tirsdag den 14. juni 2011

Kóralforspil 2. hluti





7. Steinn Steinarr (1908-58)



gaf út fyrstu ljóðabók sína á árinu 1934. Um hana segir Kristján Karls­son m.a. í inngangi sínum að Ljóðasafni Steins (bls. 11-12):



Fyrst í stað líkti hann eins og ungu skáldi er eðlilegt meira og minna ómeðvitað eftir ýmsum öðrum skáldum, til dæmis Einari Bene­dikts­syni ("Söngvarinn"), Halldóri Kiljan Laxness ("Kvöld við Breiða­fjörð"), en einkum Tómasi Guðmundssyni [...]



Það sem minnir á Halldór í þessu ljóði er expressjónískt sundurleysi, og vafa­­lítið hefur Stein lært það af Halldóri, einnig hér er hvarflað milli hás og lágs, mest ber á hálfkæringi eins og sést af 2. erindi (bls. 51):



Hvers virði er líf í smárans smáa blaði?


Smiður verð ég víst aldrei framar nefndur.


Hundingjans kjóll er hærra, fínna stemmdur.


Hugur minn grætur einn hjá tæpu vaði.



Þetta kvæði er meðal þeirra sem Steinn sleppti þegar hann útbjó ljóðasafn sitt 1956. Líklega hefur honum þótt það minna of mikið á ljóð Halldórs, enda sé ég fátt áþekkt í kvæðum Steins. "Hljóð streymir lindin í haga" og fáein önnur kvæði (Ljóðasafn, 262, 264) sem hann birti ekki sjálfur, minna frem­ur á rómantísk háð­hvörf Heines í stílhvörfum. En expressjónískt sundurleysi ein­­kenn­ir annað ágætt kvæði sem birtist ekki fyrr en löngu eftir dauða Steins (Ljóða­safn, 279):



HUGMYND



Ég er hættur að mæðast


þótt brekkan sé brött.



Allsnakin kona


kemur gangandi


með gráan kött.



Gamall maður í gulum frakka


situr á trébekk við torgið


og segir:



Faðir vor þú sem ert á himnum.


Heiminum er borgið.



Hér er það helst annað erindi sem stingur verulega í stúf við hitt, og við siðvenjur samfélagsins. En í handritum Steins er kvæð­­ið mun magnaðra en í því vélriti sem það var prentað eftir. Því veldur bæði titill eins hdr., sem staðsetur það í miðri Reykja­vík í stað þess að hafa þessa mynd bara í huga mannsins, og upp­hafs­erindið sérkennilega:



Á LÆKJARTORGI



Sál mín er eins og spurning


sem svarað er út í hött.



o.s.frv. Önnur frávik eru lítilvægari, nema hvað lokalína 3. erindis er í öll­um hdr.: "Og tautar í sífellu", en það sýnir orð gamla mannsins sem fá­rán­legri en "Og segir" (sbr. aths. Sveins Skorra Höskuldssonar í útgáfu hans: "Steinn Steinarr: 13. ljóð". Skírni 1973, bls.39).



7.1. Tíminn og vatnið-heildartúlkanir


Í rauninni verður ekki talað um módernisma í ljóðum Steins fyrr en 1944, með ljóðum sem síðar var sumum safnað í ljóða­bálk­inn Tíminn og vatnið. Hann birtist fyrst 1948, þá 13 ljóð. Í seinni útgáfu, 1956, voru ljóðin 21, og í breyttri röð. Hér verður fjallað um þá gerð, því hún er hin endanlega frá hendi höf­undar, og einstök kvæði breyttust ekki milli gerða, heldur fjölgaði bara.


Þessi ljóðabálkur hefur alla tíð þótt einstaklega torskilinn. Skáldið sjálft hefur í viðtali 1958 komið með þessa túlkun (bls.352-3): "Ljóða­flokk­­ur­inn í heild er upp­haf­­lega hugsaður sem ballett, byggður á goð- og helgi­­sögn­um." T.d. átti þá 3. ljóð að styðj­­ast við sagnir um Parsi­fal og Graal, og hið 5. við för Odysseifs. En þar verða þau tengsl ein séð, að minnst er á haf, en 3. ljóð minn­ir á leit, því þar er talað um "hnoða[1] sem rennur á und­an mér", og ann­ar­legt fyrir­bæri hand­an við venju­heim­inn. Þetta er svo almennt og óljóst, að eng­in leið er að sann­reyna þessa kenn­ingu, enda verður hún t.d. Eysteini Þor­valdssyni (1980, bls.78) tilefni til að minnast háðskra út­úr­snúninga skálda sem spurð voru út úr tor­skildum ljóðum sínum (Rilke og T.S. Eliot). Þessi orð Steins styrkjast þó af athugun Sveins Skorra 1971, sem sýnir (bls.187), að þegar Steinn vann að 1. útgáfu bálks­ins hafði hann



um skeið í huga að tengja kvæðin með nafngiftum við goð- og helgi­­­­sagn­ir [...] Þeg­ar kvæðaheitin í fyrrnefndu handriti eru at­hug­uð kemu­r í ljós, að þau eiga sér öll fyrirmyndir í "The Waste Land" eða nán­ar tiltekið í at­huga­semd­um Eliots við kvæði sitt.



Í framhaldi rekur Sveinn þessa titla kvæðana í fyrstu útgáfu og skýrir þá. Þeir eru (í svigum set ég númer kvæðanna í seinni gerð): 1. "Sybilla í Cumae" (1); 2. "Parsifal"(3), 4. "Tarock"(7); 5. "Antonius og Cleopatra"(10); 8. "Krist­ur í Emaus" (18); 11. "El desdichado"(12); 12. Acteaon og Díana"(15); 13. "Shantih" (21). Auk þess eru þrjú kvæðisheiti sem merkt eru með krossi, en ekki ljóst við hvaða ljóð ættu: "Laquearia", "Tiresias" og "Purga­torio". Þar að auki eru fimm heiti sem ekki er merkt við, öll úr athuga­semdum Eliot: "Tristan og Isolde", "White devil", "Philomela", "Játning Ágústínusar", "Turd­us aonalaschkae pall­­asii" [þrastarheiti]. Af öðru tagi eru: 3. "Spegill og hvítt ljós" (6); 6. "Fjallið og draumurinn" (14). Þetta eru alls 20 heiti, svo Steinn hefur haft fyrir sér mun fleiri heiti en ljóð á þessu stigi, en af hand­ritinu virðist svo sem hin íslensku hafi verið skrifuð sem valkostur aftan við sum hin útlendu.


Þeim sem vilja fá skýringar á þessum heitum er bent á rit Sveins Skorra og Eliot. Vikið verður hér að einstökum heitum þá sjaldan tilefni gefst til, en meg­in­atriðið í þessu máli er þó, að Steinn hætti við að hafa heitin. Eins og Sveinn Skorri segir (bls.191):



Ekkert verður um það fullyrt, hversu alvarlega það hef­ur hvarflað að honum að gefa kvæðunum goð- og helgi­­­­söguleg heiti, ættuð frá T.S. Eliot. Það verður þó að telj­­­ast rétt ráðið, að hann hvarf frá því. Svo náin tengsl við ann­­að skáldverk hefðu tæpast orðið Tímanum og vatn­inu til framdráttar. Reyndar má segja, að eitt mikil­væg­asta skref­­ið til að gera veröld Tímans og vatnsins sér­tæka og óháða reynslu­heimi lesanda síns hafi verið það, er Steinn felldi niður öll heiti.



Þá ályktun vil ég taka undir, enda þótt þessi heiti hefðu verið í samræmi við útbreiddan hátt módernisma, þ.e. langsóttar, tor­skild­ar vísanir til annarra bók­­menntaverka og sögulegra fyrir­bæra. Auk Eliot er t.d. Ezra Pound frægur fyrir slíkt.


Um framangreinda ballettkenningu segir Preben Meulen­gracht Sørensen 1970 (bls.129-30, héreftir er vísað til þess rits með: PMS):



Steinn hefur hér í öllum einfaldleika skýrt frá aðal­ein­kenn­um ljóða­­flokks síns.


Í fyrsta lagi, að "Tíminn og vatnið" sé goðsögn, þ.e.a.s. algilt tákn. Í öðru lagi að sérkenn­um ljóðanna megi líkja við ein­kenni leik­dans­­ins [nmgr.: Eða tónlist­ar­­inn­ar. Sbr. lög Fjölnis Stef­ánssonar við kvæð­­in.]. Ljóðin eru mynd­ræn og sjónræn, en um leið abstrakt, ein­föld að uppi­­­stöðu, en fjöl­breytileg í til­brigð­um. [...] Tíminn, vatnið og sjálfið eru þrír dansarar ljóðanna, ólík­ir að eðl­is­fari, en einnig hver öðr­um líkir. [...] skal reynt að sýna fram á, hvernig merkingaratriði ljóð­anna safn­ast um þessi þrjú stef[2].



Sem rök fyrir þessu telur PMS upp helstu nafnorð ljóða­bálks­ins og flokk­­ar und­ir þessi þrjú hugtök. Nú eru hugtök eins og tíminn svo sér­tæk, að flest fyrir­bæri má tengja honum með einhverju móti. Samt verð­ur upptaln­ing PMS svo langsótt stund­um, að nær væri að kalla hana af­sönn­un á kenn­ingu hans en sönn­un; því undir tímann er flokkað, ekki bara dag­urinn, kvöldið og nóttin, heldur einnig hugtök sem afneita tímanum; eilífð­in og guð, ennfremur dauð­inn. Einnig segir hann; "Tengdar tíma­­hug­mynd­inni eru nokkrar nátt­úru­mynd­ir" og telur svo upp orð eins og: him­ininn, sólin og sólskinið, tunglið, tungl­skinið, stjörn­­­urnar, ljósið, skugg­inn, myrkrið, jörðin, "hið brennandi efni (3) og geo­metr­ísku mynd­­irnar flöturinn, hringurinn og keilan (3) og gagn­­sæir teningar (7)". Enn­fremur vindur, blær, stormur, fugl og vængir, blóm, gras, fiskur, ský, o.fl. Hví skyldi þá ekki mega telja hér líka nátt­úru­fyr­­ir­­bæri svo sem fljót, regn o.fl. þ.h.? Ein­fald­lega af því að það á að fara í ann­­an flokk, vatn­ið. En til þess verður ekki séð nein ástæða, svosem að vatn­ið sé sér­stak­­lega tákn­­rænt, og ekki segir PMS það. Framangreinda kenningu hef­ur hann leitt af upp­­­hafsljóðinu. Hann þykist enn finna henni stað í ýms­­um orða­samböndum (bls.139):



Til dæmis tengist í rökkvuð sál mín (8) og syfjuð vötn (7) tímarás kvæð­­­anna, sem líður í átt að kvöldi og nótt, við sjálfið og vatnið, og ein­­mitt vegna þess að lýs­ing­ar­­orð­unum er ekki beitt rökrænt - eins og í "syfjuð sál mín" og "rökkvuð vötn" - er tákn­­unum haldið opnum.



Þetta má þykja sannfærandi, en hér velur hann úr. Til að kenn­­ingin stæð­ist, þyrfti hún líka að skýra t.d. framhaldið; "koma mann­stjörnur/ koma stjarn­­menn." Ekki þykir mér þurfa að ræða þessa kenningu frekar. Orða­listar PMS eru gagn­legir, en af þeim verð­ur ekki annað séð en það, að helstu fyrir­bæri náttúrunnar birt­ast í ljóða­bálk­in­um, sbr. upptaln­ing­una hér að framan. Ennfremur virð­ist þú ekki síður mikilvægur aðili en t.d. vatnið.


Önnur túlkun ljóðabálksins kom fram 1964 hjá bandaríska fræði­mann­­­in­um Peter Carleton (sem nefndist þá stundum Kári Marðarson). Hún bygg­ist á því, að í ljóða­bálknum eru aðeins tvær persónur, ég og þú. Um samband þeirra er eink­um talað í þeim fáeinu ljóðum, sem er hægt að skilja á rök­leg­an hátt, a.m.k. að hluta. Þau virðast öll lúta að ást, og eink­anlega að ástarsorg (2, 5, 10, 15, 17, og a.n.l. 19). Lesa má úr þeim að grann­vax­in kona (sé hún sama persóna og Þú) hafi fót­­­um­troðið til­finningar mælandans, að hún búi yfir gleði hans og sorg, gleði hans eigni sér dul hennar, þótt eng­in leið sé fyrir hann að ná til vara hennar, en að harmur hans nái þó til hennar. Carleton telur, að hér verði stíg­andi (bls.189); "önn­ur persónan er smám saman orðin ger­andi." En það er galli á þeirri kenn­­ingu, að þá nefnir hann ekki, að höf­und­ur breytti röð ljóð­anna frá fyrri gerð (sem Carleton fjallar um). 10. ljóð fyrri gerðar varð 17. ljóð seinni gerð­ar, en 12. ljóð fyrri gerðar varð 15. ljóð hinn­ar seinni, og þá stenst kenning Carleton ekki um hana. Auk framan­greinds tveggja manna tals bera sum ljóðin blæ kvalar og átaka (12, 13 og 14.). Í þessu er sjálfsagt að sjá upp­­runa þeirrar sagnar, að ljóða­bálk­ur­inn fjalli um mis­­heppnað ást­ar­sam­­band skáldsins og til­tekinnar listakonu. En þetta er, eins og sjá má, aðeins á takmörkuðum hluta bálksins, önnur ljóð hans bera blæ kyrrðar, ef ekki friðsældar (t.d.7. iii og iv, 8.ii) eink­um þó síð­ustu ljóð bálks­­ins. PMS sýnir á hve veikum grunni þessi ást­­­ar­sögutúlkun stend­ur (bls.134):



Hver er þú? Kona, ást sjálfsins? Eða kannski náungi þess? Það get­ur einn­ig einfaldlega verið umheimurinn eða fortíðin, holdg­un þess lífs, sem sjálf­ið hefur lifað, og sem hinn ósigrandi tími hefur nú tekið frá því. Þessar túlk­anir má nota allar, en spurn­ingunni verður ekki svar­­að. Þú er stað­­reynd í heild­armynd kvæð­anna eins og hin táknin. Skugga­­­­mynd af dansara aftast á svið­­inu. Slitinn úr sam­hengi sínu verð­­­ur hann eitthvað annað en hann er.



Fleiri möguleika mætti hugsa sér, svo sem að Þú merki les­­andann, en eins og PMS segir, verður ekki séð nokkur leið til að skera úr um þetta. Við kom­­­um nán­ar að þessum túlkunum eftir að hafa hugað að ýms­um einkennum ljóða­bálksins.



7.2.Litarorð


í ljóðum Steins Steinars hafa verið tekin til sérstakrar athug­­unar af Svav­ari Sigmundssyni 1965. Eins og hann sjálfur gefur til kynna er hér einkum um flokk­un og upptalningu að ræða, en ekki er mikil úrvinnsla. Það kemur því ekki skýrt fram hvaða sér­stöðu t.d. Tíminn og vatnið hefur meðal ljóða Steins. Svavar flokk­ar eftir litum, en auk þess eftir notkun þeirra. Oftast eru heit­in "hlutlæg", t.d. hvít­ur um ljós, blár um himin og vatn. Auk þess tal­ar Svav­ar um óhlutlæga notkun (grænn sandur) og nefnir ýmis dæmi þess að lita­­tákn séu notuð til and­stæðu (t.d. sól­hvítt/­tál­blátt í 15, gljá­svart/ gulln­um í 16), og þegar mest ber á slíkum and­stæð­um talar Svavar (bls. 39) um "lita­­leik, þeg­­ar litum er rað­að saman, eins og við ber hjá Steini. Það er einkum í Tím­an­­um og vatn­inu, þar sem lita­nautn Steins birtist hvað skýr­ast".


Mismunandi túlkun á hlutverki lita getum við séð í t.d. 18. ljóði, sem er sett saman af litríkum myndum framan af:



Tveir dumbrauðir fiskar


í djúpu vatni.


Dimmblár skuggi


á hvítum vegg.



Fjólublátt ský


yfir fjallsins egg.



Yfir sofandi jörð


hef ég flutt hina hvítu fregn.



Og orð mín féllu


í ísblátt vatnið


eins og vornæturregn.



Hver eru tengslin á milli tveggja dumbrauðra fiska í djúpu vatni, dimm­blás skugga á hvítum vegg og fjólublás skýs yfir fjalls­ins egg? Þetta er falleg lita­sam­setning, en að öðru leyti held ég, að ógerlegt sé að gefa einhlít svör, en lokk­­andi er að leita þeirra, ég tala nú ekki um að skýra hvíta lit­inn á fregninni, sem mæl­­­andi flutti. Carleton túlkar þetta sem gleði­fregn (bls. 186):



Uppistaða þessa kvæðis er leikur að litum: dumbrauðir fiskar, dimmblár skuggi, fjólublátt ský, hvítu fregn. Birta litanna eykst og fær­ist yfir litrófið, rautt, blátt, fjólu­blátt, hvítt. Og einkunn­ar­orðin verða bjartari: dumb-, dimm-, fjólu-. Þessi aukn­ing á birtu litanna býr lesandann undir hina hvítu fregn. (Mér finnst höfundurinn heldur hafa hlaupið á sig með Á hvít­um vegg í fjórðu línu.) Fregnin virðist vera hátindur feg­urðar og birtu.


Eftir því sem litirnir verða skærari, hækkar athafna­­svið­ið. Það byrj­ar í und­ir­djúp­unum, færist upp á yfirborð jarð­ar í þriðju og fjórðu línu, síðan upp á háfjöllin. Síðast svíf­ur skáldið yfir jörð­inni allri: Yfir sof­andi jörð. Þess­ar stig­hækkanir auka á spenn­una og búa lesandann und­ir gleði­­boð­skap­inn: hina hvítu fregn.



Gallinn við túlkun Carleton er ekki bara, að erfitt yrði að sýna fram á hana, held­ur stangast hún beinlínis á við litaröðina í ljóðinu, svo Carleton hef­ur ekki annað úr­ræði að skýra það, en með klaufaskap skálds­ins! Áður held ég að verði að huga að öðr­um möguleikum, enda gefur Carleton enga skýr­ingu á því, að hann hafði gagn­stæða túlkun á þess­um lit áður, þegar hann sagði um 6. ljóð (bls.183): "Og þar sem hvítur var svo hrollvekjandi litur í 2 [3] kemst hann ekki hjá því að bera nokk­urn keim af því hérna." Það tengir hann síðan m.a. við hina visnu hönd skáldsins. En fyrrgreint dæmi ("hið hvíta blóm dauðans" í 3) varð Svav­ari Sigmundssyni tilefni (bls.39) til að tengja "hina hvítu fregn" við dauð­ann, andstætt Carleton hér.


Í fyrrnefndu handriti Steins hét þetta kvæði "Kristur í Emaus". Því segir Sveinn Skorri 1971 (bls.189):



Í upphafi V. hluta kvæðis síns kveðst Eliot nota þrjú þemu, þ.á m. frásögn Biblíunnar af ferð lærisveinanna tveggja til Emmaus, er Kristur birtist þeim, en augu þeirra voru haldin, svo að þeir þekktu hann ekki, og hann ávítaði þá fyrir að trúa ekki fregninni um upp­ris­una (nmgr.:Lúkas 24, 13-35). Ljóðlínurnar, "Yfir sofandi jörð/ Hef ég flutt hina hvítu fregn", gætu skírskotað til þessarar Biblíu-frá­sagn­ar.



Silja Aðalsteinsdóttir segir um liti (bls. 37):



í seinni bókum sínum, einkum Tímanum og vatninu, hvarf Steinn frá hefð­bundinni notkun lita og litaði sjálfur bæði hluti og hug­tök. Sér­kennilegt við þá breytingu var að hvíti liturinn, litur hinnar visnu hand­­ar, kom í stað dökkra lita á sorg og dauða. Hin hvíta fregn skálds­ins er eflaust ekki hvít af neinni tilviljun, hún gæti verið kvíða­full spá þess um framtíð jarðarbarna, en þau hlusta ekki, sofa bara.



Allar þessar andstæðu tilgátur gætu svo sem staðist, hver um sig. En gall­inn er bara sá, að það er engin leið til að skera úr um það. Fyrst Steinn felldi þessa vísun til Biblíunnar brott, eins og önnur kvæða­heiti, þá er ekkert eft­ir sem gefur vísbendingu um merk­ingu hvítu fregnarinnar, hvað sem höf­und­­ur kann að hafa hugsað sér, þegar hann hóf að yrkja ljóðið. Lík­legast virð­­ist mér að fregn­in sé lituð til samræmis við aðra hluti í ljóð­inu, og einmitt til þess að gera orðasambandið órætt, dular­fullt, um leið og ljóðið verð­ur mynd­­­rænt. Því hvað ætti fréttin að eiga sam­eiginlegt við vegginn? PMS segir um liti m.a.:



Meirihluti lýsingarorðanna er hlutlægur eins og nafn­orðin. Þetta á fyrst og fremst við litalýsingarorðin (bls. 135). Það eru fyrst og fremst litirnir, sem setja svip á ytri heim kvæð­anna. Hann er skynj­að­ur sjónrænt, án ilms eða bragðs og án annars hljóðs en þyts vinds og vængja. En litirnir eiga um leið veru­legan þátt í þeim óhlut­stæða veru­leika, sem birtist undir yfir­borðinu. (bls.138-9)



Áður bendir hann á, einsog fyrr Svavar, að algengastir séu köldu lit­irnir, blátt og hvítt. Blátt (13 sinnum) tengist mest vatni og lofti, en "er einnig not­að­ur í sam­bandi við sjálfið, og má í því sambandi benda á, að blátt er sam­kvæmt gamalli hefð lit­ur löng­­unarinnar." (bls. 136). -Hér verður að svara því til, að ekkert dæmanna ber þess vott (dimmblátt auga, bláfextar hugsanir). Hvíti liturinn kemur fyrir 11 sinnum, og hann tengir PMS við dauðann og við visna hönd, svo sem þau Silja og Carleton, sbr. "hið hvíta blóm dauðans" (3.iv.) En það væri fráleitt að tengja "í sólhvítu ljósi/ hinna síðhærðu daga" (15.i) við dauðann, ástæðu­laust um "hvítan múrvegg" (4.ii), og raun­ar sé ég ekki að tiltekinn litur verði tengdur sérstakri til­finningu. Jafnvel í "hvít birta harms míns" (17), virðist liturinn fyrst og fremst notaður til að hlutgera hug­­­tök og tilfinn­ingar (harm, draum og fregn) eins og svo víða í ljóðabálkinum. Mest ber þó á því að litir séu notaðir til að gera mynd umheimsins ann­arlega: grænn sandur (14), eirlitur sandur og blátt gras (4), blá­fextir hestar (réttara sagt, hugs­an­ir sem er líkt við hesta,12), blátt regn (13), tálblátt regn (15), fjólu­blátt ský (18), gljásvart myrk­ur (16), rauður sjór (20)."þytur óséðra vængja/ fer um rökkv­aða sál mína/eins og rautt ljós ...gljásvart myrkr­ið/ flaug gullnum vængjum/ í gegnum sólskinið (út úr mold­brúnum höndum mín­­um) Þögnin rennur/eins og rauður sjór/yfir rödd mína. Svavar (bls. 41) kallar "blátt gras" dæmi um hlutlæga litar­tákn­­un, en þótt það kunni að vera til ein­­hvers­staðar í veröldinni, skiptir það ekki máli, heldur hitt, að í íslensku ljóði er þetta ann­ar­legt.



7.3.Hlutgerving


er einkum áberandi, þ.e. að talað er um hugtök og tilfinn­­­ingar eins og þau væru hlutir eða verur, í ljóðmyndum, sem oft eru einkenni­legar. Í lík­ing­um og viðlíkingum er einkanlega talað um til­finn­ingar mæ­l­anda (13 sinnum), lík­ama hans (4 sinnum), um við­­­mæl­anda (3 sinn­um), um hugtök svo sem eilífð, verð­andi, hverf­­­leika (8 sinnum), um ljós, myrkur og tíma (8 sinnum). Þessu er einkum líkt við lífverur, þar ber mest á per­sónu­gerv­ing­um (8 sinn­um) og fuglum (6 sinnum), en auk þess er líkt við gróður, hús, og ljós­blik í sjó. Í stuttu máli sagt; sértekn­ing­ar eru gerð­ar lif­andi. Það er jafngamalt skáld­skapn­um, en það er hér gert á sérkennilegan hátt.


PMS fjallar sérstaklega um andstæður innan orðasambanda, þar sem eru nafn­­orð með eignarfallseinkunn. Þetta tengist fyrr­greindri kenn­ingu hans um þrjá dansara (bls.140):



Abströkt hugmynd tengist í eignarfalli hlutstæðu fyrir­bæri, sem verð­­ur þann­ig mynd af hinu afstrakta. Á þenn­an hátt styðja sem sagt eign­ar­falls­mynd­irnar að þeim hlut­stæða og sjónræna veru­leika, sem ein­kennir ljóða­bálk­inn, en vegna órökræns eðlis orða­sam­band­anna eiga þær um leið mikinn þátt í því að breikka bilið milli þessa veru­leika og hins natúral­istiska.



Dæmi PMS eru a) um tímann: þáfjall tímans(16), tunglskin hverf­­leik­ans (11), lím­­kenndur vökvi verðandinnar (11), runnur hins liðna (8), blóm dauð­ans (3), bakdyr eilífð­ar­innar (12), í hálf­luktu auga eilífð­ar­inn­ar(21), b) um vit­und: hvolfþak hamingju minn­ar (11), kvöld­snjór ef­ans (9), holspeglar fjór­víðra drauma (9), ímynduð birta míns ull­­­hvíta draums (9), hvítt ljós hinnar fjar­lægu sorgar fljótsins (11). Önnur dæmi sem hann nefnir eru: flýjandi djúp­­fiski hlaðið glæru ljósi einskis(9), þung­ur samhljómur einsk­is og alls (16), blóð­þyrstar varir hins brennandi efnis (3). "Kald­ur eldur kvölds­ins (11)" finnst mér að ætti heima í a, þótt PMS telji það ekki þar, og stundum er eign­­arfalls­liðurinn ekki afstrakt: þytur óséðra vængja (8), myrkur auga míns (11), mýkt vatns­­ins (21), auga fljóts­ins (12), þakskegg mánans (7), möndull ljóss­­ins (21). Loks nefnir PMS dæmi þess að tvö af­strakt hugtök séu tengd sam­an: hugans neind (13), mót­­spyrna tím­ans (21), ná­lægð fjar­lægðar­innar (12).


Þessi tengsl andstæðna t.d. afstrakts og hlutlægs, eru þó síður en svo tak­­mörk­uð við orð með eignarfallseinkunn. T.d. eru hugs­­anir mæl­anda eins og hest­ar (12), hugsun hans er persónu­­gerð með því að segja að hún gangi (16), einnig er gleði hans persónu­gerð (5). Áður voru talin dæmi þess að litarorð hlutgeri sértæk orð svo sem fregn, harm og draum. Sál mæl­anda er "rökkv­uð" eins og hús (8), sorg hans glitrar eins og raf á grunn­sævi viðmælanda (5), trú hans og ást svaf á tvítugu djúpi (2), og draum­­ur hans glóði í dulkvikri báru (10). Dagar eru persónu­­gerðir þegar þeir eru sagðir síðhærðir, einnig fjarlægð viðmæl­­anda, sem sefur í faðmi mæl­anda, tregi hans er hlut­gerður, þegar tár viðmælanda falla yfir hann (allt í 15). Skylt þessu er, að sól­skin­ið gengur eftir veginum og teygir höfuð sitt yfir vegg (16), nætur sofa í þak­skeggi eins og fuglar (7), myrkr­ið er fugl (16), hönd mæl­and­ans er fugl (14), vatnið flýg­ur gagn­sæj­um vængjum (3). Líking er það að segja að hlutir séu grónir maur­ild­um, en lík­ingin verður mynd­ræn við að segja að þau séu bylgjandi (7), einnig falla orð mælanda í vatnið eins og regn (18).


Hljóði er iðulega lýst sem ljósi. Þytur fer eins og rautt ljós (8), rödd flýgur eins og fugl upp af runni, og eins og rautt ljós (8), glæru ljósi einsk­is er hlaðið eins og hlutum (9). Í gagn­stæða átt gengur líkingin þegar myrkur berst í mjúkum hlátri (11), auk þess, sem áður sagði, að það flýgur eins og fugl (16). Þetta flökt milli sjón­ar og heyrnar minnir, auk hlut­gervingar, á stefnu­­yfir­lýs­ingu frumkvöðuls mód­ern­ism­ans, Artur Rimbaud um ljóðagerð, að alla skynjun þyrfti að rugla kerfis­bund­ið.


Stundum eru tengdir hlutir af óskyldum sviðum, t.d. kemur eðl­is­­fræði og stærð­­fræði inn í 3. ljóði, þegar sagt er, að gegn við­námi sínu fljúgi vatn gagn­­sæjum vængj­um, e.t.v. mætti skilja það svo, að því sé líkt við skordýr, síðan vex hvítt blóm dauðans inn­an um stærðfræðileg tákn, hring, flöt og keilu, og gagnsæir ten­­ing­ar falla af himnum (7).


Þegar sagt er "steinninn hló" (4), þá er það ekki aðeins persónu­­gerv­­ing, heldur einn­ig óvænt framhald af "Ég henti steini/ í hvítan múr­vegg", frekar hefði mátt búast við viðbrögðum af þeim sem steininum var hent í, svo fráleitt sem það væri í þessu tilviki.



7.4.Mótsagnir


eru áberandi í ljóðabálkinum, og eru sumar af því tagi sem við sáum í ljóðum Halldórs Laxness. Í fyrsta lagi eru einstök orð sett saman úr hlutum sem geta ekki farið saman, ellegar erfitt er að sjá hvað þau gætu merkt: dags­eld­ur (sbr. "kaldan eld kvölds­ins" í 11), hálf­nætur, mann­stjörn­ur, stjarnmenn (7), svefn­him­inn, blysmöskvar, hring­vötn, sem meira að segja eru sól­vængj­uð; hafa sólir fyrir vængi (9).


Í öðru lagi er töluvert um orðasambönd eða setningar, sem gerð eru úr hlut­­um sem eiga ekki saman eða stangast á. Við höf­um séð nokkur dæmi, en telj­um upp í yfir­litsskyni. Óslokkið er kalk aðeins á meðan það gengur ekki í sam­band við vatn, en hér er það "í auga fljótsins." (12), "rís hin neikvæða ját­un/ upp úr nálægð fjar­lægð­arinnar" (12), "óræk spor" (19), öfugur straum­ur (19), bakdyr eilífðarinnar (12), auga eilífð­ar­inn­ar (21), net til að veiða vind­­inn (9), "eins og haf í hafinu" (14), "Þögnin rennur/ í þreföldum hring/ kring­­um þögn sína" (20). Að eitt­hvað sé á milli svefns og draums (19) er óhugs­andi, og orðalagið "á horn­­rétt­um fleti milli hringsins og keilunn­­ar" (3) er mót­sagna­kennt. Það mætti skilja þetta sem þrjú stærðfræðitákn í röð, ef ekki væri orð­ið horn­réttur, sem merkir ekki rétthyrndur, heldur hornrétt á eitt­­hvað, þá vænt­­an­lega á hringinn eða keiluna, söm er mótsögn­in, hvern­ig sem reynt er að skilja þetta. Vænta mætti að engill hrað­ans færi hratt í gegnum eitt­hvað, en það er þá þvert á móti, ljós fer í gegnum hann, og svo kemur einsog til nánari skýringar það sem gerir þetta full­komlega óskilj­anlegt; "eins og gler" (7). Þessi mótsögn magn­ast við and­stæðurnar: kyrr­stæð­um - hraðans. Oft­ar koma viðlíkingar, sem ætla mætti að væru til nánari skýr­ingar, en eru al­veg út í hött: "Og falin sorg mín/ nær fundi þín­­um/ eins og firðblátt haf" (10). Þessar viðlíkingar eru gjarnan mynd­rænar jafn­­framt því að vera óskilj­an­­leg­ar röklega; "Þögnin rennur/ eins og rauð­ur sjór/ yfir rödd mína [...] eins og ryðbrunnið myrkur/ yfir reynd þína" (20), auga eilífðarinnar er hálflukt (21). Orða­sam­­bandið "blæ­vængj­aðir dagar" mætti skilja sem daga, sem ein­kenn­ast af blæ­vængjum, þá vænt­an­lega mollulega daga. En þvílík túlkun væri að yrkja inn í ljóð­ið, allt eins líklegt er að dög­un­um sé hér líkt við fugla eða eitthvað annað vængj­að (sbr. væng­bláar hálfnætur; 7), en orðasambandið gert órætt með því að bæta blæ­­væng inn í. Áþekkt er orðasambandið "marg­vængj­­aður fugl" (14). Hvað gæti innhverf bylgja (19 ii) verið; fall­­andi bylgja séð frá landi? Nærtækara virðist að sjá þetta sem mótsögn á sama hátt og fram­­haldið:



Ég sá andlit þitt speglast


í innhverfri bylgju


hins öfuga straums.



Meðal mót­sagna má enn­frem­ur telja: "hugans neind" og "týnir ná­lægð sín sjálfs" (13 iii). Þetta síðasta er í erindi, sem virðist hannað gagn­gert til þess að draga les­­­endur til að reyna að leggja merk­ingu í ljóðið, líkt og við sáum hjá Hall­dóri Laxness:



Og nekt þess, sem er


týnir nálægð sín sjálfs


út í nætur og daga.



Þegar talað er um sjöstirndan himin (8), þá væru það ein­kenni­lega fáar stjörn­ur. En eðlilegt er að sjá þetta sem tilvísun til sjöstjörnunnar, og helgi töl­­­unnar sjö verður til þess að himinninn er eins og skrifaður tákni. Enda ætl­ar mæl­andi að sofa undir þess­um himni "við hinn óvæða ós" -sem táknar þá ein­­­hvers konar leið­­­ar­enda. Botn fáum við hins­vegar ekki í þetta; hverskonar ferða­­­­­lok, og hvað merkir táknið? Síð­asta spurn­ingin á við um all­an ljóða­bálk­inn.


Auk einstakra orða og setninga sem rúma mótsagnir, munar þó mest um sam­­hengisleysi innan ljóðs; og það held ég að virki les­endur mest í að reyna að skapa því merkingu. Ljóðin ein­kenn­ast af sér­kenni­leg­um myndum, sem eru njörvaðar saman af stuðl­un, rími og reglu­bund­inni hrynjandi auk end­ur­tek­innar orð­skip­unar (t.d. í 9):



Net til að veiða vindinn:



Flýjandi djúpfiski


hlaðið glæru ljósi


einskis



Sólvængjuð hringvötn


búin holspeglum


fjórvíðra drauma.



Týnd spor


undir kvöldsnjó


efans.



Net til að veiða vindinn:



Eins og svefnhiminn


lagður blysmöskvum


veiðir guð.



Hér er hvergi sögn í persónuhætti fyrr en í síðasta erindi, en í hverju erindi er nefnt fyr­­irbæri í 1. línu, sem svo fær nánari ákvörðun í næstu línum, en hún verður óskiljan­leg. Auð­fundin eru enn meira sláandi dæmi um hlið­stæð­ur í orðskipan (t.d. 10, 11, o.áfr.), PMS telur mörg dæmi (bls. 143 o.áfr.). En hitt er erfið­ara, ef ekki óger­legt, að sjá samhengi á milli ein­stakra atriða í ljóði. Peter Carleton bendir (bls. 184-5) á gott dæmi í 10. ljóði:



Öldur hafsins hreyfast ekkert áfram. Hver sameind af vatni teiknar hæg­an sporbaug og kemur aftur á sinn fyrri stað. En áhorfandanaum virð­ist aldan vera á fleygiferð um hafflötinn. Þessvegna er báran dul­kvik. [...] Rímorðið haf er endurtekið í þriðja erindi og lýkur kvæð­inu. Í fyrsta erindi var það haf sem skildi þau [mæl­anda og við­mæl­anda] að, en í síðasta erindi tengir það þau sam­an. Þetta er rök­ræn þversögn, er hríf­ur sem listrænt bragð. Með því að láta sama orð þjóna tvennum til­gangi og ríma það við sjálft sig, og með því að notfæra sér þessa tál­hreyf­ingu öld­unnar bendir skáld­ið á hið óskiljanlega í fari ástarinnar.



PMS tekur þetta upp og segir (bls.145):



Setningafræðilega, hljóðfallslega og merkingarlega mynd­ar þetta ljóð tilbrigði um hring­laga yrkisefni. Því lýkur þar sem það byrjaði, en þó með annarri stöðu í lokin en í upphafi. Í raun og veru er hér inn­an heildar ljóðsins um að ræða endurtekningu á þeirri bygging­­ar­meg­in­­­reglu sem er undirstaðan að tengslum tákn­anna í aðalþemu og sam­bönd­­um orðanna í nafnorðsheildum og setningum.


Þessi meginregla er að sýna þema í sífelldum til­brigð­um, skapa marg­­­breyti­leika í hinu einfalda, opna alheim í lok­­uð­­um hring. Og þessi bygg­­ing­ar­regla heldur einnig ljóða­­­flokknum sam­an sem heild úr er­ind­um og kvæðum.



Þessu til staðfestingar telur PMS 10 kvæði af 21 (nr.1, 5, 6, 8, 10, 13, 15, 17, 19 og 20). Þau séu meginstofn ljóðabálksins, en hin 11 ljóð­in séu "tilbrigði þessa forms".


Meginstofn bálksins er þá þriggja erinda ljóð, hvert erindi þrjár línur. Og vissu­lega endar 3. erindi þá iðu­lega á atriði sem var tekið upp í 1. er­indi. Form­ið gefur til kynna, að 3. erindi leiði til lykta hugs­un sem var hafin í upp­hafi ljóðs, en svo er í rauninni ekki. Hvaða merkingartengsl ættu t.d. að vera á milli 6.i: "ég var drúpandi höfuð,/ ég var dimmblátt auga, /ég var hvít hönd" og 6.iii: Og tím­­inn hvarf / eins og tár, sem fellur/ á hvíta hönd"? Eða "eins og rautt ljós" í 8.i og 8.iii? (Þytur óséðra vængja/ fer um rökkvaða sál mína/ eins og rautt ljós [...] Meðan rödd þín flýgur/ upp af runni hins liðna/ eins og rautt ljós). Hér eru enn einu sinni rím­­aðar saman and­stæður, og tengdar með lík­ingu við fugl, en hvorttveggja dreg­ur lesendur til að reyna að leggja merk­ingu í ljóð­ið. Og mér sýnist að þessi aðferð sé víða í ljóða­bálkinum, auk þess sem þar berg­mál­ar oft orðalag milli ljóða, ekki síður en innan ljóðs, t.d. "svipur þinn" (í 15 og 19), "veglaust haf" (í 10 og 17). Víða er stokkið frá einni mynd til ann­arrar ger­ólíkrar, svo að jaðrar við nykrun. Í 2. ljóði svaf trú og ást mælanda á tvít­ugu djúpi - eins og fisk­ur? Nei, eins og blóm, og sólin, sem er eins og kona, gekk á blóminu. Í 5. ljóði segir 1. erindi frá því að vatn renni í haf, en síðan kemur gleði mæl­­anda og eignar sér dul við­­mæl­anda á gróf­an, skemm­andi hátt, með því að rista upphafsstaf sinn í hana. En í loka­­er­indi er sorg mælanda eins og raf, dýrmætt hráefni í skart, á grunnsævi við­mæl­­anda. Eins og áður segir, haf er nefnt í 1. og 3. erindi, en tengsl eru hvorki rök­lega, né í mynd­­máli eða líkingum. Lesanda er látið eftir að finna tengslin eða skapa þau, öllu heldur. -PMS túlkar ljóðið svo (bls.133), að þar sé hafið ávarpað, en það er alls ekki óhjá­­kvæmileg álykt­un af "á grunnsævi þínu", sem vel má skilja sem líkingu um persónu viðmælanda.


PMS bendir á (bls.146-7), að undir samhengisleysi yfir­borðs­ins sé bygg­­ing ljóðs vel hnituð, t.d. í 3. ljóði; beint sam­band milli fyrri tveggja erinda og seinni tveggja sé lítið, "en á tákn­sviðinu eru tengslin milli ör­laga­mynd­arinnar og mynda dauð­­ans sterk, og í and­stæðunni milli hinnar vold­ugu hreyf­ingar í fyrri erind­unum og kyrrð­­arinnar í hinum síðari er kvæðið bundið sam­an um eitt minni." En mér finnst til­­efnislaust að tala um vold­uga hreyf­ingu í "hnoða sem rennur". Í 4. ljóði verður honum starsýnt á misræmi milli fyrstu fjög­urra lína, með kyrrláta lýsingu í nútíð, og svo 5.l: "Blóm, sem dó."



Alda sem brotnar


á eirlitum sandi.


Blær, sem þýtur


í bláu grasi.


Blóm sem dó.



Ég henti steini


í hvítan múrvegg,


og steinninn hló.



PMS segir (bls.148-9):



Í 2. erindi sameinast þessi tvö­faldi náttúru­hljóm­ur í mynd­inni af hinu virka sjálfi [...] Rásin í síðara erindinu er mögnuð endur­tekn­­ing af hinu fyrra, hin volduga hreyf­ing og hin svip­legu endalok, eins og rás­in milli lífs og dauða eða milli þrár og hruns.



Mér sýnist hins­vegar, að samhengis­leysið milli erind­anna sé miklu meira áber­andi og mik­ilvægara, en nokkur endur­­tekn­ing hreyfingar milli þeirra.


Samhengi virðist stundum vera milli einstakra ljóða bálksins, t.d. eru ýmis til­brigði við blómastef framarlega: tvílitt blóm, sólin gekk yfir grun­laust blóm (2), blóm dauðans, hvítt blóm dauðans (3), blóm sem dó (4). Enn fjöl­breyti­­legri eru fugl­ar­nir sem líkt er við. Ennfremur tekur t.d. 17. ljóð upp frá 10. ljóði talið um hið veg­lausa haf milli mælanda og viðmælanda, og hvern­ig falin sorg hans eða harmur setji svip sinn á vitund henn­­ar. En ekki er sjá­an­leg þróun í þessu, og ekki í ljóða­bálk­in­um í heild. Þar virðist ríkja sama sam­heng­is­leysið og við sáum innan ein­­­stakra ljóða bálksins, orðasambanda og jafnvel innan ein­stakra orða. Hér birtist sama aðferð og við höf­um séð í mörgu öðru, rök­leg tengsl eru ekki á milli þessara endur­teknu atriða, því leita þau sífellt á lesandann, hann glímir við að botna í þessu.


Að athuguðum þessum mótsagnakenndu atriðum, sem ríkja í flest­um ljóð­­­anna, virðist mér ómögulegt að fallast á fyrrgreinda túlkun, sem örlar á hjá Carleton o.fl., að Tíminn og vatnið sé einskonar ástarsaga á dul­máli. Sú túlkun lýsir e.t.v. upp­hafs­stað ljóða­bálks­ins, en hann skapar síðan ann­ar­lega veröld með mynd­­rænum lýs­ing­um sem fléttast saman við mót­sagnir.


18 ljóð var áður tilfært þegar rætt var um liti. Það er dæmi­gert fyrir tíð­­inda­leysi ljóða­bálks­ins. Það rekur PMS (bls.142):



Aðeins hluti af tengimöguleikum sagnorðanna er nýttur. Langt­um flest sagn­orð eru áhrifslaus, og á þetta rætur sínar að rekja til frum­stemn­ingar ljóð­anna, þar sem sam­­bandið gerandi-þol­andi eða or­sak­ar­sam­bandið eiga ekki heima. Veröld ljóða­bálks­ins hreyfist af tregðu sjálfr­ar sín, nátt­úru­bundin og án utan­að­komandi áhrifa eins og regn­ið, sem fellur, og vatnið sem rennur. Sjálf­ið gegnir engu verulegu hlut­verki sem virkur ger­andi. Það er fyrst og fremst þáttur í hinni nátt­úru­bundnu veröld og háð lög­mál­­um hennar. Sagn­orð kvæðanna mála ekki, meta ekki. Venju­­lega tjá þau aðeins hreina hreyf­ingu, verknað, breyt­­ingu eða ástand [rakið nánar].



Í ljóðabálkinum segir einkum frá einhverju ævarandi, sem yf­ir­­leitt þætti ekki í frásögur færandi: Vatn rennur um nótt út í haf, alda brotnar á sandi, blær þýtur í grasi. En hér kemur þá und­ar­­leg­ur litur á þessi fyrir­bæri, svo út­kom­an verður ekki flatneskja held­ur annarlegar, dular­fullar myndir. Jafnvel stirðn­að orðalag eins og "rauða­nótt" verður myndrænt í þessu samhengi, og "hyl­­djúpt" um haf. Hnoða sem rennur á undan mæl­anda virðist vera leið­­­ar­vís­ir eins og í þjóðsögum, t.d. í grísku goð­sög­unni um Þeseif og Ariadne, svo sem áður var nefnt. En þetta hnoða er þá rauðgult, svo að það verð­­ur mynd­rænt á óvenju­legan hátt, auk þess sem það minnir á sól­ina í næsta ljóði á und­an. Og umfram allt, í stað þess að beina hetjunni leið út úr völundarhúsinu, fylg­ir leiðarhnoðað engri átt. Meðal annars með þessum ann­ar­­legu lit­um (og þá verður tíðindaleysið mik­il­vægt) skap­ar ljóða­bálk­urinn nýja veröld, sem birt­ist í óskilj­­an­legum mynd­um, því þar gilda allt önnur lögmál en í okkar hvers­­dagsveröld; þar vex t.d. blóm handan blóðþyrstra vara hins brenn­andi efn­is, á horn­rétt­­um fleti milli hringsins og keilunnar (3), myrkrið hverf­ist eins og málm­kynjað hjól um mönd­ul ljóssins, og mót­spyrna tímans fellur mátt­vana gegnum mýkt vatnsins (21).



7.5.Tilfinningar


sem beint eða óbeint komi fram í ljóðunum, hefur eink­um Carleton töluverðar kenningar uppi um, t.d (bls.183):



Stemningin í 3 [þ.e.6. í seinni gerð] er sorg. Orð eins og drúp­andi, dimm­­blátt, gera sitt til að skapa hana. Kyrr­stað­an er þrúg­andi, skáldið tár­­fellir á hönd sjálfs sín. Þessi innilokun í sjálf­um sér, þessi inn­hverfa sorg í inn­hverfu formi virðist benda til sjálfs­­meðaumkunar.



Að sönnu bendir orðasambandið "drúpandi höfuð" til sorgar eða um­hugs­­­­un­ar. Hitt virðist tilefnislaust, þ.e. oftúlkanir. Vissu­lega liggur nærri að lesa úr ljóðinu að mælandi tárfelli, en líkingin um kyrrstöðu bendir miklu fremur til að hún sé mjög völt, eða til spennu (Og líf mitt stóð kyrrt/ eins og kringlótt smá­mynt,/ sem er reist upp á rönd). Fleiri dæmi mætti telja um hæpn­ar túlk­anir Carleton og rangar[3]. Verst er þó þegar hann lítur á ljóðin sem eins­konar umritun fyrir röklega frásögn, svo sem þegar hann túlkar (bls. 185) "Og hönd mín sökkur/ Eins og sprengja/ Djúpt inn í fjallið/ Og sprengir fjall­ið" svo: "Skáldið gerir árás á náttúruna, eða nátt­úru­stemninguna, skekur hnef­­ann framan í fjallið eða bandar því frá sér." Aftur á móti er sá titill sem kvæð­­ið hafði í handriti (Sveinn Skorri 1971, bls. 176-7) til þess fallinn að gera kvæðið, ef ekki röklega skiljanlegt, þá a.m.k. tækt fyrir rökhugsun; "Fjallið og draumurinn".


Tilfinningatúlkun kemur einnig fram í því sem PMS segir (bls.147) um 3. ljóð:



Bragformið tjáir sundrunguna og örvæntinguna í þessu kvæði. Þar er ekk­ert rím, og ekk­ert erindanna byrjar á tengi­­lið. Auk þessa ljóðs vant­ar aðeins 4., 6., 9. og 20. kvæði þessi tengsl milli erind­anna.



Sérstaða formsins ætti þá að und­irstrika þær tilfinningar sem fram koma í textanum, enda fylgi það ekki fyrrgreindri skip­an, 3x3 línur, þar sem upp­hafs­orð koma aftur í lokin, óregla forms­ins sýnir sundr­að­an hug að mati PMS. En ég sé ekki að þessar til­finn­­ing­ar komi þar fram, þótt mælandi segi að leiðarhnoða sitt fylgi engri átt í 2. er­indi, og tali um blóðþyrstar varir og dauð­ann í 3. og 4. Allt eins, ef ekki fremur, má lesa úr ljóðinu, að mæl­­andi sé gagn­­tek­inn af þeim undraheimi sem upplýkst honum, líkt og í leiðslu­bók­mennt­um.


Sveinn Skorri segir um heildarmynstrið 1971 (bls.194):



Upphafs- og lokakvæðið ásamt kvæðunum 6 og 7, 16 og 17, mið­að við 2. útg., hafa sömu eða mjög svipaða stöðu í heildarf­ormgerð verks­ins í báðum útgáfum. [...]


Ef litið er svo á, að kvæðin í Tímanum og vatninu séu úrval, má spyrja, hvað ráðið hafi valinu. Um það skal hér ekkert fullyrt, en bent á, að flest­um kvæðanna er sam­eig­in­­legur ákveðinn hugblær, og í þeim eru endur­tekin ákveð­­in minni, sem leikast á. [...]


Nokkur þessara minna mynda tvenndir eða and­hverf­ur (anti­thes­es), er nærri liggur að líta á sem merkingarlega burð­arása verksins: tími - vatn; ég - þú; minn - þinn; nálægð - fjarlægð; hreyfing - kyrr­staða.


Milli þessara andhverfa ríkir ákveðin spenna og jafn­vægi. Þær tak­ast á eða falla saman. Þetta einkenni á heild­ar- formgerð ljóðaflokksins leið­ir hugann að einum þeirra titla, sem Steinn velti fyrir sér að gefa bók­inni: "13 Jafn­væg­isæfingar".



Ekki sýnist mér unnt að komast mikið nær heildarkerfi en þetta, og ekki sjá­anlegur neinn meginmunur á heildarskipan 1. og 2. gerðar bálksins. Í hon­um ríkir yfirleitt kyrrð, þó kemur eins og áður segir dauði og blóð­þorsti í 3. og 12. ljóði, ótti og hraði í 7. og 14. Það verður þó að taka fram, að keim­lík kvæði um sam­band mælanda og viðmælanda koma reglu­lega eins og stef: 5., 10., og 15. ljóð. En síðan riðlast sú reglulega skipan, og eitt með öðru sýnir það að lokin nálgast; 17. og 19. ljóð eru líka af þessu tagi, og a.n.l. 20. Loka­kvæðið einkenn­ist af tignarlegri kyrrð, og það er óvenju­langt, 5 erindi.


Ekki get ég tekið undir (óljósar) kenningar til­vitnaðra fræði­manna um til­finn­­ingamynstur ljóðabálksins. Mér sýnist hér ríkja sama sýndarsamhengið og endranær, óljóst fyrirheit um kerfi, svo lesendur laðast til að leita þess, en geta ekki fengið botn í það. En þótt ekki verði rakið einhlítt mynstur til­finn­­inga mæl­­­anda, þá eru þær mik­il­­vægar í að gæða þessa veröld lífi, taka af­stöðu til hennar fyrir hönd lesenda. Les­end­ur fá þannig nýja mynd af sinni eig­in veröld. Sveinn Skorri orðaði þetta svo (1970, bls.32-3), að ljóða­bálk­inn megi túlka



sem lofsöng til mannlegrar samkenndar og mannlegs skiln­ings, til mann­­lífsins í allri smæð þess. Tími og rúm og allar fjór­ar víddir al­heims­­ins birt­ast þar kaldar og fram­andi, nálægar og fjar­­lægar, stöð­ug­ar og sí­breyti­legar, án áttar, en hverju sinni, sem minnst er á mannleg sam­skipti, bregður fyrir öðrum tóni, hlýj­um, einlægum, stundum heit­um og áfjáðum.



-Því álítur Sveinn að Steinn yrki sig frá bölmóðugri heim­speki til­gangs­­leys­­is­ins með Tímanum og vatninu. Myndi nokkur vilja álykta af því, að þetta sé þá ekki módernt verk?


Af öllu framansögðu, einkum mótsögnum og sam­heng­is­leysi, álykta ég að Tíminn og vatnið sé dæmi­gerð­ur surreal­­ismi rétt eins og birtist í ljóðum Halldórs Laxness. Ber að skýra það með áhrif­um þeirra ljóða á Stein, eða með sérstökum erlend­um áhrifum á hann? Vitnisburður er til um það, að hann hélt Stefnu­skrá surreal­ismans mjög á lofti. "Ég gæti ekki lif­að ef ég hefði ekki lesið þessa bók", hefur Kristján Albertsson eftir honum - án ár­setn­ingar, en í sambandi við frásögn af Parísar­sam­vistum þeirra, árið 1946[4]. En við sáum að Steinn byrjaði að birta þessi kvæði 1944, áður en hann komst til útlanda. Nú gat hann vitaskuld hafa kynnst surrealismanum áður, bæði af stefnu­skránni, sem birtist fyrst 1924, og af ljóðum, innlendum og er­lend­um. Ekki fæ ég séð bein áhrif frá kvæð­um Halldórs Laxness í Tím­inn og vatnið, þótt þeim bregði fyrir áður í ljóðum Steins, svo sem rakið var í upp­hafi þessa kafla um ljóð Steins.



7.6.Áþekk ljóð


Sveinn Skorri rekur í tv. grein 1971, að nær öll ljóð seinni gerðar Tím­ans og vatnsins höfðu birst í tímaritum á árunum 1944-48, áður en fyrsta gerð bálksins birtist. Ennfremur segir hann frá frumgerð bálksins frá árinu 1947, en hún nefndist "Dvalið hjá djúpu vatni", og átti að birtast þá með mynd­um eftir Þor­vald Skúlason, sem Steinn hafði fengið hann til að gera. Í þess­ari frum­gerð voru 10 ljóð, aðeins helm­ing­ur þeirra birtist svo í 1. gerð, en átta í 2. gerð. Auk þess nefnir Sveinn (bls. 191-2), að í tímaritum birtust, ásamt þeim kvæð­um, sem síðar mynduðu Tímann og vatnið, önnur, sem hvorki voru tekin með í 1. né 2. gerð bálksins. Voru þó sum þessara kvæða af sama tagi og Tíminn og vatnið, og af öllu þessu ályktar Sveinn, að Tím­inn og vatn­ið sé "ekki frá upphafi hugsað sem heild", heldur "úrval, er Steinn hefur gert úr kvæðum sínum frá tilteknu kveðskaparskeiði með ákveð­in sjónarmið í huga" (tv.st.). Sú nið­ur­staða er óum­deil­anleg, en útkoman verð­ur þeim mun fremur ein­­hverskonar heild, eins og sést á því sem Sveinn seg­ir í fram­haldi (bls.192) um þau tvö kvæði í "Dvalið hjá djúpu vatni", sem ekki voru tek­in með í 2. gerð ("Rigning" og "Hvítur hestur í tungl­skini"):



Í þeim báðum kemur fyrir sama minni, fax hests [...] Hann dregur þarna út tvö kvæði um minni, sem hann hef­ur að líkindum ekki talið eiga heima í heildarveröld flokksins og formgerð hans.



Í handritum Steins eru ýmis tilbrigði við kvæði sem prentuð voru í Tím­inn og vatnið, og verður hér litið svo á, að það séu drög. En auk þeirra eru nokk­ur kvæði af sama tagi, a.m.k. sex eru enn óprentuð (varðveitt í Lbs. 770 fol.), og verðum við hér að halda okkur við hin prentuðu; í Ljóðasafni Steins 1991 eru ein fimmtán ljóð sem koma hér til álita, tíu þeirra eru með þetta form, 3x3 línur, og þá sömu stuttu línur og rím­skipan og er í Tíminn og vatnið. ("Rign­­ing", "Dögun", "Neitun", "Nýr heimur", "Sorg", "Tím­inn og eilífðin", "Hring­urinn"). Þrjú þeirra eru með afbrigði; fyrsta lína er að­eins eitt orð, sem er þá líka fyrsta orð 2. l. ("Hvítur hestur í tunglskini", "Gam­­all maður og hvítt hús", "Tár"). Þrjú hinna hafa samskonar hátt, fjögur er­indi; 2.-4. hefjast öll á "Og", líkt og Tíminn og vatn­ið 6 ("Vegurinn og tím­­inn", "Ljóð", "Draumurinn"). "Augu mín" er einnig fjögur erindi órímuð (til skiptis 3 línur og 4). Sér­stæð­ast er "Landslag" (þrjú erindi, fyrsta 5 línur, en hin 2 línur).


Í ljóðum þessum er einkum talað um mælanda (12 ljóð), hug hans, draum, hlátur, hjarta, augu, nafn og fótatak. Alloft er vikið að viðmælanda (5 ljóð), lífi hans og vilja, bæn og augum. Annars er hér talað um tímann og nótt­­ina (tvisvar), dag, eilífð, hið óend­an­lega, hið óskiljanlega, líf manns og dauð­ann, feigð, myrkur, himinn, stjörnu og veg. Allt minnir þetta sterklega á Tím­inn og vatnið, einnig litir. Eins og í kvæðum Steins í heild (sbr. grein Svav­ars) fer mest fyrir hvítum lit, síðan bláum, en sérkennilegri litarorð eru t.d.: ryðbrúnn, gulrauður (bls. 279), "í kvöld­blá­um geimi" (bls. 273), "húm­blátt auga" (bls. 249), "naglblárri hendi" (bls. 271), "með gulhvítri stjörnu" (bls. 256), "Í blásvörtu myrkri" (bls. 274).


Líkingar þessara ljóða eru af sama tagi og í Tíminn og vatnið. Mest ber þar á persónu­gerv­ingum, en einnig er líkt við aðrar lífverur. Fyrsti draum­­ur mæl­anda hefur hvítan væng -eins og fugl (bls.249), vilji við­mæl­anda er blóðkaldur (bls. 276 - vænt­­anlega eins og fiskar, en einnig "eins og borg úr stáli"), "veg­urinn smýgur/ út úr höndum tímans/ eins og blá­svartir fisk­ar (bls.255), líf manns er eins og reið á hvítum hesti (bls.249). Einn­ig er óá­þreif­anlegu líkt við hluti, myrkrið snýst eins og myllu­hjól og er einnig líkt við vatn, stjarna sekkur í það eins og perla (bls.256), hugur mælanda er brenn­­andi (bls.276). Sérstaka athygli vekur þegar stefnt er að einni líkingu en síð­an er komið á óvart með annarri, líkt og við ræddum um í Tíminn og vatn­­ið 2; í ljóðinu "Rigning" segir (bls.249): "hugsun mín hvarf/ í hinn heita jarð­veg" -ekki eins og rigning, svo sem vænta mætti af titl­inum, heldur: "sem hálf­­stork­ið vax". Síðasta orðið er rím­skorð­að svo rímið virðist ráða hugs­un­inni.


Mótsagnir setja sterkan svip á mörg þessi ljóð. Þar ber mest á því sem að fram­an var kallað hlutgerving, þ.e. að talað er um sértæk hugtök sem hlutir væru, og gjarnan er þetta þá gert mynd­rænt. Auk þeirra dæma sem nefnd voru hér að framan má telja: "úr hafsaltri rigningu eilífðarinnar" (bls.255), "þung angan hins óskilj­­an­lega" (bls.277), "í holspegli tímans" og "hús­vörð­ur eilífð­­ar­inn­ar" (bls.276). Óskiljanlegt orðasamband, gert úr liðum sem eiga ekki saman, er t.d. "Undir hálfþaki dagsins" (bls. 272), "undir tvöföldum himni tveggja heima" og "tvísáinn akur tveggja heima" (bls. 273), "Og hinn hvíti vagn draumsins/ nemur skyndi­lega staðar/ á þríhvelfdri brú vatnsins." (bls. 278). Einnig: "Eins og fleygmyndaður veggur/ rís fjall tímans/ upp af flöt­um lófa mínum." (bls.277).


Mótsögn af öðru tagi er: "hófspor í vatni" (bls.249). Meðal persónu­gerv­inga eru einna sérstæðastar: "einfættir dagar/ hinna fjarvíddarlausu draum­a/ koma hlæjandi" (bls.255), "hlæjandi auð­mýkt hins óendanlega" -yfir hana "reis hin innhverfa neitun mín" - hvort sem það nú reis eins og sól eða eitt­hvað annað (bls.271). Líf viðmælanda fór kringum lokaða vitund mæl­anda eins og logandi fingur, og varð líf mælanda. Sé það torskilið, þá er enn hert á í lokaerindi (bls. 276):



Og trú mín óx


yfir tilveru sína


og tákn sitt.



Ámóta mótsögn er í "Dögun" (bls. 271).


Líklegt virðist að flest þessi ljóð séu frá sama tíma, a.m.k. ort áður en seinni gerð Tíminn og vatnið birtist. Í þeim ríkja einnig meira eða minna þær and­hverfur sem Sveinn Skorri greindi í ljóðabálkinum og raktar voru hér að framan. Sum eru tilbrigði við það sem ég kallaði stef, þ.e. fjalla um sam­band mælanda og viðmælanda á líkan hátt og í Tímanum og vatninu (t.d. "Sorg", "Nótt", "Tíminn og eilífðin"). Hvaða sjónarmið réði þegar Steinn valdi í Tíminn og vatnið úr öll­um þessum ljóðum? Því er vandsvarað, en í fyrsta lagi má augljóst vera, að heildarsafn þessara ljóða - sem eru eitthvað á fimmta tug að meðtöldum enn óprentuðum ljóðum - hefði orðið mun veikari bálkur en 2. gerð varð, vegna þess að sum ljóðin eru ekki eins hnituð og þau sem valin voru, einnig hefðu orðið of miklar endur­tekn­ingar. Hinsvegar sýn­ist mér að ýmis ljóðanna fimmtán sem nú hefur verið um rætt, hefðu sómað sér vel í heildinni, og aldrei er að vita nema Steinn hefði gert nýja og enn aukna gerð, hefði honum enst aldur til. En um það er fánýtt að bollaleggja. Þessi ljóð sýna margháttaða glímu Steins við myndrænar mótsagnir í knöppu formi, úr þeim valdi hann í þennan óræða ljóðabálk sem löngu er almennt við­urkenndur sem einn hinn helsti í íslenskum ljóðum 20. aldar.


Steinn hefur mikið fengist við formið 3x3 línur, eins og áður segir, það er einnig á ljóðum sem eru í röklegu samhengi (t.d. "Netið", bls. 270, og "Spá­dómur", bls. 272). Það er líka á sumum módernum ljóðum þar sem tónn­inn er í ósamræmi við Tímann og vatnið, svo sem (bls.239):



Há­marks­verð á bókum



Hámarksverð á bókum,


blóðheit kona,


barn í sveit.



Í dag hef ég setið


á sundbol og lesið


"Úr síðustu leit"



Og allt sem ég vissi


var ímynd þess hlutar


sem enginn veit.



Fyrsta erindi er sett saman úr sundurlausum frösum, og það er vafalítið stuðl­unin sem ræður því að mælandi er á sundbol í 2. erindi, auk þeirrar stefnu að hafa atriði út í hött. Fyrir bragðið verður þetta kvæði lág­kúru­kennd­ara eða hversdagslegra ­-og gáskafyllra en Tíminn og vatnið, en loka­er­ind­ið er ámóta órætt og ýmis ljóð þar. Þetta form ríkir líka á óprent­uð­um mód­ern­um ljóðum Steins, sum þeirra hafa myndmál sem greinist frá því sem ríkir í Tíminn og vatnið, t.d.:



Tveir gulir hringir


á gráum fleti,


grænt strik.



Hinn innhverfi skuggi


rennur óvænt saman


við augans blik.



Og bæn mín fellur


yfir blekkingu tímans


eins og blakkt ryk.



Þetta ljóð hefst óvenjumyndrænt, það gæti verið lýsing á afstrakt mál­verki. Og viðlíkingin í lokin er líka myndræn. En svo koma óræð orða­sam­bönd, lýsingarorðið "innhverfur" getur ekki átt við nafnorðið "skuggi", því síð­ur verður skiljanlegt hvernig skugginn gæti runnið saman við "augnablik". Enn sjáum við hér til­finn­ingar mælanda "hlutgerðar", en á óskiljanlegan hátt, það er ekki mikið annað en stuðlunin sem tengir mismunandi atriði 3. erindis. Eft­­irfarandi ljóð er líka fléttað saman úr litum og til­finn­ingum. Í þeirri fléttu ríkja andstæður sem eru stuðlaðar saman: hlæjandi-hljóða, mjallhvítum-myrk­urs­ins. Bein mótsögn er í "hlæj­andi öldum hins hljóða lags". Myrkrinu er líkt við hest, en annars mannlegum tilfinningum varpað á umhverfið, dag o.fl., svo að hér ríkir persónu­gerving sem er samstillt í leikandi þokka, er fellur vel að litnum eldgula: ástleitna; hlaupandi fætur, mjúkar hendur, skín­andi andlit. Það er ráðgáta hver við­mæl­­andinn er, annars er hér rætt um ljós, myrkur og lag:




Ó


lát andlit þitt skína


úr eldgulu rökkri[5]


hins ástleitna dags



ég sé hlaupandi fætur


á hlæjandi öldum


hins hljóða lags



ég sé mjúkar hendur


slá mjallhvítum eldi


í myrkursins fax



Við höfum hér séð dæmi helstu leiða sem Steinn fer, en fleiri falleg ljóð hans eru óbirt, einnig módern, t.d.:




Húsið



Ég er húsið,


lát húmið koma


á háum skóm.



Í dag hef ég hlustað


úr dulhvítri fjarlægð


á hinn dimma róm.



Og ljós mitt beið


hinnar löngu nætur


eins og lokað blóm.












8. Hannes Sigfússson



varð kunnur fyrir skáldskap innan við tvítugt. En fyrsta bók hans birtist 1949, og um hana verður fyrst fjallað hér.



8.1.Dymbilvaka


segirEysteinn Þorvaldsson (1980, bls.108), að sé



tímamóta­verk í íslenskri ljóðagerð. Hún er fyrsta ljóða­bók atóm­skáld­­anna sem talist getur módern, ekki samt vegna þess að skáldið sleppi hin­um ytri form­einkennnum hefð­ar­innar, því þau eru þarna meira og minna í flest­um kvæð­­unum. En öll málleg fram­setning er módern: mynd­málið tor­rætt, skír­­skotanir óljósar, mál­farið órökrænt og inn­­­tak­ið brota­kennt.



Áður sagði Eysteinn í grein um Dymbilvöku 1975 (bls. 7), að hún sé fyrsta íslenska ljóða­bókin sem standi ótvírætt undir merki mód­ern­ismans, en bætir við: "Raunar má með svip­uð­um rökum segja að Tíminn og vatnið eftir Stein Steinarr, sem kom út árinu áður, sé fyrst slíkra verka. Tjáning og mynd­mál ljóðanna í Tím­anum og vatninu eru mjög í anda módernismans þó að form­ið sé hefð­bund­ið." Ekki er það hefðbundnara en í Dymbil­vöku, og óljóst er hví Eysteinn vill ekki við­ur­kenna Tíminn og vatnið fyllilega sem módernisma. Hér verður litið á Dymb­il­­vöku frá 1949 og síðar Imbru­daga frá 1951. Báðum verk­un­um markar skáldið kirfi­lega stað innan ís­lenskr­ar ljóða­­hefðar með því, að þar ber mest á hefðbundnu orð­færi ljóða, og veru­­­lega mik­ið á reglulegri hrynj­andi, rími og stuðlun. En minna fer fyrir rök­­legu sam­hengi, satt að segja virðist mér samhengið víðast hvar ráðast af rími og stuðl­un. Það hefur oft verið sagt ljóðum til lasts, en þá vegna þess að hugs­un og mynd­ir hafa verið vanabundin. En hér leiðir fram­vind­an til óvæntra hluta.


Rammi Dymbilvöku er þannig, að mælandi hennar er and­vaka. Hann sér mann standa við lokaðar dyrnar, en eins og Eysteinn segir 1975 (bls. 9) er eins og mæl­­andi sé



í vafa um það hvernig bregðast skuli við gestinum, dregur fram bók og les fáein stef í Brúðkaupsljóði manns og moldar. Í þess­um bók­­­artitli er strax fyrirboði dauðans, þ.e. maðurinn vígð­ur dauðanum.



Það er einkennilegt, að mælandi skuli ekki heilsa gestinum. En er ekki skýr­­ing­in sú, að hann þykist sjá í honum draug? Mér virðast eiga við gestinn orð­in[6]: "hönd sem hvergi leitar hand­fangs - og vör sem einsk­is framar spyr". Eftir lesturinn sér mælandi (sama?) mann út um glugg­­ann, og nú taka þeir tal saman. Það samtal er, eins og Eysteinn segir (1975, bls.12), óráðs­kennt, með ósam­stæðum myndum og rugl­ings­leg­um til­vitnunarmerkjum. Hér virð­ist ríkja draum­­kennt sundurleysi, þar sem sam­heng­ið ræðst af rími, stuðl­un og hug­renn­inga­tengslum, en ekki af rökhugsun; við­mæl­anda var boðið að koma á bát að veiða hvali sem líða um silki­sali, og sötra hjörtu vor gegnum skíð­in, sigð­in í iðr­um hvals­ins gæti hæft hjörtun (bls. 19), sem vofur veiða í vötn­um lands­ins. "Þeir gengu burt í reiði rauðir á hár."


Samtalið er dæmigert fyrir allan ljóðabálkinn, sem eðlilegt virðist að skilja sem sund­ur­leitar hugsanir andvaka manns. Þetta hugarreik birtist ekki síst í þrá­látum end­urtekn­ingum. Hugsanir mannsins snúast um drauga (eink­um fram­­anaf), hverfleika alls og um feigð og loks sterklega um persónu­gerða mynd vita.


Línufjöldi Dymbilvöku er ekki nema einum tíunda meiri en er í Tím­inn og vatnið, sem hefur hinsvegar svo stuttar línur, að texta­magn Dymb­il­­vöku er miklu meira. En þar er lítið eða ekkert um mót­sagna­kennt orða­lag, eins og við höfum séð í Tíminn og vatnið og hjá Halldóri Laxness. Það sem helst líkist slíku eru ein­kenni­legar myndir. Tiltölulega hefðbundið og auð­­skil­ið er "Það er hjarta mitt/ Kvik­sett" (bls. 21), sem Eysteini og Göran Palm verð­­ur þó tíðrætt um. Merkir þetta ekki einfaldlega bælt tilfinn­­inga­líf? Öllu sér­kennilegri og torskildari eru framangreindar myndir með hjörtu. Þar tengj­ast and­stæður; risaskepnur hreyfa sig í fíngerðum og vönd­uðum vefnaði, og þetta ógn­ar mæl­anda. Aftur tengj­ast andstæður silkis og óstjórn­legs afls í: "Nóttin í silki­vöggu allra veðra" (bls. 32). Tvíræð lík­ing um tónlist byggist á því að kóralar vaxa í haf­inu, og (nán­ast) sama orð merkir kór­söng­­verk: "Og kór­al­­for­spil hafsins hefst að nýju" (bls. 32). Og áhrifa­rík marg­ræðni birtist í setn­ing­unni: "Svo dregur kné­­fiðl­an þungan trega á land" (bls. 30). Þar er líkt við að draga feng á land, en tregi er andstæða hans, auk þess sem þetta er myndræn lýs­­­ing á djúp­­­um, oft lang­dregn­­um tóni hljóð­færisins. Persónu­gerður "andvar­inn flétt­ar sínum mjúku höndum/ reipi sem fúnar undir rjáfri og súð" (bls. 32), og er vand­­­séð til hvers það gæti vísað. Orðalagið er að nokkru leyti end­­ur­tek­ið í því að skógarguðinn fléttar myrtussveiga á vegg­inn og tungl­skins­hafið vagg­­ar þeim sveig­um, hár þitt flæðir um huga minn líkt og heilagt sól­skin (bls. 33). Allt eru þetta menntamannslegar hugs­­anir, enda hefst ljóða­bálk­ur­­inn á því að líkja dög­­un við bók. Einnig er þetta annarlegt, líkt og þegar "vitn­að er í" sálm, þar sem guð er ávarpaður eins og bóndi (bls. 22):



"Hljóðlega ekur þú í þetta sinn


þungfærum gripavagni drottinn minn"



Önnur ámóta ankannaleg stæling á skáldskap í hefðbundnu formi er rétt á eftir. Stuðlun, rím, reglubundin hrynjandi, orðaröð og orðaval, allt er með forn­­um hætti. En hugsunin gæti ekki verið úr gömlum kveðskap, þótt þetta sé innan tilvitnunarmerkja, þar yrði aldrei talað um að fákur sé fót­fúinn, það væri þá kallað bikkja, né væri þar tal­að um blóð­heit­an anda hests, hvað þá um að hann leggi upp í vit manns­ins, það er eins og talað sé um elsk­endur (bls. 22):



"Er nú sem halli vel af fótum fúnum


fáksins er dregur því hann blæs ei meir


blóðheitum anda sínum á mín vit"



Hér eru kunnuglegir hlutir gerðir annarlegir, eins og víða í bálk­inum. Grunn­­ein­ing hans eru samfelldar línur, þótt örðugt sé að kalla það erindi, því stund­­um eru þetta aðeins tvær línur, eða jafnvel stök lína. Innan þess­arar ein­ing­ar er yfir­leitt rök­legt samhengi, með þeim undan­tekn­ingum sem að framan grein­ir, en milli þeirra er það ekki. Sem dæmi getum við litið á lok I. hluta (bls. 23), á milli eininga eru þar í mesta lagi hug­renn­­inga­tengsl (eitthvað með nótt, him­in­­­tungl, guði, sem gætu verið sól og tungl), svo það lendir á ímynd­un­ar­afli lesandans að reyna að finna samhengi:



Og næturinnar föli fylginautur


steig fram í nótt og beið við mínar dyr:



Til þín mun guð úr austri örvum beina


og annar glotta kalt í sigðarlíki



Frá þér ó stjarna veit ég vindar greiða


ið vota hár sem fellur þungt . . .



Ó drottning mín


í næturinnar hljóða konungsríki



Æ hlýddu á:


Hinn mjóa silfurhljóm af strengnum skæra


sem skelfur undir fingri fjarlægs guðs



Liljan sefur



Frá stjörnunni í vatnið falla tár mín



Mikilla andstæðna gætir í bálkinum; annarsvegar er m.a. suðrænt ljóða­skraut, svo­sem liljur, næturgalar, myrtussveigar. Gagn­vart þeim birtast hrjóstr­­­­ug annes Íslands í illviðrum, en skyndi­­lega er farið inn á annað svið, þ.e. stofa með pard­usfeld­um á gólfi, myndir og bækur á veggjum. Þessum and­­­stæðum sam­svara enn meiri and­­stæður í stíl; þar skiptist á upp­hafið ákall, forn­­legt orðalag, kumpánlegt, ljóðrænt, ridd­­ara­legt og biblíulegt, líkt og í "Sorg" Jóhanns Sigur­jóns­­sonar. Frá hinu frægu línupari þríteknu til lokalín–unnar tvíteknu (bls. 28):



Ó þú sem veldur hvorki önd né æði


en eigrar milli svefns og vöku



Svona upp með þig það er glas


Svona upp með þig það er glas



verða skyndileg umskipti í stíl til riddarasagna­legrar bardaga­lýs­ingar með hefð­­bundn­um hætti, í upphöfnu ljóðmáli, stuðlun og reglu­bund­inni hrynj­andi. En í lok erind­isins kemur minni úr erlend­um drauga­sögum og stingur í stúf við Ásgarð í sömu línu, og með því kemur nútíma­leg mynd af sundraðri vit­­­­und sem virð­ist haldin angist gagn­vart tilver­unni (bls. 29):



Þá gullu heróp, bumbur voru barðar


og ólmir fákar stigu dans við hliðin


Við þustum fram og þeystum út í vindinn


með þungum lensum, fjaðurskúfar sungu


og sporar ristu blóðrún fákum bleikum


og blóðið draup í svörðinn unaðsgræna


Og það var allt og undir kvöld við riðum


til Ásgarðs heim með höfuð vor á knjánum


Og tómlát gleði rann úr öðru auga


en óttaslegin spurn á reiki í hinu



Sænski ritstjórinn Göran Palm skrifaði stutta kynningargrein um Dymb­il­vöku í tímarit sitt Upptakt 1957. Hann túlkar ljóðabálkinn svo (bls. 176), að mæl­andi sé að reyna



að átta sig á örlögum sínum. Hann svipast um eftir leið­ar­stjörnu í hug sér og í nátt­myrkr­inu, og dreymir fánýta drauma um horfna ást, um glataða trú. Ókunnur gestur segir honum frá "vof­unum" sem "veiða mannleg hjörtu" og hafa lagt net sín við dyr hans. Meðan vatn­ið stíg­ur vakir hann einn, í vax­andi angist, lam­aður af þreytu, án þess að vera fær um að aðhafast neitt.



Síðasta staðhæfingin er beinlínis röng, eins og ýmislegt fleira í túlkun Palm, auk alls hins sem hæpið er. Það er um­hugs­un­ar­­efni, hvers­vegna höf­und­ur Dymbil­vöku þýddi þessa smá­grein hans, og kom á prent í Tímariti Máls og menn­ing­ar! Hvergi er nefnt í Dymbilvöku að vatnið sé að stíga, né er þar minnst á fórn í sam­bandi við lokalínurnar um Amóru. Of langt geng­ur Palm með að segja(bls. 177): "Í lok fyrsta þáttar segir: "...sóru djúps­ins vættir að granda þér", og þetta heit er efnt í þriðja þætti ("kór­al­for­spil hafsins hefst að nýju")". Tilefnislaust virðist að tengja það við dauð­ann, enda verður Palm að taka þessa túlkun aftur síðar (bls. 177):



Þriðji þáttur er ekki einhlítt feigðarljóð: þegar kór­al­for­spil hafs­ins hefst að nýju leysir það jafnframt úr viðjum tvö bæld öfl, ástina og dauð­ann, sem berjast hatramlega um völdin. Hjart­að leysist úr viðjum steins og moldar í sömu andrá og dauðinn fellir sinn þunga hjálm. En þessi tvö­falda lausn skilur ekkert eftir nema kyrrð og hrörnun.



Síðasta staðhæfingin er einfaldlega út í hött. Eysteinn tekur þessa túlkun mest­­­alla upp (1975, bls. 10), án þess þó að nefna Palm. Mér sýnist að hér sem víðar ráði rím og stuðlun draum­­kennd­um hugrenn­inga­tengslum, sem stríða gegn röklegu samhengi. Menn sverja gjarnan með fingr­um lyftum, og við eitt­hvað sem þeim er heilagt. En hvers­­vegna að sverja við "sótflug himins vors", hverjum er það heil­agt? Ætli það sé ekki nefnt vegna þess að það hefst á sömu hljóð­um og "sóru", en "skugg­a­fingur" vegna stuðlunar við "sköllótt" (bls.26):



Úr djúpi hafsins risu sköllótt sker


og skuggafingrum sóru djúpsins vættir


við sótflug himins vors að granda þér



Ekkert virðist heldur réttlæta þá túlkun Palm (bls. 177), að "undir mold­um" merki "að nálg­ast upp­sprett­urnar, að hlera eftir véfrétt". Fleir­tölumyndin "moldir" merk­ir á íslensku lík eða gröf, "undir mold­um heims" merkir þá: í gröf heims, þ.e. á rúst­um "ver­aldar sem var". Nema mæl­andi sé að leita til lát­­­inn­ar mann­veru, þegar hann seg­ir: "þú er sefur/ þreyir og veist og skilur, við mér snúðu/ augliti þínu undir moldum heims". III. hluti hefst svo (bls. 27):



Sjá:


Undir moldum þar sem gneypur gekk


um gólf í stofu skreyttri pardusfeldum


og augu lukt til hálfs af veggjum horfðu


en hamur dauðlegs manns á gólfi lá


á arni hrundi dumbrauð glóð í gjall



Eysteinn skilur þetta orðalag svo, sem mælandi sé þar í helju. Það virð­­ist mér rétt túlkun, í yfirfærðri merkingu. En Eysteinn leitar langt yfir skammt þeg­ar hann segir (1975, bls. 11): "Í Biblíunni og í Divina Comedia eftir Dante er pardusinn tákn­dýr munaðar á sama hátt og ljónið er dýrhamur hrokans. Sé þetta hugsað svo, verður undir­heima­vist þessa kafla þokukennd og rugluð mýtólógía." Ensk hefðarmannastofa virðist miklu nær­tækari við­mið­un en Dante, sbr. það sem Eysteinn rekur um veruleg áhrif Eyði­lands T.S. Eliot á Dymbilvöku. Þetta ríki dauðra væri þá fyrst og fremst hug­­ar­ástand mæl­anda, einskonar upp­hafin einangrun. Ég efast um að það hafi beina tákn­ræna merk­ingu, að manns­hamur liggur á gólfi en ekki rándýrshamur. Líklegast þykir mér að þessi um­snún­­ingur sé til að gera myndina annarlega, eins og ým­is­legt fleira í Dymb­ilvöku.


Hér er ekki svigrúm til að ræða fleiri túlkanir Eysteins, sem sumar virðast vel til fundnar.


Eins og fyrr segir, innan einstakra hluta (eða ljóða) Dymbilvöku ríkir oft rök­legt sam­hengi, þótt það ráði ekki tengslum þeirra, í bálkinum í heild. hans. En þetta er ekki svo að skilja að hér sé um að ræða ljóða­bók, sem grein­­ist frá öðrum í því einu, að ljóðin séu án fyrirsagna. Gegn­um alla bók­ina ganga end­ur­tekin stef og orða­lag, sem þætta hana í eina heild. Palm sér raun­ar byggingu í heildinni(bls. 177):



Þróun ljóðsins til óhlutræns veruleika, þ.e.a.s. frá afmörk­uðu sviði að mynd­­teiknum, kemur fram í notkun aukastefs. Í fyrsta þætti les ég-persón­­an ein­fald­lega í bók. Í öðrum þætti les hún "luktum augum", þ.e.a.s. les úr teiknum, hlerar. Í þriðja þætti er það loks vindur hausts­­­ins sem "les mér feigð­arorð af bleiku laufi sem til moldar fell­ur". Þessi þróun gefur hugmynd um dýpkun og víkk­un ljóðsviðsins; hún gefur einnig í skyn hvern­ig ég-persón­an lætur smám saman undan síga fyrir ofurefli "örlaga­­­­valds­­ins", hvernig hún hrekst úr öruggu virki persónu­­leik­ans út í skjól­lausa víðáttu hins óraun­verulega.



Hér er mikil bygging reist á alltof litlum grunni, sem þar að auki reynist ótraust­ur, á orðinu "lesa". Því mun nærtækara virðist að tengja "Oft var sem læsi ég luktum augum" (bls. 29) við línurnar: "Hvort var það ég er vörum opn­um brá/ hvar véfrétt lukt­um vörum tjáði mér" á sömu opnu (bls. 28). Hér ríkja and­stæður, og nánar til­tek­ið eru skiln­ing­arvitin lokuð. Virðist mér eðli­legast að sjá þetta sem enn eitt dæmið um mót­­sagnir í ljóða­bálk­inum. Það sem næst verður komist heild­armynd af byggingu hans virðist mér að bera upp­­hafs­­aðstæður mælanda sam­an við lok bálksins. Og þá má fall­ast á lokasetn­­ingu Palm í klausunni hér að framan - ef neit­un­in er tekin framan af síð­asta orðinu! Stefn­an er frá dauða­líkri einangrun til þátttöku í raun­veru­leik­anum. Framan af er mælandi einn með and­vöku­hug­­leiðingum sínum, sem eru ærið svartar, t.d. í öll­um II. hluta. En eins og Eysteinn segir (1975, bls.11) um kvæða­lok, "mynd vitans er tákn lífs og björg­unar". Og þar tekur mæl­andi loks­­­ins upp beint, ástríðu­fullt sam­band við aðra persónu. Já­kvæð mynd henn­ar sýnir að hann er að verja hana (en ekki sjálfan sig) með viðvöruninni um að nálgast hann ekki, sem ljóða­­bálk­in­um lýkur á (bls. 36):



Ég heyrði þig nálgast


sem hafmey úr frumskógi djúpsins


á hljóðum öldum


með heilaga þrá í augum



Og ég hrópaði í angist af öræfum landsins:


Ó Amora! Ekki hingað!



En eins og áður segir, virðist mér engin leið að lesa ljóða­bálk­inn sem ein­hvers­­­konar dulmáls-skilaboð. Heildarmynd af honum fengist frekar við sam­an­­burð við tón­verk. Því hrynjandi, orða­lag og annað sem skapar hugblæ gerir eðli­legt að kalla fyrsta hluta "hægt og hikandi", en síð­asta hluta t.d. "móði þrung­­inn og hátign­ar­legan", svo við leyfum okkur að líkja þessu við tónverk. Þessi óljósa framvinda veldur því, að lesanda finnst að bálk­urinn í heild ráðist af rök­legu sam­hengi, þótt ekki verði á því gripið.



8.2.Imbrudagar


er mun lengri en Dymbilvaka. Fljótt á litið virðist Imbrudagar falla í þrjá hluta: a) inngangsljóð, sem er fjögur átta línu er­indi með reglu­legri hrynj­andi (4 ris í línu) stuðluð en órímuð. b) I-IV, 30 bls. texti, mjög breyti­legur að línulengd og línufjölda, stundum hátt­bund­inn og stuðl­aður eins og inn­gangs­­­ljóðið (3 eða 5 ris í línu). c) V: fyrst háttbundið ljóð, sett saman úr erind­um úr Dymb­ilvöku, síðan prósa­ljóð (17 kaflar og línur á 6 bls. Hér er mest samhengi, í stór­um drátt­um sama saga og í skáld­sögu Hannesar, Strand­ið). Loks eru 4 erindi, flest 7 stuttar línur, hátt­bund­­­­in, stuðluð og eddu­­kvæðaleg.


Sundurleitastur er miðhlutinn (b). Í honum fléttast saman atriði sem mörg eru end­urtekin í breyttu formi, stundum þó með sama orðalagi: lauf­fall, lind, stígar í skrúð­garði, kirkja, mælandi svífur í myrku loftinu, fyrst á sjálf­stæð­um svölum, síðar sem hrap­­andi engill. Hann er einn úti í borg um nótt, síðar ásamt fleirum í húsi, þar sem lík föður hans stendur uppi. Snögglega er skipt frá einu atriði til annars, en innan hvers þeirra ríkir yfirleitt rök­legt samhengi, í stórum drátt­um séð. Þetta er því líkt og ljóða­bók, þar sem fyr­ir­­sögnum ein­stakra ljóða hefur verið sleppt, en ljóðin tengjast auk þess inn­­byrðis við end­ur­tekningar, líkt og Dymb­il­vaka.


Eins og sjá má af þessu er Imbrudagar afar torskilið verk. Stund­um er það þó vegna þess að í því eru atriði sem voru alkunn þegar það var ort, en eru nú flestum gleymd. Dæmi er (bls. 76) "Og nær og nær landi leitaði Skel­fisk­­­ur­inn grynn­­ing­anna af eðlisnauðsyn af því rætur hans þrá harðan stein­inn." - Þetta skýr­ist af því, að hér seg­ir frá strandi skips­ins "Clam" (=skel­fisk­ur) á ár­inu 1950. Ennfremur eru þessar ljóðlínur (bls. 68):



Ég er Roberto Benzi - ellegar Beethoven


hið blóðþunga höfuð ofheyrnanna [...]



Hvergi gat ég fundið neitt um þennan Benzi, en skáldið sagði mér (í sím­tali 30.10.1990), að þegar hann orti þetta hafi Roberto Benzi verið heims­­fræg­­ur fyrir að stjórna hljómsveit, aðeins 12-13 ára ítalskur strákur. Ljóð­lín­ur­nar skil ég því svo, að þær sýni til­finningu mælanda fyrir ofur­mannlegum yf­ir­burðum sínum í list­sköpun. Þetta er þá fram­hald þess sem segir rétt á und­an (bls. 65):



Ég er Davíð andspænis risanum


ég slöngva hnoða mínu út í nóttina


Ögrandi og fagnandi af því ég er eins og barn


og eins og fiðrildi í lófum risans



Eysteinn rekur það í sérstökum kafla í bók sinni (1980, 12 c), að mód­ern­istar noti sértákn meira en fyrri skáld, og oft séu þessi sértákn tor­ræð eða óræð. Hann reynir þó víða að ráða í táknmál Imbrudaga, stund­um með bein­um full­­­yrðingum, eins og þar fari ekkert milli mála (bls.269):



Vatnsspegill táknar íhaldssamt hugarfar, venjubundið ástand (bls. 11, 19, 20, 24, 29).


Faðirinn í IV. hluta táknar auðvaldsskipulagið.


Regnið rauða, einnig í þeim hluta, táknar hina blóðugu bylt­­ingu.



Stundum eru túlkanir Eysteins þó með fyrirvara (bls. 110-111):



Í fyrstu tveimur köflum bókarinar virðast mér vanda­mál skáld­skap­ar vera meg­inþemað. Í þessum ljóðum er vatnið tákn­mynd hug­ar­ástands eða við­horfs en tréð tákn­mynd skáldskapar. Að sjálf­sögðu er skáld­skapur aldrei nefndur á nafn né heldur við­horf, en séu vatnið og speg­­ill þess og tréð og lauf þess skoð­uð sem mynd­hverf­ing­ar þessara hug­taka, þá verður inn­tak­ið a.m.k. ljósara.



Af sama tagi er (bls. 234):



"Hin hringhenda þula dægranna" ætti að geta táknað hring­rás nátt­úr­­­­unnar og tímaskipta hennar. En við nánari athug­un verður önnur merk­­ing áleitin: Hið frumlega lýs­ing­arorð "hringhendur" bendir líka til nafn­­­orðs­ins "hring­­henda" sem er hluti hins hefð­bundna kveðskapar. Með þess­um skiln­ingi getur ljóðið átt við hinn þulukennda gamla kveð­­­skap sem líkist suðinu í vind­­inum og skilur lítið eftir sig. [...] Svip­uð tví­­ræðni merkingar er í næsta ljóði sömu bókar. Það gæti fullvel sýnt hring­rás lífs með mynd­keðju sinni frá frjói til fallandi laufa. En þegar heild ljóðsins er skoð­uð, er freist­andi að álykta að hér sé mynd­hverf­ing á ferð­inni sem tákni hinar nýju hugmyndir um ljóð­list sem vex upp úr hinni gömlu rotnandi og "leitar sér forms að hæfi," þroskast og hnígur auðvitað að lokum eins og allt ann­að í fyllingu tímans



Þessar túlkanir mega þykja missennilegar, mest sannfærandi þær fyrstu í síð­ast tilgreindri klausu. En mér sýnist mergurinn máls­ins þó sá, að Imbru­dag­ar sé ekki að segja enhver sann­indi undir rós, heldur þvert á móti, að rjúfa venju­legan skilning les­­anda, fanga hann í mót­­­sögnum og heilabrotum. Þetta verður nú reynt að rökstyðja.


Töluvert er hér um sérkennilegar ljóðmyndir og við­lík­ing­ar[7], sem tengja fjar­­læga hluti. Og fjarlægð eða víðáttumikil yfir­sýn er víða áber­andi hér, þeg­ar í upp­hafi (bls.41), þar sem segir frá eik, allt frá því að hún sprettur upp af frjói, þangað til hún mæt­ir loks "bliknuð ískaldri þögn himinsins". Eins er með sval­ir­nar "sem reika eins og myrkvuð stjarna" (bls. 42); umhverfis þessi kjarnaatriði er sýnt afar vítt svið (bls. 43):



í þúsund ljósára fjarlægð


ofar borginni sem glitrar eins og maurildi


á olíusvörtu hafi þessarar nætur



Í framhaldi virðist svo lýst atómi:



Í hnotskurn efnisins


er leikur eins og hnattlíkan á möndli


milli oddhvassra augntanna vorra


býr heili guðs: hin gráa þoka



En röklegt samhengi raskast við það, að allt í einu er þessi heili orðinn mun fyrir­ferðar­meiri, "billjónir fruma".


Í framhaldi er svo lýst hugarástandi drykkfellds öldungs. Samkvæmt skil­­grein­ingu á guði er óhugsandi að öryggisleysið, sem þar birtist, einkenni hann, en sam­hengið bendir til þess, auk þess sem hann er iðulega sýndur sem öld­ung­ur. Þetta er þá ann­að dæmið um að hug­renn­ingatengsl ein séu milli ein­stakra liða Imbru­daga. En einn­ig eru for­boðar mikið notaðir. Í dæmi sem tekið var hér að framan, var talað um maur­­ildi á hafi (bls. 43). Það verður svo aftur upphaf langr­ar lýs­ingar á hafi (bls. 45), sem kemur sem óvænt framhald kaflans um drykk­fellda öldunginn. Tví­vegis er vikið að engl­um (bls. 55 og 60), áður en sjálf meg­in­lýs­ing engils svo kemur (bls. 62), en hún er ekki í framhaldi af næsta atriði á undan. Með þessu móti er eins og ósýni­­legt, innra sam­­hengi ráði í ljóðabálkinum, þrátt fyrir samhengis­leys­ið á yf­ir­­borð­­inu. Í sömu átt orka tíðar endurtekningar á orðalagi.


Samhengisleysið er og stundum milli einstakra lína í erindi, svo sem rætt var (k. 5.2 hér) að einkenndi expressjónisma. Í eft­ir­­farandi texta verða ekki séð nein tengsl milli línanna (bls. 58):



Andardráttur næturinnar er eins og flögrandi skuggar


Á bleiku enni vetrarins glitra snjókristallar


Maríuhárið er storknað af köldum svita


Myrk hugboðin seiða eyru næturinnar með vængjablaki



Á hvirfli geldmunksins skín í gult tungl


Lágvær flaututónninn skelfur eins og þaninn strengur


Djúp þögnin er gáruð fíngerðum ljósbrotum


Gult fílabein er greypt í svart skammbyssuskeftið.



Þetta er víðar í Imbrudögum (t.d. bls. 59), en ekki oft. Sumar setn­­ing­ar­nar rúma auk þess andstæður eins og brátt skal rakið. Hér renna saman svið sjón­ar og heyrnar, þegar þögnin er gár­uð ljósbrotum.


Stundum virðist þessi sundrun til þess gerð að sýna yfir­þyrm­andi áhrif, með því að raða saman ólíkum myndum af sama fyr­ir­bæri (t.d.á bls. 49): vatn­ið mun



rísa


líkt og æpandi janushöfuð


Guernica


hin þunga breiða bylgja


líkt og sjáaldur sjúklingsins


er þenst í angist undir blikandi skurðhnífnum



Svipuð áhrif hefur önnur lýsing þar sem einnig er raðað saman óskyld­um lík­ing­um um eitt fyrirbæri, það er eins og það þenj­ist þá út til að ná til skynj­unar á ýmsum sviðum í hverskyns sam­hengi. Þannig er kirkjan (bls. 54) í senn "steglir mjúkra lima", fléttuð inn í uppistöðu vefs, eftir að talað hef­­ur verið um vef­stól, og "grunn­farðinn undir farð­an­um". Í upphafi fyrr­nefnds kafla um vatnið er eins og víðar í bálk­inum stagl­ast á lykilorði, og það sett í ómöguleg sambönd við sjálft sig. Út­kom­an verður zen-kenndar mót­sagn­­ir í stíl við Tímann og vatnið, en það er einn drátturinn í óröklegum svip Imbrudaga (bls. 58 auðkennt af E.Ó.):



Og blint sjáaldur vatnsins þenst í blindni



Blindir árhringir í öldnu tré



Á öðrum stað er staglast á orðinu "vatnið", svo útkoman verður óskilj­­an­leg (bls.48):



Því vatnið er bundið vatninu


og þungu vatninu


og vatninu sem veitir þér svölun



Aftur á móti eru ekki tíð hér surrealísk orðasambönd, sem tengja sam­an ósamrýnanleg orð, eins og áður segir. Þar mætti helst til nefna dæm­in hér að framan með lýsingarorðinu "blind­­ur", og fyrrgreint dæmi um heila guðs, þar sem saman er fléttað orð­um af sviði líffræði, eðlisfræði, mál­fræði og úr Gamla­t­esta­ment­­inu (auðkennt af E.Ó.), auk mótsagn­ar­innar milli ógæfu­­­­samra og hlýlegri (bls. 43):



billjónir fruma í segulfjötrum þáliðinnar tíðar


skuggar hringfleygra dægra í eilífum snarkringludansi


um gelda gullkálfa ógæfusamra drauma


er stafa hlýlegri birtu



Svona samþætting orða af ólíkum sviðum gefur alhliða, glund­roðakenna mynd af umheiminum. Auk þess eru hér nokkur orða­sambönd sem rúma því­lík­ar and­­stæður, að þau verða óskilj­anleg. Orð af sjónsviði (tíbrá, tungl­­skin, nótt) er haft um heyrn (tvívegis) í "Tíbráin í eyra næt­ur­­innar er hljóðari en tungl­­skinið" (bls 58). En eyra næturinnar nemur einnig seiðandi vængjablak hug­boð­anna (s.st.), hér er hugtaki líkt við fugl, eins og í Tíminn og vatn­ið. Einn­ig er "geirvartan kveik­ir á alt­ar­iskertinu" (bls.46). Heildin er höfð inni í hlut­an­­um í "Síð­för­ull mað­ur seytlar fram úr kreppt­um hnefanum"(bls 58); end­­ur­tek­ið í breyttu formi: "Síðförull maður seytlar fram úr spennt­um greip­­un­um" (bls 65). Einnig mætti skilja þetta svo að maðurinn sé í greipum t.d.guðs, svo sem annars staðar kemur fram í ljóðabálkinum (bls. 40, 62 og 65). Höf­­uð­­hár er oft mik­il­vægur þáttur kyn­þokka, og því er vænt­anlega við hárið líkt í (bls. 64): "Ég mundi [...] skaut þitt hrynja/ um brár mér". Setningin: "Andlit þitt er gult af þrá eftir blóð­­­þvott­­in­um" (bls.50) er óskilj­­anleg, bæði vegna litarins og vegna síðasta orðsins, sem höf­undur hefur lík­lega búið til, eins og orðin "tón­flár" um boga­streng (bls 68), og "laun­beitt­ur" um streng í fljóti (bls 59) og "Maríu­hár" (bls 58). E.t.v. er þetta síð­­asta tilbrigði við orðið "Maríutása" =þunn­ar skýja­slæður, og þá verður surrealísk setn­­­ingin: "Maríu­hár­ið er storkn­að af köldum svita". Altént eru þessi nýyrði öll óskilj­­anleg eða ill­­skilj­an­leg, og virkja því ímynd­unar­­afl lesenda í að glíma við ljóðið, líkt og hér var nefnt um surreal­isma (k. 5.2). Orðið "hringfleygur" í "skugg­ar hring­­­fleygra dægra" (bls.43) kann að vera nýyrði, en það er auð­skilið, vísar til hringrásar nátta og daga. Fyrir kemur að stokkið er milli sviða hvað eftir annað, fyrst myndar vökvi hugrenningatengslin, síðan óljós form (bls.45):



Í húmsvalri mjólk hinna hvelfdu brjósta


sem nærir ekki bláeygan hvítvoðunginn


synda blóðkaldir fiskar


skuggar óljósra hugboða


og þræða vegleysur hafdjúpanna


upp á hlekkjafesti sjáfritandi sporða



Annars er mjótt á munum frá slíkum surrealískum orðasamböndum yfir til sér­kenni­legs mynd­máls, sem áberandi er í Imbrudögum. Slá­andi dæmi er und­­­arleg persónu­gerving; "Rauð­­brúnn krosssaumurinn þráir hvítan svæf­il­inn" (bls.65). Ljóð­­myndirnar mætti með ýmsu móti flokka, t.d. eftir því hvaða sál­ar­ástand þær sýna. Óþol eða viðbjóð gagn­vart umhverfinu sýna vænt­­­an­lega mynd­ir svo sem: Garðstígarnir hlykkj­­ast undir iljun­um svo að þeir minna á orma (bls.47). Hlýleg kven­mynd birtist í lind­­­inni (bls.51), sem hélt "áfram að kliða/ leið fram í hlé­drægri spurn/ þvoði stein­ana, þerrði rykið af speglinum/ mjúkri, logn­hvítri slæðu" (svipað er á bls. 55). Víðar eru persónu­­­­gerv­­ingar af sama tagi; "Skógurinn afklæddist skartklæðunum" (bls. 52), vind­­­­inum er líkt við hund sem snuðrar í prentmáli, en því er aftur þrá­­fald­­­­­lega líkt við fallið lauf. Þetta minnir á lok kvæðisins "Unglingurinn í skóg­­inum". En síðar blæs vindurinn í seið­pípur (bls. 57), og garð­stígurinn vatt sig fyrst "um nakið tréð/ hring eftir hring", en hleyp­ur síðan "í kráku­­stíg­um" (bls. 56), þessi meg­­in­atriði ljóðabálks­ins taka mynd­­breyt­­ingum í lík­ing­­un­­um.


En það er ekki alltaf einhlítt eða augljóst hvaða tilfinning birtist. T.d. er það á mörkum þrúgandi tilfinningar (inni­lok­un­ar­­kennd­ar) og fram­­andleika, að tunglið er á múrvegg nætur­­inn­ar (bls. 49), og vænt­anlega er það upp sama vegg sem ný haust­­­sól gekk (bls.53). En þar er myndin út­færð, sólin "vafr­aði undir þakinu/ væng­sviðin", eins og fugl.


Framandleiki birtist í sérkennilegri mynd, þegar urðarmáni (feigðar­boði) spegl­­ast í sjá­aldri unglingsins dauða í sjónum (bls. 46):



Um hann flykkjast þöglir fiskarnir


Þeir svara hvítu leiftri hornhimnunnar


með innhverfum dularfullum söng


undir dymbli vatnsins



Ein ítarlegasta myndin er af mælanda sem sköllóttum engli (bls.62) sem "fiðr­aður skýjum" flýgur endalaust um "firrðir rúms og tíma". Í miðri þeirri lýsingu kemur inn­dreginn texti um fiðrildi, sem skynjar yl í lukt­um lófum manns sem greip það. Hlið­stæðan er augljós, einnig mælandi finn­ur fyrir yl í myrkrinu, og er þá vænt­­anlega í greipum guðs (en í lukt­um greipum þoku blindrar í I!). Enda lýkur þættinum undir þessum brag­arhætti með trúarlegri mynd (bls.64):



í fúgu spenntra greipa, heitra bæna


ég sá hvar stjarna flaug af haustsins himni


og hvítum fæti steig á jörðu græna



Nú mætti spyrja, hvort sjáanleg sé einhver heildarmynd á bókinni. Það sýnist mér vera, í stórum dráttum, en ekki svo, að hvert atriði sé njörvað á sínum stað. Fyrsta ljóðið, "Í þoku ljósri..." virðist mér inn­gang­ur að öllu hinu, því þar eru í stór­um drátt­um sömu fyrirbæri og sama hreyfing sem ríkir í öll­um bálk­in­um; lauf­fall, vindar, vatn, mælandi svíf­ur langa leið "um luktar greipar þoku blindrar" (bls. 40). En þótt mælandi tali um sjálfan sig í þessu fyrsta ljóði snýst það einkum um við­mæl­­anda, sem ekki kemur fyrir í bókinni að öðru leyti. Mér finnst freist­andi að túlka þetta svo, að hér sé lesandi ávarp­aður innilega. Meg­in­hlut­inn, I-IV, er síðan myndir af umhverfi mæl­­anda. Þar birtist náttúra og borg, en ekki fólk, nema sem ósundur­greindur hópur. Þetta eru myndríkar lýsingar, og oft gerðar fram­­and­legar, eins og hér hefur verið rakið. Ekki er auðsén þróun í þeim, nema hvað fram­­­an­af eru þær kyrrar, síðan færist óeirð í þær, jafnframt því sem þær verða hvað ann­­ar­­­leg­ast­­ar og samheng­islausastar (bls. 56-63). Aftur kyrrist hreyf­ing öll, en það er spenna í lokum IV. Þar valda frost því að fólk er lokað inni í húsi, þar sem í gegnum ilm blóma og ilm­vatns smýgur rotnunar­lyktin af líki föður mæl­­anda. Það má þykja heldur augljóst tákn fyrir að viðhorf og venjur gam­als tíma þrúgi sam­tíð­ina. Lausn­ina úr þessu sé ég í V, og það fer vel á því að sá lokakafli hefjist á tilvitnun í Dymb­­il­vöku. Því hér verður mæl­­­andi loks virkur gagn­vart um­hverfi sínu, ann­ast það, jafn­vel þótt ekki sé nema það, að bjarga lík­um úr brim­­inu. Og jafn­­framt þessum hvörf­um í hlutverki mæl­­anda, einfaldast ljóð­­­mál­­­ið, verður að mestu röklegt og auðskilið, þótt enn bregði fyrir sér­­kenni­leg­­um mynd­um. Ætla mætti að hér hefjist í raun sú breyt­­ing sem Hann­es boð­aði fimm árum síðar, og glöggt kom fram í næstu ljóðabók, Sprek á eld­inn: "Ég held að tími hins skor­­in­orða ljóðs sé kominn!" (tekið eftir Eysteini 1980, bls. 114). En nán­ar að gáð er þessi prósa­frásögn rofin hvað eftir annað af hug­leið­­inga­inn­skotum, þar sem þó ekki ríkir hugs­ana­­keðja, heldur órök­leg keðja ann­ar­legra mynda, og þeim bregður einn­ig fyrir í sjálfri frásögninni. Virð­ist því nær að álykta, að hér sé dæmi­gert dag­­blaðs­efni, prósafrásögn um slys, gert ámóta fram­and­legt og ljóð­­form­ið er gert annars­staðar í Imbru­dög­um. Sá bálk­ur er því mun sund­ur­­­­leit­ari en Dymbilvaka, og þar með al­tæk­ari um bók­­mennta­reynslu lesenda.


Ruglingslegt safn ljóða sem tengjast innbyrðist á torskilinn hátt, en eru flest skilj­anleg röklega, hvert um sig; í þessu standa Imbru­dagar miklu nær Dymb­­il­vöku en fyrrnefndum surreal­­ísku verkum, enda þótt Eysteinn (1980, bls.111) telji Imbru­daga "án efa hrein­ræktaðasta surrealíska verkið í íslenskri ljóða­gerð". Niðurstaðan af því sem hér fer á undan er ótvírætt sú, að það gildi um Tímann og vatnið. Sundurleysi Dymbil­vöku og Imbru­daga er fremur af því tagi sem hér hefur verið kennt við expressjónisma, þ.e., flestar málsgreinar eru skilj­an­legar venju­legum, röklegum skilningi, en iðu­lega sam­heng­is­laus­ar sín á milli. En þessir ljóðabálkar eru þó miklu rót­tæk­­ari módern­ismi en verk ýmissa frægra surrealista, s.s. Robert Desnos eða Jacques Prévert.


Eysteinn segir ennfremur (tv. rit, bls.195-6), að það sem skeri úr um mód­­ern­isma sé ekki "lausbundið form", heldur "málbeiting, bygg­­­ing mynd­máls­­ins og viðhorfin sem í ljóðunum búa". Og hann segir um t.d. "hrein ljóð" (poésie pure; tv. rit, bls. 222), að stundum vilji skáldin



losa ljóðin sem mest við raun­veru­legt hlutasvið og jafn­vel þema vegna þess að þá fyrst hafi hin skap­andi hreyf­ing málsins óheft svig­rúm. Með þessu móti verði skapað hið svokallaða "hreina ljóð". Nokk­ur af ljóð­um Steins Stein­ars eru ort undir slíku merki, en að öðru leyti er ekki um slíkan kveð­­skap að ræða hjá íslenskum módern­istum.



-ólíkt módern­istum erlendis, enda liggi íslensku atómskáld­unum jafnan meira á hjarta en svo, að hann dugi þeim.


Þegar hann hér nefnir ljóð Steins, hlýtur hann að eiga við Tíminn og vatn­ið, auk fáeinna síðustu ljóða Steins. Annars staðar (tv. rit, bls. 246-7) seg­­ir hann að al­mennt talað sé röskun mál­fars lítil í ljóðum íslensku atóm­skáld­­­anna, og að upphafið mál­­­far Steins Steinars hafi orðið atóm­skáldunum fyr­­ir­mynd. Um mynd­­málið hefur Eysteinn ekki glöggan sam­anburð, en seg­ir þó, að myndhverf­ingin þjóni best metnaði mód­ernra skálda, að fáum hafi tek­ist betur en Steini Steinar að skapa áhrifa­miklar mynd­­­hverf­ingar, og þar muni hann hafa orðið atóm­skáld­unum hvatn­­ing til dáða (tv. rit, bls. 262-3). Dæmin sem hann tilfærir úr ljóð­um þeirra einkenn­ast af röklegu samhengi, þótt sum séu marg­hliða. Enn segir Eysteinn, að mikil skil verði í yrkisefnum íslenskra skálda við komu Steins Steinars á skáldaþing, en hon­um fylgi síðan atóm­skáld­in (tv. rit, bls.273).


Mér sýnist af þessu öllu, að sjálfar niðurstöður Eysteins bendi ótví­rætt til þess sama og rannsókn mín, að þáttaskil í íslenskri ljóðagerð til mód­ern­isma verði með Tím­­an­um og vatninu, en fá skáld gangi eins langt í mód­ern­isma næstu ár og áratugi.


Fyrstu módernu ljóð Hannesar birtust 1947, hér hefur ekki verið fjallað um þau, né Sprek á eldinn, sem er þó að mestu leyti módern. Undir lok þeirr­ar bókar koma skrúðmálg rökleg kvæði sem hafa fyrst og fremst það hlut­verk að bera fram stjórn­­mála­­skoðanir. En vissulega ber myndmálið áfram keim af módern­isma.





9.Atómskáld


Þetta orð á við hóp fimm skálda, eins og Eysteinn Þor­valds­son hefur rakið 1980. Eitt þeirra er Hannes Sigfússson, en annars er ein­kennilegt til þess að hugsa hve oft þessi skáld í heild hafa verið orðuð við módern­isma. Ég finn ekkert af því tagi í ljóð­um Jóns Óskars né Sigfúss Daða­sonar, og í mesta lagi eitt ljóð hjá Einari Braga. - Raunar er síð­asta útgáfa ljóða hans eins og hinar fyrri, engin heild­ar­út­gáfa, og engar upp­­lýs­ingar eru þar um aldur ljóða né um fyrri prentanir, er því örðugt að alhæfa um ljóð hans. En hér verð­ur fyrir örstutt prósa­ljóð:



Snjómaðurinn



Hver vill gefa snjómanninum flíkur til að skýla nekt sinni, svo hann þurfi ekki að skjálfa eins og brjóstveikur kyndari við að kveikja undir atóm­kötl­um sínum? Enginn, svaraði tunglskinið og renndi sér á ísleggjum eftir skyggðri febrúargljánni.



Síðasta málsgreinin er kunnuglegust, persónugerving á tungls­­ljósi, og meira að segja að leik með tækni gamla tímans, fyrir iðn­væð­ingu. Ekki veit ég til þess að tit­ill­inn geti átt við neitt annað en "snjómanninn ógurlega, Yeti", sem átti vissu­lega að vera allsnakinn, einhver kafloðinn risaapi í Himalayja-fjöllum, oft fjallað um­ hann í æsi­frétta­­blöðum, amk. frá 6. áratugnum að telja. En hvað kemur hann atómkötlum við? Í hæsta lagi að hvort­­tveggja setti svip sinn á fjölmiðla. Er þetta þá svo að skilja, að fjöl­­­miðla­fár nútímans skuli virt að vett­ugi af þeim sem una við heilbrigða leiki gamla tímans? Ekki verður séð að neitt réttlæti slíka túlkun frem­ur en hina, að hér séu sett saman atriði sem verði þó ekki ham­in í einni rök­legri heild, svo að les­endur glími við að átta sig á þessum myndrænu brotum. Það væri í stíl við annað sem við höf­um séð hér að framan, en kannski í knapp­­asta lagi hér til að grípa lesendur.


Fyrsta bók Stefáns Harðar Grímssonar birtist 1946, og ég sé ekkert í henni sem varðar þetta efni. En í annarri bók hans, Svartálfadansi, 1951, koma fáein ljóð til greina. Þar gætir mjög persónugervinga og orðalag er sem knapp­ast, svo þetta verða oft ný­stár­leg ljóð, og sláandi mynd­­ræn. Þannig móta miklar and­stæður ljóðið "Vetr­ardag". Ann­­ars­veg­ar er náttúrulýsing, vötn á hvítum auðnum, hrímþoka, vindar næða, leggja­­mjóir menn ganga eftir hjarn­inu, fjöll í baksýn. Þessi mynd er þrung­in persónu­­gerv­ing­um; spurnir ber­ast ekki af eirð­ar­laus­um ferðum vindanna, brostin augu í ásjónu lands­ins, stirðn­að [barn?] við brjóst eyði­markanna, íshjartað slær. Útkoman er að ein­hverju leyti óræð, en meg­in­atriðin eru kunnugleg, mælandi er barn lands­­ins, sem virð­ist dáið, en býr þó yfir lífi.


Í "Eirlitir" er myndmálið einnig kunnuglegt. Meginmyndin er af ferða­­­löng­um "á langþreyttum hestum/ [sem] blása í kaun og bjóða góðan dag­inn/ taka ofan og kveðja duttlungafyllst" (bls. 60). Þessir ferða­langar eru vind­ar. Ekki er ljóst hvort það eru þeir sömu sem hafa safnast saman úr öll­um átt­um til "að taka þátt í leitinni miklu". Þeir hafa safnast í hópa á "bökk­um móð­unn­ar", veifa kyndlum, leita að strönd fyrir handan og kalla á ferju­mann. En hann sefur fast - í þeim sjálfum. Enda verða þeir að snúa aftur til að sækja bik í kyndla sína. Mælandi óskar þess að verða með ferða­löngunum í leitinni, en hverj­ir eru þeir? Auk vindanna eru dag­ar og nætur persónugerðar, "með svart­ar hend­ur", og hlátur næt­­ur­innar heyrist að baki orðum dagsins, sem seg­ist vera að koma. Nú fer að verða stremb­ið að botna í þessu, enda eru upp­­lýsingar mæl­anda um sjálfan sig býsna óræðar líka. En þær eru and­stæða mynd­arinnar af hressilegum ferða­­löngunum, þegar eftir það upp­­hafs­­erindi kemur mynd mælanda:



Spyrðu mig ekki hvers ég vænist og bíði


svar mitt er ekki fætt og hvort það fæðist


veit ég ekki og ennþá veit ég þó síður


hvort ég vonast og hvort ég bíð eftir nokkru.



Víst hefur nóttin og tönnin ótta minn vakið


og raust hinna djúpu vatna látið mig skelfast


þrátt fyrir það og kannski einmitt þess vegna


ég óska að taka þátt í leitinni miklu


í leitinni miklu og slást í för með hinum.



Hvers skal leitað, og hvaða tönn óttast mælandi? Tímans tönn? Þess­um spurn­­ingum sé ég ekki að verði svarað, en þessi ógnvekjandi tönn er forboði um mynd­mál lokaer­ind­is, sem er ólíkt framangreindri kunn­uglegri mynd ferða­langa á Íslandi:



og einhvern dag gæti hringmúr venjunnar rofnað


tærðir ísfingur dauðans brostið og óskin


losað kverkatak ellinnar sér af hálsi.



Myndmálið mótast, eins og áður segir, af gamal­kunnu um­hverfi Íslend­inga; m.a. "mýrgul tunglbirta", "blása í kaun". En sumt er ankanna­­legra, eins og sjálf­ur tit­ill­­inn, og liturinn á hönd­um næturinnar. En litum er einkum beitt til að gera hugtök hlut­­læg, þannig sést framrás tímans á lín­unni: "Bláir drop­arn­ir falla í ald­­anna brunn." Órætt verður ljóðið vegna þess hvernig það fellir sam­­an ólík svið; mannlífið ann­ars­veg­ar, en dægur og vinda hins­veg­ar. Helst virð­ist mér ljóðið miðla til­finn­ingu fyrir því, hvernig mæl­andi laðast frá því að finnast allt tilgangs­­­­laust til samkenndar með öðr­um mönnum í ein­hverri fram­sókn. Hreyfi­aflið verða þeir að finna innra með sér, en tím­ans rás er þeim ögrun til þess.


Titilljóð bókarinnar, "Svartálfadans", virðist mér ort "of ið sama far" og þetta ljóð. "Útsýni í rökkrinu" má þykja expressjón­ískt í því að telja upp ótengda hluti og þýð­ingarlausa í fyrstu þremur línum ljóðs­ins, og aftur í seinni hluta þess. En það sýnir vel þá óþreyju mæl­­anda, sem er burðarás ljóðs­ins, mynd um­hverf­isins sýnir allt nema það sem hann er að bíða eftir; hana. Ógnandi keppinautar birtast í 4. línu, og fress­kötturinn er tilbrigði við mynd þeirra.



Útsýni í rökkrinu



Rautt hús við hornið á öðru húsi


Strompur á mæni hlöðunnar og hallar til vesturs


Gamall maður með staf raular fyrir munni sér vísu


um skapara himins og jarðar


Stráklingar á stelpuveiðum flautandi með hvítar bringur


Ég elska stelpu í næsta húsi hún lætur ekki sjá sig


Eigum við að koma út að sjá þegar dimmir ég og þú


þegar dimmir?


Þarna kemur mögur kona fyrir hornið og lítur í kringum sig


ætli hún hafi týnt hanska?


Gulur fressköttur lymskast um garðinn hjá húsinu nr. 23


Gamli maðurinn með stafinn er búinn með vísuna sína


og farinn að kalla á köttinn


Bráðum fara þeir að kveikja götuljósin


Elskan þú lætur ekki sjá þig bara þú lendir ekki í neti


strákanna


Eigum við að koma út að sjá þegar dimmir ég og þú


þegar dimmir?



Að lokum mætti víkja að ljóðinu "Dans á sandi". Þar tengjast mikl­ar and­­stæð­­ur. Fyrst er mynd af frumstæðu mannlífi, sem ber keim af dýrum, konur með klauf­ir, menn með horn. Þetta má minna á geitur, eða Pan, tákn villts hvata­lífs. Enda er mynd kvenn­­anna öll í þeim dúr, það sem athygli vekur er brjóst og lend­ar í sterk­­leg­um dansi, þær fótumtroða blóm, tákn hins fín­gerða og fagra. Í stíl við það er að þetta er um nótt, og að mána­­ljós er persónu­gert í glotti. Karlmennirnir virðast hins­veg­ar hafa hug­­ann allan við gull. Aftur sjá­um við mælanda, sem er ein­angr­að­ur frá mann­­lífsmynd ljóðsins, stendur álengd­ar og langar til að sam­­lag­­ast. Það atriði er nokkuð spaugi­legt. En svo koma alger stíl­rof í tveimur síðustu erindum með morgn­­inum, sem er líkt við rauð­­birkinn skóla­strák, að ekki sé talað um reiðskjóta drott­­ins. Það er örð­ugt að sjá nokk­urt heildarsamhengi í þessu. Tví­ræðni er vel beitt, því orð­ið "brokk­­gengur" er haft um menn eins og hesta, og með því að taka venju­legt for­­skeyti framan af "almátt­ug­ur" breytist klisja í orðalag sem kallar á um­hugs­un, líkt og "drott­in­hollur" í lokin.



Dans á sandi



Ég dvaldist náttlangt á ströndinni


þar sem menn með horn hlupu fram og aftur


og léku að rauðum málmi


og konur með snúnar klaufir


vögguðu lendum sínum í sterklegum dansi


á meðan mánaglottið féll á brjóst þeirra.



Ég stóð álengdar og nóttin leið.


Ég virti fyrir mér leik þeirra hyrndu


og ég virti fyrir mér dans kvennanna


sem tróðu á hvítum blómum sandsins.



Ég stóð álengdar og strauk um enni mitt


strauk um enni mitt og aðgætti


hvort mér hefðu vaxið horn.



Loks þegar morgunninn birtist í austrinu


eins og rauðbirkinn skólastrákur


sá ég hvar drottinn máttugur kom vestan flóann


ríðandi á brokkgengum heildsala


og lamdi fótastokkinn.



Þá tók ég ofan


því ég er drottinhollur maður.



Nýlega hefur birst rit eftir Pál Valsson um skáldið Snorra Hjartarson, sem mikið bar á um það leyti sem atómskáldin komu fram. Páll sýnir hvað líkt er í mynd­máli Snorra og atóm­skáld­anna (bls.64) - að láta myndina tala, út­­skýr­ingalaust, en einnig hitt, hvað ólíkt er, mynd­hverf­­­ingar Snorra "eru skýr­ari, skilj­anlegri og birta já­kvæð­ari lífssýn. Hann er í leit að jafn­vægi nátt­­úrunnar með­an atómskáldin eru að lýsa glund­­­roða og firringu borg­ar­menn­­­­ingar" .


Þessi síðasta fullyrðing Páls virðist mér einum of alhæfandi, því hvorki á hún við atóm­skáldin Einar Braga, Stefán Hörð né Jón Óskar. Sama virðist mér augljóst um þau skáld sem fram komu á næstu árum, og athygli vöktu, Hannes Péturs­son og Þor­stein frá Hamri. Módernisma gætir ekki hjá þeim, né heldur hjá Þor­geiri Svein­bjarn­­ar­syni, hversu "nú­tímaleg" sem seinni ljóð hans eru, skv. grein Fríðu Sigurð­ar­dóttur. En hún kallar þau nútíma­ljóð vegna bragfrelsis, hnit­unar og margræðs mynd­máls. Aðeins síðasta atriðið kæmi hér til álita, en mér virðast ljóð Þor­geirs ekki sundr­uð í framsetningu svo köll­uð yrðu módern.


Niðurstaða framangreinds verður í mikilli andstöðu við það al­menna álit, að um miðja 20. öld hafi módernisminn sigrað í íslenskri ljóða­­­gerð, með atóm­skáld­­unum[8]. En það sagði t. d. Ey­steinn Þor­valdsson um skáldskap þeirra. Í loka­orðum bókar sinnar um þau segir hann m.a. (1980, bls.286):



Meginein­kennin eru vanda­­samt og þaul­hugsað lík­inga­mál, knappt orðfæri og stundum tor­ræðni. Séu þessir formgerðarþættir bornir saman við mál­far, myndmál og tjáningarmáta hefðbundnu skáldanna, t.d. á 5. ára­tugn­um, kemur verulegur munur í ljós.



Svo langt sem þessi lýsing nær, ætti hún einnig við þau ljóð Halldórs Lax­ness og Steins Steinars sem hér hefur verið fjallað um. Þar er þó veru­leg­ur munur á, svo sem Gunnar Harð­ar­son hefur rakið (bls.110):



"Innri einkenni" formbyltingar atómskáldanna hafa verið talin felast í end­ur­­nýj­un myndmálsins. En þetta er ekki nema að hluta til rétt. Mið­að við til dæmis Stein Steinarr er myndmálið sjaldnast mjög bylt­ing­ar­­kennt hjá atóm­­­­skáldunum, þó að mynd­irnar í ljóð­um þeirra séu oft skýrar og heil­steypt­ar og myndræn skynjun og tján­­ing fái ef til vill auk­ið vægi. Í þessu tilliti eru atóm­skáldin því ekki byltingarmenn held­ur þvert á móti tengiliðir hefð­ar og nútíma. Í ljóðum sem er stefnt gegn hinu hefð­bundna kveð­­skap­ar­­formi lifir ljóðhefðin góðu lífi og sann­ar þar með gildi sitt og áhrifa­­mátt. Þeir endurnýja hefðina með því að sprengja af henni staðnað ytra form. Atóm­­skáldin eru þar með varð­veislu­menn íslenskrar skáld­­skapar­­hefðar.







10.Síðustu áratugir


Hér verður stuttlega vikið að tíu skáldum, frá stríðslokum til síðustu ára.



10.1.Jónas Svafár


hefur aldrei verið talinn til varð­veislu­manna. Hann hefur fjór­um sinnum sent frá sér lítil ljóðasöfn, sem geyma að verulegu leyti sömu ljóð, meira eða minna breytt, og eitt­hvað er skipt um. Bækurnar eru: Það blæðir úr morg­un­sárinu (1952, 20 ljóð), Geislavirk tungl (1957, 20 ljóð), Kletta­belti fjall­­kon­unn­ar (1968, 37 ljóð) og Sjöstjarnan í meyj­ar­­merk­inu (1986, 27 ljóð). Þessum ljóðum skiptir raunar nokk­uð í tvö horn. Er á líður ber æ meir á pólitískum ræðuhöldum, en meðal elstu ljóð­anna, frá 1947, kemur það sem varðar okkar efni. Sér­­kenni ljóð­anna hefur alla tíð verið nær­skoðun tungu­málsins, sem stund­um er kallað orðaleikir, og birtist í titli fyrstu bók­ar­inn­ar. "Morguns ár" þýðir: snemma morg­uns, en Jónas les úr orð­inu: blæð­andi sár morguns. Sama má segja um skáldnafn höf­und­ar, Svafár er útúr­snún­­ingur á nafninu Svavar, en vísar til þeirrar sögu, sem er víst sönn, að Jónas varð fyrir slysi í æsku, svo að hann var sí­sof­andi í heilt ár. Þessi skáld­­skap­ar­stefna birtist í ein­faldri mynd í eft­ir­farandi ljóði (Það blæðir, bls.5) þar sem brussan hún Ella fer í skó, hún er ber, en sveipar sig líni, hellir víni varlega í glas og lætur í það ísmola. Jafnframt þess­ari frásögn er ljóðið heil­mik­il land­fræði­þula: Brussel, Sviss, Spánn, Rúss­land, Skóda, Osló, Berlín, Varsjá, Vín, Glasgow, París, Ísland.



EVA - HRÓPAR



Brussan - ella


Svissaði sér


í Spánýja


Rússskinns-


Skó - (da)


Og sló um sig


Bera - líni



með Varsjá


hellti hún Víni


í Glas - (gow)


og lét í það Par-t (af) Ís-


landi



Í öllum þessum surrealísku orðaleikjum birtist þó samstillt heild­­ar­mynd tísku­­konu. Í seinni gerð (Kletta­belti, bls.43) gefur hún m.a. skít í föð­ur­land­ið eða bölvar ein­hverj­um lands­­hluta. Þessi ádeilukennda mynd er í sam­ræmi við pólitískan boð­skap ljóð­anna endranær, á undan tveimur síðasttöldu orð­unum er laumað inn böl­bæn á ensku: "go to hell".



með Varsjá


hellti hún Víni


í Glas-go


to Hell


með Part


af Íslandi



En stundum virðist engin slík heildarmynd vera. Þar má nefna ljóð frá 1947, sem er fyrst og fremst skopstæling að því leyti, að draga háleitt niður í hvers­­dags­leika, m.a. með lágstíl. Það bitnar eink­um á drottni, um hann er tal­að sem hvern ann­an góð­­kunn­ingja, sem er að kasta af sér vatni og er með hug­ann við lít­il­fjör­legustu atriði. Meira þykir mér þó vert um hitt, að hér er vart sam­hengi að sjá, fremur að rím og stuðlun ráði ferðinni. Upphaflega var ljóðið svona (Það blæðir, bls.23-5):



GU‹



andi minn glímdi við guð


og það var gasalegt puð


þjáningin þakti mitt borð


með þögninni sekri um orð



hann flögraði líkt og fugl


sem flækist í sjálfs síns rugl


og fellur við dúk og disk


þá dró ég úr honum fisk



en eftir dúk og disk


sagði drottinnn (hann var að pissa)


hvernig höfum við hist


hvenær var það fyrst


mikið er ég hissa



ég strauk hendinni um hnakkann


og hneppti frá mér frakkann


það varð helvíti heitt


hjartað var farið úr skorðum


það hneig niður himinbrattann


og hikstaði framaní skrattann


þessum þrettán orðum



Þyrstur af trega ég teyga


tæmi flöskur og fleyga


þú fyrirgefur guða - veiga.



Í Geislavirk tungl (bls. 47) og síðar hét þetta ljóð "Guðaveig", og ýmsar smábreytingar urðu á því, en merki­legast að breyta lokaerindi svo, að á eftir línunni "þessum þrettán orðum" komu ellefu orð!



þyrstur af trega ég teyga


tæmi flöskur og fleyga


friðlausa guðaveiga



Mér sýnist því snörpust og sérkennilegust þessi gerð, raunar enn betri í Kletta­belti fjallkonunnar (bls.21-3, þar heitir ljóðið "Guðaveigar"), þar er síðasta línan: "freyðandi guðaveiga". Enn breytist þetta í síðustu gerð (Sjöstjarnan, bls. 8-9), svo úr verða þrettán orð, en síst er það til bóta:



mig þyrstir af trega ég teyga


tæmi flöskur og fleyga


freyðandi öl guðaveiga



Sýnilega leggur skáldið stundum mikla vinnu í að bæta verk sín, en oft verða breyt­ing­arnar til hins verra, eins og Böðvar Guð­munds­son rekur í grein sinni 1968 (bls. 128-9 og136). Hann hrósar einkum ljóðinu "Hnattspyrna", sem hefst á þessu erindi (Kletta­belti fjallkonunnar, bls. 69):



frá miðjarðarlínu að heimsskauti


hófst framsóknin með liðhlaupi


úr jarðarför heimsveldisins



Böðvar segir (bls. 134-5):



Allt er sagt með nýgervingum og orðaleikjum, allur leik­­urinn er tvö­­­faldur, það er hnöttur en ekki knöttur sem spyrnt er, það er ekki sókn, sem hefst frá miðlínu með hlaupi, heldur fram­sókn, sem hefst frá miðjarðarlínu með liðhlaupi, það er ekki lið Skota, sem skallar knött­inn, ónei:



fótgöngulið skotanna


fékk veröldina á heilann


og setti heiminn á höfuðið



og markvörðurinn er ekki eins og markverðir almennt, eða það sem hann gerir líkt athöfnum annarra markvarða:



en fangavörður ríkismarksins


steig hnettinum til höfuðs



og víkingar stormsveitanna


skoruðu með leiftursókn


úr samvinnuspyrnu á markið



síðan lýkur kvæðinu með því að óvenjuleg sending flýgur með­fram und­arlegum súlum í autt mark:



en tunglið flaug með öndvegissúlum


í sjöstjörnunnar eyðimörk.



Um svona kvæði er eiginlega ekkert að segja nema gaman, gaman.



-sagði Böðvar þá. En mér finnst nú að við megi bæta því, að ljóðið (sem hér er birt í heild, fyrsta og næstsíðasta erindi var ekki í klausu Böðvars) fjall­ar öðr­um þræði um seinni heims­styrj­öldina. Hún var oft kölluð "jarð­arför breska heims­veldisins", sbr. 1. erindi. Orðin "ríkis­­­mark" og "storm­sveitir" vísa greini­lega til höf­uð­and­stæðings þess heims­veldis, nasista­ríkisins, sem frægt varð fyrir fangabúðir, af því er leitt: "fanga­vörð­ur ríkismarksins". Það merk­ir í senn: sá sem ríkir yfir þessum gjaldmiðli, og mark­vörður. Það má lýsa hörm­ung­um heimsstyrjaldarinn­ar svo, að leiðtogi þess ríkis hafi stigið hnett­inum til höf­uðs, því það orða­­lag merkir að verða ofurölvi, ráða sér ekki. En það fæst ekki sam­felld mynd af heims­styrj­öld­inni í kvæðinu, ekki frek­ar en af knatt­spyrnu. Því eru þetta ekki rétt­­nefndar nýgervingar, sem Snorri Sturlu­­­son skil­grein­ir svo í Eddu sinni (bls. 282, í þeirri gerð, Trekt­arbók heit­ir þetta ný­gjörn­­­ingar)



Það eru nýgjörningar að kalla sverðið orm og kenna rétt, en slíðr­ir­nar göt­ur hans, en fetlana og umgjörð hams hans. Það heldur til orms­ins nátt­úru að hann skríður úr hamsi, svo að hann skríður mjög til vatns. Hér er svo sett ný­gjörning, að hann fer leita blóðs bekkjar að, þá er hann skríður hug­ar stigu, það eru brjóst manna. Þá þykja ný­gjörn­ingar vel kveðn­ar, ef það mál, er upp er tekið, haldi um alla vísu­lengd, svo sem [þ.e.: en ef] sverð sé ormur kall­aður, fiskur eða vönd­ur eða annan veg breytt, það kalla menn nykrað, og þykir það spilla.



Í ljóði Jónasar eru líkingar við knattspyrnu vissulega notaðar allt ljóð­ið í gegn, og allt gæti það fjallað um heimsstyrjöldina nema síðasta erindi. Samt ganga lík­ingarnar í sín hverja átt (fékk ver­öldina á heilann, setti heiminn á höf­uðið, steig hnett­inum til höfuðs), svo útkoman verður óræð og módern, eðl­is­ólík nýgjörn­ing­um drótt­kvæða. Til sambanburðar mætti benda á kvæði Hann­­es­­ar Sigfússonar, eftir að hann hverfur frá mód­ernisma, t.d. "Afríka". Það er ný­gjörningar alveg í gegn, því frásögn kvæð­is­ins um heims­­valda­­stefn­una er sam­stillt heild fyrir sitt leyti, eins og frásögn þess um jarðyrkju, sem heims­­­valda­­­stefnunni er líkt við.


Jóhann Hjálmarsson tekur upp í bók sinni Íslensk nútíma­ljóð­list eitt þeirra ljóða úr Geislavirk tungl (bls. 23) sem Jónas, sleppti í Kletta­belti fjallkon­unnar. Jóhann segir (bls. 178):



Stundum öðlast ljóð Jónasar dýpt, eins og skáldið hafi náð lang­þráðu marki. Þetta gerist í Sólarlagi:



skýjaveröld á hugans verði


vakir í dauðans nætursverði



fljúgandi fugl í veðurhafsins hjarta


fölnandi blóm í haustnóttinni skarta



með grafartungl í geislatjörnum


grætur sólin vetrarstjörnum



Hér eru sláandi, sérkennilegar myndir, einkum fuglinn í miðju veð­ur­haf­inu. Og margt fleira lýtur hér að himninum; ský, nótt, tungl, sól og stjörn­ur. Persónu­­gerv­ingar eru mjög ann­ar­leg­ar: Skýja­veröld er á verði yfir hug­an­um (frek­ar en: fyrir hug­ann) og vakir í sverð­inum, líkt og spír­andi fræ, en þetta er svörð­ur dauða­­nætur. Ef lesið er úr orðasambandinu í þágufalli: sverð dauða­­næt­ur, þá gæti helst vakað í því bráður bani. Útkoman yrði reynd­ar hin sama. Það er djarfleg myndgerving að segja að sólin gráti stjörnum, eink­um vetr­­ar­stjörn­um, jafn­framt þeim sést sólin ekki. Úr þessu er þó engan þráð að fá, en frek­ar í hugrenn­­inga­tengsl­um; þau lúta að dauða og harmi. Það er fugl á flugi innst inni í veð­ur­­ofs­anum, ofurseldur honum. Hér er líka föln­andi blóm, nótt, haust og vetur, grátur og grafartungl í þess­um ein­kennilegu mynd­­um. Allt óskilj­­­anlega sam­­­­an­rímað. Sér­kenni­leg­ar myndir, tengdar af hug­­boð­um einum sam­­an, það er svo sann­arlega mód­ern ljóðlist á hástigi. En ef við berum saman við fyrri skáld, þá er þetta fremur af tagi expressjón­isma en surreal­isma, sam­heng­isleysið er fremur milli setn­inga en innan setn­ingar.



10.2. Arnfríður Jónatansdóttir


(f. 1923) var í hópi ungra skálda sem hittust til skrafs og ráða­gerða upp úr 1940, en í þeim hópi voru m.a. atóm­skáld­in, sagði Jón Óskar í endurminningum sínum (Fundn­ir snillingar, bls. 149-50). Ekki hefi ég fundið neitt eftir hana í tíma­­rit­­um, en eina ljóðabók sendi hún frá sér 1958, með því surr­eal­­íska heiti: Þrösk­uldur hússins er þjöl. Þetta er 40 bls. bók með 18 ljóð­um, eitt þeirra er raunar 10 ljóða bálkur, "Læstir dag­ar". Mód­ern­isma gætir í honum og í 4 ljóðum öðrum ("Sjólag" og "Á strætum" auk þeirra sem hér á eftir fara), en tölu­vert ber auk þess á stóryrtri stjórn­­málaádeilu. Titill bók­arinnar er tekinn úr ljóði í henni (bls.31):



KVÖLD



Þröskuldur hússins er þjöl



drengurinn yddir tennur með þjöl


ylfingstennur.



Ryð þaksins sáldrast látlaust


ryð þaksins litar hörund hans


mjúkt hörund hans



sáldrast látlaust



hvenær er þetta eina þak búið?


Hvenær hættir þakið að sáldrast



Af þröskuldinum horfir hann


á himin stjarnanna


stjarnanna -


drengurinn.



Einhver hlær úti


opnum hlátri - berar vargstennur


hlær.



Það er ekki auðséð samhengi í þessu. Helst virðist mér ganga upp sú túlk­­un, að ljóðið sýni ungviðið aðlagast vargshætti sam­fé­lags­ins. Þegar dreng­­­urinn hverfur frá sínu vernd­aða umhverfi, heimilinu, veðrast þak þess nið­ur, það gæti tákn­að að hann vaxi frá skjóli þess. Því er þrösk­­uldur þess þjöl til að hvessa tennur hans. Stjörnur tákna oft há­leitt mark­mið, og hér færi ekki illa á því, "Per aspera ad astra" segir fornt latn­­eskt máltæki; -það kostar harðræði að ná til stjarnanna. En þessi túlk­un svarar ekki öllum spurningum. Það er myndrænt orðalag og fer vel, að mjúkt hörund ung­við­isins litist af því að skjólið hverfur, en hví er þá þessi áhersla á þakið í spurn­ing­un­um: "hve­nær er þetta eina þak búið? Hven­­ær hættir þakið að sáldrast"? Og væri ekki eðli­legra að segja að dreng­­urinn horfði á stjörnur himinsins en "á himinn stjarn­­­anna"? Í þessum sérkennilegu myndum er rök­legt sam­hengi ekki auð­fund­ið. Í öðru ljóði er enn meira áberandi hve brota­­kennd er myndin, sem upp er dregin. Nánar tiltekið eru þarna einstakir skarpir drættir, en það virðist ógerlegt að fá þá til að falla saman í heildarmynd. Það er fremur hægt í hinu ljóðinu (bls. 17):



ÞRÁ



Á breiðum tónsæ


byrþanið segl.


Myndlíf söngs og sagnar.



Vakir man.


Viðjum bundið,


vafurloga skýlt.



- - -



Fetar viðlag fornrar sögu


um unga nótt.



Hvílu hef ég reidda


í brjósti mér.


Búið hef ég þér rauða sæng.



Marar segl í hálfu kafi.


Sofðu man.



Orðaval svo sem "man, vafurloga skýlt" o.fl.þ.h. er af tagi "fornrar sögu", sem nefnd er í þriðja erindi. Annað erindi gæti bent til Brynhildar á fjall­­inu í sögu Sig­urð­ar Fáfn­is­bana, en seglið í hinu fyrsta t.d. til Trist­ans­sögu. Báðar eru ást­arharmssögur, og inn í þann ramma fellur vel orðalag 3. síð­­­­ustu línu; "að búa þér sæng" bendir til ást­ar­fundar, en rauð sæng bendir til blóð­­­­ugs dauða. Til ann­ars­­konar dauða bendir næst­síð­asta lína, en seglið er á "tón­­­sæ", og 3. lína vísar þessum brot­um til heims list­ar­inn­ar. Nið­­urstaðan verð­­­ur þá sú, að hug­renn­inga­­tengsl ein séu þráð­ur­inn í þessu ljóði, en þau lúta að ást­arharmi og dauða í list. 3. erindi skil ég svo að það "viðlag" (æ end­­ur­tek­ið) sæki á nútíma­­fólk eins og á fyrri tíðar fólk. Bragurinn gerir ljóðið mjög kyrr­­­látt, stuttar línur sem hver er mál­fars­leg eining, næstum sjálf­stæð.



10.3. Jóhann Hjálmarsson


var aðeins sautján ára þegar hann sendi frá sér fyrstu ljóða­bók sína, og það var sterk bók, Aungull í tímann, 1956. Hún er þó ekki á okk­ar sviði, það er helst fjórða bókin, Mal­bik­uð hjörtu, 1961. Þar eru þó ekki mörg ljóð áber­andi módern, en surreal­­isminn einkennir þau. Skáldið nefnir þar sér­stak­­­lega til ljóða­­bálkinn "Hvirfilbyljir" í lok bókarinnar, en þetta er víðar (t.d. bls. 20 og 34):




Tannagnístran



Nátttröll erum við guði


sóleyjanna


hungurvofan leikur


fjólubláan efa kvöldsins




Samviska heimsins



Gól hundanna spyrnir óþægilega við eyrum. Stundum á morgnana þótti mér gott að vakna við hanagal. En nú er tíðin önnur. Leið­indi sækja á mig í skammdeginu. Ég labba hringinn í kringum sjálfan mig. Ég borða rjómaís í kjallaranum undir samvisku heimsins. Og sam­viska heimsins lætur mig algjörlega í friði.



Í fyrra ljóðinu eru ákvörðunarliðir sem rekast á nafnorðin sem þeir standa með. Það er skondið að kenna efa við kvöld sér­stak­lega, en hitt er alveg óskilj­an­­legt að kalla efann fjólubláan, þótt sá litur hæfi einmitt kvöld­inu. Þann­ig getur lesendum þótt sem þarna sé eðlilegt sam­­hengi undir niðri. Og svo fá­rán­legt sem það er að tak­marka guð við sól­­eyjar, þá er víst gam­al­kunn­ugt að segja fall­eg blóm vera vitnisburð um sköpun hans. Þessi blóm gera minnt á lilj­ur vall­arins, sem í alkunnri dæmisögu Jesú voru mönn­­um til fyr­ir­mynd­ar í því, að hafa ekki áhyggj­ur af morg­un­deg­­in­um. Andspænis þeim og skap­ar­an­um meg­um við (=les­­end­ur og skáld) virðast nátttröll. En síst er þessi túlk­un ótví­ræð, og ekki sýnist mér unnt gefa neitt svar við því, hversvegna hung­­ur­vof­an leik­ur efann.


Í "Samviska heimsins" ber mikið á stuttum aðalsetn­ing­um. Það er ein­kenni á mörg­um surrealískum ljóðum, en virðist til­fall­­andi frekar en eitt­hvert eðl­is­atriði. Þó má segja að þetta ljái ljóðunum yfirbragð full­yrð­inga um stað­reynd­ir, sem er í æpandi ósam­ræmi við það, að jafnan eru þær setn­­ingar mót­sagna­­kennd­­ar. Aftur verður þetta til að vekja tilfinningu fyrir dularfullu innra sam­hengi, einn­ig hitt, að allt ljóðið í gegn lýsir mælandi gerðum sínum og til­finn­ingum al­mennt. Nánar til­tekið er talað um hugtök eins og þau væru efn­is­kennd í næst­síð­ustu lín­unni, "í kjallaranum undir samvisku heimsins", einnig í þeirri síð­­ustu, svo torskilið sem það er hvernig heimurinn getur haft sam­visku. Í fyrstu setn­­ing­­unni er "spyrnir við" sett í stað "lætur í". Sameiginleg er ein­hver andstaða, en útkoman gengur ekki upp, það er ekki hægt að skilja hana sem líkingu. Mótsögn er í setningunni: "Ég labba hring­inn í kring­um sjálf­an mig", og minnir á Tímann og vatn­ið. Meginandstæður ljóðsins eru ann­arsvegar tíðindalítil tilvera mælanda, sem snýst um sjálfan sig, en þó sæk­ir hinsvegar á hann einhver óþægilegur grunur um stærra samhengi, sem er þrung­ið átökum.


Í eftirmála segir Jóhann um ljóðin m.a.:



Hvirfilbyljir. Ljóðaflokkurinn er hugsaður á þeytingi um Evrópu, en fest­ur á blað í Kaupmannahöfn í mars og apríl 1960. Auð­sær er skyldleiki bálks­ins við surrealíska ljóðagerð. Sumir kafl­arnir eru beinn surrealismi, aðrir geta varla talist surreal­ískir. Á þessu tíma­bili og reyndar enn hreifst höf. mjög af verkum surreal­ista, ekki síður mál­ara en skálda.



Þetta eru tíu prósaljóð, flest stutt, titillaus en tölusett. Stund­um er mót­sögn­­in ein­fald­lega milli þess sem um er talað og hvernig talað er um það, svo sem í 7., þar sem segir frá yfir­nátt­­úrulegum verum, guðlegum, sem skyndi­lega verða mann­­legar og farast. Frá þessu segir mælandi með kald­hæðn­islegu kæru­­­leysi. Í t.d. 3. er surrealisminn greinilegur (bls.46):



Dauðinn kemur til okkar gegnum nálaraugað. Alls staðar er dauð­inn. Á borðinu. Í grænum augum sem ég elska. Dauðinn er eins og haf­ið. Ég ræ yfir hafið. Árarnar hreyfast án þess ég snerti við þeim. Mig ber að landi. Dauðinn kveikir blys í fjör­unni. Hendur leiða mig. Ég sé ekk­ert andlit. Dyr hússins eru opnar. Tíu fingur leika á hörpu. Blá tungl halda vörð. Lífið er eins og söngur rauð­sprett­unnar í djúp­inu. Dauðinn kem­ur til okkar gegnum nál­ar­augað.



Þetta ljóð einkennist af ósýnilegri nærveru. Mælanda er róið yfir hafið af ótil­teknum aðilja; eftir að kemur í land er hann leiddur að húsi, leikið er á hörpu. En enginn sést. Talað er eins og persónur séu á ferð, sem standa á verði og kveikja blys, en í stað persóna kem­ur dauðinn og blá tungl. Setn­ingin í upp­hafi og lok er tekin úr alkunnu fjar­stæðu­tali Jesú, að fyrr kæmist úlf­aldi í gegn­um nálarauga en ríkur maður í himnaríki. Hér ríkja mótsagnir og fjar­stæður, af þeirra tagi er "söngur rauð­sprett­unn­ar"


Á þessum tíma komu fram ýmsir nýj­­­unga­menn sem ekki eru mód­ern­istar, svo sem Dagur Sig­urðarson, einnig skáld sem eru undir miklum áhrif­um frá mód­­ern­­isma, enda þótt ljóð þeirra verði ekki bein­línis talin til hans. Þar vil ég nefna til Matthías Johannessen, eink­um Hólmgönguljóð frá 1960. Sá ljóða­­bálk­ur fer vítt og breitt í tíma og rúmi, og iðulega eru þar tengd­ar miklar and­stæð­ur. En þetta er ekki órætt verk, né í raun sundrað, það birtir bara hug­ar­heim menntaðs samtímamanns, líkt og á annan hátt Sálmar á atóm­öld og fleiri verk sama skálds.



10.4. Baldur Óskarsson


sendi frá sér smásagnasafn 1960 og skáld­sögu 1963. Þetta voru þreif­ing­ar, en skáldgáfa hans naut sín vel þegar með fyrstu ljóðabók hans, Svefn­eyj­ar, 1966. Ljóðabækurnar eru orðn­ar sjö þegar þetta er skrifað, og verður hér að­eins gripið á nokkr­um atrið­­um. Módern­isminn er yfirgnæfandi í fyrstu bók­inni, en ekki ein­­ráður. Bókin hefst á knöppum myndrænum ljóðum, sem eru al­veg í skilj­­an­­legu samhengi. Einn­ig bregður fyrir pólitískum ljóðum, "Berg­mál" (um Víetnam­stríð­ið), "Fótspor í Buchenwald" og "Evrópa", en í því síð­ast­­talda bland­ast saman forn­grísk goðsögn, saga ný­lendu­­stefn­unn­ar og mynd­ir kvenna á ýmsum aldri og menn­ingarstigum, allt frá veiði­­­­manna­sam­­félag­inu til nú­tím­ans. Og það er aðferð sem Baldur beitir oft, að tengja sam­­an mikl­ar andstæður í knöppum ljóðum. Við lítum á fáein dæmi úr fyrstu bók­inni og úr þeirri sjöundu.


Ljóðið "Sólgildra lokast" lýsir dagrenningu með ljósri þoku (3. l.) og dögg­­­­falli (3.erindi) með því að blanda saman þess­um lík­ingum: 1) Hlynnt er að særðum manni á sjúkrabeði. 2) Múr­brjót­ur (ljóssins) rýfur vegg (myrk­urs­ins), í rústum þess er kveikt (af deginum). 3) Moldin er persónu­­gerð, hún hlust­ar, þrútnar og tárast. 4) hönd seil­­ist eftir hurð (?). 5) Kok dregst saman og barki hreyfist, en er það persónu­­gerð mold­in sem kyngir, eða tengist þetta 1? 6) gildra lokast, þegar sól­­skin­ið fyllir dal­­inn og roðar hyl­ sem hvítir fiskar eru í.


Hér eru mikil umskipti frá myrkri til ljóss gerð skynjanleg með drama­tísk­­um mynd­um úr stríði (2) og aðhlynningu særðra (1), í stíl við það eru "rauð­­ar skúr­ir", orðalag fornkvæða um blóðs­út­hell­ing­ar, en það orða­sam­band hæfir jafn­­framt morg­un­roð­anum myndrænt. Stríðs­mynd­un­um fylgir enn­­fremur grát­ur (3) og að persónu­gerður geig­ur vakir, fölur. En það er tor­velt að grípa þessa einkennilegu mynd af "særðum" dal, sem eitt lamb fer um, kann­­ar sár í hjarta hans og sker himnur! Ljóðið gengur ekki upp sem heild­ar­mynd, bæði vegna múrbrotanna, en einnig er gildran framandi í þessu. Þetta mætti e.t.v. kalla nykrað, en fyrir bragðið miðlar ljóðið þeim mun yfir­gengi­­legri skynjun (Svefneyjar, bls. 8-9):



SÓLGILDRA LOKAST



Myrkur svalt


af nárum jarðar þvær


óttan,


leggur yfir hvíta grisju.



Mold þín hlustar,


hlustar. -


Lamb


með sárakanna gegnum hjartað fer.



Múrbrjótur ljóssins rýfur dimman vegg,


dagurinn leggur eld í gneypar rústir.



Og moldin þrútnar,


tárast.


Vakir enn


geigur?


Hann vakir fölur bakvið þil.


Nú seilist hönd um dal


og nemur við


lindarauga,


hurðir sveifast,


falla


rauðar skúrir,


lambið himnur sker


og veggir þokast


sundur.


kokið dregst


saman,


barkinn liðast. -


Áfram, nær!



Sólgildran lokast.


Hvítir fiskar falla


í roðahyl.



Nokkur ljóðanna í Svefneyjum eru enn róttækari módernismi en þetta. Þar vil ég nefna "Kveðja" og "Kirkjan II, III og V. og "Á strönd­inni". Hér birt­ast runur stuttra aðal­setn­­inga, fullyrðinga, eins og áður hefur verið fjallað um hjá t.d. Jóhanni Hjálm­­arssyni. En þær falla ekki saman merk­ing­arlega, og inn­an þeirra tengjast orð sem eru ósam­rýn­an­leg. Í síðastnefnda ljóð­inu eiga efn­iskenndir hlutir (eir og gifs) að styrkja til­finn­ingar, og líkami ber árangur í gras­­inu, þótt engu verði áorkað, en eðlur eiga að skýra sam­­heng­­ið! Og svo ólík­­legar sem þær eru til þess, þá batnar það ekki við ákvörð­unarlið, sem virð­­ist út í hött; starblindar.


Stíllinn er einkar athyglisverður hér, þetta er upphafið ritmál sem stend­ur í and­­­stöðu við tilfinningatalið. Þetta minnir mikið á kunn surrealísk skáld, eink­­um André Breton. Sama verður að segja um upphrópanir og æs­ing, sem ekki sést tilefni til í ljóð­­inu (Gjaldþrota sjálf!). Allt er þetta á sömu bókina lært, ljóð­ið er net and­stæðna og sundurleysis, en virðist þó allt af einu efni; ásta­­­­mála (bls.18):



Á STRÖNDINNI



Ást þín verður hvorki bætt með eir né hatrið með gipsi þótt hvorugt reynd­­ust harðir kostir. Líkami þinn ber árangur í grasinu. Hér verður engu áorkað. Starblindar eðlur munu rísa úr sandinum og skýra það á sín­um tíma.


(Hún segir: þér hefur tekist að varpa kvölinni fyrir borð.)


Ég vildi gefa minningar um ást - jafnvel þær mundi ég gefa - fyrir and­­­ar­takshlutdeild í sársauka þínum. Gjaldþrota sjálf!


Farðu til rekkjunautar þíns og segðu að þú hafir reikað um stund í kvöld­svalanum og rifjað upp fyrstu kynni ykkar, - þá skaltu vefja hann örmum og kæfa grun þinn í munnvatni hans.



Í næstu bókum Baldurs, Krossgötum 1970, og Gesta­stofu 1973 ber ekki á módernisma. Í staðinn koma ný­gerv­ingar og enn auðskildari ljóð, en frum­­leg eru þau og ein­kenni­­leg, sum hver.


Módernisminn birtist aftur síðar í ljóðum Baldurs, m.a í nýlegri bók, Dögg­skál í höndum. Þar er m.a. ljóð með tón­skáldi, þar sem byggt er á alkunnri lík­ingu um tónlist:



Hvað sagði Brahms?



Stattu mér nær


Ég, hafmaður í kjólfötum, stillir öldunnar, skipa


Auðmýkt



en er vindsvalir tónar hörpunnar ýfa hafflötinn


tekur undir í djúpinu



Heyrðir þú kufungsþeytarann?


- Nei -


Hjarta



til þess eins


að skíni tunglið inn



Musterið hvíta


klettaeyja


alda


Og jötnar jötnar stíga að hafi niður



Það virðist svo sem hljómsveitarstjórnandi tali, hann er klædd­ur kjól­­föt­um, skipar fyrir og stillir saman hljómana - eftir fyr­ir­­­sögn, þ.e. nótum Brahms. Laglína sem flutt er af einu hljóð­færi endurómar í allri hljóm­sveit­inni, eins og vænta má í hljóm­sveit­­ar­verk­um. Les­end­ur geta skynjað hljóm­list­­ina, m.a. í þess­um línum, þar sem þríliðir skipt­ast á við tvíliði og kalla á hæg­an lest­ur svo hljómur orðanna nýtur sín: "en er vind­sval­ir tónar hörp­unn­ar ýfa haf­­flötinn/ tekur undir í djúpinu"


Þetta hljómlistartal er í fyrrihluta ljóðsins, og saman við það bland­ast hug­­renn­­­­ing­ar um hafið, enda er oft talað um hljómlist með líkingum við haf­ið; öldu­­­­gang, brim, þunga undiröldu, o.s.frv. Hér stillir haf­maður ölduna, sval­ur vind­­ur ýfir haf­flöt­inn, og þá tekur undir í djúpinu. Sam­eiginlegt báð­um þess­um sviðum, hljómlist og haf­inu, er maður sem þeytir kufung eins og lúð­ur. Hann er kunnur af fornum myndum, grísk­um og rómverskum, svo nú er­um við jafnframt komin aftur í goð­sagna­for­tíð við Mið­jarðarhafið. Því fylg­ir hvítt must­­eri á klettaeyju, jötnar ganga að hafinu. Það fer varla á milli mála að komið er inn í heim Odyss­seifs­kviðu. Aftur er talað til þess sem var ávarp­­aður í fyrstu línu. Þá var hann eða hún beðin um nærveru, um að skynja með mæl­­and­a þessa feg­urð og menn­ingararfleifð frá Hómer til Brahms. En þessi önn­ur persóna heyrir ekki kuf­ungsþeytarann, skynjar þetta ekki, hjarta henn­ar er þá ekki sæti til­finninga heldur eyðilegt, tómt musteri, hvítt í tungl­skin­­inu. - Þessi túlk­­un mín er síður en svo ótvíræð, en sýnir væntanlega, að það eru í mesta lagi hugrenningatengsl sem mynda þráð ljóðsins.


Í þessari sömu bók, Döggskál í höndum, er m.a. annað sér­kenni­­legt ljóð, "Maximilian E". Skáldið sagði mér að þar ætti hann við surreal­íska mál­ar­ann Max Ernst. Röklegt samhengi er hér ekki, enda er sagt að vitund tal­and­ans sofi. Það birtist m.a. í hvernig hann lýsir hreyf­­ing­­um náttúruaflanna, sem eiga að slaga líkt og drukk­n­ir menn, en einnig birtist þetta í samskynjun, rugl­ingi skiln­­­­ing­ar­vita, talandinn heyrir lit. En þeim sam­runa samsvarar ann­ar í nátt­úr­unni, regnið er brúðkaup himins og jarð­ar, og regn­ið getur svo sann­arlega bæði verið dynjandi og blátt. Er það þessvegna sem mælandi segist sjá einsog guð­inn Janus, sem hafði tvö andlit, sem horfðu hvort í sína átt? Þess­ari sam­runa­­skynj­un hand­­an við rök­hugsun samsvarar það, að í stað rök­­legs sam­heng­is eru það hug­renn­inga­­tengsl, hrynj­andi og hljómur (m.a. rím), sem tengja setn­ingar ljóðsins saman, ráða ferð­­inni. Til dæm­is virðist rím­ið eitt ráða tengsl­um nafns talandans við orðið "speg­­il­tré", sem ég hefi aldrei séð fyrr né síðar (bls. 28):



Maximilian E



Ég leysti mig úr steini


við ljóma af spegiltré


ég heyrði litinn bláa.



Bí bí og blaka


vitund sofa gengin. -


Hvað heyrði ég annars


boðsetumaður


í brullaupi himins og jarðar


ég


Maximilian E



dynblátt regn?



Spegiltré, mér líður í brjóst


hófaspil hljóðnar í flugi



það gula opnast.


Eins og kynlegt blóm það gula.


Ég horfi eins og Janus, guðinn Janus.


Vindar og straumar slaga, spegiltré.



Talandinn hefur leyst sig úr steini, og það mun tákna að leysa sig úr stirðn­­un, líf­­­leysi, sem er andstætt ljóma trésins. En hvað er þetta spegil­tré? Það virðist vera lif­andi tré, sem ber spegla í stað ávaxta, það er þá vænt­anlega eitt­hvert skiln­ingstré, sem ger­ir mönnum kleyft að þekkja sjálfa sig (sjá sig). Eft­ir tilvitn­un í barna­legt vöggu­ljóð kemur hátíð­legt orða­lag um að vitund tal­anda sé geng­in til svefns, og þá hljóðnar hófa­­­tak á flugi, sem merkir líklega að skáld­skap­ur hljóðni, því fljúgandi hest­urinn Pega­sus er hefðbundið tákn hans.


Í ljóðinu er fyrst blár litur himins og regns, en snýst síðan yfir í gulan lit sól­ar, blóms og ljóma. Talandinn horfir í tvær áttir í senn (Janus), og nú opn­ast honum sýn inn í kjarna hlutanna, hann sér inn í litinn.


Sum ljóða Baldurs eru mjög stutt, og á vissan hátt einföld, en rúma þó mikl­ar and­­stæður eða eitthvað órætt sem á líkan hátt höfðar til ímyndunarafls les­enda. Ein­stakir hlutar þeirra raðast saman, ekki eftir rökhugsun, heldur heild­arsamræmi eins og í tón­verki eða málverki, og þar er einkum höfðað til form­skynjunar les­enda á hljóm orð­­­anna og myndir, hversdagslegt umhverfi er skynjað á sérstæðan hátt. Tiltölulega ein­­­falt dæmi er hér á eftir; tilsýndar minn­ir bátur á siglingu á andlit, form báts­skrokks­­­ins er eins og á þykkri neðri­vör, seglin eru hvít, þá má nota orðið tannhvít um þau til að styrkja lík­ing­una, rökkv­aður himinninn minnir á dökkt hár, augun eru í skugga. En lík­ing af öðru tagi kemur inn í myndina, siglutréð er eins og ör sem vísar upp (bls. 37):



Innsigling



Bátur eins og blóðrík vör


tannhvít segl og vísar ör


augnskær í kvíar nætur



brúsir húmlóin yfir



10.5. Megas


Magnús Þór Jónsson (f. 1945) birti fyrst ljóð sín undir dulnefninu Megas í fjöl­rit­uðum heftum. Úrval þeirra er fyrsti hluti kvæða­safns hans Textar, 1968-71. Það ljóðasafn nær í heild yfir aldar­fjórð­ung, og hefur þá sérstöðu, að aðr­ir textar birt­ust fyrst á hljóm­leikum eða plötum, allt eru þetta söngvar. Því ríkja þar hefð­bundnir bragarhættir af ýmsum toga, reglubundin hrynj­andi, rím og stuðlar. Í kvæðum Megasar ber mest á ádeilu, en hún var um­fram allt háð og útúr­snún­ingar, einnig í stíl, mark­vissar skop­stæl­ingar hafa jafn­an verið hans sérkenni. Megas hefur frá fyrstu tíð verið gegnsósa af íslensk­um menn­ing­ararfi, haft mikinn orða­forða og beitt honum markvisst, not­­að sér hrynj­andi og rím til að draga fáránleikann fram, einkar fundvís á allt falskt og upp­­skrúf­að í téð­um arfi. Hér fer mikið fyrir menn­ing­ar­arfi skóla­kerf­­is­ins. Ís­lend­inga­sög­ur­nar, Hallgrímur Pét­urs­son, Jónas Hallgrímsson og Jón Sig­urðs­­son eru t.d. sí­ná­lægir, einnig Nýja testamentið. En jafnan tengist þetta ein­hverju úr sam­tíma höf­undar. Í því birtist háðið og samfélagsádeilan, að þetta sam­tímalega er oft lágkúrulegt, einkanlega fyrir neðan mitti. Lesend­um eða hlust­­endum er ögrað með sóðalegu klámi, sem einkum ber á í elstu textunum: "þú ert eitthvað óþrif­legt með gati /og ekkert meir","þú ert eitt­hvað ógeðslegt með gati /og ekkert meir" (bls. 17-18). Eftirfarandi dæmi eru ann­ars af fyrstu plöt­unni (1972). Klám­ið er oft tengt við guð­fræðilegar persónur og þannig enn hert á ögrunum með guðlasti. Meira máli fyrir okkar við­fangs­efni skiptir þó hitt, hve skyndileg skil verða í textanum og óvænt tengsl sund­ur­leitra hluta (bls. 52-3):



En á laugardögum þegar Kristur klæmist


vita konur á barnsfeðrum sínum pottþétt skil


og Silli og Valdi þeir segjast hafa legið


sæla Maríu áður en guð kom til


en guð býr í garðslöngunni amma


æ geymdu handa mér meyjarblómið amma.



Lokalínurnar tvær eru stef, með stuðlun er guð ýmist látinn búa í galeiðu, geng­­ishruni eða gúmmíi, en allt er þetta út í hött. Þetta megin­ein­kenni kvæð­anna, háðsk stílrof, minnir m.a. á kvæði Halldórs Laxness. Dæmi þess af öðru tagi má sjá t.d. í "Silfur Egils", þar sem rifjuð er upp frásögn úr Egils sögu Skalla­­gríms­sonar, er Egill ætlaði að gleðja sig við það í ellinni að sáldra silfri sínu yfir þingheim, til að koma af stað bardögum (bls.47):



Og Egill svarar: þú sérð það við Lögberg


og svo steig hann uppá bakið á köflóttum hesti


en á alþingi sátu þeir Silli og Valdi


þeir sögðu frá klækjum sínum og rifu í sig nesti



Í íslensku er orðaforðinn sérhæfður, kýr er skjöldótt, en hestur skjóttur, nema hvað hér er hann köflóttur, til að stinga í stúf við það sem vænta mátti. Á sama hátt koma fremstu kaupa­héðnar sam­tímans í stað viðsjálla við­semj­enda á Alþingi forðum. Þegar enn meir er hnykkt á við­líka andstæðum, má tala um surrealisma. En hann kemur einkum fyrir framanaf ferli Megasar. Þá er kvæði kannski nokk­urn veginn samhangandi texti, en svo koma innskot sem verður ekki með nokkru móti komið í samhengi við hitt, t.d. (bls. 56):



Konur fyrri alda impra á sannindum


og ylja um hjartarætur í gegnum símann


5678 mannvinum


og svarta górillan hefur ákveðið tímann



†msar bollaleggingar hafa verið um þýðingu tölunnar og svörtu górill­unn­ar, en hvort tveggja hefur að mínum skilningi fyrst og fremst það hlutverk að vera út í hött. Fleiri dæmi mætti finna af líku tagi, t.d. í ljóðinu "Um ástir og örlög Eyjólfs bónda I: heiman". Það er að mestu leyti bein frásögn af því að ágjarn bóndi eltist við sækýr og ein­hyrn­ing, en inn í þá frásögn er skotið erindi sem er í senn hlaðið spennu og óskiljanlegt (bls. 61):



Dagur er risinn rauðir draumar bláir


riða til falls fyrir gný hins hraðfleyga hana


mál er að linni óræðum ógnum sólar


sem áttvilltum vindum fláræður beiskan bana



Kvæðinu lýkur svo á því að Óðinn fagnar bónda, væntanlega í Valhöll, en í síðasta erindi segir:



Kvöldar haustar dagar dimmra nátta


dúsir í fagnaðarhlekkjum dýflissuglaum


Óðinn bóndi og bíður lúðurhljómsins


Biblíufélagið gefur honum gaum



Hér ríkir ekki röklegt samhengi, t.d. er Óðinn skýringalaust runninn sam­an við bóndann. Í staðinn ráða hugrenningatengsl. Lúð­urhljómurinn lýtur að kristn­­um hugmyndum um heimsendi, það tengist Óðni og Biblíufélaginu þann­­ig, að allt er þetta á sviði trúmála. Í fyrra erindinu er gnýr hana tákn morg­­­uns, einnig kann þetta að minna á "Ferhendur tjaldarans" eftir Omar Khayam: "En tíminn, hann er fugl sem flýgur hratt", sól og vindur eru enn á sama himnasviði, en vandséð hverjar ógnir sólar geti verið á hinu norðlaga Íslandi. En þessi tengsl eru og verða óræð, það er girt fyrir að les­end­ur geti feng­­ið botn í þetta. Allt verður þetta til að ögra lesendum ekki síður en klám, guð­last og skop­stælingar á menn­ingarverðmætum. Þannig er geng­ið fram af skiln­­ingi lesenda, örvað ímyndunarafl þeirra, þetta virðist vísa til víðari heild­ar en hvers­dagshugsun nær til.



10.6. Kristján Karlsson


byrjaði seint að yrkja, fyrsta ljóða­­bók hans birtist 1976, þegar hann var hálf­­­sextugur. En fimmtán árum síðar eru þær orðn­ar sex, auk smá­sagna­safns, og allt hefur þetta vakið mikla að­­dá­un, einkum ljóðabálkurinn New York. Einna ræki­leg­ust umfjöllun um ljóð Kristjáns er í ritdómi Bernard Scudder um Kvæði 84. Þar segir m.a. (bls. 312-14):



Segja má að sú tilhneiging sem Kristján sýnir hér hafi leynst í kveð­­­skap hans frá upphafi. Í fyrstu bók sinni orti hann oft undir sterk­um áhrif­um frá þeirri hefð sem Halldór Laxness var einn helsti fulltrúi fyrir í íslenskri ljóða­­gerð, spann heil kvæði upp úr til­brigðum við ákveð­in setn­­ing­ar­fræði­leg stef, hafði víxl á hljóm­um og merkingu orða, hugsun og orðalagi. Af­rakst­­ur­inn varð kveð­skapur eins og sá sem hér fer á eftir, þar sem beinn boð­­skapur eða heimspeki víkur fyrir til­þrifum og tjáningar­nautn hag­­yrð­ings­ins:



Ef ljóðið er opnað,


mun þess skammt að bíða


að borgin þín stækki


mín elskaða Fríða.



Já ég kalla þig Stínu,


en þú heitir Fríða


og ert bóndi í Kjós.


Var sólskin og blíða?



Ertu í alvöru úr Kjós


og heitirðu Stína?


Rím jú víst er það rím


og eins konar lína.


(Hringrásir, 1976)


Til gamans mætti bera þetta brot saman við eftirfarandi úr Guðríði á vori:



Ég skoða orð mitt eins og nýtt


í opnum lófa og fleygi inn



í kvæðið: engin eftirköst


í opnu kvæði fyrir mig



ég leik að orðum eins og föst


og óbreytt veröld tilgangslaust ...



...Hvert vor er eilíft allt er hér


og allt sem hér er verður nýtt.



En borg sem lifnar hægt og hægt


í hendi manns og eyðist hægt?


(XII, XIV)



Frá sjónarhóli tækninnar sýna þessi dæmi sem átta ár skilja að, að hér eru í rauninni mjög svipuð fyrirbæri á ferðinni. Það sem á milli þeirra grein­ir er fyrst og fremst tónninn, ímynd skáldsins sjálfs og útfærsla á hinum óhlut­bundna boð­skap ljóðsins. Áður voru orðin val­in að heita má í trássi við merk­­­ingu þeirra, en nú eru þau eins og for­send­ur sem nákvæm rök­færsla bygg­ist á; hin æðri, óáþreif­anlega merk­ing stiklar áfram með hverju blæ­brigði sem orðin taka á sig. Fyrstu kvæðin léku sér frjálst, fóru koll­hnís, voru gáskafull og hug­fim; nú er hver einasta hreyf­ing þeirra djúp­hugsað lát­bragð, skáldið stjórn­ar og ekki öfugt. Þar sem íslenskur lesandi fann áður anda Lax­ness svífa sposkan yfir vötnunum, verður ekki annað séð en að kom­inn sé svipur í ætt við hina spekingslegu hálf-sjálfsmynd Steins Stein­ars úr Tímanum og vatn­inu.



Þetta er góð lýsing, sem ég hefi litlu við að bæta. Ég vil aðeins árétta, að þótt hin gáskafullu kvæði minni vissulega á skop­stælingar Halldórs, svo sem "Al­þíng­iskantötu", þá er í hvor­ug­um neinn módern­ismi. Þessi kvæði Kristj­áns minna mikið á ensk "nonsense" -ljóð, þ.e. leikur að rími og hrynjandi, sem leiðir til óvæntra brandara. En eins og sjá má á dæmunum hér að framan, þá er ekkert órætt í þessu. Og sam­an­burð­urinn við Tím­ann og vatnið lýtur ein­mitt að sjálfsmynd mæl­­anda, en ekki að framsetningu. Hún er stundum brota­kennd hjá Kristj­áni, en ekki órök­leg né mótsagnakennd. Bálkurinn New York er vissu­lega einskonar mósaík, heild­armynd sett saman úr skörpum mynd­­ein­ingum, þar sem einstök kvæði eru. En sú heildarmynd verður ekki frek­­ar módernismi fyrir bragðið, en t.d. "Annes og eyjar" eftir Jónas Hall­gríms­­son eða Þorpið eftir Jón úr Vör. En ég held því ekki fram, að Kristjáni sé fyrirmunað að yrkja módernt, það sýnist mér hann gera í a.m.k. einu ljóði í Kvæði 90.


Þar reynir skáldið að sjá fyrir sér milljarð manns. Það er ekki að ástæðu­­lausu, þetta er væntanleg mannfjölgun í heiminum inn­an til­tek­ins ára­fjölda. Nær­tækt dæmi tölunnar eru þá regn­drop­ar­nir, sem mæl­andi sér falla yfir Ell­iða­vog, en far þeirra á sjáv­ar­­flet­­inum minnir hann þegar á hófspor, enda sér hann tvo hesta hand­an vogar. Nú er það dæmigert fyrir Kristján, að hann orð­ar það ekki eins og ég gerði það nú, eða með ámóta útskýringum, heldur þjapp­ar þessu saman í orðasambandið: "dropóttir hest­ar", sem vísar þá bæði til regn­drop­anna og lit­arfars hest­anna í nesinu. Smám sam­an leiðir þetta svo yf­ir í allt annað, nú er lands­lag­ið skoðað sem mynd fyrst og fremst, og hest­ar­nir standa þá á nesinu af fagurfræðilegum ástæðum - eða til að vinna bug á ein­­mana­leik­a­­kennd­­inni sem myndin vekur, og minnir þar með á vissa tón­list! Eng­­in skil eru milli þessa og næsta atriðis, sem virðist tengj­ast því, enda þótt það virð­ist alveg óskylt: bil milli opinna dyra. En það er aftur kul undir regn­inu, o.s.frv., nú spinnast endur­tekn­­­ingar í þessum óljósu hug­renn­inga­tengsl­um, svo út­kom­an verð­­ur und­arleg heildarmynd atriða sem virðast tengd á ein­hvern óskilj­­­­an­leg­an hátt.



Undir regn á vori



Tilhugsunin um milljarð í líki mann-


fjölgunar dropóttir hestar sem koma


hvergi við ský ég hef rétt í þessu séð



2


hvít hófspor þeirra á Elliðavoginum;


snöggir roðablettir sumars á stærð


við 2 dropótta hesta í næsta nesi



3


kunna að vera leiðrétting á of skýru


landslagi eða einmana eins og undir-


spili án söngs bil milli opinna dyra



4


er kulið undir regn sem hverfur millj


arðar hófa, söngur án undirleiks austur heiði:


smá börn lyfta þungum blöðum til himins.



Hér koma nokkur skil í efninu. Því ég fæ ekki betur séð en mód­ern­ismi hverfi um hríð úr íslenskri ljóða­gerð uppúr 1970. Eins og hér hefur komið fram, áttu ekki mörg skáld hlut að máli, og þau þeirra sem halda áfram að yrkja, fara út á aðrar braut­ir, a.m.k. um sinn. T.d. fór Hannes Sigfússson æ meir að yrkja skor­­inorð pólit­ísk ljóð, og það varð tíska hjá þeim skáldum sem nú komu fram. Á áttunda ára­tugnum bætast því ekki skáld í hóp módernista. Þessi hvörf eru þó ekki alltaf til að boða vinstri stjórn­mála­við­horf. Jóhann Hjálm­­arsson hef­ur verið talinn á hin­um kantinum stjórn­málalega, þótt lítt sjái þess stað í ljóð­um hans. En hann fer nú um miðjan 8. ára­­tug­inn að fylgja ýms­­­um nor­ræn­um skáldum í því að yrkja "opin ljóð". Þar segir frá hvers­dags­­­leg­ustu at­burð­um og ástandi á sem hvers­dags­leg­ustu máli. Sam­þjöpp­un­in ein rétt­lætir að kalla þetta ljóð. Annað Morg­unblaðsskáld, Matthías Johann­ess­en, er stund­um á nálægum miðum, einnig Jón úr Vör, enda er þessi stefna í nokkru fram­haldi af Þorpinu hans, og fleiri skáld mætti hér telja.



10.7. Ljóð á níunda áratug 20. aldar


Árlega birtast yfir fimmtíu ljóðabækur og -kver á Íslandi. Flest eru gefin út af skáldunum sjálfum, í afar litlu upplagi, 150-300 eintökum. Skáldin selja þetta oft sjálf, fæst hafa hugsun á að senda þetta á blöðin til ritdæmingar, enn færri að senda Landsbókasafni þau fjögur skyldueintök sem nægðu til að kom­ast á skrár. Ég veit ekki hvort nokkur maður hefur yfirsýn yfir þetta allt, ekki hefi ég hana, enda þótt ég hafi verið vel settur til að fylgjast með, rit­dóm­ari á einu dagblaðinu síðan 1984, og hefi einkum fjallað um íslenskan skáld­skap, sér­staklega ljóð. Hér er aðeins gripið niður í módernum ljóðum þessara síð­­­ast­liðnu ára, fáein dæmi þess sem hefur vakið athygli mína hjá fjórum skáld­um, til að fá nokkurn samanburð við það sem hér er áður komið.


Í lok 8. áratugsins fór lítill hópur í framhaldsskóla að starfa að surr­eal­isma. Þar skal einkum telja þá Sjón, Jóham­ar, Ólaf Eng­il­berts­son, Þór Eldon, Ein­ar Melax og Matthías Magnússon. Sjón hefur sagt frá því í viðtali að þetta hafi hafist með lestri á íslenskum módernistum (sjá grein mína um þennan hóp 1985 A), en hópurinn varð afkastamikill und­ir nafninu Medúsa. Hér verður hug­­­að að verkum tveggja þeirra, hins fyrstnefnda og hins síðasttalda.


Sjón hefur sent frá sér ljóðakver frá því að hann var fimmtán ára. átta bæk­ur eða kver 1986. Þeim var svo safnað í ljóðasafn, Drengurinn með rönt­­genaugun. Fjórar síðustu ljóða­bækur eru þar í heild, en úr hinum fyrstu er valið, auk þess eru þar ljóð sem áður höfðu bara birst í blöðum og tíma­ritum.


Við lítum fyrst á ljóð úr Reiðhjóli blinda mannsins, sem birtist 1982:



Fuglakonan



Hún stendur í dyrunum og heldur búrinu hátt


einsog ljóskeri eða bók um skotvopn



Í hárinu stirnir á gullfiska og flöskubrot


fiðrildi situr á öðru brjóstinu


á lærin er skrifað: Túnglið er beiskt



Hún opnar munninn og út skríður fiðraður humar


og það er nótt og tólg er brædd í kerti



Þetta er aðgengilegt fljótt á litið, bara mynd konu. En það er athyglisvert, að henni er ekkert lýst eftir venjulegum leiðum, við fáum ekkert að vita um hrafn­­svart hár eða ljósa lokka, föla vanga, rauðar varir, hvelfdan barm, nettan fót, né aðrar staðlaðar einingar í kvenlýsingum. Lýsingin er þó á vissan hátt losta­­kennd, athyglin beinist að hári, munni, brjóstum og lærum, en allt vekur persónulegar, sérkenni­­legar hugsanir. Sumt er tengt hefðbundnum táknum feg­urð­ar; fiðrildi, gullfiskar, tungl. En inn í það blandast blik af því sem sann­ar­lega getur verið fagurt, en er flestum ógeðfellt, flöskubrot. Svo kemur rutl á skiln­ingarvitin, svo sem Rimbaud boðaði; tunglið höfðar ekki til sjónar, held­ur bragð­skyns, og tal kon­­unnar heyrist ekki heldur sést, sem mótsagna­kennd furðu­skepna. Ljóðið er kyrrlát upptalning, varla nokkur hreyfing. Sam­an skapa þessir mis­munandi þættir mynd sem er í senn skörp og draum­kennd.


OH! birtist 1985. Þetta kver er ellefu mislangir textar, sem gerast hver um sig á mis­mun­andi stað, hrynjandi þeirra og gerð er breytileg. Sumir text­anna eru bein, út­úr­dúra­laus frásögn, en oftar er samhengið óröklegt, stokkið frá einu til ann­ars, eins og í draumi. Síðasti textinn skýrir þetta með eins­kon­ar stefnu­­skrá surreal­ismans: "Hægra augað. Vakandi. Sjáandi. Vinstra augað dreym­­ir. Og bæði sjáandi. Andlitið á vélarhlífinni. Blint." Til að hafa fulla sjón þarf semsé að samþætta draumskynjun við vökuhugsun. Kverið er ekki safn sjálf­­stæðra ljóða, heldur er greinilegur söguþráður í því frá upphafi til end­is. Mælandi er á ferð. Á fyrstu síðu vaknar hann af frygðar- og átaka­draumi í her­bergi sínu, borðar morgunmat. Hann gengur síðan út úr húsinu, um torg og götur, sest á bekk, fer stíg "að húsinu þínu", síðan út um glugga, enn um götur, "í nýtt hús", "Í vatninu á ný" (10.texti er allur á kafi í sjónum, en þar er mælandi fyrsta sinni), og les­endur skilj­ast við hann á gangstéttinni. Auk tal­andans er "hún" og "þú", kannski sama persónan, aðrar eru í mikilli fjar­lægð. Í heild eru text­arnir fram­hald af drauminum, átök og losti. Stef eru end­ur­tekin með tilbrigðum frá ein­um texta til annars, t.d.: 1."Myrkur sem ekki er hægt að skrifa nóg um.", 4."Myrkur sem ekki er hægt að snúa aftur til.", 10. "Myrk­ur sem ekki er hægt að."


Það er einkum í fyrstu og síðustu textunum sem miklar lykkjur koma á sögu­­­þráð­inn. Talandinn sker egg í 1. texta, umhverfis torgið í 2. eru her­manna­tjöld, úr þeim koma risavaxnar hendur sem ætla að skera hann sem egg væri, og 3.texti hefst þessvegna á: "Blóð. Úr enninu rennur bragðvont blóð." Þar heyrir hann urrað að sér: "Áskorun um að lagast. Aðlagast ýlfrinu. Úlfur að. Þófarnir. Klærnar á hellulögðum stígnum að húsinu þínu." Þessi tilvitnun ætti að sýna hvernig framvindan er í text­anum, frá orði til orðs, með því með­al annars að í honum eru slitnar lík­ing­ar teknar bókstaflega. Hér t.d. "tann­hjól­ið" sem ýmist er tengt við tennur eða bílhjól: "Ég er með gangverkið um­flot­ið. Tannhjólið. Glefsandi. Tann­hjól­för­in á enninu." Undir því samhengi sem aug­ljósast er á yfir­borð­inu, glittir því í annað samhengi, hér ógn­­væn­legt, en oftar losta­fullt. Og það sam­hengi verður svo ein­rátt í 6-8. texta. Jafnframt hverfa þar allir útúrdúrar, en í rauninni ríkir sama aðferð og áður: óbein tengsl, hliðstæður. Mælandi starir á dökkan þríhyrning skós síns og fitlar við hann niðri á götu, en á annarri hæð fyrir ofan afklæðist kona og leikur allar hreyf­ingarnar eftir við sinn dökka þríhyrning, og má kalla þetta hlið­stæðu­sam­farir, galdur. Þó er eins og raunverulegur samruni eigi sér stað í hita leiks­ins, mæl­­andi fer að eiga við konuna, en hún við skóinn: "Ég leita að vör­un­um. Opna þær. Varlega. Hún. Snertir svart leðrið með vísifingri." Eftir þessa frásögn brenglast söguþráðurinn aftur í 9. og minnir margt á gamlar hroll­­vekjur, en það er gert hversdagslegt. Múmía "selur minjagripi pissar á göt­una." Ekki er þetta alltaf samkvæmt einhverju æðra samhengi (eða öðru en því sem aug–ljósast er), stundum er einungis verið að skapa framandleika, trufl­un, t.d. í því sem ég undirstrika í sjávarlýsingunni í 1O: "Aldrei aftur. Ekki meir. Syndum. Ekki meyr. Rak­ara­stofuskilti upp úr botninum. Auð­vit­að. Smokkfiskar." Þetta á þátt í því að skapa draumblæ verksins, ásamt því að ríma saman orð um óskyld hugtök, í þessari tilvitnun og víðar.


Hrynjandin er mikilvæg í verkinu. Eins og sjá má af til­vitnunum hér að of­an, ber mest á örstuttum málsgreinum, eitt orð eða tvö milli punkta. Þetta minn­ir á texta sem við skoðuðum hér eftir Jóhann Hjálmarsson og Baldur Ósk­ars­son. Áhrif þessa eru mismunandi eftir texta­sam­hengi. Dveljandi, þar sem sam­hengið er óröklegt, en andstutt hrynjandi í samfara­lýs­ing­unni. Kyrrð eftir hana í upptalningu sjávarlífsins (1O). Í aðdraganda samfara­lýs­ingarinnar (6) eru lengri málsgreinar. Textarnir næst á undan henni (5) og eftir (9) eru hins veg­ar greinar­merkja­laus samfella, eins og 2. Það skerpir hina hrynjand­ina með and­­stæðum, og á þátt í draum­kenndum blæ verksins, að það líður fram án að­grein­ingar. Skil­greining á fólksinu, sem heldur á dýrunum, virðist alveg út í hött, eins og nefnt hefur verið um fleira hér, sbr. líka and­stæð­urnar í lýsingu á norn­­­inn­i: með grímu úr silfri - sem er þá vænt­anlega ríkmannleg og vönduð -og boxhanska, tákn ofbeldis. Þannig rekst vitund lesenda út og suð­ur í lýs­ingum sem eru myndrænar en sund­urleitar, spinnast á tilviljunar­kennd­an hátt frá einu atriði til annars. En undiralda er einkum dulhyggja og losti, svo sem sjá má á t.d. 5.texta (bls.104):



Oh!


nú leiðir hún mig inn í turn þar eru flauelsklæddar öskjur og þar eru kanínur eða grábjarnarhúnar eða angórakettlingar í fang­inu á veikum gæslumönnum og stuttklipptum konum ég rífst við eina hún er norn með grímu úr silfri og boxhanska segir "ég er að ríða honum" en ég hrópa "mundu að ég er sólin" ég þeytist út um glugga ég held ég gangi á línu yfir vínrauðri eyðimörk og þú ert í skugganum þú


Oh!



Hér hafa verið raktar ýmsar túlkanir, en mergurinn málsins er sá, að mögulegar túlkanir eru óteljandi, einmitt vegna þess hve óröklegt verkið er, og framrás þess tilviljunarkennd. Sama gildir vitaskuld um marga aðra texta sem fjallað er um í þessu riti.


Síðasta kverið í ljóðasafni Sjónar heitir: Leikfangakastalar sagði hún, það er ekkert til sem heitir leikfangakastalar. Það birtist 1986. Hér lítum við á lengsta ljóðið. Þar segir frá því sem birtist, þegar talandinn snýr sér und­an, þetta er þá væntanlega innri sýn, enda opn­ast hnakki hans til að sjá, og hann sér djúpt inn í aðra persónu. Í þessum fyrsta hluta ljóðsins er mikið um sér­kennileg litatákn, þetta er skynjun en ekki umhugsun. En það sem taland­inn sér, breytist ómerkjan­lega úr litrófi ljóshringja utanum ljósker í litríkt hold ólífa inní þeirri persónu sem ávörpuð er eða ávarpaður með þú - það er afar óljós persóna. Minna þessar ólífur á frækorn, fóstur? En frá þessari persónu vík­ur talinu aftur að dýrinu sem hún situr á. Athyglin beinist að því m.a. með sér­stakri uppsetningu lína. Áður sáust lokkar þess og háls, munúðleg (í 2.-5. l.), en nú andlit og háls. Sérkennilegustu orðin í lýsingu þess lúta að styrk sem minn­ir á skriðdreka eða risaeðlu: stein­lagt, brynvörð, úr járni, en í and­stöðu við þetta er það einnig með fínlega skreytingu, perlur, sem hæfa bet­ur gyllt­um háls og silki­hvítum lokkum upphafsins, þetta er allt af tagi skart­gripa. í fyrsta hluta rann skynjunin úr einni mynd yfir í aðra, en nú magn­ast þetta, því lýs­ingin gengst sundur, en það bendir til að það sem lýst er, sé magnaðra en svo að orð nái yfir það, skynjunin yfirstígur hugsunina. Alls­kyns óargadýr eru dans, en háls dýrsins verður eins og risastórt far­þega­skip eða eitthvað ámóta. Svipað er á ferðinni í lokakaflanum, þegar varir 2. persónu eru eins og tré, eða eitthvað álíka stórt, sem verður fyrir eldingu, það er til að miðla okkur til­­finningu fyrir því hve yfirgengilegar þær eru mæl­anda. Það sýnir þá vænt­an­lega hve fjar­læg honum þessi ávarpaða persóna hlýtur að vera, sem situr á þessu mikilfenglega dýri, ótil­kvæmi­leg.


Lokakafli ljóðsins er meira í stíl við fyrsta hlutann, en greinist í þrjár lot­ur með orðunum Um leið og. Aftur er farið að tala um ljós, en nú skyndileg leiftur, sem bregða birtu yfir samband mælanda og viðmælanda, einnig birta þeir óæskilega minningu, sýna inn í huga þeirra. Þegar sú minning hverfur, ná þau saman, en við það hverfur dýrið óskaplega, sem viðmælandi trónaði á.



UM LEI‹ OG ÉG SN† MÉR UNDAN



Um leið og ég sný mér undan


birtist dýrið


Um leið og það teygir fram


gylltan hálsinn


hristast silkihvítir lokkarnir


opnast hnakki minn


sé ég regnbogana


hringa sig utan um ljóskerin


Litrófið breytist


Vínrautt Svarblátt Appelsínugult


allt nema Ljósgrænt


hörundið


flettist utan af ólífunum


djúpt inni í þér


Um leið og þú sest


klofvega


á bak dýrinu


skoða ég það betur



Steinlagt andlitið er svitastorkið og sett perlum og


brynvörð haka tennur úr járni augu sem tungur úr tré


og langur hálsinn með óteljandi gluggum í hverjum er


eðla eða drekafluga eða hákarl eða úlfur sem er dans




Um leið og þú hallar höfði


til himins


lýstur eldingu niður


í varir þínar


Um leið og neistarnir


lýsa upp svæðið


verður snjóbreiðan á milli okkar


líkan af staðnum


sem við


erum alltaf að reyna að gleyma


Um leið og það tekst


hverfur dýrið


en við hittumst þar aftur


UM LEI‹!



En hvað merkir þetta svo allt saman, kynni einhver að spyrja. Áreið­an­lega ekki neitt í þeim skilningi sem táknsögur miðalda vísuðu til ein­hverra sann­inda, lið fyrir lið. Í þessum ljóðum er ekki röklegt samhengi, mér sýnist meg­in­atriðið vera ríkulegar hugmyndir sem kvikna við þau rof sem verða, þegar stokk­ið er frá einni skýrri mynd til ann­­arrar. Ekki svo að skilja, að þær séu sett­ar fram af handahófi, í ljóðinu hér að ofan virðist mér óljós, loðinn þráður vera losti eða ást.



Þriðja ljóðabók Matthíasar Magnússonar heitir: Við segjum ekki nóg, og birtist 1986. Áður birti hann Lystigarðinn, 1980 og Dínur, 1984. Hér eru aðeins tólf ljóð. Þau einkennast meðal annars af því, að fjarskyldum hlut­um er slegið saman að hætti surrealista. Einna best finnst mér síðasta ljóð­ið, sem sýnir draum villidýrs í ruglings­leg­um skynmyndum, þar sem mest ber á ljósbliki og hreyfingu:



CHITA



á undan vindi fara


dynir fóta í stráum


hvíslandi hnéskeljar


gneistandi fiskar í augum


og flugur sem endurkasta regnbogum


vindur þyrlast í hári trjánna


hún er ofar jörðu og gufa hvílir með glófum fæturna


eins og ský


um huga hennar flækist svefninn og þýtur framhjá trjástofni


brýtur bjölluskurn með depli augans


finnur fyrir blettóttum lendum hennar


og urrar í loðinni brekku


þau stíga varlega inn um kvið rósablaðs


þar sem ómar allt af klaufasparki


hún krafsar í auga


krafsar í dílótt skinnið og


fyrir augum hennar líður kínverskt landslag


séð úr lofti en hún kemur ekki upp hljóði


sprek verður undir herðablaði


glitrandi fiskar þjóta í gagnstæðu rjóðri


sólarljósið lendir á kólnandi speglum


þófar blotna í blóði


hún vaknar til að borða



Hér getur flest staðist samkvæmt reynslu rándýrsins, sem virð­ist sofa upp í tré. T.d. gætu kólnandi speglar sólarljóssins verið stöðu­vötn að kvöld­lagi. Einnig eru hér líkingar, svefninn virðist "persónu­gerður" sem karldýr, er fer upp á dreymandi læðuna (11.og 12. lína). Sumt verður fjarstæðara: blik augna er eins og fiskar, síðar þjóta þeir um rjóður sem er á einhvern hátt gagn­stætt. Endurtekningin á þessu atriði breyttu leiðir ljóðið til loka. Mót­sagna­kennd er m.a. líkingin: "inn um kvið rósablaðs", en í þeim smágera, fín­lega heimi rúm–ast svo öll sléttan með klaufasparki hjarðanna. Þvílík "rugl­un skynjunar" ein–kennir drauma. Þetta ljóð er eins og sjá má eink­ar mynd­rænt, og framan af virðast mér stuttar línurnar miðla tilfinningu fyrir hraðri ferð.



Það ljóðskáld, sem einna mesta athygli vakti af þeim sem fram komu á 9. ára­tugnum, var Gyrðir Elíasson (f. 1961). Einnig hann byrjaði ungur að gefa út bækur, rétt um tvít­ugt, og hefur verið afkasta­mik­ill síðan. Þriðja ljóða­bók hans var einskonar höfuð lausn, og birtist 1985. Þar er m.a. ljóð, þar sem teflt er orðum úr yfirborðslegustu heimsmynd blaðanna, gegn orðum úr veð­ur­fræði. Gyrðir beitir hér tvíræðni, alkunna er að fellibyljir bera kven­nöfn, en blöð vösuðust mikið í Díönu prinsessu af Wales, sem flutti í Buckingham-höll þeg­ar hún giftist Karli ríkisarfa:



Q



glerkennd augu lognmolla brennidepill


haustsól á niðurleið(geislasneitt


ozonlag)tvær stúlkur haveacokeandasmile


skilti fjallhringur azúrblár andstuttir


bílar að hraða sér heim(fellibylurinn


diana væntanleg á leið sinni suðaustur


til buckingham)


mistur sem þéttist



Að­al­persón­ur ljóðsins eru nánast ósýnilegar, því þær eru svo hvers­dagslegar, venjulegt fólk, sem eru persónugert með líkingunni: "and­stutt­ir bíl­ar", af því að það er alltaf að flýta sér heim til sín, eða þá í vinn­una, alla­vega í rútínuna. Og yfir líf þessa fólks ryðst glerkennd andstæðan; auglýsingar (hér gleðibragð kókakóla-auglýsinga) og frétt­ir af kóngafólki, rétt einsog veðrið.


Fimmta ljóðabók Gyrðis kom 1986, heitir Blindfugl/ Svart­flug, og er öll bókin ein heild með línutali, 403 línur. Bókin skiptist auk þess í 40 hluta eða erindi. Hver eining er í innra samhengi, og stundum í beinu orsakasam­hengi við næsta á undan. Það mætti því allt eins setja verkið upp sem ljóðabálk. En þessi 40 ljóð eða erindi eru mun nátengdari innbyrðis en ljóðin í næstu bók Gyrðis á undan, Bak við Maríuglerið. Einnig þar var þó sam­eig­inlegur grunntónn, og efnissvið, raunar svipað og er í þessari bók, oft mar­trað­arkennt; beygur, pynt­ing­­ar, morð.


Verkið hefst á því að mælandi verksins, sem er skáld, liggur heima hjá sér og lætur hugann reika. Síðan sjáum við ýmsar hugmyndir hans, en aftur og aftur er millilent heima í eldhúsinu hjá mælanda, sem lítur út um gluggann á hversdagslegt útsýnið: þorp við haf undir háum fjöllum, "svarthvítum odd­hvöss­um steinbáknum" (l. 399-400).


Það sem segir frá nánasta umhverfi talanda í verkinu, er allt haft hið hvers­dagslegasta. Hann burstar í sér tennurnar, krotar á borðdúkinn, hlustar á Vivaldi-plötu. Hann hagar sér þó und­­arlega, hálfkyrkir köttinn, en gefur hon­um síðan mjólk. Greinilega er hann þjakaður af kvíða, og lýsir því á sér­kenni­legan hátt, venjulegir hlutir umhverfis hans hafa eftirlit með hon­um (auð­kennt hér, l. 232-242):



límband rifið af munni, blekbytta


veltur um, á borðinu stendur leir-


brúsi undan hollenskum sénever


löngu tæmdur, gamalt telefunken


og kassi undan glervöru gæta


mín, ég er hafður undir smásjá


hlutanna dag og nótt, hvergi


leynist afdrep, kerti starir


við rúmgaflinn, tungl gægist


gegnum storesa, skuggar tengjast


ofnum



þegar mælandi sest að ritstörfum "finnst mér sem hendurnar fálmi um renn­­andi vatn" (l.207-8). Þetta er skörp mynd af því hve erfitt er að höndla sí­breyti­legan veruleikann, m.a. í skáld­skap. Er það undirrót þeirrar angistar, sem einkennir alla bókina? Þegar talandinn lítur út um glugga sinn á kyrrlátt þorpið, sér hann (55-61):



[...] þessi


fáu timburhús undir íhvolfu


fjallinu eiga sér einskis


ills von, en skriðan á eftir


að falla, hún á eftir að falla


þegar haustnóttin er hálfnuð


og allir í fasta svefni



Þetta minni kemur hvað eftir annað, eins og fleiri; talandinn heyrir fóta­tak ókunnra við dyr sínar, heyrir óm radda en ekki orðaskil. Bók sem hann finn­ur, hefur máðst, svo að "sé ekkert fremur en þetta sé helgirúnasteinn [...] eða legsteinn farinn að kvarnast og molna" - allt letur er útmáð (l. 353-8). Þetta endurtekna minni sýnir að "einn er hver sér of sefa", eins og segir í Háva­málum. Auk and­stæðnanna heimavera-hugarórar, er kyrrseta mæl­­anda and­stæð ferðalagi hans í mörgum órunum. Það er með ýmsu móti. Á einum stað (l.101-7) situr mæl­­­andi heima og kaffilyktin er "einsog blindur glær snák­ur". Í næsta kafla segir fyrir­vara­laust:



Í myrkrinu liggja óteljandi þræðir


hver um annan þveran einsog risar


leiki fuglafit, verði manni gengið


út um kvöld að skoða tungl eða


síðförult fólk taka þessir þræðir


að vefjast hratt og hljóðlega um


höfuðið, innan skamms er það horfið



Aftur segir í næsta kafla frá því er talandinn horfir út um gluggann sinn á þorp­ið sem skriðan hefur enn ekki fallið á, þar næst breytist þorpið í mynd­list­arverk, og í kaflanum þar á eftir segir:



Svefnleysið smíðar huganum vængi


eða vefur honum töfrateppi, hann


líður yfir spanskgrænt ólgandi


haf að sorfinni strönd og svífur


rólega í hálfhring[...]



en í næsta kafla hleypur hann gegnum myrkvaða garðana ýlfrandi af angist, knýr á dyr, en fyrir honum er ekki upp lokið.


Framarlega í verkinu (l.75-7) krotar mælandi að:



slitinn úr tengslum við umhverfi


aflagar hugurinn öll hlutföll



-og þetta sannast þá á órum hans. Framan af ritinu eru þeir einkum af tagi kunn­­ug­legra mynda, sumt gæti verið úr seinni heimsstyrjöldinni, annað úr sög­unni um Frankenstein, kvik­myndinni um hann, Drakúla, eða viðlíka verk­um, gjarnan er minnt á 19. öld. Flugeðlur koma til leiks, og einnig annar­leg fyr­irbæri nútímans; lungnafiskar, hausaveiðarar, "sniglar með hús á baki hlaup­a". Einnig hér eru endurtekin minni, ekki síst aftökur, kvöl, ótti. Einkar áhrifa­­mikið er, hvernig óhug er lýst óbeint. Þegar skáldið hefur lýst því hve kvíð­inn grípur hann við að setjast við ritvélina, kemur runa annarlegra mynda (l. 209-226):



Vindaugað er haft opið eða lokað


eftir þörfum, úti hafa lungnafiskarnir


skriðið upp í þyrrkingsleg trén


að þerra sig, sólargangur lengstur


þennan dag, spegill hvolfist inn


í sig holur og hallast brotgjarn


að hlöðuveggnum, engisprettur fara


yfir sem eldur í sinu, klukkan er


stopp þegar lít loksins á hana


og slít af henni vísana, hægt og


örugglega einsog fætur af umkomu-


lausum flugum í gamla daga, koma


veltandi þung ský regnvot, vindur


bælir gras, fiskarnir demba sér


í slýgróna tjörnina og draga


djúpt andann áður en þeir kafa


til að grafa um sig í svartri


botnleðjunni



Hér samþættast andstæður, annarsvegar kunnuglegur hlöðuveggur, og svo hinsvegar æ framandlegri atriði, engisprettur og lungnafiskar. Brotgjarn speg­illinn minnir á íhvolft fjallið sem grúfir yfir þorpinu, og á eftir að hrynja yfir það, undarlegt er að hafa spegil við hlöðuvegg. Engisprettur eru helst kunn­ar sem plága á við drepsótt, m.a. úr Biblíunni. Þá limlestir talandinn klukk­una eins og flugur, allt er þetta óheillavæn­legt, líka veðrabrigðin; óveð­urs­ský nálgast, og á grasinu sést að stormur er í aðsigi, einnig á því að lungna­fiskarnir skríða í skjól í svartri leðjunni - sem hlýtur að orka frá­hrind­andi á flesta. Myndirnar eru með sérkennandi orðum sem höfða til skynj­unar (t.d. veltandi, þung, regnvot; bælir; slýgróna), og það eina sem þeim er sameigin–legt, er eitthvað uggvekjandi. Þetta er fínlega gert, enda verða þessar myndir enn óheillavænlegri vegna samhengisleysis þeirra og til­gangs­leysis, það vekur óljósan óhug. Þær koma í belg og biðu, í andstuttri upp­taln­­ingu, einnig það sýnir geðshræringu.


Eins og eðlilegt er um svo martraðarkennt verk, þá er framvinda þess ekki rökleg, og ekki sjáanlegt neitt kerfi í því. Verkið minnir öllu heldur á tón­verk, þar eru endurtekin stef, stundum ríkir áköf spenna, stundum ró, en jafn­an sama tóntegund, ef svo mætti segja, það er kvíðaþrungið hugar­ástand­.



Bróðir Gyrðis, Sigurlaugur Elíasson, er myndlistarmaður, en hefur sent frá sér fjórar ljóðabækur þegar þetta er skrifað. Í Brunnklukkuturninum, sem birtist 1986, er m.a. ljóð, sem hefur þann þráð, að tveir menn og hund­ur ganga hjá Hóladómkirkju, og inn í hana, síðan út gegnum kirkjugarðinn. Nú er eins og komið sé í Odda á dögum Sæmundar fróða, fjandinn að sleikja upp mykju­hauginn af hell­­unni. Enn færumst við aftar í tímann, til Njáls­sögu: arfa­sát­an frá Bergþórshvoli "logar ekki" - eins og sagt er um Garðskagavita í veð­ur­fregnum. En þessi þráður skiptir minnstu máli, meiru varðar hinn, þær vörð­­ur Íslands­sög­unnar sem nú voru nefndar, og kirkjusögunnar, því þarna eru þrír píslarvottar kristinnar trúar, Jón Arason, Heilagur Sebastian og Jesú sjálf­ur. Af hverju eru fætur þess síðastnefnda "grunsamlega nýþvegnir"? Grun­­urinn hlýtur að vera um að einhver María Magdalena sé enn á næstu grös­um. En grunur er einmitt leiðarhnoða þessa ljóðs, þar sem skyndilegar sýn­ir opn­ast bókstaflega í myrkrinu, hlutir taka á sig óvænta mynd, t.d. um­mynd­ast ljós­geisli í spjót. Þetta er andstæða þess að fikra sig eftir klisjum, vana­hugsun, Orða­leikir og tvíræðni eru liður í þessari óvæntu sýn: "reist tákn kyn­sællar minn­ingar" Jóns Arasonar er heldur lostafengið orðalag, en á hinn bóginn munu flestir Íslend­ingar vera afkomendur hans. Ekki má verða þeim til minnk­­­un­­ar, sem gerður var höfðinu styttri, áletranir gefa ekki stefnu, enda eru þetta legsteinar en ekki veg­vísar, o. s. frv. Hér ríkir kumpánlegt orðalag, m.a. upphrópanir; hálf­gerður galgopaskapur jafnframt óhug, sem birtist í tali um að virða helgi legstaðanna (andstætt hundinum), en sú helgi á að vera mæl­anda skjól í háskalegu umhverfi. Þessi óhugur eða myrkfælni skýrir það að grun­­ur ræð­ur ferðinni í túlkun umhverfisins. Línuskipting er notuð til að skapa tví­­­ræðni; "líka/ böng hringir ekki", en Líkaböng, klukka í Hóla­dóm­kirkju, hringdi sjálf skv. þjóðsögunni, þegar lík Jóns Arasonar var flutt til Hóla. Skyn­myndin kemur fyrst, síðan túlk­un henn­ar sem breytist: fyrst sjáum við dökkt flykki, síðan er þeirri spurningu neitað að þetta sé mykju­haug­ur, þá seg­ir frá hvalslegri lengdinni, loks klofinni tungunni, og grunur vaknar um óvænta mynd Satans:



gul ljósin slokkna


1 hundur dökkblár 2 menn annar í stysta lagi en þoka


kvölds stækkar nægjanlega ef læðast framhjá reistu


tákni arasonar (27 m í björtu) kynsællar minningar að


verðonum ekki til minnkunar svo grátlega höfðinu


styttri en gerist með biskupa og ósteind augu dóm-


kirkjunnar full myrkurs úr steinluktum gröfum þeirra


úff inn stingst


spjót vasaljóss nær ekki síðu þinni heilagur


sebastían snýrð til veggjar þegjandalegur


klukkur þegja líka


böng hringir ekki


hvas...mótar fyrir öðru


hverju


hvergi skuggi strengs en krosshanginn á sínum


stað og grunsamlega nýþvegnir fæturnir


ÚT er batteríið búið djöfullinn og áletranir gefa


enga stefnu en aldrei aldrei að ganga á leiðum hvaðþá


að míga upp við stein almáttugur fumlaust færir mó-


rauði hundurinn í leiðabók forfeðra sinna mennirnir


fylgja honum út úr garðinum svo hann megi hverfa úr


sögunni í þokuna


þá taka við villur í túni


einhversstaðar logsuðubirta og skárar dimmuna


um gátt


hér sleppir með öllu krosshelgi


gengið fram á þetta dökka flykki


nei varla skítahaugur fimmtíu skref og greinilega


klofinn broddur tungunnar


slefuháll arfinn logar ekki


ekki enn og aftur skárar


gaslogans meiri


súr



Þessi ljóð eru með ýmsu móti, en töluvert er þó sameiginlegt. Það er eink­­um að þau eru sett saman úr röðum myndrænna lýsinga, sem ekki eru aug­ljós­lega tengdar. Milli ljóðmyndanna eru helst tilviljanakennd tengsl útlits eða ámóta yf­ir­borðs­kenndra einkenna, og breytist þá verulega frá fyrsta lið keðj­unn­­ar til þriðja eða fjórða. En undir niðri liggja hugrenningatengsl eða sam­eig­in­legt hug­arástand. Það er að sönnu breytilegt, t.d. í Blindfugli Gyrðis, en und­irtónninn, ríkjandi hugblær er þó ævinlega angist. Með svipum hætti ber mest ber á losta í þeim ljóðum Sjónar sem hér var litið á, og enn annað hug­ar­ástand ríkir í dæmunum frá Matthíasi og Sigurlaugi. Með þessu móti skapa skáld­in nýtt samhengi, nýja sýn, hvert á sinn hátt. Lítið er um surrealískar setn­ingar, en mótsagna ­gæt­ir í ljóð­­mynd­um hjá Sjón og Matthíasi Magnússyni, og runa örstuttra málsgreina, sem jafn­vel eru ekki nema eitt orð. Ekki eru áber­andi tengsl við fyrri módern skáld, nema þá helst í síðasttalda einkenninu, sem er þó að sönnu alþjóðlegt surrealískt einkenni. Með þessum skáldum færist mód­ern­ism­inn mjög í aukana upp úr 1980.



10.8. Yfirlit


Þetta yfirlit um móderna ljóðagerð nær þá í stórum dráttum yfir tíma­bilið frá 1908 og fram á miðjan 9. áratug aldarinnar. Á þessum langa tíma eru það fá skáld sem stunda sundr­aða fram­setn­­ingu í ljóðum. Jóhann Sigurjónsson á eitt ljóð sem kem­ur til álita í upp­hafi þessa tíma­skeiðs, Jón Thoroddsen lítið ljóða­kver hálfum öðrum ára­tug síðar, en hálfum áratug eftir hann kemur Hall­dór Laxness með nokkur ljóð, um miðjan 3. áratuginn. Síðan er langt hlé fram að Stein Steinari um miðja öld­­ina, en þá koma einnig til Hannes Sig­fúss­son og Jónas Svafár. Frá miðj­um 6. ára­tugn­um og fram undir 1970 koma enn til fáein skáld, Arnfríður Jón­at­ansdóttir, Jóhann Hjálm­arsson og Baldur Ósk­arsson. Síðan kemur til Megas, og nýr blómi módernismans eftir 1980. En á heildina litið er þessi þráður heldur fyrirferðarlítill og slitr­óttur. Kunn­astur er Steinn með Tímann og vatnið, en afkasta­mest­ur á þessu sviði er Hann­es Sigfúss–son með þrjár ljóðabækur á rúmum áratug, 1949-61.


Þessi módernu ljóð eru mjög sundurleit. Skyndileg stökk milli and­stæðna hjá Jóhanni Sigurjónssyni, mótsagnir í annars hversdagslegum prósa­ljóðum hjá Jóni Thoroddsen. Hjá Halldóri Laxness ber mest á skyndi­legum stíl­rof­­um, spaugi­legum, sem ég tel ættuð frá expressjón­isma. En 1926-7 eru í fáein­um kvæð­um ósam­rýnanleg atriði felld saman innan málsgreinar, að hætti surr­eal­­ista. Það er aftur megin­ein­kenni á Tíminn og vatnið. Nokkuð gætir þessa hjá skáldunum sem talin voru á 7. áratugnum en ekki mikið hjá Hann­esi Sigfúss­syni. Í ljóða­bálk­um hans fer meira fyrir skyndilegum stökkum milli sviða, og stíls, draumkennt samhengisleysi milli lína og erinda innan ljóða­­bálks - enda þótt báðir þessir ljóðabálkar séu að mestu innan íslenskrar ljóð­­­hefðar í mál­fari og a.n.l. forms­einkennum. Hjá Megasi örlar á surrealisma, en meira er um expressjónísk stílrof. Hjá yngstu skáldunum er mun meira um surrealisma, en mest um runur sundurleitra mynda, sem tengjast í hugblæ.










[1]fia› minnir frekar á söguna af fieseif og Ariadne, svo sem sí›ar ver›ur rætt. "Rödd...upp af runni (8) gæti minnt á rödd gu›s úr brennandi runna í 2. Mósebók 3, en fjarri fer flví a› flar séu ótvíræ› tengsl.



[2]Eysteinn fiorvaldsson tekur óbeint undir fletta, flegar hann segir (1980, bls. 78) a› öll ljó› bálksins megi "heimfæra til hinnar flríeinu líkingar í fyrsta ljó›inu: tíminn - vatni› - vitundin."



[3]Beinlínis rangt er t.d. bls. 187: "Annars er eins og skáldi› megi aldrei sjá sólskin ö›ruvísi e› rá›ast á fla› (sbr.6. [fl.e.­14.í seinni ger›]." fietta er út í hött, sbr og 16. ljó›: "Ég sá sólskini› koma gangandi/ eftir gráhvítum veg­in­um,/ og hugsun mín gekk til móts vi› sólksini›,/ og sól­skin­i› teyg›i ljósgult höfu› sitt/ yfir vatnsbláan vegg."



[4] Í vi›tali vi› Inga Boga Bogason sumari› 1988, birt í Lesbók Mbl. 20.5. 1989.



[5]Fyrst var skrifa›: "ljósi" en fla› yfirstrika› og "rökkri" skrifa› aftan vi›.



[6]tilvitnanir eru til Ljó›asafns Hannnesar, Rvík 1982, fl.e. seinni ger›ar Dymbil­vöku. fia› er sú ger› sem jafnan birt­ist eftir frumprentun, og ver›ur a› vir›a lagfæringar skálds­ins.



[7]fia› sjónarmi› hefur komi› fram hjá Einari Braga (sjá Ey­stein fior­valds­son 1980, bls.261-2), a› or›i› "einsog" spilli áhrifum flvílíkrar teng­ingar. fia› er einsog í l‡skingu H. Friedrich (í 2.k. hér), en flarf ekki a› vera, flví li›irnir eru samt fjarlægir hver ö›rum, a.m.k. hér.



[8]Ólafur Jónsson ber reyndar brig›ur á fla›, og s‡nir me› töflu um fjölda ljó›abóka (tv. rit, bls. 107), a› "formfrjálsra ljó›a fer ekki a› gæta a› marki í bókaútgáfunni fyrr en um 1960; og flau eru ekki komin í meirihluta í ljó›aútgáfu fyrr en um 1970. Jafnframt sést sk‡rt á yfir­litinu hin dramatíska aukning út­gáf­unnar eftir 1970, me› fjölritaútgáfunni og stóraukinni einka­útgáfu ljó›a." Hér er eingöngu rætt um form, fl.e. fríljó›, en ekki fla› sem hér hefur veri› tali› meg­in­ein­kenni mód­ern­isma, rofna, myndræna fram­setn­ingu.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar