tirsdag den 14. juni 2011

Seiðblátt hafið 4





6. Einstök skáld.



Hér verða dregin saman helstu sérkenni hvers skálds, sem fram komu hér á undan, og stefnt að alhliða greiningu fáeinna valinna kvæða. Það merkir auðvitað ekki að reynt sé að gera ljóðunum fullkomin skil, hvað þá endanleg, heldur bara að hugað verði að samspili mismunandi þátta, þar sem áhersla er lögð á goðsögur og myndir, auk efnisvals og afstöðu. Ræðst þó af aðstæðum hverju sinni hve mikil áhersla er lögð á einstaka þætti, svosem hljóm, hrynjandi, stílblæ orða og myndir. Auk þess verður vikið að öðrum túlkunum og kenningum um skáldskap einstakra höfunda þeg­ar tilefni gefst. Að sjálfsögðu er mismunandi hve mikið fjallað er um einstök kvæði.En í heild vona ég að þessi hluti gefi yfirlitsmynd af fjölbreyni þessarar ljóðagerðar.





6. 1. Bjarni Thorarensen



Kvæðum Bjarna var sem áður segir, skipt í tvö skeið. Fyrra skeiðið nær yfir ein 13 ár (1808-21) og þar voru tekin fyrir 56 kvæði (rúmlega 2/5 texta­magns­ins), en seinna skeiðið nær yfir 20 síðustu æviár Bjarna, 75 kvæði. Verulegur munur er á fyrirferð efnisflokka. Á fyrra skeiði eru ástaljóð og losta nær fjórða hvert kvæði, en verða færri en tuttugasta hvert á seinna skeiði. Þá verða ættjarðarljóð hálfu fátíðari, en voru nær tíunda hvert á fyrra skeiði. Erfiljóð koma í stað þessara flokka, þau voru tæplega tíundi hluti á fyrra skeiði, en verða nær helmingur á seinna skeiði. En hér er um gróflega flokkun eftir meginatriðum að ræða, vitaskuld blandast þetta saman, einnig í þeim kvæðum sem flokkuð voru sem hugleiðingar. En þau töldust helmingur á fyrra skeiði, þriðjungur á seinna.



Orðalag breytist nokkuð í samræmi við þetta. Með fyrirvara um að dæmin eru svo fá, að taka verður tölum með varúð, þá voru orð um guð­dóm fjórðungur úr prósenti á fyrra skeiði, en fjölgar eðlilega með erfiljóðum (upp í 2/5 úr prósenti). Sárasjaldan eru árstíðir nefndar á fyrra skeiði, en það fjórfaldast á seinna. Bjarni hefur sérstöðu með þvi að nefna vetur oftast árs­tíða, það er nær helmingur dæma hans, en vor er reyndar nálega jafntítt. Eins og önnur skáld 19. aldar nefnir hann miklu oftar eyktir (hálft prósent á fyrra skeiði, en hálfu fátíðara á seinna), þar ber mest á degi, eins og hjá hinum skáldunum. Bjarni hefur sérstöðu meðal þeirra í því, að hávaðaorð eru tíðari kyrrð­arorðum á báðum skeiðum hans, það munar þó litlu á seinna. Hrós­yrði eru með mesta móti hjá honum, einkum á fyrra skeiði (2.7%, en 1.5% á seinna). Tíðni fornyrða var með minna móti (hálft annað prósent, og mun meiri á fyrra skeiði, 2.2.%, en seinna). Hjá Bjarna er meira en 2/5 fornyrðatíðni um fólk, í stað meðaltalsins fjórð­ungs, og hjá honum eins og Jónasi eru fornyrði miklu oftar höfð um karla en konur, öfugt við hin skáldin. Litanotkun Bjarna sker sig lítið úr hinna, helst er að nefna að á fyrra skeiði er blátt nær þriðjungur í stað meðaltalsins fimmtungs, sem ríkir þó einnig hjá honum á seinna skeiði. Bjartlitir eru einnig þriðjungur hjá honum á fyrra skeiði, það er meðaltal, en þeir fara niður í fjórðung á seinna. Dökklitir eru langt undir meðaltalinu sjöttungi, einkum á fyrra skeiði. Bjarni er aftur á móti verulega yfir meðaltal með gullinn á seinna skeiði. Grár er yfir meðaltíðni hjá Bjarna fyrr og síðar, en dæmin eru fá og dreifð. Enn er í samræmi við tíðni ástakvæða, að litir kvenna er nær fjórðungur litdæma alls á fyrra skeiði, en sáralítið á seinna. Það er einkum hvítt og bjart um kinnar, hönd og brjóst, en einnig um snæ, lilju og himin, og á seinna skeiði um sól, jökul, og öldu. Blátt er einkum haft um haf, á og foss, himin, ský, fjall, stjörnur, augu. Gullinn eða gylltur er haft um sólskinið fjall, fyrirbæri himins svo sem sól og ský, um eldgos, en einnig um hár Freyju, grindur og vagn. Grátt er haft um himin, nótt, fjall, ösku, brynju, byssu og fljót. Páll Bjarnason segir um ástaljóð Bjarna (bls, 46):





Lítið fer fyrir skýrum lýsingum kvenlegrar fegurðar. Ef litið er yfir þau orð, sem hér um ræðir, verður myndin harla fábreytt. Oftast er litarhætti kvenna líkt við mjöll, ímynd hins hvíta og hreina, en vörum þeirra við rauðar rósir. Skulu hér talin helstu kvenlýsingarorðin: Stúlkan er engilhvít, himinfögur, mjalllit, röðulhrein, blíðlynd, fagureyg, hýrleit, hvítbleik, kinnrjóð, mjúkhent, barmur hennar er mjallhvítur, snjóhvítur, snjókaldur; limir hennar sólhvítir; hálsinn er mjallfagur, liljuháls, lokkarnir litfagrir. Augun eru stjörnur, brúnalampi, hvarmaljós, varirnar eru rós, rósabeður, sólfagur beður. Skáldið fer á mestum kostum, er það lýsir kvenpersónugerð Íslands: Sjóbeltuð, sísnjófölduð, frostsöm, funarík, fögur, geigvæn.





Sérkennileg myndræn nýyrði, svo sem áberandi eru í Eddukvæðum, höfðu vissulega tíðkast öldum saman, en Bjarni gerir þetta að áberandi tísku, hann hefur fimmtung allra dæma frá 19. öld (45), og er þetta hálfu tíðara á fyrra skeiði hans en seinna.



Hvað varðar líkingar, þá töldust persónugervingar 46 (28 á fyrra skeiði, en 18 á seinna) en aðrar líkingar 105 (29 á fyrra skeiði, en 76 á seinna). Á fyrra skeiði er því nánast jafnmikið um persónugervingar og aðrar líkingar, en á seinna skeiði eru persónugervingar fimmtungur heildarsafns líkinga. Mest var um persónugervingu Íslands. Á fyrra skeiði eru persónugervingar himneskra fyrirbæra og jarðneskra þriðjungur hvort, en sértök fjórðungur[1]. Á seinna skeiði eru sértök þriðjungur, fyrirbæri jarðar nær helmingur, en annað dreift. Athæfi þeirra er blíðlegt í tveimur þriðju dæma fyrra skeiðs, nær helmingi á seinna skeiði. Neikvætt og hlutlaust var sjöttungur hvort á fyrra skeiði, en það jafnvægi raskaðist aðeins til neikvæðis á seinna skeiði. Móðurhlutverk er sérstaklega áberandi í jákvæðu athæfi, tugur dæma, einkum um Ísland. Auk þess er ljósmóðir og þrjár myndir skartkvenna, auk brúðar. þar fyrir utan eru atlot þriðjungur dæma.



Í öðrum líkingum ber mest á sértökum, sem erfitt er að greina frá tilfinn­ingum, á fyrra skeiði er það þriðjungur kenniliða, en helmingur á seinna. Orð um fyrirbæri himins eru þriðjungur kenniliða á fyrra skeiði, en aðeins fimmtándi hluti á seinna. Orð um fólk er sjöttungur kenniliða á fyrra skeiði, en fjórðjungur á seinna. Allur þorri kenniliða er semsagt af mannlegu tagi, aðeins fimmtungur er náttúrufyrirbæri, og þá langmest himnesk. Myndliðir eru einnig einkum af mannlegu tagi, rúmur helmingur á fyrra skeiði, rúm­lega þriðjungur á seinna. En þá er einkum um hluti og athafnir fólks að ræða. Aðrar lífverur og athafnir þeirra eru á fyrra skeiði sjötti hluti mynd­liða, eins og himnesk fyrirbæri, en þau síðartöldu eru fjórðungur myndliða á seinna skeiði, annað er dreift.



Mikið ber á hefðbundnum líkingum. Fyrir utan framantalið má nefna; að lífið sé ferðalag, m.a. sigling. Ástin er kölluð eldur, gáfur guðdómsgeisli, dauðinn svefn, en einnig endurfæðing. Kunnuglegt er líka að líkja augum hinnar eftir­sóttu við stjörnur og vörum hennar við rós, en hitt er óvenjulegra að segja þá rós vera skál, sem ljóðmælandi drekki glaður dauða af (Kysstu mig). Og nokkuð er um margbrotnar líkingar, svo sem: “Sé eg rof/ á svörtu skýi/ og stjörnu staka/ standa í rofi,/ eins og dag/ eilífðar sjái/ glugga gegn/ um grafar skína.” (Jón11), “Væla oss forlög/ sem flugu ljós,/ er hún um flöktir/ og eigi finnur/ fyrr hana funi hefur/ fjörvi rænta.” (Íslenskt Fatis); “Eins og hún Psyche fögur flýgur/ fúnum mót sólu úr lirfu ham,/ úr líki köldu öndin stígur/ að varmageislum drottins fram“ (Eins). Bjarni líkir mannlífinu við fæðukeðjuna í sjónum, þar sem smáfiskar eru étnir af stærri fiskum, en allir enda ”náhvals í gapanda gini” (BTSæmundur22). Fyrir kemur að óvenjulegar líkingar byggi á kenningum fornkvæða, svo sem þegar hann líkir stúlkuhöfði við fjall: “Ei munu meyjum nú/ miður skína/ skrautskriður úr/ skarar fjöllum” (Til kunningja6). Og margbrotnustu líkingar Bjarna minna á fornkvæðin í því, að þetta eru nýgervingar, líkingu haldið lið fyrir lið. Frægastar eru auðvitað líkingar í kvæðum hans um Odd Hjaltalín og Sæmund Hólm; “Á lestaferð fjölmennri/ að líkstaða tjaldstað/ ferðamenn fjóna förunauta,/ búi þeir ekki bagga sína/ sjálfir þó þeir eigi,/ svo sem aðrir.” (Sæmundur8), “Ámæli því enginn/ Oddi Hjaltalín,/ orð þó hermdi hann/ er hneyksluðu suma!/ það voru voru frostrósir/ feigðar kulda,/ harma­hlátra/ og helblómstur.” (Oddur3). Bjarni telur Rannveigu fríkka með ellinni, því þegar fat sálar “fyrnist/ fellur það betur að limum/ og lætur skýrar í ljósi/ lögun hins innra.” og “Fögur önd andlit ins gamla/ mun eftir sér skapa,/ og ungdóms sléttleik æðri/ á það skrúð-rósir grafa.” (Rannveig1-2).



Þorleifur Hauksson hefur gert einkar greinargott yfirlit um kveðskap Bjarna í Inngangi útgáfu sinnar af ljóðmælum hans. Hann segir þar m.a. (bls. 34):





Bjarni leggur yfirleitt megináherslu á persónulegt samband við náttúruna og persónugervingu hennar en hirðir minna um ytri lýsingu enda lætur honum hún miklu síður. Í elstu kvæðum er þó hlutfallslega meiri rækt lögð við myndrænar lýsingar en smám saman verður kveðskapurinn innhverfari að yrkisefnum og orðfærl. […] Einn af meginkostum bestu kvæða Bjarna er einmitt hnitmiðuð og skáldleg líkingasmíð, flestar þeirra reyndar sóttar til náttúrunnar.





Þetta um fátæklegar ytri lýsingar er eins og haft var eftir Einari Kvaran í formála 2. útgáfu Kvæða Bjarna (k.2.5). Þorleifur dregur fram (m. a. bls. 28), að margt yrki Bjarni að hætti fyrri tíðar, einnig sum erfikvæðin og önnur tækifæriskvæði. En Þorleifur ræðir einnig fyrrgreinda úttekt René Wellek á rómantík, og prófar hana á kveðskap Bjarna (bls. 25-8), rómantísk skáld hafi:





sama skáldskaparskilning og afstöðu til skáldlegs ímyndunarfls, sams konar náttúruskynjun og hugmyndir um samband manns og nátturu og í meginatriðum sams konar skáldskaparstíl, þ.e. notkun myndmáls, tákna og goðsagna, allt þetta sé greinilega frábrugðið skáldskap upplýsingaraldar. […] Náttúrutilfinning hans er greinilega frábrugðin því sem fyrr hafði tíðkast. Gagnstætt Eggerti Ólafssyni, sem orti talsvert af náttúruljóðum, er honum hugstæðast hrikalegt, stórbrotið og gersamlega nytjalaust land. Þær hugmyndir um samband manns og náttúru, sem raktar hafa verið að nokkru eru mjög nýstárlegar á þeim tíma og eiga að sjálfsögðu rómantískar rætur. Jafnframt eru athyglisverð tengsl fortíðarinnar við þennan náttúruheim. […] sum kvæði hans fela það beinlínis í sér að andi fortíðarinnar, skáldskapar og þjóðlífs, búi í náttúrunni. […] Önnur stórbrotnari einkagoðsögn Bjarna kemur fram í kvæðinu Veturinn sem er einskonar heimsmynd og stefnuskrárkvæði í senn. [….þar kemur] að þriðja atriðinu sem Wellek tiltekur, notkun tákna og goðsagna. En öll þessi þrjú atriði eiga það sameiginlegt að þau eru bundin við fyrri kveðskaparskeið Bjarna og verður naumast vart í kvæðum hans eftir u.þ.b. 1827. […] Rómantískar hugmyndir koma þó beinlínis fram í erfiljóðinu eftir Svein Pálsson sem hefur að uppistöðu bölvabætur ímyndunarafls og skapandi hugsunar.





Sömu hugmyndir koma aftur og aftur fram í kvæðum Bjarna, og iðu­lega í svipuðum ljóðmyndum. Hér skal hugað að fáeinum kvæðum, og verður fyrst fyrir stutt og hnitmiðað ljóð.





Stjörnuskoðarinn


Þetta örstutta kvæði birtist fyrst (í Fjölni) 1838, það er af öðru tagi en eftirfarandi kvæði hér, fölskvalaust ástarljóð, enn með samanburði við náttúrufyrirbæri, þ.e. blástjörnuna Venus. Það verður stöðug stígandi frá því að nefna ofbirtu hennar til yfirgengilega seiðandi augna stúlkuunar, sem um er kveðið. Páll segir (bls. 43):





er raunar vandséð hvers eðlis samband skáldsins og stúlkunnar er. Gæti jafnvel verið, að kvæðið se ort af föðurlegri hrifningu skáldsins til fagureygrar dóttur sinnar.





Þetta get ég ekki tekið undir, því tilbeiðslan er svo yfirgengileg, að einungis á við mjög rómantíska ást. Svo skært sem blástjarnan skartar, fær ljóðmælandi ekki lengur ofbirtu í augun af því, þar sem aðrar tvær stjörnur tindra honum miklu nær, ”og undir Svövu augnabrúnum skína”. Hér er þar að auki notað sama eddukvæðanafnið á stúlkunni eins og í Kysstu mig aftur, svo það styrkir enn tengslin við rómantíska ást.





Sigrúnarljóð


Það er átta erindi undir tvennskonar bragarhætti. Fyrstu sjö erindin minna á eddukvæði í því að þau eru átta línur órímaðar. Enda er titillinn og meginhugsun sótt til Helgakviða, eins og Jón Helgason bendir á. Sigrún valkyrja vitjaði Helga fallins í haugi hans (lok Helgakviðu Hundingsbana II) og unnust þau þar. Hvað eftir annað er hvíti liturinn nefndur, um Sigrúnu (48. er.) og hest Helga (49. er.; ”fölvan jó”), hár Helga segir hún hélugt, og hendur hans úrsvalar (44. er.).



Línur eru hér lengri en í eddukvæðum, oftast þrír tvíliðir, nema hvað 5-8. lína hefjast á þrílið, og stundum er forliður fyrst, en 4. lína er oftast tveir þríliðir. Þetta verður í senn breytileg og reglubundin hrynjandi. Mér þykir því mjög ofmælt hjá Páli Bjarnasyni (bls. 36 ): ”Bragarháttur hinna erindanna er mjög óreglulegur”. En rétt mælir hann að fyrir bregður dróttkvæðu rími innan um rímleysu. Kvæðið hefst á ávarpi ljóðmælanda til ástkonunnar, hún angraði hann með því að vilja ekki trúa að hann ynni henni jafnt dauðri sem lifandi. Hann segir að hún trúi því þá ekki að hann unni henni í alvöru, og færir síðan rök gegn fullyrðingu hennar. Samar eru varir hennar þótt kaldar verði, og kinnar hennar þótt hvítar verði. Myndmálið víkkar sviðið (í 3. er.), sólin kyssir jafnt snjó á köldum vetri, sem rauðar rósir á sumrum, hvít verður Sigrún eins og hin hreinasta lilja. Enn víkkar sviðið til himna (4. er.), blær þeirra bláu sala mun skreyta varir hennar, þegar roði jarðlífsins deyr af þeim. Og í síðari hluta erindisins lokast hringurinn, þegar aftur er komið að kinnum hennar, hvítar verða þær engillegar, jafnfagrar og þegar rjóðar voru. Í næstu þremur erindum heitir ljóðmælandi á Sigrúnu, að deyi hún fyrr en hann, skuli hún koma að rekkju hans og kreista hann til bana. Hér snýst því hlutverkaskiptingin við frá Helgakviðu. Í þessum erindum er myndmálið draugalegt að hefðbundnum hætti, þar ríkir tungl um nótt að hausti, máninn hylst í mökkva, en bregður þeirri blæju sinni af meðaumkun með ljóðmælanda, svo hann megi sjá Sigrúnu brosa. Hún á að snerta hann hendi hvítri og mjúkri, og ”snjóköldum barmi”. Það verður hans bani, sem auðvitað er kallað lausn ”úr líkams fjötrum”. Lokaerindið er svo sigur­söngur elskendanna sem hafa sameinast, það er með öðrum hætti, sex línur, mun lengri en fyrr, hver er þrír þríliðir + tvíliður, nema hvað 3. og 6. lína enda á stúf í stað tvíliðar, 3., 5. og 6. l. hefjast á forlið. Og hér er endarím (aabaab). Hér ríkir enn kuldi, snjór og tunglsljós, en nú kemur eldur til andstöðu, enda dansa elskendurnir og aka í gullvagni norðurljósa, og blunda í brennandi faðmlögum á snjóskýjabólstrum, þannig rennur saman myndmál kulda og brennandi innileika. Hér ríkir sem sagt sú alkunna goðsögn um ástina sem yfirstígur dauðann, og Jónas Hallgrímsson skopaðist að (”Eg ætlaði mér að yrkja”): ”En hvernig heimskir náir/ með hjúp og moldarflet,/ ”unnast best eftir dauðann”/ eg aldrei skilið get-”.



Páll Bjarnason hefur túlkað þetta kvæði svo vel (bls. 36 o.áfr., að ég hef fáu við að bæta, en gríp niður i umsjögn hans:





Bygging kvæðisins einkennist af dulmagnaðri stígandi. Eftir því sem lengra líður, fjarlægist það æ meira allt jarðneskt og líkist helst draum­órum. Hraði hins dularfulla skáldflugs eykst og nær hámarki í eilífðar­dansi elskendanna um geiminn. Áhrifamáttur stígandinnar er enn aukinn með því að breyta bragarhætti síðasta erindis, svo að hrynj­andin verður jöfn og fluglétt.



Sigrúnarljóð eru að miklum hluta samanburður á fegurð lífs og dauða. Eru þá einkum bornir saman hinir táknrænu litir, fölvi dauðans og roði lífsins, með ýmsum tilbrigðum. [...3.er.]



Báðar andstæður eru fagrar á sinn hátt, en minnt er á, að lífsroðinn er einungis stundlegt fyrirbæri ”heimsdvalar dreyri”, ”jarðblys”, þar sem dauðafölvinn er ”eilífðarblær blásala”.



Mynd Sigrúnar verður aldrei verulega skýr, hún birtist aðeins sem vofa, köld, hvítbleik, klædd líkhjúpi. Fegurð hennar er lýst sem fegurð dauða og kulda. Skýrasta myndin er, þegar ástmærin birtist í fölu mánaskini og þrýstir skáldinu að ísköldum barmi. [...] Lýsingarorðin tala einnig sínu máli um þann blæ kulda og annarlegrar birtu, sem yfir öllu hvílir. Kaldur kemur 5 sinnum fyrir, snjókaldur einu sinni, hvítur 5 sinnum, engilhvítur, hvítbleikur, bjartur, skær og hreinn 1 sinni hvert og fölur tvívegis. Hins vegar kemur rauður og fagur fyrir tvisvar og fáiein lýsingarorð skyldrar merkingar einu sinni hvert.





Ísland


Þetta kvæði er í elsta eiginhandriti frá árinu 1818 skv. skýringum Jóns Helgasonar (Ljóðmæli BTh II, bls. 62). Kvæðið er sex fjögurra lína erindi með víxlrími. Hver lína ber fjögur ris, þrír réttir þríliðir, en síðan tvíliður í 1. línu, stúfur í 2., stundum hefst lina á áherslulausu atkvæði. Ekki kannast ég við að hafa séð þennan hátt á eldri kvæðum íslenskum, en hann var á norsku ættjarðarkvæði, sem birtist í safni 1811[2]. Fyrsta erindi er ávarp til landsins, sem dregur saman meginatriði þeirra erinda sem fylgja. Landið er frægt, þjóðin er börn þess og óspillt af móðurinni, sem neytti fjarlægðar sinnar frá öðrum löndum til að verjast ódugnaði. Bili sú vörn, er landið beðið að sökkva aftur í sæ, þaðan sem það reis.



Fyrir utan persónugervingu Íslands sem móður, og tal um fætur hennar (í 2.er.), þá er hafinu líkt við vopnaðan engil, og eldgosum við logandi sverð, hvorttveggja þjóðinni til varnar – gegn kveifarskap og vellyst, en það sértak er í líki lífveru, sem berst með rottum, í skipum, og að hætti fornra kenn­inga er þeim líkt við hesta sjávar (með flæða eykjum). Auk eldgosa og háskalegs úthafs er íslenskt veður þjóðinni hin besta vörn gegn framangreindum vágestum, sem frjósa í hel á Íslandi. Í kvæðinu er einkum beitt andstæðum til að lýsa landinu: það er sambland af frosti og funa, fjöll standa gegn sléttum, hraun gegn hafi [hvorttveggja öldótt], eldur kemur frá jöklum. Slík mynd, dregin upp með mótsögnum, verður yfirgengileg. Hér er kjarnaatriði sú goðsögn rómantíkur, að þjóðin sé fyrst og fremst mótuð af náttúru landsins, og var það auðvitað sýnu sennilegra þá en nú, tveimur öldum síðar. En þar af leiðir, að íslenska þjóðin er ólík öðrum, og þarf fyrst og fremst að forðast áhrif frá þeim, gæta séreðlis síns. Nú eru þessi viðhorf illræmd af nasismanum, en svipuð viðhorf birtust fyrr hjá Bjarna, í Íslands minni (”Eldgamla Ísafold”, líkl. frá 1808, sbr. Jón Helgason, tv.rit, bls. 40), og síðar, í hinu fræga kvæði hans, Veturinn (frá 1823, s.r.,bls. 129), m.a.





Oddur Hjaltalín


Þetta er eitt frægasta kvæði Bjarna, ort 1840, undir lok ævi hans sjálfs. Það er níu erindi undir fornyrðislagi, og mjög rökræðukennt, samhliða sérkennilegu myndmáli. Fyrsta erindi hefst á dramatískum samanburði, enginn ámæli þeim sem kveinar særður, hrapaður fyrir björg, Annað erindi er líka langsóttur samanburður, úr heitri jörðu, undir eldregni spretta ”kyn­legir kvistir”. Þetta orð á í senn við gróður og er haft um sérkennilegt fólk, enda er mannleg einkunn höfð með orðunum í þessu erindi, úr jörðu harmafuna, undir eldregni tára. Eftir þennan samanburð kemur að meginefninu, ”Ámæli því enginn/ Oddi Hjaltalín/ orð þó hermdi hann/ er hneyksluðu suma.” Og enn kemur samanburður við náttúruna: það voru ”helblómstur”, ”frostrósir feigðarkulda”. Næstu fjögur erindi lýsa svo kjörum mannsins og viðbrögðum hans við þeim; fyrst eru sértök persónu­gerð sem nákomið fólk; hamingjan var hverful (sem kona er hann unni?), fátæktin fylgdi honum jafnan, harmar biðu hans heima. Síðan er veglyndi mannsins sýnt í andstæðum; hann hafði konungs hjarta en kotungs efnahag; hélst fátækur af því að hjálpa fátækum, sjúkur líknaði hann sjúkum (5. er.). Nú snýr aftur til upphafsins, að maðurinn særði, æpti ”ekki eftir nótum”, og aftur kemur að björgum (harma og vanheilsu), sem þrúguðu brjóst hans. Undan þeim braust önd hans, sem var auðug, þrátt fyrir veraldlega fátækt mannsins. Og önd hans skapar þar ”skrípitröll”, sem hneyksluðu suma. Það er einn burðarás kvæðisins, hvernig sömu stef eru tekin upp aftur og aftur, í nýjum tilbrigðum, og enn skerpist myndin við andstæður, maðurinn skapaði sér ”hlátra heim/ þá heimur grætti”. En nú þarf þess ekki lengur, þegar öndin er komin í hinn besta heim, eilífðarlífs (8.er.). Kvæðinu lýkur svo á enn einum samanburði mannlífs við náttúrufyrirbæri, hinn framliðni er í sérvisku sinni upphafinn með því að ámæla lesanda: hann lætur berast sofandi með ævistrauminum að feigðarósi –þar sem selir bíða laxa (var mér kennt í menntaskóla!), og ferst ekki að lasta ”laxinn/ sem leitar móti/ straumi sterklega/ og stiklar fossa!”.





Jón Jónsson adjunkt


Kvæðið var ort eftir þennan Bessastaðakennara, sem fórst með skipi í ofviðri árið 1817. Kvæðið birtist 1820, og er óvíst hvenær á þessu árabili það var ort (Jón Helgason, tv. r. bls. 58-9). Kvæðið er 11 erindi undir forn­yrðislagi. Fyrstu fjögur erindin bera ljóðmælanda helfregn í hægri stígandi. Næstu fimm fjalla um önd hins látna, hve hún megi fagna að losna nú loks úr ”moldar fjötrum” og hverfa til guðs. En fram að þeim tíma á hinn látni að vísu góða vist á hafsbotni, hjá fótum fósturjarðarinnar, sem hann faðmaði í lífi. Kvæðinu lýkur á fyrirheiti um eilíft líf.



Þetta kvæði kemst ekki til jafns við frægustu eftirmæli Bjarna, um Sæmund Hólm og Odd Hjaltalín, í því að segja kost og löst á hinum liðna, tengja lyndiseinkenni hans við kjör hans og skýra. Svolítið virðist ýjað að slíku í 5. er.; að meðan önd Jóns var bundin líkamsfjötrum, baðst hún lausnar, því hún hafi mörgum fremur verið ánauðug moldar fjötrum. En það er huggun, að guð muni ekki lá fólki það sem því er ósjálfrátt (8.er.). Þetta er torskilið, helst mætti ætla að Jón hafi öðrum fremur verið háður holdsins lystisemdum, hvort sem það svo var vín eða víf, og því verið á barmi sjálfsmorðs! Slíkri túlkun virðist þó eytt í næsta erindi, þar sem önd hins látna er sögð hafa verið fljót til skilnings og góðverka, hreinlynd og hugprúð. Fremsti kostur þessa kvæðis er sem sé ekki mannlýsing, heldur myndmál. Fyrsta erindi einkennist af hægum hreyfingum, og hófstilltu ljósi og hljóði, sem bland­ast saman: ljóðmælandi heyrir lágan hljóm í húmi, úr átt dauðans (vestri, skv. forn­egypskum hefðum, m.a.). Og svo kemur upptalning í stuttum aðalsetn­ing­um, þar sem sól leitar svefns, dagur deyr, en nótt drottnar. Í öðru erindi er tvenns konar hljóð, annarsvegar er sem náklukkur hringi í lofti yfir haf­inu, en þetta tengist hljóði útsynnings. Í seinni hluta erindisins er öldu­hljóð á skerjum –þar sem skipið fórst – persónugert þannig, að öldur kveði feigðarljóð dimmum rómi. Og í 3. erindi vekur þetta enn hljóð – hvísl í hjarta ljóðmælanda, dapur hljómur, dauðafrétt. Í þessari hægu hreyfingu og lágum hljóðum birtist mannlýsing hins látna, sem hógværs manns og stillts. í samræmi við það sem segir í 6. erindi, og við það að jarðlífið er sett fram sem fjötrar, sálin var reyrð líkams viðjum, og ánauðug moldar fjötrum. Hún mun rísa úr hafi, eins og veröldin ”fyrst/ úr vatni reis”, hér fylgir Bjarni Fyrstu Mósebók, eins og hann fylgir rétttrúnaðinum í því að sálin muni fara í sinn forna bústað – líkamann endurbættan, áður en hún fer til himna. Lokaerindið er glæst mynd dökks himins með stakri stjörnu, sem ímynd annars lífs eftir grafarmyrkur.



Þessa meginhugmynd tekur Bjarni upp aftur og aftur, t.d. í Eins og hún Psyche, eða Hræðist ei drengur dauða, að dauðinn sé bara jákvæð myndbreyting, líkt og þegar fiðrildi skapast úr lirfu, þannig losni sálin úr fjötrum jarðlífs. Einnig má nefna Kysstu mig, hin mjúka mær, sú lína er tvítekin, í fyrra skiptið fylgir henni: ”því þú ert sjúk”, en öðru sinni verður stígandi: ”því þú deyr”, og svo hnitast þetta allt saman í flókinni líkingu, þar sem varir stúlkunnar eru í senn rós og skál: ”Glaður drekk ég dauða/ úr rós/ því skálin er svo skær.” Hér er þá dauðinn ekki eftirsóknarverður í sjálfu sér, heldur er stúlkan svo aðlaðandi, að yfirstígur jafnvel dauðann. Þessu svipar vitaskuld til Sigrúnarljóðs.





6. 2. Jónas Hallgrímsson



Erfitt er að greina milli þýðinga og frumsaminna ljóða, því Jónas þýddi svo frjálslega. Hér eru tekin með Sæunn hafkona[3] og Sólsetursljóð, en ekki aðrar þýðingar, og auðvitað aðeins ljóð Jónasar á íslensku. Jafnan er erfitt að setja skil í heildarverk skálds. En það var reynt í kvæðum Jónasar, sem var skipt í tvo hluta, við komu hans til Íslands 1839. Eftir það koma mörg hin miklu náttúrukvæði hans. Það er ójöfn skipting, því Jónas færðist mjög í aukana sem skáld, er á leið, einnig að magni. Fyrstu þrettán árin eru ljóð hans sem hér voru tekin samtals 57, en auðvitað mislöng, samanlagt um 7000 orð, en síðustu sex árin eru þau alls 81 (um12.000 orð), þ.e. nær 3/5 textamagnsins er af seinna skeiði, það eru sömu hlutföll og hjá Bjarna. Á báðum skeiðum Jónasar er um sjöttungur ljóða einhverskonar ættjarð­ar­ljóð, misáköf auðvitað. Erfiljóðum fjölgar aðeins með aldrinum, svo sem venjulegt er, en ekki mikið, þau eru um tíundi hluti. Ástaljóðum fjölgar mikið, en þetta eru lágar tölur, 2 á fyrra skeiði, 7 á seinna. Að sama skapi fjölgar skopljóðum, en þar er stundum torgreint á milli gamansemi og beiskju. Ekki eru miklar breytingar á orðatíðni milli þessara skeiða, nema aðeins minna verður um hrósyrði, litorð og fornyrði á seinna skeiði, miklu minna um djásnyrði svo sem gull og silfur. Hins vegar tvöfaldast þá tíðni ljóðrænna nýyrða sem áður var nefnt að Bjarni Thorarensen gerði að tísku. Hjá Bjarna jókst magn líkinga á seinna skeiði, en minnkaði hjá Jónasi úr rúmum tíunda hluta í rúmlega tólfta hluta textamagns.



Jónas hefur í mesta lagi af eyktarorðum og árstíða, dagur, sumar og vor eru tíðnefndust slíkra orða. Hann hefur einkar lítið af djásnyrðum og guðdómsorðum, en jafnvægi orða um há hljóð og kyrrð, Hrósyrði eru með tíðasta móti hjá honum, eins og hjá Bjarna og Steingrími. Jónas hefur ívið minna af fornyrðum en hin skáldin, og aðeins minna á seinna skeiði en fyrra. Litorð eru sérlega tíð hjá Jónasi, hálfu tíðari (50%!) en hjá Bjarna, Grími og Matthíasi. Það er þó enn hálfu meira hjá Benedikt og Steingrími á fyrra skeið þeirra, sem áður segir (k.4.1). Tíðni einstakra lita, og dreifing þeirra á fyrirbæri er líkt og hjá öðrum skáldum, og svipuð á báðum skeiðum Jónasar, bjartlitir þó ívið undir meðaltalinu þriðjungur, og blátt rúmlega fjórðungur (í stað fimmtungs), dökklitir fátíðari á fyrra skeiði (áttundi hluti í stað sjötta). Á fyrra skeiði er grænn hálfu tíðari meðallagi (tíunda hluta) en fylgir því á seinna, það er auðvitað aðallega haft um gróna velli. Gullinn er sjaldgæft, af því að sólskin kemur sárasjaldan fyrir hjá Jónasi. Sérkennilegt er að á seinna skeiði er blátt í nær helmingi dæma haft um fyrirbæri jarðar, fjall, klett, grjót o. þ.h., fjórðungur um haf, fljót o.þ.u.l,, en lítið um himnesk, sjöttungur dæma, eins og bjartlitir. Fimmtungur bjartlita er um jarðnesk fyrirbæri, ís, snjó og fjall, en fjórðungur um fólk. Hvorttveggja var þriðjungur á fyrra skeiði.



Páll Bjarnason segir um ástaljóð Jónasar m.a. (bls. 77):





Jónas leggur yfirleitt ekki mikla rækt við hluttækar eða myndrænar kvenlýsingar. Að nokkru má skýra það með því, að ástakvæðin eru venjulega í formi ávarps, talað er til stúlkunnar í 2. persónu, sem gefur síður tilefni til útlitslýsingar hennar. [...] Litarorð koma sjaldan fyrir í kvenlýsingum, og þá helst um lit augna.



Miklu meira er um huglægar lýsingar innri fegurðar. Einkunnarorð eða líkingar eru þá gjarna sóttar til náttúrufyrirbæra, einkum blóma og sólar, sem lýsa bjartri fegurð, þótt litlu sé lesandinn nær um útlit meyjarinnar. Hún er til dæmis sögð himinfögur, sólfögur, sólbjört, brosfögur, hárfögur, mundarfögur, mundhvít, upplitsbjört, blóm­knappur, engill. Augun eru sædjúp, bláfögur, sjónstjörnur, brosið er himinbros, varirnar blómvarir. Eftirtektarvert er, að í þessum tilvikum minnist Jónas varla á rómantísku blómin, rósir og liljur, nema helst í kvæðum, sem hann orti á dönsku.





Mér telst hinsvegar svo til, að áttundi hluti litdæma á fyrra skeiði sé um fólk, og þau dæmi eru nær öll um útlit kvenna, eins og tíundi hluti litdæma seinna skeiðs. Hlutfallslega hefur aðeins Steingrímur á fyrra skeiði jafnmikið, og Bjarni meira á fyrra skeiði (1/4), en Jónas hefur næstum jafnmikið í raun (10 dæmi gegn 12 hjá Bjarna !). Auk undantekninganna sem Páll nefnir; Ásta, La belle og augna, má telja þessi dæmi: “glóbjart liðast hár um kinn”, “hallaðu lokkahöfði björtu þínu”, “úði laugar lokkinn bleika”, “á brjósti svanhvítu”, “fyrir björtu brjósti”, “hendur þínar ljósar, “höndin ljósrar drósar”, “mæður málblíðar/ munnhvítra snóta”, “Sólbjartar meyjar” og fleira í Söknuði, þar sem náttúrufyrirbæri minna ljóðmælanda á meyna; blástjörnur á augun og liljur á ljósa hönd. Þetta segir Páll réttilega, en hann gerir greinilega of lítið úr útlitslýsingum kvenna, og sé ég helst þá skýringu að þessi vandvirki maður vann verk sitt fyrir tölvuöld. Það er vissulega rétt hjá Páli, að Jónas hefur ekki nákvæmar lýsingar á útliti kvennanna, en hvaða skáld hefur það? Mér sýnist það mega teljast til undantekninga hjá þessum rómantísku skáldum. Og skýring mín er sú, að þannig hafi kvæðin almennasta tilhöfðun fyrir lesendur, enda lýsa skáldin fremur tilfinningum sínum til kvennanna, en að lýsa konunum sjálfum ítarlega.



Líkingar eru einkar fyrirferðarmiklar í skáldskap Jónasar, hálfu tíðari en hjá t.d. Benedikt, Matthíasi og Grími, aðeins Bjarni og Steingrímur (á fyrra skeiði) fara upp fyrir hann. Athyglisverð er óvenjumikil tíðni persónugervinga, nær 2/5 líkinga. En það er einkum á fyrra skeiði, þá eru þær ívið fyrirferð­armeiri en aðrar líkingar, en á seinna skeiði eru þær rúmlega þriðjungur af texta­magni líkinga. Á fyrra skeiði er þriðjungur hvort persónu­gervingar himneskra fyrirbæra og jarðneskra, sjöttungur er persónugervingar lagar. En á seinna skeiði fjölgar himneskum upp í 2/5, jarðnesk eru fimmt­ungur, en lagarfyrirbæri sjöttungur. Gróður og sértök eru þá tíundi hluti hvort. Algengast er fyrr og síðar fjall, síðan Ísland og land, jörð, sól og nótt. Athæfi persónugervinga er á báðum skeiðum jákvætt í 2/3 tilvika (t.d. fagnar, brosir, faðmar), hitt skiptist nokkuð jafnt á neikvætt og hlutlaust á seinna skeiði, en á því fyrra er meira um hlutlaust, neikvætt er þá aðeins tíundi hluti (t.d. bundinn, dapur).



Í öðrum líkingum á fyrra skeiði eru sértök nær helmingur kenniliða, en fólk, einkum maður, fjórðungur. Hlutur þess eykst aðeins á seinna skeiði, en þá fara sértök niður í rúman þriðjung, annars er helst að telja manngerð fyrirbæri, sem eru tíundi hluti kenniliða (kvæði, bær, draumur, starf, ljár). En þau eru mest áberandi í myndliðum, fjórðungur á fyrra skeiði, rúmlega þriðjungur á seinna. Þá er fimmtungur myndliða himnesk fyrirbæri (sól, ljós, eldur, dagur), en það var áttundi hluti á fyrra skeiði, vatnskennt, gróður og lífverur var þá ámóta oft myndliðir. Á seinna skeiði var einnig sjöundi hluti líkingar við lífverur, einkum fugla.



Það er erfitt að meta frumleika ljóða, sem verið hafa flestum Íslendingum alkunn frá barnæsku, hátt á aðra öld. En athugun leiðir þó í ljós, að langmest ber á mjög hefðbundnum líkingum. Lífið er straumur og fljót, dagur og ferðalag. Sálin varpar duftinu af sér við dauðann, þó er dauðinn jafnframt hlekkir, það er kúgun auðvitað líka. Leiðtogar eru sverð og skjöldur ljóðmælanda og vina hans, styrkt tré sem veitir hlíf, börn eru kvistir á ættarmeiði, og blóm, en stúlka er blómknappur. Sólin er auga guðs, hugur er gróðurreitur.



En úr þessum hefðbundna efnivið vinnur Jónas oft gaumgæfilega og skapandi. Ég held það sé gamalkunnugt, enda nærtækt, að líkja kornakri við haf, tala um bylgjur í honum. Samt er ferskt að segja “þegar ljósgul um mörk/ rennur lifandi kornstanga móða” (Kveðja til ÞG6). Jafnnærtækt er að tala um hraunöldur, en storknað hraunið er séð sem fljót í hreyfingu: “hrauna veitir bárum bláum/ bjartan fram um heiðadal” (Fjallið Skjaldbreiður1). Alkunna er að tala um ástareld, en frum­leg viðbót að segja augu stúlkunnar magna ljómann af honum svo brenni vini hennar (Kærðu2). Mig grunar að þetta sé ein­mitt snar þáttur í vinsældum Jónasar, að byggja á mjög kunnuglegu, en gera það þó ferskt. Frumlegt er og sumt, t.d. að segja að nóttin hafi dregið blæju dimmra drauma úr sjó yfir bæ lúins bónda (Magnúsarkviða2), það tengist tveimur dæmum um að sjórinn breiði bláa blæju yfir mann sem drukknar (Guðm5), og að drukknaður maður kemur á land og varpar marblæju blárri af herðum sér (Hulduljóð7).



Páll Bjarnason ber saman ástaljóð Bjarna og Jónasar (bls. 83):





Bjarni orti bestu ástakvæði sín, þegar lék í lyndi, á trúlofunar- og hjúskaparárunum, en hin eru yfirleitt síðri, sem sprottin eru af ástavonbrigðum. Jónas er hins vegar umfram allt skáld ástatrega og vonbrigða (sbr. þó La belle, Ástu). Bjarni er meira nautnaskáld. Hjá honum gegnir kossinn mikilvægu, örlagaþrungnu hlutverki, en Jónas minnist vart á kossa né aðrar ástanautnir í frumortum kvæðum. Hjá honum er ástin ljúfur unaður og svölun fegurðarþrár. En ást Bjarna er æðsta lífsnautn, í henni eru fólgnar dýpstu andstæður, líf og dauði, sæla og þjáning.





Hulduljóð


Þetta er eitt allra lengsta kvæði Jónasar, 30 erindi. Þar af fer ljóðmælandi með 23 erindi, en Eggert 4 og smali með 3. Þeirra hlutar eru með fyrirsögnum, og hafa annan bragarhátt en tal ljóðmælanda, sem hefur lengri ljóðlínur, það form hæfir hugleiðingum hans (þó virðist ástæðulaust að skilja titil ljóðsins sem fleirtöluorð, sama gildir þá þeim mun fremur um Sigrúnarljóð Bjarna!). En bragarháttur Eggerts og smala minnir mjög á Búnaðarbálk Eggerts, skv. Sveini Y. Egilssyni (bls. 106), en hann fjallar svo vel um þetta kvæði, að ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um það, heldur vík aðeins að einstökum atriðum. Sérstakt textavandamál er við þetta kvæði, vinir Jónasar birtu það eftir dauða hans sem ”Brot”, töldu sem sagt, að Jónas hefði ekki fullort það. Þeir breyttu og röð erinda, í handriti Jónasar eru vísur smalans síðast, en þeir Konráð settu á eftir þeim þrjú síðustu erindi ávarps ljóðmælanda til Huldu. Sveinn rekur byggingu svo (bls.101):





Svið kvæðisins er íslensk náttúra í sumarblóma. Kvöld er í upphafi ljóðsins en er því lýkur birtir af nýjum degi. Í fyrsta hlutanum hefur ljóðmælandinn orðið, að Huldu áheyrandi (1.-6. er.). Eggert Ólafsson birtist þá á sviðinu og beinir ljóðmælandinn máli sínu til skiptis til hans og huldukonunnar (7-16. er.). Síðan fær Eggert orðið og ávarpar náttúruna og guð (17.-20. er.). Að lokum kveður smali vísur um Eggert (28.-30. er.).





Sveinn ber Hulduljóð saman við pastoral elegíu Miltons; Lycidas (bls.104), og finnur sameiginleg meginatriði, sem menn hafa kallað galla á Hulduljóði.





1. Kvæðin hefjast bæði á gyðju-ávarpi (Hulda hjá Jónasi) eftir döpur inngangsorð frá ljóðmælandanum.”



2. Milton hefur ádrepu um kirkjuleg samtímaefni (kallað digression á ensku, þ.e. útúrdúr), og Jónas hliðstæða ádrepu um uppfræðslu og smekkleysi landans (4.-6.er.).



3. Meginhluti kvæðisins er sýn, þar sem ójarðneskar verur (Hulda og Eggert hjá Jónasi, staðarandi, dýrlingur og grísk goð hjá Milton) stíga fram og tjá sig.



4. Síðast en ekki síst er lausn kvæðanna nauðalík, smali lýsir því yfir að hinn látni sé nú ”kominn á lífsins láð” (30.er.).





Þetta eru vissulega sterk rök fyrir að fylgja erindaröð eiginhandrits. En þótt erindaröð skipti máli, þá skiptir hún ekki sköpum um skilning á kvæðinu. Lesendum verður að ætla að hafa allt þetta langa og margbrotna kvæði nokkurnveginn í huga að loknum lestri. Og auðskilið er hví frumút­gef­endur kusu að setja þessi þrjú ávarpserindi síðast, þannig fær kvæðið upphafin og víðfeðm lok, mynd Huldu skýrist. Helgi Hálfdanarson segir það sama (í Lesbók Mbl.27.6.1992) og bendir á að í eiginhandriti Jónasar sé skrifað ”niðurlag” á spássíu ofan við erindin sem voru sett sem niðurlag í frumútgáfu. Af þessum ástæðum kýs ég að fylgja Helga í að halda hér erindaröð frumútgáfu. Sveinn segir og sjálfur (bls. 103 o. áfr.), að kvæðið markist af fyrrnefndri bókmenntahefð, en fylgi henni ekki allskostar. Þannig sé þetta minningarkvæði, fremur en harmljóð, því ekki sé ort um nýlátinn mann. Enda voru þá liðin meira en sjötíu ár frá drukknun Eggerts (sem komst yfir fertugt, varð nokkru eldri en Jónas sjálfur). Og mestu skiptir, að Eggert látinn er ekki á neinn hátt harmaður heldur nálægur ljóðmælanda, þótt dáinn sé. Hlutverk hans í kvæðinu er að vera fulltrúi náttúrunnar og boðberi betri búskaparhátta og mannlífs.



Annað textavandamál tók Helgi Hálfdanarson upp og lagði til ((í Lesbók Mbl. 4.7.1992, tekið upp aftur í Mbl. 1.9. 1992) að lesið yrði: ”þar sem að bárur brjóta hvel á sandi” í stað ”brjóta hval á sandi”, því honum fannst smekkleysa, ósamboðin Jónasi, að draga upp mynd af rotnandi hræi í andstöðu við blómin í þessu kvæði. En minnast má bréfs Jónasar, sem Sveinn vitnar til (bls. 101), að hann hafi verið að kryfja fuglahræ milli þess sem hann orti þetta kvæði. Þótt flest fólk hrylli við því að krukka í hræ, þá gekk náttúrufræðingurinn Jónas ákaft fram í slíkum krufningum, svo sem sjá má af dagbók hans. Ég get því ekki fallist á tillögu Helga, þvert á móti finnst mér þetta mikilfengleg mynd með andstæðum stórs og lítils, blómstrunar og eyðingar. Þetta rakti Hannes Pétursson (í Lesbók Mbl. 29.8. 1992). Nokkrar umræður urðu um þessar tillögur Helga, og þykir mér of langt mál að rekja það hér (þær má finna í heftum Miðlunar, Bækur og bókaútgáfa þetta ár[4]).



Sveinn segir að Hulda hafi það hlutverk í kvæðinu, sem gyðja venjulega gegni í pastoral elegíu. En hverskonar gyðja er þá Hulda? Þar koma sérstak­lega til álita línurnar:





Og dauðinn, sem að svo þig löngum kallar



Sá er þig aldri leit um stundir allar.





Mér sýnist augljós misskilningur í túlkun Guðrúnar Nordal (bls. 282): ”hún er hulin sjónum dauðans, sem sífellt ákallar hana”. Hér segir ekkert um að ákalla, og kalli dauðinn einhvern, er hann feigur. Það væri fráleitt að ímynda sér um þessa hulduveru kvæðisins. Af þessum vísuorðum má ætla að sumir líti Huldu, enda þótt í nafninu felist, að það sé erfitt, þeir sem ekki sjá hana, kalla hana dauðann. Og skýringin er augljós, hana líta þeir fáu, sem sjá samhengið í náttúrunni, fulltrúar þeirra eru Eggert og ljóðmælandi. Hulda er táknmynd hringrásar lífs og dauða, samhengis í náttúrunni. Einnig vegna þess virðist framangreind kenning Helga Hálfdanarsonar viðsjárverð, kvæðið leggur svo mikla áherslu á hringrás lífs og dauða, sem birtist í framan­greindum andstæðu myndum. Hulda ”virðist vera eins konar persónugerving íslenskrar náttúru, fjallkona” segir Páll Bjarnason (bls. 76) og styður þeim rökum að ”kvæðið er helgað minningu Eggerts Ólafssonar, sem fyrstur orti um fjallkonuna. [...] Hulduljóð er því glöggt dæmi þess hve ást skáldsins til náttúrunnar verður samofin ástakenndum til lifandi veru.”



Ekki sé ég að persónan Hulda komi fyrr fram í íslenskum bókmenntum en hér. Því þykir mér líklegt að hún sé sótt til norskra bókmennta, en þar varð hún á öndverðri 19. öld tákn náttúrudýrkunar og hugarheims sveitafólks, svo sem hann birtist í þjóðsögum, skv. Aarseth (1982, bls. 45)[5].



Dagný Kristjánsdóttir birti 1992 vel skrifaða og glögga túlkun Huldu­ljóðs, sem ég fylgi að miklu leyti. Sjálfshyggju rómantískra skálda, eftirsókn þeirra eftir frumleika, tengir hún (bls. 57-8) við kenningu Harold Bloom um að skáld óttist áhrif annarra skálda, berjist gegn ofurvaldi hefða. Og það tengir hún aftur við kenningu Freuds um Ödipusarduld; sonur girnist móður, og vilji því drepa föður sinn. Og nú get ég ekki lengur fylgt túlkun Dagnýj­ar. Ekki bara af því að ég er miklu vantrúaðri á kenningar Freuds en hún, heldur af hinu, að þessi kenning virðist kvæðinu öldungis óviðkomandi. Til þess að hún varpaði einhverju ljósi á kvæðið, þyrfti að greina andúð ljóð­mæl­anda á persónu Eggerts. En það er nú öðru nær, hann er honum ástkær fyrirmynd, verndarvera landsins og föðurímynd, eins og Hannes Pétursson bendir á (Kvæðafylgsni, bls. 42, ljóðmælandi segir: ”Kær er mér faðir komu þinnar dagur”. Og ekki er mynd Huldu vitund móðurleg. Guðrún Nordal er að vissu leyti á slóðum Dagnýjar, þegar hún segir (bls. 283):





er nóttin ekki hentugur vitjunartími þegar enginn er til að hlýða á boðskapinn nema blómin, dýrin, Hulda í hamrinum og einmana skáldið í nóttinni. Ríkir hugsanlega einhver tvískinnungur gagnvart ”vand­lætis­hetjunni” í þessum kafla?





Hitt virðist mér þó miklu sennilegra að þetta næturhjal sé svið inni­leikans, enda algengt í rómantík. Helgi Hálfdanarson benti á (Lesbók Mbl. 27. 6. 1992) að það sé þó sjaldgætft hjá Jónasi. Í lok greinarinnar gerir Guðrún því skóna, að vísur smalans séu Heinesleg skopstæling á hnoði Eggerts. En það virðist alveg tilefnislaust, og órökstutt. Það er hlutverkaskipting og mismunandi stíll á tali þeirra þriggja, sem taka til máls, ljóðmælanda, Eggerts og smala. Sá síðastnefndi talar í formúlum sagnadansa, m.a. klifun, eins og Sveinn bendir á (bls. 107), virðist því eðlilegt að skoða hann sem upphafna mynd alþýðunnar, sem á að meðtaka boðskap Eggerts og ljóðmælanda. En mestu skiptir hér goðsagan um náttúrulega hringrás lífs og dauða, sem birtist í Huldu, náttúran er lífræn heild.





Gunnarshólmi


Halldór Laxness fjallaði stuttlega um þetta kvæði í útgáfu á verkum Jónasar 1957. Hann segir m.a. (bls.xii): Jónas





leiðir fyrirvaralaust inn í íslenskan skáldskap þá hætti sem einna töfrafylstir verða fundnir í samanlögðum skáldskap Vesturlanda, og að sama skapi vandasamir í meðförum, eins og tersínurnar, sónháttinn og ottave. Hann fer með þessa ítölsku miðaldabragi af slíkri leikni, einsog heimahagar þeirra hefðu frá öndverðu verið kvíaból og ver á Íslandi – og þó hafði íslenskt eyra aldrei numið þá fyr. Hvílíkt undur að hitta þá Dante, Petrarca og Tasso endurborna í íslenku meistaraljóði á nítjándu öld.





Hér er þá í fyrsta sinn á íslensku notaður brag­arhátturinn terza rima, sem frægastur hefur orðið af Hinum guðdóm­lega gleðileik Dantes. Ólíkt norrænum háttum er það ekki fjöldi áherslu­atkvæða né niðurskipun þeirra innan um áherslulétt sem ræður, heldur fjöldi atkvæða í línu, þar eru að jafn­aði ellefu atkvæði, en fjöldi áherslu­atkvæða er breytilegur, og víxlrím er. Eðli­lega er ekki unnt að halda þeim einkennum nákvæmlega á íslensku kvæði, en þó fer atkvæðafjöldi í línu nærri lagi, og rímskipan er eins (ababcbcecefe, o.s.frv.). Hannes Pétursson fjallar m.a. um þetta kvæði í bók sinni Kvæðafylgsni. Þar segir hann m.a. (bls. 58-9):





Eftirtektarverð eru tvö tæknileg atriði í Gunnarshólma. Lengd terzínukaflans er 66 braglínur. Honum er skipt hnífjafnt í tvo hluta: 33 línur fara í landslýsingu, aðrar 33 í þá sögulegu frásögn sem felld er í kvæðisheildina. Því næst tekur við eftirmáli undir öðrum brag, oktövu-hætti, og fer það ágætlega, fyrst skáldið í eigin persónu stígur allt í einu fram á sviðsbrúnina og notar ég, beint ofan í hina fornu sögu.



Hitt atriðið liggur í því, að þátíð er höfð að kvæðisupphafi (í fyrstu terzínunni), en síðan taka við lýsingar sem hver af annarri standa í nútíð allt aftur að fyrri oktövunni [...] þátíð var heppilegri að uphafi til að gefa lýsingunum, sem á eftir komu, svigrúm innan liðins tíma, þar eð skáldið slær striki undir lotulanga nútíðarnotkun með setningunni: Því Gunnar vildi heldur bíða hel ... Landslýsingin og sagan eru þannig í umgjörð þátíðar, hún er baugur sem lykst um efnið, þar til skáldið sjálft hefur upp boðskap sinn.





Hannes leiðir m.a. rök að því (bls. 63), að betur fari á því sem stóð í frumprenturn kvæðisins, 1838: ”Blikar í laufi birkiþrastasveimur” í stað ”Blikar í lofti”, sem síðan er oftast haft. Hann andmælir (bls. 60) þeirri túlkun Steingríms J. Þorsteinssonar að það sé galli á kvæðinu, að sú yfilits­mynd sveitarinnar sem þar sé gefin, hafi ekki blasað við Gunnari við Fljóts­hlíð. Það er heldur ekki sagt í kvæðinu, þessi yfirlitsmynd er handa lesend­um.



Einnig um þetta kvæði hefur Dagný Kristjánsdóttir birt túlkun, sem m. a. lýsir vel uppbyggingu kvæðisins (1989, bls. 24):





Í dagbók úr Íslandsferðinni 1837 lýsir Jónas því hvernig Vestmanna­eyjar rísa úr hafi og smám saman sést Eyjafjallajjökull í fjarska. Hann talar um hve kostulegt það væri að geta séð yfir landið frá sjónarsviði fuglsins. [...kvæðið] hefst á loftmynd og stórbrotnum umritunum; sólin er persónugerð, Eyjafjallatindur er ”sú hin mikla mynd” í austri og síðan fæðir mynd af sér mynd. Tindurinn er persónugerður, hann svalar höfðinu í þriðju umritun-inni þar sem himninum er líkt við tæra lind. Fjallið er byggt trölli og goðsögulegum dvergum og dulúð þess er undirstrikuð með þversögnum: ”beljandi” fossinn ”hjalar” við hamra­búann. Sjónarhornið er að ofan og niður fjallið. Loftmyndinni er haldið en sjónarhornið færist, nú er horft í vestur: Tindafjöll eru persónu­gerð, þau standa ”föstum fótum” klædd blásvörtum feldi” og dala­mótin verða að ”grænu belti” þessarar stæðilegu fornsagnahetju.



Aftur færist sjónarhornið og við horfum í norður á Heklu [...]



Sjónarhornið, myndarvélaraugað færist niður fjallshlíðarnar, blóm og tré koma inn í myndina; græni og guli liturinn bætast við hvíta, svarta, bláa og silfraða liti fjallanna. Hljóð byrja að heyrast: fugla­söngur og þytur í skógi. Og í tólftu vísu ljóðsins fáum við svipmynd úr byggð: ”Þá er til ferðar fákum snúið tveimur, úr rausnargarði háum undir hlíð ...” Það er klippt og myndin þrengd eða ”súmmað”á tvo hesta sem snúið er til suðurs. Þetta er mjög snögg hreyfing, þolmyndin beinir athyglinni að viðfanginu, hestunum, reiðmennirnir sem taka í taumana sjást ekki. En sjónarhornið fylgir augum þeirra og horft er til suðurs.





Hannes segir m.a. (tv.r., bls. 64):





Í Gunnarshólma er mikil og fögur Heklusýn, slungin skörpum andstæðum og í mörgum litum, þótt aðeins einn þeirra, svart, sé nefndur. En þar felast einnig litirnir hvítt, rautt, blátt og grænt, svellið á fjallsgnípunni er hvítt, jarðeldurinn rauður, himinloftið blátt og sveitarblóminn grænn.





Í framhaldi sýnir Hannes fram á (bls. 64-5) að ástæðulaust sé að minnast hjátrúar um að Hekla sé dyr helvítis, þegar talað er um að skelfing og dauði búi í djúpum hennar, jarðfræðingnum Jónasi hafa verið eldgos hugstæðari. Ennfremur fjallar hann í löngu máli (bls. 65 o.áfr.) um línurnar:





En spegilskyggnd í háu lofti ljóma



Hrafntinnuþökin yfir svörtum sal.





Hannes rekur að Jónas hafi ekki séð Hrafntinnuhraun, og ”spegil­skyggnd ” sé skáldleg ímyndun um sandblásna hrafntinnuna. Hann rekur dæmi þess úr fornkvæðum að ”salur” geti merkt jörð, og telur vafalaust að svo sé hér, þetta merki ”svört jörð, aða öllu heldur hér: svart hraun”. En hér sýnist mér Hannes seilast langt yfir skammt, því í kvæðasöfnunum sem hér er um fjallað, fann ég ellefu önnur dæmi þess að dal væri líkt við sal. Hrafntinnuþökin má vel hugsa sér ljóma yfir sal, þótt þau ljúki ekki yfir hann, enda eru þau í fleirtölu, en hann í eintölu..



Einnig hér verð ég að andmæla mikilvægum atriðum í túlkunum Dagnýjar. Hún segir (tv. r., bls. 28):





Í síðasta hluta Gunnarshólma er jafnframt eins og skáldið missi valdið yfir þeirri persónugerðu, sálu gæddu náttúru sem hann hefur búið til. Það eru tveir ásar í Gunnarshólma, annar liggur á milli aust­urs og vesturs, hinn á milli norðurs og suðurs. Ásinn i austri og vestri liggur á milli hinna göfguðu, ströngu, karlmannlegu afla; Eyja­fjalla­tinds og Tindafjalla. Ásinn frá norðri til suðurs liggur á milli hættulegra og árásargjarna kvenlegra afla: Heklu og Ránar. Þar sem þessir ásar skerast, í miðjunni, stendur hið hrjáða ”ég” ljóðsins í lokaerindinu.





Þessu tengist, að á undanfarandi bls. segir hún: ”það er enginn sigur­söngur, enginn fögnuður, í þessu erindi.” Og þetta skýrist allt í seinna hluta greinarinnar, þar sem hún rekur erfið kvennamál íslenskra Hafnar­stúdenta; bænda­dætra [og borgaradætra] var vandlega gætt, hinsvegar voru vændis­konur hvarvetna, freistandi, en hættulegar, iðulega sjúkar. Og Dagný segir (bls. 37): ”Óttinn við hið kvenlega og átök þess og hins karlmannlega sáum við í Gunnarshólma ásamt óttanum sem óskýr mörk skapa.” Þessu tengist að hún segir (bls. 24):





Myndin sýnir Heklu eins og turn (höll eða kirkju) sem gnæfir yfir borgarþökin en borgin er gerð úr svörtum spegli, húsin full af myrkri.





Og í þetta krækir hún neðanmálsgrein: ”Túlkun Hannesar Péturssonar á þessum stað er afskaplega sannfærandi.” Hannes sagði bara ekki orð um borg eða hús, það gerir Dagný ein, af því að hún vill endilega leiða þetta kvæði út frá lífi Jónasar í Kaupmannahöfn. Allt eru það tómar vísbendingar, en ekki sýnt fram á að í kvæðinu felist kvenótti. Undrast má að hún skyldi sleppa kven­kynsorðinu Þverá úr upptalningu sinni á hættulegum öflum í Gunnars­hólma. En hér er allt of mikið lagt upp úr tilviljanakenndu kyni nafnorða í íslensku, í kvæðinu er ekkert kvenlegt við Heklu og Rán, hvað þá Þverá, og raunar ekkert karlmannlegt við Eyjafjallajökul. Tindafjöll eru að sönnu persónu­gervingur fornsagnahetja, eins og Dagný segir, en þar skiptir augljós­lega mestu, að þau eru liður í sviðsetningu fornsögunnar. Og ekki er félags­fræði Kaupmannahafnar betri. Dagný nefnir að vísu alþýðukonur (bls. 34); ”saumakonur eða sölukonur eða þjónustustúlkur”, en síðan er eins og þær gleymist og á sviðinu standi bara ófáanlegar bændadætur og hættulegar vændiskonur. Óbreyttar alþýðu­konur voru þó miklu fjölmennari í Kaupmannahöfn, og t.d. íslenskir Hafnar-stúdentar hafa daglega átt tal við sölukonur, griðkur og þjónustustúlkur. Og hversu ófáanlegar voru þær? Ef slegið er upp í sögu Danmerkur[6] eða annarra norðurlanda frá þessum tíma, kemur í ljós, að þeirra var ekki eins ”vandlega gætt” og borgaradætra, sem heiman­mundur fylgdi, og þurftu að vera ”ónotaðar” til að hljóta gott gjaforð. Sífellt eru siðferðispostular að býsn­ast yfir siðferðisástandinu, og í ljós kemur t.d. að fimmtungur barna í Kaupmannahöfn fæddist utan hjónabands! Þar með hverfur fyrrnefnd andstæða háskalegra kvenna og ótilkvæmra.



Jafnvel þótt sanna mætti ákafa kvenfælni á Jónas, sannar það ekki neitt um andann í Gunnarshólma, sama hugarástand þarf vitaskuld ekki að birtast í öllum verkum skálds. En í rauninni tilfærir Dagný aðeins eina vísbendingu um slíka kvenfælni, það er kæra Jónasar yfir ágengni eldri konu, sem lá á gluggum hjá honum. Gætu þó ýmsir kippt sér upp við slíka áreitni, einnig konur.



En fyrst og fremst finnst mér augljóslega rétt sú venjulega túlkun kvæð­is­ins, sem Dagný hafnar, til að lesa úr þeim í staðinn kvenfælni. ”En lágum hlífir hulinn verndarkraftur/ hólmanum þar sem Gunnar sneri aftur”. Þarna er boðskapur um föðurlandsást, hún er sá kraftur sem hlífir hólman­um, en ekki fjöllin, eins og Dagný segir, alveg að tilefnislausu. Og hér sjáum við þá goðsögu, sem Jónas skapar, til að sýna náin tengsl náttúru og mannlífs, líkt og Bjarni og floeiri rómantísk skáld.



Þessar sálfræðilegu túlkanir Dagnýjar, sem ég hér andmæli, skýra titil greinasafns hennar, Undirstraumar. Hún hefur þá vinnutilgátu, að verk skálda mótist meira eða minna af sálarflækjum höfundar, hvort sem um er að ræða ættjarðarljóð eða annað. Það var sannarlega vert að kanna það, en mér sýnist eftirtekjan verri en engin í þessum tilvikum (sjá og k. 6.7).





Á gömlu leiði 1841.



Hannes Pétursson fjallar um þetta kvæði á tólf síðum Kvæðafylgsna. Hann rekur þar hvar Jónas hafi séð þetta leiði á Snæfellsnesi, og rekur sögu mannsins sem þar var grafinn, raunar aðeins sex árum áður, en var gamall vinur Jónasar. Hér skal það ekki rakið, en aðeins haft eftir Hannesi (bls. 107 o.áfr.) lýsing:





Á gömlu leiði 1841 er fimm ferhendar vísur miðrímaðar, og fyrsta og fjórða lína sér um ljóðstafi. Endarími er skipað eins og í redondilla, bragarhætti spænskum að uppruna, en atkvæðafjöldinn óreglu­legri, því að í frumhættinum skyldu vera átta atkvæði í línu hverri.



Kvæðið er saknaðarfullt og gætt ástúðlegu vinarþeli. Að formi skiptist það í þrjá hluta: ávarp til ættlandsins (1.vísa), ávarp til Jóns Kjærnesteð (þrjár næstu vísur) og hugleiðingu skáldsins um skammlífi hans (niðurlagsvísa). Þessir þrír hlutar geyma aftur á móti tvo megin­þætti efnislega: mannlýsingu Jóns og harmsögu hans.



Jónas gefur fyllilega í skyn að Jón Kjærnesteð hafi dáið saddur lífdaga, þótt ungur væri: ”barnið þitt sært”...”lúður á bón um himna­friðinn”, nú sé hann bættur meina sinna, önd hans liðin burt í skært ljós góðfundanna á himnum, en líkaminnn blundar hér vært á beði moldar/ blessaðar fært á náðir foldar...”





Allt er þetta vel athugað. Við mætti bæta, að haglega er hér beitt andstæðum til að skerpa myndina; annarsvegar er sært barn beiskrar neyðar, en hinsvegar leið í skært ljós funda, af sama milda tagi eru blundar vært á beði, fært á blessaðar náðir. Svipaðar andstæður eru í miðhluta; augað sem alltaf mætti ljóðmælanda er nú sofið, höndin sem var svo hög er nú stirðnuð. Annarsvegar er ”Jón, á værum beð”, en gegn því stendur: ”Kalt var á Fróni”. Og í lokin er ”fagurt lista ljós” andstætt hörðum hríðum snjókólgudaga, sem drepa blómann jarðar, og skammlífi er skýrt með því að hið fegursta falli fyrst, ”fyrst deyr í haga rauðust rós”. Í myndmálinu ber mest á ljósi (í upphafi og lokum), og svefni, í miðkaflanum, auk þess er blóm gagnvart snjóhríð, sem dregur fram viðkvæmni og fallvaltleika fíngerðs.



Mest ræðir Hannes um línurnar:





Stirðnuð er haga höndin þín



Gjörð til að laga allt úr öllu,



Eins létt og draga hvítt á völlu



Smámeyjar fagurspunnið lín.





Þessi samanburður virðist Hannesi fráleitur, því ekki þurfi neinn sérstak­an hagleik til að draga lín á völlu – til bleikingar eða þerris, áður en þvotta­snúrur voru upp fundnar. Spinnur hann úr þessu feiknavef, ”smá­meyjar” muni merkja örsmáar kóngulær, þær sem milljónum saman spinna þann fíngerða vef, sem blikar á völlum í morgunsár eða aftansól, og kallast vetrarkvíði.



Þetta verð ég að kalla afbragðsdæmi um oftúlkun. Ekki sé ég að þessi túlkun Hannesar verði beinlínis hrakin, því ekkert í kvæðinu afsannar hana. En það er heldur ekkert í kvæðinu sem vísar til þessara köngulóa, og því virðist alveg ástæðulaust að ímynda sér að skáldinu dytti í hug að nokkrum lesanda gæti hugkvæmst sá skilningur. Mótbárum Hannesar er því til að svara, að sameiginlegt fyrra og seinna hluta erindisins eru fínlegar hreyfingar, sem hefð er fyrir að telja einkenna smámeyjar, þótt sjálfsagt geti einhverjar þeirra verið klunnalegar. Ætti skáldið Hannes að láta sér nægja að yrkja eigin kvæði, en yrkja ekki inn í kvæði Jónasar. Það meira en hvarflar að mér að Hannes hafi hér verið að gantast með túlkanir.





Fjallið Skjaldbreiður.



Þetta er eitt af lengstu kvæðum Jónasar, ellefu 8 lína erindi, hver lína 4 ris, kvenrím í fyrstu línu, karlrím í annarri, víxlrím, ababcdcd, mest ber á réttum tvíliðum, svo þetta minnir verulega á hrynhendan hátt dróttkvæða, sem hafður var í hátíðlegustu hyllingum til konunga.



Þetta er sögukvæði, en hefur þá sérstöðu, að fjalla ekki um fólk, heldur að mestu um náttúruna. Fyrsta erindi er mynd fjallsins og umhverfis, en í 2.-3. erindi víkur að ljóðmælanda, og í lokaerindi lýkst sá rammi, hann er einn með hundi og hesti, hefur týnt öllum förunautum, en unir sér glaður í náttúr­unni. Þessi mennski rammi magnar sem andstæða mynd hrikalegra náttúru­aflanna, sem birtast í meginhluta kvæðisins. En andstæður eru líka í mynd þeirra. Í fyrsta erindi er kyrrstæð, hátignarleg mynd fjallsins, persónu­gerð í 1. línu sem skautbúin kona, og lok erindisins eru líka hátignarleg: ”Ógna­skjöldur bungubreiður”. 3. erindi brúar bilið frá ljóðmælanda til sögu náttúru­hamfaranna, hann er á reið um hraun, og veltir því fyrir sér hvenær það hafi runnið, það hafi gerst áður en menn eða dýr voru á landinu. Þar birtist nútímaleg náttúrufræði sem sjálfsagt hefur verið biblíutrúuðum almenningi algerlega framandi. En hann hefur þá getað lært af framhaldinu, lýsing á yfirgengilegum jarðskjálftum og eldgosum (4.-6.er.), ”Himna drottinn einn það leit”. Í myndmálinu er dregið fram hið stærsta í umhverfinu, og um­turn­að, það var eins og allar stjörnur himins væru felldar niður, gneista­flug­ið um loftið var þétt eins og það væri fullt af mýi, dagur varð myrkur, jöklar titruðu, eldfljót blossa, djúpt í rótum landsins öskrar. Eftir þessar hamfarir ”blundar land í þráðri ró”, en þá brestur hraunið og sekkur með ógurlegum drunum, og Þingvallavatn myndast.



Hér er mest um beinar lýsingar, lítið um líkingar. Helst er að telja fljót elds (5.er.), og að Skjaldbreiður, ”þakinn bláum skafli” treður bundinn foldar varg, þ.e. jarðelda (8.er.). Hannes Pétursson segir (bls. 41):





Kvæðið um Skjaldbreið er einstakt í ljóðagerð Íslendinga. Bjarni Thorarensen hafði í sumum eftirmælum sínum lýst því hvernig mann­gerðir urðu til. Í Fjallinu Skjaldbreið lýsir Jónas því hverngi landslag varð til. Aldrei fyrr hafði íslenskt skáld eygt náttúrufræðilega sýn, er tæki á sig þvílíkt mót, skáldsýn er sundraði umhverfinu og raðaði því aftur saman ...





Það er nokkurt áhorfsmál, hvort hér megi greina markhyggju (teleologi). Einhver kynni að skilja 8. erindi á þann veg;





Búinn er úr bálastorku



Bergkastali frjálsri þjóð.



Drottins hönd þeim vörnum veldur





en raunar virðist ekki ástæða til að skilja Jónas þannig að guð hafi skapað Þingvelli til þess að Íslendingar hefðu þar þing sitt. Hann segir síðar (í 10. er.)





Glöggt ég skil hví Geitskór vildi



Geyma svo hið dýra þing.





þ. e. vegna ákjósanlegra aðstæðna, varnarveggja báðum megin. En hitt fer ekki milli mála, að þetta tignarlega kvæði er ekki bara helgað náttúrufræði, heldur einnig stjórnmálum, tign náttúrunnar og hrikaleg náttúruöflin helga þann þingstað sem Jónas vildi endurreisa.







6. 3. Benedikt Gröndal.



Ljóðasafni Benedikts var skipt í tvo misstóra hluta. Fyrri hlutinn, 1845-60 telur 7.459 línur (36.675 orð). Seinni hlutinn rúmar nær hálfa öld, 1861-1907, en þar var efniviður okkar minni, 5.238 línur (27.005 orð). Breytingar á tíðni yrkisefna eru a. n. l. eins og við var að búast, ástaljóðum fækkar úr fjórðungi heildar niður í sjöunda hluta, einnig fækkar ættjarðarljóðum úr sjöttungi í áttunda hluta (ef öll ljóð um náttúruunað eru talin með, verður það þriðjungur fyrra ljóðasafns). Guð verður einnig mun sjaldgæfara yrkis­efni, en erfiljóðum fjölgar eðlilega, sömuleiðis lofkvæðum og hugleiðingum. Úr fyrra hluta tók ég 159 líkingar og 44 persónugervingar að auki. En úr seinna hluta tók ég 170 líkingar og 45 persónugervingar. Þessi hlutföll eru þá svipuð á báðum skeiðum, og svo er um fleira, orð um guðdóm eru þriðjungur úr prósenti eins og hjá flestum öðrum, en Benedikt hefur einna mest af orðum um djásn og hljóð, þar af eru hávaðaorð þriðjungur á við kyrrðarorð, eins og algengast er. Hann hefur í minnsta lagi af hrósyrðum og ekki meira af tímaákvörðunum en önnur skáld, en nefnir meira árstíðir á seinna skeiði en fyrra, alla tíð mun meira vor og sumar en vetur og haust. Kvöld er algengast eyktarorða hans (á fyrra skeiði). Fornyrði hefur hann í meðallagi, aðeins minna á seinna skeiði. Af fornyrðum hans um fólk bar mest á heitum konunga á fyrra skeiði, nær fjórðungur forn­yrða hans, en það hlut­fall helmingaðist næstum á seinna skeiði. Hann var frægur fyrir að nota mikið áhersluforskeytin fimbul-, jörmun-, regin-. Á fyrra skeiði voru lýsingarorð óvenju­áberandi í fornyrðum hans, þá hefur hann og skálda mest af litorðum (1.7% á fyrra skeiði, 1.2% á seinna). Hlutföll lita eru nærri meðallagi, blátt og dökklitir þó aðeins undir því á seinna skeiði, en bjartlitir á fyrra, sem og grænn, en gullinn er fyrr og síðar hálfu tíðari meðallagi með rúmlega tíunda hluta dæma. Það er mjög fjölbreytt, um sólskin, vín, tár Freyju, og ýmsa muni. Mest er um liti á fyrirbærum himins, fjórðungur dæma á fyrra skeiði, þriðjungur á seinna. Vatnskennd fyrirbæri, litir fólks og muna eru ámóta tíð hvert um sig, sjöundi hluti hvert á fyrra skeiði, en tvennt það fyrrnefnda fer niður í tíunda hluta á seinna. Litir gróðurs eru rúmlega tíundi hluti fyrr og síðar, mest er þar um græna grund og blóm af ýmsum litum. Um litu kvenna sérstaklega er tólfti hluti litdæma á fyrra skeiði, en það fer niður í tuttugasta hluta á seinna skeiði. Athyglisvert er að á fyrra skeiði eru aðeins tvö dæmi um blá augu, bæði í ”Hugfró”, eitt um brún, en sjö um dökk augu. En á seinna skeiði er jafnvægi blárra augna og dökkra (aðeins 2 dæmi um hvort). Um ljósan háls eru 3 dæmi, öll á fyrra skeiði. Minna er um hár, eitt dæmi um hvort, svart hár og grátt á fyrra skeiði, en á seinna eru þrjú um hærur, tvö um ”glóbjart hár.” Um hvítan barm eða ljósan eru tvö dæmi á fyrra skeiði, eitt á seinna. Sértök bera einnig liti, tíðin og dauðinn dökkur eða helgrár, frægðin björt eins og lífið, og sakleysið hvítt. En litirnir eru vitaskuld til að sýna horfur, framtíð og tíð er ýmist dimm eða björt eftir því.



Eins og Grímur og Matthías hefur Benedikt einkar lítið af ljóðrænum nýyrðum, en það eru sérkennilega skynrænar samsetningar, t. d. “bjartkaldur, bjartgylltur”. Silfur er afar áberandi í þeim orðum Benedikts.





Persónugervingar.



Á fyrra skeiði ber mest á því að tala um sól, mána og önnur fyrirbæri himins sem mannverur, það eru nær tveir fimmtu persónugervinga. Á seinna skeiði verður það tæpur þriðjungur. Næst því ganga öldur, lækir o.fl.þ.h., nær fjórðungur á fyrra skeiði, en fer upp í þriðjung á því seinna. Persónugervingum sértaka fjölgar mjög, frá tíunda hluta upp í sjöttung. Á fyrra skeiði er aðeins um að ræða dauðann og söguna, tvívegis hvort. En á seinna skeiði er auk dauðans friður, gæfa, gleymska, öfund og lygi, fornöld og læknislist, einu sinni hvert. Jafnmikið er á seinna skeiði um persónugervingar fjalla, eyja, o. fl. þ. h., það er einsog á fyrra skeiði, flest dæmin eru um að Ísland sé persónugert sem kona. Annars ræðst kyn persónugervinga einfaldlega af kyni nafnorðsins, t.d. máni, sól, blóm (=barn). Mest ber á því að tala um hreyfanleg, breytileg fyrirbæri náttúrunnar sem mannverur. Og þau eru gerð lesendum nákomin, það sést einkum á því, að atferli persónugervinganna er mjög áþekkt á báðum skeiðum, tveir fimmtu dæma eru allskyns blíðuhót; faðmar, brosir, kyssir, en einnig er sagt að viðkomandi sé glaður, dreymi, o. s. frv. Neikvætt er aðeins tíundi hluti á hvoru skeiði; deyr, hótar, óttast, grætur, harmar.





Aðrar líkingar



Í fyrra safninu eru fyrirbæri himins fyrirferðarmest kenniliða, tveir fimmtu dæma. Flest eru dæmin um himin og ljós. Sértök eru nær þriðjungur kenniliða, og mest ber þar á dauða, einnig draumum. Þessi meginhlutföll snúast við á seinna skeiði Benedikts, þá eru tveir fimmtu líkinga um sértök (einkum lífið og tímann), en tæpur þriðjungur líkinga er um himin og fyrirbæri hans. Á seinna skeiði eru tvöfalt fleiri líkingar um mennsk fyrirbæri en þetta er tiltölulega lítið, áttundi hluti líkinga á móti sextánda hluta áður. Einnig tvöfaldast fjöldi líkinga um allskyns vatn, en það er enn lítilvægara. Nokkru minna verður um að kenniliðir séu manngerð fyrirbæri. En þau eru meira en helmingur myndliða á fyrra skeiði Benedikts, tveir fimmtu á síðara skeiði. Fimmtungur myndliða fyrra skeiðs er allskyns vatnsgangur, einkum fljót. En það minnkar um nær helming á seinna skeiði. Nær tíundi hluti myndliða á fyrra skeiði er lífverur, en þeim fjölgar upp í sjöttung á seinna skeiði.



Í stuttu máli sagt, líkingar eru einkum til að færa sértök, sól, tungl, stjörnur og himin nær lesendum, í þeirra nánasta umhverfi, innanhúss og utan. Dæmi myndliða innanhúss: rekkja, dúnsæng, rúmföt, blæja, klæði, dúkur, lindi. Ennfremur á fyrra skeiði, spegill, skrín, salur. Svipað er á seinna skeiði, en auk þess er meira um hljóðfæri, einkum þó hörpu og hörpuslátt, einnig vopn og verjur; skjöld og sverð. Á fyrra skeiði var brynja, fjötur, hjálmur og sverð. Einnig er herfylking, og utanhúss er svo bál, blys, bogabrú, brunnur, ferðalag, fáni, hjól, leiðarljós, vegur, vagn, allt af svipuðu tagi, fyrr og síðar.



Mest er um mjög hefðbundnar líkingar, bæði á fyrra og síðara skeiði. Tímanum eða mannsævi er líkt við fljót og dag, dal er líkt við sal, talað er um öldur dauðans, eld ástar, brim losta, hug sem fugl og sem djúp, o. s. frv. Svipað er um einstakar tilfinningar, hryggð er fugl, sæla er brunnur eða sjór. En ein líking hefur orðið Benedikt sérlega kær, svo hann margnotar hana í ýmsum tilbrigðum, bæði fyrr og síðar, og það er að líkja himininum við tjaldaðan sal. Um þetta eru 19 dæmi á fyrra skeiði, 11 á því seinna. Hlutfallslega rénar þetta þá um helming, frá nær áttundu hverri líkingu. Fyrir koma sérkennilegri líkingar, svo sem: “Sérðu’ ekki fagrar aldinbjarkir brenna/ í blossatárum dapurs harmageims?”(erfiljóð um Þorgrím Thomsen,1).





Halastjarnan 1858


Halastjörnur voru frá fornu fari taldar forboðar mikilla tíðinda, og það er væntanlega tilefni þessa kvæðis, þar sem skyggnst er vítt um heima. Benedikt Gröndal er heimspekilegt skáld, bæði hér og í Hugfró og Brísingameni, svo helstu dæmi séu talin. En það er auðvitað ekki svo að skilja að kvæði hans séu frumleg heimspekirit, ekki einu sinni svo, að þau séu alþýðleg framsetning heimspekilegra nýjunga. Mér virðast þetta vera gamalkunnug viðhorf, en sett fram á myndrænan hátt. En vissulega er hér himingeimurinn sýndur skv. nútímastjörnufræði, auk guðstrúar. Þess ber að minnast að nútímastjörnufræði (þótt ýmislegt í henni sé nú úrelt) birtist í Viðey hálfum öðrum áratug áður, Stjörnufræði Úrsíns, í þýðingu Jónasar Hallgrímssonar. Þar (10.grein) segir m.a. að fáir trúi lengur á þau hindurvitni sem tengdust halastjörnum.



Þetta kvæði er átta erindi, hvert átta línur fjögur ris í hverri, víxlrím (ababcdcd). Jafnan eru þríliðir framan af línu, en tvíliðir í lok, jafnir liðir stýfðir. Útkoman verður hægur háttur og rúmgóður, hentar vel hugleiðing­um. Kvæðið hefst á ávarpi til yrkisefnisins, svo sem algengt er. Í senn er lögð áhersla á framandleika þess, og því lýst með tengingum við fyrirbæri kunnugleg lesendum, öldur, vönd, sverð, fingurgull, brunn, hvali. En öll eru þau gerð framandleg með einkunnum. Aldan er eldfaldin, gegnum logavönd blika stjörnur Arkturus-stjarnkerfisins, þær eru þá kallaðar glóðir. Himinninn er Urðarbrunnur, þ.e. tengdur örlögunum í gegnum norræna goðafræði, og halastjarnan er kölluð logarós og reginblys drottins. 3. erindi lýkur svo á því að ljóðmælandi biður þennan framandi gest fjarra tíða að uppljúka sér leyndardómum geimsins. 4. erindi hefst svo á ”Nei!” og herðir á framandleikanum með andstæðum ljóðmynda; hafsöldur hvína og belja, hafið hvítfaxar í stormi, en ekkert haggar blossa halastjörnunnar og þögn. Enn skerpast andstæður í 5. erindi, þar sem hverfleiki lífsins birtist í upptalning stuttra aðalsetninga; ”Vinirnir skilja, hjörtun harma [...] Elskandi brjóstið ástarvarma/ andvana klæðist grafarhjúp.”



6. erindi spyr þá hvort þetta fyrirbæri, svo ólíkt mannlífinu sé til þess að minna það á eilífan guð. En svarið kemur þegar, þess þarf ekki, enda hefur tvívegis áður í kvæðinu verið minnt á alveldi guðs, sem stýri halastjörnunni. Og síðustu tvö erindin draga upp í myndum að þrátt fyrir fyrrgreindan framandleika sé allt sköpunarverk guðs með sameiginlegum einkennum. Eins og halastjörnunni er þeytt út í geiminn, þannig einnig ljóðmælanda, fulltrúa mannkyns, bæði eru földuð ljóma. Hvorttveggja er undarlegt tákn – en hvers? ”tindrandi lýst með drottins mál” hlýtur að merkja, að hvorttveggja birti sköpunarvilja guðs. Og þannig berast þau á öldum tímans, sem er frumleg útgáfa á þeirri margslitnu líkingu að tala um tímans straum. Lokaerindið útfærir svo enn þetta sameiginlega í sköpunarverkinu með því að tengja tvær glæstar myndir hreyfingar; annarsvegar stærstu skepnu jarðar, sem ”fast með sporðum kólgu klýfur/ svo kolblá freyða sjávargöng”- hinsvegar hvína stjörnurnar ”um himna djúp/ og í sólkerfa breiðum bogum/ brennandi sveiflið Urðar hjúp”. Aftur Urður, þ.e. örlögin, og nú lögð áhersla á hið hjúpaða, óþekkjan­lega.



Á sama ári orti Benedikt annað kvæði af sama tagi, en miklu lengra, Hugfró. Þar er dvalist meira við mikilvægi einstakra listgreina. Sum lengstu kvæði hans eru eiginlega syrpur kvæða undir ýmsum háttum. Þetta á við um Rímblað (til stúlku) frá sama ári, en einnig Gaman og alvara, sem er syrpa átta kvæða með mismunandi háttum. Það síðasta er í sálmastíl 17. aldar, og þeirrar tíðar stafsetningu, en er ort upp úr þá nýlegri smásögu Edgar A. Poe; Morðin í Líkhússgötu (The murders in the rue Morgue). Vissulega mynda kvæðin í þessum syrpum heild, þar sem andstæður gamans og alvöru skipta meginmáli, en þó leyfi ég mér að fjalla sérstaklega um 5. kvæðið í þessari syrpu – enda hefur því fyrir löngu verið lyft út úr heildinni með fallegu sönglagi Sigfúss Einarssonar.





Um undrageim


Kvæðið er fimm erindi, hvert átta línur, hver þeirra hefur fimm ris, mest tvíliði, jafnan forliðir, jafnar línur stýfðar, víxlrím (ababcdcd). Semsagt enn rúmur, hægur hugleiðingaháttur. En í miðju 5. erindi skiptir um hátt, jafnframt því sem skiptir um tón, frá upphöfnu til gríns. Kvæðið hefst á sólarlagi, en því er lýst í upphöfnu máli eins og sést hér til hliðar og þar segir: ”nú hverfur sól og kveður jarðar glaum.” Og það gerir kvæðið þá líka, og fer inn á fegra land með annarlegum litblæ, ”Þar dvelur mey hjá dimmu fossa tali/ og drauma vekur purpurans í blæ”. Mér virðist fyrri línan (5. l.) augljós tilvísun til Hulduljóðs Jónasar Hallgrímssonar. Þessu draumalandi er lýst neikvætt: ”þar hnígur máninn aldrei niður í sæ, ”þar roðnar aldrei sverð af banablóði”, en einnig jákvætt; þrívegis kemur orðið helgur, og tvisvar bjartur, sem andstæða fyrrgreinds ”dimmur”, og ”á fegra landi gróa blómin bláu”, - það er vafalaust tilvísun til þeirrar óljósu löngunar ”eftir blóminu bláa”, sem var einskonar stefnuskrá þýskrar rómantíkur. Og eftir norrænt umhverfi 1. erindis (norðurljós, m.a.) virðist ýmislegt í lýsingu draumalandsins fengið frá evrópskri miðaldarómantík; ”Þar rísa bjartar hallir sem ei hrynja/ og hreimur sætur fyllir boga­göng”, ”gullinn strengur gígju”, ”harpan skelfur”. Allt er þetta næsta óljóst, eins og draumalandi hæfir, en smám saman magnast þó annarlegur hljómur, allt frá (3. línu 2. erindis) ”en langt í fjarska foldar þrumur drynja”. Virðist það verða að skilja svo, að jafnvel á draumalandinu heyrist í fjarska til fyrirbæra jarðarinnar raunverulegu. Í næsta erindi segir líka að harpan truflist ”því andinn vekur sífellt furðustríð”. Og í framhaldinu rísa ”feiknastjörnur” upp úr sjónum og horfa ströngum augum – á hvern? Væntanlega á dreymandi ljóðmælandann, því erindinu lýkur á afneitun lýsingar draumalandsins: ”en hljómar dauði fjarrum vængjum á.” Eftir þessi umskipti talar ljóðmælandi í fyrstu persónu um að hann knýji gígju sína – skáldskaparlistina- til gleði því ”Hvað gagnar” –fjórtekið- að harma það sem gerðist. Niðurstaðan er að dómur Sögu gildi að lokum. Og 5. erindi hefst á ”Því”, viðbrögðum ljóðmælanda, sem kalla mætti rökstudda rómantíska stefnuskrá. Hann býr sér sæng á himnum, hér er umhverfið allt eins og í byrjun kvæðisins, draumkennt, létt og fagurt. Í miðju 5. erindi breytist bragarháttur, sem áður segir. Rímskipan er söm, og áfram eru jafnar línur stýfðar, en hinar ekki, hinsvegar eru ekki forliðir, og hver lína er þrír þríliðir og tvíliður eða stúfur. Semsé meiri hraði þar. Jafnframt bragarhætti breytist orðalag mikið til grófs hversdagsleika í seinni hluta erindisins, en það er þó í rökréttu framhaldi af framansögðu:





Slengdu þér duglega, sál mín, um geiminn,



Sjóðandi kampavíns lífguð af yl!



Kærðu þig ekkert um helvítis heiminn,



Hoppaðu blindfull guðanna til!





Prometheus



birtist fyrst í safnritinu Svövu, 1860. Þar fylgir þessi skýring höfundar (Ritsafn I, 539).





Prometheus-sagan í goðafræði Grikkja er einhver hin djúpasta og tignarlegasta goðsögn um stríð og framsókn mannkynsins. Höfuðskáld og málarar hafa um allan aldur tekið hana til meðferðar. Prometheus náði eldinum frá guðunum og gaf hann mönnunum, fyrir það var hann bundinn á reginfjalli, en gammur sleit í honum lifrina; þar var hann kvalinn þangað til Herakles (Herkúles) leysti hann. – Ekkert dýr kann að fara með eld, það kann maðurinn einn.





Þetta er langt kvæði, nítján erindi, hvert tíu línur, mestmegnis tvíliðir, jafnan fimm ris í hverri, nema fjögur í 2. og 10. línu. Rímskipan er óvenjuleg (aabccbdede, b og e stýfðir). Í stuttu máli sagt, sérkennilegur háttur, hægur og tignarlegur.



Kvæðið hefst á sviðsetningu, sýnt er fjall og umhverfi þess, hrikalegt. Síðan er vikið að endalausri hringrás tímans (2. er.), og hnitað að miðju myndarinnar; einn er kvalinn (3. er.). Gammur slítur djúpt sár hans (4. er.), guðinn horfir rólegur á þessar kvalir öldum saman (5. er.). Mannkynið allt þjáist með Prometheusi og deyr (6. er.). En þessar kvalir geta ekki tekið verk hans aftur (7. er.), þessi eldur sem hann færði mannkyninu gegn vilja guðsins, er kjarni lífsins og andi, án hans væri allt dautt og kalt, en iðni mannkyns glæðir þennan guðdómseld. Dóttir Jovi leiddi Prometheus til þessa verks, þótt honum einum sé refsað (8-12.er.). Enginn veit hvað guðinn hugsaði þegar hann skapaði þennan eld – andann. En nú kemur sonur hans, drepur gamminn og leysir Prometheus, ber hann þreyttan til guðasala (13.-15.er.). Hel sér þetta, og harmar misstan feng, enda veit hún að margir muni eftir fylgja. Prometheus læknast og skrýðist, leggst með unnustunni, en allt mannkynið frelsast frá kvöl með honum.



Þetta er sem sjá má, skipulegt frásagnarkvæði. Myndmál og orðalag er vel samstillt, í sviðsetningu fyrstu erindanna eru skýin ægigrá, fossar hrynja, og brimlöðrandi hvalur blæs í jötunmóði . Þar takast á andstæður; fjallið er ”sveipað jökli, logum innan þrungið”. Þessi hrikaleiki skerpist við andstæðu; fögur blóm, en þau eru þó sögð annarsstaðar fegurri. Í stíl við skýin er gammurinn ”gráu fiðri búinn [...og] fölvu nefi” (4. er.), ”Svefnlaus augu [Prometheusar eru] sviðaþrútin”, aum og rauð, og jökulkaldir straumar veltast fram. Hann er “Hlekkjum reyrður fast að köldum klaka”(3. er.). Í samræmi við það segir um mannkynið. “Kaldur dauðans dimmuhrollur vefur/ djúpt við hjartað lífsins rós” (7. er.), og “Æðarslögin óð og höfug titra/ úrgar döggvar blóðgum ljóma glitra” (6. er.). Í fyrri línunni er enn tekið mið af líkamsskynjun, en í þeirri seinni er komið yfir í myndmál ljóss, og það setur eðlilega svip á kvæðið um þann sem mönnum færði eldinn. “Himinmærin, horfin gullnum loga, […] hún þér lyfti […] hátt frá dimmri jarðar slóð.” (8. er.), “Löngun djúp til ljóssins unaðssala/ lyfti önd um vegi svala” (10. er.), “sannleiks ljúfur ljómi,/ leikur samt í þokudimmum ómi” (11. er.). Gegn þessu himneska ljósi andans er auðvitað myrkur jarðar og dauða, án verks Prometheus væri “Kalt og dimmt, og sjónlaust andans auga,/ allir líkir skuggum bleikra drauga” (9. er.), verk hans er “andann bæta/ og hann rífa myrkri frá” (11. er). En auðvitað á ekki allt að vera í skærri birtu, eftir lausn Prometheusar segir: “Hvílir mær í skuggaljúfum lundi/ loksins þreyðum vinarbarmi hjá!“ (18. er.). Fyrir bregður annarskonar myndmáli, Herakles veður himna eins og sjó, “fyrir brjósti freyðir himna sær (14. er.), en til að marka andstæðu við himneskt ljósið, er hér einkum beitt hljóðmyndum; “sífellt glymur sorgleg dauðans unn” (6. er.), og einkum í lýsingu Heljar, enda minnir það á sögu Snorra-Eddu, að Gjallarbrú dundi undir lifandi sendiboða guðanna, en ekki undir herfylkingu dauðra. En fyrst og fremst skerpast andstæðurnar við mismunandi skynjun:





Ómi þungum Heljar grindur glymja,



gljúfur skjálfa, hrannir rymja,



dynur stuna dimm úr vítis geim; […]



heljarstraumsins hamrömm öskrar bylgja (16.er.)





Það er orð að sönnu að Prometheus hafi verið skáldum hugleikinn, ekki síst rómantískum, en það er sem uppreisnarmaður gegn einveldi. Shelley samdi mjög langan ljóðleik (65 bls.), þar er Jovi steypt af stóli eftir lausn Prometheus. Byron orti stutt ljóð um efnið, eins og Benedikt leggur hann áherslu á að Prometheus sé fulltrúi mannkyns við að sigrast á þjáningum, en þar er hann ekki endurlausnari þess eins og hjá Benedikt, sem virðist líta svo á, að þjáningar hans hafi leyst mannkynið frá dauða. Kvæði hans er því kristilegt í eðli sínu, ólíkt kvæðum ensku skáldanna, sem nú voru nefnd. Því kvæði Benedikts lýkur á orðum sem gætu staðið í sálmi:





Gegnum stríð og synd að sigri líður



sá, er þungan jarðarhlekkinn ber;



eftir honum sigursveigur bíður,



sem á himni geymdur er.





Þórir Óskarsson segir um þetta:





Eitt mikilvægasta hugtak í kenningum Schopenhauers er viljinn [...hann] er að mörgu leyti svipað eða sambærilegt afl og guðinn sem kvelur Prómþeif, blint og duttlungafullt vald sem skeytir engu um réttlæti eða miskunn. En Prómeþeifur er einnig þræll viljans. Það er vilji hans sem fæðir af sér syndina og þar með hörmungarnar sem ganga yfir hann og þá sem verða gjafar hans, eldsins, aðnjótandi. [bls.83-4] Ef litið er yfir kvæðið í heild sést að þar virðast blandast saman hefðbundin kristin trúarskoðun og heimspekikenning samtímamanns Gröndals, Schopenhauers. Undir niðri glittir þó einnig í söguskoðun eins helsta andstæðings Schopenhauers, Hegels, með samspil frelsis og nauðsynjar sem viðmiðun. Þannig lýsir kvæðið sögu mannsins frá því hann uppgötvar sjálfan sig sem einstakling með sjálfstæðan vilja er sættir sig ekki við þau óskiljanlegu lögmál sem hann hlýtur að fara eftir og þar til honum tekst að sætta þessar mótsagnir, frelsi og nauðsyn. Það lýsir með öðrum orðum glímunni við mótsögn mannlegrar tilveru, því að vera annars vegar frjáls skynsemisvera, hins vegar ofurseldur framandi lögmálum og lausn þessara mótsagna (bls. 87).





Kvöld


Það kvað oft líka við annan tón hjá Benedikt, svo sem í þessu ljóði sem fyrst birtist í Svövu. Fimm átta lína erindi, enn eru jafnar línur stýfðar, en fjögur ris í línu, jafnan réttir tvíliðir.



Fyrsta erindi er sviðsetning kvöldkyrrðar, næsta idyllisk, “léttur vindur laufin hreyfir”, persónugerð stjarna horfir frá himni, rósin sofnar, tunglsljós. En inn í þessa sælumynd blandast annarlegir drættir, rökkrið dreifir raunaskugga á jörðina, rósin ber feigðarlitinn bleika og grætur – að vísu gullnum tárum, og máninn skín á rætur trjánna. Enda er í næsta erindi skyggnst undir yfirborð jarðar, á morknandi lík. Eftir útmálun þess í fyrra hluta erindis, er lögð áhersla á að hér faðmist fjendur jafnt sem vinir, hatur eyðist við ævilok. Þetta er svo útfært í 3. erindi með upptalningu andstæðna, ást og hatur, sæla og kvöl, allt eyðist í dauðanum. Í 4. erindi þrengist sviðið snögglega, þar sem ávarpaður er næturgali, hefðbundinn fulltrúi rómantískra tilfinninga, fjarri dagsins önn. Áhersla er lögð á andstæðar tilfinningar, sem birtast í söng fuglsins, en harmur og tregi yfirgnæfa. Og svo er einnig í lokaerindinu. Þar ríkja upptalningar stuttra aðalsetninga, það orkar afgerandi. Allt líf er ekki aðeins dauðanum vígt, heldur einnig bölvi. Og engin vinar tár hrynja við ævilok. Hér er Benedikt öldungis fjarri hverskyns kristilegri huggun.





6. 4. Steingrímur Thorsteinsson



Ljóðasafni Steingríms var tvískipt, og fyrri bók hans, 1881, tekin sérstaklega. Hún telst vera 4.589 línur (ljóðlínur, auk fyrirsagna; alls 22.297 orð), úr henni tíndi ég 94 persónugervingar og 252 aðrar líkingar. Þetta safn nær yfir rúmlega aldarþriðjung (1848-81), en safn seinni ljóða hans nær yfir tæpan aldarþriðjung, 1882-1913. Það er ívið meira, rúmar alls 4.879 línur (25.013 orð). Úr því voru tíndar 62 persónugervingar og 156 líkingar aðrar.



Grófleg flokkun kvæða Steingríms í efnisflokka er þeim sérstaka vanda bundin, að hann orti mikið af örstuttum ljóðum, oft háðskum, 2-4 línur. Í titlatali ber því miklu meira á þeim, en að textamagni. Titlarnir töldust þá 179 á fyrra skeiði, en 194 á seinna. Annars kemur sjálfsagt fátt á óvart; ástaljóðum fækkar úr sjöttungi í fimmtugasta hluta (29>4), erfiljóðum fjölgar að sama skapi úr fimmtánda hluta í áttunda hvert (12>23). Athyglisverðara er að kvæði um náttúruna, sem birta þar unun, eða bein ættjarðarkvæði eru samtals jafntíð á báðum skeiðum, fjórðungur titla. Það sem flokkast sem stökur og almennar hugleiðingar fer hinsvegar úr tæpum helmingi niður í rúman þriðjung.



Kvæði Steingríms voru ákaflega mikils metin af samtíðarmönnum hans lengstum, en mjög dró úr því síðar. Við höfum séð að þetta neikvæða endurmat hófst á áratuginum 1880-90. Hannes Pétursson sendi frá sér bók um hann (1964) til að rétta það mat af, og þar kemur m.a. fram skýring á því hversvegna tækifæriskvæði Steingríms eru yfirleitt daufleg, en þau held ég hafi mest skaðað skáldhróður hans. Hannes segir (1964, bls. 210-212):





Steingrímur var lýrikker, í þrengsta skilningi, en hvorki epikker sem Grímur né hýmnikker eins og Matthías. Annars vegar varð ljóðræn tilfinning skáldsins undir í viðskiptunum við hina miklu örnefna­upptalningu og staðháttalýsingu Gilsbakkaljóða, og hinsvegar “róm­ant­iseraði” hún um of hið sögulega ívaf kvæðisins. […] Steingrímur verður varla talinn mikið erfiljóðaskáld, þótt til séu eftir hann fáein eftirmæli, sem standast munu lengi enn tímans tönn, og önnur tækifærisljóð hans eru mjög upp og ofan. Til þess að skáldgáfa Steingríms nyti sín að fullu, þurftu viðfangsefnin að standa djúpum rótum í hans innra manni, og að því leyti m.a. var hann ólíkur séra Matthíasi, sem gat hafist á flug eða slegið sína viðkvæmustu og hjartanlegustu strengi næstum án fyrirvara. En þar sem Steingrímur náði bestum árangri í náttúrulýrikk sinni, glímdi við yrkisefni, sem raunverulega leituðu á hann, þar sem hann hafði óbundnar hendur og kveikti saman hugsun, tilfinningu og allan listþroska sinn, tókst honum það sem erfiðast er, að setja fram lífsskoðun í ljóðrænum myndum og táknum, án þess að ræða hana fram og aftur, heldur fól hana næstum að segja milli línanna.





Hvað orðalag varðar, þá hefur Steingrímur í minna lagi af guðsorðum, og kemur þó víða fram trú í ljóðum hans, en Hannes Pétursson segir (1964, bls. 97 o.v.) að hann hafi hafnað hefðbundinni kirkjutrú. Hann hefur tiltölulega mikið af tímaákvörðunum, hálfu meira af eyktarorðum en árstíðar framanaf, jafnvægi á seinna skeiði. Þá ber mest á degi, en á fyrra skeiði er jafnvægi eykta. Hann er mesta vorskáldið, og er það greinilega táknrænt um bjartsýni og fram­fara­hug. Kyrrð yfirgnæfir hjá honum, og ásamt Benedikt hefur hann skálda mest af djásnyrðum, hrósyrðum og fornyrðum (í því síðasttalda yfirgnæfir þó Matthías), einkum á fyrra skeiði. Sama er að segja um tíðni litorða, aðeins Benedikt hefur (ívið) meira. Steingrímur fylgir fyrr og síðar að mestu meðaltali lita­hlutfalla, en hefur þó meira af bláu (nær þriðjungi dæma á fyrra skeiði, fjórðung á seinna), þriðjungi meira af grænu, hálfu minna af gullnu og sáralítið af rauðu, einkum á seinna skeiði. Hlutföll fyrirbæra eru að mestu söm á báðum skeiðum. Mest ber á litum himneskra, það er fjórðungur. Gróður er fimmtungur, en fyrirbæri jarðar og vatns sjöundi hluti hvort. Steingrímur hefur afar lítið af lit á hlutum (aðeins sextánda hvert á fyrra skeiði, hálfu minna á seinna). Og hér er fyrst og fremst um fatnað að ræða, hatt og hringa, en á seinna skeiði helst hús og segl, sem hvorttveggja kom einnig fyrir á fyrra skeiði, mest hvítt. Litorðum um fólk fækkar frá sjötta hverju niður í áttunda hvert. Steingrímur hefur í meðallagi mikið um litu kvenna, það er áttunda hvert litorð á fyrra skeiði, en verður hálfu fátíðara á seinna. Bjart er yfir þeim konum, það er litur andlits, háls, barms, handa og fóta, og konunnar í heild, nema hvítt sé. Svört augu eru fjórum sinnum á fyrra skeiði, en þá eru blá augu þeim þrefalt tíðnefndari, en á seinna skeiði er eitt dæmi um svört augu gegn tveimur um björt. Hár er einu sinni svart á fyrra skeiði, en fjórfalt oftar gullinbjart, en þess í stað koma hærur á seinna skeiði, jafntíðar svörtu hári þá.



Litir eru fyrst og fremst til að myndgera náttúruna, en í undan­tekn­ing­ar­tilfellum til að skapa hugblæ. Himinn, haf og öldur eru næstum alltaf blá, undantekningarnar eru: ”dimmur var ægir”, ”Svo stígðu von, af djúpsins dimmu bárum” o.þ.u.l.



Steingrímur hefur allra skálda mest af ortum orðum, svo nálgast tíðni þeirra hjá Bjarna, sem hóf þá tísku. Þetta hverfur þó nánast á seinna skeiði Steingríms, eins og hjá flestum hinum. Mest ber á samsetningum með blá- og blíð- hjá honum, mörg orð bera tilfinn­inga­blæ, frekar en myndrænan, sem ríkti hjá hinum, slíkar mynd­rænar sam­setningar hefur Steingrímur þó líka.



Steingrímur hefur þessara skálda mest af líkingum, að meðtöldum persónugervingum, telst þetta rúmlega níundi hluti textamagnsins á fyrra skeiði, en minnkar um helming á seinna. Þá er það líkt og hjá öðrum skáldum, nema hvað Bjarni og Jónas komast í námunda við Steingrím á fyrra skeiði þeirra.





Persónugervingar.



Ámóta mikið ber á persónugervingum fyrirbæra himins og jarðar, það er á báðum skeiðum tæpur þriðjungur hvort. En þar ber langmest á persónugervingu Íslands, 17 dæmi, eða tæpur fimmtungur. Annað er dreifðara, sól og fjall, svipað á báðum skeiðum. Fimmt­ungur persónugervinga er sértök, og eru það allt stök dæmi nema náttúran. Vatnsgangur er á báðum skeiðum sjöttungur dæma, þar ber mest á hafi og öldum. Blóm er einnig persónugert þrisvar, en annað er ekki teljandi.



Það er semsagt fyrst og fremst náttúran og einstök fyrirbæri hennar, sem birtast sem mannverur. Ísland er persónugert sem tignarleg kona, stund­um öldruð, oft sem móðir. Og athæfi persónugervinga er svipað á báðum skeiðum, oftast blíðuhót, það eru tveir þriðju dæma; móðurleg, brosir, faðmar, kyssir, elskar, fagnar, blíða, o.s.frv. Söttungur má kallast hlutlaus, en þó er þess að gæta, að þar ber nokkuð á orðum sem skapa kyrrð; horfir, sefur, auk þess gengur og talar. Beinlínis neikvætt er í mesta lagi hálfdrættingur á við það. Og þó væri það oftalning, því þá er með dæmi svo sem: “þá fagnar unn, er brostin baðar bylgja/ Hinn bjarta fót og deyr með ljúfu geði” (Kvöldsjón3, auðkennt af E.Ó.).





Aðrar líkingar



Í kenniliðum ber mest á sértökum, þau eru tveir fimmtu dæma á fyrra skeiði, þriðjungur á seinna. Mjótt er á munum yfir í eiginleika fólks, svo sem tilfinningar, hug o.fl., en ásamt orðum um fólk og hluta þess er þessi bálkur rúmlega fjórðungur dæma á fyrra skeiði, en þriðjungur á seinna. Næst því eru svo fyrirbæri himins, fimmtungur á fyrra skeiði, sjöttungur á seinna. Annað er hverfandi (dalur, fjall o.þ.u.l., haf, fljót o.fl. þ.h.). Meðal sértaka ber mest á lífinu, ást, sorg, tíminn, hugsjón, frægð, ævi, dauði, afturför, sakleysi, sannleikur. Hitt er dreifðara. Í mannheimum eru flest dæmi um auga, kona, andlitsroði, hugur, sál, tilfinningar. Af fyrirbærum himins yfirgnæfir orðið himinn (rúmur helmingur dæma á fyrra skeiði).



Myndliðir eru einkum gripir gerðir af mönnum. Auk dæma um fólk er þetta mannlega rúmur helmingur á fyrra skeiði. Næstoftast er þá líkt við fyrirbæri himins, það er fimmtungur dæma. Þar næst eru haf, alda og þ. h., rúmlega áttundi hluti. Enn má telja blóm og fugl, en annað er hverfandi. Á seinna skeiði er þriðjungur myndliða manngerður, en hinir tveir tveir þriðju eru náttúrufyrirbæri, himnesk og fljótandi eru sjöttungur hvort, en lífverur og gróður hvort um sig hálfdrættingur á við það.. Manngerðir myndliðir eru mjög margir og dreifðir. Helst er að telja: vegur, salur, eldur, klæði. Meðal himneskra fyrirbæra ber mest á sól, ljóma, og degi.



Í stuttu máli sagt, þá er öll þessi dreifing mjög svipuð á báðum skeiðum Steingríms, líkinganotkun hans minnkar verulega en breytist ekki.





Einstök kvæði.



Steingrímur fer ekki dult með forgöngumenn sína. Eitt kvæði hans heitir Freyjukettir, og vísar þar í Freyjukettirnir eftir Bjarna, Fram til fjalla vitnar í Hulduljóð Jónasar (einnig Ástin í fjarlægð) og til Nú andar suðrið eftir Jónas. Mörg kvæði Steingríms hafa lengi verið kunn sem sönglög, og þannig hlotið óvenjumikla útbreiðslu. Þau mega vel við henni, en þó vil ég að mestu líta hér hjá einu hinu kunnasta, Vorhvöt. Þetta kvæði er einkar rökræðið, og myndmálið að sama skapi hefðbundið. Einna bestar eru samlíkingar lokaerindis, þar sem frelsið er dregið af íslensku landslagi, má sjá það enn sem áhrif landsins á þjóðarsál;





Svo frjáls vertu, móðir! sem vindur á vog,



Sem vötn þín með straumunum þungu,



Sem himins þíns bragandi norðljósa log



Og ljóðin á skáldanna tungu



Og aldrei, aldrei bindi þig bönd



Nema bláfjötur Ægis við klettótta strönd.





Hannes Pétursson rekur (bls. 164) hvernig þetta erindi batnaði í endurgerð skáldsins :





Í Nýjum félagsritum er lokaerindið þannig:



Svo frjáls ertu móðir! sem vindur á vog



Og vorblær í fjallshlíðar runni, […]





Samlíkingarnar í fyrstu og annarri ljóðlínu eru of skyldar, hliðstæðar, orðin vorblær í fjallshlíðar runni bæta engu við þá tjáningu, sem felst í: vindur á vog Þessu breytir skáldið, býr til nýja samlíkingu, sem eflir stígandi erindisins. “





Svanasöngur á heiði.



Annað vinsælt sönglag er við þetta kvæði. Það er þrjú erindi stutt, undir svolítið óreglulegum hætti, fjórar línur auk viðlags, 4 ris í línu, nema 3 í annarri línu, sem rímar við 5. línu, viðlagið, 3. og 4. lína ríma saman. Ljóðið byggist á einföldum andstæðum; ljóðmælandi fer langa og stranga leið um eyðilega heiði. Þar er ekki náttúrufegurð að sjá, fyrr en hann heyrir ”ljúfan svanasöng”. Og titill kvæðisins verður með tilbrigðum að viðlagi, 5. lína hvers erindis. 2. erindi mótast nú af umskiptunum sem urðu við þetta, fagur roði skín á fjöllum, og eyðileg heiði er nú orðin að helgidóm einverunnar, þar sem hvaðanæva ber þennan söng sem englahljóm. 3. erindi lýsir því svo, að maðurinn ríður áfram eins og í leiðslu.



Það er mjög nærtækt að líta á þetta kvæði sem táknsögu (allegóríu), þótt ekkert knýji beinlínis til þess – annað en að áhrifin virðast allt of yfirgengileg fyrir svo tilviljunarkennt atvik. En það er mjög algengt að líkja lífinu við ferðalag, og hvað gæti þá svanasöngurinn merkt, ef kvæðið er skilið sem táknsaga? Þar virtist mér helst koma til greina listin, hún gerir erfitt líf unaðslegt, og breytir einangrun í helgidóm. Hannes Pétursson telur (1964, bls.212 o. áfr.) að það sé fegurðin, og virðist mér sú skýring betri, því hér er ekki um sköpun manna að ræða, heldur náttúrufyrirbæri. Líklegt þykir mér að vinsældir kvæðisins byggist á því, að lesendur grunar að þetta sé táknsaga, og að það er ekki sagt beinlínis, þeim er látið eftir að skynja.





Laugardalur


Ólíkt meiri er litadýrðin í þessu kvæði Steingríms, sem á mikilvæga drætti sameiginlega undanfarandi ljóði. Það er sex erindi, hvert er níu línur, en endranær er tala lína oftast jöfn. Skýringin er sú að lokalínan er viðlag með tilbrigðum: ”Með Laugardals hlíðum”. Það er þó bara í 1. 4., 5 og 6. l. aðrar lokalínur eru margvíslegar. Mest er um víxlrím (abaabcdcd), jafnan forliðir, þríliðir drottna, stýfðar línur (a og c) hafa fjögur ris, en hinar (b og d) þrjú. Hægur háttur og rúmur, svo sem hæfir lýsingum. Enda eru þær aðalefni kvæðisins, ekki gerist annað en að ljóðmælandi og félagar hans ríða um dalinn og sjá fegurð, litríka sveit og frjóa í góðu veðri, fólk er við slátt, kvíaféð unir sér, þetta er unaðsmynd (idylla).



. Lokaerindið hverfur aftur til upphafsins. Það einkennir þessar lýsingar, að jafnan er tvenns konar skynjun. Í fyrsta erindi er litrík víðátta; rauðbrúnt fell, grænt grasflæmi í andstæðu við “silfurskær vatnanna bönd”, sjón andspænis heyrn, lóusöng. Í öðru erindi ríkir áfram sjón, fé í brekkum, reykur liðast upp, andspænis bjarkilmi. Í 3. erindi ríkir hinsvegar hljóð; hófahljóð, fossdynur, andspænis sýn; dansi faldhvítra brúða. Sjón ríkir áfram í 4. erindi; byggðir eru í rökkri, bleikhvítt tungl á bláum himni, reifuðum roða, andspænis því að kyrrðin faðmar ferðalangana. Í 5. erindi ríkir enn sjón, hvítmekkir, reykir, en þá andspænis því að ferðamennirnir skynja höfga. Og í lokaerindinu er litrík sviðsmynd 1. erindis endurtekin, en við minninguna skynjar ljóðmælandi einsog vindblæ um hug sinn. Þessi stöðuga samskynjun magnar allar ljóðmyndirnar. Og unaðsmyndin styrkist við persónugervingar; sólin brosir að “sveitalífs ró” (2. er.), sumarkyrrðin faðmar ferðalangana (4. er), dýrðin óf sig í draumblæjur (5. er.) iðuföll Brúarár eru dans faldhvítra brúða (3. er.), en aldraður Geysir kýs værðina (5. er.). Jafnvel kvíaféð er kátt (2. er.). Og fólkið er í samhljómi við náttúruna, eftir að kyrrðin faðmar ferðalanga sígur höfgi á þá eins og á Geysi. Enn styrkist þessi samkennd manna og náttúru við líkingar sem túlka náttúruna í líki mannvirkja: ferðalangarnir skynja “skógblæ um laufrunna göng (1. er.), sjá ” silfurskær vatnanna bönd” (1. & 6. er.), og ” Frá Heklu reis mánans hin bleikhvíta sigð/ Á bláhimni reifðum í roða” (4. er.). Með þessari fínlegu samstillingu næst áhrifamikið kvæði sveitasælu. Hannes Pétursson er nokkuð gagnrýnni en ég á kvæðið (1964, bls. 260 o. áfr.):





Fegursta náttúruljóð Steingríms frá þessum árum er Laugardalur [...] Þrátt fyrir hánatúralístíska efnismeðferð, sem verður bæði smásmuguleg og óhönduleg og raskar kvæðinu í fimmta erindi, þar sem segir frá Geysi, svo hinn skæri spegilflötur ljóðsins brotnar sem snöggvast, er þessi reið um Laugardalslönd orðin að hugljómun innra með skáldinu, þetta er sem ferð í ljúfum draumi.”





Draumur hjarðsveinsins


Annað frægt kvæði Steingríms um sveitasælu – eða náttúruunað, þykir mér meira réttnefni, er frægur af sönglagi eins og Vorhvöt og Svanasöngur á heiði. Þetta er stutt og einfalt kvæði, fimm erindi undir ferskeyttum hætti. Það hefst á sviðsetningu, ljóðmælandi liggur í náttúruyndi og dreymir um samvistir við stúlku. Stig af stigi verður samband þeirra æ nánara; Höfuð hans er í keltu hennar, hann horfir ástfanginn í augu hennar (2.er.), Hún setur á hann blómfléttur, hann er mállaus af geðshræringu (3.er.). Hún beygir sig að honum og býst að kyssa hann (4.er.), en þá vekur þröstur hann af þessum draumi (5.er.).



Athygli vekur, að sviðsetning er öll af tagi náttúruunaðar, jafnvel það sem vekur hann af draumi, er þröstur í runni. En í upphafi: birkilaut, smálækjar spræna, í sólskini, við kotbæinn græna, jafnvel hin fríðasta vina er smámær, og af vörum hennar leggur ilmblæ, augun hennar bláu skinu ljómandi. Athyglisvert er líka, að ljóðmælandi er alveg óvirkur, stúlkan hefur allt frumkvæði að ástarfundi þeirra. Hvörfin í lokin kunna að minna á rómantísk háðhvörf Heine, ekki var þetta algengt í íslenskum kvæðum. En lostavonbrigði minna á kvæði Steingríms Skógarsjónin.





Nafnið


Hannes Pétursson segir (tv.r., bls. 159) um ástaljóð Steingríms (Fyrr og nú, Kveðja, Verndi þig englar, Nafnið og Þið sjáist aldrei framar):





Þessi ljóð fimm voru algerlega ný og sjálfstæð gagnvart þeim ástarkvæðum, sem áður höfðu verið ort í anda rómantísku stefnunnar á íslensku.





Þar kemur einkum til beiskjan í garð fyrrverandi unnustu. Nafnið er fimm fjögurra lína erindi, allar línur stýfðar, en rímaðar abab, 1. og 3. lína hafa 4 ris, 2. og 4. lína 3 ris. Kvæðið skiptist í þrjá hluta. Fyrst er því lýst hvernig unnustan skráði nafn hans víða – en ævinlega í eitthvað hverfult, svo það hvarf. Það er fegurðarblær yfir öllum þessum skráningarstöðum, og hreinleiki; hvítur sandur, ís og snjór. Jafnframt er stígandi, í 1. erindi er eitt atriði, í 2. erindi tvö, aukinn hraði, og í 3. erindi er eitt atriði, þannig lýkur þessum kafla, og þar virðist skráningin mun varanlegri, skorið í börk trés. Ævinlega eru það náttúruöfl sem afmá nafnið í eðlilegri tímans rás. Það mælir gegn ásökunum ljöómælanda í garð stúlkunnar, en einstök orð stinga í stúf við þetta; “bylgju falska bar á land [...] Á burt með þinni trygð”. Sorg hans yfir því er lýst (4. erindi) og loks því hvernig hann risti nafn hennar í hjarta sitt.





Minning


Þetta athyglisverða kvæði er af öðru tagi. Það er tíu fjögurra lína erindi undir sérkennilegum hætti. 1. og 3. lína ríma saman, þær eru hvor 5 ris, mest tvíliðir. 2. og 4. lína ríma og saman, þær eru hvor aðeins tvö ris, stýfðar. Þær slá þá hver um sig botn í hugsun sem breiðist út í oddalínum, og útkoman verður regluleg, hæg hreyfing. Enda drottnar kyrrð í textanum eða hæg, fíngerð hreyfing; svífur, beri, ”létt sem lofts andvari”, ”þinn engilfótur veikan vef ei slítur”, ”hverfur burt í mjúkum morgunvindi”. Sú sem ávörpuð er, dáin á æskuárum, er orðin engill, og fínlegar hreyfingarnar eru í stíl við það.



Fyrsta erindi er mynd nútíðar, en einnig er litið til fortíðar í andstæðum Svanfagurt hold er fengið möðkum,”Saklausa brjóstið, synd þar leyndist engin”. Slíkar andstæður eru raktar áfram í 2. erindi, hún boðaði frið í heimsins stríði, og þetta er sýnt með víðfeðmri mynd, eins og kyrr stjarna slær brosgeislum á æst brim. En svo hverfist kvæðið yfir í óskhátt, um að gröf hennar haldist græn, vökvuð ástartárum (3. er.), að litfögur blóm dafni þar af sólskini og næturdögg (4. er.), að vindur gróðursetji þar tré sem drúpi að trega hana (5. er.), og að hún sjálf svífi að leiðinu (6. er.) á silfurglitrandi köngurlóarvef (7. er.), sem engilfótur hennar slítur ekki, né vekur hún fugl (8. er.). Þannig skín hún í draumum ljóðmælanda (9. er.), ytri fegurð deyr, en hin ekki, sólarlag hennar ljómar um eilífð.



Líkingar eru af ýmsu tagi. Vetrum er líkt við ránfugla, Á leiðinu eru litfögur blóm, ”sem vetur enginn deyði/ vindsvölum klóm”. En einnig vindi er líkt við fugl, vængjahraður ber hann fræ til að af spretti tré sem drúpi yfir leiði hennar, ”með tár á hverju blaði/ að trega þig.” Og einnig hin látna er með vængi, hvíta. Fyrir utan þetta fuglamál og engla er mikið myndmál tekið af gróðri, í fyrsta erindi er lilja brotin og þótt ekki sé það sagt beinlínis, vita allir, að hún er hvít – komin undir myrka fold. Auk stjörnu yfir hafi í 2. erindi birtist einnig vítt svið himins og jarðar í 6. erindi, þegar stjörnur hverfast um himinhvolf, mun engill svífa á tunglsgeislum til jarðar. En í næsta erindi verður þetta allt miklu smágerðara, er hún svífur á köngulóarvef. Þetta er næturljóð öðru fremur, og því eru helstu litir svart, hvítt og silfrað – auk græna litarins á leiðinu, sem sýnir eilíft líf tengt því.





Á gangi fram með sjó


Þetta ljóð er af allt öðru tagi, þar er hvorki trúarvissa né von, aðeins dauðinn framundan. Orðalag er samtillt að þessu, ” súgandi brimið, [...] drynur [...] hafdjúpið kalt [...] og drungalegt alt [...] Við svartbakkann”. Kvæðið er þrjú fjögurra lína erindi (aabb), öll með fjögur ris og stýfð, jafnan forliðir og þríliðir fram að stúf. Segja má að línurnar renni saman, þar sem þær enda á stúf, og næsta lína hefst svo á forlið. Reglubundin hrynjandin með þríliðum gefur þessum myndrænu hugleiðingum þó glæsibrag. Hvert erindi hefst á mynd, en lokalína þess er ályktun. Fyrsta erindi er heyrnmynd; brimgnýr”. Sem eilífðar niður á tímanna strönd”. Annað erindi er sýn; dökkur sjóndeildarhringur handan við ”hafdjúpið kalt”, það er ”Sem dauðleikans baugur við jarðlífsins mar”. Og loks er lokaerindið enn sýn, stakt segl út við þennan dökka sjóndeildarhring, hvít ögn við svartbakka, en þegar hún er óðar horfin, ”Eins brátt hverfur líf yfir síðasta strik”. Líkingar eru samstilltar að þessu sviði; ljóðmælandi gengur um strönd og talar um ” tímanna strönd við jarðlífsins mar, yst við sjóndeildarhring blikar hvít ögn sem snöggvast, það blik bendir til fyrrgreindrar lokalínu, ”yfir síðasta strik” bendir til sjóndeildarhringsins.



Steingrímur var oft hugleiðingaskáld, svo myndræn sem kvæði hans einnig gátu verið. Einkum drottna þessar hugleiðingar í stuttum kvæðum, stökum, eða rímuðum spakmælum, kjarnyrðum, sem eru 2-4 línur. Ekkert annað skáld íslenskt kemst til jafns við hann í þessu, hvorki að magni né gæðum, þótt þau séu mismikil. Sumt af þessu er nánast á hvers manns vörum, svo sem Lastaranum líkar ei neitt, og Orður og titlar. Í þessum kveðskap gætir áhrifa frá klassiskum menntum, m. a. frá Esóp, sem Steingrímur vitnar til. Þetta er bæði góðlátlegt grín og beiskt háð, og má enda þennan undirkafla á örfáum dæmum. Fyrra dæmið er með latneskum titli (Það sem þú biður, þ.e. leitar, er hér), og sýnir það enn fyrirmynd Steingríms. Þetta er hrein rökræða, engar myndir né líkingar, aðeins hrynjandi, rím og stuðlar gera þetta að ljóði –auk þess hvernig andstæðum er stillt saman í fyrstu tveimur línum. Sérkennilegur háttur, að hafa fimm línur, og miðlínuna sér um stuðla, en stuðla og ríma saman 1. og 2. l., 4. og 5.





Quod petis hic est



Þér finnst alt best, sem fjærst er,



Þér finnst alt verst, sem næst er;



En þarflaust hygg eg þó,



Að leita lengst í álfum,



Vort lán býr í oss sjálfum





Loks er ferskeytla, sem byggist á einfaldri líkingu, hroki=stigi. Hér sýnir sig það sem oft hefur verið bent á, að í rauninni er ferskeytla oft of miklar umbúðir um kjarnann, sem er tveggja lína kjarnyrði. Því er það oft að menn muna seinni part vísu, en ekki fyrri.





Listar nám



Sjálfri list að lúta fyrst,



Listar námið vígi;



Hrokinn til þess háa í list



Hentar ei sem stigi.







6. 5. Matthías Jochumsson.



Kvæðasafni hans var einnig skipt í tvö skeið. Hið fyrra, kvæðasafn hans fimmtugs, taldist vera 31.536 orð. Í annan stað var tekið það sem við bættist í aldamótaútgáfunni, að slepptum kvæðum eftir 1900. Þetta seinna kvæðasafn taldist vera 26.599 orð.



Þegar kvæðin eru flokkuð eftir meginefni, kemur upp það vandamál, að ég sleppti viðamiklum erfiljóðaflokkum úr seinna safninu. Í því sem tekið var eru erfiljóð 12%, en 30% í fyrra safninu. Ákall til guðs er tíundi hluti fyrr og síðar. Hér er um titlatal að ræða, en ekki fyrirferð texta. Öðrum tækifæriskvæðum svo sem brúðkaupsljóðum, afmæliskvæðum lofkvæðum, fækkar mikið, úr rúmlega fjórðungi fyrra safns niður í tíunda hluta. Ættjarðarljóðum fækkar líka, úr tíunda hluta niður í hálfan annan hundraðshluta, en lýsingum á náttúrunni fjölgar að sama skapi, og er auðvitað mjótt á munum. Byggðarómantík setur svip á fræg kvæði, tvö í fyrra safni, fjögur í seinna. Gamankvæði fjórfaldast að tiltölu, upp í tíunda hluta, að sama skapi fjölgar stökum (þær verða sexfalt fleiri, fara upp í sjöunda hluta). Hugleiðingar voru tuttugasti hluti, en verða fjórðungur. Ástakvæði eru hverfandi fá, fyrr og síðar (fækkar úr 5 niður í 2).



Séu meðtalin eftirmælakvæðin 45 (sem ég sleppti úr textarannsókn), verða þau alls 60 á seinna skeiði, það er nokkur aukning, svo sem jafnan þegar skáld eldast (verða rúmur þriðjungur titla). Hlutur annarra flokka minnkar þá að sama skapi, annað ákall til guðs verður fjórðungi minna en á fyrra skeiði, þegar það var rúmlega tíundi hluti, grín hefur sama hlutfall, rúmlega sjöttungur. Hverskyns hugleiðingar aðrar verða þriðjungur, en voru tólfti hluti á fyrra skeiði.



Litir eru á báðum skeiðum jafntíðir um fyrirbæri vatns, það er tíundi hluti, einnig ámóta tíðir um manngert, áttundi hluti. En himinn og jörð skipta um sæti. Á fyrra skeiði er fjórðungur litadæma um himin, en verður tíundi hluti á seinna skeiði, um jörð var tíundi hluti á fyrra skeiði en verður fjórðungur á seinna, fjórðungur litadæma var um fólk, en varð sjöttungur. Þar af fækkar litum kvenna hlutfallslega niður í tíunda hluta, en það eru þó tíu dæmi í stað tólf! Augu kvenna eru björt eða blá, armur hvítur, hár þeirra bjart og gullið, en karla (Hallgríms og Snorra) dökkt og hrokkið, eða hvítt. Einnig um konur almennt eru höfð orðin björt og gullin, fyrr og síðar.



Athyglisverðir eru litir hluta. Sumt er auðvitað ”náttúrulegt”, grænt prófborð, blár fáni; annað skapar hugblæ, eins og ”dimmt og hrörlegt hús” Hallgríms. En annars ber mest á björtu (gulli) og gullnum hljóðfærum, hörpu, hjálmi, skjöldum, víni, og björtum sverðum. Sama ríkir á seinna skeiði, þá eru jafnvel kvennaskóli, kvæði og íslensk tunga björt. Þetta má kalla skreytingu, en er öllu heldur til að gera bjart yfir öllu hugarfarslega.



Öldur, haf og þvílíkt eru blá og hvít, það er fyrst og fremst náttúrulegt, en hugarástandi er lýst þegar horft er ”fram á dimma drafnar slóð” (TilfrúGuðl). Slíks eru fáein dæmi fyrr og síðar. Svipað er um dag og himin, hann er bjartur og blár, en stundum er tekið fram að nótt og ský, vetur og vindur séu svört, til að skapa hugarástand í kvæði. Þetta er eins á báðum skeiðum. Á sama hátt er dalur dimmur eða svartur, jöklar og fjöll björt eða hvít, og allt eftir hugblæ er sandur dökkur, grár eða hvítur. Eins er á báðum skeiðum, jafnvel ís er bleikur og grár allt eins og hvítur, þegar það hentar hugblæ kvæðis. Enn frekar einkennir þetta lit sértaka, og er vart ástæða til að rekja það; dauðinn er bleikur eða dimmur, gæska og himnaríki bjart, ellin grá, frægð og frelsi bjart.



Úr fyrra safni Matthíasar voru teknar 69 persónugervingar og 249 aðrar líkingar. Út því seinna 60 persónugervingar og 183 aðrar líkingar, enda er það (sjöttungi) viðaminna.





Persónugervingar.



Af persónugervingum er jafnmikið um jarðnesk fyrirbæri og sértök, nær þriðjungur hvort á fyrra skeiði, en fjórðungur hvort á seinna. Þá voru aðrir flokkar sjöttungur hver; fyrirbæri himins, hafs og mannvirki. Flest sértök eru einhöfð nema hvað frelsi og dauði eru tvisvar hvort, auk þess eru persónugerð ágirnd, ást, drengskapur, efi, hreysti, lygi, falstrú, náttúran, ótti, von, saga, sál, synd, villa.



Af jarðnesku er Ísland oftast persónugert, einnig fjall og jörð. Fyrirbæri himins eru fjórð-ungur persónugervinga, sól, vindur, norðurljós og himinn, auk þess stjarna og tungl. Blóm kemur þrisvar fyrir og svanur einu sinni. Á seinna skeiði eru einnig mannleg fyrirbæri, þar er einkum að telja tungumál, orð og fána, auk þess er bær, kirkja og sveit.



Athæfi er ástúðlegt, oftar en annað á fyrra skeiði, helmingur á seinna; faðmar, brosir og kyssir, syngur, svæfir, leikur, signir, barn, faðir, móðir. En einnig er hitt; neikvætt er fjórðungur athæfis á fyrra skeiði, en fimmtungur á seinna; deyr, grætur, óttast, rymur, reiður. Töluvert er um klæðaburð, faldar, afklæðir, klæðist, auk þess skrifar, talar, vaknar.





Aðrar líkingar



Andstætt því sem almennt er um skáldin, eru kenniliðir Matthíasar fleiri en myndliðir hans, vegna upptalninga. Sértök eru nær helmingur kenniliða á báðum skeiðum. Mjótt er á mununum yfir í orð um mannlegt atferli, svo sem hugsun og tal, grát og góð verk, minning og visku. Orð um fólk eru fjórðungur kenniliða, auk þess eru hlutir gerðir af mönnum, kvæði, höggmynd, allt samanlagt eru kenniliðir af mannlegu sviði ásamt sértökum meira en fjórir fimmtu kenniliða á báðum skeiðum. Af sviði náttúrunnar er helst að telja; sólskin, himin, snjó og ís, jökul, land og dal. Svo er haf, alda, lækur, löður, þoka. Algengustu sértök eru: dauði, líf, ævi, tíminn, trú og sorg, ást og guð, framhaldslíf, heift, andi, frægð, gleði, menning, mæða, sannleikur. Af kenniliðum um fólk er einkum að telja: maður, kona og fólk, hugur, sál og tilfinningar, enni, auga, líkami.



Myndliðir eru einkum orð um hluti gerða af mönnum, það er um helm­ing­ur fyrr og síðar Næst ganga fyrirbæri himins, það er fimmtungur, en sjaldnar er líkt við önnur náttúrufyrirbæri. Gróður er áttundi hluti, þar ber mest á blómum, tré, strái, jurt. Tæpur tiundi hluti er allskyns vatnsgangur; haf, fljót, straumur og lind. Meðal manngerðra hluta eru einkum áberandi klæði, gull, tjöld, skip, hjól og drykkur, þráður, sverð, göng, fjötrar og salur. Af himneskum eru algengust sól, eldur, ljós, dagsbrún, dagur og elding. Af jarðarfyrirbærum er helst að telja ís, fjall, klett og strönd. Mannlegt er her, líkami, sál, vofa, sár og tunga; en atferli: fjallganga, fórn, glíma, lækning, róður, sigling.



Margt er mjög hefðbundið í þessum líkingum, svo sem að líkja tímanum við fljót, haf og hjól, ást við eld, dal við sal, manni við stoð og hlíf, tré eða blóm, það síðastnefnda er auðvitað oftar haft um konur. Hvorumtveggja er likt við strá, að gamalli, kristilegri hefð. Líkingarnar mótast auðvitað mjög af því að Matthías yrkir trúarleg hughreystingarljóð, einkum í eftirmælunum, sem eru fimmtungur fyrra kvæðasafnsins að textamagni. Svo tíðrætt sem honum verður um dauðann, notar hann þó ekki algengustu líkingar um hann, svo sem brottför, en fer nálægt því með tali um dauðans dyr og göng, auk þess er um hann haft: þoka, hjúpur, haf og brim. Einnig eru hefðbundnari líkingar, svo sem dauðans hvassa stál og svefn. Á sama hátt sniðgengur hann algengustu líkingar um lífið, svo sem ferð, en fer að vísu nærri því með að líkja því við haf og skip, auk þess að tala um morgun lífsins. Fjölbreytnin er annars mikil í þessum 13 dæmum, lífið er glíma, hjarn, köld strönd og eyri (þaðan er siglt!), hjól, klæði og beisk fæða. Svipað er þegar hann talar um einstaka mannsævi, henni er á hefðbundinn hátt líkt við dag, fljót, straum, siglingu, veg, en einnig við geisla, klæði og drykk. Á seinna skeiði eru meðal myndliða: skot, vakt og bankahrun. Sést á því m.a., að Matthías var meðvitaður um samtímann í ljóðagerð sinni, hann víkur þar einnig að sæsímalínu. Munni, máli og björgum likir hann við stál. Og þótt einnig á seinna skeiði komi fyrir hefðbundnar líkingar, svo sem þegar ljóðmælandi kallar sig brákaðan reyr, titrandi skar, og líkir konum við blóm, en körlum við tré, þá er útfærslan oft myndræn, svo forðast klisjur. Margt er frumlegt, svo sem þessi líking um tunglskin: ”silfrið flaut á sundi” (Við þjóðhátíð Eyfirðinga3), og á sama stað (raunar margnotuð) líking um sólskin: ”gullið brann í lundi”. Hleypidómar eru kallaðir kaun (NýjársljóðII, 3), og menn yrkja ekki aðeins akur guðs, svo sem gamalkunnugt er, heldur stunda einnig ”hégiljunnar yrkju” (Belgur og kerling7). Einnig á fyrra skeiði ber nokkuð á frumlegum líkingum og flóknum, sem ganga frá einum lið til annars, og gjarnan í trúarlegum samlíkingum: Rétt eins og gjörvöll eftirmynd sólar rúmast í einum dropa, þannig ”brosir eilíf andans lind/ augans steini falin”.(Vöskum3). Einnig teygar sál ljóðmælanda ljóð viðmælanda af eins mikilli gleði og jörðin teygar sólskinið. (TilfrúFríðuSharpe3). Sumt má þykja óljóst í líkingum Matthíasar, og fyrir kemur nykrun; svo sem þegar hann segir um “hörpu” sína i inngangi minningarkvæðis um Jóhönnu Kúld: “dillið, lífsins hljómar/ náðarmildir, mýkið hjartans þró.” þró er kví úr timbri eða steini, og verður brotin eða rifin, ekki mýkt. Vanhugsað virðist líka að segja “hált er á örlaga-svelli” (Minningarstef), því sé um örlög að ræða, er til lítils að feta varlega. Einnig á seinna skeiði hvarflar líking um tungumál eða ljóðagerð frá sverði til hörpu, og aftur til baka, því hún er þó hert; ”Yður eg fel/../sverð, er dýrast fengið verður!/ það er harpan, hert og orpin/ Hekluglóð og jökulflóði” (Bragarbót12). ! Þetta er nykrað, og fleiri eru slíks dæmi, svo sem þegar tímanum er líkt við fljót, sem þó slær eins og klukka: „Tólf“ mér dynur tímans elfa” Hringsjá22). Stundum er erfitt að sjá samhengið, t.d. í kvæðinu Hafísinn (6. erindi), þar sem hann ræðir um norðurhjarann. Þó er greinilegt að hann vísar til segulpólsins, og að einhver myrkur máttur leynist þar, sem hafi mikil áhrif á líf manna: ”Er þar rituð rún á segulspjaldi?”



Himni líkir Matthías við sal, þrívegis tjaldaðan að hætti Benedikts Gröndal, sólartjöld og “skin sólar skilur/ að skautin lofttjalda.” (Veðurvísur2). Trú er líkt við ljós, vopn og blóm, en hitt er sérkennilegra að sjá henni tvívegis líkt við skurn sem áður segir. Matthías er öðrum fremri í byggðarómantík, raunar er það helst Steingrímur sem keppir við hann á því sviði. Hér ber einna hæst Skagafjörður, en auk þess má nefna Fljótshlíð og Þórsmörk, Eyjafjörður, Við þjóðhátíð Eyfirðinga og Með landi fram. Í þessum kvæðum er breið lýsing, fyrst á landslagi, en svo er minnst merkra tíðinda á söguöld og síðan. Svo jákvæð sem landslagslýsingin er, þá minnist sögulýsingin bæði góðs og ills. Saknað er liðinna fornkappa, og í síðasttalda kvæðinu ættingja og kunningja ljóðmælanda. Líkt og hjá Bjarna thorarensen er afturför á oddinum, ekki framför.





Einstök kvæði



Engin leið er að sýna hér alhliða mynd af skáldskap Matthíasar, hann er fjölskrúðugri en svo. Nefna mætti rímsnilld og hrynjandi í sjóslysakvæðinu Draupnir, en því líkist Illugakviða Stephans G. mjög.





Sorg


Þetta er eitt persónulegasta eftirmælakvæði Matthíasar. Það er sjö erindi, hvert sjö línur, rímskipun: ababccb. Fjögur ris í hverri línu, nema þrjú í b. Mikið er um forliði, og þríliðir ríkja, nema hvað lokaliður er tvíliður í b, stúfur í hinum. Með þessu móti verður hvert erindi aflokin heild. Og það fellur vel að efnisskipan, sem einkennist af stígandi í ballöðu­kennd­um endurtekningum í upphafi erinda, raunar er sama upphaf á erindum 2-4. En fyrsta erindi hefst á ferð, ljóðmælandi flýtir sér yfir hafið til að bjarga viðmælanda. Bjartsýn löngun hans birtist í mynd sem gnæfir yfir bæinn: ”Skein þá öll Esjan svo skínandi breið”, endurtekningin sem ég auðkenni, magnar þá mynd. En andstæðan birtist í næstu línu, “skuggi stóð rétt yfir bæinn”. Og þessar andstæður halda áfram í fyrsta erindi, ljóðmælandi er grunlaus, en nálín hékk fyrir glugga. Þetta heldur áfram í upphafi næstu erinda; eftir “Gekk ég að sænginni” kemur fyrst mynd konunnar sofandi (2. er.), en í 3. erindi: “signdi þitt lík”, og í 4. erindi kemur mynd ljóðmælanda sem starir “út í eilífan geiminn”. Á þessum stað er það mynd örvæntingar, sem drottnar kvæðið út, í lokaerindi staðfestist hún í andstæðum, ljóðmælandi er ýmist grátandi, eða “borinn af hégóma-glaumi”, en það verður þá að skoða sem andlegan flótta frá sorginni. Myndin af örvilnan ljóðmælanda magnast við mótsagnir; tómið birtist í því að þögnin kvað sem þruma. Ennfremur af mynd 5. erindis, ljóðmælanda finnst sem hann sé á eyðiey með brotið fley, og einskis að bíða nema dauðans. Þetta er áhrifamikið kvæði, einkum vegna andstæðna; sólskins í upphafi, sem stig af stigi hverfist í svörtustu örvæntingu.



Þessu kvæði tengjast önnur eftirmæli Matthíasar:





Elín Sigríður



Raunar munu bæði kvæði ort um sömu konu. Og fyrsta erindi þess tengist mynd fyrsta erindis Sorgar, því þetta kvæði hefst á andstæðri mynd fjallsins:





Hér inni finnst mér autt og dimmt,



en úti nístingskalt,



þar drúpir fjallið dautt og grimmt





Þetta kvæði er sex erindi, hvert átta línur með víxlrími (ababcdcd), allar stýfðar, oddalínur fjögur ris, en jafnar þrjú, jafnan forliðir, en mest tvíliðir. En þetta kvæði er miklu tilkomuminna, mikið um slitnar líkingar, og lágkúru eða sjálfsagða hluti, eins og.



Þú mátt ei æðrast, enda þótt



þér ógni lífs vors hjól



að morgni’ en ei um miðja nótt



úr mari stígur sól





ennfremur eru endurteknar fyrirbænir, og slakar samlíkingar:, svo sem





Þín ást til mín var helg og heið



sem himna voldug sól,





og sú sól lýsti konunni “að lífsins náðarstól”, og framhaldið er bara hnoð:





það undurljós með augum þín



gat ekki slokknað – nei!



í æðra heimi enn það skín;



þar á ég festar-mey.





Í lok kvæðisins segir að þótt deyi blóm í bana svölum dal, þá fái ljóðmælandi og kona hans þó ”að halda heilög jól/ í herrans náðar sal.”



Það er ekki ástæða til að dveljast lengur við þetta dæmi um að mistækur var Matthías, og varla von til að hann gæti aftur ort vel um þessa konu, eftir svo ágætt kvæði sem Sorg.



Matthías var afkastamikill í eftirmælum, sem áður segir, en einna minnisstæðast verður erfiljóð hans um Berg Thorberg, vegna þess hve snilldarlega stutt og hnitað það er um andstæðurnar bjart – svart, sem yfirborð andstæðna dauða og eilífs lífs. E.t.v. er það vegna tilhugsunar um það síðastnefnda, sem lýsingarorðið ”eilífa” er hér haft um trú, sem virðist satt að segja nokkuð út í hött:





Aldrei er svo bjart yfir öðlingsmanni,



að eigi geti syrt jafn sviplega og nú;



og aldrei er svo svart yfir sorgarranni,



að eigi geti birt fyrir eilífa trú!





Hafísinn


Þetta fræga kvæði er átta erindi undir hátignarlegum hætti, svo sem hæfir þeirri víðáttumiklu ógn sem um ræðir. Hvert erindi er tíu línur langar, yfirleitt fimm tvíliðir, nema 2, 9. og 10. l. eru fjórir tvíliðir. Þannig afmarkast hvert erindi og sneitt er hjá einhæfni. Í sömu átt stefnir rímskipanin; aabccbdede, þar sem b og e eru stýfðir liðir. Hrynjandin verður hraðari við alla þessa reglulegu tvíliði, en ef þríliðir ríktu eða blanda beggja.



Á vissan hátt má segja að kvæðið sé skipulega upp byggt, en þó eru óvænt stökk í því. Fyrst er ávarp til landsins forna fjanda, sem er eins og herskipafloti, sendur gegn því, fegurð ógnarinnar birtist í orðinu ”silfurfloti”, Hel situr í stafni. En svo er stokkið yfir í ógurlegar fæðingarhríðir Ránar, væntanlega er þá hafísinn barnið. En í öðru erindi er spurt hvað orðið sé um hafið, móðurbrjóst rifið úr munni barns, og því lýst sem fögru. Sem mynd hungursins birtast björn og refur nagandi sömu beinagrind. Og nú kemur upptalning alls sem þar með er liðið undir lok, þjóð, saga, frami, dáð, vit, hreystiþróttur, o.s.frv. Þetta er allsundurleitt. 3. erindi hefst svo á sömu spurningu, ”Hvar er hafið”, en nú er svarið, að einungis sést risavaxinn kirkjugarður, ”leiði heillar veraldar”, sem þá höfða til ímyndunarafls og skáldgáfu. Fjórða erindi telur svo upp að allt illt fylgi hafísnum, án þess þó að þetta mótlæti efli þrótt manna, svo sem Bjarni Thorarensen taldi veturinn gera (í 7. erindi hér er hinsvegar gert ráð fyrir þeim möguleika). En enginn skilur hafísinn. Í 5. erindi eru myndir af yfirgengilegum mætti hafíssins, hvernig eiturkaldur andi hans læsir sig um ljóðmælanda eins og þúsund örvaroddar, sólin vinnur ekki á hafísinum, enda þótt stuðlabjörg stikni fyrir henni. 6. erindi spyr svo um eðliskjarna hafíssins, bæði út frá norrænum goðaheimi – “þruma nornir þar hjá Urðarbrunni “ og nútímaeðlisfræði – hefur segulpóllinn þessi áhrif. 7. erindi rekur svo að ekkert svar fáist við slíkum spurningum, en hugsanlega efli þessi dauða auðn lífið á einhvern hátt. Og lokaerindið boðar loks mannkyninu að reyna ekki að skilja heiminn, heldur treysta bara drottni.



Það magnar mynd hafíssins, hve sundurleitar myndir eru hafðar um hann, og stokkið frá einu til annars, óskipulega. Þannig sannreynir lesandi hve yfirgengilegur og óskiljanlegur hafísinn er. En stundum má myndmál þykja óvandað. Enda þótt diskar séu hafðir undir mat, og hafísinn boði hungur, þá verður fáránlegur sambreyskingur, að ”kerling Helja” hendi hungurdiskum yfir gráð. Þá er og sterkri lýsingu hafíssins (í 4. er.) drepið á dreif með lokalínunum:





þú ert úti, þú ert inni -



þú ert kominn langt á sveim!





Til séra Bjarnar í Laufási.1878


Annað hafísskvæði Matthíasar er einkennilegt. Því fylgir stuttur formáli: “(Skáldið sigldi í björtu veðri, gegnum hafís, fram hjá Laufási á Uppstigningardag 1878. Sama dag, nokkrum árum áður, missti séra Björn dóttur sína Svöfu).”



Þetta kvæði er níu fjögurra lína erindi, hver lína 4 ris, 3 tvíliðir og stúfur, rímskipan aabb. Semsagt, léttur háttur og kunnuglegur, en sneiðir þó hjá algengustu ferkvæðum háttum, ferskeyttum, sagnadansahætti og Heinelagi.



Kvæðið segir frá ferð, siglingu út Eyjafjörð, og ýmislegt sem ljóðmælandi sér á láði og legi verður honum táknrænt um jarðlífið og annað sem guð hefir ákvarðað (2. er.). Í fyrsta erindi birtast andstæður, dauði í mynd íssins undir, en gleði himins yfir. Á sama hátt er fögur sjón heim að Laufási, en dagsetningin minnir á sorg, dauða Svövu. Bærinn á Laufási virðist smár er hann ber við fjallið, á sama hátt er bjástur manna smátt miðað við fjall tímans (4. er.). Blátt hafið speglar himininn, og nú er hafið persónugert sem kona, þrátt fyrir þessa himnaspeglun er henni ekki að treysta. Enda er brúðarlínið sem hylur brjóst hennar –ísflákarnir – komið frá Hel, boðar dauða (6.er.). Þannig sýnir hafísinn falskan heiminn (7.er.). En nú slær um, ljóðmælandi horfir frá landi, og sér þá sólarauga guðs horfa á landið og slá það gulli (8.er.). Sál hans heyrir sigurlag, sem látin stúlkan leikur til að svæfa sorg eftir hana (9.er.). Þetta er allt kunnugleg guðfræði, en í sérkennilegu myndmáli stundum. Einna einkennilegast finnst mér 3. erindi; Túnið á Laufási minnir á von manna - grænt, en kirkjuturninn þar minnir á þunna helgiskurn hjartans. Þetta verður vart skilið öðruvísi en svo, að hann vísi til himna og tákni því guðstrú, en hví er hún kölluð þunn skurn? Er klerkur að deila á sóknarbörn sín og aðra landsmenn fyrir yfirborðslega sýndarmennsku í guðstrú? Eðlilegra virðist að skilja þetta svo að trúin sé vörn hjartans. En þetta er líklega gott dæmi um hvernig Matthías ætlaði lesendum sínum að skilja óvenjulegar líkingar, en fékk þá fyrir ásakanir um að kvæði væri vanhugsað, gengi ekki upp. Vissulega mega þær ásakanir stundum þykja réttmætar.



Sum kvæði Matthíasar bera mjög keim af rökræðum, t.d. hið fræga Guð minn guð ég hrópa. En því lýkur á fallegri ljóðmynd, sem dregur fram kjarna hugsana kvæðisins um dauðann sem eðlilegt náttúrufyrirbæri, sem fólki beri að taka:





Dæm svo mildan dauða,



drottinn, þínu barni. -



eins og léttu laufi



lyfti blær frá hjarni,



eins og lítill lækur



ljúki sínu hjali



þar sem lygn í leyni



liggur marinn svali.





Eggert Ólafsson


Áður var minnst á ballöðukenndar endurtekningar í Sorg. En sá svipur er enn sterkari á þessu kvæði; eftir sviðsetningu kemur dæmigerð ballöðuformúla; ”Það var hann Eggert Ólafsson,/ hann ýtti frá kaldri Skor.” Þessi formúla er svo endurtekin með tilbrigðum í 5. erindi. Og viðmælandi söguhetjunnar heitir bara: ”gamall þulur”. Af sama tagi er bragarhátturinn, fjórar stuttar línur í erindi og létt rímað, aðeins 2. og 4. lína saman, allar stýfðar, oddalínur 4 ris, jafnar línur 3, þríliðir framanaf, síðan tvíliðir.



Þetta er einfalt frásöguljóð, og stiklað frá einu atviki til annars, skv. hefðinni. Hetjan leggur í för, er varaður við, en hlær að háskanum. Hefðbundin þrítekning þjóðsagna og þjóðkvæða er í viðvöruninni, tvisvar frá ”gömlum þuli”, en í þriðja sinn frá brúði Eggerts. Þegar siglingin er hafin kemur mynd umhverfisins, sem sýnir háskann, fyrst að ”komið var rok”, en svo viðbrögð fugla, aðeins einn er eftir þarna. Loks fórnar hetjan lífi sínu við að reyna að bjarga konu sinni. Það er skáldskapur Matthíasar, því engin voru vitnin, en þetta fellur að bókmenntagreininni. Hugsast gæti að Hulduljóð Jónasar sé hér nokkur fyrirmynd, því þar er bæði Eggert og ballöðukennt tal smala.





6. 6. Grímur Thomsen.



Kvæðasafn hans taldist vera 32.457 orð (að slepptum Búarímum og þýðingum). Það er að vísu í tímaröð útgefinna bóka, 1880, 1896 og 1906, en þær voru svo misstórar, að ekki var unnt að skipta kvæðasafninu í tímaskeið eins og hjá hinum skáldunum, enda óvíst um aldur kvæða í seinni bókunum, þau gætu sum verið frá sama skeiði og fyrsta bókin. Hún er sjöundi hluti heildartextans, önnur bókin er rúmur helmingur hans, en sú þriðja tveir sjöundu hlutar. Fyrsta bókin minnir mest á kvæðasöfn annarra rómantískra skálda, þar er eina ástaljóðið, og þau þrjú ættjarð­arkvæði sem Grímur lét frá sér fara (en að vísu eru tvö náttúru­lýsinga­ljóð í hverri bók). Eftirmæli og hugleiðingar eru hvort um sig sjöundi hluti fyrstu bókar. En svo koma sérkenni Gríms, söguljóð og þjóðtrúar eru hvort um sig fimmtungur kvæða þar. Og þau sérkenni færðust mjög í aukana með næstu bók, þar eru söguljóð tveir þriðju titla, en hugleiðingar sjöttungur. Annað dreifist svo mjög að vart er teljandi. Í þriðju bókinni eru svo söguljóð þriðjungur, hugleiðingar fjórðungur, og eftirmæli og þjóðtrúar­kvæði tíundi hluti hvort um sig.



Þetta má túlka svo, að Grímur hafi forðast oftroðnar slóðir starfsbræðra sinna, sem mikið höfðu látið frá sér fara, og raunar drottnað á þessu sviði róm­antískrar ljóðagerðar lengi, þegar hann gefur út bækur sínar. Einnig má skýra það svo, að hann hafi fundið sinn náttúrulega tón, draugakvæði hans eru sérstæð á Íslandi, en minna á ýmislegt í enskri rómantík, enda vísar hann til hennar í titli: “Íslenskur Tam O’Shanter”. Um sögukvæði Gríms segir Sigurður Nordal (bls. 23): “Hann unir sér við að færa fornar sögur í ljóð, stundum án þess að breyta verulega né bæta við”. Þetta finnst undirrituðum einna mest hrífandi við sögukvæði Gríms, að hann gerir lifandi í myndum þessar fornu persónur, án þess að breyta neinu, finnur fegurðina í því fornkunna. Sigurður talar ennfremur um trúarvissu Gríms í formála (bls. 24 o. áfr.), og kemur hún víða fram, ekki síst í kvæðasyrpunni Stjörnu-Odda draumur hinn nýi, sem er kerfisbundið yfirlit skoðana Gríms um framhaldslíf. Hann tengir það stjörnufræði síns tíma, talar um ómælisdjúp milli hnatta, sem honum endist ekki eilífiðin til að kanna, en fylgir t.d. Stjörnufræði Ursíns[7] í því að trúa á tilveru skyni gæddra lífvera á sólinni. Hann rekur að upprisnir muni menn bera ör synda sinna, njóta samvista við hund sinn, hest og aðrar skepnur. Himnavist muni opin sannleiksleitendum allra trúarbragða, ekki bundin við kristna. Ljóðmælandi hlakkar til samvista við helstu hugsuði og listamenn liðinna tíða, telur framliðna hafa hlutverki að gegna á jörðinni eftir dauðann, sem viðvarendur og verndara, og einnig í Paradís verði nóg að gera, því “erfiði mannsins andi þarf/ innan um frið og ró.” (Vísa). En það sem öðru fremur mætti þykja sérkennilegt er að Grímur finnur guði stað í geimnum, “Í Halcyone situr hann sjálfur” (nmgr.: “Bjartasta stjarnan í Sjöstirninu.”, Stjarnan, bls. 189). Þetta var reyndar einnig í Hugfró Benedikts Gröndals, og var útbreidd hugmynd á 19. öld, svo sem Hannes Pétursson rakti 1982 (Sjöföld en þó samein stjarna).



Sérstaða Gríms birtist einnig í orðavali. Ekki í öllu, því eins og hjá flestum hinna eru orð um guðdóm þriðjungur úr prósenti, dagur algengast eyktarorða, vetur og vor hvort um sig þriðjungur árstíðaorða, líkt og hjá Bjarna, og kyrrðarorð eru hálfu tíðari hávaðaorðum. En Grímur hefur í minnsta lagi af djásnyrðum, aðeins Jónas hefur minna. Á seinna skeiði sínu nálgast hin skáldin þó Grím í þessu. Hann hefur miklu minna af hrósyrðum en hin skáldin, innan við einn af hundraði, og með minna móti af fornyrðum (hálfur annar af hundraði og litum (hálfur af hundraði). Ljóðræn nýyrði eru og í lágmarki hjá honum. Fyrirferð líkinga í texta er einnig með minnsta móti hjá honum (tuttugasti hluti í stað tíunda, en Matthías á seinna skeiði og Benedikt nálgast það).



Liti hefur Grímur fyrst og fremst um fólk, það er þriðjungur dæma. Næst ganga litir hluta, fimmtungur dæma, um himnesk fyrirbæri er sjöundi hluti, en um vatnskennd tíundi hluti.



Litir kvenna eru áberandi í dæmum um fólk (24 af 47), og þar ber mest á björtu holdi, hvítum örmum, ljósu hári og bláum augum. Fjölbreyttari eru litir hafs og öldu, til að skapa hugblæ; blár og grænn, en einnig “byrgja kalda leikinn öldur gráar” (Hemingsþáttur), “beljar sjórinn grár” (Tveir fuglar), “efans svarta haf” (Vonin). Himinn er bjartur og blár, veður líka, og jafnvel nóttin er björt. En einnig kemur fyrir að tekið sé fram að myrkrið sé svart, og “dregur mökkva/ dökkan yfir höll” segir í Jarlsníði, þegar herðir á stríðum söngvum. Á sama hátt er dökkt yfir fjalli, bakka, og moldin svört til að skapa hugblæ. Dauð­inn er dökkur og grár, ellin grá – og græn, þegar vel er (Þórður sýsl), orðstír og engill bjartur, en vofur bleikar.



Safnað var 65 persónugervingum og 197 öðrum líkingum.





Persónugervingar.



Hér ber mest á náttúrufyrirbærum, vatnskennd eru þriðjungur (þar af alda 10, haf 6), en himnesk og jarðnesk fyrirbæri eru fimmtungur hvort, sértök eru aðeins fimm (þrettándi hluti). gróður 4 dæmi og einn fugl. Athæfi er jákvætt eða blíðlegt í næstum helmingi dæma, en jöfnu báðu neikvætt og hlutlaust afgangurinn, það er eins og meðaltalið..



Algengastar persónugervinga eru: alda, haf, lækur, vindur, sól og stjarna, Ísland, jökull, snjór, tré. Sértök eru öll stök: böl, dauði, höfuðskepnur, iðrun, náttúran.





Aðrar líkingar



Kenniliðir eru að meira en tveimur fimmtu mannleg fyribæri, en sértök eru þriðjungur. Lítið eru líkingar hafðar um nátturufyrirbæri, þar eru helst: alda, fljót, himinn, sólskin, stjarna og tungl, snjór og hlaup hesta. Af sértökum er algengast: líf, dauði, framhaldslíf og sál, elli og hugsun, andi, ást, erfiðleikar, heimur, náð, saga og vald. Mjótt er á mununum yfir í mannleg fyrirbæri, raunar ógerlegt að draga skýr mörk; tilfinningar, ævi, maður, hugur, sorg, blóð, fólk, kona, enni, munnur, varir. Enn er stutt yfir í athæfi og mannvirki ýmiskonar: bardagi, kvæði, gröf og fáni eru helst að telja, annað er stakdæmi.



Í myndliðum yfirgnæfa náttúrufyrirbæri, enda þótt stærsti flokkurinn sé að vanda manngerðir hlutir (rúmur þriðjungur). Myndliðir eru afar dreifðir; helst er að nefna: klæði, ár og sigling, brunnur, vél, þráður. Lífrænt er sár, fugl, hestur, kýr, blóm og tré. Önnur náttúrufyrirbæri fara dreifðar; alda, haf, hafrót, dögg, lind og straumur; óveður og ljós, sólskin, neisti og vindur; klettur. Sérstætt er við Grím hve hestar eru honum hugstæðir. Grímur beitir gömlum kenningum öðrum skáldum fremur; “skálma skúr” (Olifant 4), “veður spjóta” og “branda hríð” (Væringjahvöt) ”skúrir örva” og ”báru benja” (Sörli og Hamðir), o. s. frv., og er það í samræmi við forn yrkisefni, sem mjög eru tíð hjá Grími. Nýtæknilegar líkingar koma þó einnig fyrir, svosem að fólki beri að þjálfa hugsun sína og “ávaxta í drottins banka”! (Skilningur og trú 4) og hann talar um ískjallara fornaldar (Langloka), en þeir munu fyrst hafa til komið í lok 19. aldar.





Einstök kvæði





Haustvísa


Kvæðið er eitt tíu lína erindi, hver lína fimm ris, mest tvíliðir, nema hvað 1, 3, 6. og 8. lína eru stýfðar, forliðir á flestum seinni lína, og verður þá kveðandin samfelldari. Merkingarlega skiptist ljóðið einnig í tvo jafna hluta, þótt samhengi sé þar á milli. Fyrri hlutinn gerist í náttúrunni, en í seinni hluta færist sú breyting sem þar varð inn í brjóst mannsins. Þetta verður og að samfelldara við það að náttúrunni eru eignaðar mannlegar tilfinningar og hegðun: sumt er að vísu á mörkunum, orðalag sem jafnt er eðlilegt um náttúrufyrirbæri og fólk, þannig myndast brú: lauf er fölt og titrar, blóm lúta höfði, vindur hvíslar. En annað er ótvírætt persónugervingar, trjágreinar eru kvíðnar og tala til fugls, sem þagnar við það. Þetta eru mannleg viðbrögð, þótt auðvitað þagni fuglar oft.



Í seinni hluta ganga líkingar á hinn veginn, frá mannlegu til náttúr­unnar. Gleði er líkt við fugl, hærum við vetrarmjöll, kinnroða við blóm. Þannig er mannsævi óbeint líkt við árstíðahringinn. Þetta er haglega fléttað, einni líkingu í aðra.





Vorvísa


Ámóta snilldarlegt er þetta kvæði, sem fléttað er á líkan hátt, frétt berst frá einum til annars. En bragarháttur er annar og allur glaðlegri, þar sem ”Haustvísa” var hæg. Hér eru tvö sex lína erindi, en línur styttri, fjórir tvíliðir í hverri, nema hvað 2. og 3. l. 2. erindis eru stýfðar.



Frásögnin hefst raunar á gráti, en fyrst það eru fannirnar sem gráta, hryggir það fáa lesendur. Enda er framhaldið allt eins og glöð börn; lækir eru glaðir, sprænur sprikla og hjala, klif og hvammar taka undir. Sprænurnar kvika og kvaka líka, og minnir það frekar á söngfugla. Enda koma þeir til sögunnar í 2. erindi, ”heyra og frá því segja”, öfugt við viðbrögð þeirra í Haustvísu. Og nú er rakið lið fyrir lið, hvernig fregnin berist hvarvetna, en fyrst í síðustu línu hver fregnin er: “blessað er að koma vorið.” Þá er hámarkinu náð, svo ljóðinu er lokið.





Sonartorrek


Þetta er erfiljóð um Helga Melsteð. Það er sex fjögurra lína erindi, hver lína er fjórir tvíliðir. Þetta verður því regluleg, hæg hrynjandi. Ljóðið virðist ort fyrir munn foreldra barns eða ungmennis. Það er fléttað úr fáeinum alkunnum líkingum; hinn látni var einn af þremur samundnum þáttum fjölskyldunnar, hann var laukur í lundi ”okkar”, og haukur á hendi ”okkar”, en dauðinn skaut hann með boga. Þannig eru tvö fyrstu erindin kynning, en í 3. erindi eru gerðir upp reikningar og 4. algengu líkingunni bætt við; laukurinn er hulinn frosti, haukurinn þegir vængbrotinn, einn þátturinn er rakinn af okkur, og ein lind hjartans þorrin. Seinni hluti kvæðisins hverfur svo að nýrri líkingu, siglingu svarts skips á dökkt haf. Farmur þess er laukurinn, haukurinn, lífsins yndi. ”Drottinn sjálfur stýrir kneri”, og því er huggun eftirlifenda að ekkert getur grandað skipinu.





Kirkjugarðsvísur


Þetta er fimm fjögurra lína erindi, allar línur stýfðar, oddalínur fjögur ris, en jafnar línur þrjú.



Kvæðið er nýgervingar samkvæmt skilgreiningu Snorra-Eddu, það er ein samfelld líking, lífið er sigling. Það er gamalkunn líking en hér er hún útfærð lið fyrir lið, nánar tiltekið er það fiskiróður, nærtæk samlíking fyrir marga lesendur þess tíma. Allir koma um síðir að landi í kirkjugarðinum, og þá jafnast metin, þótt einn hafi róið langt en annar skammt, einn hlotið ljúfan byr, en annar barning, og hlutur fiskimanna orðið misstór. Gröfin er skúti, sem skipin sigldu inn í, en jafnframt er gröfin kölluð naust, þar sem skipin hvolfa. En þar með lýkur ekki kvæðinu, heldur stendur til önnur sigling úr kirkjugarðinum, og þar er átt við upprisu dauðra á efsta degi, samkvæmt hefðbundnum kristindómi.





Skúli fógeti


Þetta ljóð er einnig um siglingu, en hér er hún í sviðsljósi. Þetta kvæði er með allra kunnuglegasta og alþýðlegasta bragarhætti, ferskeytlur, sextán talsins, auk viðlags:





Hvass er hann og kaldur af Esjunni, en -



ekki eru þeir smeykir þeir útnesjamenn.





Þetta viðlag er einkennilegt, því í kvæðinu eru einmitt allir smeykir nema Skúli! Kvæðið hefst umsvifalaust á siglingalýsingu í óveðri, og hún ríkir í fyrstu fjórum erindunum, í samræmdum tröllslegum persónugervingum náttúruaflanna: Góu stormur eltir þrekvaxnar öldur, Miðgarðsormur (þ.e. hafið) faðmar hafskipið - af fláræði – og færir það í kaf. Kjölur þess brýtur hrygg í öldunum, svo þær stynja, en ægir löðrungar skipið á móti. Í fjórða erindi verður lýsingin jarðbundnari, án persónugervinga og tilvísana til goðsagna, en þeim mun yfirgengilegri í örstuttorðri upptalningu áfallanna: segl rifna, stög slitna, möst og viðir molast, skipið fyllir af sjó, en fjóra háseta tekur útbyrðis. Fimmta erindi er í beinu framhaldi, hefst á ”en”, samt eru hér nokkur hvörf í kvæðinu, því nú segir frá viðbrögðum skipverja, sem leggjast á bæn, enda þótt þeir séu endranær ekki guðræknir, en ”skipstjóri æðrast”, og undirbýr það andstæðuna sem nú birtist. Og jafnframt verða meiri hvörf formlega með 6. erindi, því nú kemur slétt frásögn, aðskilin frá veður­ofs­anum: ”Hann Skúli fógeti á farinu var/ ferðunum Hafnar vanur.” Og svo er því lýst að Skúla bregði ekki við veðurofsann, skrautklæddur og með gullhringa, en móðurinn skein honum úr augum, Hann brýnir nú skipverja til dáða með því að skamma þá eins og krakka: “hættið þið öllum skælum”. Karlmennska hans birtist einnig í bölvi og ragni, hann heitir þeim vist í helvíti, reyni þeir ekki að bjarga sér. Eftir þetta kemur viðlagið inn aftur, enda segir nú frá viðbrögðum skipverja, sem “byrstir þustu á fætur” og “hertu á stögum”, en Skúli stýrir skipinu í höfn, nú slotar líka veðrinu. Innrímið sem ég auðkenni er ”hljóðlíking” snarplegra viðbragða þeirra við veðurofsanum.



Síðustu þrjú erindin eru svo ræða Skúla, þar sem hann skýrir hví hann var svo skrúðbúinn. Fyrst Rán hélt sér til “með höfuðtrafinu bjarta”, vildi hann vera henni jafn. En ættu þeir að farast, skyldi sjást “að hunda það væri ekki skrokkar”. Hér ríkir dýrkun á hetjulund og æðruleysi, sem skerpist að meir sem viðbrögð við stórfenglegri óveðurslýsingunni í upphafi.





Jólanóttin á Hafnarskeiði


Þetta þjóðtrúarkvæði Gríms ber undir­titilinn: (íslenskur Tam o’Shanter). Þetta kvæði er sex erindi, hvert átta línur mislangar, oddalínur fjögur ris en jafnar línur þrjú og stýfðar. Þríliðir eru helst framan af oddalínum, annars drottna tvíliðir. Virðist mér þetta heldur óróleg hrynjandi, svo sem hæfir efninu. Undirtitillinn vitnar í kvæði Robert Burns, það er miklu lengra (og fjörlegra!), en meginefnið er það sama, að ölvaður maður einn á ferð um nótt skynjar mikinn draugagang í veðurofsa. Í kvæði Burns er fyrst lýst drykkjunni, en kvæði Gríms hefst á sviðsetn­ingu, ljóðmælandi segist aldrei geta gleymt þessari nótt, þegar hann var kom­inn hálfa leið til kirkju, heyrði hann annarlega reið. Í öðru erindi er fyrst almenn lýsing á draugagangi á þessum söndum, en síðan heyrn­myndir, þannig að fyrst fáum við óttaslegnar hugsanir ljóðmælanda, en síðan það sem honum heyrist. Fyrri hlutinn er allur um hreyfingu, kveldriður ríða um sandana, vofur fara handahlaup, en illir andar flétta reip úr sandi (tilvísun til sagna af Eiríki í Vogsósum, sem fyrr segir). Í seinni hluta erindisins heyrir ljóðmælandi í þessum illvættum, en þau hljóð eru jafnan lævíslega tengd náttúruhljóðum /auðkennd hér), og þannig gefið í skyn að þau séu það sem óttasleginn maðurinn í raun heyri:





heyrði eg suma ýlfra og ískra



útsynnings í þrym,



aðra dæsa, hvæsa og hvískra



hásari en á fjörum brim.





Þetta er enn ”hljóðlíking” (onomatopeia), þ.e. valin orð af hljómi sem líkist því sem um er rætt; ískra-hvískra, dæs-hvæs-hás. Hér er kvæðið magnaðast.



Þriðja erindi skiptist enn skýrar í tvo hluta, fyrri hluti lýsir sandfoki og myrkri, svo líður yfir ljóðmælanda, en í seinna hluta vaknar hann upp við bjart og stillt veður, auk klukknahljóms. Í fjórða erindi segist hann telja þetta tilkynningu um dómsdag, og iðrast synda sinna grátandi. En fimmta erindi segir svo frá því að hann áttar sig á að þar fara prúðbúnir kirkjugestir, en ekki englar, lokaerindið er svo játning um að hann hafi verið drukkinn kvöldið áður. Slaknar mjög á kvæðinu í lokin, ólíkt kvæði Burns, sem virðist hafa sett svip á annað kvæði Gríms, Kveldriður, einkum í atriðum sem dansi galdrakvenna og gálgnáa.





Sverrir konungur


Þetta kvæði er annað í röðinni af kvæðaþrenningunni ”Þrír viðskilnaðir”. Fyrst er “Septímus keisari Severus”, en síðast “Richelieu”. Ég vel þetta kvæði sem fulltrúa sögukvæða Gríms, enda þótt það sé alþjóð kunnugt af sönglaginu, því það er bæði gott og stutt. Nánar tiltekið er það fimm sex lína erindi. Fjögur ris í línu nema þrjú í þriðju, þríliðir framan af, síðan tvíliðir, 3. og 6. lína stýfðar, með rímskipaninni aabcbc. Þannig er hvert erindi afmörkuð heild, og lengstum er hver lína merkingarleg heild, þannig verður kvæðið hægt og stillilegt. Fyrsta erindi setur sviðið, ljóðmælandi býst við dauða sínum – í hásæti, þrátt fyrir andstöðu æðstu yfirvalda kirkjunnar, sem höfðu sett hann í bann. Næstu tvö erindi eru þá yfirlit um liðna ævi, og í andstöðu við konungstign hans er lögð áhersla á útilegur, hungur, klæðleysi og kulda. En allt var það þó lítið hjá því hugarangri sem hann alla tíð leið fyrir land sitt. Síðustu tvö erindin eru svo fyrirmæli um útförina, og þar koma enn sömu andstæður, konungsskrúða ber “holdið lúða” og hann kallar sig “gamlan Birkibein”, aðeins einn margra af þeirri útlagasveit. Jafnframt eru nefndir einkennishlutir Sverris, Sigurfluga var fáni hans, en Andvaka hét herlúður hans, sem hljóma skal við útförina, ofar öllum þeim sálmasöng og klukknahringingu, sem hann að vísu vill leyfa. Þannig einkennist allt kvæðið af stillilegri þrjósku, ef svo mætti orða það, hann fór sínu fram hvað sem á bjátaði. Og lokalínan dregur enn fram andstæðuna við upphefð hans: “andvaka var allt mitt líf”. Útförin er sýnd bæði sem flug og sigling, konungur kallar herfána sinn sæng, en jafnframt væng til hinsta flugs. Siglingin birtist svo í því að hann hyggst kljúfa skafl, þ.e. öldu, en það er þá moldarskafl. Þessar frumlegu myndir minna á orð Sigurðar Nordals um djörfung Gríms í myndmáli (í formála, bls. 15-16):





Hann vandar svo til stílsins, að einstakar setningar og orð verða seint nógu nákvæmlega athuguð. Í vísuorðinu “og feiknstafir svigna í brosi” er heil lýsing á skaplyndi Goðmundar á Glæsivöllum, en um leið er fornyrðið feiknstafir (upphaflega: ógnarrúnir, síðan: ógnir, mein) alveg endurnýjað með því að setja það í þetta óvænta samband. Sama djörfungin, að gera lýsingu og samlíkingu að einni mynd, eins og gert var á blómaskeiði kenninganna, kemur fram í hinni áðdáanlegu línu í Skúlaskeiði: “skóf af klettunum í hófa hreggi”. Þetta mætti leysa sundur í langa samlíkingu: hesturinn bar svo ótt fæturna, að hófatak hans var eins og dynjandi haglél á klettunum, o.s.frv. Það væri skáldlegt, en samt eins og frauður hjá málminum í máli Gríms.



Hómer hefur verið dáður fyrir lýsingarorð, sem eru ekki betur mynduð né valin en ilbleikir í kvæðinu um Arnljót gellina:





Eftir honum úlfar þjóta



Ilbleikir með strengdan kvið –





Þetta eina orð, sem sá hyggur valið af handahófi, er illa les, felur í sér heila lýsingu á hraða og fótaburði varganna; þeir teygja sig svo á hlaupunum, að sér í bleikar iljarnar, þegar þeir bregða upp aftur­fót­unum.















[1] Ísland, land, hlíð, sól, nótt, dagur, dauði, forlög, o.s.frv.)





[2] Skv. Jóni Helgasyni (s.st.). Hann rekur og textamun eftir ehdr. sem Grímur Thomsen átti, ”slepjuskaps” í stað ”læpuskaps” og ”flæða” í stað ”flæðar”.





[3] Sbr grein Kristjáns Árnasonar um það kvæði í TMM 199.





[4] Sjá einkum greinar Hauks Hannessonar Mbl. 8.7.; Helga Hálfdanarsonar Mbl. 14.7.; Haralds Blöndal Mbl. 24.7.; Páls Valssonar og Hauks Hannessonar Mbl. 30.7.; og Árna Benediktssonar Lesbók Mbl. 26. 9.





[5] “1840-årenes sterke interesse for det nasjonale falt sammen med en tilsvarende interesse for den særegne norske naturen. Den skikkelsen som mer enn noen annen samlet i seg trådene fra tradisjonsinnsamling og naturdyrkelse, fra bønders forestillingsverden og byfolks lengsel, var huldra. – Hun kastede den rette romantiske Fortryllelse over denne Naturjubel, om hendes fantastiske Skikkelse samledes alle romantiske Længsler, og intet Væsen mellem Himmel og Jord spiillede en saa fremtrædende Rolle I disse Aars Digtning som hun [Lokatilvitnun eftir Jæger: Norske Forfattere. Litteraturbilleder, Kbh. 1883, bls. 18].





[6] “I årene 1840-49 var det I hovedstaden 22 procent af børnene, der fødtes udenfor ægteskab, I købstederne 13 procent og på landet 10 procent.”. Gyldendal og Politikens Danmarkshistorie, 10, bls. 35. Í framhaldi eru vitnisburðir um kynlífsfrelsi ungs lágstéttarfólks sem svaraði umvöndunum með orðunum: “Nóttina eigum við sjálf.” (“Natten er vor egen”).





[7] Ritverk Jónasar Hallgrímssonar, III bls. 311-482.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar