mandag den 13. juni 2011

Kóralforspil 4. hluti


15. Um miðja öldina


Sveinn Skorri Höskuldsson hefur í stuttu erindi á ráðstefnu fjallað um ný­mæli í stuttum prósa­verkum á íslensku um miðbik aldarinnar. Hann nefnir þar til Elías Mar: Gamalt fólk og nýtt (1950); Indriða G. Þorsteinsson: Sælu­­vika (1951) og Þeir sem guðirnir elska (1957); Ástu Sig­urð­ar­dótt­ur: Sunnu­dags­­kvöld til mánu­dags­morg­uns (1960); Jón Óskar: Mitt and­­­­lit og þitt (1952); Geir Kristjánsson: Stofn­unin (1956); og eftir Thor Vil­­hjálmsson: Mað­ur­inn er alltaf einn (1950) og fleiri bækur. Sveinn ræð­­­ir almennt um þessar bækur og ályktar (bls. 158) að þær valdi straum­hvörf­­um í sögu stuttra prósaverka á Íslandi. Í stað "raun­­sæilegra" smásagna komi nú stuttar skissur, myndir eða myndruna. Í stað þess að reyna að lýsa mann­­lífinu í heild, og greina það sálrænt eða félagslega, með tilheyrandi boð­skap eða ádeilu, sé nú sett fyrir lesendur glundroði, sundurtættur heimur og ótti manna við tilgangsleysi. Rætur þessa sér Sveinn í gjörbreyttu sam­fé­lags­lífi á Íslandi eftir seinni heimsstyrjöld og í áhrifum frá er­lendum bók­mennt­um, einkum Kafka og frönsk­um tilvistarhyggjumönnum[1].


Í þessu yfirliti fjallar Sveinn aðallega um framantaldar bækur sem heild. En þær sem okkar efni varða, virð­ast mér afar sundur­leitar, ennfremur að Elías Mar og Indriði komi þar ekki til álita. Enda hef­ur víst enginn haldið því fram að þeir væru módernistar. Sveinn (bls. 155) telur þá, ásamt Ástu Sig­urð­­ar­dótt­ur, standa nær hefðinni en hin skáldin. Nýstárlegt við þá finnst hon­um helst áhersla Indriða á veru einstaklings, og í einni smá­sögu Elíasar, "Á bekk með skáld­um á hvítu torgi", að þar birtist sam­heng­islaus samtöl og hugs­­ana­straum­ur sögumanns. Þetta kallar Sveinn "sjálf­sprottna mynd af ein­semd og fram­andleika manna nú á dögum, ótta og angist vegna ástands heims­mála í upp­hafi kalda stríðsins."[2] En mér þykir of mikið gert úr nýstár­leika þessarar sögu. Það var alls ekki nýtt að sýna hugsanir sögupersónu, ekki frekar en að sam­töl gangi nokkuð á misvíxl. Sagan er stund­armynd í rök­legu samhengi og ekki ný­stárleg að formi, hvað þá hugarástandi.


Hér verður nú vikið að hinum höfundunum, nokk­urn­veg­­inn í þeirri röð sem fyrstu verk þeirra birtust.



15.1. Fyrstu sögur Thors Vilhjálmssonar.


Thor (f. 1925) er mikilvirkur höfundur, á rúmum þremur áratugum hefur hann sent frá sér tvo tugi frumsaminna bóka auk tugs þýddra verka. Þriðj­ung­­ur frum­sam­­inna bóka er af tagi rit­gerða og ferðaþátta. Það eru mjó mörkin frá því yfir í skáld­skap­inn, og einnig er mjög misjöfn lengd skáld­verk­anna, allt frá fá­­ein­­um línum upp í þykka bók. Það væri þarft verk að semja fræði­legt yfirlit um þessi verk, en hér er þess enginn kostur. Allt frá upp­hafi er mód­­­ernisminn áber­andi í þessum verkum, og lengst­­­­um ríkj­andi. Thor er svo miklu afkasta­meiri á þessu sviði en aðrir höf­­undar sem hér er um fjallað, að sprengja myndi ramma þessa rits, ef reynt yrði að gera heildarlýsingu á mód­ern­­­isma hans. Hér verð­­­ur að nægja að fjalla um nokkur áberandi sérkenni til sam­­an­burð­­ar við aðra höf­­­­unda, og einkum gripið á tveimur fyrstu bók­un­um auk fyrstu skáld­sagn­anna sem birtust tveim­ur áratugum síðar. Þær eru Fljótt, fljótt sagði fugl­inn frá 1968 (hér stytt: Fuglinn) og Óp bjöll­unn­ar frá 1970 (hér stytt: Óp­ið). Um þá fyrri hefur ýmislegt birst, en merk­ust finnst mér grein eftir Peter Hall­berg. Um þá síðari er til vönduð BA rit­gerð eftir Sigríði Stein­björns­dótt­ur.


Á árinu 1950 sendi Thor frá sér fyrstu bók sína, Maðurinn er alltaf einn (hér stytt: Maðurinn). Í henni eru 65 stuttir text­ar á 115 bls., flestir ámóta stuttir, yfirleitt 1-2 bls. Auk þess eru 9 myndir eftir höf­und, sem lík­­­lega hef­ur ann­ast út­gáfuna sjálfur, því ekki er útgef­andi nefndur.


Um rúmlega helming textanna er þess getið hvar þeir séu samdir og hve­nær, þeir eru frá árunum 1947-9. Má þá ætla að ótíma­settir textar (30) séu frá út­­gáfu­­­árinu 1950. Ekki eru text­arnir í tímaröð, og er vand­séð hvað ráði röð þeirra. Sama gildir um næstu bók Thors, Dagar manns­ins (hér stytt: Dag­ar), sem birt­­ist 1954 hjá Heimskringlu. Þar eru 40 textar á 127 bls., auk 7 mynda Thors. Flestir textanna eru ámóta stuttir, 1 bls. eða hluti síðu. En 4 eru mun lengri, 6-13 bls. Einnig hér eru textar tíma­­settir, frá 1948-1953, en sjö ótíma­­­settir, og ekki sjáanlegt kerfi í röð text­anna. Látum við það þá liggja milli hluta.


Elstu textarnir eru frá 1947, níu talsins, allir í síðari hluta fyrstu bók­­ar­­­­inn­­­ar. Tólf eru frá 1948, allir nema einn í fyrstu bók­inni. 21 er frá 1949, þar af 15 í fyrstu bókinni, sex í annarri. Tæpur þriðj­ungur text­­a Manns­ins (18) er ann­að­­hvort settur upp í ljóð­lín­ur eða titl­­aður ljóð, nema hvorttveggja sé. Prósa­­ljóð bók­­arinn­ar eru mynd­­­­ræn og á upp­höfnu máli. En hvor­ugt verður tal­ið almennt ein­kenni prósaljóða frem­ur en ann­arra ljóða. Hins­vegar sýnist mér auð­­greint milli prósa­ljóða Thors og ann­ars prósa hans. Og mun­urinn er ekki lengd, held­ur hitt, að ljóðin hnit­ast um eitt meginatriði, en önnur prósa­­verk fara meira á dreif, einnig þau sem módern eru. Jafnvel þótt segja megi að einn­ig í þeim sé eitt kjarna­atriði, svo sem í dæm­un­um hér á eftir, þá eru þar fleiri smáatriði sem rað­­ast um þennan kjarna. Prósa­ljóðin (einkum í Mað­­urinn, bls.80-88) virðast mér lítt eða ekki módern, og verður því ekki frek­ar að þeim vikið hér.


Módernisminn er þá fjarri því að vera einráður í fyrstu bók­inni. Eink­­um fram­­­anaf ber tölu­vert á hugleiðingakenndum text­­um. Sumir þeirra snú­ast eitt­hvað um Jesú. Áleitið þema er að mað­ur sé einn á gangi á eyði­sandi eða á visn­­um lauf­blöðum. Oft lýk­ur þessu á dauða hans. Dæmi um annað algengt tema af hug­leið­ingatagi (Maðurinn, bls. 53):



...ást okkar er dáin. Við finnum að minningarnar í augum okkar eiga ekki heima í þeim gráa og kalda heimi sem um­kringir okkur í dag, þetta haust. Við vitum að það sem er liðið kemur ekki aftur nema sem minn­ingar sem við verðum að eiga aðskilin og megum ekki láta hvort annað sjá.



Matthías V. Sæmundsson fjallar um þessi efnisatriði í fyrr­nefndri grein sinni 1981 (einkum bls. 62-77) og telur þau sýna ein­­mana­kennd og firr­ingu að hætti existensíal­ista, en á mynd­ræn­an hátt.


Vegna þess nú, hve margvíslegir textarnir eru, og ekki sjá­an­leg heild­­ar­mynd á fyrstu bók­unum, verður hér einungis fjallað um fáeina mód­­ern­­­­ustu text­­­­­ana, sem eru meira eða minna dæmi­­gerðir fyrir þann flokk. Elstu textarnir ein­­­­kenn­ast sumir af draum­­kenndu sam­heng­­is­leysi og lit­ríkum lýs­ing­um þar sem um­hverfið myndbreytist, t.d. í "Ferðin", sem hefst í hvers­dags­leg­um stræt­­­­­­isvagni í borg. Eftir að hann ekur af stað stirðna far­­þegar all­ir, einnig mæl­­­­­andi, skyndi­­lega er vagninn kom­inn út í eyði­mörk, síðan myrkvast allt og hverf­­­ur. "Fantaisie impromptu" hefur síbreytilegt, óvenjulegt umhverfi, eini þráð­­­­­urinn er persónan sem skynjar það, en um hana segir: "Og honum datt allt í einu í hug og hryllti við: hver er ég, hvaðan kom ég, hvar hef ég verið. Það var óbærilegt að vita ekki, en hann gat ekki, gat ekki vitað neitt."


Frá 1947 er einnig textinn "Maður og kona og mikið fljót" (uþb. 1 bls. að lengd). Hann hefst á mótsögnum sem sýna tímann sem svip­laus­an: "Árin sem hafa týnt sumrum sínum og vetr­um og mánuðir sem hafa týnt vikum sín­um." Síð­an er talað um konu og mann sem eru aðskilin af jök­ulfljóti. "Hún hlær með fólkinu og veit ekki af draum sínum um þig sem sefur í djúpi henn­ar." En fyr­ir­­varalaust er sviðið orðið frumskógur með týndu hofi, og aðal­persón­an "þú", sem átt að vekja gyðjuna, "sem veit ekki að hún er gyðja". Við næstu greina­skil segir svo (bls. 105):



Nei, hin ísgráa jökulflúð, fljótið mikla kalda, hið gráa fljót sem renn­­­­ur til eilífðar. Þú öðrumegin, þú sem átt að brjóta álög­in. Þú öðru­­­­­megin á bakka þínum og horfir yfir strauminn á gyðj­una sem dreym­­­ir um þig í djúpi sínu og veit ekki, sefur og hlær í hópn­um hin­um megin og sér þig ekki, grunar þig kannske en finnur fljótið mikla á milli.



Þessi skyndilegu skipti á sögusviði, frá suðrænu til norræns, gefa til kynna til­finn­ingar, ýmist ástríðu­­­hita eða fjarlægð. Sameig-inlegt er samband eða sam­bands­leysi karls og konu. Textinn er sumstaðar mynd­rænn, einkum er oft talað er um konuna með dökku augun, og ís­grátt fljótið. Ljóðræn er líka klif­un á orðalagi, svo sem í klausunni hér að ofan og (bls. 104): "Og mað­­ur. Og kona. Maður og kona. Maður sem situr á bakka fljótsins" Áber­andi er sí­bylj­an í stíln­­um og reglubundin hrynj­andi. Auð­vitað ekki svo að skilja að text­inn skipt­­ist í tvíliði og þríliði, held­ur hitt, að í bókinni er jafnan lögð rækt við hrynj­­andina.


Módernisminn er þó takmarkaður í þessum fyrstu textum, og það sést t.d. á því að þessum texta lýkur á útskýringu: "þetta mikla volduga ósigr­andi fljót, það er lífið."



15.2. Persónur


Auk þessara myndbreytinga birtist í þessum fyrstu textum annað var­an­legt einkenni á ritum Thors, og það tengist hug­leið­inga­­­svipnum; persónur eru æv­­in­lega nafn­lausar, þ.e. þær eru kall­aðar: Maðurinn, Konan, hann, hún, ég. Pers­ónu­leg sérkenni eru líka í lág­­marki, það eru bara myndræn útlits­ein­kenni svo sem svart hár. Tal er með ein­­­­fald­asta móti. Með öðrum orðum, persón­­­urn­ar eru frum­mynda­kenndar, og það verður lengi ríkj­­andi einkenni hjá Thor. Hall­­berg ræðir það í lok greinar sinnar (1972, bls. 133) og tengir því, að ólíkt sterk­­um bók­mennta­­persónum svo sem Agli Skallagrímssyni og Bjarti í Sum­ar­hús­um, sé "Maðurinn" í Fuglinum



frek­ar alger þolandi, opið leiksvið þar sem hin ólíkustu áhrif mæt­ast til að reka hann í ýmsar áttir, tæta hann í sundur. Það er næstum því út í hött að tala um hann sem "persónu"; hann er enginn "kar­akt­er". Þetta er sjálfsagt eng­in til­viljun á tíma, þar sem heild­in er orð­in óvið­­ráð­an­leg, sam­hengið er að leysast upp á svo mörg­um svið­um og verða að sund­­­ur­lausum þáttum.



Í samræmi við þetta er annað sem Hallberg dregur fram (bls.123), persón­­­urnar renna saman, jafnvel helstu persónur. Þetta á við um Fuglinn, Ópið (sbr. Sigríði, bls. 38-41) og flestar skáld­sög­ur Thors síðan. Það er helst að útlitið aðgreini persónur, en lýsingar þess eru jafn­mynd­­rænar og aðr­ar lýs­ing­ar. En í því sem segir um orð persóna, hugs­anir, minn­ing­ar og atvik sem henda þær, er oft erfitt að aðgreina þær. T. d. eru persón­ur í Ópið ekki nafn­­­greind­­ar öðruvísi en: "ungi maður­inn", "tónskáldið", "mynd­höggv­ar­inn", "unga stúlkan", "Sjang­sjang", "hall­areigandinn". Og það er oft erfitt að henda reiður á hver er hvað hverju sinni. Jafnvel er erfiðara að aðgreina persón­­­urnar en Sigríður telur (bls. 22-4), mér sýnist það mis­skiln­ingur henn­ar að konan leiði ástmann sinn tón­skáldið afsíðis (bls. 85 o. áfr.), greini­legt er (bls. 84) að maðurinn sem hér um ræðir þekkir ekki þessa konu vel, hann velt­ir fyrir sér hvern­ig sambandi hennar við mynd­höggv­­­ar­ann sé háttað. Og óvíst er að þetta sé kona sem tón­skáldið yfirgefi vegna ungu stúlkunnar, eins og Sigríður telur, því í lýsingunni segir (í lok fyrr­greinds kafla, bls. 85): "stúlkan tók í hönd hon­um og leiddi hann eftir ganginum." Hér virðast betur eiga við orð bók­ar­kynn­ingar á kápu, að hún sé "ástarsaga í óteljandi mynd­brigð­um". Kristján J. Jóns­son hélt því fram í BA-ritgerð um Fuglinn, að hún væri öll hugs­un aðal­persónu eða sögu­manns (hann segir sögu­höf­und­ar[3], bls. 36 o. áfr.). Það teng­ist því sem Hallberg segir (bls. 124) um sjón­ar­horn í þeirri sögu, að form­lega sé það utanfrá, en í rauninni segi "hiklaust frá öllu því sem hrær­ist í innstu hug­skotum aðalpersóna sög­unnar; og jafnvel um­­hverfi þeirra, hin­um ytri hlut­um er yfirleitt lýst á þann hátt sem við hugsum okkur að þær sjái það." Í Óp­inu (bls.101) er t.d. gengið svo langt að lýsa hugsunum gínu í búð­ar­glugga. Með öðrum orðum, aðalatriðið virðist vera, að les­andi skynji mis­­mun­andi hlið­ar sama atriðis. Vitund beggja karl­mann­anna í ást­ar­þrí­hyrn­ing­inum í Fugl­in­um er les­anda jafn­ná­komin, og stund­um óljóst hvor er á svið­inu. Eða, með orð­um Baudelaire: "Je suis la plaie et le couteau, je suis la victime et le bourreau." (Ég er í senn hnífurinn og sárið, fórnarlamb og böð­ull).



15.3. Stíll


Hvað varðar sjálfan stílinn, þá hefst textinn "Martröð" á runu stuttra að­al­­­­setn­inga, kaldra fullyrðinga (líkt og "Borgin", sem einnig er frá 1947), þetta ein­kenni sáum við á expressjón­ískum sögum Halldórs Stefánssonar. Þetta er hið sér­­kenni­legasta við text­ana frá 1948, eink­um í "Ferðin" og "Um­ferðar­slys". Í þeirri sögu eru 27 máls­greinar á 16 línum. Flestar eru því örstutt­ar, og tilgreina bara hlut­laust hvað gerst hafi. Endur­tekn­ing­ar í breyttu formi bregða þó til­finn­ingu í textann, einnig hitt, að litir eru áberandi í lýsingum (Mað­ur­inn, bls. 34):



Bíllinn hafði rekist á manninn á hjólinu. Hann lá hreyf­­ing­arlaus. Það kom fólk til að horfa. Það kom fólk til að verða æst. Rautt blóð rann úr munni hans. Rautt blóð kom úr nösum hans og eyrum. Hann var dá­inn. Fólkið tók hann upp og lét hann inn í bílinn. Maður í ljós­grá­um föt­­um sett­ist undir höfuð honum. Það kom blóð á föt hans. Hend­ur hans urðu rauðar af blóði. Maðurinn var dáinn. Fólkið vissi það ekki. Það var of æst til að athuga það.



Síðar í textanum koma lengri málsgreinar, útskýrandi, hug­leið­­­inga­­­kennd­ar (auðkenndar hér). Sögumaður verður skyndilega ágengur, og vísar til vænt­­inga, venja. Mér finnst þessi stílrof veikja heild­ar­áhrif­in­, mun sterkari eru stutt­ar stað­­­­hæf­ingar í lokin, sem draga fram að lífið gengur sinn vana­gang, þrátt fyrir þennan drama­tíska viðburð:



Bílstjórinn stóð fyrir utan bílinn. Hann vissi ekki hvað hann átti að gera. Fólkið ýtti honum inn í bílinn. Hann var ennþá ekki búinn að átta sig á því hvað hafði gerst. Hann vissi ennþá ekki að hann átti að vera sorg­mæddur af því að hann hafði drepið mann. Hann gat enn ekki full­nægt kröfum venj­unnar að vera sorgmæddur undir slíkum að­stæð­­­um. Hann var þögull. Hann ók burt. Fólkið stóð um stund á staðn­­­um. Svo dreifð­ist það og fór burt. Það fór heim að borða. Mað­ur­­­inn var dáinn.



Þegar í fyrstu bókunum birtist annað stílfyrirbæri sem verður æ síðan áber­­andi hjá Thor, og mætti kalla lang­lokustíl. Sagan "Martröð" hefst á ör­stutt­­­um málsgreinum, eins og áður segir, en síðan lýsir mæl­andi því að hann falli út um glugga. Sú lýsing er í einni mjög langri máls­­grein (8 línur), þannig verð­­­ur fallið nánast skynj­anlegt. Enn betra dæmi er þó "Hugleiðing um mar­tröð" (frá 1949). Textinn er rúm­lega ein bls. að lengd, en hann er að­eins tvær máls­­greinar, sú síð­ari 4 línur, en hin fyrri mestallur textinn. Hún hefst á aðal­setn­ingu með til­vís­un­ar­setningu, en af­gang­urinn af klausunni er all­ur innan horn­­­klofa, eins og til nánari skýringar. En þessar sýndar­skýr­ing­ar hafa ekki ann­að hlut­verk en að flækja málin, því tryggt virðist, að fáir sem eng­ir les­end­ur kom­ist til botns í þessum keðjum af fyrirvörum, sem koma krækt­­ir hver aft­an í annan, svo vart verða greind skil. Fyrst lýsa fyrir­vararnir því hvern­ig tíminn líður, síðan umbrot­um manns­ins, þá á hvern hátt hann þjáist, o.s.frv. (Maðurinn, bls. 55):



Hann var að brjótast um í kviksyndi sem var tíminn með enga lausn [nema langt í burtu sem myndi ekki koma fyrr en eitthvað sem var nærri því alltaf var liðið, ekki þó alltaf en nærri því en einhvern tím­ann væri það liðið en svo langt þangað til að það var ekki hægt að vita það og fyrst varð að sökkva í botnlausu kvik­syndi, sökkva og sökkva og brjótast þó um af öll­um mætti, án nokkurrar hvíldar, linnulaust, óleys­­an­lega og ekkert áþreif­­an­­legt, ekki einu sinni efni í kviksyndinu, þjást af allri þeirri þján­ingu sem maður gat numið, þjáningu sem ekki var einu sinni hægt að skil­greina, milda með því að skil­­greina svo mað­­ur vissi hvernig maður þjáð­ist, hvern­i­g maður ætti að þjást, nei ein­­­hverri óskil­­greinanlegri efnis­lausri þján­ingu sem varð ekki tekið á, fyllti þó alla veru manns og ekki að­eins það sem hafði verið mað­ur held­ur alla til­­­veruna svo að maður gat ekki vitað lengur hvað maður var sjálfur nú og hvað ekki né hvort maður var leng­ur nokkuð þess sem maður hafði verið, hvort maður var lengur nokk­uð, var nú kannski einhver tómleiki sem var þó ekki tóm heldur til­finn­­­ingin um tóm endalausrar víddar og umfeðmis sem gat ekki splundrast í ákveð­n­ar takmarkaðar stærðir og fundið til til­veru sem væru mörk sett [o.s.frv.]



Hér birtist enn hugleiðingablærinn sem einkennir mörg fyrstu verk Thors, en hann er hafinn upp í æðra veldi, því hér eru hug­­leiðingarnar ekki til skýr­­ingar, hafa ekki það hlutverk að vísa til ein­­hvers í hlut­veru­­leikanum, held­­ur eru þær þvert á móti til þess eins fallnar að flækja les­­­endur í mót­sögn­um eða því sem næst, til að þeir skynji mar­tröð­ina, sem um er rætt, finni sig sitja fasta. Við það verð­ur textinn mód­ern. Athygli vekur, að þetta er að­al­ein­­kenni text­ans, hann er t.d. ekkert mynd­­rænn, svo mjög sem það þó ein­kenn­ir oft rit Thors, einnig hin elstu. Peter Hallberg nefnir það um fyrstu skáld­­sögu Thors (1972, bls. 128):



hugrenningatengsl í allar áttir eru næstum því að drekkja sögu­­svið­inu. Ein af þeim frásagnaraðferðum sem eiga sinn þátt í því er sú sem minn­ir dá­lít­ið á hómerskar samlík­ingar - þó auðvitað með mjög sér­stæð­um hætti. Ég á við samlík­ingar, þar sem það sem borið saman er við vex út í svo að segja sjálf­stæðan atburð úr veru­leik­­anum og verður þann­ig til þess að víkka enn sjón­­ar­sviðið og hlaða upp nýjum og nýjum atriðum.



En bæði í dæmunum sem Hallberg tekur, og öðrum sem minni­­­­­stæð­ar verða úr skáld­sögum Thors, þá eru þessar keðjur hug­renn­­­­ingatengsla mynd­­ræn­­ar, fremur en hug­leiðingakenndar, og mun áhrifa­­­meiri þannig. Og í slík­um lýs­ingum er ekki fylgt venjum upp­bygg­­­ingar sem beinist að ákveðnu marki, þvert á móti ráða til­vilj­­an­­ana­­­kennd hugs­anatengsl, sjá t.d. (Ópið, bls. 271):



Ráð eða ekki ráð, heimurinn getur ekki verið án trúar, segir konan sem hafði hlustað ívið sposk. Það var eins og spott henn­ar héldi and­­­lit­inu sam­an svo það gliðnaði ekki sundur í undrun á þessu kvöldi; og hún var að hugsa um litla fugla sem fljúga undir þak­skeggin með sín fund­arefni með­an Mozart barst fjór­hent leikinn út um gluggann, og kött­urinn stikar brönd­­óttur í glugga­kistunni á flögum af málningu sem hef­ur sprungið utan af viðnum og gert hann dröfn­­óttan, veifandi róf­unni hjá blóma­pottinum með hárri spennu og klárt hvað hann getur stjórn­­að henni og forðast að velta blóma­pott­­inum með sínum flugum nið­­ur á götuna og ofan á skyld­ug­an orkí­­deu­hattinn á feitu nær­sýnu kennslu­­­konunni frá Milwaukie sem fædd­­­ist í Dortmund fyrir fimmtíu og átta árum, og á hreint ekki von á því að fá grimman kaktus með gljá­­andi broddum ofan í sinn frið­­sæla og ilm­metta orkídeugarð sem hún hefur nú ofan á nýju teft­­ónsku sveita­stúlku­hár­koll­unni með fléttu­vafn­­­ing­un­um gulu sem eru einsog uppgerður næl­onkaðall í hönk ásamt bernskuheiti hennar Trutchen.



Lýst er fuglum, síðan ketti, þá gluggakistunni sem hann gengur á, þá kakt­us á henni, síðan konu sem kaktusinn gæti dottið á, ef kött­urinn ræk­ist í hann! Nákvæmlega lýst, einkum konunni, og ekkert af þessu varð­ar fram­vindu sög­unnar hið minnsta. Í mesta lagi eru hér óbein tengsl, hárfléttur kon­unnar minna á kaðal, sem er áleitið minni í sög­unni (hengdi maðurinn). Lok fram­­an­greindrar klaus­u eru af tagi langsóttra lík­inga eins og í dæminu sem Hall­berg (tv. rit, bls. 128-9) tekur úr Fuglinum (bls.205-6):



Þá stilltust trén, þau stóðu alveg kyrr og nú voru þau allaufguð og nú voru íkorn­arnir að hlaupa upp og ofan með sín löngu loðnu skott og hnet­­ur milli stuttra framfótanna einsog knatt­­spyrnu­­­­dómari að reyna að sjá sér færi að stinga upp í sig canapé í miðjum leiknum [...og bls. 210:] og lang­ferða­vagn­arnir, maður öf­­ug­­ur í bílnum með rassinn í fram­­­­úrstefnuna lot­inn með hátalara við hold­­ugar varir einsog í losta­­­full­um atlotum bendir út á vatnið ein­skon­ar Júdas Makka­beus að stýra sinni þjóð sem guð hafði kjör­ið sér með­al þjóða heims­ins og allir haus­­arnir sem höfðu mænt á hann eins­­og ung­ar í hreiðri eftir ormi í föð­ur­goggi eða móður sinnar snerust í einu og einblíndu út á vatnið eins­og þeir hefðu hingað til verið í eyðimörk og aldrei komið í vin.



Svona lang­sóttar viðlíkingar, sem fara hver í sína átt, eru æv­inlega áber­andi í bókum Thors. Áður ræddum við þær hjá Hall­dóri Lax­ness og Hall­dóri Stef­­ánssyni. Og auð­séð er hve mikið er sam­eiginlegt þessum höf­undum öll­um, hug­læg fram­setn­ing og annarleg.


Það er í samræmi við þessar langsóttu líkingar, að sögu­maður er stund­um mjög ágengur, setur beinlínis fram viðhorf sín og (neikvæða) afstöðu til sumra sögu­persóna. Þetta er áber­­andi m.a. í sumum köflum Fugls­ins (t.d. 7.k.). Það er and­svar við skoð­­­­unum og hug­mynda­heimi persóna, og góð til­breyt­­ing frá hlut­­­­lægn­is­­legri, mynd­rænni framsetningu í öðrum köflum, bókin verð­ur að lit­rík­ari.


Hér hefur einkum verið vikið að módernisma Thors í hinu smáa, en hin löngu prósaverk hans eða skáld­sögur bæta miklu við, þar sem er órætt sam­hengi. Í fyrstu skáldsögu Thors, Fuglinum, er vand­séður þráður. Það er þá helst að við fylgj­umst með að­al­persón­unni sem nefnd er "Hann" eða "Mað­ur­inn" í sund­ur­­leitum persónu­hópum og raunar í mis­mun­andi teg­und­um skáld­sagna. Fyrst er hann meðal erlendra ferðamanna, það gefur tilefni til að rifja upp fornar sagn­ir. 3. kafli er einsog í rey­f­ara, en eftir að "Hann" sleppur þar úr bíl frá óvin­um sínum, er ekkert fram­hald af þeim söguþræði. 4. k. er aftur í fornri goð­­sögunni um Viri­díanus og Díönu, 5. k. eins og úr þögulli kvik­mynd, tíð­inda­lítilli. Og svo fram­vegis, hver frá­sögn er ótengd hinum á yf­ir­­borð­­inu. Sam­­eig­inlegt er hug­ar­­ástandið, að aðalpersónan sér sig sem ein­stæð­ing, ógn­að af ópersónu­leg­um öflum. Hallberg tengir þetta öryggisleysi við sam­band karls og konu (bls.130-132).


Þessar frásagnir Fuglsins hafa hver sinn sérstaka stíl. Meg­in­ein­kenni stíls bóka Thors er, að framvinda sögunnar einsog stöðvast við mjög mynd­ræn­­ar lýs­ingar. Einn­­ig í t.d. Ópinu er stíllinn fjölbreytt­ur. Þegar sögð er saga Istvans verka­manns og Evu konu hans (bls. 62-5) ber mest á stuttum að­al­setn­ing­um sem oft hefjast á tengingu (Og, En), og fleiri tal­máls­­­einkennum. Einn­ig koma þó lang­ar málsgreinar eins og í klausunni hér að ofan, þannig virð­ist dreg­ið í eina heild það sem á þó fátt eða ekk­ert sameiginlegt. Stundum skip­tir skyndi­lega um stíltegund, og alveg til­efn­is­laust, að því er virðist, yfir í Íslend­inga­­sagna­stíl eða Biblíu­stíl (t.d. bls.100). Í raun­inni er orðaval og setn­­­inga­gerð jafn­­­sund­ur­leitt og textinn að öðru leyti. Því finnst mér óheppi­legt að Sigríður skuli segja (bls. 19) að stíll­inn gegni hér því hlutverki að skapa ein­ingu skáld­verksins. En þá á hún við það sem ég kýs að kalla frá­sagn­ar­hátt, hún segir (tv. st.):



Stílbrigði eins og myndhverfingar, líkingar, nafnskipti, hluti fyrir heild, end­urtekningar, táknræn litameðferð eru í með­för­um hans þeir þætt­ir sem vinda frásögninni fram; sjálf frá­sögnin. Þessir stílrænu form­­­­gerðarþættir spinna textann á ólíka vegu en halda honum jafn­framt saman og skapa heild skáld­sögunnar.



Í Ópinu segir í upphafi frá litlum hópi fólks á göngu, líklega í sveit á Ítal­íu. Og sög­­unni lýkur hjá sama hópi, en inn á milli fer hún út og suður. Fylgst er með einstökum persónum, einkum rás­kenndum hugs­un­um þeirra og minn­­­­ing­um út um allar trissur, raun­verulegum og ímynd­­uð­um. Sögu­svið­ið er ýmist þessi ítalska sveit, þorp og kastali, eða þá stór­borg þar sem verða blóð­­ug átök mót­­mæla­fólks og lögreglu. En annað veifið víkur sög­unni skyndi­­­lega í íslenska nátt­úru eða niður á hafsbotn. Og það gerist fyr­ir­­vara­laust í miðri lýs­­ingu (t.d. bls. 121,126). Sigríður segir um þetta (bls. 20-2):



Skáldsagan líkt og bítur í skottið á sér og tengir hin ýmsu hug­­renn­­inga­­­tengsl eða myndskot við búkinn með breyttum end­­ur­­tekn­­ingum. Hring­­lög­un setur mark sitt á hvern kafla, jafnvel ein­­staka þætti þannig að svo virð­ist sem tíminn standi kyrr er hug­­urinn reikar. Kaflarnir hefj­­­ast á ein­hvers­konar raunsviði sem hug­arflugið spinnur sig út frá. Ein myndin rek­ur aðra, sviðin riðl­ast þar til truflun verður þess vald­andi að raun­sviðið þreng­ir sér aftur inn í vitundina og lokar kaflanum í upp­­hafsstöðu sinni. [og bls. 22:] Annað megin­ein­kenni á form­gerð Óps bjöllunnar er öskju­lag­ið [..] líking hans við Decamerone eftir Boccacio. Hallar­gest­ir­nir stytta sér stundir [..] með því að segja hvert öðru sögur sem spretta hver upp úr ann­arri. Ákveðin atriði sagnanna svo sem mynd­hverf­ing, litur eða tákn verða uppsprettur nýrra sagna og þannig koll af kolli. Þessar sög­ur eru innskotssögur hver inni í ann­arri og verkið því byggt á sífelld­um vís­­unum í sjálft sig. Vit­und­ar­streym­ið gegnir hliðstæðu hlutverki og inn­­­skots­sög­ur­nar, það sýnir rang­hverfu þeirrar til­veru sem hall­ar­gest­­ir­n­­ir lifa í; tjáir hið ósegj­an­lega sem blundar í hug­skoti mann­­eskj­unn­ar. Af þessu má álykta að hneigð frá­sagn­­­ar­innar sé lóð­rétt fremur en lá­­rétt. Inn­skots­sögur og vit­­­und­­ar­streymi víkka og dýpka merk­ing­ar­mið sögu­heild­arinnar sem virð­ist ákaf­lega kyrrrstæð þar eð inn­skots­sög­­ur með urm­ul mynd­skeiða líða hver yfir aðra fremur en að lesta sig í lárétta at­burða­rás.



Í sögunni eru umræður um málefni líðandi stundar, en einkum lýsingar, smá­­sæjar og nákvæmar, sem rjúfa alla at­burðarás, og eru stund­um mjög sér­kenni­­­legar. Eitt mest sláandi dæmi þess er þegar stúlkan leiðir manninn af stað inn ganginn sem áður var nefnt, þetta er spennandi. En síðan er ná­kvæm­­lega lýst málverkum á ganginum, þau eru af forfeðrum hallareiganda. Fyrr en varir hefur þessi hallar­­­gangur svo breyst í götu (bls. 89), og nú er lýst því sem fyrir augun ber í búðargluggum og á torginu. Þar á meðal eru fata­­gínur, lýsing þeirra hverfist yfir í lýsingu kvenna af öllu tagi, sumar þess­­ar lýsingar eru losta­fengn­ar. En stúlkan er lengstum alveg horfin, það er ekki fyrr en á bls. 112, sem hún leiðir manninn inn í herbergi. Enn hverfur öll losta­­­spenna við nákvæmar lýsingar á búnaði herbergisins. Það er í sam­ræmi við allar þessar tafir, að konunni tekst ekki að fá mann­­inn til við sig, hann er kald­ur. En þetta er dæmigert fyrir fram­gang sögunnar, að vekja vænt-ingar hefð­­bundinna sagna, en bregðast þeim með því að dvelja við skynjun augna­bliks­­ins, eins og segir á kápu­texta. Gagnvart slíkum rithætti hlýtur sú spurn­­ing að vakna, hvort nokkuð tengi bókina í eina heild, eða er hún bara sam­tín­ing­ur af skissum? Svarið er, að atriði sem end­urtekin eru í breyttu formi, tengja allan þennan texta í samstillta heild. Það eru ýmis­konar end­ur­tekn­ing­ar, en einkum á dramatískum atriðum. Hestar á hlaupum mega vel virðast tákn losta eins og Sigríður túlkar þá (sjá t.d. Ópið, bls. 57 og 67), einnig dans í skóg­ar­lundi. Ofbeldi brýst hvað eftir annað fram í átökunum á torginu, og enn þrá­lát­ari er mynd konu sem hefur verið nauðgað. Útlitslýsingar persón­­­­anna snú­ast mikið um sömu drætti, föl andlit, köld augu. Eins og Sig­ríð­ur orðar það (bls. 38-9): "Lýsingar persóna draga fram sammannleg ein­kenni fremur en þær miði að sér­tækum og heil­steypt­­um manngerðum." Enn tel­ur hún mörg end­urtekin atriði, hrægammar minna á dauðann, einnig mán­inn (sjá bls. 31 o.áfr.).


Almennt má segja um skáldsögur Thors, að textinn er mjög myndrænn, dett­­­ur nánast sundur í augnabliksmyndir. Hann er auk þess mjög fjöl­breyti­leg­ur, svo ekki verður séð að einstök atriði raðist eftir neinu kerfi, en þau tengj­­­ast marg­víslega innbyrðis með þráhyggju­­­kennd­um endur­tekn­ingum drama­­­tískra mynda sem eru þó síbreyti­­­legar. Þetta virðist mér kjarninn í list Thors, því verða sögur hans í senn grípandi og altækar um líf manna, og óræð­ar eins og lífið sjálft, einmitt með því að fylgja ekki söguþræði.


Inn á milli sendi Thor frá sér sögur sem voru í röklegu sam­hengi, enda þótt framsetning væri að öðru leyti með fyrri hætti; myndræn, lit­rík og með lang­­­sóttum lík­­ingum. Þar má nefna til Foldu (1972) með þrem­ur sögum. En sér­­staklega koma hér til álita nýjustu bækur hans, Grámosinn glóir (1986) og Náttvíg (1989). Í Grá­­mos­an­um eru persónur skýrt af­mark­aðar, þótt ekki séu þær ævinlega nafn­­greind­­ar, oft er fylgt fyrra hætti að til­greina bara stöðu; "presturinn", "hrepp­stjóri" o.sfrv. Í Náttvígum eru persón­ur líka eink­ar skýrt mótaðar, með hver sitt tungutak. En inn á milli frá­­sagn­arkafla eru ská­letraðir end­ur­­minn­­­inga­­­­kaflar, og þar er óljósara hver hugsar hvað. Persón­ur renna því enn á viss­an hátt saman með því að dregið er fram hið sam­­mann­lega. Og lýs­ing­ar eru svo ítarlegar og stundum með annarlegum lík­ing­um, að fram­rás sög­unnar stöðv­ast.





16. Á 6. áratugnum


Hér verður vikið að sjö höfundum, og er þó lítið um módernisma hjá þeim flestum.



16.1. Jón Óskar og Geir


Smásagnasafn Jóns Óskars (f. 1921), Mitt andlit og þitt, birtist 1952, en 1956 Stofnunin eftir Geir Kristj­ánsson (1923-1991). Ein­­stakar sögur eru mun eldri (Jón Óskar upp­lýs­ir um sínar í formála safnsins Sögur). Matthías V. Sæ­munds­son fjallar í fyrrnefndri grein 1981 m.a. um efn­­is­­atriði og hug­mynda­­heim Stofnunarinnar. Þetta eru fyrstu smá­sagna­söfn beggja, og eðlilega nokkuð sund­­ur­leit. Allur þorri sagn­­­anna má telj­ast hefð­bund­­­inn að bygg­ingu og frásagnarhætti, hér er helst hugandi að einni sögu hjá hvor­um, og eru báðar síbylja og hugar­flaum­ur. Saga Jóns, "Sonata quasi una fantasia" tek­ur yfir 4 bls., allt ein máls­­grein án greinar­merkja. Þetta eru hugs­anir fanga, sem situr einn í klefa sín­um og horfir út um gluggann, hlustar á út­varp. Um klef­­ann segir það eitt, að eng­ar myndir eru á veggjum. Út um glugg­ann sést eitt­­hvert lág­marks­landslag; tún, vatn, blámi himinsins, "og fyr­ir handan vatn­ið er fjarskans dular­djúp eins og skáldin segja". Um fortíð fang­­­­ans kem­ur það eitt fram, að hann hafi aldrei skilið mannlífið, og ekki lög­in, hann sitji inni fyrir að hafa svikið fé af mönnum, þó gangi aðrir lausir, sem séu tífalt sekari. Verst þyk­ir honum að fangavist hans bitni á móður hans, því hún sé eina góða mann­­veran sem hann þekki. Hann minnist þess hve hrædd­ur hann var í bernsku þegar faðir hans fór að berja móður hans.


Þetta er ekki mikil mannlýsing, hvorki beint né óbeint. Miklar end­ur­­tekn­ing­ar eru á þessu flestu, og nú kemur til kynning út­varpsþular, það eru "ann­arleg orð"; auk titils tón­verks­ins og þarmeð sögunnar eru það kafla­heiti á ítölsku; "adagio sostenuto, allegretto", o.s.frv. Þetta er hér fulltrúi tón­verks­ins sjálfs, sem hefur mikil áhrif á mæl­anda, hann dregur nú upp allt aðra mynd af um­hverfinu fyrir utan gluggann, en afneitar henni jafnframt (bls. 153): "það er ekki tungls­ljós nei nei ekki elskendur á báti á vatn­­inu". Þessu fylgir, um mið­bik sög­­unnar, að mælandi fer að lýsa sjálf­um sér utanfrá (s.st.): "finn ég skyndi­­­­lega að ég er farinn að brosa og þó ég sjái mig ekki í spegli veit ég að það er dap­ur­legt bros". Æ meir er talað um hve ókennilegur og annar­leg­ur hann verði í eig­in augum, en jafn­framt sam­samar hann sig Beethoven, sem hafi "sloppið út". Sagan þró­ast frá einmana­kennd fang­ans til sam­­kenndar, sem er svo sterk, að text­inn leysist upp, verður sund­ur­laus í lokin (bls.154):



hó já en út hó en út en út en út en ekki tunglskin hó nei en út hef­ur­ðu sloppið kunningi út sloppið hó en ekki tunglskin ekki ást nei en út hó en út nei en já en hó en út í kvöld í sónata í maí! -



Saga Geirs Kristjánssonar "Á grasinu" er rúmlega 4 bls. í litlu broti. Einn­ig hún er aðeins ein málsgrein, en stundum eru hlutar hennar aðgreindir með þrí­punkti. Þetta er hugar­flaumur róna sem liggur á Arnarhóli. Sagan hefst á því að hann hefur kom­ið heim í bragga til sambýliskonu sinnar, en er vísað út, því hún er með sjó­liða hjá sér. Rúm­lega fyrsta bls. lýsir ferð hans það­an nið­­ur á hólinn, og þetta er runa af nafn­háttum með ákvörðunarliðum, og þrí­punkti á milli. Dæmi (bls.39):



...að vera kominn niður í mitt kogaraglasið frá því um níuleytið...á þúfu uppi á Arnarhólstúni... og sjá engan sem upplagt væri að tala við og hægt væri að segja sína ástarsorg



Í miðbiki sög­unnar, sem næst kemur, hefjast hins­vegar margir liðir á "...og þó að". Með þessu móti verður lesendum skynj­­anlegt hvernig hugs­an­ir mælanda fara í hring, og eru sífellt rofnar.


Orðaval er fremur hversdagslegt, en ber nokkurn svip af sínu fólki, þ.e. reyk­­­vískt slang um miðja 20. öld, "sloj, dobla, gera honnör, kjafta hann upp", einnig getur það verið spaugilega hátíðlegt; "og þó að maður sé rauna­mað­­ur í þessu hjóna­­bandi og í ástarsorg eins og ástatt er".


Stundum er textinn myndrænn, t.d. kemur óhugnanleg und­­­ir­alda í lýs­­ingu mannsins þegar hann fer niður holtin, eins og hengdur (bls. 38): "...að dingl­ast í sveig­um niður holtin eins og hangandi í krók".


Eftir fyrrgreint upphaf sögunnar fer meginhluti hennar í hring að segja má, henni lýkur þar sem mælandi skyggnir glas við sólu, sitj­­andi á gras­inu. Þar á milli lætur hann hugann reika um ým­islegt í aðstæðum sínum, eink­um hjóna­bandið og of­drykkj­una.


Þessir tveir textar eru býsna ólíkir, þótt báðir byggist á sömu aðferð, hug­­arflaumi. En það sýnir best hve næmlega þeir ná hug­ar­ástandi mæl­anda, hvor um sig. Þetta eru stakar tilraunir hjá báðum höf­undum, sem ekki varð fram­­hald á, svo vel sem þó til tókst.



16.2. Ásta Sigurðardóttir (1930-1972)


sendi frá sér fyrstu og frægustu smá­sögu sína "Sunnu­dags­kvöld til mánu­­­­dags­morguns" árið 1951, fleiri sögur á næstu árum, og loks smá­sagna­safn árið 1961, sam­nefnt fyrstu sög­unni. Matthías V. Sæ­munds­son hefur (1986, bls. 149) kallað sögur hennar "mód­ern­ískar", vegna þess að stíllinn sé "ex­pressjón­­­ískur og vanabundin skynjun fram­­and­gerð með ýmsum hætti", auk þess sem sjálf að­al­persónu sé sundrað, líkt og í persónum Thors Vil­hjálms­­son­ar (bls.151, 154). Matthías greinir þessu til stuðn­ings ofannefnda smá­­sögu, enda koma ekki aðrar til álita að minni hyggju, aðrar smásögur Ástu eru hefð­­bundnar í meginatriðum. Og ég get ekki fallist á þessa kenn­ingu Matthí­as­ar. Skynjun aðal­persónu er vissulega brota­kennd, hún er föst við augna­­­­bliks­­mynd­ir, og skyndilega er farið á milli þeirra. En með þessu er listi­lega sýnt að hún er drukkin, en ekki látið nægja að segja það. Skýr sögu­þráð­­ur ríkir frá upphafi til enda. Aðalpersónan er skýrt mörk­­uð í and­stöðu við aðrar persónur sög­unnar, og hún er sjálfri sér sam­kvæm frá upphafi til enda. Þetta gildir ekkert síður þótt hún sjái sjálfa sig um stund með augum þeirra, það þýðir alls ekki að umheimurinn hafi "svipt hana eins­takl­ings­eðli", svo sem Matthías segir (bls. 154). Hún er vissu­­­lega útskúfuð, en það er ein­mitt af fé­lag­slegum ástæðum, hér er ekki um þá "til­vist­ar­lega einsemd" að ræða, sem Matthías bendir rétti­lega á að ein­kenni smá­sögur Thors og Geirs Kristj­ánssonar frá sama tíma. Um­­hverf­is­lýs­ing­ar­nar sýna inn í sál aðal­­persón­unnar fyrst og fremst, en það var gamalgróið í sagna­­hefð­inni, eins og hér hefur verið rakið. Stiga­op, sem reynt er að hrinda henni niður í, birtist henni sem botnlaust díki, gat­an úti sem gjá milli hamra­bjarga. Í andstöðu við þetta er svo falleg mynd morg­unsins: "Sól­­hvít­ir mávar hnituðu hringa yfir sjón­um, meðan ljósir öldu­fald­ar brotn­uðu í löngum röðum á kolbláum haf­flet­inum og upp í flæð­ar­mál­ið. Það var glaða­sólskin og ljósrauð skýjabönd belt­uðu jökulinn." En þótt sögu­maður tali mest um tilfinn­ingar sínar og þær speglist svona í um­hverf­islýsingum, þá teng­ist það ekkert ein­kenn­um expressjón­­ism­ans sem lýst var hér fyrr.



16.3. Nýjungar?


Í fyrrnefndri grein sinni 1988 sagði Ástráður Eysteinsson m.a. (bls. 277):



ég tel að þótt módernismi í íslenskri skáldsagnagerð hafi verið "mögu­leiki" síð­an Bréf til Láru og Vefarinn komu fram, þá verði hann ekki að við­miði, virku sam­felldu afli, fyrr en eftir miðjan sjö­unda áratuginn. Í þeim skiln­ingi má líta á Tómas Jónsson sem braut­­­ryðj­anda­­verk. [... en] auðvitað réð­ust ýmsar skáld­­sögur á þessu milli­tíma­­bili að rótum raun­sæ­is­hefð­ar­inn­­ar, verk eins og Gresjur guð­­dóms­ins eftir Jóhann Pét­­urs­son (1948), Ástarsaga eftir Steinar Sig­ur­jónsson (1958), Horft á hjarn­ið (1958) eftir Jóhannes Helga og Gang­­rimla­hjólið eftir Loft Guð­mundsson (1958).



Varfærnislega er þetta orðað, en þetta er fróðlegur listi. Gresjur guð­dóms­ins er samin sumar og haust 1946, að því er Jóhann (f. 1918) segir í bók­­­arlok. Sagan segir frá nokkr­um mánuðum í lífi ein­stæðings, ungs karl­manns sem flust hefur frá þorpi úti á landi til Reykjavíkur. Framan af berst hann í bökkum, en fær svo óþrifa­­lega erfiðisvinnu, og her­bergiskytru illa búna. Undir lokin lendir hann að nýju í fjár­hags­kröggum vegna ölæðis, og sög­­­­­unni lýkur á því að hann snýr aftur til heimabæjar síns.


Sagan er í eðlilegri tímaröð, en mjög viðburðasnauð, og lítt ber á öðr­um persón­­um en sögu­­manni. Hið eina sem greinir þessa sögu frá skáld­­sagna­­hefð­­inni er stöðugur hugs­ana­­flaum­ur sögu­manns. Nokk­uð bregð­ur þar fyrir end­ur­minn­ingum, en lítið fer fyrir beinni skynj­­un á umhverfi sögu­­manns. Hann er mest með hugann við sig sjálf­an, þrúgaður af vanmeta­kennd og alltaf á varðbergi. Stundum yfir­fær­ir hann þessi nærtæku áhuga­efni sín á umhverfið, t.d. verður eigin tann­pína hon­um til­efni til hug­leið­inga um rotið þjóð­félag, og hvern­­ig eigi að ráða bót á slíkum skemmdum með hrottalegum aðgerðum. Mik­ið af al­menn­um vangaveltum er sam­ferða hugs­ana­­flaum­in­um, þar sem mað­ur­inn er alltaf að meta sig á mæli­­kvarða með­al­hegð­unar og almennra við­horfa. Að því frá­töldu minnir þetta tölu­­vert á Sult Knut Hamsun, sem birt­ist á íslensku ör­fá­u­m árum ár­um áður (1940), einnig gætu þessar stöðugu pæl­ing­ar sögu­­manns í sjálf­um sér minnt á rit Þórbergs frá 1938-40, Íslenskan aðal og Of­­vitann, þótt ólíkt séu þau líf­­meiri. Einstaka sinn­­um bregður fyrir ein­hverju nýstárlegu í stíl, t.d. sund­ur­laus­­um setn­inga­slitr­­­um (bls. 174 og 177). Einn­ig eru viðlíking­ar svo sem "Ég var úr­illur eins og í návist tengda­fólks" (bls. 160), "Annars hafði létt til þegar leið á daginn, og blár stjörnubjartur him­­inn­inn með þjótandi leiftr­um, gos­frá­um norð­ur­ljós­um einsog - af­sakið, kem­ur engin samlíking til greina - og svipti mig því, sem ég hafði öðlast." (bls. 200). En fráleitt væri að kalla söguna mód­erna.



Enn fráleitari væri slík einkunn á skáldsögum Lofts Guð­munds­sonar (1906­-1978). Jónsmessunæturmartröð á fjallinu helga (um 300 bls., 1957) er vís­ind­asaga eða fram­tíð­ar­fantasía. Eins og títt er um slíkar sögur, er þetta þjóð­­­félagsádeila undir rós. †mis ein­kenni á íslensku samfélagi eru ýkt og skopstæld. Þessvegna verður atburðarás og pers­ónur með nokkr­um ólík­ind­um, en að öðru leyti rýfur sagan ekki á nokkurn hátt skáld­sagna­hefðina. Sögu­maður er borgfirskur sveita­maður og settur sem and­stæða vitfirrtrar nú­tíma­­­ver­aldar. Sífellt er staglast á þessum andstæðum án þess að þær þróist á nokk­­­urn hátt, og mér virðist réttmæt gagnrýni Halldórs Stefánssonar (í TMM 1958, bls. 97):



Þetta eru aðeins framhliðar á fólki, dregnar upp til skýringar á við­fangs­efni höf­undar. Og af því leiðir einnig að lesandanum finnst hann frem­ur vera að lesa fjar­stæðu­kennda skýrslu um þessa atburði en hann kynnist mönn­um sem ábyrgir séu fyrir þessu heimskulega ald­ar­fari.



Gangrimlahjólið (rúml. 150 bls.) birtist árið eftir, og má heita þjóð­­­fé­lags­­­ádeila í formi fortíð­ar­fantasíu, eins og hin bókin var fram­­tíðar­saga. Það er ann­­ar þráður bókar­innar af tveimur, sem skipt­ast á. Þessi er goð­­sögu­legur, og rek­ur upphaf vél­menn­ingar og með­fylgj­andi kúgunar í forn­öld. Hinn þráð­­ur­inn segir frá ótrúlega ein­hæfri og leiðinlegri skrif­stofu­­vinnu, tvær kon­ur og karl­­maður telja hvert eftir annað 100 skjöl í bunka, alla daga. Karl­mað­ur­­inn er sögu­­­miðja, en konurnar reyna við hann, fyrst sú ljóshærða, síðan hin dökk­­­hærða. Lítt verður þeim ágengt, og fátt ber til tíð­inda. Hvor sagan um sig er í venju­­legri tímaröð og rök­legri fram­rás, en lítið gerist. Sög­ur­nar tengj­ast þann­ig, að sögu­maður fer að skynja fortíðarsöguna í ein­hæfri vinnu sinni (bls. 51 og 77). Ekkert mód­ernt verður séð við þetta, sagan er auk þess afar stagl­­söm og fátækleg. Sjálfsagt á það að sýna afmennskun, eink­um til­breyt­ing­­ar­laus­ar lýs­­­ingar á vinnunni, en einnig t.d. sam­fara­lýs­ing (bls. 96-8).



Horft á hjarnið var önnur bók Jóhannesar Helga. Hún er rúml. 60 bls. og greinist í tæplega 20 þætti, sem gerast ým­ist í París, á togara úti á sjó, eða í Reykja­vík á ýmsum tím­um og með ýmsum persónum. Nú eru þættirnir ekki öðru­­vísi að­­greind­ir í upp­setningu, en með þreföldu línu­bili og krúsi­dúllu. Og vissu­­­­lega mælir ekkert bein­línis gegn því að skilja þetta sem end­ur­minn­ingar einn­­ar persónu. En mér sýnist engin leið að líta á bók­ina sem eina heild, enda þótt höfundur kalli hana "verk" (í ein­tölu) í eftirmála, og hún sé kölluð "skáld­­saga" í skrá framan við bók hans 1976. Því ekk­ert sé ég tengja þættina, ekki einu sinni sögumann, þar sem yfirleitt fer nær ekkert fyr­ir hon­um. En það verð­ur ekki talað um "sundraða fram­setn­ingu" verks nema það sé ein heild. Þetta er því safn augna­bliks­mynda, að því leyti sam­­bæri­legt við fyrstu bæk­ur Thors Vil­hjálms­sonar.



16.4. Steinar Sigurjónsson


(f. 1928) sendi frá sér fyrstu bók sína 1955, Hér erum við. Höfundur var prentari, og tekið er fram að hann hafi sjálfur sett bók­ina. Væntanlega hef­ur hann líka gefið bókina út sjálfur, ekki er annars getið. Sama gildir um næstu bók, ást­arsögu (1958), og kann það að skýra hve óvenjuleg staf­setn­ingin er á þeirri bók, þekkt forlag hefði vænt­an­lega verið tregara til að gefa slíka bók út. Næstu bækur Steinars birtust hins vegar hjá kunnum forlögum.


Fyrsta bókin er aðeins 43 bls., tólf þættir. Margir þeirra eru um 1 bls. á lengd, en tveir þeir fyrstu eru hvor um sig 10 og 9 bls. Allir þætt­ir­nir eru dag­sett­ir, og þetta minnir á fyrstu bækur Thors Vilhjálmssonar (þá nýútkomnar, 1950 og 1954), sem og að­stæð­ur í mörgum text­anna; ein­angr­­­aður maður er þar sýnd­ur, en atburðarás er nán­ast eng­in. En text­ar­nir í þessari fyrstu bók Stein­ars eru ekkert sérstaklega mynd­rænir, og í rauninni er ekk­ert mód­ernt í þessu, þótt t.d. önnur helsta persóna fyrstu sög­unnar sýni óskiljanleg við­­­brögð, sem reyna á hugarflug les­­enda.


Módern er hinsvegar ástarsaga (104 bls.). Hún gerist á rúm­­um sól­ar­­hring á Akra­nesi, og er samtímasaga að því er best verður séð. Hér seg­ir frá tveim­­ur skips­félögum sem fara að drekka saman. Síðar bætast fleiri í hóp­inn, þ. á m. Kiddi kokkur, sem hafði verið að berja konu sína Láru, af því að hann þótt­ist hafa staðið hana að fram­hjá­haldi. Daginn eftir berst hon­um bréf frá henni, þar sem hún ber þetta af sér. Þau sætt­ast, og sögunni lýkur á sam­tali Láru við frænku sína, sem hún játar fram­­hjá­haldið fyrir. Í sög­unni bregð­ur fyr­ir sögumanni í 3.persónu, hann kynnir persón­ur eða lýsir fasi þeirra (t.d. bls. 31-2, 67, 73). En hann kemur sjaldn­ast beinlínis fram, og sjón­ar­horn er mjög breyti­legt. Stundum er beint sam­tal persóna, t.d. í upphafi sög­unn­ar, en fær­ist skjótt yfir í hug­renn­inga­­flaum þeirra einnar af annarri, og ekki eru alltaf ljós skil milli persóna. Mikill tal­máls­blær er á tali þeirra og á köfl­um sem sýna hugs­­anaflaum. Þar ríkja end­ur­­tekningar, stuttar, ófull­­komn­ar setningar, "mál–vill­ur" og slettur. Þetta gildir einnig um skrif­aðan texta sem birt­ist í bókinni, þ.e. bréf Láru (bls. 81-3). Auk þess er stafsetning sem fyrr segir fjarri þeirri sem kennd er í skól­um, og einn­ig það setur talmálsblæ á textann (t.d. bls. 33):



jæa, diddi, þú ert eittkað so dauuvur.


aftur í ana .. kvað er þetta; lúúr á þessu!


nei, diddi. heldur a é sé a lúr á snafsinum þegar ég á ann? nei, vinur.



En það sem gerir söguna móderna er auðvitað ekki þetta heldur hitt, hvern­­­ig sagan stekkur skýringalaust frá hugsunum og tali einnar persónu til ann­arrar. Hver hugs­ar mest um sitt líf, yfirleitt án beinna tengsla við hinar persón­­­ur­nar. Út­kom­an verður brota­­kennd mynd af sálarlífi sukksams al­þýðu­­fólks. En þótt sag­an sé brota­kennd er hún ekki óskipu­leg, heldur má glöggt greina stíg­­andi und­­ir niðri í sögunni. Framanaf birtast ein­stakl­ingar sem hugsa um til­breyt­ing­arlaust og tómlegt líf sitt. En seinni hlut­inn snýst um sam­búð og fjöl­skyldu­­líf, og eru áhöld um hvort það birt­ist í jákvæðari mynd en líf ein­stæð­inganna. Þar segir diddi kokkur fyrst frá nýorðnum hjóna­bands­átök­­um sínum (bls. 32-46), þá koma minningar einhvers áheyr­anda um hvern­ig hann leit Láru konu hans girndarauga (bls. 46-54). Síðan koma minn­ingar didda um hjóna­bands­sælu (bls. 54-67), þá hugsanir Jóns um tóm–legt líf sitt og ein­semd (bls. 67-73). Samtal skipsfélaganna þegar þeir vakna, síð­an kemur gústi til didda föður síns og við sjáum bréf Láru (bls. 74-83). Hugs­­an­ir Láru (bls. 85-89), samtal þeirra didda, ástalífsminningar (bls. 90-106), loks samtal Línu og Láru (bls. 106-110). Þessi brot eru því hnituð um miðju. Þetta er fyrsta móderna skáldsagan á íslensku, og hefur frægð Steinars orðið undarlega lítil, nema í fremur þröngum hópi bókmenntavina.


Svipað efni birtist í næstu bók Steinars, Hamingjuskipti (1964). Þar er því samþjappað í einn brennivínsberserk og slagsmálahund, sem eftir ósig­ur leggst í óþrif og volæði, en andstæðan birtist í smáborgaralega fínum ætt­ingj­um konu hans Kristínar. Miklar and­stæður eru hér í stíl málfars eft­ir stétt persóna. Rit­mál í tali frænku Kristínar, og þar af leiðandi einnig nokkuð í tali Krist­ínar sjálfr­ar. Tal sögu­manns er háðskt (t.d. nafn­giftir stráksins í 6. k). Fyr­­ir kemur að textinn færist ógreinanlega frá hugsuðu tali Kristínar til eigin­manns­­­ins. En aðalmunur sagn­­anna er sá, að enda þótt sjónarhorn færist einn­ig hér milli helstu persóna, þá eru þær aðeins tvær, og sagan öll er í skipu­legri fram­rás, rökleg heild. Tvær bækur gaf Steinar út 1966 undir dul­nefninu Bugði Beyglu­­son; ljóðabókina Fellur að og skáldsöguna Skipin sigla. Einn­ig hún ger­ist á Akranesi, rök­leg atburða­rás, skýr persónu­­sköp­un, o.s.frv., það er ekk­ert módernt við þessa skemmtilegu og vönduðu sögu. En 1967 birtist Bland­að í svart­an dauð­ann. Rúmur helming­ur þessa verks er endurtekin ást­ar­­saga, nokkuð umrituð. Framan á hana er skellt uþb. 5 bls. þar sem seg­ir frá Kol, ógurlegum slagsmálahundi, sem allt ætl­ar að rota á böll­um Skaga­­manna. Hann er svo meðal persóna sem sitja að sumbli í 2. bók þessa verks. Sögu­maður er hér Dóri, sem Lára hélt við í ástarsögu. Hann kem­ur nú á forn­ar slóðir í fyrsta skipti í áratug. Lára hefur yfir­gefið Didda kokk, sem ligg­ur þarna í óstöðvandi drykkju og volæði með Koli og fleirum, loks brenna þeir upp til kaldra kola af því að þeir eru svo gegnsósa af vín­anda. Dóri hittir líka Láru sem reynir að tengja hann við sig á ný, með því að sýna honum barn þeirra og vola. En hann stenst ásókn hennar. Bókinni lýkur á 8-9 bls. viðauka, það er kunn­­­ingja­rabb, ek. fáránleg mann­­lífs­mynd.


Meginmunurinn á þessari 2. gerð og ástarsögu er að Bland­að í svart­an dauðann verður tragískari, þar sem henni lyktar í allri þessari hnign­un og tortím­­ingu í áfengi.


Módernisminn er með öðrum hætti í síðustu skáldsögum Steinars (t.d. Síng­an rí 1986, Sáðmenn 1989, Kjall­ar­­inn 1991). Þær eru viðburða­snauð­ar, en fullar af samtölum um ein­hvers­­­­konar lífs­speki. Þær eru því rök­ræðu­kennd­ar á yfirborðinu, en jafnframt er all­­mikill talmálsblær á þessum sögum, og sá blær eflist enn við það, að höf­und­­ur færir staf­setn­ingu nær fram­burði. Í þess­um samtölum er mikið um end­­ur­tekningar og spurningar, svo allt verður óljóst, það er eins og allt sitji fast. Lítill munur er á málfari persóna, þær verða því óskýrar, og samtölin fara í hring, leiða ekki til neinnar niður-stöðu. Í því birt­ist einmitt lífs­sýn verkanna, ein­hvers­konar tóm­­hyggja, eða kannski öllu held­ur það viðhorf að fjas sé ekki það sem skipti mestu máli í lífinu. Enn­frem­ur ber þó nokk­uð á sérkennilegum nýyrðum, þar sem orð eru færð á milli orð­flokka; t.d.í Kjallaranum "að fuma, að nautna sér, í greð-unni, það tárar af þér", hinsvegar eru sett saman orð frá mismunandi sviðum, svo útkoman verð­ur ankannaleg, ef ekki óskiljanleg. Sem dæmi má nefna að á einum stað (bls. 93) á kynferðislegt samband að vera til að finna réttlæti, og hrörnun húss á að sýna manns­sál. Það má að vísu taka sem skopstælingu á sumu húsvernd­un­ar­tal­inu fyrir nokkrum árum. Fram­an­greind sérkenni valda því að sögurnar verða hálfóræðar, framrás þeirra óskýr, og erfitt að fá botn í þær.





17. Á sjöunda áratugnum


Hér verður vikið að þremur höfundum, en tveir þeirra, Svava Jak­obs­dótt­ir og Guðbergur Bergsson hafa verið talin helstu módernu prósa­höf­und­ar á íslensku, auk Thors Vil­hjálmssonar.



17.1. Jón frá Pálmholti.


sendi frá sér fyrstu skáldsögu sína árið 1965, eftir tvær ljóðabækur (1958 og 1961). Skáld­sagan heitir Orgelsmiðjan og fylgir ekki skipulegum sögu­­þræði, held­ur stekkur á milli staða. Hún hefst í miðjum klíðum við aðstæð­­ur sem oft eru end­urteknar í sögunni. Söguhetjan, sem er bara kölluð "Hann" er í eldi, lost­fagr­ar stúlkur nálgast hann, en skyndilega er hann svo stadd­ur í íslensku fjalla­um­hverfi með kindum og berjalautum. Í þessum inn­gangs­­kafla blandast þann­ig saman atriði sem síðar koma hvert fyrir sig. Kafl­an­um (sem er aðeins ein bls.) lýkur á því að "Hann" er handtekinn. Það atriði er endurtekið ítarlegar í 2. kafla, en í 3. kafla er hann yfirheyrður á "stöð­inni" af feitum manni sem sit­ur við stórt skrifborð. "Andlit hans minnir á gamla rottu [...] Augnaráð hans minn­ir á skolbrúnan forarpoll" (bls. 13). Þessi valds­maður sakar "Hann" um að vera illa til fara.



Lubba­skapur og óhirða á almannafæri er tilvalin gróðrarstía fyrir bylting­ar­sinn­­­uð öfl. [...] Auk þess eruð þér grunaður um að vera skáld. það er þjóð­­­hættulegt nú á tímum. Þessir listamenn eru að verða eitur í þjóð­ar­lík­am­­­an­­um. Af hverju getið þið ekki ort eitthvað fallegt, eitthvað hugljúft og þægi­­­legt. Þið eigið að ríma. Sjáið þér til, við meigum ekki glata okkar þjóð­­­legu verðmætum Okkur er nauðsynlegt að leggja rækt við Íslend­íngs­eðl­­ið. Snorri Sturluson þóttist ekki of góður til að nota rím og Rembrandt, sá var nú ekki að sletta litunum bara einhvern veginn, einsog þið gerið núna og kallið list.



"Hann" er síðan leiddur niður í "pyndíngarstöðina". En í næstu köflum er hann skýringalaust staddur á ýmsum stöðum til skiptis. Fyrst á bílaverkstæði þar sem bílarnir dansa, en síðan brennur þar allt, einnig í íslenskri sveit, þar sem hann er næst. Hvað eftir annað er "Hann" staddur á samkomu þar sem allir fagna risavöxnum górilluapa. Sá flytur boð­skap (t.d. bls. 22) svipaðan þeim sem hér var tilfærður eftir yfirheyr­andanum, síðan ræðst apinn á "Hann".


Nokkuð ber á sundurleitum stíl. Frásögn sögunnar er víða ágeng eins og hér hefur komið fram, t.d. í lýsingum á persónum. Eftir að söguhetjan hefur verið leidd inn í geimflaug sem fer af stað, kemur slitrustíll, sem reyndar er einn­ig ágengur (bls. 43):



Vél­hróp. Æðisgenginn hraði. Gegnum tímann í blásandi byr. Gegnum rúm­ið, eilífðina, guðdóminn, lífsreynsluna. Gegnum allt. Skjálfandi lauf. Rísl golu í grasi. Ilmur af sjó. Gegnum allt. Upp. Uppyfir sorgina, gleð­ina, ástina stritið, fátæktina og auðsöfnun ístrubelgjanna. [...]



Í næsta kafla gengur "Hann" upp Bankastræti og tekur upp dagblað af göt­unni. Þá koma ýmsar ómerkilegar klausur á dæmigerðum dagblaðsstíl. Síð­an drekkur "Hann" sig fullan og traðkar á maðki eftir að hafa haldið yfir hon­um fyrirlestur til að sýna honum fram á hve ómerkilegur hann sé.


Oftast er "Hann" þó óvirkur áhorf­andi og áheyrandi, en ýmsar persónur þylja yfir hon­um, m.a. tveir eyði­merk­ur­farar, sem tóku gagnstæðar ákvarðanir við svip­að­ar aðstæður, Jesú og Satan. Sá fyrrnefndi varar við öflum á borð við þann síð­arnefnda sem er sléttmáll tals­mað­ur þess að ota sínum tota án tillits til ann­arra. En hann verður svo að viður­kenna, að hann eigi aðeins keypta vini (bls. 87-97). Auk alls þessa mál­flutn­ings ber nokkuð á því að skírskotað sé til sam­­tímastjórnmála, t.d. birtist vopn­að­ur hermaður sem talar við "Hann" á bjag­aðri íslensku og slær "Hann" í höf­uð­ið með byssu­skefti, en hermaðurinn kynn­ir sig (bls. 34): "Ég er viðreisnin". Svo nefndist rík­is­stjórn Íslands þegar bókin birt­ist, og fer ekki milli mála að hún muni vera bæði óþjóðleg og hættu­leg góðu fólki. Í næstsíðasta kafla lokast ramm­inn sem birtist í upphafi. Þar er söguhetja dæmd til að þola lögtak vegna ógreiddra opinberra gjalda, enda þótt hann hafi eng­ar tekj­ur haft. Það úrskurð­ar "Þorskur Hákarls­son borgarfógeti [...] Vottur: Kvíga Nautsdóttir". Bókinni lýkur svo á því að "Hann" hittir kunningja sinn sem býður honum í kaffi á skálanum. Í samtali þeirra mætast enn einu sinni and­­stæður. "Hann" langar á fjöll en kunninginn boðar félagslega virkar bók­mennt­ir (bls. 159-60):



Þið ættuð að fara á sjóinn og kynnast lífinu, í stað þess að hánga svona á sjopp­­­­um allan daginn, segir kunnínginn og ekur sér makindalega. Okkur vant­­­­ar líflegar bókmenntir. Eitthvað krassandi. Það kemur aldrei út bók, sem hægt er að tala um. [...] Þú ættir nú að taka þig til og skrifa ærlega skáld­­­­sögu. Eitthvað úr lífinu sjálfu. Hún þarf ekki endilega að vera falleg, en umfram allt úr lífinu. Ádeilusögu í svolítið gamansömum tón. Nútíma­sögu. Fantasíu um martröð bútímans, tæknina og svindlið. Sljóleik­ann og með­­­­vitundarleysið í samtíðinnni.


Nei segir Hann. Þá sögu hef ég nú skrifað. Ekki vantar mig yrkisefnin og munu aðrar betri koma seinna, ef lukkan er með mér.



Ekki birti Jón fleiri skáldsögur, en þetta er ágæt lýsing á Org­el­smiðj­unni. Hún er á mörkum módernismans, því málflutningur er meg­inatriði í henni. Ruglingsleg efnisskipan hennar er skýrð sem óráð söguhetju í pynting­un­um, en sýnir þó, að módernisminn hefur verið orðin eðlileg fyrirmynd skáld­sögu á þessum tíma.



17.2. Svava Jakobsdóttir


Fyrsta bók Svövu var smásagnasafnið Tólf konur (1965). Svo sem tit­ill­inn bendir til eru tólf smásögur í bókinni. Þær eru allar með hefð­bundnum hætti í megindráttum, en nokkurn for­boða komandi fram­úr­­stefnu má sjá í kjarn­­reynslu sagnanna, ef svo mætti segja. Þær lýsa all­ar hversdagslegum að­stæð­­um og draga fram tíðindaleysi, stíllinn er lát­­laus. En svo gerist eitt­hvert at­vik, sem er ekkert óvenjulegt í sjálfu sér, en fær þó aðalpersónuna til að stöðv­­ast við og skynja umhverfið á nýjan hátt, gjarnan sem yfirþyrmandi.


Hér er oftast um hversdagslegar aðstæður kvenna að ræða, til­breyt­­ing­ar­laus­­ar og þrúg­andi, þær halda hæfileikum kvennanna greini­lega niðri. Það er ríkj­­andi einkenni á sögum Svövu, en afgerandi breyt­ing varð þó á frá­sagn­ar­hætti með næstu bók, aðeins tveimur árum síðar. Það var smá­­­sagnasafnið Veisla undir grjótvegg. Einnig hér er stíll­inn lát­laus, raunar svo að það verð­­­­ur nánast áberandi, þótt mót­sagna­­­kennt kunni að virðast. Málsgreinar eru stutt­­ar og upp­lýs­­ingakenndar. Lítið er um beina ræðu og hún er mjög sviplítil. Sama verður þá að segja um persónur, enda þótt að jafnaði sé mikið sagt frá hugs­­unum persónunnar sem er í sögumiðju. Því þær hugsanir snúast mest um við­brögð hennar við væntingum annarra, þ.e. sýna aðlögun hennar að að­stæð­um, andstætt þeim einstaklingsþroska að greina sig frá umhverfinu. Sög­ur­nar eru og jafnan í eðlilegri tímarás, þar sem eitt leiðir af öðru. En allur þessi venjuleiki er í æpandi mótsögn við at­burði, sem með engu móti koma heim og saman við hvers­­dagsreynslu lesenda. Þetta er þó ein­­­ung­is í helm­­ingi alls tíu sagna, fyrsta sagan og önnur hvor þaðan af er með svip­­­uðu móti og sögur fyrstu bókarinnar. Eðlilegt virðist að skýra þetta víxl­form með vís­vitaðri viðleitni skáldsins til að halda í les­endur sem tek­ið höfðu ást­fóstri við sagna­­­hefð­ina, og þá væntanlega einkum við hversdags­sögur Svövu af konum. Jafn­framt því sem hún brýtur upp á nýj­ungum, brúar hún bil­ið. Þess ber þó að gæta, að í 3. smásagnasafni Svövu, Gefið hvert öðru frá 1982 eru að­eins tvær sögur af níu með þessu sniði fár­án­­leikans, sem kall­að hefur verið (tit­­il­­sagan og "Í draumi manns"), en hinar eru nokkurn veginn af því tagi sem ríkir í fyrstu bókinni. Í síðasta smá­sagna­safni Svövu; Undir eld­fjalli frá 1989 bregður óraun­veru­leg­um viðburðum fyrir aðeins í einni sögu (af sjö). Í heild er þá í mesta lagi fimmt­ungur smá­sagna Svövu af þessu tagi sem kennt hef­ur verið við fár­án­­leika, og mest ber á því í 2. smá­sagna­safn­­inu frá 1967, auk skáld­sög­­unnar Leigjandans frá 1969.


Í Veislu undir grjótvegg er þá um að ræða smásögurnar "Krabba­dýr, brúðkaup, andlát", "Saga handa börnum", "Kona með speg­il", "Þeg­ar skrúf­að var frá krananum í ógáti", og a.n.l. 6. söguna, "Eld­­hús eftir máli".


"Saga handa börnum" er ein kunnasta saga Svövu, tekin í mörg safn­­rit, m.a. fyrir skóla. Þar er í sögumiðju húsmóðir, sem fórnar sér fyrir börn sín og heim­ili. Hún er ráðvillt og fylgir í öllu nýjustu kenn­ingum um barna­upp­eldi, að láta börnin fara að eigin vilja, sjálf fer hún aldrei að sínum eigin vilja, enda hef­ur hún enga sjálf­stæða hugsun, hvað þá vilja.


Þetta gengur svo langt, að börnin skera fyrst af henni stórutá og taka síð­ar úr henni heilann, allt af forvitni eða vísindalegum áhuga. Kon­unni bregður lít­ið við þetta, hún á t.d. ekkert erfiðara með húsverk, og skilur dönsku kvenna­blöð­in alveg eins vel þótt hún sé heilalaus. Hér er sagan augljóslega tákn­ræn í hæðni, og táknrænar eru líka upplýsingar svo sem að hjarta hennar stækki til mót­vægis við heilaleysið, og að hún lætur bók­staflega skera úr sér hjart­að til að gefa börn­um sínum, en þau vilja það ekki. Allt byggist þetta á því að taka ýkt orða­lag bókstaf­lega, setja það á svið. Útkoman verður draum­kennd, og þá ekki síst vegna þess hve hlutlaus stíllinn er og sviplaus, eins og áður segir. Þann­ig verður hann í skarpri mótsögn við ótrúlega og blóðuga at­burða­­rásina, og gerir hana þannig meira áber­andi en ella myndi. En það að þætta fáránlega, en tákn­­­ræna atburði saman við þessa hvers­dags­mynd af að­stæð­um kvenna, verð­­ur til þess að sýna hvers­­dags­­legar aðstæður þeirra sem fár­án­legar. Bygg­ing sögunnar er líka áhrifa­rík í þessa veru. Fyrstu sjö bls. sýna hvern­ig konan læt­ur börnin misþyrma sér. Þá er sýnt tómið í lífi hennar eft­ir að þau eru farin (bls. 50), það hlutgerist í för hennar til læknis, þar sem of­vaxið hjartað er skor­ið úr henni (bls. 51). Og síðasta bls. sýnir einskonar písl­ar­göngu móð­ur­inn­ar milli barna sinna, sem hún býður hjarta sitt árang­­urs­laust. Þarna víkk­ar vísun sögunnar, þegar segir að hún hrökkl­að­ist und­an beiskju tengda­dætra sinna, en synirnir voru aldrei heima. Konan verður þar­með dæmi­gerð fyr­ir allt kven­kyn, aðstæðurnar breytast ekki. Loks situr hún ein í sinni stofu, líf­­fær­in eru í spritt­­krukk­um, einskonar hlut­gerv­ing ástands henn­­ar, og steríl lyktin fælir alla burt.


Flestar þær smásögur sem að framan voru taldar, eru tákn­rænar á áþekk­an hátt og þessi. Sama verður að segja um skáld­söguna Leigj­and­ann. Í meg­­in­atriðum er hún samkvæmt skáld­sagna­hefð, lýsir kunn­ug­legum að­stæð­um, enn þeim, að ung hjón eru að byggja sér hús af van­­efnum. Inn í leigu­íbúð þeirra flyst maður, óljóst með hvaða heim­ild­um. Hann er þó kall­aður leigj­­­­andi, og fellur um síðir inn í heim­ilis­lífið. Hann fær þeim pen­inga, svo að þau geta lokið hús­bygg­ingunni og flutt inn, leigjand­inn flytur þá með þeim.


Frásögnin er að mestu bundin við hversdagslegustu hluti, í eðli­legri tíma­rás, og stíllinn er látlaus. En ýmsir atburðir eru með full­­­­komnum ólík­indum, mis­­mikl­um þó. Leigjandinn fer sínu fram út­skýr­ingalaust, flyt­ur sófann úr stof­­unni fram í forstofu og sefur á honum. Hjónin flytja um síðir öll húsgögn sín á eftir honum þangað. Leigjandinn breytir útvarp­inu svo að það flytur ann­­ars­­­kon­­ar tónlist, það er "ærandi hávaði" á ensku (bls. 34). Leigj­and­inn tek­ur það að sér óbeðinn að gæta dyranna, jafnvel svo mjög, að konan fær ekki að gæta að því hver bankar á þær. Einnig hefur hann mikið eftirlit með för­um ókunn­ugs manns um fjöruna við húsið, mest þegar sá maður sést ekki. Eft­ir að flutt er í nýja húsið styttist hægri fótur eiginmannsins og vinstri fótur leigj­and­ans, loks renna þeir saman í eina ferhenda, tvífætta, tvíhöfða mann­veru. Þessi sam­runi er löngu undirbúinn með því að konan villist stundum hálf­­part­inn á mönnunum.


Allt frá því að sagan birtist, hafa þessi atriði verið þannig túlkuð, að leigj­­andinn tákni setu­liðið á Keflavíkurflugvelli, en hjónin íslensku þjóðina. Aðr­ir hafa sagt að þessi túlkun sé of þröng, sagan hljóti að eiga við um áþekk­ar aðstæður víðar. Rétt er það, en allt um það er þetta svo aug­ljóslega tákn­rænt, að sagan verður ekki talin módern. Sama gildir um önnur atriði, svo sem að þegar sagan virðist stefna að lýsingu á sam­för­um þeirra hjóna, fer svo, að konan leggur mann sinn á brjóst (bls. 43-6).Verður það vart túlk­að öðruvísi en svo, að í kynlífi þeirra felist það eitt, að konan annist mann sinn. Einnig er hitt tákn­rænt, að þegar kon­an er að raða gamla jólaskrautinu sínu í nýja húsið, og er í vand­­ræðum með að koma Maríu með Jesúbarnið fyrir, þá svar­ar María henni af mesta lít­il­læti, þarf ekkert pláss. Það hlýtur að merkja, að í býlífi nú­tímans sé ekki rúm fyrir kristilegan hugsunarhátt. Enda þótt sagan sé ekki rök­leg að fram­setningu í venju­legum skilningi, þá gengur í rauninni allt upp, allar vís­an­ir eru ljós­ar. En það er and­stætt mód­ern­ism­anum.


Önnur skáldsaga Svövu, Gunnlaðarsaga (1987), getur held­ur ekki tal­ist mód­ern. Þar fer tveim­ur sögum fram á ólíkum tímaskeiðum. Inn í nú­tíð­ar­sögu bland­ast goðsaga úr grárri forn­eskju, þannig, að mik­il­væg­ar persónur í nú­tíð­ar­sögunni uppgötva sannleikann á bak við rang­færsl­ur elstu heimilda. Með þeirri uppgötvun rétta þær hlut þeirra kvenna, sem sviknar voru forð­um, en upp­­götv­unin verður við hugsanatengsl sem forn­gripir miðla, að eins­kon­ar sam­eigin­legri dulvitund kvenna fyrr og síðar.


Helsta undantekningin frá táknlegri framsetningu í Veisla undir grjót­vegg gæti verið sagan "Kona með spegil" (tæplega 12 bls.). Sagan hefst í miðj­­um klíðum með óþægilegu bor­hljóði, smiðir eru að setja upp spegil í and­­dyri húss. Síðan kemur forsagan (sjöttungur text­ans), þar sem segir frá því hvern­­ig húsið var innréttað sem fullkomið hús­næði. En spegillinn reyn­­ist vera of lítill, svo konan tekur hann niður og fer út í bæ til að skila honum. Sú ferð nær yfir meira en hálfan textann (7 bls.). Fyrst segir frá ferð hennar með stræt­is­vagni, þar sem flest virðist ann­ar­legt. Loks skila lögreglu­þjónar henni heim aftur, og fá spegilinn að laun­um.


Sagan lýsir leit, en lýkur með erindisleysu. Reyndar er breyti­legt hvers er leit­að, svo sam­hengið verður draumkennt. Fyrst er leitað þess að full­komna íbúð­ina með því að setja upp speg­ilinn. Þegar það mistekst, reynir kon­an að skila honum aftur. En henni finnst hún ekki rata í miðbænum, og eltir því stúlku sem hún lenti á tal við, því hún þykist viss um að eng­inn annar geti vísað henni leið. Loks ákveður lögreglan henni nýtt markmið, heim.


Franska skáldið Stendhal skilgreindi skáldsögur svo, snemma á 19. öld, að þær væru speg­ill á ferðalagi. Það er þó ekki mein­ingin í þessari sögu, því speg­illinn hér sýnir ekki um­hverf­ið á ferð konunnar. Nær virð­ist að sjá hann sem hlutgervingu á ein­angr­unarstefnu konunnar: "Því að þeir sem komn­ir voru í eigið húsnæði þar sem allir hlutir voru full­komnir áttu ekki fram­ar erindi út" (bls. 138). "Með þessum hlutum [stofu­­plöntum] fann hún nú sömu óþreyju og í sjálfri sér; þeir biðu þess eins að öðlast fullkomnun: eig­in spegil-mynd."(bls. 139).


En spegillinn er of lítill, sýnir allt hálft og skert. Í samræmi við það er, að allt fólkið sem konan sér í strætisvagninum, er skert og bæklað. Fyrsta mann vant­ar fingur, annan fót, þann þriðja handlegg. Sjálf virðist konan svipt nefinu hálfu í spegl­in­um. Almennt eru andlit fólks­ins "tóm, svip­brigða­laus". Konan sest hjá fyrrnefndri stúlku, sem virð­ist vera í lagi, en hún reyn­ist þá geta snú­ið höfð­­inu í heilan hring, á óvenju­löngum hálsi. Sögunni lýkur hins­­veg­ar á því að háls kon­unnar sjálfrar hverfur. "Höfuðið sat á bolnum milli­­liða­laust og eng­in leið að snúa því hvorki til hægri né vinstri." (bls.148)


Það eru fleiri fráleit atriði í sögunni. Fyrst er nú það að konan læsir ramm­­­gerðri hurð­inni og fleygir lyklinum, því hún muni aldrei framar eiga er­indi út. En þá eru lúgur á hurðinni, önnur fyr­ir börn, en hin stærri fyrir eigin­mann og vöru­sendingar. Virðist þá tilgangslítið að læsa hurð­inni, en þó geta hvorki lög­reglu­þjónar né konan farið inn um gatið, heldur brjóta loks niður hurð­­ina. Þegar kon­an er í strætisvagni sýnist henni hann fara afturábak, og því álykt­ar hún, að hún sé í röngum vagni, en samt er um­hverfið eins og vant er, og því hljóti það að hafa verið sett saman að nýju í öðru landi. Svona mót­­sagna­kennda "röksemdafærslu" munu flestir kannast við úr draumum.


Í sögunni eru ýmis atriði sem brúa bilið frá hversdagslegri skynjun til fár­án­­­leikans. Þar má nefna undarlega persónugervingu í upp­hafi (bls. 137); "ilj­ar þeirra hjúfruðu sig að gólf­un­um". Einn­­ig það, að innan­stokks­munum er líkt við hið eftir­sókn­ar­verð­asta í náttúr­unni, það styð­ur full­yrð­ingu konunnar um að hún eigi ekk­ert erindi út úr húsi (bls. 138): "teppin á gólf­um voru loðin og mjúk undir fæti eins og velhirtur grasbali á sprettu­sumri, blátt og svalandi silki­­fóðrið á veggj­um minnti á himin á heið­ríkum degi [...] Eins og nátt­úru­vernd­aður skógur í miðri byggð stóð þessi gróður þarna í stofunni". Forboði af­­skræmda fólksins í stræt­is­vagn­­inum er það, að konan ber spegilinn svo að sjá má báðar vanga­­mynd­ir henn­ar í senn frá sömu hlið. Draum­­kennt er það einnig, hvernig til­svör eru rangtúlkuð; jafnvel lýstur saman tilsvör­um frá ólík­um svið­um. Þeg­ar konan segist hafa lent í vitlausum vagni svarar stúlkan (bls.143):



enn eru vegamál ekki komin í það horf hér á landi að snúa megi slík­um vögnum við.


Ég verð þá víst bara að sitja kyrr.


Þér megið standa ef þér kjósið heldur. Hér er mann­in­um gefið frelsi til að velja



segir stúlkan, eins og vagninn sé þjóðfélag. Seinna segir konan lög­regl­unni (bls.146):



Ég þekki svo sem Lækjartorgið hérna og ég veit að þetta er Banka­stræti og þarna er Austurstræti, en ég veit ekki hvert þetta hefur ver­ið flutt.


Hvert eruð þér flutt?



Með þessu síðasta tilsvari, sem er útúrsnúningur orðalags konunnar, skipt­ir lögregl­u­mað­ur­inn um mark­mið í sögunni, nú verð­ur markmiðið að koma konunni heim til sín. Og þau reyna ótal dyr, einnig í fjöl­býl­is­hús­um, enda þótt konan byggi í ein­býl­is­húsi. Aðalatriðið virðist vera að sýna, "að í hverri íbúð var kona fyrir", og þær eru af marg­vís­leg­asta tagi. En verkefni lög­regl­­unn­ar er að finna ­"íbúð sem vant­­aði konu" (bls.147), eins og þær séu inn­an­­stokks­munir. Auðráðið er það tákn­­­­mál, einsog hitt, að árátta konunnar að gera íbúðina full­­komna, leiðir til bækl­­­unar hennar sjálfrar, og að allt virð­ist skert og ófull­­komið í henn­ar aug­um. En samt er eins og allt gangi ekki upp í þessari sögu, hún búi yfir ein­hverri dulúð.



17.2. Tómas Jónsson metsölubók


Guðbergur Bergsson sendi frá sér fyrstu bók sína 1961, Músin sem læð­ist. Það var næsta hefðbundin skáld­saga, sem sýndi einangrun og leiða smá­stráks í þorpi. Sama ár birti hann ljóðabók, og 1964 kom svo smá­sagna­safn, Leikföng leið­ans. Þar mætti helst teljast mód­ernt "Kaffi­tímar", sem er að hálfu sam­hengislítið raus verkstjóra, en seinni hlutinn samtal verka­manna, sem fer á víð og dreif, og óljós eru mörk persóna, hver segir hvað. Þessi saga var vís­bend­­ing um fjórðu bók­­­­ina sem birtist 1966 (hér skst.:TJM) og vakti þegar mikla athygli. Bæði vegna þess að hún er miklu þroskaðra og mátt­ugra verk en fyrri bæk­ur höf­­undar, og auk þess rauf hún hefðina, eink­um að því leyti, að þar var "sögu­­­þræði­num gefið á kjaftinn svo hann rugl­ast í hænuhaus lesandans", eins og Guð­­bergur sagði. Nánar tiltekið er vart hægt að tala um atburðarás í þess­ari löngu bók. Hún segir frá ein­stök­um atvikum í lífi karlskröggs, eða rétt­ara sagt, birt­ir hugs­­ana­flaum hans. Og tímaröð er vendi­lega ruglað; ýmist er karlinn kar­læg­ur og hálf­blind­ur í súrefnistæki, eða í fullu fjöri fyrr á árum. Lengst­um er hann sögu­maður, en þó bregður fyrir svosem einni bls. frá tón­list­armanni, sem leigir hjá honum. Það tal gæti reyndar verið ímyndun Tóm­as­ar sögu­manns, eins og tal eða hugsanir ýmissa annarra persóna (einkum fröken Gerð­ar). En svo skiptir um undir lokin (á bls. 327), þá kemur eftir­­máli útgef­anda, sem eins og títt er í heims­bók­menntunum, hefur fund­ið stafla af stíla­bók­um - í þessu tilviki með sundur­­lausum minn­inga­brot­um hálf­blinds gam­­­al­mennis. Þetta er skýringin á tíðum rofum í text­anum, þar sem sögu­mað­­ur stekk­ur milli frásagna og tíma­skeiða - ekki tókst að koma eðlilegri skip­­an á stíla­­bækurnar. En það sem eftir er bók­ar­­­innar (u.þ.b. þrettándi hluti) er frá­sögn útgefanda, þessa unga Hermanns. Hann er ólíkur Tómasi, og ólíkur blær á þess­­um hluta, þar ríkir samkennd í stað ein­angrunar og tor­­tryggni.


Öllu ægir saman í hugarflaumi Tómasar, og er oft stokkið fyrir­­­vara­­­laust úr einu í annað. Við höfum fyrr séð hug­ar­flaum í íslenskum bók­menntum, en þetta er í fyrsta skipti sem heil bók er undirlögð af honum hérlendis. En þann­­ig er eitt frægasta skáld­verk 20. aldar, Ulysses eftir James Joyce (1922). Þessi bók minnir hins vegar meira á kunningja Joyce og landa, Samuel Beckett. Sögu­maður í einni skáldsögu hans, Molloy (1950), á margt sam­­eiginlegt með persón­unni Tómasi Jóns­syni, hann er rosk­inn, ein­angraður og ein­mana, fram­úr­skarandi nískur og smá­muna­­samur, upptek­inn af lágkúru og kjaftæði. Svip­uð eru líka hvörf­in í lokin, en þessi svipur er þó aðeins í stór­um drátt­um, TJM er fullkom­lega sjálfstæð sköpun.


Persónan Tómas rúmar miklar andstæður. Hér er rækilega gerð grein fyr­ir hversdagslegustu líkamsstarfsemi hans, ekki síst útferð hans af hrákum, saur, þvagi og sæði. Þetta var nýjung í íslenskum bókmenntum, fyrir utan frægt dæm­ið í Bréfi til Láru, og vakti mikla andúð þegar TJM birtist. Þessi karl mont­­ast af fall­egri skrift sinni eins og hann væri á barna­­­skólastigi mennt­unar. En raunar hefur hann tekið stúdentspróf utanskóla, og er óvenju­víð­­les­inn í heims­­­bók­mennt­un­um. Hann fer þar eigin leiðir, vitnar ekki aðeins í fræg skáld frá fyrri hluta 19. aldar, t.d. Goethe, Stendhal og Grím Thomsen, heldur líka í ítölsk End­ur­­reisn­arskáld á frum­málinu, Dante, Petrarca, og ein­hvern fornan skáldskap á próvens­­ölsku og forn­portú­gölsku, að hætti t.d. Ezra Pound í Cantos. Þetta stang­­ast á við nísku karls­ins og fáfengileg áhuga­mál, sem eru einkum hvers­dags­legar kjafta­sög­ur. En í heild miðla þessar and­­stæður okkur mynd af manni af holdi og blóði, og anda; sem mótast af sam­tíma sínum innanlands og ut­an og af fortíðinni, menn­ing­­ar­­arf­leifð vest­ur­­landa. Þessar miklu andstæður sam­­tengjast þó, á skoplegan hátt, því vitni Tómas í t.d. Darwin, Freud og Marx (bls. 30), þá er það til að heldur hann sig þó innan við þröngan hring eigin lífs. Hann er örygg­islaus, tor­­­trygg­inn og ein­angr­­aður. Má þá ekki segja að hér sé hismið greint frá kjarn­an­um, eftir standi að­eins hið sam­mannlega? Víða bryddir á hug­­leið­ingum um lífs­gildi, og nær­tækt er að bera Tómas sam­an við aðrar persón­­ur bókarinnar, sem mann­­blendn­ari eru. En síst verð­ur séð að þær skrípa­myndir lifi auðugara lífi. Þær eru allar fastar í ein­­hverjum almennum mynstr­­­um sem verða fárán­leg, einmitt and­­spænis tómi Tómasar. Svo þröng­ur sem heimur hans er, takmarkast við íbúð hans, leigj­­end­­ur, vinnufélaga og þá sem eru með honum í mötuneyti, þá má þetta þó heita heimur í hnot­skurn, því í lýsingu persón­anna er lögð áhersla á hið dæmigerða. Leigjendurnir og fremri stofan í mötu­­neytinu er alþýðu­­fólk, sem hefur einkum áhuga á að fá sem mesta auka­vinnu (líkt og í "Kaffitímar"). Ekk­­ert samband er á milli þess­ara vinnudýra og hins sam­félags­hópsins; það eru vinnu­fé­lagar Tómasar í bank­­an­um og innri stofa mötu­neyt­is­ins, sem eru allt þröng­sýnir smá­borg­arar. Verkfræðingar sem tala aldrei um ann­að en skóla­árin, róttækur alki í sí­end­urteknu sama þrasinu við íhalds­­sam­an félaga sinn, það þras er allt upp úr dag­blöð­unum; ennfremur pjattrófur sem pískra um einkamál náungans. Yfirleitt ríkir tilgerð, heimska og frekja í sam­skipt­um persónanna, þar er allt ömurlegt eða fárán­legt. Nauðgun kemur hvað eftir annað fyrir. Athyglisvert er að bernsku­­minningar Tómasar eru ömurleikinn einn. Móðir hans vanfær af 12. barni, missir fóstrið, og er að ásaka drenginn um að hann þræli henni út. Hann neitar seinna að taka þátt í að annast jarð­­arför föður síns. Ágengni, kúgun og sóðaskapur er meg­in­þátt­ur í reynslu hans á barnsaldri. Bónd­­inn á bænum þar sem hann býr, getur ekki sofnað nema hafa nef­ið yfir kopp­­in­um, bónda­kona fróar dreng­n­um nauð­­ugum, en hann virð­ist lát­inn sofa hjá þeim hjónum, allt er á sömu bók­ina lært.


Dæmigerð er "Formúla fyrir heimsókn", en inntak henn­ar er bæði milli heim­­ilismanna innbyrðis og við gesti: "Vertu ævin­lega á verði um að segja aldrei neitt." (bls. 317). Athyglisvert er, að frá og með 17. bók (síðustu 45 bls.) verður meira um til­finn­ing­ar, en við það verður ein­semd Tóm­asar og ann­­­arra þeim mun til­finn­anlegri, þetta er einkonar ályktun af því sem á undan fer, magn­­ar það og undirbýr lokin. En þau stinga ger­sam­­lega í stúf við mestalla bók­­ina í því, að þar verða sam­skipti fólks með hlýju, þar sem tveir karl­menn í sóða­­leg­um lúkar veltast um í faðmlögum og tungukossum, heita báðir Tóm­as.


Tómas segir frá því hvernig hann vandi sig af bókalestri með fyr­ir­litn­­ingu á fornbókasölum. Markmiðið með því virðist vera að vera sjálf­um sér næg­ur - og spara. Miklar skopstælingar eru hér á hvers­kyns bók­mennt­um, sem vin­sælda nutu á Íslandi þegar TJM birtist; á sveita­sög­um, þroskasögum, þjóð­­­leg­um fróð­leik, ævi­sög­um, o.s.frv. Stíllinn er að sama skapi marg­breyti­leg­ar stæl­­­­ing­ar á alls­­konar ritmáli, allt frá ásta­sögum og Hómer, að kennslu­­bók­­inni Gagn og gaman. En staðlaðar stuttar máls­greinar í hennar stíl sýna tóm­­leika fjöl­­skyldu­­lífs­­ins (bls. 317):



Hvað er að frétta, segir Snorri. Ert þú ekki með frétt­ir­nar, segir Sigga. Hvar er dagblaðið, segir Snorri. Dag­blað­ið er á borð­inu, svarar Sigga. Förum þá að hátta, seg­ir Snorri. Ég er þreytt, segir Sigga. Snorri opnar út­varp." o.s.frv.



Annars ber stíllinn oft mikinn svip af talmáli, og sýnir mis­mun­andi blæ­brigði þess, einkum í þjóðsögum Tómasar Jóns­son­ar. Þær eru bæði um inn­lent og er­lent efni, í heild nokkurskonar sýn­isbók af bulli og kjaft­æði á Ís­landi í nokkra áratugi, eða með öðrum orðum, sýna goð­sög­ur fólksins og hugs­­­unar­hátt þess. Þar kennir margra grasa, t.d. má nefna tal um frægð ís­lensks söngv­­­ara erlendis á árunum milli stríða, en hér er Katrín í stað Stef­áns Ís­landi eða Eggerts Stefánssonar. Hugmyndir Ís­lend­inga um útlönd koma ann­­­ars eink­um fram í hroðalegum sögnum frá Sovét­­ríkjunum og Pól­landi. Hér er rað­að saman rugli úr al­manna­­rómi, svo víða verður bráð­skemmtilegt. Eft­ir­far­­andi klausa gæti hafa verið tínd saman úr dagblöðum á fimmtán ára skeiði (bls.18-19):



Hér birtist stutt skrá yfir helstu hættur sem steðjað hafa að hinni fá­mennu íslensku þjóð allt frá 1939 til Marshall­hjálp­ar­inn­ar: [...] sér­hver ný vöru­teg­und í búðum vissi á heimsendi, plokk­un og útrým­ingu íslenska kyn­­stofnsins. Kaupmenn og prang­arar íhaldsins stefndu að því I) Með brill­­antíni, að gera alla Íslend­inga sköllótta eins og út­lend­­inga; II) að brenna innan mag­ann í fólki með sinnepi og tómat­sósu; III) Að auka ropa og vind­spenn­ing í fólki með grænmeti; IV) Að drepa ferðafólk í tjöldum með dósaeitri í dósamat; V) Skafa að innan haus­­inn á fólki með útvarp­­inu; VI) Flytja inn kyn­sjúkdóma og laus­læti með erlendum gopa­nærfötum [...] VII) Auka botnlangaköst með inn­flutn­ingi á rán­dýr­um rúsínum með stein­um; Eyðileggja heilann í íslenskum kon­­um með inn­­flutningi á há­hæl­uðum skóm (200.000 högg skullu dag­lega á mænuna og litla heil­ann), sem gerir konuna sinnu­­lausa fyrir hús­verkum og barna­upp­eldi.[...]



Það er í þessu öllu sem sagan verður altæk, ef svo mætti segja. Hún nær yfir mikil­væga þætti þjóðlífsins, daglegt líf í sveit og borg, ekki í teprulegri, hreins­aðri mynd, heldur dökkri heild­­ar­­mynd með svita, skít og kjaftæði. Og við sjáum veruleik fólks­ins ekki í hlut­stæðri lýsingu, heldur spegl­ast í huga þess, í goð­sög­um sem reyna að koma and­stæðufullu og tilgangs­lausu bjástri þess í samhengi með mein­ingu, ýmiskonar lífsskoðun. Því er bókin andrík, hversu mikið and­leysi og heimsku sem hún sýnir, og því er hún mögnuð mynd af íslensk­­um veruleik, sígild. Vissulega er sagan einhliða (neikvæð), en ein­­mitt þess vegna er hún vel­heppnað skáldverk. Þar verða mis­mun­andi hlut­ar að leita saman, vera sam­stilltir að einu marki. Þessi lífssýn bókarinnar er samt jafn óumdeilanleg og hver önnur, hún sýnir mannlífið sem til­gangs­­laust bjástur með meiningar­lausan dauða að loka­marki.


Þessi neikvæða sýn persónu sögumanns er það sem heldur text­an­um sam­­an, sundurlaus og títt rofinn, sem hann er. En einmitt það skapar til­­breyt­ingu frá smásmygl­inni, sem ella yrði óþolandi.


Seinni skáldverk Guðbergs eru bæði mörg og margvísleg, en ekkert sé ég þar módernt.





18. Síðustu ár


Á þessu tímabili er módern prósi á Íslandi fyrst og fremst hinar miklu skáldsögur Thors Vilhjálmssonar, svo sem fyrr segir. En hér veður aðallega vikið að þremur höfundum sem komu fram á áttunda áratugnum.



18.1. Árni Larsson


sendi frá sér bókina Uppreisnin í grasinu 1972. Und­ir­tit­ill henn­ar er "Skáld­söguþættir", og mætti e.t.v. skilja það svo, að allir 17 þættir bók­ar­inn­ar myndi eina heild. En svo er þó ekki, frekar en venju­legt smá­sagna­safn, að mínum dómi. Þessir þættir minna verulega á verk Thors Vil­hjálms­son­ar. Marg­ir þeirra lýsa kyrrstöðu, deyjandi manni, sinnu­leysi fólks við dauða manns, o.s.frv. Einnig eru áberandi við­líkingar sem fara nokkuð langt frá um­­­ræðu­efninu, og nálgast að lifa sjálf­stæðu lífi í hug­renningatengslum ágengs sögumanns, t.d.(bls. 21, auðkennt af E. Ó.):



Langferðavagninn ók af stað, þumlungaði sig áfram götu úr götu með­fram iðandi fjöldanum á gangstéttunum þar sem mann­eskjan virt­ist standa kyrrr á gráu endalausu færibandi gang­stétt­anna fyrir framan bratta glerveggi búðarglugganna og þá fá­fengi­legu innsýn sem þar gaf að líta.


Á götunum sáust stakir pollar eins og himneskur bletta­skalli á dökku malbikinu, raðir af áþekkum húsum, og rimlarnir í hvít­um garð­­grindunum sýndust brátt verða þéttari og að lokum hvít lá­rétt stroka fyrir framan húsin í úthverfunum.


Þar voru há tré með svarta digra stofna sem þjörmuðu að hús­unum eins og íbúar þessara gömlu hverfa hefðu ekkert annað fyrir stafni en rækta myrkv­­andi frumskóg í tómstundum iðju­sam­ir og ljósfælnir.



Síðasti þáttur bókarinnar, "Uppreisn mannsins" skiptist í þrjá stutta kafla, sem verða æ sérstæðari, að lokum runa stuttra hlið­stæðra máls­greina af full­­yrðingatagi. Þetta er surrealismi, í flest­um setningunum er orð sem stang­ast svo gjörsamlega á við merk­ingu hinna, að útkoman verð­ur óskiljanleg, en kem­ur þeim mun fremur ímynd­unaraflinu í gang, t.d. síðasti textinn, 3. (bls. 95):



Hafið er blá mold. Hann opnar hafsaugað með einföldu lífi. Hvar­vetna end­urkastar þögnin spurulum augum, hvar­vetna vegur grasið heim hans. Hann er allt til einskis. Hann er sjálfsíkveikjan, örlæti skækj­unnar. Hann öðl­ast samvisku af tilviljun eins og ljósmyndari þög­ulla hluta. Hann er neiið, sem vex upp úr hringrásinni, and­skoti sól­­ar­inn­ar sem eyðir öllu með engu, hann er upp­reisn­in í grasinu. Hann mótar laufskyggnt andlit skæru­lið­­ans. Hann á framtíðina í byssu­­­­hlaupi sólmyrkvans. Hann er kvik­settur í pýra­mídum skraut­legra niðursuðu­dósa. Hann er auminginn sem kemur ham­­ingj­­unni til skila. Hann heldur á veiðar í hljóðfræði þagn­ar­inn­ar og finn­ur um­boðs­­­­leysi mannkynsins. Hann er einstæður fjöldi í hnefa­­­fylli af sandi. Hann er sorphaugurinn með andlit menn­ing­ar­innar. Hann er stjarna gadda­­vírsins á himni augans. Hann er ástin laus við tilgang eins og sæði í geimn­um. Hann er tilviljunarkennt líf, sumarlöng þjáning þess. Hann er sjálf­sali hverfullar reynslu. Hann er allt til einsk­is.



18.2. Einar Guðmundsson


gaf út tvær bækur um miðjan 8. ára­tug­­inn sem hér koma til álita. Báðar voru í eiginútgáfu, 300 eintök hvor. Lablaða hér­gula birtist 1975, um 130 bls. í litlu broti. Fyrir henni var for­máli, þar sem segir m.a.:



Skáldsaga þessi (eða skúlptúr), Lablaða hérgula er orð­in til á eft­ir­far­andi hátt: Þann 7. mars 1973 tók ég álitlegan stafla af hand­ritum eft­ir sjálfan mig, afrakstur ca. þriggja-fjög­urra ára skrifa og reyndist bunk­inn vera 16.4 cm skv. tommu­­stokks­mæl­ingu. [...]


Hófst ég nú handa, að skera sund­ur og tengja saman hina ólíkustu búta: heilar sög­ur, brot út sögum, ljóð, teóríuljóð, stak­ar setningar og setn­­ing­ar í mol­um, og beitti ég sömu alúð og hjarta­skurð­lækn­ir sýnir við hjarta­flutn­ing á milli manna. Langaði mig sum­­part til að gefa mynd af eðlisfari dag­blaðs, sem gerir hvort tveggja í senn: að herma eftir lífinu og reyna að móta það. [...]



Útkoman virðist mér vera á mörkum bókmennta, ef ekki hand­an mark­anna. Því valda gegndarlausar endurtekningar með smá­­til­brigðum, líkt og text­inn væri saminn með frum­stæðu tölvu­for­riti. Dæmi (bls. 22):



Gísli (sonur gúmmítarsans?) skelfist sumar tilhugsanir. Sig­urð­ur (sonur gúmmí­­tarsans?) skelfist líka sumar til­hugs­anir. Kristján (sonur gúmmí­tars­ans?) skelfist líka sumar til­hugs­anir. Jakob (sonur gúmmí­tars­ans?) skelfist líka sumar til­hugs­anir. [o.s.frv. lengi]



Inn í koma svo aðrir textar, viðtal við Tarsan og löng geim­­ferða­saga. Hún er flat­neskj­an tóm, að mestu í dagblaðsstíl, en sumpart eins og barna­saga, "furan Oregon pine og skóg­ar­þröstur" eru meðal geim­fara. Í heild er bók­in nán­­ast óles­andi, en stórum aðgengilegri var Flóttinn til lífs­ins með und­ir­tit­il­inn: Ófull­gerð skáld­saga, sem birtist árið eftir (um 150 bls.). Hér er miklu frem­­­­ur fylgt dag­blaðs­fyr­irmynd, og ámóta algeng­ir textar stældir. Bókin skipt­­ist í 20 hluta, og er iðulega skipt á milli frásagna í miðjum klíðum. Það á eink­­um við IV.- VIII. k. (bls. 35-83), þar sem skipast á saga Óla frá bernsku til ungl­­ings­ára og saga Jim Slick. Saga Óla er að mestu samkvæmt íslenskri sagna­­­­­­hefð, lýs­ing á uppvexti í Reykjavík. Hún er fleyguð af hinni sög­­­­unni sem er eins og upp úr Satt, Séð og lifað og ámóta kitlrit­um, tepru­leg klám­saga á upp­höfnu, óeðli­legu ritmáli, eins og illa þýdd. Bókin hefst á mik­illi þulu stuttra aðal­setn­inga, sem bæði bera keim af auglýsingum og spak­­mæl­um (bls. 7-18):



Öll berum við traust til forseta landsins. Látið okkur sjá um að út­vega ykkur tilgang í lífinu. Leggið fram meira fé. Margir reyna að smokra sér undan samfélagsábyrgðinni. Enginn kærir sig um að bera hita og þunga dagsins. Hver unir glaður við sitt? Mikið vill meira. (bls. 15).



Næsti kafli er Ljóða­ljóðin í búningi nútímaauglýsinga, þá er viðtalið við Tarsan tekið upp úr Lablaða hérgula, og aukið. Alllangur kafli (bls. 107-125) heitir "Morgunblaðsfrásögn" og segir frá innrásinni í Tékkó­­­slóvakíu 1968, og einnig frá við­brögð­um íslenskra vegfarenda við henni. Dagblaðs­svip­­ur­inn styrk­ist við iðuleg rof í miðjum klíðum, og fram­hald 1-2 bls. síðar. Tveir næstu kaflar bera sömu fyrirsögn og fjalla báðir um heilsu­far Elizabeth Taylor, en með and­stæðum túlkunum. Aðr­ir textar af algengu tagi eru t.d. persónu­leg mat­aruppskrift, en henni fylgir svo frásögn af tóm­legu lífi heima­gang­andi hús­móð­ur, auk bréfs til henn­ar frá dóttur í Bandaríkjunum.


Það má með sanni segja að bókin miðli sundruðum hugar­heimi nútíma­manna á Íslandi á ritunartíma sínum. Einmitt vegna þess að hún stekkur á milli texta af algengu tagi, og klisjur drottna þar eins og í þeim textum sem móta dag­­legt líf fólksins. Lokakaflinn er einskonar ályktun af öllu þessu, þrír piltar sitja á sjávarströnd á Snæfellsnesi, fullir eftir­vænt­ingar um lífið. En (bls.152):



Í meginatriðum voru þeir sammála um, að hér á landi/ loðnu­­bræðslu­­­plan­inu væri allt mor­andi í hálfklikkun, hálf­geð­veiki, hálf­áhuga, hálfafköstum, hálfhugsunum, hálf­kær­­ingi; allt væri eiginlega hálf-­allt, allir meira og minna hálf­fullir - ef ekki af brenni­víni þá blekk­ingum.



Af seinni bókum Einars má nefna M (1986), sem er "konkret­­ljóð, þ.e. texti sem ein­kennist af samskonar vélrænum end­­ur­­tekn­­ingum með til­brigðum og fyrsta bókin, en hér er gengið miklu lengra í þá átt. 1978 birtist Án titils, dagbók höf­undar um eins árs skeið. Þetta eru tilrauna­verk og þau voru nýstár­leg, en eru efni okkar óviðkomandi.



18.3. Punktur, punktur, komma strik


eftir Pétur Gunn­ars­son birtist 1976. Þessi skáld­saga sýnist mér ná áhrifa­­mætti sínum einkum með þeim megineinkennum ex­pressjón­ism­ans sem við höf­um hér séð á sögum Halldórs Laxness og Halldórs Stef­áns­son­ar. Ef litið er á I. hluta, þá fléttast þar sam­an saga af ástum pars og inn­skot sögumanns sem horfir yfir sviðið úr mikilli fjarlægð, og segir frá skoð­unum sínum. Í 6. k. ber hann hús­næðisþörf verðandi fjölskyldu sam­an við það sem ger­ist hjá skor­­dýrum, en það verður tilefni til hag­fræði­yfirlits í marxískum anda. 7. k. sýn­ir goð­­sögurnar um ástalíf, sem kvik­myndir halda að al­menn­­ingi, og hvern­ig hann lagar sig að þeim. Í 8. k. er fæðingu barns lýst, en um leið heims­­­styrjöldinni (bls.20):



Einhversstaðar í sömu nótt hrúguðust líkin upp og skurð­­gröfur höfðu ekki við járn­brauta­lestum sem streymdu í neista­flugi með efni í fleiri lík. Úti í geimnum gláptu plán­etur sem voru ef til vill jörðin fyrir millj­örðum ára eða áttu kannski mannlífið í vænd­um. Myndu pening­ar­­nir líka stjórna þeim í framtíðinni?



Þessi fjarlægð sögumanns frá efninu finnst mér dæmigerð fyrir sög­una alla. Afleið­ing­in verður sú, að persónur hennar og að­­stæð­ur verða fyrst og fremst dæmigerðar, týpur, enda þótt þær séu jafn­­­framt gerðar lif­andi. Og text­­inn bragar allur af an­kanna­­leg­um lík­ing­­um, sem gera sögu­mann sínálægan les­­endum, hann hnippir í þá - auk þess sem lík­ing­arnar sýna oft eitt­hvað sem und­ir býr. Og það sam­stillir Pétur af list­fengi. T.d. hefst bókin á því að skip­ið smellir kossi á land­ið, en það ætl­ar maðurinn sem þá stekkur í land, sér m.a. að gera við konuna. Eftir að hann sækir hana í vinnuna segir (bls.9) "þau skröns­uðu fyrir horn" eins og bílar á hraðferð. Þegar komið er heim í her­bergi stúlk­unnar er maðurinn í fyrstu vand­ræða­legur og feiminn, en "svo klof­­­­­aði hann yfir hvers­dags­lega með­al­hegð­un" -eins og hún væri efn­is­kennd­ur hlutur. Í stað þess að lýsa sam­för­um parsins er eitthvað ámóta sagt um lauf­­blöðin til að sýna haustið; og endar á tilvitnun í kennslu­­bók í líffræði til að gera þetta fram­and­legra (bls.10):



"Úti á götu var komið haust - hægt sleppti lífið taki á lauf­­blöð­un­um sem eldroðnuðu, skruppu saman og lögðu af stað til jarð­ar­innar: hand­strengj­ótt, fjaðurstrengjótt, flip­ótt og tennt."



Svipaðrar framsetningar gætir áfram í bókum Péturs, en lítið ber ann­ars á mód­­ernisma í skáldritum síðustu ára. Að vísu mætti telja prósaverk eftir t.d. Sjón (Stálnótt 1987 og Engill, pípuhattur og jarðarber 1989), Jóhamar (Bygg­ingin 1988) og Jón Gnarr (Miðnætursólborgin 1989). En mér virð­ast þessi verk ekki hafa náð þeim listræna þroska, að rétt sé að fjalla um þau hér, nær virðist að bíða næstu verka höfundanna. Svo aðeins sé vikið að kunn­ustu skáldsög­um síðustu ára, þá má nefna, að í sögum Ein­ars Más Guð­munds­son­ar er sögumaður sérkennilegur í málfari, einkum beitir hann langsóttum, ljóðrænum líkingum í staðarlýsingum. En sögupersónur birtast lítið í beinni ræðu, svo að hér eru ekki þær andstæður sem einkenna t.d. sögur Halldórs Laxness. Ennfremur ber veru­lega á því í sögum Einars, að frá­sögn­­in sé rofin í miðj­um klíðum til að segja frá öðr­um persónu­­hóp, í sögu hans Eftirmáli regn­dropanna (1986) er og tölu­vert um yfir­náttúruleg fyr­ir­bæri. Svipuðu máli gegn­ir um sögur Fríðu Sig­urð­­ar­dótt­ur Eins og hafið (1986), en einkum Með­an nóttin líður (1990). Þar bland­ast saman frásagnir af konum frá ýms­­um tímum en allar eru þær ætt­ingj­ar sögukonu eða tengdar henni, og virð­ist eðli­leg­ast að sjá söguna sem sund­­urleitar hugs­an­ir hennar við dánarbeð móð­­ur hennar. Frásögnin er hvað eftir annað rofin, og tímaröðin brengl­uð, en allt fellur þetta þó saman í eina heild­ar­­mynd að lokum. Sama gildir um sögu Álf­rúnar Gunn­laugsdóttur, Hring­sól (1987). Eðlilegast er að sjá hana sem sundurlausar minn­ingar og hugs­an­ir aðal­persónu, ým­ist um fjarlæga fortíð eða nálægari. Sumt fá les­end­ur aldrei botn í, og fljótt á litið minnir þetta á Tóm­as Jónsson met­sölu­bók. En ég sé þó afger­­andi mun í því, að þegar upp er staðið myndar Hring­­sól röklega heild, þar sem eitt leiðir af öðru í sam­skiptum skýrt mót­­aðra persóna. Það er og áberandi einkenni stílsins í sög­um þessara tveggja kvenna, að máls­­greinar eru iðulega ófullkomnar, sleppt er frumlagi og sögn­inni vera, sem og öðru því sem óþarft má þykja til að skila merkingunni. Þetta sáum við í expressjón­isma, og það gefur einkar vel til kynna að sög­ur­nar séu fyrst og fremst hugs­anir, minn­ingar, en þegar á heild­ina er litið, falla þess­ar skáld­sögur ekki undir módernisma. Sama verður að segja um Tíma­þjóf Steinunnar Sigurðardóttur (1986), enda þótt hún sé mjög huglæg, t.d. hvarfl­ar stíllinn frá prósa yfir í ljóð, allt eftir hugarástandi aðalpersónu, og hún verður um áttrætt á kafla, en er annars hálffertug.





19. Heildarþróun


Hér að framan var vitnað til kenningar Matthíasar Sæ­mundssonar um að íslensk­ur sagnaskáldskapur þró­aðist "frá sögulegri formgerð til myndhverfrar form­­­­gerðar". Það átti að birt­ast fyrst hjá Gesti Pálssyni, og and­mælti ég því. En Matthías segir enn­fremur (bls. 344):



Þróunin til myndhverfðrar formgerðar er augljós sé horft til ís­lenskr­­ar sagnagerðar á fyrstu áratugum þessarar aldar. Hana má til dæm­is merkja af eftirtöldum sögum: Sæl­ir eru einfaldir (1920), Vef­arinn mikli frá Kasmír (1927), "Dauðinn á þriðju hæð" (1935), Aðventa (1937), Íslenskur aðall (1938). Öll fela þessi verk í sér uppreisn gegn frásagn­ar­hefð - mynd varð sögu yfirsterkari - upp­reisn sem enn er ekki lokið og birt­­ist glöggt í skáldsögum síðustu ára.



Væntanlega sýnist Matthíasi þessi þróun svo augljós, að ekki þurfi að rök­­styðja frekar. Þar er ég á öðru máli, mér sýnist kenn­ingin spenn­andi, en viðamikla rannsókn þyrfti til að sannprófa hana. Ég hefi ekki unn­ið þá rannsókn. Þó verð ég á grundvelli niðurstaðna þessa rits míns að segja að það er hrein fjarstæða að segja um Vefarann mikli frá Kasmír að "mynd varð sögu yfirsterkari". Sú klausa gildir í hæsta máta um rit Thors Vil­hjálms­sonar, um það hafa allir ævinlega verið á einu máli. Aftur á móti efast ég um að textar t.d. Guðbergs Bergssonar séu til muna myndrænni en segjum Guð­mund­ar Hagalíns. Módernismi Guðbergs ligg­ur í öðru, fyrst og fremst í því að skeyta saman sund­urleitt efni, en það er nú megineinkenni mód­ernismans, eins og oft hefur hér verið vik­ið að. Og þá er það vissulega svo, að það að segja sögu röklega víkur fyr­ir hinu að sýna andstæðuríka mann­lífs­mynd. En það er ófært að stimpla svo almennri stað­hæf­ingu á einstök bók­mennta­verk án athugunar, eða með svo yfirborðs­legum hætti sem hér var gert, enn fráleitara að raða þeim upp í þróunarkeðju á þeim grundvelli einum.


Helena Kadeckovà talar 1971 (bls.120) um hvörf sem verði í íslensk­um nú­tíma­­bókmenntum, einkanlega með Vefaranum mikla eftir Halldór Lax­ness, Bréfi til Láru eftir Þórberg, og "Hel" Sigurðar Nordal, og segir svo (bls.120):



Ég vil bara benda á eitt, sem mér finnst skipta mestu máli um eðli íslenskra nútíma­bókmennta. Það var viðleitni þess­ara skálda til að gera sér grein fyrir vanda­málum manns­ins í heiminum og finna ein­hver lögmál í þeim, sem reynd­ist vera sterkasti þáttur í verk­um þeirra mið­að við ís­lenskar bók­­mennt­ir þar á eftir. En við vitum, að þau skáld sem talin eru mestu módern­istar, eru löngu búin að gefast upp á þessu sviði, og reyna aðeins að grípa sund­ur­leit brot til­ver­unnar, án þess að leita að lögmálum þeirra og hug­­mynda­­kerfi. Þangað á stíll þeirra rætur sín­ar að rekja, hvort sem stíll­inn er inn­hverfur eða í hæsta lagi hlut­­læg­ur. En þessi alger­a uppgjöf á hvers­­konar hug­­mynda­­kerfi er einmitt helsta afleið­ing þess, sem kallað er firr­ing mannsins í nútíma­þjóð­fé­lagi. Ég hygg, að á Íslandi eins og það er - fámennt en víðlent, með lýð­­­ræðis­legum venj­um í félagslífinu, með almennum kunn­ings­skap við helstu valda- og em­bættis­menn, hafi þetta aðal­­ein­kenni nú­tíma­­­manns­­ins lengi verið hulið. Firringar­kenndar­innar urðu menn helst greini­­­lega varir fyrir til­verknað framandi ut­an­­að­­kom­­­andi valds. Þetta var ástæða fyrir aukinni til­­hneigingu til nú­­tíma­stefnu í íslensk­um bók­menntum eftir síðari heims­styrj­öld.



Þetta má virðast sennilegt við fyrstu sýn, en betur að gáð hefði samkvæmt þessu mátt vænta íslenskra firringarbókmennta á 17. og 18. öld. Og galli er það á skýr­ing­unni, að ekki skuli gengið út frá helstu módernu verkum á íslensku. Nær væri að telja hér Jóhann Sigurjónsson og Jón Thoroddsen en Sigurð Nordal, og eins og hér hefur verið rakið, færist módernismi Halldórs Laxness í aukana eftir Vefarann, auk þess sem Halldór Stefánsson kemur til. Enn­frem­ur gerir skýr­­ing­in ekki grein fyrir því, að hvörf frá mód­ern­isma urðu víða um heim á 4. ára­tug aldarinnar. Bradbury & McFarlane ræða þetta (bls. 51-2) og tímasetja meginöldu módernismans frá 1890 til 1930. Upphafið á þá að vera Strind­berg. Það nær ekki nokkurri átt, Rimbaud, Lautréamont og Mallarmé eru tuttugu árum fyrr á ferðinni. Sannleikurinn er sá, að þeir Bradbury & McFarlane mis­skilja "Det moderne gennembrud" Brandesar svo sem að það vísi til upphafs mód­ernisma, en Brandes vísaði til realisma. En hvörf telja þeir Bradbury & McFarlane (bls.51-2) verða frá módernisma um 1930, víða um heim, og skýra það einkum með því að menn hafi misst sjá­an­leg mark­mið og fé­­lags­tengsl, og við æ hraðari tækni­þróun hafi nútímalíf orð­ið opið svið, sem beint lá við að lýsa ein­fald­­­lega[4]. Ennfremur hafi krepp­an beint mennta­mönn­um æ meir til nauðhyggju í efnahagsmálum og stjórn­mál­um.


Svona almennar kenningar er illmögulegt að sannprófa á nokk­urn hátt. Mér þykir altént líklegt að slík straumhvörf gerist ekki sjálfkrafa, "vegna ald­ar­and­­ans". Enda komu til alþjóðleg sam­tök, einmitt á árinu 1930, sem beittu sér fyrir slík­um straum­hvörfum til þjóðfélagsádeilu og áróð­urs í skáldskap[5]. Það voru Alþjóða­sam­tök bylt­ingar­sinn­aðra rit­höf­unda, sem náðu einmitt til margra rit­­höf­­­­undahópa sem áður stund­uðu mód­ernisma. Þar munaði um hvern mann, því þetta voru ekki neinar fjölda­­hreyf­ingar. Þetta á einn­ig við um Ísland, þar sem deild þessara sam­taka var stofnuð haust­ið 1933. Við sá­um að Halldór Stef­ánsson hvarf frá ex­pressjón­isma um miðjan 4. áratuginn, og einmitt þá dreg­ur úr öðr­um bók­menntanýjungum. Eftir miðjan áratuginn hurfu sósíalísk ljóð­­skáld frá frí­l­jóðum til hefðbundnara forms, og er líklegast að öllu þessu valdi pólitísk straum­hvörf, að skáldin hafi eins og flestir komm­­ún­­­ískir mennta­­menn og skáld, lagað sig að borg­ara­leg­um hefðum í sam­­fylk­ingu gegn fas­isma. En sú sam­staða var sér­lega sterk í menn­­­ing­ar­málum.


Ekki voru allir módernistar byltingarsinnaðir vinstrimenn, ýmsir þeirra að­­hyllt­­ust þvert á móti róttæka hægristefnu, fasisma (m.a. fútúristar og Ezra Pound). En eftir að fas­istar kom­ust til valda, á öndverðum 3. ár­tugnum á Ítal­íu, en áratug síðar í Þýska­landi og Austurríki, snerust þeir æ meir til íhalds­semi á flest­um sviðum. Gagnvart þess­ari tang­ar­­sókn fóru mjög að þynnast rað­ir módernista, þótt ein­stakir hóp­ar héldu markinu áfram á lofti, eink­um surr­eal­­istar.



20. Samantekt


Hér hefur verið vikið að helstu skáldverkum íslenskum, sem talin hafa ver­­ið módern framundir 1990. Bragarhættir ljóða eru því máli óvið­kom­andi. Hér er því. ekki fjallað sérstaklega um prósa­ljóð, þar sem auð­séð er innlend hefð allt frá því fyrir alda­­mót, en einkum ber þó á þeim um 1920. En þau ljóð grein­­ast varla frá öðrum, nema hvað ekki er þar fylgt reglubundinni hrynj­­­­andi, stuðl­­un né rími. Yfirleitt ríkir ljóðrænt orða­lag í prósa­ljóð­um, mynd­­ir, líkingar og röklegt sam­hengi. Oft eru þau dæmi­sögu­­kennd, og mjótt á munum yfir til æv­in­­týra, sem margir sömdu á þessum tíma. Prósaljóðin eru því í sjálfu sér óvið­­­kom­­andi efni þessa rits. Sama verður að segja um fríljóð, þótt þau komi síðar til, enn­frem­ur eru svokölluð "miðleitin" ljóð þessu óvið­kom­andi, því yf­ir­leitt lúta þau röklegu samhengi, hnitast um eitt atriði. Fjarstæðast af öllu er að kalla bókmenntaverk módern vegna þess að í þeim birtist tiltekið hugarástand: einmanakennd eða tilfinning fyrir tilgangsleysi lífsins. Þvílíkar hugsanir hafa komið fram á ýmsum tímum og í ýmsu formi, en hér er um bókmenntastraum að ræða, og þá um bókmenntaleg sérkenni, ekki hugmyndir.


Módernismi birtist einkum í samhengisleysi, brotakenndri fram­setn­­­ingu, og þá virðist "Sorg" eftir Jóhann Sigurjónsson réttilega hafa verið talið fyrsta mód­­­­erna ljóðið á íslensku, það mun hafa verið ort 1908-9. Þar er stokkið milli and­­­­­stæðra mynda kyrrláts unaðar annarsvegar, en tryllings og eyðileggingar hins­­­veg­ar. Tengsl þessa liggja helst í upphöfnu ljóðmáli og -myndum, auk persónu mælanda. Jón Thor­odd­sen orti allt öðru vísi verk, tæpum áratug síðar, ein­föld og hvers­dags­leg frásögn á yf­ir­borð­­inu, en einnig þar er fram­setn­­ingin rofin, mót­­sagnakennd. Hinsvegar verð­­­ur varla um það talað hjá Jóhanni Jóns­syni, en þar koma helst til álita sér­­kenni­­leg­ar myndir í einu ljóði, "Sökn­uði". Það nægir þó ekki til að það telj­ist mód­­ernt, í ljóðinu ríkir röklegt sam­­hengi. Enn fráleitara væri að orða ljóð Þór­bergs Þórðarsonar frá öðrum áratug ald­ar­inn­ar við módernisma, eða "Hel" Sig­urð­­ar Nord­als, þótt það hafi stundum ver­ið gert. Ljóð Halldórs Lax­­ness bera hins­­veg­ar flest merki ex­pressjón­­isma í fyr­­irvaralausum stílrofum, oft spaugi­­­­legum. Þar er samhengisleysi milli setn­inga. Það er þeg­ar um miðjan 3. ára­tug­­inn, en Halldór gengur loks lengst allra í ein­um fimm kvæðum eða kvæða­bálk­um frá ár­un­um 1926-7. Þau eru nánast óskilj­­­­­­an­leg vegna þess að orð eða setn­ing­ar eru sett saman úr hlut­um sem geta ekki átt sam­an, eða þá að árekstur verður milli ein­stakra hluta kvæð­is. Hér virð­­ast ótví­ræð áhrif surrealisma, svo sem Halldór og vottaði sjálf­ur. Þetta eru ekki fyrirferðarmiklir textar, en þetta eru vönduð ljóð og mikil nýj­­ung í íslensk­­­­­um bókmennt­­um. Og þau setja að mínu mati varanlegan svip á skáld­­verk Halldórs, þar á ég við breyt­ing­una frá Vef­ar­an­um mikla til skáld­­sagna Hall­dórs á 4. áratugsinum.


Módernisma gætir í íslenkum prósaverkum fljótlega eftir fyrri heims­­styrj­öld. Fyrsta verkið af því tagi er Bréf til Láru frá 1924, eftir Þórberg Þórð­ar­son. Það er áber­andi líkt prósa­verk­um franskra surreal­ista frá 3. áratug ald­­­­ar­inn­ar í því, að fram­setn­ing er hug­­læg og mjög fjöl­breytt að efni og stíl, þar bland­­­­ast sam­an rit­gerðir, þjóðsögur, játningaskrif o.m.fl., en milli þeirra er fyr­­­­irvara­laust stokk­ið úr einu í annað. Að vissu marki er Vefarinn mikli frá Kasmír sem Halldór Laxness samdi 1925 ámóta sundurleitur, auk þess sem þar eru önn­­­ur fram­andleg atriði; óþýddar klausur á er­lend­um málum, til­vís­an­ir til lítt kunnra listaverka, o.fl. En annars er sú skáldsaga að mestu samkvæmt skáld­­sagna­hefð, í skipulegri frásögn og þar eru stílandstæður milli kafla, líkt og í Bréfi til Láru, en þær andstæður eru út um allan textann í skáld­sögum Halldórs á 4. ára­tugn­um, andstæður milli sögumanns og sögupersóna. Sögu­mað­ur er mjög áberandi með sérkennileg sjónarmið og málfar heimsmanns. Sögu­persónur eru fjótt á litið að skáldsagnahefð með hver sitt sérkennilega fas og málfar. En í rauninni eru þær mjög ýktar, bæði þær sem eru skrípamyndir og hinar sem göfgaðri eru. Þetta hvorttveggja er alkunna frá expressjónisma og eink­um virðast mér þessar stílandstæður framhald af stílrofum í ljóðum Hall­dórs. Þetta ein­kennir skáldsögur Halldórs æ meir á 4. áratugnum. Því virðast mér þær mun róttækari í módernisma en Vefarinn. En vissulega ráð­ast þær all­ar af rök­­­legri fléttu að skáld­sagnahefð. Hún ræður líka smásögum Halldórs Stef­­­áns­­son­ar. En jafnframt gætir ex­pressjón­­isma í nokkrum þeirra frá fyrra hluta 4. ára­tugs­ins. Þær einkennast m.a. af runum stuttra máls­­greina, sem oft eru slitur ein, líkt og í impressjónískum verkum Þorgils gjall­­anda um alda­mót­in. Meira ber á and­­­stæð­­um milli annarsvegar stíls greina­­skrifa og annarlegra lík­­inga í lýs­ingum á sögusviði annarsvegar, en hinsvegar skáld­­sagna­hefðar í sam­töl­um. Líkt og hjá Halldóri Laxness er sögumaður ágengur og sýnir oft mikla fjarlægð frá efninu og sér­kenni­legan stíl miðað við persón­ur. Einnig hér eru þær af tagi skrípa­­mynda frekar en sann­­fær­andi raun­­sæi­legra persóna, sem ríkj­andi tíska bauð.


Ekki sé ég önnur merki módernisma fyrr en í lok seinni heims­styrj­aldar með ljóðum Steins Steinars, sem sumum var seinna safnað í ljóða­bálkinn Tím­­­­­i­­nn og vatnið, er birtist fyrst 1948, en aftur þriðj­ungi stærri 1956. Tím­­­­­i­­nn og vatnið mót­­­­­ast fyrst og fremst af surreal­isma, tengd eru í sam­settu orði eða setn­ingu orð sem geta ekki átt saman. Það er helst að hugblær brúi bilið milli þess­ara mót­­­sagna. Það er af sama tagi og í ljóðum Hall­dórs Lax­ness frá 1927, en ekki verða sén nein bein áhrif, og þetta er miklu meira verk en ljóð Halldórs. Það skapar ann­­­­ar­­lega heildarmynd af sérstæðum heimi og kyrr­stæð­um. En sá heim­ur verð­ur nær­­tækur og lifandi vegna þess að ljóða­bálk­­ur­ þessi er þrung­inn and­stæð­­um til­­­finn­­ing­­um mælanda, til­finningum sem örð­ugt eða ómögu­legt er að skilja rök­lega, eða tengja umhverfinu í bálkinum.


Hjá atómskáldunum ber sáralítið á módernisma nema hjá Hannesi Sig­­fúss­syni, sem er skálda afkastamestur í módernri ljóðagerð. Þar er um þrjár fyrstu ljóða­­­bækur hans að ræða, 1949, 1951 og 1961. Hér ber raunar lítið á því mót­sagna­­­kennda orðalagi sem ein­kennir fyrr­­nefnd kvæði Halldórs Lax­ness og Steins. Hins­veg­ar mótast báðir fyrstu bálkarnir, Dymb­il­vaka og Imbru­dag­ar, af samhengisleysi milli er­inda og stundum milli ein­stakra lína. Mikl­ar and­stæður eru í stíl, enda þótt hefðbundið ljóðmál ríki í bálk­unum, bæði í orð­færi, hrynjandi og stuðl­­un. Þannig skynja les­­end­ur textana sem ljóð, en festast í mót­sögn­um og fá ekki botn í verkin. Þetta samhengisleysi er af tagi ex­pressjón­­isma eins og hann birtist í flestum ljóð­um Halldórs Laxness, m.a., en aft­ur er eng­­inn beinn skyldleiki sjá­an­legur, ekki heldur við Stein Stein­arr, enda þótt einnig hér sé dregin upp ann­arleg, órökleg heildar­mynd af heimi mæl­anda. Þau ljóðskáld sem síðar koma til með mód­ern­isma, eru ekki afkasta­mikil á því sviði. Einna sérstæðastur er Jónas Svafár frá því um miðja öldina með tvíbent orðalag sem riðlar allri rökhugsun.


Á sama tíma, rétt fyrir miðja 20. öld, koma fyrstu prósaverk Thors Vil­hjálms­­­sonar. Það eru örstutt prósaverk og ljóð, og sum prósa­verk­anna hafa mörg fram­an­greindra expressjónískra einkenna prósa, annarlegar lík­ing­ar, stutt­ar slitr­óttar máls­greinar og mynd­­ræna framsetn­ingu. Persónur eru frum­­­­­mynda­­­kennd­ar, og text­­­­arnir eru torskildir röklega. Enda er stundum sér­­stak­lega girt fyrir rökleg­an skiln­ing með endalausum keðjum af óskilj­an­leg­um út­skýr­­­ing­um, síðar með keðj­um af annarlegum mynd­­ræn­um við­lík­ingum, sem fara hver í sína átt, hvort­­­tveggja stöðvar framrás text­­ans. Textinn er yfirleitt mjög myndrænn, svo að hann dett­­ur nánast sundur í augnabliksmyndir. Hug­ar­flaums gætir hér nokk­uð, eins og í stök­um, örstuttum smásögum ­um eftir Jón Ósk­ar (1952) og Geir Kristjánsson (1956). Steinar Sigurjónson skrifar fyrst­ur Íslendinga móderna skáld­sög­u, ást­arsögu, 1958 (birtist aftur í mjög breyttri og aukinni gerð undir öðrum titli 1967). Þar er stokkið á milli hug­­­ar­flaums ýmissa persóna, þar sem ríkir tal­mál og hug­­mynda­heimur ís­lensks al­þýðu­fólks. Grunn­einingarnar eru í raun sam­kvæmt skáldsagnahefð, en hið mód­­erna við sögurnar er, að horf­ið er ógreinanlega frá einni persónu til ann­arr­ar, og söguþráður skiptir litlu máli. Út­kom­an verður eins­konar heild­armynd af lífi þessa fólks, líkt og hjá Guð­bergi Bergssyni síð­ar, þ.e. í Tóm­as Jónsson met­­sölu­­bók (1966). Þar er horf­­ið frá röklegri fléttu og tímarás, en hug­­ar­flaum­ur mælanda og vaðall gef­ur dökka heild­ar­mynd af um­heimi hans og þó mjög litríka, allt frá skrípa­mynd­um til bölsýni. Persónur eru frum­mynda­kennd­ari en hjá Steinari, ámóta og hjá Thor, en meiri skrípamyndir, ýktar svo sem hjá Halldórunum á 4. áratugnum. Það er þó fyrst og fremst með skáld­sögum Thors frá ár­inu 1968 að telja sem módern­ism­inn verður var­an­­legur í íslenskum prósa­bók­­­­­menntum, það eru mörg verk, löng og vönduð. Auk fram­angreindra einkenna stuttra prósaverka Thors, eru skáldsögur hans mjög fjöl­breyti­leg­ar, einnig að stíl, svo ekki verður séð að ein­­stök atriði þeirra raðist eftir neinu kerfi, og síst söguþræði, en þau tengj­­ast marg­­vís­lega innbyrðis með þrá­hyggju­­­­kennd­um endur­tekn­ingum drama­­tískra mynda, sem eru þó síbreyti­­­legar. Í ljóðum ber á þessum tíma áfram svolítið á surreal­isma, hjá Jóhanni Hjálm­arssyni og Baldri Óskarssyni á sjöunda ára­tugn­um. Svava Jak­obs­dóttir skrifaði fáeinar smásögur um miðjan sjöunda ára­tug­inn í köld­um, nánast klín­iskum stíl, þar sem seg­ir frá allskyns furðum í hvers­dags­­­­lífi kvenna. Út­kom­an verður einskonar tákn­sögur sem sýna þennan hvers­­­­dags­leika sem fár­án­leg­an. En þetta gengur flest upp röklega og verður naum­ast talið mód­ern­ismi. Svolítið ber á surrealisma hjá Megasi í byrjun átt­unda áratugsins, en meira er um expressjónísk stílrof. Á þeim tíma hefur Pétur Gunnarsson í meg­in­atrið­um sömu ex­pressjónísku ein­kenni og Hall­dórarnir tveir á 4. ára­tugn­um, í skáld­sög­um sem í aðalatriðum fylgja rök­legri framrás. Árni Lars­son minn­ir tölu­vert á Thor Vilhjálmsson m.a. með lang­­sóttum lík­ing­um, en auk þess er hann með fágætt dæmi um surrealískar setn­ingar í prósa, þær eru óskilj­­an­leg­ar vegna þess að orð innan setningar stangast á. Einar Guð­munds­­­son gerði prósaverk þar sem skyndilega er stokkið frá einni frásögn í aðra, en milli þeirra eru óglögg tengsl viðfangsefnis. Mikið ber þar á eftir­lík­ing­­um algengustu texta, þetta er í meg­­inatriðum af sama tagi og Tómas Jóns­son metsölubók, þótt ekki sé um stælingu að ræða. Mikill vöxtur færist í mód­erna ljóðagerð eftir 1980. Þar ber töluvert á surrealisma, einkum í mót­sagna­­­kenndum ljóð­mynd­um, en mest er um samhengisleysi milli ljóð­mynda, sem tengjast helst í sam­eig­inlegum hugblæ ljóðs eða ljóðabálks.


Margskonar módernir straumar eru á ferðinni í íslenskum bókmenntum 20. aldar. Einna róttækastur er surrealisminn, sérstaklega í ljóðum Halldórs Lax­­ness upp úr miðjum 3. áratugnum, en þó einkum Steins Steinars upp úr seinni heims­styrj­­öld. Undir þá stefnu mætti líka heimfæra Bréf til Láru 1924, fyrsta móderna prósaskáldritið. En það er vegna sameiginlegra ein­kenna, en ekki vegna bók­mennt­a­áhrifa, og vissulega er það með allt öðru yf­ir­bragði en surrealismi í ljóðum. Fram­vegis örlar á surrealisma, hjá Jóhanni Hjálm­arssyni og Baldri Óskarssyni á 7. áratugnum, Medúsumönnum á þeim 9. Önnur helsta móderna stefna 20. ald­ar, expressjónisminn, er fyrir­ferð­ar­meiri í íslenskum bókmenntum. Þar skal fyrst nefna flest ljóð Halldórs Lax­ness, önnur en fyrrtalin, en auk þess skáld­sög­ur hans, einkum eftir Vefarann mikla, smásögur Halldórs Stefánssonar frá fyrri hluta 4. áratugs og ljóðabálka Hannesar Sigfússonar um miðja öldina. Það eru þó önnur einkenni en á ex­pressjón­ískum ljóðum. Áþekk einkenni eru á prósaverkum Thors Vilhjálms­sonar frá sama tíma og alla tíð síðan, einnig á skáldsögum Guðbergs Bergs­sonar frá 7. áratugnum og Pét­urs Gunnarssonar á þeim áttunda. En vitaskuld er hér margt svo sérkennilegt, að svona stimpill segir ekki mikið um verkin, það á einkum við um skáldsögur Thors, frá lokum 7. áratugsins að telja. Auk þess eru ýmis módern verk sem varla verða flokkuð til slíks undirstraums módernismans. Það gildir bæði um þau fyrstu, eftir Jóhann Sigurjónsson og Jón Thoroddsen, um Jónas Svafár frá því um miðja öld­ina, og t.d. um Gyrði Elíasson á síðustu árum. Módernismi birtist yfirleitt í smærra móti í ljóðum en prósaverkum, og fylgir það eðli bók­mennta­grein­anna. Í ljóðum eru andstæður eða sundurleysi ýmist innan málsgreinar, milli máls­greina, eða erinda. En í prósaverkum eru andstæðurnar milli stærri ein­inga, milli kafla eða stílandstæður persóna.


Þetta er langt tímabil, frá því um 1908 fram á miðjan níunda áratuginn. Það vekur athygli, að sjaldnast verður séð neitt sam­hengi milli þess­ara skálda. Það er ekki fyrr en á 8. áratugnum með prósahöfundum, að sjá má áhrif frá innlendum skáldverkum módernum. Augljóst er einnig, að yngstu ljóðskáldin þekkja vel verk Steins og Hannesar Sigfússsonar, en ekki verður bent á bein áhrif. Annars virðist hver taka upp sinn þráð eftir því sem hann hefur kynnst er­lendis frá og skap­að eftir. Einn­ig vekur athygli að hlé verður á mill­­­um mód­­ern­­isma á 3. og 4. ára­tugn­­um, ogþess sem kemur fram um miðja öldina. Það er reyndar alþjóðlegt fyr­ir­bæri, og skýrist af því hve tæpri fót­festu mód­ern­ism­inn náði á Íslandi - sem ann­arsstaðar - á 3. ára­tugnum, því stóðst hann ekki þau straum­hvörf sem urðu á 4. ára­tugn­um, frá mód­ern­isma til skáld­verka sem áttu að gegna áróð­urs­­hlut­verki, eða a.m.k. vekja fólk til um­hugs­un­­ar um samfélagsmál. Í því efni ríkti hérlendis hefð ættjarðarljóða og skáld­sagna, en hvor tveggja hefðin mót­aðist á 19. öld. Módernismi blómstrar aftur í ljóðum um miðja öldina og gætir slitrótt síðan. Í prósa kemur hann aftur fram á sama tíma, og fáeinir höfundar stunda hann eitthvað áfram. Hvörf verða síð­an aftur um 1970, þá verður hlé á mód­ernri ljóðagerð, en hennar fer svo aft­ur að gæta und­ir lok 8. áratugsins. Athygl­isvert er, að þvílík hvörf verða ekki í prósa. Þar koma fram skáld sem fást við módernisma, bæði á átt­unda ára­tugnum og síð­ar. Þessi munur held ég að sé innan marka tilviljana, því það er um svo fá skáld að ræða, að tísku­bylgja einsog "opin ljóð" á átt­unda ára­tugnum getur þurrk­að annað út um hríð. Í módernum prósa kom sífellt ný örvun ut­an­lands frá, auk þess sem svo stórvirkur mód­ernisti sem Thor Vilhjálmsson hef­ur haft áhrif til eft­ir­breytni, einsog hin víð­fræga Tómas Jónsson met­sölu­bók Guðbergs. En í ljóða­gerð var módernismi eldri og kunnuglegri en í prósa, það virðist skýringin á því að hann rís þar aftur upp með miklum krafti um 1980.


Af þessu yfirliti má sjá, að módernisminn í íslenskum bókmenntum var slitr­­­óttur straumur og sundurleitur. Margháttuð erlend áhrif berast til Íslands með ýmsum skáldum, rétt eins og í ljóðum, skáldsögum og smásögum 19. ald­­ar. Það sýnir þá einu sinni enn, að íslenskar bókmenntir eru ekki sjálfstæð heild, sem lýtur innri þróun fyrst og fremst, heldur eru þær hluti heims­bók­mennt­­anna á hverjum tíma.






.c.21. Heimildir



A. Útgáfur sem vitnað er til



Henri Allari: "Mannsbarn" Iðunn 1927, bls.233-249.


Arnfríður Jónatansdóttir: Þröskuldur hússins er þjöl. Heimskringla, Rvík 1958,46 bls.


Árni Larsson: Uppreisnin í grasinu. Skáldsöguþættir. Rvik 1972, 96 bls.


Ásta Sigurðardóttir: Sögur og ljóð. Rvík 1985, 230 bls.


Baldur Óskarsson: Svefneyjar. Helgafell, Rvík 1966, 50 bls.


Baldur Óskarsson: Döggskál í höndum. Ljóðhús, Rvík 1987, 56 bls.


Dujardin, Edouard: Les lauriers sont coupés. Paris 1887.


Einar Benediktsson: "Stjörnudýrð". Laust mál II, (bls. 489-493). Rvík 1952.


Einar Bragi: Ljóð. Rvík 1983, 185 bls.


Einar Guðmundsson: Lablaða hérgula. Rvík 1975, 134 bls.


Einar Guðmundsson: Flóttinn til lífsins. Rvík 1976, 152 bls.


Einar Kvaran: Ofurefli. Rvík 1908, 380 bls.


Einar Kvaran: Vestan hafs og austan. Rvík 1901, 154 bls.


Geir Kristjánsson: Stofnunin. Rvík 1956, 120 bls.


Gestur Pálsson: Sögur. Rvík 1970, 239 bls.


Guðbergur Bergsson: Leikföng leiðans. Rvík 1964, 216 bls.


Guðbergur Bergsson: Tómas Jónsson metsölubók. Rvík 1966, 355 bls.


Guðmundur Hagalín: Guð og lukkan. Akureyri 1929, 159 bls.


Gunnar Gunnarsson: "Í myrkrinu" Óðinn 1913, bls.51.


Gyrðir Elíasson: einskonar höfuð lausn. Mál og menning 1985. 44 bls.


Gyrðir Elíasson: Haugrof. Mál og menning 1987.147 bls.


Halldór Laxness: "Unglingurinn í skóginum". Eimreiðin 1925, bls. 70-72.


Halldór Laxness: "Rhodymenia palmata" Lesbók Mbl. 4.4. 1926.


Halldór Laxness: Vefarinn mikli frá Kasmír. Rvík 1927, 503 bls.,


2. útg. Rvík 1948, 383 bls., 3. útg. Rvík 1957, 326 bls.


Halldór Laxness: Kvæðakver. Rvík 1930, 93 bls.+ 2. útg., Rvík 1949, 150 bls.


Halldór Laxness: Salka Valka. 3. útg.1959, 453 bls.


Halldór Laxness: Þættir. 2. útg. Rvík 1954, 326 bls.


Halldór Stefánsson: Sögur. Rvík 1989, 560 bls.


Hannes Sigfússon: Ljóðasafn. Rvík 1982, 274 bls.


Jóhann Hjálmarsson: Malbikuð hjörtu. Rvík 1961, 63 bls.


Jóhann Jónsson: Ljóð og ritgerðir. Rvík 1986, 128 bls.


Jóhann Jónsson: óprentuð ljóð í Lbs. 38974to og 46354to.


Jóhann Pétursson: Gresjur guðdómssins. Rvík 1948, 240 bls.


Jóhann Sigurjónsson: Rit I-II. Rvík 1940-42, 170+288 bls.


Jóhannes Helgi: Horft á hjarnið. Rvík 1958, 70 bls.


Jóhannes úr Kötlum: Ljóðasafn I-IX. Rvík 1973-84.


Jón Óskar: Sögur 1940-1964. Rvík 1973, 183 bls.


Jón frá Pálmholti: Orgelsmiðjan. saga. Rvík 1965, 160 bls.


Jón Thoroddsen: Maður og kona. Rvík 1949, 263 bls.


Jón Thoroddsen: Piltur og stúlka. Rvík 1948, 149 bls.


Jón Thoroddsen (yngri): Flugur. 2. útg. Rvík 1986, 58 bls.


Jón Trausti: Leysing. Kaupstaðarsaga. Rvík, 1907, 468 bls.


Jónas Svafár: Það blæðir úr morgunsárinu. Rvík 1952, 48 bls.


Jónas Svafár: Geislavirk tungl. Rvík 1957, 48 bls.


Jónas Svafár: Klettabelti fjallkonunnar. Helgafell, Rvík 1968, 98 bls.


Jónas Svafár: Sjöstjarnan í meyjarmerkinu. Rvík 1986, 40 bls.


Kristín Sigfússdóttir: Gestir. Akureyri 1925, 272 bls.


Kristján Karlsson: Kvæði 90. Rvík 1990, 38 bls.


Loftur Guðmundsson: Jónsmessunæturmartöð á fjallinu helga. Rvík 1957, 289 bls.


Loftur Guðmundsson: Gangrimlahjólið. Rvík 1958, 160 bls.


Megas: Textar. 1991, 353 bls.


Matthías Magnússon: Við segjum ekki nóg.Medúsa, 1986, 20 bls.


Pétur Gunnarsson: Punktur punktur komma strik. 6.pr. Rvík 1986, 142 bls.


Sigurður Nordal: "Hel" (I, bls. 99-154) í: SN: List og lífs­skoðun I-III, Rvík 1987.


Sigurlaugur Elíasson: Brunnklukkuturninn. Norðanniður 1986.18 bls.


Sjón: Drengurinn með röntgenaugun.Mál og menning 1986. 127 bls.


Stefán Hörður Grímsson: Ljóð. Rvík 1979,109 bls.


Steinar Sigurjónsson: Hér erum við. Rvík 1955, 51 bls.


Steinar Sigurjónsson: ástarsaga. Rvík 1958, 110 bls.


Steinar Sigurjónsson: Skipin sigla. Rvík 1966, 171 bls


Steinar Sigurjónsson: Blandað í svartan dauðann. Rvík 1967, 153 bls.


Steinn Steinarr: Ljóðasafn. Rvík 1991, 296 bls.


Steinn Steinarr: 13 kvæði. Skírnir 1973, bls. 32-42.


Steinn Steinarr: óprentuð ljóð í Lbs. 770 fol.


Sturlunga saga I-II. Rvík 1946, 608+502 bls.


Svava Jakobsdóttir: Tólf konur, 1965 og Veisla undir grjótvegg, 1967 í : Smásögur Rvík 1987, 164 bls.


Svava Jakobsdóttir: Leigjandinn.Rvík 1969, 127 bls.


Svava Jakobsdóttir: Gunnlaðar saga. Rvík 1987, 196 bls.


Svava Jakobsdóttir: Undir eldfjalli. Rvík 1989, 122 bls.


Thor Vilhjálmssson: Maðurinn er alltaf einn. Rvík 1950, 136 bls.


Thor Vilhjálmssson: Dagar mannsins. Rvík 1954, 144 bls.


Thor Vilhjálmssson: Fljótt, fljótt sagði fuglinn. Rvík 1968, 2. útg. 1989, 278 bls.


Thor Vilhjálmssson: Óp bjöllunnar. Rvík 1970, 283 bls.


Thor Vilhjálmssson: Grámosinn glóir. Rvík 1986, 267 bls.


Thor Vilhjálmssson: Náttvíg. Rvík 1989, 245 bls.


Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm: Brynjólfur Sveinsson biskup. Rvík 1882, 302 bls.


Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm: Högni og Ingibjörg. Rvík 1889, 94 bls.


Þorgils gjallandi: Sögur. Úrval. Þórður Helgason bjó til prent­unar. Rvík 1978, 301 bls.


Þórbergur Þórðarson: Ljóri sálar minnar. Rvík 1986, 256 bls.


Þórbergur Þórðarson: Mitt rómantíska æði. Rvík 1987, 216 bls.


Þórbergur Þórðarson: Ólíkar persónur. Rvík 1976, 258 bls.


Þórbergur Þórðarson: Bréf til Láru. [6.útg.] Rvík 1974, 277 bls.


Þórbergur Þórðarson: Edda Þórbergs Þórðarsonar. 2. útg. Rvík 1975, 268 bls.


Þórbergur Þórðarson: Íslenskur aðall. 3.pr., Rvík 1971, 233 bls.




B. Umfjöllun



Sé um fleiri en eitt rit höf­undar frá sama ári að ræða, þá kemur stór bókstafur á eftir ártali í texta, en hér á eftir titli.



Asbjørn Aarseth: Realismen som myte. Bergen1981, 124 bls.


Asbjørn Aarseth: Romantikken som konstruksjon. Bergen 1985, 303 bls.


Árni Hallgrímsson: ritdómur um Í fáum dráttum e. Halldór Stefánsson. Iðunn 1930, bls. 414-16.


Ástráður Eysteinsson: "Fyrsta nútímaskáldsagan og mód­ern­ism­inn." Skírnir 1988, bls.273-316.


Ástráður Eysteinsson: "Á tali" TMM 1989, bls. 267-282.


Christa Baumgarth: Geschichte des Futurismus. rororo Hamburg 1966, 313 bls.


Wayne C. Booth: The Rhetoric of fiction. Chicago 1961 o.s.,455 bls.


Malcolm Bradbury & James McFarlane: "The name and nature of modern­ism" Modernism 1890-1930, Penguin 1987, bls. 19-55.


Böðvar Guðmundsson: "Norrænufræðingur hlustar og spyr". Skírnir 1968, bls. 104-136.


Peter Carleton: "Tíminn og vatnið í nýju ljósi" TMM 1964, bls. 171-191.


Einar Olgeirsson: "Skáld á leið til sósíalismans". Réttur 1932, bls. 95-117.


Eysteinn Þorvaldsson: "Dymbilvaka". Mímir 23, 1975, bls. 5-14.


Eysteinn Þorvaldsson: Atómskáldin. Rvík 1980, 325 bls.


Stanley Fish: Is there a text in this class? London 1980, 394 bls.


Hugo Friedrich: Die Struktur der modernen Lyrik. rororo 1988, 332 bls.


Fríða Sigurðardóttir: "Einkenni nútíma í ljóðum Þorgeirs Sveinbjarnarsonar" Skírnir 1973, bls. 54-74.


Gérard Genette: Figures III. Paris 1972, 286 bls.


Gestur Pálsson 1889: "Nýi skáldskapurinn". Ritsafn I-II. Rvík 1953 (II, bls. 72-95).


Gísli Sigurðsson: "Formáli" (bls.5-14) í: Jón Thoroddsen: Flugur. 2. útg. Rvík 1986.


Guðmundur Friðjónsson: "Fylgd úr hlaði" Sólhvörf, Rvík 1921 (bls. 198-194).


Gunnar Harðarson: "Laumufarþegar atómljóðsins" Ljóða­ár­bók 1989, bls. 108-118.


Peter Hallberg: Vefarinn mikli I-II, Rvík 1956-8, 195+248 bls.


Peter Hallberg: Hús skáldsins I-II. Rvík 1971-2, 295+246 bls.


Peter Hallberg: "Við vitum ekki hvort þau hafa andlit". TMM 1972, bls. 119-134. (B)


Halldór Guðmundsson: Loksins, loksins. Rvík 1987, 232 bls.


Halldór Guðmundsson: "Orðin og efinn" TMM 1989, bls. 191-204.


Halldór Laxness 1925: formáli að "Unglinginum í skóginum". Eimreiðin 1925, bls. 70.


Halldór Laxness 1926: viðtal í Morgunblaðinu 29.4.


Halldór Laxness 1930: "Formáli". Kvæðakver 1930, bls.5-8.


Halldór Laxness 1946: "Formáli að Nokkrum sögum" í: HKL: Þættir 1954, bls.7-9.


Halldór Laxness 1948: "Hvernig Vefarinn varð til". Vefarinn mikli frá Kasmír 2. útg. Rvík, bls. 381-3.


Halldór Laxness 1949: "Um kvæðin". Kvæðakver 1949, bls. 141-8.


Halldór Stefánsson: ritdómur um Jónsmessunæturmartröð. TMM 1958, bls. 97-8.


Hannes Pétursson 1973: "Hvar eru þín stræti" Skírnir 1973, bls. 43-53.


Helgi Hálfdanarson: "Loksins dautt". Lesbók Mbl 3/3, bls.3.


Hug­tök og heiti í bókmenntafræði. Rvík 1983, 318 bls.


Ingi Bogi Bogason: "Ekki er gott að skáldin séu skyrtulaus" Samtal við Kristján Albertsson... Lesbók Mbl. 20.5. 1989.


Ingi Bogi Bogason: "Til að mála yfir litleysi daganna. Sökn­uð­ur­..." Skírnir 1991, bls. 11-45.


Jóhann Hjálmarsson: Íslensk nútímaljóðlist. AB 1971, 241 bls.


Jón Óskar: Fundnir snillingar. Rvík 1969, 208 bls.


Helena Kadeckovà: "Upphaf íslenskra nútímabókmennta" TMM 1971, bls. 109-120.


Helena Kadeckovà: "Um Hel" Skírni 1972, bls. 125-138.


Bruno Kress: eftirmáli í An Islands Küsten. Berlin 1975.


Sven Møller Kristensen: Impressionismen i dansk prosa 1870-1900. 3.opl. Kbh. 1968, 199 bls.


Kristinn E. Andrésson: "Rauðu pennarnir" Þjv. 1936. Um íslenskar bók­menntir I. Rvík 1970, bls. 143-153.


Kristján Eiríksson: "Nokkrar athuganir á stíl Ofvitans með hliðsjón af Íslenskum aðli". Ópr. cand.mag. ritgerð í Hbs., 1979, 106 bls.


Kristján J. Jónsson: "Hver er maðurinn." B.A. ritgerð í íslensku í Hbs. 1975, 44 bls.


Kristján Karlsson: "Hin ósögðu lausnarorð". Inngangur Ljóðasafns Steins Steinars, bls.9-29 (frá 1964).


Kristján Karlsson: bréf til Arnar Ólafssonar 21.5. 1992.


Edgar Lohner: "Die Lyrik des Expressionismus" í Expression­ismus als Literatur, Bern 1969, bls. 107-126.


Fritz Martini: "Einleitung" Prosa des Expression­­ismus, Reclam (8379), Stuttgart 1970, bls. 3-48.


Matthías Johannessen: Í kompaníi við Þórberg. (2.útg.) Rvík 1989, 390 bls.


Matthías V. Sæmundsson: "Jóhann Sigurjónsson og módern­ism­inn" TMM 1979, bls.322-337.


Matthías V. Sæmundsson: "Einfarar og utangarðsmenn" Skírnir 1981, bls. 52-100.


Matthías V. Sæmundsson: Mynd nútímamannsins. Rvík 1982, 189 bls.


Matthías V. Sæmundsson: "Dimmir dagar" (bls.7-43) í Kristján Jónsson: Ljóðmæli, Rvík 1986. (A)


Matthías V. Sæmundsson: "Götustelpan..."TMM 1986, bls. 148-162. (B)


Matthías V. Sæmundsson: Ást og útlegð. Rvík 1986, 295 bls. (C)


Matthías V. Sæmundsson: "Myndir á Sandi" TMM 1988, bls. 338-365.


Matthías V. Sæmundsson: "Á aðra hlið öskraði dauðinn..." TMM 1990, bls.25-35.


Njörður Njarðvík: Eðlisþættir skáldsögunnar. Rvík 1975, 188 bls.


Njörður Njarðvík: "Smásaga" (bls. 9-24) í: Í fáum dráttum. Tólf íslenskar smásögur...Rvík 1979.


Lars Nylander: Prosadikt och modernitet. Stockholm 1990, 574 bls.


Ordbog for det danske sprog. I- XXVIII. Kbh. 1919-1956.


Ólafur Jónsson: "Atómskáld og módernismi" Skírnir 1981, bls. 101-125


Óskar Halldórsson: "Kvæðakver" í Sjö erindi um Halldór Laxness, Rvík 1973, bls.61-80.


Göran Palm: "Um Dymbilvöku" . TMM 1957, bls. 176-7.


Karl Popper: The Poverty of Historicism. London 1989, 176 bls.


Bernard Scudder: ritdómur um Kvæði eftir Kristján Karlsson. Skírnir 1985, bls. 311-320.


Sigríður Steinbjörnsdóttir: "Vangaveltur um samband form­gerðar og stíls í Ópi bjöllunnar." B.A.ritgerð H.Í. 1987, í Hbs, 50 bls.


Silja Aðalsteinsdóttir: "Þú og ég sem urðum aldrei til". Skírnir 1981, bls. 29-51.


Snorra Edda. Iðunn 1975, 368 bls.


Walter H. Sokel: "Die Prosa des Expressionismus" í Expression­ismus als Literatur, Bern 1969, bls. 153-170.


Steingrímur J. Þorsteinsson: Jón Thoroddsen og skáld­sög­ur hans. I-II, Rvík 1943, 709 bls.


Svavar Sigmundsson: Um litatáknanir hjá Steini Steinari. Mímir 5, bls. 36-48, Rvík 1965.


Sveinn Skorri Höskuldsson: Gestur Pálsson. I-II, Rvík 1965, 702 bls.


Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld. Rvík 1970, 72 bls.


Sveinn Skorri Höskuldsson: "Þegar Tíminn og vatnið varð til". Afmælisrit [..] Steingríms J. Þorsteins­son­ar. Rvík 1971, bls.155-195.


Sveinn Skorri Höskuldsson: "Perlan og blómið" Skírnir 1979, bls. 108-166.


Sveinn Skorri Höskuldsson: "Den isländska kortprosans upp­blomstring under 50-talet" í: Kortprosa i Norden. Odense Universitetsfolag 1983, bls. 151-159. (A)


Sveinn Skorri Höskuldsson: "Raunsæisstefnan" í Hugtök og heiti.(1983 B)


Preben Meulengracht Sørensen: "Bygging og tákn. Um Tímann og vatnið". Skírni 1970, bls. 129-152.


Þórður Helgason: Inngangur (bls. 9-70) í Þorgils gjallandi: Sögur. Úrval.


Örn Ólafsson: "Surrealistar á Íslandi" Mannlíf, 3. tbl. 1985, bls. 124-129. (A)


Örn Ólafsson: "Um dagbækur Þórbergs". Lesbók Mbl. 8.6.1985. (B)


Örn Ólafsson: "Unglingurinn í skóginum og Alþingi". Skírni 1985, bls. 71-91.(C)


Örn Ólafsson (ritdómur): Gyrðir Elíasson: einskonar höfuðlausn. DV 31.5. & 18.6. 1985.


Örn Ólafsson (ritdómur): Sjón: Oh! (isn't it wild) DV 15.8. 1985.


Örn Ólafsson (ritdómur): Gyrðir Elíasson: Bak við Maríuglerið. DV 7.12. 1985.


Örn Ólafsson (ritdómur): Matthías Magnússon: Við segjum ekki nóg. DV 18.2.1986.


Örn Ólafsson (ritdómur): Gyrðir Elíasson: Blindfugl/Svartflug. DV 26.6. 1986.


Örn Ólafsson (ritdómur): Sigurlaugur Elíasson: Brunnklukkuturninn. DV 13.8. 1986.


Örn Ólafsson (ritdómur): Sjón: Drengurinn með röntgenaugun. DV 25.11. 1986.


Örn Ólafsson (ritdómur): Tómas Jónsson metsölubók. DV 7.7. 1987.


Örn Ólafsson (ritdómur): Svava Jakobsdóttir: Gunnlaðarsaga. DV 10.11. 1987.


Örn Ólafsson (ritdómur): Baldur Óskarsson: Döggskál í höndum. DV 3.12. 1987.


Örn Ólafsson: "Bókmenntatúlkanir". TMM 1989, bls. 5-11 (A).


Örn Ólafsson: "Halldór Stefánsson og expressjónisminn". Skírni 1989, bls. 146-180 (B).


Örn Ólafsson (ritdómur): Sjón: Engill, pípuhattur og jarðarber. DV 14.11.1989.


Örn Ólafsson: Rauðu pennarnir. Rvík 1990, 286 bls.


Örn Ólafsson (ritdómur): Kristján Karlsson: Kvæði 90. DV 26. 11. 1990


.





.Mannanöfn



Aarseth, Asbjørn


Algulin, Ingemar


Allari, Henri


Appollinaire, Guillaume


Aragon, Louis


Arnfríður Jónatansdóttir


Álfrún Gunnlaugsdóttir


Árni Hallgrímsson


Árni Larsson


Árni Sigurjónsson


Ásta Sigurðardóttir


Ástráður Eysteinsson


Bakhtin, Mikhail


Baldur Óskarsson


Balzac, Honoré


Bang, Hermann


Baudelaire, Charles


Baumgarth, Christa


Beckett, Samuel


van Beethoven, Ludvig


Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson


Benn, Gottfried


Benzi, Roberto


Bertel Þorleifsson


Bertrand, Aloysius


Blake, William


Boccaccio, Giovanni


Bode, Dietrich


Bontempelli, Massimo


Booth, Wayne C.


Borodin


Bradbury, Malcolm


Bragi Kristjónsson


Brahms, Johannes


Brandes, Georg


Breton, André


Bugði Beygluson (Steinar Sigurjónsson)


Böðvar Guðmundsson


Carleton, Peter


Claussen, Sophus


Coleridge, Samuel T.


Dagur Sigurðarson


Dante Alighieri


Darwin, Charles


Davíð Stefánsson


Desnos, Robert


Dostojevskí,Fjodor


Döblin, Alfred


Edschmid, Kasimir


Eggert Stefánsson


Egill Skallagrímsson


Einar Benediktsson


Einar Melax


Einar Bragi Sigurðsson


Einar Guðmundsson


Einar Már Guðmundsson


Einar Kvaran


Einar Olgeirsson


Einstein, Carl


Eliot, T.S.


Elías Mar


Eluard, Paul


Ernst, Max


Eysteinn Þorvaldsson


Fairbanks, Douglas


Fish, Stanley


Fjölnir Stefánsson


Flake, Otto


Flaubert, Gustave


Frank, Leonhard


Freud, Sigmund


Friedrich, Hugo


Fríða Sigurðardóttir


Garcia Lorca, Federico


Geir Kristjánsson


Genette, Gérard


Gestur Pálsson


Gide, André


Gísli Sigurðsson


Goethe, Johann W.


Grímur Thomsen


Guðbergur Bergsson


Guðmundur Benediktsson


Guðmundur Daníelsson


Guðmundur Friðjónsson


Guðmundur Hagalín


Guðmundur Kamban


Guðrún Bjartmarsdóttir


Gunnar Benediktsson


Gunnar Gunnarsson


Gunnar Harðarson


Gyrðir Elíasson


Hallberg, Peter


Halldór Guðmundsson


Halldór Laxness


Halldór Stefánsson


Hallgrímur Pétursson


Hamsun, Knut


Hannes Hafstein


Hannes Pétursson


Hannes Sigfússon


Helgi Hálfdanarson


Heym, Georg


van Hoddis, Jakob


Hómer


Hulda (Unnur B. Bjarklind)


Indriði G. Þorsteinsson


Ingi Bogi Bogason


Jacob, Max


Jacobssen, J. P.


Jakob Smári


James, Henry


Joyce, James 19(?)


Jóhamar (Jóhannes Óskarsson)


Jóhann Hjálmarsson


Jóhann Jónsson


Jóhann Pétursson


Jóhann Sigurjónsson


Jóhannes Helgi


Jóhannes úr Kötlum


Jón Arason


Jón Gnarr


Jón Magnússon


Jón Mýrdal


Jón Ólafsson Indíafari


Jón Ólafsson ritstjóri


Jón Óskar


Jón frá Pálmholti


Jón Rafnsson


Jón Sigurðsson


Jón Thoroddsen


Jón Thoroddsen (yngri)


Jón Trausti (Guðmundur Magnússon)


Jón úr Vör


Jónas Guðlaugsson


Jónas Hallgrímsson


Jónas frá Hrafnagili


Jónas Svafár


Kadeckovà, Helena


Kafka, Franz


Kári Marðarson (Peter Carleton)


Khayam, Omar


Kress, Bruno


Kristensen, Sven Møller


Kristinn E. Andrésson


Kristín Sigfússdóttir


Kristján Albertsson


Kristján Eiríksson


Kristján Jónsson


Kristján J. Jónsson


Kristján Karlsson


Kubin, Alfred


Lasker-Schüler, Else


Lautréamont


Lára Ólafsdóttir


Leiris, Michel


Lichtenstein, Alfred


Loftur Guðmundsson


Lohner, Edgar


McFarlane, James


Magnús H. Magnússon


Magnús Á. Árnason


Majakovskí, Vladimir


Mallarmé, Stephane


Marinetti, Filippo T.


Martini, Fritz


Marx, Karl


Matthías Jochumsson


Matthías Johannessen


Matthías Magnússon


Matthías V. Sæmundsson


Megas (Magnús Þór Jónsson)


Meyrink, Gustav


Musil, Robert


Nietzsche, Friedrich


Njörður Njarðvík


Nylander, Lars


Oddur Gottskálksson


Ólafur Engilbertsson


Ólafur Jónsson


Ólafur Jóhann Sigurðsson


Óskar Halldórsson


Palm, Göran


Papini, Giovanni


Páll Sigurðsson


Páll Valsson


Petrarca, Francesco


Péret, Benjamin


Pétur Gunnarsson


Pinthus, Kurt


Popper, Karl


Pound, Ezra


Reverdy, Pierre


Rilke, Rainer M.


Rimbaud, Arthur


Runólfur Þórarinssson


Scott, Walter


Scudder, Bernard


Sebastian helgi


Shakespeare, William


Sigfús Daðason


Sigríður Steinbjörnsdóttir


Sigurður Einarsson


Sigurður Guðmundsson


Sigurður Nordal


Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti


Sigurlaugur Elíasson


Silja Aðalsteinsdóttir


Sjón (Sigurjón Birgir Sigurðsson)


Snorri Hjartarson


Snorri Sturluson


Sokel, Walter H.


Soupault, Philippe


Sólon í Slunkaríki


Stadler, Ernst


Stefán frá Hvítadal


Stefán Hörður Grímsson


Stefán Íslandi


Steinar Sigurjónsson


Steinn Steinarr


Steingrímur Thorsteinsson


Steingrímur J. Þorsteinsson


Steinunn Sigurðardóttir


Stendhal (Henri Beyle)


Stephan G. Stephansson


Strindberg, August


Stuckenberg, Viggo


Svava Jakobsdóttir


Svavar Sigmundsson


Sveinn Skorri Höskuldsson


Sæmundur fróði


Sørensen, Preben Meulengracht


Tagore, Rabindranath


Taylor, Elizabeth


Thirion, André


Thor Vilhjálmssson


Toldberg, Helge


Tolstoj, Lev


Torfhildur Þorsteinsdóttir Hólm


Tómas Guðmundsson


Trakl, Georg


Túrgenev, Ivan


Vilborg Dagbjartsdóttir


Whitman, Walt


Zola, Émile


Þorgeir Sveinbjarnarson


Þorgeir Þorgeirsson


Þorgils gjallandi (Jón Stefánsson)


Þorsteinn frá Hamri


Þorvaldur Skúlason


Þór Eldon


Þórbergur Þórðarson


Þórður Helgason


Þórir jökull










[1]Sveinn or›ar fletta svo á sænsku: "De unga isländska kort­prosa-författare som här blivit nämnda bildade epok i kortprosa-diktningens historia på Island.


Den realistiska novellens dominans var slut. I dess ställe kom nu korta skisser, bilder eller bild­sekvens.


I stället för skildringar av människolivet i sin helhet och psykologisk eller social analys samt ofta budskap eller polemik ställdes läsaren inför kaos, söndersliten värld och människans ångest inför meningslösheten.


Det går att peka på två viktiga ting som bidrog till dessa förändringar. Å ena sidan ett totalt för­ändrat samhällsliv på Island efter andra världskriget. Å andra sidan en utländsk litt­era­tur­påverkan, först och främst Kafka och den franska existensialismen.



[2]"Denna novell berättar om en islänning i en utländsk storstad, i stark sommarvärme på ett torg där några dagdrivare samlar sig kring honum på en bänk. Novellen återger deres osam­man­hängande samtal og hjältens tankeflöde. Den blir ett spontant uttryck för människans en­samhet och främlingskap i nutiden, ängslan och ångest inför världsutvecklingen vid kalla krigets början." (bls. 155)



[3]a› fyrirmynd Njar›ar Njar›vík sem fylgir gamalli hef› í flví a› kalla sögumann 3.persónusögu söguhöfund í útbreiddri kennslubók (E›lisflættir skáldsögunnar, bls. 25 o.áfr.). fia› s‡nir sig, a› hér ver›ur a› greina á milli, enda flótt Njör›ur leggi rétti­lega áherslu á a› sitt er hva›, söguhöfundur og persónan sem samdi söguna, í flessu til­viki ma›urinn Thor Vilhjálmsson. Or›i› "söguhöfundur" merkir flá samtengjandi sköp­unarvilja hverrar sögu, og fless eru ‡mis dæmi a› hann sé í andstö›u vi› sögu­mann 3. p. sögu, svo sem vi› sáum í smásögum Halldórs Stefánssonar, einkum á "Hinn mikli segull"(sbr. rit mitt 1990, bls. 141-3). Sjá nánar Wayne C. Booth: The Rhetoric of fiction, Chicago 1961 o.s., 6.k. og Gérard Genette: Figures III, Paris 1972, bls. 252.



[4]up to 1930. After that it seems that certain elements of Modernism seem to be reallo­cat­ed, as history increasingly came back in for the intellectuals, as, with the loss of pur­pose and so­cial cohesion, and the accelerating pace of technological change, modernity was a visible scene open to simple report, and as the world depression tends in­creas­ing­ly to bring back po­litical and economic determinism into the intellectual ideologies."



[5]Sjá fyrrnefnt rit mitt, 1990, bls. 125 og 165 o.áfr.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar