tirsdag den 14. juni 2011

Seiðblátt hafið 7



6. 17. Tómas Guðmundsson



Hér er hálfu meira um vor (í helmingi ljóða) en haust, og kvöld eða nótt hefur sömu tíðni, en morgunn eða dagur aðeins í sjöttungi ljóða. Hnignun er í fjórðungi, mest ber þar á dauða, en einhverskonar óeirð eða vanlíðan er í sjöttungi ljóða, sæla hinsvegar í þriðjungi. Einfari er aðeins í tólfta hluta, en samstaða í nær helmingi. Aðlaðandi er umhverfi í ¾ kvæða, andstæða kemur ekki fyrir. Útþrá er í tíunda hluta kvæða, en nánast jafntíð er unun ljóðmælanda í umhverfi sínu. Ástarsorg má greina í nær fjórðungi ljóðanna, en ástarsæla er litlu sjaldgæfari. Annað er ekki teljandi, og má segja að hér sé fremur bjart yfir, a. m. k. miðað við Stefán og Davíð.



Tómas hefur nokkru fleiri persónugervingar en aðrar líkingar. Hugtök yfirgnæfa í kenniliðum, í þriðjungi persónu­gerv­inga en sjöttungi líkinga; sál, lífið, dauð­inn, tíminn, o.fl. Mannlegt er þriðjungur, enda er þá þar talið m.a. hugur, hugsanir, tilfinn­ing­ar, hjarta, draumar, sorg, gleði, ást. Fjórðungur kenniliða er fyrirbæri himins (dagur, kvöld, nótt, morgunn, sólskin, stjörnur, norðurljós, vor, sum­ar, vindur). En lagarorð eru innan við tíunda hluta. Líkingar eru um kvæði og skip, borgin er persónugerð, einnig götur, hús, skip, höfnin, kolakrani og söng­ur. Oftast er líkt við sköpunarverk manna (tæpur þriðjungur): hús, vegi, vín, skál, kvæði; en næstum eins oft við ljós, eld og önnur fyrirbæri himins; sjöttungur við auðn, land og ís, nær jafnoft við lífverur, sér­staklega hesta, fugl. Ámóta tíðar eru líkingar við vatn, haf, öldur, foss, en allt eru þetta lágar tölur (6-7 dæmi, þau síðasttöldu).





Ég kom og kastaði rósum



Lítum fyrst á ljóðið sem hneykslaði Halldór Laxness í fyrstu bók Tóm­as­ar, 1925. Það er fjögur erindi, hvert þeirra er sex lín­ur með þremur risum í 1, 2. og 6. línu, en fjórum í hinum, óregluleg dreif­ing á þríliðum og tvíliðum. Má þá segja að hvert erindi sé glöggt af­mark­að, þau þenjist út eftir inngang, en skreppi saman í lokin.



Ljóðmælandi elskar stúlku úr fjarlægð. Tengiliður þeirra er rósir, við ang­an þeirra orti hann til hennar sitt fegursta ljóð, og dreymdi um hana. En síðan kastar hann rósum inn um glugga hennar, á hana, þar sem hún sefur. Og hana fer einnig að dreyma við angan rósanna -um karlmann sem syngur kvöldljóð, þrungin þrá, ást og gleði. Augljóslega er þetta mynd ljóð­mælanda, þótt hún sé upphafin í mynd riddara í tiginni höll sem „rís yfir rauðan skóg“. Lokaerindið, sem er sérstaklega afmarkað, lýsir því að hún vaknar brosandi, yfir að eiga allt „sem elskar, fagnar og hlær“, en aldrei fær hún að vita hver sendi henni rósirnar. Litir einkenna 2. erindi, þar sem segir frá drauminum: „rósirnar hvítu - við brjósts þíns mjöll - kvöld­blá fjöll - rauðan skóg.“ Og þar virðist tilfinningum hans líkt við hæg­ar hreyfingar kyrrlægs skips: >öll gleði hans, ást og þrá vaggar sér í óm­un­um.< Í rauninni finnst mér nær að segja að ljóðið fjalli um róm­antíska hefð, en að það sé af henni, jafnvel mætti líta á það sem gagnrýni á hana. Því stúlkan er gagntekin af þess­um hug­myndaheimi, túlkar allt samkvæmt honum, og getur því ekki skynj­að veru­leik­ann, sem birtist í frásögn ljóðmælanda af sjálfum sér.



Snúum okkur þá að Fögru veröld, sem birtist 1933, og hlaut miklu betri viðtökur en fyrsta bókin. Þar verður fyrst fyrir gamankvæði.





Í nótt kom vorið



Þetta kvæði er fimm fjögurra lína erindi, hver lína hefst á for­lið og hefur fjögur ris, mikið er um þríliði, rím aðeins í 2. og 4. línu. Þetta hæf­ir vel talmálsblæ ljóðsins. Það hefst á persónugervingu vorsins, sem er líkt við dugnaðarfork, sem hefur verið að starfa alla nóttina, og hefur þann­ig komið fyrsta grasinu úr mold fyrir rismál. Fyndni ljóðsins ligg­ur bæði í kumpánlegu orðalagi um vorið; „ekki af baki dottið“, og þeirri nátt­úru­fræði sem ræður allri þróun í ljóðinu. Vorið veldur ekki aðeins gras­vexti, held­­ur jafnsjálfkrafa því, að telpur vaxa, og verða þar með sýni­leg­ar ung­um piltum, enda fylgir vextinum glæstur klæðaburður, og þar koma andstæður lita: „himinblá augu,/ á hvítum kjólum“. Stuðlun eflir þessa fárán­legu náttúru­fræði mannlífsins svo hún verður sannfærandi, menn „verða við­móts­þýðir,/ því ver­öldin hitnar og loftin blána.“ Og þetta leiðir jafn­eðli­lega til þess að menn fara nú loksins -orðrétt - eftir boðskap Krists; „Óvin­ir bera byrðar hvor annars“. Eins birtist hringrás náttúrunnar neikvætt í lok ljóðins; víxlar falla eins og blöðin af trjánum. Hér er eingöngu talað um fólk sem teg­und, líkt og gras, og hæfir því vel að nota sérnöfn í fleirtölu: „göturnar fyll­ast af Ástum og Tótum“.





Boðun Maríu



er sónhenda með fimm risum í hverri línu, allar stýfð­ar, en mikið um þríliði og forliði. Mér sýnast hér auðsærri áhrif frá Sakúntala Drachmanns en í Batsebu Davíðs, svo sem Sigurður Nordal taldi vera[1]. En þau áhrif eru aðallega í upphafsspurningunni og tali um heit­an vind og nótt. En eitt það sem mest einkennir þetta ljóð eru spurningar ljóð­mælanda um hvað gerðist. Það er auðvitað getnaður Jesú, svo sem titill ljóðs­ins gefur til kynna. Sigurður A. Magnússon kallaði þetta trúarljóð (bls. 21), án frekari umfjöllunar, en það kalla ég öfugmæli, því lýsing konunnar á holdlegum unaði sínum er full­kom­lega af þessum heimi, eins og hún hafi fundið fyrir venjulegan karlmann, hún spyr bara: var það svefninn, var það „blærinn, sem mig í titrandi faðmi sér lauk?” Um­hverfið er persónugert í stíl við þetta. Döggin hlær og tínir tunglsljósið af „drifhvítum runnum“ eins og ber, en nóttin gerir hálsfesti úr stund­un­um eins og þær væru gimsteinar. Hægt og rótt hljóð vindsins í viðinum er eins og sítarleikur. Mestu skiptir stígandi ljóðsins frá þessu atriði, um persónu­gervingar daggar og nætur til sítarleiksins aftur, sem nú er persónu­gerður í „biðjandi rödd“, og alsæla samfaranna í lokaþríhendu.





Japanskt ljóð



er líka sónhenda, en nú þrjú fjögurra lína erindi, og eitt tveggja lína, fimm ris í línu, mest réttir tvíliðir, oft eru forliðir. Hér er enn mynd kyrrðar og hægra hreyfinga, og lýst er venjum, en ekki at­burði. Svið­setn­ingin á þessum annarlegu slóðum kemur fram í einföldum atrið­um, í upphafserindi segir frá perluköfurum, og elsk­endur binda lilju­sveiga hjá hvítum runnum í þriðja erindi. En á milli er undirbúinn ásta­fund­ur­inn niðri í hafdjúpum sem lok ljóðsins fjalla um. Það var frumlegt að lýsa svo fín­lega ástum fiska, og einmitt það birtir tilfinninguna eina, því hér getur ekki verið um persónusérkenni Jóns og Gunnu að ræða. Til­finn­ingin verð­ur og skýrari vegna þess hve fínlegum hreyfingum er lýst: „mjúkri birtu stafa“, „litlu tálknin titra“, og í móður­legri persónu­gerv­ingu; „höfin bláu vagga tærum öldum“





Gesturinn



líkist sónhendu, en er aðeins 13 línur, 3. erindi er þrjár línur í stað fjögurra. Fyrstu tvö erindi eru rímuð saman, abba abba, en síðan: cdc cd. Þetta ljóð minnir mjög á ljóð Jóhanns Sigurjónssonar, Sól­arlag, sem rætt var hér að framan. Þar birtust sólin og nóttin sem tvær konur, nátengdar í ást, en hér eru það karl og kona, og verður að ráða hlut­verk þeirra af sam­heng­inu. Þar ber mest á tilfinningum. Í fyrsta erindi er fögnuður, þegar talað er um gestinn sem gekk „í gullnum ljóma niður kletta­riðið“ og börn sem taka móti blómum hans -andstæða þeirra er sand­ur­inn sem blómunum er stráð á. Tilfinningamynstrið breytist síðan frá er­indi til erindis, en það er fínlega gert, án skýringa, aðeins að „hann“ horfir döprum augum yfir sviðið að baki, og að það er annarlega kyrrt. Í 3. erindi kemur svo gustur, andstæða hans er að garðurinn er sagður sum­ar­bjartur, og að dreginn er fram grænn litur laufsins sem ljósið fer nú að flökta í. Eina samlíking ljóðsins (8.l.) herðir á tilfinningunni: „eins og kval­ið hjarta“. Í lokalínun­um tveimur er svo bara sagt hvað gerist, en tví­tekn­ingin á konan svarta og slökkti gerir það endanlegt, sem upp­fyll­ingu á kvíða gestsins.



Það má þykja mikið í lagt, að hafa allar þessar tilfinningar um svo hvers­dagsleg fyrirbæri sem dag og sólsetur. En það er einmitt merg­ur­inn máls­ins, að það gengur ekki upp, lýsinguna er ekki hægt að yfirfæra á al­kunn­ug fyrirbæri, held­ur hlýtur ljóðið að vísa víðar, sýna tilfinningu sem á við hvörf. Þessvegna er það af tagi þess­arar blæleitnu ljóðagerðar.





Jón Thoroddsen in memoriam



líkist einnig sónhendu, með tveimur loka­línum sem eru ek. niðurstaða ljóðsins. En hér munar því, að undan­far­andi ferhendur eru fjórar en ekki þrjár. Hver lína er fimm réttir tvíliðir, for­liðir eru í upphafi allra lína nema þeirrar fjórðu, sem er bara upp­taln­ing á ágæti mannsins. Svo reglubundin hrynjandi getur orkað á ýmsa vegu en hér rólega, vegna þess hve línurnar eru langar og orðaröðin er einsog í venju­legu daglegu tali, hrynjandi verður ekki vélræn. Ljóðið hefst á ein­kenni­legri lík­ingu um sjálft sig, það var grafið í skugga löngu lið­ins vetrar. Það skýr­ist af því að Jón dó af slysförum á gamlárskvöld 1924, nær áratug áð­ur en ljóðið birtist. En orðið „grafið“ vekur hugsanir um gröf og dauða, jafn­framt því sem ljóðið rísi úr þeirri gröf, komi fram úr skugganum. And­stæða þessa dimma skugga í 1. erindi er mynd mannsins eins og ljóð­mæl­andi sá hann síð­ast, þegar hann hvarf út á hafið, „glæstur“, en að öðru leyti á lýsingin við hugarfar hins látna. Í öðru erindi segir frá viðbrögðum við dauða manns­ins, allt varð hljótt, eins og strengur hljóðfæris brysti. Það er nær­tækt að sjá þetta sem líkingu fyrir skáldið sem dó - en orðið „klökk­ur“, sem haft er um strenginn, virðist frekar eiga við um syrgjendurna. Þetta er eitt dæmi af fleirum um það, hve áhrifaríkt það er að nota orðin ei­lítið öðru­vísi en við mátti búast, það fær lesendur til að lifa sig inn í orða­lagið. Um syrgjendur er not­að orðið „hjarta“, hluti fyrir heild, og klif­að á því í tveim­ur erindum. Harm­ur þeirra í 2. erindi er orðinn að þreytu áranna í 3. er., en andstæða þess er minningin um hinn látna, eilífungan. Um hana er höfð tvö­föld líking eða hvarfl­andi, í fyrsta lagi er minningin bjart vor, í öðru lagi blómstr­ar hún.



Kristján Karlsson talar í Inngangi Ljóðasafns Tómasar m.a (bls. xxxviii). um hvernig skáld verði að leita endurnýjunar í mælt mál, svo orða­forði ljóða stirðni ekki. Og hann tekur dæmi af þessu ljóði (bls. xl):





Mæltu máli er hvergi misboðið, en orðum þess og orða­sam­bönd­um gefin aukin merking, ferskleiki og tign. Orðið „augnablik“ er til dæmis, að jafnaði hversdagslegt orð, og mörgum finnst það jafn­vel ekki íslenskulegt. En hér öðlast það ótvíræðan þegnrétt, skáld­legt hlut­verk og upprunalega merkingu á þessum stað. Og allt kám strýkst af því vegna sambandsins við „gullinn“. Engu að síður held­ur það venjulegri tímamerkingu.





Þetta virðist mér hárrétt athugað, og þessum áhrifum nær Tómas með því að nota orðin á svolítið framandlegan hátt. Orðið „gullinn“ vísar venju­lega til sjónskynjunar, og því reyna lesendur að sjá fyrir sér augna­blik­ið. En það er svo fjarstætt venjulegri skynjun, að auðveldara verður fyr­ir bragðið að tengja það við drottin. Og þetta upphefur lokalínurnar tvær, sem reyndar eru gerðar úr gamalli klisju, að óska þess að maður sé í hönd­um drottins. Inn í það er svo fléttað tilvísun til skáldverks Jóns, „Perlan“, svo sem Sveinn Skorri benti á (1979, bls.152).



Kristján rekur í framhaldi af tilvitnuninni hér að ofan, hvernig tíma­ákvarðanir skapa stígandi í ljóðinu:





sem hugsar til þín alla daga sína



þá blómast enn, og blómgast ævinlega,



og eilíflega, óháð því, sem kemur



Allar þessar ljóðlínur ákveða tímalengd, stig af stigi, uns ekki verð­ur sterkar að orði kveðið. Þær marka þróun kvæðisins frá trega til fagn­aðar, frá hinu tímabundna til hins eilífa, frá hinu jarðneska til hins himneska, og öðlast þannig margfalda merkingu. Í hinum síð­ari voru meginorðin, ævinlega og eilíflega, að ég hygg, ókunn í þess­ari mynd í íslenskum kveðskap.





Jafnframt þessu er sú þróun í ljóðinu, eins og Kristján segir (bls. xxxvii) að það hefst „í myrkri, en síðan birtir smám saman, uns það endar í ljósi, sem er ekki af þessum heimi.“ (í dimmum skugga (1. er.) - þitt bjarta vor (3.er.) - skín (4. er.) gullnu (5.er.)).





Haustnótt



er þrjú erindi, í heldur óvenjulegu formi. Hvert erindi er fimm línur mislangar (1. og 3. lína hafa 6 ris, 2. og 4. lína 3 ris, en 5. lína hefur 5 ris), rím er abaab. Þetta eru mikil tilbrigði innan hvers erindis, sem einn­ig er vel afmarkað frá hinum.



Fyrsta erindi sýnir nótt um hafsund, og einkennist af fegurð sem líkt er við dýrgripi; silfur, safír, demanta. Sá blær magnast í öðru erindi, en þá er líkt við perlur og beði hvítra rósa. Þetta er allt horfið í lokaerindi, þar er bara myrkur og auðn. Þetta fylgir breytingu frá kyrrð, sem er næstum ein­ráð í 1. erindi, aðeins fínlegasta hreyfing; „skelfur eins og strengur sé strok­inn mjúkum boga“ -það, sem er meö öllu óákveðið, og hlýtur að vísa til tilfinning­ar­innar fyrir þessari náttúrumynd. Þar er stjörnunum líkt við augu, sem loga, og vekur það grun um að eitthvað sé í bígerð, í andstöðu við lokaorð erindisins, „rótt“. Enda er ankannalegt að líkja himninum við andstæðu sína hér, djúp, stjörnunrar eru á botni þess. Og nú eykst hreyfingin í 2. erindi, fyrst rísa vindar í fjarlægð og færast nær, síðan rísa bylgjur sem líkt er við rósabeð, en því er óðar svarað með því að norðurljósum er líkt við bylgj­ur - persónugerðar, sem stíga dans. Öll þessi létta og fagra hreyfing undirbýr og skerpir and­stæðuna, einmanalegt flug máfs á eirðarlausum flótta frá kom­andi degi, um auðn hafsins, sem hér er skrautlaus. Þetta er enn gott dæmi um þá „ópersónulegu“ ljóðmynd til­finninga, sem hér hefur verið rætt að ein­kenndi blæleitni.







7. Bókmenntasögulegt mat



Um upphaf rómantíkur, hvernig hún aðgreinist frá undanfarandi nýklassík, og um helstu einkenni rómantíkur eru helstu bókmenntasögurit íslensk samhljóða. Það gildir um Íslenska bókmenntasögu Stefáns Einarssonar frá 1961, Íslenska bókmenntasögu III, 199?, um bók Þóris Óskarssonar, og enn um þetta rit. Ástæðan er einföld, við byggjum allir á greinum René Wellek.



Hér er ekki stefnt að heildaryfirliti um íslenska rómantík, né um einstök skáld hennar. Því nægir að visa til umfjöllunarinnar í Íslenskri bókmenntasögu III, sem mér virðist bæði greinargóð og glögg. Skýrt kemur fram hvað helstu skáldum var sameiginlegt, og hvernig þau aðgreindust , t.d. í umfjöllun um náttúruna, fyrst í ljóðum Jónasar:





Öll náttúran er skoðuð sem ein heild, og allt líf á jörðinni tengist þar órofa böndum. Jörðin er víða kölluð móðir, stundum í þrengri merkingu Ísland, og náttúran er full af lífi. […] Náttúran verður í hans augum ímynd reglufestu, fegurðar og samræmis, sem hann þráir að sjá að verki í þjóðfélaginu. […] En þeir rómantísku drættir og þau einkenni sem hér hafa verið nefnd draga eiginlega ekki nema hálfa leið. Nánast hvergi í náttúruljóðum Jónasar er t.d. að finna ljóðræna sveimhygli eða algleymi og taumlausa lotningu gagnvart náttúrunni sem einkennir sum síðrómantísk náttúruljóð og kennt hefur verið við Biedermeier (og greina má í ljóðum Benedikts Gröndals og Steingríms Thorsteinssonar síðar). Í náttúruljóðum Jónasar er nær ávallt jarðsamband í anda snemm-rómantíkur og hann minnir oft á það hagnýta gildi sem náttúran hefur. Þannig má segja að í náttúruljóðum hans eins og víðar, mætist að nokkru viðhorf uppplýsingar og rómantíkur. (bls. 332-3).





Enda þótt Grímur fylgi þessari lífheildarhugsun, þá er hér sagt að náttúran sé í kvæðum Gríms





mjög oft óhugnanleg og miskunnarlaus og alls ekki það fegurðartákn eða uppspretta sannleika og hamingju sem hún er í ljóðum flestra íslenskra kollega hans á öldinni. Þekktasta dæmi þessa er hið alkunna kvæði Á Sprengisandi og í hetjukvæðum Gríms er það oft og einatt náttúran sem hetjurnar rísa gegn og sigrast með harðfylgi sínu á ógnum hennar, t. d. Skúli fógeti í samnefndu kvæði. Stundum virðist líka votta fyrir hugmyndinni um náttúruna sem uppalanda, svolítið í anda Bjarna Thorarensen, en Grímur var mikill aðdáandi kvæða Bjarna (bls. 355)



Í ljóðum Gröndals, eins og nær allra íslenskra rómantískra skálda, er því sterkur trúarlegur strengur, sem tengist náttúrunni. Þótt náttúruljóð Benedikts eigi margt sameiginlegt með slíkum ljóðum Jónasar Hallgrímssonar og Steingríms Thorsteinssonar, t. d. í því að hjá öllum fá fagrir smávinir þegnrétt, þá er ýmislegt sérstætt hjá Gröndal. Náttúra kvæða hans kemst næst því að vera algerlega “hrein”, nytjahyggja eða jarðbundin viðhorf af einhverju tagi eru víðs fjarri. Náttúran í kvæðum Gröndals er vita gagnslaus, en á hinn bóginn fögur, og það er það eina sem skiptir máli. Hann hefur náttúruna í æðra veldi sökum fegurðar og býr til mjög ídealiseraða mynd af henni. Náttúran í kvæðum Gröndals er oftast nær blíð og mild og yndisleg. Öðrum einkennum náttúrunnar er einfaldlega engin skil gerð. Þetta veldur því sem kannski má kalla firringu, náttúruljóð Gröndals skortir oft þá nálægð og samkennd sem einkennir ljóð Jónasar og Steimgríms (bls. 362-3).



Öll bestu náttúrukvæði Steingríms endurspegla þessa guðlegu sýn á náttúruna. Í náttúrunni kemst maðurinn í snertingu við guðdóminn, hinn innsta kjarna tilverunnar sem er óhöndlanlegur í sjálfum sér, en við einveru í náttúrunni situr samt eftir speglun guðdómsins í sál mannsins (bls. 369).



[Hjá Matthíasi] endurspeglar hringrás náttúrunnar guð. Öll vitnar hún um hans forsjón eins og oft hjá rómantískum skáldum. En þegar kemur að þessu miðlæga yrkisefni, náttúrunni, hefur Matthías líka nokkra sérstöðu í hópi íslenskra skálda. Sem prestur og sálusorgari var Matthías í miklu nánara sambandi við hversdagslíf fólks en t.d. hin þjóðskáldin og ein birtingarmynd þess er að hann fegrar í minna mæli land og sögu, hann víkur oft að erfiðleikunum sem búseta á Íslandi er háð og að líf fólks á þjóðveldisöld hafi ekki verið tóm sæla. Raunveruleikinn skyggir á hina rómantísku sögusýn. Hann yrkir meira um fólkið en landið og er það í samræmi við hið mannlega viðhorf sem alls staðar skín í gegn í kveðskap hans (bls. 385).





Kristján Jóhann segir í Kall tímans (bls. 75 og 77) m.a:





Það er geigandi hugtakanotkun að kalla umfjöllun 19. aldar manna um söguna einu nafni fornaldardýrkun. […það orð] hefur neikvæða skírskotun til einhvers konar afturvirkrar útópíu en 19. aldar menn höfðu náttúrlega mismunandi afstöðu til fornaldarinnar. Sumir töldu sig geta fundið tímalausan innri sannleik þjóðarinnar í sögunni. Það stafaði ekki fyrst og fremst af dýrkun þeirra á fortíðinni, heldur sérstökum skilningi þeirra á eðli þjóðar og sögu […]



Grímur hafnar svartsýni og bölmóði Heines og upprifinni fornaldardýrkun Jónasar með skrautbúnum skipum og fríðu liði. Hvort tveggja er einungis hluti af sannleikanum Mynd Gríms af fortíðinni er samsett og fræðileg.





Afstaðan til fortíðar tengist stjórnmálahneigð kvæðanna. Um það segir m.a. í Íslenskri bókmnenntasögu III:





Þannig hafa langflest tækifæriskvæði Jónasar pólitískan boðskap. Hann nýtir sér tilefnið til þess að beina athygli manna að því sem alla tíð stóð honum hjarta næst: frelsi og endurreisn þjóðarinnar, og minnir í því efni einatt á þá söguöld sem hann áleit vera hina glæstu gullöld sjálfstæðs Íslands (bls. 327).



Innblásin af boðskap rómantísku stefnunnar um þjóðfrelsi ortu íslensku skáldin í Höfn kvæði sem voru framlag til sjálfstæðisbaráttunnar, ættjarðarkvæði full af herhvöt. Í þessum kvæðum var náttúra Íslands gjarnan í forgrunni og tengd sterkum frelsishugsjónum. Slíkur boðskapur er hins vegar hvorki fyrirferðarmikill né áberandi í kvæðum Gríms, þvert á móti vekur sérstaka athygli hversu sjaldan hann tæpir á kröfunni um frjálst Ísland. (bls. 353).



Fyrr var getið um það einkenni á íslenskum náttúrukveðskap á 19. öld að oftast nær hefur hann einhverjar skírskotanir til sögu þjóðarinnar og sjálfstæðisbaráttu. Það er eftirtektarvert hversu fá ljóð af slíku tagi Steingrímur yrkir, ekki síst með hliðsjón af því að hann er virkur stuðningsmaður Jóns Sigurðssonar alla tíð og í ritnefnd Nýrra félagsrita (bls. 373).





Enda þótt ég taki undir framangreint, geta einstök ágreiningsmál þó fundist. Í því sem segir um bakgrunn eru alhæfingar óhjákvæðilegar. Og hér segir (bls. 343):





Víða í Evrópu tóku áhrif rómantísku stefnunnar að fjara út strax upp úr 1830 og stefnan úrættaðist á marga lund. Segja má að hugmyndalegur grundvöllur hennar og róttækar hugmyndir sumra boðbera hennar í þjóðfélagsmálum hverfi eða breyti um eðli. Hinn róttæki boðskapur um þjóðfrelsi og lýðréttindi breytist í oft og tíðum íhaldssama dýrkun og útmálun á kyrrlátri fegurð og unaði náttúrunnar. Borgarmyndun verður tákn hnignunar og ónáttúru en afturhvarf til náttúrunnar og lífshátta fyrri tíðar er á hinn bóginn vegsamað og talið standa eðli mannsins nær. Rómantíkin verður þannig klárlega afturhaldssöm í þjóðfélagslegum skilningi enda minnka áhrif hennar í bókmenntum sem þjóðlífi eftir því sem öldinni vindur fram.





Við hvaða lönd Evrópu skyldi þessi lýsing eiga? Tæpast Pólland, Ungverjaland og Ítalíu, þar sem byltingarbarátta gaus upp um miðja öldina. En þessu tengist útbreiddur sleggjudómur sem Einar Ólafur Sveinsson setti fram í grein 1930 (bls.235):





Það er einkenni allra útkjálkalanda, hve bókmenntahreyfingar koma þangað seint. Rómantíkin kemur hingað fyrst með Bjarna Thorarensen, en verður ekki ofan á hér fyrr en töluvert eftir 1830, nákvæmlega á þeim tíma, þegar farið var að halla undan fæti fyrir henni annarstaðar.





Spyrja mætti hvenær bókmenntastefna verði “ofan á”. Verulega áberandi varð rómantíkin í Frakklandi fyrst eftir 1830, það sagði þegar Grímur Thomsen (1842, bls. 147) – og yrðu þó fáir til að telja Frakkland útkjálkaland í bókmenntaþróun seinni alda. Og framvegis var allur þorri Frakka sveitafólk, sem lítið las, og síst nýstárlegar bókmenntir, þær hafa helst náð til lítils hluta íbúa stórborganna. Ætli hlutföllin hafi verið mjög ólík því sem gerðist meðal Íslendinga? Og hversu vítt og skjótt skyldi rómantíkin hafa breiðst út um grannlöndin, Norðurlönd, England og jafnvel Þýskaland? Reyndar var höfuðskáld franskrar rómantíkur, Victor Hugo, íhaldssamur konungssinni framanaf, en snerist til róttækni einmitt uppúr 1830, og gilti hið sama um áhrifamikinn skáldahópinn kringum hann. Hugo varð reyndar útlægur úr Frakklandi eftir valdrán Napóleons 3. um miðja öldina. Við sáum fyrr í þessu riti, hve sundurleit stjórnmálaafstaða t.d. enskra rómantískra skálda var, og ortu þó svipað. Mig grunar að þessi síðastgreinda tilvitnun í Íslenskri bókmenntasögu III byggist á þýskri bókmenntasögu, og skal ekki dæma um réttmæti hennar þar. En í henni birtist enn einu sinni trúin á tíðarandann sem móti bókmenntir, og var þeirri trú vísað á bug hér í upphafi. Og hvernig færi fyrir íslenskum rómantískum skáldum skv. henni? Ekki bara Steingrímur, heldur einnig Jónas og frumkvöðull íslenskrar rómantíkur, á fyrsta áratug aldarinnar, Bjarni Thorarensen, teldist þá til “úrættrar” rómantíkur. Enda var hann yfirlýstur einræðissinni eins og flestir samtímamenn hans, þeir þekktu raunar ekki annað stjórnarform.





Samanburður á rómantík og nýrómantík er í Íslenskri bókmenntasögu III (bls.891-2):





Eins og þá gerðu menn nú ráð fyrir öðrum veruleika en hinum sýnilega og löðuðust að því sem var einkennilegt, yfirskilvitlegt, óáþreifanlegt. Hér á landi var þessi stefna mun rómantískari – í merkingunni dulúðugri, tilfinningaríkari, hamslausari – en rómantík 19. aldar hafði verið hérlendis, ekki síst vegna þess að íslensk skáld voru pólitískari á þeim tíma en eftir aldamótin, vildu boða og kenna samtímis því að skapa hugblæ og hrífa. Hitt er annað mál að í þjóðlífinu fylgdi hinni nýju rómantík almenn vakning, heit þjóðernisstefna, sem hefur sjálfsagt dregið sjálfhverfan sársaukabrodd táknsæisstefnunnar úr einhverjum skáldum.





Sjálfsagt er að fallast á sumt þessa í meginatriðum. Stjórnmálavakning var vitaskuld meginatriði í rómantík 19. aldar, en ég sé hana einmitt ekki í ljóðum blæleitinna skálda, nema í stökum undantekningum (sbr. k. 3. 4 hér). Vissulega verður þá að telja Einar Benediktsson á mörkum tveggja skeiða, eins og áður segir. Þjóðernisvakning eftir aldamótin 1900 verður því ekki rakin til þessara ljóða, heldur til þeirra stjórnmálaátaka sem leiddu til heimastjórnar 1904 og fullveldis 1918. Ekki eru nefnd dæmi þess að þetta hafi dregið “sársaukabrodd táknsæisstefnunnar úr einhverjum skáldum” og er erfitt að sjá til hvers þetta ætti að visa. En hvað þá með “dulúðugri, tilfinningaríkari, hamslausari”? Þess má finna dæmi hjá blæleitnum – Hvarf sr. Odds hjá Einari, Í dag og Nóttin langa hjá Sigurði, lostakvæði Stefáns og ýmis kvæði Davíðs. En mörg blæleitin skáld eru þá ekki með, og yfirleitt ríkir kyrrð og stilling í kvæðum blæleitinna. Enda ætti þessi tilvitnun fullt eins vel við ýmis kvæði Gröndals, Matthíasar og Gríms[2]. Virðist því fráleitt að telja það einkenna hina nýju stefnu til aðgreiningar frá rómantík.



Í bók sinni Bragur og ljóðstíll fjallar Óskar Halldórsson um helstu einkenni ljóða. Um tákn rekur hann m.a. að ólíkt hefðbundnum táknum svo sem þjóðfánum og vörumerkjum sé tákn í bókmenntaverki aðeins til þar, og ekki auðráðið (bls. 102-3):





En til þess að lesanda verði kleift að finna lykilinn að merkingu tákns­ins og þar með ljóðinu án beinnar útskýringar, verður það að skipa öndvegi ljóðtextans og ríkja þar með einum eða öðrum hætti. Til þess er framar öðru beitt endurtekningu. [...] Stundum [...] í nýj­um og nýjum tengslum eða myndum. [...] Einfalt dæmi um slíka tákn­byggingu, en jafnframt glöggt, er sonnetta Jóns Helgasonar, Í vor­þeynum. [...] Í fyrsta erindi beinist athyglin að sprekinu haf­rekna og í hinu næsta að krækilyngi með ónógar rætur og sam­an­burði þess við þroskamikið aldintré. Báðum þessum fyrirbærum kem­ur vorið að litlu haldi sökum rótleysis þeirra og framandleika. Til samans fá þau gildi tákns, sem verður kjarni ljóðsins. Merkingu þess skýrir skáld­ið hvergi berum orðum, en talar þó nægilega ljóst, svo að flest­ir eða allir munu þykjast vita hvað við er átt.





Þetta er gott dæmi, við gætum líka nefnt Svanasöng á heiði eftir Stein­grím Thorsteinsson, ljóðmælandi ríður um eyðilega heiði og hrífst af ljúf­um svanasöng. Sem áður segir þykir mér mjög líklegt að þetta séu tákn um gildi list­ar­inn­ar – eða fegurðarinnar - á vegferð lífsins, og býst við að margir séu á því máli, þótt ekki verði sú túlkun sönnuð. En hvað þá um ljóð blæleitinna sem við höfum nú hugað að? Hvaða tákn eru í þeim? Augljóslega eru þau í nokkrum ljóðanna; fiskarnir í Japönskum morgnum Tómasar eru dæmigerðir fyrir elskendur almennt. En það er ekki svo að skilja að lesendur eigi að líta hjá fiskunum og hugsa um fólk. Þvert á móti, lýsing fiskanna er meginatriði, eins konar hlutgerving tilfinningar. Sama gildir víðar, márinn í Vetrarnótt hans hlýtur að vekja hugsanir um einstæðinga sem fara á mis við fegurðina sem er svo áberandi, hrafnar Jóhanns Gunnars og einkum Davíðs, svo og urðarköttur hans, eru enn augljósara dæmi um utangarðsmenn. Augljós dæmi eru enn fuglar Huldu, Sigurðar og Jónasar Guðlaugssonar, ströndin í Geðbrigðum Huldu, þangið í Heimþrá Jóhanns Sigurjónssonar, nóttin í Vetrarnótt hans og Sólarlagi, og hjá Jónasi Guðlaugssyni kirkjan í Æskuást, höllin og e.t.v. lampinn í Aladdín, dagstjarnan í Siglingu. Hjá Smára er þetta augljóst um eyjarnar Wak-al-wak í Hillingar og snæ í samnefndu ljóði. Fleiri dæmi væru auðfundin, svo spyrja má, hvort hér sé þá komin formúlan fyrir táknsæisstefnunni, symbólismanum. Það held ég sé af og frá. Í fyrsta lagi eru slík tákn engin nýjung þessa bókmenntastraums, við sáum það hjá Steingrími Thorsteinsyni og gætum hæglega fundið fleiri gömul dæmi. En í öðru lagi, er auðséð, að í mörgum ljóðanna, sem við höfum fjallað um, eru alls engin tákn af þessu tagi. Dæmi okkar hér að ofan eru frá þeim blæleitnum skáldum sem seinna komu fram, ekki þeim fyrstu. En er ekki undarlegt að heimfæra slík táknlaus ljóð undir „tákn­sæis­stefnu“? Það held ég sé bara spurning um orðalag, því sama gildir um íslensku ljóðin hér að framan og um helstu ljóð hinna frægustu skálda tákn­sæisstefnunnar í Frakklandi, þar eru ekki áberandi einstök tákn[3], svo sem í ljóði Jóns Helgasonar, heldur er allt ljóðið í heild samstillt til að miðla sérstæðri tilfinningu, til þess er samspil hljóms, hrynj­andi, mynda og stund­um frásagnar eða hugmynda. Í stuttu máli sagt, þetta er í samræmi við skilgreiningu Sophus Claussen, sem tilfærð var nær upphafi þessa rits (k. 2.3.), að skáldverkið skapi nýtt samhengi skynj­an­legra fyrirbæra, svo að bak við þau megi skynja kjarna sem ekki birtist öðru­vísi. Þetta er það sem Kant kallaði „marksækni án markmiðs“ (Zweckmässigkeit ohne Zweck), þ.e. að hinir ýmsu þættir skáldverks séu sam­þættir til að skapa heild­aráhrif, eitthvað nýtt.



Kristinn E. Andrésson samdi, sem áður segir, sögu íslenskra nútímabókmennta, 1949, og fjallaði þar fyrst og fremst um tímabilið 1918-1948. Hann hefur þó nokk­urn inngang um undanfarandi tímabil, og fjallar þar aðallega um ljóð Ein­ars Bene­diktssonar, því þau eiga að sýna öðrum betur tíðarandann í upp­hafi 20. aldar. Kristinn er hér ein­kenni­lega tvíbentur. Fyrst segir hann (bls. 9) að heimsstyrjöldin fyrri marki “engin veru­leg tímamót í íslenskri bók­menntasögu, að minnsta kosti ekki eins snögg­lega og í öðrum löndum Evrópu.” Í framhaldi segir: “Engin af þeim bók­mennta­­stefn­um, sem upp komu í Evrópu eða mest blómguðust um og eftir stríðið, ná nokkr­um áhrifum hér heima. Surrealisma, expressjónisma, neue sachlichkeit o. fl. þekkj­um við í rauninni aðeins af erlendum bók­menntum.” Þetta síðasta þykist ég raunar hafa hrakið í riti mínu Kóralforspil hafs­ins (2.-5. k. og 12. - 14. k.). Vissu­lega voru slíkar bókmenntir ekki áber­andi á Íslandi þá, en það voru þær bara ekki held­ur í t.d. Frakklandi né Eng­landi á 3. ára­tugn­um, þótt þær hafi síðar vakið athygli langt umfram það sem þá var mest í met­um. En síðar í riti sínu snýr Kristinn við blaðinu (bls. 33-4), talar um hvörf í íslensk­um bókmenntum, og segir að stríðsgróðinn hafi kom­ið miklu losi á hug­ar­far Íslendinga í fyrri heimsstyrjöld, og:





Upp af þessu spretta í bókmenntunum hugmyndir umróts og laus­ungar, léttar hvarflandi stemn­ingar, æsing, hrifnæmi, sterkar geð­sveifl­ur. Menn vildu á andlegu sviði geta höndlað gæf­una á einni nóttu, eins og menn urðu ríkir á einni nóttu. Skáldin dýrkuðu séní­gáf­una, trúðu á inn­blást­ur augnabliksins, vildu geta ort fyrir­hafn­ar­laust, þegar andinn kom yfir þá, sveiflast á bylgjum gleði og hryggð­ar, nautna og vonbrigða. Allt þetta verður til þess að setja alger­lega nýjan blæ á þann skáldskap sem kemur upp fyrri hluta þessa tímabils [þ,e.1919-1930]





Skáld þessa nýja anda eiga þá að vera Stefán frá Hvítadal, Davíð Stef­ánsson og ýmis minni háttar skáld (sjá bls. 49 o. áfr). Þessi undarlega mót­sögn hjá Kristni virðist mér stafa af efnahagslegri nauð­hyggju, því við­horfi að verulegar breyt­ingar á efnahagslífi þjóðar hljóti að setja fljótlega svip sinn á menn­ing­arlíf hennar. Þetta er einnig kallað vélræn efnishyggja og ein­kenndi einkum fylgismenn Stalíns (sjá rit mitt Rauðu pennarnir, bls. 11 o. áfr., 89 o.áfr.). Áður (í lok k.5.1) var rakin kenning þeirra Jón­as­ar frá Hriflu og Kristins, að skáldskap Einars Benediktssonar hafi hrak­að við það að auðvaldskerfið þroskaðist á Íslandi. En þessi túlkun um róttæka breyt­ingu á íslenskum bók­mennt­um í lok fyrri heimsstyrjaldar hefur orðið furðu útbreidd, einnig meðal þeirra sem ekki að­hyll­ast “sögu­lega efnis­hyggju” stalín­ista. Fólk er almennt býsna mót­tæki­legt fyrir al­hæf­ing­um um menn­ing­ar­lífið. Það eru helst Hannes Pét­urs­son og þær Guðrún og Ragn­hildur sem bera fram aðra túlkun, um samfellu ný­róm­antískra bók­mennta frá því um aldamót, a.m.k., einnig Íslensk bókmenntasaga III og Gunnar Stefánsson (bls. 48-55).



Peter Carleton aðhyllist samskonar efnishyggju í doktorsriti sínu um hefð og nýsköpun í ís­lenskri ljóðlist, og er býsna fylginn Kristni. Carleton fjall­ar nokkuð um þetta nýrómantíska skeið ís­lenskr­ar ljóðagerðar og segir m.a. (bls. 116) að þessi skáld hafi ekki haft áhuga á hlutlægum raun­veru­leik­an­um, heldur á ein­stakl­ingsbundnum raun­veru­leika hug­ans. Því hafi þau allt eins lýst ímynd­uð­um raunveruleika, svo sem birtist í Abba-labba-lá Davíðs. Straumhvörfin til nýróm­ant­ík­ur eiga að stafa af því, að í lok fyrri heimsstyrjaldar hafi borgarlíf og borg­armenning náð slík­um þroska á Íslandi, að hún hafi krafist eigin bók­mennta. Og svo mikið hafi verið af lista­mönnum á Íslandi, að af því hafi sprott­ið samfélagskimar bóhema í Reykja­vík, Akureyri, og jafnvel í smærri þorp­um[4]. - Það mætti halda að hér væri talað um Kaupmannahöfn, ef ekki París. Ekki veit ég af öðr­um frá­sögnum um þessa hópa list­rænna bóhema víðsvegar um Ísland í lok fyrri heims­styrj­ald­ar. Er þetta ekki bara einhver misskilningur á bók­um Þór­bergs Þórðarsonar? Ungu mennirnir í Íslenskum aðli og Ofvitan­um eru að sönnu mjög andlegir, stopult í vinnu og fátækir, en ekki nein varanleg bóhemía, flestir að­lagast sam­félaginu. En í sam­ræmi við þetta telur Carleton nýróm­antík (sem hann kallar Lyrism) sjálf­sprottna á Íslandi, og af fjórum mismun­andi rótum. Full­trúi bóhema og stúd­enta er Jóhann Gunnar Sigurðsson, en hið besta úr sveita­menningunni birt­ist í Huldu og Sigurjóni Frið­jóns­syni. Þorsteinn Erl­ingsson er fulltrúi best menntuðu heims­manna meðal skálda eldri kyn­slóð­ar, en Jóhann Sig­ur­jóns­son fulltrúi Íslend­inga sem leituðu frama er­lend­is.



Ekki rekur Carleton á nokkurn hátt eðlismun á ljóðagerð þessara fjög­urra aðila, og verður ekki séð hvernig kornungur sveitapilturinn Jóhann Gunnar ætti að vera eðlisólíkur hinum. Carleton viðurkennir raunar að Þor­steinn Erl­ings­son hafi verið of mótaður af fyrri tíð til að ganga langt í þessa nýju átt, helst á það að vera í hringhendum sem minna á Sigurð Breiðfjörð! (bls. 103). Guðrún og Ragnhildur sýna kurteislega vantrú á þessa órök­studdu kenn­ingu (bls. 25), og telja þessa ljóðagerð á Íslandi fyrst og fremst af erlendum rótum runna. En vissulega birtust erlend áhrif öðrum fremur hjá Jóhanni Sigur­jóns­syni. Ýmsar góðar athuganir eru í riti Carleton, en yf­irleitt virðist mér það þó troða fyrirfram ákveðn­um kenningum upp á ljóðin, finna ein­stök dæmi kenningunum til stað­fest­ingar, en leita ekki hins hvort eitthvað gæti mælt þeim í mót. Af þessu hljót­ast ýmsar fáránlegar fullyrðingar, svo sem (bls. 120) að setja skáldskap Davíðs Stef­ánssonar undir sama hatt og Stefáns frá Hvítadal, þannig, að ljóðum Davíðs hafi hrakað eftir fyrstu bók hans. Og sama virðist mér einkenna skýringu Carleton á enda­lok­um stefn­unn­ar. Hún á að hafa gengið sér til húðar seint á 3. ára­tugnum (bls. 127), og eru fornaldarkvæði Davíðs í Nýjum kvæð­um 1929 tekin til vitnis um það. Það nær engri átt, bæði eru þau í miklum minnihluta í bók­inni, og einn­ig eru þau af allt öðru hugarfari ort en sögukvæði 19. ald­ar, birta fyrst og fremst sammannlegt tilfinningalíf. Sveinn Skorri bendir á (1995, bls. 48) að þau eru ort í fyrstu persónu, ólíkt fyrri sögu­kvæðum. Kristinn E. Andrés­son bend­ir á að þau séu nýstárleg (1949, bls. 71), en telur sögu­kvæð­in þá mis­heppn­uð. Eftir þessi endalok segir Carleton að Fagra ver­öld Tóm­as­ar Guðmundssonar 1933 sé end­urvakning stefn­unnar, til and­svars við raunsæjum ljóðum sósíalista uppúr 1930. Ekki víkur Carleton að fyrstu ljóðabók Tómasar frá 1925. Þetta er helsti gagn­rýn­is­laus upp­tugga á kenn­ingum sósí­al­ista þá (sjá rit mitt Rauðu pennarnir, bls. 89 o.áfr.), enda rekur ekki Carleton neinn af­ger­andi mun á þessum ljóð­um Tómasar og t.d. Davíðs annan en þann (bls. 164), að Fagra veröld lýsi Reykjavík, og borgarastéttin hylli borg­arlífið. Skyldi hún þá ekki líka hafa notið mynda frá utanlands­ferð­um í skáld­skap Einars Benediktssonar 1908, Davíðs 1920 og Halldórs Laxness síðar? Hvaða afgerandi breyting ætti þá að verða með Fagra veröld? Og þrátt fyrir þessa ætluðu hnign­un voru Davíð og Tómas framvegis vinsæl­ustu ljóð­skáld þjóðarinnar, áratugum saman.



Hópar skálda koma oft fram á sjónarsviðið með stefnu­skrá, sem svo mótar viðtökur verka þeirra að veru­legu leyti, þannig taka menn viljann fyrir verkið. Ekki af yf­ir­drifinni góðvild, heldur af öryggis­leysi, þeim finnst erf­itt að sjá sérkenni þess sem er að koma fram, og viss­ast að hlíta sér­fræðingum um það. Og hver skyldi þekkja verkin betur en höfundar þeirra?



En reyndar gildir sú regla ekki endranær, að það sem menn segi um sjálfa sig og verk sín, sé áreiðan­legasti dómur um viðkomandi. Það er nú öðru nær. Auk þess er oft ósam­komu­lag um slíkt innan viðkom­andi skálda­hóps, og þegar fram líða stundir þykja stund­um önnur einkenni merki­legri en þau sem hamp­að var í hita baráttunnar, til að að­greina hinar nýju bók­menntir frá því sem fyrir var. Svo dæmi sé tekið, telja flestir sér­fræð­ing­ar nú að mód­ern­ismi í bókmennt­um sé einn höfuð­straum­ur, sam­eig­in­leg ein­kenni séu miklu mikils­verð­ari en sundur­grein­ing í t.d. expressjónisma og surreal­isma (sbr. bók mína Kóralfor­spil hafsins, bls. 25-6, 51-6), enda þótt fylgismenn þessara hreyfinga hafi hver um sig lagt mesta áherslu á sérkenni þeirra.



Norska skáldið Sigbjørn Obstfelder sendi frá sér skáldsöguna En præsts dagbog á árinu 1900. Þetta er í ljóðrænu eintali að hætti tím­ans, og þar er bókmenntastefna okkar vel orðuð[5] (bls. 101-2):





Er ekki tónlistin sú list, sem óx fram einmitt úr hjörtum okkar, þess fólks sem bjó á jörð okkar á þessum öldum - tíma­skeiði gufu­afls og járnbrauta, en einnig samhljómsins? Hún varð til með nýrri yfir­sýn um heiminn. Hún fæddist með Kóperni­kusi.



Að höggva í stein var list fyrri tíðar. List hoppandi fiðlu­boga, titr­andi strengja, dansandi loft­bylgja er okkar list. Við leitum ekki fag­urr­ar kyrrðar, fastr­ar línu. Við leitum línunnar áður en hún fest­ist, leit­um þess sem fæddi af sér orð og form, leitum breyting­ar­inn­ar, sem er varan­legri en efnið. Jafn­vel í steininum, í högg­mynda­list, í bog­um og hvelf­ingum skynjum við straum­inn, öldu­ganginn, og hugs­anir og orð syngja sig fram í heilum okkar. [þýð. Ö.Ó]





Í framhaldi segir að á bakvið allar þessar margvíslegu hendur, sem hver beiti sínum boga, megi finna fyrir tón­sprota, sem sam­stilli allt þetta - út frá slætti mannshjarta. Þarna birtist eitthvað yfir­skil­vit­legt, trú á “æðri sann­leika” bak við skynjanlega hluti. En þessi æðri sann­leikur virðist þó bara vera mannlegt eðli, mótað af tíðarandanum. Í lok sögunnar talar guð til prestsins uppi á há­lendi Noregs og segir (bls. 156): „Eru ekki öll orð, allar hugsanir, allir út­reikn­ingar, eins og ryk í samanburði við þetta: að skapa líf - í fegurð?“



Áhug­inn á hinu hverfula birtist miklu fyrr en þetta. Baudelaire var eitt helsta átrún­að­ar­goð þessa skóla. Prósa­ljóðasafn hans sem birt­ist 1862 hefst á ljóðinu Hinn ókunni (L’étranger). Þar er framandi maður spurður hverju hann unni mest, fjölskyldu sinni, föðurlandi, auðlegð eða fegurð. Svar hans er að af þessu ynni hann aðeins fegurð, en einkum unni hann þó skýj­un­um[6]. Christian Refsum[7] skilur þetta svo að ljóðið beini athyglinni að hinu myrka, en mér virðist liggja beint við að segja að það snúist um hverf­ul­leikann, það afneitar beinlínis þeim framantöldu gildum sem helst hafa verið talin var­an­leg.



Og sú verður niðurstaða mín um samkenni blæleitinna ljóða. Það er fyrst og fremst að skapa augnabliksskynjun. Sá “æðri sann­leik­ur” sem birtist í sam­stillingu ljóð­mynda, hrynj­andi, hljóms orða og uppbygg­ingu ljóðs­ins, það er sérstæð tilfinning, sem ekki verð­ur orðuð í formi yfir­lýsingar, hvorki um guð­fræði, dulspeki né annað. Þess­vegna finnst mér frekar villandi að kalla þessa ljóða­gerð “táknsæja”, eða kenna hana við symból­isma. Sum skáldin reyna að miðla tilfinningu fyrir yfir­skil­vit­legri veru, eða tala um hana, en það gerðu líka hefð­bund­nari skáld, trúarskáld. Önnur skáld í hópi blæleitinna gerðu það ekki. Þetta er því tilfallandi ein­kenni, gildir sama um það og þjóð­ern­is­stefnu, ætt­jarð­ar­kvæði; þessa gætir inn­an hóps­ins, nær ekki til hans alls, en er almennt utan hans. Og orðið “nýróm­ant­ík” segir lítið um þennan straum, býður bara upp á rugling um þessa bók­mennta­stefnu sem afturhald til gömlu róm­antíkurinnar.



Í raun­inni sýnist mér hér vera sama fyrir­bærið á ferð og í lausa­máls­skáld­skap á sama tíma, en þar hefur þetta verið kallað impressjónismi. Ég hefi lýst honum svo (1992, bls. 187):





mest ber á skynhrifum. M.a. eru notaðar persónu­gerðar nátt­úru­lýsingar til að sýna inn í sál sögu­persóna auk þess sem hugsanir þeirra eru rakt­ar í óbeinni ræðu. Ennfremur eru sýndar­lík­ing­ar, og eink­um þó runur hliðstæðra aðal­setn­inga og slitru­stíll, ófullkomnar setn­ingar.





Þessi lýsing hefði mátt vera ítarlegri, en aðalatriðið er það, að stíll­inn beinist að því að sýna augnablik, gera það skynj­anlegt, í svip­brigð­um, litum, hreyfingum og orða­­lagi persóna. Við sjáum nú, að þetta er sama stefn­an og í ljóðagerð sama tíma. Er það nokkur furða? Reyndar er þetta einn­ig megineinkenni á málverkum samtímans, þeim sem kennd voru við blæ­stefnu, impressjónisma, að grípa augnablik í sérkennum þess og blæ­brigð­um. Og í tónlistinni (Satie, Debussy, Ravel) er sífellt hvarflað milli blæ­brigða, það er mikil breyting frá skipulegri uppbyggingu fyrri tón­verka.



Við sáum að Sigurjón Friðjónsson hélt ættjarðarást á lofti sem ein­kenni hins nýja skóla. Myndi hún þó síst af öllu greina hann frá þeirri ljóða­gerð sem fyrir ríkti í landinu, rómantísku stefnunni. Ætla mætti að þessi dómur hans sannaðist á því hve drottnandi átthagaskáldskapur, nátt­úru­ljóðræna, er hjá mörgum blæleitnum skáldum, einkum þó honum sjálfum og Huldu. En reynd­ar virð­ist mér vera afgerandi munur á náttúru­lýr­ik þessara tveggja skáldskapar­skeiða. Nátt­úru­kvæði t.d. Jón­asar Hall­gríms­sonar og Stein­gríms Thorsteinssonar draga yfir­leitt upp mynd­ir af fögru landslagi, og ljá þeirri mynd síð­an félags­lega merkingu, þjóðareinkenni, raunveruleg eða æskileg. Í Gunnars­hólma eru fjöll persónu­gerð, þannig að þau verða mynd af þeim forn­köpp­um sem kvæðið fjall­ar um, að fyrr létu lífið en hug­sjónir sínar, um sæmd og föðrlandsást, í mynd þeirra er landið „fag­urt og frítt“. Svanasöngur á heiði Steingríms birtir líka al­menn sann­indi, um æðri fegurð sem vitr­ast manni óvænt “á eyði­legri” leið. En nátt­úru­kvæði blæleitinna skálda eru annars eðlis. Þau eru fyrst og fremst til að birta sál­ar­ástand ein­stakl­ings á tilteknu augna­bliki. Náttúran skipt­ir ekki máli í sjálfri sér, hún er tilvilj­un­arkennd leiktjöld, og væri allt eins hægt að nota manngerðara umhverfi, hvort heldur er innanhúss eða skrúð­garða og borg­ar­stræti, enda er það stundum gert. Hitt er hefð, að draga upp náttúru­mynd­ir, og nærtækast flestum þessum skáldum, enda alin upp í sveit. Þetta, að nota umhverfislýsingar til að sýna sálarástand augnabliks, er alveg einsog í t.d. sögum Gests Pálssonar og Þorgils gjallandi (sbr. Kór­al­for­spil hafs­ins, bls. 175-7). Í eldri sög­um eru líka umhverfis­lýs­ing­ar sem sýna innri mann persóna, sér­stak­lega á það við um hús­næði og hús­búnað. En það virð­ist mér yfirleitt til að sýna varan­leg einkenni, þar sem nátt­úru­­lýs­ing­ar í sögum im­pressjón­ista, einnig þessara íslensku, eru hins­vegar til að sýna hverfult sálarástand augna­­bliks­ins.



Við sáum þetta á kvæðum Einars Bene­dikts­sonar. Hvarf síra Odds frá Miklabæ segir ekki sögu fyrst og fremst, heldur dvel­ur við lítinn hluta hennar, til þess að sýna hugarástand manns. Það er enn aug­ljós­ara um “víðavangskvæði” Einars, Undir stjörn­um, Norðurljós og prósa­ljóð­ið (í Stjörnudýrð) sem er sömu ættar, að þau birta fyrst og fremst hverf­ult hug­ar­ástand, enda þótt það þyki grípa varanleg sannindi, samkennd manns með alheiminum.



Auðvitað setur það mark sitt á þessi skáld, að þau eru öll alin upp í sveit, og sum bjuggu þar lengstum, t. d.l Sigurjón Friðjónsson og Stefán frá Hvíta­dal. En þau þeirra sem lengst bjuggu í erlendum stórborgum taka upp mynd­mál þaðan eða úr bókmenntum af fram­andi slóðum (Einar Bene­dikts­son, Jóhann Sigur­­jóns­son, Jónas Guðlaugsson og a.n.l. Jakob Smári). Síðar verður slíkt borga­mynd­mál meira áberandi, hjá Davíð Stefáns­syni og einkum Tómasi Guðmundssyni.



Þessar sálrænu náttúrumyndir eru svo stundlegar, svipular, að eink­um er dregin fram hreyfing ljóss og skugga, breytileg ásýnd nátt­úr­unnar, þar sem í rómant­ík­inni birtist miklu fremur varanlegt svipmót hennar, fjöll, grundir, fljót. Jafnan ber mikið á persónu­gerv­ing­um náttúrufyrir­bæra, og oft eru þær mjög fínlega gerðar, stund­um einsog á mörk­um persónu­gervingar. Það sjáum við bæði hjá Einari Benediktssyni, Sigurjóni Friðjónssyni og Huldu.







8. Samantekt



Í inngangi var vikið að því, að margvíslegar kenningar eru uppi um eðli rómantíkur, svo sem von er til, þegar reynt er að finna sameiginlegt einkenni margvíslegra verka hundruða skálda um alla Evrópu og mikinn hluta Ameríku á heilli öld. En hvað sem því líður, sýnist mér af framangreindri rannsókn, að sjá megi sameiginlegan grundvöll íslenskra skálda á 19. öld, að þau hafi haft sameiginlega hugmynd um einkenni rómantískra ljóða. Hér hefur komið fram, að hefðir ljóðmálsins mótast hjá fyrstu skáldunum tveimur, Bjarna og Jónasi, á tímabilinu 1809-1845; hefðir sem önnur skáld fylgja verulega framanaf. Í ljóðmáli ber einkum á því að skapa ljóðræn nýyrði, og flest skáldanna nota miklu meira af fornyrðum, hrósyrðum og djásnyrðum en tíðkast nú, skv. Íslenskri orðtíðnibók. Ennfremur er þetta einkum áberandi á fyrra huta skáldferils þeirra, en á seinna skeiði þeirra er almenn hneigð til nokkuð einfaldara máls. Athyglisvert er að það gildir einnig um ljóðasafn Bjarna Thorarensen, þegar því er skipt um 1820, og um ljóð Jónasar Hallgrímssonar, við skil í tímaskeið tveimur áratugum síðar. Eftir tíð Bjarna og Jónasar er áberandi hneigð til að hafa lág hljóð og kyrrð fremur en hávaða. Þetta á einkum við um Steingrím, en í minna mæli og mismunandi eftir sviðum um Benedikt og Matthías. Grímur hefur einna minnst af þessu, og þjóðskáldaúrvalið er ekki sambærilegt, en hefur vissu­lega sömu einkenni.



Blæleitin ljóðagerð hefst á Íslandi í byrjun lokaáratugs 19. aldar. Í stefnu­skrárritum frá miðjum þeim áratug er lögð áhersla á fráhvarf frá natúr­al­ism­anum, sem hafi verið of bundinn við hið lága og hversdagslega. Í staðinn beri að grípa hverf­ula skynmynd líð­andi stundar. Þetta eigi að vera raunsannar myndir af íslenskri alþýðu og á eðli­legu sam­tímamáli, þótt líkingamál megi gjarnan vera íburðarmikið og nýstárlegt.



Nú hafði natúralisminn ekki sett mikinn svip á íslenska ljóðagerð. Í henni drottnaði enn rómantíkin með náttúrudýrkun, þjóðerniskennd, oft hetju­dýrkun, og fornmálsorðum. Mikið bar á tækifæriskvæðum og kvæð­um með boðskap í framangreindum anda. Hvernig aðgreind­ist ljóða­gerðin nýja frá þessu ríkjandi ástandi í íslenskum kveðskap, hvernig greindist „ný­rómantík“ frá rómantík?



Varðandi það eru viðbrögð ritdóma athyglisverð, því það eru ein­ung­is skáld af þessu tagi, sem segja að hér sé eitthvað nýtt á ferð. Viðbrögð annarra, bæði eldri skálda og leikmanna eru yfirleitt jákvæð við bókum blæleitinna skálda, en þær aðfinnslur sem fram koma eru ekki um framandleika, held­ur ófrumleika! Það er sagt bæði um Huldu, Jónas Guðlaugsson og Da­víð Stefánsson. Skýringin er væntanlega sú, að ritdómurum hafi orðið starsýnt á nátt­úru­lýrik þessara skálda og þótt hún vera einhæf, hafa kannski meira tekið eft­ir efni en efnistökum og því ekki séð að þarna væri neitt nýtt á ferðinni.



Að mörgu leyti ríkir vissulega hefð áfram hjá blæleitnum skáldum. Þau voru mörg yfirlýstir ákafir aðdáendur rómantískra skálda, einkum Jón­as­ar Hall­gríms­sonar og Steingríms Thorsteins­sonar. En oft hefur því verið hald­ið fram, að þjóðfrelsisskáld 19. aldar hafi ort um framþróun, vor og vor­hug, en fagurkerar nýrómantíkur hafi þess í stað ort um haust, hálf­rökk­ur, dapurleika og útþrá, enda hafi einstaklingshyggja og einmana­kennd komið í stað samstöðu og sigurvilja.



Því verður til að svara að sam­fella birtist í því að kyrrð er mest áberandi allt frá 19. öld, og vor framanaf, en Jóhann Sigurjónsson, Stefán og Davíð leggja meiri áherslu á haust. Á 19. öld bar mest á morgni og degi, en hjá blæleitnum á kvöldi og nótt. Hjá þeim Stefáni, Davíð og Jónasi Guðlaugssyni ber meira á óyndi en unaði, enda verða þá náttúrulýsingar hrikalegar allt eins oft og að­lað­andi, en indæli ríkti annars allt frá 19. öld, og einnig hjá fyrstu blæleitnu skáldum, eins og samstaða, en hjá fyrrnefndum yngstu skáldum ber meira á ein­fara. Ást­ar­sæla yfirgnæfir framað Jónasi Guðlaugs­syni, þar er jafn­vægi, en hjá Jakob Smára og Stefáni yfirgnæfir ástarsöknuður. Þessar áherslu­breyt­ing­ar held ég að endurspegli alþjóðlega tísku, en Tómas Guð­munds­son fylgir í þessum atriðum skáldum fyrri tíðar, þótt hann komi síðast fram og sýni góða þekkingu á hinni nýju ljóðlist. Í orðalagi verður líka hæg­fara þróun frá 19. öld, hvergi skörp skil. Þannig ber æ minna á fornu ljóðmáli, en einnig á 19. öld voru slík orð aðeins 1-2% heildarorða­forðans, svosem til að merkja textann sem ljóð, og í samræmi við háfleyg yrkisefni. Tal um gull og gersimar og notkun hrósyrða virðist og ámóta algengt hjá blæleitnum skáldum og var á 19. öld, og alla tíð er rúmur helmingur þeirra dæma um gull, fimmtungur um silfur. Einar Benedikts­son og Davíð Stefánsson virðast leggja sig meira fram um hlutlægar lýsingar sem gefa mynd tilfinningar, en að lýsa yfir afstöðu.



Einnig er ótvírætt um sameiginlegar nýjungar að ræða. Þjóðernisstefna og guðstrú hverfa úr blæleitnum ljóðum, þótt þessa gæti áfram í annarskonar kvæðum t. d. Einars Benediktssonar. Það er frá upp­hafi áhugi á þjóðsögum og þjóðkvæðum, sem tengist áherslu stefn­unn­ar á sálarlíf venjulegs alþýðufólks og viðleitni hennar að grípa sérstæða til­finn­ingu, dularfulla, í stað hins hversdagslega. Í bragar­hátt­um fylgja blæ­leit­in skáld oftast hefð fyrri tíðar. Þó verður meira um són­hendur og skáld­in taka upp þjóðkvæðahætti, m.a. þulur og viki­vaka, en Einar Bene­dikts­son smíðar sér nýja bragarhætti, stóra í snið­um. En jafn­framt er um mikil­vægar nýjungar að ræða, það er með þess­um hópi sem margfræg „form­bylt­ing ljóða“ hefst, prósaljóð og fríljóð. Hún hefst fyrir aldamót, og vex verulega fyrstu áratugi 20. aldar, en er alls ekki fyrirbæri sem hefst eftir seinni heimsstyrjöld, svo sem allt of oft er tönnlast á.



Myndmál skáldanna sýnir tvískiptingu. Fyrst og fremst, að hefðir ríkja í lita­notkun, allt frá 19. öld og lengstum hjá blæleitnum skáldum, sömu litir hafa svipaða tíðni, ráðast af íslenskum náttúrufyrirbærum og hafa auk þess stundum táknrænt hluverk af sama tagi, það eru fáir, hreinir litir, sem mest­megnis eru sóttir í íslenska náttúru. Nokkur einstaklingsmunur er auðvitað á tíðni einstakra lita og á fjölda litarorða í heild. Mest er um liti hjá Jónasi, Benedikt og Steingrími, og sýnu meira á fyrra skeiði en seinna hjá tveimur síðarnefndum. Litorð kvæðasafna 19. aldar eru þrefalt til áttfalt tíðari en í orðtíðnibók nútímaíslensku, þar sem svartur er tíðastur lita. Ólíkt því er blár tíðastur í þessum ljóðasöfnum, fimmt­ungur dæma, enda er þriðjungur dæma blás um fyrirbæri vatns, annar þriðj­ungur um himin, ský og þvílíkt. En ef saman er tekið bjartur, ljós og hvítur, þá er það samanlagt þriðjungur dæma. Þau orð eru einkum höfð um fyrirbæri himins (sól, himinn, sólskin, stjörnur). En mikið eru þau einnig höfð um fólk, og þar ber mest á konu og líkamshlutum hennar Dekkstu litirnir eru hálf­drætt­ing­ur á við það, samanlagt sjöttungur dæma. Litarorð eru allt frá fyrstu skáldum 19. aldar oftast um 1% orða­forð­ans. En Einar Benediktsson, Sigurður, Jóhann Gunnar og Stefán komast ekki í hálf­kvisti við það, þar sem hinsvegar Jakob Smári hefur meira en tvöfalt meira af litar­orðum, enda ber þar sérlega mik­ið á sérstæðum litbrigðum.



Hér kemur til orðasmíð sem er arfur allt frá Bjarna Thor­arensen, sem hefur hana aftur a.n.l. frá Eddukvæðum, það má kalla að yrkja orð. Jónas gerir einkum mikið af þessu eftir dauða Bjarna. Auk Bjarna ber mest á þessu hjá Steingrími á fyrra skeiði, að búa til ný orð, einkum lýsing­ar­orð, sem grípa sérstæð blæbrigði skynjunar eða tilfinningar með því að setja þau sam­an úr liðum sem afmarka fyrirbærið myndrænt, oftast með litblæ. Þetta minnkar mjög mikið á síðustu áratugum 19. aldar (eftir 1880, nánar er ekki unnt að afmarka það), en kemst svo aftur í tísku upp úr 1900. Þá bætist það við að stundum er orðið sett saman ur liðum sem eru andstæðrar merk­ingar að hluta. Þar er þó ekki um mótsagnir að ræða, heldur er með þessu móti merkingin afmörkuð ná­kvæm­ara en algengt er, á mótum gagn­stæðra afla – en einnig þar sem hlið­stæð­ur mæt­ast. Þessi aðferð er mjög mismikið notuð af skáldunum, einkum er þetta áberandi hjá Jónasi Guð­laugssyni, Jóhanni Sigurjónssyni, Jakobi Smára, og öðrum fremur hjá Huldu. En þetta er sáralítið hjá Sig­urði, og nær ekkert hjá Stefáni, Davíð og Tómasi. Þar er augljóslega sam­ræmd stefna á ferðinni. Þessi síðasttöldu skáld gengu allra lengst í einföldu máli, einn­ig ein­földu líkingamáli, ljóð þeirra eru sérlega nálægt daglegu máli alþýðu, og þau náðu einmitt öðrum fremur til alþýðu, urðu einstaklega vin­sæl.



Persónugervingar eru í heild fjórðungur líkingasafns 19. aldar. En frávik eru veruleg, þær eru einkar tíðar hjá Jónasi Hallgrímssyni og Steingrími á fyrra skeiði þeirra, tveir fimmtu líkinga, næst því ganga þjóðskáld og Matthías á fyrra skeiði, þriðjungur. Hjá blæleitnum verða persónugervingar nær helmingur safnaðra líkinga í heild, rúmlega það hjá Smára, ívið meira hjá Sigurjóni (6/10) og enn meira hjá Huldu (7/10), Þetta setur sterkan svip á kvæðin, ljóðmælandi verður í sérlega nánu sam­bandi við náttúruna. Oftast eru fyribæri himins persónugerð, sól, tungl, stjörnur o.þ.h., það er rúmur fjórðungur persónugervinga á 19. öld, en 2/5 hjá blæleitnum. Næst því ganga ýmis fyrirbæri jarðar, nær fjórðungur á 19. öld, en sjöundi hluti eins og lagarfyrirbæri hjá blæleitnum. Þau síðasttöldu voru ívið tíðari á 19. öld, rúmlega sjötta hver persónugerving, en sértök voru þá rúmlega sjöunda hver. Miklu sjaldgæfari eru persónugervingar gróðurs, hluta og lífvera. Hjá blæleitnum er hinsvegar nær tíundi hluti persónugervingar af mannlegu tagi, einkum tilfinninga.



Athæfi persónugervinga er svipað á báðum skeiðum, hægt, blítt og ljúft yfir­gnæfir, það er helmingur tilvika. Það er í samræmi við kyrrðina sem ríkir í ljóðunum. Mest ber á atlotum (nær áttunda hver persónugerving), og a.m.k. þriðjungur þeirra dæma er atlot móðurveru við barn, ýmiskon­ar náttúrufyrir­bæri eru í móð­urhlutverki, en ljóðmæl­andi fær stund­um hlutverk barnsins.



Líkingar eru fyrirferðarmestar hjá Bjarna, Jónasi og Steingrími (tíundi hluti textans), en hálfu minna í öðrum ljóðasöfnum 19. aldar. Hjá blæleitnum ber hér mest á Jónasi Guðlaugssyni, Smára, Einari Benediktssyni, Huldu og Davíð. Stefán er í meðaltali, en Jóhannarnir tveir hafa hálfu minna en fyrrtalin. Á báðum skeiðum er fjölbreytnin meiri í því sem við er líkt en í því sem um er talað, myndliðir eru þriðjungi fleiri en kenniliðir á 19. öld, en fjórðungi fleiri hjá blæleitnum. Á báðum skeiðum er einkum um afstöðutengsl liðanna að ræða, en fimmtungur líkinga mátti teljast byggjast á útlitslíkingu (hjá blæleitnum var aftur fimmtungur þess einkum heyrn, frekar en sjón). Helmingur kenniliða afstöðulíkinga eru sértök, einkum dauði, líf, mæða, ævi, tími. Meginstraumurinn er að færa sértök inn í nánasta umhverfi fólks, tala um þau sem flíkur, afurðir og tæki. Í skynlíkingum eru himnesk fyrirbæri nær helmingur kenniliða, næst því ganga orð um fólk, síðan jarðnesk fyrirbæri, loks á, haf, alda o.þ.h. Á báðum skeiðum er einkum líkt við hluti gerða af mönnum. Á 19. öld er þá stundum líkt við nýjustu tækni og vísindi, einkum í lok aldarinnar, og öðrum fremur af Matthíasi. En þetta hverfur hjá blæleitnum, þeim hefur greinilega þótt slíkt tal óljóðrænt. Annars gildir á báðum skeiðum að sértökum um breytingar er líkt við straum, mannlífi er líkt við ýmiskonar auðn eða hjarn. Karlmönnum er líkt við tré, fugla, ljós eða blóm, en konum er einkum líkt við blóm eða sól. Tilfinningum er líkt við eld eða gróðurreit, ást er líkt við eld, en dauða við myrkur, einnig við dyr, haf, sólarlag og svefn, en lífinu við dag og draum, öldur og haf, fljót og ferð. Mæðu og sorg er líkt við öldur, vind og ský, ævinni við dag, ár og siglingu, tímanum við fljót, straum, haf og hjól. Himni er líkt við sal, gjarnan tjaldaðan, einnig við höll og veg. Sólskini er einkum líkt við gull eða hjúp.



Allt er þetta mjög kunnuglegt, og þótt öll þessi skáld eigi til frumleika, er ljóst að þau hafa lagt meira upp úr öðru, nefnilega að ná til lesenda með kunnuglegu myndmáli. Segja má að um þriðjungur afstöðulíkinga 19. aldar sé tilbrigði við líkingar daglegs máls, en aðeins sjöundi hluti skynlíkinga þá. Hjá blæleitnum taldist fimmtungur líkingasafnsins af þessu hversdagstagi.



Í ann­an stað er athyglisvert hve mjög skáld­in, einkum blæleitin, tóku mið hvert af öðru, sömu lík­ingar ganga á milli þeirra með til­brigð­um. En þetta verður ekki kallað ófrum­leiki, í rauninni sést af þeim dæm­um að þau lögðu mikla vinnu og hug­vit í að umskapa þessar líkingar. Einkum er það Einar Benediktsson sem margnotar sömu ljóðmynd með til­brigðum, ýmis önnur blæleitin skáld sækja þær svo til hans. Kaflinn um sér­stæð­ar líkingar sýnir enn frekar þessa sköpunar­gáfu - og skipt­ingu þessa skálda­hóps Ann­ars­vegar eru skáld sem lögðu sig fram um frumlegt mynd­mál, þar ber eink­um á Einari Bene­diktssyni, Jónasi Guð­laugs­syni, Jóhanni Sig­ur­jóns­syni og Jakob Smára. Hinsvegar eru skáld sem settu alþý­ðleika í önd­vegi, að ná til lesenda á kunnuglegu myndmáli og í ein­faldri fram­setn­ingu. Það á einkum við um Huldu, Stefán, Davíð og Tómas. Í fyrri hóp­in­um eru lík­ingar einkum hafðar um náttúrufyrirbæri, og þar koma fyr­ir ný­gerv­ing­ar, en í þeim seinni eru líkingar einkum hafðar um hugtök, sér­tekn­ing­ar, og þar koma fyrir nykraðar eða hvarflandi líkingar. En vissu­lega er þetta ekki skipting í bása, heldur á póla, ef svo mætti segja. Ýmis frá­vik eru frá þessum megin­línum, og skáld af hvorutveggja tagi vönduðu sig við að fella ljóð­myndir að heildinni í ljóði. Athyglisvert er að helst er likt við sömu fyrirbæri og fornyrði voru höfð um. Það hafa þá þótt einkar ljóðræn fyrirbæri.



Þessi athugun ætti að geta útrýmt villukenningum sem oft fara saman, enda þótt þær séu andstæðar. Þær eru í fyrsta lagi, að Hulda hafi verið fyrsta skáld þessa skóla, í öðru lagi að Stefán frá Hvítadal og þó einkum Davíð hafi verið það. Sannleikurinn er sá, að þetta er einn straumur ljóða­gerð­ar frá Einari Benediktssyni fram yfir Tómas, og ekki verða sén nein rök til að aðgreina symbólisma og nýrómantík, enda veit ég ekki til að það hafi verið reynt með rökum. Þessi ljóða­gerð er í meginatriðum ná­skyld blæ­stefnu (impressjón­ismanum) í sagna­gerð, tónlist og myndlist, kjarn­inn er að grípa blæbrigði andar­taks, samstilla eðlisþætti skáldverks­ins til að skapa mynd skynjunar, tilfinningar, og þykir mér því best fara á því að þessi ljóðlist kallist blæleitin, að talað sé um blæstefnu. Fráleitt er að tengja hana við ádeilu, hvort heldur væri þjóðfélagslega eða á ein­stakl­ings­eig­inleika.



Ennfremur vonast ég til að hafa hrakið þá ranghugmynd að Sigurjón Frið­jónsson sé „fulltrúi hins ómræna“ í íslenskri ljóðlist. Enda þótt hann hafi sjálfur komið þessari hugmynd á flot, þá sýnir sig, að hann er hvorki öðru fremur ómrænn, né öðrum fremur. Mörg skáld eru síst síðri Sigur­jóni á þessu sviði, einnig eldri skáld, og skáldskapur hans er margþættur, þar sem myndmál, stíll og bygging er oft mikilvægara hljómi ljóðanna.



Sömuleiðis stenst sú kenning ekki athugun að Hulda hafi ort á ein­hvern sérstakan kvenlegan hátt. Allt sem talið hefur verið slíkt, kemur fullt eins fram hjá skáldbræðum hennar. Hún hafði bara sín einstaklings­sérkenni, rétt eins og þeir.



Þessi könnun nær yfir höfuðskáld 19. aldar og fyrstu fjóra áratugi blæleitinnar ljóðagerðar, stöðvast við árið 1933. Vissulega gætti hennar mjög síðar, og gerir enn. En það er efni í sérstaka rannsókn að fjalla um Jóhannes úr Kötlum, Stein Steinar, Guðmund Böðvarsson og ýmis önnur skáld, sem sóttu til þessarar stefnu, en aðgreindust einnig frá henni á ýmsa vegu.



Athyglisverð er fylgnin sem birtist í tíðni líkinga, ortra orða, litarorða og fornyrða hjá einstökum skáldum. Skáldin leggja sig eftir þessum “ljóðrænu einkennum” meira eða minna öllum samtímis, einkum á fyrra skeiði; Bjarni, Jónas, Steingrímur og Matthías. Fornyrði og nýyrði hverfa hjá blæleitnum æ meir á öðrum áratug 20. aldar. Ýmis frávik eru frá þessum megin­lín­um, og í köflunum um einstök skáld ætti að sjást hversu skáld af hvorutveggja tagi vönduðu sig við að fella ljóð­myndir að heildinni í hverju ljóði.



Af þessu má álykta, að það sé ekki neinn grundvallarmunur á rómantískri ljóðagerð og blæleitinni. Sú síðarnefnda er afmarkaðri, forðast boðskap, svo sem þjóðaernislegan og trúarlegan, takmarkar sig meira við einstök svið, sem einnig komu fyrir í rómantík, einkum að samstilla ýmsa eðlisþætti ljóðs til að skapa sérstæða stundlega mynd, tilfinningu. Það er því alls ekki fráleitt að kalla hana nýrómantíska, þótt mér sýnist skýrara að tengja hana við impressjónisma, blæstefnu.



















Tilvitnuð blöð og tímarit















































































































































































































































































































Almanak Hins íslenska Þjóðvina­fé­lags­.



Khöfn og Rvík 1874-



Alþýðublaðið.



Rvík 1919-



Andvari.



Khöfn og Rvík 1874-



Ársrit hins íslenska fræðafjelags í Khöfn. 1-11.árg.



Khöfn 1916-30



Baldur 1.-3. Árg.



Rvík 1868-70.



Bjarki. 1.-9. Árg.



Seyðisfirði og Rvík 1896-1904



Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. I-IX



Rvík 1918-53.



Breiðablik. 1.- 8. Árg.



Winnipeg 1906-14.



Bækur og bókaútgáfa. Miðlun (mánaðahefti ljósrita úr blöðum).



Rvík 1984-



Dagskrá. 1.-3. Árg.



Rvík 1896-9.



Eimreiðin



Khöfn og Rvík 1895-



Fjallkonan. 1.-28. Árg.



Rvík og Hafnarf.1884-1911.



Fjölnir 1.-9. árg.



Khöfn 1835-47



Gefn 1.- 5. Árg.



Khöfn 1870-74



Gæa. Æstetisk Aarbog.



Kbh. 1845-47.



Helgafell. 1.-7. Árgangur



Rvík 1942-55.



Iðunn. Nýr flokkur. 1.-20. Árgangur



Rvík 1915-1937.



Ingólfur. 1.-13. Árg.



Rvík 1903-15.



Ísafold. 1.-54. Árgangur



Rvík 1874-1929.



Ísland. 1.-3. Árg.



Rvík 1897-9.



Lesbók Mbl.



Rvík 1925-



Lögberg. 1.-72. Árg.



Winnipeg 1888-1959.



Lögrétta. 1.-31. Árg.



Rvík 1906-1936.



Mímir.



Rvík 1962-



Mbl:Morgunblaðið



Rvík 1913-



Norðanfari. 1.-24. Árg.



Akureyri 1862-85.



Norðri. 1.- 10. Árg.



Akureyri 1906-16.



Norður­land. 1.- 20. Árg.



Akureyri 1901-20.



Ný félagsrit. 1.- 30.árg.



Khö0fn 1841-73



Nýja öldin. 1.- 3.árg.



Rvík 1897-1900.



Nkv: Nýjar kvöldvökur. 1,-55. Árg.



Akureyri 1906-62.



Óðinn. 1.- 32. árg.



Rvík 1905-36.



PMLA: Publications of the Modern Language Association



New York 1926-



Skírnir. I-



Khöfn og Rvík 1827-



Skuld. 1.- 5. Árg.



Eskif., Khöfn og Rvík 1877-83.



Són. 1.-



Rvík 2003-



Stígandi. 1.- 6. Árg.



Akureyri 1943-9.



Studia islandica Íslensk fræði 1.-



Rvík 1937-



Sunnanfari. 1- 13. Árg.



Khöfn og Rvík 1891-1914.



Taarnet. Illustreret maanedsskrift for kunst og literatur. I-II. (Fotografisk optryk... København 1981.).



København 1893-4



Tidskrift for litteraturvetenskap



Lund 1971-



Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags. 1.- 25. Árg.



Rvík, 1880-1904.



TMM: Tímarit Máls og menningar. I-



Rvík 1940-



Tíminn. 1.-



Rvík 1917-



Víðförli. 1.- 8. Árg.



Rvík 1947-54.



Vísir. 1.-



Rvík 1910-



Þjóðólfur. 1.- 66. Árg.



Rvík 1848-1920



Þjóðstefna. 1. árg.1-50 tbl.



Rvík 1916-17



Þjóðviljinn. 1.- 30. Árg.



Ísaf. o.v. 1886-1915.





Heimildaskrá



Ágúst H. Bjarnason: Ritdómur: Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Svartar fjaðrir. Mbl, 23. 12. 1919.



Ágúst H. Bjarnason: Ritdómur: Söngvar förumannsins e. Stefán frá Hvítadal. Iðunn IV, bls. 325-6.



[Alexander Jóhannesson] AJ: Ritdómur: Kaldavermsl Smára. Ísafold, 20. 5. 1920.



Andrés Björnsson: Ritdómur: Dagsbrún JG. Eimreiðin XVI, bls. 151-3,1910.



Aristoteles: Um skáldskaparlistina. Kristján Árnason þýddi. Rvík 1976.



Árni Benediktsson: Að brjóta hval á sandi. Lesbók Mbl. 26. 9. 1992.



Árni Hallgrímsson: ritdómur um Ljóðmæli Sigurjóns Friðjónssonar. Iðunn 1929, bls. 93-5.



Asbjørn Aarseth: Realismen som myte. Bergen 1981.



Asbjørn Aarseth: “Romantikkbegrepet som litteraturhistoriens Proteus”. Tidskrift for litteraturvetenskap, 1983, bls. 116-130.



Asbjørn Aarseth: Romantikken som konstruksjon. Bergen 1985.



Atli Rafn Kristinsson: Nokkur einkenni á ljóðagerð Jóhanns Sigurjóns­sonar. Kandídatsritgerð í íslensku við H.Í., 1978 (á Þjóðar­bókhlöðu).



Atli Rafn Kristinsson: Formáli í Jóhann Sigurjónsson: Ritsafn I 1980 (bls. 7-45).



Lloyd James Austin: Presence and Poetry of Stéphane Mallarme... (bls. 43-63 í) The symbolist Move­ment in the Literature of european Languages.



Ásgeir Blöndal Magnússon: Íslensk orðsifjabók. Rvík 1989.



Baudelaire: Oeuvres complètes I-II. Gallimard, La Pleiade, Paris 1975.



Beardsley, Monroe C.: Aesthetics : Problems in the philosophy of criticism..Indianapolis 1981.



Benedikt Bjarnason: Jjóhann G. Sigurðsson. Athugasemdir og leiðréttingar. 6. 10. 1909. Lögrétta.



Benedikt Gröndal: Ritsafn I-V. Rvík 1948-1954.



Benedikt Gröndal: Athugasemd um dóm Ragnarökkrs ( í Baldri 4. Júní). Þjóðólfur, 20. árg., bls. 161-2.



Bjarni Thorarensen: Bréf I Kbh. 1943; II, Reykjavík 1986.



Bjarni Thorarensen: Kvæði Kaupmannahöfn 1884.



Bjarni Thorarensen: Ljóðmæli I-II. Khöfn 1935.



Bjarni Thorarensen: Ljóðmæli. Úrval. Rvík 1976.



Björn Jónsson: Ritdómur um Hafblik Einars Benediktssonar. Þjóðólfur 9.11. 1906.



Blöndalsorðabók: Sigfús Blöndal o.fl.: Íslensk-dönsk orðabók. Rvík 1920-1924, endurpr. Rvík 1980. Viðbætir. Ritstjórar Halldór Halldórsson og Jakob Benediktsson. Rvík 1963..



Georg Brandes: “J.P.Jacobsen” (1883, GBSS III, bls.3-72).



Georg Brandes: “Naturalismen i England” (1875, GBSS V, bls. 271-586).



Georg Brandes: Samlede skrifter I-XIV. Kbh. 1900 (skammstafað: GBSS).



Thomas Bredsdorff: Med andre ord. Om Henrik Nordbrandts poetiske sprog. Kbh. 1996.



André Breton: Manifestes du surréalisme. Gallimard, Paris, 1985.



André Breton: Signe ascendant, 1947. Gallimard poésie 1968.



Byron: The poetical works of...Oxford o.v.1917.



Peter Carleton: Tradition and innovation in twentieth century Icelandic Poetry. University of California Berkeley, 1967 (ljósrit á Þjóðar­bók­hlöðu).



Dagný Kristjánsdóttir: Sár Solveigar. Um Hvarf séra Odds frá Miklabæ eftir Einar Benediktsson. TMM 4, 1991, bls.15-23, endurpr. í Undirstraumar, bls.77-85.



Dagný Kristjánsdóttir: Undirstraumar. Greinar og fyrirlestrar. Rvík 1999.



Dagný Kristjánsdóttir: Skáldið eina, Ástin og guð [1989]. Undirstraumar, bls. 15-46.



Dagný Kristjánsdóttir: Skáldið og konan [1992]. Undirstraumar, bls. 47-60.



Danmarkshistorie (Gyldendal og Politikens). 10. bind, 1800-1850. Kbh. 1990.



Dansk bogfortegnelse 1841-1858. Kbh. 1861



Dansk bogfortegnelse 1859-1868. Kbh. 18x



Dansk litteraturhistorie. Bind 2. Fra Oehlenschläger til Kierkegaard.Kbh. 1971.



Davíð Stefánsson: Að norðan. Ljóðasafn I. Rvík 1965.



Davíð Stefánsson: Ljóð. Úrval. Rvík, 1977.



Davidson, Donald: What Metaphors mean (bls. 245-264 í)‎ Inquiries into Truth and Interpretation. Oxford 1984.



· Michel Décaudin: The Fate of Symbolism (bls. 119-123 í) The symbolist Move­ment in the Literature of european Languages.



· Den Store Danske Nationalencyklopædie. Gyldendal 2004 (á geisladiski).



· Eddukvæði. Reykjavík 1998,



Einar Benediktsson: Formáli að Hrönnum. LM I, 309-313.



Einar Benediktsson: Gestur Pálsson. LM I, bls. 274-9)



Einar Benediktsson: Jón Trausti LM I, 314-17.



Einar Benediktsson: Kvæðabók. Reykjavík 1994.



Einar Benediktsson: Laust mál. I-II. Reykjavík 1952 (skst.: LM)



Einar Benediktsson: Matthías Jochumsson LM I, bls. 250-255.



Einar Benediktsson: Stjörnudýrð. LM 489-493.



Einar Benediktsson: Úrþýddir höfundar. Þjóðstefna 30.11. 1916.



Einar Benediktsson: Landmörk íslenskrar orðlistar. Skírnir 1922, bls. 117-129.



Einar Hjörleifsson {Kvaran]: Um Bjarna Thorarensen BT:Kvæði,1884, bls. vii-xlvi.



Einar Ólafur Sveinsson: Undan og ofan af um íslenskar bókmenntir síðari alda. (1930, í Við uppspretturnar, bls. 227-237, Rvík 1956.)



T.S. Eliot: Selected prose. Penguin, 1953 o.s.



Encyklopædia Britannica Deluxe Edition 2004 (3 geislaplötur).



Eysteinn Þorvaldsson: Atómskáldin Rvík 1980.



Finnbogi Gumundsson: Hómersþýðingar Sveinbjarnar Egilssonar. Rvík, BmÞ 1960 (370 bls.).



Finnur Jónsson: Um skáldmál Bjarna Thorarensen. Ársrit hins íslenska fræðafjelags, I, bls. 109-117. Kbh. 1916.



Fjögur ljóðskáld. Hannes Pétursson gaf út. Íslensk úr­vals­rit. Rvík 1957.



Louis Forestier: Symbolist Imagery (bls. 101-118 í) The symbolist Move­ment in the Literature of european Languages.



Friðrik Bergmann: Ritdómur: Vorblóm JG. Breiðablik I, bls. 128, jan. 1907.



Hugo Friedrich: Die Struktur der modernen Lyrik. Hamburg 1988.



Arne Garborg; Haugtussa Kristiania 1895.



Arne Garborg: Huliðsheimar. Rvík1906.



Arne Garborg: I Helheim Kristiania 1901.



Arne Garborg: Helheimar Rvík1913.



Gestur (Guðmundur Björnsson): Undir ljúf­um lögum Reykjjavík 1918.



Gestur Pálsson: Matthías Jochumsson: Ljóðmæli Ritsafn GP, bls. 459-474.



Gestur Pálsson: Ritsafn I-Ii, Rvík 1952.



Gestur Pálsson: Um nýja skáldskapinn, 1889; Ritsafn, bls. 72-95.



Gils Guðmundsson: Formáli Ritsafns Bendedikts Gröndal. I, bls. 7-10, Skýringar, bls. 523-565.



Gísli Brynjúlfsson: Kvæði eptir Benedikt Gröndal. Þjóðólfur 1859, bl.s129.



Grímur Thomsen: Bjarni Thorarensen. En Skizze. Gæa Æstetisk Aarbog. Kbh. 1845, bls. 186-203. Þýdd á íslensku af Sigurjóni Jónssyni, Andvari, 1948, bls. 74-86.



Grímur Thomsen: Íslenskar bókmenntir og heimsskoðun. Rvík 1975 (Andrés Björnsson þýddi og gaf út, 5 greinar frá árunum 1846-57).



Grímur Thomsen: Ljóðmæli. Rvík 1969.



Grímur Thomsen: Om den nyfranske poesi. Kbh. 1843.



Grímur Thomsen: Om lord Byron. Kbh. 1845.



Guðjón Friðriksson: Einar Benediktsson. Ævisaga I. Rvík 1997.



Guðmundur Finnbogason: Einar Benediktsson. Skírnir 1905, bls. 340-356.



Guðmundur Finnbogason: ritdómur:Tómas Guðmundsson: Fagra veröld.. Skírnir 1935, bls. 220-221.



Guðmundur Friðjónsson: Alþýðuskáld þingeyinga. Eimreiðin VBIII, 1902, bls. 91-109.



Guðmundur Guðmundsson: Ljóðasafn I-III. Reykjavík, 1934.



Guðmund­ur Hagalín: Ritdómur: Ljóðmæli SF. Nýjar kvöldvökur XXII, bls. 54.



Guðmundur Hagalín: Ritdómur um Söngva förumannsins eftir Stefán frá Hvítadal. Lögrétta XIV, 11.tbl.,12. 3. 1919 .



Guðmundur Hagalín: Íslensk ljóðlist 1874-1918. II. Almanak Þjóðvina­fé­lags­ins 1952, bls. 88-116.



Guðmundur Hjaltason: Ritdómur: Matthías Jochumsson: Ljóðmæli. Reykjavík 1884, Norðanfari, 23.árgangur, 1884, bls. 89-91.



Guðni Elíasson: Líf er að vaka en ekki að dreyma. Skírnir 1987, bls. 59-87.



Guðrún Bjartmars og Ragnhildur Richter: Inngangur. (bls. 11-98 í Hulda: Ljóð og laust mál.



Guðrún Nordal: Hulduljóð. Sagnaþing…Jónasi Kristjánssyni, bls. 277-287.



Gunnar Stefánsson: Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi. B.A. ritgerð við H.Í. 1970.



Haley, Michael Cabot: The Semeiosis of Poetic Metaphor. Bloomington 1988.



Hallberg, Peter: Diktens bildspråk. Teori-Metodik-Historik. Stockholm 1982, 625 bls.



HH [Hallbjörn Halldórsson?]: Ritdómur: Kaldavermsl Smára. Alþýðublaðið 17. 5. 1920.



Halldór Halldórsson: Íslenskt orðtakasafn I-II. Rvík 1968-9.



Halldór Laxness: Kvæðakver. 5. útgáfa aukin, Rvík 1992.



Halldór Laxness: Salka Valka. 3. útgáfa. Rvík 1959.



Halldór Laxness: Smákvæði það. bls. ix-xiii í Jónas Hallgrímsson : Kvæði og sögur. Rvík 1957 og síðar.



Halldór Laxness: Tíska og menning. (1925) Af menningarástandi, Rvík 1986, bls. 89-95.



Halldór Laxness: Stefán frá Hvítadal. Iðunn 1934, bls. 1-16.



Hannes Hafstein: Um Jónas Hallgrímsson. J.H. Ljóðmæli og önnur rit, 1883, bls. vii-xlvi.



Hannes Hafstein: Hnignun íslensks skáldskapar. Fjallkonan (18.1. 1888), bls. 6-7.



Hannes Pétursson: Nýrómantíkin (formáli, bls.v-l) í Fjögur ljóðskáld.



Hannes Pétursson: Hvalbrot. Lesbók Mbl. 29.8. 1992.



Hannes Pétursson: Kvæðafylgsni. Um skáldskap eftir Jónas Hallgrímsson Reykjavík 1979.



Hannes Pétursson: Sjöföld en þó samein stjarna. TMM 1982, bls. 515-521.



Hannes Pétursson: Steingrímur Thorsteinsson. Reykjavík 1964.



Hannes Þorsteinsson: Ritdómur: Kvæði og sögur Einars Benediktssonar. Þjóðólfur,15.4.1898.



Hansen, Hans Lauge: Poetisk metafor som ikonicitet hos Charles Sanders Peirce. (bls. 121-138 í)‎ Metaforer i kultur og samfund.



Haraldur Blöndal: Öll skáld eiga sér hollvini. Mbl. 24.7. 1992.



Haukur Hannesson: Hæpnar röksemdir. Mbl. 8.7.1992.



Haukur Hannesson og Páll Valsson: Ritverk Jónasar Hallgrímssonar. Mbl. 30.7. 1992.



Arnold Hauser: Sozialgeschichte der Kunst und Literatur. München (1953) 1983.



Helga Kress: Kvennabókmenntir, bls. 22-28 í: Íslenskar kvennarann­sóknir, Rvík 1985.



Helgi Hálfdanarson: Örlítið um Hulduljóð. Lesbók Morgunblaðsins 27. 6. 1992.



Helgi Hálfdanarson: Kveðja til Hauks Hannessonar. Mbl. 14.7.1992



Helgi Hálfdanarson: Orðreki. Mbl 1. sept. 1992.



Helgi Hálfdanarson: Enn er það hvalur. Mbl 1.okt. 1992.



Hervarar saga og Heiðreks. Fornaldarsögur Norðurlanda II, bls.1-71 Akureyri 1954.



Hjálmar Jónsson frá Bólu: Ritsafn I-VI. Rvík 1949-60.



Hugtök og heiti í bókmenntafræði. Jakob Benediktsson ritstýrði. Rvík 1983.



Hulda: Ljóð og laust mál. Úrval. Guðrún Bjartmars­dóttir valdi efnið. Inngangur eftir Guðrúnu Bjartmarsdóttur og Ragnhildi Richter. Rvík 1990.



Hulda: Kvæði. Reykjavík 1909.



Hulda: Segðu mér að sunnan. Reykjavík 1920.



Hulda: Myndir. Akureyri 1924.



Íslands þúsund ár. Reykjavík 1947.



Íslensk bókmenntasaga III. Rvík 1996.



Íslensk orðtíðnibók. Rvík 1991.



ÍGSVÞ:Íslenskar gátur skemmtanir vikivakar og þulur I-IV. Ólafur Davíðsson annaðist. Khöfn 1887-1903.



Íslenskar þjóðsögur og ævintýri. I-VI. Safnað hefur Jón Árnason. Rvík 1954-61.



Íslenskt ljóðasafn 2 & 3. Reykjavík 1974-5.



Íslenskt skáldatal. I-II. Hannes Pétursson og Helgi Sæmundsson. Rvík 1973-6.



JB ritdómur: Svartar fjaðrir DSt í Nýjar kvöldvökur XIV, 92-4.



Jakob Benediktsson: Nokkur lýsingarorð hjá Jónasi Hallgrímssyni (bls. 112-123 í) í Lærdómslistir. Afmælisrit 20. júlí 1987. Rvík (áður pr. í Til Kristins E. Andréssonar, Rvík 1961.



Jakob Smári: Kaldavermsl. Kvæði 2. útgáfa. Rvík 1960.



Jakob Smári: Ritdómur: Söngvar förumannsins e. Stefán frá Hvítadal. Skírnir 1919, bls. 196 o.áfr.



Jakob Smári: “Ritdómur: Ljóð Sigurðar Sigurðssonar. Vísir 18.8.1924.



Jakob Smári: Hugleiðingar um skáldskap. Eimreiðin 1925. Ofar dagsins önn, bls. 48-63.



Jakob Smári: Hvernig ferðu að yrkja, Eimreiðin 1924.



Jakob Smári: Ritdómur: Ljóðmæli Sigurjóns Friðjónssonar. Tíminn, 20.7.1929.



Jakob Smári: Ofar dagsins önn, Rvík 1958.



Robert Jouanny: The Background of French Symbolism (bls. 67-83 í) The symbolist Move­ment in the Literature of european Languages.



Jóhann Gunnar Ólafsson: Formáli (bls. 7-25) í Sigurður Sigurðsson: Ljóðmæli.



Jóhann Gunnar Sigurðsson: Kvæði og sögur. 2. útg. Rvík 1943. (textinn er í þessu riti mínu leiðréttur eftir ábendingum Benedikts Bjarnasonar (Lögréttu ?/? 1909) og Sigurðar Nordal. (Ingólfi 21.10. 1909) og Helgafelli 1943 (bls. 450-452).



Jóhann Sigurjónsson: Rit I-II. Rvík 1940-42.



Jóhann Sigurjónsson: Ritsafn I-III.Rvík 1980.



Jóhann Sigurjónsson: Ljóðabók. Kópavogi 1994.



Jón Björnsson: Bókafregn. [um Svartar fjaðrir D.St.] Vísir 12. 1. 1920.



[Jón Björnsson:] JB: ritdómur um Segðu mér að sunnan e. Huldu Mbl. 4.6.1920.



Jón Helgason: Formáli og Æviágrip Bjarni Thorarensen: Ljóðmæli I, bls. v-lxi. og Athugasemdir við fyrra bindi. BT Ljóðmæli II.



Jón Viðar Jónsson: Kaktusblómið og nóttin. Um ævi og skáldskap Jóhanns Sigurjónssonar. Rvík 2004.



Jón Magnússon: Píslarsaga ...Rvík 2001.



[Jón Magnússon] JM: Ritdómur: Ljóðmæli Sigurjóns Friðjónssonar. Eim­reið­in 1929, bls. 193-6.



Jón Norland: ritdómur: Tómas Guðmundsson: Fagra veröld. Eimreiðin 1935, bls. 123-4.



Jón Ólafsson: ritdómur: Ragnarökkur [...]Benedikt Gröndal. Baldur, 1. ár, bls. 35.



Jón Ólafsson: Svar til herra Gröndals. Baldur 1. ár, bls. 55-6.



Jón Ólafsson: ritdómur: Ljóðmæli eptir Grím Thomsen. Rvík 1880. Skuld, IV. árgangur, 12/3 og 21/3 1881, dálkar 334-339&350-354.



Jón Ólafsson: ritdómur: Matthías Jochumsson: Ljóðmæli, Rvík 1884, Þjóðólfur 36. árgangur, 1884, bls. 151-2.



Jón Ólafsson: Íslenzkar ljóðabækur. Þjóðólfur, 39. árgangur, bls. 193 [umsögn Poestion um Ljóðmæli Matthíasar 1884].



Jón Ólafsson: ritdómur: Kvæði og sögur Einars Benediktssonar. Nýja öldin 23.4.1898.



Jón Stefánsson: ritdómur: Tvístirnið e. JG og SS. Eimreiðin (1906, bls. 231.



J.Th. [Jón Thoroddsen?]: ritdómur um Ljóð Sigurðar Sigurðssonar Lögrétta VII, 239.



Jón Thoroddsen: Flugur, Rvík 1922.



Jónas Guðlaugsson: Vorblóm. Rvík 1905.



Jónas Guðlaugsson: Dagsbrún. Rvík 1909.



Jónas Guðlaugsson: Ritdómur um Þyrna Þorsteins Erlings­sonar” Ísafold xxxii, bls. 259.



Jónas Guðlaugsson: Ritdómur: Kvæði Huldu. Lögrétta 20.10.1909.



Jónas Hallgrímsson: Ljóðmæli og önnur rit Kaupmannahöfn 1883.



Jónas Hallgrímsson: Rit I-V. Rvík 1929-37.



Jónas Hallgrímsson : Kvæði og sögur. Rvík 1957 og síðar.



Jónas Helgason: Söngvar og kvæði með fjórum röddum [...] I. Rvík 1875.



Jónas Helgason: Söngvar og kvæði með tveimur og þremur röddum. I, Rvík 1877; II Rvík 1878; III, Rvík 1878; IV, Rv íkl 1879; V, Rvík 1881; VI, Rvík 1888.



JJ (Jónas Jónasson frá Hrafnagili): Ritdómur: Ljóðmæli eptir Steingrím Thorsteinsson [...]Norðanfari, 21. árg., bls. 23



Jónas Jónasson frá Hrafnagili; Yfirlit yfir bókmenntir Íslendinga á 19. öld. Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags (II, 164-200), 1881.



Jónas Jónasson frá Hrafnagili [JJ]: Bókmenntir. [um Kvæði og sögur Jóhanns Gunnars] Nýjar kvöldvökur III,1908, bls. 239-40).



Jónas Jónasson frá Hrafnagili [JJ]: Bókmenntir. [um Kvæði Huldu og Dagsbrún JG] Nýjar kvöldvökur IV,1909, bls. 43-6).



Jónas Jónsson: Tvö skáld (Tíminn 24. 12. 1919.



Jónas Jónsson: Ritdómur: Svartar fjaðrir DSt. Tíminn, 7.2. & 21.2.1920 (frh. var boðað, en finnst ekki!). Endurpr. í Fegurð lífsins, Rík 1940, bls. 223-9.



Bo Hakon Jørgensen: Symbolismen -eller jegets orfiske forklaring. Odense 1993.



[Karl Finnbogason] KF: Ritdómur: Kvæði Huldu. Norður­land 16.10.1909.



Claes Kastholm Hansen: Den kontrollerede virkelighed. Kbh. 1976



Atle Kittang: Discours et jeu. Essai d’analyse des textes d’Arthur Rimbaud. Bergen o.v. 1975.



Vilhelm Krag: Digte. Bergen 1891.



Kristinn E. Andrésson: Ræða [við upphaf Félags byltingarsinn­aðra rithöfunda 1933] TMM 1986, bls. 201-10.



Kristinn E. Andrésson: Einar Benediktsson sjötugur. [1934] Um íslenskar bókmenntir I (bls. 45-58) Rvík 1976.



Kristinn E. Andrésson: Útsær Einars Benediktssonar. [1935] Um íslenskar bókmenntir I (bls. 95-111) Rvík 1976.



Kristinn E. Andrésson: Íslenskar bókmenntir 1918-1948. Rvík 1949.



Kristján Albertsson: ritdómur:Tómas Guðmundsson: Fagra veröld. Mbl, 17. 12. 1933.



Kristján Árnason: Sæunn hafkona. TMM 1990/4, bls. 37-43.



Kristján Jóhann Jónsson: Kall tímans. Um rannsóknir Gríms Thomsen á frönskum og enskum bókmenntum. Studia islandica 58, Rvík 2004.



Kristján Karlsson: Inngangur. Bls. vii-xlv í Tómas Guðmundsson: Ljóðasafn



Kristján Karlsson: [Inngangur]. bls. v-xxiv í: Stefán frá Hvítadal: Ljóðmæli.



Lakoff, George and Mark Turner: More than Cool Reason. A Field Guide to Poetic Metaphor. Chicago 1989.



Lautréamont, comte de: Les chants du Maldoror, suivis de Lettres, Poésies I &II. Paris 1977.



Lexicon Poeticum...Ordbog over det norsk-islandske skjaldesprog. 2. udgave. Kbh. 1931.



Arthur O. Lovejoy: On the discrimination of Romanticisms. PMLA (Publications of the Modern Language Association) 1924, bls. 229-252.



Arthur O. Lovejoy: Romanticism and the Principle of Plenitude (bls. 288-314 í):.The great Chain of Being. New York 1936,



James Macpherson: The poems of Ossian and related works / James Macpherson ; with an introduction by Fiona Stafford ; edited by Howard Gaskill Edinbugh 2002.



[Magnús Ásgeirsson?] MA: ritdómur um Fagra veröld TG Alþýðublaðið 24. 12. 1933.



Magnús Grímsson: Úrvalsrit. Rvík 1926.



Magnús Jónsson: Ritdómur: Dagsbrún JG. 18. l1. 1909, Ingólfur VII, 43. bl.



Magnús Jónsson: Ritdómur: Söngvar förumannsins e. Stefán frá Hvítadal. Eimreið­in 1919, bls. 126



Magnús Jónsson: Ritdómur: Ljóð Sigurðar Sigurðssonar. Iðunn IX, 1924, bls. 80.



Magnús Jónsson: Ritdómur: Svartar fjaðrir DSt. Eimreiðin XXVI, bls. 125-7.



Magnús Jónsson: Ritdómur: Kaldavermsl Smára. Eimreiðin XXVI, 371-2.



[Magnús Jónsson] MJ: ritdómur um Segðu mér að sunnan e. Huldu Eimreiðin 1920, bls. 376.



Matthías Jochumsson:Bréf M.J. Rvík 1935.



Matthías Jochumsson: Leiðrjetting við Ljóðmæli Matth. Jochummsonar Ísafold 1887, bls. 20



Matthías Jochumsson: Ljóðmæli. Reykjavík 1884.



Matthías Jochumsson: Ljóðmæli I-V. Seyðisfirði 1902-6



Matthías Jochumsson: Ljóðmæli. Reykjavík 1936.



Matthías Jochumsson: Ritdómur: Smámunir Símonar Dalaskálds. Þjóðólfur, 26. árgangur, bls. 111.



Matthías Jochumsson: Ritdómur: Kvæði Huldu. Norðri 23. 9.1909.



Matthías Jochumsson: Ritdómur: Söngvar förumannsins e. Stefán frá Hvítadal. Ísafold, XLVI, 12.tbl.



Matthías Jochumsson: Ritdómur: Svartar fjaðrir DSt. Lögrétta XV, 52, 9. 6. 1920.



Matthías V. Sæmundsson: Jóhann Sigurjónsson og módernisminn TMM 1979, bls. 322-337.



Metaforer. Kultur og kognition.1.-2. Kbh. 1997.



Metaphor and thought. Edited by Andrew Ortony. Cambridge...1979.



Miller, George A.: Images and Models, Similes and Metaphors (bls. 202-250 í Metaphor and thought.



Ellen Moers: Literary women. London [1963] 1978.



Jørgen Erik Nielsen: Den samtidige engelske litteratur og Danmark. I-II. Kbh. 1976.



Njáls saga. Íslensk fornrit XII. Rvík 1954.



Njörður Njarðvík: Ljóðrýni Lesbók Mbl. 24.5.1997.



Novalis: Hymnen an die Nacht, 1797. Kbh, 1983.



Sigbjørn Obstfelder: Skrifter I-II. Kristiania 1917.



Sigbjørn Obstfelder: En præsts dagbog. København 1900.



OHÍ: Orðabók Háskóla Íslands. Seðlasafn, óprentað en að miklu leyti aðgengilegt á heimasíðunni. www.lexis.hi.is



Ivar Orgland: I: Stefán frá Hvítadal. Maðurinn og skáldið. Baldur Jónsson og Jóhanna Jóhannsdóttir þýddu. Rvík 1962 (272 bls.).



Ivar Orgland: II: Stefán frá Hvítadal og Noreg. Oslo 1969.



Ólafur Briem: Skáldið Davíð Stefánsson bls. 7-56 í : Davíð Stefánsson: Ljóð. Úrval. Rvík, 1977.



Ónefndur (”3+3+3” Björn Jónsson var ritstjóri): Ritdómur um Smámuni III eftir Símon Dalaskáld. Norðanfari 13. árgangur, 1874, bls. 31.



Ónefndur (Björn Jónsson var ritstjóri): Ritdómur: Svanhvít. Ísafold (1877, bls. 70.



Ónefndur (Sveinn Skúlason var ritstjóri): Bókafregn. Kvæði I, Benedikt Gröndal, Rvík 1856. Norðri 4. árgangur, 1856, bls. 52-3.



Ónefndur (Björn Jónsson var ritstjóri): Ritdómur: Manfreð” og nokkur kvæði eptir Byron lávarð. Matthías Jochumsson þýddi. Ísafold, 2. árgangur, 1875, dálkar 211-214&217-218.



Ónefndur: Ritdómur: Gleðileikirnir á gildaskálanum. Þjóðólfur, 14.árgangur, bls. 51-2. 1862.



Ónefndur: dánarfregn Jóhanns Gunnars Ingólfur 27.5.1906.



Ónefndur: ritdómur um Hafblik EB. Ísafold 27.10. 1906.



Ónefndur: ritdómur um Hafblik EB. Fjallkonan 31.10. 1906.



Ónefndur: (Hannes Þorsteinsson var ritstjóri): Ritdómur um Hafblik E.B. Þjóð­ólfur 9. 11. 1906.



Ónefndur (Hannes Þorsteinsson var ritstjóri): Ritdómur: Tvístirni JG. og SS. Þjóðólfur, 8. 3. 1906.



Ónefndur (sr. Stefán Björnsson var ritstjóri): Ritdómur um Hafblik E.B. Lögberg , 18.4.1907.



Ónefndur (Þorsteinn Gíslason var ritstjóri): Sandsbræður Óðinn III. árg, bls. 40, 1907:



Ónefndur: ritdómur um Kvæði og sögur Jóhanns Gunnars Norðurland 9.10.1909.



Ónefndur: (Hannes Þorsteinsson var ritstjóri): Ritdómur: Dagsbrún JG. Þjóðólfur, 22.10. 1909



Ónefndur: (Hannes Þorsteinsson var ritstjóri): Ritdómur: Kvæði Huldu. Þjóðólfur 6.10.1909.



Ónefndur: ritdómur um Ljóð Sigurðar Sigurðssonar Lögberg 25.7.1918;



Ónefndur: ritdómur um Svartar fjaðrir DSt. Tíminn 1920, 7. 2. & 21.2.



Óskar Halldórsson: Bragur og ljóðstíll. Rvík 1972.



Páll Bjarnason: Ástakveðskapur Bjarna Thorarensen og Jónasar Hallgrímssonar. Studia Islandica 28. Rvík 1969.



Páll Valsson: Jónas Hallgrímsson. Ævisaga. Reykjavík 1999.



Parcevalssaga. Riddarasögur IV, bls. 195-285. Akureyri 1954.



Pearce, Charles Sanders: Collected Papers of, Volume II, Cambridge 1932.



Gina Pischel: Listasaga Fjölva I, Rvík 1975.



?Poestion: um Matthías, Þjóðólfur 19. árgangur 1887, bls.??



Mario Praz: The Romantic Agony. London 1970.



Christian Refsum: Diktets sannhet. En lesning af Sigbjørn Obstfelders prosadikt með hovedvekt på metapoetiske trekk. Magistergradsavhandling i allmenn litteraturvitenskap ... Universitetet i Oslo, 1992.



Christian Refsum: Plan om undersøkelse af tidskriftet Taarnet. Ljósrit, Osló1993.



Ragnhildur Richter: Kvenmynd Svartra fjaðra eftir Davíð Stefánsson. Mímir 1983, bls. 23-39.



Ragnhildur Richter: Ljóðafugl lítinn jeg geymi - hann langar að fljúga. Athugun á stöðu skáldkonu gagnvart bókmenntahefð. TMM 1985, bls. 314-334.



S: Ritdómur: Kaldavermsl Smára. Lögrétta, XV, 22, 2. 6. 1920.



Sagnaþing helgað Jónasi Kristjánssyni sjötugum, 10.4.1994. Rvík



Sagnir um hvarf séra Odds á Miklabæ I-III. Blanda. Fróðleikur gamall og nýr. Sögurit XVII. IV. bindi (bls. 64-72). Rvík 1928-31.



Sendibréf frá íslenskum konum 1784-1900, Rvík 1952.



Shakespeare, William: Hamlet. Leikrit 3. bindi. Helgi Hálfdanarson þýddi. Rvík 1984



Sigríður Albertsdóttir: Náttúran er alltaf heiðin. Cand. mag ritgerð við H.Í. 1996.



Sigríður Albertsdóttir: Ég verð konungur djöflanna. Skírnir 1996, bls. 303-323.



sigurður Breiðfjörð: Ljóðasafn I-III. Reykjavík 1951-62.



Sigurður Einarsson: Nesjamennska. Iðunn 1932. Endurpr. í Líðandi stund, Rvík 1938, bls. 83-105.



Sigurður A. Magnússon: Á sextugsafmæli Tómasar Guðmundssonar. Sáð í vindinn, bls. 13-23., Rvík 1968.



Sigurður Nordal: Um Kvæði og sögur Jóhanns Gunnars Ingólfur 21.10.1909



Sigurður Nordal: Grímur Thomsen. Erindi flutt [...] 15. Maí 1920, (í Grímur Thomsen:Ljóðmæli, Rvík 1969, bls. 11-39.



Sigurður Nordal: Minningarorð [...um Davíð Stefánsson] 8.3. 1964. Skáldið frá Fagraskógi, bls. 129-133, endurpr. í Ritverk, Mannlýsingar III, bls. 232-43.



Sigurður Nordal: Samhengið í íslenskum bókmenntum. Ritverk, Samhengi og samtíð I (bls. 15-38), Rvík 1986 (áður pr. í Íslenskri lestrarbók, Rvík 1924.



Sigurður Nordal: Theodora Thoroddsen. Formáli Ritsafns hennar. Endurpr. í Ritverk. Mannlýsingar II, bls. 295-327.



Sigurður Nordal: Ritverk 12 bindi, Rvík 1986-96.



Sigurður Sigurðsson frá Arnarholti: Ljóðmæli. Rvík 1978.



Sigurður Sigurðsson: Ritdómur: Íslandsvísur eftir Guðm. Magnússon. Óðinn 1905 (I, bls. 46)



Sigurður Sigurðsson: Ritdómur um Dagsbrún Jónasar Guðlaugssonar. Ísafold XXXVI, 306.



Sigurður Sigurðsson: Ritdómur um Söngva förumannsins eftir Stefán frá Hvítadal. Ísafold 29.3.1919.



Sigurður Sigurðsson: Ritdómur um Ljóðmæli eftir Hannes Hafstein. Ísafold, 16.12.1916



Sigurjón Friðjónsson: Ljóðmæli. Rvík 1928.



Sigurjón Friðjónsson: Hið nýja skáldakyn. Norðri, 3.8. 1906.



Sigurjón Friðjónsson: ritdómur um Hafblik EB. Norðri 8. 3. 1907.



Sigurjón Friðjónsson: Nokkur orð um skáldskap. Stígandi 1943, bls. 103-109(?).



Símon Dalaskáld: [titillaust svar] Norðanfari 13. árgangur, 1874, bls. 74.



Sigurjón Friðjónsson: Ritdómur um Hafblik E.B. Norðri, 5.12. 1908.



Leif Sjöberg & N.L. Jensen: Symbolism in Denmark. (bls. 587-593 í) The symbolist Move­ment in the Literature of european Languages.



Skáldið í Fagraskógi, Rvík 1964.



Snorri Sturluson: Edda. Rvík 1907.



Sonur gullsmiðsins á Bessastöðum : Bréf til Grims Thomsens og varðandi hann 1838-1858 ; Finnur Sigmundsson bjó til prentunar. Rvík 1947.



Caroline Spurgeon: Shakespeare’s Imagery and what it tells us. Cambridge 1971, 483 bls.



Stefán Einarsson: Íslensk bókmenntasaga. Rvík 1961.



Stefán frá Hvítadal: Ljóðmæli. Rvík 1970.



Stefán frá Hvítadal: Bautasteinar. Lögrétta XX, 49. 24.11. 1925.



Stefán Snævarr: Ástarspekt. Rvík 2004, 337 bls.



Steingrímur Thorsteinsson: Ljóðmæli. Reykjavík 1881.



Steingrímur Thorsteinsson: Ljóðmæli. 3. útgáfa aukin. Reykjavík 1910.



Steingrímur J. Þorsteinsson: Íslenskar Biblíuþýðingar Víðförli, IV. árgangur, 1950, bls. 3-40.



Steingrímur J. Þorsteinsson: Einar Benediktsson og skáld­skap­ur hans. Helgafell 1965, 4. hefti.



Steingrímur J. Þorsteinsson: Æviágrip Einars Benediktssonar. í EB: Laust mál II, 1952, bls. 525-763.



Steinn Steinarr: Ljóðasafn. Rvík 1991.



Stella nova (Lbs. 33614o).



Stúlka. Ljóð eftir íslenskar konur. Helga Kress sá um útgáfuna. Reykjavík 1997.



Svava. Ýmisleg kvæði eftir Benedikt Gröndal, Gísla Brynjúlfsson, Steingrím Thorsteinsson. Khöfn 1860.



Sveinn Yngvi Egilsson: Arfur og umbylting. Reykjavík 1999.



Sveinn Skorri Höskuldsson: Gestur Pálsson. Ævi og verk I-II. Rvík 1965.



Sveinn Skorri Höskuldsson: Perlan og blómið Skírni r1979, bls. 108-166.



Sveinn Skorri Höskuldsson: Söngvari lífsfögnuðarins. TMM, 1995, 2.h., bls. 36-53.



Sveinn Jónsson: Sveinn Framtíðarskáld, Reykjavík 1971.



Sveinn Sigurðsson: ritdómur um Tómas Guðmundsson: Við sundin blá. Eimreiðin 1925, bls. 191.



The symbolist Move­ment in the Literature of european Languages, Akadémiai Kiadó, Budapest 1984 (732 bls.).



Theodóra Thoroddsen: Ritsafn, Reykjavík1960.



Théma Encyclopédie, Arts et culture. Larousse, Paris 1997.



Tómas Guðmundsson: Ljóðasafn Rvík 1976.



Tvístirnið. Rvík 1906.



Úrsin: Stjörnufræði. Í Jónas Hallgrímsson: Ritverk III bls. 311-482.



Henrik Ussing, Nútíðarbókmenntir Dana. Eimreiðin IV, 1898, bls. 161-224.



Vajda, György M.: The Structure of the Symbolist Movement. (bls. 29-41 í) The symbolist Move­ment in the Literature of european Languages.



Valtýr Guðmundsson: Ritdómur: Dagsbrún JG. Eimreiðin (1910, bls. 226).



Valtýr Guðmundsson: Ritdómur: Kvæði Huldu. Eimreiðin 1910, bls. 64-5.



”Vestfirðingr”: Ritdómur: Smámunir II eftir Símon Dalaskáld. Þjóðólfur, 26. árgangur, bls. 122 & 128-9.



Viðeyjarbiblía: Biblía ... Viðeyjar Klaustri 1841.



Vilhjálmur Jónsson Yngstu skáld Dana. Eimreiðin I, 1895, bls. 140-141.



Wellek, René: Concepts of Criticism. New Haven 1965.



Wellek, René: The Concept of Romanticism in Literary history. Concepts, bl.s 128-198.



Wellek, René: Romanticism reexamined. Concepts, bls. 199-221.



Wellek, René: The Concept of Realism in Literary Scholarship. Concepts, bls. 222-255.



Wellek, René and Austin Warren: Theory of Literature, 1949 og oft síðar, hér er notuð Penguin-útgáfan, London 1963.



René Wellek: What is Symbolism? (bls. 17-28 í) The symbolist Move­ment in the Literature of european Languages.



Walt Whitman: Leaves of grass New York 2002.



Wordsworth, William: Preface to Lyrical ballads. (1800) í:The prose works of ... I. Oxford 1974, bls. 118-158 (prentað samhliða seinni gerð formálans, frá 1850).



Wordsworth, William: The poetical works of ... London 1911.



Henning Wærp: Natur og landskap hos Andreas Munch, Wilhelm Krag og Hans Børli. Universitetet i Oslo, 1996.



“Þingeyingur”: Bókarfregn. um Ljóðmæli Sigurjóns Friðjónssonar. Vísir 8.11. 1928



Þjóðskáldin. Úrval úr bókmenntum 19. aldar. Guðmundur Andri Thorsson valdi. Rvík 1992.



Þórbergur Þórðarson: Edda. 2.útgáfa aukin, Rvík 1975.



Þórbergur Þórðarson: Íslenskur aðall. Þriðja prentun. Reykjavík 1971.



Þórbergur Þórðarson: Ofvitinn. 4. pr. Rvík 1975



Þórir Óskarsson: Undarleg tákn á tímans bárum. Ljóð og fagurfræði Benedikts Gröndals. Studia islandica 45. Rvík 1987.



Þorkell undir Fjalli: Ritdómur um Söngva förumannsins eftir Stefán frá Hvítadal. Tíminn,12.2.1919.



Þorleifur Hauksson: Endurteknar myndir í kveðskap Bjarna Thorar­ensen. Studia Islandica 27. Rvík, 1968.



Þorleifur Hauksson: Inngangur (bls. 9-38 í): Bjarni Thorarensen: Ljóðmæli. Úrval. Rvík 1976.



Þorsteinn Erlingsson: Annar pistill til Þjóðviljans. Þjóðviljinn 15.6.1905.



Þorsteinn Erlingsson: Ritdómur: “Kvæði Huldu”. Fjallkonan 29. 6. 1910.



Þorsteinn Gíslason: Ljóðmæli Reykjavík 1920.



Þorsteinn Gíslason: Ritdómur: Kvæði og sögur Einars Benediktssonar. Ísland, 18.4.1898.



[Þorsteinn Gíslason] t: Ritdómur um Vorblóm Jónasar Guðlaugssonar í Óðni I, 32.



[Þorsteinn Gíslason] t: Ritdómur um Dagsbrún Jónasar Guðlaugssonar. Óðinn V, bls. 62.



Þorsteinn Gylfason: Að hugsa á íslensku. Rvík 1996.



Þorsteinn Þorsteinsson: Þankabrot um ljóðbyltingar. Són, 3. hefti, 2005, bls. 87-138.



Þúsund og ein nótt. Arabískar sögur.1.-3. 6.útg. Rvík 1993.



Örn Ólafsson: Rauðu pennarnir. Rvík 1990.



Örn Ólafsson: Kóralforspil hafsins. Rvík 1992.



Örn Ólafsson: Uppsprettur Tímans og vatnsins. Andvari 2005, bls 119-154.

















[1] Mannlýsingar III, 240.





[2] T.d. Gaman og alvara Gröndals, Glámur Matthíasar, Skúli fógeti og Skúlaskeið Gríms





[3]Hér er auðvitað ekki rúm til að rekja það, ég vísa til umfjöllunar Hugo Friedrich og Atle Kittang í heimildaskrá.





[4]Þetta verður að birta á frummálinu (bls. 107): "The characteristically high proportion of artists in Iceland gave rise to Bohemian colonies in Reykjavík and Akureyri, even in smaller villages."





[5] "Er ikke musiken den kunst, der fandt frem netop af vore hjerter, de menneskers, der levede på vor jord i disse århundreder, - dampens og jernbanernes, men også harmonilærens! Sammen med det nye verdenspanorama kom den. Den fødtes sammen med Kopernikus.



Kunsten i sten var de gamles kunst. Kunsten på hoppende buer, på dirrende strenge, på dansende luftbølger er vor. Vi søger ikke den skjønne hvile, den fæstnede linje. Linjen før den er fæstnet, det, der fødte ordet og formen, søger vi, forandringen, der er evigere end stoffet. Selv i stenen, i skulpturen, i buer og hvælv føler vi det rindende.“[bls. 152]: „Er ikke alle ord, alle tanker, alle regnestykker som støv mod dette: at skabe liv - i skjønhed?“





[6] L'étranger



"Qui aimes-tu le mieux, homme énigmatique, dis? ton père, ta mère, ta sœur ou ton frère?



- Je n'ai ni père, ni mère, ni sœur ni frère.



- Tes amis?



- Vous vous servez là d'une parole dont le sens m'est resté jusqu'à ce jour inconnu.



- Ta patrie?



- J'ignore sous quelle latitude elle est située.



- La beauté?



- Je l'aimerais volontiers, déesse et immortelle.



- L'or?



- Je le hais comme vous haissez Dieu.



- Eh! qu'aimes-tu donc, extraordinaire étranger?



- J'aime les nuages... les nuages qui passent... là bas... là bas... les merveilleux nuages!" (Baudelaire: Oeuvres complètes, bls. 277)





[7] Í áætlun um rannsókn á tímaritinu Taarnet (1993), bls. 7.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar