mandag den 13. juni 2011

Kóralforspil 1. hluti



Örn Ólafsson




Kóralforspil hafsins



Módernismi í íslenskum bókmenntum




































1992






0. Formáli................................................................................................................................ 4


1.Upphafið.............................................................................................................................. 8


2.Einkenni módernisma............................................................................................................ 15


3. Annar áratugur aldarinnar..................................................................................................... 21


3.1.Gunnar Gunnarsson ............................................................................................... 21


3.2.Þórbergur Þórðarson ............................................................................................ 23


3.3.Sigurður Nordal .................................................................................................... 24


4. Jóhann Jónsson ................................................................................................................... 30


5. Ljóð Halldórs Laxness......................................................................................................... 37


5.1.Unglingurinn í skóginum.......................................................................................... 37


5.2. Expressjónismi og surreal­ismi................................................................................ 40


5.3. Mótsagnarorð....................................................................................................... 45


5.4. Langsóttar líkingar................................................................................................. 48


5.5. Rhodymenia palmata............................................................................................. 51


5.6. Vorkvæði............................................................................................................. 55


5.7. Nótt á Tjarnarbrúnni............................................................................................. 57


5.8. Önnur ljóð Halldórs.............................................................................................. 59


6. Jóhannes úr Kötlum............................................................................................................. 60


7. Steinn Steinarr..................................................................................................................... 62


7.1. Tíminn og vatnið-heildartúlkanir............................................................................. 64


7.2.Litarorð................................................................................................................. 67


7.3.Hlutgerving............................................................................................................ 70


7.4.Mótsagnir.............................................................................................................. 71


7.5.Tilfinningar............................................................................................................. 76


7.6.Áþekk ljóð............................................................................................................ 79


8. Hannes Sigfússon................................................................................................................. 83


8.1.Dymbilvaka........................................................................................................... 83


8.2.Imbrudagar............................................................................................................ 90


9.Atómskáld............................................................................................................................ 97


10.Síðustu áratugir................................................................................................................... 103


10.1.Jónas Svafár........................................................................................................ 103


10.2.Arnfríður Jónatansdóttir........................................................................................ 107


10.3.Jóhann Hjálmarsson............................................................................................. 109


10.4.Baldur Óskarsson................................................................................................ 112


10.5. Megas................................................................................................................ 117


10.6. Kristján Karlsson................................................................................................ 119


10.7.Ljóð á níunda áratug ........................................................................................... 122


10.8. Yfirlit.................................................................................................................. 133


11. Prósi................................................................................................................................. 134


11.1.Skáldsagnahefð.................................................................................................... 134


11.2.Persónusköpun.................................................................................................... 137


11.3.Umhverfislýsingar................................................................................................. 140


11.4.Líkingar............................................................................................................... 143


11.5.Hugsað tal........................................................................................................... 144


11.6.Stíll...................................................................................................................... 145


11.7.Hlutlægni-huglægni............................................................................................... 147


11.8.Samantekt........................................................................................................... 150


12.Framúrstefna...................................................................................................................... 151


12.1. Expressjónismi í sögum....................................................................................... 151


12.2.Surrealistar - Bréf til Láru..................................................................................... 155


13. Vefarann mikli frá Kasmír.................................................................................................. 161


13.1.Yfirlit................................................................................................................... 161


13.3.Persónusköpun.................................................................................................... 163


13.2.Sögumaður.......................................................................................................... 165


13.4.Módernismi?........................................................................................................ 172


14. Expresssjónískar smásögur................................................................................................ 176


14.1.Fyrstu sögur Halldórs Stefánssonar....................................................................... 176


14.2.Annarlegar líkingar -persónur............................................................................... 178


14.3.Breytilegt sjónarhorn og sögumaður...................................................................... 184


14.4.Stíll...................................................................................................................... 187


15. Um miðja öldina................................................................................................................ 189


15.1.Fyrstu sögur Thors Vilhjálmssonar........................................................................ 190


15.2.Persónur.............................................................................................................. 192


15.3.Stíll...................................................................................................................... 194


16.Á 6. áratugnum................................................................................................................... 200


16.1.Jón Óskar og Geir............................................................................................... 200


16.2.Ásta Sigurðardóttir (1930-1972).......................................................................... 201


16.3. Nýjungar?........................................................................................................... 202


16.4.Steinar Sigurjónsson............................................................................................. 204


17. Svava og Guðbergur.......................................................................................................... 206


17.1.Svava Jakobsdóttir.............................................................................................. 206


17.2.Tómas Jónsson metsölubók.................................................................................. 210


18.Síðustu ár........................................................................................................................... 214


18.1.Árni Larsson........................................................................................................ 214


18.2.Einar Guðmundsson............................................................................................. 215


18.3.Punktur, punktur, komma strik............................................................................. 216


19.Heildarþróun...................................................................................................................... 218


20.Samantekt..........................................................220





0. Formáli



I


Titill þessa rits er tekinn úr Dymbilvöku Hannesar Sig­­fúss­sonar, og á að sýna við­fangs­efn­ið, mód­­ernisma í ís­lensk­um bók­mennt­­­um frameftir þess­ari öld. Ritið skipt­­ist í tvo meg­­in­­­hluta, því fyrst er fjallað um ljóð, en síðan um lausa­­­­­­málsrit. Þessi skipt­ing helgast af mis­mun­andi aðferð­­um bók­mennta­greina, enda þótt sömu skáld komi fyrir í báðum hlutum. Í sam­­an­tekt­arkafla verð­ur hug­­að að sam­­eigin­leg­­um meg­in­lín­um.


Tímamörkin eru mismunandi, enda kemur módernismi miklu fyrr fram í ljóð­­­­­um en í prósa, og nær til fleiri skálda. Í prósa verður því stöðvast við skáld sem fram höfðu komið um miðjan áttunda áratuginn, en í ljóð­­­um er far­ið fram á miðjan þann níunda. Mark­miðið er að bera sam­an módern ein­kenni þessara verka, komast að því hvort þar sé sameig­in­legur þráður, og eink­­um hvort um sé að ræða inn­lenda hefð.


Þessari rannsókn er ekki ætlað að vera tæmandi þannig að hún fjalli um öll mód­ern skáldverk á íslensku. En hún ætti að taka til sem flestra leiða sem farn­­ar hafa verið í mód­ernisma hérlendis.


Þegar skáldverk eru til í fleiri en einni gerð, þá er venju­lega fjallað um þá elstu, til að sjá verkið í samhengi bók­menntasögu. Vikið er þó að breyt­­ing­um til seinni gerðar, þeg­ar þær þóttu skipta máli, og þegar kemur að ljóða­bálk­­­un­­um Tíminn og vatnið og Dymb­il­vaka, þá er fyrst og fremst fjall­að um seinni gerð. "Sorg" og "Söknuður" eru hér prent­­uð eftir eigin­hand­rit­um en frá­vik frum­prent­ana rakin. Fyr­ir koma hér kvæði á þýsku, og vona ég að ekki skelfi þá sem það mál lesa ekki, því endursagt er það sem mestu máli þótti skipta.


†mis módern ljóð hafa verið þýdd á íslensku, en þýð­ing­ar eru ekki tekn­­ar með hér. Tví­mælalaust hafa ljóða­þýð­ing­ar haft áhrif á íslensk skáld, en sama gild­­ir í enn rík­ara mæli um fræg módern ljóð, sem ekki hafa verið þýdd, eða þá ekki fyrr en á allra síðustu árum, t.d. ljóð T.S. Eliot og Ezra Pound. Hér er held­­ur ekki fjall­að um módern leik­rit. Vissu­­lega gæti verið fróð­legt að bera þau sam­­an við ljóð og sög­ur, enda þótt aðferðir séu ólíkar. En þau hafa fæst ver­ið prent­­­uð, at­hug­anir á þeim útheimta því langar setur á söfn­­um leikhúsa og útvarps. Það yrði tor­unn­ið manni sem býr erlendis. Þar yrði að taka þýdd verk með, og eðli­legt að hafa hliðsjón af almennri leik­listar­sögu 20. aldar. Er þá kom­­­ið út á ann­að mennt­unarsvið en þetta rit hvílir á.



II


Töluvert hefur verið skrifað um þetta efni áður, aðallega um ein­stök verk. Einn­­­ig er þó að nefna yfir­grips­mikla rannsókn, Atómskáldin, eftir Ey­stein Þor­­­valds­son, sem fjallar um svo­nefnd­an skáldahóp um miðja öld­ina. Þar er í inn­­­gangi vikið stutt­­­lega að þeim ljóðum sem hér skal fyrst um fjallað. Hér er að hefð­­bundn­um hætti litið á rök­semd­ir þess­­ara rita, og reynt að vega og meta val­­­kosti. Öll fræði­­mennska felst í rök­ræð­um, og er því í raun sam­vinna, þótt hún sé í formi ritdeilna.


Raunar ber töluvert á viðhorfi gagnstæðu þessu, svo spyrja mætti, hvort bók­­­­­mennta­túlk­un eigi sér nokkurn sam­nefnara, sam­eig­in­legan til­­gang. Það draga ýmsir í efa, og þá einkum þeir sem segja að hver les­­andi eigi að túlka bók­­­­­mennta­verk eftir sínu höfði, fullkomlega and­stæð­­­ar túlk­anir eins verks séu jafn­­­rétt­háar, og raunar sé bók­mennta­­túlk­­un list, ekki síður en bók­­mennta­­sköp­­un. Fyrir­mynd þessa er vænt­an­lega túlk­andi listamenn, t.d. flutn­ing­ur á tón­verki, en hann hlýtur æv­­inlega að vera persónu­leg listræn sköp­un. Sama má segja um túlkun leik­stjóra á leik­­ritum. Reyndar hefur krafan um frum­lega túlk­un slíkra lista­­­manna stundum gengið út í mestu öfgar, t.d. á áttunda ára­­tug þess­­­arar aldar, ekkert þótti spennandi nema "gjör­sam­­lega ný túlkun, sem dreg­ur fram hliðar á verk­inu, sem leg­ið hafa í láginni hingað til". Marg­­ir bók­mennta­­­­túlkendur virð­­­ast líta svipuðum aug­um á verkefni sitt[1]. En sú skoð­un, að bók­­mennta­túlk­un sé list, finnst mér vera afar yf­ir­­­borðs­leg, og raunar hreinn mis­­­­skiln­ing­ur á því, að skáld verða iðu­lega inn­blásin af bók­mennta­verki. Þann­ig hefur Sjálf­stætt fólk Hall­dórs Laxness verið kallað svar við sögu Jóns Trausta Halla og heið­ar­býl­­ið. Önnur skáldsaga Hall­dórs, Kristni­hald und­­ir jökli, bygg­­­ist greini­­­lega á Ævi­sögu Árna prófasts eftir Þór­berg Þórð­­­arson, og þann­­­­ig mætti lengi telja. En útkoman er sjálf­stætt verk, sem les­end­­ur njóta fylli­lega án þess að þekkja verkin sem það byggist á. Aug­­ljóst er að jafn­vel hið lé­­legasta skáld­verk hefur sama sjálfstæði til að bera. Það verður hins­veg­ar ekki sagt um bók­­mennta­túlk­anir. Þær beinast ein­­­fald­lega að því að varpa ljósi á um­rætt bók­mennta­verk, eða þá á eitt­­­­hvert menn­ing­­ar­legt sam­hengi út­frá bók­­mennta­verk­inu, og þær verð­ur því að meta eftir því hversu mjög þær efla vit­rænan skilning les­enda á viðfangsefninu, einn­ig þeg­ar fjallað er um til­finn­­­­inga­áhrif bók­­menntaverksins. Skáld­­­verk höfða hins­­vegar alhliða til persónu­­leika les­enda með því að tengja í eina heild marg­vís­­leg atriði, svo sem ým­­­­is­­leg­ar sögu­­persónur, mis­mun­andi stíl, hljóm­fall, mynd­­­ræn­ar lýs­ingar, o. fl. Því er lestur góðs bók­­­mennta­verks persónu­leg reynsla, en af því verður ekki álykt­að að allar túlk­anir verksins séu jafngildar. Til lítils hefði þá höf­und­­ur­­­­­inn vand­að sitt verk. Það er ekki skilningur á skáld­verki að spinna bara eitt­hvað upp úr því. Ef sérhver túlkun eða "lest­ur", eins og nú er farið að kalla það, ætti að teljast jafn­gild hverri sem er annarri, þá væru þær allar einskis virði.


Bókmenntatúlkendur draga fram einhverja þá eiginleika verks­­­­­­ins sem ekki liggja á yfirborði þess. Oft er það innra sam­­hengi, svo sem end­­­ur­tekn­ing­­ar í breyttu formi, samspil persóna, leiði­­minni, o.fl. þ.h. En oft­­ar er um að ræða tengsl bók­­mennta­verks­­ins við annað; óljósar til­vís­­anir til annarra verka, eða þá að í því felist kenn­ing­ar, sem nú kunna að vera gleymdar, hvort sem þær fjalla um sið­­ferði, stjórn­mál eða heim­­speki, eða þá að verkið gengur út frá öðr­um for­­­send­um sem nú kunna að vera óljósar. Þannig ber það svip­­mót höfundar síns, sam­fé­lags­ins sem það varð til í o.s.frv. Túlk­endur eru mis­­næmir fyrir slíku sam­hengi af ýmsu tagi, og skoðanir hljóta að verða skipt­ar um hvað af því skipti (mestu) máli, það fer eftir áhuga­málum hvers og eins. Af sömu ástæð­­um þykja mönnum túlkanir mis­senni­leg­ar. Sum fræg­ustu verk heims­bók­menntanna hafa verið túlk­uð svo oft og marg­vís­lega, að vart mun á færi nokk­­urs manns að fá yfirsýn um það allt. Og aug­ljós­lega eru mögu­­­leg­ar túlk­an­ir bókmenntaverks óend­­anlega margar, aldrei verð­ur hægt að fullyrða að héð­­an af muni mönnum ekki hug­kvæm­­­ast fleiri túlkanir. En til­gang­­ur túlk­un­­ar­inn­­ar hlýtur að vera að hjálpa lesendum til að skilja verkið eða til að nota það til að skilja betur umheiminn. Hinsvegar eru þess mörg dæmi, að túlkandi afræki slíkt, en noti þess í stað verk­ið til að bera eigin hugð­ar­efni á torg, jafn­vel einka­­lega reynslu sem fáa varðar, eða til að spinna upp hreina hug­­ar­­óra. Hvern­­ig á að draga mörkin, svo að tryggt sé að túlkunin fjalli um mik­­­­il­væg­ar hlið­­ar verksins, og til að forð­ast megi oftúlkun?


Í fyrsta lagi höfðar skáldverk alhliða til lesenda, eins og áður segir. Því er ótækt að stöðvast við efnisval eða skoð­anir sem fram koma í því, eins og um ræð­­­ur eða rit­gerð­ir væri að ræða. Einmitt af því hve alhliða skáld­verk höfð­ar til lesenda, þá verður að meta túlkun eftir því hve alhliða hún er, tengir hina ýmsu eiginleika skáldverksins í eina heild. Hér á eftir er reynt að huga að samspili ým­issa þátta, svo sem persónusköpunar, stíls og upp­­byggingar í skáld­sögu. Ekki er þó rúm fyrir alhliða greiningu skáld­verk­anna, enda er tilgangur ritsins ein­ung­is sá að draga fram mód­ern einkenni þeirra.


Það er gott að túlk­and­i sé djarfhuga í að setja fram túlk­­un­ar­­mögu­­leika, þann­­­­ig verður helst kom­ist út fyrir skorð­­ur venju­hugs­unar á hverju sviði. Nú verð­­­­­ur eins og áður segir aldrei hægt að tryggja að allar marktækar túlk­an­ir hafi ver­ið gerðar, hvað þá að einum túlkanda hug­kvæm­ist allar skýr­­­ing­­ar­til­gát­­ur sem máli gætu skipt. Þeim mun mikilvægara er að leita mismunandi túlk­­ana, og þess­vegna eru fræðistörf félags­legt starf, umræður, þar sem ára­­tug­­ir geta lið­ið milli and­svara.


Stundum hefur eining vísindanna verið dregin í efa. Tal­að hef­ur verið um borg­­­­­araleg vísindi andstætt öreiga­vís­ind­um, eða um vís­inda­­­­kenn­­ingar sem mót­­­­­ist af hug­mynda­heimi karlmanna, and­stætt hugsun kvenna. En slíkt tal er ein­­­­­­ungis réttmætt sem gagn­­­­rýni á tak­mark­aðar skýr­­­­­­inga­til­gátur, á þröngsýni í að finna mögu­­legar skýr­ingar. Í öll­um vís­ind­­um og fræðum ríkir óhjá­kvæmi­­lega sama meg­in­að­­ferð, að bera sam­an mis­munandi skýr­ing­ar, og rökstyðja hver sé best. Fræðileg bók­menntatúlkun lýtur sömu reglum og fræðilegur skiln­­­­­­­­­­­ing­ur á öðr­um fyrirbærum. Hún á að taka til sem flestra atriða sem máli geta skipt í bók­mennta­­verk­­­inu, og þar á að rök­ræða mis­mun­andi túlk­unar­mögu­­­­­­­leika. Og því getum við aldrei verið viss um að við höfum öðl­ast end­an­leg­­­an sann­leik, en aðeins með þessu móti getum við komist nærri eins ör­uggri vissu og nú er kostur á. Enski vís­inda­heim­spek­ingurinn Karl Popper ráð­­­leggur mönn­­­um að reyna að sigrast á löngun sinni til að hafa æv­in­­lega rétt fyr­­ir sér - og réttlæta sig. Þess í stað ættu þeir að leita sérstaklega eftir villum, greina þær og reyna að læra af þeim, því fátt sé lær­dóms­rík­ara. Enda þótt Popper beini þessu sérstaklega til stjórn­málamanna og stjórn­mála­fræðinga (The Poverty of Historicism, bls. 88), þá hefur þetta augljóslega al­mennt gildi við að finna mörk kenn­inga, hvar þær rekast á stað­reyndir eða verða áber­andi ósenni­legar á ann­an hátt.


Því hefur verið haldið fram að það sé í rauninni samfé­lag lesenda sem skapi bókmenntaverk með því að lesa inn í það væntingar sínar. Þetta skýri það, að það sé breytilegt í ald­anna rás hvað menn kalla ljóð, skáldsögu o.fl. Ennfremur það, að enn skuli menn ekki orðnir á eitt sáttir um hvernig túlka beri t.d. sónhendur Shakespeares eftir fjögurra alda túlk­un. Þetta skýrir þá líka að verk hljóta mismunandi túlk­un í tímans rás; á einu skeiði er keppst við að skýra það út frá ævi höfundar og samtímaaðstæðum, síðar flyst áhersl­an á t.d. stéttarleg viðhorf í verkinu eða stöðu kynj­anna, o.s.frv.


Vissulega eru ýmsar forsendur höfundar ekki ljósar öll­um lesendum, og verða þeim æ fjarlægari er frá líður. Aug­ljóst dæmi er að samfélag það sem ól af sér Íslend­inga­sög­urnar er verulega ólíkt okkar, en þó hrífa sögurnar okkur enn, meðan önnur vinsæl verk hafa horfið í skuggann. Ætli skýr­ingu þess sé ekki að finna í verkunum sjálfum. Þau höfða til nútímamanna af því að þau fjalla einkum um það sem ekki hefur breyst að marki, rétt eins og t.d. forngrískir harm­leikir og kon­unga­leikrit Shakespeares beina þau athyglinni einkum að sam­skiptum manna og að sálrænum við­brögðum þeirra. Þvílík dæmi finnst mér mæla gegn fram­­angreindri skoðun, að lesendahópar skapi bók­mennta­­verk­in með túlkun sinni hverju sinni. Ég hefi enga trú á því, held­ur álít ég að túlkanir séu ævinlega svo miklu tak­mark­aðri en alhliða listreynsla, að þær geti aldrei náð yfir slíka reynslu, en einmitt það er sífelldur hvati til að prófa nýjar túlk­anir. En jafnvel þótt menn gengjust inn á þessi sjón­ar­mið, sem Stanley Fish hefur ítarlega sett fram (í greina­safni sínu Is there a text in this class?), þá er engu síður þörf á að rökræða túlkanir. Því hann leggur áherslu á að þær byggist alltaf á viðhorfum samfélagshóps. Þá ættu rök­ræður um túlkun að skerpa viðhorf þeirra sem hafa sam­eiginlegar forsendur, en draga fram hver munurinn er hjá hinum sem hafa mismunandi forsendur.



III


Þetta rit er að vissu leyti framhald af einum kafla í dokt­ors­riti mínu, Rauðu pennarnir, sem ég varði á sumrinu 1984. Þá um haustið flutti ég syrpu útvarps­erinda um móderna liststrauma á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Árið eftir fór ég að kanna við­brögð Íslend­inga við módernisma á árinu 1925, þ.e. við kvæði Hall­dórs Laxness, "Unglingurinn í skóg­inum" og birti grein um það í Skírni 1985, sama ár grein um fyrstu rit Þór­bergs Þórð­ar­sonar. 1987 gerð­ist ég háskólakennari í Kaupmannahöfn og fékk þá ráð­rúm til að ein­beita mér meira að þessu efni, fyrst með athugun á smá­­sögum Hall­dórs Stefáns­sonar. Hún birtist 1989 í Skírni. Þá fór ég að kanna elstu módern ljóð. En þetta rit þró­að­ist svo áfram, og gleypti í sig ýmsar greinar mínar og ritdóma frá und­­­an­förnum árum. Þess sér stað í fram­setn­ingunni, enda finnst mér það æski­legra en að reyna að hafa ritið allt sam­ræmt að stíl frá upp­hafi til enda. Sam­­ræmi í vinnubrögðum ætti að nægja. Í textanum er ekki vísað sérstaklega til stuttra ritdóma minna og greina sem notuð eru, enda eru þau auðfundin í heim­­ilda­skrá.


Um tilvísanir er það að segja, að hafi marktækar breytingar orð­ið frá frum­­út­­gáfu verks til seinni útgáfu, þá er gjarnan um þær fjall­að, og vísað til beggja. Ann­ars notaði ég þær útgáfur sem til­tæk­ar voru í Kaup­manna­höfn, yfir­leitt frum­­­út­gáf­ur, nema seinni út­gáfur teldust sýna betur text­ann eins og höf­undur gekk frá hon­um (t.d. Gestur Pálsson). Leitast er við að hafa tilvitn­an­ir staf­rétt­ar, en með eftir­töld­­um und­antekning­um: ævin­lega skrifa ég s í stað z, og titlar eru sam­ræmdir, svo að bóka­titl­ar eru feit­letraðir, en gæsalappir settar utan um titla ljóða, smásagna og greina. Til umfjöllunar er vitnað með nafni höfundar, því fylgir ár­tal, sé vitnað í fleiri en eitt rit hans, loks bls.tal. Séu tilvitnuð rit fleiri en eitt frá sama ári, kemur upphafsbókstafur á eftir ártali, og sést þá í heim­ildaskrá við hvað er átt.








1.Upphafið



Sú kennisetning er orðin föst í sessi (í bókmennta­­­fræðum verða til klisjur ekki síður en í skáldskap) að "Sorg" marki upphaf nútíma­­­ljóða­gerðar hér á landi, og er þá hið frjálsa form ljóðsins og raðkvæm nið­ur­­skipan mynda og líkinga haft að viðmiðun



sagði Hannes Pétursson, 1973 (bls. 52), í grein um kvæðið "Sorg" eftir Jóhann Sigurjónsson. Honum fannst firn mikil "að verk sem er að drjúgum hluta snið­ið eftir orðlist Forn-Gyðinga skuli á þessari öld þykja bylt­­ing­ar­­kennt" á Íslandi. En verulegur hluti greinar Hannesar er rök fyrir því að "Sorg" sé ort upp úr "Opin­ber­un­arbók Jóhannesar" og a.n.l. "Harm­ljóð­un­um", en ekki að fyrirmynd ljóðs eftir Hermann Bang, svo sem Helge Told­berg hafði talið í riti sínu um Jóhann. Rök Hannesar fyrir þessu virðast mér svo sann­færandi, að ekki þurfi það frekar að ræða. Hitt er verra, að hann skuli ekki fjalla nánar um "rað­kvæma niðurskipan mynda og lík­inga", því lokaályktun hans er (bls.53):



ekki sé ég hví "Sorg" ætti að marka upphaf íslenskrar nútíma­­­­­ljóða­gerð­ar, ef unnt er að setja slík mörk við tiltekið ljóð, fremur en til að mynda "Bik­­ar­inn" eða viss ljóð Einars Benediktssonar - nema frá svo yf­ir­­borðs­­­legu sjón­ar­miði, að nú­tímaljóð geti hvorki verið hátt­bundin né rímuð.



Nú nefnir Hannes ekki hvaða ljóð Einars Ben. hann hefur í huga. En víst er um það, að "frjálst form ljóða" var ekki einu sinni nýmæli á Íslandi þeg­ar þetta ljóð var ort - líklega um 1908 - hvað þá þegar það birt­ist, 1927. Þá á ég við, að löngu voru Ís­lend­­­ingum kunn prósaljóð, sem að vísu var svo­lít­ið annar hand­­leggur, en þó ljóð­rænir textar án ríms, stuðlunar og reglu­bund­­­­inn­­ar hrynj­andi. "Ljóðrænt" er þá hins­vegar mál­far, myndir og fleiri efn­is­tök. Slík prósaljóð birt­ust fyrst á íslensku 1884, í þýðingu Gests Pálssonar úr Senilia eftir Túrgenev, sem birt­ist fyrst á rússnesku 1882, og fór að birtast á dönsku sama ár (Nylander, 241). Úr sama safni komu verk í þýð­­ingu þjóð­skálds­ins Stein­gríms Thorsteinsonar á fyrsta áratug 20. aldar. Prósa­ljóð­um bregð­ur fyrir hjá Einari Benediktssyni í lok 19. aldar, og hjá Jóhanni Gunnari Sig­­­urðs­syni, sem lést 1906 ("Gull" og "Við ána"). Þetta eru stök verk, en mun meira kveð­ur að prósaljóðum upp úr fyrri heimsstyrjöld, mér þykir lík­legt að það hafi mjög auk­ið á vin­sældir þessa forms að ind­­verska skáldið Rabindranath Tagore fékk Nób­els­verð­laun, 1913. Mikið var skrifað um Tagore og vin­sam­lega í íslensk­um blöðum og tíma­­­ritum upp úr því, og 1919 birtust Ljóð­fórn­ir hans á íslensku, en 1922 Farfuglar hans og 2. útgáfa Ljóðfórna, hvort­tveggja í þýð­ingu Magn­úsar Á. Árna­sonar[2]. Upp úr því fjölgar prósaljóðum, 1919 birt­ist ljóða­bálkur Sigurðar Nordals, "Hel", og 1920, "Úr djúpinu" eftir Jakob Smára (í fyrstu bók hans, Kaldavermsl). Ekki get ég séð neina mótspyrnu gegn þessu formi, öðru nær, prósa­ljóð voru orðin tíska á Íslandi um 1920, vott­­ar Halldór Laxness 1946 (bls.9) og segir um verk sitt frá 1920, "Fegursta sag­­an í bókinni": "Stundum er fyrirmyndin Obstfelder; stundum Tagore­þýð­ing­­ar; stundum Biflían eða önnur austur­landa­­­rit heilög." A.m.k. tvær fyrst­tald­ar fyrirmyndir eru greinilegar í prósa­­ljóða­bók Huldu; Myndir, sem birtist 1924, en mun hafa verið samin 1918[3].


Í fyrstu bók Einars Benediktssonar er m.a. verkið "Gullský" sem Einar skip­­­aði sjálfur undir "Sögur". Sumir hafa kallað þetta hugleiðingu, en aðrir prósa­­ljóð. En það finnst mér meira réttnefni um hluta verksins "Stjörnu­dýrð", sem Einar birti í blaði sínu Dagskrá, á aðfangadag 1896. Upphaf og lok eru af greinar­tagi (fyrst um bókmenntastefnur), en miðbikið er svona (það er fimmt­ungur textans, bls.490-491):



Ég hefi horft inn í spegla margra sálna, og allt, sem feg­urst er til af því, sem bundið er í fjötra duftsins, hef ég séð þar. En hvað eru þó augu dauð­legra manna hjá stjörn­un­um, speglum þeirrar sálar, sem streymir gegnum nátt­­­úruna? - -


Í kvöld er heiðríki og ljósvakabrautirnar milli jarð­ar­inn­ar og upp­heims skín­­andi bjartar út til ystu merkja. Ég verð [4] vera úti, þar sem ekkert felur auglit kveld­­feg­urð­ar­inn­ar fyrir mér. Logn­sundin leggj­ast upp að bryggj­un­um, köld og slétt, eins og gljá­fægður mál­m­ur, en fyrir handan fjörð­inn hin­um megin við snjó­drifnar eyjar og tanga gnæfa sæ­brött, brúna­létt fjalla­lönd í norð­urátt og bregða hvik­ul­um skuggum á fjarðarbeltin.


Himinninn er klæddur í hafbláa, fótsíða skikkju, alsáða gli­tr­­­andi dem­­önt­um og ljósperlum. Yfir hæsta hvolfið er Vetr­arbrautin dregin eins og sig­ur­bogi, gerður af ljósþoku ósýnilegra sólna, en norð­ur­ljós­in þjóta með floga­gulls­lit og eldkvik­um geisla­brotum í neðstu byggð­um loftsins.


Bláklæddi kvöldhiminn! Hvar skín allt þitt guðdómlega skraut skær­ara en hér? Hvar er himinninn himneskari en á Íslandi? - Nú er helgi­dagsþögn yfir allri nátt­úrunni. Hús­þökin drúpa hvít og steinhljóð undir þessum straum­­um af svölu ljósi, en tindahá, axlabreið fjöll rétta sig upp í ríki stjarn­anna. - Og ég, sem þetta skrifa, stend einn, þar sem ég heyri ekki til mann­anna, og horfi með undrun og orð­laus­um fögn­uði á hina voldugu dýrð lofts­ins, eins og ég sæi hana nú fyrsta sinni.



Í framhaldi kemur ljóðræn lýsing stjörnumerkjanna og hugleiðing um "sál náttúrunnar". En hér eru persónu­­­gerv­­ingar náttúru, ljóðrænt orðalag og mynd­ir, raunar hverf­ist allur textinn um eina mynd: maður and­spænis fjall­ahring, hafi og himni. Mætti ekki tala um "raðkvæma nið­urskipan mynda og líkinga"? Og þótt text­anum sé ekki skipt upp í ljóðlínur, þá virð­ist enn síður ástæða til að gera það að grund­vall­ar­mun við "Sorg", en að leggja hitt til grundvallar, að nútímaljóð geti hvorki ver­ið hátt­bundin né rímuð. Auðvitað er rétt hjá Hannesi, að það væri allt of yfir­­borðslegur mælikvarði, því málfar, mynd­mál og bygg­ing t.d. þessa texta er svipað og í ljóðum undir hefð­bundn­um hátt­um. Því verður hér ekki fjallað sér­staklega um prósaljóð, né "ljóð í frjálsu formi", sem hér verður kallað frí­ljóð[5], það er þýðing á "vers libre", (e."free verse"). Í stað reglu­le­gra ljóð­lína koma þá ljóð­línur af mis­munandi lengd eftir því hvernig stendur á merk­­ingu, í stað reglu­bund­­innar hrynj­andi kemur venjulegri hrynjandi setn­inga, máls­grein kemur í stað er­ind­is, og rím er haft þegar henta þykir[6].


Í nýlegu doktorsriti rekur sænski fræðimaðurinn Lars Nylander þróun prósa­ljóða og fríljóða einkum frá því á 17. öld. Hann segir að þetta fyr­irbæri sé að vísu svo breytilegt að varla verði prósa­ljóð kölluð ein bókmennta­grein. En á þeim tíma fari menn að tala um "ljóð­rænt" sem eig­­in­leika texta, það sé óháð formi, og komi þess­vegna betur fram ef venjulegu ljóð­formi sé sleppt (bls.35). Þar við bætast hugleiðingar ýmissa skálda um að hefð­bund­ið ljóð­form leiði of greiðlega til eftir­líkinga eða klisja (það sagði m.a. Coleridge, sjá Nylander bls. 77), því urðu prósa­ljóð æ meir vett­vangur ný­sköp­un­ar. Marg­ir fræðimenn telja að þau verði með nútíma­­hætti þegar með bókinni Gaspard de la nuit eftir Bertrand, frá 3. tug 19. aldar, en þó einkum með Petits poèmes en prose eftir Baudelaire, en það safn birtist í heild 1862. Þá er eink­um átt við að í þessum bókum séu prósaljóðin stutt og tengi í eina heild sund­­­urleitt efni - á sund­ur­leit­um stíl (bls. 140 o.áfr.). Að því leyti líkist þau skáld­sögum (bls. 148), og í rauninni séu þetta viðbrögð við sund­ur­leitni dag­blaða (bls. 154). Munurinn er þá sú hnitmiðun sem einkennir prósa­ljóð af þessu nýja tagi, en Nylander segir að mörg þess­ara hafi þó áfram verið epísk (bls. 151).


Fríljóð telur Nylander vera afbrigði af prósaljóðum (bls.95). Þau hafi eink­­um orðið vinsæl um miðja 18. öld, og þá sérstaklega til að þýða á ensku og frönsku forn ljóð - úr asíumálum, hebr­­esku, grísku og íslensku! Mætti það verða íslensk­um hat­urs­mönn­um fríljóða tilefni til um­hugsunar. Fyrsta frí­ljóð frumort á ensku telst vera eftir William Blake, á árinu 1790 (bls. 98). Aftur á móti hafi ljóðhefðin verið fastari í Frakk­landi, að frátöldum prósa­­ljóð­um, og því hafi fríljóð ekki komið til þar fyrr en 1871 með Rimbaud. Vinsælt varð þetta form þar á 9. áratug 19. aldar (bls. 198), og það skýrir vænt­anlega þá villandi mynd sem víða sést (t.d. í Encyclopædia Britannica undir "free verse"), að þá fyrst verði fríljóð til. Elsta dæmi þeirra á íslensku, mér vitanlega, er þýðing Einars Bene­dikts­­sonar á hluta Leaves of grass frá miðri 19. öld eftir Whitman, þýðingin birtist 1892. Eysteinn Þor­valds­son segir frá þessu og birtir hluta þýð­ing­arinnar (1980, bls. 65-6). Íslendingum var þetta form nærtækt á ljóðum danans J. P. Jacobsen þegar um 1870, og einnig í Valfart Sophus Claussen frá 1894.


Nylander rekur (bls. 226 o.áfr.) hvernig stirðnuð ljóðhefð frönsk hafi leitt til þess að módernisminn hafi einkum fundið sér farveg í prósa­ljóð­um og síðar fríljóðum. En það er tilfallandi sam­band, en ekki eðlislægt, mód­ern­ist­ar­nir eru raunar miklu færri en form­­nýj­unga­menn framan af. Frum­herjar mód­ern­­­ismans eru eink­­­­anlega taldir Frakkarnir Rimbaud, Lautréamont og Mallarmé, um 1870.


Orð Hannesar Péturssonar um að "nútíma­­­ljóða­gerð" ein­kenn­ist, auk forms, af rað­kvæmri nið­ur­­skipan mynda og líkinga, minna á það sem Jó­hann­­es úr Kötlum sagði í jákvæðum ritdómi um Ljóð Steins Steinars í árs­byrj­un 1938 (tv. e. Eysteini Þor­valds­­syni 1980, bls. 79):



En hræddur er ég um að þessari þjóð langlokunnar, stuðl­­anna og höf­uð­staf­anna bregði heldur en ekki í brún. Hér er allt þverbrotið, sem við hinir flestir höfum lagt metnað okkar í, - hér koma örstutt kvæði, flest órímuð, eða þá, ef þau eiga að heita rímuð sísærandi hvert heiðarlegt brageyra með of löngu stuðlabili eða öðrum þessháttar leið­indum. Og bygging kvæðanna að öðru leyti er oftast með öðrum hætti en vér höfum átt að venjast. Í stað hinna dreifðu þráða í lýsingu, frá­­sögn eða boðskap vorra gömlu og góðu kvæða er hér leitast við að draga alla þræði saman í einn kjarna, - það er einbeitingin að hinu sér­staka til að­löð­­unar hinu sam­eig­in­lega, sem ljóðstíll þessi leggur áherslu á. Þess­vegna nýtur hann sín ekki nema í stuttu kvæði, og er langtum við­kvæm­ari fyrir mis­tökum en vor gamli stíll, en líka aftur á móti þeim mun áhrifameiri ef vel tekst.



Eysteinn fjallar í sérstökum kafla um þetta form Steins, sem hann kallar "mið­­leitin ljóð" að fyrirmynd Óskars Halldórssonar. Athyglisvert er, að Jóhann­­es lítur á það sem nýjung á árinu 1938. Eysteinn rekur að Steinn Stein­arr, "atómskáldin" og sam­­tíma­menn þeirra svo sem Snorri Hjart­arson hafi æ meir tekið það upp í stað "út­leit­­inna" mælskuljóða sem tíðkuðust áður. En þetta er þó annað fyrir­bæri en módernismi. Það er afgerandi munur á "Sorg" og eina ljóðinu sem Hannes Pét­urs­son nefndi til sam­an­burð­ar, "Bikar­inn" sem einnig er eftir Jóhann Sigur­jóns­son. "Bik­­­ar­inn" er einmitt mjög mið­leit­ið ljóð (svo sem "Ódysseifur hinn nýi" og "Jónas Hallgrímsson" eftir sama skáld), því það bygg­ist allt á einni mynd, og er að því leyti ólíkt "Sorg", eins og Hannes rekur (bls. 52). Kjarni "Bikarsins " er vínglas, eins og titill­inn sýnir. Fyrst segir að mæl­andi sitji einn að drykkju, síðan að upp úr glas­inu stígi angan gam­alla blóma samtvinnuð gamalli gleði og sorg. Og bak við mæl­­anda bíður svo dauðinn með annað glas, óend­an­leik­ans, fullt af myrkri. Þarna ríkja and­­stæður fortíðar og lífs­­un­­að­ar ann­­ars­vegar, en hins­vegar fram­tíð­ar og dauða. Greinar­mun­­ur ljóð­anna er ekki bara háttur, því síður ein­­fald­ara orð­­færi, held­ur ein­mitt það sem telst vera höfuðeinkenni módern­isma. En það er brota­­kennd fram­setning í "Sorg", eða sam­heng­is­leysi á yf­ir­­­borðinu:



















































Sorg



1. Vei, vei, yfir hinni föllnu borg!



2. Hvar eru þín stræti, þínir turnar og ljóshafið, yndi nætur­­innar.


3. Eins og kórall í djúpum sæ, varst þú undir bláum himninum,


4. eins og silgja úr drifnu silfri hvíldir þú á brjóstum jarðarinnar.


5. Vei! vei! Í djúpum brunnum hvæsa eitursnákar,


6. og nóttin aumkvast yfir þínum rústum -



7. Jóreikur lífsins þyrlast til himna,


8. menn í aktýgjum,


9. vitstola konur í gyltum kerrum.-


10. Gefið mjer salt að eta, svo tungan skorpni í mínum


munni og minn harmur þagni.



11. Á hvítum hestum hleyptum við upp á bláan himinbogann og ljekum að gylltum knöttum,


12. við hjengum í faxi myrkursins þegar það steyptist í gegnum undirdjúpin


13. eins og tunglgeislar sváfum við á bylgjum hafsins.



14. Hvar eru þau fjöll, sem hrynja yfir mína sorg!


15. Hálsar, sem skýla minni nekt með dupti!


16. Í svartnætti eilífðarinnar flýgur rauður dreki og spýr eitri,


17. sól eptir sól hrynja í dropatali og fæða nýtt líf og nýja sorg[7].



Hannes segir (bls.46) að 3. og 4.l. hér séu samkvæmt forn­kunnu stíl­bragði Gyðinga, "að innríma einu og sömu hugsun, með því að hún er endur­­­­tek­­in í nýrri mynd." En í 2. og 3. erindi er um annað að ræða. Hvorttveggja lýsir ferð með hestum, en tónn­­inn er gerólíkur. Orðalagið "Jóreykur lífsins" í 2. erindi gefur til kynna að þar sé rætt um lífshætti (nútímans?), þar sem karl­menn séu þrælkaðir eins og skynlausar skepnur til að standa undir trylltu mun­aðarlífi kvenna sinna. Þessi mynd er eins­­konar brú milli fyrri fegurðar borg­arinnar og rústa hennar nú, sem lýst er í fyrsta erindi. En í 3. erindi er aftur vikið að fyrri fegurð, svo minn­ir á upphaf ljóðsins, þetta ferðalag er un­að­ur einn. Þótt allt sviðið sé spann­að frá því að hleypa upp á him­inbogann, steyp­­ast gegnum und­ir­djúp­in og sofa á bylgj­um hafsins, þá er það allt leikur og kyrrð, einn­ig í hreyf­ingunni; "lékum að knöttum", "sváf­um". Og litaheitin styrkja þessa til­finn­­ingu fyrir að dveljast við unað; hvítum, bláan, gyllt­um. Myrk­rið er "hest­­gert" ef svo mætti segja, þannig verður það öflugt, mátt­þrung­ið, einnig er þetta til mótvægis við hvíta hest­ana áður, rétt eins og tví­ræðni orðs­­ins bogi er not­uð til að líkja himn­in­um við brú. Í því sam­hengi virð­ist nærtækast að skilja "gyllta knetti" sem tvírætt á sama hátt; að orða­lag­ið tákni í senn himinhnetti og leik­­fang, eða öllu heldur, það sýnir að mælandi ljóðsins hefur skynjað tilveru sín og sinna sem goðumlíka, að þau skyldu hafa stjörnurnar að leikföngum. Í samræmi við þetta "kosm­íska sjón­ar­mið" er línan "Sól eftir sól hrynja í dropatali". Inn á milli koma biblíulegar harma­tölur; "Gefið mér salt að eta svo tungan skorpni í mínum munni". Í þessu ljóði ríkja and­stæð­ur lífs og dauða, eins og Hannes segir. En það er merg­ur­inn málsins, að ljóð­ið stekkur sífellt á milli þessara andstæðna, en röklegt sam­hengi er ekki finnanlegt á yfir­borðinu. Einmitt við það verða myndir ljóðs­ins áhrifa­rík­ari en ella myndi. Vita menn slíks fyrr dæmi í íslenskri ljóða­gerð?



2.Einkenni módernisma



Það er skiljanlega erfitt að skilgreina bókmenntastefnu sem er sam­­eig­inleg mörg­um skáld­um í ýmsum löndum á löngum tíma, og er þar að auki nú­tíma­­mönnum ná­læg, ef ekki enn við lýði. Fríða Sigurðardóttir (bls.54-5) og Eysteinn Þorvaldsson (1980, bls.196­-7)­ byggja bæði á skil­grein­ingu Ingemar Algulin á mód­ern­isma; að til þess að ljóð teljist módernt þurfi það að hafa að minnsta kosti tvö af eftirtöldum þremur ein­kennum: 1) brag­frelsi, 2) hnitmiðun, 3) sjálfstæðar myndir. Þetta útskýra þau nánar, eink­um Fríða; hún segir, að í hefðbundnum ljóðum hafi myndir verið undir­skip­aðar rök­­legu samhengi, jafnvel fyrst og fremst til skrauts, en nú séu þær megin­atriði (bls.55):



Í nútímaljóðinu gegnir myndin sjálf stærra hlutverki en í eldri ljóð­list, því að hún ber oft á tíðum uppi alla merkingu ljóðsins. Myndin verð­­ur merkingarberandi á þann hátt, að hún vekur grunkveikjur hjá les­­anda, fær hann til að tengja hana einhverju í hugar- eða til­finn­inga­heimi sínum, þar sem áður voru engin tengsl. En einmitt þetta er að­al­­hlutverk myndmálsins, að vekja grun um eitthvað nýtt, auðga skiln­ing lesandans og víkka sjóndeildarhring hans með margræðni sinni. Marg­­ræðni orða og mynda, djarfar samsetningar orða af óskyld­um merk­­­­­ing­arsviðum og furðulegar, óvæntar hlið­stæður eru einkenni mynd­­­­­máls nú­tíma­ljóða. [...áður:] Hnitun er hægt að beita á ýmsa vegu, svo sem með því að rjúfa setning­arfræðilegt sam­hengi í ljóðinu og sleppa úr t.d. frum­lagi eða um­­sögn. Einn­ig með því að sleppa skýr­­­andi texta, sem átti að gefa rökrétt sam­­­hengi; og ekki má gleyma notk­­un tilvitn­­ana og tilvísana af hinum ýmsu menn­­ingarsviðum, sem vekja ný hug­renn­­inga­tengsl hjá les­andanum og auka merk­ingargildi ljóðs­­ins.



Taka verður fram, að Fríða er að skilgreina hugtakið "nú­­tíma­ljóð", sem hún hefur einnig um miðleitin ljóð sem lúta rök­legu samhengi (bls. 54). En það fyrir­bæri er, eins og áður var að vikið, í grundvallaratriðum andstætt sundraðri fram­setn­ingu mód­ern­ism­ans, og því ekki til umræðu hér, greina verður á milli eðlis þessara nýj­unga. "Hnitun" getur birst í mörgu öðru en mið­­leitni. Ólafur Jónsson (bls.111) gagn­rýnir samskonar skilgreiningu mód­ern­isma hjá Eysteini, á þeim forsend­um að hann einfaldi hana mjög, en Algulin hafi mótað hana um tvö sænsk skáld. Sjálfur telur Ólafur mjög erfitt að skil­greina módernisma, en dregur helst fram (bls. 112), að hann sé upp­reisn



gegn ríkjandi bókmenntahefð, einatt einhverskonar real­isma eða nat­­úr­­­al­isma, og viðleitni til formlegrar endur­nýj­unar og ný­sköp­unar er sprottin af hug­myndalegri þörf. Nauð­syn sína að láta uppi nýja lífs­vit­und, lífskiln­ing, lífs­­reynslu af einhverju tagi sem ekki rúmaðist lengur eða auðið var að gera full­nægjandi skil innan hinnar ríkjandi hefðar, eiga þá allar hinar módernu bók­menntir sam­eig­in­lega [...] að mód­­ern­ism­inn fjalli um "áraun nútím­ans" sem svo má kalla, til­veru­vanda í heimi sem glatað hefur hefð­bund­inni merk­ingu og gildi sínu. Lífs­firr­ing, gild­is­kreppa verða þá brátt lykilorð. Og þessi "vandi nútíð­ar-manns­­ins", sem margir þekkja og hafa vitnað um, er í eðli sínu ein­­stakl­­­ings-vandi, tilvistar-vandi og felur í sér tortryggni um merk­ingu og gildi allra hluta, þar með sjálfsvitund skáldsins og hans eigin til­vist, og um gildi skáldskap­arins sjálfs. Af því leiðir aftur hug­­­myndir mód­ernismans, og ný-rýninnar, sem svo var eitt sinn nefnd, um sjálf­­stæði bók­menntanna gagn­vart veruleikanum.



Eysteinn er á svipuðu reki (í 4. k. bókar sinnar) og Ólafur í upp­hafi þess­­­ar­­­ar klausu, að segja að módernisminn sé fyrst og fremst uppreisn gegn ríkj­andi hefð natúralisma. En fræðimenn hafa komist töluvert lengra í afmörkun stefn­unnar. Ólafur virð­ist mér líka leggja of mikla áherslu á hug­mynda­leg sam­­kenni mód­ern­ismans, á kostn­að fram­setn­ing­ar. Hann vísar í því sam­bandi til greinar eftir Matthías V. Sæ­munds­son, þar sem leidd eru rök að því (1979, bls.335-6), að and­stæðurnar í myndum kvæð­­is­ins "Sorg" tákni hvörf í lífs­skoðun skáldsins; frá bjartsýni og ofur­mennis­dýrkun ný­róm­an­tík­ur til van­trúar á tilgang og möguleika manns­ins. Annarsvegar er: "Á hvít­um hestum hleyptum við upp á bláan himin­bogann og lékum að gylltum knöttum", hins­vegar: "Jó­reik­ur lífsins þyrlast til himna, menn í aktýgjum, vitstola konur í gylt­um kerrum." Og Matthías ályktar (bls.326): "Fyr­ir­bær­in eru sam­stillt á órök­rænan hátt. Þannig virðist mér skáldið reyna að tjá sund­­­ur­­tættan veru­leik­ann sem og upp­lausn eigin sál­ar­lífs."


Þetta virðist mér réttilega athugað, og Matthías sýnir auk þess ýmis dæmi þess­ara tvennskonar viðhorfa í öðrum verkum skálds­ins. En þegar meg­­­in­­áhersla er lögð á viðhorf sem birtast í mód­ern­um verkum, einkum að þar birt­ist rótleysistilfinning og firr­­ing, þá skal því til svarað, að vel má vera, að firring sé ein undirrót módernismans. Um það skal ekki rætt á þessum vett­­­­vangi, en hitt er ljóst, að ekki má blanda saman orsök og einkenn­um. Skáld­­verk verða ekki flokkuð sem módern eða ekki módern eftir því hvort þessi viðhorf koma fram í þeim, því einmitt samheng­islaus og órökleg fram­­­setn­­ing veldur því, að það getur verið mjög um­deil­anlegt hvort tiltekin tilfinn­ing eða afstaða birtist í verkinu, sbr. það sem segir um surrealísk verk hér á eftir. Enn fjar­stæðu­kennd­ara væri að kalla verk módernt vegna þess eins, að þar birtist til­finning fyrir einsemd eða firr­ingu. Þá er sér­tekn­ingin frá veru­leika bókmenntanna orðin svo mikil, að menn eru fyrr en varir farnir að tala um módern verk á 17. öld, gott ef ekki í forn­öld. Því sé þessum mælikvarða beitt, er örðugt eða óger­legt að komast hjá því að flokka sem módernisma t.d. vísu Þóris jökuls[8] á 13. öld, að ekki sé talað um "Yfir kaldan eyði­sand". En þá væri orðið módern­ismi merkingarlítið orðið. Og þessi áhersla á fram­­setn­ingu hugmynda stríðir gegn megineinkenni mód­ernra verka, sem er órökleg ræða. Eysteinn lýsir því vel (bls. 218-19), þótt hann haldi sig ekki við það.


Í þessari rannsókn rekumst við iðulega á þessa ofuráherslu á hugmyndir í bókmenntaverkum, áherslu á umfjöllunarefni skálda og viðhorf, rétt eins og þeir hefðu skrifað blaðagreinar en ekki bókmenntaverk. Ég held að þetta við­horf megi kalla atvinnusjúkdóm menntamanna. Samkenni þeirra er í rauninni hvorki þekking, prófgráður né fræðileg vinnubrögð, heldur einfaldlega það, að þeir fást við hugmyndir, fyrst og fremst. Því eru það þær sem einkum höfða til þeirra í bókmenntum, nema þeir fái þjálfun í að huga að öðru.


Hvað varðar form og málfar, þá bendir Ólafur Jónsson, í gagnrýni sinni (bls.118) á bók Eysteins Þorvaldssonar, réttilega á:



stílfarslegan skilsmun, stílhvörf á milli 19du aldar og 20stu, skálda eins og séra Matthíasar, Stephans G, Einars Ben á aðra hönd og Stefáns frá Hvíta­dal, Davíðs, Tóm­as­ar á hina þótt allir saman yrki í "hefð­­bundnu formi" svo sem er kallað. Þau skil eða hvörf eru alveg skýr frá og með ljóðum ný­róm­an­tískra skálda á önd­verðri öldinni. Af hverju þá að láta eins og allt sé þetta samt og jafnt?



Rétt má vera, að Eysteinn geri það, en hann hefur þá það sér til rétt­­læt­­­­ing­­ar, að nýrómantíski skáldskapurinn er ekki fremur mód­­ern­ismi en skáld­­­­skap­ur 19. aldar mann­anna, þótt breytingin sé mikil, frá hátíðlegu orð­­færi til ein­falds máls og brags, og til þess að fjalla um tilfinningar nafn­­lauss al­þýðu­fólks, fremur en um afrek nafn­kunnra hetja.


Það er einkennileg skilgreining á nútímaljóðum, að þau eigi að hafa ein­hver tvö af þremur einkennum, sem í raun tengjast ekkert innbyrðis; brag­frelsi, hnitun og sjálfstæði mynda. Það sýnir að hér er fyrst og fremst um tímasetningu að ræða, og reynt að spanna mjög sundurleitan straum nýjunga. Módernismi er miklu þrengra hugtak, eins og áður var rætt, m.a. getur hnitun verið í margskonar ljóð­um, ekkert frekar módernum. Söm verður niðurstaðan um brag­frelsi, það kemur ekki þessu máli við, enda er það ekki talið einkenni módernisma í helstu fræði­legu yfir­­litsritum sem ég hefi séð. Svo vikið sé að íslensk­­um dæmum, þá er Þorp­ið eftir Jón úr Vör fríljóð, en ekki frekar mód­­ern­­ismi en löng frá­sögu­ljóð Stephans G. frá því um aldamótin, en þau bregða einn­ig upp augna­­­bliks­­­­mynd­­um á fremur einföldu hvers­dagsmáli (t.d. "Á ferð og flugi"). Til eru íslensk fríljóð frá fjórða áratugnum, sem ég fæ ekki séð að eigi neitt sam­­­eig­­in­legt við módernisma, þau eru skipu­leg frá­sögn bland­in hug­leið­ingum á frem­ur ein­­­földu máli. Nefna má sem dæmi frá einu ári, 1933: "Vér öreigar" eftir Jóhannes úr Kötlum, "Gönguljóð" og "Minn­ing" eftir Stein Stein­­ar, og "Þýskir jafnaðarmenn" eftir Sigurð Einarsson[9].


Önnur einkenni sem talin voru hér upp eftir Fríðu, eru hins­vegar í sam­­ræmi við skil­greiningar á módernisma í þeim fræði­rit­um sem ég hefi kom­ist í. Nægir að vísa til Hugo Friedrich (bls. 16-19) og Bradbury & McFarlane (bls. 49-51). Friedrich bendir á, að oftast sé módernisminn skil­­­greindur nei­kvætt. Og hann legg­ur eink­um áherslu á að módern ljóð hafi ekki það hlutverk að segja frá ein­hverju né lýsa því, heldur umskapi þau kunn­ugleg atriði, og geri þau framandleg; markmiðið sé að skapa sjálf­stætt fyr­ir­­bæri. Módern ljóð spanni stærra svið mannlífsins en rök­­hugs­un, og ein­kenn­ist því af and­stæðum, m.a sé sem mest bil á milli yrk­isefna og hvernig um þau sé fjallað, og spenna sé á milli ljóða og les­enda. Í stað huglægra til­finn­inga komi ópersónu­leg sköp­un. Málið sé miklu framand­legra en áður var á ljóðum, það ein­­kenn­ist af tilraunum sem skapi merkingu fremur en að tjá hana. Bæði séu orð notuð í óvæntu samhengi, og reglur um setn­ingagerð snið­gengnar, eink­um til að þétta ljóðið með því að sleppa ónauðsynlegustu orðum. Við­lík­ingar og mynd­hvörf séu notuð á nýjan hátt, með því að snið­ganga sam­an­burð­arlið, en tengja sundurleitustu atriði, sem venju­lega geti ekki farið sam­an, hlutlægt eða röklega. Eins og samsetning litflata kom í stað eftir­mynd­ar í nútíma­mál­verk­um, þannig geti í ljóði merking iðulega þurft að víkja fyrir sjálf­stæðum hreyf­­ing­armynstrum málsins, og fyrir þörfinni fyrir hljóm og spennu. Því geti verið örðugt eða ómögu­legt að "skilja" ljóð út frá því, sem kallað hefur verið inn­tak þess. En það trufli les­end­ur, að málið er þá ekki notað sem miðill[10].


Þessi lýsing virðist eiga vel við skáldskap kunnustu módern­ista, fyrr og síðar, nefnum aðeins Rimbaud, Lautréamont, Mallarmé, helstu ex­pressjón­ista og surrealista, T.S. Eliot, og Garcia Lorca. Í bók Friedrich er fjallað um þenn­an skáldskap, og fyrir löngu telst hún klass­ískt yfirlit um móderna ljóða­gerð, enda þýdd á fjölmörg mál. Hún birtist fyrst 1956.


Skilgreining Bradbury & McFarlane er mjög á sömu lund, en þeir draga sam­an, að helsta samkenni módernra hreyfinga (m.a. impressjón­isma, kúb­isma, fútúrisma, dada og surreal­isma) sé upp­reisn gegn sögu­legu viðhorfi, eins og það birtist einkum í raunsæis­stefnunni, að sjá mann­lífið eða mann­kyns­­söguna sem röklega fram­rás. Þess í stað sé lögð áhersla á hið ófyr­ir­sjá­anlega, að listin hljóti að skapa mynd af heiminum. Slík mynd eða tákn geti verið af ýmsu tagi, en gjarnan þjappað saman úr efni af ýmislegum upp­runa[11].



3. Annar áratugur aldarinnar



Jóhann Sigurjónsson var uppi á árunum 1880-1919, hann lifði rúman ára­tug eftir að hann orti "Sorg", en það var eina móderna ljóð hans. Reyndar orti hann ekki mörg ljóð. Í ritsafni hans eru einungis sex tugir ljóða, jöfnu báðu á dönsku og íslensku, eða samtals sem svarar til einnar meðalstórrar ljóðabókar. Jóhann var, eins og alkunna er, fyrst og fremst leikskáld, eftir hann liggja fimm leikrit. "Sorg" orti hann eftir fyrstu leikritin, rétt áður en hann hófst handa við höfuðverk sitt, Galdra-Loft.



3.1.Gunnar Gunnarsson (1889-1975)


Í framhaldi af "Sorg" er lítandi á ljóð eftir ritara Jóhanns, sem á marg­an hátt var arftaki hans í dönsku bókmenntalífi, Gunnar Gunn­­­ars­son. Þetta ljóð birt­ist í Óðni, 1913, árið eftir að Saga Borg­arættarinnar fór að birtast á dönsku og gera höfundinn frægan. Það er fríljóð; hrynj­andi er mjög breyt­i­­leg, ekk­ert rím, óreglu­­leg stuðlun. Það er svipað og í t.d. ljóðinu "Jöklar" eftir Viggo Stuckenberg, sem Gunn­ar þýddi í Óðin sama ár[12]. Nokk­uð er hér af mynd­­máli, en orða­lag er ekki fjarri daglegu máli. Frá­sögn ríkir í kvæðinu; mæl­­andi liggur andvaka og örvæntir, honum vitrast þá öld­ung­ur, blind­ur og heyrn­­ar­laus, sem lánar honum gleraugu, svo hann geti séð lífið "eins og það er". Ekki segir frá því, hvað mælandi sá, en honum verður mjög illa við, "Jeg fann grátinn toga í brosið og titra í rödd­inni." E.t.v. má sjá áhrif ex­pressjón­isma í æpandi lýsingum ljóðs­ins, t.d. í þriðja erindi hér:



Í MYRKRINU



Jeg lá og veltist vakandi í rúminu.


Þykt myrkur lá ofaná opnum augunum.


Og jeg hugsaði í hjartans angist minni:


Löngu, niðdimmu nætur,


fölu daufu dagar -


skylduð þið líða svona um aldir alda?



Sál mín barðist örvona, eins og uppgefinn fugl,


sem örmagnaðist á flugi sínu yfir hafið. -


Kaldi, rólegi vatnsflöturinn dregur hann nær sjer og nær sjer,


og hann eygir ekkert land - ekkert sker.



Þá sá jeg alt í einu ásjónu einverunnar.


Helblá var hún, rauðeyg og voteyg, og vantaði allar tennurnar.


- Hún brosti til mín, afskræmd og illileg.


Og stormurinn þrýsti rauða nefinu flötu móti frosinni rúðunni,


blístraði hátt og hæðilega,


og spurði með skrækróm gegn um opna glufu:


- Ertu ei hi-einmana?



Þá virtust mjer alt í einu allir hlutir svo heimskir og meiningarlausir,


einverunnar amalegu hornrekubros,


stormsins góð-drumbslegi drykkjurútshixti,


og jeg sjálfur - möndull lífsins - bölhuga í bólinu;


ef jeg hefði ekki hlegið, þá hefði jeg víst ekki getað tára bundist.



Í lok ljóðsins hverfur fyrrnefndur öldungur aftur inn í myrkrið, en síðan lýkur ljóðinu á erindi, sem ekki verður séð að standi í neinu samhengi við hitt, a.m.k. ekki á yfirborðinu.



- Svo þannig lítur lífið út?


sagði jeg, og gleymdi að gamalmennið var heyrnarlaus.


Og til þess að láta ekki á neinu bera, bætti jeg við


vingjarnlega, eins og jeg væri til með að spjalla við hann:


- Og hver eruð svo þjer, herra minn?


Jeg fann grátinn toga í brosið og titra í röddinni.


Öldungurinn sneri sjer frá mjer og fór.-


Myrkursins mjúku tjöld luktust að baki hans. . . .



- - -


Til eru svartar skínandi perlur,


eiturperlur....


Einu sinni sá jeg hlæjandi mann í leik láta eina af þeim perlum upp í sig -


af ógáti brotnaði hún milli tveggja jaxla, en bresturinn heyrðist varla.


Maðurinn gretti sig, spýtti, hló - og datt dauður niður.



Nú má sjálfsagt túlka þetta svo, að undir yfirborðs-sundur­leysi búi það sam­hengi, að þetta lokaerindi sýni meiningarleysi lífs og dauða, maðurinn deyr af ógáti og hlær í dauðanum. Þetta er dæmi­sagnakennt, og hvað sem þessu yfir­borðs-sam­heng­isleysi líður, rétt í lokin, fyrir nú utan þá ein­mana­- og tilgangs­­leys­is­­kennd, sem birtist í ljóðinu, þá sé ég ekki að það verði flokkað með módernisma, því það ræðst, eins og áður segir, fyrst og fremst af röklegu samhengi, myndmál er und­ir­skip­að því, og málfar fremur hversdagslegt.



.2.Þórbergur Þórðarson (1889-1974)


sendi fyrst bóka sinna frá sér lítil ljóðakver Hálfir skó­sól­ar 1914, og Spaks manns spjarir 1915, en þau voru síðar tekin upp í mun stærra ljóða­safn hans, Hvítir hrafnar, 1922. Í inn­­gangi þess er lýs­ing á kvæð­un­um, sem vel gæti átt við módern ljóð (Edda, bls. 266):



Sum kvæðin láta sennilega í eyrum þínum eins og end­emis­vitleysa. Orsökin er einkum sú, að þau eru miklu fáorðari en auðskilin kvæði eru venju­lega, efninu fastar saman þjappað og sneitt hjá útlistunum og marg­­­orðri hug­leið­ingamærð. Þessvegna virðist þér hug­sunar­þráð­ur­inn mill­um einstakra atriða kvæðisins ærið óljós, ef þú ert ekki gædd­ur nægilegum skiln­ingi og ímyndunarafli.



Hér er og eitt kvæði sem kennt var við móderna stefnu sem kom upp á Ítalíu á fyrsta áratug aldarinnar, "Fútúrískar kveld­­stemningar", ort 1917. Það er reyndar undir hrynhend­um hætti, sem frá fornu fari er hinn hátíð­leg­asti hátt­ur lofkvæða á íslensku, einnig kallaður Liljulag. Í fyrsta safninu var kvæði af sama tagi, en undir öðrum hefðbundnum hætti, "Til hypo­teth­­ista". En um þessi kvæði sagði Þórbergur þegar í innganginum 1922 (bls. 267):



"Futurisku" kvæðin (tvö að tölu) eru ort áður en ég hafði grun um hug­­­takið "futurismi" í listum. Þar er ekki til að dreifa stæl­ingu á er­lend­­­um listasmekk, heldur snúið í öfgar af meðfæddu "innra eðli" væmn­­­um hugsana­graut, sem ríkti meðal margra ungra manna fyrir nokk­urum árum.



Þetta skýrir Þórbergur þannig 1941 (bls.87), að þegar hann orti ljóðin hafi höfundurinn aðeins "hlerað það á skotspónum, að fútúr­ismi væri heiti á nýrri stefnu í skáld­skap og listum útí listrænu lönd­unum. Meira vissi hann ekki."


"Til hypotethista" er fljótrætt, það er, eins og höfundur segir, ein­­fald­­lega skop­stæling, þar sem inn í mærðarmiklar, klisju­­kennd­ar nátt­úru­­lýsingar er skotið lág­kúru; "rottur kvaka um ást á hverri grein [...] huldumey sem húkir þar við fossinn", o.s.frv. "Fút­úr­ískar kveld­stemn­ingar" hefst á svipaðan hátt; inn í heild­a­r­lýs­ingu á dauf­leg­um jólum á norð­urhjara koma annarleg smá­­atriði: "Þrútin starir þunguð meri [...] sérðu kel í fullum dela." Þetta færist svo í aukana uns kvæðislok eru sam­hengislaus upp­­talning á einstökum fyrir­bær­um (Edda, bls.91):



Láttu geisa ljóð úr bási,


ljúfa barn í mannlífsskarni!


Spæjari! Varstu sprok að segja?


Sprungu lýs á rauðri tungu?


Glyserin er guðleg læna.


Gling-gling-gló og hver á hróið?


Nybbari sæll og Nói skrubbur!


Nonsens, kaos, bhratar! monsieur!



Þetta virðist mér augljóslega ekki mega kallast módernismi. Og það er vegna þess að ekki verður séð, að þessi sundurleitu atriði orki saman að ein­hverju marki, heldur er markmið kvæð­is­ins miklu takmarkaðra; einungis að skjóta niður vin­sæl ljóð sam­tím­ans með skop­stælingum, svo sem höf­undur rekur sjálfur (bls.89). En þá yfir­gefur kvæðið ekki þá bók­­menntateg­und. Það er því fráleitt af Eysteini (1980, bls. 47-8) að taka þetta ­al­var­­lega sem fútúr­isma, vegna þess eins að hér sé upp­reisn gegn ríkj­­andi hefð.


Þegar fjallað er um fútúrista hefur mönnum orðið starsýnast á atriði sem ekki eru beinlínis bókmenntaleg; dýrkun þeirra á tækni­nýj­ungum, hraða, óhefl­uðum lífsþrótti, karlmennsku, einræði, stríði, o.fl. þ.h.


Einnig hefur verið bent á, að með þeim komi fríljóð inn í ítalskar bók­menn­tir, raunar með þýðingum á Walt Whitman, eins og í íslenskar bók­menn­tir. Eiginlegt fram­lag fútúrista til bók­mennta­nýjunga er talið vera "frjáls orð" Marinetti. Hann vildi hverfa frá venju­legri setn­inga­skipan, sem væri arfur frá fornöld; nú skyldi tungumálið leyst upp í frumeiningar. Burt skyldu felld öll tengiorð og orð sem voru til skýringar og afmörk­unar. Sagnir skyldu standa í nafn­­hætti. Slíkum nafn­yrð­um átti svo að raða saman eftir hug­renn­inga­tengslum. Í stað rök­réttrar hugs­anakeðju kæmi röð mynda, til­finninga og hljóð­líkinga.


Þessi nýjung, "frjáls orð", hafði lítil áhrif á ítalskar bók­menntir, segir heim­ild mín, Christa Baumgarth (bls. 140-141), en þeim mun meiri á rúss­neskar í gegn­um Majakovskí. Dadaistar hafi beitt þessu formi til skop­stælinga og þjóð­­félags­gagn­rýni, en það hafði ekki tíðkast áður.


Af þessu sést, að Þórbergur fer rétt með það, að kvæði hans eigi nafnið eitt same­iginlegt við fútúrisma.



3.3.Sigurður Nordal (1886-1974)


er kunnastur fyrir fræðistörf, en sendi frá sér prósaljóðið "Hel" í bók með öðrum skáldverkum árið 1919, sem áður segir. Um það ræðir Ólafur Jónsson og vitnar (bls. 116) til Helenu Kadeckovà um



einskonar "frum-módernisma" í íslenskum bók­mennt­um á þriðja ára­tug aldarinnar í verkum eftir Sigurð Nor­dal, Þórberg Þórð­ar­son, Hall­dór Laxness, að þeim ógleymd­­um Jóhanni Jóns­syni og Jóni Thor­oddsen. All­ténd eiga verk þeirra þriggja fyrr­nefndu á þessum tíma sam­merkt í því að þar má greina hin sömu hug­mynda­legu og stíl­fars­legu auðkenni sem áður var reynt að lýsa: áraun nútím­ans, til­vist­ar­vanda ein­stak­lings í sjón­armiðju verks, and­læga nýsköpun frásagn­arforms og stíls.



Í þeirri grein sem Ólafur einkum vitnar til, er Kadeckovà (1972) öllu var­færnari, og segir (bls. 125 -í þýðingu Ólafs!): "Þannig verður "Hel" í sam­hengi ís­lenskr­ar bókmennta­sögu að mörgu leyti forboði nútíma­stefnu, eða mód­ernisma, bók­mennt­­anna síðar meir." Enda rekur Kadeckovà fyrst og fremst þau viðhorf sem birtist í "Hel", en fjallar nær ekk­ert um fram­setn­­ingu, fyrir utan órökstuddar fullyrðingar eins og (bls.135): "það var auður mynd­máls­ins, marg­breytt hljóðfall óbundinnar ræðu á íslensku í Hel sem gleggst sýndi fram á mögulega, og nauð­syn­lega, endurnýjun íslensks skáld­skap­ar­máls og stíls." Auk þess segir hún um aðalpersónuna (bls.134): "Ein­dreg­in hug­lægni þess­arar mann­lýs­ingar er nútíma­legasta auðkenni sögunn­ar." En það sé ég ekki að verði talin bókmenntanýjung umfram t.d. ný­róm­­ant­ísku skáld­in, og "Hel" er fyrst og fremst ljóðræn speki­mál, afar dæmi­­sagnakennd, rétt eins og fyrr­nefnd prósaljóð á íslensku, eftir Túrgenev, Tagore, Jóhann Gunnar o. fl. Alrangt er því hjá Eysteini (1980, bls. 49) að segja að "Hel" hljóti "að telj­ast fyrstu prósa­ljóðin á íslensku." Myndmálið er svo hefð­bund­ið, að oft yrði það að kallast klisjur, t.d. í þessari klausu, þar sem hvert fyrir­bæri er á sínum venjulega stað (bls. 110):



Heimtufrekar og gjálífar hispursmeyjar verða að píslar­vott­um og dýrl­­ing­um ástar­innar, launa illindi með þol­in­mæði og vanþakklæti með nýjum fórn­um. Mannkynið úir eins og maurar á þessu þingi, í örbirgð og óhófi, baráttu og svíma, gáleysi og gleymsku. Hver ein­stakl­ingur eins og sand­korn á sjávarströnd og þó hver um sig möndull heims­­ins frá sínu sjónar­miði. En upp yfir þröngina blakta log­arnir af við­leitni mannkynsins, logar lista og fórna, hugs­ana og bæna. Spek­ing­ar kafa ómæli rúms og tíma og feta sig eftir or­sakakeðju til­ver­unn­ar, uns þá sundlar svo, að ekkert verður eftir nema mál­laus undrun. Menn láta ber­ast inn í nýja heima á vængjum lita og tóna. Menn leggja sjálfa sig sem brennifórn á altari ástar sinnar, en ef til vill kvikn­ar yfir brennd­­um leifum þeirra ný stjarna ein­hvers staðar í djúpi nætur­blám­­ans. Og menn falla fram á fót­skör drottins sjálfs og fylla hjörtu sín með dýrð hans, svo þau ætla að springa-



Þótt fyrir komi frumlegra orðalag, þá fer ekki mikið fyrir því, né er langt gengið, einna lengst í þessari klausu, sem rúmar eina óvenjulega við­líkingu (bls. 117):



Eg er á gangi niður með ánni. Það er gráleitur morgunn snemma vors. Pílviðirnir eru naktir og feysknir og teygja út ang­ana í allar áttir eins og furðu­legir broddgeltir. Eg er dapur og kaldur, finnst öll nátt­úr­an vera gaddar og múrar.



Þegar allt er saman lagt, sé ég ekki hvaða endurnýjun yrði til þessa verks rakin, enda nefnir Kadeckovà það ekki.



c2.3.4.Flugur Jóns Thoroddsen


Jón Thoroddsen yngri var uppi á árunum 1898-1924. Hann lét eftir sig eitt leikrit og lítið safn prósaljóða, Flugur, sem birtist árið 1922. Sveinn Skorri hef­ur rakið í mik­illi grein um Jón og verk hans (1979, bls.134) að stofn bókarinnar sé frá 1916-17.


Flugurnar eru fjórtán, sumar fáeinar línur, aðrar 2-3 bls. í litlu broti. Auk þessa kvers birti Jón tvo texta svipaða, ári síðar (í tíma­ritinu Iðunni, teknir með í 2.útg. Flugna), "Pan" og "Sögubrot". Sveinn segir m.a. í tv. grein (bls.136-7):



Að inntaki eru prósaljóðin í Flugum af tvennum toga spunnin.


Annars vegar eru smámyndir úr ævi æskumanns, einatt lýstar gáska stúd­entalífs, ell­egar háði, og einstaka sinn­um leikur um þær tví­ræð birta fár­án­leika, skynjun hins afkára í hinu hvers­dagslega.


Hins vegar eru svo þau prósaljóð sem framar öðru ein­kenn­­ast af glímu við heimspekileg eða lífsskoðanaleg vand­a­mál. [...]


Meðal smámyndanna hefur "Frost á Grímsstöðum" þá sér­stöðu að fjalla ekki um konur og ástir. Í því bregður fyrir skemmti­legum fárán­leika sem bendir í átt til þess absúrd­isma er setti ekki síst mark á bók­mennt­ir ára­tug­anna eftir síðari heims­styrjöldina.



Fáránleikinn birtist í innskotum sem stinga í stúf við hvers­dags­­lega frá­­sögn. Slík innskot eru víða í Flugum, t.d. tilefnis­laust stökk frá einu sviði til annars, vegna þess að tala er sam­eig­in­leg: "20 stiga frost á Gríms­stöðum fram­leiðir 20 skáldsögur. Tíma­ritin verða fljótlesnari."


Fyrir 2. útgáfu Flugna (1986) er 10 bls. inngangur eftir Gísla Sig­urðs­son. Skiljanlega bætir hann ekki miklu við um­fjöll­un Sveins, en þótt Gísli fjalli einkum um efni ljóðanna og af­stöðu, þá talar hann meira um fram­setn­ingu en Sveinn gerði, og seg­ir meðal annars (bls 8):



Ljóðin í Flugum eru laus við alla mælgi. Þau snúast gjarnan að­eins um eina smámynd og oft er ekki nema helm­­­ingurinn sagð­ur. Þetta stíl­­bragð undirstrikar hið skop­­­­lega.



Sveinn Skorri sagði hinsvegar (bls.154):



Hinn ljóðræni prósastíll Flugna er upphafinn, spá­mann­­legur og spak­­mælakenndur, en yfirleitt röklegur. Rök­­rétt yfirbragð ljóðanna stend­ur næsta fjarri marg­slungn­u og torráðnu mynd- og táknmáli er mjög hefur ein­kennt nútíma­lega ljóðlist.



Þessi lýsing á best við um síðustu textana, "Perlan, Promeþevs, Vita nuova, Tómas", sem eru dæmisögukenndir, svo sem oft var um prósa­ljóð, t.d. Jakobs Smára, Huldu, og Sigurðar Nordal. En þetta er raunar í ósam­ræmi við ritdóm sem Jón skrif­aði um óprentað prósaljóð í des. 1917 - þ.e. tölu­vert eftir að hann er sjálfur farinn að semja slík verk. Hér kemur þá að vissu leyti fram hvaða stefnu hann vildi fylgja í prósa­­ljóðum, a.m.k. hvað hann vildi forðast:



Ljóð í óbundnu máli. Algjörlega laust við höfuðgalla þess­arar skáld­­skap­artegundar: orðatildur, væmni, tilgerð og hugleiðingar. Bendir það á góðan smekk höf.[tekið eftir Sveini Skorra, bls. 117].



Í samræmi við þetta finnst mér framangreind lýsing Gísla eiga við um hinar fyrstu Flugur, sem einkennast af því, að flest eru ljóðin á næsta hvers­dags­legu máli, bæði að orðavali og orða­röð. Þau miðla tilfinningu fyrir að fjalla um hvers­dagsleg efni, þar sem er ást og afbrýði persóna sem eru nafn­laus­ar skissur. En jafnan er eitthvað ankannalegt í þessum textum, eitthvert rof á rök­legu samhengi. Þetta getur verið smellið, eins og þegar ást­ar­­saga er sögð í örfáum orðum, sem öll eru venjulega höfð um sögu­bók:



KVENMA‹UR



Hún var formáli að ástarævisögum manna.


Hún var innskotskafli.


Hún var kapítulaskipti.


Og nú er hún ástarævisaga mín. En það hefur gleymst að prenta orðin: Öll rétt­indi áskilin.



Þetta er svipað og "Hatturinn", afar einfaldur, stuttur texti, þar sem tvennt stingur í stúf við hversdagsleikann; talað er um hattinn með orða­lagi sem ætti best við mann, og talað er um að "kveðja stúlkuna", eins og það væri langdregin athöfn, líkt og að kyssa hana:



HATTURINN



Eg fylgdi stúlkunni heim, og hún bjó bakdyramegin. Annað meira eða merki­legra var það nú ekki.


Verið þér sælir, og þakka yður kærlega fyrir fylgdina, sagði hún.


Sælar, sagði eg.


Hatturinn yðar!


Hann hefur gott af því, sagði eg, og hélt áfram að kveðja stúlkuna.



Af öðru tagi er:




ÁSTARSAGA



Ég er ung stúlka, sem dansa eftir veginum og syng. Þegar ég mæti honum, hætti ég og hlæ.


Hvers vegna hætti ég og hlæ?



Ég dansa eftir veginum og syng. Þegar ég mæti honum, hætti ég og hlæ.


Hvers vegna hættið þér að syngja?


Ég veit það ekki.


Hvers vegna hlæið þér?


Ég veit það ekki.


En ég veit það. Þér eigið gimstein, sem þér ætlið að gefa.



Ég dansa eftir veginum og syng. Áður en ég mæti honum, sný ég við og flýti mér. Hann nær mér og réttir fram hendurnar.


Gimsteinninn.


Ég skil yður ekki.


Þér elskið mig.


Hann tekur utan um mig og kyssir mig.


Hann tók utan um mig og kyssti mig.



---


Ég er gömul kona, sem geng eftir veginum og græt. Ég mæti honum aldrei oftar.


Hvers vegna geng ég eftir veginum og græt?


Ég á gimstein, sem ég get ekki gefið.



Hér ber mest á endurtekningum með svolitlum tilbrigðum. Nútíð verður þátíð, söngur snýst í grát. Endurtekningarnar hafa þau áhrif að gera atvikið við­varandi, en einnig að hliðra mynd­­inni, ef svo mætti segja, sýna hana frá breyti­legu sjónarhorni. Ein­faldleiki ljóðanna eða hvers­­dagsleiki talar beint til les­­enda um venju­legt líf þeirra, en jafnframt má það vekja þeim ókyrrð að oft­­ast nær eru ljóðin brotakennd, jafnvel er ein­­hver mótsögn í þeim. Þar á ég eink­­um við það, að hlutverkaskipan er hverf­ul, mæl­andi ljóðanna umhverfist oft í viðmælanda sinn. Aftur og aftur er sama sígilda atvikið, stúlka og piltur mæt­ast, áherslan er lögð á hið óræða, fólk skilur ekki sjálft sig. Þannig skynj­ar les­and­inn að það er ást­fangið. Svipuðu máli gegnir um eitt lengsta prósa­ljóð­­ið, "Lauslæti". Það fjallar allt um ástamál, og skiptist í fjóra kafla, auð­kennda með róm­versk­um tölum. En þetta eru tóm brot, einnig innan kafl­anna, og ekki er ljóst samhengi milli þeirra. Einnig skiptir skyndilega um sjón­­arhorn, hér sem víðar í Flugum. Gott dæmi þess er í I, þar sem kettlingi er lýst með orðum sem gætu átt við kven­legan þokka (fegurð, mýkt, silki). Mæl­­andi varar kisa við hættum, sem eru reyndar mót­sagna­kennd­ar, oftast sitja kettir um rottur, en hér er því öfugt farið. Skyndi­lega snýst afstaða mæl­anda til kettl­ingsins við, hann bölvar kisa, því hann reyndist hættu­legur mæl­anda. Það liggur því nærri að sjá kettlinginn sem tákn­mynd konu.



I


Það var fallegur kettlingur með silki­band um hálsinn. Hann hefur stolist út á götu, og þykist geta veitt mýs.


Varaðu þig, kisi. Rotturnar sitja um þig.



Bölvaður kettlingurinn. Eg varaði mig ekki á honum.



Í II koma nokkur brot um vaxandi ástaræsing mælanda, sem skynj­ar æs­ing­inn sem fiðrildi væri. En þarna er stiklað á stóru, samhengið vantar, svo það verður ímyndunarafl lesenda að leggja til:



Eg kyssi þig. Eitthvað flýgur fram á varir mínar. Það er nakið og blygðunarlaust, æsandi og kitlandi, ham­stola af fjöri og sigur­kæti.


Það er ástarkvæði, og eg flyt þér það óorkt í löngum, heitum kossi.



Eg kem ekki kl. 8, því fiðrildið er flogið. Eg á enga óskrifaða sögu um hjóna­efni í húsnæðisleit.



Sveinn Skorri tekur svo saman megineinkenni Flugna (bls.154-5):



Gildi Flugna fyrir síðari kynslóðir ljóðskálda á Íslandi felst fremur í hinu almenna fordæmi, er Jón gaf, en mikl­um áhrifum hans á einstaka höf­unda. Þrír þættir virð­ast þar gild­astir.


Jón verður fyrstur til að gefa út sérstaka bók prósaljóða á Íslandi.


Hann beitir vísunum framar öðrum stílbrögðum til að gefa ljóðum sínum möguleika til táknlegrar merkingar.


Loks verður Jón Thoroddsen einna fyrstur íslenskra höf­unda til að tjá í ljóði þá lífs­skynjun sem kennd hefur verið við firringu og þótt hefur setja djúpt mark á nú­tíma­­lega ljóðlist.



Hvað fyrsta atriðið varðar, þá hefur vart vakið minni athygli lengri bálkur prósaljóða í Fornum ástum Sigurðar Nordal, eða þá bækur Tagore, sem fyrr birtust. Sérstaka rannsókn þyrfti til að dæma um 2. atriðið, tíðni vísana miðað við önnur skáld. En þriðja atriðið virðist hreinlega rangt, sbr. lýsingu Matthíasar V. Sæmundssonar (1986, bls. 40) á ljóðum Kristjáns fjalla­skálds, sem ort voru hálfri öld á undan Flugum Jóns Thor­oddsen:



fánýtis- eða tómhyggja er gildur þáttur í kvæðum Fjalla­­skálds­ins [...] Í ljóðum sínum lýsir það manni, sem dæmdur er á marklausa helj­ar­­göngu, klofinn á milli draums og lífs, með óeirð í blóði, einn og engum þekktur.



Þetta sýnir best, hve fráleitt það er að telja módernismann birtast í þess­ari af­stöðu. Andstætt Sveini Skorra finnst mér meira máli skipta, að flestar Flug­ur eru á hvers­­dagslegu, einföldu máli, en stríða gegn röklegu samhengi, m.a. með mótsögnum. Og í því liggur mód­ern­ismi þeirra, það sem hann er. Erfitt er að segja hvort þetta hefur haft áhrif á aðra höf­unda, en vissulega birtast svipuð einkenni hjá öðrum skáldum skömmu síðar.




4. Jóhann Jónsson (1896-1932)



Til módernra ljóða frá fyrra hluta 20. aldar hefur löngum verið talinn "Söknuður" Jóhanns Jónssonar. Enda má skilja orð Jóhanns sjálfs á þá leið (sbr. Inga Boga 1991, bls. 25): "Þetta er fyrsta tilraun mín til að skrifa moderne Lyrik á íslensku". En "nútímaljóð" (Moderne Lyrik) þarf, eins og fyrr segir, ekki að merkja hið sama og módernismi. "Söknuður" birtist í Vöku eins og "Sorg", en ári síðar, 1928. Þar birt­ist einnig hið fagra kvæði Jóhanns Jónssonar; "Hvað er klukkan". En það er af sama tagi og "Bik­arinn", sem áður var um rætt, skipast rök­lega um eina mynd með til­brigð­um. Nú má reyndar segja að röklegt sam­hengi ríki einnig í "Söknuði". Mæl­andi þess gengur um götu og heyrir þetta ögrandi ávarp sem ljóðið hefst á; "Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað", en síðan segir frá viðbrögðum hans. Það er mjög áhrifaríkt að hefja ljóðið á þessari sam­visku­­­spurn­ingu, sem slær þá les­end­ur og fær þá með í vanga­veltur mæl­and­­ans. Í ljóðinu ríkja and­­stæður milli ferskr­­ar skynjunar ann­ars­vegar, en sljó­leika hversdagsins hins­­veg­ar. Fersk skynjun, auð­ugt líf, er hér þrásinnis tengt við bernskuna, það er "eitthvað því líkt sem syngi vor sálaða móðir", það líkist svefnrofum og "á augn­lok vor andar" -eins og móðir vek­ur ung­barn blíðlega. Einnig tengj­­ast þessar and­stæð­ur gamalkunnum and­stæðum jarð­lífs og æðri ver­ald­ar, þetta augnablik ferskrar skynj­unar er einsog "vængja­­blik svíf­andi engla/ í aug­­um vaknandi barna", og hverf­ur um leið og þau vakna. Hér er hvers­dags­líf­­inu mikið líkt við svefn, einn­ig í orða­lag­­inu "svefn­göng­um vanans". Þessar myndir eru nokkuð sér­kenni­legar, og hafa sjálf­­sagt verið það enn frekar þegar ljóðið var ort, en nú er. Raunar er ekki alltaf ótvírætt við hvað er líkt. Dög­um lífsins -og upp­hafs­orð­um kvæð­­is­ins- virðist líkt við laufblöð, ljóð eru eitt­hvað í blóðinu, þau þjóta milli drauma, sem má þá sjá líkt við líffæri, og ljóð­in krókna loks eins og við­kvæmar lífverur. Að skynja, lifa til fulls, það und­ur er eins og lífvera, sem drukknar í hafi múgæðis og ærandi hvers­dags­leik­­­ans. Spuna­hljóð er alltaf sami tónninn, bók­staf­lega "mónó­tón", það lýsir því tóm­leikanum vel. Oftar er hugtökum líkt við hluti, hvort sem það er nú lík eða annað sem grafarar, sand­fok eða e-ð þ.u.l. grófu; "hið liðna [...] grófu það ár eða eilífð". Aðrar lík­ingar eru svo slitnar að vart verða skynj­­að­ar sem mynd­­mál: "brunn [tilfinn­inga] í brjósti [...] í úrvinda hug[...] vor sam­viska sefur".


Fyrir utan myndmál kvæðisins er orðalag þess stundum sér­kenni­­legt. Um hvers­­dagslífið er haft orðalagið "augu vor eru haldin", sem merk­ir að blekk­­ing­ar villi mönn­um sýn um það sem þó er augljóst; "sjá­andi sjá þeir ekki". Þetta er biblíulegt orða­lag (Lúk. 24.16., allt frá þýðingu Odds Gott­skálks­­son­ar á Nýja­­testamentinu, 1540). Stundum má orðalag kvæð­isins virð­ast nokkuð upp­­hafið, eink­um vegna hátíð­legrar fleirtölu; "vér, vor". En það var alsiða í ljóð­um á 3. ára­tugn­um, einsog önnur orð með svip­uð­um upp­hafn­ing­arblæ í kvæð­inu; "sefast, borið". Óvana­­legra og upphafnara er: "með hönd­um halda". Mið­að við ljóð frá þessum tíma er "Sökn­uður" á fremur algengu máli. En orða­lagið er oft ferskt, svo sem hæfir um­ræðu­efninu; dofinn dett­ur oss úr stirðn­uð­um lim­­um, skilningi lostin (gert eftir orða­lag­inu: skelf­ingu lostin), heil­aga blekk­ing (hefur flestum þótt mót­sagnakennt orða­sam­band), lög­gróinn. Líklegt er, að Jóhann hafi gert síðasta orðið.


Í miðpunkti kvæðisins er árangurslaus tilraun til að höndla augnablikið - "ó dvel!" Er nærtækt að sjá þetta sem vísun til hins fræga loka­atriðis Faust eftir Goethe, þegar Faust kallar til líðandi stundar: "Verweile doch, du bist so schön!" - enda hafði höf­und­ur­inn þá árum saman verið bók­­mennta­­stúdent í Þýskalandi.


Hvað varðar mjög breytilega hrynjandi kvæðisins, þá er ekki ein­­ung­is línu­­lengd mis­munandi. Í fyrstu tveimur erindunum skipt­ast óreglu­lega á tvílið­ir og þrí­liðir, stýfðar línur og forliðir koma og óreglulega. Þetta leiðir eðli­lega til hægs lesturs sem ber keim af hiki og umhugsun, en frá og með síð­ari hluta 2. erindis, og í 5. og a.n.l. 4. erindi verður hrynj­andi mun reglu­legri í löng­um og hátignar­legum línum, sem eru mest­megnis þríliðir. Þeim mun meira áberandi verða eftir­farandi stuttar línur með upp­hróp­anir, enda standa þær yfirleitt í lok erindis[13].



Hvar hafa dagar lífs þíns . . .



Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað,


Og ljóðin, er þutu um þitt blóð frá draumi til draums,


Hvar urðu þau veðrinu að bráð,


Ó barn, er þig hugðir


Borið með undursamleikans


Eiginn þrotlausan brunn þér í brjósti,


Hvar?



Við svofelld annarleg orð,


Sem einhver rödd lætur falla


á vorn veg - eða að því er virðist,


Vindurinn blæs gegnum strætin,


Dettur oss, svefngöngum vanans, oft drukklanga stund,


Dofinn úr stirðnuðum limum.


Og spunahljóð tómleikans lætur í eyrum vor lægra.


Og leiðindin virðast í úrvinda hug vorum sefast.


Og eitthvað, er svefnrofum líkist, á augnlok vor andar,


Vér áttum oss snöggvast til hálfs - og skilningi lostin


Hrópar í allsgáðri vitund


Vor sál:



Hvar!


Ó hvar; er glatað ei glatað?


Gildir ei einu um hið liðna,


Hvort grófu það ár eða eilífð?


Unn þú mér heldur um stund,


Að megi ég muna,


Minning, hrópandi rödd,


Ó dvel!



En æ, hver má þér með höndum halda,


Heilaga blekking!


-Sem vængjablik svífandi Engla


Í augum vaknandi barna,


Ertu hverful oss, hversdagsins þrælum,


Og óðar en sé oss það ljóst er undur þitt druknað


Í æði múgsins og glaumsins . . .



Svo höldum vér leið vorri áfram, hver sína villigötu,


Hver í sínu Eigin lífi, vegviltur, framandi maður.


Og augu vor eru haldin og hjörtu vor trufluð


Af hefð og löggrónum vana að ljúga sjálfan sig dauðan . . .



En þei, þei, þei . . svo djúpt er vor samviska sefur,


Oss sönglar þó allan þann dag


Við eirðarlaus eyrun,


Eitthvað þvílíkt, sem komið sé hausthljóð í vindinn,


Eitthvað þvílíkt, sem sýngi vor sálaða móðir


Úr sjáfarhljóðinu í fjarska.


Og eyðileik þrungið


Hvíslar vort hjarta


Hljótt út í bláinn:


Hvar?.. ó hvar?...



Eysteinn Þorvaldsson segir um kvæðið (1980, bls. 60):



Ótvíræð einkenni expressjónisma birtast í til­finn­inga­­legri út­mál­un kvæð­­­isins á veru­leik­anum. Hinar áköfu til­finn­ingar ör­vænt­­ingar og tóm­­­­leika brjótast fram í upp­­hróp­unum og stundum í harla sér­kenni­leg­um myndum, t.d. [í 4. erindi].



Upphrópanir eru oft áberandi í expressjónisma, en svo er vitaskuld víðar, næg­ir að nefna til dæmis Sigurð frá Arnarholti, Stefán frá Hvítadal og Davíð Stef­­áns­son. En upphróp­anirnar vinna hér með sérkennilegum mynd­um kvæð­is­ins og lík­ing­um, og fersku orðalagi kvæðisins. Allt dregur þetta að sér at­hygli les­and­ans á hverjum stað, og að því vinnur líka hrynj­andin, allt ljóðið snýst um það að staldra við augna­blik­ið.


Ef við nú berum "Söknuð" saman við ljóð sem áður var hér um fjallað, ann­­­­­­arsvegar "Sorg", en hinsvegar "Í myrkrinu" eftir Gunnar Gunn­­ars­son, þá virð­­ist mér "Söknuður" ótvírætt standa nær því síðar­nefnda að því leyti, að rök­­legt samhengi rík­ir í báðum ljóðunum, og mynd­ir "Saknaðar" verða ekki kall­­aðar sjálf­stæðar eða sund­­ur­­leitar. Orða­lag "Saknaðar" er miklu fersk­­ara en ljóðs Gunnars, sem er heldur klisju­­kennt. En ferskt orða­lag er annað en mód­ern­­ismi, og ekki sker brag­arháttur heldur úr, eins og áður segir, né heldur hug­ar­ástandið sem í ljóð­unum birt­ist, að hér tali "fram­andi maður".


Ingi Bogi Bogason hefur fjallað m.a. um aldur þessa ljóðs, og leiðir rök að því (1991, bls. 25) að það sé "ort síðsumars eða um haust 1926." Hugsast gæti þó að Jóhann hafi unnið lengur að því, öllum heim­ildum ber saman um tímafrekt nostur hans við eigin verk, en ljóðið birtist sem­sagt á árinu 1928.


Í handritum Jóhanns (Lbs. 3897 4to) er í vélriti nokkuð á þriðja tug kvæða á þýsku. Sum þeirra eru dagsett, frá 25.2. 1921 til 29.11.'23. Það er merki­legt, að Jóhann hefur skv. þessu farið að yrkja á þýsku áður en hann flutt­ist til Þýskalands, en það var í okt. 1921. Öll eru kvæðin á lausum blöð­um. Í þeim er talað um upp­reisn og tilfinn­ingaólgu, og mikið ber á upp­­hróp­unum. Þau ljóð eru öll óprentuð, enda fjarri því eins vel heppn­uð og þau íslensk ljóð Jóhanns sem Halldór Laxness valdi til birtingar í ljóða­safni hans. Eitt ótímasett kvæði er athyglisvert í þessu sam­bandi:



Nächtliche Klage



Nacht - empfange meinen Schrei.


Alle Tage gehen vorbei,


keiner reisst mich in Empörung,


keiner schmettert mich entzwei. -



Nacht! Gebäre meine Tat!


Und verhülle jeden Pfad:-


Weglos zwischen Schlucht und Stämme


stell mich - aufgebrochen, grad.



Nacht - ich hörs: die Hölle heckt;


Riesig bin ich ausgestreckt,


o, ich könnte-


doch die Zeiten


drängen mich in Mühsamkeiten.



Nacht Nacht Nacht - ich habe Mut!


Nacht Nacht Nacht - ich habe Blut!


Aufzustossen! Hinzusterben! -


Ach - den Ruhm raubt Sklavenbrut[14].



Immer, immer brennt die Not:


Halbes Leben, halber Tod-


N a c h t!



- Da lächeln Wolf und Wurm;


Morgen stürzt aus allen Himmeln,


und


ich


rag


als Hungerturm


grausig Schweigsam in den Sturm -



N a c h t!



Við sjáum hér sömu hugleiðingar og í "Söknuði", um hálft líf og sljótt, þar sem dag­ar­nir líða hjá, án þess að nokkuð grípi mæl­anda. Mynd­málið er hér öllu kunn­ug­legra, mælandi er einn á ferð, í háska milli skógar og gjár, við hon­um brosa úlfur og orm­ur, tákn dauða og tor­tímingar. Upphrópanir og sterk orð miðla til­­finn­­inga­gildinu, morguninn hrapar úr himn­um yfir mæl­anda, sem gnæf­ir eins og turn hungurs í stormi, og ljóðið er að nokkru leyti grafískt, lokalínurnar taka nánast á sig mynd turns.


Enda þótt myndmál "Saknaðar" sé frumlegra en þetta, eins og áður seg­ir, þá fer ekki milli mála, að þetta er í grund­vall­ar­atrið­um kveðskapur af sama tagi. Því einnig í "Söknuði" er fyrst og fremst lýst tilfinningum, sagt frá. En við sáum, að mód­ern­ism­inn reis einmitt í andstöðu við slíkt. Í framhaldi af til­greindum um­mælum Jóhanns um kvæðið segir hann: "Modern er þessi Lyrik í þeim skilningi, að hún fjallar í eðli sínu frekar um almennt efni en einungis um privat mál." (Ingi Bogi 1991, bls. 25). Það er vissulega almennt einkenni á módernisma, svo sem Hugo Fried­rich rekur, að skáld sé fremur að vinna úr möguleikum tungu­­máls og ímyndunar en að tjá sig persónu­­lega[15] (bls.17). En það er einmitt svo almenns eðlis, að þetta er aðeins hægt að skilja sem stefnu­yf­ir­lýs­ingu Jóhanns með megin­straumi. Um ex­pressjón­­­­ism­ann hafa birst mörg og mikil safnrit á seinustu árum. Í einu þeirra er grein eftir Edgar Lohner, um ex­pressjónisk ljóð. Hann rekur þar, að ex­pressjón­ism­inn hafi gripið marga tugi skálda á öðrum áratug 20. aldar. Sum hin bestu lét­­ust í upphafi hreyf­­ing­ar­inn­ar (Heym 1912, Trakl og Lichtenstein 1914). Þetta hafi orðið tískuhreyfing, og mikið af því sem kallað hefur verið ex­pressjón­ísk ljóð, sé því heldur aur­ugur straum­ur, og meira klisju­­kenndar yfir­lýs­ingar um skoðanir og tilfinningar en ný­sköp­un, þetta eigi því ekkert skylt við módernisma[16]. Mikið af þessu eru ákalls­ljóð, þrungin móð, og hefur ver­ið kallað "O Mensch-poesie". Mér sýnist ótví­rætt, að ljóð Jóhanns séu af þessu tagi, en þau eru vita­skuld ekkert verri fyrir það. Ég er þannig sammála því sem haft var eftir Eysteini Þorvaldssyni hér að framan. Í næsta kafla komum við að mód­ern­um ljóðum ex­pressjónista.


Til samanburðar mætti að lokum líta á kvæði Davíðs Stef­áns­son­ar: "Með lestinni", sem birtist í Kvæði, 1922. Í upphafs- og loka­erindi eru slitróttar mynd­ir, sem einkenn­ast af hraða, þetta minnir á "Nächtliche Klage" Jóhanns, en fjarstæða væri að kalla þetta kvæði módernisma, það einkennist mest af hugleiðingum um óeðlilega mis­skiptingu heimsins gæða.



XI


Ys á stöðinni. Ys á stöðinni.


Öskur, köll og hróp.


Menn taka í flýti föggur sínar


og flykkjast út í hóp. -


Klefarnir fyllast... Kveðjur.


Menn kaupa í skyndi blað.


Einn... tveir... þrír...


og eimlestin rennur af stað.



Nú virðist nær að líta á þessa bókmenntaflokkun sem pól­skiptingu en að­skil­in hólf, en nið­urstaða mín verður þó, að "Söknuður" verði ekki talinn að marki mód­ernt verk, þótt það sé sérstætt.




5. Ljóð Halldórs Laxness


þau sem hér um ræðir, eru frá 3. áratug aldarinnar, en birtust sum ekki fyrr en í Kvæðakveri 1930 (hér kallað 1. gerð). Stundum voru ljóð áður prent­uð í tímaritum, og er þá gengið út frá þeirri gerð, hafi hún síðar breyst, iðulega kemur sú gerð aftur í Kvæða­kveri 1949 (hér kallað 2. gerð).



5.1.Unglingurinn í skóginum


Ljóðabók Halldórs, Kvæðakver, birtist fyrst 1930. Hún hófst á kvæð­inu "Unglingurinn í skóginum". Um það sagði Halldór 1949 (í eft­ir­­mála 2. gerðar, bls. 141):



"Unglíngurinn í skóginum" er dýrasta kvæðið í bókinni, metið í krónum. Þetta litla kvæði var vetrarstarf mitt í Reykjavík 1924-25; ég orti það upp æ ofaní æ mánuðum saman. Meðfram var ég að hugsa um efnið í Vefar­ann mikla, og hafði einsett mér að fara til Sik­il­eyar um vorið að setja saman þá bók. Til þeirrar skáldfarar bað ég alþíngi um fjár­styrk. Því var ekki illa tekið í fyrstu



- en svo birtist þetta kvæði, og það hafi segir hann að hafi orðið til þess að hann fékk ekki styrkinn. Ég hefi skrifað grein um þetta efni (í Skírni 1985), og nið­ur­stað­a mín varð sú, að þessi saga sé mjög ósennileg, og lík­lega mótuð af deilunum um "atóm­ljóð" um miðja 20. öld. Sennilegast er, að Hall­dóri hafi ver­ið neitað um styrkinn vegna þess að Alþingi skar þá óskap­lega niður op­in­ber útgjöld á öllum sviðum. Ekki verð­ur séð að kvæð­ið hafi mætt neinni sér­stakri and­­spyrnu þegar það birt­ist í Eimreiðinni vorið 1925. En það virðist Hall­dór þá hafa ótt­ast, því fyrir kvæðinu fór þar stuttur for­máli til réttlæt­ingar (bls.70):



(Expressíónistiskum skáldskap er fremur ætlað að valda hug­hrif­um fyrir hreims sakir og hljómrænnar notk­un­ar orða en hins, að gefa ein­hverja eina rétta efnislausn. Expressíónistiskt kvæði getur brugðið upp fyrir áheyranda hin­um fjarskyldustu við­horf­um í sömu andrá. Ex­pressí­ón­­­ism­us er hill­inga­leikur, eins og reyndar öll list, meir eða minna; hann skír­skotar til ímynd­un­ar­­­afls­ins, án þess þó, að skynsemi nokk­urs manns þurfi að fara var­hluta af því, sem hann hefur á boð­stól­um, og hver, sem sneyddur er gáfu til ímynd­unar, gengur slyppur frá borði þar sem hann er annars­vegar. Expressíón­ism­inn er í sjálfu sér eins gam­all og listin, þótt nafnið sé eigi eldra en frá síð­ustu öld; hans hefur stund­um gætt meir, stundum miður, í sögu list­­­anna, en má heita þungamiðja allr­ar tísku­list­ar, hvar­vetna. Höf.)



Í þessum formála finnst mér einkum eftirtektarverð áhersla Halldórs á hug­­hrif ljóðs á ímyndun­arafl lesenda, fremur en ein­hlíta efnislausn, það sýnir hve með­vit­að­ur hann er í módernri ljóða­gerð sinni. Hér verður litið á þessa fyrstu gerð kvæð­is­ins, en það hefur síðan birst í ýmsum gerðum. Vel fór á því að hefja Kvæða­kver á því. Auk þess að vera áður ­þekkt, var ljóðið glæsi­­­­leg­ur inn­gangur að módernustu ljóð­um bók­ar­innar. Inn­gang­ur þeirra frem­­ur en hluti, því það má kalla einskonar ferð frá vit­­­ræn­um skilningi að skynj­un, að því að dvelja við fegurð. Rammi ljóðsins er í rök­­legu samhengi; stúlku dreymir að hún sé stödd í skógi, eins og hún var ári fyrr, með stöllu sinni, en nú er hún ein. Þar hittir hún ungling klæddan lauf­skikkju, og hann reyn­ir að tæla hana með orð­skrúði. Þetta má minna á hið fræga ljóð Mallarmé; "L'après-midi d'un faune". Þar vaknar skógarpúki á Sikiley [!] og minnist þess, að hann hafði átt ást­arfund með tveim­ur skógardísum - eða var það draum­ur? Efinn er þunga­miðja ljóðs­ins, og einkenn­ir myndmál þess, í því felst, að ímynd­un­ar­­aflið hljóti að skapa lífsreynslu úr brot­um, þarmeð er komið að hlut­verki skáld­skap­ar­ins. Það er ekki ólíklegt, að Halldór hafi haft ljóð Mallarmé í huga, en ekki sé ég nánari svip með ljóð­­un­um en fyrrnefnda umgerð með þessar þrjár persónur í skógi, t.d. ekki það sem nú skal greina um form "Unglingsins í skóginum". Þar sem tal unglingsins er tæl­andi, er það þá einkum hljóm­ríkt, rímauðugt, og myndríkt, en einnig samhengis­lítið, jafn­vel óskilj­an­legt á köflum:



Litla títa


litla hvíta mýrispýta,


lindargullið og flugan mín,


eg er kominn að sjá þig, sjá þig,


og heiti Máni af Skáni,


kominn frá Spáni


til að sjá þig,


spámáni frá Skáni,


skámáni frá Spáni,


frá Skámánaspáni,


og vil fá þig, fá þig.-



Losti og fegurð eru þungamiðja ljóðsins, því er það svo skyn­­rænt, enda er það mest­megnis tal unglings­ins, sem er persónu­­­gervingur nátt­úr­unn­ar. Og því verður lýs­­ing skógarins í munni hans yfirgengileg, mót­sagna­kenndar mynd­ir reka hver aðra og sýna skóginn frá ólíkum hliðum: "morg­unskóg­ur­inn drif­inn dögg [...] mið­aft­an­skóg­­urinn [...] kvakandi kveld­skógurinn [...] rökk­urviðurinn reifður hvítum þokum [...] vor­skóg­urinn". Mynda­­flaumurinn sýn­ir ástríðuna, og við bætist, hve altæk hún er, kemur guðs í stað:



angan guðlausra jarðdrauma,


himneskur losti,


heiðinnar moldar.



Orðalagið "himneskur losti" hefur flest­um les­end­um væntanlega þótt mót­­sagna­kennt. Og við rununa um skóginn bætast ákvörð­un­ar­lið­ir sem gera þetta mynd­rænna - en síst auðskildara. Því hvað er "mál­­þrasta­harp­an"? Fyrri lið­ur­inn er væntanlega einskonar íslensk­­un á danska fuglsheitinu "måltrost", sem skv. Ordbog for det danske sprog merkir "sang­drossel", það er söng­þröst­ur á íslensku. Þetta verður þá varla skil­­ið öðru vísi en svo, að mið­aft­­an­skóg­urinn sé sem harpa, af því að hann ómi allur af klið söng­þrasta. Fyrr í kvæð­inu segir: "Svo tók að kvelda/ slakna strengir eól­unnar" - þessi seinni lína varð síðar: "eólan dúrar", þ.e. vind­harpan blundar (sbr. "Æols­harpe" í sömu orðabók). Það sýnir sig þá, að við nánari athugun verður flest eða allt skilj­an­legt í þessu kvæði. En stundum er það nánast eins og skýr­ing­ar­dæmi við fram­­­­an­greinda skilgrein­inu Friedrich á módernisma, hvernig sjálf­­stæð hreyf­ing­­ar­­mynst­ur máls­­ins og eftirsókn eftir hljómi geta orðið merkingu yf­­ir­sterk­ari í ljóði, því seinni lið­­ur­inn hér á eftir er eins og merkingar­lítið berg­­mál af þeim fyrra:



En kliður dagsins


í kveldsins friði


eyddist


og niður lagsins


í eldsins iði


deyddist. -



Orðskrúðið verður enn meira sláandi en ella, vegna þess að hlut­­verka­skip­an kynj­­­anna er öfugt við það sem venjulegt var í bókmenntum, karl­maður er hér tæl­andi talsmaður un­aðar. En stúlkan hafnar ungl­ingnum, hann lýsir þá því, hvernig hann muni deyja með haust­­inu, og hún vaknar grátandi við það. Þeg­ar þetta í kvæð­islok teng­ist dauð­an­um í hring­­rás náttúr­unn­ar, verður tónn­­inn annar, miklu minna um rím og hrynj­­andin frjáls­legri:



Eg er þúsundlitur haustskógarsymfónninn;


sjá, blöð mín falla,


þau falla til jarðar


og deyja,


troðin stígvélum fuglarans,


en haukarnir tylla sér á hvítar greinar.


Og hundar galdramannsins


snuðra í fölnuðum laufhaddi mínum.



Þá þótti mér eg fara að gráta, og þá vaknaði eg.



Enda þótt við vitum ekkert um t.d. fuglarann og galdramann­inn, er ljóðið hvorki óröklegt né samhengislaust, þegar á heildina er litið. Mynd­málið er rök­­lega séð und­­irskipað heildar­sam­heng­inu, en þó yfir­gengi­legt, í miðpunkti ljóðs­­­ins. Ljóðið er því eins og á mörkum mód­ern­ismans.


Óskar Halldórsson taldi ljóðið surrealískt (bls. 69-70), með þeim rökum, að



túlkun drauma er einmitt surrealistisk aðferð. Loks er hin breyti­­lega form­­­­gerð ljóðsins í anda surrealismans. Tján­­ingin var ekki til orðin forms­­­­ins vegna, heldur skyldi form­ið gefa eftir sam­kvæmt þörfum henn­­ar. Hér er brag­ur­inn á sífelldri hreyfingu frá dýrri kveðandi til óbund­­­­inn­ar ræðu. Þegar á allt er litið er "Únglíngurinn í skóginum" eitt hið nýstárlegasta kvæði í langri ljóðsögu íslenskri.



Ofmælt þykir mér það, enda er það lítt rökstutt. Það sem segir um brag í næst­síð­ustu setningu er vissulega einkenni á frí­ljóð­um, eins og við sáum, en ekki sér­stak­lega módernt, hvað þá surrealískt, og hitt er miklu almenn­­­ara. Mér sýn­ist ljóðið ekki svo mótsagna­­kennt að það verði kennt við surr­ealisma.



5.2. Expressjónismi og surreal­ismi


En víkjum nú fyrst aftur að expressjónismanum. Áður var nefnt, að undir þessu tískuheiti fer margskonar kveðskapur, allt frá kvæðum sem setja skipu­lega fram yf­­ir­lýsingar um tilfinn­inga­ólgu, til módernra ljóða. Um þau síð­ar­nefndu fer Lohner (bls. 118) eftir Hugo Friedrich í því, að segja, að þau verði ekki greind frá módern­ism­an­um í heild. Lohner víkur sér­staklega að Alfred Lichten­stein (bls. 122-3) sem dæmi þess ex­pressjón­­isma, þar sem lengst var geng­­ið í mállegri sköpun, þar sem persónu­­legt mynd­mál rís af ímynd­unar­afl­inu. Lichtenstein féll í stríðs­byrjun 1914, aðeins hálf­þrítugur að aldri. Í ljóði sem Lohner til­færir sem dæmi, eru í tólf línum átta sjálf­stæð­ar málsgreinar. Hver um sig er mynd sem stendur sér, jafngild hinum og ótengd þeim. En ekki nóg með það, heldur tengj­ast í setningu fyrirbæri sem eru ósam­­rýn­­an­leg röklega; barna­vagn öskrar, hundar bölva, hestur hrasar um konu. Mikið er hér gert að því að afskræma kunn­ugleg atriði. Ekki nægir að segja að skáld verði e.t.v. geð­veikt, heldur þarf líka að taka fram að það sé þá ljós­hært! Því­lík stíl­rof eru alla tíð áberandi í ljóðum Halldórs Laxness, og þótt minna máli skipti, þá er einnig sam­eiginlegt að nota mikið hefðbundna, mjög algenga bra­gar­hætti.



Alfred Lichtenstein:



Die Dämmerung



Ein dicker Junge spielt mit einem Teich.


Der Wind hat sich in einem Baum gefangen


Der Himmel sieht verbummelt aus und bleich,


Als wäre ihm die Schminke ausgegangen.



Auf lange Krücken schief herabgebückt


Und schwatzend kriechen auf dem Feld zwei Lahme.


Ein blonder Dichter wird vielleicht verrückt.


Ein Pferdchen stolpert über eine Dame.



An einem Fenster klebt ein fetter Mann.


Ein Jüngling will ein weiches Weib besuchen.


Ein grauer Clown zieht sich die Stiefel an.


Ein Kinderwagen schreit und Hunde fluchen.



Þetta minnir þegar á það ljóð Kvæðakvers sem Halldór segir elst, ort haust­­ið 1922, það er "Bráðum kemur betri tíð". Þar er raunar fátt nýstár­legt fyrr en síð­asta línan kemur eins og skratt­inn úr sauðar­leggn­um: "og kýrnar leika við kvurn sinn fíngur". Ann­ars eru þau ljóð ósköp hvers­­dagsleg sem Hall­dór birti á þessum árum, t.d. enn þrjú ljóð í Óðni 1924 (bls. 42), tvö þeirra komu fremst í 2. útgáfu Kvæða­kvers (sjá einkum "Ég er brott frá þér bernska"). En þetta breytist með "Ungl­ing­ur­inn í skóg­in­um", og vorið 1926 birti Halldór ljóð í Mbl. með þessu nýja móti, t.d. "Dögg" (23.5.). Það er lof­­­söng­ur til íslensks vors, og ein­kenn­­ist af heldur sundur­lausri upptaln­ingu; "tvæ­vetl­an karar nýgot­­unginn smáa [...] Kolviðarhóll er kunnur næt­ur­­gest­um,/ kaff­ið er drukkið þar á brotna stóln­um[...] Guð lætur víðinn vaxa handa lömb­­­um: /vegurinn austur líkt og amerísk saga!", Mikið er hert á þessu í Kvæða­­kveri 1930, þar sem ljóðið heitir "Veg­ur­inn austur". Í stað síð­ast­tal­inn­ar línu kemur: "veg­­ur­inn austur líkt og kiljönsk saga!". Í stað: "Hvers ertu að bíða, hrafna­klukkan bláa" kem­ur annarlegri litrík persónugerving: "og döggv­­um ölvað dreym­ir grasið bláa".


Þegar litið er á þessi elstu ljóð Halldórs, þá virðist líklegt að hann hafi lært að yrkja af þýskum expressjónistum - þ.e. lært að yrkja frum­lega, með stíl­­­rofum, á þann hátt sem varð svo ein­kenn­andi fyrir hann. Má þá minnast þess, að í árslok 1921, þegar hann var tvítugur, dvaldist hann lengi í Þýska­landi (Hallberg, Vefarinn I, bls.86-7 ). En nú er að huga að öðrum áhrifa­valdi.


Halldór sagði í eftirmála 2. gerðar (1949, bls. 142-3), að fáein ljóð­anna væru surrealísk:



André Breton birti stefnuskrá surrealismans 1924, ef ég man rétt. Ég var í upp­hafi snortinn af þessari stefnu, og má sjá þess glögg merki bæði í "Únglíngnum í skóg­inum" og Vefaranum mikla frá Kasm­ír. Ég svalg alt sem ég náði í eftir þá höf­unda sem mörk­uðu stefn­­una, Appollinaire, Aragon, Soupault, Max Jacob (að vísu nokkru eldri) Bontempelli (hinn ítalska), að ógleymdum sterk­asta liðs­mann­inum, James Joyce. Síðast en ekki síst dýrk­aði maður hið fræðilega upp­­haf þess­arar skáld­skap­­arstefnu, Freud. Þó stefna þessi hafi í hreinni mynd sinni verið meira til jórt­urs en fylla, nokkurskonar spiri­tus con­centratus, og vandhæf til neyslu óblönduð, þá hefur hún orðið slík­ur snar þáttur og lífs­­­skilyrði nútímabók­menta, að segja má að þeir höf­­und­­ar og skáld vorrar kynslóðar sem ekki námu af henni alt sem num­ið varð þeg­ar hún kom fram, séu dauðir menn.



Hér telur Halldór með ljóðabálkinn "Rhodymenia palmata", sem hann hafi slegið saman á útmánuðum 1926, en auk þess eink­um fjögur ljóð, sem hann segist hafa ort vorið 1927; "Nótt á tjarn­­ar­brúnni", "Vor­kvæði", "Erfiljóð eftir stór­skáld" og "Boro­din". En hann bætir við: "Surrealismi í hreinni mynd er varla til frá minni hendi, nokkr­ir kaflar og ein­stakar setn­íngar í Vef­ar­an­um nálgast það helst, sömuleiðis ýmsar glefs­ur í kvæð­un­um."


Athyglisvert er, að í 1.gerð Kvæðakvers nefndi Halldór enga bók­­­menntastefnu, heldur sagði í formála þess (1930, bls.6):



Stundum hef ég verið stemmdur upp á dularfult orða­skvaldur eins og ljóst er af eftir­mælum um stórskáld og kvæð­­inu um Borodin, og nátt­­úr­lega hefur slíkt hug­ar­­ástand full­kominn rétt á að sníða sér sinn stakk, því það er eins vísindalegt í eðli sínu og hvert annað hugar­ástand. Þessi kvæði eru mönn­um holl þegar þeir eru í hrifinni stemn­­­ingu en kæra sig ekki um að hugsa, heldur njóta þess að láta orðin hoppa og hía út um borg og bí nokk­urn veginn frjáls undan oki mein­íng­­ar­innar.



Líklegt virðist mér að þessum orðum ráði varfærni, líkt og í for­­mála "Ungl­­ingsins" 1925, Halldór hafi viljað varast að fæla les­­endur burt með fram­­and­legu orði, svo sem "surrealismi", og hann reynir hér að rétt­læta slíkan kveð­­skap. Þessi ótti við að menn taki illa nýjungum sést líka í viðtali við hann þegar hann kom heim um vorið 1926 (Mbl. 29. 4.), þá barst talið að "Rhody­menia palm­ata", sem



þótti nýstárlegt.


En Halldóri þótti það eigi nema eðlilegt að menn hjer úti á Íslandi gætu eigi felt sig við kvæðið, því það væri ort í anda hinnar nýju skáld­skap­­ar­­stefnu, sem kviknaði árið 1922 og nefnt er "surrealismi."


"Jeg veit hjer um bil alt um þessa stefnu", sagði Halldór, hefi lesið allar helstu bækur er um hana fjalla. Kvæðið er ort undir þeim áhrif­um."


Eigi vildi Halldór með nokkru móti kannast við, að stefna þessi væri í anda hins svonefnda "Dada-isma", hinnar alkunnu lista­stefnu sem ruddi sjer til rúms meðan ófrið­urinn stóð sem hæst í Miðevrópu. En mynd­ir þær, sem gerð­ar voru í þeirri stefnu voru t.d. svipaðar því, sem hent væri blek­flösku í vegg og bæri veggurinn þess eðli­leg merki.


En hann hafði haft þá ánægju, að heyra erindi úr kvæði sínu "Rhody­menia palmata" á vörum farþega, jafnskjótt og hann stje á skips­­­fjöl í Leith, eftir 12 mánaða fjarveru frá löndum sínum.


(Hallberg: Vefarinnn II, bls.13)



Svo mikill ruglingur er á flugi um einkenni surrealisma, að ástæða virð­ist til að taka hér fram fáein meginatriði. Það er mis­skiln­ingur að sur­real­ísk list sé sköp­­­uð í einhverju með­vit­und­ar­leysi, með ósjálfráðri skrift, með því að skrá drauma beint nið­ur, með því að þylja í mið­ils­ástandi; eða þá með því að láta til­vilj­­un ráða, svo sem þegar hópur manna skrifaði hver sína línu í verki án þess að vita hvað hinir höfðu skrif­að, o.s.frv. Hitt er rétt, að surreal­istar iðk­uðu allt þetta til að komast hjá klisjum og hjá því að fylgja hefðum ósjálfrátt; iðk­uðu þetta til að virkja ímyndunarafl sitt. En útkom­an varð hugarþjálfun eða í mesta lagi hrá­efni í list­sköp­un, en til hennar þarf auð­vit­að meðvitaða vinnu. Meg­in­ein­­kenni surreal­­ískrar listar má telja það, sem helsti leið­togi surr­eal­ista, André Breton, hélt mjög á lofti, og tók raunar eftir öðru skáldi, Pierre Reverdy, að skáldleg mynd yrði því mátt­ugri, sem hún tengdi meiri and­­stæð­ur saman. Því voru surr­ealistar einatt að vitna til klausu úr Söngvum Mald­or­ors eftir Lautréamont (frá ár­inu 1869): "Fagurt eins og þegar sauma­vél og regnhlíf hittast af til­­vilj­un á lík­skurðarborði."


Nú má ljóst vera, að þessi samtenging andstæðna í mynd er af því tagi sem hér að framan var kallað meginatriði mód­ern­ism­ans, þ.e. sundr­uð fram­setn­­ing, órökleg og myndræn. Enda er það löngu orðið nokkuð almennt álit þeirra sem um mód­ern­ism­ann hafa fjallað, að hann sé einn meg­in­straumur, sem einstakir straum­ar inn­an hans grein­ist ekki frá í meg­in­atriðum. Orðið "surr­eal­­istar" merkir þá fyrst og fremst hreyf­ingu sem hélt reglu­lega fundi, og tók sameiginlega af­stöðu til ýmissa mála. Sú hreyf­ing hófst í París upp úr 1920, en breiddist síðar út um lönd. Ex­pressjón­­isminn var mód­ernisminn á til­tekn­um stað og tíma, þ.e. fyrst og fremst í þýskumælandi löndum á 2. ára­tug 20. aldar. En er þá enginn munur á surrealískum verkum og ex­pressjón­ísk­um? Það er erfitt um að tala, verk margra tuga skálda áratugum saman, og vita­skuld er mér þar margt ókunnugt. En ef litið er ann­­ars­vegar á ljóð nokk­urra þeirra skálda sem nú telj­ast fremst ex­pressjónista, t.d. Benn, Heym, van Hoddis, Lichtenstein, Stadler, Trakl; en hinsvegar á ljóð helstu surreal­ista; Breton, Eluard, Aragon[17] og Péret; þá eru mörk­in vissulega óskýr, en samt sé ég af­ger­andi mun á þessu tvennu. Hann sést á ljóð­inu sem hér var tilfært og Lohner vitn­­­aði til; "Die Dämmerung", eftir Lichtenstein. Þar koma óvænt­­­ar líkingar og and­stæður, t.d. "skríður líkvagn, mjúkur eins og ormur". En það fer ekki á milli mála, að frá upp­hafi til enda lýsir ljóðið ferð, og ein­stak­­ar málsgreinar eru skilj­­an­leg­ar. Ljóð surr­eal­istanna hafa hins­­vegar ekki slíkt samhengi, það ligg­ur í mesta lagi í hugblæ ljóðsins. Vissu­lega eru til ljóð eftir expressjónista þar sem ekki er samhengi milli ein­stakra setninga. En hitt virð­­ist sjaldgæft hjá þeim, sem er aftur á móti áber­andi hjá fyrr­nefndum surrealistum, og gætti þegar hjá Mallarmé, að innan setn­­ingar er ekki sam­hengi, þar stríðir eitt orð gegn öðru. Það er sam­­kvæmt framan­greindri stefnu­yf­irlýsingu Breton. Dæmi má taka úr fyrstu surrealísku bókinni[18], sem Breton samdi ásamt Philippe Soupault, vorið 1919, Segulsvið:



Dúfur biðstöðvarinnar, sem láta myrða farþegana, eru með blá­bryddað bréf í goggi.


#


Meðal margvíslegrar dýrðar reiðinnar horfi ég á hurð skella eins og lífsstykki blóms eða strokleður nemenda.



Í fyrri setningunni er blandað saman tveimur klausum, sem geta ekki tengst röklega. Önnur varðar farþega og biðstöðvar, hin bréf­dúfur. Ofan á þetta bætist svo morð. Í þeirri seinni er talað um hugtak (reiði) eins og hlut­lægt væri. Í stað þeirr­ar al­gengu lík­ing­ar að líkja konu við blóm, er talað um blóm eins og kona væri! Við bætist svo að viðlíkingarnar tvær eru ósam­rýn­an­legar sagn­orðinu að skella.


Önnur kunn skáld í hópi surrealista, t.d. Desnos og Prévert, ganga ekki svo langt, og yfir­leitt eru ljóð þeirra í samhengi frá upp­hafi til enda, skop­stæl­ing­ar og á annan hátt innlegg í barátt­­una.


Surrealistar voru alhliða byltingarmenn, börðust gegn helstu stofn­­­un­um þjóð­­­­félags síns á öllum sviðum. Í sumum verkum þeirra er þá áróður gegn hern­­­­um, kirkj­unni, kjarnafjöl­skyld­unni o.fl.þ.h. En fyrr­nefnd höfuðskáld surreal­­­­ismans litu svo á, að bók­­menntaverk þeirra ættu að frelsa menn und­an ríkj­­­andi hugs­un­ar­­hætti með því að vera þá frjáls und­an honum sjálf, þar mættu eng­ar rökræður vera, né skipuleg fram­setn­­ing.


Hér verður kannað í ljóðum Halldórs, hvort þar megi að­greina t.d. ex­pressjón­­­isma og surreal­isma samkvæmt framantöldum greinarmun. Við sá­um, að 1925 kall­­aði Halldór "Unglinginn í skóginum" expressjón­ískt verk, en 1949 kallaði hann það surrealískt.




5.3. Mótsagnarorð


Eitt megineinkenni ljóða Halldórs frá 1927, sem hér voru talin, virð­ist vera samtenging andstæðna, og þarafleiðandi sam­heng­­isleysi, enda þótt ljóð­in full­nægi yfir­leitt hefðbundnu formi. Þau eru óskiljanleg á rök­­legan hátt, ann­­aðhvort vegna þess að tengd eru orð sem ekki geta átt saman, eða þá að ein­stök orð eru óskilj­­an­leg, vegna þess að þau eru sam­sett úr liðum sem eiga ekki saman. Dæmi þess síð­ar­talda má einkum finna í ljóðinu "Bor­odin", sem er ávarp til sam­nefndrar persónu. Hann er þar kall­­að­ur "sendimann Sovét­­stjórnar", og var erindreki Alþjóða­sam­­bands komm­únista í Indlandi og Kína á 3. áratugnum, líklega áber­andi í dag­blöðum þá. Þetta stutta ljóð (2 er­indi, 14 línur) er allt ein mannlýsing í ávarps­formi, Borodin er hylltur, m.a. sem ættmaður spekimáls og (líklega) gott dæmi um fórnarlund alþýðunnar. En önnur atriði í þessari mann­lýsingu eru torskildari:



Bor­odin



Þú græddir upp ljóðastraums gullmörk


með göllum á freraslóð,


og þeystir á magnaðri risareið


og ræddir um hverablóð


vígfimri varptólsmund.



Þú bítur hvern kalinn kvist


þú kemur til Búdapest,


borodin, Borodin, BORODIN,


þú sendimann Sovét-stjórnar,


þú sifjúngur spekimáls,


þú ímynd alþýðufórnar,


- alþýðan dafni frjáls!


BORODIN, Borodin, borodin


með band um háls.



Ef við nú reynum að rýna í þessi orð, þá væri risareið = vagn risa, eða risa­­stór vagn - ekki ónýt kenning fyrir járnbrautarlest. Sú túlkun ætti ekki illa við hér, en er síður en svo ótvíræð. Skv. orðanna hljóðan er "gullmörk" = gull­­­skógur, en gæti e.t.v. einnig merkt það sem á ensku nefnist "goldfield", þ.e. gullnámusvæði. Ein­hverj­um kynni að detta í hug að hvera­blóð sé kenn­ing fyrir hvera­­vatn. En hví væri hér haft svo hátíð­legt orðalag um það? Í kvæð­­inu er ekki sjáanleg nein ástæða, svo sem áætl­anir um hita­­veitu, enda væri slíkt tal fjarstæða hér. Ekki er gott að vita hvað varp­tól er, né hversvegna mund (þ.e. hönd) er kennd til þess. Spjót voru löngu aflögð, en þetta gæti átt við um skamm­byssu, sem vissulega er tól sem varpar (kúlum). Þetta mætti skilja svo, að "varp­tólsmund" ein­kenni mikla skyttu, sem að sönnu mætti líka kall­ast víg­fim, en þá vaknar spurningin: hvernig er hægt að ræða með hendi? Skjóta eða skrifa rit­gerð? Og hvernig á að ræða hvera­blóð vígfimri byssu­hendi? Þarna má sjá viss hug­renn­inga­­tengsl: blóð, víg­fimri [...] mund, en eftir alla áreynsl­una fær les­andi ekki botn í þetta. Það er einsog í öðru kvæði (bls.39), brum er vax­tarbroddur á trjám, og því virð­ist orðið blæjubrum með öllu óskilj­an­legt; "himindís í blæubrumi". Þessi orð rúma ekki endi­lega öll mót­sagnir, en eru samsett með því móti, að útkoman er vart skilj­an­leg.


Dæmi um samhengisleysi innan setningar eru í upphafi fyrr­greinds erind­is. Á að skilja þetta svo, að gallar séu notaðir til að græða upp land? Það virð­ist fráleitt, þótt orðalagið sé an­kanna­­legt ef merkingin er að græða upp gallað land. Hér mætti sjá merk­­ingu undirniðri, ef við veljum úr orðin: -Þú græddir upp mörk á frera­slóð-. Bæt­um svo ákvörð­un­ar­lið­un­um við; "gull ljóða-­straums" gæti merkt þau ljóð sem best þykja sam­kvæmt ríkj­­andi hefð, eða þeirri hefð sem mikið er ort eftir. Það sem sam­­kvæmt því viðhorfi telst vera gall­ar, gæti and­stæðingum hefð­ar­inn­ar þótt vera ný­sköp­un sem líkja mætti við land­græðslu, skóg­rækt á frera­­slóð. En allt orkar þetta tví­mæl­is, svo ekki sé meira sagt, og engum sögum veit ég fara af ljóðagerð Borodins, hvað þá ný­sköpun á því sviði, fjarstæða að leiða hér huga að slíku.


Í framhaldi eru setningar sem unnt er að ráða í með góðum vilja; "Þú bít­ur hvern kalinn kvist [...] Borodin með band um háls". Það fyrra gæti átt vel við bylting­armann, "fúnar stoðir burtu vér brjótum", o.s.frv., ef ekki væri orði "bít­ur", sem greini­­­lega á best við grasbíta. Hið síðara gæti merkt: leiði­tam­ur, eða þá að hann eigi á hættu að verða hengdur, en sé farið út í slíkar skýr­ingar, þá er í rauninni lagt á lesend­ur að yrkja ljóðið, þ.e. fá meiningu í það. Sér­kenni­legt er hvernig kvæðið er gætt hrynj­­andi; bæði 8. l. og 13. l. eru bara þrí­tekn­ing á nafni hins ávarp­­­aða. En í 8. l. stækk­ar letrið hverju sinni, það snýst svo við í næst­síð­ustu línu, minnkar stöðugt.


Í "Rhodymenia palmata" segir (í V.) að stúlka sé "vafin græn­um sól­­skins­­­saungvum", og í auga hennar sá mælandinn "drauma sphinxins geisla". Hér eru undirstrikuð orð sem geta ekki átt saman, en vissulega má skilja þetta sem líkingu, t.d. að sól­skins­­söngvar lagi sig að stúlkunni líkt og vafn­ings­við­ur vefst upp að bein­vöxnu tré eða súlu. Hitt getur eng­inn vitað, um hvað sfinx­­inn dreymi, þessa furðu­veru úr grískum forn­sögum, sem drap þá sem ekki gátu ráðið gátur hennar. Er með þessu e.t.v. gefið í skyn, að stúlkan sé háska­leg þeim sem ekki skilur hana? Það er nóg að leggja fram slíka spurn­ingu til að sjá að henni verður ekki svarað út frá því sem í ljóðinu stendur.


Kvæðið "Nótt á Tjarnarbrúnni" hefst á upphöfnum tóni, og lesendur geta með góðum vilja skilið upphaf þess svo (í 2. gerð: "Í tjörninni vex borgin"), að þar segi, að tjörn­in spegli vöxt borg­­ar­inn­ar, m.a. það, að turnum hennar fjölgi. En orða­lagið verður skjótt óskilj­an­legt. Því hvað er "draum­ur sefsins"? Með þessu orðalagi er sefið persónu­gert, og í skjálfta þess virð­ist mælandi sjá draum, þar sem óhlut­lægt fyr­ir­­bæri (tímar yðar) birtist. Síðan koma orða­sam­bönd með and­stæðum, þar sem m.a. andleg fyrir­bæri birtast í hlut­­­læg­um (und­irstrikuð af E.Ó). Nú mun orð­ið "úthverfa" hafa tvær and­­stæðar merk­ing­ar. Sé það skilið sem "yfirborð grískra sjúk­dóms­nafna" gæti það merkt: hljóm­ur orðanna, en "rang­hverfa grískra sjúk­­dóms­­nafna" sé ég ekki að geti merkt neitt, og hvorugt yrði tengt hug­­tak­inu "lofdýrð vor". Frá lung­unum til nefsins fer loft, og ætti sú merking bet­ur við ljóðmæli en merkingin barki, sem einnig tengir þau, en hvort­tveggja virð­ist úti­lokað að tengja við heim vorn (1. gerð, bls.49):



Í tjörninni er borgin. Turnar yðar dafna,


tímar yðar skjálfa í draumum sefsins.


Heimur vor er ljóðdjásn frá lúngunum til nefsins.


Lofdýrð vor er úthverfa grískra sjúkdómsnafna.


Sál mín fagnar stjörnunni stóru,


sem starir neðan af ljóskerinu háa,


lík sem hattur á saklausri hóru,


lík sem hundstjarnan Venus hin bláa,


grunar leir í ginníng tjarnarbotnsins,


grunar bak við spegil ángist krossins:


á sælum vörum sorgarinnar


sofa turnar borgarinnar...



Hér er sorgin persónugerð í andstæðu sinni, sælu, og í þessum síð­­ustu tveimur línum er önnur óskiljanleg mótsögn. Um hvað er yfirleitt sagt, að það sofi á vörum? Bros eða koss, eitt­­hvað sem mælanda finnst að ætti að fara að birt­ast á vörunum, en er þar ekki enn. Hitt væri hefð­bund­­ið, að segja turna borg­ar­­inn­ar sofa í speglun tjarnarinnar. Hvort orða­­lagið um sig er kunn­u­g­­legt, og því má lesanda finn­ast, að hann ætti að skilja setningu þar sem þetta tvennt er fléttað saman. En það er ómögu­­legt. Þetta er dæmi­gert fyrir surreal­­ismann, og ýmsar mót­sagnir í ljóð­um Halldórs eru í grennd við þetta, t.d. það í 7. línu, ekki síður í 2. gerð þessa kvæðis: "líkt og hattur á synd­lausri hóru". Sam­kvæmt ríkjandi hugsunarhætti hlaut vænd­is­kona að teljast synd­ug. Síðar í sama kvæði stendur mæl­­­andi "andspænis hinni óg­ur­legu áng­ist guð­­legrar þrenn­ing­ar", og þeir sem trúa á til­veru hennar, hljóta að telja hana full­kom­lega hafna yfir svo mann­legar til­finningar sem angist. Á svip­­að­an hátt hlýt­ur "almenna huldu­­mær" að teljast mótsögn. "Hunda­stjarn­an" er venju­­legt form þess orðs sem Halldór skrifar hér "hund­stjarn­­an", og það merk­­ir ekki Venus, heldur Síríus. Ætla verður, að mörg­um lesendum ljóðsins hafi ver­ið það ljóst, og þá er þetta ein mót­sögnin enn. Enn mætti telja: "heil­aga kven­snift" ("Ontario", bls. 49), þar sem nafnorðið er niðrandi, og fár­án­lega lág­kúru­legar lýsingar á guði verða mikið spaug. E.t.v. er hér verið að grín­ast með hin frægu orð Einars Kvaran: "Guð er allstaðar. Guð er líka í synd­inni." En Halldór kveður (í "Sálmur", 1. gerð, bls.68):



Himneski Guð á hvítum sólskinsskóm


með hundrað þúsund eldspýtur á lofti,


- trallandi Guð í trjábarnanna róm,


tryllandi Guð í Nílfiskjarins hvofti!



(í 2. gerð, bls.53 eru hin dularfullu trjábörn horfin, og í staðinn komið al­þekkt skordýr: "trallandi guð í trjásöngvunnar róm,/ tryllandi guð í víðum níl­fisk­hvofti!")



5.4. Langsóttar líkingar


birtast í fáeinum kvæðum sem öll eru frá því síðsumars 1926 til jafn­­lengd­­­­ar 1927 (sbr. eftirmála Halldórs 1949, bls. 142-4). Þær tengj­ast nokkuð fram­­­­an­töldum mót­sögnum í orðum og orða­sam­böndum. Enda eru líkingarnar þá stund­­um ný­tækni­legar[19], eins og þegar sögu­maður í "Nótt á tjarnar­brúnni" seg­ist vera "sam­­visku­laus einsog bif­reiða­umferð í apríl meðan enn ber­­­­ast fréttir af skip­töpum fyrir Vestur­landi." Ekki eru líkingarnar í "Vor­kvæði" af því tagi, en langsóttar eru þær, einkum í 2. gerð (bls.37):



Apríllinn fælist sem fleygur hestur


fnasandi í kálgörðum Hörpu.


Önd mín er frjáls eins og útlendur prestur



(Í 1. gerð, bls.56: "Apríllinn fnæsir sem fælinn hestur/ falinn í kál­görð­um Hörpu.") Væntanlega má skilja hið fyrsta sem skáldfákinn Pegasus, og er lík­ingin lang­­­sótt um apríl, en hitt virðist alveg út í hött. Það er um­deilan­legt hvort prest­­ar séu frjáls­ari en aðrir menn, en engin leið að taka það al­varlega, að útlend­­ir prestar séu al­mennt öðrum frjáls­ari. Ámóta persónulegt og langsótt er það að í öðru ljóði er þytur í sefi skynj­að­ur sem munka­söngur eftir rollum (þ.e.hand­rits­vafn­ing­um). 2. gerð er myndrænni, þar sem virndar eru sýndir að verki á sefinu, og notað um það fornyrði dýja = hrista. "Sálm­ur" 1. gerð, bls. 67):



Vonlaus og döpur voru sefsins ljóð,


veik eins og tónn í ambrósiskum rollum.



(í 2. gerð, bls. 50):



Í sefi dúðu vindar vonlaus ljóð,


sem veikan ambrósiskan saung af rollum.



Í sama kvæði segir, að vísu við Jesú, en ætti betur við um gríska guðinn Hermes (bls. 52):



Ég minnist skónna þinna fleygu björtu



(en í 1. gerð er þetta ekki tilkomið, þar stendur aðeins: "Ég minn­ist enn­þá skónna þinna björtu!").


Allt virðist þetta út í hött eða annarlegt, á svipaðan hátt og orða­­sam­bönd­in hér að framan. Á annan hátt langsótt verður það þegar andstæður lita ráða ferðinni, svo sem áður var nefnt; "Og döggvum ölvað dreymir grasið bláa", og ("Í áfánga", bls.58):



Dagleið mín var sem draumur svartrar konu


og drifin spor mín líkum hvítra tára.



einnig í "X. Stanza antica", bls. 43, lokaljóði "Úr týndum kvæðum" (í 2. gerð, bls. 31, er þetta sjálfstætt kvæði undir titlinum: "Tvær ferskeytlur og viðlag"):



Þú hefur séð, að regnið rauða


er runnið í hvítan sjó.


[...]



Viltu yfir vaka


vinar þíns ljóði


líkt og lítil staka?


Hann er sár og sveittur


svartur af storknu blóði.



Fyrir utan litaandstæður er rökleg hugsun einnig sniðgengin með orða­lag­inu: "Vilt þú vaka eins og lítil staka?" Það er ekki unnt að tilgreina til hvers þetta annarlega orðalag gæti vísað, og enn flækist það; að vaka eins og staka yfir ljóði"! En svona sérkenni­legt orðalag vekur ímynd­un­ar­afl lesenda. Svip­uð er að­ferð­in í



Erfiljóð eftir stórskáld.



Hjá marmaranum í myrkraskoti


hér mókir húsvilt barn,


- knapinn að heiman með kross í hendi


kórónulaus í skímu Glerár-eldsins,


mannsandans draumur, ríki fjöru og flóðs,


sem Faraós skuggi í dýrðarsloti kveldsins.



Himindís í blæjubrumi


brosir dátt er tekur að nátta,


en sængurklæði sín hefur feingið


Shakespeares öld á bak við tjöldin.


Lýsir eins og logi í gosi


landkönnuður Furðustranda


Suður á land mun sálin venda


sólarmegin í lífsins skóla.



Mól hann gott og vegsemd votta


vökuorðum hingað norður


sólnaflotar, svo að gráta


saungvabaldar og spilla kvöldum


Haldið gat til arinelda


andans frú, er nefnist Trúa.


Áheyrendur úti á ströndum


yglibrýndir kvæði venda.


..............................



Þetta stórskáld gæti verið Halldór sjálfur, á eilífum ferðalögum sínum á þess­­um tímum gæti hann hafa séð sig sem "húsvilt barn" og "knapinn að heim­­an með kross í hendi", jafnvel í 2. erindi: "land­könnuður furðustranda", sem "Lýsir eins og logi í gosi". Vænt­anlega eiga þá við um hann orð 3. er­ind­­is: "Mól hann gott", rétt eins og í Eddukvæðinu "Gróttasöng" segir frá því að kvörn mól gull. Nútímamynd sagnarinnar er "malaði" í þátíð, en það er einn­ig óvirðu­­legt orðalag um óhóflegt málæði. En ekki aðeins ber sólin veg­semd hans norð­ur til ætt­­­landsins, heldur heilir sólna­­flotar. Það er ekki nema von að "saungva­­bald­ar" - mann­kenn­ing fyrir skáld, e.t.v. keppin­auta stór­­skálds­­ins - fari að gráta (af öfund? eða hrifn­ingu?), og spilli þannig kvöld­skemmt­un lýða við arinelda, enda þótt þar sé trúin, ná­tengd and­an­um. Öll er þessi túlkun í meira lagi óvís, en vel ætti spá síðustu tveggja lín­anna við um þetta kvæði. Ástæðan fyrir þeirri væntanlegu yglibrún lesenda er sú, að mjög er óljóst við hvað kann að vera átt með orðasamböndum svo sem "manns­and­ans draum­ur", "í skímu Gler­ár-eldsins", og eins og áður segir, "Himindís í blæu­brumi". Vissu­lega mun "ríki fjöru og flóðs" vera strönd, og "í dýrð­arsloti kveldsins" merk­ir í þessu sam­bandi væntanlega fagurt sólarlag, en hvað kemur það þessu máli við? Hvað er Faraós skuggi að gera þar? Þegar sagt er að >öld Shakespeares hafi fengið sængurklæði sín<, geta les­endur ályktað að það merki að hennar tími sé liðinn. Það væru þó undar­lega lítil tíðindi í svo sér­kenni­legu orða­­lagi, og hversvegna gerðist það "bak við tjöldin"? Vegna ríms­ins?


Í þessu ljóði má sjá undiröldu í orðalaginu, mörg orðanna vekja sér­stök hug­­­renninga­tengsl. Í 1. erindi varða þau konung­­dæmi, jafnvel að rétt­borinn rík­­is­arfi hafi ekki náð ríki sínu, enda tengist það talinu um Shakespeare, minn­­ir á Hamlet: "Hjá marm­aranum í myrkraskoti/ hér mókir húsvillt barn/ kór­­ónulaus [...] manns­and­ans draumur, ríki [...] sem Faraós skuggi í dýrð­ar­­­sloti." Þetta má tengja titl­inum þann­ig, að stór­skáldið hafi ekki enn fengið þá viðurkenningu sem því ber. Í 2. erindi má sjá losta­fengn­ari undiröldu: "[...]dís í blæu [...]/ brosir dátt er tekur að nátta/ sæng­ur­klæði sín hefur feng­­ið/ [...] á bak við tjöldin." Ekki sé ég neitt þvílíkt í seinni hluta kvæð­is­ins, og eins og áður segir, þegar ákvörðunarliðirnir bætast við þetta, verð­ur útkoman óskilj­­­an­leg. Og það sem mestu skiptir, ekki verður séð, að þessi hug­renn­­­inga­­tengsl leiði til einhvers, að hinir ýmsu liðir kvæðisins falli saman í eina sam­­­þætta heild - fyrir utan sameiginlega aðferð, í þessu tilfelli mótsagnir sett­ar fram í mynd­um. Vissulega er mestallt ljóðið sett fram sem mann­lýs­ing á ein­­hvern hátt, eins og "Borodin", það felst líka í titl­um ljóð­anna, en einstök atriði þeirra mann­lýsinga eru óskilj­anleg, heild­ar­mynd­in þá líka, nema hvað greini­­­lega er hún í báðum tilvikum mik­il­­feng­leg. En hversvegna skyldi þá þetta ljóð Halldórs fremur teljast módernismi en t.d. "Fútúrískar kveld­stemn­ing­ar" Þórbergs, þar sem sundurlaus atriði voru heldur ekki sam­þætt í heild? Vegna þess að það er skop­stæling, en þetta ljóð er sjálf­stætt, þó svo að það hafi ekki neina endanlega merk­ingu, heldur megi fremur kallast net til að veiða les­­endur. Því mér virð­ist, að það sé meginatriði þessara kvæða Hall­dórs, að virkja les­endur í að finna þeim merkingu. Ein­mitt í því skyni er hefð­­bundið form virkt. Auk hefð­bundins orða­lags ljóða er hér stuðlun, og nokk­­uð reglubundin hrynj­andi og rím í fyrsta erindi, en síðan eru tvö erindi hryn­­henda, það er hinn hátíðlegasti dróttkvæður hátt­ur. Lesendur þeir sem þekkja hann fyrir, eru vanir því að eiga erfitt með að finna þráð­inn í drótt­­kvæð­um, og leggja sig þá væntan­lega fram um það einnig hér. En það er ekki vinn­andi vegur, hér er lögð á þá ný tegund lestrar. Þannig stranda les­end­ur í und­­ar­legum orðum og orða­sam­bönd­um, og reyna að spá í innviði þeirra.


Ekki sjást merki fornkvæða í skáldskap Halldórs á þessum árum, og virðist því líklegt, að hann hafi þá einkum þekkt hryn­­­­hend­­­ur af fyrrnefndum skop­­stælingum Þórbergs Þórðarsonar, "Fútúrískar kveld­­stemn­­ing­ar" og "Hall­­bjarnardrápa". Hugsanlega er Halldór að vitna til þeirra, eink­um þeirrar fyrr­­nefndu, en þá herðir Halldór mikið á óskilj­an­leik­an­um. Ekki verður hér grip­ið á orðalagslíkingum.


Hugum nú að heildarsamhengi í öðrum ljóðum.



5.5. Rhodymenia palmata


Hér er farið eftir frumprentun (í Lesbók Mbl.4.4.1926), enda var hún næst­­um orðrétt upp tekin í seinni útgáfu Kvæðakvers, og mér virðist hún tölu­­vert rót­tækari ljóðasmíð en sú stytta gerð, sem birtist í útgáfunni 1930. Þar var sleppt ljóð­línum með ítölskum orðum, auk mið­hluta II; einnig ljóð­un­um VIII og X, sem eins og áður segir varð sjálfstætt ljóð í 2. gerð. Í eftirmála hennar (bls.143) segir höfundur það vera frá sama tímabili "en standa sér." Í 1. gerð stóð það líka undir fyr­ir­sögninni "stanza ant­ica", sem Halldór sagðist 1949 (bls.142) hafa notað (um ljóðið "Tveir fuglar") "til að leggja áherslu á þann grein­­armun sem ég vildi gera á því og surreal­ist­iskum kvæðum, en þau ein þóttu mér verð­­skulda skáld­­­­skap­arnafn um þær mundir".


Breytilegar gerðir ljóðabálksins mætti hugsanlega skýra með því að hann sé nokk­uð til­viljunarkennd syrpa, sbr. orð Halldórs 1949 (bls. 142, í frh. af því sem hann sagði um surrealismann):



Kvæðum þeim sem ég orti um sama leyti og ég samdi Vefarann sló ég saman í eina lángloku á útmánuðum 1926 og kallaði Rhody­menia Palmata [...] Valdi ég syrp­unni þetta nafn vegna form­leysis og óreglu jurtarinnar sem nafn­ið ber, svo og vegna þess bragðs af seltu, sætu og joði sem er að jurt­inni einsog kvæðinu.[!] Þennan jurta­fræði­lega titil strikaði ég út eftir mikla um­­hugsun í Kvæða­kveri 1930, en eft­ir að hafa hugsað málið í nítján ár í við­bót geri ég hann nú aftur að fyr­irsögn kvæðisins.



Nú var jurtin alþekkt á Íslandi undir nafninu söl[20] en Halldóri hefur þótt þurfa ann­ar­legra nafn, nema 1930, en þá hét bálk­urinn: "Úr týnd­um kvæð­um". Undir­fyr­irsagnir benda einnig til að þarna sé steypt saman a.m.k. tveim­­ur eða þremur kvæða­heildum. Fyrst væri I - IV: "I (Aftan á nafnspjald), II [...] (Miðvísa), III (Niðurlag), IV. (Und­ir­skrift)". Annar bálkur væri þá V - IX; "V (Upphaf), VI (Yfirlit yfir ný kvæði og gömul), VII (Framhald), VIII (Niðurlag næst), IX (Enn­nið­ur­lag)". Loks er þá "X (Upphaf á nýu kvæði)". En hvað sem upp­runa bálks­ins líður, þá er það í stíl við annað samheng­is­leysi hans og fleiri ljóða hér, að hafa millifyrirsögnina "Upp­haf" á eftir "Nið­ur­lag". Og á fleiri vegu verða millifyrirsagnirnar virkar í fárán­leik­anum. Flest­ar eru raun­ar hlutlausar, en sú fyrsta hæfir rómantísku upphafi ljóða­bálks­ins. Og þótt fyrir­sagnirnar "VIII (Niðurlag næst)" og "IX Ennniðurlag" skýr­ist af því að áður er komið "Niðurlag", þá eru þessar fyrir­sagnir ögrandi órökleg­­ar. Enn­frem­ur er "Yfirlit yfir ný kvæði og gömul" (VI) ein­kennilegt sem fyr­ir­sögn ljóðs í bálki. "II. Einsöngur með þremur harm­on­ikum" og "Blandað kór gervimanna (marionettes)" er fram­and­legra, þeirri síðarnefndu fylgir: "(recitativo)". Hallberg segir (Vef­arinn II, 146) að þessar fyrir­sagnir auk breyti­legrar hrynjandi "gefa ef til vill ástæðu til að kalla Rhodymenia palmata hóf­leg­an surrealisma."


Óskar Halldórsson segir (bls.70-71), að í þessum bálki fjalli skáldið



um tengsl sín við konuna annarsvegar, en guð hins­vegar. Þar verð­ur uppi togstreita, áþekk þeirri, sem ríkir í Vefaranum, enda eru kvæð­­in ort um sama leyti og hann var saminn. Þar og í fleiri ljóð­um er ort um skilnað elsk­enda í léttum og gáskafullum tóni, sem stingur mjög í stúf við hefðbundinn ásta­kveðskap.



Þetta er satt og rétt, einkum um styttu gerðina sem birtist 1930, en hin er sund­­­ur­leitari. Og nær væri að tala um efnistök en efnisval, því stíl­­­rof virð­ist meg­ineinkenni bálksins. Auk tals um ástamál og guð er þrívegis eitt­­­hvað forn­­sagna­­­legt (III, VIII og X) auk hátíðlegs, jafnvel belgingslegs tals, sem ekki verður tengt við neitt sérstakt (mið­hluti II). Margt er þetta kunn­­ug­legt, t.d. hefst II á tilbrigði við hús­gang ("Komdu og skoð­aðu í kist­una mína"), en lýk­ur á "Miðvísu" (áður: "Recitativ"), sem er eins og skop­stæl­ing á þjóð­há­tíð­arljóðum, líkt og t.d. Davíð Stef­áns­­son orti síðar:



(Blandað kór gervimanna (marionnettes):


Hvílíkar myndir


og hvílíkar syndir


og hvílík blekking


og hvílík þekking



(Recitativ):


Hve djúpir voru þeir dalir.


En á traustari súlum standa tignari salir.



VI hefst tvívegis (1. og 3. l.) á hátíð­leg­um, þunglamalegum setn­ing­um, sú seinni gæti t.d. minnt á Einar Ben, en umhverfist svo í lág­kúru (líkt og í "Nótt á Tjarn­arbrúnni"):



VI (Yfirlit yfir ný kvæði og gömul).



Þjer vitið, að sumt er milli sveins og konu


betra en að eignast bláeyga sonu.


Því þegar hermd er kveðin yfir heimsbyggð alla


þá hlýtur grasið á jörðinni að falla.


Eigum við að unnast? Nei, valla!


Vorið líður. Í vestri bólstrar ský.


Er ekki vert að gefa gaum að því?


Í vetur heyrist aldrei sungið dirrindí.


- Voilá, ce que c'est que la vie!



Hér sjáum við fjöl­breytilegar myndir ís­lenskr­ar menn­ingar og samtíma, sem allar eru skotnar niður með stíl­rofum, m.a. með því að ríma við þær inn­skots­­setn­ingar á latínu, frönsku og ítölsku, svo sem hér að framan og eftir­far­andi (rím auðkennt af E.Ó.):



sá jeg í auga þínu löngum


drauma sphinxins geisla í glæru rafi.


De profundis clamavi.



Má jeg þakka yður, mia cara


Miðjarðarhafið í kórallaþara



-og svo er rímað áfram með: ...svara,...vara, ...fara, líkt og í lokaerindinu, með sinn mót­sagna­kennda titil:



X. (Upphaf á nýju kvæði.)



Fyrir sunnan söl og þara


sje jeg hvíta örnu fara,


ber við dagsól blóðgan ara


- Buona sera mia cara!



Ekki sé ég neina stefnu í því hjá Halldóri, aðra en fyrrnefnda skrum­­­skæl­ingu íslensks menningararfs, að þetta síðasta erindi virðist vera ort upp úr ljóði Jónasar Hall­gríms­sonar; "Horn­bjarg" í bálkinum "Annes og eyjar":



Yst á Hornströndum heitir


Hornbjarg og Kópatjörn;


Þeir vita það fyrir vestan,


þar verpir hvítur örn.



Um sumarnótt, er sveimar


sól yfir norðurslóð


og þoka sígur um sjóinn,


hann situr rauður sem blóð.



Og örninn lítur ekki


oná hið dimma haf,


og horfir í himinljómann.


Hafskipið sökkur í kaf.



Fleira í "Rhodymenia palmata" er tilkomumikið að sjá, en óskiljanlegt, af því að fram­hald vant­ar, t.d.: "Hver kældi heitt og heitti kalt /þá haugeldurinn brann?" (í VIII). Enn­frem­ur eru sjálf­sagðir hlut­­ir; "Unga mær, þú ert annað en jeg. [...]Líkami þinn var aldrei líkami minn." (í VII), og klisj­ur, einkum úr ástar­ljóðum ; "Þú ert sem söngur í sefi" [...] (í I), og skop­stæl­ingar: "Get­urðu ekki kvalist kona, kval­ist vegna mín?" (við­bót 1930 og síðar). Við þvílíkt er með rími og stuðl­un njörvað stíl­rof, lágkúra: Guð á að blessa litaða lokka stúlk­unn­ar og ljá henni bómullarsokka, en vefja sál hennar inn í silki, og geyma hana helst í hylki (í I).


Venjan er að ríma saman orð til að draga fram einhver mikil­væg tengsl, en hér eru þau augljóslega engin. Rímið er eitt virk­asta aflið í þessu ljóði til að tengja sam­an það sem á ekkert sam­eig­inlegt. Af tagi hátíð­leikans eru tvær fyrstu línur í III. (Niðurlag):



Vökru hleypa járngráir víkingar


vindum skygnda slóð.



En í næstu tveimur kemur stílrof með nýyrði rímsins vegna:



Einatt framdi jeg undirferli og svíkingar


ástin mín góð,



Hér erum við enn á sama sviði hernaðar og undirferlis, en í loka­lín­um erind­­­isins er stokkið yfir á allt annað svið, bæði atriðin alveg út í hött, en samt tengd hinum með rími:



af því jeg kunni annarar gráðu líkingar


eins og magurt jóð.



Síðasta orðið er vitaskuld valið meðfram vegna ríms, en einn­ig vegna þess að ein­mitt jóð (reifabarn) kann örugglega ekki ann­arar gráðu lík­ingar. Þetta er því líkt og þegar erlend orð og setn­­ingar eru dregin inn í rímskemað.


Niðurstaðan af öllu þessu er sú, að svo sannarlega sé "Rhodymenia palm­­ata" óreglu­leg, og teygi angana í allar áttir, reyndar er það helsta ein­kenni ljóða­bálksins, að setja saman and­stæður. En þetta er af tagi expressjónisma frem­­ur en surrealisma, skv. þeim greinarmun sem gerður var hér að framan, sam­­heng­is­leys­ið er milli erinda og máls­­greina en ekki innan setningar.



5.6. Vorkvæði


Flestar breytingar frá fyrri útgáfu Kvæðakvers til hinnar seinni virð­ast mér mjög til bóta, herða á módernismanum. Undantekning frá því er e.t.v. of­an­­nefnt kvæði, sem feng­ið hefur heitið "Apríllinn" 1949, og jafn­framt var þá síð­asti hlutinn sneiddur aft­anaf því, og hlaut heitið "Tveir fuglar". Og á það ljóð vantar þá loka­erind­ið, sem var eins­konar kúvend­ing.


Í upphaflegri gerð er kvæðið 13 erindi, og grunnur þess er róm­­antískt ást­ar­­ljóð, en síðan er brugðið út frá því á ýmsa lund.


Upphafserindið er þá rómantískar klisjur sem fara út í skop­stæl­­ingu í 2. línu, með því að hafa ákveðinn greini á þrá, hún er þá eitthvað alþekkt. Einn­ig rýfur ver­tíðartalið hug­blæinn (bls.55):



Dagurinn leingist og djúpin blána,


djúpin sem kalla á þrána.


Vetur líður. Vertíð lýkur.


Vorið bíður.



Í 2. erindi (sem áður var tilfært) er orðalagið rót­tækara í seinni gerð, og útkoman verður svo óskiljanleg, að hún er hrein­lega dæmi um það sem þar stend­­ur, að "önd mín er frjáls" ("Apríllinn fælist sem fleyg­ur hestur/ fnas­andi í kál­görð­um Hörpu." Og eftir þetta erindi fer ljóðið út í prósa, enda er þá höf­undur að segja frá von­um sínum vorið 1927, rétt áður en hann fór til Banda­­ríkjanna: "í voninni um her­bergi með loft­ræstíngu fyrir einhleypan í Pueblo de Nuestra Senora la Reina de los Angeles de Porcioncula, Cal." Þetta há­­tign­­arlega heiti er í daglegu tali bara Los Angeles. En hér birtist annar að­al­streng­ur kvæð­­isins, höf­­­­­undur talar um ferðbúnað sinn og rímar mjög við nafn kana­díska járn­­brautar­félagsins C.P.R., sem hann ætlar að ferð­ast með. Því kveð­ur hann ástmeyna, fyrst með róm­antískum brag (bls.58):



Og hvernig ætti ég únga mær,


sem unni ég í gær


að vera áfram ástvin þinn,


únginn minn - ?



en brátt fer orðalagið út í ritgerðarbrag, nánar tiltekið eins og komm­ún­isti sé að skrifa um auðvaldskerfið (bls. 59):



Þér sjáið sjálf, að kossar yðar eru ekki


eilífir, enda þótt sannleikurinn kunni


einkum að búa í faðmi yðar; - og að


skoðanir yðar á stjórnmálum eru alls


ekki grundvallaðar á baráttunni milli


höfuðstóls og daglaunavinnu. ...



Hér lýkur kvæðinu í seinni gerð (bls.38, og þar er þetta sett upp sem prósi), en í fyrri gerð skiptir enn um stíl með næsta erindi, og verður nú kump­­án­legt talmál:



Jæa, úr því þú vilt endilega hánga í mér,


hángdu þá í mér. Ég skal næla á þig


vængina og svo setjum við okkur strax


fram af Gróttutaungum og stefnum til


hafs til þess að prófa rómantíkina:



Enda þótt þessum tveimur "erindum" sé hér skipt í línur með hefð­bundn­um hætti, hafa þau hvorki reglubundna hrynjandi, rím, stuðla, né önnur kveð­skapareinkenni. Þau einkenni koma hins­­veg­ar öll í næsta þætti, sem ber sér­staka fyrirsögn innan sviga; "stanza antica" (forn bragur! Það birtist áður sjálfstætt í Mbl. 20.8.1926, undir heitinu: "Tveir fuglar"). Einnig orða­lag­ið er gamallegt og róm­antískt: "fjarlægðust ystu nöf/ svifu þeir veikum vængj­um/ um vindum skekin höf.// Svifu þeir úngir ofar/ úthafs­ins þrúðga nið [...] Bylgj­an er svaung í að svelgja/ hið síðsta væng­tak mitt". Stílrof koma aftur með síð­asta erindi[21] eins og áður segir, og það er þá haft á sérstakri opnu. Fyrst eru tvær línur með öðrum hætti:



Silfurbrúðkaup milli heims og helju.


Gullbrúðkaup í dauðastríðinu.


Flýgur brúðgumi og brúður


og bæði hugsa sitt:


Niður með rómantíkina!


Bylgjan er svaung í að svelgja rómantíkina.



Vissulega má segja að útkoman sé svipuð í báðum gerðum; miklar and­­stæð­ur stíls, og einkum einskonar tvísöngur róm­ant­­ískra klisja gegn prósa­ísk­um and­stæðum. Því má þykja snarpara að hafa styttri gerðina. Þessi "tví­söng­ur" minnir á "Nótt á tjarn­ar­brúnni", einnig hitt, að setja and­­spænis guði hvers­­dags­lega sjálfs­lýs­ingu sögu­manns, þar sígarettu í munn­viki, hér að hann sé ný­klipptur, með nýjan hatt og gulljaxl.



5.7. Nótt á Tjarnarbrúnni


Víkjum aftur að þessu ljóði. Stundum virðist vera í því eitt­hvert sam­hengi, því vikið er að tjörn og turnum í 1. línu 1. erindis, og svo aftur í lok­um 2. erindis. Í 5. og 6. erindi er dvalist við læk. En sam­hengið er þá óljóst og draumkennt; ekki nóg með að turnarnir sofi á sæl­um vörum sorg­ar­innar, held­ur grunar mann leir í ginning tjarn­ar­botns­ins. Það virðist sjálf­sagður hlutur á nátt­­úru­­fræðilegu sviði, en er óljóst ef yf­­ir­færa skal. Og ekki verður séð neitt samhengi milli setninga í þessu (2. erindi 2. gerðar, bls. 32) :



Sál mín fagnar stjörnunni stóru


sem starir neðanaf ljóskerinu háa


líkt og hattur á syndlausri hóru,


líkt og hundstjarnan Venus in bláa,


grunar leir í ginning tjarnarbotnsins,


grunar bakvið spegil ángist krossins:


[...]



Síðastgreindu línuna má skilja svo, sem sögumann gruni að hann búi yfir sekt­­ar­­kennd kristn­innar undir sléttu og felldu yfirborði. En er þá ekki les­­­andi far­inn að yrkja inn í ljóðið? Einn þáttur þess, 5.-6. erindi, er ávarp til þess sem undi barn "við ljúfan lækj­arnið", og eru klisjur margar í stíl við þessa, orðalagið hátíð­legt, en því er jafnan svarað með lágkúru í næstu línu, t.d. (1.gerð, bls. 51-2):



Sjá, anda þinn þú hófst mót hárri sjón,


sem hrundi niður einsog lítið grjón,



Áður sagði í sama erindi:



Manstu ekki, barn, við ljúfan lækjakór


í litlum dal með veiðistaung þú sast,


og vildir sigra álsins undramátt?


Þú undir þæer við loftsins tíbrármál.



en í 6. erindi er þessi fortíð borin saman við nútímann, lið fyrir lið:



Veiðistaung þín er orðin ónýtt prjál,


urinn hver lækur þar, sem fyr þú sast.


Við útlent borð þú etur steiktan ál.



Ljóðið einkennist af miklum andstæðum í brag og orðfæri, allt frá ljóða­hefð til lágkúru, þar er og prósi og upphafið trúartal. Hins­vegar er það ein­ung­is í fyrstu tveimur erindunum sem fyrir kemur óröklegt, óskilj­an­legt orða­lag. Þar verður helst gripið á því, að sögumaður speglar sig og borgina í tjörn­inni, og hugsar um inntak til­verunnar. Síðar í kvæðinu (í 6.erindi) minn­ist hann ástkonu, sem stefndi hátt, en varð fyrir vonbrigðum, einn­ig með hann. Hann er orðinn henni fráhverfur, enda er hann samviskulaus eins og nýj­asta tækni. Þess­vegna nötrar heilög þrenning í angist vegna van­getu sinn­ar and­spæn­is hon­um, og hann segir, að einnig lesand­inn búi yfir guðlegu afli, er spanni allar and­­stæður, loks snýr sögumaður fað­­ir­­vor­inu upp á heims­bylt­ing­una.


Það er því sjáanlegur þráður í ljóðinu þegar allt kemur til alls, mað­­ur­inn kemst til vitundar um mátt sinn og megin í gegnum það að hafna klisjum og við­teknum hugmyndum. Því fer vel á því, að ljóðið hefjist á óskilj­anlegum atrið­um, og því eru virkar and­stæð­ur­nar sem það spannar.



5.8. Önnur ljóð Halldórs


Það má taka saman, að ljóð Halldórs bera eindreginn svip af ex­pressjón­isma, fyrst 1922, en einkum frá 1925 að telja. Þá er um stílrof að ræða, ein­stök setning skýtur upphafna lýsingu niður í lágkúrugrín. Það er ekki bara að "kýrn­ar leika við kvurn sinn fíngur", Fljótsdalshérað hefur aldrei áður verið þér­að, en er það nú, m.a. vegna ríms­ins. Mun rót­­tækari módernismi er hins­veg­­ar í þeim fjórum ljóðum sem Halldór orti vorið 1927, þegar hann var að bú­­ast til Ameríkuferðar. Aðdragandi þessa er a.n.l. í ljóðinu "Unglingurinn í skóg­inum", 1925, en einkum í "Rhodymenia palmata" frá 1925-6. En á því er meiri skop­stæl­ing­ar­bragur en á hin­­um ljóðunum, og því virðist "Rhody­menia palmata" létt­væg­­ara, ósjálfstæðara, sbr. það sem hér var sagt um ljóð Þór­­bergs. Við sáum að kvæði Halldórs frá 1927; "Borodin", "Erfiljóð eftir stór­­skáld", "Nótt á tjarnarbrúnni" og "Vorkvæði" einkennast sérstaklega af mót­­­sögnum, hvort sem það er innan eins orðs, setn­ingar eða ljóðs­ins í heild. Jafn­­an er eitthvað kunn­uglegt á ferð, svo les­endum má sýnast reyn­­andi að fá botn í þetta. En það reynist yf­ir­leitt óger­legt. Þetta kemur mætavel heim við surreal­isma í skilgreiningu og fram­kvæmd.


Eftir þetta surrealismaskeið, 1926-7, sækir skjótt aftur í fyrra horf, og kvæði Halldórs verða aftur í röklegu samhengi frá upphafi til enda, þótt víða séu í þeim stílrof. Þetta er þegar í "Holmens havn" frá vorinu 1927, og í "SS. Montclare", þar er þráðurinn sjálfs­lýs­ing mæl­andans, einsog víðar. Þetta aft­ur­hvarf gæti skýrt það að Halldór sníður skrítnustu ang­ana af t.d. "Rhody­menia palmata" þegar hann setur það í Kvæðakver 1930.


Sum ljóð Kvæðakvers hafa verið ákaflega vinsæl, einkum til söngs. En það eru ekki hin surrealísku ljóð, heldur þau sem þrungin eru sökn­uði og þjóð­erniskennd; t.d. "Hörpuljóð" og "Hall­­­orms­staða­skóg­ur". Mér þykir lík­legt að þau hafi ekki síður höfð­­að til lesenda á 4. ára­tugn­um, því þá var svona hugar­far mjög út­breitt, einkum þó eftir miðjan ára­tug­inn. En jafnframt voru ljóðin nýstárleg, full af hálfkæringi og stíl­rof­um, eins og áður segir. Þvílík stílrof urðu varanlegt einkenni á ljóðum Hall­dórs. Þannig hefst t.d. "Ontario" á skondnum smá­atriðum í sjálfs­­­mynd, en það sækir síðan um tóm­leika hversdagsins, í eirð­ar­­lausri leit að kjarna mannlífsins - það er enginn guð (1.gerð, bls. 45):



Eimlestin brunar oft með þreyttan mann


með átta tennur gulls og langa fíngur;


Abdullah reykir, ice-cream étur hann.


Er ekki sál hans skrýtinn vítahríngur?



Skarpari er myndin í 2. gerð (bls.48): "Eimlestin flytur einatt þreyttan mann/ meða átta tennur gulls og mjóa fíngur". Í kvæðinu um Stalín er "líbblegur litur í túni /og laukur í garði hans" (bls. 98), rétt eins og íslenskur bóndi væri. Og þannig er ævinlega eitt­hvað fram­andi í text­unum, eitthvað sem stingur í stúf við umhverfið. Því finnst mér Ósk­ar Halldórsson gera of mikið úr aðlögun Halldórs að íslenskri ljóðahefð í fyrr­­nefndri grein (bls.77-80). Vissulega yrkir Hall­dór -eftir útkomu Kvæðakvers 1930- mest í orðastað skáldsagna­persóna sinna, sem eru gagn­­teknar af gamalli ljóðahefð. Samt er alltaf eitt­hvert annarlegt orðalag í þess­um ljóðum, það væri aldrei hægt að vill­ast á þeim og þeim ótalmörgu ljóð­um sem birst hafa eftir t.d. Magnús H. Magnússon, fyrirmynd Ólafs Kára­­sonar, eða menn sem margt eiga sam­eig­inlegt með Steindóri Steinssyni, Bjarti í Sumarhúsum og öðrum skáld­­um í sögum Halldórs. Annarlegt málfar varð og áberandi einkenni á skáld­­sögum Halldórs, frá og með Sölku Völku, svo sem rakið er síðar í þessu riti. Það er sannarlega sláandi, að í há­tíða­útgáfu af ljóðum Hall­dórs, sem birtist á átt­­­­­ræðisafmæli hans 1982, voru engin þau ljóð með höfð, sem hér hefur mest verið rætt um, en að vísu "Ungl­­ingurinn í skóginum". Surreal­ism­inn virðist enn þykja ótæk­ur, rúmlega hálfri öld eftir að Halldór bar hann hin­gað.



6. Jóhannes úr Kötlum


(1899-1972) var mikilvirkt ljóðskáld á öðrum og þriðja fjórðungi ald­ar­inn­ar. Kvæði hans "Tröllið á glugganum" birtist í Rauðum pennum 1936, þar fjórar bls. Er­inda­skipan er mjög breytileg, einnig línulengd. Ekki er rím nema í tveimur stuttum er­indum (ávarpi tröllsins), en stuðlun er regluleg (stund­­­­um að hætti eddu­kvæða, einn stuð­ull í línu).


Ljóðið einkennist af rofinni frásögn, þar fléttast saman ólíkir þræðir. Sá fyrsti er aðeins tvær línur í upphafi, þetta er viðkvæði sem end­ur­tekið er hvað eftir annað, hér og þar í ljóðinu: talandinn ávarpar þjóð sína, sem dottar, mókir, sefur. Þetta er út­skýrt sam­kvæmt þjóð­trúnni, ein­hver sækir að henni, þ.e. hér er fyrirboði um óvætti eða draug. En það er brýnt að þjóðin vakni, segir mæl­and­i, sem kynnir sig sem barn er hjúfri sig að hjarta þessarar móð­ur, þjóðarinnar. Í skarpri andstæðu við það birtist í næsta erindi ógnin - í fjarska, sem hljóð frá hesti í snjó, og persónu­­gerð­ar and­stæður svarts og hvíts:



"Það gnestur í sköflum, glamrar í mélum.


Geyst fer svarteyg nóttin


í hvítum, marrandi mjallarkufli, -"



Skyndilega kemur andstæða þessa 2. þáttar í þeim 3., þar er minnst ný­horf­­ins sumars og í stíl við það málfar lýsir barnið "með bjartan lokk og blá augu" sjálfu sér, og heitir að sigra vet­ur­inn með söng. 4. þáttur tengir þessar and­­­stæður með því að sýna víð­tæka yfir­litsmynd íslenskrar sveitar á kyrri nótt með kyrr­lát­um, litlum ljós­um; norðurljós flögra, fjarlægar stjörnur tindra, máni fitlar við silfruð ský, hið litla ljós logar í glugga. Allt tengist þetta með um­­sögninni: "hversu fagur er", og einnig "sá tónn sem titrar í hjartslætti barns þíns í vöggunni." Auk und­ir­strik­uðu orð­anna mætti telja í sama lágværa, kyrra stíl: "á friðstóli", "í húm­bláu djúpinu", "við silfruð ský". En við gesta­kom­­una í næsta er­indi eyði­leggst öll þessi mynd, drátt fyrir drátt. Holskeflur norð­­­ur­­ljós­anna hrynja, stjörnurnar hrapa, máninn bliknar, ljósið í glugg­anum slokkn­ar.


Hér er dregið fram það sem er lítið og friðsælt. Það er í sam­ræmi við það, að mikið er talað um barn í kvæðinu, auk fyrr­tal­ins. Tröllið ber með sér blóð öreiga­barn­anna á Spáni, "sem nærðust á fiski úr þínum kalda, salta sjó", og ljóðinu lýkur á ákalli til þjóðarinnar, að bjarga barni sínu í vögg­unni frá tröll­­­inu, ella muni það aldrei framar skynja "angan blóms­ins", "óm­stef fugls­ins", "eygló er hneig að baki dumbrauðra fjalla". Áherslan er enn á hið veik­byggða, fíngerða og kyrrláta, líkt barninu. And­stæða þess er tröllið, fyrst í fjar­­lægð, síðan gesta­kom­an, sem er einn­ig í stíl fyrri tíðar á Íslandi eða þjóð­sagna, jafnvel má segja að orða­valið sýni sjón­arhorn barns: "loðið, voðalegt and­lit skælir sig [...] og skrækir".


Með þessu gerir Jóhannes ógn fasismans nærtæka og skynj­anlega sem ógn­­­armynd þjóðtrúarinnar. Andstætt þessari trölla­­sögu­mynd er, að tröllið seg­ir "Hér sé guð" og krossar sig, en sjálf­sagt er það gert til að sýna tröllið sem fulltrúa hefðbundinna, ríkj­andi viðhorfa. Og þar tengj­ast sund­urleitir þræð­ir ljóðsins með því að tröllið talar um samtímapól­itík, frá sjónarmiði fas­ista, og í hefð­bundnu ljóðformi, með reglu­bund­inni hrynjandi og rími! Eftir það verður ljóðið líka rök­legt, skýrir sam­hengi hlutanna fyrir þjóð­inni. Ein­stak­ar myndir eru vel valdar, "blóð öreiga­­barn­anna" táknar auð­vitað rauðvín, eina helstu vöru sem Íslendingar fluttu inn frá Spáni í stað salt­fisksins, en vín­ið er hér skoðað sem hver önnur vara, er lýtur hagkerfi auðvaldsins, fram­leidd með arðráni.


Þetta ljóð er hér tekið til athugunar (-í breyttu formi frá riti mínu 1990 5.2.) vegna þess að í því er stokkið á milli andstæðna, ekki ólíkt og í "Sorg" Jóhanns Sigurjónssonar. Og úr því verða áhrifarík átök, en að öðru leyti verður ekki talað um módern ein­kenni. Málið er í alla staði rök­legt, og myndmál kunn­­­uglegt. Enda ríkir hér hvarvetna gamall hug­mynda­heimur ís­lenskra þjóðsagna og æv­in­týra; um lítil­magnann sem þarf að varast óvættir. Og all­ir hinir sundur­leitu þræðir ljóðs­ins tengjast í rök­lega heild, viðvörun til þjóð­arinnar að var­ast fas­ism­­­ann. Þessi við­vörun er þaraðauki höfð á hefðbundnu máli, sem þjóðin gat skilið, jafn­framt því sem það var skáldlegt.


Það er sérkennilegt í ljósi þessa, að einu viðbrögðin sem ég hefi séð við þessu ljóði á birtingartíma voru á þá leið, í umsögn eins verka­lýðs­leið­toga komm­únista, Jóns Rafnssonar, um Rauða penna (1937, bls. 119), að þar skorti einkum



alþýðlegu baráttu- og hvatningarkvæðin. [...] Órímuð ljóð eins og t.d. "Tröllið á glugg­anum" o.fl. geta að vísu hrif­ið les­end­ur og máske náð viðurkenningu fjöldans með tíð og tíma, en ef íslensk ljóðagerð, með sitt rím, stuðla og höf­­uðstafi er látin þoka úr sæti sínu fyrir þeim, fer skáldið einf­­örum, mis­skilur þjóð sína, enda misskilið af henni, og sáir í grýtta jörð.



Frjálst ljóðformið átti að einangra skáldið svona, þrátt fyrir að hefðin réði í flestu öðru. Jón kann að hafa sundurleita fram­setn­­ingu einnig í huga, enda þótt hann nefni það ekki.


Eysteinn Þorvaldsson víkur að henni (bls.63-4), og kallar ljóðið furðu­leg­an bastarð, en athyglisvert vegna frjáls formsins.



Það á sjálf­sagt að vera í anda sósíalísks realisma, en rómantísk tján­ing er skáldinu svo innborin að þess­ir tveir tjáningarmátar renna sam­an í ósam­stæða blöndu, og hinn hrái áróð­ur kvæðisins um ógnir fas­ism­ans verður harla ein­kenni­­legur í hinu róm­ant­íska mál­skrúði.



Ég er þessu ósammála, eins og kom fram hér á undan, ein­mitt and­stæður kvæð­isins virðast mér áhrifaríkar. Og þetta veit ég Jóhannes lengst hafa gengið í átt að módernisma á fyrri hluta ald­ar­innar. Er það að sönnu ekki langt, og sú skýring blasir við, að þar sem ljóðin hafi umfram allt átt að hafa áhrif á almenn­ing, hafi þau ekki mátt víkja langt frá viðteknum smekk hans. Fyr­ir utan baráttu­hvatningar orti Jóhannes einkum innhverfa nátt­úru­lýrik á þess­um tíma, þar sem sálin er sýnd í sambandi við landið, þau ljóð fara eftir kunn­uglegum leiðum.









[1]Sjá nánar grein mína "Bókmenntatúlkanir, í TMM 1989 .



[2]Sjá nánar um fletta rit mitt 1990, k. 4.3. 2. útgáfa Ljó›fórna var 700 eintök (sjá kápu), en fyrri útg. 500, skv. ritfregn í Eimrei›inni 1920, flau hafa flá væntanlega selst upp á 2-3 árum.



[3]A› sögn Gu›rúnar heitinnar Bjartmarsdóttur, sem anna›ist ljó›aúrval Huldu hjá Bókmenntastofnun. fiorgeir fiorgeirsson og Vilborg Dag­bjarts­dóttir bentu mér á "Gullsk‡". Prósaljó›i› "Haust" eftir Jóhann Jóns­son er af sama tagi og verk Halldórs.



[4]au›kennt af höfundi. Annars er jafnan au›kennt af mér, nema anna› sé teki› fram.



[5]a› tillögu Helga Hálfanarsonar í greininni: "Loksins dautt" Lesbók Morgunbla›sins 3/3 1990, bls.3.



[6] Sjá Encyclopedia britannica undir "vers libre" og "free verse".



[7]Hér er ljó›i› prenta› eftir eiginhandriti Jóhanns, sem hefur a›eins fyr­ir­sögn­ina: Til G. Benediktssonar. Ég fékk ljósrit af flví hjá Braga Kristjónssyni fornbókasala, í júlílok 1989, hann sag›i a› fla› hef›i fylgt bréfi Jóhanns frá 1908 til flessa Gu›mundar Bene­dikts­sonar - sem hef›i veri› sturla›ur - e.t.v. er flá flar kominn hinn ge›veiki vinur Jóhanns, sem Hannes Pétursson nefnir, a› Toldberg taldi ljó›i› vera ort um. Skv. Hannesi (bls.44) taldi Sigur›ur Nordal a› ljó›i› væri ort 1908-9. Eiginhandritinu l‡kur á línun­um: Í svartnætti eilíf›arinnar vakir lífi› og grætur/ sól eftir sól o.s.fr. Hér eru kvæ›a­lok hinsvegar skv. frumprentun Vöku (endurpr. í J.S. Rit I, 240-241) sem mér flykir skáldlegri, enda líklegast a› Jóhann hafi sjálfur breytt kvæ›inu svo; flví rau›ur dreki er einnig í Opinberunarbók Jóhannesar (sbr. Hannes, bls.46). Í Vöku stendur: "vaka eitursnákar". Í 13. l. hdr. stendur "bylgjum lífsins", en hér er fylgt frum­prent­un, og ólíkt flykir mér fla› skáld­legra or›alag. Hér birt­ist sama flróun og í sí›asttöldu atri›i, frá sértæku hug­lei›­­inga­or›a­lagi til skáldlegra mynda.




[8] "Upp skalt á kjöl klífa,/ köld es sjávar drífa,/ kosta›u hug flinn her›a,/ hér muntu lífit ver›a./ Skafl beygjattu, skalli,/ flótt skúr á flik falli,/ ást haf›ir flú meyja,/ eitt sinn skal hverr deyja." í Sturlunga sögu I, bls. 438.



[9]Sjá nánar rit mitt 1990, bls.122.



[10] Friedrich segir m.a. um "die moderne Lyrik"(bls. 16): "Überall beobachten wir ihre Neigung, so weit wie möglich von der Vermittlung eindeutiger Gehalte fernzubleiben. Das Gedicht will vielmehr ein sich selbst genügendes, in der Bedeutung vielstrahliges Gebilde sein, bestehend aus einem Spann­ungsgeflecht von absoluten Kräften, die suggestiv auf vorrationale Schichten ein­wirken, aber auch die Geheimniszonen der Begriffe in Schwingung versetzen.


Jene dissonantische Spannung des modernen Gedichts äussert sich auch in anderer Hinsicht. So kontrastieren Züge archaischer, myst­isch­er, okkulter Herkunft mit einer scharfen Intellek­tualität, einfache Aussage­weise mit Kompli­ziertheit des Ausgesagten, sprachliche Rund­ung mit gehalt­licher Ungelöstheit, Präzision mit Absurdität, mo­tiv­ische Gering­fügig­keit mit heftigster Stilbewegung. Das sind teilweise formale Spann­ung­en, und oft nur als solche gemeint. Aber sie treten auch in den Gehalten auf.


Wenn das moderne Gedicht Wirklichkeiten berührt - der Dinge wie des Menschen -, so behandelt es sie nicht beschreibend und nicht mit der Wärme eines vertrauten Sehens und Fühlens. Es führt sie ins Unver­traute, verfremdet sie, de­formiert sie." (bls. 16) [...] Zwar war dichter­ische Sprache schon immer unterschieden von der normalen Sprach­­funktion, Mitteilung zu sein. Von einzelnen Fällen abgesehen - Dante etwa oder Góngora -, handelt es sich aber um einen massvollen, graduellen Unterschied. Plötz­lich, in der zweiten Hälfte des 19. Jahr­hunderts, wird daraus eine radikale Ver­schieden­heit zwischen üblicher und dichter­ischer Sprache, eine übermässige Spannung, die, im Verein mit den dunklen Gehalten, Verwirrung hervorruft. Die dichterische Sprache erhält den Charakter eines Experi­ments, dem Kombinationen entsteigen, die nicht vom Sinn geplant wurden, vielmehr den Sinn erst erzeugen. Das geläuf­ige Wortmaterial tritt in ungewohnten Bedeutungen auf. Wörter die entlegenstem Spezialistentum ent­stamm­en, werden lyrisch elektrisiert. Die Syntax entgliedert sich oder schrumpft zu ab­sichts­­voll primitiven Nominalaussagen zusammen. Die ältesten Mittel der Poesie, Vergleich und Metapher, werden in einer neuen Weise gehand­habt, die das natür­liche Ver­gleichsglied umgeht und eine irreale Verein­ig­ung des dinglich und logisch Un­ver­ein­baren erzwingt. Wie in der modernen Malerei das autonom gewordene Farben- und Form­engefüge alles Gegenständliche verschiebt oder völlig beseitigt, um nur sich selbst zu erfüllen, so kann in der Lyrik das autonome Bewegungs­gefüge der Sprache, das Bedürfnis nach sinnfreien Klangfolgen und Intensitäts­kurven bewirken, dass das Gedicht überhaupt nicht mehr von seinen Aus­sage­inhalten her zu verstehen ist. Denn sein eigentlicher Gehalt liegt in der Dramatik der äusseren wie inneren Form­kräfte. Da ein derartiges Gedicht immerhin noch Sprache ist, aber Sprache ohne mitteilbaren Gegen­stand, hat es die dissonantische Folge, dass es den, der es vernimmt, zugleich lockt und verstört." (bls. 17-18)



[11]"It is perhaps, then, characteristic that Modernist writers tend to suppress certain features of modern sensibility - some of its optimism in history, science, evolution and progressive reason - while choosing to release others. The sequence of Modernism, we have said, is a very various sequence running through different subversions of the re­alist impulse: Impressionism, Post-Impressionism, Cubism, Vorticism, Futurism, Expressi­onism, Dada and Surrealism. They are not all move­ments of the same kind and some are little more than coterie names; and writers tended to move in and out of them. But one feature that links the movements at the centre of sensibility we are discern­ing is that they tend to see history or human life not as a sequence, or history not as an evolving logic; art and the urgent now strike obliquely across. Modernist works frequently tend to be ordered, then, not on the sequence of historical time or the evolv­ing sequence of character, from history or story, as in realism and naturalism; they tend to work spatially or through layers of conciousness, working towards a logic of metaphor or form. The symbol or image itself, whether romantic or classic, whether it be the translucent symbol with its epiphany beyond the veil, or the hard objec­tive centre of energy, which is distilled from multiplicity, and impersonally and linguist­ically integrates it - helps to impose that synchronicity which is one of the staples of Modernist style. By such means can occur that compacting, that sense of genera­tive distillation which can -to borrow Eliot's prase about compacting contem­pore­anity and anti­quity in Ulysses - "make the modern world possible for art." (bls. 49-50)



[12]Bls. 43, en fletta ljó› Gunnars er á bls. 51. fia› ár (bls.5) birtist líka "Rau›ir skógar" eftir Gunnar, óríma› og óstu›la› en me› reglubundinni hrynjandi.



[13] Hér er kvæ›i› prenta› eftir eiginhdr. skáldsins í Lbs. 46354to. Textamunur er lítill vi› prent­a›ar ger›ir, flar munar mest um titilinn og línuskiptingu í 3. erindi. En hún fer ekki milli mála, flví jafnan er stór stafur í upphafi línu. Loks er prenta› í sí›asta erindi: "eitt­hva›, flví líkt" í sta› "Eitthva› flvílíkt," hér. Ég skal ekkert um fla› segja hvort flessi texta­mun­ur sé frá ö›rum kominn en höfundi, en a› flví ókönn­u›u finnst mér sjálfsagt a› fylgja hand­riti hans hér.



[14]í hdr. stendur: "Hinzustetben!"



[15]Hann segir um módern ljó›: "Es sieht ab von der Humanität im herkömmlichem Sinne, vom , vom Sentiment, ja vielfach sogar vom persönlichen Ich des Dichters. Dieser ist an seinem Gebilde nicht als private Person beteiligt, sondern als dichtende Intelligenz, als Operateur der Sprache, als Künstler, der die Verwandlungsakte seiner gebieter­ischen Phantasie oder seiner irrealen Sehweise an einem beliebigen, in sich selbst bedeutungsarmen Stoff erprobt."



[16]Miki› er af flessu tagi í úrvalsritinu Mensch­heits­dämm­er­ung, sem Kurt Pinthus tók sam­an og birtist fyrst 1920. Á tveimur árum var fla› prenta› fjórum sinnum í alls 20 flús­und eintökum . Pinthus segir sömu sögu í formála (bls. 7) a› expressjónisminn hafi ko›na› ni›­ur í andlausum stæl­ing­um, handverki fyrir vaxandi marka› um 1920. Af betra tagi er ljó›a­úrval Dietrich Bode: Gedichte des Expressi­on­ismus, Reclam 1966.



[17]Ég á hér vi› skáldskap tveggja sí›asttalinna á me›an fleir voru surrealistar, fl.e. á›ur en fleir gengu endanlega til li›s vi› Komm­únista­flokk Frakklands, Aragon 1931, Eluard rúm­um áratug sí›ar. Vi› fla› breytt­ist skáldskapur fleirra til hef›bundnara móts.



[18]André Breton & Philippe Soupault: Les Champs magnétiques. Gallimard, points, 1971. fietta er fl‡›ing mín á texta, bls.82:


Les pigeons d'arr^et qui font assassiner les voyageurs tiennent dans leur bec une lettre bordée de bleu.


#


Entre les multiples splendeurs de la colère, je regarde une porte claquer comme le corset d'une fleur ou la gomme des écoliers.



[19]eins og t.d. samlíkingar í smásögum Halldórs Stefánssonar, sjá kaflann um flær.



[20]Sbr. eftirmála tilvitna›s vi›tals vi› Halldór í Mbl. 26.4. 1926



[21]fia› erindi er ekki í frumprentun ljó›sins í Mbl., sem er flá líkt og í 2.ger›, 1949.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar