin ljóð úr síðustu bók hans, Dagsbrún, því fyrstu tvær bækurnar eru mun hefð­bundnari, þá var höf­undur ung­lingur. Íslensk ljóð Jóhanns Sigur­jóns­sonar í stærsta ljóða­safni hans eru eins og áður segir ekki nema 39, þaraf var þá sleppt fáeinum ættjarðarljóðum hér. Sigurjón Friðjónsson birti 43 ljóð í tímaritum fyrsta áratuginn, og virðist það sam­bæri­legt við meðal­stóra ljóðabók, úr því safni voru þá tekin 33 ljóð til athug­un­ar hér. Fyrsta ljóðasafn Jakobs Smára rúmar 240 kvæði. En ekki eru nema rúm­lega 30 þeirra ótvírætt af því tagi sem hér er um fjallað, mest ber á ek. trúar­ljóðum. Ýmis kvæði Davíðs eru lítt eða ekki mynd­ræn, þótt þau á annan hátt tilheyri þessari ljóðagerð. En að öllu þessu saman­lögðu virðist eðlilegt að hafa ámóta fjölda kvæða hér til athugunar líkinga frá hverju skáldi, og láta þann fjölda ráðast af því sem valið var eftir Einar Benediktsson, 33 ljóð. Því eru valin úr svo mörg álit­leg­ustu ljóð úr fyrstu bók Huldu (af 130). - Vissulega eru ljóðin mislöng, enda þótt ekki séu þau ævinlega lengst hjá Einari Benedikts­syni. En það er líka mjög breytilegt hve myndræn þau eru, og því þótti rétt að telja ljóð, en ekki ljóðlínur.


Eftir að könnun blæleitinna ljóða var lokið, tók ég til við hliðstæða könnun á ljóðum 19. aldar, en þá var safnað líkingum úr öllum efniviðinum. Það safn er þá ekki allskostar sambærilegt við líkingar blæleitinna, en það ætti ekki að skipta máli, því ekki er um tölulega könnun að ræða, heldur skal bara dregið fram hvað var hefðbundið og hvað nýstárlegt. Og þá ættu 33 ljóð frá hverju blæleitnu skáldi að nægja.




3. 3. Bragnýjungar


Þegar þetta er ritað, er verið að semja sögulega brag­fræði íslenska. Hér verð­ur ekki keppt við hana, heldur ein­ungis vikið að nokkrum megin­atriðum um bragnýjungar þess­ara skálda. Fyrstu rómantísku skáldin, Bjarni og Jónas, notuðu edduhætti, en það gerðu fyrri skáld líka. Í ljóðrýni um Bjarna verður vikið að bragarhætti sem hann tók upp eftir erlendum samtímaskáldum. Jónas mun hafa ort fyrstu íslensku sónhenduna (Nú andar suðrið), hann innleiddi líka ferhendan hátt Heines, sem og aðrar bragnýjungar rómantíkur. Brag­ar­hátt­um fjölgar mjög á 19. öld, og einkum síðar við nýsköp­un Ein­ars Bene­dikts­sonar.


Prósa­ljóð og fríljóð hafa hvorki reglubundna hrynjandi né rím. Prósaljóð eru sett upp einsog hverjir aðrir lausa­­máls­textar, en greinast frá þeim með ljóðmyndum eða öðrum ein­kenn­um ljóða, einkum hnitmiðun um einn kjarna. Það er hreinn mis­skiln­ing­ur, að það sé með módernism­an­um sem prósa­ljóð og fríljóð hefjist á íslensku, og raunar hafi það ekki gerst fyrr en eftir seinni heimsstyrjöld. Einsog ég hefi áður rak­ið (í Kóralforspil hafsins, bls. 12 o. áfr.) eru þær brag­nýj­ung­ar miklu eldri, einnig á Íslandi. “Stein­grím­ur Thor­steins­son hefur lík­lega fyrstur Íslend­inga ort það, sem nú er kallað ljóð í lausu máli, og er þeirra að leita í hand­ritum hans frá árunum 1851-60.” segir Hannes Pét­urs­son í bók sinni um Stein­grím (bls. 166-7). Þetta birti Stein­grímur aldrei, og Hannes lítur á þessi skrif sem uppkast ljóða, enda orti Stein­grímur oft síðar úr þeim ljóð undir hefð­bundnum hætti. En þessi “ókveðnu ljóð” Steingríms líkjast svo mikið þeim prósa­ljóð­um sem voru í tísku um alda­mótin 1800 - Nætursálmum þýska skálds­ins Novalis og Ossian­ljóð­um skot­ans MacPherson[3], sem urðu fræg um Evrópu þegar eftir útkomu 1760, auk þess sem prósaljóð Baudelaire urðu víðfræg uppúr 1860 - að mér þykir líklegast að Stein­grímur hafi ort sín prósa­ljóð í fullri alvöru - þótt hann svo e.t.v. ekki teldi íslenska lesendur til­búna fyrir slíkar nýj­ungar. En þær fara að breiðast út, m.a. á Íslandi, með blæstefnu, fyrir rúmri öld. Prósa­ljóð birtust fyrst á íslensku í þýð­ingu á textum úr Senilia Túrgenjefs 1884, önnur þýdd prósaljóð í Eimreiðinni 1895 (svosem rakið var í upphafi k. 2. 4.), en fyrst prentað frumsamið íslenskt prósa­ljóð tel ég vera eftir Einar Bene­dikts­son 1896 (sjá kafl­ann um hann hér, 4.1.). Það var þó „falið“ inni í grein. Einnig birtust prósa­ljóð eftir Jóhann Gunnar Sig­urðs­son, sem lést 1906 (“Gull” og “Við ána”), en einkum eru þó prósaljóð ort á öðr­um ára­tug ald­ar­innar á Íslandi, en birtust síðar. Þar má nefna heila ljóðabók eftir Jón Thoroddsen, Flugur, sem ort var 1916, birt 1922, aðra eftir Huldu, Myndir, ort 1918, birt 1924 og Hel eftir Sigurð Nordal, birt 1919, einnig ljóðabálkinn Úr djúpinu eftir Jakob Smára, birt í fyrstu ljóðabók hans, 1920. Ennfremur birtust tvær prósa­ljóðabækur þýddar eftir indverska Nóbels­skáldið Tagore 1919 og 1922. Fleira mætti telja, enda vitnar Halldór Laxness að prósaljóð hafi verið í tísku á Íslandi um 1920.


Fríljóð eru afbrigði af prósa­ljóð­um. Helsti munurinn er að fríljóð­um er skipt í línur, þannig, að setning eða setn­ing­arhluti verði sér í línu. Þau eru alkunn frá því á 18. öld[4] (Klopstock og Goethe, m.a). Þau urðu mikil tíska í Frakklandi[5] með táknsæisstefnunni, og þessvegna er því oft haldið fram að tákn­sæisskáld hafi fundið upp frí­ljóð (vers libre), á næstsíðasta áratug 19. aldar, jafnvel var deilt um hvort Gustave Kahn, Theodor Wysewa eða einhver þriðji hefði orðið fyrstur til. En þetta er fráleitt, formið er eldra[6], og heims­frægt varð fríljóðasafn banda­ríkja­manns­ins Walt Whitman um miðja 19. öld, Leaves of grass. Einar Bene­diktsson birti þýð­ingu[7] úr því 1892. Tölu­vert fleira birtist af þýdd­um fríljóðum á næstu áratug­um, m. a. er tugur fríljóða og prósaljóða í Óðni áratuginn frá 1907 að telja. Einnig má nefna m.a. Sorg Jóhanns Sigur­jóns­son­ar frá 1908, Í myrkr­inu og Rauðir skógar eftir Gunnar Gunn­ars­son 1913 (í Óðni), Sökn­uð eftir Jóhann Jónsson frá miðjum 3. ára­tugnum, og fríljóð voru algeng upp úr 1930 (sjá tv. rit mitt, bls. 24). Þær Guðrún og Ragn­hild­ur segja (bls. 40) um fyrstu bækur Huldu, 1909 og 1920: “Tæpur helmingur ljóð­anna í Kvæð­um og Segðu mér að sunnan er annað hvort ortur undir rím­laus­um hátt­um, nor­ræn­um og klassískum, eða vikið er frá hefð­bundnu rími á ein­­hvern hátt.”


Ivar Orgland (II, bls. 190-197) talar um helsta brag Stefáns frá Hvíta­dal, “nýstef”, og rekur til norskra ljóðskálda, enda þótt þetta komi fyrir í íslensk­um skáldskap áður en Stefán fluttist til Noregs. Þar var þessi háttur þó mun al­geng­ari, og eykst notkun Stefáns á honum mjög eftir Noregs­dvöl­ina.


Aðrar bragar­nýj­ung­ar blæleitinna eru þær helst­ar, að mik­ið varð um són­hendur, og þulur og önnur þjóð­kvæða­­form kom­ust í tísku, sem áður segir.


Hulda varð í upphafi einkum fræg fyrir að yrkja þul­ur, fyrst íslenskra nútíma­skálda, en einnig orti hún önn­ur kvæði með þjóð­kvæða­­­svip. Um þul­ur Huldu segja þær Guðrún og Ragn­hild­ur í for­mála Úrvals­rita (bls. 35), að þær hafi verið ein­stak­lega mikil bragar­nýjung þegar þær birt­ust fyrst, 1905. Þula birtist einnig eftir Sigurjón Frið­jóns­son 1906 (í Eim­reiðinni, bls. 124). Að vísu má vera að þjóð­kvæða­kennd ljóð Jóhanns Gunnars séu eldri, því hann dó sama ár, en einsog þær Guðrún og Ragnhildur segja (bls. 39):



Hvað sem rétt er um samvinnu þeirra og áhrif hvors á annað, varð Hulda fyrri til að koma sínum “þjóðkvæðum” fyrir al­menn­ings­sjónir. Hið fræga draugaljóð Jóhanns, Kveðið í gljúfrum, birtist í Sumar­gjöf vorið 1906, sama ár og hann dó, og Í álögum ári seinna. Eina bók hans Kvæði og sögur, kom ekki út fyrr en 1909, sama árið og Kvæði Huldu.



Það ár birtust einnig slík kvæði eftir Jónas Guð­laugs­son. En 4. bindi þjóð­kvæða­safns Ólafs Davíðs­son­ar, Íslenskar gátur, skemmt­anir, viki­vak­ar og þulur (ÍGSVÞ) birtist á árunum 1898-1903, og í því bindi eru ein­mitt þulurnar gömlu. Það virð­ist næsta augljóst, að útkoma þessa þjóð­kvæða­safns hafi vakið þessa nýju tísku, að yrkja í þjóðkvæðastíl. Á það benti Carleton (bls. 100), að það safn hefði hafið til vegs (“canoni­zed”) margt hið besta og vanræktasta í íslenskum bókmenntum. Reyndar fylgdi þjóð­kvæða­áhugi stefn­unni er­lendis, eins og áður var nefnt, t.d. í Haugtussa norð­mannsi­ns Arne Garborg frá 1895 sem fór að birtast á íslensku 1903-4, og ljóð­um landa hans Vilhelm Krag, Digte, 1891. Sá síðasttaldi um­sem­ur þjóð­sög­ur og æv­in­týri svo að þau fara illa (t.d. í Tusmørke tv.r., bls. 64-5) - líkt og þeir gerðu síðar, Jóhann Gunnar og Jónas Guð­laugs­son.


Þær Guðrún og Ragn­hild­ur (s.r.s.st.) þakka Huldu öðrum fremur að inn­leiða þann hátt Heines, sem Jónas Hallgrímsson beitti í Annes og eyjar, en eftir það hafi hann verið lítið notaður nema í þýðingum, þangað til Hulda og fleiri ung skáld hafi tekið hann upp eftir aldamótin, einnig hafi hann verið vinsæll í nýrómatískum skáldskap nágranna­land­anna. En mér sýn­ist þessi háttur ekki síður áberandi hjá t.d. Jónasi Guðlaugssyni, og erfitt að segja hver hafi fyrstur orðið til.



3. 4. Efnisatriði


Ljóð rómantísku skáldanna voru flokkuð eftir því hvað væri meginefni kvæðanna. Vitaskuld er það býsna gróf flokkun, t.d. töldust þá “hugleiðingar” vera helmingur ljóða Jónasar, einnig Bjarna og Steingríms (á fyrra skeiði beggja), þriðjungur á seinna skeiði Bjarna, Benedikts, Steingríms og Matthíasar. Afmarkaðri eru eftirmæli, stór flokkur, innan við tíunda hluta kvæða Bjarna á fyrra skeiði hans, en helmingur kvæða á seinna skeiði hans. Þau eru einnig um tíundi hluti hjá Jónasi, Benedikt og Steingrími, þó mun minna á fyrra skeiði þess síðastnefnda, og hjá Grími. Þau eru hinsvegar þriðjungur kvæða Matthíasar, fyrr og síðar, auk þess er fjórðungur kvæða hans á seinna skeiði lof um lifandi fólk, og tíundi hluti kvæða hans fyrr og síðar er um guð.


Skopkvæði eru um tíundi hluti seinna skeiðs þeirra Jónasar, Steingríms og Matthíasar, svo og fyrra skeiðs Benedikts, en mun meira áberandi á seinna skeiði hans (sjöttungur). En svona tölur hafa takmarkað gildi, t.d. hleypa örstutt skopkvæði Steingríms upp tölunni, en miklu kunnari og áhrifameiri hafa ættjarðarkvæði hans líklega verið, þótt í rauninni séu þau ekki ýkjamörg. Ættjarðarljóð eru einnig flest hjá Bjarna og Benedikt á fyrra skeiði þeirra, sjöttungur kvæða þeirra. En hjá Benedikt eru kvæði náttúrulýsinga litlu færri, og er auðvitað mjótt á mununum. Þau eru áttundi hluti kvæða Steingríms á seinna skeiði, mun tíðari en hrein ættjarðarljóð, sem eru um tíundi hluti kvæða þeirra Matthíasar á fyrra skeiði beggja, en fara niður í helming þess á seinna skeiði Steingríms, og sáralítið hjá Matthíasi. Í staðinn kemur lof einstakra landshluta eða átthagaljóð, rúmlega tíundi hluti þegar mest er, hjá Benedikt á fyrra skeiði og Steingrími.


Fjórðungur ljóða í fyrstu tveimur bókum Einars Benediktssonar má teljast hafa þjóðernislegan málflutning, einkum fyrri bókin. Hjá Sigur­jóni Frið­jóns­­syni kemur slíkt hins­vegar naum­ast fyrir, nema eins­og í fram­hjá­hlaupi ósk um að land­ið beri höf­uð­ið hátt. Sama gildir um eftirfarandi skáld, en þeim mun meira ber á átthagaljóðum hjá t.d. Huldu. Og helst eru ættjarðarljóð framanaf hjá skáldum eins og Jónasi Guðlaugssyni, þótt alla tíð sé það lítið. Hjá Stefáni er ekkert í fyrstu bókinni, eitt kvæði í ann­arri, en ekkert hjá Davíð né Tómasi. Í stuttu máli sagt, þjóðernisstefnu gætir helst í upphafi ljóða­gerð­ar blæleitinna skálda, en hverf­ur nær ger­sam­lega með tím­anum sem hér er til athug­unar. Sama gildir framanaf um guð, sem setti nokkurn svip á ljóð ým­issa 19. aldar skálda. Hann er jafn­áber­andi og þjóð­ern­is­stefn­an í fyrstu kvæðum Einars Benedikts­sonar, en það er þó eink­um í eft­ir­mæl­um, tíunda hluta ljóða hans alls (einnig er amk. hefð­bund­inni kristni hafnað, í Nóttin helga). Sama gildir um Sigurð Sig­urðs­son og Davíð, enda þótt einn­ig komi fyrir hjá honum að drottinn sé skoraður á hólm, eða hon­um afneitað. Sama hlut­fall hjá Jóhanni Sigurjónssyni, og Tómasi. Trúar­leg­ast­ur þessara skálda er Stef­án frá Hvítadal, guð er í fjórð­ungi hans fáu kvæða, en næstur honum gengur Smári (sjöttungur kvæða). En á tím­an­um milli Einars Bene­dikts­son­ar og þessara síðast framkomnu skálda vék guð, hjá Jóhanni Gunn­ari er aðeins eitt dæmi, hjá Huldu er tíðnin hálfu minni en hjá framantöldum. Ívið meira er um guðstrú hjá Sig­ur­jóni, eink­um þó framanaf[8]. Það var þó miklu meira áber­andi hjá sam­tíma­skáldum sem hér koma ekki við sögu, vegna þess hve málefna­leg þau voru, þ.e. hjá Stephani G. og Þorsteini Erl­ings­syni. Jónas Guð­laugs­son á það sam­eig­in­legt með þeim að deila á kirkj­una (í fyrstu bók sinni), einsog á valda­kerfi þjóð­félags­ins að öðru leyti (trúarleg mega þrjú kvæði Dags­brún­ar hans teljast). Hér er vitaskuld ekki um það að ræða hversu trúuð þessi skáld voru hvert um sig, heldur hitt, að trúin birtist sjaldnast í ljóðum þeirra, og síst á fyrsta áratug 20. aldar. Annars höfðu þau býsna mismunandi viðhorf, einkum til “andlegra málefna”. Hvað varðar blæleitin skáld, þá má auk dulhyggju Einars Bene­diktssonar nefna guð­spekitrú Jakobs Smára, sem setti sterkan svip á ljóðasöfn hans. Aftur á móti virðast Sigurður Sigurðsson. Davíð og Stefán frá Hvítadal fylgja hefð­bund­i­nni kristni (þangað til Stefán gerðist kaþólskur), en t.d. Sigurjón Frið­jónsson vera guðleysingi, a.m.k. þegar á líður.


Hér að framan var haft eftir Arnold Hauser að kvöld, haust, rökkur o.fl. þ. h. einkenndi blæleitin ljóð. Ég reyndi að kanna þennan dóm með því að telja slík efn­is­atriði í ljóðasöfnum skáld­anna, en auk þess ann­að tal um þján­ingu, svo og dæmi þess að mæl­andi ljóðanna væri ein­fari, óvirkur, eða léti í ljós útþrá. Enn­frem­ur taldi ég dæmi um and­stæð­ur alls þessa og kannaði hvort um­hverf­inu væri lýst sem hrika­legu eða aðlaðandi, og hve mörg ljóð bæru svip þjóð­kvæða eða þjóðsagna. Vitaskuld er stund­um mats­atriði hvort þessi atriði setja veru­legan svip á ljóð, sum komu lítt eða ekki fram. Einnig verður enn að gera þann fyrir­vara um saman­burð hlut­falla hjá ein­stök­um skáld­um, að svo lítið ligg­ur eftir sum þeirra, að samanburður við afkastameiri skáld verður vanda­sam­ur. Allt of viðamikið þótti að gera samsvarandi talningu í ljóðasöfnum 19. aldar. En að þessu sögðu virð­ist ýmislegt athygl­is­vert.

Eins og áður segir, var rómantískum skáldum allt frá upphafi iðulega skipt í tvær fylkingar, skáld hörku (allt frá Bjarna) og skáld indælis (frá Jónasi að telja). “Vetrarskáldin” eru kunn fyrir lýsingar á hrikalegu landslagi, en þegar vorið yfirgnæfir í ljóðum, þá fylgir því áhersla á indæli. Í ljóðum Sig­urjóns Frið­jóns­sonar ber sérlega mikið á um­hverf­is­­lýs­ingum, mest á ynd­is­legu umhverfi, í meira en helm­ingi ljóða. Hrikalegt umhverfi er þrefalt fátíðara. Enn lengra gengur Hulda, í þremur fjórðu ljóða hennar ríkir indæli í stað­ar­lýs­ing­um, en hrika­legt um­hverfi er afar sjaldan. Aðlaðandi er umhverfið í a.m.k. 3/4 ljóða Tómasar, hinu bregður varla fyrir, ekki einu sinni í ljóðinu ”Fjallganga”. Indæli er helm­ingi al­gengara hjá Einari Benediktssyni (í þriðjungi ljóða hans) en hrika­legt umhverfi, sömu hlutföll eru hjá Sig­urði, Jóhanni Gunnari og Smára. Hinsvegar er þetta nokkuð jafnt hjá Jóhanni Sigur­jóns­syni, Jónasi Guðlaugs­syni, Stefáni frá Hvíta­dal og Davíð.


Nátengt þessu er hvort ljóðin sýna útþrá eða unað. Það er helst síð­ar­talda tilfinningin sem birtist hjá Einari Bene­dikts­syni, í tíunda hluta ljóða hans. Sama má segja um Sigurjón og Jóhann Gunnar, en kemur enn síður fram. Hjá Sigurði Sig­urðs­syni birtist unaður hinsvegar í fjórð­ungi ljóða, hjá Huldu í þriðjungi, en útþrá aðeins í rúmum tíunda hluta ljóða hennar. Nokk­uð jafnt birtist útþrá og unaður hjá Jóhanni Sigur­jónssyni, Smára og Tómasi, en hjá Jónasi Guð­laugs­syni ber aðeins meira á óyndi en unaði, og hjá Stefáni og Davíð ótvírætt meira. Fyrir utan þessa afstöðu til umhverfis, útþrá eður ei, er þján­ing áber­andi hjá Sigurjóni, í þriðjungi ljóða, en vel­líð­an nokkuð sjaldnar, svipað er þetta hjá Jóhanni Gunnari, Jóhanni Sig­urjónssyni, Stef­áni og Davíð. Þetta er í meira jafnvægi hjá hinum skáldunum. Þján­ingu má bein­lín­is greina aðeins oftar en vellíðan hjá Einari Benediktssyni (áttundi hluti gegn ellefta), Huldu og Jón­asi Guð­laugssyni, en hjá Tómasi, Smára og Sigurði er það aðeins hinum megin við markalínuna (rúmur þriðjungur ljóða sýnir vellíðan, tæpur þriðjungur hitt, nema hvað fimmtungur hjá Tómasi sýnir þjáningu. En það er ekki oft sem þetta setur svip á ljóð Jónasar G. og Huldu (fimmtungur gegn sjöttungi hjá henni, miklu minna hjá honum).


Samstaða er á dagskrá í fimmtungi ljóða Einars Benediktssonar, en einfari hálfu sjaldnar. Fylgir það alkunnri stjórn­mála­hneigð kvæðanna. Mun minna fer fyrir hvoru tveggja hjá Sigurjóni, en samstaða er þó þre­falt meira áberandi en einfari, svipað er það hjá Huldu og Smára, en tvöfalt meira er um samstöðu en einfara hjá Jóhanni Gunn­ari. En svo ópólitísk sem ljóð Tómasar eru, þá má merkja þar sam­stöðu í næstum öðru hverju ljóði, en einfara í mesta lagi í um tíunda hverju. Þetta er hinsvegar nokk­uð jafnt hjá Sig­urði og Stefáni. Aftur á móti ber mun meira á einfara en samstöðu hjá Jóhanni Sigur­jóns­syni, Jónasi Guðlaugssyni, og einkum hjá Davíð.


Hnignun er mun meira áberandi en framþróun hjá Jóhanni Sigur­jónssyni og Davíð, fjórfalt meira áberandi en þróun hjá Sigurði, Jóhanni Gunnari, og Smára, þrefalt meira hjá Stefáni (helmingur), tvöfalt meira hjá Huldu (þó aðeins í sjöttungi ljóða); en þetta virð­ist vera í jafn­vægi hjá Einari Benediktssyni (í tæplega fimmtungi ljóða hvort) og hjá Jónasi Guðlaugssyni (hvorttveggja miklu minna áberandi, aðeins tuttugasta hluta), jafn­mik­ið er um fram­þróun hjá Sigurjóni, en ívið minna um hnignun. Svipað er það hjá Tómasi, en sé dauð­inn talinn með ber hálfu meira á hnignun (í tæplega þriðj­ungi ljóða) en þróun.


Ástaljóð eru hlutfallslega flest hjá Bjarna á fyrra skeiði (fjórðungur), fimmtungur ljóða Benedikts á fyrra skeiði, en fækkar svo niður í sjöunda hluta, þau eru sjöttungur kvæða Steingríms á fyrra skeiði, en fækkar mjög síðan, eins og hjá flestum. Um ástamál fjalla blæleitin skáld mismikið. Mest er það hjá Tómasi, tæplega helmingur ljóða, og Davíð, rúmur þriðjungur ljóða, nálægt því hjá Jóhanni Gunn­ari, fjórð­ungur hjá Sigurði, en mitt á milli þriðjungs og fjórðungs hjá Huldu. Þetta er sjötti hluti ljóða hjá Einari Bene­dikts­syni, Sig­urjóni og Stefáni, rúmlega tíundi hluti hjá Jóhanni Sig­ur­jóns­syni og Smára. Ástarsæla er hálfu algengari (tíundi hluti) en ástar­sorg hjá Einari Benediktssyni, einsog hjá Sigurjóni, Jóhanni Gunnari (fimmt­ung­ur), hjá Huldu (sjötti hluti ljóða, en ástarsorg í tíunda hluta ljóða) og Davíð (rúmlega fimmtungur ástar­sæla, rúm­lega sjöundi hluti ástarsorg. En þetta er í jafnvægi hjá Jónasi Guð­laugssyni (sjö­undi hluti hvort). Hjá Stefáni, Smára, Jóhanni Sig­ur­jóns­syni[9] og Tómasi yfir­gnæf­ir hins­veg­ar ástar­sökn­uð­ur (fjórðungur gegn sjöttungi).


Sveinn Skorri sagði (1995, bls. 40): “Sum skáld yrkja einkum um ástar­þrána, önnur um ástartrega. Davíð er framar öðru skáld hins heita ástar­un­að­ar.” Einsog við sáum, er þetta ofmælt, þetta er nánast í jafnvægi hjá honum.


Skorri segir enn (bls. 39-40):



Ætli það sé fjarri sanni að það hafi verið meðferð hins erótíska sem var höfuðnýjung Svartra fjaðra.


Vissulega höfðu skáld einsog Jónas Hall­gríms­son og þó einkum Hannes Hafstein birt kynósa lýs­ing­ar hinna vænstu ástmeyja. En mun­úð, unaður og losti líkamlegra, stund­legra ásta höfðu aldrei ver­ið lof­sungin með áþekk­um hætti og í Svörtum fjöðr­um. Þegar þá líka þessir fagn­að­arsöngvar lífs­þorst­ans og lífsdýrkunarinnar voru fluttir á ein­földu og auð­skiljanlegu máli með tón frá þjóðvísu og dans­lagi var von að heil kynslóð fagnaði fengnu frelsi und­an vits­muna­legum herfjötrum og siðferði­legri skír­lífisbrynju undan­far­andi kynslóðar Vikt­oríu­­tím­ans.



En þetta á miklu fremur við Söngva förumannsins eftir Stefán frá Hvíta­dal, sem birtist ári fyrr en Svartar fjaðrir Davíðs. Ivar Orgland segir (II, bls. 103): með þeirri bók hefjist fyrir alvöru frels­un lostans í íslenskri ljóðagerð. Hér nægir að nefna sem dæmi kvæði Stefáns Til..., Hún kyssti mg, Vorvegir, Seytjándi maí og Fölskvaðir eldar, þar t.d.:”Sólirnar hlaut ég þær fegurstu og fyrstu/ við faðmlög ungra kvenna. ...með hundrað þúsunda armlaga yndi/ og angan vara þinna.”, eða í Fyrir dyrum úti: ”Ég átti þig nakta. Ó hvílík stund”.


Þetta er, sem sjá má, bara eitt dæmi af mörgum um áherslubreytingar frá rómantík til blæstefnu.




3.5. Orðalagskönnun

Úr ljóðasafni hvers ­skálds lét ég tölvuna gera orða­skrá (Concordance), og bar þær orða­skrár sam­an. Til­gang­ur­inn var m.a. að kanna hve mik­ið væri um fornt skáldmál hjá hverju skáldi, en einnig ýmis lykilorð; hrósyrði, orð um hljóð, liti o.fl. Slíkar skrár hefði mátt hafa fleiri, en þessar taln­ing­ar eru tímafrekar og vandasamar, m.a. vegna mismunandi merkingar sömu orðmyndar (ss. ”vor”), og takmarkast hér við fáein svið sem töld­ust mikilvægust. Að sjálf­sögðu eru heild­ar­tölur þessa hjá hverju skáldi um­reikn­aðar í hlut­falls­töl­ur út frá heildar­orða­fjölda texta þess skálds. Ég geri mér ekki vonir um að þessar skrár reynist tæmandi, hvað þá óað­finn­an­legar. Sjálfsagt hefur mér sést yfir ýmislegt, en varla að marki í þessum ara­grúa talinna atriða, ekki svo að skakki neinu í heild­ar­myndinni.


Heyrt hefi ég þær mótbárur, að rímskorður geri slíka orðatalningu óáreiðanlega. Böðvar Guðmunds­son skáld hafði kannað ljóð um haust, og fannst skáldum þeirra verða einkar tíðrætt um naust – ekki vegna neinnar efnislegrar nauðsynjar, heldur til að auðvelda rím (haust– naust[10]). Ég verð að svara því til að skáld okkar áttu um svo mörg orð að velja, og af svo margvíslegum hljómi, að rímnauð getur ekki skipt neinu máli, nema sem undantekning. Hér er um að ræða tvo til þrjá tugi djásnyrða og orða um há hljóð og kyrrð, fjóra til fimm tugi hrósyrða og litorða, en fornyrðin eru rúmlega 200. En vissulega eru þessar orðatalningar vísbending, en ekki vísindalega nákvæm mæling á eðli ljóðasafna. Slík mæling virðist raunar vart hugsanleg. Til dæmis beita skáld stundum þeirri framsetningartækni að margnota visst orð, t.d. vor í löngu kvæði eða tveimur, það hleypir upp tíðni þess orðs, en sannar ekkert um að ljóðasafnið sé sérlega vorlegt, almennt talað.


Til samanburðar við framangreinda flokkun voru með tölvu einn­ig talin orð um árstíðir, dagstíðir og guðdóm.


Talning lykilorða af ýmsu tagi varðar vitaskuld orða­val. En hluti orða­forða hvers texta er ekki val­frjáls. Það eru orð sem vart er hægt að segja að hafi merkingu, heldur gegna þau svipuðu hlut­verki og beygingar­endingar, þ.e. forsetn­ing­ar, sam­teng­ingar, fornöfn, sagnorðin að vera og hafa, og sum algengustu atviks­orð. Flest at­viks­orð eru hinsvegar merk­ing­ar­bær, ekkert síður en lýs­ing­arorð, enda iðu­lega af sama stofni. Ég taldi framangreind merk­­ing­arsnauð “kerfisorð” í minnsta texta­­safn­i blæleitinna, ljóð­um Jóhanns Sigurjóns­son­ar, og þau reyndust vera þriðj­ungur orða­fjöldans. Til saman­burðar er Íslensk orðtíðnibók (1991), rann­sókn á margs­konar textum, þó ekki ljóðum. Þar er ekki um heilar bækur að ræða heldur 100 textasýni, og er hvert þeirra uþb. 5000 orð, úr: 1) 20 íslenskum skáldverk­um, 2) jafnmörgum þýdd­um skáldverkum, 3) ævi­sög­um og endur­minn­ingum, 4) fræðslu­text­um og loks 5) barna- og ungl­inga­bókum (bls. xviij). Heildarorðafjöldi 100 texta taldist þá vera rúmlega hálf milljón orða, þar af fór mest fyrir forsetningum, atviksorðum, sam­teng­ingum og fornöfnum. Í þessu eru vissulega mats­atriði (einkum um atviksorð), en þau breyta ekki heildarútkomu, þessi kerfisorð eru helmingur heildar­orða­fjöldans eða rúmlega það, einna minnst í 4. flokki, fræðslu­textum. Hugs­ast gæti að þéttleiki ljóðmáls and­stætt lausamáli birtist í því, að slík kerfisorð töld­ust mér vera aðeins þriðj­ungur orðafjöldans hjá Jóhanni Sigur­jóns­syni. Mun viða­meiri kann­an­ir þyrfti þó til slíkrar ályktunar. Hér á eftir verða því ekki margfaldaðar (með 2 eða 3/2) tölur um orðafjölda, til að sýna hve stór hluti umrædd orð séu af orðavali, heldur bara bent á þetta hér í eitt skipti fyrir öll. Æskilegt væri auðvitað að hafa til samanburðar þvílíka orðtíðni­rann­sókn á lausamáli 19. aldar, en hún er ekki til og ekki í sjónmáli. Það er þó fróðlegt að miða orðaval ljóðanna við ritmál nútímans. Og munurinn reynist verulegur, hvernig sem menn svo vilja skýra það.



3. 5. 1. Lykilorð


Hér er yfirleitt um afar lágar tölur að ræða. Orð um guð (“guð”, “drottinn”, „Kristur”, “Jesú” og “Jehóva”) eru t.d. aðeins þriðjungur úr prósenti hjá Bjarna, Jónasi, Benedikt og Grími. En til samanburðar skal nefnt, að í Íslenskri orðtíðnibók eru þessi orð samanlagt aðeins sjöttungur þess (0,05%). Og allir sem lesa ljóð þessara, skálda hljóta að sjá hve trúarleg þau eru. Enda reynast frávik frá þessari lágu tölu marktæk. Á fyrra skeiði Bjarna er þetta rúmur fjórðungur úr hundraðs­hluta, en fer upp í tvo fimmtu úr prósenti á seinna skeiði, þegar flest eftirmælin koma. Á fyrra skeiði Jónasar kemur aðeins fyrir orðið drottinn, og það þrisvar, en 24 sinnum á seinna skeiði, enda staglast á því í einu kvæði. Þvílíkt er augljóslega ekki marktækt um neitt. Á fyrra skeiði þjóðskáldasafnsins er þetta þriðjungur úr prósenti, en fer niður í fjórðung prósents á seinna skeiði, og er þó tal Þorsteins Erlingssonar og Stephans G. um guðdóminn síður en svo trúarlegt. Steingrímur hefur fimmtung prósents framan af, en það lækkar í sjöunda hluta prósents eftir 1881, enda þótt erfiljóð séu þá mun fleiri. Presturinn og eftirmælaskáldið Matthías er hinsvegar með rúmlega 1% framanaf, en fer niður í hálft % eftir 1884 (en í seinna safninu skar ég niður eftirmælin, svo þetta er ekki marktækt). Og hlutfallið lækkar enn hjá eftirfarandi skáldum, enda þótt guðstrú birtist í ljóðum flestra þeirra. Það fer bara úr tísku að tala um guð í kveðskap[11]. En svo eykst þetta aftur í fyrri heimsstyrjöld. Þetta eru vissulega of fá skáld til að ályktað verði um trúarlega endurreisn þá, en þetta orðatal er í samræmi við efnisathugun hér að framan og alkunn straum­hvörf margra táknsæisskálda frá skynsemishyggju til dulhyggju, og stundum til kaþólsku (svo sem nefnt var hér í inngangi).



3. 5. 2. Eyktir og árstíðir

Mjög er einstaklingsbundið hve mikið er um orð af þessu tagi. Mest er það hjá Steingrími á fyrra skeiði, og safnriti þjóðskálda (rúmlega einn af hundraði; ívið meira á seinna skeiði þeirra, en Steingrímur hefur þá nokkru minna). Jónas nálgast líka einn af hundraði en hjá hinum er þetta hálfu minna. Tíða­ákvarð­anir færðust síðan mjög í vöxt hjá blæleitnum skáldum frá því sem gerðist á 19. öld, og það kemur heim og saman við eitt megineinkenni þess straums, sem við sjáum einnig á öðru, að grípa andblæ augnabliks. Hjá Sigurjóni, Huldu og Tómasi er þetta vel yfir 2 af hundraði, en hálft annað hjá Jakobi Smára, Jóhanni Sigurjónssyni og Davíð.

Skáld 19. aldar hafa tvöfalt til ferfalt meira um eyktarorð en árstíða, nema hvað þetta er jafnt hjá Steingrími og Matthíasi á seinna skeiði. Ekki verður umtalsverð breyting á milli tímaskeiða í ljóðum Bjarna og Jónasar. Hjá blæleitnum skáldum kemur allt annað upp á, Sigurjón og Jóhann Gunnar hafa meira en 3/5 tíðorða um árstíðir, hjá flestum hinna er jafnvægi, nema hvað Einar Benediktsson og Davíð hafa undir þriðjungi tíðorða sinna um árstíðir, eyktir yfirgnæfa hjá þeim eins og á 19. öld.


Eyktir

Í orðatali ljóða sleppti ég orðinu “dagur” í orðasamböndum eins og “næsta dag”, það var um daginn”, o.s.frv. en taldi það því aðeins með að það væri í andstöðu við kvöld, nótt. eða morgun. Það gat ég hinsvegar ekki gert við tölur Íslenskrar orðtíðnibókar, og því er “dagur” rúmlega helm­ingur dæma eyktarorða þar. En þar næst er kvöld, síðan nótt, sjöttungur hvort, loks morgunn, áttundi hluti. Ef áætlað er að dagur í sömu merkingu og í kvæðumnum væri meðaltal þessa, þá yrði heildarhlutur eyktarorða í orð­tíðnibókinni sjöttungur úr prósenti. En í ljóðasöfnum okkar er það hlut­fall minnst helmingi hærra.

Dagur er algengast eyktarorða hjá flestum skáldanna (Bjarna, Jónasi, Grími, Matthíasi og Steingrími á seinna skeiði. En á fyrra skeiði Steingríms er nær fullkomið jafnvægi allra eyktarorða. Nótt er ívið tíðnefndari degi á fyrra skeiði Matthíasar, en fer nálægt degi hjá Jónasi og á fyrra skeiði þjóðskálda. Kvöld er algengast eyktarorða (yfir 2/5) hjá Benedikt Gröndal á fyrra skeiði. Í stuttu máli sagt, birta yfirgnæfir hjá flestum rómantísku skáldanna, nema jafnvægi sé. Þessar tölur gefa ekki tilefni til mikilla alhæfinga, helst þó að flest þessara skálda séu morguns menn og dags.

Því er öfugt farið hjá blæleitnum skáldum, þar yfirgnæfa kvöld og nótt, yfirleitt 3/5 dæma, nema jafnvægi sé. Mest ber á myrkrinu hjá Davíð (3/4 dæma), þar sem annað hvort eyktarorð er um nótt, eins og hjá Jóhanni Sigurjónssyni. En það gildir um kvöld hjá Einari Benediktssyni.



Árstíðir


Árstíðaorð Íslensku orðtíðnibókarinnar eru samtals tæplega einn af þúsundi. En í ljóðasöfnum 19. aldar voru þau þrefalt tíðari, þriðjungur af hundraðshluta, en hjá blæleitnum tvöfalt það. Í orðtíðnibókinni var sumar nær þriðjungur dæma, haust og vor jafntíð, rúmlega fimmtungur dæma hvort, en vetur liggur þar á milli, fjórðungur dæma.


Í rómantísku ljóðasöfnunum samanlagt er sumar einnig þriðjungur dæma, vor tæplega það, “vetur” fjórðungur, en “haust” tíundi hluti.


Sumar er tíðnefndast hjá Jónasi, Steingrími og Matthíasi á fyrra skeiði og Benedikt á seinna skeiði. Vor er aðeins tíðnefndara á fyrra skeiði Benedikts og seinna skeiði Matthíasar, og það fer nálægt því hjá Steingrími og Jónasi. Þetta vægi vors tengist því sjálfsagt, að það var al­gengt tákn fyr­ir boð­aðar og þráðar þjóð­lífs­breyt­ingar, t.d. í frægu kvæði Stein­gríms Thor­steinssonar, Þú vor­gyðja svífur. Hann er greinilega mesta vorskáldið og sumars


Sjálf­sagt kemur fáum á óvart, að Bjarni Thorarensen hefur sérstöðu með þvi að nefna vetur oftast árs­tíða, það er nær helmingur dæma hans, en vor er nálega jafntítt hjá honum (og aðeins tíðnefndara á seinna skeiði), svipuð er skipt­ingin hjá Grími (rúmlega þriðjungur hvort), og fer það saman við fyrrgreint lof hans um hörku Bjarna. Vet­ur og haust ná saman­lagt allt frá rúmum helmingi hjá Bjarna og Matthíasi (á seinna skeiði), tæplega það hjá þjóðskáldum. Þau orð eru hinsvegar þriðjungur árstíð­ar­orða hjá Matthíasi á fyrra skeiði, Jónasi og Benedikt á seinna skeiði, en fjórðungur á fyrra skeiði hans, og aðeins fimmtungur hjá Steingrími.


Hjá blæleitnum er enn meira yfirvægi vors og sumars. Vor er nær helmingur dæma, sumar rúmlega fjórðungur, vetur sjöundi hluti, haust rúmlega tíundi hluti. Oftast eru vor og sumar samanlagt 3/4 dæma, minnst hjá Davíð, en þó rúmur helmingur árstíðarorða hans.



3. 5. 3. Hljóð

Í framhaldi af undanfarandi kannaði ég út­breiðslu orða um hljóð og kyrrð. Vitaskuld er sá listi ekki tæmandi, en algengustu orðin ættu að vera með. Því þykir mér liklegt að tíðni hljóðorða hafi verið svipuð í upphafi 19. aldar og er í Íslenskri orðtíðnibók (þar er hún þriðjungur af hundraðshluta). Hjá fyrstu skáldum 19. aldar voru talin orð um hljóð litlu tíðari, samanlagt yfirleitt innan við hálfan af hundraði hjá Bjarna, Jónasi og Grími, litlu meira hjá Matthíasi og Steingrími á seinna skeið hans, en tvöfalt meira á fyrra skeiði hans og hjá Benedikt alla tíð. Sama hjá flestum blæleitnum, þ. e. einn af hundraði, en hálfur annar af hundraði hjá Davíð, Sigurjóni, Jónasi Guðlaugssyni, Smára og Tómasi, en tíðni hljóðorða er lítið yfir hálfan af hundraði hjá Jóhanni Gunnari, Jóhanni Sigurjónssyni og Stefáni. Þetta færist sem sagt í aukana í aldanna rás, og samræmist það enn því í blæleitni að grípa skynjun andartaks.


Skipting þessara orða á hávaða og kyrrð reyndist þannig að í Íslenskri orðtíðnibók voru hávaða­orð rúmlega tveir þriðju þessa orðaforða, og á fyrra hluta 19. aldar voru sömu hávaðaorð ívið fleiri hinum hjá Bjarna Thorar­ensen og hjá Jónasi Hallgrímssyni, svipað á báðum skeiðum þeirra. Hjá Benedikt, Matthíasi og Grími eru kyrrðarorð tveir þriðju heildar, en hjá þjóðskáldum og Steingrími fyrr og síðar eru kyrrðarorðin fjórir fimmtu allra hljóðorða. Viðbót hljóðorða er semsagt fyrst og fremst fólgin í því að draga kyrrðina fram. Og þetta færðist í aukana síðar hjá blæleitnum skáldum, orð sem lúta að kyrrð og lágum hljóðum, reynd­ust þrefalt algengari en orð andstæðs eðlis hjá Sigurjóni, Jónasi Guðlaugssyni og Davíð, en mun algengari hjá hinum (4/5 heildar eða meira, en 95% hjá Huldu). Niðurstaðan er þá sú, að kyrrð ein­kenn­ir þessi skáld almennt, og einkum á seinni hluta aldarinnar (en það er líklega algengt meðal ljóðskálda, idylla).


Um út­breiðslu ein­stakra orða verður að hafa þann fyrirvara, að rím­skorð­ur geta haft áhrif á hana, t.d. er einkar oft rímað saman óm-hljóm-blóm í ýmsum beyg­ingar­mynd­um. Þessi kyrrðarorð 19. aldar skálda töld­ust alls koma fyrir í rúmlega þúsund dæmum, algengust þeirra voru syngja (tæpur þriðj­ung­ur), hljóma (tæplega sjöunda hvert), þegja og kveða (hvort rúmlega níundi hluti), óma og hljóður.


Andstæð orð voru hálfu færri, samanlagt hálft sjötta hundrað dæma, algengust voru dynja (tæpur fimmtungur), hljóða (rúmlega áttundi hluti), glymja (tólfti hluti), hlæja, kalla/kall, gala (um fjórtánda hvert). Þetta er áþekk heildarniður­staða og um blæleitin ljóð, þótt tíðni einstakra orða sé önnur.



3. 5. 4. Djásnyrði.


Oft hefur verið haft á orði, að orð um ýmiskonar skart einkenni ljóð á sumum tímabilum. Því kannaði ég útbreiðslu slíkra orða, átján orða alls, og tólf fundust, í mjög mis­mik­lu magni. Minnst hjá Jónasi Hallgrímssyni (einn af þúsundi), hann hefur aðeins fjögur þess­ara orða. Mest hjá Benedikt Gröndal, þrefalt meira, sem hefur tíu þessara orða á fyrra skeiði, en sex á seinna. Sömu tíðni hefur Steingrímur á fyrra skeiði, með sjö orðanna, en sex á seinna skeiði (þá hrapar hlutfallið niður í sjöttung prósents, sama breyting birtist á þjóðskáldasafni frá fyrra skeiði til síðara, hvort tveggja seinna skeið er svipað og hjá Grími). Matthías er með fjórðungsprósent fyrr og síðar, en hafði átta orðanna á fyrra skeiði, sex á síðara. Bjarni er loks með sjö orðanna (sjöttung prósents, sama tíðni og Steingrímur á seinna skeiði). Bjarni hefur aðeins meira af þessu á seinna skeiði, en þetta er svo lítið, að varla er marktækt. Fjöldi einstakra orða skiptir hér máli, því allur þorri dæma er um tvö þeirra, gull og silfur! Samanlagt eru það nær 9/10 dæma (“gull, gullinn, gylla” eru alls 2/3 dæma). Önnur útbreiddustu orðanna eru perlur, silki, demantar, purpuri. Þessi tíðni hjá rómantískum skáldum er svipuð og hjá blæleitnum skáldum síðar. Í Íslenskri orðtíðnibók eru þessi orð samtals aðeins þriðjungur þess sem minnst var af okkar skáldum, hjá Jónasi (þ.e. 0,03% í orðtíðnibókinni).



3. 5. 5. Hrósyrði.


Séð hefi ég haft eftir Georg Brandes að rómantísk skáld hefðu hrósað náttúrunni í stað þess að lýsa henni. Þá[12] var hann reyndar að tala um hina miklu breytingu sem varð á skáldsögum um miðja 19. öld, og áður var vikið að, frá því að sögumaður ekki bara vissi allar hugsanir og tilfinningar persóna, heldur var sífellt að grípa fram í, og segja lesendum hvað þeim ætti að finnast um atvik og persónur, svo sem einkennir sögur Dickens, Balzac og t.d. Sögur herlæknisins eftir Topelius, svo fræg dæmi séu talin. En þetta víkur fyrir hlutlægri, og oft myndrænni fram-setningu, svo sem fræg varð af sögum Flaubert, t.d. Mme Bovary (1857) og Salammbo (1862).


Rétt þótti þó að kanna þetta einnig í ljóðum, með tilliti til boðskapar T. S. Eliot í byrjun 20. aldar, er hann sagði, að skáld ættu að skapa hlutlæga samsvörun tilfinninga í orðalagi hlutlægra lýsinga, sem vísa til tilfinninga, í stað þess að nefna tilfinningarnar[13]. Þetta kom einnig fram í ritdómum um blæleitin skáld íslensk, eins og vikið var að hér að framan. Til að kanna hvort þess gætti hjá skáldahópi vorum gerði ég lista yfir 40 algengustu hrósyrði í stærstu orðaskránni, úr ljóðum Stein­gríms Thor­steins­sonar, jók helstu hrósyrðum Íslenskrar orðtíðnibókar, og kannaði tíðni þeirra orða í henni og í ljóðasöfnunum. – Bent hefur verið á það (af Böðvari Guðmundssyni skáldi í umræðum um þessa rannsókn) að mikið sé til af hrósandi orðalagi, sem ekki finnist við talningu hrósandi lýsingarorða, svosem ”Hann bar af jafnöldrum sínum”. Mikið rétt, en augljóslega væri ekki vinnandi vegur að tína saman allt slíkt orðalag. Svo takmörkuð sem talning beinna hrósyrða er, þá virðist hún þó gefa marktækar upplýsingar. því þessi orð eru 3-9 falt tíðari hjá skáldum okkar en í Íslenskri orðtíðnibók (þriðjungur eins hundraðs-hluta þar). Þau voru minnst einn af hundraði orðafjölda textans (Grímur). og náðu upp yfir tvo og hálfan af hundraði hjá Jónasi og Bjarna og Stein­grími á fyrra skeiði þeirra. Tölurnar eru lægri á seinna skeiði þeirra, Bene­dikts og þjóðskáldasafnsins (en í því síðasttalda munar aðeins litlu). En vegna fylgninnar tek ég það þó sem vísbendingu um hneigð til fækkunar hrósyrða, sem Matthías ekki fylgir. Bjarni var með nær þrjá af hundraði á fyrra skeiði, en hálfu minna á seinna. Einnig hjá eftirfarandi skáldahópi, blæleitnum skáldum, var tíðni þessara hrósyrða einn til hálfur annar af hundraði, þetta virðist því langvarandi einkenni á íslenskri ljóðagerð, þótt eitthvað hafi dregið úr henni í tímans rás. En merkilegar undantekningar birtust, Einar Bene­diktsson og Davíð Stefánsson höfðu aðeins hálfan af hundraði hvor. Líklegt má virðast að þessir tveir hafi beinlínis forðast hrósyrði, til að miðla frekar tilfinningum óbeint, í ljóðmyndum.


Niðurstaðan verður sú, að hér ríki fyrst og fremst samhengi allt frá 19. öld, fækkun á seinna skeiði skáldanna, hvenær sem þau ortu; en frávik séu einstaklingsbundin. Hvað varðar útbreiðslu ein­stakra hrós­yrða. þá eru sömu orð algengust hjá 19. aldar skáldum og blæleitnum skáldum, þótt sætaröðin breytist nokk­uð. Á 19. öld var hún: góður (sjötta hvert), fagur (aðeins minna), blíður (tíunda hvert), sæll (tólfta hvert), fríður (átjánda hvert), kær (aðeins minna), en hjá blæleitnum skáld­um: blíður, góður, ljúfur, fagur og sæll, kær, mjúkur og helgur.



3. 5. 6. Fornt ljóðmál.


Samhengið íslenskum bókmenntum heitir fræg grein eftir Sigurð Nordal, frá 1924, en þar barðist hann gegn því viðhorfi að gera mikil skil milli fornbókmennta og íslenskra nútímabókmennta. Þetta samhengi birt­ist þó öðru fremur í afþreyingar­bók­mennt­um, lágmenningu, þ.e. rím­um og ridd­ara­sögum, sem Íslendingar lögðu einkanlega rækt við í sex hundr­uð ár, frá því um 1300 til 1900. Í rímum var mest lagt upp úr bar­daga­lýs­ingum og klingjandi rími, flóknar rímþrautir þóttu aðdáunarverðar, og því þurfti mikinn orðaforða til að geta valið úr sam­heitum. Þannig hélt þessi bókmennta­grein lífi í skáldskaparmálinu forna, sem einkennir eddukvæði og þó einkum dróttkvæði, þ.e. heiti og kenn­ingar. Þessi mikli orðaforði var því tamur öllum íslenskum almenn­ingi fram á 20. öld, og drottnar hjá alþýðu­skáldum alla tíð, nægir að nefna þau fremstu, Sigurð Breið­fjörð (1798-1846) og Bólu-Hjálmar (1796-1875). En þegar hugað er að kvæðum mennta­manna, þá kemur í ljós svolítið annar straumur. Eggert Ólafsson (1726-1768) er að vísu alveg á þessum nótum, svo sem Benedikt Jónsson Gröndal (1762-1825), en á síðustu ára­tugum átjándu aldar koma til annarskonar skáld, svosem síra Jón þorláks­son (1744-1819) og Sigurður Pétursson sýslu­maður (1759-1827). Þeir sniðganga bæði heiti og kenn­ingar, og yrkja á einföldu sam­tíð­ar­máli, svo sem tíðk­uðu sum frægustu samtíma­skáld þeirra norræn, norðmaðurinn Hermann Wessel og danirnir Johannes Ewald og Jens Baggesen. Og í Englandi boðaði skáldið Wordsworth skáldum um 1800 að hverfa frá þeirri stefnu klassisismans að segja frá frægu fólki og goðsögu­hetjum á upphöfnu ljóðmáli, þess í stað skyldi nú lýsa venju­legu fólki á venjulegu máli þess[14], það gæfi sannari lýsingu helstu tilfinninga. Þetta virðist líka í anda upplys­ingar­stefn­unnar sem þá ríkti í Evrópu, að ala lesendur upp, en þá þurfti að ná greiðlega til þeirra, á þeirra eigin máli. En nánar að gætt birtist þarna sú stefna að hverfa frá uppskrúfuðu og tilgerðarlegu ljóðmáli til eiginlegs alþýðu­máls. Þetta varð ein megin­stefna 19. aldar, hjá Grimmsbræðrum og fjölmörgum öðrum safnend­um þjóðsagna og þjóðkvæða, en hjá Fjölnismönnum á íslensku.


Með rómantísku stefnunni taka helstu íslensk skáld 19. aldar, sú skáld­fylk­ing menntamanna sem hér er til athugunar, þó að nýju upp hið forna skáldamál. Það var raunar í stíl við aft­ur­hvarf til forn­legs orðalags víðar um lönd, t.d. í dönskum bók­menntum (Oehlenschläger, t.d.). Þessi orð hafa íslensku skáldin þó tekið beint úr fornkvæðum fremur en úr rím­um, og ljær það 19. aldar ljóð­unum upp­haf­inn svip, eins og að nota sjald­gæfar orð­myndir svo sem hifinn í stað himinn. Auk þess er afgerandi munur á ljóðmáli rímna og skáldanna sem hér er um fjall­að, í því, að þessi skáld nota kenningar afar sjaldan. Það eru helst nokkr­ar kven­kenningar, sem mig grunar að hafi verið orðnar svo fastar í málnu, að nánast hafi verið litið á þær sem heiti. Hér má nefna: „auðar þöll“ (Bjarni), „auðarná“ (Jónas), „bauga­lín“ (Jónas og Grímur), „gull­hlaðs­gná“ (Matthías II), „njörva hlín“ (Grímur), „silki hlíð“ (Matthías I), „silki­lín“ og „silkirein“ (Benedikt og Matthías), „tróða“ (Stein­grím­ur I), „bauga­tróða“ (Grímur), „hringa­tróða“ (safnritið þjóð­skáldin I). Jónas Hall­grímsson notar líka kenn­ingar sem ég held hann hafi búið til, svosem „hranna­ljón“, „öldu­ljón“ um skip. Með því að forðast fornar kenn­ingar marka róm­antísku skáldin fjarlægð frá alþýðlegri kveðskaparhefð, en það gerist þegar í kvæðum Bjarna Thorar­ensen, löngu fyrir rímnadóm Jónasar (sem birtist 1835).


Fornt ljóðmál var kannað þannig, að úr orðalistum gerðum úr ljóðasöfnunum (með concordance-forritinu) gerði ég sameiginlegan lista yfir orð úr fornu ljóðmáli (halur, sprund, o.þ.u.l.). Þann lista bar ég síðan saman við Lexicon poeticum, orðabók um fornt skáld­skap­ar­mál, og jók nokkuð. Vafaatriði kannaði ég í Blönd­als­orðabók (sem merk­ir slík orð sérstak­lega) og Orð­sifja­bók Ásgeirs Blönd­als. Þetta varð um 220 orða listi. Ýmis álitamál komu enn upp, og fletti ég þeim orð­um upp í seðlasafni Orðabókar H.Í. Sú leit stað­festi að flest þessara orða væru í raun skáldamál, en önnur voru amk. á 19. öld komin inn í lausaritmál, en þá var þar margt tekið upp úr forn­máli, einnig úr fornu ljóðmáli. Því var nú sleppt orðum svo sem so. unna, no. höldur og vöttur, og lo. þróttmikill. Eftir stóðu rúmlega 200 orð. Síðan leitaði ég loks hvers orðs sérstaklega í ljóða­söfn­un­um með leit­ar­skip­un í texta­for­riti (MS-Word). Þá þurfti auðvitað að leita sér­stak­lega mis­munandi stofn­mynda orðs sem lúta hljóðvarpi eða hljóð­skiptum. Hinsvegar var ekki gerð­ur greinarmunur á orðum af sama stofni, ef bæði töld­ust fornt skálda­mál, t.d. var “dreyri” og “dreyrugur” tal­ið saman, en “dreyr­rauður” ekki talið með, því það er enn notað í dag­legu máli. Sjálfsagt kann mér að hafa sést yfir sitt­hvað. En ég held að það geti vart verið í þeim mæli að skakki hlut­föllum eða megin­nið­urstöð­um um þau rúm­lega 200 orð sem koma fyrir um 4260 sinnum í 7 ljóða­söfnum 19. aldar og nær 1500 sinnum í 11 ljóðasöfnum næsta skeiðs.



Fjöldi fornyrða


Þegar talið er hve mörg þessara orða eru notuð í einstökum ljóða­söfnum, kemur í ljós að það er mjög svipað hjá skáldum sama tíma­skeiðs. Bjarni Thorarensen hefur 83 slík orð, Jónas Hallgrímsson 84, eftirstöðvar þjóðskálda­safnsins 85. Eðlilega eru orðin fleiri í viða­meiri kvæða­söfn­um; Steingrímur Thorsteinsson hefur 141 (100 á fyrra skeiði, 119 á því seinna), Benedikt Gröndal 150 (124 framan­af, 112 síðar), Matthías Jochumsson á metið með 153 (135 fram­an­af, en 122 síðar), Grímur Thomsen hefur 123. Þegar litið er til næsta skálda­hóps, þá hefur Einar Benediktsson sama fjölda og þeir Bjarni og Jónas, en síðan lækkar talan stöðugt[15]


Þegar saman eru lögð öll tilvik forns ljóðmáls í hverju ljóðasafni, og deilt í þá tölu með heildar­orðaforða þess ljóðasafns, þá kom í ljós að þessi fornyrða­forði er jafnan mjög lítill hluti heildarinnar, yfirleitt milli 1 og 2 af hundr­aði. Hér er, sem áður segir, litið hjá því að ”kerfisorð” voru talin vera þriðjungur eða helmingur orðaforða texta við mat á orðavali. En hvort sem þessar niður­stöður um tíðni forns skálda­­máls í tölvutæk­um ljóða­­söfnum eru marg­faldaðar með 3/2 eða tvöfald­að­ar, breytist ekki sú niður­staða, að í þeim öllum eru þessi orð sambærileg við krydd frem­ur en við kjöt eða grænmeti í rétti.


Tíðni fornyrða reyndist þá vera rúmlega 1 af hundraði hjá Jónasi Hall­gríms­syni, hálfur annar af hundraði hjá Bjarna Thorarensen og Grími Thoms­en, og svolítið meira hjá Benedikt Gröndal. Hinsvegar birtist hér sama hneigð til fækkunar og endranær í ljóðmáli Bjarna, fornyrðin voru rúmlega 2 af hundraði á fyrra skeiði, en hálfur annar á seinna. svipuð hneigð er hjá öðrum[16]. Jafnvel þótt við tvöföldum það sem mest er, verður það þó aðeins 4-5 % orðavals, þá er minna en 20. hvert orð valið úr þessum sérstaka orðaforða, en oftast helmingi minna. Þessar tölur eru allar svo lágar, að spurn­ing er hvort munurinn sé mark­tækur. Hann er það tæpast milli þeirra skálda sem næst liggja hvert öðru, en greini­leg­ur á t.d. Jónasi og Matthíasi. Það var alla tíð megin­hlut­verk þessa orðaforða, að merkja textana sem ljóð, hafin yfir hversdagstal. Og það gat verið viss þörf á því þegar samtímis komu til nýir bragarhættir, með fleiri línum og lengri en algengt hafði verið. Einnig er þetta upp­hafna orðalag í stíl við náttúrulýrik, fornaldar­umfjöllun og þjóðræknis­hvatn­ingar 19. aldar.


Svo fátt sem hægt er að fullyrða um svo lítinn talnamun á ljóða­söfn­um einstakra skálda, þá virðist þó ljóst, að notkun fornyrða hafi aukist nokk­uð eftir daga Bjarna Thor­ar­ensen (d. 1841) og Jónasar Hall­gríms­sonar (d. 1845). Benedikt, Steingrímur og Matthías létu mest að sér kveða eftir það. Framangreindar tölur benda til þess að forn­yrða­tísk­an sé í há­marki á áratugunum 1840-80, en síðan dragi smám saman úr henni, og með vaxandi hraða á öðrum áratug 20. aldar, eftir það hverfur hún. Til þess að ákvarða það nánar þyrfti fræðilegar útgáfur ljóðasafnanna með ársetningum sem flestra kvæða. Þess er helst kostur með Bjarna og Jónas.


Þegar litið er á tíðni einstakra fornyrða og orðflokka þeirra á 19. öld, þá eru þrjár forsetningar samtals 5 af hundraði fornyrðaforðans - en algengasta nafnorðið, fold er eitt sér ívið tíðara (6%). Meðal algengustu forn­yrða er of (hálft hundrað dæma) í stað um, og það kæmi út á eitt í stuðlun og hrynjandi, hér er því ekki um brag­hent­ug­leika að ræða, heldur viðleini til að fyrna málið. En af forsetn­ingunum und­ir og fyrir eru til styttri myndir fornar, und (hálft annað hundrað dæma) og fyr (aðeins 7). Styttri myndirnar gátu fallið betur að hrynjandi en þær lengri, og þarf þetta þá ekki að vera fyrn­ingarviðleitni. En það kemur í sama stað niður hvað varðar heildarsvipinn, og vita­skuld geta hentug­leika­sjónarmið oft hafa ráðið því að fornyrði voru valin, af því að þau hent­uðu betur stuðlun, rími eða hrynjandi á tilteknum stað, en hin algengustu samheiti hefðu gert þar.


Sagnorð eru sjaldgæfust, hálf­drættingur á við for­setningar, en það er aðeins um fáeinar sagn­myndir að ræða, ss. fal, svam, kná, tér, þrumir, sæfir, hníta, fjóna, gella, svarra. Lýs­ingarorð eru hálfu tíðari forsetn­ingunum, eða tíundi hluti fornyrða. þar er stundum um sérstakar myndir algengra orða að ræða; fölvar, blóðgur, hrímg­ur, snjóvgur. Þau eru myndræn, en einnig ber töluvert á hrós­yrðum (mær, svás, fránn, þrúð(u)gur, svinnur); auk þess eru áherslu­for­skeytin regin-, jörmun-, fimbul-. Þau eru auðvitað eink­um hjá Benedikt Gröndal, svo sem löngu er frægt, en einnig hjá Matthíasi, Steingrími og anl. Grími.


Annars eru 4/5 fornyrðaforðans nafnorð, og þau tíðustu skiptast á fáeinar merk­ing­ar. Flest eru um fólk, rúmur fjórð­ungur fornyrða (hér eru þau talin upp eftir tíðni). þriðjungur þeirra orða er um konur (svanni, fljóð, drós, snót, sprund, víf, hrund, sjöfn og beðja; auk fáeinna kvenkenninga, sem áður segir, litlu færri eru um karla (halur, seggur, rekkur, höldur, gumi, ver, bur, mögur, skati, hlýri), en þar að auki er rúmlega níundi hluti um mann­söfnuð (öld, ýtar, drótt, firðar, firar, skatnar), sem oft­ast vísa til karla. Um konunga er svo tæpur fjórðungur orða um fólk (sjóli, mæringur, fylkir, gramur, hilmir, hildingur, jöfur, lofðungur, sikl­ingur, o.fl.). Tæplega sjött­ungur þessara orða um fólk er um hluta þess (mun­ur, móður, mund, en einnig ben, und, dreyri). Auk þess eru orð um muni gerða af mönnum sjöttungur forn­yrða, svo samanlagt eru orð um mann­heima rúmlega 2/5 allra fornyrða. Sem dæmi slíkra afurða má nefna: beður, rann, fley, knörr, hjör, en einnig óður, hróður. Ámóta tíð þess­um flokki eru orð um land, (rúmlega áttundi hluti), fold, frón, láð, storð, hauður, vengi, strind, hjarl, fjörgyn). Ámóta algeng eru og sjáv­ar­heiti (ægir, mar, rán, græðir, ver, lá, víðir, löður, röst, unnur, hrönn, dröfn, og loks elfur). Um önnur náttúrufyrirbæri eru nokkuð færri orð, tíundi hluti fornyrða (nótt (þ.e. gríma, njóla), aftann, röðull, sunna, eygló, hvel). Næst­al­gengast fornyrða er hel (tuttugasta hvert), en önnur sértök voru helst gnótt og rögn.


Hjá Bjarna og Jónasi eru fornyrði miklu oftar höfð um karla en konur, en það snýst svo alveg við hjá hin­um. En hjá Benedikt og Matthíasi eru heiti konunga fyrir­ferð­ar­mest forn­yrða um fólk, það gildir þó aðeins um fyrra skeið beggja.


Einnig birtast nokkur sérkenni skálda í tíðni orðflokka. Lýsingarorð voru óvenju­áberandi hjá Benedikt Gröndal á fyrra skeiði, nær fjórðungur forn­yrða hans, en það hlut­fall helmingaðist næstum á seinna skeiði. Forn­legar forsetningar fara upp undir fimmtung orðatíðni hjá Jónasi Hall­gríms­syni, þ.e ferfalt meira en meðaltal 19. aldar. Hjá Bjarna Thorar­ensen er meira en 2/5 fornyrðatíðni um fólk, í stað meðaltalsins fjórð­ungs, það er nær þriðjungur hjá Matthíasi á fyrra skeiði, en fer svo niður í fimmtung, eins og hjá Benedikt Gröndal á fyrra skeiði, litlu minna er það hjá Stein­grími á fyrra skeiði, en nær fjórðungur á seinna skeiði hans. Mest er þetta þó hjá Grími, rúmlega helmingur. Vitaskuld hefur hvert skáldanna sín uppáhalds­orð, svo sem vænta mátti, þegar þau velja úr þessum upphafna orðaforða.. Helst er að hjá Bjarna kemur orðið seimur fyrir 10 sinnum, firar 6 sinnum. Hjá Matthíasi er hildingur algengast orða um konung (21 dæmi), en snót um konur, fljóð hjá Steingrími á seinna skeiði, en svanni og víf fram­an­af. Hjá Grími er (eftir hel!) algengust orð um menn: rekkur, halur, seggur, ýtar, síðan drós, mær. En e.t.v. segir það ekki minna um skáld hvaða orð það er eitt um, þótt sjaldhöfð séu, einnig af því. Hjá Bjarna er feima (kona) tvívegis. Hjá Jónasi Hallgríms­syni eru tvívegis hvort barmi og sæfa og fimm stakorð; beimur (maður), kjóll (skip), fjörg (goð), og lýsingar­orðin fólkdjarfur og hrotinn. Hjá Benedikt Gröndal er það einungis orðið dellingur (auk kenn­ing­arinnar hrævageir) á fyrra skeiði, en á seinna skeiði einungis orðið sefi, sem að vísu hefur verið mun sjaldgæf­ara þá en nú er, á báðum skeiðum hans er orðið döglingur. Hjá Steingrími er það einungis orðið hneitir (auk kenningarinnar hergautur) á fyrra skeiði, en á seinna skeiði einungis lýsingarorðsmyndin fjörg, en sjafni á báðum skeiðum. Hjá Matthíasi koma orðin fjón og hjaldur tvíveg­is en vell (gull) og hlaðbúinn eru stakorð á fyrra skeiði, en á seinna skeiði: arnsúgur, gymir, snerra, hauklegur og fólknárungur, auk kenn­ingar­inn­ar Sónar­haf, loks er hjarl þrívegis á fyrra skeiði, einu sinni á seinna. Hjá Grími er það einungis orðið mar í merk­ing­unni hestur, auk þess sem paðreimur (podromos, þ.e. skeiðvöllur) er tvívegis hjá þessum grískuþýðanda en ekki öðrum, og haddur er hjá Grími og Páli Ólafssyni, en annars er ekkert slíkt stakorð í öðrum ljóðum safnsins þjóðskáldin.


Fylking blæleitinna skálda telst hefjast með Einari Benediktssyni, en hann er sem áður segir, á mörkum þessara tveggja hópa. Mér til nokk­urrar furðu reyndist hlutfall fornyrða vera nokkru lægra hjá honum en Sig­ur­jóni Frið­jóns­syni (á árunum 1898-1918), sama og hjá Grími Thomsen á síðustu áratugum 19. aldar, hálfur annar af hundraði. En á móti kemur, að Sig­ur­jón notar bragarhætti með mun færri lín­um og styttri en Einar, einnig munu máls­greinar hans yf­ir­leitt vera styttri og ein­faldari, og allt gefur þetta ljóðunum hvers­dags­legra yfirbragð hjá honum. Mér virð­ist líka að Einar noti meira upphafinn stíl, þar sem Sig­urjón og einkum þó Davíð Stefánsson noti að jafnaði hversdags­legra málfar. Hjá blæleitnum ljóðskáldum eru heildarhlutföllin nokkuð önnur, nafnorð eru 9/10 fornyrða (lýsingarorð helmingur hins, en afgangurinn skiptist nokkuð jafnt á sagnorð og forsetningar (of og und). Um fólk er tæplega sjötti hluti fornyrða (á móti fjórðungi áður), en tæplega fimmt­ungur er orð um hluti gerða af mönnum (sjöttungur áður). Mun fleiri eru sjávarheiti, en einungis rúmur helmingur á við það eru nú orð um land (áttundi hluti), önnur náttúruheiti eru ámóta mörg og orð um fólk, tæplega sjöttungur. En nú hefur hlutur kvenna aukist verulega, því af þessum orðum eru 3/5 um konur, en tíundi hluti um karla sérstaklega, nokkru færri eru heildarheitin, sem flest vísa raunar til karla (drótt, sjatnar). Konungheiti eru jafntíð og karla. Þau eru einkum hjá Einari Benediktssyni og Sigurði, en það helgast af tækifærisljóðum þess síðartalda við kon­ungs­komu til Íslands.


Einar Benediktsson stendur nær rómantísku skáldunum í jafnvægi í dreif­ingu orða á land, sæ og önnur náttúruheiti (áttungur hvert), en mun meira ber á munum (fjórðungur fornyrða) og fólki, (fimmtungur). Rúmur helm­ing­ur fornyrða hans um fólk er um konur, en fimmtungur þeirra um karla og jafnmikið því um konunga, afgangurinn (1/20) er um mann­söfn­uð. Jónas Guðlaugsson stendur honum næst í þessu, en hefur þó ekkert forn­yrði um karlmenn og lítið um konunga (1/20). Sigurjón Friðjónsson notar fornyrði hinsvegar miklu meira um náttúrufyrirbæri (2/3), og er sér­kennilegt að nær þriðjungur fornyrða þessa bónda merkir vatn af ýmsu tagi, en einungis rúmlega sjötti hluti land, en fimmtungur önnur náttúru­fyrir­bæri. Um fólk er svolítið minna en um land, en hálfdrætt­ingur á við það er um muni. Önnur blæleitin skáld hafa tvöfalt eða ferfalt fleiri fornyrði um vatn en um land, ámóta mikið eða meira um önnur náttúru­fyr­ir­bæri, sem og um muni og fólk. Varla er orð gerandi á dreifingu hjá þeim sem minnst hafa af fornyrðum, Jóhann Sigurjónsson, Stefán frá Hvítadal, Davíð og Tómas. Hjá Tómasi koma fornyrðin helst fyrir vegna rímþarfa (svanni-manni), en einstaka sinnum til að gefa ljóði upphafinn blæ (fley, hrönn, láð , mund).


Algengast fornyrða blæleitinna er hel, en aðrar sértekningar eru miklu sjaldgæfari, t.d. gnótt. Eins og vænta mátti af framansögðu eru orð um sæ og fljót með algengustu orðum: ægir, mar, rán, lá, græðir, víðir; hrönn, unnur, elfur. Síðan koma orð um ýmis náttúrufyrirbæri; röðull, hvel, eygló, sunna, gríma, njóla, blakkur, meiður. Helstu orð um land eru: fold, frón, storð, hauður, láð. Um fólk ber mest á orðum um hönd og hug: mund, munur, móður, und (sár), og um konur: fljóð, svanni, víf, snót, drós, hrund; um karlmenn er helst að telja halur, um mannsöfnuð: drótt, um konung: sjóli. Helstu orð um muni og annað manngert eru óður, fley, gnoð, skeið, beður, baugur, veig, mjöður, brandur, hjör, geir. Í stuttu máli sagt, sömu orð eru algengust hjá þessum skáldum og hjá fyrirrennurum þeirra á 19. öld, það er bara minna um þau.


Vart er unnt að sjá nein frávik einstakra blæleitinna skálda í þessum vinsældalista, sömu orð eru mest áberandi hjá þeim öllum. Það væri helst að telja að Sigurður notar orðið jöfur fjórum sinnum, en hann orti líka tækifæriskvæði við konungskomu, sem áður segir. Stefán frá Hvítadal hefur haft sérstakt dálæti á orðinu hyr, það kemur fjórum sinnum fyrir meðal hans fáu fornyrða. Hér sjáum við fyrst og fremst sterka hefð. En sé litið á hinn endann, þau orð sem skáld er eitt um, þá sjáum við hjá Einari Benediktssyni orðin gammur (hestur), lofðungur, ræsir, vísir og gramur (konungur), kjölur (skip), löður (sjór), sjöt (bústaður), hallur (steinn), en orðið paðreimur hefur hann vísast frá fóstra sínum, Grími Thomsen. Sigurjón er einn um kenningarnar: gullhlaðsnift, gæfuhörgur og hringatróða. Þessi sjálf­mennt­aði alþýðumaður hefur fundið meira fyrir nálægð rímnanna en hin skáldin, sem öll hljóta að teljast menntamenn. En auk þess hefur Sigurjón orðin jóð, mögur og sagnorðið týja. Hjá Sigurði eru stakorðin: andlang­ur, buðlungur, gandur og þjór; en hjá Jóhanni Gunnari bragnar, hjaldur, hodd og seggur. Hjá Huldu eru: arnsúgur og dynfari, frer, hlaðbúin og hlýrnir (himinn), hugumkær, einherjar, sjafni og öndur (skíði). Jóhann Sigurjónsson er einn um að nota sagnorðið hrjóða, en Jónas Guðlaugsson um orðin firðar og svás, Jakob Smári um orðið sefi. Stefán frá Hvítadal er loks einn um kenningarnar Sigtýs svanir og Sónarhaf, en það er í kvæði undir rímnahætti um alþýðuskáld (Farandskáld). Sérstæðust eru hér skáldin Einar Benediktsson, Sigurður, Jóhann Gunnar og Hulda, sem greinilega lögðu sig eftir sérkennilegum, myndrænum fornyrðum. Flest þessara orða eru einnota.


Niðurstaðan af þessu öllu verður, að Einar Benediktsson fylgi fyrri tíðar skáldum í tíðni og notkun fornyrða, en Sigurjón Friðjónsson er jafn­vel enn nær þeim í tíðni. Orðaforðinn er tekinn eftir rómantísku skáldunum. En síðan verður veruleg breyting á dreifingu þess­ara forn­yrða á mismunandi fyrirbæri, jafnframt því sem þeim fækk­ar, sú breyting hefst þegar hjá þeim skáldum sem komu fram um alda­mót­in, Sigurjóni, Sigurði, Jóhanni Gunnari og Huldu. Það er þó sérstaklega á öðr­um áratug 20. aldar sem fornyrði fara að hverfa úr ljóðmáli.


Hvað varðar orðaval af tagi upphafins ritmáls, svosem “vér” og orð­in sem fyrr voru nefnd, so. unna, no. höldur og vöttur, og lo. þrótt­mik­ill, þá yrði öllu erfiðara að greina þau frá algengu orðalagi en fornt ljóðmál. Auk þess liggur þessi stílblær upphafins ritmáls fullt eins mikið í setninga­gerð einsog í orðavali. Hér verður því ekki reynt að telja orðalag af þessu tagi, né orð með öðrum stílblæ, svo sem gamalt sveita­mál, borgarmál, slangur eða grófyrði. Slíkur stílblær kemur ein­ung­is til umræðu í greiningu ein­stakra kvæða.





3. 6. Yfirlit


Oft hefur verið tala um að rökkur einkenndi rómantíkina, en 19. aldar skáld okkar eru flest dags menn og morguns, og tala um vorið öðrum árstíðum fremur, flestir. Virðist vafalaust að þar komi til stjórnmála­áhugi, þ. á m. bjartsýni. Í heild má segja um undanfarandi orðatalningar, að oft má vera matsatriði hvort örlítill talnamunurinn sé marktækur. Mitt mat er að marktæk heildar­mynd birtist í framanskráðu, einkum vegna fylgninnar sem birtist í því, að flest skáldanna nota miklu meira af hrósyrðum og djásnyrðum (og auðvitað fornyrðum) en tíðkast nú, skv. Íslenskri orðtíðnibók. Ennfremur að þetta sé einkum áberandi á fyrra huta skáldferils þeirra, en á seinna skeiði þeirra er almenn hneigð til nokkuð einfaldara máls. Athyglisvert er að það gildir einnig um ljóðasafn Bjarna Thorarensen, þegar því er skipt um 1820, og um skilin í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar tveimur áratugum síðar.


Blæleitin ljóðagerð aðgreinist ekki skarplega frá því sem fyrir var, hvorki að bragarháttum, efnisatriðum né orðalagi. Skiljast þá betur viðbrögð ritdómara sem vikið var að hér framar, að enginn talaði um nýjungar, en ýmsir um ófrumleika. Samt verða breytingar á þessu sviði, smám saman, hjá sumum skáldum. Þjóðkvæðahátta fer að gæta fyrir aldamót, en einkum um miðjan fyrsta áratug 20. aldar, en þá fara einnig að birtast fríljóð, en prósaljóð, sem komu fram um miðjan níunda áratug 19. aldar, urðu algeng uppúr fyrri heimsstyrjöld. Eftirmæli eru mun meira áberandi hjá rómantískum skáldum en blæleitnum, einkum hjá Bjarna og Matthíasi. Og vitaskuld færast þau í aukana á seinna skeiði þessara skálda. Hér er Einar Benediktsson á mörkunum, þjóðern­is­stefna og guðstrú var áberandi hjá honum, eins og skáldum fyrri tíðar, en hvorttveggja hverfur að mestu hjá næstu skáldum okkar, en þau síðast fram komnu fara aftur að víkja að guði, Jakob Smári og Davíð, en einkum þó Stefán frá Hvítadal. Á móti ættjarðarljóðum kemur að skáld­in yrkja nú fremur um sitt nánasta umhverfi, hvort sem það svo er sveit (eink­um Sigur­jón og Hulda) borg (Tómas) eða - um tíma- útlönd (Einar Bene­dikts­son og síðar Davíð). Sam­fella birtist enn í því að kyrrð er mest áberandi allt frá 19. öld, og vor framanaf, en Jóhann Sigurjónsson, Stefán og Davíð leggja meiri áherslu á haust. Tíða­ákvarð­anir færðust mjög í vöxt hjá blæleitnum skáldum frá því sem gerðist á 19. öld, og það kemur heim og saman við eitt megineinkenni þess straums, sem við sjáum einnig á öðru, að grípa andblæ augnabliks. Á 19. öld var mest um eyktarorð, en hjá blæleitnum er mun meira talað um árstíðir. Á 19. öld bar mest á morgni og degi, en hjá blæleitnum á kvöldi og nótt. Í rómantísku ljóðasöfnunum samanlagt eru sumar og vor tveir þriðju dæma, hjá blæleitnum er enn meira yfirvægi vors og sumars. Hjá Jónasi Guðlaugssyni, Stefáni og Davíð ber meira á óyndi en unaði, enda verða þá náttúrulýsingar hrikalegar allt eins oft og að­lað­andi, en indæli ríkti annars allt frá 19. öld, og einnig hjá fyrstu skáldum okk­ar, eins og samstaða, en hjá fyrrnefndum yngstu skáldum ber meira á ein­fara. Ást­ar­sæla yfirgnæfir framað Jónasi Guðlaugs­syni, þar er jafn­vægi, en hjá Jakob Smára og Stefáni yfirgnæfir ástarsöknuður. Þessar áherslu­breyt­ing­ar held ég að endurspegli alþjóðlega tísku, en Tómas Guð­munds­son fylgir í þessum atriðum skáldum fyrri tíðar, þótt hann komi síðast fram og sýni góða þekkingu á hinni nýju ljóðlist. Í orðalagi verður líka hæg­fara þróun frá 19. öld, hvergi skörp skil. Þannig ber æ minna á fornu ljóðmáli, en einnig á 19. öld voru slík orð aðeins 1-2 af hundraði heildarorða­forðans, svosem til að merkja textann sem ljóð, og í samræmi við háfleyg yrkisefni. Tal um gull og gersimar og notkun hrósyrða virðist og ámóta algengt á 19. öld og hjá blæleitnum skáldum, nema hvað Einar Benedikts­son og Davíð Stefánsson virðast leggja sig meira fram um hlutlægar lýsingar en að lýsa yfir afstöðu.




4. Litbrigði


Hér á eftir verður fyrst og fremst fengist við ýmiskonar líkingar, auk litorða og sérkennilega afmarkaðra orða. Um ljóðmyndir að öðru leyti verður frekar talað í 5. hluta, í umfjöllun einstakra ljóða.



4.1. Litir.


Með orðaskrám (concordance) taldi ég hve mikið ber á hverjum lit í þess­um ljóða­söfn­um, og kannaði síðan um hvaða fyrirbæri hvert litarorð væri helst haft. Endanlega fæst best hugmynd um litanotkun með grein­ingu í hverju ljóði fyrir sig, en með þeim fyrir­vara vona ég þó að ýmis­legt geti þótt fróðlegt við þetta yfirlit.


Litorð eru að meðaltali 1 af hundraði orðaforðans, bæði á 19.öld og hjá blæleitnum. Hinsvegar er allmikill einstaklingsmunur á því hve mikið ber á litarheit­um í ljóðasöfn­un­um. Hjá Grími Thomsen og Matthíasi eru þau ekki nema rúmlega hálfur af hundr­aði orða­fjöld­ans, aðeins meira er hjá Bjarna Thorarensen og enn ívið meira á fyrra skeiði en seinna, en hálfu meira hjá Jónasi Hallgrímssyni, hann liggur á meðaltalinu, 1%, en einnig aðeins meira á fyrra skeiði). Sama gildir um Þjóðskáldasafnið og Steingrím Thorsteins­son, sem hefur svipuð hlutföll og Benedikt Gröndal fyrr og síðar (hálft annað % á fyrra skeiði beggja, en síðar 1% hjá Steingrími). Það er því rangt sem Einar Ólafur Sveinsson sagði 1930 (bls. 234): ”í hinni eiginlegu rómantík ber ber hvað mest á litauðginni hjá Jónasi”. Líklega hefur honum bara fundist þetta af því að hann hafi verið innlifaðri ljóðum Jónasar en hinna.


Mikill munur er einnig á tíðni lita hjá blæleitnum. Einar Benediktsson, Sigurður Sigurðsson og Stefán eru með hálfan af hundraði eins og Grímur og Matthías, en Jóhann Gunnar, Davíð og Tómas eru með tæplega einn af hundraði. Meiri er litatíðnin hjá Sigurjóni Friðjónssyni, Huldu og Jónasi Guðlaugssyni, þ.e. hálft annað prósent eins og hjá Benedikt og Steingrími á fyrra skeiði þeirra. En Jóhann Sigurjónsson hefur ívíð meira, og litaheiti eru loks rúmlega tveir af hundraði af texta Jakobs Smára.


Allt er þetta mun meira en í Íslenskri orðtíðnibók, þar voru þessi litaheiti samanlagt aðeins fimmtungur úr prósenti. Þar var svartur algengast (sjöttungur litaheita), en hvítur og ljós voru hvort um sig tæpur sjöttungur, ásamt bjartur voru þessi þrjú orð um ljósan lit samanlagt nær tveir fimmtu, en rauður tæplega tíunda hvert. En blár, dökkur, grár og grænn eru hvert um sig aðeins um sautjánda hvert dæmi Orðtíðnibókarinnar.


Rómantísk skáld nota yfirleitt ámóta mörg litaheiti, flest 17 (Steingrímur, og þjóðskáld fyrra skeiðs), fæst 12 (Matthías á seinna skeiði). Bjarni og Jónas hafa 15. Í ljóðasöfnum 19. aldar ber mest á sjö litarheitum í þessari röð: blár, hvítur, grænn, svart­ur, grár, rauður, bleikur. Sama gildir hjá blæleitnum. Sum skáld nota ekki aðra liti, Einar Bene­dikts­son, Davíð og Tómas, litlu fleiri hafa Sigurður, Jóhann Gunnar, Jónas Guð­laugs­son (8), Hulda og Stefán (9). Gulur og brúnn eru mun sjaldgæfari framantöldum. Enn hefur Jakob Smári algera sér­stöðu hér, hann hefur svo mik­ið af samsettum litarheitum, að litarorð hans verða alls 34. Að með­töld­um öllum sam­setn­ingum verða litarorð ljóða­safn­a 19. aldar samtals 47, enda þótt ekki séu þá talin sérstaklega orð um lit­brigði einsog ljósrauð­ur og dökk­blár (þau eru talin udir ljós og dökkur). En litorð blæleitinna eru ívið færri, samtals 44.


Í líkingum gat verið álitamál hvort litur teldist eiga við kennilið eða myndlið. T.d. segir Steingrímur að fyrrverandi unnusta hans hafi verið “liljan hvíta”, og á þá augljóslega ekki við að hún hafi verið fölleitari en aðrar konur íslenskar, heldur fylgir liturinn heiti blómsins, sem er tákn sakleysis, síðar glataðs. En hér er þetta dæmi þá greint sem hvítt blóm, og fleiri dæmi eru þess að litur fylgi myndlið. Úr sama kvæði: “Hvernig ertu hröpuð, stjarnan bjarta,”. Og einnig “að eyjarbarmi fagurljósum” (STKvæðiv.afhjAT), sem og persónugervingar í öðru kvæði eftir Stein­grím: ”Betri er sannleikur byrstur og grár, en bláeyg lygi með gló­bjart hár”. Annars er það langoftast, að kenniliður ráði lit; “brimskafl bláfaldinn” (JHBatteríski), “mörg mun alda/ á mari rísa/ og vegu bláa“(BG1TilFriðriks), en iðulega velja skáldin litarorð sem eiga í senn við kenni­lið og mynd­lið, t.d. “Úti sat und hvítum/ alda faldi/ fjallkonan fríða” (JHMagnúsarkviða), “Hver dagur nú á buxum bláum/ Og blárri treyju gengur hjá.”(ST2Sumar­heið­ríkja), “rósin óx, varð yndisblíð og ljós (Matthías um stúlku í TilfrúGuðl), “in ljúfu blóm í dufti hvíla bleik.” (sama um börn).


Sem bakgrunn umfjöllunarinnar vil ég tilfæra niðurstöður Jakobs Benediktssonar um litanotkun í kvæðum Jónasar Hallgrímssonar (bls. 119):



Þrjú algengustu litarorð Jónasar, blár, hvítur, grænn, eru framar öllu notuð til að lýsa íslenskri náttúru. Þau tákna þá liti sem mest ber á í myndum hans. Og orðin eru oftast notuð blátt áfram og af algerri hlutlægni, í öllum einfaldleik sínum eiga þau sinn drjúga þátt í því að bregða upp ljóslifandi myndum með örfáum en skýrum og hrein­um dráttum sem oft eru skerptir með haglegri beitingu and­stæðna í litavali. Hið sama á við að verulegu leyti um fátíðari orð­in, eink­um þó rauða og svarta litinn. Hlutlægni og tengsl við íslenska nátt­úru ráða þar miklu, en þau eru þó oftar notuð með nokkrum tilfinningablæ sem dregur úr hlutlægni þeirra.



Þessi lýsing á í megindráttum við um ljóð rómantískra skálda allra. Flest eru dæmin um bláan lit, tæplega 500, það er fimmtungur dæma. Bjartur er næstalgengastur með rúmlega 430, og að viðbættum hvítur (rúml 250) og ljós (rúmlega 100), er sá bjarti blær þriðjungur litadæma. En dekkstu litirnir eru hálfdrættinugur á við það, samanlagt sjöttungur[17]. Þar næst kemur grænn, tíundi hluti (rúmlega 230 dæmi). Gullinn er fimmtándi hluti, og tífalt algengari en gulur, Grár er ámóta tíður og svartur, um tuttugasta hvert dæmi hvor. Annað er miklu sjaldgæfara, blendingslitir eru bara stakdæmi, sem síðar verður komið að.


Einnig hjá blæleitnum er bjartur blær þriðjungur dæma. Þar er blár tíðari, rúmlega fjórðungur (711 dæmi), en svart að viðbættu dökku og dimmu er einnig fjórðungur. Annað er miklu sjaldgæfara og dreifðara.[18]


Hér er fyrirbærum skipt í átta meginflokka, sömu og ella. Oftast er litur hafður um himnesk fyrir­bæri, það er nær fjórðungur heildar á 19. öld, en rúmlega þriðjungur hjá blæleitnum. Næst ganga jarðnesk fyrir­bæri, fimmtungur heildar en sjöttungur hjá blæleitnum. Því næst koma mannleg, sjöttungur á 19. öld, en níunda hvert litorð hjá blæleitnum, eins og lagarorð. Þau síðasttöldu, haf, vatn o.þ.u.l. eru ívið tíðari á 19. öld, áttundi hluti, og manngerð fyrirbæri voru þá næstum jafntíð. Annað er miklu fátíðara, gróður er tólfta hvert, eins og hjá blæleitnum, jafntíð voru þá litorð um hluti. Loks eru lífverur 22 hvert og sértök aðeins 27. hvert, svipað hjá blæleitnumn, eins og dreifing á þessa hópa í heild.


Auðskilið er að blár litur yfirgnæfi, því á 19. öld er þriðjungur dæma blás um fyrirbæri vatns, annar þriðjungur um himin, ský og þvílíkt, fimmtungur um fjall, land, grund og fleira af því tagi. Annað er hverfandi, nema helst blá augu (sautjánda hvert dæmi), það eru auðvitað einkum augu kvenna. En liturinn yfirgnæfir jafnan hjá okkar skáldum nema hjá Matthíasi, Grími og á seinna skeiði Benedikts (þar bjartur), og hjá Tómasi (þar er hann þó næstal­geng­astur, rúmlega þriðjungur litorða, en hvítur algeng­ast­ur). Blár er enn tíðari hjá Huldu, rúmlega helmingur. Hvað blæleitin skáld varðar, þá var blátt uppháhaldslitur táknsæisskálda skv. Louis Forestier (bls. 102-4), voru þau þó mjög litsækin. Hjá blæleitnum ber yfirleitt miklu meira á bláma himins en vatns, og enn miklu minna á bláma blóma og augna, hvort um sig er undir tíunda hluta oftast. Tómas fylgir í þessu 19. öld, rúmur helm­ing­ur dæma hans er um haf eða vötn, rúmur þriðjungur um himin.


Bjartur er af 19. aldar skáldum einkum hafður um fyrirbæri himins (sól, himinn, sólskin, stjarna), það er þriðjungur dæma. En fjórðungur er um fólk, Þar ber mest á konu og hlutum hennar (hár, brjóst, andlit, brá, háls), það er samanlagt sjöundi hluti dæma um bjart. Fimmtungur er svo um fyrirbæri lands (fjall, klettur, ís, hæð, jökull). Hjá blæleitnum er nær helmingur dæma bjarts af himnesku tagi (loft, dagur eldur, o.s.frv.), en næst gengur mannlegt, sjöttungur (kona, brjóst, brá, m.a.), loks er rúmlega áttungur um hluti (gull, klæði o.fl.).


Ljós er vitaskuld mjög á sömu sviðum og bjartur. Rúmur þriðjungur dæma 19. aldar er um fólk, og þar yfirgnæfa litir kvenna, það er nær þriðjungur dæma; kona, hvarmur, háls, hár o.s.frv.). Fimmtungur dæma er um fyrirbæri himins (dagur, himinn, geisli. o. fl.). Næst því gengur manngert (áttundi hluti; salur, hjúpur, hjálmur, brynja o.fl.), en vatnskennd fyrirbæri og jarðnesk eru tíundi hluti hvort (haf, lind, vatn, fjall, jökull, grund). Annað er helst blóm. Hjá blæleitnum er fjórðungur dæma ljóss litar af himnesku tagi (dagur, eldur o.fl.), en fimmtungur um mannlegt (hár, armur o.fl.). Lögur, láð og gróður er sjöttungur hvert (alda, ís, land, m.a.)


Hvítur er enn of eð sama far. Nær þriðjungur dæma 19. aldar er um jörð, einkum Ísland, jökul, ís og snjó. Næst því ganga alda, foss, haf og því um líkt, sjöundi hluti dæma. Tíundi hluti er úr dýraríkinu (fugl, fjaðrir, sauðfé og hestar), og jafntíð eru manngerð fyrirbæri; klæði, segl, lín o. fl. þ. h. Himnesk fyrirbæri eru hálfu fátíðari, ský, sól, tungl, þoka. Rúmur fjórðungur dæma er um fólk, nokkuð um hvítar hærur, karla og kvenna. En nær fimmtungur er um konur sérstaklega (armur, “svanhvít brjóst”, háls, fótur). Og hér er ekki eingöngu um losta að ræða, heldur einnig andstæðuna, það liggur við að tala megi um líkást hjá Bjarna (necrofiliu), einkum í Sigrúnar­ljóði hans, en einnig dásamar hann fegurð ellifölra kvenna. Að þessu víkur Páll Bjarnason (bls. 46): ”Oftast er litarhætti kvenna líkt við mjöll, ímynd hins hvíta og hreina, en vörum þeirra við rauðar rósir.” Síðar (bls. 83): segir Páll að Jónas Hallgrímsson noti hvíta litinn á annan hátt í kvenlýsingum, hann ”skírskotar með honum til sumarbirtu (sólhvítur).” Um það segir Jakob Benediktsson (bls. 118): ”Ljós er mikið eftirlætis­orð Jónasar í sambandi við kvenlega fegurð [...] Bjartur er og notað í líkri merkingu, en sjaldnar og ekki með alveg sömu nafnorðum”. Hjá blæleitnum er hvítt næstalgengast litorða, sjöttungur. Það er einkum haft um snævi þakin land­svæði og “jökulskalla”, gjarnan í andstöðu við blátt og grænt. Þó er þetta ekki nema þriðjungur dæma um hvítan lit. Í hálf­kvisti við það koma lýsingar á líkamshlutum manna, en eink­um kvenna, enni, hendur og enn “svanhvít brjóst”. Þessvegna er hvítt algeng­astur lita hjá Tóm­asi (rúmlega tveir fimmtu litdæma; auk líkamshluta kvenna hefur Tómas hann um rósir, blómrunna, kertaljós og fley). Auk þess er hvítur litur af blæleitnum hafður um fossa, brim, segl, svani og máva, blóm, ský og þoku. Hann er sem áður segir fimmtungur tilvika á 19. öld og hjá Jóhanni Sig­ur­jónssyni, en nær þriðj­ung­ur hjá Einari Benediktssyni, gegn meðal­tal­inu sjöttungi hjá blæleitnum.


Myndin breytist verulega þegar farið er yfir í dökku litina.


Svartur er einkum haft um fyrirbæri himins, það er nær þriðjungur dæma 19, aldar. Einkum er tekið fram að myrkur og nótt séu svört, en einnig ský, skuggi og vetur. Næst ganga manngerðir hlutir, fjórðungur dæma, en þau fara dreift, algengast er klæði, síðan skip og brynja, en annað er stakdæmi. Litir fólks eru sjöundi hluti, og enn er mest um litu kvenna, augu og hár, það er tólfti hluti, eins og sértök, aldrei þessu vant (dauði, horfur, synd og öfund, m.a.). Áttundi hluti er um jarðnesk fyrirbæri, dalur, klettur, mold, gröf, gjá, m.a. Annað er fátítt, haf, fljót. Af þessu má sjá að svart er oft tákn­rænn litur í ljóða­söfnunum frá 19. öld. Það er haft um “heljarhúm”, “svart­nætti grafar”, o.s.frv. Undan­tekn­ingar frá þessu eru myndrænar nátt­úru­lýs­ingar, einsog að Selfjall teyg­ir fram svarta skuggafingur (Jónas Hall­grímsson). Þetta helst lengstum hjá blæleitnum skáldum, t.d. er svart ævinlega tákn­rænn sorg­arlitur hjá Davíð, auk þess að tákna villimannseðli á Abba-labba-lá og út­skúfaðan lítilmagna á hröfn­un­um. En hjá Jakobi Smára snúast hlutföllin enn við, svart er oftar þáttur í lýsing­um mynd­ræn­na sér­kenna en sorgar­lit­ur. Hjá blæleitnum er svart rúmlega þrettánda hvert litarorð að meðaltali, en algeng­astur lita hjá Davíð, nær fjórðungur allra litorða hans. Það er að sönnu í samræmi við titil fyrstu bókar hans, Svartar fjaðr­ir.


Dökkur nær yfir önnur svið, fyrst og fremst jarðneskt (fjórðungur dæma; klettur, gjá, fjall, o.s.frv.), en fimmtungur um fólk; auga, brá, blóð, helmingur þeirra dæma er um augu og hár kvenna. Annar fimmtungur er haf og alda, loks er sjöundi hluti um ský, himin og annað af því tagi. En það er þriðjungur dæma blæleitinna, fjórðungur er um haf, vatn og þvílíkt, en sjöttungur um mannlegt (augu, hár, m.a.).


Dimmur er fyrst og fremst um himnesk fyrirbæri, nær þriðjungur dæma, einkum nótt, ský, himin. Fimmtungur dæma er af jarðneskum toga; einkum klettur, dalur, fjall og grund. Auk þess er helst að telja dimma drauma, augu, tímaskeið og dauða, ennfremur haf og öldu (áttundi hluti er af því tagi). Hjá blæleitnum fer himneskt upp í 3/5 dæma dimms. en sjöttungur er mannlegt (enn augu og hár), loks er tíundi hluti um haf og þvílíkt.


Þessir litir eru vitaskuld oft táknrænir, hafðir um slæmar horfur, o.s.frv. Jakob Benediktsson bendir á (bls. 119) að Jónas Hallgrímsson noti dimmur og dökkur sem ”skuggalegur, um það sem boðar ógæfu”.


Grænn (tíundi hluti litorða 19. aldar) er nær eingöngu hafður um gróður, völl, gras, grein, lauf, skóg, og þar í grennd; ey, dalur, land, gröf, Ísland. Því tengt er að tala um grænt vor, hús og elli, ennfremur má telja öldu, haf, norðurljós og fugl. Tilviljunarkenndari er þessi litur á hlutum, prófborði, belti, djásni og flík. Hjá blæleitnum skáldum er grænt ívið sjaldhafðara (rúmlega tólfta hvert litorð). Frávikin eru að hann er tvöfalt tíðari hjá Jóhanni Gunnari, en aðeins tuttugasta hvert hjá Davíð og þrítugasta hvert hjá Jónasi Guð­laugs­syni, loks aðeins þrjú dæmi hjá Einari Bene­diktssyni. Grænn er að sjálfsögðu fyrst og fremst hafður um gróður og gróna velli. Menn eru ekki alltaf að sýta smáatriði í því sambandi, tala stundum um græn blóm og tré. Auk þessa eru fáein dæmi um grænan lit á sjó, öldum og fljótum, á ís (Jóhann Sigurjónsson og Smári), og um klæði (Stefán). Smári hefur þennan lit auk þess á fjöllum, páfugli og “ástarheim­um”.


Grár (tuttugasta hvert litorð 19. aldar) er helsta andstæða græns. Stöku sinnum er því grár haft um visnaðan gróður og mosaþembur, en auðvitað einkum (rúmur fimmtungur dæma) um jarðnesk fyrirbæri, grjót, klett, strönd, fjall. Næsttíðust eru fyrirbæri himins, þoka, ský, nótt (rúmur sjöttungur). Um fólk er rúmlega níundi hluti dæma, en nú ekki um konur, heldur karla og hærur. Annað eins er um brynjur, klæði o.fl.þ.h. Loks er rúmur tíundi hluti um haf og öldur, enn má telja dauða og elli (fimmtándi hluti um sértök). Grár er semsé haft til að sýna ellimörk á gróðri og fólki, til að sýna landslag og veður sem óaðlaðandi. Einnig hjá blæleitnum skáldum er grátt (28 hvert litorð) mest haft um þoku, steina, mosa­þembur og auðn, ellimörk á gróðri og fólki, til að sýna lands­lag og veður sem óaðlaðandi. Stak­ar undantekningar eru helst hjá Smára; grár litur er þar hafður um hita­móðu og tunglskin. Grár er tuttugasta og þriðja hvert litorð blæleitinna að meðal­tali (en kemst upp í níunda hvert hjá Sigurði, niður í fertugasta og þriðja hvert hjá Huldu).


Rauður (einnig tuttugasta hvert litorð 19.aldar) er í rúmlega fjórðungi dæma 19. aldar haft um eld, sólskin, sól, tungl, ský og önnur himnesk fyrirbæri. Nálega jafntíð eru mannleg fyrirbæri, einkum blóð, kinnroði og varir. En fyrir utan hið síðastnefnda er hverfandi lítið rautt um litu kvenna. Fimmtungur dæma er um manngerða hluti, vín, klæði, gull, skjöld o. fl. þ .h. Annað er helst blóm, hestur, fugl. Páll Bjarnason segir (bls. 83) um ástakvæði fyrstu rómantísku skáldanna: ”Bjarni notar oft rauða litinn sem tákn nautnar, en Jónas aldrei.” En Jakob segir (bls. 116): ”þrennt er einkum rautt í kvæðum Jónasar: eldur, blóm og blóð”. Hjá blæleitnum skáldum er rauður litur sjaldgæfari (rúmlega þrítugasta hvert litorð að meðaltali), býsna staðlaður. Fimmt­ungur dæma er um sól, einkum sól­arlag, annar fimmtungur er hafður um rósir og önnur blóm. Rúmlega tí­undi hluti er um blóð, og annað eins er um eld. Litlu færri dæmi eru um ým­is­konar klæði, en rauðar varir og gull eru hvort um 6% dæma. Það er að gamalli hefð, Hér hafa sum blæleitin skáld vissu­lega sérstöðu. Sigurjón er svo bund­inn við náttúru­lýsingar að öll hans 9 dæmi eru um sólarlag, en þriðjungur jafn­margra dæma Davíðs er um rósir, auk þess hefur hann rautt um eld, gull og sólarlag. Allt er þetta heldur hefð­bund­ið einsog hjá Stefáni sem hefur 4 dæmi um blóð, 3 um varir og 2 um rósir, af 15 alls. Jafnmörg eru dæmin um rautt hjá Jónasi Guðlaugssyni, en helmingur þeirra er um rósir. Enn er Smári sérstæðastur, enda hefur hann flest dæmin (35). Þriðjungur þeirra eru um sól, einkum sólarlag, 5 um blóð og 2 um varir, en engar rósir. Hins­vegar hefur hann rautt grjót, rauða sanda, rauðar heiðar, ljós­rautt hör­und, eir­rauða lokka.


Gullinn (fimmtándi hluti litorða 19. aldar) er aldrei þessu vant einkum hafður um manngerða hluti, tveir þriðju dæma, sem eru mörg og dreifð (helst: hljóðfæri, vagn, letur, skál, vín). þriðjungur er um himnesk fyrirbæri, og þá einkum sólskin, sól, ský og ljós. Sjöttungur dæma er um fólk, og enn ber þar mest á litum kvenna; það er tólfti hluti dæma (8 hvort um hár og tár, einkum Freyju, en 4 um konu almennt). Blæleitin skáld nota gullinn (aðeins 38 hvert litorð) einnig mest um hluti (3/5 dæma). Fimmtungur er um fyrirbæri himins, og nær tíundi hluti um mannlegt, einkum hár, hitt er dreift.


Bleikur (minna en 30. hvert litorð) er á 19. öld að tveimur fimmtu haft um fólk (maður, kinn, hár), en annað er dreifðara, helst tungl, blóm og hestur. Flest eru dæmin um lík (áttundi hluti), en af sama tagi má telja dauða, vofu, orrustu og óvætti, m. a., alls cr þriðjungur dæma með þessum feigðarblæ. Undan­tekning frá þessu er a.n.l. Jónas Hallgríms­son, þar er bleikt einnig myndrænt sérkenni, gjarnan fegurðareinkenni, fyrir kemur hjá honum orðið “íturbleikur”, sem hann raunar tekur frá Bjarna. Hjá blæleitnum er bleikur (einnig þrítugasta hvert litorð) enn táknrænt fyrir fölva og feigð. Auk þess er þetta ein­kenni tunglsljóss, hjá Stein­grími, Jóhanni Gunnari, Huldu, Jónasi Guðlaugssyni og Stefáni.



4. 1. 1. Sjaldhafðir litir.


Gulur, brúnn og blakkur eru miklu fátíðari en framantaldir litir. Hvað varðar þann fyrsttalda (15 dæmi á 19. öld), helgast það af því að gullinn er yfirleitt notaður um þennan litblæ, sem fátíðara orð í daglegu máli, og þar með upphafnara, “skáldlegra”. Það orð er þó aðeins tvisvar hjá Jónasi, en gulur þrisvar, hann fer létt með að nota það í skáldlegum myndum: ”klógulir ernir yfir veiði hlakka”, ”þegar ljósgul um mörk/ rennur lifandi kornstanga móða”, eða nátt­úru­fræðileg nákvæmni: ”fjóla gul og rauð og blá”. Slík nákvæmni sýnist mér líka á ferðinni í dæmum Steingríms um blóm, akur og stráhatt, sem og í upptalningu Benedikts á litum í ”Gullörn og bláfugl”. Grímur notar þetta sem framandlegt einkenni, Gyðingurinn gangandi geysist ”um gula sanda”, en einnig niðrandi: ”Af olíum eg orðinn var/ algulur í framan” (Bramalífs-elexír). Hjá blæleitnum skáldum er gulur lítt áberandi (fimmtugasta hvert litorð) Hann er haustlitur hjá Sigurjóni Frið­jóns­syni, Huldu og Stefáni frá Hvítadal, einnig í þriðjungi dæma hjá Smára, en er ann­ars bara myndrænt sérkenni, gulir lokkar hjá Tómasi, o.s.frv..


Brúnn kemur fyrir tíu sinnum hjá 19. aldar skáldum, og helmingur þeirra dæma er hjá Benedikt Gröndal, sem þannig dregur fram hversdagslegt í gamankvæðum. ”silkibrækur,/ samlitar brúnum kaffekorg”, ”klæddur í kalmúkstreyju/ kaffibrúna”. Auk þess hefur hann tvö dæmi um brúna hesta, eins og Grímur og ”Eins finnst mér tindra augað brúna” (BG1Minning), það hefur Sigurður Breiðfjörð einnig, og ”brúna brá” (Stúlkulýsing), sem síðar verður minnst á. En Steingrímur talar um ”brúnleitt” láglendi og fell. Hjá blæleitnum skáldum er brúnn heldur ekki hafður um gróðurlaust land, heldur um augnalit og litaraft fólks og hesta. Hann er mjög sjaldgæfur, kemur ekki fyrir hjá sumum skáldum, og aðeins stöku sinn­um hjá hinum (innan við 1% litorða að meðaltali). Aftur sýnir Jakob Smári sérstöðu með tug dæma, auk brúnnar moldar eru t.d. “skuggabrún sker”


Blakkur er sex sinnum hjá 19. aldar skáldum, og fimm dæmanna eru skorðuð stuðlum eða rími. – án þess að fullyrt verði að það hafi ráðið orðavali. Þetta kemur auk þess fyrir hjá Grími: ”glottir og blakkan hristir skallann” (Glámur), og fer vel á framandlegra orði en dökkur um haus draugsins. Af blæleitnum skáldum eru það einungis þrjú skáld sem nota þennan lit. Einar Benediktsson og Smári hafa 7 dæmi hvor, Jónas Guðlaugsson eitt. Þeir hafa blakkur um sömu fyrirbæri og dökkur; það eru klettur, sandur, auga, brá.



4. 1. 2. Andstæður


Í heild eru orð um litu kvenna nær tíundi hluti dæmasafns 19. aldar (rúmlega 200 dæmi). En þetta er auðvitað mismikið eftir skáldum, og jafnan meira á fyrra skeiði þeirra, svo sem fáa mun undra. Enn verður að ítreka fyrirvara um Bjarna og Jónas, að dæmin verða fá í heild, þegar ljóðum þeirra er skipt á tímaskeið. Hjá Bjarna eru litir fólks, aðallega kvenna, fjórðungur litdæma á fyrra skeiði, nær ekkert á seinna. Hjá Jónasi á fyrra skeiði eru líka litir kvenna nær öll dæmin um fólk, áttundi hluti litdæma hans, en kvenlitir verða helmingur dæma um fólk á seinna skeiði, tæplega tíundi hluti litdæma. Hjá Steingrími var þetta áttundi hluti á fyrra skeiði, eins og hjá Jónasi, en minnkaði um helming á seinna skeiði. Nokkru lægra var hlutfallið hjá Benedikt á fyrra skeiði (tólfti hluti), en varð mun lægra á seinna skeiði (tuttugasti hluti litdæma). Matthías virðist vera undantekning, orð um litu kvenna voru sextándi hluti litdæma á fyrra skeiði, en fóru upp í ellefta hluta á seinna. En þetta er ekki lostakennt fyrst og fremst, heldur einkum afmæliskvæði til aldraðra kvenna, eða eftirmæli. Hjá þjóðskáldum er öðru máli að gegna, því þar er um mis­mun­andi skáld að ræða á fyrra og seinna skeiði 19. aldar, en ekki mis­mun­andi aldursskeið skálds. Þess verður þó að geta, að á fyrra skeiði er þetta rúmlega áttundi hluti, líkt og hjá Jónasi og Steingrími, en nánast ekkert á seinna skeiði. Enda er mest um kvæði kvennalofs á fyrra skeiði, Sigurðar Breiðfjörð og Páls Ólafssonar.


Með tilliti til litarafts norrænna kvenna er auðvitað engin furða að fimm tugir litorða um konur almennt skuli dreifast á orðin bjartur, hvítur og ljós, eins og tugur litorða um brjóst og tæpur tugur um háls (samanlagt tæplega þriðj­ungur litorða um konur). Þetta er þó fegurðarsmekkur tímans, and­stæð­ur okkar tímum, ljótt þótti að vera sólbrennd, því það einkenndi alþýðu­fólk, sem varð að vinna úti. Sigurður Breiðfjörð hefur þó ”brún á brá,” í jákvæðri Stúlkulýsing. En einhver staðlaðasta persóna 19. aldar bók­mennta er dökkhært og dökkeygt tálkvendi, svo sem einkennir t.d. sögur Gests Pálssonar skv. Sveini Skorra (1965, bls. 585-7): “Ástkonur margra raunsæissagna eru suðrænar, lágar og dökkeygðar” – en ljóshærðar konur og bláeygar eru öldungis óspennandi í sögum Gests”. Í danskri bókmenntasögu (Dansk litteraturhistorie II, bls. 350) segir Oluf Friis að þessi “sígaunaaugu” og –eðli sé komið frá Byron í Mazeppa. Ofætlun er mér að þýða Byron, en þó skal reynt að snara myndrænustu glefsum úr þessari lýsingu, frumtexinn[19] er neðanmáls:



Hún hafði asískt auga [...] dökkt eins og himinninn yfir oss; en gegnum það stalst blíðlegt ljós, eins og þegar máninn rís á miðnætti, stór, dökkur, syndandi í strauminum, og virtist bráðna í eigin skini. Öll af ást, hálfvegis kyrrð og hálfvegis eldur [...] augnabrún eins og miðsumarvatn, gagnsætt með sól í, þegar öldur þora ekki að gefa frá sér hljóð, og himinninn sér andlit sitt í því[...]



Andstæð þessu eru hlutföllin hjá 19. aldar skáldunum íslensku. Algengasti augnlitur er blár (rúmlega helm­ingur dæma) og bjartur. Svartur, dökkur, dimmur og brúnn ná samanlagt tæp­um þriðjungi augnlitar. Enn minna er um dökkt hár, sem oftast er kallað svart, samanlagt er það sjöundi hluti dæma um hárlit. Stein­grím­ur var helst mun­úð­ar­fullur á þennan hátt (þó er aðeins fjórðungur dæma hans um augnlit og hárs dökkt, gegn bláum augum og ljósu hári). Grátt og hvítt eru samanlagt nær fjórðungur, en hitt er bjart, ljóst og gullið (rúmur helmingur samtals[20]). Hjá blæleitnum er þetta svipað, augu kvenna oftast blá (3/4 dæma), hár er hinsvegar næstum því jafnoft dökkt og ljóst. Dökk augu eru einkum hjá Huldu (4/10), en dökkt hár hjá Sigurði (3/9), Jópnasi G og Jóhanni Sigurjónssyni. Það getur verið af einstaklingsbundnum ástæðum. Dökk augu hjá Huldu eru allt eins á karlmönnum, og oftar talar hún um blá augu.


Land er á 19. öld oftast sagt hvítt, ljóst eða bjart (2/5), enda er þar tíðrætt um jökla og ís; innanvið þriðjungur er annað, sjöttungur dimmt; en grænt og grátt er sjaldgæft. Sama gildir um Ísland, en í miklu ríkara mæli, tvö dæmi um að það sé sagt grænt, eitt um blátt, gegn tuttugu um hvítt. Hjá blæleitnum er hinsvegar meira um grænt, það og hvítt er hvort um sig 2/7 lita lands, en blátt og dökkt er 3/5 af því, grátt og aðrir litir (bleikt, rautt, gullið) er fimmtungur þess hvort.


Blóm eru á 19. öld oftast blá (fjórðungur dæma), ljósir eru litir þeirra sagðir í 2/5 tilvika, annars fara litir þeirra mjög dreift, t.d. rauður og gullinn. en hjá blæleitnum er þriðjungur ljóst, litlu minna blátt, en fimmtungur rautt, auðvitað einkum rósir (sem þó eru hvítar hjá Tómasi). Gras, gróður, tré og skógur eru sögð græn í 2/3 tilvika á 19. öld, en aðeins í 2/5 tilvika hjá blæleitnum, þriðjungur er þá ljóst, en áttundi hluti dökkt álitum. Það síðasttalda var reyndar nær fjórðungur þessara gróðurlita á 19. öld.


Sem áður segir, yfirgnæfir blár í lagarlitum 19. aldar, t.d. 3/5 litorða um haf. En einnig eru dökkir litir, þeir eru sjöttungur litorða um lög, en ljósir ívið færri, grár er í tug dæma. Svipuð er dreifing lita á öldur, blár er rúmlega helmingur dæma, en hvítur, bjartur og ljós rúmur fimmtungur, dökkir litir eru tíundi hluti. Og fljót er kallað blátt í annað hvort skipti, en ljóst í þriðja hvert. Svipað er þetta hjá blæleitnum, blátt er nær helmingur litarorða um haf og öldur, en ljóst rúmlega fimmtungur, dökkt nokkru minna. Fljót og stöðuvötn eru sögð blá í helmingi tilvika, björt í þriðjungi, en dökk í áttunda hverju tilviki. Foss er oftast sagður hvítur.


Að sjálfsögðu eru þessar litatáknanir oft til að skapa hugblæ, bjartan eða dimman.


Grænn er fátíður hjá Grími. Það skilst í ljósi þess að hann hefur afar fá litdæmi um gróður (aðeins 5 af 157 dæmum hans). Þau eru fleiri hjá Matthíasi á fyrra skeiði (tíundi hluti), en um gróður notar hann oft aðra liti, eins og um himin og öldur, þótt jafnan hafi hann blár um haf, en þetta skýrir þó að blár er aðeins helmingur meðaltíðni hjá honum, og þriðjungur meðaltíðni hjá Grími, sem hefur sérlega lítið af litum um haf og himin. Sérkennilegt er hve fátíð orðin gullinn og gulur eru hjá Jónasi, en skýringin er einföld, sólskin kemur ekki fyrir í litadæmum hans. Grár er yfir meðaltíðni hjá Bjarna, en dæmin eru fá og dreifð (byssa, nótt, klæði, aska, brynja, gróður, kjaftur, himinn). Hvítur er einkar fátíður hjá Benedikt fyrr og síðar, enda er hann lítið fyrir að lýsa vetrarjörð og jöklum. Hvítur er hinsvegar yfir mðaltíðni hjá Bjarna og Jónasi, og kemur það á móti, að bjartur er undir þeirri tíðni hjá þeim. Svartur er vel yfir meðaltíðni hjá Grími og Matthíasi fyrr og síðar, og er það táknrænt um uggvænlegar horfur og slæmar aðstæður. Rauður er einkar fátíður hjá Steingrími, og sé ég ekki aðra skýringu á því en hve sérlega lítið hann hefur um liti manngerðra hluta, mest um náttúruna. En sá litur er yfir meðallagi hjá Grími, og einkum hafður um blóð, eld, kinnroða og að ”rauði haninn galar”.



4. 1. 3. Blendingslitir


Þeir koma einnig til umræðu í athugun Jakobs Benedikts­son­ar á lita­notkun Jónasar Hallgrímssonar (bls. 113-14). Hann leggur áherslu á:.



hversu frábitinn Jónas er því að nota samsetta liti. Orð eins og t.d. rauðblár, blá­grænn, rauðgulur, o.s.frv. koma ekki fyrir í kvæðum hans. Þær samsetningar sem helst mætti nefna í þessu sambandi tákna blæbrigði sama litar og eiga flestar við bláa litinn [...] Í þessu kemur skýrt fram hin klassíska heiðríkja Jónasar. Hér eru engir dumb­ungs­litir, engin dularfull móða, ekki heldur torgætir litir sjaldsénna steina eða langsóttar litablöndur. Heimur Jónasar er bjartur og litir hans óbland­aðir og tærir.



Þetta er vissulega rétt, þegar litið er á liti Jónasar í heild. En samt eru þessi ummæli heldur óheppileg í ljósi lita í ljóðasöfnum okkar í heild. því Bjarni og Jónas hafa manna mest af blendingslitum, miðað við fyrirferð, fjögur dæmi hvor. Steingrímur hefur þrjú dæmi á fyrra skeiði og önnur þrjú á seinna, Benedikt hefur aðeins eitt, og það er á seinna skeiði, loks hafa á seinna skeiði þjóðskáldasafnritsins þeir Stephan G. og Hannes Hafstein eitt dæmi hvor. Reyndar taka yngri skáldin þessa liti nokkuð frá fyrirrennurum. Bjarni talar um hvítbláa öldu, Benedikt snýr þá við liðunum og talar um bláhvíta þoku, og Steingrímur um bláhvíta öldu. Svipað er sá litur notaður af Stephani G., þegar hann segir að öld­ur “ypptu við klettana bláhvítum föld­unum””. Bjarni talar um hvítbleikt lík, Steingrímur notar þann litblæ um tungl, en skiptir þá aftur um röð liða: bleikhvítt tungl. Satt að segja virðist Bjarni einna frumlegastur í litblöndun með rauðhvíta sól, auk móbrúns reyks. Jónas talar um blágráan reyk. Steingrímur gengur næst Bjarna með blágrænt fljót, rauðbrúnt fjall og rauðgrænt tré, loks er Hannes Hafstein með ”gulrauðar glóðir” (Skarphéðinn í brennunni). Jónas talar um svarbláa öldu og að Tindafjöll séu “blásvörtum feldi búin”, einnig eru snjóskýjabólstrar blásvartir hjá honum. Steingrímur hefur sama litblæ og Jónas á óheilla­væn­legum skýjabakka, en snýr liðunum enn við; í stað blásvartur er “svartblár og sorgarþrunginn heljarbakkinn”.


Hjá blæleitnum skáldum er dæmið að snjóskýja­bólstr­ar eru blásvartir. Sami litur er tvívegis hjá Jóhanni Sigur­jónssyni, Kinn­ar­fjöll standa á blásvörtu stallagrjóti, og blásvartir hraunhólar standa berir. Og “bláhvítur snjór við vota steina sefur” hjá Jóhanni Sigurjónssyni, sbr. fyrrgreint dæmi hjá Stephani G., og hjá Sigurjóni Frið­jóns­syni er: “í bláhvítri móðu er stjarn­anna her”.


Áreiðanlega hefur Jakob Smári þekkt þetta allt, en hann geng­ur sem­sagt manna lengst í að draga upp hverful litbrigði. Því eru lit­irn­ir breyti­legir á sömu fyrir­bær­um; hafið er bæði svart­grænt, gulbleikt og bleikgrátt, him­inn­inn blá­svart­ur, bláhvítur og gullinn, morg­unskíman blá­köld og bleik, en kvöldin gráblá. Klettar eru svartir, svart­bláir og rauð­gulir, jörð­in rauð­brún, gulbrún, grásvört og grágul, túnin bæði græn og ljósgræn, og gróð­ur gulblár, hélugrænn og dökkmógrænn. Og sami litblær getur verið notaður um sundur­leit­ustu hluti; rauð­gulur er klettur og borgarljós; gráhvít eru hestseyru og él, fjólu­blámi ein­kennir bæði augu viðmælanda og fjarlæg fjöll. Enn mætti ýmislegt telja; “rauðbrúnan, steinóttan móatanga með strjál­um eyrarrósa­blettum”, gul­bleik sker, grábrún móða á sólhvítri rúðu. Svo myndrænt sem þetta er, þá verður að taka fram að öll þessi orð um blendingsliti, og mörg fleiri, koma fyrir í eldri dæmum í Orðabók HÍ. Ekki eru þau alltaf notuð um sömu hluti, en fjölbreytnin er þó svo mikil, að litorð Smára verða ekki talin af­brigði­leg, þótt litaval hans sé sérkennilegt. T.d. hefur OHÍ ekki dæmi eldri en Smára um að orðið gulbleikt sé haft um haf og sker, en í eldri dæmum OHÍ er það haft um sól, tungl, stjörnur, rák á himni, sólar­geisla, hár, strá, ösp og andlit sjúklings.


Síðasttalda dæmið mætti skoðast sem táknræn notkun; feigðarlitur, og sama hefur verið haldið fram um litinn “bleik spurning” hjá Jóhanni Sigur­jóns­syni, en önnur túlkun er að þetta sýni módernan frum­leika í lita­notkun (sjá k. 6.13 um ”Fyrir utan glugga...”), það væri reyndar alveg í stíl við dæmi Vilhjálms Jóns­sonar í fyrrnefndri kynningargrein hans á blæleitni (“ílíkis­stefn­unni” frá 1895 (sjá k. 2.4.) um hina “hvítu þrá”. Þá væri litanotkunin út í hött, það væri ekkert í nafn­orðinu sem kallar á nokkurn lit, því á einn litur eins vel eða illa við og annar, útkoman er framandleiki, spurn. Þá aðferð tók Steinn Steinarr síðar upp og útfærði mikið (sjá bók mína Kór­al­for­spil hafsins (bls. 87-8).


Í þessari grein sinni talaði Vil­hjálm­ur Jóns­son einnig um að mikil litanotkun fylgdi stefn­unni, og það kem­ur eink­um fram hjá Jakobi Smára, í því hve nákvæmur hann er í að kló­festa fíngerð­ustu blæbrigði augnabliksins. Guðrún og Ragnhildur benda á (bls. 45-6) að hnjóðs­yrði Jóhannesar úr Kötlum[21] “fjólublá fagur­yrði” lúti að þessu.


Niðurstaðan af öllu þessu ótvírætt sú, að sama hefð ríki í lita­notkun, alla 19. öld og hjá blæleitnum skáldum, það eru fáir, hreinir litir, sem mest­megnis eru sóttir í íslenska náttúru, eins og Jakob Benediktsson sagði um Jónas. Tíðni litorða í heild er hin sama hjá báðum skáldahópum, einnig í stórum dráttum tíðni einstakra lita, og um hvað þeir eru hafðir. En innan beggja hópa er töluverður einstaklingsmunur á tíðni einstakra lita og litarorða í heild. Á 19. öld er mest um liti hjá Benedikt og Steingrími, og sýnu meira á fyrra skeiði en seinna. Litorð kvæðasafnanna sem hér eru athuguð eru þrefalt til áttfalt tíðari en í orðtíðnibók nútímaíslensku, þar sem svartur er tíðastur lita. Ólíkt því er blár tíðastur í þessum ljóðasöfnum, fimmt­ungur dæma, enda er þriðjungur dæma blás um fyrirbæri vatns, annar þriðj­ungur um himin, ský og þvílíkt. En ef saman er tekið bjartur, ljós og hvítur, þá er það samanlagt þriðjungur dæma. Þessi orð eru einkum höfð um fyrirbæri himins (sól, himinn, sólskin, stjarna),. En mikið eru þau höfð um fólk, og þar ber mest á konu og hlutum hennar Dekkstu litirnir eru hálf­drætt­ing­ur á við það, samanlagt sjöttungur dæma. Svartur er einkum haft um fyrir­bæri himins, það er nær þriðjungur dæma. Einkum er tekið fram að myrkur og nótt séu svört, en einnig ský, skuggi, vetur. Næst ganga mann­gerðir hlutir Dökkur nær yfir önnur svið, fyrst og fremst jarðneskt (fjórðungur; klettur, gjá, fjall, o.s.frv.), en nokkuð um fólk; Dimmur er fyrst og fremst um himnesk fyrirbæri. Bleikur er sjaldgæfur, helst hafður um fólk. Gullinn er einkum haft um manngerða hluti. Grænn er nær eingöngu hafður um gróður, völl, gras, grein, lauf, skóg, og annað þar í grennd. Grár er helsta andstæða græns, táknar gróðurleysi. Rauður er haft um eld, sólskin, sól, , einnig blóð, kinnroði og varir.


Á þessu sviði eru blæleitin skáld einfaldlega sporgöngumenn 19. aldar skáldanna, það er helst á öðrum áratug 20. aldar sem skáldin fara að aðgreina sig hér, einkum Jóhann Sigurjónsson og framar öllum Jakob Smári.




4. 2. Ort orð


Andstæð almennum hrósyrðum sem að framan voru rædd, eru orð sem einkenna sum ljóðasöfn okkar, þau eru sett saman á þann hátt, að merkingin verður sem afmörk­uð­ust. Um þetta skrifaði Finnur Jónsson (bróðir fyrrnefnds Vilhjálms) grein í Ársrit Fræða­fé­lags­ins (I, 1916) til að verja Bjarna Thorarensen gegn ásök­un­um (Einars Kvaran í formála 2. útgáfu Kvæða Bjarna) um mállýti og aðra kveðskapargalla. Finnur segir þar m.a. (bls. 114-15):



Hins vegar má telja Bjarna annað til gildis, er fyllilega vegur salt á móti þessum annmörkum (ef svo skal telja) og meira en það, það eru samsett orð, einkum lýsingarorð hans. Hann lætur sjer eigi nægja hin algengu orð málsins, en skapar sjálfur fjölda af orðum (samsetningum) til að skýra það sem hann vill setja fram fyrir sálar­augu lesandans. Hann minnir nokkuð á höfunda eddukvæð­anna, en jeg hygg þó, að þessi tilhneiging sje honum meðfædd ásamt skáldskapargáfunni. Jeg þekki ekkert skáld nema Steingrím, er þann­ig búi til samsett lýsingar­orð, jeg þarf ekki annað en minna á annað eins vísuorð og: þú bláfjalla­geimur með heiðjöklahring. [síðan koma fleiri dæmi]



Ætla mátti að upphaf þessarar orðasmíðar væru Hómers­þýð­ingar Sveinbjarnar Egils­sonar, þar sem þurfti að skila sérkennilegu forn­grísku orðalagi á íslensku. Finnbogi Guð­mundsson telur ýmis dæmi þessa í doktors­riti sínu um þessar þýðingar (bls. 300-303), og þau dæmi eru mjög á sömu lund og þau sem sjá má t.d. hjá Jónasi Hall­gríms­syni, nemanda Sveinbjarnar: „rósfingraður, kvenfagur, vindfrár, á hinni brimbitnu strönd, verkmóður, reyk­móður, hjálm­kvik­ur, laufkvik­ur“. Og minnast má þess, hvernig Svein­björn fór í gríska texta með nem­endum sínum í Bessastaðaskóla, hann þýddi með þeim Hómers­kviður. En Sveinbjörn hóf þýðingar þessar á árinu 1819 (skv. Finn­boga, bls. 9), og Bjarni Thorarensen viðhafði þvílíka orðasmíð í kvæð­um sem hann orti í Kaup­mannahöfn, þ.e. fyrir 1811, upplýsir Þor­leif­ur Hauksson í riti sínu Endurteknar myndir í kveðskap Bjarna Thor­arensen, bls. 12-13, en hann tekur þetta eftir grein Finns Jóns­sonar). Þorleifur telur upp þessi orð Bjarna:



Nafnorð: heiðhiminn, blátindar, bláfoss, bláhvolf (himna), há-jökl­ar, há-skarir, há heið, hvítfaldur, kristalls ár, fagurreið, gliturs fat, grá­stakkur, gullinhvel, silfurmökkur, ilmablóm, ilmrósir, læ-skor­ur, frerastormur, náheimar, geislaloft.


Lýsingarorð: rósfagurt, sólgylltur (múli), roðagylltur, silfur­fjall­að­ur (feldur) íturhvasst (spjót), fagurfrævaðir (skógar), kol­dimmir (skóg­ar), silfurlitur, rauðhvít, rósfögur (sól), harðskeytur (álmur), silf­ur­blár (ægir), mjalllitar (konur), náttdöggvaður (næturgali), hrafn­tinnueygur, nákaldir (norðavindar), lífleg (morg­un­stjarna).


Skáletruð eru dæmi úr kvæðum, sem áreiðanlega eru frá Hafnar­ár­unum. Flest orðin geyma náttúrulýsingar. [...] öll orðin nema eitt, geislaloft, eru frá fyrri hluta kveðskaparskeiðs Bjarna, fram til 1824, og rúmur helmingur frá Hafnar­ár­un­um. [...] Athyglisvert er, að nýmyndanir í Oddi Hjaltalín, sem Finnur Jónsson nefnir ekki, eiga við sálarlíf mannsins: harmafuni, eldregn (tára), frostrósir feigð­ar kulda, harmahlátrar, helblómstur, skrípi-tröll. Arfur sá, er Bjarni bjó að eftir heim­kom­una, voru fyrst og fremst eddukvæðin, en einnig kvæði nokkurra erlendra sam­tíma- og fyrri tíma skálda.



Hér verður að fella út sum orð, sem Orðabók Háskóla Íslands (OHÍ) hefur eldri dæmi um (frá 17. og 18. öld, og allt aftur í sálma Kingós og Vísnabók Guðbrands biskups): hájökull, koldimmur, líflegur, nákaldur, náttdöggvaður, rauðhvítur, rósfagur, silfurlitur. Orðið ”hrafn­tinnueygur” á að vera hrafn­tinnueygður Annars virðist kenningin um fyrirmyndina senni­leg, sérkennilega myndræn orð einkenna að sönnu eddukvæðin – og drótt­kvæðin - sem voru rómantískum skáldum 19. aldar mikil fyrirmynd, ekki síst Bjarna. Þetta sést af fáeinum dæmum af handahófi úr orðabók um þetta forna skáldmál, Lexicon poeticum: bjarteggjaður, bláfold, bláfjallaður, bleikhaddaður, gullbyrstur, gullfáinn, silfurgylltur, sólheiður.


Þessi orðasmíð hefur þá tíðkast öldum saman, e.t.v. alla tíð frá eddukvæðum, þótt hún færist svo mjög í aukana og verði tíska hjá skáldum okkar á 19. öld. Í þýð­ingum 18. aldar var þörf fyrir ný orð, svo sem sýndi sig á litorðum hér að framan. Einnig voru þá tekin upp orð úr fornmáli, svo sem nefnt hefur verið hér (k.3.5.2). Þýðingar Jóns Þorlákssonar eru a.m.k. að verulegu leyti eldri en kvæði Bjarna, og í þeim eru a.m.k. þessi orð af framangreindu tagi: ”skinfagur” (Paradísarmissir Miltons), ”eldfleygur” og ”grátglaður” (Messías Klopstocks). Hjá Sveinbirni Egilssyni er ”bjarmaljúfur”, sem Jónas Hall­gríms­son einnig notar.


Hér er reynt að gera nokkurt yfirlit um þessa orðasmíð skáldanna. En erfitt er að afmarka þessi orð ótvírætt frá öðrum, og að sama skapi eru þau tortalin. Tölur eru hér aðeins til að nálgast meginhlutföll. Enn kemur til að þessi könnun nær ekki til þýðinga þjóðskáldanna, og sést þó á dæmi Jónasar Hallgrímssonar að orðasmíðin er ekki síður þar. En sem áður segir, voru ljóða­þýð­ingar þessara skálda svo fyrir­ferðarmiklar að hér er litið hjá þeim, með eftirfarandi undantekningum. Ekki fann ég nema tvö slík orð í þýð­ingum Bjarna, en tók með þýðingar Jónasar, til að hafa sem mest af elstu dæmum. Spyrja mætti hví þá skyldi litið hjá Hómerskviðum í þýð­ingu Sveinbjarnar, eða viðamiklum þýðingum Jóns Þorlákssonar? Það yrði allt önnur og miklu umfangsmeiri rannsókn en hér er gerð. Eina leiðin til að gera þessu efni góð skil er að hafa öll nýyrði 19. – og 18! - aldar undir. Slík rannsókn á nýyrðum 19. aldar var hafin fyrir áratugum, en liggur ekki fyrir. Enda kemur þá það vandamál til, að kvæðadæmi orða sem hefjast á seinni hluta stafrófsins hafa ekki verið tölvuskráð enn í Orðabók Háskóla Íslands. Auk þess er (stundum erfitt) matsatriði hvað er nýyrði, og hvað er fornt orð, sem af tilviljun fyrst komst á bók á 19. öld. Eftirfarandi niðurstöður eru því byggðar á takmarkaðri könnun.


Ég safnaði þess háttar orðum úr kvæða­söfnunum sem hér eru til könn­unar, og eftir að burt höfðu verið felld orð sem eldri dæmi fundust um í OHÍ, voru eftir 233 dæmi. Að sjálfsögðu taka sum skáldanna hér slík orð upp eftir fyrri skáldum þessa hóps, en hér eru einungis talin elstu dæmi. Með þeim fyrirvara, að ævinlega geta komið fram eldri dæmi þessara orða, og eins hefur mér sjálfsagt sést yfir ýmis góð dæmi, skal þó bent á athyglisverðar niðurstöður. Ég tíndi saman fjórðungi fleiri lýsingarorð en nafnorð[22]. Þessi orð lúta flest að skynj­un, einkum útliti. Stund­um taka skáldin upp eldri orð sjaldgæf, ekki síst með silfri, þegar lýst skal á eða þ.u.l. Hjá Bjarna er tæplega fimmtungur dæmanna (45), og er þetta hálfu tíðara á fyrra skeiði hans en seinna, en Jónas Hallgrímsson hefur tíunda hluta (18 dæmi auk 19 góðra dæma úr þýðingum hans!). En allur þorri þessara orða Jónasar (fjórir fimmtu) er frá fimm síðustu æviárum hans, flest eftir dauða Bjarna. Það andlát virðist hafa laðað Jónas að yrkingarhætti Bjarna. Hálfu minna en Bjarni, en svipað og Jónas, hafa svo Benedikt Gröndal á fyrra skeiði (18) og Matthías á fyrra skeiði (20). Steingrímur yfirgnæfir hinsvegar alla, með nær þriðjung allra þessara orða á fyrra skeiði sínu (69 dæmi). Það er þó nánast sama hlutfall af heildar­orða­fjölda ljóðasafnsins eins og hjá Bjarna. En svo fer þetta úr tísku, eða skáld virðast forðast ”að yrkja eins og Bjarni og Steingrímur”, hann er aðeins með 13 dæmi á seinna skeiði, Grímur hefur aðeins 5, ekkert finnst þá hjá Matthíasi. Benedikt hefur hinsvegar enn 15, þjóðskáldasafnritið 19 (8%) og flest á seinna skeiði. Það sýnir sig að mest er um þessa orðagerð á tímabilinu 1800 - 1881 (því miður er ekki unnt að ákvarða það nánar hér). En hún tíðkast þó áfram fram á tuttugustu öld, og blómstraði raunar að nýju hjá blæleitnum skáldum þá. En á 19. öld var mjög lítið um þær mótsagnir, sem síðar gætti; helst brímabað, sorgarstormur og etv. helblómstur, sárblíður, sorgarfríður.


Þetta er frumleg nýsköpun sem takmarkað er unnt að alhæfa um. Oftast eru þessi orð höfð um fyrirbæri himins, það er rúmur þriðjungur (einkum um sjálft himinhvolfið). Fimmtungur orðanna er um fólk, einkum tilfinningar, en sjöttungur um öldur, haf og foss, fljót o. fl. þ. h. Loks er tíundi hluti dæmanna um jarðnesk fyrirbæri, svo sem fjall, ís og grund. Allur þorri þessara orða er skynrænn, einkum lýsa þau sjónskynjun. Nær áttundi hluti dæma hefur liðinn blá, tæplega tíundi hluti silfur, hálfdrættingar á við það eru orð með liðunum sól, himinn, heið og blíð, gull er aðeins tíðara. Og stundum er þetta tvinnað saman, sólgylltur, silfurblár, silfurbleik strönd, silfurblágyllt iða. Samsetningar með blá eru mest hafðar um fjöll, haf og himin, silfur mest um haf, ár og snjó, en gull og gylltur um sólskin.


Annarskonar skynjun lýsa orð eins og ”öldufallaeimur” og ”andsvala” (Jónas), ”bálvindur” (þjMagnús Grímsson), ”hugarþrenging hjartað ber” (þjSigurður Breiðfjörð). Meðal allra fyrstu dæma Bjarna eru ”ilmablóm” og ”ilmrósir”, en hjá Matthíasi (I) er: ”á mjúkhlýju móður skauti”.


Af orðum Bjarna eru 3/5 nafnorð. Þau eru tvöfalt fleiri lýsingarorðum á fyrra skeiði, en á því seinna er jafnvægi. Samsetningar með blá- eru áberandi; bláfoss, bláhvolf, og blátindur í elstu kvæðum hans, en á seinna skeiði er blásalur (guðs), blástjarna, og bláfjölluð brynja. Af lýsingarorðum hans eru fjögur samsett með ítur- auk nafnorðs; íturhvass, íturlangandi, ítursterkur, íturvænn og íturlaukur (ættar sinnar), nær allt á sinna skeiði. Á því fyrra eru: silfurblár, silfurmökkur, silfurfjallaður, en á báðum er sól; sólfáður, sólgylltur á fyrra, en sólhreinn og röðulhreinn á seinna. Áður voru talin sum myndrænustu orð hans, en “helblómstur” og ”skrípitröll” hug­mynda eru ekki beinlínis myndræn.


Jónas byrjar á því að taka upp slík orð eftir Bjarna; silfurblár, blástjarna, íturfagur. Hann sýnir hinsvegar sjálfstæði með því að hafa andstæð hlutföll við Bjarna, þar eð 3/4 orða hans eru lýsingarorð. Blá- er fyrsti liður í þremur lýsingarorðum og einu nafnorði; bládöggvaður, bláfagur, bláljós og blásvell, ennfremur sólgáruð bára, vind­léttum fótum, Jónas er einkar hugvitssamur orðasmiður, auk framantalins má nefna: bugþægur og flugnægur (byr).


Lítið eitt er af samsetningum, sem láta í ljós almennt hrós eða tilfinningu frekar en sérstæða skynjun. Bjarni talar um fagurreið og fagurfrævaða skóga, og eins og sást að framan; notar hann á seinni árum samsetningar með ítur-, auk harmafuni og harmahlátrar. Þetta eykst svo mikið hjá Jónasi, í þýð­ingum eru orðin talslyngur og algleymisværð, sem Ólöf frá Hlöðum gerir tilbrigði við: algleymisdá, algleymisdraumur. Ennfremur má telja: ástar­auðugur, bjarmaljúfur, bláfagur, bráhýr, brosfagur, grátþögull, heiðfagur, grát­glaður, grátþögull harma­fugl, fagurljóst lokkasafn, málblíðar mæður munn­hvítra snóta (vart þætti það aðlaðandi núna!). Steingrímur hefur margar samsetningar með blíð-, og talar um ”svanfagurt hold” og svanfleyga sál, en “skip eru sigurprúð” hjá Matthiasi. Kristján Jónsson segir að vonin sé ”hjúpuð ljóma fagurgljáum”.


Hjá Benedikt yfirgnæfa lýsingarorð eins og hjá Jónasi. Hann hefur sérkenni­lega skynrænar samsetningar, bjartkaldur, bjartgylltur, döggskær (aftanroði), “í ljósablæjum daggarskærum”, “döggin demantskær”, “drifhvítar demants­rósir” ljóma á fönnum. Hann segir mey sofa á draumablæjum bláum, og draumgeisla bregða á lauf. Hjá honum er silfur einkar áberandi; silfurbönd, silfur­­faldur, silfurrönd og silfurblágylltur, sem gengur einna lengst í nákvæm­um litblæ, ásamt ákvörðun við grínkenningu hans um skip: “svartramm­bikhentir reiðafantar”.


Á seinna skeiði Benedikts er helmingur 12 samsetninga hans nafnorð, og fimm þeirra eru með silfur- “segulljósa silfurdans og sækvikur vefur”, ægir breiðir silfurdúk; silfurskeyti, silfurhrímgaður, silfurblikandi elfur. Auk þessa síðast­talins lýsingarháttar (nt.) af sögn er Benedikt einn um sögn í öðrum hætti; “gullfaldast bára”. Loks má nefna “sólfáka sindurtauma” og svana­hvítur og svanfagur minnir á Steingrím á fyrra skeiði, svo sem áður var talið.


Steingrímur hefur ívið fleiri lýsingarorð, en nafnorð, og þar sem hann hefur svo mörg orð af þessu tagi, kemur sami liður margoft fyrir. Átta orð hafa blá- að fyrra lið, auk þess tvö í öðrum lið. blágeimur, bláfjallageimur, bláfjötur, bláheiður, bláhiminn, bláleið, blálofts-salur, bláskær, víðbláinn, blíðublámi. En sérstaða Steingríms birtist ekki síst í dálæti hans á orðliðnum blíð-, sem er fyrri liður sex sinnum, og seinni liður fimm sinnum: blíðgeisli, blíð­mynd, blíðróma, blíðstafur, blíðsöngur, blíðublámi, bergmálsblíður, himin­blíður, lognblíður, sálarblíður, svanablíður, Auk þess blandast tilfinn­ingar inn í ástþýður, ljósglaður, raunarökkur, sorgarstormur, sólarfagur, sólhýr. Enn má telja: „bjartheiða braut, eldeygur örn, græn­gróinn víðivöllur, fóstur­jörðin er „hið efra helfríð, hrikavæn“, ljúfsár löngun, sorgarfríð ung mær, svanfagurt hold. Fleiri samsetningar eru með sól-, en að öllu samanlögðu virðist þetta framlag Steingríms tilkomumeira að magni en frumleika, sé borið saman við t.d. Jónas og Benedikt.


Á seinna skeiði Steingríms teljast mér ellefu lýsingarorð og tvö nafnorð. Á Bjarna minnir “um íturblómgan svörð, af tilfinningatagi eru líka: „friðarhýr sólskinsdalur”, sárblíð tár. Mest er um silfur: “silfurbreiðar leiðir” yfir haf, sifurullaður, silfurgljá svell. Önnur litbrigði varða snjó: hvítmökkur, hvítglitrandi himin­hæðir fjalla. en um sólarlag er haft “lyfrauður”. Enn má telja t.d. “blá­freyddan æginn”, glitgrænn skógur, glóskært vín. Mótsagnakennt og skáldlega örvandi fyrir ímyndunaraflið er “hauðurs ból öll voru heiðrökkri skyggð.”


Matthías hefur aðeins fleiri nafnorð en lýsingarorð Hann hefur tvívegis blá- um öldur; bláalda og “öldur bláfalda skutla skúmfjöðrum að skerja jöðrum”., og tvö dæmi um silfur; “til axla úrig vóðu sólarfjöll silfurþoku” og goðin hafa “sér höf og hörga sett/ hverfða skírum silfurgarði” (Fljótshlíð). Hann verður glæstur í fornkvæðastíl, einnig í þessari orðagerð: sjórinn er ”í hernaði grár/ meður hrímfroðu-tár” Og á Gjallarbrú ”gnýr af jódýri/ gneista gimrastir/ gjósa logrósum”. Auk fyrrtalinna dæma má nefna tilfinningablönduð orð: tignarbjartur, tignarblíður, fróðsannur.


Grímur er afar lítilvirkur á þessu sviði, og verður ilbleikur (um úlfa) jafnan minnistæðast. Auk þess eru þrjú orð með silfur; silfurbleik strönd, silfurlín fannar og silfursalur (Barnafoss),


Meðal annarra þjóðskálda er helst að nefna hjá Hannesi Hafstein: „drungadimm hlíð, sviffrár valur, frá ylbjartri sól“, auk þess sem Stephan G. nefnir „ang­ur­klökkt“. Utan kvæðasafna sem hér eru könnuð fundust ýmis sérkennileg orð okkar skálda skráð í tölvuskrá OHÍ; hjá Stephani (t.d. dimmkaldur, harmblíður, ramm­beiskur, silfurúði) og “brimkviku brávöllinn” í Hafrænu hans og ”foldgnátt” (fjall) í Vísum Gísla Brynjúlfssonar, auk dæma sem áður eru talin. Júlíana Jónsdóttir segir að angursskuggi falli á björk, og vill sveipast banahjúpi, það minnir á ”heldróma sveiptur” hjá Jónasi.


Hjá blæteitnum færist þetta aftur í aukana, og töldust mér 115 dæmi þar, það er háfdrættingur á við 19. aldar skáldin. Þessi orð þeirra lýsa mest sjónskynjun. Nær áttundi hluti dæma hefur liðinn blá, einkum um fjöll, haf og himin, tæplega tíundi hluti silfur, mest um haf, ár og snjó, hálfdrættingar á við það eru orð með liðunum sól, himinn, heið og blíð, en aðeins tíðara er gull og gylltur um sólskin. Fimmtungur orðanna er um fólk, einkum tilfinn­ingar, en sjöttungur um öldur, haf og foss, fljót o.þ.h.). Loks er tíundi hluti um jarðnesk fyrirbæri, svo sem fjall, ís og grund. Stundum er þetta tvinnað saman svo sem að framan var nefnt, t.d. silfur­blágyllt iða.


Þetta eru lýsingarorð, öðrum orðflokkum fremur, og lúta flest að skynj­un, einkum útliti. Dæmi þessa eru mörg, og vitaskuld taka skáldin stund­um upp eldri orð sjaldgæf, ekki síst með silfri, þegar lýst skal á eða þ.u.l.; silfur­bjartur (Jónas G og Sigurjón), silfur­döggv­að­ur, silfurgljá, silfur­hvít­ur (Hulda), silfurhreinn (Jóhann S) og gull­skær“ (Hulda). En oft virðist hvert skáld skapa sín orð að meira eða minna leyti, a.m.k. finn ég orðin ekki í orðabókum né tölvuskrá OHÍ. Hér skulu að mestu sniðgengin dæmi sem koma í köflum um einstök skáld, en auk þeirra má nefna hjá Einari Benediktssyni: „brúnaþrungnir halir“ og Sigurði: „Í sumar voru sól­skins­dagar, silfurúði um móa og teig“, hjá Sigurjóni er gljáhvít á, en Hulda lýsir t.d. flugi svana með orðinu blikvængjatak, ennfremur eru hjá henni: „daggbjartir laukar, döggslegið engi, fagurskyggð drykkjarhorn, stúlka er „lokka sína ljósbrennda að greiða“, „er döggin silfurköld svaf“, en „bláheið mánatjöId skreyttu róslit skýjadrög“, „fljótið silfurlygna“. Um sér­stæð litbrigði var áður fjallað, en auk þeirra hefur Smári m.a.:„dimmbárótt haf“, „blásilfruð fjallavötn”, „ljósgræn engi glituð silfurvír glóblárra strauma“, „Lognsvartrar nætur logandi draumar lýsa“, stúlka er „bjarma­rjóð á báð­um kinn­um“, einnig talar hann um „gnýharða brimskafla tím­ans“ og „hafmjúkan vindasveig um enni“, ennfremur er: „Glóblár himinn glöðum vör­um drekkur grænskær, íshvelfd foldar jökulbrjóst“. Skógi líkir hann við haf: „háhvelfdar, grænar öldur svigna og lækka“, hann lýsir kvöldi „er húm­blánar foldar þak“, talar um „dökkar tungur á hvítskyggðum vatns­flet­inum“, „reykósa“ þil, og víkur að „hinum lognmjúku línum á ljós­grænni, marsléttri strönd“. Hjá Jónasi Guðlaugssyni má einnig finna sér­kennileg dæmi: „Haföldur hrímfextar rísa og hníga“, blóm sem ljóð­mæl­andi gaf stúlku „hverfur með kossvotum blöðum“. Jóhann Sigur­jóns­son talar um grátsölt tár, og grátskæra dropa. Hann segir einnig: „þú geymir í grafdjúpum leynum grátbleikan dauðann“ og „höfuð mitt verkjar sem grafbólgið hár“. Í fyrra dæminu er talað um gröf en í því síðara væntanlega um graftar­bólgu. Fáum mun þykja það aðlaðandi, en greinileg er viðleitnin til að afmarka skynjun af nákvæmni.


Stundum blandast tilfinning inn í skynjunina, einkum hjá Huldu: t.d. eru lauf „sólskinshýr og sumarvæn, daggar­þyrst, er dreymdu á kvist“, og „stráð var moldu lilja daggarhrein”, „lífdögg veittu þyrstum rósum, dagg­arsvala sumarkvöld!“. Skógargöng eru hreimsæl en nóttin húmsæl og húmblíð hjá Huldu, en hið síðastnefnda hefur Smári um „eilífðarhöfin“. Heim­ur­inn er húmdapur og vorraddir dulblíðar hjá Jónasi G., nóttin dular­dimm hjá Sigurjóni, og landsunnan ljóðrík. Einnig má finna slík dæmi hjá Jónasi G: „draumkenndum duliðsómi dundi berg og stundi“, feikn­þrung­inn sjór, og „mig dreymdi ég lægi dauður í dimmkaldri grafarþró“. Hann notar orðið „banableikur“, sem gefur hið sama til kynna og orð Einars Ben með andstæðum litblæ: feigðardimmur. En Hulda er nær Jónasi með „bleik­þöglir bræður“.


Önnur orð eru sett saman úr liðum sem oft eru andstæðrar merk­ingar að hluta. Þar er ekki um mótsagnir að ræða, heldur er með þessu móti merkingin afmörkuð nákvæmar en algengt er, á mótum gagn­stæðra afla. Um andstæðukenndar tilfinningar eru einkum mörg tilbrigði við angur­vær, svosem: „angurblíður, sorgarblíður, sorgar­mildur, harm­blíðu­hljóður (Jónas G), harmljúfur, sárblíður (Hulda), harmsæla (Jóhann Gunnar). Fyrir kemur að þessi afmörkun er ekki með andstæðum heldur þar sem hliðstæður mætast. En einnig það ætti að stuðla að nákvæmni, svosem: sorgdapur, sorgblandinn (Jónas G), harma­klökkvi (Sigurður), sakn­að­ar­sjúkur (Sigurjón). Ennfremur harm­þreyttur (Hulda), harmkvalinn, harm­þrunginn (Jóhann Gunnar). Aðrar tilfinningar birtast líka: „Sefmjúk­um dular­röddum gljúfrin tala“ segir Smári, þ.e. sefandi mjúkum. Jónas G. segir: „söngdjúpur, heiðskír himinn í hjarta mínu býr“ og „augun þín ástardjúpu á mig líta svo blítt“, en Jóhann Gunnar talar um „unaðs­sólgin augu“ sín, Jóhann Sigurjónsson um flugsjúkan vilja., sem væntanlega merkir að hann sé nánast veikur af þrá til að fljúga.


Loks kemur fyrir að þessi orð eru sett saman úr liðum sem falla svo annarlega saman, að útkoman verður hálfóræð. Jóhann Sigur­jóns­son talar um „hinn dimmmjúka“ sjó (Odysseifur hinn nýi), Jakob Smári um „risavaxið rosafagurt traf hafsins“, og á þeim tíma hafa menn skynjað andstæður í „rosalegur“ og „fagur“ Þetta orðalag miðlar þá því hve yfirgengileg þessi hafmynd er.


Það er mjög mismunandi hve mikið er um svo sérkennilegt orðalag hjá blæleitnum skáldum. Nær ekkert hjá Tómasi né Stefáni (nema ljúfsár) eða Davíð (nema dauðakaldur), sáralítið hjá Sigurði (mest um silfur). Einar Bene­diktsson hefur aðeins rúmlega hálfan tug dæma, Sigurjón rúman tug, Jóhann Gunnar hálfu fleiri. En einkum eru slík orð áberandi hjá Jónasi Guð­laugssyni, Jóhanni Sigurjónssyni, Jakobi Smára, og öðrum fremur hjá Huldu. Nú er þessi sérkennilega orðamíð alveg í samræmi við kjarna þessa straums ljóða­gerð­ar að mínu áliti, að grípa sérstæða tilfinningu á líðandi stund. Þeim mun merkilegra er að sjá, að hér er ótvírætt um að ræða fram­hald eða endurupptöku hefðar frá 19. öld, hún er bara útfærð og verður margbrotnari.









[1]Þar má einkum nefna "Gjögurnes, Þjóðtrú, Haust, Örninn, Hrafninn, og Svarti fuglinn"



[2] Jólin, Gullin mín, Kvöldvísur, Leiðin til ókunna landsins, Vísur, Þegar vorið kemur, Undrastu ekki, Þóra sæálfur.



[3]Novalis: Hymnen an die Nacht, 1797, Macpherson: Fragments of Ancient Poetry Collected in the Highlands of Scotland..., Fingal, An Ancient Epic Poem..., (1762), Temora, An Ancient Epic Poem... (1763). Macpherson þóttist gefa út þýðingar sínar á fornum gelískum þjóðkvæðum, en almennt er talið að prósaljóðabálkar þessir séu að mestu kveðskapur hans sjálfs, því þar eru greinileg áhrif frá Virgli og Milton, en ólíklegt þótti að skoskt alþýðufólk hefði þekkt þá öldum áður.



[4] sbr. Den store danske nationalencyklopædie-frie vers



[5] Þorsteinn Þorsteinsson telur (bls. 94 o. áfr.) að áhrif frá Walt Whitman á franskar bókmenntir hafi leitt til þessarar byltingar í frönskum bókmenntum, þar sem áður voru talin atkvæði í ljóðlínum.



[6] sbr. Encyclopædia Britannica; free verse.



[7] Sjá Eystein Þorvaldsson, 1980, þar er sýnishorn þessa (bls. 65-6).



[8] Einn­ig virðist þó trúnni afneitað (a.m.k. í “Brim”, 1908).



[9] Hjá Jóhanni Sig­ur­jóns­syni er þó aðeins um 3 kvæði að ræða, gegn einu með ástar­sælu.




[10] Aðspurður í símtali 2003 sagðist Böðvar hafa kannað fáein söfn ljóðaúrvals frá 20. öld. Í hér umfjölluðum ljóðasöfnum 19. aldar fundust 76 dæmi um haust, en 5 um naust, þar af aðeins eitt rímskorðað við haust, Það orð var einnig rímskorðað einu sinni við “traust”. Í ellefu ljóðasöfnum blæleitinna skálda (1891-1933) fundust 165 dæmi um haust, en aftur aðeins 5 um naust, þar af 2 rímskorðuð við haust. Út frá þessum miðlægu kvæðasöfnum reynist kenning Böðvars ekki standast. Enn einu sinni sýnir sig að lausleg athugun leiðir það eitt í ljós, sem leitað var.



[11] Sigurður Sigurðsson er með 0,25%, Einar Benediktsson 0,1, Sigurjón Friðjónsson og Jóhann Gunnar Sigurðsson 0,06, Hulda hálfu minna. En síðan Jakob Smári 0,15%, Davíð Stefánsson 0,25%, Stefán frá Hvítadal 0,4%.



[12] Í riti sínu um J.P. Jacobsen, 1883, (Samlede Skrifter III, bls. 15, Kbh.1900). Eftir að tilfæra nokkur dæmu um útjaskaðar kvenlýsingar, sagði hann: “Hertil maa ogsaa føjes den hele Gruppe af Betegnelser, der roser istedenfor at male, som naar man taler om at den Paagældende havde Ungdommens hele Forstand, en skøn og ædel Sjel”, os.frv. Í framhaldi (bls, 36) sýnir hann hvernig J.P. Jacobsen hverfur frá almennum hrósyrðum Oerhlenschlägers til hlutrænnar myndrænnar lýsingar (á hafmey). Ég þakka Fleming Lundgren Nielsen fyrir að benda mér á þennan stað í ritum Brandesar.



[13] Sjá t.d. rit hans“Hamlet” (1919), bls. 102: “The only way of expressing emotion in the form of art, is by finding an “objective correlate”, in other words a set of objects, a situation, a chain of events which shall be the formula of that particular emotion; such that when the external facts, which must terminate in sensory experience, are given, the emotion is immediately evoked. If you examine any of Shakespeare’s more successful tragedies, you will find this exact equivalence, you will find that the state of mind of Lady Macbeth walking in her sleep has neen communicated to you by a skilful accumulation of imagined sensory imprssions.”



[14] Í formála Lyrical ballads (1800), bls. 122&124: “The principal object, then, which I proposed to myself in these Poems, was to make the incidents of common life interesting by tracing in them, truly though not ostentatiously, the primary laws of our nature, chiefly as far as regards the manner in which we associate ideas in a state of excitement. Low and rustic life was generally chosen, because, in that situation, the essential passions of the heart find a better soil in which they can attain their maturity, are less under restraint, and speak a plainer and more emphatic language, because in that situation our elementary feelings exist in a state of greater simplicity, and consequently, may be more accurately contemplated, and more forcibly communicated, because the manners of rural life germinate from those elementary feelings and, from the necessary character of rural occupations, are more easily comprehended, and are more durable, snd lastly, because in that situation the passions of men are incorporated with the beautiful and permanent forms of nature. The language too of these men is adopted (purified from what appear to be its real defects, from all lasting and rational causes of dislike or disgust) because such men hourly communicate with the best objects from which the best part of language is originally derived; and because, from their rank in society and the sameness and narrow circle of their intercourse, being less under the action of social vanity they convey their feelings and notions in simple and unelaborated expressions. Accordingly, such a language, arising out of repeated experience and regular feelings, is a more permanent and a far more philosophical language than that which is frequently substituted for it by the Poets, who think that hey are conferring honour upon themselves and their art in proportion as they separate themselves from the sympathies of men, and indulge in arbitrary and capricious habits of expression, in order to furnish food for fickle tastes, and fickle appetites, of their own creation.”.



[15] Það er 1.2% heildarorðaforðans hjá Einari Benediktssyni og Sigurjóni Frið­jóns­syni, 1% hjá Sigurði, Jóhanni Gunnari og Jónasi Guðlaugssyni, 0,84% hjá Huldu og Stefáni frá Hvítadal, 0,72% hjá Smára, 0,64% hjá Jóhanni Sigur­jónssyni, 0,45% hjá Tómasi, 0,37% hjá Davíð. Þessi orð eru alls 65 hjá Sig­ur­jóni, 69 hjá Huldu, 60 hjá Smára, og 59 hjá Jónasi Guðlaugssyni, en þetta eru stærstu ljóðasöfnin. Hjá Sigurði eru 55, en 50 hjá Jóhanni Gunnari. Ljóða­safn Davíðs hefur um 2/3 af orðafjölda ljóðasafns Huldu, en hann hefur einungis 21 orð, Stefán þriðjungi fleiri, 28, enda þótt hans ljóða­safn sé aðeins þriðjungur af orðafjölda Davíðs. Tómas Guðmundsson hefur einungis 14 fornyrði í ámóta orðmörgu ljóðasafni og Stefáns, en Jóhann Sigurjónsson hálfu minna ljóðasafn, þar eru þó einnig 14 þessara orða.



[16] Hjá Jónasi fer þetta úr 1.3% í aðeins minna, en hjá Steingrími Thorsteinssyni var hlutfallið 2% fyrir 1881, en svolítið minna á seinna skeiði. eins og hjá Matthíasi Jochumssyni á sama skeiði (1884-1900), en hæst varð það á fyrra skeiði Matthíasar, 2.36%, síðan tæplega 2%, en í ljóðum annarra skálda í þjóð­skáldasafnritinu fór þetta hlutfall úr hálfu öðru prósenti í rúmlega eitt.



[17] dimmur rúml. 200, svartur nær 150, dökkur 70.



[18] Nær 2100 dæmi blæleitinna dreifast á 44 litorð, en hjá rómantískum dreifast 2400 dæmi á 47 litorð (52 dæmi á litorð að meðaltali, gegn 47 hjá blæleitnum). Heildartextamagn ljóðasafna 19. aldar taldist vera 227.800 orð, en blæleitinna 197.400 orð, hlutfall litorða er því 1,06%. hjá báðum. Villlandi væri að tilfæra nákvæmari tölur en hundruuð



[19] She had the Asiatic eye,


Such as our Turkish neighbourhood


Hath mingled with our Polish blood


Dark as above us is the sky;


But through it stole a tender light,


Like the first moonrise of midnight;


Large, dark, and swimming in the stream,


Which seem’d to melt in its own beam;


All love, half languour, and half fire,


Like saints that at the stake expire,


And lift their rapured looks on high,


Aas though it were a joy to die.


A brow like a midsummer lake,


Transparent with the sun therein,


When waves no murmur dare to make,


And heaven beholds her facew within.


A cheek and lip – but why proceed?


I loved her then, I love her still.


(Mazeppa V, Byron, bls. 333).



[20] Tvö dæmi eru um bleikt hár, bæði hjá Jónasi, það er á yfirnáttúrulegum kvenverum, Sæunni hafmeyju og Huldu í Hulduljóðum. Af sex dæmum um dökkt hár er eitt hjá Matthíasi um Hallgrím Pétursson, en hin um konur. Eitt hjá Grími (í andstöðu við snjó) en þrjú hjá Steingrími, auk þess sem Benedikt kveður í Sunnanför: ”Kveð ég yður, ítra drósa/ augun dökk og hárið svart!” Hann hefur þrjú dæmi um dökk augu, en Steingrímur hin tvö.



[21]í stefnu­skrár­kvæðinu ”Vér öreigar”, sbr. bók mína Rauðu pennarnir, bls 122



[22] Nafnorð voru 104, en lýsingarorð 128 - þar með taldir 25 lýsingarhættir sagna, einkum þátíðar, en eitt sagnorð í nafnhætti).