tirsdag den 14. juni 2011

Seiðblátt hafið 3



5. Myndhvörf



Myndhvörf, öðru nafni líkingar, eru víðast um heim kallaðar grískættuðu orði, „metafor“. Þær eru eitt helsta grundvallaratriði skáld­skapar og hafa verið frá alda öðli, að tala um eitt­hvert fyrirbæri eins og það væri eitthvað allt annað. Aristoteles telst uphafsmaður skáld­skap­arfræða, m.a um lík­ing­ar. Hann segir (Um skáldskaparlistina, 21. kafla, bls. 81), að lík­ing sé yfir­færð merking frá einum hlut til annars. Hann nefnir dæmi sem eru hluti fyrir heild og heild fyrir hluta, en í þriðja lagi það, að nota eitt sérstakt orðalag fyrir annað





Um flutning frá einni tegund til annarrar má nefna sem dæmi „Með eirvopni jós hann lífinu“ annars vegar og hins vegar „Hann hjó vatnið með eirkeri.“ En hér er „að ausa“ notað fyrir „að höggva“, en „að höggva“ notað fyrir „að ausa“, en hvort tveggja táknar að taka burt.





- þ.e. orðalaginu er víxlað milli þessa tvenns, höggva og ausa. Í fjórða lagi nefnir Aristoteles afstöðu (analógíu). Annar liður hefur svipaða afstöðu til fyrsta eins og fjórði liður til þriðja. Þannig hefur ellin svipaða afstöðu til lífsins eins og kvöld til dags, og þá má tala um ævi­kvöld, eða elli dagsins, o.s.frv. Það sem um er talað, ellin, heitir þá kenniliður, en hitt sem henni er líkt við, kvöld, heitir myndliður.



Peter Hallberg hefur skrifað mikið rit um myndmál bókmennta (Diktens bildspråk, 1982, 628 bls.). Mikill inngangur er um flokk­un myndmáls og hlutverk þess, en síðan kemur sögulegt yfirlit, þar sem stikl­að er á stóru, frá Biblíunni um Hómer til norrænna fornkvæða, síðan um Shakespeare og norræn skáld, einkum sænsk frá því á 17. öld til nútímans, og endað á Thor Vil­hjálmssyni. Svo fróðlegt sem þetta yfirlitsrit er, þá gefst ekki mikið til­efni til að tengja þessa könnun við það. En sem bakgrunnur skulu nefnd ein­stök atriði, svo sem (bls. 137-8) að sameiginlegt Biblíunni og Hómer sé að nota orð um tiltekin náttúrufyrirbæri um fólk. Haf, akur, ský og hjörð er haft um mann­söfn­uð, tré um mann, ljón um hetju, en leiðtogi er kallaður hirðir eða for­ystu­hrútur. Vindur táknar dynti, eldur eyðileggingu, en ljós táknar líf og ham­ingju. En myndmál Biblí­unn­ar er einnar ættar, gjarnan til að setja siða­boð­skap á svið; mann­legt er þar skýrt með mannlegu. Fjölgyðisheimur Hómers einkennist hinsvegar af fjöl­breytni, sundurleitni og hreyfingu í mynd­máli, sem ekki er samstillt, og síst að siða­boð­skap. Tilviljunar­kennd­ar myndir af hversdags­störf­um gæða það lífi og lit. Í kenning­um norr­ænna forn­kvæða er talað um náttúru­fyrirbæri sem lífverur, sól, tungl o. s. frv., en einnig er hlutum líkt við lífverur, t.d. skipi, húsi, sverði. Fólki er líkt við goð og rán­dýr­, þannig birtist mynd fornrar náttúrusáltrúar, þar sem mörk manna, náttúru og goðsagna hverfa (bls. 164). Myndmál Shakespeares rís á forn­um grunni (Biblíu og klassískum), en er svo fjöl­skrúð­ugt og mótað af aðstæð­um hvers verks, að hér verður ekki vikið að því (en bent á rit Caroline Spurgeon, sjá heimildaskrá). Um síðari tíma skáld­verk má nefna, að þar sem sumir drógu fram að líkingar væru mest til skreytingar á 17. öld, þá leggja aðrir áherslu á að andstæðum sé þar stillt saman (lífið-dauð­inn; lífið-draumur, o.fl. þ.h.), og að skáldin leiti hulinn­ar samsvör­unar, í nafni eining­ar alls sköpunarverksins, eins og síðar varð, í rómantíkinni (bls. 202 o.áfr.). Ennfremur eru hvörfin frá barrokk til upp­lýsingar 18. aldar (bls. 236 o.áfr.), þá vildu menn forðast þær öfgar sem einkennt hefðu myndmál 17. aldar, einnig þvarr Biblían mjög sem upp­spretta mynd­máls, en fornmenntir Grikkja og Rómverja héldu sínum áhrif­um. Lítið varð um persónu­gervingar náttúru­fyrirbæra, en þeim mun meira um að sértök væru tengd ein­hverju hlutlægu, svosem ”tímans tönn”, ”morgunn lífsins”, ”hönd dauðans”, o.s.frv. Það varð því mikil breyting með rómantíkinni (bls. 271 o.áfr.), en þá drottnaði það viðhorf sem Einar Benediktsson hefur öðrum Íslend­ing­um oftar og skýrar orðað, ”að allt er af einu fætt”, manneðlið og nátt­úran, þar ríki hulið samhengi, sem skáld­unum beri að finna. Þetta viðhorf er eins og uppskrift að frumlegu myndmáli, í stað þess að dvelja við ytri svip hlut­anna og nota myndmál til skreytingar. Enn vekur athygli, að á 9. áratug 19. aldar líkti t.d. Strindberg mannlegum fyrir­bærum við nýjustu tækni og vís­indi fremur en við náttúrufyrirbæri, það þótti honum ofnotað (bls. 304). En svo kom andóf gegn ”andleysi natúral­ismans”, í stað þess kom feg­urð­ardýrkun og sókn í ríkulegt, frum­legt mynd­mál (bls. 335-6). Þannig forð­aðist t.d. aldamótaskáldið Karlfeldt slík sam­tíma­­fyrir­bæri sem nýjustu tækni í skáldskap, bæri þau á góma, líkti hann þeim við fyrir­bæri fyrri tíðar (bls. 410). Við komum að tækni­nýjungum í líkingum hér á eftir.






5. 1. Líkingar og samlíkingar



Líkingar eru algengar í daglegu máli, eins og flestir kannast við, og þegar fólk venst þeim hverfur vitund þess fyrir því að um líkingu sé að ræða. Þá þykir alveg jafn­sjálfsagt að tala um blöð í bók eins og blöð á trjám. Flestum Íslendingum mun núorðið auðskild­ara hvað það er að verða fyrir áfalli í viðskiptum eða einkalífinu en að verða fyrir því í hey­skap (þ.e. regni á útbreitt hey), og svo mætti lengi telja. Þorsteinn Gylfa­son kallar þetta hvörf, og gerir þann greinarmun, að þá sé um eitt orð að ræða. „þau má skilgreina sem breytta merkingu orðs frá annarri skyldri merkingu.“ (bls. 143). En líking „sé setning (eða hluti setn­ing­ar) þar sem ósamstæð orð eru valin saman í því skyni að bjóða heim, með þessu orðavali einu, samanburði óskyldra hluta.“ (bls. 145). Það er góð skil­grein­ing, en mér sýnist vanhugsað hjá Þorsteini að halda því fram að hvörf eða yfir­færð merking, verði ein­ungis í stökum orðum. Þau verða allt eins í orðasam­bönd­um, svosem. „að ganga af göflunum“, sem engum dettur í hug að skilja bókstaf­lega, að hús liðist í sundur, þar eru orðin ekkert ósamstæð, allir taka þetta í yfir­færðri merk­ingu, að fólk ærist. Mörg fleiri slík dæmi má finna, t.d. hjá Halldóri Halldórs­syni í Íslensku orðtaka­safni, ég nefni af handahófi: „að leita hófanna, þetta er sami graut­ur í sömu skál, vera við sama heygarðs­hornið“. Og merkingar­breytingin hefur gerst í líking­unni sem heild, hér er ekki um að ræða hvörf einstakra orða í henni, eins og ætla mætti af orðum Þorsteins (m.a. bls. 217): „Mörg hvörf kvikna af líking­um“, og „oft skiljum við líkingar, til dæmis í skáldskap eða vísind­um, í ljósi hvarfa í mæltu máli“. (síðan koma dæmi, bls. 153-4). Enn­frem­ur sýn­ist mér skortur á samræmi hjá Þor­steini að tala um hverfa merkingu orðs, en neita því að tala megi um eiginlega merkingu þess eða grunn­merkingu (bls. 77-9). Útkoman verður þá held­ur óljós. Ef miðað er við almenna málvitund, þá er vissu­lega oft torvelt, jafnvel ógerlegt að tala um eina frummerkingu orðs. En það er þó oft til líka, t.d. mun flest­um þykja augljóst að grunnmerking orðsins fótur sé ganglimur manna eða dýra, neðsti hluti þeirra. en yfirfærð merking orðsins sé í samsetningum svo sem „borðfótur“, „stól­fótur“, „fjallsfótur“, „hag­fótur“, o.s.frv.



Donald Davidson rekur á sannfærandi hátt (bls. 249-50), að orðin í líki­ngu fái ekki nýja, yfirfærða merkingu, heldur byggist líkingin einmitt á venju­legri merkingu þeirra, og enn síður þurfi að hafa tvær merkingar þeirra hug­fastar í senn, eins og í orðaleikjum. Þorsteinn Gylfason fylgir Davidson að máli í því að orð fái ekki breytta (hverfa) merkingu í líkingu (bls. 141-2), en hann lýsir samt yfir andstöðu við Davidson (t.d. bls. 214 o. áfr.), vegna þess að orsakir merkingar líkinga verði ekki fundnar í merk­ingu orðanna, heldur komi þar til ytri rök, hugmyndir fólks um um­heim­inn ráði því að orða­samband er skilið sem líking. Það verður þó að teljast mjótt á mun­um milli þess þáttar merkingar að vísa til merk­ingarmiðs (þess sem við er átt) og hug­mynda fólks um umheiminn, tilvísunin er þáttur hugmyndar­inn­ar. En þessum orðum Þorsteins tengist að Donald David­son nefnir ennfremur (bls. 257-8) dæmi þess að sama setn­ing geti ýmist verið bók­staf­leg­ar upp­lýsingar – eða lík­ing, allt eftir að­stæðum. T.d. dreymir konu kjól, og segir þegar hún vakn­ar: þessi kjóll er alger draum­ur (“It’s a dream of a dress”). Það er bók­staf­lega rétt, en sú setning er yfirleitt líking og merkir: ein­stak­lega eftir­sókn­ar­verður kjóll. Það ákvarðast þá af að­stæð­um hverju sinni, hvort setning er líking eður ei[1]. Þannig er algeng tvíræðni í t.d. setn­ing­um sem geta verið notaðar til að tala um fólk sem dýr; t.d. „Er svínið enn að éta“, „Er nú blessuð dúfan að kurra“. „þessi refur læðist með veggj­um“, o. fl. þ. h., auðvitað geta allar slíkar setningar átt við dýr bein­línis. auk þess að vera líkingar um fólk. „Fallega siglir þessi skonnorta“ er líking ef vísað er til stúlku á gangi, en ekki ef horft er á skip úti á sjó. Í fyrsta kafla Sölku Völku eftir Halldór Laxness er sagt úti á sjó: “eitt heljarmikið brikk”, en það er þá raunar ekki sagt um skip, heldur um Sigurlínu. En þetta varðar ekki verulega viðfangsefni okkar hér, það er fyrst og fremst setningar sem rúma andstæðu milli tveggja póla, þess sem um er talað, kenniliðar, og hins sem því er líkt við, myndliðar.



Lakoff og Turner segja (í riti sínu More than cool Reason, t.d. bls. 49 o. áfr.) að ekki verði hverju sem er líkt við hvað sem er, á hverju menn­ingarsvæði séu rótfast­ar hefðir líkinga sem flestum séu ómeðvitaðar, t.d. að tala um lífið sem ferðalag, dauðann sem brotthvarf, að tala um ástina sem eld, eða um lífið sem eld, o. s.frv. Oft sé þetta tal með stöðluðu orða­lagi, sem fólk hafi ekki lengur vitund um að sé líking, en það væri fjarri sanni að kalla það ”dauðar líkingar”, því einmitt þessar ómeðvituðu lík­ingar séu stöðug upp­spretta nýs orðalags (bls. 129). Skáld búi sjaldn­ast til nýj­ar líkingar, held­ur felist áhrifamáttur skáldskapar einmitt í því að nota þessar grund­vall­ar­hug­myndir sem höfði því til allra - en geri það þó með fersku orða­lagi, nýjum hugrenningatengslum, ella þyki þetta lítill skáld­skapur. Dæmi þessara margnotuðu líkinga má sjá hjá Bjarna Thor­ar­ensen, a.m.k. í þeim lík­ingum sem hann notar oftar en einu sinni, skv. tilvitnaðri rann­sókn Þorleifs Hauks­sonar; t.d. skýbólstrar (bls. 85), ævi­dagur, ævisól (bls. 53-5), forlagastraumur, ævi­straum­ur (bls. 56), öldur mótlætis (bls. 57), ganga eða vegferð lífsins (bls. 62), svefn dauðans (bls. 71), sú hug­mynd að verk manna, þ.á m. rit, séu einskonar bautasteinar, er haldi minningu þeirra á lofti eftir dauðann, o.fl. mætti telja, úr fornkvæðum er tekin mynd sólar í vagni í “himin­reið”, og kenningin „hvarma­ljós“ um augu. Ekki má þó álykta af þessu, að Bjarni hafi verið ófrumlegt skáld, hann vinnur stundum frumlega úr þessu, t.d. hvernig menn binda bagga sína í lestarferð lífsins (bls. 63, um Odd Hjalta­lín).



Lakoff og Turner benda á (m.a. bls. 128 o. áfr.) að þessar ómeð­vit­uðu líkingar sem allir hafa á takteinum séu allt annað fyrirbæri en ”dauð­ar líkingar”, því í þeim þekki nánast enginn upphaflega merkingu, ss. í enska orðinu ”pedigree”, sem merkir ættartala, en það er komið úr franska orða­sam­bandinu ”pied de grue”, eða trönufótur, mynd hans kom fyrir á skjald­ar­merkjum, en engum dettur trönufótur í hug þegar þeir heyra orðið ”pedigree”. Þetta mætti þá kalla hvörf, svo notað sé orðalag Þorsteins Gylfasonar.



Ýmsir hafa lagt mikið upp úr muninum á líkingum og samlík­ingum, sem nota teng­ingarnar: svo sem, einsog, líkt og, o.fl. Bók­mennta­fræðingurinn Vajda tilfærði (bls. 37) þann dóm ungverska bók­mennta­fræð­ings­ins Gyula Illyés 1936, um tákn­sæis­stefn­una, að lykillinn að henni væri, að skáld­in hefðu opin­berlega fargað einu orði, orðinu „einsog“, til að forðast út­skýr­ingar. George A. Miller segir einnig, að samlíkingar séu minna spenn­andi en líkingar að því leyti einu, að atriðin sem saman eru borin séu skýrt tekin fram, og útheimti því minni vinnu frá lesendum. Hann dregur þó í land, er hann segir um samlík­inguna „ást mín er eins og rauð rós“, að lesendum sé látið eftir að skilja hvað sé sam­eiginlegt; fegurð, þyrnar eða áhrif[2]. Thomas Bredsdorff bend­ir á (í Med andre ord, bls. 73), að þegar greinar­mun­ur sé gerður á líkingum og sam­líkingum, þá sé einkum litið á tiltek­inn sam­anburð (tertium compara­tionis) í samlíkingum, svo sem þegar leik­persóna hjá Holberg segir: “Ástin er [...] eins og úfið haf, það æsist því meira sem meira er að því þrengt.” Undirstrikaði liðurinn er þá útskýr­ing, sem ekki er í líkingu, og því höfði líking meira til ímynd­unar­aflsins. En þessi skýring­ar­liður er alls ekki alltaf í samlík­ing­um, og því er hér ekki um eðlis­mun að ræða. Donald Davidson hafnar (bls. 254), þeirri út­breiddu kenningu að lík­ing­ar séu styttar sam­líkingar, þar sem sam­an­burðar­tengingu sé sleppt, og einnig þeirri fín­legri útgáfu kenning­arinnar, að yf­ir­færð merking líkingar sé eins og bók­stafleg merk­ing samlíkingar. Hann seg­ir að hér sé inntak lík­ingar gert allt of augljóst og aðgengi­legt. Mun­ur­inn sé, að allar samlík­ingar séu sannar - á ómerkilegan hátt, því allt líkist æv­in­lega öllu öðru einhvern­veginn. Hins­vegar séu myndhvörf yfir­leitt sett fram sem ósannar full­­yrð­ingar (bls. 257-8). Einmitt það veki viðtakanda til þess að leita þess sem á bak við búi. Jörðin er einsog gólf, en hún er ekki gólf, þótt Dante segi það í lík­ingu. Líking vísi ekki til ein­hvers sérstaks, búi ekki yfir dul­inni merk­­ingu, heldur snúist þetta um hvaða áhrif hún hafi. Líking gefi í skyn, veki hug­renn­ingar (bls. 261 o. áfr.). því verði hún ekki „útlögð“, það yrði ævin­lega enda­laus upptalning, og raunin sé sú, að slíkar útlegg­ing­ar endi oftast á „o.s.frv.“ Það geti ver­ið gagn í slík­um út­leggingum, en það sé þá ein­faldlega það gagn sem hafa megi af bók­mennta­túlkun; að miðla fróðleik um um­hverfi sem vísað er til, miðla skilningi þjálfaðs bók­mennta­lesanda til óþjálfaðs. Módern­istar risu gegn útskýr­ingum í bók­mennta­textum, svosem Breds­dorff hefur eftir Ezra Pound, og því var hann and­vígur teng­ing­um, svo­sem “sem”. Neistinn kvikni milli and­stæðra póla mynd­ar­inn­ar, gildi hennar liggi í orku hans. Þetta er í átt að því sem André Breton hafði (í Stefnuskrá surrealismans, 1924, Manifestes, bls. 31) eftir skáld­bróður sínum Reverdy. Því voru surr­ealistar einatt að vitna til klausu úr Söngv­um Mald­or­ors eftir Lautréamont[3] (frá ár­inu 1869): “Fagurt eins og þegar sauma­vél og regnhlíf hittast af til­vilj­un á lík­skurð­ar­borði”



Breton orðaði ítarlegar áherslu sína á tengingu ólíkra hluta, aldar­fjórðungi eftir að hann sendi frá sér Stefnuskrá surrealism­ans (klausan hefst á tilvitnun í hana), í ritinu Rísandi merki (Signe ascendant[4], bls. 11-12), 1947:





“Því lengra sem er á milli þeirra fyrirbæra sem tengd eru – og tengsl­in þó rétt - þeim mun máttugri tilfinningu ber myndin og þeim mun meiri ljóðrænan veru­leika.” Svo bráðnauðsynlegt sem þetta skilyrði er, þá nægir það ekki. Við hlið þess skipar sér önnur krafa, sem gæti reynst siðferðileg, þegar allt kemur til alls. Athugið að enda þótt hlið­stæðu­myndin takmarkist við að varpa hinu skærasta ljósi á svip að hluta, þá getur hún ekki orðið jafna. Hún hreyfist milli þeirra tveggja fyrirbæra sem birtast, í ákveðna átt, og þeirri hreyf­ingu verður ekki snúi› við. Frá fyrra fyrir­bær­inu til hins síðara markar hún lífsþrungna spennu sem beinist eins og mögulegt er að heilbrigði, ánægju, kyrrð, veitt­um þokka, samþykktum siðum. Verstu fjendur þess­arar hreyf­ing­ar eru niðrun og bæling. – Séu ekki lengur til göfug orð, þá bregst ekki að leirskáld afhjúpa sig með lágkúrulegum tengingum, og eitt besta dæmi þess er þetta “gítar, syngjandi klofbað” frá höfundi, sem yfrið á af slíkum upp­götv­unum.





Lakoff og Turner segja (bls.133) að þegar menn geri greinarmun á líkingum og samlíkingum, stafi það af þeim misskilningi að halda að líkingar séu orðalag, þar sem þær séu í rauninni hug­mynda­tengsl, alveg eins og sam­líkingar. Munurnn sé sá einn að í við­lík­ingunni séu menn ekki eins af­drátt­ar­lausir. Haley leggur víða (í riti sínu The Semeiosis of Poetic Metaphor, t.d. bls. 57) meg­in­áherslu á það sama og Lakoff, Turner og Breton, að tengsl lið­anna verði að vera sönn, til þess að líking sé vel heppnuð, hversu frum­leg sem hún sé, ann­ars verði hún tilgerðarleg; eins og áður segir, finni skáldin lík­ing­ar, en búi þær ekki til. - Bredsdorff færir góð rök að því (einkum bls. 55-77) að lík­ingar feli ævinlega í sér samanburð, en þetta er e.t.v. fyrst og fremst ágrein­ingur um orðalag, það sem Reverdy og Breton leggja áherslu á, er að þetta séu ekki rökleg reikningsskil.



Gegn öllum framantöldum greinarmun á líkingum og samlíkingum vil ég tilfæra tvær samfelldar ljóðlínur eftir Halldór Laxness (í Kvæða­kveri, bls. 62):





Dagleið mín var sem draumur svartrar konu



og drifin slóð mín líkum hvítra tára.





Fyrri línan er samlíking, en síður en svo auðskildari eða nærtækari hvers­­dags­reynslu en sú seinni, sem er líking, og ekki sé ég að neitt breytt­ist að ráði (annað en hrynj­andi!) þótt smáorðinu “sem” væri sleppt. Ef eitthvað er, þá er seinni línan aðeins skiljan­legri, þrátt fyrir líkinguna “lík tára”, enda þótt ekki sé ljóst merkingarlega hversvegna þau eru hvít, frek­ar en eitthvað annað, augljós ástæða þess sýnist mér vera að þannig skap­ast mynd­ræn andstæða við orðið svart. -Eins og margar langsóttar lík­ing­ar, þá má einnig þessi samlíking fá auðskilda, sérstaka túlkun, þetta gæti maður mælt, sem hefði verið að snatt­ast allan daginn fyrir þel­dökka konu (eins og höfundur þessa rits!). En þegar svo sér­stak­ur skilningur helgast ekki af samheng­inu, hlýt­ur hann að verða ómerki­legur, líkt og haft var eftir Davidson hér að fram­an. Það mætti að vild finna fleiri samlíkingar sem eru ekki síður myrk­ar en mynd­hvörf, jafnvel óskiljanlegar og ekki er saman­burðar­lið­in­um (tertium compara­tionis) fyrir að fara. Í kvæðum Halldórs má enn nefna (sbr. bók mína Kóral­for­spil hafsins, bls. 59 o. áfr.): “Önd mín er frjáls eins og útlendur prestur” (Kvæðakver, bls. 41), “Sál min fagnar stjörn­unni stóru/ sem starir neðan af ljóskerinu háa/ líkt og hattur á synd­lausri hóru” (s.r., bls. 37), “Einn stend ég einn,/ samvisku­laus einsog bif­reiða­umferð í apríl...” (s.r bls. 40). Þetta má víðar finna, ég nefni Tím­ann og vatnið eftir Stein Steinarr (sjá Kór­al­forspil hafsins, bls. 90 o. áfr., og grein mína í Andvara 2005), bara upphafslínurnar eru full­­nægjandi dæmi: „Tíminn er eins og vatn­ið/ og vatnið er kalt og djúpt/ eins og vitund mín sjálfs.// Og tíminn er eins og mynd/ sem er máluð af vatn­inu/ og mér til hálfs.“. Eða: “Eins og naglblá hönd/ rís hin neikvæða játun/ upp úr nálægð fjar­lægðar­innar”. Enda þótt að formi megi kalla fyrstu línu skýr­ingarlið (tertium compara­tionis), þá skýrir hann ekki neitt, nær væri að segja að hann rugli. Það væri í sann­leika ómerkilegur og villandi greinar­munur að segja þessar samlík­ing­ar sannar, en sambæri­legar líking­ar ósannar, svo Davidson sé svarað. En vissulega er það rétt, að líkingar þekkjast á því, að þær eru fráleitar, skild­ar bókstaflegri (eða venju­legri) merkingu. Það eru þessar samlík­ing­ar bara líka. Bredsdorff nefnir áþekk dæmi í um­fjöll­un­arefni sínu, ljóðum Henrik Nordbrandt, og þetta er áber­andi hjá surreal­istum, enda tel ég þá vera læri­feður Halldórs og Steins í fram­an­greindum verk­um.



Hér er því ekki greint á milli „eigin­legra líkinga“ og samlíkinga, þar sem liðir­nir tengjast með „einsog“, „líkt og“, „sem“ o. fl. þ. h. Það virðist alltof lítil­fjör­legt forms­­atriði, aðalatriðið er hverskonar fyrirbæri eru tengd, hverju er líkt við hvað, en ekki með hvaða málfræðilegum hætti það er gert.



Bæði Wellek&Warren (bls. 200-204) og Peter Hallberg (83-9) segja frá sérstæðri flokkun Henry Wells (1924) á líkingum í enskum ljóðum á tímum Elísabetar fyrstu (16. öld). Þeir tilfæra eftir Wells sjö flokka líkinga; ”The Decorative, the Violent (or Fustian), the Exuberant, the Intensive, the Sunken, the Radical, and the Expansive.” Margt athygl­is­vert kemur fram í tilfærðum dæmum Wells, en bæði Wellek&Warren og Hallberg sýna þó að mínu mati vel fram á að mörk þessara flokka séu afar óljós. Virðist mér þessi greining því betur njóta sín í umfjöllun um ein­stök ljóð, en að henni verði beitt á t.d. flokkun líkingasafns míns.






5. 2. Skynjun og afstaða.



Varðandi flokkun líkinga skal nefnt, að í nýlegu dönsku safn­riti um myndhvörf er erindi eftir Hans Lauge Hansen, Poetisk metafor som ikonicitet hos Charles Sanders Peirce. Hann vitnar þar (bls. 126-7) til M. C. Haley um að greina milli útlitslíkinga og afstöðulíkinga, og tekur dæmi af orðinu cream (rjómi):





„that baby has creamy skin“



og



„that executive is the cream of the company“





Annarsvegar eru eðlislíkir liðir tengdir; barnið hefur rjómalega húð; þ.e. hvíta, mjúka (og feita?), lyktar af mjólk, en hinsvegar eru samanburðartengsl; þessi starfsmaður er rjómi fyrirtækinsins, þ.e. ber af öðr­um starfs­mönnum þess eins og rjómi flýtur ofan á undanrennu. Það kallast afstöðulíking, en í fyrra dæminu má tala um útlitslíkingu, þótt vita­skuld sé sami grundvallarmunur á rjóma annarsvegar, en smábarni og skrifstofu­manni hinsvegar.



Þorleifur Hauksson gerir (tv. rit, bls. 15) sama greinarmun og Haley, hvaðan svo sem hann hefur það[5]:





„Sem dæmi fyrri gerðar má taka þessi tengdu myndhvörf:



og stjörnu sjá, þá birtu ber,



á brúna himni tindra





Hér er um útlitslíkingu að ræða, sem að nokkru felst í sögninni tindra.



og þegar harma



björg og vanheilsu



á brjósti hönum lágu





Þessi myndhvörf teljast til afstöðulíkinga, harmarnir þjaka manninn eins og björg, ofurþungi á brjósti.





Ekki sé ég að þessi aðgreining nýtist í riti Þor­leifs, en hér er svo miklu meiri efniviður, að hún kemur að gagni. Vitaskuld eru ekki alltaf skýr mörk þessa tvenns, afstöðulíkingar eru oft myndrænar, og títt er matsatriði hve sterk útlitslíkingin er. H.L. Hansen segir í tv. grein (bls. 127, og vitnar til J. D. Johansen), að greina megi tvennskonar afstöðulíkingar, annarsvegar með 4 liðum, A líkist B á sama hátt og C líkist D; en hinsvegar samfellda afstöðulíkingu með þremur liðum, A-B-C, og tekur dæmi (bls. 122) úr ljóði eftir Rafael Alberti: ”Fullt af ljóðum flettir hafið blöðum báta sinna” (De versos llena/ pasa la mar sus hojas de bajeles). Þar fléttast saman útlitslíking – hvítar síður bókar – hvít segl, og afstöðulíking, djúp hafsins, djúp ljóða. Georg Brandes er með svolítið öðruvísi dæmi[6]. Þar vegsamar hann kvæði eftir Wordsworh fyrir að fara úr einni líkingu í aðra; fyrst er kengbognum öldungi líkt við Grettistök sem liggja á heiðum uppi, en síðan eru þau sögð svo tilkomumikil, að því sé líkast sem miklar sækindur hafi skriðið á land[7]. Efniviður okkar hér er allt of viðamikill til að fara út í svo fínlega greiningu, þriggja eða fjögurra liða, enda virðist það helst koma að gagni í greiningu einstakra ljóða. Hinsvegar má framangreind tvískipting oft virðast ótvíræð, a.m.k. hvað setji meginsvip á líkingu. Því var líkingasafninu skipt í afstöðulíkingar annarsvegar, en hins vegar skynlíkingar, þær sem byggja á útliti, hljómi eða öðru þ.u.l. þær eru fimmtungur líkingasafnsins, bæði hjá 19. aldar skáldum og hjá blæleitnum.






5. 3. Líkingasafnið



Ég lét tölvuna telja einingafjölda (stafi og stafabil) í líkingasafni hvers ljóðasafns 19. aldar, og mat það svo út frá heildareiningafjölda þess. Þannig fæst nokkur hugmynd um fyrirferð líkinga í hverju ljóðasafni, en það segir auðvitað lítið um andagift og áhrif ljóðanna. Með venjulegum fyrirvara um ónákvæmni í söfnun líkinga, er fyrirferð þeirra með mesta móti á seinna skeiði Bjarna, rúmlega tíundi hluti textans (svo sem skiljanlegt er, þegar litið er á langar og ítarlegar líkingar, eins og í Sæmundur Hólm). Hjá Jónasi dregur að sama skapi úr fyrirferð líkinga á seinna skeiði (en var einnig rúmur tíundi hluti textans á fyrra skeiði). Steingrímur fer á fyrra skeiði svo aðeins upp fyrir Bjarna (með líkingar rúmlega níunda hluta textans en hálfu minna á seinna skeiði). Mest hefur þó þjóðskáldasafnið með áttunda hluta textans á fyrra skeiði, en sjöunda á seinna. En það held ég segi mest um hvernig kvæði eru valin í úrvalsrit. Í öðrum kvæðasöfnum 19. aldar, sem hér voru könnuð, er þetta mun minna (5-7%). Þessi hlutföll eru svipuð og í tíðni ortra orða, sem áður var um fjallað; og a.n.l. áþekk tíðni fornyrða í kvæðasöfnunum. Er merkilegt að sjá, að skáldin skuli hvert um sig hafa notað ýmiskonar ljóðrænt orðalag í svipuðum mæli, og það einkum á fyrra skeiði ljóðagerðar þeirra – enda þótt það væri á mismunandi tímabilum 19. aldar.



Líkingasöfn þessara tveggja skáldhópa eru ekki allskostar sambærileg, því úr ljóðasöfnum blæleitinna voru sem áður segir valin um 33 ljóð úr hverju til að safna líkingum. Þótt þessi 33 kvæði hvers þeirra séu mislöng, þá er athyglisvert hve mikill munur er á magni myndhvarfa í þeim. Af rúm­lega 1500 dæmum er mest hjá Jónasi Guðlaugssyni, nær 200 alls, litlu minna hjá Jakobi Smára (182) og Einari Benediktssyni (178). Hulda kom næst (170), einkum vegna afar margra persónu­gerv­inga (121). Þá kom Davíð (165). Hann liggur því nálægt meðal­tali, en aðrir hafa minna; Stefán (132), Tómas (121), Sigurjón (114), Sigurður (83), Jóhann Gunnar (76) og loks er Jóhann Sigurjónsson (75).



Í flokkun kenniliða og myndliða voru samheiti sameinuð eftir föngum (t.d. unnur og bylgja = alda). Útkoman í 19. aldar söfnum varð um 300 mismunandi kenniliðir og nær 400 myndliðir. Sama hlut er semsagt iðulega líkt við mismunandi fyrir­bæri. Svipað var hlutfall liðanna[8] hjá blæleitnum, 4/5.



Mér sýnist að þeir Davidson og félagar hafi lög að mæla um að líkingar verði ekki útlagðar, tengsl liðanna eru ævinlega ótæmandi, anl. óræð. Í eftir­farandi umfjöllun hér verður því helst fengist við hverju er líkt við hvað, og hve breitt bil er á milli þeirra liða, auk þess hvort þær byggjast á útlitslíkingu liðanna eða af­stöðu (analógíu). Enn­fremur er aðgreindur undirflokkur líkinga, þar sem eru persónu­gerv­ingar, þ. e. að talað er um hugtök, hlut eða náttúru­fyr­ir­bæri eins og það væri mann­vera. Sömuleiðis er talað um líf­gervingu (eða lífg­un), en þá er talað um dauðan hlut eins og hann væri líf­vera, ýmist dýr eða fugl. Þannig talar t.d. Jakob Smári um ský sem hesta­stóð, Einar Bene­dikts­son og Tómas Guðmundsson tala um öld­ur eins og þær væru hestar, en Jóhann Sig­ur­jónsson líkir myrkrinu við hest.



Enn eitt vandamál er, að könnuður líkinga verður einfaldlega að treysta á eigið hyggjuvit til að sniðganga slitnustu líkingar daglegs máls, engin skýr mörk eru milli þeirra og ljóðrænna líkinga. Hér er því litið hjá líkingum eins og að tala um ljá dauðans eða þyrnikrans lífsins. Ég reyndi frekar að taka of mikið en of lítið, en beindi sjónum þó einkum að nýstárlegu, frumlegu. Alls safnaði ég um 2.600 dæmum; rúmlega 700 persónugervingum og nær 1900 öðrum líkingum úr ljóða­söfnum 19. aldar, en úr ljóðasöfnum blæleitinna voru tekin rúm­lega 1500 dæmi, enn yfir sjö hundruð persónugervingar og nær átta hundruð aðrar líking­ar.



Ég reyndi að kanna framangreinda kenningu Lakoff og Turner, að líkingar skálda séu fyrst og fremst tilbrigði við algengar líkingar daglegs máls. Þá er þess að gæta, að í flokkun þeirra líkinga sem mest bera svip af líkingum daglegs máls var litið hjá frumlegum tilbrigðum. Þær eru svo fáar, að ekki breytir heildarhlutföllum. Með þessum fyrirvörum sýnist mér þó athugunin sýna nokkuð markvert. Það er í fyrsta lagi að miklu minna er um slíkt í skynlíkingum 19, aldar, sjöundi hluti, en í afstöðulíkingum, þar taldist þriðjungur af þessu tagi. Eins og vænta mátti var nær helmingur líkinga við straum, öldur o.s.frv. áþekkt líkingum hversdagmáls, og tveir fimmtu líkinga við himnesk fyrirbæri, fjórðungur líkinga við mannleg fyribæri, en aðeins fimmtungur líkinga við lífverur.



Einnig er nokkur munur skálda. Mest ber á þessum hversdagslíkingum hjá Bjarna, nær ¾ afstöðulíkinga hans. Benedikt Gröndal á fyrra skeiði gekk næst honum, með 2/5 afstöðulíkinga sinna, en Steingrímur hafði aðeins fjórðung afstöðuíkinga sinna af þessu tagi. Hin ljóðasöfnun voru með þriðjung.



Einungis fimmtungur 800 lík­inga blæleitinna virðist mér greinilega byggja á algengum líkingum daglegs máls, og svo sem við mátti búast, þá kom þessi hversdagssvipur einkum fram hjá Davíð og Stefáni (rúmur helmingur líkinga), en síst hjá Einari Ben, Sigur­jóni Frið­jónssyni og Sigurði (5 hjá hverjum) og Jóhanni Sigurjónssyni (6). Önn­ur skáld komu meira á óvart, Hulda hafði einnig aðeins 5, en Jónas Guð­laugsson 19, Jóhann Gunnar 15, Smári 14, Tómas 12. En þetta segir vita­skuld ekk­ert um frumleika eða skort á honum, hann sýnir sig í úrvinnslu þessa.



Í þessum líkingum ber langmest á að tilfinningum sé líkt við eld) eða ís, að lífinu sé líkt við ferðalag, dag og draum. Talað er um tímann sem straum og haf. Augnatilliti er líkt við sind­ur, eld eða demant, lind, hyl eða ós. Hafi og öldum sér­stak­lega er líkt við lífverur, himni við höll, sal eða kirkju, myrkri við fljót, haf eða hjúp. Snjó er líkt við hjúp eða líkklæði. Sólskini er líkt við eld, við foss, brim eða haf, tunglskini við fljót eða öldur, sól og stjörnum við auga.



Sértök eru oft persónugerð á 19. öld, þau koma ekki fyrir í skynlíkingum, en eru hinsvegar nær helmingur kenniliða afstöðulíkinga. Orð um fólk er fjórðungur þeirra, en orð um hluti og himin eru hvort um tíundi hluti kenniliða afstöðulíkinga. Annað er hverfandi. Í skynlíkingum eru himnesk fyrirbæri nær helmingur kenniliða, orð um fólk nær fimmtungur, en orð um jarðnesk fyrirbæri rúmur sjöttungur, þar sem á, haf, alda o. þ. h. eru tíundi hluti. Hjá blæleitnum eru hlutföllin önnur; tveir fimmtu kenniliða afstöðulíkinga eru um fólk, en fimmtungur hvort himneskt og sértök, tíundi hluti munir. En rúmlega helmingur kenniliða skynlíkinga blæleitinna er um himin, sjöundi hluti um haf, á, o. þ. h., en níundi hluti um láð, tólfti um fólk.



Myndliðir eru oftast hlutir gerðir af mönnum, það er á 19. öld 3/5 myndliða skynlíkinga, en 2/5 mynd­liða afstöðulíkinga. Næst eru orð um á, haf o.s.frv, rúmlega tíundi hluti myndliða skynlíkinga, en orð um gróður og himin eru litlu færri. Himinn er fimmtungur myndliða afstöðulíkinga, lífverur tíundi hluti, orð um gróður litlu færri. og orð um á, haf o.þ.h. nálægt því.



Hjá blæleitnum er einnig oftast líkt við hluti (tveir fimmtu myndliða skynlíkinga, en þriðjungur myndliða afstöðulíkinga). Þar næst eru fyrirbæri himins, nær fimmtungur myndliða afstöðulíkinga, en hálfu minna í skynlíkingum, þar er aftur lögur fimmtungur myndliða, en það er rúmlega áttungur myndliða afstöðulíkinga. Lífverur eru loks rúmlega sjöttungur myndliða afstöðulíkinga, nálægt því í myndlíkingum.



Sameiginlegt alla tíð er auðvitað að líkja við fólk og hluti í nánasta umhverfi þess, eða þá við náttúrufyrirbæri, einkum fyrirbæri himins.



Skynlíkingar 19. aldar byggjast langflestar á sjón, aðeins tæplega sextándi hluti þeirra byggist á annarri skynjun. Það varð hinsvegar þrefalt algengara hjá blæleitnum skáldum, fimmtungur skynlíkinga. Á 19. öld er þá einkum um heyrn að ræða. Mest ber á því að tónlist sé líkt við öldur (4) og straum. En slíkar líkingar ganga einnig í hina áttina, fljótsnið og brimi er líkt við organleik, brimi er einnig líkt við hörpuslátt og söng (”og bárugjálfrið glumdi/ hinn gjalla dauðans óð” BG2Svefn5). Vorklið og tali er einnig líkt við söng, en fossnið og bergmáli er líkt við strengleik. Hlátri og vindgnauði er líkt við klukknahljóð, og talað um “rokviðris flaum” (ST2Hellenskurdr18). Stunum og andvörpum er líkt við storm, seið við vatnsólgu.



Einungis fjögur dæmi töldust um aðra skynjun á 19. öld. Hjartslætti og losta er líkt við brim (3), og skipi við vöggu. Einnig hjá blæleitnum ber þá mest á heyrn, en ennfremur[9] er t.d. „Að vit­um mínum ilmsins öldur streyma“ (Davíð: Moldin angar 3).



Ekki eru mikil frávik einstakra skálda frá þessu meðaltali, að fimmtungur líkinga sé skynlíkingar. Miklu minna hafa þó Bjarni og Matthías (einkum á seinna skeiði), fylgjast þeir þar enn að, hjá Bjarna er aðeins tíundi hluti líkinga skynlíkingar, en á seinna skeiði Matthíasar er þetta aðeins sjöunda hver. En hjá Benedikt eru skyn­líkingar mun tíðari, þriðjungur líkinga á fyrra skeiði, fjórðungur á seinna. Sýnir sig enn að þeir fyrrnefndu eru meira í sértekningum, en Benedikt skynrænni.



Hér kemur hinsvegar fram mikill munur á blæleitnum skáldum. Langmest er þá um skynlíkingar hjá Jakobi Smára, tæpur helmingur líkinga, en rúmlega þriðjungur hjá Einari Benediktssyni, Sigurjóni, Huldu og Jóhanni Sigurjónssyni. Þetta er fjórðungur líkinga hjá Jóhanni Gunnari og Sigurði, fimmtungur hjá Jónasi Guðlaugssyni, sjötti hluti hjá Tómasi, en svo minnkar þetta verulega; tíundi hluti hjá Davíð og aðeins tuttugasta hver líking Stefáns er skynræn.



Hér verður fyrst hugað að persónugervingum, en síðan líkingum, raðað eftir myndliðum.






5. 4. Nýgervingar og nykrað



Þegar litið er á þær líkingar, sem mestan svip setja á þessa ljóðagerð, verða fyrst fyrir nýgervingar, sem Snorri Sturlu­son skilgreindi svo í Eddu sinni (bls. 301):





Það eru nýgjörningar að kalla sverðið orm og kenna rétt, en slíðr­ir­nar göt­ur hans, en fetlana og umgjörð hams hans. Það heldur til orms­ins nátt­úru að hann skríður úr hamsi, svo að hann skríður mjög til vatns. Hér er svo sett ný­gjörning, að hann fer leita blóðs bekkjar að, þá er hann skríður hug­ar stigu, það eru brjóst manna. Þá þykja ný­gjörn­ingar vel kveðn­ar, ef það mál, er upp er tekið, haldi um alla vísu­lengd, svo sem [þ.e.: en ef] sverð sé ormur kall­að­ur, fiskur eða vönd­ur eða annan veg breytt, það kalla menn nykrað, og þykir það spilla.





Venjulega er notuð orðmyndin „nýgervingar“ og svo verður hér (þótt í þessu hand­riti Snorra-Eddu sé önnur orðmynd). Í þessum ljóðum eru ýmis dæmi nýgervinga, þ.e. að líkingu sé haldið lið fyrir lið, þótt ekki sé kannski allt ljóðið í gegn. Tökum dæmi af ljóði Einars Bene­dikts­son­ar Skuggar. Auk andstæðna ljóss og myrkurs er konu líkt við sjávar­mynd, lið fyrir lið; brjóstið er kvikt sem bára, hárið dökkt sem þang og augun sem stein­ar á sjávar­dýpi, en enni hefur svip af logni á þessari sjávar­mynd.





Hún ber djúpsins hall í augum.



Hár er blakkt sem mararþang.



Logn er yfir brúnabaugum,



brjóstið hvikt sem öldufang.



Hún er sveipuð sorta og bjarma,



situr yzt við stígamót,



dóttir nautna og dimmra harma,



drifhrein, fallin sorgasnót.





Nýgervingar eru áberandi hjá sumum þessum skáldum, og verður komið að þeim flest­um í köflum um einstök skáld, því ekki sé ég annað sam­eiginlegt en að­ferð­ina, ekki sjálfar líking­arnar.



Þess eru hinsvegar dæmi að saman sé raðað sundurleitum líkingum um sama fyrir­bæri. Þetta væri þá “nykrað”, svosem haft var eftir Snorra Sturlu­syni hér að framan. Þannig hefur Jónas Guðlaugsson (Nótt á haf­inu, 3) fimm mismunandi lík­ingar um stjörnur, þær eru mann­fylk­ing með blys, einnig eru þær hálsmen, augu, hjarta og stúlkur:





Og svo kemur nóttin! - Sjá stjarnanna blysfylking bjarta,



sem hálsmen um himinsins dökkbláu kveldskikkju vafið,



þær stara sem augu, þær iða sem skjálfandi hjarta,



sem ástfangnar smámeyjar gægjast þær niður á hafið.





Ekki fer illa á þessari nykrun að mínum dómi, skynjunin virðist þeim mun yfir­gengilegri, sem ljóðmælanda er erfiðara að hemja hana innan fastra marka. Enda er þar ekki leiðum að líkjast, sama aðferð prýðir eina frægustu ræðu í leikritum Shakespeares, þ.e. einræðu Macbeth, þegar hann fréttir dauða drottningar sinnar, þá líkir hann lífinu við m.a. skugga, leikara, sögu fífls og kertisskar:





Hún hefði dáið samt þó síðar yrði



Og tími fengist fyrir þvílíkt orð. –



Á morgun, og á morgun, og á morgun,



Þumlungast þessi smáspor dag frá degi



Til loka hinstu línu á lífsins bók;



Og gærdagarnir allir lýstu leið



Flónum, í dauðans duft. Slökk, slökk þig skar!



Sljór farandskuggi er lífið, leikari



Sem fremur kæki á fjölunum um stund



Og þegir uppfrá þvi, stutt lygasaga



Þulin af vitfirringi, haldlaust geip,



Óráð sem merkir ekkert[10].





Hér skal frekar fjallað um nokkur dæmi um hvarflandi líkingar, ef svo mætti kalla. Eftirfarandi dæmi eru eins og tvíliða líking, stokkið er frá einni líkingu til annarrar í sama orða­sambandi. Slíks sjást meira að segja dæmi hjá Einari Benedikts­syni, þar sem líking um drauma hvarflar frá hafi og stormi yfir til fugla: „drauma­sjóir sökkva, stíga við segulstormsins vængjatog“ (Lág­nættis­sól 5). Hjá Huldu rakst ég á „í gegnum brimgný dagsins stríðu strauma/ mér stöðugt vötn þín réttu tónahönd“ (Geðbrigði, III,1), þ.e. vötn eru eins og mannverur, sem rétta hjálparhönd, en hún er tónar! Hjá Jónasi Guð­laugs­syni hvarflar líking frá hafs­öld­um um hest til manns: „storms­ins hvítu fákar -hrópa lífsins föður á“ (Já, ég, 3); en flest fann ég dæmi þessa hjá Davíð og Stefáni. Stefán persónu­gerir t.d. mannsál, sem drekk­ur af lind lífsins. Þarna birtist þorsti, en þó er þetta lækning við sári, hugs­unin virðist heldur þokukennd: „Teygar 1ífsins lind/ manns­ins særða sál“ (Aðfangadagur 3). Áður var nefnd gagnrýni Guðmundar Hagalín á slíkt hjá Stefáni (k. 2.2). Hjá Davíð er þessi hvörfl­un stund­um hefðbund­in, t.d. blóð-tilfinningar-eldur: „blóð mitt brann“ (Einbúinn 3). Þá blandar hann saman þeim vökvum sem eru skæð­ir útvortis og innvortis, líkt og Stefán (í undanfarandi dæmi): „kossarnir laug­uðu hana [sálina]/ ljúffengu eitri“ (Léttúðin 2), „eitrið brenndi hana/ ótal sárum“ (Léttúðin 3, „brenndi ég sál mína eitri á“ (Utan frá sjó, 2), líkt er: „Samviskuna brenna, bíta/ beittar höggorms­tennur“ (Harpa 4). Dav­íð persónugerir hörpu, eins og áður var nefnt, harpan kallar og stynur. En er þá ekki ósam­ræmi í því að persónugera líka sál hennar? „Af hamingju grætur/ hörpunnar sál“ (Batseba 3).






5. 5. Persónugervingar


Í heild eru persónugervingar fjórðungur líkingasafns 19. aldar. En frávik eru veruleg, einkum í seinni hluta þjóðskáldasafnsins (eftir 1870), þar eru persónugervingar nær helmingur líkinga (einkum vegna Þorsteins Erlingssonar og Stefáns G., önnur hvor líking þar). Þær eru líka mjög tíðar hjá Jónasi Hallgrímssyni og Steingrími á fyrra skeiði þeirra, tveir fimmtu líkinga, næst því ganga þjóðskáld og Matthías á fyrra skeiði, þriðjungur. Hjá blæleitnum verða persónugervingar nær helmingur valinna líkinga í heild, rúmlega það hjá Smára, ívið meira hjá Sigurjóni (6/10) og enn meira hjá Huldu (7/10), Þetta setur sterkan svip á kvæðin, ljóðmælandi verður í sérlega nánu sam­bandi við náttúruna.



Einnig hér voru samheiti sameinuð, og útkoma 19. aldar varð 165 mismunandi fyrirbæri persónugerð, en rétt rúmlega 100 hjá blæleitnum. Oftast eru fyribæri himins persónugerð, sól, tungl, stjörnur o. þ. h., það er rúmur fjórðungur persónugervinga á 19. öld, en 2/5 hjá blæleitnum. Næst því ganga ýmis fyrirbæri jarðar, nær fjórðungur á 19. öld, en sjöundi hluti eins og lagarfyrirbæri hjá blæleitnum. Þau síðasttöldu voru ívið tíðari á 19. öld, rúmlega sjötta hver persónugerving, en sértök voru þá rúmlega sjöunda hver. Gróður er aðeins átjánda hver persónugerving þá, sama gildir um hluti gerða af mönnum, en perónugervingar lífvera, einkum fugla, og líkamshluta fólks eru sárafáar (hálfur annar hundraðshluti hvort). Hjá blæleitnum er hinsvegar nær tíundi hluti persónugervingar af mannlegu tagi, einkum tilfinninga.



Einstaklingsfrávik eru veruleg. Þótt jarðnesk fyrirbæri séu fjórðungur persónu-gervinga í heild, ná þau þriðjungi hjá Bjarna, Jónasi, Steingrími, Grími og Matthíasi, auk þjóðskálda, á fyrra skeiði tveggja síðasttalinna. Þau eru aðeins sjöttungur persónu­gervinga Benedikts, sem hefur þeim mun meira af himneskum fyrirbærum (tveir fimmtu á fyrra skeiði, þriðjung á seinna, eins og Jónas og Steingrímur). Undir meðaltali himneskra fyrirbæra eru svo Bjarni, Grímur, Matthías og þjóðskáld fyrra skeiðs, enda eru sértök einkar oft persónugerð af Bjarna og Matthíasi, þriðjungur til fjórðungur, í stað meðaltalsins, sem er sjöundi hluti. Því virðast þeir einkar ”andleg” skáld eða trúarleg. Loks má nefna, að orð um vatnsgang eru hálfu tíðari persónugerð hjá Benedikt (á seinna skeiði) og Grími (þriðjungur), en meðaltalið (sem er rúmur fjórðungur).



Af rúmlega sjö hundruð dæmum um persónugervingar 19. aldar eru þessar algengastar: Ísland (70 dæmi), sól, alda, haf, fjall, vindur, blóm, land og nótt, tungl, jökull, klettur, stjarna, foss, dauði, hlíð, jörð, ský, himinn.



Hjá blæleitnum eru einkum persónugerð fyrirbæri himins og ljóss, það er meira en þriðj­ungur persónu­gervinga. Nótt er tvöfalt fyrir­ferð­ar­meiri (34 dæmi) en dagur, enda er sól oft notuð sem and­stæða næt­ur. Haf, öldur, ár, lind­ir o.þ.h. er sjött­ung­ur persónu­gervinga, en áttundi hluti er um sér­tekningar (tíminn, lífið, dauðinn, kyrrð, hljóð, draum­ar, langanir og minningar). Aðeins meira ber á jörð, fjöll­um, klett­um, ís o. þ. h. Litlu færri eru persónugerð tré, jurtir, gras og blóm, en fugl­ar eru einu líf­ver­urnar sem eru persónugerðar (10 dæmi). En tvö­falt fleiri, þ.e. fimmtungur, eru persónu­gerv­ingar mann­gerðra hluta, þ.e. skip, sverð, hljóð­færi (kvæði eru þriðj­ungur þessa, 6 dæmi). - Þetta er heildarsvipur­inn, en hér eru það einkum þrjú skáld sem skera sig mjög úr. Stefán frá Hvítadal hef­ur að vísu nær þriðj­ung persónu­gervinga sinna um himin og ýmis­konar ljós, en meira en helm­ingur persónu­gerv­inga hans er um sér­tök, eins og rúmur þriðj­ungur persónu­gerv­inga Tómasar og Davíðs[11]. Næst þeim gengur Jón­as Guðlaugs­son, fjórðungur persónu­­gerv­inga hans er um sér­tök, en nær helmingur er um himin og ljós. En það er um og innan við tíunda hluta hjá öðr­um skáldum. Algengustu persónu­gerð­ sértök eru: löngun. dauðinn, von. ást, kyrrð, tíminn, lífið æska, gæfan, minning. draumar, gleði, harm­ur, sorg, sál, samviska.



Athæfi persónugervinga 19. aldar taldist eftir sameiningu samheita skiptast á rúmlega 100 orð. Þetta athæfi er stundum erfitt að flokka. Þó virðist óhætt að segja að meira en helmingur tilvika sé blíðlegt eða jákvætt á einhvern hátt; en neikvætt og hlutlaust megi kallast nær fjórðungur hvort. Algengast er: faðmar (53), móðurlegt, brosir, kyssir, syngur, hlær. Af neikvæðu er einkum að nefna: grætur, stynur, flýr og deyr. Af hlutlausu er algengast: horfir, talar, þegir.



Frávik atferlis eru einkum þau, að neikvætt atferli er langt undir meðal­tíðni hjá Jónasi, og þó einkum hjá Benedikt og Steingrími (sérstaklega á fyrra skeiði hans). Steingrímur hefur ástúðlegt atferli í tveimur þriðju tilvika.



Hjá blæleitnum er sama sagan, hægt, blítt og ljúft yfir­gnæfir. Það er í samræmi við niðurstöður um hljóð í ljóðunum (k. 3. 3.). Mest ber á atlotum (nær áttunda hver persónugerving), og a. m. k. þriðjungur þeirra dæma er atlot móðurveru við barn, ýmiskon­ar náttúrufyrir­bæri eru í móð­urhlutverki, en ljóðmæl­andi fær stund­um hlutverk barnsins. Það er eink­um áberandi hjá Huldu, Jóhanni Sigurjónssyni, Jakobi Smára og Tóm­asi, en hjá Einari Bene­dikts­syni eru atlotin yfirleitt lostafengnari, milli karlveru og kvenveru (svo sem Sigurjón Frið­jóns­son benti á, sbr. k. 2.3. hér), svo er einnig hjá Jóhanni Gunnari. Bros, hlátur, söng­ur, hjal er einn­ig áber­andi (sjött­ung­ur tilfella). Ekki svo að skilja að allt sé í björtum lit­um, einnig er tölu­vert (meira en áttundi hluti persónu-gervinga) um harm, dauða, grát og kvein. En einn­ig það er hljótt og milt, enda er það stundum harmur eða sorg sem deyr. Hér er umfram allt sofið, andað, falið, þagað, lotið, læðst, vagg­að, leitt við hönd sér, lokk­að. Und­an­tekn­ingar eru í hæsta lagi 2-4 af hundraði dæma, mjög sjaldan er hróp­að og kallað (1 af hundraði), hvað þá stokkið eða tryllst. Helstu dæmi slíks eru að harpa hrópi og kalli hjá Davíð, og verður það þó einnig að teljast af ljúfara tagi. En ég fann ekki nema ein sjö dæmi persónugervinga sem kalla má rosa­leg. Hjá Jónasi Guðlaugssyni er ávarp til hafs­ins: “Þú hlærð svo hún gnötr­ar hin gamla jörð/ og greipar með íshöndum báða póla” (Ég heilsa 2) og “Hræfugla­hlátur að ofan/ heyri ég storkandi gjalla” (Sigl­ing I,2). Hjá Jóhanni Sigur­jónssyni: „í jöklinum hljóða dauðadjúpar sprungur” (Sofðu, unga ástin mín). Hjá Jakobi Smára eru hrikalegustu dæm­in: “Á stjórnborða ygldi sig Akrafjall /með íshár á hvirfl­inum gráum” (Kerl­ing­in 1); “dráp­gjarnri hergirðing nætur var slitið” (Birting 3) og „Geisl­arnir feigir flýja/ af fjallanna ísturnaborg.” (Undir nótt 1) og: „Trylling hins takmarka­lausa/ tekur mig heljar­örmum” (Fjallaslagur 11).



Fáeinar persónu­gervingar eru sérkenni­legar á annan hátt, sjaldgæft er að tala um slík fyrirbæri sem mann­verur. Þar má nefna fyrrgreint dæmi hjá Jóhanni Sigurjónssyni um að jökulsprungur hljóði, ennfremur hjá Stefáni: „hún glotti við mér, þín gæfu­raun“ (Gættu þín 15) og „Þar léku sér ómur og angan/ og eld­skin lækkandi sólar“ (Seytj­ándi maí 5), en þetta er svipað og: hjá Smára: „Mánaskinsins mikli friður/ hvíslar lágt [...] í huga mér“ (Tunglskin). Samskynjun magnar áhrifin. Sbr. og hjá Jónasi Guðlaugssyni: „svefn­guðs­ins eilífa öfund/ andvarpar þungt gegnum blæinn“ (Nótt á hafinu 8), eða Jóhann Sigurjóns­son: „eins og járnið við logans kossa“ (Vetrarnótt 2), eða þá að fyrirbærin eru persónu­gerð á sérkennilegan hátt; hjá Smára: “Eyjarnar teygja sig blautar úr skúranna baði” (Skin 2) og Sigur­jóni: „Á tungu var orðið að berjast“ (Ásta 3). Skrítnara er að sjá mannleg fyrir­bæri persónu­gerð, hjá Smára: „Bein hinna föllnu á gulum auðnum sofa” (Grískir víkingar, 4) og hjá Davíð: „þau fyrirgefa mér,faðmlög þín“ (Batseba 5). Það ber þó væntanlega að skilja sem ek. nafn­skipti, þ.e. hluti fyrir heild, þ.e. -ég hlýt fyrirgefningu með faðmlögum þínum- líkt og þegar Tómas kveður: „margt hjarta harmi lostið,/ sem hugsar til þín alla daga sína“ (Jón Thoroddsen).






5. 6. Líkt við lífverur



Lífgervingar mætti til samræmis kalla það að tala um dauð fyrirbæri sem lifandi væru. En þegar myndliður er lífvera (í tæplega tíunda hluta líkinga), reynist kenniliður oftast vera fólk eða andlegir eiginleikar þess, væri því fráleitt að kalla það lífgervingar. Mest ber á því að sýna óáþreifanlegt sem gætt lífi og hreyfingu.



Hjá 19. aldar skáldum: er þetta stundum óljóst tal um lífveru eða dýr. En oftast er líkt við fugl, auk þess er talað um fjaðrir, væng, hreiður og stél. þar að auki er líkt sérstaklega við svan og örn. Auk þess er líkt við hest, sjaldnar við úlf, orm, ljón, hund og kú. Annað er eindæmi, svo sem þegar Grímur líkir kvæðaþjófi við lús (á líkum skálda).



Það sem líkt er við þessar lífverur er einkum að við ótiltekna lífveru er líkt öldum, höggmynd (skynlíkingar), ennfremur ey, Íslandi, fjalli, tungli. stjörnu, sólskini, ljósi, eldi. Einnig hlutum, svo sem, glasi, ljá og byssu­sting, og hugtökum; samvisku og fátækt, loks draumi,



Við fugl er líkt nánast hverju sem vera skal, mest þó mannlegu[12]. Við svan er líkt manni. Matthías talar um hanagal stríðs og dauða (og er það að fornri fyrirmynd, Bjarkamála). Við væng er líkt fána og sólskini, en við fjaðrir er líkt snjó og brimi í skynlíkingum. Við fiðrildi er líkt kossi, draumi og bernsku. Við ótiltekin dýr er líkt öldum og má það kalla skynlíkingar, hreyfingin er sameiginleg, en í afstöðulíkingum er mæðu og dauða, líkt við öldur en við hest er afar mörgu líkt: skipi (að fornum sið), skýi - og það kann að vera skynmynd, en annað er langsóttara; manni, munaði, hug, degi, sól, kvæði, tungu­máli og tíðaranda. Veröld og fólki er líkt við kú, stjörnum við sauðkindur, sam­visk­unni við orm, og er það hefðbundið, eins og að líkja eldi, lygi og tíma við úlf. Við auga (guðs eða dags) er sól oftast líkt, en einnig er stjörnu líkt við það, það eru skynlíkingar, en ennfremur er skilningi líkt við auga, og er það þekkt úr hversdagslíkingum. Við tár er auðvitað líkt dögg og regni í hefðbundnum skynlíkingum, en einnig ís, stjörnu og kvæði. Við blóð er sólskini líkt, en einnig gæfu og klæði. Eins og sjá má, er hér fyrst og fremst um afstöðulíkingar að ræða.



Hjá blæleitnum er oftast líkt við ótiltekna lífveru eða fugl, einnig við hest (einkum öldum), en annað er stakdæmi, bæði í skynlíkingum og afstöðulíkingum, rándýr, köttur, hvalur, hundur. Við lífverur er líkt öldum og hafi, einnig við hesta, en við fugla er líkt vindi og dúkum, það verða að kallast skynlíkingar.






5. 7. Líkt við gróður



Sérstætt er við þennan flokk, að á 19. öld ber langmest á fólki í kenniliðum. Skynlíkingar eru hér ekki margbreyttar. Átta sinnum er líkt við blóm, þar af sex sinnum kinnroða, en einu sinni hvoru, sól og vörum, en þeim er einnig líkt við gróðurreit. Tuttugu líkingar eru við tré, þar af 17 um mann, tvær um konu, ein um höggmynd. Þetta er auðvitað í anda hefðbundinna kenninga. Nokkuð birtist hér margnotkun líkinga, Matthías á sjö af líkingum manns við tré, Steingrímur þrjár af líkingum kinnroða við blóm.



Afstöðulíkingar við gróður eru mun fleiri og fjölskrúðugri. Flestar eru raunar við blóm, auk jurta, tvöfalt fleiri um konur en um karla. Auk þess er líkt við blóm sundurleitustu fyrirbærum, himneskum, mannlegum, afurðum, og sértök[13] eru einkar áberandi. Illgresi kemur þrisvar fyrir, og við það er líkt manni, illsku og ek. hefð (sjá síðar, 5.15). Hefðbundið er tal um lífsins þyrnileið og að sorginni er líkt við þyrnirunn sem stingur fólk. Fjögur dæmi eru um fræ, og er hugmynd tvisvar líkt við þau, góðverki einu sinni og Grímur Thomsen kallar lík ”fræ. sem á hjá Guði að gróa”.



Hjá blæleitnum eru aðeins þrjár skynlíkingar, allar við rósir, um varir, ský og lit á haustlaufi (Jóhann Sig). Ekkert fann ég í afstöðulíkingum þeirra.






5. 8. Líkt við jörð



Enn ber á 19, öld langmest á kenniliðum af tagi mannlífs, því er líkt neikvætt við ýmisskonar auðn, ís, snjó og grýtta jörð.



Rúmur helmingur skynlíkinga við jörð er um fólk. Brjósti er líkt við fjall, einsog enni, einnig er því líkt við ís, eins og hári. Líkama konu er líkt við jökul (og kinnroða hennar við sólskin á honum!), en herðum er líkt við klett (og er það fornlegt), eins og að líkja við klett húsgafli og skýi. Öldu er líkt við fjall, en fljóti og læk við kristal.



Afstöðulíkingar við jörð eru flestar í svartnættistón, meginstefið er: “maður, moldu samur”. Hér er oftast líkt við ís og snjó. Við ís er líkt ýmsum sértökum og tilfinningum; það eru einkum: líf, dauði, örlög, tími, hungur, skortur, iðrun, hefð og þekking. En við snjó er líkt dauða, fram­halds­lífi, tíma og ágirnd. Oft er líkt við strönd og sker, og er það liður í að líkja ævinni við siglingu. Því er heimi, mæðu, smán, drambi og dauða líkt við sker, en við strönd er líkt dauða, framhaldslífi, framtíð og lífi, því er einnig líkt við eyri. En í síðasttöldum tilvikum er það frekar ströndin sem siglt er frá, við hana er þá einnig líkt bernsku og tíma. Ævinni er líkt við auðn, dauðanum (auk framantalins) við sand, dal og díki (sem mæðu er einnig líkt við), óhróðri og auði er líkt við leðju, ávöxtum (efans) við ösku[14]. Manni er líkt við klett, og er það auðvitað jákvætt, á að sýna styrk og stöðuglyndi, en steinar eru af neikvæðara tagi, svo sem “harma björg og vanheilsu” hjá Bjarna, einnig steita menn á steini og verða fyrir steinkasti reiði og ámælis, því síðasttalda er einnig hlaðið í vörður. Þökk brýst undan þagnar steini. Við land er líkt hug og hafi, við jörðina hug og himni, sál (og dauða) er líkt við dal, en sorg og mæðu er líkt við jarðskjálfta.



Hjá blæleitnum er hærum og fölri kinn líkt við ís. Í afstöðulíkingum ber mest á því að tilfinningum sé líkt við ís, einnig er skýjum líkt við kletta, og talað um trega sem land.








5. 9. Lagarlíkingar



Meginstraumur 19. aldar er að líkja ýmiskonar sértökum um breytingar við straum, öldur og haf. Skynlíkingar eru einnig flestar við haf og öldur. Má vera að ég teygi skynjunina nokkuð, en við öldur er líkt blóði, bardaga, gröf og tónlist. Við brim er líkt hjartslætti, ljósi og losta, en við haf er líkt norðurljósum og himni, einnig hrauni og kornakri, en hvorutveggja er einnig líkt við fljót, og við straum er líkt ljósi, vindi, þoku og tónlist. Við dögg er líkt blóði og auðvitað einnig tárum, þeim er einnig líkt við lind (lífsins), sem hafinu einnig er líkt við, sem og við hver.



Afstöðulíkingar eru einnig flestar við haf, öldur, fljót og straum, nálægt því er lækur. Kenniliðir þessara afstöðulíkinga eru oftast sértök[15]. En einnig hugur, sorg og mæða, auga. Ennfremur er við hafrót líkt æsingi, illsku og áfengi.



Við fljót eða straum og læk er auðvitað oftast líkt tímanum, ævi eða lífinu og örlögum, en einnig mæðu og sólskini. Ennfremur kemur fyrir skammdegi, tilfinning, hugmynd, gleymska og dauðans mikla móða; og framhaldslíf er kallað undirstraumur (í ölduróti lífsins, Grímur). En einnig við öldur er einkum líkt sértökum, sem áður segir, einkum neikvæðum. Ennfremur er stjörnu og kvæði líkt við öldur.



Aðrir myndliðir eru fátíðari. Við foss er líkt tali, kvæði, hávaða og sólskini, við lind er líkt himni og tilfinningu, lífi, sakleysi, sögu, sál, trú, náttúrufegurð og æsku, ennfremur konu, kvæði, nótt. Við brim er líkt dauða og heiminum. Við dögg er líkt náð guðs og sorg, við dropa er líkt visku. Kunnugleg er líking Gríms um fjörð, ”Hinsvegar við feigðarfjörðinn/ fegra þykist land eg sjá” (GTHilling1). Hann talar einnig um “log á frelsis vogi”.og “dauðans vað”,



Hjá blæleitnum er sólskini og hljómi líkt við brim í skynlíkingum, blóði er líkt við dögg, ilmi og þoku við fljót, sólskini við foss, við haf er líkt sléttu, skógi, sandi, snjó og sólskini, því er einnig líkt við öldur, sem og ilmi, hljómi og norðurljósum. Í afstöðulíkingum er tímanum og tunglskini líkt við öldur, sólskini við brim, konu við haf, tímanum, en einkum þó myrkri er líkt við fljót og haf. Sólskini er líkt við foss og haf, augum er líkt við hyl og lind.






5. 10. Líkt við himneskt.



Á 19. öld ber enn langmest á sértökum í kenniliðum, einkum ást (sem líkt er við eld og ljós), dauða (líkt við myrkur og vind), ævi (líkt við dag), von (líkt við stjörnu og dagsbrún), hugsjón (við ljós), mæða (líkt við vind), þarnæst eru orð um fólk, sem eru aðeins þriðjungur á við sértökin. Manni og konu er líkt við stjörnu og sól; hug og tilfinning er líkt við eld, minningu við stjörnu, ljós og skugga.



Í skynlíkingum ber mest á að augnatilliti sé líkt við eld eða geisla, auk þess sem auga er líkt við ljós, við sólskin og við stjörnu. Annað er helst að tárum er líkt við regn og hríð, en stunum við storm. Við eld er ennfremur líkt kinnroða, sólarlagi, tunglskini og víni, kinnroða er einnig líkt við sólarlag og blómum við stjörnur.



Afstöðulíkingar eru hér mjög margar, einkum um ljós og myrkur. Einna minnst fer fyrir árstíðum í myndliðum; við vor er líkt æsku, hugarflugi, tilfinningum, framförum og gullöld[16]; sælu er líkt við sumar, og “Í brjósti mannsins haustar einnig að”, segir Grímur Thomsen (Haustvísa), auk þess sem elli er auðvitað líkt við haust, en ævinni við vetur. Mun meira ber á eyktum. Við morgun er auðvitað einnig líkt framförum og frelsi, við dagsbrún er líkt von, framförum, huggun, framhaldslífi, menningu, minningu, fæðing. En við dag er vitaskuld oft líkt ævi, einnig hugmynd, manni, von, þróun, öld og Steingrímur segir: “Nótt! - þú dagur hins innra manns” (StI,Nótt2), og á þá sjálfsagt við að umhugsun vakni þegar erli lýkur, líkt og Stephan G. rakti síðar í sínu fræga kvæði Kveld. Við sólarlag er svo auðvitað líkt dauða, við kvöld er líkt elli og mæðu, en við nótt er líkt dauða og ævi. Við myrkur er þá líkt neikvæðum sértökum (dauða, stöðnun, örvæntingu), en einnig blóði og ölvun. Við rökkur er líkt afturför og dauða, einnig tárum, en við skugga er líkt sorg og minningu. Einnig er guði eða náð guðs oft líkt við sólina, við hana er einnig líkt jákvæðum sértökum[17], eins og við ljós, við það er einnig líkt manni, gáfum og blómi. En þar að auki er fólki iðulega líkt við sól. Við sólskin er líkt brosi, en auk þess jákvæðum sértökum, svo sem við sól. Tungl er einu sinni myndliður, þegar Grímur líkir von við mána sem “veður gegnum hroða” (Á fæðingardag minn), einnig er “friðargeislum máni mær/ Mildur um vötn og skóga slær” (SthINótt1). En von er oft líkt við stjörnu, einnig minningu, konu og manni, og Benedikt yrkir til Poestion: “Þín orð um aldir standa/ sem eilíft stjörnuljós”. (BG2Poestion2), og hefur sjálfsagt verið full alvara.



Við geiminn er mannshuga líkt, en við himin er líkt auga og enni. Við ský er hinsvegar líkt sorg, hugmynd, framtíð (skuggalegri) og örlögum.



Þá er komið að veðrinu; við vind er líkt manni og hlaupi hests, og svo ýmiskonar sértökum[18]. Við hríð eða él er að fornum sið líkt bardaga, einnig lífinu, fullorðinsárum, örlögum, mæðu og hlaupi hests, við regn er einnig líkt bardaga og gæsku. Við þoku er likt dauða og feigð, draumi, deyfð og trúvillu. Mæðu er líkt við þrumu­veður, en við eldingar er líkt augnatilliti, hug og (stuttu) lífi.



Eldur er talinn hér, við hann er auðvitað oft líkt ást og ámóta tilfinningum[19], einnig er blóði líkt við eld, og er það hefðbundið. Við neista er líkt gáfum, frumkvæði, orðum og sögunni, við hita er líkt ást, hug, kvæði og orðum, en reykur er neikvæðari, við hann er líkt ágirnd og sorg.



Hjá blæleitnum ber í skynlíkingum mest á eldi, og við hann er einkum líkt sólskini, en einnig stjörnum og snjó. Í afstöðulíkingum ber einnig langmest á eldi, og við hann er líkt ást og öðrum tilfinningahita. Von og minningum er líkt við ljós, áfalli við óveður, tilfinningaróti við storm, en við sól og stjörnur er líkt konu, við það fyrrnefnda einnig von og lífi. Hér fylgja blæleitin skáld fyrirrennurunum.






5. 11. Líkingar við mannlegt



Þetta er með sjaldgæfustu myndliðum, og eru þó andlegir eiginleikar og athafnir talin með. Enda er þessi flokkur miklu tíðari í kenniliðum, sem áður segir. Einnig hér ber mest á sértökum í kenniliðum; dauða (sem einkum er líkt við svefn), lífinu (líkt við draum), afturför (við martröð), hugmynd (við auga) og sorg (líkt við sár).



Skynlíkingar fann ég á 19. öld aðeins 17, þar ber mest á auga, sem sól er líkt við, auk þess er kletti líkt við augabrún. Við blóð er líkt dagsbrún, sólskini og sólarlagi, sólskini er líka líkt við hár. Við tár er líkt dögg, ís og regni (áður sáum við þessar líkingar í hina áttina), loks er blómi líkt við koss og kvisti við fingur.



Afstöðulíkingar eru flestar við her; við hann er líkt stjörnum, vindi, rúnum, draumi og synd, kúgun og örlögum.



Við auga er hér þráfaldlega líkt hugmynd. Benedikt kallar Ísland móðurskaut, en sú líking er tvívegis höfð um Þingvelli sérstaklega af Bólu-Hjálmari. Jónas líkir gjaldi við húð, er bændur eru flegnir, og er það gamalkunnug líking, eins og að kalla jökulfljót æð. Benedikt talar um að opna æð gæfunnar. Við sár er líkt sorg, feigð, heimsku, hleypidómum, smán og lífinu (Kristján Jónsson).



Við svefn er að gamalli hefð líkt dauðanum, eða hann er kallaður svefns bróðir, en einnig er elli líkt við svefn, svo sem sorg, vetri og logni Við drauma er líkt lífi og tímanum, en afturför er líkt við martröð. Hér verður loks að telja annarskonar verur: Líkt er við vofur (vesælu) fólki, kvæði og visku.



Hjá blæleitnum er einnig mest líkt við augu. Í skynlíkingum er einkum stjörnum líkt við þau, einnig sól, en sólskini við bros, ölduhljóði við stunu, og auðvitað dögg við tár. Sáralítið er um afstöðulíkingar, helst að lífinu sé líkt vð draum, og er það gamalt og alþjóðlegt (Lífið er draumur heitir gamalt spænskt leikrit, eftir Calderón á 17, öld).






5. 12. Afurðir



Þessi flokkur er svo fyrirferðarmikill, að skynlíkingar og afstöðulíkingar eru taldar saman við hvern undirflokk myndliða. Í skynlíkingum er á 19. öld helmingur kenniliða himnesk fyrirbæri; himinn, sólskin, tunglskin, þoka og þ. u. l. Hjá blæleitnum fer það upp í 3/5. Næst ganga jarðnesk fyrirbæri, dalur, fjall, ís, snjór og klettur, rúmlega fimmtungur á 19. öld, en aðeins tuttugasti hluti hjá blæleitnum. Miklu minna fer á 19. öld hér fyrir hafi, fossum o.þ.u.l. (20. hver líking), en sjöundi hluti hjá blæleitnum.



Sértök eru hinsvegar nær helmingur kenniliða afstöðulíkinga við afurðir á 19. öld, en sjötti hluti hjá blæleitnum. Þar næst ganga fyrir­bæri himins, tæpur sjöttungur á 19. öld, en tveir fimmtu hjá blæleitnum. En orð um fólk eru einnig sjöttungur á 19. öld, sömuleiðis sjötti hluti hjá blæleitnum. Tuttugasti hver kenniliður á 19. öld er orð um vatnsgang, jafntíð eru þá fyrirbæri jarðar. Bæði eru líka ámóta tíð hjá blæleitnum, en fara upp í fimmtánda hluta þá. Af jarðarfyrirbærum er á 19. öld einkum að nefna gröf, sem líkt er við höfn og rekkju. Hafi er einn­ig líkt við rekkju, sal, göng og veg, m.a. Skondið er að sjá, að orð um afurðir eru rúmlega tíundi hluti kenniliða á báðum skeiðum! Þá er stefnan til meiri hlutlægni; draumi er líkt við rekkju, blæju og þráð, en kvæði er líkt við sverð, hörpu og lyf, m.a. Af himnesku er helst að telja ljós og sólskin, sem líkt er við vagn, veg, belti, staf og sverð. En miklu algengara er að himni sé líkt við veg, sal, höll og brunn. Af orðum um fólk er þetta helst, hug er líkt við hljóðfæri, hús og vopn, líkami er kallaður fjötur sálar og húsnæði hennar á 19. öld, manni er einkum líkt við sverð, skjöld og skip, en tilfinningum er líkt við hús, gull og hörpu. Erfiðara er að tala um sértök, á 19. öld ber mest á dauða, sem líkt er við afar mörg fyrirbæri, m.a. hjúp, dyr, vopn og veg. Hjá blæleitnum ber mun meira á líkingum um lífið, og þær eru margbrotnari, einnig á 19. öld, líkt við stríð, hús, mat­borð m.a. Ævi er líkt við skip, siglingu, ferð og veg; en sorg og mæðu er líkt við veg, drykk og klæði, m.a. Enn fjölskrúðugri eru líkingar um sál; þær eru við hús, vef og hörpu, m.a. Og trú er líkt við fjötur og stoð. Tímanum er einkum líkt við hjól, tjald og veg, en hugmynd m.a. við ferð og djásn. Sérkenni blæleitinna koma betur fram hér á eftir.





Byggingar



Einar Benediktsson líkir sólarlagi við sigurboga, svo sem Rómverjar reistu, og t.d. Frakkar síðar: “allir ljóssins sveigar sveipist/ í sigurport um kveldsins dyr” (Lágnættissól).



Við hús eru afstöðulíkingar; líkaminn er hús sálar eða íbúð, en sál eða anda er einnig líkt við húsnæði, sömuleiðis gröf. Salur er í skynlíkingum oft hafður um dal og um himin, einnig um kletta, skóg og trjágöng. Sérlega áberandi er skynlíkingin tjaldaður salur um himininn, einnig er himinninn kallaður sólar tjald, eða á annan hátt líkt við tjöld. Himni­num er líkt við hvelfingu og við höll, einnig er sú líking höfð um mann, jökul og náttúruna. Skynlíking er fremur að kalla klett höll. Náttúrunni umhverfis mælanda er líkt við kirkju, en dalsbotni er líkt við kór í kirkju, fjall er altari. Við kirkjuklukku er líkt hlátri og vindgnauði. Í afstöðulíkingum er tjaldaður salur heimurinn eða von og ást, við tjald er líkt tímanum, feigð og heimsku.



Nærtækt og fornkunnugt er “skjalda múr”, og í daglegu tali er algeng líking byggð á því, “nú er skarð fyrir skildi”, þegar nýtur maður er fallinn frá. Við dyr er iðulega líkt dauðanum og fjarðarmynni. Stoð er að fornum sið haft um mann, heiður og trú.



Brunnur er myndliður fyrir himin og geim, einnig er talað um brunn menningar, fræða, hugmyndar, náttúru, sælu, sálar og vara.



Hjá blæleitnum ber mikið á því að líkja umhverfi ljóðmælanda við mikla byggingu, sal, höll eða kirkju. Einkum er þá algengt að tala um tjöld himins, svo sem nánar verður rakið hér á eftir. Einnig bregður fyrir “skógarins myrku tjöldum”. Laufþak er algengt í daglegu máli. Einnig getur verið um þrengra umhverfi að ræða, gljúfur er kallað hof.





Húsmunir



Grímur líkir trúnni við kodda, og er það áreiðanlega ekki háð hjá þessum trúmanni, og raunar kunnugt víða um lönd. Skynlíking er þegar Steingrímur talar um “kvöldroðans bólstra”. Draumum er líkt við dúnsæng, en við rekkju er líkt gröf og hafið er kallað rekkja sólar eða fiska, einnig sólar (JónasG Blundar, 1). Grund eða snjór er kallað rekkja dýra, einnig er talað um ský sem rekkju. Matthías líkir skipi við vöggu, og er rólegt ruggið auðvitað sameiginlegt. Hjá Steingrími vill lækur verða vagga fjólu, enn er það róleg hreyfingin.



Stóll er haft um fjall, stjörnuskin, himin (stóll skýja) og framhaldslíf (stóll guðs). Matthías talar um matborð lífsins, og er það heimskunn líking daglegs tals. Brauð er guðsorði líkt við, og var það nærtækt presti (MJ2), en drykkur er haft um koss, kvæði, en þó einkum um mæðu, langa ævi og dauða, enn er það guðfræðin, “tak þennan bikar frá mér” sagði Jesús, vín er haft um sorg.



Við bikar og skál er vörum líkt, einnig er dal líkt við skál. Tunglsljósi er líkt við vönd og norðurljósum við sóp. Það eru vitaskuld skynlíkingar.



Við kerti er líkt sólinni og norðurljósum, en tryggð í afstöðulíkingu. Lampi eru stjörnur og tungl kölluð, en í afstöðulíkingum er sú líking höfð um auga og hug. Halastjarna og aðrar stjörnur eru köllluð blys, en afturför og reiði kallast einnig blys í afstöðulíkingum.



Við spegil er líkt nótt og himni, það er speglun guðs eins og list er líka kölluð. Ennfremur er líkt við spegil: hafi, auga, hug, sál, menntun, kvæði og auðvitað vatni.



Við hljóðfæri er líkt hug og tungumáli, bergmál og foss eru kölluð strengjahljóðfæri, en við hörpu sérstaklega er líkt hug eða tilfinningalífi, og kveðskap, einnig kerfi fljóta, og heimurinn er kallaður harpa guðs. Hörpusláttur er haft um brim, því er einnig líkt við organleik eins og fljótsnið.



Hjá blæleitnum má nefna: ”Í einför fljóts um eyðilönd/ er eins og Ieikur strengs við boga -/ og hljómur óðs í stormsins straum” segir í Stefjahreimi Einars Benediktssonar og „ég [...] finn strengina á heið­lofts­ins hörpu titra.“ (Stjarnan), einnig líkir hann söng við kaldan hljóm í sprunginni klukku “söngur heyrðist alltsem hringdi málmur við járnið kalt/ og bjallan væri með sprungu við sprungu” (Celeste1). En Sigurður segir um æsk­una: „Á stormsins fiðlu strauk hún hvert sitt ljóð“ (Skammgóðerdrauma­tíð3), en Jónas Guðlaugsson, sem líkti mánaljósi við strengja­hljóð­færi, en stjörnum við tónboga (í Tunglskinsóði), segir að kvöld­roð­inn sé „eins og söngur“ (Nótt2).



Áþekkt er að Smári segir “hátt þýtur lækjanna strengur”, og talar um undirspil hafsins og líkir velli spóa við “silfurklukknahljóma”.



Letur er snjór og sólskin kallað, og er það skynlíking um flekki á landi, en í afstöðulíkingum eru hugmynd, draumur og alda kölluð letur, Ótiltekið er hverskonar boð er í: “sendu geisla með boð til mín” (JHEinvelmeint). Við orð er tárum líkt. Við kvæði er líkt lóusöng og tilfinningu.



Ís er líkt við gler, og er það auðvitað algeng líking daglegs máls. Djásn er myndliður um dag. Gull er oft myndliður fyrir sólskin, en gimsteinn fyrir jökul, perlur er auðvitað haft um tár, og í afstöðulíkingum eru perlur myndliður fyrir sál, sakleysi og sannleik. Silfur er myndliður skynlíkinga um tunglskin, jökul og þoku, brim, foss, læk, dögg og svansfjaðrir.



Byrði er myndliður fyrir sértök svo sem: ást, dauða, líf, elli, rifrildi, sorg, synd, örlög, og líkami er byrði sálar hjá Steingrími.



Miklu minna er um líkingar við húsmuni hjá blæleitnum skáldum. Þau líkja einkum við skartgripi; stjörnum við demanta og gimsteina, einnig blómum. Smári talar um sólina og brim sem djásn, og Hulda um tár sem perlur. Frumlegra er hjá Sigurði að sjá augnatillit sem demant.





Tæki.



Band er á 19. öld myndliður fyrir norðurljós, ský, fljót og vatn, en í afstöðulíkingum er það haft um synd og örlög, auk líkinga úr hversdagsmáli, fjölskyldubönd og tryggða. Þráður er myndliður fyrir ljós og tónlist, en einnig fyrir tilfinningar, gleði, sorg, draum og dauða.



Við snöru er hættu líkt, og kemur það af veiðiskap, algengt í daglegu tali; “Spor hvert spennir snara” (SthILífshvöt4).



Líkt er við vogarskálar þegar Matthías ávarpar skóla: “þú sast gegnum aldir við helminga-lóð” (MJIISkólaminniII.



Lyf er myndliður fyrir kvæði (i sama kvæði Matthíasar), einnig fyrir söng, tár og gleymsku.



Stál er myndliður fyrir tungumál, orð, kvæði, tilfinningu og vilja, og er óljóst hvort átt er við vopn eða eitthvað annað.



Við vopn eru margar afstöðulíkingar. Vopn (ótiltekið) er haft um orð, óhróður, trú og mann, en við lagvopn er líkt dauðanum, við sverð er líkt kvæði og sannleik, valdsmanni, lögum og hug, gáfum, frægð, augnaráði, dauða, sorg, sólskini, tungumáli og örlögum. Ör er myndliður fyrir ást, fátækt, lygi, mæðu og örlög, en við hraða örskots er líkt fugli, æsku og hlaupi hests, því síðasttalda er einnig líkt við kúlu. Við skjöld eru afstöðulíkingar: maður, guð og sól, vald og land eru kölluð skjöldur. Við hjálm er líkt jökli, ljósi og rósabeð, en við brynju er líkt gleði, dyggð og dáðum í einni afstöðulíkingu Benedikts. Virki er haft um hug, sælu og trú.



Hjá blæleitnum er margt hið sama, helst væri við að bæta, að kvæði flýgur sem örskot (Davíð, Moldin 2), en háð stingur sem örvar (JGTil2).





Fatnaður



Fyrst er að telja fald, en við hann er auðvitað líkt ís eða snjó á fjalli, en einnig þoku og sólskini. Er þá stutt yfir í afstöðu­líkingu við fald, um að tíminn hafi fallið sem snjór, hjá Jónasi: “Úti sat und hvítum/ alda faldi/ fjallkonan snjalla” (JHMagnúskv1). En í afstöðulíkingum er svefni og draumi líkt við blæju, einnig dagsbrún. Við klæði eru margar líkingar. Skynlíkingar eru um sólskin, snjó og frost, gróður, haf og þoku, sem hjúpar; og foss breiðir skrúða fram af bergi, einnig er líkt við hjúp: himni, skýi og brynju. Afstöðulíkingar eru dreifðar, algengastar þær að hjúpur sé haft um dauða, einnig um gröf, ilm, nótt, og ýmis sértök[20].



Við belti er líkt skýjum fyrir sól, og má það skoðast sem skynlíking. En í afstöðulíkingum er við belti líkt sólskini, hafi og hafís, einnig fjöllum umhverfis sveit. Líkklæði er myndliður um snjó.



Þetta síðasta er einnig hjá blæleitnum, sem einnig kalla nótt og myrkur klæði eða hjúp, einnig er sú líking höfð um snjó, þoku, tunglskin og sólskin. Stefán líkir kvæði við vefnað, og er það ævafornt og alþjóðlegt um texta. Jóhann Sigurjónsson kallar blómskrúð kjól vorgyðjunnar.





Athafnir



Hér ber mest á tilbrigðum við þá algengu líkingu að tala um lífið sem ferðalag. Dauðinn er kallaður að ganga “hið dimma fet” (JH), einnig er talað um andans spor, sólskini er líkt við staf, og er það skynlíking, dregin af skynjun ars. Beisli er skynsemi líkt við, en einnig sólskini, og byggist það á fornum goðsögnum; “sólfáka sindurtaumar” (BG2Sálmur). Svipa er að gamalli hefð myndliður fyrir örlög. Stjörnu­þoka er kölluð brú (til annars heims), einnig eru sorg, sáluhjálp og lífið kölluð brú, það hlýtur að vera til sama staðar. Vegur er myndliður fyrir fljót og haf, en hér eru einkum margar afstöðulíkingar við veg; himinn, stjörnuþoka, ljós, tunglskin, saga landins, ævi, elli, örlög, sorg, dauði, náð guðs, gæfa, gleði, rifrildi, kvæði; allt er þetta kallað vegur. Lífinu er lika líkt við ófæru. Afar fornt er að líkja sólinni við hjól. Fjalli er líkt við vörðu, en við leiðarljós er líkt blómi, fegurð og visku.



Sigling er að gamalli hefð myndliður fyrir ævi og framhaldslíf, skip er einnig myndliður fyrir ævi, mann, sál, hug, hugsjón, hugmynd. Við höfn er líkt dauða og gröf, og Grímur líkir gröf við naust, þar sem skipin hvíla kyrr. Landamörk verður víst helst að telja hér, dauðanum er líkt við þau.



Stríð er myndliður fyrir ævi, starf og sorg. Bað er myndliður fyrir loft og sólskin. Áflogum er líkt við ofviðri. Söngur er haft um vorklið, brim og orð kærleikans, einnig um þróun.



Náma er myndliður fyrir fræði.



Hjá blæleitnum er enn flest líkt þessu.






5. 13. Nýtækni



Nýtæknilíkingum bregður fyrir, og auðvitað einkum í lok 19. aldar. Þetta er á ýmsum sviðum, t.d. líkir Grímur munni kerlingar við einhvers­konar vél með drifól (Svarkurinn), Matthías líkir klettum við stálþil (FerðavísurII,4), en Sigurður Breiðfjörð kveðskap sínum við fægilög: ” Hef ég ekki hverja og eina hrokk­in­skinnu/ fágað orðum menntar minnar, (Indriðar2Man8). Sömu líkingu notar svo Matthías seinna, í Fagnaðarkvæði til Jóns Sigurðssonar. Væntan­lega er það tekið eftir nýlegum olíulömpum þegar Benedikt Gröndal líkti himni­num við glerhjálm í Þingvallaför: himinninn bjartur og blár sig breiddi sem ljómandi hvelfing/ upp yfir fjöllin og stóð eins og hjálmur úr heiðskíru gleri”, en ”Síbrennandi vita guðs” kallar hann stjörn­ur­nar (BGHugfró5). Steingrímur er með eitthvað stofudjásn í huga, skýlt með glerhjálmi, sem táknar þá forgengilegan líkamann: “Sálin er gullþing í gleri,/ Geymist þó kerið sé veilt;/ Bagar ei/ brestur í keri,/ Bara ef gullið er heilt” (Vonbrigði).



Jónas Hallgrímsson líkti augum stúlku við stækkunargler, þegar það er notað til að safna sólargeislum í brennipunkt sem kveikir bál; þannig vekja hlýjar tilfinningar stúlkunnar til manns ástarbál hans. (Kærðu2). Þorsteinn Erlingsson tekur líkingu af gleraugum þegar hann boðar fólki að mynda sér sjálfstæðar skoðanir: “og lest þar ekkert öfugt gegnum/ annarra gler” (Skilmálarnir4). Ævi líkir Steingrímur við úrverk (ST2ErfiljfrúHerdBen1). Stefán G. tekur líkingu af sekúnduvísi í nýtísku klukku: “augnabliks vísirinn, ævin manns stutt” (Kveld9).



Eftir allar þær hefðbundnu líkingar sem við höfum séð um sólskin, tekur Matthías upp á því að líkja því við flugelda, og það er raunar á fyrra skeiði hans: “yfir fjöll, yfir höf,/ yfir fleysiglu-tröf/ þeytir flugeldum ljómandi sól“ (Sjómannahvöt1). Enn nýtæknilegri er Steingrímur, þegar hann líkir gáfum við flugvél: “Heiður og heill veri þeim, sem hugvitsins bornir á þönum,/ Hvarfla nú hálofts um geim á hraðfleygum ,,aeroplönum”! (Loftfarirnar). En Matthías líkir sæsímasreng við band sem bindi þjóðir saman: “Sé ég hendur manna mynda/ megin-þráð yfir höfin bráðu,/ þann er lönd/ og lýði bindur/ lifanda orði suður og norður” (Bragarbót1). Nýjung í siðmenningu birtist í því að Kristján Jónsson líkir heiminum við leikvöll (þjKriJEkkier12), og á þá örugglega við íþróttaleikvöll en ekki barnaleikvöll, slíkt mannvirki hefur ekki verið til á hans dögum, fyrir 1870. Enda er þá líka keppnin sameiginleg kennilið og myndlið: “Veröldin er leikvöllur heimsku og harma”.



Einnig eru líkingar dregnar af nýjungum á sviði fjármála. Þannig líkir Grímur göfgun hugarins við bankainnlegg (”Ætlað er oss að æfa þankann/ og ávaxta í drottins banka/ mannsins besta fúlgu fé”- GTSkilningurog4). Þorsteinn Erlingsson tekur það upp (”hefur enga ábyrgð keypt / í eilífðarsjóð”, Skilmálarnir 6), en Matthías líkir visnun gróðurs við bankahrun (MJ2Haustkveðja1), og segir að blóð safnist í ”grimmdar sjóð”. Stefán G. er á þessu fjármálasviði þegar hann yrkir um bróður Grettis: ”Hagsmun á sjálfhlífnis verðlagsskrá valdi ekki” (þjStGIllugadrII,2). Að standa fyrstu vakt notar Matthías um frumkvæði, og vísar það til siglinga, fremur en hernaðar, flestum lesendum.



Loks má telja líkingar sem byggjast raunar ekki á nýrri tækni, heldur nýrri þekkingu, nánar tiltekið á segulsviði jarðar. Nátturufræðingurinn Bene­dikt Gröndal ber þetta inn í íslenska ljóðagerð: ”En við norðurs ystan seguldróma [...] þar sem sól á sumrum má ei deyja,/ situr stillt og himinborin Freyja” (Venusog5), einnig: “heimsásinn snýst þar hjörum á, hverfast um geiminn segulvendir” (Tólfálna46). Þessu fylgir svo Matthías eftir, hvaðan sem honum kemur það, og virðist sjá það sem örlagatákn: ”Segulheimur, hverjum ertu byggður, [...] Á þar möndul auðnu vorrar hjól?/ Er þar rituð rún á segulspjaldi,/ reginmál og dularkrafta teikn?” (Hafísinn6).



Afar lítið finn ég hjá blæleitnum, svo lítið raunar, að sú ályktun virðist óhjákvæmileg að þau beinlínis forðist yfirleitt að víkja að nýtækni í ljóðum, svo sem nefnt var um sænskan samtímamann þeirra Karlfeldt í upphafi 5. hluta. Helst er að nefna að Einar Benediktsson líkir samdrætti kynjanna við segul og málmsvarf (Ævintýrihirðingjans), Jóhann Sigurjónsson nefnir “bryndreka járnvarða” (Gefðumér), líkir við járnsmíðar (Vetrarnótt), Stefán gerir það líka (Hjartarím) og talar um að glerhiminn tímans brotni (Seytjándimaí), Tómas er samtímalegur, segir að siðferðið sé eins og hurð á hjörum (Austurstræti) og kallar jörðina hótel (Hótel og Sumargestir). en eins og skáldsystkin hans er hann ekki nútímalegur í líkingum – ólíkt rómantískum fyrirrennurum sínum.






5. 14. Endurteknar líkingar



Sum skáldanna nota sömu líkingu oftar en einu sinni, jafnvel marg­sinnis. Og til er að sama grundvallarlíkingin gangi skáld frá skáldi. Fyrr­nefnd könnun Þorleifs Haukssonar á endurteknum myndum Bjarna Thorarensen kom eðlilega til samanburðar. En sem áður segir, eru margar þeirra líkinga þvílíkt almanna­góss, að þær koma ekki til álita hér. Aðrar eru mjög bundnar trúar­viðhorfum Bjarna, sem flestum hafa þótt fornfáleg um aldamótin 1900; að tala um líkamann sem fjötra sálarinnar, fat hennar, ham eða hreysi, að líkja sálinni við fiðrildi sem komi úr púpunni við dauðann, að kalla dauðann eða guð ljósmóður sálarinnar, tár hérna megin grafar verða perlur á himnum, augun eru ljós sálarinnar. Þá var fátt eftir; helst að tala um “kristalsá”, og feigðarhljóm í náttúrunni. Skemmst er af að segja, að það fann ég ekki hjá skáldum þeim sem hér um ræðir. En hér skulu talin helstu dæmi líkinga sem ganga milli þeirra.





5. 14. 1. Húmtjöld falla.



Í upphafi Íslensks aðals segir Þórbergur Þórðarson frá byrjun skáldferils síns. Kvöld eitt í febrúar­mánuði[21]1912, þegar hann var á leið heim til sín stansaði hann -við símastaur á Skólavörðustíg- til að horfa á stjörnu­himininn, og varð þá gripinn undarlegri kennd, „eins og allt væri að gliðna í sundur eða renna saman við einhverja óendanlega volduga, ólýs­an­lega milda einingu, sem eins og væri ekkert, en fæli þó í sér ívist allra hluta.” Og þar með braust fram á varir hans fyrsta erindi af því sem hann fann að yrði langt kvæði:





Nátt-tjöldin hrynja. Him­in­inn rökkvar.



Húmskuggum sveipast foldarbrá.



Kvöld­blær­inn kyssir láð og lá.



Ljóða hrannir við bakkann dökkva.



En moldin - hún dottar í drifhvítum hjúpi



og dreymir um vor.



Það haustar, og sólin er sigin að djúpi.





Þá hljóp Þórbergur í herbergi sitt til að missa ekki andann, háttaði sig og skrifaði erindið, lauk við kvæðið um nóttina, en hreinritaði það hvað eftir annað daginn eftir. ”Aðeins fyrsta erindið var óbreytanlegt. Rödd hins eilífa verður aldrei endurbætt í hreinskrift.”



Þetta spurðist út um bæinn, og um vorið birtist kvæðið á forsíðu blaðsins Ísafoldar, Þórbergur varð þar með frægt skáld (skv. kvæðasafni hans Eddu, bls. 21) en ungir menn sáust stilla sér upp við símastaurinn.



En síðar í Íslenskum aðli (bls. 157) ber Stefán frá Hvítadal það upp á Þórberg að hann hafi stolið þessu frá Bjarna frá Vogi: “Þú ert svo smekk­legur í þér að segja, að nátt­tjöld­in hrynji. Bjarni sagði ein­hvern­tíma hér á árunum að náttjöldin falli, og það er miklu fegurra. Þessari hug­mynd hefur þú stolið frá Bjarna, af því að þú átt enga skáld­lega hugsjón sjálf­ur. Er það nokkur skáldskapur annað eins og þetta, að segja að nátt­tjöld­in hrynji eins og gamall hunda­kofi”.



Hvort sem þetta er nú rétt haft eftir Stefáni eða ekki, þá var Bjarni frá Vogi svo tilkomulítið skáld, að mér sýnist að þetta sé einfaldlega sagt sögumanni til háðungar, enda finn ég þetta hvergi í ljóðabókum Bjarna. En þessi mynd er víða annarsstaðar hjá miklu frægari skáldum.



Elsta dæmið sem ég hefi séð er hjá Guðnýju Jónsdóttur frá Klömbrum, í kvæðinu „Endurminningin er svo glögg” (fyrst prentað 1837, skv. Þjóðskáldin, bls. 73), en þar er talað um að sólin dragi skugga­tjöld yfir grund:





þá ljómandi færði fagrahvel



forsælu misjöfn skuggatjöldin



yfir hvern blett og hvert eitt svið



hinum megin við sólskinið.





Í kvæðum Bene­dikts Gröndal fyrstu árin er nokkuð á annan tug dæma skyldrar myndar, á árunum 1853-60 margnotar hann mynd þar sem sjóndeildar­hring­ur­inn er sem tjald­að­ur salur, líkt og í fornsögum, einna skýrust er þessi mynd í Hugfró (bls. 222, frá1858):





meðan kvöld



hin undurbláu gullnu geislatjöld



ginndjúpu breiðir fram í næturheiði.





Svipuð mynd er hvað eftir annað hjá Steingrími Thorsteinssyni:





Dagur brýzt senn inn í draumhimins tjöld,



Draumunum árgeislar hrinda,



(Þúsund ára sólhvörf 1874, bls. 15)





Sól, þitt ljós þeim lifi’ í minni,



Lýsi fram á hinsta kvöld;



Brátt er hvarfstu’ að hvílu þinni



Heiðstirnd blika salar tjöld.



(Brúðkaupskvæði S. G. og S. E., bls. 323)





Hin heiðu kvöld,



Er himintjöld



Af norðurljósa leiftrum braga.



(Eg elska yður, þér Íslands fjöll, bls. 19)





Einna ítarlegust er þessi mynd hjá Steingrími í kvæði sem einmitt heitir Norð­ur­ljós (birt eftir 1881):





Hve leiftrar þeim fylgjandi



Litbrigða fjöldinn,



Er blaktandi, bylgjandi



Breiða þau tjöldin,



Með ljósgullnum, heiðgrænum, lifrauðum röndum,



Svo létt sem þau bærð væru’ af ósénum höndum!



Þau sveiflast í fellingum, svipa með logum,





Hér er hreyfingin á tjöldunum aðalatriði, svo að þau minna meira á leiksviðstjöld en tjaldaðan sal, og sjálfsagt hefur Steingrímur einhverntíma komið í leikhús þá tvo áratugi sem hann bjó í Kaupmannahöfn.



Í tilvitnuðu lasti sínu um kvæði Þórbergs hefði Stefán frá Hvítadal mátt bæta því við, að 5. lína 1. erindis minnir ansi mikið á “Sjálf moldin er hrein eins og mær við lín/ mókar í haustsins visnu rósum” í Norð­ur­ljós­um Ein­­ars Benediktssonar (bls. 38), en “moldin - hún dottar” í kvæði Þórbergs er svo skringi­lega smekk­laust, að það er nánast eins og skop­stæl­ing á þessum línum Einars. Þórbergur sagði síðar um fyrsta kveð­skap sinn (Edda, bls. 18), að þá hefði hann verið ”á stefja­galeiðu Einars Bene­diktssonar”, þ.e. verið svo gegn­sýrð­ur af kvæð­um Einars, að hann hefði ekki getað sýnt neitt sjálfstæði í ljóðagerð. Nú ber þetta kvæði Þór­bergs augljóslega mikinn svip af kvæðum Einars, stuttar aðal­setn­ingar í löngum erindum. Hann sagði sjálfur um þetta kvæði (í Eddu, bls. 21): ”Áhrifin frá Einari Benediktssyni voru að sönnu öllum auðsæ.” Og ein­mitt hjá Einari er þessi sviðstjaldsmynd um himin marg­end­ur­tekin, ekki sjaldn­ar en tíu sinnum bara í fyrstu tveim­ur ljóða­söfnum hans, 1897 og 1906. Myndin er aldrei eins ítarleg og í síðasta dæminu sem hér var tekið eftir Steingrími, né er þessi iðandi hreyf­ing sem tengir leik­sviðs­tjöld við norð­urljós. Einar notar einfald­lega orðið ”tjöld” með ýmis­konar ákvörð­un­ar­liðum til að tákna himin eða titrandi loft, en mest ber jafnan á ljósbliki í þessum myndum. Mér þykir því lík­legt að Einar byggi þetta allt á fyrrtöldu erindi Stein­­gríms. Fleiri dæmi hjá Einari: „Hilling, lát speglast við himins tjöld/ héraðið forna um sög­unnar kvöld.“ (Hilling, 2) „og verk öIl Ieggjast í lífsins sjóð,/undir loft­salsins blik­andi tjöldum.“ (Við jarðar­för Stgr. J., IV), „í anda ég sé gegn­um blám­ans tjöld,/ finn strengina á heiðloftsins hörpum titra.“ (Stjarnan, 1). Einnig eru himintjöld kennd við sól og mána: „Fyrir handan vetr­ar­kvöldin/ sé ég glampa á sólartjöldin. (Þokusól, 6) en hér og þar lyft­ist ein harðfleyg önd/ og hálsinn teygir svo langt sem hún eygist,/ í gegn­um sól­roðans tindrandi tjöld (Í Slútnesi, 8) „óhappsvættar lofts í glugga/ helráð brugga tungls við tjöld. (Skýjafar, 4), og við þoku: „Bak við þokubakka tjöldin/ bíða í vestri rökkurkvöldin. ”(Þokusól, 1), og loks við húm: „Nú dýpkar og blánar hvolfsins hylur,/ og húmblæjur kvika um geislanna brunn “ (Í Slútnesi, lokaerindi), „Húm­tjöldin falla og hylja allt liðið, /vér hringjum út öldina gömlu í kvöld.“ (Aldamót, II, 1). Í þessu síðasta dæmi hefur þessi líking breyst í ítarlegri mynd, sem mér finnst eðli­legra að túlka sem fortjöld í leikhúsi, hreyfing þeirra minnir norðurhjarabúa eðli­lega á sveipandi hreyfingu norðurljósa, en þau sjást víst mest á norður­hjar­anum, og ekki þekki ég þessa leiktjaldalíkingu í erlendum kveð­skap.



Nú má vera að Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti hafi ekki verið þeim Stefáni og Þórbergi ofarlega í huga þegar þeir rifust í Vagla­skógi, en orðalagið í kvæði Þórbergs minnir mest á línur í einu fræg­asta kvæði Sigurðar, Hrefnu. Og ljóðmyndin sem þar birtist er aftur mun líkari þeirri sem hér var höfð eftir Stein­grími en það sem við nú höfum séð eftir Einar Benediktsson. Blærinn á m.a. að færa Hrefnu kveðju ljóðmæl­anda, sem er nú fjarri henni, “þungt er það, Hrefna, að elska, vaka og bíða“. Þessi ljóðkafli hefst á glæsi­legri mynd, mæl­andi sér haf og himin sem leikhússal, og norðurljósin sem sviðs­tjald á hreyfingu (III, 1): „Kvöldsett er löngu. Himins húmtjöld síga/ hægt fyrir sviðið.“ o.s.frv. Þessi kvæðis­hluti birtist fyrst 1905 (sbr. Ljóða­safn Sigurðar, bls. 21), og þótt Sigurð­ur hafi sjálfsagt lesið Norðurljós Stein­gríms, þá er líklegt að hann hafi “húm­tjöld” sem leiksviðstjöld frá tv. Aldamótakvæði Einars Benediktssonar. Þessi mynd kemur líka fyrir hjá fleiri skáldum þessa tíma. Hulda dregur fram lit (bls. 113, í Á ferð): „það bliknuðu gullský og bjartur sær,/ und blá­rökkv­að húm­tjald gekk dagur skær“. Jón­as Guðlaugsson notar myndina þráfaldlega nokkrum árum fyrr en Þór­bergur: „Í rökkurkyrrð er húmskuggar himinhvelið tjalda” (Ljósleit­in, Tví­stirnið, bls. 41), „Þar sem hátindar hrímkaldir gnæfa/ við him­ins­ins grá­ofnu tjöld“ (Norður, 3). „Hinn bleiki máni [...] dregur silfur-drauma lit/ á dimmblá himinstjöld“ (Tungl­skins­óður, 1). Einnig persónu­gerir hann húmið og gerir myrkrið að rekkju­tjöldum himins: „Hljótt er kvöld, um háa tinda/ húm­ið breiðir rekkju­tjöld;/ bak við sæ og svarta rinda/ sólar­glóðin hinsta er föld. (Fram hjá Fróðá, í Dagsbrún, bls. 19). Til sól­ar­innar segir hann: „Lát hylja húmsins tjöld/ þinn hyr þú lýstir nóg!“ (Berg­num­inn í Dagsbrún, bls. 46) og „Þótt hafið tjaldi með húms­ins skugg­um/ þau horfa í áttina gegnum myrkrið“, (Sigling í Dags­brún, bls. 90). Jóhann Sigurjóns­son líkir næturhimninum ekki að­eins við bikar (í Bikarinn), tvívegis líkir hann kvöldhimni eða nætur­himni við tjöld: „stjörn­ur skærar skína um bjarta nótt.// Horfið, sjáið ljóss­ins leik,/ létt um blá­hrein tjöld þau streyma“ (Kvöldhugsjón 2) og „kast­ar hún brandi á blá­lofts­ins tjöld“ (Sólarlag 2). Loks kemur þessi mynd fyrir hjá Davíð Stef­áns­syni, en raunar er það dæmi yngra en kvæði Þórbergs: „Alltaf sjá menn bjarmann bjarta/ blika gegnum húmsins tjöld.“ (Þú, sem eldinn átt í hjarta). Afbrigði af þessu er hjá Jakobi Smára í ljóðinu Tunglskin: „frá dagsins myrku skógar­tjöld­um“



Það er ekki um að villast, að þessi ljóðmynd Þórbergs er af því tagi sem er ætlað að vera mjög áhrifamikil, en hefur verið notuð svo mjög af mörg­um samtímakáldum, að hún yrði ekki kölluð annað en klisja, ef ekki kæmi til margbreytileikinn sem við höfum nú séð. Hins­vegar er hún svo miklu minna á flugi nú orðið, að hún orkar ekki lengur sem klisja. En nú sjáum við hvers eðlis skáldlegur inn­blást­ur frá ”rödd hins eilífa” var byrjanda í skáldskap. Skáldið var einfaldlega gagntekið af klisj­um, sem það skilar frá sér í mun lakara formi en það meðtók þær. En mjór er mikils vísir, fáeinum árum síðar birtust fyrstu bækur Þór­bergs, Hálfir skósólar, 1915 og Spaks manns spjarir, 1917, lítil kvæða­kver, full af skopstælingum á kveðskap samtím­ans, einkum af væmn­ara tagi. Þau voru endurprentuð með viðaukum í Hvítir hrafnar, 1922, titillinn er augljós skopstæling á Svartar fjaðrir Davíðs.



Þessu tengist margendurtekin líking þar sem umhverfi ljóðmælanda er líkt við byggingu: Benedikt líkir himninum við kassa (Nótt2). En “klakaþil” liggja lárétt hjá Kristjáni Jónssyni (Þorraþrællinn 1866), þar sem þoka “þiljar miðja blómsturhlíð” hjá Matthíasi (I, Eyjafjörður). Og Jónas sér hrafntinnu á fjallstindi sem þak “yfir svörtum sal” (Gunnarshólmi). Einkum er því þó líkt við kirkju: „Nátt­úran öll er svo köld og kyrr/ sem kirkja þögul með auðum bekkjum“ (Ein­ar Ben, Stjarnan, 1), „Heiðakirkjan hljómar birkitjölduð“ (Hulda, Sunnudagskvöld 8&6.) og Smári: „Ég frýs í stjörnukirkju kaldrar næt­ur (Bið 3), auk þess að snjórinn „logar sem ljós í líf­heims­ins kirkju“ (Birt­ing 1), Smári líkir blómum við logandi kerti (Sjáland 2). Þessu teng­ist dæmi hjá Stefáni: „minn kvíði er í ætt við klukknahljóm“ (-og þá vænt­an­lega til útfarar frekar en til venjulegrar messu! -Gættu þín, 13). Smári hefur ennfremur: „Vetrar­ins snæhöll, dauða­dimm­an bitra/ í draumi leið á braut“ (Fjallaslagur 2), Einar Bene­diktsson: „Nú bý ég í tindrandi himna­höll“ (Stjarnan, 2). Stefán talar um að „gler­him­inn tímans brotni“ (Seytjándi maí, 17),





5. 14. 2. Kvöld í skikkju



Lítum nú á tilbrigði við húmtjöldin. Eitt magn­aðasta kvæði Einars Benediktssonar er Kvöld í Róm sem fyrst birtist 1905. Kvæðið rifjar upp stórveldistíma Rómverja, sem ljóðmælandi sér fyrir sér á yfirborði Tíber, líkt og skuggamyndasýningu: ”Svífa á borði elfar aldir, lýðir,/ eins og sýning skuggamynda á tjaldi.” Í samræmi við það ber mynd­mál kvæðisins ein­mitt svip af þessum stórveldistíma, nánar tiltekið er kvöldhimn­in­um líkt við purpura­skikkju, svo sem keisarar Rómarveldis báru. Sú mynd rammar inn Rómarsögu kvæðisins:





Kvöld með rauðri skikkju og bláum faldi. (1. erindi)



Lýsist kvöldsins rauða skikkja og hrynur (6. erindi)





Svipaða mynd sjáum við víðar hjá Einari, þótt ekki sé hún af kvöld­himni, heldur fjalli eða hafi: Hafið er í blárri skikkju með hvítum brim­faldi og ber feld með gullnum ísaumi sólstafa (Suðurhaf 3), „um axlir hæð­ar skarlat steypist“ (Lág­nætt­issól 1), „glerblá skikkja fjalls um öxl sig vef­ur.“ (Nótt 1&6). Loks er snjóug grundin í skrautkápu: „Nú breiðast voð­ir hels og hljóðs um hauður [...] Öll byggð í dánar­dýrð sig býr,/ með dem­ants­rósa skraut og glit“ (Snjór 1&2). Svip­aðar myndir birtast hjá fyrri tíðar skáldum, í fyrsta lagi hjá Bjarna Thorarensen, sbr. umfjöllun Þorleifs Haukssonar (bls. 33, uppsetningu breytt hér):





Þessar myndir eru einkum tengdar árstíðunum. [...] „fagurtjölduð Fróns/ fjöllin grænvoðum“ (Friðriksljóð, Ljm.I, 149), „en grænló skikkju/ gránar ok hjaðnar“ (Veturinn, Ljm. I, 119). Um hávetur er myndin önnur: „og sem líkblæju/ lita jökla/ mjallarskrúð/ er skírt var áður“ (Stefán Þórarinsson B1, Ljm. II, 130), „á vetri fegurst línklætt lík,/ lífs og dauð ágæt (Staka um Fljótshlíð, Ljm. I 149).





En frægust er þessi mynd í Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar, kvæðinu sem kallað hefur verið fæðingarvottorð rómantíkurinnar á Íslandi. Það birtast fjöllin sem fornkappar þeir sem kvæðið segir frá, og klæðnaði þeirra lýst lið fyrir lið:





En hinum megin föstum standa fótum



blásvörtum feldi búin Tindafjöll



og grænu belti gyrð á dalamótum;



með hjálminn skyggnda, hvítri líkan mjöll





Svipaðar myndir klæddrar, persónugerðrar náttúru eru víðar hjá blæleitnum skáldum. Jóhann Gunnar hefur mynd hafs að næturlagi: „Sveipar nótt­in svörtum hjúpi/ sund og land og ey og bæ“ (Eftir miðnætti 1). Svip­að hjá Jónasi Guðlaugssyni, hann líkir kvöldhimni við dökkbláa skikkju, og segir fyrr í sama kvæði: „Hafið er vafið/ í hálfrökkurs­blæj­una“ (Nótt á haf­inu 2&1), og: „hafið, hjúp­að af sólarglóð“ (Ham­ingjan 1). Hjá Jóhanni Sig­ur­jóns­syni er það hluti af persónu­gerv­ingu nætur, að him­inn­inn birtist sem fastofin skikkja hennar (Vetrarnótt 5). Svipuð hugsun birtist í liking­u Jóhanns um blóm­skrúð sem kjól vor­gyðj­unnar. (Vorið 1):: „líf hennar bylgj­ast í blóm­ofna skrúðanum“), líkt og hjá Sigurjóni Friðjónssyni: „ Í möttul græn­an foldin fer“ (Vorið 3). Jakob Smári hefur tilbrigði við þessa mynd: „að háhvolfsins græn­bláa faldi“ (Morgunn 3), „Sólin../ blóð­rauð­um möttli klæðir verði dala“ (Sjónir 1) -þetta er tilbrigði við „hvít­möttluð fjöll” (Stjarnan 2 e. Einar Benediktsson) - einnig hefur Smári: „Dökknandi heiðar klæð­ast þokuhjúp“ (Vanangur 2), eins og hjá Huldu: „dalurinn vefst í þokuhjúp“ (Heyrði ég 2). Stefán frá Hvítadal snýr þessu aftur að kvöldhimni: „kveldið í gullnum klæðum“ (Seytj­ándi maí 1) en einnig að stöðu ljóðmælanda gagnvart slíku: „Nóttin dökkri voð mig vefur“ (Farandskáld, 1), líkt og Davíð: „að nóttin sveipi mig í dauðans hjúp“ (Moldin 5) og „svartri blæju vefjist moldin gljúp“ (Moldin 4). E.t.v. mætti tína til fleiri dæmi, þótt ekki yrðu eins skýr, en hér skal end­að á fjarskyldu dæmi Stefáns frá Hvítadal: „Rauðu skarlati skrýðst/ hefur skóg­ar­ins flos“ (Hún kyssti mig 1).





5. 14. 3. Sálin flýgur.



Áður var nefnt að algengt er á 19. öld að líkja hug eða tilfinningum við fugla. Ekki er ástæða til aå rekja nema sérkennilegustu dæmin. Bólu-Hjálmar notfærir sér tvíræðni orðsins önd, fugl/andi: “burt flæmist öndin slök,/ illverka reifuð fiðri” (Sálarskipið 5). Hann hefur einnig margbrotna líkingu um Ísland sem í senn gamla konu og móðurfugl: “þér á brjósti barn þitt liggur,/ blóðfjaðrirnar sogið fær.” (Hjáþjóðf 1). Hjá blæleitnum skáldum er elst og sérkennilegast dæmi í Skógarilmi Einars Benediktssonar, en þar segir ljóðmælandi frá því hvernig andi hans vaknaði á barnsaldri og líkir því við þroska fugls, lið fyrir lið, allt frá því að hann brýst út úr egginu til þess að hann er fleygur: „ég brjótast og iða fann lífsins þrá/ í eggskurns hjúpi míns hjarta (5.er.) [...] ég hreyfast fann einhvern kraft mér í sál/ sem vængi hins ófleyga unga. -(6.er.) Minn andi er vaknaður til sín sjáIfs/ og vængirnir vaxnir og fleygir“ (11. er.). Víðar eru líkingar þar sem ljóð­mælandi talar um sig eða hug sinn sem fugl; t.d. Stefán frá Hvíta­dal: „Draumar, lífsins dáð og sýki, drógu þig í svanalíki “ (Hjartarím 3) „Og mín sál er sem hvít­ur svanur/ er svífur að fjarlægri strönd“ (Jónas Guð­laugs­son: Austur, 4), þannig er Einar Benediktsson sýndur í fyrr­nefndu kvæði Sig­urðar Sig­urðs­sonar (Velkominn Svanur!), því fuglinn er tignarlegur og „með söng­brjóstið flekk­laust“. Fálkinn er tákn Íslands í samnefndu kvæði Sig­urðar, auk þess sem hann líkir Friedrich Nietsche við hauk í Haukaberg, en Hulda talar um Benedikt Gröndal sem örn, en sig sem smáfugl í minningarkvæði um hann. Yfirleitt er þessi fuglsmynd manna svo jákvæð, þótt ekki verði fuglinn alltaf tegundargreindur. „Vængir lyfta ungri önd/ inn á giftu meginlönd“ (Sigurjón, Vorið 1). Hulda segir „minn hugarvæng til him­ins ber“ (Ó, sæla 1. –sjá nánar í kaflanum um hana). Davíð: „syngjandi flaug/ sál mín til þín“ (Batseba 2:). Hjá Jóhanni Gunnari einkennir ljóðmæl­anda á einum stað „flug­búin sál, fótur í fjötrum“ (Til Benedikts 5), Sig­urður segir: „En hug­ur vakinn flögr­ar langa leið/ og leitar, sem hann eigi hvergi heima.“ (Lágnætti 1). Jónas Guðlaugsson sagði í fyrr­nefndu kvæði (Austur 4): „Og reið­in líður burtu, sem blakkir hrafnar er ber við hverfandi fjöll.“ Frægust er hrafnlíking Davíðs: t.d. eg „flaug á fjöðrum svörtum“ (Ó, veröld, 3).



Þessu tengist að stundum er talað um nóttina sem fugl. Það er þá oft­ast mynd friðsældar, t.d. hjá Sigurjóni: „dúnvængjuð sumarnótt“ (Sól­arlag 4) og Huldu: „Á skuggavængjum til foldar flýgur [...] svefnblíða sum­ar­nótt“ (Nótt 1) og „lengra en Ijósvængjuð/ líður nótt“ (Í aftanfriði 2), líkt og móðurmyndin hjá Davíð: „Breiddu svörtu vængina þína, vetr­arnóttin mín/ yfir okkur sjúku/ og syndugu börnin þín.“ (Vetrarnóttin 1). Móður­leg umhyggja einkennir raunar líka nánast samnefnt kvæði Jóhanns Sig­ur­jóns­sonar, en þó er þetta a.m.k. öðrum þræði martraðarmynd: „Nú þen­urðu út vængina vold­ugu og styrku,/ nú vakir þú yfir mér, grúfir sem mara,/ og gljá­lausu augun þín eilífðarmyrku/ í endalaust hyldýpið síopin stara.“ (Vetrar­nótt, 4).



Fleiri fyrirbærum er líkt við fugla. Einar Bene­diktsson segir um móðurmálið: „þess vængur hefst um hvolf­in víð,/ þess hljómtak snertir neðstu grunna.“ (Stefjahreimur, 6), „Bær­ast sé ég báru­væng “ (Logn­sær 3). „Hvít eins og svan­ur á sundi- sól yfir snæfeld skín“ segir Sigur­jón (Veit ég, 1), „meðan jörðin svaf/ eins og dauð­sjúk æð­ur á eggjum sínum“ sagði Jónas Guðlaugsson (Ég heilsa, 2). Og Einar Bene­dikts­son ”fuglgerir” borðdúka: „Tjaldþök yfir borðum bún­um breiða vængi á hliðar tvær.“ (Skugg­ar, 2). Smári sér höfuðbúnað hey­vinnukvenna úr fjarska sem fugla: „Fjarri ljós­ir kvenna­klútar eygj­ast,/ sem kyrri svanir flug hjá ása­brún­um“ (Hásumar 3). Síðustu tvö dæmi eru vitaskuld skynnlíkingar.





5. 14. 4. Drykkir hljóms, ilms og ljóss.



Hér verða fyrst fyrir dæmi hjá Einari Benediktssyni: „hneigði mín eyru að hljómsins skál“ (Skógarilmur 6) og „af hljóm þínum drekk ég mér kraft og frið“ (Brim 1), „við teyg hvern af tónanna lindum“ (Dísar­höll 5). Auk þess er eitt dæmi hjá Davíð: „Hörpu­hljóma/ úr húmsins bikar sálin drekkur“ (Harpa 8). Þetta er nátengt annarri líkingu; að tala um ilm sem drykk. Enn verður Einar fyrst fyrir: „sem skálar ilms af blöðum blóms/ er barmi að eigin vörum halla“ (Stefja­hreimur 1). Og Jónas Guð­laugs­son kveður: “Angan eldheitra rósa,/ eldheitrar sólar bál,/ snjóhvíta tungl­skinstöfra/ teyga eg úr hljómsins skál.“ (Í húminu 3) og: „Suðrænu, rauðu rósir!/ veikar og heitar og fæddar til augnabliks yndis,/ ég vil teyga’ ykkar ilm“ (Suðrænar 2). Stefán frá Hvítadal segir „Við vorum ölv­uð/ af angan“ (Seytjándi maí, 6) og Davíð: „þú lést mig teyga angan bjartra blóma“ (Ó, veröld 4). Tilbrigði er hjá Sigurði Sigurðssyni (Helga Hoff, 2): „Nú heyri ég þitt milda mál [...] sem ilmur streymdi um sál frá sál“



Hér má við bæta baði í sólskini. Eins og Steingrímur “Hvað finn eg lofts í baði?” (UppiáSúlum3) og Grímur :”lauga oss í geislum sólar” (HelgaÞorv1) talar Hulda um ljósið sem baðvatn: „fýsti mig Íslands/ arma hvíta/ ljós­bylgjum lauga“ (Sumar­koma 3).





5. 14. 5. Andans haf.



Það er nærtæk líking, þar sem talað er um hafdjúp og djúpar hugsanir. Enn skulu aðeins valin einstök dæmi af mörgum. Hjá Benedikt Gröndal er ”dimmur svefna-drauma sær” (Renndu1), hjá Steingrími er “Á sorgarhafs botni sannleiks perlan skín” (Sorgog), hann talar um “jarðlífsins mar“ (Ágangi2), og Grímur segir að vonin sé brú yfir ”efans svarta haf” (Vonin3).



Sérkennilegra er þetta hjá blæleitnum; „Hafdjúp minninganna“ birtist í ýmsum myndum; einna sérkenni­leg­ast enn hjá Einari Benediktssyni, sem jafnframt líkir sérstökum stormi við fugl: „draumasjóir sökkva, stíga við segul­storms­ins vængjatog“ (Lágnættissól 5). Einfaldari er myndin hjá Huldu: „drauma­bárur hugann lauga“ (Sumarnótt við hafið 8). Hjá Jónasi Guð­laugs­syni eru þetta hljóðöldur á hafi minninga: „Minn hugur er sem djúp­ið er hinstu geislar ljóma [...] á tunglskins­hvítu fleyi um öldur dimmra óma/ þau ást og dauði líða um minning­anna höf“ (Ást og dauði 2), skylt er: „á bak við tím­ans haf“ (Nótt 2), og hjá Sigurði Sigurðs­syni: „En hug­ar­snekkjan hefur ætíð byr/ á haf þess liðna - en seglin smærri og smærri“ (Lágnætti 4), „Minningarnar vagga á hugarbárunum“ (Jóla­kvöld 2). Hulda hefur þessa mynd ítarlega, svo að heita mega nýgervingar í erfiljóði um Bene­dikt Gröndal (Minningar II, 2-3): mælandi leit hug­ar­haf hans hvíla feikn­djúpt við hamra ellinnar, logndjúp og löður skiptust á um ævi skálds­ins, en sæbrimið líktist liðnum harmi, en öldur færðu mæl­anda „ljúfustu perl­ur, er yfirborð skýla.“ [svo!]. Hún hefur líka andstæða sjávar­mynd, hálfnykraða: „hjartans heitu undir/ hylur djúpur gleymsku sær“ (Andlát 2). Og loks koma til­brigði hjá Stefáni frá Hvítadal: „Af sorganna hafi þau svífa/ á sáIar minn­ar djúp“ (Kvæðin mín 6), „mín sjúka sál/verður hljómahaf“ (Aðfanga­dag­ur 2).



Í námunda við þetta er að tala um ljós sem öldur. Benedikt Gröndal segist vilja ”vagga mér á ljóssins öldum” (Æskan3). Hjá blæleitnum verður enn fyrst fyrir Einar Benedikts­son: „ljóshafsins öldur, með fjúkandi földum, falla og ólga við skugga­strönd“ (Norðurljós 2), einnig „geislakvíslar falla í fljót/ og fossaköst á hvelsins barmi“ (þ.e. við hafsbrún, Lágnættissól 2), og Jakob Smári: „rósgul röðuls log­in/ rjúka eins og hrönn“ (Þyrill 4), „Öldótt og þungt streymir ljósið um land,/ leitandi ver­ald­ar ósa“ (Morg­unn 1), og um tunglskin: „Ber mig dátt á djúpum öldum“. Davíð líkir hins­vegar myrkrinu við haf: „myrkr­ið geng­ur í ísköldum öldum“ (Húmhljóð3), en Einar Bene­diktsson hefur þá lík­ingu um þoku: „Efsti tindur öldur þoku brýtur;/ úða­rok af jök­ul­boðum þýt­ur“ (Nótt 2) og golu: „Andvarans bylgjur lundinn lauga.“ (Í Slútnesi, 4), en segir að snjór sé „sem stirðnuð alda horfins ljóðs“ (Snjór, 1).



Einar Benediktsson líkti ein­hverjum æðri veruleika við land handan hafs stjarna í óveðri: „Rís þú, frið­land, stjörnudjúps af stormi“ (Kvöld í Róm, 12) ) og um hesta hafði hann (hefðbundna) haflíkingu um eyði­sanda: „innra kvikt og ytra stillt, eins og logn á bylgju sandsins“ (Ævin­týr hirð­ingj­ans, 8). Hefðbundnara er að hann talar um mannfjölda sem haf (í Útsær 5). Jóhann Sigurjónsson hefur þessa hafrótslíkingu um fólk, en líkir þó einnig öldum (brotsjóum) við hesta, en vindinum við ekil: „sem síhvik­ult sjávarrót/ sé ég hvar allsnaktir líkamir titra [...] en bak við mig stunur og hryglu ég heyri/ sem haust­vind­ur brotsjóa að lend­ingu keyri.“ (And­vöku­draumur 3&4). Svipaða lík­ingu hefur Smári um skóg: „Skógartrén vagg­ast hratt, sem haf í roki“ og „háhvelfdar, grænar öld­ur svigna og lækka“ (Sjáland 1). Aðrar lík­ingar eru við læki og ár, Smári hefur það um hljóð fugla: „Ennþá rjúpu­röddin gljúp/ rótt um lyngið streymir“ (Síð­sumar 4) og augnaráð: „Í augn­anna bláhvassa ós“ (Sumar­sýn 2) en Sigurjón um sorg: „Í vöku og draumi/ hún verður að tærum og frjóvg­andi straumi“ (Ef ungan og 2). Það tengist orðum Sigurðar: „En aldrei leggur ís að þinni sál, að ekki skyggi í tæran djúpan ál“ (Til stúlku, 4) og Smára sem líkir geiminum við ís og kall­ar stjörn­ur: „lífsaflsins vakir milli dauðans skara“ (Brot, 3). En Jóhann Sigur­jóns­son segir sólir falla hverja eftir aðra sem dropa (Sorg 5).





5. 14. 6. Umhverfið logar



Fyrir utan ástarbál og þvílíkt er helst að telja frá ljóðasöfnum 19. aldar, að Benedikt yrkir í erfikvæði um föður Gríms Thomsen: “Sérðu ekki skæran/ löginn lífsins renna/ með lík í faðmi’ að ströndum dauðaheims?/ Sérðu’ ekki fagrar aldinbjarkir brenna í blossatárum dapurs harmageims?” (ÞTT1). Þar er eins og haf lífsins beri lík að strönd dauðans, en himingeimurinn er fullur af harmi, og tár frá honum brenna tré! Sannlega margbrotin líking.



Meðal blæleitinna má telja að Jónas Guðlaugsson líkir sólarlagi við bráðinn málm: „Gullroði dagsins sem dó er að hverfa,/ dökknar við hafs­rönd sem bráð­inn eir“ (Nótt á hafinu 1), einsog Smári: „við hafborðsins kvikandi blý.“ (Við sjó 1). Andstætt því lík­ir Smári brimi við eld: „sólhvít­ir brim­logar gjósa“ (Morg­unn 1), en einnig fjöllum: „Fann­bjartar súlur funa í bláum ljóma“ (Sjónir 3) einnig snæþakinni jörð: „Í hvítskini sólar hin vold­uga breiða/ af ósnertri mjöllu logar sem ljós“ (Birting 1), ennfremur stjörn­um: „uppi einstakt ljómar/ ísblátt stjörnubál“ (Harpan 4). Jónas Guð­laugs­son lík­ir ilmandi golu við eld: „af angan/ logar inn hægi blær“ (Sól­ar­lag 2). Í ann­arri mynd verður líkingin flóknari, eldurinn breytist í fljót, sem streym­ir um myrka sali sálar mælanda og hittir þar fyrir annan loga: „Í eig­in brjósti eldinn finn ég glæðast, og/ inn í lukta myrkrasali streyma, þar ljóssins bjarmi á leyndu gulli skín.“ (Vorið kemur 4). Einnig hefur hann eldlíkingu um vín, sem virðist tákna lífsmátt mælanda, og fléttar inní und­arlegri líkingu um að ljósið hylji myrkrið: „Ó lífs míns vín þú log­ar tært/ sem ljós er hylur dökkan sjá“ (Helför 2). Jóhann Sigurjónsson lýsir því hvernig löngun blossar upp í nautn, líkt og járn í loga (við högg járn­smiðs), og hverfur eins og sindrið (Vetrarnótt 2), einnig: „Humlarnir læð­ast úr loðgráu hýði,/ loga eins og silfur á dökkgrænum víði“ (Vorið 5), þetta minnir á Smára: „Við brekkurætur brenna/ blómanna kerti“ (Sjá­land, 2). Margbrotnari er önnur fræg líking Jóhanns, þar líkir hann fólki við tunglsljós, öfugt við þar sem algengara er (og Tómas gerir): „eins og tungls­geislar sváfum við á bylgjum hafsins“ (Sorg, 4).






5. 15. Nýstárlíkingar



Hér skulu að lokum taldar sérstaklega óvenjulegustu líkingarnar, fyrir utan endurteknar og þær sem fjallað er um í köflum um einstök skáld síðar. Skynlíkingar eru hér nokkuð undir meðallagi (sjöttungur). Þar má einkum nefna að Matthías líkir snjó við fjaðrir –engla, virðist mér! (Söngtöfrar11): ”iðar fyrir augum/ úði bjartur/ hvítt haustfiður/ himinbúa!”, einnig brimi (Sævættir) “öldur bláfalda,/ skutla skúmfjöðrum/ að skerja jöðrum” Grímur Thomsen líkir skipi við hval: “fleyin óðu á bægslum græði.” (ÞorbjörnK6).



Afstöðulíkingar eru óvæntari. Einkar undarlegt er t.d. að líkja tímanum við fjöll á fleygiferð, en væntanlega er þá tíminn skynjaður sem ofurþungt farg, enda þótt hann líði hratt; ”Flughröð tíða/ Fjöllin líða” (ST1Æskan). Einnig eru öldur kallaðar farg: ”hófu þeir í land/ líkið úr unnvarpa fargi” (GTViðútförShelleys).



Töluvert ber á líkingum við mannverur eða hluta þeirra, svo sem tár og blóð. Steingrímur líkir sólum við söngkór: ”samkviðum bjartra sólna her/ syngur þjótandi um eyru mér” (Nótt5) og brosi við svip syndar (Fyrr og nú). Hagsæld Íslands segir Matthías endurfædda í manni (MJIMinniAlbertsThorvaldsen4), en Steingrímur segir að hreystiþjóð hefi verið kreppt í kör (Súvartíðin). Matthías virðist eiga við fólk með “lífsins skuggamyndir” (Bragamál), en Bjarni kallar sólina skugga af andliti Jesú (Vers). Matthías líkir hinsvegar sólinni við andlit Jesú (Hallgr15), og virðast rittengsl líkleg. Matthías kallar kvæði sitt tár (TilÁsgBl11), en Benedikt kallar stjörnur tár tímans (Hugfró4), stírur blinduðu þjóðina á morgunroðann, segir Steingrímur (Súvartíðin 3).



Bjarni líkir hörmum við nornir sem ofsækja mann (SveinnP), og “skáld er kærleiks guð” segir Ólöf frá Hlöðum. (þj2ÓHlTilskálds2). Kunnuglegra er að kalla konu engil, en það er óvenju útfært hjá Jónasi (Égbiðaðheilsa): “engil með húfu og rauðan skúf, í peysu”. Þorsteinn Erlingsson gefur félagssálfræðilega skýringu á helvíti, sem margir trúðu á þá (Bókinmín5): ”hrægustur sá, sem þar Helvíti bálar,/ er hrygla og andremma kúgaðrar sálar.” Í sama kvæði segir: “þeir standa þar líka sem létu sitt blóð/ í lausnarsjóð frelsisins ganga”, og þar er sérkennilegt að láta blóð í sjóð. Undarlegra er “blóð var þitt brúðkaupsklæði”, sem Matthías segir við fornöld Íslands (Íslandogönnurlönd3). Matthías líkir andlegum hápunkti jarðlífs við eilíft líf: “Andans sigur er ævistundar/ eilífa lífið” (Bragarbót13), Steingrímur líkir sál manns við brautryðjanda sem heggur sér leið í gegnum frumskóg: “Djúpskygn og háleit svo þín sál/ Sér í myrkviðum braut nam ryðja” (Sveinbjörn6),



Ekki er ljóst hvort um persónugervingar eða líkingar við lífverur er að ræða í eftirfarandi dæmum blæleitinna: mótsagnalist birtist í jarðarför skugga, þar sem ljósið er gröf, Sigurður segir: „í geislum arin­glóða gref ég þar skugg­ann minn.“ (Kvöldsöngur 3), en Davíð: „Myrkrið er skuggi sólar, en sorgin gleðinnar“ (Vetrar­nóttin 12), og endurorðar þannig gamlan málshátt; ”oft koma mein eftir munúð”. Jónas Guð­laugs­son segir um stjörnurnar: „þær iða sem skjálf­andi hjarta“ (Nótt á haf­inu 2), og Einar Benediksson talar um aflið „frá lands­ins hjartarót,/ sem kviksett er í klettalegstað fljóts­ins“ (Dettifoss, 4). Hulda: „Ég heyri vors­ins hjarta slá/ í hverjum blóm­knapp jörðu á“ (Ó sæla sumartíð, 2). Mótsagna­kennd persónugerving hafsins hjá Ein­ari Benedikts­syni miðlar sérstæðri tilfinningu fyrir sólskini um miðnætti, hann notar goðsögnina gömlu um að sólin aki í vagni um himininn, en hafið virðist séð sem sundmaður: ”Það er sem hafið hvíli á sundi/ og himnavagninn standi kyrr” (Lágnættissól 1). Ennfremur hefur Ein­ar: „Ég hlusta á skógarins andar­drátt“ (Skógarilmur 1), en Smári talar lþannig um bæ: „Mó­reyk anda bæjar brenn­heit lungu“ (Hásumar 3),



Í óvenjulegum líkingum við lífverur ber einkar mikið á skordýrum hjá skáldum 19. aldar. Lengst gekk Sigurður Breiðfjörð með ljóði um dauða og upprisu flugu (-eða fugls? Hann talar um fiður og fjaðrir á flugunni! Ljóðasafn I, 52-4), en það kvæði er utan efniviðar þessarar könnunar. Bjarni Thorarensen hefur margbrotnar líkingar um dauðann sem hamskipti: Eins og Psyche flýgur úr lirfu ham mót sólu, þannig stígur sálin frá líki ”að varmageislum drottins fram” (Eins). Hann segir einnig að forlögin véli menn eins og fluga seiðist að eldi sem tortímir henni (ÍslensktFatis). Hjá Jónasi er frumleg niðrun að segja val hnita flug “eins og fiskifluga” en vissulega mun hreyfingin áþekk (Óhræsið4). Grímur hefur ýmsar líkingar í Kvæðaþjófurinn, m.a.:”Braga nöpur nálúsin/ níðist á skálda hræjum.”Einna óvenjulegust er líking Matthíasar: “Heimur, þú ert feiknar fíll/ flær á skrokki þínum/ allur þessi aldar-ríll/ er með börnum sínum.” (Veröldin1). Það rekur hann svo áfram með því hvernig fíllinn bregðist við ágengni flónna, þ.e. mannkynsins. Þess er að gæta, að þessar óvenjulegu líkingar eru í gamankvæði til skólabræðra skáldsins. Steingrímur líkir við gullvængjað fiðrildi bernsku (Tí,tí6) og draumi (Eftirsólarl2). Við einhvers­konar húsdýr líkir Stephan G. tíðarandanum, væntanlega sér hann fyrir sér mann á prjónandi hesti (Jón hrak8): “hann stefndi í átt til fjandans / á afturfótum tíðarandans”. Einnig líkir hann annríki dagsins við varðhund, en ljóðum sínum og hugsunum við fugla, og sjálfum sér við áburðarklár (Kveld 2): “Á kvöldin þegar ég orðinn er einn/ og af mér hef reiðingnum velt. [...] En lífsönnin dottandi í dyrnar er sest,/ sem daglengis vörður minn er/ og styggði upp léttfleygu ljóðin mín öll...”, en Kristján fjallaskáld líkir skýjum við hund (Stökur3): “myrk sig skýin hringa”. Jónas Hallgrímsson líkir trú við slitið skinn (frekar en hræ Dórilitli) ”sá sem rær og ristir þvengi/ af ræfli þeim, sem heitir trú/ japlar eins og ég og þú.” Sérkennilegt er einnig, að hann líkir tilfinningasljóleika eða ósjálfstæði við legg í beinakerlingu ”sem lestastrákar taka þar og skrifa/ og fylla, svo han finnur ei – af níði” (Svo rís...). Steingrímur segir um maurildi (Maurildi4): ”þau lyftu sínum ljósa kamb”.



Blæleitin skáld eru öllu hefðbundnari í því hverskonar lífverur er líkt við: M.a. birtast augu og tenn­ur í nátt­úr­unni: „Fossúðans þúsund augu glampa og glitra“ segir Smári (Fjallaslagur 2), en Jóhann Sigurjónsson ávarpar fósturjörðina: „þín kvöld­rauðu fjöll,/ þínar hvössu og blóðugu rándýrstennur,/ ógna mér þög­ul.“ (Gröf mín og vagga 5), og Jónas Guðlaugsson talar um myrkrið sem rándýr: „En nætur hel­myrkrið hremmir/ hvern hljóm“ (Í húminu 4). Sig­ur­jón er á svipuðum slóð­um með: „Biksvart loft við brámána gín“, enda fer þar þokan sem ”lævís læða” (Haust1), einnig sér hann um­hverfið sem drepinn fugl: „Svartir sem stork­ið blóð/ neðst eru hamrar í hlíðum/ sem helund vængs á slóð.“ (Veit ég 2), og enn sér­kenni­legra er að Smári líkir skýjum við hesta: „Nú hristir skýjastóðið blóðrautt fax“ (Hin víða1), en Einar Bene­dikts­son hefur slíka líkingu um öldur: „Titra, löðra bylgju­bringur, [...] Hreyta froðu hrannagin“ (Skýjafar7). Og Smári sér hvali á þurru landi: „Hey­garð­anna hækkar óðum bungu,/ sem hvalir reisi bök úr sléttum mari“ (Hásumar3).



Aðeins bregður fyrir líkingum við jurtir. Matthías líkir hefðum við illgresi: “Af allskonar óláns-arfi/ er auður á hverjum bæ,/ af arfi, sem tímgast sem arfi/ og etur hin bestu fræ”.(TilÁsgBl5). Krans er myndliður fyrir vinkvennahóp, og “Hjartablöð hnýtir/ heilladís foldar” (50Þj), þ. e. hnýtir blómkrans úr tilfinningum, líkt og tímanna safn hnýtir guði krans úr sólkerfum Ó guð). Matthías líkir og trú tvívegis við skurn, og virðist það vera að skilja sem vörn, frekar en yfirbragð: “Tók að bila trúar-skurn” (ÞorralokII,8), “hjartans þunna helgiskurn/ hvítur sýndi kirkju-turn” (Til sr Bjarnarj3).,



Guðný Jónsdóttir líkir vonum við fis eða kusk: “indælar vonir fjúka frá” (þj1GJEndurm7), en Hannes Hafstein líkir ljósi við einhverskonar fis (þj2HHNæturferð2): ” lausir glampar fleygjast til og frá/ og falla loks í dimma vakarglufu”.



Hjá blæleitnum er einna frægust líking Jóhanns Sig­ur­jóns­sonar að haustlitir á laufi séu „litmjúkar dauða­rósir“ (JónasHallgrímsson). Einar Bene­diktsson sagði um konu: „sinnan var stað­laus, sem svífandi blað/ sandhólmans visnuðu greinar. [...] Hún var ör eins og foksandsins bára“ (Ævintýr hirðingjans 20 og 19). Og við minn­umst Kven­lýsingar Davíðs: „Þinn líkami er fagur/sem laufguð björk,/ en sálin ægileg/ eyðimörk.“ Sigur­jón Friðjónsson líkir mannshuga hins­vegar við freðna jörð: „Og fyrst þegar hlýnar þín helfreðna lund/ fyrir hækk­andi sól“ (Ef ungan 2),



Við hluti eru stundum sérkennilegar líkingar, og voru áður raktar líkingar við húsnæði. Grímur líkir minningum við íbúð; “maklegan í minningunni/ mörgum bjó hann samastað” (DaðiN3). Grímur talar um að fornöldin gæti orðið að ískjallara fyrir leifar sem þjóðin láti sér nægja (Langloka), en lás er ís (á hafi, MJI*DrJónHj1), einnig stjórnarskráin (GTTil Bergs2), ”Birtir í hjartakró” segir Grímur (Fiðlarinn). Þá eru líkingar við húsmuni, og heimsku er líkt við gluggatjöld eða eitthvað ámóta lokandi sýn (“horfin öld, heimskunnar skuggatjöld” MJITímamót3,2). En gluggi opnar sýn inn í framhaldslífið: “Sé eg rof/ á svörtu skýi/ og stjörnu staka/ standa í rofi,/ eins og dag/ eilífðar sjái/ glugga gegn/ um grafar skína.” (BTJón11). Líkt er við rekkju og er sólin hvíla sálar: “Sofnaðu, sál mín!/ svefni vakanda/ á eyglóar ómandi/ undurhvílu!”-BG2Löngun8). Grímur Thomsen líkir herfána við dánarbeð: “breidd sé Sigurflugu sængin” (Sverrir4). Um fyrrgreinda fíls- og flóalíkingu sína segir Matthías í tv. kvæði: “það er sárkalt sálar hrím/ á sannleiks hurðarbaki.” Er átt við að illa gefist að loka hurð að sannleikanum? Enn einkennilegri er önnur hurðalíking hans, og vaknar grunur um að þar láti hann rímið ráða för. Sjálfsagt hefur hann einhverntíma séð tilkomumiklar kirkjuhurðir, en samanburðurinn er skemmtilega út í hött: “Upp af karli ægja stórir yfirburðir -/ líkt og kúptar kirkjuhurðir” (Sjáið þið2). Hroka er líkt við stiga, en það dugir ekki “til hins háa í list” (ST2Listarnám). Vöndur er myndliður fyrir segul­­sveipi hjá Benedikt “heimsásinn snýst þar hjörum á, hverfast um geiminn segulvendir” (BG1Tólf álna46).



Einnig hjá blæleitnum er líkt við innanstokksmuni, t.d. er hafinu líkt við rekkju, sem áður segir og „húm­ið læðist hægt úr hafsins mjúku dýnum yfir fold“ (Smári: Sólin er1), einnig er snjó líkt við rekkju (rjúpu) hjá Huldu (Heim2).



Fleiri undarlegar líkingar eru við hluti, t.d. klæðnað; þ.á m. tal um vefi ljósa og sálar, Matthías segir að Danmörk sé “fléttað af sólhýrum sundum,/ saumað með blómstrandi lundum” (Minni Danm), en Ísland er “fóðrað með logandi kaunum “ (Níðkv.Ísl5), einnig segir hann að alda faldi feigum höfðum drukknandi manna (Mannskaðinn1884), en breiðir bogar sólkerfa eru hjúpur örlaganornar hjá Benedkt (Hugfró). Sigurður hefur: „Nú liðast yfir Múlann mán­ans lín.“ (Lágnætti3).



Jónas Hallgrímsson líkti skorti á lífsnautn við draumsvefn, en manni við nátthúfu: “svartrar svefnhettu/ síruglað mók” (SrStefán3). Það er auðvitað tilbrigði við að tala um lífið sem draum. Skondið er að sjá þessu snúið við, og draumum líkt við verk: “Þú stendur enn og stöðugt ert/ í stímabraki drauma”, segir Benedikt við Ísland, og á þá við framfarasókn (Minni Ísl-98,1). Jónas segir hafið draga blæju dimmra drauma yfir bæ lúins bónda (Magnúsarkv2) og segir að drukknaður maður varpi marblæju af herðum (Hulduljóð), og öldur hjúpa mann hjá Grími (Ólund2). Benedikt tekur það upp að líkja draumum við blæju (Bæn3), Steingrímur hefur þá líkingu um svefn í sambandi við drauma (Draumsjón), en Grímur líkir jökli við mítur biskups (Á fjallabaki10-11). Hökull er myndliður um ís hjá Matthíasi “forn fjallkona/ faldin íshökli” (Ávarp Íslands1). og hraun á fjöllum; “vestur hefja hökla/ hraunótt Mývatnsfjöll” (Jökulsá), en Júlíana líkir eld­hraun­um við brjóstadúk Íslands (þjJúlÍsland2), köld brjóst Ránar huldi brúðarlín”, þ.e. “ístjöld hjá Matthísi (Til sr.Bjarnar), en dauðanum líkir Matthías einnig við brúðarlín, sem huldi augu konu (Jóhanna Kúld). Grímur talar um fannakögur (Ísland1), Steingrímur kallar frjóskrúð aldingreina reifar (Sumar á4), og byggist þá líkingin á því að hvorttveggja hjúpar nývaknað líf. Líkami er hjúpur sálar hjá Bjarna (Rannveig1), en lífsins serkur er ofinn úr dauðanum hjá Matthíasi (Nýárkv Þj3), hafið hjúpar Ísland, “móðir situr vor/ sveipuð brúsandi Atlantshafi” (þj1BóHjáÍsl fagn4). Matthías líkir ljósum við vef, og á það best við norðurljós (Söngtöfrar5). Helst er að sjá það sem líkingu við skartgrip að kalla hafið “bláa storðar hringa” (þj1BóluJjÍsl fagn9). Ís og ljós eru kölluð kóróna Íslands (þj1BóluJjÍsl fagn8), en Kelduhverfi krýnir Axarfjörð hjá Matthíasi (FerðavísurI1).



Hjá blæleitnum er þetta helst; Stefán talar um sólskin sem gullvoðir húsgagna (Seytjándi maí). Sigurjón segir “í gulli liggur hin græna sveit” (Í aðsigi1), og Jóhann Sigurjónsson segir tár og svita mannkyns ”sem silfur glitra” (Andvökudraumur). Davíð líkir mannshuga við málmhlut: „þá lifi þeir dauðir - and­lega tærðir“ (Gullleitar­maðurinn9). Ósjaldan er líkt við skart, t.d. af Einari Benediktssyni: „Í austri rís sveigur af eld­skreytt­um hæðum, sem ennisspöng yfir Vatnsins brá“ (Í Slútnesi2), og himninum líkir hann við hjálm, en stjarn­a er gimsteinn á honum (Stjarnan 3). Hann líkir einnig frum­hug­mynd við skartgrip: „Perlan ódauðlega í hugans hafi hefjast skal af rúst­um þjóða og landa“ (Kvöld í Róm11). ”Sóldjásn á vesturvogum skín” er hjá Smára (Hillingar).



Einhverskonar trjágripur er það sem Grímur segir guð telgja hjörtu manna í (Strandakirkja9), og í sama kvæði talar hann um að vindar flétti reipi úr sandi til að binda kirkjuna niður. Það er auðvitað skynlíking, vindrákir á sandi geta líkst fléttum, en jafnframt er þetta tilvitnun í galdra­sögur frá staðinum, þar sem púkum var fengið það vonlausa verkefni að flétta reipi úr sandinum (sbr. Íslenskar Þjóðsögur I, 546 o.v.). Net er myndliður fyrir rifrildi hjá Jónasi, fangar fólk (Galdraveiðin), en Sigurður Breiðfjörð talar um það að ná presttign sem fuglaveiðar, “að veiða dökkva kjólinn” (þj1SBTrú2). Matthías segir Albert Thorvaldsen hafa sorfið mannsins sál úr steini (Á hátíð). Frægð kallar hann líka fægðan hlut:” Saga skal segja/ síðustu tíðum/ frægð þína fægða” (FagnaðarkvtJS19). Sérkennileg heyrn­mynd var áður nefnd, að Grímur líkti seið við vatnsólgu: “heyri ég sjóða og svarra/ seiðinn í hjallinum” (Fiðlarinn5). En Benedikt Gröndal líkir lyfi í senn við brim og klukku: “þessir hoffmanns­dropar/ sem holskeflur drynja við sögunnar hamra/ og drynja og hringja sem klukka úr kopar” (Til Þorst29), einna frumlegast er að Grímur líkir tónlist við hregg (Fiðlarinn3). Steingrímur líkir henni við regn; “Tónaregn þitt táramjúkt” (Sönglistin1).



Frekar en sjá þetta sem líkingu við skartgrip tel ég að við slíður sé hug líkt, en orðstír við vopn hjá Grími, “á bjartan orðstír aldrei fellur,/ umgjörðin er góðra drengja hjörtu”- HemingsþII,1). Vagn er myndliður fyrir norðurljós og sólskin hjá Bjarna (Íslands riddari6 og Sólaruppkoma1), fyrir ljós hjá Benedikt (Hugsun2). Við skip líkir Bólu-Hjálmar hesti; “Dró ég mig á beisla bát” (Þj1BóHjáFerðalagið). Það er umsnúningur á þeirri fornu kenningu, að kalla skip hest víkings. Segl er myndliður fyrir væng í skynlíkingu Steingríms, “með vængseglin þönd” (Svölur5), “Fóta gat ei framróið árum” kvað Jónas í skopstælingu um tímaritið Sunnanpóstinn (Pósturinn er), og Matthías tekur þessa líkingu upp í öðru gamankvæði (Fálkaslagur).



Hjá blæleitnum eru sérkennilegar líkingar við veg og farartæki. Stefán biður vorið „dagliljum varpa/ á dauð­ans stíg“ (Nú líður8), Smári segir um stjörnur: „Ómælisvegu leggja úr logabáli“ (Brot3), en um stjörnur segir Jónas Guðlaugsson: „þær líða sjálfar sem hafskip himins/ um húmdjúp geimsins með blys í stafni“ (Sigl­ingII,5). Smári talar um nóttina sem skip: „Við særönd hverfur skugga­nökkvi njólu/ í norðurátt“ (Morgunn á hafinu1), en Einar Benediktsson kallar jörðina skip: „sökkvi jarðarknörr í myrkva marinn“ (Kvöld í Róm11). Jó­hann Sigurjónsson talar um lífið sem hestvagna á hraðri ferð, og það er tilbrigði við hefð­bund­na ferðalagslíkingu um lífið, en hitt ekki, að þar séu menn með­höndl­aðir einsog vagnhestar af vitstola konum. (Sorg3, sjá nánar bók mína Kóral­for­spil hafsins, bls. 284). Því tengist að Jóhann Gunnar talar um lög sem beisli: „gadd­setta laga­tauma“ (Til Bene­dikts9).



Við tafl er líkt þegar dauði og uppgjöf er kallað mát. Þetta er hjá þremur mismunandi skáldum, Bólu Hjálmari (þjBóHjáFerðalagið), Grími (Á fæðingard4) og Þorsteini Erlingssyni (þj2ÞErlÖrlög guð30). Skrítin er matreiðslulíking Matthíasar um ákall til guðs; “líkt sem út úr ofni æpi stiknað hjarta” (Guð ég hrópa1).



Við bók líkir Matthías ást “mín ástarbók er forsigluð” “ (Don Juan1), en hann líkir einnig hafi og landi við biblíu, letraða með gullstöfum, þ.e. sólskini, enda á allt þetta að vera gert af guði: “Eins og heilög guðs ritning lá hauður og sær,/ allt var himnesku/ gullletri skráð Leiðsla6). Matthías segir líka sitt “sálarskrín sett með slitnu letri” (Með ljóðabók minni). Andstætt þessu líkir hann kvæðasafni við fljót (væntanlega): ”Óð hann Byron milli spjalda” (Kraftakvæði8). “Undarleg tákn á tímans bárum” hefur Benedikt um hug sinn og halastjörnu (Halastjarnan7). Lífið kallar hann “undar­legt sambland” andstæðra tilfinninga og líkir því við aurugt sund: “best mun að synda í snatri/ um sauruga pollinn” (Lífið2). Kunningi minn, guðfræð­ingur[22] taldi þetta byggjast á ritningarstað (3. versi í 40. sálmi Davíðs), sem hér skal tilfærður eftir Viðeyjarbiblíu, 1841, sem faðir Benedikts, Sveinbjörn Egilsson þýddi að mestu[23]: ”Og hann dró mig upp úr þeirri háskalegu gröf, þeirri feigu bleytu, og hann setti mína fætur á fastan klett, og styrkti minn gang.” Orðalagslíkingar eru ekki, og ekki verulegar efnislíkingar heldur, svo hvorki verður sýnt fram á það né hrakið, að Benedikt hafi haft þennan ritningarstað í huga. Þar sem ekki er hér talað um sund, sýnist mér eðlilegra að sjá þessa líkingu Benedikts sem tilbrigði við að líkja lífinu við (háskalega, erfiða) siglingu.



Hér birtist mikil fjölbreytni í því hverju er líkt við hvað. Svo rifjuð séu upp fáein atriði, þá er draumum bæði líkt við öldur, fugla og við aðr­ar lífverur; himni er bæði líkt við bikar, hjálm, kirkju og hafdjúp; myrkri er líkt við blóð, fljót, hjúp og rándýr; snjó er líkt við eld, rekkju og höll; stjörnum við skip, skart, hjarta, vakir og eld; en hafsöldum við fugla, hesta og rekkju. Oft ræðst þetta vitaskuld af samhengi innan ljóðs, en þetta sýnir þó frumleika skáld­anna. Venju­legur fyr­ir­vari um takmarkaðan efnivið og ekki með öllu sambærilegan, breytir því ekki, að greini­lega er mikill munur á skáldunum í þessu. Sé tala þessara óvenjulegu líkinga metin í hlutfalli við umfang ljóðasafnsins (í þúsundum textaeininga) yfirgnæfir Matthías á fyrra skeiði, en þjóðskáldasafnið hefur næstum eins mikið af slíkum líkingum. og Grímur hefur litlu minna. Bjarni nálgast það, síðan koma Jónas og Matthías á seinna skeiði. loks Steingrímur á fyrra skeiði, hann er þó aðeins hálfdrættingur á við Matthias þá. Tíðnin er enn meiri hjá Jóhanni Sigurjónssyni, en Einar Benediktsson er með þriðjung þessara óvenju­legu líkinga af blæleitnum, Jónas Guð­laugs­son er næstur[24], þá Smári, en hin skáldin eru aðeins með 2-5 dæmi hvert, þau Sigurður, Jóhann Gunnar, Hulda, Stefán og Davíð, en ekkert var hér eftir Tómas.



Michael Haley segir (bls. 161) að afstöðulíkingar orki sterkar á ímynd­unaraflið en hreinar myndlíkingar, vegna þess að samsvörun liðanna sé minni[25]. Þetta sýnist mér þó ekki standast þegar t.d. sértak er kenniliður, sett fram í megindráttum, s.s. hjá Stefáni: „Viltu ekki löngun leiða/ litla barnið þér við hönd?“. En mér virðist þetta rétt athugað, þegar myndlið er mynd­rænt lýst. Þannig orka t.d. eftirfarandi líkingar Jónasar Guð­laugs­son­ar og Sig­urðar um sálarhaf sterkar á ímyndunaraflið en heygaltar sem líkjast hvöl­um og skýluklútar heyvinnukvenna sem líkjast fuglum hjá Smára, eða borð­dúkar sem líkjast fuglum hjá Einari Benediktssyni. Sbr. hjá Jónasi Guðlaugssyni (Ástogdauði2): „Minn hugur er sem djúp­ið er hinstu geislar ljóma [...] á tungl­skins­hvítu fleyi um öldur dimmra óma/ þau ást og dauði líða um minning­anna höf“, og hjá Sigurði Sigurðs­syni: „En hug­ar­snekkjan hefur ætíð byr á haf þess liðna - en seglin smærri og smærri“ (Lágnætti 4), enn sterkar birt­ist þetta í fyrrtöldum dæmum í Sorg Jóhanns Sigur­jónssonar. Ég held að skýringin sé sú, að slíkar líkingar séu of ”götóttar” til að verða fylli­lega skildar röklega, jafnframt því sem þær eru mynd­rænar; þeim mun sterkar höfða þær til ímyndunaraflsins. Þaðan er ekki langt yfir í mót­sagnaþrungnar líkingar módernista svo sem Halldórs Laxness (sbr. Kóralforspil hafsins, bls. 71 o. áfr.). Hér er ekki rúm til að rekja þetta nánar, en lesendur geta farið í gegnum skrár líkinga þessara kvæðasafna á vefsetri mínu (www.oernolafs.dk).






5. 16. Yfirlit myndhvarfa



Fyrirferð þeirra samanlagt er rúmlega tíundi hluti textans þegar mest er, hjá Bjarna, Jónasi og Steingrími. Í öðrum kvæðasöfnum 19. aldar er þetta hálfu minna (fjórtándi til tuttugasti hluti texta). Hjá blæleitnum voru teknar líkingar úr 33 kvæðum hvers, svo það safn er ekki með öllu sambærilegt. En einnig þar er mikill munur á fjölda líkinga. Jónas Guðlaugsson hefur mest (2/15), en síðan koma, Smári, Einar Benediktsson, Hulda og Davíð með hvert um sig nær sjöunda hluta líkinga, Stefán er í meðaltali, en Jóhannarnir tveir hafa hálfu minna en fyrrtalin.



Persónugervingar eru áberandi, um fjórðungur líkingasafnsins í heild á 19. öld, en nær helmingur hjá blæleitnum. En þær fara upp í tvo fimmtu líkninga hjá Jónasi og Steingrími og upp í tvo þriðju hjá sumum blæleitnum skáldum (Sigurjóni Friðjónssyni og Huldu). Þetta setur sterkan svip á kvæðin, náttúran verður mannleg.



Mest ber á fyribærum himins og jarðar, fjórðungur hvort, en lögur er rúmlega sjötta hver persónugerving, sértök litlu færri. Miklu minna er um gróður, afurðir og lífverur.



Athæfi persónugervinga er á báðum skeiðum í meira en helmingi tilvika blíðlegt eða jákvætt á einhvern hátt; en neikvætt og hlutlaust er fjórðungur hvort. Neikvætt atferli er langt undir meðal­tíðni hjá Jónasi, og þó einkum hjá Benedikt og Steingrími



Í öðrum líkingum er meira um myndliði en kenniliði, hlutfallið er ¾ á 19. öld, en 4/5 hjá blæleitnum.



Á báðum skeiðum er mest um afstöðulíkingar, einungis fimmtungur líkinganna byggist á skynjun, langoftast á sjón á 19. öld, en hjá blæleitnum er aftur fimmtungur skynlíkinga við aðra skynjun, einkum þá heyrn.



Sértök koma auðvitað ekki fyrir í skynlíkingum, en eru nær helmingur kenniliða afstöðulíkinga. Orð um fólk er fjórðungur, en orð um hluti og himin eru hvort um tíundi hluti kenniliða afstöðulíkinga. Annað er hverfandi. Í skynlíkingum eru himnesk fyrirbæri nær helmingur kenniliða, orð um fólk nær fimmtungur, en um jarðnesk fyrirbæri rúmur sjöttungur, loks eru á, haf, alda o.þ.h. tíundi hluti. Algengustu sértök í kenniliðum eru: dauðí, líf, mæða, ævi, tími.



Myndliðir eru bæði í skynlíkingum og afstöðulíkingum á báðum skeiðum einkum manngerð fyrirbæri Þau eru 2/5 myndliða 19. aldar, en þriðjungur blæleitinna. Næst ganga himnesk, tæpur fimmtungur á 19 öld en miklu færri hjá blæleitnum (tutugasti hluti), en á 19. öld eru orð um lagarfyrirbæri áttundi hluti myndliða, lífverur tæplega tíundi hluti, eins og gróður, en jarðnesk fyrirbæri hálfu fátíðari, eins og orð um fólk og líkamshluta Algengustu myndliðir eru: haf, alda, fljót, en manngert: salur, klæði og vegur. Ennfremur má telja: fugl, blóm, tré, ljós, eld og sól. Mismunandi er hjá blæleitnum skáldum hvaða myndliðir aðrir eru algengastir.



Meginstraumurinn er að færa sértök inn í nánasta umhverfi fólks, tala um þau sem flíkur, afurðir og tæki. Hugur er hljóðfæri; dauði og sorg eru hjúpur. Annað er meira á reiki, en sértökum um breytingar er líkt við straum, mannlífi er líkt við ýmiskonar auðn eða hjarn. Karlmönnum er líkt við tré, fugla, ljós eða blóm, en konum er einkum líkt við blóm eða sól. Tilfinningum er líkt við eld eða gróðurreit, ást er líkt við eld, en dauða við myrkur, einnig við dyr, haf, sólarlag og svefn, en lífinu við dag og draum, öldur og haf, fljót og ferð. Mæðu og sorg er líkt við öldur, vind og ský, ævinni við dag, ársins hring og siglingu, tímanum við fljót, straum, haf og hjól. Himni er líkt við sal, gjarnan tjaldaðan, einnig við höll og veg. Sólskini er einkum líkt við gull eða hjúp.



Allt er þetta mjög kunnuglegt, og þótt skáldin bregði fyrir sig nýjustu tækni og vísindum í líkingum, einkum í lok 19. aldar (og mest Matthías), og séu stundum mjög frumleg flest, þá er ljóst að þau hafa lagt meira upp úr öðru, nefnilega að ná til lesenda með kunnuglegu myndmáli. Segja má að um þriðjungur afstöðulíkinga 19. aldar sé tilbrigði við líkingar daglegs máls, en aðeins sjöundi hluti skynlíkinga þá. Hjá blæleitnum taldist fimmtungur líkingasafnsins af þessu hversdagstagi. en einnig hér er skáldamunur. Bjarni hefur langmest af þessu tagi (3/4 afstöðulíkinga), hjá Benedikt á fyrra skeiði töldust 2/5. Hjá Stefáni frá Hvítadal og Davíð var rúmur helmiongur líkingasafnsins af þessu hversdagstagi, en afar lítið hjá Einari Benediktssyni, Sigur­jóni Frið­jónssyni Sigurði Jóhanni Sigurjónssyni og Huldu. Andstætt skáldum 19. aldar forðast blæleitin skáld líkingar við nyja tækni og vísindi.



Það mætti vekja efasemdir um frumleika skáldanna sem hér er um fjallað, þegar litið er á kaflann um endurteknar líkingar, hversu mjög þau tóku líkingar hvert frá öðru, sérkennilegar , ekki síður en algengar. En í rauninni sést af þeim dæmum að þau lögðu mikla vinnu og hugvit í að umskapa þessar líkingar. Einkum eru það Bjarni, Benedikt og Einar Bene­dikts­son sem margnota sömu mynd með tilbrigðum, stundum fengna frá fyrri skáldum Ýmis önnur skáld okk­ar sækja þær svo til þeirra. En þetta sýnir einkum samfellu, blæleitin skáld voru sannarlega ekki í uppreisn gegn fyrirrennurum sínum. Kaflinn um nýstárlíkingar sýnir enn frek­ar þessa sköpunargáfu - og þá tvískiptingu blæleitinna skálda­ sem kem­ur víðar fram.















[1]Þorsteinn talar í upphafi greinar sinnar um hina frægu einræðu Hamlets sem hefst á orðunum (í þýðingu Helga Hálfdanarsonar):



„Að vera, eða’ ekki vera, þarna er efinn,



hvort betur sæmi að þreyja þolinmóður



í grimmu éli af örvum ógæfunnar,



eða vopn grípa móti bölsins brimi



og knýja það til kyrrðar.“



Þorsteinn segir um fjórðu línuna (bls. 141-2): „Einhverjum kann að sýnast línan nykruð, því að hún teflir saman vopnaburði og sjávargangi. En þetta væri fljótræði. það er vel hugsanlegt að Shakespeare sé hér að vísa til gamalla sagna um hernað gegn hafinu.“ - Ég verð enn að segja sama og ég sagði í umræðum eftir að Þorsteinn sagði þetta í erindi í Osló, haustið 1994; þetta er áhrifamikil einræða, m.a. vegna þess að þetta er líking, og hún er nykruð („take up arms against a sea of troubles“). Það má sannreyna með þeirri einföldu tilraun að setja hernaðarorð í stað sjávargangs, svo líkingin haldist, og orðalagið verði t.d. „ vopn grípa móti bölsins liði“, eða „móti bölsins her“. Þá myndi mörgum áheyrendum bara þykja Hamlet heldur lítill kall að vera að velta því fyrir sér, hvort hann ætti að láta allt yfir sig ganga, eða grípa til vopna. Einkum er hætt við að 16. aldar áheyrendum hefði þótt slíkar vangaveltur öldungis ósæmandi prinsi, og misst allan áhuga á Hamlet. En gegn bölsins brimi (a sea of trouble) er ekki til neins að grípa til vopna, það dytti engum í hug að gera nema hann væri orðinn sturlaður af atvinnusjúkdómi einræðisherra, eins og þeir Xerxes og arabíski hershöfðinginn, sem Þorsteinn vitnar til. Hvað felst þá í hugleiðingum Hamlets? Það sést bæði af upphafsorðum þessarar einræðu, og af framhaldinu, sem allt fjallar um dauðann, sem Hamlet má telja sér vísan, rísi hann gegn „örvum ógæfunnar“, og drepi konunginn. Þetta er ræða um sjálfsmorð, eins og Þorsteinn réttilega segir.





[2]Miller segir (bls. 220): ”Whereas a comparison statement expresses a resemblance, a metaphor merely calls attention to it [...222:] Similes are less interesting than metaphors only in that the terms of the similitudes are explicit and require less work from a reader. As far as interpretation is concerned, it is important to recognize that similes can pose all the apperceptive problems that metaphors can. [en bls. 225] my love is like a red rose [...] The reader is then free to consider such alternative properties as „beautiful“, „thorny“ or (closer to what the author probably had in mind) „affects me“





[3] Þetta er í 6, I, bls. 742-3 (“erindi” (strophe) 53): um piltinn Mervyn, síðast í runu annarlegra (og illþýðanlegra!) líkinga: “Beau [...] comme la rencontre fortuite sur une table de dissection d’une machine ´a coudre et une parapluie).







[4] “Plus les rapports des deux réalités raprochées seront lointains et justes, plus l’image sera forte – plus elle aura de puissance émotive et de réalité poétique.” Cette condition, absolument nécessaire, ne saurait toutefois etre tenue pour suffisante. Une autre exigence, qui, en dernière analyse, pourrait bien être d’ordre éthique, se fait place á côté d’elle. Qu’on y prenne garde: l’image analogique, dans la mesure ou elle se borne a éclairer, de la plus vive lumière, des similutudes partielles, ne saurait se traduire en termes d’équation. Elle se meut, entre les deux réalités en présence, dans un sens déterminé, qu n’est aucunement reversible. De la première de ces réalités à la seconde, elle marque une tension vitale tournée vers la santé, le plaisir, la quiétude, la grace rendue, les usages consentis. Elle a pour ennemis mortels le dépréciatif et le dépressif. – S’il n’existe plus de mots nobles, en revanche les faux poètes n’évitent pas de se signaler par des rapprochements ignobles, dont le type accompli est ce “Guitare bidet qui chante” d’un auteur abondant, du reste, en ces sortes de trouvailles.







[5]það mundi hann ekki í samtali við mig í október 1998. Umrædd rit bandaríska rökfræðingsins (m.a.) Peirce (1839-1914) birtust 1932 í Collected Papers 2, t.d. grein 227.





[6] í Hovedstrømninger, Naturalismen i England, SS V, 322.





[7] Kvæði Wordsworth heitir “Resolution and Independence, og þessi hluti (viii-x) hljóðar svo (bls. 196),



Beside a pool, bare to the eye of heaven



I saw a Man before me unawares,



The oldest Man he seemed that ever wore grey hairs.



ix



As a huge stone is sometimes seen to lie



Couched on the bald top of an eminence,



Wonder to all who do the same espy,



By what means it could thither come, and whence;



So that it seems a thing endued with sense;



Like a sea-beast crawled forth, that on a shelf



Of rock or sand reposeth, there to sun itself;



X



Such seemed this Man, not all alive nor dead,



Nor all asleep – in his extreme old age.





[8] 2/5 kenniliða og myndliða skynlíkinga voru sameiginlegir þessum liðum í afstöðulíkingum. (191 mismunandi kenniliðir gegn 242 mismunandi myndliðum).







[9] Sjá hér á eftir drykki hljóms og ilms.





[10] Þetta er þýðing Helga Hálfdanarsonar, Leikrit Sakespeares, IV, bls. 430. Góðar eru líka þýðingar Matthíasar Jochumssonar og Sverris Hólmarssonar, en á ensku hljómar þetta svo (bls. 1024 n.t.h.):





She should have died hereafter<



There would have been a time for such a word.



To-morrow, and to-morrow, and to-morrow,



Creeps in this petty pace from day to day



To the last syllable of recorded time.



And all our yesterdays have lighted fools



The way to dusty death. Out, out, brief candle!



Life’s but a walking shadow, a poor player



That struts and frets his hour upon the stage



And then is heard no more; it is a tale



Told by an idiot, full of sound and fury



Signifying nothing.



Danska ljóðskáldið Per Aage Brandt benti á áhrif þessara sundurleitu líkinga í erindi á ráðstefnu um líkingar í Kaupmannahöfn vorið 1999. Því miður hefur það víst ekki birst.





[11] Fjórð­ung­ur persónu­gerv­inga Davíðs er um himin og ljós, það er aftur nær þriðjungur hjá Tóm­asi.





[12] m.a. manni, konu. skáldi, sál, hug, hugmynd og tilfinningum, sorg, og svefni, dauða og framhaldslífi, ári, tíma, vindi, sól, kvæði, nótt, skipi, Íslandi, tónlist, óhróðri, rafmagni og söng





[13] kenniliðir eru dagsbrún, dyggð, fólk, gæfa, hugur, koss, kvæði, minning, mæða, orð, rit, sál, sól, tilfinning, trú, tunglskin, tungumál, vor, æska.





[14] Það er sögn um Dauðahafið, að í grennd þess verði ávextir að ösku.





[15] tími, líf, dauði og feigð, heimur, geimur, ást, tilfinning og draumur, efi, sannleikur, sál, eilífð, guð, ævi, örlög.





[16] Áður var hér sagt, að tal um vor í kvæðunum væri til að tákna framfarir, en það er þá tákn, en sjaldan líkingar.





[17] ást og frelsi, frægð, menntun, sannleik og sál, samvisku, trausti, sögu, minning, list, fegurð.





[18] mæðu, æsing og dauða, ást, ámæli, freisting, frétt, gæfu, náð, rifrildi, sorg, ævi.





[19] einnig hug og reiði, guði, hugsjón, kúgun, kvöl, lífi, ljósi, tungumáli, réttsýni og örlögum.





[20] ást, dyggð, góðverk, deyfð, gæfu og gæfuleysi, glæfraráð og valdníðslu, líðandi stund, elli, vetur, örlög.





[21]Leiðrétt í Eddu hans, bls. 20: "kvæðið er ort í nóvember 1911."





[22] Prófessor dr. theol. Knud Ottesen við Álaborgarháskóla, í samtali vorið 2002. Hann sagði að þetta væri algeng áletrun á legsteinum Heimatrúboðsmanna, til að s‡na að þeir væru “endurfæddir”.





[23] Sbr. Steingrím J. þorsteinsson: Íslenskar Biblíuþ‡ðingar, bls. 29.





[24] Frumleiki Jónasar Guðlaugssonar kemur betur fram í kaflanum um hann. Annars er Matthías á fyrra skeiði með 23 dæmi (13%), Grímur með 19 (10%), o.s.fv. Einar Ben með ámóta hlutfall, 13 dæmi. En 4 dæmi hjá Jóhanni Sigurjónssyni gera 15%, þetta eru auðvitað ekki nákvæmar mælingar.





[25]Analogical metaphors, because of their strong icon-to-object asymmetry, have a powerful indexical component (semantic tension); they thus engage the mind more actively, suggesting more imaginative possibilities, than do most purely imaginal metaphors.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar