tirsdag den 14. juni 2011

Seiðblátt hafið 1





Örn Ólafsson:







Seiðblátt hafið





Samanburður rómantískrar ljóðagerðar og nýrómantískrar.







Kaupmannahöfn 2005








Efnisyfirlit





Formáli



Markmið



Fyrri fræðirit



Þakkir



1. Inngangur



1.1. Trúin á tíðarandann



1.2. Túlkunarleiðir.



2. Stefnur og straumar



2. 1. Rómantík alþjóðlega



2. 2. Hugmyndir Íslendinga um rómantík



2. 3. Táknsæisstefnan alþjóðlega



2. 4. Hugmyndir Íslendinga um blæstefnu.



2. 4. Ljóðasöfn 19.aldar.



2.5. Viðtökur ljóðanna



2.6. Samantekt



3. Efniviður



3.1. Ljóðasöfn 19.aldar.



3.2. Táknsæ káld íslensk



3.3. Bragnýjungar



3.4. Efnisatriði



3.5. Orðalagskönnun


3. 5. 1. Lykilorð



3. 5. 2. Eyktir og árstíðir


3. 5. 3. Hljóð


3. 5. 4. Djásnyrði.



3. 5. 5. Hrósyrði.



3. 5. 6. Fornt ljóðmál.



3. 6. Yfirlit



4. Litbrigði



4.1. Litir.



4. 1. 1. Sjaldhafðir litir.



4. 1. 2. Andstæður



4. 1. 3. Blendingslitir



4. 2. Ort orð



5. Myndhvörf



5. 1. Líkingar og samlíkingar



5. 2. Skynjun og afstaða.



5. 3. Líkingasafnið



5. 4. Nýgervingar og nykrað



5. 5. Persónugervingar


5. 6. Líkt við lífverur



5. 7. Líkt við gróður



5. 8. Líkt við jörð



5. 9. Lagarlíkingar



5. 10. Líkt við himneskt.



5. 11. Líkingar við mannleg



5. 12. Afurðir



5. 13. Nýtækni



5. 14. Endurteknar líkingar



5. 14. 1. Húmtjöld falla.



5. 14. 2. Kvöld í skikkju



5. 14. 3. Sálin flýgur.



5. 14. 4. Drykkir hljóms, ilms og ljóss.



5. 14. 5. Andans haf.



5. 14. 6. Umhverfið logar



5. 15. Nýstárlíkingar



5. 16. Yfirlit myndhvarfa



6. Einstök skáld.



6. 1. Bjarni Thorarensen



6. 2. Jónas Hallgrímsson



6. 3. Benedikt Gröndal.



6. 4. Steingrímur Thorsteinsson



6. 5. Matthías Jochumsson.



6. 6. Grímur Thomsen.



6. 7. Einar Benediktsson



6. 8. Sigurjón Friðjónsson



6. 9. Sigurður Sigurðsson



6. 10. Jóhann Gunnar Sigurðsson



6. 11. Hulda



6. 12. Jónas Guðlaugsson



6. 13. Jóhann Sigurjónsson



6. 14. Jakob Jóhannesson Smári



6. 15. Stefán frá Hvítadal



6. 16. Davíð Stefánsson



6. 17. Tómas Guðmundsson



7. Bókmenntasögulegt mat



8. Samantekt



9. Heimildaskrá



10. Nafnaskrá











Formáli



Markmið



Þessi bók er könnun á ljóðmáli í sérstök­um straumum innan íslenskra bók­mennta, þ.e. samanburður á tilteknu sviði rómantískrar ljóðagerðar og þeirrar sem oftast hefur verið kölluð nýróm­antísk, en stund­um symbólsk. Ég tengi þá síðarnefndu við impressjónismann, sem að fyrir­mynd Þorsteins Thorarensen (í Pischel: Listasaga Fjölva) er kallaður blæstefna. Markmið þessa rits er að finna helstu sam­kenni ljóðmáls þessarar tvennskonar ljóðagerðar og það sem kann að aðgreina skáld innan þessara strauma. Rann­sóknin nær til helstu skálda þessa bókmenntastraums á Íslandi um rúmrar aldar skeið, 1809-1933.



Þegar ljóð eru könnuð, verður mörgum starsýnt á efnisval og afstöðu. Hér er vikið að slíku, en ekki get ég talið það megineinkenni ljóða. Enda er oft erfitt að segja að ljóð fjalli um eitthvað tiltekið, oft er það frekar til að vekja hughrif. Og afstaða er síður en svo alltaf einhlít eða ótvíræð. Miklu meira máli sýnist mér skipta sjálft ljóðmálið, hvaða leiðir skáldin fóru til lesenda. Og þá skiptir máli hvað var algengt og hvað frumlegt. Ég geri því athuganir á tíðni einstaks orðalags, lita, líkinga o. fl. þ. h. En auðvitað skiptir mestu hvernig mismunandi atriði orka saman í ljóði. Því eru einnig valin til athugunar fáein ljóð sem best þykja eftir hvert skáld. Þar er hugað að samverkan ýmissa þátta í þeim ljóðum. Á undan athugunum á orðalagi fer kafli um umhverfi skáldanna, einkum dóma samtímans um verk þeirra, svo og það sem fannst af tagi stefnuyfirlýsinga þeirra. Þar er einnig nokkuð horft út fyrir landsteina, þótt slíkt verði að takmarka, rýmis vegna. Í lok ritsins er dregnar saman niðurstöður af öllu þessu.



Stafsetning er samræmd að nútímahætti og augljósar prentvillur leið­réttar um­yrða­laust. Leturbreytingar eru mínar nema annað sé tekið fram. Tilvitnanir eiga að vera stafréttar, þó með þeirri undantekningu, að samræmt er að titlar bóka eru feitletraðir, en titlar ljóða, smásagna og ritgerða skáletraðir. Heimilda­skrá er í einfaldri stafrófsröð höf­unda, án tillits til eðlis heim­ilda.



Ég hefi viljað hafa þetta rit þannig að fólk án sérþekkingar á bók­menntafræði gæti lesið það sér til fróðleiks. Því eru jafnharðan útskýrð þau fræðiorð sem fyrir koma. En annars bendi ég á helstu uppsláttarverk: Bragur og ljóðstíll eftir Óskar Halldórsson og Hugtök og heiti í bókmenntafræði.





Fyrri fræðirit



Um ljóðagerð 19. aldar hef ég einkum notast við bókmenntasögu Dana , Norðmanna og Svía, auk rita um rómantik eftir Arthur Lovejoy, René Wellek, Georg Brandes og Asbjørn Aarseth, og Þjóðfélagslega sögu bókmennta og lista eftir Arnold Hauser, einnig um eftirfarandi tímabil



Um íslenska rómantík sérstaklega hafði ég einkum gagn af ritum Páls Bjarnasonar og Þorleifs Haukssonar um Bjarna og Jónas, bókum Hannesar Péturssonar um Steingrím Thorsteinsson og ljóð Jónasar Hallgrímssonar, bók Þóris Óskarssonar um Benedikt Gröndal, riti Sveins Egilssonar Arfur og umbylting, Íslenskri bókmenntasögu III, auk ýmissa greina. Eftir að þetta rit var fullsamið, einnig um bókmenntakenningar Gríms Thomsen, barst mér greinargott rit Kristjáns Jóhanns Jónssonar um það efni. Nokkrar lagfæringar gat ég gert á grundvelli þess, t.d. um ”braglýti” Gríms.



Af fræðiritum um ljóðmál, einkum líkingar, nýttust mér einkum rit Peter Hallberg, Thomas Bredsdorff, M.C.Haley, Lakoff&Turner, og safnritin Metaphor and Thought og Metaforer, kultur og kognition.



Af ritum sem fjalla almennt um blæstefnu hefi ég einkum notað nýlegt safnrit sem er hluti ófull­gerðrar bókmenntasögu Alþjóðasam­bands saman­burð­arbók­mennta­fræð­inga: The symbolist Move­ment in the Literature of european Languages, Akadémiai Kiadó, Budapest 1984.



Um blæstefnu í dönskum bókmenntum hefi ég aðallega stuðst við nýlegt rit Bo Hakon Jørgensen: Sym­bolismen - eller jegets orfiske for­klaring. Odense 1993. Fyrri hluti þess fjallar um þetta tímabil. Hvað norskar bókmenntir varðar hefi ég stuðst nokkuð við mið­hluta nýlegs doktorsrits Henning Wærp: Natur og landskap hos Andreas Munch, Wilhelm Krag og Hans Børli. Universitetet i Oslo, 1996.



Um íslensk skáld blæstefnu hefur mismikið verið fjallað. Helst er að nefna, að 1949 birtist bók­mennta­­saga Kristins E. Andréss­sonar, Íslenskar bók­­menntir 1918-1948. Um Einar Bene­dikts­son er auk þess helst að nefna greinar sama höfundar frá 4. áratugnum og kver Steingríms J. Þor­steins­sonar frá 1965. Alllanga yfirlitsgrein (65 bls.) um m. a. blæleitin ljóð birti Guð­mund­ur Hagalín 1951-2 Íslensk ljóðlist 1874-1918. Hannes Pétursson hefur skrifað fróð­legan inngang að ljóðaúrvalinu: Fjögur ljóðakáld, um ljóð Sigurðar Sig­urðs­sonar, Jóhanns Gunnars Sigurðs­sonar, Jónasar Guðlaugssonar og Jóhanns Sigurjónssonar. Um þann síð­asttalda notaði ég enn­fremur óprent­aða BA-ritgerð eftir Atla Rafn Kristinsson, og formála hans í Rit­safni Jóhanns I (bls. 7-45), ennfremur bók Jóns Viðars Jónssonar um Jóhann (2004). Langur og fróðlegur inngangur er að úrvalsritum Huldu; Ljóð og laust mál, hann er eftir Guðrúnu Bjartmars og Ragn­hildi Richter. Vel hafa ljóð­um Stefáns frá Hvíta­dal verið gerð skil í vönd­uðu tveggja binda riti Ivars Orgland. En auk þess verður að nefna merki­lega grein Halldórs Laxness um Stefán, 1934 og Inngang Kristjáns Karls­sonar að ljóðasafni Stefáns, 1970. Um Davíð Stefánsson er ýmislegt gagn­legt í safnritinu Skáldið í Fagraskógi, 1964, ennfremur formáli Ólafs Briem að ljóðaúrvali Davíðs í sama bókaflokki og úrvalsrit Huldu, auk þess notaði ég óprentaðar háskóla­ritgerðir Gunnars Stefánssonar og Sig­ríð­ar Alberts­dótt­ur. Um Tómas Guðmundsson ber einkum að nefna inn­gang Kristjáns Karlssonar að Ljóðasafni Tómasar. En annars verður ekki sagt að mikið hafi verið fjallað um blæleitna ljóðagerð á Íslandi. Nánari upp­lýs­ing­ar um um­fjöll­un er að finna í framantöldum útgáfum og í Íslensku skálda­tali I-II.





Þakkir



Ég hóf þetta verk sem íslenskukennari Kaupmannahafnarháskóla, í Árnasafni í Kaup­manna­höfn á árinu 1992, en vann það áfram sem íslensku­kennari við Institutt for nordistikk og litteratur­vitenskap við Osló­ar­­há­skóla, 1994-7. Báðum stofnunum þakka ég góða aðstöðu og marg­­háttaða fyrir­greiðslu, þeirri síðarnefndu þar að auki styrk (4000 no.kr.) til tölvu­setn­ingar á nokkrum ljóðasöfnum. Einnig þakka ég rannsókna­sjóðinum Nos-H í Kaupmanna­höfn styrk sem nam 60.000 da. kr. sem ég fékk ásamt Bo Hakon Jørgensen og Eva Britta Ståhl til að undirbúa sam­nor­ræna rannsókn á symbólisma. Við héldum fundi og síðan ráðstefnu tólf fræðimanna veturinn 1994-5. Hún var fróðleg, en ekki varð af frek­ara samstarfi, þar sem flestir reyndust upp­teknir af öðru. Þetta auðveldaði mér þó rann­sóknir á dönskum söfnum. Enn­fremur þakka ég Clara Lach­manns fond í Gauta­borg fyrir rann­sóknastyrk 1995 (10.000 sæ. kr.). Starfsfólki við Orða­bók Háskóla Íslands þakka ég margvíslega aðstoð, einkum þó Gunnlaugi Ing­ólfs­syni, en Bessa Aðal­steins­syni fyrir dýrmæta aðstoð við skönn­un á sumum ljóðasöfnunum sem hér eru könnuð. Önnur fékk ég tölvu­sett frá bókaútgáfum, og þakka þau afnot; Máli og menningu ljóð Jónasar Hall­gríms­sonar og Þjóðskáldanna, AB ljóð Jóhanns Sigurjóns­son­ar, Vöku Helgafelli ljóð Davíðs Stefánssonar, og Hrafni Jökulssyni úrvals­ljóð Jónasar Guðlaugssonar. Marg­vís­lega aðstoð fékk ég frá starfs­mönn­um Þjóðarbókhlöðu og þakka sérstak­lega þeim Einari Sig­urðssyni, Guð­rúnu Erlingsdóttur og Þóri Ragnarssyni. Skáld­un­um Kristjáni Karlssyni og Hannesi Péturs­syni þakka ég gagn­legar ábend­ingar í sam­tölum.



Eftir að könnun minni á blæstefnu var að mestu lokið, fékk ég ársvist á Fræðastofnun Danmerkur (Damnarks Humanistiske Forskningscenter) 2001-2, og hóf þá sambærilega rannsókn á ljóðmáli 19. aldar, raunar hafði ég þegar kannað ljóð Jónasar Hallgrímssonar og Steingríms Thorsteinssonar til samanburðar við blæstefnu. Þessari rannsókn hélt ég svo áfram næstu árin.



Ég hefi komist á tölvunámskeið í Københavns Tekniske Skole, og tókst að koma upp vefsetri um bókmenntarannsóknir mínar. Þar eru niðurstöðutextar, en einkum gerðí ég það til að leggja þar allskyns töflur og talningar, sem niðurstöður mínar byggjast á. Vísa ég þangað hverjum þeim sem sannprófa vill þær: www.oernolafs.dk






Inngangur



Hér eru borin saman tvö helstu blómaskeið íslenskrar ljóðagerðar, og voru það líka víða um heim. Enda barst hvort tveggja Íslendingum sem alþjóðleg tískustefna, og urðu sum íslensk skáld fljót til að tileinka sér. Annars vegar er rómantíkin, sem ríkti mestalla 19. öld, en hinsvegar arftaki hennar, frá því um 1890 í íslenskum bókmenntum. Sú stefna er ýmist kölluð nýrómantík eða symbólismi, táknsæisstefna, en það er allt sama tóbakið. Hér er það kallað blæstefna.





1.1. Trúin á tíðarandann



Þegar rætt er um verk fyrri tíðar, einkum listaverk, heyrist oft sú skoðun, að í rauninni geti nútímafólk ekki skilið þau eins og höfundur og samtímamenn hans skildu þau.



Einna skarpast er þetta orðað af Dagnýju Kristjánsdóttur, 1989:





Ég veit að við getum hvorki þekkt né skilið hugsunarhátt fólks á miðri 19. öld: það er engin yfirskilvitleg “merking” til eða “sannleikur” sem við getur sótt gegnum tímana utan sú merking sem við endursköpum hér og nú og er lituð af okkar tímum, okkar hugsun. Um leið verðum við að reyna að endurskapa umhverfi textans. (Undirstraumar, bls.18).





Þar sem Hinn guðdómlegi gleðileikur Dantes er byggður á kaþólskri miðaldaguðfræði, sem fáir nútímamenn trúa á, eða hafa lærdóm til að skilja, er hann samkvæmt þvílíkum kenningum þeim framandi. Ekki ætti þetta síður við um forngrísku leikritin, sem enn hrífa þó nútímamenn, jafnvel leikrit Shakespeares byggjast á hugmynda­heimi, sem nú er flestum gleymdur. Það mætti ætla að þessi verk væru sívin­sæl fyrir einhvern misskilning. En önnur skýring er sú, að þau séu svo margþætt, hafi svo mikið til að bera á ólíkum sviðum, að sumar hliðar þeirra hrífi enn, enda þótt aðrar séu nútíma­mönnum huldar.



Vissulega hefur ýmislegt orðið myrkt í gömlum verkum, vegna þess að mörg orð hafa breytt um merk­ingu, bæði að tilvísun, og þó enn frekar hvað varðar tilfinninga­gildi eða blæ. Nefna má lykilorð í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar, synd, náð, helvíti, djöfull. Jafnvel orð eins og sál og guð merkja flestum nútíma­mönnum annað en samtíma­mönnum Hallgríms, svo ekki sé nú minnst á tilfinningagildi þessara orða. Hvernig stendur þá á því að verkið höfðar enn til fólks?. Líkleg skýring er að verkið sé svo margþætt, að við grípum tilfinn­ingamynstrið í margbrotinni framsetningunni, þótt mörg samtímaverk séu áhrifalus, einmitt af því að þau voru einfaldari fram­setning á sömu lykilhugtökum, nú dauðum.



Margt virðist nú mæla með fyrrgreindri kenningu. Hún skýrir þá hvers­vegna mörg verk sem voru mjög vinsæl á sínum tíma, eru steindauð núna. Nægir að nefna Virgil, sem var víst almennt talinn mesta skáld heims af Vesturlandabúum í 1500 ár. En nú er hann svo almennt gleymdur, að betra mun að taka nærtækari dæmi, þar sem eru íslensku höfundarnir sem skrifuðu á dönsku og norsku á fyrra hluta 20. aldar, Jóhann Sigurjónsson, en þó öllu heldur Gunnar Gunnarsson og Kristmann Guðmundsson. Hér heima voru víst Guðmundur Friðjónsson og Guðmundur Hagalín vinsælir á sama tíma, en munu víst vera mjög lítið lesnir nú orðið. Raunar þarf ekki að orðlengja þetta, það nægir að skoðast um í fornbókaverslunum eða lesa gömul yfirlitsrit um bókmenntir, til að sjá það sem félagsfræði bókmennta hefur löngu staðfest, fæst bókmenntaverk lifa höfunda sína, jafnvel ekki hin vinsæl­ustu. Er þá ekki líklegast að breyttur tíðarandi sé skýringin?



Það skýrir bara ekki mikið, a.m.k. ekki á þessu stigi. Sé “tíðar­andinn” einhver viðhorf sem allir eru meira eða minna gegnsósa af, þá skýrir hann ekki hversvegna samtímamaður fyrrnefndra höfunda, Halldór Laxness, heldur sínum vinsældum, á meðan þeir gleymast. Við verðum að huga eilítið nánar að sígildu verkunum. Tökum til dæmis Íslendingasögur. Þar er margt sem nútímamanni kemur undarlega fyrir sjónir, og þarf helst að skýra neðanmáls. Ýmsilegt athæfi, sem nú myndi kalla á hælisvist undir strangri gæslu, þykir alveg sjálfsagt þar, t.d. að maður sem í alla staði virðist heil­brigður og eðlilegur, neyti færis að drepa bláókunnan mann, sem hann hefur aldrei átt neitt saman við að sælda, en skýringin er þá sú, að ættingi þess manns hafi drepið ættingja þess fyrstnefnda. Og í vandaðri nútíma­útgáfu fáum við þá skýringu, að á þessum tíma hafi ættin skipt mun meira máli en ein­staklingur. Sama skýring er þá á makavali, sem nú þætti fráleitt, að gifta tólf ára stúlku manni sem hún hefur aldrei séð. Og þegar hún vill ein­hverju um þetta ráða, skammar faðir hennar hana fyrir frekju og afskifta­semi af hans málum. Nú, það gafst reyndar illa, þetta fyrsta hjónaband Hall­gerðar langbrókar, svo ekki er tíðarandinn einhlít skýring, ævinlega gátu verið skiptar skoðanir. En þetta skiptir þó litlu máli hjá hinu, að nútímalesendur skilja Hall­gerði, Höskuld föður hennar, og ýmsar persónur í fyrsta dæminu mæta­vel. Við getum að vísu ekki sannað að við skiljum þau “sama skilningi og höf­undur og samtímamenn hans”, en hitt virðist líklegt, að samtímamenn hans hafi haft margvíslegan skilning á ýmiskonar málum. Því nánar að gáð, er trúin á tíðarandann bara önnur útgáfa af trúnni á þjóðareðli, þeirri skoðun, að allir Þjóðverjar eða Danir eigi eitthvað sameiginlegt, sem aðgreini þá frá öllum Íslendingum. Þessi hugmynd komst mjög í sviðsljós með rómantíkinni, einkum varð Herder frægur fyrir að boða þjóðareðli sem birtist í þjóðsögum og þjóðkvæðum, þetta var liður í uppreisn rómantíkur gegn algildiskröfu nýklassíkur, sem síðar greinir[1] - Í fráleitustu mynd er þetta hreppapólitík, Skagfirðingar eiga þá að búa yfir einhverju sérstöku eðli, sem aðgreini þá frá Húnvetn­ingum og Eyfirðingum, sem einnig hafa sitt sérstaka eðli, en innan héraðs­marka eiga t.d. Fljótamenn að hafa einhver sameiginleg einkenni, sem greini þá frá nágrönnunum á Siglufirði, o.s.frv. Vitaskuld hefur enginn lagst niður við að kortleggja öll þessi sérkenni um Ísland allt. Að því leyti sem eitthvað er til í þessu, þá er augljóslega um tísku að ræða, tals­hættir, fas og einstakar hugmyndir breiðast út um tiltekið svæði á tilteknum tíma, en víkja síðan fyrir öðru. Ög með nútímafjölmiðlun breiðist slíkt hratt yfir stórt svæði, en íhaldssamt fólk grætur það, að “nútíminn mái út öll sérkenni, steypi alla í sama mót”. Það er mjög yfirborðslegt viðhorf. Því hvarvetna ræður hlut­verka­skipting. Drottnunar­gjarn maður fær ekki þrifist nema hann hafi leiðitamt fólk í kringum sig, sumir kalla á athygli með trúðslátum, á meðan aðrir læðast með veggjum, og svo mætti lengi telja. Mig minnir að sál­fræð­ingurinn Alfred Adler hafi skýrt þetta með stöðu eintaklings innan systkinahóps, og sú skýring gildir ekkert síður í Kenía en á Íslandi, nú sem fyrr. Því sjást og samskonar manngerðir í Rómaveldi hinu forna, í leikritum Shakespeares. og í nútímabók­menntum. Það verður ekki bara skýrt með bók­menntahefð, því þetta hrífur fólk á öllum tímum. Er ekki augljóst, að í lífi hvers manns og skáldverkum hans skiptir framan­greind tíska, stað­bundin og tímabundin, svo og hugmyndkerfi og átrúnaður, miklu minna máli en ástríður svo sem ást, metnaður, afbrýði, hatur, öfund, en einnig almenn lífsgleði, sem brýst út i gamansemi. Þetta hafa verið meginöfl mannkyns á öllum tímum, og móta verk manna miklu meir en breytilegir farvegir þeirra. Því verða þau langlíf. Við þurfum ekki að vita mikið um enskt þjóðfélag á 16. öld til að skilja konungaleikrit Shakespeares og njóta þeirra, tilfinninga-mynstrið er kunnuglegt.



Gegn þessu mætti færa, að miklar sveiflur hafa stundum orðið á almennu hugarfari. Tökum galdrafárið til dæmis. Það virðist hafa verið almenn trú á 17. öld, að goðumlík vera væri hvarvetna til að freista fólks til ills, og næði oft árangri, þannig að flest sem á bjátaði væri að kenna göldr­um fólks sem djöfullinn hefði tælt. Nú á dögum myndi fólk með þessi við­horf tekið til læknismeðferðar, helst lokað inni á geðveikrahæli, enda hefur sýnt sig að það var lífshættulegt öðru fólki, sem var drepið fyrir þessar frá­leitu sakir. Íslendingar eiga bókmenntaverk frá þessum tíma, þrungin þess­um viðhorfum, og þótt þau séu kannski engin almannalesning, þá virðist ekk­ert standa í fólki að skilja þau, t.d. Píslarsögu Jóns Magnús­sonar. En það sem alvarlegra er, þessi tíðarandi var alls ekki bundinn við frumstæða fram­leiðsluhætti 17. aldar. Hann gaus upp á 20. öld, hjá þjóðum sem að mestu leyti bjuggu við nútímatækni, og þessi hugsunarháttur, ofsókn­arórar, náði til margra hinna menntuðustu. Nægði að nefna Þýskaland undir stjórn Hitlers sem dæmi, sannanlega trúði margt hámenntað fólk þeim áróðri að allt illt væri gyðingum að kenna. En það var ekki síður sturlað rugl sem fólk trúði fyrir sjötíu árum undir ógnarstjórn Stalíns, en vestur á Ísafirði fyrir 400 árum. Það var ófátt, sem farið gat úrskeiðis undir einræði og ógnar­stjórn, en allt átti það að vera að kenna hinum áköfustu byltingar­mönnum, sem hefðu snúist 180 gráður á svipstundu, og væru nú hörðustu and­stæð­ingar sósíalismans, fórnuðu lífi sínu til að geta komið nöglum í smjörið, o.s.frv. Nú er það ein afeiðing ógnarstjórnar, að ekki er til mikið af góðum bókmenntaverkum sem sýna þetta hugarfar beinlínis, helst bækur Solsjenitsín eftir á, auk kvikmynda svo sem Ívan grimmi eftir Eisenstein. En ekki þarf langt að leita, Macbeth Shakespeares sýnir þennan tíðaranda ofsóknaróra, svo að ekki verður á betra kosið. Og það er ekki annað að sjá en þetta leikrit hrífi hverskyns fólk, sem býr við öryggi og friðsæld, og virðist full­kom­lega heilbrigt í daglegri umgengni. Því á ég mjög erfitt með að trúa á sér­stakan tíðaranda, sem móti verk fyrri tíðar og loki þau skilningi nútíma­manna. Hugmyndaheimur fólks hefur breyst mikið í tímans rás, en ekki til­finn­inga­líf þess. Framangreind oftrú á mátt tíðarandans er í rauninni bara enn ein útgáfa af hughyggjunni, sem kunnust er í útgáfu Platons, þeirri trú, að hugmyndir séu hinn sanni raunveruleiki,sem skynjanleg veröld sé bara ófullkomið endurskin af. Þetta er áberandi í inngangi rita Gríms Thomsen um bókmenntir. Hann var gagntekinn af Hegel, og taldi tíðarandann nánast líkamnast í Byron og fleirum.





1. 2. Túlkunarleiðir.


Einn angi af þessari trú á tíðarandann sem móti verk afgerandi, er sú stefna að skýra skáldverk út frá ævisögu skálds. Það segir ekkert um skáld­verkin, þau verður bara að skoða sjálf. Þegar skáld sest niður við að yrkja, gengur það inn í sérstakt hlutverk, hefur ákveðin markmið, sem iðulega eru sameiginleg fólki við mjög mismunandi aðstæður. Nægir að minnast íslenskra blæstefnuskálda um aldamótin 1900, karlar og konur, sum efnuð, önnur blásnauð, sum langlíf, önnur feigðinni merkt frá unglingsárum, og urðu skammlíf. Ekki sést þessi munur lífsskilyrða á verkum þeirra að mínu mati. Ennfremur hafa menn lengi ýkt mun skáld­verka á fyrri og seinni hluta 19. aldar. En sama skáldsagnahefð ríkti þá lengstum, hvort sem talað er um rómantík eða raunsæisstefnu, svo sem ég rakti eftir Asbjørn Aarseth í riti mínu 1992 (bls. 169).



Ef ævi skálds ætti að varpa því ljósi á verk þess sem máli skiptir, þá yrði auðvitað ekki dvalist við það sem öllum er sameiginlegt, svo sem át og drykk, eða aðrar daglegar venjur. Ævisagan hlýtur að beinast að því sem sér­kennilegast er í lífi mannsins, til að skýra sérstök verk hans. Tökum þá dæmi af einu öndvegisskáldi 20. aldar, Marcel Proust. Ævisaga hans, sem vildi skýra verk hans, hlyti að einbeita sér m.a. að því að hann var í minni­hluta­hópum, sem sumir voru litnir hornauga, og sniðgengnir af mörgum, enda þótt ekki væri beinlínis um ofsóknir að ræða. Hann var bæði hommi og af gyðingaættum. En þar að auki var hann í einum minnihlutahópi enn, nefni­lega auðmanna af þeim stigum, að það þótti fáránlegt að tala um að vinna. Hvað hefur nú slíkt skáld að segja stríðandi alþýðu, hvernig eiga 4000 bls. lýsingar hans á sam­kvæm­is­lífi fína fólksins í Frakklandi fyrir hundrað árum að koma venjulegu fólki eitthvað við? Svarið er, að rit Proust höfða æ meir til fjölda manns, sem vinnur hörðum höndum, og sker sig ekki á nokkurn hátt úr fjöldanum, hvorki að kynhneigð, uppruna né trúar­brögðum. Slíka tilhöfðun getur ævi­saga Proust ekki skýrt, og því er hún gagns­laus til að varpa ljósi á verk hans. Vitaskuld sýnir sig, að samkynhneigt fólk hefur samskonar tilfinningalíf og gagn­kynhneigt, sömuleiðis eru gyð­ingar ekki öðruvísi innréttaðir en þeir sem alist hafa upp við kristni. Það sést eiginlega betur á sögum Isaak Bashevis Singer, sem ólíkt Proust segir frá trúuðum gyðingum, sem eru allan daginn að pæla í guðs vilja. En það er til að leysa svipuð vandamál og kristnir eða trúlausir lesendur glíma við. Sérstæðar lausnir þessara persóna skipta minna máli en alvarleg viðleitni þeirra til að glíma við þessi vandamál, hún höfðar vitaskuld til hverskyns fólks.



Stefán Snævarr fjallar um mismunandi túlkanir í bók sinni Ástarspekt, og tekur dæmi af efahyggjumanninum Rorty (bls. 245):





Hann segir að túlkun sé ævinlega háð hagnýtum markmiðum túlkenda. Réttara sagt geti túlkun aldrei verið annað en tæki til að fullnægja þörfum túlkenda, rétt eins og dýrið greinir hvaðeina í ætilegt og óætileg. Þýðing ljóðs skorðist af þýðingu þess fyrir þýðandann. Ekki tjói að segja að þær túlkanir sem betur sýni innri samhengi textans séu betri en aðrar, en sú er hyggja Umbertos Eco. Samhengi í sér sjálfu er ekki til, það sé í okkar augum sem fyrirbæri virðast samhangandi eða sundurlaus allt eftir því hver markmið okkar eru (hagnýt markmið okkar ”skapa” samhengi). Við getum heldur ekki sagt að staðreyndir um verkið skilyrði notkunarhætti þess. Þá getum við fullt eins sagt að við séum hlutlæg ef við notum tappatogara til að toga tappa með en ekki þegar við brúkum hann til að opna skúffu með. En hvað nú ef hann reynist betur sem skúffuopnari en tappatogari?



Stefán svarar þessu (bls. 246):



Af spekimálum manna á borð við Rorty má draga þá ályktun að allar túlkanir séu jafnréttháar. Gegn þeirri staðhæfingu má tefla þeim rökum Ole Martin Skilleås að þá væri gerlegt að taka gefnar túlkanir á hvaða bókmenntaverki sem vera skal og kalla þær túlkanir á hvaða öðru bókmenntaverki sem vera skal. [...] Við gætum t.d. tekið gefna túlkun á Hamlet og kallað hana ”túlkun á Hrafnkötlu” en það virðist fáránlegt.



Breski listspekingurinn David Best rær á sömu mið og Skilleås. Hann bendir á að við getum ekki talað um margar túlkanir á sama verki nema að gera ráð fyrir því að verkið hafi einhvers konar hlutlægan fasta. Ella gætum við sagt að þessar túlkanir eigi ekkert sameiginlegt, þær fjalli ekki um sama viðfangið og þá sé út í hött að tala um fjölda túlkana á sama verki.





Mér sýnist mjög vanhugsað að segja að samhengi í sér sjálfu sé ekki til. Það er sitt hvað að lesa samhengi úr aðskildum viðburðum dagsins eða himintunglum og þvílíku annarsvegar, en hinsvegar að sjá samhengi í listaverki. Hvort sem það er ljóð, hljómkviða, málverk eða annað, þá er það jafnan samsett sem heild af skapara sínum, slík heild mismunandi eðlisþátta er ekki bara tilbúningur túlkenda.



Það má ljóst vera, að bókmenntaverk breytast í tímans rás, verða að einhverju leyti skilin öðruvísi en fyrr. M.a. þessvegna verður að huga að sem flestum túlk­unarmöguleikum, og það hefur verið orðað svo, að ljóð merki allt sem það getur merkt (sjá t.d. Beardsley, bls. 144 o. áfr.). Það er þó ekki nóg að huga að sem flestum blæbrigðum merkingar og vísunum, yfirleitt verður það að falla saman í eina heild. Mismunandi túlkanir eru mögulegar, en stang­ist þær á, verður að bera þær saman, og meta hver sé best. Og það hlýtur að vera sú túlkun sem gerir grein fyrir sem flestum mikilsverðum eigin­leikum verksins, og ekki stangast á við markverða þætti þess. Beardsley skýrir vel (bls.146-7), hversvegna hér gildi reglan, sem kölluð hefur verið Rakhnífur Occams (eftir skoskum miðaldaheimspekingi), þ.e. að einfaldasta túlkunin sé að öðru jöfnu best. Ekki verður talað um túlkun verks nema hún sé mun einfaldari en verkið[2]. “Svo hver sú ástæða sem við höfum fyrir að útskýra hluti er líka ástæða til að útskýra þá eins einfalt og mögulegt er”.



Hér verður sérstakur kafli með túlkun valinna ljóða, þar sem reynt er að huga að mögulegum túlkunum, og bera saman. Að sjálfsögðu er þá reynt að tilfæra fyrri túlkanir. Þó verður að velja úr það sem áhugaverðast þykir. Til dæmis finnst mér ekki áhugavert hvort Jónas Hallgrímsson hafi ort Ferðalok með tiltekna stúlku í huga, hvað þá hver hún var. Látum nægja að segja, að ljóðmælandi miðli þar tilfinningum sínum til stúlku.






2. Stefnur og straumar



Svo mikið hefur verið skrifað og skrafað um þessi fyribæri, að engin von er til að gera þeim hér skil. Hér skal aðeins reynt að víkja að nokkrum megin­atriðum sem teljast mega snerta umfjölluð skáld okkar.





2. 1. Rómantík alþjóðlega



Nú er orðið rómantík notað um mikinn hluta bókmennta, myndlistar, tónlistar o.fl. á 19. öld, en mjög var á reiki framanaf öldinni til hvers þetta orð vísaði. Yfirlit um þann rugling má fá í inngangi greinar eftir René Wellek, sem komið verður að hér á eftir. Norski bókmenntafræðingurinn Asbjørn Aarseth hefur og gert yfirlit (1983) um úttekt ýmissa fræðimanna á rómantík. Það var mér leiðarvísir hér, einnig í lestri rita annarra fræðimanna. Aarseth birti svo 300 bls. bók um efnið 1985, og nefndi þar m.a. (bls. 22) að enskur bókmenntafræðingur, F. L. Lucas, hefði talið 11. 396 mismunandi skil­grein­ingar rómantíkur á árinu 1936. Hefur sjálfsagt eitthvað bæst við síðan. Aarseth nefnir (1983, bls. 114) að um 1800 hafi t.d. Þýskaland skipst í mörg smáríki með mismunandi stjórnarfar, menning­arástand og kirkju­deild­ir. Enda hafa einkum Þjóðverjar hneigst til að skipta rómantík í mörg tímabil og svæðisbundna undirflokka; nefna má árróm­antík, hárómantík, ungróm­antík, Biedermeier, síðrómantík, nýrómantík, auk þess: Jena-rómantík, Berlín­ar­rómantík, Vínar-rómantík. o. s. frv. Við bætast svo sérkenni franskra bók­mennta, enskra og norrænna, svo ekki sé fleira talið, og hvernig tengist það samnefndri stefnu í tónlist, myndlist, heimspeki og jafnvel guðfræði? Í seinna ritinu (1985) fjallaði Aarseth einkum um þrjú skáld norræn frá fyrra hluta 19, aldar, svíann Almquist, danann Steen Blicher og norð­manninn Laurits Hansen. Þar sakna ég umfjöllunar um sérkenni skáld­skapar þessara manna, hvað sé þar rómantískt og hversvegna. Aarseth rekur aðallega hvað segi í yfirlitsritum um rómantískar bókmenntir viðkom­andi þjóðar, og síðan viðtökur rita þessara skálda í tímaröð. Hann kallaði þessa bók sina: Rómantíkin smíðuð (? Romantikken som konstruksjon), og leggur áherslu á að nú­tíma­fólk geti ekki bara tekið sjálfstúlkun rómantískra skálda og gagn­rýn­enda, eins og hún birtist í stefnuskrárritum baráttumanna, sem vildu að­greina sig frá fyrri tíð. Ævin­lega þurfi að endurskoða slíka túlkun á stefnu eða tímabili í ljósi seinni upp­lýsinga og viðhorfa, yfirsýn fáist eftir á. Því sé t.d.. hugtakið Rómantík tilbúningur nútímans, “konstruksjon”, en vissulega ekki úr lausu lofti gripin eða gerð að vild. Mörg verk þessa tíma hafi mikilvæg sameiginleg einkenni, sem aðgreini þau frá fyrri tíð og seinni. Það þurfi bara að meta og rökræða hver þau séu, og hver mikilvægust.



Samnefnara hafa ýmsir viljað sjá, t.d. Georg Brandes. Hann dró raunar fram almennan mun á franskri rómantík og þýskri, sagði að frönsk rómant­ísk skáld drægju upp ákveðnar verur (faste skikkelser), en það geri þýsk ekki, í staðinn komi óendanleg löngun, sem geti ekki fundið sér afmarkaðri mark­mið en “blómið bláa”, “töfra einsemdar í skógi” og ámóta svífandi hugtök. Lausn Brandesar verður, segir Aarseth, að finna hið sameiginlega - ekki í formi framsetningar, heldur sálarástandinu sem skapar. Wellek talar einnig um þessa óljósu þrá Þjóðverja og skýrir þannig (bls. 165); að allt frá Storma- og hvataskeiði Goethe og Schiller (“Sturm und Drang” um 1770) hafi þýskir mennta­menn reynt að skapa nýja lífssýn sem væri hvorki krist­inn rétt­trúnaður né upplýsing, og nýja list, sem væri óháð frönsk­um hefð­um sam­tímans. Markmiðið var heildarmynd manna, sem næði bæði til skyn­semi og tilfinninga; eining guðs og heims, sálar og líkama, hugveru og hlut­veru. En mönnum var ljóst hve langt þeir væru frá að geta náð þessu, því ríkti þessi óljósa þrá. Aarseth segir og (bls. 121) frá viða­miklu (og að mínu mati yfirborðslegu) riti Ricarda Huch um þýska rómantík (1899-1902), og hefur helst þaðan, að hún leggi áherslu á hve alhliða rómantísk skáld séu, þau séu í senn rökræn og myndræn (appollínsk og díonísísk) og hafi á vissan hátt uppgötvað dulvitundina. Aarseth segir (bls. 122) að Bandaríkja­mað­ur­inn Babbitt hafi skilgreint rómantík sem andstöðu við klassískar hefðir, en þær séu dæmigerðar fyrir stétt (klasse!). En rómantískt sé þá óvænt, undarlegt, einstakt eða öfgakennt á einhvern hátt. Sú miðalda­dýrk­un sem t.d. Heinrich Heine taldi einkenna rómantík, er þá skv. Babbitt bara eitt dæmi um áhuga róm­antíkur á frábrugðnu og einkennilegu, rétt eins og áhugi á vímuefnum og uppreisnarverum svo sem Kain og Satan, og fráhvarf frá siðmenningu til einfalds og frumstæðs lífs.



Aarseth rekur að á líkan hátt hafi Poul vanTiegem sagt að rómantík hafnaði rökhyggju og bjart­sýni Upplýsingarinnar og klassískum hefðum, en setti þess í stað ofsa í afstöðu og tjáningu trúarlegra og heimspekilegra viðhorfa, einstaklings­hyggju, sköpunarmátt ímyndunar­afls­ins, frumleika og myndræna fram­setn­ingu. Auk þessara formsatriða er áhugi á náttúrunni, þjóðlegu, og stað­bundnu. Aarseth (1983, bls. 122-3) er gagnrýninn á þessa upptalningu, sem vissulega dragi fram margt sameiginlegt verkum frá fyrra hluta 19. aldar, en hvert framan­greindra sérkenna sé hvorki nauðsynlegt né nægjanlegt til að kalla texta rómantískan. Því verði jafnan matsatriði, hve mörg og mikilvæg þau einkenni textans skuli vera.



Mjög er vitnað til umfjöllunar Arthur O. Lovejoy um þetta, fyrst 1924, og svo aftur 1936. Í fyrri greininni segir hann m.a. að nútimamenn megi ekki láta binda sig af því að skáldhópur hafi tekið upp um sig heiti sem haft var um skáldhóp í grannlandi, það sanni ekki neitt um samkenni. Ennfremur leiðir hann rök að því að jafnan beri að tala um rómantík í fleirtölu (“romanticisms”), því orðið hafi verið haft um algerlega andstæðar stefnur. Í fyrsta lagi það viðhorf, sem ríkt hafi frá því á endurreisnartímanum, að telja hið náttúrulega og einfalda æðra siðmenningu. Nefnir hann þar sem dæmi ljóð Eng­lendingsins Warton frá 1740. En um 1800 rísi sú stefna í Þýska­landi, og síðar Frakklandi, að leggja rækt við margbreytileika sið­menn­ingar í stað hins náttúru­lega. Það auki enn á ruglinginn, að einn og sami höfundur eigi til að rúma þessar andstæðu stefnur, t.d. Frakkinn Chateaubriand, fyrst náttúru­stefnu Rousseau, síðan eftirsókn fjölbreyti­leikans. Enn herti Lovejoy á þessu í lok greinarinnar, og sagði að Rómantík A ætti kannski ýmsa þætti sam­eig­in­lega við Rómantík B, og aðra við Rómantík C, en fátt eða ekkert væri sam­eig­inlegt B og C. En þegar hann tók þetta efni upp aftur, tólf árum síðar, þykir mér myndin skýrast. Hann segir þar (bls. 290 o.áfr.) að áhersla 18. aldar manna á hið náttúrulega hafi í fagur­fræði leitt til kröfu um að listin eigi að takmarka eftirlíkingu sína á náttúrurnni við hið almenna, sammann­lega, hefðbundna, og þá forðast sér­kenni­legt (“local color”). Ljóð skyldu tala almennt mál[3]. Á þeim grundvelli hafi dr. Johnson hrós­að Shakespeare fyrir að Rómverjar hans væru ekki sérlega rómverskir, né kóngarnir konunglegir! Þetta hneykslar Lovejoy, en rétt er auðvitað að einnig þessar persónur Shakespeare höfða tíl fólks almennt. En af framangreindri kenningu leiddi, að engar nýjungar gátu verið góðar, því til að hafa alhliða tilhöfðun hefðu þessi atriði þurft að koma fram í klass­ísk­um bókmenntum Forngrikkja og Rómverja. Og ekki gátu þau haft almenna til­höfðun nema þau hefðu náð til hinna frumstæðustu (“náttúrulegustu”!) manna. Upplýsingin var í megin­atriðum helguð einföldun og stöðlun hugs­un­ar og lífs – stöðlun með einföldun, segir Lovejoy enn[4]. Því hafi sjaldan orðið önnur eins bylting á gildis­mati og þegar andstæð viðhorf fóru að drottna, ekki bara að á flestum sviðum mannlífsins gæti verið margskonar ágæti, heldur líka að fjölbreyti­leikinn sjálfur væri hin æðstu gæði. Og sér­stak­lega í listum sé keppikeflið nú hvorki að ná fullkomnun forms í tak­mörk­uðum fjölda fastmótaðra bók­mennta­greina, né að ná þeim minnsta samnefnara listskynjunar, sem ein­kenni allt mannkynið á öllum tímum; heldur að tjá sem fyllst auðlegð fjöl­breytn­innar, sem sé eða geti orðið í náttúrunni og manneðli. Hlutverk lista­manns gagnvart viðtakendum sé að vekja þá hæfileika þeirra til skilnings, sam­kenndar og nautnar, sem enn séu aðeins möguleiki í flestum mönnum, og ef til vill verði aldrei almennir. Enda þótt þessi viðhorf séu ekki ein mikil­væg, þá séu þau sá sameiginlegi þáttur sem einkenni annars sundurleitar til­hneig­ingar sem ganga undir nafninu Rómantík; geysileg fjölgun bókmennta­greina og bragarhátta, viðurkenning á réttmæti þess að blanda saman bók­mennta­greinum, eftirsókn blæbrigða, að viðurkenna afkárlegt í list, að leita sér­kenna, og að reyna að ímynda sér sérkennilegt andlegt líf fólks sem er fjarlægt í tíma, rúmi, eða menning­ar­aðstæðum: Ennfremur má telja sjálfs­dýrkun og áhuga á brotakenndu, kröfu um nákvæmni í landslagslýsingum, m. a.[5] Í stuttu máli sagt, Lovejoy skýrir margfrægan margbreytileika róm­antískra verka sem afleiðingu af samkenni rómantíkur (bls. 293 o. áfr.). Hún er ein af því að hún er margvísleg.



René Wellek birti grein um þetta árið 1949, til að mótmæla þeirri kenningu (m.a. Lovejoy 1924) að rómantík sé mörg fyrirbæri, svo sundur­leit, að ekki verði fundinn neinn samnefnari. Wellek sýnir fram á (bls. 151) að ekki sé að marka hvenær heitið “rómantík” sé tekið upp í mismunandi löndum, eða hvaða skáld vilji hafa það um verk sín. Mikilvæg samkenni finnur Wellek hjá helstu skáldum um alla Evrópu á fyrra hluta aldarinnar; sömu sjónarmið um ljóð og um eðli skáldlegs ímyndunarafls, og hvernig það starfi, sömu hugtök um náttúruna og samband hennar við fólk, og í grund­vall­ar­atriðum sama ljóðstíl, þar sem myndmál, tákn og goðsögur séu notuð á ljós­lega annan hátt en af nýklassík 18. aldar[6], í staðinn sé leitað til miðalda og endurreisnar, hvarvetna sé vitnað til Schlegel og Mme de Stael. Hvörfin frá nýklassík skipti meginmáli, þótt oft taki rómantísk verk upp atriði frá eldri skeiðum, t.d. frá barokk (bls.196). Wellek segir í framhaldi af skil­grein­ingu sinni, að hana mætti styrkja eða sveigja með tilvísun til annarra ein­kenna sem oft séu nefnd, þ.e. sjálfshyggju, áhuga á miðöldum eða þjóð­fræð­um. En kjarnatriði séu: ímyndun hvað varðar ljóð, náttúra hvað varðar heiminn, og tákn og goðsögur í ljóðstíl[7] Hann rekur einna fyrstu dæmin til Þýska­lands á loka­þriðjungi 18, aldar (Goethe og Schiller, m.a.), og segir að þar hafi hreyf­ingin orðið altækust og sterkust, en hún spretti hvarvetna upp af inn­lendum jarðvegi, svo sterk verði hreyfing ekki við innflutning (bls. 166-7). Greinin rekur svo umrædd rómantísk einkenni hjá mörgum helstu skáldum Evrópu á þessu tímabili.



Wellek svaraði viðbrögðum við þessu í grein sinni Romanticism reexamined. Hann gagnrýnir margt í þeim andsvörum, en meginniðurstaðan er þó sú (bls. 220), að menn séu nú í aðalatriðum sammála um einkenni róm­antíkur, sem séu: ímyndunarafl, tákn, goðsögur og lífræn náttúra. Þetta sjái menn sem viðleitni til að brúa bilið milli hugveru og hlutveru, sjálfsins og heims­ins, meðvitaðs og ómeðvitaðs. Einnig á lægsta bókmenntastigi birtist þessi eining, í furðusögum og hryllingssögum, í áhuga á miðöldum og þjóð­sagna­efni[8]. Mig undrar að Wellek skyldi ekki í grein sinni 1949 gefa gaum seinna riti Lovejoy, þá þrettán ára gömlu, sem er í meginatriðum á þeirri sömu línu sem hann sjálfur fylgir[9]. Í seinni greininni gleðst hann þó yfir að Lovejoy í því riti noti hugtök sem venjulega merki rómantík; lífrænt, þrótt­mikið og fjölbreytni[10]- Ekki sé ég að Wellek setji hér nein seinni tímamörk, hvenær rómantík fjari út. Afgerandi mörk milli rómantíkur og raun­sæis­stefnu sér hann þó í því (bls. 253), að raunsæis­stefnan hverfi frá dýrkun rómantíkur á sjálfs­veru, frá áherslu á ímyndun­ar­aflið, frá því að nota tákn, frá áhuga á goð­sögum, og á lifandi náttúru[11]. Þetta er í grein hans um raun­sæis­stefn­una, en þar (bls. 228 o. áfr.) rekur hann sigurgöngu þeirrar stefnu á ára­tugnum 1850-60, fyrst í Frakk­landi og Englandi, síðan breiðist hún hægt um Evrópu og Banda­ríkin. En raunsæis­stefnan hlýtur að skarast við rómantík að hans áliti, því hann telur til raunsæis m.a. Balzac og Dickens, og hafði þó talað um róm­antísk einkenni á Balzac í grein sinni 1949 (bls.174). Auk þess telur hann raun­sæisskáldsögur 19. aldar vera í beinu framhaldi af enskum 18. aldar skáld­sög­um, einkum eftir Fielding og Richardson í stíl og listrænt, enda þótt persón­ur­nar séu meiri þjóðfélagsverur á 19. öld. Hann leggur áherslu á að til raunsæisstefnu verði að telja helstu skáld sem til hennar voru talin á þeim tíma. Ekki megi útiloka skáld eins og Tolstoy og Trollope, Eliot o.fl. Því vill hann ekki telja ágengan sögumann frágangssök um raunsæis­stefnu (bls. 250 o.áfr.), og á hinn bóginn telur hann “natúralisma” til hennar, enda þótt þar sé hlutlæg framsetning sett í öndvegi (bls. 233 o.áfr.). Hann hafnar þeirri kenningu (sem Georg Lukács hefur öðrum fremur orðið frægur af), að raun­sæis­stefnan sýni persónur í sögulegu samhengi (bls. 252), það eigi alls ekki við um nærri öll skáld sem verði að telja til stefnunnar.



Aarseth gagnrýnir (1983, bls. 124) kenningu Wellek um sameiginleg ein­kenni rómantíkur, m.a. með því að hún eigi betur við Schelling og Coleridge en Scott og Hugo, sem hafi þó orðið miklu áhrifaríkari. Ekki rekur Aarseth það nánar, og virðist þetta ósannfærandi. Aarseth segir m. a. (1985, bls. 248-9) að þrátt fyrir nokkur umbrot einkennist 19. öld af félags­legum stöðugleika, því sama borgarastéttin drottni allan tímann í efnahags-lífi og stjórnmálum. Lesendahópurinn stækki verulega við almennari lestrar­kunn­áttu, en skáldsögur fylgi allan tímann sömu hefð í efnisvali og þvílíku, fjalli einkum um ástamál ungs fólks í andstöðu við ráðríki foreldra. Hann segir að listrænt verði miklar framfarir í skáldsagna­gerð, en rekur það ekki nánar. Augljóst má þó vera að það vísar til hlutlægrar, myndrænnar framsetningar í stað ágengs sögumanns.



Aarseth segir ennfremur (1985, bls. 13) að venjulega sé rómantík tímasett til 1790-1830, en nokkru síðar í sumum löndum. Vandinn sé hins­vegar sá, að á þessu tímabili birtist svo margskonar mismunandi viðhorf til stjórnmála, trúmála, listrænna og annarra viðfangsefna, að ómögulegt virðist að finna samnefnara. En á hvaða tímaskeiði birtast ekki andstæð viðhorf til slíkra málefna? Og hví skyldi hugtak eins og rómantík eiga að ná til allra fyrir­bæra tímabilsins? Ekki hvarflar það að nokkrum manni um nýlegri strauma, svo sem módernisma, sósíalrealisma eða natúralisma. En þau mis­munandi viðhorf sem Aarseth nefnir (afturhaldsstefna aðalsins, íhaldssemi borgara, byltingarstefna, sem einnig birtist) geta komið fram í svipuðu ljóð­máli, táknum og goðsögum, svo vitnað sé í Wellek (sjá hér á eftir). Og það virðist mér ótví­rætt tilfellið með t.d. endurminningar afturhaldsmannsins Chateaubriand (Mémoires de l’outre-tombe) og ljóð byltingarsinnana Byron og Shelley. Viðhorf til stjórnmála, trúmála o.s.frv. geta ekki talist megineinkenni bók­mennta­stefnu. T. d. er framsetning sósíalrealískra verka mjög af sama tagi og þeirra skáldsagna sem útbreiddastar voru á tímabili rómantíkur, þ.e. fyrir­myndarpersónur til góðs og ills, áberandi hneigð og einfalt mál, til að þetta gangi í lýðinn. Vissulega hefur sósíalrealismi and­stæða afstöðu til borgara­legs þjóðfélags, en útbreiddar skáldsögur öndverðrar 19. aldar, en sam­eiginleg er forræðis­­hyggjan gagnvart lesendum. Wellek (bls. 156) rekur að Byron, Shelley og Keats höfnuðu fyrri skáldum, Wordsworth, Coleridge og Southey af stjórnmála­ástæðum, þótt augljóslega fylgi öll þessi skáld sömu meginstefnu í bók­menntum.



Raunar rekur Aarseth í lokakafla rits síns (1985, bls. 263) að tala beri um rómantík sem eina heild, er drottni alla 19. öld, enda þótt þar birtist andstæð viðhorf. Hann notar þá líkingu að tala um þrjú lög rómantíkur, en leggur áherslu á að þar sé ekki um orsakasamband að ræða. Grundvöll hennar eða jarðveg telur hann vera einstaklingshyggju, að sjálfið sé í sviðs­ljósi. En það sé ekki í einangrun, jafnvel einfarar eins og Byron, Kierkegaard o.fl. séu séðir í samhengi, ef ekki mannlífs, þá náttúrunnar. Annað lag er svo það sem hann líkir við sjö andlit rómantíkur, sem sýni systkinasvip. En þriðja lagið er sameiginlegur svipur framsetningar, sem ráðist af tíma­bund­inni tísku; þar sé m.a. ræningjarómantík, óhugnaður, áhugi á miðöldum eða fjar­læg­um stöðum, o. fl. þ. h., hann ræðir þar enn aðeins efnisval. – Hér mætti nefna að hann telur (1981,bls. 52) rómantísk einkenni á sögu (Asbjørnsens) vera m.a. áhuga á myrkum hliðum lífsins, afkárlegum og og sjúklegum, og á óstjórnlegu í persónulýsingum[12] Þetta sé ekki síður rómantískt en upphafin náttúrulýsing í annarri sögu sama höfundar.



Svipmótin sjö eru þá samtengd, ýmis þeirra geta birst hjá sama skáldi, og það er undantekning ef þetta er tímabilaskipting. Þar telur Aarseth upp: 1. Tilfinninga-rómantík, 2. allsherjarrómantík, 3. lífs-þróttarrómantík, 4. þjóð­ern­isrómantík, 5. Frjáls-lyndisrómantík, 6. félagslega rómantík, og 7. byggða­rómantík[13]. Auðsén eru tengslin, áhuginn á sérkennum heimabyggðar í nátt­úru og menningu (7) er eðli­legt framhald af þjóðernisrómantík, en þó kom byggðarómantík lítið fram hjá íslenskum skáldum tímabilsins, Telja má ein átta kvæði Steingríms Thorsteinssonar, að vísu eru þau sum meðal helstu kvæða hans[14]. Einnig verður hingað að telja skáld­sögu Jóns Thoroddsen, Maður og kona. – Þessi áhugi á sérkennum byggð­ar varð þeim mun meira áberandi hjá blæleitnum skáldum eftirfarandi tímabils. -Raunar segir Aarseth að norska skáldið sem hann tekur sem dæmi (Laurits Hansen) hafi ekki heldur náð þessu, en þetta sé mjög áberandi hjá danska skáldinu Steen Blicher og svíanum Almquist. Frjálslyndis-rómantík er líka í beinum tengslum við þjóðernisrómantík, því þar eru kröfur um lýðréttindi. En félagsleg rómantík færir þær kröfur inn á svið einkalífsins. Það tengist þeirri áherslu á tilfinningalífið, sem Aarseth telur gjarnan koma fyrst í tíma, en dýrkun á lífsþrótti tengist allsherjar-rómantík, tilfinningunni fyrir að “allt sé af einu fætt”, svo vitnað sé í Einar Benediktsson. Ekki sé ég félagsleg sjónarmið hjá íslenskum skáldum tímabilsins heldur, nema ef telja skyldi baráttu ungra elskenda fyrir að ná saman, gegn afskiptasemi og svikum eldri kynslóðarinnar, enn er það helst í sögum Jóns Thoroddsen. En þetta var reyndar meginþráður skáldsagna tímabilsins, svo sem Aarseth nefnir (1985, bls. 248). Vitaskuld er þess ekki að vænta að öll þessi svipmót birtist í einu höfundarverki, hvað þá í einu skáldverki.



Aarseth rakti fleiri kenningar 1983 (bls. 185 o.áfr.), m. a. Furst og Peckham. En þær líkjast svo mjög því sem nú var rakið eftir honum sjálfum, að mér finnst ekki ástæða til að orðlengja um það – fyrir utan það sem Wellek réttilega bendir á, að hugtak Peckham neikvæð rómantík, sem eitthvað eðlisólíkt jákvæðri rómantík, virðist bara ruglandi. Hvorttveggja rúmast mætavel innan einstaklingshyggju rómantíkur. Og löngu hafði Mario Praz rakið hryllingssagnahefð frá 18. öld og langt inn í rómantík (í bók sem þýdd á ensku heitir The Romantic Agony). Raunar féllst Peckham á þessa einingu neikvæðs og jákvæðs áratug síðar (1960), en lítið virðist að læra af sértaka­flækjum hans. En niðurstaðan verður sú, að Aarseth sé í megin­atriðum sama sinnis og Lovejoy og Wellek, enda þótt áherslurnar séu mis­mun­andi, meira á efnisatriði hjá Aarseth, en á framsetningu hjá Wellek.



Oft hefur verið á það bent, að ekkert skáldverk geti verið án einhverrar tilvísunar til veruleika lesenda, hversu upphafið og “göfgað” sem það sé. Sömuleiðs er það augljóslega breytilegt eftir stað og tímaskeiði –og persón­um- hvað taldist “rétt mynd af raunveruleikanum”. Ég hef áður orðað það svo, að það merki einfaldlega það sem lesendur eigi að venjast, sjaldan sé kvart­að yfir óraunsæi hjá sporgöngumönnum, en oft gagnvart braut­ryðj­endum í formi. Það er athyglis­vert, að ekkert í framan­greindum skil­grein­ingum á rómantík útilokar hlut­lægar lýsingar á persónum og aðstæðum sem lesendum gátu þótt sann­færandi, m. ö. o. “raunsæjar” lýsingar. Enda er oft hinn mesti ruglingur á því hvaða skáld eru talin til rómantíkur, og hver til raunsæisstefnu, eins og vikið var að hér að framan, í sambandi við Wellek. Aarseth rekur það einkar vel í yfirliti sínu um mat manna á Almquist og Blicher. Hvort þeir voru kallaðir rómantísk skáld eða raunsæ virðist einkum ráðast af tísku í bókmenntasögu hverju sinni, hvor stefnan naut meiri virð­ingar í það skiptið. Enda má ljóst vera, að raunsæjar lýsingar á venjulegu fólki eru í beinu samhengi við svokallaða byggðarómantík, sem lýsir menn­ing­arsérkennum tiltekins samfélags. Oft hefur verið nefnt sem dæmi raunsæis, lýsing þess þegar maður verður úti í Maður og kona Jóns Thoroddsen (2.k.). Augljóst er líka, að mikið er um raunsæilegar lýsingar náttúru, samfélags og persóna í hinum frægu ljóðsögum öndverðrar 19. aldar; The Prelude eftir Wordsworth (um 1800), Don Juan Byrons, Evgení Onegin Púskíns, og Adam Homo Paludan Müller, svo fáein dæmi séu talin. Rómantískt þar er helst upphafnar hugsjónir einstakra persóna, í andstöðu við hversdaglegar, takmarkandi aðstæður þeirra, likt og í skáldsögum Stendhal. Raunsæi er því ekki frágangssök til að verk teljist rómantísk, en eitthvað verður meira að vera til þess. Claes Kastholm Hansen gerði merkilega rannsókn á hugmyndum gagnrýnenda um mynd raunveruleikans í dönskum skáldsögum á áratuginum 1830-40. Þar segir m.a. (bls.105) að gagnrýnendur krefjist þess að bókmenntir sæki efni sitt í raunveruleika samtímans, en setji því þó skorður siðgæðis[15]. Fljótt á litið er vandséð hvað ætti að vera rómantískt í margrómaðri og prýðilegri skáldsögu Almquist; Det går an (frá 1838). Vissulega lýsir hún samdrætti ungs pars, en það gera skáldverk á öllum tímum og af öllum stefnum. Segja má að hér sé rómantíkin skorin svo niður að hún birtist í frumeiningu; pilturinn er ruddalegur framanaf, en göfgast við ástina, verður upphafinn. Mér sýnist að við verðum að halda okkur við skilgreiningu Wellek, að sérkenni rómantíkur birtist einkum í goðsögum, táknum og skáldmáli. Vissulega má “lífi gædd náttúra” teljast með, en hún einkennir þó í mun ríkara mæli seinni stefnu, blæstefnu (symbólisma) um aldamótin 1900.



Eins og áður segir eru oft talin á mörkum rómantíkur og raunsæis tvö fræg erlend sagnaskáld frá fyrra hluta 19. aldar, Dickens og Balzac. En mér virðist villandi að setja þau skil í skáldsagnagerð 19. aldar. Meiru skiptir sú tíska, sem þá var alráð, að sínálægur, alvitur sögumaður útskýri fyrir les­end­um hvað gerist, hversvegna, og einnig hvað lesendum eigi að finnast um það. Þetta fór úr tísku eftir að Flaubert m.a. fór að stunda hlutlægnislega sagnagerð um miðja 19. öld. Hann sagði að höfundur ætti að haga sér eins og guð í sköpun­arverkinu, vera allstaðar nálægur, en ævinlega ósýnilegur. Í skáldsögum Victor Hugo er líka ágengur sögumaður, persónur eru einhliða en myndrænar lýsingar setja sterkan svip á sögur svosem 1793 og Notre-Dame, m.a. Og samhliða hlutlægni sagna Flaubert, setja myndrænar lýsingar svo sterkan svip á helstu sögur hans, að sjá má þær lýsingar sem einskonar nærveru sögumanns, sem dregur fram ómennska náttúru. En einmitt það atriði væri þá í sterkri andstöðu við samhljóm mannlífs og náttúru, sem talið hefur verið eitt höfuðeinkenni rómantíkur. Það er í rauninni erfitt að setja skörp skil neinsstaðar. Stríð og friður Tolstoys er glæsilegt í hlutlægum lýsingum persóna og atburða, þar er ennfremur fyrsta dæmi hugsanaflaums, sem ég hefi rekist á, en jafnframt er þar sögumaður sérlega ágengur með túlkanir og boðskap.



Það er að vonum að erfiðlega hafi gengið stundum að finna samnefnara fyrir hundruð skálda um alla Evrópu og mikinn hluta Ameríku á heilli öld. Það sýnist mér þó Lovejoy hafa tekist glæsilega á árinu 1936, og svo var það útfært af Wellek hvað varðar framsetningu.



Að vonum hafa menn mikið rætt hvað valdið hafi þessum straumhvörfum frá nýklassík til rómantíkur. frá reglufestu til frumleika og sundurleitni. Sú einfalda skýring hefur oft heyrst að fólk hafi bara verið orðið leitt á því gamla og hafi viljað fá eitthvað nýtt. Gegn því segir Arnold Hauser (bls. 568 o.áfr.), að hér birtist hvörfin frá því að skáld og listamenn voru komnir upp á auðuga verndara (sem höfðu enga ástæðu til að skipta um smekk) til þess að semja fyrir vaxandi markað tímarita og bókaútgáfu, markað sem skáldið varð sjálft að kanna. einnig hefur verið bent á frönsku stjórnarbyltinguna frá 1789 sem glætt hafi frelsisþrá víða um lönd, og iðnbyltinguna, sem leiddi til skjóts vaxtar borga, þangað sem fólk flykktist úr sveitum, og bjó við eymd í óhrjálegum fátækrahverfum[16]. Því sé svo algengt að tala um spillingu borgarlífsins og fegurð sveitalífs – þótt auðvitað komi þar líka til hugmyndir svo sem þær er Rousseau boðaði, og haft var eftir Lovejoy hér að framan að mjög voru útbreiddar á 18. öld.






2.2. Hugmyndir Íslendinga um rómantík



Hvað sem margbreytileika rómantískra verka líður, sýnist mér af niðurstöðum þessarar könnunar að umrædd íslensk ljóðskáld hafi haft nokkuð sameiginlega hugmynd um hvað þessi stefna væri, að hverju þau stefndu. Og sú hugmynd sýnist mér einkum móta verk þeirra framanaf, en með vaxandi þjálfun kom meira sjálfstæði



Lítum fyrst á stefnuyfirlýsingar eða skilgreiningar íslenskra rómantískra skálda á stefnunni. Bjarni Thorarensen sendir stundum kvæði sín í bréfum, einkum til Finns Magnússonar. Hann víkur sjaldan að skáldskap í bréfum, og er þá undarlega lítillátur, hælir skáldskap prófessors Finns frekar en sínum eigin, og felur Finni hvað eftir annað að breyta kvæðum sínum [Bjarna!] að vild, þannig segir hann 1819 að Finnur hafi bætt Eldgamla Ísafold (Bréf I, bls. 157-8). Einnig telur Bjarni 1825 erfiljóð sitt “eftir þjóðskáld vort Gröndal” (Bréf I, 166; þ.e. Benedikt Gröndal eldra) óverðugt slíku stórskáldi, sem nú er flestum gleymt. En Bjarni telur sér til tekna frumleika, t.d. í erfiljóði um frú Sívertsen (Bréf I, bls. 167). Hann ver og kvæði sín um Eyjafjallaskalla og Fouqué gegn gagnrýni Bjarna Þorsteinssonar (Bréf II, bls. 97), og virðist ekkert sár vegna þeirrar gagnrýni, að hverju sem hún nú kann að hafa beinst. Hann er uggandi um viðtökur erfiljóðs sins um frænda hans, Þórarinn Öefjord, 1824 (Bréf I, bls. 161), vegna formsins. “Þetta form, Ballade-formið, er nú lítt þekkt í ísleskum skáldskap […] hvort ég hef getað hitt Romance-tóninn, og hvort hann eigi ekki allvel við þessháttar erfiljóð eftir menn sem farast sviplega” . Til frumleika Bjarna verður einnig að telja að hann skyldi yrkja um veturinn, en hann gefur þá skýringu 1823 að hann hafi verið orðinn svo leiður á vorvísum (Bréf I, bls. 158). Sjálfur orti hann þó ”Vorvísu” síðar, en að vísu var hún eftirmæli. Ýmsir hafa vitnað til þess með skiljanlegri undrun, að hann mat Sigrúnarljóð sitt minna en Freyjuketti og Kysstu mig aftur (Bréf I, bls. 147 og II, bls. 324-5). En þess er að gæta, að í seinna tilvikinu er hann að skrifa tvítugu ungskáldi (Grími Thomsen), sem ætlaði að þýða kvæði eftir Bjarna á dönsku (og gerði það). Og þá gat Bjarna þótt viðsjárvert að verða kynntur Dönum með kvæði, sem eins og hann sjálfur sagði, hafði grundvallar­hugmyndina frá þjóðskáldi Dana, Oehlenschläger. Bjarni biður Phöbus að fyrirgefa Dönum gagnrýni á Paradísarmissi (í þýðingu Jóns Þorlákssonar), en þeim líki ekkert sem ekki sé





rhytmiskt - það eru fleiri samt en þeir, því Voltaire kallaði rím sálarinnar músík – og þeir geta ei gert sér hugmynd um skáldskap sem ekki er til að syngja eða kveða, og til hans munu þó hendingar með rím í okkar máli hentugastar.





Bjarni einskorðaði sig þó hvorki við rím né reglubundna hrynjandi í skáldskap sínum, enda notaði hann edduhætti, svo sem áður Jón Þorláksson.



Einna merkastar finnst mér athugasemdir Bjarna 1830 um skáldskaparsmekk, að honum hafi verið spillt af rímnaskáldum svo sem Árna Böðvarssyni, og af skáldskap Magnúsar Stephensen (Bréf I, bls. 157 og II, 129-130). Og þar kemur uppgjör við Upplýs­ingar­stefnuna:





Jú! Víst voru Sr. J. Þorláksson, Gröndal og S. Pétursson sannarleg skáld, hvör upp á sína vísu, og um tvo þá síðarnefndu var það því aðdáan­legra, sem þeir voru scientifice uppaldir í þeim danska vandperiode, en S.P. var Wesselianer – en ágætur, og Gröndal gamalíslenskur og bretlenskur í aðra (poetisku) ættina […vissulega] yfirgangi hver um sig af þeim þremur Eggert Ols í lipurleika en í andagift mun hann jafnsterkari nema í níðkveðskap yfirgekk .sr. J. Þorl. alla. [en] meira er varið í liðugleikann en margur hyggur. […] Okkar tíma Árni Böðvs. (Breiðfjörð) hefði getað orðið mikið skáld – en til að verða liðugur verður hann lágur og ómerkilegur. Nei! Það varð S. Pets. aldrei!





Enn segir Bjarni um Benedikt Gröndal (eldra) “að hann hafi verið fyrsti endurnýjari betri skáldskaparsmekks hér í landi, með útleggingu sinni á Musteri mannorðsins og formálanum fyrir henni. Þetta ruddi veg fyrir útleggingu sr. Jóns Þorlákssonar á Miltons töpuðu paradís” (Bréf I, 166)



Orð Bjarna um bættan skáldskaparsmekk skil ég svo, að hann eigi þar við samhæft, vandað orðaval, því það einkennir einmitt skáldskap hans sjálfs, umfram sum þau skáld sem hann nefndi. Eru þessi orð hans þá á sömu lund og rímnadómur Jónasar Hallgrímssonar fimm arum síðar, sem nú skal að komið. Vissulega eru þessi ummæli Bjarna í einkabréfi, en þeir Jónas þekktust og ræddust við, og þá sjálfsagt um skáldskap. Páll Valsson leiðir rök að því að svo hafi orðið 1837 (bls. 198), þótt beinar heimildir séu ekki um það. Hitt er víst að góður kunningsskapur var með þeim 1839, Jónas talar um góð samtöl þeirra í bréfi og skrifar Bjarna kumpánlega í gamansemi. En auðvitað þarf hann ekki að hafa þessi viðhorf til skáldskapar frá Bjarna, þau voru almennari en svo.



Ritdómur Jónasar um Rímur af Tristan og Indíönu eftir Sigurð Breiðfjörð er svo kunnur, að hér nægir að nefna meginatriði. Jónas átelur í fyrsta lagi hve vitlaus og smekklaus sagan sé, sem ort er af. Í stað þess að takast á við tilfinningar söguhetja, hvernig hatur breytist í ást, sem síðan takist á við skyldu­rækni, þá ráði tilviljun. En skáld sé ábyrgt fyrir efnisvali, og beri að breyta sögu sinni eftir skáldlegum þörfum. Jónas átelur vanrækt gagnvart íslensku, svo sem dönskuslettur og að láta dýra hætti leiða til að raða orðum svo illa að áherslan lendi á rangri samstöfu. En einkum átelur hann hirðuleysi um orðaval, sem leiði til máttlauss orðalags og hrikalegra smekkleysna.



Ekki finn ég annað markvert um óðfræði í ritum Jónasar, nema orð “systur” í Grasaferð um að ekki sé við hæfi að nota fornyrðislag til að þýða erlend kvæði undir öðrum háttum, svo sem alsiða var, og gert höfðu Benedikt Gröndal eldri, Jón Þorláksson, Bjarni Thorarensen, og Jónas sjálfur (Rit I, 292): “þegar snúið er í annan bragarhátt, fær skáldskapurinn oftast nær annan blæ, þótt efnið sé reyndar hið sama”



Í 4. árgangi Fjölnis, 1938 er pistill frá útgefendum hans um viðbrögð Íslendinga við ritinu. Þar er svarað gagnrýni á nýstárlega stafsetningu þess, en einkum þó gagnrýni á ævintýrið Eggert glói eftir Tieck, sem Jónas og Konráð höfðu þýtt og birt í fyrsta árgangi. Páll Valsson rekur (I Íslenskri bókmenntasögu III, bls. 303): “Megingagnrýni Íslendinga var að að hið rómantíska ævintýrir væri til lítils “gagns” og tílgangslaust að bjóða upp á slíkt efni.” En Fjölnismenn svara (í Fjölni IV, bls. 9-14):





Við ætlum ekki, að það sé óbrigðult einkenni góðs skáldskapar, að hann leiði fyrir sjónir “framtakssemi og kænsku”, heldur hitt, að hann samsvari kröfum skáldlegrar fegurðar, og sannleikans og siðseminnar, að því leyti, sem fegurðin í snilldarverkum þarf ætíð að styðjast við það hvort tveggja.[…] skáldin geta tekið sér til yrkisefnis hvort sem þau vilja – hinn sýnilega heiminn eður hinn ósýnilega, hinn ytra eður hinn innra, hinn líkamlega eður hinn andlega. […] af hinu einstaka, sem fyrir sjónir ber, eður hinum almennu lögunum, sem það allt fer eftir. […] má gjöra að yrkisefni hið ósýnilega eðli og leyndardóma náttúrunnar, og að því leyti, sem til mannsins nær, sálu hans og fýsnir hennar og tilhneigingar, og að síðustu andanna heim eður guðlega hluti. […] Þeir sem lesa þessháttar sögu sjá þá tímana í huga sínum, er hún segir frá, og hún verður, þegar litið er til háttsemi þeirra tíma, eins líkleg, og þó sönn væri, þó hún raunar sé einber samsetningur; en ekki er hún lygi að heldur, þegar hún fer so nærri því, sem hún átti að leiða í ljós. Hún er sönn að því leyti, sem skáldskapurinn er sannur, en hann er ætíð fólginn í því, að smíða af hugviti og ímyndunarafli, og í því er hann frábrugðinn sagnafræðinni, er aldrei má herma annað en það, er nóg eru rök til, að í raun og veru hafi við borið. […] en þó er snilldin mest í því, hvað prýðilega hefir tekist, að leiða fyrir sjónir það sem var aðaltilgangur skáldsins: hvað af syndinni getur leitt, stundum eftir langan tíma, hversu tilhneigingarnar fara að koma manninum til að yfirgefa götu sannleikans, ef þeim er leyft að komast upp í huga mannsins.





Ennfremur er hér langt mál um gildi þjóðernisstefnu fyrir hverja þjóð, og þjóðsagna, sem prestar eru hvattir til að safna og koma fyrir í bókasafninu í Reykjavík. Páll Valsson segir (tv.r., bls. 303-4): “Þetta er trúlega einhver fyrsta málsvörn fyrir skáldlegt hugarflug á íslensku og um leið sjálfan grundvöll rómatískrar hugsunar.” – Því hefði mátt við bæta, að hér er að hætti þessa tíma, og lengi síðan, áhersla lögð á siðferðilegt uppeldisgildi skáldskapar, boðskapinn.



Rímnadómur Jónasar bergmálar lið fyrir lið í ritdómi Gísla Thorarensen um Ljóðasmámuni Sigurðar Breiðfjörð, í Fjölni (1843, bls, 62-5; en ekki 1844 eins og Páll Valsson segir í Ævisögu Jónasar, bls.451 ).



Grímur Thomsen skrifar allra þessara manna mest um bókmenntir, allt frá unga aldri, enda var fagurfræði námsgrein hans við Kaupmannahafnar­háskóla[17]. Þar ber first að nefna ritgerð hans um frönsk nútímaljóð (Om den nyfranske poesi) frá 1841. Sjaldnast vitnar hann til neinna heimilda, og mætti ætla að tvítugur pilturinn hefði lesið allt hið merkasta í frönskum bókmenntum undanfarinnar aldar, auk Byrons, Goethe, Heine o.fl. En auðvitað er þetta mikið endursögn úr yfirlitsritum, enda ansi yfirborðslegt margt. Höfuðskáldin Victor Hugo og Lamartine hefur Grímur þó greinilega lesið nokkuð sjálfur. Ekki er samt mikið að græða á umfjöllun um þau, engin greining á þeim textadæmum sem tilfærð eru - á frönsku, án þýðinga, hinsvegar er hver klausa þýdd á dönsku, sem höfð er eftir Byron!



Ritið er annars glögg greinargerð fyrir megin­atriðum rómantíkur. Grímur telur henni m.a. til gildis (bls. 135) að hafa leyst skáldmálið úr of þröngum viðjum klassisismans. Einnig í dönskum bókmenntum hafi orðið miklar framfarir í málfari á skömmum tíma á seinni hluta 18. aldar, frá því sem var á 16. öld og fram á fyrra hluta 18. aldar. Og sú endurnýjun sé sótt til lágstéttarmáls og alþýðlegra bókmennta­greina svosem söngtexta og gamanleikja (“chanson” og “comedie”), í lok miðalda og á 16. öld (bls. 136-7). Rómantíkin hafi fært út skorður þess hvaða orð væru viðeigandi (bls. 142-3). Nú þrútni málfarið af myndum, líkingum og djörfu orðalagi (bls. 143). Grímur segir ennfremur að nú sé munur bundins máls og óbundins einungis rím og reglubundin hrynjandi, og því vilji flestir skrifa skáldsögur. Grímur hrósar ljóðum Ste. Beuve fyrir að þau geri hið hversdags­legasta ljóðrænt, líkt og ljóð Wordsworth gerðu, með því að hjúpa efnið hugmyndaljóma (“tankeglands”) tilfinninga. Andstætt klassíkinni forðist rómantíkerar að setja hugmynd fram beinlínis, framsetning þeirra sé fremur í myndmáli (bls. 139-40), þau segi t.d. “dökkur himinn”, fremur en “þunglyndis­legur himinn”. Málflutningur og afstaða (”alle partiinteresser”) spilli ljóðlist (bls. 151 og 161), sömuleiðis það að halda sig stíft við bragreglur að hætti nýklassíkur (bls. 149). Erlend áhrif telur Grímur til góðs, og segir að Byron sé faðir nýfranskrar ljóðlistar, en of einhliða neikvæður, Frakkar séu að þróast frá því, t.d. Hugo og George Sand (bls. 161).



Þetta rit var prentað tveimur árum síðar, og þá bættist við langur formáli, þar sem helstu heimildir eru taldar upp, og horfið frá ung-æðislegustu fordómum, svo sem að fordæma upplýsingarmenn, vegna trúleysis þeirra. Jafnvel ver Grímur nú frönsku byltinguna (bls. xxxi), enda þótt hann skömmu áður hafi varið einveldi (bls. xxv). Kristján Jóhann bendir á (m.a. bls. 118 o.áfr.) að Grímur hafi þurft að skrifa varlega, enda ríkti hörð ritskoðun í Danmörku og stjörnvöld óttuðust byltingar. Formálinn hefst á greinargerð fyrir hví Grímur hafi ekki bætt ritið fyrir prentun, þar sem hann þó segist orðinn margs vísari. Hann segir ástæðuna tvennskonar, bæði eðlilegt tillit til dómnefndar (bls. iv), að lesendur geti skilið dóm hennar, og í lok formálans þá, að hann vildi geta skoðað þáverandi þroskastig sitt – eins og hann gæti það ekki í handriti! Hitt er líklegra, að honum hafi hrosið hugur við því feiknaverki sem væri að endurvinna allt þetta yfirlit, en rökstuðningur hans er samkvæmt helstu tískustefnu þessa tíma, Hegelisma, t.d. segir Grímur að Heimsandinn hafi falið Frökkum það mikla hlutverk, einkum í ríkisskipan (“Statslivet”), að hefja lausn þeirra vandamála, sem Tíðin nú standi frammi fyrir. Ekki er ljóst hvaða vandamál það eru, né hvernig þau beri að leysa, en Kristján Jóhann tengir þetta því sem Grímur segir (bls. 124) varfærnislega um frönsku byltinguna, að hún hafi hreinsað burt spillingu, og að vísu steypt trú, en sú trú hafi ekki verið hreinsuð af Lúther. Verkefnið var sem sé bylting, ennfremur nefnir Kristján (bls. 113) umfjöllun Gríms um yfirburði Frakka yfir Þjóðverja í raunvísindum og tækni. Hegelismanum fylgir Grímur áfram, t.d. í meistara­prófsritgerð sinni um Byron[18] 1845, sem hann fékk síðar doktorsnafnbót[19] fyrir, 1854. Hér er kyrfilega vitnað í heimildir, og þær eru bornar saman og metnar. Fyrri hluti ritsins er ævisaga Byrons, en seinni hlutinn fjallar um helstu verk hans. Sú umfjöllun er þó bundin við efnisval og afstöðu til mála, lítt er fjallað um efnistök. Helst er að nefna að Grímur leggur áherslu á frelsi rómantíkur, andstætt stirðnuðum formum klassisismans (bls. 211), og að skáld þurfi að lifa sig inn í efnið (bls. 148). Og því átelur hann órómantíska virðingu Byrons fyrir þremur einingum klassískra leikrita, það hafi spillt verki hans The two Toscaris (bls. 181). Þetta rit er svo bundið við efnisval og afstöðu að það stendur í skugga síðari umfjöllunar, t.d. í Höfuðstraumum Georgs Brandes, enda þótt Brandes fari heldur ekki mikið útfyrir efnisval, afstöðu og viðtökur. Enn ríkir hér Hegelisminn, Grímur segir að Byron sé líkamningur tíðarandans, en ekki er það skýrt ítarlega, helst með hughyggju, verk geti ekki tjáð andann fyllilega, af því hljótist þessi endalausa þrá, sem margir telja einkenna rómantík, og af þeirri ófullnægju stafi bölsýni Byrons.



Grímur skrifaði ennfremur greinar um íslenskar bókmenntir í dönsk tímarit, enda stóð til að hann skrifaði íslenska bókmenntasögu. Andrés Björnsson safnaði þessum greinum Gíms, sneri á íslensku og gaf út í bók, en þar vantar því miður fyrstu greinina, um BjarnaThorarensen, hún birtist í Gæa 1845 (en ekki 1844 eins og Páll Valsson sagði, bls. 473) Andrés vísar bara til þess á formála, að hún hafi birst í íslenskri þýðingu í Andvara 1948). Sú grein var merk kynning á Bjarna, Grímur þýðir 4 kvæði hans í greinarlok (Sigrúnarljóð, Nóttin, Freyjukettirnir og Kysstu mig aftur. Hann hefur því ekki allskostar farið að fyrrnefndum tilmælum Bjarna). Ennfremur er greinin merk fyrir lýsingu á hversdagslegum háttum Bjarna og lítillæti sem skáld. Grímur skiptir skáldum í tegundir, og Bjarni er af hinu dula tagi, sem helst leitar til skáldskapar fornaldar. Sú lýsing reyndist eiga vel við Grím sjálfan. En hitt er undarlegra að hann sér Bjarna sem líkamning þjóðareðlisins norræna, gegn straumi tímans (t.d. bls. 197), og þetta segir hann um þann sem innleiddi nýjustu tískustefnuna í íslenskar bókmenntir! Grímur segir ennfremur (í þýð. Sigurjóns Jónssonar, bls. 84):





Hann telst sem skáld til hinna miklu ljóðmæringa, sem eiga sammerkt í því, að þeirra glæsilega hugarflug og tilfinningadýpt ber stundum smekkvísi og vitsmuni ofurliði. Hann er einn þeirra risa í ríki skáldlistarinnar, sem ekki er til neins fyrir smá-smyglislega fagurfræði að setja reglur: þeir höggva af sér öll bönd. Með ofurafli afburða­mannsins gera þeir jafnvel sérhvert reglubrot að fegurð og frumleika, svo að það sem mundi vekja óbeit, ef miðlungsskáld ætti í hlut, ber hjá þeim enn ríkari vott um flug andagiftarinnar og það skeytingarleysi andans um ytra form er leiðir til þess að í algleymi innblástursins gefa þeir sér ekki tóm til að nostra við orðfærið.





Í greininni “Sérkenni íslenskra bókmennta”, 1846, leiðir Grímur rök að því, að viðleitni til að gera “alþjóðlegar” bókmenntir; sammann-legar, geri þær grámóskulegar (bls. 55-6):





Hið þjóðlega er raunar ekki heldur annað en hið sammannlega með þeim aðgreinandi einkennum, sem þjóðlífshreyfingarnar veita því, og í þeim skilningi stendur það jafnvel hugsjóninni nær en hið sammannlega. Þjóðerni er því hlutlægara og að sjálfsögðu fullkomnara og æðra stig en alþjóðahyggja.





Grímur segir enn, að ólíkt t.d. grískum bókmenntum, sé dul og útdráttur eðli norrænna bókmennta (bls. 59 o. áfr.).





Því er það, að kjarkmikil og djúphugsuð ættjarðarkvæði Bjarna Thorarensens, sem búa reyndar yfir þunglyndi, stinga svo í stúf við kveinandi, viðkvæm, sorgþrungin ættjarðarljóð með dálitlu sposku ívafi, sem frumstætt skáldeðli getur leiðst út í við samlestur Ossíanskvæða og sorgljóðaskálda nútímans. (bls. 81)





Þessu er greinilega beint gegn Jónasi Hallgrímssyni, enda segir hann skömmu áður;





Af sjálfu leiðir – vegna stjórnmála- og félagslegrar afturfarar í landinu - að nýrri ljóðlist Íslendinga (svo sem Eggerts Ólafssonar og einkum Jónasar Hallgrímssonar) ber að nokkru leyti nútímasvip vegna skyldleika við hin nýju þjóðfélagslegu raunakvæði, þar sem skáldhjartað hefur orðið að dvelja, jafnvel helst um of, við andstæðurnar milli fortíðar og nútíðar. Nýþýska veiklunin, jafnvel endurómur frá Herwegh og Heine, hefur þannig fundið leið til hins fjarlæga og afskekkta eylands, að vísu aðeins í hverfulum, ljóðrænum geðblæ, en þetta er einungis stundarfyrir-brigði, því að ekki getur ólíkari tjáningu sársauka en taugaslaka ólund nútímans og kröftuga sorg norræns hugar.





Einhverjum kynni að detta í hug, að þarna hafi Grímur launað Jónasi skopstælingu hans á kvæði Gríms, sem einmitt hét “Ólund”. En þessi dómur er í samræmi við meginsjónarmið Gríms.



Ýmsir íslenskir menntamenn, samtíma Grími, létu í ljós andúð í garð hans, þótti hann hrokafullur (m.a. Konráð Gíslason og Gísli Thorarensen, sbr. Sonur gullsmiðsins). Samt get ég ekki ímyndað mér annað en að þeir hafi lesið þessi rit hans, margir hverjir, og þá hafa þau haft mikið gildi fyrir útbreiðslu rómantíkur meðal þeirra, á áratugunum 1840-60, a.m.k. Vissulega gátu þeir lesið sér til um rómantík annars staðar. En ekki hefi ég fundið á dönsku annað rit um frönsk nútímaljóð , t.d. sést ekki að birst hafi rit P.M. Møller, sem bar sigurorð af riti Gríms um franskar nútímabókmenntir í samkeppni við Kaupmannarhafnarhá-skóla. Og ekki finn ég heldur í bókaskrá Dana (Dansk bogfortegnelse 1841-58 og 1859-1868) neitt annað danskt lesmál um Byron, fyrr en kemur að Meginstraumum Brandesar, þremur áratugum síðar. Jørgen Erik Nielsen segir í doktorsriti sínu (bls. 404), að þetta hafi verið fyrsta bók á dönsku um Byron, áður hafi bara birst dreifðar greinar. Í viðtali við mig (15. 4. 2005) sagði hann að svo hefði áfram verið fram að Meginstraumum Brandesar. Hvernig hefðu nú ungir Íslendingar með skáldmetnað getað stillt sig um að lesa rit landa sins um helstu bókmenntir samtímans? Þegar hann nú þar að auki leiddi rök að því að íslensk tunga og bókmenntaarfur væri besti farvegur nútímamanna til skáldskapar? Ætli sveitamenn, nýkomnir til stórborgar hafi ekki orðið fegnir þeirri uppörvun? Andrés Björnson rekur (bls. 14), að Vilhelm Andersen telji rit Gríms hafa haft áhrif á Ibsen og Björnsson,





að sögustíllinn opinberist í alefli tjáningarinnar og sérkenni sögunnar í þeirri kyrrleiksástríðu, sem sýgur í sig heiftina, svo að hún fái knúið driffjöður ákvörðunarinnar.





Mætti merkilegt vera ef Grímur hefði haft þvílík áhrif á höfuðskáld Norðmanna, en ekki á landa sína. Því held ég að þessi rit Gríms hafi borið megineinkenni rómantíkur til manna svo sem Benedikts Gröndal, Steingríms Thorsteinssonar, Matthíasar Jochums-sonar, Gísla Brynjúlfssonar, Jóns Thoroddsen, og allra hinna, sem lögðu stund á skáldskap þá. Þetta er vissulega bara tilgáta, ekki hefi ég rekist á neitt sem beinlínis styður hana né hrekur. Kristján Jóhann virðist ekki gera ráð fyrri slíkum áhrifum í bók sinni um fagurfræðirit Gríms, t.d. segir hann um þá kenningu í Byronsbók Gríms, að skv. rómantískum skilningi skipti innihaldið meira máli en formið (bls.153-4):





Líklega hefði löndum Gríms og samtímamönnum þótt þetta einkennileg hugsun, hefðu þeir einhverntíma heyrt hana eða skilið.





Jørgen Erik Nielsen taldi (bls. 418-19) að Byronsbók Gríms hefði haft takmörkuð áhrif á norrænar bókmenntir, vegna háfleygs og torskilins stíls hennar.



Benedikt Gröndal skrifaði töluvert um rómantík, en mest löngu síðar, um 1890, til að verja hana árásum Verðandimanna. Í bréfum sínum minnist hann stundum á Grím Thomsen, en þá bara til að saka hann um undirróður gegn sér. Enda þótt ég sjái ekki nein bein áhrif rita Gríms á Benedikt, né heldur Bjarna eða Jónasar, þá setur Benedikt fram sömu viðhorf, og er ástæðulaust að endurtaka þau hér. Ítarleg úttekt á viðhorfum Benedikts, m.a. til skáldskapar, er í riti Þóris Óskarssonar, og er hér sumt sótt til þess.



Hann sendi frá sér kverið Kvæði og nokkrar greinar um skáldskap og fagrar listir, 1853. Það fjallar fyrst um myndlist, síðan mjög almennt um skáldskap. Þar má nefna, að hann segir eiginlegan náttúruskáldskap hefjast á 18. öld, einnig átelur hann sem smekkleysi að yrkja af vísindalegum efnum. Eðlismunur sé á vísindum sem leita sannleiks, og skáldskap, sem gefi í skyn og veki grun, frekar en að færa vissu, um hann verði ekki felldur endanlegur dómur. En þó er skáldskapur og list leiðin til heildstæðs skilnings á heiminum, því þar kemur til ímyndunaraflið (Þórir bls. 57-8, 67). Benedikt átelur líka að leggja sig eftir rímþrautum, en vildi þó ekki fordæma rímur sem bókmenntagrein, þær mætti ekki dæma sem lýrískan skáldskap[20]. Ennfremur ræðir Benedikt (bls. 40) notkun fornmáls nú á tímum, og segir að það sé vissulega “fagurt, hljómmikið og tignarlegt”, en sama gildi um nútímamálið, sem auk þess sé liðugra og blíðara, “nýjar hugmyndir þurfa nýtt mál […] það er listin að nota sér réttilega fornmálið og laga það, svo að það megi verða hæfilegur búningur hugmyndanna.” Hann notaði þó sjálfur töluvert fornyrði í kveðskap.



Benedikt leggur áherslu á að höfundur hafi rétt á að fara með efni sitt eftir eigin skáldlegum þörfum, einnig sögulegar persónur (1904, Ritsafn IV, bls. 183-4). Sem andstæðu við realisma notar hann mikið hugtakið “idealismi”, og segir að það sé “að skoða lífið í æðra og tignara ljósi en það daglega líf veitir. En það er þar fyrir ekki ósatt eða rangt, eins og realistarnir segja.” Ekkert skáld taki hugmyndirnar annars staðar frá en lífinu eins og það er. En það megi túlka á ýmsan hátt. Munurinn sé sá, að hin realísku skáld “fást aldrei við annað en hið lægra í lífinu, smásmugulegt baðstofulíf og sveitalíf”. (tv.r., bls. 218). Því hafi Stefán Ólafsson á 17. öld verið mesti realistinn (bls. 239).



Benedikt taldi Nýjársnótt Indriða Einarssonar 1873 (tv.r. III, 306-7) of hversdagslega, þar sem efnið (álfheimar) gaf þó tilefni til “að málið og ímyndunaraflið kæmist á hátt og ljómandi flug, þegar það getur losast við öll jarðnesk bönd og hverdagsleg hlutföll. Hann sagði þó (IV, 234-5), að rómantík gangi stundum í öfgar, t.d. hjá Wagner og Grundtvig. Greinilega hefur hann orðið var við að fleiri þóttu ganga út í öfgar, því hann segir um Kristján Jónsson (1873, III, 294), að á flestum kvæðum hans í Snót sjáist “að hann hefur þekkt “öfgar Gröndals”, og ekki síst á því kvæði, er nefnist Dettifoss, því það er beinlínis eftirhljómur eða bergmál af kvæðinu um halastjörnuna 1858”. Hann ber Kristján saman við Jónas (III, 295), og segir kvæði Jónsar “svo fáguð og svo hrein, að tíminn slær aldrei á þau ryði né móðu; en kvæði Kristjáns eru miklu hrjóstrugri og ójafnari, og jafnaðarlega auðugri að hærri og dýpri hugsunum eða hugsunareldingum, sem leiftra fyrir snöggvast.” Benedikt sagði Bjarna og Jónas oflofaða (Um skáldskap, 1888, bls. 240-42) “Þeirra kvæðabækur eru allt eins fullar af smekkleysum og ómerkilegum kvæðum sem annarra,” Auk þess telur hann afa sinn og nafna fyrirrennara Bjarna, en Sveinbjörn föður sinn fyrirrennara Jónasar, og hafa margir fallist á það.



Meginatriði ítrekar Benedikt í ritdómi 1900 (um Ljóðmæli Guðmundar Guðmundssonar (Ritsafn IV, bls. 173):





Af því hún var misbrúkuð komst svo mikið óorð á hana sem kunnugt er. En “rómantík” er í öllum verulegum skáldskap, því að í öllu lífi er eitthvað dularfullt, eitthvað, sem menn ekki skilja og aldrei fá skilið; en af því tíminn hefur orðið meira og meira verklegur (materialískur), þá hefur allt hneigst að því, og hér um bil allur skáldskapur orðið verklegur og pólitískur, eða með öðrum orðum: lækkað úr hinu eiginlega skáldlega veldi.





Benedikt telur ýmis dæmi rómantíkur aftur í öldum, og það virðist mér rétt athugað meginatriði. Rómantík var ný tíska á öndverðri 19. öld, og aðgreindist skarpt frá undanfarandi nýklassík. En af því leiðir alls ekki, að hún hafi verið nýtt fyrirbæri. Nútímafólk er svo vant stöðugum breytingum í vísindum og tækni, framförum, að það yfirfærir það á listir og bókmenntir. En það er augljóslega missýning, sem einnig stafar af því, að listaverk mótast á yfirborðinu af umhverfi höfundar. Ekki er hægt að tala um stöðugar framfarir í aðferðum skálda. T.d. sé ég ekki, hvernig Paradísarmissir Miltons frá miðri 17. öld ætti að aðgreinast frá rómantík. Hann byggist á goðsögum, hugarflug ræður, þar ríkir upphafið glæst ljóðmál, og svo mætti lengi halda áfram. Enn gildir það sama um Ossían frá miðri 18. öld. Sama verður að segja um Guðdómlegan gleðileik Dantes frá því um 1300, og þannig mætti lengi telja, samskonar markmið og aðferðir. Í Dansk litteraturhistorie (II, 445) segir frá doktorsriti leikskáldsins Heiberg um spænska leikskáldið Calderón á 17. öld, sem Heiberg taldi kjarna rómantískrar leiklistar og ljóðagerðar. Grímur Thomsen rakti líka rómantík aftur í aldir, amk. til Shakespeare (sbr. Kristján Jóhann, bls. 148 o.áfr.), enda gerðu mörg rómantísk skáld það.






2.3. Táknsæisstefnan alþjóðlega



Orðið symbólismi hefur verið þýtt á íslensku sem “táknsæisstefna”. Það er komið úr frönsku ”symbolisme”, og er haft um hóp skálda á lokaskeiði 19. aldar, sem þóttu samstíga í ljóðagerð. Vissulega er erfitt að afmarka þvílíka bók­menntastrauma, skáldin eru hvert með sínum hætti, taka mið af fyrir­renn­­urum sínum og öðrum samtímamönnum, breytast. En um þessi skáld hefur verið haft á orði að „hnignun“ eða „úrkynjun“ setji svip sinn á bók­menntir á síðustu ára­tugum 19. aldar, og hafi sá straumur borist frá Frakklandi víða um lönd. Þessi orð virðast upphaflega merkja andóf skálda og listamanna gegn skefjalausri auðhyggju sigurveg­aranna sem börðu niður kommúnuna í París 1871 í miklu blóðbaði. Þegar ung skáld svo sem Rimbaud risu gegn þessum sigurvegurum, snerust þau einnig gegn þeim bókmenntum sem drottn­uðu, hvort sem það var rökleg fram­setning natúralismans eða há­fleyg­ar hugsjónir rómantíkur, hvort tveggja þótti jafnfalskt í munni þeirra sem drottnuðu af fullkomnu tillitsleysi til þeirra sem miður máttu sín. Almennt dáðu þessi ungu skáld ljóðskáldið Charles Baudelaire, sem fór að birta ljóð sín upp úr 1850, ekki síst fyrir að sýna ranghverfu rómantíkur. Og menn vitnuðu til fleiri skálda um miðja 19. öld, Nerval, m.a. En innan þessa and­ófs­hóps var vitaskuld rúm fyrir margskonar sjónarmið og viðleitni. Klíkur skálda og menntamanna áttu meira eða minna sameigin­legt, en kepptu jafnframt um athygli og bannfærðu hver aðra, það er sígild saga. Í þessari hringiðu er örðugt að aðgreina þann straum sem hér er við fengist, en nokkuð almennt samkomulag er þó um helstu skáld af þessu tagi, en þau fóru að birta þvílík ljóð undir 1870 eða skömmu síðar. Þar eru einkum til nefndir Paul Verlaine (1844-96), Stephane Mallarmé (1842-98) og Arthur Rimbaud (1854-91). Bókmennta­fræð­ing­ur­inn René Wellek rekur m.a. (í inngangi safnritsins The Symbolist Movement, bls. 18-19) að orðið „symbolistes“ var þó fyrst haft um skálda­hóp árið 1885 (nánar tiltekið 11. ágúst!). Það gerði einn úr hópin­um, Jean Moréas, til að mót­mæla því að þeir Mallarmé, Verlaine o.fl. væru flokkaðir með „hnign­un­ar­skáldum“ (décadents). „Hnignunar­skáld“ leit­uðu í list sinni hreinna hugtaka og eilífra tákna, sagði Moréas, og birti stefnuskrá symbólism­ans ári síðar (18. 9. 1886). Hún þykir skýr­mæltust um það hvað táknsæisstefna sé ekki, hún forðist hlutlægar lýsingar, kennslu, falska tilfinningasemi og hátíðlega hrynj­andi. Í þessu felst um­fram allt andóf gegn raun­sæisstefnunni („natúr­alism­an­um“) sem þá réð einkum í skáldsögum, en keppikefli hennar var „sannar“ lýs­ing­ar á um­hverfinu, hinum ytri veru­leika, eða a.m.k. sann­fær­andi lýs­ing­ar. En symbólistar risu einnig gegn hag­nýt­um skáld­skap (þ.e. með boðskap) og gegn veru­leika­firrtri rómantík.



Um hugmyndalegar forsendur stefnunnar eða heimspekigrundvöll vísa menn oft til Friedrich Nietzsche, einkum einstaklingshyggju hans, sem verði stundum skefjalaus, ofurmennisdýrkun. En víða er því haldið fram, að kenningar Schopenhauers birti hugarfar stefn­unnar vel; bæði um það atriði, að hugmyndir fólks ráði miklu um skynjun þess á heiminum, sem sé þá ekki bara hlutlægt fyrirbæri („Heimurinn sem vilji og hug­mynd“ hét eitt verka hans, sbr. Théma, Arts et culture, bls. 96), og einnig fundu menn í rit­um hans kerfun á bölsýni, sem mjög hafi gætt m.a. í Danaveldi í efna­hags­kreppu 9. áratugs 19. aldar og undir einræðisstjórn Estrups fram um aldamót (Sjöberg&Jensen, bls. 587). Síst mun útlitið hafa verið bjartara á Íslandi á harðindaárum og útflutnings til ameríku á 9. áratug 19. aldar.



Rekja má þetta nánar eftir ung­verska bókmennta­fræðingnum Arnold Hauser. En hann sagði m.a. (bls. 969-70), að táknsæisstefnan hafi verið loka­stig þró­unar sem hófst með rómantík, þ.e. að uppgötva að lík­ing væri upp­spretta ljóða­gerðar. Táknsæisstefnan hafi samt risið gegn rómantík, vegna tilfinn­inga­semi hennar og hefðbundins mynd­máls, en gegn efnis­hyggju sem birtist í impressjón­isma, form­al­isma og skyn­sem­is­hyggju Parnass-skáld­anna frönsku. Með táknsæisstefnu verði til “hrein” ljóðlist (“poésie pure”) af nýju tagi. Hún rísi af órök­ræn­um anda tungu­­málsins, sem tengi hlutlægt og sér­tækt, sem og hin ýmsu skynsvið. Mallarmé taldi ljóð­list vera það að gefa í skyn hverf­ul­ar myndir. Það að nefna hlut spillti að mestu ánægjunni sem feng­ist af því að komast smám saman að raun­verulegu eðli hans. En tákn feli ekki aðeins í sér að forðast það að nefna hluti beinlínis, heldur tjái það óbeint, sem ekki sé hægt að lýsa bein­línis, sem sé í eðli sínu óskil­grein­an­legt og ótæmandi[21]. Hauser segir ennfremur að hóp­ur táknsæis­skálda umhverfis Mallarmé hafi gert sér glögga grein fyrir muninum á tákni (symbol) og táknsögu (allegoríu). Hin síðarnefnda sé umritun sér­tækrar hug­mynd­ar í hlutlæga mynd. Þessi umritun sé einföld og á vissan hátt óþörf, eins­konar auðráðin gáta. Hinsvegar sé ekki hægt að ráða táknið, held­ur aðeins hægt að túlka það. Hugmynd tákn­sög­unnar mætti allt eins tjá í öðru formi, en táknið sameini hugmynd og mynd órjúf­an­lega, þann­ig að sé myndinni breytt, þá breytist einnig hug­myndin. Hinsvegar sé unnt að túlka tákn­ið á marga vegu, og það sé einmitt megineinkenni þess. Þannig komi það hug­myndum á hreyfingu, þar sem hinsvegar tákn­saga takmarki hug­mynda­tengsl. Einkenni nýju stefn­unn­ar sé vita­skuld ekki bara það að nota tákn, því það sé jafngamalt skáldskap - jafnvel þau tákn sem sköpuð eru í tilteknu skáld­verki. „Tákn“ þessarar stefnu séu einskonar hálfar lík­ing­ar, þ.e. lýsing á tilteknu fyrirbæri, sem vísar jafnframt til einhvers annars, sem birtist hinsvegar ekki í ljóð­inu, og er ekki ákvarðanlegt fyrirbæri, heldur á ein­hvern hátt óhöndl­an­legt; hjá sumum táknsæisskáldum sé það yfir­nátt­úru­legt, jafnvel dulrænt (Wellek, bls. 27). En þetta var líka orða­lag Goethes[22], þegar hann gerði þann greinarmun á tákni og tákn­sögu, sem menn fylgdu síðan, skv. Wellek (What is symbolism, bls. 19):





Það er sannlega táknrænt þegar sérstakt er fulltrúi almenns, ekki sem draumur eða skuggi, heldur sem lifandi, stundleg opinberun óræðs.





Athyglisvert er að þar sem ljóð­mæl­andi hafði talað í fyrstu persónu í bók­mennt­um rómantíkur, þá kom nú hans í stað ópersónu­leg, óbein lýsing[23], skv. ung­verska bók­mennta­fræð­ingnum Vajda (bls. 37). Hann taldi upp (bls. 38-9) helstu einkenni tákn­særr­ar ljóða­gerð­ar; að hún bæri keim af tónlist, væri miklu myndrænni en áður hafði sést í evrópskri ljóðlist, og hefði breitt út fríljóð og prósa­ljóð. Fyrsttalda atriðið var vegna þeirrar gömlu rómantísku hugmyndar, segir Vajda, að tónlistin væri æðst lista, enda væri list þeim mun háleitari sem hún væri óháðari hlut­veru­leik­anum [hvernig sem fólk svo hefur getað ímyndað sér það um tónlist!]. En sam­þætt áttu þessi atriði að skapa eins­kon­ar heildrænt lista­verk („Gesamt­kunstwerk“) - að hætti Wagners, að svo miklu leyti sem unnt var í ljóði, en hann var mikið átrúnargoð blæleitinna skálda, ekki síst í Frakklandi.



Í Þjóðfélagslegri sögu bókmennta og lista gerir Arnold Hauser þessa samantekt um skáldskap í lok 19. aldar (bls. 969-70):





Impressjónisminn verður í lok 19. aldar ríkjandi stíll um alla Evrópu. Héð­anaf verður hvarvetna fyrir skáldskapur hug­blæs, næmni á andblæ líðandi stundar, og það hvernig kvöldar og haust­ar. Menn nostra við ljóð um hverfular skynjanir, á mörk­um hins grein­anlega, óljósar skynjanir og óskil­grein­anlegar, við fíngerða liti og dauf­ar raddir. Helsta viðfangs­efni skáld­skapar verður hið óljósa, [...] breyti­lega. En þar er ekki um hlut­veruleikann að ræða, held­ur er skáldið hugfangið af eigin næmni. Þessi efnislausa blæ­leitna list ríkir þar með í öllum greinum bók­mennta, allar verða þær ljóð­ræn­ar, mynd og hljómur, tónn og blæ­brigði. Í stað sögu­þráðar koma að­stæð­ur, í stað atburðarásar kemur ljóð­ræn svið­setning, í stað persónu­sköpunar kem­ur lýsing sálrænna til­hneig­inga og ástands. Allt verður tíma­bundið, jaðar tilveru sem er án miðju.[24]





Efnislega samhljóða lýsing á bókmenntum í lok 19. aldar sést mjög víða.



Um útbreiðslu stefnunnar skiptu miklu máli vikulegar samkomur heima hjá Mallarmé frá því um miðjan 9. áratug aldarinnar, en hann naut mikillar virðingar skálda (Austin, bls. 59). En um miðjan síðasta áratug ald­arinnar þótti mörgum þessi ljóðagerð hafa gengið sér til húðar (Décaudin, bls. 119 o. áfr.), enda var hún þá löngu orðin tíska, sem fjöldi skálda stundaði, af mismiklum hæfileikum (Jouanny, bls.72). Önnur bylgja hennar reis þó skömmu síðar í Frakk­landi, en þaðan breiddist þessi straum­ur skjótt út um Evrópu. Það veldur stundum ruglingi að sums­staðar fékk hann þá önnur nöfn, t.d “Neuromantik” eða “Moderne” í Þýska­landi, og telur Wellek (bls. 25) að það hafi verið að undir­lagi skálds­ins Stefan George, til að forð­ast samsömun við frönsku hreyf­ing­una. Norðurlanda­menn taka svo sumir upp heitið „nyromantik“ eftir Þjóð­verjum, en á Ítalíu var þetta oftar kallað „ermetismo“ en „simbolismo“; en af spænsku­mæl­andi þjóðum hins­vegar „modernismo“. En það merkir alls ekki mód­ern­ism­a í nútíma­merk­ingu, hann spratt aftur á móti upp úr þessum straumi, jafnvel innan verks ein­stakra skálda. Rimbaud, Mallarmé o.fl. byrjuðu sem táknsæis­skáld, en síðan þróaðist ljóða­gerð þeirra yfir í módernisma. Sama gildir síðar á Íslandi, í smærri stíl, um t.d. Jóhann Sigurjónsson. Það má vera aug­ljóst, að stefnt er frá röklegri framsetningu þegar skáld leggja áherslu á að texti þeirra gefi við­fangs­efnið í skyn, frekar en að segja eitthvað beinlínis, og að hljómur, hrynj­andi og myndmál sé ekki skraut textans, heldur eðlisþættir hans, ekki síður en hugmyndir, þá er hann orðinn eðlisólíkur prósatextum sem fjalla um málefni og taka afstöðu. Margir töluðu um að textar táknsæismanna væru óskiljanlegir, en módern­isminn er þó sýnu rót­tæk­ari með því að tefla saman and­stæð­um, svo að stundum er girt fyrir röklegan skilning (sbr. rit mitt 1992, bls. 51 o.áfr.).



Á Norðurlöndum gætir táknsæisstefnunnar þegar á áratugnum fyrir 1890, og er þar fyrst nefnt til tímaritið Ny jord í Danmörku, 1888-89. Þar skrifaði gagnrýnandinn Valdemar Vedel að raun­sæis­stefn­an væri úrelt. Í staðinn skyldu nú koma bókmenntir sem örvuðu ímyndunaraflið með orð­list sem gæfi í skyn hugarástand, birti innra líf. Í þessu tímariti birtust og verk þess skáldahóps sem bar fram hina nýju stefnu í Dan­mörku; Sophus Claussen, Johannes Jørgensen og Viggo Stuckenberg (Sjöberg &Jensen, bls. 587-8). Þeir stofn­uðu tímaritið Taarnet, sem kom út tvö ár, 1893-4.



Iðulega er talað um að sam­stilla hljóm, hrynjandi, mynd­mál og annað í ljóð­um til að birta “æðri veru­leika”. En ekki voru tákn­sæis­menn á eitt sáttir um hvers eðlis hann væri. I Taarnet birti Johannes Jørgensen grein­ina Symbolisme í upp­hafi annars heftis (nóvember 1893), og segir m.a., að fagurfræði tákn­sæisstefnunnar bygg­ist á trúnni á annað líf. Á bak við ásýnd hlut­anna sjái lista­mað­urinn eilífðina sem sál hans reis af, og lista­verk­in reyni að grípa þau augna­blik þegar eilífðin skíni í gegn­um hverful fyr­ir­bæri einsog hvítt ljós í gegnum marg­vís­lega litt gler í glugga[25].



Þessi orð voru borin undir ljóðskáldið Sophus Claussen, félaga Jørgensens, m.a. um útgáfu tímaritsins. En hann setti gegn þessu þá skáld­hug­sjón að ljóðlistin sjálf væri skáldinu trúarbrögð, en ekki, einsog fyrir raun­sæ­is­menn, tæki til að útbreiða skoðanir, hollar sam­fé­lag­inu, tóm skurn sem í mætti láta svolítið af kristindómi, eða stund­um svo­lítið guð­leysi. Hlutverk skálds væri ekki að líkja eftir þeim hlutum sem hver og einn gæti séð og heyrt, endursegja þá. Þvert á móti þurfi að tengja þá, dýpka merk­ingu þeirra, á þann hátt, að lesendum komi sam­heng­ið á óvart, rétt einsog það kom skáld­inu á óvart. Skáld­ið boði myrkt og undarlegt samhengi skynjanlegra fyr­ir­bæra. Á bak við þau geti skáldið sér til um ósýni­lega veröld. Þetta sé eins­kon­ar æðri stærð­fræði, háleit­ir og flóknir útreikningar hennar séu skáld­inu það draum­blóm, sá lótus, sem færi gleymsku á áhyggjur þessa heims[26].



Ég hefi þessa frásögn í stórum dráttum eftir danska bókmennta­fræð­ing­num Bo Hakon Jørgensen (bls. 46-7), en honum virðist munur þessara tveggja túlk­ana afgerandi. Svo þarf ekki að vera að minni hyggju, þótt stundum yrði, m.a. í þessu tilviki. Það fer eftir því hvernig trúaða skáldið yrkir. Leiti það að “kraft­birt­ingarformi guð­dóms­ins” í skynj­an­leg­um hlut­um, þá fer því líkt og hinum trúlausa skáldbróður, sem álít­ur sig skapa þetta sam­hengi -þó e.t.v. skapi hann það þá úr dul­vit­und sem er sameiginleg hans umhverfi. En sé trú­maðurinn fyrst og fremst “rétt­trú­aður”, fylgismaður kenn­inga kirkj­unn­ar, þá er hætt við að hann fylgi hefð, einn­ig í skáld­leg­um myndum sínum. Og sú varð víst raun­­in á um Johannes Jørgensen, sem eftir þetta sneri sér nær alfarið að því að end­ur­segja helgi­sögur, svo sem Bo Hakon Jørgen­sen bendir á[27]. En Johannes Jørgensen mót­mælti þó þeirri túlkun á symbólisma að hann væri það að setja lífs­visku fram í mynd­formi. Slík skoðun væri að rugla saman tákni og tákn­sögu (symbol og allegori). Symból­isminn væri að grípa kjarna hlut­anna, draga innri línu fyrirbær­anna, en ekki hina ytri, til­viljanakenndu[28].






2. 4. Hugmyndir Íslendinga um blæstefnu.



Um bókmenntaviðhorf táknsæis­manna á Íslandi verða fyrst fyrir tvær greinar í Eimreiðinni, 1895 og 1898[29]. Fyrri greinin er eftir Vil­hjálm Jónsson (Yngstu skáld Dana, bls. 140), hún er aðeins ein blaðsíða. Þar segir m.a.:





Þessi ungu skáld, sem vóru áður ákafir Brandesliðar, gáfu sanna og nátt­úr­lega mynd af mannlífinu, skýra og nákvæma, og ortu hisp­urs­laust og dularlaust um ást og æsku, sorg og gleði. En á síðustu árum hafa þeir orðið fyrir áhrifum frakkneskra skálda og hafið nýja stefnu, er þeir nefna “symbolisme”, stefnu sem lýsir sér í óljósum táknunum alls þess, er fyrir auga, eyra eða huga ber í því vetfangi sem það er séð, heyrt eða hugsað; skáldið segir oss aðeins það, sem í fljótu bragði og einstakt ber fyrir augu hans, eyru og sál, - hitt verð­ur hver að segja sér sjálfur, eða maður verður með öðrum orð­um að skilja hálfkveðna vísu; sá sem les, verður að skálda sjálfur eða ráða í hið dularfulla mál. Þessi skáld eru mið­ald­ar­leg í anda, og yfir skáld­skap þeirra margra er ein­hver drunga- eða draugablær. Þeir verða oft dreym­andi og óljósir sem Heine; mál þeirra hefur oft á sér biblíu­blæ; það er íburðarmikið og fullt af sam­líkingum og lýsing­arorðum, frumlegum í því sambandi, sem þeir brúka þau, t.d. er þeir lýsa litum og litbrigðum. Þeir tala um “hvít bros”, um “andlit hvít sem tunglskin í maí eða sem ísblómum héluð rúða”, um kinnar kafrjóðar sem kveldroði”, um hina “hvítu þrá” [...] Þeir hirða minna um rím en efni og yrkja oft í prósa. [...] Sem dæmi skáldskapar þessa set ég hér þýðing tveggja kvæða í prósa.





Vilhjálmi láðist að upplýsa um höfund prósaljóðanna, og hefi ég ekki getað fundið hann. Seinni grein­in er þýdd, eftir Henrik Ussing, Nútíð­ar­bók­mennt­ir Dana. Þetta er langt yfirlit um danskar bók­menntir á 19. öld, og í lokin kemur hann að tákn­sæisstefnunni (bls. 221):





Það voru nokkrir ungir menn, sem voru orðnir leiðir á þessu eilífa stagli um áþreifanlega hversdagshluti; það hafði nú ekki geng­ið á öðru í samfleytt tuttugu ár. Þeir vildu ekki leggja sig niður við að lýsa um­heim­inum með öllum óhrjáleika hans og rudda­skap; það töldu þeir álíka list og að taka ljósmyndir; til­finn­ingalíf og hug­myndaheim manns­sálarinnar kváðu þeir vera hið eina, sem gildi hefði fyrir oss menn­ina; en umheim­urinn hefði það ekki nema að svo miklu leyti sem sál­ar­líf vort sætir áhrif­um frá honum, og megi það standa oss hér um bil á sama, hvort honum sé svo eða svo varið; hann sé aðeins ílíki (Symbol) skaps vor og tilfinninga; af því hefur stefna þeirra fengið nafnið “ílíkisstefna” (Symbolisme).





Það hefur mátt hafa veruleg áhrif á upprennandi íslensk skáld að fá þessa kynningu í fyrsta árgangi eins helsta menningartímarits lands­ins, ekki síst þegar henni var svo fljótt fylgt eftir. Mörg skáldanna sem hér er um fjall­að, voru þá á milli tektar og tvítugs. En á milli þessara greina (í árslok 1896) birtist í Dagsbrún grein Einars Bene­dikts­sonar; Stjörnu­dýrð. Þar gerir Einar upp reikn­ing­ana við und­an­far­andi bók­mennta­strauma, róm­antík og raun­sæ­is­stefnu, og boð­ar nýja stefnu. Skáld hennar vilji “ekki sleppa hin­um jarð­neska grundvelli al­ger­lega undan fótum sér”, and­stætt róm­ant­ík­inni. En gagn­stætt því skálda­kyni “sem ávallt greip niður fyrir sig eft­ir sann­leik­an­um”, beindi augun­um “nið­ur í duft­ið” vilja skáld “hins allra nýjasta skóla” horfa “inn í loft­sæinn, sem breiðir sig ómæl­anlegur og óskiljan­legur milli eilífð­ar­innar og þeirrar mold­ar, sem vér stönd­um á” (bls.489). Milliliður þessa tvenns er “sálin í nátt­úr­unni”. “Einingin felur í sér ótal líf”, og öll þau líf tengjast “fast í heild með seg­ul­böndum þess afls, sem eyðir og skapar.” Inn­an þess fjölda eru þá bæði dauðleg fyr­ir­bæri og eilíf. Mörk þessa tvenns eru óljós, og e.t.v. eng­in til. Þó eru fyrir­bærin mis­göf­ug, og þess vegna “lít­ur hin yngsta skálda­kynslóð upp, þangað sem and­anum einum er fært að kom­ast” (bls. 490).



Þessi stefnuyfirlýsing er ekki svo skýr að hún verði fremur talin til þess sem hér að framan var haft eftir Jørgensen um himneska táknsæis­stefnu, en þess sem Claussen sagði um jarðneska. En yfirlýsingin tengist eðli­lega kvæði Einars Til Huldu (það birt­ist fyrst í blaðinu Ingólfi (3/4. 1904), og þá undir dul­nefninu Ármann), en í kvæðasafni Einars, Hrannir, níu árum síðar. Hulda er þar ávörpuð í lok­in, sem “fyrsti gróður vors nýj­asta skóla”. Steingrímur J. Þor­steins­son seg­ir í Æviágripi Ein­ars um þetta kvæði (bls. 617-18):





Þetta er stefnuskrárkvæði. Ef í huga eru hafðar skáld­skap­ar­kenningar þær, sem Einar boðaði um það leyti, er hann gaf út fyrstu ljóðabók sína, verð­ur ljóst, að skoðanir hans á þeim efn­um stefna hér lengra í sömu átt og þar var mörk­uð. Skáld­skap­urinn á að vera örv­andi, göfg­andi, lyft­andi, flytja fagn­að­ar­boð­skap hinnar sönnu lífgleði og lífs­trú­ar í krafti þeirr­ar andlegu reynslu, sem skáld­ið öðlast á úrslitastundum æv­inn­ar, er sjón þess lýkst upp “eina sorg­arnótt” fyrir sjálfu lífs­gild­inu og eilífð­ar­eðlinu og það fer “að elska höf­und” síns “hjarta”. Skáldið á þann­ig að stefna inn á við og upp á við, snúa sér “inn - að þeim æðra heimi” og “hækka “ sitt “mark -yfir sólina bjarta”. Og form­ið á að vera í senn prjállaust og knappt - hugsana­auður hnepptur í traustar viðj­ar list­ar­innar [...]



Einari finnst sem hér spretti nú “fyrsti gróður vors nýjasta skóla.” En sjálf­ur var hann þar sáð­mað­urinn, upp­hafs­maðurinn - ármaðurinn.





Í kvæðinu er nánar skýrð þessi jákvæða stefna, að leita samhljóms og setja sér fjar­læg, háleit markmið, að beina sjónum “inn - að þeim æðra heimi”, þ.e. að draum­ar muni skerpa sjón skáldsins. Það merkir þó ekki að tapa megi sjónum af hlut­veru­leik­an­um: “Þig hryll­ir við fegurð sem hjúp­ar hvað spillt er/ þú hatar þann kraft, sem vinnur hvað illt er”. - Raunar sýnist mér tilhæfulaus sú túlkun Steingríms að Einar segi að skáldskapurinn eigi að vera jákvæður, bjartsýnn. Miklu nær­tækara er að sjá orð hans sem boð­skap um að yfirstíga svartsýni “hlut­heimskunnar” - þ.e. natúralismans - og leita sál­arinnar í nátt­úr­unni, svo sem sagði í grein hans 1896.



Hulda er einnig gagnrýnd, fyrir að “enn nái skeyt­in of skammt og lágt”, hún þurfi að yrkja “með fleiri hugsun­um, færri orðum”. Enn­frem­ur er henni spáð að hún verði ekki langlíf sem skáld, held­ur muni hún ná það hæst, að verða hlekkur í keðju. Hún, þessi frumgróður, á að visna og einungis fræin skila sér til fram­tíð­ar­innar:





Þá festist þitt útsáð í akursins skaut



...



Þá lifirðu’ í framtíð - með fölnað skraut



fyrsti gróður vors nýjasta skóla.





Það er í hálfgerðri mótsögn við ávarp loka­línunnar að er­indið hefst á hvatn­ingunni: “Kom fljótt, kom fljótt yfir brúna sem bygg­ir/ þér braut til marksins...” - Af þessum orð­um mætti ætla að Einar væri sjálfur fyr­ir á þeim ákvörðunarstað, enda virðist mér það af eftir­far­andi athugun. Stein­grím­ur reynir að leysa þessa mótsögn, eins og sást í lok klausunnar sem höfð var eftir honum, með því að Einar sé braut­ryðj­andi Huldu, og munu fæstir verða til að efa það.



Hér er Huldu fyrst hrós­að fyrir eðlilegt mál, þar forðist hún “hið skrúf­aða prjál” og upp­gerð­ar bölsýni “af að vera til”. Hvaða skáld er Einar hér að gagn­rýna fyrir “heims­hryggð­ar­skáld­skap”? Þau sem frægust urðu fyrir slíkt, Stefán frá Hvíta­dal (f.1889) og önnur skáld sem Þórbergur Þórð­ar­son segir frá í sögu sinni Íslenskum aðli (frá 1938) komu til síðar, sú saga gerist árið 1912, Sveinn Framtíðarskáld (f.1892) o.fl. voru ekki komin fram á sjón­ar­svið­ið vorið 1904 Lýsingin gæti átt við Kristján fjalla­skáld, væri hann ekki alltof löngu liðinn (1869). Einnig gæti hún átt við ljóð Gísla Brynjúlfssonar, en hann dó 1888, og Einar hrósaði skáld­skap hans í grein árið 1897. Lík­leg­ust finnst mér skýring Guðjóns Frið­rikssonar í Einar Benediktsson (I, bls. 289): „Þar á hann líklega við Jóhann Gunnar Sigurðsson og fleiri bölsýnisskáld sem yrkja í nýróm­ant­ísk­um anda, en hafa þegið svartsýnina frá raunsæisstefnunni.“ Að vísu mun fátt hafa birst af slíkum kvæðum Jóhanns Gunnars á þessum tíma, en óprent­uð kvæði virðast hafa farið töluvert á milli áhugafólks. Og auðvitað gæti Einar sem best haft í huga erlend skáld þessa skóla, þau voru mörg mörkuð bölsýni, eins og komið verður að síðar (í kafla 6.13, um Jóhann Sigurjónsson).



Þetta kvæði Einars er fyrst og fremst mál­flutningur, einsog svo algengt var um kvæði á þess­um tíma. Sem skáld­skapur er það í lakasta lagi af ljóðum Einars. Það er óvenju­legt hjá honum að viðhafa svo óvand­að­ar lík­ingar sem að vegir leiði mannveru til ljóss­ins áttar (1. er.) og tala um “gróður skóla”, þ.e. að blanda saman ólíkum lík­ing­um. Von er að Einar birti þetta undir dul­nefni, og gengist ekki við því í ljóðabók fyrr en löngu síðar (Hrannir, 1913).



Hvað varðar afstöðu til “raunsæisskálda” verður hér að minna á harðar árásir Einars á Jón Trausta og Gunnar Gunnarsson. Hann talar (í Þjóð­stefnu 30/11 1916) um “hlægilega uppskrúfaðar, óeðlilegar og ósann­ar lýs­ing­ar Gunn­ars Gunnarssonar” og sagði síðar (1922, bls. 118-19) að Gunnar segi aðeins frá, samlíkingar finnist varla, né neitt annað, sem venjulega sé hæst metið hjá höfundum skáldsagna. Og í ádeilu á Jón Trausta (25. 5. 1916, LM bls. 316) ber Einar enn fram “það grund­vallar­boð sagnagerðar um það, sem ætlast er til að álitið verði satt, að það sé þá fyrst og fremst mögulegt.” Sama meg­in­sjónarmið kemur fram hjá t.d. Sig­urjóni Friðjónssyni í ritdómi 1908 um Heiðarbýli Jóns Trausta[30]. Þetta viðhorf er oftast kennt við raunsæisstefnu, en er þó miklu eldra sem “grund­vall­ar­boð sagnagerðar”. En þetta tengist því sem Einar sagði um Gest Pálsson og félaga hans (7.11.1896, LM, bls. 275-6):





Það var vanræktin við tungu, þjóðerni og lífskjör íslensku þjóð­ar­innar, sem kippti allri orku og dáð úr samvinnu þessa skálda­flokks. [...] Allar listir, þar með einnig skáldskapurinn, eiga sér hlut­verk í menningar­starfi þjóðarinnar, og enginn getur því haft þýð­ingarmikil áhrif á skáld­menntir þjóðar sinnar nema því aðeins, að hann stundi og kynni sér líf hennar með alúð og kær­leika. Öll mikil skáld í heim­inum hafa jafn­an snortist af póli­tísk­um hreyf­ing­um, er vörðuðu þjóðfélag þeirra [...] Gestur [...] tek­ur lausatökum á öllum þjóð­ar­ein­kennum Íslend­inga, þegar hann dregur upp myndir af lund­ar­lagi og líferni þeirra, sem sög­ur hans eru gerðar af. Það eru almennar hversdagsádrepur og vand­lætingar gegn brestum þessa heims barna, sem hann stráir svo víða út í skáldritum sínum.





Enda þótt þetta sé skrifað um sögur, er augljóst að það á ekki síður við um ljóð. Í samræmi við þessa áherslu á þjóðleg sérkenni boðaði Einar að byggja íslenskan skáldskap á rímnahefð, og gerði það sjálfur 1910 í Ólafs rímu Græn­lend­ings. Og í formála Hranna, 1913, segir hann:





í þjóð­sögn­um og ævintýrum kemur hér og fram svo mikill kraftur og fegurð, að þar virðist ótæmandi auðæfanáma fyrir fram­tíma­skáldin, sem vilja styðja sig við frumleik þjóðarandans sjálfs.” (LM, bls. 310-11).





Þetta gerði Einar tveimur áratugum fyrr, í kvæðinu Hvarf sr. Odds frá Miklabæ, 1891. Sama sjónarmið kom fram hjá Sigurði Sigurðssyni í lok ársins 1916[31], og Jónas Guðlaugsson sagði (28.9.1905) að einn höfuð­kost­ur Þyrna Þor­steins Erl­ings­sonar væri “hinn þjóðlegi blær kvæðanna að efni og búningi[32]. Honum var sjálfum ráðlagt “að leita sér að yrkisefni í þjóð­sagna­skáld­skapn­um[33].” Sama meginsjónarmið kom einnig fram hjá Sigurjóni Friðjónssyni[34], en skondið er, að það birtist sem gagnrýni á ljóð Einars Benediktssonar:





Einkennilegt er það, að svo vel, sem E.B. lætur að lýsa mönn­um, þá er það þó sjaldgæft að hann lýsi íslensku fólki. Og yfirleitt nýtur drátt­list­ar­gáfa hans sín miður þegar hann fer með íslenskt efni [...] Hin almenna samúðartilfinning hans er lítið þroskuð. Alþýða manna er hon­um fjarlæg; og það er ef til vill aðalorsökin til þess hve kvæði hans eru mörg þunglamaleg; þau vantar það líf, þá til­finningu og þann yl, sem samúðin veitir. Það má kveða svo að orði, að E.B. þekki ekki nema einn veg að mannlegu hjarta: ástina milli manns og konu. En gegnum hana er stundum sem hann sjái inn í nýjar veraldir.





Um Matthías Jochumsson sagði aftur á móti Einar m.a. (16.7. 1896, LM, bls. 252, - og það er í stíl við það sem hér að framan var haft eftir Goethe):





Hann er víðsýnn andi og horfir gegnum holt og hæðir, þar sem aðrir líta skammt á veg. En hann sér sjaldnast það smáa, sem bindur lið við lið í lífi mannanna og náttúrunnar. Þegar hann er að lýsa ein­hverju, sökn­um vér þessara smámuna, sem lýsa heild­inni oft svo vel og láta oss finna hitt, sem ekki þarf að nefna.





Sama gagnrýni á of almennar lýsingar í ljóðum kom fram hjá Sig­urði Sigurðssyni - á Jón Trausta 1905 og á Stefán frá Hvítadal 1919[35].



Kunnasta skáldskaparkenning Sigurjóns Friðjónssonar, aðgrein­ing ómræns skáld­skapar og myndræns, kemur fram þegar á árinu 1907 (í fyrr­greind­um rit­dómi hans um Hafblik):





E.B. hefur ekki jafnnæman smekk á þá hlið skáldskaparins, sem að tón­list­inni veit, eins og auga hans er glöggt á myndir.[...] Hættir­nir eru oft þung­lama­legir og einsog allt sé skrúfað saman; og hljóð­fallið ekki svo sjald­an óviðfelldið - líkast því sem brotið er og brengl­að.





Þorsteinn Erlingsson bar fram svipaða aðgreiningu (í ritdómi um Kvæði Huldu, 29.6.1910):





Mér finnst menn hafi dæmt þessi ljóð einsog enginn annar skáld­skapur væri til en sá, sem fæst við skarpar og djúpsettar rann­sókn­ir á þungum og flóknum viðfangsefnum eða þá ádeilur. Veit eg að hann má sín mest þessa stundina og að þeir menn, sem nú yrkja best á íslensku leggja sig mest fram til þess skáldskapar, og eg hefi og séð, að margir sem um skáldskap dæma nú, miða allt gildi hans eingöngu við þessa stefnu.[...] en jafnskynlaust er það fyrir því, að ætla að fara að mæla ljóð Huldu eða lyrik Jónasar og Steingríms á þann kvarða og jafnvel sum af fegurstu kvæðum Jónasar Guð­laugs­sonar sjálfs[36].[...] Önnur [stefnan] leitar [...] að höfðinu, hvassri sjón og skörpu viti, hin að hjart­anu, næm­um, sterkum og óskemmdum til­finn­ingum. Og því fer það tíðast illa að ætla að gera hvorttveggja í einu, að lyfta tilfinn­ing­un­um á létt flug og fá hugsuninni um leið steina til að velta. Og eins er um hljómana, þungskilin hringhenda flýtur ekki hversu létt sem hún er kveðin.





Greinilega er Einar Benediktsson hér talinn fulltrúi vitsmuna­skáld­skap­ar­ins, e.t.v. Stephan G. líka. Það er mjög gamalt að greina slíkan “appol­ínsk­an” vits­munaskáldskap frá “díonískum” tilfinninga­skáldskap. En síðar í rit­dóm­inum tilfærir Þor­steinn vísu sem er hringhent stuðlafall, segir að hugs­un sé sama sem engin í henni, en hún orki á hann einsog “þegar leik­ið er með lausum tónunum í for­spili, einsog verið sé að leita að þeim, eða þeir séu að leita að einhverju sem þeir ætla að tengja sig sam­an um”. Verður þá vart fundinn “ómrænni” kveðskapur:





Daggir falla, dagsól alla kveður,



en mig kallar einhver þrá



yfir fjallaveldin blá.





Sigurjón Friðjónsson rakti þetta nánar um ómrænan kveðskap 1928 (í formála Ljóðmæla sinna, bls.3-5):





Það mun mega teljast vafalaust, að hið hljóðræna eða ómræna í ljóð­list­inni sé það í eðli hennar, sem beinast sprettur upp af til­finn­inga­lífi manns­ins og upprunalegast er, einsog orðið ljóð, þ.e. hljóð, ber meðal ann­ars vitni um. En hitt er líka víst, að hið óm­ræna í list­inni hefir snemma tekið hið myndræna sér til fylgi­lags og oft í þeim stíl, að það verð­ur yfirgnæfandi. Í íslenskum nú­tíðarskáldskap er það líka svo, að mynd­listin yfirgnæfir óm­list­ina [...] Þessar meitl­uðu, skýru myndir eru aðaleinkenni hins besta í Eddu-kvæðunum. Í drótt­kvæð­unum fornu er meira óm­rænt á yfirborðinu, en sá hljóm­ur er skyldari málmhljóði (or­ustu­glamri?) en niði af undiröldum sálar­lífs­ins, og á það, að lík­ind­um, talsverðan þátt í því, að hið ómræna í ljóðagerð hefir orð­ið fyrir tals­verðri lítilsvirðingu hér á landi. [...]



Ljóð­mæli þau, sem hér koma fyrir almennings sjónir, eru til­tölu­lega meira ómræns eðlis og er við því að búast, að þeim verði tekið heldur fálega af þeim mönnum, sem einkum hafa lagst á hugi við myndræna ljóðagerð. En auðsætt er þó, að skáld­hug­ur þjóðar­inn­ar er, nú sem stend­ur, mjög að hneigjast í þessa átt. Valda því eflaust að sumu leyti útlend áhrif. En aðal­undir­rót­in ætla ég að sé meira og minna ósjálfrátt end­urkast frá hinni svo­nefndu raun­sæis­stefnu (real­isma) 19. aldar.





Þessi áhersla á ómrænu hefur einmitt verið talið eitt höfuð­ein­kenni hinn­ar nýju stefnu, svo sem rakið var hér að framan og þær Guðrún og Ragn­hildur benda á (bls. 26):





Galdur málsins, hrynjandi, hljómfall og söngur orðanna átti að geta haft áhrif og náð til áheyrenda og lesenda þótt innihaldið væri óljóst eða nánast ekkert.





Þær rekja (bls. 25) eftir Peter Carleton að þessi ómræna einkenni ljóð Sigurjóns allt frá upphafi, og einn­ig fyrstu bækur Stefáns frá Hvítadal og Davíðs. Jakob Smári sagði (í rit­dómi um Ljóðmæli Sigurjóns, Vísi, 20.7. 1929) að kvæði hæns væru frem­ur ómræn en myndræn og í því líktist hann Stein­grími Thorsteins­syni og Guðmundi Guðmunds­syni. Samkvæmt því væri þessi áhersla á óm kvæða eldri en táknsæisstefnan. Hannes Péturs­son rekur ýmis dæmi þess að hrynj­andi og hljómur sé samstillt við annað í kvæðum Stein­­gríms (bls. 215), og slíks eru auðvitað auðfundin dæmi hjá Einari Bene­dikts­syni líka (Hvarf sr. Odds, m.a.), einnig Davíð (t.d. Húm­hljóð). Ólafur Briem segir (bls. 16):





Davíð lagði mikla alúð við fagurt hljómfall í ljóðum sínum. Þau eru óvenju sönghæf og bragarhættirnir eru yfirleitt léttari og stund­um óreglulegri en tíðkaðist hjá hinum eldri skáldum.





Guðrún og Ragnhildur rekja (bls. 43-4) góð dæmi þessa hjá Huldu:





Einn þátturinn í máltöfrum symbólismans var samræmi efnis og forms. Hljómur málsins átti að skapa hugblæ ljóðsins, ekki síður en merk­ing orðanna. Mörg ljóða Huldu eru greinilega ort með þetta í huga. Fyrsta erindi Sunnu­dags­kvölds, sem vitnað var í hér að fram­an, er gott dæmi um nánast fullkomna samsvörun hljóms og inn­taks. Hinn mjúki kliður rímorðanna (og raunar líka orðanna „yfir“ og „sefur“) svarar til merkingar áhersluorðanna í enda hverr­ar brag­línu: hvílir, rótt og hljótt. Sérhljóðin sem mest ber á eru skær og björt og slá bjarma yfir þessa friðsælu sumarmynd. En þegar hugsunin um haustið læðist að í öðru erindinu kemur a í stað í í rím­atkvæðunum og um leið dimmir yfir ljóðinu.



Í erindunum um Kinnarfjöllin skilar hreyfingin á spegilmynd fjalls­ins sér í hljómi orðanna, sem eru full af skjálfandi samhljóð­um. [sbr. og um Maríutásu“, k. 4. 5. hér]





Það er hverju orði sannara að sum skáld þessarar stefnu erlendis náðu einstökum hljómtöfrum í ljóðum. Mætti þar einkum nefna til dæmis frönsku skáldin Paul Verlaine (t.d. fyrstu bækur hans, Poèmes saturniens, 1866 og Fètes galantes, 1869) og Jules Laforgue (Complaintes, 1885) eða þýska skáldið Christian Morgenstern (Galgen­lieder, 1905). Einnig einkenndi þetta mjög Arthur Rimbaud, skáldbróður Verlaine, svo sem Atle Kittang rekur í doktorsriti sínu um verk hans (bls. 173), að þar gæti tónlistar, leiks og dans, til þess að forðast röklega fram­setningu.



Ekki sé ég að íslensku skáldin nái viðlíka árangri og þessi erlendu skáld, en vikið verður að þessu í kaflanum um Sigurjón, og víðar í 5. hluta þegar tilefni gefst.



Sigurjón sagði í grein sinni Hið nýja skáldakyn (3. 8. 1906) m.a.:





Hér á landi eru nú sýnileg straumhvörf í ljóðagerð. Aðal­ein­kenni hins “nýja skáldakyns” eru fínn skáldlistarsmekkur og rík til­hneiging til vand­aðrar efnis­meðferðar; en efnið er sjaldan að sama skapi stórt, og þess sér fá merki að djúpt sé kafað í öldum lífsins.



“Róm­antíkin”, sem lærðu mennirnir héldu að væri dauð úr öll­um æð­um, er að rísa á legg að nýju og þó í öðru gerfi. [...] má kveða svo að orði, að þjóð­arand­inn og sérstaklega vorhugur þjóð­ar­inn­ar brjóti sér þann­ig veg, ósjálfrátt á fleiri stöð­um í senn - og þó einna fyrst hér í Þing­eyjarsýslu. Má vera að þetta bendi til þess, að vér Íslend­ingar stönd­um nú á líku þroskastigi, sem þjóð og aðal­mennta­þjóðir álfunnar á fyrri hluta næst­lið­innar aldar, þegar “rómantíkin hófst þar til blóma.





Þetta síðasta atriði telur Sigurjón skipta hinu nýja skáldakyni, því ólíkt þingeysku skáldunum vanti Guðmund Guðmundsson





hina rómantísku trú á lífið, og fyrir þá sök (o.fl.) fá kvæði hans haust­leg­an hnignunarblæ. Sig. Sigurðsson er nokkuð skyld­ur Guðm., en lífs­þrótt­urinn og vandvirknin meiri. Jónas Guð­laugs­son virðist og ætla að hneigj­ast í þá átt.





Einsog Guðrún og Ragnhildur benda á (bls. 20) segir Sigurjón að e. t. v. sé það “lífstrú” Þingeyinganna, sem hafi komið Þorsteini Erl­ings­­syni og Einari Bene­diktssyni til að hylla Huldu, sá síðarnefndi sem upp­hafsmann stefnunnar. Sigurjón skrifaði löngu síðar ítarlegar um þetta og tók þar af­stöðu (1943, bls. 103-4) gegn þeim “er svo líta á, að það, sem kall­að er list, sé og eigi að vera sjálfu sér nóg; gleðskap­ar­efni, hrifn­ing­ar­efni, nautn­ar­efni o.s.frv. [...því] kynslóðirnar meta það mest og geyma lengst, sem skýrast ljós ber yfir lífið og sókn þess fram á við.”



Þetta verður að skilja sem boðskap um að list eigi, jafnframt því að vera raunsæ, vitsmunalega djúp, einnig að vera jákvæð, bjartsýn. Sem betur fer setti Sigur­jón ekki eigin skáldskap slíkar skorður, en vissulega bætti hann því við, “að það að þekkja sjálfan sig sé upphaf viskunnar”, þótt yfir­leitt láti skáld­um betur “að hafa aðra en sjálfa sig að skáld­sagn­ar­efni; “ætla menn af sjálf­um sér” [...] og nota stuðning af ímyndunarafli og getgát­um að öðru leyti.”



Jakob Smári endurómaði fyrrgreint viðhorf Sophus Claussen um veraldlegt táknsæi, þegar hann segir um skáld­skap 1925 (bls. 62-3):





Hann er bjarminn yfir lífinu, freisting fjarskans, blámi víð­átt­unn­ar, hið eilífa ævintýri. Á rúmhelgum dögum skilur hann og túlk­ar hið ytra og hið innra. Á helgum, á sínum æðstu augna­blik­um, reynir hann að segja hið ósegjanlega. Og er ekki, þegar allt kem­ur til alls, hið ósegjanlega eitt þess vert, að það sé sagt?






2.5. Viðtökur ljóðanna



Á öndverðri 19. öld var blaðakostur og tímarita lítill, og ekki reglulegir ritdómar um þau fáu skáldrit sem birtust. Er því lítið hægt að segja um viðtökur ljóða okkar rómantísku skálda framan af öldinni. Enda segir í Norðanfara (13.árgangi, 1874, bls. 31, í upphafi ritdóms um Smámuni III eftir Símon Dalaskáld):





Það hefur hingað til verið talin einhver hinn verulegasti galli á blöðum vorum, að þau hafa svo sjaldan getið um, eða sagt álit sitt um bækur þær sem út hafa komið, svo að menn hafa vaðið í villu og svíma um, hverjar bækur þeir ættu að meta mest og hverjar að forðast og flýja. Þetta hafa óhlutvandir menn á stundum fært sjer í nyt, með því að gefa út og selja fyrir dýra dóma bækur og ritlinga, sem varla eru í húsum hafandi.





Norðanfari virðist og hafa birt einna mest af ritdómum á þessum tíma.



Áður var vikið að grein Gríms Thomsen um Bjarna Thorarensen, þar sem áhersla var lögð á glæsilegt hugarflug og tilfinningadýpt, en ekki væri að sama skapi nostrað við orðfæri eða form. En taka má upp glefsur úr greininni (í þýð. Sigurjóns Jónssonar), þar sem er nánari lýsing á kvæðum Bjarna:





Erfiljóð hans og minningarljóð eru einkennilega þróttmikil og oft þrungin innileik og ljóðrænum tilþrifum. Dauðinn varð honum tilefni spakviturlegra hugleiðinga, svo að þótt erfiljóð hans séu að vísu tækifæriskvæði, þá eru þau það í þess orðs göfugustu merkingu (bls. 81).



Skáldskapur Bjarna […] hefur sótt sitt tignarlega yfirbragð til fjallanna, orkumagn sitt til fossanna, bálhita sinn til eldfjallanna og hreinleika sinn til mjallarinnar. Skírlífisblær stjörnuhiminsins leikur um sum hans bestu ástaljóð, svo fjarlæg eru þau allri holdlegri munuð, en sum eru með nærri því suðrænum bernskublæ. Ættjarðarljóð hans eru öll þrótti þrungin. Þar gætir hvergi kveifarlegra kvartana, þar er ekkert reik um þokuheima fortíðarinnar, eins og í kvæðum Ossíans. Þau standa föstum fótum í nútíðinni og þar flóir ekki allt í bölsýnis-orðagjálfri. Ádeilukvæði hans og ágætu níðvísur eru svo beisk, nöpur og meinleg, að jafnvel norrænni kaldhæðni er um megn að komast þar lengra (bls. 86).





Þetta minnir á ferðamennskuáróður nútímans, en stafar auðvitað af þeirri trú, sem Grímur átti sameiginlega með Bjarna, að náttúra landsins móti eðli íbúanna.



Næst hefi ég séð um Bjarna Yfirlit yfir bókmenntir Íslendinga á 19. öld eftir Jónas Jónasson í Tímariti Hins íslenska bókmenntafélags, 1881. Margt er á sömu lund og hjá Grími, t.d. að form lúti efni, en auk þess er um kveðskaparaðferð (bls. 180-181).





Bjarni Thorarensen er sú hetja sem breytir öllum skáldskaparanda vorum. Hann er eflaust með hinum fremstu af skáldum vorum, hvað snertir “lyriska” fegurð, hugsunaraflið er lifandi og eldfjörugt, krafturinn og þrekið óbilandi og hugsunin víða óviðjafnanlega fögur. Hann fer, ef svo mætti að orði kveða, í hamförum, ólmur og óviðráðanlegur, sækir alltaf lengra og lengra, hraðara og flugmeira, en kollhleypur sig aldrei og kemst aldrei í bága við sjálfan sig, en hugsunin heldur áfram jafnóbifanleg, sterk og stöðug til enda. Öll kvæði hans eru stutt og að tiltölu fá, en þau ljóma líka sem gimsteinar í bókfræðum vorum. Með honum lagast, eða jafnvel myndast að nýju, jartegnan (Symbolik) í skáldskap, þar sem líkingum og sammiðunum er beitt til þess að fá skáldlega lýsing á lífinu (sbr. “Enginn ámælir” o.s.frv.; “sé eg síltorfu” og margt fleira) og hugsjónirnar eru settar í samband við hið verulega eða frumlæga í lífinu, til þess að ná ljósri sammiðun hlutanna og tilverunnar





Kvæði Bjarna voru endurútgefin 1884, og ritaði Einar Kvaran formála. Hann leggur þar m.a. áherslu á að náttúrulýsingar hans séu svo almennar, að allt eins gætu átt við önnur lönd en Ísland, kvæði um Fljótshlíð segi ekkert um útlit hennar. Náttúrulýsingar verði Bjarna aðeins tilefni til að minnast horfins fólks, einkum í fornöld. En jafnframt verði menn og engu nær um útlit þeirra kvenna sem hann dásami í kvæðum. ”Öllu holdlegu er vikið til hliðar eða algerlega numið á brott” (bls. xlii). Loks er fundið að formi (bls. xlv-xlvi).



Gestur Pálsson hélt frægan fyrirlestur Um nýja skáldskapinn í Reykjavík 1889. Þar víkur hann að helstu skáldum samtímans, og er mjög samdóma fyrrgreindum dómum um Bjarna, leggur þó sérstaka áherslu á fornaldardýrkun hans (bls. 378-9):





nærri því hver einasti viðburður á hans tíma, sem fær nokkuð á hann, fær á sig fornaldarsnið fyrir augum hans. En hann skoðar ekki fornöldina ofan í kjölinn. Hann sér ekkert nema hetjudáð og ástartrygð. […] En á bak við þessa fornaldarrómantík eða samhliða henni skín einkennilega íslenskur og einkennilega mikilfenglegur skáldandi, sem kemur einna best og ljósast fram í sumum erfiljóðum Bjarna […] þar kemur fram óvenjuskarpt auga fyrir því einkennilega í lífskjörum manna og sérstök snilld í líkingunum, hvert spakmælið rekur stundum annað, hnittið og aflmikið, eins og í bestu Eddukvæðunum.



Hannes Hafstein hefir sagt í æfisögu Jónasar, að Bjarni sé skáld hins innra, og Jónas meira hins ytra. Mér getur ekki betur fundist en að hvorugur þeirra sé skáld hins innra, hvorugur þeirra hvessir augun inn að rótum mannlífsins. […] Jafnvel í erfiljóðunum get ég ekki séð að Bjarni skygnist langt inn í sálarlífið; öll hans fegurstu spakmæli eru um ytri lífskjör, en ekki um það sálarlíf, sem bærist á bak við lífskjörin (bls. 380).





Þetta tengist þeirri gagnrýni Gests, að rómantísk skáld dragi “rómantískan hjúp yfir yrkisefni sín” (s. st.).





Um Jónas Hallgrímsson segir í fyrrnefndu Yfirliti Jónasar Jónassonar 1881 m.a. að hann:





er samtímis Bjarna, og hefir lík áhrif á tíðarandann og hann. Hann hefir eigi hugsjónargáfu til jafns við Bjarna, en hann hefir óviðjafnanlega lipurð, blíðu og inndæli til að bera. Hugsunin er hrein og ómeinguð, vær og þýð, en aldrei margtekin eða fátækleg, búningurinn jafnan mjög lipur, rímið liðugt og málið óvenjulega fagurt og vandað. Sérstaklega er ágætt allt það í kvæðum hans, er til náttúrunnar kemur, því að hann hlerar óvenjulega næmt hið hulda mál hennar, og þýðir það svo ljúft og blíðlega, að menn hyggjast heyra náttúruna mæla sjálfa. Hann er hinn fyrsti, frá því er Eggert dó, sem hefir náttúruna að meistara sínum, en hann hefir líka gjört það svo, að engi hefir síðan betur gjört. Viðkvæmnin ríkir allmjög hjá honum, en hann fer svo vel með hana, að hún kemur að eins fram sem næm og blíð tilfinning, og prýðir því hvervetna en óprýðir eigi. Hann er og gott ádeiluskáld, og beitti hann því mest við alþingi og stjórnina, eins og hún var þá, því hann var ákafur og einbeittur frelsismaður. og þoldi með engu móti nokkra hömlu á því. (bls. 182)



Ættjarðarljóð hans eru óviðjafnanlega fögur og lýsa brennandi ættjarðarást; er kvæðið Ísland farsælda frón jafnvel hið fegursta og efnismesta kvæði sem orkt hefir verið um Ísland. En mest listaverk af öllum kvæðum Jónasar er eflaust Hulduljóð, því að þar hefir hann látið í ljós sjálfan sig, stefnu sína og anda, brýtur bág við tímann, eins og hann er, og sýnir fram á, hvernig hann ætti að vera; saman við þetta vefur hann indæli náttúrunnar, skáldlegri hugsjón huldumeyjarinnar og endurvakinnar myndar Eggerts Ólafssonar og gjörir út því eitt fullkomið listaverk. (bls. 83).





Gestur Pálsson sagði hinsvegar (tv.r.,bls. 379 o.áfr.):





Jónasar skáldmenntun er alveg útlend, þó hann sé svo íslenskur í anda að hann verði um allan aldur talinn með okkar þjóðlegustu skáldum […áhrifin eru einkum frá Heine] hjartnæmið í ljóðum og málfegurðin. […] Bjarni hefur svo sem engin áhrif haft á íslenskan skáldskap, en Jónas ákaflega mikil. […] Mestur hlutinn af allri íslenskri lýrik, allt fram á þennan dag, stendur svo að segja á öxlunum á Jónasi […] þar er dvalið við sömu náttúrufegurðina og sömu atriðin í náttúrufegurðinni sem hjá Jónasi; þar kemur fram sama skoðunin á fornöldinni […] öll okkar von til framtíðarinnar er fólgin í því, að framtíðin verði sem líkust fornöldinni. En hvernig getur eða á öldin nú að líkjast fornöldinni? Þá spurningu bera skáldin aldrei upp og svara henni þá náttúrlega ekki heldur. [...]



Ástakvæði [...hans einkennir] hin sára þrá innst inni hér, sem orðin eru tæplega nógu næm til sð lýsa, þung sorg, sem búin er að næla niður allan ástríðu-ofsa, en skín þó í gegn um angurværan ekka yfir glötuðum lukku-vonum [...] hér um bil hjá öllum íslenskum skáldum er sami ekkinn og sama þráin eins og hjá Jónasi; ástríðuofsanum lýsir enginn og munaðarhitanum lýsir bara Gísli Brynjúlfsson.





Ljóð Jónasar voru endurútgefin 1883, ásamt lausamálsritum hans. Þar ritaði Hannes Hafstein formála, og talar m.a. um hvernig Jónas hafi dulið tilfinningar sínar undir rómantísku háði, að hætti Heines (bls. xliii), og aðeins í hálfgildings þýðingu sinni á kvæði Heines, Sæunn hafkona, lýsi hann líkamlegri fegurð, en sé þeim mun betri í lýsingum náttúrunnar. Því megi kalla hann skáld hins ytra, þar sem Bjarni sé skáld hins innra (bls. xli). Þessi formáli er fyrsta yfirlitið um ævi Jónasar. Ýmislegt merkilegt þykir mér þar koma fram, t.d. að Jónas kunni kvæði Bjarna á skólaárum sínum, og þuldi yfir félögum sínum (bls. xii). Ennfremur segir Hannes (bls. xxviii):





Af alþýðu var hann allvel virtur. Menn þekktu lítt til náttúru-vísinda, og báru því virðingu fyrir ”náttúruskoðaranum”, er svo var nefndur. Það mynduðust jafnvel hálfgildings töfrasögur um hann, og er sagt að kellingar héldu hann vissi lengra en nef hans náði, [...] Kvæði hans nokkur voru þegar flogin út í þjóðina, og sungin um allt land, og einkum hinir yngri menn dáðust mjög að honum, og þó að hann hefði nokkra óvild fyrir það, hvernig hann húðfletti rímurnar, munu þó flestir hafa viðurkennt hann, og það jafnvel menn, sem sjálfir voru rímnahöfundar.





Hannes skrifar þetta þegar Jónas nýtur almennrar viðurkenningar, 40-50 árum eftir að hann var og orti. Samt er ekki ástæða til að tortryggja þennan vitnisburð, fyrst ekkert andstætt honum finnst frá samtíma Jónasar.



Benedikt Gröndal segir í Dægradvöl frá æskuárum sínum á 4. áratug 19. aldar áður en hann settist í Bessastaðaskóla, sextán ára, 1842 (Ritsafn IV; bls. 324). Eftir lof um Hómersþýðingar föður síns segir hann m.a.





Fjölnir gerði og áhrif á mig, mest vegna málsins og einstöku ritgerða um náttúruvísindi, en að stafsetningunni hneigðist ég ekki; kvæði Jónasar urðu mér ógleymanleg, ég lærði flest þeirra utan að, án þess ég vissi af, og kann ég þau enn mörg hver, þar á meðal allan Gunnarshólma. Hinum eldri mönnum var ekki mikið um Fjölni, því allir voru afturhaldsmenn og keyrðir í gamla fjötra, og hornauga var litið til alls; menn héldu að allt, hvert kvæði, ætti að þýða einhverja pólitíska byltingu, svo sem Heilóarvísan, Snemma lóan litla í, sömuleiðis Alpaskyttan, sem Grímur þýddi úr Schiller, það átti að vera sneið til einhvers, og þegar gullsmiðurinn komst að því, að Grímur hefði gert það, þá bannaði hann honum að yrkja í Fjölni, í Sunnanpóstinum er Ísland farsælda frón kallað “grafskrift yfir Ísland” og kann vera nokkuð sé til í því. Sum kvæði Jónasar komu á lausum blöðum, t.a.m. Það er svo margt ef að er gáð, Þú stóðst á tindi, Þið þekkið fold með blíðri brá, Nú er vetur úr bæ – allt þetta lærðum við ósjálfrátt og það var allstaðar sungið. Kvæði Bjarna Thorarensen voru dreifð í Klausturpóstinum, Skírni og víðar, en við lærðum þau ekki eins liðugt og Jónasarkvæði. Ég las einnig Eddukviðurnar og margt annað.





Gísli Brynjúlfsson birti smágrein í Þjóðólfi 1859 (bls. 129) um að Benedikt Gröndal hafi sent honum kvæði frá Kevelaar ”í fyrrahaust […] sem ég get ekki annað en talið eitthvert hið fegursta kvæði, sem nokkurn tíma hefir verið ort á íslenska tungu,” og fylgir svo kvæðið Halastjarnan.



Fyrsti eiginlegi ritdómur sem ég hefi séð á 19. öld, birtist í Norðra, 1856 (4. árg., (bls. 52-3) og fjallar um bók Benedikts Gröndals, Kvæði I. Ónefndur ritdómarinn hrósar sumu, ”eitthvert hið fegursta sem kveðið hefur verið á íslensku” segir hann um fyrra erindi Mikil eru verkin drottins, en en ”hið síðara er mjög óviðfelldið.” Einkum mislíkar honum þó Tólfálnalangt...það er ”vit og vitleysa”. Og þessi tvíbendni verður einkennandi fyrir dóma um kvæði Gröndals æ síðan:





Herra cand. philos. Benidikt Gröndal hefur nú á seinni tímum verið hið einasta skáld á Íslandi, sem nokkuð til muna hefur látið til sín heyra, og mjer er óhætt að fullyrða, að ekkert af íslenskum skáldum hafi afkastað jafnmiklu og hann á jafnstuttum tíma. [...] Málið liggur laust fyrir honum, svo að ég ætla, að hvorki Jónasi Hallgrímssyni eða Sveinbirni Egilssyni, er þó hafa haft málið best í sínu valdi af öllum seinni tíma skáldum, hafi verið léttara um mál í bundinni ræðu. [...] – hann er náttúrufróður maður eins og Jónas var -, svo að hann er víðast hvar fagurmæltur, þar sem náttúrulýsingar koma fyrir, þessa kosti Gröndals hefi jeg aldrei séð koma eins vel í ljós og í þessum seinustu kvæðum hans. Hugmyndaafl hefur hann ætíð nóg, og það svo, að hann ræður oft ekki við flug hugarins, en hleypur hugmynd frá hugmynd óstöðugur eins og býfluga á fífilhöfðum, er skilur stundum eftir mikinn sætleik, er hún hefði átt að sjúga. Eins og hann nú flýgur milli hugmyndanna, eins flýgur hann stundum út úr málinu og bragarhættinum, og er það síður fyrirgefandi þeim manni, er jafnhægt á með að halda hvorutveggja þessu í fögrum skorðum, og sýnir það, að skáldið er fljótfarið um of.





Benedikt svaraði Sveini Skúlasyni (í Þjóðólfi (5.12.1856, BG: Ritsafn III, 63-5) og kvartaði yfir að dómurinn væri órökstuddur, það sem SS þyki best sé í rauninni lakast. Annars er þetta svar mestmegnis skætingur.



Ragnarökkur Gröndals birtist 1868, og var ritdæmt sama ár af Jóni Ólafssyni, í blaði hans Baldri (bls. 35):





Kvæðin eru ágætis-fögur, og Ragnarökkrið hans Gröndals er listaverk. […] Hugmyndin sem gengur í gegn um kvæðið er skáldleg og fögur. […] oss geðjast einkar vel að meðferð hans á dauða Baldurs; maður finnur best, hvað satt það er, að dýpsta sorg á engin orð, […] maður finnur þetta best með því að bera saman Ragnarökkur Gröndals og “Nordens Guder eða “Balders Död” eptir Öhlensläger, skáldaskít. En þó verður eigi við því dulist, að bókin hefir á sér galla; en kostir hennar eru í kjarna og merg bókarinnar (þ.e. efninu) fólgnir, en gallarnir í búningnum. Rímið er víða skeytingarlaust; skakksettir stuðlar og höfuðstafir, málið óhreint og eigi svo fagurt á sumum stöðum, eins og við mætti búast af slíkum manni sem Gröndal er; málvillur og vitleysur eru nógar. […] Að málið sé, það sem kallað er á slæma íslensku “spennt”, þ.e. íburðarmikið, er auðvitað fyrst það er eftir Gröndal, en víða er það fagurt og lipurt, eins og við er að búast frá honum.





Þessu svaraði Gröndal auðvitað hvasslega, “eg neita því að eg riti “spennt” eða íburðarmikið mál; eg rita rétt blátt áfram, og eg hefi ekki meiri “íburð” en mínar hugmyndir útheimta”. Annars er svar hans útúrsnúningar, sem ástæðulaust er að rekja hér, sama gildir um svar Jóns (s. r., bls. 55-6), þar sem stuðlunargallar Ragnarökkurs eru tilfærðir.



Um Benedikt segir í fyrrnefndu Yfirliti Jónasar Jónassonar frá 1881 (bls.186-7) að hann:





er hugsjónaríkur og hamhleypa að yrkja og rita; hugsunin er óhemjuleg og skrýdd glitmiklum búningi, og það svo, að hverju skáldaorðinu er hlaðið ofan á annað, svo að málið verður oft nokkuð íburðarmikið og ber jafnvel hugsunina ofurliði, og veitir því oft erfitt að skilja hann. En allt fyrir það, þó að þessir gallar sé á, verður honum þó jafnan skipað meðal öndvegishölda íslenskra skálda. Sum af kvæðum hans eru einhver hin fegurstu, er ort hafa verið á íslenska tungu, t.d. “Halastjarnan”, “Æskan” o.fl. Sum eru með heimspekilegum blæ (t.d. “Hugfró”, “Prómeþevs” o.fl.). Auk þess hefir hann og ort þau einu söguljóð, sem frumort eru á íslenska tungu: “Örvar-Odds-drápu” í 12 kvæðum.





Gestur talaði mjög á sömu lund um Gröndal (1889, bls.384-5).



Í Yfirliti Jónasar Jónassonar frá 1881 (bls. 187-8) segir um Steingrím Thorsteinsson að hann sé





ósegjanlega lipur og þýður í hugsunum, síljós og auðskilinn; hugsunin er ljós og einföld en þó tignarleg og fögur og talar til hjartans. Hann yrkir eigi annað en ljóð (lyrisk kvæði) en hefir líka náð þeirri fullkomnun í þeirri grein, að hann má fortakslaust teljast hið langbesta af lyriskum skáldum vorum. Hann er líkastur Jónasi að blæ, auðveldi og þýðleik, því mál og efni falla þannig saman hjá honum, að það verður eitt algjört listaverrk. Hann ritar manna best íslenska tungu og þýðir skáldrit annara þjóða með stakri snilld og eru til eftir hann í þýðingum allmörg þeirra, t. d. “Þúsund og ein nótt”, “Axel”, “Sakúntala” o.m.fl.





Kvæði Steingríms birtust í bók 1881, og hana hefi ég aðeins séð ritdæmda í Norðanfara (21. árg., bls. 23) af J.J., sem ótvírætt er sami Jónas frá Hrafnagili. Hann segir að “þau eru flest kunn áður [af Nýjum félagsritum og söngheftum Jónasar Helgasonar] og þegar búin að smeygja sér inn í hjartastað þjóðarinnar”. Nokkur braglýti megi finna, “en vegna hins liðuga fallanda [hrynjandi] ber lítið á því”.





Kvæðasafn þetta er eitt hið vandaðasta sem komið hefir út á íslenska tungu, bæði að efni, orðfæri og frágangi. Hann kemur fram í kvæðum sínum sem hinn sívakandi þýðari náttúrunnar, sem les, skilur, þýðir og fellir í rím og stuðla sál hennar og hins fjöruga lífs […] í náttúrulýsingum, ættjarðarljóðum, ástavísum, gaman- og glettnisvísum, eða angurblíðuljóðum þýðrar sorgar, eða jafnvel í sárbeittum napuryrðum, er hann allstaðar samur og jafn, hvervetna kemur fram ið lipra og þýða einkenni hans sem jafnframt undir niðri djúp og heimspekileg skoðun á lífinu og hlutföllum þess.





Ritdómurinn hefst á almennri lýsingu á íslenskum ljóðum:





Það er kunnugt að flest hinna íslensku skálda hafa verið aðeins lyrisk skáld, þ..e. hafa að eins orkt um tilfinningar sjálfra sín, þau áhrif er hlutirnir og atvikin utan að höfðu á þau, lýst skoðunum sínum á einhverjum og ýmsum atvikum lífsins, og þýtt dularmál náttúrunnar og atvikanna sitt á hvern hátt, eftir því sem hver var til fær og skapi farinn. Eftir að andi skáldskaparins breyttist á öndverðri þessari öld, og hafði náð sinni hæstu fegurð með Bjarna og Jónasi, þar sem öðrumegin var ið þýðasta mál, hlerað út úr hjarta náttúrunnar, og hinum megin hinar stórfenglegustu hugsjónir knúðar fram af enu hamramasta afli – eptir það hefir hinn lyriski skáldskapur náð allmiklum blóma hér á landi. Einn af þessum síðari skáldum er Steingrímur Thorsteinson





Í viðtökum er Gestur sérstæðastur, því hann gerði það neikvæða endurmat á Steingrími, sem Sigurður Nordal varð frægur fyrir, og Hannes Pétursson reis gegn í bók sinni 1964. Raunar komu víst sömu gagnrýnisatriði fram í erindi Hannesar Hafstein[37] í Kaupmannahöfn sex árum áður (12.12.) 1883, og andmælti Þorsteinn Erlingsson, (skv. bók Hannesar Péturssonar, bls. 247). Gestur sagði (bls. 386) að Steingrímur væri





einhver hinn best menntaði af öllum íslenskum skáldum. Í kvæðum hans lýsir sér ekki nein áköf tilfinning, ekki mikið hugmyndaflug, heldur hugsun og skynsemi. Skáldgáfa Steingríms getur fundið til og hafist á flug, en form Steingríms takmarkar hvorttveggja mjög. Hið einkennilegasta við form Steingríms er hans fegurðartilfinning; hún er hans kostur að því leyti, að hann yrkir aldrei neitt sem er ófagurt, og aldrei neitt, sem stríðir gegn heilbrigðri skynsemi; en hún er hans galli að því leyti, að hún er svo takmarkandi, því hún er ekki lífsandi, sem gefi ljóðum hans ljós og litskrúð, ekki efni, sem slái gullslit á það, sem skáldgáfa hans steypir. Nei, hún er einmitt skorður, sem allur skáldskapur hans verður að falla í, mótið sjálft sem allt er steypt í, hans fegurðartilfinning er passiv, en ekki aktiv, hún er aðskiljandi og útilokandi, en ekki skapandi.





Ísafold birti í lok 2. árgangs, 1875 (dálkar 211-14 og 217-18) ritdóm um þýðingu Matthíasar Jochumssonar á Manfreð Byrons. Þarna er merkileg umfjöllun um harmljóð, en um þau segir ritdómarinn:





Hitt þykir oss ekki eins víst að alþýðu manna hjer á landi muni falla ritið eins vel í geð og það á skilið. Fegurðartilfinning almennings er orðin svo spillt af leirburði úr rímnaskáldum (sumum) og öðrum, og hefir á hinn bóginn átt svo litlu góðu að venjast, að hún skilur eigi þótt henni sé boðið eitthvað betra en vant er. Hin nýja útgáfa af Snót mun heldur hafa spillt fegurðartilfinningu manna, en bætt hana. Vjer neitum því eigi, að þetta hefir færst nokkuð í lag, einkum síðan kvæði Jónasar og Bjarna komust nálega á hvert heimili.





Lokaorðin er auðvitað ekki svo að skilja að ljóðabækur þessara skálda hafi þá verið til á öllum heimilum. Og ekki er átt við að sum kvæði þeirra hafi orðið alkunn með sönglögum sem breiddust út í heftum Jónasar Helgasonar, því fyrsta hefti þeirra birtist einmitt á þessu ári, 1875. Sex hefti birtust fram til 1881, en hið sjöunda 1888. Samtals voru þar sex kvæði eftir Jónas, en fjögur eftir Bjarna, hinsvegar 100 eftir Steingrím og 24 eftir Matthías. Önnur skáld áttu minna, nema Jón Thoroddsen, sjö kvæði. Ljóðabækur Bjarna og Jónasar voru endurútgefnar á eftirfarandi áratug, og hafa –lítil- upplög frumútgáfna þá sjálfsagt verið uppurin. Eigi að taka þennan vitnisburð alvarlega, getur hann þá aðeins merkt að fólk hafi lært þessi kvæði utanað, af hvert öðru.



Framangreind fordæming á rímum sést oft, og eru þar sjálfsagt áhrif rímnadóms Jónasar Hallgrímssonar. Sá þráður er enn upp tekinn í ritdómi Ísafoldar (1877, bls. 70) um Svanhvíti, ljóðaþýðingar Matthíasar og Steingríms, sagt er að kvæðin “séu hvert öðru fallegra, þau eru og allflest við alþýðuhæfi, enda ríður eigi hvað minnst á, að svo sé” til að bæta smekk almennings. Lengst gengur þesssi fordæming á rímum og skyldum kveðskap í ritdómum um Smámuni Símonar Dalaskálds (í Þjóðólfi 26. árgangi. Um I. heftið skrifar Matthías Jochumsson (bls. 111) og er stórorður í lastinu, en “Í stöku kveðlingum finnum vér töluverð gullkorn” – sem frægt varð, og Bólu-Hjálmar hæddist að. Lokalínur átthends kviðlings hans eru: “Guðspjallasnakkur í Gufuvík syðra/ gullkornin tínir úr Símonar drít.” (Hjálmar Jónsson: Ritsafn II, 279). Um Smámuni II skrifaði “Vestfirðingr” aðsent einhliða last (s. r., bls. 122 & 128-9). Enn dundi þetta á III. hefti Smámuna Símonar í Norðanfara 13. árgangi, 1874, bls. 31. Símon svaraði (í sama árgangi, bls. 74) og vitnar um vinsældir bóka sinna, Smámunir III hafi nú selst í 900 eintökum. Leitt er að hafa ekki upplýsingar um sölu á ljóðabókum þjóðskálda 19. aldar til samanburðar!



Fyrsti dómur sem ég hefi fundið um frumort verk Matthíasar Jochumssonar er í Þjóðólfi (14.árg., bls. 51-2, 1862) um leiksýningar í Reykjavík, þ. á m. Útilegumennina. Nafnlaus dómurinn hefst á að segja að ekki væri sanngjarnt að dæma verkið fyrr en það sé prentað.





þó að gjöra mætti nokkrar eigi óverulegar athugasemdir við leik þenna […] ætlum vér það eins sannmæli eins og það var samróma álit allra þeirra er leik þenna sáu, að fegurðarkostir hans sé margir og verulegir, hvort sem litið er til hugsunarinnar sjálfrar og hins þjóðlega aðalefnis, eða til þess, hvernig því er skipað niður til þess að koma fram á leiksvæðinu, eða til þess hve sérlega vel og eðlilega og jafnframt íslenskulega að flestar persónurnar í leiknum koma fram, hver eftir lífsvegi þeim, stöðu og geðslagi, er skáldið hefir hverjum þirrra hugsað og útlhlutað, og óvíða eða hvergi er misst sjónar á frábrugðnum aldarhætti og hugsunarhætti tímans, sem efni leiksins er miðað við, nál. 150 árum fyrri heldur en nú á sér stað hér á landi. Málið á leiknum er lipurt og ljóst og eigi síst vísurnar eða kvæðin, eru þau öll einkar lipur bæði að trúrri hugsun við efnið og að máli, rími og fegurð.





Fáort er Yfirlit Jónasar Jónassonar 1881 um Matthías, en segir (bls. 188) að hann:





hefir ríkar og rífandi hugsjónir, og kemur fram sem stórskáld í sumum kvæðum sínum, en vantar dýpt og skáldlega festu, og verður því stundum óljós, þungskilinn og óeðlilegur, og hættir við gífuryrðum. Ákafinn fer stundum með hann í gönur, svo kvæðin verða orð en ekki andi. Sum kvæði hans eru með hinum fegurstu kvæðum, sem orkt hafa verið á ísl. tungu (t.d. Hallgrímur Pétursson)





Um ljóðabók Matthíasar 1884 skrifaði Gestur Pálsson frægan ritdóm í blað sitt Suðra. Meginatriði eru raunar svipuð og það sem haft var eftir Grími Thomsen um Bjarna, mikil andagift og dýrlegur skáldskapur þegar best tekst til, en því er bætt við hér að Matthías hafi hlotið lélega menntun, og ort í hjáverkum, og því sé þetta afar misgott, t.d. óprýtt af því sem Gestur kallar meinlokur, þ.e. að merking kvæðisins verði andstæð því sem skáldið vildi sagt hafa, eða bara rugl (bls. 470 o. áfr.). Gestur vitnar til þeirra orða, að nú verði allir að vera læknar, einnig skáldin, en segir að Matthíasi liggi svo sem ekkert á hjarta. Kvæði hans einkennist af mannkærleika og umhyggju, en það sé umhyggja barnfóstrunnar, sem vilji bara að barnið gráti ekki. Jafnvel pólitísk kvæði skáldsins einkennist af trúarlegu viðhorfi, treyst sé á forsjá almættisins fremur en manna. – Fræg urðu viðbrögð Matthíasar, kvæðið: Gestur minn, Gestur minn,/ gáðu að hvað segirðu. (Matthías Ljóðmæli, 1936, bls. 636-7). Jákvæðari var Gestur sumpart í fyrirlestri sínum 1889 (bls. 387-8):





…hlýtur trúarinnar skáld að verða dauðans skáld, og þess vegna er Matthías slíkt afbragðs erfiljóðaskáld sem hann er. Í þeirri grein stendur hann fremstur allra íslenskra skálda, þó Jónas og Bjarni séu taldir með. Í sambandi við erfiljóðin standa líka hans prýðisfögru kvæði um Hallgrím Pétursson og Guðbrand Hólabiskup. […] Það má segja það sama um Matthías eins og Steingrím, að Matthíasi er sýnilega farið að fara aftur.





Jón Ólafsson birti og ritdóm um þessa kvæðabók Matthíasar í Þjóðólfi (36. árgangi, 1884, og þýddi þremur árum síðar einnig það sem Poestion sagði um bókina, allt er það á sömu lund, sum kvæðin séu stórsnjöll, einkum um nafnkennda Íslendinga, svo sem Hallgrím Pétursson og Eggert Ólafsson, en allt of mikið sé af ómerkilegum kvæðum í bókinni, einkum erfiljóðum, sem séu þjóðarlöstur Íslendinga, sama gildi um önnur tækifæriskvæði. Báðir segja ennfremur að prestsskapur Matthíasar setji mikinn svip á ljóðin, og ekki góðan, einkum blöskrar Jóni háfleyg mælgi, sem sé nánast óskiljanleg.



Guðmundur Hjaltason bætir svo sem engu við í rúmlega tveggja bls. löngum ritdómi í Norðanfara (23. árg., 1884, bls. 89-91), lofar hetjukvæði Matthíasar og talar um þörf fyrir lýsingar á sálargöfgum hetjum hversdagslífsins, en verklegar framfarir séu forsendur andlegra[38].”Reyndar finnst mjer hann helst umof óljós á stöku stöðum.”



Matthías svaraði (í Ísafold 1887, bls. 20), sagðist ekki hafa ráðið vali kvæðanna sem hann vildi, og þótti ritdómarar skilningssljóir á sumt sem þeir töldu óljóst.



Grímur Thomsen gaf út fyrsta ljóðasafn sitt 1880, en að vísu nokkur ljóð í tímaritum löngu fyrr. Ekki hefi ég fundið aðra ritdóma um ljóð hans á 19. öld en í Skuld, blaði Jóns Ólafssonar á Eskifirði (12/3 1881). Hann byrjar á því að segja að lesendur muni vart vænta sanngjarns dóms af honum, þar sem hann sé sjálfur skáld, þ.e. í samkeppni við Grím, og þar að auki kunnur að fjandskap við hann. En Jón segist vera einmitt nógu mikið skáld til að geta metið það sem vel er gert, og nógu lítið skáld til að komast fyrir, án þess að þurfa að olnboga öðrum burt. Ritdómurinn er nýmæli í íslenskri blaðamennsku, því hann fyllir hálfa þriðju síðu í blaðinu. Vissulega fer Jón viðurkenningarorðum um einstök kvæði, en bara það, útskýrir ekki á nokkurn hátt hvað sé gott við þau. Hinsvegar sakar hann Grím um ritstuld, að setja þýdd kvæði í bálkinn ”Frumkveðið”. Fyrst og fremst er þó dómurinn upptalning á því hvernig brotið sé á stuðlunarreglum. ”Hendinga og endaríms getur íslenskur kveðskapur án verið; en án stuðla og höfuðstafa er enginn íslenskur kveðskapur til.”



Um þessa fyrstu ljóðabók Gríms eru fáeinar línur í Yfirliti Jónasar Jónassonar 1881:





Grímur Thomsen er einkennilegt skáld og svipar til Bjarna að frumhugsunum og einkennileik; hann er ágætur að yrkja með þjóðkvæðablæ, svo engi íslenskra skálda mundi gjöra betur, en í öðru er hann síður. Kvæði hans eru bæði fá og stutt.





Stórum jákvæðari var Gestur Pálsson, 1889 (bls. 388)





Grímur Thomsen er einkennilegastur allra íslenskra skálda, þegar Bólu-Hjálmari er sleppt, og hann hefir fremur öðrum drukkið í sig það, sem er sérstaklegt í sálarlífi þjóðar vorrar, einkum í fornöld. Enginn nær forneskju- og hrikablæ fornaldarinnar á við hann, t.d. í kvæðinu Goðmundur á Glæsivöllum, enginn hefir búið til klassískari íslensk erfiljóð en “Sonartorrek” og enginn hefir klætt dauða og grafar-hugsunina í íslenskari búning en Grímur Thomsen í Kirkjugarðsvísum sínum. Aðalgallinn á hans kvæðum er, að honum er svo sáralítið sýnt um að ríma með rétt settum stuðlum og höfuðstöfum.





Þessi síðasta aðfinnsla, grundvölluð af Jóni Ólafssyni, var oft endurtekin, en Sigurður Nordal færði rök fyrir því (formáli, bls. 12 o. áfr.), að þetta hefði verið val Gríms, en ekki vangeta. Kristján Jóhann tengir þetta (bls. 98) við það sem Grímur sagði í ritgerð sinni 1841, og nefnt var hér að framan, að hann taldi rómantíkinni til gildis að hafa brotið af sér reglufestu klassisismans um form. Virðist mér þetta snjallt athugað hjá Kristjáni.



Annars er sláandi, hve sammála menn eru um öll þessi skáld, alla tíð, og þeir dómar standa enn. Ég hefi séð það álit, að Bjarni og Jónas hafi kveðið fyrir daufum eyrum framanaf öldinni, en það kemur ekki fram í þessum vitnisburðum, nema tortryggni roskinna embættismanna, sem voru samtíma Jónasi. Annars eru vitnisburðir um jákvæðar viðtökur samtíma hans. Það er helsta breyting á skáldamati, að talsmenn raunsæis á 9. áratug 19. aldar draga úr jákvæðu mati á vinsælasta skáldinu, Steingrími.





Blæleitin skáld



Fyrr voru rakin helstu viðhorf skálda þessara, sem ráða m.a. ritdómum þeirra. En ann­arskonar viðhorf birtust líka á þessum árum, einkum í tíma­ritinu Nýjar kvöld­vök­ur, sem birtist á Akureyri á árunum 1906-1962. Þar segir J.J. [Jónas Jónassson frá Hrafna­gili] m.a. um Dagsbrún Jónasar Guðlaugssonar (1909, bls. 45):





Það eru víða lagleg tilþrif í kvæðum þessum, en ærið eru þau hljóm­lík kvæð­um sumra annara, sem ort hafa og gefið út á und­an, t.d. Guð­mund­ar Guð­munds­sonar. En flest af ljóðunum er lítt þrosk­að, og stund­um æði­lít­ið um veru­legan, skáldlegan smekk. Þjóð­skáld­ið, Apis og Dalbúar eru kvæði, sem helst hefðu átt að vera kyrr í skúffunni heima, og óþverra­talið um bændurna í síð­asta kvæð­inu eru alls óviður­kvæmi­leg orð; það vita allir, sem vilja kann­ast við það, sem satt er og rétt, að íslensku dala­bænd­urn­ir eru kjarni íslensku þjóðarinnar.





Hér er þá bókmenntaverkunum fundin til for­áttu sú þjóðfélags­gagn­rýni sem í þeim birtist. Ekki er orði vikið að efn­is­tök­um. Að sönnu veit ég ekki aðra gagnrýnendur þessa tíma standa á þvílíku stigi bókmennta­mats. En þetta skýrist af klausu í bók­mennta­þáttum Jónasar ári áður (í sama tímariti, III, bls. 239):





[...] þegar talað er um þann þroska, sem nú er farið að heimta af skáld­un­um. Þau eru jafnan talin leiðtogar þjóðanna á vissan hátt. Þau hafa í sér sam­an­þjappaðar þær hugsanir og tilfinn­ingar, sem tím­an­um eru sam­fara, og grípa einatt fram fyrir sig þær hugs­an­ir, sem verða síðar ríkj­andi meðal þjóðanna. Og þau meira að segja skapa tíðaranda þann og lífs­skoðanir, sem mest ber á, eftir að rit þeirra hafa borist út meðal þjóð­anna.





Þetta viðhorf til skálda hefur ríkt lengstum áður og síðan, og ekki bara á Íslandi. Þess vegna reyna stjórnmálamenn að hafa stjórn á skáld­skap. Ég held að það séu fyrst og fremst skáld táknsæis og síðar mód­ern­isma sem hafa haldið fram öðru viðhorfi, að listsköpun sé sjálf­stæð starf­semi manna, án tillits til uppeldisgildis.



Flestar ljóðabækur skálda okkar fengu jákvæðar viðtökur, og furðu­­margir rit­dómar birtust um þær, stundum eitthvað á annan tug um eina bók. En sumir gagn­rýn­enda skrif­uðu rit­dóm­ana töluvert upp eftir starfs­bræðr­um sínum. Stundum eru rit­dóm­ar nafnlausir. Freistandi er þá að eigna þá ritstjórum, því vitað er að oft skrifuðu þeir ritdóma. Hins­veg­ar hefur oft verið talað um að vinir skáld­anna hafi skrifað um þá já­kvæða ritdóma í skjóli dulnefnis eða nafn­leys­is. Verður því að una nafn­leysinu, þótt ritstjóra verði getið við nafnlausa ritdóma í heim­ilda­skrá. Annars eru ritdómar þessara tíma oftast almennt orðaðir fram­an­af, hvort sem er hrós eða smávegis að­finnsl­ur, en mest áhersla er lögð á að kynna ljóðin með sýn­is­horn­um. Gagn­rýn­in úttekt fer þó mjög að koma í stað þessa um 1905. Líklegust skýring á þeirri breytingu finnst mér í fyrsta lagi áhrif Einars Benediktssonar, sem skrifaði hlut­lægt og vægð­ar­laust um bók­mennt­ir þegar á miðjum lokaáratug 19. aldar. Bæði Sig­urð­ur Sigurð­arson og Jónas Guðlaugsson sýnast mér bera nokk­urt mark Einars Bene­dikts­sonar í bókmennta­gagnrýni sinni. Einnig verð­ur að nefna skrif Guð­mundar Finn­boga­sonar, sem var menntaður fag­urfræðingur. Skírnisgrein hans um ljóð Einars Bene­dikts­sonar 1905 er reynd­ar beggja blands, mest um efni, en víkur nokkuð að líkingum og til­brigð­um bragarháttar.



Hér skal tínt til það helsta í ritdómum, sem varðar þennan bók­mennta­straum. Ekki þótti ástæða til að rekja alla ritdóma.



Ýmsir ritdómarar kvarta undan “þessum venjulegu ætt­jarðar­ljóð­um, sem eru orðin manni svo töm, að þau renna saman í huga manns. [...] en lítið skáld­legt gildi hafa þau allflest, af því að þau kveða alltaf við sama tóninn, eru með sömu hugsunum og því nær sama orða­lagi.”(“t” -væntanlega ritstjórinn, Þorsteinn Gíslason, í ritdómi um Dagsbrún Jónasar Guðlaugssonar, í nóv. 1909, Óðni V, 61). Í sama streng tekur Jónas Jónasson sama ár í ritdómi um Kvæði Huldu (Nýjar kvöldvökur IV, bls. 44).



Um fyrstu bók Einars Benediktssonar birtust aðeins þrír rit­dóm­ar, en þó var öll forsíða Þjóðólfs auk hálfrar annarar síðu lögð undir kynn­ingu á henni (15. 4. 1898, eftir Hannes Þorsteinsson). Hún var mjög jákvæð, en Þorsteinn Gíslason var fremur neikvæður (í Íslandi, 18. 4. 1898). Jón Ólafsson hellti yfir bókina hátt á þriðju síðu af tittlinga­skít próf­arka­lesturs (Nýja öldin 23.4.1898). Þetta er í grundvallaratriðum sama aðferð og hann beitti í fyrrgreindum ritdómi sínum um fyrstu ljóðabók Gríms Thomsen, sautján árum áður, og hefur greinilega verið stoltur af. Hann sagði þó:





Hvarf sr. Odds er meistarastykki höfundarins. Það eitt mundi ávallt halda uppi nafni hans sem skálds, þótt hann hefði ekkert annað kveðið. Mér þykir það eitt með fallegustu kvæðum á íslensku, og fyrstu þrjú erindin hafa til að bera þá list í samræmi hljóms og efnis, að ég þekki ekki slíka líka á voru máli. Það er einsog maður heyri marra í ísnum undan sköflunum þegar maður les t.d. fyrsta erindið.





Kynningargrein Guð­mundar Finn­boga­sonar um Einar kom í Skírni ári áður en Hafblik birtist, en tylft ritdóma kom um þá bók, og allir fyrst og fremst jákvæðir. Raunar er talað um stirðleika og þung­lamalega bragar­hætti, sem muni halda kvæðum Einars frá alþýðu, “en þó munu þess dæmi finnast að ýmsir alþýðu­menn kunna mörg kvæði eftir Einar Bene­dikts­son utan bókar” (ómerktur ritdómur í Lögbergi, 18.4.1907). Undar­leg­ast er að sjá Einar sak­að­an um “fábreytni í bragarháttum” (í Þjóð­ólfi 9. 11. 1906), raunar hafði Guð­mundur Finnbogason hrakið það árinu áð­ur (bls. 352). Einar skapaði yfirleitt nýja bragarhætti[39].



Kvæði og sögur Jóhanns Gunnars, sem birtust 1909, hljóta helst þá umsögn að höf­und­ur hafi dáið áður en hann gat náð verulegum þroska, 24 ára[40]. Í ljóðum hans þykja auðséð áhrif frá Jónasi Hallgríms­syni, einsog hjá Huldu (Þjóðólfi, 22.10. 1909). Þó kemur einnig fram það sjónarmið, að meðferð efn­is­ins





stórbatnaði með ári hverju, og var orðin svo góð, að hverju af góð­skáldum vorum mætti vera það ánægja, að hafa ort allmörg af yngri kvæðunum. Heillöng kvæði eru í bók­inni, þar sem hvergi er hagg­að orðaröð daglegs máls, og sýnir það, hve höf. var frábærlega hag­mælt­ur.





sagði Andrés Björnsson (1910 í Eimreiðinni XVI, bls. 151-3). Áður hafði Jónas Jónasson bent á þetta í sambandi við kvæðið “Í gljúfr­um” (Nýjar kvv. III, 240):





Ekkert orð er í því kvæði sem ekki er algengt í daglegu tali, að kalla má, brag­ar­hátt­urinn er fábrotinn, orðaröðin eins ein­föld og blátt áfram, eins og maður sé að tala við mann, og þó felst meiri kraftur, meiri áhrif, meiri óhugnaður í því kvæði en flestu því, sem eg hefi lesið þess kyns.





Tvístirni Jónasar Guðlaugssonar og Sigurðar Sigurðssonar fékk ágætar viðtökur, en ýmsir tóku fram að Sigurður væri Jónasi mun þrosk­aðra og fremra skáld (t.d. í Þjóðólfi 8/3 1906, bls. 53). Yfirleitt er ljóðum Sigurðar hrósað síðan, þó með svo almenn­um orðum að ekki er unnt að taka á neinu sérstöku[41]. Einna jákvæðastur er ritdómur í Óðni (IX, 60): ”Öll eru kvæði hans vandlega vegin og hugsuð, og fáguð með nákvæmni áður en hann lætur þau frá sér fara. Ýmis af þeim eru líka hreinar perlur, svo sem Hrefnuhróðurinn, Sólarlag, Hraunteigur o.fl. Þýðingar hans af erlendum kvæðum eru og mjög vel gerðar”. Jakob Smári segir hinsvegar m.a. (Vísi 18.8.1924): “Yrk­is­efni hans eru fá og kvæðin yfirleitt fábreytt [...] Hann er mjög vandvirkur og smekkvís [...] en innan um bregður fyrir skáldlegum leiftr­um, sem skera sig úr þeirri mjúku tunglskinsmóðu sem yfir ljóðunum hvílir.” Einna dræmstar eru undirtektir MJ [Magnús Jónsson dósent] í Ið­unni 1924, bls. 80: “Sigurður kveður lítið og fábreytilega, en vel og kröft­ugt. Kennir nokkuð átakanna og dreg­ur úr gildi kvæðanna.”



Jónas Guðlaugsson fékk hvarvetna sömu viðbrögðin við fyrstu ljóða­bók sinni; Vorblóm, 1905, og þau eru raunar tekin upp úr eftirmála hennar, að það sé mesta furða hvað þetta sé þokkalegt, miðað við að höfundur sé aðeins 18 ára. Meira megi vænta af honum síðar. “Rauna­legt er það aðeins, að hann skyldi finna sig til þess knúðan að láta þau prenta”, sagði Friðrik Bergmann (í Breiða­bliki I, bls. 128, jan. 1907). Öllum jákvæð­ari er Jón Stefánsson í Eimreið­inni (1906, bls. 231 um Tví­stirn­ið): “Náttúru­lýs­ingar Jónasar eru einsog nafni hans Jónas Hall­gríms­son væri kominn aftur og farinn að yrkja; form og innihald jafn­fag­urt [...] Hér er lýsingunni haldið alla leið með snilld.”



Dagsbrún varð hinsta íslensk ljóðabók Jónasar, hún birtist 1909 og fékk yfirleitt góðar viðtökur. Einna jákvæðastar í Óðni (nóv. 1909), um fjölbreytni, þar segir m.a. að ástaljóð hans séu óvenju góð, og Æskuást tekin sem dæmi um helgiblæ. Einnig eru ádeilukvæði hans lofuð sem jafnvel hvassari Steingríms og Jónasar Hallgrímssonar. ”t”, sem væntganlega er ritstjórinn, Þorsteinn Gíslason, ræður Jónasi ”að láta ”Ég-myndina” fjúka, en finna tilfinningum sínum stað í djúpsæjum og þó einföldum líkingum, álíka og í þessu kvæði” (Márinn).



Sigurður Sigurðsson segir (í Ísafold XXXVI, 306):





kvæðin eru ekki nægilega samfelld í stíl, svo að innan um gott og rétt mál skýtur allt í einu upp skrímslum með hræðilegum svip, sem í skyndi gleypa það góða sem komið var.



Hitt er þó meira um vert, að í flestum kvæðunum er eitthvað gott og sumum mikið gott; mega Helför, Aladín, Örninn, Márinn o.fl. heita góð kvæði og því má ekki gleyma að góð kvæði eru mjög fátíð.





Valtýr Guð­munds­son sagði aftur á móti í Eim­reið­inni (1910, bls. 226) að kvæðin væru ekki minnisstæð, “eng­inn stórfelld­ur skáld­skapur, [...] en heldur engir veru­legir gallagrip­ir”. Magnús Jóns­son var stórum neikvæðari, en hans dómur (18. l1. 1909 í Ing­ólfi VII, 43. bl.) er þó and­stæður þessum. Því hann segir að Jónasi takist oft vel upp, einkum í ádeil­um, “og orðaval og rím er hans sterka hlið”. Hinsvegar spilli hann iðu­lega kvæðunum með smekk­laus­um inn­skot­um - einkum með því að koma eigin persónu að[42]. Nú var löng hefð fyrir því að ljóðmælandi lýsti tilfinningum sínum, t.d. bæði hjá Steingrími Thor­steins­syni og Matthíasi Jochums­syni. En þetta er eins og í því sem haft var eftir ritdómara Óðins hér að framan, og áhersla á ópersónulega ljóða­gerð fylgdi sem fyrr segir táknsæisstefnunni erlendis, og kom fram t.d. bæði hjá Mallarmé og T.S. Eliot.



Fyrstu ljóðabækur Huldu voru Kvæði (1909, 130 ljóð), Syngi syngi svanir mínir (1916, ævintýri í ljóðum) og Segðu mér að sunnan (1920, 70 ljóð), en fyrst birti hún ljóð í tímariti 1901. Áður en fyrsta bók Huldu birtist, kom (auk fyrrgreinds kvæðis Einars Bene­dikts­sonar til hennar, 1904) grein um hana eftir Þorstein Erlingsson 1905, tvær heil­síð­ur, en um Kvæði hennar fimm árum síðar hálf önnur síða eftir sama (Fjallkonan, 29. 6. 1910), sem áður var vitnað til hér. Þrátt fyrir að Þorsteinn skrifi rit­dóm­inn til að andmæla öðrum rit­dómum[43], verður á fáu öðru gripið, en því sem fyrr var talið úr þeim skrifum, enda segist Þorsteinn frá­bit­inn allri grein­ingu á fegurð. Hann lofar einkum þulur Huldu, svo sem flestir seinni rit­dómarar. Mjög á sömu lund skrifaði Karl Finn­bogason (Norður­landi, 16.10. 1909). Um þessa bók Huldu segir Matthías Jochumsson (Norðri 23.9. 1909) að tón­stigi hennar sé ekki sérlega stór, harpa hennar hafi ekki marga strengi, “hún endurtaki æ og æ líkan tón, [...] en falsk­ir tónar finn­ist færri í ljóðum Huldu, en í kveð­skap nokkurra ann­arra skálda hér á landi, síðan Jónas Hall­gríms­son leið. Valtýr Guðmundsson (Eim­reið­in 1910, bls. 64-5) er í raun­inni með sömu gagnrýnis­atriði, einsog Jónas Guð­laugsson (í Lögréttu 20.10. 1909, bls. 194-5). En Jónas er mun nei­kvæðari, tal­ar um þreyt­andi endur­tekn­­ingar, þar sé “ekki um neina stóra, skapandi skáld­gáfu að ræða”, þótt flest kvæðin séu “slétt og lagleg og stórlýtalaus”. Hann hrós­ar þó 2-3 kvæð­um ortum út af vikivökum og þulum, sérstaklega sé Ljáðu mér vængi gull­fall­egt. Jónas frá Hrafnagili segir (Nýjar kvöldvökur IV, bls. 44) að fátt sé “veru­lega frumlegt [...] Þessi enda­lausa, hálf­ang­ur­væra draum­værð í þessu dagsdaglega í nátt­úr­unni, sumar­morgn­um og sum­ar­kvöldum, er eitthvað veikluleg, smátæk og kaf­ar svo grunnt, að það hættir að taka mann tökum; manni fer að leiðast það.” Annað finnst honum betra, einkum ástar­ljóðin, sem komi innan að. Svipuð er gagn­rýni ónefnds ritdómara í Þjóðólfi (6.10.1909). Enn kvað við það sama í ritdómum um Segðu mér að sunnan; ”Hulda spilar enn á eina strenginn sinn” (MJ í Eimreiðinni 1920, bls. 376, svipað er hjá JB í Mbl. 4.6.1920.



Sigurjón Friðjónsson varð seinn til að gefa út ljóðabók, sem áður segir, hún varð mjög stór, og ljóðum raðað saman eftir efni[44]. Má það skýra dóm Guð­mund­ar Hagalíns (Nýjar kvöldvökur XXII, bls. 54): “Mörg af kvæð­un­um eru lík að efni og blæ, og verður því lesturinn held­ur þreytandi og til­breyt­ing­ar­lítill. En samt sem áður eru í bókinni mörg falleg kvæði.” Undir þá kvört­un [um efnisröðun] tekur Árni Hallgrímsson (í Iðunni 1929, bls. 93-5), einn­ig Jakob Smári (í Tím­an­um 20. 7. 1929). Hann segir ennfremur að þótt tilkomu­lítil kvæði kunni að vera innanum, þá séu ljóð SF “furðulega jafn­falleg yfirleitt.” JM [skáldið Jón Magnússon] lofar ljóðin í Eimreiðinni 1929 en finnur það helst að þeim, að skörp tilþrif vanti, til að les­end­ur hrökkvi við. Hann segir einnig að of mikið beri á náttúru­lýs­ing­um. Þeim sé sópað að úr öllum áttum, og lesendum ætlað að lesa milli lín­anna merg málsins. Þetta heppnist að vísu oft (bls. 194). Þetta síðasta kom og fram í grein um Sigurjón 1902 eftir bróður hans Guð­mund Friðj­óns­son (sjá upphaf k.5.2.).



Söngvar förumannsins eftir Stefán frá Hvítadal þóttu ýmsum sérkennilegur skáld­skap­ur, t.d. Jakobi Smára (í Skírni 1919, bls. 196 o.áfr.), en því atriði var bein­línis neitað af Ágústi H. Bjarnasyni sama ár (í Iðunni IV, bls. 325-6). Hann talaði gegn svartsýniskvæðunum, en þótti óvenju smekklega frá öllu geng­ið, miðað við alþýðuskáld. Svipað viðhorf má greina í orðmargri grein Jónasar Jónssonar (í Tímanum 24. 12. 1919; Tvö skáld). Jakob Smári sagði að formið væri mjög ein­falt, og lítið um líking­ar, en (bls. 191): “hika eg ekki við að telja meiri hluta þeirra [kvæð­anna] snilld­ar­verk - jafngild þeim kvæð­um sem best hafa verið ort á íslensku”. Bókin fékk og einkar já­kvæð­ar viðtökur hjá Magn­úsi Jónssyni (í Eimreið­inni 1919, bls. 126). Eins er hjá Matthíasi Joch­ums­syni (22.3.1919 í Ísafold), þótt einnig þar verði ekki tekið á neinu sérstöku. En Sigurður Sig­urðsson skrifar um sömu bók í næsta tbl. Ísafoldar (29. 3. 1919), og hrósar kvæðunum sérstak­lega fyrir að vera á eðli­legu máli. Bestu kvæðin “lýsa sterku trúar- og til­finn­ingalífi, tilbeiðslu list­ar og ásta, og með­vit­und um eigin vanmátt.” En fyrstu kvæðin séu “mátt- og merg­lítil”, og ádeila öll of almenn. Þorkell undir Fjalli segir (12. 2.1919 í Tímanum III, 10. tbl.) að flest ljóðanna séu hug­blæslýs­ing­ar. Slík kvæði verði að vera stutt og stíllinn hraður. En Stefán spilli kvæð­unum iðu­lega með óþörfum við­bót­um, “en þó er verra þegar fölsku nót­unum er dreift svo um allt að örðugt er að aðgreina hreinu hljóðin, þó þau séu þar, og mörg fögur. Þannig eru t.d. kvæðin Sól­dagar, Vorvegir, Gættu þín, Fölskvaðir eldar, Formannsóður, Seytj­ándi maí.” Undir þetta tók Guðmundur Hagalín (12. 3. 1919 í Lögréttu XIV, 11.tbl.). Einnig átaldi hann að lýsingum sé hrúgað saman og lík­ingar séu nykr­að­ar:





“Og glóandi rauður hver ofninn er



og eldsneytið mannahjörtu“



En svo kemur:



„Og logar ofnanna leika



um lífsins vorgróðurstofna.“



Þetta spillir. Æskilegast hefði verið, að líkingunni „eldsneytið manna­hjörtu“ hefði verið haldið áfram. [...]



„Heyr mitt ljúfasta lag,



þenna lífsglaða eld“.



Þessi ótæki lífsglaði eldur, sem er hið ljúfasta lag, er höfuðsynd í kvæði sem Hún kyssti mig





Ljóð Davíðs urðu skjótt mjög vinsæl. Um þau sagði m.a. Jón Björns­son (í Vísi 12. 1. 1920) í ritdómi um Svartar fjaðrir: ”Þau eru öll um bylgju­gang hins innra lífs. Öll eða flest um tilfinningar. Og Davíð er ekki bund­inn við eina tegund tilfinninga [...] Þar er grát­döp­ur sorg. Þar er heilög gleði.“ Hér er eins og víðar vikið að þjóðkvæðasvip kvæð­anna, sem sé að­al­styrkur þeirra: “Fyrir þessa sök er sjaldan arn­súg­ur í kvæðum Davíðs. En það er í þeim seiðandi söngva-þungi.”



Matthías Jochumsson þakk­ar þjóðsagnablænum það að skáldið þekki ekki mærð né íburð. “En þrátt fyrir lipurð hans og orðheppni, skortir hann enn allmikið sem brag­list­ar­skáld.” (9. 6. 1920 í Lögréttu XV, 52). Ágúst H. Bjarnason spyrðir Davíð saman við Theodóru Thoroddsen og Stefán frá Hvítadal (Mbl. 23/12 1919):





Öll bera þau nokkurn keim hvert af öðru að því leyti, sem þau slá á strengi þjóðsagna vorra og ævintýra og að ljóð þeirra eru í ætt við það besta, sem til er í þulum vorum og þjóðkvæðum. [...] En nú kemur Davíð [...] og er hann [...] ekki sístur því að bæði færir þessi bók okkur mörg bestu kvæði hans og svo gefur hún okkur fyr­irheit um önnur enn betri því Davíð er einn af þeim fáu, sem er fæddur skáld.





Magnús Jónsson var neikvæð­ari (s. á. í Eim­reið­inni XXVI, bls. 125-7):





Davíð skarar ekki fram úr að frumleika. Hann yrkir mikið í þessum þjóðvísustíl, sem ýmsir hafa verið að spreyta sig á nú um alllangt skeið, og einkum fer maður hvað af hverju að þreytast á þessu, að endurtaka síðustu línuna ýmist óbreytta eða lítt breytta. Hann tekur sig ekki heldur út úr með einkennilegum orðatil­tækj­um, ekki heldur með næm­um athugunum á mannlegu lífi [en...] hann er fullur af lyrik [...] og það blæs einhverju nýju feg­urð­ar­lífi í þjóð­vísu­stílinn hans, sem aðra hefir vantað flesta.





Það er athyglisvert, að þegar þessi fyrsta bók Davíðs birtist talaði eng­inn um að “með henni kvæði við gjörsamlega nýjan tón” - svosem varð klisja síðar. Þvert á móti var Davíð helst sakaður um skort á frumleika[45].



Kaldavermsl Jakobs Smára birtust 1920 og um þau komu amk. fjórir ritdómar, mjög jákvæðir. Sá sem að jafnaði var dómharðastur rit­dóm­ara, Magnús Jónsson, var í skýjunum yfir þessari bók (í Eim­reið­inni XXVI, 371-2), sagði að Smári væri “líklega lýriskastur allra nú­lif­andi skálda ís­lenskra”, og gat það eitt fundið að, að Jakob notaði sonn­ettu­hátt of mikið, “þar sem hann á ekki við” HH [þ.e. Hallbjörn Halldórsson] í Alþýðu­blaðinu (17. 5. 1920) miklast eink­um “tigin og lipur kveðandi, ríku­legur orða­forði og göfug orðaskipun. En það sem sérstaklega ein­kenn­ir bún­ing­inn þó í mínum augum, eru lýs­ing­ar­orðin, og þá einkum þau, sem tákna liti [...] töfraskáld ljóss og lita”. Undir það tók AJ [Alex­and­er Jóhannesson] (í Ísafold, 20. 5. 1920) og rakti ýmis dæmi um blá lit­brigði í ljóðunum. En S. svaraði þessu svo (2. 6. 1920 í Lögréttu, XV, 22) að Jakob væri fyrst og fremst skáld þagn­ar­innar og friðarins.



Tómas Guðmundsson birti fyrst sex ljóð í Óðni í ársbyrjun 1919. Aðeins eitt þeirra, titilljóðið var tekið upp (breytt) í fyrstu ljóðabók hans, sem birtist 1925, þegar hann hafði fjóra um tvítugt. Hún virðist ekki hafa vakið mikla athygli, ritdóm hefi ég aðeins fundið í Eimreiðinni 1925, eftir Svein Sigurðsson ritstjóra, og hann er bæði stuttur og óloflegur:





yrkir um vorkvöld, rósir, blá sund og bjartar nætur, augu unn­ustunnar og drauma, sem aldrei rætast. Þessi ljóð bera vott um smekk­vísi og hagmælsku á allháu stigi, því þau eru öll létt og lipurt ort. En veigalítil eru þau að efni til, og verður ekki af þeim ráðið, hvort vænta megi mikils af hinum unga höfundi síðar.





Halldór Laxness tók þessa bók vinar síns (í maí 1925, bls. 91-2, Tíska og menning) sem dæmi um að:





Á Íslandi er hinn mesti síðgotungsbragur á allri menningu, og hætt­ir ljóðskáldum til að vera eftirhreytur eldri tíma og tíðaranda. [...] Ljóð þrungin guðhræddri kvendýrkun, um blóm, rósir, bláma og töfrandi mánaskin, eru svo fjarri því að vera skáldleg framar, að annar hver maður sem les það hlær að því og stenst varla freist­ing­una til að gera af því skopstælingu. [...og bls. 94]: Sjálfur dáist ég að því hve miklu af ljóðrænum glitþræði Tómasi hefur lánast að vefa hér inní svo lítinn dúk. Svanasöngvar, kvöldblá fjöll, rauðir skógar, riddari og höll!





Allt aðrar viðtökur fékk næsta bók Tómasar, átta árum síðar, Fagra veröld. Hún seldist víst mjög vel og henni var hvarvetna hælt - þó með nokkrum fyrirvara róttæklinga um að hún væri of fjarlæg lífi stríðandi alþýðu, og að hún væri falskur tónn í kreppunni. Um það hefi ég fjallað annarsstaðar og vísa til þess (1990, bls. 107). Einna mest er lofið hjá MA (Magnúsi Ásgeirssyni? í Alþýðublaðinu 24. 12. 1933):





Efnisval höfundar er slík nýjung og efnismeðferð hans svo skáldleg og skemmtileg, að ég hika ekki við að telja þessa bók hina bestu ljóðabók sem komið hefur út á Íslandi árum saman.





Tómasi er hrósað fyrir frumleika. „Og þó er mjög erfitt að benda á, í hverju frumleiki og sérstæði skáldsins er fólgið“ sagði Guðmundur Finnbogason í Skírni 1935. En í ljósi fyrrgreinds boð­skapar um hlutlæga eða ópersónulega ljóðagerð finnast mér athygl­is­verðust lofs­yrð­in um að Tómas yrki um umhverfið eins og það er, frem­ur en um sjálf­an sig, t. d. hjá Kristjáni Albertssyni í Mbl.1933:





Hann er ekki sígrátandi, eins og ungra ljóðskálda er siður, hann er heldur ekki ádeiluskáld, með þjóðfélagsleg viðhorfi, er bölv­ar öllu í sand og ösku, - heldur blátt áfram ungur maður, sem ekki gerir kröfu til þess að teljast spámaður, en leyfir sér að gleðj­ast yfir lífinu og syngja því lof.





og hjá Jóni Norland í Eimreiðinni 1935:





Hann leitast ekki við með íburðarmiklu og tvíræðu orðalagi að leysa úr vandagátum lífsins, snýst heldur ekki í sífellu um sína eigin dýrmætu persónu og hennar framúrskarandi tilfinningasjóð, eins og mörgum byrjendum hættir við, heldur kveður hann um það sem fyrir augun ber, og þá helst Reykjavíkurbæ og fólkið þar...






2.6. Samantekt



Rómantík einkennist af því að í goðsögum og táknum birtast m.a. tengsl náttúru og mannlífs, lýsingar þess eru hafnar yfir hversdagslegar aðstæður, m. a. með upphöfnum stíl. Auk þess ber að huga að mismunandi djúptækum einkennum rómantískra verka, sem talin voru upp hér að framan. Þar er bæði um að ræða heildarsvip, svo sem skiptingu Aarseth í: 1. tilfinningarómantík, 2. allsherjarrómantík, 3. lífsþróttarrómantík, 4. þjóð­ern­isrómantík, 5. frjálslyndisrómantík, 6. félagslega rómantík, og 7. byggða­rómantík, og einnig efnisatriði svo sem ræningjarómantík, óhugnað, áhuga á miðöldum eða fjar­læg­um stöðum, o.fl. þ.h



Íslensku skáldin leggja áherslu á sjálfstæði skálda, þau hljóti að ummynda efnivið sinn eftir þörfum verksins. Ennfremur hafi þau fært út mörk þess hvaða bragarhætti og orðalag megi velja. Rækt beri að leggja við þjóðleg sérkenni, og endurnýjun sótt til alþýðumáls. Mikla áherslu leggja þau á að vanda orðalag og samstilla. Skáldleg fegurð skiptir meira máli í skáldverki en hagnýtur lærdómur í upplýsingaranda. Skáldskapurinn á að hefja sig yfir hversdagsleikann, án þess þó að snúa baki við honum. Grímur og Gröndal beina sjónum að andstæðum þeim sem birtast á milli Bjarna og Jónasar, annarsvegar hrikaleika, hinsvegar sveitasælu. Grímur hefur sérstöðu, með því að átelja tilfinningatal Jónasar, sem sé í stíl við Heine.



Fyrstu rómantísk ljóð á íslensku fóru að birtast undir 1810, eftir Bjarna Thorarensen. Þau hafa ekki farið víða, og þótt ljóð Jónasar Hallgrímssonar birtust í Fjölni, tímariti hans og félaga hans, hlaut það litla útbreiðslu. Ljóðasöfn þeirra tveggja birtust svo undir miðja öldina, ásamt ritum Gríms um fagurfræði. Líklegt virðist mér að þessi rit Gríms hafi haft veruleg áhrif til útbreiðslu rómantíkur, einkum meðal ungs bókmenntafólks, ekki síður en ljóð Bjarna og Jónasar, og uppúr því eykst útbreiðslan verulega með ljóðum Benedikts Gröndal, Steingríms og fleiri, sem nú fer minna fyrir. Rómantísk ljóð verða svo drottnandi í íslenskri menningu, a.m.k. á seinustu 3-4 áratugum aldarinnar. Merkilegt er að sjá hve samdóma menn hafa alla tíð verið um þessi ljóð, helsta undantekningin er að dýrkunin á Steingrími rénaði allt frá því að talsmenn raunsæis fóru að ráðast á hann á 9. áratug 19. aldar. Inn í þann straum komu svo fyrstu blæleitin ljóð á íslensku, allt frá byrjun lokaáratugs 19. aldar.



En sú stefna var kynnt fræðilega í upphafsárgangi nýs íslensks menn­ing­ar­tímarits, Eimreiðarinnar, um miðjan áratuginn, aðeins 1-2 árum eftir að hún er skýrt sett fram í Dan­mörku. Sú stefnuyfirlýsing kom frá skáldum sem ortu þvílík ljóð uppundir áratug fyrr. Johannes Jørgensen boðaði að listin ætti að grípa hverful augna­blik þar sem æðri sannleikur birtist á bak við ásýnd hlutanna. Félagi hans, Sophus Claussen lagði áherslu á að hér væri ekki um það að ræða að birta eitthvað sem teldist háleitt og göfugt í samanburði við hvers­dags­legt mann­líf, t.d. trú­ar­leg sannindi eða aðra kunna speki, heldur væri í listinni opin­berun framandlegs, sköpun áður ósagðs.



Meginatriði þessa kemur skýrt fram í kynningargrein um miðjan lokaáratug 19. aldar, að hlutverk skáldskaparins sé að grípa hverf­ula skyn­mynd andartaks, en lesendur verði að ráða í, hvað að baki búi. Þess­um skyn­mynd­um fylgi íburðarmikið lík­inga­mál og oft ný­stár­legar sam­líkingar. Sú varð oft raunin á, en þó leggja margir áherslu á að ljóðin eigi að vera á eðli­legu samtímamáli. Í yfirlýsingum á lokaáratug aldarinnar er auk þess dregið fram að þetta sé meðvitað fráhvarf frá natúr­al­ism­an­um, sem hafi verið of jarð­bund­inn. Þeirri andstöðu við skyn­sem­is­hyggju fylgir áhersla á ljóðmyndir. En Sig­ur­jón Friðjónsson dró einkum fram ómrænan kveð­skap, sem hafi verið settur hjá, bæði vitrænum og myndrænum kveðskap. Bæði Einar Bene­dikts­son, Sigurjón Frið­jóns­son o.fl. leggja áherslu á að skáldritið eigi að gefa raunsannar lifandi myndir af íslenskri alþýðu, og leggja rækt við einkennandi smá­atriði. Þetta sam­­ræm­ist fylli­lega natúral­ism­an­um, einnig ríkjandi þjóðernisstefnunni, en sam­ræmist ekki síður því, að grípa líðandi stund hlut­lægt, sam­kvæmt fyrr­nefnd­um stefnu­skrár­grein­um. En í samræmi við þennan áhuga á hugarheimi íslenskr­ar alþýðu kemur áhersla á þjóðsögur, þjóð­kvæði og þjóðtrú sem efni­við skáldskapar. Enda setti þetta ríkulega svip sinn á kvæði flestra þessara skálda. Loks kemur fyrir að skáld (Sig­ur­jón Frið­jónsson) og ritdómari (Jónas frá Hrafnagili) mæli með já­kvæð­um skáld­skap, bjartsýnum. Hefur það viðhorf áreiðanlega verið býsna útbreitt, en er and­stætt tískunni erlendis, þar sem töluvert bar á tali um “úrkynjun”. Hvorki skáldskapur Sigurjóns né ann­arra þeirra skálda sem hér um ræðir var uppbyggilegur á þennan hátt.



Sérkennilegt er loks, að ritdómarar virðast ekki sjá neitt nýtt í bókum blæleitinna skálda, nema helst það að þau yrki á eðlilegu hversdagsmáli. Aðfinnslur eru þvert á móti aðallega um ófrumleika, sem birtist einkum í náttúrudýrk­un og þjóðkvæðaháttum.


















[1] Sjá um þetta Þóri Óskarsson, bls. 15 o. áfr. og Íslenska bókmenntasögu III, bls. 260 o.áfr. Einar Ólafur Sveinsson var á sama máli 1930, bls. 230, þegar hann segir, m.a. um rómantík og aðrar nýjar hreyfingar að þær séu “hvergi eðlilegar nema í átthögum sínum.”





[2] “the very notion of empirical explanation, when we consider it, involves the accounting for much by means of little – unless a hypothesis is at least somewhat simpler than its data, it is not really an explanation at all. Therefore, any good reason we have for explaining things is also a good reason for explaiing them as simply as possible.





[3] “The precise reason, it will be remembered, why it was held to be “a general rule of poetry that all appropriated terms of art should be sunk in general expressions was that “poetry is to speak a universal language.” (bls. 291).





[4] “The Enlightenment was, in short, an age devoted, at least in tirs dominating tendency, to the simplification and the standardization of thought and life – to their standardization by means of their simplification. (s.st.)





[5] it came to be believed not only that in many, or in all, phases of human life there are diverse excellences, but that diversity itself is of the essence of excellence; and that of art, in particular, the objective is neither the attainment of some single ideal perfection of form in a small number of fixed genres nor the gratification of that least common denominator of aesthethic susceptibility which is shared by all mankind in all ageds, but rather the fullest possiible expression of the abundance of differentness that there is, actually or potentially, in nature and human nature, and – the evocation of capacities for understanding, synpathy, enjoyment, which are as yet latent in most men, and perhaps never sapable of univesalization. And these assumptions, though assuredly not the only important, are the one common, factor in a number of otherwise diverse tendencies which, by one or another critic or historian, have been termed “Romantic”; the immense multiplication of genres and of verse-forms; the admission of the aesthetic legitimacy of the genre mixte; the gout de la nuanve; the naturalization iun art of the “grotesque”, the quest for local color; the endeavor to reconstruct in imagination the distinctive inner life of peoples remote in time or space or in culturarl contdition; the étalage du moi; the demand for particularized fidelity in landscape desccription; the revulsion against simplicity” o.s. frv.





[6] “If we examine the characteristics of the actual litereature which called itself or was called “romantic” all over the continent, we find throughout Europe the same conceptions of poetry and of the workings and nature of poetic imagination, the same conception of nature and its relation to man, and basically the same poetic style, with a use of imagery, symbolism and myth which is clearly distinct fom that of eighteenth century cneoclassicism.” (bls. 160-161, tekið eftir Aarseth 1983, bls. 123).





[7] This conclusion might be strengthened or modified by attention to other frequently discussed elements: subjectivism, mediævalism, folklore, ec. But the following three criteria should be particularly convincingv, since each is central for one aspect of the practice odf literature: imagination for the view of poetry, nature for the view of the world, and symbol and myth for poetic style (bls. 161).





[8] In all of these studies, however,diverse in method and emphasis, a convincing agreement has been reached; they all see the implication of imagination, symbol, myth, and organic nature, and see it as part of the great endeavor to overcome the split between subject and object, the self and the world, the conscious and the unconscious. This is the central creed of the great romantic poets in England, Germany, and France. It is a closely coherent body of thought and feeling. We can , of course, still insist that here is also a unity of romanticism on the lowest literary level; in the renascence of wonder, in the Gothic romance, in the interest in folklore and in the Middle Ages.





[9] Nærtæk skýring á því er að þá hefði grein Welleks 1949 þótt minni tíðindum sæta.





[10] “Organicism, dnamism, and diversitarianism”.





[11] There seems no difficulty in a comparison with romanticism: realism definitely breaks with the romantic exaltation of the ego, with the emphasis on imagination, the symbolic method, the concern for myth, the romantic concept of animated nature.





[12] Aarseth 1982, bls. 51: Blant de kvalitetene som her er aktuelle kan vi nevne interessen for livets nattside, tendensen til demonisering av menneskeoppfatningen og sansen for det groteske og morbide I miljøskildingen.”





[13] Þannig reyni ég að íslenska hugtök hans: !.Sentimentalrómantikk, 2. Universalromantikk, 3. Vitalromantikk, 4. Nasjonalromantikk, 5. Liberalromantikk, 6. Sosialromantikk, 7. Regionalromantikk.





[14] Gilsbakkaljóð, Snæfellsjjökull, Sveitasæla, Laugardalur, þórsmörk, Í nánd við æskustöðvar, Á leið framhjá Grímstöðum, Hvalfjörður,





[15] “Kritikken hævder nødvendigheden af, at digtningen tager sine motiver I den samtidige virkelighed, men fastholder dog normativt en idealistisk virkeighedsbetragtning, hvorved den afstikker de moralsk æstetiske grænser for digtningens virkelighedsgengivelse.”





[16] Sjá t.d. Þóri Óskarsson, bls. 13 og Íslenska bókmenntasögu III, bls. 253 o.áfr.





[17] Hér er stiklað á nokkrum meginatriðum, en ítarleg greinargerð um efnið er í nýlegri bók Kristjáns Jóhanns Jónssonar: Kall tímans. (rvík 2004).





[18] Kristján segir (bls. 137) að vafi leiki á útgáfuárinu, enda þótt á titilblaði standi 1845; t.d. séu talin í heimildaskrá rit sem birtust 1855, en dr. Jón Þorkelsson segi bókina hafa birst 1854, þegar Grímur hlaut doktorstitilinn. En þetta leiðrétti Helgi Skúli 2005, bls. 118-19), 35 var mislesið sem 55, í raun eru nýjustu rit sem Grímur vitnaði til frá 1835, og rit hans birtist 1845.





[19] Kristján Jóhann bendir á (s.st. o.v.) að það hafi ekki verið bundið við Grím sérstaklega, heldur alla sem lokið höfðu meistaraprófi á tilteknu tímaskeiði.





[20] Sjá nánar um þetta allt rit Þóris Óskarssonar um ljóð og fagurfræði Benedikts, bls. 107-147, einkum bls. 119-120 og 134-5.





[21]Skv. Austin (bls. 53) orðaði Mallarmé þetta svo: „les Parnassiens, eux, prennent la chose entièrement et la montrent: par là ils manquent de mystère; ils retirent aux esprits cette joie délicieuse de croire qu'ils créent. Nommer un objet c'est supprimer les trois quarts de la jouissance du poème qui est faite de deviner peu à peu: le suggérer, voilà le rêve. C'est le parfait usage de ce mystère qui constitue le symbole“.





[22]„Das ist die wahre Symbolik, wo das Besondere das Allgemeine repräsentiert, nicht als Traum und Schatten, sondern als lebendig-augenblickliche Offenbarung des Uner­forsch­lichen" . Tekið eftir Vajda, bls. 34. Vajda telur (bls. 35) að Goethe hafi gert ráð fyrir rök­leg­um skilningi á slíku tákni, en það sýnist mér þetta orðalag hans útiloka, þar verður að „hafa á tilfinningunni“, svo sem Vajda segir einkenna táknsæismenn.





[23]„The lyrical self does not speak in the first person, but rather yields its place to a suggestive and impersonal lyrical object.





[24] Der Impressionismus wird gegen Ende des Jahrhunderts zum vorherrschenden Stil in ganz Europa. Es gibt von nun an überall eine Dichtung der Stimmungen, der atmosphärischen Eindrücke, der Erlebnisse der dahinschwindenden Jahres- und Tageszeiten. Man tüftelt an einer Lyrik der flüchtigen, kaum erfaßbaren Sensationen, der unbestimmten, undefinierbaren Sinnenreize, der zarten Farben und der müden Stimmen. Das Unentschiedene, Vage, das an der unteren Grenze der sinnlichen Wahrnehmung sich Bewegende wird zum Hauptmotiv der Dichtung; es ist aber nicht die objektive Wirklich­keit, um die es sich dabei handelt, sondern die Emotion des Dichters über die eigene Empfindsamkeit, die eigene Erlebnisfähigkeit. Diese substanzlose Stimmungs­kunst beherrscht jetzt sämtliche Formen der Literatur; alle verwandeln sich in Lyrismen, in Bild und Musik, in Ton un Nuancen. Die Fabel reduziert sich auf bloße Situationen, die Hand­lung auf lyrische Szenen, die Charakterisierung auf die Schilderung von seelischen Dispositionen und Zuständen. Alles wird sur Episode, zur Periferie eines Daseins ohne Zentrum.





[25] Taarnet I, bls. 54-5: "Og dette er Symbolismen, den filosofiske og kunstneriske Symbolisme: Troen paa en Metafysik, en anden Verden, et Hinsides. Paa dette Sted løber Grænseskellet mellem Realisterne, hvem Virkeligheden er nok, og Mystikerne, der med Paulus tror, at vi herneden kun erkender per speculum et in ænigmate. [...] Den sande Kunstner er derfor nødvendigt Symbolist. Hans Sjæl genkender bag de timelige Ting den Evighed, hvoraf hans Sjæl er udsprungen. Med Shelley [nm.:Adonais, Stanza LII) anskuer han Livet som et mangefarvet Glas, hvorigennem det Evig-Enes hvide Lys brydet sig. Virkelighedern bliver for ham kun en højere Verdens Symbol.





[26] Taarnet II, bls. 126-7: "For den Mand var Poesien ikke som for vore realistiske Forgængere et Middel til Udbredelse af samfundsnyttige Meninger, en tom Skal, hvori man snart kunde putte en Haandfuld Kristendom, snart en Haandfuld Fritænkeri. For ham var Poesien selv en Religion. Alene det, at han følte sig "som et Skib helt omspændt af Luer", gjorde ham i hans egne Øjne hellig som den, der ofres til evige Magter, "hellig og i Guders Hænder".



"Der er -ser jeg nu- fortsatte Claussen, "alligevel dyb Forskel paa Nutidens Unge og paa de realistiske Skribenter, som fulgte Georg Brandes. Hvem tror vel nu mere, at det for Digteren gælder om at efterligne, genfortælle de Ting, som Hvermand hver Dag kan se og høre? Nej, det gælder om at forbinde dem, uddybe deres Betydning, paa en saadan Maade, at hans Læsere overraskes af Sammenhængen paa samme Maade som han selv en Dag blev overrasket deraf. [...] Vor Tid - de Unge - er vendt tilbage til den ældgamle Opfattelse, at en Digter helst bør være beaandet, en Forkynder af Tingenes dunkle og forunderlige Sammenhæng. Digteren gætter bagved de Ting han ser, en usynlig Verdensorden, en Slags sublim Mathematik, hvis høje og indviklede Beregninger er ham den Drømmeblomst, den Lotus, der bringer Glemsel for denne Verdens Sorger."





[27]Symbolismen... bls. 46-7. Hann rekur þessa sögu í 2. k. þess rits. Orðin innan gæsa­lappa eru umbreytt af mér frá "kraftbirtingarhljómur guðdómsins", sem er Ólafi Kárasyni svo hugleikinn í Heimsljósi Halldórs Laxness, einkum í I. hluta.





[28]Taarnet I, 239: "Hr. Emil Hannover har [..] opkastet den Formodning at Symbolisme er det samme som "billedlig Fremstilling af Levevisdom. Den ellers saa kloge Kritiker forvexler her Allegori og Symbol. [..En] Symbolist [..] overalt opfatter og gengiver Tingene essentielt, at han tegner den indre, væsentlige Linje, ikke den ydre, tilfældige."





[29]tekið að nokkru eftir Inngangi Guðrúnar og Ragnhildar, bls. 27-8.





[30]Í Norðra, 5.12. 1908.





[31]Í ritdómi um ljóð Hannesar Hafstein, í Ísafold, 16.12.1916. Einnig t.d. í skætingi Stefáns frá Hvítadal gegn Davíð Stefánssyni 1925 (í Lögréttu XX, 49), að kvæði hans um Guðmund góða sé "ekki annað en háspennt tískuslúður, óþjóðlegt mjög".





[32]í Ísafold xxxii, bls. 259, 28.9.1905.





[33]í ritdómi um Dagsbrún í Óðni í nóv. 1905 (V, bls. 62), eftir "t", sem ég vænti að hafi verið ritstjórinn, Þorsteinn Gíslason.





[34]í Norðra 8.3. 1907.





[35]í Óðni 1905 (I, bls. 46) og í Ísafold 29.3.1919.





[36]Þessi ritdómur var skrifaður til andmæla m.a. ritdómi Jónasar um Kvæði Huldu.





[37] Í þeim hluta erindisins sem prentaður var, í Fjallkonunni, 1888, er ekki orð um Steingrím beinlínis, bara átalið hve einhliða þröngsýn þjóðernisstefna hefði ríkt á Íslandi.





[38] Þetta tvennt varð síðan meginatriði sósíalrealismans, menningarstefnu stalínista (sbr. bók mina Rauðu pennarnir, 1990), en er bara sígild þröngsýni á þjóðfélagslega stöðu bókmennta og lista.





[39] Auk framantalinna ritdóma má nefna: Ísafold 27.10.1906 og Fjallkonan 31.10.1906.





[40] Sjá auk þess dánarfregn hans í Ingólfi 27. 5. 1906; leiðréttingar útgefanda á prentvillum, 6.10. 1909 í Lögréttu, og Sigurðar Nordal í Ingólfi 21.10.1909, og ritdóm í Norðurlandi 9.10.1909.





[41] Nefna má Lögberg 25.7.1918; Lögrétta VII, 239.





[42] Sjá ennfremur um Vorblóm í Óðni I, 32.





[43]Einkum í Lögréttu (Jónasar Guðlaugssonar), og í Eimreiðinni og Kirkjublað­inu. Skrár um m.a. rit um Huldu eru í lok Hulda: Ljóð og laust mál.





[44] Sjá ennfremur Vísi 8.11. 1928 “Þingeyingur”.





[45] Sjá ennfremur: JB í Nýjar kvöldvökur XIV, 92-4; Tímann 1920, 7. 2. & 21.2.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar