tirsdag den 14. juni 2011

Seiðblátt hafið 5



6. 7. Einar Benediktsson (1864-1941)



Fyrsta bók Einars birtist 1897, Sögur og kvæði. Sögurnar voru fjórar og tóku yfir þrjá fimmtu hluta textamagnsins. Kvæðin voru tuttugu og fimm, þar af fimm þýðingar. Fyrstu átta ljóðin eru mestmegnis hvatn­ing­ar til þjóð­ar­innar um að hefj­ast handa - við verk­legar framkvæmdir, til að sýna þjóð­ar­stolt og heimta stjórn­málafrelsi. Einsog áður var nefnt voru þetta algeng kvæðaefni á þeirri tíð, og raunar yrkir Einar áfram mál­efnaleg kvæði, einnig eftir þessa fyrstu bók. Elst tímasett er Kvæði til Þing­valla­fund­arins 1888. Í þessum kvæð­um er orða­lag mest­megn­­is nálægt dag­legu tali, lítið er um fornyrði. Það væri at­hug­­un­ar­efni út af fyrir sig að bera þessi kvæði sam­an við áþekk kvæði frá sama tíma eftir t.d. Hannes Hafstein, Jón Ólafsson og Þorstein Erl­ings­son. En það varðar ekki þessa könnun, og hér er heldur ekki ætlunin að gefa neitt yf­ir­lit um kvæði Einars, ekki einu sinni um kvæð­in í þess­ari fyrstu bók hans, held­ur ein­ung­is að líta á þau sem eru sambærileg­ust við kvæði ann­ara skálda sem fjall­að er um hér. Það eru einkum kvæði þar sem mik­ið ber á náttúru­myndum. Skúta­hraun kemur þó ekki til álita, því mér virð­ist það fyrst og fremst vera umfjöllun mál­efna, þjóðlífs­ádeila, þótt gengið sé út frá lýs­ingu hraun­dranga. Hér verð­ur fjallað um kvæð­in: Hvarf síra Odds frá Miklabæ, sem birtist fyrst 1891 (í Sunnanfara í sept.), Undir stjörn­um, sem birtist í nóv. 1894, og Norðurljós sem birtist haust­ið 1896 (í Dagskrá og í Sunnanfara í okt.). Ennfremur um áþekkt prósa­ljóð sem ég sé í miðhluta greinar eftir Einar (frá 1896), þá um Skýjafar, sem birtist fyrst í Hafblik, 1906, og loks um Útsæ frá 1916.



Almennt má segja um þessi kvæði, að það kemur sjálfsagt fáum á óvart í orðavali, að Einar var einn af vormönnum Íslands, það tengist stjórnmálaáhuga hans og þjóðernisstefnu, en hún kemur þar að auki beinlínis fram í fjórðungi ljóðanna, raunar í tveimur fimmtu ljóða fyrstu bókar. Ámóta áberandi er áhersla á samstöðu (en ekki einfara), og á aðlaðandi náttúru frekar en hrikalega (sú kemur fram í fimmtungi fyrstu bókar, en rúmum þriðjungi annarrar). Hinsvegar er kvöld ívið meira áberandi (tæplega þriðjungur en morgunn (fimmtungur dæma) og þar minnir Einar meira á hina nýju stefnu en á þjóðernisrómantíkina. Munurinn er þó svo lítill, að vart er orð á gerandi, og í þessum atriðum getur hann ekki talist boðberi nýrra tíma. Það er frekar í einstökum kvæðum (sem fjallað var um sum hér að framan), enda yrkir hann töluvert af rímuðum ræðum og greinum, eftirmælum o.fl. þ.h. Það síðasttalda skýrir flestar tilvísanir til guðs (alls 12 kvæði af 77)



Einar Benediktsson hefur tvöfalt fleiri líkingar en persónu­gerv­ingar. Í hvoru tveggja ber mest á himni, sól, tungli, stjörnum og vindum, það er þriðjungur hvors. Fimmt­ungur likinga og tíundi hluti persónu­gerv­inga er um hug, tilfinningar, lífið, heiminn, tímann og ámóta sér­tekningar. Fjórðungur persónugervinga og tíundi hluti líkinga er um fjöll, kletta, grund, gljúfur. Fimmtungur persónu­gerv­inga er um haf, öldur og fljót, en það er mun sjaldnar í líkingum (fjórtánda hver). Eins og áður segir líkir hann, sem önnur skáld, oftast (tveir fimmtu) við manngerða hluti, svo sem við sviðstjöld og önnur klæði, einnig við kirkju og höll, skart, drykki og hljóðfæri. Fjórð­ung­ur líkinga er við haf, öldur, brim o.þ.u.l., tíundi við lífverur (eink­um fugla og hesta), og annar tíundi við gróður. Stærsti hluti persónu­gervinga (fimmtungur) er um atlot, fjórðungur þeirra er móður­leg­ur, en hitt yfirleitt lostafengið, sem áður segir. Það er yfirleitt bjart yfir persónu­gervingum hans, lítið um grát og kveinan, en meira um svefn (5 dæmi).





Hvarf síra Odds frá Miklabæ


Þetta kvæði hefur lengi verið talið fyrsta kvæði Einars, “þótt ótrúlegt megi virðast” sagði Guðmundur Finnbogason (1905, bls. 342). En Steingrímur J. Þorsteinsson hrakti þá kenningu í útvarps­er­indi á ald­arafmæli Einars[1]. Kvæðið byggist á draugasögu. Hún er túlkun á því að um­rædd­ur prest­ur hvarf um kvöld, er hann reið stutta leið heim til sín. Marg­ir töldu að hon­um hefði verið fyrirfarið af draug. Kvæð­inu fylgdi í fyrstu prentun (Sunnanfara 1891) at­hugasemd höfundar:





Þess skal getið, að ég hef alls ekki fylgt því, er stend­ur í sögusafni Jóns Árna­­son­ar, né öðrum skrif­uðum frá­sögn­um, um atburð þennan, heldur hef ég aðeins far­ið eftir munn­mælum, sem ég hef heyrt sjálfur, bæði af Skag­firð­ing­um og öðr­um.





Birst hefur (í Blöndu IV, 64-72) frásögn sem er mjög sam­hljóða efn­is­atrið­um kvæðisins, en skrif­uð fyrr. Í þessari gerð, ólíkt Þjóðsögum Jóns Árna­­son­ar hefur Oddur prest­ur heitið Solveigu ráðskonu sinni eig­in­orði, en brugðist því, og gifst ann­arri. Vegna þessa skar Solveig sig á háls eftir að hafa hótað presti að þetta myndi bitna á hon­um. Hún var jarð­sett ut­an­garðs sem aðrir sjálfs­morð­ingjar og talin ganga aftur. Prest­ur varð svo myrk­fæl­inn, að fólk leitaðist við að láta hann aldrei einan. Það varð þó kvöld eitt að hann reið einn stuttan veg heim. En þá hvarf hann og fannst aldrei aftur skv. þjóð­sögunni, einungis hattur hans, vettl­ingar o.fl. Skv. sam­tíma­bréfi fannst hann hinsvegar í djúpum hyl, Gegni, vorið 1789, hálfu þriðja ári eftir að hann hvarf (Sendi­bréf frá íslenskum kon­um... bls. 12). Ein­ar virðist fylgja þess­ari gerð þjóðsög­unnar all­náið, t.d. að Oddur hafi séð Solveigu þegar hún var nýbúin að skera sig á háls og fallið í öngvit. Auðvitað verður ekki fyllilega vitað hvernig sagan var sem Einar heyrði, en lík­legast er að hann hafi val­ið þessa gerð af því að í henni er mað­ur­inn sekur, en sekt­ar­kennd virð­ist mér meg­in­atriði í kvæð­inu. Sú nýja túlkun draugasögunnar varð áhrifaríkust, ef menn töldu þjóðsögunni fylgt, en ekki skálduð inn efnisatriði. Kvæðið held­ur sig alfarið við eitt efnisatriði sög­unnar, heim­reið prests, en vís­ar þó aftur í tím­ann um svikið lof­orð og skorinn háls.



Þetta kvæði er með hinum lengstu í fyrstu bók Ein­ars, átján erindi og skiptist í fjóra mislanga hluta, með mis­munandi bragarhátt­um. Fyrstu tveir hlutar eru þrjú erindi hvor, þriðji hluti sjö, og lokahlutinn fimm erindi.



Í fyrsta hluta eru þrjú ris í hverri línu, sem er mest­megnis rétt­ir tvíliðir. Þessi háttur hæfir efni hlutans vel, því þar segir frá þeysi­reið, og má segja að hófadynur berg­máli í reglu­bundinni hraðri hrynjandi hlutans. And­stætt þessu er háttur 2. og 4. hluta. Þar er hver vísa líka átta línur, en 4 ris í odda­lín­um, þrjú ris í jöfnum. En ólíkt 1. hluta eru ýmist þrí­lið­ir eða tvíliðir í 2., 3. og 4. hluta. Þeir dreifast nokkuð jafnt, en að jafnaði er þó meira um þríliði framan af línu. Í þessum hluta er líka mikið um for­liði, en odda­lín­ur eru oft stýfðar. Það tengir línupör, sem og mynda oftast setn­ingarlega heild. Hrynjandi verður sem­sagt mun óreglu­legri og hæg­ari hér, og hæfir það því vel, að hér blandast hug­leið­ing­ar og mynd­ir inn í atburða­rás­ina. Hún hverfur nán­ast í bak­grunn­inn þang­að til í tveimur síð­ustu erind­un­um. Þriðji hluti vík­ur frá þessum brag­ar­hætti, þótt línur séu svipaðar að gerð, því hér eru þær sex í hverju erindi. Auk þess verða mörk lína skarpari, því 1.,2., 4. og 5. lína eru stýfðar, en eftir­far­andi lína hefst á áherslu­at­kvæði, nema hvað 3. og 6. lína hefj­ast á for­lið. Þannig skiptist hver vísa í tvo hluta, og yfirleitt er hvor hluti sjálfstæð máls­grein. Und­an­tekn­ing er fyrsta erindi hans (7. erindi kvæðisins) sem er runa aðal­setninga, mynd þess að hest­ur­­inn stöðv­ast. Helm­ingar eftir­farandi er­inda dvelja hver við eitt atriði þess að vofan birt­ist presti og ógnar honum, kvæðishlutanum lýkur á því að hann flýr.



Kvæðið er sérlega myndríkt, miðað við flest önnur kvæði í þess­ari fyrstu bók Ein­ars. Mest ber á sjónmynd­um, og ítarlegust þeirra er mynd vofunnar (í 9.-10. er.). Al­geng­ast virðist mér um ljóðmynd­ir af mann­verum að þær hnitmiðist um andlit, og eink­um þó aug­un. Hér er minnt á þau í 8. er.: “-Ei gleymir neinn þess svip er hann sá/ sjónum heift­ar sig bregða á/ hálfbrostnum hinsta sinni” - en þau eru hjúpuð í hálfrökkur í sjálfri mynd vofunnar, enda verð­ur þá sund­ur­skorinn blæð­andi hálsinn miðpunktur lýs­ing­ar­inn­ar (allur s.hl. 9. er.) með sérlega óhugn­anlegum dráttum, þar sem dreg­in er fram hreyf­ing: “Titra taugar í strjúpa.”, “blóð/ freyðir”. En rammi þessa er að fyrst “leik­ur tungl­­skíma hverf­ul um hár/ og hel­bleik­ar kinnar”, en loks sjást hend­urnar ógn­andi, önn­ur reidd sem til höggs, en hin mund­ar hníf. Í samræmi við þetta er draum­ur heima­manna (í 15.er.): “Solveig heitin í hverri gátt/ með höf­uðið aftur á baki [...] og hlær frá eyra til eyra”. En einn­ig er and­stæð­um mark­visst beitt í þess­um mynd­um. Ann­ars­veg­ar “tungl­skíma og hel­bleikar kinn­ar”, hins­vegar “skuggar í hálf­rökkur hjúpa”. Annarsvegar “fag­ur­rautt blóð”, hins­veg­ar “freyð­ir og lit­ar hjarn­barða slóð.” Og fyrri­hlutinn “fagur-“ er í and­stæðu við óhugn­aðinn og magnar hann þannig.



Sund­urskorinn hálsinn er svo áberandi í þessari mynd, að setning­in (í 2.er.): “gil og gljúf­ur opin gapa hinni við” tengist hon­um, er ek. for­boði mynd­ar vof­unn­ar, enda eðli­legt að þetta sár sé manninum hug­stætt.



Einstakir drættir mynda verða annars til að skerpa skynj­un­ina, fremur en að í þeim fel­ist endi­lega einhver afstaða, jákvæð eða nei­kvæð. Hönd vofunnar “er heft/ á bitr­um, blik­andi hnífi” (10. er.), hinsvegar er heima­bær­inn svo nálægur, að “blasa við hurð­ir og stafna þil,/ glitr­ar á glugg einn”.



Annað helsta myndefni kvæðisins er hest­ur­inn. Þar er ein­göngu sýnd hreyfing, svo að þess­ar myndir hafa fyrst og fremst það hlut­verk að gera skynjanlegt hvern­ig mað­ur­inn þeysir heim (1. er.), stöðv­ast (7. er.), og rýk­ur af stað aftur (13. er.). Í miðju er hlut­læg upp­taln­ing á hreyf­ingum hestsins hverri eft­ir aðra (7. er.), en það skerp­ir skil 2. og 3. hluta kvæðisins:





..svo hesturinn hnýtur og dettur, -



hnykkir í svipan hnjám af jörð



heggur sköflum í freðinn svörð



og stendur kyr einsog klettur.





Eftir að vofan birtist í þessum hluta, sjáum við óttann sem hún vekur jafnvel í lýs­ingu hestsins: “nötrandi dýr”. En einna til­komu­mest er lýsing hestsins í fyrsta erindi kvæð­isins. Þar er stokk­ið frá smáu til stórs og öfugt, frá fnæsandi nösum hestsins til þess að sjá hann tilsýndar í veður­ofs­anum, síðan er stokkið frá hæsta hjallanum til fax­ hestsins. Þessi óró­lega hreyfing fram og aftur milli þess ná­læga og fjar­læga er vel til þess fallin að sýna einmitt óróleg­an huga. Hér flétt­ast sam­an sjónmyndir (jakar í spori rísa, hátt slær nösum, faxi reistu) og heyrn­myndir (glymja járn við jörðu, gjósta hvín í faxi), en þeim síðar­nefndu fylgja oft mikl­ar hljóð­lík­ing­ar, auð­kennd­ar hér:





Hátt slær nösum hvæstum



hestur í veðri geystu.



Gjósta af hjalla hæstum



hvín í faxi reistu.





Það er sem veðurgnýrinn heyrist í þessu, auk þess er sem hrynj­andin end­ur­ómi hófa­dyninn. Það er þessi hnit­miðaða samfléttan ýmiskonar eðlisþátta ljóða sem gerir kvæðið svo áhrifa­ríkt.



Bygging kvæðisins markast mikið af því hversu á­gengur ljóð­mæl­andi er hverju sinni. Hér talar hann í 3. persónu, en túlkar stund­um mikið, óbeint og beint. 1. erindi er næsta hlut­lægt, þar er eingöngu lýst þeysi­reið í myndum og hljóð­líkingum. En í 2. og 3. erindi birt­ist um­hverf­ið í lík­ing­um og persónugervingum, svo að það virð­ist allt lif­andi og ógnandi. Þann­ig birtist les­endum sálar­ástand þessa reið­manns, því það er ekkert venjulegt að skynja staka stjörnu í skýja­rofi “einsog auga brostið”. Þessi mynd­gerv­ing sálarástands ger­ist annars mestmegnis þannig, að um nátt­­úru­fyr­ir­bæri eru höfð sagn­orð sem venju­lega eru höfð um mann­verur. Stjarna starir, vök á dýi vakir, þótt aðrir sofi, vötn kveða. En þetta er mjög fín­lega gert, stund­um einsog á mörk­um persónugervingar. Þannig er ekkert í and­stöðu við eðlilegt tal að segja að gil og gljúfur gapi. En það er jafn­framt ógn­andi, minnir á kjaft, reiðubúinn að gleypa reið­mann­­inn, auk þess sem áður var nefnt, að þetta er einnig forboði um mynd skorins háls síðar í kvæðinu. Ámóta fínleg er lýsing berg­málsins. Það leiðir ekki bein­lín­is af sagn­orð­un­um sem höfð eru um það, að það verð­ur annarlegt og óhugn­an­legt, heldur í hinu, hve dvalist er við lýs­ingu þess: “Bergmál brýst og líður/ brött­um eftir fell­um” (auðkenndu orðin eru ek. bergmál). Eftir þessar persónulegu nátt­úru­mynd­ir - sem sýna í raun hug mannsins - er loka­lína 3. erindis eðlileg álykt­un: “Dæmd­ur maður ríður!” Það er svo útfært nánar í öðrum hluta, þar sem myndir af ferð hests og manns fléttast saman við hug­leið­ing­ar, túlk­anir. Þannig er samtengt að dauðar minn­ing­ar kvikni og að margt vakni af rökk­ur­moldum, en síðast­talin orð vísa til drauga, fleirtölumyndin moldir merkir gröf. Og þeir þyrpast ein­mitt þar sem ekkert getur sést, “í hvilftum og laut­um”. Nánar er þetta útfært í 6. er., þar birt­ist fyrst skuggi manns og hests, - af­skræmd­ur og stækk­að­ur í tungls­ljósinu, en í framhaldi er sagt að fylgja mannsins vaxi og nálg­ist, en það orð getur bæði merkt draugur - og táknar hér eðlilega skugga mannsins. Þannig sýna þess­ar ljóðmyndir að hann sé hræddur við skugga sinn, einnig í yfirfærðri merk­ingu. Skýr­ast er þetta þó orðað í 5. erindi; þær lif­andi myndir sem ein­blína á mann­inn “með aug­um tærandi köld­um” eru hefnd sem sjúk lund leggur á sjálfa sig. Þessi samfléttan nátt­úrumynda og lýs­ingar á draug kem­ur enn fram síðar í kvæð­inu; “Þýtur í golu ...þulin heit­ing” (10. er). Þann­ig birtist æ oftar að draugur­inn sé ein­ung­is túlkun prests á nátt­úru­fyr­ir­bær­um, og í sam­ræmi við það eru loka­orð 17. er.: “Fyrir hurðum úti er hjálp­ar­laust/ háð­ur leik­ur af ein­um” (en ekki af tveimur!). Þessi 2. hluti ein­kennist mest af túlk­un, ljóð­mæl­andi er þar sérlega persónu­legur og náinn, ávarpar sögu­hetj­una í hverju erindi með “þú”, og skýrir í hverju ógæfa hans fel­ist. Flest­um les­endum mun eðli­legt að taka þetta ávarp til sín, flestum munu kunn­ar því­líkar til­finn­ing­ar, um að hafa brugðist væntingum ná­kominna. 6. er­indi end­ur­tek­ur í breyttu formi hugs­un 4. erindis um hve óum­flýj­an­leg fylgjan sé. Þannig lýkur þessum hluta einsog hann hófst, það magnar enn til­finningu fyrir óum­flýj­anleika.



En eftir þetta kemur 3. hluti, mun hraðari, og þar ber mest á svið­setn­ingu, í ljóðmynd­um og tali. Sama má segja um loka­hlut­ann, enda þótt hann sé með sama hæga brag­ar­hætti og 2. hluti. Enda er ljóð­mælandi hér fjar­læg­ari sviðinu. 4. hluti hefst á yfir­sýn um bæinn (14. er.), síðan sýna draum­ar heima­manna mynd vof­unn­ar og tal (15. er.), og eft­ir það er aftur mikil fjar­lægð eða hlut­lægni; 16. er. hefst á tilvitnun innan gæsalappa um ástandið á bæn­um, vænt­an­lega er það hér­aðs­kvittur. Hér verð­ur stíg­andi með versn­­andi svefn­látum heima­manna (3.-4.l.) og skyndi­leg um­skipti með síðari hluta 16. erindis og 17. erindi, neyð­ar­kall úti á þekju og ljóð­mynd af við­brögð­um heima­manna. Loks er 18. erindi hlut­læg upp­taln­ing á verks­um­merkj­um og formlega skýrt frá orð­rómi um hvern­ig fór.



Sjá má fordæmingu á heimamönnum í lýs­ingu þess að þá dreymir hryllilega mynd Solveigar, og um það er sagt: “slíkt er leiður draumur að una” (auðkennt af E.Ó.). Síðan er það, að enginn þorir út, þótt þeir heyri neyðar­kall. Um það segir Dagný Kristjáns­dótt­ir (bls. 22): “Fyrirlitning Nietzsche á hóp­sálinni er ekki langt undan.” En mér finnst í miklu meira samræmi við undanfarið að sjá þetta til marks um óhugnaðinn, sem eðlileg viðbrögð fólks. Túlkun Dag­nýjar á hljómi og hrynjandi upphafserinda er mjög á sömu leið og mín (en ég byggi hér á óbirtri námsritgerð minni um kvæðið frá 1965). Ann­ars get ég ekki tengt þessa umfjöllun við túlk­un hennar, sem er sál­fræði­leg og heimspekileg, um hugarfar höfund­ar. Fljótt á litið má þykja senni­legt að sterk tilfinningareynsla í frumbernsku setji var­an­legan svip á sálarlíf fólks. En nánar að gáð er óvíst að börn verði almennt fyrir áfalli við að sjá kynfæri foreldra sinna, hvað þá að slíkt áfall sé varanlegt (en sú kenning ræður ferð­inni í túlkun Dagnýjar). Hafi slíkt þótt líklegt þegar Freud starfaði meðal hefðarfólks í Vín fyrir öld, þá gilti það varla á Íslandi á þeim tíma og fyrr, þegar heimilisfólk svaf jafnan allt nakið í einu herbergi (sbr. næstsíðasta erindi kvæðisins: “Líkamir naktir rúm við rúm rísa...”) og gildir ekki fremur nú á tímum fjölskylduferða á sundstaði. Vissulega eru þessi líf­færi stærri en á barninu, en skyldi því ekki fremur miklast hand­afl og göngu­þolni? Og þótt smábörn fái það út úr samanburði þess­ara líf­færa að kon­una vanti eitthvað, er þá líklegt að sú hugmynd verði varan­leg? Eru þetta ekki bara dæmi um sálfræðikenningar sem slegið var fram fyrir öld, en aldrei hafa verið prófaðar með neinum könnunum? Ég sé ekkert í kvæðinu sem réttlæti þessa túlkun Dagnýjar (bls. 21):





Solveig, hin “vo­veif­lega mynd, vakin af mannsins minni”, sýnir hina hættulegu, refs­andi móður, sem hefur ekki eitt heldur tvö fallos­tákn; reiddan hnef­ann og hnífinn í hinni hendinni. Opið og blæð­andi sárið á hálsi henn­ar er jafnframt geldingarmynd, ógnandi mynd af kyn­færum konu, tengd ofbeldi og dauða.



Gapandi sárið á hálsi Solveigar er þriðja rofið í textanum, þriðja augað sem horfir á manninn- og þetta auga sameinar mein­ingu hinna tveggja; brostið auga föðurins og vakandi auga móður­jarð­ar­inn­ar- leiðirnar aftur/ niður til móðurlíkamans og áfram/ upp til föð­ur­ins eru jafn lokaðar.” o.áfr.





Fyrst ekki er sýnt fram á að svo lang­sótt túlkun sé öðrum betri, þá sýnist mér þetta vera frjáls heila­spuni. Mér virðist að orðalagið ”auga brostið” vísi ótvírætt til dauða Solveigar, sem veldur skelfingu mannsins, það er alveg tilefnislaust að tengja það við ”strangt eftirlitsauga“ föður (sem enginn er í kvæðinu) eða móður (hvað þá sektarkennd vegna löngunar til föðurmorðs). Kvæð­ið gefur heldur ekki á nokkurn hátt í skyn að “vök í dýi” tengist móður. Ég hygg ennfremur, að flest­um karlmönnum þyki kyn­færi kvenna aðlaðandi, en ekki ógn­andi, raunar þykir mér ólíklegt að kon­ur sjái almennt ógnun í þeim heldur. Sömuleiðis held ég að fáum karl­mönn­um þyki sér ógn­að með reð­ur­táknum, sem ástæðu­laust er að lesa út úr reiddum hnefa og beitt­um hníf á lofti. Slík fyrirbæri eru í sjálf­um sér miklu alvarlegri ógn­un en reðurtákn. Og verst við túlkun af því tagi sem nú hefur verið rakin, er, að hún er ævinlega fyrirfram gefin, -út frá sál­fræðikenn­ingum- hvert sem bók­mennta­verkið er. Þar þarf bara að finna góð dæmi, og er þá stundum langt til seilst, svo sem hér sást.



Orðalag kvæðisins er að mestu eðlilegt samtímamál. Svo sem al­siða var í ljóðum þessa tíma, bregð­ur þó einnig fyrir gömlu ljóðmáli: “hal­ur, fákur, hnoss, móður (no. kk.), gjósta, fljóð, rann, höfgur, vött­ur”. Líklegt virðist að höf­undur hafi búið til sum orð kvæð­is­ins; “dauða­deig­ur, dauða­móks­vættur, helbjarmi, hjarnbarinn, nætur­niður, rökkur­mold­ir og sjálf­framinn” (um hefnd­ir). Orða­sam­bönd­in “illar hvíldir” og “óhreinn bekk­ur” hefi ég ekki fund­ið annarsstaðar í þessari yfirfærðu merk­ingu; óvígð gröf. En slík­ar sam­setn­ing­ar eru alsiða í skáld­skap, og í íslensku sam­svara samsett orð iðu­lega frjálsum orða­sam­bönd­­um í sum­um öðr­um tungu­mál­um. Fyrir bregð­ur talmáls­orði svosem “djöflast”. En ým­is­legt sem nú má þykja fornlegt í orð­færi kvæðisins er eðli­legt við þær að­stæð­ur sem það lýsir, t.d. ljóri, og í raun­inni er kvæðið mjög gagnort. Fyrir kemur að tvö sam­heiti standi sam­an: “í hvilftum og laut­um”, “í beyg og kvíða”. Þetta er í hæg­um, hug­leið­inga­kennd­um 2. hluta, og væri hæpið að kalla það orða­leng­ingar, heldur verð­ur þetta til auk­ins þunga. Ekki ber sérstaklega á orðum með eignar­falls­eink­unn, en slíkar samsetn­ingar ein­kenndu mjög skáld­skap Einars síðar meir, og oft mun hátíðlegri stíll en hér er. Draga má saman að orð­færi ljóðsins sé naum­ast sérkennilegt mið­að við tíma þess, fram­an­greind nýsköp­un á því sviði sé ein­mitt til þess fallin að gera kvæðið sem gagn­orðast.





Himnasýn


Kvæðin Undir stjörnum (fyrst birt 1894, sbr. Stein­grím J. Þor­steins­son 1952, bls. 558) og Norðurljós (ort 1896, s.r., 577) eru bæði með bygg­ingu sem einkennir mörg frægustu ljóð Einars síðar. Fyrst er mjög mynd­ræn lýs­ing á um­hverfi manns, sem stendur einn úti í náttúrunni, en síðan er umhverfið túlkað svo að persóna hans tengist því. Brag­ar­hátt­ur er að mörgu svip­aður í þess­um tveimur ljóð­um. Í báðum eru fjögur er­indi, 10 línur í hverju, fjögur ris í öllum línum -nema þrjú ris í loka­línu hvers erindis Norð­ur­ljósa. Þar hefst og hver lína á tveimur þríliðum, en tvíliðir yfir­gnæfa í Und­ir stjörn­um. Í báðum eru 4 línur stýfðar (2., 5., 6. og 9. l. í Und­ir stjörn­um, en 1, 4, 5, 7. og 9. l. í Norð­ur­ljós). Eftir þær verð­ur þá dvöl (í Und­ir stjörn­um), því næstu línur hefj­ast á áherslu­at­kvæði, en ekki á for­lið. Þetta stuðlar því að hægum lestri, þótt tví­lið­ir ríki í ljóð­inu. Hrynjandi Norðurljósa stuðlar að því sama, þótt forliður fylgi þar oft stýfðum línum, því á móti kem­ur að þrí­liðir skipt­ast á við tví­liði.



Orðalag er í báðum þessum ljóðum mun há­tíð­legra en í fram­an­greindu kvæði, enda von, það er sögu­ljóð, en hér koma heim­speki­leg­ar hugleiðingar um lífið og til­ver­una. Hve virkt þetta orða­val er, sést best á því, að þeg­ar lágstíl bregður fyrir (Norð­ur­ljós, 3. er. 1.-4. l.), þá er það ein­mitt um það sem ljóð­mæl­anda þyk­ir “lítið og lágt”! En hástíll er þeg­ar í fyrstu línum kvæð­is­ins með orða­lagi sem varð mjög einkenn­andi fyrir Einar, nafn­orð með eign­ar­falls­eink­unn, stund­um eins­konar kenn­ing­ar; “dufts­ins son, drottn­anna há­sal­ur, skuggaströnd, lífs­ins lönd, út­heims­ins skaut” m.a. Í Undir stjörn­um koma: „ljóss­ins skaut, hamra­stóll“. Þaðan er stutt yfir í sam­sett orð, sem Einar hefur vafalaust sjálf­ur gert (í Norð­ur­ljós): “rafur­logi, silf­ur­ós, ljós­haf, skugga­strönd, hring­spil, hrím­klett­ar, krist­als­augu”. Sum orð­in setja lit á ljóð­mynd í sam­þjöppuðu máli; “gull­hvelfd­ur”, og í Undir stjörn­um: “mána­bleik­ur, silfur­feld­ur”. Önn­ur eru til­brigði við venjuleg orð, t.d. “skapa­þrunginn” í stað “örlög­þrung­inn”, “dular­lög” í stað “hulin lög­mál” eða e-ð þ.u.l. Stund­um er þessi ný­yrða­myndun sjálfsagt til að ná stuðlun, rími eða reglu­bund­inni hrynj­andi. En allt um það verður stíll ljóðsins upp­hafnari við þessi ný­yrði, en hann yrði við venju­leg sam­heitin. Í sömu átt orka orð úr fornu ljóðmáli: Í Undir stjörn­um: “skeið, skaut”, í “Norð­ur­ljós”: “grund, mær, Rán, röðull, snekkja”.



Ljóðmyndir eru samstilltar á áhrifamikinn hátt. Í Undir stjörn­um kemur fram stað­setn­ing ljóð­mælanda, sjón­ar­horn hans (í 5. og 6.línu fyrsta erindis): vélknúið skip “skríður skjótt [...] í kaldri töfra­­nótt”, en upphaf ljóðsins er mynd­rænt án þess að vera persónugert: “Blika mánableikir sand­ar”. En síðan birtist nátt­úran allt í kringum ljóð­mæl­anda sem lif­andi, nær og fjær, og það er sýnt með mynd­rænum persónu­gerv­ing­um. Næstar skip­inu eru öld­ur, sem víkja undan því, þær eru þá gljúp­ar og gráta ekka­þungt við súð­ir. Haf­ið andar á ljóðmælanda, fjær eru á verði brot og grandar og blunda, en ofar dansa and­ar lofts­ins í blys­för. Það verður að skilja sem glæsi­lega persónu­gerv­ingu norður­ljósa. Síð­an kemur mið­punkt­ur þess­arar náttúru­myndar (með upp­hafi 2. er.), markað með upp­hróp­uninni: “Dýrð­ar­sjón!”. Það er vera hjúpuð silf­ur­feldi, sem sef­ur á stól; fjall á hamra­stalli. Þetta er tign­arleg mynd, en magn­ast enn, síðar í er­ind­inu. Þar birtast himinver­ur, og eru sum­part persónugervingar skynjanlegra fyr­irbæra: “Geislar heils­ast, sól frá sól”. “Skapaþrungin, hvik­ul hjól” merkja vafa­laust jarðstjörnurn­ar (Venus, Mars o.s.frv.), sem samkvæmt stjörnu­speki marka fólki örlög. Þeim stýrir “þögull undra­skari” og fleiri ósýnilegar verur eru hér í sam­ræmi við krist­indóminn:





Svífur andi’ í upphafsfari



er sem hólpnar sálir stari.





Andspænis þessu kemur svo tilbeiðsla hins jarð­bundna, persónugerð: “jörð [...] krýpur fyrir himins veldi”. 3. erindi tengir ljóð­mæl­anda beint við þetta, með því að draga fram hefð­bundna hug­mynd um tvíbent eðli manna, hold og sál; 1. lína tengir hann við hafið, en 2. lína við himin:





Hálfan á mig hafsins alda,



hitt ég ber í ljóssins skaut.





Síðan kemur tilbeiðslan, og loks finnur ljóð­mælandi innra með sér “straum frá stjörnuaugum”, gæfa hans “glitr­ar djúpt í himins laugum”. Hér ríkir semsé sam­ræmi him­ins, jarðar og manns. Á þeim grundvelli boð­ar loka­er­indið ekki frið, einsog væri þó í sam­ræmi við und­an­far­andi myndir, held­ur baráttu ljóðmælanda. Hann ákallar stjörnu, drottningu óska sinna, og er það al­kunn­ugt orða­lag stjörnu­spekinnar fyrir örlögvald. Hann vill hætta öllu sínu til að finna lífið, og til að öðl­ast skiln­ing: “forlög vitr­ast gegn­um reykinn”.



Samkvæmt orðanna hljóðan ætti:”læs mér öll hin dimmu þil” að merkja bón um að þeim verði lokað, vænt­­an­lega til verndar ljóð­mæl­anda. En sá skilningur væri í beinni mót­sögn við “Gef mér stríð” og “Jeg vil hafa hærra spil/ hætta því sem jeg á til”. Því sýn­ist mér verða að skilja boð­háttinn “læs” sem: “lås op” á dönsku, þ.e. opna mér o.s.frv. Hér hafa þá kröf­ur hrynjandi og stuðla­setn­ingar ráðið orðvali. Reyndar er orðalag þessa kvæð­is ekki hnitmiðað svo sem síðar varð aðalsmerki Ein­ars. Það er stundum geig­andi og slitið, svo sem: “berg­ir lífið nýj­an þrótt”(1. er., 2. l.) og í “hátign hul­iðs­valda/ helga speki fyrri alda”, en einkum þó í “gæfu minn­ar gullið skraut”. Ekkert slíkt verð­ur fundið að kvæðinu Norð­ur­­ljós, og eru auðsæjar fram­far­irnar í ljóðagerð Ein­ars á þessum árum.



Bygging ljóðanna tveggja er svipuð. Í 1. er. Norð­ur­ljósa er sýnd jörð og haf, en í 2. er­indi aðal­lega him­inn­inn. Í 3. erindi mótast hugur ljóð­mæl­anda af hreyf­ing­unni í 1.-2. er., en í 4. er. er aftur lýst hreyf­ing­unni á himni, og hvernig menn bregðist við henni.





Norð­ur­ljós



mótast af andstæðum. Ann­ars­vegar er há­sal­ur drottn­anna, hinsvegar dufts­ins son, sem getur nú ekki lengur látið sér nægja svo lágkúrulega skemmtun sem “spil og vín”. Mold­in er ekki leng­ur aur, held­ur þvert á móti “hrein einsog mær við lín”. Hið smæsta, sand­korn, skín í litum hins hæsta. Hér skap­ast frið­sæld­ar­blær við persónu­gerv­ing­ar; “læk­ir­nir kyssast í silf­ur­ós­um” og moldin mók­ir” í visnum rósum. 2. er. lýkur einn­ig á persónu­gervingu jarð­bund­ins fyrirbæris, sem af­mark­ar sviðið: “klett­ar stara [...] til himins”. Og orða­lag­ið: með krist­als­augum við hljóðan mar, er til sam­ræm­is við silfrið áður og kyrrð­ar­blæ­inn. Um það sem sést á himn­inum eru hafðar þrjár lík­ing­ar, og tvær þeirra eru ein­mitt frá skemmt­analífinu, sem hafnað var í 1. er. Röðl­ar stíga dans fyrir opn­um tjöldum, og ljósa­gang­inum er líkt víð skemmtiatriði í hringleikahúsi: eins og hringspil sé leik­ið með sprotum og baugum - af hul­inni hönd. Þessi sam­fella í mynd­máli styrkir sam­hengi kvæðisins og gerir val ljóðmæl­anda skynj­an­legt. Enn­fremur er himn­in­um líkt við haf (bæði í 2. er. og enn ít­ar­legar í 4. er.). Norð­ur­ljós­in eru öldur þess hafs, “með fjúk­andi föld­um”. Lík­ing­unni er hald­ið áfram þannig, að há­sigld skip sigla það haf og leita hafn­ar, “hvort sem þær [snekkjurnar] beita í horf­ið - eða þær beygja af.” Við hvað er átt? Samkvæmt krist­in­dómi virð­ist það helst geta merkt að manns­sálir leiti guðs. Þetta er þó ekki aug­ljós eða ótvíræð skýr­­ing að mínu mati, og mér finnst fara vel á því að óljóst er, vegna þess að hér er reynt að höndla óræða hluti með mynd­lík­ingum við skynj­an­lega: “nú andar guðs kraft­ur í dufts­ins líki.” Í sam­ræmi við þetta eru lok kvæð­is­ins: “autt er allt sviðið og harð­læst hvert hlið/ og hljóður sá andi, sem býr þar.”. Þar er að mín­um skiln­ingi ekki af­neit­að til­veru guðs, held­ur þvert á móti, hann birt­ist þar sem óskynj­an­leg­ur og þess þá heldur óskilj­an­legur mönnum í allri þeirra til­beiðslu.



Ýmsar ljóðmyndir eru sameiginlegar kvæð­unum: “Skapa­þrung­in, hvik­ul hjól/ hend­ir þögull undra­skari” (Und­ir stjörn­um). Því samsvarar í Norð­urljósum fyrrnefnd mynd úr hring­leikahúsi (“hringspil með glitr­andi sprot­um og baugum” -leikið af hulinni hönd). “Svífur andi í upp­heims­fari” (Und­ir stjörn­um - “Hve voldugt og djúpt er ei him­ins­ins haf/ og há­sigld­ar snekkjur sem leiðina þreyta.”(Norð­urljós).





Prósaljóð


Enn einn skáldlegur texti Einars frá þess­um árum á margt sam­eig­in­legt við þessi kvæði. Það er fyrrnefndur miðhluti grein­ar­innar “Stjörnu­­dýrð” (sem birtist skömmu eftir Norð­ur­ljós, á að­fanga­dag 1896). Einn­ig hér stendur ljóð­mælandi einn úti um stjörnu­bjart kvöld og lýsir umhverf­i sínu mynd­rænt (2. klausa mið­hlut­ans). Fyrst lýsir hann sjávar­sund­um, síð­an jörð, hvort­tveggja blik­ar bjart, jörð­in undir snjó. Einsog hrím­klett­ar gnæfðu við sjón­deild­ar­hring í Norð­ur­ljós, þann­ig birt­ast “sæbrött, brúna­létt fjalla­lönd” hér. Síð­an kem­ur mynd himins, persónu­gerð (3. klausa). Loka­klaus­an er svo ákall til kvöld­himinsins, en síðan bein­ist at­hygl­in aft­ur nið­ur á við, að mynd húsþaka og persónu­gerðra fjalla, loks að mæl­anda, sem lýsir tilfinning­um sínum gagn­tek­inn af “dýrð lofts­ins”. Einstakar klaus­ur þessa skáld­lega prósa­texta samsvara er­ind­um í fram­an­greind­um ljóð­um, upp­bygg­ingin er svip­uð. 1. klausa textans er eins­kon­ar að­far­ar­orð, teng­ir mann og himin, svo sem í lok­in, því hún tek­ur upp lík­ing­una um stjörn­ur sem augu. Hversu fögur sem manns­augu eru, hvað eru þau þó “hjá stjörn­un­um, spegl­um þeirrar sál­ar, sem streym­ir gegnum nátt­úr­una?” - Stjörn­urnar breyta hinsvegar um eðli í 3. klausu. Þá verða þær dem­antar og perlur sem skraut á haf­blárri fótsíðri skikkju him­ins, sem þannig er persónu­gerð­ur. Einar notar þá mynd hvað eftir annað, sem og fleiri skáld (sbr. k. 5.14.2.). En svo verða þessi atriði að annarri mynd; efst á himni er Vetrarbrautin “eins­og sigur­bogi”, en neðst eru norður­ljós­in. Einna mest er lagt í mynd þeirra, bæði í lit og hreyf­ingu: þau “þjóta með floga­gullslit og eld­kvik­um geisla­brot­um í neðstu byggð­um lofts­ins”.



Einsog í framangreindum kvæðum er hér lögð áhersla á kyrrð­ina: “Nú er helgidags­þögn yfir allri nátt­úrunni.” Kyrrð­in styrkist enn við and­stæð­ur innan þeirrar mynd­ar, hús­þök­in drúpa, en persónugerð fjöll­in rétta sig upp, “tinda­há axla­breið”.



Mér sýnist af framantöldu, að hér sé full­gilt prósaljóð í miðri grein­inni, og að enginn efaðist um að þetta væri sjálfstætt ljóð, ef af­markað væri, ég tala nú ekki um ef það væri sett upp í ljóðlínur. En á móti verður þá að við­ur­kenna, að höfundur af­mark­aði þennan texta ekki innan grein­ar­inn­ar! Reyndar er sá hluti sem á eftir þessu fer, í efnis­legu fram­haldi af hinum, um stjörnu­­merkin:





Ég dreg í huga minum línur og boga yfir stjörnu­tjaldið, sem tindr­ar og blik­ar yfir mér og allt í kringum mig. Hálf­týnd­ar endur­minn­ingar frá skólaárunum um teikn og merki hnatta­hersins vakna upp fyrir mér, og ég renni augunum sjón­hending frá einni sól til ann­arrar yfir endalaus loft­höf, sem engin tala get­ur táknað.





Greininni lýkur svo á vangaveltum um “sál náttúr­unn­ar” sem kunni að vera eins raun­veruleg og sálir manna og í samhljómi við þær. Það varð varanlegt við­fangsefni í ljóð­um Einars, og það skýrir hlut­verk þess hluta text­ans sem ég vil hér greina sem prósaljóð inn­an greinar, þar er það efni tek­ið fyrir á skáldlegan hátt en annars í greininni á röklegan - meira eða minna. Og því fjallar seinni hluti grein­arinnar um stjörnu­merk­in, þau tengja “sál náttúr­unn­ar” og örlög manna.





Skýjafar.



er eitt af Ítalíukvæðum Einars, og lýsir kvöldi við bakka Trasimenus-vatns í kulda og hvassviðri. Mælandi minnist þess, að þarna var háð úr­slita­orrusta í innrás Kartagómanna, og hún setur svip á myndmál kvæðisins allt frá upphafi, þótt ekki sé farið að tala um hana fyrr en í 4. erindi (af 8). Þessi undirstraumur magnast smám saman frá upphafi: “Trasimenus bylgjur brotnar/ blaka strendur sínar fast”, um so. drottnar, til persónugervinga í lok 1.er.: “skímu­ljós í felur krjúpa”. Í 2. erindi ríkir hefðbundið draugaveður, tungl­ið veður í skýjum, en ekki nóg með það, það treður marvaðann, eins og mað­ur sem er að drukkna, og gægist fram úr skýjunum, bleikt eins og afhöggv­ið “höfuð Hasdrúbals” hershöfðingja Karthagómanna. Milli þess dvín ljósið -eins og líf í valkesti. Í 3. erindi er veðrinu líkt enn ítarlegar við orrustu, brimið þrumar eins og skjaldabrak „í herliðs ystu þrim“, veður­gnýr­inn er eins og „ótal örvum skjóti/ óséð fylking veðri móti“.



Eins og svo oft í kvæðum Einars kemur nú hugleiðing á eftir nátt­úru­lýsingunni. Togstreitan milli ljóss og myrkurs minnir á tog­streituna milli velgengni Rómarveldis og mikilla hæfileika Karthagóhöfðingjans, en allt virtist benda til sigurs hans, 5. erindi spyr ítar­lega hversvegna fór sem fór. En ólíkt kvæðunum sem að framan voru rædd, þá er hér ekkert svar gefið, held­ur horfið aftur að veðurlýs­ingum sem minna á söguna. Þeim mun drama­tískara verður kvæðið í lokaerindunum tveimur. 7. erindi er glæsi­leg­ar nýgervingar, þar sem öldunum er lið fyrir lið líkt við ólma stríðs­fáka, másandi með froðufellandi kjafta, brimið er eins og hófadyn­ur, bylgj­urnar eins og löðrandi sveittar bringur hestanna, stormurinn eins og svipu­hvinur. En í lokaerindinu hljómar brimið eins og kvein flýjandi manna og deyjandi (”vals”). Og nú hvín stormurinn „frá strönd til fjalls - sem um torg frá borg til borgar/ berist hraðfrétt slysa og sorgar“.



Myndmál kvæðisins er glæsilega hnitað, einstaklega, segði ég, ef ekki væru svo mörg ámóta glæsileg dæmi í kvæðum Einars.





Útsær


Einsog áður segir, mót­ast ýmis kvæði Ein­ars mjög af mál­flutn­ingi. Hann er á mörk­um tveggja tímaskeiða, í því sem fleiru. En einn­ig rök­ræð­in kvæði hans eru yfir­leitt miklu myndrænni en Til Huldu, sem fyrr var rætt (k. 2.4.) og mynd­þátt­urinn er síst veik­ari hinum rök­lega. Hér skal hugað að einu fræg­asta kvæði Einars, sem birtist upphaf­lega 1916. Það er Útsær, sem Kristinn E. Andrés­son hef­ur túlkað í frægri grein (upphaflega út­varps­erindi), sem birtist á árinu 1935. Þar rek­ur hann m.a. að upphafs­er­indi kvæðisins sé ek. inn­gang­ur, sem allt kvæðið sé svo nán­ari útfærsla á. Kvæðið er tólf erindi, hvert þeirra tíu langar línur; fimm ris í hverri, hver lína er tómir þrí­lið­ir, nema hvað tvíliður kemur jafnan síðast í línu. Hrynjandi er því hæg og reglu­bund­in, einsog Kristinn segir (bls. 96):





Hendingarnar koma hér einsog djúpar út­hafs­öld­ur, hlaðnar krafti og mætti, all­ar af sömu stærð og lög­un, ein af annarri, með sama millibili og þunga, af sömu lengd og fallandi. Allt er form­fast og reglu­legt, einsog engin hending megi yfir aðra rísa, en allar falla jafnt saman, af ákveðinni dýpt og hæð sem mörkuð var í upphafi. Og svona heldur áfram út allt kvæðið, jafnt og þétt, alda af öldu, hend­ing eftir hending [...]





Það er helst að rímskipan bregði út af þess­um hátt­bundna slætti, en það verður til að afmarka hvert erindi út af fyrir sig (aabbcbdcdd/ aabcbccddc og fleiri til­brigði).



Um hljóm kvæðisins segir Kristinn m.a. (bls. 97) að það sé ómstrítt, mik­ið af sam­hljóða­runum svo sem str, sk, st, rk, tr., einsog endranær í kvæð­um Einars. Og að vanda sé hér mikið um eignarföll nafnorða í sterkri beyg­ingu, í 1. erindi t.d.: norðursins, fólksins. Kæmi mjúkt og þýtt orð á eftir “norðursins” bæri ekki svo mjög á hörku þess, en hér sé það í sam­band­inu: “norðursins skapi”, síðan komi “lífsins sterkustu”. Í báðum tilvik­um mæt­ist tvö s-hljóð, og af því rísi tilhneiging til að afmarka hvort orð frá öðru í fram­burði, og í sömu átt orki öll þau orð þar sem tvö áherslu­at­kvæði fari saman: Útsær, heim­þrá, ásýnd, útskaga, upplit, viðmót. “Þetta er eitt af því sem gefur máli Einars kraft og mátt en jafn­framt stirðleika.”



Allt er þetta vel athugað, en í framhaldi segir Kristinn: “Enn­fremur má benda á að atkvæðin eru langflest löng, þ.e. breið­ir sérhljóðar eða tví­hljóðar”. Þetta er röng málfræði og þaraf­leið­andi of­túlk­un kvæð­is, því í íslensku eru öll áhersluat­kvæði löng, og hug­tak­ið “breiðir sérhljóðar” lýtur bara að staf­setn­ingu, tákn­ar að komma sé yfir sérhljóða. En hver athugull ljóð­unn­andi fengi sömu reynslu af ljóð­inu, hvort sem þar væri skrifað ég eða jeg, svo dæmi sé tekið.



Þessi skyssa er þó smáatriði í túlkun Kristins. Í fram­haldi fjallar hann um orðaval og dáist að “voldugu inn­taki” orða svo sem: “eyði­mörk, ógn, dýrð, hamra­fang, sæ­djúp, hol­skafl, öldustríð, segulfang, stjörnuhöll, firna­ríki”. Enda er augljóst að Einar býr til mikið af þess­um orðum sjálfur, al­geng­ari orð hafa honum þótt of svip­lítil.



Síðan víkur Kristinn að samþjöppun og segir m.a. (bls. 98) um 1. línu kvæðisins: “Til þín er mín heimþrá, eyðimörk ógna og dýrðar”:





Hér er það samtenging skáldsins við hafið, sjálf myndin og til­finn­ingin að baki henni, er áhrif­in vekur [...] Les­and­inn þarf í raun­inni að geta séð margar mynd­ir samtímis: Ógn hafsins er mynd sér, dýrð hafsins er önn­ur mynd og sú þriðja er eining hvors tveggja, eyði­mörk ógna og dýrð­ar; auk ann­arra mynda er í þessu sambandi stíga upp í huga les­and­ans.





Í tengslum við þetta rekur Kristinn svo hvernig allt kvæðið bragar af and­stæðum: “ofsinn og mildin búa þér undir bránni”, “ég heyri þig anda djúpt yfir útskagans grynn­ing”, o.s.frv. (bls. 99).



Um myndmál kvæðisins segir Kristinn m.a.(bls. 102-3):





[...] land, himinn og haf er gert að persónum. Útsærinn á norð­ursins skap, hann lyftir bylgju­barmi, augu hans lykj­ast undir hel­svörtum hvarmi, en stund­um vakir lágeislinn á þúsund sofandi aug­um hans. Út­sær­inn brýnir róminn, er með flakandi slæður, hann er andvaka um mána­nóttina, o.s.frv. Stundum líkist hann óvætt[i]; þá ham­ast hann, beljar, bryður gaddinn, bregður hrömmum. Stund­um vefjast skuggarnir á yfir­borði hans löng­um örmum eða mæna til stjarn­anna.



Landið og himinninn koma fram sem mót­leik­ar­ar hafsins og skap­ast við það and­stæður og vídd­ir í kvæðið. En þessi nátt­úruveldi eru and­stæð­ur aðeins í ytri mynd sinni. Einsog dalur og fjall eiga þau sameiginlegar rætur. [...] Það er ekki stirðnuð ytri mynd nátt­úr­unn­ar sem sjón skálds­ins dvelur við, heldur innri kraftur hennar, frum­öflin, orka og hreyf­ing. Samleikur hinna ytri mynda nátt­úr­unn­ar er fábreytilegur í saman­burði við hinn kvika leik frum­kraft­anna, geisla og hljóms, rafs- og segul­strauma. [...] Og öll sjón skálds­ins á sér stað í andstæðum og líkingum [...] er það sérkenni Ein­ars hvern­ig myndir dauðra hluta og lifandi eru sam­kveiktar og sam­runn­ar í ljóðum hans. Þegar skáld­ið leitar að and­stæð­um við hafið þá velur það land og himin, en þegar það vantar lík­ing­ar þá sækir það þær til mann­lífsins fyrst og fremst. Ásamt and­stæðu­leikn­um eru þessar líkingar það sem mest líf kveik­ir í kvæðinu.



Um byggingu kvæðisins segir Kristinn m.a. (bls. 101-2):



Það er í fyrsta lagi óbrigðult sér­kenni Einars Bene­dikts­sonar að draga fyrst upp heildarmörk þess sviðs er hann ætlar að lýsa, af­marka það skýrt í rúmi og tíma. [...og bls. 104:] Í fyrstu línu kvæð­is­ins] eru ákveðin ytri mörk þeirra and­stæðu­mynda er hafið býr yfir. Í erindunum bregð­ur skáldið síðan upp nokkrum þessara mynda og einkum þann­ig að hinar ólíkustu standi sam­an, svo and­stæðurnar verði sem skýrastar [...] Það er ekki um neitt samræmi að ræða í sam­setn­ingu kvæðisins eða bygg­ingu þess. [...bls. 105:] Og hinar ytri mynd­ir nægja ekki heldur, þótt stærstu sjónvíddir séu teknar, skáld­ið verð­ur að skyggnast í djúp hafs­ins, skýra eðli þess, skilja brim­tárin og allt líf hafsins, og þó ekki út af fyrir sig held­ur í sam­bandi við eðli og líf allra hluta. Kvæðið verður því ekki nema að einu leyti lýs­ing á hafinu, jafnt yfir­borði þess og djúpum, það verð­ur al­menn náttúru- og mannfélagslýsing þar sem leitað er al­mennra lög­mála og eðl­is dauðra hluta og lifandi. Sjálf lýs­ing hafs­ins er slitin sund­ur í miðju með er­indi sem dregur fram líkingu þess og fé­lags­lífs­ins. Og þegar þrjú erindi eru eft­ir af kvæðinu slítur skáldið lýs­ing­unni fyrir fullt og allt og fer út í heim­spekilegar út­legg­ingar. [...] Þetta er ekki einsdæmi um kvæðið Útsæ heldur sam­eiginlegt ein­kenni á ljóðum Einars Bene­dikts­son­ar.





Flest er þetta sannfærandi, en mér sýn­ist er­inda­röð­in úthugsaðri en Kristni virðist. Eftir upp­hafs­er­indið sem er ek. inn­gangur, yfirlit kvæð­is­ins, kemur 2. erindi með vetr­armynd hafs­ins; myrkur, hafís, sjóslys. 3. er­indi sýn­ir líf­ið í undirdjúpum hafsins, og myndrænt, að þessar fram­and­legu líf­verur lúta sömu lögmálum og dýra­hjarðir á landi, einnig sækja þær m.a. róður eins og menn. 4. erindi víkur svo upp í fjöru­borðið, og líkir brim­inu við mannveru, en 5. sýnir mann­hafið á torgum stórborga, og út­fær­ir þá mynd m.þ.a. tala um bylgjur í fjöldans flóði, „andlit sem rísa og sökkva á streymandi torgum“, greini­lega til að finna samsvaranir þess við út­sæ­inn. Allt lýtur þetta að því að sýna ein­ingu undir fjöl­breytilegu yf­ir­borði. Rétt er það hjá Kristni að and­stæðurnar eru skerpt­ar með því að stilla þeim saman. Þannig er haf­ið í úfnum ham í 4, 7, og a. n. l. 9. erindi, en kyrrð­ar­mynd­ir af haf­inu koma á milli, í 6. og 8. er­indi. En raun­veru­lega tengir myndmálið þessar andstæður. Hafið er persónu­gert þegar í 2. er­indi og áfram í 4. er­indi sem einhver máttug vera. Sú mynd skerpist í 6. er­indi, þetta er tröll sem rífur allt í tætlur. Sama mynd helst í næsta erindi, en þar ríkir alger kyrrð og friður, þar er ásta­fundur hafs og himins, persónu­gerðra í tröllslíki (5.-6. lína: „Þinn barm­ur aðeins hrærist og hljóð­lega stígur,/ en himneska segulfangið á móti þér hnígur“). Það er und­ir­bú­ið fyrr í erindinu: „þá mæna til stjarn­anna skuggar eyja og dranga/ og vefjast í löngum örmum, sem risi og rýgur“ (2.-3. lína). Þessi miðhluti (4.-8. erindi) sýn­ir þá hafið í sund­ur­leit­­ustu myndum, og 8. erindi lýkur á því að tengja sál mælanda haf­inu. Þá kemur sér­kenni­legur milli­kafli. 9. er­indi hefst á því að sýna óveður í aðsigi und­ir kyrrð hafsins, en síð­an kemur stutt endur­sögn eddukvæð­isins „Loka­sennu“ í 9-10. erindi. Meiningin er, einsog Kristinn seg­ir (bls. 106): “Skáldið sér bein­línis trú feðr­anna spegl­ast og lifa í mynd­um hafsins, sér sama eðlið í heiðn­inni og haf­inu.” En annars er hér mest dval­ist við and­stæðar til­finn­ing­ar Loka, sem “felur sig sjálfan í þjósti og þótta [...] þjakast og elskar í sinnar heift­ar viðj­um.” Þessar and­stæðu tilfinningar endur­spegla fyrrnefndar and­stæður hafs­ins í mið­hlutanum, og virðist nær­tækt að sjá Loka sem fulltrúa mannkyns í þessu. En síðustu tvö erindi kvæð­is­ins eru ákall til hafsins sem yfir­stígur sálarlíf manna, vilja þeirra og von­ir (11. er­indi). Hafið er hér mynd hins óræða, og því hefst loka­er­indið á að líkja mann­kyninu við börn, sem leika sér á ströndinni. Hafið gagn­tek­ur brjóst mæl­anda, en sjálft á það ekkert hjarta, er mann­kyninu framandi. Mér virð­ist það vera í góðu sam­ræmi við þennan skiln­ing, að kvæðið er ekki skipu­legt yfirlit um hafið, því þá hefði einmitt manns­and­inn grip­ið það! En þetta, að sýna viðfangsefnið sem órætt, eitt­hvað sem viðtekin, kunn hugtök ná ekki yfir, það virð­ist mér kjarni þess­arar nýju bókmennta­stefnu, blæleitni (symbólisma). Helstu ljóð hennar hnita saman hljóm, myndir, hrynj­andi og hug­mynd­ir til að skapa eitthvað nýtt, eitt­hvað sem ekki verður endur­sagt í venju­legu máli. Og mér virð­ist að einmitt það hafi verið kallað “úr­kynj­un”, en það slag­orð var, eins og áður segir, mjög út­breitt um þessa nýju bók­mennta­stefnu í lok 19. aldar. Nú er rétt að taka skýrt fram, að það orð notar Krist­inn ekki hér. Enda er sú hug­mynd hrein íhalds­stefna, ekki sæmandi svo róttækum bókmennta­túlk­anda, hún gerir ráð fyrir því að áður hafi ríkt eitthvað betra, væntanlega heil­steypt­­ara og sam­ræmd­ara.



Það er sem áður segir oft aðferð Einars, að byrja kvæði á náttúru­lýs­ingu, en fara síðan út í heimspekilega ályktun. Þetta byggist á þeirri meg­in­hugsun hans “að allt sé af einu fætt”. En Kristinn dregur saman þær nið­ur­stöð­ur um kvæðið að það sé - einsog kvæði Einars almennt - fyrst og fremst mótað af and­stæðum sem skáld­ið reyni hvað eftir annað að sætta, árang­urslaust. Kristinn skýrir þetta með óleysanlegum andstæð­um í persónu­leika skáldsins sjálfs, og rekur þær aftur til ósættanlegra and­stæðna meg­in­stétta­ þjóð­fé­lags­ins (bls. 110). Ekki finnst mér það ósenni­legt, þótt hvorki verði sann­að né af­sann­að. Verri finnst mér kenningin (s.st.): “Hvor stétt á sín sjónar­mið, sínar kenningar, sinn hug­mynda­heim.” Þessi kenn­ing er sam­eig­inleg kröt­um og stal­ínistum, en er al­veg and­stæð marxismanum, sem Kristinn vildi þó fylgja. Marx­ism­inn kenn­ir, að í borg­ara­legu þjóð­fé­lagi drottni borg­ara­leg­ar hug­myndir, einnig í verka­lýðsstétt­inni, þang­að til hún losi sig undan þeim með sig­ur­sælli bylt­ing­ar­bar­áttu (sjá nánar bók mína 1990, einkum 1. hluta). Kenn­ing­in um að al­þýða í auð­valds­þjóð­fé­lagi ali með sér sér­stak­an hugs­unarhátt og menn­ingu, and­stætt því ­þjóð­fé­lagi, sú kenn­ing getur þessvegna einungis leitt til þess að sætta alþýðuna við þau borgaralegu viðhorf sem ríkja einnig í ”andstöðulist”, þ. e. sætta hana við ríkjandi menningu, þ. e. halda borgaralegum við­horf­um að alþýðu, í stað þess að örva hana til byltingarbaráttu.



En Kristinn sagði 1934 (bls. 54 o.áfr.) að fyrr­nefnd­ar andstæður í ljóð­um Einars end­ur­spegli ekki aðeins stétta­andstæður þjóð­fé­lagsins, held­ur séu þær veik­leika­merki á bókmenntum (bls. 56):





Mótsetningarnar milli hennar [yfir­stétt­arinnar] og verka­lýðsins urðu meiri og meiri, og þar með fjarlægðin. Að sama skapi fjar­læg­ist hugmyndalíf Ein­ars Benediktssonar veruleika þjóð­fé­lagsins, að sama skapi vaxa mót­sagn­irnar í lífi hans og hugs­un. Hinn fram­sækni, fleygi andi flaug fyrir yf­ir­stétt­inni, hvatti til kapps, til metn­aðar, út í fleiri og fleiri öfgar, inn í óskalönd sín. En því fátæk­ari verð­ur list hans að sann­leik lífsins. [áður, bls. 55 segir:] því lengra, sem Einar lenti út í heim­spek­ina, því fátækari sem hugsun hans varð að veru­leika, því fátæk­ari varð skáld­skapur hans að list.





Þetta atriði, um fjarlægð Einars frá alþýðunni, kom fyrr fram hjá Sigurjóni Friðjónssyni, svo sem rakið var hér áður (k.2.4.). En merkilegra finnst mér að sjá þessa meginkenningu Kristins koma fram löngu fyrr en hann skrifaði, hjá Jónasi frá Hriflu, í byrjun árs 1920[2]:



.



Einar verður með þessum hætti höfuðskáld auðmagns-stefn­unn­ar hér á landi. Bestu ljóð hans eru ort við vöggu hennar meðan hún er barn í reifum, meðan því nær allir eru fátækir, landið á eng­in skip og engir nema skýjaglópar meðal fjárbralls­manna töluðu í alvöru um að nota vatnsafl landsins.



En fyrr en varði fóru hinir djörfu gulldraumar Einars Bene­dikts­sonar að nálgast veruleikann. Og um leið hættir þetta viðfangs­efni að laða hug skáldanna. Hver myndi nú velja sér að yrkis­efni gull­hrúgur þær, sem dregnar eru saman með keðju­verslun á neyð­ar­tím­um, eða með því að misbjóða varnarlausum vesal­ingum? Veru­leika­sýnir af því tagi hafa ald­rei blásið anda­gift í brjóst nokkr­um manni.



Þegar frelsið þráða, og nokkuð af hinum “gyllta leir” var feng­ið, hafa skáldin horfið af fornum slóðum, dregið sig inn í drauma- og ævintýraheiminn, af því að hann einn fullnægir hug­sjón­um þeirra. Flest hin tilþrifameiri yngri skáld, Sigurður Nordal, Stef­án í Hvíta­dal og Davíð Stefánsson hafa allir numið sér land í námunda við þá sem fyrrum ortu þjóðsögurnar, þjóð­kvæðin og æv­in­týrin. Og þar munu þeir fá varanlegan griðastað. Framfarir sam­tíð­arinnar munu eigi loka þeim heimi fyrir þeim. Þvert á móti er nú í þjóð­líf­inu ger­samlega blásinn upp sá jarð­vegur, þar sem þjóð­sög­ur og þulur urðu til fyrr á tímum.





Hér er þá komin skýring á straumhvörfum í íslenskum bók­menntum í upphafi 20. aldar. Hún er mjög á sömu lund og áhrifamikil kenning rúss­neska sósíalistans Georgs Plekhanov, í upphafi aldarinnar, um að skáld fái inn­blástur af því einu, sem höfði til samkenndar fólks, en ekki sér­hags­muna (sjá bók mína Rauðu pennarnir, bls. 9-10). Jónas var nákominn sós­íal­ist­um á þessum árum (meðal stofnenda Alþýðuflokksins fjórum ár­um áður), og kenningar Plekhanov voru mjög útbreiddar meðal þeirra alþjóð­lega. En vitaskuld hefi ég engar heimildir um hvað Jónas las.





6. 8. Sigurjón Friðjónsson (1867-1950)



var einna fyrstur - eftir Einar - með ljóða­gerð af þessu nýja tagi. Á það var bent þeg­ar í árslok 1901 í kynningargrein í Eimreiðinni, af Guðmundi bróður hans (bls. 96):





Sigurjón er eina íslenska skáldið, sem ég veit til að ort hafi í anda “symból­ist­anna” svokölluðu. Skáld­skapur þeirra er í lík­ing­um og allur á huldu. - T.d. skal ég geta þess, að þegar Sigur­jón yrkir um nýju tíðina, sem Harpa ber að sunnan, þá er átt við sól og vor nýrra hug­sjóna, nýrra atvinnuvega o.s.frv. jafnframt því sem lýst er veðr­áttinni suð­rænu. Sé þessa gætt og grafist eftir ímynd eða tákni hugs­unarinnar, vona ég, að með­al­greind­ir menn fái skilið höf­und­inn, ef þeir lesa kvæðin oft, enda ber meira á þess­um dularhjúpi hugs­un­ar­inn­ar í þeim kvæðum sumum, sem hér eru eigi færð í letur.





Kvæðið Harpa eftir Sigurjón birtist á miðju ári 1900 (Þjóðólfi 23.5.). Og ekki verð­ur séð í því nein vís­bend­ing um að það fjalli um neitt ann­að en vorið, nema e.t.v. 2. lína 2. erindis:





Og ljósvakinn titrar og loftið blánar



og ljósgeislar sverfa hvern helsis taum.



Og fönnin þiðnar, úr fjalli til Ránar



ber fossandi, hlakkandi straum.



Og svo kveður lóa í lágum runni



og léttur þröstur á bleikum meið:



svo fjölgar uns allt sem að kveða kunni



er komið og syngur á eina leið.





En vel má skilja “helsis taum.” sem klaka­bönd, og þá getur einnig þetta átt algerlega við vorið. Vissulega bannar ekkert að skilja þetta einsog Guð­mundur Frið­jóns­son gerði, og eðlilegt virðist að skilja svo ljóð Sig­ur­jóns amk. fyrsta áratug aldarinnar - vegna þess að þau eru fyrst og fremst nátt­úrulýsingar, en þrungin persónugervingum, svo mannlegar tilfinning­ar verða hvarvetna fyrir. Túlkun Guðmundar er og sam­kvæm orðsins hljóð­an, “symból­ismi, táknsæisstefna”. En væri hún skilin svo að ljóðið vísi til tiltekinna fyrirbæra, mætti spyrja hvort slík túlkun væri ekki helst eðli­leg í lönd­um sem búa við harða ritskoðun? Þetta minnir á lík­inga­sög­ur Jesú, en með svona túlk­un­ar­að­ferð má raun­ar lesa næstum hvað sem er úr hverju sem er og segir hún því ekkert um táknsæisstefnu sem einkenni bók­mennta. Vissu­lega einkennist hún af því að gefa í skyn, fremur en segja eitt­hvað bein­línis, og hún einkennist af marg­ræð­um tákn­um. En mér virð­ist að ekki verði fullyrt að náttúru­lýsing fjalli í raun um t. d. sálarlíf fólks, nema eitt­hvað í orðalagi rjúfi hreina nátt­úru­lýs­ingu. Guðrún Bjartmars og Ragn­hildur Richter sýna í Inn­gangi sínum að úrvalsverkum Huldu (bls. 51 o.áfr.) góð dæmi slíkra nátt­úru­lýs­inga hjá Huldu, enda þótt þær gangi helsti langt að mínu mati, það er ekkert ótvírætt að “meðan andhlýr aust­an­blær/ ásana brúnu strýkur” sé liður “í býsna hold­legri nátt­úru­lýs­ingu.”



Hinsvegar virðist mér að í meginatriðum hafi Guðmundur hér lög að mæla. Það er að segja, ef við skiljum kvæðin ekki sem dulin skila­boð, ekki svo að þau eigi við þetta frekar en hitt, heldur að þau birti tilfinn­ingu. Þá birti­r framangreint kvæði frelsunarkennd, sem á ekkert síður við stjórn­mála­hvörf en vorið. Slíks sjáum við dæmi hvað eftir annað í ljóðum hér á eftir. En það næði ekki neinni átt að lesa tiltekinn stjórn­málaboðskap úr kvæðinu, annað en þetta, gleði yfir frelsi.



Þorsteinn Gíslason er væntanlega höf­und­ur ómerktrar greinar, Sandsbræður, í tíma­riti sínu (Óðni III. árgangi, bls. 40) árið 1907:





Sigurjón hafði, þegar hann byrjaði að yrkja, sýni­lega orðið fyr­ir áhrif­um frá “symból­ista”- skáld­skapnum, sem þá um tíma kom fram í dönsk­um og norsk­um bókmentum og hefur haft nokk­ur áhrif á íslenskan kveðskap. Rétt eftir 1890 gáfu nokkrir ungir rithöf­und­ar hjá Dönum út tímarit, sem hjet “Taarnet” og átti að ryðja þess­ari skáld­skap­ar­stefnu braut. Ekki kom það út nema stuttan tíma og mun litla útbreiðslu hafa fengið.





Einhversstaðar hefi ég séð eða heyrt þá kenningu, að Sigurjón hafi fallið í skugga annarra nýróm­ant­ískra skálda vegna þess hve seint hann safn­aði ljóð­um sínum í bók. Fyrsta kvæða­safn hans birtist 1928, þegar hann var rúm­lega sextugur, og þessi ljóðagerð löngu orð­in alkunn. Það var reyndar óvenju stórt ljóða­safn, yfir 270 ljóð, og flokk­uð eftir efni (vor­dagar, morgunljóð o.s.frv.), og það gerir bók­ina mun einhæfari en ella myndi. En reynd­ar er þessi kenning fráleit. Ljóð Sigurjóns birt­ust, mörg og áberandi, í blöð­um og tímaritum sem fengu miklu meiri út­breiðslu en ljóða­bækur. Það elsta sem ég hefi séð (í skrám Lands­bóka­safns) birtist árið 1898 (í Bjarka). Næstu ár birt­ust amk. tveir tugir ljóða, m.a. í helsta bók­mennta­tíma­riti lands­ins, Eimreiðinni, en bara í Óðni birtust síðan á hálf­um áratug (1906-1910) yfir fjórir tugir ljóða hans, oft mörg ljóð saman í bálki, svo ekki fór þessi kynning of mikið á dreif. Sá straumur hélt óslitið áfram næstu árin, en á fyrsta áratug aldarinnar er þetta samtals á við meðal­ljóða­bók, og virðist mér að fá skáld hafi fengið svo mikla útbreiðslu um þær mund­ir. Hitt er svo annað mál, að með fyrrgreindum annmörkum bókar Sig­ur­jóns (auk urmuls slæmra prent­villna) nálgast hún bókmenntalegt sjálfs­morð. Jakob Smári komst næst þessu slysi með mjög stóra fyrstu bók, en forð­aðist ein­hæfni flokkunarinnar.



Sigurjón vék (3.8.1906) að fyrrgreindum orð­um Ein­ars Bene­dikts­son­ar um Huldu, að hún væri (“fyrsti gróður vors nýj­asta skóla”) og sagði:





Þetta er rétt að því leyti, að hér er að vissu leyti um nýjan “skóla” (þ.e. stefnu) að ræða en rangt að því leyti, að “Hulda” sje hinn “fyrsti gróður” þeirr­ar stefnu. [...] Þar er ekki hægt að benda á neitt ákveð­ið skáld til forustu, heldur má kveða svo að orði, að þjóð­ar­andinn og sérstaklega vor­hugur þjóð­arinnar brjóti sér þannig veg ósjálf­rátt á fleiri stöð­um í senn - og þó einna fyrst hér í Þing­eyj­ar­sýslu.





Sigurjón segir þingeysku skáldin “a.m.k. tvö, [...] auk Huldu”, en nefn­ir þau ekki. Má aug­ljóst vera, að annað þeirra er hann sjálf­ur, hver sem hinn á að vera. Það var fáeinum árum síðar að ljóð Jóhanns Sigur­jóns­sonar birtust að ráði. Sigurjón telur auk þess til stefnunnar Jóhann Gunn­ar Sig­urðs­son, Sigurð Sigurðs­son, Jónas Guðlaugsson, Sig­urð Kr. Pét­urs­son og Guðmund Guð­munds­son, “og hann kemur einna fyrst fram op­in­ber­lega” - segir Sigurjón, en það virðist mér betur eiga við hann sjálf­an.



Áður voru hér rakin orð Sigurjóns um ómrænan kveðskap. Peter Carleton tilfærir (bls. 98-100) þessi formálsorð Sigurjóns 1928, og tekur dæmi af ljóði hans Vor sem einhverri tærustu ljóðrænu sem heyrst hafi á Íslandi síðan Dalvísa Jónasar Hall­gríms­sonar kom fram. Tækni ljóðsins höfði algerlega til heyrnar og sé særingakennd, endur­tekn­ing­ar fyrstu og fimmtu línu séu eins og endurómur af heiðnu tóni, hrein tilfinning nátt­úru­unaðar umfram allt[3]. Þar á Carleton augljós­lega við þrítekninguna í upp­hafi fyrstu línu hvers erindis, en ekki rekur hann þetta frekar.





Vor


Ljómandi, ljómandi, ljómandi vor



leikur um gilin og rinda.



Upp eftir hlíðunum eru þín spor



efst upp á fjallanna tinda.



Ljómandi, ljómandi, ljómandi vor



leitarðu að fagnandi börnum?



Senn nemur erlan þín sólgylltu spor



og svanurinn kvakar á tjörnum.



Svipaðar endurtekningar notar Sigurjón víðar, t.d. Sólfagra sól. Ekki finnst mér þetta sérlega vel heppnað, fremur eins og klifun full­yrð­ingar en ómrænt. Þar er áhrifaríkara að stundum ber mikið á innrími. Vissu­lega eru sumar línur Sigurjóns minnisstæðar ómrænt, t.d.:”dunar þungt á söndum sjár.” í ljóðinu Regn frá 1909. Það er fimm erindi, hvert 10 línur, hver þeirra hefur 4 ris, eingöngu réttir tvíliðir, nema 5., 9.& 10. eru stýfðar. Þetta er 3. lína fyrsta erindis, endurtekin breytt sem lokalína 4. er: „Þungt á söndum særinn gnýr.“ Hér skiptir ekki mestu að þetta er runa réttra tvíliða, það er algengt. Mikilvægari er hljómurinn, annarsvegar 3-4 n-hljóð í hvorri línu, en einnig röð sérhljóðanna[4]: -u-ú-á-ö-á; ú-á-ö-æ-í. Í þessu verður vart greint neitt sameiginlegt annað en breytileiki hljóms innan reglu­bund­innar hrynjandi og merkingar. Meira máli sýnist mér skipta þjóð­kvæða­svipurinn sem fylgir þessum línum, þ.e. staðhæfing um algengt ferli í náttúrunni, en a.m.k. eitt orð í setningunni má skilja þannig að það vísi til mannheima: „þungt“. En þá skipta líkingar og persónu­gerv­ingar meira máli; auðkennt í eftirfarandi fyrsta erindi:





Fölnuð velkjast lauf í lundi;



lyfta stormar bylgju’ á sundi;



dunar þungt á söndum sjár.



Unnir rísa á ýmsa vega



eins og brjóst í þungum trega.



Þrútin hníga þoku tár.



Lemur regnið hús og hjalla.



Húmsins skuggar vaxa’ og falla.



Bleik og köld er nótt sem nár.



Fölt og visið foldar hár. –





Náttúrufyrirbæri eru persónugerð, og allt lýtur þetta að hnignun og sorg, í stíl við það eru upphafs­orðin. Öldurnar rísa og hníga eins og ekka­þrung­ið brjóst, rakadropar þéttast eins og þokan gráti, þessu fylgir fjand­skap­ur regnsins og jörðin er eins og gamalmenni, en nóttin eins og lík. Því­lík efnistök – hnitun fjölbreyttra atriða - einkenna einnig hin erindin, þótt hér verði ekki orðlengt um þau, og verð ég að álykta að það væri ósanngjarnt gagnvart skáldskap Sig­urjóns að trúa því að hann sé fyrst og fremst „ómrænn“. En þetta sjáum við af fleiri dæmum hér á eftir.



Á fyrstu tveimur áratugum ferils síns birti Sigurjón þá a.m.k. 156 ljóð í blöðum og tímaritum, og er það á við stórt kvæðasafn. Um fyrstu 40 ljóðin má segja að mest ber á yndislegu umhverfi, í meira en 6 tíundu ljóða. Hrikalegt er í innanvið fjórðungi ljóða. Þetta helst lítt breytt þessa fyrstu tvo áratugi ljóðagerðar Sigurjóns. Yndislegt umhverfi er í rúmum helmingi ljóða, en hrikalegt aðeins í sjöttungi þeirra. Fyrstu árin er mikið jafnvægi vors og hausts, og raunar líka kvölds og morguns. Ljóðin eru svo náttúrubundin, að þetta kemur víðast fram. Þetta breytist svo þegar á heild tveggja áratuga er litið, þá er vor í meira en helmingi ljóða, en haust og vetur í rúmum þriðjungi. Ámóta mikið er þá um kvöld og morgun, í þriðjungi kvæða hvort. En kvöld og nótt eru samanlagt í tveimur fimmtu dæma, litlu fátíðari eru morgunn og dagur. Hnignun og dauði gera samanlagt tæpan sjöttung, framþróun er ívið algengari (í tæpum fimmtungi ljóða). Vellíðan er greinileg í rúmum þriðjungi, en þjáning í rúmum fjórðungi. Ástarunaður greinist í sjöunda hverju ljóði, en ástarsorg aðeins í fjórum af hundraði. Guð er nokkru algengari, einkum framanaf, í sex af hundraði kvæða á þessum tveimur áratugum (en í sjöttungi fyrsta áratuginn). Ámóta mikið ber á þjóðkvæðabrag (8 kvæði). Öðru er vart orð á gerandi.



Sigurjón er aðeins fyrir neðan meðallag fjölda myndhvarfa, en hefur þrefalt fleiri persónu­gervingar en aðrar líkingar. Oftast persónu­gerir hann morgun, nótt, vind, þoku og þ.h. Það er fjórðungur, en fimmt­ungur er um fljót, öldur og haf, næstum eins mikið er um sértekningar. Elli er ekki síður áberandi en æska. Lítið um atlot, og yfirbragð persónu­gerv­inga er illi­legt, allt eins og hitt, grátur og kvein er ámóta algengt og hlát­ur eða bros, sömuleiðis söng­ur og hljóðfærasláttur, áttungur dæma hvert. Rúm­lega helmingur líkinga hans er um sértekningar (hug, sorg, þrá, von), en fjórð­ungur um sól, þoku, nótt. Hann líkir þessu oftast við eitt­hvað mann­legt (lík, blóð, stunu), en dæmin eru fremur fá (30).



Af þessu má sjá fjölbreytni, þótt jákvæða hliðin sé aðeins meira áberandi en hin. Sigurjón gerir nokkuð af vísunum til þjóðkvæða, t.d.: ”Vappaðu með mér Vala”, ”Ærnar renna eina slóð”,





Sólin birtist hlíðum hárra fjalla


Þetta er fyrsta kvæði Sigurjóns sem ég hefi séð á prenti (í Bjarka 1898), og er undir vikivaka­hætti. Sá brag­arháttur var mjög vinsæll á 17. og 18. öld, en ég veit ekki önn­ur dæmi þess að undir honum hafi verið ort í lok 19. aldar. Virðist augljóst að það hafi Sigurjón gert vegna áhrifa frá þjóðkvæðasafni Ólafs Davíðs­sonar. III. bindi þess, fullt af vikivökum, birtist fjórum árum fyrr, árið 1894.



Fyrst er hér þriggja lína viðlag, síðan fimm erindi, hvert átta línur. Þetta tengist þannig, að fyrsta lína viðlags verður 5. lína hvers erindis, en lokalína viðlags verður lokalína hvers erindis. Allt er þetta skv. hefðinni, þá tóku menn gjarnan gömul viðlög inn í kvæði sín. En mér þykir lík­leg­ast að Sigurjón hafi sjálfur ort þetta viðlag - m.a. vegna þess, að í við­lag­inu er mótsögn, a.m.k. í tilfinningu, jafnframt hreyfingu upp á við. Fyrsta lína birtir hlátur, sem venju­lega er jákvætt atriði, en jafnframt minnir þetta á tröll eða vættir („Niðri í djúpi dimmt við hlær“). Í 2. línu viðlags segir að tekið sé að kvölda, en í 3. línu að sólin birtist! Vissulega getur það staðist náttúru­fræðilega að hlíð­ar há­fjalla verði baðaðar sólskini við sólsetur, en svipuð hvörf, frá nei­kvæðu til já­kvæðs, setja meginsvip á kvæðið. Það lýsir morgni mynd­rænt, hvernig þoka víkur fyrir sól. Annað gerist ekki, nema hvað maður rær einn á báti, og börn fara út til leika. Það er ósérkennileg mann­lífs­mynd, eða með öðr­um orðum dæmigerð, en kvæðið brag­ar af persónu­gerv­ingum, svo náttúran verð­ur tilfinningaþrungin og nákomin lesendum. Fram­an af kvæðinu kem­ur tröllslegur dráttur einnig fram í „bungu­breið­um, brettum jökulskalla“, en einkum setur grámi og sorg svip á náttúruna; „grátin hanga lauf á meið­um“, „þokan sortnar og sígur/ sollið tár um vanga hnígur“. Umskiptin verða í miðerindinu, sem er fremur hlutlaust til­finninga­lega, en persónu­gerv­ingar sýna breytingu: Gufa stígur upp frá svört­um sandi, og teygir sig upp að bandi þokunnar, en já­kvæðara er: „sólar vermdur sunnan andi“. Í síð­ustu tveimur erindunum breyt­ist fyrra við­lagið frá hinu trölls­lega stig af stigi, verður í 4. er.: „Hlær við dimmt í hamra þröng“ -sem rímar við undanfarandi yfirlýsingu um tilfinn­ingar: „Gleð­in rís við skraut og söng“. Ámóta sértæk er sú 5. lína sem kemur í stað viðlagslínunnar í loka­erindi: „Er þá sigur vonar vís?“ En breytingin birt­ist enn betur í fín­legum tilbrigðum; í stað „Grúfir þoka“ í 1. er. kem­ur „Lyftist þoka“ í 4. er., í stað „alda bátsins hliðar slær“ í 2. er. kemur „laugar alda bátsins síð­ur“ í 5. er. Í stað grárra heiða 1. er. kemur „ljós­grá móða“ í 4. er. og „angan ber af grundum grænum“.



Aldarlokaárið 1900 birtust nokkur ljóð eft­ir Sigur­jón í Þjóðólfi. Þar á meðal er





Morgunn



(birtist 9/2, endur­pr. í Ljóðmælum, bls. 37-8). Ljóðið er þrjú er­indi, hvert átta línur. Jafn­ar línur eru rím­að­ar saman, þær hafa þrjú ris hver, en oddalínur hafa fjögur. Morg­unn­inn birtist í persónu­gerv­ing­um. Fyrst birt­ist hin “ljósa brún”, hún er einsog saumakona, lyfti (dökku) klæði, rakti upp fald á (rökkur)voð, og renndi í hana (gulln­um) þræði. Þá er nóttin persónu­gerð einkar skarpt með því að segja hana lit­verpa, hún er því einsog feimin ung­mær sem “leit um öxl og flýði”, þegar hún sá dag rísa. Ófeimnari er sú stúlka sem morg­un­roð­inn er persónu­gerður í, “þerna sólar” þrýsti kossi að fjalla­tindi og rétti honum rós, enda verð­ur hann rjóður við, eins­og feiminn unglings­pilt­ur. Síðasta persónu­gerv­ing­in er í lok 2. er­indis, “sólin sté af beði.” Loka­erindið lýsir þá við­brögð­um ljóð­mæl­anda við þess­ari morg­un­mynd. Einnig hann leggur nú upp í sína fyrstu för, og sér leiðarlok lífs síns fram­undan - í ljóma. Enda á leið hans að liggja um “fagurbláan geim­inn”. Kannski síð­ast­talið orð sé valið til að tengja betur ljóð­mælanda við him­in­tungl­in sem áður var um rætt. En “geimur” getur líka merkt víð­lent svæði á jörðu niðri. Auk þess­ara síð­ast­töldu lita (fagurblár, rjóður) er gull­inn lit­ur til að varpa ljóma á þennan morg­un, þar sem fögnuður er allsráðandi- þrátt fyrir að þar séu notaðar and­stæðurnar “ljós-dökk­ur”, svo sem eðli­legt er, og þrátt fyrir að horft sé fram til dauðans, sem áður segir.





Í aðsigi



Annar litblær er á þessu ljóði (sem birtist 4/5 1900). Einnig það er þrjú erindi, en hvert þeirra er sjö línur. Miðlínan rímar við odda­línur og hefur fjögur ris einsog þær, en hinar línurnar hafa þrjú, því er rím abaabab. Þessi sérstaða miðjunnar fylgir því að þar verða jafnan skil í hverju erindi, svo að skiptir um hug­blæ. Persónu­gerv­ingar Sigurjóns eru sumar einsog hálf­gerð­ar, á mörkunum, með orðum sem sum geta bæði átt við fólk og náttúru­fyr­ir­bærin sem lýst er. En hér eru þær ótvíræðari, spóar “taka gleði­lag”, það er sólbros um ungan fífil, og öldurnar “rísa, vaka, fara hvíslandi”. En í lokalínu 1. er­ind­is segir að þær “horfa til baka”. Þar með verður persónu­gerv­ing­in greini­legri og jafn­framt sýnir þetta óút­skýrð­an, óljósan ugg, einsog ókyrrð rjúp­unn­ar í 4. línu. Þannig skiptir nokk­uð um hug­blæ í miðju erindi, frá un­að­armynd upp­hafs­ins, þar sem græn sveit liggur í gulli (þ.e. sól­skini). Og slík un­að­armynd er í fyrra hluta hvers erindis, en æ svartari andstæða henn­ar kemur fram í síð­ari hluta. Þetta birtist mest í því að tala um mann­auða nátt­úruna einsog mann­verur væri, eða aðrar lífverur. Auk fram­an­tal­ins er rósin ung, rjóð og heit (3. lína 1. erindis) einsog stúlka; hlíðin á “bjarta brá” einsog glöð mann­vera. En á hinn bóginn veinar vind­ur­inn einsog mann­vera sem þjáist, og á sama hátt stynur aldan í lokin, svo létt sem þó var yfir þeim í 1. er. Og þokunni er líkt við hund eða enn ugg­væn­legra dýr, með laf­andi tungu. Enda grúfir þokan, það orð vekur hug­renningar um þrúgandi ógn, og hún er grá, það er hefð­bundið neikvætt, og þessi hug­blær styrkist af samhljóm­inum grú-grá.



Framangreindar andstæður birtast enn í því að allar hlý­legustu hugs­anir mælanda fylgja dalnum í suðri (2.er.), og þessi bjarta hlið landsins vekur mælanda glaða þrá (18.l.), sterkari en vonina (17.l.), en jafn­framt sára, því “norðrið er dimmsvart” og frá djúpinu berst þung­ur og dapur hvinur. Hér verða umskiptin í miðju erindisins sér­lega skörp, innan setn­ingar sem lýsir von­inni. Svartsýnistónninn yfirgnæfir loks gjör­sam­lega í kvæðinu.





Haust



birtist með þessu ljóði (í ársbyrjun 1900, Þjóð­ólfi 2/2, hvorki það né Í aðsigi voru tekin upp í Ljóðmæli). Það er þrjú erindi und­ir forn­yrð­is­lagi. Því fylgir að orða­val er hér forn­legra en endra­nær, en í heild er það þó ekki fjarri dag­legu máli. Þetta minnir á ljóð Jón­as­ar Hall­gríms­son­ar undir sama hætti, t.d. s. hl. 2.er. hér: “Und­an náköld­um/ norð­an­blævi/ hvarfla kvöld­riður.” Hér kemur fyrir kenn­ingin “brá­máni” (sem fræg er úr vísu Kormáks um Stein­gerði); biksvart loft gín við auga. Enn er mannauð nátt­úra persónugerð til að sýna til­finn­ing­ar, “öldruð unn” stynur þunglega, því hún veit hvers vænta má. En hins­vegar “sígur að austan/ lævís læða”. Það liggur beint við að skilja það orð sem dala­læðu, þoku sem auðvelt er að villast í, en jafn­framt birtist lesendum háska­legt katt­dýr, ”læða”. Eftir allar þess­ar uggvænlegu myndir um vítt svið lofts, sjáv­ar og lands þjappast ljóð­ið í lokaerindi um við­brögð smæl­ingja við þessu, þar ríkir fullkomin svartsýni, lóa er ”einmana, áttavillt,/ á eyðiströnd. Sígur og sígur/ svartskýja fjöld”.



Sigurjón birti einnig ljóð af öðru tagi þetta lokaár 19. aldar. 1. júní var eftir hann syrpa af ástarljóðum í Þjóðólfi. Allt ber það eina fyrirsögn:





Ásta.



Þar eru fáeinar fer­skeytlur, ein 8 lína vísa, 3 erinda ljóð (Við sát­um við borðið, endurpr. í Ljóð­mæl­um bls. 52), og tveggja erinda ljóð (Þú kvartar um fjarlægð). Fer­skeytl­urnar eru hefð­bundnar að formi, en þrungn­ar ofsafengnum tilfinningum og því ólíkar öðrum kveð­skap Sig­ur­jóns:





æðar þrútna ofsaheitar,



allt í handaskolum gengur.





Hin ástaljóðin eru kyrrlátari. Setningin “Við sátum við borð­ið” er upphaf tveggja fyrstu er­indanna, og er þannig lögð áhersla á kyrrstöðu, en undir henni býr spenna sem birt­ist í setning­um sem sýna togstreitu í huga mæl­anda. Hann þráir konuna ákaft, en hefur litla von um hana, og því er fram­hald­ið: “-En ef... og ef (hún ann og ég mætti).” Orð­ið sem hann lang­ar til að segja henni berst á tungu hans, og nátt­úru­mynd­ir end­ur­spegla hug­arstríð hans; fuglar syngja og það er flóð í ánni. Í 2. erindi er framhald end­ur­teknu setn­ingarinnar sól­ar­lag. Það sýnir í senn að tím­inn er að renna honum úr greip­um, og jafnframt er það persónu­gert til að sýna hvað hann þráir, sólin kyssti tindinn. Í 3. erindi fylgir ljóð­mælandi þessu for­dæmi “ósjálfrátt”, kyssir hönd hennar. Hún tekur hana aftur og um leið efann “sem mig nísti”. Ekki virðist mér ótvírætt hvernig á að skilja þetta. Missti hann alla von með hönd hennar? Eða hlaut hann vissu um að fá hana vegna þess hve “undurhægt” hún tók hönd sína aftur? Þá væri hagleg mótsögn í síð­ustu tveimur lín­un­um eða réttara sagt, merk­ingu orða­lagsins slær um. Mestu skipt­ir þó hvernig fyrrnefndar náttúrumyndir end­urspegla breyti­legan hug mannsins og orð­in ljá fyrsta er­indi blæ æsings (“berj­ast, flóð”) en 2. erindi kyrrð (þar er tvítekið sagnorð sem tákn­ar hæga hreyf­ingu: “hné”).



Í Ljóðmælum Sigurjóns eru fimm þulur, og hefi ég ekki nánari upp­lýs­ingar um aldur þeirra. Þær líkjast flest­ar framangreindum kvæðum í því að fyrst er horft vítt yfir sveitina, en síðan stöðvast við smágerðan gróður. Þannig eru þær í röklegu samhengi, ólíkt þulun­um fornu, en vitna sums­staðar í þær. Allt er þetta einsog í þulum Huldu, sem talin hefur verið fyrst nú­tíma­skálda til að birta slík verk.





Sól skein í runni



Í þessari þulu hleyp­ur mæl­andi “upp á hjall­ann;/ horfði’ um dalinn all­an.” Og líkt og hjá Huldu og í þulunum fornu kemur upp­talning á smá­um, geð­þekk­um fuglum eða dýrum, hér eru það önd, æður, spói, lóa, þröstur, loks hjörð og hest­ur. Hér er ek. viðlag, annað veifið kemur lín­an: “Hæ, hæ og hó!”, en hitt veifið: “Hörpu sína gyðjan sló”. Ekki er ljóst hvort í lokin er átt við gyðjuna, eða þá konu sem nefnd er í upp­hafi: “Sú er ég unni/ glaðróma söng/ gleð­innar ljóð.” En sterkastur er svipur af forn­um þul­um í lokin, þar sem fléttast sam­an leikur og losti:





Líður um sveit­ina sunnan­blær.



Þetta er eitt kunnasta kvæði Sigurjóns (þ. e. oft valið í ljóðaúrval). Það er með viki­vakahætti, Ekkert hefi ég séð um aldur þess ann­að en að það er í Ljóð­mælum (bls. 132-3). Það byggist á and­stæð­um sumars og veturs í heima­hög­um skáldsins, einsog svo mörg ljóð þess. En bygg­ing­ ljóðsins ræðst af end­ur­tekn­ingum með tilbrigðum í fín­leg­um blæ­brigð­um. Ljóðið er fjögur erindi, fimm línur hvert, en fimmta lína er endurtekning á fjórðu línu, lengd um eitt orð. Það er að forn­um stíl, einsog vikið verður að í kafl­an­um um Huldu. Orða­lag er allt mjög látlaust, það er hrein undan­tekn­ing að notað sé fornyrði einsog “röðull”, en það er greinilega til að ná stuðlun.



Enn byggist hér allt á persónugervingum mann­auðr­ar náttúru. Aðal­persón­an er sunn­an­blær. Hann vaggar sin­unni mjúklega og hvíslar að henni sakn­að­ar­ljóði, en jafn­framt þagg­ar hann þetta saknaðarljóð um sumar “sem lifnaði í gær” - þessi síðasta einkunn er fyrst höfð um ljóðið, en síðan um sum­ar­ið. Þetta eru óvænt umskipti, en þó verður ljóð­ið við þessa sam­tengingu nánast að nátt­úru­fyrirbæri. Þrátt fyrir þessa tíma­setn­­ingu er sum­ar­ið samt nýliðið, því loks hvísl­ar blærinn að sveitinni: “Senn fær þú hvíta trafið.” En það er tvírætt, táknar vænt­anleg­an snjó, en jafn­framt er þetta eins og líkklæði. Það er óvenju­legt hlut­verk sem sunnan­blær­inn fær hér, að vera boð­beri vetr­ar, kulda og dauðans.



Þetta eru aðeins fáein dæmi þeirra listi­lega gerðu ljóða sem Sigur­jón sendi frá sér um aldamótin og síðar. Þau eru yfirleitt á ein­földu máli, og byggjast á fínlega dregn­um mynd­um, sem grípa hugblæ andartaks. M. ö. o., þetta er dæmigerð blæstefna (nýróm­ant­ík), og fór að birtast a.m.k. þremur árum fyrr en fyrstu ljóð Huldu. Þegar Einar Bene­diktsson útnefndi hana frumkvöðul stefn­unn­ar á Íslandi, þá var það einfaldlega rangt, um það ætti ekki að þurfa fleiri orð.





6. 9. Sigurður Sigurðsson (1879-1939)



Áberandi er hér fyrst og fremst kvöld, í helmingi ljóðanna, einnig dauði, enda mikið um erfiljóð. Vart er orð á öðru gerandi, nema hvað ekkert ber á útþrá, en þeim mun meira á yndi af umhverfinu.



Sigurður er líka undir meðallagi með myndhvörf, líkingar eru þriðj­ungi fleiri en persónu-gervingar. Oftast (tveir fimmtu) fjalla líkingar hans um hug, minningar og tilfinn­ing­ar, en fimmtungur er um himin, sól og tungl (auk þriðjungs persónugervinga), ámóta mikið er um fólk og hluta þess, eink­um augu og hár; annar fimmtungur hefur að kenniliðum; orð, ljóð og söng. En fjórð­ung­ur persónugervinga fjallar um fljót og öldur, fáein­ar um fjöll og sanda. Oftast líkir hann við skart, hljóðfæri, skip og aðr­ar smíðaafurðir, það er þriðj­ung­ur líkinga, en í sjöttungi er líkt við haf, fljót o.þ.u.l., ámóta mikið við lífverur, einkum fugla. Í atferli persónu­gerv­inga ber mest á söng.



Þetta skáld var sérlega afkastamikið í tækifæris­kvæðum, miðað við önnur sem hér er um rætt. Torveldar það nokkuð saman­burð. Við sáum að hann notar lítið af fornum ljóðmálsorðum, en hann virðist oft hafa fremur upphafið orðalag („vér“ o.fl. í þeim stíl). Greinilega er hann nokk­uð fylginn Einari Benediktssyni, sem hann og orti hyllingarljóð til. T.d. minnir hið ágæta ljóð hans Ísidóra mik­ið á Í Dís­ar­höll Einars.





Í dag.



Þetta er frægasta ljóð Sigurðar, og einmitt á daglegu máli. Og frægð þess byggist ótvírætt á eigin ver­ðleikum, en ekki á blæ­brigðaríku söng­laginu við ljóð­ið. Mesta athygli vekja ein­dregn­ar and­stæð­ur og af­drátt­ar­lausar til­finn­ingar. Í 1. erindi er ljóð­mælandi rík­­ur, í 2. erindi snauður, í 3. glaður, í 4. reiður. Og í loka­­er­ind­inu fimmta eru þessar máttugu and­stæður horfn­­ar, við það eitt að hann er orðinn gamall.



Bragarhátturinn gerir hvort tveggja að afmarka hvert ástand innan er­indis, og skapa tilfinn­ingu fyrir hröðun í því, eða mögn­un til­finn­ing­ar­inn­ar. Fyrst eru fjórar lín­ur með fjögur ris í hverri, þríliðir nema hvað 1. og 3. lína enda á tvílið, en 2. og 4. l. á stúf. 5. og 6. línur eru styttri, raunar met ég þær svo að báðar hefjist jafnan á tvö­föld­um forlið, en síðan komi þrí­lið­ur og loks stúfur, tvö ris í hvorri línu, þannig næst tilfinning fyrir hröð­un. Loks er 7. lína með fjögur ris, þrír þríliðir og stúf­ur. Hún er áþekk fyrstu fjórum, og verður þann­ig enda­hnút­ur. Forliðir eru jafnan í 1. og 4. línu, stund­um í 7. línu, fyrir kemur tvíliður í stað þrílið­ar. Þetta er einsog sam­fléttan söngs og upp­hróp­ana.



Þetta form samsvarar vel innihaldinu, sem er þrískipt þannig að í 1.-4. línu er sjálfslýsing, en 5.-6. línur rúma yfir­leitt ávarp til við­mæl­anda, en loka­línan er almennari. Þetta er þó ekki fast­njörv­að, og því verður ljóðið líflegra en ella myndi. Í 1. erindi er ávarpið í 3. línu, en al­mennari orð í 5.-7. línu. Í 4. er­indi er ávarp­ið í 5. línu., en al­mennari orð í 6-7. línum, svipað er í loka­erindi. Setn­inga­bygg­ing sam­svar­ar þessu, mest stuttar aðal­setn­ing­ar, oft er hver lína sjálf­stæð um mál. Þó eru tvær setn­­ing­ar í 1. línu., sú seinni fær framhald í 2. línu. Auka­setning kem­ur helst í lokalínu, og styrkir það enda­hnúts­brag henn­ar.



Þessari einföldu setningabyggingu sam­svarar orða­lag­ið. Einsog áður segir er ekk­ert um gamalt skáldamál róm­antíkur, en vissu­lega er málið stundum upp­hafnara en hvers­dagslegasta tal­mál: “Skaki hörm­unga­él/ hnött­inn af braut­inni, og þá er vel.” (4. er., 6.-7.l.). Aftur er ann­að óvenjugróft talmál: “í dag vil ég brjóta [...] hengja og skjóta alla helvítis þrjóta” (4.er., 1.-3. lína).



Loks eykur það á hnitmiðun ljóðsins, að ljóðmælandi er alveg á valdi andstæðra til­finn­inga, hér er engin æðri ályktun, niðurstaða eða boð­skapur. Og þessum svip upp­hrópana um til­finn­ingar sam­svar­ar einfaldleiki ljóð­máls­ins, að hvorki eru líkingar né mynd­ir. 2. erindi er andstæða 1. er­indis, en 4. erindi er á sama hátt svar við 3., sem áður seg­ir. 5. erindi tekur upp meginatriði úr and­svars­er­ind­un­um 2. og 4., og verður þannig sann­færandi loka­hnút­ur.





Nóttin langa



Andstætt framangreindu hefur þetta ljóð athygl­is­vert mynd­mál. Kvæðið segir frá manni sem féll fyrir björg í Laug­arnesi við Reykjavík og lær­brotn­aði, beið svo hjálp­ar alla nóttina. Kvæðið er 12 erindi, mislöng og óreglu­leg að bragarhætti, eink­um þó í upphafi kvæðis og lok. Eftir tvær línur um að dimmi, kemur stök lína sem er bara eitt orð; “Hjálp!”. En síðan kem­ur fjög­urra lína erindi sem lýsir falli mannsins. Eftir það eru er­ind­in ýmist fjórar, fimm eða sex línur, nema hvað lokaerindið er fimmtán línur, og tví­vegis er í því inn­dreg­ið línupar. Upphrópun skiptir 5. erindi í tvennt. Öll þessi óregla ljær kvæðinu brag sjálf­sprott­inna upp­hróp­ana, og hæfir það vel til­finningaróti slasaðs, ein­angr­aðs mannsins. Kvæðið lýsir mest vofum og öld­um sem sækja að mann­inum, og eru þær eitt og hið sama, alltént eru allar persónu­gervingar kvæðisins í konu­líki. En í kvæð­inu má sjá fram­þró­un í þessu. Fyrsta persónu­gervingin er: “Synti ský fyrir síðasta rofið” (1. l.), eðlileg mynd við sjó, og raunar er óljóst við hvers­kyns lífveru skýinu er líkt. En í næsta erindi er náttúru­fyrirbæri, öldu, ótvírætt líkt við seiðandi konu sem leiðir karl­mann í glöt­un, “fyrir hamra­björg”. Þvínæst er nótt­in persónu­gerð, einnig sem kona; og hún er heldur óhugn­anleg, drauga­leg: “faðm­ar hann náköld­um mund­um.”. Þetta síðasta atriði er end­ur­tek­ið (í 9. er.), og mynd­rænt lýst með því að hann liggi “á sjó­votu, hálu þangi”. Mest munar þó um vof­urnar “innan úr Við­eyj­ar­sundum/ [sem] af veiðihug fá ei draums síns not­ið”, og liggur beint við að sjá þetta sem lýsingu á öld­un­um. Þetta stef er end­ur­tek­ið í 6, 8, og 10. er­indi eftir lýsingar á ein­semd mannsins í myrkri og kulda, “vofur [...] vafra sem hrönn”. Allur þessi draugagangur sem túlkun á nátt­úru­fyr­irbærum minnir á drauga­gang­inn í Hvarf síra Odds frá Miklabæ, svo sem rætt var í kaflanum um Einar Benediktsson. En í loka­erindi hér eru öld­urnar persónu­gerð­ar sem hvik­lynd­ar stúlkur, og ljós litur á hári og örm­um þeirra sýnir dög­un. Með þessu móti fá les­end­ur að skynja sálarlíf mannsins sem liggur einn og ósjálf­bjarga í myrkrinu undir sjávar­hömrum í aðfalli. Hann skynj­ar öldurnar fyrst sem árás­ar­gjarnar vofur, en síðast sem glettnar stelpur, þegar dagar. Þannig sést hug­ar­ástand hans breyt­ast frá myrkfælni til léttis og vonar. En í raun­inni hugsar hann ekki um annað en kvenfólk allan tím­ann!



Myndir eru mest áberandi í 2. erindi: “féll einsog hrafn fyrir skoti./ Þrusk í urðinni, brak í broti./ Úr blundi styggðust endur á floti.” Ekki hefi ég séð hrafn skotinn, en ímynda mér að hann flyks­ist þá hratt niður. Enn bet­ur birtist fall mannsins í hljóðmynd í 3. línu, því hún er nán­ast hljóð­gerv­ing (“þrusk, urð, brak, brot”) og fær svo svar í 4. línu, einu við­brögð­in við hljóðunum eru busl í öndum, og verður þannig áberandi, hve mann­laust svið­ið er. Mið­hluti kvæð­isins er aðallega frá­sögn, og mikið talað til hins slasaða. Þannig næst til­finningaleg nálægð, fyrst hann talar ekki í fyrstu persónu. Hann sér ekki, en heyrir þeim mun meira í myrkrinu (6. er­indi), ímyndar sér rödd hinnar heitt­elskuðu. Því erindi lýkur á mynd “Glóðheit tár á gadd­inn hrundu”, sem er endurtekin með til­brigðum í lok 9. erindis, en í stað heitrar glóð­ar kemur hel­kuldi: “Hagl­korn skella á helbleik­um vanga,/ hörð, einsog möl á jaka­dranga.” Enda er í næsta erindi á undan þessi kald­sama lega sett fram sem forboði dauð­ans. En kvæðinu lýkur í gáska, sem áður seg­ir.





Draumur vef­arans



Þessi tvö ljóð voru full af hreyfingu. En Sigurði létu ekki síður vel hæglátar hug­leiðingar. Þetta kvæði byggist í raun­inni allt upp á einni líkingu, sem kemur fram í titl­inum. Eftir dagsins önn yrkir vefari og líkir skáld­skap­inum við vefnað. Bragur er reglu­legur og rúmur, fimm átta lína erindi, fjögur ris í hverri línu. Mest er um tvíliði, línur enda til skiptis á tvílið og stúf, mikið er um forliði. Þessi hæga hrynj­andi finnst mér fara vel við hugrenn­ingablæ kvæðisins. Þetta kvæði er eins­kon­ar stefnuskrá skáldsins, að setja draum í stað hvers­dags­leik­ans. En þá er mikilvægt að sýna að það er sann­ar­lega ekki af því að mæl­andi búi við slæm­ar að­stæður. Það sýnir sviðsetningin í fyrsta erindi; í húsi ljóð­mæl­anda er ekki aðeins hlýtt og bjart og hljótt, við það bætist hefð­bund­in mynd af heimilis­ör­yggi; kona hans og barn sofa. En hann situr einn og hugsar um næsta vef. Ekki er það þó svo að skilja að hann sé and­vaka af áhyggj­um, því blær 1. erindis helst í lýsingu 2. er­ind­is á efni­ vefsins, sem er allt hið fín­gerð­asta og fínasta; hýjalín og silf­ur­vír, spunn­ið úr draumum. Og mælandi segir: “Um þig og þína vil ég vefa”, þessu er vænt­an­lega beint til lesenda.



Er þetta kvæði þá boðskapur um lífsflótta, um að gera hinn blinda skyggnan, og særð­an sáttan með tómum blekk­ingum? Það væri sannar­lega róttæk afneitun þeirra “vanda­mála­bók­mennta” sem tíðkast höfðu um hríð þeg­ar þetta var ort. En mér sýnist að skilja verði kvæðið á ann­an veg, skáldið segir að áfram verði stríð fyrir betri tíð. En jafn­framt því verður að lyfta huganum, ann­ars væri til lítils barist. Draumurinn á að bæta þá baráttu, vera lífsfylling, ekki lífsflótti. Hljómur orðanna veldur því, að and­stæður ljóðsins milli draums og veru­leika verða skynjanlegar. Draum­ur­inn er með þýðum hljómi raddaðra samhljóða: „svæfa og sefa [...] dögg í draums­ins lundum/ sem drottins orð af himni sent“. En veruleikinn birtist í stríðum hljómi: „Þótt dagsins verk sé vont á stundum og volkið kalt og svað­il­kennt“ [...] og hvers­dags starf í stormi og þjarki/ og stríðið fyrir betri tíð,/ það lyftist upp úr heimsins harki“ (4. er. auðkennt af E.Ó.). Þetta ljóð er þvílíkt tímanna tákn, að það má nánast kalla stefnu­skrá. Því hér er það boðað sem sumir kölluðu úr­kynj­un; að láta sér ekki nægja baráttu út á við - hvort sem það er í eigin þágu eða stærri hóps - heldur þurfi menn auk þess, eða um­fram allt ann­að, að hverfa að eig­in sálarlífi, leggja rækt við skynjun og til­finningar, list. Það sýnist mér einmitt vera kjarni þessarar ljóða­gerð­ar.



Í þessu kvæði yfirgnæfa annars vanga­veltur, það er lítt mynd­rænt. Þó lýkur því á skondinni mynd, þar sem ljóð­mæl­andi og viðmæl­endur hans (þ.e. lesendur, vænti ég) eru syngjandi á bjartri sum­ar­nótt sem söngfuglar þeir sem þylja englamál.





Helga Hoff



Kvæðið byggist á svip­aðri hugs­un og Draumur vef­arans, eink­um loka­er­­ind­ið. En þetta kvæði er mun mynd­rænna. Hvert er­ind­anna fimm er fimm línur, og fimmta línan er jafnan eins­kon­­­ar álykt­un. Þetta erfi­ljóð hefst á við­brögð­um mæl­anda við and­láts­fregn konunnar; hljóð tár. Kast­ljós kem­ur á einstaka drætti í mynd kon­unnar (í 2.-3. er­indi), og sumir drætt­ir­nir eru sér­kenni­leg persónueinkenni, fremur en stöðluð feg­urð­ar­mörk: tal henn­ar og “þitt dimma hár/ og dúnn á brúnni kinn./ Með dem­ants­leiftri dökkar brár”. Líking­ar­nar eru líka sér­kenni­legar. Að vísu ekki sam­líkingin um mál kon­unnar: “svo mjúkt sem vöggu­ljóð”, en þeim mun fremur fram­hald­ið, um fas kon­unn­ar, þar sem hver drátt­ur er fínlegur, einkennist af hægri hreyf­ingu:





sem ilmur streymi um sál frá sál,



sem svanur veki báru á ál,



svo hlý var þessi kona, mild og móðurgóð.





Eftir þessa punktamynd af konunni kemur yfirlits­mynd af heima­byggð hennar á umlið­inni samverustund hennar og mælanda. Mið­punkt­ur þeirrar mynd­ar er óvenju­legur. Mæl­andi var þögull, en and­stæða þess var ann­arsvegar hjart­sláttur hans, en þó öllu held­ur þúsund­radd­aður þakk­ar­kór þrasta, sem þannig birta tilfinningar hans. Í loka­erindi ríkja sláandi and­stæður: nú er myrk­ur og kuldi, en þá var blóm­ríkt vor og kvöld. Það er and­stæða næturinnar nú, þann­ig forð­ast skáldið enn einu sinni það nær­tæk­asta, aug­ljós­asta, og skapar sér­kenni­lega mynd.



Fleiri góð erfiljóð eru eftir Sigurð, einkum um Borg­hildi og um Jónas landlækni. En ég held að um­fjöll­un um þau bætti ekki miklu við það sem við nú höfum séð. Þess í stað lítum við á lengra ljóð eða stuttan bálk.





Hrefna



er að stofni eitt af elstu ljóðum Sigurðar, hann hlaut verð­laun fyrir það í Menntaskóla á árinu 1898, sagði Jóhann Gunnar Ólafsson (Formáli, bls. 21) og enn­fremur:





Sigurður bætti síðar við Hrefnu 2. og 3. kafla, sem hann orti eftir kynnin við Helgu Hoff í Hobro. Voru tveir síðari kafl­arnir prent­aðir fyrst í Þjóð­ólfi 24. 5. 1905 og hétu þar Kara I Sigurför og II Klökkvi. Síðan kom Hrefnuhróður í Tví­stirni 1906, þar sem þessum kvæðum var stefnt saman.





Kvæðið er þá þrettán erindi alls, skipt í þrjá hluta með hver sínum brag­arhætti. Fyrsti hlutinn er fimm erindi, hvert er átta línur. Hvert erindi skipt­ist í lotur þannig að 1.-3. og 5-7. línur eru rímaðar saman og fjögur ris hver, en fjórða og áttunda lína eru fimm ris hvor og rímaðar saman. Og þar koma fyrir þríliðir, en ann­ars ríkja tvíliðir.



Í fyrsta erindi lýsir mælandi fossinum sem hann situr enn við, og minnir þannig á ást­ar­fund hans með Hrefnu á sama stað. Fossinn er persónugerður, sálarástand hans er breytil­egt (svo sem Í dag Sig­urð­ar), hann hlær og græt­ur/ eftir því sem lífið lætur”, hjal­ar, syngur og leikur með boga. Þannig birtist fossinn lesendum í upphafi kvæð­is­ins sem fulltrúi til­finn­ingaríks manns, og síðan talar mæl­andi um tilfinn­ingar sínar til kon­unn­ar sem hann kaus að nefna Hrefnu (vænt­anlega vegna dökks hárs). Mæl­andi talar um “rósir kinna” hennar og líkir blá­um augum henn­ar við stjörnur him­ins. Svo ófrum­legt sem það er, þá er þarna kominn grund­völlur til­beiðslu og bænarákalls, og þar með þess, að hann biður hana að ala sig upp (4. er­indi): “kenn mér hátt að hyggja í smáu,/ hata fátt af öllu lágu.”



Það er sérkennileg líking að segja brim­hljóð berast frá brjósti hennar (7.er.). Þetta gefur í senn til kynna ólgandi til­finningarót, og samhljóm hennar við náttúr­una, enda er líka brimið sýnt sem kvenskraut þegar þau kveðjast (9.er.): ” Brimsins trafi bryddist ströndin”.



Enn mætti nefna að tungur vorsins róma blóma vorsins (7.er.), og í lok kvæðisins er náttúran persónugerð svo að sýnir við­kvæmar til­finn­ingar, m.a. samband móður og barns: Laufin skjálfa einsog lítil hjörtu, en lindir vagga grein­­um, þ.e. væntanlega spegilmynd þeirra eða skuggum á yfir­borði vatnsins, og svæfa, þagga - ljóð­þrasta næturklökkvi[5]. En á heild­ina litið er lítið um líkingar í þessu kvæði.



Hrynjandi þess breytist mjög með II, sem er fjögur er­indi. Hvert þeirra er líka átta línur, en fyrstu þrjár línur hafa fimm ris hver, 4.-5. lína hafa aðeins tvö ris hvor, og 6-8. lína fjögur ris hver. Tvíliðir yfirgnæfa. Hver þessara línu­syrpa er þá rímuð saman innbyrðis; 1-3. línur, 4-5. línur, og 6-8. línur. Auk þess er mikið innrím í 1.-3. línum, og því verður þessi kafli all­ur með meiri hraða og klingjandi en hinir. Frá hraðri hreyfingu segir þó aðeins í upphafi hans og lokum. En þeim mun betur sýnir hann þá ákafar tilfinn­ingar parsins á þessari samveru­stund sem hér er lýst, t.d (bls. 52):





Söngvar hljóma, göngin enduróma -



allar róma tungur vorsins blóma,



loftið fyllist sólarsöng og ljóma.





Innrím er hér auðkennt. Það gæðir ljóðið glæsibrag þegar svo mikið er um það, og hæfir vel eldra titli þess, „Hrefnuhróður“, því „hróður“ er fornt heiti á lofkvæði til konungs. Í sömu átt orka forn­yrðin sem hér koma fyrir: “gandar, svanni”, og upphafið orðalag; “loftkvik langan”. En vissu­lega má skýra þau með rímnauð, í sama (6.) er­indi er svo hrokkið yfir í lágstíl innileika (sbr. dæmið hér á eftir).



Hafi áður mátt sýnast svo sem mælandi hefði svipaða afstöðu til sinnar heittelskuðu sem barn til móður[6], þá er því nú öfugt farið. Hún er kölluð “stóra barnið” (5. er.) og svo seg­ir mælandi: “sveipa feldinn/ svanni, vel að fót­um þín­um; byrgðu svo að barmi mín­um/ blessaðan koll­inn, þar við eldinn.” (6. er.). Þetta er í samræmi við mjög út­breidda dýrkun sam­tíma­skálda á barnslegu sakleysi í fari fullorðinna kvenna, svo sem við sjáum dæmi um hjá Jóhanni Gunnari (Óráð), einnig má nefna Æskuást Jón­as­ar Guðlaugssonar og í t.d. Dísu í Galdra-Lofti eftir Jóhann Sigurjónsson. En sú ytri kyrrð sem ein­kenn­­ir samveru­stund elskendanna rofnar í lok þessa hluta Hrefnu (9. er.), þar sem horft er til hafs, vænt­anlega hlýtur nú ann­að þeirra að sigla frá hinu. Myndin af land­inu sem bíð­ur handan hafsins má minna á ljóð Huldu, eink­um þuluna Ljáðu mér vængi og Geðbrigði, sem hér verður um fjallað. En einkum er ofsi brims­ins í síðustu tveimur línum drama­tískur endir á sam­ver­u parsins, og sýnir æstar tilfinningar sem því fylgja.



Lokahlutinn er fjögur erindi, hvert þeirra er fjórar lín­ur. Hver þeirra ber fimm ris, mikið er um þríliði, en tví­lið­ir innan um, það veldur hægari hrynj­andi en er í hinum hlut­un­um. Þetta sam­svarar því að kaflinn ein­kenn­ist af hægri hreyf­ingu og umhugs­un, andvari fer í gegn­um er­ind­in og teng­ir þau. Hann á m.a. að færa Hrefnu kveðju mæl­anda, sem er nú fjarri henni, “þungt er það, Hrefna, að elska, vaka og bíða.” En gegn þessum sökn­uði kemur önn­ur til­finning, sam­kennd ljóð­mæl­anda með heiminum. Því hefst þessi ljóðkafli á glæsi­legri mynd (sbr.k. 4.2.4.1.), mælandi sér haf og himin sem leikhússal. “Himins húm­tjöld síga/ hægt fyrir sviðið. [...] blik­stjörnur tindra á hvelfing Unn­ar sala.” Og þessi sam­kennd birtist einnig í hægri hrynj­andi kafl­ans, sem fyrr var á minnst. Hvað skyldi orða­sam­­bandið “torrek tóna” merkja? Til lítils virðist að hugsa til “Son­ar­tor­reks” Egils Skalla­gríms­son­ar, því ekki get­ur verið um hefnd að ræða fyrir tóna, á þeim eða af hálfu þeirra. Er ekki eðlilegast að skilja þetta svo, að tón­ar­nir verði trauðla raktir, að erfitt sé að finna upp­sprettu þeirra eða sam­hengi? Það þætti mér góð lýsing á blæleitinni (im­pressjónískri) tónlist sam­tímans (t.d. tón­verkum Debussy: Síð­degi skóg­ar­púk­a frá 1894 og Haf­ið frá 1905). Þessi skiln­ingur hæf­ir og vel öðru í erindinu. Því mér virðast spurn­ingar 2. er­ind­is III. kafla sýna tilfinningu fyrir fram­andi fyr­ir­bær­um, fyr­ir því að and­varinn, full­trúi nátt­úr­unn­ar sé annars eðlis en mann­lífið, andstætt þeirri til­finn­ingu “að allt er af einu fætt” sem Einar Bene­dikts­son svo oft lét í ljós. Umfram allt er þessi blæleitni einsog andi kvæð­isins, það berst frá ein­um skynhrifum til annarra, án markmiðs eða fast­mót­aðrar stefnu eða niðurstöðu.





6. 10. Jóhann Gunnar Sigurðsson (2.2.1882-20.5.1906)



Ekki liggur mikið eftir þetta skáld, sem dó aðeins tutt­ugu og fjögurra ára. Ljóðum hans og sögum var safn­að í bók sem birt­ist þrem­ur árum eftir dauða hans.



Um síðustu ljóð Jóhanns Gunnars segir Hannes Pét­urs­son (í Nýrómantíkin):





Þegar minnst varir berst nýr hreimur frá hörpu hans, undar­lega djúpur og ó­svikinn [bls. xxxiv].



Hvert kvæðið rekur annað og fyrr en varir hef­ur íslenskri ljóð­list bæst nýr streng­ur sem síðar átti eftir að hljóma lengi, en varla nokkru sinni jafn ósvikið. Þetta er strengurinn sem hljóm­aði í við­lög­unum gömlu, svo angurvært að ekk­ert jafn­að­ist á við það. Jóhann knýr hann þó til hlýðni við fleiri kenndir en ang­ur­værð­ina, [...] blind­an, inni­byrgð­an ofsa, [...] draugalegan tryll­ing [...] og vo­veif­leg­an grun [bls. xxxv].



Finna menn ekki glöggt að þær kennd­ir sem fram koma í þessum dæm­um eru þær hinar sömu sem mest urðu áber­andi í ljóðum ungra skálda allt fram yfir heims­styrjöldina fyrri, og hvað ráð­rík­ast­ar urðu í Svört­um fjöðrum: draug­heim­ur­inn, eða hin “makabrísku” yrk­is­efni, og þjóð­vísna­angur­værðin end­ur­bor­in. Davíð Stef­ánsson er því spor­göngu­maður Jóhanns Gunn­ars. Þó skil­ur ótal margt á milli Jóhanns og þeirra sem á eftir komu, en mest áber­andi er þó tvennt. [bls. xxxvi].



Það að fá að njóta verður Jóhanni ekki takmark í sjálfu sér, en aft­ur á móti verður það sagt um næstu skáld á eftir [bls. xxxvii].



Fyrir honum væri grátur í ljóði ólist­rænn. Næstu skáld á eft­ir vilja gráta, og þeirra mikli harma­grátur verður tákn, heims­hryggð­in, ekki pers­ónu­leg tján­ing hugarfars, heldur bók­mennta­fyr­irbrigði, brot úr sjálf­um “lífs­tón­in­um”, ýmist vilja þau dansa tryllingslega eða setj­ast nið­ur og gráta sem mest. Hryggð­in er stöð­ug­ur gestur í huga Jóhanns, en beisl­uð, og það er hans eig­in hryggð, en ekki menn­ing­ar­and­rúms­loft einsog hún varð skömmu síðar [bls. xxxviii-xxxix].





Með orðalaginu “næstu skáld” sýnist mér Hannes ekki eiga við þau þrjú önnur skáld sem hann tók með í kver sitt (enda er Jóhann næst­aft­astur þar), og ekki heldur eiga við Huldu, sem orti samtíða þeim. Hér er greini­lega vísað til Davíðs Stefánssonar, Stefáns frá Hvítadal og annarra skálda sem Þórbergur gerði fræg í Íslenskum aðli.



Framan af er vor áberandi, í nær öðru hverju ljóði (31), en vetur og haust aðeins í tíunda hluta (7). Ámóta mikið er um kvöld og morgun, hvort í nær þriðjungi ljóða hans. Eins er ámóta áberandi tal um hnignun og þróun, í rúmlega fimmtungi ljóða hvort, en stundum saman í ljóði. Þjáning í tveimur fimmtu, en vellíðan í tæplega þriðjungi ljóða. Tal um samstöðu er í sjöttungi ljóðanna, tvöfalt meira áberandi en einfari. Og aðlaðandi náttúra er í nær helmingi ljóða, en hrikaleg aðeins í tæpum fimmtungi. Útþrá kemur naumast fyrir (4/108), en í þrefalt fleiri ljóðum birtist ánægja með umhverfið eða heimþrá. Eins er ástarunaður miklu algengari, birtist í fjórðungi ljóða, en ástarsorg, hún birtist í tíunda hluta þeirra. Lítið er um þjóðkvæðasvip framanaf, en svolítið meira um edduhætti og dróttkvætt. Guð kemur varla fyrir, og þjóðernisleg eru aðeins fáein hátíðakvæði.



Líklegt virðist að ljóðin standi í aldursröð í bókinni, því sé litið sérstaklega á síðustu 33 ljóðin, þá skera þau sig verulega úr heildinni. Þar ber mest á hnignun, þjáningu, feigð og dauða, sem setja svip sinn á helming þeirra ljóða. Kvöld er í tæpum þriðjungi þeirra, nær tvöfalt oftar en morgunn. Einfari birtist í rúmlega fimmtungi þeirra, og tæpur fimmtungur ber svip af þjóðkvæðum.



Jóhann Gunnar hefur ívið minna af myndhvörfum en Sigurður, og nokk­urn­veg­inn sömu tölur og Jóhann Sigurjónsson, en mjög ólík mynd­hvörf. Lík­ingar hans eru að fjórum fimmtu um hugtök svo sem ást, framtíð, lífið, minningar, vonir, til­finn­ingar o. þ. h., einsog tí­undi hluti persónu­gervinga hans. En þær eru annars flestar (tveir fimmtu) um sól, stjörnur, himin og vind. Atlot eru þriðjungur athæfis persónu­gerv­inga, annað er dreifðara, að heilsa, hlæja, blessa, syngja, tala. Þriðj­ungur líkinga er við athæfi manna eða smíðar; ferð, klæði. Nokkuð er um fugla og aðrar lífverur sem myndliði.





Óráð



Kvæðið er með miklum þjóðkvæðabrag, eink­um vegna end­ur­tekn­inga. Ljóðið er átta er­indi, hvert þeirra er tvær línur. Hver lína hef­ur fimm ris, framan af er mikið um þríliði, lín­urnar enda allar á stúf. Línur hvers erindis eru rímaðar saman, en hver er sér um stuðla. Fyrsta erindi og tvö síð­ustu hafa sömu fyrri línu; “Vind­ur­inn þýtur og vegg­ina ber”. Þetta minn­ir á skjólleysi í hörðum heimi, en hin er­ind­in sýna þráláta við­leitni mæl­anda að ná sam­bandi við konuna: “Segðu henni Hervöru”. Fyrsta er­­indi sameinar þetta tvennt, þar sem vind­ur­inn er beð­inn að bera henni boð.



Þessi boð 1. erindis koma svo stig af stigi í næstu er­ind­um, fyrst á barns­legu stigi, hún er beðin “að geyma vel barnagullin sín”, þ.e. halda barnslegu hug­ar­fari. En það jafn­gildir ein­lægum tilfinn­ing­um samkvæmt tíð­ar­andanum, sem áður segir. Í fram­haldi segir að ást ljóð­mælanda á Hervöru nái út yfir gröf og dauða, en að þeim mörk­um er komið í 3. er­indi, hjarta hans er að bresta, í 4. erindi á Hervör að heyra þess síð­asta slátt í stunum vindsins, og í hinu 5. er lokaósk mælanda að Hervör signi gröf hans. En í 6. erindi slær um, í sam­ræmi við titilinn, mæl­andi segir, að ef til vill sé Hervör bara ímynd­un, og þá kemur hefð­bund­in andstæða þess­ar­ar vonar: “kast­aðu þá kveðju minni í kol­svartan hyl”. Síð­ustu tvö er­ind­in hrökkva því aftur yfir í upp­hafs­að­stæð­ur með persónu­gerðu vind­gnauð­inu. Næstsíðasta er­indi sýnir end­ur­nýj­að traust á sambandið við Her­vöru. En einmitt þá færist hún nær mæl­anda, “Hervör mín”. Síðan, og í loka­er­indi ávarpar hann - ekki leng­ur vindinn, held­ur ein­hverja viðstadda tilheyr­end­ur, sem eiga að finna á hon­um dauða­mörk­in.



Kvæðið er mjög lítt myndrænt nema helst í því sem segir um vindinn og kolsvartan hyl. Það hrífur einkum vegna einfald­leika, mark­vissr­ar upp­bygg­ingar í endur­tekn­ingum með þjóð­kvæða­svip. En einnig vegna þess að sá svip­ur stingur í stúf við meg­in­atriði í ljóð­inu, nútíma­legar efa­semdir um tilveru hinnar heitt­elsk­uðu, en hún er þó kjarni ljóðsins.





Kveðið í gljúfrum



Þetta kvæði er ekki með fram­an­greind­um þjóð­kvæða­svip, heldur af tagi þjóð­sagna, nánar tiltekið drauga­sagna. Því er háttur þess “drauga­lag”, þ.e. loka­lína hvers erindis er endurtekin með til­brigðum, er­indin fjög­ur eru því níu línur hvert í stað jafnr­ar tölu, svo sem venja er. Að öðru leyti er þetta bragarhátturinn “hátt­lausa” (sjá Snorra-Eddu), rím­laust afbrigði drótt­kvæðs háttar. En óvenju­legt var á þessum tíma, að hafa kvæði órímað, enda þótt stuðl­un sé hér reglu­leg, svo og hrynj­andi (hver lína er yfir­leitt þríliður og tveir tví­liðir, stund­um er þrí­lið­ur­inn milli tvíliða, stundum eru for­lið­ir, svo hrynj­andi verður nokkuð breyti­leg).



Ljóðmælanda var úthýst í versnandi veðri, svo hann hrap­aði til bana í myrku gljúfri. Hann er síðan draugur, og verður veg­far­end­um að bana, til þess að tuttugu far­ist á sama stað. Það er samkvæmt rótgróinni drauga­trú á Íslandi, og einnig hitt, að ævinlega eru þeir orðnir nítj­án þegar sagan er sögð, áheyr­andi á þá væntanlega að lifa sig inn í að búast við því að verða sjálf­ur næstur og síð­astur að bráð ákafri viðleitni draugs­ins til að fylla töl­una.



Þetta ljóð er myndrænna en Óráð. Einkum ber á hljóð­mynd­um í 1. er­indi, og sérstaklega í 4. (sem er að veru­legu leyti breytt end­ur­tekning á 1. erindi): “Dundi foss í gili [...] dynja fossar í gili”. Þetta er einkum vís­bend­ing um gljúfrið hættu­lega, en auk þess eru hefð­bundn­ari váboðar: “Vá­lega hvín í tindum. [...] Gnauðar þá kaldur gustur/ í gljúfrun­um mín­um þröngu.” Í 1. er­indi er þetta í þátíð, en verður nútíð í 4. erindi, þannig fær­ist ógnin nær.



Sjónmyndir eru sumpart hálfgerðar líf­gervingar á nátt­úr­unni: “Gín­andi sprung­an tók mig”, en mest byggj­ast þær á litum. Þar eru í fyrsta lagi and­stæð­ur: “Lá ég [...] í eilífu svarta myrkri/ beinin mín brotnu hvítna”. Í öðru lagi er litur feigð­ar­innar á draugnum: “Brá ég bleik­um grönum”. En þetta orða­lag “að bregða grönum” merkir frá fornu fari að glotta ill­sku­­lega, hér sem í Njáls sögu (128. k. og e.t.v. einnig í Hervararsögu, 19. k.).





Í álögum



er einnig undir draugalagi. En það sækir þó ekki til drauga­sagna held­ur til æv­in­týra, nánar tiltekið til álaga stjúp­mæðra­sagna. Þær fóru jafnan vel að lok­um, en Jóhann breytir auðvitað frá mynstri þeirra með því að hafa hér ill enda­lok (eins og Jóhann Sigurjónsson og Jónas Guðlaugsson). Annað þjóð­sagna­minni er það að mað­ur í álögum held­ur manns­aug­um í dýrs­hami sín­um, og hér seg­ir, að það gæti reynd­ar leyst hann úr álög­un­um, ef einhver áttaði sig á þeim. Það er gam­alt minni, t.d. í sög­unni af Graal (Parcevalssögu, 11.-12. k.). Álaga­ham­ur­inn er jafnan af aumk­un­ar­verðri skepnu, ógeðslegri, eða dverg­skrípi, en einn­ig hér er vikið frá mynstrinu, mæl­andi er þess í stað óhugn­anlegur “einsog hræ­fús hrafn”. Í samræmi við það er endurtekin mynd, að hrafn­inn norpar á hjarni, “hælis­laus” og “hefur á fótum kalið”. Myndræn atriði snúast mest um kulda. Þannig næst að minni hyggju skír­skotun til samfélagsins, les­andi gæti séð þetta sem mynd af við­skota­illum sam­tíma­manni. Undir hrjúfu yf­ir­borði hans býr manns­eðli, og þrá eftir hlýju, sem eng­inn hefur náð að leysa úr læðingi. Væri þetta þá enn eitt dæmi um „táknræna“ merkingu ljóðs, svo sem rakið var eftir Guðmundi Friðjónssyni (í upphafi k. 6.8.), þ.e. ljóðið birt­ir mynd tilfinn­ingar sem á miklu víðar við en í tilteknu dæmi.



Ljóðið hefst á tilvitnun í þjóðkvæði og endurtekning­arnar í erindislok eru not­aðar einkar vel til að draga fram kjarnatriði. Í fyrsta erindi eru and­stæð­ur­nar milli “Faðir minn átti fagurt land” og að það er sokkið í sæ; skýr­ingin kem­ur fram í endur­tek­inni lokalín­unni: “Seið­ur­inn þessu veld­ur”. 3. er­indi gef­ur fyr­irheit um lausn með loka­lín­unni, “ef ein­hver svip­inn þekk­ir”, en end­ur­tek­in lokalína 4. erindis hamrar inn von­leys­ið: “má ég [...] seinast [...] í ham­inum mínum deyja.”





Undir segl­um



Mörg bestu ljóð Jóhanns Gunnars eru með þjóð­sagna­blæ eða þjóð­kvæða. En það er ástæða til að líta á önnur. Ljóð­mæl­andi líkir sér við bát, sem að vísu er lé­leg­ur, en kæm­ist þó áfram ef leiði væri gott. Sjá má þetta sem mynd af venjulegum veik­burða manni, sem þolir ekki boðaföllin í lífs­ins ólgu­sjó: “byljirnir úr Skugga­skörð­um/ skemmri munu veginn gera.” Hér er stað­ar­nafn vel not­að til að skapa (óhugn­aðar)blæ, enda herðir það á merk­ing­unni hve óm­strítt nafn­ið er (sk-sk). Loka­er­ind­ið sýnir svo hvern­ig mæl­andi horfir með óhug á öld­ur­nar, sem dular­hjúp persónu­gerðs dauðans. En dauð­inn birtist hér einsog sækind, t.d. hval­ur.



Sérkennilegt fyrir þetta ljóð er orðaval, það er lágstíll talmáls í upp­hafi: “Þetta er ljóta bölvuð byttan”. Brag­ar­háttur er í sam­ræmi við það með fremur algengu móti, fer­hend­ur, þó ekki af al­gengasta tagi. Þetta er breið­henda, allar fjórar línur hafa fjóra tví­liði heila (sbr. Óskar Halldórs­son, bls. 57). En þegar frá líður verð­ur orðalag upphafnara, þótt enn sé það venjulegt mál. Lítt er þetta myndrænt, helst í “boðahrönnum”, sjón­mynd af hvít­fyss­andi hreyfingu.



Sama má segja um eitt albesta ljóð Jóhanns, sem er jafnframt eitt hið stysta, nafn­laust:





Ég elskaði lífið og ljósið og ylinn.



Nú liggur það grafið í djúpa hylinn.





Og vonirnar mínar, sem voru fleygar,



sumar dánar, en sumar feigar.





Hröð upptalningin í fyrstu línu sýnir til­finninguna sem sagt er frá. En hér byggist ann­ars allt á andstæðunum milli fyrri línu og seinni í báð­um erindum (lífið-grafið; ljósið-djúpa hylinn), svo og á því að líkja vonunum við nýfleyga fugla í seinna er­indi, það sýnir vel hvernig nývaknað líf ferst.





Haustkvöld



er sex fjögurra lína erindi, þrjú ris í hverri línu, 2. og 4. lína stýfð­ar, mikið um þríliði og for­liði. Þessi breyti­lega hrynj­andi hæf­ir vel kyrrðarblæ ljóðs­ins, einsog það, að yfirleitt er hver lína heil setn­ing eða allsjálfstæður setn­ing­ar­hluti. Þetta samræmist því, að nán­ast engin hreyf­ing birtist í ljóðinu, nema hvað dag­ur rennur til sjávar, einsog lækur væri, jafn eðli­lega og óhjákvæmilega, og á sama hátt haustar. Því fylg­ir, að mæl­anda dreym­ir “skrítna drauma”, og tíma­setn­ing þeirra er óvenju­leg -“fram á nótt”, í stað þess sem vænta mætti: fram á dag. Af þessu má sjá að aðstæður mæl­anda eru sérkennilegar, þetta er ekki venju­legur vinn­andi maður, vænt­an­lega er hann þá sjúkling­ur. Í 3.-4. er­indi er svo­lítið nánar greint frá draum­unum, og þá eink­um neikvætt. Í þeim birtist ekki vorsins yndi, ekki vona­eldur, heldur hulduljóð sem hafa seitt mælanda, enn­frem­ur rökkurró, sem leggst mjúkt um sál hans. Hér virð­ist sterk­lega gefið í skyn að hann sé að sætta sig við dauð­ann, og það kem­ur enn betur fram í upphafi næsta erind­is, en þá fyrst verður ljóðið mynd­rænt, undir lok­in (auð­kennt af E. Ó.):





Það dimmir nú fram um dalinn



og dunar í hvítum foss.





Með þessari tengingu litaandstæðna má hvítur fá feigðarblæ, og í framhaldi kemur eina persónu­gerv­ing ljóðsins; það er kyrr­látur fundur elsk­enda, þar sem mætast sær og land, fjörðurinn kyssir hlíðina.



Lokaerindið sýnir svo hefðbundið tákn fegurðar í nátt­úrunni, svani. Jafnframt birt­ist mælandi í þessu tákni, það sýnir að hann líkt og rennur saman við nátt­úr­ulýsinguna, óhjákvæmilega framrás, og þannig að hann er sáttur við aðstæður sínar, bráðleg­an dauða. Fyrirboða dauðans má líka lesa úr því að svanirnir kvaka engilröddum, en það táknar jafnframt ljúfleika.



Að þessum ljóðum skoðuðum virðist vel til fallið að enda kaflann á orðum Hannesar Péturssonar (Nýrómantíkin, bls. xxx):





Hvaðan kemur Jóhanni sá mikli þroski sem síðustu kvæði hans bera vott um; skyndilega hatt­ar fyrir í kveðskap hans, kvæðin eru ekki lengur lag­leg skólaljóð heldur mikil og persónuleg list. Ekki þarf lengi að velta vöngum yfir þessari spurn­ingu, ekkert annað en dauðinn er ástæðan, dauði sem hef­ur fylgt honum eft­ir í áraraðir, sem hann hefur skynjað, sem hann hefur borið í sér og fundið eflast eftir því sem á leið.





6. 11. Hulda (1881-1946)



Fyrsta bók Huldu, Kvæði, birtist 1909. Margt af umræddum efnisatriðum er ljóðum hennar einfaldlega óviðkomandi. Mest er þó sláandi, að náttúran en nær alltaf aðlaðandi, í 3/4 ljóðanna, en hrikalegt mætti með semingi kalla umhverfið í 6 ljóðum (af 127!). Í samræmi við það kemur útþrá sjaldan fyrir (í tug ljóða), hálfu oftar er beinlínis lýst yfir unaði á heimaslóðum. Vor er í helmingi ljóðanna, og tvöfalt oftar en haust. Kvöld er mjög áberandi líka, í um 4/10 ljóðanna, meira en tvisvar sinnum oftar en morgunn. Samfélag setur svip sinn á ljóðin hálfu oftar en einfari, en þó aðeins í sjöunda hluta ljóðanna, það er vart marktækt. Þjóðkvæðasvipur er greinilegur á hálfum öðrum tug ljóða, þ.e. tíunda hluta þeirra, auk þess eru amk. þrjú með eddukvæðasvip. Guð er aðeins til umræðu í tveimur ljóðum.



Þessi áhersla á vor, yndislegt umhverfi og átthagaást tengir Huldu greinilega við fyrirrennara hennar, rómantísku skáldin. Sérlega minnir hún þá á Jónas Hallgrímsson, Jón Thoroddsen og Steingrím Thorsteinsson.



Í Segðu mér að sunnan (1920) ber enn sem fyrr ber mest á náttúruyndi, í 55 ljóðum, þ.e. 4/5. Vart eru teljandi ljóð þar sem áhersla er lögð á hryssingslegt umhverfi. Þessu fylgir að útþrá birtist í tæplega tíunda hluta ljóða, en andstæða hennar kemur beinlínis fram í fjórðungi ljóða. Rúmur helmingur ljóðanna eru vorljóð, en haustljóð eru fjórðungur ljóðanna, jafnstór hluti ber einhvern þjóðkvæðablæ. Rúmur helmingur ljóðanna er kvöldljóð, en morgunljóð eru hálfdrættingur á við þau. Einhverskonar þjáning er í fimmtungi ljóðanna, yfirleitt söknuður eða harmur. Ástarsorg má merkja í sjöunda hverju ljóði, en ástarsæla er algengari, í rúmlega fimmta hverju. Auk þess setur samvera svip sinn á amk. sjöttung ljóða, en einfaraminnið merkist varla (2 ljóð). Öðru er naumast orð á gerandi, og athyglisvert, að vart er minnst á guð eða neitt trúarlegt, bara að ljóðmælandi fer með bænir sínar í einu ljóði, en börn gera það í öðru.



Nær helm­ing­ur lík­inga Huldu er um hugtök svo sem tímann, mannsævi, minningar, vonir, sorgir. Hún hefur sem áður segir, sérlega mikið af persónugervingum, þær eru rúm­lega þrefalt fleiri en aðrar líkingar hennar. Nær helmingur persónu­gerv­inga og þriðjungur lík­inga er um fyrirbæri himins, sól, nótt, dag, morgun, himin, stjörnur, ljós, ský, þoku og vind. Fimmt­ung­ur persón­ugerv­inga er um haf, öldur, fljót, lindir og vötn, en sjött­ung­ur þeirra er um fjöll, kletta og grundir, svo það helsta sé talið. Hér ber því lang­mest á nátt­úr­unni, og þó ekki lífríkinu. Hulda líkir hinsvegar einkum við það, fyrst og fremst við fugla, og ótil­teknar lífverur, síðan við hjúp, rekkju og öldur, annað er dreifðara. Athæfi persónu­gerv­inga greinist lítt frá því sem er hjá öðrum skáldum nema hvað mest ber á gráti og kveinum, síðan atlotum (þriðjungur þeirra er móð­ur­leg­ur), söng og brosi.



Áður var vikið að þulum Huldu. En um þær segja þær Guðrún og Ragnhildur m.a. (í Inngangi (úrvals verka Huldu, Ljóð og laust mál, hér eftir kallað úrval), bls. 35):





Hér er beitt ýmissi tækni, sem í nú­tíma­ljóðlist kem­ur í staðinn fyrir brag­regl­ur­nar gömlu. Breyti­leg línulengd og brot á hrynj­andi, hlið­stæð­ur, and­stæð­ur og end­ur­tekn­ing­ar, mynd­mál og vís­an­ir í ann­an skáldskap, allt stefnir þetta að því að skapa ákveð­inn hug­blæ eða stemn­ingu.





En þetta einkennir ekki sérstaklega nútímaljóðlist, allt eru þetta einkenni á gömlu þulunum, þjóð­kvæð­um, rétt einsog hitt, að rím­að­ar og stuðlaðar sam­an eru mislangar línur í sam­fellu, án er­inda­skipt­ing­ar. Hitt er rétt hjá þeim Guðrúnu, að þulur Huldu eru “alls ekki sund­ur­laus spuni einsog gamlar þulur úr munn­legri geymd voru oft.” En þar voru jafnan tengdir með stuðlun og rími hlutir sem eng­in rökleg tengsl eru á milli. Fram­vind­an verður því eins­og eftir óræðum lögmálum, draum­kennd, líkt og í mód­ern­um verk­um, og ber þetta glögg merki áheyr­end­anna að minni hyggju, hefur ýmist verið haft til að skemmta börn­um með rugli eða svæfa þau, þar sem þau gátu ekki fylgt þræði.



Þær stöllur benda á annað einkenni á þul­um Huldu, er þær tala um Ljáðu mér vængi (bls. 36):





Hér er síðasta línan af þremur stök og lengri en hinar, brýtur hrynj­andina og fær þannig aukna áherslu, auk þess sem hún felur í sér endur­tekn­ingu hinna tveggja. Sama gerist við hver efn­is­skil í ljóðinu þar sem endur­tekn­ingar gera ýmist að und­ir­strika ákafa útþrá [eða aðrar tilfinn­ingar, svo sem þær rekja í fram­haldi]:





Enga vængi á ég til



utan löngun mína,



utan þrá og æskulöngun mína.





En þetta er engin nýjung Huldu. Þessa end­ur­tekningu með til­brigð­um, lengingu, sjáum við einnig í ljóðum Jóhanns Gunn­ars, og hún er reyndar kom­in úr þjóð­kvæð­um, þann­ig er a.m.k. lokalína drauga­lags, einnig er þetta í fornum viðlögum, t.d. (ÍGSVÞ I,353):





Út ertu við æginn blá;



eg er að Dröngum



eg er sestur að Dröngum



[...]



Blómi fagur kvenna klár,



kalla eg löngum,



kalla eg til þín löngum.





Samskonar endurtekning kemur fyrir í þulum (ÍGSVÞ IV, 231):





Leiðist mér langdegi,



hvergi finn eg skammdegi



síðan eg var í Miðfirði



í síðasta sinni;



segðu það minni,



segðu það móður minni.





Fyrstu þrjár þulur Huldu birtust 1905. Þær eru Ljáðu mér vængi, Heyrði eg í hamr­inum og Segðu það móður minni, allar end­ur­prent­aðar í fyrstu bók­inni (og úr­val­inu). Í þeim eru (innan gæsa­lappa) til­vitn­an­ir í fornar þul­ur. Það eru þó ekki fyrr­greind brag­ar­ein­kenni ein sem Hulda sækir til þeirra, held­ur einnig það að raða mynd­um úr um­hverf­inu, eink­um af líf­verum (bæði yf­ir­nátt­úr­legum og raun­verulegum!) í sjó og á landi. Dæmi: “heiðlóan að hreiðri flýgur [...] Græð­is­meyj­ar/ út við eyjar/ geisl­um skreytt­ar ganga í dans” (bls. 102-3) en sér­staklega í Barna­þula (bls. 183-5): þar birt­ast í röð: lömb, krummar [barnamál!], músar­rindl­ar, flug­ur, lóur, fálki, rjúpur, laxar, tóa, o.s. frv. Einsog áður var nefnt eru af­kvæmi dýra eða lítil, að­lað­andi dýr sérlega áberandi, það er sam­kvæmt. hefð þessara barna­bók­mennta.



Í þulum Huldu er sem áður segir röklegt sam­hengi frá upp­hafi til enda og ljóð­mæl­andi talar sífellt um til­finn­ingar sínar og er þann­ig meira í sviðs­ljós­inu en var í hin­um fornu þulum. Orðaval greinist á sama hátt frá gömlu þul­un­um, því það er stundum tilfinn­inga­þrung­ið, t.d. (Ljóð og laust mál, bls. 109, 147-8 og 183-4): “finna pabba góða”, vesl­ings raun­góðu rjúp­un­um”, “Tóan [...] á hún þar fjölda af yrð­ling­um/ auminginn til að hugsa um”, einnig eru persónu­gerv­ing­ar í sama dúr: “gluggarnir brosa á bæjunum” [...] Gull­roðin ský að skugg­unum/ skyggn­ast frá efstu tindun­um”. Í stuttu máli sagt, þá eru þessi ein­kenni eins­og í öðr­um kvæð­um Huldu, ólíkt svip þjóð­kvæða.





Ljáðu mér vængi



Svo vikið sé sérstaklega að þessari þulu, einni stystu þulu Huldu, þá sýnir hún vel fram­an­greind ein­kenni. Fjórum sinn­um er lína end­ur­tek­in og aukin. Það er sér­lega áhrifa­ríkt í lok ljóðs­ins vegna þess að eftir marg­endurtekið tal um langferðir, birt­ist þar óend­an­leik­inn. Ljóðið er mynd­rænt og bygg­ist á and­stæð­um norðurs og suðurs. Skugg­ar gegn ljósi, kuldi gegn sumri, brim­hvít höf og miklir vindar gegn blóm­legri eyju; útþrá ljóðmæl­anda birtist í þessum and­stæð­um. Áhrifa­ríkt verður ein­mitt sam­heng­ið sem er í ljóð­inu, spuni um til­finn­ingar ljóð­mæl­anda. Hér er í senn talað um sölnuð blóm á venju­legan hátt, og jafn­framt er þeim líkt við gam­al­menni á grafar­bakk­anum. Þar sem strand­ir­nar eru nú auðar, þ.e. yfirgefnar af far­fuglum, eru þær ekki leng­ur sum­ar­strand­ir, þótt þær séu kallaðar það, ein­mitt það dregur fram um­skipt­in. Á sama hátt jafnar ljóð­mæl­andi sér við fuglana, og það sýnir úr­ræðaleysi hans, sam­tvinn­að útþrá. Þetta minnir sterk­lega á ljóð Sigur­jóns Frið­jóns­sonar sem litið var á hér að fram­an, Haust (frá ársbyrj­un 1900), sama minni er t.d. í Svanir Jónas­ar Guð­laugs­sonar (1909). Fyrst flug tekst ekki í þulu Huldu, þá er horf­ið yfir til líkingar við sigl­ingu. Fyrir utan “auð­ar strand­ir” er hér fátt bein­lín­is mynd­rænt, nema hvað skugg­ar eru “tröf”, og tví­veg­is er hvít­ur lit­ur, og nánar af­mark­aður. “Brim­hvít höf” eru að vísu háska­legur far­ar­tálmi, en vænt­anlega yfir­stíg­an­leg­ur, og lengra burtu er drauma­land­ið hul­ið bak við tinda sem líkt er við ger­simar (“silf­ur­hvíta”). Því teng­ist blámi enda­lausrar fjar­lægðarinnar, en hár drangur afmark­ar sjón­ar­svið mæl­anda áður en að hon­um kemur.



Helga Kress hefur sagt (1985, bls. 26) að með þulum sín­um hafi Hulda leitað út fyrir þá rithefð sem karl­menn höfðu mótað, og þess í stað fært “fram þá munn­legu kvenna­hefð sem fyrir var.” Þetta er líklegt á grund­velli þess sem vitað er um þulur, að þær voru hafðar yfir börnum, e.t.v. einkum við háttatíma, og yfirleitt hefur það verið kvennaverk - eða öld­unga. En raunar er ekkert vitað hverjir ortu hin ýmsu þjóð­kvæði. T.d. gætu konur vel hafa ort mikið af þeim gömlu dans­kvæð­um sem Sigurjón og Jóhann Gunnar líktu eftir, og hvar er þá kyn­bund­in hefð? Skjótt fóru og karl­kyns skáld að yrkja þul­ur, sem ekki greinast frá þulum Huldu í nein­um grund­­vall­ar­atrið­um, það sáum við á dæmi Sigurjóns hér að framan.





Kvöld­kyrrð



Allt frá upphafi lét Huldu vel að láta náttúrumyndir birta tilfinningar. Með­al slíkra vel heppn­aðra kvæða má nefna eitt af þrem­ur ljóðum hennar sem fyrst birtust, 1901, þeg­ar hún stóð á tvítugu. Það er ekki í úrval­inu, en er í fyrstu bók hennar, Kvæði frá l909 (bls. 28-9).



Ljóðið er þrjú erindi, hvert með átta langar línur (4 ris hver) og breyti­lega hrynj­andi, víða forliðir, nokk­uð óreglu­legt hvern­ig þríliðir skiptast á við tvíliði. Stýfðar línur skipt­ast á við óstýfð­ar eftir föstu kerfi en breyti­legu (1, 4, 5, og 7. lína eru stýfðar). Þessi hvikula hrynj­andi miðl­ar vel kyrrð­inni sem um er talað og hugleiðingablæ ljóðsins. Fyrsta erindi lýs­ir kyrrð­inni, ann­að lýsir þrám mæl­anda, nú og fyrr, en loka­er­ind­ið áhrif­um kyrrðarinnar á ljóð­mælanda. Persónu­gerv­inga gæt­ir í 1. erindi: “vind­ur­inn þorir varla að anda/ kyrrð­in byrg­ir við barm sinn allt.” einsog móðir, og á sama hátt er “vor­nóttin hljóð og hlý/ á hjúpi henn­ar dagg­perlur blik­andi skína.” Þetta síðasta dæmi er þó ekki ótvírætt persónu­gerving, a.m.k. ekki fyrri línan. Sama má segja um 2. línu: “léttir skuggar við klettana standa” og (5.-6.l.): “Um suð­ur­loft grúfa gráföl ský,/ glamp­ar í vestrinu fölir dvína.” Það ljær lýsingunni eink­ar fín­leg­an blæ að það er á mörk­un­um, að náttúran sé skynj­uð sem lífverur. Áður var rakið að óljósar persónu­gervingar, einsog á mörkunum, eru mjög mikilvægt atriði í kvæði Ein­ars Bene­dikts­son­ar Hvarf síra Odds frá Mikla­bæ. Einnig sáum við slíkar óljósar persónu­­gerv­ing­ar í ljóði Sig­ur­jóns Frið­jóns­son­ar Í aðsigi, og raunar einnig í Haustvísu Gríms Thomsen.



Í 2. erindi þessa ljóðs Huldu segist mælandi þrá að vaka í vor­næturfriði, einsog hún gerði á æskudög­um, og “undi hug­ljúfa drauma við”, en óskaði þess að hverfa sem fyrst frá þeim draum­um til dagsins. Það er auðskilið tákn­mál um að setja framkvæmdir í stað draum­óra, og jafn­tákn­ræn­ar eru lokalín­ur­nar, sem sýna ævilok sem jafn eðli­leg­an hlut og þetta fagra kvöld í lok dagsins, þannig sætt­ir mæl­andi sig við dauðann.



Svo nærtæk sem þessi túlkun virðist, þá mæla loka­lín­ur­nar reynd­ar gegn henni, mæl­andi skynjar óljósa nær­veru einhvers í kvöld­kyrrð­inni, en veit ekki hvort það er skuggi fortíðar eða andi framtíðar. Reyndar þykir mér fara vel á því að horfurnar séu óljósar, enda er það í sam­ræmi við það, að fyrr­nefnd­ar persónu­gervingar nátt­úr­unnar eru óljós­ar, á mörk­un­um. Ennfremur er það í stíl við þetta að hér er allt kyrrt, hreyf­ing er hæg eða eng­in, orðalag fremur hvers­dags­legt, enda þótt það sé nokk­uð tilfinn­inga­­þrung­ið. Sömuleiðis eru hér engir sterk­ir lit­ir. Og í þessu fyrsta prentaða kvæði Huldu er nátt­úrunni ekki hrósað, einsog svo oft síðar. Orð einsog “hugljúfur” og “in­dæll”, eru ein­ungis höfð um drauma mæl­anda. Nátt­úru­mynd­irnar tala nánast einar, og eru þess vitanlega fleiri góð dæmi hjá Huldu, einsog þær Guðrún og Ragnhildur rekja (t.d. bls. 52-3):





Í ljóðinu Mig dreymdi eitt sinn (110) er heil ástar­saga sögð með náttúru­mynd­um og veður­lýs­ing­um. Í upp­hafi ljóðs­ins er sól­bjartur vor­morg­unn en allt þegir og bíður þar til “hann” birt­ist með fangið fullt af blómum sem hann breið­ir í skaut ljóð­mæl­anda. Um leið vakn­ar öll náttúr­an til lífs­ins, fuglarnir syngja og stráin teygja sig í birt­una. En skugg­arnir læðast að, skýin hylja sól­ina og loks dettur yfir myrkur og dauða­kyrrð. Þeg­ar birtir aftur er allt autt, hljótt og hélugrátt og af öllum blóm­un­um er aðeins eitt eftir: “muna­blóm hvítt, það var minning þín.”





SunnudagskvöId



Í þessu kvæði ákallar mælandi lóu og tekur hana sér til fyrir­myndar um líf í samhljómi við náttúruna umhverfis. Kvæðið er und­ir göml­um rímnahætti, stuðlafalli, og með hljómmiklu innrími. Guð­rún og Ragnhildur taka dæmi af upp­hafi ljóðsins um hvernig Hulda vandi orða­val til að hljóm­urinn skapi “hugblæ ljóðsins, ekki síður en merking orð­anna”, og og segja (bls. 43-4):





Hinn mjúki kliður rímorðanna (og raunar líka orðanna “yfir” og “sefur”) svarar til merkingar áhersluorðanna í enda hverrar brag­línu: hvílir, rótt og hljótt. Sérhljóðin sem mest ber á eru skær og björt og slá bjarma yfir þessa friðsælu sumar­mynd. En þegar hugs­un­in um haustið læðist að í öðru erindinu kemur a í stað í í rím­at­kvæð­unum og um leið dimmir yfir ljóðinu.





Yfir hlíðum aftanblíða hvílir;



sefur í víðirunni rótt



rjúpan kvíðalaust og hljótt.





Ennþá vakir ein og kvakar lóa,



sú hin sterka, sæta raust



sér að baki felur haust.





Maríutása



Um þetta ljóð segja þær stöll­ur að það sam­eini (bls. 44): “ómrænuna og nýstárlega notkun við­tek­innar mynd­hverf­ing­ar”:



Ljóðið hefst á persónugervingu landsins, sem er ný­vakn­að og baðar sig í mjúkri golu. Þetta er helst til að skapa hugblæ, því efn­is­legt samhengi er ekki við fram­hald­ið. Það er útlegging á titli ljóðsins, sem merkir görð­uð ský. Þar átti María mær að hafa breitt ullina sína til þerr­is, og með því að lýsa nán­ar hvers kyns ull það er, skap­ast blær vors með öllum þeim hug­renn­inga­tengsl­um sem því fylgja. Um þetta ljóð segja þær Guðrún og Ragn­hildur í formála (bls. 45):





Allt yfirbragð ljóðsins, hljómblær og merking orðanna, miðar að því að skapa mjúka, létta og ljúfa mynd af þessu enda­lausa kven­lega stússi sem verð­ur eitt með fegurð nátt­úr­unn­ar. Síð­asta er­ind­ið hefst þó á snöggum og hörðum orð­um sem koma einsog skyndi­leg reiði skáldsins: “Öllu spilla aftur þó...”. Þær til­finn­ingar eru bældar jafn­óðum og í stað þeirra kemur upp­gjöf, við­ur­kenn­ing á hinu erfiða hlutskipti kon­unn­ar, jafn­vel vor­kunn­semi, en jafn­framt að­dáun á hinni þol­inmóðu lund sem ekk­ert fær haggað. Og varla er hægt að finna mýkri orð til að lýsa þeirri kven­ímynd en “blíðlynd himna­móðir”.





Þetta eru orð að sönnu, því hér er mest um hæga hreyf­ingu sem birt­ist í orðum svo sem: “baðast, þakið, greið­ir, breiðir”. Og í sam­ræmi við það eru lýsingarorð: “hæg­um, mjúkri, hægt, létt, mildum, mjall­hvítt, hljóð­ir”. Hljóm­blær er í samræmi við þetta mjúk­ur, þar ber mik­­ið á rödd­uðum öng­hljóðum, ð og g, auk l, og það er vissu­lega í and­stöðu við [tl] tvívegis í upphafi 3. erindis (Öllu spilla). Ómrænni kveðskapur verður vart fundinn!



Í samræmi við fyrrnefnt afstöðuþrungið orða­lag eru náttúru­mynd­ir Huldu mik­ið af sama tagi; sýna eitthvað smágert, lygnt og sól­ríkt. Hulda tekur t.d. afstöðu með rjúpu gegn fálka, rétt einsog Jónas Hallgrímsson hafði gert í Óhræs­ið. Vissulega á hún til að sýna allan sjón­deild­ar­hring­inn, rétt eins­og Einar Bene­dikts­son, en sé minnst á fjöll og storma, þá er það ham­ið, í mynd mynd­arlegra sveita­kvenna: “Þar fjöllin standa með storm­hert lín/ um stór­hrein and­lit og brjóstin sín” (Heim, Kvæði, bls. 86). Þessi áhersla á ídyllu, á ljúfa íslenska nátt­úru fannst ýms­um all­einhæf, þegar hún fyllti stóra kvæðabók (sjá k. 2.5 og Guðrúnu og Ragnhildi, bls. 51).





Geð­brigði



Þetta ljóð í ljóða­safninu Segðu mér að sunn­an vekur sérstaka athygli meðal verka Huldu. Það er óvenju­langt, í fimm hlut­um, sextán er­indi alls, og stendur vel undir nafni með sérlega op­inskáu tali um vonir skáldsins og von­brigði. Hún ákallar sér til hjálpar drottin ljóða (IV), fegurð, og sitt “þreyða ónumda undra­land” (V. og III). Þess­ar and­stæður milli skáld­löng­un­ar henn­ar annars­vegar, en hins­veg­ar aðstæðna sem hamla þeirri löngun, móta orðalag kvæðis­ins og lík­ing­ar. Lík­ing­arn­ar tek­ur hún aðallega úr íslenskri nátt­úru, en stöku sinn­um af heimilisstörfum og úr Biblíunni. Mest líkir hún sér og ljóðagerð sinni við fugla, sem oft endra­nær. Í upp­hafi not­ar hún þá lík­ingu um sæl­una sem vakti ljóða­gerð hennar, en nú “svifin er að fullu braut”. Þá kemur líking frá kvenna­störf­um um ljóðin, andi ljóðmæl­anda rakti þráð sem brast í sorg­ar­þraut. Fugls­lík­ing­in er enn tek­in upp, en nú um vor sem e.t.v. vakir bak við svarta bliku­bólstra sem byrgja söngva­heim (3. erindi), og um þann sem flogið gæti til fyrir­heitna landsins (III, 2 og lok kvæð­is­ins). Þetta er, eins og áður var að vikið, mjög gamalgróin lík­ing, að nota fugl sem tákn frels­is. Fugl sem er fangaður, syngur til þess að hjarta hans bresti ekki, en það væri hon­um þó fyrir bestu, segir ljóð­mæl­andi svo beisklega (í lok II.).



Enn rótgrónari líking er að nota hörpu sem tákn skáld­skapar. Hér er það þrá­fald­lega gert, en jafnan til að sýna áhyggjur ljóð­mæl­anda af því að harpa hennar nái ekki út til fjöld­ans (4, 5. og 13. erindi). Aðrar líkingar um ljóða­gerð hennar eru flestar dregnar af gróðri: blóm miss­ir bleik blöð á hausti (2.) og blóm sem hefur misst litblæ sinn, er lauf hvert brann í geisladýrð mið­sum­ars (4.). List henn­ar er sem laufið, er snjór hefur fallið yfir. Loks er kunn­ug­leg líking við upp­sprettu: lind sem aldrei fær liðið að sæ (4), og snær byrgir þús­und lindir (13). Það er áhrifaríkt að hranna þannig upp ólíkum líkingum um hið sama, sýnir yfirþyrmingu.



Biblíulegt er loksins þegar ljóðmælandi seg­ir við drott­in ljóða: leið mig þangað/ sem ljósið undir keri skín [..] Gef þú mér styrk að grýta kerið (12). Hér er vísað til al­kunnrar líkingar Jesú þegar hann átaldi að menn settu ljós sitt undir mæliker, þ.e. létu hæfi­leika sína ekki njóta sín. Í bæði skipt­in tengist þessi kristilega tilvitn­un engl­um vorsins.



Á einum stað (III,1) blandar ljóðmælandi saman lík­ing­unum “að rétta hjálp­ar­hönd” og því að heyra æðri rödd í gegnum dægurþras sem nið helgra vatna í gegn­um brimgný. Sá gnýr er aukinn með “stríðum straum­um”, sem ætti betur við um fljót en um brimhljóð:





í gegnum brimgný dagsins stríðu strauma



mér stöðugt vötn þín réttu tónahönd





Mér finnst fara nokkuð vel á þessari nykrun, því fram­setning­in verður hálfóræð, höfðar miklu sterklegar til ímynd­un­­ar­afls les­enda en ella myndi. En nykrun virðist mér fá­tíð í lík­ingamáli Huldu. Skömmu síðar (III,3) virð­ist þó blandað sam­an tvennskonar orðalagi um að fara til ein­hvers; að fara í átt­ina til hans og hverfa í skaut hans: “þó stara ætti’ eg blinda og brostna hvarma/ ég beindi þeim í áttar þinn­ar skaut.” Auk þess er hvarmur látinn merkja auga. Þetta verð­ur held­ur slakt, en sér­lega áhrifarík er endur­tekn­ingin í II, að orðalag 4. erindis er end­ur­tek­ið í öf­ugri röð og stund­um um­breytt í 6. er­indi, sem er með öðr­um brag­arhætti, færri línum og styttri. Bygging kvæðisins er óvenju drama­tísk, í þessari breyti­legu hrynj­andi og marg­víslegum lík­ing­um sýnir ljóð­mæl­andi fyrst (í I og II) hvernig ljóða­gerð hennar sé í kalda­koli. Síðan kem­ur ákall til viðmælanda (III), sem feg­urstu þrár mæl­anda beinast að, einsog sjá má í síð­ast­töldu dæmi. Þessi við­mæl­andi er kallaður: “fjarra bláa strönd” og “helga strönd”, semsagt „fyrirheitna landið“ í ein­hverju formi, ekki verð­ur það af­markað nánar. Í næsta hluta ger­ir ljóð­mæl­andi upp­reisn, heitir á drottin að gefa henni styrk til að ljóð henn­ar megi ná til fjöldans, lýsa hon­um og verma. Loks sætt­ast þessar and­stæður í lokahlutanum (V). Þjáningin verð­ur til góðs, vísar veg­inn. Því meiri sem hún er, þeim mun víðtækari verð­ur sýn manns og því hlýrri lífsþrá hans.



Sem áður segir, vekur athygli hve kunnuglegt mynd­mál­ið er í ljóðum Huldu (sbr. t.d. Guðrúnu og Ragn­hild­i, bls.52-63 & 85). Líkingar henn­ar eru margnotaðar fyrir. Við höf­um séð að t.d. er skáldskap líkt við hörpu­leik, og við straum frá lind, einnig við lauf eða blóm. Enn­frem­ur er ljóð­um líkt við fugla, þeir eru auk þess tákn vors, frelsis og sælu. Fyrir kemur að ljóðum sé líkt við kvenna­störf. Ég hefi hins­vegar ekki rekist á veru­lega frumlegar lík­ing­ar hjá Huldu, svo sem prýða ljóð skáld­bræðra henn­ar, t.d. Jónasar Guð­laugs­son­ar og Jóhanns Sig­ur­jóns­son­ar (sbr. k. 5. 15.). En þetta virðist mér vera í eðlilegu samhengi við það að ljóð henn­ar lýsa hvers­dags­legum aðstæðum les­enda og eru á (nokkurn­veg­inn) venjulegu mál­fari þeirra. Lík­inga­málið er les­end­um ámóta kunnug­legt, og allt er þetta sam­stillt til að stuðla að því að ná beint til þeirra, skv. yfirlýstu markmiði framan­greinds kvæðis. Það er ekki létt verk að gera áhrifaríkt kvæði innan svo þröngs ramma. En það hefur Huldu tek­ist hvað eftir annað, einsog hér hafa ver­ið rakin dæmi um.



Sú spurning hefur komið fram, hvort sum fram­an­talin ein­kenni á skáld­skap Huldu séu dæmi­gerð fyrir skáld­kon­ur, ólíkt karlkyns skáld­um. Helga Kress segir (tv. rit, bls. 27) að Ellen Moers nefni





myndmál smæðarinnar sem einkenn­andi fyrir kvenna­bók­menntir, og bend­ir á að í bókmenntum sínum sam­sami kon­ur sig gjarnan því sem er lítið og minni­mátt­ar, og séu litlir hlutir, svo sem blóm, fuglar og fiðr­ildi, mjög algengir í mynd­máli kvenna þar sem þeir fái oft tákn­ræna vídd.





En svarið er ótvírætt, að þetta einkennir eink­um sum kunn­ustu ljóð­skáld rómantísk á 19. öld, karlmennina Jón­as Hall­gríms­son, Jón Thor­odds­en og Steingrím Thor­steins­son, en síðar t.d. Sigurjón Friðjóns­son.



Helga vísar ekki nánar til Moers[7], og reyndar finn ég ekki dæm­ið um blóm og fiðrildi í bók hennar. Þvert á móti varar Moers við alhæf­ing­um um sam­eig­in­leg einkenni á skáldskap kvenna og segir m.a. að glæsi­leg­ar lýsingar kven­skálda á opnu lands­lagi ættu að stöðva næsta gagn­rýn­anda sem segi að allar skáld­konur séu inni­ver­ur, og næsta sálfræðing sem talar um[8] “innra rými”. Moers leggur annars sér­staka áherslu á mynd­ir fugla í skáld­skap kvenna, eink­um finnst henni fuglar í búri áberandi hjá skáld­kon­unum sem hún fjallar um. Og í ljóði Huldu Geð­brigði, líkir ljóð­mæl­andi sér einmitt við fugl í búri til að sýna ófull­nægju sína. Þetta tekur Guðni Elíasson upp í grein um skáldskap Huldu 1987, (bls. 76-8) og segir m.a.:





sjálfsvitund Huldu tengist fremur smáfuglum en ránfugl­um og hún táknar oft frelsissviptingu sína með vængbroti, vængjaleysi eða ein­hverju slíku. Þó að önnur nýrómantísk skáld eigi til að nota lík­inga­mál af þessu tagi [nmgr: fugl í búri kemur fyrir í kvæði Jónasar Guðlaugssonar, “Ég hef sungið”.] er hér um sérstaklega kvenlegt lík­inga­mál að ræða eins og Ellen Moers bendir réttilega á.





Reyndar sagði Moers (bls. 246) að því femín­ískari sem bók­menntaverk væri, þeim mun stærri, villtari og grimm­ari væru fuglarnir sem þar birtust! Rán­fugl­ar urðu vissulega nokkur tíska í ljóðum sumra ný­rómantískra skálda um 1900, tákn frelsis og þróttar. Má þar nefna t.d. kvæði Sig­urð­ar Sigurðs­son­ar um Nietzsche (Haukaberg 1911) og Örninn eftir Jónas Guðlaugsson (1909). En Hulda var heldur ekki laus við ránfuglseðlið. Í kvæði sínu Hauk­ur­inn (Kvæði, bls. 51-3) veg­sam­aði hún víðan sjón­deildar­hring hans og frelsi, og hét “ljóðfugli litl­um” í brjósti sér dauða ef hann næði ekki að jafnast við hauk­inn í þessu. Í eftir­mæl­akvæði sínu MINNINGAR (Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal.) miklar Hulda hann með því að gera sjálfa sig smáa, hann er örn en hún “smár blá­fugl”, “hugar­haf hans” rúmar hinar til­komu­mestu and­stæð­ur. En því fer víðsfjarri að smá­fugl­ar séu sér­kenni kvenskálda. Í því fylgir Hulda sem oftar Þorsteini Erlingssyni, fræg kvæði með smáfuglum eru og eftir Pál Ólafsson, Jónas Hallgrímsson og Steingrím Thorsteinsson, sem einnig var átrúnaðargoð Huldu. Mér sýnast smá­fuglar ekki síður áberandi í ljóðum Sigurjóns Friðjóns­sonar[9] en Huldu, raunar reyndist hann mun bundnari átthögum, búi og fjölskyldu en hún. En jafnvel “víkinga­skáld” Guðna, Jóhann Sigur­jóns­son hefur bæði rjúpu og þröst auk arnar og fálka (tvívegis, annar í kvæði um mynd eftir Benedikt Grönd­al), en í Heimþrá eru fuglarnir ekki rán­fuglalegir, heldur far­fugl­ar. Ég kalla þetta jafnvægi, og hjá öðrum skáldvíkingi, Jónasi Guð­laugs­syni, ber minna á ránfuglum (9) en hinu, svönum (9) og smáfuglum (7). Virðist þá næsta fátt standa eftir, kenn­ingu Guðna til styrktar (sjá og k. 5. 14. 3 hér).



Hér er þess og að gæta, að Moers fjallar fyrst og fremst um ensk­ar, fransk­ar og banda­rísk­ar skáld­konur frá því seint á átjándu öld og fram á 20. öld. Hún fjallar lítið um skáld­skap karla til saman­burð­ar, og síst í mynd­máls­­kaflanum. En heims­fræg saga eftir karl­mann, frá miðri 19. öld bygg­ist ein­mitt á þessari mynd fugls í búri, og leikur tæpast vafi á því að Hulda hefur þekkt Næturgalann eftir H.C. Andersen. Verður þetta atriði því ekki talið dæmi um “eilífkven­legt”, óháð stað og stund. Enda kem­ur það víðar fyrir, hjá skáld­bræðr­um Huldu t.d. einnig í Márinn eftir Jónas Guð­laugsson, 1909, auk Eg hef sungið sem Guðni nefndi.



Tilfinningu fyr­ir inni­lokun, úrræðaleysi, má víðar finna hjá Huldu, svo sem við sáum á þulunni Ljáðu mjer vængi. Helga Kress segir um því­líkt efni (tv.r. bls. 27-8):





telja þær Sandra Gilbert og Susan Gubar and­stæð­urnar inni­lok­un og und­an­komu svo ráðandi í form­gerð og mynd­máli þeirra bók­mennta sem þær hafa rannsakað, að þær spyrja hvort í þessu atriði kunni að vera um al­gilda kven­lega hefð að ræða.





En áþekk vinnubrögð -og tilfinningu- sjáum við fyrr hjá skáld­bræðr­um Huldu, m.a. sem áður segir, í Haust eftir Sigurjón Frið­jóns­son (1900) og í Húm­hljóð­um Davíðs Stef­áns­sonar (13 erindi, það birtist 1919, ári fyrr en Geðbrigði Huldu). Brag­ar­hátt­ur er breyti­legur og algengt mynd­mál er endurtekið með til­brigð­um, sami ör­vænt­ing­ar­tónninn er hjá Davíð og Huldu. Enda er þetta “myndmál inni­lok­unar og und­an­­komu” marg­klifað stef, m.a. í bók­mennt­um önd­verðr­ar 19. aldar (róm­ant­ík­inni).



Silja Aðalsteinsdóttir segir í Íslenskri bókmenntasögu (III, bls. 921):





Hulda orti lengst af í takt við skáldbræður sína eins og fram hefur komið, en draumalöndin og vonir sem ekki rætast einkenna ljóð hennar meira en þeirra, og myndir af flugi og sögnin að fljúga eru mun algengari hjá henni en þeim.





Orðin ”flug, fljúga, svífa og líða” (í merkingunni fljúga og í öllum beygingarmyndum) taldi ég (sjá vefsetur mitt) og varð niðurstaðan sú að Silja hefur hér lög að mæla. Flugorð Huldu eru mun tíðari[10] en hjá þeim skáldbræðrum sem næst henni ganga í því, Jónasi Guðlaugssyni, Sigurjóni Friðjónssyni og Smára. Til samanburðar taldi ég fáein orð sem tíðhöfð eru um yndi náttúrunnar; ”lundur, lind og laut”, og þar varð svipuð útkoma, þau orð voru tvöfalt til þrefalt tíðari hjá Huldu en þeim skáldum sem næst henni komust í þessu. Er ekki nærtækust skýring, að þetta sýni margumtalaða einhæfni ljóða Huldu, að hún yrki um það sama aftur og aftur? Og hér er annars að gæta. Tal um flug sýnir óþreyju, útþrá, bæði í hinni frægu þulu sem hér var vikið að, Ljáðu mér vængi og í ýmsum öðrum góðum ljóðum Huldu. En alls ekki alltaf, ýmis flugljóð sýna frekar yndi af nánasta umhverfi[11]. Það kom og fram hér (í upphafi kaflans) að unaður einkennir þriðjung ljóða Huldu, en útþrá aðeins tíunda hluta. Hlutfall útþrár er hinsvegar mun hærra hjá Jóhanni Sigurjónssyni, Jónasi Guðlaugssyni, Jakobi Smára, Stefáni frá Hvítadal, Davíð og Tómasi (sjá töflur í vefsetri mínu).



Guðrún og Ragnhildur hafa rakið að upp­reisn­arhugs gæti víða í fyrstu verk­um Huldu, en í öðrum ljóðum henn­­ar ríki draumur um að­lögun, einn­ig aðlögun að hefð­bundnu kven­hlut­verki (t.d. þegar í Kvæð­um, 1909, Ef að þú vík­ingur værir). Mér virðist þó eng­in tog­streita liggja í þessu. Þvert á móti virðist sæl inn­lifun ríkja í ljóðum Huldu af hvoru tveggja tagi. Það er einsog endra­nær, að skáld beita ímyndunarafli sínu til að túlka ým­is­kon­ar hlutverk. En þær stöllur segja (bls. 96), að eftir 1920 verði ríkjandi hjá henni boð­skap­ur um aðlögun.



Sé í þessu sambandi hugað sérstaklega að kvæðum Huldu til nafn­greindra karla og kvenna í tveim­ur fyrstu ljóðasöfnum henn­ar, þá virðist mér ekki unnt að sjá skýr­ar línur um kyn­hlutverk úr þeim. Það eru fá kvæði sem lýsa bein­lín­is eigin­leik­um persón­unn­ar (2-3 í Kvæð­um, 4 í Segðu), og þeir eiginleikar virðast ekkert snerta hefð­bund­in kyn­hlut­verk. Til kvenna eru tvö ljóð, annað til mennta­konu, hitt til skálds. Það eru vin­konur Huldu, sem hún yrkir til af systur­hug, hún leggur þar áherslu á ein­huga sam­veru þeirra (Segðu, 54, 73). Kvæðið Íslendingur (Segðu, 91) er til­eink­að nafn­greind­um versl­unarfulltrúa í New York (Guð­mundi, föð­ur Thors Vilhjálmssonar). Það fer í slóð hins fræga kvæð­is Stef­áns G. Úr Ís­lend­inga­­dagsræðu (1904), en kvæði Huldu rekur ít­arlegar hvern­ig skap­gerð mannsins hafi mót­ast af Íslandi, og það fjallar ein­göngu um karl­mann, þar sem Stephan lýsti báðum kynj­um. Hin kvæðin eru eftirmæli. Ein­um karl­manni er hrósað fyrir að láta sér annt um tungu­­mál­ið (Kvæði, bls. 151), en skáld­bróð­ur henn­ar og vini Jóhanni Gunnari fyrir að “þú lést okk­ur heyra hugljúfan söng/ þó hjarta þitt titraði’ af sorg [...] þar áttu von­irn­ar út­lægu skjól” (Kvæði, bls. 146-8). Annað skáld, hálfri öld eldra, Bene­dikt Gröndal, fær þó tilkomu­mestu eft­ir­mæl­in (Segðu, bls. 50). Ljóðmæl­andi miklar hann eins og áður segir með því að gera sjálfa sig smáa í samanburði. Ekki sé ég annað um kynhlutverk í ljóðum Huldu.



Hér hefur verið lögð áhersla á samkenni Huldu og skáldbræðra henn­ar. Af þessu verður þó ekki ályktað að Hulda hafi bara ver­ið ófrum­legur spor­gengill. Þvert á móti rekja þær Guðrún og Ragnhildur (bls. 41-6) að hún hafi verið for­göngu­maður í ýmsu sem síðar varð al­gengt í ís­lensk­­um ljóð­um, t.d. að einfalda bragarhætti og orð­færi og yrkja órímað. Hún var og með fyrstu höf­undum til að gefa út bók með prósaljóðum á íslensku (Mynd­ir 1924), og ásamt Jóhanni Sig­ur­jóns­syni er hún braut­ryðj­andi stuttra þéttra ljóða, („miðleitinna“) þar sem ein ljóðmynd ber alla merk­­ing­una, skýr­ingalaust. En öll þessi atriði voru semsagt síð­ar tekin upp af öðr­um íslensk­um skáldum - einnig af karl­kyns skáld­um.



Niðurstaðan af þessari takmörkuðu at­hug­un verður sú, að andstætt því sem ýmsar hafa haldið fram, þá sé ekki sjáanlegur neinn kynja­munur á þessum skáld­um. Flest hið mik­ilvægasta er þeim sam­eig­in­legt, en ann­ars hafa þau bara hvert sín persónulegu sér­kenni.





6. 12. Jónas Guðlaugsson (1887-1916)



birti ljóðabók einna fyrstur þessara skálda, Vor­blóm, 1905, og var þá aðeins átján ára. Það er þokkaleg bók, en stórum betri voru þó ljóð hans í Tvístirninu ári síðar, og einkum í Dags­brún, 1909, sem varð síðasta íslensk ljóðabók hans. Hann dó sjö ár­um síðar, tuttugu og átta ára, og hafði þá sent frá sér sex bækur á dönsku, þar af þrjár ljóða­bækur.



Vorkvöld er mest áberandi í fyrstu tveimur ljóðasöfnunum. Annað virðist í jafnvægi, t.d. hrikaleg náttúra og aðlaðandi. Ástarunaður er snöggtum meira áberandi en ástarsorg.



Jónas Guðlaugsson hefur skálda mest af myndhvörfum, og í svip­uð­um hlutföllum og meðaltal blæleitinna, (tveir fimmtu eru persónugervingar). Flest­ar lík­ingar hans (tveir fimmtu) og nær helmingur persónugervinga er um fyrirbæri himins, húm, sólskin, tunglskin, stjörnur, nótt og dag o.þ.h. En rúmur fimmtungur líkinga hans er um tilfinn­ingar, hug, drauma, ást, vana, o.þ.h., eins og fjórðungur persónu­gerv­inga. Eins og áður segir líkir hann mest (yfir þriðjungur dæma) við athæfi og afurð­ir manna; fortjöld, klæði, skart, drykki, hljóð­færi. Fimmt­ung­ur dæma líkir við dýra­ríkið, auk ótilgreindra lífvera líkir hann þá eink­um við fugla, sauðfé og naut­pen­ing. Í þessu tvennu síð­asttalda birtist gagn­rýni hans á (of takmarkaðan) skilning landa hans á skáldskap. Tíunda hver líking er við eld, og ámóta margar við fólk eða líkams­hluta, augu, hjarta. Í persónu­gervingum hans ber einna mest á dauða, fæð­ingu, atlotum (þar af eru fáein móðurleg), hlátri, gráti og kvein­um, svefni, söng. Annað er hlutlausara; horft, talað. Hlutlaust telst þriðjungur, neikvætt fjórðungur, jákvætt tveir fimmtu tilvika. Allt er þetta vitaskuld gróflega reiknað.



Málfar kvæða Jónasar er nálægt daglegu talmáli, og nálg­ast þann­ig les­endur um­búða­lítið. Líkingar og mynd­mál er sér­kennilegt í sum­um kvæð­um hans, eins og áður var rakið. Hér verður litið á fáein ljóð úr Dagsbrún.





Æskuást



Þetta er eitt frægast ljóða Jónasar. Þar líkir mæl­andi sjálf­um sér við kirkju, og heldur þeirri líkingu út kvæð­ið (sbr. k. 5. 4. ný­gervingar). Í kirkj­unni er Maríu­mynd á vegg, það er minn­ing hinnar heitt­elskuðu, helgi­lín kirkjunnar var sak­leys­ið sem hjúp­aði feg­urð hennar, sál hans var alt­ari kirkj­unnar, en ást hennar reykelsis­ilmur á því. Í loka­er­ind­inu segir að allt sé þetta löngu liðið, en mælandi “fann þig þó hvert sem ég sneri”, og enn koma liðir í sömu líkingu, en sem þetta sé allt um­liðið, tæmt; kórinn er auð­ur, þar er aðeins eftir síð­asti ómurinn eftir sönginn, kerið er tómt, en vott­ur af ilmi þess sem þar var. Þetta síðasta vísar til reyk­els­is­kers­ins, svo lík­ingin við kirkjuna haldist. Þessi fjar­vera eða “fyrrvera” er eins og meg­in­ein­kenni frægustu ljóða Mallarmé (sbr. umfjöllun Hugo Friedrich um þau, t.d. bls. 104-107, 130, og bók mína Kóralforspil hafsins bls. 48), hvort sem hægt er að ímynda sér einhver bein tengsl eða ekki. Það væri þó a.m.k. samkvæmt því megin­atriði þessarar ljóða­gerðar, að reyna að sýna mynd óhöndlanlegs. Í stíl við „fyrr­veruna“ er ein­angrun mæl­anda, sem birt­ist svo sérkennilega í að hann líkir sér við auða kirkju, og ekki á venju­leg­um stað, heldur á öræfa­tindi. Þetta er áhrifa­rík lík­ing, því dýrkun er sameigin­leg ást­inni og kirkj­unni, og tóm­leik­inn, ein­angr­unin, er hér átak­anlega and­stæð til­beiðslunni. Fyrsta erind­ið er eins­kon­ar rammi, að­greint frá hinum erind­un­um með þanka­strik­um, og þar er ekki þessi líking, heldur er skáld­skap líkt við hörpu. En þótt það sé ein margnotaðasta líking bók­mennta­sög­unn­ar, þá er hún hér sett fram á ferskan hátt, sem auka­atriði. Og innan þeirr­ar líking­ar er önnur frumlegri; það sem var grafið í þögn­inni leit­ar nú upp úr hljóm­djúpi hörp­unn­ar.





Blundar nú sólin



Þetta ljóð rúmar einnig nýgerving, eina samfellda mynd af því þegar rökkrið færist yfir landslag. Einn­ig “hnípnir” fuglar falla vel inn í mynd kvöld­kyrrðarinnar (3. er.), svo og mynd loka­erindis af því að eitt­hvað falli niður úr ljósinu í myrkrið sem breiðir fyrst úr sér neðst. Brag­ar­hátt­urinn stuðlar að þessum kyrrðar­blæ. Erindin eru fjögur, hvert þeirra er fjór­ar stuttar línur, tvö ris í hverri, fyrst þríliður, svo tví­liður í ójöfn­um lín­um, en stúfur í jöfnum, og þær hefjast flestar á forlið. Öll þessi áherslu­lausu atkvæði stuðla að hægum lestri, einnig hitt, að lítið er um rím, aðeins jafn­ar línur eru rím­aðar saman.



Enn birtist hér orðalag, sem er einsog á mörkum per­sónu­gerv­ing­ar. Sitjandi fuglar eru bókstaflega “hnípnir”, en jafnframt er það orð haft um hryggt fólk, og það hæfir jarðarförinni í 2. erindi. Og áfram er öll þessi nátt­úru­mynd persónugerð á óvenjulegan hátt. Ýmist er tal­að um svefn eða dauða, ljóðið í gegn. Haustnóttinni virð­ist líkt við fugl, en frá væng hennar læðast húm­skugg­ar, sem sveipa hinn sofandi dag í svörtu. Þessar persónu­gerv­ingar ljóss og myrkurs minna á jarðarför. Og þær hald­ast þann­ig, að “út­farar­lag” dags­ins er kveðið af and­var­an­um. Líkt og í Æsku­ást beinist at­hygl­in að því sem er ný­horf­ið, hér er hlustað “á hljóð­ið sem dó”. Og þetta dauða­stef er endurtekið í hverju er­indi, dag­ur­inn er einn­ig dáinn, og loks deyja langanir í lokaerind­inu. Enn er þar hald­ið líking­um um ljós og myrkur í sam­bandi við dauð­ann, en þar verður þetta skrítnast, því myrkr­inu er líkt við ísskán á vatni, sem persónu­gerðar langanir falla niður um, og drukkna.





Tunglskinsóður



er fjögur löng erindi, hvert þeirra átta línur. Allar hefj­ast á forlið og allar eru stýfðar, ann­ars yfirgnæfa tví­liðir. Ójafnar lín­ur hafa fjögur ris, en jafn­ar hafa þrjú, einungis þær eru rímaðar saman. Svo reglu­bund­in hrynjandi getur orkað á ýmsa lund, en hér virðist hún mér hæfa hægri framrás kvæðisins.



Þetta ljóð bygg­ist á nýgervingum líkt og Æsku­ást, en hér flétt­ast fleiri lík­ingar saman. Í mið­punkti er það að mælandi sér við­mæl­anda sinn á bak við fortjöld - glugga­tjöld, eða e.t.v. rekkju­tjöld. Á hvorn veginn sem þetta er skilið, táknar þetta að mæl­andi nálgast við­mæl­anda í nánasta um­hverfi henn­ar[12]. Eftirmynd þessa birtist á himnum í 1. er­indi, einnig þar brosir persóna bak við tjöld, það er mán­inn pers­ónu­gerð­ur, hann “bros­ir skært á bak við skýin” og dreg­ur silf­ur­lit á dimm­blá himins tjöld”, en það er silf­ur­lit­ur drauma. Þannig birtir nátt­úru­mynd­in þegar sálar­ástand mæl­anda, en í 2. erindi seg­ir: “Og brjóst mitt fyll­ist silf­ursöng” (tengist himninum). Það leiðir yfir í aðra líkingu og sér­kenni­lega, að tala um him­in­tungl­in sem ein­s­konar fiðlu. Mæl­andi vill láta him­in­inn taka undir söng sinn, stilla strengi mán­ans og spenna boga stjarn­anna. Það orðalag kann að vera sótt til ljóðlínu Bene­dikts Gröndal: “Upp á him­ins bláum boga”, en í þessu sam­hengi virðist eðli­leg­ast að líta á bogann sem tónboga. Þetta er endur­tek­ið í loka­er­ind­inu fjórða, og tengist aftur fyrstu lík­ing­unni þannig, að fyrst hann vant­ar þetta til að gefa við­mæl­anda “hinn guð­dóms­vígða óð”, þá gægist hann þess í stað inn um glugga henn­ar með ljóð­ið - sem nú er gull tungl­skins í stað silf­urs áður. Hér fellur spenna ljóðs­ins aftur niður í upp­hafs­að­stæð­ur. En í 2. er­indi segir, að gæti mæl­andi flutt við­mæl­anda þennan söng, þá legðist söng­ur­inn sem lín um draum hennar. Greinilega er hugs­að til konunnar liggj­andi í rúmi. Og 3. er­indi færir nýja líkingu frelsunar sem ris ljóðs­ins: Ljóð­ið yrði henni vængir sem hún svifi á, hátt “frá lágri skugga­strönd, [...] inn í undra dýrð og óþekkt draumalönd.” - sem mæl­andi gæfi henni “fyrir allt, sem ást þín gaf”. Þetta ljóð minnir nokkuð á Draum vefarans eftir Sigurð Sigurðsson.





Aladin



Þetta ljóð er fjög­ur erindi með ferskeyttum hætti. Titillinn vísar til hinn­ar al­kunnu sögu í Þúsund og einni nótt, um al­þýðu­pilt­inn sem komst yfir töfra­lampa með mátt­ug­um þjón­ustu­anda. Aladín lét andann reisa sér dýr­lega höll, og gift­ist síðan dótt­ur soldáns. Töframaður komst yfir lamp­ann með blekk­ingum og notaði hann til að flytja höll­ina og sold­áns­dóttur burt, en eftir sat Aladín snauð­ur. Hann gat þó snú­ið á töfra­mann­inn og end­ur­heimt allt sitt. Danska skáld­ið Adam Oehlenschläger fylgdi sög­unni all­ná­kvæm­lega í sínu fræga leikriti frá 1805. En öld síðar lætur Jónas Aladín tala á því augna­bliki þegar hann hefur misst allt og ör­vænt­ir. Í ljóðinu er eng­in von um úr­bætur, það er einsog við sáum í ljóði Jóhanns Gunnars, Í álögum.



Andstæður eru áberandi í ljóðinu, t.d. í öðru erindi, að höllin var “há­reist, en er nú hrunin, öll í þústum”, enn­fremur að “hul­in heljar­glóð leyn­ist und hennar köldu rúst­um.” Þessar andstæður gætu einna helst vísað til tilfinninga mælanda, helj­ar­glóðin undir köld­um rústum vísar þá vænt­an­lega til heift­ar­legr­ar ör­vænt­ingar undir yf­ir­borði þreytu­legr­ar upp­gjaf­ar.



Andstæða þessarar björtu hallar er svo dökkur litur, hin út­valda “er rænd í brott í rökk­urhöll/ hjá risa­kongn­um svarta.” En andstæða kóngs er ljóðmælandi: “Sem bundinn þræll, ég horfi á haf”. Lítið er annars um liti en þeir eru notaðir á frumlegan hátt. Ekki það, að óvinurinn illi er svartur, það er auð­vit­að í stíl ævintýranna. En orðtakið “að bæta gráu ofan á svart” merk­ir að gera illt verra. Hér segir hins­vegar: “Hver dagur bætir gráu í grátt” og þannig verð­ur tíð­inda­leysi lit­lausra daga átak­an­legt. Í sama stíl er það, að mæl­andi talar um hana sem “á mitt þreytta hjarta”, og að hann horfir á haf “frá hugans eyði­strönd­um”, jafnvel þráin er “horfin burt”. Þann­ig öðlast ljóðið vís­un til sam­tím­ans, það má sýna ör­vænt­ingu “andans manns”, “því lampinn [...]/ er líka í trölla­hönd­um.” Auk þess að vera mik­ilvægt atriði í sögunni er log­andi olíulampi einn­ig alþekkt tákn fyrir and­ann, sjálf­stæða skap­andi hugs­un. Lampinn sýn­ist mér mikil­væg­asta atrið­ið úr Aladíns­sögunni hér. Það skapar ljóð­inu sam­þjöppun að vísa til sögu sem ætla mátti að lesendur ljóðsins þekktu. Í henni sigr­aði lítil­magn­inn óvætt­ina, fékk prins­ess­una og kóngs­rík­ið. Þeim mun magn­aðri verður ör­vænt­ing­in þegar öllu þessu er hér afneitað.





Sigling



byggist á mynd sem hefur verið kunnugleg mörg­um íslensk­um lesendum þeg­ar ljóðið birtist, a.m.k. meira en nú er. Enn er hér ort undir kunnasta hætti Heines, þrjú ris í hverri línu, rím í jöfnum línum. Lýsing um­hverf­isins sem fylgir, er ein­föld, byggist á helstu and­stæð­um þess. Ann­ars­veg­ar er him­inn, hinsvegar hafdjúp. En alls­staðar er myrkur, dauði, stork­andi hræ­fuglahlátur yfir mælanda, en undir er gapandi gin ófreskju, þ.e. dauð­inn í dýrslíki. Fyrsta persónu­gerv­ing kvæð­isins er í 3. er. að líkja nótt­inni við fáláta og fár­kalda konu, og síðan verða náttúru­lýsingar kvæð­isins æ þrungn­ari til­finn­ing­um, einsog sést á næstu myndum. Gjögur merkir mjótt sund milli kletta sem standa upp úr hafinu, hættuleg þrengsli, sem nú birt­ast á himni, “fram­und­an ský­bólstragjögur”. Og þó birtist loksins and­stæða þess­arar um­hverf­is­myndar; dag­stjarn­an (Venus) björt og fög­ur spegl­ast í djúpi dauð­ans. Í loka­erind­inu er að­eins einn orðhluti sem sker sig úr sigl­ing­ar­lýs­ingunni, er úr mann­heimum, af tagi til­finn­inga; bros-. En auk þess er stjarnan persónu­gerð með so. sýnir. Það er með svo smáum, fín­leg­um dráttum sem þetta einfalda ljóð heppnast.















[1]1965, bls. 4: Allra fyrstu kvæðin sem Einar birti (1887-88) hafa verið fáum kunn til skamms tíma. En það voru erfiljóð [...] um Þorstein Bergsson [...] og Lilju Sigurðardóttur.





[2]Þetta er í inngangi ritdóms í Tímanum (7.2.1920) um Svartar fjaðrir Davíðs.





[3] á bls. 99-100: "This poem is some of the purest Lyrism that was heard in Iceland since Jónas Hallgrímsson's "Dalvísa". The tecnique is purely aural and incantatory, the repetition in the first and fifth lines seems to echo a heathen chant, above all, an unreasoning joy in nature."





[4] Í fyrra tilvikinu frá hálfnálægu sérhljóði um nálægt til fjarlægs, hálffjarlægs til fjarlægs, en í því síðara frá nálægu kringdu bakmæltu sérhljóði um fjarlægt, hálffjarlægt, fjarlægt til nálægs frammælts ókringds.





[5] Í öllum útgáfum stendur "næturklökkvi" (einnig frum­prent­un í Þjóðólfi 24.3.1905), og það áleit ég vera prentvillu fyrir "nætur­klökkva". Því þetta orð getur ekki annað verið en andlag fyrir sagnirnar "svæfa, þagga", þar sem lindirnar eru frumlag, ek. móðir sem vaggar grein­um trjánna eins og vöggu, sefar þannig og svæfir þrestina sem á þeim sitja. Hannes Pét­urs­son taldi (í símtali við mig 11. 7. 1994) að prentvilla væri mjög ólíkleg í kvæði sem höf­und­ur gekk svo oft frá til útgáfu. Lík­legra væri skáldaleyfi til að lyfta lín­unni, því miklu verr færi á því að láta öll orð hennar enda á a eins og lokaorð undanfarandi línu. Gunnlaugur Ingólfsson hjá Orðabók Háskóla Íslands (OHI) hefur bent mér á (25. 8. 1994) að þótt orðið sé karlkyns í flestum dæmum OHI, þá sé eitt dæmi um hvorugkyn, úr Lærdómslista­fje­lags­rit­unum fra 18. öld: "med sorglegu klökkvi", og annað, kvenkyns, úr Skírni frá 1917: "af auvirðilegri og hverf­lyndri klökkvi nútímans." (í ritfregn eftir G.F. (Guðmund Finn­bogason?). Þessi dæmi, einkum Skírnis­dæm­ið, styðja þad að orð­myndin "klökkvi" getur staðist i vísunni eins og hún er.





[6] T.d. í tilfærðu dæmi úr Helga Hoff. Þessi afstaða má vera auðskilin af þeirri sorgar­sögu sem Jóhann Gunnar Ólafsson segir af bernsku Sigurðar í formála (bls. 7-11). Hann var tæplega þriggja ára þegar móðir hans sendi hann til Íslands. Hún var dönsk, hét Flora Jensen, og var pólitískt virk, og virðist það hafa verið ástæðan til þess að hún var lokuð inni á geðveikrahæli ævilangt í árslok 1888, þeg­ar drengurinn var níu ára. En faðir Sigurðar (og alnafni) drukkn­aði þegar hann var fimm ára, og ólst hann upp hjá Birni M. Ólsen, systur hans og móður. Björn virðist hafa verið óvenju strangur upp­al­andi, t.d. hindraði hann Sigurð í að taka stúdentspróf vegna eins áfengisbrots (tv. r., bls. 13).





[7] ekki til blaðsíðutals, en um mynd­mál smæðar tal­ar Moers á bls. 244.





[8]bls. 63: "There is no such thing as the female genius or the female sensibility".



bls. 262: "At the least, the brilliant landscape writing that women have devoted to open country should give pause to the next critic who wants to pronounce all literary women housebound, and the next psychologist with a theory about "inner space".





[9] Bara frá fyrsta áratug ljóðagerðar hans má telja: Haust, Harpa, Vor, Svífur fluga, Andi vorsins, Dagurinn líður, Sólarlag, Enn koma sól og sumar, Á austurhellum, Aftansöngur, Veit ég það vorar aftur.





[10] Þessi orð eru 0,58% hjá Huldu, en 0,37% hjá Jónasi Guðlaugssyni og fjórðungur hundraðshluta hjá Sigurjóni og Smára.





[11] T.d. í Kvæði: Þegar haustar, Þrösturinn, Hefur þú örindi; í Segðu mér…: Álfheiður, Sumarið mun líða, Aftanljómi.





[12]Hér kýs ég að kvenkenna viðmælanda, bæði samkvæmt hefð, þegar karlmaður kveður ástaljóð, en einnig auðveldar það að aðgreina viðmælanda frá mælanda.

Ingen kommentarer:

Send en kommentar