mandag den 13. juni 2011

Rauðu pennarnir1



Örn Ólafsson





Rauðu pennarnir


Bókmenntahreyfing á 2. fjórðungi 20 aldar.















Mál og menning


Reykjavík 1990





Formáli


Í umræðum um íslenskar samtímabókmenntir hefur lengi stafað miklum ljóma af bókmenntum 4. áratugsins, en Þó einkum af bókmenntum sem ætlað var að fá les­endur til að aðhyllast sósíalisma. Þessi ljómi er auðskilinn, Þó ekki væri nema vegna Þess, að frægasti höfundur landsins, Halldór Laxness, skrifaði bókmenntir Þrungnar sósíalískri samfélagsgagnrýni, og auk Þess sum virtustu skáld okkar tíma. †msar skoðanir hafa komið fram um Þennan bókmenntastraum. Sumir hafa talað um hann sem meira eða minna sjálfsprottna hreyfingu tíðarandans, en aðrir sem einskonar samsæri, jafnvel skipulagt erlendis frá. Um hvorttveggja mætti hafa orðið hreyfing, og Það verður hér notað. Í endurminningum helsta leiðtoga hreyfingarinnar, Kristins E. Andréssonar, Enginn er eyland 1971, var sagt frá helstu framkvæmdum hennar, m.a. félagi byltingarsinnaðra rithöfunda, bókaforlögum Þeirra og tímaritum. Margt er Þar mjög fróðlegt, en Þó fannst mér einkennilega erfitt að grípa á samhengi hreyfingarnnar, og ýmislegt loðið og óljóst um stefnumið hennar og aðferðir. Auðvitað hafði hún starfað opinberlega, og stefnan verið boðuð opinberlega. En mér sýndist hún hafa verið endurtúlkuð, hvað eftir annað, án Þess að gert væri upp við fyrri afstöðu, og Því væri stefnan óljós. Hreyfingin er hér kennd við sérkennilegustu afurð sína, ársritið Rauða penna, sem birtist á árunum 1935–38. En sjálf hófst hún áratug fyrr, og stóð lengur, starfstími hennar var annar fjórðungur Þessarar aldar.


Mig langaði til að skrá sögu Þessarar hreyfingar af nokkurri nákvæmni, reyna að átta mig á Því hver var stefna hennar og framkvæmdir á ýmsum tímum, og hvernig hún greindist frá íslensku umhverfi sínu. Hvar lágu upptök hennar í Þeim sundur­leitu straumum sem kenndu sig við marxisma og sósíalisma, hver urðu endalok hreyfingarinnar og hversvegna lagðist hún af? Til Þess að svara Þessum spurningum reyndi ég að komast í gegnum sem mest af yfirlýsingum, ritdómum og öðrum text­um eftir fylgismenn hreyfingarinnar og andstæðinga hennar. Þýddar greinar í ís­lenskum tímaritum voru teknar með, Því Þær eru að sjálfsögðu ekki síður liður í stefnumótun innanlands en frumsamdar greinar. Einnig leitaðist ég við að gera mér sem besta mynd af Því, hvaða bókmenntastefnu mest bar á meðal sósíalista erlendis. Fyrsti kafli ritsins, um marxíska fagurfræði, er Þá yfirlit um forsendur stefnu Rauðpennunga, en fer Þó víðar, Því Þeir gátu ekki Þekkt nærri allt sem nú er vitað um Þetta efni. Þetta yfirlit á Því jafnframt að gera lesendum kleyft að sjá stöðu Þessarar íslensku hreyfingar innan marxismans, og ennfremur á kaflinn að gera les­endum kleyft að yfirstíga Þeirrar tíðar takmarkanir og öðlast sjálfstæði gagnvart efn­inu. Mér Þykir Þó líklegt, að margir Þeir sem meiri áhuga hafa á íslenskum aðstæðum en alÞjóðlegum, vilji byrja lestur ritsins á 2. kafla, en fletta upp í 1. kafla eftir hentugleikum, við millivísanir. Og Þeir sem fyrst og fremst vilja öðlast nokkra yfirsýn um efnið, ættu að byrja á Því að lesa samantektir í lok hvers meginkafla, en afráða síðan eftir efnisyfirliti hvað Þeir vilja lesa meira. Blæbrigðaríkari mynd og prófanlega fá menn væntanlega við að lesa ritið frá upphafi til enda.


Annar kafli er inngangur um aðstæður hérlendis framan af öldinni, Þjóðfélagslega og menningarlega. Þessi kafli er að verulegu leyti samantekt á niðurstöðum annarra, Þetta er innlendur bakgrunnur viðfangsefnis míns, og Þótti óÞarfi að vísa kirfilega til hans um hvert atriði sem tengdist honum síðar.


Þriðji kafli rekur sögu hreyfingarinnar fyrsta áratuginn. Stöðvast er við árið 1935 af Þeim ástæðum; 1) að Þá er hreyfingin komin á fastan grundvöll með samhentu rithöfundafélagi, bókaútgáfu og Þremur mismunandi tímaritum, 2) að forystumenn hreyfingarinnar telja að Það ár verði stefna hennar ríkjandi afl í íslenskum samtímabókmenntum, 3) með næsta ári breyttist stefna hennar verulega.


Fjórði kafli rekur Þá stefnuna kerfisbundið, fram að Þessum skilum, og áfram, Það sem óbreytt var; fyrst kenningar Rauðpennunga um samband bókmennta og Þjóðfélags, síðan hugmyndir Þeirra um skáldsögur og ljóðagerð sérstaklega, og Þá einkum um Það, hvernig bókmenntir ættu að vera til að nýtast sem best baráttunni fyrir betra heimi. Mismunandi áherslur eða sérstaða einstakra Rauðpennunga er hér rakin, Það sem hún var. Hér er Þá líka vikið að bókmenntaverkum Þeirra, og að hve miklu leyti Þau bera mark stefnunnar, einkum hvert mat félaga Þeirra var á verkunum. Ég reyni að draga fram hve mikill hluti bókmenntaverka tímabilsins er með Þessu marki, og á hvern hátt Það birtist. En bókmenntaumfjöllun er í knappasta lagi, til að slíta ekki Þráðinn í sögu hreyfingarinnar. Hún er meginviðfangsefni mitt, en ekki íslenskar bókmenntir tímabilsins, heldur er einkum vikið að einstökum verkum sem dæmum um framkvæmd stefnunnar, ennfremur til að kanna hvernig hreyfingin brást við Þessum verkum og hvaða áhrif hún hafði á Þau. Það segir og ekkert um bókmenntastefnu, að léleg verk hafa verið gerð í anda hennar, Það hlýtur að gilda um allar bókmenntastrauma. Hitt skiptir meira máli, hvort góð bókmennta­verk hafa verið samin eftir stefnunni, og hvernig hún Þá birtist í Þeim. Því er sérstakur kafli lagður undir greiningu á fáeinum Þeim bókmenntaverkum sem mér hafa Þótt best heppnuð sem bókmenntir, af Þeim sem falla að kröfum hreyfingarinn­ar. Þau eru flest frá seinni áratug hennar, enda hélst Þá margt óbreytt.


Sjötti hluti ritsins rekur svo sögu bókmenntahreyfingarinnar frá 1936 til stríðs­loka. Sú saga er skoðuð með tilliti til stjórnmálaÞróunar innanlands og utan, til að kanna hvernig hreyfingin brást við henni, og hvert sjálfstæði hennar var. Kannað er hvaða breytingar urðu á stefnu hennar og starfi, og stórvaxandi útgáfustarf hennar er metið með tilliti til útgáfu keppinauta hennar. Loks eru bornar saman mismunandi kenningar um endalok hreyfingarinnar.


Hér koma við sögu margir menn, sem voru sumir Þjóðkunnir fyrir 50–60 árum, en eru Það fæstir nú. Til að auðvelda lesendum að átta sig á Þessum fjölda, reyni ég að auðkenna Þá sem minnst koma við sögu, stundum með starfsheiti, en oft með stjórnmálaafstöðu, enda skiptir hún miklu máli í Þessu viðfangsefni, Þótt vitaskuld ráði hún síður en svo alltaf afstöðu Þeirra til fagurfræði eða bókmenntaverka. Að sjálfsögðu eru orð einsog „krati“ og „stalínisti“ ekki notuð sem skammaryrði, heldur til að forðast málalengingar. Skýrt á að koma fram í ritinu, til hvers Þau vísa.


Tilvitnanir í erlend rit hefi ég ævinlega Þýtt sjálfur, og eiga tilvísanir í ritin að nægja Þeim sem fletta vilja upp í Þeim. Það hefði Þyngt framsetninguna óhæfilega að birta tilvitnanir (einnig) á frummáli. Yfirleitt munu ritin aðgengileg á Lands­bókasafni. Af Þeim ritum Marx og Engels sem vitnað er til, hafa fáein birst á íslensku, og er Þá vísað til Þeirrar útgáfu. En einnig Þær klausur hefi ég Þýtt sjálfur, vegna Þess að mér finnst tiltækar Þýðingar á Þeim sumar óÞjálar en aðrar rangar. Ég hefi reynt að halda stafsetningu íslenskra klausna sem upp eru teknar, Þó ekki bók­stafnum z. Augljósar stafavillur eru leiðréttar athugasemdalaust.


Ég vona að auðvelt sé að átta sig á tilvísunum til heimilda. Á eftir nafni höfundar kemur ártal, síðan bókstafur ef notuð voru fleiri en eitt rit hans frá sama ári, loks blaðsíðutal. Í heimildaskránni sést svo hvar ritið er prentað. Auk heimildaskrár eru í ritinu töflur um ýmiskonar tölur og hlutföll. Eins og ég skýri í textanum, sýna Þær iðulega umdeilanlegt mat mitt, t.d. á fjölda og umfangi sósíalískra bókmenntaverka í tímaritum og á bókamarkaðinum, auk upptalingar á titlum. En hér hafa lesendur Þá gögn til að fara í saumana á Því mati, sannprófa ályktanir mínar. Af sömu ástæðum eru hér birt gögn Félags byltingarsinnaðra rithöfunda, Þau sem til náðist. En hitt hefði orðið allt of langt mál að birta hér viðtöl mín við ýmsa Rauðpennunga, sem ég tók 1981 og 1983, enda fóru Þau nokkuð á víð og dreif. Birst hafa viðtöl mín við Halldór Laxness og Ólaf Jóhann, en auk Þeirra Þakka ég Ásgeiri Jónssyni, Einari Olgeirssyni, Gísla Ásmundssyni, Guðmundi Daníelssyni, Gunnari Benediktssyni, Gunnari M. Magnúss, Jóni Óskari og Jóni úr Vör kærlega fyrir að sinna kvabbi mínu af ljúfmennsku og Þolinmæði.


Þessi könnun má Þykja ærið umfangsmikil, Þótt henni sé haldið við einn sjónar­hól, Þ.e. að kanna bókmenntahreyfingu, en ekki beinlínis bókmenntirnar sjálfar. Ég vona að rannsóknir á íslenskum bókmenntum 20. aldar verði Þá að einhverju leyti auðveldari eftirleiðis. Töluvert hefur verið skrifað um Það svið undanfarin ár, einkum um sósíalískar bókmenntir. Þau fræðirit fjalla mest um efnisval og afstöðu í skáldverkum. Ég gat tengt rit mitt sumum Þeirra, og nefni sérstaklega BA-ritgerð Þeirra Guðrúnar Héðinsdóttur, Sigríðar Stefánsdóttur og Vigdísar Grímsdóttur um ljóðagerð áranna 1930–34. Önnur rit skarast fremur lítið við mitt, og gafst Þá sjaldan tilefni til rökræðna við Þau. Doktorsrit Peter Hallberg, Den stora Vävaren, fjallar mest um aðföng rita Halldórs Laxness og undirtektir í íslensku samfélagi. Árni Sig­urjónsson hélt sig mikið innan Þeirra marka í sínu doktorsriti, sem hann hefur samið tvær íslenskar bækur upp úr, Laxness og Þjóðlífið. Þar er ýmislegt fleira fróðlegt, t.d. mikið yfirlit um hugmyndastrauma á Íslandi framan af 20. öld. Halldór Guðmundsson kemur einnig inn á Það svið í magistersritgerð sinni, Loksins, loksins, en fjallar Þar annars mest um hugmyndalegar forsendur Vefarans mikla frá Kasmír og Bréfs til Láru. Sigurður Hróarsson hefur fjallað um Sovétlýsingar Halldórs Laxness í kandídatsritgerð sinni, Eina jörð veit ég eystra. Aldrei féllu viðfangsefni okkar saman svo að til rökræðna gæti komið, og á sama hátt lá doktorsrit sr. Gunnars Kristjánssonar um Heimsljós að mestu utan míns sviðs[1].


Sjálfur hefi ég birt greinar um einstök efni innan Þessa sviðs, og fer Þá Þeim mun fljótar yfir sögu í Þessu riti. Þær greinar eru um smásögur Halldórs Stefánssonar, um ritstörf Guðmundar Hagalín fyrsta aldarfjórðunginn, og um módern ljóð íslensk snemma á öldinni og viðtökur Þeirra.


Ég kynnti mér nokkuð Þetta svið meðan ég var menntaskólakennari á áttunda áratugnum, en ekki gafst Þá tími til að stunda rannsóknir. En haustið 1979 bauðst mér starf við franskan háskóla, l'université Lyon II, og gegndi ég Því í fimm ár. Þar hafði ég gott næði til að stunda rannsóknir og bókmenntanám, og varði ég rit Þetta Þar sem doktorsrit í bókmenntasamanburði (littérature comparée), í júní 1984. And­mælendur voru prófessorarnir M. Régis Boyer (París), M. Claude Martin, leiðbeinandi minn, M. Edgar Pich og M. Jean Bruneau, allir frá Lyon-háskóla II. Af ræðum Þeirra hafði ég einkum gagn af ábendingum hins síðasttalda, kærs kennara míns í frönskum bókmenntum 19. aldar, og breytti Því framsetningu ritsins frá efn­isflokkuðu yfirliti til sögulegrar skipunar eftir Því sem unnt var, en 4. hluti er áfram flokkaður eftir viðfangsefni. Vinur minn og eftirmaður, Jean-Baptiste Brunet-Jailly hjálpaði mér mikið við lagfæringar á franska textanum. Mörgum öðrum á ég Þakkir að gjalda, og fleirum en hér verði taldir. Þó vil ég nefna tvo franska vini, sem ég kynntist á Íslandi, og komu mér í starfið ytra, sem gerði mér kleyft að vinna Þessa rannsókn, en Það voru Þeir Gérard Lemarquis og Þó einkum Jacques Raymond sem Þá var sendikennari í frönsku við Háskóla Íslands. Þáverandi konu minni, Ingi­björgu Ólafsdóttur, Þakka ég mikla aðstoð við vélritun. Athugasemdir um framsetn­ingu Þakka ég einkum Pétri Gunnarssyni rithöfundi, Halldóri Guðmundssyni út­gáfustjóra, Þóri Óskarssyni og Davíð Erlingssyni hjá Bókmenntastofnun H. Í. Einn ber ég Þó að sjálfsögðu ábyrgð á öllum vanköntum. Þór Whitehead fann fyrir mig titil verksins, sem raunar er tekinn eftir greinaflokki Kristins E. Andrésssonar í Þjóðviljanum 1936.



Efnisyfirlit


1. Bókmenntakenningar marxista


1.1. Undirstaðan ....................................................................................... 1


1.2. Bókmenntamat ................................................................................... 4


1.3. Hnignunartal ....................................................................................... 8


1.4. Öreigalist ......................................................................................... 13


1.5. AlÞjóðasamband byltingarsinnaðra rith.............................................. 23


1.6. Samantekt......................................................................................... 26



2. Aðstæður á Íslandi


2.1. Bakgrunnur ...................................................................................... 29


2.2. StjórnmálaÞróun .............................................................................. 32


2.3. Menningarmál og bókmenntir ............................................................ 38


2.4. Samantekt ........................................................................................ 43



3. Fyrsti áratugur bókmenntahreyfingarinnar


3.1. Upphafið .......................................................................................... 45


3.2. Kommúnistaflokkur Íslands .............................................................. 49


3.3. Félag byltingarsinnaðra rithöfunda ..................................................... 56


3.4. Tímarit ............................................................................................. 71


Iðunn ............................................................................................. 73


Réttur ............................................................................................. 76


Rauðir pennar .................................................................................. 80


3.5. Samantekt ........................................................................................ 82



4. Bókmenntakenningar


4.1. Samfélagsstaða bókmennta ............................................................... 85


4.1.1. Marxísk bókmenntarýni ......................................................... 86


4.1.2. Þjóðfélagsleg mótun .............................................................. 89


4.1.3. Sérstaða Kristins ................................................................... 93


4.1.4. Halldór Laxness .................................................................... 97


4.1.5. Viðtökur ............................................................................... 99


4.2. Skáldskaparstefna .......................................................................... 101


4.2.1. Efnisval og afstaða .............................................................. 101


4.2.2. Persónusköpun ................................................................... 110


4.2.3. Stíll ..................................................................................... 115


4.3. Ljóðagerð ...................................................................................... 119


4.3.1. Framúrstefna ....................................................................... 119


4.3.2. Baráttuljóð .......................................................................... 123


4.3.3. Gegn bókmenntanýjungum .................................................. 125


4.4. Blómi ........................................................................................... 129


4.5. Samantekt ...................................................................................... 136



5. Einstök bókmenntaverk ...................................................................... 139


5.1. Segullinn ........................................................................................ 139


5.2. Ljóð Jóhannesar úr Kötlum ............................................................ 143


5.3. Verndarenglarnir ............................................................................ 148


5.4. Heimsljós ....................................................................................... 151


5.5. Atómstöðin .................................................................................... 156



6. Seinna skeið bókmenntahreyfingarinnar


6.1. Samfylking ..................................................................................... 165


6.2. Til varnar menningunni .................................................................... 166


6.3. Þjóðernisstefna sósíalista ................................................................ 171


6.4. Bókaútgáfa hreyfingarinnar ............................................................. 174


6.4.1. Heimskringla ....................................................................... 175


6.4.2. Mál og menning .................................................................. 178


6.5. Tímarit Máls og menningar .............................................................. 190


6.6. Rússagull? ...................................................................................... 195


6.7. Einangrun sósíalista og sigrar ........................................................... 198


6.7.1. Menningarátök .................................................................... 199


6.7.2. Þáttaskil ............................................................................. 203


6.8. Endalok bókmenntahreyfingarinnar ................................................. 204


6.9. Samantekt ...................................................................................... 208



7. Yfirlit ..................................................................................................... 211


8. Töflur um millistríðsárin


1. Íbúatala Íslands .............................................................................. 217


2. Stéttaskipting ................................................................................. 217


3. Atvinnugreinar ................................................................................ 218


4. Helstu útflutningsvörur .................................................................... 219


5. Útflutningstekjur ............................................................................. 219


6. Rauntekjur verkafólks .................................................................... 220


7. Atvinnustig ..................................................................................... 220


8. Kosningatölur ................................................................................. 221


9. Störf rithöfunda .............................................................................. 221


10. Efni tímarita .................................................................................... 222


11. Flokkun tímaritsgreina .................................................................... 223


12. Þýddir höfundar tímarita ................................................................. 225


13. Íslenskir höfundar tímarita ............................................................... 227


14. Eimreiðin ........................................................................................ 228


15. Iðunn ........................................................................................... 228


16. Réttur ........................................................................................... 229


17. Bókmenntaverk Rauðra penna ........................................................ 229


18. Róttæk bókmenntaverk tímarita ...................................................... 231


19. Kommúnískir bæklingar og Heimskringla ........................................ 232


20. Framboð bókaklúbba ..................................................................... 232


21. Útgáfubækur bókaklúbba ............................................................... 233


22. Fjöldi skáldrita 1925–50 ................................................................ 234


23. Sósíalísk bókmenntaverk ................................................................ 235



9. Gögn Félags byltingarsinnaðra rithöfunda ......................................... 158



10. Heimildaskrá ...................................................................................... 191



1. kafli


Fagurfræði marxismans


Í nafni marxismans hafa komið fram mjög sundurleitar kenningar m.a. um bók­menntir. Þetta á einnig við um íslensku hreyfinguna sem hér skal um fjallað, og því virðist þörf á yfirliti um helstu kenningar á þessu sviði og hvernig þær tengjast í tím­ans rás. Það byggi ég einkum á safnritum sem talin eru upp í upphafi heimildaskrár.


1.1. Undirstaðan


Marx og Engels skrifuðu um mörg svið samfélagsins, en mest um efnahagsmál og stjórnmál, á síðari hluta 19. aldar. Af því viðkemur bókmenntum einkum það grundvallaratriði kenninga þeirra, að öll svið mannlífsins tengist sín á milli, orki hvert á annað, og ákvarðist þannig sögulega, að skipulag framleiðslulífsins ráði mestu þegar til lengdar lætur. Þetta er „víxlverkan á grundvelli efnahagslegrar nauðsynjar, sem hefur sitt fram að lokum“, sagði Engels 1894 (bls. 206–7). „Það er ekki vitund manna sem ákvarðar tilveru þeirra, heldur er það þvert á móti félagsleg tilvera þeirra sem mótar vitund þeirra“ sagði Marx 1857 (A, bls. 8­9)[2]. Þetta hefur oft verið rangtúlkað svo, að öll fyrirbæri mannlífsins megi leiða út frá efna­hags­lífinu. Það kallast vélgeng efnishyggja (eða dólgamarxismi). En Engels heldur áfram:


Það er ekki svo að skilja, að efnahagslífið eitt sé virk orsök, og allt annað aðeins óvirk afleiðing. Því fjær sem eitthvert svið mannlífsins er efnahagslífinu, því nær sem það er hreinum, óhlutbundnum hugmyndaheimi (t.d. bókmenntir og listir), þeim mun fremur finnum við tilviljanir í þróun þess, því meiri sveiflur eru á línu þróunarinnar. En sé dregin miðlína þessara sveiflna, mun sannast, að hún nálgast þróunarlínu efnahagslífsins því meir sem sviðið er víðara, og tímaskeiðið lengra sem við skoðum.


Í samræmi við þetta tiltölulega sjálfstæði og gagnverkan mismunandi sviða skýra þessir frumherjar sögulegt misgengi, þ.e. að efnahagslega vanþróuð lönd geti verið fremst í menningu, t.d. heimspeki og listsköpun, slíkar menntir séu að nokkru leyti sjálfstæð arfleifð, vegna verkaskiptingarinnar. En bæði í Frakklandi og Þýskalandi á 18. öld hafi heimspeki og almennur blómi í bókmenntum einnig verið ávöxtur efna­hagslegrar endurreisnar. Enda þótt efnahagslífið skapi hér ekkert nýtt, ákvarði það hvernig hugmyndaefnið sem fyrir er á hverju sviði breytist og þróist, og þá í gegnum stjórnmálaleg fyrirbæri, lagaleg og siðferðileg, sagði Engels 1890 (bls.493). Lærisveinn hans og Marx, þýski sósíalistaleiðtoginn Franz Mehring, bætti við þeirri skýringu á misgenginu,1893 (bls.195), að efnahagsþróun á síðari hluta 18. aldar hafi veitt borgaralegum stéttum mikinn framgang hvarvetna í Evrópu. En í Þýskalandi gátu þær ekki beitt sér á stjórnmálasviðinu, eins og í Frakklandi og Eng­landi, svo að þýskt hæfileikafólk þrengdist einkum inn á svið menningar, í bók­menntir, tónlist og heimspeki.


Nánar fjalla þeir Marx og Engels um samband andlegra sviða og efnislegra árið 1845 (A) í inngangi ritsins Þýska hugmyndakerfið (bls.46): „Ríkjandi hug­myndir eru ekkert annað en hugmyndaform ríkjandi efnislegra aðstæðna, [...] þeirra aðstæðna að ein stétt ríkir, þ.e. þetta eru hugmyndir sem tjá drottnun hennar.“[3] Af þessu leiðir, að gagnrýni á menningarfyrirbærum, sem dregur þessa drottnun fram, þarf að ná til alþýðu (sjá k.1.2.). En aðalatriðið er, eins og Marx sagði 1863 (1,bls. 256–7): „Til að skilja samhengi andlegrar framleiðslu og efnislegrar, er umfram allt nauðsynlegt að líta á þá síðarnefndu ekki sem almennt hugtak, heldur þarf að skoða tiltekið sögulegt form hennar“, rannsaka sögulegar aðstæður hennar hverju sinni. Þetta hefur einna mest verið vanrækt af ýmsum yfirlýstum marxistum, sem í stað þess hafa ályktað af almennum atriðum um einstök tilvik (sbr. k.1.3.).


Skrif þeirra Marx og Engels um bókmenntir og listir eru brot ein. Þeir fjölluðu aldrei sérstaklega um þetta svið, heldur tóku aðeins dæmi af því í umfjöllun um annað. Bæði er þetta því ófullkomið, og stundum ekki fyllilega í samræmi við meginkenningu þeirra félaga, marxismann. Þeir voru ekki dauðhreinsaðir af borgara­legum áhrifum, enda er slíkt ekki hægt í borgaralegu þjóðfélagi, að dómi marxista. Þannig sagði Marx 1857 (B, bls. 640–642), að það sé út af fyrir sig auðskilið, að grísk list, og söguljóð (epos) sérstaklega, tengist sérstökum þróunarmynstrum sam­félagsins, og verði ekki endurvakin. En þá sé vandasamara að skilja, hversvegna þau veiti mönnum enn listnautn og séu á vissan hátt fyrirmynd sem ómögulegt er að ná. Skýring Marx er á þessa leið:


Hví skyldi ekki söguleg bernska mannkynsins, eins og hún birtist fegurst, heilla það sífellt? List Grikkja heillar okkur vegna þess lága þróunarstigs samfélagsins, sem hún spratt af, vegna þess að það kemur aldrei aftur.


— Þetta má skilja svo, að list frá því fyrir verkaskiptingu nútímans heilli menn vegna þess að hún höfði til þeirra alhliða (það er skýring Terry Eagleton, bls.11–12). En mergurinn málsins er sá að mínu viti, að greining á þessum verkum myndi væntanlega sýna veigamikla samsvörun við nútímasamfélag og nútíma menningu, fremur en eðlismun, þau hrifa nútímafólk af því að þau varða það.


Hjá Plekhanov, frumkvöðli marxismans í Rússlandi, kemur óbeint fram gagnrýni á þessa hugmynd Marx, þegar hann lofar Mme de Staël, 1899 (bls.72–3) fyrir að hverfa frá þeirri kenningu hughyggjumanna 18. aldar að bernsk hugsun birtist eðlilega í skáldskap, en seinna þroskastig í heimspeki; og að þeirri skoðun, að bók­menntir mótist af sögulegum aðstæðum. Hann rekur þar með tilvísan til mann­fræðingsins Karl Bücher hvernig listin hafi skapast af starfi manna (bls. 67–8):


Hjá frumstæðum þjóðflokkum hefur hvert starf sinn eigin söng, og lag þess er nákvæmlega lagað að takti framleiðsluhreyfinganna, sem einkenna það starf[...] einföld tónlistarverk þeirra voru unnin úr hljóðunum sem komu af slætti verkfæra á hlutinn sem við var fengist[...] hljóðfæri urðu þannig til úr verkfærum.


Tvær greinar Plekhanov frá árunum 1904–5 eru merkileg greining á þróun franskra bókmennta á 17. og 18. öld. Hann rekur þar hvernig einstök bókmennta­form hafi þróast af útbreiddum hugsunarhætti tiltekinnar stéttar við tilteknar aðstæður. T.d. urðu hjarðsveinasögur vinsælar um skeið á fyrra hluta 17. aldar, segir hann 1904 (bls.369–70). Í þeim sögum snýst allt um kurteisi, riddaraskap o.þ.h. Þetta eru bókmenntir iðjulausrar yfirstéttar, sem efnahagsleg þróun, stétta­skipting, hefur gert kleift að lifa í draumum. Og draumar hennar eru flótti frá þeim hryllingi og hrottaskap sem hún hafði lifað við í trúarbragðastyrjöldum Frakklands. 1905 (bls.177–182) talar hann um skyndilegar vinsældir „grátleikja“ (comédie lar­moyante), og skýrir þær þannig, að borgarastéttin hafi eflst svo, að hún hafi viljað fá að sjá loksins sjálfa sig á leiksviðinu í göfgaðri mynd heiðvirðra miðstéttarmanna, sem halda siðaprédikanir gegn löstum aðalsins. Þetta varð mjög vinsælt, því það sýndi andstöðuhug borgarastéttarinnar. En á síðari hluta aldarinnar kemst hún í byltingarhug, vill útrýma aðlinum sjálfum, en ekki bara löstum hans. Og þá víkja grátleikir um skeið — en aftur koma leikrit um fornrómversk efni. Leiðtogar frönsku byltingarinnar hafi því oft verið taldir íhaldssamir á bókmenntasviðinu. En það sé bara á yfirborðinu. Nú beindist áhuginn ekki lengur að einveldistímum Ágústusar, eins og var á dögum Lúðvíks 14., heldur að lýðveldishetjum Plútarks.


Marx var raunar einnig með þvílíkar sögulegar bókmenntatúlkanir, og skýrði einkum afturhvarf til gamalla hefða. Hann sagði 1852 (bls. 120), að franskir bylt­ingarmenn hafi þurft að sjá sig í gervi rómverja, því í klassískri strangri arfleifð rómverska lýðveldisins hafi þeir fundið hugsjónirnar og listformin, sjálfsblekking­arnar, sem þeir þurftu með til að fela það fyrir sjálfum sér að inntak baráttu þeirra takmarkaðist við borgaraleg viðhorf, og til að halda ástríðum sínum í hæð mikils sögulegs harmleiks. Og 1861 (bls. 614–15) sagði hann, að það væri ljóst, að túlkun leikhússmanna á tímum Lúðvíks 14. á einingunum þremur í leiklist, sé misskilningur á grískri leiklist og á túlkanda hennar, Aristoteles. Hitt sé og ljóst, að þeir hafi skilið Grikkina einmitt eins og samræmdist þeirrra eigin listþörf, og því hafi þeir haldið fast við þessa túlkun, lengi eftir að rétt túlkun hafði komið fram.


Þetta eru fyrstu dæmi sem ég þekki um marxíska menningarsögu, þar sem menn­ingarnýjungar eru skýrðar með breyttum samfélagsaðstæðum, einkum stéttaátökum. Rannsóknir af þessu tagi hafa einkum verið stundaðar um miðja 20. öld og síðar. Nefna má George Thomson í Englandi, Lucien Goldmann í Frakklandi, auk ungverjanna Georg Lukàcz og Arnold Hauser. En þetta kom einnig upp í íslensku hreyfingunni á fyrri hluta 4. áratugsins (sjá hér k. 4.1).


1.2. Bókmenntamat


Þarsem Marx og Engels minnast á bókmenntir yfirleitt aðeins sem dæmi í um­fjöllun um annað, fylgir því áhersla á upplýsingagildi bókmennta, á fróðleik, enda þótt það þurfi ekki þessvegna að hafa verið mælikvarði þeirra á bókmenntagildi — og hafi ekki verið. Af því tagi er gagnrýni þeirra 1845 (A, 172–221) á vinsæla skáldsögu, Leyndardóma Parísarborgar eftir Eugène Sue, þeir ráðast eingöngu á smá­borgara­legan hugmyndaheim hennar, en fjalla ekki um hana sem skáldverk (reyndar rís þessi reyfari naumast undir því nafni). En í rauninni lögðu þeir félagar áherslu á sjálfstæði listaverka, eins og lærifaðir þeirra, Hegel. Ein fyrsta grein sem Marx skrif­aði, 1842 (B, bls.71), var rökstuðningur fyrir því, að skáld geti ekki litið á rit sín sem tæki, skáldinu hljóti þau ævinlega að vera markmið í sjálfum sér. Þetta viðhorf kemur oft fram hjá þeim félögum. Þeir útlistuðu það nánar, þegar skáld sendu þeim verk til gagnrýni, og sögðu að skáld ætti ekki að troða sínum skoðunum inn í verkin, heldur leiða í ljós þá hneigð sem í efninu fælist. Til dæmis töldu þeir að söguleg skáldverk ættu að birta réttilega meginöfl tímans sem um er fjallað. Þetta rekja þeir í hinum frægu bréfum sem þeir skrifuðu Ferdinand Lassalle um sögulegt leikrit hans Franz von Sickingen (Marx 1859, bls. 590—592, og Engels sama ár, bls. 601–4). Engels segir þar, að verkið sé á réttri leið, því persónur þess séu full­trúar stétta og tilhneiginga, og þar með sérstakra hugmynda síns tíma. Tilefni gerða þeirra séu ekki smásmugulegar einkatilhneigingar, heldur sá sögulegi straumur sem beri þær áfram. En vegna þess að skáldið hafi ekki áttað sig nógu vel á efninu, verði verkið ekki nógu lifandi, persónur þess verði um of málpípur viðhorfa.


Raunsæi mátu þeir Marx og Engels því mikils. Engels skilgreinir það svo (í bréfi til Margaret Harkness í apríl 1888, bls.44):


„Að mínu mati felur raunsæi í sér, auk sannra smáatriða, það að birta réttilega dæmigerðar persónur við dæmigerðar aðstæður.“ Honum finnst aðstæður ekki nógu dæmigerðar í umræddri sögu Harkness, því rangt sé að sýna verkalýðinn sem óvirkan múg á árinu 1880, þótt hann hafi verið það um 1800. En Engels leggur áherslu á það, að því minna sem fari fyrir skoðunum höfundar í verkinu, þeim mun betra fyrir listaverkið. Í öðru slíku bréfi segir hann1885 (B, bls. 392–4) að mikið sé til af góðum verkum með málflutning eða hneigð [Tendenz], en málflutningurinn verði að koma fram í sjálfum aðstæðunum og atburðarásinni, höfundur þurfi ekki að bera fram fyrir lesendur framtíðarlausn mannkynssögunnar á þeim félagslegu átökum sem hann lýsi. Við núverandi aðstæður, þegar skáldsögur beinist einkum að lesendum úr borgaralegu umhverfi, ræki saga með sósíalíska hneigð fyllilega sitt hlutverk, ef hún hreki ríkjandi blekkingar með því að lýsa sannlega raunverulegum aðstæðum, skeki bjartsýni þessara borgaralegu lesenda, og veki efa um eilíft gildi þess sem er, jafnvel án þess að taka opinskátt afstöðu.


Meginatriðið í raunsæishugmynd þeirra Marx og Engels er greinilega það, að listaverk verði því betra sem höfundur gefist efninu betur á vald. Þá geti hann yfirstigið venjuleg mannleg takmörk umhverfis síns, hleypidóma þess. Dæmi þessa tóku þeir af Balzac. Þeir töldu raunar að í sögum hans ríktu afturhaldsviðhorf, en þau væru yfirunnin af sögunum sjálfum vegna þess hve sanna mynd þær gefi af samfélaginu, eins og Engels sagði 1888 (tv.st.):


Að Balzac [...] skyldi sjá nauðsynina á falli aðalsins, uppáhalds síns, og lýsa honum sem fólki er ætti ekki betra skilið, og að hann skyldi sjá raunverulega menn framtíðarinnar aðeins þar sem þá var þá að finna [meðal stjórnmála­andstæðinga sinna], það álít ég einn mesta sigur raunsæisstefnunnar og eitt hið stórfenglegasta við Balzac gamla.


Marx útlistaði 1842 (A, bls.5–8) að stíllinn, hvernig fjallað væri um efnið, réðist vitaskuld af því sjálfu, og hvernig það horfði við höfundi, þar mættu engar ytri tak­markanir koma til. Stingur þetta í stúf við þau viðhorf sem síðar voru borin fram í hans nafni af Bogdanovsinnum og Stalínistum, t.d. af Lukàcz. Í þessu riti hæddist Marx líka að þeirri hugmynd prússneskra stjórnvalda, að takmarka prentfrelsið við rithöfunda með starfsréttindi („befugte Autoren“) — en það gerðu rússnesk stjórn­völd tæpri öld síðar, í nafni Marx!


Plekhanov, Bogdanov[4], Trotskí o.fl. taka undir það, að höfundur megi ekki troða skoðunum sínum inn í skáldverk, afstaða þess verði að spretta eðlilega upp af viðfangsefninu. Plekhanov sagði 1913 (bls. 249 og tók eftir Hegel, í gegnum rúss­neska fagurfræðinginn Belinskí, skv. E.J. Brown, bls. 238), að vinnubrögð lista­manns séu eðlisólík vinnubrögðum greinahöfundar, það er í samræmi við fyrrgreind orð Marx um að listaverk geti ekki verið tæki. Plekhanov segir:


Listamaður lætur hugsanir sínar í ljós með myndmáli, en greinahöfundur sýnir fram á hugmyndir sínar með röksemdum. Og noti höfundur rök í stað mynd­máls, eða semji hann myndmálið til að sýna fram á tiltekinn málstað, þá er hann ekki listamaður, heldur greinahöfundur, jafnvel þótt hann semji ekki ritgerðir eða greinar, heldur skáldsögur, frásagnir eða leikrit.


En Plekhanov bætir því við (bls. 291–2), að hæfileikar hvers mikils listamanns hljóti að eflast verulega, láti hann gegnsýrast af hinum miklu frelsishugmyndum okkar tíma, þ.e. af sósíalismanum. Nánar segir hann 1908 (B, bls. 876): að þessar hugmyndir þurfi að hafa runnið listamanninum í merg og blóð til að hann geti raun­verulega túlkað þær sem listamaður — annars trufli þær hann við listsköpun. Og 1913 (bls 292) segir hann: „Sá sem álítur mögulegt að fórna forminu fyrir hug­myndirnar, hættir þarmeð að vera listamaður, hafi hann nokkurntíma verið það.“


Þessu tengist, að Plekhanov sagði 1908 (A, bls. 219), að heimspekileg list­gagnrýni hafi beinst að því að flytja hugmynd verksins af máli listar yfir á mál hugmynda. En sér væri mest í mun að flytja hana yfir á mál félagsfræði, finna félagsfræðilegt ígildi viðkomandi bókmenntafyrirbæris. Síðan verði að koma grein­ing á listrænum verðmætum þess. Mér finnst Plekhanov snúa þessu alveg við, fyrst þarf að skilja verkið sem listaverk, síðan má finna þjóðfélagslega afstöðu þeirrar heildar. Við sáum að þannig túlkuðu frumkvöðlar marxismans listaverk fyrri tíma, og þetta sýnist mér meginatriði í menningarstefnu þeirra, að byltingarsinnaður verkalýður skuli tileinka sér ríkjandi menningu, en frá gagnrýnu stéttarsjónarmiði. Af því leiðir eðlilega, að þeir boða ekki annarskonar bókmenntir. Marx og Lenín tala ekki um byltingarlist, Franz Mehring og Rósa Lúxembúrg, leiðtogar vinstra arms þýskra sósíalista um aldamótin, segja beinlínis að hún sé ekki á dagskrá, Trotskí stendur þeim nærri. Rök þessa fólks eru svipuð: nú er tími baráttunnar, en síðar kemur tími listarinnar[5]. Hér greinir þýska sósíalistaleiðtogann og kvenfrelsis­frömuðinn Clöru Zetkin á við Mehring, sem hún fylgir annars oftast í grein sinni 1911. Hún segir (bls. 84), að öreigastéttin geti ekki gert byltingu „án þess að glíma við eigin listþrá og list okkar tíma [...] Og ævinlega var listþróunin borin uppi af fjöldanum sem ruddist frá ánauð til frelsis.“ En Mehring (1893, bls.196) og Lúxem­búrg (1903, bls. 425) segja, að sem eignalaus stétt sé verkalýðurinn öðruvísi settur en borgarastéttin var á sínum tíma. Hún gat barist á menningarsviðinu áður en hún náði yfirráðum á efnahags- og stjórnmálasviðinu. Meðan öreigarnir berjist gegn borgarastéttinni, geti ekki verið til nein menning nema á grundvelli borgaralegs sam­félags. Þetta sjónarmið kemur vel fram hjá Engels, 1885 (A, bls. 315). Hann segir að byltingarskáldskapur úreldist fljótt, því „til að hafa áhrif á fjöldann, verður skáld­skapurinn að endurspegla almenna fordóma tímans“ — afturhaldssama, svo sem trúarbull byltingarhreyfingar Chartista.


Fyrrnefndur boðskapur um að að öreigastétttin skuli tileinka sér menningar­arfinn gagnrýninum huga, sýnist mér ríkja hjá marxistum í upphafi 20. aldar. T.d. bar Lenín mikið lof á Tolstoi, og taldi það eitt verkefna sósíalískrar byltingar í Rúss­landi að útbreiða verk hans meðal alþýðu. En Lenín tók um leið fram (1910, bls. 351–4), að verk Tolstoi væru síður en svo til fyrirmyndar pólitískt. Ranglæti ríkjandi þjóðskipulags væri þar gagnrýnt, en síðan væri fólki boðað að beygja sig undir okið, að umbera hið illa, en berjast ekki gegn því. Þetta þroskaleysi í pólitík endurspegli afstöðu bændaalmúgans á síðari hluta 19. aldar. Mótsagnir í skoðunum hans endur­spegli aðstæður rússnesks samfélags þá. Því verði Tolstoi ekki réttilega skilinn nema frá sjónarmiði þess afls sem bylti því samfélagi, sjónarmiði sósíalískra öreiga. Lenín sagði 1911 (bls. 353–4), að kenningar Tolstoi væru afturhaldsstefna og draumórar, en í skáldverkum hans fælist gagnrýni sem gæti upplýst framsæknar stéttir. Sama sagði þá Rósa Lúxembúrg um Tolstoi; að hann hafi alla tíð verið draumsæismaður og siðgæðisprédikari í lausn vandamálanna sem hann fékkst við. En það sé ekki lausn vandamálanna, sem ráði úrslitum um áhrifamátt listarinnar, heldur vandamálið sjálft sem sett er fram, og dýptin, dirfskan og einlægnin við að taka á því. Og í því felist ágæti Tolstoi (1913, bls. 186–7). Ámóta skoðanir lét hún í ljós um Mickiewics (1898, bls. 306–7) og um Schiller (1905, bls. 534). Í greininni um Tolstoi sagði hún (1913, tv.st.) að til þess að hæfileikar listamanns nýtist, þurfi hann að hafa til að bera eindregna lífsskoðun, sem einstök atriði kristallist um í skáldverkunum. En þessi dæmi sýna, að sú lífsskoðun þarf ekki að vera sósíalísk eða byltingarsinnuð, til að nýtast slíkri stefnu. Í þessum greinum Lúxembúrg kemur þá fram, að verkalýðurinn þurfi að tileinka sér þessi verk, mótuð af stéttarsjónar­miðum sem væru andstæð hagsmunum hans, með því að átta sig á þessum sjón­armiðum. Hér birtist díalektískur skilningur á list: að fólk tileinki sér hana með umhugsun, en ekki að hún hljóti að móta það beinlínis, eins og Stalín hélt fram með sínu fræga kjörorði: „Rithöfundar eru verkfræðingar mannssálarinnar“ (tilvitnun eftir ræðu Sjdanov, 1934, bls. 351).


Þótt undarlegt megi virðast, þá var það Bogdanov, frumkvöðull kenningarinnar um sérstaka öreigamenningu, sem manna best gerði grein fyrir þessari afstöðu: að verkalýðnum sé nauðsynlegt að tileinka sér listaverk sem byggjast á framandi stéttarsjónarmiðum (lénskum eða borgaralegum) — ekki vegna þess að þau hafi á einhvern hátt jákvæða afstöðu, þrátt fyrir allt, sem gæti gagnast byltingarsinnum, heldur af því að þau gefi færi á skilningi. Bogdanov sagði 1918 (bls. 249), að öreigastéttinni sé nauðsynlegt að tileinka sér menningararfinn, einnig þegar hann sé þrunginn hugsunarhætti sem henni sé framandi, svosem trúarleg verk eru þrungin anda valdboðs. Því þótt tími þessa valdboðsanda sé liðinn, þá umlyki leifar hans fólk á alla vegu, stundum óduldar, en æ oftar í allskonar dulargervi, jafnvel hinu óvænt­asta. Til að sigrast á slíkum óvini verði að þekkja hann vel. En hver gæti fremur en mikill listamaður leitt öreigastéttina inn í kjarna framandi lífs og hugsunar? Hlutverk gagnrýnenda á hennar vegum sé að sýna sögulega þýðingu þessa, og andstæður við lífsskilyrði öreigastéttarinnar og vandamál. Þegar það hafi verið gert, sé ekki lengur nein hætta á að hún sveigist undir áhrif annarlegs hugsunarháttar, þekking á honum verði einmitt eitt mikilvægasta tæki hennar til að skapa sinn eigin (bls. 254).


Raunar taldi Bogdanov (bls. 240) að öreigastéttin þyrfti einnig sína sérstöku list til að þroska sitt sérstaka hugarfar (svo sem brátt verður rakið), það væri forsenda þess að hún gæti sigrast á hugsunarhætti listar fyrri tíðar, með framangreindri gagnrýni.


Fyrrgreind díalektísk afstaða til menningararfsins kemur og vel fram í bók Trot­skís: Bókmenntir og bylting, 1923 (einnig 1924, bls. 480–482), en hún beindist einkum gegn stefnu samtakannna Öreigamenningar. Eftir byltinguna taldi hann mikilvægt að hlúa að „förunautunum“, þ.e. skáldum sem ekki voru byltingarsinnuð, því þau töluðu til sveitaalmúgans, og bókmenntir þeirra væru ómissandi til að treysta bandalag hans og verkalýðs. Hins vegar yrðu ekki umbornar gagnbyltingarbók­menntir. Þetta var stefna Sovétstjórnarinnar fram til 1928. Hún gaf öllum hópum jafnan styrk til að prenta verk sín, svo fremi að ekkert gagnbyltingarsinnað væri í þeim[6] (svosem t.d. gyðingahatur. Carr: Socialism[...] 2, bls. 92).


Walter Benjamin fjallaði einna skýrast um þetta, að bókmenntaafskipti marxista ættu að beinast að viðtökum bókmennta en ekki að samningu þeirra. Skrifi menn fyrir ríkjandi dreifingarkerfi, sagði hann, 1934 (bls.273–4), reynist útkoman gagn­byltingarsinnuð, hversu byltingarsinnuð sem pólitísk hneigð verksins er. Baráttan gegn eymd hefur orðið að neysluvöru, byltingarhneigð að skemmtiatriði. Lesendum og áhorfendum verði að breyta úr neytendum í þátttakendur. Og það geri epískt leikhús Brechts með því að skeyta saman ólík atriði („Montage“), með því að stöðva atburðarásina, með stílrofi svo sem söngvum, neyði það áhorfendur til undrunar, til umhugsunar um efnið. Meginatriði þessarar miðlunar er að rjúfa hina listrænu blekkingu, hrífa áhorfendur frá því að lifa sig inn í örlög persónanna.


1.3. Hnignunartal


Í lok 19. aldar kemur fram hjá sumum sósíalistum afstaða til samtíðarbókmennta og —lista sem er alveg andstæð framangreindri stefnu gagnrýninnar tileinkunar. Þeir fara að líta svo á, að á þessum tímum drottnunar borgarastéttarinnar hljóti samtímalist að vera gegnsýrð af borgaralegum viðhorfum. Verkalýður sem berjist gegn þeirri drottnun, þurfi því að hafna slíkum bókmenntum og listum.


Þessi kenning er í ýmsum myndum. Marx sagði þegar árið 1863 (1, bls. 257), að auðvaldsframleiðsla væri fjandsamleg vissum andlegum framleiðslugreinum, svo sem ljóðagerð og öðrum listum. Þýsku leiðtogarnir Franz Mehring og Clara Zetkin töldu að borgaralegri menningu færi að hnigna með rómantísku stefnunni, en frakkinn Paul Lafargue, rússinn Plekhanov og síðar ungverjinn Lukàcs töldu það verða um miðja 19. öld. (Síðar, 1957, bls. 521 taldi Lukàcs að huglægt verði þessi breyting ekki fyrr en 1917–18). Raunar fjalla hin fyrrnefndu um þýskar bókmenntir, en hinir þrír síðarnefndu einkum um franskar.


Í upphafi þessa hluta voru dæmi um sögulegar skýringar þessara sósíalista á þróun lista. Þær eru miklar að vöxtum, um frumstæða list, og svo frá 17. öld til nútímans. Þar er reynt að skýra hvernig viðhorf tiltekinnar stéttar mótist af stöðu hennar í þjóðfélagi á tilteknu þróunarstigi, og móti aftur listgrein sem þessi stétt beri uppi. Breytingar á fyrsta hlekk keðjunnar skýra þá breytingar á henni allri.


Þetta hefur verið grundvallaratriði í umfjöllun marxista um list allar götur síðan. Margt er hér vel athugað og afar vekjandi. En í þessari umfjöllun felst mikill veik­leiki, nefnilega hve almenn hún er, víðtæk. Þarna er fremur fjallað um heila bók­menntagrein í einu lagi en um einstök skáldverk. Þessir höfundar fjalla nú á sama hátt um samtímabókmenntir. Og þá fer að verða stingandi hversu yfirborðsleg þessi afgreiðsla gjarnan er. Þeir fjalla yfirleitt um heilar liststefnur á einu bretti. Fjalli þeir um einstök skáld eða jafnvel einstök verk, þá eru þau aðeins dæmi um einkenni list­stefnu eða tímaskeiðs. Naumast er hægt að tala um greiningu á einstökum verkum, og síst um alhliða greiningu skáldverks, svo sem Plekhanov þó boðaði, listræna og félagslega. Því virðist mér, að þessir menn hafi fyrst og fremst starfað sem stjórn­málamenn, en ekki sem listfræðingar eða bókmennta. Umfjöllun þeirra um listaverk er þáttur í stjórnmálastarfi, til að sýna fram á gildi efnislegrar söguskoðunar, og til að berjast gegn borgaralegum hugmyndum svo sem þeim, að helsta hreyfiafl sögulegrar þróunar sé snilld einstaklings.


Með tilliti til þessa stjórnmálalega mælikvarða skilst, að flestir þessara höfunda hafna list samtímans nokkurnveginn eins og hún leggur sig, töldu borgaralega list spillta eftir að borgarastéttin hætti að vera byltingarsinnuð á öndverðri 19. öld. Lafargue er nokkuð sér á parti, enda virðist hann hafa orðið fyrstur til að setja fram þessa hnignunarkenningu, árið 1892, í grein um skáldsögu Emile Zola, Peningarnir. Lafargue er þar með efnahagslega skýringu á hnignun raunsæilegra skáldsagna: Á fyrri hluta 19. aldar hafi lífsbaráttan verið á milli einstaklinga, og magnað þá til dáða, en á seinni hluta aldarinnar sé hún á milli risafyrirtækja, sem mali einstaklingana. Það endurspeglist í nútímaskáldsögum. Þar séu ekki lengur mikil ævintýr, dramatískar aðstæður hverfi, og jafnvel atburðarás. Niðurbrotnir öreigarnir geti ekki skapað listaverk um líf sitt, og ekki verði ort um það af þeim sem fjarri standi. Enda hafi rithöfundar ekki áhuga á að setja sig inn í lögmál efna­hagslífs­ins og þjóðfélagsins, heldur fyrst og fremst á sölu bóka sinna (sama ásökun er hjá Zetkin, bls. 85–6 og Plekhanov, 1897, bls. 425). Þjóðfélagsleg list sé því nánast ómöguleg nú á tímum. Balzac hafi verið mikill skáldsagnahöfundur, vegna þess að hann sýndi hvernig fólk mótast af samfélagsaðstæðum. En Zola hafi í staðinn aftur­haldsvitleysu um að fólk mótist af erfðum, og persónur hans séu yfir­borðslegar, enda einfaldlega teknar upp úr dagblöðum eins og lýsingar aðstæðna. Lýsingar í sögum Zola, Flaubert og Goncourt-bræðra séu nokkurskonar stílleikur, þær komi frásögninni ekkert við, ólíkt lýsingum Balzac, sem séu nauðsynlegur þáttur í heildinni. Hér komi til áhrif lesenda, sem leiti bara eftir afþreyingu í lok 19. aldar (bls. 64–7). †mis atriði í þessari gagnrýni koma víða fram síðar, t.d. hjá Mehring, Plekhanov og Sartre (ekki veit ég þó til að þeir hafi verið eins hróplega ranglátir í garð Flaubert!).


Plekhanov skýrir hnignunina hinsvegar pólitískt, 1913 (bls.256–7); með því að hagsmunir borgarastéttar og verkalýðsstéttar fóru að rekast á eftir byltingarbaráttuna árið1848. Hann sagði að gildi listaverks ákvarðaðist endanlega af gildi innihalds þess, þ.e. af því hversu háleitar tilfinningar það léti í ljós. Því háleitari sem þær séu, þeim mun fremur geri verkið mönnum kleyft að nálgast hver annan. Stúlka geti sungið um glataða ást sína svo að hrífi menn, en ekki nirfill um glatað fé. Stríðslist geti höfðað til manna; ekki af því að hún láti í ljós hatur, heldur af því að hún láti jafnframt í ljós sjálfsafneitun. Vegna þessa hafi list borgarastéttarinnar höfðað til alls almennings á meðan borgarastéttin háði byltingarbaráttu gegn undirokun af hálfu for­réttindastéttanna. En þegar hagsmunir borgarastéttar og verkalýðs rákust á um miðja 19. öld, og ljóst varð að auðvaldsskipulagið var óskynsamlegt, gerðist borgarastéttin andvíg skynsemi og framförum, lagðist í dulhyggju og sjálfshyggju. Listin varð ofurseld þessu, og ekki síst gróðasjónarmiðum, listaverk verða oft markaðsvara, og nú geta þau ekki höfðað til alls almennings eins og áður. „List hnignunartíma verður óhjákvæmilega list hnignunar“, sagði Plekhanov. Mehring (1896, bls.200–205) og Zetkin eru á sama máli, en leggja auk þess áherslu á hve bölsýn list hinnar dauðadæmdu borgarastéttar sé orðin. En verkalýðsstéttin sé eðlilega bjartsýn, sem stétt á uppleið, og hljóti því að hafna þessari list. Öll ráðast þau á natúralismann fyrir að vera of einhliða, þ.e. fyrir að vilja sýna allt nema verkalýðsbaráttu. Zetkin sagði (bls. 88–9) að list án hugmyndar væri bara tilgerð, formdútl. Þegar talað sé gegn tilgangslist, þá sé það bara áróður gegn ríkjandi stéttum sem er bannsunginn. Listasagan sýni, að frá öllum tímum séu til stórkostleg listaverk sem séu þrungin af­stöðu.


Plekhanov sagði 1913 að ekkert listaverk gæti verið án afstöðu. Einnig þeir listamenn sem hirtu einungis um formið („l'art pour l'art“) sýndu með því afstöðu til félagslegs umhverfis síns, en einungis neikvæða og ófrjóa afstöðu. Kjörorðið: „Listin fyrir listina“ þýddi að þeir neituðu að leggja list sína undir borgaralega flat­neskjuhugsun, eins og bjartsýnir íhaldsmenn gerðu (t.d. Dumas yngri, Lamartine, Maxime du Camp, bls. 246–7). En uppreisnin gegn borgaraskapnum beindist aðeins gegn smáborgaralegu siðgæði og gróðasjónarmiðum, en alls ekki gegn borgaralegu þjóðskipulagi. Listamenn sem gripnir voru af mikilli byltingarólgu, höfnuðu því sem barnaskap, að listin væri tilgangur í sjálfri sér, meira að segja Baudelaire, segir Plekhanov enn (bls. 246–9).


Svo neikvæður sem Plekhanov er gagnvart natúralisma, þá er hann enn andvígari nýrómantískum bókmenntum, því þær telur hann vera beina herhvöt til borgaranna um að berjast gegn öreigastéttinni. Skýring hans á þessari breyttu afstöðu samtímabókmennta er sú, að framleiðsluhættir auðvaldsins hafi flækst æ meir í eigin andstæðum. Skáldin sem hann tekur dæmi af, Knut Hamsun, François de Curel og Bourget, séu öreigar andlegrar vinnu, en slíkir smáborgarar fylgi yfirleitt borgara­stéttinni að málum (1910, bls. 939–40). Athyglisvert er, að Plekhanov álítur, að það hljóti að skaða verkin sem listaverk að þau byggist á rangri hugmynd — hér þeirri, að öreigastéttin sé afætur — því það beri lygina inn í sálarlíf virkra persóna verksins (1913, bls. 268–71). Hann álítur að raunsæi hnigni í lok 19. aldar vegna öfgafullrar einstaklingshyggju borgaralegra menntamanna, því þá líti ýmsir listamenn svo á, að þeirra eigið sjálf sé eini raunveruleikinn, en af því viðhorfi rísi symbólismi, kúbismi o.fl. (1913, bls. 278–283). Plekhanov ræðst á þessar stefnur, auk impressjónisma, því hann fylgdi því útbreidda viðhorfi að málverk yrðu að vera góðar eftirmyndir (bls. 278–294). Eins boðar Clara Zetkin (bls. 88–90) byltingarskáldum að tengjast tindum fyrri þróunar, þegar borgarastéttin var framsækin: Goethe, Schiller og Beethoven, en fylgja ekki formi nútímaverka.


Almennt taka marxistar undir þessar hnignunarkenningar um að stéttaþjóðfélag móti bókmenntir og aðrar listir, loki almenningi aðgang að því besta, en bjóði helst upp á varning sem staðlaður sé samkvæmt markaðssjónarmiðum og mettaður borg­aralegum hugmyndum. Trotskí dregur aðrar ályktanir af þessum kenningum en þeir sem mest töluðu um hnignun borgaralegrar menningar, og er sérstaklega athyglisvert að Trotskí álítur hinar nýju liststefnur eiga rétt á sér, þegar hann sagði 1938 (A, bls. 449–50) að úrkynjað auðvaldskerfið virðist allsendis ófært um að bjóða lág­marksþroskaskilyrði þeim listastefnum sem svari á einhvern hátt okkar tímum. Hver nýjung mæti hjátrúarfullum ótta, því nú sé ekki um leiðréttingar eða endurbætur að ræða fyrir auðvaldskerfið, heldur líf eða dauða. Kúgaður fjöldinn lifi eigin lífi og bóhemar séu of þröngur grundvöllur liststefna. Því hverfi þær ein fyrir annarri, áður en þær nái fullum þroska: kúbismi, fútúrismi, dadaismi, surrealismi. Listin sé flókn­asti, næmasti og viðkvæmasti þáttur menningarinnar, því þoli hún síst upplausn samfélagsins, hún geti farist, eins og grísk list hafi farist í rústum þræla­sam­félagsins. En vandi listarinnar verði ekki leystur innan hennar, heldur aðeins með samfélags­byltingu.


Á þessu sviði þjóðfélagslegra kenninga um bókmenntaþróun hefur ungverjinn Georg Lukàcs verið sérlega áhrifamikill, og verður því að víkja að honum í lengra máli en mörgum öðrum — enda þótt hann fylgi Plekhanov í öllum meginatriðum. Lukàcz hefur komið í stað hans, og hann er ítarlegri um formleg einkenni, einkum skáldsagna á 19. öld. Lukàcs segir (t.d.1938, bls.64), að skáld verði vissulega að miðla beinni skynjun sinni á raunveruleikanum, en þau megi ekki láta þar við sitja, það einkenni úrkynjaða framúrstefnu. Að fyrirmynd höfunda svo sem Stendhal og Balzac þurfi skáldin að sýna stöðu slíkra fyrirbæra í heildinni, segir hann 1932 (C, bls. 175–6), sýna hlutlæg, raunveruleg hreyfiöfl veruleikans undir yfirborði staðreynda. Raunveruleiki einstakrar persónu, einstakra örlaga o.s.frv., fari nú eftir því, hve skynjanlega og dæmigert birtist í þeim þetta heildarferli og hreyfiöfl þess (1932 B, bls. 157). Hugmyndir og tilfinningar hverrar persónu mótist af félagslegri tilveru hennar (1938, bls.67). „Það þarf að sýna daglegt líf öreiganna í víxlverkan við líf annarra stétta, grípa það svo alhliða og djúpt, að í þessu hversdagslífi birtist áþreifanlega hin miklu hreyfiöfl samfélagsþróunarinnar“ (1932 C, bls.241–2). Þetta er í frægri ritdeilu Lukàcs við rithöfundinn Ottwald, 1932, en þá sagði hann enn (C, bls. 177) að raunsæ heildarmynd af baráttunni fyrir samyrkju næðist í skáldsögu með því að lýsa einu rússnesku þorpi. Hvorki þyrfti þar við að bæta fundi í yfirstjórn kommúnistaflokksins, né frásögn af bralli kanadískra auðherra, eins og Ottwald hafði gert. Það taldi Lukàcs rjúfa heildarmyndina, og endurskapa þarmeð glundroða auðvaldsins. Hann vitnaði til Gorkí og Panfjorov sem fyrirmynda um samræmda heildarmynd í sögu. Hér virðist endurborin fornfræg kenningin um einingarnar þrjár (samfelldur tími og persónuhópur á sama stað), því greinilega á að segja söguna frá sjónarhóli manns á staðnum.


Kenningar Lukàcs hafa orðið fyrir verulegri gagnrýni frá ýmsum marxistum, t.d. Ernst Bloch, 1938 (bls.51–9) og Theodor Adorno, sem benti á það, 1961 (bls.181–191), að Lukàcs gerði aðeins bókmenntalega greiningu á gömlu bók­mennta­verk­unum sem hann dáðist að, en ekki á hinum nýju, sem hann fordæmdi (Joyce, Kafka, Döblin, Dos Passos, m.a.). En einkanlega var það Berthold Brecht sem í lok 4. áratugsins skrifaði mikið gegn þessum kenningum Lukàcs. Hann sagðist 1941 (B, bls. 298–300) raunar alveg geta tekið undir það með Lukàcs, að borgaralegum skáld­sögum hefði hnignað frá því að borgarastéttin var framsækin. En hitt sé undarlegra, að Lukàcs ætlist til að rithöfundar láti eins og auðvaldsheimurinn hafi ekkert breyst. Hann geri þá ábyrga fyrir afmennskun þeirri og tómleika sem einkenni auðvaldskerfið nú á tímum, og þá einnig listaverk samtímans. Lukàcs sjái ekki að nútímarithöfundar geti ekki notað aðferð Balzac, sem skapaði skáldsögur með mikl­um einstaklingum — upp úr samkeppnisbaráttunni í Frakklandi eftir daga Nap­óleons. Samkvæmt þessari hefð sýni menn litríkar myndir tímaskeiðs í stað þess að setja fram skoðanir. En borgaraleg viðhorf ríki í slíkum verkum, enda leyfi hefðin ekki annarskonar viðhorf, sagði hann enn 1941 (D, bls.376–7). Lukàcs sjái heldur ekki að borgarastéttinni hnignar, og þar með borgaralegum bókmenntum, vegna þess að verkalýðsstéttin er á uppleið. Lukàcs sleppi því í rauninni stéttabaráttunni úr bók­menntasögunni (1941 C, bls. 317). Tækni sem notuð sé til að sýna úrræðaleysi (Joyce, Döblin, m.a.) geti orðið sósíalískum höfundum lærdómsrík, því þeir þekki úrræðin (1940, bls. 361). Leiðin út úr ógöngunum sé ekki að hverfa aftur til „hins gamla góða“, heldur þurfi að byggja á hinu nýja slæma. Til að verða aftur mennskur (ekki eins og áður) þurfi að hverfa inn í fjöldann, sem virki fólk til baráttu gegn af­mennskuninni, sem hljótist af auðvaldinu á fasísku skeiði þess (1941 B, bls.298). Brecht sagði 1938 (bls. 326), að venjuleg skoðun á raunsæi sé að listaverk sé þeim mun raunsærra sem raunveruleikinn sé auðþekktari í því. En hann teldi það þeim mun raunsærra, sem greinilegar verði sigrast á raunveruleikanum í því — með því að afhjúpa orsakasamhengi samfélagsins, og drottnandi sjónarmið sem sjónarmið drottnaranna. En það gerði oft erfiðara að bera kennsl á raunveruleikann (Arbeits­journal, 4/8. 1940). Í þessu kemur fram að framúrstefna í listum geti verið mikilvæg frá stjórnmálasjórnarmiði[7].


Enn njóta kenningar Lukàcs mikillar hylli. En mér sýnist ljóst, að honum hefur farið eins og mörgum öðrum bókmenntafræðingum, að leiða út af takmörkuðum flokki verka kenningar sem áttu að ná mun víðar. Þetta virðist óhæfileg íhaldssemi. Hvað varðar hugmyndina um miklar persónur, má nefna, að 1928 sagði t.d. bók­menntaumfjölluður L'Humanité, blaðs franskra kommúnista, að eina hugsanlega hetjan sé fjöldinn sjálfur — og kannski fáeinir hetjulegir einstaklingar, tákn sam­félagsins (Bernard, bls.184). Þannig er t.d. hópur byltingarsinna söguhetjan í skáld­sögu Malraux: Hlutskipti manns. Enn fráleitari virðist krafan um einingu sögu­staðar, sögutíma og persónuhóps, bæði síðastnefnd skáldsaga; dr. Faustus eftir Thomas Mann og Í leit að horfinni tíð eftir Proust eru til vitnis um að hún er of þröng, svo fáein glæsileg dæmi séu talin. En vissulega þurfa mismunandi atriði skáldverks að vera samstillt að einu marki, til að það verði áhrifaríkt.


Kenningin um hnignun borgaralegrar menningar og andúð á framúrstefnu ríkti áfram hjá stalínistum (sbr. t.d. um Kína á 8. áratuginum; Chai Pien, bls. 27–8 og 31). Mao Ze dong setti hana fram á minnisstæðan hátt í Jenan-erindum sínum 1942 (bls.169):


Öreigastéttin „hlýtur að taka afstöðu til lista og bókmennta fyrri tíma eftir afstöðu þeirra til alþýðunnar og eftir því, hvort þær hafa stuðlað að framförum, skoðaðar í ljósi sögunnar.“ Verk sem séu pólitískt afturhaldssöm geti vissulega haft listrænt gildi, en þau séu þá þeim mun skaðlegri alþýðunni, og þeim mun ákveðnar verði að hafna þeim.


Þetta er fullkomlega andmarxísk afstaða, eins og hér ætti að hafa komið fram. Framangreindar kenningar um hnignun bókmennta og lista í auðvaldsþjóðfélögum eru enn mikið á flugi, og voru það á Íslandi á árunum milli stríða. Því þótti rétt að rekja elstu birtingarform þeirra sem ég þekki, og hverjar forsendur þeirra eru. Þær byggjast fyrst og fremst á rannsóknarlausum alhæfingum — gagnstætt boðskap Marx (í k.1.1) og á vélgengri efnishyggju; þeirri skoðun að andleg sköpunarverk hljóti að tjá beint ríkjandi viðhorf í samfélaginu, þ.e. viðhorf ríkjandi stéttar, og hljóti að móta lesendur beinlínis með þeim. Þetta er að loka augunum fyrir flóknu, díalekt­ísku sambandi ólíkra sviða mannlífsins — og þá einnig fyrir því, að verkalýðsstéttin verður sjálf að skilja raunverulegt umhverfi sitt til að sigrast á því, svo sem rakið var í síðasta kafla.


1.4. Öreigalist


Hafni menn mestallri list samtímans, t.d. vegna þess að hún sé gegnsýrð borgara­legum viðhorfum, þá hljóta þeir að óska eftir annarskonar list. Og margir létu sér ekki nægja byltingarlist, þrungna uppreisnaranda gegn samfélaginu, heldur væntu þess, að jafnvel á tímum auðvaldsdrottnunar muni öreigastéttin skapa sér sérstaka list, eðlisólíka borgaralegri list, svo sem sérstök borgaraleg list hafi greinst frá lénskri list, áður en borgarastéttin tók völdin. Engels virðist hafa orðið fyrstur til að viðra þetta sjónarmið. Í formála ítalskrar útgáfu Kommúnistaávarpsins, 1893 (bls. 590), bjóst hann við skáldi sem túlkaði anda hins nýja tímaskeiðs — á mótum auðvaldsskeiðs og sósíalisma, — líkt og Dante hefði gert á mótum lénsveldis og auðvalds.


Sá sem fyrst setti þessa kenningu skipulega fram, var hinsvegar Bogdanov. Hann hélt því fram, að ríkjandi hugmyndakerfi (ideológía) risi af skipulagsformi vinnunnar á hverju söguskeiði. Hann áleit þá einnig að hugmyndir manna breyttust sjálfkrafa eftir þróun framleiðsluaflanna. Hreyfiafl sögunnar taldi hann vera — ekki stéttabaráttu, eins og Marx, heldur tækniþróun (í samræmi við það var kjörorð Stalíns síðar: „Tæknin ræður öllu“. Lecourt, bls. 28). Af þessu leiðir Bogdanov, að með öreigastétt, sérstaklega í fjöldaframleiðslu, kvikni sérstakur hugsunarháttur bróðurlegrar samhjálpar. Hugsunarháttur bænda sé eðlisólíkur þessu, hann sé ein­staklingshyggja eins og hjá borgarastéttinni. Eyðileggingarandi hermanna sé einnig framandi eðli verkalýðsins, eins og valdboðsandi aðalsins. Þessi nýi hugsunarháttur verkalýðsins móti svo sérstakar öreigabókmenntir, nú þegar fyrir öreigabyltingu, eðlisólíkar fyrri bókmenntum og listum. Þetta nýja eðli birtist ekki aðeins í efni verkanna og anda, heldur einnig í formi þeirra, sem sé einfalt og með reglubundinni hrynjandi — eins og starfið í verksmiðjunum (Bogdanov, bls.273–5).


Bogdanov segist (bls. 195) fyrst hafa sett fram kjörorðið „Öreigamenning“ í lok ársins 1909. Mér sýnist hinsvegar Plekhanov hafa uppi svipaðar kenningar tveimur árum fyrr (bls. 838–43), hann taldi að í leikriti Gorkís Óvinirnir birtist öreigahetja af nýrri gerð; í stað einstakrar hetjudáðar komi langvarandi þolinmæðisstarf við að vekja alþýðufjöldann pólitískt. Þetta varð Plekhanov tilefni til að deila á bolsévíka, en hann var það sem nú er kallað krati. Hinsvegar hæddist hann að kenningu Bogdanov, skýringalaust, 1913 (bls. 295–6).


†msar tilraunir voru gerðar til að skilgreina öreigaeðli bókmennta og menningar, og er fróðlegt að sjá úttekt Gastev, eins leiðtoga hreyfingarinnar Öreigamenningar, á þeim, árið 1919 (bls. 57–63): Ekki þýðir að skilgreina öreigamenningu sem menn­ingu vinnunnar, því vinna hefur alltaf verið til. Stundum er sagt að þessi menning byggist á vitund launavinnumanna, en hvaða munur er þá á hugarfari öreiga og þrælasiðferði? Stundum er talað um baráttuvitund, uppreisnarhug eða byltingarhug, en hefur svo mikið breyst í sögulegu ferli byltingarstétta? Sérstaklega er mikið lagt upp úr samyrkjuandanum („kollektívisma“). En samyrkja er ekkert nýtt, og hún er af margskonar tagi, trúarleg, m.a. Ekki þýðir heldur að ákvarða öreigamenningu út frá ýmiskonar skipulagi verkalýðsins, svo sem ráðstjórn, verkalýðsfélögum eða stjórnmálaflokkum, því þetta eru bara ýmis form lýðræðis; fulltrúakerfis eða beins lýðræðis. Sovétin, svo dæmi sé tekið, eru pólitískt bandalag öreigastéttarinnar við kotbændur og meira að segja við meðalbændur.


Að þessu mæltu kemur Gastev með jákvæða skilgreiningu öreigamenningar, frá því sjónarmiði, að fólk mótist af vinnu sinni, öreigamenning mótist því af færi­bandavinnu og verkaskiptingu í stóriðju, stálgrindum, stórum einingum og stöðugri hreyfingu. Þessir framtíðarórar hans hafa í engu glatað gildi sínu (þótt afar lítið sé, því ámóta kenningar eru sífellt að koma upp): Starfshópar aðlagast vélkerfum, síaukin nákvæmni við vinnu gerir vitundina sérlega næma og skarpa, og skapar tortryggni gagnvart mannlegum tilfinningum, nú verður aðeins treyst á vélar. Ekki verður þá lengur til einstaklingsvitund, aðeins stöðluð sálarmynstur, tjáningarlaus andlit og sálarlaus, enga lýrik þekkja þau, og engar tilfinningar, mælitæki duga á viðbrögð þeirra, o.s.frv. í fáránleika. Hér virðast mér áhrif fútúrista greinileg.


Þessi kenning sýnist mér byggjast á misskilningi á þróun borgaralegrar menn­ingar. Upphaf hennar varð á Ítalíu 14. aldar, en verulega áberandi varð hún ekki fyrr en á 18. öld, í Englandi, Hollandi og Frakklandi. Hún þróaðist í harðri baráttu — oft byltingarbaráttu, borgarastéttar sem þegar var sterk efnahagslega og félagslega. Mikill hluti þessarar stéttar tignaði þó áfram menningu aðalsins. Af þessu leiðir, að nýr hugsunarháttur gat ekki sprottið upp sjálfkrafa hjá öreigastétt sem laut forræði borgarastéttarinnar efnahagslega, pólitískt, félagslega og menningarlega. Það er því auðskilið hversvegna Marx, Engels (yfirleitt), Lenín og Trotskí börðust gegn þvílíkum kenningum, sem leiða hugmyndaheim beint af efnislegum aðstæðum, þ.e. vélgeng efnishyggja.


Það var rétt fyrir Októberbyltinguna 1917, sem rússnesku útlagarnir Bogdanov, Lúnatsjarskí og fleiri stofnuðu samtökin Öreigamenningu (Próletkúlt). Þau höfðu það tvíþætta hlutverk að auðvelda verkalýðsstéttinni að tileinka sér hið besta úr menningararfinum — borgaralega — og að hjálpa henni til eigin listsköpunar. Hið fyrrtalda varð aðalstarfið, en þó voru stofnaðar margar listvinnustofur skv. Kerzencev, sem þar stóð framarlega í flokki. Hann sagði 1919 (bls. 24–8) að í hverri vinnustofu hafi 20–30 manna hópur fengist við leiklist, tónlist, bókmenntir eða myndlist. Þegar hópurinn var búinn að skapa eitthvað, átti hann að fara með það í verksmiðjurnar, því alþýðulist þurfti að koma til alþýðunnar, einnig taldist gagnrýni hennar nauðsynleg, og að stöðugt yrðu dregnir að nýir hópar og þeim leyft að spreyta sig, allir áttu að fá að fylgjast með. Tæknileg fullkomnun skipti miklu minna máli en að veita sköpunarhneigð alþýðu útrás. Í öreigaleikhúsum má ekki vera fastur leikarahópur, sagði Kerzencev, hvað þá atvinnuleikarar, því þeir dragist bara að borgarastéttinni við aðstæður þegar hún hefur menningarlegt forræði, eins og eftir byltinguna í Rússlandi[8].


Þrátt fyrir fyrrgreindan boðskap Bogdanov (k.1.2) um að verkalýðurinn þyrfti að tileinka sér —með stéttarlegri gagnrýni— listaverk með framandi stéttarafstöðu, þá ályktaði ráðstefna Öreigamenningar þetta sama ár, 1918, að einungis skyldi sýna leikrit sem ekki væru andstæð stéttarhlutverki öreiganna, né fylltu þá vonleysi. Alla ávinninga liðinnar menningar sem byggðust á félagslegri vinnu og bróðurlegu sam­starfi [þ.e. á eiginlegum hugsunarhætti öreigastéttarinnar, skv. Bogdanov] bæri að taka gagnrýnið upp. Og í höndum öreigastéttarinnar yrði listin að vera hvasst vopn kommúnísks áróðurs. T.d. ætti öreigaleikhús að vekja öreigafjöldanum vitund um rétt hans til að drottna yfir öllu efnahags- og stjórnmálalífinu, vekja honum skapandi orku, frumkvæði, dirfsku og baráttulöngun, og sýna fegurð sósíalískrar framtíðar (Proletkult,1918, bls. 129).


Hreyfingin Öreigamenning náði skjótri útbreiðslu, í lok ársins 1920 voru félagar hennar orðnir hálf milljón, hún var þá orðin jafnfjölmenn og kommúnista­flokk­urinn. En um 1923 hafði hún runnið niður í fáeina einangraða hópa í helstu borgum. Þegar á árinu 1922 kenndi Lúnatsjarskí (bls.122) um tilkomu nýju efna­hagsstefnunnar, NEP, vorið 1921: endurreisn efnahagsforma auðvaldsins hafi útrýmt forsendum sjálfsprottins starfs rússnesks verkalýðs, einnig á menningarsviðinu. Þýski fræði­maðurinn Lorenz (bls.15–16) tekur undir þetta og telur ennfremur að fjand­skapur bolsévíkaflokksins hafi orðið hreyfingunni örlagaríkur.


Sá fjandskapur eða gagnrýni kom aðallega frá Lenín og Trotskí. Þeir töldu að kenningin um öreigamenningu stefndi bandalagi verkalýðs og bænda í voða, því hún afrækti þá síðarnefndu. Trotskí fjallaði ítarlega um þessi málefni 1923. Hann sagði (bls. 224–6), að ef auðvaldskerfið byði öreigastéttinni tækifæri á þvílíkum blóma, menningarlega og listrænt, sem uppkoma sérstakrar öreigamenningar þýddi, þá væri ástæðulaust að umbylta auðvaldskerfinu. En það væri nú öðru nær, jafnvel eftir byltingu þyrfti öreigastéttin umfram allt að sigrast á vanþróun sinni með því að tileinka sér ríkjandi borgaralega menningu. Í þeim mæli sem hún gerði þetta og sósíalisminn kæmist á, hyrfi stéttareðli samfélagsins, í þessu tilviki öreigaeðlið. Alræði öreiganna sé millibilsástand, ferli frá auðvaldi til kommúnisma. Framverðir á þeirri ferð geti ekki heldur skapað nýja menningu, því menning sé samband fram­varðarins við stéttina. Þetta eigi enn frekar við um öreigastétt en borgarastétt, því ný menning alþýðu geti aðeins orðið til fyrir skapandi frumkvæði hennar sjálfrar. Trotskí hæddist að því 1932 (bls. 412), að þá var stefna sovéskra stjórnvalda sú, að skapa bæri öreigabókmenntir, en samt áttu Sovétríkin að verða stéttlaust samfélag á næstu fimm árum! Afstöðu Leníns má m.a. sjá af ályktunartillögu sem hann lagði fyrir þing Próletkúlt (og var samþykkt af því, 8. okt. 1920). Þar leggur hann áherslu á að verkalýðurinn þurfi að tileinka sér gagnrýnið allt það sem verðmætt sé í þúsunda ára sögu mennskrar hugsunar, en síðan segir: „Þingið vísi eindregið á bug öllum til­raunum til að klekja út sérstakri menningu, gera Próletkúlt sjálfstætt, óháð Alþýðukommissaríatinu fyrir menntamál, o.s.frv.; sem röngum fræðilega og skaðlegum í reynd.“ Trotskí sagði almennt um þetta 1938 (A, bls.448), að hvert raunverulegt listaverk hlyti að vera mótmæli gegn raunveruleikanum — þ.e. bylt­ingarsinnað — því í því kæmi fram krafa um samræmi og auðuga tilveru, þ.e. hin mikilvægustu lífsgæði, sem stéttasamfélag svipti fólk[9]. En orðið byltingarlist merkti annaðhvort: listaverk um byltinguna, eða þá listaverk sem væru gegnsýrð af anda byltingarinnar, hinni nýju vitund sem henni fylgdi. 1923 taldi hann (bls.262–3), að byltingarlist í þessum eiginlega skilningi orðsins væri ekki til, aðeins viðleitni í þá átt. Listin væri alltaf á eftir atburðarásinni (bls. 35). Skýring hans er sú (1924, bls. 468), að dulvitundin sé mjög mikilvæg í listsköpun, og tilfinningalífið breytist mun hægar en vitsmunaleg afstaða. Því sé mikið um að meðvitaðir byltingarmenn hafi smáborgaralegar tilfinningar (1923, bls. 170). Sannur listamaður geti því ekki valið að vild hvað hann gerir né hvernig. Svo dæmi sé tekið, hafi skáldskap Majakoffskí hrakað þegar hann snerist á sveif með byltingunni í skáldverkum sínum, því þá hafi hann farið útfyrir sinn mótaða tilfinningaheim bóhems og þarmeð sköpunargetu sína. Raunar hafi hann ekki átt annars úrkosta við þessar nýju aðstæður. Jafnvel öreigauppruni skálds tryggi ekki öreigaeðli verka hans, ekki heldur í félagi slíkra manna, því með því að helga sig listsköpun hafi hópurinn skilið sig frá öreiga­stéttinni við núverandi aðstæður (bls. 181 og 486). Skáldið hljóti að vinna úr umhverfi sínu, eins og O. Brik segir í merkri grein 1928 (bls. 144–8): Í rauninni segi hugmyndaheimur listaverks ekki fremur til um hugmyndaheim höfundar en álykta mætti að verkamaður sé heimsvaldasinnaður af því að hann vinni í fallbyssu­verksmiðju. Skáld hafi vissulega veigameira hlutverki að gegna en slíkur verkamaður í framleiðslunni, en hlutverk skálda sé þó einungis það, að tengja saman sundurleita þætti umhverfis síns.


En Trotskí sagði einnig um byltingarlist (1923, bls. 263–4), að í byltingar­baráttunni væri list sem herti verkamenn í baráttunni við kúgarana nauðsynleg og framsækin. Hún hljóti að vera þrungin félagslegu hatri — gagnstætt list sósíalískrar framtíðar — og raunsæileg, ekki í þeirri merkingu, að hún hafi tiltekið form, heldur hinu, að viðurkenna raunveruleikann eins og hann sé eða geti orðið. En einnig þegar listræn sköpun gangi sjálfviljug í þjónustu félagslegrar hreyfingar, hljóti hún að lúta eigin lögum, eins og vísindin gera fyrir sitt leyti, sagði hann 1938 (A, bls.462).


Nokkur mótsögn má þykja í þessu hjá Trotskí, en mér sýnist það skýrast af því, að hann sé hér ekki að tala um list, heldur um ólistrænt fjöldalesmál, sem keppi við reyfara og ástarvellur, eins og Johannes Becher boðaði síðar (í 1.5.).


Fram til 1928 ríkti stefna þeirra Leníns og Trotskís í Sovétríkjunum, allir skálda­hópar fengu jafnan styrk til starfa. VAPP, félag öreigaskálda óx þó mest, en það hélt uppi stefnu Öreigamenningar, svo sem nafnið bendir til. Aðrir skáldahópar deildu á það fyrir tilraunir til klíkudrottnunar og boðuðu frjálsa samkeppni liststefna, og LEF, hópur Majakofskí boðaði nútímalegt form. En einnig þessir hópar boðuðu að listin ætti að þjóna byltingunni (sbr. stefnuskrár LEF og Pereval).


Við dauða Leníns, 1924, mögnuðust mjög væringar í kommúnistaflokki Sovétríkjanna, og náðu hámarki 1927–9. Sigurvegararnir, undir forystu Stalíns, tóku þá almennt upp vélgenga efnishyggju Bogdanov. Hröð iðnvæðing og almenn samyrkja í sveitum átti að skapa grundvöll fyrir nýjan hugsunarhátt alþýðu, „sósíalíska manngerð“ (Lecourt, bls. 15–17). Við bættust afskipti stjórnvalda af list­sköpun. Árið 1928 samþykkti flokksstjórnin að bókmenntir og aðrar listir yrðu að vera með í baráttunni gegn vodka, og gegn borgaralegum og smáborgaralegum hugmyndaheimi. Útgáfufyrirtæki skyldu leggja áætlanir sínar undir flokkinn og fleiri samtök, og leita höfunda meðal hæfra kommúnista, verkamanna og bænda. Þá var um leið fyrirskipuð íhaldsemi í listum, t.d. að málverk skyldu vera góðar eftirmyndir. Í árslok 1929 var því svo lýst yfir, að stefna VAPP væri næst stefnu flokksins, og öll bókmenntaöfl hvött til að þjappa sér saman um það félag (Carr: Foundations[...]2, bls.439–442).


Enski Sovétsagnfræðingurinn Carr skýrir þessa stefnubreytingu svo, að VAPP hafi eftir langa mæðu tekist að draga flokksforystuna inn í bókmenntadeilur, enda hafi hún nú gripið eftir hverju tæki sem dugað gæti til að móta óróan og þvermóðskufullan almenning. Mér sýnist sem stefnubreytingin fylgi því eðlilega, að í stað þess að áður var talið að sósíalisma yrði einungis komið á alþjóðega, átti nú að skapa sósíalisma í einu landi. Hvernig átti þá áfram að afneita möguleikanum á sérstökum, sósíalískum bókmenntum þessa lands, eðlisólíkum borgaralegum bók­menntum?


Menn réttlættu þessa kröfu um flokksþjónkun bókmennta einkum með grein sem Lenín skrifaði í nóvember 1905: „Flokksskipulag og flokksbókmenntir.“ Það var ekki fyrr en 1930 sem farið var að nota þessa grein til að marka bókmennta­stefnu, og kom það tiltæki flatt upp á marga, m. a. ekkju Leníns (Eimermacher, 249–50). Hún sagði, að Lenín hefði aldrei sagt orð um það hvernig fagurbókmenntir ættu að vera, og að orð hans, sem nú var haldið á lofti: „Bókmenntastörf verða skil­yrðislaust og ævinlega að vera þáttur sósíalísks flokksstarfs, órjúfanlega tengdur öðrum þáttum þess“ ættu eingöngu við áróðursrit flokksins. Augljóslega á Lenín einkum við þau, en fagurbókmenntir virðast þó ekki undanskildar. Lenín leggur vissulega áherslu á að allir hafi frelsi til að skrifa og segja það sem þeir vilji.


En sérhver frjáls samtök (þar á meðal flokkurinn) hafa líka frelsi til að reka burt þá félaga sem nota skilti flokksins til að prédika skoðanir, andstæðar flokkinum.[...] Hér er um að ræða flokksbókmenntir, og að þær lúti flokksstjórn. (bls. 231–2, undirstrikun A. Ó).


Mér virðist að Lenín sé alls ekki að boða hvernig bókmenntir eigi að vera; til að mynda handa verkalýðnum. Hann er að tala um allt annað svið, hér sem oftar um það, að byltingarflokkurinn verði að vera samhentur í starfi. Í honum megi ekki þola menn sem útbreiði smáborgaralegar hugmyndir, þótt allir skuli frjálsir að segja, skrifa og prenta það sem þeir vilji. Við munum að Lenín vildi útbreiða rit Tolstoi meðal rússneskrar alþýðu, enda þótt hann kallaði Tolstoi afturhaldsmann, en hann hefði sem sagt ekki viljað fá hann í bolsévíkaflokkinn (sjá nánar Carr: Social­ism[...], 1, bls.57–8).


Mér virðist ennfremur að 1928 breyti sovésk stjórnvöld stefnunni um 180o, en það viðurkenna þau ekki, slíkt er alltaf gert í formi „ítrekunar á fyrri stefnu“. Á árunum 1929–32 setja þau bókmenntum það hlutverk að stuðla að fyrstu fimm ára áætluninni. Þær áttu að lýsa uppbyggingu sósíalismans og iðnvæðingunni, sýna þróun nýrrar manngerðar, sovétmannsins, sem væri iðinn, agaður og viðkunnan­legur, og gera átti lítið úr örðugleikunum á að skapa nýja framtíð, lýsa bar flóknu umskiptaferlinu frá einstaklingsbúskap til samyrkju (Eimermacher, bls.253). Þarna er bókmenntum ætlað að hafa áhrif á afstöðu fólks til dægurmála. Vélgeng efnis­hyggja Bogdanov lifir áfram m.a. í trúnni á sérstakan, heilbrigðan hugsunarhátt verka­lýðsins, sem sé þannig eðlisólíkur öðrum þegnum auðvaldsríkisins. Þótt þeirri kenningu væri hafnað á stofnþingi Alþjóðasambands byltingarsinnaðra rithöfunda í Kharkoff 1930, var hún þó áfram mjög sterk í þýsku hreyfingunni segir fræði­maðurinn Heintz (bls.13–14).


Þessi bókmenntastefna sovéskra stjórnvalda 1929–32 varð skjótlega fyrir gagnrýni. Miklir áhrifamenn í sovéskum bókmenntum, m.a. Gorkí, Sjólokoff og Fadejev, hörmuðu opinberlega, hversu lélegar væru bókmenntirnar sem fjölluðu um áætlunina miklu. Og æ fleiri kröfðust meira frelsis í bókmenntum (Eimermacher, 254). Sovétstjórnin leysti þá upp VAPP og aðra rithöfundahópa, 1932. Í staðinn voru 1934 stofnuð ein samtök fyrir alla rithöfunda, sem styddu stefnu Sovétstjórnar­innar og fylgdu stefnu sósíalísks raunsæis. Í fyrsta skipti í sögunni var skáldum heils ríkis skipað í ein samtök, og um sameiginlega bókmenntastefnu. Rithöfundum var raunar í sjálfsvald sett hvort þeir gengju inn í hið nýja samband eða ekki. En eins og Struve bendir á (bls. 229–30), verður það frelsi heldur loftkennt í ljósi þess, að inngöngu fylgdu mikil forréttindi um starfstyrki, útgáfu bóka o.fl. Og manni verður hugsað til fyrrgreindra háðsyrða Marx um „rithöfunda með starfsréttindi“ 1842 (B, 71–4). En hér finnst mér þurfa að leggja áherslu á samfelluna. Sósíalrealismi er ekki ný stefna, sköpuð 1934. Skilgreining hans á stofnþingi Rithöfundasambands Sovét­ríkjanna er nánast útdráttur úr ræðu Sjdanov, fulltrúa flokksstjórnar þar[10].Og hann talar um hvernig sovéskar bókmenntir séu (bls.352)[11], enda var skilgreining sós­íal­realismans fyrst og fremst ítrekun á stefnuskrá VAPP, Félags öreigaskálda, en þar segir, 1923 (bls. 96–8): Öreigabókmenntir eiga að móta sál og vitund lesenda, eink­um öreiga, í átt að lokamarkmiðum öreigastéttarinnar. 1925 segir stefnuskráin, að öreigabókmenntir hafi að efniviði samtímaraunveruleikann, sem öreigastéttin skapi sjálf, einnig byltingarrómantík lífs hennar, baráttu í fortíð og sigurvinninga í framtíð. Vitaskuld geti sá einn verið öreigaskáld, sem taki virkan þátt í sam­félagslífinu, í sameiginlegri baráttu, og í uppbyggingu framvarðar öreiganna[12]. Innihaldið skipti miklu fremur máli en formið, en þó skyldi stefnt að einfaldleika mikilfenglegra verka, víðfeðmum myndum og heildarmynd, sem þróist dýnamískt í verkinu (bls. 99–100. Þessi skilgreining er e.t.v. gerð eftir klassískum rússneskum skáldsögum, Tolstoj, Dostojefskí, o.fl.). Þessi stefnuskrá gengur svo alveg aftur í skilgreiningu sósíalrealisma, 1934:


Sósíalískt raunsæi er grundvallaraðferð sovésks skáldskapar og bókmennta­gagnrýni. Það útheimtir að listamenn gefi sanna mynd af raunveruleikanum og skynjanlega sögulega, í byltingarþróun hans. En þetta verður jafnframt að tengja því verkefni að endurmóta hugmyndir vinnandi lýðs og ala hann upp í anda sósíalismans[...] Skapa ber verk, mettuð hetjulegri baráttu öreiga veraldar, mikilfengleika sigurs sósíalismans, og sem endurspegla hina miklu visku og hetjuskap kommúnistaflokksins. (Eimermacher, bls.254 og Ermolaev & Bärbel, bls.8).


Sjdanov sagði eins og Gorkí, hinn aðalleiðtogi þingsins, að byltingarrómantík væri nauðsynlegur þáttur í stefnunni. „Það verður engin draumsýn, því nú þegar er verið að undirbúa framtíð okkkar með meðvitaðri, skipulagðri vinnu“ (bls. 352).


Þessi skilgreining er kannski að einhverju leyti dregin af skáldsögum Gorkís, en fyrst og fremst af sögum fimm ára áætlunarinnar (sýna ber veruleikann í byltingarummyndun, hetjur stéttarbaráttunnar, o.s.frv.). Annars er hér ekkert nýtt, nema hvað nú er ekki skírskotað til öreigastéttarinnar, heldur til flokksins, og ekki lagðar línur um form. Margir hafa talað um hve óljós stefnan sé, t.a.m. að hún greinist ekkert frá raunsæisverkum fyrri tíma (Eimermacher, 254; Struve, 239–246). Munurinn er þó greinilega sá, að nú eru boðaðar jákvæðar bókmenntir með fyrirmyndarhetjum. En það hafði verið almennt viðhorf öldum saman, að bók­menntir ættu þannig að innræta lesendum guðsótta og góða siði. Breytingin er pólitísk, en ekki bókmenntaleg. Plekhanov sagði 1911 (bls. 498 o. áfr.) um upplýsingarmenn að þeir hafi haft þetta bókmenntaviðhorf, og að það byggist á söguskoðun hug­hyggjunnar: Þeir álitu að hugmyndir stjórnuðu heiminum, böl heimsins væri þá vegna þess að menn fylgdu röngum hugmyndum, og úr því mætti bæta með því að útbreiða réttar. Því dæmi þessir menn listaverk eftir því hvort þau byggist á réttum hugmyndum, í stað þess að sjá listaverkin og hugmyndirnar sem sögulega ákvörðuð. Plekhanov féll sjálfur í þessa gryfju síðar, svo sem hér hefur komið fram[13].


Georg Lukàcs hefur manna best útfært boðun sósíalrealisma. Hann segir t.d. 1932 (A, bls.139–49) að höfundur eigi að taka afstöðu með verkalýðsstéttinni, sérstaklega þó með þróaðasta hluta hennar, kommúnistum. Raunsæ mynd hans af hlutlægum veruleika sýni þá örlög þeirra krafna sem vaxi áþreifanlega af stéttar­baráttunni. Þannig birtist í samtíðarmynd hans þær hneigðir sem muni sigra í framtíðinni, í sósíalismanum. Þessi krafa um afstöðu höfundar til stéttabaráttu nú­tímans er helsta viðbót Lukàcs við Engels á þessu sviði — og má þó segja að Engels tali í þessa veru í fyrrnefndu bréfi sínu til Harkness, þegar hann sagði, að rangt væri að sýna verkalýðinn sem óvirkan massa 1888 (k.1.2.hér) — en annars fylgir Lukàcs honum jafnan. Hann tekur það eftir Engels, að skáldskapur eigi að sýna týpur, dæmigerðar persónur. †msir boðuðu þetta í Sovétríkjunum á fyrri hluta 4. áratugsins, en aðrir töluðu um að sýna þyrfti hetjur (Struve, bls.246). Þetta týputal er svo fornt að stofni — hughyggja Platóns — og svo útbreitt í því formi, að hér má vitna til íslenskrar gerðar. Grétar Fells skrifar í greininni „List“, 1929 (bls.123), að aðalhlutverk listarinnar sé að opinbera frummyndirnar á bak við ásýnd hlutanna — og listaverkin séu því betri sem þau fari nær frummyndunum. Þau sýni því „ákveðn­ar manntegundir. Einstaklingarnir sem koma fram á sjónarsviðið, eru full­trúar heilla flokka, persónugervingar hugmynda og meginreglna.“


Hughyggjumenn telja þessar týpur í grundvallaratriðum eilífar, óumbreytanlegar (frummyndir), en marxistar telja þær sögulega mótaðar við tiltekin þjóðfélagsskilyrði eins og önnur fyrirbæri mannlífsins.


Fyrst nú ekki er um stefnubreytingu að ræða, 1932–4, hvernig á þá að skýra þessi afskipti stjórnvalda af starfi rithöfunda?


Það er í fyrsta lagi nærtæk skýring, að aðstæður hafi nú verið allt aðrar en í byltingunni, byltingaröflin hafi styrkst mikið á hálfum öðrum áratug eftir hana, samyrkju hafði verið komið á, og mikil iðjuver reist með fjöldaátaki. Þetta var líka skýring stjórnvalda 1932, að sigrar sósíalískrar uppbyggingar hefðu leitt til mikils vaxtar bókmennta og lista undanfarin ár, bæði að magni og gæðum. Vegna þessara sigra væri nú ekki lengur þörf á sérstakri bókmenntahreyfingu öreiga, og hætt við að hún yrði verkfæri klíku.


Við sáum áður að flest sovésk skáld vildu leggja byltingunni lið með verkum sínum. Og greinilega þótti þeim verða rýmra um sig nú í heildarsamtökunum, en áður var. Tiltölulega mikið frjálslyndi ríkti 1932–6, miðað við það sem áður gerðist, nú gátu menn rætt hvort fylgja skyldi fyrirmynd sígildra rússneskra höfunda eða vestrænna samtímahöfunda svosem Joyce, Proust og Dos Passos. Flestir hölluðust víst að Balzac. Og hneigð til hefðbundins forms ríkti æ meir í Sovétríkjunum frá því um miðjan 3. áratuginn (Struve, bls. 240). Eftir rithöfundaþingið 1934 komust svo­nefndir „förunautar“ aftur fram á sviðið. Þeir höfðu jafnan verið vinsælustu skáld Rússlands, hlynntir byltingunni, en töluðu til lesenda með borgaraleg viðhorf (sjá t.d. Bernard, bls. 39–41, 45–6,116–117). Þetta er eðlileg afleiðing þess að sósíal­realismi greinist ekki frá hefðbundinni raunsæisstefnu í öðru en því, að sýna hetjuskap sósíalískrar verkalýðsbaráttu, vera jákvæðar fyrirmyndarbókmenntir. Kristinn E. Andrésson miðar —eðlilega— við þetta skeið þegar hann skilgreinir sósíalrealisma, 1971 (bls.179 o.áfr.), en þó er ofmælt hjá honum að stefnan taki „í raun alls ekki til fagurfræðilegra sjónarmiða, stíls eða málfars né viðfangsefna í list­um.“ Sjálfur setti hann mun þrengri skorður (sbr. k.4.2.).


En í ógnaröldinni miklu, 1936–8, urðu sérstaklega harðar ofsóknir gegn lista­mönnum í nafni baráttu gegn formalisma (þ.e. gegn módernisma) og gegn vinstri öfgum (Eimermacher, 255). Þennan fjandskap stalínista við bókmenntanýjungar er eðlilegt að sjá sem framhald af kenningunum um hnignunarlist (sem raktar voru í síðasta kafla), en hann er einnig rökrétt afleiðing af því, að þeir vildu nota bók­menntir sem tæki til að móta fjöldann. Þá þurftu þær að vera umsvifalaust aðgengilegar, þ.e. gamalkunnar að formi. Einnig hefði verið erfitt að hafa stjórn á skáldverkum að öðru leyti, ef mikið frelsi og fjölbreytni ríkti í formi. Ævinlega afneitaði stefnan sjálfstæði listsköpunar, veruleikann skyldi sjá á ákveðinn hátt og með tiltekinni afstöðu, jákvæðri í garð stjórnvalda og ríkjandi stjórnskipulags. Og það sem mestu máli skiptir, er að nú var bókmenntasköpun beinlínis lögð undir flokksforystuna — í gegnum lið kommúnistaflokksins í Rithöfundasambandinu. Flokksforystan tilnefndi síðar menn beint í stjórn Rithöfundasambandsins, þvert gegn reglum þess (það var 1939, segir Eimermacher, 255). Og yfirvöld höfðu stjórn á styrkjum til höfunda og á útgáfu bóka þeirra.


Hvað varðar gæði þessara bókmennta, þá yrði erfitt að dæma um allt þetta, enda hefi ég ekki þekkingu til heldur. Skömmu eftir 1932 var sagt af opinberri hálfu, að 75% af bókmenntum áætlunarinnar miklu ættu ekki erindi annað en í ruslakörfuna (Struve, bls.229). Kristinn E. Andrésson tekur 1971 (bls.80–97) sem stórmerkilegt dæmi þessara bókmennta skáldsöguna Hinn annar dagur eftir Ilja Erenburg (1935). Mér finnst hún vera tilkomulítið klisjuverk. En það segir vitaskuld ekkert um gildi stefnunnar. Síðar verður hugað að íslenskum bókmenntum af þessu tagi (5.k.).


Hér þarf að víkja aðeins að sósíaldemókrötum. Við sáum (í k.l.3.) að löngu fyrir klofninginn milli þeirra og kommúnista, voru kenningar um borgaralega hnignun mjög útbreiddar meðal leiðtoga sósíalista. Og raunar voru kenningar um öreiga­menningu útbreiddar meðal sósíaldemókrata alþjóðlega, einkanlega meðal ung­lið­anna. Merkilegast er að þessi viðleitni til menningarbaráttu kemur í stað póli­tískrar baráttu, eftir 1920, skv. danska fræðimanninum Ib Bondebjerg (bls.220). Hann skýrir það sem eðlilega afleiðingu endurskoðunarstefnu sósíaldemókrata. Þeir álitu að við efnahagskreppu auðvaldsins yrði efnahagslífinu æ meira stjórnað félagslega, með þjóðnýtingu, löggjöf og öðrum aðgerðum þar sem sósíalistar hefðu veruleg áhrif. Þannig yrði friðsamleg, hægfara þróun til sósíalisma — en menningar­lífið drægist afturúr, mótað af smáborgaralegu hugarfari og gróðafíkn. Til að bæta úr því, og fylgja eftir eðlilegri þjóðfélagsþróun á öðrum sviðum, þyrfti sósíalísk leikrit og skáldsögur, rekur hann eftir Julius Bomholt, helsta leiðtoga danskra sósíaldemókrata á þessu sviði (bls. 222–4). Sá rakti ennfremur í bók sinni Ar­bejderkultur, 1932, að til að ná þessum markmiðum þyrftu bókmenntir að vera uppbyggilegar, þ.e. styðja hugmyndir og gildismat verkafólks, sem væru andstæð öðrum stéttum. Bókmenntir áttu að fjalla um líf venjulegs verkafólks, sem væri skipulagt í verka­lýðssamtökum. Sýna bæri týpur en ekki sérkennilegar persónur, né skyldi leggja rækt við nákvæmni í sálarlífslýsingum. Týpurnar áttu að vera fyrir­myndarpersónur, og þær átti að sýna í samhengi samfélags og framleiðsluafla. Því áttu verka­lýðs­bókmenntir að vera bjartsýnar, „leggja áherslu á sköpunarmátt fólksins og samstöðu í baráttu“. Þær áttu að taka afstöðu, en sú afstaða mátti ein­ungis koma fram óbeint, í hlutlægri efnismeðferð. Formið átti að vera einfalt en jafn­framt tilkomumikið („monu­mentalitet“) málið átti að mótast af tilganginum („praktisk sprogbrug“), bókmenntirnar af hugmyndum (Bondebjerg, bls. 119–20).


Það fer ekki milli mála að þetta er sama stefna og sósíalrealismi kommúnista. Í framkvæmd er munurinn eingöngu hvaða stjórnmálastefna er sett fram, en ekki á hvern hátt bókmenntir áttu að gera það. Í bókmenntum krata er lögð áhersla á stéttar­samstöðu og fjöldabaráttu, gegn smáborgaralegum hugmyndaheimi, og einnig gegn því sem kallað er sjúklegt ofstæki og upphlaup kommúnista. Stéttarlegar áherslur minnka þó verulega eftir miðjan 4. áratuginn, eins og hjá kommúnistum (Bonde­bjerg, bls. 98–9, 108–9, 116–19). Einnig á Íslandi fylgja sósíaldemókratar iðulega þessari sömu bókmenntastefnu og kommúnistar (sjá k.4.2.2.).


Að lokum þykir mér rétt að gera útúrdúr fram í tímann, til að víkja að deilum um sósíalrealismann, sem ríkti áfram alþjóðlega í röðum kommúnista. T.d. sagði Lukàcs 1957 (bls. 554), að þótt sósíalískt sjónarmið gæfi skáldunum rétta vitund um sögulega mótun samtímans, nægði það auðvitað ekki til að sýna þá mótun réttilega í skáldverki (bls. 555), svo sem skáld þyrftu þó að gera. En þegar hér er komið, virðist Lukàcs telja sósíalrealisma heyra framtíðinni til, fremur en samtíðinni. Við hlið sósíalrealisma standi gagnrýnin raunsæisstefna („kritischer realismus“ — þar telur Lukàcs fornfræga realista og Halldór Laxness, m.a.) — og hún verði nauðsynleg áfram í sósíalísku samfélagi. Það sem sósíalrealismi hafi fram yfir hana, skv. Lukàcs, er að geta lýst gerendum hins nýja skipulags að innan — það hlýtur að merkja: með góðum sálarlífslýsingum á byltingarhetjum úr verkalýðsstétt — en gagn­rýnin raunsæisstefna geti aðeins lýst byltingarsinnaðri verkalýðshreyfingu að utan (bls. 557. Sama sagði t.d. Victor Serge 1926, skv. Bernard, bls. 295). Lukàcs taldi 1957 (bls. 559–60) að enn væri heildarsýn ekki orðin stíleinkenni sósíal­realískra verka, en æ meir væri skapað út frá henni áþreifanlegt augnablik í mannlífinu. Hér tekur hann enn skýrt fram að í verkinu sé í hnotskurn miðlað til­finningu fyrir heildinni, fremur en að lýsa flestum þáttum sem máli skipti.— Sam­félagið eigi ekki að birtast í hverju verki fyllilega („in extenso“), heldur vera sínálægt. Þannig séu einstök verk Balzac hvert um sig sjálfstæð listræn eining, en jafnframt séu þau hlutar af heildinni „Comédie humaine“. Heildarlíf samfélagsins birtist þá í forsendum verksins og afleiðingum, fléttum þess og samskiptum.


Greinilega gerir Lukàcs ekki grundvallarmun á sósíalrealisma og gamalkunnri raunsæisstefnu, nema í lifandi persónum úr verkalýðsbaráttu. Enda var ráðist á Lukàcs fyrir þetta, á skeiði pólitískra réttarhalda í Ungverjalandi 1949, af manni að nafni Márton Horváth — sem gat þó sjálfur ekki sýnt neinn annan mun en Lukàcs gerði! Nema hvað Horváth heldur því fram, að borgaralegir höfundar geti ekki vakið lesendur til baráttu gegn kerfinu í heild, aðeins gegn einstökum þáttum þess (bls.180–183). Samkvæmt skilgreiningu á borgaralegum viðhorfum sjá þeir sem þau hafa ekki út fyrir borgaralegt þjóðfélag. En marxistar sjá það sem heild, og telja að ekki þýði að berjast gegn einstökum ágöllum þess, heldur verði að ráðast á rætur meinsemdanna í sjálfri þjóðfélagsgerðinni, hagkerfinu. En þetta sannar ekki að áhrif borgaralegra höfunda á lesendur hljóti að takmarkast við viðhorf höfundanna, minn­um bara á t.d. afstöðu Marx og Engels til Balzac, eða Leníns og Lúxembúrg til Tolstoj, eins og rakið var hér að framan.


1.5. Alþjóðasamband byltingarsinnaðra rithöfunda


Utan Sovétríkjanna náðu félög öreigaskálda eða hreyfing um sköpun öreiga­bók­mennta sér aðeins á strik í Þýskalandi, skv. Bernard (bls. 269). En á þingi Sam­bands byltingarsinnaðra rithöfunda í Moskvu 1927 var myndað Alþjóða­sam­band byltingarsinnaðra rithöfunda. Eiginlegur stofnfundur Alþjóðasambandsins var svo haldinn í Kharkoff 1930. Hann lagði m.a. áherslu á að þjálfa verkafólk til ritstarfa með skýrslugerð um vinnustaði sína, svo sem skipulagt hafði verið í Sovét­ríkjunum síðan 1924[14], en þar var þá líka rekin herferð fyrir því, að verkamenn gerðu skáldverk úr efnahagslífinu (um uppbygginguna). Eins og Victor Serge sagði 1932 (bls. 61–3), þá gat þetta verið góð hugmynd í grundvallar­atriðum, að vekja hulda hæfileika fólks, sem aldrei hafði fengið að njóta sín. En það snerist í andstæðu þess, þegar verkamenn voru hylltir sem „meistarar bókmennt­anna“, um leið og þeir byrjuðu á skrifum, þreyttir eftir fullt dagsverk. Þessarar stefnu Öreigamenningar, dýrkun á hugmyndaheimi verkalýðsins, gætti síðan víða í Alþjóðasambandinu, þótt stofnfundur þess hafnaði henni, eins og áður var nefnt.


Í ályktun Kharkoff—þingsins, 1930 er ennfremur lögð áhersla á áróðursgildi skáldverka (bls.228):


Bókmenntir öreigastéttarinnar eru ekkert annað en vopn stéttabaráttu [...] Öreiga­ljóð eru laus við borgaralega þoku og innileika [„Intimität“]. Þau gera skáld­skap­inn að ræðustól stjórnmála.(bls. 226–7).


Helsti leiðtogi þýsku rithöfundanna, Johannes R. Becher, sagði þar (bls.201–2) að einmitt vegna stríðshættunnar væri brýnt að stofna þetta alþjóðasamband. Auk byltingarsamtaka öreiga í þróuðum löndum þyrftu þar að vera rithöfundar þjóðlegrar byltingar, talsmenn undirokaðra þjóða, minnihlutaþjóða og nýlenduþjóða, sem berj­ist gegn heimsvaldastefnu. Hér eru byltingarbókmenntum sett skýr markmið. Becher segir (bls.193) að helstu kjörorð svo sem „Verjum Sovétríkin“, „Styðjum byltingar­baráttu nýlendna og kúgaðra þjóða“, Berjumst gegn heimsvaldastríði“ þurfi skáldin að setja fram í mynd persóna og lífsreynslu. Þá verði að forðast skematísk skrif og leiðarastíl á skáldverkum. Eitt mikilvægasta verkefnið gæti verið að skrifa samtíðarsögu, þar sem stríðshættan yrði sett fram áþreifanlega í öllum sínum mynd­um, samtíðarsögu, sem drægist sem minnst aftur úr líðandi stund (auðkennt af E.Ó). Í baráttunni gegn stríðshættunni eigi byltingarsinnaðir rithöfundar að beina athygli sinni sérstaklega að æskulýð, bændum og vinnufólki, og að konum. Enda sé ekki aðalatriðið að keppa við borgaralegar toppbókmenntir, heldur við borgaralegar fjöldabókmenntir, sem séu svo sannarlega pólitískar og fullar af hneigð, sem oft sé ógreinanleg óæfðum lesendum. Auðvitað megi ekki gera sér neinar gyllivonir um út­breiðslumöguleika byltingarsinnaðra bókmennta fyrir valdatökuna, en stórum verra sé þó það sjálfvalda fangelsi, sem byltingarsinnaðir rithöfundar gangi í nú.


Hér er byltingarbókmenntum ætlað að beita sér að dægurmálum, m.a. Þar höfðu kommúnistaflokkarnir vitaskuld mótaða stefnu, sem flokksmönnum bar að beita sér fyrir opinberlega, hvaða skoðun sem þeir annars höfðu. En stefnan breyttist stund­um skyndilega. Öreigaskáldum bar að starfa í flokkunum, skv. Kharkov—ráðstefnunni 1930, sem ályktaði m.a. að bókmenntahreyfing öreiganna yrði að heyja skefjalausa baráttu gegn sósíaldemókrötum, meðal annars í hópi rithöfunda (Internationale Vereinigung, bls. 231). En svo var öllum kommúnistum fyrirvaralaust skipað að samfylkja með sósíaldemókrötum gegn fasistum, 1934. Sartre lýsti því 1948 (bls.307–16), hve illa þvílík vinnuskilyrði hafi leikið skáldskap kommúnista, þeir þyrftu sífellt að vera við því búnir að skipta fyrirvaralaust um skoðun, bókin sem þótti frábær í fyrra, yrði skyndilega úrelt, jafnvel háskaleg, pólitískt röng. Loks fari þessir rithöfundar að skrifa óljóst til að vera óhultir.


Þess ber að geta, að í raun lagði t.d. kommúnistaflokkur Frakklands meiri rækt við flokkstengsl viðurkenndra skálda en við yfirlýsta stefnu sína um öreiga­bókmenntir á árunum 1921–34 (sbr. Bernard, bls. 70–72).


Gegn framangreindri stefnu Alþjóðasambandsins mæltu ýmsir róttækir rit­höfundar. M.a. sagði bandaríski höfundurinn James T. Farrel, 1936 (bls. 222–4) að áróður væri til að hvetja fólk til tiltekinna aðgerða við tilteknar aðstæður. Þessar aðstæður breyttust hinsvegar oft á þeim langa tíma, sem skáldið þyrfti til að meðtaka efni sitt, melta það og vinna úr því. Síðan tæki útbreiðslan langan tíma, enda lítil lengstum (Joyce og Proust væru enn á útbreiðslustigi, tuttugu árum eftir að verk þeirra birtust), og alltof lítil til að hafa áhrif á almenning. Auk þessa sé eðlismunur á list og áróðri. Skáldsagan Hlutskipti manns eftir Malraux miðli lesendum mikilli tilfinningu fyrir kínversku byltingunni, óháð því hvort túlkanir hennar séu réttar pólitískt eða ekki. Waldo Frank, formaður bandaríska aðildarfélags Alþjóða­sam­bands­ins (League of American Writers) skrifaði í sama dúr, 1935 (bls.215), að listaverk veki fínlegt áhrifaferli, skapi heildarsýn yfir fortíð manna og framtíð. Það beri vitni um smáborgaraleg viðhorf að bregðast þessu mikilvæga, sjálfstæða verk­efni í baráttunni fyrir betra heimi, til þess að fara svo að fræða les­endur eða reka áróður í listaverki (bls.218). „Öreigaeðli“ verkins sé fremur lykill þess eða sýn við framsetningu, en efni þess. Því geti saga um smáborgara eða goðverur [vísun til Ulysses eftir James Joyce?] verið miklu meira byltingarverk en heill bókaskápur um verkafólk (bls. 219–220). Eins og Sartre síðar (bls. 289) sagði Frank að byltingarsinnaðir rithöfundar ættu að reyna að höfða til sæmilegs fólks í öllum stéttum, því allt væri það kúgað af auðvaldskerfinu (bls. 220).


Það er merkilegt að sjá svo marxísk viðhorf í deild Alþjóðasambands byltingar­sinnaðra rithöfunda, svo seint sem 1935. Og Íslandsdeildin gæti hafa þekkt til þessa, enda þótt þess sjáist ekki merki[15]. Hinsvegar vöktu deilur um expressjónisma í tímariti þýskra útlaga, Das Wort, alþjóðlega athygli á síðari hluta 4. áratugsins. Þar héldu Lukàcs o.fl. fram kenningunni um borgaralega hnignun þessara sam­tíma­bókmennta, sem áttu jafnvel að hafa leitt til fasisma, en Bloch, Brecht o.fl. töldu að expressjónískar bókmenntir hefðu haft mikið gildi við að sýna mótsetningar auð­valdsskipulagsins, þótt þær reyndu ekki að sýna hvernig þær bæri að leysa[16] (sbr.k. 1.3. hér).


1.6. Samantekt


Draga mætti saman af þessu, að þau viðhorf sósíalista til bókmennta sem borist gátu til Íslands, hafa sum verið ærið nýstárleg. Það á einkum við um grundvallar­atriði svo sem að menningarlífið mótist af þjóðfélagsaðstæðum, og að greina megi ákveðin stéttarsjónarmið í skáldverkum. Lengi er marxískt bókmenntaviðhorf fyrst og fremst bundið við viðtökur hvers kyns verka; og þá ekki síst að nota skáldverk til að fá fínlega innsýn í hugsunarhátt sem mótast hafði við tiltekin þjóðfélagsleg skil­yrði, og gat því sýnt þau einkar vel, m.a. þjóðfélagsaðstæður sem nú þurfti að takast á við. Í lok 19. aldar kemur hinsvegar upp meðal sósíalista alveg andstæð afstaða, að hafna samtímabókmenntum vegna þess að þær séu mótaðar af stéttarhagsmunum sem séu andstæðir hagsmunum verkalýðsins. Þessi afstaða er ekki afleiðing þess að annars­konar bókmenntir hafi orðið til, heldur forsenda þess að farið er að boða sósíalískar bókmenntir, sem eigi að rísa upp úr þeirri baráttu fyrir sósíalisma, sem nú væri orðin ólíkt meiri en var á dögum Marx. †miskonar kenningar eru um hvernig þær bókmenntir eigi að vera, allt frá því að þar eigi að leggja aðaláherslu á áróður, eða að þetta eigi að vera raunsæileg skáldverk sem lýsi lífi verkalýðsins og þó einkum baráttu hans fyrir sósíalisma, og loks er til sú útgáfa að þessi skáldverk eigi að vera gegnsýrð nýjum hugsunarhætti, sem mótist af samstarfi verkalýðsins við fram­leiðslu­störf, þar birtist „ný manngerð“. Athyglisvert er, að þessi viðhorf eru áberandi bæði meðal sósíaldemókrata og kommúnista, og verða ríkjandi a.m.k. hjá þeim síðarnefndu á árunum kringum 1930. Jafnframt þessu lifir áfram fyrri marxísk afstaða til listaverka, bæði að nota þau til innsýnar í ríkjandi hugsunarhátt, og þó enn frekar hitt, að sú lífsfylling sem velheppnað listaverk veiti, geri það byltingarlegt. Því þá hrífi það fólk út yfir þær þröngu skorður sem stéttaþjóðfélag setji því, sýni því þess eigin möguleika á auðugri tilveru, sem því sé meinað af auðvaldskerfinu. Svo miklar andstæður sem eru á milli þessarar tvennskonar afstöðu sósíalista til bókmennta og lista, þá blandast þær þó oft. Til dæmis bjóst Engels við öreigabók­menntum í lok 19. aldar, og helsti boðberi þeirra, Bogdanov, hefur manna best útlistað hinn pólinn, að öreigastéttin þurfið að tileinka sér gagnrýnið hverskyns bókmenntir. Sú stefna ríkti í Sovétríkjunum fram undir lok 3. áratugsins, en þá hurfu stjórnvöld skyndilega að stefnu Bogdanov og samtakanna Öreigamenningar, að boða skáldum að skrifa fyrirmyndarbókmenntir. Svo annað dæmi sé tekið, var Mao Ze dong manna mest hallur undir þá stefnu, en innan sinna marka sýnir hann þó góðan skilning á díalektískum tengslum skálda við lesendur. Og einmitt í því efni bar félagsskapurinn Öreigamenning af! Þetta samkrull verður skiljanlegra í ljósi þess, að óhjákvæmilegt er að svo andstæðar skoðanir spretti upp úr einni mikilli fjölda­hreyf­ingu. Sjálf uppreisnin gegn tilteknu þjóðfélagsskipulagi, gegn tiltekinni menningu, skapast af því skipulagi, af þeirri menningu, og mótast af henni. Og föðurlegt viðhorf til fjöldans, stjórnsemi, kom eðlilega upp hjá þessu lagi stjórnenda á öllum sviðum, sem skapaðist af vanþroska hreyfingarinnar.



Hér hefur verið reynt að draga fram meginatriðin í margvíslegum kenningum marxista um bókmenntir. Þar er byggt á frumheimildum sem gengu aftur á ýmsa vegu í fræðsluritum, sem nú eru miður kunn. Uppi voru margvísleg viðhorf til bók­mennta og andstæð hvert öðru, þótt öll væru kennd við marxisma, þegar hreyfingin sem hér skal um fjallað hefst á Íslandi, um miðjan 3. áratug aldarinnar. En skömmu síðar sigraði sú stefna í Sovétríkjunum að nú væri upp runnin öld sósíalískra bók­mennta, sem ættu að sýna byltingarbaráttu verkalýðsins, jafnvel að vísa veginn gagnvart dægurmálum. Á þeim grundvelli var myndað alþjóðasamband rithöfunda, sem hreyfing vor varð hluti af.



2. kafli


Aðstæður á Íslandi


Í þessu yfirliti um þjóðfélagslegan og menningarlegan bakgrunn bókmennta­hreyf­ingar vinstrimanna á Íslandi byggi ég að sjálfsögðu mikið á rannsóknum ann­arra, og verður sérstaklega að nefna doktorsrit Magnúsar Magnússonar frá 1985 um breyt­ingar á efnahagslífi Íslands, einkum um þróun verkalýðsstéttar, á tímabilinu 1880–1940. Það stangast á við ríkjandi túlkun handbóka í mikilvægum atriðum. Verður reynt að sýna það hér að því marki sem það snertir sögu okkar. Yfirlitið um menningarmál á 3. áratugnum er stuttort, en ítarlegri frásögn má fá í bókum Árna Sigurjónssonar og Halldórs Guðmundssonar.


2.1. Bakgrunnur


Einna mest umskipti hafa orðið í atvinnulífi Íslendinga og öðru þjóðlífi undan­farna öld, frá því um 1880.


Til landsins bárust stórvirk atvinnutæki, þilskip til að gera út á auðug fiskimiðin umhverfis landið. Þar munaði mest um tilkomu togaranna, sem fjölgaði mjög ört í upphafi 20. aldar.


Á sama tíma, frá því um 1870, þróaðist mikil síldarútgerð víða um land. Þorp mynduðust þá víða við strendur landsins, en einkum óx Reykjavík ört. Þjóðinni fjölgaði um helming á fyrstu fjórum áratugum 20. aldar. Bæirnir tóku við þessari fólksfjölgun og uxu því hratt, íbúatala þeirra þrefaldaðist á tuttugu árum 1910–30, Reykjavíkur í um 30 þúsund, og íbúatala annarra kaupstaða í tæpl. 20 þúsund alls, samanlagt rúm 40 % þjóðarinnar, og tæpur helmingur 1940. En ekki fækkaði þá að ráði í sveitum, úr um 67 þúsund í rúm 62 þúsund manns (1. tafla). Ef hugað er að því hvernig landsmenn þeir sem virkir voru í atvinnulífinu skiptust í starfsgreinar, þá yfirgnæfir frumframleiðsla a.m.k. fram yfir miðja 20. öld, en á því verða nokkuð jafnar og stöðugar breytingar til vaxandi fjölbreytni. En eftirtektarvert er, að þegar í lok 19. aldar er atvinnulíf Reykjavíkur orðið nokkuð fjölbreytt, handverk, verslun og þjónusta yfirgnæfir frumframleiðslu, og svo verður æ meir (3. tafla). Menn virðast ekki hafa gefið þessum sérstöku aðstæðum í Reykjavík nægan gaum þegar þeir gera mikið úr vanþróun Íslands á öndverðri 20. öld.


Í árdaga stjórnmálaferils síns gerði Einar Olgeirsson (1927 A, bls.91–2) stéttgreiningu eftir íslenska manntalinu 1920, sem sýndi að verkalýður væri réttur helmingur þjóðarinnar. Við mætti bæta embættis- og öðrum starfsmönnum hins opinbera því „vafalaust mun tíminn leiða það í ljós, að hvað hagsmuni snertir þá eiga starfsmenn ríkisins einmitt samleið með verkalýðnum.“


Þessi stéttgreining sýnir þá, að kommúnistar töldu að barátta þeirra ætti að geta náð til meirihluta þjóðarinnar, jafnvel þótt hún höfðaði ekki til sveitafólks. En raunar reyndu þeir einnig að ná til þess. Íslensk verkalýðsstétt varð til á skömmum tíma (sjá 2.töflu). En tengsl verkafólks við sveitina hafa á margan hátt verið sterk áfram. Þess sér víða stað í ritum frá þessum tíma, og er sláandi mynd af því í upphafi 2. bindis endurminninga Tryggva Emilssonar: Baráttan um brauðið. Tryggvi hrekst með fjölskyldu sína frá búhokri í Skagafirði til Akureyrar. En í fjölmennu verkamanna­hverfinu þar, Glerárþorpi, lifa flestir aðallega á búhokri áfram! En þar býðst stund­um launavinna að auki, og það gerir gæfumuninn frá hokrinu í sveitinni. Raunar er slíkt búhokur í borg fylgifiskur þess er sveitamenn flytjast á mölina víða um heim. Og nærri má geta að ekki hefur orðið nein stökkbreyting á hugsunarhætti sveitafólks við það að flytjast á mölina og teljast til verkalýðsstéttar. Reyndar var t.d. dönsk verkalýðsstétt um 1930 mestmegnis fólk sem hafði alist upp við aðrar aðstæður, einkum sveitalíf (Bondebjerg, bls. 40).


Ört fjölgaði í íslenskri verkalýðsstétt á árunum milli stríða. Starfandi verkafólk taldist um 11 þúsund 1920, 16 þúsund 1930, 20 þúsund 1940, það er að ótöldum fjölskyldum. Rúmur þriðjungur verkafólks bjó í Reykjavík þetta tímabil, og fór sá hlutur vaxandi.


Verkalýðsfélög


Fyrstu íslensku verkalýðsfélögin voru stofnuð skömmu fyrir aldamót (Báru­félagið 1894). Þeim fjölgaði mjög næstu árin (t.d. var Dagsbrún stofnuð 1906) og Alþýðu­samband Íslands var stofnað vorið 1916 af sjö verkalýðsfélögum með 650 félags­menn samtals. Það var jafnframt stjórnmálaflokkur sósíalista, Alþýðu­flokkur­inn (Einar Laxness, I,22). Skipulagning verkalýðsfélaga og kjara­barátta er gjarnan höfð sem mælikvarði á stéttarvitund verkafólks, og hún virðist þá töluverð, þegar þess er gætt að fátækt fólk þurfti að taka frumkvæðið að því að ganga í verka­lýðsfélag og greiða til þess, og það orð lá á, að því gætu fylgt atvinnuofsóknir. Minna en fjórðungur verkafólks var í verkalýðsfélögum 1920, en rúmur þriðjungur 1930. Í Reykjavík var það hinsvegar rúmur helmingur á árunum milli stríða, og þar verður ekki þvílík stökkbreyting sem varð á landsmælikvarða 1938, þegar lög um stéttar­félög og vinnudeilur skuldbundu verkafólk til að ganga í verkalýðsfélög (Magnús, bls. 205).


Ingibjörg Sólrún telur að um 1930 hafi flest verkalýðsfélög náð fram viður­kenn­ingu atvinnurekenda á samningsréttinum (bls.20), og rekur eftir Svani Kristjáns­syni (bls.23) að á 3. áratuginum líti verkalýðsfélögin svo á, að kaup verkamanna eigi að miða við framfærslukostnað. Því hafi kaup hækkað og lækkað eftir fram­færslu­vísi­tölu.


Það hefur svo jafnan verið talið, að þetta ástand hafi allt stórversnað til langs tíma með heimskreppunni 1930, enda var íslenskt efnahagslíf einhæft og mjög háð utan­ríkisviðskiptum.


tók kreppunnar að gæta 1930–31, þegar helstu útflutningsvörur stórféllu í verði, bæði sjávarafurðir [...] og landbúnaðarvörur, og nam verðhrun allt að 50% miðað við1929 [...] Kreppan hafði í för með sér gjaldþrot eða samdrátt fyrirtækja, uppflosnun bænda og mikið atvinnuleysi (500–700 manns á vetrum næstu ár) með fátækt og örbirgð alþýðu manna [...] var tap togaraútgerðar 1933–1937 talið um 5 millj. kr., og skorti 2 millj. í árslok 1937 til að eiga fyrir skuld­um [...]


segir Einar Laxness („kreppan“, en þá var tímakaup Dagsbrúnarmanna kr. 1.45, tap togaraútgerðar gerir því um 345 þúsund daglaun, þ.e. að meðaltali meira en árslaun 200 manna á hverju þessara fimm ára).


Svipuð frásögn er í annarri handbók:


árin 1931–33 var verðmæti útflutnings aðeins um 45 milljónir króna hvert ár, en hafði komist í 80 milljónir 1928.[...] Góð aflabrögð björguðu útgerðinni fyrstu ár kreppunnar eða fram til 1933. Þá varð afli tregur í nokkur ár nema helst á síld­veiðum. Hallaði því enn undan fæti, og loks kom þyngsta áfallið, þegar Spánar­markaðurinn lokaðist algerlega 1937 vegna borgarastríðsins þar í landi [en á árunum 1921–30 keyptu Spánverjar yfir 30% af öllum útflutningi Íslendinga, bls. 214]. Segja má að einhæf framleiðsla og óvæntir stríðsviðburðir hafi fram­lengt kreppuna á Íslandi fram til síðari heimsstyrjaldar


segir Heimir Þorleifsson (bls.201–2), en rekur síðan líkt og Einar Laxness aðgerðir stjórnvalda til að bæta úr, m.a. urðu tollabreytingar 1934 til að efla íslensk­an iðnað. Hraðfrysting fisks var mjög efld, t.d. voru sex frystihús reist 1936, og þau hafi verið komin nánast í hvert þorp 1944 (bls.216). Það er til marks um kreppueymdina, segir Einar Olgeirsson, 1980 (A, bls. 149) að 1932 voru meðalárstekjur verkamanna í Reykjavík aðeins þriðjungur af árskaupi verkamanns í fastri vinnu.


Ítarlegra yfirlit má fá um þetta hjá Magnúsi S. Magnússyni, og virðist þá undan­farandi frásögn gefa helsti dramatíska mynd. Það er mikið vegna þess, að kreppan er jafnan miðuð við næstu ár á undan, 1928–9, en það voru einstæð uppgangsár. Það kemur t.d. í ljós að útflutningur eykst á 4. áratug aldarinnar, einkum á freðfiski. Vissulega hrundi saltfiskmarkaðurinn í Spánarstríðinu — og í seinni heimsstyrjöld, en þá jókst útflutningur á lýsi, mjöli og freðfiski þeim mun meir. Og þótt útflutn­ingstekjurnar hafi verið minni 1931–35 en næstu fimm ár á undan, þá voru þær þó mun meiri en var á fyrra hluta 3. áratugsins og þar áður. Og hvað sem salt­fiskmarkaðinum leið, náðu útflutningstekjur upp fyrir fyrri hámörk á seinni hluta 4. áratugsins (sjá 4. og 5. töflu).


Einnig að öðru leyti breyta merkustu niðurstöður Magnúsar verulega þeirri mynd sem menn hafa yfirleitt gert sér af kreppunni. Hann rekur í fyrsta lagi, að atvinnu­ástand var alltaf árstíðabundið, og með kreppunni versnaði það einkum um hábjarg­ræðistímann. En samt virðist atvinnuástandið almennt lagast þegar á árunum1933–4, og verulega 1938. Samkvæmt þessu varð atvinnuleysi kreppuáranna ekki eins mikið og var um miðjan 3. áratuginn (sjá 7. töflu). Það er hinsvegar ekki fyrr en 1937–8 sem atvinna verður eins mikil og var 1928–30, en þau ár báru líka af, eins og áður segir. Atvinnuleysi hvarf svo gjörsamlega 1940, við hernámið. Þörf breska her­námsliðsins fyrir vinnuafl hleypti upp verði á því, atvinnuleysi hvarf, og auk þess jókst mjög fiskútflutningur til Englands, við hækkandi verð.


Svo greinilega sem kjör verkafólks versnuðu á árunum 1931–2, þá eru þau komin í samt lag þegar 1934, og batna síðan á heildina litið (6.tafla). Hinsvegar hefur verkfallsbarátta aukist mikið á 4. áratugnum[17], og sýnir það aukna stéttar­vitund verkafólks.


Verulegar þjóðfélagsbreytingar 4. áratugsins, ör vöxtur verkalýðsstéttarinnar og breytileg lífskjör, hafa haft áhrif á stjórnmálalífið og viðhorf fólks að öðru leyti. En viðbrögð urðu með ýmsu móti, sumir hafa örvast til uppreisnar gegn ríkjandi skipan, aðrir hafa á óvissutímum haldið sér í það sem þeir þekktu, en almennt mun tilhneig­ing til að andstæður magnist á slíkum tímum. Enda hafa þau áhrif sem fólk varð fyrir utanlands frá orkað í sömu átt; þaðan bárust fréttir af vaxandi átökum og and­stæðum, annarsvegar efldust Sovétríkin en hinsvegar fasistaríkin, og alltaf jókst stríðs­hættan. Því hefur löngum verið haldið fram að kreppan hafi skapað Kommún­istaflokki Íslands góð vaxtarskilyrði (sjá t.d. Einar Laxness tv.st.), en skv. upp­lýsingum Magnúsar hefur það aðeins getað átt við í tvö til þrjú ár eftir að flokkurinn var stofnaður í árslok 1930. Sumarið 1934 bætti flokkurinn við sig rúml. 400 atkvæðum frá því sem var árið áður, en útkoman varð aðeins 6% atkvæða í stað 7.5% (kjósendum hefur þá fjölgað um 45%!).


2.2. Stjórnmálaþróun


Fram í fyrri heimsstyrjöld fór flokkaskipan á Íslandi mest eftir afstöðu til sam­bandsins við Danmörku. Flestum mun hafa þótt það deilumál til lykta leitt með heimastjórn, 1918. Litlu fyrr riðlast flokkaskipanin, og koma þá til stéttaflokkar. Bændur á Alþingi mynduðu sérstakan þingflokk 1913, en í framhaldi af því var Framsóknarflokkurinn stofnaður, 16. des. 1916. Einn helsti frumkvöðull hans, Jónas Jónsson frá Hriflu, var og meðal helstu stofnenda Alþýðuflokksins/ASÍ fyrr á árinu, 12. mars. Þriðji flokkurinnn mótast á þingi 1922, í andstöðu við þessa stéttaflokka, og boðaði stéttasamvinnu. Það þinglið nefndist fyrst Borgara­flokkur­inn, en 1924 er stofnaður stjórnmálaflokkur undir nafninu Íhaldsflokkurinn. Sá flokkur sameinaðist litlum Frjálslynda flokkinum 1929 í Sjálfstæðisflokkinn. Fram á 4. áratuginn urðu ekki verulegar breytingar á fylgi flokkanna. Alþýðu­flokkurinn fékk 16% í fyrstu kosningum sínum, 1923, en lengstum fimmt­ung atkvæða síðan. Framsóknarflokkur fékk yfirleitt fjórðung til þriðjung atkvæða, Íhaldsflokkur/ Sjálfstæðisflokkur fékk oftast rúm 40%, einstaka sinnum meira. (8.tafla).


Eftir að þessi nýja flokkaskipan kemur til, fer Íhaldsflokkurinn með ríkisstjórn þangað til eftir kosningarnar 1927. En þá myndaði Framsóknarflokkurinn ríkis­stjórn, með stuðningi Alþýðuflokksins. 1932–4 var samsteypustjórn Fram­sóknar­flokks og Sjálfstæðisflokks, en 1934–9 Framsóknarflokks og Alþýðuflokks. Fram­sóknar­flokkurinn er því í stjórn allt tímabilið sem hér er til umræðu, og að undan­skildum tveimur árum er Alþýðuflokkurinn meðábyrgur honum allan tímann. Fylgdi þar Alþýðuflokkurinn kjörorðinu „Allt er betra en íhaldið“, enda fékk hann ýmsum baráttumálum sínum framgengt, þjóðnýtingu banka og fyrirtækja, og 1936 komst á löggjöf um almannatryggingar (sjá nánar Valdimar Valdimarsson, bls. 24–7).


2.2.1. Kommúnistar í Alþýðuflokki


Leidd hafa verið rök að því, að í stefnuskrá Alþýðuflokksins frá 1922 gæti áhrifa bæði kommúnista og sósíaldemókrata. Ingibjörg Sólrún (bls. 21). Meiru skiptir hér hitt, að í flokkinum voru bæði meðvitaðir sósíaldemókratar og kommúnistar, og að deilur hefjast milli þeirra 1922 – eða réttara sagt, milli hægra arms flokksins og vinstra arms, sem undir forystu Ólafs Friðrikssonar náði stjórn Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur. Það var í framhaldi af „Hvíta stríðinu“ 1921, þ.e. átökum um rúss­neskan fósturson Ólafs, sem var vísað úr landi. Talið er að í þessum átökum hafi mjög eflst andstöðuhugur margra Alþýðuflokksmanna gegn landssjórninni — og gegn flokksstjórninni, sem ekki stóð með Ólafi. Ári síðar, 11.okt. 1922, þá félags­fundur boð Komintern, Alþjóðasambands kommúnista, um að senda fulltrúa á 4. þing þess. Það var samþykkt með 60 atkvæðum gegn 28. Minnihlutinn sagði sig þá úr félaginu og stofnaði Jafnaðarmannafélag Íslands í næsta mánuði. „Voru jafnaðar­menn nú skipulagslega klofnir og sameinuðust aldrei eftir það“ segir Ingi­björg Sól­rún (bls.26–7).


Mikið fræðslustarf þurfti til að einhverjum umtalsverðum fjölda sósíalista yrði ljós munur kommúnista og sósíaldemókrata. Þykir mér líklegt að margir hafi ekki verið fróðari en Þórbergur Þórðarson, sem segist í Bréfi til Láru, 1924 (xxxi k.) vera bæði sósíaldemókrati og kommúnisti, því hann álíti æskilegt, að jafnaðarmenn komi á þjóðfélagsumbótum með þingræðisfylgi, en ef afturhaldið hindri það, þá þurfi byltingu. Vorið 1926 háði Ársæll Sigurðsson, einn leiðtoga kommúnista, rit­deilu í Alþýðublaðinu við Jón Baldvinsson, forseta ASÍ, um baráttuaðferð. Jón taldi, að jafnaðarmenn geti „með þingstarfsemi einni saman“ náð völdum í þjóðfélaginu. Kommúnistar töldu þá starfsemi mjög mikilvægan þátt í baráttunni — og Einar Olgeirsson hugsanlega leið til formlegrar valdatöku, ef lítið yrði um varnir af hálfu yfirstéttarinnar — en byltingarbarátta kommúnistaflokks og alþýðu væri þó höfuð­málið, þ.e. að alþýða tileinki sér yfirsýn og völd hvarvetna í þjóðfélaginu. Kommún­istar gagnrýna krata fyrir að vekja ekki þessa almenningsbaráttu, heldur stunda bara þingsalamakk. Ingibjörg Sólrún leiðir rök að því að þessi ágreiningur hafi lítt náð til almennings (bls. 51–5).Kommmúnistar stofna á þessum tíma til fimm blaða og tímarita víðsvegar um landið, til að kynna stefnu sína.


Ágreiningur varð fljótlega milli kommúnista og Ólafs Friðrikssonar, bæði um stjórnmálaviðhorf og starfshætti. Í bráð kom ágreiningurinn þannig fram, að komm­únistar vildu vinna opinberlega að stefnu sinni, en Ólafur vinna Alþýðuflokkinn „innan frá“ (Þór Whitehead, bls.13–14). Þessi ágreiningur leiðir til stofnunar Félags ungra kommúnista, í nóv. 1922, og Fræðslufélags kommúnista í nóv. 1924, sem átti „að skipuleggja starf andstöðuarmsins innan Alþýðusambandsins. Var félagið frem­ur fámennt, 30–40 manns“, segir Ingibjörg Sólrún (bls.27–8). Félag þetta lagðist svo niður í nóv. 1925, þegar Ólafur vildi ekki hlíta aga þess og víkja úr formanns­sæti Jafnaðarmannafélagsins, og í apríl 1926 segja kommúnistar sig úr Jafnaðar­manna­félaginu, að því er virðist til þess að losna við Ólaf. Í nóv. 1926 stofna þeir (um 20 manns) svo jafnaðarmannafélagið Spörtu (Ingibjörg Sólrún, bls. 29–34). Það sótti síðan um aðild að Alþýðusambandi Íslands á þingi þess í des. 1926. En umsóknin var felld, samþykkt að „aðeins eitt verkalýðsfélag og stjórn­málafélag á hverjum stað gæti verið í Alþýðusambandinu“ og loks samþykkti þingið, að ASÍ skyldi sækja um aðild að 2. Alþjóðasambandi sósíalista, en það hafði hingað til staðið utan alþjóða­sambanda. Tillaga þessi hafði ekki verið kynnt í verka­lýðsfélögum fyrir þingið (Ingibjörg Sólrún, bls. 34–7).


Þarna færist skyndilega harka í samskipti andstæðra arma flokksins. Hvað olli? Ekkert bendir til að kommúnistar hafi verið að ná neinum verulegum tökum á Alþýðuflokkinum, hvað þá annarsstaðar í þjóðlífinu, þótt þeir réðu flokksfélögunum á t.d. Akureyri, í Vestmannaeyjum, og Verklýðssambandi Norðurlands. Þeir voru minnihlutahópur, sem ógnaði ekki veldi krata. Samt voru þessar aðgerðir krata þeim mikilvægar, eins og Ólafur R. Einarsson hefur rakið[18]. Danski sósíaldemó­krata­flokk­ur­inn veitti þeim íslenska fjárhagsaðstoð, fyrst 1919 til að stofna Alþýðublaðið (15.000 krónur), aftur í kosningabaráttunni 1923 (5.000 kr.) og þá með því skilyrði, að hún yrði algerlega á sósíaldemókratískum grundvelli. Forysta danska sósíal­demókrataf­lokksins hafði fylgst með umsvifum kommúnista og Ólafs Friðrikssonar, og sagðist ekki vilja styðja afl á Íslandi, sem hún berðist gegn í Danmörku. Af ótta við áhrif kommúnista innan Alþýðuflokksins veitti danski flokkurinn honum engan stuðning á árunum 1924–6. En með fyrrgreindum sam­þykktum á ASÍ þinginu 1926 voru öll tvímæli af tekin um hver réði ferðinni, og nú hófst alþjóðleg fjársöfnun innan 2. Alþjóðsambandsins til styrktar Alþýðu­flokk­inum. Enn lagði danski flokk­ur­inn mest fram. Í þetta skipti fengust 40.000 kr. sem leystu Alþýðuflokkinn undan skuldabagga sem var að sliga hann, og næstu árin þurfti flokkurinn ekki á erlendri aðstoð að halda. Alls nam aðstoðin rúm­lega 60 þúsund krónum á áratugnum 1919–1928. Það samsvarar því, að 8–9 manns hefðu verið launaðir til starfa fyrir flokkinn þessi tíu ár[19]. Það er kannski enginn fjáraustur, en þó mjög mikilvægur stuðningur, þegar litið er á stærð íslensku þjóðarinnar. Hér þykir mér því komin skýringin á stefnubreytingu sósíaldemókrata 1926, en ekki hitt, að þeir hafi misst þolinmæðina vegna óbilgirni kommúnista, eins og Þór Whitehead telur, og segir að kommúnistar hafi verið útilokaðir frá forystu flokksins frá þessu ári að telja (bls.26). Þeirra óbilgirni kom síðar til.


Eftir fráfall Leníns1924 ályktaði 5. þing Alþjóðasambands kommúnista að sósíaldemókratar væru „höfuðstoð auðvaldsins“. En þessari hörðu línu var ekki fylgt eftir fyrr en tveimur árum síðar. Á 6. ráðstefnu framkvæmdanefndar Alþjóða­sambandins árið 1926 var sérstaklega varað við vinstri sósíaldemókrötum, og sagt, „að baráttuaðferð einingarfylkingarinnar sé ekkert annað en leið til að stjórna byltingarsinnuðum áróðri meðal fjöldans, að virkja hann og vinna meirihluta verkamanna til fylgis við kommúníska alþjóðasambandið.“ (Ingibjörg Sólrún, bls. 8 og 99).


Þarna er kommúnistum í rauninni bannað allt samstarf við leiðtoga sósíal­demó­krata, einnig vinstriarm þeirra. Þeir máttu hafa samstarf við óbreytta sósíal­demó­kratíska verkamenn. Ingibjörg Sólrún veltir því fyrir sér (bls.32–3) hvort þetta hafi valdið því að kommúnistar slitu samstarfi við Ólaf Friðriksson 1926. Hvað sem því líður, herti 6. þing Komintern enn á stefnunni, 1928, og gerði öllum kommúnista­flokkum skylt að framfylgja henni, án tillits til aðstæðna í hverju landi[...]


hafnaði öllum pólitískum bandalögum og lágmarksstefnumiðum, taldi allsherjar­kreppu kapítalismans vera á næsta leiti, og því tímabært að hefja lokasóknina gegn honum. Sósíaldemókrataflokkarnir væru bandamenn borgarastéttarinnar í verkalýðshreyfingunni, og því hættulegustu fjandmenn byltingaraflanna, sem ekki var leyfilegt að hafa neina samvinnu við [Jóhann Páll bls.89–90. Milli­heimild: Ingibjörg Sólrún, bls.10].


Í ljósi þessa er skiljanlegt að kommúnistum þótti illþolandi að vera komnir inn í 2. Alþjóðasambandið, enda töluðu þeir oft um svik þess við verkalýðinn, að þvert ofan í fyrri fyrirheit um að snúa heimsvaldastríði í byltingu, skyldu flokkar þess hafa tekið þátt í stríðsrekstri borgarastéttarinnar 1914–18, í nafni föðurlandsins á hverjum stað. Svanur Kristjánsson rekur (1984, bls. 211–12 og 233–4) ályktun um Ísland sem samþykkt var á 5. þingi Komintern, árið 1924 , en þar var íslenskum kommún­istum sett það verkefni að yfirtaka Alþýðuflokkinn (sambærilegir flokkar í Noregi og á Ítalíu höfðu gengið til liðs við Alþjóðasamband kommúnista). En Einar Olgeirsson boðaði aðra stefnu á fundi í Jafnaðarmannafélagi Akureyrar, í mars 1926, þegar hann rakti alþekkt rök Leníns fyrir því, að byltingarflokkur verkalýðsins hljóti að vera tiltölulega fámennur, og samhentur út á við (lúta lýðræðislegu miðstjórnar­valdi. Ingibjörg Sólrún telur, bls. 62, að þetta hafi þá verið nýtt sjónar­mið á Íslandi.). Sömu rök hafði Brynjólfur Bjarnason uppi 1930 (bls. 336–43), og þykist þannig sýna fram á að Alþýðuflokkurinn sé ónýtur sem baráttutæki alþýðu, og því þurfi kommúnistaflokk. Í samræmi við þetta var stofnun kommúnistaflokks yfirlýst markmið Spörtu frá upphafi hennar, í nóv. 1926, þ.e. fyrir ASÍ þingið, sem réðst gegn kommúnistum, eins og Svanur hefur bent á (tv. rit, bls.213). Þór Whitehead segir (bls. 25), að heimildamönnum sínum beri saman um að forysta Komintern hafi eftirlátið íslenskum kommúnistum að ákveða hvenær hentast væri að fara út í flokksstofnun, enda felst það í orðalaginu „sem fyrst“. Á 6. þingi Kom­intern, í júlí–sept. 1928 var svo samþykkt að íslenskir kommúnistar skyldu stofna sérstakan flokk, „og væru sex mánuðir nægur tími“ til undirbúnings (Ingibjörg Sól­rún, bls. 65–6). Landsráðstefna kommúnista (með 14 fulltrúa) var síðan haldin í Reykjavík í febrúar 1929, og „eftir hana er hægt að segja að beinn undirbúningur fyrir flokks­stofnun hefjist“, segir Ingibjörg Sólrún (bls. 80–81). Þar var stofnað Land­ssamband kommúnista, sem kom opinberlega fram, en leyndi félagaskrá sinni, segir Þór Whitehead (bls.23, þar er einnig milliheimild mín um Brynjólf). Brynjólfur Bjarnason sagði 1938 (bls.7) um þessa ráðstefnu:


Í raun og veru var þarna deilt um það, hvort stefna bæri beint að stofnun komm­únistaflokks, eða koma upp vinstri-sósíalistahreyfingu. Þeir sem vildu koma upp almennri vinstri-sósíalistahreyfingu, urðu í minnihluta. — Helsti talsmaður þeirrar stefnu var Einar Olgeirsson.


Það var í samræmi við hugmyndir kommúnista um samhentan byltingarflokk, að þeir vildu rjúfa tengsl ASÍ og Alþýðuflokks, til að sem flestir verkamenn yrðu skipu­lagðir saman til kjarabaráttu án tillits til stjórnmálaskoðana þeirra. En þetta álitu fleiri en þeir, og voru þó kyrrir í Alþýðuflokkinum (Ingibjörg Sólrún, bls.60–62). Forysta Alþýðuflokksins leit á þetta stefnuatriði sem tilræði við hann, og barðist harkalega gegn því.


Þá gagnrýna kommúnistar mjög stuðning Alþýðuflokksins við ríkisstjórn Fram­sóknar í tollahækkunum og hækkun skatta á alþýðu.


Kommúnistar taka nú að boða flokksstofnun sumarið 1930. Þeim var kröftuglega svarað; á ASÍ-þingi í desember það ár voru samþykktar tillögur þess efnis að enginn skyldi kjörgengur til trúnaðarstarfa hjá ASÍ (þar með talið til setu á þingum þess) nema hann lýsti því yfir að hann væri Alþýðuflokksmaður og í engum flokki öðrum. Ennfremur var samþykkt aukið vald ASÍ-stjórnar yfir fjórðungssamböndum, en kommúnistar réðu Verklýðssambandi Norðurlands. Einnig var samþykkt,


að blöð sem gefin væru út á vegum einstakra félaga innan Alþýðusambandsins [...] „skulu því aðeins álítast tilheyra flokknum, að sambandsstjórnin samþykki ráðningu ritstjóra eða kosningu ritnefnda blaðanna“ (Ingibjörg Sólrún, bls.89).


Þetta vildu kommúnistar ekki fallast á, enda réðu þeir 5 slíkum blöðum af 8, og hefðu misst allt nema umræðufrelsi í Rétti. Þeir Einar og Brynjólfur báru nú fram tillögu um vantraust á stjórn ASÍ, rökstudda


með því, að sambandsstjórnin hefði brugðist í verkalýðsmálum, gengið inn á bræðings- og afsláttarpólitík í þingstarfsemi sinni í stað þess að halda uppi and­stöðu gegn ríkisvaldinu, og vanrækt sósíalíska fræðslu í útgáfustarfsemi sinni, en notað Alþýðublaðið til að viðhalda borgaralegum hugsunarhætti hjá alþýðu.


Vantrauststillagan var auðvitað felld (53 atkvæði gegn 15) og kvöddu þá 17 þingfulltrúar með yfirlýsingu, og fóru að stofna Kommúnistaflokk Íslands með 9 öðrum fulltrúum kommúnistafélaga. Stofnþingið var haldið 29. nóv. — 3. des. 1930. Í stofnávarpi Kommúnistaflokksins segir meðal annars:


Samtakaheildin má undir engum kringumstæðum rofna. Baráttan gegn sósíal­demó­krötum er um leið barátta gegn sundrun íslenskrar alþýðu. Þess vegna hefur stofnþing Kommúnistaflokks Íslands samþykkt eftirfarandi tillögu:


„Kommúnistaflokkur Íslands mun að svo miklu leyti sem kostur er, starfa sem heild innan Alþýðusambands Íslands og hvetur deildir sínar til að sækja um upp­töku í sambandið.“(Ingibjörg Sólrún, bls. 91).


Einar Olgeirsson túlkaði þetta svo, 1979, að á hverjum stað hefði þá fulltrúaráð ASÍ ákveðið sameiginlegt framboð, svo sem hingað til (skv.Ingibjörgu Sólrún, bls. 92). Alþýðuflokkurinn hafnaði þessum tillögum — að undirlagi Jónasar frá Hriflu, taldi Einar Olgeirsson 1981 (bls.3). En mér er spurn hvort þær hafi ekki verið settar fram í trausti þess að svo færi, til að gera Alþýðuflokksforystuna ábyrga fyrir klofninginum í augum íslensks alþýðufólks — og þá jafnframt til að friða Einar Olgeirsson og aðra andstæðinga þess að stofna kommúnistaflokk þá þegar. Því mér virðist, að hefði Alþýðuflokkurinn samþykkt þessar tillögur, þá hefði Kommúnista­flokkur Íslands ekki verið tekinn inn í Alþjóðasamband kommúnista, þar sem fyrrnefndar ályktanir þess, 1926 og 1928, bönnuðu kommúnistum allt samstarf við krata. Þessu var svo hart fram fylgt, að kommúnistaflokkum Bretlands og Frakk­lands var bannað að draga sig í hlé fyrir frambjóðanda sósíaldemókrata, þar sem hann stóð betur að vígi gegn borgaraflokkum (í seinni umferð kosninga í Frakklandi hefur slíkt yfirleitt alltaf tíðkast gagnkvæmt, enda eru þar einmennings­kjördæmi. Ingibjörg Sólrún, bls.10–11). Ekki var slegið af þessari stefnu, þótt hún leiddi m.a. til þess, að franski flokkurinn tapaði fjórðungi atkvæða sinna til sósíal­demókrata 1932 (þ.e.fjórðungi milljónar atkvæða, Robrieux, bls.312). Hví hefði þá forysta Alþjóðasambands kommúnista átt að veikja stöðu sína með tilslök­unum við nýjan, lítinn flokk á Íslandi?


Klofningurinn varð að yfirlögðu ráði beggja aðilja, þótt andstaða hafi verið gegn honum í báðum fylkingum. Hann varð í samræmi við alþjóðlegt ástand, enda fyrir áhrif erlendis frá á báða aðilja. Hitt er svo annað mál, og þyrfti að rannsaka bet­ur, hverjir valkostirnir voru og hvaða áhrif klofningurinn hafði. Svo virðist (k.3.2.) sem hann hafi kynt undir verkfallsbaráttu víða. Mikið gekk saman með flokkunum fimm til sjö árum síðar.


2.3. Menningarmál og bókmenntir milli stríða


Íslendingum var það gamalkunnugt viðhorf, ekki síður en öðrum, að bókmenntir skyldu gegna samfélagslegum tilgangi. Of langt yrði að rekja margar þvílíkar yfirlýsingar, en minnistæður verður Guðbrandur biskup Þorláksson skömmu eftir siðaskipti, þegar hann hóf sína miklu bókaútgáfu með þeirri yfirlýstu stefnu að útrýma öðrum skáldskap en þeim sem þjónaði guði. En þetta tók hann eftir Lúther (formáli Sálmabókar, 1589). Kirkjan einokaði svo prentverkið samkvæmt þessari stefnu í nær tvær aldir, og birtist næstum ekkert nema guðsorðarit. Upplýsingar­menn tóku við einokun prentsmiðjunnar úr höndum kirkjunnar á síðasta fjórðungi 18. aldar, og notuðu á svipaðan hátt stefnu sinni til framdráttar. En eftir því sem á leið 19. öld aflétti þessari einokun, og prentmál varð smám saman fjöl­breyttara. Það var sérstaklega á síðustu áratugum 19. aldar sem blöðum og tímaritum fjölgaði, og þau birtu æ meir af hvers kyns frásögum og smásögum, mikið var þýtt eftir helstu sagnaskáld samtímans, og að fyrirmynd þeirra fóru æ fleiri Íslendingar að skrifa smásögur.


Annars ríkti rómantíska stefnan í íslenskum bókmenntum á síðari hluta 19. aldar, og fram á 20. öld í kveðskap. Meðal hugðarefna rómantískra skálda var það einkan­lega þjóðernisstefnan sem höfðaði til almennings á þessum tímum sjálfstæðisbaráttu. Ljóðlistin hafði mjög oft pólitískan tilgang, um allt land voru sungin hvatningarljóð um samstöðu í framfarasókn. Ekki minnkar þjóðernisstefnan í upphafi 20. aldar, þegar Ungmennafélagshreyfingin kemur til, en hún var sannkölluð fjöldahreyfing um allt land. Segja má, að nánast allt það fólk, sem kveður sér hljóðs í stjórnmálum og menningarmálum á árunum milli stríða, a.m.k. flest vinstrafólk, hafi fengið sína félagslegu þjálfun í þessum samtökum undir merkjum þjóðernisstefnu, bindindis, íþrótta og kristni; en samtökin stefndu m.a. að þegnskylduvinnu allt frá 1914 (sjá Geir Jónasson, bls. 121). Þetta eru því viðhorf sem söguhetjur þessarar ritgerðar búa að alla tíð, þótt þær snúist gegn þeim um hríð. Á hinn bóginn er þess að gæta, að mjög margt ungt menntafólk og skáld virðist ganga til liðs við Alþýðuflokkinn þegar á 3. áratugnum.


Raunsæisstefnan kom fram í íslenskum bókmenntum upp úr 1880. Hún reis m.a. gegn þjóðernisstefnunni sem hvarvetna ríkti í Evrópu, og lagði í staðinn áherslu á alþjóðleg vandamál, baráttu gegn stéttaskiptingu og kúgun, og á afhjúpun stein­gerðra stofnana. Þetta fráhvarf frá þjóðernisstefnu hefur verið talin ein helsta orsök fylgisleysis raunsæisstefnunnar á Íslandi á 19. öld (Heimir Pálsson, bls. 133).


Fyrstu boðberar raunsæisstefnunnar áttu ekki langa starfsævi á hennar vegum, þótt áhrif stefnunnar yrðu smám saman mikil á Íslandi. Þessi skáld voru öll lærisveinar Georgs Brandes í Kaupmannahöfn, og túlkuðu stefnuna svo, að bók­menntir ættu að taka samfélagsvandamál til umræðu, sýna einstaklinga sem sam­félagsverur.


Gestur Pálsson (1852–91) sagði t.d. 1889 (A, 92–3):


Skilyrðið fyrir andlegum framförum verður þessvegna byltingar í hugsunarhætt­inum. En skáldskapurinn er einmitt ekki einungis það besta, heldur líka hið venjulegasta meðal nú á tímum til þess að breyta hugsunarhættinum.


[og 1888, bls.68:] flestar mannúðar— og frelsishugmyndir sem bestu framfara­menn stórþjóðanna eru að berjast fyrir, eiga oftast nær rót sína að rekja til skáld­anna.


[1889 B, 70–71:] Við þurfum að fá leikritaskáld, sem getur dregið allt það, sem aflaga fer hjá okkur, fram á leiksviðið, og þar næst þurfum við að fá þau leikrit leikin, leikin vel. Brestir okkar eru slíkir, að þeir læknast ekki með nýjum lögum; þeir læknast yfir höfuð ekki með nokkrum sköpuðum hlut nema — háðinu.


Þetta leiðir hugann að Ibsen m.a. Gestur gekk svo langt í þessu, að telja jafnvel bætt skólahald tilgangslaust, nema bókmenntir og menntalíf blómgist fyrst (1889, B, 108). Það atriði tóku svo ýmsir upp á árunum milli stríða, en ofangreind bók­mennta­viðhorf Gests virðast mér þá ríkja hjá flestum. Gestur er fyrsta smásagna­skáld sem eitthvað kveður að á Íslandi. Hann samdi þó ekki nema átta sögur á einum áratug, sú fyrsta birtist 1882. Þær fylgja ofangreindri stefnu með því að ráðast á kúgun, mis­rétti og hræsni — af hæðinni frásögn, lítið ber á sögupersónum sem rísa meðvitað gegn þessu. En þær eru frekar á ferðinni hjá Einari H. Kvaran, félaga Gests, einkum eftir að hann snýr sér að skáldsagnagerð, 1908. Fyrstu smásögur hans, frá 9. áratug 19. aldar, voru gagnrýnar, líkt og sögur Gests, en síðar kemur jákvæður boðskapur um að fyrirgefa ávirðingar í stað þess að ráðast á þær. Sam­band við látið fólk vísar oft veginn til þessa kristilega bróðurkærleika, og sögurnar sýna fyrirmyndarpersónur og sinnaskipti mikilvægrar persónu til réttrar skoðunar; les­endum til fyrirmyndar. Þessi síðasttöldu atriði verða áberandi hjá hreyfingunni sem hér skal fjallað um. Sögur Einars urðu vinsælar, og eftir fyrirmynd þeirra skrifuðu t.d. Kristín Sigfússdóttir og Guðmundur Hagalín skáldsögur á 3. áratug aldarinnar. Mjög vinsælar voru líka sögur Jóns Trausta, sem fylgdi hefð raunsæis­stefnunnar, þær einkenndust svo æ meir af hetjudýrkun. Þeir Einar eru drottnandi fyrirmynd skáldsagnagerðar fram á 4. áratuginn, þegar Halldór Laxness rýfur þá hefð, og ýmsir taka að laga sig eftir honum.


Auk framantalins mætti nefna ýmis dæmi um bókmenntir helgaðar boðskap; um bætta meðferð á niðursetningum og dýrum, um kvenréttindi, bindindi, o.fl. Tvö ljóðskáld sem auk þessa ortu í anda sósíalismans urðu æ áhrifameiri framan af 20. öld, Þorsteinn Erlingsson og Stephan G. Stephansson. Nýrómantíska stefnan kom til skjalanna um aldamótin, og einkenndist af einstaklingshyggju, dulhyggju og feg­urðardýrkun. Sérstaklega vinsælir urðu Stefán frá Hvítadal með Söngvum föru­mannsins, 1918, og Davíð Stefánsson með Svörtum fjöðrum, 1919. Hjá þeim birtist sterk áhersla á lífsnautn, auk fyrrtalinna einkenna og syngjandi léttleika. Nýrómantísku stefnunnar gætti einkum hjá ljóðskáldum, og ríkti þar lengi, allur þorri ljóðabóka sem birtust á árunum 1930–34 reyndist vera í þeim anda eða eldri (skv. Guðrúnu, Sigríði og Vigdísi, bls. 135–6). En auk þess verður þar að telja leikrit Jóhanns Sigurjónssonar, sem birtust á öðrum áratug aldarinnar. Þessara strauma gætir og í Bréfi til Láru eftir Þórberg Þórðarson, 1924. En það sambland af skáldskap, ritgerðum, hugleiðingum og frásögnum mótast einkum af sósíalískum viðhorfum og mjög huglægum frásagnarhætti og nýstárlegum. Alþýðubókin eftir Halldór Laxness, 1929, er í svipuðum dúr, að vísu ekki eins skáldlegum. Báðar bækurnar eru óvægin gagnrýni á stöðnun og andleysi í íslensku menningarlífi og þjóðlífi, og vöktu víst víða hneykslun og reiði, en a.m.k. Bréf til Láru seldist mjög vel, einnig Vefarinn mikli frá Kasmír, þriðja skáldsaga Halldórs Laxness sem birtist 1927 (samin 1925). En þar gætir nokkuð hins mikla menningarumróts í Evrópu eftir fyrri heimsstyrjöld, auk framúrstefnu svo sem í kvæðum hans á þessum tíma. Fjallað verður sérstaklega um afstöðu hreyfingar okkar til bókmenntanýjunga (í k. 4.3). En hér verður þess að geta, að þeirra gætir nokkuð á 3. áratugnum, og virðist alls ekki illa tekið. Raunar var þá sumt útbreitt sem löngu seinna var farið að kalla öfgafullar nýjungar, þ.e. prósaljóð. En í heild fór ekki mikið fyrir bókmennta­nýjungum á þessum tíma, og síst hjá vinsælustu skáldunum. Í íslenskum skáld­sögum og smásögum ríkti hefð raunsæisstefnunnar næstum einráð fram yfir miðja 20. öld. Yrkisefnið var það mannlíf sem höfundar þekkja, það er einkum sveitalífið. Og um það var fjallað á hefðbundinn hátt.


†msir ungir menntamenn kvörtuðu undan kyrrrstöðu í menningunni, ekki síst kommúnistar og sósíaldemókratar. Má hér nefna sem dæmi stefnumarkandi grein Einars Olgeirsssonar (1926 A) þegar hann tekur við Rétti. Hún gengur öll í sömu átt og Bréf til Láru og Alþýðubókin, en er mun mildari, hvort sem því hefur valdið tillitssemi við áskrifendur eða annað. Einar rekur þar með dæmum hvernig „hið þjóðlega“ byggist oftast á hugsunarhætti sem mótast hafi við horfnar aðstæður, og sé því úreltur. Hið besta í íslenskri menningu sé komið erlendis frá, verst hafi hún orðið við einangrun. Jafnan er þungur róður fyrir boðbera nýjunga, segir Einar, og yfirleitt er barist gegn þeim í nafni fyrirrennara þeirra, sem menn hafa seint og um síðir meðtekið. Á sömu lund tala t.d. þrír kratar; Guðmundur Hagalín: „Nútíðar­bókmenntir Bandaríkjamanna“, 1934; Ragnar Kvaran (sonur Einars Kvaran) sem skrifaði hvassar ádeilugreinar gegn íhaldsemi í menningarmálum um 1930; og Sigurður Einarsson (t..d. „Nesjamennska“, 1932). Auk hans sigla aðrir rót­tækl­ingar nokkuð í kjölfar Ragnars framan af, einkum Kristinn E. Andrésson sem rakti hvernig hefðbundin sveitamenning víki fyrir borgarmenningu, einnig í sveitum (1933, B). Því efni gerði Skúli Guðjónsson sérlega glögg skil í stuttri grein: „Menningarástand sveitanna“, í Rauðum pennum 1935.


Þessari togstreitu fylgir áberandi viðleitni til heildarúttektar á íslenskum samtímabókmenntum. Þar sem talsmönnum þjóðlegrar menningarhefðar blöskrar rótleysi og eftiröpun nýjustu tísku (t.d. Guðmundi Finnbogasyni 1927 (bls. 316) og Sigurði Nordal 1928 (bls. 93–5, báðum í tilefni af Vefaranum mikla frá Kasm­ír), sjá hinir stöðnun, hugmyndaleysi skálda og getuleysi til að læra af því sem sé að gerast erlendis. Þar má enn nefna sem dæmi frægan ritdóm Kristjáns Albertssonar ritstjóra íhaldsblaðsins Varðar um Vefarann mikla frá Kasmír (1927 A, bls. 306, í Vöku eins og hinir tveir) og þannig segir Árni Hallgrímsson 1929 (B, bls. 416–17) um Fleygar stundir Jakobs Thorarensen, að það séu vel byggðar sögur og skrifaðar af húmor, sem óvenjulegt sé á Íslandi[20]. Í fyrrnefndum greinum segja þeir Sigurður og Kristinn, að hugarfarsbreyting hafi orðið með íslenskri borgara­stétt. Frjálslyndi hafi ríkt á tímum stríðsgróðans, en að honum eyddum komi þess í stað andstaða gegn hverju því sem ógnað gæti veldi hennar, svo sem hugmyndir um pólitískar umbætur, og þó ekki sé nema nútímahugmyndir um trúarbrögð og kyn­hvöt.


Það leiðir af þessum menningarátökum, að boðberar nýjunga deila á gagn­rýn­end­ur fyrir að spilla íslenskum bókmenntum með því að gera ekki nógu miklar kröfur til þeirra. Þannig skrifaði Tómas Guðmundsson 1927 (bls. 323—einn­ig um Vefar­ann):


að íslensk skáldsagnagerð sé að vissu leyti á slæmum vegi stödd. Og hættan er ekki fólgin í því, að eigi komi árlega út ýmsar bækur, er bera skáldhneigð þjóðarinnar ótvírætt vitni, heldur hinu, að á síðari árum hafa ýmsir forsjármenn íslenskra bókmennta verið að vinna að því með lýðdekri sínu að færa bókmennta­smekk þjóðarinnar niðurávið.


Svipuð orð viðhafði Halldór Laxness sama ár (A, bls. 118–19), og sama ár sagði t.d. Sigurjón Jónsson um Einar Þorkelsson, að hann sé utanvert við klíkuskapinn sem nú liti flesta ritdóma, og sé látinn í friði vegna þess að hann skrifi ekki ádeilur.


Enn er þessi ádeila á gagnrýnendur uppi höfð af Gunnari Benediktssyni 1938 (A, bls. 152), fyrir þá


linkind kunningsskapar og tillits til „erfiðra aðstæðna í uppvexti“ og „bókmenntastarfs í hjáverkum“ sem öðru meira hefur orkað til eyðileggingar á allri bókmenntagagnrýni hér á landi og þar með staðið mjög fyrir öllum bók­menntaþroska.


Þessi samdóma vitnisburður úr ýmsum áttum um þau öfl sem hömluðu nýsköpun í bókmenntum á árunum milli stríða, er í minnum hafandi við frásögnina hér á eftir. En þá átti líka bókaútgáfa erfitt uppdráttar á Íslandi. Mjög oft sést á titilblöðum skáldrita að útgefandi sé höfundur sjálfur, „nokkrir kunningjar“ eða þá að látið er heita fyrirtæki af þessu eina tilefni, svo sem enn þekkist. Á þessum tíma hefur þó bókaútgáfa verið ólíkt erfiðari en nú, Árni Hallgrímsson vitnar um það 1931(A, bls. 94), að flest skáld verði að basla við að gefa bækur sínar út sjálf, því flestir einstakl­ingar sem fengist hafi við bókaútgáfu séu hættir því, nema Þorsteinn M. Jónsson, vegna þess þá væntanlega, að það hafi ekki borið sig.


Þetta er skýrt með því, að á árunum milli stríða hafi afkoma alþýðufólks lengstum verið þannig á Íslandi, að það taldist gott ef það hafði fyrir brýnustu lífsnauðsynjum í sig og sína, bókakaup og skólaganga voru ekki á margra færi. Af þessu hlaust víta­hringur, sagði m.a. Jón Sigurðsson frá Ystafelli 1928 (bls. 65–75)[21]: Fáir kaupa bækur, því er upplag þeirra lítið, og hvert eintak dýrt; það veldur aftur því að fáir kaupa bækurnar. Jón vildi láta lækka bókaverðið svo að margir keyptu, hann kenndi skammsýni og kjarkleysi bóksala um vítahringinn. Ársæll Árnason svaraði sama ár með niðursallandi rökum, einnig Kristjáni Albertssyni, sem 1927 (B, bls. 372–5) hafði boðað ríkisforlag með stórupplög. Ársæll leiddi rök að því, að það myndi enn þrengja framboðið, því ekki gæti það forlag gefið allt út í stórupplögum, heldur myndi það einungis hirða auðseldustu bækurnar, sem nú bæru uppi sölulitlar bækur (bls. 265). Í staðinn vildi Ársæll að ríkið greiddi niður verð úrvalsbóka. Jóni benti hann á að mikið væri til af góðum bókum á gömlu, lágu verði, og seldust þó ekki.


Ríkisforlagið var svo stofnað 1928, Bókadeild Menningarsjóðs, og skyldi rekið fyrir þriðjung áfengissekta (en þá var vínbann). Það fékk neikvæð eftirmæli hjá forgöngumanni sínum, Jónasi Jónssyni frá Hriflu, 1940 (C, bls. 37–8): engin út­gáfuáætlun hefði verið gerð, svo titlaval réðst af þrýstingi höfunda, útkoman hafi orðið misjafnar bækur, sem flestar seldust illa. 1946 (bls. 273) sagði Jónas enn­fremur að tekjur sjóðsins hafi aldrei verið miklar og minnkuðu brátt eftir 1930, veslaðist útgáfan svo upp í prentsmiðjuskuldum.


Skáld áttu því varla nema tvo kosti: að steypa sér í verulegar skuldir og hættuspil með því að gefa sjálf út verk sín, sem fengu litla útbreiðslu, eða að leita á náðir tíma­rita. En þau virðast aftur hafa átt nokkuð örugga afkomu, sbr. Jón Sigurðsson frá Ystafelli, 1928 (bls. 67): „Allir vilja sjá tímaritin „Skírni“, „Eimreiðina“, „Iðunni“ og „Vöku“. Langmestur hluti af bókakaupafé almennings gengur til tímaritanna.“ Og Ársæll Árnason segir í svari sínu til Jóns sama ár (bls.264), að „víðlesnustu tímaritin hafi um 2 þús. kaupendur[...], útbreiddustu blöðin hafi um 4 þús.“


Halldór Guðmundsson hefur tekið þennan þráð upp frá mér og rakið áfram (bls. 42–4), gert könnun á hverjir voru þá félagar Hins íslenska bókmenntafélags og þarmeð áskrifendur Skírnis. Niðurstaða hans er sú, að


320 af 1600 félagsmönnum búa í Reykjavík og tilheyra flestir efri millistétt eða borgarastétt. [...] Í dreifbýlinu er félagatalið öllu alþýðlegra, bændur eru stærsti hópurinn en í kauptúnum eru margir sjómenn meðal félagsmanna auk læknis, kaupmanns og prests staðarins. Bókamarkaðurinn hefur náð um allt land, þótt framleiðslan hafi að mestu verið bundin við Reykjavík. Sennilega hefur aðstaða fólks úti á landi til að fylgjast með menningarmálum verið skárri en aðstaða verkafólks í Reykjavík.


Eins og Halldór segir sjálfur er „varasamt að álykta of mikið um hin menningar­tímaritin„ af þessu. En Bókmenntafélagið stendur á svo fornum grunni, að líklegt má telja að félagatal þess hafi verið alþýðlegra en áskrifendaskrá annarra menninga­tímarita, sem hafa þá alls ekki átt greiða leið til almennings. Um útbreiðslu tíma­ritanna skortir annars heimildir og hér er ekki ástæða til að rekja sögu þeirra, enda auðfengið yfirlit um þau annarsstaðar (Sjá Vilhjálm Þ. Gíslason: Blöð og blaða­menn). Þó verður að víkja að þeim sem helst koma hér við sögu.


Eimreiðin var stofnuð 1895 af Valtý Guðmundssyni, og gefin út í Kaupmanna­höfn til ársloka 1917. En þá fluttist hún til Íslands, og var mjög fyrirferðarmikið menningartímarit, uns hún hætti útkomu 1975, hið stærsta á árunum milli stríða, 4–5 hefti árlega, 380–480 bls. samtals í Skírnisbroti. Sveinn Sigurðsson var ritstjóri allt tímabilið sem hér er til umræðu og lengur, 1923–55. Síðan tók Félag íslenskra rit­höfunda við því (sjá k.6.7.).


Iðunn (þriðja) hóf göngu sína 1915. Fyrstu sjö árgangana var Ágúst H. Bjarna­son helsti ritstjóri, en næstu tvo, 1924–6, er það Magnús Jónsson dósent. Hann ritstýrði áður Eimreiðinni, 1918–23. Útgefandi hennar var þá Ársæll Árnason, en hann fluttist að Iðunni með Magnúsi. Má þetta vera til marks um svipaða stefnu þessara tímarita. Árni Hallgrímsson tók svo við ritstjórn Iðunnar í miðjum 10. ár­gangi, 1926, og annaðist hana upp frá því, en 1937 var útgáfu hætt. Iðunn var í minna broti en Eimreiðin, oftast um 320 bls. árlega fyrst, en fjórðungi stærri undir stjórn Árna. Nokkuð hafði hún breyst þegar Magnús Jónsson tók við (meira um ferðasögur, hugleiðingar og jákvæðar greinar um trúmál, hann var dósent í guð­fræði, en heimspekiprófessorinn Ágúst var guðleysingi). Almennt einkenni fyrstu tíu árganganna virðist mér þó vera bjartsýni á stöðugar framfarir innan ríkjandi kerfis, þetta var með öðrum orðum frjálslynt íhaldstímarit, eins og flest var þá. En þetta breyttist nokkuð undir stjórn Árna, eins og brátt skal rakið.


Ekki nægði mönnum þessi tímaritakostur, svo öfundsverður sem hann mætti nú þykja, 1927 er stofnað eitt menningartímarit enn, Vaka. Raunar var útgáfu þess hætt 1929, eftir þrjá árganga, og kemur það lítið sem ekkert við sögu hér[22], meiru varðar tímaritið Réttur, sem rætt verður um í næsta kafla.


2.4. Samantekt


Af þessu yfirliti um aðstæður hreyfingarinnar innanlands má m.a. ráða að það sé villandi að tala um þjóðfélagslega vanþróun Íslands langt frameftir 20. öld. A.m.k. í Reykjavík var atvinnulíf það fjölbreytt þegar um aldamótin, að sambærilegt er við það sem þá gerðist á Vesturlöndum. Fimmtungur þjóðarinnar bjó þar 1920, fjórðungur 1930, þriðjungur 1940. Þar er kjarni verkalýðsstéttarinnar, og þegar árið 1920 var hún helmingur þjóðarinnar að mati kommúnista, síðan fjölgaði henni jafnt og þétt. Vissulega hafði verkalýðsstéttin myndast á það stuttum tíma, að flest verka­fólk hafði alist upp við ólíkar þjóðfélagsaðstæður, einkum í sveit. En svipuðu máli gegnir víðar, t.d. á norðurlöndum. Nú er erfitt að meta hversu föst tök forn viðhorf höfðu á fólki við nýjar aðstæður. Ein vísbending um stéttarvitund verkalýðsins er, að fjórðungur hans er skipulagður í verkalýðsfélög 1920, en þriðjungur 1930, og enn hefur stéttarvitundin styrkst á 4. áratugnum, þegar vinnu­deilum fjölgaði og þær hörðnuðu. Önnur vísbending er kosningatölur; Alþýðu­flokkurinn fékk sjötta hluta atkvæða í fyrstu kosningum sínum, 1923, en oft­ast um fimmtung síðan, en kommún­­istar vaxa frá 3% upp í 8.5% á fjórða áratugnum. Af þessum tölum öllum virðist mega álykta að mikill hluti verkalýðsins og vaxandi hafi aðhyllst stéttarbaráttu á millistríðsárunum.


Þjóðernisstefna hefur verið almenn meðal Íslendinga á 3. áratug aldarinnar, og þar með stéttasamvinnustefna, fáir sem töldu að þjóðfélaginu þyrfti að bylta, en um­bætur dygðu ekki til. Byltingarsinnar fara ekki að koma fram sjálfstætt fyrr en lítil­lega um 1924, rétt áður en bókmenntahreyfing þeirra hefst, og áfram eru þeir minnihluti innan flokks sem taldi að þjóðfélagið mætti bæta smám saman með lög­gjöf Alþingis, eftir því sem sósíalistar yrðu þar áhrifameiri. Þó magnast átök þessara andstæðu arma flokksins, uns sérstakur kommúnistaflokkur er stofnaður í árslok 1930.


Bókmenntahreyfingunni sem hér er fjallað um, var ætlað að breyta þeim almennu viðhorfum landsmanna, sem flokkurinn rakti til auðvaldsþjóðfélagsins. Og í því fylgdi hún ríkjandi viðhorfum, að bókmenntum var yfirleitt ætlað að hafa áhrif á viðhorf lesenda til m.a. þjóðfélagsins, það er helst að nýrómantísk skáld líti á bók­menntir sem tilgang í sjálfum sér. Nokkuð ber á viðleitni til nýsköpunar í bókmennt­um á 3. áratug aldarinnar, en flest skáld sem eitthvað kveður að, og hin vinsælustu fylgja raunsæisstefnu í sagnagerð og nýrómantík í ljóðum.


Af öllu þessu virðist mega álykta, að álitlegt þætti að bjóða íslenskum verkalýð bókmenntir sem boðuðu stéttarbaráttu. En hvað varðar leiðir hins fámenna hóps byltingarsinna til áhrifa með bókmenntum, þá stingur mest í augun að erfitt var að fá bækur út gefnar, enda lítil bóksala, svo að fáar munu hafa náð til almennings, nema einstaka verk sem hneykslisfrægð hlutu, svo sem Bréf til Láru, eða þá verk sem voru í samræmi við ríkjandi hugsunarhátt, svo sem verk Davíðs Stefánssonar og Einars H. Kvaran. Það hlaut því að verða langur og erfiður róður að koma til al­mennings bókmenntum sem börðust gegn þessum hugsunarhætti, þ.e. byltingar­sinnuðum bókmenntum, og helst hægt í gegnum tímarit svosem Iðunni. Jafnvel hún hefur þó ekki náð nema til lítils hluta þjóðarinnar, og síst til alþýðu.



3. kafli


Fyrsta skeið bókmenntahreyfingarinnar


Hér skal rakin saga hreyfingarinnar fyrsta áratuginn, einkum skipulag og fram­kvæmdir. Jafnframt er vikið að því, hvaða afstaða kemur þar fram til helstu mála, en ítarlegar verður fjallað um kenningar í 4. hluta.


3.1. Upphafið


Í síðasta kafla var rakið, að helsta útbreiðsluleið bókmennta til almennings hefðu verið tímarit á 3. áratug aldarinnar. Og bókmenntahreyfingin sem hér er til umræðu hefst þá líka með því að róttækir vinstrimenn yfirtaka tvö tímarit, Iðunni og Rétt, árið 1926. Iðunn sýndi þess ekki merki fyrr en næsta ár, en Réttur fyrr. At­hug­andi er þá á honum hvernig kommúnistar byrja á að tala til almennings.


Réttur var stofnaður 1. des. 1915 og var allt frá upphafi helgaður stjórnmálum, lengi eina tímaritið á því sviði. Enn sérstæðara var þó, að það var gefið út af nokkrum bændum í S-Þingeyjarsýslu, ritstjóri var Þórólfur Sigurðsson í Baldurs­heimi, en afgreiðsla á Akureyri, hjá Jóni Guðmann kaupmanni. Þetta var lítið tímarit, 1–2 hefti árlega, alls 80–140 bls. Helstu áhugamál þess voru samvinnuhreyfingin og Georgisminn (n.k. þjóðnýting jarðeigna, leggja skyldi „jarðskatt á allar lendur og lóðir, er samsvaraði rentum af þeirri upphæð, er jarðirnar væru metnar á“, sagði Einar Olgeirsson 1935 A, bls. 220). Einnig var fjallað um alþjóðamál af samúð með frelsisbaráttu undirokaðra þjóða og ádeilu á þau öfl sem ollu heimsstyrjöldinni. Nokkuð var fjallað um verklýðshreyfingu, en af andstöðu við marxismann, sagði Einar Olgeirsson 1935 (A, 223), og minntist þar sérstaklega greinar eins aðstandenda Réttar, Jónasar Jónssonar frá Hriflu: „Nýr landsmálagrundvöllur“ í 2. árgangi,


Þar markar hann verklýðshreyfingunni bás sem borgaralegri andstöðuhreyfingu, sem milliflokkarnir þessvegna geti unnið með. Og eitt aðalhlutverk J.J. hefur líka síðan verið að hafa áhrif á verklýðshreyfinguna til að halda henni á þessum bás.


Þegar við kommúnistar tókum við „Rétti“, fyrir 10 árum — 1926 — varð því eðlilega skörp breyting á afstöðu „Réttar“ til verklýðshreyfingarinnar.


Þessum síðustu orðum Einars verð ég að andmæla. Því kommúnistar leggja til mest af efni Réttar allt frá 1924, og það efni er ekki síður kommúnískt en um 1930, t.d. er ráðist harkalega á sósíaldemókrata á Þýskalandi og víðar í tveimur greinum 1924: „Byltingin í Þýskalandi“ eftir Stefán Pétursson og „Baráttan um heimsyfir­ráðin“ sem er ómerkt. — Raunar kemur fram hjá Einari 1983 (B, bls.110), að kommúnistar hafi verið orðnir áhrifamiklir um Rétt fyrir 1926, en hann talar þá einkum um árið 1925. Hinsvegar sýnist mér að 1926 hefjist í Rétti bókmennta­hreyfingin sem hér er um fjallað.


Réttur var næsta opið tímarit á árunum 1924–30. Kommúnistar voru þá enn í Alþýðuflokknum og í Rétti birtast greinar eftir leiðtoga krata; Stefán J. Stefánsson (1925–6), Harald Guðmundsson (1926), Ragnar Kvaran (1927) og Ólaf Friðriks­son (1929). Einnig skrifa upphafsmenn tímaritsins áfram í það um sín sérstöku hugðarefni; Benedikt Björnsson: „Um landleigu“ (þ.e. georgisminn, 1924–5), Hall­dór Stefánsson: „Viðskiptastefnur“ (1924). Pálmi Hannesson á mjög rúm­frekan greinaflokk, ópólitískan: „Frá óbyggðum“ (1928–9, síðar bók). 1928 og 1929 eru enn tvær greinar um bókmenntir sem eru á engan hátt sósíalískar, og hefðu raunar getað birst hvar sem er („Galdra-Loftur“ eftir Sigurð Guðmundsson og „Molière“ eftir Harald Björnsson). Þó var Réttur þá farinn að boða þjóðfélagslega róttækar bókmenntir, en þetta sýnir ásamt öðru, hve opinn hann var á þessu skeiði.


Róttækni í menningarmálum, svo sem setti svip á Iðunni, birtist hér einkum í greinum Gunnars Benediktssonar um trúmál og menningarmál, en hann var þá ný­hættur prestskap[23]. Auk þess er stefnumarkandi grein Einars Olgeirssonar þegar hann tekur við tímaritinu, og uppgjör Réttar við ríkjandi mynd Íslandssögunnar 1930, sem síðar verður rætt um.


Aðrar greinar Réttar á þessum árum boða kommúnísk viðhorf, og var áður nefnd gagnrýni á sósíaldemókrata erlendis. Ennfremur eru birt ýmis smárit frum­kvöðla marxismans, stundum sem sérstakt Réttarhefti[24]. 1928–1930 skrifar Brynj­ólfur Bjarnason greinar til að kynna marxismann; bæði hann og einkum þó Einar Olgeirsson skrifa auk þess mikið um innanlandsmál, áhersla er lögð á að fylgj­ast með atburðum og ástandi hvarvetna í heiminum, það eru smáklausur í föstum dálki: „Erlend víðsjá“. Mikið er skrifað um Sovétríkin, t.d. er sérstakt hefti helgað 15 ára af­mæli þeirra 1932 (undir sérstakri ritstjórn Hauks Björnssonar og Kristins E. Andréssonar sem þá var formaður Sovétvinafélagsins).


Það er áberandi framan af, að Einar Olgeirsson hafði tekið við tímariti af bænd­um, og að það átti áfram að höfða til bænda. Má einkum nefna þar til dæmis mikinn greinaflokk Brynjólfs Bjarnasonar, 1925–8: „Kommúnisminn og bændur“, og grein Einars Olgeirssonar 1930: „Erindi Bolshevismans til bænda“. Árið 1931 er sérstakt hefti helgað efninu „Barátta bænda á Íslandi“(80 bls.). En eftir það ber ekki á slíku bændatali, enda náði tímaritið þá eingöngu til virkra kommúnista, og starfs­mögu­leikar þeirra voru helst í þéttbýli.


Auðskilið er, að tímarit um þjóðmál reyndi að hafa skáldskap með, þó ekki væri nema til afþreyingar, til að laða að lesendur. Frá 1926 að telja er venjulega ein smásaga í hefti, stundum tvær, en minna er um kvæði. Undantekningar eru helst árin 1930 og 1933; fjögur hefti, en aðeins ein smásaga hvort ár. En þá er kveðskapur þeim mun meiri. Sá skáldskapur sem Réttur birtir framan af er einkum eftir kunn skáld; m.a. Davíð Stefánsson, og verður hvorugt verk hans talið sérlega róttækt; „Hrærekur konungur á Kálfsskinni“ (1926), né smásagan „Barrabas“(1927). Sama ár birtist smásagan „Örbirgð“ eftir Kristínu Sigfússdóttur. Vissulega sýnir hún mis­skiptingu lífsgæða eins og t.d. kvæði Ólafs Stefánssonar: „Úthýsing“(1926). En þetta er síst róttækara en t.d. sögur Einars H. Kvaran, reyndar er hér líka trúarleg af­staða, eins og enn gætir í kvæði Emils Petersen: „Brot“ (1931). „Kaupmannabragur“ eftir þingeyskan bónda (1931) er ádeila á kaupmenn og Reykjavík, og er slíkri af­stöðu mótmælt í greininni „Tollarnir og bændur“ í sama Réttarhefti. Skásta íslenska smásagan á þriðja áratugnum finnst mér vera: „Skóarinn litli frá Villefranche sur Mer“ eftir Davíð Þorvaldsson, hún útmálar eymd og einstæðingsskap deyjandi berklasjúklings. Þýddu sögurnar (eftir m.a. Maxim Gorki, M.A. Nexö, Anatole France) lýsa hinsvegar allar stéttaskiptingu nema „Nafnlaus saga“ Tsjekov (1928), sem skopast að þeirri trúarafstöðu að hafna þessa heims gæðum. Saga J. Aakjær sýnir líka stéttaskiptingu, en engin þessara sagna sýnir stéttabaráttu, nema „Vörður dýrgripanna“ (1929), sem er fyrirboði þriðja skeiðs Réttar. Enda þótt höfundaval tímaritsins sé svipað því sem er í öðrum tímaritum, er þó meginstefna skáldskapar­ins að afhjúpa ranglæti auðvaldsþjóðfélagsins, allt frá því að Einar Olgeirsson tók við Rétti 1926. Í fyrsta hefti undir hans ritstjórn ber mest á fyrrnefndri grein hans þar sem hann ver menningarnýjungar. En eins og í leiðinni, í stuttum ritdómi, setur hann fram meginatriði sósíalrealismans, fyrstur manna á Íslandi. Þessi áherslu­munur lýsir því vel að mínu áliti, hvernig vinstrimenn litu á afskipti sín af menn­ingarmálum á 3. áratuginum. Einar hafði verið við bókmenntanám í Kaupmannahöfn og Þýskalandi 1921–4; „þar sáum við á hinu mikla bókmenntastarfi þýska kommún­istaflokksins hvað hægt var að gera“, sagði hann 1981(bls.2).


Einar segir í þessum ritdómi1926 (D, bls.154–5) um skáldsögu Gunnars Bene­diktssonar Við þjóðveginn (tölusetningu og feitletrun er hér bætt við, auk þess að breyta röð efnisatriða):


1. að höfundur „kemur ekki fram sem listamaður, sem ætlar að skapa listaverk listdómendum og listelskum lesendum síðari tíma til skemtunar, heldur sem siðabótamaður, byltingamaður, ádeiluskáld [...];


2. hann vill tala til nútímans, hann vill taka skáldskapinn í þjónustu mannsandans til að „lækna þjóðfjelagsmeinin“, eins og Gestur og realistarnir heimtuðu. — Og oss er þörf á slíku nú; það er auðvitað best að listin og ádeilan fari sem mest saman, en þó svo sje ekki þá er ádeilan samt góð; hún þarf bara að verða því hvassari — og það skortir þessa bók einna helst.


3. Bók þessi er bein árás á núverandi þjóðfjelag. Það er vægðarlaust flett ofan af hinni ógurlegu stjettaskiftingu[...] síðan rakin jafngreinilega orsökin til fátækt­ar vinnandi stjettanna og auðæfa yfirstjettanna — sem verður hin sama.


4. því næst er söguhetjan látin reyna hvernig jafnvel miskunnsemi og hjálpsemi fær engu áorkað, uns það í lok sögunnar tekur að renna upp fyrir henni sem eina ráðið að „drepa ræningjana“ — þe. burtnema orsakirnar til örbirgðarinnar annarsvegar og óhófsemi hinsvegar [...].


5. Síðast virðist þó sem birti af degi, er ungur eldheitur jafnaðarmaður kemur fram á sjónarsviðið og hjálpar söguhetjunni til að draga skýluna frá augunum. — En eftir þessa skörpu mynd, sem höf. hefur dregið upp af lífi yfirstjett­anna, þá væri gaman að fá einmitt frá honum snjalla lýsingu á andstæðunni, lífi og frelsisbaráttu undirstjettanna, þrungna af sama eldinum og ólgar í þessari, en sem þar myndi fá tækifæri til að birtast sem von, framsýni, traust og hugrekki til að brjóta þetta þjóðskipulag á bak aftur.


Það er þetta síðasttalda atriði sem aðgreinir baráttubókmenntir sósíalista (síðar kallaðar sósíalrealismi, og hér nota ég jafnan það orð) frá öðrum byltingarbókmennt­um og ádeilubókmenntum, einnig að nokkru leyti 4. atriði, þ.e. sinnaskipti aðal­persónu. En þótt Einari þyki þörf á skáldskap sem þjónar byltingarbaráttunni, er hann jákvæður gagnvart öðrum skáldskap. Á þessari sömu bls. lofar hann leikrit Davíðs Stefánssonar, Munkarnir á Möðruvöllum fyrir lífsnautnaboðskap gegn klausturlífi; boðskap í anda Heines og Þorsteins Erlingssonar. Og næsta ár (1927 C, 94) lofar hann smásagnasafn Friðriks Brekkan, Gunnhildur drottning og aðrar sögur, þrátt fyrir að það stingi „mjög í stúf við þá realistisku stefnu, sem nú virðist vera að verða ofan á í bókmenntum vorum. Hann er hárómantískur í anda og efnis­vali.“


Gunnar Benediktsson er ámóta jákvæður gagnvart leikriti Kristínar Sigfúss­dóttur, Óskastundinni, í næsta ritdómi sama Réttarheftis, og kemur þar þó skýrt fram, að það sé allsendis fjarlægt byltingarboðskap. Þetta umburðarlyndi er í sam­ræmi við val Réttar á skáldverkum á þessum árum, svo sem áður var rakið. Aðrir ritdómar Einars um skáldrit á þessum tíma (alls níu, 1926–30) eru lof um róttæk rit, en ekki er þar skýr stefnumörkun eins og í þessum fyrsttalda ritdómi, greinileg ósk um sósíalrealisma er helst í ritdómi 1927 (B,93–4) um skáldsöguna Lokadag eftir Theodór Friðriksson. En það ár hopar Einar frá meginatriði sósíalrealismans, að bókmenntir skuli sýna verkalýðsbaráttu, og heldur því ekki fram aftur fyrr en 1932. Á árunum þar á milli boðar hann eingöngu fyrsttöldu atriðin í ritdóminum 1926, að óska eftir afhjúpun, ádeilu. Þetta er eftir að skerst í odda með krötum og kommún­istum í árslok 1926. Hugsast gæti, að Einar hafi viljað forðast frekari væringar þeirra, svosem boðun baráttubókmennta hefði getað leitt til, en ástæðulaust virðist að gera ráð fyrir sinnaskiptum Einars. Í ljósi þess hvernig bókmenntir voru samdar á Íslandi á þessum árum, og hve lítill styrkur kommúnista var þar þá, gat manni með skoðanir Einars þótt ærið verkefni að efla ádeilubókmenntir yfirleitt, og vonast þá eftir frekari þróun í framhaldi af því. Einar fylgir hér Gesti Pálssyni, sem hann var sífellt að vitna til. Einna skýrast setur Einar ádeilustefnuna fram 1927 (D, 203–4), og segir að listin endurspegli alltaf afstöðu skapara sinna til mannfélagsins. Venjulegast móti yfirstéttin hugsunarhátt og list sinna tíma. En á byltingartímum beri engu síður á list undirstéttarinnar, sem ætlar að taka völdin, og þar kveði alltaf við sama tóninn, hvaða stétt sem í hlut eigi; hatur og háð[25]. Dæmi Einars eru Shelley, Schiller, Heine, Kielland, Anatole France, B. Shaw, Michelangelo, Jónas Hallgrímsson, Þorsteinn Erlingsson og Gestur Pálsson. Anton Hansen, sem greinin er helguð, lofar hann einkum fyrir afhjúpun goðsagna. — Nú séu tímar verkalýðsbyltingar, segir Einar, og hafi verkalýðurinn enga þörf fyrir list unaðar og aðdáunar, þótt það kunni að verða eftir valdatöku hans. Nú verði listin að verða vopn verkalýðsins í frelsisbaráttu hans (bls. 202).


Einar boðar svo þessa stefnu áfram, t.d. 1928 í Réttargreininni „Árgalarnir áminna“, sem er til að kynna íslenskri alþýðu skáldskap Þorsteins Erlingssonar og Stephans G., þ.e. sósíalíska ádeilu þeirra á kirkju, konungsvald, auðvald og her­vald. Þar hvetur hann skáld samtímans til að fylgja Stephani í ádeilu á hryðjuverk heimsvaldaríkja í nýlendunum (bls. 243). Suma ádeilu í þessum aldamótaskáldskap telur Einar úrelta, til dæmis hafi miskunnarlaus ádeila Þorsteins á kirkjuvaldið gengið af því dauðu. En jafnvel sá draugur gæti enn gengið aftur (bls. 236) og önnur ádeila þeirra (á auðvald og krata) sé í fullu gildi. Þessa frumherja sósíalismans í lok 19. aldar telur Einar greinilega vera skáldum til fyrirmyndar 30–40 árum síðar. Og á þessum tíma nefnir hann ekki Bréf til Láru, sem birst hafði fáeinum árum áður og hann taldi síðar vera tímamótaverk, upphaf sósíalískra bókmennta á Íslandi.


Aðrir menn boða þá sósíalrealisma á þessum árum, misskýrt þó. Þar ber mest á ritdómum Árna Hallgrímssonar, ritstjóra Iðunnar, sem birti eilítið af baráttubók­menntum í lok 3. áratugsins svo sem síðar verður vikið að. Gunnar Benediktsson skrifar töluvert af ritdómum um skáldverk í Rétt. Við það að kommúnistar klufu sig frá krötum, harðnaði mjög afstaða bókmenntahreyfingarinnar á Íslandi. Verður því að víkja nokkuð að starfi flokksins fyrstu árin.


3.2. Kommúnistaflokkur Íslands


Á stofnþingi sínu í desember 1930 var flokkurinn tekinn í Alþjóðasamband komm­únista.


Stofnfélagar KfÍ voru um 230, en 1932 voru þeir orðnir 600 í 15 flokksdeildum. 90% þeirra störfuðu í verkalýðsfélögum, og við stofnun KfÍ höfðu kommúnistar náð góðri stöðu í verkalýðshreyfingunni, „að baki þeim standa verkalýðsfélög sem hafa innan sinna vébanda um 1/3 hluta þess verkafólks sem var þá skipulagt í verkalýðsfélögunum“ segir Ingibjörg Sólrún (bls. 97). Þetta var einkum á Norður­landi og í Vestmannaeyjum. Nyrðra stofnuðu þeir verkalýðsfélög, allt frá 1925–6, sem ekki gengu í ASÍ (Ingibjörg Sólrún, bls. 61), heldur voru skipulögð í Verk­lýðs­samband Norðurlands. En sum félög þeirra voru í ASÍ, og þar voru kjör­bréf kommúnista ekki viðurkennd eftir klofninginn, þ.e. ekki á þingi ASÍ 1932 (Þór Whitehead, bls. 79). Kratar fara svo að stofna ný verklýðsfélög á stöðum þar sem kommúnistar réðu verkalýðsfélögunum, þau voru þá rekin úr ASÍ, en nýju félögin tekin inn í staðinn. Stuðningur ASÍ var oft mikilvægur í kjaradeilum lítilla félaga út um land. Nýja félagið undirbauð oft það gamla, og urðu mikil átök út af þessu stundum, allt frá 1931, en einkum á árunum 1932–4 (sjá Jón Rafnsson 1957, bls. 115–16, 156 o. áfr.). Þór Whitehead bendir á (bls. 80), að hefði krötum tekist að kveða verkalýðsfélög kommúnista í kútinn, þá hefði Kommúnistaflokkurinn orðið einangraður smáhópur. En verkalýðsfélög undir stjórn kommúnista stóðust þessa orrahríð, sem hlaut að sannfæra marga félagsmenn þeirra um að sósíaldemókratar væru svo sannarlega höfuðstoð auðvaldsins, eins og forysta KfÍ sagði. Auk þess hefur þessi vaxandi verkfallsbarátta væntanlega eflt stéttarvitund verkalýðsins.


Í fyrstu alþingiskosningum sem flokkurinn tók þátt í, 1931, fékk hann 3% atkvæða, og í þeim næstu, í júlí 1933 fékk hann 7.5%. Þetta er umtalsverður styrkur allt frá upphafi, enda sagði Einar Olgeirsson 1980 (B, 235): „Það voru aðeins þýsku og frönsku kommúnistaflokkarnir sem voru hlutfallslega sterkari en sá íslenski (danski: 1–2.4%; norski: 1.7%; sænski: 5%)“. En ofanskráðar tölur segja minnst um styrk flokksins, því hann var mjög mismunandi eftir landshlutum; lítill í Reykja­vík, þar sem Alþýðuflokkurinn var sterkur, en á Akureyri fengu kommúnistar um þriðjung atkvæða, allt frá 1931, meira en tvöfalt fylgi Alþýðuflokksins. Svipað var í Vestmannaeyjum í bæjarstjórnarkosningunum 1934, og á Siglufirði urðu kommún­istar þá einnig yfirsterkari krötum, með tæpan fjórðung atkvæða. Fylgir þetta forræði kommúnista norðanlands styrk þeirra í verkalýðsfélögum (Þór Whitehead, bls. 94–100).


Verklýðsblaðið, málgagn flokksins kom út vikulega frá 4. ágúst 1930, en tvisvar í viku frá 1. okt. 1934. En 31. okt. 1936 gat flokkurinn loksins eftir tveggja ára baráttu, komið sér upp dagblaði, Þjóðviljanum. Í Verklýðsblaðinu bar mest á stjórnmálagreinum, einkum um innanlandsmál. Sérstaklega var mikið fjallað um aðbúnað verkalýðs og kjarabaráttu, ekki síst í verkamannabréfum, sem lengstum voru áberandi. Þau eru talin nýjung í íslenskri blaðamennsku í Rétti 1930 (Einar Olgeirsson D, bls. 378), enda veit ég ekki til að þau hafi fyrr verið í slíkum mæli. Þau hafa væntanlega veitt blaðinu áhrifamátt í kjarabaráttu verkalýðsins, virkjað verkafólk í hana, og í að skrifa. Áður ræddum við um alþjóðlega fyrirmynd þessa (k.1.5.).


Jafnframt því sem flokkurinn efldist út á við, mögnuðust átök innan hans. Þau voru líkt og í öðrum kommúnistaflokkum á þeim tíma, enda af sömu rót runnin. Forysta Alþjóðasambandsins knúði einstaka flokka æ meir undir sína stjórn um 1930, m.a. með því að knýja fram skyndilega stefnubreytingu hvarvetna, svo sem áður var nefnt, t.d. að frá 1926 var kommúnistaflokkum bannað samstarf við sósíaldemókrata. Annað flokksþing KfÍ, haldið í nóv. 1932, grundvallaði stjórn­málaályktun sína á ályktunum 12. fundar Komintern, og skyldi nú vísa


kröftuglega á bug því vanmati sem hefir stundum komið allgreinilega í ljós í starfsemi flokksins — á forystuhlutverki flokksins í hinni daglegu hags­muna­baráttu verkalýðsins, jafnframt því sem hlutverk sósíaldemókratanna hefir ekki verið rétt skilið. Sósíaldemókratíska forystuliðið er nú þjóðfélagsleg höfuðstoð auð­valdsins á Íslandi eins og víðasthvar annarsstaðar [tekið eftir Ingólfi Jóhannessyni, bls. 49].


Í framhaldi segir að vegna þessa megi einungis samfylkja verkalýðnum að neðan, og þurfi þá að einangra kratabroddana. Þarna glittir í mikla togstreitu, sem kom þó ekki upp á yfirborðið fyrr en ári síðar, þegar opið bréf frá Alþjóðasambandi komm­únista til Kfí er birt í Verklýðsblaðinu (3. okt. 1933): aðaláherslu ber að leggja á starf á vinnustöðum og verkalýðsfélögum, og að vinna gegn sósíaldemókrötum. Eða, eins og Brynjólfur Bjarnason orðaði þetta; 30. okt. 1933 í Verklýðsblaðinu: „Þegar við erum að berjast gegn krataforingjunum í verkalýðsfélögunum, þá erum við að heyja þýðingarmestu baráttuna gegn auðvaldinu“ [auðkennt af E. Ó]. En tveir félagar miðstjórnar höfðu viljað senda Alþýðuflokkinum í fjórum kaupstöðum opinbert tilboð um kosningabandalag (Ingólfur, bls. 51–3).


Nú hefst „barátta gegn tækifæristefnunni og gegn sáttfýsi við tækifærisstefnuna“ að alþjóðlegum hætti kommúnistaflokka þá; tíðir brottrekstrar, auk gagnrýni og sjálfsgagnrýni í málgagni flokksins. Það sem ég hefi séð, vottar ekki fyrir pólitískri greiningu í þeim pistlum, þetta eru bara þulur staðlaðra frasa. Sérstaklega beinast spjótin að einum helsta leiðtoga flokksins, Einari Olgeirssyni. Naumur tími KfÍ í út­varpi fyrir alþingiskosningarnar í júní 1934 var einkum notaður til árása á Einar, frekar en til að kynna stefnu flokksins (skv. yfirlýsingu flokksstjórnar í Verk­lýðs­blaðinu, 23. júlí 1934, sjá og Ingólf, bls. 56–7). Þegar flett er Verk­lýðsblaðinu frá fyrra hluta ársins 1934, liggur nærri að álykta, að flokksleiðtogarnir ungu, sem nýkomnir voru af flokksskóla í Moskvu, hafi ætlað sér að bola Einari burt úr flokk­inum. Á þessum mánuðum ráku þeir m.a. Stefán Péturs­son, Hauk Björnsson, Hend­rik Ottóson og Stein Steinar, alls um 20–30 manns, einkum í Reykjavík. Við­líka hreinsanir voru í kommúnistaflokkum víða um lönd, og brutu niður alla andstöðu í þeim gegn forystu Alþjóðasambands kommúnista (sjá nánar Þór White­head, bls. 90–93 og Robrieux bls.355–406).



Þessar aðstæður skýra ýmsar breytingar sem verða á bókmenntahreyfingunni á öndverðum 4. áratug aldarinnar. Yfirlýsingar einstakra manna þurfa vitaskuld ekki að túlka vilja heildarinnar, en ýmsar þeirra falla inn í framangreinda mynd. T.d. harðnar afstaða Gunnars Benediktssonar, sem við sáum viðurkenna rómantískar

bókmenntir svo seint sem 1927. Hann segir 1931 (B, bls. 253–4), að ármenn eldri menningar hljóti að standa skilningslausir gagnvart hinni nýju list verkalýðsins, enda sé boðskapur hennar þeim framandi. Raunar er þessi grein Gunnars svar við gagnrýni Einars Ólafs Sveinssonar, 1930 (bls. 179) á skáldsögu Gunnars, Önnu Sighvatsdóttur (frá 1928), en Einar sagði að í sögunni væri ekkert sýnt; listrænir gallar hennar stöfuðu af því að hún gegni fyrst og fremst áróðurshlutverki. Gunnar svaraði því til, að listsköpun væri ævinlega prédikun (líkt og Zetkin í k. 1.4). Hann byggir þá á þeirri alkunnu skoðun, að listaverk mótist alltaf af viðhorfum höfundar, hversu „raunsæ“ samfélagsmynd sem það sé. En Gunnar leggur hér fyrst og fremst áherslu á efni skáldverka og afstöðu, að hætti sósíalrealista, og skilgreinir „hina nýju list“ svo (bls.254):


Hún vill tala til stéttar, sem er það nauðsyn að vita sem best skil á málum raun­veruleikans, skilja aðstöðu sína í lífinu, hlutverk sitt og köllun[...því] þarf alt önnur form[...] það heimtar nakta frásögn, hreinar línur og sterkar. (feitletrun Ö.Ó.)


Þetta sama boðaði t.d. franski höfundurinn Henri Barbusse í bréfi til rit­höfunda­þingsins í Kharkov, 15.nóv. 1930 (Bernard, bls. 60–61). En í þessari skil­greiningu eru skáldverk metin eftir mælikvarða sem eðlilegastur er gagnvart greinaskrifum. Í ljósi þessa er athyglisvert, að hér eftir samdi Gunnar aðallega greinar, en aðeins tvö skáldverk, 1940 og 1943. Skýring hans á því var sú, 1981, að hann hefði fundið að sér létu greinaskrif betur, og munu fáir draga það í efa, þar var hann snjall.


Nú verður einnig áherslubreyting hjá Einari Olgeirssyni í greininni „Skáld á leið til sósíalismans“ í Rétti 1932, hann fer aftur að boða sósíalrealisma eins og 1926. Nú segir hann um skáld þjóðfélagsgagnrýni, sem hann hélt áður á lofti:


Í árásunum á afturhaldssama embættismannastétt og kreddufulla prestastétt runnu saman niðurrifstilhneigingar bæði borgaralegu byltingarinnar og sósíalismans, svo listaverkin, sem sköpuðust í baráttu þessari, — smásögur Gests og ádeilu­kvæði Þorsteins, — tilheyra í rauninni báðum þessum gerandstæðu stefnum, sem sameinast hér einungis vegna þess, hve afar-langt aftur úr Ísland og Norðurlönd yfirleitt voru orðin (bls.96)[26] .


Einar hafnar einnig verklýðsskáldum 3. áratugsins; Theodór Friðrikssyni, Kristínu Sigfússdóttur og Gunnari Benediktssyni, því þau takmarki sig við samúðar­fulla „lýsingu á fátækt alþýðunnar og basli, án þess að koma inn á frelsis­baráttu hennar“. En þetta „víkur nú fyrir meitluðum nútíma-stíl á sögum, sem þrungnar eru stéttabaráttu verkalýðsins, og bergmála fullvissuna um sigurinn yfir fátækt og basli því sem auðvaldið skapar“(bls.98). Þar tekur Einar fyrir Sölku Völku Halldórs Laxness, smásögur Halldórs Stefánssonar — sem báðir séu mótaðir af erlendum stórborgum og þeirri menntun sem borgaralegt þjóðfélag hafi gefið þeim færi á (bls. 106), og svo ljóð og sögur Sigurðar B. Gröndal, sem er dæmi um alþýðumann á svipuðum aldri.


Þessar framfarir í verklýðsskáldskap eru til marks um andlegan vöxt verka­lýðsins, segir Einar. Við sameiningu verklýðsbaráttu og sósíalisma[27] áttar verkalýð­ur­inn sig á hlutverki sínu í samfélagsþróuninni (bls.98). En þessa sameiningu takist hinum nýju skáldum ekki að sýna í verkum sínum, segir Einar, þar sé aðeins sýnd einstaklingsuppreisn eða skrípamynd af borgaralegri verklýðshreyfingu, en ekki öreigalýðurinn í stéttarbaráttu sinni (bls. 105)[28]. Enda þótt þessar sögur séu góð listaverk, geti þær því ekki orðið þær hetjubókmenntir sem íslenskur verkalýður þarfnist. Þessi takmörkun nýjustu verklýðsbókmennta sé raunar ekki nema að litlu leyti skáldunum að kenna. Til að hetjubókmenntir verkalýðsins verði til, þurfi hetjuöld verkalýðsbaráttu — ekki endilega blóðuga byltingu — heldur daglega, fórn­fúsa baráttu „þess verkalýðs, sem ofsóttur er fyrir sósíalistíska sannfæringu sína, fyrir brautryðjendastarfið í verkalýðssamtökunum, fyrir daglega forystu sína í hagsmunabaráttu verkalýðsins“ (bls. 113–4). „En ís­lenski „sósíalisminn“ hlaut þau hryggilegu örlög að fæðast hjá flokki sem sveik hann, áður en hann gat náð tökum á verklýðshreyfingunni“ (bls. 112). Því er þessa hetjubaráttu íslensks verkalýðs „ekki að finna í kring um kjötkatla Útvegsbankans og British Petroleum[29]. Hann [verka­lýðurinn] stendur í baráttunni í og með Kommún­istaflokki Íslands“ (bls. 115). Þá baráttu þurfi skáldin að kynna sér, þar renni saman stéttarbarátta og hugsjón sósíalismans, og úr henni þurfi þau að skapa.


Þetta síðasta er samkvæmt stefnuskrá Félags öreigaskálda í Sovétríkjunum 1925 (sjá k.1.5). Öll er greinin sérlega skýr og skilmerkileg framsetning þeirrar stefnu sem síðan ríkti hjá íslenskum sósíalistum. Þetta er í senn nákvæmara og jarð­bundnara en fyrri framsetningar; svosem Sigurðar Einarssonar og Gunnars Bene­dikts­sonar (í k.4.1.2). Því hér eru ekki vangaveltur um upphaf framtíðarlistar í nútímanum. Sú stefnubreyting varð reyndar í Sovétríkjunum sama ár (sbr. k.1.4), þ.e. frá því að boða öreigabókmenntir til að boða sósíalískar bókmenntir, trúar flokknum. Í stað þess að skipuleggja framtíðina skilgreinir Einar hvernig skáld geti farið að því, á þessum stað og stundu, að tileinka sér efni í skáldverk sem veki verkalýðinn til baráttu. Skáldin geti aðeins ort um það sem þau þekki, og því þurfi þau að kynnast verkalýðsbaráttu vel.


Þessi kenning um „jarðtengsl“ skálda getur litið vel út við fyrstu sýn, en ég sé samt ekki, að löng vera ýmissa skálda í Kommúnistaflokkinum hafi borið neinn þann árangur sem Einar vænti. Enda er augljóst, að skáldin hlutu að vera mjög mótuð fyrir, það nægir ekki að kynnast efni til að geta skapað af því listaverk (sbr. Kristinn E. í k.4.1.). Ennfremur má þykja ósamræmi í stefnubreytingu Einars, því fyrst hann boðar umfram allt að afneita borgaralegum hugmyndaheimi, þá væri því væntanlega betur þjónað með marxískri bókmenntagreiningu eða með niðurrifs­bókmenntum, svo sem hann boðaði áður, þ.e. með því að efla gagnrýna hugsun verkalýðsins, heldur en með fyrirmyndarbókmenntum, sem halda goðsögum að les­endum. Byltingarstefnu gæti höfundur helst fylgt í skáldskap með því að takast á við þennan borgaralega hugmyndaheim þess umhverfis sem hann þekkir best, með því að sýna fram á mótsagnir hans. Og raunar geta skáld gefið góða mynd af þró­unar­öflum samfélagsins í miklum listaverkum — mynd sem t.d. marx­istar fallast á, og nýta í pólitískri baráttu, þótt skáldin séu alls ekki marxistar, jafnvel mestu afturhaldsmenn. Má nefna sem dæmi T.S. Eliot, Knud Hamsun, Céline og Solsjenítsín, og minna á dóma Marx og Engels um Balzac (k. 1.2).


Ef spurt er hversvegna Einar boði nú baráttubókmenntir, frekar en undanfarin fimm ár, þá gæti það verið einmitt vegna þess að nú séu byltingarmenn orðnir mun fleiri og skipulagðir í samhentan flokk, jafnframt því sem andstæður auðvalds­skipulagsins höfðu skerpst mikið í kreppunni. Önnur hugsanleg skýring er, að Einar lagi sig að línu Alþjóðasambands byltingarsinnaðra rithöfunda vegna þess að nú var hafin í flokknum sókn harðlínumanna. Önnur skýringin útilokar ekki hina, en sú fyrrnefnda virðist líklegri, þar sem Einar hafði áður haldið þessari stefnu á lofti.


Eftir þetta skrifar Einar mjög lítið um bókmenntir, aðeins fáeinar ritfregnir. Í stað hans kom, eins og alkunna er, Kristinn E. Andrésson. Hann er bókmennta­leið­togi róttæklinga frá því 1933, og stefnumarkandi greinar eru helst eftir hann, þótt stefnan komi einnig skýrt fram í ritdómum og greinum t.d. Gunnars Benediktssonar og Jóhannesar úr Kötlum.


3.3. Félag byltingarsinnaðra rithöfunda



(Þetta eru hlutfallstölur, sjá nánar 9. töflu, talið eftir Skáldatali)


Vitaskuld er talning mín ekki nákvæm, enda nokkuð tilviljanakennt hvaða starfi skáld gegndi þegar fyrsta bók þess birtist, mörg þeirra fengust við ýmis störf, enda hefur verið nokkuð greiðfært yfir sum þau mörk sem hér eru greind. Ævisaga rit­höfundar hefst oft eitthvað á þessa leið: bóndasonur, vann verkamannavinnu nokkur ár, var tvö til þrjú ár á kennaraskóla eða Samvinnuskólanum, stundaði síðan kennslu, blaðamennsku, eða hvort tveggja, og gaf þá út sína fyrstu bók.


Breytingar á milli tímabila held ég að séu alls ekki marktækar nema að því leyti sem þær fylgja þjóðfélagsbreytingum; hlutur sveitafólks minnkar en starfsfólki fjölgar. En meginhlutföllin eru sláandi, og þá einkum, hve sáralitlar breytingar verða frá fyrsta þriðjungi 20. aldar til annars.


Það virðist því, sem oftast hafi maður þurft nokkuð háa stöðu í sínu félagslega umhverfi til að gerast rithöfundur, og það urðu einkum menntamenn. En það hefur aftur löngum verið mikill frami á Íslandi að koma út bók. Í ljósi þess sem hér fer á eftir, er athyglisvert að verkafólki fjölgar ekki í hópi rithöfunda eftir 1933.


Athygli vekur, að nær helmingur þeirra sem fara að semja skáldverk, hefur það að atvinnu að fræða fólk eða ala upp siðferðislega (prestar, kennarar, blaðamenn). Það er þá engin furða, að ríkjandi hugmynd um hlutverk skáldskapar skuli einmitt vera, að hann eigi að fræða fólk og bæta, enda var það líka gamalgróið viðhorf al­þjóðlega.


Hér kemur nú til ný hugmynd um stéttaruppruna skálda og mótun, þegar fyrsta rithöfundafélag Íslands er stofnað, haustið 1933. Áður höfðu aðeins hópast saman aðstandendur tímarita, 4–5 manna hópur, eða klíkur í menntaskóla. Þetta var eitt af mörgum félögum sem Kommúnistaflokkurinn stofnaði í kringum sig, og urðu flest skammlífari en þetta. T.d. var Reykjavíkurdeild Alþjóðasamhjálpar verkalýðsins stofn­uð á undan flokkinum, haustið 1930, Íþróttafélag verkamanna og Clarté (menntamannaklúbbur) 1931, Sovétvinafélagið og Varnarlið verkalýðsins (til ör­yggisgæslu á samkomum) 1932, Rauða hjálpin 1934, svo það helsta sé talið (sjá Einar Olgeirsson 1983 B, bls. 218; og Þór Whitehead, bls. 43–51).


Kristinn E. Andrésson tók frumkvæðið að því að kalla saman til stofnfundar fél­agsins. Hér er byggt á frásögn hans 1971 (bls. 33–41), enda er hún — auk bréfa — það sem nú verður næst komist sumum frumheimildum svo sem gerðabók félags­ins (sem ég hefi ekki getað haft upp á)[30], en Kristinn tekur m.a. úr henni (bls.34):


Þriðjudaginn 3. okt. 1933 héldu nokkrir menn fund á „Hótel Borg“, þar sem rætt var um stofnun félags ungra róttækra manna, er fengjust við ritstörf. Á fundinum voru mættir átta karlmenn og tvær stúlkur. Kristinn E. Andrésson gerði grein fyrir nauðsyn á stofnun slíks félagsskapar og benti meðal annars á stofnun slíkra félaga erlendis. Eftir að það var svo samþ. að stofna slíkt félag lagði Kristinn fram stutta greinargerð fyrir tilgangi og starfs- eða stefnuskrá félagsins...


Hana hafði hann þegar sent Alþjóðasambandi byltingarsinnaðra rithöfunda, í bréfi 25.9.1933 (sjá 8.k.). Má því ætla að hann hafi fyrirfram verið búinn að gera upp við sig hvernig stefna félagsins ætti að vera, eða eins og hann orðar það sjálfur (bls.36):


Hinsvegar er ljóst af þessu að áður en stofnfundurinn var hafa einhverjir okkar verið búnir að gera sér grein fyrir stefnu félagsins, því að með bréfinu til sam­bandsins fylgdi stefnuskrá að miklu leyti samhljóða þeirri sem lögð var fram á stofnfundinum.


En áfram segir í fundargerð (bls.36), „eftir að stefnuskráratriði hafa verið rædd og samþykkt“


Síðan urðu nokkrar umræður um nafn á félaginu og var því að lokum frestað til næsta fundar. Einnig var frestað að kjósa stjórn fyrir félagið, en kosin var þriggja manna nefnd til að semja frumdrætti að lögum fyrir félagið sem lögð yrðu fyrir næsta fund. Einnig var nefndinni falið að ákveða næsta fund og boða til hans. Kosnir voru í nefndina Kristinn Andrésson, Steinn Steinarr og Ásgeir Jónsson. Fleira var ekki tekið fyrir á fundinum og honum því slitið.


Kristinn segir svo í endurminningum sínum (bls.36):


Þó að engin bókun sé til um framhaldsstofnfund félagsins er enginn vafi á því að hann hefur verið 10 okt. 1933 á heimili Halldórs Stefánssonar á Barónsstíg 55 og fundir félagsins þar oftastnær ef ekki alltaf fyrstu árin. Á undirbúningsstofnfund­inum var nefnd falið að semja félaginu lög, en Halldór fullyrðir að á sjálfum stofnfundinum heima hjá sér hafi að tillögu hans verið samþykkt að setja félaginu engin lög og gerður að góður rómur, enda er þau hvergi að finna nema í lauslegu uppkasti sem ég á.


Þetta uppkast er m.a. með venjulegum félagslögum, og ber með sér að hafa verið samið eftir fyrri stofnfund og fyrir þann seinni, þ.e. í vikunni 3.–10 okt.(sjá 8.k.), svo sem Kristinn segir, því að 1.gr. skilur eftir eyðu fyrir nafn félagsins. 2. gr. vísar til stefnuskrár þess, en 3. gr. til starfsáætlunarinnar. Í 4. gr. segir: „Félagar geta þeir einir orðið, sem skuldbinda sig til að skrifa samkv. framangreindum til­gangi félagsins.“ Það er nokkuð svipað ákvæði þýska félagsins, en þó ákveðnara[31]. Síðan koma 5.–7. ákvæði um félagsgjöld, vikulega fundi, aðalfund og stjórnarkjör. En mesta athygli vekur þessi 4. gr. lagauppkasts, og hún gæti skýrt hversvegna samþykkt var að hafa engin lög. Um það sagði Halldór Stefánsson (1977, bls.120):


Mér fannst það alveg tilgangslaust að vera að setja svona félagi einhver lög, það gat bara samþykkt það sem það vildi á sínum fundum. Svo hef ég kannske verið svolítið nálægt anarkistum. En það tóku allir vel undir það.


Guðmundur Daníelsson bar líka, að þetta hefði ekki verið formlegt félag (t.d. ekki fundargerðir né félagsgjöld). Þótt þessir vitnisburðir séu löngu eftir viðburði, þá ber þeim saman, öllum þremur, um „lögleysi“ félagsins, og virðist ástæðulaust að rengja þá. Öllum sex viðmælendum mínum 1981 úr hópi gamalla félagsmanna bar saman um að aldrei hafi verið gefin fyrirmæli um það í félaginu hvernig ætti að skrifa. Stefnuskráin má nú hafa þótt nokkuð ljós um það, og mönnum gat fundist að þótt það væri tilgangurinn með veru þeirra í félaginu að ná tökum á þannig skrifum, þá mætti einmitt ekki gera það að skilyrði fyrir veru þeirra í félaginu (með 4.gr.), að þeir hefðu náð því markmiði.


En í þessu félagi voru þá engin félagsgjöld og því síður ákvæði um aðalfund, ársreikninga eða annað þvílíkt. Hinsvegar var hlutverkaskipan stjórnar með venju­legum hætti, og stjórnarkjör væntanlega líka, því 6.mars 1934 voru kjörnir í stjórn: Jóhannes úr Kötlum formaður, Kristinn E. Andrésson ritari, Halldór Stefánsson gjaldkeri (yfir hverju?), í varastjórn: Björn Fransson, Gunnar Benediktsson og Katrín Pálsdóttir. Tvö síðasttalin gengu í félagið á þessum aðalfundi, auk Vilhjálms Guðmundssonar (frá Skáholti) og Friðjóns Benónýssonar. Fjórtán manns voru á þessum fundi, en 10 des. 1933 skrifaði Kristinn stjórn Alþjóðasambandsins skýrslu um félagsstofnun. Hér er fylgt þýðingu hans 1971(bls.36) en bætt við innan horn­klofa atriðum úr frumbréfi (í þýðingu minni), sem Kristinn sleppti 1971:


Félag okkar var stofnað 10. október. Í því eru tólf menn, flestir ungir (þar af sjö flokksbundnir kommúnistar) sem fátt eitt hafa skrifað[birt] áður. Þekkt skáld eru aðeins þrjú, eitt þeirra frægasta skáld okkar, Halldór Kiljan Laxness [sem fór til Rússlands í fyrra og samdi bók um Sovétríkin. Hann er erlendis sem stendur, svo við erum án hans tilstyrks. Tveir kunnir, vinstrisinnaðir rithöfundar, sem við höfðum ætlað okkur að fá með, neita enn að ganga í hópinn.]


Með þessum fáu óreyndu höfundum verðum við að hefja starfsemi okkar. Við gerum okkur ljóst að við getum ekki miklu áorkað. Við komum saman vikulega og aðalverkefni okkar fram að þessu er að taka til gagnrýni íslenskar bókmenntir.


„Þekkt skáld“ í félaginu, auk Halldórs Laxness, hafa aðeins verið Jóhannes úr Kötlum og Halldór Stefánsson. Því liggur sú hugsun nærri, að forsprakkar að stofnun félagsins hafi ætlað því fyrst og fremst að þjálfa nýliða til ritstarfa og reynt að fá óreynt fólk inn í það. Þá væri ekki að undra töluverð afföll. En hverjir voru þessir kunnu vinstrisinnuðu höfundar sem neituðu að ganga inn? Annar þeirra vænti ég að hafi verið Þórbergur Þórðarson, sem Kristinn sagði standa „mjög nærri hóp okkar“ í bréfi til Alþjóðasambandsins 8. maí 1935, og vera félagsmann 1943. En hann kynni að hafa forðast félagið í upphafi vegna þess að hann var í ýmiskonar starfi fyrir Alþýðuflokkinn framan af 4. áratugnum[32]. Hinn höfundurinn kynni að vera Gunnar Benediktsson, sem gekk í félagið fimm mánuðum eftir stofnun þess. Hann sagði mér 1981, að þar sem hann hefði búið sextíu kílómetra vegalengd frá Reykjavík, hefði hann ekki tekið reglulega þátt í störfum félagsins. Konurnar tvær meðal stofnfélaga voru að sögn Ásgeirs Jónssonar (1983), þær Sigríður Einars frá Munaðarnesi og Halldóra B. Björnsson (um þá síðarnefndu staðfestist þetta af skjölum hennar). Ásgeir nefndi að auki meðal félagsmanna Böðvar frá Hnífsdal og Sigurð Einarsson. Auk ofantalinna hefur Stefán Jónsson verið með frá fyrstu tíð, Guðmundur Daníelsson sagðist líka hafa verið með fyrsta veturinn, eins og Gunnar M. Magnúss, sem minntist þess ekki að hafa séð Guðmund nema á einum fundi (og þá hafi hann haft glímukóng sunnlendinga með sér!). Gísli Ásmundsson sagðist hafa gengið inn ekki síðar en vorið 1935, þegar vinna hófst við Rauða penna, e.t.v. fyrr. Hann sagði 1981(bls.2) að Davíð Stefánsson „hálflangaði til að vera með, en fannst sér ýtt til hliðar. Held að hann hafi fengið slæma krítik fyrir að fjalla um verkalýðinn af tómri vorkunnsemi.“ Kristinn réðst svo harkalega á Davíð í stefnu­mótandi ræðu sem ég tel vera frá stofnfundi félagsins, 1933 (C, bls.204–6), að útiloka má að hann hefði verið tekinn í félagið, og sama gildir um Sigurð Einars­son. En auk þeirra virðast ýmsir standa utan félagsins, sem þó höfðu látið frá sér fara sósíalísk skáldverk; Sigurður Gröndal og Vigfús Einarsson, auk fleiri ljóðskálda (sjá k.4.3.2).


Kristinn E. Andrésson telur upp félagsmenn 1971 (bls. 41, ég auðkenni nöfn þeirra sem komu inn eftir fyrsta árið. Ártölin eru sett eftir upplýsingum mannanna sjálfra í viðtölum við mig, 1981 og 1986):


1942–1943 er birt í fundagerðarbók félagatal með þessum nöfnum, fimmtán talsins í stafrófsröð: Nöfnin eru: Björn Fransson, Gunnar Benediktsson, Gunnar M. Magnúss, Halldór K. Laxness, Halldór Stefánsson, Jóhannes Steinsson, Jóhannes úr Kötlum, Jón Óskar [1943], Jón úr Vör [1936], Kristinn E. Andrés­son, Ólafur Jóh. Sigurðsson [1936], Sigurður Helgason, Stefán Jónsson, Steinn Steinarr, Þórbergur Þórðarson.


Nokkurt gegnumstreymi hefur verið í félaginu, því ef teknar eru gildar allar upplýsingar um félagsmenn, sem geymdust í minni manna hálfri öld síðar, þá höfðu að minnsta kosti þessir gengið úr félaginu, þegar tíu ára tilveru þess lauk: Ásgeir Jónsson, Böðvar frá Hnífsdal, Friðjón Benónýsson, Gísli Ásmundsson (?), Guðmundur Daníelsson, Halldóra B. Björnsson, Katrín Pálsdóttir, Sigríður Einars, Sigurður Einarsson (?), Vilhjálmur frá Skáholti. Erfitt er að alhæfa um ástæður brotthvarfs. Sumir virðast hafa gengið í félagið af því að þeir hafi ætlað sér að verða skáld, en komu svo litlu sem engu á prent. Guðmundur Daníelsson nefndi fjarveru sína frá Reykjavík (1981), en bæði hann og Sigurður Einarsson fjarlægðust þennan hóp pólitískt, þótt síðar yrði. Sigurður var alla tíð í Alþýðuflokkinum, og þingmaður hans á fyrsta skeiði þessa félags, á árunum 1934–7. Konurnar þrjár voru hinsvegar áberandi á vegum Sósíalistaflokksins eftir seinni heimsstyrjöld, og er athyglisvert að þær skuli allar hafa horfið úr þessu félagi, en ekki hefi ég heimildir um ástæður þess. Halldóra og Sigríður urðu nokkuð kunnir rithöfundar, eins og Böðvar, Guðmundur og Vilhjálmur.


Hvað sem þessu líður, ber félagatalið vitni um sterkan og varanlegan kjarna í Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda, allt frá fyrstu tíð.


Stefna félagsins


Kristinn birtir þrjár útgáfur af stefnuskrá félagsins 1971 (bls.37–8): A. Bréf sitt til Alþjóðasambands byltingarsinnaðra rithöfunda, 25. sept.1933; B. drögin sem hann lagði fyrir stofnfundinn, 3. okt. 1933; og C. það sem sá fundur samþykkti. „Hvort nokkrar breytingar hafa verið á þeim gerðar á aðalstofnfundi get ég ekki skorið úr um“, segir Kristinn 1971 (bls.39).


Tilgangur félagsins er:


1. að starfa á alþjóðlegum grundvelli byltingarsinnaðra rithöfunda.


2. A: að efla byltingarstefnu íslenskra bókmennta.
B: að efla róttæka skáldskaparstefnu hér á landi.
C: að efla sósíalistíska skáldskaparstefnu hér á landi.


3. A: að berjast gegn tilhneigingum til fasisma í íslenskum bókmenntum.
B: að heyja baráttu gegn fasisma í íslenskum bókmenntum.
C: þannig samþykkt sem 4.grein.


4. A: að berjast með verkamönnum fyrir menningarbyltingu.
B: að vera málsvari og samherji verkalýðsins í menningarlegu byltingarstarfi hans.
C: að vinna að menningarlegu byltingarstarfi verkalýðsins (varð 3.gr.)


Um breytingarnar á 2.og 3. grein segir Kristinn:


Hér er hiklaust nefnd „byltingarstefna“ en hvorki viðhaft orðalagið „róttækur“ né „sósíalistískur“, enda verið að skrifa sambandi byltingarsinnaðra höfunda. Hins­vegar er farið með meiri gætni út á við, ekki sagt að „berjast gegn fasisma“ í íslenskum bókmenntum, heldur „tilhneigingu til fasisma.“


Þetta er einkennilegt. Ætla mætti að stofnfundur hafi þá séð fasisma í íslenskum bókmenntum, en hvar? Aldrei er minnst á slíkt í annars harkalegri ádeilu ýmissa félagsmanna á pólitíska hneigð í íslenskum samtímabókmenntum (sjá 6. k.). Líkleg­ast er að félagsmenn hafi bara átt von á slíku, haustið eftir valdatöku nasista í Þýskalandi, einnig er þess að gæta, að helstu félög íslenskra nasista voru stofnuð frá vori til hausts 1933. Slíkur uggur virðist sennilegri skýring en hitt, að stefnuskráin hafi verið íslenskuð beint eftir erlendum fyrirmyndum af lítilli umhugsun um aðstæður hérlendis[33].


Breytingarnar á 2. grein met ég sem skýrari afmörkun. Byltingarstefna í bók­menntum getur verið með ýmsu móti, t.d. hlýtur Bréf til Láru að teljast til hennar. En sú bók hefði ekki talist til „sósíalískrar skáldskaparstefnu“, haustið 1933, ári eftir að Einar Olgeirsson birti grein sína: „Skáld á leið til sósíalismans“. Þá gat það orðalag varla merkt annað en það sem nú er kallað sósíalrealismi, enda er það sam­kvæmt stefnuræðu Kristins frá 1933(C). Ásgeir Jónsson sagði mér 1983, að þessi grein Einars hafi verið mikið rædd í félaginu, og hafi hann sjálfur ásamt Steini Steinari og Stefáni Jónssyni talið að „of mikil áhersla væri þar lögð á pólitíska rétt­línu“. En sú afstaða var svo útbreidd 1983, að taka verður þeim vitnisburði með fyrirvara um afstöðu manna hálfri öld fyrr, á meðan ekki er við aðrar heimildir að styðjast.


Fáir Íslendingar hefðu skilið hugtakið „menningarbylting“ á árinu 1933, held ég, en annars sýna breytingar á síðustu grein uppkastsins að félagið vildi ekki þykjast hafa vit fyrir verkalýðnum, áherslan er lögð á samstarf. Í endanlegri gerð fylgir þessi grein sömu meginstefnu og Skipulagsskrá þýsku deildarinnar (sjá Bund, 1928 A), sem er þó skýrari: „Með því að sameina öll öreigaskáld og byltingarsinnaða höf­unda vill sambandið efla og útbreiða öreiga- og byltingarbókmenntir samkvæmt sérstakri framkvæmdaáætlun.“


Alþjóðlegt samband


Í fyrsta bréfi sínu til Alþjóðasambandsins, 25. sept. 1933, sagði Kristinn að til stæði að stofna félag til að efla byltingarskáldskap: „Okkur er mjög mikils virði að komast í samband við yður, þótt við teljum okkur ekki hafa þroska til að ganga í samtök yðar.“ En með samþykkt 1. greinar má telja félagið Íslandsdeild Alþjóða­sambands byltingarsinnaðra rithöfunda, svo sem stjórn þess staðfesti í svar­bréfi sínu 13. des. 1933: „Við föllumst á stefnuskráruppkast yðar, en álítum að gott væri að bæta við það einu atriði — um baráttu gegn fasisma og um vörn Sovétríkj­anna. Einnig væri gott ef þið gætuð gefið út tímarit“ — og sambandsstjórn sendir út­gefið efni sitt, sem nota mætti í það. En það var helsta erindi fyrsta bréfs Kristins að biðja um bók­menntaverk, tímarit og annað efni í þeim mæli sem stjórn Alþjóða­sam­bandsins treysti­st til að senda félausum samtökum. Einnig sendir stjórnin félag­inu lista með heimilisföngum deilda sinna (strikað er yfir orðið deildir, og vinir sett í staðinn, enda eru þarna stundum heimilisföng einstaklinga) í Englandi, Banda­ríkjunum, Ástralíu, Hollandi, Noregi, Frakklandi og Spáni. Ekki hefi ég fundið neinar sam­þykktir Fbr. um það atriði sem stjórn Alþjóðasambandsins óskaði eftir, enda var stefnuskrá þess samþykkt og frágengin þegar bréf Alþjóðasambandsins barst, en vitaskuld hafa félagsmenn verið einhuga um að verja Sovétríkin og berjast gegn fasisma. Kristinn sagði 1971 (bls. 138) að félagið hafi verið deild úr Alþjóða­sambandinu frá því í janúar 1934. Stjórn Alþjóðasambandsins svaraði orðum Krist­ins um þroskaleysi og lítinn liðstyrk íslenska félagsins með upp­örvun: „Fyrsta kastið verður ykkur nokkuð erfitt að vinna ykkar mikla og mikilvæga starf, en við höfum þegar séð í starfi okkar, að litlir hópar sem voru veikburða framanaf styrkjast undir réttri stjórn, og þróuðu starfsemi sína þannig, að þeim tókst að draga til sín höfunda sem voru á báðum áttum.“


Bréf Kristins til stjórnar Alþjóðasambandins, 8. maí 1935, bendir eindregið til að þá hafi ekki verið nein bréfaskipti milli þess og íslenska félagsins í hálft annað ár, allt frá bréfaskiptunum í sambandi við stofnun félagsins. Það starfaði þá sjálfstætt á sameiginlegum grundvelli, auk þess að birta á íslensku töluvert af sögum og greinum úr tímaritum Alþjóðasambandsins og einstakra deilda þess[34].


Starfsáætlun


Úr fórum Halldóru B. Björnsson kom fram blað með stefnuskrá og starfsáætlun félagsins, í þeirri gerð sem lögð var fyrir stofnfund. Hér er sýnt innan hornklofa, hvernig þessi frumgerð greinist frá þeirri gerð starfsáætlunar sem birtist í endurminn­ingum Kristins 1971, en þar segir í framhaldi af lýsingu á stefnuskrá (bls. 38):


Þá er á fyrra stofnfundinum gerð grein fyrir því hvernig félagið vilji vinna að þessum tilgangi og eru tekin fram sjö atriði:


1. með fræðslustarfsemi.
a. um undirstöðuatriði[n] í heimsskoðun marxismans.
b. um þróun verklýðsmenningar[innar,viðgang hennar] á Sovét-Rússlandi og
bókmenntastörf [byltingarsinnaðra rithöfunda] víðsvegar um heim.


2. með róttækri gagnrýni á íslenzkum nútímabókmenntum, fyrst og fremst [á málfundum] innan félagsins, þar sem sérstök áhersla er lögð á skólun með­lim­anna sjálfra.


3. með samvirkri rannsókn íslenskra skáldskapargreina og þeirra listaðferða sem þar þekkjast, ásamt leit að nýjum tegundum, nýju formi og endurnýjuðu máli.


4. með æfingum í skáldskap, frumortum og þýddum, sem lagður er fram fyrir félagsmenn til umsagnar og gagnrýni.


5. með því að koma á framfæri þeim skáldskap eða ritsmíðum er til þess þykir fallið [sem félaginu þykir til þess fallið].


6. með bréfaskriftum [bréfaskiptum] við skáldhneigða verkamenn víðsvegar um land.


7. með því að komast í samstarf við „Samband byltingarsinnaðra rithöfunda“, afla sér þaðan hverskonar leiðbeininga og gagna.


Í fyrsta bréfi Kristins til Alþjóðasambandsins, 25. sept. 1933, er þessi starfs­áætlun í uppkasti, eins og áður segir. Þar vantar liði 4. og 5. en annars eru þau drög samhljóða plagginu úr fórum Halldóru, nema hvað 2. liður hljóðar: „með marxískri gagnrýni á íslenskum nútímabókmenntum.“ — en það er öllu skýrara en „með rót­tækri gagnrýni“.


Frávik Kristins 1971 frá frumgerð eru ekki mikil, en ganga þó í þá átt að gera stefnuna óskýrari, og hverfa frá kenningunni um öreigamenningu (í 1. b). Hinsvegar sýnir ræða hans við stofnun félagsins (1933 C, bls. 207–8), að meiningin með þessum „bréfaskiptum“(6. liður) var eins og hann lýsti í bréfi sínu á þýsku, að þjálfa verkafólk til skrifta og íslenska starfsáætlunin var þá áþekk þeirri sem þýska deildin setti sér. Sú þýska staðhæfði fyrst, að allar bókmenntir mótist af stéttareðli, bók­menntir öreigastéttarinnar eiga að skipuleggja hana til byltingar. Nærtækasta verk­efnið sé að safna öllum þeim sem teljast mega öreigaskáld út frá þessari skil­greiningu. Loks er talað um nauðsyn þess að verja Sovétríkin. Hér birtast og fyrstu tvö atriði íslensku starfsáætlunarinnar í knappara formi: Barist skal gegn borgaraleg­um bókmenntum með gagnrýni og í bókmenntasköpun; ennfremur fyrrnefndur 6. liður: nauðsynlegt er að laða að verkalýðsæsku og verkalýðsfréttaritara, og móta þau. Ennfremur er lögð áhersla á að fjalla fræðilega um þessar nýju bókmenntir, og á marxíska skólun félagsmanna. Nýtt form verði aðeins skapað út frá þessu nýja inni­haldi, sem skipti höfuðmáli. Því beri að hafna formbyltingu einni saman (Bericht, 1929, bls.173). Hinsvegar sýnir 3. atriði íslensku stefnuskrárinnar í senn vilja til að átta sig á menningararfinum og til að yfirstíga hann, enda voru ýmsir áberandi félagsmenn boðberar bókmenntanýjunga (Halldór Laxness, Halldór Stefánsson, Kristinn E. Andrésson og Jóhannes úr Kötlum, auk Steins Steinars). Og þess ber að minnast að á þessum tíma áttu bókmenntanýjungar ekki fjandskap að mæta frá stjórnvöldum í Sovétríkjunum (sbr. k. 1.5), þótt svo væri hinsvegar bæði í lok 3. áratugsins, og aftur frá því á seinna hluta hins fjórða.


Draga má saman, að þótt erlendar fyrirmyndir séu ekki augljósar í þeirri íslensku gerð stefnuskrárinnar sem Kristinn birti 1971, þá eru þær það í upphaflegri gerð, einnig í starfsáætlun félagsins, auk bréfs hans til Alþjóðasambandsins, 25.9. 1933, og í stefnuræðu hans við stofnun félagsins. Í bréfinu vitnar hann til samtals Einars Olgeirssonar við Béla Illès, fyrsta leiðtoga Alþjóðasambands byltingarsinnaðra rit­höfunda (einnig 1971, bls.35), og er Einar þá líklegur til milligöngu, svo sem að hafa borið stefnuskrárplögg hingað (Hann mundi ekki 1983 hvort svo hefði verið).


Framkvæmdir


Í fyrrnefndu bréfi, 8.maí 1935 segir Kristinn (fylgt er þýðingu hans 1971, bls. 40, en þar er sleppt ýmsum atriðum, sem ég þýði og eyk við í hornklofum):


[Við ætlum nú loksins að láta í okkur heyra.] Starfsemi félags okkar á árinu sem leið[35] var ekki mikil. Þeir um 20 félagsmenn höfðu mjög misjafnan pólitískan og bókmenntalegan þroska. [Því urðum við að beina starfi okkar fyrst og fremst að okkur sjálfum.] Að vetrinum höfðum við fundi einu sinni í viku. Við gagnrýndum verk hver annars og rökræddum líka bókmenntaleg efni. Nokkrir þoldu ekki [vikust undan] gagnrýni okkar og dró úr bókmenntastarfsemi annarra. En kjarni hóps okkar er orðinn þroskaðri og markvísari, og nú er greinilegur viðgangur (Aufschwung) í starfi okkar og bráðlega látum við til okkar taka sem byltingarhópur út á við. [Í okkar röðum eru líka virtustu og frægustu rithöfundar Íslands. — Kristinn segir síðan frá Halldóri Laxness, Halldóri Stefánssyni, Jóhannesi úr Kötlum og Þórbergi Þórðarsyni, sem raunar sé ekki félagsmaður].



Eitthvað hafa fundir strjálast í félaginu þegar leið frá upphafi, aðrir tala um að þeir hafi verið hálfsmánaðarlega eða mánaðarlega (Guðmundur Daníelsson 1981 (bls.1), Ásgeir Jónsson 1983).


Samkvæmt fyrsta lið starfsreglna voru haldnir leshringir í marxisma, „lesnir ein­hverjir pésar, þýddir aðallega. Leiðbeinendur voru Einar Olgeirsson, Kristinn E. Andrésson og Gunnar Bendediktsson“ sagði Guðmundur Daníelsson (tv.st.).


Haldin voru erindi um erlendar bókmenntir — væntanlega innan ramma „hinnar nýju stefnu“. Halldór Stefánsson minntist 1977 erindis Gísla Ásmundssonar um þýskar bókmenntir; Kristinn segist 1971 hafa talað um þær og sovéskar bókmenntir, sama bar Gunnar M. Magnúss, sem einnig minntist 1981 (bls.4) frásagna Halldórs Laxness „um rithöfunda og stefnur og ýmislegt sem varðaði þjóðfélögin“. Ólafur Jóhann minntist þá líka erinda sömu manna.


Gagnrýni á borgaralegar bókmenntir fór fram á fundum, svo sem boðað var í 2. lið. Kristinn nefnir sem dæmi (1971, bls.40) gagnrýni sína á ritið Íslendingar eftir Guðmund Finnbogason, sem hann flutti síðan opinberlega. Ásgeir Jónsson nefndi gagnrýni Jóhannesar úr Kötlum á Fagra veröld Tómasar Guðmundssonar, sem síðan birtist í Rétti (Gunnar M. Magnúss hlýtur að eiga við sömu gagnrýni á þá bók, þótt hann segði 1981: Stjörnur vorsins). Við kynnumst þessari gagnrýni betur í 4. hluta.


Minna fer fyrir „samvirkri rannsókn bókmenntategunda“. Á því sviði sé ég ekki annað en útvarpserindi Kristins 1934–5 („Málið og bókmenntirnar“). Og 6. liðurinn, sem rætt var um hér að ofan, þjálfun verkafólks til ritstarfa, verður ekki séð að nein hafi orðið, enda nefnir Kristinn ekkert slíkt í framangreindri skýrslu sinni, 8.maí 1935. Þess er þá að minnast, að á árunum 1932–4 hurfu sovéskir ráðamenn frá kenningunni um öreigabókmenntir, þ.e.að skáldskapur eftir höfunda úr verklýðsstétt væri pólitískt traustari en annar. Lítt hefi ég séð þá kenningu hjá Íslendingum, helst í greinum Kristins E. Andréssonar (I, bls. 33–4) og Björns Franssonar í Rauðum pennum I. Gunnar M. Magnúss sagði mér 1981, að félagsmenn hefðu lesið upp á fundum verkalýðsfélaga, haldið þar erindi, og skrifað í blöð þeirra, en um það hefi ég ekki getað fundið neinar aðrar heimildir, t.d. ekki í fundaauglýsingum Verk­lýðsblaðsins, fyrr en þá á síðari hluta 4. áratugsins[36].


En hvað varðar æfingar í skáldskap skv. 4. grein, þá nefnir Kristinn aðeins eina 1971 (bls. 39–40), og Halldór Stefánsson þá sömu 1977 (bls.120): á aðalfundinum 6. mars 1934 las Katrín Pálsdóttir upp sögu, og Björn Fransson, Jóhannes úr Kötlum og Halldór Stefánsson lásu upp lögreglusögur, svo sem allir áttu að semja, en aðeins hin síðasta hefur lifað, sagði Kristinn. Þar er ekki öðru til að dreifa en sögunni „Hinn mikli segull“, og þetta eru þá sögur um pólitískt dægurmál, innlegg í deilur um ríkislögregluna, svo sem Kristinn boðaði í stefnuræðu sinni fyrr um vetur­inn (1933 C, bls. 208). Hér var því ekki um reyfara að ræða eins og Árni Sigurjóns­son taldi 1986 (bls.98). Ásgeir Jónsson minntist 2–3 tilrauna 1983, en taldi útkom­una aðeins vera eina misheppnaða smásögu eftir Björn Fransson, hún sýndi stéttar­baráttu öreiganna.


Skömmu síðar var gerð önnur tilraun sem félagið átti aðild að, af sama tagi, en víðtækari. Hún var kynnt á kápusíðu 2. heftis Réttar 1934 (en í því birtist„Hinn mikli segull“):


Það tíðkast nú mjög í róttækum rithöfundafélögum og tímaritum erlendis, að efnt sé til verðlaunasamkeppni í ritverkum, sömdum á sósíalistískum grundvelli.


„Réttur“ hefir snúið sér til „Félags byltingarsinnaðra rithöfunda“ hér, og óskað álits þess á því, hvort það teldi tímabært að gera slíka tilraun hér á landi. Félagið var þess mjög hvetjandi, að á því yrði byrjað nú þegar, og tilnefndi sem efni fyrstu samkeppninnar:


Fasistískar kúgunaraðferðir núverandi þjóðskipulags á Íslandi.


[...] Skorar „Réttur“ á lesendur sína að taka þátt í þessari samkeppni, og hefir í hyggju að efna til fleiri slíkra síðar um önnur efni.


Þetta hefur verið um vorið, því skilafrestur var til 1. ágúst. Þrenn verðlaun átti að veita, 100 kr. (tæplega hálfsmánaðarlaun verkamanns), 60 kr. og 30 kr. Ekkert hefi ég fundið um þetta síðan í Rétti né annars staðar, og skal því ekkert fullyrða um árangur, en vissulega birti hann æ meir af íslenskum smásögum næstu árin. Nefna má, að árið áður hafði Eimreiðin smásagnakeppni sem einn félagsmanna vann, það var Stefán Jónsson. Kristinn var ritstjóri Réttar 1933 (að eigin sögn 1971, bls.118), e.t.v. lengur, auk þess að vera helsti forystumaður Félags byltingar­sinnaðra rithöfunda, hann sneri sér því eiginlega til sjálfs sín.


Í 4. lið starfsáætlunar félagsins, og í stefnuræðu Kristins er boðuð gagnrýni félagsmanna á verk hver annars. Það var ekki nýmæli á Íslandi, þetta hafði bók­menntahópur Menntaskólanema stundað á 2. áratug aldarinnar (sbr. Svein Skorra 1979, bls.109), þegar þar voru a.m.k. þessir áberandi félagar Félags byltingar­sinnaðra rithöfunda: Halldór Laxness, Gunnar Benediktsson og Kristinn E. Andrés­son. Einnig var lögð áhersla á gagnkvæma gagnrýni í sellum kommúnistaflokka. Líklegt er að ákvæði t.d. þýska félagsins um „Schulung“ hafi falið eitthvað þvílíkt í sér. Þessi aðferð hefur því mátt virðast sjálfsögð til að sameina félagsmenn og þjálfa þá í að fylgja nýrri bókmenntastefnu. En eins og Ólafur Jóhann benti á 1981, hefur verið mjög örðugt fyrir höfund að heyra nýbakað verk sitt tætt sundur í hópi nánustu félaga og keppinauta. Líklegt má telja að þessar umræður liggi til grundvallar rit­dómum sem félagsmenn birtu um verk hver annars, í Rétti einkanlega (við sjáum meira um það efni í 4. hluta hér.). En hún hefur einnig komið í veg fyrir birtingu verka. Um það er vitnisburður í smásögu frá 1959: „Skáld á fundi“ eftir Guðmund Daníelsson. Hann fullyrti 1981 að hún væri raunsönn lýsing atburða, og það tóku fleiri félagsmenn undir, svo ekki verður undan vikist að kanna heimildagildi hennar. En skoðum fyrst frásögn hennar.


Sagan segir frá fundi í Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda (sem er kallað Ný kynslóð) í lok nóvember 1933. Félagsmenn eru auðþekktir undir nöfnum sög­unnar, sem yfirleitt eru rússnesk — og raunar staðfesti höfundur við hverja væri átt, í viðtali við mig 1981. Fundurinn er haldinn heima hjá Stefáni Jónssyni (Ivan Stephanovich). Hann sitja Halldór Stefánsson (Igor Rasumkin), Kristinn E. Andrés­son (Krestanoff), Steinn Steinarr (Stanislás Stanza), Jóhannes úr Kötlum (Jósef Mirov), Halldór Laxness (Fedor Kajam Ljúblín), Guðmundur Daníelsson (Gromiko Daniloff), Ásgeir Jónsson (Pétur Carpenter) og Guðmundur Sigurðsson (G. Sig­urdsson). Þar sem tveir síðasttaldir bera ekki rússnesk nöfn, fá lesendur þegar þá tilfinningu að þeir séu utanveltu. G. Sigurdsson segist vera fulltrúi lesenda, og er sagð­ur menningarmálaráðunautur flokksins. Engar heimildir eru fyrir því að Guð­mundur hafi verið í félaginu, en hann var raunar með fremstu mönnum í komm­únistasellu Borgarness þegar árið 1931 (sbr. blað hennar, Hamar og sigð). En þegar þessi smásaga birtist, 1959, var hann þjóðkunnur grínisti, og oft í útvarpinu. Líklegast er hann því hér hafður til að gera fundinn afkáralegan í augum lesenda þá.


Fyrst gagnrýnir Stanislás Stanza (Steinn Steinarr) ljóðabók G. Daniloff (Guð­mundar Daníelssonar: Ég heilsa þér 1933) fyrir ófrumleika og sjálfumgleði höf­undar, eða borgaralega einstaklingshyggju, því þar séu 32 ég-kvæði, en aðeins eitt heimsbyltingarkvæði, að vísu langt. Guðmundur staðfestir þann grun Steins að hann muni ekkert mark taka á gagnrýninni, og heitir sér og hreyfingunni því að verða stórskáld. Fundarmenn láta í ljós aðdáun á þessum karlmannlegu viðbrögðum.


Næst las Jósef Mirov (Jóhannes úr Kötlum) upp smásögu sína um Jesú endur­fæddan í nútímann. Kristni fannst sagan forláta góð að sögn Guðmundar 1981, og ætlaði að taka í tímaritið, en Halldór Laxness tætti hverja setningu í sundur með orðunum „Þetta er klisja“ (svipaða gagnrýni hafði Halldór uppi seinna, sagði Ólafur Jóhann 1981 — enda er það í samræmi við 3. grein). Aldrei birtist saga Jóhannesar.


Loks er gagnrýnd skáldsaga Ásgeirs Jónssonar, sem hét víst Þorskurinn ræður (sagði Guðmundur 1981, bls.2). Hún er sögð minna á Sölku Völku, en þarna er lýst sjávarþorpi eftir valdatöku verkalýðsins. Ivan Stephanovich ríður á vaðið með gagnrýni og segir um alþýðuforingjann í sögunni:


Ég get ekki betur séð en skepnuskapur einkenni orð hans og athafnir, og alþýðan sem nú á að heita eigandi að atvinnutækjunum og afrakstri síns erfiðis, hún er mestan part ruddalegur skríll sem talar hrognamál. Hvort sem Pétri Carpenter er það ljóst eða ekki, þá held ég hann hafi skrifað sósíal fjandsamlega bók. Mér finnst hann þyrfti að umskrifa hana.


Næstur gagnrýnir Igor Rasumkin „orðskrípi, ambögur, dæmi um skakkar beyg­ingar, ljót eða öfugt mynduð nýyrði, andkannalega [svo!] orðaröð, útlendar slettur og ranga notkun talshátta“


Carpenter ver sig með þeim rökum að hann hafi ekki búið þessi orðskrípi til, heldur notað þau „til að draga upp ófegraða mynd af málfari fólks nú á dögum“. Hann sé kommúnisti og skrifi bók sína kommúnistum „til viðvörunar. Hún gagn­rýnir félagslegt siðleysi, sem pólitískir kjaftaskúmar telja fáfróðri alþýðu trú um að sé það sama og frelsi og sósíalismi.“ (bls.41).


Bókin átti því að gegna pólitísku uppeldishlutverki, en það finnst Krestanov hafa mistekist vegna þess að hún gefi neikvæða mynd af alþýðunni og af byltingar­foringj­anum. Því kveður hann upp dauðadóminn:


Svona bækur, ef út eru gefnar, skaða flokkinn meira en öll níðrit afturhaldsins samanlögð, því að þær veifa flaggi hans og eru þar af leiðandi taldar hans mál­pípur. Þó að félagið Ný kynslóð orkaði engu öðru en því að koma í veg fyrir útgáfu bóka á borð við „Fiskurinn ræður“ væri gagnsemi þess stórkostleg, því ég endurtek: Engar bókmenntir eru betri en lélegar bókmenntir.“


„O, ekki segi ég það kannski“ tautaði stórskáldið Ljublin


Þarmeð hvarf Carpenter úr félaginu og með honum herbergisfélagi hans Stanza.


Guðmundur Daníelsson sagði 1981 (bls.1) um söguna: „þetta er alveg fundar­gerð ef svo mætti segja, af einum fundinum.“— en þar held ég að Guðmundur geri of lítið úr skáldgáfu sinni. Þetta er á margan hátt vel heppnuð smásaga, og þá einkum vegna skáldlegrar byggingar hennar. Hún ræðst af þrítekningu með stígandi, eins og einkennir þjóðsögur. Þrjú skáld eru gagnrýnd, og harðnar stöðugt gagn­rýnin. Og þriðja skáldið er gagnrýnt af þremur félagsmönnum. Í fyrri tvö skiptin reynir hann að malda í móinn, en er loks alveg sallaður niður af leiðtoganum. 2. gagnrýnandi hans fjallar einkum um málfar, eins og 2. gagnrýnandi fundarins. Forboðar eru í sögunni auk þessa; fulltrúi lesenda og/eða flokksins tekur þegar í upphafi fundar að erta þann sem verður svo aðalfórnarlambið, snjókoman ætlar allt að kaffæra í bænum. Oft er á það minnt að það er trésmiður sem krossfestur er í lokin, og kann það með öðru að vekja samúð lesenda sem aldir eru upp við páska­guðspjall og passíusálma. Enn er það til hnitmiðunar sögunni, og gæti því verið af skáldlegum toga, hve óþægilegt andrúmsloftið er, menn svitna og þegja undir gagn­rýninni; einnig hitt, að myndin er algerlega neikvæð, þetta félag virðist ekki gera neitt nema brjóta skáld niður. Þannig getur það vel hafa orkað á Guðmund, 1981 sagði hann enn, að svona hefði andinn verið í félaginu, hnútuköst (bls.14–15). Nú mætti e.t.v. skýra þetta með því, að stefna þessi hefði síður átt við hann en til dæmis Jóhannes úr Kötlum. Og 1959 gæti hafa verið komin í hann gremja gagnvart fornum félögum, sem þá höfðu lengi gagnrýnt verk hans harkalega, margir. En t.d. Gunnar M. Magnúss sagði 1981 (bls.13):


Það var ekkert sársaukalegt í sambandi við það, eins og við værum að fá hnútur frá einhverjum. Heldur var þetta einhver lærdómsgrúppa og kynning, og maður hefur alla ævi átt þessa menn að vinum.


Sama atriði kemur fram hjá Kristni 1971 (bls. 40):


En hversu sem meta skal árangur félagsstarfsins verður því ekki neitað að það bræddi hópinn saman, að undanskildum fáeinum sem hrukku burt, og ég hygg að þess séu fá dæmi að rithöfundahópur af þessu tagi hafi jafnlengi haldið sam­starfi áfram og eins miklu vinfengi, flestir fram á þennan dag.


Heimildarmönnum mínum 1981 ber saman um að þessi gagnrýni hafi mildast eftir fyrstu árin (t.d.Guðmundur Daníelsson bls.14, Ólafur Jóhann sagði að þessi innri gagnrýni hafi að mestu verið liðin tíð þegar hann kom í félagið, 1936). Sundur­þykkja og spenna myndi eðlilega koma upp í hóp þar sem félagsmenn ein­beita sér að því að gagnrýna hver annan, en þegar meginstarf félagsins breytist í það að vinna saman út á við, að boðun sameiginlegrar stefnu (1935), þá eflir það félagsandann, eins og líka andstaðan sem hreyfingin varð fyrir í vaxandi mæli seinni hluta 4. áratugsins.


Í smásögunni virðast tvö skeið tilveru félagsins dregin saman í einn fund; fyrra skeiðið, rúmt ár, sem einkenndist af innri mótun, og útbreiðsluskeiðið frá 1935 að telja. Einnig gætu verið dregnir saman nokkrir fundir, því býsna mikið liggur fyrir þessum (þó voru raunar fjórar smásögur teknar fyrir 6. mars 1934).


Hvernig á nú að reikna þetta frádráttardæmi? Er nokkuð að marka skáldverk frá 1959 um atburði 1933? Því er til að svara að meginatburðir virðast staðfestir. Guð­mundur Daníelsson hafði þegar 1958 sagt frá gagnrýninni á Ásgeir í viðtali í Mbl. (21. nóv., bls. 11), rakið orð Kristins og viðbrögð Ásgeirs. Heimildamenn mínir 1981 staðfestu hana: Gunnar M. Magnúss (bls. 7–8 og 12–13), Ólafur Jóhann (bls.1, hann benti mér á söguna) og Jón Óskar (bls. 4). Raunar sögðust þeir allir hafa verið fjarstaddir, en loks staðfesti Ásgeir Jónsson frásögnina sjálfur, 1983, og sagðist þó ekki þekkja smásöguna. Hann sagði að gagnrýnendur sínir hefðu verið tveir, Halldór Stefánsson hefði gagnrýnt frá stjórnmálasjónarmiði, en Jóhannes úr Kötlum frá listrænu. En Ásgeir sagðist hafa verið lengi áfram í félaginu eftir þessa gagnrýni, og aldrei hafi orðið ósætti milli sín og hinna. Hann hafi bara flust út á land 1935, til að vinna hjá fósturforeldrum sínum, verið þar í tvö ár og ekki orðið virkur í félaginu þegar hann sneri aftur til Reykjavíkur. Ásgeir staðfesti líka frásögnina um gagnrýni á Jóhannes úr Kötlum og Guðmund Daníelsson. — Samkvæmt þessu hefði Guðmundur Daníelsson einungis gert raunverulega atburði dramatíska til að gera þá smásöguhæfa. Í þá átt, til mögnunar, bendir líka, að Steinn Steinarr var í félaginu við endalok þess, þótt hann gangi úr því í sögunni. En skömmu eftir að félagið var stofnað, kom skeið hreinsana í Kommúnistaflokkinum, m.a. var Steinn Steinarr rekinn úr flokknum vorið 1934, og vottar að Gunnar Benediktsson m.a. hafi staðið að því[37]. Þessar aðstæður hafa vafalítið sett svip sinn á Félag byltingar­sinnaðra rithöfunda, a.m.k. fram yfir mitt ár 1934, en það er í samræmi við þessa innri gagnrýni. Raunar bendir rithöfundarferill Ásgeirs til að gagnrýnin hafi fengið meira á hann en hann vildi vera láta 1983. Hann hafði gefið út sögulega skáldsögu 1932, sem hét Allt, mærðarfull mjög. Henni hafnaði hann ári síðar, og nú skyldi stefnt í aðra átt, sagði Guðmundur Daníelsson 1959 (bls. 31 og 1981, bls.5). En síðan kom ekkert frá honum fyrr en 1961, og rak þá hver skáldsagan aðra, þrjár alls (Svörtu vikudagarnir 1961, Þræll hússins 1963 og Tvær tunglskinsnætur 1966). Mér hefur dottið í hug að smásaga Guðmundar (eða viðtalið við hann 1958, sem Ásgeir sagðist hafa séð) hafi vakið hann að nýju, gert honum kleift að sjá ósigur sinn í nýju ljósi. Ekki sagðist hann geta skýrt þessa löngu þögn, 1983, og ekki vera hættur að skrifa, en hafði ekki fengið útgefendur að sögum sínum um nokkurra ára skeið.


Sigurður Helgason var sagður hafa orðið fyrir harkalegri gagnrýni (Jón Óskar, bls. 2 o.áfr.). Það staðfesti Gunnar M. Magnúss, og minnti að það hefði verið fyrir skáldsöguna Hin gullnu þil, „fyrir heldur lélega línu“, eins og Ásgeir (bls.12–13). Merkilegt ef satt er, því sú bók birtist ekki fyrr en 1941, hefðbundin sveitasaga, sem sýnir fram á hvílíkt böl hljótist af drykkjuskap, fólk verður úti. En minni Gunnars var nokkuð tekið að bila 1981, sýndist mér (sbr. um Fögru veröld hér að framan). Trúað gæti ég að Sigurður hefði fengið gagnrýni fyrir Ber er hver að baki, sem birtist 1936, því engin er leiðsögnin í þeirri góðu sögu, né heldur í Og árin líða, 1938. En engar heimildir eru um þvílíka gagnrýni. Engir ritdómar birtust um seinni bókina, mér vitanlega, en einn neikvæður eftir Árna Hallgrímsson um þá fyrrnefndu. En hún er að mínum dómi mun meira byltingarverk en sósíalrealískar sögur. Þetta er nokkuð hefðbundin saga af örbirgð og eymd sveitafjölskyldu, og skilst, þótt ekki sé sagt berum orðum, að slíkar aðstæður valda því, hve frum­kvæðislaus fjölskyldufaðirinn er, hann hafði verið niðursetningur. Gagnvart þessu leiðir hjálpsemi sumra granna til sömu niðurstöðu og gerræði annarra, búið er leyst upp og fjölskyldunni sundrað. En lesendur fá engar lausnir, svo þeir leiðast til að brjóta heilann sjálfir um þennan vítahring; orsakir hans, afleiðingar og möguleika alþýðufólks í þessu stéttasamfélagi. — Aðrar sögur Sigurðar, sem ég hefi lesið, eru fjarri því að heppnast svo vel. Jafnvel þessa setur hann að þarflausu í skugga Sjálf­stæðs fólks og Sölku Völku með því að taka þaðan nokkur yfirborðsleg efnis­atriði.


Það litla sem Kristinn segir í skýrslu sinni 8. maí 1935 staðfestir í meginatriðum framangreinda frásögn um innri gagnrýni í félaginu, og þykir mér líklegt að hann eigi m.a. við Guðmund Daníelsson þegar hann segir að nokkrir hafi vikist undan gagnrýninni. Auk þess hefði Kristinn átt að andmæla þessari frásögn, beint eða óbeint, í endurminningum sínum 1971, teldi hann hana ranga.


Loks þykja mér bókmenntaviðhorf félagsmanna (sem frá segir í 4. hluta) stað­festa þessa mynd af Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda. Við hefði mátt búast, að um­ræðuhópur um bókmenntir, skipaður skáldum, greinahöfundum og bókmennta­fræðingi, þroskaði skilning félagsmanna sinna á eðli skáldskapar og þeim mun sem er á honum og greinaskrifum. En þróunin virðist ganga í gagnstæða átt, og sýnir það að félagið hefur að vonum fylgt yfirlýstum tilgangi sínum, að innræta mönnum „sós­íalíska bókmenntastefnu“, svo sem hún hafði verið boðuð allt frá 1926. Vissu­lega væri það í samræmi við sterka alþjóðlega strauma á 4. áratugnum með því viðhorfi, að skáldskapur ætti að vera félagslega virkur.


Mikilvægasta spurningin um þetta félag er þó hvaða áhrif það hafi haft á skáld­skap félagsmanna. Henni er vandsvarað, því lítið hefur verið um rannsóknir á verkum þessara skálda og torvelt yrði að greina áhrif félagsins frá öðru, svo sem þeim miklu áhrifum sem þýðingar Magnúsar Ásgeirssonar hafa væntanlega haft á íslensk ljóðskáld á 4. áratug aldarinnar. Höfundarferill þekktustu skáldanna hófst fyrir stofnun félagsins, einnig þeirra Sigurðar Einar, Halldórss B. Björnssonar, Guð­mundar Daníelssonar, Stefáns Jónssonar og Steins Steinars. Fordæmi einstakra skálda, sem sum voru í félaginu, hefur e.t.v. komið ungu alþýðufólki til að skrifa, t.d. Jóni úr Vör og Jóni Óskari. En að þeim kannski frátöldum verður ekki séð að félagið hafi ungað út skáldum, að einhver hafi farið að skrifa við það að hann gekk í félagið. Þvert á móti sáum við á félagaskránni að ýmsir gengu í það sem birtu svo lítið eða ekkert. Ólafur Jóhann fór að skrifa þjóðfélagsádeilusögur eftir að hann gekk í félagið, átján ára, og hafði skrifað tvær barnabækur áður. Svipaður var ferill Gunn­ars M. Magnúss, og að vissu leyti Sigurðar Helgasonar (sbr. 23.töflu). Ef litið er á hina þá var t.d. Halldór Laxness þroskað skáld áður en félagið var stofnað, og verður ekki séð að skáldskapur hans hafi eflst við tilkomu þess. Sama sýnist mér um Halldór Stefánsson[38]. Ólafi Jóhanni, Sigurði Helgasyni og Steini Steinar fer mikið fram eftir að félagið varð til, en það er nú venjan hjá skáldum, frá fyrstu bók til ann­arrar og þriðju. Vilhjálmi frá Skáholti finnst mér ótvírætt fara aftur frá fyrstu bók (1931) til annarrar (1935), jafnframt því sem ljóðin verða pólitísk, en áhrifum félags­ins á hann verður ekki um kennt án sérstakrar athugunar.


Nánar verður að þessu vikið síðar (í 4. hluta), það er að dómum félags­manna um skáldverk hver annars. Þeir dómar eru yfirleitt neikvæðir, ekki eru mörg skáldverk samin undir merkjum stefnunnar og ýmist þykir verkunum áfátt listrænt eða pólitískt, nema hvorttveggja sé.


3.4. Tímarit


Hér skal gerður nokkur samanburður á efnishlutföllum helstu íslenskra menn­ingar­tímarita á árunum milli stríða, til að sjá af þeim nokkuð um umhverfi róttækl­inga og starf. Tímarit virðast kjörin til að athuga það, því með hverju hefti þeirra er verið að framfylgja stefnu, prófa sig áfram um framkvæmd hennar. Þegar rætt er um efnis­hlutföll þeirra verður að gæta þess, að ævinlega er nokkuð tilviljanakennt hvað tíma­ritum berst ár hvert, einnig lengd hvers verks. Hlutfall ljóða í tímariti hækkar veru­lega þegar það birtir bálk eins og „Kvæðið um fangann“ (Rauðir pennar IV) eða ljóðleik Guðmundar Guðmundssonar „Fiðlubjörn“ (Iðunn, 2. og 3. árg.). Af þessu stafa sveiflur milli ára. En af samanburðinum virðist mega álykta í fyrsta lagi, að ekkert íslenskra menningartímarita hafi verið bókmenntarit í þeim skilningi, að það birti fyrst og fremst bókmenntaverk. Greinar og frásagnir taka að minnsta kosti tvo þriðju hluta rýmis í þeim öllum (nema helming í Rauðum penn­um, sjá 10. töflu). Þarna ræður væntanlega almennt það viðhorf, að menningar­tímarit eigi að fræða fremur en skemmta, og höfða til umhugsunar lesenda fremur en listhneigðar. Í öðru lagi eru hlutföll efnisflokka nokkuð svipuð í heild í helstu menn­ingartímaritum milli stríða, Iðunni og Eimreiðinni, og í Tímariti Máls og Menn­ingar (hér eftir skst.TMM) á seinni stríðsárunum. Ljóð taka um 5% rýmis, ritdómar eru helmingi rúmfrekari, en smásögur eru nær fjórðungur rýmis Eim­reiðarinnar, en aðeins tíundi hluti TMM. Loks er greinilegt að smásögur sækja á, þegar líður á árin milli stríða. Það liggur í hlutarins eðli að þær eru jafnan fyrir­ferðarmeiri að blaðsíðutali en ljóð, en þær verða það líka að tiltölu í tímaritum. Merkilegt er að sjá þennan straum snúast við í seinni heimsstyrjöld, þá fjölgar ljóð­um aftur (sjá k. 4.3). Athyglisvert er, að þessu er öfugt farið um bókaútgáfu. Svo mjög sem útgáfa skáldrita eykst á fyrri hluta 20. aldar, þá ber þar jafnan meira á ljóðabókum en sögum, nema rétt á árunum upp úr seinni heimsstyrjöld, þegar bóka­útgáfa var óvenjublómleg. Mér þykir því mjög líkleg skýring Guðmundar Hagalín á þessu, en hann sagði 1930 (bls. 84–5), og byggði á nokkurra ára reynslu sem bókavörður á almenningssafni, að sögur séu miklu vinsælla lestrarefni en kvæði, sem skáldin leggi þó fremur stund á, vegna þess að þeim gefist ekki tími til annars, þegar bókmenntasköpun verði að vera hjáverk. Nú gáfu skáldin oftast út bækur sínar sjálf skv. fyrrgreindum vitnisburði Ársæls Jónssonar, 1928, og má það vera skýr­ingin á því að ljóð skuli yfirgnæfa þar, en tímarit spegla þá væntanlega bet­ur smekk lesenda.


Hvað varðar umfjöllunarefni greina, þá verður veruleg breyting á Iðunni undir ritstjórn Árna Hallgrímssonar, 1926–37, áherslan færist frá íslenskum þjóðmálum og sögu, að íslenskum bókmenntum sérstaklega (þreföldun) og nokkuð að erlendum málefnum og vísindum. Þetta er einkennandi fyrir stefnu nýjungamanna þá, sem horfa til samtímans og umheimsins, andstætt mönnum hefðarinnar, sem mestan á­huga hafa á sögu, ekki síst persónusögu. Það einkennir tímaritin Andvara og Skírni, eins og Iðunni fyrri áratuginn, 1915–26. Rauðir pennar (hér eftir skst. RP) hafa hinsvegar hálfu meira um bókmenntir og listir en Iðunn, enda var RP boðunarrit nýrrar stefnu á því sviði. En RP leggur svipaða áherslu á stjórnmál og þjóðmál, innlend og erlend, þau taka yfir rúman þriðjung greina þar. Tímarit Máls og menningar hefur fyrstu fimm árin, 1940–1944, mjög svipuð efnishlut­föll og Iðunn hafði undir stjórn Árna Hallgrímssonar. Seinna varð TMM mun hefð­bundnara í áhugamálum (ef litið er á tímabilið 1940–76 í heild), í áherslu á sögu slagar það þá hátt upp í Andvara og Iðunni (fyrri áratuginn,1915–26), en sýnir mun minni áhuga á vísindum og hugleiðingum. Hinsvegar ver Eimreiðin meira rými í bókmenntir en TMM (sjá k.6.5. og 11.töflu). Þegar á árunum milli stríða var Eimreiðin fyrirferðarmest á vettvangi bókmennta. Hún var líka tímarita stærst og hýsir 100 skáld, en Iðunn 60 á þessum tíma, enda bauð hún bókmenntaverkum helmingi minna rými en Eimreiðin[39]. Eimreiðin birti þá líka tvöfalt fleiri rit­dóma en Iðunn og TMM, 55% þeirra er um bókmenntaverk, og fjalla um tvo þriðju hluta útkominna bókmenntaverka.


Miðað við þessi hlutföll er fjöldi erlendra höfunda í Iðunni sambærilegur við það sem Eimreiðin bauð upp á (60 á móti 74). Þá vaknar spurningin hvaða erlendir höfundar birtust í hverju tímariti (sjá 12. töflu). Í ljós kemur að val Iðunnar verður nútímalegra undir stjórn Árna Hallgrímssonar, einkum í norðurlandabókmenntum, en hann hafði búið um hríð í Noregi. En höfundaval Eimreiðarinnar er fjölbreytt­ara, því hún nær einnig til rómanskra bókmennta. Margt birtist hér gott, en þessi listi er þó jafnframt vitnisburður um íhaldssemi. Fremur lítið er um ný bókmenntaverk, og ævinlega ríkir bókmenntahefð raunsæisstefnu, nýrómantíkur eða eldri, framúrstefna er undantekning (Allari og Ada Negri). Réttur og Rauðir pennar hafa sérstöðu í höfundavali eftir 1930, svo sem brátt skal rakið.


Sé litið á helstu íslenska höfunda, og kannað hvaða höfundar birtust í hverju tímariti (hvort heldur þeir birtu ljóð, sögur, greinar eða ritdóma, margir létu ýmislegt til sín taka, 13. tafla), þá er að sjá, að fram á 4. áratuginn skrifi helstu höfundar ein­faldlega í tiltæk tímarit. Undantekningar virðist eðlilegra að skýra með persónulegum ástæðum en með almennum viðhorfum. Til dæmis birtir Einar Benediktsson aðeins efni í Iðunni síðari hluta ársins 1926, eftir að Árni Hallgrímsson tók við ritstjórn hennar. Davíð Stefánsson birtir mjög lítið í tímaritum þessum eftir 1930, Einar H. Kvaran sömuleiðis. Guðmundur Friðjónsson og Jakob Smári halda sig mest við Eimreiðina og yfirgnæfa þar alla aðra, ýmis lítt kunn skáld halda sig eingöngu við þetta stærsta tímarit á bókmenntasviðinu.


En á 4. áratuginum er greinileg hneigð til aðgreiningar, róttæklingar hætta að birta efni í Eimreiðinni. Nú hefi ég ekki heimildir um hvort það varð að ákvörðun rit­stjórans eða þeirra sjálfra. Til hins síðara gæti bent, að þetta varð á þeim tíma þegar þeir afskrifa borgaralega menningu, á fyrri hluta 4. áratugsins. Til hins fyrra, að menn hætta að birtast þarna þegar þeir verða kunnir að róttækni, fremur en þegar þeir snúast til hennar. Ennfremur, að Eimreiðin hætti að mestu að birta ritdóma um verk róttæklinga á síðari hluta 4. áratugsins. En hvor aðilinn sem þessu hefur ráðið, þá hefur þessi einangrun slíkra skálda frá fjölmennum lesendahópi augljóslega verið til tjóns, þeim og þeirra málstað annars vegar, en íslensku menningarlífi hins vegar, að andstæður þess næðu síður til almennings (sjá 14.töflu). Í staðinn kemur tvískipting, nema í Iðunni. Í tímaritum svo sem Vöku, Skírni og Eimreiðinni sé ég nánast ekkert sem kallast mætti róttækt, nema undantekningar, svo sem þegar Halldór Laxness mótmælti í Eimreiðinni kynþáttakenningum sem Jakob Smári hafði kynnt þar. En þá setti líka ritstjórinn ofan í við Halldór. Í Iðunni yfirgnæfa Jakob Thorarensen, Sigurjón Friðjónsson og Guðmundur Kamban. Þar ber einnig töluvert á róttækum skáldum, sem drottna aftur á móti í Rétti, RP og TMM. Önnur skáld í þeim tímaritum eru helst nýliðar. Könnum nú nánar í hverju róttækni þeirra tímarita birtist, og lítum fyrst á Iðunni.


Iðunn


Kvæði Iðunnar finnst mér fæst hægt að kalla róttæk, raunar aðeins 10 kvæði af rúmlega 100, seinni áratug hennar. Í þeim kvæðum er þá einhverskonar afhjúpun á þjóðfélagsmeinsemdum frá sósíalísku sjónarmiði. Þar er stundum mjótt á mörkunum t.d. í „Hvað er að marka“ eftir Guðmund Geirdal (1936) því oft hafði verið fárast yfir auðsöfnun áður, og raunar ber mikið á Biblíuskírskotunum í þessum kvæðum (svo sem sést á titlum eins og „Gullkálfurinn“ og„Barrabas“). En t.d. „Hvítar kind­ur“ Jóhannesar úr Kötlum[40] (1937) hlýtur að leiða huga lesenda að mannlífinu, þótt það sé ekki nefnt beinlínis (boðskapur um samtök lítilmagna gegn óvættinni). Flest boða þessi kvæði baráttu gegn því þjóðfélagsranglæti sem þau afhjúpa, það gildir einnig um „Barrabas Guðmundar Daníelssonar 1937[41]. Svo lítið rúm fer undir kvæði, að eitt langt ljóð getur hleypt hlutfalli róttækni upp í þriðjung (1930), tvö upp í 70%. Löng kvæði eru oft fremst í tímaritshefti, þar sem þau hlutu að vekja athygli, þessi ekki síður en t.d. kvæði Jakobs Thorarensen, sem hlutu sama sess. Róttækur má þá teljast tæpur þriðjungur kvæða Iðunnar á árunum 1930–37 (alls 31 bls.). Til samanburðar má nefna, að af 57 ljóðabókum áranna 1930–34 töldust þeim Guðrúnu, Sigríði og Vigdísi 14 hafa „einhverja þjóðfélagslega skírskotun“, þ.e. fjórðungur, þetta er svipað hlutfall. Einungis 5 ljóðabókanna töldu þær vera baráttu­skáldskap, tæplega tíunda hluta.


Af smásögum eða söguköflum Iðunnar sýnast mér mega teljast tæpur fjórðungur róttækar seinni áratuginn, 13 af um 60[42]. Og það er þá eingöngu í þeim skilningi, að þær afhjúpi stéttaskiptingu og ranglæti þjóðfélagsins eða ráðist á borg­aralegan hugsunarhátt. Hvergi örlar á byltingarboðskap eða stéttarbaráttu til fyrir­myndar, nema þá helst í fyrstu sögunni af þessu tagi, en það er „Mannsbarn“ eftir H. Allari, 1927. („H.H. og Þ.Þ. þýddu[43] úr frummálinu, esperantó“) Henni fylgir afsakandi formáli:


Iðunn birtir að sjálfsögðu ekki sögu þessa í „agitations“- augnamiði; það munu allir lesendur hennar skilja. — En sagan er merkileg á tvennan hátt: Í fyrsta lagi fyrir sinn einkennilega, „expressionistiska“ stíl, sem mörgum hér á landi mun þykja nokkuð nýstárlegur [...] — Að efni til gefur sagan oss allskýra innsýn í „sálfræði byltinganna“. [...] þessi saga hjálpar oss til að skilja hvernig pólitískt píslarvætti verður til. Og það er ávalt betra að skilja en skilja ekki (bls.233).


Af þýddum sögum er þetta sú eina róttæka, auk þriggja smásagna Arnulf Över­land (1928, 1936 og 1937), sem eru fyrst og fremst háð um smáborgaralegan hugs­unarhátt; og stuttrar smásögu eftir Galsworthy, um atvinnuleysið: „Dauði mað­ur­inn“, 1933. Annars eru hér merkisverk eftir skáld hreyfingar okkar; m.a.„Nýja Ísland“ (1930) og „Vetrarmorgunn“ (1933, úr Sjálfstæðu fólki) eftir Halldór Laxness, og „Liðsauki“ eftir Halldór Stefánsson (1931)[44]. Engin smásagnanna getur talist róttækari en t.d. sögur Gests Pálssonar, 40 árum fyrr. Var­færni rit­stjórans er skiljanleg, hann hafði keypt tímarit með ákveðinn áskrifendahóp, sem sjálfsagt var ekki mikið róttækari almennt, en tímaritið hafði verið, og það barðist svo í bökkum síðustu árin.


Greinar eru að minni hyggju merkasti efnisflokkur Iðunnar. Hér verða mestar breytingar undir stjórn Árna Hallgrímssonar. Við sáum þar aukinn áhuga á málefnum samtímans, einkum á menningarsviðinu. Sjö greinar eru um þróun efna­hagsmála á heimsmælikvarða, einnig eru greinar um alþjóðastjórnmál. Annars konar viðfangsefnum sinnir Iðunn þó einnig, til að mynda eru þar átta dulspekigreinar, flestar eftir Helga Pjeturs, en Jóhannes úr Kötlum skifar um hann slíka grein svo seint sem 1933, auk þess sem hann á þjóðernishugvekju 1928. Trúmálagreinar eru nú svæsnar ritdeilur um kristindóm og kommúnisma, eftir m.a. Gunnar Benedikts­son, Þórberg Þórðarson, Skúla Guðjónsson og Halldór Laxness, en gegn þeim skrifa Benjamín Kristjánsson og Jakob Jónsson. Merkar greinar um þjóðfélagsmál, einkum menningargagnrýni, eru eftir m.a. Arnulf Överland, Ragnar Kvaran og Sig­urð Einarsson. Næstum sextíu greinar eru um bókmenntir. M.a. birtist greinaflokkur 1929–32: Ungir rithöfundar, raunar um nokkuð kunna höfunda: Friðrik Á. Brekkan, Halldór Laxness, Kristmann Guðmundsson, Davíð Stefánsson og Jóhann­es úr Kötlum. Auk þess birtust greinar um t.d. Stefán frá Hvítadal, Guðmund Haga­lín, og um eldri höfunda; Stephan G., Guðmund Friðjónsson, Þorgils gjallanda og Einar H. Kvaran. Í Iðunni er töluvert fjallað um erlendar bók­menntir. Þar skrifar Guðmundur Hagalín um nútímabókmenntir Bandaríkjamanna, um Leo Tolstoj og norðmanninn Kristofer Uppdal; Halldór Laxness um Upton Sinclair og Hemingway, Stefán Einarsson um Nóbelsskáldið Sillanpää, en auk þess eru greinar um Daniel Defoe, Oscar Wilde, E.M. Remarque og ný skáld sænsk. Rit­dómar um nýjar bækur eru oft langir og djúpir.


Þetta er býsna fjölbreytt, og ekki er hægt að segja að vinstri viðhorf yfirgnæfi að magni, hvað þá sósíalrealisminn. En hann kemur vel fram, einkum í greinum M.A. Nexö 1928, Sigurðar Einarssonar 1930, Gunnars Benediktssonar 1931, Kristins E. Andréssonar 1936 (A), auk þess í mörgum ritdómum, einkum eftir Árna Hallgríms­son, eins og fyrr var rakið. Og Iðunn birtir ein annað bókmenntaviðhorf róttæklinga (auk Útvarpsins!), en það er marxísk bókmenntarýni, í greinum Halldórs Laxness um Passíusálmana, 1932 og Kristins E. Andréssonar um Einar Benediktsson, 1936. Loks birtist þjóðfylkingarstefnan í menningarmálum í grein Sigurðar Einarssonar: „Næturróður“, 1937.


Viðhorf andstæð þessum birtast líka í Iðunni, svo sem augljóst má vera af upp­talningu höfunda hér að framan. Sérlega stefnumarkandi greinar eru: „Listir og þjóðir“ eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal, 1928, þar boðar hann natúralisma og „Hið norræna eðli—eingöngu í því liggur framtíð okkar“ í listum (bls. 276). Sama ár birtist grein Eiríks Sigurðssonar: „Rómantíska stefnan nýja“, þar sem hann boðar nýrómantík á ævarandi grundvelli þjóðernis og trúar. Hann byggir á Jörgen Bukdahl og hefur að því er virðist alls ekki tekið eftir stefnunni hjá íslenskum skáldum! Þetta fer þó nálægt því að vera samnefnari a.m.k. minni háttar skálda íslenskra á þessum tíma.1929 birtist svo grein Grétars Fells: „List“, sem áður hefur verið nefnt hér (k.1.4) að boðar hughyggju, um ævarandi eðli lista.


Sé reynt að meta hlut pólitískrar róttækni í greinum Iðunnnar, þá er býsna erfitt að draga mörkin, hvað þá að meta áhrifin. Með því fororði, að ég tel þar greinar sem eitthvað hafa slíkt — jafnvel einungis að talað sé gegn fasisma, og þótt ekki sé nema lítill hluti greinarinnar (t.d. „Lifandi kristindómur og ég“ eftir Þórberg), telst mér rúmur þriðjungur greina vera róttækur í þessum tíu árgöngum 1927–37 (sjá 15.töflu).


Í greinum birtist því róttækni Iðunnar fyrst og fremst, þótt ekki væri annað en hve mikið magnið er í þessum flokki. Hún birtist í rökræðum og hvers konar gagn­rýni, en miklu síður í skáldverkum. Skýringu þess sé ég helst í því, að hér voru boð­uð ný viðhorf. Það varð þá helst gert á röklegan hátt, bókmenntaverk af þessu tagi einkennast mjög oft af rökræðum, eða stöðluðum persónugerðum eins og feita kapítalistanum, alvarlega hugsandi verkamanninum o.s.frv. Og gagnvart þvílíkum klisjum fer spurningin um bókmenntagæði að verða áleitin. Róttækni Iðunnar fer mjög vaxandi upp úr 1930, einkennir um helming efnis, nema hvað það datt niður í þriðjung 1934, en rauk upp í tvo þriðju 1932 og 1937. Einstefna verður þetta þó aldrei (15.tafla). Heildarhlutföll róttæks efnis í Iðunni er minna en ég hafði ætlað af endurminningum manna. En e.t.v. ræðst sú mynd af því að róttæknin óx, og sjálf­sagt hefur slíkt efni vakið meiri athygli en hitt, þótt það væri oftast fyrirferðarmeira.


Réttur


Við sáum (í k.3.1.) að þau skil urðu í útgáfu Réttar, að kommúnískt efni fór að birtast þar 1924 og skáldverk 1926. Frá árinu 1927 að telja þykkna heftin og þeim fjölgar, enda stóraukast auglýsingar á sama tíma. Við stofnun Kommúnistaflokks Íslands í árslok 1930 dregst þetta allt saman að nýju, síðum fækkar nær því um helming, Réttur flyst til Reykjavíkur, og útbreiðsla hans takmarkast brátt við flokksmenn samkvæmt vitnisburði Kristins E. Andréssonar 1934 (A, bls.13–15, sjá 16. töflu), enda er efnisval eftir því. En Kristinn boðar breytingar í þeirri grein: gagnvart vaxandi hættu af fasisma og við vaxandi styrk verkalýðshreyfingarinnar verði að efla málgögn hennar, og laða að henni bestu menn borgarastéttarinnar. Hlutverk Réttar hljóti því að verða almennara eðlis en að vera fræðilegt tímarit Kommúnistaflokksins.



Í honum verða fræðilegir og listrænir kraftar verklýðshreyfingarinnar að leggjast á eitt [...] Hann verður að draga upp myndir úr lífi verklýðshetjanna og gefa sýnishorn af listum og bókmenntum verkalýðsins bæði erlendum og innlendum. [...] gagnrýna auðvaldsskipulagið og menningu þess hlífðarlaust út frá sjón­ar­miði verklýðshreyfingarinnar og síðast en ekki síst að vinna að sköpun verk­-

lýðsmenningar hér á landi [...]. Honum er ætlað að ná út yfir Kommúnista­flokk­inn, flytja efni, jafnt til skemmtunar og fræðslu, er varðar alla vinnandi stétt. (bls.14)


Af lýsingu Iðunnar hér á undan er augljóst, að hún fullnægði ekki þessari stefnu. Nú átti samstillingin að verða mun meiri, kommúnískt efni, en við alþýðu hæfi. Þessu fylgir tilkynning í lok sama Réttarheftis (bls.47–8) um að nú skuli verða meiri regla á útgáfu tímaritsins (sex sinnum á þessu ári, og mánaðarrit sem fyrst), og það verða víðtækara:


Skáldskap, íslenskum eða þýddum, er ætlað að skipa all—mikið rúm í Rétti. Ennfremur er honum ætlað að láta til sín taka gagnrýni á íslenskum bókum, er máli skipta, og flytja fregnir um merkar bækur erlendar.


Alþýðan er beðin að leggja sig vel fram til að efla Rétt, með gagnrýni, að­finnslum, fyrirspurnum og skilvísi í greiðslum. Síðan segir:


hafa þessir menn heitið honum föstum stuðningi: Björn Fransson, Brynjólfur Bjarnason, Gísli Ásmundsson, Gunnar Benediktsson, Halldór Stefánsson, Halldór Kiljan Laxness, Jóhannes úr Kötlum, Kristinn E. Andrésson, Stefán Pétursson og Steinn Steinarr.


Misvel efndu þessir menn heit sín, sá síðasttaldi ekki fyrr en 1937. Enda var hann nú rekinn úr KfÍ, eins og Stefán Pétursson sem hvarf yfir til Alþýðuflokksins. En skjótlega hófst nýtt skeið hjá Rétti, blómaskeið. Raunar varð þessi árgangur 1934 með minnsta móti, aðeins þrjú hefti. E.t.v. hafa innanflokksátök valdið, einnig fátækt (eins og Einar Olgeirsson segir þá á bls. 192); „En útgefendur Réttar ætla ekki að gefast upp þó þetta áhlaup mistækist, heldur reyna nýtt.“ Og það hófst 1935 — tíu hefti— og stóð síðari hluta 4. áratugsins.


Á þriðja skeiði Réttar, eftir stofnun Kommúnistaflokksins, voru greinar hans eingöngu kommúnískar, og skáldskapur breyttist verulega. Mest bar á íslenskum kvæðum og þýddum smásögum, sem boða byltingarbaráttu. Fram að 1937 birti Réttur 20 þýddar smásögur, en 10 íslenskar. Þýddir höfundar eru nú aðrir en í hinum tímaritunum, þetta eru höfundar Alþjóðasambands byltingarsinnaðra rithöf­unda (svo sem sjá má til dæmis í austurþýska safnritinu Zur Tradition[...]). Sams­konar val ræður í Rauða fánanum, tímariti Sambands ungra kommúnista (sjá 12. töflu). Það birtist óreglulega á árunum 1929–37, stundum mánaðarlega. Oftast var þar ein smásaga í hefti, stundum tvær. Kvæði eru þar eftir Stein Steinarr, Vigfús Einarsson (tvö) og Vilhjálm frá Skáholti. Þar er greinilega miklu minna lagt upp úr kveðskap en sögum. — Og þó gildir um bæði þessi tímarit, að mjög er á reiki hvað kallast saga. Þetta eru oft hreinar frásagnir, þótt kynntar séu stundum með nafninu „smásaga“ (Barbusse, Georg, Huppert, Smedley). Þeim er talið til sérstaks ágætis að vera „bókstaflega sannar“, og sýnir þetta, hve lítið er lagt upp úr bókmenntagildi þessara texta, enda er það oftast ekkert[45]. Auk þess að afhjúpa auðvalds­þjóð­félagið, hafa sumar sögurnar fyrirmyndarstéttarbaráttu. Mest ber á stöðluðum mann­gerðum, hetjulegir kommúnistar annarsvegar, skepnulegir fasistar á hinn bóginn. Þeir mætast við aðstæður þar sem andkommúnistar hafa yfirhöndina, en glúpna andspænis einstaklingsbundnum hetjuskap kommúnista, oft gagnvart pynt­ing­um. Stíllinn er í samræmi við þetta, fyrirsjáanlegur og klisjuþrunginn[46]. Stundum fer þetta út í dýrkun á einstökum leiðtogum kommúnista: á Lenín í Rétti (í sögu Denikian); en á Molotov og Dimitrov í Rauða fánanum (í sögum Michaëlis og Curella). Sögur Rauða fánans eru allar tóm ræðuhöld, með örlitlum sögu­ramma. Innlendar smásögur Réttar eru ýmsar af sama tagi (Einar Frímann, Kristín Geirs­dóttir og Pétur Georg 1935). Þó eru þar þokkalegar sögur innanum, jafnvel góðar (eftir Halldór Laxness og Halldór Stefánsson).


Afarlítið er um þýdd kvæði í Rétti, en þau eru flest góð. 1930 á Ada Negri 5 prósaljóð í þýðingu Davíðs Þorvaldssonar, 1933 birtist „Sálmur til jarðarinnar“ eftir Rúdolf Nielsen í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar, og 1935 „María Farrar“ eftir Brecht í þýðingu Halldórs Laxness, bæði löng og merkileg bókmenntaverk, sem afhjúpa bág kjör alþýðu.


Af innlendri framleiðslu má ráða að kvæðagerð hafi verið almenningi nærtækust, við hlið 8 (meira eða minna) nafnkunnra skálda koma 14 óþekkt, eða undir dul­nefnum svo sem „verkakona“, „norðlenskur bóndi“. Fyrsta hefti Réttar eftir stofn­un Kommúnistaflokksins hefst á kvæðasafni: „Rödd alþýðu“, þar eru fimm kvæði eftir Íslendinga, en fjögur þýdd. Flest kvæði Réttar eru bara ræður í rímuðum klisjum (sjá k.4.3.2.). Stéttaþjóðfélagið er þar afhjúpað, og 18 kvæði af 35 hvetja auk þess til baráttu gegn því. Ekki eykst bókmenntagildið við stefnubreytinguna til samfylkingar 1936, en þá kemur inn þjóðernistefna (Helgi Sæmundsson og Halldór Helgason) og ákall um almenna samstöðu kvenna gegn stríðshættunni (Kristín Sigfússdóttir). Auðvitað eru góð kvæði innan um, þau eru einkum lýsing á alþýðu­fólki (Jóhannes úr Kötlum, Steinn Steinarr, Jón úr Vör). Þrjú ljóð Steins (af átta) eru ópólitísk.


Einhverjum kunna að þykja óþarfar þessar hugleiðingar um bókmenntagildi. Mestu skipti að fá almenning til að skrifa, en síðan gæti Félag byltingarsinnaðra rithöfunda annast þjálfun upprennandi skálda. Sumir þessara höfunda taka fram­för­um, t.d. nýliðinn Kristín Geirsdóttir. En þýddu sögurnar höfðu verið valdar úr miklu framboði. Nú voru auðfundnar jafnlakar sögur, ef ekki verri, þrungnar íhalds­viðhorfum, bæði í Eimreiðinni, Iðunni og annars staðar. En hlutu ekki les­endur Réttar að sjá þýddar sögur hans sem dæmi bókmenntastefnunnar sem hann var alltaf að boða, sem fyrirmyndir þess, hvernig bæri að skrifa?


Það er greinilegt, að á árunum 1931–6 er Réttur kjarni bókmenntahreyfingar vinstrimanna, sýnir hvernig talað var til hinna virku eða sannfærðu. En Iðunn er á jaðri hennar, sýnir hvernig talað var til upplýsts almennings, sem hafði áhuga á menn­ingar­málum og þjóðmálum, en það er ekki lokað fyrir hægri viðhorfum. Munur tímaritanna er sláandi mikill.


Þegar Réttur stækkar, 1937, breytist bókmenntaval verulega. Halldór Stefánsson á eina smásögu í hverju hinna níu hefta, Halldór Laxness á eina sögu í árganginum og tvær greinar. Þannig næst jafnvægi á næsta ári, þá höfðu birst 24 frumsamdar smásögur gegn 26 þýddum frá 1926. Flestar eru á einhvern hátt þjóðfélagsgagnrýni, fáeinar hafa þar að auki byltingarboðskap (sjá k.4.2.2.). Einnig koma fyrir ópólit­ískar sögur; eftir Halldór Stefánsson „Fyrsta ástin“ (1933), „Siðaskipti“ og „Sættir“1937; sama ár „Fundin Indíalönd“ eftir Halldór Laxness.


Rauðir pennar


Eftir þetta yfirlit um Iðunni og Rétt, má vekja nokkra furðu að ármönnum bók­menntahreyfingarinnar skyldi þykja þörf á að stofna 3. tímaritið. Þeim þótti það raunar ekki framanaf. Við sáum, að Alþjóðasamband byltingarsinnaðra rithöfunda skrifaði Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda nýstofnuðu, 13/10 1933, að gott væri, ef það gæti gefið út tímarit, en Kristinn svaraði 10. des. sama ár, að um sinn væri það ekki á færi félagsins, en það myndi tryggja sér rúm í byltingarsinnuðu tímariti. 1971 (bls. 118) segist Kristinn hafa átt við Rétt, enda hafi hann verið ritstjóri hans það ár „fyrir Einar Olgeirsson“, sem er þó áfram nefndur ritstjóri á kápu. Ákvörðun um stofnun Rauðra penna hefur verið tekin í síðasta lagi aðeins ári síðar, í árs­byrjun 1935, því 17. feb. þ.á. sendi Félag byltingarsinnaðra rithöfunda prentara­félaginu bón um styrk til að gefa út „alþýðlegt rit, ca. 12 arkir, með bylt­ingar­sinnuðum skáldskap og innlendum og erlendum ritgerðum bókmenntalegs efn­is“. Þeirri bón var synjað í marslok, og veit ég ekki hvort leitað var til fleiri verkalýðsfélaga, þótt það verði að teljast líklegt. Hinsvegar segir Kristinn1971 (bls.119)


að tími var naumur, aðeins fáir mánuðir til að safna til þeirra efni, innlendu og er­lendu [...] En út skyldu Rauðir pennar koma á árinu 1935, á aldarafmæli Fjölnis.


Þarna virðist komin ein helsta ástæðan fyrir stofnun Rauðra penna. Þeir áttu að verða hinni nýju stefnu svipað boðunarrit og Fjölnir var rómantíkinni. Ársetningin 1935 á að leggja áherslu á þessi aldahvörf, en ekki held ég að í því felist upphaf stefnubreytingarinnar til samfylkingar í menningarmálum, og þá m.a. um menn­ingararfinn, því þetta bindi hafnar ríkjandi menningu samtímans, og leggur áherslu á nýsköpun.


Í bréfi til Alþjóðasambandsins 8/5 1935 segir Kristinn (í eigin þýðingu 1971, bls. 118):


Til þess að sameina og styrkja byltingarsinnuð bókmenntaöfl á Íslandi hefur félag okkar ákveðið að gefa út í haust ársrit, 250–300 síður. Auk skáldskapar eftir höfunda í félagi okkar á bókin að gefa yfirlit um byltingarsinnaðar bókmenntir er­lendis. Hún verður að sýna styrk og stöðu marxískra bókmennta í heiminum, þróun þeirra og óumdeilanlega yfirburði yfir borgaralegar bókmenntir.


Augljós ávinningur var að hafa allt þetta í einu myndarlegu bindi, þótt það bætti svosem engu nýmæli við það sem áður hafði birst í Rétti og Iðunni. Sú stefna sem Rauðir pennar boða, var löngu fullmótuð þar, og vitaskuld eru sömu skáld og rithöfundar mest áberandi. En raunar segir Kristinn í bréfinu, að enda þótt þeir félag­ar fái jafnan tímarit Alþjóðasambandsins, Internationale Literatur, vanti þá nýjustu verk byltingarsinnaðra rithöfunda svo sem Gladkov, Anna Seghers, Willi Bredel og Malraux. Þeir eigi ekki einu sinni verk Gorkís, og þekki engin sovésk leik­rit. Hann biður stjórnina að senda þeim helstu bækur, auk myndmóta og teikninga, og heitir að senda í staðinn Rauða penna til deilda Alþjóðasambandsins.


Frá upphafi átti þetta að verða ársrit. En líklega hafa menn viljað láta það ráðast af viðtökum, hvort framhald yrði, því það er ekki á neinn hátt gefið í skyn í fyrsta bindi. Allt eins mátti álykta, að þetta „safn af sögum, ljóðum og ritgerðum eftir nýjustu innlenda og erlenda höfunda“ (undirtitill) væri gert í eitt skipti fyrir öll, enda ályktaði a.m.k. einn ritdómari svo, Stefán Einarsson (1937, bls. 267). Mikið átak var að gefa Rauða penna út, en viðtökur urðu góðar, sagði Gísli Ásmundsson 1981, þrátt fyrir hátt verð, óbundið hefti kostaði 10 kr., sem voru daglaun verka­manns[47].


Það, að óvíst hafi verið um framhald, mætti vera ástæða þess að engir ritdómar voru í Rauðum pennum. Annað ársrit, Skírnir, hafði marga, og líklegra þykir mér að skýringin sé boðunarhlutverk ritsins, og að það hafnaði ríkjandi menningu. Það átti því ekki að meta einstök verk af eldra tagi, heldur að ryðja nýrri stefnu braut.


Fyrsta bindið var 318 bls. en hin voru 240 bls. hvert. Mest fer fyrir greinum eftir kunnustu höfunda hreyfingarinnar (sjá 17.töflu).


Fyrsta bindi er eindregnast boðskaparrit hinnar nýju stefnu. Greinarnar eru næst­um allar gagnrýni á borgaralega menningu og bókmenntir sem dauðanum vígt. Þar má telja greinar Maxím Gorkí, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness („Þeir útvöldu og fólkið“). Íslenskt menningarlíf er sérstaklega gagnrýnt í greinum Gunn­ars Benediktssonar og Skúla Guðjónssonar. Fordæming á borgaralegri menningu er líka í þeim greinum sem mest marka hina nýju stefnu; grein Kristins: „Ný bók­menntastefna“ og Björns Franssonar: „Listin og þjóðfélagið“. Sú grein er fræði­legust, en grein Kristins ítarlegust (nær 50 bls.), mikið sagt frá einstökum höf­undum og ritum stefnunnar. Grein Lester Cohen: „Amerískir rithöfundar fara á fund námumanna“ sýnir hvernig byltingarsinnaðir rithöfundar kynna sér kjör alþýðunnar, en Halldór Laxness rekur í „Kjarval„ og í „Þjóðleg tónlist“ ítarlegar en í hinum greinunum, að sönn list hljóti að vera þjóðleg í þeim skilningi, að hún byggi á „því efni sem þjóðin leggur til sjálf, sem hún sjálf er“ (sbr.4.2). Í sérflokki er svo bók­menntagreining Kristins eða nærlestur: „Ég bið að heilsa“ (1935 A, sjá k.4.1.).


Þýdd bókmenntaverk I. bindis eru mjög í samræmi við þetta, sögur af kommún­ískum hetjum, af sama tagi og Réttur birti, en þessar eru töluvert betri skáldverk: „Febrúargangan“ eftir Seghers, „Hetjur heimsbyltingarinnar“ (ljóðleikur) eftir Toller, „Prófessor Mamlock“ (leikþáttur) eftir Wolf. Saga Fadejeff „Hinir nítján“ byggist á þeirri dólgamarxísku hugmynd að byltingarmenn úr verkalýðsstétt séu traustir, en hinir ævinlega ótraustir, sem eru af borgaralegum uppruna. Eftir J. Hasek er birt úr upphafi Góða dátans Schwejk bráðskemmtilegt atriðið með Breidschneider á kránni. Það er ekki róttækt nema í virðingarleysinu fyrir yfirvöldunum, en þýð­and­inn, Halldór Stefánsson, segir lesendum þá í formála, að Hasek hafi skrifað hana „af því að hann hataði þau mögn sem hrundu mannkyninu út í djöfulæði stríðsins.“ Svipaður formáli er að „Kvæðinu um fangann“ eftir Oscar Wilde í IV. bindi, enda féll það ekki frekar undir þjóðfélagsgagnrýni, hvað þá baráttuskáldskap.


Íslenskar smásögur eru eingöngu þjóðfélagsgagnrýni, en byltingarboðskapur kemur fram í ljóðum, bæði þýddum og eftir Íslendinga (sjá nánar 17.töflu).


Að seinni bindum Rauðra penna komum við síðar (í lok k.6.2.)


3.5. Samantekt


Í síðasta hluta sáum við að það var helst í tímaritum sem bókmenntaverk gátu fengið verulega útbreiðslu. Þar eru smásögur að jafnaði hálfu fyrirferðarmeiri en ljóð, sem dragast saman á þessum tíma. En rökleg umræða yfirgnæfir hvarvetna, greinar eru jafnan meira en helmingur efnisins. Og þar skiptir í tvö horn. Annars­vegar eru tímarit á gömlum grunni, sem leggja mesta áherslu á sögu, ekki síst persónusögu (Andvari og Skírnir), hinsvegar tímarit, sem fjalla fremur um sam­tímann, ekki síst um bókmenntir. Af því tagi var Iðunn (eitt af þremur helstu menn­ingar­tíma­ritunum), og innan þessa straums fara róttæklingar að aðgreina sig, í tíma­ritum hefst sú bókmenntahreyfing vinstrimanna, sem hér er um fjallað. Það er 1926, árið sem kommúnistar aðgreina sig innan Alþýðuflokksins (með stofnun félagsins Spörtu), að Einar Olgeirsson kaupir lítið stjórnmálatímarit, Rétt, en Árni Hall­gríms­son Iðunni. Hreyfingin fer hægt af stað, aðallega í stökum ritdómum, að boðaðar eru bókmenntir sem sýni verkalýðsbaráttu fyrir sósíalisma. Upphafsmaður þessa, Einar Olgeirsson, leggur þó meiri áherslu á ádeilubókmenntir á þessum tíma, og á boðun menningar­nýjunga. Bæði í Rétti og í Iðunni ríkir þá umburðarlyndi gagn­vart annarskonar bókmenntum, og önnur bókmenntaviðhorf birtast.


Veruleg breyting verður á þessu við stofnun Kommúnistaflokks Íslands í árslok 1930. Róttækni verður mun fyrirferðarmeiri í Iðunni, einkum í greinum og rit­dómum, einnig í fáeinum kvæðum, en róttækar smásögur eru einungis þjóð­félags­ádeila líkt og fyrir aldamót. Þar birtast þó áfram mörg skáldverk eftir kunn skáld, sem ekki sýndu af sér neina róttækni. Um helmingur efnis Iðunnar getur talist með einhverjum hætti róttækur á 4. áratugnum, en þar gátu líka birst andstæð viðhorf, hún er jaðar hreyfingarinnar, gagnvart upplýstum almenningi. Réttur var hinsvegar miðpunktur hennar, og hann verður með allt öðru yfirbragði, allar greinar og ritdómar frá kommúnísku sjónarmiði, en sósíalrealisminn yfirgnæfir í smásögum og kvæðum, lítið er lagt upp úr bókmenntagildi þeirra. Eins er með annað tímarit sem náði einungis til Kommúnistaflokksins, Rauða fánann. Kjarni bókmennta­hreyf­ing­arinnar er því inni í flokkinum. Auk þess er sláandi tvískipting í íslenskum tímaritum, róttæklingar birtast ekki í öðrum tímaritum. Þessi tvískipting ágerist síðar.


Hér hefur verið rakið, að kreppan hafi ekki verið kommúnistum sú liðsupp­spretta, sem oft hefur verið talið, varla nema í 2–3 ár framan af 4. áratugnum. Grundvöllur kommúnistaflokksins voru verkalýðsfélög sem kommúnistar stofnuðu á seinni hluta 3. áratugsins, einkum á Norðurlandi. Barátta sósíaldemókrata gegn þeim félögum hlaut að styrkja þá einangrunarstefnu kommúnista gegn krötum sem fyrirskipuð var af Alþjóðasambandi kommúnista. Úr kommúnistaflokki Íslands voru nokkrir kunnir menn reknir á fyrra hluta ársins 1934, og hann missti þá nokkurt fylgi um hríð, en hélt annars að mestu utan um sitt. Þessi einangrunarstefna setti mark sitt á bókmenntahreyfinguna, en frá henni hvarf Alþjóðasamband komm­únista og þarmeð KfÍ æ meir eftir sumarið 1934, og fyrst á stjórnmálasviðinu. Ein­mitt um þær mundir rénuðu kreppueinkennin verulega, en verkfallsbarátta virðist magnast áfram.


Hreyfingin efldist haustið 1933, þegar á vegum hennar var stofnað fyrsta rit­höf­undafélag Íslands, deild í Alþjóðasambandi byltingarsinnaðra rithöfunda. Stefna og starfs­hættir voru samkvæmt því; fyrsta árið rúmlega fór eingöngu í innra uppeldi þeirra, þjálfun félagsmanna í bókmenntaskrifum samkvæmt stefnu sósíalrealismans, og gagnrýni þeirra á verk hver annars. Félagsmenn voru um 15, höfðu fæstir skrifað neitt áður, helmingur þeirra var félagar Kommúnistaflokksins. Eitthvað týndu þeir tölunni í þessari starfsþjálfun, og sljákkaði í öðrum, sumir verða þó róttækari í skáld­skap, en ekki verður séð að félagið hafi þroskað skáldskap félagsmanna. Ein­hverja nýliða kann það að hafa vakið til skáldskapar, en erfitt er að fullyrða um slíkt. En 1935 gera félagsmenn veglegt safnrit, sem sýnir stefnu þeirra í fræðikenningu og fram­kvæmd, Rauðir pennar. Áratug eftir uppkomu bókmenntahreyfingarinnar er hún þá orðin mjög fyrirferðarmikil, í þessum þremur menningartímaritum, sem öll höfðu þanist út, sum árin ná þau samanlagt um 1000 bls. á þessu skeiði. Hins ber að gæta, að stefnan kemur þá enn aðallega fram fræðilega, í greinum og gagnrýni, og nokk­uð í innlendum kvæðum, en smásögur þessa eðlis varð enn einkum að þýða. Við sjáum jafnframt, að bókmenntahreyfingin var ekki áberandi sjálfstæð, heldur fylgdi stefnusveiflum Kommúnistaflokksins. Þannig verða liðsmenn hennar ein­dregn­ari í að boða sósíalískar baráttubókmenntir og jafnframt neikvæðari gagnvart annars­konar bókmenntum — einmitt á þeim tíma þegar Kommúnistaflokkurinn fylgdi einangrunarstefnu, og taldi krata vera höfuðandstæðinga sína, á fyrri hluta 4. ára­tugsins. Þá átti málflutningur hreyfingarinnar fyrst og fremst að sýna að borgara­leg menning væri í andarslitrunum. Og þá hverfa róttæklingar úr stærsta menningar­tímaritinu. En þessi menningarstefna hreyfingarinnar snerist síðan skyndilega við, þegar KfÍ breytti um stefnu, að fyrirmynd alþjóðahreyfingarinnar.









[1]Religiöse Gestalten und christliche Motive im Romanwerk Heimsljós von Halldór Laxness.[...] an der Ruhr-Universität Bochum 1978. Ég akka sr. Gunnari fyrir a› gefa mér riti›.



[2]Í Úrvalsrit ME (I, bls. 240) er þetta orðað svo: „Það er ekki vitund manna sem skilorðsbindur veru þeirra, heldur öfugt — félagsleg vera sem skilorðsbindur vitund.



[3]Þýðing Gests Guðmundssonar á þessu er röng, því hann misskilur orðið ideell (hugmyndalegur) sem ideal (besti hugsanlegur, fegraður) og segir: „Ríkjandi hugmyndir eru jafnframt fegruð túlkun á þeim efnislegu afstæðum sem eru ríkjandi. Þær eru ríkjandi efnislegar afstæður í búningi hugmynda. Þær eru fegraðar hugmyndir um afstæður sem gera eina stétt að ráðastétt og eru því hugmyndir stéttayfirráðanna.“



[4]Frumkvöðull samtakanna Proletkúlt (Öreigamenning), sem stofnuð voru árið 1917. Réttu nafni hét hann Malinovskí og var læknir, hann var uppi á árunum 1873–1928.



[5]Svo notað sé orðalag Che Guevara, sem boðaði sömu stefnu löngu síðar; 1965, bls. 310.



[6]Sömu afstöðu tók t.d. enn Fidel Castro 1961(bls.304–7).



[7]Werner Mittenzwei (bls. 144–5) bendir þó á, að Brecht hafi ekki hyllt hvaða framúrstefnu sem er, heldur þá eina sem gerði veröldina skiljanlegri. Því hafni Brecht „myndlist án viðfangsefnis“ í samnefndri grein (Brecht: Gesammelte werke, 18, bls. 266–8).



[8]Þessi stefna hefur lifað áfram alþjóðlega, t.d. kom Mao Ze dong með þá útgáfu hennar1942 (bls.161–2), að skáld og listamenn veittu alþýðu þýðingarmikið uppeldi. En til að tryggja að það uppeldi yrði ekki borgaralegt eða lénskt, verði skáld og listamenn að þróa fram listina í nánu samstarfi við alþýðu; læra af veggblöðum almennings, kvæðum og litlum leikhópum. Enn síðar talaði Frantz Fanon, einn leiðtoga alsírsku byltingarinnar, um mikilvægi byltingarbókmennta fyrir þjóðfrelsisbaráttu, í ræðu á 2. þingi afrískra og asískra rithöfunda. Hann sagði m.a., 1959 (bls.299–302) að díalektískt samband væri á milli vakningar þjóðarvitundar og þróunar byltingarbókmennta. Þjóðsögur og þjóðkvæði breytist. Lýrik og harmleikir víki, einnig kómedíur og farsar, ákærur og kveinstafir. í stað þess að reyna að tala um fyrir nýlenduherrunum fari skáldin að tala til eigin þjóðar, kveðja hana til baráttu. Sköpun komi í stað upptuggu.



[9]Sartre er með almennari útgáfu af þessu (bls. 79-80) þegar hann segir að listaverk sé ævinlega ákall til frelsis fólks, og geti því aldrei þolað kúgun manns á manni. Sbr. Plekhanov í 1.3.



[10]Það er því villandi, sem oft sést (t.d.hjá Kristni E.,1971, bls.165), að Gorkí hafi umfram alla aðra mótað stefnuna. A.m.k. var ræða hans á þinginu miklu óljósari en Sjdanovs.



[11]Gísli Ásmundsson sagði frá því 1981 að í Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda hafi menn rætt sósíalrealismann þegar hann kom fram, 1934, en fundist hann ekki vera nýjung.



[12]Þessi sekteríska afstaða gilti líka hjá Alþjóðasambandi byltingarsinnaðra rithöfunda (sjá Internationale Vereinigung..1930, bls. 228).



[13]Raunar er að sjá, að það sé ekki síðar en um 1830 sem sú krafa kemur fram, að bókmenntir eigi að taka afstöðu með verkalýðsstéttinni á þennan hátt. Það les ég úr formála Théophile Gautier fyrir skáldsögu hans Mademoiselle de Maupin, 1835 (bls. 166–7), þar sem hann hæðist að þessu viðhorfi Saint-Simonista. En þar er ekki um verkalýðsbaráttu að ræða.



[14]Í Þýskalandi hófst þessi hreyfing haustið 1921, skv. Günther Heintz (bls.10). Hér var ekki aðeins um að ræða þjálfun til „öreigabókmennta“. Þetta fréttaritarakerfi gat orðið uppspretta atvinnulýðræðis, og var mikilvæg þekkingarlind um atvinnulífið -í Sovétríkjunum og annars staðar. Sovésk blöð áttu töluvert net fréttaritara í nóvember 1923, þegar þeir héldu sitt fyrsta þing. Í maí 1924 voru þeir ekki nema 15.000, en voru orðnir 60.000 í janúar 1925; 74.000 í ágúst það ár, og fleiri í sveitum (Carr:Socialism[...] 1, bls.212­14). Á Kharkoff-þinginu, 1930 lagði Johannes Becher áherslu á gildi þessara fréttaritara í auðvaldslöndum, til að afhjúpa undirbúning heimsvaldastríðs, en kommúnistar óttuðust mjög að slíkt væri á döfinni gegn Sovétríkjunum. Þetta ár störfuðu um 4000 verkalýðsfréttaritarar kommúnistaflokksins í Frakklandi, og sovéska leyniþjónustan fór að notfæra sér það net, með nákvæmum fyrirspurnum. Það uppgötvaði franska lögreglan í gegnum flugumenn sína í flokkinum, og handtók marga flokksfélaga síðari hluta árs 1932 (Fantomas-málið, Robrieux, bls.313).



[15]Kristinn E. Andrésson segist 1971 (bls. 155), hafa fengið í Lundúnum 1936 safnritin American Writers Today, og fleiri safnrit úr sömu átt. En ekki sýnir hann nein viðbrögð við framantöldum greinum, og því óvíst að hann hafi séð þær.



[16]Sjá Stephen Eric Bronner: Expressionism and marxism (í Passion and Rebellion, 1983) bls. 411­415.



[17]Sævar Tjörvason sendi mér gögn sem hann var ekki búinn að vinna úr. Hann taldi saman verkföll á Íslandi eftir frásögnum blaða. Sjaldan eru þar upplýsingar um fjölda þátttakenda eða lengd verkfalla. Á 3. áratugnum töldust honum 42 verkföll, en á hinum 4. urðu þau tvöfalt fleiri, 84. E.t.v. má sjá áhrif efnahagsþróunarinnar í því að verkföll urðu aðeins fimm árið 1933, en sextán 1935, annars yfirleitt um tíu árlega þessi ár)



[18]Hendrik Ottóson gaf sömu skýringu þegar árið 1951 í minningum sínum, Vegamót og vopnagnýr, bls. 105-8.



[19]Þá var tímakaup Dagsbrúnarmanna 1,20 kr.; 11 stunda vinnudagur og ekkert orlof. Upphæðin nemurþví 87 árslaunum verkamanna. Ekki þekki ég kaup skrifstofufólks, sem væri raunhæfari viðmiðun.



[20]Sjá ennfremur grein hans 1931 A, auk fyrrtalinna greina Ragnars Kvaran, Sigurðar Einarssonar 1930 A og 1932; Kristins E. Andréssonar (einnig 1932 A, bls. 39-41); ennfremur grein Einars Ól. Sveinssonar 1930 og Halldórs Laxness um Stefán frá Hvítadal, 1934 (B, bls.10-11).



[21]Enn kom þetta sjónarmið fram hjá Halldóri Laxness 1937 (sjá 6.2.).



[22]Á áratugunum milli stríða var verðlag fremur stöðugt, ólíkt þeirri miklu verðbólgu sem ríkt hefur á Íslandi síðastliðna áratugi. Hún held ég að sé helsta skýring þess að menningartímarit hafa flest horfið, því áskriftarverð þurfti að ákvarða ár fram í tímann. Væri það miðað við kostnað í upphafi árs, gátu endar aldrei náð saman í árslok, eftir 40-60% verðhækkanir. En væri áætluð verðbólga næsta árs reiknuð inn í verðið, hlaut það að fæla marga kaupendur frá.



[23]„Yfir eyðimörkina“(1926), „Júdas Ískaríot“(1927), „Hann æsir upp lýðinn“(1928), „Náttfari, fyrsti landnámsmaður Íslands„ (1930), af sama tagi er enn „Hreint og hiklaust“ löngu síðar (1934). Hér má enn telja „Heimspeki eymdarinnar“ eftir Þórberg Þórðarson (1927), þar sem hann gagnrýnir hina áhrifamiklu guðspekihreyfingu fyrir auðvaldsþjónkun, og “Trúarbrögðin“ eftir Björn Fransson (1936).



[24]Karl Marx: „Athugasemdir við Gotha-stefnuskrána“(2.h.1928) og „Launavinna og auð­magn“(2.h. 1931); Lenín: „Marxisminn“ og „Karl Marx“ (3. & 4. h. 1930); auk þess má nefna„ Stefnuskrá Alþjóðasambands kommúnista“ (4.h.1929, boðað framhald birtist ekki), og Ályktun 7. þings þess, 1935.



[25]Í t.d. blaði franskra kommúnista, l'Humanité 1930, er þetta einnig talið einkenna sanna bylt­ingar­list, skv. Bernard, bls. 290.



[26]Feitletrun A. Ó. Þetta er harður áfellisdómur um stéttasamvinnustefnu Einars og flokks hans síðarmeir, þegar Gestur og Þorsteinn voru aftur hafnir á stall — gagnrýnislaust, og meira að segja með sérstakri áherslu á þjóðernisstefnu, sbr. k.4.1. og 6.3. hér.



[27]Hér á hann við, að verkalýðsbarátta verði ekki lengur einungis fyrir bættum kjörum innan ríkj­andi þjóðskipulags, það nefnist borgaraleg verkalýðshreyfing; heldur fari einnig að beinast gegn því þjóðskipulagi.



[28]Þetta er líklega ástæða þess að Einar skuli að engu geta Önnu Sighvatsdóttur eftir Gunnar Benediktsson, sem er þó vissulega þrungin uppreisnaranda gegn auðvaldsþjóðfélaginu.



[29]Hér sneiðir Einar að leiðtogum Alþýðuflokksins, Jóni Baldvinssyni, sem var bankastjóri Útvegs­bankans, og Héðni Valdimarssyni, sem var forstjóri BP — og formaður Dagsbrúnar!



[30]Hún hefur verið mjög rýr skv. Kristni 1971 (bls.39), aðeins bókaðir stofnfundur og síðan fundir 6., 20. og 27. mars og 3. apríl 1934, en síðan ekki fyrr en 15. júní 1937, „ekkert skýrt frá umræðum, sést aðeins hvaða efni hafa verið rædd, hverjir framsögu höfðu um þau og hverjum falin voru verkefni fyrir næsta fund.“ (sjá ennfremur bls. 34, 329 og 339).



[31]„Mitglied können haupt- oder nebenberuflich produzierende Schriftsteller beziehungsweise Schriftstellerinnen sowie Arbeiterkorrespondenten werden, die das proletarisch-revolutionäre Schrifttum im Sinne des Aktionsprogramms bejahen.“ Bund 1928 A.



[32] Hann var þá einnig nátengdur ýmsum leiðtogum Alþýðuflokksins (Vilmundi Jónssyni, Har­aldi Guðmundssyni o.fl.), auk þess sem hann starfaði eitthvað hjá Alþýðublaðinu. Þórbergur fór svo til Sovétríkjanna sumarið 1934, og skrifaði bókina Rauða hættan. Í dagbók hans frá okt. 1935 segist hann hafa verið á fundi róttækra rithöfunda heima hjá Halldóri Stefánssyni.



[33]Sjá: „Þjóðernishreyfing“ hjá Einari Laxness. Raunar gaf einn helsti leiðtogi íslenskra nasista út smásagnasafn árið 1936; Jón Aðils: Við horfum á lífið. Ég sé ekkert sérkennilegt við þær sögur, og þá ekkert sérstaklega fasískt, þetta eru hversdagslegar sögur á hversdagsmáli, og afar rýrar.



[34]Síðari heimild um lítið samband er afrit bréfs Kristins til Horace Gregory, þar sem hann segir að það sé mjög slæmt fyrir hóp íslenskra rithöfunda til varnar menningunni (þ.e. Félag byltingarsinnaðra rithöfunda, sjá k.6.2), að hafa ekkert beint samband við ameríska rithöfunda. Öllum samtökum [þ.e.innan ARTVM, Alþjóðasambands rithöfunda til varnar menningunni] hafi Íslandsdeildin sent tímarit sitt, Rauða penna, en ekkert svar hafi hún fengið, t.d. skorti hópinn alveg amerísk tímarit, bæklinga og bækur, og biður Kristinn rithöfundasamband Gregory að bæta úr því, og segir, að bókaverslun Heimskringlu vildi gjarnan selja slíkt efni. Bréfið er ódagsett, en hlýtur að vera skrifað þó nokkru eftir bréf Kristins til stjórnar ARTVM, 17.8.1936, þar sem hann segist þegar munu senda Rauða penna til aðildarsamtakanna. Hinsvegar mun bréfið vera skrifað fyrir vorið 1937, því þegar Kristinn kvartar undan því að fá ekki viðbrögð við Rauðum pennum, myndi hann væntanlega nefna það ef þeir hefðu verið sendir tvívegis án viðbragða.



[35] „im letzten Jahr“, hann er því að tala um allt árið 1934.



[36]Fyrir utan hinn fræga upplestur Halldórs Laxness á „Þórður gamli halti“ hjá Alþýðu­flokkinum, 1.maí 1935, þar sem hann var neyddur til að hætta í miðjum klíðum.



[37]Steinn Steinarr: „Ojá, þetta voru erfiðir tímar“ Viðtal 1958, Kvæðasafn og greinar, bls. 346.



[38]Sjá grein mína um sögur hans í Skírni 1989.



[39]en átti alls sem svaraði 2/3 rýmis hennar á árunum 1915–37, sjá lok 11. töflu.



[40]Auk þess á Jóhannes tvö mikil kvæði þarna, „Arðránsmenn“ 1932 og „Glókollur“ 1933. Sigurður Einarsson á tvö, „1930“ (það ár) og „Þýskir jafnaðarmenn“ eftir valdatöku Hitlers 1933, það ár á Steinn Steinarr „Gönguljóð“.



[41]En ekki kvæðin „Útburður“ Rögnvalds Þórðarsonar 1934, „Gullkálfurinn“ eftir Guttorm J. Guttormsson(1936), „Arðránsmenn“ Jóhannesar, „Hvað er að marka“ Guðmundar Geirdal.



[42]Samanlagt taka þessar sögur um 150 bls. af 760, þ.e. tæpur fimmtungur rýmis. Mest verður þetta um 40% smásagna í árgangi, árin 1931,1933 og 1937.



[43]Það munu vera Hallbjörn Halldórsson (þá ritsjóri Alþýðublaðsins) og Þórbergur Þórðarson, þeir notuðu þessar skammstafanir mikið.



[44] Auk þess á Ólafur Jóhann Sigurðsson söguna „Á leið suður“ 1936, Ragnheiður Jónsdóttir á söguna „Allt í lagi“ árið eftir. Meðal minni spámanna má telja Oddnýju Guðmundsdóttur: „Eldhúsið og gestastofan“ og Svein Bergsveinsson „Koss milli hafna“, báðar 1933, og „Aldurinn hennar Stínu“ eftir Egil Jónasson, 1931.



[45] nema helst hjá Gold, Hörmendi, Illès, Maltz og Silone.



[46]dæmi má taka af handahófi úr sögu L. Nikulin; „Pyntingaklefinn“(Rétti 1935, bls.174: „En það skaltu vita, að ef þeir halda þannig áfram að kvelja þig, gengur það ekki óhegnt. Heilbrigður maður finnur enga skynsamlega skýringu á svona hlutum. Þeir brjóta í þér beinin og missa um leið sjálfir alla dómgreind. Þeir eru eins og brjálaðir menn, eða réttara sagt eins og óðir hundar. Taugar þeirra eru í hræðilegu ólagi. Slíkir menn geta aldrei sigrað. — Ekki satt? — Vissulega ekki — svaraði Börns. Fanginn lá hreyfingarlaus. Börns skoðaði hann frá hvirfli til ilja. Þetta var hálfþroskaður unglingur. Hvaðan kom honum svo óbilandi lífsþróttur?“



[47]Vikulaun verkamanns voru þá 57.12 kr. Bundið eintak kostaði 12 kr. 1937 hafði verðið lækkað í 10 kr. bundið, 8 kr. heft. Til samanburðar má nefna að árgangur Eimreiðarinnar kost­aði líka 10 kr. en var um 500 síður, nýtt skáldrit; Sögur Elínborgar Lárusdóttur, 4 kr. og Íslensk fornrit IV. bindi kostaði 9 kr., þykkt og glæsilegt.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar